Færslur

Straumsselsstígur

Gengið var eftir Straumsselsstíg frá gamla Keflavíkurveginum áleiðis upp í Straumssel. Ætlunin var að ganga í gegnum það upp fyrir Almenning og síðan til baka um Bringur og Óttarsstaðasel.

Hellir

Mannvistarleifar í helli.

Þegar komið var yfir Alfaraleiðina liggur stígurinn áfram til suðausturs vestan Miðmundarhæðar, yfir haft á hraunhrygg, áfram yfir Selhraun og síðan vestan Draughólshrauns, við vesturenda Straumselshæða og upp í selið. Draughóllinn sést vel efst í hrauninu, mosavaxinn. Hraunið virðist vera á litlum bletti í grónu Hrútargjárdyngjuhrauninu. Það er eitt af nokkrum svonefndum Selhraunum á þessu svæði. Straumsselið er skammt ofar.
Að þessu sinni var vikið út af selsstígnum ofan við fyrrnefnt haft á hraunhryggnum. Ofan þess er hlaðið skeifulaga byrgi refaskyttu. Frá því hefur hún hafu gott útsýni yfir slétt hraunflæmið. Gæsir, sem höfðu hópað sig saman á Tjörnunum milli Þorbjarnastaða og Gerðis, tóku sig á loft og virtust stefna til veturssetu sunnar í álfunni. Hraunin við Straumsvík og umhverfis Þorbjarnarstaði eru að mestu klædd gamburmosa en grónir grasbalar eru áberandi næst bújörðum sem og selstöðunum. Gróður við tjarnirnar er einstakur þar sem hann hefur þurft að aðlagast ísöltu vatni, aðlögun sem einungis hefur staðið í 5-7 þúsund ár, eða frá því hraunið rann.
Þorbjarnarstaðir, Péturskot og Gerði bera með sér búsetulandslag með hlöðnum veggjum, stekkjum, réttum, tröðum, brunngötum, alfaraleið og öðrum minjum. Þorbjarnarstaðatjarnir, Gerðistjarnir og umhverfi eru jafnframt á náttúruminjaskrá.
Gengið var til norðausturs yfir á selsstíg, sem gjarnan hefur verið nefndur Straumsselsstígur, en liggur frá Þorbjarnastöðum um Flárnar upp í Gjásel og Fornasel. Við norðanverða Katlana liggur síðan tengistígur af honum upp í Straumssel um Straumsselshæðir. Á kafla, þar sem hraunhellan er hvað sléttust, má sjá djúp för í klöppina. Líklega hefur þessi stígur legið upp í Fornasel og Gjásel. Þau lögðust af mun fyrr en t.a.m. Straumssel. Einhvern tímann hefur verið gerð hjáleið frá Straumsseli niður á stíginn og hann að öllum líkindum síðan notaður sem annar selstígur af tveimur upp í selið.

Þorbjarnastaðastekkur

Þorbjarnastaðastekkur.

Á leiðinni var tækifærið notað og litið á Kápuhelli við vesturjaðar Laufhöfðahraunsins. Tiltölulega auðvelt var að rekja tengistíginn upp í Straumssel. Að vísu er hann merktur á kort of austarlega þannig að hætta er á að fólk geti lent í tímabundnum vandræðum, en ef farið er skammt vestar og hæðir skágengnar er leiðin greiðfær. Þá þarf hvergi að klöngrast yfir grjót og misfellur.
Hraunin í Almenningi (stundum nefndur Hraunskógur) eru að mestu klædd gamburmosa en er einnig víða vaxin kjarri. Í lok nítjándu aldar var kjarrið nánast eytt af hrístöku og fjárbeit, því sauðfé var öldum saman haft á útigangi í afréttum. Eftir að dró úr lausagöngu búfjár um aldamót 19. og 20. aldar hafa birki, víðir og einir tekið mikinn vaxtarkipp. Á stöku stað má nú sjá allt að fjögurra metra há birkitré, einkum norðan Óttarsstaðasels, ofan Meitlanna.
Almenningur hefur einkum í seinni tíð verið nefnd hraunhæðin efst á hraunbrúninni þar sem eru Stórhæðir, Hafurbjarnarholt, Skógarhæðir og jafnvel yfir í Einihlíðar. Áður var hann haunspildan milli Kapelluhrauns og Afstapahrauns á Vatnsleysuströnd. Var þar fyrrum skógi vaxið en hann eyddist af höggi og beit sem fyrr sagði. Á Almenningi er einn hinna mörgu Gvendarbrunna, við gömlu Alfaraleiðina ofan Gvendarbrunnshæðar og norðan við Löngubrekkur.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur.

Annars er Almenningur gamalt dyngjuhraun kennt við Hrútagjárdyngju. Það er sjálfvaxið mosaþembu og kjarrlendi en að hluta til er þar ræktaður skógur. Svæðið er að mestu innan vatnsverndarsvæðis eins og það er skilgreint í gildandi aðalskipulagi Hafnarfjarðar. Við norðurmörk afmörkunar á umhverfisverndinni eru þessar mannvistarminjar; Lónakotssel, Óttarsstaðsel, Straumssel, Gjásel, Fornasel og Fjárborgin. Fleiri mannvistarminjar, hleðslur, stekkir, gerði og fjárhellar með fyrirhleðslum eru á þessum slóðum. Um Almenning lágu alfaraleiðir til forna s.s. Rauðamelsstígur, Straumsselsstígur, Hrauntungustígur og Stórhöfðastígur. Auk þess eru aðrar leiðir sem tengdust hinum ýmist til styttingar eða þær voru valdar eftir veðurlagi hverju sinni.
Gamlar þjóðleiðir og fornir stígar liggja vítt og breitt um Reykjanesfólkvang. Þessar leiðir hafa gleymst eftir að ökuvegir voru lagðir og menn hættu að þræða gamlar slóðir á ferð sinni um nesið. Flestar leiðirnar tengja byggðahverfin gömlu við útverin á Suðurnesjum. Á milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur lágu t.d. Undirhlíðaleið, Dalaleið, Vatnaleið, Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur. Frá Hraunabæjunum við Straumsvík og Hvassahrauni lágu sem fyrr segir Straumsselsstígur, Rauðamelsstígur og Mosastígur til Krýsuvíkur, að Selatöngum eða Grindavíkur. Með Núpshlíðarhálsi lágu Hálsagötur og milli Vatnsleysustrandar og Vigdísarvalla lá Þórustaðastígur, sem nefnist Drumbsdalastígur þar sem hann þræðir sig frá völlunum austur að Krýsuvík. Fleiri leiðir mætti nefna, en göngufólki er ráðlagt að rýna ofan í svörðinn og skoða gamlar götur sem víða mótar fyrir þó þær séu ekki jafn augljósar og fyrrum.

Straumssel

Neðri-Straumsselshellar.

Straumsselið var skoðað. Selið er eitt örfárra á Reykjanesskaganum er óx og varð að bæ. Vel má sjá hvernig bæjarhúsin voru, kálgarður norðvestan við þau og garður umleikis. Norðar er vatnsstæðið, garður umlykur heimatúnið og hlaðið gerði er austan við bæjarhúsin. Gamla selið er skammt norðaustar.
Haldið var áfram og götu fylgt upp í Neðri-Straumsselshella. Fallegar hleðslur eru fyrir þremur opum hellanna. Þeir eru frekar lágir innvortis, en í þeim má sjá stuttar hleðslur út frá veggjum. Skammt norðan hellanna er hið ágætasta vatnsstæði.
Þegar komið var upp í Efri-Straumsselshella sáust vel hinar miklu hleðslur þar sem grunnt jarðfall hefur verið notað sem aðhald. Inn úr því er rúmgóður hellir með hleðslum við opið. Inni er gólfið sléttað. Ekki er að merkja að þar inni hafi verið haft fé. Líklega hefur hellirinn verið mannaskjól, en inni í því hafa sléttar hellur verið réttar upp til að loka fyrir að t.d. fé kæmist lengra inn eftir honum. Efri-Straumsselshellar voru notaðir sem rétt um tíma. Dilkur er norðvestan við gerðið. Úr veggjum þess hafa síðar verið tekið grjót og skjól hlaðið með norðurveggnum. Það munu refaskyttur hafa gert um miðja síðustu öld. Væntanlega hafa þeir einnig notað hellinn sem skjól á meðan dvalið var við veiðarnar í Almenningi.

Straumssel

Efri-Straumsselshellar.

Þá var ætlunin að rekja Straumsselsstíginn áfram upp Almenning, framhjá Gömluþúfu og áleiðis að Sauðabrekkum eins og hann hefur verið sýndur á uppdráttum. Almenningsnafnið mun dregið af því að þar var sameiginlegt beitiland Hraunbæjanna.
Auðvelt er að áætla stígsstæðið að skarði norðan við Gömluþúfu og síðan í sneiðin upp brekkuna að henni. Suðvestan Gömluþúfu er varða. Önnur varða er suðaustan hennar. Með jákvæðu hugarfari má rekja götuna upp að síðarnefndu vörðunni, en austan hennar tengist stígurinn inn á vestari leið Hrauntungustígsins er liggur áfram áleiðis að Fjallgrensvörðu og áfram að Sauðabrekkum.
Þegar horft er af brún Almennings yfir neðanvert hraunsvæðið, afurð Hrútargjárdyngju fyrir 5-7 þús. árum, á þessum árstíma (hausti) er litadýrðin óvíða meiri á landinu – og eru þá Þingvellir meðtaldir.
Víða má sjá vörður þarna efra. Flestar eru landamerkjavörður, ýmist á mörkum Þorbjarnastaða og Straums eða Straums og Óttarsstaða. Ein slík er á Klofakletti. Hann er á mörkum efst í svonefndum Bringum. Ofan hans heita Mosar. Skv. örnefnalýsingu eiga nöfn jarðanna er þarna koma saman að vera klöppið á bergvegg við vörðuna. Ekki var að sjá að svo væri.

Óttarsstaðasel

Vatnsból í Óttarsstaðaseli.

