Tag Archive for: Hafnarfjörður

Lónakot

Leitað var að og skoðaðir Grænhólsskjól og Hausthellir í landi Lónakots og Sjónarhólshellir í landi Óttarsstaða.
SjónarhólshellirSjónarhólshellir eru nálægt mörkum jarðanna og Grænhólsskjól nálægt mörkum Hvassahrauns, en Hausthellir skammt vestan við heimatúnið í Lónakoti. Því hefur verið haldið fram að Sjónarhólshellir hafi einnig verið nefnt Smalaskálaskjól, en það er norðvestan í Smalaskálahæð, sbr. örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði: „
Vestan við Rauðamel stóra er mikil klapparhæð, sem nefnist Smalaskáli. Uppi á hæðinni er skotbyrgi. Syðst í hæðinni er Smalaskálaker, sporöskjulaga jarðfall með rauðamelshól í botni. Norðvestan undir hæðinni er Smalaskálaskúti, hellir, sem fé lá inni í. Þar var skógarhrísla stór, sem óx fyrir hellismunnann. Suðvestur af Smalaskála er fjárborgin gamla, frá því fyrir aldamót. Kona, er Kristrún hét og bjó á Óttarsstöðum, hlóð hana ásamt vinnumanni sínum.“ Síðastnefnda skjólið hefur verið staðsett á fyrrgreindum stað. Einnig var reynt að staðsetja Magnúsardys í Lónakotslandi í þessari ferð.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Lónakot minnist hann m.a. á Hausthelli og Magnúsardys, sbr.: „Markaklettur [er] Hausthellirá innanverðu Hraunsnesi. Af Markakletti lá landamerkjalínan milli Lónakots og Hvassahrauns upp í Skógarhól, þaðan í Stóra-Grænhól. Suður frá Grænhól var svo Grænhólsker, hættulegt fé. En í austur frá hólnum var Grænhólsskjól. Vestur [á væntanleg að vera austur því að vestan er land Hvassahrauns, auk þess Brunnhólar eru austan markanna, í Lónakotslandi] frá Sjónarhól var Brunnhóll. Í hrauninu niður frá Hádegishæð var sprungin klöpp, nefndist Magnúsardys. Maður að nafni Magnús varð þarna úti og var urðaður í sprungunni. Suður og upp frá Magnúsardys var Hraunsnesþúfa og Hausthellir, fjárskjól gott.“
Örnefni þau, sem hér hafa verið nefnd, liggja öll neðan Suðurnesjavegar og nú Reykjanesbrautar og alfaraleiðar, sem áður er nefnd.“
Fram kemur að Hádegishæð er skammt ofan við túngarðinn: „Umhverfis þennan þúfnakarga var Kotagarðurinn, hlaðinn, einfaldur grjótgarður. Nokkru lengra uppi í hrauninu var Hádegishæð.“ Nokkrar sprungur eru neðan Hádegishæðar og því erfitt að staðsetja Magnúsardysina þar með einhverri vissu. Það var því ekki gert að þessu sinni. Sjá meira
HÉR. Vestan við heimatúnið er Hausthellir í gróinni kvos. 

Grænhólsskjól

Grónar hleðslur eru framan við opið og dyr á þeim. Hellirinn sjálfur er fremur lítill, en reft hefur verið yfir tóftina framan við hann. Skjólgóður nátthagi er suðvestan við hellinn og hlaðinn brunnur austan hans (í Brunnhóll).
Þegar leitað var að framangreindu var gengið fram á afvelta lamb. Reynt var að færa það á fætur, en þá lagðist það út af. Augun lýstu ótta og uppgjöf. Blóð virtist vera aftan við vinstri afturfót. Tófan kann að hafa verið þarna að verki (enda búandi greni í hraunhól skammt frá). Veikindi gætu einnig hafa verið orsökin.
SkotbyrgiAugljósasta skýringin kom í ljós í hrauninu skammt vestar. Skolli rak skyndilega út trýnið upp úr skúta og „hvopsaði“ áður en hann hvarf inn aftur. Eftir stutta bið sást hann á ferðinni innan við opið – órólegur.

Sjónarhólshellir-2

Haft var samband við Bjarnferð, fjárumsýslumann svæðisins, og honum kynnt ástand lambsins. Þá var Helgi Gam. í Grindavík fenginn til að takast á við dýrbítinn enda ekki forsvaranlegt að hafa hann þarna svona skammt frá fjárhúsunum í Lónakoti, vomandi yfir fénu nótt sem dag.
Í örnefnalýsingu SG (með leiðréttingum) fyrir Óttarsstaði kemur eftirfarandi fram um Sjónarhólshelli: „Fyrir ofan fjörukampinn var uppgróinn sandbakki, sem nefndist Sandar. Þar vestast eru landamerki milli Óttarsstaða og Lónakots. Ofan við Sanda er Sandatjörn, skiptist milli Óttarsstaða og Lónakots. Úr Söndum liggur landamerkjalínan í Markhól, sprunginn klapparhól skammt fyrir ofan kampinn. Þaðan liggur línan suðsuðaustur í Sjónarhól. Á honum er Sjónarhólsvarða, en suður frá honum er Sjónahólshellir, fjárhellir stór inni í krika. Hann var áður yfirreftur, en nú er það dottið mikið niður (sjá meira
HÉR).“
Hleðslur við Sjónarhólshelli, líkt og við Hausthelli, eru enn nokkuð heillegar. Gróið er framan við bæði skjólin og vatnsstæði í nágrenni beggja.
Þegar nágrenni „Haustshellis“ var skoðað betur kom í ljós enn eitt fjárskjólið; vandlega hlaðin fyrirhleðsla með ágætu rými fyrir innan. Opið sneri mót austri (sem þótti ónentugt að vetrarlagi). Gólfið var gróið og sjá mátti þar rekavið er benti til þess (sem reyndar þykir sjálfsagt) að reft hafi verið yfir milli fyrirhleðslunnar og þakveggjar hraunsins. Fjárskjól þetta er hvergi getið í örnefnalýsingum né hefur þess verið getið í fornleifaskráningum af svæðinu – ekki frekar en lambaskjólið ofar í hrauninu.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Lónakot.
-Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun.
-Örnefnalýsing fyrir Óttarsstari.
-Gísli Sigurðsson.

Sjónarhólshellir

Sjónarhólshellir.

 

Leiðarendi

Farið var í hellinn Leiðarenda skammt frá Bláfjallavegi í Stórabollahrauni (Skúlatúnshrauni).

Leiðarendi

Haldið í Leiðarenda.

Opið er í stóru jarðfalli að undangengnum stuttum stíg í gegnum hraunið frá veginum. Inngangan er falleg, rauðleit og regluleg. Um er að ræða víða og háa hraunrás. Helsta einkenni hennar eru flögur á veggjum og lofti og hafa þær fallið sums staðar á gólf. Dropsteinar eru og á gólfum og fallegar hraunmyndanir í loftum og á veggjum. Næstum því innst í lengstu rásinni er beinagrind af rollu og dregur hellirinn nafn sitt af örlögum hennar. Alveg innst er stór hrauntjörn, sem er heldur lægri en rásin sjálf.

