Í jólablaði Alþýðublaðs Hafnarfjarðar 1957 fjallar Gísli Sigurðsson um „Lækinn okkar„:
„Hafnarfjarðarlækur eða Hamarskotslækur eins og hann heitir réttu nafni, — er stærstur lækja þeirra og merkastur, er renna til sjávar í Hafnarfjörð. Upptök sín á hann aðallega í Urriðakotsvatni, en vatnasvæði hans er nokkru stærra, og er ekki úr vegi að athuga það nokkuð. Í suð-vesturhorn vatnsins rennur lítill lækur, er kemur úr Oddsmýri og Oddsmýrardal, dalkvos milli Svínholts og Setbergshlíðar, og heitir Oddsmýrarlækur. Í mýrinni undir Flóðahjalla (Hádegisholti) eru nokkrar minni uppsprettur, og heita þær: Dýjakrókur, Dýjamýri, Svaðadý og Brunnrás. Í Vatnsvikið kemur lækjarspræna úr Vesturmýrinni, og svo eru eigi allfáar uppsprettur í vatninu sjálfu og kaldavermsl, aðallega syðst.
Urriðakotsvatn er ekki stórt og svo grunnt, að það er alls staðar vætt. Vex í því fergin, og hefur allt fram til þessa verið nytjað frá Urriðakoti og Setbergi, en lönd þessara jarða liggja að vatninu. Í norðurhorni vatnsins er vik og er þar vatnsósinn. Er lækurinn frá ósnum allt niður í Kaplakrika nefndur Urriðakotslækur. Í Kaplakrika beygir hann í hálfhring og stefnir þá í suður og heitir nú Kaplakrikalækur. Fyrrmeir rann lækurinn frá Kaplakrika niður móts við Setbergshamar í mörgum fagurlega formuðum bugðum, skiptust þar á í farveginum sandgrynningar og hyljir, og mynduðust víða hringiður í hyljunum. Setbergslækur er hann kallaður, þar sem hann rennur undir Setbergshamri og niður við Setbergstúnið. Milli lækjarins og Sjávarhrauns hafa myndazt margar tjarnir og syðst nokkur uppistaða, þar sem hann rennur þvert fram yfir hraunið.
Í Lækjarbotnum á upptök sín lítill lækur. Rennur hann fyrst undir Svínholti við Stekkjarhraunsjaðarinn norður til vaðs, sem þar er kallað Norðlingavað, undir Norðlingahálsi, hvilftinni milli Svínholts og Setbergs. Frá vaðinu (Hlébergi) rennur lækurinn fram á mýrarflóa lítinn og eftir honum í fyrrnefnda uppistöðu, en ofan frá Setbergsholti koma lækjarsytrur úr dýjaveitum. Botnalæk köllum við þennan læk.
Þverlækur heitir þar sem lækurinn brýzt fram í vestur yfir hrauntunguna. Er þar sunnan við lækinn örnefnið Silungahella. Heitir Stekkjarhraun sunnan lækjarins, en Sjávarhraun norðan hans. Vestan hraunsins bætist honum enn lítill lækur, Arnkeldnalækur. Á hann upptök í Arnkeldunum nyrðri og syðri og í slakkanum milli Stekkjarhrauns og Mosahlíðar. Frá Þverlæk allt til ósa heitir svo þessi lækur Hamarslækur, en í seinni tíð nefna margir hann Hafnarfjarðarlæk, og verður það nafn notað hér á eftir. Rennur hann fyrst í norður með vesturbrún Sjávarhrauns, allt niður á Hörðuvelli.
Fram til 1914 rann hann syðst á völlunum og í nokkrum bugðum og átti hann þar nokkra fagra hylji með fagurfægða möl í botni. Rétt þar við, sem Hörðuvallahúsið stendur, tók hann stefnu í vestur á Hamarinn, milli Hamarskotsmýrar og votlendsrima, er lá í vestur frá Hörðuvöllum. Inn með þessum rima kom svo Hörðuvallatjörnin, milli hans og hraunsins. Hafnarfjarðarlækur rann nú með hraunjaðrinum. Tók þá landinu að halla nokkru meir, er komið var framhjá Hraungerði, en móts við Hól voru flúðir í læknum og breikkuðu þar til lækurinn skiptist við hólma, er var þar rétt ofan til við Moldarflötina. Af Moldarflötinni rann lækurinn milli hraunjaðarsins og Hamarskotsmalar norður að Brúarhraunskletti og þar út í höfnina, segja sumir ýmist milli klettsins og skersins eða sunnan þess.