Þá var Almenningur skágenginn til suðvesturs áleiðis að Óttarsstaðaseli. Á leiðinni voru vörður og önnur kennileiti skoðuð. M.a. var skoðuð varða ofan á hraunklofa ofarlega í heiðinni. Op er á henni neðanverðri svo refaskytta, sem setið hefur á bak við vörðuna, hefur haft hið ágætasta útsýni láglendið fyrir neðan þar sem tófan hefur átt leið um.
Annars má víða sjá ummerki eftir refaskyttur í Almenningi, sbr. byrgið við Efri-Straumsselshella svo neðan (norðvestan) við Búðavatnsstæðið.
Búðarvatnsstæðið mun vera þar sem Helguflöt norðan á Búðarhólum er, sbr. kort af Almenningsskógi Álftaneshrepps, dags. 20. apríl 2004. Sumir hafa viljað meina að Markhelluhóll hafi verið þar rétt ofan við stæðið, en síðar “færst” lengra frá því til austurs þar sem nú eru áklappaðir stafir þeirra bæja er munu hafa átt landamerki að hólnum.
Þegar gengið var áleiðis niður að Óttarsstaðaseli mátti vel sjá hversu leiðin er greið ofan við það að Búðarvatnsstæðinu og áfram upp með Mávahlíðum. Til þeirra sést vel af hæðunum ofan við Óttarsstaðaselið. Komið var niður að Rauðhólsskúta og frá honum gengið að vatnsstæðinu norðaustan við selstöðuna. Í því var nægt vatn.
Óttarsstaðaselið er rýmra en margar aðrar selstöður í Almenningi og á Reykjanesskaganum. Rýmin eru þrjú líkt og hefðbundið er í seljum á þessu landssvæði. Íverurýmið og búrið (framar) hafa haft sama inngang (gengið inn að suðvestan) og eldhúsið, að norðaustanverðu, hefur haft sérinngang. Það er einnig óvenju rúmgott. Enn má sjá hlóðahleðslurnar. Selið er heillegt þótt vel gróið sé. Líklegt má telja að selstaðan hafi verið ein sú síðasta slíkra, sem lagðist af á þessu svæði.
Selsstígnum var fylgt áleiðis að Alfaraleiðinni. Á leiðinni var komið við í Meitlaskjóli undir Meitlum, Sveinsskúta og Bekkjaskúta, en allir þessir skútar eru einungis kippkorn frá stígnum.

Óttarsstaðasel

Varða við Óttarsstaðaselsstíg.

Þegar komið var niður eftir var haldið að þeirri leið er jafnan (einkum upp á síðkastið) hefur verið nefnd Straumsselsstígur. Fyrst var þó komið við í Gránuskúta sunnan Miðmundarhæðar.
“Straumsselsstígurinn” liggur nú um norðaustanverða Réttarhæð og kemur niður af henni suðvestan Þorbjarnarstaðaréttar (-stekks). Þaðan liggur leiðin áfram að austurgarð Þorbjarnarstaða. Sú leið virðist hins vegar ekki mjög sannfærandi, a.m.k. ekki sem tengileið fyrir Straumsselsstíginn er liggur upp frá Straumi. Sá stígur kemur beint inn á “austari” leiðina sunnan Miðmundarhæðar og er hún beint framhald af honum alla leið upp í Straumssel.

Líklegt má telja að gata hafi legið frá Þorbjarnastöðum frá túngarðinum, yfir Alfaraleið og til austurs sunnan Réttarhæðar. Sú leið virðist eðlilegri og greiðfærari tenging við “Straumsselsstíginn” vestari, sem að öllum líkindum hefur upphaflega verið selstígurinn upp í Fornasel og Gjásel, en þar voru einmitt selstöður frá Þorbjarnastöðum, miklu mun eldri en Straumsselið, svo og fjárskjólin sem þar eru í og við Brundtorfur (Brunatorfur). Gatan ber þess líka glögg merki á köflum.
Gengnir voru 17.7 km á 7 klst. og 7 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-http://www.umhverfisstofa.is/reykjanesfolkvangur/gongu.htm

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Níutíumetrahellir

Gengið var frá Kaldá að Níutíumetrahellinum. Nokkrir duglegir krakkar voru með í för. Þótt opið gefi ekki til kynna að þarna sé langur hellir er hann nú samt sem áður jafn langur og nafnið gefur til kynna.

Helgadalshellar

Í Fosshelli.

Fyrst er komið niður í nokkurs konar lágan forsal, sem þrengist síðan smám saman uns fara þarf niður á fjóra fætur. Sem betur fer var moldin á botninum frosin svoauðveldara var að feta sig áfram inn eftir hellinum. Eftir spölkorn vítkar hann á ný, en þó aldrei verulega. Svo virðist sem hellirinn beygi í áttina að Lambagjá, sem er þarna norðvestan við opið. Sennilega er þessi rás ein af nokkrum, sem runnið hafa í gjána á sínum tíma og myndað þá miklu hraunelfur, sem runnið hefur niður hana til norðvesturs og síðan til vesturs í átt að Kaldárseli.
Þá var haldið niður í Helgadal við horn vatnsverndargirðingarinnar. Þar í brekkunni er Vatnshellir, op niður í misgengi, hægra megin við stíginn. Annað op á helli, ofan í sama misgengið. Gæta þarf sín vel þegar farið er ofan í Vatnshelli. Opið er tiltölulega lítið, en þegar komið er niður virðist leiðin greið til vesturs. Svo er þó ekki því kristaltært vatnið er þarna alldjúp. Það sést hins vegar ekki fyrr en stigið er í það. Ef komast á áfram þarf bát. Það fer þó eftir vatnshæðinni, en vatnið í Kaldárbotnum stöðvast þarna við misgengið á leið sinni til sjávar. Það er ástæðan fyrir tilvist vatnsbóls Hafnfirðinga þarna skammt vestar, undir Kaldárhnúkum.

Helgadalshellar

Í Rauðshelli.

Áður en haldið var inn í Hundraðmetrahellinn, sem opnast innan úr sprungu, var gengið að Rauðshelli, sem er þar skammt norðvestar. Einhvern tímann hefur hluti hellisins verið notaður sem fjárskjól, a.m.k. gróið jarðfallið við annað op hans. Gömul sögn er til af Rauðshelli, en hellirinn fékk síðar nafnið Pólverjahellir eftir að skipshöfn leitaði þar skjóls. Sjá má bælið við stærra opið. Hellirinn sjálfur er rúmgóður og lítið sem ekkert hrun í honum. Hægt er að ganga svo til uppréttur inn eftir honum, en í heildina er hellirinn hátt í hundrað metra langur. Hann beygir til hægri þegar inn er komið og síðan til vinstri. Fremst í hellinum eru fallegar hraunsyllur. Skammt norðar er forn stekkur. Hann er ekki á fornminjaskrá.

Vatnshellir

Í Vatnshelli.

Þegar komið er niður í sprunguna þar sem Hundraðmetrahellirinn er sést op til norðvesturs. Sá hluti nær einungis nokkra metra. Fallegir steinbekkir eftir storknaðan flór er með veggjum rásinnar er liggur til suðausturs. Hún þrengist smám saman og lækkar uns skríða þarf áfram. Loks lokast hellirinn svo til alveg. Hrunið hefur úr loftinu. Áður fyrr var hægt að skríða áfram og koma upp á milli steina í jarðfalli nokkru austar, en nú þarf grannan mann til ef það á að vera hægt. Mjög erfitt er að finna leiðina í hellinn þeim megin.

Helgadalur

Op Hundraðmetrahellisins.

Þá var haldið inn í stóra rás við eystri op Hundraðmetrahellis, sem er í rauninni hluti af þeirri fyrri, og inn í Fosshellinn. Í geyminum áður en komið er að fossinum er komið að miklu hruni. Ekki er óhugsandi að rás kunni að leynast efst og norðvestast í hruninu ef nokkrir steinar væru færðir til. Fossinn kemur úr rás í u.þ.b. þriggja metra hæð. Hefur hann storknað þar í þessari fallegu hraunmyndun. Farið var upp í rásina. Fallegur flór sést þar í henni. Gengið var upp eftir honum og áfram út úr rásinni skammt austan fjárgirðingar, sem þar er. Annað op er skammt vestar, en ekki var farið inn í það að þessu sinni. Fosshellirinn gæti verið um 40 metra langur.

Músarhellir

Í Músarhelli.

Frá Fosshelli var gengið upp í Valaból og komið við í Músarhelli. Hann er í rauninni rúmgóður skúti, sem hlaðið hefur verið framan við og gert rammað hurðargat á. Bekkur er þar inni og gestabók. Farfuglar gerðu afdrep þetta á sínum tíma, en síðan hafa skátar og fleiri nýtt sér það af og til. Í Valabóli er fallegur og skjólsæll trjálundur með sléttum grasblettum. Valahnúkar gnæfa yfir með fallegum bergmyndunum.
Veður var ágætt – lygnt, en fremur skuggsýnt. Það kom þó ekki að sök því góð leiðarljós lýstu veginn.
Gangan tók um 2 klst. Frábært veður.

Valaból

Valaból.

Járnbraut

Gengið var inn á svonefnda Flatahraunsgötu, gamla leið, sem enn sést norðan við Fjarðarkaup. Þegar komið var yfir hraunið var beygt til austurs með jaðri þess, að svonefndum Hraunholtsstekk.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegur í Hafnarfjarðarhrauni, milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar.

Sést móta fyrir tótt í laut í hraunjaðrinum. Austar var komið í laut og henni voru greinilegar hleðslur. Skúti var vestan í lautinni, innan við hleðslurnar, en handan þeirra í suðri var hellir; Hraunsholtshellir. Um er að ræða nokkuð rúmgóðan helli, en gamlar sagnir eru til um hellir þennan. M.a. er talið að Arnes útilegumaður, sá er stal peningum Hofsstaðabónda, hafi falið sig um tíma í helli á þessu svæði. Suðaustan við lautina er gömul rétt. Í norðurhorni hennar er hlaðið hús. Allt eru þetta mjög gamlar hleðslur. Í vesturjarði Löngulautar er hlaðinn stekkur.

Járnbrautarvegurinn

Fyrirhuguð lega Járnbrautarvegarins.

Gengið var suður yfir Flatahraun, allt að svonefndum Miðaftanshól. Á honum er landamerkjavarða. Sunnan við hólinn er járnbrautarvegurinn. Hann er u.þ.b. átta metra breiður og liggur svo til beint í gegnum hraunið. Hann endar við austurjaðar þess, en þar má sjá hvar grótið hefur verið tekið úr hraunhólunum og hlaðið í kesti. Á a.m.k. tveimur stöðum á veginum er farið yfir djúpar gjótur og er mjög fallega hlaðið í kantana. Vegur þessi var gerður árið 1918 og náði alveg niður á fiskireitina ofan við Hafnarfjörð (sjá meira HÉR). Til stóð að leggja járnbraut þaðan, en ekki náðist að ljúka þeirri framkvæmd. Nú er þetta eini kaflinn, sem eftir er af þessu mikla mannvirki á þess tíma mælikvarða.
Frá Miðaftanshól var gengið að Hádegishól, á milli hans og Fjarðarkaupa. Á þeim hól er einnig landamerkjavarða. Sunnan við hólinn var Hraunsholtssel. Nú er búið að byggja og raska svo til öllu svæðinu svo einungis sést móta fyrir selsstæðinu. Hraunsholtsselsstígur liggur í norður frá hólnum og í gegnum Flatahraunið að Hraunsholti. Vel sést enn móta fyrir stígnum í gegnum hraunið. Í suðaustur frá Hádegishól er Stórhóll.
Göngunni lauk við Fjarðarkaup. Frábært veður.

Arneshellir

Arneshellir við Hraunsholt.

Kaldársel

Gengið var um Kaldársel. Skoðað var gamla sel- og bæjarstæðið ofan við bakka Kaldár og síðan haldið yfir að Borgarstandi þar sem fjárborgin, stekkurinn og fjárskjólin voru skoðuð. Þá var haldið um Lambagjá upp í Helgadal þar sem nokkrir hellar voru barðir augum. Loks var gengið upp í Valaból og síðan um Valahnúka niður að Kaldárseli.

