Tag Archive for: Hafnarfjörður

Ginið
Gengið var að Gininu. Með FERLIRsfólki í för var þjálfað sigfólk frá Björgunarsveit Hafnarfjarðar, Ásdís Dögg Ómarsdóttir og Jón Árni Árnason.
Ginið reyndist um 20 metra djúpt og mestanpartinn lóðréttir klettaveggir. Sjálft gatið er um fjórir metrar á breidd og um átta metrar á lengd. Opið er í jarði þunnfljótandi helluhrauns, sem hefur runnið þarna á tiltölulega afmörkuðu svæði. Það hraun virðist vera mun nýrra en hraunið allt um kring og gæti jafnvel hafa runnið á sögulegum tíma.

Sauðabrekkur

Skjól í Sauðabrekkum.

Stutt er í gjallgígana norðan Sauðabrekkugjár, sem mynda gígaröð í beina línu út frá gígunum ofan við gjárbarminn. Í einum gíganna, sem er holur að innan, hefur gólfið verið flórað, hlaðið er að hluta til fyrir munnann og hella lögð fyrir gluggaop (Sjá Sauðabrekkugjá).
Íshella var á botni Ginsins. Steinar hafa brætt sig um tvo metra niður í helluna og mynda holur ofan í hana. Þegar komið var niður er auðveldara að sjá hvers konar fyrirbæri þarna er um að ræða. Ginið er fyrrum gjá, sem hefur verið geysistór á þessum kafla. Hún er í sömu stefnu og aðrar gjá á svæðinu, s.s. Fjallgjá og Sauðabrekkugjá. Nýja þunnfljótandi hraunið hefur runnið ofan í gjána og fyllt hana. Sennilega hafa barmar gjárinnar risið einna hæsta þarna svo hraunið hefur ekki náð að fylla þennan hluta.

Ginið

Ginið – loftmynd.

Til norðurs liggur rás undir hraunið. Hún ber keim af fyrrum sprungu. Eftir u.þ.b. átta metra endar gjáin í brekku. Ef farið er upp brekkuna tekur við mjó hraunrás, 6-8 metra löng, svo til beint upp á við. Þessi hluti var ekki kannaður með góðum luktum svo erfitt er að átta sig hvert framhaldið kann að vera. En ummerkin bera þess öll merki að þarna hafi verið gömul hraunfyllt sprunga. Sérstakur heimur út af fyrir sig og sennilega fágætt aðgengilegt jarðfræðifyrirbæri sem slíkt. Hraunið í sprungunni var frauðkennt, ekki þó gjall, og var tekið sýnishorn af því.
Þau Ásdís Dögg og Jón Árni, fulltrúar Björgunarsveitar Hafnarfjarðar, eru að öllum líkindum fyrstu manneskjunar, sem fara þarna niður og kanna fyrirbærið.
Veður var stillt, blankalogn, og falleg kvöldsólin roðagyllti vesturhimininn.

Ginið

Ginið.

Hvatshellir

Gengið var frá Sléttuhlíð upp að Selvogssgötu undir Smyrlabúðahrauni.

Stekkur við Hamarskotsfjárhelli

Stekkur við Hamrakotshelli.

Þaðan var gamla gatan gengin niður að helli, sem í seinni tíð hefur verið nefndur Kershellir, en Hvatshellir er afhellir innan af honum. Stór varða er á suðvesturbrún hans. Farið var niður í hellinn og hann skoðaður hátt og lágt. Hann liggur til vesturs úr jarðfallinu, um 40 metra langur. Segja má að hellirinn hafi verið óvenju fallegur því hæfilega löng grýlukert lágu niður úr svo til öllu lofti hans. Á leiðinni út var farið til vinstri, framhjá jarðfallinu, til austurs og þar inn þrönga hraunrás, sem séra Friðrik Friðriksson kom á spjöld sögunnar í frásögn hans af Sölva. Hellirinn er nefndur eftir göngufélaginu „Hvatur“, sem mun hafa farið þangað af og til og m.a. haldið samkomur sínar í honum. Hellirinn er nokkuð þröngur til að byrja með, en víkkar á ný í hvelfingu. Þá þrengist hann aftur, en opnast síðan inn í enn aðra hvelfingu. Alls er hellirinn um 100 m langur. Til leiðbeiningar skal þess getið að til skamms tíma voru þrjár litlar vörður á Kersbrún norðaustan við op hans (Ólafur Þorvaldsson 1949). Þessar vörður voru sameinaðar í eina um eða eftir 1960.
Ketshellir er sunnan við Kershelli/Hvatshelli. Hann er í gróinni hraunrás í um 30 metra fjarlægð og liggur í sömu stefnu og Kershellir (vesturs). Hellirinn er rúmgóður og um 30 metra langur. Hann er í fornum ritum nefndur Selshellir.

Hamarskotsselsfjárskjól

Hamarskotsselsfjárhellir.

Samkvæmt Jarðarbókinni sem Árni Magnússon og Páll Vídalín unnu að árið 1703 í Gullbringusýslu kemur fram: að jörðin á selstöðu þar sem heitir Kietsheller. Sami hellir var einnig nefndur í tengslum við Hamarskot, sem var hjáleiga Garðakirkju. Var greint frá því að selstöðu ætti Hamarskot í Garðakirkjulandi þar nærri sem heitir Sljettahlíð hjá hellir nokkrum og skuli þar kallast enn í dag Hamarskotssel. (Árni Magnússon og Páll Vídalín 1923-1942). Hellirinn var á mörkum jarðanna og opinn í báða enda og þar af leiðandi notaður af ábúendum beggja jarða til helminga og þá jafnan nefndur einu nafni Selhellir.

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Vestan við hellana sér niður á grassvæði. Selvogsgatan liggur niður að því og áfram í gegnum það uns hún sveigir að Setbergsshlíð. Á norðanverðu svæðinu er stekkur í kvos. Hleðslur eru til að hindra uppgöngu úr kvosinni. Op er til vesturs. Vestan opsins er hraunkantur. Handan og fast við kantinn er enn eitt op á helli. Hann er þó mun styttri en hinir. Frá opinu liggur hann til austurs, á móti hinum.

Sunnan við opið sést móta fyrir kví í skjóli fyrir austanáttinni. Sunnar, syðst á grassvæðinu eru tóttir Setbergssels. Bæði hefur jarðsig verið notað svo og tóttir, sem þarna eru. Fyrir framan hól eru bogadregnar hleðslur fyrir helli. Þar er Setbergsselsfjárhellir. Þegar komið er inn í hann miðjan er hlaðinn garður þvert fyrir hellinn. Hinn hlutinn er Hamarskotsselsfjárhellir. Hægt er að ganga í gegnum hellinn og er þá komið út þar sem verið hefur tótt Hamarskotssels. Geitur voru hafðar í helli þessum á fyrri hluta 20. aldar. Sunnan við Hamarskotshelminginn er hlaðinn stekkur.
Svæði þetta er tilvalið fyrir þá sem vilja fara í síðdegisgöngu, en jaf
nframt skoða mikið á stuttum tíma. Gerður var uppdráttur af svæðinu.Sjá meira HÉR.
Veður var með ágætum – bjart og stillt.

