Tag Archive for: Hraunssel

Hraunssel

Grindavíkurbær, Saltfisksetrið og FERLIR buðu upp á þjóðháttakynningu um seljabúskap á vettvangi. Mæting var við Ísólfsskála, u.þ.b. 7 km austur frá Grindavík á Krýsuvíkurleið. Gangan var liður í Menningar- og viðburðadagskrá Grindavíkur.
GönguleiðinFrá Ísólfsskála var haldið að Méltunnuklifi. Um það lá hin forna þjóðleið til Krýsuvíkur. Þaðan var gengið eftir nýlegri slóða á gömlu leiðinni um Leggbrjótshraun og inn með vestanverðum Núpshlíðarhálsi í Hraunsel millum Þrengsla.
Leiðin var greiðfær og tók um 3-4 klst með fræðslustoppum á völdum stöðum. Hraunsel var sel frá Hrauni í Grindavík og að öllum líkindum einnig frá Ísólfsskála, enda selstaðan í hans landi. Þarna eru þrjár selstöður auk eldri selstöðu og tilheyrandi mannvirki.. Selstaðan er með yngstu seljum á Reykjanesskaganum, en hún mun líklega hafa lagst af árið 1914. Í selinu má sjá heillegar tóftir selsmannvirkjanna; baðstofu, búr og eldhús. Í selinu var áð og nesti borðað.
Leiðsögn var um seljabúskapinn og það sem fyrir augu bar á leiðinni. Í bakaleiðini var gengið yfir Skolahraun eftir selstígnum, niður með austanverðu Sandfelli og eftir Höfðasandi að gömlu Krýsuvíkurleiðinni um Méltunnuklif.
Lítið hefur verið skrifað um sel og seljabúskap hér á landi og mjög lítið á Reykjanesskaganum öllum, þrátt fyrir að enn megi sjá þar fjöldamargar sýnilegar selstöður (eða 250 talsins). Á sama hátt og handritin eru áþreifanlegur vottur handbragðsins fyrrum tengja minjar seljanna okkur nútímafólkið beint við þá gömlu búskaparhætti, sem tíðkuðust um aldir eða allt fram á öndverða 20. öldina.
HraunFéð var yfirleitt haft í seli frá 6. – 16. viku sumars. Í seljum voru smalinn auk selráðsmatseljunnar. Þar voru gerðir ostar, skyr, smjör og sýra úr mjólkinni. Fólkið hélt lífinu í fénu og féð hélt lífinu í fólkinu.
Merki jarðarinnar Hrauns eru samkvæmt landamerkjabréfi dagsettu 17.06.1890 og þinglýstu hinn 20.06.1890, sem hér segir: „… úr miðjum ,,markabás” í fjöru er mark á klöpp er aðskilur land jarðarinnar frá landi jarðarinnar Þórkötlustaðir, þaðan liggja mörkin til heiðar vestan til við Húsafell og yfir Vatnsheiði, þaðan sem sjónhending ræður að Vatnskötlum fyrir norðan Fagradalsfjall, þaðan til austurs á Selvallafjall upp af Sogaselsdal, þá eftir Selsvallafjalli til suðurs samhliða landamerkjum jarðarinnar Krísuvíkur þar til að mið suður-öxl á Borgarfjalli ber í merktan klett við götuna á Móklettum. Skal sú sjónhending ráða merkjum frá landi jarðarinnar Ísólfsskála, þaðan til suðurs fram yfir festargnípu í fjöru …“

 

Hraunssel

Samkvæmt þessu má segja að Hraunssel sé á hornmörkum Hrauns og Ísólfsskála. Selstöður voru reyndar mjög gjarnan á landamerkjum, einkum frá fyrstu tíð. Ekki er ólíklegt að þessir bæir hafi samnýtt selstöðuna um tíma því hvergi er að finna selstöðu frá Ísólfsskála, sem verður að teljast óvenjulegt því um fjárríka jörð var jafnan um að ræða. Skýringarinnar gæti verið að leita lengra aftur, eða allt frá því að Hraun var kirkjustaður. Þá átti Skálholtsstóll jörðina og hún verið nýtt sem hjáleiga frá Hrauni. Lítið er til af skráðum heimildum frá þessum tíma (á tímabilinu frá 12. til 17. aldar).
Samkvæmt Landnámu nam Molda-Gnúpur Hrólfsson land í Grindavík og hafa verið að því færð rök að það hafi verið í lok landnámsaldar eða á fjórða tug tíundu aldar. Ekkert er vitað um sögu Grindavíkur næstu þrjár aldirnar. Hrauns er þó getið í rekaskrá Skálholtsstaðar árið 1270. Skálholtsstaður eignaðist jörðina á 15. öld. Árið 1673 bjó þar Hávarður Ólafsson, sem gerði samning við Brynjólf biskup Sveinsson um að hann fengi að halda hluta kirkjunnar í reka á fjörum og greiddi í staðinn eina vætt fisks. Tilefni þessa samkomulags hefur ugglaust verið það að ekki hafi verið hjá því komist að hýsa jörðina að nýju. Heimildir frá 18. öld benda til að Hraun hafi á þeim tíma verið lök jörð og landskuld af jörðinni var aðeins hálft þriðja hundrað árið 1703.
Stekkur í HraunsseliÍ upphafi átjándu aldar var heimræði frá jörðinni árið um kring, en lending voveifleg samkvæmt Jarðabókinni 1703.
Árið 1703 voru á bænum auk bóndans og konu hans og tveggja barna ungra fjögur vinnuhjú. Á búinu voru 4 kýr, 30 sauðfjár og þrjú hross. Jörðin var þá í eigu Skálholtsstóls skv. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, þriðja bindi, bls. 9. Tvær hjáleigur voru í landi Hrauns árið 1703. Það gæti einnig skýrt fleiri en eina, eða allt að þrjár, selstöður í Hraunsseli.
Kirkja var á Hrauni allt frá miðöldum fram yfir 1600, en ekki er ljóst hvenær kirkja komst þar á. Í Fitjaannál 1602 segir frá því, að farist hafi með farmskipi Skálholtsstaðar utan við Þórkötlustaði 24 manneskjur og voru flestar jarðaðar í bænhúsinu á Hrauni. Kirkjan virðist hafa aflagst um það leyti.
Þegar kemur fram á 19. öld er sú breyting á orðin að Hraun er eitt mesta myndarbýlið í Grindavík og þar bjó sama fjölskyldan mestan hluta aldarinnar, sem var óvenjulegt í Grindavík.
SelstígurinnUm eða rétt eftir 1822 kom á jörðina Jón Jónsson og er hann í öllum heimildum talinn eigandi jarðarinnar. Hann var gildur bóndi. Hann reisti m.a. þrjú stór og reisuleg timburhús á jörðinni. Eru það fyrstu timburhúsin í hreppnum.
Í sóknarlýsingu 1840-1841 segir um Hraun: ,,Selstaða lángt frá en sæmilega góð.”
Í bókinni Handbók um hlunnindajarðir á Íslandi (1982) segir að meðal hlunninda að Hrauni árið 1932 séu reki og útræði.
Í sóknarlýsingu Geirs Bachmann um afréttarland Grindavíkur segir á bls. 144 um Grindavíkursókn: ,,Ekkert er hér afréttarland…” með þessu á presturinn við, að allt land innan sóknarmarkanna og þar með einnig hreppamarkanna sé háð einkaeignarrétti, en ekki fyrirfinnist upprekstrarland í óskiptri sameign bænda. Hann bætir því við að allt sauðfé sé rekið í selið og þar smalað á hverju máli. Þar sem eru sel, þar er land ekki afréttur í neinum skilningi.
Um landamerki
Ísólfsskála segir í landamerkjabréf dags. 20.06.1890, þinglýst 20.06.1890: „…, úr fjöru við festargnípu við svonefndan Skálasand liggja mörkin til norðurs að merktum kletti við götuna á Móklettum, þaðan til austurs sem sjónhending ræður á miðja suðuröxl á Borgarfjalli, þaðan sama sjónhending austur Selsvallafjall að landamerkjum jarðarinnar Krýsuvík, þaðan til suðurs eftir löngugörn meðfram sömu landamerkjum að Dágon kletti á kampinum fyrir vestan Selatanga, þaðan sama sjónhending fram í stórstraumsfjöruborð, einkennismerki markasteinsins er L.M……“