Leiðarendi

Í Leiðarenda.

Samtals er Leiðarendi um 400 metra langur. Hægt er að fara í hring og koma út um austuropið, ef vilji er til að skríða spölkorn á maganum. Nauðsynlegt er að hafa mjög góð ljós því hellirinn er bæði stór og dimmur.
Hjartartröðin er hraunrás þarna skammt austar. Hún er með nokkrum steinbrúm. Tröðin endar í jarðfalli og liggur op vestan í því undir nýrra hraun. Hellirinn er víður. Skammt innan við opið er hrun. Hægt er að fara hægra megin við það og áfram inn eftir hellinum. Þá er komið að öðru miklu hruni. Hægt er einnig að fara yfir það og halda áfram. Mikilvægt er að vera vel búinn þegar þessi hellir er skoðaður.
Frábært veður, en það skiptir nú litlu máli í hellaskoðun.

Leiðarendi

Leiðarendi – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

FERLIR hefur um árabil upplýst um mögulegar minjar brennisteinsnáms í Krýsuvík, enn sýnilegar, með vísan til skráðra heimilda um slíkt allt frá því á 18. öld. Svörun viðkomandi stofnana eða einstaklinga hefur hingað til engin verið.

Krýsuvík

Tóft neðan Baðstofu.

Í óvæntri umfjöllun um löngu fyrrum uppljóstrun um efnið í Grindavík mátti lesa eftirfarandi;

Krýsuvík

Krýsuvík – Hetta, Hattur og Baðstofa ofan Hveradals.

 „Þetta kemur mér mjög á óvart og hlýtur að setja allt málið í talsvert uppnám,“ segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttur bæjarfulltrúi VG í Hafnarfirði um upplýsingar um að neðan fjallsins Baðstofu í Krýsuvík séu baðstofuhverir, gamlar brennisteinsnámur og aðrar leyfar um mannvistir en HS orka hefur fengið leyfi til að bora á svæðinu.

,,Það hefur einungis verið veitt leyfi til tilraunaboranna og þá með hliðsjón af því að svæðinu hefur þegar verið raskað. Ég hef hinsvegar ekki heyrt um neinar fornminjar þarna.“

Krýsuvík

Tóft neðan Baðstofu.

Ómar Smári Ármannsson hjá gönguhópnum FERLIR upplýsti í desember árið 2010 um þessar minjar í fyrirlestri um byggð og brennistein í Krýsuvík á baðstofukvöldi í Saltfisksetrinu í Grindavík. Hann vakti m.a. athygli á því að þeirra væri ekki getið í nýlegri fornleifaskráningu af svæðinu. 

Talið er að á árunum 1724 – 1729 hafi tveir Þjóðverjar, Holzman og Sechmann, byrjað að taka brennistein úr „Krýsuvík“. Þegar Innréttingar Skúla Magnússonar voru stofnaðar um miðja átjándu öld var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein á Íslandi og er síðan talið er að brennisteinsvinnsla hafi svo verið unnin í Krýsuvík, með hléum þó, allt til ársins 1885.Ómar Smári vísaði í skýrslu manns að nafni Ole Henchel sem ferðaðist um Krýsuvík árið 1775 og nefnir meðal annars hús sem tilheyrðu brennisteinsvinnslunni.

Krýsuvík

Krýsuvík; brennisteinsnámur – Ólafur Olavius (1741-1788). Tóftir eru merkar b og c. á uppdráttinn.

„Ég athugaði ásigkomulag húsanna, með tilliti til þess að aftur yrði upp tekin brennisteinsvinnsla. Þau voru gerð úr torfi og grjóti á íslenzka vísu, en um þau og annan útbúnað, sem til vinnslunnar heyrði, er það skemmst að segja, að það var allt gersamlega ónýtt og húsin fallin, svo allt verður að gera að nýju, eins og hefði aldrei farið fram brennisteinsvinnsla eða nokkur hús og mannvirki til þeirra hluta verið þar. Þar sem aðeins eru liðin 8-9 ár síðan brennisteinsvinnslan lagðist niður, hefðu þó hús og áhöld átt að vera í nothæfu ástandi, ef eitthvert eftirlit hefði verið haft með þeim. Þar hefði legið beint við að fela bóndanum í Krýsuvík umsjá með húsunum gegn einhverri lítilli þóknun, þar sem hann er þarna bústetur og hafði unnið við brennisteinsvinnsluna…“

Árið 1942 fékk Hafnarfjörður svæðið sunnan Kleifarvatns til takmarkaðra afnota, meðal annars brennisteinsnámusvæðin.

Seltún

Seltún í Krýsuvík – minjar brennisteinsvinnslunnar.

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttur, bæjarfulltrúi, segist ætla að hafa samband við formann skipulags og bygginganefndar í Hafnarfirði vegna málsins. Hún segir þó undarlegt að ekki hafi komið fram neinar ábendingar fyrr en málið hafi verið í vinnslu frá árinu 2006. Hún segir engar framkvæmdir farnar af stað. Afgreiðslan gefi einungis leyfi til tilraunaboranna og feli ekki í sér fyrirheit um nýtingarrétt. Enn eigi eftir að móta umhverfis og auðlindastefnu fyrir sveitarfélagið og endarleg niðurstaða hljóti að ráðast af því.“

Ekkert framangreint ætti að koma sæmilega upplýstu fólki, jafnvel einstökum bæjarfulltrúum, á óvart. Bygginga- og skipulagsfulltrúa gæti þó þótt viðfangsefnið óþægilegt.

Krýsuvík

Það hlaut að koma að því!. HS-orka hefur hafið framkvæmdir við borstæði í Krýsuvík undir Hettu og Baðstofu og byrjaði á því, að venju, að ganga um svæðið á „skítugum skónum“.

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar 2024.

Fyrsta fórnalambið var, að venju, ein fornleif af tveimur frá 18. öld, eða jafnvel þeirri 17., þegar Krýsuvíkurbóndi flutti út brennistein úr námunum til tekjuauka. Stórvirkri vinnuvél hafði einfaldlega, af óskiljanlegri ástæðu, verið ekið rakleitt yfir sögulega tóftina, líkt og jafnan er gert við upphaf stærri framkvæmda á Reykjanesskaganum. Þetta virðist vera það fyrsta sem framkvæmdaraðilum dettur í hug við þegar þeir mæta á vettvang. Akstur vinnuvélarinnar nákvæmlega þarna er með öllu óskýrður. Svar hlutaðeigenda verður eflaust sem og svo oft áður við slíkar aðstæður; „Sorry, gröfustjórinn vissi ekki betur„. Fulltrúi Byggðasafns Hafnarfjarðar mun að öllum líkindum, líkt og vanalega, sverja af sér alla vitneskju um minjarnar þrátt fyrir að hafa, greinilega með mistækum árangri, talið sig hafa fornleifaskráð svæðið opinberlega. Þessar tilteknu minjar, þrátt fyrir skráðar fyrirliggjandi heimildir af svæðinu sem og vitneskju um þær, fóru bara, að venju, milli „skips og bryggju“ hlutaðeigandi yfirvalda.

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar.

