Tag Archive for: Hafnarfjörður

Hvaleyrarsel

Í „Svæðisskráningu fornleifa í Hafnarfirði 1998“ er m.a. sagt frá „Hvaleyrarseli“:

Hvaleyrarsel

Svæðisskráning fyrir Hafnarfjörð 1998.

Svæðisskráning fyrir Hafnarfjörð 1998.

1703: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvaleyrarsel, þar eru hagar sæmilegir og vatnsból gott.“ „Selhöfði eða Hvaleyrarselhöfði er sunnan við Hvaleyrarvatn, en það er allt í Áslandi. Sunnan undir höfðanum eru mikla rústir eftir Hvaleyrarsel.“ „Héðan liggur svo línan suður á Seljahraun. Þar er Seljahraunsskjól skammt vestan Hvaleyrarvatns, en inn með því er lágur hóll, þar sem Hvaleyrarsel stóð, og má þar enn sjá móta fyrir byggingum. Línan liggur um Selhöfða, rétt hjá Borginni, fjárborg, sem er hæst á höfðanum.“ „Rústirnar eru vestan í klöppum í jarðsygi í austurjaðri Selhraunsins, hraunið er mjög gróið, aðallega mosa og lyngi.“

Rústunum má skifta í tvö hólf. Sunnanmegin er hlaðinn veggur úr grjóti og e.t.v. torfi, en veggurinn er mjög gróinn. Veggur þessi liggur samsíða hraunhellu sem hefur risið nokkuð upp fyrir jarðsigið og slútir undir sig. Veggurinn nær að löngum hellisskúta í suðri.

Hvaleyrarsel?

Meint Hvaleyrarsel.

Skútinn er fullur af grjóti nú en hugsanlega hefur hann verið nýttur sem hluti af mannvirkinu. Veggur þessi er 11.2 m langur og 1.5-2m breiður. Rýmis milli hans og hraunhellu er 2-4 m á breidd, allt eftir hvort mælt er frá efri brún hellunnar eða þeirri neðri. Rými undir hellunni er mjög lágt eða um 0.3-0.5m á hæð og hefur því væntanlega ekki geta nýst mikið nema til geynslu. Vel getur verið að reft hafi verið yfir en engin merki er að finna um það. Inngangur er á vesturveggnum.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Syðst, milli þess mannvirkis og veggja tóftarinnar, sem er þarna sunnan við. Hæsta hæð veggjar er 1.1-1.2 m. Syðsta tóftin er einnig hlaðin utan í klöpp og eru 3 veggir hennar hlaðnir úr grjóti sem nú er mjög gróið. Inngangur hefur líklega verið á norðurvegg við vesturhornið og hefur því verið innangengt úr nyrðri tóftinni. Innanmál tóftarinnar eru; um 3.5 m frá A-V og 2.4m frá N-S. Veggjaþykktir eru 1.3-1.5m þar sem ekki er hrun. Vestur og norðurveggur er nokkuð hrundir en suðurveggur stendur þokkalega. Suðurveggurinn er 1.3m á hæð þar sem hann er hæstur. Vestur frá SV-horni syðri tóftarinnar liggur einföld steinröð þvert yfir jarðsigið. Þetta munu vera leifar garðs sem hjálpað hefur við aðrekstur fjársins.“

Hvaleyrarsel

Fjárborg á Selhöfða.

Framangreind umfjöllun er miklum annmörkum háð. Ef vel er skoðað hefur þarna aldrei verið selstaða, einungis hluti selstöðu, þ.e. stekkur. Þessar minjar munu hafa tilheyrt eldri selstöðu Hvaleyrar vestan við Hvaleyrarvatn, skammt frá Seljahraunsskjóli (gróið jarðfall), en heimildir um selstöðuna þar fyrrum virðast ekki hafa varðveist. Þó má þar sjá minjar hennar enn í dag, ef vel er skoðað, s.s. vanhirtar vegghleðslur með skógræktanlegu ívafi og tilheyrandi eyðileggingu. Annars er umrædd „Svæðisskráning“ lesendum einstaklega ruglingsleg; hlaupið er úr einu í annað án nokkurs samhengis. Meira um það síðar…

Hvaleyrarsel

Stekkjartóft í Seldal.

Áþreifanlegustu minjar Hvaleyrarsels við Hvaleyrarvatn, áður en það fluttist upp í Kaldárssel, eru á tanga norðan undir Selhöfða. Þar má enn sjá móta fyrir baðstofu, búri, eldhúsi og stekk. Tilvist selsins er m.a. staðfest með frásögninni, sem hér má lesa HÉR, HÉR og HÉR.

Rétt 

Hvaleyrarsel

Réttin (nátthagi) undir Stórhöfða.

„Selhöfði eða Hvaleyrarselhöfði er sunnan við Hvaleyrarvatn, en það er allt í Áslandi. Sunnan undir höfðanum eru miklar rústir eftir Hvaleyrarsel. Vestan við Selhöfðan er svo alldjúpur dalur, sem heitir Seldalur, sem að vestan myndast af hæstu hæðinni á þessum slóðum, sem heitir Stórhöfði. Hraunið milli Hamraness og Stórhöfða og frá Hvaleyrarvatni austan og vestur á brún, þar sem landið lækkar, heitir Selhraun. Niðri í því er réttarhleðsla.“

Sjá meira um Hvaleyrarsel HÉR.

Heimildir:
-Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði, fornleifastofnun Íslands 1998, bls. 99-100.
-JÁM III, 168; Ö-Hvaleyri A, 2; Ö-Hvaleyri B,5; Þjóðminjaskráning í Hafnarfirði 154.

Hvaleyrarsel

Réttin (nátthagi) undir Stórhöfða.

Krýsuvík

Í „Svæðisskráningu fornleifa í Hafnarfirði 1998“ segir m.a. um Gestsstaði og Kaldrana í Krýsuvík.

Gestsstaðir

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða.

„Gestsstaðir skal hafa verið jörð heitið nálægt Krýsuvík undir Móhálsum austanverðum, þar allnærri sem nú liggur almenningsvegur. Sjer þar enn nú bæði fyrir túngarði og tóftum. En völlur er allur uppblásinn og kominn í mýri, mosa og hrjóstur, so ómögulegt er jörðina aftur að byggja. Þar með liggur hún aldeilis í Krýsuvíkurlandi og kann ekki fyrir utan skaða Krýsuvíkur landsnytjar að hafa. Hefur og so lánga tíma í eyði legið, en engi veit til nær hún hafi bygð verið.“

Gestsstaðir

Tóft vestan við Gestsstaði.

„Gestsstaðir eru eða voru norðvestan við Krýsuvík sunnan undir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Sér þar fyrir miklum tóftum. Mun þetta hafa verið stórbýli, enda eru þau ummæli til, að þessi bær hafi fyrrum heitið Krýsuvík. …Fram undan Hverafjalli eru rústir Gestsstaða, sem sagt er, að séu undir Móhálsinum, og er það nafn nú glatað.“
„Gestsstaðir heitir eyðibær, norðvestur frá Krýsuvík, þar sem hún er nú. Hann hefir staðið sunnanundir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi.

Gestsstaðir

Gestsstaðir – vestari tóftin (skáli).

Bæjartóftin er 10 ft löng frá austri til vesturs, hefur engan miðgafl, og mun hafa verið þiljuð sundur. Dyr sjást ógjörla, en á suðurhlið hafa þær verið, því hvorki eru þær á endanum nér norðurhliðinni. Skammt austar er fjóstóft, 5 fðm löng, og heygarður eigi lítill. Túnið hefir verið umgirt, er það víða komið í sand af frárennsli. – Þau ummæli heyrði eg í Grindavík fyrir 40 árum sannleikann í þeim. Jörðin Gestsstaðir hefir verið í eign Krýsuvíkurkirkju. Hefur bærinn og kirkjan því verið flutt í Gestsstaðaland eftir [jarð]eldinn. En við það hafa Gestsstaðir verið að nýta hjáleigur í nytum, og meir og meir þrengt að þeim, unz þeir lögðust í eyði.“

Kringlumýri

Kringlumýri undir Móhálsum.

Fram kemur að Gestsstaðir hafi fyrst, eftir eldana, sem lögðu Gömlu Krýsuvík í og við Húshólma í eyði, verið „Fram undan Hverafjalli, sem sagt er, að séu undir Móhálsinum, og er það nafn nú glatað“. Sunnan undir Hverafjalli, nú Hettu, er að finna minjar, mjög fornar, í svonefndri Kringlumýri. FERLIRsfélagar fundu rústirnar árið 2010 og töldu að þar hefði verið selstaða frá Húshólmabæjunum fyrrum. Selstígurinn liggur til suðurs í átt að Krýsuvíkur-Mælifelli. Minjarnar, sem eru miklar umleikis, verulega fornfálegar, eru í grasi gróinni hlíð ofan mýrardraga. Neðan þeirra er ágætt vatnsból í grónum gígbotni.

Kringlumýri

Minjar í Kringlumýri. – uppdráttur ÓsÁ.

Minjar þessar hafa nánast ekkert verið metnar,  hvergi skráðar (annars staðar en hér á vefsíðunni – sjá HÉR), en þær eru augljóslega eldri en þær fornu minjar,  sem nú má sjá sunnan við Gestsstaðavatn.

Kaldrani

Kaldrani

Tóftir Kaldrana.

„Inn við Kleifarvatn er svo kallaður Kaldrani. Þar eiga að vera leifar eftir bæ með þessu nafni. Er hans getið í þjóðsögum. Þar eru leifar af gömlum túngarðu úr grjóti og lítil grasflöt fyrir ofan, utan í sléttum melhál.“ „Á Kaldrana er sagt að ein hjáleiga Krýsuvíkur hafi verið fyrr meir, og segja munnmæli, að hún hafði eyðst vegna álaga, sem mæltu svo um, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi að loðsilungi verða, en hann á óætu að vera, samanber vísuna sem sagt er, að kveðin hafi verið á glugga í Krýsuvík, eftir að fólkið á Kaldrana hafi étið silunginn, en það vissi ekki, að það var búið að gera hann að umskiptingi.“. Vísan er svona:
Liggur andvana
lýður á Kaldrana
utan ein niðurseta
sem ei vildi eta.

Kaldrani

Kaldrani – garður.

„Kaldrani er nefndur í þjóðsögum. Er sagt að hann hafi verið hjáleiga frá Krýsuvík og staðið inn við Kleifarvatn. Og líka er sagt að þar hafi fólk dáið af loðsilungsáti. Örnefnið Kaldrani er til við vatnið. Sést þar 34 fm langur túngarðsspotti úr stórgrýti og lítil grasflöt fyrir ofan suðaustan í sléttum melhól. Uppi á hólnum er dálítil dreif af hleðslugrjóti, sem virðist flutt þangað af mönnum. Gæti það verið leifar af bæ. Því garðsspottinn sýnir að þar hafi menn búið á sínum tíma.“

Því miður hefur vegur nú verið lagður yfir meint bæjarstæði Kaldrana. Mönnum hefur löngum verið meint að sjá fyrir gildi þess, sem raunverulega skiptir máli…

Það er ávallt gaman að uppgötva eitthvað nýtt (reyndar er allt slíkt nýtt nú orðið gamalt).

 

Gestsstaðir

Gestsstaðir sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Hér kemur fram að Gömlu Gestsstaðir hafi verið vestan við Móhálsa, en í dag er þeirra minnst austan þeirra, sunnan undir Gestsstaðavatni, sem fyrsta byggð Krýsuvíkur eftir eldanna 1151. Eldri bústaðurinn er sagður týndur í heimildum.
Vestan hálsanna eru reyndar óskráðar tóftir, sem að öllum líkindum voru framhald byggðarinnar í Húshólma og því líklega eldri en elstu heimildir eru um byggð í þeirri Krýsuvík, sem við þekkjum í dag.

Sjá meira um Krýsuvík og Kaldrana HÉR.

Heimildir:
-Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði, 1998.
-JÁM III, 7; Ö-Krýsuvík, 8 15; Árbók 1903, 50.
-Ö-Krýsuvík, 8-9; Árbík 1943-48, 92, Árbók 1803, 59.

Gestssaðir

Gestsstaðir – uppdráttur – ÓSÁ.

Almenningur

Ofan við Garða-Hraunabæina vestan Hafnarfjarðar er svonefndur Almenningur. En hvað er „Almenningur“?

Almenningur

Almenningur í Hraunum – herforingjakort 1903.

Tilefnið að skrifum þessum er að Hafnarfjarðarbær hefur skipað starfshóp bæjarfulltrúa um gerð reiðleiða um Almenning. Þarna fer Hafnarfjarðarbær villu vega, líkt og svo oft áður, þegar kemur að minjum og minjasvæðum. Fæstir fulltrúar bæjarins hafa stigið þarna niður fæti. Hafnarfjarðarbær hefur nánast aldrei leitað leiðsagnar þeirra er gerst þekkja ofanvert bæjarlandið. Á svæðinu má finna fjölmarga forna stíga og leiðir, sem fyrrum voru notaðir af bæði fótgangandi og ríðandi.

Í Náttúrufræðingnum 1998 fjallar Jónatan Garðarsson um „Útivistarperluna í Hraunum“ og getur um „Almenninga„.

Jónatan Garðarsson

Jónatan Garðarsson.

„Almenningar, sunnan við bæina og selin í Hraunum, voru skrýddir trjágróðri í eina tíð. Þar hefur allt verið kjarri vaxið fram eftir öldum en hrístekja til eldiviðar, ásamt sauðfjárbeit, hefur eytt skóglendinu. Þetta landsvæði mætti varðveita og hlúa frekar að þeim gróðri sem þar vex.
Einhvern tíma hefur hann verið gróskumikill og getur vel orðið það aftur. Í landi Hvassahrauns eru t.d. örnefnin Skógarhóll og Skógarnef, sem gefa til kynna mikinn kjarrgróður fyrrum, og í Undirhlíðum má finna kennileitið Stóriskógahvammur sem vísar til að þar hafi stórviður einhvern tíma vaxið.
Í Jarðabókinni 1703 má lesa um ástand gróðurs í Gullbringu- og Kjósarsýslu á þeim tíma. Látum þær lýsingar verða okkur til umhugsunar. Þar segir að í Álftaneshreppi hafi verið 27 konungsjarðir og áttu bændur að skila 48 hríshestum heim til Bessastaða og stundum meira. Flestum var vísað á skóg í Almenningum. Allar jarðirnar og hjáleigur þeirra höfðu rétt til kolagerðar í Almenningum. Um skóg er getið á nokkrum jörðum.“

Lónakot:

Lónakotssel

Lónakotssel.

„Skógur hefur til forna verið, og er það nú meira rifhrís, það brúkarjörðin til kolgjörðar og eldiviðar, og jafnvel til að fóðra nautpening um vetur.“

Óttarsstaðir:
„Skóg til kolgjörðar og eldiviðar sækir ábúandi í almenning betalingslaust, hver sá eyddur er, sem skamt sýnist að bíða.“

Straumur:
„Skóg til kolgjörðar og eldiviðartaks brúkar jörðin í almenningum, líka er stundum hrís gefið nautpeningi.“

Þorbjarnarstaðir:

Fornasel

Fornasel – selstaða frá Þorbjarnarstöðum.

„Skóg hefir jörðin átt, en nú má það valla kalla nema rifhrís, það hefur hún so bjarglega mikið, að það er bæði brúkað til kolgjörðar og eldiviðar, og so til að fæða pening á í heyskorti. Aldrei ljá það búendur til annara, og eru þetta þau skógarpláts, sem almenningar eru kölluð.“

Í Tímariti lögfræðinga 1998 skrifar prófessor Þorgeir Örlygsson um Almenninga undir fyrirsögninni „Hver á kvótann?

Þorgeir örlygsson

Þorgeir Örlygsson, prófessor.

„Menn hefur greint á um það, hvar almenningar eru hér á landi og hvernig eignarrétti að þeim er háttað, en í sjálfu sér er ekki ágreiningur um, að þeir geti verið til, enda gerir löggjöf ótvírætt ráð fyrir tilvist þeirra og hefur lengi gert. Eru menn og almennt sammála um, að almenningar séu landsvæði, sem enginn getur talið til einstaklingsbundins eignarréttar yfir, þótt ekki sé útilokað, að menn kunni að eiga þar ákveðin og afmörkuð réttindi.
Í síðari tíma löggjöf og fræðiviðhorfum hefur helst verið við það miðað, að almenningar séu tiltekin svæði á þurrlendi og á hafsvæðum úti fyrir ströndum landsins og auk þess sérstakur hluti stöðuvatna, þ.e. svæði utan netlaga. Hafa þessi svæði verið nefnd almenningar frá fornu fari.
Almenningar hafa samkvæmt þessu bæði verið til inni á óbyggðum og út við hafið, þ.e. almenningar hið efra og hið ytra. Í bæði Grágás og Jónsbók var að finna ákvæði um almenninga.

Straumssel

Straumssel – bær skógavarðarins í Almenningum.

Við lögtöku Jónsbókar 1281 varð ekki breyting á meginreglunni um almenninga, sbr. þau orð 52. kaptítula Landsleigubálks: Svo skulu almenningar vera sem að fornu hafa verið, bœði hið efra og hið ytra. Í norskum rétti voru svipuð ákvæði um almenninga. Þar sagði t.d. í NL 3-12-1: Saa skal Alminding være, saasom den haver vœret af gammel Tid, baade det 0verste og det yderste.
Því er mismunandi háttað í löggjöf, hvaða heimildir eru fyrir hendi varðandi nýtingu almenninga og hverjir eiga þær heimildir. I gildandi ákvæðum íslenskra laga, sem varða meðferð tiltekinna réttinda í almenningum, er yfirleitt út frá því gengið, að landsmenn allir njóti þeirra réttinda, þótt frá því kunni að vera ákveðnar undantekningar í einstökum og afmörkuðum tilvikum.

