Færslur

Þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað haustið 1946 fékk stjórnin 32 hektara landspildu útmælda við Vatnsendann norðaustan Hvaleyrarvatns.
Hvaleyrarvatn-222Vorið 1947 var plantað í nyrsta hluta Gráhelluhrauns sem og næstu árin. Vorið 1956 fékk Hákon Bjarnason skógræktarstjóri nokkuð stóra landspildu afhenta í Vatnshlíð. Hann hófst von bráðar handa við að brjóta landið undir ræktun. Nokkrum árum seinna reisti hann sumarhús fyrir fjölskylduna á þessum reit og stendur það hús enn í dag.
Hákon var merkur frumkvöðull og þegar hann hafði undirbúið ræktun í Vatnshlíð töldu félagar í Skógræktarfélaginu að rétt væri að hefjast handa við samskonar landbótarvinnu hjá Beitarhúsahálsi. Sumarið 1957 var 32 hektara landspilda girt og hófst gróðursetning vorið 1958 í nánast örfoka hlíðinni.
Allt Höfðalandið var síðan lagt undir ræktun árið 1979 þegar fjárheld girðing umlukti loksins Hvaleyrarvatn-223höfuðborgarsvæðið.
Starfsstöð Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er í Húshöfða norðan Hvaleyrarvatns, á landsvæði sem hlotið hefur nafnið Höfðaskógur. Félagsaðstaða og ræktunarstöð félagsins er á Beitarhúsahálsi sem dregur nafn sitt af Jófríðarstaðaseli sem varð að beitarhúsi þegar selfarir lögðust af. Þar sem selið stóð eru nú tóftir beitarhúss sem var sennilega byggt rétt fyrir aldamótin 1900. Höfðinn við Beitarhúsaháls og er sennilega nefndur eftir beitarhúsinu, en eldra nafn á höfðanum er Heimastihöfði. Nokkrir höfðar til viðbótar falla undir Höfðaland, s.s. Miðhöfði, Syðstihöfði, Húshöfði og Selhöfði. Einn höfði til viðbótar var tilgreindur í gömlum skjölum og nefndur Þormóðshöfði.
Hann heitir í dag einu nafni Langholt enda frekar um holt eða ás að ræða en Hvaleyrarvatn-224eiginlegan höfða.
Ýmsar manvistarleifar eru á og við höfðanna líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum frá Hvaleyrarvatni. Til að mynda má enn sjá leifar Ássels og Hvaleyrarsels austan vatnsins. Við síðarnefndu selstöðuna má slá leifa af fjósi, sem reyndar verður að teljast eðlilegt m.v. aðstæður, þ.e. góða beit og gnægð vatns.

Selhöfði

Selhöfði – fjárborg.

 

 

Alafarleið

Gengin var Alfaraleiðin frá Hvaleyri að Hvassahrauni. Alfaraleiðin er gamla þjóðleiðin milli Innnesja og Útnesja frá Hafnarfirði. Frá Útnesjum var haldið á Suðurnes; Garð, Sandgerði og Hafnir. Leiðin er vel mörkuð í landið og því tiltölulega auðvelt að fylgja henni þar sem hún liggur framhjá Þorbjarnastöðum í Hraunum (fór í eyði um 1930) og áfram vestur úr.

Gvendarbrunnur-33

Fyrsta varðan á leiðinni er nú inni á miðjum golfvellinum á Hvaleyri. Há varða er á lágum klapparhól vestar (markavarða). Önnur varða, eða vörðubrot, er skammt sunnar. Þriðja varðan er sunnan Reykjanesbrautar. Síðan tekur við svæði Kapelluhrauns þar sem búið er að fjarlægja yfirborðslagið og þar með götuna. Brunavarðan var á hraunbrúninni, en hefur verið eyðilögð. Gatan sést við kapelluna og kemur síðan aftur í ljós ofan við tjarnirnar við Gerði. Þar liðast hún með þeim að austan- og síðan sunnanverðu í áttina að Miðmundarhæð. Hún er augsýnileg þar sem Miðmundarvarða stendur uppi á hæðinni. Gengið er framhjá túngörðum Þorbjarnastaða. Að þessu sinni var tækifærið notað og kíkt á tóftirnar sem og Gránuskúta og Kápuhelli. Þvottastæðið er neðan við Þvottastíginn og brunninn þar sem er hlaðinn bakki út í tjörnina sunnanverða. Þar leysir vatn undan hrauninu í stríðum straumum.

Alfaraleiðin-33

Alfaraleiðinni var fylgt áfram yfir Straumsselsstíg og framhjá “Gíslavörðu”, en hún er hér svo nefnd til minningar um Gísla Sigurðsson og er til merkis um nýliðið aldarafmæli hans. Þá var komið að Gvendarbrunni, litið á fjárskjólið nálægt honum og síðan haldið áfram suður götuna. Brunnurinn er hola í miðjum grasbala á lítilli klapparhæð við götuna. Sagan segir að Guðmundur góði Hólabiskup hafi blessað hann á sínum tíma. Þegar litið var í brunninn var ekki frá því að Gvendur sæist í honum ef vel var að gáð. Að minnsta kosti virtist hann alltaf gæjast fram þegar kíkt var ofan í brunninn. Annars eru Gvendarbrunnarnir a.m.k. fjórir á Reykjanesi, þ.e. þessi við Alfaraleiðina, Gvendarbrunnur í Vogum, Gvendarbrunnar í Heiðmörk og Gvendarhola í Arnarneshæð. Það er líkt með Gvendarbrunnum og Grettistökum að Gvendur og Grettir hafa að öllum líkindum aldrei litið hvorutveggja augum. En það er nú önnur saga. Sá átrúnaður fylgdi svonefndum Gvendarbrunnum (sem talið var að Guðmundur biskup hinn góði hefði blessað) að vatnið í þeim læknaði mein. Þannig var t.d. talið gott að bera það á augu eða á sár svo þau myndu gróa.

Skogargata-3

Gengið var framhjá Óttarstaðaborginni (Kristrúnarborginni), yfir Óttarstaðaselsstíg (Skógargötuna) og áfram yfir Lónakostsselsstíg og upp á hæðir. Þar verður gatan óljósari, en farið er hægt og rólega og tekin mið af kennileitum og vörðubrotum má sjá hvar gatan hallar til vesturs og líður svo í bugðum áleiðis að Hvassahrauni. Skammt sunnan Reykjanesbrautar, áður en komið er á móts við Hvassahraun, hverfur hún svo til alveg, en Reykjanesbrautin hefur verið lögð yfir götuna á þessum kafla.
Óttarsstaðafjárborgin er stundum nefnd Kristrúnarborg eftir Kristrúnu Sveinsdóttur frá Óttarsstöðum, sem hlóð hana ásamt vinnumanni sínum, Guðmundi Sveinssyni, um 1870.

Slunkaríki

Smálaskálahæð – Slunkaríki.

Austan við fjárborgina eru hraunhæðir, Smalaskálahæðir. Syðst í því er stórt og mikilfenglegt jarðfall, Smalaskálaker, með rauðamelsgúl í miðjunni. Í því var um tíma útilistaverk; lítið hús með ranghverfu. Hreinn Friðfinsson, myndlistamaður, reisti það 1974 og nefndi Slunkaríki (það er nú horfið). Í sprungu suðvestan í Smalaskálahæð var komið fyrir líki konu árið 2006 eftir að hún hafði verið myrt með hryllilegum hætti í íbúð í Reykjavík. Sjá má enn hrúgu af steinum, sem kastað hafði verið yfir hana í sprungunni, á sprungubarminum.
Veður var frábært – sól, logn og hiti. Gangan tók 2 klst og 3 mínútur.

Alfaraleið

Alfaraleið um Draugadali.

 

Brennisteinsnám

Ólafur Ólafsson, sem síðar latíniseraði nafn sitt að lærðra manna sið og kallaðist Olavius, var vestfizkrar ættar. Fæddur var hann á Eyri í Seyðisfirði vestra árið 1741. Ingibjörg, systir Olaviusar, varð amma Jóns Sigurðssonar forseta.
Seltúnssvæðið í Krýsuvík - ytra námusvæðiðJafnframt læknanámi í Skálholti og síðar guðfræðinámi í Kaupmannahöfn fékkst hann við ritstörf. Hann hefur sýnilega verið gagntekinn af anda fræðslustefnunnar, sem þá ruddi sér til mjög til rúms, en jafnframt fullur áhuga á að efla framfarir og menningu meðal Íslendinga.
Ólafur Olavius ferðaðist um Ísland sumurin 1775-77 en honum hafði verið falið að kynna sér m. a. hafnir og lendingar, hvar heppilegast væri að koma upp fiskiþorpum. Olavius ritaði bók um ferðir sínar og rannsóknir, Oeconomisk Reise igiennem Island, og kom hún út 1780.
Í bók II er skýrsla Ole Henchels um brennisteinsnámur á Íslandi og hreinsun brennisteins, 30. janúar 1776. Í henni lýsir Ole m.a. leir og brennisteini í Krýsuvíkurfjalli og hvernig vatnsborð Kleifarvatns hafði lækkað eftir landskjálfta, “trúlega eftir að sprunga hafi opnazt í vatnsbotninum”.
“Hjá syðstu námunum rétt við fjallsræturnar var fyrsta hreinsunarstöðin reist, en þar sem ekkert eldsneyti var þar að hafa, var hún flutt og sett niður fjórðung mílu frá bænum, en þar er mótekja góð. Síðan var hún flutt heim undir bæinn, því að mönnum þótti léttara að flytja brennisteininn þangað niður eftir en að flytja eldsneytið upp eftir að fyrsta stöðvarhúsinu. Heima við bæinn er einnig léttara að ná í vatn, því að lækur með góðu vatni rennur þar framhjá.