Kaldárssel

Í fjárskjól við Kaldársel.

Kaldársselssvæðið er nokkuð sérstakt, þótt ekki sé fyrir annað að það er bæði á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins og innan Reykjanesfólksvangs. Auk þess er það eitt helsta útivistarsvæði Hafnfirðinga.

Lengi vel mátti sjá leifar veggja tóftanna í Kaldárseli, allt þangað til fólk fór að sækja í þá reglulegt grjótið og nota í annað. Loks voru þær sléttaðar út. Húsaskipanina mátti rekja greinilega fram eftir 20. öld. Vegginir voru þegjandi vitni þess, að þar hefði fólk búið endur fyrir löngu, stundum við misjafnar aðstæður.
Kaldársel átti sér ekki langa sögu sem fastur bústaður og saga þess er svipaður sögum smábýla á þeim tíma. En sögu á þetta fona býli samt – “sigurljóð og raunabögu”. Kaldársel dregur nafn sitt af litlu ánni, sem rennur fast sunnan við hið forna tún. Bærinn stóð sem næst á miðjum túnbletti, örfáa metra frá Kaldá.
Árið 1929 kom út í Reykjavík lítil bók með þremur kvæðum eftir séra Friðrik Friðriksson. Kver þetta nefnist “Útilegumenn”, og heitir annað aðalkvæðið “Kaldársel”. Friðrik var síðasti landnámsmaðurinn í Kaldárseli þar sem fyrir eru sumarbúðir KFUM og K. Kvæðið er svona:

Kaldársel

Kaldársel – Helgafell fjær.

”Eitt sinn ég kom
að Kaldárseli,
eyðistað
í ógna hrauni,
gömlu býli
og bæjarrústum:
einmana tóttir
eftir stóðu.

Reikaði ég einn
um rústir þessar, ríkti þar yfir
ró og friður,
unaðskyrrð djúp
við elfu niðinn
svölum gaf sál
og sæla gleði.”

Kaldársel

Op fjárskjóls.

Elstu heimild um Kaldársel er líklega að finna í Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Þar segir í sambandi við lýsingu Garða á Álftanesi: “Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott”. Þetta telur Jarðabókin ein af hlunnindum Garðastaðar og er augljóst að staðurinn hafi átt landið, eða allt þar til Hafnarfjarðarbær kaupir það árið 1912.

Þótt Kaldársel hafi um aldir verið eign Garðakirkju, ásamt miklu landflæmi til suðurs, austurs og norðurs frá Kaldárseli, er með öllu óvíst, hvort Garðaprestar hafi nokkru sinni haft þangað selfarir. Hitt er vitað, að þar var haft í seli frá Hvaleyri á síðasta fjórðungi síðustu aldar (skrifað 1968), en leiguselstöð hlýtur það að hafa verið, þar eð elstu landamerki, sem vitað er um, liggja í a.m.k. eins km vegalengd vestur frá Kaldárseli. Meðan selfarir voru mikið tíðkaðar, urðu landlitlir bændur oft að fá leigt land undir sel sín hjá landríkum bændum, svo að einsdæmi hefði ekki verið, þótt Hvaleyrarbóndinn leigði selstöð í Garðakirkjulandi.
Hvenær þessi selstöð hafi fyrst verið notuð frá Hvaleyri, er með öllu óljóst. Þegar litið er á bændatal Hvaleyrar um árið 1700 og það ástand, sem þar var í búskap manna, þegar jarðamat fór fram 1703, sést, að bændur hafa allir búið svo smátt, að varla er hugsanlegt, að selfarir hafi haft og síst svo langt í burtu sem í Kaldárseli, þar eð allgott selland og nóg vatn var helmingi nær Hvaleyri og auk þess í heimalandi, þar sem selstöðin við Hvaleyrarvatn.
Það eina, sem nú er vitað með vissu um selfarir í Kaldárseli, er, að hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir höfðu þar í seli. Jón keypti Hvaleyrina 1842. Hann mun vera ríkasti bóndi, sem nokkru sinni hefur setið Hvaleyri. Jón dó árið 1866. Bjó Þórunn eftir það á Hvaleyri til 1873.

Kaldársel

Op fjárskjóls.

Þegar Þórunn dvaldist í “Selinu” á sumrin, sem var þó ekki nema við og við, fór hún stundum með orf sitt og hrífu upp með Kaldá og sló þar á hólmum, það sem slægt var, einnig smámýrarbletti milli kvíslanna í Kaldárbotnum. Þegar Þórunn á Hvaleyri hætti selförum að Kaldárseli, lagðist selstöð þar niður með öllu, og má ætla, eftir því sem síðar kemur fram, að það hafi verið 1865 eða 1866.
Í húsvitjunarbók Garðaprestakalls sést, að ábúandi er kominn í Kaldársel árið 1867, og er svo að sjá sem það sé fyrsta árið, sem fólk sé þar til ársdvalar. Þessi ábúandi var Jón Jónsson, kona hans og tvö börn. Þau munu hafa verið þar tvö eða þrjú ár. Fátæk voru hjón þessi og bústofn þeirra mjög lítill. Hjálparstelpa var hjá þeim, Sigríður Jónsdóttir frá Setbergi. Jón flutti síðan með fjölskyldu sína að Ási. Við brottförina lagðist búskapur niður í Kaldárseli um nokkur ár.
Árið 1867 er manntal tekið í Kaldárseli, og er það sennilega fyrsta árið, sem það er í byggð eftir brottför Jóns. Sá, sem þá er orðinn ábúandi, er Þorsteinn Þorsteinsson, upprunninn í Ölfusi. Þetta ár telur húsvitjunarbókin þar þrjár manneskjur í heimili, bóndann, ráðskonu og tökubarn. Árið eftir, 1877, eru þar fjórir í heimili og hefur þá bæst við vinnukona. Árið 1883 er Þorsteinn orðinn einn í Kaldárseli. Hann dó þar þremur árum seinna.
Þegar Þorsteinn fellur frá eru í Kaldárseli nokkra byggingar og önnur mannvirki.

Helgadalur

Í Rauðshelli.

Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé og eitt eða tvö hross, kú mun hann aldrei hafa haft þar. Að mestu mun Þorsteinn hafa haft fullorðna féð á útigangi, þar eð heyfengur var þar lítill. Fjárhús með jötu við annan vegg var norðvestan við bæjarhúsin, og mun hann hafa haft lömb sín þar. Fullorðna féð hafði hann við hella, sem voru skammt norður frá bænum, eða þá í fjárborgum uppi á Standinum, sem er nokkru nær. Önnur þeirra er nú horfin með öllu. Þá hafi hann fé sitt við helli í Heiðmörk, svonefndum Þorsteinshelli.
Þegar flytja átti Þorstein látinn til greftrunar að Görðum höfðu burðarmenn á orði að óþarfi væri að fara með karlfauskinn alla leið þangað og stungu upp á því að hola honum þess í stað niður einhvers staðar á leiðinni. Að Görðum varð hann þó færður að lokum og jarðsettur þar af séra Þórarni Böðvarssyni.
Árin 1906 til 1908 var enn gerð tilraun til búsetu í Kaldárseli. Kristmundur Þorláksson frá Stakkavík í Selvogi fékk það til afnota og hélt hann þar afskekktri útigangshjörð sinni til haga og gjafar. Beitahúsavegur Kristmundar var langur þar sem hann var búsettur í Hafnarfirði og árferði óvenjuslæmt.
Saga Kaldársels er hvorki löng né viðburðarrík, en saga er það samt.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Hús öll í Kaldárseli keypti Jón Guðmundsson bóndi að Setbergi svo og flestar kindurnar. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.

Húsin voru öll rifin, nema baðstofan, sem stóð uppi fram undir aldamótin 1900. Hún var einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá heldu fé sínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högum. Einnig var gott fyrir Krýsvíkinga að hafa þarna afdrep á ferðum sínum. Haustleitarmenn Grindvíkinga leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárseli. Þá var mikil umferð útlendra ferðamanna til Krýsuvíkur, einkum til að skoða hinar nýyfirgefnu brennisteinsnámur, sem þar voru. Þeir gistu margir í Kaldárseli. Baðstofan bar þess merki. Í sperrur og súð voru skorin ófá mannanöfn af ýmsum þjóðernum.
Að liðnum aldamótum 1900 var ekkert heillegt hús lengur í Kaldárseli. Ferðum útlendinga fækkaði, Krýsvíkingar týndu ört tölunni, fjallleitir Grindjána styttust og hið stóra Setbergsheimili tvístraðist. Og fénaðurinn hvarf úr högunum.

Danski höfuðsmaðurinn Daniel Bruun kom í Kaldársel árið 1897. Lýsir hann allvel Kaldárseli og umhverfi þar. Hann segir m.a. um húsatætturnar, að þær séu frábrugðnar flestum, ef ekki öllum þess konar byggingum hér á landi, þar sem þær séu byggðar úr grjóti einu saman.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði. Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna. Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu. Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.

Margt er að skoða í nágrenni við Kaldársel. Vestan við Kaldá, fast við árbakkann, eru letursteinar frá upphafi veru félagsmanna KFUM og K á staðnum. Efst á Borgarstandi er fjárborgin og undir honum að norðanverðu eru tóttir gamals stekkjar og fjárhýsins. Enn norðar eru hleðslur í Nátthaganum. Austan hans eru fjárhellarnir og hleðslurnar í kringum op þeirra. Í einum hellanna er hlaðinn garður eftir honum miðjum. Stærsti hellirinn er sá syðsti. Í honum er gott rými. Vatnsleiðslan gamla er austan Kaldárselsvegar og er forvitnilegt að sjá hvar hún hefur komið yfirl Lambagjá, en í gjánni er mikil hleðsla undir hana. Sú hleðsla mun hafa að nokkru leiti hafa verið tekin úr austari fjárborginni á Borgarstandi. Í Gjám enn norðar eru hellar, hleðslur og hellisop.
Austan við gamla veginn að Kaldárseli má enn sjá elstu götuna til og frá selinu, klappaða í bergið. Enn vestar, austan Fremstahöfða, er hálfhlaðið hús, líkt því sem sjá má á gömlum ljósmyndum Daniel Bruun frá 1892, að gamla selið í Kaldárseli hefur litið út.

Valaból

Músarhellir í Valabóli.

Út frá Kaldráseli eru margar greiðfærar og skemmtilegar gönguleiðir. Til dæmis er hægt að leggja af stað frá húsi K.F.U.M. og K., ganga til suðurs að Kaldá, þar sem hún rennur neðan við húsið, og yfir göngubrú, sem þar er á henni. Kaldá rennur á mótum tveggja hrauna. Annað rann úr suðri, en hitt rann úr Búrfelli, suðaustur af Kaldárseli. Að sunnanverðu, á hægri hönd þegar farið er yfir, má enn sjá tótt á árbakkanum. Eftir stutta göngu að girðingu framundan er komið inn á hluta gömlu Krýsuvíkurleiðarinnar. Hún er augljós í Kaldárhrauninu og auðvelt að fylgja henni í átt að Kaldárselshnjúkum. Við hnjúkana greindist Krýsuvíkurvegurinn, annar lá upp fyrir Undirhlíðar, Dalaleiðin, og hinn út með Hlíðunum.