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Hafalmenningur er það svæði sjávar við strendur landsins, sem tekur við utan netlaga, en netlög eru sjávarbelti, sem nær 115 metra út frá stórstraumsfjörumáli landareignar. Um hafalmenninga er það að segja, að frá upphafi íslandsbyggðar og allt fram yfir miðja þessa öld hefur sú meginregla verið viðurkennd, að hafið utan netlaga væri almenningur, þar sem öllum væri heimil veiði. Reglan kemur fram í Grágás, Landabrigðaþætti Konungsbókar: Menn eigu allir að veiða fyrir utan netlög að ósekju og í Landabrigðisþætti Staðarhólsbókar: Allir menn eigu að veiða fyrir utan netlag að ósekju ef vilja. Í Jónsbók er reglan í 61. kapítula Landsleigubálks, rekabálki, 2. kap.: Allir menn eigu að veiða fyrir utan netlög at ósekju. Er ákvæði þetta enn tekið upp í íslenska lagasafnið, nú síðast í útgáfuna 1995.

Förnugötur

Straumsselsstígur/Fornugötur.

Um réttarstöðu íslenska rfkisins gagnvart landsvæðum, sem enginn getur talið til einstaklingseignarréttinda yfir, hvort heldur sem eru afréttareignir eða almenningar, er það að segja, að sú stefna hefur verið mótuð af dómstólum, að íslenska ríkið sé ekki eigandi þessara landsvæða, nema það færi fram eignarheimildir fyrir eignatilkalli sínu. Er framangreint annars vegar staðfest í Landmannaafréttardóminum síðari, sbr. H 1981 1584 og í Mývatnsbotnsmálinu, sbr. H1981182. Samkvæmt þessum dómum nýtur ríkið engrar sérstöðu umfram aðra, sem gera tilkall til einstaklingseignarréttar yfir tilteknum hlutum eða verðmætum. Ríkið verður eins og hver annar að færa fram skilríki eða heimildir fyrir eignatilkalli sínu.“

Í Sögu 2008 reynir Sveinbjörn Rafnsson að skilgreina „Almenninga“ í grein sinni um „Hvað er Landnámabók?„.

Lónakotssel

Lónakotssel.

„Almenningar og afréttir í Jónsbók. Lengja má í þessum þræði og skoða ákvæði Jónsbókar: „Svo skulu almenningar vera sem að fornu hafa verið, bæði hið efra og hið ytra.“ Íslendingar héldu sínum íslensku lögum í samræmi við sáttmála við Noregskonunga á síðari hluta 13. aldar og konungur hafði því ekki rétt til almenninga á Íslandi eins og í Noregi.

Bekkjarskúti

Bekkjaskúti í Almenningum.

Landsfjórðungarnir voru ekki lagðir niður með tilkomu nýrrar lög bókar á 13. öld; þeir haldast m.a. sem dómssögur og umsýslusvæði um landeignir í Jónsbók.
Það er einnig ljóst að fjórðungsmönnum hefur verið í lófa lagið sem eigendum almenninga að skipta þeim á milli sín, þar sem þess var talin þörf, í svokallaða afrétti. Í Grágás og Jónsbók er afréttur skilgreindur svo: „Það er afréttur er tveir menn eiga saman eða fleiri, hversu mikið land sem hver þeirra á í.“

Brennisel

Brennisel – kolagröf í miðið.

Samkvæmt Grágás og Jónsbók hefur því almenningur verið í sameign allra fjórðungsmanna, þ.e. landeigenda eða lögbýla innan fjórðungs, en afréttur verið í sameign tiltekinna landeigenda eða lögbýla innan fjórðungs. Þetta skýrir til fullnustu stöðu og legu afrétta í Sunnlendingafjórðungi. Bæði í Grágás og Jónsbók eru almenningar og afréttir gjarna spyrtir saman enda er um að ræða land sem verið hefur í sameign margra manna og fylgt ákveðnum jörðum innan fjórðungs. Í ákvæðum Grágásar um að telja fé í afrétt eru eigendur afréttar kallaðir landeigendur.

Tobburétt

Landvættur í Almenningum í Hraunum.

Það er í fullu samræmi við ákvæði Grágásar um að hver maður eigi gróður á sínu landi. Það sýnir líka að mönnum hefur verið heimilt að ráðstafa eign sinni og greina hana í það sem ofan á landi er og landið sjálft, sbr. skógarítök, skógartóft, beitarítök, reka o.s.frv., enda mörg forn dæmi varðveitt um slíkt í frásögnum og skjölum.

Sveinshellir

Sveinshellir – fjárskjól.

Slíkur ítakaréttur hefur ekki falið í sér eign á landi heldur afnotaeign og hafa menn hér á landi hugsað líkt í lögum og búrekstri og menn gerðu í nágrannalöndunum á miðöldum, um dominium directum, beina eign, og dominium utile, afnotaeign, enda samfélagsgerðin ekki ósvipuð. Deiluefni gat komið upp um það hvar væru mörk bújarðar annars vegar og afréttar eða almennings hins vegar. Um þetta er fjallað í 52. kap. Landsleigubálks Jónsbókar.

Almenningur

Í Almenningum í Hraunum.

Menn áttu að reyna að lögfesta sinn málstað, en ef ágreiningur varð skyldi málið koma til dóms. Þarna er eign á afrétti jafngild eign á bújörð. Samkvæmt 54. kap. Landsleigubálks Jónsbókar gat maður er næstur bjó afrétti gert eigendum afréttar stefnu til garðlags á mörkum bújarðarinnar og afréttarins. Svo segir um það: „Þeir skulu gera garð að jarðarmagni, svo sem hver þeirra á afrétt til, svo að þeir geri hálfan, en sá hálfan er garðlags beiddi, og svo haldi hvorir síðan.“

Álfakirkja

Álfakirkja (fjárskjól) í Hraunum.

Hér kemur það glöggt fram að afréttur er full eign engu síður en bújörðin sem næst er afréttinum.
Óbyggðanefnd telur að frumstofnun eignarréttar hér á landi hafi farið fram með landnámi, hefð og lögum, sbr. löggjöf um nýbýli og þjóðlendur. Þessi kennisetning (doktrin) hefur ýmsa annmarka og kemur ekki að öllu leyti heim við sögulegar heimildir. Hún er varla rökheld við nánari skoðun, eins og komið hefur fram í máli greinarhöfundar hér á undan þótt því sé alls ekki stefnt gegn henni sérstaklega.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Hér hefur meðal annars komið fram að höfundar Landnámu og Grágásarlaga hafa alls ekki talið allt land á Íslandi numið í öndverðu. Hið ónumda land er almenningar samkvæmt Grágás. Almenningar voru að fornu eign fjórðungsmanna samkvæmt Grágás og mun það líklega vera ein af ástæðum þess að Landnáma er fjórðungaskipt. Almenningar voru eign allra fjórðungsmanna, afréttir voru eign tiltekinna fjórðungsmanna, tveggja eða fleiri, samkvæmt Grágás og svo skal áfram vera samkvæmt Jónsbók. Eðlilegast er að líta svo á samkvæmt þessum sögulegu heimildum, Landnámu, Grágás og Jónsbók, að allt landið sé talið í eign landsmanna, hvergi sé einskismannsland á Íslandi eða land án landsdrottins. Almenningar og afréttir voru taldir eignarlönd í lögum og lögbókum þótt ónumin væru.
Að þýða „landnám“ eins og það birtist í Landnámu og fornum ritum háðum henni beint sem rómarréttarlega „occupatio“ að klassískum hætti virðist vera tímaskekkja (anakrónismi). Það væri rangtúlkun á Landnámu og raunar einnig íslensku miðaldasamfélagi.“

Í Búnaðarriti 1973 er greinargerð um svonefnda „Almenninga„.

Almenningur

Fjárskjól í Almenningi í Hraunum.

„Íslendingar eru um það einir þjóða í Evrópu, að þeir eiga skráðar heimildir um landnám, og þær heimildir eru skráðar eftir að landnámi lauk. Frásagnir af því máttu auðveldlega hafa geymzt rétt í minni manna. Landnámsmenn námu ýmist mjög stór landsvæði, er þeir síðar úthlutuðu öðrum að miklu leyti, eða minni svæði, er þeir nýttu sjálfir.

Straumssel

Efri-Straumsselshellar.

Svo er að sjá, að ekkert land hafi verið látið ónumið eða óhelgað. Þess er getið á tveim stöðum í Landnámabók, að spildur voru ónumdar á milli landnámsjarða, en þær voru báðar bráðlega helgaðar og lagðar til hofa. Heiðar og fjöll hafa ekki verið undanskilin. Ingólfur Arnarson nemur alla spilduna milli sjávar að sunnan og vestan og Brynjudalsár og Öxarár að norðan og Ölfusár að austan, jafnt gróið land sem fjöll og firnindi.
Fjalllendi virðast sem sagt hafa verið látin fylgja þeim jörðum, sem næst þeim lágu, og svo er mjög víða enn, þótt víða hafi þau nú verið seld sem afréttarlönd. Sumir vilja telja, að öðru máli kunni að gegna um miðhálendi Íslands vegna þess, að þar eru stór svæði lítt gróin. Þessi kenning er mjög hæpin.

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

Gróður hefur víða minnkað stórum frá því, er var, og eru til margar sannanir um það (t.d. á Kili, landið sunnan Sprengisands og miklu víðar). Þetta land var þá nytjað, og einatt þurfti þar smölunar við. Efalaust hafa menn mjög snemma bundizt samtökum um nýtingu lands og smölun, og framkvæmt þær eftir fyrirmælum goða og síðar hreppstjórnarmanna.
Það er fullvíst, að sveitarfélög og upprekstrarfélög hafa ávallt talið, að afréttarlönd, er þau hafa nytjað frá fornu fari, hafi verið og séu óskoruð eign þeirra (nema þar, sem einstaka jarðir eða kirkjur áttu ítök, sem oftast voru veiðiítök), þótt ekki séu kaup- eða afsalsbréf til nú. Í fornum ritum eða skjölum finnst hvergi, hvar sem leitað er, nokkur heimild um það, að ríkið eða þjóðarheildin hafi átt afrétt eða heiðalönd.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin millum Hafnarfjarðar og Voga.

Mönnum var auðvitað heimil ferð um afrétt eins og annað land, og beit og jafnvel veiði, á meðan á ferð stóð. Hreppar, eftir að þeir voru myndaðir, sem trúlega hefur gerzt skömmu eftir, að landnámi lauk, og upprekstrarfélög geta hafa eignazt afréttarlönd löngu áður en farið var að færa gerninga í letur eða á skrá, og engin áslæða var fyrir menn til bréfagerða um það síðar, því að enginn vefengdi rétt þeirra, og ekki þurftu þeir að svara sjálfum sér.
Nær alltaf er vitað, að notaréttur sveitar- eða upprekstrarfélaga er ævagamall. En því fer víðs fjarri, að það afsanni eignarrétt á landi, þótt ekki séu nú til aðrar heimildir frá fyrri tímum en um beitarnot af afréttinum.

Eignarrétti lands var oftast ekki unnt að viðhalda með öðrum hætti en þeim, að eigendur nytjuðu það á þann hátt, sem möguleikar voru til. Sum þessara nota voru að mestu bundin við árstíðir, eins og til dæmis not afréttarlands. Þar var naumast um önnur not að ræða en beit og grasatekju og sums staðar veiði, sem oft var þó einungis nýtt á sumardag sakir fjarlægðar frá byggð.

Almenningur

Vörðukort af Almenningi í Hraunum.

Nýir atvinnuhættir og gerbreytt tækni veldur því, að nú er unnt að nýta land á margan hátt, sem áður var ógerlegt. Má um það nefna að sjálfsögðu fjölda dæma, t. d. virkjun vatna og notkun sands og malarnáma. Þessi þróun getur ekki valdið því, að ríkið eignist gœði lands og jarðar jafnótt og möguleiki skapast til að nota þau. Fáir eða engir halda því heldur fram, þegar um land í einkaeigu er að ræða, en hví skyldi gegna öðru máli um land sveitarfélaga?

Óttarsstaðasel

Í Óttarsstaðaseli í Hraunum. Liður í Ratleik Hafnarfjarðar.

Löggjöf vor gerir ráð fyrir því á nokkrum stöðum, að til séu almenningar. Nefndar athugasemdir, er fylgja frumvarpi til námulaga, virðast gera ráð fyrir, að þeir séu eign þjóðarheildarinnar. Öll rök hníga að því, að sú kenning sé alröng, og ríkið (eða konungur fyrr á tímum) hafi aldrei átt almenninga.

Alfaraleið

Alfaraleiðin um Draugadali.

Almenningar, sem oftar en hitt hafa verið við sjó og tengdir við hlunnindi, hafa ef til vill stöku sinnum verið eign fjórðungsmanna (sbr. Grágás), en oftast eign eða afnotaland fárra jarða eða eins hrepps. Þannig er enn um Almenning í Biskupstungum, að hann er eign Haukadalsjarða. Almenningur í Þjórsárdal var skógarítak nokkurra hreppa og Skálholtsstóls.
Almenningur suður frá Öxnadalsheiði var afréttur jarða í Öxnadal með ítaksrétti einnar jarðar þar, og þannig má telja fjölda dæma. Mörg þau svæði, er bera heiti af almenningi, eru og hafa verið um óratíma eign einstakra jarða. Efalaust hafa almenningar þessir verið hluti af landi jarða, en verið dæmdir af mönnum fyrir sakferli. Finnast frásagnir um slíka refsidóma bæði í Íslendingabók og Landnámu og Sturlungu. Þess munu og finnast dæmi, að í hallæri hafi mönnum verið tildæmdur almenningur (hlunnindaalmenningur) til að geta bjargað sér frá því að lenda á vergangi, en, eins og fyrr er sagt, örlar hvergi á því í fornum lögum eða skrám, að ríkið (þjóðarheildin) eigi almenning.
Vill Búnaðarþing því sterklega vara við þeirri ásælni, sem orðið hefur vart bæði með flutningi frumvarpa á Alþingi í ýmsum myndum og með málarekstri gegn sveitarfélögum, að ríkið eigi almenninga og drjúgan hluta afréttarlanda.“

Sjá meira um Almenning í Hraunum HÉR.

Heimildir:
-Tímarit lögfræðinga, 1. tbl. 01.02.1998, Þorgeir Örlygsson, prófessor, Hver á kvótann?, bls. 35-36.
-Saga, 2. tbl. 2008, Sveinbjörn Rafnsson, Hvað er Landnámabók?, bls. 189-196.
-Búnaðarrit, 1. tbl. 01.01.1973, bls. 193-194.
-Náttúrufræðingurinn, 3.-4. tbl. 01.05.1998, Jónatan Garðarsson, Útivistarperlan í Hraunum, bls. 168-169.

Almenningur

Almenningur í Hraunum – herforingjakort 1903.

Hafnarfjörður

Mjólkurvinnslustöð Mjólkurbús Hafnarfjarðar“ var stofnuð árið 1934.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Mjólkurbú Hafnarfjarðar (húsið með háa skorsteininum).

Jóhannes J. Reykdal á Þórsbergi var fenginn til að standa fyrir framkvæmdum. Var hann sendur utan og samdi um kaup á vélum. Byggingin sem tekin var í notkun árið 1947 þótti hin myndarlegasta. Var húsið byggt úr járnbentri steypu með korklögðum veggjum að innan. Það var tvílyft utan vélasalarins sem var í fullri hæð. Ketilshúsið var þar á bak við á neðri hæð og á efri hæðinni var skrifstofa og móttökusalur fyrir mjólk. Á bak við húsið var akvegur að húsinu og undir honum kolakjallari og sýrugeymsla. Á efri hæð í öðrum enda hússins var rannsóknarstofa, skyrgerð og geymsla. Talsverður styr stóð um Mjólkurvinnslustöðina vegna deilna milli mjólkurstöðva.

Hafnarfjörður

Mjólkurbú Hafnarfjarðar byggt 1935-6 brotið niður 1981.

Mjólkurbú Hafnarfjarðar var lagt niður árið 1949 og var í húsinu ýmiss konar starfsemi þar til það var brotið niður árið 1981.
Mjólkurvinnslustöðin stóð á lóð Lækjargötu 22, suðaustan gatnamóta Öldugötu og Lækjargötu. Þar standa nú þrír upphleyptir mjólkurbrúsar á trépalli til minningar um stöðina.

Í Nýja Dagblaðinu 1936 er fjallað um „Mjólkurvinnslustöðina í Hafnarfirði„:
„Innan skamms tekur til starfa hin myndarlega mjólkurvinnslustöð er samvinnufélagið Mjólkurbú Hafnarfjarðar hefir látið reisa. Vegna þess að það veldur ærnum kostnaði fyrir kúaeigendur í Hafnarfirði og nágrenni að senda mjólk, sem þar er seld á staðnum, til gerilsneiðingar í Reykjavík, hafa þeir ráðizt í að koma sér upp eigin mjólkurvinnslustöð. Stendur samvinnufélag (Mjólkurbú Hafnarfjarðar) að framkvæmd þessari og var stofnfundur þess haldinn 17. ágúst 1934.

Ólafur Runólfsson

Ólafur Runólfsson (1891-1967). Nam búfræði á Hvanneyri 1910 og var síðar kaupmaður í Hafnarfirði.

Kosin var 5 manna stjórn og er Ólafur Runólfsson formaður hennar, Ákveðið var að vinna sem allra fyrst að því að reisa mjólkurvinnslustöðina og var Jóhannes J. Reykdal á Þórsbergi fenginn til að standa fyrir framkvæmdum. Fór hann utan í fyrravetur og samdi um kaup á vélum.
Hafizt var handa um byggingu hússins í maí í vor. Hefir Jóhannes séð um fyrirkomulag þess. Er það vandað svo sem kostur er, en þó hefir verið gætt fullrar sparsemi.

Húsið og herbergjaskipun
Blaðið hefir átt tal við búnaðarmálastjóra. Segir hann, að húsið líti vel út, sé rúmgott, bjart og loftræsting virðist vera í góðu lagi. Vélar og öll áhöld séu ný og vélar hafi verið reyndar og virtar og virzt vera í ágætu lagi.
— Þó hefir búið enn aðeins vélar til að gerilsneyða mjólk, þvo flöskur og átappa, segir hann. Enn vantar öll tæki til

smjör-, skyr- og ostagerðar.