Í Baðstofu - innra námusvæðinu

Ég athugaði ásigkomulag húsanna, með tilliti til þess að aftur yrði tekin upp brennisteinsvinnsla. Þau voru gerð úr torfi og grjóti á íslenzka vísu, en um þau og annan útbúnað, sem til vinnslunnar heyrði, er það skemmst að segja, að það var allt gersamlega ónýtt og húsin fallin, svo að allt verður að gera að nýju, ein og þar hefði aldrei farið fram brennisteinsvinnsvinnsla eða nokkur hús og mannvirki til þeirra hluta verið þar. Þar sem aðeins eru liðin 8-9 ár síðan brennisteinsvinnslan lagðist niður, hefðu þó hús og áhöld átt að vera í nothæfu ástandi, ef eitthvert eftirlit hefði verið haft með þeim. Það hefði legið beint við að fela bóndanum í Krýsuvík umsjá með húsunum gegn einhverri lítilli þóknun, þar sem hann er þarna búsettur og hafði unnið við brennisteinsvinnsluna. Síðan hefði kaupmaðurinn í Grindavík, sem er einungis 2 1/2 mílu í burtu þaðan, getað farið til Krýsuvíkur eini sinni á sumri til þess að líta eftir, að umsjónin væri sómasamlega rækt. Þá hefði ekki þurft nema smávegis aðgerðir, þegar vinnslan yrði upp tekin á nýjan leik…
Bóndinn í Krýsuvík vissi ekki nema af einum stað öðrum, þar sem brennisteinn fyndist. Er hann 2 1/2 mílu í norðaustur þaðan. Síðast meðan unnið var í Krýsuvík að brennisteinsnámi, sótti hann þangað allan þann brennistein, sem þar var að fá, á 50 hesta, og hefur það þá verið nálægt 80 ættum. Ekki vissi hann, hvort brennisteinn hefði skapazt þar síðan, og væri það vert athugunar.
Ef til þess skyldi koma, að brennisteinsvinnsla yrði hafin hér að nýju, þá mundi stofnkostnaðurinn verða allmikill, eins og þegar hefur verið bent á. En ég þori að fullyrða, að þetta er kleift, ef hagsýni er gætti. Í fyrsta lagi verður að taka brennisteininn með hinni mestu varkárni. Þá verður og að fara skynsamlega að við hreinsunina og ætti fyrst að þvo hrábrennisteininn. Með þeim hætti hygg ég, að mætti ekki aðeins spara mikið lýsi, heldur einnig yrði brennisteinninn betri en ella. Hversu þessu yrði bezt fyrir komið, skal ég lýsa, þegar ég síðar lýsi þeim aðferðum, sem nú eru notaðar við hreinsun brennisteins í hreinsistöðinni á Húsavík.Í Seltúni
Í Krýsuvík er brennisteinninn hreinni og betri en á Norðurlandi. Það þarf ekki heldur að flytja hann óhreinsaðan langar leiðir eftir vondum vegum, svo að framleiðslukostnaðurinn verður minni en á Húsavík. Hins vegar verður að kannast við það, að frá Krýsuvík þarf að flytja brennisteininn hreinsaðan 6 mílna leið til Hólmshafnar, en þaðan er hann fluttur út. En Grindavíkurhöfn er aðeins 2 1/2 mílu frá Krýsuvík og allgóður vegur þar á milli. Ef brennisteinsvinnslan yrði upp tekin, verða starfsmenn verzlunarinnar að skera úr því, hvort muni vera ódýrara, að flytja brennisteininn á hestum til Grindavíkur og þaðan á bátum til Básendahafnar, þar er ekki er siglt á Grindavíkurhöfn, eða flytja hann á hestum alla leið í Hólminn eða til Hafnarfjarðar. En þeir geta gert það betur en ég, því þeir hafa fyrrum haft umsjá með flutningunum og vita, hvað þeir hafa kostað. Þeir ættu einnig að geta reiknað nokkurn veginn, hvað flutningskostnaðurinn yrði, eins og ég hef stungið upp á, og er þá létt að bera það saman, hvor leiðin reyndist ódýrari, og að velja hana að sjálfsögðu.
En þegar nú þar að auki nokkrar smáskútur eru gerðar út til fiskveiða við Ísland, gætu þær tekið brennisteininn á Grindavíkurhöfn, og þá er flutningurinn á landi mjög stuttur.
Hins vegar get ég ekki heitið því, að unnt sé að stunda brennisteinsnám í Krýsuvík um langt skeið í einu, þar eð námurnar eru allar á einum stað og ná ekki yfir sérlega stórt svæði. Þegar brennisteinninn hefur verið tekin úr þeim í 3-4 ár, mun þurfa að hvíla þær um jafnlangan tíma, nema menn yrðu svo heppnir að finna þar kaldar námur, sem hægt væri að vinna meðan brennisteinn myndaðist á ný í lifandi námunum, en ekki er hægt að gera því skóna með nokkurri vissu.
En ef ekki sýnist tiltækilegt að hefja brennisteinsvinnslu í Krýsuvík að þessu athuguðu, virðist mér samt, svo að námurnar liggi ekki þar engum til gagns, að rétt væri að lofa bændum þeim, er þar búa, að hreinsa brennisteininn, gegn því að þeir afhendi hann verzluninni og fengju erfiði sitt og fyrirhöfn goldið eftir landsvenju. Verzlunin mundi að vísu ekki græða mikið á þessu, en hafa þó nokkurn ágóða.

Brennisteinn í Krýsuvík

Þá rannsakaði ég, eins og mér var boðið, hvort jarðhitinn væri nokkurs staðar svo mikill, að unnt væri að nota hann til brennisteinshreinsunarinnar. En hann reyndist mér hvergi meiri en svo, að kvikasilfrið kæmist í suðumark. Hann er þannig með öllu ónógur til að bræða með brennisteinn eða eima hann, þegar hann er í föstu formi. En þó að hitinn væri nægur, þá er jarðvegurinn of laus til þess, að hægt sé að koma þar fyrir húsi eða nokkrum tækjum til að handsama hitann, því að þar er hvorki hægt að ganga né standa án þess að hætta sé á, að maður sökkvi í leðjuna, og varð ég oft fyrir því að vaða jörðina upp í hné.
Dagana 18. – 19. júlí fór ég um fjöllin, sem liggja suðvestur frá Kleifarvatni og fram hjá brennisteinsnámunum og beygja síðan í suðaustur til sjávar. Svipaðist ég þar um eftir kalki, sem mér datt í hug, að kynni að finnast þar, af því að kalk er algeng bergtegund í öðrum löndum. En hversu vel sem ég leitaði, fann ég hvergi nokkurn kalkvott, því að hvarvetna þar, sem ég  fór eða sá yfir, var enga aðra bergtegund að sjá en sandstein þann, sem áður hefur verið lýst.”
Áhugavert væri að leita uppi leifar húsanna, sem lýst er hér að framan.

Heimild:
-Ólafur Olavius – Ferðabók II og II, Steindór Steindórsson frá Hlöðumíslenskaði, Bókfellsútgáfan, 1964, bls. 272-274 (II).Uppdráttur Ólafs Olaviusar af Krýsuvíkurnámum

Suðurnesjavegur

Sýsluvegurinn frá Reykjavík suður að Vogastapa.
Hér er ritað um sýsluveginn frá Reykjavík suður í sýsluna. “Ég ætla þá að fara úr Reykjavík suður eftir, og geta um ýmislegt, sem fyrir augun ber, hvað veginn snertir.
Foss-202 Þegar maður kemur niður í Fossvog, verða fyrir manni rásirnar þar. Þær eru að vísu þannig á sumrum, að fáum ókunnugum mundi til hugar koma, að við þær væri neitt að athuga; en á vetrum í leysingum verða þær lítt færar eða stundum ófærar.
Þá kemur Fossvogslækur, lækur þessi, sem er á sumrum ekki nema ofurlítil spræna, verður stundum á vetrum svo, að naumast verður yfir hann komist, og það ber við, að hann verður með öllu ófær.
Vegurinn upp Kópavogsháls er óhæfilega brattur, lítt fær með vagn, en vagnvegur á vegurinn milli Rvíkur og Hafnarfjarðar að verða úr þessu. Með því að sneiða hálsins lítið eitt utar, má fá hann mjög hallalítinn.
Þegar kemur suður að Kópavogi, kemur ein torfæran, þótt stutt sé; hún er rétt við landnorðurhornið á túngarðinum í Kópavogi; þar eru götutroðningar, djúpir mjög, og verður þar á vetrum kafhlaup, þegar snjóþyngsli eru. Þá kemur brúin yfir Kópavogslæk. Að henni er mesta vegarbót, og er furða, að hún skyldi ekki vera á komin fyrir mörgum tugum ára; en trén í henni eru mikils til of veik; brúin skelfur undan gangandi manni, hvað þá heldur þegar hún er riðin.
foss-203 Þá er nú úr því brýr yfir lækina, og vegur all góður þangað til kemur suður í Hafnarfjörð.
Þar er vegurinn lagður yfir Hamarinn hér um bil þar sem hann er brattastur; en auk þess er vegur þessi óruddur, ekkert í hann borið, og er hann fullur af lausu grjóti, og má það kallast hættulegt að ríða hann ofan að norðanverðu; í sunnanverðum Hamrinum neðst er sjórinn búinn að taka burtu hleðsluna úr veginum, og er honum því einnig hætta búin úr þeirri átt. Svo er þess að gæta, að rétt við endann á veginum er skipa-uppsátur þeirra manna, er búa þar í grennd. Af því, að sjórinn gengur þar rétt upp að veginum, standa skipin svo hátt, að ókunnugum mönnum, sem í myrkri fara um veginn, getur verið af þeim hætta búin; skipa-uppsátur er ekkert annað til þar í grennd.
Svo kemur nú suður undir Flensborg. Þar standa þilskip, og liggja járnkeðjur af þeim yfir þveran veginn, og er furða, að ekki skuli oft hafa hlotist slys af þeim. En þess ber að geta, að þar er enginn vegur lagður, nema hvað hrossin hafa unnið þar að vegavinnu. Flensborgarskóli á þar lóðina, sem skipin standa á, og leigir þar uppsátrið, og tekur 10 kr. fyrir hvert skip yfir veturinn. Ef skipin mega ekki hafa þar landfestar, þá er ekki til neins að ljá manni uppsátur; hafa þar að undanförnu legið 4 skip á vetrum; gjaldið eftir þau eru þá 40 kr., eður sama sem að skólaeignin sé 1000 kr. meira virði en ella. Eitt af tvennu er: annaðhvort verður að banna að hafa þar skipauppsátur, eða að leggja veginn annarsstaðar.