Framundan til suðausturs eru Kaldárhnjúkar Syðri. Hlíðin á vinstri hönd og hraunið á þá hægri. Eftir stutta göngu er gengið framhjá Kúadal, en talið er að selssmalinn hafi rölt kvölds og morgna um þessa sömu götutroðninga með kýr úr og í haga. Vestan Kúadals taka Undirhlíðarnar við. Gengið er framhjá Kýrskarði og áfram útfyrir Múla á hægri hönd. Þar á horninu er hellisskúti er nefnist Árnahellir, kenndur við Árna Gíslason í Brekkubæ í Hafnarfirði.
Með Hlíðunum eru tré, sem plantað var af Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, sum fyrir áratugum síðan. Þar er minnisvarði um fyrsta formann Skógfræktarfélagsins, Ingvar Gunnarsson. Afturhlíðar Undirhlíða heita Bakhlíðar eða Gvendarselshæð. Þar er Gvendarsel vestan í hlíðinni. Sjást tóttir selsins og hlaðinn stekkur framan þess.
Framundan undir Hlíðunum, sem áður nefndust Gvendarselshlíðar, eru Kerin. Þau eru fallegir tvíburagígar. Hægt er að ganga upp í efri gíginn úr þeim neðri um gat á milli þeirra, en þar uppi er tilvalinn, skjólgóður áningastaður.

Kaldá

Kaldá í Kaldárbotnum.

Gamli bærinn í Kaldárseli stóð á túnblettinum, sem núverandi hús stendur á, þ.e. á móts við miðju þess er snýr að árbakkanum. Útihúsin voru til hliða og framundan húsunum sunnanverðum, en þau hurfu ekki svo til alveg fyrr en KFUM og K húsið hafði risið í Kaldárseli árið 1925. Þegar síðan var byggt við litla húsið voru útihúsin sléttuð.
Sem fyrr sagði tilheyrði landið áður Garðakirkju og hafði hún þar í seli fram til ársins 1836. Frá árinu 1873 hafði Hvaleyri þar leigusel. Sel Garða voru flest í Selgjá vestan Búrfellsgjár. Enn sjást þar tóttir selja með hraunbarminum beggja vegna, einkum að sunnanverðu, svo og fallegir fjárhellar, bæði í gjánni og efst í Urriðavatnshrauni. Hafnarfjarðarbær keypti árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi, Kaldársel þar með.

Gengið var að fjárhellunum norðan Kaldársels. Á Standinum er fjárborg, önnur af tevimur, sem þar voru. Hin, sú eystri, var fjarlægð á sínum tíma, sennilega verið notuð undir vatnsstokkinn. Gamlar sagnir eru til af hellum þessum. Þeir voru síðast notaðir árið 1908.

Kaldársel

Fjárhús undir Fremstahöfða.

Hellarnir, 6 talsins, fundust aftur tiltölulega nýlega á svæði utan gönguleiða. Um er að ræða mjög fallega fjárhella. Miðsvæðis er tóft utan um skúta. Eftir að fallið mosavaxið grjótið hafði verið fjarlægt frá opnum kom í ljós að enginn hafði komið þarna inn í allnokkurn tíma. Mold var á gólfi, en ekki eitt spor.
Í nyrsta fjárhellinum er hlaðinn garður í honum miðjum. Stærsti hellirinn er syðst. Gengið er niður í hann um hlaðinn gang og er þá komið inn í rúmgóðan sal með sléttu gólfi.

Önnur mannvirki tengd selstöðunni og búskap í Kaldárseli má sjá nálægt fjárhellunum, s.s. aðra eftirlifandi fjárborgina af tveimur upp á Borgarstandi, fjárhústóft norðan undir honum, gerði eða stekk við hana, nátthagann í Nátthaga og gömlu Kaldárselsgötuna klappaða í bergið.

Gengið var um Lambagjá, en hún hefur verið friðuð. Hraunið, sem kom úr Búrfelli, er um 7.000 ára. Fyrrnefnd friðlýsing nær einnig yfir hleðslu undir vatnsveitustokk sem lagður var frá Kaldárbotnum áleiðis til Hafnarfjarðar 1917 – 1918. Var 1600 m löng trérenna látin flytja vatnið og því sleppt niður í Gráhelluhraun við Sléttuhlíð. Það rann síðan um 3 km neðanjarðar og kom upp í Lækjarbotninum við norðurenda hraunsins. Í Lambagjá eru hlaðnar þverfyrirhleðslur á a.m.k. tveimur stöðum og einnig er hlaðið fyrir þar sem auðvelt hefur verið að komast upp úr gjánni miðsvæðis. Líklegt má telja að gjáin hafi verið notuð sem aðhald eða jafnvel nátthagi um tíma. Hraunhaft er í hrauntröðinni, en gengið var undir það. Þar niðri var fallegt þrastarhreiður. Í vor voru í því þrjú egg. Þrösturinn hafði greinilega verpt í það öðru sinni í sumar. Skammt ofar var annað þrastarhreiður, yfirgefið.

Kaldársel

Hleðsla undir vatnsleiðsluna.

Gengið var áfram upp að opi Níutíumetrahellis. Frá því var haldið upp að Selvogsgötu þar sem hún liggur niður í Helgadal. Frá brúninni sjást nokkur misgengi. Eitt er t.d. eftir endirlangri Smyrlabúð og áfram út með Hjöllunum. Annað er í norðurbrún Helgadals og liggur í átt að Búrfelli. Kíkt var í Vatnshelli áður en haldið var upp með misgenginu að Rauðshelli. Við op hans voru í vor og síðan aftur í sumar þrastarhreiður á sillu með fjórum eggjum í. Farið var inn í hellinn og m.a. skoðuð hlaðin fyrirhleðsla, sem þar er. Misvísandi lýsingar eru á Rauðshelli. Til er gömul lýsing, sem mun vera rétt, en einnig hefur verið giskað á að um Hundraðmetrahellinn gæti verið að ræða, en slíkt passar ekki við gömlu lýsinguna. Náttúrulegur bekkur hefur verið þarna þvert yfir hellinn, sem bæði hefur verið hægt að komast yfir og undir. Hún er nú fallin, en rauður liturinn í hellinum er enn áberandi. Hleðslur eru í jarðfallinu og án efa einnig undir gróðurþekjunni, sem þar er. Forn stekkur er skammt norðar.

Tvö nöfn eru á Rauðshelli; gamla nafnið er dregur nafn sitt af litnum, og einnig nafnið Pólverjahellir. Sumir hafa talið að hann væri svo nefndur eftir Pólverjum á skipi í Hafnarfjarðarhöfn, sem gist hafði í hellinum því hún fékk ekki inni í Hafnarfirði, en hið rétta er að ungir drengir úr Pólunum í Reykjavík, nefndir Pólverjar, dvöldu þarna um tíma.
Svo óheppilega vildi til að þegar hópurinn hafði komið sér fyrir innst í Rauðshelli heyrðust armæður og kvenstafir frá pari, sem lagst hafði til hvílu á bak við stóra steina í hellinum. Þar reyndust vera komin frú grýla og herra leppaúði. Báru þau sig illa yfir rúmraskinu og var því ákveðið að hverfa út úr hellinum svo þau gætu a.m.k. sofið þar enn um sinn.

Kíkt var í opið á Hundraðmetrahelli og síðan gengið upp í Fosshelli og haldið í gegnum hann. Sást vel hversu fallegur hraunfossinn er sem og flórinn í efri hluta hellisins. Þegar gengið var upp í gegnum hellinn var enn einn úr jólafjölskyldunni vakinn; kertasníkir. Hafði hann lagt sig yst í Fosshelli, en vaknað við umgang fólksins. Lét hann í sér heyra, en lagðist síðan til hvílu á ný, enda enn langt til jóla.

Kaldársel

Gengið um Kaldársel.

Frá Helgadal sést vel yfir að Búreflli í austri. Búrfell er eldborg. Frá henni rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára.

Þegar gengið er niður í Helgadal sét vel í ætlað bæjarstæði fornbýlis, sem þar á að vera, upp í austanverðri hlíðinni. Ekki er ólíklegt er að þarna sé komið bæjarstæði það sem lengi hefur verið leitað að og heimildir kveða á um. Á landnámsmaður að hafa byggt sér bæ í Helgadal, en þrátt fyrir leitir hafa leifar hans ekki fundist. Hér gæti einnig verið um hina fornu Skúlastaði að ræða, en þeir eiga skv. sögunni að vera næstelsta bæjarstæði norrænna manna hér á landi. Við þetta ætlaða bæjarstæði liggur gömul þjóðleið. Fróðlegt væri að fá við tækifæri áhugasaman fræðing til að kíkja á aðstæður þarna.
Framangreint eru nú einungis vangaveltur um hugsanlega möguleika því ekki er vitað til þess að svæðið eða þessi staður í Helgadal hafi verið skoðaður sérstaklega m.t.t. þessa.
Þegar komið var á jafnsléttu var gengið til suðurs með austanverðuverðu fjallinu, upp í Valaból. Valaból er fallegur trjálundur. Við hann er Músarhellir. Á Valahnúkum eru steingerð töll – í alvöru.

Kaldársel

Jólasveinn í einum fjárhellanna.

Búrfellið tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krísuvík. Búrfell er hringlaga gígur úr hraunkleprum. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.
Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
Búrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar.

Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun. Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum.

Kaldársel

Forynjur í einu fjárskjólanna.

Sá hraunstraumur sem runnið hefur í Heiðmörk og niður í Garðabæ hefur runnið eftir Búrfellsgjá. Búrfellsgjá þykir með fallegri hrauntröðum landsins. Gjáin er 3,5 km á lengd með meginstefnu í norðvestur. Búrfellsgjá er mjóst upp við gíginn eða um 20-30 metrar milli barma en breikkar þegar lengra dregur og verður mest 300 metrar. Í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð grynnkar hrauntröðin og hverfur, sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Á köflum eru gjárveggirnir þverhníptir og mynda sums staðar grunna hellisskúta sem eru með snarhöllu þaki. Barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar er allt úr Búrfellshrauni.
Gengið var niður gjána og að Gjáarrétt. Réttin var skoðuð sem og Gerðið. Innst í því, undir slútandi kletaveggnum er hlaðið hús, nokkuð heillegt.

Gjáarrétt hefur sennilega verið lögrétt Garðhreppinga, Bessataðahreppsbúa og Hafnfirðinga í nokkur hundruð ár (Ól. Þorvaldsson). Sigurður í Görðunum segir í minningum sínum: “Réttin okkar var í hrauninu, skammt fyrir sunnan Vatnsenda. Hygg ég, að það hafi verið ein sérkennilegasta rétt á landinu. Hún hét Gjárétt, enda var hún í gjá. Skammt frá eru víðir og fagrir vellir og þar var oft leikið sér og ekki sízt sprett úr spori bæði þegar komið var í réttina og eins þegar réttardeginum var lokið.” Gjáarrétt (Gjárétt) var fjallskilarétt (lögrétt) til 1920, en þá var hún flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist Hraunrétt. Dilkar voru 12 talsins uns einum dilk Selvogsmanna var bætt við suðaustast í réttinni. Árið 1955 var gerð rétt við Kaldársel. Gjáarrétt var friðlýst að tilstuðlan þjóðminjavarðar 1964.