Hafnarfjörður

Mjólkurbú Hafnarfjarðar um 1950 – 60 fyrir miðri mynd ofanverðri.

Byggingin er þó nægilega rúmgóð fyrir slíkar vinnsluvélar, enda mun skilvinda og strokkur koma innan skamms. Auk þess vantar enn kælivél og vél til gæðakönnunar mjólkur. Gæðakönnunartækin mun búið verða að útvega strax og kælivél fyrir 15. maí þ. á. Búið mun geta hreinsað og átappað um 1200 lítra af mjólk á klst. og hæfileg afköst á dag verða 3600 lítrar. — Að síðustu vil ég geta þess, að hér virðist vera vel til stofnað, ef svo reynist, sem aðstandendur búsins ætla, að búð geti borið sig, og um leið sparast stórfé í flutningskostnaði.

Byggingarkostnaður og bætt afkoma mjólkurframleiðenda

Jóhannes J. Reykdal

Jóhannes J. Reykdal (1874-1946).

Jóhannes J. Reykdal skýrir blaðinu svo frá, að nú þegar séu í mjólkurbúinu 56 kúaeigendur og eigi þeir hátt á þriðja hundrað kýr.
— Hvað hefir mjólkurvinnslustöðin kostað?
— Hún kostar eins og hún stendur nú með vélum og áhöldum rétt um 80.000 kr. og vænti ég að allir sameignarmenn séu ánægðir með þann árangur.
Þeir framleiðendur er sent hafa mjólk sína til hreinsunar til Reykjavíkur síðastliðið ár hafa borgað 1/2 eyrir í flutningskostnað og vart mun hafa verið ódýrara fyrir Mjólkursamsöluna að senda mjólkina hingað suður aftur. Nú þurfa Hafnfirðingar um 2000 lítra af mjólk á dag og sparast því allt að 20.000 kr. árlega í flutningskostnað og eru það góðar rentur og afborganir af stofnkostnaði mjólkurvinnslustöðvarinnar. Það er því ekki að ófyrirsynju að ráðizt hefir verið í að byggja mjólkurbú hér
í Hafnarfirði.“

Claus Peter Kor­dtsen Bryde (f. 1909 á Jótlandi í Danmörku, d. 1985) var um tíma mjólk­ur­bús­stjóri Mjólkurvinnslustöðvarinnar.

Emil Jónsson

Emil Jónsson (1902-1986).

Í ræðu Emils Jónssonar, alþingismanns, um efnið á Alþingi árið 1943, segir: „Þá skal ég geta þess í sambandi við mjólkurstöðina í Reykjavík, að hún hefur nú lengi verið algerlega ófullnægjandi, en samtímis því, að hún hefur ekki getað annað öllu því, sem hefur verið sent til hennar, þá hefur öðru mjólkurbúi, sem er sízt lakara, mjólkurbúi Hafnarfjarðar, verið haldið mjólkurlausu af völdum samsölunnar eingöngu. Mjólkurmagn það, sem þetta bú fær, hefur minnkað úr 400 þús. l. niður í 200 þús. l. árlega, síðan samsalan tók til starfa.
Þetta er vegna þess, að forráðamenn samsölunnar og mjólkurstöðvarinnar hér hafa alltaf haft horn í síðu mjólkurstöðvarinnar í Hafnarfirði. Þeir hafa viljað láta hana hætta að starfa, af því að hún er ekki í beinu sambandi við samsöluna hér. Og nú, þegar nýja mjólkurstöðin hér kemur upp, þá er ætlazt til þess, að mjólkurstöðin í Hafnarfirði verði lögð niður. Og nú þurfa Hafnfirðingar daglega að kaupa gerilsneydda mjólk héðan frá Reykjavík.

Hafnarfjörður

Lækjargata 22; Mjólkurbú Hafnarfjarðar (húsið með skortsteininum).

Með þessu ástandi skapast tekjuhalli af búinu í Hafnarfirði, sem samsalan telur ekkert eftir sér að borga. Það á að sanna það, að búið í Hafnarfirði eigi að leggja niður. — Svona hefur það verið á öllum sviðum. Það hefur verið reynt að þvinga alla þá, sem hafa ekki viljað senda mjólk til samsölunnar, til þess að hætta framleiðslu sinni. Nú er mjólkin flutt sunnan af Vatnsleysuströnd gegnum Hafnarfj. til Reykjavíkur, í stöð, sem er yfirfull, og síðan er hún flutt aftur til neytenda í Hafnarfirði, meðan stöðin þar hefur ekkert að gera af því að framleiðendur fá ekki að láta mjólk sína þangað vegna skipulagsins.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1965. Þarna sést m.a. í Mjólkurbú Hafnarfjarðar.

Þeim er ekki tryggt af hálfu samsölunnar, að þeir fái sama verð fyrir mjólkina, ef þeir láti hana til búsins í Hafnarfirði, og mér er sagt, að stjórn samsölunnar hafi reynt að aftra mönnum frá því að senda mjólk sína til Hafnarfjarðar.
Við það, að bæirnir stofni kúabú, er einnig unnið margt annað. Þá geta neytendur fengið nýja mjólk, þá geta þeir sjálfir haft eftirlit með öllum rekstrinum og tryggt stórum betri hollustuhætti, og þá geta þeir fengið upplýst, hvert sannvirði framleiðsluvörunnar raunverul. er.“

Heimildir:
-Nýja Dagblaðið, 28. tbl. 04.02.1936, Mjólkurvinnslustöðin í Hafnarfirði, bls. 2.
-https://www.althingi.is/altext/raeda/62/2406.html

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Mjólkurbú Hanarfjarðar.

Sveinshús

Í Lesbók Morgunblaðsins þann 13. maí árið 2000 er fjallað um Sveinshús í Krýsuvík undir yfirskriftinni „Hús Sveins Björnssonar í Krýsuvík opnað gestum„:

Sveinn björnsson

Sveinn Björnsson við Indíánann í Kleifarvatni.

„Á hvítasunnudag, hinn 11. júní nk., verður Sveinshús í Krýsuvík, þar sem Sveinn Björnsson listmálari hafði um árabil vinnustofu sína, opnað eftir gagngerar endurbætur, en í gær afhenti Hafnarfiarðarbær Sveinssafni húsið. Margrét Sveinbjörnsdóttir átti tal við tvo af þremur sonum listamannsins, Erlend og Þórð, en þeir hyggjast taka þar á móti gestum og veita þeim innsýn í líf og list föður síns.
Sveinssafn var formlega stofnað 28. apríl 1998, ári eftir andlát Sveins Björnssonar.

Sveinn Björnsson

Sveinn að störfum við Kleifarvatn.

Safnið er til húsa í Trönuhrauni 1 í Hafnarfírði og hefur að geyma rúmlega átta þúsund myndverk listamannsins, en synir hans hafa á undanfömum árum unnið að flokkun og skráningu verkanna. Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa nú afhent Sveinssafni húsið í Krýsuvík til eignar ásamt tveggja milljóna króna styrk til endurbóta og viðhalds hússins, sem synir listamannsins, Erlendur, kvikmyndagerðarmaður, Sveinn, læknir, og Þórður Heimir, lögfræðingur, munu hafa umsjón með. „Þar með verður Sveinshús ekki aðeins órjúfanlegur hluti Sveinssafns, heldur raunverulegt andlit þess út á við,“ segir Erlendur.

Sveinshús

Þórður Sveinsson í Sveinshúsi.

Ætlun þeirra bræðra er að varðveita húsið eins og faðir þeirra skildi við það og hafa það þannig til sýnis en jafnframt hyggjast þeir setja upp breytilegar sýningar í tveimur herbergjum á fyrstu hæð, sem verða lagfærð lítillega. í framtíðinni láta þeir sig einnig dreyma um sýningaraðstöðu utanhúss. Bræðurnir fagna gjöf Hafnarfjarðarbæjar, sem þeir segja höfðinglega og lýsa virðingu bæjaryfirvalda fyrir æviverki Sveins Björnssonar og trausti á því sem þeir eru að gera í þágu listar hans.

Sveinshús opið almenningi þrjá sunnudaga í sumar

Sveinn Björnsson

Erlendur Sveinsson með eitt verka föður hans.

Framkvæmdir eru nú að hefjast í Sveinshúsi og þótt ekki takist að ljúka þeim að fullu nú í vor hefur þegar verið ákveðið að hafa húsið opið almenningi þrjá sunnudaga í sumar; 11. júní, 16. júlí og 20. ágúst. Þá verður þar dagskrá í tengslum við árþúsundaverkefni Hafnarfjarðarbæjar, sem aftur tengist dagskrá Reykjavíkur menningarborgar Evrópu árið 2000, og hefur yfirskriftina Krýsuvík – samspil manns og náttúru.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson – sjálfsmynd.

Húsið var reist árið 1948 fyrir bústjóra kúabús sem átti að reka í Krýsuvík en ekkert varð úr. Stjórnendur vinnuskóla sem starfræktur var á vegum Hafnarfjarðarbæjar í Krýsuvík á árunum 1953-64 notuðu húsið í stuttan tíma en eftir það grotnaði það niður.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson í Krýsuvík.

Árið 1974 fékk Sveinn Björnsson síðan húsið til afnota og kom sér þar upp vinnustofu, þar sem hann starfaði allt þar til hann lést árið 1997, auk þess sem hann dvaldi löngum í íbúð á efri hæð hússins. „Það voru svo margir sem voru alltaf á leiðinni í Krýsuvík að heimsækja föður okkar – en svo dó hann og ekkert varð af því,“ segir Erlendur og bætir við að það verði gaman að geta opnað húsið gestum á ný og veitt þeim hlutdeild í sköpunarverkum listamannsins.

Æviverk Sveins Björnssonar verði tekið út

Andi Sveins svífur áfram yfir vötnum í Krýsuvík, þar sem hann var jarðsettur, en þá hafði ekki verið jarðað þar í áttatíu ár.
Sveinn Björnsson
„Þegar staðið er við leiðið og horft í gegnum sáluhliðið blasir bláa húsið hans við, þannig að það er bein tenging. í gömlu kirkjunni, sem er í vörslu Þjóðminjasafnsins, er svo altaristaflan sem hann málaði,“ segir Erlendur.

Sveinssafn

Sveinn Björnsson – málverk.

„Húsið í Krýsuvík er kannski stærsta listaverkið sem faðir okkar skilur eftir sig, þar eru allar hurðir með ámáluðum listaverkum, sömuleiðis loft og veggir og listaverk hanga á veggjum í öllum herbergjum eftir hann og aðra,“ segir Þórður. Þeir bræður láta þess getið að faðir þeirra hafi lengi átt sér þann draum að stofna listasafn.
Hann hafi gert mikið af því að skipta á myndum við aðra listamenn og einnig keypt verk af kollegum sínum. „Okkur telst svo til að í safninu séu um 300 verk eftir aðra,“ segir Erlendur. Þar er einnig stórt úrklippusafn um listir á Íslandi og mikill fjöldi listaverkabóka sem Sveinn safnaði, sýningarskrár og sendibréf.
Erlendur segir Sveinssafn stærst þeirra listasafna landsins sem grundvölluð eru á verkum eins listamanns og þriðja stærsta listasafn landsins í verkum talið, eða með yfir átta þúsund skráð verk, en aðeins Listasafn Reykjavíkur og Listasafn Íslands varðveiti fleiri listaverk.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson – sjálfsmynd.

„Grundvallarmarkmiðið hjá okkur er auðvitað að æviverk Sveins Björnssonar verði tekið út – og við erum að vona að ákvörðun okkar um að halda safninu saman í stað þess að skipta því og selja mælist vel fyrir hjá fólki og teljum það vera forsendu þess að hægt sé að gera þessa úttekt og marka honum þann sess sem honum ber í íslenskri listasögu.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson – sjálfsmynd.

Raunverulega held ég að hvorkilistfræðingar né aðrir hafi yfirsýn yfir hans æviverk,“ segir Erlendur. „Eiginlega erum við rétt að uppgötva það sjálfir,“ bætir Þórður við. „Það hefur verið mikið ævintýri fyrir okkur að finna nýjar og nýjar myndir sem við höfðum aldrei séð áður – og jafnvel heilu myndlistarsýningarnar. Við fundum t.d. tvær sýningar sem höfðu ekki verið teknar upp eftir að hann kom heim frá Kaupmannahöfn. Ég var reyndar síðast að finna sex myndir í Krýsuvík í gær, uppi í geymslu. Og ég sem hélt að við værum búnir að finna allt sem hann eftirlét okkur,“ segir Erlendur.

Leitað að bláa fuglinum eða Krýsuvíkurmadonnunni

Mikil vinna liggur að baki skráningu safnsins og drjúg vinna er enn eftir við ljósmyndun, skönnun og skráningu, að sögn bræðranna.

Krýsuvík

Bústjórahúsið (Sveinssafn).

Draumurinn er að í framtíðinni verði allt safnið aðgengilegt með uppslætti í tölvu, þar verði hægt að sjá mynd af umbeðnu verki, hvar það sé að finna, hvenær það sé unnið, í hvaða efni, hver sé eigandi þess, hvort og þá hvar það hafi verið sýnt og þannig mætti áfram teíja. Verkunum verður skipt í efnisflokka, þannig að auðvelt verður að finna myndir eftir þemum, t.d. með því að slá inn leitarorð á borð við Blái fuglinn eða Krýsuvíkurmadonnan.
Vandað verður til verka í hvívetna.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson – málverk.

Þessi skráningarvinna er raunar þegar hafin. Þeir bræður eru með hugmyndir um að setja upp sérstakar þemasýningar, sýningar fyrir fyrirtæki og stofnanir og einnig að leigja út listaverk til fyrirtækja og einstaklinga. Nú stendur yfir sýning sem þeir settu upp á Hrafnistu í Hafnarfirði í vetur í tilefni af 75 ára fæðingarafmæli listamannsins, en henni lýkur 9. júní nk. Áður höfðu þeir sett upp sýningu í Sjóminjasafninu í Hafnarfirði og í Hallgrímskirkju. Snemma á næsta ári er svo fyrirhuguð sýning á verkum Sveins í Hafnarborg.

Árviss listaverkasýning á dagatali

Sveinshús

Þó að styrkurinn frá Hafnarfjarðarbæ komi að góðum notum við að setja húsið í Krýsuvík í stand segja þeir Erlendur og Þórður enn vanta mikið upp á að treysta fjárhagsgrundvöll safnsins til frambúðar. Þeir hafi raunar fengið byrjunarstyrki frá menntamálaráðuneytinu og Hafnarfjarðarbæ – en betur má ef duga skal. Þeir hafa nú sent velunnurum listmálarans og safnsins bréf, þar sem þeim er boðið að kaupa í áskrift listaverkadagatal með litprentunum af verkum Sveins en það myndi koma út í takmörkuðu upplagi og hvert eintak tölusett.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson – málverk.

Áformað er að fyrsta slíka dagatalið komi út í lok þessa árs og hefji þannig göngu sína á fyrsta ári hins nýja árþúsunds. Dagatölin hefðu m.a. það markmið að vera ákveðin kynning á list Sveins, eins konar árviss listaverkasýning. Frá náttúruupplifun listamannsins að listaverkinu.
Aftur að Sveinshúsi í Krýsuvík og því starfi sem þar er fyrirhugað. Erlendur lýsir skoðunarferð um húsið á þessa leið: „Við hugsum okkur að vera með ljósmyndasýningu sem leiðir fólk frá náttúruupplifun listamannsins, í gegnum sköpun listaverksins og að listaverkinu sjálfu inni í vinnustofu. Þetta verða níu stækkaðar ljósmyndir, þær fyrstu teknar fyrir ofan húsið, þar sem hann er að skoða jörðina og taka inn áhrifin, svo sjáum við hann vera að búa myndina til – og svo er myndin sjálf þarna.
Sveinn Björnsson

Við ætlum að taka fólk inn í litlum hópum, leiða það í gegnum húsið og benda á öll listaverkin sem eru partur af þessu húsi, benda á ýmis stef, segja frá huldukonunni hans, hver sé blái kallinn o.s.frv. Okkur dreymir líka um að koma upp sjónvarpsaðstöðu í stofunni og sýna þar búta úr vinnukópíunni af kvikmyndinni sem ég er að gera um föður okkar, líf hans og starf, þannig að fólk sjái meistarann að störfum og sömuleiðis myndir úr gagnagrunninum.“

Sveinn Björnsson

Maddonnan við Kleifarvatn.

Eins og áður sagði hyggjast þeir setja upp breytilegar sýningar í tveimur herbergjum á fyrstu hæð hússins, auk þess sem uppi eru hugmyndir um sýningar utandyra og menningarmiðstöð í næsta nágrenni Sveinshúss, sem myndi hlúa að Krýsuvíkursvæðinu í heild. Sé stór hópur fólks á ferð má skipta honum upp, þannig að á meðan hluti hans gengur um húsið í fylgd leiðsögumanns geti hinir gengið að Grænavatni eða Gestsstaðavatni, litið inn í kirkjuna eða fengið sér kaffisopa í Krýsuvíkurskóla. Nóg er að sjá í Krýsuvík, svo mikið er víst.“

Krýsuvík

Krýsuvík; Starfsmannahúsið (gult) og Bústjórahúsið (Sveinssafn).

Hafnarfjarðarbær, eigandi húsanna í Krýsuvík ofan Gestsstaðavatns, undir forystu Ingvars Viktorssonar bæjarstjóra, lét Sveini eftir bústjórahúsið á sínum tíma til afnota. Að Sveini látnum var samþykkt að húsið skyldi gert að safni til minningar um listamanninn Svein Björnsson og verk hans.

Sjá viðtal við Svein HÉR.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – menning/listir 13. maí 2000, Hús Sveins Björnssonar í Krýsuvík opnað gestum í sumar, bls. 16-17.
Sveinshús

Magnús Jónsson

Í handritaðri bók Magnúsar Jónssonar „Bær í byrjun aldar – Hafnarfjörður„, sem hann gaf út árið 1967 á eigin kostnað, kemur margt fróðlegt fram.