foss-204

Um stórstraumsflóð flæðir alveg upp undir túngarðinn í Flensborg, og verða menn þá að ríða sjóinn fram með garðinum, oft talsvert djúpt, og auk þess er þar mjög grýtt, svo að þar er mjög illt yfirferðar.
En þá tekur ekki betra við, þegar Ásbúðarmegin kemur; þar er hár bakki, sem upp verður að klöngrast; vinnist sú þraut, þá tekur við dý, sem hver hestur liggur í.
Þegar búið er að draga þá upp úr því, er haldið suður Hvaleyrarholt. Þetta holt hefur ekki verið rutt í ár, og er það mjög seinfarið. En þegar kemur suður fyrir Sandskörðin sunnanvert við Hvaleyrartjörn, þá liggur vegurinn svo lágt, að þar flóir yfir í stórstraumum.
Svo koma nú Hraunin, þ. e. Gráhelluhraun, Kapelluhraun, Almenningur og Afstapahraun. Um veginn gegnum þau ætla ég ekki að tala; hann er alkunnur, og líklega ekki þeirrar núlifandi kynslóðar meðfæri að bæta hann svo, að nokkru nemi; þó ætti það að vera vinnandi vegur, að ryðja veginn gegnum þau árlega; þegar það er gjört, er þó ólíku betra að fara yfir þau, heldur en þegar vegurinn er fullur af lausu grjóti og steinvölum.
Þegar Hraununum sleppir, kemur Vatnsleysuheiði. Yfir hana mestalla hefir verið lagður upphækkaður vegur, en hann er nú orðinn því nær ófarandi, og miklum mun verri en gamli vegurinn var. Þessi upphækkaði vegur er í daglegu tal oft kallaður Vatnleysu(heiðar)brú, en af sumum “Svívirðingin”, og þykir bera það nafn með rentu; það er sama smiðs-markið á henni og Svínahraunsveginum gamla, og þarf þá ekki lengra til að jafna.
Þessi upphækkaði vegur stefnir frá Kúagerði til Kálfatjarnar, og er honum sleppir, þá tekur við hfoss-205inn gamli vegur suður með bæjunum á Vatnsleysuströnd; þessi gamli vegur er allgóður á sumrum, enda er hann oftast vel ruddur; en á vorum og haustum, þegar bleyta og leysingar eru, er hann mjög illur yfirferðar, liggur sá vegur allt suður að Vogastapa og lengra ætla ég ekki að fara að sinni.
Hvað skal nú gjöra við þennan veg? Eins og er, er illa við hann unandi.
Í Fossvogi má ef til vill leggja veginn fyrir ofan rásirnar allar, nema hina syðstu; hana þarf að brúa.
Fossvogslæk ber brýna nauðsyn til að brúa, og það sem allra fyrst, og væri það lítill kostnaður.
Götutroðningana við Kópavogstún verður að brúa, og virðist það auðgjört.
Kópavogslækjarbrúna þarf að athuga; það er of seint að gjöra það eftir að slys er búið að hljótast af því, hversu veikgjörð hún er. Í öllu falli væri nauðsynlegt að láta áreiðanlega menn, sem vita hafa á því, dæma um það, hvort henni sé treystandi eins og hún er.
Veginn yfir Hamarinn í Hafnarfirði, þar sem hann er, ætti alveg að leggja niður. Þar sem hann liggur upp Hamarinn, er mikils til of bratt; það er ógjörningur, og líklega heldur engin lagaheimild til, að vísa mönnum burtu með skip sín, sem uppsátur hafa rétt fyrir sunnan Hamarinn, en skipa-uppsátur þar og vegur geta ekki samrýmst. Sama er að segja um þilskipa-uppsátrið hjá Flensborg; annaðhvort er, að banna skólanum að hafa þar uppsátur, eða að leggja af sýsluveginn þar fram hjá. Og þegar þess er gætt, að vegurinn þar er afar-illa lagður, þ. e. undirorpinn sjávargangi, og menn verða að sæta sjávarföllum til að komast hann, þá virðist lítil eftirsjón í honum þar sem hann er.
En hvar ætti þá að leggja hann?

foss-206

Hann ætti að leggjast sunnar upp Hamarinn en nú er, fyrir ofan bæinn “á Hamri” neðan til í Jófríðarstaðaholti, fyrir sunnan Ásbúð og svo suður Hvaleyrarholt hér um bil beina stefnu á Hjörskot. Það, sem ynnist við að leggja veginn þannig, hjá því sem nú er, mundi verða: vegurinn upp Hamarinn yrði ekki eins brattur, hann yrði ekki undirorpinn sjávargangi; vegfarendum yrði engin hætta búin af bátum, sem nú standa því nær yfir þveran veginn; skólaeigninni í Flensborg yrði ekki meinað að hafa þann hag af þilskipa-uppsátri, sem hingað til hefir oftast samsvarað vöxtum af 1000 krónum; menn kæmust hjá hinni afarillu torfæru hjá Ásbúð, og um stórstraumsflóð þyrfti ekki að klifra upp sandskörðin hjá Hvaleyri.
Veginn suður Hraunin ætti sannarlega að ryðja á hverju ári; minna má það ekki vera; hann er full-illur samt.
Af hinum upphækkaða vegi suður Strandarheiði (eða Vatnsleysu-heiði), þar sem hann nú er, ætti sýslunefndin alls ekki að skipta sér. Sá vegur liggur vestur Ströndina, og ef menn ætla t. a. m. suður í Voga eða þaðan af lengra, þá er það sá afarkrókur, að ríða niður á Ströndina, að ég er viss um, að það nemur fullum þriðjungi, móti því að fara beint úr Kúagerði á Reiðskarð (upp Vogastapa). Strandarmenn mundu þá halda við gamla veginum sem hreppsvegi. En eigi að halda við hinum gamla vegi sem sýsluvegi, þá mundi sú aðgjörð, sem hann þarfnast, ef hann á að geta kallast viðunanlegur, dragast að verðinu til hátt upp í það, sem nýr vegur, beint frá Kúagerði á Reiðskarð, mundi kosta.
Sumir berja því við, að með slíku fyrirkomulagi þyrfti svo víða að leggja vegi frá Ströndinni upp á sýsluveginn. Þetta fæ ég ekki séð að sé nauðsynlegt. Sá, sem ætlar að koma við á Ströndinni, ríður hreppsveginn; en ætli maður beint frá Kúagerði suður, án þess að eiga erindi á Ströndina, þá fer maður sýsluveginn.
Ritað á Fidesmessu 1890.
Vegfarandi.”

Ísafold, 26. apríl 1899, 26. árg., 26. tbl., bls. 103:

Almenningsvegur

Gengið um Almenningsveginn ofan Vatnsleysustrandar.

“Sumrin 1897 og 1898 lét sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu leggja mikið laglegan vagnveg milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, frá Fossvogi, en þangað hafði bæjarstjórn Reykjavíkur lagt áður og hefir þessa ekki enn verið getið í blöðum vorum.
Vegur sá er sýslan lét byggja af nýju, er rúmar 5 rastir á lengd, einnig var borið ofan í og endurbættur gamall vegur (Hafnarfjarðarhraun) rúml. 1 ½ röst á lengd. Hver röst er 531 faðmur. Brýr voru gerðar yfir fjóra læki, og er ein þeirra þrjátíu áln. Lengd, með 50 álna löngum stöplum (þeir eru þrír) og 5 áln. Háum á fullum helmingi. Hinar eru 5-8 álna langar.
Til vinnu þessarar var varið 9.600 kr.
Brýrnar allar kostuðu 1.800 krónur. Aðgerð við gamla veginn um 800 kr. Kostar þá her um bil kr. 2,80 faðmurinn í hinum nýja vegi. Í gegnum veginn eru 16 rennur gerðar úr grjóti 50×100 cm., utan ein úr timbri 3×2½ alin. Mold og möl höfð undir í öllum veginum með torf og grjót á hliðunum, nema um 150 faðmar eru eingöngu úr grjóti (púkkvegur). Ofaníburður allstaðar frá 8-12 þuml. á þykkt. Við vinnuna voru 12 menn fyrra sumarið með 4 hestum, en 15 til 18 hið síðara með 6 og 8 hestum. Verkstjóri var bæði sumrin Sigurgeir Gíslason í Hafnarfirði.
Það var myndarlega til ráðist af sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu að leggja veg þennan, og væri óskandi að hún fengi styrk til þess að geta gert meira í líka átt sem þetta. Hefir talsverð vagnaferð verið eftir vegi þessum síðan hann var fullger, en talsverð óþægindi eru að því, að ógert er enn við hallann ofan í Hafnarfjörð, því þar er vegurinn mikils til of brattur fyrir vagna, og er vonandi að ekki bíði mjög lengi svo búið.”

Heimildir:
-Ísafold, 11. okt. 1890, 17. árg., 82. tbl., forsíða.
-Ísafold, 26. apríl 1899, 26. árg., 26. tbl., bls. 103.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Keflavíkurveginn.