Kétshellir

Kétshellir / Setbergsselsfjárhellir.

 

Fjárskjól

Gengið var til vesturs frá Krýsuvíkurvegi skammt norðan við Bláfjallafleggjara, meðfram skógræktargirðingu og yfir Stórhöfðastíg. Stefnan var tekin á Gömluþúfu. Gamlaþúfa er í sprungnum hraunkletti í u.þ.b. 110 m hæð yfir sjó. Hún sést vel frá Straumsseli og áður fyrr var hún þekkt kennileiti á Straumsselsstíg áleiðis að Fjallinu eina.

Gamla þúfa

Gamla þúfa.

Eftir stutta göngu var komið í krosshlaðið fjárskjól ofan við Brunntorfur, líklega frá Þorbjarnarstöðum ( fallega hlaðin fjárborg frá bænum er þarna skammt norðvestar) vandlega falið í grunnu jarðfalli. Hlaðinn er gangur áleiðis inn, en síðan klofnar hann til hægri og vinstri. Skjólin eru á hvora hönd.
Fuglasöngur var í lofti og hvarvetna sáust smáfuglar skjótast undan fótum þátttakenda. Notað var tækifærið og hreiður þúfutittlings, inn undir lyngbakka. Eggin voru varla stærri en lambaspörð.

Refur

Refur.

Þegar komið var upp á hæðirnar heyðist tófa gagga skammt frá. Sást hvar gráskellótt lágfóta skokkaði hægt samhliða hópnum í u.þ.b. 50 metra fjarlægð í sömu átt. Líklega sú sama og hefur verið að hnupla þurrkuðum þorskhausum úr fiskhjalla þarna skammt norðar. Hún stoppaði af og til, leit í átt að hópnum og gaggaði tvisvar, sennilega til merkis um yfirvonandi hættu. Eftir að hafa fylgst með tófunni stutta stund var ákveðið að stríða skolla svolítið. Golan var á bakið. Hópurinn staðnæmdist á holti og lét tófuna sjá sig.

Stórholtsbyrgi

Stórholtsbyrgi.

Einn úr hópnum hélt áfram eftir hraunlægðunum í sömu stefnu og beygði síðan til vinstri, þvert fyrir ætlaða leið dýrsins, og beið þar á bak við hraunhrygg. Hópurinn hélt síðan áfram, rebbi stóð upp og fylgdi fyrra hátterni. Fylgst var með rebba þar sem hann stöðvaði þegar hópurinn stöðvaði, settist, gaggaði tvisvar og var síðan kyrr, en stóð upp þegar hópurinn færði sig. Svona gekk þetta nokkra stund uns rebbi var svo til alveg kominn að þeim er beið. Þá stóð sá hægt upp og beið. rebbi átti aðeins nokkra metra í hann þegar hann áttaði sig, stóð grafkyrr, rak upp gól, tók síðan til fótanna þvert á fyrr leið og hvarf. Fuglasöngurinn fyllti loftið á ný. Lóan settist á nálægan stein og virtist alveg óhrædd við tvífættlingana.

Brunntorfufjárskjól

Brunntorfufjárskjóls er ekki getið í skráðum heimildum. Samt er það á þeim stað, sem það er.

Mörg greni voru merkt á leiðinni (tveir steinar á tveimur til þremur stöðum umhverfis greni).
Nákvæmlega klukkustund tók að ganga að Gömluþúfu. Hún er áberandi í Almenningum ofan við Straumsselið. Þegar komið var að henni tyllti rjúpa sér á þúfna og horfði yfir svæðið. Umhverfis þúfuna eru nokkrar vörður og merkt greni. Eftirtektarvert var hversu hljótt var við þúfuna. Þar heyrðist ekki fuglasöngur. Sennilega eru grenin þarna í búsetu þessa stundina. Hafurbjarnarholt er austar og þar eru einnig merkt greni. Neðar er Stórholts og þar eru Stórholtsgrenin. Hlaðið byrgi grenjaskyttu er utan í holtinu. Ekki er ólíklegt að það hafi verið hlaðið af sömu skyttunni og byrgið við Efri-Straumsselshella (Jónas Bjarnason).
Gengið var til baka svo til beina línu að upphafsreit. Lognið var nær algert og kvöldkyrrðin mikil.
Frábært veður.

Gamla Þúfa

Gamla Þúfa.

Krýsuvíkurheiði

Við vegamót Ísólfsskálavegar og Selölduvegar slógust nokkrir áhugasamir Grindvíkingar í hópinn.

Eyri

Eyri.

Gengið var niður að Selöldu. Við slóðann mótar fyrir undirstöðum bragga. Ólafur Kr. Guðmundsson, fyrrv. aðstoðaryfirlögregluþjónn í Hafnarfirði, var þar á ferð á hestum með föður sínum og bróður árið 1942. Komu þeir við hjá Magnúsi í Krýsuvíkurkirkju, sem benti þeim á fimm Ameríkana er höfðust við í bragga ofan við Selöldu. Höfðu þeir þann starfa að fylgjast með skipaferðum með ströndinni.

Selalda

Steinbrú ofan Fitja.

Staðnæmst var við gamla steinbrú yfir Vestari-læk, við tóttir bæjarins Fitja og við fallega hlaðið fjárhús undir Strákum. Þá var gengið niður að Hælsvík og rifjuð upp sagan af komu Tyrkjanna upp Ræningjastíg. Í framhaldi af því var gengið í slóð Tyrkjanna upp að Krýsuvíkurseli þar sem þeir áttu að hafa ráðist að selsstúlkum. Smali var þess var og hljóp upp að Krýsuvíkurbæjunum, með Tyrkina á hælunum. Séra Eiríkur á Vogsósum var þá við messu í kirkjunni. Hann lagði þegar á Tyrkina að þeir myndu snúast gegn sjálfum sér, sem og þeir gerðu. Eru þeir dysjaður í Ræningjadys á Ræningjahól, sem er við Suðurkot. Litið var á tvær fjárborgir og tóttir bæjarsins Eyri áður en komi var í selið. Selstóttirnar, sem eru þar skammt austar, eru greinilega mjög gamlar.

Selalda

Fitjar.