Þó Hafnarfjarðarlækur sé ekki vatnsmikill að jafnaði og vatnasvæðið ekki stórt, hefur hann þó komið nokkuð við sögu jarðmyndunar á leið sinni til sjávar. Hefur hann í leysingum flutt með sér allmikið af framburði í kvosir og bolla í hrauninu. Er þar fyrst að nefna Stóra-Krika skammt frá vatnsósnum, þá Kaplakrika, en þar er landið undir hrauninu nokkru lægra farveginum, hefur hann því er hann flóði yfir bakka sína borið út í hraunið allmikinn jarðveg.
Frá Kaplakrika niður að Þverlæk hefur hann verið mjög athafnasamur, hefur hann fyllt þar allar kvosir og lautir, og myndað tjarnir er svo heita: Kálfatjarnir, Fjósatjarnir og Setbergstjarnir, og þar er Baggalá, sem Sveinbjörn Egilsson ritstjóri segir vera nafngift frá Spánverjum, er hér voru á ferðinni í eina tíð. Þá eru Hörðuvellir myndaðir einvörðungu af framburði lækjarins. Enda hefur hann oft fært vellina í kaf og runnið út í hraunið hjá Grænhólum, sem nú eru komnir undir Tjarnargötuna og húsin frá Mánabraut inn í Vallarkrika. Frá Hörðuvöllum allt niður að Hól hefur hann fyllt upp í hverja kvos, en þeirra mest er Hraungerði. Má nokkuð marka framburðinn af greftrinum, þegar Barnaskólinn var byggður, sem var langt í þrjá metra. Enda munum við það, eldri Hafnfirðingar, að Hraungerði allt var undir vatni, þegar mestar voru leysingar. Þá er nokkur hluti Moldarflatarinnar myndaður af framburði lækjarins. Var eitt sinn grafið niður úr moldar- og leirlaginu og var á annan metra þykkt. Ærin væru þessi afskipti lækarins af jarðmyndun til að halda á lofti nafni hans. Og þar á hann lengsta sögu. En hér kemur margt annað til. Frá upphafi byggðar í Hafnarfirði hefur hann verið vatnsból. Þangað fóru húsfreyjurnar með þvottinn sinn.
Kona nokkur sagði svo: „Ég sofnaði við létta, ljúfa niðinn hans og ég vaknaði við hann á morgnana. Hann leið fram hjá glugga mínum, oftast ljúfur og skær, en stundum hrjúfur og bar fangið fullt af mold og aur. Ég mun lengi minnast hans, þessa góðvinar míns frá æskuárunum.“
Lækurinn var líka leikvöllur og leikfélagi ungra sem gamalla, allt frá ósum til upptaka. Moldarflötin var tugi ára aðalsamkomustaður Fjarðarbúa. Þar var farið á leggjum og skautum eftir að þeir fóru að flytjast inn. Þá var oft glatt á hjalla á Hörðuvallatjörn, Baggalá, Setbergstjörnum og Urriðakotsvatni, þegar allt ungt fólk safnaðist þar saman til svo hollrar iðju, sem skautaferðir eru. Þegar siglt var til Hafnarfjarðar í björtu veðri voru flúðirnar undir Hólnum siglingamerki, er þær bar í Setbergslækinn. Sjóbirtingurinn og urriðinn gengu upp í lækinn, og allt upp í Urriðakotsvatn. Unglingarnir tóku silunginn í bollum niður við sjó og veiddu hann í hyljum og undir bökkum allt upp í vatn. Á sumrum fóru unglingarnir í bað í hyljum hans og þar iðkuðu okkar fyrstu sundgarpar sundlistir sínar.
Við lækinn byrjaði margur piltururinn sjómannsferil sinn og fékk nokkra svölun útþrá sinni, með því að sigla þar skipum sínum úr bréfi, pappa og spýtu. Lækurinn getur líka sagt sorgarsögu af lítilli stúlku, sem drukknaði í einum hylnum, en það er undantekning, því hann átti aðeins í fórum sínum hið ljúfa og létta, káta og gáskafulla eins og æskan.
Hér hefur stuttaralega verið farið yfir langa sögu og merkilega, einnig hugljúfa og þekka, sem gerir þennan læk að einum bezta vini okkar. Hann er þó frægastur fyrir eitt, sem enn er ótalið, en það er gagnsemi hans. Tel ég, að þessi litli lækur okkar, Hafnarfjarðarlækur, hafi verið meira virkjaður en nokkur annar lækur á Íslandi og jafnvel þó víðar væri leitað. Skal nú lítillega á þá sögu drepið.