Hafnarfjörður

Í Alþýðublaðinu árið 1935 er m.a. fjallað um “Stækkun Hafnarfjarðar – Heimild handa ríkisstjórninni til að fakat lönd í Hafnarfirði, Garðahreppi og Grindavíkurhreppi eignarnámi:

emil jonsson“Emil Jónsson flytur frumvarp um eignarnámsheimild handa ríkisstjórninni til að taka nokkur lönd í Hafnarfirði, Garðahreppi og Grindavíkurhreppi og um stækkun lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar. Segir svo m. a. í frumvarpinu: Ríkisstjórninni er heimilt, að taka eignarnámi: Alt óræktað land Jófríðarstaða í Hafnarfirði. Afnotarétt af öllu óræktuðu landi jarðarinnar Ás í Garðahreppi. Þann hlutann af óræktuðu landi jarðarinnar Hvaleyri í Hafnarfirði, sem ekki er þegar eign Hafnarfjarðarkaupstaðar. Eignar- og afnotarétt þess landsvæðis í Garðahreppi, sem takmarkast þannig: Að norðvestan af beinni línu úr Arnarnesi í Hnoðraholt (hreppsmörk Garðahrepps), að suðaustan af beinni línu úr Hnoðraholti í Miðaftanshól (í landamerkjum Hafnarfjarðarkaupstaðar), að sunnan af bæjarlandi Hafnafjarðarkaupstaðar, og að vestan af beinni línu úr suðvesturhorni Arnarnesvogs yfir vesturhorn Engidals, þó að undanskildum að minsta kosti 20 ha. af ræktuðu eða ræktanlegu landi fyrir hvert býli, sem nú er í ábúð á þessu svæði. Jarðirnar Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ í Grindavíkurhreppi.

Krýsuvík

Horft yfir Krýsuvík um 1962 (HH).

Þegar eignarnámið hefír farið fram, skal ríkisstjórnin selja Hafnarfjarðarkaupstað þessi lönd jafnóðum, enda greiði kaupstaðurinn allan kostnað við eignarnámið, bæði til einstakra manna fyrir rétt þeirra til landsins og mannvirkja á því, og einnig til hreppsfélaga fyrir þá tekjurýrnun, er þeir kunna að verða fyrir vegna eignarnámsins. Skaðabætur þessar skulu metnar af gerðardómi þriggja manna. Búnaðarmálastjóri skal vera einn þeirra, annar skipaður af hæstafétti og sé þriðji af atvinnumálaráðherra.
Lönd þau, sem Hafnarfjarðar frumvörp, er öll fóru í mjög svipaða átt og þetta og miðuðu að því að bæta úr brýnni og aðkallandi þörf Hafnarfjarðarkaupstaðar á ræktanlegu landi. Um ástæður fyrir þessu frumvarpi má því í aðalatriðum vísa til greinargerða þeirra, er fylgdu þeim frv. Ástæður hafa í engu verulegu breyzt síðan.

Krýsuvík

Krýsuvík.

Áhugi fyrir aukinni ræktun er mikill og almennur í Hafnarfirði, en landið er lítið nærtækt, nema hraun, sem er óræktanlegt með öllu. Jófríðarstaðir, Ás og Hvaleyri eru þær jarðir, sem næst liggja bænum að sunnanverðu, og fylgir þeim öllum allmikið óræktað land, sem vel mætti takast að rækta, og; mundi að öllum líkindum þegar hafa verið ræktað, ef Hafnfirðingar hefðu átt þess nokkurn kost. Land þetta er aftur á móti lítið notað af eigendum eða ábúendum þessara jarða, og má því segja, að þeir missi ekki í mikils, þó að það væri af þeim tekið.
Um landsvæðið í Garðahreppi er það að segja, að afnotaréttinn að nokkrum hluta þess hefir Hafnarfjarðarbær átt kost á að kaupa, en málið hefir strandað á því, að menn í Hafnarfirði hafa ekki viljað taka þar smábletti upp á þau býti að verða fyrir það útsvarsskyldir í Garðahreppi. Hefir því nú verið tekið upp í frv. ákvæði um stækkun lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar, sem nemur því landi, er þarna getur komið til greina. Um þetta atriði hefir verið reynt að ná samkomulagi við Garðahrepp, en árangurslaust. En það er nýmæli í þessu frv. að Krýsuvík í Grindavíkurhreppi og Stóri Nýibær verði tekinn með. Er það gert með tilliti til þess, að þar eru einu jarðhitasvæðin í nágrenni Hafnarfjarðar. Hafa kaupstaðarbúar mikinn hug á að tryggja sér þau og notafæra á ýmsa lund síðar. Jarðir þessar eru nú lausar úr ábúð og í eyði, svo tíminn yrði aldrei betur valinn enn einmitt nú.”

Heimild:
-Alþýðublaðið, 14. mars 1935, bls. 1 og 4.
-althingi.is.

Krýsuvík

Krýsuvík.

Helgadalur

Hraunbúar héldu 20. vormót sitt í Helgadal árið 1959. Þess er getið í Alþýðublaði Hafnarfjarðar sama ár undir fyrirsögninni:
skatar i helgadal 1954“Um 700 skátar frá Hafnarfirði og nágranna bæjum komu til mótsins. Meðal gesta voru Forseti Íslands og biskup”.
“Skátar hafa haft það fyrir sið, að halda vormót á ári hverju. Í flestum tilfellum hafa mót þessi verið haldinn í Helgadal, enda hefur sá staður gefizt hafnfirzkum skátum bezt. Vormótin hafa jafnan verið eitt aðal tilhlökkunarefni skátanna í Hraunbúum, enda eina útilega margra þeirra. Mótið, sem nú var haldið, var það 20. í röðinni. Í tilefni þess var sérstaklega til þess vandað, og á bak við það lá mikil vinna, sem leyst var af hendi af áhuga og fórnfýsi. Forsetahjónin og biskup Íslands voru gestir mótsins.
Mótið hófst föstudaginn 29. maí og stóð yfir til kl. 6 á sunnudag. Mikið fjölmenni var saman komið í Helgadal og þar var glatt á hjalla. Samtals munu yfir 700 skátar hafa komið til mótsins. Fjöldi aðkomuskáta frá nágrannabæjum og þorpum heimsótti hafnfirzku félagana dg höfðu meðferðis ýmis skemmtiatriði.
skatar í helgadal 1959-321Það var ánægjulegt að horfa yfir Helgadalinn á laugardagskvöldið. Skipulega niðursett tjaldborgin huldi dalbotninn að mestu, en Upp í hlíðinni logaði varðeldurinn. Allt um kring sat hin fjölmenna skátaþyrping og þaðan bárust glaðværir skátasöngvarnir og „heija” hrópin út yfir hraunbreiðuna.
Kl. 2 á sunnudaginn heimsóttu forsetahjónin og biskup Íslands mótið. Flutti biskup messu þar í dalnum, en á eftir var gestunum boðið til tedrykkju í veitingatjaldi skátanna. Forsetinn, herra Ásgeir Ásgeirsson, ávarpaði síðan skátana og árnaði þeim heilla í störfum. Var heimsókn þessi hin ánægjulegasta og skátunum til uppörfunar og gleði. Veður var sæmilegt meðan á mótinu stóð. Þó rigndi dálítið á sunnudaginn, en fjölmennið hélzt þó allt til mótsloka.
Mótinu lauk kl. 6 sd. og hafði í alla staði heppnast vel og verið skátunum til ánægju og sóma.”

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 18. árg. 1959, bls. 6

Helgadalur

Helgadalur.

Skálavegur

Fornleifaskráning vegna mats á umhverfisáhrifum Suðurstrandarvegar var gerð af Bjarna F. Einarssyni árið 2003. Ástæða er til að vekja athygli á eftirfarandi atriðum er vantar í skráninguna.

Krýsuvíkurheiði

Hlaðið hús í Krýsuvíkurheiði.

Í fornleifaskráningu við Arnarfell vantar skjól austan undir fellinu, brunn suðvestan undir fellinu, skjól norðan í fellinu og tvö vörðubrot sunnan undir fellinu á gamalli leið frá Arnarfellsbænum austur fyrri Bleiksmýrartjörn, áleiðis að Jónsbúð og um Klofninga.
Ögmundarvegur hinn forni er færður suður í Ögmundarhraun þar sem Húshólmastígur liggur frá austurjarðri Ögmundarhrauns inn í Húshólma. Norðar er Ögmundardys við hinn forna Ögmundarstíg. Árið 1932 var lögð vagngata ofan í stíginn fyrir tilstuðlan Hlínar Johnsen í Krýsuvík. Vegagerðin var greidd af henni. Þó sést sumstaðar í hinn forna Ögmundarstíg þar sem ofaníburðurinn hefur fokið burt.

Hraun

Sigurður Gíslason sýnir refagildru ofan Hrauns.

Sæluhúsið undir Lat er nefnt fjárskjól og dundursvörður fóstbræðranna á Skála, Bergs og Brands, á fyrri hluta 20. aldar eru sagðar vera við forna þjóðleið. Þjóðleiðin lá mun sunnar enda sjást þess glögg merki í hrauninu. Vörðurnar hlóðu drengirnir hins vegar af gamni sínu – fjarri öllum leiðum.
Gömlu vagngötunnar um Siglubergsháls er hvergi getið, enda er hún nú komin að hluta undir hinn nýja Suðurstrandarveg um Siglubergsháls. Ekki er minnst á Gamlabrunn og ekki er að sjá að krossrefagildrunnar ofan við Sandleyni sé getið í skráningunni. Og þá ber að telja að “Tyrkjahellisins” á sunnaverðum Húsfellshálsi, Efri-Hellum, er hvergi getið í fornleifaskáningunni, en vegurinn á á liggja um hálsinn. Þar segir þjóðsagan að Grindvíkingar hafi ætlað að flýja undan Tyrkjanum, ef og þegar hann sneri aftur.