Ef að líkum lætur mun Minjastofnun ekkert aðhafast vegna þessa, þrátt fyrir að vitað var um minjarnar eftir opinberlega birta ritgerð um brennisteinsnám á Reykjanesskaga frá 2011 á vefsíðunni ferlir.is sem og útgefna sérstaka sjálfstæða fornleifaskráningu af brennisteinsnámusvæðinu í Brennisteinsfjöllum, Seltúni og Baðstofu í Krýsuvík frá árinu 2014 að frumkvæði fornleifafyrirtækisins Antikva, auk þess sem fulltrúi HS-orku, BÓF, hafði áður verið kvaddur á svæðið, honum bent sérstaklega á minjarnar, og hann beðinn, með fullri vinsemd, um að gæta þess að fornleifunum þeim yrði hlíft ef og þegar að kæmi að aðkomu stórtækra vinnuvéla.

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar.

Þrátt fyrir allar ábendingarnar var ekki talin ástæða, að mati ráðandi aðila, í aðdragandanum, að fornleifaskrá framkvæmdarsvæðið sérstaklega, sem verður nú að teljast einstaklega ámælisvert. Þarna hafa kjörnir fulltrúar ríkis, sveitarfélagsins og framkvæmdaraðilans augljóslega sofið á verðinum. Talandi um „græna vegginn“ í Mjóddinni??!!

Eyðileggingin er dæmigerð fyrir sofandahátt þeirra, sem fá greitt fyrir að eiga að vinna vinnuna sína, en virðast því miður vera allt of uppteknir við eitthvað allt annað en það sem þeim er ætlað….
Hörðuvallastöð

Þann 18. desember 2024 var sýningin „Köldu ljósin“ opnuð undir búnni á Lækjargötu við Hörðuvelli í Hafnarfirði.
Sýningin var tileinkuð starfi Jóhannesar Reykdal sem sannarlega var einn af þeim sem setti sitt mark á Íslandssöguna og sögu Hafnarfjarðar með skapandi hugsun sinni og framkvæmdagleði.

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal (1874-1946).

Jóhannes Reykdal var einna þekktastur fyrir að vera frumkvöðull í rafvæðingu á Íslandi en þó þekktur í Hafnarfirði fyrir margt annað og fyrir að hafa rutt veginn á svo marga vegu. Hann var fæddur 1874 og lést 1946.

Sýningin „Köldu ljósin“ fjallar um tímamótin þegar fyrsta almenningsrafveitan á Íslandi var tekin í notkun í Hafnarfirði árið 1904 og fyrstu húsin þá raflýst. Síðan eru liðin 120 ár. Talið er að fyrsta raflýsingin í desember 1904 hafi náð til fjögurra ljósastaura og rafmagn hafi verið leitt í 16 hús. Í sýningarrýminu er búið að endurskapa trésmiðju Jóhannesar og með gagnvirkum og táknrænum hætti verður kveikt á fyrstu húsunum sem fengu rafmagnið í Hafnarfirði árið 1904. Forsagan er að Jóhannes flutti inn rafal frá Noregi þetta sama ár til að rafvæða trésmiðju sína og fékk í framhaldinu færa menn til að leggja einnig rafmagn í nokkur hús.

Hörðuvallastöð

Hörðuvallastöð Jóhannesar Reykdals.

Jóhannes Jóhannesson Reykdal reisti þessa stöð við Hörðuvelli. Hann reisti rafstöðina einn og óstuddur og sá um rekstur hennar til ársins 1909. Þá keypti Hafnarfjarðarbær rafstöðina.
Sýningin „Köldu ljósin“ verður aðgengileg alla daga ársins allan sólarhringinn og er það snjöll og skemmtileg að gestirnir sjá sjálfir um að virkja sýninguna með því að toga í spotta og tendra virknina. Gangandi og hjólandi umferð um þessar sögulegu slóðir er mikil og ég sannfærð um að sýningin mun gleðja gesti og gangandi og festa söguna um merkan frumkvöðul enn frekar í sessi.

Á fjórum skiltum á sýningunni má lesa eftirfarandi:

Hörðuvallastöðin

Hörðuvallastöðin

Hörðuvalastöðin – skilti.

„Snemma árs 1905 var orðið ljóst að rafstöðin við Austurgötu gæti ekki annað mikilli eftirspurn eða þjónað bænum öllum. Réðst Jóhannes þá í það verk að reisa nýja rafstöð hér á Hörðuvöllum. Hann fékk lán úr viðlagasjóði og samdi við Jens Pálsson, prófast að Görðum, um lóðarleigu undir stíflu, stöðvarhús og íbúð fyrir vélstjóra „ofanvert við Hörðuvelli í Garðakirkjulandi, norðan við Hafnarfjarðarlæk, og fylgja lóðinni rjettindi til að nota, með slíkum umbúnaði, sem ar er nú niðurkominn, vatnsafl úr læknum til að hreifa vjelarnar í stöðvarhúsinu.“ Eins og sagði í samningnum.

Hörðuvallastöð

Sýningin „Köldu ljósin“.

Hörðuvallastöðin var gangsett laugardaginn 6. október 1906 og var hún gerð fyrir 37 kw. en vegna vatnsleysis náðist aldrei meira úr henni en 22 kw. en talið er að Hörðuvallastöðin hafi verið fyrsta sjálfstæða rafstöðin hér á landi. Í frétt dagblaðsins „Fjallkonan“ af gangsetningu stöðvarinnar sagaði m.a.: „Frá þessari stöð er rafmagninu veitt ofan í bæinn eftir eirþræði, sem liggur á staurum. Nú er lýst með rafmagni 44 hús, og eftir eru 8, sem ætla að fá lýsingu í vetur. Auk þess eru á aðalgötu bæjarins 7 ljósker, 4 sem bærinn leggur sér til sjálfur, og 3 sem kaupmenn hafa sett fyrir framan búðir sínar/…/ Húseigendur kosta rafmagnsveitu um húsin, en Reykdal að þeim. /…/ Gamla stöðin er nú eingöngu notuð handa einu húsi, fundarhúsi Goodtemplara. Þar eru samkomur oft fram á nætur, og fyrir því þykir hentugra að þurfa ekki að nota stóru stöðina handa því húsi.“

Reykdal

Reykdalsstíflan – minnismerki um Jóhannes Reykdal.

Jóhannes Reykdal seldi Hafnarfjarðarbæ báðar rafstöðvarnar árið 1909 og var starfsemi þeirra eldri hætt tíu árum síðar. Upp úr 1920 var orðið ljóst að Hörðuvallastöðin næði ekki að anna þeirri eftirspurn sem var eftir rafmagni í bænum og var þa samið við fyrirtækið Natan & Olsen um að setja upp díselrafstöð í bænum. Frá árinu 1922 sá sú stöð um rafmagnsframleiðslu fyrir notendur vestan Hamarskotslækjar en Hörðuvallastöðin fyrir íbúa sunnan lækjar. Þetta dugði þó ekki lengi og fljótlega kom í ljós að Hörðuvallastöðin gat ekki staðið undir þeirri rafmagnsframleiðslu sem nauðsynleg var. Var þá samið við við eigendur „Nýju stöðvarinnar“ um rafmagnssölu fyrir allan Hafnarfjörð. Í þeim samningi kom fram að frá 10. ágúst 1926 næði einkaleyfissvæðið yfir allan Hafnarfjarðarkaupstað og frá sama tíma var kaupstaðnum óheimilt að framleiða rafmagn með vatnsaflsstöð bæjarins. Jóhannes Reykdal keypti þá tæki Hörðuvallastöðvarinnar og nýtti fyrir trésmíðaverkstæði sitt á Setbergi og til eigin þarfa.“

Fyrsta almenningsrafveitan

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal; Fyrsta almenningsrafveitan – skilti.

