Færslur

Álftanes - kort 1870

Eftirfarandi er yfirlit yfir sögu einstakra byggðalaga á Reykjanesskaganum vestanverðum:

Saga Reykjavíkur

Saga Reykjavíkur.

 -Anna Ólafsdóttir Björnsson: Álftanesnesið okkar. Kaflar úr sögu Bessastaðahrepps. Bessastaðahreppur 1998. 48 bls.

Þetta er kennsluefni í samfélagsfræði fyrir nemendur Álftanesskóla og er að nokkru stuðst við efni bókarinnar Álftanesssaga. Bessastaðahreppur – fortíð og sagnir. Efnið nær frá landnámi til loka 20. aldar.

-Anna Ólafsdóttir Björnsson: Álftanesssaga. Bessastaðahreppur – fortíð og sagnir. Reykjavík 1996. 311 bls.

Ritið skiptist í þrjá meginhluta. Sá fyrsti nefnist „Frá landnámi til 1800. Kotin og kóngsmennirnir“.

Álftanessaga

Álftanessaga.

Þar er m.a. lýsing Bessastaðahrepps, fjallað um landnám og fyrstu aldirnar, Lénharð fógeta, hvalreka, Bessastaðakirkju, skipskaða og ofviðri og hinstu ferð Appolloníu Swartzkopf. Auk þess eru fjórir undirkaflar sem skiptast á einstakar aldir, þá fimmtándu, sextándu, sautjándu og átjándu. Annar meginhluti kallast „Nítjánda öldin. Blómaskeið sjósóknar á Álftanesi“. Þar er m.a. fjallað um mannlíf á Álftanesi í upphafi aldarinnar, aldarfar og afkomu, skiptingu hreppsins, menntun og menningu, sjósókn og landbúnað. Þriðji meginhluti nefnist „Tuttugasta öldin. Búskapur og upphaf þéttbýlis“. Rætt er m.a um íbúaþróun, samgöngur, búskap, sjósókn og fiskvinnslu, landþurrkun og sjávarvarnir, veitumál, framfærslumál, skipulag, félagsstarfsemi og listir og atvinnulíf almennt.

Saga Hafnarfjarðar

Saga Hafnarfjarðar.

-Ásgeir Guðmundsson: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I-III. Hafnarfjörður 1983-1984. 446 bls., 446 bls., 557 bls.
Verkið er efnisskipt:

Í fyrsta bindi er einkum fjallað um stjórnmál, skipulagsmál, fjármál, höfnina og atvinnumál almennt.
Í öðru bindi er rætt um veitustofnanir, slökkvilið og löggæslu, skóla- og íþróttamál, heilbrigðismál og kirkjumál.
Í þriðja bindi er sjónum beint að stéttarfélögum, félagsstarfsemi, menningarmálum, félags- og æskulýðsstarfsemi, húsnæðismálum, verslun og viðskiptum, vegamálum og samgöngum og loks er hugað að fáeinum bæjarstofnunum. Í ritinu er einnig æviágrip bæjarfulltrúa og bæjarstjóra.

Álftanes

Álftanes – örnefni og bæir. (ÓSÁ)

Bessastaðahreppur í hundrað og tuttugu ár. Afmælisrit. Umsjón með útgáfu Soffía Sæmundsdóttir. [Bessastaðahreppur] 1998. 36 bls.
Í ritinu er einkum að finna stuttar frásagnir af skólamálum, kirkjustarfi, kórstarfi og félagslífi.
Einnig eru ávörp og viðtöl við yngri og eldri íbúa Bessastaðahrepps.

-Bjarni Guðmarsson: Saga Keflavíkur I-III. Keflavík 1992, 1997, 1999. 302 bls., 371 bls., 448 bls.
Fyrsta bindið tekur til tímabilsins 1766-1890. Greint er frá upphafi þéttbýlis en meginhluti ritsins fjallar um verslun og sjávarútveg á ýmsum tímum, en jafnframt er rætt um íbúa og atvinnuhópa, alþýðuhagi og lífið í þorpinu sem og bjargræði af landi.

Saga Keflavíkur

Saga Keflavíkur.

Annað bindið fjallar um tímann 1890-1920 og skiptist í sautján ólíka kafla. Rætt er um strandsiglingar og vegasamband, umhverfi og bæjarland, fólksfjölgun og húsbyggingar, heimilishald, kaup og kjör launafólks, útgerð og fiskiskip, verslun og viðskipti, heilbrigðismál, trú og kirkju, skólahald, bindindismál, félagslíf og menningarstarf, sveitarstjórn og lífið í Keflavík í fyrri heimsstyrjöldinni.
Þriðja bindið nær yfir tímabilið 1920 til 1949 og skiptist í 23 meginkafla og hefur hver og einn að geyma nokkra undirkafla. Rætt er um íbúaþróun, rafmagnsmál, vatnsveitu, samgöngur og fólksflutninga, útgerð og fiskveiðar, áhrif kreppunnar í Keflavík, verkalýðsmál, bryggjur og hafnarmannvirki, iðnað, verslun, skipulag og húsbyggingar, vöxt þéttbýlisins, lög og reglu, símamál, samkomuhald, félags- og menningarlíf, íþróttir, félagsmál, heilbrigði og velferð, skólastarf, áhrif seinna stríðs og breytingar á sveitarfélaginu.

Seltirningabók

Seltirningabók.

-Heimir Þorleifsson: Seltirningabók. Seltjarnarnes 1991. 320 bls.
Bókin skiptist í sex meginhluta og spannar að mestu tímann frá því um 1800 til 1991. Hver meginhluti skiptist í fjölda undirkafla, en aðallega er fjallað um hreppinn og stjórnsýslu, jarðir og ábúendur á Framnesi, útgerð, Mýrarhúsaskóla, Framfarafélagið og annað félagsstarf og loks kirkjuna í Nesi.

-Jón Þ. Þór: Gerðahreppur 90 ára. 13. júní 1908-1998. Gerðahreppur 1998. 293 bls.

Ritið skiptist í níu meginhluta og er hver þeirra yfirleitt með nokkrum undirköflum. Í upphafi er sögusviðið kynnt. Síðan tekur við kafli þar sem er m.a. fjallað um landnám, mannfjölda í Garðinum fyrir 1908 og eignarhald á jörðum í Garði og Leiru. Því næst er rætt um Garðinn sem verstöð. Stofnun Gerðahrepps er því næst gerð að umtalsefni og þar næst fjallað um starfsemi í Gerðahreppi á árunum 1908 til 1939, mannfjölda þar og byggðaþróun, sjávarútveg, verslun, kirkju og skóla. Þá er kafli um málefni hreppsins á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Því næst er greint frá vaxtarskeiði og velmegun á árunum 1946 til 1998 og m.a. rætt um mannfjölda, sveitarstjórn, veitustofnanir, skipulag, hafnarmál, skólamál og samstarf við önnur sveitarfélög á Suðurnesjum. Að því búnu er kafli um atvinnulíf og loks er kafli um félagslíf.

Saga Grindavíkur

Saga Grindavíkur.

-Jón Þ. Þór: Saga Grindavíkur. Frá landnámi til 1800. Grindavík 1994. 282 bls.
Jón Þ. Þór og Guðfinna M. Hreiðarsdóttir: Saga Grindavíkur. Frá 1800 til 1974. Grindavík 1996. 386 bls.
Fyrri bókin greinist í tíu meginhluta og eru flestir með nokkrum undirköflum. Í upphafi er sögusviðið kynnt og sagt frá örnefnum. Því næst er fjallað um landnám í Grindavík og upphaf byggðar. Þá eru kaflar um mannfjölda, bólstaði og búendur og búskapar- og lífshætti í Grindavík fyrir 1800. Næst er fjallað um sjávarútveg, síðan tengsl Grindavíkurjarða og Skálholtsstóls og þar á eftir um verslun. Loks eru kaflar um Tyrkjaránið 1627 og sölu stóls- og konungseigna.

Grindavík

Grindavík 2023.

Seinni bókin skiptist í níu meginhluta og eru flestir með fjölda undirkafla. Greint er frá Grindavík á öndverðri 19. öld og fólkinu þar árið 1801 í fyrsta hluta. Í öðrum hluta er fjallað um mannfjölda í Grindavíkurhreppi 1801-1974. Því næst er rætt um hverfabyggð og þorpsmyndun. Fjórði meginhluti tekur til sveitarstjórnar. Sá fimmti fjallar um atvinnuvegi almennt og sá sjötti hefur að geyma þætti úr verslunarsögu. Í sjöunda meginhluta er rætt um menningar- og félagsmál en í þeim áttunda um skólamál. Loks er fjallað um kirkju og trúmál.

Saga Njarðvíkur

Saga Njarðvíkur.

-Kristján Sveinsson: Saga Njarðvíkur. Reykjavík 1996. 504 bls.
Ritið skiptist í sautján meginhluta og hefur hver hluti nokkra undirkafla. Rætt er um umhverfi, staðfræði og náttúrufar; landnám og fyrstu þekkta byggð; búsetu og hagi á fyrri öldum, fram um 1700; íbúa Njarðvíkur og afkomu þeirra á 18. öld; atvinnuhætti og byggðarþróun á 19. öld; menntunar-, félags- og heilbrigðismál á 19. öld; ómagaframfæri, efnahag sveitarsjóðsins og þróun fólksfjölda í Vatnsleysustrandarhreppi á 19. öld; Njarðvíkurhrepp 1889-1908; Njarðvík í Keflavíkurhreppi 1908-1942; fólksfjöldaþróun og atvinnumál 1942-1994; uppbyggingu hafnarmannvirkja; uppbyggingu almenningsfyrirtækja og ýmis verkefni sveitarfélagsins 1942-1994; skipulagsmál, íbúðabyggingar og gatnagerð 1942-1994; skóla og bókasöfn frá 1942; stjórnmál, stjórnkerfi og fjárhag sveitarfélagsins 1942-1994, Njarðvíkurkirkjur á 20. öld; félagsstarf, skemmtanalíf og íþróttir 1942-1994.

Saga Garðabæjar

Saga Garðabæjar.

-[Ragnar Karlsson]: Garðabær. Byggð milli hrauns og hlíða. Safn til sögu Garðabæjar. Umsjón með útgáfu Erla Jónsdóttir. Garðabær 1992. 73 bls.
Farið er nokkrum orðum um þróun byggðar í landi Garðabæjar í aldanna rás, rætt um náttúrufar og umhverfi, fjallað um jarðfræði Garðabæjar, greint frá kirkjustaðnum Görðum, Bessatöðum, Vífilsstöðum, fjallað um byggð og búsetu í Álftaneshreppi, rætt um upphaf Garðahrepps og breytinguna í kauptún, sveitarstjórnarmál, bæjarbrag og félags- og menningarmál.

-Ragnar Karlsson: Keflavíkurbær 1949-1989. Fjörutíu ára kaupstaðarréttindi. Stiklur úr sögu og byggðarþróun. Keflavík 1989. 60 bls.
Ritlingurinn hefur að geyma upplýsingar um bæinn í máli og myndum frá ýmsum tímum í sögu byggðarlagsins.

Kópavogur

Kópavogur – jarðir.

Saga Kópavogs. Frumbyggð og hreppsár 1935-1955. Safn til sögu byggðarlagsins-1955. Safn til sögu byggðarlagsins. Ritstjóri Adolf J. E. Petersen. Kópavogur 1983. 247 bls. Bókin var endurútgefin árið 1990.
Í ritinu eru greinar og viðtöl sem tengjast sögu Kópavogs á umræddu tímabili. Ein grein er langlengst, „Kópavogur 1936-1955“ eftir Lýð Björnsson. Í henni er sagt frá því helsta sem snertir uppbyggingu Kópavogs á þessum árum.

Saga Kópavogs. Þættir úr kaupstaðarsögunni 1955-1985. Safn til sögu byggðarlagsins-1985. Safn til sögu byggðarlagsins. Ritstjórar Andrés Kristjánsson og Björn Þorsteinsson. Kópavogur 1990. 271 bls.

Kópavogur

Kópavogur 1965.

Í ritinu er greint frá upphafi kaupstaðarsögu Kópavogs, sagt frá bæjarstjórum og bæjarriturum, fjallað er um kosningaúrslit og meirihlutasamstarf, kirkju og söfnuði, bókasafnið, skipulags- og byggingamál, heilbrigðismál, félagsmálastofnun, æskulýðs- og íþróttamál og skólamál. Einnig er greint frá listastarfi, almenningssamgöngum, hafnargerð, götuheitum og mannfjölda, löggæslu, tengslum við vinabæi, stórafmælum Kópavogs og kjörnum fulltrúum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1903.

Sigurður Skúlason: Saga Hafnarfjarðar. [Hafnarfjörður] 1933. 707 bls.
Bókin spannar tímabilið frá 874 til 1933. Langur kafli er um sögu verslunarstaðarins en síðan koma sjö efnisskiptir kaflar; upphaf Hafnarfjarðarkaupstaðar, landeign og skipulag, stjórnmál sem er að mestu bæjarfulltrúa- og bæjarstjóratal, atvinnumál, heilbrigðismál, kirkjumál, skóla- og menningarmál. Loks er yfirlitskafli. Í upphafi bókarinnar er fjallað um umhverfi Hafnarfjarðar og hinar fornu bújarðir í Firðinum.

http://www.hi.is/~eggthor/thettbyli.htm#9

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1913.

Þorbjarnarstaðir

Gengið var um Hraunin og Hraunabæina svonefndu, s.s. Straum, Gerði, Þorbjarnastaði, Óttarstaði, Eyðikot og Lónakot.

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Tólf bæir, lögbýli, hjáleigur og þurrabúðir stóðu á ströndinni frá Straumsvík suður að Lónakoti. Þar var kallað í Hraunum og heitir svo enn þó að nú sjáist þar aðeins garðar, tóftir og nokkrir sumarbústaðir. Þarna er unaðsreitur fegurðar, samt minna þekktur en vert væri. Hér verður rifjað upp ýmislegt um sögu byggðarinnar, búskap, náttúrugæði og landmótun í Hraunum.

Sjóróðrar voru snar þáttur í lífsbaráttunni, ekki sízt á Hraunabæjunum þar sem landkostir voru litlir og landþrengsli mikil. Þá hefur munað um sjávarfangið, en ekki hefur alltaf verið heiglum hent að lenda í Óttarsstaðavör þegar norðanáttin rekur ölduna beint á hraunbrúnirnar sem skaga út í fjöruna. Það hefur á hinn bóginn ekki verið talið gott til afspurnar að híma í vomum þegar sólin var komin “Keili á og kotið Lóna” og Garðhverfingar byrjaðir að lemja sjóinn. Fyrir utan Óttarsstaðavör ýttu menn á flot úr Eyðikotsvör og nokkrum vörum við Straumsvíkina: Péturskotsvör, Jónsbúðarvör, tvær varir voru við Þýzkubúð og ein vör var kennd við Straum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Stekkurinn.

Meðalbú var 18-20 kindur og 1-3 kýr. Annar bjargræðisvegur á Hraunabæjunum var sauðfjárbúskapur, sem hefur þó verið í smáum mæli hjá flestum vegna þess að túnin voru varla annað en smáblettir og engjar ekki til. Hinsvegar var treyst á kvistbeit í hraununum og ekki tíðkaðist að taka sauði á hús. Þeir voru harðgerðar skepnur; leituðu sér skjóls í hraunskútum í aftökum, en gengu hrikalega nærri beitarlandinu.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Á heimildum eins og Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín má sjá að algeng búfjáreign á Hraunabæjunum í upphafi 18. aldar hefur verið 1-3 kýr og aðeins 18-20 kindur. Síðar á sömu öld snarfækkaði fé af völdum fjárkláðans sem átti upptök sín skammt frá, á Elliðavatni. Búfé í Hraunum fjölgaði á 19. öld og fram á þá 20. Þá var algengt að 80-100 fjár væri þar á bæjunum, svo og tvær mjólkandi kýr og ef til vill ein kvíga að auki. Á stærri jörðunum áttu menn tvo hesta en smákotin stóðu ekki undir hrossaeign.