Hraunssel

Hraunssel.

Hér er landeigendur sammála um hornmarkið við Hraunssel og má leiða að því líkum að það hafi jafnan verið þrætulaust, enda enginn ágreiningur með Hrauns- og Ísólfsskálabændum um landamerki þeirra. Ágreiningur hefur hins vegar verið með Ísólfsskála- og Krýsuvíkurbændum um mörkin.
Um Hraun segir í Jarðabókinni 1703: ‚‚Selstaða langt í frá og þó sæmilega góð.“ Í örnefnalýsingu fyrir Ísólfsskála segir:
 „Austan við mitt Sandfell er götuslóði yfir hraunið austur í Hraunssel fremst. Inn með Núpshlíðarhálsinum að vestan eru tættur sem Hraunssel heita.“
Í örnefnalýsingu fyrir Hraun segir: „
Norðan við Höfðann, aðskilið af mjóu skarði, er Sandfell. Um þetta skarð liggur gata, sem lá um sunnanvert Þráinsskallahraun (Skolahraun) austur í svonefnd Þrengsli, en það er grasræma eða lægð, sem myndast milli Núpshlíðar að austan og hraunsins að vestan. í Þrengslum þessum eru rústir eftir Hraunssel. Þar var haft í seli endur fyrir löngu frá Hrauni.“
Gamla KrýsuvíkurleiðinÍ annarri örnefnalýsinu fyrir Hraun segir:
Á einum stað að sunnanverðu nær hraunið upp að fjalli og heitir þar Þrengsli. Þar fyrir sunnan eru tættur af gömlu seli frá Hrauni og heitir þar Hraunsel.“
Í Jarðamati 1849-1850 er minnst á sumarbeit við allar jarðir í Grindavíkur- og Vatns-leysustrandarhreppum, misjafnlega góða. Virðist yfirleitt miðað við að beitin sé í heimalöndum jarðanna, nema um Hraun í Grindavík segir: „Sumarbeit góð í seli upp til fjalla.“
Hraunssel voru skoðuð árið 2001: „Eftir að hafa skoðað stekkinn í hrauninu norðan selsins, sem eru þrjár heillegar tóftir undir Núpshlíðarhálsinum, kom í ljós ein tóft, greinilega elst þeirra, neðar og á milli tóftana og stekksins. Tóftin er orðin jarðlæg og mosi tekinn að vaxa í henni. Ekki er hægt að greina húsaskipan. Sunnan við hlaðna stekkinn er annar mun eldri. Verður því þetta seinna sel nefnt Hraunssel eldra, en þau sem ofar eru, undir hlíðinni, nefnd Hraunssel yngri. Selsstígur liggur frá selinu að suðurhlíð Hraunssels-Vatnsfells. Stök hús eru norðan við selið, sennilega kúaskjól að hluta.
Yngra selið geymir einar heillegustu tóftir á Reykjanesskaganum, enda heimildir um að það hafi að öllum líkindum verið síðast selja til að leggjast af. Veggir standa heilir og grónir. Grjóthleðslur sjást í veggjum. Stekkurinn er skammt vestar og sjást hleðslur hans og lögun mjög vel. Vatn er í grunnu gili sunnan við selið.
Eftir að hafa lýst minjunum og rifjað upp verklag í seli var selstígurinn fetaður til vesturs yfir Skolahraunið….
Gangan tók 4 klst. Frábært veður.

Hraunssel

Hraunssel- uppdráttur ÓSÁ.

 

Hraunssel
Haldið var inn (austur Drykkjarsteinsdal frá Hatti utan í vestanverðri Slögu ofan Ísólfsskála, beygt um Brattháls norður með austanverðum Lyngbrekkum og áfram inn með austanverðum Einihlíðum uns staðnæmst var við sunnanvert Sandfell. Þaðan var gengið til austurs sunnan við fellið og síðan til norðurs með því austanverðu.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Hattur.

