Færslur

Ísólfsskáli

Gengið var um Ísólfsskála, frá Skálabót að Gvendarvör skammt austar og mannvirkjunum ofan hennar, að Tröntum og áfram um Hattvík og Kvennagöngubása. Haldið var eftir ruddum slóða út í Hraunsnes og hin merkilegu jarðfræðifyrirbæri skoðuð. Þá var haldið áfram ofan við Veiðibjöllunef, framhjá Mölvik og inn í borgirnar (Ketilinn) áður en komið var að Selatöngum.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Á Ísólfsskála var gengið að bæjarstæði gamla bæjarins, sem var þar sem nú er sumarhús niður við sjó, ofan við Skálabótina, vestast í túninu. Vestan og neðan við hann var sjóbúð, sem enn sést móta fyrir. Þar sem járnhlið er á girðingunni sjávarmegin var brunnurinn, sem nú er kominn undir sjávarkambinn. Sjóbúðun var framan og vestan við bæinn, fast við veginn að bústaðnum. Austan við veginn að bústaðnum eru einnig hleðslur gripahúsanna, en göng voru yfir í þau úr bænum.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Réttin var undir hamrinum ofan við núverandi íbúðarhus að Ísólfsskála, þ.a.e.s. það íbúðarhús, sem síðast var búið í. Nú er húsið notað sem “fjölskyldurefreshment” skv. nútímamáli, sem endurspeglar að nokkru nálægð varnarliðsins um nokkurt skeið. Það hafi fjarskiptastöð undir Fiskidalsfjalli/Húsafjalli er lagðist af undir lok sjötta áratugar tuttugustu aldar.
Gengið var austur með Skálabótinni að Gvendarvör. Hún er innan í fallegu lóni utan við Nótarhól austan við túnin á Skála.

Nótarhóll

Nótarhóll.

Á hólnum og við hann eru mikil fiskibyrgi og þurrkgarðar frá þeim tíma er fiskur var verkaður og þurrkaður á staðnum. Fiskurinn var flattur eins og saltfiskur nú, hann síðan lagður inn í byrgin og þess gætt að roðið lægi saman. Þannig hafi fiskurinn verið um veturinn. Um vorið var hann tekinn og lagður á garðana uns honum var pakkað og skúturnar komu erlendis frá og sóttu hann. Þær voru á legu utan við víkina, stundum margar saman. Utan við Nótarhól er Gvendarvör, eins og fyrr sagði og heitir ysta mark lónis Gvendarsker. Frá því myndast Alnbogi til lands með því austanverðu og sker að vestanverðu.

Ísólfsskáli

Fiskbyrgi við Nótarhól.

Lending var í Börubót, sem var beint neðan við bæinn. Kampurinn hefur gengið mikið upp síðan því tún var niður að honum allt að móts við Lambastapann, sem er austasti klettur Festisfjalls, Skálamegin. Ofan hans er Hjálmarsbjalli, nefndur eftir bróður Guðmundar. Hann ruddi svæðið ofan við bjallann, hlóð veggi og gerði þar túnblett. Norðan við húsið er stakur steinn er nefnist Huldukonusteinn. Segir sagan að huldukona hafi eitt sinn birst heimasætunni er var að leik við steininn og beðið hana um að lána sér dúkku, sem hún hafði. Heimasætian lánaði huldukonunni dúkkuna, en svo óheppilega vildi til að hún missti hana svo hún brotnaði. Varð af grátur og gnýstan tanna, en huldukonan hvarf inn í steininn.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli -málverk eftir ljósmynd 1956.

Haldið var að “nýja” Skálahúsinu, sem byggt var 1931. Í stefnu austur frá húsinu, ríst klettaborg úti í hrauninu. Hún nefnist Kista. Fjárbólið var uppi í klettunum norðan við bæinn.

Gamla lestargatan, eða rekagatan (lestargatan) vestari, liggur frá Ísólfsskála, í gegnum hraunið til austurs og út að Selatöngum. Þangað er um 20 mín. gangur. Gatan er áberandi ígegnum hraunið, en þegar hún kemur út á sandflákana ofan við ströndina (ofanvið Veiðibjöllunef og Mölvík, hverfur hún að mestu. Þó má sjá þar vörðubrot á stangli.
Djúp gjá opnaðist nýlega við götuna skömmu áður en komið er að Smíðahellinum austan við Ketilinn (Borgirnar) í Katlahrauni. Gatan, sem hefur verið löguð til, liggur niður í Ketilinn, gegnum hann og út hann að austanverðu. Þaðan er ágætt útsýni yfir Selatangasvæðið.

