Tag Archive for: Hafnarfjörður

Brennisteinsfjöll

Tvennt er það sem tengist sýnilegum minjum sem ekki hefur áður verið sett í samhengi við brennisteinsnám í Krýsuvík.
Það er annars vegar minjar ofan við svonefnda Blesaflöt norðan Badst-1Kleifarvatns (milli Vatnshlíðar-horns og Sveifluhálsar) og hins vegar tvær tóftir úr torfi og grjóti skammt norðaustan við námuvinnslusvæðið við Seltún. Minjanna er hvorki getið í fornleifaskráningum né örnefnalýsingum fyrir Krýsuvík. Þá er þriggja tófta sunnan við Baðstofu ekki heldur getið í fornleifaskráningum en sagt er frá þeim í lýsingum ferðamanna. Miklar líkur eru á að þar sé um að ræða kofa þá sem t.d. Ole Henchel lýsir í ritgerð sinni 1775.  Framangreindar minjar við Baðstofu eru sennilega frá 16. öld og minjarnar við Seltún frá svipuðum tíma. Aðrar minjar við Seltún og ofan við Blesaflöt eru sennilega 19. öld. Óvíst er um aldur „selsminja” neðan við Seltún, en ætla má að þær geti jafnvel verið eldri en frá 16. öld.
Þá kemur fram í heimildum að brennisteinsvinnsla í Brennisteinsfjöllum væri undir það síðasta Selt-1eftirsóknaverðari en í Krýsuvík vegna þess að “um styttri vegarlengd” væri að ræða.  Að fenginni reynslu, eftir að hafa farið fótgangandi frá Hafnarfirði á báða staðina og til baka, virtist samt sem áður styttra til Krýsuvíkur. Þegar vegarlengdirnar voru mældar kom hins vegar í ljós að rúmir 29 km voru til Krýsuvíkur eftir Undirhlíðavegi og um Ketilsstíg að Seltúnsnámunum, en rúmir 22 km voru í Breinnisteinsfjallanámur um Selvogs-götu, Grindarskörð og suður með Draugahlíðum í Námuhvamm.
Í fyrstu unnu Krýsuvíkur-bændur sjálfir brennistein úr námunum, en Dana-konungur tók þær yfir á 16. öld. Bændur unnu fyrst um sinn eftir sem áður sjálfir brennisteininn og seldu konungshollum aðilum, en fljótlega komst námuvinnlan í hendur einstaklinga og síðar erlendra félaga.
Brennnam-1Skipuleg vinnsla brennisteins í Krýsuvík stóð því yfir í hartnær tvær aldir áður en tók að halla undan fæti. Framangreind hús voru reist og undir lokin voru þar reist fyrstu bárujárnshús á Íslandi. Enn þann dag í dag má sjá leifar þessa síðskeiðs námuvinnslunnar, en fáir veita þeim athygli. Vegna þess hversu námusvæðinu í Krýsuvík hefur verið raskað, enda í alfaraleið og vinsæll ferðamannastaður, er námusvæðið í Brennisteinsfjöllum þeim mun mikil-vægara til rannsókna og varðveislu sem eina óraskaða brennisteinsnáman á Suðurlandi og jafnvel best varðveitta náman á landinu öllu.
Brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum hafa verið nær algerlega óhreyfðar síðan þær voru í notkun seint á 19. öld (1883-1885). Ástæðan fyrir góðri varðveislu er hversu óaðgengilegar þær eru og utan alfaraleiða. Eina smávægilega raskið á svæðinu er af mannavöldum síðusta áratuginn. Á heildina litið er svæðið þrátt fyrir það vel varðveitt sýnishorn af ákveðinni verkmenningu sem stunduð var í afar takmarkaðan tíma. Svæðið er vel afmarkað og því auðvelt að varðveita það sem heild.

Heimild m.a.:
-Ólafur Olavius.

Seltún

Námuhús Brennisteinsfélagsins við Seltúnsbarð.

Kapella

Í bókinni „Allt hafði annan róm áður í páfadóm – Nunnuklaustrin tvö á Íslandi á miðöldum og brot úr kristnisögu„, sem Anna Sigurðardóttir tók saman 1988, er kafli;  „Heilög Barbara og kapellan í hrauninu“:

Heilög Barbara og kapellan í hrauninu
Kapella
„Bandalag kvenna í Hafnarfirði hefur samþykkt að láta gera félagsmerki. Fyrir valinu varð myndastytta frá fyrri öldum, sem fannst árið 1950 í Kapellunni við gamla Suðurnesjaveginn, nálægt þar sem verksmiðjan í Straumsvík stendur núna.
Þáverandi þjóðminjavörður, Kristján Eldjárn, gróf í gólf kapellunnar og fann þar ofurlítið konulíkneski, sem hann sá undir eins að átti að tákna heilaga Barböru, en hún er sýnd í kirkjulegri myndlist með turn í fanginu.
Þessi litla konumynd mun vera elsta mannsmynd, sem fundist hefur í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar.
Kennimerki Hafnarfjarðarkaupstaðar er viti. Hafnfirskum konum finnst þess vegna eiga vel við að taka þessa fornu konumynd sem merki Bandalagsins, þar sem konan heldur á turni, sem þá er eins og nokkurs konar samsvörun við vita Hafnarfjarðar.
Kapella
En þannig stendur á þessum turni heilagrar Barböru, að hún var kaupmannsdóttir í Litlu-Asíu um 300 árum eftir Krists burð. Þá voru miklar ofsóknir gegn kristnum mönnum. Barbara kynntist kristnum mönnum og gerðist kristin á laun, því að faðir hennar var heiðinn. Þegar hann komst að því, að dóttir hans var orðin kristin, gerði hann allt sem hann gat til að hræða dóttur sína frá trú hennar. Meðal annars lét hann reisa turn, þar sem Barbara átti að sitja innilokuð til þess að hún gæti ekki haft samband við kristna menn. Hún bað þá föður sinn að lofa sér að hafa þrjá glugga á turninum, og faðirinn leyfði það. Síðan spurði hann Barböru, hvers vegna hún hafi viljað hafa gluggana þrjá. Hún svaraði: Þrír merkja föður, son og heilagan anda. Varð þá faðirinn ákaflega reiður og seldi dóttur sína í hendur böðlinum, og var hún loks hálshöggvin fyrir tryggð sína við kristna trú.
Ein af þeim píslum, sem Barbara gekk í gegnum, var að logandi blysum var haldið að líkama hennar. En hún lét ekki bugast fyrir það. Síðan fóru menn að heita á Barböru til hjálpar gegn eldsvoða af ýmsu tagi. (Barbárumessa er 4. desember).
kapellaHraunið, þar sem kapellan stendur, er talið hafa runnið á 13. öld og kom úr Óbrennishólum við Undirhlíðar. Þetta hraun rann yfir alfaraveginn á Suðurnes.
Hvers vegna þessi kapella var reist, vita menn ekki, en fræðimenn hafa giskað á að þarna hafi fólk gert bæn sína áður en það lagði leið sína yfir nýrunnið hraunið. Það er líka einkennileg tilviljun að einmitt í þessari kapellu skuli finnast mynd þessarar helgu konu, sem menn hétu á sér til hjálpar gegn eldsvoða. Myndin er núna á Þjóðminjasafninu og geta allir séð hana þar þó lítil sé.
Bandalag kvenna í Hafnarfirði hefur fengið Gunnar Hjaltason gullsmið og listamann til þess að gera myndamót af Barbörumyndinni úr Kapellunni, og verður það notað sem merki á skjöl félagsins. Gunnar hefir líka verið beðinn að gera hálsmen með sömu mynd, og geta konur keypt það sem félagsmerki.“
Nokkrum árum eftir að Sigurveig Guðmundsdóttir skrifaði þessa grein birtist eftir hana bókarkorn (27 blaðsíður) um hl. Barböru úr Heilagra manna sögum um líf hennar og píslir. Þar eru og nokkur erindi úr Barbörudikti sem menn hafa geymt í minni og sungið allt fram á 19. öld.
Kapella
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er ein saga um Kapelluhraun: „Í Gullbringusýslu er hraun eitt mikið milli Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandar og heitir nokkur hluti þess Kapelluhraun og dregur nafn af kapellu sem í því stendur. Hún er að norðanverðu við veginn, hlaðin upp af hellugrjóti í lögun eins og borg. Dyrnar hafa snúið móti suðri, en nú eru þær fullar af mold og mosa. Kapellan er og hærri að norðan en sunnan. Sagt er að í kapellunni sé grafinn einn af umboðsmönnum þeim sem áður voru á Bessastöðum. Var honum gert umsátur þarna í hrauninu, drepinn þar og grafinn.“
Heilög Barbara er m.a. verndardýrlingur námamanna og jarðfræðinga og þeir tigna hana og tilbiðja. Jarðfræðingar á Orkustofnun minnast Barböru sérstaklega tvisvar á ári allt frá 1980. Þeir halda hátíð í tilefni af messudegi hennar 4. desember og á vorin áður en þeir leggja af stað til rannsókna. Þá fer hátíðin fram í rústum Barbörukapellu í Kapelluhrauni. Þar vígja jarðfræðingarnir hamra sína og tól, gera sér glaðan dag og syngja nýjan Barbörudikt.
Kapella
Fyrsta vísan í Barbörudikti hinum nýja, en það er sálmur til heiðurs Barböru. Lag og texti er eftir Árna Hjartarson jarðfræðing á Orkustofnun, einn Barböruáhangenda þar. Textinn er alls 7 vísur og er Barbörudiktur jafnan sunginn þegar Orkustofnunarmenn koma saman til að minnast síns dýrlings:

Barbörudiktur
Gegn veraldarinnar vélráðum ég verndaður
er með sóma þótt reynt sé að blanda mér
beiskan drykk þá bykarinn fyllist með rjóma. Mín
gætir frú með turn af marmara, minn dýrlingur er Barbara. – (Árni Hjartarson)

Heimildir:
-Íslenskar þjóðsögur og æfintýri – Safnað hefir Jón Árnason, II. Ný útgáfa (Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson), Rvk 1966, Kapelluhraun bls. 74.
-Allt hafði annan róm áður í páfadóm, Heilög Barbara og kapellan í hrauninu, Nunnuklaustrin tvö á Íslandi á miðöldum og brot úr kristnisögu, Anna Sigurðardóttir tók saman, 1988, bls. 326-331.
Kapella

Hádegishóll

Búrfellshraun kemur úr gígnum Búrfelli sem er um það bil 7 km austan við Hafnarfjörð. Búrfell tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krýsuvík.
HraunsholtshraunBúrfell er hringlaga gígur úr hraunkleprum. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.
Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
Búrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun. Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun.
Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum. Hraunsholtshraun-4Samkvæmt aldursákvörðun á mó sem kom í ljós hjá Bala á Álftanesi er það um 7240±130 C14 ára. Stærð þess er 18 km2.
Þegar gengið var um Hraunsholtshraun mátti bæði sjá mannvistarleifar eftir girðingar og ekki síst fyrirhugaða járnbrautarlagningu milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Flatahraun er skammt norðvestar, en er sjaldan getið í upptalningu hraunnefna Búrfellshrauns.

Búrfellshraun

Búrfellshraunin.

 

Krýsuvík

Þegar FERLIR-357 gekk slóðann áleiðis niður að Selöldu sást móta fyrir undirstöðum bragga skammt vestan hans. Svör lágu ekki á lausu um tilvist byggingar á þessum stað.

Krýsuvíkurheiði

Leifar braggans á Krýsuvíkurheiði.