Þrátt fyrir vel meinta fornleifaskráningu er ljóst að taka ber slíkar skráningar með varúð. Svæði sem þetta verður seint fullkannað, enda erfitt yfirferðar á köflum. Hellar, sem víða leynast í hraununum, eru ágætt dæmi um vandmeðferðina. Ef vel ætti að verki staðið tæki skynsamleg fornleifakönnun á svæði sem þessu 2-3 ár.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Árni Óla

“Einn góðviðrisdag í sumar kom jeg á skemtilegan og fallegan stað hjerna í nágrenninu. Sunnan við Hafnarfjörð er fell nokkurt sem Ásfjall heitir. Vestan undir því er dalverpi og hefir Kapelluhraun runnið inn í það að norðan og hlaðið hraunborð þvert fyrir það. Þess vegna hefir myndast dálítil tjörn innst í krikanum, uppi undir fjallinu.

asfjall-221

Hraunið er þarna helluhraun með mörgum sprungum. Í hverri sprungu var köngulóarvefur við köngulóarvef og glóði á þá eins og silfurvíravirki þar sem sól skein á. Í miðjum hverjum vef sátu „maddömurnar”, sleiktu sólskinið og biðu eftir bráð. En undir vefunum var fagurgrænt burknastóð. Umhverfis tjörnina var mikið fuglalíf. Þar voru lóur, stelkar, tjaldur, kríur, duggandir, stóru móandir, óðinshanar, hettumáfar. Auk þess grámávar, svartbakar og hrafnar, sem sýnilega höfðu komið í heimsókn. Öll tjörnin moraði af hornsílum. Smáhólmi er í henni og var nú fagurgulur af vatnasóley. Blástör vex í þriðjungi tjarnarinnar og eru þar smátoddar og tappir á víð og dreif og eins meðfram löndum. Þarna var líf og fjör, en mest bar á hettumávunum. Þeir voru á annað hundrað og lintu ekki gargi og skrækjum og gerðu sig heimaríka með árásum á hinn óboðna gest, því að þarna hafa þeir valið sjer varpstað. Á hverri smátöpp meðfram landi mátti líta hreiður með 4 eggjum hvert. Úti í hólmanum voru hreiðrin víst álíka þjett og kríuhreiðrin hjer í Tjarnarhólmanum. Og alls staðar voru þeir að setjast niður í störina, og hafa þar verið toddar með hreiðrum, þótt þeir sæist ekki.
Hettumávurinn er fallegur fugl, harðskeyttur og ráðríkur og ryður sjer til landa með mestu frekju. Ekki veit jeg hvað langt er síðan hann hefir sest þarna að, en varla eru það mörg ár. Og hann hefir lagt undir sig besta landið þarna, eins og annars staðar þar sem hann kemur og bolað öðrum frá. Sjálf krían hefir orðið að hörfa úr hólmanum fyrir ráðríki hans, og er ýmist flúin eða hefir flutt sig upp í mýri ofan við tjörnina. Þangað hafa andirnar víst einnig orðið að flytja til þess að fá afdrep fyrir hreiður sín.
Þótt hettumávurinn sje leiðinlegur til lengdar, var unaðslega skemtilegt þetta sólbjarta sumarkvöld þarna hjá litlu starartjörninni. Handan við hana í ásunum blöstu við iðgræn tún, bæir og sumarbústaðir og spegluðust í vatninu.

Ástjörn

Ástjörn.

Þarna var líf og fjör. Innan um jassgargið í hettumávunum heyrðist margraddaðiir kliður af söng annara fugla og í loftinu stóð hinn fallegi tjaldur og rak upp sín hvellu bjölluhljóð, sem yfirgnæfðu alt annað. Og á meðan jeg sat þaraa og horfði og hlustaði hugfanginn, og naut þess að láta blessaða sólina verma mig, hvarflaði sú hugsun að mjer, hve undarlegt það væri, að slíkir staðir sem þessi færi fram hjá augum fjöldans. Hve undarlegt það væri, að menn þeyttust langar leiðir út og suður, austur og vestur, til þess að fá að sjá fegurð náttúrunnar, en hugsuðu ekkert um þá fögru staði sem hjer eru á næstu grösum. Og þá fanst mjer sem það mundi þarft verk, að benda Reykvíkingum á það, að hjer eru margir fagrir staðir, rjett við bæjarvegginn hjá þeim, staðir, sem fæstir þeirra hafa sjeð og vita ekkert um. Fanst mjer að slíkt gæti orðið góð leiðbeining fyrir þá, sem ekki hafa annan frítíma en vikulokin til þess að lyfta sjer upp.
Reykjanesskaginn er ekki jafn ómerkilegur og sumir hyggja. Hjer er bæði stórbrotin og fjöbreytt náttúrufegurð. Fjöllin eru að vísu ekki há, en þau eru undrafögur og margbreytileg. Hjer eru fagrir firðir og svo hin dásamlegu Sund og eyjarnar. En skaginn þykir heldur gróðurlítill.
Merkilegastur er Reykjanesskaginn fyrir hinar miklu eldstöðvar, sem þar eru, og hraunin. Milli Vogastapa og Hvaleyrar er norðan á nesinu um 15 km. breitt undirlendi upp að Fagradalsfjalli, Keili, Trölladyngju og Undirhlíðum. og er alt þetta svæði samfeld hraunbreiða, sem kallast Almenningur. En tvö yngri hraun hafa flætt þarna yfir gömlu hraunin og alla leið fram í sjó, Afstapahraun milli hrauns og Vatnsleysu og Kapelluhraun milli Hvaleyrar og Hrauns. Almenningshraun eru mjög gömul og eru sennilega komin úr gígum hjá Undirhlíðum, sum eru margir. Frá miðgígunum þar og gígum hjá Helgafelli er Kapelluhraun komið. Það er í annálum nefnt Nýjahraun og draga menn af því þá ályktun að það muni hafa runnið eftir landnámstíð. Afstapahraun er komið úr miklum gígum hjá Trölladyngju.
Þá er Hafnarfjarðarhraun eða Garðahraun. Það er komið úr stórum gíg norður af Helgafelli, skamt frá Kaldárseli. Landspildan fyrir vestan gíginn, með tröðum og hrauni, og líklega gígurinn sjálfur, hefir sigið eftir gosið, og þess vegna má sjá þar þá einkenilegu sjón, að aðalhraunið er hærra heldur en uppvarpið. Hraunstraumarnir frá þessum gosstöðvum hafa beljað niður milli ása niður að Hafnarfirði og út á Álftanes ofanvert.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi.

Fyrir neðan Bláfjöll og Grindaskörð er samanhangandi hraunhaf að Elliðavatni og Lækjarbotnum, og standa aðeins fáir móbergshnúkar upp úr svo sem Helgafell, Valahnúkur og Húsfell. Hafa hraun þessi komið úr mörgum stórum gígum uppi á brúnum við Kóngsfell, hjá Bláfjöllum, við Kerlingarskarð og Grindaskörð og runnið niður hlíðarnar í mörgum stórum elfum og fossum, sem enn má sjá. Það eru ekki vatnsföllin á Reykjanesskaga, en þurár eru þar margar. En þurár munu fornmenn hafa kallað hraunstrauma, sbr. bæjarnafnið Þurá í Ölfusi. Hraun þessi úr Bláfjöllum eru mjög misgömul, komin upp við mörg gos, líklega öll fyrir landnámstíð. Vestan til í þeim eru ýmsar stórar gjár, og heitir ein Gullkistugjá. Við hana er kend Gjáarrjett. Um nafnið Kóngsfell er það að segja, að fellið er kent við fjallkóng eða gangnaforingja, sem hafði þann sið að skifta leitarmönnum þar.

Hellnahraun

Hraun í nágrenni Hafnarfjarðar.

Öll þessi hraun eru í námunda við Reykjavík og öll eiga þau sammerkt um það, að vera mjög girnileg til fróðleiks, svo sannarlega sein fjölbreytni í landslagi er girnileg til fróðleiks. Hraunin eru heimur út af fyrir sig, og margir einkennilegustu og fegurstu staðir þessa lands eru í hraunum. Oft eru þau nokkuð óblíð á svipinn og ógestrisin, En öll geyma þau sjerstaka töfra, sem menn finna fyrst þegar þeir fara að kynnast þeim. Og í þessum hraunum má margt læra, eigi aðeins um eldsumbrot, hamfarir og tortímingu, heldur einnig um gróðrarsögu landsins, hvernig hin þolinmóða móðir náttúra byrjar aftur að græða og klæða. Þar sjest einna best hvað hún hefir „hendur sundurleitar” og að „önnur er mjúk en önnur sár”. Yfir gróðurlendur falla logandi hraunelfur og brenna og kaffæra alt sem fyrir verður. En ekki hefir hraunið storknað fyrr en gróðurinn tekur að nema þar land. Fyrst koma fljetturnar eða skófirnar, sem bíta sig fastar í bert hraunið og mynda á því hvíta og gula bletti. Svo kemur grámosinn og tyllir sjer á skófirnar og myndar þar smám saman smáþúfur, sem síðan renna saman og verða að dyngjum, eða mosaþembum, þessum einkennilega gróðri, sem Jóhannes Kjarval málari hefir skynjað manna best hve fagur er í látleysi sínu og lífskrafti. Grámosinn hefir það hlutverk að skapa jarðveg í hraununum. Hann vex og vex, en fúnar jafnframt að neðan og með því að kappkosta að lifa er hann þannig að útrýma sjálfum sjer, því að nú kemur nýr gróður og sest að í þeim jarðvegi, er mosinn hefir skapað. Í því landnámi er fyrst og fremst krækiberjalyngið og aðrar lyngtegundir, móasef, sauðvingull, geldingalauf o. fl. Þessi gróður kæfir svo smám saman mosann og myndar fastan jarðveg og þá koma enn nýir landnemar: fjalldrapi, víðir og birki, og grastegundir þar sem rakara er, svo sem í bollum og gjótum. Á þennan hátt klæðast hraunin, þangað til þar er kominn skógur og blómskrúð. Og öll þessi gróðurstig má sjá í hraununum hjer umhverfis Reykjavík. Þau eru bæði fögur og fjölbreytileg. Mestur gróður er í Almenningshraununum og Hafnarfjarðarhrauni og hrauninu fyrir ofan Elliðavatn. En Afstapahraun er enn á grámosastiginu. Hvergi eru hraun þessi sandorpin. Sumum finst nú máske upp á lítið boðið að skoða hraun. En það er misskilningur.

Reykjanes

Reykjanesskagi – nefnur.

