Tag Archive for: Hafnarfjörður

Reykjanesskagi

Í Morgunblaðinu 1984 er viðtal við Einar Sigurðsson í Ertu um  „Skrímsli í Kleifarvatni„:

Einar Sigurðsson

Einar Sigurðsson í Ertu.

„Ég sé enga ástæðu til þess að Kleifarvatnsskrímslinu sé minni sómi sýndur en Lagarfljótsorminum og tel að hér í Hafnarfirði þurfi að gera átak í þessum skrímslamálum hið fyrsta. Hvers vegna skyldi Kleifarvatnsskrímslið sætta sig við að það sé látið liggja milli hluta þegar alltaf er verið að hampa Lagarfljótsorminum? Ég skrapp norður á Egilsstaði á dögunum og þá sá ég að það var komin flannastór mósaíkmynd af Lagarfijótsorminum á einn útvegg Kaupfélags Héraðsbúa. Svona ættu Hafnfirðingar líka að hirða um sitt skrímsli og láta af að vanvirða það með þögn og þumbaraskap.“
Viðmælandi okkar er enginn annar en Einar frá Ertu og umræðuefnið skrímslið í Kleifarvatni í Krýsuvík. Einar Sigurðsson heitir hann fullu nafni, er múrarameistari og hefur um langt skeið búið í Hafnarfirði. Hann hefur hins vegar lengst af kennt sig við bæinn Ertu í Selvogi þar sem hann sleit barnskónum. Áhugi Einars fyrir Kleifarvatnsskrímslinu á sér langan aldur. Föðurbróðir hans bjó í Krýsuvík og var nokkur samgangur milli bernskuheimilis Einars, í Selvogi, og Krýsuvíkur. Þegar Krýsuvíkurfólkið kom í heimsókn að Ertu var það alltaf spurt: „Hafiði nokkuð séð skrímslið?“ og virtist enginn efast um tilvist Kleifarvatnsskrímslisins.
Síðan Hafnarfjörður eignaðist Kleifarvatn álitur Einar að vegur skrímslisins hafi farið minnkandi og hafi Hafnfirðingar alls ekki gert nógu mikið til að halda merki þess á lofti. Einar vann í eitt ár að byggingu skólahússins sem reist var í Krýsuvík og þekkir þar vel til.

Skrímsli í hefndarhug

Skrímsli

Þekkt skrímsli á uppdráttum fyrri tíma.

Hann telur jafnvel að skrímslið hafi spillt fyrir framkvæmdum í Krýsuvík oftar en einu sinni, og sé þar að finna skýringu þess hve flestum fyrirtækjum hefur gengið illa þar á liðnum árum. Ég byrja á því að spyrja Einar hvort hann trúi því virkilega að það sé skrímsli í Kleifarvatni.
Mér hefur verið sagt að þetta skrímsli sé til og sé ekki neina ástæðu til að vera með efasemdir, sagði Einar. Það er nefnilega þannig með skrímsli að þau eru til þangað til einhver afsannar þau eða útskýrir þau vísindalega. Og þannig verður Kleifarvatnsskrímslið til þangað til einhver afsannar það eða útskýrir það.
— En hefurðu séð skrímslið?
Nei, en það afsannar ekkert. Ég fór einu sinni í ferð til Sovétríkjanna en þó sá ég ekki Bréfsnef — og samt getur vel verið að hann hafi verið til og kannski hefur hann séð mig. Eins er þetta með skrímslið — kannski sér það okkur þó við höfum ekki auga fyrir því.
— En er þá ekki alveg nóg fyrir skrímslið að vera til, þarf nokkuð að vera að dedúa í kringum það sérstaklega?

Kaldrani

Kleifarvatn.

– Já, Kleifarvatnsskrímslið á alveg sama rétt á viðurkenningu og Lagarfljótsormurinn. Og það er engum blöðum um það að fletta að Hafnfirðingar bera ábyrgð á skrímslinu — Hafnarfjarðarbær keypti Krýsuvík árið 1941 og þá hefur skrímslið auðvitað fylgt með í kaupunum. Það er ekki lítill búhnykkur að komast yfir slíka skepnu — máttarvöldin hér í Hafnarfirði hafa bara alls ekki gert sér ljóst hversu mikið gagn má hafa af skrímslinu og þeir hafa ekki sýnt því þá virðingu sem það á skilið.
Það þykir mikill skaði ef fiskur hverfur úr vatni eða á, en það er miklu meira áfall að tapa skrímsli — það er reyndar alveg óbætanlegt tjón að missa skrímsli, skal ég segja þér, því það verður ekki endurnýjað.
— Meinarðu þá að Hafnfirðingar gætu hugsanlega komið skrímslinu í peninga?
Það er ekki nokkru vafi á því, ef maður hefur það í huga hvernig aðstæðurnar eru við Kleifarvatn, landslagið meina ég. Þarna er „mánalandslag“ og hverir, og þegar skrímslið í vatninu bætist við gefur augaleið að þarna er tilvalinn ferðamannastaður. Það mætti með öðrum orðum trekkja upp ferðamannastraum með skrímslinu.

Miklir möguleikar með skrímslið

Sveinshús

Bústjórahúsið í Krýsuvík, nú Sveinshús.

Hafnfirðingar gætu jafnvel haft full not af Krýsuvíkurskólanum — honum mætti breyta í ferðamannahótel fyrir þá sem kæmu til að forvitnast um skrímslið. Það mætti leigja út sjónauka og selja ferðamönnunum teikningar og bækur með skrímslinu. Það mætti hafa upp úr þessu stóra peninga! Ferðaskrifstofurnar ættu að taka skrímslið upp á sína arma og auglýsa það erlendis — þá myndi ekki standa á ferðamannastraumnum hingað.
Þetta hafa Skotarnir gert með þessu Loch Ness-skrímli sínu, sem í alla staði er þó miklu ómerkilegra en Kleifarvatnsskrímslið — það hefur aldrei sést í sólbaði og það eru ekki til neinar merkilegar sögur um það. Það fer ekki á milli mála að Hafnfirðingar gætu haft stóra peninga upp úr skrímslinu — þess vegna verður að viðurkenna það hið bráðasta og sjá til þess að það drepist ekki út.
— Heldurðu sumsé að skrímslið sé óánægt með þetta ræktarleysi Hafnfirðinga og hyggi jafnvel á hefndir?

Krýsuvík

Krýsuvíkurbúið. Bústjórahúsið h.m.

Já, ég er ekki fjarri því. Það er að vísu ekki auðvelt að gera útaf við skrímsli en það – er hægt að þegja þau í hel, eða nærri því. Maður getur hugsað sér að skrímslið sé óánægt með þá þögn sem um það hefur verið og hafi verið að hefna sín á Hafnfirðingum með því að láta flest mistakast sem gert hefur verið í Krýsuvík. Það er a.m.k. ekki einleikið hvernig allt hefur gengið fyrir sig þar. Hugsaðu þér bara kúabúið sem þar var reist á sínum tíma með miklum tilkostnaði — það hafa aldrei komið kýr í fjósið og bústjórinn flutti aldrei inn í einbýlishúsið sem reist var handa honum.

Krýsuvík

Fjósið í Krýsuvík.

Þarna var reistur einhver stærsti skóli landsins en hann hefur aldrei verið brúkaður til neins. Þarna er kirkja sem varla hefur verið messað í, o.s.frv. Það hefur fátt heppnast sem átt hefur að gera í Krýsuvík.
Nei, þarna hlýtur eitthvað dularfullt að hafa gripið inní og skrímslið hefur fulla ástæðu til að vera óánægt, því Hafnfirðingar hafa aldrei sýnt því neinn sóma.
— Veistu til að einhver hafi orðið var við þetta skrímsli?
Já, hér áður fyrr sýndu menn því tilskylda virðingu og það má muna fífil sinn fegri. Í ferðabók þeirra Eggerts og Bjarna segir um Kleifarvatnsskrímslið árið 1749 á þessa leið:

Skrímslið í sólbaði

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Á Kleifarvatni hefur lengi legið það orð, að þar sé ormur svartur á lengd við stórhveli af meðalstærð, og þykjast ýmsir hafa séð hann, þótt ekki sé hans vandi að vera uppi nema stutta stund í einu. Nú fyrir skemmstu bar það við, að fólk, sem var á engjum sunnan við vatnið í sólskini og kyrrviðri, sá þetta skrímsli betur en nokkur hefur áður talið sig sjá það, því að það skreiddist, að sögn fólksins, upp á sandrif, sem gengur út í vatnið. Bakaði það sig þar í sólskininu í meira en hálfa eykt, en hvarf síðan aftur í vatnið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Indiáninn.

Engjafólkið varð svo skelkað, að enginn í hópnum þorði að nálgast ófreskjuna. Lá við, að það hlypi í ofboði frá amboðum sínum í besta þerri, en með því að ófreskjan bærði ekki á sér, eftir að hún var komin upp á eyrina, harkaði það af sér. Þó var það þvílíkri skelfingu lostið, að enginn getur lýst því að neinu gagni, hvernig þessi kynjavera hagaði sér.
— Veist þú um einhvern sem telur sig hafa orðið varan við skrímslið nýverið?

Grétar Þorleifsson

Grétar Þorleifsson, formaður byggingariðnaðarmanna í Hafnarfirði.

Ég þekki mann sem segist hafa séð skrímslið — hann heitir Grétar Þorleifsson og er formaður Félags byggingariðnaðarmanna í Hafnarfirði. Hann var þarna við Kleifarvatnið að degi til og sá þá einkennilegar hræringar í vatninu og einhverja stóra skepnu, að honum sýndist. En ef til vill hefur það verið skrímslið eða það sem fólk í gamla daga kallaði skrímsli. Hann er vel kunnugur þarna við vatnið en hefur enga haldbæra skýringu á þessu — nema þá að þarna hafi skrímslið verið á ferð.
Annars er margt dularfullt við Kleifarvatn, skal ég segja þér. Enginn veit t.d. hvers vegna hækkar og lækkar í vatninu til skiptis á tuttugu ára fresti. Jarðvísindamenn hafa rannsakað þetta árum saman en ekki fundið viðhlítandi skýringu.
En mér hefur sjálfum dottið í hug að ef til vill mætti skýra þetta með skrímslinu — það hækkar auðvitað í vatninu þegar skrímslið er í því, rétt eins og gerist í baðkeri.

Göng frá Kleifarvatni til Snæfellsness

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Ég hef líka heyrt að til séu gamlar sagnir um göng sem liggi úr Kleifarvatni alla leið til Snæfellsness. Það er hugsanlegt að skrímslið noti þessi göng og sé stundum á Snæfellsnesi. Hafnfirðingar mega þá vara sig á að Snæfellingar taki sig ekki til og ræni af þeim skrímslinu, með því að hæna það að sér.
— En er þetta nú ekki heldur ótrúlegt með göngin?
Jú, það getur svo sem vel verið og ég er ekki að biðja neinn að trúa þessu. Ég er orðinn langþreyttur á að halda mig við raunveruleikann — því er einhvern veginn þannig varið að það trúir mér enginn ef ég geri það. Trúir þú því t.d. þegar ég segi að Hafnfirðingur sem ég þekki hafi skriðið eins og ormur alla leið frá Hafnarfirði upp í Kaldársel og aftur til baka afturábak, um 10 kílómetra leið?
-Nei!

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

Þetta er nú satt engu að síður. Hann skreið alla leiðina í pípum. Hann var að yfirfara samskeytin. Það þarf enginn að trúa þessu frekar en hann vill — það trúa manni fæstir þegar maður segir satt. Trúirðu því að ég fer til Reykjavíkur til þess að viðra hundinn minn, hér í Hafnarfirði má hann ekki vera til frekar en skrímslið. Þetta er nefnilega grínistaþjóðfélag sem við lifum í, það hef ég alltaf sagt. Jafnvel þó maður sé ráðherra má maður ekki eiga hund — en svo er alltaf verið að tala um frelsi. En hvar er svo þetta frelsi?
Um daginn heyrði ég að talað var um ófrjálsar kartöflur í útvarpinu — úr því að það eru til ófrjálsar kartöflur hljóta líka að vera til frjálsar kartöflur. Þessar frjálsu kartöflur eru áreiðanlega það eina sem er frjálst hér á landi, ef þær eru þá til. En ætli það séu íslenskar kartöflur, þessar frjálsu kartöflur, — það hljóta að vera góðar kartöflur sem eru frjálsar. – bó.

Heimild:
-Morgunblaðið, 142, tbl. 24.06.1984, Skrímsli í Kleifarvatni – rætt við Einar Sigurðsson frá Ertu, bls. 66-67.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Krýsuvíkurbjarg

Í Morgunblaðinu 1951 skrifar Kjartan Sveinsson minningarorð um Ingibjörgu Sigurðardóttur. Ingibjörg bjó ásamt eiginmanni sínum, Jóni Magnússyni, í Krýsuvík á árunum 1907-1914. Of sjaldan hefur kvennanna fyrrum verið minnst með svo sanngjörnum hætti.
Hér á eftir verður í framhaldinu endurbirtar lýsingar tveggja manna á ferðum þeirra um Krýsuvíkurberg (-bjarg) eftir miðja síðustu öld. Lýsingarnar þarf að skoða á takmörkuðum áhuga á huldum minjum fyrri tíða, en þess meiri á sögnum og upplifun ferðalangsins á náttúru svæðisins.

Krýsuvík

Krýsuvíkurbærinn 1909. Bæjarfell fjær.

„Góð kona er horfin úr þessum bæ, frú Ingibjörg Sigurðardóttir. Hún var í heiminn borin 13. mars 1877 að Esjubergi á Kjalarnesi.
Ingibjörg var elsta barn foreldra sinna og var vart meir en unglingur að árum, þegar lífið lagði á hana hinar fyrstu kvaðir. Móðir hennar missti heilsu á besta aldri og lá oft rúmföst og þjáð síðustu sex árin er hún lifði, Og kom því aðallega í hlut Ingibjargar að stunda hana og jafnframt að standa fyrir búi föður síns. Ingibjörgu vannst þó tími til skólagöngu í hinum íslenska kvennaskóla.
Árið 1903 þann 31. maí giftist hún Jóni Magnússyni, ættuðum frá Syðra-Langholti, sem nú er nær 87 ára að aldri. Hófu þau þá búskap á eignarjörð sinni, Reykjum í Mosfellssveit. Árið 1907 fluttu þau búferlum til Krýsuvíkur og bjuggu þar til 1914 að þau fluttu alfarin til Reykjavíkur. Þeim varð sex barna auðið og eru fjögur þeirra á lífi.

Krýsuvík

Krýsuvíkurbærinn um 1910.

Krýsuvík var stór jörð og erfið. Þá var um átta stunda lestagangur til Reykjavíkur og yfir fjall að fara, en nú má aka þessa leið á 2—3 stundarfjórðungum. Þau hjón ráku þarna búskap með hinum mesta myndarbrag, og jafnvel hið erfiða Krýsuvíkurbjarg var nytjað hvert vor. Þar við bættist að fjöldi ferðamanna erlendra og innlendra sótti staðinn heim, þó sú leið væri hvorki greiðfær nje góðviðrasöm, að mestu hraun og öræfi. Og mitt í þessari auðn reis Krýsuvík sem hof íslenskrar gestrisni, enda kom það sjer betur, því þarna var ekki um aðra gististaði að ræða.
Það beit sig í mig atvik frá tímum, sem eru löngu liðnir. Jeg var staddur hjá tveim kunningjum mínum í gamla skálanum á Þingvöllum og hjá þeim sat síðskeggjaður þýskur háskólakennari. Hann var að teigja ýmsar ferðaminningar sínar frá Íslandi.

Krýsuvík

Krýsuvík 1923.

Eitt sinn hafði hann á leið frá Heklu, komið til Krýsuvíkur í haustmyrkri og óveðri og „Þá var jeg bæði þreyttur og svangur“, bætti hann við. Það kom bókstaflega einhver andakt yfir þetta gamla andlit þegar hann minntist á móttökurnar þar. Svona var landkynning þeirra tíma. Mjer varð það ljósara en áður, vegna hvers þessi útlendingur hafði tekið slíka tryggð við land og þjóð.
En í Krýsuvík átti frú Ingibjörg marga ónæðisama nótt við að hlynna að þreyttum ferðamönnum, jafnframt því sem hin venjulegu skyldustörf kölluðu að morgni. — Þannig var öllum tekið, sem til Krýsuvíkur komu, með djörfung og hjartahlýju, hvort heldur gesturinn var þýskur fræðaþulur, íslenskt skáld, enskur náttúrufræðingur eða göngumóður fjárleitarmaður úr Grindavík.

Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja brann á nýársnótt 2910. Legsteinn Árna Gíslasonar, sýslumanns.

Einn skugga bar á líf þessara hjóna í Krýsuvík. Þar misstu þau ungan dreng, einkar efnilegan, og var hann þeim harmdauði alla tíð. Hann var jarðsettur hjá leiði Árna sýslumanns við austurgafl á kirkjuhrófi því, sem enn stendur þar uppi. Og jeg held jeg megi segja, að þegar frú Ingibjörg flutti alfarin frá Krýsuvík, þá hafi hugur hennar orðið eftir hjá þessari þúfu. Hún kvartaði aldrei yfir missi þessa drengs, hún kvartaði aldrei yfir neinu.
Það var jafnan hljótt um þessa konu. Hún kunni kyrrðinni best, því þar var hvorki hugað nje spurt til launa. Heimilið, stundum mannmargt og ávallt gestkvæmt, var fyrst og fremst hennar starfssvið. Að því vann hún vakin og sofin meðan kraftar entust hvern dag allan ársins hring, með stöðugri umhyggju með öllum og öllu, sem lifði og lífsanda dró. Jeg skildi það aldrei til fulls hvernig henni vannst tími til allra sinna starfa og að rækja þau jafnvel og raun varð á, ekki síst uppeldi barna sinna.
Jeg skal hreinskilningslega játa, að það er sannfæring mín, að Ingibjörg Sigurðardóttir hafi skipað sess með hinum bestu konum þessa lands, bæði fyr og síðar, þeim sem hafa hlúð að nýgræðingnum í þessu landi, líknað og lýst í kringum sig á alla vegu og byggt upp þessa þjóð í meir en þúsund ár. – Í því ljósi hverfur þessi kona, ástsæl og jafnan mikils metin af öllum sem henni kynntust, vanmetin af engum nema þá helst af sjálfri sjer.“ – Kjartan Sveinsson.

Í Vísi 1962 er eftirfarandi lýsing Sv. Þ.; Undir Krýsuvíkurbergi:

Eldborgarrétt

Gamla Krýsuvíkurréttin (Eldborgarrétt).

„Góður vinur minn, stangaveiðimaður oo náttúruskoðari mikill bauð mér í ágústmánuði. Í sumar er leið í stutta skemmtiferð suður á Krýsuvíkurbjarg. Ég þykist vita, að þú hafir aldrei komið fram á bergið, en þar er margt merkilegt að sjá, sagði hann. Eg myndi vilja opna Krýsuvíkurbjarg, sem ferðamannaatraksjón, bætti hann við. Það er rétt að blaðamenn veki á þessu athygli, ef þeir telja þetta mál til sín taka, athuguðu allar hliðar þess vandlega.
Ég kem á bílnum á eftir og við skulum skjótast, því nú er veðrið svo gott. Og að lítilli stundu liðinni voru við lagðir af stað. Það bar margt á góma í þessari ferð suður á bjargið. Vinur minn, kom með marga athyglisverðar ábendingar um þetta mál og hann nam stöku sinni staðar við sögu sögusviðsins, á langri göngu okkar þennan sólfagra dag.
Um daginn fór ég að rifja þetta ferðalag upp aftur. Það er eftirtektarvert, að þúsundir manna skuli á hverju sumri aka eftir Krýsuvíkurveginum, án þess að vita það, að hálftímagang frá þessum vegi er eitt af mestu náttúruundrum landsins.

