Tag Archive for: Hvalsneskirkja

Hvalsnes

Hvalsnes er kirkjustaður sunnan við Sandgerði á Miðnesi. Þar var lengi prestsetur og þjónaði Hvalsnesprestur þá að jafnaði einnig í Kirkjuvogi (Höfnum) og í Innri-Njarðvík.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Á Hvalsnesi er steinkirkja, byggð utan við kirkjugarðinn. Kirkjan sú var vígð á jóladag árið 1887, en Hvalsnesprestakall hafði verið lagt niður 1811 og síðan hefur Hvalsnessókn tilheyrt Útskálaprestakalli.
Kirkjubóndinn Ketill Ketilsson í Kotvogi lét reisa Hvalsneskirkju. Þar hafði kirkja staðið frá allt frá 1200. Ketill hafði frétt að verið væri að reisa hlaðna kirkju í Innri-Njarðvík (1885-1886). Snaraðist þangað og samdi við steinsmiðina um að koma á Hvalsnes þegar verkinu væri lokið og hefja þar hleðslu. Grjótið var tekið úr klöppinni fyrir utan túnið og því ekki langt að fara.
Kirkjusmiður var Magnús Magnússon, steinsmiður í Garði. Hann fórst 1887 áður en smíðinni lauk og tók þá við Stefán Egilsson.

Hvalsnes

Grafsteinn Steinunnar í Hvalsneskirkju.

Stórbóndinn Ketill Ketilsson í Kotvogi í Höfnum var þá eigandi Hvalsnesjarðarinnar og kostaði hann kirkjubygginguna. Hún á nú marga góða gripi, meðal annars er þar geymdur legsteinn Steinunnar, dóttur Hallgríms Péturssonar sálmaskálds, en hann var þar prestur frá 1644 til 1651. Hann er sagður hafa höggvið legsteininn sjálfur. Legsteinn þessi var lengi týndur en fannst 1964 þar sem hann hafði verið notaður í stéttina framan við kirkjuna.

Þekktastir Hvalsnespresta voru fyrrnefndur Hallgrímur Pétursson (1644-1651) og Árni Hallvarðsson (1743-1748).

Hallgrímur Pétursson (1614–27. október 1674) var prestur og mesta sálmaskáld Íslendinga. Ævi hans var að mörgu leyti óvenjuleg en þekktastur er hann í dag fyrir Passíusálmana sína sem voru fyrst gefnir út á prenti árið 1666. Hann var af góðum ættum en bjó lengst af við fátækt. Hann naut mikils stuðnings Brynjólfs Sveinssonar biskups og fékk prestsvígslu frá honum þrátt fyrir að Hallgrímur lyki aldrei formlega prófi. Hallgrímskirkja í Reykjavík og Hallgrímskirkja í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd eru nefndar eftir honum.

Hvalsnes

Hallgrímur Pétursson – glerlistaverk í Akureyrarkirkju.

Árni Hallvarðsson (1712-1748) var prestur á Suðurnesjum. Foreldrar hans voru Hallvarður Ingimundarson í Gerðum í Garði og Þórdís Halldórsdóttir frá Keflavík. Hann varð stúdent frá Skálholtsskóla 1739 en var á sumrum hjá Brynjólfi Sigurðssyni sýslumanni á Reykjum í Ölfusi. Hann var prestur á Hvalsnesi frá 1742 til dauðadags.
Sagt er að séra Árni hafi bannað vikivaka og jólaskemmtanir þær sem haldnar voru á Flankastöðum og að honum hafi hefnst fyrir það er hann drukknaði í embættisferð að Kirkjuvogi þann 31. mars 1748.

Á Hvalsnestorfunni voru eftirtaldir bæir á fyrri hluta 20. aldar; Vesturbær og Austurbær, Kirkjuhóll suðvestan kirkju, Brandskot norðan sjávargötunnar að vörinni til norðausturs, Nýibær og Smiðshús vestast, sunnar Gerðakot, norðar Tjörn Moshús, Hlið og Garðbær, austar Nýlenda, Bursthús og Skinnalón. Flestir bæjanna eru nú tóftir einar, en sumum jörðunum standa þó enn íbúðarhús.

Hvalsnes

Hvalsnes – loftmynd 1954.

Í „Fornleifaskráningu vegna fyrirhugaðs ljósleiðara í Suðurnesjabæ“ árið 2022 má m.a. lesa eftirfarandi fróðleik um bæina:

Hvalsnes

Hvalsnes

Hvalsnes um miðja 20. öld.

1686 og 1695: 60 hdr., 3/4 konungseign, 1/4 kirkjueign, samkvæmt The Old Icelandic Land Registers, 122.
1703: Jarðardýrleiki óviss, ¾ konungseign ¼ kirkjueign. Kirkjustaður með hjáleigunum Gierdakoti, Smidshúsi, Ervidi, Moakoti, hjáleigu kennd við ábúanda hverju sinni (þá Þorbjörn) og Fiosakoti, samkvæmt JÁM III, 45-47.
1847: Jarðardýrleiki óviss, bændaeign, með hjáleigunum Gerðakoti, Rembihnúti, Mosahúsi og Nýlendu. Þar segir að í jb. 1803 séu hjáleigurnar Smiðshús og Brandshús undirsettar jörðinni, samkvæmt JJ, 86.
Um 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII 9.

Hvalsnes

Brunnur, fylltur, í Brunnlág.

1225: “Síðan fór Aron [Hjörleifsson] suðr a Hvalsnes til Þorsteins ok var þar um hríð,” segir í Íslendingasögu, Sturl I, 308. Hvalsness er einnig getið í sömu sögu bls. 457, 495.
Um 1270: Skrá um rekaskipti á Rosmhvalanesi. “Þadann fra fvlavik xl fadma a sanndinn fra kolldvhomrvm. Þadann aa hvalsnes. krokvr. ok vtskaler sydvr til midær holms sinn þridivng hvor þeirra. […] Þadann eigv vtskaler einer sydvr til miosyndis. Þadann aa sydvr hvalsnes ij hlvti j vidreka enn starnes þridvng.” DI II, 77.
Um 1270: “Þetta er hvalskipte rost hvelínga: at þann hval sem meire er enn xij vætter ok half vætt ok rekvr millvm æsvbergs ok kefl v vikur til motz vid niardvikínga skall skiptta j nív stade. […] Hinn ixa hlvt hvals aa hvalsnes ok starnes.” DI II, 78-79.

Hvalsnes

Lögréttan á Hvalsnesi.

Um 1270: “landamerkia bref aa milli huals nes og starnes.” DI II, 81.
1367: “xliij. Hvalnes maldage eins og j vilchinsbok. þa lidit var fra hijngad burd vors lausnara Jesu christi þushundrut ara þriu hundrut ara og siau tijger ara vijgde herra othgeir Biskup kirkiu a Hualsnese et cetera”; Hítardalsbók, sjá 1370; DI III 219.
1370: “Hvalsnes. Þa er lidit var fra hijngadburd vors herra Jesu Christi Þushundrud ära ccc. oc lxx ara. vijgdi herra Otthgeir Biskup kirkiu a Hvalsnesi […]. ad kirkian a fi ordung j heima landi sem Biorn bondi Olafsson oc Salgierdur kona hanz [gafu] kirkiunni til vpphelldis og ad standa skylldi fi rir presti og jord j nordurnesium […].” DI III, 256-257.

Hvalsnes

Hvalsnes – Virkishóll.

1415: “[…] hustru jnghunn gunnarsdotter medr fullo handabandhi fek […] herra arnna med gudz nadh biskup i skalholti sitt fullt oc loghligt æighnar vmbodh yfuer hualsnesi a hrosmalanesi […].” DI III, 761.
25.8.1426: Vottað “ath herra hanis paalsson feck med fullo handabande herman langha forstandara ath allra heilagra kirkiu j bergwin huaalsnes a Rosmalanesi liggiande bade síns herra kongsins oc suo sína vægna […].” DI IV, 336.
1435: Jón Kárason prestur vottar um viðtal Árna Ólafssar biskups við Helga Guðinason systurson sinn: “hielt biskup aarne aa eirne skaal ok drack helga aulit til. ok hier til gef ek þier jaurdina er hualsnes heiter er liggr aa Rosmalanese til fullrar eignar.” DI IV, 554.

Hvalsnes

Hvalsneshverfi – túnakort 1919.

1436: Snorri Ingimundarson prestur og þrír aðrir menn votta: “ath gudrun styrsdottir handfeste helga gudinasyne suo felldan vitnissburd. Ath hun heyrde […] gerra aarna med guds naad biskup j skalhollte kennazt […] ath hann hefde gefi t nefndum helga jaurdina er hualsnes heiter er liggr aa rosmalanese til
fullrar eignar ok sagdizt þa enn gefa honum adr nefnda jaurd.” DI IV, 555.
1436: Helgi Ingjaldsson prestur vottar: “at nefnd jngun [gunnarsdotter] feck biskp arna jordina a hualsnese er liggr a rosmalanesi til fullrar eignar med ollum þeim gognum ok gædum sem til liggr […].” DI IV, 555-556.

Hvalsnes

Hvalsnes – Smiðshúsabrunnur.

1436: Alþingisdómur tólf manna útnefndum af Ormi Loptssyni hirðstjóra: “at dæma i milli hera laughmannzins helga gudinasonar ogh nikulas snæbiarnarsonar. Kærdi fyrrnefndr helghi ath aadrnefndr nikulaas hielldi ogh sier eignadi jordina hvalsnes er liggr aa rosmhvalanesi. […] þvi dæmdvm vier fyrrnefnder domsmenn títtnefndom helgha optnefnda jord hvalsnes til fvllrar eignar svo mikit sem gilldi aatta lester fi sk fram komnar i bergvin en honum til hallz þad sem jördin væri dyrri.” DI IV, 559-560.
1445: Torfi Arason selr Skúla Loptssyni Hvalsnes á Rosmhvalanesi og Gegnishól í Skagafi rði fyrir jarðirnar Þykkvaskóg, Miðskóg Þórólfsstaði, Smyrlahól Giljaland og Heinaberg. “[Seljandi jarðarinnar reiknar] at hualsnesi fylgdi tuer jarder nes ok Melaberg ok stedi onnur fi rir omagavist. enn adra etti kirkian ok Þar til tolf kugilldi. kynni [kaupandi] at spyria at helge gudinason hefdi fl eire peninga tekit kirkiunnar vegna aa hualsnesi Þa skylldi [seljandi] Þa til leggia.” DI IV, 665-666.

Hvalsnes

Hvalsnes – Virkishóll.

1488: Jörðin Býjasker á Rosmhvalanesi er í Hvalsneskirkjusókn. DI VI, 637.
1541. Minnisgreinar Gizurar biskups. “Jtem lofad sira Eyolfi Hualsnesi ef sera Halldor hefur þad ecki heima sialfur.” DI X, 691.
1546: Bréf Gizurar biskups til síra Eyjólfs á Hvalsnesi. “J hueriu þier skrifudut at sira Einar hefdi b(ygt) undan ydur hualsnes veit ec þar ecki til.” DI XI, 528. 1552: Fógetareikningar. “Jtem Ogmonder aff Hualsnese ff or ij skatte xvj alne vadmel.” DI XII, 420. Sjá einnig Fógetareikninga 1553, DI XII, 577, 579.
1563: Jarðaskiptabréf hirðsjóra fyrir hönd konungs við Skálholtsstól. “[…] under minn nadugasta herra og Krununa skulu þessar jarder liggia til eignar oc aftekta […] Hvalznes med Hualsness hverfi fyrer jc hundrada.” DI XIV, 156. 1575: Máld DI XV 639 1698-1720: Jón bp Vídalín lætur lögtaka að Njarðvíkurkirkja fái alkirkjurétt og skuli vera annexía frá Hvalnesi; PP, 102.

Hvalsnes

Hvalsnes (HWL).

Fasteignamat frá 1916 er til fyrir Hvalsnes ásamt Móum, Loftstöðum, Smiðshúsum, Nýjabæ, Móhúsum og Tjörn.
1919: “Túnin að mestu slétt og sléttuð.” Tún (Hvalsnes A), 3.4 hekt., garðar 800 m2. Tún (Hvalsnes V),
3.4 hekt., garðar 540 m2. Tún (Smiðshús), 1.3 hekt., garðar 540 m2. Tún (Nýibær), 0.9 hekt., garðar 810 m2. Tún (Tjörn), 0.15 hekt., garðar 380 m2. Tún (Garðbær), 0.15 hekt., garðar 380 m2. Tún (Hlið), 0.15 hekt., garðar 380 m2. Sléttað tún (Móakot), 0.44 hekt., garðar 370 m2. Sléttað tún (Loftstaðir) 0.1 hekt., garðar 590 m2. Öll torfan samtals 9.9 hekt., og garðar 4790 m2.

Hvalsnes

Hvalsnes; bæirnir Nýibær, Moshús og Tjörn. Smiðshús t.h.

