Tag Archive for: Hafnarfjörður

Lónakot

Leitað var að og skoðaðir Grænhólsskjól og Hausthellir í landi Lónakots og Sjónarhólshellir í landi Óttarsstaða.
SjónarhólshellirSjónarhólshellir eru nálægt mörkum jarðanna og Grænhólsskjól nálægt mörkum Hvassahrauns, en Hausthellir skammt vestan við heimatúnið í Lónakoti. Því hefur verið haldið fram að Sjónarhólshellir hafi einnig verið nefnt Smalaskálaskjól, en það er norðvestan í Smalaskálahæð, sbr. örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði: „
Vestan við Rauðamel stóra er mikil klapparhæð, sem nefnist Smalaskáli. Uppi á hæðinni er skotbyrgi. Syðst í hæðinni er Smalaskálaker, sporöskjulaga jarðfall með rauðamelshól í botni. Norðvestan undir hæðinni er Smalaskálaskúti, hellir, sem fé lá inni í. Þar var skógarhrísla stór, sem óx fyrir hellismunnann. Suðvestur af Smalaskála er fjárborgin gamla, frá því fyrir aldamót. Kona, er Kristrún hét og bjó á Óttarsstöðum, hlóð hana ásamt vinnumanni sínum.“ Síðastnefnda skjólið hefur verið staðsett á fyrrgreindum stað. Einnig var reynt að staðsetja Magnúsardys í Lónakotslandi í þessari ferð.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Lónakot minnist hann m.a. á Hausthelli og Magnúsardys, sbr.: „Markaklettur [er] Hausthellirá innanverðu Hraunsnesi. Af Markakletti lá landamerkjalínan milli Lónakots og Hvassahrauns upp í Skógarhól, þaðan í Stóra-Grænhól. Suður frá Grænhól var svo Grænhólsker, hættulegt fé. En í austur frá hólnum var Grænhólsskjól. Vestur [á væntanleg að vera austur því að vestan er land Hvassahrauns, auk þess Brunnhólar eru austan markanna, í Lónakotslandi] frá Sjónarhól var Brunnhóll. Í hrauninu niður frá Hádegishæð var sprungin klöpp, nefndist Magnúsardys. Maður að nafni Magnús varð þarna úti og var urðaður í sprungunni. Suður og upp frá Magnúsardys var Hraunsnesþúfa og Hausthellir, fjárskjól gott.“
Örnefni þau, sem hér hafa verið nefnd, liggja öll neðan Suðurnesjavegar og nú Reykjanesbrautar og alfaraleiðar, sem áður er nefnd.“
Fram kemur að Hádegishæð er skammt ofan við túngarðinn: „Umhverfis þennan þúfnakarga var Kotagarðurinn, hlaðinn, einfaldur grjótgarður. Nokkru lengra uppi í hrauninu var Hádegishæð.“ Nokkrar sprungur eru neðan Hádegishæðar og því erfitt að staðsetja Magnúsardysina þar með einhverri vissu. Það var því ekki gert að þessu sinni. Sjá meira
HÉR. Vestan við heimatúnið er Hausthellir í gróinni kvos. 

Grænhólsskjól

Grónar hleðslur eru framan við opið og dyr á þeim. Hellirinn sjálfur er fremur lítill, en reft hefur verið yfir tóftina framan við hann. Skjólgóður nátthagi er suðvestan við hellinn og hlaðinn brunnur austan hans (í Brunnhóll).
Þegar leitað var að framangreindu var gengið fram á afvelta lamb. Reynt var að færa það á fætur, en þá lagðist það út af. Augun lýstu ótta og uppgjöf. Blóð virtist vera aftan við vinstri afturfót. Tófan kann að hafa verið þarna að verki (enda búandi greni í hraunhól skammt frá). Veikindi gætu einnig hafa verið orsökin.
SkotbyrgiAugljósasta skýringin kom í ljós í hrauninu skammt vestar. Skolli rak skyndilega út trýnið upp úr skúta og „hvopsaði“ áður en hann hvarf inn aftur. Eftir stutta bið sást hann á ferðinni innan við opið – órólegur.

Sjónarhólshellir-2

Haft var samband við Bjarnferð, fjárumsýslumann svæðisins, og honum kynnt ástand lambsins. Þá var Helgi Gam. í Grindavík fenginn til að takast á við dýrbítinn enda ekki forsvaranlegt að hafa hann þarna svona skammt frá fjárhúsunum í Lónakoti, vomandi yfir fénu nótt sem dag.
Í örnefnalýsingu SG (með leiðréttingum) fyrir Óttarsstaði kemur eftirfarandi fram um Sjónarhólshelli: „Fyrir ofan fjörukampinn var uppgróinn sandbakki, sem nefndist Sandar. Þar vestast eru landamerki milli Óttarsstaða og Lónakots. Ofan við Sanda er Sandatjörn, skiptist milli Óttarsstaða og Lónakots. Úr Söndum liggur landamerkjalínan í Markhól, sprunginn klapparhól skammt fyrir ofan kampinn. Þaðan liggur línan suðsuðaustur í Sjónarhól. Á honum er Sjónarhólsvarða, en suður frá honum er Sjónahólshellir, fjárhellir stór inni í krika. Hann var áður yfirreftur, en nú er það dottið mikið niður (sjá meira
HÉR).“
Hleðslur við Sjónarhólshelli, líkt og við Hausthelli, eru enn nokkuð heillegar. Gróið er framan við bæði skjólin og vatnsstæði í nágrenni beggja.
Þegar nágrenni „Haustshellis“ var skoðað betur kom í ljós enn eitt fjárskjólið; vandlega hlaðin fyrirhleðsla með ágætu rými fyrir innan. Opið sneri mót austri (sem þótti ónentugt að vetrarlagi). Gólfið var gróið og sjá mátti þar rekavið er benti til þess (sem reyndar þykir sjálfsagt) að reft hafi verið yfir milli fyrirhleðslunnar og þakveggjar hraunsins. Fjárskjól þetta er hvergi getið í örnefnalýsingum né hefur þess verið getið í fornleifaskráningum af svæðinu – ekki frekar en lambaskjólið ofar í hrauninu.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Lónakot.
-Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun.
-Örnefnalýsing fyrir Óttarsstari.
-Gísli Sigurðsson.

Sjónarhólshellir

Sjónarhólshellir.

 

Víti

Gengið var af gamla Herdísarvíkurveginum þar sem hann byrjar í Krýsuvík (nálægt Stóra-Nýjabæ) að Vegghamri og áleiðis inn í Kálfadali.

Eldborg

Stóra-Eldborg.

Ætlunin var m.a. að skoða Víti, hinn mikla hraunfoss, og tökustaðinn þar sem leikin íslensk stuttmynd, „Tunglið, tunglið, taktu mig“, var filmuð við upphaf kvikmyndagerðar hér á landi (1954), haldið yfir ofanverða Vegghamra og um Kálfadali, berja hin fagra hraunfoss Víti augum, ganga með Geithöfða, skoða nýendurheimta hveri við suðurenda Kleifarvatns, ganga með Hvammi og Hvammholti austan Hverahlíðar við fjöruborð Kleifarvatns alla leið að tóftum hins þjóðsagnakennda Kaldrana suðvestan við vatnið. Þar eru friðlýstar fornminjar.

Breiðivegur

Breiðivegur.