Úr formála fyrstu útgáfu segir:

Magnús Jónsson
„Á þessu verki, sem hér kemur fyrir almenningssjónir, eru ýmsir ágallar. Er það fyrst til að taka, að betur hefði verið farið á að miða við aldamótin, heldur en við árslok 1902, sem hér er gert aðallega. Þar er því aðeins til að svara, að fyrsta hvatningin til þess starfs, var athugun á korti af Hafnarfirði frá því ári.

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson fæddist í Hafnarfirði 10. júlí 1926. Hann ólst upp í Hafnarfirði.
Að loknu skyldunámi hóf hann störf hjá Raftækjaverksmiðjunni Rafha, lærði bókband og lauk sveinspróf frá Iðnskólanum í Reykjavík 1953.
Útskrifaðist frá Kennaraskólanum
1957. Lauk eins árs námskeiði í
bókasafnsfræðum í Kaupmannahöfn
1962. Stundaði almenn kennslustörf með hléum til ársins 1980. Starfaði á árunum 1962-1967 í bókasafni Hafnarfjarðar. Loks var Magnús minjavörður við Byggðasafn Hafnarfjarðar árin 1980-1995. Auk þess starfaði hann nítján sumur í kirkjugarði Hafnarfjarðar.
Magnús starfaði mikið af félagsmálum og bar hæst ártuga störf innan Góðtemplarareglunnar og Kvæðamannafélags Hafnarfjarðar.
Magnús var mikill áhugamaður um sögu Hafnarfjarðar og er höfundur bókanna „Bær í byrjun aldar“ og „Hundrað Hafnfirðingar“ I, II og III.
Magnús lést á Sólvangi 3. febrúar
2000.

Þá er einnig fjölskyldunum sem hér er gerð grein fyrir, gert misjafnlega hátt undir höfði. Er það bæði til að dreifa ónógri þolinmæði við að leita upplýsinga, og að fallið er í þá freistni að skrifa sumt ýtarlegar en samkvæmt meginreglunni. Þessi meginregla er sú, að nefna fæðingarár og -stað húrráðenda, giftingarár o.fl.
Einnig börn og hverjum þau giftust, séu þau fædd fyrir árslok 1902. Síðan ýmist dánarár húsráðenda eða flutningsár burtu úr bænum, t.d. til Reykjavíkur, ef um það er að ræða. Á stöku stað er leiðst út í að láta nokkur hrósyrði eða aðrar athugasemdir falla, en allt slíkt eru vandrataðir vegir, sem ef til vill væru betur ófarnir.

Reynt hefur verið að afla mynda, og hefðu þær orðið skýrari með venjulegri prentun. Myndastærðir eru tvær, annarsvegar húsráðendur og hins vegar gamalmenni, einhleypingar og fólk sem ekki var fyllilega komið út á lífið. Oft er aðeins til mynd af öðru hjónanna.
Ekki þarf orum að því að eyða, að margir hafa verið ónáðaðir með spurningum og fleiru í þessu sambandi. Er hér með beðið afsökunar á því og þökkuð góð fyrirgreiðsla.
Stundum ber ekki saman kirkjubókum og svo upplýsingum þeirra sem næstir standa. Er hér farið eftir því fyrrnefnda, en ofan og aftan við þau orð eða ártöl er lítið spurningarmerki.“

Um aðra útgáfu segir:
„Um þessa útgáfu er lítið að segja. Hún er svipuð hinni fyrri, sem kom út fyrir jólin 1967 og seldist strax upp. Hér er þó reynt að búa svo um hnútana að myndirnar verði skýrari.“

Hafnarfirði 16.9. 1970
Magnús Jónsson.

Í bókinni eru taldir upp bæirnir í Hafnarfirði um og eftir aldarmótin 1900:

1. Vesturkot
2. Halldórskot
3. Hvaleyri – heimajörðin
4. Tjarnarkot
5. Hjörtskot

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1900 – Óseyri fjær og Flensborg fremst.

6. Óseyri
7. Bær Hannesar Jóhannssonar
8. Ásbúð I (Halldór Helgason)
9. Ásbúð II (Guðm. Sigvaldason
10. Melshús
11. Brandsbær
12. Flensborg
13. Hábær
14. Nýibær
15. Skuld
16. Litla kotið
17. Holt
18. Mýrarhús I (Guðlaug Narfad.)
19. Mýrarhús II (Guðm. Ólafsson)

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir á fyrri hluta 20. aldar.

20. Jófríðarstaðir I (Þorvarður)
21. Jófríðarstaðir II (Hólmfríður o.fl.)
22. Steinar
23. Hella
24. Hamar
25. Bær Sigríðar Ísaksd. (Miðengi)
26. Bjarnabær – á Hamri
27. Gíslashús – Bjarnasonar
28. Hús Ólafs Garða
29. Bær Jóns Vigfússonar
30. Björnshús – Bjarnasonar

Hamarskot

Hamarskot – tilgáta.

31. Hamarskot
32. Stefánshús
33. Á Mölinni
34. Undirhamar
35. Klúbburinn

36. Proppé-bakaríið
37. Barnaskólahúsið
38. Blöndalshús
39. Ögmundarhús

Hafnarfjörður 1902

Hafnarfjörður 1902.

40. Hús Daníels frá Hraunprýði
41. Hús Eyjólfs Illugasonar
42. Hús Jóns Jónssonar Lauga
43. Hús sem Þorv. Erlendsson byggði
44. Hús Sveins Auðunssonar
45. Hús Vigfúsar Gestssonar

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Dvergasteinn.

46. Dvergasteinn
47. Sýslumannshúsið
48. Brú
49. Kolfinnubær
50. Kofinn – Miðhús
51. Hús Sveins Magnússonar
52. Byggðarendi
53. Lækjarkot I (Ólafur Bjarnason)
54. Lækjarkot II (Anna K. Árnad.)
55. Bossakotshús – Grund
56. Á Hólnum – Balanum
57. Gerðið
58. Bali
59. Hús Kristins Vigfússonar
60. Bær Jóns Á. Mattiesson
61. Bær Einars Þorsteinssonar
62. Helgahús
63. Hús Kristbj. Guðnasonar – Hekla
64. Ragnheiðarhús
65. Hús Guðrúnar Sigvaldad. (Hagakot)
66. Bær Sigurðar lóðs

Siggubær

Siggubær 2020.

67. Bær Kristjáns Friðrikssonar
68. Bær Krístínar Þorsteinsdóttur
69. Elentínusarbær (áður Guðnabær)
70. Steinsbær (áður Bened.bær)
71. Þorkelsbær – Snorrasonar
72. Á Snösinni – Hábær
73. Bær Bjarna Markússonar
74. Gunnarsbær
75. Markúsarbær
76. Ingibjargarbær
77. Hús Hans D. Linnet

Magnús Jónsson

Bæjarlisti bókarinnar I.

78. Brúarhraun
79. Jörgínarbær
80. Efra Brúarhraun
81. Arahús
82. Hús Einars Jóhannessonar
83. Hendrikshús

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Hraunprýði.

84. Hraunprýði
85. Ólafsbær – Knútsbær
86. Bær Jóns Sigurðs. (Hraungerði)
87. Jörundarhús
88. Hús Hansens kaupmanns
89. Beykishúsið gamla?
90. Theodórshús
91. Filippusarbær
92. Bær Sigríðar Steingrímsd.
93. Bær Jóhanns Björnssonar
94. Stundum nefnt Hansensbær
95. Á Hól
96. Þorkelsbær – Jónssonar
97. Þorlákshús – á Stakkstæðinu
98. Finnshús
99. Brekkubær (?) (Þórður Björnsson)
100. Hús Jóns Steingrímssonar

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Þorlákshús á Stakkstæðinu.

101. Efstakot(ið)
102. Hús Steingríms Jónssonar
103. Klettur (Þorst. Þorsteinssonar)
104. Níelsarhús
105. Bær Ólafs Sigurðssonar
106. Daðakot (Magnús Auðuns.)
107. Hraun
108. Bær Erlendar Marteinssonar
109. Illugahús (síðar Kóngsgerði)
110. Veðrás
111. Sigmundarhús
112. Krókur
113. Oddsbær
114. Hús Jóns Þórðars. frá Hliði
115. Flygeringshús

Sívertsenhús

Sívertsenhús.

116. Sívertsenshús
117. Lóðsbær – Gísla
118. Guðnýjarbær
119. Mörk (Sigurgeir Gíslason)
120. Hús þar sem nú er svæðið gegnt Merkugötu 11
121. Hús Guðmundar Helgasonar
122. Bær Kristjáns Auðunssonar
123. „Svartiskóli“ (Hrómundur)
124. Klofi
125. Árnahús

Magnús Jónsson

Bæjarlisti bókarinnar II.

126. Gesthús I (Einar Ólafsson)
127. Gesthús II (Bjarni Ásmunds. o.fl.)
128. Hús Guðm. Halldórss. járnsmiðs
129. Klettur (Ólafur Jónsson)
130. Svendborg
131. Langeyri
132. Brúsastaðir

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson.

Til skaða er hversu meðfylgjandi uppdráttur af herforingjaráðskorti Dana 1902 er óskýr (þess tíma tækni).

Í minningargrein um Magnús 11. febrúar 2000 segir m.a.:
„Magnús Jónsson fæddist í Hafnarfirði 10. júlí 1926. Hann lést á Sjúkrahúsinu Sólvangi 3. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Jón Helgason, f. 27.6. 1895 í Litlabæ, Vatnsleysustrandarhreppi, d. 30.12. 1986, og Halla Kristín Magnúsdóttir, f. 18.2. 1894 í Merkinesi, Akranesi, d. 16.7. 1985. Heimili þeirra var á Hverfisgötu 21b, Hafnarfirði frá 1922-1983. Auk Magnúsar eignuðust þau hjónin dreng árið 1924, sem lést 2ja daga gamall.
Árið 1959 kvæntist Magnús Dagnýju Pedersen, f. 8.10. 1926 í Resen, Skive Landsogn, Danmörku, og lifir hún mann sinn. Foreldrar hennar voru: Anna og Gravers Pedersen. Börn Magnúsar og Dagnýjar eru þrjú: 1) Jón viðskiptafræðingur, f. 7.11. 1960, kvæntur Helen P. Brown, markaðsfræðingi, f. 13.2. 1960. Synir þeirra eru: Stefán Daníel, f. 1988, og Davíð Þór, f. 1991. Þau eru búsett í Garðabæ. 2) Halla, læknaritari, f. 12.12. 1964, gift Þórði Bragasyni skrifstofumanni, f. 23.9. 1965. Börn þeirra eru Magnús, f. 1991, Bragi, f. 1993, og Ingibjörg, f. 1997. Þau eru búsett í Hafnarfirði. 3) Anna tannlæknir, f. 19.5. 1970, gift Guðmundi Jóhannssyni, sagn- og viðskiptafræðingi, f. 10.7. 1963. Sonur þeirra er Helgi, f. 1997. Þau eru búsett í Reykjavík.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Oddnýjarbær í Hellisgerði.

Magnús ólst upp í Hafnarfirði. Að loknu skyldunámi hóf hann störf hjá Raftækjaverksmiðjunni Rafha, lærði bókband og lauk sveinspróf frá Iðnskólanum í Reykjavík 1953. Útskrifaðist frá Kennaraskólanum 1957. Lauk eins árs námskeiði í bókasafnsfræðum í Kaupmannahöfn 1962. Stundaði almenn kennslustörf með hléum til ársins 1980 í Reykjavík, Hafnarfirði, Bessastaðahreppi og á Vatnsleysuströnd. Starfaði á árunum 1962-1967 í bókasafni Hafnarfjarðar. Loks var Magnús minjavörður við Byggðasafn Hafnarfjarðar árin 1980-1995. Auk þess starfaði hann nítján sumur í kirkjugarði Hafnarfjarðar. Magnús starfaði mikið af félagsmálum og bar hæst ártuga störf innan Góðtemplarareglunnar og Kvæðamannafélags Hafnarfjarðar. Magnús var mikill áhugamaður um sögu Hafnarfjarðar og er höfundur bókanna „Bær í byrjun aldar“ og „Hundrað Hafnfirðingar“ I, II og III.

Magnús og Dagný bjuggu allan sinn búskap í Hafnarfirði, lengst af á Skúlaskeiði 6.“

Hafnarfjörður

Heimildir:
-Bær í byrjun aldar, Magnús Jónsson – Hafnarfjörður, Skuggsjá, gefið út á kostnað höfundar 1970.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/518317/
-https://www.fjardarfrettir.is/wp-content/uploads/pdf/FF-2017-46-vef.pdf

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson.

Seltún

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1943 lýsir Ólafur Þorvalddson „Fornum slóðum milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar„.

„Gömlum vinum og gömlum götum á enginn að gleyma“.

Ólafur Þorvaldsson

Þetta segja frændur okkar Færeyingar, og væri gott, að fleiri minntust.
Með þennan málshátt í huga rifja ég hér upp minningar um nokkrar gamlar götur hér í nágrenni, sem voru fram á síðustu áratugi nokkuð fjölfarnar, en eru nú að mestu og flestar að öllu lagðar af, — hætt að fara þær. Ýmist hafa þessar götur lagzt af vegna þess, að girðingar hafa verið settar um þær þverar eða sökum þess, að nýir vegir hafa verið lagðir og þeir að sjálfsögðu farnir nú, þar sem flest farartæki, sem nú eru mest notuð, eru þannig, að krókóttir götuslóðar, sem aðeins voru ætlaðir manna- og hestafótum, koma þeim ekki að notum.
Þessar gömlu götur og vegir, því að nokkuð af þeim kallaðist vegir, annað götur eða stígar, búa í þögn sinni og yfirgróningu yfir margra alda óskráðum minningum um alla þá menn, sem þar hafa um ferðazt; um alla þá erfiðleika, sem þeir áttu við að etja, á jafntorfærum leiðum og margar þeirra voru, — en voru þrátt fyrir allt leið manna um landið frá landnámstíð fram á vora daga.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Þær búa líka yfir mörgum ánægjustundum vegfarenda, sem svo oft síðar var vitnað til, að þetta eða hitt hefði borið við á þessum leiðum. Efast ég um, að fólk, sem ferðast nú um landið eftir dýrum vegum, á dýrum farartækjum nútímans, eigi ánægjulegri og bjartari minningar að ferðalokum en þessar fornu og nú yfirgefnu slóðir veittu oft og einatt þeim, sem um þær fóru á sínum tíma.
Flestar hafa þessar götur orðið til smám saman af umferð manna og hesta, og hafa margar þeirra verið mjög fjölfarnar, t. d. sést víða, þar sem leiðir liggja yfir hraunhellur, að hesthófurinn með sínum pottuðu skeifum og oft líka pottuðu hestskónöglum, hefur sorfið götur oft 10—20 sm djúpar. Til þess að djúpar götur myndist í hart hraunið eða grágrýtisklappir, hefur umferðin hlotið að vera bæði mikil og það um langan tíma.

Krýsuvíkurgötur
Ég ætla nú að lýsa að nokkru vegum, götum og stígum, sem liggja milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur og oftast voru farnir. Að sjálfsögðu sleppi ég hér þeim nýja Krísuvíkurvegi, sem nú er að mestu fullger. Þó á hann þegar nokkra sögu, en hún er annars eðlis og skal ekki rakin hér.

Kaldárselsgata

Kaldárselsgata.

Fyrst skal hér lýst þeim vegi, sem mest var farinn og aðallega, þegar farið var með hesta. Vegur sá var tekinn úr Hafnarfirði öðru hvoru megin Hamarskotshamars, upp yfir Öldur, þar sem nú er kirkjugarður Hafnfirðinga, upp í Lækjarbotna, með Gráhelluhrauni sunnanverðu, upp að Gjám, sem er hraunbelti frá því móts við Fremstahöfða, upp í Kaldársel. Þar var venjulega aðeins staldrað við, hestar látnir drekka, þegar farið var yfir ána, því að oftast var ekki um annað vatn að ræða, fyrr en til Krýsuvíkur var komið.

Frá Kaldárseli lá leiðin yfir smáhraunbelti, unz komið var að Undirhlíðum. Lá vegurinn suður með þeim, víða allsæmilegur, moldar- og melgötur. Vegurinn liggur yfir eitt hraunhaft, norðarlega með Undirhlíðum, kringum eldvörp þau, sem Ker heita, og hefur hraun streymt þar upp undan hlíðinni á vinstri hönd, þegar suður er farið.

Kerin

Kerin í Undirhlíðum.

Syðst með Undirhlíðum, eða nokkru sunnar en Stórihríshvammur, er farið yfir mel úr rauðu gjalli, og heitir sá melur Vatnsskarðsháls, þaðan er stutt í Vatnsskarð, þar sem hinn nýi vegur liggur nú úr hrauninu upp á hálsinn. Í Vatnsskarði var talin hálfnuð leiðin milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Venjulega var áð þar snöggvast, lagað á hestunum, gert að, sem kallað var, stundum kippt ofan, einkum ef lest var ekki þung. Þegar lagt er upp úr Vatnsskarði, taka við hinir svonefndu Hálsar, réttu nafni Sveifluháls, og má segja, að suður með hálsinum sé góður vegur. Sem næst þriggja stundarfjórðunga lestagang frá Vatnsskarði skerst dálítil melalda fram úr hálsinum, og heitir þar Norðlingaháls.

Köldunámur

Köldunámur.

Nokkru þar sunnar sjást í hálsinum leifar af brennisteinshverum, og heitir það svæði Köldunámur. Þar litlu sunnar tekur við stór grasflöt, sem Hofmannaflöt heitir. Við suðurenda hennar rís upp úr hálsinum hæsti tindur Sveifluháls, sem Miðdagshnjúkur heitir. Veit ég ekki, hvernig það nafn er til orðið, — en gamalt er það. Ef um dagsmörk er að ræða í því sambandi, getur það ekki komið frá Krýsuvík. Fremur gæti það átt við frá Hvaleyri eða Ási eða annars staðar í grennd Hafnarfjarðar. Þegar Hofmannaflöt sleppir, er skammt ófarið að Ketilsstíg, þar sem vegurinn liggur upp yfir hálsinn. Stór steinn er á hægri hönd og á honum dálítil varða, og er það leiðarmerki um það, að þeir, sem til Krýsuvíkur ætluðu, tækju stíginn upp í hálsinn, en héldu ekki lengra suður með, því að sá vegur lá til Vigdísarvalla og enda alla leið suður fyrir háls, og er syðsti útvörður þessa langa og tindótta háls, fagurt, keilulagað fell, — Mælifell. Þegar Ketilsstígur er tekinn, liggur vegurinn fyrst upp allbratt klettahögg, en þegar upp á það er komið, liggur Ketillinn svo að segja fyrir fótum manns. Ketillinn er kringlóttur, djúpur dalur eða skál inn og ofan í hálsinn. Grasflöt er í botni Ketilsins, sem er svo djúpur, að botn hans mun vera jafn undirlendinu fyrir neðan Hálsinn.