Hraunssnes

Hraunsnes – bergsstandur.

Á Selatöngum var fyrrum mikil útróðrarstöð og verstöð. Þar eru verbúðarústir, fiskbyrgi og fiskgarðar auk hraunhella sem voru notaðir til ýmissa hluta. Standa mörg fiskbyrgin og fiskgarðarnir enn að miklu leyti. Svæði þetta var allt friðlýst 1966 af Kristjáni Eldjárn, þáverandi þjóðminjaverði.
Selatangar eru í Ögmundarhrauni á mörkum jarðanna Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Landamerkin liggja um klett (Dágon) í ofan við fjöruborðið. Ljóst er að hraunið hefur runnið eftir landnámsöld því undir því eru leifar mannvirkja sem greinilegar eru t.d. á svonefndum Húshólma.
Geislakolsaldursgreining á koluðum gróðurleifum dagsettu hraunið til miðrar 12. aldar og annálar nefna eldgos 1151. Óvíst er hvenær útgerð hefst frá Selatöngum en samkvæmt ofangreindu eru minjarnar ekki eldri en frá miðri 12. öld.

Hraunsnes

Í Hraunsnesi.

Víst er að útgerðin lagðist niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799, og svo að fullu og öllu 1884 en það ár var síðast róið frá Selatöngum. Um það leyti var seinasta sjóbúðin rifin, og hafa menn eigi hafzt þar við síðan.
Rústirnar eru margar og er hægt að telja þær upp undir 20, auk garðhleðslanna sem eru á hraunnefunum og eru nú að mestu horfnar. Á vestustu hraunnibbunni er verbúð og rústir auk garðhleðsla. Á næstu nibbu austan við eru rústir sömuleiðis en hraunnibban er aðgreind frá þeirri vestari af sandi.

Selatangar

Rekagatan.

Fleiri rústir eru svo á þriðju nibbunni sem myndar samfelldara og stærra svæði en hinar og þar eru líka flestar rústirnar. Austast á þessu svæði er önnur verbúðartóft og byrgi í líkingu við það sem er vestast. Utan í hraunflákanum að austan eru fyrirhleðslur við skúta sem virðast hafa verið notaðir af fé. Margar hleðslurnar hafa farið verulega illa í flóðum undanfarin ár.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-Fornleifaskrá. Skrá um friðlýstar fornleifar. Ágúst Ó. Georgsson tók saman. Reykjavík 1990.
-Ísólfsskáli. Örnefnalýsing. Guðmundur Guðmundsson bóndi Ísólfsskála. Ari Gíslason skráði. Örnefnastofnun Íslands.
-Lúðvík Kristjánsson: Íslenzkir sjávarhættir II. Rvk. 1982, bls. 410-11

Ísólfsskáli

Brimketill utan við Ísólfsskála.

Jockum Magnús Eggertsson

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 2019 er frásögn Jockum Magnúsar Eggertssonar;  “Einn áfangi á Reykjanesi“. Fjallar hún um ferðir hans um Reykjanesskagann árið 1945.

Jockum Magnús Eggertsson“Við höfðum slegið tjöldum austan Festarfjalls undir hlíðarrana. Fellin fallast þar í arma og geiga í hafsuðrið móti útsænum. Hann er þar einvaldur en gjögrin ögra honum. Þar með slævist hann og slöðrast í skútum og bergvilpum og andar djúpt millum þess er hann flæmist og flaðrar um dranga og kletta sem haldið er rígföstum í krepptum hnefum af stálörmum fjallsins.
Hlíðarraninn er gróinn kjarngresi millum grjót rasta og ofanhraps og þar er græn grundin undir. Forbrekkið lykur hálfhring í klettaskjóli af vestri og norðri. Til austurs er úfið hraun, liggjandi í landáttinni, en til suðurs særinn, óendanlegur. Blómsprungin gróðurlænan, ilmandi og marglit, teygist fast í sjávarkampinn, uppausinn og umturnaðan, með slitringi af sjóreknum sprekum og hrakviði ásamt vargétnum ræfrildum og rusli, skeljabrotum og skrani.
Ásýnd Ægis konungs er aldrei smávægileg. Andgufa hans þryngir loftið. Ærið er borðhald hans þjösnalegt, oft og tíðum, og refjar henta honum eigi er hann ryðst um að mat sínum. Skap hans er ætíð mikið og persóna hans fyllir rúmið, hvort heldur hann vakir, dormar eða dreymir. Víst kann hann að kasta mæði og ganga að borði kurteislega. Heitir það hófstilling. En er hann kveður sér hljóðs við bergþil strandarinnar, þá rymur hann og klappar klettinn. Þar ríkir annar höfðingi fastur í sessi, þolmikill og þybbinn og enginn veifiskati.
Kveðjur þeirra stórvelda eru mikilúðugar og oftast kaldar, en þó fjandskaparlausar, og vekja af dvala vætti og höfuðskepnur. Gætir þar geigvænnar alvöru og hráslagalegrar kampakæti: er kyssast klettur og sjór. Konungur hafs og lands!