Enn sést móta fyrir gamla veginum (Breiðavegi) ofan við mýrarnar austan Arnarfells. Hann liggur mun nær hlíðum Geitahlíðar en nýi þjóðvegurinn, en sést vel frá honum. Elsta þjóðleiðin er enn austar, í brúnunum, neðan við Vegghamra og upp Deildarháls milli Stóru-Eldborgar og Geitahlíðar. Þar liggur hann niður Kerlingardal og áfram yfir hraunið til Herdísarvíkur. Í Kerlingadal deildu þær Herdís og Krýsa með tilheyrandi afleiðingum fyrir bæði þær báðar sem og aðra. Eldborgin skartaði sínu fegursta.
Vegghamrarnir eru klettabelti vestan Geitahlíðar. Þeir eru hluti af grágrýtishálsi er aðskilur Kálfadali frá umhverfinu sunnan þeirra og suðvesturhlíðum Geitahlíðar.

Víti

Móbergsmyndanir vestan Vítis.

Þegar komið var upp fyrir hálsinn blasti við stórbrotið móbergslandslag og varla stingandi strá. Það var ekki að ástæðulausu sem þeir fyrstu geimfarar er stigu síðar fæti á tunglið komu hingað til æfinga fyrir þá ferð. Landslagið er ekki ólíkt því sem ætla megi að gerðist á þeim fjarlæga hnetti. Skútar og litlir hellar eru inn í móbergsklöppina, sem vindur, vatn, frost og veður hafa mótað í gegnum tíðina. Þarna, inni undir geysifallegu, og varla jarðnesku, móbergsgili, var ein af fyrst leiknu íslenslu kvikmyndunum tekin, Tunglið, tunglið taktu mig. Kvikmyndatökumaðurinn var Ásgeir Long.

Kálfadalir

Gengið í Víti.

Handan við hæðina tóku Kálfadalir við. Þeir eru tveir, en þó innangengt á milli þeirra um tiltölulega mjótt skarð. Botn syðri dalsins hefur nær fyllst af hrauni úr gígum austan og ofan við hlíð hans. Sennilega er hraunið frá svipuðum tíma og hraunið úr Stóru-Eldborg. Tilkomumikill hraunfoss rann þá niður hlíðina, Kálfadalahlíðar, og storknaði, líkt og hraunið. Falleg náttúrusmíð. Hraunfoss þessi, sem er mjög áberandi á svæðinu, hefur gengið undir nafninu Víti, sennilega vegna upprunans.
Fylgt var vesturbrún dalsins til norðurs og gengið inn í nyrðri dalinn. Við enda hans er Gullbringa, tiltölulega lítið fjall, sem sumir segja að sýslan hafi verið nefnd eftir. Aðrir segja Gullbringurnar vera hlíðarnar austan við fjallið. Enn aðrir segja nafn sýslunnar vera dregið af Gullbringunum ofan Mosfellsheiðar.

Hvað sem því leið var ákveðið að ganga upp eftir fallegu gili á vestanverðum dalnum, yfir austurfjöll Kleifarvatns og vestur með sunnanverðu vatninu, skoða hveri er komu í ljós er sjatnaði í vatninu eftir jarðskjálftana árið 2000 og nýta auða ströndina til göngunnar.

Kálfadalir

Við Kálfadali – móbergsmyndanir.

Stefnan var tekin upp úr Kálfadölum um skarðið og síðan haldið niður hart hjanið áleiðis að Geithöfða. Sunnan hans var beygt með vatninu, hverirnir skoðaðir og haldið út á ísilagt vatnið með Hvammholti. Lambatangi skagar út í vestanvert vatnið. Hann átti eftir að koma við sögu síðar í ferðinni.
Þegar komið var að tóftum Kaldrana suðvestan við Kleifarvatn var rifjuð upp sagan af þeim Herdísi og Krýsu. Þegar þær deildu um landamerki sín neðan við Eldborgina lagði Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna En af ummælum þeirra er það að segja að í veiðivötnum Krýsuvíkur hefur enginn silungur fengizt svo menn viti nokkurn tíma síðan, en fullt er þar af hornsílum, og í Herdísarvíkurtjörn hefur ekki heldur orðið silungs var; en loðsilungar ætla menn þar hafi verið.

Um Kleifarvatn gengu þó ennþá fleiri sögur um. Árið 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.

Kálfadalir

Gengið í Víti.

Árið 1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.
Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga (Lambatanga) eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.
Frá Kaldrana er ágætt útsýni yfir sögusviðið.
Frábært veður. Birtan var ævintýraleg. Það var engu líkara en gengið væri í gegnum ævintýri, slík var birtan sem og landslagið í ferðinni.
Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=261

Víti

Víti í Kálfadölum.

Leiðarendi

Farið var í hellinn Leiðarenda skammt frá Bláfjallavegi í Stórabollahrauni (Skúlatúnshrauni).

Leiðarendi

Haldið í Leiðarenda.

Opið er í stóru jarðfalli að undangengnum stuttum stíg í gegnum hraunið frá veginum. Inngangan er falleg, rauðleit og regluleg. Um er að ræða víða og háa hraunrás. Helsta einkenni hennar eru flögur á veggjum og lofti og hafa þær fallið sums staðar á gólf. Dropsteinar eru og á gólfum og fallegar hraunmyndanir í loftum og á veggjum. Næstum því innst í lengstu rásinni er beinagrind af rollu og dregur hellirinn nafn sitt af örlögum hennar. Alveg innst er stór hrauntjörn, sem er heldur lægri en rásin sjálf.

Leiðarendi

Í Leiðarenda.

Samtals er Leiðarendi um 400 metra langur. Hægt er að fara í hring og koma út um austuropið, ef vilji er til að skríða spölkorn á maganum. Nauðsynlegt er að hafa mjög góð ljós því hellirinn er bæði stór og dimmur.
Hjartartröðin er hraunrás þarna skammt austar. Hún er með nokkrum steinbrúm. Tröðin endar í jarðfalli og liggur op vestan í því undir nýrra hraun. Hellirinn er víður. Skammt innan við opið er hrun. Hægt er að fara hægra megin við það og áfram inn eftir hellinum. Þá er komið að öðru miklu hruni. Hægt er einnig að fara yfir það og halda áfram. Mikilvægt er að vera vel búinn þegar þessi hellir er skoðaður.
Frábært veður, en það skiptir nú litlu máli í hellaskoðun.

Leiðarendi

Leiðarendi – uppdráttur ÓSÁ.

Jónsbúð

Gengið var frá Arnarfelli í Krýsuvík til austurs yfir Krýsuvíkurheiði. Farið var yfir gróið þýfi, stigið yfir Eystrilæk og ekki staðnæmst fyrir en við stóra tóft efst á heiðinni; Jónsvörðuhús eða Jónsbúð, eins og hún er stundum nefnd. Þá var haldið yfir að öðru húsi skammt sunnar, þar sem heiðin tekur að halla undan áleiðis niður að Krýsuvíkurbjargi. Það hús er hlaðið og er nokkuð heillegt.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

Ætlunin var m.a. að skoða svæðið austan Arnarfells, en eins og kunnugt er staðnæmdust skreiðarlestirnar á leiðinni austur frá Grindavík við Arnarvatn suðaustan við fellið. Stóra tóftin efst á Krýsuvíkurheiði var fjárhús eða sauðakofi. Ekki er vitað hvernig nafnið á hana, Jónsbúð eða Jónsvörðuhús, er til komið. Elstu menn segjast hafa heyrt af því að þar hafi Magnús, síðasti íbúinn í Krýsuvík, setið yfir sauðum á yngri árum er hann var þar í vist hjá sýslumanninum.

Skammt suðaustar, þegar fer að halla undan á heiðinni til suðurs er heillegt hlaðið skjól og auk þess og vandlega hlaðið hús þar skammt sunnar.

Krýsuvíkurheiði

Tóft í Krýsuvíkurheiði.