Kúarétt

Kúarétt í Kúadal.

Af manntölum má sjá að víða hefur verið mannmargt á kotunum og stórir barnahópar komust þar upp. Það er nútímafólki gersamlega óskiljanlegt hvernig fjölskyldur gátu framfleytt sér á landlausum hjáleigum, þar sem bústofninn var nokkrar kindur . Líklega hefur munað mest um sjávarfangið.
Byggðin í Hraunum náði frá Straumsvík og vestur með ströndinni. Lónakot er vestast og nokkuð afskekkt; þangað eru 2-3 km frá megin byggðarkjarnanum, en Hvassahraun er á Vatnsleysuströnd og var ekki talið með Hraunabæjunum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Þorbjarnarstaðir, snertuspöl sunnan Keflavíkurvegarins, Lónakot, Óttarsstaðabæirnir, Straumur og Stóri-Lambhagi voru landstórar jarðir, en jafnframt var allt þeirra land í hraunum. Fyrir utan þessar stærstu jarðir í Hraunum voru nokkur smábýli, hjáleigur og þurrabúðir. Þar á meðal voru Gerði, Litli-Lambhagi og Péturskot við Straumsvíkina, en Þýzkubúð lítið eitt út með víkinni og Jónsbúð enn utar, Eyðikot, sem var hjáleiga frá Óttarsstöðum eystri, Kolbeinskot og Óttarsstaðagerði.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Umhverfis Óttarsstaðabæina er eina umtalsverða og samfellda graslendið í Hraunum, enda var byggðin þéttust þar. Bílfær vegur liggur frá Straumi, þar sem nú er Listamiðstöð Hafnarfjarðar, vestur að Eyðikoti, en merktur göngustígur er þaðan framhjá Óttarsstaðabæjunum og síðan með ströndinni að Lónakoti. Frá Lónakoti er síðan hægt að ganga ruddan slóða, um 2 km leið, austur á Keflavíkurveg.
Sem útivistar- og göngusvæði búa Hraunin yfir sérstökum töfrum. Stæðilegir og vel hlaðnir grjótgarðar standa sumstaðar ennþá, aðrir hafa hrunið. Í klofnum hraunhóli vestan við Óttarsstaðavör hefur hraunsprunga nýtzt sem veggir fyrir einhverskonar hús og aðeins þurft að hlaða fyrir endana og refta yfir. Þarna gæti hafa verið sjóbúð, þó er það ekki víst.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Það er alltaf tilbreytingarríkt að skoða grýtta ströndina í nánd við Óttarsstaðavör, allt frá Vatnsskersklöpp og Kisukletti að Snoppu og út eftir Langabakka að Arnarkletti og Hrúðrinum, þar sem “brimið þvær hin skreipu sker”. Á öðrum stöðum eru minjar um þurrabúðir, fiskreiti, gerði og uppsátur þar sem kjalförin sjást enn á grjótinu.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Sunnar í hrauninu sjást aftur á móti minjar um sauðfjárbúskapinn. Þar eru nátthagar, kvíaból og fjárskútar, fallega hlaðin fjárborg og réttir. Skammt sunnan Keflavíkurvegarins stendur Þorbjarnarstaðarétt, lítt hrunin, önnur rétt er við Lónakot og sú þriðja við Straum.
Í Almenningi, sem svo eru nefndur suður í hrauni, eru fimm selstöður: Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumsel, Gjásel og Fornasel. Þar var haft í seli og þar bjó fólk og starfaði sumarlangt.

Straumsselsstígur

Straumselsstígur vestari -(Gjáselsstígur/Fornaselsstígur) ofan Tobburéttar vestari.

En til hvers er verið að gaumgæfa þetta og velta fyrir sér minjum um harða lífsbaráttu á þessari strönd við yzta haf? Hvern varðar um þurrabúðarmenn? Er ekki nóg að njóta þess sem náttúran býður; sjá hvað hraunhólarnir geta verið myndrænir og ströndin falleg þar sem lábarið grjót tekur við af hraunklöppunum og skipskrokkur sem stóð uppi í fjörunni fyrir aldarfjórðungi er orðinn að einskonar beinagrind úr risaeðlu, umvafinn grasi? Það sem eftir er af stefni skipsins stendur hinsvegar upp á endann í fjörunni og gefur engum nútíma skúlptúr eftir.
Vissulega er hægt að njóta náttúrunnar þó að maður viti ekkert um hana og þó að maður þekki ekkert til sögunnar og þess mannlífs sem einhverntíma áður var á staðnum. En það gerir þessa náttúruupplifun dýpri og minnisstæðari að vita að þarna bjó fólk með gleði sína og sorgir fram á miðja 20. öld og lifði nánast á engu eftir því sem okkur finnst nú.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir austari, byggðir að hluta úr rekavið Jamestown.

Hraunabæir áttu kirkjusókn að Görðum í Garðahreppi, sem er talsvert löng leið fyrir gangandi fólk. En það var engum vorkennt að ganga þessa leið til kirkju; heldur ekki börnunum sem á fyrstu áratugum 20. aldarinnar gengu alla þessa leið til þess að komast í skóla. Síðar fengu þau skólastofu í húsinu á Óttarstöðum eystri.

Í Hraunum var ekki venjuleg, íslenzk sveit eða dreifbýli með talsvert langar bæjarleiðir, heldur einskonar þéttbýli með bæjum, smákotum og þurrabúðum, sem voru nefndar svo. Það voru landlaus eða landlítil býli við sjávarsíðuna, sem höfðu ekki grasnytjar. Þurrabúðarmenn stunduðu tilfallandi vinnu; réðu sig í kaupavinnu á sumrin og voru á sjó á vertíðum. Á nokkrum Hraunabæjum var svokallað heimaræði, það er útræði frá þeim jörðum sem áttu land að sjó. Bændur sem bjuggu fjær sjó fengu hinsvegar stundum leyfi sjávarbænda til þess að nýta lendingaraðstöðu og hafa þar mannskap á vertíðum. Það var kallað að hafa inntökuskip á jörðinni.

Óttarsstaðaborgin

Óttarsstaðaborgin.

Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði. Raunar var það fagra land, þar sem Hraunabæirnir stóðu, alls ekki til. Ströndin var þá 2-3 km innar, en í goshrinum á Reykjanesskaga, sem einkum hafa orðið á 1000 ára fresti, rann hvert hraunlagið yfir annað og færði ströndina utar. Ein slík hrina varð fyrir um 2000 árum, önnur fyrir um 1000 árum og samkvæmt því ætti að vera kominn tími á næstu hrinu.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja – hraunið er varð undirstaða Hraunabæjanna.

Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi. Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.

Hrútargjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Hrútagjárdyngja er örnefni sem gamlir Hraunamenn hefðu ekki kannast við, enda er það síðari tíma nafngift frá hendi jarðfræðinga. Fyrir utan hraunið úr Hrútagjá hafa tvær aðrar dyngjur átt mikinn þátt í að móta ásýnd Reykjanesskagans vestantil. Þó það komi Hraunabæjunum ekki við má geta þess hér til fróðleiks að flæmi hrauna úr dyngjunni Þráinsskildi þekja svæðið frá Kúagerði að Vogastapa og enn vestar er dyngjan Sandfellshæð; hraun úr henni dreifðust allar götur vestur í Hafnir.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – hrauntröð.

Síðar hafa yngri hraun fyllt upp í lægðir og stundum náð til sjávar. Nærtækt er að benda á snarbratta brún Afstapahrauns við Kúagerði. Það er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar. Stærsti hluti þessa hraunflæmis heitir Almenningar og bendir til að þar hafi verið óskipt beitiland.

Stóribolli

Stóribolli – gígurinn.

Hin áreiðanlega vekjaraklukka gosvirkninnar vakti gosstöðvar að nýju fyrir um 2000 árum. Þá varð enn mikil goshrina og frá einni eldstöðinni, Stórabolla í Grindaskörðum, rann mikið hraun í átt til Straumsvíkur og myndaði nýja strönd milli Straumsvíkur og Hvaleyrar. Dálítil óregla í þessari þúsund ára reglusemi kom upp fyrir 1800 árum þegar gaus nyrst í Krýsuvíkurrein, þar sem heita Óbrinnishólar við Bláfjallaveg. Hraunið, sem nefnt hefur verið Óbrinnishólabruni, rann í mjóum taumi niður undir Straumsvík.
Þetta gos hafði þó ekki áhrif á land í Hraunum.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Hin reglubundna dagskrá fór hinsvegar í gang fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.

Hálfri öld áður rann Kapelluhraun til sjávar í Straumsvík og hafði áhrif á landmótun þar; yngsta hraunið á þessu svæði. Þó líklegt sé og raunar fullvíst að sagan endurtaki sig létu menn þetta ekki á sig fá þegar álverinu var valinn staður einmitt þar sem Kapelluhraun rann, enda líklegast að margoft væri búið að afskrifa álverið, miðað við venjulega endingu, áður en hraun rennur þar að nýju.

Hvasshraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi. Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan “inn” í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum. Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.

Alfaraleiðin suður með sjó lá ekki um hlöðin á Hraunabæjunum, heldur lítið eitt sunnar, raunar sunnan við Keflavíkurveginn eins og hann er nú. Þessar götur eru nú löngu upp grónar, en samt sést vel móta fyrir þeim. Frá Lónakoti lá stígur suður í Lónakotssel og frá Óttarsstöðum lá Rauðamelsstígur, einnig nefndur Skógargata, suður í Óttarsstaðasel, en þaðan yfir Mosa og Eldborgarhraun um Höskuldarvelli að Trölladyngju. Eftir þessum götuslóðum var annarsvegar hægt að ganga til Krísuvíkur og hinsvegar til Grindavíkur.

Alfaraleið

Alfaraleiðin ofan Þorbjarnarstaða.

Frá Straumsvík lá Straumselsstígur nokkurn veginn samhliða suður á bóginn, við túnfót Þorbjarnarstaða, og um Selhraun að Straumseli suður í Almenningi. Stígurinn lá síðan áfram til suðurs og og heitir Ketilstígur þar sem hann liggur yfir Sveifluhálsinn; þetta var gönguleið til Krísuvíkur.
Sunnarlega í Almenningi voru gatnamót þar sem Hrauntungustígur liggur yfir stígana þrjá og stefnir á Hafnarfjörð. Enn sunnar er komið á Stórhöfðastíg; hann stefnir einnig til Hafnarfjarðar og sameinast Hrauntungustíg vestur undir Ásfjalli. Þetta samgöngukerfi fortíðarinnar er flestum týnt, grafið og gleymt.

En hvað verður um Hraunin?
Lengst af voru Hraunabæirnir í Álftaneshreppi, en þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp 1878, var talið að Hraunin væru hluti Garðahrepps eins og Hafnarfjörður. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1908 voru Hraunin áfram talin tilheyra Garðahreppi, en þau komu í hlut Hafnfirðinga árið 1967 þegar gerður var makaskiptasamningur við Garðabæ.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestari.

Nú má spyrja hvers virði Hraunajarðirnar séu þegar búskapur þar hefur lagzt niður.
Æskilegast væri að friðlýsa Hraunin, sem yrðu þá útivistarsvæði í umsjá Hafnfirðinga. Við ramman reip verður þó að draga því áhugi ráðamanna í Hafnarfirði er að gera svæðið að hafnarsvæði, auk þess sem hluti þess fer undir fyrirhugaða stækkun álversins. Ef af verður mun merk saga og einstök náttúra fara fyrir lítið.

-Byggt á frásögn Magnúsar Jónssonar, fv. minjavarðar, Hafnarfirði.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þorbjarnarstaðir

Hér verður vitnað í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar um Þorbjarnarstaði í Hraunum og nágrenni. Hún var upphaflega skráð af Gísla á sjöunda áratugnum eftir Ástvaldi Þorkelssyni frá Þorbjarnarstöðum, Gísla Guðjónssyni frá Hlíð, Magnúsi Guðjónssyni frá Stóra-Lambhaga og Gústaf Brynjólfssyni frá Eyðikoti. Einnig studdist hann við gömul landamerkjabréf.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir og nágrenni – örnefni og minjar.

   3. júní 1978 fóru sr. Bjarni Sigurðsson og Haukur bróðir hans á vettvang ásamt þremur öldruðum mönnum, Gísla Guðjónssyni, Gústaf Brynjólfssyni og Jósef Guðjónssyni. Þeir fimmmenningar gerðu ýmsar athugasemdir við lýsingu Gísla. Flestar þeirra skráði sr. Bjarni jafnóðum, en fáeinar ritaði Sigríður Jóhannsdóttir eftir sr. Bjarna 5. júní 1978. Loks gerði sr. Bjarni fáeinar athugasemdir í október 1980. Gísli Guðjónsson er fæddur á Setbergi 1891, kom í Hraunin um 10 ára og var þar til 1917, 8 ár í Gerði og önnur 8 á Óttarsstöðum. Jósef Guðjónsson er fæddur 1899, kom að Óttarsstöðum 2-3 ára og var þar til 1918. Gústaf er fæddur 1906, kom í Eyðikot 1907 og var þar til 1937. Sr. Bjarni og Haukur bróðir hans ólust upp í Straumi frá 1930.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Hér fer á eftir lýsing Gísla með þeim leiðréttingum, sem að framan greinir. Landamerkjalýsing er tekin upp úr Landamerkjabók fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu.

“Þorbjarnarstaðir eru jörð í Hraununum svonefndu. Þeir tilheyrðu áður Álftaneshreppi, en eru nú innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar.
Bærinn stóð í túninu því nær miðju, og sneru stafnar við suðvesturátt. Túnið var umgirt túngörðum á alla vegu. Frá bænum lágu traðir austur túnið og skiptu því í tvennt. Norðan traðarveggsins nyrðri var í túninu Dalurinn nyrðri, smádalur, sem dýpkaði og endaði með hamravegg og hálfgerðum skúta. Kringum dalinn var Flötin nyrðri, lítil lægð í túninu. Hér um lá Lambhúsgatan eða Sjávargatan út í gegnum Lambhúshliðið eða Sjávarhliðið. Frá norðurhlið bæjarins lá svo Réttarstígur út í Réttarhliðið.

Þorbjarnastaðarétt

Þorbjarnastaðarétt.

Við Réttarhliðið er klettur, nefndur Sölvhóll. Þar voru söl þurrkuð. Sölvhóll er háhóllinn, sem réttin stendur norðan undir. Þegar búizt var við halastjörnunni 1910, vildi Þorkell Árnason á Þorbjarnarstöðum safna öllum Hraunamönnum upp á þennan hól, áður en jörðin færist, og láta þá mæta þar örlögum sínum. Sunnan í þessum hól voru Sölvhólsklettar. Þá kom lægð, sem nefnd var Sölvhólsstykki. Innst inni á stykkinu er lítill skúti. Vestar kom Háaklöpp, vestan við sprunguna, sem þarna er í klettunum. Þar sunnar komu Vonduhólar, klappir margsprungnar, sem lágu að nokkru inn í túnið.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.

Í skrá Gísla Sigurðssonar segir: „Heiman frá bænum í suðvestur lá Mosastígur út í Mosaskarð, sem þar var á garðinum.“ Þessi örnefni kannast sr. Bjarni og heimildarmenn hans ekki við. Mosinn var sóttur út í Kapelluhraun (sjá síðar), sem er í annarri átt. Konur báru mosann heim í pokum eða jafnvel sátum. Hann var notaður í eldinn og einnig í einangrun, m.a. í Gerðishúsið, sem Guðjón Jónsson frá Setbergi reisti og enn stendur. Mosi var sóttur frá Lambhögum, Gerði, Þorbjarnarstöðum og Péturskoti. Heiman frá bæ lá Skógarstígur suður túnið fram í Skógarhlið á túngarðinum. Í suðurtúninu var lægð, sem nefnd var Dalurinn syðri. Kringum hann lá Flötin syðri, allt upp að traðargarðinum syðri. Frá traðarhliðinu lá Brunngatan út í Brunninn, sem var í Brunntjörninni.
Meðfram austurtúngarðinum lá Straumsstígurinn, og fylgjum við honum norður með garði.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Lambúsgerði.