„Til er áhugaverð lýsing á upphafi rafvæðingar Íslands eftir Gísla Sigurðsson sem hann ritaði eftir frásögn Árna Sigurðssonar, fyrsta rafvirkja landsins. Þar segir m.a.: „Kvöld nokkurt fyrst í desember 1904 var óvenju mikið um mannaferðir um stígana í Hafnarfirði. Þar voru á ferð fólk á öllum aldri, menn og konur, karla og kerlingar, strákar og stelpur. Allt átti þetta fólk brýnt erindi að litlum skúr er var áfastur „Timbursmiðju“ Jóh. J. Reykdals er stóð ofanvert við Moldarflötina sunnan Hafnarfjarðalækjar. Allur stóð þessi skari framanvert við skúrinn og þrengdi sér í dyrnar. En á gólfinu stóð eins margt manna og inn gat komist og raðaði sér umhverfis sérkennilegan hlut: „Fyrstu rafljósavélina er hingað kom til Íslands“. /…/ Rafallinn átti að vera í sambandi við vatnshjól það, er verksmiðjan var rekin með. Svo var vatnshjólið sett í gang. Þá var tekið í sveif og reim færð yfir á skífu og um leið fór rafallinn að snúast, og um leið skeði undrið mikla. Í lítilli glerkúlu er hékk úr lofti skúrsins tóku að birtast logandi þræðir, daufir í fyrstu en smá skýrðust þar til þeir loguðu með hinni skærustu birtu.“

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal við rafalinn.

Forsaga þessa máls var sú að um sumarið 1904 sigldi Jóhannes Reykdal til Noregs og keypti þá 9 kw. rafal sem hann tengdi við ás hverfilsins sem hann hafði notað við trésmíðavélarnar. Jóhannes fékk nýútskrifaðan rafmagnsfræðing, Halldór Guðmundsson, til að hafa umsjón með verkinu og lagningu rafmagnslína til valinna hús í bænum en Árni Sigurðsson, trésmiður, og síðar fyrsti rafvirki landsins, annaðist raflagnir innanhúss. Heimildir eru nokkuð á reiki um fjölda þeirra húsa sem fengu rafmagn í desemberbyrjun árið 1904, sumar heimildir segja að að settir hafi verið upp fjórir ljósastaurar og rafmagn leitt í 16 hús en aðrar telja að húsin hafi verið eitthvað færri.

Jóhannes Reykdal

Sýningin „Köldu ljósin“ – vatnshjólið.

Notendur greiddu fyrir ákveðinn fjölda ljósa, oftast tvö ljós en ljósastæðin voru þó fleiri í hverju húsi og perurnar þá flutta á milli herbergja eftir þörfum. Jóhannes seldi perurnar sjálfur gegn því að hinum ónýtu væri skilað og hafði hann þannig stjórn á fjölda ljósanna. Hver og einn mátti láta loga meðan rafallinn var í gangi en það var frá því að skyggja tók á kvöldin til kl. 12 á miðnætti og á morgnanna frá kl. 6 þar til vinnubjart var orðið inni við. Í samtíða frétt sagði um rafvæðinguna: „Hafnfirðingar eru mjög vel ánægðir með raflýsinguna, þykir hún þægileg, handhæg og ódýr, og þeir mega með réttu vera stoltir að hafa orðið fyrstir til þess að innleiða hana á Íslandi.“

Trésmíðaverkstæðið

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal; Trésmíðaverkstæðið – skilti.

Eftir að Jóhannes Reykdal flutti til Hafnarfjarðar árið 1902 hóf hann þegar að stunda iðn sína í bænum. Hann sami þetta sama ár við hreppsnefnd Garðahrepps um byggingu barnaskóla við Suðurgötu og í kjölfarið risu einnig bæði Arahús og Svenborg en það var upphafi af umfangsmiklum húsbyggingum hans í Hafnarfirði. Árið 1903 samdi hann við séra Jens Pálsson, prófast að Görðum, um lóð undir trésmíðaverksmiðju og afnotarétt að Hamarskotslæk.
Jóhannes ReykdalHann fékk lán frá landsjóði upp á 8.000 kr til framkvæmdarinnar en lán þetta var með 4% vöxtum og afborgunarlaust í þrjú ár en greiddist þá upp á 12 árum. Trésmíðaverksmiðja þessi var sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Í kjölfarið birti hann eftirfarandi auglýsingu á dagblaðinu Ísafold: „Nýtt maskínuverkstæði. Ég undirritaður fæ nú í vor nýjar maskínur á snikkaraverkstæði mitt, fullkomnar til að vinna að bygginga- og möblusmíði og alt sem renna þarf. Tveir nemendur geta fengið pláss strax. Vinnan óvanalega létt.“

Hann sigli erlendis til að kaupa vélar í verksmiðjuna og kom með gufubátnum Skálholti frá Kaupmannahöfn til Hafnarfjarðar annan í páskum árið 1903 með átta trésmíðavélar.
Jóhannes ReykdalVélar verksmiðjunnar voru knúnar áfram með fallorku bæjarins en Jóhannes lagði níu metra langa rennu úr læknum í vatnskassa við húshliðina og var fallhæð vatnsins í kassanum tæpir fjórir metrar. Þar var að finna 11 kílóvatta hverfil og frá honum lá aðalöxullinn inn í kjallarann undir húsinu. Frá öxlinum lágu reimar upp í gegnum gólfið í svokallaða hreyfivél sem svo knúði trésmíðavélarnar áfram. Vélarnar sem Jóhannes keypti þetta vor, voru rétthefill ætlaður til að taka bugður og vending af fjölum, þykktarhefill sem tók við af þeim fyrri, tveir strikheflar, borvél, hjólsög, bandsög og rennibekkur. Vélar þessar voru nýjungar sem þekktust ekki hér á landi og sem dæmi um það er til skemmtileg lýsing úr frétt af opnun verksmiðjunnar þar sem sagði ma.: „Þó að vér tölum hér um hefla, það er það ekki að öllu leyti rétt kveðið að orði. Það, sem vér köllum hér svo, eru í rauninni vélar, sem hefla og sem ekki geta gert sér rétta hugmynd um nema menn sjái þær.“

Jóhannes rak trésmíðaverkstæði þetta allt til ársins 1911 en í árslok það ár seldi hann það tólf Hafnfirðingum sem stofnuðu sameignarfélag undir nafninu Dvergur, trésmíðaverksmiðja og timburverslun Hafnarfjarðar, Flygering & co.“

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal; „Köldu ljósin“ – skilti.