Dyr vísa til suðurs. Ekki er vitað til hvers það var notað. Þó er ekki óraunhæft að ætla að þar hafi Magnús, eða einhver annar á undan honum, haft afdrep. Líklegast er að þarna hafi verið afdrep manna. Stigið er ofan í það af þröskuldi og hefur gluggi verið á norðurstafni. Útsýni er þarna yfir neðanverða heiðina, Litlahraun þar sem fyrir eru allnokkrar minjar, s.s. fjárskjól, hústóft, rétt o.fl. og niður að Sundvörðunni á Krýsuvíkurbjargi.
Þarna gæti líka hafa verið útstöð Arnarfellsbónda hér áður fyrr eða hús hlaðið af refaskyttum, sem voru við veiðar ofan við bjargið.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær um 1930.

Nú eru allir bæirnir í Krýsuvík í eyði. Stóri-Nýibær lagðist seinast í eyði. En þó er ekki svo langt síðan að svæðið varð mannlaust þarna. Einn maður varð eftir, þegar allir aðrir flýðu af hólmi. Með órjúfandi tryggð við staðinn gafst hann aldrei upp, heldur þraukaði þar fjarri mannabyggðum aleinn, ósveigjanlegur og hiklaus og barist þar áfram með hinni ódrepandi íslensku seiglu. Þessi maður var nefndur Magnús Ólafsson.
Magnús er upp alinn í Hafnarfirði, en 18 ára gamall fór hann til Árna sýslumanns Gíslasonar í Krýsuvík. Er sagt að hann færi þangað nauðugur. Árni hafði útgerð í Herdísarvík og er að heyra á Magnúsi að hann hafi kviðið fyrir því að verða sendur þangað.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík.

“Mér hefur aldrei verið um sjóinn gefið”, sagði hann eitt sinn í viðtali við Árna Óla, “en ég var snemma hneigður til fjárgeymslu, og það starf fékk ég. Þá var ég ánægður.”
Ábúendur komu og hurfu, margs konar breytingar urðu, en alltaf var Magnús kyrr í hverfinu. Var hann á bæjunum sitt á hvað. Að undanteknu einu ári, sem hann var á Setbergi í Hafnarfirði, og einum vetri, sem hann var þar í kaupstaðnum, hefur hann stöðugt verið í Krýsuvík. Og þegar allir voru flúnir þaðan, settist hann að í kirkjunni. Höfðu verið rifnir úr henni bekkir, altari og prédikunarstóll, loft sett yfir kórinn og hann þiljaður af. Enn fremur hafði verið afþiljuð ofurlítil kompa í framkirkjunni fyrir geymslu.
Menn hugsa sér kirkjur oft nokkuð stórar, en þessi var bæði fornfáleg og lítil. Hún var úr timbri og ekki manngegnt undir bita. Ekkert tróð mun í veggjum og gólfið sigið og gisið. Og hvernig sem á er litið er þetta heldur ömurleg vistarvera. Það hefur því þurft óvenju mikið sálarþrek til þess að geta hírst þarna aleinn árum saman, langt frá öllum mannabyggðum. En það sá ekki á Magnúsi að hann hafði gugnað neitt við einveruna. Þó fór svo að lokum að einnig Magnús varð að yfirgefa sveitina. Síðan hefur sauðkindin ráðið þar ríkjum eða allt fram til þess. Nú er svo komið að einnig hún verður að víkja af svæðinu og verða færð í sérstakt beitahólf á og vestan við Núpshlíðarháls.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Krýsuvíkurheiði

Hús í Krýsuvíkurheiði.

Kapelluhraun

Gengið var frá íþróttahúsinu á Ásvöllum yfir að Rauðhól, síðan um Hellnahraunin yfir að Kapelluhrauni og hraunið skoðað milli iðnaðarsvæðisins og gasstöðvar Álversins. Þar er lægð í hrauninu, sléttari en umhverfið og ef vel er að gáð má sjá þar mannvistarleifar á nokkrum stöðum.

Rauðhóll

Rauðhóll – uppdráttur GK.

Rauðhóll er, eða öllu heldur var, sunnan undir Hvaleyrarholti. Þar stóð áður lítill hóll, úr rauðu hraungjalli og með grunna gígskál. Líklega var hér um gervigíg að ræða en þeir myndast þegar hraun rennur yfir votlendi og það tekur í sig gufuna, tætist í sundur og verður að gjalli og rauðamöl. Á tímabili var tekið mikið af rauðamöl úr honum í vegi. Síðan var gryfjan notuð sem sorphaugar. Núna er lítið eða ekkert eftir af honum. Í stað hans er malargryfjan, en í miðjunni hefur verið skilinn eftir smá stabbi. Ferðamenn á leið um Reykjanesbrautina sjá nú þessa óhrjálegu gryfju í stað hins formfagra Rauðhóls. Bergið í hólleifunum var fremur fínkornótt með plagióklasdílum og örsmáir ólivíndílar komu fyrir en sáust varla með berum augum.

Rauðhóll

Rauðhóll við Hafnarfjörð – uppdráttur GK.

Varðandi aldur Rauðhóls er ekki hægt að segja nákvæmlega en hann hlýtur að vera eldri en hraunið sem hefur runnið upp að honum sem er Hellnahraun yngra og talið hafa runnið fyrir 1000 árum. Rauðhóll hafði að geyma merkilegar jarðsöguheimildir. Dýpst í malargryfjunni var svokölluð barnamold sem var allt að ½ metri að þykkt. Moldin er mjúk, þjál og ljósgulbrún að lit meðan hún var vot, en varð stökkari viðkomu og snjóhvít við þurrk. Ef hún var sett undir smásjá kom í ljós að hún var næstum því eingöngu úr örsmáum kísilþörungaskeljum.

Rannsóknir hafa sýnt að þarna hafi verið tjörn áður en hóllinn varð til. Næst kom fínn sandur morandi af skeljum og skeljabrotum af sjódýrum. Skeljar finnast þarna vegna þess að hraunið sem gígurinn er í hefur runnið yfir setlög á strönd.

Rauðhóll

Rauðhóll í dag.

Á eftir skeljasandinum lá frekar þunnt lag af fínni brúnni sandhellu sem var miklu fastari í sér og þar voru engar skeljar að finna.
Þegar gengið er yfir nokkuð slétt Hellnahraunið er ljóst að þar er ekki einungis um eitt hraun að ræða.
Hellnahraun eldra (Skúlatúnshraun) er slétt helluhraun og er talið hafa runnið fyrir 2000 árum. Það kom úr Brennisteinsfjallakerfinu, líklega frá Stórabolla í Grindaskörðum og stíflaði meðal annars Hvaleyrarvatn. Hraunið myndar ströndina milli Straumsvíkur og Hvaleyrarholts.
Hellnahraun yngra kemur eins og Hellnahraunið eldra úr Brennisteinsfjallakerfinu og er talið hafa runnið fyrir 1000 árum. Hraunið kom frá Tvíbollum í Grindaskörðum og er sléttara og þynnra. Nýja Haukahúsið stendur á þessu hrauni. Þetta hraun hefur valdið því að Ástjörnin varð til.

Leynir

Skjól í Leyni.

Þess má geta að Kristintökuhraunið er frá sama tíma og sömu hrinu og á því 1000 ára afmæli einmitt þetta ár, en haldið verður upp á 1000 ára afmæli kristintökunnar núna í sumar.
Hraunið sem Álverið við Straumsvík stendur á heitir Kapelluhraun eða Nýjahraun og er allra yngsta hraunið á svæðinu í kringum Hafnarfjörð. Það er frá árinu 1151. Hraunið er komið úr stuttri gígaröð er opnaðist undir Undirhlíðum. Kapelluhraun rann norðan á skaganum og til sjávar og myndað þar tanga, en vestan undir honum er Straumsvík.
Kapelluhraun er ákaflega fallegt úfið og mosagróið apalhraun en hörmung er að sjá hvernig karganum hefur verið rutt af yfirborði þess á stórum svæðum. Á og utan í lágum hraunhólum inni í hrauninu er mannvistarleifar á nokkrum stöðum, s.s. hlaðið byrgi á hraunhól, hlaðið skjól í hraunklofa og annað utan í hraunvegg. Minjar þessar eru skammt ofan við gömlu Alfaraleiðina milli Hafnarfjarðar og Útnesja.