Seltún

Seltún.

Vestur- og norðvesturbrún Ketilsins er þunnur móbergshringur, en norður-, austur- og suðurhliðar eru hálsinn sjálfur upp á brún, og er hæð hans þar um 350 m. Ketilsstígur liggur því í fullan hálfhring um Ketilinn, hærra og hærra, þar til á brún kemur. Láta mun nærri, að verið sé 30—4 5 mín. upp stíginn með lest, enda sama þótt lausir hestar væru, því að flestir teymdu hesta sína upp stíginn. Ketilsstígur er tvímælalaust erfiðasti kaflinn á þessari hér um ræddu leið. Slæmt þótti, ef laga þurfti á hestum í stígnum, og búast mátti við, ef baggi hrökk af klakk, hvort heldur var á uppleið eða ofan, að hann þá, ef svo var lagaður, ylti langt niður, því að utan stígsins, sem heita má snarbrattur, eru mest sléttar skriður ofan í Ketilbotn.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Ketilsstígur er mjög erfiður klyfjahestum og sízt betri niður að fara en upp. Þegar upp á brún kemur, sést, að hálsinn er klofinn nokkuð langt norður, allt norður að Miðdagshnjúk, og eru í þeirri klauf sanddalir, sem Folaldadalir heita. Af vestari brún hálsins liggur vegurinn spölkorn eftir sléttum mel til suðausturs, og blasir þar við hæsta nípa á austurbrún hálsins og heitir Arnarnípa.

Seltún

Seltún.

Litlu sunnar er komið að dálitlu stöðuvatni, sem Arnarvatn heitir. Eftir það fer að halla niður af hálsinum að sunnan, og er nú ekki eins bratt og að vestan, þar til komið er fram á síðari brekkuna, sem er brött, en stutt. Þegar brekkunni sleppir, er komið í grashvamm, sem Seltún heitir. Allur er hálsinn uppi, norðan vegar, gróðurlaus, en sunnan vegar er sæmilegur gróður. Allhár og umfangsmikill hnjúkur er sunnan vegarins, þegar austur af er farið, og heitir sá Hattur. Víðsýnt er af vesturbrún Sveifluháls, þaðan sér yfir allan Faxaflóa, allt til Snæfellsness, en af austurbrún blasir Atlantshafið við, sunnan Reykjaness. Þegar í Seltún kemur, er talið, að komið sé til Krýsuvíkur, þó er um einnar stundar lestagangur heim að Krýsuvík. Í Seltúni eru nokkrir leirhverir, og kraumar í sumum græn leðja, aðrir eru dauðir. Ur Seltúnshvamminum er farið yfir alldjúpt gil, Selgil. Á sumrum seytlar þar vatn í botni, en á vetrum getur það orðið ófært með hesta sökum fannar, sem í það skeflir, þar eð gilið er djúpt og krappt.

Seltún

Námuhús Brennisteinsfélagsins við Seltúnsbarð.

Sunnan gilsins er Seltúnsbarð, og stóðu þar fram yfir aldamót síðustu tvö allstór timburhús, sem enskt félag, er rak brennisteinsnám þar og í Brennisteinsfjöllum á síðari hluta nítjándu aldar, reisti þar. Nú eru þessi hús löngu horfin. Af Seltúnsbarði er haldið yfir svonefnda Vaðla.

Grænavatn

Grænavatn.

Eftir það taka við melar, og liggur vegurinn þar á vesturbakka Grænavatns. Nokkru norðvestar er Gestsstaðavatn, umlukt háum melum, og sést ekki af veginum. Þegar Grænavatni sleppir, er örstuttur spölur suður á móts við Nýjabæina, Stóri-Nýibær til vinstri, Litli-Nýibær til hægri, og þar með komið í Krýsuvíkurhverfi. Milli Nýjabæjanna og heimajarðarinnar Krýsuvíkur er um 12 mín. gangur. Tún heimajarðarinnar liggur sunnan undir og uppi í Bæjarfelli, en bæjarhús, kirkjan og kirkjugarðurinn standa á hól eða hrygg sunnarlega á túninu.
Hér hefur verið lýst að nokkru aðalveginum milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, sem, eins og fyrr segir, var oftast farinn og aðalleið á sumrin, þegar farið var lausríðandi eða með lest, og var þessi leið talin um 8 klst. lestagangur.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi við Ketilsstíg.

Þá mun ég hér að nokkru lýsa tveimur stígum, sem vestar liggja og aðallega voru farnir af gangandi mönnum, svo og ef farið var með fáa hesta að vetrarlagi, bæði af því að þessar leiðir lágu mun beinna við til Hafnarfjarðar eða frá, svo líka eftir því, hvernig snjór lá, ef mikill var.

Krýsuvíkurgata

Krýsuvíkurgatan milli Grænavatns og Krýsuvíkurbæjar.

Ef snjó setti niður af austri eða norðaustri, t. d. meðan menn höfðu viðdvöl í kaupstaðnum, var venjulega snjóléttara á þessum leiðum en með Undirhlíðum og Hálsum. Hins vegar gat síðartalda leiðin verið snjóminni, ef mikið snjóaði af suðvestri. Þetta þekktu rnenn af langri reynslu. Annars voru vetrarferðir fátíðar með hesta milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Þó kom fyrir, að farið var fyrir jólin, aðallega þá með rjúpur til að selja, svo og stöku sinnum á útmánuðum. Venjulega fóru menn vetrarferðir, ef farnar voru, gangandi, og ýmist báru menn þá eða drógu á sleða það, sem með var verið. Stillt var svo til, að tungl væri í vexti og færi og veðurútlit sem ákjósanlegast. Margir voru þá mjög veðurglöggir, og var þar eftir ýmsu að fara, sem löng reynsla, ásamt skarpri eftirtekt kenndi mönnum.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Þegar ferðamenn fetuðu Stórhöfðastíg, var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum, um hlaðið í Ási, oft gist þar, ef menn t. d. komu frá Reykjavík. Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls, suður yfir Selhraun, vestan undir Stórhöfða, nokkurn spöl suðaustur með honum, lagt á hraunið frá suðurhorni hans, fyrst um gamalt klappahraun, þar til komið var á nýrra brunabelti, sem á sínum tíma hefur runnið ofan á gamla hraunið. Gegnum nýja brunann liggur stígur eða gata, sem enginn veit, hvenær ruddur hefur verið, annars með öllu ófær hestum.

Snókalönd

Snókalönd.

Í nýja brunanum, spölkorn austur af stígnum, eru tveir dálitlir blettir eða hólmar, sem bruninn hefur ekki náð að renna yfir. Hólmar þessir heita Snókalönd. Ekki ber þau hærra en umhverfið og sjást því ekki lengra til, og helzt ekki fyrr en að er komið. Hestfær götuslóð liggur norður í Snókalönd, nokkru austar en þar, sem Stórhöfðastígurinn kemur suður úr brunanum. Ekki eru Snókalöndin jafnstór, það vestra nokkru stærra, og slóð á milli. Hvað liggur til grundvallar þessu nafni, veit víst enginn lengur, en á tvennt mætti benda. Í fyrra lagi, að þarna hafi vaxið villihvönn, snókahvönn — geitla. Í öðru lagi, að blettir þessir, sem hafa verið miklu gróðurríkari en umhverfið, hafi fengið nafn sem land af töngum þeim og hornum, sem hinn ójafni brunakantur myndar þarna í grennd, og gæti því þýtt „Krókalönd“.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur norðan Snókalanda.

Í orðabók Blöndals segir, að snókur sé angi eða útskiki út frá öðru stærra. Gætu því tangar þeir, sem út úr brunanum ganga, verið stofn að þessu nafni. Þó finnst mér fyrri tilgátan sennilegri. Líkur benda til, að þarna hafi verið nokkur skógur og máske verið gert þar til kola fyrrum.
Gatan út í Snókalöndin bendir á nokkra umferð þangað. Sökum fjarlægðar þessa staðar frá alfaraleið óttast ég, að svo geti farið, að hann gleymist og nafnið týnist, þar sem þeir, er mest fóru þar um og héldu með því við mörgum örnefnum, voru fjármenn og smalar, en þeim fækkar óðum um þessar slóðir sem víðar.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Af þessum orsökum get ég hér þessara litlu hólma með hinu fágæta og fallega nafni. Þess má geta, að gren er í vestara Snókalandinu — Snókalandagren. Þegar suður úr brunanum kemur, liggur stígurinn upp með suðvesturbrún hans, og fylgir maður brunanum, þar til komið er móts við Vatnsskarð í Undirhlíðum, sem farið er þá að nálgast. Úr því liggur stígurinn meira til suðurs, þar til komið er að Fjallinu eina. Er það fremur lágt, hrygglaga fjall með klettaborg á suðurenda. Austan undir því liggur stígurinn, og er þá Sandfell á vinstri hönd allnærri. Er nú stutt þar til komið er á Undirhlíðaveginn, skammt suður af Sandfellsklofa.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Stórhöfðastíg fóru stundum lausríðandi menn frá Krýsuvík til Hafnarfjarðar. Fóru þá sem leið lá inn með hálsum, þar sem sú leið er allgóður reiðvegur, þar til kom á móts við, þar sem Stórhöfðastígurinn lá vestur á milli Fjallsins eina og Sandfells. Sá stígur var stundum tekinn, því að við það féll úr mikill krókur, inn með Undirhlíðum um Kaldársel, en hitt bein lína til Hafnarfjarðar. Þó að Stórhöfðastígurinn sé frekar slitróttur, var gott að láta hestinn njóta hægu ferðarinnar, en jafnsnemma komið til Hafnarfjarðar eða fyrr, þrátt fyrir stirðari veg.

Hrauntungustígur

Þeir, sem ætluðu sér Hrauntungustíg frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur, fóru um Jófríðarstaði að Ási, þaðan um skarð vestan Ásfjallsaxlar, yfir hraunhaft milli Grísaness og Hamraness, undir vesturenda þess, austur að stórum steini flötum ofan, sem er þar stakur á jafnsléttu.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Frá Hrauntungustíg er farið suður á gamalt helluhraun um 10 mínútur, þá tekur við Nýibruni eða Háibruni, sem runnið hefur ofan á eldra hraunið. Gegnum brunann er, eins og á Stórhöfðastíg, rudd allgreiðfær gata, sennilega gerð á svipuðum tíma og Stórhöfðastígur, en hver það hefur látið gera, veit víst enginn, en mjög gamlar eru þessar vegabætur, og eru þær sennilega fyrstu vegabætur, sem gerðar hafa verið til Krýsuvíkur.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur – vegvísir.

Gegnum Háabrunann er sem næst 20 mín. gangur með lest, og þegar á suðurbrún hans kemur, ganga til beggja handa suður úr brunanum tvær brunatungur, sem stígurinn liggur suður á milli, og ná þessar tungur spölkorn suður á svokallaðan Almenning, sem er nú búfjárhagar Hraunajarðanna, en hefur fyrr á öldum, eins og nafnið bendir til, verið frjáls til afnota fleiri en Hraunabændum, t. d. til kolagerðar, og sjást þar enn allvíða leifar gamalla kolagrafa. Af brunatungum þessum tel ég víst, að stígurinn hafi nafn fengið, Hrauntungustígur.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Eftir að suður úr Hrauntungum kemur, er óglögg, sums staðar jafnvel engin gata, og verður því sjónhending að ráða, enda torfærulaust yfir kjarri vaxið lágahraun, en allt á fótinn. Þegar kemur dálítið upp í Almenninginn, fer maður nálægt gömlu selstæði, sem Gjásel heitir, og er þar venjulega vatn.

Gjásel

Gjásel.

Sennilega hefur þar verið haft í seli frá Þorbjarnarstöðum eða Stóra-Lambhaga í Hraunum. Nokkru austar er annað selstæði, sem Fornasel heitir. Þegar suður á há-Almenning kemur og útsýnið víkkar til suðurs, sést hár klettahryggur í suðvestur, og eru það Sauðabrekkur. Norður af þeim er farið yfir víða og djúpa gjá, á jarðbrú, Sauðabrekkugjá, eftir það er komið á svonefnda Mosa, sem er flatt grámosahraun, og er gata þar allglögg. Þá er hár brunahryggur, sem liggur frá norðri til suðurs á vinstri hönd og heitir Hrútagjá, Hrútadalir þar suður af. Þegar Mosum sleppir, hefur maður Mávahlíðarhnjúk og Mávahlíðar skammt sunnar á hægri hönd. Móti Mávahlíðum syðst er komið í Hrúthólma; er það langur, en fremur þunnur melhryggur, nokkuð gróinn neðan, öllum megin, smávin í þessari brunaeyðimörk.

Hrúthólmi

Hrúthólmi.

Þegar úr Hrúthólma er farið, taka við sléttar hraunhellur, ágætar yfirferðar. Sunnarlega á þessum hellum er stakt móbergsfell, Hrútafell. Þegar á móts við það kemur, en það er nokkuð til hægri við stíginn, er stutt þar til komið er á sumarveg Krýsuvíkur, skammt norðan Ketilsstígs. Þessi leið, sem hér hefur lýst verið að nokkru, var að heita má eingöngu farin af gangandi mönnum, og stundum ráku Krýsvíkingar fé til förgunar þessa leið. Sömuleiðis kom fyrir, að hún var farin af Herdísarvíkurmönnum, svo og Selvogsbúum, þegar þeir ráku fé í kaupstað, ef snjór var fallinn á fjallið og Kerlingarskarð, sem annars var þeirra aðalleið til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.
Hér hefur þá nokkuð ýtarlega verið gerð tilraun til að lýsa þeim þremur höfuðleiðum, sem lágu milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, frá því þar varð fyrst byggð, fram á síðustu ár.

Óttarsstaðasel

Rauðamelsstígur.

Að lokum vil ég svo geta að nokkru fjórðu leiðarinnar, sem kom fyrir, að Krýsvíkingar fóru, ef með hesta voru fyrir neðan, þ . e. í Hafnarfirði, og dreif niður svo miklum snjó, að hinum leiðunum var engri treyst. Þá gat þessi leið verið fær. Leið þessi lá frá byggð í Hraunum sunnan Hafnarfjarðar.

Óttarsstaðaselsstígur

Óttarsstaðaselsstígur (Rauðmelsstígur).

Þegar menn fóru þessa leið, var venjulega farið út af Suðurnesjaveginum, norðan Rauðamels, skammt sunnan Óttarsstaða, um Óttarsstaðasel, vestan undir Skógarnefjum, sunnan Einihlíða, en norðan Lambafells, fram hjá afar stórum klettum, sem eru einstæðir á sléttum mosaflákum og Bögguklettar heita, þaðan yfir brunatagl, sem liggur upp að norðurhálsi Trölladyngju, upp slóða yfir hálsinn, síðan yfir helluhraun slétt norðan Hörðuvalla, sem er nokkurt undirlendi mót norðri, milli Trölladyngju og Grænudyngju. Þá er komið að fjalli, sem Fíflavallafjall heitir, og farið nokkuð suður með því að austan, þar til komið er undir Stórusteinabrekku, þaðan liggur stígurinn yfir slétt helluhraun norðan Hrútafells, unz komið er á stíginn upp úr Hrúthólma, sem er á Hrauntungustígsleið, sem áður getur.

Önnur leið upp úr Hraunum lá nokkru norðar, — eða upp frá Þorbjarnarstöðum, venjulega norðan Draughólshrauns, um Straumsel, norðan Gömluþúfu, sem er hár og umfangsmikill klettur upp úr hæstu hæð Hraunaskógar (Almennings). Þegar upp fyrir Gömluþúfu kom, mátti fara hvort menn vildu heldur, austan eða vestan Sauðabrekkna, og var komið á Hrauntungustíg norðan Mávahlíða.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur – Fornasels- og Gjáselsstígur.

Þessi leið var helzt farin af Hraunamönnum, er svo voru almennt kallaðir, sem fóru aðallega til fjárleita haust og vor til Krýsuvíkur, svo og af Krýsvíkingum, þegar fyrir kom, að þeir sóttu sjóföng til Hraunabænda, því að meðan Hraunajarðir voru almennt í byggð sem bændabýli, sem var fram yfir síðustu aldamót, — enda tvær jarðir enn —, var þaðan mikil sjósókn.

Hellan

Hellan vestan Kleifarvatns.

Áður en við yfirgefum þessar slóðir að fullu, skulum við nú, þegar við hverfum frá Krýsuvík að þessu sinni, fara leið, sem við höfum ekki áður farið. Þessi leið er hin svonefnda Vatns- eða Dalaleið. Nú vill svo til, að nokkur kafli hins nýja vegar frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur liggur með Kleifarvatni að vestan, svo að nú gefst fleiri mönnum kostur á að fara þessa leið en áður var.

Þessi leið mun ekki hafa talizt til höfuðleiða milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, enda sjaldan farin, og þá helzt á vetrum. Þó tel ég hana ekki með öllu ómerkilega, og ber fleira til en eitt. Það er þá fyrst, að þessi leið er stytzta og beinasta lestaleiðin milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Hún er greiðasta og hægasta leiðin. Hún liggur í sérkennilegu og fögru umhverfi. Hún var nokkrum annmörkum háð, — og hún gat verið hættuleg.

Gvendarsel

Askur í Gvendarseli við Bakhlíðar.