Þótt hraunin sje heldur fáskrúðug yfir að líta, eru þau sífeld uppspretta fjölbreytni þcgar inn í þau er komið. Þau taka engum vel sem flanar að þeim. En íhugulum gestum veita þau skjól og hvíld og leika við þá með því að sýna þeim hinar furðulegustu kynjamyndir. Það getur og trauðla skemtilegra ferðalag, en að ganga meðfram hraunjaðri. Farið t.d. með jaðri Afstapahrauns frú Vatnsleysu og alla leið upp á móts við Keili. Yður mun langa til að ganga það oftar en einu sinni. Hvers vegna eru menn að fara inn á öræfi, dýrar og erfiðar ferðir þegar þeir hafa öræfanáttúruna rjétt við bæjarvegginn? Viljið þið ekki reyna að skreppa einhvern tíma hjerna suður í Trölladyngju? Best og fyrirhafnarminst er að fara með bíl vestur með Sveifluhálsi, eins langt og ekið verður.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. ISOR

Hraunið þar á milli og Mávahlíða er allörðugt yfirferðar, en skemtilegt að fara það. Það er að vísu skófrekt og ef þjer viljið spara skóna, þá skuluð þjer fara lengra vestur, þangað sem leiðin liggur vfir Sveifluhálsinn til Krýsuvíkur. Þar er Ketillinn og getið þjer skoðað hann um leið. Þaðan liggur svo gata vestur og norður að Vigdísarvöllum, undir Núpshlíð. Er sú hlíð rómuð fyrir það, segir Eggert Ólafson, hve margt fagurra jurta vex þar. Mikið vex þar af blágresi, maríustakk, hjúnagrasi, muru, sjerstakri tegund af lyfting o. s. frv. Þar finnast og jarðarber. Þaðan er svo farið inn með hlíðinni að Djúpavatni, sem er eitt af hinum fáu stöðuvötnum á Reykjanesskaga. Þar er ágætur tjaldstaður og ef þjer hafið farið úr Reykjavík á laugardegi, þá er sjálfsagt að tjalda þar, og hafa svo sunnudaginn fyrir sjer. Áreiðanlega er það meira en dagsverk að skoða Trölladyngju og umhverfi hennar, hinar stórkostlegu eldstöðvar og jarðhitann. Þeir, sem hafa gaman af því að ganga á fjöll, fá þar ósk sína uppfylta, því að tveir hæstu tindarnir á Trölladyngju eru bæði girnilegir og ögrandi. Þaðan mun vera víð og tilkomumikil útsýn, betri en af Keili, þótt margir dásami útsýnina þaðan. Eru þeir og fleiri, sem gengið hafa á Keili heldur en Trölladyngju. Af Trölladyngju blasir við auga öll dýrð öræfanna, alt nema jöklar.
Vilji menn fara víðar yfir, er hægt að ganga vestur í Fagradal, en þangað fara Grindvíkingar stöku sinnum í skemtiferðir. Norðan og sunnan Trölladyngju eru tvö graslendi, vinjar hjer í eyðimörkinni, Vigdísarvellir að sunnan, en Höskuldarvellir að norðan. Á Vigdísarvöllum var bygð fram yfir aldamót.
Fyrir sunnan og austan Hafnarfjörð eru nokkrir dolerításar með stefnu frá norðvestri til suðausturs og dalir á milli. Í grjótinu í ásum þessum er mikið af „olivirí’, gulum krystöllum, og heldu útlendingar lengi vel, að hjer væri um sjerstaka tegund af grjóti að ræða, og kendu hana við Hafnarfjörð og kölluðu „Havnefjordit”.

Reykjanesskaginn

Reykjanesskaginn.

Vestasti ásinn nær frá Hvaleyri og hamrinum við Hafnarfjörð áfram á móts við Undirhlíðar. Aðskilur hann Hafnarfjarðarhraun og Kapelluhraun. Um uppruna nafnsins Kappelluhraun er svo sagt: Yfir Kapelluhraun er vegur svó vel lagður, að hann má skeiðríða. (Var það áður en bílvegurinn kom). En enginn veit af hverjum eða hvenær hann hefir verið lagður. Nálægt í miðju þessu hrauni er upphlaðin grjóthrúga rjett við veginn, sem fólk kallar Kapellu og segir, að þar sjeu dysjaðir þeir menn frá Bessastöðum, sem drepnir voru í hefnd eftir Jón biskup Arason 1551. En ólíklegt er að það muni satt vera.
Skamt fyrir sunnan Hafnarfjörð er Ásfjall og er það hæsti hnúkurinn á þessum ásum. Fyrir sunnan það heitir hraunið Brunahraun eða Bruni. Þar er vegur til Kaldársels og var kallaður Stórhöfðavegur.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – sýnir áætlaðan aldur yngri hrauna.

Næsti ásinn er nefndur Setbergshlíð, og sá þriðji Vífilstaðahlíð, en Vífilstaðaháls er austur frá Vífilstöðum frá suðri til norðurs og þá Arnarnesháls. Frá Setbergi og fram undir Kaldársel gengur daldrag, sem gjarna mætti kalla Kaldárdal, því sennilega hefir Kaldá runnið um hann áður en hraunflóðið kom, sem fallið hefir um dalinn niður að Hafnarfirði og þaðan fram á Álftanes og er fyrst kallað Gráhelluhraun og síðan Hafnarfjarðarhraun og Garðahraun. Eftir þessum dal liggur akvegur suður að Kaldárseli meðfram vesturbrún hraunsins. Er hraunið víða úfið og brotið, hef ir sporðreist og hlaðist upp á sumum stöðum, en sums staðar með djúpum skvompum og skorum. Heiðin að sunnan heitir vestast Sljettahlíð. Er hún kjarri vaxin og graslendisræma milli hennar og hraunsins. Þarna hafa Hafnfirðingar reist sumarbústaðahverfi, og eru þar nú milli 20 og 30 snotrir sumarbústaðir í röð undir hlíðinni. Er þarna viðkunnanlegt og verður með tímanum mjög fagurt, því að hver maður er að rækta hlíðina upp frá sínum bústað og gróðursetja þar blóm og trje.
Milli Setbergshlíðar og Vífilstaða hlíðar er annar dalur, og eftir honum hefir runnið önnur kvísl af Hafnarfjarðarhrauni og dreifir úr sjer á sljettunni fyrir vestan Vífilstaði. Liggja traðir úr Vífilstaðahlaði þar þvert yfir hraunið, og víða meðfram þeim eru bekkir fyrir sjúklinga hælisins. Er hraunið þarna gróið og kjarri vaxið og eru þar margir yndis fagrir staðir, sem sjúklingar munu áreiðanlega lengi minnast af hlýum huga, því að þessir staðir hafa sjálfsagt veitt þeim hugfró og unað í mótlæti þeirra. Dalurinn þarna fram af er svipaður hinum, nema hvað hraunið er öllu stórbrotnara og þegar vestur úr dalnum kemur og það nálgast upptök sín verður það æ hrikalegra og þó fegurra, með mörgum gjám og kötlum. Er víða mikill gróður þarna innan um hinar furðulegustu klettaborgir. Fyrir mynni dalsins er lágt fell, sem Smalafell nefnist. Af því er góð útsýn yfir hraunið og lægðina þar fyrir sunnan, þar sem mikið landsig hefir orðið einhvern tíma. Rjett fyrir vestan Smalafell liggur gamli vegurinn frá Hafnarfirði til Selvogs. Heitir hann Grindaskarðavegur. Göturnar eru nú horfnar og gleymdar, þótt þetta væri áður alfaraleið, en vegurinn segir þó til sín. Hafa verið sett ýmis merki við hann, svo sem smávörður, trjestaurar, eða járnhælar, sem reknir hafa verið niður með stuttu millibili. Og svo hefir á löngum köflum verið raðað steini við stein meðfram götunni. Kemur þessi langa steinaröð, hjer í óbygðum, ókunnugum einkennilega fyrir sjónir, því að hun líkist mest gangstjett. Liggur hún þvert suður yfir jarðfallið með stefnu á eldgíg nokkurn fyrir austan Valafell. Er þetta víst eina færa leiðin með hesta þarna þvert yfir, til þess að komast fram hjá tveimur hrikalegum gjam, sem eru sin hvoru megin við jarðfallið. Þegar komið er upp undir hlíðarnar að sunnan beygir vegurinn vestur að Kaldárseli. Einu sinni var bygð í Kaldárseli. Bjó þar seinast einsetumaður og dó þar, svo að engin vissi fyr en nokkuð seinna að einhverja menn bar þar að garði. Eftir það fór kotið í eyði. En fyrir nokkrum árum reistu skátar þarna skála og höfðu þar bækistöð sína. Í fyrra var skálinn stækkaður um helming, og í sumar hafa Hafnfirðingar haft þar barnaheimili með 27 börnum. Er viðkunnanlegt þarna og hafa börnin unað sjer vel, enda frjálst um svo fjarri mannabygð og í návist fjallanáttúrunnar. Yfir Kaldárseli gnæfir Helgafell. Það er nokkuð hátt og ilt uppgöngu nema að austan. Af því er ágætt útsýni yfir hraunin og gosstöðvarnar þar um kring.

Helgafell

Helgafell og nágrenni – örnefni (ÓSÁ).

Undir Helgafelli eru Kaldárbotnar í kvos nokkurri. Eru þar margar uppsprettur og mynda fyrst dálítið lón. Þangað sækir Hafnarfjarðarbær vatn sitt, og er sú vatnsleiðsla eldri en vatnsveita Reykjavíkur. Stíflugarður hefir verið hlaðinn fyrir lónið og frá honum liggur opinn timburstokkur norður yfir sljetta hraunið og Gullkistugjá, fyrir norðan Kaldársel. Hefir orðið að hlaða geisimikinn og háan steinvegg þvert yfir gjána undir stokkinn. Þar skamt frá er svo vatnið tekið í pípur og leitt til Hafnarfjarðar. En það er nú orðið viðsjárvert að hafa þennan langa opna stokk, og uppspretturnar ógirtar. Stokkurinn er víða farinn að gefa sig og lekur drjúgum. Er einkennilegt að sjá það efst, að vatnið, sem niður lekur rennur í þveröfuga átt við renslið í stokknum, og sameinast Kaldá. Rennur hún svo niður hjá Kaldárseli og þar í hálfhring, eins og hún sje að villast, en steypir sjer svo á kaf niður í hraunið og sjest ekki meir. Jörðin gleypir hana með öllu.

Kaldá

Kaldá.