Kapella

Kapellan 2022.

Í hrauninu ofan við álverið er hlaðin rúst í hrauninu, sem er nefnd Kapellan. Árið 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn kapellu á nálægum slóðum og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi. Einnig var hún verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðs- manna, námumanna,verkfræðinga og jarðfræðinga. Einhverra hluta vegna er þessi rúst á fornminjaskrá og þar má sjá eftirlíkingu af líkneskinu, en hún er í raun líka eftirlíking af hinni fornu kapellu, sem var eyðilögð þegar hraunið var fjarlægt á sínum tíma.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/RAUDHOLL.HTM

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Kaldársel

Í bókinni “Blárra tinda blessað land” segir Árni Óla frá Grindaskarðavegi: “Rétt fyrir vestan Smalafell liggur gamli vegurinn frá Hafnarfirði til Selvogs. Heitir hann Grindaskarðavegur.
Göturnar eru nú horfnar og gleymdar, þótt þetta væri Grindaskarðavegurinn, sem nefndur er - Jón Bergssonáður alfaraleið, en vegurinn segir þó til sín. Hafa verið sett ýmiss merki við hann, svo sem smávörður, tréstaurar eða járnhælar, sem reknir hafa verið niður með stuttu millibili. Og svo hefir á löngum köflum verið raðað steini við stein meðfram götunni. Kemur þessi langa steinaröð, hér í óbyggðum, ókunnugum einkennilega fyrir sjónir, því að hún líkist gangstétt. Liggur hún þvert yfir jarðfallið með stefnu á eldgíg nokkurn austan Valafell. Er þetta víst eina færa leiðin með hesta þarna þvert yfir, til þess að komast framhjá tveimur hrikalegum gjám, sem eru sín hvoru megin við jarðfallið. Þegar komið er upp undir hlíðarnar að sunnan, beygir vegurinn vestur að Kaldárseli.”
Þarna er væntanlega átt við götu þá, sem enn sést klöppuð í berghelluna vestan við Borgarstand utan við Kaldársel. Þar hefur eininungis á einum stað verið hægt að komast yfir gjána með hesta. Gatan sunnan Kaldársels bendir til þess að sú leið hafi síðan verið farin að Kýrgili og áfram með stefnu sunnan Helgafells. Þá hefur línan verið tekin undir hraunbrúninni að Dauðadölum, síðan beygt inn á slétt hraunið við Dauðadalahella og upp á gatnamótin þar sem Selvogsgata/Grindaskarðsvegur greindust um Grindaskörð annars vegar og Kerlingaskarð hins vegar.
Dauðadalaleiðin gæti skv. þessu hafa verið nefnd Grindaskarðavegur, en Selvogsgata að austanverðu, um Helgadal. Selvogsbúar nefndu þá leið Suðurferðaveg. Hafa ber í huga að jafnan var afdrep í Kaldárseli því það fór ekki í eyði fyrr en um aldamótin 1900 og stóðu þó húsin enn um nokkurt skeið eftir það. Að vísu var afdrep í Setbergsseli á hinni leiðinni, en það fór sennilega í eyði í byrjun 19. aldar.

Kaldá

Í bókinni segir Árni Óla jafnframt: „Einu sinni var byggð í Kaldárseli. Bjó þar seinast einsetumaður og dó þar, svo að enginn vissi fyrr en nokkru seinna, að einhverja menn bar þar að garði. Eftir það fór kotið í eyði. En fyrir nokkrum árum byggði K.F.U.M. í Hafnarfirpi þarna skála og hafði þar bækistöð sína. Í fyrra var skálinn stækkaður um helming, og í sumar hafa Hafnfirðingar haft þar barnaheimili með 27 börnum. .
Um Kaldá er og fjallað. Sagt er frá hugmynd Eggerts Ólafssonar þess efnis að áin renni neðan jarðar all aleið vestur á Reykjanestá og þar til hafs, en af straumi hennar myndist Reykjanesröst. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi sagði það almælt að á fyrri öldum hafi á sú runnið úr Þingvallavatni, „eitthvert hið mesta vatnsfalla á Íslandi“. Hún á að hafa runnið norðan við Hengil og ofan þar, sem nú eru Fóelluvötn, og svo suður með hlíðum og í sjó á Reykjanesi. „Sé sagt, að hún komi upp í Reykjanesröst og að Kaldá hjá Helgafelli sé úr henni“. „En svo þurfti að fá skýringu á því, hvernig stóð á því stóð, að þetta mikla vatnsfall skyldi hverfa, og eru um það ýmsar sögur. Ein er sú, að karl nokkur, sem var kraftaskáld, missti í ána tvo sonu sína, og kvað hana þá niður. Önnur sögn, og öllu vísindalegri, er sú, að Kaldá hafi horfið eitt sinn, er suðurfjöll brunnu, svo einn var eldur ofan úr Hengli og út í sjó á Reykjanesi og hafi þá jörðin gengið upp fyrir sunnan Elliðavatn.“

Heimild:
-Árni Óla, Blárra tinda blessað land“, 1945, bls. 33-34.

Kaldá

Stifnishólar

„Þeir vóru margir saman í einu félagi, skiptu sér niður á bæi á Álftanesi og gengu ljósum loganum svo enginn hafði frið. Þeir vóru kallaðir Hverfisdraugar.

Brúsastaðir

Brúsastaðir og Stifnishólar.

Þetta var seint á 18 öld, og þá var séra Guðlaugur prestur í Görðum og hann kunni margt fyrir sér. Nú þegar bændur voru orðnir ráðalausir með þessa aðsókn þá fóru þeir til séra Guðlaugs og beiddu hann að hjálpa. „Mikið er að vita,“ segir prestur, „að þið skulið ekki hafa komið fyrr; það er nú orðið of seint, þeir eru nú orðnir of magnaðir, ég get ekki sett þá niður.“ Þó fór hann af stað og fékkst lengi við draugana og gat komið þeim að Stiflishólum, en lengra kom hann þeim ekki í því hvar sem hann leitaði á þar var eitthvað fyrir. Hann markaði því reit umhverfis hólana sem þeir aldrei komust út yfir og skildi svo við. Síðan eru þeir kallaðir Stiflishóladraugar, og hefur lengi verið þar reimt og einhver vandræði fyrir flesta sem fara þar fram hjá, en nú eru þeir farnir að dofna því þeir eru orðnir svo gamlir.“

Heimild:
-Jón Árnason I (1954), 254.