Ólafur Kr. Guðmundsson, fyrrv. aðstoðaryfirlögregluþjónn í Hafnarfirði, var þarna á ferð á hestum með föður sínum og bróður árið 1942. Komu þeir við hjá Magnúsi í Krýsuvíkurkirkju, sem benti þeim á fimm Ameríkana er höfðust við í bragga ofan við Selöldu. Höfðu þeir þann starfa að fylgjast með skipaferðum með ströndinni.
Þeir feðgar, sem voru á ferðalagi um Skagann, höfðu komið við hjá vini þeirra Guðmundi í Nesi í Grindavík og fengið hjá honum tvær landaflöskur. Daginn eftir fóru þeir til Hlínar í Herdísarvík. Á leiðinni heim komu þeir við hjá Magnúsi í Krýsuvík, sem benti þeim á útlendingana í heiðinni.
KrýsuvíkurkirkjaAmeríkönunum var gefin önnur landaflaskan við komuna. Í staðinn fylltu þeir hnakktöskur aðkomumanna með appelsínum, en slíkt höfðu þeir ekki séð fyrr. Eftir að hafa drukkið úr flöskunni varð tilefni til að gefa þeim hina flöskuna einnig. Var þá tekið til við að steikja beikon, en það mun hafa verið fyrsta sinni er það bar á góma aðkomumanna. Varð ferðin einstaklega minnistæð þeim bræðrum.
Enn sést móta fyrir hleðslum utan um fyrrum bragga sem og ryðgaðar járnlektur á heiðinni þar sem hana ber hæst ofan við Selöldu, fast vestan við slóðina. Þaðan er ágætt útsýni yfir hafið svo langt sem augað eygir, allt til Eldeyjar í vestri. Vestari hluti Selöldunnar skyggir þó á að hluta. Þarna er einnig mjög gott útsýni til austurs og vesturs um Krýsuvíkurheiðina sem og upp til bæja og fjalla.
Magnús ÓlafssonMagnús Ólafsson hafði nauðugur verið sendur í vist 18 ára gamall til Árna sýslumanns Gíslasonar, í kringum 1895. Ætlunin var að senda Magnús í verbúiðir sem að Árni sýslumaður átti í Herdísarvík.  Enn Magnúsi var ekki um sjóin gefið og vonaðist eftir starfi í Krýsuvík, betur fór en áhorfðist og fékk Magnús fjárhirðastöðu í Krýsuvík á Nýjabæ. Enn má sjá nokkur mannvirki í Krýsuvíkurheiði, sem tengjast veru Magnúsar í Krýsuvík.
Magnús var síðasti ábúandinn í Krýsuvík.
Stóri Nýibær hafði lagst síðastur í eyði í Krýsuvík árið 1938, en eftir það varð þó ekki alveg mannlaust þarna. Einn maður, fyrrnefnur, varð eftir og bjó í kirkjunni í Krýsuvík þegar allir höfðu flúið af hólmi. Með órjúfandi tryggð við staðinn gafst hann aldrei upp þraukaði fjarri mannabyggðum aleinn og ósveigjanlegur og barðist þar áfram uns yfir lauk.

Krýsuvík

Krýsuvíkurbærinn og kirkjan.

Krýsuvík

Ætlunin var að skoða svæðið frá Hvömmum að Austurengjahver sem og Nýjaland norðan Stóra-Lambafells.
AusturengjalaekurÞar undir er forn gígur, nú umorpin leir, mold og möl úr nálægum hlíðum, auk þess sem bæði Seltúnslækur og Austurengjalækur hafa fyllt hann jarðvegi. Undir gígnum er kvikuhólf, sem virðist vera að lyfta Krýsuvíkurlandinu smám saman með tilheyrandi jarðhræringum. Á efri mörkum hólfsins má sjá ummerkin; hverina sunnan Kleifarvatns, Austurengjahver, sprengigígana við Grænavatn og Seltúnshverina.
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík segir m.a. um þetta svæði: „Þá er Höfði [syðst á Austurengjum] og Höfðamýri og Kringlumýri. Allt er þetta á Austurengjunum, sem fyrr eru nefndar. Sá hluti engjanna, sem næst liggur vatninu að sunnan, heitir Nýjaland, og skiptist það í Innra-Nýjaland og Fremra-Nýjaland. Misvöxtur vatnsins veldur því, að engjastykki þessi liggja stundum undir vatni, svo árum skiptir. Það, sem skiptir þeim í Fremra- og Innra-Nýjaland, er malarhryggur mjór, sem liggur til vesturs frá norðurenda Hvammholts. En holt það er við suðurenda vatns austanverðan. Meðfram vatninu vestan holtsins eru svo Hvammar, engjastykki. Fremra-landið er miklu lengur slægt en hitt.
Fyrrnefndur malarhryggur Krys-dyngjusvaedider nefndur Rif. Vestan við Fremra-landið og við vesturenda Rifsins rennur lækur sá, sem nefndur er Ós, inn á Innra-landið og svo í vatnið sjálft. Lækur þessi á upptök sín að mestu í Vestur-Engjum og Seltúnshverum, er síðar getur. En smálindir koma þó í hann af Austur-Engjum úr Hvömmum og Lambafellum.“
Gott var að líta yfir dyngjusvæðið til norðurs af Stóra-Lambafelli. Varðan á fellinu var hrunin.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing AG fyrir Krýsuvík.
-Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Hafnarfjörður