Allnokkru ofan við hellana í Helgadal er Rjúpnadalahraun. Í því, norðan við Húsafell, er hlaðin refagildra. Fjárskjól er í norðvestanverðu í Húsfelli og eru sagnir eru til um það. Framan við það eru gamlar hleðslur.

Frá Valabóli var gengið áleiis niður í Kaldárbotna þar sem vatnsveita Hafnarfjarðar er með vatnsból sín og tekur ferskvatn fyrir bæjarbúa.

Valaból

Í Valabóli.

Þegar gengið er áleiðis á Helgafell er komið að nyrsta hluta Gvendaselsgíga. Gígarnir standa upp úr hrauninu efst á brúninni, sá nyrsti stærstur.
Flestir, sem halda á Helgafell, ganga norður fyrir fjallið og síðan auglýsta gönguleið upp skriðuna. Mun auðveldari gönguleið er upp móbergsgil skammt vestar á norðanverðu fjallinu. Þá er komið upp í sléttan dal og þaðan er auðvelt að ganga upp slétthallandi móbergið, áleiðis upp á öxlina og síðan á toppinn. Fjallið er 340 m.y.s.
Ein sjö Helgafell eru til í landinu; þetta suður af Hafnarfirði, í Mosfellssveit, á Þórsnesi á Snæfellsnesi, yst sunnan Dýrafjarðar, í Strandasýslu vestan Hrútafjarðar, í Þistilfjarðarfjallgarði norðaustan Öxarfjarðarheiðar og í Vestmannaeyjum. Hugsanlega er nafnið tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi.
Orðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi. Ágætt útsýni er af Helgafelli í góðu skyggni.
Kaldá sprettur fram undar Kaldárhöfða og streymir um 1100 m leið ofanjarðar áður en hún hverfur ofan í gljúpt hraunið. Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Við Karlársel eru Gjárnar, merkileg náttúrusmíð.
Kaldárstraumur á upptök í sunnanverðum Bláfjöllum og Lönguhlíð. Hann streymir þaðan til norðvesturs um Húsfellsbruna og Heiðmörk. Grunnvatnsskil liggja frá Straumsvík og í vesturenda Lönguhlíðar. Berggrunnurinn er úr hraunum, grágrýti og móbergsmyndunum. Þótt hraunin þeki víðáttumilkil svæði á þessum slóðum liggja þau að mestu yfir grunnvatnsborði. Sprungur auka mjög vatnsleiðni og hafa afgerandi áhrif á grunnvatnsstreymið. Sprungurnar eru hluti af sprunguskara sem kenndur hefur verið við Krýsuvík. Þær beina grunnvatninu úr sunnanverðri Heiðmörk til suðvesturs í átt til Kaldárbotna.

Hundraðmetrahellir

Hundraðmetrahellir.

Athyglisvert er að fyrir vikið streymir grunnvatnið á þessum slóðum ekki hornrétt á grunnvatnshæðarlínur, eins og algengast er, heldur skálægt á þær. Straumþunginn fylgir því sprunguskaranum. Í Kaldárbotnum sést örlítið brot af því vatni sem þarna er á ferð. Meðalrennsli Kaldár skammt neðan upptakanna er 800 l/s samkvæmt mælingum í vatnshæðarmælinum vhm 124, en sveiflur eru miklar í rennslinu. Kaldá er einskonar yfirfall úr grunnvatnsstraumnum. Einum kílómetra neðar er hún öll horfin til grunnvatnsins á ný. Neðan við Undirhlíðar sveigir grunnvatnið út úr sprunguskaranum og flæðir um hraunin til norðvesturs uns það birtist í fjörulindum í Straumsvík og í Hraunsvík, en svo nefnist bugurinn milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Þar upp af ströndinni eru vatnsból Álversins. Sennilegt er að einungis minnihluti lindarennslisins komi í ljós í fjörulindum þegar lágt stendur í sjó en að meirihluti þess sé jafnan í flæðarmálinu sjálfu eða neðan þess. Kaldárstraumur er langmesti grunnvatnsstraumurinn á höfuðborgarsvæðinu.
Þjóðsagan segir að fyrrum hafi Kaldá komið úr Þingvallavatni en eftir að Ingólfur landnámsmaður gróf Soginu farveg úr því, þar sem síðan heitir Grafningur, hafi Kaldá þorrið. Önnur saga segir að tveir synir fjölkunnugs karls nokkurs hafi drukknað í ánni og eftir það hafi hann kveðið hana niður. Þriðja sagan segir að hún hafi þornað eftir mikið eldgos.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Í dag nýtur Kaldársel ýmissa forréttinda. Í fyrsta lagi nýtur svæðið verndunar þar sem það er innan Reykjanesfólksvangs og hefur verið það í um 30 ára skeið. Í öðru lagi er Kaldársel innan vatnsverndar höfuðuborgarsvæðisins og í þriðja lagi nýtur Kaldársel og nágrenni sérstakrar verndar skv. þjóðminja- og náttúruverndarlögum.

Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson – Áður en fífan fýkur – 1968.
-Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 – III. bindi, bls. 180.
-Úr “Sögu Hafnarfjarðar”, handskrifuðum Minningum Sigurðar Þorleifssonar og handriti Gísla Sigurðssonar á Bókasafni Hafnarfjarðar).

Kaldársel

Kaldársel.

Snókalönd

Gengið var um hraunsvæðið sunnan Stórhöfða. Tilgangur ferðarinnar var m.a. að skoða Snókalöndin, óbrennishólma inni í Brunanum (Nýjabrun/Hábruna), sem mun heita eftir Nýjahrauni því er síðar var nefnt Kapelluhraun og rann árið 1151.
Gömul gata liggur inn í Snókalöndin frá Stórhöfðastíg skammt sunnan SnókalandsastígurBrunabrúnarinnar, milli hlaðins garðs á henni og hlaðins gerðis utan í hraunnefi skammt sunnar. Varða við götuna þar sem hún liggur inn á Brunann vísar leiðina. Frá henni er gatan augljós yfir nýja hraunið og inn í vestari Snókalöndin. Á leiðinni þangað er fallega hringlaga formað hraunbrigði á hægri hönd. Hraunið virðist hafa runnið áfram framhjá fyrirstöðu og þá myndað “garða” beggja vegna er síðan hafa runnið saman neðar.
Snókalöndin eru þakin kjarri og lyngi. Þau eru hvað fegurst á haustin þegar litadýrðin er hvað mest.
Úr vestari hluta Snókalanda liggur gata yfir að þeim austari, sem er mun stærri. Nær suðurenda hans næstum því að gatnamótum Krýsuvíkurvegar og Bláfjallavegar. Allt umleikis er mosavaxinn og torfær Bruninn, sem fyrr segir.
Ólafur Þorvaldsson segir frá Snókalöndunum í grein sinni um “Fornar leiðir…” í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48: “Í nýja brunanum, spölkorn austur af stígnum, eru tveir dálitlir blettir eða hólmar, sem bruninn hefur ekki náð að renna yfir. Ekki ber þau hærra en umhverfið og sjást því ekki lengra til og helst ekki fyrr en að er komið. Hestfær götuslóð liggur norður í Snókalönd, nokkur austar en þar sem Stórhöfðastígurinn kemur suður úr brunanum. Ekki eru Snókalöndin jafnstór, það vestra nokkur stærra og slóð á milli. Hvað liggur til grundvallar þessu nafni veit víst enginn lengur en á tvennt mætti benda. Í fyrra lagi að þarna hafi vaxið villihvönn, snókahvönn – geitla. Í öðru lagi að blettir þessi, sem hafa verið miklu gróðurríkari en umhverfið, hafi fengið nafnið land af töngum þeim og hornum sem hinn ójafni brunakantur myndar þarna í grennd og gæti því þýtt “Krókalönd”.

Snókalönd

Í orðabók Blöndals segir að snókur sé angi eða útskiki út frá öðru stærra. Gætu því tangar þeir, sem út úr brunanum ganga, verið stofn að þessu nafni. Þó finnst mér fyrri tilgátan sennilegri. Líkur benda til að þarna hafi verið nokkur skógur og máske verið gert að kolum fyrrum.
Gatan út í Snókaköndin bendir á nokkra umferð þangað. Sökum fjarlægðar þessa staðar frá alfaraleið óttast ég að svo geti farið að hann gleymist og nafnið týnist þar sem þeir, er mest fóru þar um og héldu með því við mörgum örnefnum, voru fjármenn og smalar en þeim fækkar óðum um þessar slóðir sem víðar.”
Snókalöndin eru hraunsvæði sem máttarvöldin, sem stóðu að jarðeldunum 1151 og skópu Nýjahraun (Kapelluhraun/Brunann) virtust hafa haft áhuga á að hlífa. Háir hraunhryggir hafa hlaðist upp með þeim og beint glóandi hrauninu frá. Eftir standa gróðurvinar þær er Ólafur lýsir.
Aðgengi að Snókalöndunum er ágætt og stutt að ganga inn í þau frá Krýsuvíkurvegi. Þá er jafnframt kjörið tækifæri til að skoða þar aðstöðu fjárbúskapsins frá Ási, bæði gerðið og garðinn við Stórhöfðastíginn. Arnarklettar sjást vel inn í Brunanum nokkru suðaustan Stórhöfða.

Heimildir m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson 1949. Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Bis. 81-95.

Varða

Varða við Stórhöfðastíg.

Straumssel

Almennt var hætt að hafa í seli eftir miðja 19. öldina víðast hvar á landinu og lagðist sá siður því af. Þó hélt einn og einn bóndi því áfram og eru heimildir fyrir því að Hvaleyrarbóndi hafi haft í seli við Hvaleyrarvatn lengst allra sem bjuggu í nágrenni Hafnarfjarðar.

Straumssel-122

Oft voru selin ágætlega húsuð og því kjörið að nýta húsakostinn eftir að selstöður lögðust almennt af. Þegar Guðmundur Guðmundsson hafði keypt Straumsjörðina af Páli Árnasyni sem hafði keypt hana 1839 af konungssjóði. Guðmundur var gerður að skógarverði í Almenningi og settist þá að í Straumsseli. Þetta mun hafa verið um 1847. Hjá honum var faðir hans Guðmundur Bjarnason, oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann andaðist aldraður maður í Lambhaga vorið 1848, en Guðmundur skógarvörður andaðist fimm árum síðar í selinu, nánar tiltekið 1853. Þegar hann gerði Straumssel að bústað sínum klagaði leiguliði hans í Straumi búsetuna til sýslumanns. Leiguliðinn var Bjarni Einarsson en honum þótti það vera skerðing á fornum rétti landseta að skipta jörðinni upp með þessum hætti. Guðmundur lofaði að fjölga ekki býlum í Straumslandi meðan Bjarni byggi þar. Bjarni gekk að sáttinni að því tilskyldu að bygging hins gamla Straumssels væri sér með öllu óviðkomandi, skyldu yfirvöld kæra.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Föst búseta var í Straumsseli í ein 40 á með hléum, enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin Kolfinna Jónsdóttir og Sigurður Halldórsson sem bjuggu þar á tímabilinu 1853-1863. Eftir það fluttu þau í Hafnarfjörð og bjuggu í Kolfinnubæ sem stóð þar sem nú er Strandgata nr. 41. Farnaðist þeim vel í selinu þó kjörin væru kröpp. Bjarni sonur þeirra fæddist í Straumsseli 1857. Talið er að síðast hafi verið búið í Straumsseli 1890-1895. Guðmundur lét reisa myndarlegt bæjarhús í Straumsseli sem stóð fram undir aldamótin 1900 en þá mun það hafa brunnið. Selið fór eftir það í eyði en bæjartóftirnar eru all myndarlegar.