Um miðja öldina sem leið hugðist Linnet kaupmaður virkja lækinn og setja þar niður myllu til kornmölunar. Byggði hann myllukofa neðanvert við flúðirnar, ofanvert við Lækjarkot. Hvort mylla þessi var nokkurn tíma rekin með vatnsafli, veit ég ekki, en aftur á móti var þarna vindmylla og stóð lengi. Mundi Gísli heitinn bakari eftir henni og að stórir voru vængirnir. Mun vindmylla þessi hafa verið í notkun fram um 1870 til 1880.
Virkjun 2.
1902 nam Jóhannes Reykdal land í hólnum í læknum og 1903 reisti hann timburverksmiðju sína (nú trésmíðaverksmiðjan Dvergur), og voru allar vélar reknar af vatnsafli. Var þá fyrirhleðsla byggð um 80 til 100 metra frá verksmiðjunni og vatnið leitt í opnum stokk að verksmiðjuhúsinu. Voru þá varnargarðar byggðir í hraunbrúninni upp með læknum, til að vatnið hyrfi ekki út í hraunið. Má enn sjá nokkrar þúfur í læknum upp með Tjarnarbrautinni og eru það eftirstöðvar varnargarðanna.
Virkjun 3.
1905 jók Jóhannes Reykdal virkjun sína. Setti hann upp rafljósavél og hófst þá rafmagnsöld á Íslandi.
Virkjun 4.
1908 var enn efnt til virkjunar við lækinn til rafmagnsframleiðslu. Var stíflugarður mikill hlaðinn upp og steyptur við ofanverða Hamarskotsmýri, um 200 metra neðan við Þverlæk. Var þarna uppistaða, en vatnið leitt í lokuðum stokki niður að stöðvarhúsinu syðst á Hörðuvöllum. Var í húsi þessu bæði rafljósavélin og íbúð stöðvarstjóra. Titraði húsið og lék allt á reiðiskjálfti, þegar vatninu var hleypt á. 1914 féll nokkur hluti stokksins niður. Var þá byggt rafstöðvarhús 80 metrum ofar.
Jóhannes Reykdal byggði þessa rafstöð eins og þá fyrri, en bærinn keypti síðar og rak fram til ársins 1926. Tók Jóhannes þá við henni aftur og rak fram undir 1940, en þá var hún lögð niður með öllu, nema hvað stöðvarhúsið stendur enn.
Virkjun 5.
1909 voru Lækjarbotnar virkjaðir með þeim hætti, að hús var byggt yfir stærsta uppsprettuaugað og vatn í pípum leitt niður til bæjarins. Var hér stórt spor stigið í heilbrigðismálum hins unga bæjarfélags.
Virkjun 6.
1916 eða 1917, þegar Jóhannes Reykdal hafði búið nokkur ár á Setbergi, varð honum vant ljósa til heimilis síns. Réðst hann þá enn í virkjun. Lét hann hlaða stíflu í Botnalækinn upp undir Lækjarbotnum og leiddi síðan vatnið í rörum niður með holtunum allt niður í tún, þar sem hann hafði byggt rafstöðvarhús með lítilli rafvél. Hafði hann um nokkur ár nægilegt afl til að lýsa upp íbúðarhús sitt og fjós.
Virkjun 7.
Þá mun Jóhannes hafa reynt að virkja Botnalækinn niður við Hléberg, en ekki mun sú virkjun hafa staðið nema stuttan tíma.
Virkjun 8.
1920 eða þar í kring setti Jóhannes upp trésmíðaverksmiðju við Þverlæk ofanverðan. Gerði hann stíflu og leiddi vatnið í stokk að verksmiðjuhúsinu og hafði yfirfallsvatnshjól við húsið og rak með þeim hætti vélarnar um nokkurra ára bil.
Virkjun 9.
Um svipað leyti gerði Jóhannes fyrirhleðslu við ós Urriðakotsvatns. Var fyrirhleðsla þessi ætluð til vatnsjöfnunar; er þarna nú brú og vegur yfir heim að Urriðakoti.
Virkjun 10.
Þegar Austurgatan var tengd við Lækjargötuna, var uppistaðan færð niður að Austurgötubrúnni. Var opni stokkurinn þá lagður niður, en vatnið leitt í rörum til verksmiðjunnar Dvergs, og má þetta heita enn ein virkjunin við Hafnarfjarðarlæk.
Af því sem hér hefur verið talið, má nokkuð marka, hverja þýðingu lækurinn hefur haft fyrir okkur hér í Hafnarfirði. Hann hefur verið okkur yndisgjafi, ljós- og aflgjafi, leikvöllur barna og fullorðinna. Það er því ekki undarlegt, þótt við dáum hann og unnum honum mikið.
Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 1957, Lækurinn okkar – Gísli Sigurðsson, bls. 15-16.
Hafnarfjörður – Brekkugata 2; hús JR, brann 1929.