Eftirfarandi lýsing birtist í Vísir árið 1967:
Vörubíll„Máske verður einhverjum lesendanum á að hugsa sem svo, þegar hann sér þessa „myndsjá,“ að fyrirsögnin sé ekki i samræmi við myndirnar og má það til sanns vegar færa.
Það er ekki meiningin að „særa“ Hafnfirðinga með birtingu myndanna, þvert á móti er höfundur þeirra mikill aðdáandi Hafnarfjarðar og flnnst kaupstaðurinn eiga fyrirsögnina að fullu skilið.
Hafnarfjörður er með fegurri kaupstöðum á landinu en staðsetning hans i landslaginu á þar mestan þátt. Hraunið umhverfis kaupstaðinn er víðfrægt fyrir fegurð, fjallahringurinn ekki
síður, að ekki sé minnzt á höfnina.
En það er víða pottur brotinn hvað snertir umgengni á ýmsum Timburhjallurstöðum hér á landi og er Hafnarfjörður ekki undanskilinn. Blaðamaður Vísis átti leið um Hafnarfjörð á dögunum, og kom utan af Álftanesi og ók um Garðahverfi inn til bæjarins. Vegurinn hlykkjast um hraunið vestan kaupstaðarins. Á hæðum standa fiskitrönur, sumar hlaðnar skreið, en aðrar auðar. Það er alltaf ánægja að sjá fiskitrönur í landslaginu, þær eru myndrænar og bera vott um athafnasemi fiskveiðiþjóðarinnar. Í lautum og lægðardrögum standa íbúðarhús og sumarbústaðir, kindakofar og alls konar skúrar, sem vandi er að segja til um hvaða tilgangi þjóna. En það sem meiðir augu vegfarandans er ruslið umhverfis suma af þessum skúrum og víða má sjá ruslahauga sem óvandaðir sóðar hafa fleygt i sumar hraungjóturnar. Það er vítavert athæfi að skemma náttúrufegurðina á þennan hátt og ætti að varða sektum. Það er sjálfsagt erfitt að koma lögum yfir þá menn sem óhreinka landslagið með alls konar rusli, en það ætti að vera hægur vandi að skipa þeim sem hafa skúra og kofadrasl á landsvæðinu að hafa þokkalegt í kringum þá, að ekki sé talað um að hafa sæmilegt útlit á kofunum sjálfum. En það kastar fyrst tólfunum þegar komið er að jaðri þéttbýlisins, sem er ákaflega fallegur frá náttúrunnar hendi. Þar eru einhvers konar verkstæði i bröggum og niðurníddum hreysum og allt i kring eru bílar og bílhræ í fjölbreytilegu ástandi ásamt öðru drasli. Það væri ekki úr vegi fyrir viðkomandi yfirvöld að gera sér ferð þarna i úthverfi bæjarins og líta á þessa hluti, að ekki sé talað um að þau geri elnhverjar ráðstafanir til úrbóta.

Ósóminn

En nú skulum við líta á meðfylgjandi teikningar sem allar eru gerðar á fyrrgreindu svæði. Fyrsta myndin er af ævagömlum vörubíl, sem stendur í túni eins bæjarins, en hvort tveggja er, að bíllinn er merkilegur fyrir aldurs sakir, svo heillegur sem hann er, en í öðru lagi fer hann illa við landslagið og óprýðir það. Svona gripur á heima á safni, en ekki i fögru landslaginu.
Önnur mynd sýnir okkur einn
 kofanna, gluggalausan timburhjall til einskis nýtan. Umhverfis eru fagurlega hlaðnir grjótgarðar frá gamalli tíð, en talsvert er um þá á fyrrgreindu svæði.

Á mynd nr. þrjú sjáum við svo ósómann í fullkomnustu mynd. Í forgrunninum eru bílhræ af öllum stærðum og gerðum, en í baksýn eru braggahróin og kofadraslið, en lengst í burtu má sjá nýbyggðar villurnar, sem tróna á hæðinni eins og viðkvæmar blómarósir vaðandi í fjóshaug.“

Heimild:
-Vísir, 19. apríl 1967, bls. 3 – höfundur óþekktur.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður. Garðaholt fjær.

Óttarsstaðir

Gengið var í rólegheitum um ströndina hjá Óttarsstöðum og yfir að Lónakoti. Víða sáust fótspor eftir minka í snjófölinni, fiðurþæfingur á stangli og veiðitæki.
Paintball-kúlur neðan við EyðikotAnnars  var það helst fréttnæmt úr ferðinni að vaða þurfti yfir ógrynni af ósprungnum „paintball-kúlum neðan Eyðikots, „hlaðinn brunnur fannst norðan við Óttarsstaði eystri og nýmóðins minkagildrur við Lónakot. Þá voru skoðaðar nánar verbúðarminjarnar norðan Óttarsstaða, en það munu vera elstu sýnilegu mannvistarleifarnar á þessu svæði. Hafa ber í huga að goðhúsið á kirkjuhól hefur enn ekki verið grafið upp.
Hafnarfjarðarbær hefur haft það að markmiði að gera þetta fallega útivistarsvæði að hafnarsvæði, þ.e. valta yfir allar hinar sögulegu minjar á svæðinu, utan Jónsbúðar, sem gera á að nokkurs konar „vin“ inni á miðju hafnarsvæðinu. Sennilega er tilgangurinn með því að heimila nefnda „paintballstarfsemi“ á svæðinu liður er miða á að eyðileggingu þess. Bæði er átroningurinn á friðaðar minjar, s.s. hlaðna garða, mikill, og gróðursvæðum hefur verið spillt með utanvegaakstri. Enginn fulltrúi bæjarins virðist, þrátt fyrir þetta, hafa æmt hið minnsta. Í sem stystu máli er því sagt við þá hina sömu (bæjarfulltrúana alla), skv. gömlum íslenskum áhríningsorðum, er hafa framangreint í hyggju, þetta: „Svei ykkur öllum – og hana nú!“.

Brunnur norðan Óttarsstaða eystri

Minkur er rándýr af marðarætt sem lifir um alla Norður-Ameríku og nú á Íslandi þangað sem hann var fluttur til loðdýraræktar árið 1931. Kvikyndið slapp fljótlega út og breiddist hratt út um allt land. Almennt er litið á minkinn sem aðskotadýr og meindýr á Íslandi og kerfisbundið reynt að halda honum í skefjum. Minkurinn er lítill (um 40 cm á lengd), langur og grannur með lítið höfuð, svartan feld, langt og loðið skott og hvítan blett undir hökunni. Minkurinn er mjög fær að synda með ströndum, í ám og vötnum þar sem hann veiðir fisk og fugla.
Minkurinn er eina marðartegundin hér á landi. Hann varð vinsæl útbreiðsluvara til annarra landa í byrjun 20.aldar vegna skinnsins. Landnám hans hér á landi má segja að sé eitt af stærri umhverfisslysum okkar. Minkurinn var fluttur hingað til lands með það fyrir augum að hefja loðdýraræktun og var fyrsta minkabúið Foss í Grímsnesi og þaðan er talið að fyrsti minkurinn hafi sloppið. Betur hefði mátt standa að þeirri ræktun bæði þá og síðar.
Í fyrstu voru þrjú dýr keypt af norskum loðdýrabændum og flutt að Fossi. Nokkrum mánuðum síðar voru 75 minkar fluttir á nýstofnað bú á Selfossi. Minkabúum fjölgaði síðan á næstu árum og var meðal annars stofnað bú að Selási við Reykjavík.
Á næstu árum sluppu minkar einnig úr öðrum búum, meðal annars úr Selásbúinu. Fyrsta minkagrenið fannst árið 1937 og var það við Elliðaárnar í Reykjavík. Vorið eftir fannst minkagreni við Leirvogsá í Mosfellssveit og á næstu árum veiddust stöðugt fleiri villtir minkar.