Eftir skoðunina undir Selöldu var haldið að Trygghólum, sem eru þarna nokkru austar. Frá þeim er víðsýnt um Krýsuvíkurheiðina. Sést þaðan vel yfir Grindavíkurlandið austan Hafnarfjarðarlandsins ofan við Hælsvík. Sást meira að segja alla leið til hellamanna vera að snuðra í kringum Litlu-Eldborg í fjarska. Samviskan hefur nagað Grindvíkinga eftir langa áþján landsins og hafa þeir verið að reyna að græða upp landið að hluta fyrir Hafnfirðingana. Ef einhver töggur væri í Grindvíkingum myndu þeir ná þessum hluta Krýsuvíkurlandsins til sín aftur með hurðum og gluggum, enda Hafnfirðingar lítt hafa kunnað að meta þetta landssvæði hingað til. En þetta var nú smá útidúr.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Frá Trygghólum var gengið í átt að Arnarfelli og komið við í Arnarfellsréttinni, heillegri hlaðinni fjárrétt í lægð nokkru sunnan við fellið. Þetta var nú smá útidúr.
Vegna þess hversu veðrið var gott var ákveðið að kíkja á Ögmundardys við Ögmundarstíg og Smíðahellinn í Katlahrauni áður en göngunni lyki. Í leiðinni var Lestargatan vestari (Skeiðargatan) gengin, litið á hlaðnar refagildrur og Sögunarkórinn.

Selalda

Krýsuvíkursel í Selöldu og bærinn Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Valaból

Gengið var norður gömlu Selvogsgötuna frá Bláfjallavegi neðan Grindarskarða.

Rauðshellir

Hleðslur í Rauðshelli.

Haldið var niður Hellurnar þar sem gatan er klöppuð í bergið á kafla undan fótum, klaufum og hófum liðinna alda. Litið var á Strandartorfur (Kaplatóur) og gengið um Mygludali að Valabóli þar sem áð var í Músarhelli.
Að því búnu var haldið að opi Fosshellis og hann þræddur undir sauðfjárveikigirðinguna. Kíkt var á op Hundraðmetrahellis austan Helgadals og síðan á stekki norðaustan við Rauðshelli. Þá var haldið í hellinn og hann skoðaður.

Rauðshellir

Helgadalur – Í Rauðshelli.

Í Rauðshelli er allnokkrar hleðslur, bæði utan hans og innan. Hangikjötslyktin leyndi sér enn í hellinum, en hann er talinn hafa hýst margan manninn í gegnum aldirnar. Um tíma var hellirinn nefndur Pólverjahellir eftir pólskri áhöfn báts, sem dvaldist um tíma í Hafnarfjarðarhöfn, en fengu ekki inni í bænum. Þá er talið að um tíma hafi verið sel í og við hellinn, auk þess ekki er ólíklegt að álykta að hann sé sá hellir þar sem 12 þjófar voru handteknir um 1440 og síðan hengdir.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Í lýsingu Gísla Sigurðssonar, forstöðumanns Minjasafns Hafnarfjarðar, segir hann í lýsingu sinni um Selvogsgötuna að þeir hafi hafst við í helli í hraunrima austan við Helgadal. Um þá hugmynd er m.a. fjallað í öðrum FERLIRslýsingum eftir nokkrar ferðir um svæðið til að reyna að finna umrætt skjól. Rauðshellir liggur vel við vatni, hann hefur verið í hæfilegu skjóli frá mannabyggð, en þó nálægt skjólgóðum högum sauðfjárins. Þá hefur hann verið það nálægt þjóðleið að hægt hefur verið að fylgjast með mannaferðum og hugsanlega ræna þá, sem þar áttu leið um. Þess skal getið að útilegumenn dvöldu sjaldnast lengi á sama stað.

Valaból

Valaból.

Þá var haldið áfram norður Mosana yfir að Smyrlabúðum. Þar var staldrað við og skoðuð gömul vegghleðsla utan í Smyrlabúðahrauni þar sem ætla mætti að gæti hafa verið hinn gamli áningastaður Selvogsmanna eða viðstaldur brennisteinslestarmanna á leið þeirra úr Grindarskörðum.
Kíkt var inn í Ketshelli og hann skoðaður að hluta. Þá var Setbergsselið skoðað, litið á stekkinn og gengið í gegnum Kershelli, fjárskjól í selinu þar sem einnig er fyrir aðstaða Hamarskotssels og litið í skjól norðan selsins. Haldið var áfram niður með Setbergshlíð og litið eftir gömlu hlöðnu fjárhúsi frá Setbergi er byggt var 1906 er féð var flutt úr fjárhellinum í selinu upp í hlíðina. Staldrað var við fjárskjól undir Gráhellu í Gráhelluhrauni og síðan skoðuð vatnsvirkjunin og stíflurnar í Lækjarbotnum áður en ferðinni lauk við kirkjugarðinn.
Veður var frábært – sól og blanka logn. Gangan tók um 5 og ½ klst því áningartíminn í Músarhelli var óvenjulangur að þessu sinni.

Valaból

Valaból.

Helgadalur

Gengið var frá Kaldárseli, fyrir vatnsverndargirðinguna, yfir austari Kaldárhnúk og niður í Helgadal. Ætlunin var að leita að útilegumannahelli þeim er getið er um í Setbergsannál á 15. öld, en þar segir m.a. að “12 þjófar [voru] í einu teknir syðra í helli þar sem nefnt er Húsfell”.

Helgadalur

Í Helgadalshellum.

Með í huga hvar annállinn var skrifaður og hvenær var ákveðið að miða við Helgadal, en hann mun hafa verið vel þekktur á þeim tíma, enda talið að áður hafi verið í eða við dalinn. Gamla þjóðleiðin frá Hafnarfirði í Selvog lá um dalinn og má sjá tótt við götuna í dalnum sunnanverðum. Haldið var suður og austur fyrir hæðina, yfir í hraunið austan Mygludala á milli Húsfells og Búrfells. Beygt var til suðurs að Víghól og staðan metin. Norðan og austan við hólinn er eldra hraun, en að austan er Húsfellsbruni og að norðan er Búrfellshraun. Þar er Kringlóttagjá sunnan við fellið. Meginstofn þeirra hrauna sem Hafnarfjöður og Garðabær standa á runnu frá þessari eldstöð fyrir um 7300 árum. Á þessu svæði eru allnokkur jarðföll og op. Sunnan Víghóls sér vel í “Gálgakletta”.

Húsfell

Húsfell – Víghóll neðst til vinstri.

Ekki er vitað hvaðan nafnið Víghóll er komið, en ef menn vilja leika sér svolítið með nafngiftir á svæðinu gætu sumar þeirra hafa tengst veru útilegumanna og sakamanna í hraununum. Þeir hafa áreiðanlega gætt þess vel að ekki væri hægt að koma þeim að óvörum. Hafi það hins vegar gerst gætu þeir hafa flúið á Víghól og einhverjir þeirra verið vegnir þar. Hafi einhverjir yfirvaldsins menn einnig verið drepnir við þá atlögu gæti hefndarþorsti hafa blossað upp í sigurvegurunum og þeir ákveðið að hengja hina handteknu þegar í stað í hæsta gálga á svæðinu. En þetta eru nú einungis hugrenningar, ekki tilvitnun í fyrri lýsingar.

