Hvalsneskirkja

Freyja Jónsdóttir skrifði um Hvalsneskirkju í Dag árið 1999:
Hvalsneskirkja-221“Á Hvalsnesi hóf Hallgrímur Pétursson prestskap sinn og þar missti hann Steinunni dóttur sína.
Hvalsnes er á vestanverðum Reykjanesskaga, sunnar á strandlengjunni en Sandgerði. Þar var fyrst byggð kirkja 1370 sem vígð var sama ár. Þá átti kirkjan sjö kvígildi, fjórðung í heimalandi og jörð í Norður-Nesjum. Á sextándu öld lagðist sú jörð í eyði vegna uppblásturs. Hallgrímur Pétursson var þjónandi prestur á Hvalsnesi eftir að hann tók prestsvígslu, áður en hann fluttist að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Hallgrímur var fæddur 1614. Ekki er vitað hvort hann fæddist á Hólum í Hjaltadal eða á einhverjum öðrum bæ þar i dalnum. Faðir hans var Pétur Guðmundsson, sonur velefnaðs bónda í Gröf á Höfðaströnd. Pétur og biskupinn á Hólum, Guðbrandur Þorláksson, voru bræðrasynir. Hallgrímur bróðir Péturs tók við búi í Gröf eftir föður þeirra en Pétur gerðist hringjari í Hólakirkju. Sagan lýsir honum sem atkvæðalitlum manni sem hafi fengið hringjarastarfið fyrir ættar sakir. Sólveig hét kona hans og er lítið um hana vítað. Hallgrímur Pétursson ólst upp á Hólum og var settur til mennta en hætti í skóla og fór til Danmerkur. Talið er að Hallgrímur hafi verið við járnsmíðanám þegar fundi hans og Brynjólf Sveinssonar biskups bar saman.

Tyrkja-Gudda.

Tyrkja Gudda – málverk efir Jóhannes S. Kjarval.