Heimild:
-Jónatan Garðarson.

Straumssel

Straumssel. Tóftir af húsi skógarvarðarins efst til vinstri.

Óttarsstaðasel

Gengið var vestur eftir Alfaraleiðinni frá Gerði, um Draugadali, frammeð Smalaskálahæð og að Gvendarbrunni undir Gvendarbrunnshæð. Þaðan var haldið spölkorn eftir leiðinni til vesturs uns komið var að gatnamótum Rauðamelsstígs eða Skógargötu, eins og hann stundum var nefndur, auk Óttarsstaðaselsstígs. Stígurinn liggur upp frá Óttarsstöðum, um Kothól og framhjá Borginni (Kristrúnarborg/Óttarsstaðaborg) og áfram upp Bekki að selinu skammt austan við Þúfhól.

Tóhólaskúti

Tóhólaskúti.

Einn tilgangurinn með göngunni að fara upp að Tóhólaskúta og skoða hvort þar gæti verið um að ræða sama fjárskjólið og nefnt er Skógarnefsskúti í örnefnalýsingu fyrir Hvassahraun. Í þeirri lýsingu á skútinn reyndar að vera í Skógarnefinu, en skv. upplýsingum Brunnastaðabræðra (Kristmundssona) á skútinn að vera svo til á mörkum Hvassahrauns og Óttarsstaða, skammt fyrir ofan Lónakotsmörkin, en neðan við Skógarnefsbrúnina. Mörkin liggja um Krossstapana og er brúnin skammt ofan við efri stapann. Undir þeim, skammt vestar, eru Skógarnefsgrenin.
Þá átti opið á Skógarnefsskúta að snúa mót suðri, en Tóhólaskútinn snýr opi mót austri eða norðaustri. Samt þótti ástæða til að gaumgæfa þetta enn og aftur.
Þegar komið var að gatnamótum Rauðamelsstígar, eða Óttarsstaðaselsstígar, og götu, hér nefnd Skógargata, sem liggur upp í Skógarnefið, var henni fylgt til suðurs. Þrjár vörður eru við gatnamótin, allar fallnar.
Gróið er yfir Skógargötuna fyrstu metrana, en þegar kemur að fyrstu vörðunni fer hann að verða greinilegri.

Bekkjaskúti

Bekkjaskúti.

Gatan er vörðuð alla leiðina upp í Skógarnef og áfram upp í gegnum það. Skammt vestan við götuna, vestast í svonefndum Tóhólarana, er Tóhólaskúti. Áður hefur verið þar myndarleg hleðsla fyrir ílangan skúta innundir skeifulaga hraunhól, en miðhleðslan fallið niður. Enn má þó sjá hleðslurnar beggja vegna. Varða er á hól skammt sunnar, en engin ofan við skútann.
U.þ.b. 200-300 metrar eru þaðan í mörk Hvassahrauns svo varlega verður að telja að þarna geti verið um sama skúta að ræða og fyrr greinir. Sjá má vörður í hrauninu nálægt mörkunum, en á því hafði verið leitað fyrrum. Nú stendur til að leita það aftur fljótlega og þá með meiri nákvæmni. Um afmarkað svæði er að ræða.
Stígur liggur frá Tóhólaskúta áleiðis að Óttarsstaðaseli. Honum var fylgt að selinu, litið á Þúfhólsskjólið, seltóftirnar, Óttarsstaðaselshelli syðri, nátthagann og vatnsstæðið áður en haldið var niður Óttarsstaðaselsstíginn. Á leiðinni niður hann var kíkt á Meitlaskjólið, Sveinsskúta og Bekkjaskúta.
Fyrir ferðina hafði Tóhólaskúti verið hnitaður inn á kort og þá virtist staðsetning hans geta gengið Skógarnefsskúta í verustað, en við þessa nánari vettvangsathugun kom í ljós að það verður að teljast hæpin ágiskun.
Haustlitirnir settu svip sinn á hraunin með öllum þeim tilbrigðum sem kvöldsólin ein gat stuðlað að.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Bekkjaskúti

Bekkjaskúti.

Krýsuvík
Fyrst voru tóttir Litla-Nýjabæjar skoðaðar vestan við þjóðveginn og síðan haldið að bæjarhól Stóra-Nýjabæjar.
Í túnkantinum norðan við hólinn eru upptök Eystrilækjar, sem síðan liðast niður Krýsuvíkurheiðina og steypist fram af Krýsuvíkurbergi austan við vitann.

Krýsuvík

Krýsuvík – mógrafir.

Norðar, utan í hæð sunnan Grænavatns eru tóttir. Talið er að þær geti verið leifar hjáleigu er nefndist Fell. Vestar eru tóttir elsta bæjar í Krýsuvík, að Kaldrana undanskildum, Gestsstaða. Þær eru undir hlíðinni skammt vestan Krýsuvíkurskóla.
Gengið var mógröfunum sunnan við vegamót þjóðvegarins og Ísólfsskálavegar og síðan yfir að Snorrakoti vestan Ísólfsskálavegar, en tóttir bæjarins eru vel greinilegar. Bæjargarðurinn snýr á móti suðri og sést enn vel. Suðvestar, inni á túninu undir Bæjarfelli, er Norðurkot, miklar tóttir og hefur sá bær einnig haft samfastan garð á móti suðri.

Krýsuvík

Lækur í Krýsuvík.

Handan vegarins, sunnan Vestarilækjar, er stórbýlið Lækur, miklar tóttir, garðar og falleg heimtröð. Gengið var frá bænum um hlaðna heimtröðina að Krýsuvíkurbænum, aftur yfir Vestarilæk, upp með tóttunum og að Krýsvíkurkirkju. Krýsvíkurbærinn, sá síðasti, stóð utan í og ofan við tóttirnar (sem munu vera af Hnausum). Hann var jafnaður við jörðu um 1960. Kirkjan, sögufræga, er opinn og öllum aðgengileg. Frá henni var gengið yfir veginn til suðurs og þá komið að Suðurkoti. Tóttir bæjarins er á og sunnan við grashólinn, sem hæst ber. Austan hans er Ræningadysin, sem sagt er frá í sögum af Eiríki á Vogsósum, auk tótta.

Krýsuvík

Krýsuvík 1789.

Þegar komið var að vörslugarðinum, sem liggur á milli fellanna, Bæjarfells og Arnarfells, var beygt til austurs að Arnarfellsbænum. Tóttir bæjarins eru sunnan í grasigróinni hlíð Arnarfells. Þaðan sést til Arnarfellsréttar í suðaustri. Gengið var að henni og hún skoðuð. Um er að ræða hlaðna, stóra og myndarlega, rétt í lægð og er erfitt að koma auga á hana úr fjarlægð.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Stefnan var tekin á austanverða Selöldu. Þegar komið er yfir hálsin blasir við gróin brekka suðvestan undir honum. Mikið landrof hefur orðið þarna í gegnum tíðina, en þó markar enn fyrir hleðslum neðst í brekkunni er gætu hafa verið mjög gamall stekkur. Einhvern tímann hefur allstór lækur runnið austast vestur með sunnanverðri Selöldunni.

Krýsuvík

Krýsuvík 1789. Norðurkot er neðst t.v.

Vestar með hlíðunum er grasigróið svæði og tóttir. Hér er talið að Krýsuvíkursel hafi verið. Í Jarðabókinn frá 1703 er sagt að Krýsuvík hafi bæði haft í seli til fjalla og fjöru. “Hitt selið var á Seltúni undir Sveifluhálsi. Skammt vestan við tóttirnar er stór steinn. Við hann er talsvert gróið og líklegt er að þar hafi verið stekkur suður undir honum. Ummerki benda til þess”. Stekkurinn er reyndar skammt austan við Seltúnið. Þar er og hringlaga nátthagi. Sjálft selið var í austanverðu túninu, en hefur nú verið jafnað við jörðu í þá fyrirhugaðrar ræktunar á svæðinu.

Eyri og Krýsuvíkursel

Eyri undir Selöldu – uppdráttur ÓSÁ.

Skammt suðvestar við selið eru margar tóttir og sumar heillegar. Hér er talið að bærinn Eyri hafi staðið, rétt ofan við lækjarfarveginn. Bærinn fór í eyði árið 1775. Frá tóttunum ætti að vera best að ganga áfram vestur með Selöldunni, en ef gengið er frá þeim til suðurs kemur nokkuð merkilegt í ljós. Á grashól eru miklar hleðslur, greinileg fjárborg. Hennar er hvergi getið og verður því hér nefnd Neðri-Eyrarborg. Vestan í henni er stekkur eða löng og mjó hústótt. Ofar, til austurs, er önnur fjárborg, svolítið minni. Verður hún nefnd Efri-Eyrarborg.
Vestast í sunnanverðri Selöldunni, á Strákum, eru miklar hleðslur undir móbergskletti. Þetta er fjárhús og eru veggir þess svo til alveg heilir. Suðvestan undir Strákum eru svo heillegar tóttir gamals bæjar, er nefndist Fitjar.
Það merkilega gerðist að þessu sinni, sem og svo oft áður, að þrátt fyrir rigningu allt um kring, lék veðrið við göngufólkið alla leiðina.