Rauðhellir

Í Rauðshelli.

Hvað sem þessum hugrenningum líður á eftir að fara eina ferð á svæðið til að sannreyna hvar útilegumannahellirinn er. Nú er einn staður líklegri en aðrir, þ.e. Rauðshellir norðaustan Helgadals. Þar við sést móta fyrir hleðslum, nokkurs konar aðhaldi, en auðvelt ætti þaðan að hafa verið fyrir þjófana að ná sér í fé á fæti, bæði í Búrfellsgjá og Selgjá og einnig í Kaldársel. Inni í helli, sem er um 60 metra langur, er hleðsla. Ætlunin er að aka næst að sauðfjárveikigirðingunni sunnan Helgadals og ganga þaðan frá Fosshelli um austurjaðar Mygludala, um hraunið þar austan við og nálgast síðan Helgadal úr austri. Ef ekkert nýtt finnst á þeirri leið má telja líklegt að framangreindur staður sé sá sem líklegast kemur til greina að hafa hýst útilegumennina forðum. Hins vegar verður sennilega aldrei hægt að ákvarða það með neinni vissu, fremur en svo margt annað.

Helgadalshellar

Í Rauðshelli.

Rauðshellir er ekki langt frá Selvogsgötunni, en auðvelt er að dyljast í honum. Einnig er hægt að komast út úr honum á fleiri en einum stað svo undankomuleiðir hafa verið fyrir hendi. Inni í eystri hluta hellisins er ráshluti er veitir gott skjól. Þar er nokkuð þurrt og erfitt að koma auga á þann eða þá, sem þar væru, séð frá opinu.
Veður var frábært – sól og stilla. Gangan tók um 2 og ½ klst.

Rauðshellir

Hleðslur í helli í Helgadal.

Húsfell
Í Þjóðviljanum sunndaginn 15. júlí 1973 fjallar Gísli Sigurðsson, umsjónarmaður Minjasafns Hafnarfjarðar, um Selvogsgötuna.
Leiðinni frá Helgadal upp fyrir Hellur lýsir hann svo: “Leiðin úr dalnum liggur í troðningum tveim megin við rúst, sem ég hygg að sé fjárhúsarúst. Hún stendur nú undir vernd fornminjavarðar, allt frá því að Brynjólfur fræðimaður Jónsson frá Minna-Núpi var hér á ferð 1897”.

Helgadalur

Tóftir í Helgadal.

[Innskot: Samkvæmt þessu virðist rústin í sunnanverðum Helgadal, við götuna upp úr dalnum, sú sem FERLIR leitaði að og skoðaði á sínum tíma og taldi gamla, vera einmitt þessi rúst].
Gísli heldur áfram: “En hraunriminn austur frá Helgadal geymir sína sögu. Í Setbergsannál segir svo frá við árið 1474: “Þjófnaðaröld mikil um Suðurland. Voru 12 þjófar í einu teknir syðra í helli þar sem nefnt er Húsfell. Voru þeir allir hengdir um sumarið”. [Í annarri heimild er sagt að þjófarnir hafi verið handteknir 1633]. Í hraunrima þessum er hellir og hygg ég, að þar sé hellir sá, sem um getur í annálum. Kannske getum við giskað á hvar þjófar þessir voru réttaðir þegar við komum lengra….. Þegar kemur suður fyrir [Strandartorfur] taka við Hellurnar….

Gálgaklettar

Gálgaklettar við Selvogsgötu.

Þegar við höfum farið um 10 mín. gang upp Hellurnar eru á hægri hönd klettar, sem heita Gálgaklettar. Mér er að detta í hug, að þegar Álftnesingar hafi verið búnir að fanga útileguþjófana í heimahögum sínum hafi þeir farið með þá að klettum þessum og hengt þá þar. Þegar komið er eftir hellunum upp þar sem aðalbrekkan byrjar, er þar jarðfall mikið. Þar í eru hellar nokkrir. 1927 eða 8 var einn þessara hella notaður af rjúpnaskyttum, sem stunduðu veiði upp um fjöllin og lágu þarna um nætur…”.

Gengið var suður Selvogsgötu frá línuveginum ofan við Helgafell. Farið var eftir ruddri götunni í gegnum mjótt hraunhaft og henni fylgt áfram upp fyrir Strandartorfur á hægri hönd.

Selvogsgata

Selvogsgata ofan Helgafells.

Þegar komið var að Hellunum var gengið upp þær þangað til komið var upp fyrir “aðalbrekkuna”. Þar eru að vísu klettar, en þeir hafa varla dugað til að hengja þar mann, nema hann hafi verið þess styttri í annan endann. Jarðfallið, sem nefnt er að framan var ekki skoðað að þessu sinni, en ætlunin er að fara fljótlega aftur þessa leið. Hins vegar var gengið til norðausturs frá stígnum að grágrýtisklettum, sem þar eru. Ekkert forvitnilegt sást þar.

Hins vegar, eftir um 500 metra göngu frá stígnum, í stefnu til austurs frá klettunum, blasti forvitnilegur staður við. Þar eru klettar, eftirlíking af Gálgaklettunum í Gálgahrauni og álíka háir. Góð aðkoma er að klettunum úr norðri og sjást þeir mjög vel frá Húsfelli. Klofið í klettunum er svo til alveg eins, þó ekki jafnvel gróið og í þeim nyrðra. Roðagylltur himininn skapaði fallega umgjörð um dökka klettana. Hafa ber í huga að þjófarnir þurfa ekki endilega hafa verið hengdir eftir handtökuna. Hins vegar gætu þessir klettar hafa fengið nafngiftina Gálgaklettar vegna þess hversu líkir þeir eru nöfnum sínum í Gálgahrauni, nánast eftirlíking.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Hraunið þarna, Húsfellsbruni er hrikalegt á köflum, en hvylftir eru inni í því á stangli. Þær virðast vera eldra hraun. Gengið var í átt að Húsfelli, en enginn hellir fannst að þessu sinni. Þarna eru þó víða op og gjár. Ef 12 menn hafa hafst við í helli þar sem nefnt er Húsfell má telja líklegt að hellirinn sé í eða nálægt fellinu. Í honum ættu að sjást ummerki og í honum eða við hann gætu verið hleðslur eftir fjárhald. Slík ummerki eru reyndar í og við Rauðshelli norðaustan við Helgadal. Ekki er vitað hvert nafnið er á fellinu sunnan hans.
Svæðið við Húsfell er mjög lítið gengið og hefur lítt verið skoðað. Ákveðið hefur verið að ganga næst um sunnanvert Húsfellið og síðan frá því að “Gálgaklettum”, upp á Hellurnar og skoða betur jarðfallið, sem Gísli skrifar um. Það gæti leynt á sér.
Veður var með miklum ágætum – sól og stilla. Gangan tók 3 klst og 14 mín.