Það var sunnudaginn 18. janúar 1874 sem hjónunum í Vallakoti í Þingeyjarsýslu, Jóhannesi Magnússyni og Ásdísi Ólafsdóttur, fæddist þeirra 15. barn. Það var drengur sem síðar hlaut nafnið Jóhannes Jóhannesson Reykdal. Jóhannes ólst upp í Eyjafirði, Fnjóskadal og á Seyðisfirði við lítil efni. Þegar hann var kominn á fullorðinsár fór hann til Akureyrar og lærði þar smíðar hjá Snorra Jónssyni. Á Akureyri var hann um tíma en árið 1098 hélt hann til Kaupmannahafnar til að stunda frekar nám í iðn sinni og dvaldi hann ytra í tvö og hálft ár. Hann kom til Íslands aftur vorið 1901 og var í Reykjavík í eitt ár en flutti þá til Hafnarfjarðar og settist þar að.

Jóhannes Reykdal

Þórunn Böðvarsdóttir.

Jóhannesi hefur verið lýst á eftirfarandi hátt: „Hann var kvikur á fæti og snöggur í fasi, hljóp oft við fót þegar hann var á ferð og var mikið niðri fyrir þegar hann talaði. Hann var ótrauður til verka og gekk í hvað sem var ef honum þótti seint ganga eða óhönduglega að staðið. Hann gat tekið ákvarðanir fyrirvaralaust og þótt þær gætu verið umdeilanlegar var hann maður til að standa við þær svo að ekki hlaust skaði af.“

15 maí 1904 kvæntist Jóhannes Þórunni Böðvarsdóttur og eignuðust þau 12 börn en móðir Jóhannesar var alltaf með honum og sá hann fyrir henni síðustu árin. Hann stofnaði trésmíðaverkstæði og síðar rafveitu í Hafnarfirði en eftir að hafa selt þessi fyrirtæki hof hann búskap á Setbergi ofan við Hafnarfjörð árið 1911, síðar byggði hann nýbýlið Þórsberg þar skammt frá og bjó þar til dauðadags 1946.
HafnarfjörðurVið Setberg reisti hann rafstöð og þar var hann með ýmsar nýjungar í búrekstrinum, keypti dráttarvél 1927 sem hægt var tengja ýmis heyvinnutæki við og þá tók hann í notkun mjaltavél á búi sínu, einna fyrstur manna hér á landi. Árið 1920 reisti hann nýtt trésmíðaverkstæði á landareign sinni og sex árum síðar reis þar einnig íshús sem þjónustaði útgerðina í bænum.

Eins og áður segir fluttist Jóhannes Reykdal til Hafnarfjarðar árið 1902 og upp frá því má segja að saga hans og bæjarins hafi tvinnast þétt saman. Auk fjölda húsa sem hann byggði í bænum settu trésmíðaverkstæði hans og síðar farveitan mark sitt á bæinn. Auk þessa var Jóhannes einn af stofnendum Vatnsveitufélags Hafnarfjarðar, hann var varamaður á lista til fyrstu bæjarstjórnarkosninga í bænum 1908, fyrsti slökkviliðsstjóri bæjarins og fyrsti formaður í stjórn Fríkirkjusafnaðarins í Hafnarfirði svo eitthvað sé nefnt.“

-ÓSÁ tók saman.

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal; sýningin „Köldu ljósin“. Í forgurnni má sjá upplýst húsin í Hafnarfirði á fyrstu árum rafvæðingarinnar.

Jónsbúð

Gengið var frá Arnarfelli í Krýsuvík til austurs yfir Krýsuvíkurheiði. Farið var yfir gróið þýfi, stigið yfir Eystrilæk og ekki staðnæmst fyrir en við stóra tóft efst á heiðinni; Jónsvörðuhús eða Jónsbúð, eins og hún er stundum nefnd. Þá var haldið yfir að öðru húsi skammt sunnar, þar sem heiðin tekur að halla undan áleiðis niður að Krýsuvíkurbjargi. Það hús er hlaðið og er nokkuð heillegt.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

Ætlunin var m.a. að skoða svæðið austan Arnarfells, en eins og kunnugt er staðnæmdust skreiðarlestirnar á leiðinni austur frá Grindavík við Arnarvatn suðaustan við fellið. Stóra tóftin efst á Krýsuvíkurheiði var fjárhús eða sauðakofi. Ekki er vitað hvernig nafnið á hana, Jónsbúð eða Jónsvörðuhús, er til komið. Elstu menn segjast hafa heyrt af því að þar hafi Magnús, síðasti íbúinn í Krýsuvík, setið yfir sauðum á yngri árum er hann var þar í vist hjá sýslumanninum.

Skammt suðaustar, þegar fer að halla undan á heiðinni til suðurs er heillegt hlaðið skjól og auk þess og vandlega hlaðið hús þar skammt sunnar.

Krýsuvíkurheiði

Tóft í Krýsuvíkurheiði.

Dyr vísa til suðurs. Ekki er vitað til hvers það var notað. Þó er ekki óraunhæft að ætla að þar hafi Magnús, eða einhver annar á undan honum, haft afdrep. Líklegast er að þarna hafi verið afdrep manna. Stigið er ofan í það af þröskuldi og hefur gluggi verið á norðurstafni. Útsýni er þarna yfir neðanverða heiðina, Litlahraun þar sem fyrir eru allnokkrar minjar, s.s. fjárskjól, hústóft, rétt o.fl. og niður að Sundvörðunni á Krýsuvíkurbjargi.
Þarna gæti líka hafa verið útstöð Arnarfellsbónda hér áður fyrr eða hús hlaðið af refaskyttum, sem voru við veiðar ofan við bjargið.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær um 1930.

Nú eru allir bæirnir í Krýsuvík í eyði. Stóri-Nýibær lagðist seinast í eyði. En þó er ekki svo langt síðan að svæðið varð mannlaust þarna. Einn maður varð eftir, þegar allir aðrir flýðu af hólmi. Með órjúfandi tryggð við staðinn gafst hann aldrei upp, heldur þraukaði þar fjarri mannabyggðum aleinn, ósveigjanlegur og hiklaus og barist þar áfram með hinni ódrepandi íslensku seiglu. Þessi maður var nefndur Magnús Ólafsson.
Magnús er upp alinn í Hafnarfirði, en 18 ára gamall fór hann til Árna sýslumanns Gíslasonar í Krýsuvík. Er sagt að hann færi þangað nauðugur. Árni hafði útgerð í Herdísarvík og er að heyra á Magnúsi að hann hafi kviðið fyrir því að verða sendur þangað.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík.