Ísólfsskáli
Ísólfsskáli
Bær er þarna einn og úrhreppis. Heitir að Ísólfsskála. Telst til Grindavíkursókna. Bærinn situr í fjallskverkinni undir Slögubarðinu, í beygjugjögur olnbogans, á lágsléttu fyrir ögurbotninum, kvíaður milli fjallsins og hraunstorkunnar.
Hraunflóð mikið hefir ollið yfir allt undirlendið og í sjó fram millum Festarfjalls og Krýsuvíkurbergs. Það heitir Ögmundarhraun og er eyðimörk. Aðeins mjó ræma óbrunnin milli hraunjaðra og fjallsróta. Bærinn Ísólfsskáli húkir þarna undir Festarfjallinu út við hafið. Hann er nú ofar en áður fyrr og aukið við túni, sem teygir sig upp á hjallann yfir bænum. Það hefur kostað ærna aðvinnslu í bogri og eigri einyrkjans. Grjóthrúgur miklar auglýsa erfiðið. Lausa grjót liggur hér víða í hálsum og hlíðum á opnum svæðum, þar sem eigi hafa hraun ollið ofaraurum og myldingi, en gróðurmold góð og víða alldjúpt undir. Er það svo upp til hæstu hnjúka. Ennþá eimir þarna eftir af þykkum, kringumblásnum jarðvegstoddum og tyrfum, til og frá í fellum og fjöllum. Forni jarðarfeldurinn er enn ekki að öllu og fullu eyddur og burtblásinn. Bendir þar til mikils gróðurs og skjólsælla skóga áður á öldum. Þarna í eyðimörkinni búa væn hjón og vinnusæl. Góðfús eru þau og gestrisin. Þau eru við aldur. Börn þeirra uppkomin; flest flogin úr hreiðrinu. Barnabörn aftur komin innundir. Ísólfur heitir einn yngstur sonurinn hjónanna. Hann var heima. Álitlegur sveinn og vel líklegur ríkisarfi. Heitir í höfuðið á bólinu.

Hjónin í eyðimörkinni

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn. Sumarbústaður byggður á tóftunum.

Rústir gamla bæjarins eru rétt á sjávarbakkanum. Sá bær var áður ofarlega í túni. Svona sækir sjórinn á landið.
Hrammur hafsins og höggtennur hafa hér brutt og nagað ströndina, hámað í sig mold og mýkindi, grafið og gramsað í landinu, hóstað og hrækt út úr sér brimsorfnum buðlungum og hrúgað öllu saman í hryggi, er verpa ströndina.

Isólfsskáli

Ísólfsskáli – bærinn og útihús.

Sá mikildjarfi dögglingur þokast nú þéttskrefa á landið upp í átt til fornu bæjarrústanna. Hann iðjar ekki allsvana. Hann ekur á undan sér hrynhárri upplausnarkempunni, íklæddri byngborinni kyngi. Nú gín hann yfir eina vatnsbóli eyðimerkurinnar, gamla brunninum, og er nú kominn á fremsta hlunn og þegar hafinn handa að hrækja í hann hroðanum.
Hjónin í eyðimörkinni eru, eins og best má vera, brot af íslensku bergi, frumbornir arftakar þess ódrepandi úr þjóðlífinu; uppalin af duttlungum veðurfarsins, hert af óblíðu árstíðanna, viðjuð gróanda vorsins, kynbætt af þúsund þrautum. Þeim hæfði þáttur sérstakur.