Helgadalur

Tóftir í Helgadal.

Setbergsbærinn

Í FERLIRsferð nr. 505 var gengið undir leiðsögn Friðþjófs Einarssonar, bónda, um land Setbergs í Hafnarfirði, fyrrum Garðahreppi. Ferðin var ekki síst áhugaverð vegna þess að einn þátttakendanna var afkomandi Jóns Guðmundssonar, fyrrum bónda á Setbergi og hreppsstjóra í Garðahreppi.

Setbergsbærinn 1771Jón var frá Haukadal í Biskupstungum, sonur Guðmundar frá Álfsstöðum, hins fjárglögga. Guðmundur auðgaðist af fé og fluttist að Haukadal þar sem afkomendur hans bjuggu m.a. í Tortu og Bryggju, þeim einu kotum í sveitinni er Skálholtsbiskup auðnaðist ekki að söðla undir sig, þrátt fyrir gjaflyndi fólks á dánardægri með prestinn einan nálægan að vitundarvotti. „Hefðir“ og „lög“ samfélagsins voru ákvörðuð af yfirvaldinu og því erfitt fyrir almúgann að andmæla –  líkt og nú. Þetta var því enn staðfastara fólk en nú þekkist og það stóð á sínu þótt á móti hvessti.

Setberg

Setbergsbærinn – tilgáta.

Jón fluttist að Hvaleyri við Hafnarfjörð fyrir aldarmótin 1900, bjó þar í þrjú ár, og fluttist síðan að Setbergi. Þar gerðist hann mikill fjárbóndi uns hann hafði, á gamals aldri, skipti við Jóhannes Reykdal, á jörðinni og húsi „niður í bænum“. Skiptin voru reyndar báðum til góðs þvi þau auðvelduðu hinum aldna Jóni síðustu æviárin og hinum frumkvæðna Jóhannesi drifkraftinn og áræðnina er leiddi síðar til rafvæðingar bæjarins. Börn Jóns og Ingveldar, konu hans, urðu ellefu. Ein dóttir þeirra, Sigurbjörg, bjó síðar að Urriðakoti, og önnur, Ingveldur, að Þorbjarnarstöðum í Hraunum. Þau hjónin, hún og Þorkell Árnason frá Guðnabæ í Selvogi, eignuðust einnig 11 mannvænleg börn er öll komust til manns. Nú standa tóftir Þorbjarnarstaða, líkt og Setbergsbæjarins, eftir sem ómeðvitaður bautarsteinn þess sem var – handan við hornið.

Setberg

Skilti Byggðasafns hafnarfjarðar við gamla Setbergsbæinn.

Fyrst var gengið að stæði gamla Setbergbæjarins í hlíðinni ofan við Háabergið, við vesturjaðar golfvallarins. Þar var bærinn fram á miðja 19. öld. Af þeim bæ er teikning Collingwoods af bænum frá árinu 1771, sem birtist í bók hans, sömu og teikningin er af Hvaleyrarbænum. Gaflar hafa staðið mót vestri. Friðþjófur benti á eina tóftina og sagði að inni í henni væri heill lýsisbræðslupottur. Þar reyndist hann vera, sennilega á sínum upprunalega tilveru- og notkunarstað, í tóftinni. Við suðurhornið er steinn og í hann reknir margir járnnaglar. Nýrri bærinn stóð vestar og neðar í hlíðinni, en öll ummerki eftir hann eru nú horfin.

Setberg

Galdraprestsþúfa við gamla Setbergsbæinn.

Gengið var spölkorn til norðurs og var þá komið að litlum hól við norðurbrún gamla vegarins upp að Urriðakotsvatni. Friðþjófur sagði hólinn heita Galdraprestshóll. Í honum væri grafinn nafngreindur prestur, Einar, og væri til þjóðsaga um hann. Sá hefði komið undir eftir að sýn birtist föður hans, sem jafnframt var prestur úti á landi, í draumi og gat hann í framhaldi af því barn með ungri konu á altari kirkjunnar. Hertrukki var ekið utan í hólinn á stríðsárunum og valt hann við það sama. Ekki er getið um kirkju þarna, en gamall grafreitur er norðan við hólinn. Það hafi komið í ljós þegar verið var að slétta túnið snemma á 20. öldinni. Einar þessi mun hafa verið rammgöldróttur. Í örnefnalýsingu GS segir um hól þennan: „Frá vesturbæjarhorni lágu Setbergstraðir austur um túnið. Þar sem það var hæst, var farið framhjá Galdraprestsþúfu, en þúfa sú mun vera kapella, sem eitt sinn var hér á Setbergi. Á þúfu þessari sat löngum Þorsteinn Björnsson prestur, og hér orti hann „Noctes Setbergenses“. Eru ströng fyrirmæli um að hrófla ekki við þúfu þessari.“
Forn tóft norðan gamla bæjarinsÁfram var gengið til norðvesturs upp á Setbergshamar (Þórsbergshamar) og skoðaðar mjög gamlar tóftir, sem þar eru. Sú eystri er enn heilleg. Ástæðan mun vera sú að óvenju stórt grjót hefur verið notað í hleðsluna. Sést enn móta fyrir burstalaginu.
Nokkru norðan við húsið, ofar í hæðinni, er hleðsla og umhverfis það rúmgóður hringlaga garður, greinilega mjög gamall. Hann er mótaður af stórgrýti. Augljóst er að þarna hafa engi aukvisar verið að verki.

Setbergsbærinn

Setbergsbærinn – tóftir.

Friðþjófur sagðist hafa rekið augun í þetta, spurt nokkra um hugsanlegar skýringar, en enginn kunnað svör við því hvað þarna kynni að vera. Ekki er með öllu útilokað að um væri að ræða gamlan dómhring líkt og sjá má víðar á Reykjanesskaganum (t.a.m. á Stafnesi og Þingnesi) sem og annars staðar á landinu. Vestan við hringinn er gömul hlaðin tóft. Vel mótar fyrir hleðslum. Snýr framhliðin til norðvestur í átt að miðbænum. Augljóst er að þilgafl hefur verið á henni mót vestri. Lega tóftarinnar bendir til þess að þarna kynni að hafa verið fyrrum bænhús. Fróðlegt væri að fá sérfræðing til að skoða þessar tóftir, en það gæti þó reynst erfitt því ekki var að sjá neina yfirbyggða skrifborðsaðstöðu á svæðinu.

Setberg

Setbergsbærinn gamli í dag á miðri loftmyndinni.