Fyrir áeggjan biskupsins fór Hallgrímur í Vor Frue skóla í Kaupmannahöfn. Árið 1636 kom nokkuð af því fólki sem Tyrkir hertóku hér á landi árið l627, til Kaupmannahafnar. Meðal þeirra var Guðríður Símonardóttir sem Tyrkir rændu í Vestmannaeyjum. Hallgrímur og Guðríður feldu hugi saman og vorið eftir, segir sagan að Hallgrímur hafi hætt í skóla til þess að fara með Guðríði heim til Íslands. Eftir að Hallgrímur og Guðríður höfði háð harða baráttu fyrir lífsafkomu sinni í nokkur ár var Hallgrímur vígður til Hvalsnesprestakalls. Vel er hægt að ímynda sér að þá hafi þau talið að allir erfiðleikar væru að baki en svo var þó ekki. Á Hvalsnesi misstu þau Guðríður og Hallgrímur Steinunni dóttur sína nokkurra ára gamla. Steinunn hvílir í Hvalsneskirkjugarði og er ekki lengur vitað hvar leiðið hennar er í garðinum. Steinn sem var á leiði hennar er nú geymdur í kór kirkjunnar á Hvalsnesi en hann fannst í stéttinni fyrir framan kirkjuna. Talið er að Hallgrímur hafi sjálfur höggvið nafn dóttur sinnar í steininn. Talsverð leit hafði verið gerð að bautasteini Steinunnar en án árangurs þar til kirkjustéttin var endurbyggð 1964 að steinninn fannst í gömlu stéttinni. Útfarasálminn „Allt eins og blómstrið eina”, sem enn er sunginn við jarðarfarir, orti Hallgrímur vegna fráfalls Steinunnar. Hann sendi Ragnheiði Brynjólfsdóttur í Skálholti sálminn þegar hún lá banaleguna.
Hvalsneskirkja-222Áður en steinkirkjan var byggð á Hvalsnesi var þar timburkirkja sem Ketill Ketilsson stórbóndi í Kotvogi lét byggja árið 1864. Margar tilgátur eru til um það af hverju hann réðist í að byggja steinkirkjuna og rífa timburkirkjuna sem aðeins var tuttugu og tveggja ára gömul og þótti á þeim tíma hið veglegasta hús. Timburkirkjan sem Ketill lét byggja var inni í kirkjugarðinum en steinkirkjan stendur fyrir utan garðinn.
Saga er til um að þak timburkirkjunnar hafi lekið og Ketill, sem hefur verið maður stórtækur, ákveðið að byggja nýja kirkju frekar en gera við þakið. En sjálfsagt hefur fleira komið til eins og að Katli hafi þótt kirkjan of lítil. Einhverju sinni á hvítasunnudag var hann við fermingarguðsþjónustu í Hvalsneskirkju. Mikill mannfjöldi sótti kirkjuna þennan dag og komust ekki allir inn og stóðu nokkrir úti. Hafði Ketill þá á orði að ekki gæti hann til þess vitað að fólk, sem vildi hlýða á messu, hefði ekki þak yfir höfuðið. Bygging Hvalsneskirkju hófst árið 1886 og var kirkjan vígð á jóladag 1887. Séra Jens Pálsson sóknarprestur vígði kirkjuna. Kirkjan er hlaðin úr tilhöggnum steini sem fleygaður var úr klöppinni við túngarðinn. Grjótið var síðan dregið á hestum og tilhöggvið með hamri og meitli á byggingarstað. Súlur í kór og ýmislegt annað tréverk er gert úr rekavið úr fjörum í nágrenninu. Einnig var efni í bygginguna fengið úr Duusverslun í Keflavík. Ketill fékk Magnús hvalsneskirkja-223Magnússon múrara, frá Gaukstöðum í Garði til að taka steinverkið í kirkjubyggingunni að sér. En Magnús fórst með fiskibát frá Gerðum, þegar hann var í róðri, áður en kirkjubyggingunni var lokið. Stefán Eggertsson múrari í Reykjavík tók við verkinu og lauk því. Yfirsmiður við kirkjubygginguna var Magnús Ólafsson, trésmíðameistari í Reykjavík. Magnús var fæddur 20. júlí 1840 á Berjanesi, Vestur-Landeyjum. Foreldrar Magnúsar voru: Magnús Ólafsson, bóndi á Efstu-Grund, fæddur 1797, dáinn 2. mars 1879 og Oddný Jakobsdóttir, fædd 1798 í Eyvindarhólasókn, dáin 9. júní 1884. Magnús lærði steinsmíði hjá Birni Guðmundssyni og vann við byggingu Alþingishússins. Hann hlóð veggi Innri-Njarðvíkurkirkju og var langt komin með að hlaða veggi Hvalsneskirkju þegar hann drukknaði. Í bæklingi um kirkjuna sem sóknarnefnd Hvalsneskirkju gaf út er sagt frá því að smíði predikunarstólsins hafi verið byggingarmönnum áhyggjuefni þar sem þeir óttuðust að fá ekki nægilega gott efni í smíði hans. Þá rak á fjöru mahoní tré mikið sem stóllinn var smíðaður úr. Jafnt að utan sem innan er kirkjan ákaflega falleg og vel við haldið. Við allar endurbætur hefur verið Iagt kapp á að kirkjan héldi sínu upprunalega útliti. Ketill Ketilsson yngri í Kotvogi, átti Hvalsnestorfuna árið 1904. Þá voru gerðar talsverðar endurbætur á kirkjunni og lokið við að mála hana að innan en hún hafði ekki verið máluð strax. Árið 1919 gaf Ketill öllum ábúendum á Hvalsnestorfunni kost á að kaupa ábýlisjarðir sínar með samsvarandi hlut í kirkjunni, en kirkjan hafði verið bændakirkja en rekin af söfnuðinum, og var það til ársins 1942 þegar eigendur hennar óskuðu eftir því að hún yrði safnaðarkirkja.
Þegar Hvalsneskirkja var byggð var hún ekki einangruð og það var ekki fyrr en árið 1945 sem það var gert. Tíu árum síðar var rafmagn sett í kirkjuna, hún raflýst og hituð upp með rafmagni.
hvalsneskirkja-225Altarið er frá 1867 og altaristaflan sem er frá svipuðum tíma er mikið listaverk. Hún sýnir upprisuna og er máluð af Sigurði Guðmundssyni. Minni kirkjuklukkan er frá 1820, einnig silfurkaleikur og korpóralklútur. Tinskál sem kirkjan á er með ártalinu 1824 og skírnarfrontur sem merkileg saga fylgir, að Erlendur Guðmundsson bóndi á Stafnesi hafi smíðað hann og gefið þáverandi kirkju á Hvalnesi. Erlendur var rúmliggjandi þegar hann vann verkið og segir sagan að hann hafi verið lamaður frá mitti en eftir að hann hafði lokið smíðinni og fært kirkjunni gripinn hafi hann komist á fætur.
Stærri kirkjuklukkan, er gjöf frá sóknarbörnum 1874. Árið 1945 voru miklar endurbætur gerðar á kirkjunni sem Guðjón Samúelsson hafði yfirumsjón með. Að innan er kirkjan máluð og skreytt af Aka Grans, málarameistara í Keflavík. Yfir kirkjudyrunum er bogadregin gluggi úr ópalgleri með helgimynd. Unnur Ólafsdóttir listakona, dótturdóttir Ketils þess er kirkjuna byggði, hefur gefið kirkjunni fagra muni sem hún hefur unnið sjálf. Þar má meðal annars nefna hökul úr rauðu ullarklæði sem er skreyttur með íslenskum steinum, einnig altarisklæði og íslenska fána. Þessar gjafir fékk kirkjan frá Unni á árunum 1964 til 1971.
Vigdís Ketilsdóttir frá Kotvogi gaf kirkjunni Guðbrandsbiblíu. Kirkjan á fjóra brúðarstóla sem henni voru gefnir þegar hún var nýbyggð. Pípuorgel var vígt og tekið í notkun 1985 en það var keypt fyrir framlög og gjafafé. Presturinn á Útskálum þjónar kirkjunni.