1703: [S]o er og mestalt land jarðarinnar komið í sand, grjót og hrjóstur […]. Torfrista og stúnga engin nema í sendinni jörðu, valla nýtandi. Eldiviðartak ekkert nema fj öruþáng. Fjörugrasatekja sem jörðinni nægir. Sölvatekja lítil. Fuglveiði og eggver ekkert nema ef sótt væri til Geirfuglaskers, sem presturinn þykist heyrt hafa kirkjunni eignað að nokkrum parti, en þángað er háskaför so mikil, að það hefur um lángar stundir ekki farið verið […]. Rekavon nokkur. Hrognkelsafj ara að nokkru gagni. Murukjarnar, söl og bjöllur eru um veturinn brúkaðar til að næra á nautpeníngi í heyskorti […]. Vatnsskortur er að miklu meini, so að margoft bæði sumar og vetur verður það að meini mönnum og fjenaði, þegar ekki nást fjöruvötn,” segir í JÁM III, 44-45.
“Hvalsnestangi […]. Skiptast þar á tjarnir og þýfðir móar. Þar er kúabeit, einnig hesta og sauðfjár að nokkru,” segir í örnefnalýsingu MÞ (Ö-Hvalsnes MÞ, 1).
Í örnefnaskrá AG segir: “Kúatraðir eru frá bæ milli Norðurtúns og Tjarnarbletts.” (Ö-Hvalsnes AG, 1).

Hvalsnes

Hvalsnes – útihús frá Austurbæ.

Uppmældar minjar á bæjarhólnum í Hvalsnesi eru áberandi og sjást vel úr öllum áttum. Á túnakorti frá 1919 er bærinn Hvalsnes merktur með níu steinhúsum, tveimur kálgörðum og einni for vestan við suðurkálgarðinn. Íbúðarhús er suðaustast á bæjarhólnum og steinsteypt útihús til norðurs og vesturs.
Íbúðarhúsið er byggt yfir austurenda bæjarhúsanna líkt og þau eru sýnd á túnakortinu og útihúsin eru vestarlega á hólnum, á sama stað og útihús á túnakortinu. Stafnar bæjarins snéru til suðurs að öllum líkindum en mikið rask er á bæjarhólnum vegna húsbygginga sem og annarra framkvæmda. Áætlað er að ljósleiðarinn liggi þvert yfir miðjan bæjarhólinn.
Slétt, ræktuð tún eru allt umhverfis bæjarhólinn á Hvalsnesi. Bæjarstæðið er Bæjarhóllinn er um 50 m í þvermál og 1-2 m á hæð. Brún hólsins sést einna best til suðurs, þar er hún 1,5 m á hæð. Malarplan er á hólnum miðjum og vegur yfir norðurhluta hans. Ekkert er varðveitt af eldri húsum á bæjahólnum en án efa er enn mannvist undir sverði.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Á túnakorti frá 1919 er steinkirkja, sem er samtengt kirkjugarði, merkt um 80 m suðaustan bæjar. Kirkjustæðið sést enn.
c. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII 9. HVALSNES Á MIÐNESI (G) -Guði, Maríu, heilögum krossi, Ólafi , Katrínu, öllum Guðs helgum mönnum.
1367: “xliij. Hvalnes maldage eins og j vilchinsbok. þa lidit var fra hijngad burd vors lausnara Jesu christi þushundrut ara þriu hundrut ara og siau tijger ara vijgde herra othgeir Biskup kirkiu a Hualsnese et cetera”; Hítardalsbók, sjá 1370, DI III 219.
10.6.1370: “Hvalsnes. Þa er lidit var fra hijngadburd vors herra Jesu Christi Þushundrud ära ccc. oc lxx ara. vijgdi herra Otthgeir Biskup kirkiu a Hvalsnesi Gudi til lofs oc dyrdar og heilagri Gudz modur Mariæ. hinum heilaga krossi. Olavo kongi. heilagri Katariæ oc ollum Gudz helgum monnum næsta dag fi rir festum Barnabæ Apostoli med þessum mäldaga. ad kirkian a fi ordung j heima landi sem Biorn bondi Olafsson oc Salgierdur kona hanz [gafu] kirkiunni til vpphelldis og ad standa skylldi fi rir presti og jord j nordurnesium oc xij kyr.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Þar skal vera heimilisprestr oc syngia hvern dag helgann oc hvern dag vm Langafostu oc jolafostu. ymbrudaga oc oll ix lestra holld oc octavas oc iij daga j viku þess j milli. þar skal lvka presti iiij merkur aa hveriu aare. þangad liggia Þesser iiij bæer ad tiundum oc lysitollum oc ollum skylldum. þoristader. fl angastader. Sandgerdi oc Vppsaler. Og af ollum bæium sudur þadan til Voga allar skylldur vtan af Biaskerium oc þeim tveimur kotum sem þar fylgir jordunni. tekst þar af heima tiund. af Hvalsnesi skal syngia til Biaskeria annan huern dag helgan. Þetta aa kirkian innan sig. kross fornan storan med vnderstodum. Mariuskriptt. olafsskriptt. iij krossa smä. Salvatoris skriptt. skrijn med helgum domum. v. kluckur. iiij biollur.

Hvalneskirkja

Hvalsneskirkja.

Tabulum oc brijk. tiolld vmmhverfi s sig. kiertistikur iiij med kopar. jarnstikur iiij. sacrarium mvnnlaug. ampli oc fonts vmbuning med skijrnar katle. vijgdz vattzkietill oc stockull. paxspialld oc paskablad. sacrarium handklædi oc kiertistiku. glodarkier. elldbera. baksturjarn. kirkiu läs. kista. vj manna messuklædi oc iiij hoklar ad auk. kantarakapur iij. sloppar ij. alltaraklædi iij med dvkum. kaleika iij. oc hvslkier med silfur glerglugga iij. merki ij. lectara ij. stol. kiertaklofa. paskakiertis vmbunad. dymbil oc halftt pund vax. xij manada tijder. J mote þeim iiij bæium sem vndann Vtskaala kirkiu eru tekner leggur Biorn bonde kirkiunni ad Vtskalum jord er hiter j Votum med tveimur kugilldumtil æfi nnligrar eignar. fi ell nidur portio sijdan Svarthofdi erfdi jordina fi rir ad hann giordi kluckna hvs oc fi ri brad oc brot aa kirkiu”; Vmáld DI III 256-257 [ef seinasta málsgreinin er ekki seinni viðbót, þá getur hér ekki verið um kirkjustofnun að ræða. Umtalsverð ornamentiseign bendir líka til að kirkjan hafi átt sér lengri sögu. Máldaga Oddgeirs ber þá etv að skoða sem breytingu úr hálf- í alkirkju].

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

7.5.1445: “[Seljandi jarðarinnar reiknar] at hualsnesi fylgdi tuer jarder nes ok Melaberg ok stedi onnur firir omagavist. enn adra etti kirkian ok Þar til tolf kugilldi. kynni [kaupandi] at spyria at helge gudinason hefdi fl eire peninga tekit kirkiunnar vegna aa hualsnesi Þa skylldi [seljandi] Þa til leggia”; DI IV 666.
22.8.1488: Jörðin Býjasker á Rosmhvalanesi er í Hvalsneskirkjusókn. DI VI, 637.
1575: Máld DI XV 639.
1698-1720: Jón bp Vídalín lætur lögtaka að Njarðvíkurkirkja fái alkirkjurétt og skuli vera annexía frá Hvalnesi; PP, 102.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

1811: Hvalnesprestakalli skipt upp og varð Hvalnes annexía frá Útskálum, staðfest með konungsbréfi 26.4.1815, Þó þannig að Hvalneskirkja skyldi niður lögð; PP, 104.
5.4.1820: Hvalneskirkja tekin upp á ný og byggð upp aftur 1821; PP, 102 [konungsbréf].
“[K]irkjan var uppbyggð að heita mátti á ábúandans kostnað 1821; þykir hún vera snoturt hús og prýðilegt,” segir í sýslu og sóknalýsingum. “Nýlega er búið að færa Hvalsnesskirkju út úr kirkjugarðinum suðaustur fyrir hann; er hún nú bygð úr steini og mjög vönduð. — Mér hafði verið sagt, að í Hvalsnesskirkjugarði hefði verið legsteinn yfir Steinunni Hallgrímsdóttur skálds, Péturssonar.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja og minnismerki um horfna sjómenn.

Nú var þar aðeins einn legsteinn sjáanlegur og af honum var alt letur þó horfið. En sú sögn fylgdi honum, að hann væri yfir séra Eiríki Guðmundssyni ([d.] 1796). Var mér sagt, að gras mundi gróið yfir Steinunnar-steininn, en að Hákon bóndi í Nýlendu mundi vita, hvar hans væri að leita. Hákon kvaðst muna eftir steininum: hann hefði verið alsettur letri. Og hann vísaði til, hvar hann minnti að steinninn hefði verið. Þar lét ég gjöra talsverða leit, en kom fyrir ekki. […] Á Stafnesi kom maður til mín, og sagðist hafa beyrt það haft eftir Steingrími bónda í Nesjum (Jónssyni prests í Hruna, Steingrímssonar), að hann (Steingrímur) myndi eftir því, að þá er síðast var bygð kirkjan í kirkjugarðinum (sem var 1864), þá hefði legsteinn verið settur í »grunnmúrinn«, og á honum hefði verið nafnið »Steinunn Hallgrímsdóttir« og ártalið, en ekkert annað.

Hvalsnes

Sólveig; minningarteinn á Hvalsnesi.

Ártalið hefði verið annaðhvort 1660 eða 1669. […] Sé hún rétt hefir sá steinn eigi tilheyrt Steinunni dóttur séra Hallgríms skálds. Hann var farinn frá Hvalsnesi fyrir 1660,” segir í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1903. “Á skrásetningarferð minni um Suðurnes í ágústmán. i sumar var mér sagt til tveggja rúnasteinsbrota á Hvalsnesi. […]. Annað lá úti undir kirkjugarðsveggnum að sunnanverðu, fyrir utan hann; er það aftari hluti steinsins. Hitt var í hleðslunni í norð-vesturvegg kirkjugarðsins að innanverðu og sást á þá hlið sem rúnirnar voru á. Efni beggja brotanna er grágrýti (dolerit) og er það brotið, sem í hleðslunni var, orðið eytt og veðurbarið; hefði það verið hér mörg ár enn, var fyrirsjáanlegt að rúnir og alt verk hefði eyðst af því. […] Bæði brotin eru nú komin á Forngripasafnið. Í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1971 er áletrunin sögt talin frá um 1500.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

“Síra Gestur var þá prestur á Hvalsnesi. Hann kom út úr bænum um vökuna og sér hvar tveir menn eru að glíma í kirkjugarðinum. Prestur gengur þangað og sér hvað um er að vera; er þar Þórarinn [í Glaumbæ] og Jáson [unglingspiltur sem grafinn var að Hvalsneskirkju] nærri því búinn að drepa hann.
Gestur prestur bjargaði Þórarni og kom Jásyni frá honum. Þórarinn hafði vakið Jáson upp og sent hann eftir peningum; var hann þá aftur kominn. Sagt er að síra Gestur muni hafa tekið til sín megnið af peningunum,” segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar.

Skóli

Hvalsnes

Hvalsnes – fyrrum skólinn sést á risbyggingunni.

Á túnakorti frá 1919 er skólahús merkt um 180 m austan bæjar, rétt utan við heimatúnið. Óræktaður mói og uppblásið svæði. Ekki sést til skólans – búið að byggja skemmu þar sem skólinn hefur staðið.

Garðbær
Á túnakorti frá 1919 er þurrabúðin Garðbær teiknuð með steinhúsi með skemmu ásamt einum kálgarði, um 140 m norðan bæjar.

Hvalsnes

Hvalsnes – Garðbær. Hlið t.h.

“Yztu takmörk Tjarnarbletts er rúst eftir þurrabúð, sem heitir Tjörn, og þar vestast í yztu merkjum Norðurtúns er Garðbæjartóft. Þar austur af er önnur þurrabúð, Hlið,” segir í örnefnaskrá AG. Garðbær er um 130 m norðan við Hvalsnesbæ og 25 m VSV við Hlið. Bæjartóftin er horfin en var fast sunnan við núverandi íbúðarhús.
Garðbær samanstendur af bæjarstæðinu og kálgarði sem enn sést fyrir norðan íbúðarhúsið.
Kálgarðurinn er ennfremur sambyggður Hliði. Núverandi íbúðarhús er inni í kálgarðinum og bæjartóftin hefur verið sléttuð út. Grasivasið slétt svæði sem nýtt er sem bakgarður. Engin ummerki um Garðabæ sjást á yfirborði.

Hlið
HvalsnesÁ túnakorti frá 1919 er þurrabúðin Hlið, ásamt þremur kálgörðum, merkt um 150 m norðan Hvalsnesbæjar.
“Yztu takmörk Tjarnarbletts er rúst eftir þurrabúð, sem heitir Tjörn, og þar vestast í yztu merkjum Norðurtúns er Garðbæjartóft. Þar austur af er önnur þurrabúð, Hlið,” segir í örnefnalýsingu.
Hlið er fast austan við Garðbæ, kálgarðar bæjanna voru sambyggðir. Minjar á Hliði sjást enn og samanstanda af bæjartóft, kálgarði og leið.
Tóftin er um 13×13 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Veggirnir eru 2 m á breidd og 0,5-2 m á hæð, algrónir en víða glittir í grjót. Tóftin skiptist í tvö hólf. Vestara hólfi ð er stærra, 5,5 x 2,6 m að innanmáli og snýr norðvestur-suðaustur. Op er á miðri vesturhlið, inn í kálgarð. Eystra hólfið er minna, 3 x 1 m að innanmáli og snýr norðvestur-suðaustur. Op er til suðausturs. Veggir í vestara hólfi nú standa betur og eru hærri en í minna hólfinu.