Hlaðinn vörslugarður er skammt norðar. Hann liggur af hamrinum til austurs, en er rofinn á kafla. Friðþjófur sagði afa sinn hafa látið ýta hluta garðsins í haug við enda vestari hluta garðsins þegar holtið var slétt og túnið gert á þeim stað – á grafreitnum og norðan hans.
Þá var gengið austur yfir Fjárhúsholtið og að Svínholti. Norðan undir því, syðst á túni, sem þar er, eru tóftir og hringlaga gerði framan við. Friðþjófur sagði afa sinn hafa byggt þarna fjárhús er þau voru flutt úr Setbergshlíðinni, þ.e. fjárhúsin, sem byggð voru þar 1904 eða 1906 eftir að aðstaðan hafði verið færð þangað úr Setbergsseli. Aftan við húsið hafi verið lítil hlaða, en sjálft hafði það verið byggt úr holsteini. Hins vegar hafi alltaf verið haft á orði að þarna hafi áður verið gamalt mannvirki, sem ekki væru kunn skil á. Það skýrði m.a. hringlaga gerðið við húsin.
Veður var frábært – logn og sólkinsbjart. Gangan tók 43 mín.

Setberg

Tóftir Setbergsbæjarins.

 

Selvogsgata

Gengin var gamla Selvogsgatan frá Lækjarbotnum upp með austurbrún Gráhelluhrauns að Gráhellu milli Svínholts og hraunbrúnarinnar, í Kershelli, þaðan að vörðunni í Smyrlabúðahrauni og síðan Setbergshlíðin og Vatnshlíðin til baka.

Gráhella

Gráhella.

Skoðuð var hlaðin stífla og hleðslur undir vatnsveituhúsið í Lækjarbotnum. Vegna þess hve vatnið var slétt mátti vel greina síðasta bútinn af gömlu tréleiðslunni neðan við upptökin.
Norðan undir Gráhellu í Gráhelluhrauni er hlaðið fjárskjól. Uppi í Setbergshlíðinni, ofan við stóra vörðu skammt austan við Gráhellu, má enn sjá háar hleðslur af gömlum fjárhúsum, sem byggð voru þar árið 1904 þegar Setbergsbóndi flutti fé sitt úr Setbergsseli, sem er þarna skammt ofar. Gott útsýni er til selsins frá fjárhúsinu. Góðir hagar eru ofar í hlíðinni. Húsið hefur verið nokkuð stórt á þeirra tíma mælikvarða. Í miðjunni er hlaðinn garður og minna hús hlaðið við endann.

Markasteinn

Markasteinn – huldufólkshús.

Eftir að hafa farið í gegnum Setbergsselið var beygt til austurs og gengin gömul leið í gegnum gjá norðvestast í Smyrlabúðahrauni og stefnan tekin á stóru vörðuna inni í hrauninu. Farið var yfir gamla landamerkjagirðingu Setbergs. Ekki er ólíklegt að varðan geti verið leiðarmerki að helli, sem var á í hrauninu. Leitað var vel og vandlega á leiðinni, en án árangurs í þetta sinnið. Þá var stefnan tekin á Markastein, en í hann liggur landamerkjagirðingin úr vörðunni ofan við op Kershellis. Steinninn stendur syðst í Fremstahöfða með smágrasstúf á toppi. Að sögn mun Urriðakotsbóndi fyrrum hafa heyrt úr honum rokkhljóð og dregið þá ályktun að í honum byggju huldufólk. Fylgdi sögunni að allt þrek eigi að þverra þeim er nálgast steininn.

Refagildra

Refagildra á Tjarnholti.

Ákveðið var að láta huldufólkið í friði að þessu sinni í tilefni hátíðarinnar. Af ummerkjum að dæma hefur steinninn einhvern tímann verið girtur af, enda lá markagirðingin við hann.
Gengið var eftir Seljahlíðinni og upp á Tjarnholtið með útsýni til allra átta. Sást vel yfir að Trölladyngju og allt yfir að Þorbjarnarfelli ofan við Grindavík. Sólin hafði teygt sig yfir Lönguhlíðar og roðagyllti Esjuna.
Neðar, í norðvestri, sást vel til leifa herbragganna í Camp Russel á Urriðakotshæð (sjá HÉR). Hú hefur hæðinni verið umturnað vegna nýrrar byggðar á hæðinni.

Flóðahjalli

Virki á Fjóðahjalla.

Nikulás Jónsson bóndi á Norðurkoti í Vogum lýsti svæðinu 1834 hér á millum með eftirfarandi hætti: „Milli dala lá troðningurinn niður á Neðri-Flatir, Dalinn neðra eða Dalinn og Urriðakotsdalinn neðri, en svæði þetta sem nú hefur verið lýst nefndist einu nafni Urriðakotsdalir [þar sem nú er golfvöllur] og lá stígurinn hér um miðjan dal í Gjárréttarstíginn og síðan yfir á Hálsinn, Flóðahjallaháls eða Urriðakotsháls sem fyrr er talinn og síðan niður til bæjar. Urriðakot hefur verið í eyði nú um árabil. Þá var tekið upp á því að kalla jörðina Urriðavatn.

Flóðahjalli

Letur á Flóðahjalla.

Svanur Pálsson lýsti svæðinu á eftirfarandi hátt, en heimildarmaður hans var móðir hans, Guðbjörg Guðmundsdóttir sama stað. Hún er fædd í Urriðakoti 1906 og átti þar heima til 1939. Örnefnin nam hún af föður sínum, Guðmundi Jónssyni bónda í Urriðakoti, en á uppvaxtarárum sínum vann hún mikið með honum við útistörf. Guðmundur var fæddur í Urriðakoti 1866 og átti þar heima til 1941, en foreldrar hans bjuggu þar á undan honum og mun faðir hans hafa flust þangað 1846, en móðir hans nokkru síðar.

Hádegisholt

Varða á Hádegisholti.

„Til suðurs frá traðahliði lá svonefndur Urriðakotsvegur eldri ofan við mýrina. Hann beygði síðan vestur með Hádegisholti, öðru nafni Flóðahjalla, sem er stórt holt suður af Urriðakotsvatni. Síðan lá vegurinn norðvestur eftir Setbergsholti norðaustanverðu, meðfram túngarði á Setbergi, norðvestur fyrir Setbergshamar og síðan til suðurs niður á Setbergsveg, sem lá til Hafnarfjarðar.“
Á hæstu bungu Hádegisholts (Flóðahjalla) var komið við í stóru hlöðnu virkisskjól frá stríðsárunum. Á einn steininn þar er klappað ártalið 1940 auk nokkurra upphafsstafa. Ef vel er að gáð má sjá að virkið gæti áður hafa verið hluti af gamalli fjárborg eða gerði, vandlega hlaðinni, en grjótið hefur síðan verið tekið úr henni í virkishleðslur.

Oddsnýjardalur

Oddnýjardalur – gata.