Hefir mörgum þótt þetta furðulegt, og hefir þjóðtrúin spunnið út af því hinar furðulegustu sögur. Getur Eggert Ólafsson þess í ferðabók sinni, að menn haldi að Kaldá renni neðanjarðar alla leið vestur á Reykjanestá og þar til hafs, en af straumi hennar myndist Reykjanesröst. Getur hann þess einnig, að í samræmi við þessa tilgátu mahna sje farvegur hennar þannig sýndur á hinu nýasta Íslandskorti, sem gert var á konungs kostnað. Brynjulfur Jónsson á Minna-Núpi segir, að það sje almælt, að á fyrri öldum hafi á sú runnið úr Þingvallavatni, er Kaldá er nefnd, eitthvert hið mesta vatnsfall á Íslandi. Hún á að hafa runnið norðan við Hengil og ofan þar sem nú eru Fóelluvötn og svo suður með hlíðum og í sjó á Reykjanesi. Sje sagt að hún komi upp í Reykjanesröst og að Kaldá hjá Helgafelli sje úr henni. Er það haft til sannindamerkis, að hinir svonefndu Vesturvellir ofan frá Hengli til Litlafells, Fóelluvötn og þaðan niður undir Holm líkist gömlum árfarvegi. En svo þurfti að fá skýringu á því, hvernig á því stóð, að þetta mikla vatnsfall skyldi hverfa, og eru um það ýmsar sögur. Ein er sú, að karl nokkur, sem var kraftaskáld, misti í hana tvo sonu sína, og kvað hana því niður. Önnur sögn, og öllu vísindalegri er sú, að Kaldá hafi horfið eitt sinn er suðurfjöll brunnu, svo einn var eldur ofan úr Hengli og út í sjó á Reykjanesi og hafi bá jörðin gengið upp fyrir sunnan Elliðavatn.

Skamt fyrir austan Kaldársel er Helgadalur, djúp hvos með dálítilli tjörn. Er þráðbeint hamrabelti að norðan en grösugar hlíðar á tvo vegu. Er þarna tilvalinn og skemtilegur áfangastaður fyrir þá, sem kanna vildu fjallaslóðir þar um kring. Þaðan má fara t. d. Grindaskarðaveg upp undir f jöllin og síðan austur á við milli hrauns og Kaldárselhlíða um svonefnda Kristjánsdali. Þar er ekkert vatn, en mjög grösugt. Þar voru áður geymdir hestar lestamanna þeirra, er sóttu brennistein í Brennisteinsfjöll, og var þá bygður kofi þar. Er svo haldið austur með yfir hraunfossana, og niður með Vífilfelli á Suðurlandsbraut. Þá er og skemtilegt að fara Grindaskarðaveg, yfir Heiðina há. Það er geisimikil elddyngja, lík í lögun og Skjaldbreiður, og um 700 metrar á hæð. Útsýn er þar víð og fögur í góðu veðri, sjer yfir alt Suðurlandsundirlendið að Eyjafjöllum, inn til jökla og vestur á Snæfellsnes. Vegurinn suður af liggur niður í Selvog, og er þar á brúninni fyrst komið að vörðu þeirri, er hinn alkunni galdramaður, síra Eiríkur í Vogsósum hlóð á sínum tíma Frá Kaldárseli er hæfileg gönguför upp í Brennisteinsfjöll. Er það aflangur fjallahryggur uppi á Lönguhlíð. Í austurhlíð þeirra eru óteljandi gígar og standa mjög þjett, og frá þeim hafa hraunfossar steypst niður hlíðina. Breiða hraunin síðan úr sjer yfir mikla sljettu, sem er þar á milli og Bláfjalla og Heiðarinnar há, en sljettu þessari hallar suður að brúnum fyrir ofan Stakkavík í Selvogi og Herdísarvík, og halda menn að hraunfossarnir sem steypst hafa þar fram af hengifluginu, sje komnir úr gígunum í Brennisteinsfjöllum.

Traðarfjöll

Reykjanesskagi – jarðfræðikort.

Mundi það hafa verið hrikaleg sjón, ef einhver hefði verið til að horfa á, er glóandi hraunið kastaðist í stórum fossum fram af bjargabrún. Upp úr hrauninu í austurhlíð Brennisteinsfjalla, koma gufur sums staðar og litlir brennisteinsblettir eru utan í rönd þess. Á því haf a menn þóst vita að þarna væri brennisteinsnámur og hafa svo gefið fjöllunum nafn af því. Sumarið 1851 ferðaðist Jón Hjaltalín landlæknir nokkuð hjer um land til að rannsaka brennisteinsnámur, þar á meðal námurnar í Krýsuvík. Frjetti hann þá um þessar námur uppi í Brennisteinsfjöllum, og fór að spyrjast fyrir um það hvar þau væri, en svorin voru mjög sitt á hvað, sagði einn þetta annar hitt. Var það ekki fyr en að áliðnu sumri, að hann fann mann úr Selvogi, sem kvaðst þekkja fjöll þessi. Bauðst hann til að fylgja Jóni þangað, og lögðu þeir á stað í það ferðalag skömmu fyrir veturnætur. Fann Jón þarna fjórar námur og leist mjög vel á 3 þeirra. Þær eru í Krýsuvíkurlandi. Sjö árum seinna (1858) keypti Englendingur nokkur, J. W. Busby að nafni þessar námur og Krýsuvíkurnámurnar fyrir milligöngu dr. Jóns Hjaltalíns. Eftir kaupbrjefinu máttu Englendingar taka allan brennistein í Herdísarvíkur og Krýsuvíkur landareignum svo og allar málmtegundir, er þar kynni að finnast, og ýmis önnur rjettindi voru þeim áskilin. Seljendur voru þeir síra Sig. B Sivertsen á Útskálum og Sveinn Eiríksson í Krýsuvík og var söluverðið 1400 dalir. Var nú stofnað námuhlutafjelag í Englandi og hafið brennisteinsnám. En fjelagið tapaði og gengu hlutabrjefin kaupum og sölum, og óvíst hvar þau eru nú niður komin. En í Brennisteinsfjöllum má enn sjá verks ummerki eftir brennisteinsnámið. Á dálítilli grasflöt við læk eru rústir húsanna, sem Englendingar reistu og skamt þar fyrir sunnan eru námurnar. Hefir ekki verið neinn hægðarleikur að vinna þær, því að þær eru undir hrauninu. Hafa Englendingar brotið þar stórar skvompur í hraunið, urðu að brjóta um tveggja mannhæða þykkt blágrýtishraunið til þess að komast að brennisteininum, því að hann hefir sest í glufur og hraunholur niður undir jörð. Hitinn í gufuholunum þarna er talinn vera 26—78 gráður. Hefir gufan soðið og etið hraunið í sundur allavega og umbreytt því, svo að þar hafa myndast krystallar og marglitir steinar, sem gaman er að eiga.

Selvogsgata

Kerlingarskarð framundan.

Leiðin frá Kaldárseli upp í Brennisteinsfjöll liggur um Kerlingarskarð, sem er rjett fyrir sunnan Grindaskarðaveginn. Eru þar á brúninni margir gígar og úr þeim hafa komið hraunin fyrir neðan Langahlíð. Einn af stærstu gígunum á þessum slóðum er Kistufell. Er af því víð og mikil útsýn. Gígurinn er mikill um sig og um 70 metra á dýpt. Vestan við Kistufell er viðsjált hraun. Eru þar sums staðar hringlaga gígop, þverhnýpt niður og svo djúp, að jökull er í botni þeirra.
Óteljandi gjár og hellar eru í hraununum á öllu þessu svæði, er nú hefir verið lýst, alt frá sjó og upp á Heiðina há. Kann jeg ekki nöfn á þeim, enda yrði það of löng upptalning, eigi heldur allar gjár skírðar, nje allir hellar fundnir enn.

Helgadalur

Helgadalur.

Þegar Árni prófastur Helgason var í Görðum á Álftanesi samdi hann sóknarlýsingu og segir í henni: „Gjár eru víða í þessum hraunum, sumar bæði langar og djúpar. Merkilegastar þekki jeg tvær, sem liggja samsíða frá austri til vesturs fyrir ofan Setbergshlíð, og er ei lengra á milli en svo sem 100 faðmar, að jeg ætla. Í vatn sjer niður í þeim og er langt niður að því; sums staðar eru þetta fremur sprungur en gjár og sums staðar vottar ekki fyrir þeim. — Svo kallaðir Norðurhellar eru hjá Vífilstaðahlíð og Kjötshellir í Setbergshlíð. Rauðshellir er skamt fyrir norðan Helgafell. Í honum eru pallar sjálfgerðir er bæði má sitja á og smjúga undir, og ná þeir yfir þveran hellirinn. Margir hafa grafið nöfn sín í bergið í Rauðshelli, sem þangað hafa komið. Sum staðar er hvað skrifað ofan í annað.”
Eins hellis enn verður hjer að geta, ekki vegna þess að hann sje stór nje merkilegur frá náttúrunnar hendi, heldur vegna þess að Farfuglar hafa gert hann að bústað sínum. Hellir þessi er uppi í kletti nokkrum austan undir Valahnúk. Hann er rjett manngengur þar sem hann er hæstur. Þeir hafa sett fyrir hann hurð og komið fyrir tveimur gluggum, og síðan gert þar fjalagólf. Geta 8—10 menn sofið þarna á gólfinu í svefnpokum, og mun oft svo gestkvæmt þarna, bæði sumar og vetur. Umhverfis er afgirtur dálítill blettur, klettakvosir og brekka sem hefir verið ræktuð. Hafa þeir sáð þarna blómum og gróðursett trjáplöntur, og gert staðinn einkennilega fallegan og aðlaðandi. Verður þó betra seinna, því að alt er þetta svo að segja í byrjun. En alt, sem þarna hefir verið gert, lýsir smekkvísi og ást á náttúrunni, en hún er aðalsmerki allra farfugla.”

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 1. september 1946, bls. 349-353.
-Lesbók Morgunblaðsins, 25. ágúst 1946, bls. 341-347.
-Lesbók Morgunblaðsins, 18. ágúst 1946, bls. 334-337.