Eystri-Bergsendi

Horft vestur yfir krýsuvíkurbjarg frá Eystri-Bergsenda.

Fyrir neðan Eldborg, austan við Krýsuvík er fjárrétt, en þaðan liggur vegslóði í suðaustur, í átt til strandarinnar nokkuð niður eftir. — Frá þjóðveginum og niður á Krýsuvíkurbjarg er aðeins hálftíma hægur gangur.
Þarna koma menn að austurenda bergsins, þar sem komast má niður að sjó og sjá bergið opnast. Um varptímann er þarna ótrúlegt ævintýraland, hundruð þúsunda af lunda, álku og langvíu verpa þarna á sillum og skútum í berginu. Fuglinn er spakur á þessum slóðum, svo víða má komast næstum því að efstu hreiðrunum, enda má heita að bjargið hafi verið í friðun allt að því hálfa öld. Bjargið er hátt og tilbreytingamikið. Höfðar og snasir skaga fram, en milli þeirra beygja hamravíkur sig inn.

skarfur

Skafur neðan Krýsuvíkurbjargs.

Beint niður af hinni fornu Krýsuvík er lítil eyja framan við bergið, er nefnist Fuglasteinn, og það er næsta ótrúlegt hvílík mergð fugla getur þar rúmast. — Um fjöru koma flasir og klappir sumstaðar upp. Þar má sjá skarfa í stórhópum baða vængum, til að þurrka þá.
Frá hinni fornu Krýsuvík, þar sem kirkjuhrófið stendur eitt eftir, má líka ganga niður í bjarg, og liggur skemmsta leiðin milli tveggja hóla, sem sjá má niðri á sléttunni, sú ferð er klukkustundargangur.
Við vesturenda bjargsins eru Selatangar, forn veiðistöð, en þangað er stundargangur frá austustu byggð í Grindavík. Verstöðin í Selatöngum lagðist niður af mögnuðum draugagangi. — Fróðir menn telja að þar hafi verið sjódraugar á ferð.
Krýsuvíkurbjarg
Ferðafélag Íslands þarf þegar á næsta vori að hefjast handa og hlutast til um að nefndur vegslóði, frá Eldborg og niður að bjargi, verði gerður greiðfærari og skilti sett við veginn til þess að vísa ókunnugum á rétta leið.
Svo mátti heita, að Krýsuvík væri í eyði um langan tíma. Síðasti bóndinn bjó þar rausnarbúi frá 1907—1914. En jörðin var fólksfrek til fullrar nýtingar. Sérstakur bjargmaður var sóttur austur í Mýrdal á hverju vori. Gerði hann ekkert annað en stunda bjargið, safna eggjum framan af sumri, en síðan veiða fugl. Vann hann þar einn á daginn, en var á kvöldin sóttur niður á bjarg, eggjakassar og fuglakippur dregnar upp á vaði og reiddar heim. — Á hverjum stað er síga varð í bjargið, hringaði sigmaðurinn enda vaðsins á bjargbrúnina og kastaði nokkrum steinvölum yfir, rakti síðan vaðinn fram af brúninni og las sig niður. Þessar steinahrúgur liggja þarna enn og eru þær ótrúlega léttar. —

Krýsuvíkurbjarg

Sigið í Krýsuvíkurbjarg 1983.

Eggjatekjan fór allt upp í tíu þúsund á vori. Voru þau þvegin og aðgætt og reidd á klökkum til Hafnarfjarðar og seld á 10 aura stykkið. Eri leiðin frá Krýsuvík, eftir Ketilsstíg sunnan við hverina, yfir Sveifluháls til Hafnarfjarðar, var þá um það bil 8 tíma lestargangur.
Mikill straumur erlendra ferðamanna lagði á þessum árum leið sína til Krýsuvíkur og niður á bjarg, og ekki dró það úr, að Krýsuvíkurheimilið var annálað fyrir gestrisni og höfðingsskap.“ – Sv. Þ.

Í Morgunblaðinu 1982 er lýsing Tómasar Einarssonar „Á ferð um Krýsuvíkurbjarg„:

Litla-Hraun

Krýsuvíkursel í Litla-Hrauni ofan Krýsuvíkurbjargs.

„Mörgum þykir gaman að ganga með sjó til að fylgjast með hreyfingum úthafsöldunnar. Heyra öldugjálfrið við fjörusteininn eða hlusta á brimniðinn og sjá öldufaldana þeytast hátt í loft upp eftir fangabrögðin við hina brimsorfnu kletta. Við slíkar sýnir er unnt að dvelja löngum stundum. Þeim fylgir einhver seiðandi kraftur sem iætur fáa ósnortna, sem hafinu kynnast á annað borð.
Í nágrenni höfuðborgarinnar er víða unnt að kynnast hafinu á þennan hátt en samt er óhætt að fullyrða að sá staður er vandfundinn þar sem leikur þess er stórkostlegri en undir Krýsuvíkurbjargi. Í þessum pistli leggjum við leið okkar á þær slóðir.

Krýsuvíkurheiði

Jónsbúð á krýsuvíkurheiði. Geitahlíð fjær.

Fyrir sunnan byggðina í Krýsuvík er landið flatt og greiðfært yfirferðar. Það nefnist Krýsuvíkurheiði og liggur hún milli Ögmundarhrauns að vestan og Krýsuvíkurhrauns að austan. Syðsti hluti heiðarinnar nær fram að sjó. Þar endar hún í þverhníptu bjargi sem víða er allt að 40 m hátt.

Krýsuvíkurheiði

Athvarf í Krýsuvíkurheiði.

Við yfirgefum bílinn hjá gamalli fjárrétt, sem er neðan við veginn gegnt Geitahlíð og tökum stefnuna niður á bjarg. Réttarsvæðið er athyglisvert, því frá Stóru-Eldborg, sem er þar fyrir ofan, liggur eldtröð niður fyrir veg. Í enda traðarinnar hefur þessi rétt verið gerð og mynda traðarbarmarnir réttarveggina að nokkru leyti. Við höfum Krýsuvíkurhraunið á vinstri hönd. Þí.ð hefur komið frá eldvörpunum sunnan undir Geitahlíð, bæði Stóru- og Litlu-Eldborg og mun vera nokkur þúsund ára gamalt. Það hefur runnið í sjó fram við Keflavík og þar fyrir austan og myndað landauka í seinni tíð.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg – loftmynd.

Þegar komið er fram á bjargbrún tökum við stefnuna til hægri og höldum vestur eftir. Brún bjargsins er grasi gróin og mjög greiðfær yfirferðar. Ætti gangan því að sækjast greitt, en hætt er við að hún verði nokkuð tafsöm, því það er svo ótal margt sem vekur forvitni og krefst nánari skoðunar. Fyrri hluta sumars er bjargið kvikt af fugli og bera syllurnar þess glögg merki. Þar er svartfuglinn mest áberandi og svo ritan. Þá er þröng á þingi og þegar garg þessara bjargbúa blandast við sjávarniðinn hljómar svo sannarlega stef úr „Íslandslagi“. En lögun og gerð bjargsins er ekki síður athyglisverð því þar liggur hvert grágrýtislagið ofan á öðru og gefa þau glöggt til kynna gerð þess og myndun. En það hefur gerst fyrir mörg þúsund árum.

Eystri-lækur

Eystri-lækur.

Margir halda að vatn sé ekki að finna á bjarginu, en það er rangt, því brátt verður Eystri-lækur á leið okkar. Hann á upptök sín í Bleiksmýri austan undir Arnarfelli og fellur fram af bjargbrúninni beint ofan í sjó í fallegum, lóðréttum fossi. Er sá foss sannarlega augnayndi.

Krýsuvíkurbjarg

Við vitann á Krýsuvíkurbjargi.

Nokkru vestan við lækinn komum við að litlum vita er stendur frammi við bjargbrún. Þar er tilvalið að setjast niður um stund og fá sér bita af nestinu, því drjúgur spölur er enn eftir af göngunni.
En svo breytir bjargið um svip. Hin lagskiptu berglög hverfa um stund en slétt berg með rauðum gjalllögum á milli tekur við. Þetta er suðurhluti Skriðunnar, en svo nefnist smáhæð sem gengur fram að sjó nokkru fyrir vestan vitann.
Skriðan er forn eldstöð, sem hafaldan hefur sorfið og fægt þeim megin er að sjónum snýr. Og þar á einum stað er unnt að ganga alla leið niður í fjöru. Er þá farið skáhallt eftir syllum utan í bjarginu. Nefnist þessi gata Ræningjastígur. Segir þjóðsagan að forðum daga hafi Tyrkir komið þar að landi og gengið upp á brún eftir þessum stíg. Síðan sóttu þeir heim að Krýsuvíkurbæ og hugðust vinna þar á fólki og ræna. En svo vel vildi til, að galdraklerkurinn kunni, séra Eiríkur í Vogsósum var þar staddur. Er hann sá þennan voða nálgast beitti hann kunnáttu sinni með þeim afleiðingum, að Tyrkirnir réðust hver á annan og drápust þeir þar allir. Nú liggur kaðall niður stíginn þeim til styrktar er hyggja á fjöruferð.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg – horft frá Skriðunni til vesturs.

Vestan við Skriðuna er Hælsvík og þar fyrir ofan er Selalda og Strákar. Selalda er eldstöð eins og Skriðan, en Strákar eru veðraðir bergdrangar sérkennilegir að gerð. Á sléttum bala vestan undir Strákum eru rústir af eyðibýlinu Fitjum. Standa veggir þess furðu vel og er fróðlegt að virða þar fyrir sér húsaskipan á kotbýli fyrri tíma.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn 1961.

Við Fitjar lýkur þessari leiðarlýsingu. Að vísu er bjargið vestan Hælsvíkur skoðunarvert og ekki myndi það spilla að skreppa að Húshólmanum í Ögmundarhrauni og virða fyrir sér rústirnar af býlinu sem þar var einu sinni en mun hafa eyðst þegar Ögmunarhraun brann. En fyrir ókunnuga er það nokkrum erfiðleikum háð að finna rústirnar og svo lengir krókurinn þangað gönguna allmikið. Því er best að snúa við hjá Fitjum og ganga frá Strákum beinustu leið yfir Krýsuvíkurheiðina að bílnum er bíður hjá gömlu réttinni neðan undir Stóru-Eldborg.
Þangað verður svo komið aftur eftir 5—6 klst. rólega gönguferð.“ – Tómas Einarsson.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg (Hælsvík/Heiðnaberg).

Reyndar vantar talsvert upp á að Krýsuvíkurbjargi (-bergi) sé gerð tæmandi skil í framangreindum lýsingum. Mögulega stafar það af ókunnugleik hlutaðeigandi eða takmörkuðu ritplássi. Vestan við Eystri-Bergsenda, austasta hluta Krýsuvíkurbjargs, er t.d. Litla-Hraun. Í því er að finna minjar sels frá Krýsuvík, réttar, fjárhúss og athvarfs þar sem stundaðar hafa verið bæði refa- og fuglaveiðar. Ofar í heiðinni er Jónsbúð, fjárhús frá bænum.

Selalda

Minjar við Selöldu; Krýsuvíkursel og bærinn Eyri – Uppdráttur ÓSÁ.

Ofan Skriðu eru minjar Eyris, bæjar frá 17. öld, og hið gamla Krýsuvíkursel er segir frá í þjóðsögum af Tyrkjum er komu upp frá Heiðnabergi (Hælsvík) – svo fátt eitt annað sé nefnt.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 80. tbl. 11.04.1951, Ingibjörg Sigurðardóttir – minningarorð, Kjartan Sveinsson, bls. 2 og 7.
-Vísir, 18. tbl. 21.01.1962, Undir Krýsuvíkurbergi, Sv. Þ., bls. 9 og 10.
-Morgunblaðið, 182. tbl. 21.08.1982, Á ferð um Krýsuvíkurbjarg, Tómas Einarsson, bls. 31.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg – horft frá Bergsenda vestari til austurs. Reynir Sveinsson skreytir forgrunninn.

Hvaleyri

Í dagrenningu föstudaginn 10. maí árið 1940 hélt bresk flotadeild inn á Sundin við Reykjavík. Flotadeildin samanstóð af fjórum skipum, beitiskipunum Berwick og Glasgow, og tundurspillunum Fortune og Fearless. Um borð í skipunum voru hundruð breskra hermanna, gráir fyrir járnum, tilbúnir til að hernema Ísland. Þetta átti eftir að verða einn örlagaríkasti dagur í sögu landsins.
Hernám
Árið 1939 hafði brotist út stríð milli Þjóðverja annars vegar og Breta og Frakka hins vegar, þegar Þjóðverjar réðust inn í Pólland. Þann 9. apríl árið eftir réðist þýski herinn skotbyrgi-5inn í Danmörku og Noreg og náðu þar með á sitt vald öflugum kafbátastöðvum sem styttu leið kafbáta þeirra út á Atlantshaf umtalsvert. Þetta var Bretum sérstaklega óhagstætt og þeir töldu sig því þurfa að ná valdi yfir stöðvum á Atlantshafinu þar sem þeir gætu fylgst betur með kafbátaher Þjóðverja. Því fóru þeir, um svipað leyti og Þjóðverjar hernámu Danmörk og Noreg, þess á leit við Íslendinga að þeim yrði leyft að koma hér upp varnarstöðvum. Ríkisstjórn Hermanns Jónassonar sem þá var hér við völd neitaði þessu í nafni hlutleysis landsins, þrátt fyrir að þeir skildu vandræðin sem Bretar væru í.

Hernám

Bretarnir í varðstöðu um holt og hæðir.

Bretar gátu ekki sætt sig við þetta enda voru Þjóðverjar nú farnir að gera þeim hverja skráveifuna á fætur annarri á höfunum með kafbátaher sínum. Því var ákveðið, í trássi við skoðanir íslensku ráðamannanna, að bresk flotadeild yrði send hingað og að landið myndi verða hernumið á eins friðsamlegan máta og kostur yrði á. Það var almennur skilningur meðal ríkisstjórnarmeðlima á Íslandi að Bretar þyrftu á varnarstöðvum gegn kafbátum á Atlantshafinu að halda þannig að allir bjuggust við því að þeir myndu hernema landið skotbyrgi-6hvað úr hverju. Þar sem það var lítið vitað um hug Þjóðverja varðandi Ísland voru þó ekki allir vissir um það þegar flotadeildin kom hingað, hvort hún væri bresk eða þýsk.

Hernám

Frelsandi breskir dátar í Reykjavík.

Þegar skipin vörpuðu akkeri við Reykjavík og hermennirnir streymdu á land var fátt um manninn við bryggjuna að taka á móti þeim, en þeim fjölgaði þegar á leið. Lögreglan í Reykjavík tók sig síðan meira að segja til og hjálpaði hermönnunum að halda frá forvitnum Íslendingum sem komu til að skoða þessa óboðnu gesti. Flestir höfðu það á orði að “þeir væru fegnir að þarna væru Bretar en ekki Þjóðverjar á ferð.”

Ásfjall

Ásfjall – stríðsminjar.

Þegar breski herinn var kominn hér á land tók hann til við að koma upp bráðabirgðastöðvum og eitt af því fyrsta sem bresku hermennirnir gerðu var að ganga úr skugga um að húsnæði Eimskipafélagsins í Pósthússtræti væri ekki íverustaður nasista, en merki félagsins, Þórshamar, höfðu þýskir nasistar tekið upp á sína skotbyrgi-7arma eins og flestir vita. Einnig sóttu þeir að Pósthúsinu, höfuðstöðvum Símans, Ríkisútvarpinu og Veðurstofunni, og allt var það gert í þeim tilgangi að ná á vald sitt fjarskiptastöðvum svo Þjóðverjar myndu ekki hafa veður af innrásinni í bráð. Síðan hreiðruðu þeir um sig á hinum ýmsu stöðum í borginni, t.d. í Öskjuhlíðinni. Auk þess gekk her á land á Akureyri, Austfjörðum og víðs vegar annars staðar um landið. Allt gekk þetta fyrir sig án þess að grípa þyrfti til vopna og var hernámið því hið friðsamlegasta.

Hernám

Þjóðverjar virtust verulega ógnandi…

Klukkan 10 árdegis þennan örlagaríka dag settust ráðherrar í ríkisstjórn Íslands á fund í Stjórnarráðshúsinu til að ræða atburði næturinnar. Flestir ráðherrar voru á því að þarna hefði verið lán í óláni að Bretar hefðu hernumið Ísland en ekki Þjóðverjar. Forsætisráðherra var þó ekki skotbyrgi-9öldungis sáttur með komu hinna útlendu hernámsliða og það varð úr að ríkisstjórnin myndi mótmæla hernáminu formlega og reyna að tryggja það að ríkisstjórnin myndi ráða öllu er varðaði Ísland annað en varðaði herinn beint. Þegar þessum umræðum var lokið hélt breski sendiherrann á Íslandi, Howard Smith, á fund ríkisstjórnarinnar og tilkynnti formlega að landið hefði verið hernumið, og lýsti því yfir að sér þætti leitt að til þess hefði þurft að koma og vonaðist eftir friðsamlegri sambúð við Íslendinga. Síðan spilaði hann út sínu helsta trompi þegar hann sagði að með hernáminu hefði utanríkisverslun Íslendinga verið sett úr skorðum, en Bretar væru fúsir til að “létta undir með íslensku atvinnulífi.” Þannig myndu Íslendingar fá sitthvað að launum fyrir það að hér yrði hýstur her. Þetta varð síðan til þess að færa íslenskt atvinnulíf á nýtt stig velferðar sem ekki hafði sést hér áður.

Hernámið

Hernámið…

Adolf Hitler hafði, eins og margir aðrir nasistar, mikinn áhuga á Íslandi, og á apríllok árið 1940 fékk hann þá hugmynd að Þjóðverjar myndu hernema landið. Þannig vildi hann nýta sér skjótan árangur hers síns í baráttu sinni gegn Danmörku og Noregi, og nýta jafnframt skip sem skotbyrgi-10notuð höfðu verið í Noregi til innrásar í Ísland. Þetta kallaði einræðisherrann Íkarusáætlun. Þegar Hitler kynnti þessar hugmyndir sýnar herstjórnendum mætti hann mikilli andstöðu yfirmanna flotans sem töldu að hernámi Íslands fylgdu of mikil vandræði til að geta borgað sig. Það var í sjálfu sér minnsta málið að hernema landið, vandinn var að halda því. Þannig þyrfti að halda úti birgðaflutningum yfir haf sem væri krökkt af óvinaskipum, of langt var fyrir þýska flugherinn að vernda hernámsherinn og hætta var á að hernámsliðið yrði lokað af þannig að það kæmi ekki að neinum notum í stríðinu meir. Þannig tókst yfirmönnum flotans að telja Foringjann af hugmyndum sínum og hugmyndin um innrás í Ísland var ekki oftar dregin upp í herstjórnarstöðvum Þjóðverja í stríðinu.

Hernám

Breskir hermenn í varnarstöðu.