Niðri í dalnum til suðurs, Oddnýjardal, mátti sjá gerði og líklega tóft, sem þarf að skoðast betur síðar. Að sögn Friðþjófs bónda á Setbergi mun þarna upphaflega hafa verið hús frá hernum, en síðar verið notað sem skjól fyrir skepnur frá Setbergi. Gengið var niður á Flóttamannaveg og hringnum lokað.
Veður var frábært – logn og bjart. Gangan tók nákvæmlega 3 klst.
Þess skal getið að á leiðinni þóttust einhverjir þátttakenda sjá litskrúðuga álfa á ferð nálægt Markasteini, en enginn sagðist vera tilbúinn að staðfesta það ef spurt væri.

Setbergssel

Setbergssel og Hamarkotssel.

 

Jónsbúð

Úr skýrslu Bjarna F. Einarssonar fornleifafræðings um fornleifarannsókn í Jónsbúð segir m.a:

Inngangur

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Félagskapurinn, Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar, kom að máli við undirritaðan árið 1997 um að kanna fornleifar á svæðinu Hraunum við Straumsvík. Ekki var um eiginlega fornleifaskráningu að ræða, heldur fornleifakönnun, sem er leitun að, og staðsetning á rústum á korti/loftljósmynd. Rústirnar voru mældar með GPS og staðsettar á loftljósmynd í mælikvarðanum 1:2000.
Í framhaldi af þessari vinnu kviknaði áhugi félagsins á því að láta kanna Jónsbúð nánar með prufuholugreftri og fór sá gröftur fram á tímabilinu 26. okt. – 13. des. með hléum. Verkefnið er samvinnuverkefni Umhverfis- og útivistarfélags Hafnarfjarðar, Byggðasafns Hafnarfjarðar og Fornleifafræðistofunnar.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Stefnt var að, og til þess fengið leyfi, því að kanna fleiri fornleifar í nágrenninu, en sökum veðurs verður það að bíða betri tíma. Annarsvegar er um prufuholugröft við Óttarsstaði, þar sem staðfesta á hvort meint bænahús sé þar að finna eða ekki og hins vegar að kanna aldur Fornasels, sem liggur austan megin við þjóðveginn, talsverðan spöl austur af Álverinu.

Staðhættir

Jónsbúð

Jónsbúð.

Jónsbúð er utarlega við vestanverða Straumsvík í landi Hafnarfjarðar. Bæjarstæðið er aðeins nokkra metra frá sjávarkambinum sem skilur að býlið og uppsátur þess, eða Jónsbúðarvör. Utan um túnin er túngarður úr grjóti sem liggur frá sjávarkambinum utan um stóran klett að sunnanverðu (Skötuklett) og liggur svo að norðan nokkra metra sunnan við Jónsbúðartjörn, sem hefur verið vatnsból Jónsbúðarmanna. Svæðið einkennist mjög af hraunhólum og grasi grónum bollum á milli þeirra. Þessir grasi grónu blettir hafa verið undirstaða skeppnuhalds á staðnum, auk þess sem sjórinn gaf.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Rústirnar við Jónsbúð eru nær óspilltar af mannavöldum og vélvæðing nútímans hefur ekki náð að eyða eða fela mannvirki sem þar hafa staðið. Minjar af slíku tagi er ekki að finna annars staðar á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Því eru minjarnar við Jónsbúð mikilvægur minnisvarði um ákveðna búskaparhætti fyrri tíma og styrkur þeirra fellst fyrst og fremst í heildinni, þ.e.a.s. staðurinn geymir allar þær minjar sem búast má við að þurrabúð/hjáleiga geymi svo sem bæjarhús, túngarð, skeppnuhús, vör, vörslugarð, sólþurrkunarreit, vatnsból o.fl.

Jónsbúð í rituðum heimildum

Jónsbúð

Jónsbúð – brunnur.

Jónsbúðar er ekki getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, en þess ber að geta að þurrabúða er ekki heldur getið við jarðirnar Lónakot, Óttarstaði og Þorbjarnarstaði, þó að enginn vafi sé á því að þurrabúðir hafi verið við eitthvert þessara býla, ef ekki öll. Hins vegar er hjáleiga getið við Óttarsstaði, Þorbjarnarstaði og Straums. Ekki er víst að greinarmunur hafi verið gerður á hjáleigu og þurrabúð og kemur jafnvel til greina að þær hjáleigur sem voru í eyði í byrjun 18 aldar hafi í raun verið þurrabúðir.
Í Manntali árið 1845 er þess getið að tómthúsmaður hafi verið í Straumi, Björn Pálsson að nafni. Var hann giftur Margréti Snorradóttur og áttu þau árs gamlan son, Jón að nafni (Manntal á Íslandi 1845. Suðuramt. Reykjavík 1982. :406). Bóndinn í Straumi hét þá Bjarni Einarsson. Ekki er tekið fram hvar Björn tómthúsmaður bjó nákvæmlega en vel getur verið að hann hafi búið í Jónsbúð.

Jónsbúð

Jónsbúð – uppdráttur BE.

Í manntali árið 1910 er Jónsbúð nefnd sem þurrabúð í landi Straums (Manntal á Íslandi 1910. IV. Gullbringusýsla og Kjósarsýsla. Reykjavík 1998.:228). Þá bjó þar Gunnar Jónsson, sjómaður á þilskipi, Sigríður Hannesdóttir kona hans og Sigríður dóttir þeirra. Þau komu frá Meðalholti í Flóa árið 1882.

Í manntalinu er bæjarhúsum lýst og um Jónsbúð er sagt að

þar hafi verið torfbær með einu heilþili og einu hálfþili.

Í bókinni „Forðum gengin spor“ segir í viðtali höfundar við Jón Magnússon í Skuld í Hafnarfirði: „Síðan færum við okkur inn að Straumsvík en þar voru tvö kot, Jónsbúð og Þýskubúð. Þar voru Jón í Jónsbúð og Gunnar í Þýskubúð. Þessi kot voru búin að vera um tíma í eyði áður en þessir menn komu þangað. Þeir voru orðnir fullorðnir þegar þeim komu að þessum kotum og ég man eftir þeim en ég kynntist þeim mjög lítið. Þeir voru með nokkrar kindur.“ (Jón Gunnarsson. Forðum gengin spor. Hafnarfirði 1996: 45-46).

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Jón þessi í Jónsbúð gæti hafa verið síðasti ábúandi Jónsbúðar, en búðin greinilega kennd við einhvern annan Jón en hann og ekki heldur við faðir Gunnars sem bjó í Jónsbúð árið 1910. Ekki er loku fyrir það skotið að búðin hafi haft ýmiss nöfn, stundum eftir ábúendum sínum og stundum eitthvað annað. Dæmi um slíkt eru vel þekkt.