Hér er þess varla völ
ÍsólfsskáliNöfn þeirra þarf ekki að nefna. Þau vita sjálf hvað þau heita. Allir þekkja þau, sem eitt sinn kynnast þeim, en ókunnugum mætti segja að þau hétu Agnes og Guðmundur. Hann mun eitthvað hafa fæðst þar austur í fjallgarðinum.
Fólk klekst þetta hvað af öðru, hálfóafvitandi, svo fæðingarstaður hvers og eins verður sjaldan nákvæmlega útreiknaður enda skiptir það minnstu máli. Undirlega landsins er þar aðalatriðið. Vigdísarvellir mun það heitið hafa þar sem foreldrum hans fénaðist drengurinn.
Kotið lá undir Krýsavíkursókn. Nú í auðn komið fyrir áratugum. Svo er og um sóknina alla. Enginn maður er þar uppistandandi. Sá síðasti féll í fyrra (1945), og þó eigi til útafdauða. Einsetumaður. Hafðist við í kirkjuhrófi Krýsavíkur, eina húsi sóknarinnar uppihangandi, í miðjum gamla kirkjugarðinum,
inn á milli leiðanna. Þar voru hans gömlu samherjar og sálufélagar gróðursettir.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Erling Einarsson við steinninn nefnda.

Aftur skal vikið að Ísólfsskála. Ungur fluttist hann þangað, drengurinn. Er hann var 9 ára varð hann fyrir einkennilegu atviki. Hann var að leika sér með öðrum börnum undir klettum í krikanum vestan við túnið. Skúti einn er þar undir bergið, en stuðlaberg slapir yfir. Drengurinn var að bauka þar undir að leik sínum. Losnaði þá og féll á drenginn allstórt brot neðan af einum bergstuðlinum. Kramdist hann þar og klesstist undir og lá sem dauður væri. Börn voru þar önnur, er hlupu heim og sögðu frá. Var þegar farið til af fullorðnum.
Drengurinn var talinn dauður með því blóðlækur mikill rann undan farginu. Var því lyft af og gætt fyllstu varúðar. Sá litli lá þar meðvitundarlaus: höfuðleðrið rifið og flett af hauskúpunni og annar handleggurinn tvíbrotinn. Drengurinn lifnaði við og varð græddur, en vegsummerki ber hann til æviloka.
Bær þessi fór svo í auðn skömmu síðar og ekkert nýttur nokkurt skeið. En þá drengur þessi varð frumvaxta og hafði sér konu festa, keypti hann þetta eyðikot, hefur búið þar síðan, byggt upp og bjargast.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Agnes og Guðmundur með nokkrum börnum þeirra.

Hollvættir staðarins hafa verndað drenginn sem síðar átti eftir að endurbyggja bólið, rækta það og reisa, auka það og uppfylla. Konan mun komin af einhverri ódrepandi ætt, líklega af Vatnsleysuströnd eða Suðurnesjaalmenningum, sem hægt og rólega kljáðist við örlögin og klóraði þeim bak við eyrað. Með fyrirhyggjunni og frumstæðustu amboðum skal það hafast, þó allt annað umhverfist og heimurinn gangi af göflunum. Annars segir ekkert af henni, þessari konu. Engin ógæfa mun að henni komast, svo ágæt er hún. Hún var ekkja með 6 ungbörn er hún ákvað að rugla saman reitunum með núverandi manni sínum og setjast að í eyðikotinu á eyðimörkinni. Hún lét ekki þar við sitja heldur fæddi síðari manni sínum önnur 6 börn. Gerði báðum jafnt undir höfði og sýnir það háttvísi í hegðun. Hún hefur fullkomlega lagt sinn skerf að heill staðarins. Þessi kona er síung þrátt fyrir alla erfiðleika barnauppeldis og búskapar. Um leið og bú hennar blómgaðist og færðist út, óx hún sjálf og þroskaðist. Nótt og nýtan dag hefur hún unnið og annast heimili sitt og haldið þar hlífiskildi. Í skrúðgarðinum hennar hjá hlaðvarpanum voru um 60 jurtategundir og trjáa. Kunni hún ævisögu hverrar plöntu og kvists. Þá stóð hún ekki á gati í ættfræði og kynbætum hundanna, kattanna og kvikfénaðarins.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Þá var ekki komið að tómum kofanum með kartöflurnar, garðjurtirnar og kornakrana, sem rotturnar gengu í eins og þeim væri borgað fyrir það, bitu öxin af stöngunum og báru burt og söfnuðu í kornhlöður handa sjálfum sér. Þetta þurfti sosum að basla fyrir lífinu eins og aðrir, þessi kvikindi.
Heimilið og fjölskyldan: barnabörnin, hænuungarnir, hundarnir, matjurtirnar, kindurnar, kýrnar, eldiviðurinn og taðan, innanhússtörfin, þvottarnir og matreiðslan: Allt í sömu andránni, á einu bretti og í hagsýnum tilgangi. Ekkert mannlegt óviðkomandi, er hagsýni hennar mátti að gagni verða. Vissi margt, en fann sig þó þurfa að vita miklu meira og spurði óspart. Huldufólk umgekkst hún heiðarlega; ættfærði köttinn í átjánda lið, hundinn til heilags anda, en drottni gaf hún dýrðina. Ólukkan forsómaði hún algjörlega. Náttúrubarn. Elskuleg kona.
Ísólfsskáli
Hundurinn auglýsir sál og samvisku hvers heimilis. Þarna standa þeir Tryggur og Móri dinglandi af ánægju meðan við erum að reyra saman baggana og remba á okkur byrðunum. Kötturinn kom líka og vippaði sér upp á garðshornið; setti upp gleraugu, leit á hundana og heiminn og allt sem skaparinn hafði gert og gera látið, reisti kamb og hvarf með úfnu og uppréttu skotti.
„Aumingja strákurinn“, okkar hundur hann var tjóðraður og hafður í bandi til að missa hann ekki út af réttlínunni. Þetta var ungur óvaningur, uppveðraður til skammarstrika.
Svo kveðjum við Ísólfsskála, þennan ágæta bæ, með öllu sem um hann og í honum hrærist.