Smiðshús

Hvalsnes

Hvalsnes- Smiðshús.

Á túnakorti frá 1919 er Smiðshús merkt, með fimm steinhúsum sem og kálgarði austan við þau, um 280 m vestan Hvalsnesbæjar. Innan túns eru teiknuð tvö
steinhús og stakur kálgarður.
“Smidshús, önnur hjaleiga. Jarðardýrleiki óviss,” segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.
“Brunnurinn á Smiðshúsum sést í túninu norðaustan við gamla húsið,” segir á Ferlir.is. Alls eru skráðar fimm fornleifar á Smiðshúsum, innan túns býlisins og
sýnt er á túnakorti Hvalsnes frá 1919. Smiðshús hafa ekki farið varhluta af landbroti og hluti bæjarhólsins kominn undir sjóvarnargarð. Íbúðarhúsið er nú
um 15 m austan við strandlengjuna og engin hús á bæjarhólnum utan tófarbrots.
Smiðshús eru á sjávarbakka og einungs tóftarbrot fast vestan við veg að núverandi íbúðarhúsi að sem er 115m NNA.
Bæjarhóllinn er horfinn og búið ad slétta allt út nema einn vegg. Hann er L-laga, um 5,5×5,5 m að stærð.
Hann er um 1 m á hæð, steyptur til vesturs en til austurs má greina 4-5 umför af grjóthleðslu.

Gerðakot

Hvalsnes

Hvalsnes – Gerðakot.

1703: Jarðardýrleiki óviss, sögð fyrsta hjáleiga frá Hvalsnesi, samkvæmt JÁM III, 45.
1847: Jarðardýrleiki óviss, sögð hjáleiga frá Hvalsnesi, samkvæmt JJ, 86.
Kuml: “Útsuður frá Hvalsnesi nær sjó er bær, sem heitir Gerðakot.” Árið 1854 var grafið fyrir nýbýli á hóli í landi Gerðakots. Kom þá upp beinagrind sem snéri N-S (Magnús Grímsson 1940, 254).
“Gerðakot var flutt þangað sem var torfbær, er hét Landlyst,” segir í örnefnaskrá Hvalsness (Ö-Hvalsnes AG, 2).
1919: Tún (Gerðakot), 2 hekt., garðar 980 m2.
Samkvæmt túnakorti frá 1919 á Gerðakot kálgarð í Loftstaðatúni.
Á túnakorti frá 1919 eru sex steinhús merkt og norðan við þau for. Kálgarður er teiknaður sunnan bæjarhúsanna.

Hvalsnes

Hvalsnes – Gerðakot nýrra/Landlyst.

“Útsuður frá Hvalsnesi nær sjó er bær, sem heitir Gerðakot,” segir í örnefnaskrá. “Gamla-Gerðakot stóð á flötu túninu innan við lágan malarkamp, norðan við Hrossatjörn. Í stórflóðum gekk sjór yfir kampinn inn í tjörnina: hún hækkaði þá, svo að fyllti kálgarðinn fyrir framan bæinn og varla var fært um stéttina, fyrr en fjaraði. Sjór gekk einnig inn á túnið fyrir norðan bæinn í stórflóðum. Þótti þetta svo uggvænlegt orðið, að 1929 var bærinn fluttur ofar í túnið,” segir Magnús Þórarinsson.
“Gerðakot var flutt þangað sem var torfbær, er hét Landlyst,” segir í örnefnaskrá Hvalsness.
“Árið 1880 taldi hann [sr. Sigurður B. Sívertsen] prýðileg timburhús með stofum (undir baðstofu) á Stafnesi, Gerðakoti og Sandgerði og þokkalegar innanþiljaðar baðstofur á Stafnesi, Sandgerði og Klöpp,” segir í Við opið haf e. Ásgeir Ásgeirsson.
Bæjarhóllinn er 30 x 22 m að stærð og snýr austur-vestur. Hann er algróinn og þakin tóftum, erfitt er að sjá hvað eru bæjarhús og hvað útihús. Tóftirnar eru ekki samtengdar heldur stakar sem bendir til endurnýtingar. Hóllinn er grasivaxinn, 0,5-1 m hæð, hæstur til suðurs.

Nýlenda

Hvalsnes

Hvalsnes – Nýlenda.

1847: Jarðardýrleiki óviss, sögð undirsett Hvalsnesi, samkvæmt JJ, 86.
Jarðarítök: Jörðin átti reka- og þangfjörur innan Hvalsneslands, segir í örnefnalýsingu Hvalsness (Ö-Hvalsnes MÞ, 2).
Fasteignamat frá 1916 er til fyrir Nýlendu.
1919: “Túnin slétt mestöll, einkum á Busth., létt greiðfært.” Tún (Nýlenda), 1.3 hekt., garðar 1200 m2.
Á túnakorti frá 1919 er Nýlenda merkt með átta steinhúsum og einu timburhúsi sem eru umkringd þremur kálgörðum á öllum hliðum ef frá er talið austurhlið. For er vestanmegin norðurkálgarðs. Stafnar bæjarins snéru að öllum líkindum til norðvesturs. Núverandi bæjarhús eru á sama stað og eldri hús.
Slétt tún eru allt umhverfis bæjarhólinn. Engin ummerki bæjarhóls og -húsa sjást á yfirborði.

Bursthús

Hvalsnes

Hvalsnes – Bursthús.

1686: 10 hdr., konungseign, samkvæmt The Old Icelandic Land Registers, 122.
1695: 10 hdr., konungseign, samkvæmt The Old Icelandic Land Registers, 122.
1703: “Jarðardýrleiki veit enginn til vissu, en eftir einum gömlum manni er haft, að hún hafi verið konungseign“. “Á þessari jörðu er ekki fyrirsvar og fátækraflutníngur nema að helmgíngi við lögbýlissjarðir og er því hálfl enda kölluð; meina sumir hún hafi verið bygð af Hvalsnesslandi,” segir í JÁM III, 47-48.
1703: “Sölva og hrognkelsafjara nokkur. Murukjarnatekja nokkuð lítil, þó stundum að gagni til að lengja líf kvikfjenaðar. Tún fordjarfast af sjávarágángi,
item af grjóti og sandi. Engjar eru öngvar. Útigangur enginn nema í Hvalsnesslandi.
Eldiviðartak ekkert nema í fjörunni og þó lítið. Vatnsból af skorti og fordjarfast af sjávaryfirgángi. Heimræði hefur verið árið um kríng, en er nú að mestu af, því að lendíng og skipsuppsátur fordjarfast af sjáfaryfirgángi,” segir í JÁM III, 37.
1847: Jarðardýrleiki óviss, bændaeign, samkvæmt JJ, 86.

Hvalsnes

Hvalsnes – Skinnalón.

Á túnakorti frá 1919 er Busthús merkt með sjö steinhúsum, einu timburhúsi, tveimur kálgörðum til norðurs og suðurs og einni for. Á túnakorti Kirkjubólshverfi segir: «Bæinn Kirkjuból flutti Gunnar – sonur Erlendar á Stafnesi (ár) að Busthúsum, þangað sem nú er hann.» Ekkert íbúðarhús er á bæjarhólnum, einungis sumarbústaður.
Stafnar bæjarins snéru til suðvesturs. Langur, gróinn hóll. Greinilegt að uppsöfnun mannvistarlaga er undir sverði. Bæjarhóllinn er 48 x 28 m að stærð og snýr norðvestur suðaustur. Hann er um 1 m á hæð. Ekki sjást minjar á hólnum en nokkrar dældir eru þar auk beinna bakka. Mikið rof er i suðurhlið bæjarhólsins, þar sem kálgarður var.

Heimildir:
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 1923-24.
-Árbók hins íslenska fornleifafélags, 1903 – bls. 39.
-Örnefnaskráning fyrir Hvalsnes – Ari Gíslason.
-Örnefnalýsing fyrir Hvalsnes – Magnús Þórarinsson.
-Túnakort 1919.
-Loftmynd 1954.
-Fornleifaskráning vegna fyrirhugaðs ljósleiðara í Suðurnesjabæ. 2. útgáfa 2022.

Hvalsnes

Hvalsnes – uppdráttur ÓSÁ.

Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson var borinn til grafar frá Sandgerðiskirkju 1. febrúar 2024. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 21, janúar, 75 ára að aldri.

Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson.

Reynir var rafvirki og mikill Sandgerðingur enda bjó hann allt sitt líf í Sandgerði. Hann lét mikið að sér kveða alla tíð í þágu samfélagsins í Sandgerði og kom víða við. Hann átti sæti í sveitarstjórn í 20 ár og starfaði í hafnarráði Sandgerðishafnar í 16 ár. Hann starfaði í sóknarnefnd Hvalsneskirkju í 35 ár, þar af sem formaður sóknarnefndar í 30 ár.

Reynir rak fyrirtæki sitt Rafverk hf í um 30 ár en starfaði eftir það í Fræðasetrinu í Sandgerði sem síðar varð Þekkingarsetur Suðurnesja þar til hann lauk sínum starfsferli um 70 ára aldur. Auk allra þessara starfa í þágu samfélagsins var Reynir annálaður leiðsögumaður, enda þekkti hann hvern krók og kima ásamt alls kyns sögur sem tengjast svæðinu.

Reynir Sveinsson

Reynir (á miðri mynd) á ferð um Árnastíg með Svæðaleiðsögumönnum Reykjanesskaga.

Hann var mikill ljósmyndari og hann skilur eftir sig gríðarlegt magn ljósmynda sem fanga sögu Sandgerðis og nágrennis og er hluti af menningararfi sveitarfélagsins. Auk alls þessa var hann fréttaritari Morgunblaðsins um langt skeið, þar sem hann kom á framfæri fréttum af mannlífi í Sandgerði og nágrenni.

Reynir fæddist 2. júní 1948. Hann var fjórði í röðinni í hópi sjö systkina, lærði rafvirkjun hjá föður sínum og hóf síðar störf hjá Sandgerðisbæ sem forstöðumaður Fræðasetrinu. Þar starfaði Reynir lengi, aðallega við móttöku gesta og leiðsögn enda vel staðkunnugur á Reykjanesskaganum. Vann einnig með ýmsu móti að eflingu ferðaþjónustu í nærsamfélagi sínu.

Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson.

Reynir starfaði mikið og lengi að félagsmálum á Suðurnesjum, sat t.d. í bæjarstjórn Sandgerðis og í hafnarráði sveitarfélagsins. Gegndi jafnframt ýmsum trúnaðarstörfum öðrum á sameiginlegum vettvangi sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Reynir var mjög virkur í björgunarsveitinni Sigurvon ásamt hörðum kjarna sem byggði björgunarmiðstöðina í Sandgerði. Þá var Reynir í Slökkviliði Sandgerðis í 40 ár og slökkviliðsstjóri í níu ár.

Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson í Hvalsneskirkju.

Á vefsíðu Þjóðkirkunnar, kirkjan.is, má lesa um áhuga Reynis Sveinssonar, formanns sóknarnefndar Hvalsnesóknar og fyrrum FERLIRsfélaga undir fyrirsögninni „Fólkið í kirkjunni„:

„Reynir Sveinsson, formaður sóknarnefndar Hvalsnessóknar í Útskálaprestakalli, er einn af þeim mönnum sem verða máttarstólpar í sínu samfélagi. Hann hefur komið víða við. Rak rafmagnsverkstæði í áratugi, tekið þátt í stjórnmálum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, setið í bæjarstjórninni, verið virkur í björgunarsveitinni Sigurvon sem er elsta sveitin í Slysavarnafélagi Íslands, stofnuð eftir strand togarans Jóns forseta árið 1928 við Stafnes. Verið slökkviliðsstjóri, flinkur ljósmyndari allt frá fermingu, fréttaritari Morgunblaðsins, forstöðumaður Fræðaseturs í Sandgerði, leiðsögumaður … og svo mætti lengi telja. Maður sem hefur látið samfélagsmál sig varða og ekki talið neitt eftir sér.

Reynir Sveinsson

Reynir í hópi Svæðaleiðsögunema Reykjanesskagans.

Reynir er hógvær maður og viðræðugóður. Margfróður um sögu síns samfélags og er kirkjunnar maður.

Hvalsneskirkja er honum kær.

„Ég var alinn upp á trúræknu heimili,“ segir Reynir Sveinsson, formaður sóknarnefndar Hvalsnessóknar í Útskálaprestakalli, „móðir mín söng alla sálmana með útvarpsmessunum á sunnudögum og virtist kunna þá alla“. Hún hét Guðbjörg Hulda Guðmundsdóttir, húsfreyja, og faðir hans Sveinn Aðalsteinn Gíslason, rafveitustjóri.