Stifnishóll

Stifnishóll.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja brann til kaldra kola í nótt [02.01.2010]. Slökkvilið Grindavíkur var kallað út laust eftir klukkan tvö í nótt.
Krýsuvíkurkirkja á afmælinuÁsmundur Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, sagði að útkallið hafi komið frá Neyðarlínunni kl. 02:04 og að einn bíll hafi verið sendur á vettvang. Leiðin úr Grindavík í Krýsuvík er ekki auðfarin á þessum árstíma og var slökkviliðið um hálftíma að Krýsuvíkurkirkju.
Þegar slökkviliðsmennirnir komu á vettvang var kirkjan fallin og gátu þeir ekki gert annað en að slökkva í glæðunum. Fenginn var tankbíll með vatn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í Hafnarfirði.
Ekkert rafmagn er á staðnum og ekki er vitað um eldsupptök. Nokkuð ljóst þykir að aðeins komi þar tvennt til greina: Íkveikja eða mannleg mistök. Lögreglan mun rannsaka eldsupptökin í dag.
Krýsuvíkurkirkja eftir brunanAltaristafla Sveins Björnssonar listmálara prýddi kirkjuna að sumarlagi. Hún bjargaðist enda geymd í Hafnarfjarðarkirkju yfir veturinn.
„Þetta er skelfilegt. Það er eina orðið sem ég á yfir þetta,“ sagði séra Þórhallur Heimisson, sóknarprestur í Hafnarfjarðarkirkju. Krýsuvíkurkirkja er í Hafnarfjarðarprestakalli. „Það var dýrgripur sem var þarna í Krýsuvík, einstök kirkja og gríðarlega mikið heimsótt.“
Í kirkjunni var gestabók og þúsundir gesta skrifuðu nöfn sín í hana á hverju ári. Þegar messað var í kirkjunni var hún alltaf setin til þrengsla og fjöldi fólks utandyra, að sögn Þórhalls. Hann sagði marga hafa borið vinarhug til gömlu kirkjunnar í Krýsuvík. Missir hennar sé því mikið áfall.
Leiði Sveins BjörnssonarÞórhallur sagði að altaristafla Sveins Björnssonar, sem hann málaði sérstaklega fyrir kirkjuna, hafi bjargast.  Venjan var að messa í Krýsuvíkurkirkju í lok september ár hvert. Eftir þá messu var altaristaflan tekin niður og geymd ásamt öðrum lausum kirkjugripum í Hafnarfjarðarkirkju yfir veturinn.
Krýsuvíkurkirkja var byggð árið 1857, fyrir 153 árum, og endurbyggð og endurvígð árið 1964. Kirkjan var í vörslu þjóðminjavarðar.
Krýsuvíkurkirkja var reist árið 1857 og var í umsjá Þjóðminjavarðar. Hún var aflögð fyrri hluta síðustu aldar og endurbyggð og endurvígð árið 1964. 

Krýsuvíkurkirkja á 150 ára afmælinu

Gunnþór Ingason er sérþjónustuprestur á sviði þjóðmenningar og helgihalds og hefur verið umsjónarmaður Krýsuvíkurkirkju sem helgidóms. Hann segir kirkjuna vera merka fyrir látleysi sitt. Hún hafi sögulegt gildi og bera helgihaldi fyrri tíðar vitni. Upphaf messuhalds í kirkjunni má rekja til jarðarfarar Sveins Björnssonar listmálara fyrir rúmum áratug, en hann hafi látið sig kirkjuna miklu varða. Sú hefð hefur skapast að hengja altaristöflu eftir hann í kirkjunni á vorin en taka hana niður á haustin. Altaristaflan og aðrir helgigripir hafi því ekki verið í í kirkjunni þegar hún brann.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar brunann. Varðstjóri lögreglunnar segir ekkert hægt að segja um tildrög eldsvoðans á þessari stundu. Ekki sé hægt að útiloka íkveikju.
150 ára afmælis kirkjunnar var minnst með hátíðarmessu árið 2007. Matthías Johannessen orti ljóð sérstaklega fyrir 150 ára afmælið og Atli Heimir Sveinsson tónskáld samdi tónverk við ljóðið.
Kirkjan„Menn eru í áfalli vegna þess að við upplifum þetta sem árás á varnarlaust lítið barn,“ segir Þórhallur Heimisson prestur í Hafnarfirði um Krýsuvíkurkirkju sem brann í nótt. Kirkjan heyrði undir Hafnarfjarðar-prestkall og segir Þórhallur hafa messað þar tvisvar á ári. Kirkjan var fjölsótt bæði af Íslendingum og erlendum ferðamönnum. Þórhallur segist hafa talað við slökkvilið og lögreglu um brunann.“
Um eldsupptök er ekki vitað. Sumir telja að þau megi rekja til þess að skemmtanahald meðal álfa hafi farið úr böndunum á nýársnótt, en að sögn lögreglunnar er líklegt að kviknað hafi út frá kerti eða kertum. Sjónarvottur, sem kom í kirkjuna daginn áður, tók eftir tveimur kertum á altarinu. Þar var og gestabókin.
KrýsuvíkurkirkjaLíklegt má telja að einhver eða einhverjir, sem komu í kirkjuna á nýársdag eða nýársdagkvöld, hafi kveikt á kertunum, hugsanlega til að skrifa í gestabókina, og síðan farið óviljandi án þess að slökkva logana. Eldsupptökin virðast hafa orðið austast í kirkjunni þar sem altarið var.
Þjóðminjavarslan mun án efa íhuga að láta af endurbyggingu kirkjunnar á þessum stað. Með því getur hún sparað einhverja aura. Aðrir vilja að kirkja verði byggð að nýju í Krýsuvík og mun það væntanlega ganga eftir.

Heimild:
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/01/02/krysuvikurkirkja_brann_i_nott/
http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item319188/
http://www.dv.is/frettir/2010/1/2/kirkjubruninn-menn-eru-i-afalli/

Krýsuvíkurkirkja

Ný Krýsuvíkurkirkja.

Setbergssel

Í Fornleifaskráningu í Garðabæ 2009 er ma.a fjallað um Setberg, sem var fyrrum í Garðabæ:

Setberg

Setberg 1958 – loftmynd. Tóftir gamla bæjarins sjás ofan við fjósið.

1505: „var þad setberg fyrir sunnan land vid hafnarfiord. ok þar med ij. kvgilldi edvr iij huortt ed uæri. iij uættir smiors vr holom. leigur fra haugatungu vppa .iij. ar. var þetta allz .x. vætter. sagdist grimr hafa likt þoruardi adr .xxxiiij. kugilldi. heyrdum vær þa aunguan aaskilnad þessara þratt greindra manna. helldr kom þeim alltt uel samann suo uær heyrdum.“ DI VII, 797. 1523: var Tómas Jónsson kvittaður af jörðinni Setbergi af Pétri og Halli Björnssonum. Þá voru landamerkin: „Vr midium kietheller og i stein [þan er stendur i fremsta tiorn ) hollte. vr honum og i Hellv þa er stendur i lambhaga. þadan og i [nedstu jardbru). So epter þui sem lækurinn af skier [j tungards endan. þadan i silungahellu. so þadan og i þufuna sem sudur a holltenu stendur. vr henne og i midian kietheller. hier ad auk a Garda stadur tolf hesta [Reidings ristu ) i setbergs lande. en opt nefnt setbergs budarstödu vid skipaklett i garda lande.“ DI IX, 146.

Setberg

Setbergsbærinn 1772 – Joseph Banks.

1658, selur Tómas Björnsson sr. Þorsteini Björnssyni 8 hndr. í Setbergi. 1664 setur Tómar Björnsson fógetanum 8 hndr í Setbergi. 1665 eignast Guðrún Björnsdóttir 8 hndr í Setbergi. Jarðabréf, 15. 16 hndr 1703.

Gráhella

Gráhella.