Minkagildra við Lónakot

Þegar leið á 5. áratuginn fór ekki á milli mála að villtur minkur hafði náð öruggri fótfestu umhverfis minkabúin á Suðvesturlandi. Þaðan nam hann svo land bæði í norður og austurátt. Við lok 6. áratugarins voru minkar komnir nyrst á Vestfirði og farnir að sjást á Norðausturlandi. Afkomendur minka sem haldið höfðu í austurátt voru komnir að Skeiðarársandi. Lengra komust þeir þó ekki austur á bóginn því víðátta sandanna sunnan Vatnajökuls reyndist óyfirstíganleg hindrun enda lítið þar um fæðu og fylgsni.
Landnámi minks á Íslandi lauk í Öræfasveit þegar fyrstu dýrin komu þangað um 1975. Voru það afkomendur minka sem fyrst námu Vesturland, síðan Norðurland og höfðu að því búnu lagt land undir fót suður Austfirði.
Landnámssaga minks á Íslandi spannaði því rúma sjö áratugi. Í dag lifir minkur alls staðar á landinu þar sem lífvænlegt er fyrir tegundina. Þó verður að undanskilja hér nokkrar eyjar sem liggja það fjarri landi að minkar geta hvorki synt né komist þangað á ís.
Fljótlega eftir að minkar tóku sér bólfestu í íslenskri náttúru áttuðu menn sig á því að í sumum tilfellum gátu dýrin valdið töluverðu tjóni. Árið 1937 var byrjað að greiða verðlaun úr opinberum sjóðum fyrir að drepa minka. Fjöldi veiddra dýra hefur sveiflast nokkuð á milli ára. Árið 2001 var t.d. 6.961 minkur veiddur á Íslandi.
Minkagildra við LónakotLandnám minka á Íslandi er ekki einsdæmi því víðast hvar þar sem minkaeldi hefur verið stundað að einhverju marki hafa minkar fyrr en síðar sloppið úr búrum og fjölgað sér úti í náttúrunni.
Minkurinn er oftast dökkbrúnn með hvítar skellur á neðanverðum kjálkanum og hálsi og milli fram- og afturfóta.  Karldýrið er oftast u.þ.b. 1,2 kg og læðurnar helmingi léttari.  Dýrin eru upprunalega komin frá Norður-Ameríku um Evrópu á fyrstu árum 20. aldar.  Þeir voru aldir vegna skinnanna, en margir sluppu og lifa villtu lífi víða í álfunni norðanverðri.
Árið 1943 kom fram tillaga um að banna það með lögum.  Það var ekki fyrr en 1949, að sveitarfélögum var heimilað að banna minkahald í lögunum um eyðingu minka og refa. Þessum lögum var breytt 1955 og 1957. Villiminkur var kominn austur undir Skeiðarársand 1958 og hann dreifðist norður um Vesturland, Norðurland og Austurland. Skeiðarársandur virðist hafa verið náttúruleg hindrun og Öræfingar hafi aðallega fengið mink að austan eftir að samgöngur bötnuðu. Minkurinn dreifðist seinna og hægar um útkjálka, s.s. Vestfirði og norðanlands.

Minkagildra við Lónakot

Minkurinn verður kynþroska á fyrsta ári og tímgast strax.  Fengitíminn er í marz og byrjun apríl og meðgöngutíminn 6-11 vikur, að meðaltali 7 vikur. Læðurnar makast með 7-10 daga millibili og öll fóstrin fara að þroskast samtímis, þótt feðurnir geti verið margir. Got fer oftast fram í fyrri hluta maí og fjöldi hvolpa er 4-10.  Þeir eru blindir, hár- og tannlausir og nærast á mjólk fyrstu 5 vikurnar. Sjónin kemur eftir mánuð og tennur litlu fyrr. Karldýrin koma ekki nálægt uppeldinu.
Minkurinn helgar sér óðul eins og margar aðrar rándýrategundir og merkir með þvagi og skít. Grenin hafa marga útganga, stundum beint út í vatn, því að dýrin synda og kafa vel. Karldýrin eru aðallega á ferðinni á nóttunni en læðurnar eru á ferðinni allan sólarhringinn eftir got.
Fæðan er fjölbreytt, bæði úr sjó og af landi, s.s. marhnútur, sprettfiskur, keilubróðir, hrognkelsi, hornsíli, ufsaseiði, sandsíli, karfi, loðna, síld, skötuselur, tindaskata,  keila og krabbadýr. Fuglar, egg, mýs og hunangsflugur eru meðal þess, sem minkurinn étur af landdýrum. Á veturna eru ferskvatnsfiskar einkum á matseðlinum.

Minkur

Í dag er minkur aðallega veiddur í gildrur. Ýmsar tegundir eru til, s.s. fótbogi, hálsbogi, húnbogi, vatnsgildra, glefsir, þríhyrnugildra, stokkar, búrgildrur, Sverrir, röragildra og tunnugildra. Einungis þær fjórar fyrstnefndu hafa öðlast samþykki sem lögleg veiðitæki.
FERLIR tók myndir af gildrunum, sem fylgja umfjölluninni á ferðinni um Lónakot. Talsvert af agni hafði verið komið fyrir utan við og inni í gildrukassanum, en innan við opið var gildra, líkt og stór rottugildra. Um leið og minkurinn stígur á plötu á henni spennist armur utan um höfð hans. Gildrurnar gætu verið hættulegar börnum, sem stungið gætu hendi inn um opið af forvitni og ókunnugleik. Svo er eins gott að minkurinn kunni ekki að lesa umfjöllun sem þessa.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Eyðikot - paintball