Þegar Ísland var komið í hendur Breta höfðu þeir fengið stöðvar þær sem þeir þurftu á Atlantshafinu. Þó var langt í land að þeim tækist að ná yfirhöndinni á höfunum. Ísland kom þó að góðum notum sem bækistöð fyrir könnunarflugvélar og þaðan kom meðal annars flugvél sem kom auga á risaorrustuskip Þjóðverja, Bismarck, sem var sökkt í framhaldi af því árið 1941. Þá var fjölmörgum kafbátum sökkt eftir að flugvélar héðan höfðu komið auga á þá þannig að Ísland varð Bretum sannarlega betra en ekkert. Síðar leysti svo bandaríski herinn þann breska af við vörn landsins og hersetu. Þannig varð Ísland að virki í miðju Atlantshafi sem átti síðar eftir að vera þýðingarmikið þegar Kalda stríðið skall á eftir síðari heimsstyrjöld.”

Ásfjall

Ásfjall – Dagmálavarðan – stríðsminjar.

Bretar hernámu Ísland 10. maí 1940 til þess að hindra að Þjóðverjar kæmu sér upp flug- og flotabækistöðvum í landinu sem ógnað gætu Bretlandseyjum og skipaleiðum á Norður-Atlantshafi.
Í árslok 1942 var ekki lengur talin hætta á innrás Þjóðverja. Sumarið eftir var stór hluti breska hernámsliðsins fluttur til Bretlands til þjálfunar fyrir innrásina á meginland Evrópu. Nýr og miklu fámennari liðsafli frá Ameríku kom þá til landsins, en hélt að mestu sömu leið árið 1944.

Flestir bresku og bandarísku hermennirnir sem eftir sátu í stríðslok störfuðu á Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvelli og hurfu þeir síðustu til síns heima vorið 1947.

Ásfjall

Ásfjall – skotbyrgi.

Hafnarfjörður var í fyrstu einn af mikilvægustu varnarsvæðum breska hersins, auk Reykjavíkur, Seltjarnarness, Hvalfjarðar og Akureyrar. Fimm dögum eftir að breskir hermenn stigu á land í Reykjavík byrjuðu þeira að koma sér fyrir í Hafnarfirði og nágrenni. Um 6000 braggar voru fluttir til landsins frá Bretlandi og var þeim komið fyrir á framangreindum stöðum sem og á Sandskeiði, Kaldaðarnesi og Melgerði ofan Akureyrar.
Braggahverfi voru t.d. reist á Einarsreit, á Hvaleyri, ofan Langeyrar, á Garðaholti og úti á Álftanesi. Fyrir októberlok höfðu flestir hermannanna fengið húsaskjól í bröggunum.

Til að tryggja öryggi kampanna voru hermenn settir á vörð upp um fjöll og hæðir umhverfis, bæði til að fylgjast með umferð og til varnar ef svo ólíklega þætti að einhverjir óvinir álpuðust á land litlu eyjunni langt norður í Atlantshafi. Lítið var um skjól á þessum berangri svo varðmennirnir þurftu sjálfir að koma sér upp nauðsynlegri aðstöðu – þótt ekki væri fyrir annað en að lifa af baráttuna við ógnir veðurs og vinda.

Ásfjall

Ásfjall – stríðsminjar.

Á Ásfjalli ofan Hafnarfjarðar eru sex hringlaga skotbyrgi til minja um aðbúnað hermannanna er gæta áttu öryggis landsins. Þau voru hrófluð voru upp af tilfallandi grjóti skömmu eftir að breskar herdeildirnar gengu hér á land. Allt umleikis eru nokkur sambærileg, s.s. tvö slík á Grísanesi og eitt á Bleiksteinshálsi, þrjú á Hvaleyri og önnur á nokkrum stöðum í og við Garðaholt. Öll endusspegla þau upphaf sögu setuliðsins á svæðinu.

Bretar virðast hafa hróflað upp grjótgörðum á og utan í hæðum ofan byggða og jafnframt til að tryggja öryggi Kampanna. Einn slíkur er á Flóðahjalla í Hádegisholti. Íslendingar höfðu vanist á að hlaða slíka garða af vandvirkni skv. gömlu handbragði forfeðranna. Vel launuð „Bretavinnan“, án kröfu til vandaðra vinnubragða, bauð hins vegar upp á að þeir brytu odd af oflæti sínui, enda virtist þar fyrst og fremst tjaldað til skamms tíma.

Ásfjall

Ásfjall – stríðsminjar.

Minjarnar næst Dagmálavörðunni efst á Ásfjalli eru fyrst og fremst herminjar frá 1941. Þarna var varðskýli og skotgrafir út frá því. Hleðslurnar sjást að hluta til enn. Svo kalt var á fjallinu um veturinn að hermenn kól á póstinum og þurfti að setja saman lið til að sækja þá og bjarga öðrum í nálægum byrgjum niður af fjallinu. Áhugavert væri að skoða hvers vegna herforingjaráðið lagði svo mikla áherslu á hrófla upp skotbyrgjum hingað og þangað upp um holt og hæðir ofan bæjarins. Líklega hefur hugur þess fyrst og fremst einkorðast af eigin hagsmunaþröngsýni, þ.e. að verja landspilduna umhverfis þeirra umráð, fremur en að verja fólkið og bæjarsamfélag þess er engra hernaðarhagsmuna hafði að gæta.

Ásfjall

Ásfjall – skotbyrgi.

Fróðlegt er að fylgjast með umræðu forsvarsfólks minjasamfélagsins þegar að stríðsminjum kemur. Það vísar jafnan til ákvæða Minjaverndunarlaga um aldurskilyrði fornleifa. Stríðsminjar eru yngri en svo, en samt sem áður er heimildarglufa í lögunum um að friðlýsa megi slíkar minjar „ef sérstök ástæða þykir til“. Á meðan ekkert er að hafst glatast hver væntanleg fornleifin á fætur annarri – smám saman.
Mikill fjöldi herminja er t.d. að finna á Garðaholti þar sem varnarliðið hefur haft aðstöðu. Minjar af því tagi eru ekki sjálfkrafa verndaðar af þjóðminjalögum [minjalögum] þar eð þær eru ekki orðnar hundrað ára gamlar. Í lögunum er þó heimild til þess að friðlýsa yngri minjar. Gefur engu að síður augaleið að ýmsar herminjar á Garðaholti eru þýðingarmikil heimild um hlutdeild Íslands í einhverjum mestu stríðsátökum mannkynssögunnar og kalda stríðinu sem á eftir kom. Fullyrða má að þær hafi alþjóðlegt minjagildi.

Ásfjall

Ásfjall – skotbyrgi.

Stórar herbúðir stóðu sunnan megin á Urriðaholti og voru varðstöðvar víða í hlíðunum. Búðirnar voru um skeið aðsetur símalagningarmanna bandaríska setuliðsins og nefndust „Camp Russel“ eftir Edgari A. Russel hershöfðingja sem farið hafði fyrir fjarskiptasveitum Bandaríkjahers í Frakklandi í fyrri heimsstyrjöld. Alls er áætlað að um 80 bandarískir braggar hafi staðið í búðunum og vorið 1943 bjuggu þar alls um 500 hermenn.
Hér og þar má sjá leifar af búðunum, s.s. steinsteyptan vatnsgeymi, arinhleðslu og húsgrunna rétt norðan við Flóttamannaveginn (Setuliðsveg/Backroad). Veginn lögðu Bandaríkjamenn á stríðsárunum en Íslendingar tóku að nefna hann flóttamannaveg löngu síðar.

Ásfjall

Ásfjall – skotbyrgi.

Minjarnar um veru breska og bandaríska hersins í Urriðaholti eru mikilsverð heimild um þátt Íslands í seinni heimsstyrjöldinni. Leifar mannvirkjanna, sem reist voru í stríðinu, eru minnisvarði um vígbúnað bandamanna gegn ógnum Þriðja ríkisins. Þær hafa jafnvel alþjóðlegt minjagildi. Ekki var saga hverrar rústar eða hver rúst skráð nákvæmlega, en herminjar eru ekki verndaðar í þjóðminjalögunum. Þó hefur sú hefð skapast á síðustu árum að slíka minjar eru skráðar en ekki mældar upp nákvæmlega eins og gert er þegar um fornleifar er að tefla. Eins og sést á kortinu er um allstórt svæði að ræða og fjöldi húsgrunna og annarra minja mikill. Það er Fornleifaverndar ríkisins að ákvarða nánar um þetta svæði, hvort þurfi að skrá minjarnar enn frekar eða friða, en auðvitað væri mjög áhugavert að skoða sögu þessara minja með því að ráðast í heimildavinnu um hvað fór fram á staðnum.
Ekki er að sjá að hermannvirkin hafi raskað minjum á svæðinu, en umsvifin hafa verið töluverð. Byggðin var austast í Urriðaholti, en holtið er gróðurlítið og grýtt á því svæði. Gefur þó augaleið að ábúendur í Urriðakoti hafi orðið hennar vör með áþreifanlegum hætti.

Ásfjall

Grísanes – skotbyrgi.

Við lok heimsstyrjaldarinnar glötuðu hernaðarmannvirkin upphaflegu hlutverki sínu og voru nýtt til annarra þarfa eða fjarlægð og eyðilögð. Pólitískt andrúmsloft á kaldastríðsárunum olli því að víða var hart gengið fram í að eyða ummerkjum um veru hersins á Íslandi. Þeim mun athyglisverðari verða þá þær stríðssögulegu minjar, sem orðið hafa eftir, og hefur áhugi almennings og ferðamanna vissulega aukist á þeim. Stofnað hefur verið stríðsminjasafn á Austfjörðum sem verður án efa öðrum hvatning til varðveislu heimilda um þetta tímabil í Íslandssögunni.
Herminjar eru margar enn greinilegar í Urriðaholti, fæstar heillegar, en allt um það áþreifanlegur vottur um hlutdeild Íslands í orrustunni um Atlantshaf. Ber mest á steinsteyptri stjórnstöðinni, nokkrum steyptum grunnum, litlum turni og hliði inn á svæðið.

Flóðahjalli

Flóðahjalli – stríðsminjar.

Flóðahjalli er grágrýtisrani, sem liggur í um það bil norðvestur í framhaldi af Setbergshlíð. Hjallinn er allnokkuð gróinn og kjarrivaxinn að sunnanverðu, en er nú, því miður umlukinn þéttri lúpínubreiðu á sumrum.
Tóft er á og umhverfis klöpp eða klapparfláka nokkurn spöl vestan við hæsta hluta Flóðahjalla. Hún er óreglulega hringlaga, hlaðin úr grágrýti og hafa steinarnir án efa verið fengnir uppi á hrygg hjallans. Grjótveggirnir hafa að mestu verið hlaðnir á melnum utan við klöppina. Þar, sem veggirnir hafa staðist best, má ætla, að þeir hafi verið nokkuð á 2. m að hæð. Öll er tóftin er nærri 800 m².
Norðanvert í tóftinni eru innri hleðslur. Á klöppinni syðst á Flóðahjalla eru nokkrar stafristur. Þar er höggvið ártalið 1940, fangamarkið D.S. og væntanlega mannsnafnið J.E.Bolan. Auk þess má greina fangamörkin J.A. og G.H. með annarri og yngri (?) stafagerð svo og ártalið 1977 (?). Bolan er þekkt mannsnafn í Englandi. Það og ártalið 1940 bendir því eindregið til þess að hér hafi Bretar verið að verki hernámsárið 1940. Tóftin („the stone defence work mentioned“) mun hafa verið reist af mönnum úr 1/7 herfylki Wellingtons, sem var hluti af herdeild Camp Russel í Urriðaholti.

Hvaleyri

Hvaleyri – skotbyrgi.

Sumarið 1940, í beinu framhaldi af hertöku landsins, hóf breski herinn varnarviðbúnað með ströndinni frá Kjalarnesi og suður á Hvaleyri í Hafnarfirði og einnig á helstu hæðum á höfuðborgarsvæðinu og austan þess. Fótgöngulið sem gætti strandlengjunnar á Álftanesi, kom sér fyrir á austanverðu Garðaholti og stórskotaflokkur setti þar upp tvær stórar loftvarnarbyssur.
Herflokkarnir bresku reistu tvennar herbúðir „Camp Gardar“ og „Camp Tilloi“ á Garðaholti. Að jafnaði höfðu 300 til 340 hermenn aðsetur í báðum búðunum. Bandarískt herfylki leysti breska herflokkinn af hólmi í búðunum á meðan á stríðinu stóð og gættu loftvarnarvirkisins í Tilloi fram til ársins 1944 þegar þeir fluttu til Keflavíkur.

Garðaholt

Garðaholt – skotgrafir.

Á Garðaholti og í Garðahverfi eru ýmsar minjar frá stríðsárunum enda var aðalloftvarnarbyrgi Breta staðsett efst á holtinu. Sjálft byrgið er horfið og núna stendur hús á staðnum en ýmis önnur merki eru á svæðinu sem má tengja umsvifum Bretanna. Á Garðaholti eru til dæmis varðveitt tvö steinsteypt skotbyrgi með útsýni yfir Álftanes. Grjóthleðsla sem hlykkjast á milli þeirra hefur ef til vill verið höfð fyrir skotgröf en mögulega er hleðslan þó upprunalega frá gömlum stekki. Bretarnir endurnýttu það sem fyrir var í landslaginu. Þannig stóð líka upphaflega torfvarða með lukt á háholtinu þar sem Garðaviti var síðar byggður sem ljósgjafi fyrir fiskibáta (1868-1912) en á stríðsárunum höfðu Bretarnir vitann fyrir virki. Svolítil tvíhólfa tóft sem þarna hefur varðveist (rétt við veginn) gæti hugsanlega tengst vitastæðinu.
Samskiptin við Bretana voru yfirleitt friðsamleg og þegar þeir yfirgáfu svæðið var haldið stórt uppboð á Garðaholti. Að sögn var hluti vitabyggingarinnar seldur bænum Hlíð í Garðahverfi og endaði þar sem kamar. Annars konar muni sem keyptir voru á uppboðinu má hins vegar sjá í Króki, litla bárujárnsklædda burstabænum í hverfinu sem Garðabær varðveitir sem safn. Þannig eignaðist fjölskyldan í Króki til dæmis skápinn þar sem fína bollastellið er geymt. Efnahagur Garðhverfinga tók um þessar mundir örlítið að glæðast og var „blessuðu stríðinu“ meðal annars þakkað það. Þegar Vilmundur Gíslason bóndi í Króki varð 50 ára var því skotið saman í stofuskáp með glerhurðum sem geymdur er í fínni stofunni.
Safnið í Króki er opið alla sunnudaga á sumrin kl. 13-17 og fæst þar leiðsögn hjá safnverði sem einnig veitir upplýsingar um minjar og skoðunarverða staði í nágrenninu.

Ásfjall

Ásfjall – skotbyrgi.

Félagsleg samskipti ólíkra menningarheima, samskipti erlendra hermanna og íslensks kvenfólks sem meðal annars leiddi af sér „ástandið” og „ástandsbörnin”, örnefni eftir staðsetningu herliðs, „stríðsgróðinn” sem varð til vegna mikilla verðhækkana á fiskafurðum okkar, „Bretavinnan” sem útvegaði landsmönnum atvinnu hjá setuliðinu við framkvæmdir og svo framvegis. Þessar „óáþreifanlegu” minjar eru því allsstaðar umhverfis okkur í samfélaginu.
„Áþreifanlegu” minjarnar, svo sem leifar mannvirkja og búnaðs er hins vegar hægt að staðsetja. Bretar hernámu landið 10. maí árið 1940 og sendu hingað fjölmennt setulið síðsumars 1941, eða um 28.000 manns. Bandaríkjamenn hófu að leysa þá af hólmi í júlí 1941 og var hér tæplega 40.000 manna varnarlið frá þeim þegar mest lét. Þar að auki voru liðsmenn bandaríska og breska flotans og flughersins, alls nærri 50.000 sumarið 1943. Til samanburðar má nefna að við manntal árið 1940 voru íbúar Reykjavíkur einungis um 38.000. Þó svo að Bandaríkjaher leysti þann breska af hólmi árið 1941 voru hér breskir hermenn út allt stríðið og allt til ársins 1947.

Hernám

Patterson flugvöllur.

Herinn kom fljótlega upp varnarstöðvum víða um land. Bretar töldu Reykjavík vera langmikilvægasta staðinn sökum góðrar hafnar- og flugvallarskilyrða og því var fjölmennt lið ávallt þar. Þegar Bandaríkjamenn leystu Breta af hólmi þá fylgdu þeim breyttar áherslur við varnarviðbúnað. Stafaði það meðal annars af aukinni baráttu gagnvart kafbátaógn Þjóðverja auk þess sem hættan á innrás þeirra var talin hverfandi. Bandaríkjamenn lögðu enn meiri áherslu á varnir Reykjavíkursvæðisins en Bretar og höfðu allt að 80% liðsaflans á suðvestur horninu. Uppbygging flugvallarins í Keflavík hafði þó eitthvað þar að segja. Í heild námu hernumin svæði hérlendis ríflega 19.000 hekturum og þar af voru byggingar hersins á nærri 5.000 hekturum. Allur aðbúnaður hersveita Bandaríkjamanna var þó allt annar og betri en Breta auk þess sem þeir fluttu hingað með sér mikið magn stórvirkra vinnuvéla. Báðir reistu umfangsmiklar herbúðir víða um land. Alls risu um 6000 breskir braggar, hundruð annarra bygginga eins og eldhús og baðhús. Síðar bættust við um 1500 bandarískir braggar. Bretar byggðu aðallega svokallaða Nissen-bragga en Bandaríkjamenn Quonset-bragga. Má segja að megin munur þessara tegunda hafi verið vandaðri smíð þeirra síðarnefndu.

Hernám

Braggahverfi á Skólavörðuholti.

Við árslok 1944 bjuggu rúmlega 900 manns í bröggum í Reykjavík. Búsetan náði hámarki á sjötta áratugnum en þá bjuggu 2300 manns í nærri 550 íbúðum. Á 7. áratugnum var skálunum hins vegar að mestu útrýmt. Á landsbyggðinni voru flestir braggarnir rifnir og seldir bændum og risu þeir víða sem geymslur og fjárhús sem má ennþá sjá í fullri notkun.
Greiðslur Sölunefndarinnar voru meðal annars ætlaðar til að gera landeigendum kleift að útmá ummerki um veru herliðsins. En mörgum landeigendanna, sem þágu skaðbætur fyrir landspjöll, láðist að hreinsa til eftir veru setuliðsins. því má segja að viðkomandi aðilar hafi með þessu bjargað mörgum ómetanlegum menningarverðmætum frá glötun og vonandi að þau verði varðveitt sem flest um ókomin ár.
Af einstökum byggingum hérlendis er flugturninn við Reykjavíkurflugvöll sennilega merkust en því miður stendur til að rífa hann. Af stærri svæðum eru helst Öskjuhlíðin og Brautarholt á Kjalarnesi sem gefa heillega mynd af varnarviðbúnaði bandamanna hérlendis. Hvalfjörður, Reykjavíkurflugvöllur og Pattersonflugvöllur á svæði varnarliðsins við Keflavík hafa sömuleiðis að geyma mjög merkar minjar um síðari heimsstyrjöldina.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – skotbyrgi.

Í höfuðborgarlandinu hefur mest verið látið með stríðsminjar í Öskjuhlíð og á Reykjavíkurflugvelli sem nær yfir Vatns- og Seljamýri. Af varnarviðbúnaðinum á Öskjuhlíðinni eru meðal annars steypt skotbyrgi, stjórnbyrgi, víggrafir úr torfi og grjóti, loftvarnarbyrgi, varnarveggir fyrir eldsneytistanka, neðanjarðarvatnstankar, bryggjustubbur, veganet, fjöldi gólfa og grunna undan bröggum og öðrum byggingum og akstursbrautir fyrir flugvélar. Nokkrir braggar eru við rætur Öskuhlíðar. Hluti gistibúða farþega og flugáhafna breska flughersins (e. Transit Camp) má enn sjá í Nauthólsvík. Öll stóru flugskýlin fjögur á Reykjavíkurflugvelli eru frá stríðsárunum og sömuleiðis gamli flugturninn. Allar meginbrautir flugvallarins voru lagðar á stríðsárunum en hafa verið lengdar og endurbættar eftir stríð. Nær allt lauslegt frá stríðsárunum hefur verið fjarlægt eða ryðgað og fúnað. Þar á meðal gaddavírsgirðingar og sandpokavígi.