Kirkjan er 135 ára á árinu

Hvalsneskirkja

Núverandi Hvalsneskirkja var vígð á jóladag 1887. Hún er staðsett á vestanverðu Reykjanesi, kirkja Sandgerðinga. Ketill Ketilsson stórbóndi í Kotvogi, þáverandi eigandi Hvalsnestorfunnar kostaði kirkjubygginguna. Hvalsneskirkja er byggð úr tillhöggnum steini og var grjótið sótt í klappir í nágrenninu. Um steinsmíði sá Magnús Magnússon og Stefán Egilsson, um tréverk sá Magnús Ólafsson. Allur stórviður hússins var fenginn úr fjörunum í nágrenninu, m.a. súlurnar. Viðamiklar viðgerðir fóru fram árið 1945 undir umsjón Húsameistara ríkisins. Kirkjan er enn starfandi í dag og rúmar 100 manns. Kirkjan er friðuð. Altaristaflan er eftirgerð af Dómkirkjutöflunni máluð af Sigurði Guðmundssyni árið 1886 og sýnir hún upprisuna. Einn merkasti gripur kirkjunnar er legsteinn yfir Steinunni Hallgrímsdóttur sem dó á fjórða ári (1649). Hún var dóttir Hallgríms Péturssonar (1614-1674) mesta sálmaskálds Íslendinga sem þjónaði þá sem prestur í Hvalsnessókn, hans kona var Guðríður Símonardóttir. Hallgrímur Pétursson þjónaði á Hvalsnesi fyrstu prestskaparár sín 1644-1651. Hella þessi var lengi týnd en fannst 1964 þar sem hún hafði verið notuð í stéttina framan við kirkjuna. Kirkja hefur liklega verið á Hvalsnesi lengi, hennar er fyrst gerið í kirknaskrá Páls biskups frá 1200.Hvalsnes var fyrrum prestssetur og útkirkjur í Kirkjuvogi og Innri-Njarðvík. Hvalsnesprestakall var lagt niður 1811 og Hvalsnes- og Kirkjuvogskirkjur lagðar til Útskála. Íbúarnir voru mjög ósáttir við það og var ný kirkja byggð 1820 og var hún timburkirkja. Núverandi kirkja er fyrsta kirkjan sem stendur utan kirkjugarðs. Í kaþólsku tengdust margir dýrlingar kirkjunni, María guðsmóðir, Ólafur helgi, heilög Katrín, Kristur, allir heilagir og hinn helgi kross.

Reynir er búinn að vera sóknarnefndarformaður í rúm þrjátíu ár. „Var kosinn formaður að mér fjarverandi,“ segir hann með bros á vör. „Og er enn að, 74 ára.“

Þegar tíðindamann kirkjunnar.is bar að garði voru menn að vinna í turninum. „Þessi fallegi turn er einstakur,“ segir Reynir, „hann var orðinn fúinn að hluta til og skreytingar á honum höfðu fokið út í veður og vind.“

„Kirkjan er friðuð,“ segir hann, „Minjastofnun hefur verið mjög hliðholl öllum framkvæmdum við kirkjuna.“

Hvalsneskirkja var vígð á jóladag árið 1887 og verður því 135 ára á næstu jólum. Kirkjan var svo tekin í gegn 1945 en síðan hefur margt verið unnið henni til góða.

„Fyrsta sem ég gerði eftir að ég varð formaður var að hafa forystu um að hlaðnir yrðu grjótgarðar í kringum kirkjugarðinn,“ segir hann og bendir á fallega hleðslu. „Það var Sveinn Einarsson frá Hnjóti á Egilsstöðum sem hlóð þá – hann var 83ja ára – og blés ekki úr nös!“

Kirkjan og hafið
Reynir þekkir sögu kirkjunnar í þaula og rekur hana vel og áreynslulaust. Enda hefur hann þurft að segja hana býsna oft því að alls konar hópar sækja kirkjuna heim og óska eftir því að fá að heyra sögu hennar.

Nábýli við hafið gefur og tekur. Margur hefur farist á Suðurnesjunum. Eitt kunnasta strandið er þegar togarinn Jón forseti strandaði á rifi við Stafnes í febrúar 1928. Tíu mönnum var bjargað en fimmtán drukknuðu.

En það var seglskipið Jamestown sem gaf mikið timbur af sér. Árið 1881 rak það mannlaust að landi Hvalsness gegnt Kotvogi. Skipið var fullt af timbri. Reynir segir að efnaðir bændur hafi keypt timbur úr skipinu. Ketill í Kotvogi keypti aðra síðuna, hún var dregin yfir ósinn í Hafnir og var það margra mánaða vinna að taka hana í sundur. Allt hafi verið neglt með koparnöglum.

Hvalsneskirkja

Í Hvalsneskirkju.

„Kirkjugólfið er allt úr Jamestown,“ segir Reynir, „og prédikunarstóllinn – úr amerískum rauðviði.“ Hann segir prédikunarstólinn vera þungan og hafi gólfið sigið undan honum um 6 sm. Það var lagfært og gólfplankarnir hvíla á grjóti en eru ekki festir út í kirkjuveggi. Jónískar súlur til sitt hvorrar handar eru einnig úr plönkum úr skipinu.

Kirkjubóndinn Ketill Ketilsson í Kotvogi lét reisa Hvalsneskirkju. Þar hefur kirkja staðið frá allt frá 1200. Ketill frétt að verið væri að reisa hlaðna kirkju í Njarðvík. Snaraðist þangað og samdi við steinsmiðina um að koma á Hvalsnes þegar verkinu væri lokið og hefja þar hleðslu. Grjótið var tekið úr klöppinni fyrir utan túnið og því ekki langt að fara.
„Hvalsneskirkja er af svipaðri stærð og Njarðvíkurkirkja,“ segir Reynir, „tveimur steinaröðum hærri, þakið brattara, – hún tekur um 100 manns í sæti.“

Einstakar minjar og góðir gipir

Hvalsneskirkja

Skírnarfonturinn smíðaður 1835-1837.

Hvalsneskirkja geymir legstein Steinunnar Hallgrímsdóttur sem sr. Hallgrímur Pétursson meitlaði en hún dó á barnsaldri. Steinninn er í kór kirkjunnar. Sr. Hallgrímur var vígður á sínum tíma til Hvalsnesssóknar og var þar prestur í sjö ár, 1644-1651.

„Skírnarfonturinn er frá því um 1835,“ segir Reynir, „og það er skemmtileg saga í kringum hann: Bóndinn í Stafnesi lá í fimmtán ár og var með öllu ógöngufær. Meðan svo stóð þá dundaði hann við að smíða þennan skírnarfont sem hann gaf síðan kirkjunni. Þegar búið var blessa skírnarfontinn þá gerist það undir að hann fær mátt í fæturna og gat gengið um.“

Fylgst vel með öllu
Reynir segir að ástand kirkjunnar og innanstokksmuna sé gott. Þó eigi eftir að laga altaristöfluna sem er eftir Sigurð málara Guðmundsson.

Hvalsneskirkja

Altaristaflan er eftir Sigurð Guðmundsson, málara, frá 1867 – eftirmynd af töflu Dómkirkjunnar.

„Þegar maður horfir vel á hana sést að hún er ögn gisin á köflum,“ segir hann. Altaristaflan er upprisumynd í sama stíl og tafla Dómkirkjunnar, „Já, og í Kirkjuvogskirkju og á Ingjaldssandi – íslenskur sérfræðingur sem starfar í Hollandi sagði mér að þær væru tíu svona á landinu.“ Farið var yfir allt grjótið í kirkjunni og fúgur lagaðar þar sem með þurfti. Lofthvelfingin var yfirfarin og þiljunar slegnar saman og fellt í rifur. Þá var þakið klætt kopar og kirkjuhurðir endursmíðaðar og gluggar settir í með tvöföldu gleri.

„Allar þessar framkvæmdir kosta sitt en við fáum styrki úr ýmsum sjóðum kirkjunnar,“ segir Reynir. „Gjaldendur í sókninni eru um 1000 og Hvalsnessókn er að Garðskaga og þá tekur Útskálasókn við, erum í Útskálaprestakalli.“

Ánægjuleg umsjón
Reynir segir að starfið í kringum kirkjuna sé allumsvifamikið og veiti það honum mikla ánægju.

Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson – lósmyndarinn.

Kirkjan sé vinsæl fyrir ýmsar kirkjulegar athafnir eins og brúðkaup. Hljómburður er afar góður í kirkjunni og hafi dregið tónlistarfólk að henni eins og Sumartóna á Suðurnesjum. Þá hafi kirkjan sjálf og umhverfi hennar heillað kvikmyndagerðarmenn sem hafa nýtt sér hana og nefnir hann mynd Friðriks Þórs, Á köldum klaka, og mynd Baltasars Kormáks, Mýrina, sem dæmi. Hann hlær glettnislega þegar hann segir frá tuttugu manna erlendu tökuliði sem kom til að taka upp og var þar í einn dag. „Það voru miklar tilfæringar og stúss,“ segir hann og síðar sýndi einn honum atriðið sem tekið hafði verið upp. „Það var þá sex sekúndur,“ hlær Reynir.

Reynir Sveinsson

Reynir á ferð með Svæðaleiðsögumönnum Reykjanesskagans.

Snoturt aðstöðuhús er skammt frá kirkjunni og breytti það öllu til hins betra segir Reynir. „Það er þrefalt torflag á þaki þess og dugði ekki minna.“

Þá getur Reynir þess í lokin að í Sandgerði sé Safnaðarheimili, Sandgerðiskirkja, og þar fari fram fjölmennar athafnir.

Hvalsneskirkja er svo sannarlega í góðum höndum undir forystu Reynis.

Reynir Sveinsson, sóknarnefndarformaður Hvalsnessóknar, er einn af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni. Kirkjan er söfnuðurinn; fólkið.“ -hsh

Sandgerði

Reynir í Sandgerði á knattspyrnuvellinum að kveldi til.

FERLIRsfélagar minnast Reynis sem góðs og glaðværs manns. Börnin sín sagðist hann eiga íþróttafélaginu, Reyni í Sandgerði, að þakka. Það hafi heitið eftir honum. Þegar leikir fóru fram á íþróttaleikvanginum að kvöldi til hafi ómuð hávær hvatningaköllin; „Reynir, áfram Reynir“, hvatt hann verulega til dáða þá og þar sem eiginkonan var annars vegar.
Þegar Reynir var við nám í Svæðaleiðsögn á Reykjanesskaganum var ein áskorunin m.a. fólgin í „rútuleiðsögn“ um Skagann.

Reynir Sveinsson

Reynis Sveinsson.

Sérhver nemandi átti að lýsa fyrir öðrum nemendum í tíu mínútur tilteknum hluta leiðarinnar. Það kom í hlut Reynis að lýsa leiðinni frá Þórkötlustaðahverfi, framhjá Hrauni og upp Siglubergsháls að Ísólfsskála. Í minningunni var þessi kafli leiðsagnarinnar hin eftirminnilegasti í ferðinni. Reynir settist í stól leiðsögumannsins fremst í rútunni, horfði um stund á hljóðnemann, fletti þegjandi um stund blöðum í möppu og leit rólega í kringum sig, en sagði ekki orð alla leiðina. Þegar hann var spurður að ferð lokinni hvað hefði gerst svaraði hann: „Blöðin í möppunni voru bara ekki á réttum stað“. Málið var að Reynir gerþekkti umhverfi Sandgerðis og nágrennis, eins og gerist jafnan um heimalinga, en þegar út fyrir það var komið reyndist róðurinn þyngri, eins og sagt er á sjóaravísu.
Reynir Sveinsson var alltaf reiðubúinn að aðstoða eða upplýsa FERLIR um staði í og við Sandgerði, verkefni Fræðasetursins eða einstaka viðburði, s.s. á sviði Lionsfélagsskaparins, líkt og sjá má annars staðar á vefsíðunni. Blessuð er minning hans.

Heimildir:
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/01/23/andlat_reynir_sveinsson/
-https://www.sudurnesjabaer.is/is/moya/news/reynir-sveinsson-minning
-https://kirkjan.is/frettir/frett/2022/07/09/Folkid-i-kirkjunni-Enn-ad/?fbclid=IwAR139S9dMYMygJt6XNv19tpViZ79LoAPNqarhoIUjSd6Iu1Y4VbInwWJGlA

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja 1. febr. 2024.

Hvalsnes

Hvalsneskirkja var vígð á jólum 1887. Ketill Ketilsson, stórbóndi í Kotvogi, þáverandi eigandi Hvalsnestorfunnar, kostaði kirkjubygginguna.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Hvalsneskirkja er byggð úr alhöggnum steini og var grjótið sótt í klappir í nágrenninu. Um steinsmíði sá Magnús Magnússon (182-1887) og Stefán Egilsson. Um tréverk sá Magnús Ólafsson (1847-1922). Allur stórviður var fenginn úr fjörunum í nágrenninu, m.a. súlurnar. Viðamiklar viðgerðir fóru fram árið 1945 undir umsjón Húsameistara ríkisins. Kirkjan er friðuð.
Altaristaflan er eftirgerð af Dómkirkjutöflunni, máluð af Sigurði Guðmundssyni (1833-1874) árið 1886 og sýnir hún upprisuna.

Hvalsneskirkja

Legsteinn Steinunnar í Hvalsneskirkju.