Hvalsneskirkja

Minnismerki um Hallgrím Pétursson við Hvalsneskirkju.

Hvalsneskirkja er merkileg bygging og ekki síst fyrir það að þar var fyrsta kirkja sem mesta trúarskáld Íslendinga Hallgrímur Pétursson þjónaði. Árið 1811 var Hvalsnesprestakall lagt niður og sóknin lögð undir Útskála.
Suðurnesjamönnum þótti langur vegur að sækja kirkju og sóttu um til konungs að kirkjan mætti byggjast upp að nýju. Konungur leyfði það og var kirkjan upp byggð að heita mátti á kostnað ábúenda 1820. Þá voru í sókninni tvö hundruð manns og þrjátíu ábúendur. Í lýsingu sem séra Sigurður Sívertsen gerði um Hvalsnesið segir: „Á Hvalsnesi er mikið tún, hólótt og greiðfært að mestu. Þar er útræði, all gott sund, sem Hvalsnessund kallast, nema í hafáttum. Lítið er um haglendi utan túns, því heiðin fyrir innan er uppblásin, og er að mestu leyti grjót- og sandmelar; þó hafnast þar vel sauðfé og er þar á vetrum einkar góð fjara fyrir útigangsskepnur.” Hvalsnes var á þessum tíma eign konungs, en óvisst um jarðardýrleika. Næsti bær sunnan við Hvalsnes er Stafnnes.
Heimildir eru frá Þjóðskjalasafni lýsing Útskálaprestakalls 1839 eftir séra Sigurð B. Sívertsen og samantekt úr sögu kirkjunnar sem Iðunn G. Gísladóttir tók saman.”

Heimild:
-Dagur 14. ágúst 1999, bls. 1 og 3.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.