“Mér hefur aldrei verið um sjóinn gefið”, sagði hann eitt sinn í viðtali við Árna Óla, “en ég var snemma hneigður til fjárgeymslu, og það starf fékk ég. Þá var ég ánægður.”
Ábúendur komu og hurfu, margs konar breytingar urðu, en alltaf var Magnús kyrr í hverfinu. Var hann á bæjunum sitt á hvað. Að undanteknu einu ári, sem hann var á Setbergi í Hafnarfirði, og einum vetri, sem hann var þar í kaupstaðnum, hefur hann stöðugt verið í Krýsuvík. Og þegar allir voru flúnir þaðan, settist hann að í kirkjunni. Höfðu verið rifnir úr henni bekkir, altari og prédikunarstóll, loft sett yfir kórinn og hann þiljaður af. Enn fremur hafði verið afþiljuð ofurlítil kompa í framkirkjunni fyrir geymslu.
Menn hugsa sér kirkjur oft nokkuð stórar, en þessi var bæði fornfáleg og lítil. Hún var úr timbri og ekki manngegnt undir bita. Ekkert tróð mun í veggjum og gólfið sigið og gisið. Og hvernig sem á er litið er þetta heldur ömurleg vistarvera. Það hefur því þurft óvenju mikið sálarþrek til þess að geta hírst þarna aleinn árum saman, langt frá öllum mannabyggðum. En það sá ekki á Magnúsi að hann hafði gugnað neitt við einveruna. Þó fór svo að lokum að einnig Magnús varð að yfirgefa sveitina. Síðan hefur sauðkindin ráðið þar ríkjum eða allt fram til þess. Nú er svo komið að einnig hún verður að víkja af svæðinu og verða færð í sérstakt beitahólf á og vestan við Núpshlíðarháls.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Krýsuvíkurheiði

Hús á Krýsuvíkurheiði.

Kapelluhraun

Gengið var frá íþróttahúsinu á Ásvöllum yfir að Rauðhól, síðan um Hellnahraunin yfir að Kapelluhrauni og hraunið skoðað milli iðnaðarsvæðisins og gasstöðvar Álversins. Þar er lægð í hrauninu, Leynir, sléttari en umhverfið og ef vel er að gáð má sjá þar mannvistarleifar á nokkrum stöðum.

Rauðhóll

Rauðhóll – uppdráttur GK.

Rauðhóll er, eða öllu heldur var, sunnan undir Hvaleyrarholti. Þar stóð áður lítill hóll, úr rauðu hraungjalli og með grunna gígskál. Líklega var hér um gervigíg að ræða en þeir myndast þegar hraun rennur yfir votlendi og það tekur í sig gufuna, tætist í sundur og verður að gjalli og rauðamöl. Á tímabili var tekið mikið af rauðamöl úr honum í vegi. Síðan var gryfjan notuð sem sorphaugar. Núna er lítið eða ekkert eftir af honum. Í stað hans er malargryfjan, en í miðjunni hefur verið skilinn eftir smá stabbi. Ferðamenn á leið um Reykjanesbrautina sjá nú þessa óhrjálegu gryfju í stað hins formfagra Rauðhóls. Bergið í hólleifunum var fremur fínkornótt með plagióklasdílum og örsmáir ólivíndílar komu fyrir en sáust varla með berum augum.

Rauðhóll

Rauðhóll við Hafnarfjörð – uppdráttur GK.

Varðandi aldur Rauðhóls er ekki hægt að segja nákvæmlega en hann hlýtur að vera eldri en hraunið sem hefur runnið upp að honum sem er Hellnahraun yngra og talið hafa runnið fyrir 1000 árum. Rauðhóll hafði að geyma merkilegar jarðsöguheimildir. Dýpst í malargryfjunni var svokölluð barnamold sem var allt að ½ metri að þykkt. Moldin er mjúk, þjál og ljósgulbrún að lit meðan hún var vot, en varð stökkari viðkomu og snjóhvít við þurrk. Ef hún var sett undir smásjá kom í ljós að hún var næstum því eingöngu úr örsmáum kísilþörungaskeljum.

Rannsóknir hafa sýnt að þarna hafi verið tjörn áður en hóllinn varð til. Næst kom fínn sandur morandi af skeljum og skeljabrotum af sjódýrum. Skeljar finnast þarna vegna þess að hraunið sem gígurinn er í hefur runnið yfir setlög á strönd.

Rauðhóll

Rauðhóll í dag.

Á eftir skeljasandinum lá frekar þunnt lag af fínni brúnni sandhellu sem var miklu fastari í sér og þar voru engar skeljar að finna.
Þegar gengið er yfir nokkuð slétt Hellnahraunið er ljóst að þar er ekki einungis um eitt hraun að ræða.
Hellnahraun eldra (Skúlatúnshraun) er slétt helluhraun og er talið hafa runnið fyrir 2000 árum. Það kom úr Brennisteinsfjallakerfinu, líklega frá Stórabolla í Grindaskörðum og stíflaði meðal annars Hvaleyrarvatn. Hraunið myndar ströndina milli Straumsvíkur og Hvaleyrarholts.
Hellnahraun yngra kemur eins og Hellnahraunið eldra úr Brennisteinsfjallakerfinu og er talið hafa runnið fyrir 1000 árum. Hraunið kom frá Tvíbollum í Grindaskörðum og er sléttara og þynnra. Nýja Haukahúsið stendur á þessu hrauni. Þetta hraun hefur valdið því að Ástjörnin varð til.

Leynir

Skjól í Leyni.

Þess má geta að Kristintökuhraunið er frá sama tíma og sömu hrinu og á því 1000 ára afmæli einmitt þetta ár, en haldið verður upp á 1000 ára afmæli kristintökunnar núna í sumar.
Hraunið sem Álverið við Straumsvík stendur á heitir Kapelluhraun eða Nýjahraun og er allra yngsta hraunið á svæðinu í kringum Hafnarfjörð. Það er frá árinu 1151. Hraunið er komið úr stuttri gígaröð er opnaðist undir Undirhlíðum. Kapelluhraun rann norðan á skaganum og til sjávar og myndað þar tanga, en vestan undir honum er Straumsvík.
Kapelluhraun er ákaflega fallegt úfið og mosagróið apalhraun en hörmung er að sjá hvernig karganum hefur verið rutt af yfirborði þess á stórum svæðum. Á og utan í lágum hraunhólum inni í hrauninu er mannvistarleifar á nokkrum stöðum, s.s. hlaðið byrgi á hraunhól, hlaðið skjól í hraunklofa og annað utan í hraunvegg. Minjar þessar eru skammt ofan við gömlu Alfaraleiðina milli Hafnarfjarðar og Útnesja.

Kapella

Kapellan 2022.

Í hrauninu ofan við álverið er hlaðin rúst í hrauninu, sem er nefnd Kapellan. Árið 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn kapellu á nálægum slóðum og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi. Einnig var hún verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðs- manna, námumanna,verkfræðinga og jarðfræðinga. Einhverra hluta vegna er þessi rúst á fornminjaskrá og þar má sjá eftirlíkingu af líkneskinu, en hún er í raun líka eftirlíking af hinni fornu kapellu, sem var eyðilögð þegar hraunið var fjarlægt á sínum tíma.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/RAUDHOLL.HTM