1772 heimsótti Joseph Banks Setbergsbæinn.1912 keypti Hafnarfjörður Setbergsland allt til Lækjarbotna. „Samkvæmt dómi frá 5. des 1924 eru landamerki milli Setbergs og þess hluta Garðakirkjulands, sem með lögum nr. 13, 1912 var selt Hafnarfjarðarkaupsstað, sem hér segir: „Úr neðstu jarðabrú í Kaplakrika eftir Kaplalæk í hraunjaðrinn beint vestur af þeim stað þeim, þar sem Kaplalæk er nú veitt úr eldri farveg sínum, rétt norðan við Baggalágar vestur af Setbergslandi, þaðan beina línu í stíflugarð rafstöðvartjarnarinnar, þá eftir garðinum og úr honum beint í markþúfu suður og uppi á holtinu þaðan í upptök lækjar þess, sem Hafnarfjarðarkaupstaður fær neyzluvatn sitt úr, þá í Gráhellu og þaðan í miðjan Ketshelli. …“

Setberg

Setbergsbærinn í dag – tóftir.

„Lönd jarðanna Þórbergs, Setbergs og Hlébergs, sem eru innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðarkaupstaðar, mun Hafnarfjarfjarðarbær eignast innan tíu ára, sbr. samning við landeigendur, dagsettan í júlí 1980.“ ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 122 1703: „Engjar á jörðin nokkrar þó litlar sjeu.“ JÁM III, 176. 1918: Tún 6,5 teigar, nær allt sléttað, garðar 1600 m2.

Setberg

Setberg – túnakort 1918.

Útihús er sýnt á túnakorti við austurjaðar túns, tæplega 170 m norðaustur frá gamla bæjarstæðinu. Rústir þess eru enn sjáanlegar, byggðar utan í túngarðinn að austanverðu. Stór hlaðinn kálgarður er sambyggður útihústóftinni að norðanverðu en mun hann vera síðari tíma verk að sögn Óttars Geirssonar heimildamanns. Þessi hluti túnsins er í landi Garðabæjar.
Tóftin er í jaðri gamla heimatúnsins sem að mestu hefur verið breytt í golfvöll
Eitthvað virðist vera búið að ryðja þessari rúst til og því erfitt er að átta sig á nákvæmri lögun hennar. Hún virðist þó hafa verið um 15 x 15 m að stærð og er hleðsluhæðin mest um 0,5 m.

Flóðahjalli

Flóðahjalli – minjar.

Hernaðarmannvirki hlaðin úr grjóti, leifar úr Seinni heimsstyrjöld, eru á Flóðahjalla þar sem hann rís hæstur. Flóðahjalli er allhár grágrýtisrani suður af Urriðakotsvatni. Mannvirkin eru um 330 m SA af Flóðahjallavörðu [055] sem er nyrst á Flóðahjallatá. Mannvirkin eru leifar vígis frá Bretum sem ætlað var til varnar mögulegri innrás Þjóðverja um Hafnarfjarðarhöfn (skv. grein í MBL 13.01.2002).

Flóðahjalli

Tóftin á Flóðahjalla.

Hernaðarmannvirkin eru hlaðin á og í kring um klöpp og umhverfis er melur. Mannvirkin samanstanda af garðlagi úr grágrýti og grjóthlöðnum tóftum innan þess. Allar hleðslur eru þurrhleðslur úr ótilklöppuðu grjóti. Garðlagið er nokkuð hring- eða sporöskjulaga en óreglulegt, um 45×33 m N-S að utanmáli. Hleðslurnar eru mjög tilgengnar og því víða breiðar og lágar, t.d. allt að 5 m breiðar nyrst.
Um miðbik austurhluta garðlagsins eru hleðslurnar heillegastar, allt að 1,3 m háar, ríflega 1 m breiðar og 5-6 umför. Innan garðlagsins er mikið af lausu grjóti og jarðföstum klöppum. Tóftirnar eru einna syðst innan garðsins. Tvær eru greinilegar, ein ferhyrnd og önnur hringlaga, en einnig eru í kring tilgengnir veggir sem hugsanlega hafa áður verið hluti annarra tófta. Ferhyrndatóftin er syðst fyrir miðbik, örskammt frá suðurvegg garðlagsins. Hún er heillegri en hringlaga tóftin, um 6×6 m að utanmáli (4×4 m að innan) og með dyr til austurs. Veggir tóftarinnar eru hæstir um 1,5 m og 7 umför.

Setbergshamar

Setbergshamar – skotbyrgi.

Hringlaga tóftin er skammt VNV af þeirri ferhyrndu. Hún er um 6×6 m í þvermál og afar tilgengin, ekki nema 2 umför og grjótdreif er í kring. Norðan, austan og suðvestan við ferhyrndu tóftina eru tilgengin veggjarbrot sem kunna að vera leifar annarra mannvirkja. Í grein sem birtist í Morgunblaðinu þann 13.01.2002 færðu Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson rök fyrir því að hringlaga tóftin gæti hafa hýst byssustæði, en sú ferhyrnda gæti hafa verið íverustaður hermanna. Á náttúrulega klöpp innan garðlagsins er klappað ártalið 1940 sem og nafnið J. E. Bolan og fangamarkið D. S. Þar skammt við er svo klappað ártalið 1977 og fangamörkin J. A. og G. H.

Kietshellir

Kétshellir

Ketshellir / Setbergsselsfjárhellir.

Elstu heimildina um Kjöthelli (Kietsheller) er að finna í fornbréfasafni (DI IX), en það er landaskiptabréf dagsett 6. júni 1523 og er hellirinn þar suðvestur landamörk Setbergs. „Selstöðu á jörðin þar sem heitri Kietsheller, eru þar hagar góðir, en vatnsból ekkert nema snjór í gjá, sem sólhiti bræðir,“ segir í jarðabók Árna og Páls frá 1703. „Úr Gráhellu liggur línan í Setbergssel. … Landamerkjalínan liggur í Markvörðu á Selhellinum, því undir vörðunni er þessi hellir, og honum mun hafa verið skipt milli Setbergs og Hamarskots,“ segir í örnefnaskrá GS. Kjöthellir er á suðvesturmörkum Setbergs, við stóra og steypta landamerkjavörðu sem þar er, um 3,5 km SA af bæ. Tveir hellar eru við landamörkin á þessum slóðum og er talsverður nafnaruglingur á milli þeirra. Samkvæmt heimildamanni kallast hellirinn sem hér um ræðir Kethellir (Kjöthellir) eða Selhellir, en hinn hellirinn, sem er öllu stærri og er rúmlega 180 m austar, heitir Kershellir og annar lítill hellir inn af honum Hvatshellir.
Í Þjóðminjaskráningu Hafnarfjarðar segir að hellirinn sé: „Upp í grasivöxnu holti við jaðar Gráhelluhrauns,“. Nokkuð mikill snjór var á svæðinu þegar skráning á vettvangi fór fram.

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Kjöthellir snýr nokkurn veginn norður-suður og er opinn í báða enda. Innangegnt er um bæði op hans. Hann er um 20 m langur, breiðastur um 4 m og mest lofthæð er vel rúmlega 2 m. Um miðbik hellisins er hlaðið skilrúm sem skiptir honum í tvennt og hefur nyrði helmingurinn að líkindum tilheyrt Setbergi. Skilrúmið er hátt í 1,6 m þar sem það er hæst að vestanverðu og 8 – 9 umför, en megin hluti þess er munlægri og hrundari, frá 0,5 – 1,2 m.

Hamarskotshellir

Hamarskotsfjárhellir.

Inngangur um syðri hellismunnann er stærri en sá nyrði, mest um 2 m breiður og rúmlega 2 m hár, en hlaðið er að hluta upp í hann með um 1,2 m hárri hleðslu. Inngangur um nyrði hellismunnann, sem er Stbergsmegin, er u.þ.b. 1,5 m breiður og hátt í 2 m hár. Nokkuð meira er lagt í hleðslurnar fyrir honum, en hlaðin, bogadregin göng liggja að munnanum og eru þau að hluta undir hlöðnu þaki. Hleðslan er allt að 7 m löng og er hæst allt að 1,8 m og hlaðið hefur verið þak yfir innganginn að hluta með hraunhellum, þó það sé nú að nokkru leyti hrunið. Umhverfis Kjöthelli er gróið hraun og tvær tóftir eru í næsta nágrenni sem að líkindum tengjast Selstöðunni. Tóft sem er líklega stekkur er um 25 m SV af hellinum og hlaðið aðhald í náttúrulegri lægð er um 70 m til NA.