Jónar og Kristjánar

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Ferðinni var heitið austur í ólgandi hraunið í átt til þeirrar upprunalegu Krýsavíkur, er auðvitað situr við sæinn, og var á sínum tíma stærsta höfuðból á Íslandi, en átti sel og hjáleigur víðsvegar upp í Gullbringunum, meðal annars í dalnum góða og grösuga, þangað sem nafnið Krýsavík var flutt, langt upp í land, eftir að sjálft höfuðbólið fórst í því ægilega hraunflóði, er Ögmundarhraun rann. Það mun hafa verið í byrjun 14. aldar, sennilega um 1340. Gamla Krýsavík var, alllöngu fyrir landnám norrænna manna eða austmanna: þ. e. Dan-þjóðflutninga kvíslarinnar, orðin höfuðstöð sægarpa og siglinga og af austrænum uppruna eins og Dankvíslin, (víkingarnir), aðeins stórum mun lengra komnir í vísindum, menningu og siðgæði. Lærðu mennirnir voru nefndir „papar“, þ.e. feður, og skiptust á tvær deildir: Jóna og Kristjóna = Kristjána. Jónarnir skoðuðu Krist sem mann, er hægt væri að líkjast og urðu óumræðilega vitrir og máttugir.

Húshólmi

Gamla Krýsuvík í Húshólma – uppdráttur ÓSÁ.

Kristjánar trúðu, aftur á móti, eingöngu á Krist sem guð, hafinn yfir allt mannlegt sem aðeins væri hægt að elska og tilbiðja í auðmýkt og lotningu. Þeir urðu óumræðilega heimskir og ofstækisfullir og liggur ekkert eftir þá af viti. Jónarnir tileinkuðu sér lífsskoðun Jóhannesar frá Antiochia Krýsostómas = gullmunnur. Þeir voru því kallaðir krýsar og af þeim dregur Krýsavík nafn, því þar var höfuðbækistöð krýsostomosa, og búinn að vera það full 200 ár, áður en Ingólfur Arnarson kom hér að landi.
Gamla Krýsavík var, fram yfir miðja elleftu öld, eða þar til Krýsar voru drepnir, eitthvert mesta menntasetur veraldarinnar. Kristjónar hötuðu jóna = krýsa og skoðuðu þá sem heiðingja og andskota, en urðu að vera upp á þá komnir, því þá skorti alla þekkingu og manndáð til að geta bjargast án þeirra. Heiðnum mönnum (Ásatrúar) og krýsum kom, aftur á móti ágætlega saman, svo fremi, að ekki væru við höfð mannblót eða annað ódæði.

Einsetumenn, er hér höfðu aðsetur

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Flestir „papanna” voru fæddir hér á landi.
Ísólfsskáli lá áður fyrr undir gömlu Krýsavík, eins og flestar jarðir í „Landnámi Ingólfs”, en féll undir Skálholtsstól er hann var stofnaður (1056), eins og nær allar jarðir á Reykjanesi og Suðurnesjum, og hélst það allan tímann meðan Skálholtstóll var biskupssetur, en þó tókst Danakóngum að krækja í einhver kotin.
Aðförin að Krýsum var gerð, eins og áður er sagt, haustið 1054, og eignum þeirra skipt millum kirkjunnar og höfðingjanna, og fyrsti stóllinn stofnaður. Urðu þar fyrstu þverbrestirnir í þjóðveldið, en hvalreki fyrir erlenda konungsvaldið. Var hér um stóreignir að ræða því Krýsar áttu meðal annars meginpart innlenda kaupskipaflotans, en höfðingjar þurftu að fá vel borgaðan „herkostnað“ allan og ómak sitt og manntjón við aðförina.
Við ferðalangarnir, erum fjórar mannverur, tvennt af hvoru kyni, og hundurinn sá fimmti. Við verðum að bera allan farangur á sjálfum okkur, tjöld vor og útbúnað allan, vistir og vatn. Það er 15-20 km. leið, er við eigum fyrir höndum að fyrir huguðum áfangastað, meginhlutann yfir úfið apalhraun, gróðurlaust af öðru en grámosa, sprengt og umturnað af algjöru handahófi, ófært hestum og öllum farartækjum nema fótum manns og fuglinum fljúgandi. Og vatnsdropa er hvergi að fá á þeirri leið, er við höfum ákveðið að fara.