Valaból

Valaból.

 

Grindaskörð

Haldið var upp eftir Selvogsgötunni frá Bláfjallavegi í átt að Grindaskörðum. Ætlunin var að skoða tótt skiptistöðvar brennisteinsmanna þar undir skörðunum. Á leiðinni var komið við í helli, sem nefndur hefur verið Elgurinn. Um er að ræða tiltölulega lítið jarðfall. Reipi þarf til að komast niður. Hins vegar einfaldaði hár snjóskafl neðan við opið niðurgönguna að þessu sinni.

Selvogsgötuhellar

Í Rósaloftshelli.

Rás liggur um 30 metra til norðurs. Fremst eru nokkuð fallegar hraunmyndanir. Á botni rásarinnar er brúnt hraun, en rásin er annars dökkleit. Út úr veggnum hægra megin kemur steinn, sem lítur út eins og elgshaus. Til suðurs er hellirinn um 70 metrar. Fremst er fallega brúnt gólfið og fallegar myndanir í lofti.
Ofar í hlíðinni er mikið og djúpt jarðfall. Ekki verður komist niður í það nema á reipi. Inngangur virðist vera í norðanverðu jarðfallinu. Það var hins vegar ekki skoðað að þessu sinni.
Farið var í Rósaloftshellir. Hann er fremur stuttur, en rás liggur upp hann vinstra megin. Ef loftið er skoðað með góðu ljósi sést hversu stórbrotið rósamynstrið þar er. Þátttakendur hafa ekki séð slíkt í öðrum helli.

Spenastofuhellir

Í Spenastofuhelli.

Skammt ofar er Spenastofuhellir. Í honum innanverðum er litadýrð með fallegum sléttum jarðmyndunum.

Kristjánsdalir

Tóft í Kristjánsdölum.

Tótt af skiptistöð brennisteinsmanna er austan við Selvogsgötuna undir hlíðum Grindaskarða. Gengið var austur og niður með hlíðunum. Ofan frá þeim mátti sjá móta fyrir gamalli þvergötu úr austri inn á Selvogsgötuna neðar.
Í Kristjánsdölum er ein tótt af húsi og einnig sést móta fyrir öðru. Það hefur líklega verið timburhús og nokkuð stórt. Hitt er hlaðið úr torfi og grjóti.
Á leiðinni til baka var gengið á ská yfir Tvíbollahraunið og þar rakin gömul leið spölkorn í hrauninu. Sést vel móta fyrir henni á klapparhæð þar sem hún er mörkuð í bergið. Leiðin er frá Selvogsgötunni þar sem hún mætir Bláfjallavegi og í ská upp að vatnsstæðunum vestan Kristjánsdala. Þar virðist vera gömul leið upp með fjallsöxlinni, sem er nokkuð gróin, og beygir hún síðan upp með Tvíbolla.
Frábært veður – 8°C hiti og nánast logn.

Grindaskörð

Tóft undir Grindaskörðum.

Þorbjarnastaðarauðamelur

“Ekki alllangt sunnan við Straum í Garðahreppi [svæðið tilheyrði ekki Hafnarfirði fyrr en 1967] og skammt vestan við Kapelluhraun eru forn eldvörp. Þar hefur Vegagerð ríkisins tekið rauðamöl til ofaníburðar í vegi, og það er mest þeirri starfsemi að þakka, að hægt er nú að fullyrða að hér er um eldvörp að ræða.
Thorbjarnarstadaraudamelur-2014-21Ekki er mér kunnugt um, hvernig þarna leit út áður en byrjað var að taka þar efni, en svo lítið ber á þeim hluta gíganna, sem enn er eftir óhreyfður, að líklegt má teljast, að þeim hefði alls ekki verið veitt eftirtekt, hefði þarna ekki verið grafið með stórvirkum tækjum. Nú er þarna umrót mikið og ýmislegt fróðlegt að sjá. Gígir þeir, sem hér er um að ræða, eru á línu með stefnu NA—SV, eins og gígaraðir á Reykjanesi yfirleitt eru.

Yngri hraun hylja nú þetta svæði nær alveg, og hafa þau fært hina fornu gígaröð að mestu í kaf. Þau hraun eru komin sunnan að af svæðinu milli Sveifluháls og Vesturháls [Núpshlíðarháls]. Af því að yngri hraun hafa runnið yfir umhverfi gíganna, verður ekki með vissu sagt, hversu mikið hraun hefur frá þeim komið. Það er þó ljóst að eitthvað hraun hefur runnið í þessu gosi, og er það auðþekkt frá hraununum í kring.
Mikill fjöldi hnyðlinga er í þessu hrauni og sumir þeirra nokkuð stórir, eða um 5—7 cm í þvermál. Þeir virðast líkir þeim, sem áður hefur verið getið í þessu riti (Jónsson 1963). Slíkir hnyðlingar hafa nú fundizt víða um land, m. a. í Skaftáreldahrauni frá 1783, Fonti á Tungnáröræfum (heimild Elsa Vilmundardóttir), í Þórsmörk, við Grindavík og nú alveg nýlega fann Jens Tómasson, jarðfræðingur, hnyðlinga í Surtsey.
Thorbjarnarstadaraudamelur-2014-22Í gígnum í Selhrauni fannst ennfremur um fimm cm stór feltspatkristall, sem reyndist vera ólígóklas (An 30). Hann var mjög illa farinn, sennilega mest vegna hita, og liggja jafnvel hárfínar basaltæðar í gegnum hann. Oligóklas á ekki heima í basalthrauni eins og þessu og verður því að telja líklegast, að um sé að ræða kristall, sem brotnað hefur úr eldra bergi nokkuð ólíku þessu að samsetningu og borizt með hrauninu á leið þess upp á yfirborð. Þess má geta að Jens Tómasson fann líka einn ólígóklaskristall í Surtsey.

Hraunið, sem runnið hefur umhverfis gígina og að nokkru leyti yfir þá, hefur ékki runnið fyrr en nokkru eftir, kannske löngu eftir að þeir gusu, því sums staðar má sjá að gjallið í þeim hefur verið farið að veðrast dálítið.
Telja má víst, að þeir hafi verið orðnir mosagrónir, og á einstaka stað vottar fyrir jarðvegsmyndun. Víða í hólunum má greinilega sjá að hraunið hefur orðið fyrir snöggri kælingu, t. d. finnur maður á nokkrum stöðum þunnar basaltæðar í gjallinu og eru þær með svartri glerhúð. Einnig vottar fyrir hólstramyndun á stöku stað. Þetta vekur grun um, að hér hafi gosið í vatni, og við nánari athugun kemur í ljós að svo hefur verið. Á a.m.k. tveim stöðum í stálinu má sjá að hraunið hefur brotist upp í gegnum leirlög, sem nú eru sem vænta má mjög umturnuð og brennd hið næsta hrauninu, er brotizt hefur í gegnum þau. Aragrúi af skeljum hefur verið í leirnum og tekur það af allan efa um að hér hefur gosið í sjó. Sjálfar eru skeljarnar farnar veg allrar veraldar, en mótin eftir þær eru afar greinileg. Það er augljóst, að um allmargar mismunandi tegundir hefur verið að ræða, en mjög erfitt er nú að greina þær með vissu, því allt er þarna í einum hrærigraut og svo laust í sér að það fellur sundur ef við er komið.
Thorbjarnarstadaraudamelur-2014-245Örugglega má þó þarna greina leifar af hrúðurkörlum (Balanus). Smyrslingur (Mya truncata) er þarna líka og líklega rataskel (Saxicava arctica), og nokkrar fleiri tegundir. Diatomeur (kísilþörunga) má og finna í leirnum, en sama máli gegnir um þá, að skeljarnar eru mjög illa farnar og örðugt að ákvarða þær með vissu. Aðeins sárafáar heilar skeljar hefur tekizt að finna. Langmest ber á brotum úr Coscinodiscus og nokkrum öðrum sjávartegundum. Örugglega má ákvarða Biddulphia aurita og Navicula peregrina, en báðar lifa í söltu vatni. Af ferskvatnstegundum reyndist mögulegt að ákvarða Eunotia sp., Pinnularia
sp. og Tabellaria feneslrata.
Það virðist því líklegt, að þarna hafi gosið í sjó, en líklega hefur það verið nálægt strönd og hafa ferskvatnstegundirnar borizt út í sjó með lækjum.
Skammt vestan við Straum er Rauðimelur, en þar hefur rauðamöl verið tekin í mörg ár, og er nú búið að grafa þar niður fyrir grunnvatnsborð. Vafalaust er Rauðimelur leifar af eldvarpi, sem líka hefur myndazt í sjó á sama hátt og e. t. v. á svipuðum tíma og eldvörpin í Selhrauni.”
Raunar sleppir Jón hér tveimur mikilvægum, enn ósnertum sambærilegum gersemum; Litla-Rauðamel norðan hins raskaða Rauðamels og Litla-Þorbjarnarstaðarauðamel skammt sunnan þess aðalumnefnda.
Hafa ber í huga að ef verulega vel væri á málum haldið – og enn verulegri áhugi væri fyrir hendi – myndi umhverfisnefnd Hafnarfjarðar fyrir löngu síðan hafa látið hreinsa Þorbjarnarstaðarauðmelinn af rusli svo nýta mætti svæðið fyrir áhugasama ferðamenn um jarðfræði Íslands. Þarna má nú t.d. sjá fornar gígmyndanir, bergganga, gígtappa, hraun og gjóskumyndanir í sjó, skeljaleifar sem og landmótunina fyrir tugþúsundunum ára.

Heimildarrit – References Jónsson, Jón. Hnyðlingar íslenzku bergi. Náttúrufræðingurinn 88. árg. bls. 9-22.
Tröger IV. E. 1959. Tabellcn zur optischen Bestimmung der gesteinbildenden Mineralen, Stuttgart.

Heimild:
Náttúrufræðingurinn. 35. árg. 1965-1966, 1. tbl. bls. 1-4.

Rauðamelur

Í Þorbjarnastaðarauðamel.