Ætlunin var m.a. að skoða hvort enn mætti greina spor hinnar fornu leiðar Grindvíkinga áleiðis inn á Selsvelli. Spurning var hvort líklegra var að leiðin hafi legið norður með vestanverðu Sandfelli eða því austanverðu. Báðar leiðirnar gætu hafa verið farnar, allt eftir því hvort leiðin lá í Hraunssel eða á Selsvelli. Austari leiðin var líklegri á fyrrnefnda staðinn. Þaðan liggur leiðin yfir slétt Skolahraun (helluhraun) að Þrengslum undir vestanverðum Núpshlíðarhálsi (Vesturhálsi). Sunnar er Leggjabrjótshraun (apalhraun), erfiðara yfirferðar. Þó lá þar yfir ruddur, varðaður, vegur allnokkru sunnar. Sá vegur var endurgerður, lagfærður og breikkaður, með svonefndum „Hlínarvegi“ skömmu eftir 1930 er hann var gerður akfær til Krýsuvíkur með það að markmiði að flytja útvegsbændum í Grindvík nýslegna töðu, að sjálfsögðu gegn gjaldi. Vegagerðin frá Ísólfsskála (Drykkjarsteinsdal) til Krýsuvíkur kostaði þá um 500 krónur og tók það fjóra menn ásamt kúsk lungann úr sumrinu að framkvæma verkið. Hlín Johnsen, þá sérstakur verndari og umönnunarstýra þjóðskáldsins Einars Benediktssonar, greiddi fram vinnulaun að verki loknu, en Einar átti þá bæði Krýsuvík og Herdísarvík. Einar sjálfur, þótt stór væri, var þá lítill fyrir mann að sjá, enda ofsóttur jafnt í rökkri og myrkri, bæði af Þistilfjarðar Sólborgu og öðrum sektarkenndum.
Gengið var yfir Skolahraun. Slétt helluhraunið er að öllum líkindum úr Þránsskildi, en ofan á því er mjó apalræma til suðurs, líklega úr gosinu 1151.

Hraunssel

Hraunssel.

Slóðar liggja yfir slétt hraunið og hefur mosinn farið illa af utanvegaakstri. Komið var að norðanverðu Hraunsseli. Augljóst er að þarna hafa verið tvær selstöður. Í selinu eru bæði tóftir nýrri og eldri selja. Nýrri selin eru undir Núpshlíðarhálsinum, en þau eldri bæði norðan við nýrri selin undir hlíðinni og einnig vestar, nálægt grónum hraunkanti. Þær eru nær jarðlægar. Vestan þeirra tófta er tvískiptur hlaðinn stekkur. Norðan hans er hlaðinn ferköntuð tóft undir hraunbakka, hugsanlega kví. Grösug skál er í hlíðinni ofan við selið. Þar má m.a. sjá leifar hverasvæðis, sem ekki er langt um liðið síðan kulnaði.

Nyrðra nýrra selið er eins stök tóft og síðan önnur með tveimur rýmum. Hitt er heilstæð tóft með þremur samliggjandi rýmum. Elsta tóftin (vestar) virðist hafa verið með tveimur rýmum og því þriðja fasttengdu. Þerrivatn er í grunnum gilskorningi sunnan við selið, en búast má við að þarna neðarlega á grasvöllunum hafi fyrrum verið brunnur, þótt ekki móti fyrir honum nú.
Þetta eru sennilega rústir hins síðasta umbúna sels á Reykjanesskaganum, er talið er að hafi lagst af um 1914, með efasemdum þó, því sel voru almennt að leggjast niður á þessu landssvæði á seinni hluta 19. aldar. Þeim hafði þá verið viðhaldið, með tilfærslum, hléum og margfaldlegri endurgerð, allt frá landnámi no

Hraunssel

Hraunsselsstígur.

rrænna manna hér á landi (871 +/- 2). Selstöður virtust hafa verið mikilvægur þáttur í búsetusögu svæðisins um langan tíma. FERLIR hefur þegar skoðað rúmlega 255 selstöður í landnámi Ingólfs, sem enn eru sýnilegar minjar um, og eru þó allnokkur enn óskoðuð, s.s. norðan Esjufjalla að Botnsá. Þótt margt sé líkt með rústunum er einnig nokkuð ólíkt með þeim. Það verður allt betur rakið með umfjöllun síðar.
Í landamerkjabréfi fyrir Hraun segir m.a. að merkin hafi verið „frá Vatnskötlum fyrir norðan Fagradalsfjall, þaðan til austurs á Selsvallarfjall upp af Sogaselsdal.” Í fyrsta lagi heita Vatnskatlarnir nú á landakortum Fagradals-Vatnsfell og Hraun lýsir merkjum í Selsvallarfjall.Â
Samkvæmt heimild úr Jarðabók ÁM 1703 á Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd selstöðu í Sogaseli er það sagt í Stóru Vatnsleysulandi. Selið hins vegar, sem lá undir Hraun (Hraunssel), er fyrir sunnan Þrengslin og þannig innan merkja Hrauns samkvæmt þessari skilgreiningu. Þá má að lokum benda á að fyrir norðan þessa línu og almennt á Selsvöllunum var almenningsselstaða frá Grindavík og ennfremur frá Vatnsleysuströnd“. Hafa ber þó í huga að landamerki Þórkötlustaða stangast verulega á við landamerkjalýsingu Hrauns þar sem m.a. Dalsselið vestan Langhóls er innan landamerkja þeirra. Ef rétt er þá er Dalsselið í landi Þórkötlustaða, en Vogabændur og Grindvíkingar hafa jafnan deilt um tilveru þess inna þeirra marka – hvors um sig.
Í örnefnaskrá fyrir Ísólfsskála segir m.a. um merkin: „Allmiklu skakkar hér um landlýsingu þeirra nágrannanna [Hrauns]. En merkjabókin segir merki Ísólfsskála þannig: Úr fjöru við Festargnípu vestan við svonefndan Skálasand til norðurs að merktum kletti við götuna á Móklettum, svo til austurs í miðja suðuröxl á Borgarfjalli.
Samkvæmt þessu ætti Hraunssel að hafa verið í landi Ísólfsskála og gert út þaðan. Þeir nágrannar gætu þó hafa komið sér saman um selstöðu undir hálsinum og verið þar með sitthvort selið. Það myndi a.m.k. skýra seltóftirnar. Ef svo er þá eru fundið selið frá Ísólfsskála, sem og selið frá Þórkötlustöðum, þ.e. Dalsselið.