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Kaldársel

Í bókinni “Blárra tinda blessað land” segir Árni Óla frá Grindaskarðavegi: “Rétt fyrir vestan Smalafell liggur gamli vegurinn frá Hafnarfirði til Selvogs. Heitir hann Grindaskarðavegur.
Göturnar eru nú horfnar og gleymdar, þótt þetta væri Grindaskarðavegurinn, sem nefndur er - Jón Bergssonáður alfaraleið, en vegurinn segir þó til sín. Hafa verið sett ýmiss merki við hann, svo sem smávörður, tréstaurar eða járnhælar, sem reknir hafa verið niður með stuttu millibili. Og svo hefir á löngum köflum verið raðað steini við stein meðfram götunni. Kemur þessi langa steinaröð, hér í óbyggðum, ókunnugum einkennilega fyrir sjónir, því að hún líkist gangstétt. Liggur hún þvert yfir jarðfallið með stefnu á eldgíg nokkurn austan Valafell. Er þetta víst eina færa leiðin með hesta þarna þvert yfir, til þess að komast framhjá tveimur hrikalegum gjám, sem eru sín hvoru megin við jarðfallið. Þegar komið er upp undir hlíðarnar að sunnan, beygir vegurinn vestur að Kaldárseli.”
Þarna er væntanlega átt við götu þá, sem enn sést klöppuð í berghelluna vestan við Borgarstand utan við Kaldársel. Þar hefur eininungis á einum stað verið hægt að komast yfir gjána með hesta. Gatan sunnan Kaldársels bendir til þess að sú leið hafi síðan verið farin að Kýrgili og áfram með stefnu sunnan Helgafells. Þá hefur línan verið tekin undir hraunbrúninni að Dauðadölum, síðan beygt inn á slétt hraunið við Dauðadalahella og upp á gatnamótin þar sem Selvogsgata/Grindaskarðsvegur greindust um Grindaskörð annars vegar og Kerlingaskarð hins vegar.
Dauðadalaleiðin gæti skv. þessu hafa verið nefnd Grindaskarðavegur, en Selvogsgata að austanverðu, um Helgadal. Selvogsbúar nefndu þá leið Suðurferðaveg. Hafa ber í huga að jafnan var afdrep í Kaldárseli því það fór ekki í eyði fyrr en um aldamótin 1900 og stóðu þó húsin enn um nokkurt skeið eftir það. Að vísu var afdrep í Setbergsseli á hinni leiðinni, en það fór sennilega í eyði í byrjun 19. aldar.

Kaldá

Í bókinni segir Árni Óla jafnframt: „Einu sinni var byggð í Kaldárseli. Bjó þar seinast einsetumaður og dó þar, svo að enginn vissi fyrr en nokkru seinna, að einhverja menn bar þar að garði. Eftir það fór kotið í eyði. En fyrir nokkrum árum byggði K.F.U.M. í Hafnarfirpi þarna skála og hafði þar bækistöð sína. Í fyrra var skálinn stækkaður um helming, og í sumar hafa Hafnfirðingar haft þar barnaheimili með 27 börnum. .
Um Kaldá er og fjallað. Sagt er frá hugmynd Eggerts Ólafssonar þess efnis að áin renni neðan jarðar all aleið vestur á Reykjanestá og þar til hafs, en af straumi hennar myndist Reykjanesröst. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi sagði það almælt að á fyrri öldum hafi á sú runnið úr Þingvallavatni, „eitthvert hið mesta vatnsfalla á Íslandi“. Hún á að hafa runnið norðan við Hengil og ofan þar, sem nú eru Fóelluvötn, og svo suður með hlíðum og í sjó á Reykjanesi. „Sé sagt, að hún komi upp í Reykjanesröst og að Kaldá hjá Helgafelli sé úr henni“. „En svo þurfti að fá skýringu á því, hvernig stóð á því stóð, að þetta mikla vatnsfall skyldi hverfa, og eru um það ýmsar sögur. Ein er sú, að karl nokkur, sem var kraftaskáld, missti í ána tvo sonu sína, og kvað hana þá niður. Önnur sögn, og öllu vísindalegri, er sú, að Kaldá hafi horfið eitt sinn, er suðurfjöll brunnu, svo einn var eldur ofan úr Hengli og út í sjó á Reykjanesi og hafi þá jörðin gengið upp fyrir sunnan Elliðavatn.“

Heimild:
-Árni Óla, Blárra tinda blessað land“, 1945, bls. 33-34.

Kaldá

Stiflishólar

„Þeir vóru margir saman í einu félagi, skiptu sér niður á bæi á Álftanesi og gengu ljósum loganum svo enginn hafði frið. Þeir vóru kallaðir Hverfisdraugar.

Brúsastaðir

Brúsastaðir og Stiflishólar.

Þetta var seint á 18 öld, og þá var séra Guðlaugur prestur í Görðum og hann kunni margt fyrir sér. Nú þegar bændur voru orðnir ráðalausir með þessa aðsókn þá fóru þeir til séra Guðlaugs og beiddu hann að hjálpa. „Mikið er að vita,“ segir prestur, „að þið skulið ekki hafa komið fyrr; það er nú orðið of seint, þeir eru nú orðnir of magnaðir, ég get ekki sett þá niður.“ Þó fór hann af stað og fékkst lengi við draugana og gat komið þeim að Stiflishólum, en lengra kom hann þeim ekki í því hvar sem hann leitaði á þar var eitthvað fyrir. Hann markaði því reit umhverfis hólana sem þeir aldrei komust út yfir og skildi svo við. Síðan eru þeir kallaðir Stiflishóladraugar, og hefur lengi verið þar reimt og einhver vandræði fyrir flesta sem fara þar fram hjá, en nú eru þeir farnir að dofna því þeir eru orðnir svo gamlir.“

Heimild:
-Jón Árnason I (1954), 254.

Stifnishóll

Stiflishóll.

Krýsuvíkurkirkja

Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1969 var rætt við Þórarinn Einarsson á Höfða á Vatnsleysuströnd undir fyrirsögninni „Daglegt brauð, sem drottinn gefur„. Í viðtalinu segir Þórarinn m.a. frá Árna Gíslasyni, sýslumanni í Krýsuvík, og Oddi V. Gíslasyni, presti á Stað í Grindavík:

Þórarinn Einarsson„Að þessu sinni tökum við tali gamlan mann suður með sjó. Hann hefur lengst ævi sinnar sótt deildan verð í greipar Ægis, hið daglega brauð, sem drottinn gefur sjómanninum — brauðið, sem við hinir viljum eignast hlutdeild í og Íslendingar fá vart nægju sína af.
En ekki hefur bátur vaggað honum á bárum allar ævistundir, og þess vegna berst talið að mörgu öðru en sjómennsku og fiskidrætti.
Hann kiprar dálítið augun og hleypir í brýnnar, þar sem hann situr andspænis okkur, líkt og hann hefur oft gert, þegar rýnt var í sortann, allkeikur og hressilegur, þó að mörg séu árin, sem hann á að baki sér. Þórarinn heitir hann, Einarsson, og á heima á Höfða á Vatnsleysuströnd.
— Hvar fæddist þú, Þórarinn?
— Ég fæddist í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík árið 1884. Þetta er hálfníræður maður, sem þið eigið tal við. Faðir minn, Einar Einarsson, bjó í Stóra-Nýjabæ, og þá voru í Krýsuvík fjórtán bæir, þar sem nú er enginn. Sá, sem öllu réði þar á bernskuárum mínum — það var Árni sýslumaður Gíslason.
— Var hann búinn að vera þar lengi?

Þórarinn Einarsson

Þórarinn Einarsson og Guðrún Þorvaldsdóttir Höfða ca. 1940.