Reykjanesláglendið

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Meginhluti Ögmundarhrauns, en í það leggjum við, getur vart hafa runnið fyrr en á árunum 1211- 1340. Í og um Reykjaneshálendi eru skógar sagðir hafa verið mestir á landi hér og landskostir bestir, að fornu fari, áður en allt Reykjanes brann og varð eyðimörk, að Gullbringnadalnum undanteknum, en þangað var nafn fornu Krýsavíkur flutt, eftir eyðinguna, og hefur síðar orðið að Krísuvík sem er lítilsháttar afbökun og latmæli, en þó ekki meira en gengur og gerist um eiginnöfn, meðal allra þjóða.
Ævaforn helluhraun hafa víðast hvar verið á Reykjanesláglendinu og nýrri hraunin runnið yfir þau. Allmargir hólmar og tæjutásur af þessum eldri hraunum hafa undanþegist og liggja eins og hrakspjarir hingað og þangað innan um úfnar rastir og storkinn hrákavelling nýju hraunanna. Vegferð allmikil hefur verið um fornu hellurnar, því markast hafa í þær greinilegar götur og troðningar, eftir aðalumferð, og hverfa þessar aðalgötur undir nýju hraunin sem ófær eru yfirferðar. Má af þessu marka, að mjög hefir verið sótt til Suðurnesja á fyrri öldum.

Traðarfjöll

Gígar norðan Traðarfjalla milli Fremrivalla og Tófubrunna.

Í ísl. annálum er getið 14 mikilla eldgosa á Reykjanesskaga og í Trölladyngjum, efst í fjallgarðinum vestan Gullbringudalsins, en þær dyngjur virðast hafa átt stóra samvisku og nóg á sinni könnu, enda mæður margra hrauna. Ekki er fullvíst að þarna séu meðtalin gos í Eystri Gullbringum, Eldborgum, Brennisteinfjöllum og Heiðinni Há sem öll hafa gosið ákaflega síðan sögur hófust. Hafa þau gos umturnað hálendinu austan Krýsavíkur og hraunfossar steypst ofan af Geitahlíð og austari hamrahlíðinni, allt til Selvogsósa, breiðst þar út yfir láglendið og runnið í sjó fram beggja megin Herdísarvíkur, en það er fornfræg veiðistöð vestast í Selvogi.
Meginrennsli Ögmundarhrauns hefir komið úr þrem sprungum utan undir ystu hlíðunum á Núpshlíðarhálsi, rétt fyrir neðan Vigdísarvelli. Hafa myndast fjöldi smágíga í þessum sprungum, fleiri tugir gíga í hverri sprungu. Eru stærstu gígarnir nyrst í neðstu sprungunni. Heita þar Fremrivellir, en Tófubrunnar neðstu gígarnir. Hinar sprungurnar eru ofar og sunnar. Flestallar gjár og eldsprungur á þessu svæði liggja frá norðaustri til suðvesturs. Er það næsta merkilegt hve ægilegt hraunflóð hefur ollið úr þessum sprungum og síðan breiðst út niður á láglendinu, yfir fornu helluhraunin, bæði til suðurs og vesturs, en til austurs alla leið að Krýsavíkurbergi og á sjó fram á öllu því svæði og vestur að Selatöngum.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Vestari hluti Ögmundarhrauns hefir runnið úr gígum við Selvelli, suður og vestur á við, og í sjó fram milli Festarfjalls og Selatanga. Virðist það hraun vera nokkru eldra en það austara.
Gífurlega er Ögmundarhraun víða úfið og kargað og mismunandi opinmynntar og gapandi gjásprungur óteljandi. Hafa orðið í hrauninu ægilegar gufu og ketilsprengingar, er það dróst saman og kólnaði.
Milli vestur og austurhluta Ögmundarhrauns er nokkurn vegin greiðfær leið, um fornu hraunhellurnar, undan Núpshlíðinni og niður að Selatöngum, en þar var mikil fornfræg veiðistöð og útræði, og er að kalla má, fyrir miðju Ögmundarhrauni. Í Selatöngum eru miklar rústir búða og fiskibyrgja. Útræði var þaðan stundað allt fram á síðari helming 19. aldar. Þar voru eitt sinn, á fyrri öldum, taldir í veri 27 Jónar og eitthvað færri Kristjánar, er sóttu þaðan sjóinn ásamt mörgum öðrum minna algengum mannaheitum.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Nú hefur þaðan í 70 ár ekki verið á sjó farið, en allt bíður síns tíma. Segja mætti mér að sú kæmi tíðin, að hafnarmannvirki yrðu gerð í Selatöngum. Ögmundarhraun á allt eftir að byggjast og verða eitthvert blómlegasta hérað landsins. Öll verðum við þá horfin er nú byggjum landið, en ritsmíð þessi mun ennþá uppi og bera sannleikanum vitni.
Gamla Krýsavík á enn eftir að rísa upp og verða aftur mesta menningarsetur veraldarinnar. Þetta er ekki spádómur heldur lítilsháttar athugun á lögmálum orsaka og afleiðinga. Það er ófrávíkjanleg staðreynd, að allt sem fram á að koma er löngu fyrirfram séð og vitað, planlagt og útreiknað. Þetta virðist næsta ótrúlegt þegar þess er gætt að frelsi mannsandans er ótakmarkað og hann getur allt sem hann vill – ef hann veit að hann getur það.
Allt Ögmundarhraun verður með tímanum molað niður og notað til áburðar. Í því er mikil gnægð jurtanærandi efna, bundin í steininum. Mosafeldurinn mikli, er þekur hraunin á stórum svæðum er einnig mjög dýrmætur. Vatn er undir niðri, ótæmandi, í gjám og sprungum og þyrfti óvíða að bora eftir því. Vatnssvið landsins nægilegt fyrir stórborg og orka jarðhitans takmarkalaus.