Hraunssel

Hraunssel – stekkur.

Járngerðarstaðir og Staður hafa síðan haft selstöður á Baðsvöllum og síðar á Selsvöllum.
Ritari, sem reyndar er hlutdrægur, hefur reyndar talið langlíklegast að Dalselið hafi verið frá Þórkötlustaðabæjunum fyrrum.
Í örnefnalýsingum þaðan, segir að „úr Stóra-Skógfelli [á að vera Litla-Skógfelli til samræmis við aðrar lýsingar] liggur markalínan í gjána í Kálffelli en það er lágt fell eða bunga sem er framarlega í Kálffellsheiði . Frá Kálffelli liggja landamerkin í vatnskatla í Fagradals-Hagafelli og þaðan í Innstuhæð á Vatnsheiði eins og áður segir. Samkv. þessu er Sandhóll, sem er vestur af Kasti, og Fagridalur, sem er kvos inn í Fagradalsfjall austan við Aura, í landi Þórkötlustaða. Fagradals-Vatnsfell,sem er norðvesturöxl Fagradalsfjalls er sömuleiðis í landi Þórkötlustaða. Aurar heita melar innan við og austan Dalahraun og þar norður af eru grasflatir sem heita Nauthólaflatir. Þar var heyjað af bændum á Þórkötlustöðum.“

Í Jarðabókinni 1703 er dómkirkjan í Skálholti eigandi bæði Krýsuvíkur og Hrauns, auk Ísólfsskála, Þórkötlustaða, Hóps og Járngerðarstaða. Ekki er sagt frá selstöðu frá Krýsuvík, en þó má telja öruggt að hún hafi verið þá til staðar. Ekki er heldur sagt frá selstöðu frá Hrauni eða Þórkötlustöðum, en ein hjáleigan, Buðlunga,

Núpshlíðarháls

Núpshlíðarháls.

„brúkar selstöðu og hefur lengi brúkað í Krýsuvíkurlandi, þar sem heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sje ljeð frá Krýsuvík, en Krýsuvík aftur ljeð skipstaða fyrir Þorkötlustðalandi. Er selstaðan að sönnun góð, en mikilega lángt og erfitt að sækja“. Hóp þarf að kaupa út selstöðu, en Járngerðarstaðir „brúkar selstöðu enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu hagar oflitlir og þröngvir. Item sje þar stórt mein af vatnsleysi, þá þerrar eru, og fyrir þessa lseti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarsstaðar. Þessa brúkar bóndinn aleina“. Þarna gæti verið komið tilefni til þess að ætla að Selsvallaselstaðan, sem Járngerðarstaðabændur nýttu síðar, hafi fengist framseld frá Stað. Í Jarðabókinni 1703 segir að selstaða Staðar „sé góð til haga, en lángt og erfitt til að sækja, hefur þó hjeðan frá staðnum brúkuð verið lxxx ár á Selsvöllum“.
Eftir að hafa skoðað minjar seljanna (því þau eru fleiri en eitt frá mismunandi tímum), var gengið norðvestur eftir áberandi götu yfir Skolahraunið með stefnu milli Hraunssels-Vatnsfellanna. Mikil umferð hefur verið þarna. Gatan liggur yfir hið mjóa apalhaft. Hún gefur vísbendinu uma ð nokkur umferð hafi verið inn að Hraunsseli neðan úr Vogum eða Vatnsleysuströnd svo ekki er með öllu hægt að útiloka að selstaðan hafi um tíma verið sótt þaðan.
VatnsstæðiÞegar komið var yfir í Meradalahlíðar var ákveðið að halda áfram til vesturs austan Kisturfells (335 m.y.s.). Kistufell og Keilir, með Litla-Keili og Litlahrút á millum býður upp á skemmtilegt sjónarhorn inn á efstu brún Þráinsskjaldar, hinnar miklu og tilkomuríku dyngjudrottningu Reykjanesskagans. Þaðan er hægt að ganga að einum fallegasta gíg Skagans, nyrst í Fagradalsfjalli (Langhól). Gígurinn, sem er um 70 metra hár, er þverskorinn, þ.e. það sést inn í hann úr norðri og því auðvelt á áætla hvernig gígopið hafi litið út áður en roföflin tóku yfirhöndina.

Hér er í rauninni um að ræða einn tilkomumesta og fallegasta, en um leið úrleiðarlegasta gíg Reykjanesskagans. Vonandi fær Hitaveita Suðurnesja aldrei áhuga á honum – því þá er voðinn vís.
Þegar staðið er þarna má í rauninni sjá nokkra „keilira“, því auk Keilis er Sandfell í suðaustri, Stórihrútur í suðri og Litlihrútur í norðvestri öll með sömu lögun. Keilir nýtur hins vegar þeirrar sérstöðu sinnar að standa stakur og því meira áberandi fyrir þá, sem ekki hafa nennu til að stíga svolítið afsíðis frá malbikinu.
Gengið var til suðurs niður í Meradali. Hér er um einstaklega stórt, sléttbotna og myndarlegt landssvæði að ræða, skjólgott með „safaríkum“ blettum. Ef einhvers staðar ætti að planta skógi á Reykjanesskagann – þá væri það þarna, undir hlíðum Meradals. Og þá skemmir litadýrðin ekki fyrir; fjólublátt Fagradalsfjalli, bláleitt Kistufelli, brúnleitar Meradalahlíðarnar og svarleitur Stórihrútur.
Haldið var að upphafsstað með því að ganga til austurs upp úr Meradal milli Stórahrúts og Hraunssels-Vatnssfells syðra um Einihlíðasand. Ljóst er að vorblómin hafa vaknað seint þetta árið. Blóðbergið og lambagrasið eru þó að koma til, en vetrarblómið virðist hafa ákveðið að kúra frameftir. Smá vætuíbleyta og hlýindi í par daga myndu nægja til að vekja það snemmendis.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Jarðabókin 1703.
-Örnefnalýsinar og landamerkjaskrár Grindavíkurbæjanna.