Markasteinn

Markasteinn

Markasteinn – huldufólkshús.

„Á mörkum Setbergs, Urriðakots og Garðakirkjulands er Markasteinn og átti að búa huldufólk þar,“ segir í örnefnaskrá SP. Markasteinn stendur á landamörkum, um 6,3 km SA af bæ 001 og um 1,1 km NA af Kjöthelli.
Markasteinn er afar stórt hraungrýti, um 3 m að flatarmáli og 2,5 m hátt, með gróinni fuglaþúfu á toppnum.
Amma heimildamanns (f. 1864) heyrði sem ung stúlka strokkhljóð berast úr Markasteininum og taldi það til marks um bústörf steinbúa.

Markavarða

Hamarskotssel

Hamarskotssel – markavarðan.

„Landamerkjalínan liggur í Markvörðu á Selhellinum, því undir vörðunni er þessi hellir, og honum mun hafa verið skipt milli Setbergs og Hamarskots. Kethellirinn liggur örlítið hærra.“ Markavarðan er á suðvestur mörkum Setbergslands, við Kjöthelli [023]. Varðan er við Kjöthelli, í hálfgrónu hrauni. Varðan er hlaðin úr hraungrýti og steypt er á milli umfara.
Á toppi vörðunnar er stendur stök hraunhella upp á rönd og er henni haldið með steypu. Varðan er rúmlega 2 m há og um 1,5 m að grunnfleti.

Húsatún tóft beitarhús

Setbergssel

Setbergssel.

„En landamerkjalína milli Setbergslands og upplands Garðakirkju lá úr hellunum norðaustur eftir Smyrlabúðarhraunbarmi, norður í Markasteininn á Tjarnarholtinu syðsta. Frá þessu hornmarki liggur línan um Efridal. Síðan um Selhjahlíð og þaðan í Fljóðahjallavörðu. Þegar komið er fyrir Hánef og komið þar upp á holtið, er komið í Húsatún, og þar eru beitarhúsin frá Setbergi,“ segir í örnefnaskrá. Húsatún er á vestanverðri Setbergshlíð um 80 m NA af vörðu. Húsatún er um 2,9 km SA af bæ 001 og um 930 m ASA af Gráhellu.

Húsatún

Húsatún – beitarhús.

Í kringum beitarhúsið er melur og vex á honum lyng á stangli, en fjær er kjarrgróður. Tóftin er algróin þykkri sinu að innan og einnig er smá grasblettur fast vestan við tóftina, gróinn þykkri sinu. Beitarhúsið er hlaðið úr grágrýti og virðist hleðslan vera nokkuð vönduð þó hún sé nú tilgengin á stórum hluta. Mest hleðsluhæð er um 1,5 m, á norðurvegg einna austast og eru þar 5-6 umför.
Grjótið í hleðslunni er af öllum stærðum, en mest er þó af miðlungs og stóru grjóti. Utan með grjóthleðslunni er sigin torfhleðsla, um 1 m breið og 0,5 m há. Beitarhúsið er um 17 x 11 m að stærð A-V og er innanmál um 14 x 8 m. Vestur hlið tóftarinnar er að mestu opin og hefur þar að líkindum verið timburþil fyrir.

Kershellir

Í Kershelli.

1523 voru landamerkin: „Vr midium kietheller og i stein [þan er stendur i fremsta tiorn ) hollte. vr honum og i Hellv þa er stendur i lambhaga. þadan og i (nedstu jardbru). so epter þui sem lækurinn af skier [j tungards endan. þadan i silungahellu. so þadan og i þufuna sem sudur a holltenu stendur. vr henne og i midian kietheller. hier ad auk a Garda stadur tolf hedta [Reidings ristu ) i setbergs lande. en opt nefnt setbergs budarstödu vid skipaklett i garda lande.“

Hamarskotssel

Hamarskotssel – stekkur.

Í Þjóðminjaskráningu Hafnarfjarðar frá 1988 segir: „Stekkur…Um 40 m Austur af landamerkjavörðu við Kethelli.“ Aðhaldið er hátt í 70 m NNA af Markavörðu við Kjöthelli. Aðhaldið er í nokkuð grónu hrauni.
Aðhaldið, sem mögulega er stekkur, er myndað af náttúrulegu, ferköntuðu sigi í hrauninu sem snýr nokkurnveginn NV-SA og hlaðið er fyrir NV og SA enda. Innanmál er um 20×10 m. Hleðslurnar fyrir báðum endum eru um 10 m langar og um 0,5 m háar og sjást 2-3 umför. Norðvestari hleðslan er aðeins tilgengnari og allt að 1 m breið. Langveggir aðhaldsins eru náttúrulegir hraunveggir, allt að 3 m háir og er sigið dýpst fyrir miðju. Botninn er nokkuð ójafn en gróinn. Nálægt miðju norðvestari hleðslunnar er líklegur inngangur, um 1 m breiður, en mögulegt er að einnig sé inngangur vestarlega á suðeystri hleðslunni, heldur þrengri en hinn.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009.

Setberg

Setberg 1958 – loftmynd.

Garðahverfi

Í ritinu Harðjaxl réttlætis og laga 1924 skrifar „Gamall Garðhreppingur“ um „Átthagafræði Garðahrepps„. Um var að ræða verðlaunasamkeppni ritsins þar sem viðkomandi lýsir bæjum og ábúendum í Garðahreppi:

Hr. ritstjóri!

Lónakot

Lónakotsbærinn.

„Þegar eg las í blaði yðar Harðjaxl um hinn mikla framgang Harðjaxlsstefnunnar, sem ennþá er vitanlega mestur í höfuðborginni, datt mér í hug, að þegar þér farið að senda erindreka yðar út um sveitirnar, væri gott fyrir yður að vita nokkur deili á býlum þeim og bændum, þar sem erindrekar yðar fara um. Þess vegna sendi eg yður hér með stuttorða lýsingu á bæjarnöfnum og fleiru smávegis, í þeim hreppi, sem eg er tiltölulega kunnugastur í.
Syðsti bær hreppsins er Lónakot. þar bjó til skamms tíma Guðlaugur; var hann sveitarhöfðingi hinn mesti, og bætti jörð sína mjög, og fór vel með allar skepnur, sérstaklega sauðfé. En nú er hann fluttur til Hafnarfjarðar og mun það mest vera fyrir þá sök, að honum þótti of lítið útsvar lagt á sig í hreppnum. Nú býr í Lónakoti Þorsteinn frá Herdísarvík, sá sem ekki vildi dóttur þórarins. Er hann sagður búhöldur góður.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir.