Tröll og berserkir

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Þjóðsagnaþrugl er til um það, hvernig nafn Ögmundarhrauns eigi að vera til komið. Á slíkum þjóð sögum er ekkert að græða, allt uppspuni og tilbúningur, þar sem engin tímasetning er við höfð, og allt úr lausu lofti gripið. Þjóðsögur eru marklausar nema þær séu tímasettar og vísað til vegar með raunverulegum atburðum.
Þjóðsagan um vegruðninginn yfir aðal ofanrennslistaum Ögmundarhrauns, vestan við Krýsavíkur Mælifell (Eystra-Mælifell), þar sem beinakerling sem sögð er dys Ögmundar, er undir Fellinu, við veginn, er sama sagan og sögð er í fornsögunum (fyrir 900 árum) um veginn gegnum “Berserkjahraun” á Snæfellsnesi. Það er móðursögnin. Þrjár arfsagnir hafa svo, öldum síðar, sprottið af þessari upprunalegu móðursögn og gróðursettar sín í hverju landshorni.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraunið rutt.

Afsprengi upphaflegu móðursagnarinnar eru eftirtaldar arfsagnir:
-Sögnin um berserkinn Ögmund = Ögmundarhraun undir Gullbringum í Gullbringusýslu.
-Sögnin um berserkinn Rusta = Rustastígur, í Rustahrauni við Dimmuborgir í Mývatnssveit í Suður-Þingeyjarsýslu.
-Sögnin um berserkinn á Ósi = Ósvör við Buðlungavík (Bolungarvík) í Norður Ísafjarðarsýslu. Allt voru þetta berserkir og tröllmenni, er fyrir sitt líkamlega erfiði, að loknum afköstum, höfðu gefin loforð um fríða og efnilega heimasætu; en sviknir og drepnir að verkalaunum.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur í dag.