Er þá fyrst komið að Lambhúsinu, sem er rétt utan við Lambhúshliðið. Við norðurtúngarðinn var Þorbjarnarstaðarétt, vel hlaðin rétt af grjóti. Þar var haustrétt fyrir Innhraunin eða Austur-Hraunabæi, þ.e. Litla- og Stóra-Lambhaga, Gerði, Þorbjarnarstaði og Péturskot. (Þess má geta, að í Hraunum voru um 60 manns 1918.)
Eitt örnefni enn er hér nálægt túninu, Mosaflesjur, þar sem mosinn var þurrkaður til eldiviðar. Í skrá Gísla segir, að þær séu út frá Mosaskarði. Litlu norðar var Péturskotsstígur. Hann lá yfir að Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi. Var það fyrst byggt fyrir aldamót af Pétri Péturssyni, Helgu konu hans og Signýju dóttur þeirra. Þarna var ofurlítið tún, og var túngarður umhverfis það.

Péturskot

Péturskot árið 2000.

Háatún nefndist nokkur hluti túnsins sunnan bæjarins og ofan, oftast þá nefnt Fagrivöllur. Kotið var í spaugi nefnt Hosiló, en það festist aldrei við sem örnefni. Austan við túnið var matjurtagarður. Þar eru nú sumarbústaðir. Þessi garður tilheyrði Litla-Lambhaga, en einnig var kálgarður í Péturskotstúni. Pétursspor var stígur, sem lá heiman frá bæ niður á Straumshólmana og um Straumsrásirnar frá Straumstjörnunum. Stígur þessi lá fram á Pétursbyrgi svokallað. Þar var Byrgisvör eða Pétursbyrgisvör. Í vörinni sér enn djúpar skorir eftir bátskilina. Gísli Sigurðsson segir, að það muni vera þessi staður, sem í bréfi frá 1849 nefnist Brynjólfsskarð og var nyrzta mark landamerkja milli Þorbjarnarstaða og Straums. En þetta kannast sr. Bjarni og heimildarmenn hans ekkert við og þykir það óskiljanlegt, því að ekkert skarð er á þessum slóðum.

Péturskot

Péturshróf.

Annar stígur lá austur hólmana og nefndist Sporið. Segir Gísli, að það hafi legið af hólmunum um Litla-Stróka, sem hann nefnir svo, og þaðan upp á Stróka eða Stóra-Stróka að Litla-Lambhaga, sem í fyrstu nefndist Nýjakot. Sr. Bjarni og heimildarmenn hans kannast ekki við nafnið Litli-Stróki og telja hæpið, að Stróki hafi verið kallaður Stóri-Stróki. – Þetta eru tangar, sem ganga í sjó fram, og standa smáklappir upp úr.

Lambhagi

Lambhagaeyrarbyrgi.

Litli-Lambhagi stóð í Litla-Lambhagatúni. Lá túngarður tvíhlaðinn með allri norðurhlið þess. Fram milli Stróka lá Ósinn eða Nýjakotsósinn, sem eiginlega var lækur. Mest bar á honum við útfall, og var þar í allmikið vatn.
Gísli segir, að í túninu hafi verið þessir matjurtagarðar: Geiragarður, Stórigarður og Hraungarður. Sr. Bjarni og heimildarmenn hans muna ekki eftir kálgörðum í túninu, en garðar voru utan túns og m.a. einn við fjárhúsin við upphaf Ólafsgötu.
Syðst var Hjallatún. Gísli segir, að þar hafi í eina tíð staðið Hjallatúnsfjárhús, en heimildarmenn sr. Bjarna mótmæla því og segja, að tvö fjárhús hafi staðið undir Brunanum, en ekkert inni í túni. Úr Hjallatúni lá Hraunhornsstígur upp á Hraunhornið og suður á alfaraleið. Austan við bæinn var Nýjakotstjörn og suður úr henni Hlöðuvík.
Sjávargatan lá frá bæ norður á Stróka í Litla-Lambhagavör, sem einnig var nefnd Litla-Lambhagalending. Þar hjá var Litla-Lambhagahróf.

Lambhagi

Litla-Lambhagavör.

Lambhagavík lá frá Stróka austur á Eyri. En Lambhagamenn nefndu svo Straumsvíkina sín megin. Um suðurhluta túnsins liggur nú vegur inn til álversins og einnig Reykjanesbrautin. Nokkru sunnar má enn sjá Suðurnesjaveginn ofan af Brunanum niður af Hraunhorninu. En af honum lá Gerðisstígur heim að Gerði eða Gerðisbæ, sem stóð í hjalla í Gerðistúni. Stígur lá frá bænum upp á Brunabrún upp í Hraunhornsstíg. Niður undan Hjallanum voru Gerðisbalar, Stóri-Bali nær og Litli-Bali fjær. Norðan Balanna var Gerðistjörn. Í henni var Gerðisvatnsból og vestur frá henni Stakatjörn. Fyrrnefndur stígur, sem lá upp á Brunabrúnina, var kallaður Kirkjustígur. Hann sést enn, liggur upp frá túninu norðan við Gerði og upp á alfaraleið. Þessi stígur var mest genginn, er sóttur var mosi í Kapelluhraun.

Gerði

Gerði og Gerðistjörn.

Sunnan Gerðistúns var tjörn, er nefndist Gerðistjörn syðri, en sameiginlega voru allar tjarnirnar nefndar Gerðistjarnir eða Þorbjarnarstaðatjarnir.
Lambhagatjarnarós rann fram úr Stóra-Lambhagatjörn til sjávar milli Stróka og (Stóra-)Lambhagagranda. Vestast á grandanum var klettur, er nefndist Laufahjalli. Austan við hann var Þorbjarnarstaðavör og Gerðisvör. Þar má enn sjá móta fyrir hleðslu af bátshrófi eða skipahrófinu.

Lambhagi

Litli-Lambhagi – útihús.

Austar nokkuð var hraundrangur, nokkuð sprunginn að ofan, en gras á honum. Gísli Guðjónsson segir, að hann hafi alltaf verið nefndur Leikarahóll. (Í eldri skránni stendur Leikhóll). Krakkar hafa getað leikið sér þar, en einnig kann nafnið að stafa af því, að lömbin hafi leikið sér þar. Af vesturodda grandans lá garður um þvera Lambhagatjörn. Upp í Aukatún lá gangbraut hlaðin sem garður, nefndist Steinbogi. Aukatún var smátunga út frá Brunahrauninu. Það var grætt upp og notað sem túnblettur frá Stóra-Lambhaga. Túnið var greiðfært, en ekki slétt. Á því stóð hesthús. Nokkru fyrir innan fyrrnefndan Steinboga mátti sjá marka fyrir öðrum Steinboga.

Litli-Lambhagi

Eldhús við Litla-Lambhaga. Straumur fjær.

Á miðjum Stóra-Lambhagagranda stóð bærinn í Stóra-Lambhaga og stendur enn, þótt nú sé þar fjárhús með hlöðu. Austan bæjarins lá skerjagarður fram í víkina. Hann nefndist Kelatangi, en ekki er vitað, af hvaða Kela hann dregur nafn. Þar fyrir sunnan var Lambhagavör og upp af henni Lambhagahróf. Lambhagatúnið lá um grandann og Lambhagahólma, en milli þeirra voru Lambhagatjarnir. Í þeirri, sem næst var bænum, var brunnurinn, grafinn niður í leirinn, og frá honum Brunnstéttin, helluflórað upp til bæjar. Hér úti í tjörninni var lítið, upphlaðið byrgi, Tjarnarbyrgið. Stóra-Lambhagastígur lá um hólmana eða austur fyrir þá upp að Brunanum og norðan undir honum og vestur með og var þar nefndur Hallinn. Ef gest bar að garði, sem fór þessa. leið, var vanalega sagt, að gesturinn væri á Hallanum. Hallinn lá út í Aukatún og þaðan út með vesturbrún Brunans fram hjá hesthúsinu á Aukatúni, að vesturtúngarði Aukatúns, sem var stuttur, aðeins ofan úr Brunanum niður að tjörn. Í skrá Gísla segir, að þarna hafi verið Vesturtúngarðshlið og þá komið á Litla-Lambhagastíg. Þetta nafn er hins vegar óþekkt, en gæti hugsanlega átt að vera Aukatúnshlið.

Lambhagi

Lambhagi um 1970.

Austurtúngarðurinn lá úr Beinaviki upp á klettastall og suður eftir honum suður á Brunann. Um Brunann lá einhlaðinn grjótgarður vestur á Hraunhornið, Brunagarðurinn. Uppi á klettastallinum var Yrðlingabyrgið, sporöskjulaga og nokkuð hátt, með lágum dyrum. Um aldamótin síðustu hafði Guðjón Gíslason þarna yrðlinga í fóstri. Þarna er líka Fiskabyrgið, þar sem fiskur var kasaður hér í eina tíð og síðan hertur. Þarna uppi voru einnig tvö til þrjú fjárhús, og stóðu veggir þeirra til þessa. Sunnan við þau lá stígur upp frá túninu í hlið á austurtúngarðinum. Frá hliðinu lá stígur austur eftir hraunhrygg allháum. Var hann lagður hellum langt austur. Gísli Sigurðsson segir, að hann hafi heitið Ólafsstígur, en það er rangt. Ólafsstígur liggur upp á hraunið hjá kálgörðunum í Litla-Lambhaga.

Lambhagi

Lambhagi – stífla v/fiskeldis.

Skammt austur frá hliðinu á austurtúngarðinum voru tveir hraundrangar, nær mannhæðarháir og áberandi af sjó. Þeir nefndust Riddarar. Um þá og Riddarann á Helgafelli var mið á Rifið út frá Óttarsstaðatúni. Beinavíkurhlið, sem nefnt er í skrá Gísla, er óþekkt.
Fjárslóðin vestari liggur um Lambhagaeyrarkletta, og er stígur þessi heldur ógreiður. Miðja vegu í klettunum var Litlaeyri, vík. Í skrá Gísla Sigurðssonar segir, að upp af henni inni í hrauninu hafi verið Klettstjarnir, með fersku vatni. Þessu mótmælir Gísli Guðjónsson og segir, að þar hafi aðeins verið ein tjörn, sem hét Eyrartjörn. Þó kann að vera, að einhverjar smátjarnir hafi komið upp þarna um hásjávað.

Lambhagi

Lambhagi fyrir 1960.

Víkin var einnig kölluð Litla-Sandvík. Nokkru utar var svo komið á Lambhagaeyri. Lá hún í sveig og var nokkuð stórgrýtt. Hingað rak mikið af sölvum, sem fé sótti mjög í. Gísli Sigurðsson segir, að eyrin hafi líka verið kölluð Stóra-Sandvík, en það kannast heimildarmenn sr. Bjarna ekkert við. Eyrin lá út að Lambhagaeyrarnefi, sem lá fyrir mynni Straumsvíkur. Lambhagaeyrartangar var nefið kallað ásamt Lambhagaeyrarrifi, sem lá beint á sjó út. Háasker var drangur út frá eyrinni, en milli hans og eyrar var Músarsund. Eyrin var allbreið, og hallaði inn af henni. Þar var Lambhagaeyrarflöt og í henni matjurtagarður. Niður frá flötinni var Lambhagaeyrartjörn. Í henni gætti flóðs og fjöru. Þó var þarna ferskt vatn. Vestan við tjörnina var Lambhagaeyrarskjól og þar við Lambahageyrarbyrgi. Sunnan við tjörnina eru Skotbyrgin, Skotbyrgið eystra og Skotbyrgið vestra. Hér upp af ganga geilar og bugður og nefnast Katlar. Af eyrinni liggur fjárslóðin eystri inn eftir Eyrarklettum.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.

Út af þeim var klettur, nefndur Einbúi. Slóðin lá allt inn í Þórðarvík, en þar voru mörk milli Þorbjarnarstaða og Hvaleyrar. Hér kemur niður stígur, er sameinast alfaraleiðinni austan og ofan við Gjögur. Sveinn í Eyðikoti, fóstri Gústafs Brynjólfssonar, kallaði hann Lambhagastíg. (Gísli Sigurðsson kallar hann ranglega Ólafsstíg.) Hér út frá Þórðarvík er Þórðarvíkurþari. Gísli Sigurðsson segir, að Hraunavík heiti hér fram undan austan frá Hvaleyrarhöfða vestur að Óttarsstaðatöngum en heimildarmenn sr. Bjarna þekkja hvorki nöfnin Hraunavík né Óttarsstaðatanga. Þó gætu þessir tangar verið nefndir Óttarsstaðatangar frá öðrum bæjum en Óttarsstöðum.

Alfaraleið

Í fornleifaskráningum hefur Alfaraleiðin millum Þorbjarnarstaða og Gerðis ekki verið skráð (einungis sögð “óljós”).

Um Brúnaskarð eystra liggur alfaraleiðin upp á Kapelluhraun, en svo nefnist neðsti hluti Nýjahrauns, sem ofar kallast Bruninn og enn ofar Háibruni. Áður hefur verið getið um mosatekju í Kapelluhrauni. Landamerkjalínan liggur úr Þórðarvík suður og upp um Leynidali og síðan áfram upp austurbrún Brunans. Alfaraleiðin lá suðvestur eftir Brunanum. Nær miðju var Kapellan, húsnefna hlaðin úr grjóti uppi á hól. Var hún 2×2 metrar að ummáli, og sneru dyr í vestur. Kapella þessi var helguð heilagri Barböru, sem var verndari ferðamanna og gegn hvers konar háska af eldsvoða.

Alfaraleið

Alfaraleiðin – Stóravarða við leiðina; einnig landamerki Lambhaga og Hvaleyrar neðan Leynis.

Síðan liggur leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðaker.

Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum. Þegar hér er komið, verður fyrir stígur, er liggur frá Gerðinu, nefnist Gerðisstígur. Lá stígur þessi suður með vesturbrún Brunans. Skammt sunnar lá stígurinn um Hólaskarð milli Brunans og Hólanna, og var hann því allt eins nefndur Hólaskarðsstígur. Rétt sunnan við Skarðið var vik í Brunann. Hér vestur af eru klettaborgir miklar; í lægð milli þeirra er Þorbjarnarstaðaker, djúpt jarðfall, og var þar hætta fyrir fé. Það komst ekki upp úr. Þorkell Árnason bóndi á Þorbjarnarstöðum hlóð tröppur upp, og eftir það var fé engin hætta búin. Lægðin nefndist Stóridalur. Skammt vestar var svo Litlidalur.

Selhraun

Gerðisstígur (Hellnastígur) um Selhraun.

Ofan við Hólana allt frá Bruna og vestur að Óttarsstaðarauðamel liggur Seljahraun. Seljahraunsstígur liggur gegnum það upp með Brunanum. Seljatún nefndist lítil, gróin flöt norðan hraunsins. Þegar komið er yfir Seljahraun, blasir við á hægri hönd mikill melur, Rauðimelur eða Þorbjarnarstaðarauðimelur. Rétt fyrir norðan Rauðamel eru Neðri-Hellar eða Litlu-Hellar. Rauðimelur var einnig nefndur
Rauðhólar. Norðan melsins voru klettaborgir, áberandi vegna gróðurs í kringum þær. Nefndust þær Rauðamelsklettar syðri og Rauðamelsklettar nyrðri eða bara Rauðamelsklettar. Vestur frá þeim tóku við Ennin, lágar brekkur.
En Rauðamelsstígur lá vestur norðan við melinn, samkvæmt skrá Gísla Sigurðssonar. Nú man enginn eftir honum, e.t.v. hafa þetta. bara verið fjárslóðir. Suður frá melnum var Réttargjá. Gjá þessi var sprunga, sem sneri suður og norður.