Þessa leið var ekki hægt að fara, jafnvel svo árum skipti, nema ísar væru tryggir, og lágu til þess tvær meginástæður. Annars vegar réðu hér um vetrarhörkur, hins vegar náttúrufyrirbæri, sem enn eru óskýrð, svo að fullsannað sé. Hér kom fram sem oftar, að ekki fóru ávallt saman óskir ferðamannsins og lögmál náttúrunnar. Til þess að hægt væri að fara þessa leið með hesía að vetri til, varð Kleifarvatn að vera á hestís. Reynslu voru menn búnir að fá fyrir því, að Kleifarvatni var ekki að treysta á ís með hesta fyrr en eftir vetrarsólhvörf.

Hellan

Krýsuvíkurvegurinn um Helluna undir Sveifluhálsi. Dalaleiðin lá ofar á Hellunni.

Meginorsök þess, hve vatnið leggur seint, er vafalaust sú, að allmikill hiti er í botni þess, sér í lagi að sunnanverðu, og hafa, þegar vatnið er lítið, verið talin þar milli 10 og 20 hveraaugu, sem spýta sjóðheitri gufu upp í vatnið og í loft upp, þegar út af þeim fjarar. Hvað sem um skoðanir manna og reynslu í þessu efni er að segja, er hitt víst, að frosthörkur voru venjulega meiri og stóðu oft lengur, eftir að kom fram yfir miðjan vetur. Hins vegar var vorís ekki treyst, þótt þykkur væri.
Á þessari leið gátu ísar verið ótryggir víðar en á Kleifarvatni, sem síðar mun að vikið. Á öðrum árstíðum, þegar menn hefðu gjarnan viljað fara þessa leið með hesta, gat það dottið í Kleifarvatn að banna ferðir manna, svo að árum skipti. Þar kemur leyndardómur Kleifarvatns til sögunnar. Kleifarvatn hefur frá ómunatíð verið mjög breytilegt að vatnsmagni. Það er háð eins konar flóði og fjöru, útfalli og aðfalli, — en þetta gerðist ekki allt á einum sólarhring. Annað fallið tekur, eftir reynslu margra kynslóða, hvorki meira né minna en 12 — 20 ár, getur verið nokkuð breytilegt til eða frá. Hvað veldur þessari hreyfingu á vatninu, er, að því er ég bezt veit, ósannað enn, þrátt fyrir ýmsar minni háttar rannsóknir, sem venjulega hafa endað á getgátum sitt á hvað.

Gullbringa

Gullbringa.

Landi því, sem að Kleifarvatni liggur, er þannig háttað í höfuðdráttum: Fyrir suðausturenda vatnsins er móbergshöfði, sem gengur í vatn fram og heitir Geithöfði. Þá nokkru lengra til suðausturs er hæðabunga, sem Gullbringa heitir. Þá tekur við grámosahraun, sem steypzt hefur fram af fjallinu norðan Vörðufells og runnið í mjóu belti í vatn fram og heitir Hvannahraun. Eftir það tekur Vatnshlíðin við, brött og nokkuð grafin af giljum, sem ófær eru hestum, og þar með lokast leiðin austan Kleifarvatns, því að vatnið liggur upp að hlíðinni, en stórgrýtt er í botni við landið.
Innst í Vatnshlíðinni eru Hrossabrekkur, brattar og giljóttar. Þegar yfir þær er komið, telst, að komið sé inn fyrir Kleifarvatn að austan. Vestan Kleifarvatns liggur Sveifluháls, brattur, tindóttur og svipmikill. Tveir stapar skaga austur úr hálsinum út í vatnið og heita Syðri- og Innri-Stapi. Vegurinn liggur uppi á stöpunum, en milli þeirra gengur klettarani fram að vatninu, en til þess að menn kæmust leiðar sinnar með vatninu, varð að komast framan undir þessum klettarana, en til þess að hægt væri að komast þar með klyfjahesta, varð vatnið að vera allmikið fjarað, — eða lítið vaxið, ef í vexti var.

Kleifarvatn

Innri-Stapi.

Nokkru innar en Innri-Stapi gengur hálsinn eða hamar úr honum þverhnípt í vatn á litlum spöl. Þarna er hin svonefnda Hella. Þegar hátt var í vatninu, náði það upp í Helluna, en stórgrýtt er í botni undir hamrinum. Einstigi, aðeins fyrir gangandi menn, lá eftir Hellunni um 10—20 m ofar vatni, en svo var stígur þessi tæpur, að ekki fóru hann nema stöku menn, og það aðeins þegar autt var, og þá sumir á sokkaleistum, og lofthræddir fóru þar alls ekki. Þegar inn fyrir Helluna kom, voru torfærur á Vatnsleiðinni yfirstígnar. Að öðru leyti var þessi leið sem hér segir: Þegar farið var frá Krýsuvík, var venjan að vetri til að fara inn með Lambafellum, yfir Svuntulækinn, milli Lambafells og Norðurkotsness, þaðan beint inn Nýjaland og inn á Kleifarvatn. Væri hins vegar farið á auðu, var farið úr Norðurkotsnesi, vestan við Nýjaland um Kaldrana. Á Kaldrana er sagt að ein hjáleiga Krýsuvíkur hafi verið fyrr meir, og segja munnmæli, að hún hafi eyðzt vegna álaga, sem mæltu svo um, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi að loðsilung verða, en hann á óætur að vera, samanber vísu þá, sem sagt er, að kveðin hafi verið á glugga í Krýsuvík, eftir að fólkið á Kaldrana hafði étið silunginn, en það vissi ekki, að það var búið að gera hann að umskiptingi. Vísuna hef ég lært þannig:

Liggur andvana
lýður á Kaldrana,
utan ein niðurseta,
sem ei vildi eta.

Kaldrani

Tóftir Kaldrana.

Nú sjást engin merki um býlið á Kaldrana, en staðinn geta menn enn bent á. (Saga þessi er í Þjóðs. Jóns Árnasonar I, bls. 636—37. Í nafnaskrá er gert ráð fyrir, að bærinn sé Kaldrani á Skaga, enda er Kleifarvatn ekki nefnt á nafn í sögunni. Sbr. þó Árbók fornl.fél. 1903, bls. 50.)
Af Kaldrana liggur leiðin inn yfir Sand, um Syðri-Stapa. Eftir það var farið ýmist alveg með vatninu eða aðeins ofar, þar til komið er inn fyrir Hellu. Eftir það sléttur sandur, þar til komið er inn á Blesaflöt. Þegar á hæðina kemur innan Blesaflatar, opnast útsýn til norðurs og norðausturs. Til norðausturs sér inn með Lönguhlíð allt til Grindaskarða, og lengra í sömu átt sér til Vífilfells og Hengils. Mestallt land í þessum víða fjallafaðmi, milli Lönguhlíðar og allt til Vífilfells annars vegar, allt í sjó fram, sunnan Reykjaness til Hafnarfjarðar hins vegar, að nokkrum smærri fjöllum og hlíðum undanteknum, — er brunnið land, hraun á hraun ofan. Öll eru hraun þessi mosavaxin, og allvíða annar gróður, svo sem viðarkjarr, lyng, víðir, einir og margs konar grasategundir.

Breiðdalur

Breiðdalur – Helgafell fjær.

Þó að land þetta sýnist auðnarlegt og gróðursnautt yfir að líta, er hér mörg matarholan fyrir búpening manna og margur fagur blettur og aðlaðandi, þegar lærzt hefur að þekkja þá.
Af áður umgetinni hæð innan Blesaflatar liggur gatan inn á Breiðdal, sem sendinn er að sunnanverðu, en að austan og norðan samfelldur harðvellisgróður og sem tún yfir að líta. Upp úr norðurbotni Breiðdals er farið yfir allbratt melhaft, og þegar norður af því kemur, er komið í Syðri-Leirdal, sem er aðeins sandur og leir, og má svo heita, að samtengdur sé innsta dalnum á þessari leið — Slysadal. Það nafn mun þessi dalur hafa fengið á síðari helmingi nítjándu aldar, eftir að vinnumaður frá Krýsuvík, sem var á leið til Hafnarfjarðar, missti þar ofan um ís þrjá hesta, sem allir fórust.

Slysadalur

Slysadalur.

Í öllum þessum dölum er að vísu allmikið vatn á vetrum, sem svo leggur í frostum, og ættu þeir því ekki að vera hættulegri yfirferðar en Kleifarvatn. Hér hefur áreiðanlega einstök slysni hent þennan umrædda ferðamann, þar eð hann var klaklaust kominn yfir Kleifarvatn og syðri dalina. En svo er háttað, að nyrzt á Slysadal, þar sem hann er gróinn sem tún væri, eru jarðföll nokkur, sem sennilega hafa myndazt þar, sem vatn hefur hlaupið í jörð á vorin.

Leirdalur

Slysadalir / Leirdalur – Helgafell fjær.

Jarðföll þessi eru að vísu ekki djúp, 2—4 m, en nógu djúp til þess, að þegar vatn er og ísar yfir öllu, er í þeim meira vatn en svo, að hestar nái niðri, ef ofan í lenda. Af þessu má ráða, að ferðamaðurinn hafi verið svo óheppinn, að leið hans hafi legið yfir eitthvert jarðfallið, þar eð þau flest eru nærri götu, vatn verið hlaupið undan ísnum og hol komið milli íss og vatns, og ísinn þar með misst viðhald að neðan, sem svo leiddi til þess, að ísinn brast undan þunga hestanna. Hafi þetta slys þannig að borið, var vonlaust fyrir einn mann að bjarga hestunum, enda tókst það ekki.
Þegar Slysadal sleppir, er komið á Bakhlíðar. Liggur gatan með þeim, um smáhæðir og daladrög, þar til komið er á Gvendarselshæð. Þar var haft í seli á síðustu öld, og sagt hefur verið, að þar hafi svo þykkur rjómi verið á trogum, að haldið hafi uppi vænni silfurskeið, aðrir segja skaflaskeifu.

Kaldársel

Kaldársel – gamla gatan.

Frá Gvendarseli er stutt, þar til farið er ofan af Undirhlíðum, í Kúadal, og þá komið á Krýsuvíkurleið, aðalleið, skammt sunnan Kaldársels. Þótt þessi leið væri heldur fáfarin sökum annmarka, fannst mér hún þess verð, að hennar væri að nokkru getið.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.

Hér skal ekki fjölyrt um Krýsuvík, þetta forna stórbýli með 10 hjáleigum sínum, — þótt nú séu bæirnir hrundir og löndin auð — , sem áður var sérstök kirkjusókn og allar þessar leiðir lágu til. Þó er hún á svo margan hátt stórbrotin og merkileg jörð, að vel væri til fallið, að saga hennar væri skráð. Allar þær leiðir, sem hér hafa verið að nokkru teknar til lýsingar, er nú hætt að fara. Fyrir sumum þeim, sem einhvern tíma hafa farið þær, eru þær nú gleymdar og týndar, fyrir fjöldanum nú með öllu ókunnar, og fæstir vita, að þær hafi nokkurn tíma til verið.

Litli-Nýibær

Litli-Nýibær í Krýsuvík.

Fer því um þær eins og annað það, sem úr gildi fellur og hætt er að nota, að yfir þær fyrnist með öllu, þær gleymast, týnast, og með þeim mörg örnefni, sem staðið hafa og standa í órofa sambandi við þær, flest ef ekki öll svo vel heitin, að nútíðin eða framtíðin mun trauðla fylla þau skörð, þar sem gömul nöfn týnast, ef þá nokkurn tíma verður reynt að bæta fyrir það virðingar- og ræktarleysi þjóðarinnar að hafa gleymt og glatað gömlu örnefnunum og gömlu götunum, gleymt gömlum vinum.

Heimild:
Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, Ólafur Þorvaldsson,01.01.1943, bls. 6 og 83-95.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Krýsuvík

Þórður Jónsson á Eyrarbakka skrifaði grein í Alþýðublaðið 1935 um „Krýsuvík„:

Krýsuvík

Krýsuvík – Lækur.

„Krýsuvík er staður, sem virðist vera að falla í gleymsku, og vegna þess að ég heyri varla þann stað nefndan á nafn, langar mig aö minna menn á, að Krýsuvík er þó enn til á landi voru, þó að sé með öðrum hætti en áður var.
Eflaust eiga einhverjir af núlifandi mönnum minningar frá þeim stað — Krýsuvík — ef til vill þær ljúfustu og beztu, minningar æskuáranna.
Krýsuvík er nú í eyði — eða víst að mestu leyti. — En fyrir nokkrum tugum ára var þar allblómleg bygð, eins og kunnugt er.
Guðmundur Ísleifsson frá Stóru-Háeyri hefir gefið mér dálitlar upplýsingar um Krýsuvík, og fer ég eftir frásögn hans í eftirfarandi línum.

Krýsuvík

Krýsuvík – Norðurkot.

Guðmundur Ísleifsson fluttist með foreldrum sínum frá Kirkjubæjarklaustri í Skaftafellssýslu árið 1858 að Krýsuvík, þá átta ára. Ísleifur, faðir Guðmundar, varð að víkja frá Kirkjubæjarklaustri fyrir Árna sýslumanni Gíslasyni, sem hafði ráð á þeirri jörð. En rétt er að geta þess einkennilega tilfellis, að nokkrum árum síðar fluttist þessi sami Árni sýslumaður að Krýsuvík í annað sinn í „ból“ Ísleifs — að því er virðist.
Guðmundur Ísleifsson dvaldi á þessum slóðum — Krýsuvík og Selvogi — til 20 ára aldurs, er hann fluttist til Eyrarbakka.

Krýsuvík

Krýsuvíkurtorfan – kort (ÓSÁ).

Árið 1861 segir Guðmundur Ísleifsson þannig högum háttað í Krýsuvík og umhverfi Krýsuvíkur:
Á heimajörðinni:
Krýsuvík – 2 búendur
Stóra-Nýjabæ – 2 búendur
Litla-Nýjabæ – 1 búandi
Norðurkoti – 1 búandi
Suðurkoti – 1 búandi
Arnarfelli – 1 búandi
Fitjum – 1 búandi
Vigdísarvöllum – 2 ábúendur

[Svo virðist sem bæirnir Lækur og Garðshorn hafi gleymst í upptalningunni, auk Fells.]

Þessir bæir allir höfðu svokölluð jarðarafnot.
Auk þessara bæja voru tvö tómthúsbýli, er hétu Snorrakot og Hnausar. Ofantaldir bæir voru svo einu nafni kallaðir Krýsuvíkurhverfi.

Krýsuvík

Krýsuvík – Snorrakot.

Allmiklar engjar fylgdu þessum jörðum, og lágu þær umhverfis Kleifarvatn að sunnan og vestan, en Kleifarvatn er allstórt stöðuvatn um klukkustundarferð í norðaustur frá Krýsuvík. Engjarnar skiftust hlutfallslega milli býlanna í „skákar.“
Meirihlutinn af engjunum var mýrkent, og stundum í þurrkatíð fjaraði svo vatnið, að mikið engi náðist þannig, sem vatnið flóði annars yfir, og var það ágætt starengi.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli í Krýsuvíkurhrauni.

Bændur í Krýsuvíkurhverfi höfðu 1—4 kýr, og sauðfé eftir efnum, því hagaganga fyrir sauðfé var ótakmörkuð, og sauðfé gekk úti að mestu leyti. Hús voru engin til fyrir féð.
Slíkt voru ekki landslög á þeim tíma. Fénu var helzt haldið í hrauninu framan við Geitahlíð, fram undir sjó, þar voru hellar, sem fénu var haldið við í illviðrum á vetrin.
Til hlunninda Krýsuvíkur mátti telja eggja- og fuglatekju, sem var allmikil í Krýsuvíkurbergi. Var sú veiði stunduð af miklum dugnaði, og skiftust þau föng niður á búendur í Krýsuvíkurhverfi eftir því, sem hver hafði kraftinn til við veiðina.

Krýsuvík

Krýsuvík – minjar brennisteinsvinnslu undir Baðstofu.

Þá er að minnast á hina miklu brennisteinshveri í fjallahálsunum vestan við Kleifarvatn, en á þessum árum, 1858—1861, var það sem Englendingar byggðu þar hús og starfræktu hinar nafnkunnu brennisteinsnámur í Krýsuvík, og var brennisteininn fluttur á hestum til Hafnarfjarðar, og höfðu þá Krýsuvíkurbúar mikinn hagnað af þessum atvinnurekstri Englendinga við námurnar. En örlög þessa fyrirtækis urðu sem kunnugt er.
Í Krýsuvík var kirkja, og kirkjusóknin Krýsuvíkurhverfi, og rnessaði Vogsósaprestur þar þriðja hvern sunnudag.

Selatangar

Selatangar – búðir Krýsuvíkurbænda.

Á þessum tímum var ekki lítil búsæld í Krýsuvík. Atvinnuvegirnir eins og áður er sagt var landbúnaður, eggja- og fuglatekja, auk þess sjávarafli nokkur. Þá var útræði á Selatöngum. Gekk þá eitt — áttróið — skip þar úr Krýsuvík, og var á því skipi formaður Einar frá Stóra-Nýjabæ, og mun það síðasta skip, er þaðan hefir gengið, en sú sögn fylgir, að útræði frá Selatöngum hafi lagst niður vegna reimleika.

Krýsuvík

Krýsuvík – minjar gamla bæjarins.

Fyrr á árum var Krýsuvík mikið „ferðamannaland“. Allir, sem fóru til Suðurnesja syðri leiðina austan úr sýslum, fóru um Krýsuvík, og eins og gefur að skilja gaf það þessum afskekta stað alt annan svip. Af umferðinni leiddi fjölbreyttara líf og meiri gleðibrag í litla þorpinu.
Að líkindum hefir Krýsuvík staðið á hátindi blóma síns þessi ár, sem Englendingar starfræktu brennisteinsnámurnar.

Fornugata

Fornugata austan Herdísarvíkur.

Austan úr sýslum, Árness-, Rangárvalla- og Skaftafellssýsum, var þá kallað að fara suður „innra“, og „syðra“ þeir, sem fóru til Suðurnesja. Innri leiðin var yfir Hellisheiði nálægt þeim stað, sem nú er farið yfir hana, yfir stórárnar Þjórsá og Ölfusá á þessum stöðum: Þjórsá á Egilsstöðum eða Króki, og yfir Ölfusá í Laugardælum. En þeir, sem fóru syðri leiðina, fóru yfir Þjórsá á Sandhólaferju eða Selparti, og Ölfusá í Óseyrarnesi og þá um Þorlákshöfn, Selvog, Herdísarvík, Krýsuvík. Sumir fóru hringferð, t.d. „innri“ aðra leiðina og „syðri“ hina.