Einn merkilegasti gripur kirkjunnar er legsteinn yfri Steinunni Hallgrímsdóttur, sem dó á fjórða ári (1649). Hún var dóttir Hallgríms Péturssonar (1614-1674), eitt mesta sálmaskáld Íslendinga, sem þjónaði þá sem prestur í Hvalsnessókn. Kona hans var Guðríður Símonardóttir. Hallgrímur Pétursson þjónaði á Hvalsnesi fyrstu prestskaparár sín (1644-1651).
Hella þessi var lengi týnd, en fannst 1964 þar sem hún hafði verið notuð í stéttina framan við kirkjuna.
Kirkja hefur líklega verið á Hvalsnesi lengi. Hennar er fyrst getið í Kirknaskrá Páls biskups frá 1200 og stóð hún til ársins 1811 er Hvalsnesprestakall var lagt niður. Íbúarnir voru mjög ósáttir við það og var ný kirkja byggð 1820. Hún var timburkirkja. Núverandi kirkja er fyrsta kirkjan, sem stendur utan kirkjugarðsins. Í kaþólsku tengdust margir dýrlingar kirkjunni. María guðsmóðir, Ólafur helgi, heilög Katrín, Kristur, allir heilagir og hinn heilagri kross.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Hvalsnes
“Einhvern tíma snemma vors árið 1637 kemur skip sem oftar fyrir Reykjanes og stefnir til Keflavíkur.
Bát er róið út í skipið og leggjast að hlið þess. Forvitin augu beinast að bátsverjunum úr landi. Hún er þögul, en hann er ræðinn og léttur í máli.

Hallgrímur Pétursson

Hallgrímur Pétursson.

Áður en lent er í fjörunni hafði hann sagt nokkur deili á þeim báðum, sér og konunni. Hann hét Hallgrímur Pétursson, ættaður að norðan, hafði verið í Lukkustað og Kaupenhöfn, vegið kol, stundað járnsmíði og lesið latínu. Konan hét Guðríður Símonardóttir, kynjuð frá Vestmannaeyjum.
Ekki fara sögur af því hvar þau áttu náttstað fyrstu nóttina á Íslandi eftir langa og að mörgu leyti stranga útlegð.
Hallgrímur var stórættaður maður, þótt hann ætti til smárra að telja hið næsta sér. Afabróðir hans hafði t.d. verið prestur á Útskálum og hans sonur síðan. Afabróðir hans annar var síra Þorlákur á Staðarbakka í Miðfirði, faðir Guðbrands biskups. Föðursystir hans átti Jón prófast Sveinsson í Holti, hálfbróður Brynjólfs biskups. Sakir ætternis hafi Hallgrímur flust til Hóla nýfæddur, – sé hann þá ekki fæddir þar á staðnum, – en Pétur, faðir hans, var, eins og kunnugt er, hringjari eða kirkjuvörður við dómkirkjuna á Hólum og hafði Guðbrandur biskup látið hann njóta frændsemi í þessu.

Hvalsneskirkja

Minnismerki um Hallgrím Pétursson við Hvalsneskirkju.

Ekkert er vitað með vissu um það, af hvaða orsökum Hallgrímur fer frá Hólum og til útlanda. Munnmæli herma ýmist að hann hafi hlaupist á brott með kaupmönnum eða, að hann hafi komist í óvingan fyrir kvenfólk á staðnum sökum kveðlinga.
Þjóðsagan segir, að þegar Hallgrímur löngu síðar kom í Skálholt og gerði boð fyrir biskupinn og kvað Hallgrím Pétursson vilja tala við hann, hafi biskup svarað: “Fari hann ofan í smiðju og reki járn, það kann hann”.
Ungi maðurinn yfirbragðsmikli, sem varð landfastur í Keflavík einhvern maídag 1637, átti þá mikla sögu að baki, þótt ungur væri að aldri, aðeins 23 ára.

Tyrkja-Gudda.

Tyrkja Gudda – málverk efir Jóhannes S. Kjarval.

Guðríður hafði verið hertekin ambátt hjá Hundtyrkjum. Hún hefur eflaust fljótlega eftir komu sína hingað þegið þá nafnbót af Suðurnesjamönnum, sem hún hefur síðan borið, Tyrkja-Gudda. Ástir þeirra höfðu brotið blað í lífssögu beggja, einkum hans.
Maður Guðríðar reyndist látinn. En eigi að síður var aðstaða þeirra gagnvart almenningsálitinu í meira lagi örðug, og sek voru þau að þeirra aldar lögum, þótt brotið teldist ekki eins alvarlegt og þau hafa, e.tv. haft ástæðu til að vænta. En Guðríður gekk upprétt sína ævibraut. Hún og Hallgrímur hittu fyrir góða menn hér syðra, sem reyndust þeim hjálplegir í erfiðleikum þeirra. Hann var að sönnu þurfamaður á Suðurnesjum að ýmsu leyti.

Bolafótur

Bolafótur í Njarðvík – bústaður Hallgríms Péturssonar.

Hallgrímur hefur orðið að leita sér atvinnu hér og fyrsta sumarið var hann púlsmaður danskra Í keflavík. En Guðríður fékk athvarf í Ytri-Njarðvík hjá Grími nokkurm Bergssyni, sem var þeim óvandabundinn með öllu. Barn þeirra Hallgríms ól hún hjá Grími nýlega á land komin og nefndi Eyjólf eftir fyrra manni sínum.

Mér sýnist sem minning Gríms í Njarðvík, og þess, sem hann gerði fyrir Hallgrím, sé fullnóg hinum megin á vogina, til þess að rétta hlut Suðurnesjamanna. Fleiri reyndust Hallgrími góðir drengir. Hann bjó á Bolafæti í Njarðvík ytri, en dvaldist öðrum þræði í Hvalsneshverfi í skjóli bóndans þar, Þorleifs Jónssonar. Þorleifur mun hafa hvatt Hallgrím á biskupsfund, til þess að sækja um Hvalsnesþing og að það hafi verið hann, sem tók að sér “forsorga hans hyski”, meðan hann var í burtu. Hallgrímur dvaldist um sjö ár hér á Suðurnesjum, en er Brynjólfur Sveinsson, sem þá var orðinn biskup í Skálholti, skerst öðru sinni í leikinn, skiptir þáttum í ævisögu Hallgríms.

Hvalsneskirkja

Stærri klukkan frá 1875.

Hvalsnesþing voru prestlaus og höfðu verið um skeið. Reyndist torvelt að fá menn til þessa embættis og er Torfa sýslumanni einkum kennt. Einhvern tíma á vertíðinni 1644 fær Hallgrímur sig lausan úr skipsrúmi sínu, til þess að takast brýna ferð á hendur – að hitta Brynjólf biskup. Munnmælin segja, að Hallgrímur hafi farið fótgangandi í Skálholt og illa búinn og viðtökur staðarmanna hafi verið heldur kaldranalegar. En hljóðið hafi breyst í þeim, þegar hann hafði prédikað í dómkirkjunni. Þegar hann hélt úr hlaði í Skálholti, hafi hann hlotið vígslu í Hvalsneskirkju af Brynjólfi biskupi. Þá var hann sæmilega búinn, því að biskup gaf honum alklæðnað góðan, reiðhest með öllum reiðtygum og hempu.

Hvalsneskirkja

Minni klukkan – áletyrun I CH GAMST KHVN 1819 Tionsen Hvalsness.

Aðkoman að Hvalsnesi var að sönnu ekki glæsileg, staður og kirkja í niðurníðslu og embættistekjurnar næsta rýrar. En þetta skipti ekki meginmáli, heldur hitt, að veitingin var sú uppreisn, sem Hallgrímur þurfti að fá. Hann hafði borið upp á Suðurnes af skipreika og í mörgu tilliti verið eins og sjórekið flak. En hann var kjörviður andlegra yfirburða. Hér á Hvalsnesi komst Hallgrímur upp úr flæðamálinu, hér náði hann að skjóta rótum í jarðvegi íslenskrar kristni. Á þessum stað tók meiður að bruma, sem átti eftir að lyfta laufkrónu sinni svo hátt, að hún blasir við augum allra kynslóða á Íslandi.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Hallgrímur var prestur að Hvalsnesi í 7 ár. Hann var 37 ára (1651) er hann fluttist á brott, að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Helsti minnisvarði Hallgríms að Hvalsnesi er legsteinn Steinunnar, dóttur hans. Hann reisti henni, þriggja og hálfs árs, bautarstein og lagði hann á legstaðinn. Steinn þessi fannst er verið var að lagfæra stéttina við kirkjuna. Hann er nú í kirkjunni á Hvalsnesi.”

-Sigurbjörn Einarsson
-Frá Suðurnesjum – Frásagnir frá liðinni tíð – 1960

Hvalsneskirkja

Legsteinn Steinunnar í Hvalsneskirkju.

Hvalsnesgata

Kunnur Suðurnesjamaður frá fyrri tíð var Hallgrímur Pétursson, prestur í Hvalsneskirkju.

Hallgrímur Pétursson

Hallgrímur Pétursson.

Á síðari hluta sextándu aldar og fram á þá sautjándu sat á Hólum einn merkasti biskup Íslendinga eftir siðskiptin, Guðbrandur Þorláksson, mjög afkastamikill bókaútgefandi, en í hans tíð var prentaður á Hólum fjöldinn allur af sálmum, kvæðum og guðsorðaritum, bæði þýddum og frumsömdum og hann sá um fyrstu heildarútgáfu Biblíunnar á íslensku 1584. Mjög mikilvægt var fyrir Íslendinga að fá Biblíuna svo snemma á móðurmálinu, það átti eflaust þátt í að íslenskan varðveittist sem tungumál á þeim tíma þegar Ísland var hluti af danska konungsríkinu.
Hallgrímur Pétursson var skyldur Guðbrandi Þorlákssyni biskupi á Hólum og faðir hans var hringjari þar á staðnum. Á Hólum ólst Hallgrímur að nokkru leyti upp og þar hefði honum verið auðvelt að feta menntaveginn en að loknu námi við skólana á Hólum og í Skálholti héldu ungir efnilegir menn oftast til náms við háskólann í Kaupmannahöfn og áttu síðan von um góð embætti heima á Íslandi.

Glückstadt

Glückstadt.

Af einhverjum ástæðum sem ekki eru fyllilega kunnar hraktist Hallgrímur frá Hólum og hélt til útlanda. Sagt er að hann hafi orðið óvinsæll á staðnum vegna gamansamra og jafnvel dónalegra vísna sem hann orti um þá sem þar voru hátt settir og verið rekinn, en aðrar sögur segja að hann hafi farið að eigin ósk. Hann virðist hafa tekið sér far með erlendum sjómönnum og næst fréttist af honum í Norður-Þýskalandi, í Glückstadt, þar sem hann er kominn í þjónustu hjá járnsmið sem fór heldur illa með hann. Sagt er að hann hafi einhverju sinni gengið út bálreiður og hallmælt húsbóndanum á ófagurri íslensku en þá hafi þar átt leið hjá fyrir tilviljun íslenskur maður að nafni Brynjólfur Sveinsson sem heyrði að pilturinn var íslenskur og þótti hann „heldur orðhittinn, þó ei væri orðfagur í það sinn, ávítaði hann og sagði, að ei ætti hann so sárlega að formæla sínum samkristnum.

Brynjólfur Sveinsson

Brynjólfur Sveinsson.

Hallgrímur tók því að sönnu vel en spurði hvort hann vildi ekki vorkenna sér nokkuð þar hann ætti allt illt og þar á ofan fyrir sakleysi barinn og laminn. Brynjólfur fann að nokkuð mundi þó neytt með þessum pilti, réði honum að skilja við þessa þjónustu og leggja annað fyrir sig, svo af hans áeggjan og tilstilli komst hann í vorfrúeskóla í Kaupinhafn.“ Brynjólfur þessi Sveinsson varð síðar biskup í Skálholti og kom aftur við sögu Hallgríms síðar.

Í Kaupmannahöfn hefst nýr kafli í lífi Hallgríms Péturssonar. Hann var góðum gáfum gæddur og skáldhneigður og víst er að námið í vorfrúarskóla hefur haft góð og hvetjandi áhrif á hann. Vitað er að hann náði skjótt góðum árangri og var brátt kominn í hóp bestu nemenda.

Kaupmannahöfn

Kaupmannahöfn.

Hann er um þetta leyti 22 ára gamall og þá verða örlagaríkir atburðir í lífi hans. Til Kaupmannahafnar kemur hópur af Íslendingum sem sjóræningjar frá Alsír – sem Íslendingar kölluðu Tyrki – höfðu rænt og hneppt í ánauð fyrir tæpum tíu árum síðan en höfðu nú verið keyptir lausir af Danakonungi. Hallgrímur er fenginn til þess að kenna þessu fólki kristin fræði. Í hópnum er kona sem heitir Guðríður Símonardóttir og hafði verið gift kona og móðir en orðið viðskila við mann sinn og barn. Þessi kona og Hallgrímur fella hugi saman og ekki líður á löngu þar til hún er orðin barnshafandi af hans völdum. Guðríður var þá 38 ára gömul þannig að með þeim var 16 ára aldursmunur. Þetta verður til þess að Hallgrímur hættir námi í annað sinn og þau Guðríður halda heim til Íslands.

Bolafótur

Bolafótur í Njarðvík.

Um þetta leyti munu þau hafa frétt að eiginmaður Guðríðar var látinn. Hallgrímur gekk að eiga hana „fyrst hann varð ekki af því talinn“ eins og segir í gamalli heimild og vann fyrir sér og fjölskyldu sinni með erfiðisvinnu. Það er ljóst að þetta hafa verið erfið ár, þau hjónin voru fátæk og einnig er vitað að þau misstu nokkur börn ung að árum.
En það verður aftur róttæk breyting á lífi og högum Hallgríms og í annað sinn er það Brynjólfur Sveinsson sem breytir gangi máli, nú orðinn biskup í Skálholti; hann veitir Hallgrími prestsembætti og lætur vígja hann. Fyrstu árin í prestsembætti hafa þó ekki verið Hallgrími beinlínis auðveld; sumir áttu erfitt með að gleyma því að hann hafði verið fátækur vinnumaður.