Dalssel

Dalssel.

 

Efrafjall

Þann 22. október 1944, u.þ.b. kl. 15:00, flaug fyrsti lútenant John J. Custy, meðlimur 33ju orrustusveitar ameríska flughersins, C-64 flugvél sinni, í Efrafjall ofan við Ölfus. Hann, ásamt fjórum farþegum, liðþjálfanum Robert R. Richt, korperálnum Anthony P. Colombo, óbreyttum Leonard T. Damerval og óbreyttum Floyd C. Van Orden, lést er kviknaði í flugvélinni við brotlendinguna. Brak úr henni dreifðist um stórt svæði.
Þremur árum fyrr, eða sunnudaginn 7. desember 1941, fórst önnur herflugvél, af Hudson-gerð/G, þarna í fjallinu, ekki langt frá. Fjórir menn í áhöfninni létust allir. Flugstjórinn hét Eric Stewart, 22 ára Nýsjálendingur.
Ætlunin var að skoða brakið úr vélunum, sem er þarna enn um 65 árum síðar, en líta fyrst á á Hraunssel við Selstíginn undir Lönguhlíðum og athuga hvort tóftir kunni að leynast undir Selbrekkum í austanverðu Efrafjalli.
Gengið var til austurs yfir Eldborgarhraun ofan við Frambrúnir í Þrengslunum og yfir á Selstíginn undir Lönguhlíð. Þar kúrir Hraunsselið. Auðvelt er að fylgja gróinni kindaslóð í gegnum mosahraunið, svo til beint að selinu.
Eftir að hafa skoðað tóftirnar var gengið upp á Litlaberg ofan við Kerlingaberg og inn á Selbrekkur undir Efrafjalli. Ofar eru Vatnsbrekkur og enn ofar Suðurhálsar. Neðar er Neðrafjall ofan við Hjalla.
Altalað var í Ölfusi að búkonurnar á Hrauni hafi fengið nægan efnivið til sauma eftir slysið því fallhlífarnar, sem voru úr silki, fundust skammt frá slysstaðnum og voru notaðar í flest það sem þurfa þótti til sauma næstu daga á eftir, hvort sem um var að ræða klæðnað eða gluggatjöld.
Í bókinni „Styrjaldarárin á Suðurlandi“, II. útgáfa, bls. 16-217, eftir Guðmund Kristinsson segir m.a. frá síðarnefnda flugslysinu. Í frásögninni kemur fram að slysið hafi borið upp á sama dag og árás Japana á Pearl Harbour, þann 7. desember 1941. Þrátt fyrir að þetta væri á sunnudegi var búist við því að þessu myndi fylgja óvænt árás þýska hersins einhvers staðar í Evrópu. Að því tilefni var 8 Hudson flugvélar, sem staðsettar voru á Kaldaðarnesflugvelli, sendar á loft um hádegisbil og var hlutverk þeirra að skima eftir eftir óvinaflugvélum, kafbátum eða skipum nálægt suðurströndinni. Þegar líða tók á daginn fór veður versnandi. Flugstjórar vélanna ákváðu því að snúa til baka fyrr en ákveðið hafði verið. Síðastur á loft hafði verið Eric Stewart á Hudson/G, með einkennisstafina T-9416, ásamt þremur öðrum áhafnameðlimum. Samkvæmt áætlun átti vélin að lenda kl. 15:45. Á þeim tíma sást hún fljúga tvo hringi yfir vellinum fyrir lendingu, en mjög lágskýjað var orðið þegar það varð.

Hraunssel

Hraunssel Ölfusi.