Vorrétt

Rauðamelsrétt (Vorrétt).

Skammt suður þaðan í Brúnabrúninni var Þorbjarnarstaðarétt eða vorréttin, einnig nefnd Rauðamelsrétt, þótt hún væri drjúgan spöl frá melnum. Héðan var stígurinn kallaður Efrihellnastígur allt upp að Efrihellum, sem hér voru við brúnina á Brunanum. Þegar hér var komið, nefndist hraunið Brenna, ofan Efrihellna, brunatunga, er lá hér suður. Úti á hrauninu var Brennuhóll, neðst í Brennunni. Guðmundur Bergsveinsson í Eyðikoti sótti kvarnarsteina í Brennuna og bar á bakinu, setti mosa undir bakið.

Hrauntunguskjól

Hrauntunguskjól.

Halda skal nú hér fram með Brennu, allt þar til kemur í Hrauntungukjaft. Þar taka við Hrauntungur, sem liggja norðaustur eftir milli Brennu og Brunans. Þær eru nokkrar að víðáttu, og er skógurinn einna mestur þar, allt að 4 m há tré. Úr kjaftinum liggur Hrauntungustígur norðaustur og upp á Háabruna, út á helluhraunið og austur eftir því upp að Hamranesi vestan Hvaleyrarvatns. Er þetta skemmtileg gönguleið. Efrigóm Hrauntungukjafts gerir Hellishóll. Hér í hólnum eru Hrauntunguhellar (að sögn Gísla Guðjónssonar; Gísli Sigurðsson kallar þá hins vegar Hellishólshelli og Hellishólsskjól). Í vætutíð má fá þar vatn. Uppi á hólnum er Hellishólsker. Hér nokkru sunnar er Fjárborgin á tungu út úr brunanum. Hún stendur enn, og er innanmál hennar um 7 m. Suður og upp frá brunanum eru Brundtorfur. Þar var hrútum hleypt til ánna forðum daga. Þar voru Brundtorfuvörður og Brundtorfuhellir.

Brundtorfur

Brundtorfuhellir.

Einnig var þetta svæði kallað Brunntorfur, Brunntorfuvörður og Brunntorfuhellir. Hér vestnorðvestur var Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, stoð á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Á hæð skammt suður og upp frá selinu var Gjáselsvarða. Norðaustur frá Gjáselsvörðu (G.G.) voru þversprungnir hólar, Vonduhólar. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög. Upp frá Hrauntungukjafti eru hólar, sem nefnast Skyggnirar. Þar um liggur Hrauntungustígurinn og er ekki vel greinilegur.
Í skrá Gísla Sigurðssonar segir: „Hér lengra og ofar er Þúfuhólshraun með Þúfuhól og þar á Þúfuhólsvörðu. Svæði þetta nefndist líka Hundaþúfuhólshraun, Hundaþúfuhóll og Hundaþúfuhólsvarða.” En Gísli Guðjónsson og Jósef Guðjónsson segja, að þessi örnefni séu ekki til hér, heldur séu þau vestur af Tóhólum í Óttarsstaðalandi.

Kolbeinshæðarskjól

Kolbeinshæðarskjól.

Í suðvestur uppi á hrauninu frá Efri-Hellum er hraunhæð, nefnd Kolbeinshæð, og er vel gróið kringum hana. Sunnan í henni er vestanvert Kolbeinshæðarskjól, en austanvert er Kolbeinshæðarhellir. Uppi á hæðinni er Kolbeinshæðarvarða. Kolbeinshæðarstígur liggur hér um skarð í hæðinni suður og upp hraunið, og er þá komið að stórri, ferhyrndri laut þarna í hrauninu. Gísli Sigurðsson segir, að hún sé kölluð Kvíin, en það kannast heimildarmenn sr. Bjarna ekki við, telja þó, að það geti staðizt. Hraunflákinn milli Rauðamels og Kolbeinshæðar heitir Gráhelluhraun. Suður og upp frá lautinni, sem fyrr var nefnd, er Fornasel, sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur.

Gjásel

Gjásel. Í örnefnaslýsingunni er því lýst sem Fornasel.

Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við Selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið. Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar. Suður og upp frá selinu var Gránuskúti eða Gránuhellir. Suðvestur héðan var Litlaholt og lá milli Straumssels og Hafurbjarnarholts, en um Hafurbjarnarholtsvörðu lá landamerkjalínan. Þaðan lá línan um Nyrztahöfða og um Norðurhöfðaslakka, á Mjóhöfða og um Miðhöfðaslakka, þaðan í Fremsthöfða í Þrívörður. Gísli Sigurðsson segir, að þær hafi verið nefndar Lýritti, en það hafa heimildarmenn sr. Bjarna ekki heyrt. Héðan lá aftur á móti línan austur og ofan við Brundtorfur og kom þar á Stórhöfðastíg, sem lá svo áfram vestur að Fjallinu eina.

Hafurbjarnarholt

Hafurbjarnarholt – varða.

Úr Hafurbjarnarholti lá landamerkjalínan niður um hraunið austur af Straumsseli niður um Katla og niður á Fremri-Flár. Austan við Katlana var Laufhöfðahraun með Laufhöfðavatnsstæði, sunnan undir Laufhöfða. Í brúninni á hrauni þessu var Kápuhellir. Landamerkjalínan liggur um Katlana í Jónshöfða austast í Straumsselshöfðum ofan Kápuhellis (Gísli Guðjónsson). Verður þá Straumsselsstígurinn innan merkjanna.

Gjásel

Gránuskúti í Gjáseli.

Héðan frá Jónshöfða liggur Fornaselsstígur suður og upp í Laufhöfðahraun suður í selið. Frá Jónshöfða liggur Straumsselsstígurinn niður um Neðri-Flár eða Flárnar. Á miðjum Flánum er Fláavarðan. Eru nú engin örnefni, fyrr en kemur í Tobbukletta, Tobbuklett eystri og Tobbuklett vestri, en þar var Tobbuvarða, og lá landamerkjalínan um hana. Tobbuklettaskarð var allbreið lægð milli klettanna. Hér var stígur, sem lá allt til Krýsuvíkur, jafnframt fjallreiðarvegur á kafla.
Í skrá Gísla segir, að framan í Tobbukletti vestri hafi verið Tobbuklettsrétt. Það nafn þekkist nú ekki lengur, en þó sést enn fyrir réttum í Grenigjám litlu vestar, og ljóst er, að hægt hefir verið að reka að í breiðri sprungu, sem hlaðið hefir verið fyrir í, í Tobbukletti vestri (skoðað 21. júlí ’80, B. S.).
Tobbuvarðan eystri var á eystri klettinum. Þaðan er skammt í Seljahraun, en austur frá klettunum eru Ennin áðurnefnd.

Tobbuklettarvarða eystri

Tobbuklettavarða eystri.

Landamerkjalínan liggur úr Tobbuvörðu norður í Stekkatúnshæð vestari, þaðan í Tóhól eða Tó rétt vestan við Sölvhól og þaðan í Pétursbyrgi. En stígurinn liggur frá Seljahrauni vestan Jóhannshóls og milli Stekkatúnshæðar vestari og eystri. Á Stekkatúnshæð eystri var Hádegisvarða, stóð hátt og var mikil um sig. Hæðin var því allt að einu nefnd Hádegishæð. Varða þessi var ekki eyktamark frá Þorbjarnarstöðum, heldur sennilega Gerði. Norðan undir hæðinni var Stekkurinn eða Stekkatúnið með Stekksgerðinu. Þarna var líka Stekksgatan eða Þorbjarnarstaðagatan. Er þá komið heim að túngarði.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Miðdegisvarðan; Hádegisvarðan frá Straumi.

Suðvestan Þorbjarnarstaðatúns er Miðmundahæð, eyktamark frá Þorbjarnarstöðum. Þar er stór varða. Enn standa margir túngarðar og veggir óhaggaðir í Hraununum. Eru þeir hlaðnir af Guðmundi Sveinssyni frá Óttarsstöðum, sem var mikill hleðslumaður. M. a. hlóð hann eldhús á Óttarsstöðum upp úr aldamótum, sömuleiðis skemmu í Stóra-Lambhaga, og standa þau enn óhögguð. Athugasemd: Sr. Bjarni kannast ekki við Fremri-Flár. Á þessum stað virðist lýsingin ekki í fullu samræmi við lýsingu Straums, en enginn núlifandi maður treystir sér til að leiðrétta þetta misræmi.” – Örnefnastofnun, 11. nóv. 1980; Sigríður Jóhannsdóttir [sign.]

Heimild:
-Örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar um Þorbjarnarstaði í Hraunum með athugasemdum.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin- varða.

Krýsuvíkurbjarg

Eftirfarandi texta um “Átakið mikla – Landnámið í Krýsuvík; merkilegasti þátturinn í þróunarsögu Hafnarfjarðar” mátti lesa í Alþýðublaði Hafnarfjarðar árið 1950:

Alþýðublað Hafnarfjarðar

Alþýðublað Hafnarfjarðar 1950.

“Eftir að hafa lesið greinarstúf nokkurn, sem birtist í „Hamri“ þ. 20. þ. m. og bar nafnið: „Búskaparbröltið í Krýsuvík“, eftir Ingólf fyrrverandi bónda Flygenring, hefur sjálfsagt margur hugsað á þessa leið: Því fer nú enn þessi blessaður maður að skrifa um landbúnað og reyna að leggja stein í götu landnámsins í Krýsuvík. Á kannske hans bitra reynsla við landbúnað að vísa okkur leið til nýrra átaka á þessu sviði? Eða er það ef til vill kaldhæðni örlaganna, að einmitt nafnið, sem höfundur velur á grein sína, er svo átakanlega sönn lýsing á búskaparháttum höfundar sjálfs, er hann fyrir mörgum árum, sem ungur búfræðingur rak landbúnað að á heimajörðinni Hvaleyri, einni beztu jörð hér í grennd?
Á ekki hér við: ver farið, en heima setið? Ég verð nú að segja það, að mér finnst yfirleitt ekki svo mikill áhugi hjá þjóð vorri fyrir landbúnaði, að annað henti betur en að þeir sem orðið hafa úti á vettvangi landbúnaðarstarfa séu með úrtölur og vonleysi.

Ingólfur Flygerieng

Ingólfur Flygering – f: 24. júní 1896, d; 15. september 1979. Bóndi á Hvaleyri við Hafnarfjörð 1916–1919.  Í bæjarstjórn Hafnarfjarðar 1951–1954. Alþingismaður Hafnfirðinga 1953–1956 (Sjálfstæðisflokkur). Landskjörinn varaþingmaður (Hafnfirðinga) nóvember–desember 1950.

Væri ekki betur viðeigandi að heyra eitthvað um landbúnað frá fyrirmyndarbændum, sem hafa jákvæða reynslu, eins og t. d. Helga Þórðarsyni, sem tók við jörðinni, er höf. gafst upp og hætti að búa, og hefur rekið fyrirmyndarbúskap á þessari jörð um fjölda ára með glæsilegum árangri, og sýndi með því hversu megnug móðurmoldin er að skapa börnum sínum velsæld og auð, ef fyrir hendi er framsýni, dugnaður og óbifanleg trú á mátt moldarinnar. Við höfum ávallt nóg af víli og voli, og stunum uppgefinna manna, þessum eldgamla kotungs hugsunarhætti, sem gætir enn allt of mikið, þessar sífelldu úrtölur og skammsýni, sem virðast vera eins og óumflýjanleg örlög margra þeirra manna, sem hrakið hafa eins og reköld upp á náströnd íhaldsins.

Það eru hugumstórir hugsjónamenn, sem eru stöðugt eins og í snertingu við sjálfa framvindu lífsins, sem hverju bæjarfélagi er svo nauðsynlegt að hafa til starfa á hverjum tíma, og við Hafnfirðingar getum hrósað happi yfir að hafa haft slíka menn í fararbroddi um langt skeið, og munu áreiðanlega hafa áfram.

Alþýðublað Hafnarfjarðar

Alþýðublað Hafnarfjarðar 1950.

Þjóðfélagsleg þróun hinna síðari ára hefur verið mörgum ærið áhyggjuefni, þessi sífelli fólksstraumur úr sveitunum á mölina, jafnhliða því að fisikimiðin eru ískyggilega að láta á sjá, og eins hitt að hinn aukni sjávarhiti, beínlínis valdi því að margar fiskitegundir leiti nú norðar á bóginn, og þar með fjarlægjast strendur vors lands.
En þessi loftlagsbreyting getur aftur á móti haft óútreiknanlega þýðingu fyrir landbúuaðinn, og vel mætti segja mér, að við værum nú að komast inn á hitatímabil. Þessu til sönnunar skal bent á fátt eitt.

Fyrir um þremur árum koma í ljós bæjarrústir undan jökulröndinni á Breiðamerkurfjalli. Þetta er talinn vera bær Kára Sölmundarsonar, Breiðamörk.
Á hvað bendir þetta?

Hnaus

Hnausar í Krýsuvík.

Það bendir til þess, að þá er Kári reisti bæ sinn þá hafi staðið yfir langt hitatímabil, því að engum dettur í hug að Kári hafi reist bæ alveg uppi við jökulrönd, heldur hafi jökullinn þá verið mjög fjarri. En nú eru jöklarnir alltaf að eyðast og gera vonandi langan tíma enn.
Það er kannske eðlilegt, að í peningaflóði stríðsáranna hafi tilfinning manna fyrir þýðingu landbúnaðar eitthvað sljóvgast.

En nú beinast hugir hugsandi manna aftur að þessum mikilvæga atvinnuvegi.

Krýsuvík

Krýsuvík.

Og er það ef til vill ekki táknrænt upp á hinn rnikla framfararhug, sem ríkt hefur hér í þessu bæjarfélagi undanfarin 24 ár, að Alþýðuflokkurinn sem var brautryðjandi í bæjarútgerð hefur nú merki landbúnaðarins hátt á loft með hinu glæsilega landnámi í Krýsuvík. Og svo aftur á móti sami flokkurinn, sem skellti sér eins og steinrunnið nátttröll í veg fyrir bæjarútgerðina, ætlar sér að leika sama leikinn við landnámið í Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík.

En við Hafnfirðingar sjáum nú til þess 29. jan. að sú aðför misheppnaðist.
Nei, það er áreiðanlegt að nú ríður mikið á, að allir sameinist bæði það opinbera og einstaklingar í hinu „mikla átaki“, sem bíður íslenzku þjóðarinnar í því að hefja landbúnaðinn á það stig, sem honum ber, til þess að hann verði fær um að skapa sjálfum okkur og börnum okkar velsæld og auð um ókomin ár.

Reykjavík

Kútterar á legu.

Ekki er úr leið að minna á í þessu sambandi, að stórútgerðin á sína fyrstu tilveru að þakka landbúnaðinum. Þ.e.a.s. að fyrstu kútterarnir, sem keyptir voru til landsins og urðu grundvöllur stórútgerðar, voru keyptir í Englandi fyrir gullpeninga, sem fengust fyrir íslenzku fjallasauðina, sem seldir voru lifandi til Englands. Þetta er ekki ófróðlegt fyrir þá að vita, sem líta niður á landbúnaðinn. Minna má á, að Alþýðuflokksmenn mega vera ánægðir yfir því að eiga ekki ómerkari samherja í áhuga fyrir eflingu landbúnaðar en t. d. eins og Jón H. Þorbergsson, bónda á Laxamýri, sem hefur verið óþreytandi árum saman að hvetja íslenzku þjóðina til nýrra átaka landbúnaðinum til eflingar, og eins sjálfan forseta Íslands, sem í gagnmerkri nýársræðu hvatti íslenzku þjóðina til nýrra dáða á sama sviði.

Krýsuvík

Fjósið og turnarnir í Krýsuvík 2023.