Fornugötur

Fornugötur.

Þarna — syðri leiðina — um Krýsuvík — er ljóst að hefir verið mikil umferð um margra alda skeið. Þess bera ljósan vott hestagötur í hraununum á þeirri leið. Þó eru slíkar götur mest áberandi í Herdisarvíkurhrauni, þar liggur gatan víða á sléttum hraunhellum, og ég — sem þetta rita — fór yfir Herdísarvíkurhraun fyrir nokkrum árum, og mældi ég dýpt götunnar á nokkrum stöðum, og reyndist hún að vera 8—12 cm. á sléttum hraunhellunum, Og þó þetta sé brunahraun, þá sætir það furðu, hvað djúpar þessar götur eru, og sýnilegt, að margir hestafætur hafa orðið að stíga á bergið til að mynda slíka götu, og er næsta fróðlegt að sjá þetta „fornaldarsmíð“, og mikill er sá mismunun á nútímafarartækjum og slíkum, er forfeður okkar áttu við að búa.

Krýsuvík

Krýsuvík – útihús.

En skyldu þeir í nokkru hafa verið vansælli, sígandi með hestalestina sína klyfjaða af skreið en við í bílunum okkar og vaggandi í alls konar þægindum? Um slíkt er ekki hægt neitt að fullyrða. En sennilegt er að oft hafi verið glatt á hjalla í þessum ferðum, þó erfiðar væru.
En ef nokkrar lifandi verur hefðu ástæðu til að hrósa happi yfir breyíingum tímans í þessu efni, þá væru það hestarnir, því þeir hafa oft hlotið að eiga erfiðar stundir í slíkum ferðalögum.

Krýsuvík

Krýsuvík – kirkjan og gömlu bæjartóftirnar. Hnausar h.m. við kirkjuna.

Þó ef til vill sé ekki ástæða til að harma það, að slíkir staðir sem Krýsuvík leggist í eyði, þá er engu síður vert að muna eftir þeim stöðum og sýna þeim rækt og sóma. Þarna á þessum stað — Krýsuvík — hefir fjöldi manna háð sína hörðu lífsbaráttu við óblíð náttúruskilyrði öld fram af öld með hreysti og karlmensku, því öllum öðrum en hraustmennum hefir náttúran hlotið að vera þar naumgjöful. Gínandi fuglabjargið og stórhríðarnar á vetrum við fjárgeymsluna hefir ekki verið heiglum hent, og oft hefir hlotið að vera teflt á tæpasta vaðið við slík störf. Þau hreystiverk eru því miður óskráð.

Krýsuvík

Krýsuvík – Garðshorn.

Mér, sem þetta rita, hefir lengi verið hlýtt til þessa staðar, Krýsuvíkur, af þeirri ástæðu, að aldrei á æfinni hefi ég orðið fegnari að koma til mannabústaða en einmitt að Krýsuvík. Það var veturinn 1896, að ég — þá unglingur var á ferð til Grindavíkur, og vorum við fjórir saman — alt unglingar — og skall á okkur norðan blindhríð þegar við komum í hraunið utan við Herdísarvík, og eftir langa villu hittum við þó Krýsuvík af einhverri tilviljun — um hánótt. Ég hefi aldrei efast um hver örlög okkar, þessara unglinga, hefðu orðið hefðum við ekki hitt Krýsuvík, því þessi blindhríð stóð í tvo daga — og nætur.

Krýsuvík

Legsteinn Árna Gíslasonar að baki Krýsuvíkurkirkju.

Þá bjó i Krýsuvík Árni sýslumaður Gíslason, og á heimili hans, meðan veðrið hélst, í tvo daga, nutum við hinnar mestu gestrisni.
Trúlegt þætti mér að húsaskjól í Krýsuvík hafi oftar verið ferðamönnum kærkomið en í þetta skifti, sem að ofan greinir.
Þegar ég hugsa um Krýsuvík og íhuga það, hvað erfitt hefir verið að búa þar og nota þau gæði, sem þar hafa verið fáanleg, finnst mér ómögulegt að þar hafi getað lifað aðrir en afburðamenn að dugnaði. Af þeirri kennd verður manni staðurinn hugþekkari. Nútímakynslóðin vill ekki leggja á sig þá erfiðleika, sem útheimtast til að lifa á slíkum stöðum sem Krýsuvík er. Það er hægara og þægilegra að búa í borgum og þorpum og leggja svo slíka stáði í eyði, sem Krýsuvík er, og jarðsyngja með því allar búmannsraunir. Því ef í nauðir rekur leggja borgir og bæir fram einhver bjargráð til framdráttar atvinnubótavinnu eða eitthvað slíkt. En hvort slík bjargráð verða eins haldgóð til að viðhalda karlmennsku og hreysti og búskapurinn í Krýsuvík, skal ósagt látið.
Krýsuvík 1998Ég hefi því miður hvergi séð Krýsuvíkur minnst í bókum eða blöðum. Nú er það ætlun mín og von, að einhver, sem er mér fróðari um þennan stað — Krýsuvík — lýsi betur en hér er gert þessum forna mannabústað, sem nútímakynslóðin vill ekkert með hafa, því staðurinn er vel þess verður, og varla má minna vera en Ferðafélag Íslands líti þangað augum sínum í eitt skifti. Því þó Krýsuvík krjúpi í sorg sinni yfir vanþóknun mannanna og ræktarleysi, þá hlýtur umhverfi hennar að vera broshýrt í sólskini sumardaganna.“ – Þórður Jónsson.

Heimild:
-Alþýðublaðið, tölublað 07.04.1935, Krýsuvík eftir Þórð Jónsson, Eyrarbakka, bls. 3 og 4.

Krýsuvík

Krýsuvík – Lækur.

Íslandsuppdráttur 1595

Á vefsíðunni https://www.kb.dk/ má líta ýmsan aldraðan fróðleik um Ísland, s.s. gömul Íslandskort og uppdrætti. Hér er ætlunin að sýna nokkur þeirra með skírskotun til meðfylgjandi texta hverju og einu til handa. Textinn er, af skiljanlegum ástæðum, á dönsku:

Reykjanesskagi – kort 1900

Reykjanesskagi 1900

Reykjanesskagi 1900.

Arbejdskort over Island med Opmaalingsnet til Atlasblade i 1:100 000 indtegnet.
Udgivelsesdato; 1900-1905.
Lokalitet; Island.
Opmålingsnettet er indtegnet på: Uppdráttr Íslands af Ó. N. Ólsen og B. Gunnlaugsson [Generalstabens topografiske Afdeling].

Reykjanesskagi – uppdráttur 1879 – Kålund

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi 1879 – Kålund.

Guldbringe og Kjos Sysler OphavKålund, P.E. Kristian.
Udgivelsesdato; 1879.
Lokalitet; Island.

Ísland – uppdráttur 1849

Ísland

Ísland 1849.

Uppdráttr Íslands Ophav Gunnlaugsson, Bjørn Olsen, Oluf Nicolai.
Udgivelsesdato; 1849.
Lokalitet; Island.
Kommentargjörðr að fyrirsögn Ólafs Nikolas Ólsens eptir landmælíngum Bjarnar Gunnlaugssonar … gefinn út af hinu Íslenzka Bókmentafélagi F. C. Holm sculp. Kjöbenhavn Paralleltitel: Carte d’Islande /d’après le mesurage de Björn Gunnlaugsson; exécutée sous la direction de O. N. Olsen ; publiée par la Societété Littéraire d’Islande hið bókmenntafélag Med liste over koordinater for trigonometriske stationer og liste over sysler og herreder i randen uden for kortet.

Ísland – uppdráttur 1844

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi 1944.

Uppdráttr Íslands: No. 1: Suðvestr-fjórðúngr Ophav Gunnlaugsson, Bjørn Olsen, Oluf Nicolai Scheel, Hans Jacob.
Lokalitet; Island.
Opstilling KBK 1115-0-1844/2a-d. KommentarStik gjörðr að fyrirsögn Ólafs Nikolas Ólsens eptir landmælingum Bjarnar Gunnlaugssonar … reiknað hefir Hans Jakob Scheel gefinn út af hinu Íslenzka Bókmentafèlagi grafið hefir F. C. Holm hið bókmenntafèlag Indsat: Bjergprofiler og snit Koordinaterne for 124 trigonometriske stationer angivet i randen af kortet Titelblad og signaturforklaring er med islandsk og fransk tekst OphavsretMaterialet er fri af ophavsret.

Ísland – uppdráttur 1944

Reykjanesskagi 1944

Reykjanesskagi 1944.

Uppdráttr Íslands: No. 1: Suðvestr-fjórðúngr OphavGunnlaugsson, Bjørn Olsen, Oluf Nicolai Scheel, Hans Jacob.
Udgivelsesdato; 1944.
Lokalitet; Island.
Kommentargjörðr að fyrirsögn Ólafs Nikolas Ólsens eptir landmælíngum Bjarnar Gunnlaugssonar … reiknað hefir Hans Jakob Scheel gefinn út af hinu Íslenzka Bókmentafèlagi grafið hefir F. C. Holm Indsat: Bjergprofiler og snit Koordinaterne for 124 trigonometriske stationer angivet i randen af kortet Faksimileudgave af kort sandsynligvis udarbejdet til: Islands Kortlægning.

Ísland – uppdráttur 1761

Íslandsuppdráttur

Íslandsuppdráttur 1761.

Islandiae delineatio, prout haec Solenni mensurandi negotio sub Auspiciis Potentissimi Regis Daniae facto, & a. 1734. demum per Cnopfium Archit. militarem ad finem perducto, debetur; divisæ in quatuor partes, Islandice Fiördung, quarum quævis in suas minores regiunculas Islandice Sislu, danice Syssel dictas subdividitur OphavHomann, Johann Baptist Knoff, Thomas Hans Henrik Homanns Arvinger.
Udgivelsesdato; 1761.
Lokalitet; Island.

Hólmakaupstaður – kort 1715

Hólmakaupstaður

Hólmakaupstaður 1715.

[Holmskaupstad] = [Reykjavik] OphavHoffgaard, Hans.
Udgivelsesdato; 1715.
Emne Island, Syd Vest Reykjavik og omegn.
OpstillingKBK 1115,1-0-1715/1 KommentarKoloreret håndtegning H. Hoffgaard Tekst nederst på kortet: Paa Holmen Haabet kom aar Sytten hundrede og fembten Tillige voor Conböy Som war dend Svendske Fallecken/ Dend Tied jeg paa Gafonen laa mig tieden Ey fortrød og omskiøndt blandt gledskabt Hatex, waer skjult dend blege død/Som sig da tegne lod da heste flock reed granden da hørtes jammer og råb af Skougaard og Kiøbmanden og svie som så derpå og oh elendig strand! Det Hierte briste maatte da Kiøbmanden/reckte haand.

Ísland – uppdráttur 1700

Íslandskort 1700

Íslandskort 1700.

Novissima Islandiæ tabula OphavSchenk, Pieter Schenk, Petrus Valk, Gerard.
Udgivelsesdato; 1700.
Lokalitet; Island.

Ísland – uppdráttur 1684

Íslandsuppdráttur

Íslandsuppdráttur 1684.

Isle D’ Islande Ophav Mallet, Allain Manesson.
Udgivelsesdato; 1684.
Lokalitet; Island.

Ísland – uppdráttur 1683

Íslandskort 1683

Íslandskort 1683.

Isle D’ Islande Ophav Mallet, Allain Manesson.
Udgivelsesdato; 1683.
Lokalitet; Island.

Reykjaneskagi – uppdráttur 1650

Íslandskort 1683

Íslandskort 1650.

Sydlendinja Fiording Ophav Mejer, Johannes (1606-1674).
Udgivelsesdato; 1650?
Lokalitet; Island.

Ísland – uppdráttur 1595

Íslansuppdráttur 1595

Íslandsuppdráttur 1594.

Islandia Ophav Ortelius, Abraham Velleius, Andreas Vedel, Anders Sørensen.
Udgivelsesdato; 1595.
Lokalitet; Island.

Bessastaðastofa – uppdráttur 1724

Íslandskort 1724

Íslandskort 1724.

Ældre islandske specialkort : 1: Plan og Prospect af Bessesteds Kongs Gaard udi Island bygt Anno 1722 Ophav Raben.
Udgivelsesdato; 1720-1722. Emne; Bessestaðir -Søkort – Bessested Hafnarfjördur.
Lokalitet; Island.

Þingvellir 1720

Þingvellir 1720

Þingvellir 1720.

Ældre islandske specialkort: 3: Plan og Prospect af Øver Aae Alting Tagen Anno 1720 Ophav Raben.
Udgivelsesdato; 1720-1722.
Lokalitet; Island.

Bessastaðir – uppdráttur 1720

Bessastaðir 1770

Bessastaðir 1770.

Ældre islandske specialkort : 2: Plan og Prospect af Bessesteds KongsGaard, og St. Nicolai Kirke Ophav Raben.
Udgivelsesdato; 1720-1722. Emne; Bessestaðir – Søkort – Bessested Hafnarfjördur.
Lokalitet; Island.

Bessastaðir 1750

BessastaðirBessastaður 1750.
Ældre islandske specialkort : 2: Plan og Prospect af Bessesteds KongsGaard, og St. Nicolai Kirke Ophav Raben.
Udgivelsesdato; 1720-1722. Emne; Bessestaðir Bessested Hafnarfjördur.
Lokalitet; Island.

Bessastaðir – kort 1750
Ældre islandske specialkort: 4: Haune: Fjord Ophav Raben.
Udgivelsesdato; 1720-1722. Emne; Bessestaðir – Søkort – Bessested Hafnarfjördur.
Lokalitet; Island.

Ísland – uppdráttur 1770

Íslandskort

Íslandskort 1770.

Island RessourcetypeKort GenreTopografi.
Udgivelsesdato; 1770.
Lokalitet; Island.

Gullbringusýsla 1944

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi 1944.

Soe og Land Charta over Guldbringe og Kioese=Sysseler samt een deel af Aarness Syssel udi Iisland OphavAressen, Magnus Aresen, Magnus Arason, Magnus Raben, Peter Sheel, Hans Jacob.
Kort i farver.
Emne; Guldbringe Syssel Gullbringusýsla Kioese Syssel Kjósarsýsla
Lokalitet; Island
Koloreret håndtegning i delvis eleveret plan Efter Deres Kongl. Maj:t allernaadigste Ordre og Befalning paa det accurateste i de aar 1721 og 1722 optaget og forfærdiget af Magnus Aressen og nu i det aar 1733 copieret af Hans Jacob Sheel Med signaturforklaring Iflg. Geodætisk Institut betegnet Admiral Rabens kort nr. 4. Se også: Islands Kortlægning. En historisk Fremstilling af N. E. Nørlund. Geodætisk Instituts Publikationer VII. København 1944.

Básendar [höfn] 1736

Básenra 1726

Básendahöfn 1726.

Bosand og Kieblevigs Havner udi Island OphavBech, Hans Christian – Søkort.
Emne; Island, Syd Vest Bosand Keflavík.
Lokalitet; Island.
Årstallet er rettet til 1736 – Hans Christian Bech 1726.

Grindavík [höfn] 1751

Grindavík 1751

Grindavíkurhöfn 1751.

Grindevigs havn udi Island, Hans Christian Klog, Christoph – Søkort.
Emne; Island, Syd Vest Grindevig Grindavik.
Lokalitet; Island.
KommentarKoloreret håndtegning H[ans] C[hristian] B[ech] an: 1751 tegnet af Christoph Klog.

Heimild:
-http://www5.kb.dk/maps/kortsa/2012/jul/kortatlas/subject341/da?sort=creator_ssi+asc%2C+score+desc%2C+cobject_random_number_dbsi+desc

Reykjanesskagi 8844.

Reykjanesskagi 1844.

Ás

Bærinn „Ás“ ofan við Hafnarfjörð hefur jafnan látið lítið fyrir sér fara þrátt fyrir að eiga sér langa og merka sögu.

Ás

Gamli bæjarhóllinn.

Í Örnefnaskrá segir að landamerki fyrir umboðsjörðina Ás í Garðahreppi séu: „Stefna á Fuglastapaþúfu fyrir vestan Skarð austast á Grímsnesi; þaðan í Bleikstein í Bleiksteinshálsi; þaðan í Þormóðshöfða og þaðan í Steinhús“
Í Örnefnaskrá segir enn fremur: „Ás í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi, en tilheyrir nú Hafnarfirði. Jörðin tilheyrði jörðum þeim er lágu við fjörðinn“.

Ás

Gamli bærinn.

Í Jarðabók frá 1703 segir m.a.:
„Jarðardýrleiki á kóngsins parti er óviss og veit enginn neitt til að segja.
Jóns Peturssonar part segja menn almennilega vera iii [symbol] lxxx álnir, er þetta þó nokkuð á óvissu, þar bóndaeignin engvum tíundast nje tíundast hefur það menn til vita. Er sögn manna að þessi bóndahlutans tíund niður falli fyrir örðugan hreppamanna flutning yfir Kapelluhraun að Þorbjarnarstöðum; sýnist líklegt að jörðin muni til samans öll xii [symbol] verið hafa, og væri þá kóngsparturinn viii [symbol] og xl álnir.
Eigandinn að meira hlut jarðarinnar er kóngleg Majestat, að minna hlut Jón Petursson á Hlíði lögrjettumaður. Ábúandinn Þórður Jónsson.
Landskuld af kóngsins parti er lx álnir, af bóndaeigninni xx álnir. Betalast með iiii vættum fiska í kaupstað. Við til húsabótar leggur ábúandinn af báðum pörtunum.
Leigukúgildi með kóngsins parti í, með bóndaeigninni i. Leigur betalast í smjöri heim til Bessastaða eftir kóngskúgildið. En eftir bóndans kúgildið ýmist í smjöri eður fiski heim til eigandans eður í kaupstað. Kóngskúgildið uppýngdi í fyrra umboðsmaðurinn Páll Beyer. So hafa og eignarmenn bóndahlutans eftir þörfum uppýngt sitt kúgildi.