Tómas Jónsson frá Þóroddsstöðum, þá 8 ára, var að sækja hesta út í mýri á þessum tíma, handan Ölfusár. Komið var myrkur. Kl. 16:45 sá hann ógurlegan eldblossa í fjöllunum fyrir ofan Hjall. Hann hafði skömmu áður séð vél koma fljúgandi með blikkandi ljós og stefna beint á fjallið. Bjarminn var eldrauður og u.þ.b. 15 mínútum síðar sá hann annan blossa, hvítan er lýsti sem dagur væri. Fyrr bjarminn gæti hafa stafað af því er kviknaði í flugvélinni er hún snerti jörðina, en síðari blossinn gæti hafa verið kafbátasprengjur að springa, sem höfðu verið um borð í vélinni. Bjarmar þessir sáust vel frá Hveragerði því næstum albjart varð þar þessa örskömmu stund.
Gerður var út 12 manna leitaflokkur frá Hjalla undir leiðsögn þeirra Sigurðar Steindórssonar og Engelberts Hannesson frá Bakka. Flakið af flugvélinni fannst á Efrafjalli ofan við Hjalla síðar um kvöldið. Aðkoman var hroðaleg. Ljóst var af ummerkjum að dæma að vængur hafði rekist í jörðina, vélin steypst í fjallið og síðan allt sprungið í tætlur. Fallhlífar fundust, sem fyrr sagði, skammt frá slyssstað og úr þeim voru saumaðar margar flíkur, allar úr skínandi silki. Og það þóttu nú ekki dónalegur fatnaður til sveita í þá daga.
Öðrum Hudson vélum á Kaldaðarnesflugvelli var síðan flogið til Reykjavíkur og þær gerðar út þaðan. Sem fyrr sagði fórust fjórir með vélinni.
Gengið var frá Raufarhólshelli í Þrengslunum og austur yfir gamburmosahraun, afurð Eldborgar norðaustur undir Litlameitli, með sínum grónu lyngbollum. Gangan tekur innan við 10 mínútur. Hægt er að ganga eftir gamalli götu er liggur upp úr Lyngbrekkum frá Breiðabólstað, um Rauðhól, síðan eftir gróinni kindaslóð yfir hraunið og áfram inn á Selstíginn skammt norðar. Í hraunkantinum, þegar komið er yfir, liggur selið þar sem það kúrir undir lágum hraunkantinum, greinilega miðlungs gamalt. Þetta eru fimm tóttir; baðstofa, búr og eldhús, auk tvískipts stekks. Á bak við tóttirnar er lítið fjárskjól í skúta. Selstígurinn (Skógstígurinn) liggur upp og niður milli hraunkantsins og hlíðarinnar. Bæði ofan og neðan við selið að norðanverðu eru grasi grónar Lönguhlíðarnar.
Eitt af sérkennum seljanna á Reykjanesskaganum er hversu fá þeirra uxu og urðu að kotum til tímabundinnar eða varanlegrar búsetu. Einungis Straumssel, af þeim 165 seljum, sem enn hafa verið skoðuð á svæðinu (landnámi Ingólfs) mun hafa vaxið til heilsársbúsetu, en þó einungis í skamman tíma. Þessu er t.a.m. öfugt farið á öndverðu landinu, Melrakkasléttu. Þar virðist einungis Bakkaselið hafa varðveist í upprunalegri selsmynd, en önnur sel orðið að kotum til heilsársbúsetu. Fróðlegt væri að bera þessi landssvæði saman, því á báðum má finna margar selsminjar og aðstæður eru ekki svo frábrugnar til sauðfjárbeitar og fjarnýtingar frá bæjunum með ströndinni. Sel á Norðurlandi og Vestfjörðum (og jafnvel víðar) virðast hafa verið annarskonar, þ.e. nokkurs konar afrit af bæjunum þangað sem búsmalinn flutti yfir sumartímann.
Gengið var yfir vestanvert Litlaberg og áfram inn á Efrafjall austarn Kerlingabergs. Gott útsýni er þarna yfir fjalllendið sem og niður á Neðrafjall, sem nú hefur víða orðið gróðureyðingunni að bráð. Bændur þar neðra hafa þó reynt að stemma stigu við eyðingunni með víðtækri trjáplöntugróður-setningu.
Þegar horft var yfir fjallshlíðina var erfitt að reyna að gera sér í hugarlund hvar brakið af Hudson/G vélinni gæti verið. Kaldalaðanesflugvallarstæðið sést í austri, handan Ölfusár. Flugvélin hefur væntanlega verið í aðflugsbeygju að vellinum. Stefnan var tekin á brekkuna þar sem hún rís hæst á móti suðvestri, líklegasta slysstaðinn. Eftir u.þ.b. klukkustundar göngu var lagst niður í móann og hann skimaður. Stöng stóð upp úr í norðri. Haldið var þangað. Þar reyndist verða slysstaðurinn með öllu því braki er slíku fylgir.
Heillegt dekk merkt Goodyear, tveir hreyflar, blágrænn litur á áli, leiðslur, hjólaspyrna og hluti mælaborðs, auk annars er fylgir sundurtættu flugvélaflaki var þarna. Ógróið svæði var þar sem flugvélin hafði komið niður og væntanlega brunnið skv. lýsingunni, en smábrak allt um kring. Vel mátti ímynda sér hvernig slysið hafði orðið. Ekki var þó að sjá leifar eftir eld eða sprengingar á vettvangi. Teknar voru myndir af númerum einstakra hluta og sendar sérfræðingi. Mun álit hans væntanlega berast innan skamms.
Ef finna ætti brakið af C-64 flugvélinni í heiðinni myndi það væntanlega verða meiriháttar tilviljun. Samkvæmt lýsingum á það að vera u.þ.b. 2 km sunnan Núpafjalls. Það gæti verið í suðausturhlíðum Skálafells. Ef einhver fróður eða upplýstur maður getur gefið upplýsingar hvar brakið er að finna væru þær upplýsingar vel þegnar.
Þá var gengið upp í Hjallasel og áfram norðaustur upp og yfir Efrafjall. Bóndinn á Hrauni hafði áður sagt að sjá mætti tóftir suðvestan við Hjallaselið, en þar eru víða grónir blettir. Við leit var ekki að sjá ummerki eftir mannvistarleifar, enda geta þær varla verið miklar því vatnsskortur hlýtur að hafa háð viðverandi dvöl manna og skepna í heiðinni.
Á göngunni til vesturs voru þveraðar a.m.k. þrjár veglegar götur, þ.á.m. Sólarlagstígurinn neðan frá Hjalla.
Frábært veður. Lygna og angan af vorgróanda. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir m.a.:
-Styrjaldarárin á Suðurlandi, II. útgáfa, bls. 16-217, eftir Guðmund Kristinsson.
-Sævar Jóhannesson.

Efrafjall

Brak á Efrafjalli.

Hraunssel

Gengið var upp frá Mjöltunnuklifi ofan við Ísólfsskálaveg af hinni fornu leið millum Krýsuvíkur og Grindavíkur áleiðis að Hraunsseli undir Núpshlíðarhálsi.
Fyrrum lá selsstígurinn upp með Lyngbrekkum Gnupurúr Drykkjarsteinsdal, Leirdal, ofan Skála-Mælifells og síðan til austurs milli Höfða og Sandfells yfir Grákvíguhraun að Neðri-Þrengslum gegnt Framfelli. Þaðan var stutt í selið. Ef farin var gamla þjóðleiðin um klifið þurfti að fara yfir Leggjabrjótshraun. Vagnvegur var gerður yfir það snemma á þriðja áratug síðustu aldar að boði Hlínar Johnsen, bústýru í Herdísarvík og Krýsuvík. Síðar var vegurinn ruddur með jarðýtu, en hina gömlu göngu- og reiðleið má sjá á köflum norðan hans, einkum á móts við brúnavörður, en þær munu upphaflega hafa varðað þá leið.
Ef haldið er upp með vestanverðum (G)núpshlíðarhálsi er fljótlega komið að Gnúpi; stórum móbergskletti undir hálsinum. Ef að er gáð má sjá að steinninn sá hefur áður staðið á stalli ofar í hálsinum, en einhvern tímann og af einhverri ástæðu fallið af honum og komið „standandi“ niður.