Selalda

Selalda – minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Stórhöfðastígur

Gengið var eftir Stórhöfðastíg frá Undirhlíðavegi að Stórhöfða.
Ólafur Þorvaldsson lýsir leiðinni í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48, reyndar frá Ási upp á Undirhlíðaveg. Þar segir hann að “Stórhöfðastíg fóru stundum lausríðandi menn frá Krýsuvík til Hafnarfjarðar. Fóru þá sem leið lá inn með hálsum, þar sem sú leið er allgóður reiðvegur, þar til kom á móts við þar sem Stórhöfðastígurinn lá vestur á milli Fjallsins eina og Sandfells. Sá stígur var stundum tekinn því að við það féll úr mikill krókur inn með Undirhlíðum um Kaldársel en hitt bein lína til Hafnarfjarðar. Þó að Stórhöfðastígur sé frekar slitróttur var gott að láta hestinn njóta ferðarinnar, en jafnsnemma komið til Hafnarfjarðar eða fyrr þrátt fyrir stirðari veg.”
Ólafur lýsir og stígnum þar sem hann liggur milli Sandfells og Fjallsins eina “og er þá Sandfellið á hægri hönd, allnærri”.
Stórhöfðastígurinn hefur nú verið stikaður að hluta, frá Undirhlíðavegi niður á Sléttuna.
Undirhlíðavegur sést vel í rótum móbergshróka Grænklofa ofan Djúpavatnsvegar – fast ofan Sandfellsklofa. Þar eru gatnamótin, í beygju á þjóðveginum, áður en komið er að bílastæðinu við Hrútagjá. Sjást þau vel. Þaðan liggur hann augljós niður með lágum grónum hraunhrygg austan utanverðrar gjáarbrúnarinnar.
Gjábrúnin er þarna bæði há og tilkomumikil. Auðvelt er að sjá í vegg hennar fyrrum hraunþakhelluna er lyfst hefur vegna mikils kvikuþrýstings undir niðri. Þegar kvikan síðan storknaði undir hélst veggurinn í rúmlega 45° halla. Endi gjárinnar sést í norðausturhorni “veggsins”, stór og mikilfenglegur. Hrútfell er þarna á hægri hönd. Stígurinn er augljós með rótum Sandfellsins. Reykjavegurinn hefur verið stikaður þarna eftir nýrri leið, en Stórhöfðastígurinn er svolítið norðaustan hans og liggur samhliða á nokkrum kafla. Hinar nýju stikur höfðu verið settar með Reykjaveginum, en voru nú færðar yfir á hinn eiginlega Stórhöfðastíg. Hann fylgir síðan rótum Sandfellsins að mikilli gjá. Sú liggur til norðurs með vestanverðu Sandfellinu og er jafnframt misgengi.
Á sumum kortum hefur þessi gjá, sem liggur alveg niður að gígaþyrpingu suðaustan við Sléttuna sunnan Krýsuvíkurvegar, nafnið Fjallgjá. Önnur gjá, með sömu stefnu, en nokkru vestar, hefur og verið nefnd því nafni. Einhvern veginn virðist Fjallgjárnafnið eðlilegra á þessari gjá því hún liggur upp með Sandfellinu vestanverðu og Fjallinu eina austanverðu, en hin kemur eiginlega hvergi að fjalli. En hvað um það. Stórhöfðastígur liggur þarna niður gróna hraunbrekku milli fellanna. Þar greinist hann í tvennt með hrauntungu. Sama er hvor leiðin er valin því þær koma saman neðan tungunnar. Þar fylgir stígurinn rótum Fjallsins eina og síðan gróinni vesturbrún gjárinnar. Bæði er skjólsælt þar fyrir austanáttinni (sem kom berlega í ljós í þessari ferð) og auk þess er fallegt að horfa til baka, upp eftir stígnum þar sem hann liggur á milli fellanna með Hrútargjána sem bakgrunn.
Einir er áberandi á þessu svæði og ekki spilltu nýtilkomnu haustlitirnir í birkilaufinu fyrir litadýrðinni. Hraunssvæðin eru engu lík við þessar aðstæður.
Þegar komið var skammt ofan við gígaþyrpinguna nafnlausu (hér er stungið upp á hún verði nefnd Ásar í höfuðið á Ásbirni þeim er hefur verið með þeim duglegri að rekja gamlar götur og leiðir á þessu svæði auk þess sem nafnið minnir á upphaf stígsins að norðanverðu) fer gatan beggja vegna við lága hraunhæð og síðan með henni að þyrpingunni vestanverðri. Neðan (norðan) hennar breytir hraunið bæði um svip og yfirbragð. Við tekur ógrónara, ósléttara hraun og mosavaxnara, án þess að í því séu hæðir og lægðir. Með fránum augum má sjá hvar stígurinn lá með stefnu í næsta hraunnef að vestanverðu. Austan við það kemur stígurinn aftur mjög glögglega í ljós. Smám saman “birtir” meir og meir yfir honum á sléttri hraunhellu Sléttunnar. Á kafla greinist hann þar í tvennt, en kemur saman á ný skammt norðar. Þar liggur stígurinn yfir austurmörk Straumslands og inn á Ásland með vestanverði brún Brunans, framhjá og í gegnum fallegan “gróðurvog” þar sem “Tvídrangar”, tveir háir hraunstöplar rísa upp úr Brunanum og halla sér hvor að öðrum. Þarna er einn af fáum stöðum í öllum hraununum þars em sjá má áþreifanlega kynjaskiptingu hraunsins. Yfirleitt er talað um það í hvorukyni, en á þessum stað er það bæði í karlkyni og kvenkyni. Því getur í raun enginn trúað nema líta það eigin augum. Undir hraunbrúninni má sjá mannanna verk á tveimur stöðum, þakin mosa. Annað gæti hafa verið skjól eða jafnvel hús og hitt aðhald fyrir hesta eða fé. Skammt norðar er fallin fyrirhleðsla yfir stíginn.
Stórhöfðastíg var fylgt með hraunkantinum að skógræktargirðingu við slóða vestan gatnamóta Krýsuvíkurvegar og Bláfjallavegar. Áður en komið er þangað virðist stígurinn hverfa á stuttum kafla, en þegar betur er að gáð má sjá hvar hann liggur yfir sléttan klapparhrygg og síðan áfram niður gróna lænu. Þar virðast vera gatnamót. Líklega eru þau til komin vegna þess að ferðalangar á leið suður Stórhöfðastíg gleymdu að taka þar vinstri beygju. Hafi þeir haldið áfram hefur leið þeirra legið um hæðir og lægðir uns komið var að þeirri Fjallgjá, sem vestari hefur verið nefnd. Með góðum vilja hefur verið hægt að fylgja henni upp með Fjallinu eina vestanverðu. Þar liggur reyndar gata, sem sumir hafa tekið sem Stórhöfðastíg, en er í raun eitt afsprengi hans.
Norðvestan slóðans liggur Stórhöfðastígur í gegnum skógræktargirðinguna á stuttum kafla, niður með henni utanverðri og beygir síðan til norðurs yfir Krýsuvíkurveginn skammt vestan gatnamóta Bláfjallavegar, niður í ofanverðar Brunntorfur (Brunatorfur/Brundtorfur). Þar sést hann greinilega. Stígurinn liggur framhjá fallega hlöðnu ferköntuðu gerði í góðu skjóli. Skjól þetta hefur væntanlega verið notað til tilhleypinga frá Straumi eða Þorbjarnastöðum. Brunntorfurnar (Brundtorfurnar) gætu hafa dregið nafn sitt af því. Markagirðing Straums og Áss er þarna skammt austar. Líklega má finna fleiri mannvirki á þessu svæði ef vel væri leitað. Áfram til norðurs liggur stígurinn í gegnum gróið hraun, vestan brunabrúnar. Frá henni liggur gata til austurs, inn í Snókalöndin. Skammt norðar eru gatnamót. Gata liggur af stígnum til suðurs og síðan vesturs, um grónar hraunlænu milli klapparhóla, yfir Krýsuvíkurveginn með stefnu á vörður handan hans. Að öllum líkindum er um að ræða leið að hlöðnu fjárskjóli, sem nú er innan svæðis Skógræktarinnar, og síðan áfram niður að Straumi. Þessi gata er sýnd á uppdrætti Ólafs, sem og mörkin.