Sauðbæjarkirkja

Sauðbæjarkirkja.

Til er gömul heimild þess efnis að fólki hafi þótt biskupinn haga sér undarlega að vígja þennan fátækling til prests en það hafi skipt um skoðun þegar það heyrði hann predika fyrir vígsluna. Aðeins ein predikun Hallgríms, líkræða, hefur varðveist en vitað er að hann þótti frábær predikari. Það sýnir einnig glöggt að Hallgrímur hefur ekki valdið vonbrigðum í starfi heldur þvert á móti vaxið í áliti að þegar Saurbær á Hvalfjarðarströnd, sem var miklu betra prestakall, losnaði var það Hallgrímur sem hlaut það 1651.

Fyrsti áratugurinn á eftir var honum frjór tími til ritstarfa. Öll mestu verk hans munu vera frá þessum árum og öll trúarleg: tveir sálmaflokkar, Samúelssálmar ortir út af Samúelsbókum Gamla testamentisins og Passíusálmarnir; og tvö guðræknisrit í lausu máli sem heita Dagleg iðkun af öllum drottins verkum og Sjö guðrækilegar umþenkingar. Efnahagsleg afkoma var þá vel viðunandi og heilsan góð.

Saurbær

Saurbæjarkirkja.

Árið 1662 brann bærinn í Saurbæ og var það skiljanlega mikið áfall þótt strax væri hafist handa að byggja bæinn upp að nýju. Eftir þetta fór heilsu Hallgríms hrakandi, í ljós kom að hann var haldinn holdsveiki, úr þeim sjúkdómi lést hann sextugur að aldri árið 1674.
Eina barn þeirra Hallgríms og Guðríðar sem upp komst var Eyjólfur sonur þeirra. Dótturina Steinunni misstu þau þegar hún var aðeins þriggja og hálfs árs. Legsteinn með nafni hennar sem Hallgrímur hjó sjálfur út hefur varðveist og er í kirkjunni í Hvalsnesi þar sem Hallgrímur þjónaði fyrst sem prestur.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Hvalsneskirkja var reist á árunum 1886-87 og sóknarpresturinn vígði hana á jóladag 1887. Ketill Ketilsson, hreppsstjóri í Kotvogi og eigandi Hvalsnessjarðarinnar, lét reisa kirkjuna. Hún er hlaðin úr tilhöggnum steini. Magnús Magnússon, múrari frá Gauksstöðum í Garði, hafði umsjón með því verki, en hann drukknaði veturinn 1887. Þá tók við verkinu Stefán Egilsson, múrari úr Reykjavík. Magnús Ólafsson, trésmíðameistari úr Reykjavík, sá um tréverk. Kirkjan var tekin til gagngerra endurbóta 1945 undir umsjón Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins.

Hvalsneskirkja

Legsteinn Steinunnar í Hvalsneskirkju.

Mesti dýrgripur kirkjunnar er vafalaust legsteinninn, sem séra Hallgrímur Pétursson hjó og setti á leiði Steinunnar, dóttur sinnar. Steinninn fannst, þegar grafið var fyrir stétt, sem steypa átti fyrir framan kirkjudyr 1964. Hann mun hafa legið þar alllengi, jafnvel verið fluttur á þann stað úr kirkjugarði þegar kirkjan var reist. Steinninn hefur einhvern tíma brotnað og vantar því stafi aftan á nafnið svo og síðasta staf ártalsins, en það mun eiga að vera 1649.
Tréverkið í kirkjuna vann Magnús Ólafsson snikkari úr Reykjavík. Altaristaflan er eftir Sigurð Guðmundsson málara.
Hvalsneskirkja var friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Þórshöfn

Áletrun á klöpp við Þórshöfn.

Nokkrar minjar eru á Suðurnesjum tengdar Hallgrími, en aðrar eru horfnar, s.s. Bolafótur, bær sá er hann bjó í þar sem nú er skipasmíðastöðin í Njarðvíkum. Letursteinn norðan við Þórshöfn norðan Ósa er sagður hafa fangamarkið HP og letur í klöpp ofan við Þórshöfn ber stafina HP, en séra Hallgrímur er sagður hafa gengið þá leið að heiman til messu í Hvalsnesi.

M.a. af:
http://servefir.ruv.is/passiusalmar/hhallgrim.htm

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Stafnes

Gengið var frá Sandgerði að Básendum undir leiðsögn Reynis Sveinssonar, forstöðumanns Fræðaseturs Sandgerðis, björgunarsveitarmanns, Lionsmanns og formann safnaðarnefndar Hvalsnessóknar, bæjarfulltrúa o.fl. Reynir kunni skil á öllu í nútíð og þátíð, auk þess sem hann hafði skoðun á hverju, sem fyrir augu bar.

Hvalsnes

Á Hvalsnesi með Reyni Sveinssyni.

Gengið var um Sandgerðisfjörur, Melgerðisfjörur (hvítar sandbaðstrendur), Másbúðarhólma, Fuglavík og skoðuð Hvalsneskirkja. Í kirkjunni lýsti Reynir kirkjum á staðnum frá öndverðu, viðkomu Hallgríms Péturssonar, letursteini Steinunnar dóttur hans og smíði þeirrar kirkju, sem nú stendur í Hvalsnesi.
Hvalsneskirkja var reist á árunum 1886-87 og sóknarpresturinn vígði hana á jóladag 1887. Ketill Ketilsson, hreppsstjóri í Kotvogi og eigandi Hvalsnessjarðarinnar, lét reisa kirkjuna. Hún er hlaðin úr tilhöggnum steini. Magnús Magnússon, múrari frá Gauksstöðum í Garði, hafði umsjón með því verki, en hann drukknaði veturinn 1887.
Þá tók við verkinu Stefán Egilsson, múrari úr Reykjavík. Magnús Ólafsson, trésmíðameistari úr Reykjavík, sá um tréverk. Kirkjan var tekin til gagngerra endurbóta 1945 undir umsjón Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins.

Stafnes

Á Stafnesi.

Mesti dýrgripur kirkjunnar er vafalaust legsteinninn, sem séra Hallgrímur Pétursson hjó og setti á leiði Steinunnar, dóttur sinnar. Steinninn fannst, þegar grafið var fyrir stétt, sem steypa átti fyrir framan kirkjudyr 1964. Hann mun hafa legið þar alllengi, jafnvel verið fluttur á þann stað úr kirkjugarði þegar kirkjan var reist. Steinninn hefur einhvern tíma brotnað og vantar því stafi aftan á nafnið svo og síðasta staf ártalsins, en það mun eiga að vera 1649.
Þá gengið um Stafnes. Mikið er um minjar á svæðinu.

Stafnes

Á Stafnesi.

Stafnes var höfuðból að fornu. Þar var um aldir mikið útræði og fjölbýli á staðnum. Konungútgerð hófst þar um miðja 16. öld og stóð til 1769. Voru landsetar af konungsjörðum suðvestanlands skyldurgir til að róa á árabátum þaðan fyrir harla lítil laun. Á 17. og 18. öld var Stafnes fjölmennasta verstöð á Suðurnesjum.
Ótrúlega mikil og margbrotin saga af mannlífi fyrri alda birtist göngufólki á ekki lengri leið. Þótt Miðnesheiðin sé ekki há eða löng urðu t.d. 25 manns úti á henni á árunum 1860-1890.
Veður var frábært, sólskin og logn – Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Hvalsneskirkja

Í Alþýðublaðinu 13. október 1964 birtist eftirfarandi frétt eftir OÓ: „Fundinn er við Hvalsnesskirkju legsteinn Steinunnar dóttur Hallgríms Péturssonar. Steinn þessi hefur verið týndur í hátt á aðra öld, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að hafa upp á honum.“
HvalsneskirkjaSíðan segir frá því hvernig bóndinn á Bala, Guðmundur Guðmundsson, formaður sóknarnefndar Hvalsnessóknar hafi verið að vinna við að steypa stétt upp að kirkjunni og ætlað að fjarlægja steina sem standa myndu upp úr steypunni. Byrjar hann á steini sem stóð við norð(vestur)- horn kirkjunnar og ætlar að velta honum við og nota í uppfyllingu undir steypuna. Kemur þá í ljós, að letur var á steininum, vel læsilegt. Lét hann Gísla [Guðmundson] kirkjuhaldara þegar vita af fundinum, sem við nánari athugun sá að hér var um að ræða legstein Steinunnar Hallgrímsdóttur“.
Steinn SteinunnarÍ greininni kemur fram að menn hafi vitað um tilvist þessa steins því um hann hafi verið heimildir í gömlum skrifum en þó var ekki vitað hvar hann var fyrr en hann kom upp í tengslum við kirkjubyggingu í Hvalsnesi árið 1820. Síðan hafi hann glatast á ný og hvorki Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi, né Matthías Þórðarson þjóðminjavörður fundið hann þrátt fyrir ítrekaða leit í byrjun þessarar aldar. ãÁreiðanlega hafa þeir báðir gengið á honum“ segir svo, „því hann er búinn að liggja á hvolfi fyrir utan kirkjudyrnar síðan hún var byggð fyrir 77 árum [1887].“ Síðan heldur greinarhöfundur áfram: „Legsteinninn er gerður úr sléttri grásteinshellu sem sennilega hefur verið um 70 sm. á kant en höggvið hefur verið utan af honum svo hann félli betur í hleðsluna sem hann var notaður í. Við þessar lagfæringar skemmdist letur steinsins nokkuð, en enn er vel læsilegt:
STEINU
HALLGRIM
DOTTI
164…“
Niðurlag greinarinnar er eftirfarandi: „Talið er líklegt að séra Hallgrímur hafi sjálfur höggvið þennan stein. Hann þjónaði í Hvalsnesi í 7 ár, frá 1644 til «51, hefur Steinunn því bæði fæðst og látist þar, en hún var þriggja og hálfs árs gömul er hún dó. Var hún mjög efnilegt barn og tregaði faðir hennar hana mikið og orti eftir hana tvenn eftirmæli.“

Hvalsneskirkja

Það er þyngd steinsins og stafagerðin sem grípa mann sterkustum tökum. Er það á eins manns færi að lyfta honum?
Vegna þeirrar greinar sem hér birtist hafði ég samband við Sigurbjörn Stefánsson bónda í Nesjum í Hvalsneshverfi til þess að kanna hvort fyrir lægju upplýsingar um þyngd steinsins. Þær voru ekki haldbærar en sóknarnefndarformaðurinn, Reynir Sveinsson, bauðst til þess að ganga úr skugga um það. Hann fór síðan með baðvigtina sína til kirkju og lyfti steininum með aðstoð Bryndísar Gunnarsdóttur sóknarnefndarkonu upp á vogina. Steinninn reyndist vera 110 kg. Og þyngri var hann, áður en höggvið var af honum til þess að hann yrði þénugri sem gangstéttarhella.
Hallgrímur PéturssonÞað var víst enginn aukvisi sem valdi þessa voldugu grjóthellu og bar heim í smiðju og síðan að gröf barnsins eftir að hafa meitlað í hana nafn litlu dóttur sinnar og dánarár. STEINUNN HALLGRÍMSDÓTTIR 1649. Það er eins og heljarafl sorgarinnar hafi gert manninn tröllsterkan. Hallgrímur hefur verið um það bil 35 ára og heimildir segja að hann hafi verið stór vexti. Því má vel hugsa sér að þessi fyrrverandi járnsmíðanemi og sjómaður hafi verið rammur að afli. Gróf stafagerðin er síðan til vitnis um að þarna var ekki vanur steinsmiður að verki heldur faðir barnsins að tjá sorg sína og missi í vanmætti sínum.
Maður sér fyrir sér frumstæð verkfæri hins fátæka prests, heyrir glamur af hamri og meitli, sér tár hrökkva í grátt rykið, sér hann hagræða hellunni á gröf síns eftirlætis og yndis, og ljóðið og steinninn verða eitt, allt eins og Snorri orðaði það. Ljóðið munu margir lesendur Bautasteins kannast við. 

Steinunn

Eftirmælin, sem í raun eru tvenn og vefast saman í eitt máttugt harmljóð, dótturtorrek, eftir þessa litlu stúlku sem Hallgrímur segir með eigin orðum að hafi verið svo næm skynsöm, ljúf í lyndi.
Steinunn mín litla hvílist nú, skrifar hann til að sefa sorg sína.
Og úr ljóði Hallgríms fást þær upplýsingar að hún hafi aðeins verið þriggja og hálfs árs þegar hún dó. Hálft fjórða ár alls var ævi, eigi þó fullkomin, segir pabbi hennar.
Það er mikið haft við svo lítið barn að yrkja eftir það dýr ljóð og leggja stein á gröf þess á tímum, þegar barnadauði var daglegt brauð hinna fátæku og sneyddi ekki heldur hjá húsum hinna ríku. Það bendir til þess að Steinunn Hallgrímsdóttir hafi verið einstaklega efnilegt og heillandi barn ellegar faðir hennar óvenjulegur maður. Og auðvitað var umræddur faðir óvenjulegur maður. Og konan hans, móðir barnsins, átti að baki óvenjulega ævi. Hún hafði lent í herleiðingunni miklu til Alsír 1627 í Tyrkjaráninu svokallaða og var ein örfárra sem áttu afturkvæmt. Fundum þeirra bar saman í Kaupmannahöfn haustið 1636 og er ekki ætlunin að rekja langa sögu þeirra hér. Þó er rétt að minna á að fyrstu sjö búskaparár sín bjuggu þau við fátækt og allsleysi á Suðurnesjum þar til Hallgrímur var vígður til prests í Hvalsnesi þrítugur að aldri.