Þorbjarnarfell

Camp Vail á Þorbjarnarfelli.

Af öðrum stríðsminjum má nefna að minjar um ratsjárstöðvar og kampa eru meðal annars uppi á Þorbjarnarfelli (Camp Vail) við Grindavík og leifar skotbyrgja og skotstöðva má einnig sjá við Vífilsstaði, Hraunsholt, á Garðaholti, Nónhæð og á Seltjarnarnesi. Hlaðin byrgi og skotgrafir má auk þess sjá, sem að framan greinir, á Ásfjalli, Urriðaholti, Rjúpnahæð og víðar. Miklar framkvæmdir kölluðu á töluverða malartöku til uppfyllingar og vegagerðar. Við Reykjavík var helst sótt í námur úr Rauðhólunum og Öskjuhlíð. Af einstökum verkefnum vó uppfyllingin undir Reykjavíkurflugvöll þar þyngst. Segja má að Rauðhólarnir hafi ekki borið sitt barr síðan. Fjölmargar minjar birgðarstöðvar hersins í Rauhólum má berja þar augum enn í dag.

Breiðagerðisslakki

Brak á slysstað ofan Breiðagerðisslakka.

Af ummerkjum beinna hernaðarátaka má nefna þegar þýska vélin JU-88 var skotin niður 24. apríl 1943 á Strandarheiði. Bandamenn misstu þó mun fleiri vélar sjálfir vegna tíðra slysa af náttúrulegum ástæðum eða vegna mannlegra mistaka. Til dæmis fórust að minnsta kosti 43 hervélar auk 11 sjóvéla á Reykjavíkursvæðinu á styrjaldarárunum.
Allar flugvélaleifar í nágrenni Reykjavíkur voru fjarlægðar jafnóðum. Málmurinn var notaður í brotajárn og sérstaklega var sóst eftir álinu. Til dæmis keyptu Stálhúsgögn hf. 32 Thunderbolt P-47 orrustuvélar 33. flugsveitarinnar fyrir 10.000 krónur við stríðslok og bræddu þær niður í stóla og borð. Flugvélaflök er nú helst að finna í Fagradalsfjalli og við Grindavík. Töluvert er líka um flugvélaflök í sjónum. Flugvélar stríðsaðila sem fóru í sjóinn hafa sumar hverjar verið að koma upp með botnvörpum togaranna. Þær eru flestar á óaðgengilegum stöðum og koma upp í bútum.
Sprengjur eru enn að koma upp úr jörðu á skotæfingasvæðum vegna frostlyftingar og hafa valdið mannskæðum slysum. Stórskotæfingasvæði voru meðal annars við Kleifarvatn og við Snorrastaðatjarnir.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – stríðsminjar.

„Öskjuhlíðin var mikilvægur staður þegar kom að því að verja borgina fyrir Þjóðverjum. Þaðan var hægt að beina fallbyssum til dæmis að höfninni, enda var lík­leg­ast að óvinaher færi þangað inn ef til innrásar kæmi,“ segir Friðþór Eydal. Hann er höfundur texta á upplýsingaskiltum sem á dögunum voru sett upp á sjö stöðum á Öskjuhlíðarsvæðinu, en við hvert þeirra eru stríðsminjar sem vert er að skoða og halda til haga sögunni um. Uppsetning skiltanna var samstarfsverkefni Isavia og Reykjavíkurborgar.

Á tveimur stöðum í Öskjuhlíð eru sérstaklega eftirtektarverðar stríðsminjar. Skammt fyrir neðan Perluna er stór steinsteypt virk­is­borg, að mestu niðurgrafin. Byrgi þetta er átta metrar á hvern kant og inn í það er gengt um yfir­byggðar tröppur sem eru hvorar á sínum gafli. Þarna ætlaði herlið að haf­ast við ef kæmi til árásar á borgina og flugvöllinn, en Bretar hófust handa um gerð hans snemma eftir að þeir hernámu Ísland 10. maí 1940. Meðal Bretanna var raunar jafnan talað um Öskjuhlíð sem Howitzer Hill, sem í beinni þýðingu er Fall­byssu­hæð.

Stærsta mannvirkið frá stríðstím­um sem enn stendur í Öskjuhlíðinni er nokkurra tuga metra langur veggur, tveir til þrír metrar á hæð, úr hlöðnu grjóti og steypt er milli steina. Vegg­ur þessi var reistur til þess að koma í veg fyrir flóð brennandi eldsneytis niður hlíðina ef loft­árás yrði gerð á eldsneytistanka sem þar stóðu. Bæði við varnarstjórnstöðina gömlu og varnarvegginn, svo og í Nauthólsvík, eru skilti með upplýsingum og texta frá Friðþóri, sem þekkir sögu Íslands í seinni heimsstyrjöldinni flestum betur.

Camp Russel

Camp Russel – arinn…

„Úr þessum byrgjum átti að verja Hafnarfjarðarveginn, sem herfræðilega var mikilvæg leið, til dæmis ef gerð yrði innrás um Hafnarfjörð. Einnig var komið upp byssuhreiðrum til dæmis í Grafarholti, Breiðholti, Vatnsendahæð, Hvaleyrarholti í Hafnarfirði og Álftanesi, þar sem var heilmikil varðstöð með fall­byssum sem áttu að verja sjóleiðina inn til Reykjavíkur. Standa mannvirki á síðastnefnda staðnum að nokkru enn þá. Einnig eru minjar á Valhúsahæð og í Engey en í flestum tilvikum hafa þessar minjar og mannvirki verið fjarlægð eða eru hulin gróðri,“ nefnir Friðþór, sem telur þarft að halda sögu stríðsminja til haga. Þær sé víða að finna og sumt megi auðveld­lega varðveita fyrir komandi kynslóðir. Mikilvægt sé sömuleiðis að setja fram réttar upplýsingar fremur en það sem betur kunni að hljóma“.

Minjar stríðs geta verið margs konar. Þær geta verið leifar bygginga, tækja og búnaðar sem tengjast herliði en þær geta líka verið leifar áhrifa hersetuliða á tungumál. Félagsleg samskipti ólíkra menningarheima, samskipti erlendra hermanna og íslensks kvenfólks sem meðal annars leiddi af sér „ástandið” og „ástandsbörnin”, örnefni eftir staðsetningu herliðs, „stríðsgróðinn” sem varð til vegna mikilla verðhækkana á fiskafurðum okkar, „Bretavinnan” sem útvegaði landsmönnum atvinnu hjá setuliðinu við framkvæmdir og svo framvegis. Þessar „óáþreifanlegu” minjar eru því alls staðar umhverfis okkur í samfélaginu.
„Áþreifanlegu” minjarnar, svo sem leifar mannvirkja og búnaðar er hins vegar hægt að staðsetja. Hérlendis er Stríðsárasafnið við Reyðarfjörð eina safnið sem sérhæfir sig í að sýna og varðveita sögu þessa tímabils. Þar má meðal annars finna bragga og fjögur loftvarnarbyrgi. Í þessari grein verður hins vegar reynt að gefa vísbendingu um hvar helstu leifar mannvirkja og hertóla úr síðari heimsstyrjöldinni er að finna. Ummerki varnarliðs Bandaríkjahers frá kalda stríðinu bíða betri tíma.

Winston Churhill

Winston Churchill Reykjavík.

Winston Churhill, sem verið hafði flotamálaráðherra en varð síðar forsætisráðherra Bretands, gerði að sínum hin fleygu orð að sá sem réði yfir Íslandi beindi byssu að Englandi, Ameríku og Kanada. Til að koma í veg fyrir innrás Þjóðverja í Ísland ákvað hann að verða fyrri til og tryggja með því siglingaleiðir um Norður-Atlantshaf. Hafa ber í huga að Churhill reyndist ekki alltaf allsgáður er hann opinberaði yfirlýsingar sínar um mikilvægi hins og þessa.
Í stuttri heimsókn Churchills til Íslands árið 1941 sagði hann Hermanni Jónassyni forsætisráðherra að Bretar hefðu neyðst til að hertaka Íslands og hefðu gert það jafnvel þótt Þjóðverjar hefðu orðið á undan þeim.
Herverndarsamningur var undirritaður í júlí árið 1941 milli Bandarríkjanna, Bretlands og Íslands og fól í sér að bandarískar hersveitir myndu aðstoða og síðar leysa breska hernámsliðið að hólmi.

Tveir „campar“ voru í Garðaholti á stríðsárunum, báðir í sunnanverðu holtinu, austan núverandi samkomuhúss (Garðaholts).

Camp Gardar voru sunnan móta Garðavegar og Garðholtsvegar á austanverðu Garðaholti. Búðirnar voru reistar sumarið 1940 fyrir undirfylki (Company) úr 1/7 Duke of Wellington Regiment. Í marsmánuði árið eftir tóku liðsmenn 11 Durham Light Infantry Regiment við og því næst 1 Tyneside Scottish Regiment í október sama ár. Í desember 1941 tók undirfylki C og flokkur úr 10th Infantry Regiment Bandaríkjahers við búðunum og dvaldi þar fram í júlí 1943 er hersveitin hélt af landi brott. Að jafnaði höfðu um 170 Bandarískir hermenn aðsetur í búðunum.

Kamp Tilloui

Camp Tilloiu á Garðaholti.

Camp Tilloi var við Garðaholtsveg á austanverðu Garðaholti á móts við Grænagarð. Loftvarnabyssuvígi á Garðaholti þar sem húsið Grænigarður stendur í skógræktarlundi. Búðirnar voru reistar sumarið 1940 fyrir stórskotaliðsflokk (Section) úr 4 Heavy Anti Aircraft Battery sem hafði tvær 3,7 þumlunga loftvarnabyssur á Garðaholti ofan við veginn og þar sem nú stendur húsið Grænigarður í skógræktarlundi á holtinu. Herflokkurinn fluttist í nýtt loftvarnabyssuvígi á Laugarnesholti í Reykjavík í júlí 1941. Þá tók við samskonar flokkur á Garðaholti úr 203 Heavy Anti Aircraft Battery en sú liðsveit hafði einnig byssuvígi við Breiðabólsstað á Álftanesi og á Kópavogshálsi. Bandaríska stórskotaliðssveitin 494 Coast Artillery Battalion (AA) tók við í ágúst 1942 til október 1943 en þá tók Battery D, 748th Anti Aircraft Gun Battalion (áður 25th (Separate) Coast Artillery Battalion) við. Starfrækslu loftvarnarbyssanna í Camp Brighton við Breiðabólsstað var þá hætt en sveitin starfrækti loftvarnabyssuvígið á Garðaholti þar til í febrúar 1944 þegar sveitin flutti til Keflavíkurflugvallar. Um 140 – 170 bandarískir hermenn höfðu jafnan aðsetur í Camp Tilloi.

Garðaholt

Camp Gardar Tilloi…

Samtals voru í Gardar og Tilloi-búðunum 36 braggar og 9 hús af öðrum gerðum þegar báðar höfðu verið yfirgefnar.

Ótal stríðsminjar má enn finna hér á landi, hvort sem um er að ræða skotgrafir, skotbyrgi, flugvelli, braggaleifar eða flugvélaflök. Allt framangreint, einkum leifar flugvélalíkanna, virðast vera að fara forgörðum vegna áhugaleysis hlutaðeigandi opinberra aðila er ber að gæta þess að sagan kunni að verða komandi kynslóðum jafn ljós og þeim er upplifðu hana á sínum tíma…

Heimildir:
-Herbúðir bandamanna í Hafnarfirði og nágrenni í síðari heimsstyrjöld. Samantekt eftir Friðþór Eydal, 1. ágúst 2011
-Skjöl bandaríska og breska hersins og Sölunefndar setuliðseigna í þjóðskjalasöfnum Bretlands, Bandríkjanna og Íslands.
-https://www.frettabladid.is/frettir/satt-og-logid-um-hernamid-og-hersetuna/
-https://www.hafnarfjordur.is/stjornsysla/frettir/arid-er-1949-afmaelisveisla-fyrir-sjotuga-hafnfirdinga
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=4609
-http://www.visindavefur.hi.is
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/06/25/frodleikur_a_fallbyssuhaed/

Ásfjall

Ásfjall – Dagmálavarðan.

Eftirfarandi frásögn Gísla Sigurðssonar lögreglumanns og síðar forstöðumanns Byggðasafns Hafnarfjarðar birtist í jólablaði Alþýðublaða Hafnarfjarðar 1959 undir fyrirsögninni „Hafnfirðingur„. Gísli fæddist 1903 í Hrunamannahreppi. Árið 1910 fluttist hann með fjölskyldu sinni til Hafnarfjarðar. Gísli skráði fjölmargar örnefnalýsingar á vestanverðum Reykjanesskaganum. Hér segir hann frá því hvernig er að verða Hafnfirðingur. Margir aðrir geti samsvarað honum um slíkan áunnin titil í gegnum tíðina:

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, eftir að hafa hlotnast fálkaorðan.

„Ég gekk með pabba út á móana fyrir vestan lækinn. Þar kvaddi hann mig. Hann var að fara í verið til Grindavíkur. Það hafði hann gert frá því fyrst ég mundi eftir mér. Frá því ég fór að ganga hafði ég fylgt honum stuttan spöl, fyrst ásamt mömmu, en nú í tvö ár einn þar sem mamma var vistuð á öðrum bæjum.

Sólheimar

Sólheimar í Hrunamannahreppi.

Ég bar ekki allt of mikið skyn á hvað það var „að fara í verið,“ en pabbi skildi það, enda var hann heitur til augnanna, þegar hann kvaddi mig. Ég staldraði við og horfði á eftir honum, þar sem hann gekk léttum skrefum troðninginn vestur með fjallinu.

Hrepphólar

Hrepphólar.

Ég man hann hafði brugðið sokkunum utan yfir buxnaskálmarnar. Hann var á skóm með ristar- og hælþvengjum. Mamma hafði gert skóna. Þeir fóru vel á fæti. Hann hafði bundið poka á bakið og í honum voru allar eigur hans, sokkaplögg, nærföt til skiptanna og vinnuföt, og svo var hann með nestisbita, sem duga skyldi ferðina á enda. Er ég hafði horft eftir honum um stund sneri ég heim aftur til stóra, góða leiksystkinahópsins, en börnin tíu á Sólheimum í Ytri-Hrepp voru öll þremenningar við mig. Ég minnist þess, að oft eftir þetta var á heimilinu farið að tala um Hafnarfjörð og að farið var að kalla mig Hafnfirðing.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður á fyrri hluta 20. aldar.

Rétt eftir sumarmál kom mamma. Hún var að kveðja frændfólkið, því þau pabba og mamma höfðu þá ákveðið að flytjast úr vinnu- og lausamennsku í Hreppnum til Hafnarfjarðar í þurrabúð.
Mamma ætlaði sér að vera komin suður, þegar pabbi kæmi úr verinu. Ég og Margrét vinnukona fylgdum mömmu vestur á fjallið, Galtafellsfjall. Þegar við sáum niður á bæinn Galtafell stönzuðum við. Þarna kvaddi ég mömmu og sneri til baka með Margréti.

Hún mamma sagði frá því síðar, að ekki ætlaði henni að ganga vel að fá ferð úr Hreppnum, þá loksins það var ákveðið. Margir bændanna fóru þá í svokallaðar lokaferðir til Reykjavíkur. Hún hafði hugsað sér að komast með einhverjum þeirra. En þótt farangur hennar væri aðeins poki með sængurfötum og annar með rokknum, Helgi bróðir á fimmta ári og hún sjálf, þá var næsta óvíða rúm fyrir þetta. Fyrst reyndi hún að koma flutningnum fyrir hjá þeim bændum, sem ætluðu suður með tvo vagna, en þar varð engu á bætt.
Eftir mikla fyrirhöfn kom hún svo pokunum og Helga á vagn hjá bónda, sem aðeins fór með einn vagn. Sjálf varð hún að ganga, en það var nú ekki frágangssök. Mamma mundi þessum bónda alla tíð síðan þennan greiða, enda sagði hún oft: „Hann var fátækur eins og ég, því gat hann gert mér þennan greiða borgunarlaust.“
Mömmu munaði ekki um að ganga frá Reykjavík til Hafnarfjarðar 10 km, þó að hún þyrfti að bera Helga mestan hluta leiðarinnar, þar sem hún hafði nýlokið 100 km göngu austan úr Hreppum til Reykjavíkur. Pokana skildi hún eftir. Pabbi gat nálgast þá, þegar hann væri kominn.

Lækjargata 6

Lækjargata 6.

Mamma lagði leið sína strax suður í Hafnarfjörð og kom heim til Vigfúsar klénsmiðs bróður síns og konu hans Steinunnar. Þar vissi hún að tekið yrði móti henni opnum örmum, enda var það svo. Seint á lokadagskvöldið kom pabbi, og fengu þau að vera fyrstu næturnar hjá Vigfúsi og Steinunni. Strax næsta dag fóru þau pabbi og mamma að leita fyrir sér um íbúð. Gekk það greiðlega. Í húsinu nr. 6 við Lækjargötu var eitt herbergi í vesturenda laust til íbúðar, ásamt aðgangi að eldhúsi og geymslu í kjallara, fyrir kr. 4 um mánuðinn. Hér réðu húsum Guðlaugur Jónasson úr Flóa ættaður og Halldóra Gíslína Magnúsdóttir frá Fiskakletti hér í Firðinum, langt í ættir framskyld pabba. Húsráðendurnir bjuggu með þrjú börn sín í tveimur herbergjum niðri, en á loftinu bjuggu Auðunn Magnússon, bróðir Halldóru, og kona hans Þórunn Hansdóttir með tveimur sonum sínum. Þau pabbi og mamma voru þegar komin í félagsskap ágæts fólks.
Hafnarfjörður 1910
Svo fluttu þau í herbergið með allar sínar föggur. En hvar voru húsgögnin og búshlutirnir? Engir til. Var þá ekki heppilegt, að Vigfús og Steinunn höfðu nýlega lagt til hliðar m.a. ágætt rúmstæði sundurdregið, smíðað í Dverg hjá Jóhannesi Reykdal. „Hvort þau gætu notast við þetta?“ spurðu Vigfús og Steinunn. „Já, ég held nú það, blessuð verið þið,“ sögðu pabbi og mamma. „Svo er heima hjá okkur borð,“ sögðu þau Vigfús og Steinunn, „sem við getum ekki komið fyrir, þar sem við erum að fá okkur annað stærra, hvort pabbi og mamma gætu notað það?
Jú, jú, fyrst svo stóð á var alveg sjálfsagt að taka við borðinu. Svo voru þau í vandræðum með stóra kistu. Gætu þau pabbi og mamma ekki tekið hana af þeim, það væri hægt að geyma í henni matvæli, svo sem hveiti, sykur og útákast og margt fleira. Svo var hún ágætt sæti, ef á þyrfti að halda. Þau urðu örlög þessara muna, að þeir fylgdu pabba og mömmu alla þeirra búskapartíð og voru þá fyrst lögð niður, er þeim hafði verið valinn annar hvíldarstaður. Nú, það var ekki erfitt að hefja búskap, þegar nauðsynjahlutirnir bárust svona upp í hendurnar á fólki.
Hansensbúð
„En margs þarf búið með,“ sagði Sighvatur á Grund. Pabbi kom með vertíðarkaupið sitt óskert og fyrir það voru keyptir búshlutir ýmiss konar. Í Hansensbúð var þá margt góðra búshluta. Þar var keypt olíuvél, þríkveikja, pottar tveir, ketill, kaffikanna og stryffa (kastarola), bollaskrúfa, sykurkar, diskar djúpir og grunnir, ágætt steintau, olíubrúsi 10 potta. Spænirnir voru látnir duga og sjálfskeiðingarnir til að borða með. Borðhnífar og gaflar komu ekki fyrr en löngu seinna. Svona var sveitafólk lengi að átta sig á breyttum lifnaðarháttum.
Hér var búið að stofna til nýs heimilis í Hafnarfirði. Maður og kona með barn höfðu bætzt við þann hóp manna, sem kölluðu sig Hafnfirðinga. Þessir nýju Hafnfirðingar eignuðust vini og bundust tryggðaböndum, sem ekki brustu meðan báðir aðilar lifðu. En bezt var þó vináttan við þau hjón Vigfús og Steinunni. Þeim pabba og mömmu gekk vel að fá sér atvinnu. Enginn gekk þess dulinn, að þau voru bæði dugleg og ósérhlífin. Þau myndu leggja fram sinn skerf til uppbyggingar þessa byggðarlags. Svo leið vorið með nægri vinnu og velmegun. Helgi eignaðist vini við sitt hæfi. Hann kynntist Rósa og svo fékk hann líka að vera með Pétri.