Ás

Fjósið frá 1904.

Kvaðir af kóngspartinum eru mannslán um vertíð, sem leyst hefur verið stundum með einuri vætt fiska, stundum með því að ljá umboðsmanninum eitt tveggja manna far leigulaust um vertíð.

Ás - Stekkur

Ás – Stekkur í Hádegisskarði.

Item einn hrísshestur árlega heim til Bessastaða; þótti næst umliðið ár umboðsmannsins fólki sá hrísshestur ekki nógu gildur, er bóndinn færði; var hönum því tilsagt að bæta þar við, og færði hann annan hrísshest lakari í því nafni. Hjer að auki einn dagsláttur heim til Bessastaða, og fæðir bóndinn sig sjálfur. Stundum hafa skipaferðir kallaðar verið og jafnvel nokkrum sinnum fleiri en ein á ári, fæðir þá bóndinn sig sjálfur. Í fyrra og margoft áður var maður heimtur að þjóna að húsastörfum staðarins á Bessastöðum og fæðir bóndinn verkmanninn. Enn nú setti Jens Jurgensson tvö ár þau síðustu, sem manninn. Enn nú setti Jens Jurgensson tvö ár þau síðustu, sem hann var umboðsmaður, og so í fyrra umboðsmaðurinn Páll Beyer, eitt lamb í fóður hvört ár þessara þriggja með jörðinni. Hafði sú kvöð aldrei verið það menn til minnast, og hefur bóndinn ekkert fyrir það fóður þegið. Hjer á ofan voru í hittifyrra ár af Jens Jurgenssyni og nú í sumar af Páli Beyer útheimtur heyhestur til að fóðra kvikfjenað þann, er fálkanum var ætlaður til fæðis á útsiglingunni, og bóndanum sjálfum skikkað að flytja heyið inn í Hólmskaupstað. Þessi kvöð hafði og fyrr aldrei verið það menn muna. Áður þegar fálkarnir sigldu á Básendum og Keflavík var bóndanum skikkað að láta mann á tje til að bera fálkana ásamt öðrum frá Bessastöðum suður til áðurnefndra kaupstaða og kostaði bóndinn manninn að suður til áðurnefndra kaupstaða og kostaði bóndinn manninn að öllu. Þessi kvöð var og aldrei fyr en í Ás

Innviðir fjósflórsins.

Heidemanns tíð og þaðan í frá iun til þess er fálkarnir sigldu með Hólmsskipi. Bóndinn gaf manninum xx álnir, sem hans vegna fór í þessa för, og fæddi hann. Á bóndans parti eru kvaðir alls öngvar.
Kvikfjenaður er iiii kýr, viii ær, í sauður tvævetur, vii veturgamlir, viii lömb, i foli þrevetur. Fóðrast kann iii kýr og í úngneyti. Heimilissmenn iiii.

Ássel

Ássel við Hvaleyrarvatn.

Selstöðu á jörðin í heimalandi, eru þar hagar sæmilegir og vatnsból gott.
Hrísrif hefur jörðin í almenningum til kolgjörðar og eldiviðar.
Lýngrif er í heimalandi brúkað nokkurn part til eldiviðar og til að fæða pening í heyskorti.
Torfrista og stúnga lök og lítt gagnvænleg.
Heimræði brúkar jörðin frí og skipsuppsátur í Ófriðastaðarlandi að sumir halda, en sumir eigna skipsuppsátrið Ási so sem ítak á móti selstöðu, sem Ófriðarstaðir skuli eiga og síðar segir. Vita menn ekki glögt hvort þetta skipsuppsátur og búðarstæði sje með skyldurjetti eður fyrir liðunarsemi. Þó gánga þar skip ábúandans og hafa gengið um lángan aldur, en búð var þar ekki það menn minnast fyr en Margrét Þorsteinsdóttir bjó að Ási fyrir meir en tuttugu árum.

Ás

Norðurtúnsgarðurinn.

„Í lýsingu Selvogsþinga eftir síra Jón Vestmanns segir m.a. Kaupstaðavegur til hafnarfjarðar liggur úr Selvogi yfir Grindarskörð, stífgild þingmannaleið yfir fjallgarðinn nr. 1, brattur og grýttur mjög. Frá Krýsuvík liggur annar vegur til sama kaupstaðar nefndur Ketilsstígur, þrír partar úr þingmannaleið að lengd grýttur og brattur sem hinn. Hlíð í Selvogi er næsti bær við Grindarskarðsveg, en Litli-Nýibær í Krýsuvík næst við Ketilsstíg. Ás í Garðasókn á Álftanesi er næst[i] bær við Ketilsstíg að vestan er Hafnarfjörður í sömu sókn næstur Grindarskarðarveg að vestanverðu.
Lýsing Garðaprestakalls 1842 eftir síra Árna Helgason segir m.a.: Þar eru taldir upp bæir í sókninni og einn af þeim er Ás með tómthúsi. Einnig eru taldir upp alfaravegir, og er sá syðsti sem liggur upp í Krýsuvík, liggur hann frá Ási Garðasókn, og heitir Stórhöfðastígur.

Í Jarðatali Johnsens frá 1847, segir m.a.:
Álftaneshreppur. Ás, jarðarnúmer 169; jörðin er í kojungseign. Dýrleiki er 12 hundruð, landskuld er 0.80, kúgildi tvö, ábúandi einn.
Jörðin Ás var lögð undir lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar 1959 og bærinn eignaðist landið 1964.

Sjá eignarnámsskuldir Hafnarfjarðar gagnvart einstökum bæjum – https://ferlir.is/logsagnarumdaemi-hafnarfjardar-fra-1908/

Samkvæmt túnakorti frá 1918, er túnið á Ási 2.8 teigar og þar af helmingur sléttaður. Kálgarðar eru i, 670 m2.
Tún Stekks er talið 0.6 teigar, ýft að mestum hluta. Kálgarður 720 m2.

Ás

Ás-túnakort 1914.

Til er „Fornleifaskráning í landi Áss Hafnarfirði“ 2005, en skráning sú verður að teljast í besta falli mjög hæpin. Skráningin sem slík veltir óneitanlega upp spurningunni um hvar takmörkin eru og eigi að vera á heimildum um opinberar samþykktir á slíkum skráningum hér á landi.

Stekkur

Bæjarstæði Stekks fyrrum.

Fyrst Ari Gíslason: „Jörð í Garðahreppi, næst Hvaleyri, nær ekki að sjó, vegna þess að Hafnarfjarðarbær er þar á milli. Upplýsingar um örnefni eru frá Oddgeiri Þorkelssyni að Ási.
Upp og austur frá bænum Ási rís upp fjall, sem heitir Ásfjall. Það er raunverulega framhald af Hvaleyrarholti, (er fyrr getur). Á Ásfjalli er varða, sem heitir Ásvarða. Bærinn Ás stendur í brekku vestan undir fjallinu. Vestur frá bænum er tjörn í lægð, sem heitir Ástjörn. Norður frá henni er býli, sem heitir Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Neðan við Stekksbæinn er lægð, grasi vaxin, sem heitir Leirdalur, og ve[stur] af Ásfjalli er Grísanes, hæð í Hvaleyrarlandi.
Norðan við bæinn að Ási er holtið nafnlaust, og brekkurnar þar næstar, sem tilheyra Ási, utan í fjallinu eru einnig nafnlausar. Slakki er í fjallinu, sem nefndur er Skarð. Þegar hallar svo niður af fjallinu sunnanverðu, koma þar börð og lægðir á milli. Þetta svæði er nefnt Grófir, og neðan þess tekur svo við svæði, sem heitir Lækir. Þá fer að nálgast jafnsléttuna, og taka þar við Ásflatir. Þær eru fyrir botni dals þess, er myndast milli Grísaness og Hamraness, Svo er hár hnúkur syðst á fjalli, sem heitir Vatnshlíðarhnúkur. Vestur af honum hallar fjallinu niður og myndar þar háls, sem nær niður á Hamranesið fyrrnefnda og heitir Bliksteinaháls eða Bleiksteinaháls. Á honum eru tveir steinar ljósir að lit, sem heita Bliksteinar. Þeir eru í hálsinum norðanverðum og eru á merkjum móti Hvaleyri.

Ásvarða

Útsýni af Ásfjalli.

Sunnan við Vatnshlíðarhnúkinn fyrrnefnda er hlíð með giljum og skógarbörðum, sem hallar niður að Hvaleyrarvatni, og heitir hlíð þessi Vatnshlíð. Að norðan eru merki Jófríðarstaða svo nærri vatninu, að þegar hátt er í vatninu, getur Jófríðarstaðabóndinn vatnað hesti sínum í því. Norðurendinn á Ásfjalli er nefndur Ásfjallsöxl, og þar er merkjavarða; svo í landsuður þaðan er varða á Bláberjahrygg, sem er á merkjum móti Jófríðarstöðum; svo eins og fyrr segir rétt við vatnsendann.
Sunnan við vestri endann á vatninu er gríðarstór höfði eða hóll, sem heitir Selhöfði. Á honum er merki móti Hvaleyri. Sunnan við vatnið er dálitill hryggur, sem nefndur er Kjóadalsháls. Svo er landið mjótt, því nú ná nöfnin þvert yfir land jarðarinnar. Svo er gríðarstór dalur, helmingur grasflöt, hitt moldarflag; heitir hann Miðhöfði. Þar upp af er svo Efstihöfði, og svo skerst landið í odda við svonefnt Steinhús, neðst í gjánni, rétt fyrir neðan túnið í Kaldárseli. Þar myndar það tungu.“

Ás

Stríðsminjar á Ásfjalli.

Og í framhaldinu Gísi Sigurðsson: „Landamerki fyrir umboðsjörðinni Ás í Garðahreppi eru: Stefna úr Fuglstapaþúfu í þúfu fyrir vestan svokallað Skarð austast á Grísanesi; þaðan í Bleikstein í Bleiksteinshálsi; þaðan í Þormóðshöfða og þaðan í Steinhús.

Fuglastapaþúfa

Fuglastapaþúfa.

Úr Fuglstapaþúfu fyrir vestan Guðbrandsbæ bein lína í austur í vörðu milli Áss og Jófríðarstaða; þaðan í vörðu norðan til við Ásfjallsöxl. Þaðan til suðausturs í vörðu á Bláberjahrygg; sama lína í Vatnsenda efri; svo í vörðu á Kjóadalshálsi; þaðan beint í vörðu á Miðhöfða; þaðan í Fremstahöfða; þaðan upp í Steinhús.
(Úr landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu).
Ás í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi, en tilheyrir nú Hafnarfirði. Jörðin tilheyrði jörðum þeim, er lágu við fjörðinn. Ás, bærinn, stóð á Bæjarhólnum, sem var um það bil í miðju Ástúni. Allt var túnið umgirt Ástúngörðum. Norðurtúngarður lá að ofan og vesturtúngarður að vestan, suðurtúngarður sunnan og neðan og austurtúngarður austan upp með fjallinu.
Heiman frá bæ niður Brekkuna lágu Suðurtraðirnar niður í suðurtraðarhlið. Um Austurtúnið rann Lækurinn. Túnlækurinn rann varla nema í rigningartíð og í leysingum. Neðan við Hólinn vestan bæjarins var Ásbrunnur, og að honum lá Brunngatan. Austan lækjarins var Lambhústún og þar lambhúsið. Í Norðurtúni var Hjallabrekka, og þar sem saman komu Austurtún og Norðurtún, Hjallabyrgi. Þar eru nú sumarbústaðir. Heiman frá bæ lágu Norðurtraðir og þar á mótum garðanna, norður- og vesturgarðs, var norðurtraðarhlið. Ofanvert við traðirnar nyrzt var flöt, nefndist Dansflöt, en neðan traðanna var Fjarðarflöt, en þar niður af þýfður hluti, nefndist Harðhaus.
Utan suðurhliðs var Stöðullinn, þar fyrir neðan var kargþýfður mói, nefndist Ásmói, sem sumir nefndu Ásumói. Þá var þar neðar Ásmýri eða Mómýrin. Þar var mótak, og suður af var Móholtið. Þangað var mórinn borinn frá mógröf og þurrkaður. Út frá vesturtúngarði neðarlega var uppspretta, nefndist Áslindin. Þar var vatnsból fyrir Ás, ef brunninn þraut.

Ás

Bæjarlækurinn.

Vestur í holtinu var önnur uppspretta, sem var kölluð Lindin. Þar var vatnsból frá Stekknum.

Ás

Ás – fjárhústóft.

Ofar hér í holtinu voru Börðin, þau hafa nú verið jöfnuð út, og er þar komið allgott tún. Hér ofar taka svo við Ásmelar. Þeir liggja austan og ofan frá Ásholti, en norðan landamerkja eru garðlönd Hafnfirðinga. Ásvegur liggur frá Norðurtröðum norður um Ásleiti og yfir á Háaleiti , síðan áfram norður að Ófriðarstaðatúngarði.
Vestur á melunum var hringlaga gerði nefnt Kringla. Hér enn vestar var svo býli, þurrabúð, nefndist það Stekkurinn, Ásstekkur, Vindás og Vindásstekkur. Honum fylgdi Stekkstúnið umgirt Stekkstúngörðum, vesturtúngarður, suðurtúngarður, austurtúngarður og norðurtúngarður. Þar sem saman komu norður- og vesturtúngarður, var norðurhlið. Þaðan lá Stekksgata niður að Brandsbæ og áfram niður til Fjarðar. Suðurhlið var neðarlega á mótum vestur- og suðurtúngarðs. En Lindargatan lá heiman frá Stekksbæ austur um austurgarðshlið austur að Lindinni. Brunngatan var löng frá Stekk og austur.
Norðvestur frá Stekk, neðan vestasta hluta melanna, var Leirdalur, og tilheyrði nokkur hluti hans Ási, en í Fuglstapaþúfu syðri voru hornmörk jarðanna Áss, Ófriðarstaða og Hvaleyrar. Þaðan lá landamerkjalínan í Axlarvörðu á Ásfjallsöxl eystri, en neðan og vestan undir Öxlinni var svokallaður Dagmálahvammur. Suðvestur og upp frá Öxlinni var Ásfjall og þar á Ásfjallsvarða.

Ás

Upplýsingaskilti nálægt Ási.

Suður eða suðsuðaustur frá háfjallinu var klettastallur, nefndist Mógrafarhæð. Ekki er nú hægt að sjá, að mótak hafi verið hér í fjallinu. Landamerkjalínan liggur úr vörðunni suður á svonefndan Bláberjahrygg, sem er misgengisbrún og þaðan um Vatnshlíðargil austast í Vatnshlíðinni.

Bleiksteinsháls

Landamerkjavarða á Bleiksteinshálsi.

Hæst á Vatnshlíðinni er svonefndur Vatnshlíðarhnúkur. En vestan á Bláberjahrygg er Bláberjahnúkur.
Landamerkjalína liggur úr gilinu um Vatnsendann og þaðan upp Kjóadalaháls í Kjóadalahálsvörðu. Frá Markavörðunni liggur lína um Kjóadali upp í Miðhöfðavörðu á Miðhöfða, þaðan í Fremsthöfðavörðu á Fremsthöfða og þaðan í Steinhús, sem í gömlum skjölum nefnist Steinhes, og er þar hornmark margra landa. Landamerkjalínan á vesturmörkum mun svo liggja úr Steinhúsi norður eftir Langholti um Þormóðshöfða og Selhöfða, en efst á höfðanum er Borgin, fjárborg allstór um sig. Héðan liggur línan niður á Selhraun eða Seljahraun. Það liggur alveg að Hvaleyrarvatni. Við suðurhlið vatnsins er Hvaleyrarsel og innar Ássel. Þar má enn vel sjá móta fyrir seljarústum. Úr Seljahrauni liggur línan upp á Bleikisteinsháls. Bleikisteinsstígur liggur rétt við klöpp, sem nefnd er Bleikisteinn, en austur og upp frá hálsinum er Bleikisteinshnúkur. Bliksteinshnúkur, Bliksteinn, Bliksteinsháls og Bliksteinsstígur eru einnig nöfn, sem hér eru viðhöfð. Línan liggur af hálsinum yfir svonefnt Hellisdalshraun, sem liggur í Hellisdal, en austast, innst í hrauntungunni, er Hellirinn eða Hellishraunsskjól. Hann var í eina tíð vel upp hlaðinn, en er nú saman hruninn.

Ás

Steinn af æsi við Ás.

Neðan frá hrauntungunni eru svo Ásflatir. En fram á þær syðst rennur Grófarlækur ofan úr Grófunum. Þær liggja norðan við Bláberjahrygg. En stígur liggur um Ásflatir vestur á Grísanesháls, en þar er Hrauntungustígur, sem þarna er að byrja. Síðan liggur landamerkjalínan norður af hálsinum norður yfir Ástjörn, upp fyrir vestan Stekkinn í Fuglstapaþúfu. En Grísanesstígur liggur niður af hálsinum heim að suðurtraðarhliði. Þaðan liggur aftur á móti Skarðsstígurinn upp í svonefnt Skarð á Ásfjallsöxl vestari. Skarðsvarðan var þarna, sem einnig nefndist Hádegisvarða og Hádegisskarð skarðið. Hér um rann féð til beitar suður á Grófirnar, Bláberjahrygg og Vatnshlíðina. Hellishraun, svo var hraunið í Hellisdal einnig nefnt.“
Sjá einnig Ás og Ástjörn – friðlýsing Áss og Ástjarnar.

Til mun vera „Fornleifaskráning vegna samkeppni um skipulag í Áslandi og Grísanesi, Birna Gunnarsd. og Ragnheiður Traustad, 1996“, en sú skráning mun vera öllum öðrum hulin nema skráningaraðilunum sjálfum.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar um Ás.
-Örnefnalýsing Gísla Siguðssonar um Ás.
-Jarðabókin 1703.
-„Fornleifaskráning í landi Áss Hafnarfirði“ 2005.

Ás

Ástjörn og nágrenni.