Kaldá

Kaldá er kristaltær lindá sem á upptök í Kaldárbotnum norðan við Helgafell. Hún á, líkt og margar aðrar lindár, upptök í lindum á hrauna-, móbergs- og grágrýtissvæðinu millum Kaldárhnúka. Lindár eiga sér jafnan glögg upptök, oft í ólgandi lindum eða úr stöðuvötnum.
Flóð eru sjaldgæf nema þegar jörðin er frosin. Hitastig í lindám er jafnt allt árið um kring. Kaldá hverfur undir hrauniðÞess vegna leggur Kaldá sjaldan, en vatnsmagnið ræðst gjarnan af úrkomunni frá einum tíma til annars. Þegar þurrkar eru og heitt í veðri dregur verulega úr vatnsrennsli árinnar, bæði vegna minna vatnsmagns er fellur til og vatnsnotkunar Hafnfirðinga, en þeir sækja nú vatn sitt í lindina.
Náttúrulegar aðstæður í nágrenni Kaldár skýra af hverju svo mikið af vatni er í Kaldárbotnum. Eldgos í tugi þúsunda ára hafa hlaðið upp jarðmyndunum á svæðinu. Á meðan ísaldir ríktu hlóðust upp móbergsfjöll og bólstrabergshryggir. Á hlýskeiðum runnu hraun og gígir hlóðust upp en við öll þessi eldsumbrot brotnaði jarðskorpan og seig og reis. Þannig hafa myndast sigdalir og gapandi gjár, sem stundum fóru á kaf í ný hraun.
Kaldárbotnar sjálfir eru í bólstrabergsmyndun. Bólstrabergið er nokkuð gamalt á mælikvarða jarðmyndana á svæðinu og segja má að það sé umflotið ungum hraunum. Bólstrabergið er afburða góð náttúruleg sía ásamt því að vera mjög vel vatnsleiðandi, sérstaklega eftir sprungum.
Ástæður fyrir þessu mikla vatni sem kemur upp austan við misgengið eru því þrjár; vatnsleiðandi bergsprungur tengdar misgengjum, setfylling í megin misgenginu sjálfu og bólstrabergið.
Í eldgosi sem líklega varð á tólftu öld, rann örþunnt hraun niður í Kaldárbotna sjálfa og þaðan niður fyrir Kaldársel og nam þar staðar. Þetta hraun hefur líklega verið mjög heitt og þunnfljótandi því að það fyllti í allar lægðir á leið sinni og storknaði án þess að í því mynduðust kólnunarsprungur og gjótur. Þegar grunnvatnsborð í Kaldárbotnum lækkar niður fyrir efri brún hraunsins hverfur Kaldá. Þegar mest er í ánni rennur hún að hraunbrúninni skammt vestan Kaldársels þar sem hún fer hindrunarlaust undir það á tveimur stöðum. Þar undir eru að öllum líkindum myndarlegar rásir, sem áhugavert væri að kíkja inn í við tækifæri – þegar lítið er í ánni.
Hafnfirðingar voru í fararbroddi í upphafi síðustu aldar. Árið 1904 var Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar stofnað af nokkrum framtakssömum einstaklingum í bænum, með héraðslækninn fremstan í flokki. Lét félagið grafa brunn við svonefnt Kaldadý vestan í Jófríðarstaðaholtinu og leggja þaðan vatnsleiðslur um bæinn. Þótti framtak þetta hið besta og göfugasta, en fljótlega varð ljóst að gera þurfti betur.
Áletrun á bakka KaldárÁrið 1909 kaus bæjarstjórnin nefnd til að vinna að gerð stærri vatnsveitu, sem þjóna skyldi öllum bæjarbúum – en ekki bara þeim er bjuggu út frá Strandgötunni. Varð úr að Hafnfirðingar keyptu rör til framkvæmdanna í félagi við Reykvíkinga sem um svipað leyti unnu að framkvæmdum við sína vatnsveitu. Ákvað nefndin að vænlegast væri að taka vatnið úr Lækjarbotnum, en þar eru upptök Hamarkotslækjar.
Haustið 1909 lauk framkvæmdum við Lækjarbotnaæðina. Var hún einungis þriggja tommu breið og flutningsgetan því takmörkuð. Var hún enda orðin of lítil innan fárra ára. Var þá gripið til ýmissa bráðabirgðaráðstafanna, s.s. byggingu vatnsgeymis og lagningu nýrra aðfærsluæða, en ekki var þar tjaldað til margra nátta.
Strax árið 1916 fengu Hafnfirðingar augastað á Kaldá sem framtíðarvatnsbóli bæjarins og ári síðar ákvað bæjarstjórnin að freista þess að veita vatni úr Kaldá yfir á Lækjarbotnasvæðið, með það að makmiði að tryggja vatnsveitunni og vatnsaflsvirkjuninni í Hamarkotslæknum nægilegt vatn.