Næsti bær fyrir innan Lónakot eru Óttarstaðir; þar er tvíbýli. Á öðrumum partinum býr Guðmundur strandamaður. þar bjó áður Guðjón, sem búnaðist best í Krýsuvík. Á hinum partinum býr Sigurður; var hann talinn góður bóndi áður en bílarnir komu. Skammt fyrir ofan Óttarstaði er býlið Eiðskot.
Þar búa bræður tveir, Sveinn og Guðmundur. Eru þeir smiðir góðir og gamlir skútumenn, en hafa nú í seinni tíð hneigst til sauða, eins og stórbóndinn á Hvaleyri. Einnig hafa þeir verið helstu skónálasmiðir hreppsins um mörg ár.
Nú kemur engin bygð. fyr en í Straumi. Þar bjó um langan aldur Guðmundur dýravinur. En nú er hann kominn til Hafnarfjarðar eins og Guðlaugur, og lifir þar á sauðfé sínu og guðs blessun. Bjarni skólastjóri hefir nú útibú í Straumi, og á margt auðfé. Þar er engum úthýst.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Í inn-hraununum eru nú sex býli í eyði, sem búið hefir verið á til skamms tíma, en liggja nú flest undir Straum.
Helsta býlið af þessum sex voru Þorbjarnarstaðir. Þar bjó lengi Þorkell faðir Árna, Ingólfs og Geira. Og var honum að sögn bygt út fyrir þá sök, að hann þótti ekki gresja nóg skóginn.
Hann hafði mikla ást á geldingum, sérstaklega mislitum. Nú er hann kominn til fjarðarins eins og Laugi. Í Péturskoti, sem er eitt af eyðibýlunum, bjó eitt ár Ingólfur sonur Þorkels, en af því að hann gat ekki tekið með köldu blóði að hafa þar margt fé á litlu, fór hann þaðan, og er nú kominn í velsæluna í firðinum. Á eyðibýlinu Litla-Lambhaga bjó fyrir nokkru Brynjólfur, gamall vinur Þorkels. Mun hann hafa farið þaðan fyrir þá sök að honum þótti of lág landskuldin. Í Gerðinu hefir nú Þórarinn sumarbústað; er hann sami maðurinn sem snéri trollurunum aftur við Reykjanes í fyrra, þegar hann komst ekki í bæjarstjórnina í firðinum. Þá grétu Emil og Gísli. Í Stóra-Lambhaga, sem nú er ein af hjálendum Straums, bjó fyrir nokkru Guðjón, sem nú býr á Langeyri við Hafnarfjörð, faðir Magnúsar hugvitsmanns…

Ás

Ás – tilgáta ÓSÁ.

Þegar hinum svokölluðu Hraunabæjum sleppir, er næsti bær Þorgeirsstaðir. Þar nam land Þorgeir hinn sterki. Nú býr þar Brynjólfur frá Litla-Lambhaga. Er hann víst allgóður bóndi, en heldur þykir hann óheppinn með sauðfé nú í seinni tíð. Skammt frá Þorgeirsstöðum er býlið Stekkur. Þar býr Sigurður. Þykir hann gera það gott eftir atvikum. Næsti bær við Stekk er Ás. Þar býr Oddgeir sonur Þorkels; er það sami maðurinn sem ekki bauð sig fyrir hreppstjóra hérna um árið, en varð hreppstjóri samt, eg man ekki hvað lengi. Nú er höfuðbólið Setberg næsti bær. Þar býr nú Jóhannes Reykdal, og hefir mikið um sig. Þar bjuggu áður Halldór og Anna, sem margir kannast við.

Urriðakot

Urriðakot.

Næsti bær við Setberg er Urriðakot. Þar býr Guðmundur. Er hann tengdafaðir Björns bolsivikka í firðinum, og er sagt, að Guðmundur sé ekkert upp með sér af þeim tengdum.
Þá koma næst Vífilsstaðir. Þar er nú rekinn fyrirmyndar búskapur á kostnað ríkissjóðs, undir stjórn Þorleifs. Og mundi vart betur vera búið, þótt einstakur maður ætti. Og sýnir það, að ríkisrekstur á fullkominn tilverurétt, á hvaða sviði sem er, ef honum er viturlega stjórnað. En heldur þykir bændum útsvarið vera lágt á búinu.
Skammt fyrir neðan Vífilsstaði er Hagakot; það er nú í eyði, en beljur látnar slá túnið á sumrum.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Þá koma Hofstaðir. Þar býr nú Gísli, sá sem ekki vill komast í hreppsnefndina. Þar bjó áður Jakob faðir Gísla, vel metinn maður. Fyrir neðan Hofstaði er Arnarnes. Þar býr nú prestsekkja með sonum sínum. Og hefir hún meira álit á hærri stöðum en sumir hreppstjórar. Þá er næst Hraunsholt. Þar hefir lengi búið Jakob; er hann með betri bændum hreppsins, og helsti brautryðjandi hreppsins í kaupfélagsmálum. Og sérstaklega er sagt að hann hafi gengið upp, síðan farið var að slá slöku við að mæla fitumagnið í mjólkinni.

Krókur

Krókur.

Þá tekur við Garðahverfið, og er þá best að byrja á Garðastað. Þar býr prófastur Árni Björnsson, tengdafaðir Gunnlaugs stórkaupmanns. Þá er næst Nýibær. Þar býr Magnús, allgóður bóndi, en heldur er sagt að búskap hans hafi hrakað síðan bæjarfulltrúinn tók heimasætuna. Skamt upp af Nýjabæ er Krókur. Þar bjó lengi Björn faðir Guðmundar. Er sagt að Guðmundur sjái um að blikkkassinn hjá gjaldkeranum springi ekki af offylli. Fyrir neðan Krók eru Pálshús. Þar býr nú Guðjón hreppstjóri, sem ekki fékk Arnarnesið.

Garðahverfi

Pálshús.

Fyrir neðan Pálshús eru Dysjar. Þar er tvíbýli. Á öðrum partinum býr Magnús Brynjólfsson. Og er sagt að bærinn hjá honum leki enn, þó að hann kysi Björn. Á hinum partinum býr Guðjón, mágur Steingríms og Óla H. Skamt frá Dysjum er Bakki. Þar býr nú Kristinn Kristjánsson. Þar bjó áður Isak, sem á meinlausu hundana. Þá er Miðengi. Þar býr Gunnar, sláttumaður góður. Þar næst er Móakot. Þar býr Einar, bróðir Steins rithöfundar. Sonur Einars er Sigurður sá, sem engin hjúkrunarkona vill ganga með, jafnvel þó hún sé launuð af bæjarstjórn. Fyrir ofan Móakot er Háteigur. Þar býr Stefán, faðir Páls.

Garðahverfi

Hlíð.

Þá kemur næst Hlíð. Þar hefir til skamms tíma verið tvíbýli. Nú hefir alla jörðina Gísli Guðjónsson. Þá er næsti bær Grjóti. Þar býr nú sprenglærður búfræðingur með mikilli rausn.
Á Hausastöðum býr nú Valgeir Eyjólfsson, talinn gott búmannsefni. Fyrir neðan Hausaataði er Katrínarkot. Þar hefir lengi búið Jónína, gömul vinkona Guðjóns. Þá er norðasti bær hreppsins, Selskarð. Þar bjó til skamms tíma Þórarinn, sem margir Hafnfirðingar kannast við. En nú hafa þeir félagar Jón og Gísli keypt jörðina, og er sagt að þeir ætli að setjast þar að þegar þeir eru búnir að tapa svo miklu á akkorðunum, að þeir haldist ekki lengur við í firðinum. Og telja kunnugir, að það geti vart dregist lengur en fram á næsta vor, sérstaklega, ef þeir hafa uppskipun úr 14 trollurum í vetur.
Þess skal getið réttum hlutaðeigendum til hróss, að þeir hafa sett mjög öfluga girðingu á milli Álftaness og Garðahverfis. En þó Álftnesingurinn sé ekki árennilegur, mun eg ef til vill, ef eg sé mér færi, skjótast í gegnum hliðið á girðingunni og rita þá lítilsháttar um bændur þar og búalið.“ – Gamall Garðhreppingur.

Heimild:
-Harðjaxl réttlæstis og laga, 16. tbl. 04.12.1924, Átthagafræði Garðahrepps – verðlaunasamkeppni, bls. 2-3.

Garðahverfi

Garðahverfi.