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn.

Á krossmessu, vinnuhjúaskildaga, fór ég frá Sólheimum og fluttist að Hrepphólum. Það er víst nokkuð mikið sagt, að strákur á áttunda ári hafi ráðizt hjú á slíkt stórbýli, en þó var það svo. Þetta sumar átti ég að fá kaup. Jég átti að vinna fyrir mat mínum og þjónustu allri sumarlangt. Ég smalaði ám um vorið og sumarið, sótti hesta í haga og flutti þá, rak kýr á beit og sótti þær á kvöldin, færði mat og kaffi á engjar, var í alls konar snúningum heima við.

Nóg var að gera frá morgni til kvölds, gott viðurværi og atlæti allt. Þá má ekki gleyma rjómaflutningnum. Til þess hafði ég hest, sem hét Toppur, kallaður Lati-Toppur, röltstyggur skratti og stríðinn, lét mig elta sig hvert sinn, sem ég þurfti að sækja hann. Ég var honum öskuþreifandi vondur hvert sinn, en þegar hann sá, að ég ætlaði ekki að gefa mig, stanzaði hann. Þá rann mér þegar í stað reiðin. Ég lagði við hann beizli og fór á bak. Þá rölti hann aðeins fetið hvernig sem ég barði fótastokkinn og skammaði hann. Ég flutti rjómann að Birtingaholtsbúinu. Það tók mig tvo til þrjá tíma fram og til baka. Ég flutti einnig rjóma frá Galtafelli, Núpstúni og Hólakoti móti öðrum drengjum þaðan. Svona leið sumarið.

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, minjavörður.

Á réttadagsmorgun var ég eldsnemma á fótum eins og allir aðrir, sem fóru í réttirnar, þessa hátíð allra hátíða. Nú var ég ekki á Lata-Topp. Ég var vel ríðandi eins og hinir. Féð rak ég heim úr Hóladilknum. Er komið var á Hólamýri var því sleppt. Var þá sprett úr spori og riðið hart í hlað eins og höfðingja er siður.
Viku seinna yfirgaf ég svo Ytri-Hreppinn í bili og fluttist á hestvagni suður. Pabbi fór með rekstur og var því nokkru seinna á ferð. Hann hafði lagt svo fyrir, að ég biði hans á Árbæ hjá frændkonu okkar Margréti veitingakonu þar. Síðla sama dag kom pabbi, borgaði Margréti fyrir mig og kyssti hana mikið, eins og allra karla var siður. Svo reiddi hann mig til Reykjavíkur, þar sem ég gisti fyrstu nóttina, en pabbi fór til Hafnarfjarðar. Daginn eftir kom pabbi og sótti nokkrar kindur, sem hann hafði komið með í rekstrinum og hafði tekið upp í kaup sitt.

Ég rak svo kindurnar með pabba suður til Hafnarfjarðar. Fyrsta húsið, sem sást í Hafnarfirði, þegar komið var suður, var einlyft hús með porti og risi, nafnið skorið í tré á hliðinni, er vissi að götunni: „Sjónarhóll“. Þegar við höfðum komið kindunum í hús fórum við heim. Mamma kom á móti okkur fram í dyrnar og þar faðmaði hún að sér drenginn sinn. Voru þá liðin tvö og hálft ár, síðan ég hafði verið á sama bæ og hún. Þá flutti hún mig frá Seli að Hvítárholti í Ytri-Hrepp og lét mig eftir hjá vandalausum, góðu fólki að vísu, sem reyndist mér mjög vel. Og nú bar mamma okkur mat, sem hún hafði sjálf eldað. Færði upp úr sínum eigin potti á sína eigin diska og bar fyrir sitt fólk. Hún var glöð yfir þessu, því að nú var að rætast lengi þráður draumur.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1954.

Svo kom haustið með rökkurkvöldum sínum, þegar við Helgi sátum sinn á hvora hlið henni og hún sagði okkur ævintýri og sögur. Þessi rökkurkvöld munu seint úr minni liða. Alltaf var eitthvað nýtt að bætast við í búið. Eitt kvöldið kom pabbi heim með fjórtán línu blússbrennara, logagylltan hengilampa, sem hægt var að draga niður og ýta upp. Hann gaf bæði ljós, og svo hitaði hann vel upp herbergið. Spegill kom á einn vegginn og almanak á þilið, tjald fyrir gluggann og slökkviliðsmerkið hans pabba. Allt var þetta mikið skraut og svo tístandi járnrúmið, sem við Helgi sváfum í. Já, pabbi var strax settur á slökkviliðsdælu nr. 2. Þar var hann dælumaður og fékk nr. 30. Sprautustjórar á þeirri dælu voru þeir feðgar Vigfús og Jón Gestur frændur okkar. Fúsi frændi gaf okkur strákunum marga væna gusu. Hann vissi hvað okkur kom. Í þann tíð gerði það ekki svo mikið til þótt við kæmum hundblautir heim, bara ef hægt var að segja: Hann Fúsi frændi sprautaði á okkur. Auðvitað kom þetta aðeins fyrir, þegar slökkviliðsæfingar voru. Ég var búinn að fá skírnina. Ég var orðinn fullgildur Hafnfirðingur, fjórði maður fjölskyldunnar.

Brunalið Hafnarfjarðar

Brunabíll í Hafnarfirði  fyrir utan Reykjavíkurveg 9 um 1920.

Þegar ég hef að undanförnu farið yfir manntals- og kirkjubækur, hefur mér oft komið í hug, hvort flestir þeir, sem hér hafa setzt að, hafi ekki svipaða sögu að segja og ég hef hér sagt. Og því hef ég skráð þetta og látið það frá mér fara.
Vera má, að þú, lesari góður, rifjir upp þína eigin sögu eða foreldra þinna, sem að sjálfsögðu er viðburðaríkari en okkar og skemmtilegri. Öll höfum við flutzt hingað í leit að því, sem betra var, og fundið það í Hafnarfirði og erum hreykin yfir því að vera Hafnfirðingar.“

Sjá meira um Gísla Sigurðsson HÉR.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 19.12.1959, Hafnfirðingur – Gísli Sigurðsson, bls. 21-22.

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, foreldrar og systkini.

Hafnarfjörður 1910

Í ofanverðu Víðistaðatúni er stuðlabergssteinn. Á honum er eftirfarandi áletrun: „Til minningar um Bjarna Erlendsson 1881-1972 og Margréti Magnúsdóttur 1889-1960 sem reistu býli að Víðistöðum árið 1918 og bjuggu þar til æviloka„.

Hver voru þessi Bjarni Erlendsson og Margrét Magnúsdóttir og hverjir voru þessir Víðistaðir?

Í skýrslu Byggðasafns Hafnarfjarðar árið 2002 segir m.a. svo um „Víðistaði – skráningu fornleifa og menningarminja„. Um var að ræða lokagerð Karls Rúnars Þórssonar um sögu Víðistaða:

Víðistaðir

Víðistaðir;
Mynd: Skýringar: I er Sigurgeirstún, II stykki Kristjáns Auðunssonar, III garðyrkjustöð Kristjáns Símonarsonar (land Finnboga J. Arndals skálds), IV stykki Guðjóns Þorsteinssonar í Kletti, V stykki Benedikts Sigmundssonar, VI ungmennafélagsreiturinn (seinna athafnasvæði K.F.U.M.), VII knattspyrnuvöllurinn gamli. (IV, V, VI og VII eru afmörkuð með punktalínum, því að þau stykki eru nú öll í eigu Bjarna Erlendssonar.
1 er þar, sem Bjarni í Víðistöðum byggði fyrsta gripahús sitt, 2 íbúðarhúsið (hjá því er lítið steinhús, sem Bjarni byggði 1923 sem hænsnahús, en breytti síðar, svo að þar hefur oft verið húið), 3 lifrarbræðslustöðin, 4 gripahús og hlaða Bjarna.
Vegurinn, sem skiptir Víðistöðum að endilöngu, var lagður 1898—99, vegurinn að lifrarbræðslustöðinni, um þvera landareign Bjarna, árið 1923. Uppi á hraunjaðrinum rétt ofan við lifrarbræðslustöðina, hefur Guðmundur Þ. Magnússon nýlega byggt sláturhús.

„Bjarni riddari Sívertsen hafði sel á Víðistaðatúni fyrrum. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðaréttindi 1908 lentu Víðistaðir innan bæjarmarkanna. Um svæðið lá „kerruvegur“ út að Garðakirkju sem fram til 1914 var sóknarkirkja Hafnfirðinga. Svæðið geymir sögu ræktunartilrauna, þeirrar fyrstu frá árinu 1901 en þá tók Sigurgeir Gíslason verkstjóri til við að rækta tún í suðvesturhorni þess. Þá gerði Ungmennafélagið 17. júní tilraun árið 1907 til að rækta trjágróður í norðurhorni svæðisins, í krikanum upp við hraunbrúnina en allt kól frostaveturinn mikla 1918.

Víðistaðir

Víðistaðir – vatnsból.

Í svonefndu Sigurgeirstúni, sem var í suðvesturhorni svæðins var fyrrum vatnsból frá Langeyri og lá slóð þangað yfir hraunið. Þegar Finnbogi J. Arndal hóf að rækta kartöflur og gulrófur við austurhorn Víðistaða árið 1910, var þar enn brunnur fyrir Vesturbæinga.
Frumbernsku knattspyrnuiðkunar í Hafnarfirði má rekja til svæðisins en félögin Geyfir og Kári útbjuggu sér knattspyrnuvöll en félögin hættu starfsemi 1915. Frá 1919-1920 stunduðu knattspyrnufélögin Framsókn og 17. júní ennfremur æfingar á svæðinu. Upp úr 1936 eignaðist Fríkirkjan spildu sem hún nefndi Unaðsdal og þar voru haldnar skemmtanir til fjáröflunar, í dag eru á sumrin starfræktir skólagarðar á því svæði.

Víðistaðir

Víðistaðir – Minningarsteinn.

Svæðið geymir sögu grunnatvinnuvegarins, sjávarútvegsins, en stórfyrirtækið Brookless bræðra og síðan Helluers bræðra störfuðu í Hafnarfirði á tímabilinu 1910-1029, en þó ekki samfleitt. Létu þeir leggja fiskreiti vestan við gamla Garðaveginn. Á árunum 1923-28 starfaði svo lifrabræðsla fyrirtækisins Isac Spencer og Co á svæðinu og síðar, um 1950 var þar starfrækt sláturhús ekki langt frá Víðistaðakirkju.
Fyrstu eiginlegu landnemarnir á Víðistöðum voru hjónin Bjarni Erlendsson og Margrét Magnúsdóttir. Árið 1915 fékk Bjarni fyrst útmælt land á svæðinu og íbúðarhúsið var byggt árið 1918 og var efni í það fengið úr strönduðu skipi, að nafni „Standard“ sem strandað hafði við Svendborg.
Bjarni var einskonar frístundarbóndi. Fyrstu kúna keypti hann árið 1920, hún var í litlum kofa sem byggður var austan við veginn ekki langt frá bugðunni þegar komið er niður á Víðistaðina. Árið 1924 byggði Bjarni gripahús fyrir fjórar kýr og tvo hesta, ásamt hlöðu.

Stefán Júlíusson skrifaði um „Víðistaðina – vinin í úfna hrauninu“ í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar 1959:

Stefán Júlíusson

Stefán Júlíusson.

„Margar ferðir átti ég um Víðistaði, þegar ég var drengur. Oft lágu sporin utan úr hrauninu, þar sem ég ólst upp, og inn í bæinn, og síðan heim aftur. Erindin voru margvísleg, í skóla, til vinnu, skemmtana eða aðfanga, stundum oft á dag. Þá var engin Herjólfsgata komin með sjónum, gamli vegurinn út í Garðahverfið var því oftast farinn.
Ekki man ég svo langt aftur, að Víðistaðirnir væru mér ekki ráðgáta. Beinn og jafn vegurinn yfir hraunlausa svæðið stakk svo mjög í stúf við brekkurnar, bugður og sneiðinga, báðum megin við, að barnshugurinn hlaut að undrast. Og slétt og gróin túnin mitt í úfnu hrauni á alla vegu, þar sem á skiptust klettar og gjár, klungur og gjótur, harðbalar og djúpar lautir, urðu mér stöðugt umhugsunarefni. Hvernig gat staðið á þessari vin í hrikalegu hrauninu? Með hvaða hætti hafði þessari litlu spildu verið hlíft við yfirgangi hraunsins? Það var sízt að undra, þótt fávís og forvitinn drengsnáði, sem leið átti þarna um dags daglega, velti þessu fyrir sér. Ekki vissi ég þá, að hér hafði átt sér stað furðulegt fyrirbæri í jarðmyndunarsögunni, þótt jafnan byggi það mér í grun, að merkileg undur hefðu hér gerzt. Enginn, sem ég þekkti í bernsku, kunni skil á því, hvernig þessum bletti hefði verið þyrmt, þegar hraunið rann. Hins vegar heyrði ég snemma þjóðsögu um Víðistaðina, fagra og dýrlega helgisögu, en þannig skýrir alþýðan löngum þau undur, sem hún ekki skilur.

Bjarni ErlendssonSvo bar til, þegar hraunið rann, að smalinn frá Görðum var með hjörð sína á þeim slóðum, þar sem nú heita Víðistaðir. Hann gætti sín ekki í tæka tíð, og fyrr en varði sá hann rauðglóandi hraunbreiðuna koma veltandi fram um vellina. Eimyrjan hafði þegar lokað leiðinni heim til Garða, og hún nálgaðist jafnt og þétt á þrjá vegu, en rjúkandi sjór fyrir neðan. Smalinn sá, að sér og hjörð sinni yrði hér bani búinn, ef svo færi fram sem horfði. Í sárri angist og kvíða kastaði hann sér á kné, fórnaði höndum til himins og ákallaði drottin. Hann bað hann af barnslegu trúnaðartrausti að frelsa sig og hjörð sína frá þessum óttalega dauðdaga. Síðan byrgði hann andlitið í höndum sér og beið átekta. Og kraftaverkið gerðist. Þegar hann leit upp, sá hann, að hraunstraumurinn hafði klofnað, kvíslarnar runnu fram til beggja handa, og síðan lokaðist eimyrjan hringinn í kring um hann og fjárhópinn, en þó svo fjarri, að öllu var borgið.
Guð hafði bænheyrt hann. — Þannig urðu Víðistaðirnir til.
Margrét MagnúsdóttirÉg trúði því í bernsku, að þessi helgisaga væri sönn. Eitthvert kraftaverk hlaut að hafa gerzt, þegar þessi einkennilega vin varð til. En með árunum kom þekkingin og kippti fótum undan helgisögninni: Hafnarfjarðarhraun rann löngu áður en land byggðist. Svo vill fara um barnatrúna, hún veðrast með árunum. Og samt er hin raunsanna saga um myndun Víðistaðanna stórfurðuleg. Enginn vafi er á því, að mér hefði þótt saga vísindanna næsta ótrúleg, hefði ég þekkt hana í bernsku, þegar ég braut hvað ákafast heilann um þetta efni.
Sagan er í sem allra stytztu máli á þessa lund: Endur fyrir löngu, um þúsund árum fyrir Íslandsbyggð, var Hafnarfjörður miklu lengri en hann er nú. Hann hann þá hafa náð allt upp undir Vífilsstaðahlíð, en Setbergshlíð, Öldur og Hamar verið strönd hans að sunnan. Mikil á mun hafa fallið í þennan Hafnarfjörð hinn meiri, og mætti kalla hana Kaldá hina meiri eða fornu. Átti hún upptök sín á Reykjanesfjallgarði, sem þá hefur vafalaust verið töluvert öðruvísi útlits. Leirur hafa verið í fjarðarbotni og grynningar allmiklar, eins og títt er, þegar stórar ár bera jarðveg í sjó fram. Hólmar hafa verið í árósum og fjarðarbotni, og sumir allháir. En þá gerðist undrið. Eldgos mikilverða í hnjúkunum austan við Helgafell, hraunleðja streymir úr gígunum dag eltir dag, rennur með jafnaþunga til sjávar og finnur sér fljótlega lægstu leiðina: farveg Kaldár hinnar fornu. Rauðglóandi hraunstorkan þurrkar upp ána, máir hana beinlínis út af yfirborði jarðar, og síðan hefur hún orðið að fara huldu höfði, nema örlítill angi hennar við Kaldársel. En hraunbreiðan gerði meiri hervirki: hún fyllti upp fjarðarbotninn, svo Hafnarfjörður varð aðeins svipur hjá sjón á eftir. Þykk og mikil hefur hraunleðjan verið, að slík undur skyldu gerast.

Víðistaðir

Víðistaðir vinstra megin.

Og nú er komið að sögu Víðistaða. Þar var eyja áður, og á henni hóll ekki ómyndarlegur. Þegar eimyrjan lagði undir sig leirur, hólma og sker, og fyllti fjarðarbotninn úfinni steinstorku, veitti hóllinn á hólmanum viðnám, svo að kúfurinn stóð upp úr. Seinna fauk jarðvegur að hraunbrúninni, en kollurinn lækkaði. — Þannig varð hraunlausa vinin til.

Víðistaðir

Víðistaðir 1954.

Víðistaðirnir hafa frá öndverðu verið hluti af landnámsjörðinni, en nú er fullvíst talið, að Ásbjörn Össurarson landnámsmaður, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, hafi búið í Görðum. Þjóðsagan, sem hér var skráð að framan, bendir til þess, að þar hafi fé verið beitt frá Görðum. Þegar bújörðin Akurgerði var stofnuð sem hjáleiga úr Garðalandi, má vafalítið telja, að ábúandinn þar hafi fengið Víðistaðina sem hagablett. Löngu seinna, eða árið 1677, keyptu danskir kaupmenn Akurgerði, og er þá svo að sjá sem Víðistaðir hafi ekki fylgt. Þó hefur einhver vafi verið um þetta og Akurgerðismenn vafalaust beitt í Víðistöðum eins og þeim sýndist. Garðaklerkar og Akurgerðiskaupmenn deildu um landamerki Akurgerðislóðar, og þegar loks var sætzt á málið og mörkin gerð greinileg, árið 1880, lentu Víðistaðir utan við Akurgerðisland, en þó er svo að sjá af samningnum, að viðskiptavinir kaupmanna hafi mátt beita í Víðistöðum í lestaferðum átölu- og leigulaust. Þegar landamerki eru gerð um leið og Hafnarfjarðarkaupstaður er stofnaður árið 1908, lenda Víðistaðirnir innan bæjarmarkanna, og líður nú ekki á löngu áður en byggt er í Víðistöðum.