Kaldá

Vatnið úr Kaldá var leitt mestan hluta leiðarinnar í opinni trérennu. Trérennan var lögð yfir Hjallamisgengið og hraunið en vatninu var síðan  sleppt við suðurenda Setbergshlíðar þar sem hraunið byrjar að falla að Lækjarbotnum í þeirri von um að jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna sem það og gerði eftir nokkra daga. Þegar þetta var ekki fullnægjandi var lögð breiðari pípa. Við þá aukningu höfðu flestar götur bæjarins nægilegt vatn. Það dugði samt ekki lengi því að eftir nokkur ár fór svo aftur að bera á vatnsskorti. Ástæðan fyrir því var m.a. sú að rennan úr Kaldá gekk smá saman úr sér og úreltist og þá minnkaði stöðugt vatnsmagnið sem hún gat flutt. Einnig var þetta vegna þess að þrýstingurinn í vatnsleiðslunum í bænum var ófullnægjandi og náði vatnið þá ekki upp í þau hús sem hæst stóðu.
Þá  var ákveðið að leggja vatnsæð úr Kaldárbotnum. Nokkrar endurbætur voru svo gerðar á henni þegar húsum í bænum fór að fjölga. Þegar grunnvatnsyfirborðið fór að lækka ört vegna minnkunar á úrkomu, voru nokkrar holur boraðar við Kaldárbotna og þær tengdar við vantsveituna. Orsakir hinnar miklu vatnsnotkunar í Hafnarfirði voru taldar vera vegna mikils fjölda fiskvinnslustöðva, göllum í gatnakerfi bæjarins, óhóflegrar vatnsnotkunar og vegna skemmda og bilana á heimilislögnum. Árið 1967 rættist svo úr þessu. Vatnsmagnið í vatnsbólinu í Kaldárbotnum jókst vegna aukinnar úrkomu og ýmsar endurbætur voru gerðar á vatnsveitunni.
KVatnsstokkurinnaldá, affall neysluvatnsvirkjunarinnar í Kaldárbotnum, rennur ofan á hrauninu en hverfur niður í og inn undir það um 1000 metrum neðar. Það sem veldur því að Kaldá kemur þarna upp á yfirborðið er misgengi sem hefur hindrað grunnvatnsstreymið. Misgengi þetta er kallað Helgadalsmisgengið og liggur eftir Undirhlíðum og norður um Búrfell. Það hefur þvingað vatnið upp á yfirborðið í Kaldárbotnum og þegar langvarandi úrkoma hefur verið kemur vatn líka upp á yfirborðið austan undan misgenginu. Eftir mikla þurrka getur Kaldá horfið að fullu.
Vatn hefur líklega aldrei þrotið í Kaldárbotnum. Þó er það þekkt. Hafnarfjörður varð vatnslaus af og til á árunum 1965-68. Við vatnsskorti lá einnig 1979 og 1986.
Grunnvatnsrennsli af Kaldársvæði er um 2500 lítrar á sekúndu. Vatnsnotkun er um 190 lítrar á sekúndu en vatnsrennsli í Kaldá er að meðaltali um 1300 lítrar á sekúndu og vatnsnotkun er um 190 lítrar á sekúndu. Hiti vatnsins í Kaldárbotnum er 3,2°C allt árið um kring.
Kaldá sprettur, sem fyrr segir, fram undar Kaldárhnúkum (Kaldárhöfða). Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Kaldárstraumur á upptök í sunnanverðum Bláfjöllum og Lönguhlíð. Hann streymir þaðan til norðvesturs um Húsfellsbruna og Heiðmörk. Grunnvatnsskil liggja frá Straumsvík og í vesturenda Lönguhlíðar. Sprungur auka mjög vatnsleiðni og hafa afgerandi áhrif á grunnvatnsstreymið. Sprungurnar eru hluti af sprunguskara sem kenndur hefur verið við Krýsuvík. Þær beina grunnvatninu úr sunnanverðri Heiðmörk til suðvesturs í átt til Kaldárbotna. Athyglisvert er að fyrir vikið streymir grunnvatnið á þessum slóðum ekki hornrétt á grunnvatnshæðarlínur, eins og algengast er, heldur skálægt á þær. Straumþunginn fylgir því sprunguskaranum.

Niðurfall

Í Kaldárbotnum sést örlítið brot af því vatni sem þarna er á ferð. Meðalrennsli Kaldár skammt neðan upptakanna er 800 l/s samkvæmt mælingum í vatnshæðarmælinum vhm 124, en sveiflur eru miklar í rennslinu. Kaldá er einskonar yfirfall úr grunnvatnsstraumnum. Áin verður lengst um einn kílómetri á lengd því hún hverfur þar inn undir hraunið og hverfur til grunnvatnsins á ný. Neðan við Undirhlíðar sveigir grunnvatnið út úr sprunguskaranum og flæðir um hraunin til norðvesturs uns það birtist í fjörulindum í Straumsvík og í Hraunsvík, en svo nefnist bugurinn milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Þar upp af ströndinni eru vatnsból Álversins. Sennilegt er að einungis minnihluti lindarennslisins komi í ljós í fjörulindum þegar lágt stendur í sjó en að meirihluti þess sé jafnan í flæðarmálinu sjálfu eða neðan þess. Kaldárstraumur er langmesti grunnvatnsstraumurinn á höfuðborgarsvæðinu.
Þjóðsagan segir að fyrrum hafi Kaldá komið úr Þingvallavatni en eftir að Ingólfur landnámsmaður gróf Soginu farveg úr því, þar sem síðan heitir Grafningur, hafi Kaldá þorrið. Önnur saga segir að tveir synir fjölkunnugs karls nokkurs hafi drukknað í ánni og eftir það hafi hann kveðið hana niður. Þriðja sagan segir að hún hafi þornað eftir mikið eldgos.
Hugmynd Eggerts Ólafssonar var þess efnis að áin renni neðan jarðar all aleið vestur á Reykjanestá og þar til hafs, en af straumi hennar myndist Reykjanesröst. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi sagði það almælt að á fyrri öldum hafi á sú runnið úr Þingvallavatni, „eitthvert hið mesta vatnsfalla á Íslandi“. Hún á að hafa runnið norðan við Hengil og ofan þar, sem nú eru Fóelluvötn, og svo suður með hlíðum og í sjó á Reykjanesi. „Sé sagt, að hún komi upp í Reykjanesröst og að Kaldá hjá Helgafelli sé úr henni“. „En svo þurfti að fá skýringu á því, hvernig stóð á því stóð, að þetta mikla vatnsfall skyldi hverfa, og eru um það ýmsar sögur. Ein er sú, að karl nokkur, sem var kraftaskáld, missti í ána tvo sonu sína, og kvað hana þá niður. Önnur sögn, og öllu vísindalegri, er sú, að Kaldá hafi horfið eitt sinn, er suðurfjöll brunnu, svo einn var eldur ofan úr Hengli og út í sjó á Reykjanesi og hafi þá jörðin gengið upp fyrir sunnan Elliðavatn.“

Heimildir m.a.:
-Haukur Hafsteinsson.
-Eggert Ólafsson.
-Brynjúlfur Jónsson.
-Vatnsveita Hafnarfjarðar.Kaldárhnúkar