Varða framundan segir til um hvar Stórhöfðastígur fer inn á brunann. Á og með brúninni er hlaðinn garður utan í henni, sennilega fyrirstaða þegar fé var rekið eftir stígnum. Í gegnum brunann er stígurinn augljós, bæði gróinn og greiðfær. Eftir stutta göngu rífa gamlar malargryfjur stíginn, en ef línu er fylgt beint yfir þær má sjá bút af honum handan við brúnina. Eftir göngu um þann hluta óskerta brunans er aftur komið að malargryfjum sem hafa tekið gamla Stórhöfðastíginn. Nú er nýbúið að slétta þar undir verðandi trönusvæði. Norðan þess er klettur. Vestan við klettinn er Stórhöfðastígur enn ósnertur. Hægt er að fylgja honum af öryggi áfram í gegnum hraunið að suðausturhorni Stórhöfða. Þaðan liggur stígurinn til norðvesturs vestan hans, áleiðis að Ási. Lengra var ekki farið að þessu sinni. Stígurinn um Hellnahraunin, yngra og eldra, verða geymd til betri tíma. Þá er og ætlunin að skoða Snókalöndin betur við fyrsta tækifæri.
Snókalöndin fyrrnefndu, austan Stórhöfðastígs og norðan núverandi Krýsuvíkurvegar vestan gatnamóta Bláfjallavegar, eru heimur út af fyrir sig. Ólafur segir frá Snókalöndunum í fyrrnefndri grein sinni: “Í nýja brunanum, spölkorn austur af stígnum, eru tveir dálitlir blettir eða hólmar, sem bruninn hefur ekki náð að renna yfir. Ekki ber þau hærra en umhverfið og sjást því ekki lengra til og helst ekki fyrr en að er komið. Hestfær götuslóð liggur norður í Snókalönd, nokkur austar en þar sem Stórhöfðastígurinn kemur suður úr brunanum. Ekki eru Snókalöndin jafnstór, það vestra nokkur stærra og slóð á milli. Hvað liggur til grundvallar þessu nafni veit víst enginn lengur en á tvennt mætti benda. Í fyrra lagi að þarna hafi vaxið villihvönn, snókahvönn – geitla. Í öðru lagi að blettir þessi, sem hafa verið miklu gróðurríkari en umhverfið, hafi fengið nafnið land af töngum þeim og hornum sem hinn ójafni brunakantur myndar þarna í grennd og gæti því þýtt “Krókalönd”. Í orðabók Blöndals segir að snókur sé angi eða útskiki út frá öðru stærra. Gætu því tangar þeir, sem út úr brunanum ganga, verið stofn að þessu nafni. Þó finnst mér fyrri tilgátan sennilegri. Líkur benda til að þarna hafi verið nokkur skógur og máske verið gert að kolum fyrrum.
Gatan út í Snókaköndin bendir á nokkra umferð þangað. Sökum fjarlægðar þessa staðar frá alfaraleið óttast ég að svo geti farið að hann gleymist og nafnið týnist þar sem þeir, er mest fóru þar um og héldu með því við mörgum örnefnum, voru fjármenn og smalar en þeim fækkar óðum um þessar slóðir sem víðar.”
Gatan, sem Ólafur nefnir, er enn greinileg. Vörður eru við hana. Hún liggur inn á brunann og inn í vestari Snókalöndin og úr þeim inn í þau austari.
Með grein Ólafs fylgir kort með fornum leiðum milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Á því er Stórhöfðastígur sýndur liggja frá Undirhlíðavegi ofan við Hrútagjá, niður með gjárbarminum að austan og norðanverðu, milli Sandfells og Fjallsins eina, niður með Fjallgjá, niður að Stórhöfða og áfram heim að Ási.
Ofan Snókalanda heldur Ólafur áfram að segja frá leiðinni: “Þegar suður úr brunanum kemur liggur stígurinn upp með suðvesturbrún hans og fylgir maður brunanum þar til komið er móts við Vatnsskarð í Undirhlíðum sem farið er þá að nmálgast. Úr því liggur stígurinn meira til suðurs þar til komið er að Fjallinu eina. Er það fremur lágt, hrygglaga fjall með klettaborg á suðurenda. Austan undir því liggur stígurinn og er þá Sandfell á vinstri hönd allnærri. Er nú stutt þar til komið er á Undirhlíðaveginn, skammt suður af Sandfellsklofa.”
Fyrr á öldum lágu margar leiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur og voru það ýmist vegir, götur eða stígar. Sú leið sem mest var farin, og aðallega þegar farið var með hesta, lá úr Hafnarfirði öðru hvorum megin við Hamarinn upp yfir Öldur, þar sem nú er kirkjugarðurinn, framhjá Lækjarbotnum og upp í Kaldársel. Þaðan lá leiðin að Undirhlíðum og síðan ýmist norðan við Undirhlíðar eftir svonefndum Undirhlíðavegi eða sunnan við Undirhlíðar eftir svonefndri Dalaleið. Undirhlíðavegur var aðalvegurinn milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar og var oftast farinn á sumrin þegar farið var lausríðandi eða með lest. Var þessi leið talin vera um 8 stunda lestargangur. Þegar Undirhlíðavegur var valinn var farinn Ketilstígur yfir Austurhálsinn yfir í Krýsuvík, en ef Dalaleið var valin var farið með norðurströnd Kleifarvatns að Krýsuvík.
Gangandi menn fóru oft um tvo stíga, Stórhöfðastíg og nokkru vestar Hrauntungustíg, milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, svo og ef farið var með fáa hesta að vetrarlagi.
Þegar ferðamenn ætluðu Stórhöfðastíg var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum, umhlaðið í Ási, og oft gist þar ef menn komu t.d frá Reykjavík. Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls og suður yfir Selhraun að Stórhöfða og þaðan áfram að Fjallinu eina og komið inn á Undirhliðaveg við Norðlingaháls.
Ef menn völdu Hrauntungustíg var farið frá Ási um Skarð vestan Ásfjallsaxlar yfir hraunhaft milli Grísaness og Hamraness og stefnan tekin á Hrútafell, en skammt þar sunnan við er komið inn á Ketilstíg (Ólafur Þorvaldsson 1949).
Margir eiga erfitt með að átta sig á gömlum leiðum og víða eru þær fáfarnari að gróa upp og hverfa og þar af leiðandi er mikilvægt að halda þeim við með einum eða öðrum hætti. Hvort um höfuðleið, alfaraleið, sýsluveg eða hvað annað er að ræða er ekki aðal atriði. Þær leiðir sem lýsingar eru til af, t.d. frá Ólafi Þorvaldssyni, eiga jafn mikinn rétt á sér hvort sem hann hefur talið þær fáfarnar eða fjölfarnar. Greinina “Fornar slóðir…” birti hann í Árbók Fornleifafélagsins 1943-1948 – og það er sú lýsing sem Ferðafélagið endurprentaði í sérriti. Með gömlu greininni fylgir ágætt kort af hinum gömlu leiðum, en í sérritinu var gerð tilraun til að merkja leiðirnar inn á kort, af mikilli ónámkvæmni vægast sagt. Sérritið kostar kr. 1000 og er það 999 kr. of mikið. Það er því varla krónu virði umfram gömlu prentunina.
Leiðir á þessu svæði hafa fyrst og fremst verið varðaðar með ókunnuleika ýmissa ferðalanga og vermanna í huga, á svipaðann hátt og sýsluvegirnir voru mjög vandlega varðaðir og breikkaðir um og eftir 1890, enda meginleiðir eða alfaraleiðir. Sama gildir um Selvogsgötuna, sem var ágætlega vörðuð, en er mun betur vörðuð í dag en hún var fyrir rúmlega einni öld. Ferðafélagsfólk tók sig til um miðja síðustu öld og bætti við fjölda varða sérstaklega í hrauninu milli Helgadals og Kerlingaskarðs, en vörðurnar á sjálfri heiðinni eru án efa mun eldri og hafa verið jafn þéttar og raun ber vitni vegna þess að þar getur verið erfitt að rata í þokuslæðingi og súldarsudda, sem skellur oft á með litlum fyrirvara þar efra eins og menn þekkja. Þá hefur líka verið nauðsynlegt að hafa leiðina vel varðaða á vetrum vegna snjóa sem sitja oft lengi í Leirdölunum og víðar.

Hrauntungustígur, Stórhöfðastígur og Straumsselsstígur voru ekki síður farnir af heimamönnum, íbúum á Innnesjum og Útnesjum og Krýsuvíkingum en þær leiðir sem í dag eru taldar hafa verið höfuðleiðir. Þessar leiðir voru varðaðar með allt öðru móti en alfaraleiðirnar. Vörðurnar eru smærri, jafnvel ekki annað en svonefndar þrísteinavörður, en með stöku stórum vörðum á milli á lykilstöðum. Stórhöfðastígurinn lá sannalega austan við Fjallið eina og sameinaðist Undirhlíðaleið við Grænklofa við brún Hrútadyngjuhrauns.
Þrátt fyrir þá fullyrðingu Ólafs Þorvaldssonar að vetraferðir með hesta milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar væru fátíðar, verður að hafa það í huga að hann bjó í Herdísarvík þegar byggð var að fara í eyði í Krýsuvík. Hans sýn miðast að sjálfsögðu við samtíð hans og það sem hann hefur numið af sér eldra fólki er hann var barn í Ási og seinna þegar hann var í vinfengi við fólkið í Stóra-Nýjabæ, sem voru síðustu ábúendur þar. Þetta fólk (og þar með Ólafur sjáflur) áttu það til að ná sér í aukatekjur með rjúpnaveiði og sölu á afurðunum fyrir jólin. Á þeirri tíð voru vetrarferðir næsta fátíðar á þessum slóðum. Engu að síður hefur Ólafur fyrir því að greina frá því að: “Ef snjó setti niður af austri eða norðaustri, t.d. meðan menn höfðu viðdvöl í kaupstaðnum, var venjulega snjóléttara á þessum leiðum (Hrauntungustíg og Stórhöfastíg) en með Undirhlíðum og Hálsum.”
Þar af leiðandi voru þessar leiðir farnar á hestum og gangandi, en á þeirri tíð þegar hestaferðir voru eingöngu tíðkaðar enda vagninn eða bíllinn ekki kominn til sögunnar. Ekki er gott að átta sig á því hvað voru tíðar eða fátíðar ferðir. Það eina sem er alveg á hreinu er að það var ekki ósjaldan farið með hesta milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar á vetrum. Og þá voru helstu leiðirnar Undirhlíðaleið og Hálsaleið (þegar snjóalög voru ekki til vandræða) eða Vatna- og Dalaleið (einkum þegar lágt var í Kleifarvatni) eins og sagan af Slysadalsnafninu ber með sér auk munnlegra heimilda afkomenda þeirra sem bjuggu í Krýsuvík. Það áttu samt ekki allir hesta, samanbera gamla konan sem hafði flutt til Hafnarfjarðar og fann að dauðinn nálgaðist. Hún tók sig til einn morguninn að vorlagi og hélt sína leið (þá stystu) um Hrauntungustíg til Krýsuvíkur, sótti sér vígða mold úr skjóðu og bar á baki sér heim í Hafnarfjörð. Hún vildi hafa sína mold úr Krýsuvík þegar rekunum var kastað.
Auðvitað hafa menn (og konur) ekki verið að flengjast þessa leið í erindisleysu. Undirhlíðaleiðin var örugglega oftar ófær á veturna vegna snjóa en nú er og þá hafa Stórhöfðastígur, Hrauntungustígur eða janfvel Straumsselsstígur eða Rauðamelsstígur verið betri kostur. Veðurlag og fleira réð ferðalögum í þá daga, bæði yfir sumartímann og á veturna. Þetta er haft eftir gömlu og frómu fólki. Jón “í Skuld” Magnússon var t.d. vanur að fara þessar leiðir á hestum ásamt föður sínum og bræðrum í æsku.
Þegar endanleg ganga um Stórhöfðastíg er næstum á enda við utanverðan Ás er komið að tóftarbroti á vinstri hönd, norðan Hádegisskarðs, þar sem Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur lágu fyrrum á milli vestri Ásfjallsaxlar og Grísaness. Ólafur Þorvaldsson segir í grein sinni um leiðir þessar frá Hafnarfirði að: “Þegar ferðamenn ætluðu Stórhöfðastíg var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum, um hlaðið á Ási, oft gist þar ef menn t.d. komu frá Reykjavík.
Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls, suður yfir Selhraun, vestan undir Stórhöfða, nokkurn spöl suðaustur með honum, lagt á hraunið frá suðurhorni hans, fyrst um gamalt klapparhraun þar til komið var á nýrra brunabelti sem á sínum tíma hefur runnið eða gata sem enginn veit hvenær ruddur hefur verið, annars með öllu ófær hestum.”
Nú er búið að undirbúa nýbyggingarsvæði í vestanverðum Dalnum þar sem Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur lágu fyrrum til suðurs frá Hádegisskarði. Búið er að kroppa í þann sýnilega hluta gatnanna, sem enn var sýnilegur á þessum slóðum. Kroppið virðist hafa verið ónauðsynlegt vegna framkvæmdanna, en líklega vegna meðvitunarleysis skipulagsyfirvalda og verktaka hefur þarna farið forgörðum kærkomið tækifæri til að varðveita innan bæjarmarkanna hluta þeirrar sögu er hér að framan greinir.
Stikun stíga eins og Stórhöfðastígs undirstrikar í raun mikilvægi þess að halda hinum gömlu þjóðleiðum við, auka líkur á varanlegri verndun þeirra og efla vitund áhugafólks um nokun þeirra til heilsueflingar, fróðleiks, andgiftar og skemmtunnar. Um er að ræða leiðir, stíga og götur í svo mikilli nálægð við helstu þéttbýliskjarna landsins og það svo nærtæka að hjákátlegt er að sleppa því auðvelda tækifæri að notfæra sér möguleikann.
Sem fyrr segir var gerð sérstök ferð um Snókalöndin og er þeim lýst annars staðar á vefsíðunni. Þar er um að ræða hraunsvæði sem máttarvöldin, sem stóðu að jarðeldunum 1151 og skópu Nýjahraun (Kapelluhraun/Brunann) virtust hafa haft áhuga á að hlífa. Háir hraunhryggir hafa hlaðist upp með þeim og beint glóandi hrauninu frá. Eftir standa gróðurvinar þær er Ólafur lýsir.
Lagt var af stað í þessa Stórhöfðastígsgöngu síðdegis, eftir vinnu, að haustlagi. Dimman gerði að lokum vart við sig. Gangan tók 3 klst og 3 mín. Frábært veður – að ekki sé talað um sólsetrið yfir hraunbrúnini vestanverðri.

Heimildir m.a.:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 7. tbl. 52. árg., 18. maí 1994.
-Ólafur Þorvaldsson 1949. Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Bis. 81-95.
-Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 1991. Krýsuvíkureldar II. Kapelluhraun og gatan um aldur Hellnahrauns. Jökull 41. 61-80.
-Jónatan Garðason.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Straumur