Víðistaðir

Kartöflugeymsla og skjólgarður, byggt af Gísla M. Kristjánssyni, líklega í kringum 1930.

Svo langt aftur sem heimildir greina, er örnefnið Víðistaðir kunnugt, og er það vafalaust fornt. Þar hefur víðir vaxið, og af því dregur hraunlausa svæðið nafn.
Ræktunarsaga Víðistaða hefst upp úr aldamótum. Árið 1901 fékk Sigurgeir Gíslason verkstjóri lóð í suðvesturhorni svæðisins og tók að rækta þar tún. Fékk hann landið hjá sr. Jens Pálssyni í Görðum. Seinna fékk hann hjá bæjarstjórn viðbótarstykki meðfram veginum, og varð stykkið allt tæpar 4 dagsláttur. Þetta tún átti Sigurgeir til ársins 1944, en þá keypti Björn Jóhannesson fyrrverandi bæjarfulltrúi það, og á hann það enn. Í Sigurgeirstúni var fyrrum vatnsból frá Langeyri, og lá slóð yfir hraunið fyrir vatnsburðarfólkið.

Víðistaðir

Víðistaðir 1959.

Norðan við Sigurgeirstúnið er lítill blettur, um fjórðungur úr dagsláttu, í norðvesturhorninu neðan vegar. Þennan blett ræktaði Kristján Auðunsson, faðir Gísla Kristjánssonar bæjarfulltrúa og þeirra systkina, og hefur hann aldrei gengið úr ættinni. Eignaðist Gísli blettinn eftir föður sinn, síðan systursonur hans, Valdimar Jóhannesson, og nú eiga hann foreldrar Valdimars, Guðrún Kristjánsdóttir og Jóhannes Narfason.
Kristján Auðunsson fékk þökurnar af þjóðkirkjulóðinni til að þekja með blett sinn í upphafi, en þá var þar melur, og hefur það að líkindum verið vorið 1914. Ekki eru önnur stykki vestan eða neðan vegar en þessi tvö.

Víðistaðir

Víðistaðir og Garðavegurinn.

Í austurhorni Víðistaða er nú garðyrkjustöð Kristjáns Símonarsonar. Þetta svæði fékk Finnbogi J. Arndal útmælt árið 1910. Er það sex dagsláttur að stærð. Finnbogi ræktaði þar kartöflur og gulrófur. Þar var þá brunnur fyrir Vesturbæinga. Hann seldi það þrem árum síðar Gísla Kristjánssyni, sem áður er nefndur, en hann aftur Jóni Einarssyni og Gísla Sigurgeirssyni, en árið 1935 seldu þeir það Guðmundi Þ. Magnússyni kaupmanni. Eftir hann eignaðist Fríkirkjan landið, og var það nefnt „Unaðsdali“. Hugðust forráðamenn kirkjunnar hafa staðinn til fjáröflunar fyrir kirkjuna, m. a. með skemmtanahaldi, en ekki mun það hafa lánazt. Kirkjan átti landið stuttan tíma, en þá keypti Kristján Símonarson það, og ræktar hann nú í Unaðsdal margar tegundir nytjajurta.

Víðistaðir

Víðistaðir – Atvinnuhús á tveimur hæðum með gluggum á neðri hæð og bíslögum til beggja hliða. Tvöfaldar dyr eru á öðru bíslaginu og standa þær opnar. Stokkur gengur frá húsinu. Mikið magn af tunnum er í stæðum og röðum framan og ofan við húsið. Lifrarbræðslustöð Isaac Spencer & Co. í Víðistöðum.

Austan við veginn, þegar kornið er niður brekkuna úr bænum, var stykki, sem Guðjón Þorsteinsson, kenndur við Klett, mun hafa fengið útmælt um svipað leyti og Finnbogi J. Arndal fékk sitt land. Þarna var votlent mjög og mógrafir og erfitt til ræktunar. Hafði faðir Guðjóns tekið þar mó. Var stykkið tæpur hektari á stærð.
Austan við þetta stykki, meðfram garðyrkjustöð Kristjáns Símonarsonar og upp að hraunbrúninni, fékk Benedikt Sigmundsson verzlunarmaður útmælda lóð um líkt leyti og þeir Guðjón og Finnbogi. Var þetta stykki um dagslátta að stærð.
Eftir að Helgi Valtýsson gerðist kennari við Flensborgarskólann árið 1907, beitti hann sér fyrir stofnun ungmennafélags hér í bænum, og hlaut það nafnið 17. júní. Eitt af verkefnum þessa félags var að koma upp vísi að trjárækt og gróðurreit í Víðistöðum. Reiturinn var í norðurhorni svæðisins, í krikanum alveg upp við hraunbrúnina. Þetta félag lifði ekki mörg ár, og gróðurreiturinn gekk fljótt úr sér. Síðustu leifar trjásprotanna, sem þar voru settir niður, kól alveg til dauða frostaveturinn 1918. Fór þannig um fyrstu tilraun til skóggræðslu í Hafnarfirði. Þetta litla svæði mun drengjaflokkur í K. F. U. M. hafa erft eftir ungmennafélagið. Stýrði sr. Friðrik Friðriksson þessum flokki. Bjuggust þeir litklæðum að fornum sið, þegar þeir voru á athafnasvæði sínu. Strýtulagaður klettur var ræðustóll, sandgryfja matskáli, og var starfsemi þeirra frískleg meðan hún entist. K.F.U.M. mun hafa ráðið yfir þessum bletti til 1924.

Víðistaðir

Víðistaðir – lifrarbræðslan.

Skammt frá trjáreit ungmennafélagsins, á stórgrýttum mel til suðurs, ruddu knattspyrnumenn fyrsta knattspyrnuvöll, sem gerður var í Hafnarfirði. Mun það hafa verið eftir stofnun knattspyrnufélaganna Geysis og Kára, en þau störfuðu á stríðsárunum fyrri. Síðan tóku við félögin Framsókn og 17. júní, sem stofnuð voru sumarið 1919, og munu þau einnig hafa æft í Víðistöðum í fyrstu.
Hér að framan hefur í örstuttu máli verið rakið, hverjir fyrst fengu útmældar lóðir og lendur í Víðistöðum og hófu þar ræktun og starf.“
Nú koma til sögunnar hinir eiginlegu landnemar í Víðistöðum, sem þar reistu sér hús og þar hafa búið í fjörutíu ár, en það eru þau hjónin Margrét Magnúsdóttir og Bjarni Erlendsson.
Bjarni Erlendsson er Árnesingur að ætt, fæddur að Vogsósum í Selvogi 30. marz 1881, en uppalinn í Króki í Hjallahverfi í Ölfusi. Hann er því kominn last að áttræðu, en aldurinn ber hann ágæta vel. Margrét kona hans er Hafnfirðingur, fædd hér í bæ 22. maí árið 1889, og stendur hún því á sjötugu.
Bjarni lauk skósmíðanámi í Reykjavík, en aldrei hefur hann stundað þá iðn. Hann fór utan árið 1902 og dvaldist í Bretlandi um tíu ára skeið, mest í Aberdeen í Skotlandi. Vann hann þar aðallega við fiskverkun og önnur lík störf. Árið 1912 kom Bjarni heim til Íslands og settist að í Hafnarfriði. Réðst hann til fyrirtækisins Brookless Bros, sem þá hafði fyrir skömmu hafið litgerðarstarfsemi hér í bænum. Vann hann hjá fyrirtækinu, meðan það starfaði hér.

Víðistaðir

Víðistaðir – hér stóð bærinn fremst á myndinni.

Bjarni hóf starf í Víðistöðum árið 1915, en það ár fékk hann útmælt hjá bæjarsjóði allt það land þar, sem ekki hafði áður verið tekið. Afmarkaðist það af veginum að vestan, hrauninu að norðan, stykki Guðjóns Þorsteinssonar og Benedikts Sigmundssonar að sunnan, en að austan af hraunbrún, knattspyrnuvelli og athafnasvæði K.F.U.M., eða gamla ungmennafélagsreitnum. Árið 1917 keypti Bjarni stykki Guðjóns og Benedikts, og árið 1924 fékk hann bæði knattspyrnuvöllinn og K.F.U.M.-svæðið. Þá fékk hann einnig viðbótarlandsvæði uppi á hraunjaðrinum að austan.
Jarðlag í Víðistöðum var þannig áður en ræktun hófst þar, að syðst var mýrkenndur jarðvegur og votlent, og er svo raunar enn. Var þar mótekja áður eins og sagt er hér að framan. Þurramóar voru þar, sem nú er garðyrkjustöð Kristjáns Símonarsonar. En að norðanverðu var harður melur eða ísaldarhraun, ekki ósvipað holtunum sunnan við bæinn, og var allstórgrýtt á köflum.
Á svæðinu, sem Bjarni fékk útmælt, var hvergi stingandi strá nema í hraunjaðrinum, en stórgrýti víða og djúpar sandgryfjur, því að ofaníburður hafði verið tekinn í Víðistöðum um skeið. Þurfti því bæði áræði og ötulleik til að ráðast í ræktunarframkvæmdir þarna, en Bjarna skorti hvorugt. Hófst hann handa á því að rækta kartöflur, þar sem tiltækilegast var, en réðst jafnframt miskunnarlaust á stórgrýtið og sandgryfjurnar.

Víðistaðir

Víðistaðir – gamli Garðavegurinn.

Ekki leið á löngu áður en Bjarni tók að hugleiða um byggingu í Víðistöðum. Og þrem árum eftir að hann fékk landið, eða haustið 1918, hóf hann byggingu hússins, sem enn stendur og er eina íbúðarhúsið, sem byggt hefur verið í Víðistöðum. Bjarni byrjaði að hlaða grunninn 18. október, en einmitt þann sama dag tók Katla að gjósa. Grjótið í grunninn var tekið upp úr landinu í kring.
Efni í húsgrindina keypti Bjarni úr skipi, sem strandað hafði við Svendborg nokkru áður. Hét það Standard og var mikið skip. Ekki gekk smíði hússins slyndrulaust, því að einmitt um þetta leyti geisaði spanska veikin svonefnda, og veiktust smiðirnir hver af öðrum. Lengst entist Guðjón Jónsson, núverandi kaupmaður, en loks var hann tekinn í að smíða líkkistur, því að mikið var um dauðsföllin, en fáir smiðir vinnufærir. Gekk á þessu fram undir jól.
En um vorið var smíði hússins þó að mestu lokið, og var flutt í það 14. maí 1919. Fyrst fluttu þangað hjónin Þorgrímur Jónsson og Guðrún Guðbrandsdóttir, en Þorgrímur vann manna mest með Bjarna að landnáminu fyrstu árin. Nokkru seinna fluttu þau hjónin, Margrét og Bjarni, í hús sitt, en þau giftust 7. júní 1919.
Bjarni í Víðistöðum fékk fljótt að kenna á miklum erfiðleikum í hinu nýja landnánri sínu. Mestur Þrándur í Götu var honum áburðarleysið. Hann sá brátt, að ófrjó jörð sín greri seint og illa, ef hann yrði sér ekki úti um lífrænan áburð.

Víðistaðir

Víðistaðir – gamall garður.

Á fyrstu árum sínum í Víðistöðum tók hann því að sér sorphreinsun í bænum, og fyllti gryfjur og lautir með ösku og úrgangi, en notaði áburðinn við ræktunina, er hann tók að plægja melinn og sá í flögin.
Árið 1923 hefst nýr þáttur í sögu Víðistaðanna. Þá gerði Bjarni samning yið skozkt fyrirtæki, Isaac Spencer og Co, um byggingu lifrarbræðslustöðvar þar á staðnum. Tvennt bar til þess, að Bjarni stofnaði til þessarar starfrækslu. Annað var það, að árið 1921 varð fyrirtækið Brookless Bros gjaldþrota, en þar hafði Bjarni unnið frá heimkomu sinni. Hitt var áburðarvonin. Lóðarleigan var því sama sem engin, eða aðeins 1 sterlingspund til málamynda, en Bjarni skyldi hafa atvinnu hjá fyrirtækinu og allan afgangsgrút fékk hann ókeypis til áburðar.
Stórt stöðvarhús var byggt í hraunjaðrinum að norðaustan og síðan grútarpressuhús. Bjarni veitti byggingunni forstöðu, og jafnframt var hann verkstjóri, en forstöðumaðurinn var skozkur, William Kesson að nafni, og kom hann hingað á sumrin og dvaldist í Víðistöðum ásamt konu sinni. Meðan verið var að koma fyrirtækinu á laggirnar unnu 10—20 menn við það, en 5 menn að jafnaði síðan, eftir að tekið var að bræða. Lengst munu þeir hafa unnið þar, Þorgrímur Jónsson, sem áður er nefndur, Einar Napoleon Þórðarson, Kristinn Brandsson og Helgi Hildibrandsson.

Víðistaðir

Víðistaðir – lifrarbræðslan. Víðistaðir fjær h.m. Gripahús og hlaða Bjarna v.m.

Lifrarbræðslustöðin í Víðistöðum var starfrækt í 5 ár, á árunum 1923—28, en þá var tekið að bræða lifrina um borð í togurunum, og leið þá fyrirtækið undir lok. Stóðu þá húsin eftir auð og ónotuð, og komu þau í hlut Bjarna, því ekki þótti skozka fyrirtækinu borga sig að kosta til að rífa þau. Standa þau enn.
Um það leyti sem lilrarbræðslustöðin hætti störfum mátti svo heita, að Bjarni hefði komið allri landareign sinni í nokkra rækt. En langur vegur var frá því, að þetta væri nein bújörð, enda er allt svæði Bjarna aðeins 5 ha, ef með eru taldir balarnir austur og vestur á hraunbrúninni, en Víðistaðirnir allir innan hrauns eru um 6 ha. Búskapur Bjarna í Víðistöðum hefur því alla tíð verið frístundaiðja og aukastarf og löngum ekki svarað kostnaði.
Fyrstu árin hafði Bjarni enga kú, en hesta eignaðist hann fljótt, því að hann stundaði um skeið akstur á hestvögnum. Bíl hafði hann ekið áður en bílaöldin gekk í garð, og mun hann vera með fyrstu mönnum í Hafnarfirði, sem þá list kunni.

Víðistaðagráni

Vörubifreið, Ford-TT árgerð 1917 sem Bjarni Erlendsson (1881-1970) bóndi og athafnamaður á Víðistöðum við Hafnarfjörð átti lengst. Hann var nr. HF-27, síðar G-247. Bjarni notaði hann við lýsisbræðslu sína en síðast nánast sem dráttarvél við garðyrkju. Bílinn í daglegu tali oft nefndur Víðstaðagráni.

Bjarni keypti fyrstu kúna árið 1920, og var hún til húsa í litlum kofa, sem hann hafði byggt austan við veginn, ekki langt frá bugðunni, Jægar komið er niður í Víðistaðina. Mun það vera fyrsta húsið, sem byggt var í Víðistöðum. En árið 1924 byggði Bjarni gripahús fyrir 4 kýr og 2 hesta, ásamt hlöðu, í hraunbrúninni spölkorn sunnan við lifrarbræðslustöðina. Aldrei hefur Bjarni haft fleiri en 4 kýr, en stundum færri. Nú hefur hann 3 kýr. Fé hefur hann aldrei haft. Jafnan þurfti hann að kaupa hey að, enda varð að beita kúnum á túnið, því að um aðra beit var naumast að ræða.

Víðistaðir

Víðistaðir 1979.

Á kreppuárunum, aðallega árin 1932—36, leigði Bjarni dálitla spildu af túni sínu undir útiskemmtanir. Voru stundum 3 skemmtanir á sumri, og var þá mikið um að vera í Víðistöðum. Þetta var gert í Jjví skyni að afla fjár á erfiðum tímum, því enn þurfti landið sitt. En þetta varð þó lítt til fjár, leigan lág og skemmdir miklar á túni og girðingum. Því hætti Bjarni að leigja tún sitt til þessara hluta.
Enginn vafi er á því, að þau hjónin í Víðistöðum hefðu að ýmsu leyti átt áhyggjuminni daga og næðissamara líf, ef þau hefðu ekki hafið ræktunarstarf sitt þar. Þetta ævistarf þeirra hefur tekið frístundir þeirra allar, umhugsun mikla og oft valdið þeim áhyggjum. Bjarni er manna bezt verki farinn, hugmyndaríkur og greindur vel. Hann hefur jafnan haft mikinn áhuga á að brjóta nýjungar til mergjar og oft fitjað upp á þeim sjálfur. Hann var eftirsóttur við störf, enda þaulvanur að veita framkvæmdum forstöðu. Hann hefði því vafalaust getað fengið gott, fast starf. En vegna Víðistaðanna batt hann sig aldrei til lengdar, því að þar var jörð, sent hann hafði sjálfur grætt, hugsjón orðin að veruleika, en verkefninu þó aldrei til fullnustu Iokið. Þetta land var orðinn hluti af honum sjálfum, og hann gat ekki annað en helgað því krafta sína.

Víðistaðatún

Víðistaðatún – loftmynd.

Árið 1933 hóf Bjarni að gera veðurathuganir í Víðistöðum. Gerði hann þetta af áhuga fyrir athugunum sjálfum, en Veðurstofan lagði til tæki. Þessu hefur hann haldið áfram síðan fyrir litla sem enga þóknun, en mörg stundin hefur í þetta farið þessi 27 ár. Er þetta eina veðurathugunarstöðin, sem verið hefur í Hafnarfirði.
Þótt landgræðslan í Víðistöðum hafi aukið landnemunum erfiði, og vafalaust komið í veg fyrir að Bjarni festi sig í ábatasamara starfi, hafa umsvifin í Víðistöðum orðið Þeim hjónum uppspretta ánægju og lífsnautnar. Svo er jafnan, þegar unnið er að hugsjónastarfi. Því eru þau hress í anda og heilsugóð, þótt ellin knýi nú fast á hurðir.
Ég hef hér í fáum dráttum sagt ágrip af sögu Víðistaðanna, hraunlausu vinjarinnar í úfna hrauninu, sem var mér löngum undrunarefni í bernsku. Margt fleira mætti segja, en ég læt hér staðar numið. Sé í einhverju hallað réttu máli, óska ég leiðréttinga.
Víðistaðirnir eru furðusmíð náttúrunnar, en mannshöndin hefur unnið þar mikið starf. Enn geng ég þangað stundum og nýt áhrifanna af hinu sérstæða náttúrufyrirbrigði og elju mannsins.“

Í Morgunblaðinu 14. desember 1972 birtist minningargrein um Bjarna Erlendsson:

Vogsósar

Vogsósar í Selvogi.