Baðstofa nefnist fjall ofan við Gestsstaðavatn, norðaustan Hettu og sunnan Hatts.
Fjallið dregur Badstofutoft-1nafn sitt af „tveimur burstum líkt og á baðstofu væru“. Neðan og umleikis Baðstofu eru Baðstofuhverir, gamlar brennisteinsnámur. Frá þeim lá námustígur að geymsluhúsunum í Hveradölum. Enn má sjá þar tóftir húsanna þótt þeim hafi lítill gaumur verið gefinn í seinni tíð.
Ole Henchel ferðaðist m.a. um Krýsuvík árið 1775 og skrifaði skýrslu um ferðina. Þar getur hann um hús er tilheyrðu brennisteinsvinnslunni neðan undir Baðstofu.
„Ég athugaði ásigkomulag húsanna, með tilliti til þess að aftur yrði upp tekin brennisteinsvinnsla. Þau voru gerð úr torfi og grjóti á íslenzka vísu, en um þau og annan útbúnað, sem til vinnslunnar heyrði, er það skemmst að segja, að það var allt gersamlega ónýtt og húsin fallin, svo allt verður að gera að nýju, eins og hefði aldrei farið fram brennisteinsvinnsla eða nokkur hús og mannvirki til þeirra hluta verið þar. Þar sem aðeins eru liðin 8-9 ár síðan brennisteinsvinnslan lagðist niður, hefðu þó hús og áhöld átt að vera í nothæfu ástandi, ef eitthvert eftirlit hefði verið haft með þeim. Þar hefði legið beint við að fela bóndanum í Krýsuvík umsjá með húsunum gegn einhverri lítilli þóknun, þar sem hann er þarna bústetur og hafði unnið við brennisteinsvinnsluna…“
Badstofutoft-2Á staðnum má enn greina þrjár framangreindra tófta.
Á „
Baðstofuvikukvöldi“ í Saltfisksetrinu í gærkveldi fjallaði fulltrúi FERLIRs um „Byggð og brennistein“ í Krýsuvík allt frá 12. öld. Þar kom m.a. fram að framangreindra minja væri ekki getið í fornleifaskráningu af svæðinu, en til stendur að setja upp stærðarinnar borstæði nákvæmlega á þessum stað. Enginn virðist vakandi fyrir hugsanlegri eyðileggingu minjanna, hvorki í bæjarstjórnum Hafnarfjarðar né Grindavíkur og ekki heldur hjá Fornleifavernd ríkisins…
Ríkið tók land Krýsuvíkur, sem er í umdæmi Grindavíkur, eignarnámi 1939. Árið 1942 fékk Hafnarfjörður svæðið sunnan Kleifarvatns til takmarkaðra afnota, þ.m.t. brennisteinsnámusvæðin.

Krýsuvík

Krýsuvík – Baðstofa framundan; Krýsuvíkurnámurnar sunnan Seltúns (t.h.).

 

Heiðnaberg

Gengið var frá Ræningjastíg í Heiðnabergi við Hælsvík á Krýsuvíkurbjargi undir Skriðu upp að Krýsuvíkurseli ofan við tóftir bæjarins Eyri í austanverðri Selöldu og áfram upp að Krýsuvíkurkirkju þar sem staðnæmst var við svonefnda Ræningjadys eða Ræningjaþúfur undir Ræningjahól.

Eyri

Eyri – tóft,

Þjóðsagan segir að í “annað sinn komu Tyrkjar undir Krýsuvíkurberg og gengu upp þar sem síðan heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík.
Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti hátt:
„Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.“

Prestur mælti: „Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?“
Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu. Hann mælti til þeirra:
„Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvís búinn, mundu þið éta hvur annan.“

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurberg (-bjarg).

Þar börðust þeir og drápust niður. Heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík.”
Fagurt útsýni var af Heiðnabergi. Sjórinn var ládauður, enda hreyfði ekki vind. Þyrsklingasteinn sást vel utan við vesturendar bjargsins. Litið var eftir Ræningjastígnum. Sjórinn hefur nú brotið af neðri hluta hans í móberginu, en enn má sjá móta fyrir efri hlutanum. Haldið var upp með vestanverðri Skriðu og þá komið að tóftum bæjarins Eyri. Við tóftirnar, sem eru ofan við gamlan lækjarfarveg (hugsanlega fyrri farvegur Eystri-lækjar) má sjá móta fyrir garði og tveimur fjárborgum. Vestan við vestari fjárborgina er tóft, sem gæti annað hvort verið gamalt fjárhús með hlöðu eða heykumli í austurenda eða hreinlega enn eldri tóft. Hún hefur svipaða lögun og ein hinna fornu tófta í Húshólma. Ofan við bæjarstæðið eru sagðar vera rústir gamallar selstöðu frá Krýsuvík, en svo virðist sem réttsköpun sels skorti.

Eyri

Eyri – tóft.

Þær eru nú orðnar að mestu jarðlægar, en þó má sjá móta fyrir þeim, einkum á vorin þegar grasið byrjar að grænka, en þá grænkar það fyrst á tóftunum. Hins vegar er ekki útilokað að bærinn hafi vaxið upp úr hinu gamla seli. Útihús er beggja vegna tóftanna, eitt að vestanverðu og tvö að austanverðu. Bæjartóftirnar sjálfar bera keim af selstöðu, þ.e. þrjú rými og gengið inn í tvö þeirra um sama inngang, eins og svo algengt er í seljum á Reykjanesskaganum. Þar gætu hafa verið svefnaðstaða og búr. Þriðja rýmið hefur sérinngang og gæti það hafa verið eldhúsið.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Haldið var upp eftir heiðinni austan við Selöldu og stefnan tekin á Krýsuvíkurkirkju með viðkomu í Arnarfellsréttinni. Hún er enn nokkuð heilleg og má vel sjá skipan hennar og fyrirkomulag. Ræningjahóll blasti við. Gömul gróin varða er á hól á leiðinni. Staðnæmst var við dys ræningjanna svo vel mætti gera sér grein fyrir hvernig atlagan hafi verið þarna undir hólnum eftir að hafa mætt þar séra Eiríki, hinum göldrótta presti Krýsvíkinga.
Í lokin var stuttur fyrirlestur í Krýsuvíkurkirkju um Tyrkjaránið.
Spjöll höfðu verið unnin á kirkjunni líkt og heiðnir Tyrkir hefðu verið þar á ferð.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Jón Árnason I 562.

Selalda

Krýsuvíkursel í Selöldu og bærinn Eyri – uppdráttur ÓSÁ.