Kjósendur góðir, forustumenn okkar Hafnfirðinga eru áreiðanlega á réttri leið. Þeir eru vissulega í samræmi við sjálfa framvindu lífsins, því að framtíðin mun sýna, ef við Íslendingar eigum að geta lifað menningarlífi í okkar eigin landi og verða sjálfum okkur nógir, þá verður það landbúnaður, að meira leyti en sjávarútvegur og iðnaður, sem mun koma til með að standa undir velsæld okkar um ókomin ár.
Möguleikarnir í Krýsuvík eru nær ótæmandi, og ef miðað er við það þar sem tækni og nýting hvers konar jarðargæða er komin á fyllsta stig, þá er óhætt að fullyrða, að Krýsuvíkin gæti fætt okkur Hafnfirðinga, að verulegu leyti. – M

Hmar 1950

Hamar 1950.

Í nefndum Hamri 1950 mátti lesa nefnda grein Ásgeirs um “Búskaparbröltið í Krýsuvík”.: “Þegar Krýsuvíkureignin var keypt, var lítið látið uppi um, til hvers hún yrði notuð, nema að reynt yrði að nota jarðhita eða orku gufunnar til þess að framleiða rafmagn, sem leitt yrði til Hafnarfjarðar. — Aftur á móti virtist allt óráðið með ræktun landsins, en margir bjuggust við, að geta fengið þar smáblett fyrir sumarbústað og einhverja garðrækt. Ur þessu hefur ekki orðið ennþá, enda annað komið upp á teningnum, því að eftir 1940, þegar bærinn hafði orðið miklar tekjur, fóru Alþýðuflokksmenn í bæjarstjórn að líta hýru auga til Krýsuvíkur og láta sér detta í hug að reka þar búskap. Smámsaman kom þetta betur í ljós og út úr ráðagerðum Alþýðuflokksins kom fjós fyrir 100 kýr — til að byrja með — og fyrst og fremst ræktun vegna nauðsynlegs heyafla, en auk þess átti að reisa garðyrkjustöð, þar sem hita átti gróðurh. með hveragufu. Þessu næst voru menn ráðnir til þess að skipuleggja og síðan að stjórna framkvæmdum þessum.

Hamar 1950

Hamar 1950.

Fyrst var hafist handa um byggingu gróðurhúsa og húsnæðis garðyrkjumanna, einnig plægt upp nokkuð land, sem ætlað er að rækta. Síðastliðið sumar er hafin bygging á fjósi, tveir heyturnar voru byggðir og haldið áfram smíði á íbúðarhúsi fyrir bústjóra kúabúsins. Svona standa framkvæmdir þessar nú og er það mikið kapps mál bæjarstjórnarmeirihlutans, er enn situr við völd hér í bæ, að halda þessu áfram, hvað sem tautar.
Væri nú ekki úr vegi að staldra við og spyrja: „Hver nauður rak bæjarstjórnina til þess að ráðast í þetta?.
Fyrst er byrjað á gróðurhúsum, þar sem ræktaðir eru tómatar og blóm og máske eitthvað fleira. Var einhver skortur á þessum vörutegundum eða var það gróðavonin sem dró? Allir vita að nóg er til af þessum varningi og þeir sem framleiða þess ar vörur eiga yfirleitt gróðurhús, sem ekki kosta nema lítið brot af því verði er gróðurhús og aðrar framkvæmdir í Krýsuvík kosta, svo að með öllu er útilokað að þessi framleiðsla geti staðið undir kostnaði, hvað þá gefið arð, því að sjálfsögðu bætist við beinan reksturskostnað afborgun og vextir, eins og allir þurfa að greiða.
KrýsuvíkÞá er næsta að athuga kúabúið, sem eins og áður er getið, er skemmra á veg komið, eða með öðrum orðum, fæst er þar enn fyrir hendi sem með þarf, nema ráðsmaðurinn, en verkefni virðist lítið fyrir hann enn sem komið er, þó hefir hann verið á launum vegna þessa fyrirtækis nær 3 ár og mun hann ráðinn alllangt fram í tímann. Hefði nú ekki verið hyggilegra að leita til ráðunauta Búnaðarfélags Íslands um þessi mál, í stað þess að ráða menn til margra ára til þess að undirbúa þessi verk, fyrst endilega þurfti að fara út í þetta ævintýri, það hefði ekki kostað mikið fé að leita til Búnaðarfélagsins.

Krýsuvík

Gróðurhúsin 1950.

Nú er búið að eyða í framkvæmdir í Krýsuvík hátt á fjórðu milljón króna, þar hefur bæjarútgerð og bæjarsjóður lagt fram fé og auk þess verið tekið lán til viðbóta með veði í Krýsuvík. Til þess að ljúka þessum mannvirkjum þarf enn mikið fé, að minnsta kosti tvær milljónir króna. Hvernig þeir, sem málum þessum hafa stjórnað, hugsa sér að fá lán til þessara framkvæmda, veit ég ekki, en hitt veit ég að aðrar framkvæmdir bíða, sem meira liggur á og ég er þess vegna með því að harðloka Krýsuvíkurhliðinu — eins og Alþýðublað Hafnarfjarðar orðar það —, því það er fásinna að halda áfram á þessari braut, án þess að stinga við fótum; en að sjálfsögðu þarf jafnframt að gæta þess að bjarga því, sem bjargað verður. Bæjarsjóður fer ekki neins á mis við slíka ráðstöfun, því að frá Krýsuvíkurbúskapnum er ekki neinna tekna að vænta.

Krýsuvík

Borað á hlaðinu í Krýsuvík um 1950.

Þær framkvæmdir, sem mest liggur á að haldið sé áfram eftir fyllstu getu, eru fyrst og fremst hafnargerðin, vatnsveitan og elliheimilið auk þess er viðhald gatna og endurbætur á því sviði, sem veitir ólíkt meiri atvinnuverkamönnum til handa framkvæmdir í Krýsuvík.” – Ingólfur Flygenring

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 4. tbl. 27.01.1950, Átakið mikla – Landnámið í Krýsuvík; merkilegasti þátturinn í þróunarsögu Hafnarfjarðar, bls. 1 og 2.
-Hamar, 3. tbl. 20.01.1950, Búskaparbröltið í Krýsuvík, Ásgeir Flygering, bl.s 4.

Alþýðublað Hafnarfjarðar

Alþýðublað Hafnarfjarðar 1050.

Hamarinn

Á Hamrinum í Hafnarfirði er skilti. Á því má lesa eftirfarandi fróðleik:

Hamarinn

Hamarinn – mörk friðlýsingar.

“Hamarinn var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1984. Á Hamrinum er að finna jökulminjar og setur hann mikinn svip á miðbæ Hafnarfjarðar og nýtur vinsælda sem útivistarsvæði. Hamarinn er mótaður af skriðjöklum ísaldar og hefur sérstakt rofform sem kallast hvaldbak. Jökull með skriðstefnu til norðvesturs hefur gengið út á Hamarinn og sorfið breggrunninn í slétta og aflíðandi klöpp og má greinilega sjá jökulrákir sem skriðjökullinn rispaði í bergið. Bratta hlið Hamarsins vissi undan straumi jökulsins, þar sem hann kroppaði úr berginu og myndaði bergstál.

Bergið í Hamrinum er Reykjavíkurgrágrýti (grátt basalt) sem er talið hafa myndast á hlýskeiði ísaldar fyrir um 300-500 þúsund árum. Þykk grágrýtishraunlög mynda berggrunn höfuðborgarsvæðisins en upptök þeirra eru óþekkt.

Hamarinn

Hamarinn – auglýsing um friðlýsingu.

Til er saga um heimsókn bóndans í Hamarskoti til álfa er bjuggu í Hamarskotshamri. Maður þessti hét Gunnar Bjarnason og segir sagan að eitt sinn er hann var á gangi norðan- eða austanmegin í Hamrinum á vetrarkvöldi um jólaleytið hafi hann heyrt söng í honum. Gekk hann þá á hljóðið og kom að opnum dyrum á Hamrinum, sem hann gekk inn um. “Kemur hann inn í mannahýbýli og stendur söngurinn þá sem hæst. Þá var það venja á landi hér, ef að gest bar að garði, meðan á húslestri stóð, þá gekk hann hljóðlega inn, yrti ekki á neinn og heilsaði ekki fyrr en að lestrinum loknum. Þessari venju fylgdi Gunnar. Sat hann hljóður meðan á söngnum stóð og hlustaði með gaumgæfni á lesturinn, sem á eftir fór. Er mælt, að hann hafi kannast við lögin og sálmana en eigi hugvekjuna eða predikunina. Eftir lesturinn var sunginn sálmur og að honum loknum gekk Gunnar úr jafnhljóðlega og þá er hann kom inn.” Þrátt fyrir margar tilraunir Gunnars varð hann aldrei aftur var við álfana í Hamrinum.

Hamarinn

Hamarinn – hvalbök.

Margir Hafnfirðingar sem hafa leikið sér í Hamrinum telja sig hafa séð það hvítklædda veru sem er böðuð ljóma með silfurbelti um sig miðja. Sumir hafa talið sig heyra fagran söng án þess að sjá lifandi sálu.

Í bókinni “Bær í byrjun aldar” segir Magnús Jónsson frá bæjum, kotum og fólki í Hafnarfirði í byrjun 20. aldar. Um Hamarskotið segir hann: “Nú eru löngu horfin öll ummerki um hvar þetta kot stóð, en að það var í slakkanum uppi á Hamrinum. Upphaflega hefur bærinn sjálfsagt dregið nafn sitt af hamrinum, en svo var farið að kenna hamarinn við kotið, og hann nefndur Hamarskotshamar.”

Hamarinn

Hamarinn – friðlýsta svæðið.

Í “Saga Hafnarfjarðar 1908-1983” segir m.a. um Hamarskotshamar: “Eftir að gagnfræðiskólinn í Flensborg tók til starfa árið 1882 og aðkomupiltar tóku að sækja hann, mátti segja að allmikið lifnaði yfir firðinum á hverju hausti við komu þeirra. Brenna var oftast annaðhvort á gamlárskvöld eða á þrettándanum og venjulega var álfadans í sambandi við hana. Var þá dansað úti á einhverri tjörninni. Oftast var brennan á Hamarskotshamri, en stöku sinnum í Kvíholtinu norðan Jófríðarstaða, þar sem nú er nunnuklaustur.”

Stærð náttúruvættisins er 2,1 ha.”

Hamarinn

Hamarinn – jökulsorfin klöpp.

Af framangreindu getur sá er þetta skráir staðfest tilvist hvítklæddu verunnar í Hamrinum norðanverðum því hann sá hana þar með berum augum á unga aldri. Álfabrenna var hins vegar aldrei í Kvíholti eða á þeim stað er klaustrið er nú. Særsta áramótaberannan í Hafnarfirði var um nokkurra ára skeið á sléttu holtinu vestan Keflavíkurvegarins og ofan og austan klaustursgarðsins.

Heimildir m.a.:
-https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/sudvesturland/hamarinn-hafnarfirdi/
-https://ust.is/library/Skrar/Einstaklingar/Fridlyst-svaedi/Auglysingar/hamarinn_188_1984.pdf

Hamarskot

Hamarskot  á Hamarskotshamri – tilgáta.

Sundlaug hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar,byggð 1943, sem u.þ.b. tíu árum síðar, varð að Sundhöll Hafnarfjarðar, varð áttræð 29. ágúst 2023. Af því tilefni voru sett upp upplýsingaskilti; eitt við Herjólfsgötu utan við Sundlaugina og svo þrjú í anddyri hennar.

Sundlaug Hafnarfjarðar

Frá vígslu Sundlaugar Hafnarfjarðar 1943.

Bygging sundlaugarinnar hófst árið 1940 en verkið tafðist vegna seinni heimsstyrjaldarinnar. Byggingu hennar var lokið árið 1943 og var sundlaugin formlega opnuð sunnudaginn 29. ágúst 1943. Sundlaugin í Hafnarfirði er glæsihús, teiknað af Guðjóni Samúelssyni. Byggingarsaga laugarinnar átti sér nokkrun aðdraganda.

Á söguskiltinu utandyra má lesa eftirfarandi texta: “Skipulögð íþróttaiðkun hófst í Hafnarfirði haustið 1894 með leikfimikennslu í Flensborgarskólanum. Í skólaskýrslu fyrir þennan vetur segir að í leikfimi hafi m.a. verið kennt í sund á þurru landi.

Sundhöll Hafnarfjarðar

Sundhöl Hafnarfjarðar – skilti utandyra.

Það var þó ekki fyrr en árið 1909 sem eiginleg sundkennsla hófst í Hafnarfirði en þá var það Ungmennafélagið 17. júní sem stóð að kennslunni. Hún fór fram í sjónum út af Hamarskotsmöl en síðar við Hellufjöru og árið 1926 var sundkennslan færð vestur að Krosseyrarmölum. Var hún þar í tæpan áratug en var þá flutt yfir fjörðinn að Skiphól við Óseyrartjörn. Snemma komu upp hugmyndir um byggingu sundlaugar í bænum, menn vildu “beita sér fyrir því, að upp kæmist í bænum sundlaug, þar sem börn og æskulýður bæjarins ættu kost á að nema heilnæmustu og gagnlegustu íþrótt allra íþrótta, sund”. Á næstu árum komu fram ýmsar hugmyndir um staðsetningu laugarinnar en það var loks árið 1939 sem lögð var fram teikning og kostnaðaráætlun af sundlaug við Krosseyrarmalir og hófust framkvæmdir í október sama ár.

Sundlaug hafnarfjarðar

Sundæfingar neðan Krosseyrarmalar.

Árið 1843 mátti lesa eftirfarandi frétt af vígslu sundlaugarinnar: “Er hjer um hið merkasta fyrirtæki að ræða, sem eflaust á eftir að hafa eigi minni þýðingu fyrir líkamlega hollustu Hafnfirðinga en Sundhöllin fyrir Reykvíkinga. Sjór er notaður í laugina og er hann hitaður upp með miðstöðvarhita. Fullkomin hreinsunartæki eru fyrir vatnið.” Sundlaugin var opin allt árið en rekstrinum var skipt í þrjú tímabil. Frá 1. nóvember til 1. apríl var hún rekin sem baðhús. Mánuðina apríl, maí september og október var aðeins vatnið í grynnri enda hennar hitað og hreinsað og var sundlaugin því aðeins í fullri notkun yfir sumarmánuðina.

Árið 1949 var hætt að nota sjó í laugina auk þess sem þá var kolakötlunum skipt út fyrir olíukyndingu. Samþykkt var að byggja yfir laugina árið 1951 og var hún vígð sem sundhöll tveimur árum síðar. Það var svo árið 1976 sem lögð var hitaveita í Sundhöllina en það gjörbreytti rekstrargrundvelli hennar til hins betra. Árið eftir vor settar upp tvær setlaugar í sólskýli við laugina”.

Sundlaug Hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar -Upplýsingaskilti innandyra.

Á söguskiltunum innandyra stendur: “Sundkennsla í sjónum – Elstu heimildir um sundkennslu í Hafnarfirði eru frá árinu 1909 en þá var það Ungmennafélagi 17. júní sem stóð að kennslunni. Þar sem engin sundlaug var í bænum á þessum tíma fór kennslan fram í sjónum úf af Hamarskostmöl. Árið 1911 var tekin á leigu skúr sem stóð á mölinni og var hann notaður sem sundskáli þar sem nemendur gátu skipt um föt. Eftir að starfsemi Ungmennafélagsins lagðist niður, árið 1913, fól Bæjarstjórn Hafnarfjarðar skólanefnd barnaskólans að annast kennsluna.

Sundlaug hafnarfjarðar

Fyrrum starfsmenn Sundhallarinnar voru heiðraðir með blómvendi í tilefni af 80 ára afmæli Sundlaugar Hafnarfjarðar.