„Bjarni Erlendsson frá Víðistöðum. Bjarni fæddist 30. marz 1881.
Foreldrar hans voru Erlendur Bjarnason bóndi í Vogsósum Selvogi og kona hans, Sigríður Hansdóttir. Átta ára missti Bjarni móður sína, brá þá faðir hans búi og fluttist að Króki í Ölfusi, þrem árum síðar fór hann til Guðrúnar Magnúsdóttur, Hrauni í Ölfusi og þaðan fór hann eftir fimm ára dvöl til Reykjavíkur.
Í Reykjavík hóf Bjarni nám í skósmíði en áður en námstíma lauk fékk hann sig lausan frá námi og fór til Skotlands, þar dvaldi hann í hálft ár, kom síðan aftur til Reykjavíkur og lauk áður byrjuðu námi. Síðan fór hann á ný til Skotlands en nú var dvölin þar lengri en áður því í sjö ár samfleytt dvaldi hann þar, fyrst sem sjómaður, en síðar í 6 ár umsjónarmaður við fiskverkun hjá samvinnufélagi í Aberdeen. Um skeið starfaði hann við veðurathuganir undir handleiðslu þekkts vísindamanns á því sviði, dr. Charles Williams.

Víðistaðir

Söfnunarsaga þessa elsta varðveitta bíl landsins er í raun fróðleg. Árið 1970 voru afar fáir ef nokkrir bílar til í íslensku safni. Bjarni Erlendsson átti bílinn til 1970. Þór Magnússon hafði forgöngu að safna tækniminjum og er T-Fordinn þessi fyrsta verkefnið sem fylgt var eftir af hálfu Þjóðminjasafns Íslands.

Atvikin höguðu því svo að Bjarni kom aftur til Íslands og gerðist verkstjóri hjá brezku útgerðarfyrirtæki, Bookles Brothers, sem þá rak mikla útgerð og fiskverkunarstöð í Hafnarfirði. Við þau störf var hann um árabil en stundaði líka smíðar og eru þau mörg húsin í Hafnarfirði, sem Bjarni teiknaði og stóð fyrir smíðum á, á þeim árum.
Brautryðjandi var Bjarni á sviði lifrarbræðslu og kom upp í Hafnarfirði í samvinnu við fleiri, einni fullkomnustu lifrarbræðslu, sem þá var til í landinu. Af þessu leiddi, að Bjarni var fenginn til þess að gera teikningar af fyrirhuguðum lifrarbræðsLum í Keflavík og Sandgerði, en kom við atvinnusögu fleiri byggðarlaga, því hann var verkstjóri við hafnargerðir á nokkrum útgerðarstöðum.
Lengi mun Bjarna verða minnzt fyrir ræktun og búskap í landi því, er hann fékk til afnota árið 1914, en það eru Víðistaðir fyrir vestan Hafnarfjörð, sem nú eru komnir inn í byggð bæjarins.

Víðistaðir

Ford-T, árgerð 1917, hjá Víðistöðum við Hafnarfjörð, líklega um 1970. Bjarni Erlendsson eigandi bílsins og Otto Christensen.

Árið 1919 kvæntist Bjarni Margréti Magnúsdóttur, sem hann missti eftir 41 árs sambúð, en hún andaðist árið 1960. Þeim hjónum varð þriggja barna auðið, sem öll komust á legg og giftust. Það eru dæturnar Kristbjörg, gift Guðmundi Sveinssyni, og Sigríður Kristin, gift Garðari Guðmundssyni, en eini sonurinn, Guðjón, lézt 13. október 1965, en hann var kvæntur Ólöfu Erlendsdóttur.
Þótt Bjarni væri hlédrægur maður, fór ekki hjá því að hæfileikar hans yrðu þess valdandi, að honum væri falin trúnaðarstörf í þeim félögum, sem hann starfaði í, en þau voru mörg, þar sem hann var félagslyndur í meira lagi. Ekki verður sá þáttur í ævi hans rakinn hér, að öðru leyti en að minnast starfa hans í Verkamannafélaginu Hlíf.

Víðistaðir

Víðistaðir  og Hafnarfjörður 1960.

Á hinum erfiðu árum fyrir síðari heimsstyrjöldina og á fyrstu árum styrjaldarinnar voru umbrotatímar í sögu verkalýðshreyfingarinnar eins og reyndar í þjóðfélaginu öllu. Bjarni tók virkan þátt í þeim átökum og hlaut fyrir trúnað hafnfirzkra verkamanna og árið 1943 var hann kjörinn í stjórn Hlífar og átti þar sæti síðan í 11 ár og 1946 til 1948 sat hann í miðstjórn Alþýðusambands Íslands. Mér er það minnisstætt hversu mikill stuðningur það var í öllum störfum að njóta reynslu og þekkingar þessa manns, sem hlotið hafði jafnalhliða þekkingu og var laus við að sjá málefni aðeins frá einni hlið.
Eigi er hægt svo sem vert væri, að gera skil í stuttri minningargrein hinni merku og löngu ævi Bjarna Erlendssonar og verður því hér staðar numið með einlægri ósk um að honum verði að veruleika sú bjargfasta skoðun er hann lét oft í ljós, að þegar þessari jarðvist lyki, tækju við aðrir fegurri og betri heimar.“ – Hermann Guðmundson.

Heimildir m.a.:
-Víðistaðir – skráning fornleifa og menningarminja – lokagerð, Karl Rúnar Þórsson, Byggðasafn Hafnarfjarðar 28. nóvember 2002.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 19.12.1959, Víðistaðirnir – Stefán Júlíusson, vinin í úfna hrauninu, bls. 6-8.
-Morgunblaðið 14. desember 1972, Bjarni Erlendsson – minningargrein, bls. 23.

Víðistaðir

Víðistaðir (í miðið) og vestanverður Hafnarfjörður 1959. Mikið af trönum eru við og ofan við Víðistaði.

Hlíðarborg

Stekkir voru nánast við hvern bæ á Reykjanesskaganum, stundum fleiri en einn. Stekkir í seljum voru jafnan tiltölulega litlir. Endurspegluðu þeir fjölda fjár á hverjum tíma. Eftir að hætt var að hafa fé í seli voru stekkir hlaðnir nær bæjunum. Flestir voru þeir svolítið stærri en hinir. Enn má víða sjá leifar af hlöðnum stekkjum og slíkir uppgrónir eru ekki allfáir. Upp úr sumum þeirra voru hlaðnar fjárborgir. Nokkur dæmi eru um að hlaðnar hafi verið réttir við hlið stekkjanna eftir að fráfærur lögðust af, s.s. við Garðastekk, Óttarsstaðastekk og Þorbjarnarstaðastekk. Gjarnan er bent á réttirnar sem stekkina fyrrum, en svo er alls ekki fyrir að fara. Sennilega er það vegna þess að gömlu grónu stekkirnir eru í dag orðnir ógreinilegar fyrir augum ókunnugra.

Garðastekkur

Garðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Garðastekkur er sunnan undir jaðri Garðahrauns. Hann er orðinn gróinn og líkist fremur aflangri húsatóft en stekk. Ef vel er að gáð má sjá tvíhólfa skiptingu í tóftinni; annað fyrir ær og hitt fyrir lömbin. Austan við stekkinn er nú hlaðin fjárrétt, sem oftar en ekki er nefnd Garðastekkur. Uppi á hraunbrúninni er gömlu fjárborg, sennileg frá stekkstíðinni.

Garðastekkur

Garðastekkur efst til hægri.

Óttarsstaðastekkur er norðan undir Miðmundarhæð. Á hæðinni er Miðmundavarða, eyktarmark frá Óttarsstöðum. Stekkurinn er algróinn, en þó vel greinanlegur. Hann hefur verið að svipaðri stærð og Garðastekkur. Vestan við stekkinn er grjóthlaðinn rétt með lambakró/lambhúsi innanvert.

Óttarsstaðastekkur

Óttarsstaðastekkur – stekkurinn er hægra megin við réttina.

Þorbjarnarstaðarstekkur, oftast nefndur Stekkurinn, er norðan undir Stekkatúnshæð. Þar var Stekkatúnið með Stekksgerðinu. Gamli stekkurinn sést enn vel, hlaðinn úr grjóti, en nokkuð gróinn. Gerðið er sunnan við stekkinn. Vestan við stekkinn var síðan hlaðin rétt. Innst í henni er lambakró.
Hér á eftir verður lýst verklagi í og við stekkinn forðum.

Óttarsstaðastekkur

Óttarsstaðastekkur.

Stekkur
Stekkir voru venjulega hlaðnir úr grjóti, en líka úr torfi og grjóti. Í stekknum var stíað. Hann var tvískiptur og var lengri á annan veginn. Stundum voru náttúrlegar aðstæður nýttar til stekkjargerðarinnar að hluta. Yfirleitt var stekkurinn ekki langt frá bænum eftir að selstöðurnar lögðust af í lok 19. aldar, kannski í 10.-15 mín. fjarlægð. Stekkurinn var tvískiptur; annars vegar fyrir ærnar, sem mjólka átti, og hins vegar fyrir lömbin eftir að stíað var frá. Lambhús var sumstaðar fyrir endanum á stekknum, hlaðið úr torfi og grjóti, þó aðallega úr grjóti. Ekki var ræktað tún í kringum stekkinn en þar greri upp og varð grænna en annars staðar, vegna húsdýraáburðarins.

Stekkjatíð

Þorbjarnastaðastekkur

Þorbjarnastaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Stíað var í viku til hálfan mánuð, byrjað var í miðjum júní og undir mánaðarmótin voru lömbin tekin frá mæðrum sínum fyrir fullt og allt. Talað var um að fara á stekkinn eða fara ofan á stekk. Lambféð var rekið á stekk um 9 leitið á kvöldin. Ærnar voru reknar inn í stekkinn og lömbin færð inn í stíuna. Síðan var ánum hleypt út og þær voru næturlangt í kringum stekkinn, þær höfðu að éta þar og fóru hvergi meðan þær heyrðu í lömbunum. Lömbin fengu broddmjólkina úr ánum og þegar byrjað var að stía var mjólkin orðin nógu góð til að hægt væri að nota hana í hvað sem var, enda var hún nýtt á svipaðan hátt og kvíamjólkin. Lömbin voru yfirleitt ekki mörkuð yngri en viku gömul en eftir það voru þau mörkuð, hvar sem náðist í þau. Börnum var oft gefið fráfærulamb á stekk en ekkert sérstaklega smalanum. Börnum var bannað að kyssa lömb, því að þá gat tófan bitið þau.

Kvíar

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðastekkur. Stekkurinn efst vinstra megin.

Kvíað var í fjárrétt sem hlaðin var úr grjóti. Í einum dilknum í réttinni voru kvíærnar mjólkaðar. Fyrir dilk var sett grind og hann síðan kallaður kvíar. Réttin var notuð til að rétta í henni um haustgöngur og við rúning á sumrin. Oft var réttin líka fyrir nærligghjandi kot eða bæi. Mikil for var í gólfinu og lausagrjót saman við. Réttin var skammt utan við tún og var aðeins nokkurra mínútna gangur þangað. Taðið var ekki hreinsað út, enda mikið grjót saman við úr gólfinu en þetta greri upp strax og hætt var að mjólka.

Komið er heim á kvíaból
kýrnar, féð og smalinn.

Nátthagi

Óttarsstaðastaðasel

Óttarsstaðasel – nátthagi.

Yfirleitt var nátthagi skammt frá stekknum eða kvíabólinu, stundum fleiri en einn. Nátthaginn var skjólgóð hvylft eða lægð í landslaginu. Hlaðið skjól fyrir smalann var við suma nátthaga eða lagaður hraunskúti.

Mjólkurær og lömb

Þórustaðaborg

Þórustaðir – stekkur.

Lömbin voru u.þ.b. mánaðar gömul þegar fært var frá. Málbærar voru þær ær kallaðar sem báru á réttum tíma. Misjafnt var hvort fært var frá öllum málbærum ám. Frekar var fært frá ám með gimbrum, því að fráfærulömb voru oftast sett á, svo og ám með sérlega stórum lömbum. Lömb sem fæddust seint voru kölluð síðborin lömb. Lambgotur voru þær ær sem báru dauðu, þær voru mjólkaðar ef þær voru heimavið til þess þær geltust ekki. Þegar vanið var undir var bjórinn tekinn af dauða lambinu og settur á lambið sem venja átti undir. Ef ær týndi lambi og það fannst ekki var yfirleitt erfitt að venja undir hana, var þó stundum reynt að taka hana inn með lambinu. Lömb sem villtust undan voru kölluð frávillingar og þau sem þrifust illa voru kölluð vanþrifalömb.

Fráfærur

Ás

Ás – stekkur.

Fráfærur var notað um atburðinn að færa frá og tímann sem ær voru mjólkaðar í kvíum. Þegar fært var frá var rekið inn í stekkinn og lömbin sett út. Á óþæg lömb sem ekki vildu fylgja hópnum var snúið saman lambahaft úr ull. Það var sett á framfæturna og var hvert haft bara notað einu sinni. Lömbin voru höfð heima hálfa aðra viku. Voru þau ýmist höfð inni eða setin, þar sem ærnar heyrðu ekki í þeim meðan þau voru að spekjast, annars var hætta á að þau týndust. Síðan voru þau rekin á afvikinn stað í nágrenninu, oft í dalkvos. Geldfé var ekki rekið á fjall með lömbunum, það fór fljótt eftir rúning. Staðurinn sem lömbin voru rekin í var kallaður afrétt. Lömb voru ekki setin á afréttinni. Í undantekningatilfellum voru lömb kefluð.

Hjáseta

Smalaskáli

Smalaskáli í Smalaskálahæð.

Starfið að sitja yfir, kallaðist hjáseta. Orðið búsmali var gjarnan notað um smalann. Sá sem sat yfir fénu á sumrin kallaðist smali. Yfirleitt var eitthvað af börnum húsbónda látið sinna smalastarfinu. Ekki fékk smalinn neitt sérstakt sumarkaup, né önnur hlunnindi fram yfir önnur börn á heimilinu. Smalinn hafði með sér hund ef hann var við og það sem til féll í nesti, bar hann með sér í smápoka. Sniðugir smalar komu sér upp afdrepum. Þeir leituðu sér skjóls í skútum og ef vont var hrófluðu þeir stundum hærra, gömlum tóftarbrotum til að skýla sér í en reftu ekki yfir. Smalar voru notaðir í ýmsa aðra snúninga sem til féllu. Smalar urðu að passa að koma með allt féð heim að kveldi og að láta það ekki vera of þétt saman meðan því var beitt. Setið var yfir fénu frá því um níuleytið á morgnana til níu á kvöldin, fram að mánaðamótum ágúst-september. Setið var yfir í öllum veðrum. Smalarnir fundu út hvað tímanum leið eftir því hvar sólin var stödd. Þegar hún hvarf innundir var orðið framorðið og mál að halda heim. Eftir mjaltir voru ærnar bældar. Þá var orðið áliðið og mál fyrir smalann að fara að sofa.

Kvífé

Smalaskjól

Smalaskjól.

Efnahagur fólks var ógjarnan miðaður við eign í kvífé. Þó voru dæmi þess. Mylkar ær í kvíum kölluðust kvíær. Ær sem sóttu í tún voru kallaðar túnarollur og oft þurfti að vaka yfir túninu til að verjast þeim. Oft var eitur sett í gömul hræ út á víðavangi fyrir tófuna en því var hætt vegna þess að það kom fyrir að hundar drápust af eitrinu. Farið var á greni á vorin til að drepa tófu. Bjöllur voru ekki hengdar á kvífé en þær voru oft hengdar á forystusauði til þess að sauðamaðurinn ætti hægara með að fylgjast með fénu.

Mjaltir

Smali

Smali við færikvíar.

Notaðar voru blikkfötur og tréfötur við mjaltir. Þær voru svipaðar að stærð, c.a. 10 lítra. Þær voru hvorar tveggja heldur víðari að ofan en neðan. Föturnar voru ekki misjafnar að stærð en þær voru nokkuð margar í brúkinu í einu. Þær voru kallaðar skjólur. Eftir að mjólkin hafði verið borin úr kvíunum var hún látin í trébakka, mjólkurbakka. Mjólkin var látin standa í sólarhring, síðan var tappinn tekinn úr og undanrennunni hleypt niður um gatið. Rjóminn var eftir og var strokkað úr honum smjör. Sauðasmjör var feitara og hvítara en kúasmjör og mjög ljúffengt. Undanrennan var soðin og saman við hana látinn hleypir og þéttir. Hleypirinn var búinn til þannig að vinstur úr kálfi var hreinsað og þurrkað og látið síðan í bleyti. Lögurinn af því var notaður sem hleypir í skyrið. Í þéttinn var notað fínt skyr. Undanrennunni var hellt heitri í tréílát sem kölluðust skyrbiður. Þegar mjólkin var mátulega volg var hleypinum og þéttinum bætt í . Skyrbiðurnar voru úr tré, talsvert viðari en venjulegar fötur og tóku 20 til 30 lítra. Eftir sólarhring var skyrið síað. Á kvíarnar var farið í verstu fötunum sem til voru, gömlum flíkum sem hálfpartinn var búið að slíta. Þau voru ekki kölluð neitt sérstakt. Við mjaltir stóðu konurnar hálfbognar fyrir aftan ána og héldu með vinstri hendi utan um júgrið og mjólkuðu fyrst annan spenann með hægri hönd og síðan hinn. Þær studdu löngutöng öðru megin við spenann og hreyfðu hana ekki en með þumalfingri struku þær mjólkina niður úr spenanum.

Venjulega var mjólkað í tveimur umferðum, fyrst obbinn af mjólkinni, síðan var hreinsað. Þær voru kallaðar fyrirmjölt og eftirmjölt. Ekki þurfti að merkja ærnar, því að þær stóðu alltaf í sömu röð. Kvíamjöltum var hætt í byrjun september. Síðasta mjöltunin kallaðist að hreyta. Stundum var kúamjólk blandað í sauðamjólk í vinnslu. Þegar fé barðist, vissi það á veðrabreytingar. Þegar ær leituðu heim var sagt að það legðist vont í þær.

Fráfærur felldar niður
Fráfærur voru víðasthvar felldar niður fljótlega eftir 1920. Þá var farið að rækta meira landrými og hægt var að fjölga kúm. Fólk var að mörgu leyti fegið þessu, frjálsræði þess óx og lömbin urðu vænni og fallegri.

Mjaltarstúlka

Mjaltarstúlka – Daniel Bruun.