Heimild:
-Steinunn Jóhannesdóttir, rithöfundur.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1951 fjallar Helgi S. Jónsson um „Hallgrímskirkju á Hvalsnesi„:

Gísli Guðmundsson

Gísli Guðmundsson á Hvalsnesi – 1904-1979.

„Út við gráa sanda, á milli Stafness og Sandgerðis á Rosmhvalanesi, skagar Hvalsnesið í sjó fram. Þar eru veðrabrigði auðsæ, því brim leggur þar að landi ef sjór gerist úfinn á hafii úti.
Hvalsnes er hvorki merkara nje ómerkara en fjöldi annara staða á þessu landi. Fyrir augum flestra, sem aka þar hjá, er Hvalsnes aðeins fátæk bygð, með lítilli hlaðinni steinkirkju og bárujárnsbæ, hvar gamall kirkjugarður hreykir sjer hið eystra. Ef þú stöðvar farkostinn við túnfót og rennir augum yfir staðinn, þá vakna margar spurningar um fortíð hans og má ske framtíð. Þeim spurningum er flestum best svarað í viðræðum við þá mágana Gísla og Magnús á Hvalsnesi, sem eru margfróðir, þjóðlegir, hagleiks og dugnaðarmenn.
Við knýum dyra að Hvalsnesi og finnum þar forna höfðingslund — boðið er til stofu, þó Gísli bóndi sje að verkum í fjósi. Hann er djákni í Hvalsneskirkju og mágur hans, Magnús, er þar organleikari og hefur verið það hart nær 30 ár.

Magnús Pálsson

Magnús Pálsson á Hvalnesi – 1892-1970.

Við göngum frá bænum eftir steinlögðum stíg, meðfram þeim gamla Guðs-akri, Hvalsneskirkjugarði. Þar hvíla gamlir sóknarar til lands og sjávar, svo og riddarar Fálkaorðunnar og nafnlaust fólk með steinlausa græna torfu að skjóli.
Við fyrstu kynningu er Hvalsneskirkja frábrugðin öðrum stöllum sínum hjerlendis, hún er opin — ólæst — í trausti þess að kristið fólk gangi þar um. Hið innra er hátt til lofts þó ekki sje vítt til veggja og kærleiki fólksins sem á kirkjuna, hefur að 20. aldar sið látið mála hana bronsí og olíufarfa. Mislitt gler var látið í glugga, þó litar á birtunni gæti mjög skammt og kirkjan því altof björt, sem aðrar hjerlendar. Yfir litlu altari er mynd eftir Sigurð Guðmundsson, málara (1867). Myndin er af hermönnum Rómaveldis, sem falla til jarðar fyrir ásjónu Krists, og er það vel á bríkum altaris eru messuklæði prestsins að Útskáum, en dúkur sá er barnsmóðir Rauðhöfða skildi eftir, er horfinn og lifir nú aðeins þjóðsagan um þann atburð.

Hallgrímur Pétursson

Hallgrímur Pétursson.

Við Hvalsnes er tengd minning mikils andans frömuðar, eða rjettara sagt, að mikill andans maður er tengdur við Hvalsnes. Þangað kom Hallgrímur Pjetursson fátækur og vegalaus, til þess að þjóna þeim drotni, er hann síðar söng svo dýrðlegt lof.
Um Hallgrím eru engar minjar á Hvalsnesi. Steinn sá, sem sagt er að hafi átt að vera yfir Steinunni, 4 ára dóttur hans, er með öllu horfinn, en sannað þykir að þessi litla dóttir hans hafi andast að Hvalsnesi. Sagt er að steinninn hafi verið merktur: St. H. D. 16. 4. 1649. Það sem síðast er vitað, er að steinninn var notaður í gangstjett heim til kirkjunnar, en sjest nú hvergi.
Steinar glatast og hverfa fyr en munnmæli: — steinninn, sem sálmaskáldið mikla grjet við, er farinn veg allra vega, en sögnin um hann lifir. Heimildir geta lítið um dvöl Hallgríms Pjeturssonar að Hvalsnesi, nema helst til þess, sem miður má fara. Þrátt fyrir það er hann ein sú persóna hins liðna, sem nú er í mestum hávegum höfð.

Tyrkja-Gudda

Tyrkja-Gudda – málverk Jóhannesar Kjarvals.

Sagt er að Hallgrímur hafi fundið meðal þeirra, sem aftur komu úr Tyrkjaherleiðingunni, konu þá er hann feldi hug til, sem Guðríður Símonardóttir hjet, en sagnir kalla jafnan Tyrkja-Guddu. — Þau komu til Keflavíkur 1637 og fekk Hallgrímur þá vinnu hjá dönskum kaupmanni þar, en þau virðast hafa búið hjá Grími Bogasyni í Ytri-Njarðvík, því þar ól Guðríður son þeirra Eyólf. Þá eins og endranær reis smámenskan upp á móti ástinni og dæmdi kærleika þeirra Guðríðar og Hallgríms frillulíf, en ekki hórdóm, því fyrri maður Guðríðar reyndist dáinn áður en ást þeirra bar ávöxt.

Tyrkja-Gudda

Tyrkja-Gudda – ferilsskrá.

Margar sögur eru til um komu Hallgríms Pjeturssonar að Hvalsnesi. Sumar telja að hann hafi komið þangað fyrirmannlega, ríðandi sínum eigin Eik, er Skálholtsbiskup hafi gefið honum, sakir góðs þokka. Aðrar sögur segja að hann hafi komið að Hvalsnesi all förumannlegur og illa til fara, kom hann þar á bæ nokkurn og baðst hressingar, sem honum var veitt, og átti hann að launa beinan með nýum frjettum þar í fásinninu. Hafði hann fátt tíðinda að segja annað en að búið væri að vígja Hallgrím Pjetursson að Hvalsnesi. Varð þá kerlingu einni að orði þetta landfræga svar: „Allan fjandann vígja þeir.“

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja – Steinn Steinunnar (ljósmynd Reynir Sveinsson).

Hvernig sem sagnirnar reika virðist það staðreynd að Hallgrími Pjeturssyni er veitt Hvalsnes 1644 og þjónaði hann þar, búandi við hrekkvísi, eymd og fátækt í 7 ár, eða þar til hann fekk veitingu fyrir Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Þar um mun mestu hafa ráðið vinsemd Brynjólfs biskups í Skálholti.
Það er ekki greiðfært að rekja sögu kirknanna að Hvalsnesi, þó má í elstu heimildum finna, að fyrsta kirkjan þar er vígð heilagri Maríu og öllum heilögum, árið 1370 og var þá presti fenginn bústaður að Nesjum og gert að flytja messu annan hvern helgan dag að Bæjaskerjum, en þar mun þá hafa verið bænahús eða kapella. Örnefni benda til þess að svo hafi verið, því enn heitir þar Kirkjuklettur.

Hvalsnes

Hvalsnes – núverandi kirkja stendur utan garðs,, en eldri kirkjur munu hafa verið innan garðs.

Allar Hvalsneskirkjur, til forna, munu hafa verið bygðar úr torfi og grjóti, sem er lítt varanlegt efni og því fæstar átt sjer mjög langa sögu. Það er aðeins unt að rekja byggingasögu þeirra aftur á bak, með nokkrri vissu, til fyrrihluta 19. aldar.
Hvalsneskirkja
Árið 1814 er Hvalsneskirkja lögð niður með konungsbrjefi og sóknin lögð til Útskála. Var svo fyrir mælt að kirkjan skyldi rifin, en ilt reyndist að fá menn til verksins. Um síðir rjeðust 4 menn til að rífa kirkjuna og hlutu 3 þeirra vofveiflegan dauða að verkinu loknu, en hinn fjórði lamaðist og lá rúmfastur í 15 ár. Maður sá hjet Erlendur Guðmundsson og bjó á Kirkjubóli. Var síðan kirkjulaust að Hvalsnesi í 6 ár, eða til 1820, en þá hóf Tómas Jónsson hinn ríki, smíði nýrrar kirkju og var hún gerð af timbri, með standandi klæðningu og tjörguð hið ytra.

Hvalsnes
Þegar kirkjan var risin af grunni fór Erlendur á Kirkjubóli að telgja með hníf sínum skírnarfont handa kirkjunni og sóttist smíðin seint, sem von var, en þegar henni var lokið og skírnarfonturinn vígður, þá hvarf lömun Erlendar og hann fekk fulla heilsu. Skírnarfontur þessi er enn í Hvalsneskirkju og á honum tinskál sem ber ártalið 1824. Þau árin sem kirkjulaust var á Hvalsnesi eru til annála færð sem hin mestu fiskleysis og annara hörmunga ár þar um slóðir. Eftir 1820 verður konungskirkja á Hvalsnesi, en um 1860 er Hvalsnes í eigu Kotvoga í Höfnum og lætur Ketill í Kotvogi þá hefja þar kirkjubyggingu og var sú kirkja úr timbri og stóð fram til þess að núverandi kirkja var bygð, því hvelfing í lofti er úr eldri kirkjunni, svo og predikunarstóllinn, en hann er smíðaður úr Mahognitrje einu, sem rak á Bústhúsafjörur. Svo vænt var trje það, að einnig voru smíðuð úr því tvö stór borð, sem nú munu glötuð.
Hvalsneskirkja
Stærri kirkjuklukkan mun hafa kallað til messu í þremur kirkjum, því á hana er letrað „T. Ionsson — Hvalsnes 1820“ og er klukkan mjög hljómfögur og steypt í Kaupmannahöfn. Allar kirkjurnar, fyrir utan þá sem nú stendur, voru innan kirkjugarðs og hafa vafalítið staðið allar á sama stað, sem ráða má af uppgreftri, síðan farið var að grafa í gamla kirkjustæðið, sem nú er í vesturenda hins nýstækkaða kirkjugarðs.

Ketill Ketilsson

Ketill Ketilsson í Höfnum.

Það tilefni er talið til byggingar núverandi kirkju, að eitt sinn var Ketill bóndi í Kotvogi við fermingarmessu að Hvalsnesi og komust þá ekki allir kirkjugestir inn. Ketill kvað að svo búið mætti ekki standa að þeir sem messu vildu hlýða væru utandyra. Skömmu síðar ljet Ketill hefja byggingu nýrrar kirkju, sem reist var fyrir utan garð, á hól nokkrum skammt frá.
Kirkjan er hlaðin úr tilhöggnu grjóti. Smiður var Magnús Guðmundsson frá Reykjavík en hleðslu annaðist Magnús múrari frá Miðhúsum, en hann mun hafa dáið meðan á verkinu stóð, en það tók 3 ár að fullgera kirkjuna.
Í sama mund var Ásbjörn Ólafsson í Njarðvík að láta hlaða kirkju þá sem enn stendur í Innri-Njarðvík. Metingur var á milli höfðingjanna um það hver byggði stærra og sigraði Ketill þar, svo sem sjá má, því báðar eru kirkjurnar eins, nema Hvalsneskirkja er nokkru stærri.
Núverandi Hvalsneskirkja er vígð 1887 og þjónað af Útskálapresti, sem einnig þjónar fjórum öðrum kirkjum og gætir eins af stærstu prestaköllum landsins.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja – kirkjuklukka.

Hvalsneskirkja er máttug og góð til áheita, um það eru margar sagnir en jeg kann þær fæstar. Þó hafa núlifandi menn sagt mjer nokkrar sem þeir vita deili á og telja sannar. Ein þessara sagna greinir frá Hákoni bónda að Stafnesi. Hann var skytta góð og stundaði tófuveiðar. Eitt sinn var hann í tófuleit skammt frá Stafnesi og komst þá í kast við sjóskrímsli eitt ferlegt. Berst viðureign þeirra sunnan undir túngarð og þótti Hákoni sinn hlutur óvænkast. Hjet hann þá að gefa Hvalsneskirkju gjöf nokkra ef hann slyppi frá skrímslinu. Brá þá svo við, að hann komst innfyrir túngarðinn sem gerður var úr háum rekaplönkum og skildi þar með þeim Hákoni og skrímslinu. Hákon færði kirkjunni ljósahjálm mikinn — 12 kerta — sem nú hangir næst altari og sannar þessa sögu.

Hvalsneskirkja

Í Hvalsneskirkju.