Eins og áður segir fór kennslan fram á Hamarskotmöl, vestan við Vesturhamar en svo lengi fyrir sunnan hamarinn í svokallaðri Hellufjöru. Eftir að St. Jósepsspítali tók til starfa árið 1926 var nauðsynlegt að flytja sundkennsluna vegna frárennslis sem leitt var frá spítalanum niður í sjó. Var sundkennslan þá fær að svokölluðum Gatakletti vestur á Krosseyrarmölum og var sundskálinn fluttur með. Sundkennslan var þar í tæpan áratug en þá þurfti að flytja hana aftur þar sem mengunar var farið að gæta á svæðinu frá fiskvinnslustöðvum þar. Var sundaðstaðan þá flutt yfir fjörðinn að Skiphól við Óseyrartjörn.

Sundlaug hafnarfjarðar

Sundiðkun við Hamarskotsmöl 1915.

Eins og gefur að skilja var aðstaðan aldrei góð til sundiðkunar á meðan synt var í köldum sjónum. Snemma komu upp hugmyndir um byggingu sundlaugar í bænum og var það meðal annars Sundfélag Hafnarfjarðar sem vildi “beita sér fyrir því, að upp kæmist í bænum sundlaug, þar sem börn og æskulúður bæjarins ættu kost á að nema heilnæmustu og gegnlegustu íþrótt alla íþrótta, sund.” Á næstu árum komu upp hugmyndir um byggingu laugarinnar við Strandgötu, við leikfimishús barnaskólans og loks við Krosseyrarmalir upp af Gatakletti. Það var svo árið 1939 sem lögð var fram teikning og kostnaðaráætlun, sem Ágúst Pálson byggingarmeistari hafði unnið, af sundlaug við Krosseyrarmalir og hófust framkvæmdir í október sama ár.”

Sundlaug Hafnarfjarðar

Frá vígslu Sundlaugar Hafnarfjarðar 1943.

Vígsla laugarinnar – Föstudaginn 10. september 1943 mátti lesa í dagblaðinu Fálkanum eftirfarandi frétt af vígslu sundlaugarinnar: “Sundlaugin í Hafnarfirði varð vígð á sunnudaginn annan er var að viðstöddu miklu fjölmenni. Er hjer um hið merkilegasta fyrirtæki að ræða, sem eflaust á eftir að hafa eigi minni þýðingu fyrir líkamlega hollustu Hafnfirðinga en Sundhöllin fyrir Reykvíkinga. Í anddyrinu er aðgöngumiðasala fyrir gestina og afgreiðsla á handklæðum og sundskýlum. Þá tekur við rúmgóður forsalur en úr honum er gengið inn í búningsklefana…”

Sundlaug hafnarfjarðar

Sundlaug verður að Sundhöll.

Sundlaug verður Sundhöll – Árið 1949 var hætt að nota sjó í laugina auk þess sem þá var gömlu kolakötlunum skipt út fyrir olíukyndingu. Fljótlega eftir opnun sundlaugarinnar fóru að heyrast raddir um að æskilegt væri að sundlaugin yrði yfirbyggð til að hægt væri að nýta hana betur allt árið. Skiptar skoðanir voru um málið og töldu sumir heppilegast að setja á hana hreyfanlega yfirbyggingu sem hægt væri að opma yfir sumarmánuðina. Fallið var frá þeirri hugmynd og samið við Byggingafélagið Þór um að byggja yfir laugina árið 1951.

HjálmarÍ Hjálmur 1943 mátti lesa eftirfarandi um Sundlaug Hafnarfjarðar: “Sunnudaginn 29. ágúst var vígð og tekin í notkun sundlaug sú, sem verið hefur í smíðum hér undanfarin ár. Var vígsuathöfnin öll hin hátíðlegasta svo sem hæfði þessu tækifæri.

Sundlaug Hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar.

Sundlauginni þarf ekki að lýsa, þar sem öll blöð og útvarp hafa birt mjög ítarlega frásögn og lýsingu á henni og nú er fjöldi bæjarbúa búinn að kynnast henni af eigin raun. Hins vegar verður hér rakin í eins stuttu máli og mögulegt er saga sundlaugarbyggingarinnar: Óvíða á landinu er náttúran jafn ógjöful á sæmilegan baðstað og hér í Hafnarfirði. Þess vegna skapaðist hér fyrr hugmyndin um byggingu sundlaugar en víða annars staðar, þar sem nú eru fyrir löngu komnar sundlaugar.

Sundlaug Hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar – sundiðkun neðan Krosseyrarmala.

Töluvert fyrir 1930 voru ýmis félög í bænum búin að samþykkja að styðja sundlaugarbyggingu og sum höfðu ákveðið að beita sér fyrir henni og fjársöfnun var hafin til sundlaugarbyggingarinnar. En allt þetta varð til lítils. Sundlaugarmálið sofnaði og var ekki vakið fyrr en 1934. Þá hélt Knattspyrnufélagið Haukar borgarafund um íþróttamál bæjarins og var sundlaugarmálið eitt af aðalmálum fundarins og var gerð í því máli ákveðin samþykkt. Nokkru síðar barst ýmsum félögum í bænum bréf frá bæjarstjóra, sem þá var Emil Jónsson, þar sem óskað var eftir tilnefningu þeirra í nefnd er forgöngu skyldi hafa um byggingu sundlaugar.

Sundlaug Hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar – upplýsingaskilti innandyra.

Urðu þessi félög við ósk bæjarstjóra og nefndin var skipuð þessum mönnum: Frá bæjarstjórn Hafnarfjarðar Guðmundur Gissurarson, og var hann formaður nefndarinnar, frá Verkamannafélaginu Hlíf Grímur Kr. Andrésson, frá Sjómannafélagi Hafnarfjarðar Magnús Þórðarson (varamaður Magnúsar var Hans Ólafsson, sem vegna fjarveru Magnúsar tók mikinn þátt í störfum nefndarinnar, Jóngeir E. Davíðsson kom síðar í nefndina sem aðalmaður Sjómannafélagsins). Frá Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Kára, Loftur Bjarnason, frá Barnaskóla Hafnarfjarðar, Guðjón Guðjónsson, frá Kennarafélagi Hafnarfjarðar Hallsteinn Hinriksson og frá íþróttafélögunum Hermann Guðmundsson.

Sundlaug HafnarfjarðarNefndin hóf þegar starf sitt með því að athuga stæði fyrir væntanlega sundlaugarbyggingu, en varð ekki sammála um það, hvort í sundlauginni skyldi vera vatn eða sjór. Ósamkomulag þetta leiddi til þess að nefndin var ekki starfshæf um langan tíma og má segja að hér um bil 5 ár hafi farið í togstreitu milli þeirra tveggja hluta, sem nefndin klofnaði í.

Loks á árinu 1939 náðist samkomulag í nefndinni um að byggja sjósundlaug, sem standa skyldi á Krosseyrarmölum. Voru þá strax hafnar framkvæmdir og byrjað að grafa grunn fyrir sundlaugina, en vegna ýmissa örðugleika miðaði verkinu mjög hægt áfram þar til á árinu 1941. Þá var hafin bygging sjálfrar laugarinnar.

Sundlaug Hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar – söguskilti afhjúpað.

Árið eftir tók bærinn raunverulega sundlaugarbygginguna algerlega í sínar hendur með skipun þriggja manna í svo nefnt Sundráð, en í það voru skipaðir Guðmundur Gissurarson, Loftur Bjarnason og Ásgeir Stefánsson. Sundlaugarráðið hagaði þá þannig starfi sínu, að fullt tillit var tekið til samþykkta og ákvarðana sudlaugarnefndarinnar og á marga fundi Sundráðs var var sundlaugarnefndin kvödd.

Sundlaug Hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar – óyfirbyggð.

Fyrir dugnað og framtak sundráðs gekk bygging sundlaugarinnar mun betur en hægt var að búast við, og þann 29 ágúst var laugin komin upp og vígð, svo sem áður er að vikið. Er laugin hið myndarlegasta mannvirki. mun fullkomnari en áætlað var í fyrstu, en óyfirbyggð. Er það stór galli hvað snertir vetrarrekstur hennar, hins vegar er hún skemmtilegri óyfirbyggð að sumarlagi í góðri tíð.

Þetta er saga sundlaugarinnar til þessa, en saga hennar er ekki á enda þótt sundlaugin hafi verið vígð og tekin til notkunar, heldur er að eins um þáttaskifti að ræða og hefst nú nýr þáttur, sem ekki er síður þýðingarmikill en sá, sem liðinn er.

Sundlaug Hafnarfjarðar

Teikning af endurbótum sem fyrirhugaðar eru á Sundhöllinni í framtíðinni.

Er þess að vænta, að bæjarbúar geri sitt til þess að gera þann þátt sem glæsilegastan með því að nota laugina almennt, svo að hún verði í raun og sannleika til þroska og manndóms fyrir Hafnfirðinga.”

Sundlaug Hafnarfjarðar

Í Sveitarstjórnarmál 1943 er fjallað um Sundlaug Hafnarfjarðar: “Sunnudaginn 29. ág. s. l. var opnuð til almenningsnota ný sundlaug í Hafnarfirði.

Fór sú athöfn fram með mikilli viðhöfn og að viðstöddu fjölmenni bæði úr Hafnarfirði og Reykjavík.
Sundlaug þessi er mikið mannvirki, er tekur yfir 700 fermetra svæði og er ein hæð. Hún er sjólaug og er við Krosseyrarmalir, í kvos vestan undir hraunbrúninni. Sjónum er dælt i laugina með rafmagnsdælu, hitaður upp með kolum og rafmagni og hreinsaður í fullkomnum hreinsunartækjum, sem vélsmiðjan Hamar í Reykjavík smíðaði og setti upp.

Sjálf laugarþróin er að stærð 25X8.5 m. Dýptin í grynnri endann er 90 cm, en 5 m í dýpri enda. Grynnri hluti laugarinnar er um helmingur af lengdinni, en með jöfnum halla frá 90 cm til 100 cm; úr því dýpkar ört í 5 m. Hrákarenna með niðurföllum er umhverfis alla laugina, enn fremur eru gangpallar með fram allri lauginni og eru að breidd 2 til 2.5 m. Búningsklefum, böðum og afgreiðslu er komið fyrir við grynnri enda laugarinnar…

Sundlaug

Sundlaug Hafnarfjarðar fyrrum – Hallsteinn kennir sund.

Bygging sundlaugarinnar hófst á árinu 1940, en tafðist á ýmsan hátt vegna vöntunar á nægilegu vinnuafli og vegna erfiðleika með að fá efni og alls konar tæki. Upphaflega var ákveðið að byggja sundlaugina með almennum samskotum og þá valin nefnd, er í áttu sæti menn frá ýmsum félagssamtökum í Hafnarfirði og frá bæjarstjórn. En vegna þess hve mannvirkið reyndist umfangsmikið og dýrt, vegna hinna breyttu tíma, varð niðurstaðan sú, að bærinn byggði laugina með styrk úr ríkissjóði. Alls söfnuðust 30 þúsundir króna með frjálsum samskotum. Gerð og fyrirkomulag sundlaugarinnar var ákveðið í samráði við húsameistara ríkisins, íþróttafulltrúa og íþróttanefnd ríkisins. Sundlaugin mun bafa kostað alls rúml. 500 þús. kr., og verður framlag frá ríkissjóði að líkindum 2/5 kostnaðar.

Sundlaug hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar – frá vígslunni 1953.

Sundlaugin er rekin af Hafnarfjarðarkaupstað, og fer kennsla þar fram bæði fyrir skólanemendur og almenning. Með byggingu sundlaugarinnar hafa Hafnfirðingar hrint í framkvæmd miklu nauðsynja- og menningarmáli fyrir þennan mikla útgerðar- og sjómannannabæ.”

Alþýðublað Hafnarfjarðar fjallaði um byggingu sundlaugarinnar 1953 (blaðið var ekki gefið út 1943) undir fyrirsögninni “Sundhöll Hafnarfjarðar opnuð – Hátíðleg athöfn kl. 2 í dag!”

Sundlaug Hafnarfjarðar“Hin nýja Sundhöll Hafnarfjarðar verður vígð á morgun. Hefur verið byggt yfir gömlu opnu sundlaugina og hafa þær framkvæmdir allar staðið yfir síðan á miðju árið 1951 að fjárfestingarleyfi fékkst fyrir byggingunni en þá hafði árangurslaust verið sótt um slíkt leyfi frá því árið 1947. Auk yfirbyggingarinnar var reist viðbygging að norðanverðu yfir þrjá stóra vatnsgeyma fyrir loftræstingarkerfið, böðin og miðstöðina. Er sundhöllin nú hituð bæði með rafmagnsnæturhitun og olíu. Ýmsar lagfæringar hafa verið gerðar á böðum laugarinnar, búningsklefar lagfærðir og endurbætur gera að á miðasölu o.fl. Er afar snyrtilega frá öllu gengið. Salurinn er bæði hitaður upp með miðstöð og lofthita en það loft er alltaf ferskt, tekið beint að utan, ekki hitað upp á ný. Sundhöllin verður opnuð á morgun kl. 14 með hátíðlegri athöfn. Á eftir verður fólki gefinn kostur a að skoða mannvirkið til kl. 3.30 en þá verður að rýma húsið svo hægt sé að hefja sundmótið “Reykjavík – Utanbæjarmenn” kl. 5 e.h.”

Sundlaug hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar frá vígsluathöfninni 1943.

Það var svo árið 1976 sem skipt var um þak á sundhallarasalnum auk sem hitaveita var lögð í Sundhöllina en það gjörbreytti rekstrargrundvelli hennar til his betra. Árið eftir voru settar upp tvær setlaugar í sólskýri laugarinnar og affallsvatn notað til að hita stéttar og sólskýli og við aðalinngang.”

Í umfjölluninni segir m.a.: “Sundhöll Hafnarfjarðar verður opnuð með hátíðlegri viðhöfn í dag, laugardag, 13. júní kl. 2 e.h. Lúðrasveit Hafnarfjarðar leikur, stuttar ræður flytja: Stefán Gunnlaugsson, formaður íþróttanefndar Hafnarfjarðar, Helgi Hannesson, bæjarstjóri, Þorsteinn Einarsson, íþróttafulltrúi og Jón Egilsson, formaður ÍBH. Að því loknu verður fólki gefinn kostur á að skoða stundhallarbygginguna. Kl. 5 hefst svo sundmót og keppa þar Reykvíkingar við sundmenn úr Hafnarfirði og utan af landi.

Sundlaug hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar – vígsla. 1953.

Bæjarstjórnarmeirihluti Alþýðuflokksins hefur alla tíð lagt á það áherslu og að því unnið eftir því sem efni og ástæður hafa leyft á hverjum tíma, að íþróttamönnum þessa bæjar yrði sköpuð viðunandi skilyrði til iðkunar hinna ýmsu íþróttagreina. Því íþróttir geta verið heilsusamlegar og göfgandi og eru eitt af því ákjósanlegasta, sem ungir menn og konur taka sér fyrir hendur í tómstundum sínum. Nú er það að vísu svo, að skilyrði og aðstæður til íþróttaiðkanda hér í bæ eru enn ekki svo góðar, sem æskilegast væri. En vafalaust stendur það til bóta og er þess að vænta, að sameiginlegt átak íþróttamanna og bæjarfélagsins í þessum málum megi í náinni framtíð skapa hafnfirskri íþróttaæsku þau skilyrði sem hún megi vel við una.

Bygging sundlaugarinnar
Sundlaug HafnarfjarðarBygging sundlaugarinnar var á sínum tíma einn liður í þeirri stefnu Alþýðuflokksmeirihlutans í bæjarstjórn, að bæta aðstæður til íþróttaiðkana.

Þýðing upphitaðrar sundlaugar er augljós. sem heilsulind og orkugjafi þeirra, sem hana skja. Auk þess er sundkunnátta nauðsynleg hverjum manni, til þee að bjarga sínu lífi og annarra frá drukknun.

Yfirbygging sundlaugarinnar var áframhald og einn liður þeirrar stefnu Alþýðuflokksins sem miðar að því að skapa Hafnfirðingum sem best og fullkomnust tæki til gagnlegra íþróttaiðkanda og hollra tómstundaskemmtana.