Framfell

Gnúpur er stærsti steinninn undir Gnúpshlíðarhálsi og því hefur verið talið sjálfsagt í virðingarskyni að fornefna hann hálsinum öllum. Rétt er að minna á að Molda-Gnúpur var fyrsti landsnámsmaðurinn á þessu svæði ef marka má Landnámu og Íslendinga-bók. Festi hann búsetu um 930. Telja margir að það hafi verið á svæði undir (G)núpshlíðarjálsi þar sem nú heitir Húshólmi (eða þar í kring).
Haldið var upp með vestanverðum hálsinum, framhjá Lynghvammi, yfir Öxlina og framhjá Framfelli, í gegnum Þrengslin og inn á Hraunsselstúnið.
Í túninu eru greinilegar grónar tóftir tveggja selstaða. Telja má líklegt að þær séu frá Hraunsbæjunum, sem lengst af voru tvíbýli. Syðsta tófin er dæmigerð seinni tíma sel; þrjú rými í reglulegri röð. Vestast er eldhúsið, baðstofan í miðjunni og búrið austast, næst hlíðinni.

Selsvallafj

Miðtóftin er tvískipt; baðstofa og búr austar. Eldhúsið er sjálfstætt skammt norðan hennar. Enn norðar eru leifar af skjóli.
Vestan þessara tófta eru leifar eldra sels. Það hefur verið dæmigert sem slíkt; þrískipt. Enn vestar má sjá hlaðinn stekk. Norðar eru leifar stekkst, sem tilheyrt hefur gamla selinu.
Í örnefnaskrá Gísla Hafliðasonar, bónda, á Hrauni og Guðmundar Guðmundsson bóndi á Ísólfsskála, sem Ari Gíslason skráði, má lesa eftirfarandi:
„Nú byrjum við aftur austur við Núpshlíð, og má vel vera, að eitthvað af því, sem hér verður fyrst talið, sé í landi Ísólfsskála. Núpshlíðin hefur fyrr verið nefnt, og rís hún upp norður af Ögmundarhrauni. Framhald af henni til norðausturs er Núpshlíðarháls, sem hér verður á merkjum móti Krýsuvík. Syðst í Núpshlíð liggur vegurinn til Krýsuvíkur gegnum lægð í hlíðina.

Hraunsse-2

Innan við veginn, inn með hlíðinni, er grasivaxinn hvammur með lynggróðri, og heitir hann Lynghvammur. Hann er beint á móti há-höfðanum, er síðar getur. Krossgil er að austan í hálsinum, en það er að mestu leyti í Krísuvíkurlandi. Vestur af hlíðinni tekur við hraunbreiða nokkur, sem heitir Grákvíguhraun. En norðar er það hraun nú nefnt Skolahraun. Eldra nafn á því mun vera Þráinsskallahraun. Vestan við Grákvíguhraun er Höfðinn, sem er nokkuð hár. Suður úr honum er Méltunnuklifið, er getið var hjá Ísólfsskála. Vestur af Höfðanum er annar hraunstraumur, sem heitir Leggjarbrjótshraun. Í því er nafnlaus mosahóll.

Hraunsse-3

Norðan við Höfðann, aðskilið af mjóu skarði, er Sandfell. Um þetta skarð liggur gata, sem lá um sunnanvert Þráinsskallahraun (Skolahraun) austur í svonefnd Þrengsli, en það er grasræma eða lægð, sem myndast milli Núpshlíðar að austan og hraunsins að vestan. í Þrengslum þessum eru rústir eftir Hraunssel. Þar var haft í seli endur fyrir löngu frá Hrauni. Sandfellið er stórt fell. Hér nokkru norðar slítur hraunhaft þrengslin í sundur, og heitir þar norðar Selsvallafjall, og Selsvellir er gróið landsvæði þar, fallegt um að sjá.“
Í örnefnalýsingu Lofts Jónssonar segir um þetta svæði sem og svæðið vestan við Núpshlíðarhálsinn: „Norðaustur frá Langhól er lítið fell fast við Fagradalsfjall sem heitir Kálffell. Norð-norðaustur af Langahrygg er Stóri-Hrútur og síðan þar norður af Meradalir. Þetta eru gróðurlitlar leirflatir. Þar norður af eru Meradalshlíðar og vestur frá þeim er Kistufell í austur frá Langhól. Norður af Meradalshlíðum er Litli-Hrútur og þar norður af er Litli-Keilir.

Hraunsse-5

Þaðan í norðaustur er Keilir, alþekkt fjall. Austan undir Kistufelli er smáhryggur sem nefndur er Rjúpnahryggur. Þarna eru víðast hraun á milli fjallanna og örnefnalaust.
Suðaustan og framan í Langahrygg eru Lyngbrekkur og þar framan við er Stóri-Leirdalur. Austan við Langahrygg eru Einihlíðar. Þetta eru ávalar, gróðurlitlar bungur en hafa sjálfsagt verið vel grónar þegar þær hlutu nafn. Litli-Leirdalur er framan við Einihlíðar að vestan og hlíðin þar austur af, þar sem gamli Krýsuvíkurvegurinn liggur upp, heitir Brattháls (Skyggnir).