 

Valahnúkar

Sagan segir að „einu sinni hafa nátttröllafjölskylda búið í Kerlingarhnúk sunnan við Kerlingarskarð, en norðan við Kerlingargil og er þá Lönguhlíðahorn á millum. Stórkonusteinar eru norður undir Lönguhlíðarhorni. Sögn er af tilvist þeirra, en hún verður ekki rakin hér.
TröllapabbiEitt sinn að vetri þegar dagurinn var stystur ákvað fjölskyldan í Kerlingarhnúk að leggja land undir fót og sækja sér hval (sumir segja skreið) til Hafnarfjarðar en sá hafði rekið á Hvaleyri. Þetta var löngu áður en mennskir höfðu sest að hér á landi. Lögðu tröllin; móðir, faðir, dóttir og stálpaður sonur þegar af stað er sólin hafði skriðið undir ysta hafflöt Faxaflóans. Hundur þeirra fylgdi fast á eftir. Sóttist ferðin vel niður hraunin. Fóru þau beint að augum; yfir Valahnúka (Austurhnúka og Vesturhnúka), sniðgengu þó Helgafell. héldu um Brunna, sem nú er Kaldársel, yfir Bleiksteinsháls og sem leið lá yfir Ásfjall niður á Hvaleyri. Fleiri tröll voru þá mætt á svæðið og þrættu þau drjúga stund um fenginn. Fór þó svo að lokum að tröllafjölkskyldan í Kerlingarhnúk fékk drjúgan skerf og hélt hún að því búnu áleiðis heim á leið. Sóttist henni nú ferðin seint því hvalkétið bæði seig í og var ekki auðborið. Eftir að hafa áð við Brunna undir Kaldárhnúkum héldu þau ferðinni áfram. Faðirinn, sem bar hryggjarstykkið, dróst svolítið aftur úr, enda landið á fótinn. Fjölskyldan hélt sig í hæfilegri fjarlægð frá Helgafelli því vættir þess voru ekki af þeirra ættum.
HundurinnEitthvað virðist fjölskyldan annað hvort hafa misreiknað tímann eða hún hefur farið hægar yfir á heimleiðinni en ætlað var því þegar hún kom upp fyrir brún Austurhnúka birtust skyndilega fyrstu morgunsólargeislarnir í Grindarskörðum. Hundurinn, sem fór með hæstu hæðum, steinrann fyrstur. Ætlaði fjölskyldan þá að freista þess að komast niður af Austurhnúkum, en höfðu ekki við sólinni. Urðu fremstu fjölskyldumeðlimirnir að steinum þeim er standa þar enn; móðirin og börnin austar, en faðirinn lítt vestar. Sést vel hvar hann hefur sest niður þegar hann varð þess áskynja er gerst hafði.
TröllamammaSaga þessi hefur lifað meðal tröllanna í fjöllunum ofan Hafnarfjarðar allt til þessa dags. [Aðrir segja að sjá megi skreiðina umleikis tröllunum, sem fyrr sagði.]
Og endar svo þessi saga.“

Eru þetta ekta nátttröll þarna á Valahnúkum? Er þetta ekki bara lygasaga? Ótrúlegt þykir að nátttröll hafi verið til – eða hvað? Lífssteinarnir að baki „tröllunum“ segja sína sögu. Auk þess er sagan góð – en þó verður að segja eins og er að tröll eru ekki til í raun og veru (þ.e. engar áþreifanlegar sannanir liggja fyrir um tilvist þeirra (aðrar en bráðin að baki þeim svo miðvetra)). Þau tilheyra ekki náttúrunni eins og fuglar eða fiskar og þess vegna er ekki hægt að fjalla um ummyndun þeirra í stein með því að útskýra einhver líffræðileg ferli í líkama þeirra, á sama hátt og til dæmis hefur verið fjallað um umbreytingu plantna á koltvísýringi í súrefni eða það hvernig hrökkálar mynda rafstuð.
Umbreyting tröllanna er þess vegna mannanna verk. Tröll verða því að steini þegar sólin skín á þau af því að þannig segja menn sögur af tröllum!
Að vísu er rétt að geta þess að ekki verða öll tröll að steini ef þau komast í tæri við sólarljós heldur á það fyrst og fremst við um svonefnd nátttröll.
Það getur verið ágætis skemmtun að koma auga á form í náttúrunni sem líkjast tröllum, eins og við ímyndum okkur að þau líti út.
En svo má auðvitað spyrja af hverju tröll verða endilega að steini, af hverju breytast þau ekki í vatn, gorkúlur, banjó, færiband eða eitthvað allt annað? 

Tröllamamma

Og alveg eins má spyrja af hverju verður ummyndunin við sólarljós en ekki við tunglskin, þegar það rignir, í sunnanstrekkingi eða við eitthvað allt annað?
Til þess að svara þessum spurningum er rétt að hafa í huga hvernig menn búa íslensk tröll til. Lengst af hefur íslenska orðið tröll þó ævinlega verið notað um einhvers konar bergbúa eða vættir í mannsmynd. Fram kemur í þjóðsögum að tröll eru stórvaxnar verur sem búa í hellum og gljúfrum. Þau eru ólík jötnakyni goðsagnanna að því leyti að jötnarnir búa vel og ríkmannlega, eiga góð húsakynni og berast á, eins og lesa má um í Þrymskviðu og víðar.
Af þessu sést að það er ekki fjarri lagi að láta tröll verða að steini, enda eru þau bergbúar. Ef tröllin yrðu að banjói, færibandi eða einhverju öðru sem tengist þeim ekki neitt, væri verið að fara á skjön við skáldskaparlega rökvísi.
Það felst einnig rökvísi í því að láta tröllin verða að steini þegar sólin kemur upp. Andstæða sólarljóss og dagsbirtu er nóttin og myrkrið, en þá fara kynjaverur einmitt á kreik. Þegar hin upplýsta og bjarta veröld tekur aftur völdin er „eðlilegt“ að myrkaöflin láti undan síga. Þá verða nátttröllin beinlínis steinrunnin.

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum.

Umbreyting (e. metamorphosis) er eins konar afbrigði af myndhverfingu (e. metaphor) en með því hugtaki er átt við að merking orða færist af einu sviði yfir á annað. Ummyndun tröllanna verður til þess að þau hætta að vera tröll en verða að grjóti í staðinn. Það getur verið ágætis skemmtun að koma auga á tröll þegar menn eru á gönguferðum og eins og getur verið gaman að sjá andlit í skýjafari.
Hvað eru vættir? Vættir geta verið bæði af hinu góða og illa, það er hollvættir eða óvættir.
Hvort dularvættir séu til í alvörunni eða ekki, er ógerningur að svara með óyggjandi hætti. Það fer í rauninni eftir viðhorfi hvers og eins hverju hann vill trúa. Þess má geta að til eru einstaka raunvísindamenn sem segjast trúa því að vættir séu til í venjulegum skilningi. Reynsla manna sýnir að sannanir sem menn taka gildar um tilvist vætta munu seint koma fram.
Rétt er að hafa í huga að framangreind saga af tröllunum á Valahnúkum er ekki þjóðsaga. Hún var samin af einum Ferlirsfélaganna í tilefni að göngu á hnúkana árið 2009.

Heimild m.a.:
-www.visindavefur.hi.is

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Ásfjall

Gengið var frá Haukasvæðinu áleiðis að Grísanesi. Sunnan við hraunkantinn er, að því er virðist, hlaðið gerði eða rétt. Þá átti að vera hlaðin rétt vestan í neshorninu, en hleðslurnar hafa greinilega verið notaðar í fjárhús eða beitarhús. Þær eru í landi Hvaleyrar.

Ásfjall

Stekkur undir Hádegisskarði.

Efst í holtinu ofan við húsin er hlaðið skotbyrgi, sem nokkuð hefur verið raskað, en þó má enn sjá móta fyrir lögun þess og hleðslur. Skjólgarður er út frá byrginu til norðurs og vesturs og að inngangi austan hennar. Nokkru austar, sunnan í Grísanesi, er annað upphrófað skotbyrgi. Á milli byrgjanna eru tvær fallnar vörður, líklega landamerkjavörður milli Áss og Hvaleyrar.
Vestan undir hæðardragi norðan við Grísanes eru tvær tóptir hvoru megin við göngustíg, sem lagður hefur verið umhverfis Ástjörn, líklega sauðakofar frá Ási.
Gengið var eftir stígnum til austurs norðan undir hæðinni. Efst í henni norðantil er hlaðið byrgi er gæti hafa verið skjól eða aðhald. Borgin og aðhaldið hefur að öllum líkindum verið notað af Bretanum á stríðsárunum, en hann hafði bækistöðvar víðs vegar um þetta svæði. Víða má sjá smáhleðslur, en þær eru flestar með öðru handbragði en Íslendinganna.

Ásfjall

Byrgi á Ásfjalli.

Austar, norðan undir öxlinni, eða rétt sunnan við þar sem Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur liggja yfir öxlina, er Hádegisskarð. Þar er gömul borg, sem virðist hafa verið breytt í stekk. Hluti borgarhringsins sést þó enn þótt gróið hafi yfir hann að hluta. Tvær fallnar vörður eru á Grísanesi, en þó enn vel greinilegar.

Haldið var áfram upp á Ásfjallsöxlina og á Ásfjall, Efst á öxlinni á vinstri hönd er gömul borg, sem lítið er þó eftir af. Þegar komið er langleiðina upp að Ásfjallsvörðunni stóru er hlaðið stórt skotbyrgi undir klöppum er horfir til suðausturs. Hér gæti einnig hafa verið gamal fjárskjól að ræða, en Bretinn síðar notað það sem skjól. Hlaðið byrgi er líka norðvestan undir Ásfjallsvörðunni. Ásfjall er 125 metra hátt.

Grísanes

Grísanes – fjárhús.

Þar sem byrginu hefur verið hróflað upp má sjá hlaðinn gang liggja út frá vörðunni til norðurs og fram á brúnina. Enn eitt hlaðna steinbyrgið í hæðinni er skammt austan við vörðuna og horfir mót norðaustri. Tvö önnur eru þar skammt suðaustar í Ásfjallsöxlinni.
Í bakaleiðinni var gengið suður af fjallinu og komið niður í Dalinn. Hann er nokkuð gróinn þar sem hann liggur milli hlíðar og Hamraness. Austan í Dalnum eru grónir hraunbollar og í a.m.k. einum þeirra er gamall fjárhellir. Sjá má hlaðið opið inn undir skúta, en þakið hans er að mestu fallið niður.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum.

Hellnahraun rann fyrir um 2200 árum og stíflaði afrennsli hennar til sjávar. Annars eru Hellnahraunin tvö ef vel er að gáð – hið yngra og hið eldra. Hið yngra eru um 1100 ára.
Ásbærinn stóð undir Ásfjalli um aldir, en var rifinn á áttunda áratug 20. aldar. Skammt sunnan við bæinn, undir klapparholti, er stekkur.
Frábært veður – Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Ásfjall

Ásfjall og Grísanes – uppdráttur ÓSÁ.

Kapella

Í Fréttabréfi Ættfræðifélagsins 2017 er m.a. fjallað um „Kapelluhraun og Heilaga Barböru„:

„Á hverjum degi bruna þúsundir bíla um Keflavíkurveginn með ökumenn og farþega sem eru óvitandi um einstaka náttúru- og menningarperlu sem leynist nánast alveg við veginn. Þessi perla er lítil kapella sem stendur á örlítilli hæð sunnan við álverið í Straumsvík. Hæð, sem er hluti af Kapelluhrauninu, sem hefur verið skafið og eyðilegt á stóru svæði umhverfis þessar einstöku minjar.

Kapellan

Kapellan í Kapelluhrauni áður en hún var grafin upp.

Í annálum er sagt frá miklu eldgosi í Trölladyngju árið 1151 og rann þaðan hraun frá Undirhlíðum til sjávar. Gosið var hluti af svo kölluðum Krýsuvíkureldum, sem urðu á langri gossprungu á Reykjanesskaganum. Þá er einnig talið að Ögmundarhraun, suðvestur af Krýsuvík, eins og við þekkjum hana í dag, hafi runnið yfir gamla Krýsuvíkurbæinn sem stóð niður undir sjó. Þar er að finna mjög merkar mannvistarleifar og óbrennishólma.

Kapellan

Kapellan – líklenski heilagrar Barböru endurgert.

Margt styður aldursgreiningar hraunanna, m.a. annálar og geislakolsmælingar. Í Kjalnesingasögu, sem er talin skráð eftir 1300, er einnig minnst á hraunið, sem þar er kallað Nýjahraun. En einmitt sú nafngift bendir til þess að hraunið hafi runnið eftir að land byggðist, og trúlega að mönnum ásjáandi. Nýjahraunsnafnið var notað allar miðaldirnar en síðar einnig nafnið Bruni. Á síðustu öldum fóru menn að kalla hraunið Kapelluhraun eftir lítilli hálfhruninni kapellu sem fannst í hrauninu. Kapellan er í landi Þorbjarnarstaða, eyðibýlis nálægt Straumi. Hún stendur við mjóa götuslóð sem rudd hefur verið yfir hraunið, og var alfaraleið suður með sjó öldum saman.
Kapellan er talin vera frá kaþólskum tíma. Kristján Eldjárn rannsakaði kapellurústina, ásamt fleirum, árið 1950. Þar fundust ýmsir munir, m.a. líkneski af Heilagri Barböru, verndardýrlingi gegn eldi, hruni, jarðhræringum og hita. Barbara var píslarvottur sem dó fyrir trúna, og var hálshöggvin af föður sínum, Hún var samkvæmt helgisögum uppi í lok 3. aldar e. Kr. Faðir hennar á að hafa læst hana inn í turni til að gæta meydóms hennar, og því er turn eins konar einkennistákn hennar. Líkneskið sem fannst í kapellunni sýnir einmitt Heilaga Barböru með vitann í fanginu. Það var brotið og aðeins fannst efri hluti þess í þrem pörtum. Styttubrotið er um 3,3 cm á hæð, en hefur líklega verið um 5,5 cm þegar styttan var í heilu lagi.

Kapellan

Kapellan – endurgerð.

Allt bendir til þess að hér hafi menn gert bæn sína í kaþólskum sið, áður en lagt var á hraunið, minnugir sagna um eldflóð og óáran, og heitið á Heilaga Barböru sér til verndar. Kapellan, sem er endurhlaðin, er opin í vest-suðvestur, og inni í henni hefur verið komið fyrir stækkaðri eftirmynd af líkneskinu. Það er sannarlega vel þess virði að heimsækja Heilaga Barböru þegar menn eiga leið suður með sjó, hvort sem þeir gera þar bæn sína eða ekki. Þótt eldgosahrinur einkenni Reykjanesskagann og um 850 ár séu frá þeirri síðustu, er fátt sem bendir til þess að eldur verði þar fljótlega uppi, eins og segir í fornum skræðum. En í hrauninu og kapellunni tengjast sagan og jarðfræðin, trúin og lífskjörin, og þar getum við einnig dregið lærdóm af því hvernig ekki á að fara með umhverfi einstakra og dýrmætra minja.“

Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðifélagsins, 1. tbl. 01.02.2017, Kapelluhraun og Heilög Barbara, bls. 2.

Kapellan

Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðiarinnar, sem lá framhjá henni.

Lónakot

Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir „Lónakot“ segir um landssvæði bæjarins ofanvert:

Lónakotssel

Lónakotssel.

„Svo er nafnasnautt upp undir veginn, en um hann liggja hraunbrekkur þvert. Þær heita Högnabrekkur. Svo er þar á vesturmerkjum, nokkuð ofan vegar, Taglhæð og Hólbrunahæð. Enn ofar er svo Lónakotssel. Ofan þess liggur hraunás þvert yfir landið, sem heitir Skorás, og þar, sem landið nær lengst í suður, heitir Mið-Krossstapi. Meira er svo ekki til hér að sinni.“
Vesturlandamerki Lónakots í Lónakotsseli lágu um Skorás, í áberandi vörðu, sem þar er. Skammt austar er landamerkjavarða utan í klapparhól, líkt og segir í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar. Landamerkjavarðan sú (með hattinn) stendur enn óröskuð. Skammt vestan hennar er austasti selstekkurinn.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar um Lónakots segir m.a. um framangreint svæði:

Lónakotssel

Lónakotssel – Skorásvarða.

„Ofan vegar liggur landamerkjalínan um Taglhæðarvörðu á Taglhæð. Þaðan um Hólsbrunn og Hólsbrunnsvörðu á Hólsbrunnshæð, sem eiginlega er klapparflatneskja allmikil um sig. Héðan liggur svo línan um Skorásvörðu á Skorás og þaðan í Mið-Krossstapa.

Lónakotssel

Lónakotssel – landamerkjavarðan með „hattinn“.

Eins og segir í landamerkjalýsingu Lónakots og Óttarsstaða, liggur landamerkjalínan úr Sjónarhól í Vörðu eða „Klett“ austan til við Lónakotssel. Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár aðgreindar seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð. Norðan í því er jarðfall nokkurt og nefnist Skorásbyrgi eða Lónakotsselshæðarbyrgi. Þar mátti nátta ásauðum. Norður frá Skorási er Lónakotsselsvatnsstæði í flagi og þraut oftast í þurrkatíð. Skjöldubali var klapparhæð norður frá Hólbrunnshæð.“

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaði segir m.a. um svæðið norðan Lónakotssels:

Bekkjaskjól

Bekkjaskjól.

„Seljahraun er lágt brunahraun upp af Gvendarbrunnshæðinni. Þar var mikið bláberjalyng og var mikið farið þangað til berja í gamla daga. Landamerkjalínan lá frá Gvendarbrunni suður yfir Seljahraun og þaðan upp í Mjósundavörðu. Skammt vestur af vörðunni eru Bekkir og fyrir ofan þá Bekkjahraun. Þar var gríðarmikill fjárhellir, hlaðinn og reft yfir, kallaður Bekkjaskútinn. Er hann í alldjúpri laut eða jarðfalli, sem kallast Bekkjahraunsker. Framan við hellinn óx fyrrum mikil birkihrísla. Hana kól í frostunum 1918, en rafturinn er þarna enn.

Brennisel

Brennisel.

Töluvert vestur af Bekkjunum eru Brenniselshæðir. Þar eru tveir fjárskútar, kallaðir Brenniselshellrar. Annar er feiknastór og var yfirreftur, en nú er það fallið niður. Jarðfall uppgróið er fyrir framan hann. Þar suður og upp af er stakur klapparhóll, klofinn, kallaður Steinkirkja. Norðan í henni er upphlaðinn fjárskúti. Suðvestur af Steinkirkju eru hólar, sem Valklettar heita. Vestur og niður af þeim er hæð, sem nefnist Breiðás. Skammt suður frá fjárbyrginu eru Litluskútar og þar austur af slétt hæð, sem nefnist Litliás.

Sveinshellir

Sveinshellir.

Skógargatan liggur suður rétt við Rauðumelana, vestan við Gvendarbrunnshæð, áfram yfir Seljahraun og upp Mjósundin. Þá liggur stígurinn á brún grunnrar lægðar. Í henni, rétt suður af Bekkjahrauninu, er hellir, sem nefndur er Sveinshellir. Ekki er vitað um tilefni nafnsins. Hellirinn er feiknastór, en sést ekki, fyrr en að er komið, því að opin er svo þröngt. Fyrir munnann er vaxin birkihrísla mikil. Hellirinn er hvergi manngengur, og fé fór ekki inn í hann nema rétt inn fyrir opið. Varða, sem nefnd er Sveinsvarða, er á klapparbrún yfir hellisopinu.“

Lónakotssel

Lónakotssel – fjárskjól.

Í bókinni „Örnefni og Gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, sem Sesselja Guðmundsdóttir, skrifaði, segir um framangreint svæði:
„Þegar staðið er á Taglhæð sést sléttlendi nokkurt til suðausturs og þar ofar blasir Skorás við en það er hæð sem liggur til suðvesturs út frá Lónakotsseli í Hafnarfjarðarlandi. Við augum blasir þversprunginn klapparveggur og ber hæðin Skorásnafnið því með sóma. Sunnan til á ásnum er varða sem heitir Skorásvarða en hennar er getið í gömlum merkjalýsingum.“

Líkt og fram kemur hér að framan eru þrjár „aðgreindar seljatættur“ í Lónakotsseli, auk einnar stakrar. Tóftin sú hefur væntanlega verið eldhús frá vestasta tóftarhólnum. Lýsingin passar vel við fjölda stekkja á svæðinu. Þeir eru þrír; einn nyrst, annar austast og sjá þriðji í jarðfalli vestan við selið. Í því er einnig fjárskjól.

Í Brenniselshæðum eru reyndar ummerki eftir eldri selstöður er höfðu þjónað sama tilgangi fyrrum. Þar er og að finna kolagrafir er styðja tilvist þeirra.

Heimildir:
-örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Lónakot.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Lónakot.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaði.
-Örnefni og Gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja Guðmundsdóttir, bl.s 119.

Bekkjaskúti

Bekkjaskúti.