Bygging sundhallar ákveðin

Sundhöll Hafnarfjarðar

Sundhöll Hafnarfjarðar 1953.

Yfirbygging sundlaugarinnar er mál, sem búið er að vera á döfinni nú um nokkurra ára skeið. Til að byrja með voru um það nokkuð skiptar skoðanir, hvort að rétt væri að byggja yfir laugina eða ekki.

Árið 1947 ákvað svo Alþýðuflokksmeirihlutinn í bæjarstjórn að láta til skarar skríða og hefja framkvæmdir þá þegar. En til þess að svo gæti orðið, varð fjárhagsráð að leggja blessun sína yfir þá fyrirætlun Alþýðuflokksins og veita fjárfestingarleyfi til byggingarinnar. Fjárhagsráð synjaði. Árin 1948, 1949, 1950 og 1951 voru aftur sendar umsóknir og alltaf synjaði fjárhagsráð. Þá varð það að fulltrúi Alþýðuflokksins, Baldvin Jónsson, í fjárhagsráði áfrýjaði ákvörðun meirihluta ráðsins, sem voru fulltrúar frá Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, til þess ráðherra í ríkisstjórn, sem fer með íþróttamál. Fulltrúar frá bæjarstjórn og íþróttasamtökunum hér í bæ fóru á fund ráðherrans til að ræða þetta mál. Árangurinn af þeirri málaleitan varð sá, að áfrýjun fulltrúa Alþýðuflokksins í fjárhagsráði var tekin til greina og fjárfestingarleyfið loksins veitt.

Sundlaug Hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar 2022.

Allt frá árinu 1947 var að því unnið af hálfu bæjarstjórnar, að fjárfestingarleyfi fengist. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í fjárhagsráði stóðu ávallt gegn þessari málaleitan Hafnfirðinga. Fulltrúi Alþýðuflokksins var sá eini í fjárhagsráði, sem ætíð var málinu fylgjandi og greiddi því atkvæði sitt.

Sundhallarbyggingunni lokið
Strax og fjárfestingarleyfið var fengið var hafist handa um byggingarframkvæmdirnar. Byggingafélagið „Þór“ h.f. tók að sér að gera bygginguna fokhelda. Yfirsmiður var Sigurbjartur Vilhjálmsson, en múrarameistari var Sigurjón Jónsson.

Sundlaug hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar – frá vígslunni 1953.

Tréverk annaðist Gestur Gamalíelsson, trésmíðameistari og Byggingafélagið „Þór“ h.f. Málarameistarar voru Aðalsteinn Egilsson og Þórður Sigurðsson. Miðstöðvarlagningu önnuðust Vélsmiðjan Klettur h.f. og Jón Pálsson. Rafvirkjameistari var Sigurjón Guðmundsson. Vatnsgeyma smíðuðu Bror Westerlund og Rafha. Hamar h.f. sá um smíði lofthitunartækja. Yfirumsjón með byggingarframkvæmdum öllum hafði sundhallarforstjórinn Yngvi R. Baldvinsson.

Sundlaug Hafnarfjarðar

Sundlaug Hafnarfjarðar 2022.

Jafnframt því sem byggt hefur verið yfir laugina, voru gerðar ýmsar endurbætur og lagfæringar á böðum og búningsklefum, komið á rafmagnsnæturhitun, svo hin nýja sundhöll verður upphituð með hvoru tveggja, olíu og rafmagni. Upphitun á sundhallarsalnum er frá lofthitun og ofnum. Reist var viðbygging við sundhallarhúsið að norðanverðu, yfir vatnsgeyma.

Byggingarkostnaðurinn mun nema um 850 þús. kr. Byggingu sundhallarinnar er nú lokið, að öðru leyti en því, að eftir er að múrhúða húsið að utan og útbúa sólskýli, sem fyrirhugað er að verði suð-austan við sundhöllina. Standa vonir til að því verki verði lokið sem fyrst.”

Heimildir:
-Upplýsingaskilti utan og innan Sundlaugar (Sundhallar) Hafnarfjarðar.
-Hjálmur, 7.-8. tbl. 18.09.1943, Sundlaug Hafnarfjarðar, bls. 5.
-Sveitarstjórnarmál 01.12.1943, Sundlaug Hafnarfjarðar, bls. 31-32.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 12. tbl. 13.06.1953, Bygging sundlaugarinnar, bls. 1 og 4.

Sundlaug Hafnarfjarðar

Sundhöll Hafnarfjarðar 2023.

Krýsuvík

Sefið í Krýsuvík er norðan þjóðvegarins, skammt sunnan við Augun, vestan Grænavatns. Það lætur ekki mikið yfir sér en þar gerðist atburður árið 1801 er nú skal greint frá:

Nýibær

Stóri-Nýibær.

“Uppvíst er orðið, að ógift stúlka nokkur, Steinunn Árnadóttir, frá Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík, hefur borið út barn sitt. Segir hún, að barnsfaðir sinn, sem er kvæntur maður, hafi ógnað sér, barið sig og hótað að ganga sem næst lífi sínu, ef hún lýsti hann föður. Er þetta fjórða barnið, sem maður þessi á framhjá konu sinni, og hefur hann tvívegis reynt að fá barnsmæður sínar til að rangfeðra börnin.

Krýsuvík

Stóri-Nýibær 1944.

Sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu skýrir svo frá, að Steinunn hafi nóttina milli 24. og 25. nóvember s.l. fætt barn í dulsmáli, án þess að leita þeirrar hjálpar, sem henni og fóstrinu kynnu að verða til bjargar. Leyndi hún síðan fóstrinu í rúmi sínu, uns henni tókst nokkrum dögum síðar að varpa því í tjörn skammt frá bænum. Saga þessarar ógæfusömu stúlku er í stuttu máli á þessa leið: “Fyrir tveimur árum átti Steinunn barn með kvæntum manni, Jóni Snorrasyni í Krýsuvík. Kom hann henni þá til að lýsa ranglega föður að því barni giftum manni, Jón Oddsson á Svalbarða, en hið rétta faðerni komst þó upp.

Krýsuvík

Krýsuvík – Sefið.

Þegar Steinunn varð í annað sinn ólétt af völdum Jóns Snorrasonar, kveður hún hann hafa ógnað sér, ef hann lýsti hann föður. Er hún færðist undan að leyna barnsþunganum, hafði Jón barið hana, svo að blánaði undir auga, og hert á hótunum sínum. Ámálgaði hann oftlega, að hún kæmi fóstrinu leynilega undan.
Þegar að fæðingu kom, var Steinunn í rúmi sínu og foreldrar í næsta rúmi. Leitaði hún engrar hjálpar né gaf vandræði sín til kynna með neinu móti, en kæfði niður öll hljóð. Ekki veitti hún fóstrinu neina rækt, batt ekki fyrir naflastreng né skildi á milli. Tróð hún því síðan með fylgju og öllu saman ofan í rúm sitt.

Krýsuvík

Sefið í Krýsuvík.

Þegar er Steinunn gat því við komið eftir fæðinguna, fór hún á fund Jóns Snorrasonar og bað hann að koma fóstrinu undan í kirkjugarðinn. Kveður hún hann hafa neitað því, en ráðið sér að lauma því niður í tjörn eina, skammt norður af bænum. Sá hún sér ekki færi á því fyrr en eftir nokkra daga, líklega 2. desember. Tók hún þá fóstrið og fór með það að tjörninni, sem var ísi lögð, pjakkaði vök á hana og sökkti því þar niður með viðbundnum steini.
Kvis um þennan atburð komst á loft daginn eftir, og hinn 4. desember var barnslíkið slætt með öngulkrókum upp úr vökinni. Skoðunarvottorð benti til þess að barnið hafi verið fullburða og sennilega fætt lifandi, en að líkindum dáið af illri meðferð.
Eftir að barnið fannst, játaði Steinunn fyir sóknarpresti sínum, en hélt því þó fram að barnið hefði fæðst andvana.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.

Jón Snorrason hefur einnig verið handtekinn og yfirheyrður. Neitaði hann flestu því, sem Steinunn hefur á hann borið, en kveðst þó vera faðir barnsins. Hann var einnig ákærður fyrir þjófnað og grunur leikur einnig á honum um sauðaþjófnað.”
Landsyfirréttur dæmdi í dulmálssök Steinunnar Árnadóttur. Var hún dæmd til lífláts.

Úr Öldinni okkar 1802.

Krýsuvík

Sefið í Krýsuvík – Bæjarfell fjær.

Setberg

Myndin hér að neðan er af Setbergsbænum við Hafnarfjörð árið 1772. Þar bjó þá Guðmundur Runólfsson, sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu.

Setbergsbærinn

Teikning af Setbergsbænum eftir Sir Joseph Banks frá 1772.

Þegar konungur bauð kálgarðagerð í landinu, var svo mælt fyrir, að sýslumenn skyldu ganga á undan öðrum með góðu eftirdæmi. Guðmundur Runólfsson gerði það, en svo dýrseldir þóttu honum kaupmenn, er hann var látinn borga spesíudal fyrir níu kvint af kálfræi, að hann kærði það fyrir rentukammerinu. Eftir það lækkaði verðið, og sýslumaður lét bændum í té fræ án endurgjalds. Komust þá upp 84 kálgarðar í Kjalarnesþingi. En nú hefur sýslumaður þá sögu að segja, að flestir hafi hætt við kálgarðana “eftir að okkar góðu verndarar við verslunina þótti það við hæfi að hræða fólkið frá slíku handafla með því að færa okkur fræ, sem ekki dugar, er ég hef mátt kaupa af þeim í tvö ár. Af því hefur ekki sprottið upp úr jörðinni ein einasta planta, sproti eða blað nokkurs staðar, hvorki í Gullbringu-, Kjósar- né Borgarfjarðarsýslu. – Þess konar fræ kom í Hólminn í tvö ár í röð, og annað árið jafngott í Hafnarfjörð”, segir sýslumaður í greinargerð um frækaup sín.

-Öldin okkar 1771

Setberg

Gamli Setbergsbærinn.

Straumur

Húsið í Straumi var reist árið 1927, fyrir Björn Bjarnason barnaskólakennara og síðar skólastjóra Barnaskólans í Hafnarfirði, eftir teikningu Guðmundar Einarssonar trésmíðameistara og framkvæmdarstjóra í Dverg.

Straumur

Straumur – ljósmyndina tók Sigríður Erlendsdóttur um 1930.

Ber húsið keim af hönnun Guðmundar en álíka kvistur er á húsi hans, Hverfisgötu 3 sem hann teiknaði árið 1925. Björn Bjarnason hafði eignast Straum árið 1918 og stóðu þá þar eldri byggingar sem urðu eldi að bráð snemma árs 1927.
Í virðingagjörð sem gerð var árið 1928 er íbúðarhúsinu lýst þannig: „Íbúðarhús úr steinsteypu, byggt 1927. Vandað vel. Tvær íbúðarhæðir, steypt gólf og loft, hátt ris með geymslu og þurrklofti. Tvídyrað. Snoturt útlits.

Hverfisgata 3

Hverfisgata 3.

Skýli heilt með járnþaki við aðrar útidyrnar 3 x 2 ½ m. Stærð 8,6 x 8m. meðalhæð um 6,5m. Á neðri hæð eru 3 stofur, eldhús, búr og gangur (forstofa) á efri hæð: 4 herbergi og gangur. Geymsla á 3. lofti.

Útveggir steyptir: að innan lagðir pappa, korklagi og svo veggjapappi á sléttri súð. Milliloft steinsteypt. Dúkar (linoleum) á gólfum. 1 steinsteyptur reykháfur. 3 ofnar, 2 þeirra ósettir niður, 1 eldavél (glerhúðuð)“. Enginn kjallari en steypt breið stétt á 3 hliðar við íbúðarhúsið, sem stendur á klöpp. Virt á 16.700 kr.

Björn Bjarnason

Björn Bjarnason – Kennari við barnaskólann í Hafnarfirði 1912–1915, skólastjóri 1915–1929. Keypti Straum í Hafnarfirði og rak þar búskap 1918–1930.

Útihúsin: „1. Heyhlaða (við húsgafl) tekur um 600h. Steyptir veggir, járnþak, tvíreist. 2. Fjós við, fyrir 13 gripi, steyptir veggir, járn og burðaþak, steypt gólf og áburðargryfjur, vatni dælt að hverjum grip (og í húsið). 3.Fjárhús, tekur 200 að 2 görðum. Steyptir veggir og gólf með baðþró og brunni (300 fjár baðað á kl.st.) járnþak, rimlar á gólfi. „ í virðingu frá 1927 þá af húsinu nýbyggðu eru steypt baðáhöld í fjárhúsinu og fjósið með 14 básum.
Bjarni Bjarnason var kennari og skólastjóri Barnaskólans í Hafnarfirði. Til að drýgja tekjurnar vann hann við heyskap á sumrin þar sem færi gafst en árið 1918 keypti hann Straum og rak þar búskap í rúman tug ára en aldrei bjó hann í húsinu heldur hafði hann þar ráðsmann og leigði út herbergi. Straumur var fyrirmyndar bú, er haft eftir bónda úr Borgarfirði sem kvaðst „aldrei hafa séð 14 kýr í einu fjósi jafn glæsilegar“.

Straumur

Straumur 1935.

Dalurinn

Í Fjarðarpóstinum 2. mars 2023 er m.a. fjallað um “Fornminjar eyðilagðar í Hamranesi – Minjaverði hafði verið bent á að minjarnar væru ekki á minjakorti – Minjastofnun með málið í skoðun“.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2019.

“Þar sem nú rís Hamraneshverfið er svæði sem kallaðist Dalurinn eða Ásflatir eða jafnvel Hellisdalur. Um það má m.a. lesa í örnefnalýsingum Gísla Sigurðssonar og Ara Gíslasonar. Þar er fjárskjól sem hefur verið nefnt Hellirinn eða eins og Gísli nefnir það Hellishraunsskjól en hraunið í dalnum er nefnt Hellishraun. Þetta svæði var í landi bæjarins Áss undir Ásfjalli. Skjólið, sem í raun var aðkoma að hellinum var að sögn Gísla vel hlaðið en hrunið þegar hann skráði upplýsingarnar á síðustu öld.

Dalurinn

Dalurinn – fjárskjól; ratleikjaspjald 2021.

Í þessum helli var eitt merkið í Ratleik Hafnarfjarðar 2021 og var þá forstöðumanni Byggðasafnsins bent á að fjárskjólið væri ekki merkt á minjakorti bæjarins sem þá hafði nýlega verið birt. Var þá upplýst að fjárskjólið væri þó skráð. Bæjarstjóri, Rósa Guðbjartsdóttir fékk afhent fyrsta Ratleikskortið þar sem fjárskjólið er merkt. Ekki er til deiliskipulag af svæðinu þar sem fjárskjólið er, en hverfið er að mestu hannað sem þróunarreitir þar sem lóðarhafar fá að koma sjálfir með tillögu að deiliskipulagi. Í aðalskipulagi var svæðið merkt sem íbúðasvæði þar til á breyttu aðalskipulagi frá 4. maí 2021 er svæðið er merkt sem miðsvæði.

DalurinnVið skoðun á svæðinu í síðustu viku má sjá að öll ummerki um fjárskjólið eru horfin og hellirinn hefur verið brotinn niður af hluta og lögð hefur verið sver lögn þarna um. Á tillögu að deiliskipulagi fyrir þetta svæði má sjá að þvert yfir svæðið er gert ráð fyrir kvöð um lagnaleið en merkingar á minjunum vantar inn á deiliskipulagið.