 

Hraunssel-6

Litli-Hrútur heitir nyrsti hluti Einihlíða. Þverbrekkur heita grasigrónar brekkur nyrst í Litla-Leirdal.
Skarðið á milli Langahryggs og Einihlíða heitir Hrútadalur og við hann eru Hrútadalsbörð. Austan í Einihlíðum eru allmiklar grasigrónar kvosir og heita Bratthálskrókur sú fremri og Einihlíðarkrókur sú innri. Sandurinn þar norður af inn með Einihlíðum heitir Einihlíðasandur.
Austan við Einihlíðar er hraun sem heitir Leggjarbrjótshraun. Austan við það er allhátt fjall sem heitir Höfði og þar norðan við aðskilið af smáskarði er Sandfell. Um þetta skarð og austan við Sandfell er reiðgatan frá Grindavík til Selsvalla. Austan við Höfða er hraun og heitir það Grákvíguhraun. Það nær austur að Núpshlíðarhálsi. Norðar heitir það Skolahraun (eldra nafn Þráinsskallahraun) og nær þessi hraunfláki alla leið inn að Hafnarfirði. Í þessu hrauni suðaustur af Keili er Driffell.
Austan við þetta hraun er mikill fjallarani og skilur hann land á milli Krýsuvíkur, Ísólfsskála Hraunsse-4og Hrauns. Er hann ýmist nefndur Núpshlíðarháls eða Vesturháls.
Selsvellir eru grasi grónir vellir vestur undan Vesturhálsi. Heitir fjallið þar upp af Selsvallafjall. Á einum stað að sunnanverðu nær hraunið upp að fjalli og heitir þar Þrengsli. Þar fyrir sunnan eru tættur af gömlu seli frá Hrauni og heitir þar Hraunsel. Nyrsti hluti Selsvalla heitir Kúalágar og þar var hver sem hét Hverinn eini en hann tók af í jarðskjálftum 1910. Þar upp af er hæsti hluti Vesturháls og heitir Trölladyngja (venjulega nefnt Dyngja). Norðaustan við Kúalágar eru Grænavatnseggjar og þar upp á fjallinu er Grænavatn í djúpri kvos. Á Selsvöllum er lækur nefndur Selsvallalækur. Hálsinn á milli Kúalága og Höskuldarvalla heitir Bergsháls.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir:
Örnefnalýsingar fyrir Hraun (ÖÍ).

Hraunssel

Hraunssel- uppdráttur ÓSÁ.

 

Selsvellir

Gengið var norður með vestanverðum Núpshlíðarhálsi og upp í Hraunssel neðan við Þrengslin.

Hraunssel

Hraunssel – stekkur.

Eftir að hafa skoðað selstóftirnar var gengið á hálsinn og honum fylgt niður að gígaröð syðst á honum austanverðum. Um er að ræða mjög fallega gíga, myndarlegar hraunæðar og hrauntraðir í hlíðinni neðanverðri. Vestan undir sunnanverðu Núpshlíðarhorni var, að sögn Jóns Jónssonar, jarðfræðings, einn fallegasti hraungígur landsins, en hann hefur nú að miklum hluta verið notaður sem ofaníburður í þjóðveginn.
Suður lægðina austan Méltunnuklifs, hefur tunga úr Leggjabrjótshrauni runnið vestur um skarð á milli Sandfells og Höfða og suður með honum að vestan. Slóði liggur nú þvert yfir Leggjabrjótshraunið og áfram upp með Núpshlíðinni, inn á Selsvelli og áfram niður á Höskuldarvelli suðvestan Trölladyngju.

Hraunssel

Hraunsselsstígur.

Gamlar vörður eru við slóðann yfir hraunið svo líklega hefur hann verið gerður ofan í eldri götu, sem þarna var, enda liggur gata þarna áfram upp á hálsinn við Línkrók, í móbergsskarð á honum og síðan í sneiðingum niður hann að austanverðu. Gatan sést síðan á ný sunnan Djúpavatnsleiðar skammt ofan við gatnamót Ísólfsskálavegar.
Gömul gata er á köflum grópuð í hraunið á þessari leið. Litlu norðar er Hraunsel en þar var sel frá Hrauni í Grindavík. Hér sér greinilega til tófta sem eru nú minnisvarði um löngu liðna búskaparhætti. Eftir að hafa skoðað stekkina í hrauninu norðan selsins, sem eru þrjár heillegar tóttir undir Núpshlíðarhálsinum, kom í ljós ein tótt, greinilega elst þeirra, neðar og á milli tóftana og stekksins. Sunnan við þennan hlaðna stekk var annar mun eldri. Selsstígur liggur frá selinu að suðurhlíð Hraunssels-Vatnsfells. Hraunsselið er síðasta selið, sem lengst var brúkað á Reykjanesi, eða allt til ársins 1914.

Leggjabrjótshraun

Gígur ofan Höfða – Leggjabrjótshraunsskapari.

Ofan við Hraunsselið eru Þrengslin, sem fyrr sagði. Neðan við Hraunsselið að sunnanverður heita einnig Þrengsli. Frá Hraunseli liggur leiðin eftir gamalli götu á milli hrauns og hlíðar norður með Núpshlíðarhálsi að vestan. Þegar komið er norður fyrir Þrengsli er fljótlega komið á Selsvelli, u.þ.b. 20 mín. ofar.
Selsvellir eru allmikið gróðurlendi sem myndast hefur með framburði lækja úr hálsinum.
Vellirnir eru eins og vin í eyðimörk, og hér var eftirsótt beitiland fyrir búfé. Selsvellir tilheyrðu Stað í Grindavík og notuðu Staðarprestar og hjáleigubændur þeirra selstöðuna. Um miðja nítjándu öld höfðu hér 6 bændur í seli ásamt prestinum á Stað og átti hver sitt selhús. Samtals voru þá um 500 fjár og 30 nautgripir á Selsvöllum.

Höfði

Hrauntröð við Höfða.

Núpshlíðarhálsinn er vel gróinn ofan við Hraunssel. Haldið var niður hálsinn og kíkt á hraungígana syðst á honum austanverðum. Þeir eru hver öðrum fallegri. Flestir eru opnir til suðausturs og hefur hraunið, sem rann undan hallanum og niður hlíðina, skilið eftir sig fallegar hraunæðar og traðir.
Moshóll var loks skoðaður niður undan suðvesturhorni hálsins. Jón Jónsson sagði hann merkilegan, ekki síst fyrir það að hægt væri að sjá í honum þversnið af gígrás. Því miður hefur þeirri ásýnd nú verið svipt á brott með stórtækum vinnuvélum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.utivist.is/utivist/greinar/

Hraunssel

Hraunssel – uppdráttur ÓSÁ.

Tag Archive for: Hraunssel