— Nei, hann kom að austan nokkrum árum áður en ég fæddist. Hann var sýslumaður Skaftfellinga í tæp þrjátíu ár og bjó þá á Kirkjubæjarklaustri. En svo brá hann á nýtt ráð, sextugur maður.
Hann keypti Krýsuvík og Herdísarvík og gerðist sjálfur bóndi í Krýsuvík. Ég man vel eftir Árna. Hann var lítill vexti, rauðbirkinn og með kragaskegg og enskt kaskeiti aftan á hausnum. Það hefur komið í staðinn fyrir sýslumannshúfuna, sem hann lengi var búinn að bera.
— Hann var mikill fjárbóndi, minnir mig, að ég hafi heyrt?
— Það mátti nú segja — hann var um tíma fjárflesti bóndi á öllu landinu. Hann rak tólf hundruð fjár af Klaustrinu, þegar hann fluttist til Krýsuvíkur. En ekki komu nema sex hundruð fullorðnar kindur til skila fyrsta haustið sem hann var í Krýsuvík. Það leitaði austur aftur, féð, vildi komast í átthagana. Ég hef heyrt, að sex kindur kæmust alla leið austur að Klaustri. En leiðin er löng og vatnsföll mörg, og það fórst víst margt eða lenti í villum.

Stóri-Nýibær

Nýibær í Krýsuvík.

— Hvernig líkaði valdsmanninum bóndastaðan?
— Hann var nú ekki neinn venjulegur bóndi. Þeir voru vanir að ráða, sýslumennirnir í þá daga, og Árni var ráðríkur. Hann gat orðið bráðvondur, og þá rauk hann út eða burt frá þeim, sem hann reiddist við. En eftir nokkrar mínútur kom hann aftur, og þá var honum runnin reiðin. Hann var hjúum sínum ákaflega góður húsbóndi og hafði sama fólkið svo árum skipti. Skammaði það aldrei — rauk bara út.
— Lét hann mikið að sér kveða í byggðarlaginu?

Krýsuvík

Í Krýsuvík 1887. Árni Gíslason lengst t.h.

— Hann vildi láta alla í Krýsuvíkurhverfi sitja og standa eins og honum þóknaðist. Hann átti þetta allt — þetta voru eintómar hjáleigur, sem fylgdu heimajörðinni, höfuðbólinu. Körlunum þótti sem þeir hefðu ekki sama frelsi og áður, enda fór fljótt að fækka í sveitinni eftir að hann kom. Faðir minn hafði verið formaður hjá séra Oddi Gíslasyni á Stað í Grindavík áður en Árni kom, en nú varð hann að gerast formaður hjá honum. Hann skyldaði karlana til þess að róa hjá sér. Já — hann átti þetta allt saman.
— Hafði hann mikinn sjávarútveg?
— Mig minnir, að hann gerði út þrjú skip, og þau lét hann ganga frá Herdísarvík. Þá voru gerð út sex skip þaðan, svo að þar var þó dálítil verstöð. Sex skipshafnir — það var ekki svo lítill hópur.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær.

— Reri faðir þinn víða?
— Það var nú einkum í Grindavík. Í nokkur ár var hann hjá séra Kristjáni Eldjárn, afa forsetans okkar — hann var prestur á Stað í sjö eða átta ár. Það var vinsæll maður og skemmtilegur. Hann var ungur og glaðvær, þegar hann var í Grindavík, og ókvæntur — mig minnir, að hann hefði systur sína hjá sér ráðskonu. Frá Stað fór hann svo að Tjörn í Svarfaðardal, og þar ílentist hann. Séra Oddur tók við af honum, og hjá honum var pabbi formaður nokkrar vertíðir eins og ég sagði ykkur áðan.
— Var séra Oddur ekki formaður sjálfur?

Krýsuvík

Krýsuvík 1936 – Ásgeir L. Jónsson.

— Hann reri tvær vertíðir með pabba, en seinna var hann sjálfur formaður. Hann sótti sjóinn, þó að hann væri prestur, eins og margir Grindavíkurprestar hafa gert. Og hann gerði út skip og báta. Frostaveturinn mikla, 1881, gaddagóuna svokallaða, var séra Oddur á bát með pabba. Eitt sinn sem oftar voru þeir á færum á sundinu fyrir utan Grindavík. Fiskurinn var ör, sílfiskur, en frostið hart og nokkur gjóla. Bátinn ísaði, svo að hann var orðinn allsokkinn. Þá vildi pabbi hætta að draga, en séra Oddur var ekki á því. „Daglegt brauð, sem drottinn gefur, Einar minn“, sagði hann. Frá því vildi hann ekki hlaupast fyrr en í fulla hnefana. Þó varð úr, að þeir hættu, og henti þá séra Oddur fiskinum, sem hann var með á önglinum. En ekki mátti tæpara standa, því að báturinn sökk, þegar þeir komu í vörina.
— Og þetta var forvígismaður slysavarna á sjó á Íslandi?

Krýsuvík

Legsteinn Árna Gíslasonar að baki Krýsuvíkurkirkju.

— Já, þetta var forvígismaður slysavarna á sjó á Íslandi. Og forvígismaður um margt. Hann hafði farið til Englands og átt þangað mörg erindi. Hann vildi læra enska tungu og komast í kynni við ensk kristniboðsfélög, og þar kynntist hann líka slysavörnum og lærði að gufubræða lifur. Með því bætti hann lýsisverkunina. Og svo fór hann að vinna að slysavörnum og ferðaðist í því skyni um landið, talaði við sjómenn, gaf út bæklinga um slysavarnir, meira að segja blað, sem hét Sæbjörg. Til þess naut hann styrks frá Alþingi — mig minnir að hann fengi þrjú hundruð krónur á ári. —

Oddur V. Gíslason

Oddur V. Gíslason.

Já, séra Oddi voru hugleiknir sjómennirnir, enda áttu sóknarbörn hans í Grindavík alla afkomu sína undir sjónum og hann sjálfur sjómaður. Og nógu voru sjóslysin mörg og átakanleg til þess, að eitthvað væri reynt að sporna við þeim.
— Bárufleygur — var það ekki eitt af því, sem Oddur vildi láta menn nota?
— Jú, bárufleyginn fékk hann frá Noregi. Það var belgur eða poki með lýsi eða olíu til þess að lægja úfinn sjó. Hann kostaði átta krónur, ef mér bregzt ekki minni.“

Þórarinn Einarsson fæddist 12. apríl 1884 og dó 7. apríl 1980.
Árni Gíslason, sýslumaður, ljóðskáld og skrifari fæddist 14. september 1820 og dó 26. júní 1898.
Árni kvað þetta t.d. einhvern tíma á búskaparárum sínum í Krýsuvík;

Vorið blíða lífgar lýð,
lengist óðum dagur.
Gyllir fríða Geitahlíð
geislinn sólar fagur.

Oddur Vigfús Gíslason, guðfræðingur, sjómaður og baráttumaður fæddist 8. apríl 1836 og dó 10. janúar 1911.

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað, 10. tbl. 16.03.1969, Daglegt brauð, sem drottinn gefur, rætt við Þórarinn Einarsson á Höfða á Vatnsleysuströnd, bls. 228-232.

Krýsuvík

Krýsuvík um 1880.