Í bréfi til umhverfis- og skipulagssviðs Hafnarfjarðar þann 20. júlí 2020 svaraði Minjastofnun erindi skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar þar sem óskað var eftir umsögn stofnunarinnar um tillögu að aðalskipulagsbreytingu sem náði til svæðis í Hamranesi (og var samþykkt 4. maí 2021 eins og nefnt er hér að ofan). Þar segir m.a.: „Á svæðinu eru skráðar einar minjar (nr. 2061-1), fjárskýli sem er fyrirhleðsla við hraunhelli. Taka þarf tillit til minjanna þegar kemur að deiliskipulagsvinnu.“

DalurinnSigurður Haraldsson, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs, segist ekki hafa vitað af minjunum og viti ekki hvers vegna ábending Minjastofnunar hafi ekki komist til skila í
skipulagsvinnuna. Hann nefndi þó að notast hafði verið við minjaskráningu á vef fyrir Hafnarfjörð, www.map.is/hafnarfjordur en þar eru þessar minjar ekki merktar inn. Málið yrði þó skoðað.

Minjavörður Reykjaness hjá Minjastofnun, Þór Ingólfsson Hjaltalín, sagði í svari við fyrirspurn Fjarðarfrétta ætla að skoða skemmdir á minjunum og taka málið fyrir hjá stofnununni.
Í minjaskráningu Atla Rúnarssonar frá 14.10.2019 er fjárskjólið sagt í landi Hvaleyrar og ástand sagt illgreinanlegt. Hætta er sögð vegna byggingaframkvæmda og í lýsingu er haft eftir lýsingu í athugasemdum Katrínar Gunnarsdóttur í fornleifaskráningu frá 2005: „Þar sem hleðslur fjárhellisins hafa hrunið niður og varla mögulegt að segja til um hvar og hvernig þær hafa verið, er ekki ástæða til að varðveita hellinn sem heimild um búsetuhætti fyrir tíma.“

DalurinnÍ pistli „Dalurinn – Hellishraunsskjól“ á www.ferlir.is skrifar Ómar Smári Ármannsson fornleifafræðingur og sérfræðingur í mannvistarminjum á Reykjanesi 12. febrúar 2019: „Þrátt fyrir framangreinda umsögn er full ástæða til að varðveita fjárskjólið sem og svæðið þar umleikis, ekki síst vegna þess að þarna er um að ræða eitt af fáum fjárskjólum, þeim mikilvægu mannvirkjum frá fyrri tíð, í landi Hafnarfjarðar“.

Dæmi eru um skráðar minjar sem finna má á korti en eru ekki merktar inn á deiliskipulag og smalaskjól sem finna má við Tinhellu er t.d. inn á athafnalóð og í minjaskráningu eru þær ekki sagðar í neinni hættu. Þá eru líka dæmi um að náttúruminjar séu ekki skráðar eins og Litli Rauðimelur en hann er rétt við Stóra Rauðamelsnámurnar sem nú er fyrirhugað að stækka vegna hafnargerðar í Straumsvík. Liggur fyrir deiliskipulagsbreyting vegna þessa án þess að Litla Rauðamels sé getið í umhverfisskýrslu.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2023.

Þá eru fleiri fornminjar óskráðar í bæjarlandinu, m.a. fjárskjól við Stórhöfða sem gæti verið í hættu vegna fyrirhugaðs reiðstígs sem veitt hefur verið framkvæmdaleyfi fyrir án þess að deiliskipulag liggi fyrir eða að málið hafi verið kynnt almenningi.
Virðist eins og áhugi fyrir fornminjum og náttúruminjum sé lítill í stjórnsýslunni og þykir mörgum vont að vita til þess að minjar séu eyðilagðar án þess að leitað hafi verið eftir áliti og samþykki Minjastofnunar.”

FERLIR fjallaði um eyðileggingu fjárskjólsins, sjá HÉR. Einnig hafði verið fjallað um fjárskjólið á vefsíðunni mörgum árum fyrr, bæði HÉR  og HÉR.

Dalurinn

Svar Hafnarfjarðarbæjar við eyðileggingunni.

Í bréfi Hafnarfjarðarbæjar 17. mars 2023; Efni: “Svar við fyrirspurn Minjastofnunar vegna eyðileggingu á minjum á lóðinni Hringhamar 16 í Hamranesi“, segir: “Í bréfi frá Minjastofnun dags. 2. mars s.l. er óskað eftir frekari upplýsingum um aðdraganda og orsakir þess að minjar sem stofnunin benti á í bréfi sínu dags. 20. júlí 2020 að þyrfti að taka tillit til í deiliskipulagsvinnu hefðu verið eyðilagðar. Bréf frá því 2020 var sent vegna breytinga á aðalskipulagi Hafnarfjarðar vegna Hamraneshverfis.
Umhverfis- og skipulagssvið harmar að fornminjarnar hafa verið eyðilagðar og engar afsakanir til sem réttlæta það, þarna er um mannleg mistök að ræða.

Skipulag í Hamraneshverfi var unnið með óhefðbundnum hætti. gert var rammaskipulag þar sem svæðið var reitað niður og reitunum var úthlutað til verktaka og þeir sáu síðan um að deiliskipuleggja sinn reit og byggja. Götur og lagnir voru lagðar í samræmi við rammaskipulagið. Þessi vinnubrögð verða ekki reynd aftur þar sem margt hefur gengið á og farið úrskeiðis og flækjustig eru mörg.

Dalurinn

Fjárhellirinn í Dalnum.

Í deiluskipulagi sem nú er í afgreiðslu hjá Skipulagsstofnun er gerð grein fyrir gatnakerfi, stígum og stofnanalóðum hverfisins og það varð út undan þegar úthlutaðir reitir voru deiliskipulagðir. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir að á lóðinni Hringhamri 16 verði grunn- og leikskóli. Áður en deiliskipulagsvinna þessi hófst var búið að ákveða að leggja lögn þvert á lóðina. Við þá vinnu voru minjarnar eyðilagðar. Um er að ræða regnvatnslögn sem á að miðla vatni innan lóðarinnar.
Framkvæmdarleyfi fyrir gatna- og lagnavinnu í Hamraneshverfi var gefið út af skipulagsfulltrúa á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa þann 3. mars 2021.
Því miður láðist að merka þessar minjar inn á kortagrunna sveitarfélagsins sem og inn á aðalaskipulagið með þeim afleiðingum sem nú er raunin.” – Anna Margrét Tómasdóttir, Verkefnastjóri

Dalurinn

Dalurinn – fjárskjólið.

Í bréfi Minjastofnunar 10. maí 2023; Efni: “Hamranes í Hafnarfirði, götur, stígar, stofnanalóðir og veitur – tillaga að deiliskipulagi“, segir: “Í tölvupósti 11. apríl 2023 óskar Anna Margrét Tómasdóttir hjá umhverfis- og skipulagssviði hafnarfjarðarbæjar eftir umsögn Minjastofnunar Íslands um ofangreinda deiliskipulagstillögu. Fylgigagn var skipulagsuppdráttur dagsettur í janúar 2023. Fornleifaskráning liggur fyrir á svæðinu; Heiðrún Eva Konráðsdóttir: Hafnarfjörður, Hamranes. Fornleifaskráning vegna deiliskipulags (Byggðasafn Hafnarfjarðar 2019). Fornleifaskráin er fullnægjandi fyrir afgreiðslu deiliskupulagsins, sbr. 16. gr. Laga um menningarminjar nr. 80/2012. Samkvæmt henni eru einar skráðar minjar á skipulagssvæðinu, fjárskýli nr. 2061-1, sem er fyrirhleðsla við hraunhelli.

Dalurinn

Bréf Minjastofnunar.

Með bréfi dagsett 30 júlí 2020 gaf Minjastofnun umsgögn um ofangreint svæði vegna breytinga á aðalskipulagi. var þá vakin athygli á þessum minjum, að gæta þyrfti að þeim við frekari deiliskupulagsvinnu. Deiliskipulagið var hins vegar ekki sent til umsagnar Minjastofnunar á auglýsingatíma þess, Þann 23. febrúar 2023 fékk Minjastofnun svo ábendingu um að friðaðar minjar í Hamranesi hefðu verið eyðilegðar og reyndist það vera ofangreint fjárskýli. Eftir að tilkynnt var um málið fóru starfsmenn Minjastofnunar á vettvang til að athuga um ástand minjanna. Ljóst er að minjarnar hafa verið eyðilagðar vegna framkvæmda á svæðinu og er það mat stofnunarinnar að þær verði ekki lagaðar eða komið í fyrra horf. Í kjölfarið óskaði Minjastofnun Íslands eftir skýringum hjá Hafnarfjarðarbæ, með bréfi dagsett 2. mars 2023, þar sem óskað var eftir upplýsingum um aðdraganda og orsakir þess atviks. Svar Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi dagsett 17. mars 2023. Minjastofnun telur skýringar sem þar eru raktar fullnægjandi og er ljóst að um mannleg mistök er að ræða. Mikilvægt er að tryggja að gott verklag komi í veg fyrir slys af þessu tagi í framtíðinni. Með bréfi þessu er friðun minjanna (fjárskýlis nr. 2061-1) aflétt, sbr. 25. hr. laga um menningarminjar, þar sem segir: “Minjastofnun Íslands er heimilt að afnema friðun fornleifa sem byggist á aldursákvæðum þessara laga”. Fyrirliggjandi skráning minjanna telst fullnægjandi rannsókn.
Minjastofnun Íslands hefur ekki frekari athugasemdir við ofangreint deiliskipulag.” – Þór Hjaltalín, minjavörður Reykjaness

Þór Hjaltalín

Þór Hjaltalín.

Í svari Þórs Hjaltalíns við fyrirspurn fréttastjóra Fjarðarfrétta dags 23. ágúst 2023 kemur eftirfarandi fram:”Sæll Gísli. Verkferlar og samskipti eru hér í stöðugri þróun og skoðun til að lágmarka hættuna á að minjar skemmist af vangá, en ef það gerist er það auðvitað áminning til okkar allra.
Eins og rakið er í bréfi bæjarins var skipulagið fyrir Hamraneshverfið unnið með óhefðbundnum hætti (rammaskipulag), sem reyndist illa og segjast þau hverfa frá þeim vinnubrögðum í framtíðinni, sem er vel.
Ef minjar eru skemmdar, þá kemur vissulega til álita að kæra. Eftir að hafa farið yfir málið hér innanhúss varð niðurstaðan hins vegar sú að reyna að laga vinnubrögð/samskipti þannig að slys af þessu tagi endurtaki sig ekki.
Við eigum í reglulegum samtölum við byggingar- og skipulagsfulltrúa hringin í kringum landið sem miða að því að tryggja vernd menningarminja og það á við um Hafnarfjarðarbæ eins og önnur sveitarfélög. Nú liggur fyrir vönduð heildarskráning minja í Hafnarfirði og stöndum við því mun betur að vígi varðandi vernd fornleifa en við gerðum fyrir örfáum árum síðan. En það kom því miður ekki í veg fyrir að þessar minjar skemmdust. Slík mál lítum við ávallt alvarlegum augum og eins og ég nefndi verður reynt að bæta vinnlag til að lágmarka hættuna á slíkt endurtaki sig.”

Guðni Gíslason

Guðni Gíslason, fréttastjóri Fjarðarfétta.

Viðbrögð fréttastjóra/ritstjóra Fjarðarfrétta voru:
“Sæll og takk fyrir svarið.
Teljast þetta eðlileg viðbrögð Minjastofnunar? Engin viðurlög? Engin áminning?
Já, mannleg mistök, þrátt fyrir að Hafnarfjarðarbæ hefði verið upplýst sérstaklega um minjarnar af Minjastofnun og að þær hafi verið skráðar fyrir Byggðasafn Hafnarfjarðar. Forstöðumanni Byggðasafns var bent á að minjarnar væru ekki inn á minjakorti Hafnarfjarðar á map.is en hann gerði ekkert í því.
Það varð til þess að starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar sáu minjarnar ekki á minjakorti.
Minjarnar höfðu verið í Ratleik Hafnarfjarðar þar sem bæjarstjóri fékk fyrsta kortið.
Er hægt að kalla þetta mistök? Ef svo er getum við búist við að miklu fleiri minjar hverfi.”

Með góðri kveðju,
Guðni Gíslason, útgefandi/ritstjóri

FERLIR sendi Minjastofnun eftirfarandi fyrirspurn í ágústmánuði s.l.: “Sæl, getið þið upplýst um hver voru viðbrögð Minjastofnunar við svari Hafnarfjarðarbæjar v/fyrirspurn hennar um eyðileggingu fjárskjóls í Dalnum norðan Hamraness s.l. vor?” Minjatofnun hefur ekki talið ástæðu til svara.

Fornleifaskráning katrínarFERLIR tekur undir svör fréttastjóra/ritstjóra Fjarðarfrétta. Viðbrögð og svör minjavarðar Reykjaness[kaga] verða að teljast sérstaklega léttvæg í ljósi eyðileggingar fornminja í umdæmi Hafnarfjarðar þar sem fyrir lá staðfest vitneskja um þær þrátt fyrir fullyrðingar um annað. Ljóst er að starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar hefur verið vanhæft til verka, en skýringar á misferlinu er að hluta til við stofnunina að sakast. Strax þegar fyrirhugaðar voru framkvæmdir á svæðinu hefði átt að merkja þekkt minjasvæðið til að koma í veg fyrir eyðilegginguna, en það var ekki gert. Þá verður að telja viðbrögðin harla máttlaus í ljósi þeirra verðmæta, sem stofnunni ber að vernda, en aðrir komast upp með því að raska með þeirri einni afsökun að um “mannleg mistök” hafi verið að ræða, sérstaklega í ljósi þess að allar nauðsynlegar upplýsingar lágu fyrir um minjarnar. “Teljast þetta eðlileg viðbrögð Minjastofnunar? Engin viðurlög? Engin áminning?” Þessi dæmalausu viðbrögð eru fordæmi til framtíðar? “Minjastofnun telur skýringar sem að framan eru raktar fullnægjandi vegna þess að um mannleg mistök hafi verið að ræða”. Ljóst er að Minjastofnun þarf að líta sér nær þegar kemur að málum sem þessu.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2002.

Í Lögum um menningarminjar 2012 nr. 80 29. júní segir m.a. í 23. gr. laganna: “Ef fyrirsjáanlegt er að minjastaður spillist vegna breyttrar landnotkunar eða framkvæmda skal framkvæmdaraðili eða viðkomandi sveitarfélag gera Minjastofnun Íslands viðvart með sannanlegum hætti með minnst fjögurra vikna fyrirvara áður en áætlaðar framkvæmdir hefjast og lýsa þeim breytingum er af framkvæmd mun leiða. Minjastofnun Íslands ákveður að undangenginni vettvangskönnun hvort frekari rannsóknar er þörf, hvort gera skuli tillögu um friðlýsingu eða hvort fornleifarnar megi víkja og þá með hvaða skilmálum. Óheimilt er að veita leyfi til framkvæmda fyrr en ákvörðun Minjastofnunar Íslands liggur fyrir.”
Þá segir í 25. gr.: “Minjastofnun Íslands er heimilt að afnema friðun fornleifa sem byggist á aldursákvæðum þessara laga.” Í lögunum er hvergi gert ráð fyrir affriðun þegar um eyðilagðar  fornleifar er að ræða, enda er það ekki hlutverk Minjastofnunar að fyrirgefa skemmdarvörgum eða veita þeim syndaaflausn, líkt og tíðkaðist fyrrum í kaþólskri trú.

Heimildir:
-Fjarðarpósturinn 2. mars 2023, Fornminjar eyðilagðar í Hamranesi, bls. 10.
-Bréf Hafnarfjarðarbæjar 17. mars 2023; Efni: Svar við fyrirspurn Minjastofnunar vegna eyðileggingu á minjum á lóðinni Hringhamar 16 í Hamranesi.
-Bréf Minjastofnunar 10. maí 2023; Efni: Hamranes í Hafnarfirði, götur, stígar, stofnanalóðir og veitur – tillaga að deiliskipulagi.
-Lög um menningarminjar 2012 nr. 80 29. júní.

Hellishraunsskjól

Hellishraunsskjólið fyrrum.