Tveir aðrir ljósahjálmar eru í kirkjunni og er annar til minningar um Ólaf Sigurðsson frá Hvalsnesi en hinn gjöf frá Guðmundi bónda í Nesjum og má vera að einnig sá hjálmur sje áheit.
Kirkjudyr horfa beint móti innsiglingunni um Hvalsnessund, sem oft er brimsöm og vart fær á stundum. Liggur sundið fyrir opnu hafi og brimar því oft skjótt og illa.
Sú venja hefur haldist frá ómunatíð að opna kirkjudyrnar þegar sundið brimar og fullyrtu þeir Hvalsnesbændur, Gísli og Magnús, að aldrei hefði farist bátur fyrir opnum kirkjudyrum.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Vantrúarsvipur minn mun hafa valdið því að Magnús Pálsson, organisti og fyrverandi sjósóknari, krosslagði sínar sigggrónu hendur á brjósti og sagði eigin sögu: „Við vorum á sjó þegar sundið brimaði snögglega. Er við komum að fjell á fjórum og var lending með öllu ófær. Rjett þegar við vorum að snúa frá og freista lendingar annarstaðar, þá voru kirkjudyrnar opnaðar og gerði samstundis sljett lag og við rjerum inn svo sem í logni væri. Þegar skip mitt var komið í vör, hóf brimið sig á ný og hefði þá enginn mátt landi ná. — Best er að hver trúi því sem hann vill um kirkjunnar mátt — en sjálfur veit jeg hver hastar á vind og sjóa lægir —“.

Hvalsnes

Hvalsneshverfi – túnakort 1919.

Við göngum út á hlaðið, þar sem gamall myllusteinn liggur í stjett, og lítum yfir staðinn. — í kirkjugarðinum er verið að steypa nýmóðins rúmgafla og gamlir legsteinar hallast. Hvalsneskirkju — undur fagra og samræmda í ytri línum, ber við regngráan himininn. — Um þessa kirkju veit jeg lítið, nema að það er sál kirkjunnar — gleði og sorg kynslóðanna, sem gefa henni eilíft líf. Því löngu eftir að trúin er týnd, bera steinar þessara veggja því vitni, að einu sinni var samband milli guðs og manna.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 47. tbl. 24.12.1951, Hallgrímskirkja á Hvalsnesi – Helgi S. Jónsson, bls. 596-600.

Hvalsnes

Hvalsnes – herforingjaráðskort frá 1908.

Hvalsneskirkja

Freyja Jónsdóttir skrifði um „Hvalsneskirkju“ í Dag árið 1999:
Hvalsneskirkja-221„Á Hvalsnesi hóf Hallgrímur Pétursson prestskap sinn og þar missti hann Steinunni dóttur sína.
Hvalsnes er á vestanverðum Reykjanesskaga, sunnar á strandlengjunni en Sandgerði. Þar var fyrst byggð kirkja 1370 sem vígð var sama ár. Þá átti kirkjan sjö kvígildi, fjórðung í heimalandi og jörð í Norður-Nesjum. Á sextándu öld lagðist sú jörð í eyði vegna uppblásturs. Hallgrímur Pétursson var þjónandi prestur á Hvalsnesi eftir að hann tók prestsvígslu, áður en hann fluttist að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Hallgrímur var fæddur 1614. Ekki er vitað hvort hann fæddist á Hólum í Hjaltadal eða á einhverjum öðrum bæ þar i dalnum. Faðir hans var Pétur Guðmundsson, sonur velefnaðs bónda í Gröf á Höfðaströnd. Pétur og biskupinn á Hólum, Guðbrandur Þorláksson, voru bræðrasynir. Hallgrímur bróðir Péturs tók við búi í Gröf eftir föður þeirra en Pétur gerðist hringjari í Hólakirkju. Sagan lýsir honum sem atkvæðalitlum manni sem hafi fengið hringjarastarfið fyrir ættar sakir. Sólveig hét kona hans og er lítið um hana vítað. Hallgrímur Pétursson ólst upp á Hólum og var settur til mennta en hætti í skóla og fór til Danmerkur. Talið er að Hallgrímur hafi verið við járnsmíðanám þegar fundi hans og Brynjólf Sveinssonar biskups bar saman.

Tyrkja-Gudda.

Tyrkja Gudda – málverk efir Jóhannes S. Kjarval.

Fyrir áeggjan biskupsins fór Hallgrímur í Vor Frue skóla í Kaupmannahöfn. Árið 1636 kom nokkuð af því fólki sem Tyrkir hertóku hér á landi árið l627, til Kaupmannahafnar. Meðal þeirra var Guðríður Símonardóttir sem Tyrkir rændu í Vestmannaeyjum. Hallgrímur og Guðríður feldu hugi saman og vorið eftir, segir sagan að Hallgrímur hafi hætt í skóla til þess að fara með Guðríði heim til Íslands. Eftir að Hallgrímur og Guðríður höfði háð harða baráttu fyrir lífsafkomu sinni í nokkur ár var Hallgrímur vígður til Hvalsnesprestakalls. Vel er hægt að ímynda sér að þá hafi þau talið að allir erfiðleikar væru að baki en svo var þó ekki. Á Hvalsnesi misstu þau Guðríður og Hallgrímur Steinunni dóttur sína nokkurra ára gamla. Steinunn hvílir í Hvalsneskirkjugarði og er ekki lengur vitað hvar leiðið hennar er í garðinum. Steinn sem var á leiði hennar er nú geymdur í kór kirkjunnar á Hvalsnesi en hann fannst í stéttinni fyrir framan kirkjuna. Talið er að Hallgrímur hafi sjálfur höggvið nafn dóttur sinnar í steininn. Talsverð leit hafði verið gerð að bautasteini Steinunnar en án árangurs þar til kirkjustéttin var endurbyggð 1964 að steinninn fannst í gömlu stéttinni. Útfarasálminn „Allt eins og blómstrið eina“, sem enn er sunginn við jarðarfarir, orti Hallgrímur vegna fráfalls Steinunnar. Hann sendi Ragnheiði Brynjólfsdóttur í Skálholti sálminn þegar hún lá banaleguna.
Hvalsneskirkja-222Áður en steinkirkjan var byggð á Hvalsnesi var þar timburkirkja sem Ketill Ketilsson stórbóndi í Kotvogi lét byggja árið 1864. Margar tilgátur eru til um það af hverju hann réðist í að byggja steinkirkjuna og rífa timburkirkjuna sem aðeins var tuttugu og tveggja ára gömul og þótti á þeim tíma hið veglegasta hús. Timburkirkjan sem Ketill lét byggja var inni í kirkjugarðinum en steinkirkjan stendur fyrir utan garðinn.
Saga er til um að þak timburkirkjunnar hafi lekið og Ketill, sem hefur verið maður stórtækur, ákveðið að byggja nýja kirkju frekar en gera við þakið. En sjálfsagt hefur fleira komið til eins og að Katli hafi þótt kirkjan of lítil. Einhverju sinni á hvítasunnudag var hann við fermingarguðsþjónustu í Hvalsneskirkju. Mikill mannfjöldi sótti kirkjuna þennan dag og komust ekki allir inn og stóðu nokkrir úti. Hafði Ketill þá á orði að ekki gæti hann til þess vitað að fólk, sem vildi hlýða á messu, hefði ekki þak yfir höfuðið. Bygging Hvalsneskirkju hófst árið 1886 og var kirkjan vígð á jóladag 1887. Séra Jens Pálsson sóknarprestur vígði kirkjuna. Kirkjan er hlaðin úr tilhöggnum steini sem fleygaður var úr klöppinni við túngarðinn. Grjótið var síðan dregið á hestum og tilhöggvið með hamri og meitli á byggingarstað. Súlur í kór og ýmislegt annað tréverk er gert úr rekavið úr fjörum í nágrenninu. Einnig var efni í bygginguna fengið úr Duusverslun í Keflavík. Ketill fékk Magnús hvalsneskirkja-223Magnússon múrara, frá Gaukstöðum í Garði til að taka steinverkið í kirkjubyggingunni að sér. En Magnús fórst með fiskibát frá Gerðum, þegar hann var í róðri, áður en kirkjubyggingunni var lokið. Stefán Eggertsson múrari í Reykjavík tók við verkinu og lauk því. Yfirsmiður við kirkjubygginguna var Magnús Ólafsson, trésmíðameistari í Reykjavík. Magnús var fæddur 20. júlí 1840 á Berjanesi, Vestur-Landeyjum. Foreldrar Magnúsar voru: Magnús Ólafsson, bóndi á Efstu-Grund, fæddur 1797, dáinn 2. mars 1879 og Oddný Jakobsdóttir, fædd 1798 í Eyvindarhólasókn, dáin 9. júní 1884. Magnús lærði steinsmíði hjá Birni Guðmundssyni og vann við byggingu Alþingishússins. Hann hlóð veggi Innri-Njarðvíkurkirkju og var langt komin með að hlaða veggi Hvalsneskirkju þegar hann drukknaði. Í bæklingi um kirkjuna sem sóknarnefnd Hvalsneskirkju gaf út er sagt frá því að smíði predikunarstólsins hafi verið byggingarmönnum áhyggjuefni þar sem þeir óttuðust að fá ekki nægilega gott efni í smíði hans. Þá rak á fjöru mahoní tré mikið sem stóllinn var smíðaður úr. Jafnt að utan sem innan er kirkjan ákaflega falleg og vel við haldið. Við allar endurbætur hefur verið Iagt kapp á að kirkjan héldi sínu upprunalega útliti. Ketill Ketilsson yngri í Kotvogi, átti Hvalsnestorfuna árið 1904. Þá voru gerðar talsverðar endurbætur á kirkjunni og lokið við að mála hana að innan en hún hafði ekki verið máluð strax. Árið 1919 gaf Ketill öllum ábúendum á Hvalsnestorfunni kost á að kaupa ábýlisjarðir sínar með samsvarandi hlut í kirkjunni, en kirkjan hafði verið bændakirkja en rekin af söfnuðinum, og var það til ársins 1942 þegar eigendur hennar óskuðu eftir því að hún yrði safnaðarkirkja.
Þegar Hvalsneskirkja var byggð var hún ekki einangruð og það var ekki fyrr en árið 1945 sem það var gert. Tíu árum síðar var rafmagn sett í kirkjuna, hún raflýst og hituð upp með rafmagni.
hvalsneskirkja-225Altarið er frá 1867 og altaristaflan sem er frá svipuðum tíma er mikið listaverk. Hún sýnir upprisuna og er máluð af Sigurði Guðmundssyni. Minni kirkjuklukkan er frá 1820, einnig silfurkaleikur og korpóralklútur. Tinskál sem kirkjan á er með ártalinu 1824 og skírnarfrontur sem merkileg saga fylgir, að Erlendur Guðmundsson bóndi á Stafnesi hafi smíðað hann og gefið þáverandi kirkju á Hvalnesi. Erlendur var rúmliggjandi þegar hann vann verkið og segir sagan að hann hafi verið lamaður frá mitti en eftir að hann hafði lokið smíðinni og fært kirkjunni gripinn hafi hann komist á fætur.
Stærri kirkjuklukkan, er gjöf frá sóknarbörnum 1874. Árið 1945 voru miklar endurbætur gerðar á kirkjunni sem Guðjón Samúelsson hafði yfirumsjón með. Að innan er kirkjan máluð og skreytt af Aka Grans, málarameistara í Keflavík. Yfir kirkjudyrunum er bogadregin gluggi úr ópalgleri með helgimynd. Unnur Ólafsdóttir listakona, dótturdóttir Ketils þess er kirkjuna byggði, hefur gefið kirkjunni fagra muni sem hún hefur unnið sjálf. Þar má meðal annars nefna hökul úr rauðu ullarklæði sem er skreyttur með íslenskum steinum, einnig altarisklæði og íslenska fána. Þessar gjafir fékk kirkjan frá Unni á árunum 1964 til 1971.
Vigdís Ketilsdóttir frá Kotvogi gaf kirkjunni Guðbrandsbiblíu. Kirkjan á fjóra brúðarstóla sem henni voru gefnir þegar hún var nýbyggð. Pípuorgel var vígt og tekið í notkun 1985 en það var keypt fyrir framlög og gjafafé. Presturinn á Útskálum þjónar kirkjunni.

Hvalsneskirkja

Minnismerki um Hallgrím Pétursson við Hvalsneskirkju.

Hvalsneskirkja er merkileg bygging og ekki síst fyrir það að þar var fyrsta kirkja sem mesta trúarskáld Íslendinga Hallgrímur Pétursson þjónaði. Árið 1811 var Hvalsnesprestakall lagt niður og sóknin lögð undir Útskála.
Suðurnesjamönnum þótti langur vegur að sækja kirkju og sóttu um til konungs að kirkjan mætti byggjast upp að nýju. Konungur leyfði það og var kirkjan upp byggð að heita mátti á kostnað ábúenda 1820. Þá voru í sókninni tvö hundruð manns og þrjátíu ábúendur. Í lýsingu sem séra Sigurður Sívertsen gerði um Hvalsnesið segir: „Á Hvalsnesi er mikið tún, hólótt og greiðfært að mestu. Þar er útræði, all gott sund, sem Hvalsnessund kallast, nema í hafáttum. Lítið er um haglendi utan túns, því heiðin fyrir innan er uppblásin, og er að mestu leyti grjót- og sandmelar; þó hafnast þar vel sauðfé og er þar á vetrum einkar góð fjara fyrir útigangsskepnur.“ Hvalsnes var á þessum tíma eign konungs, en óvisst um jarðardýrleika. Næsti bær sunnan við Hvalsnes er Stafnnes.
Heimildir eru frá Þjóðskjalasafni lýsing Útskálaprestakalls 1839 eftir séra Sigurð B. Sívertsen og samantekt úr sögu kirkjunnar sem Iðunn G. Gísladóttir tók saman.“

Heimild:
-Dagur 14. ágúst 1999, bls. 1 og 3.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.