Ekki hefur Jónsbúð verið mjög lengi í eyði áður en Jón þessi í Jónsbúð byggði upp kotið, varla nema nokkur ár (eins og altítt var með hjáleigur og smákot sem oft voru í eyði til skamms tíma).

Bæjarstæðið

Jónsbúð

Jónsbúð – bæjarstæðið (BE).

Eins og sést á teikningu er bæjarstæði Jónsbúðar óspillt af seinni tíma athöfnum. Þar eru nær öll mannvirki byggð úr grjóti hvort sem um er að ræða bæjarhús, túngarð eða brunn. Grjótið er fengið úr næsta nágrenni, sérstaklega í hrauninu í kring, en yfirleitt ekki úr fjörunni eða sjávarkambinum. Sunnan við bæjarhúsinn er mikill og áberandi klettur og í gjótu við hann er sagt að hafi verið kolageymsla. Kletturinn er rakinn álfa- eða huldumannabústaður, þó ég þekki engar sögur af slíku um þennan klett.
Sennilega er ruslahaugurinn nokkra metra vestan við bæjarhúsið. Norðan megin við bæjarhúsið er rúst hjallsins (nr. 2) og austan við bæjarhúsið er sólþurrkunarreiturinn (nr. 3). Rúman metra vestan af bænum er garður (vörslugarður, nr. 4). Norðan við bæjarstæðið, í Jónsbúðartjörn sunnanverðri, er brunnur (nr. 7) og vatnsból (nr. 8). Skammt vestur af bænum er rúst, áfast við túngarðinn, sem er sennilega fjárhús (nr. 5). Vestan megin við túngarðinn hefur verið stekkur (nr. 9) og nátthagi umhverfis hann (ekki teiknað hér).

Austan við bæinn er vörin og þar má búast við að bátur eða bátar hafi verið dregnir yfir sjávarkambinn og hafðir á þurru vestan megin við sjávarkambinn.

Fundir

Jónsbúð

Jónsbúð.

Þrjár prufuholur voru teknar við Jónsbúð. Prufuhola 1 var tekin inn í miðju hólfi A inn í bæjarhúsinu, prufuhola 2 tekin rúma 5 m frá dyrum bæjarhúss og prufuhola 3 tekin rétt innan við dyr á hólfi B.
Í prufuholum fundust brennd og óbrennd bein fiska, fugla og spendýra, keramík, gler, steinkol, járn, aðrir málmar, skeljar og kuðungar, auk þess sem sjálf mannvistarlögin voru gerð úr, svo sem viðarkol, skeljasandur o.fl. Beinin benda til þess að sauðfé hafi verið hluti af bústofninum, eins og nautgripir sbr. fjósið. Fiskur og fugl hefur verið hluti af fæðunni og svartfuglar verið veiddir til matar (nema að köttur beri ábyrgð á gogginum í baðstofunni!).

Jónsbúð

Jónsbúð.

Sjá mátti í prufuholu 2 að steinkolin fundust aðeins í efri hluta mannvistarlagsins og það bendir til þess að neðri hluti lagsins sé eldri en tími fyrstu eldavélanna, en þær komu upp úr 1870, þó þær hafi ekki orðið almenningseign fyrr en talsvert síðar. Steinkol voru notuð í þessar vélar. Því má draga þá ályktun að á síðasta skeiði búskaparins í Jónsbúð hafi verið eldavél og hún vafalítið verið í baðstofunni (SA – horninu?).

Meðalaglasið, ampúllan, sem fannst í prufuholu 1 er einnig ungt, jafnvel frá þessari öld. Trúlega hefur innihaldið í því verið notað til að bólusetja sauðfé (nautgripir og hestar ekki bólusettir!) Bólusetning af þessu tagi byrjar ekki fyrr en eftir fyrri heimstyrjöldina (Munnleg heimild: Sigurður Sigurðarson, dýralæknir á Keldum).

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Um aldur gripanna er ekki hægt að segja mikið annað en þeir eru ungir, sennilega frá seinni helmingi síðustu aldar.

Bæjarhúsið

Jónsbúð

Jónsbúð.

Bæjarhúsið í Jónsbúð hefur skipst í baðstofu og fjós. Fjósið liggur lítið eitt lægra en baðstofan, en það gat verið með ráðum gert til að nýta hitann af skepnunum, en hiti stígur upp eins og þekkt er. Slík ráðabreytni er þekkt úr öðrum gömlum bæjum svo sem í Sandártungu í Þjórsárdal, kotbýli frá seinni hluta 17. aldar (Kristján Eldjárn. „Tvennar bæjarrústir frá seinni öldum.“ Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1949-50. Reykjavík 1951 og „Bær í Gjáskógum í Þjórsárdal.“ Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1961. Reykjavík 1961.).

Eins og fram kemur hér að framan var eitt heilþil og eitt hálfþil á húsinu. Og eins og fundir gefa til kynna var gluggi á húsinu, jafnvel fleiri en einn. Líklega hefur húsið litið svipað út og Arnarnes nokkuð. Slík hús eru kölluð Þurrabúðargerð yngri, en sú gerð þróaðist upp úr þurrabúðinni (Þurrabúðargerð eldri), sem var án þilja, glugga og bursta. Þessi þróun átti sér stað í lok síðustu aldar (Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940. Húsafriðunarnefnd ríkisins. Reykjavík 1998.:47, 48: mynd 98-99).

Niðurstaða

Jónsbúð

Jónsbúð.

Í Jónsbúð hefur verið búið á síðustu öld og eitthvað fram eftir þessari. Hús 1 hefur skipst í baðstofu (hólf A) og fjós (hólf B) og í baðstofunni hefur verið eldavél á seinni stigum búsetunnar og í henni hefur steinkol verið brennt.

Á býlinu hefur verið haldið sauðfé og nautgripir og fiskur og fugl veiddur til matar. Þang hefur verið notað sem eldiviður, auk annars sem nothæft var (bein, sprek o.fl.). Líklega hefur þangið verið talið til hlunninda eins og segir um Krísuvíkina, ekki síst til að beita sauðfénu á.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Ekki var hægt að rekja aldur býlisins mikið lengra en til seinni hluta síðustu aldar, en hólf A, baðstofan, gæti verið yngri en sum önnur mannvirki á staðnum. Vel getur hugsast að fyrir hafi verið hús af gerðinni Þurrabúðargerð eldri, sem hafi verið endurhlaðin og bætt samkvæmt þörfum samtímans og ráðandi tísku í lok síðustu aldar, eða þegar þurrabúðin varð að einskonar hjáleigu með tilkomu húsdýra. Til að komast til botns í þessu máli þarf að grafa betur á staðnum, t.d. í gegn um veggi bæjarins og kanna betur öskuhauginn.

http://www.simnet.is/utivera/text/forn.htm

Jónsbúð

Jónsbúð – loftmynd.