Þess verður ávallt að gæta um þjóðsögur: hvort þær eru móðursagnir eða afsprengi.
Sagan um „lönguna“ er t.d. sögð í þrem samstofna útgáfum, sín í hverju landshorni; Þegar sóknarmenn vildu „plata“ prest sinn, eða reyna „kunnáttuna“ og láta hann jarða löngu í staðinn fyrir sveitakerlingu. – Það eru 3 „galdraprestar“, sinn á hverjum tíma sem eignaður er sami leikurinn, sama vísan eða vísurnar og sömu tilsvörin: séra Jóni gamla á Þæfusteini undir Jökli, ár 1580; Eiríki presti á Vogsósum í Selvogi, dáinn 1716, 49 ára að aldri; og loks Snorra presti Björnssyni á Stað í Aðalvík; prestur þar á árunum 1741-1757, en síðar á Húsafelli og kenndur við þann stað.
Á slíkum samstofna „guðspjöllum” verða menn alvarlega að vara sig. Þess vegna verður að rekja ætt hverrar þjóðsögu til upprunans, og staðfæra hana, á svipaðan hátt og frumhöfundar Íslendingasagnanna gerðu um sögu hetjur sínar og máttarstólpa viðburðanna. Þeir byrja á því að rekja ættir og tildrög til sannsögulegs uppruna. Þeir staðfæra söguhetjurnar raunvísindalega, byrja á byrjuninni og vita endirinn til síðasta orðs um leið og byrjunina. Verk sín byggja þeir á órjúfandi – sannsögulega – raunverulegum grunni. Með því tókst þeim að skapa sannar og lifandi, rólegar og öfgalausar lýsingar og ódauðleg listaverk. Þeir kunnu svo vel á ekju tungu sinnar, að nærri heggur að þeir skáki nornunum í manntafli örlaganna.
Helgi Guðmundsson, safnari „vestfirskra sagna“, skildi hlutverk sitt best ísl. þjóðsagnaritara. Við fráfall hans urðu íslenskar bókmenntir fyrir óbætanlegu tjóni.

Áfram skal haldið

Krýsuvíkurberg

Gamla Krýsuvíkurbergið austan Húshólma.

Leið okkar liggur undir fellum og fjöllum, hálsum og hæðum til landsuðurs meðfram Núpshlíðinni og austurfyrir Núpinn sem er allhár, og teygir sig fram úr fjallrananum út í hraunið. Þetta er afgömul sjávarströnd, fuglabjörg ævaforn og aflóga, frá þeim tíma er sjórinn stóð miklu hærra en nú, undirlendi var ekkert, og þar sem áður voru firðir eru nú fagrir dalir, eins og t.d. Þórsmörk.
Gaman er að lesa land um leið og maður gengur. Þó efst séu hamrar og hengiflug, og enn ákleyft, hækkar ofanhrapið og úrlausnin aftur neðan frá, eftir því sem upp hleðst, uns orðið er bústið og bringu hvelft undir klettakraganum. Fæðast þá geirar grasgrónir, er teygjast svo sem auðið er upp í álkur og hófst foreldrisins og hanga þar góðteit millum aurskriðna og iðrunarbolla framhleypninnar. En sú framhleypni er þó undirstaða annars meira, þótt særist brjóstið og svívirðist gróðurinn. Þarna í geirunum móti suðri og sól, í skjóli hamra hlíðarinnar fyrir norðannæðingum, finnum við fullþroska jarðarber og er þar allmikið af þeim. Þau voru góð, þó villt væru, stór og ljúffeng og merkilega bráðþroska. Enn var júlímánuður ekki afliðinn.

Latur

Latur í Ögmundarhrauni og Latfjall ofar. Krýsuvíkur-Mælifell á millum.

Leið okkar liggur fram hjá Litla-Lat sem er fjallsrani með hækkandi fellskolli upp að endanum og hömrum framan í að sævarátt, og skagar út í úfna og ólgandi hraunstorkuna.
Við stefnum á Óbrennishólma, en það er allmikill grasgróinn hólmi, umgirtur hrauni á alla vegu. Þarna er aðalniðurrennsli hraunsins frá gígunum við Fremrivelli. Hefur hraunið runnið þar undan brekkuhalla, suður á við, millum EystraMælifells og Núpshlíðarháls. Öll er hraunstorkan úfin þarna og í henni bárur miklar og þversprungur, bognar eftir rennslinu og bramlaðar sitt á hvað. Hallandi hraunbrekkan, úfin, storkin, sprungin og bólgin, er sviplíkust skrið jökli, er sígur og hnígur fram og niður úr þröngum og djúpum dali.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Við köstum byrðum og hvílumst um stund á hæsta hóli Óbrennishólmans, í suðurenda hans, en þar er ævaforn fjárborg sem nú er með öllu jöfnuð við jörðu svo ekki stendur steinn yfir steini. Má þó enn greina hring undirstöðunnar og hefur fjárborg þessi verið allstór eða nálægt 10 metrar að þvermáli; hlaðin úr basalti og grágrýti sem ekki finnst þarna annarstaðar, enda er borgin miklu eldri en hraunið um kring.
Úr Óbrennishólmanum héldum við til suðausturs, í átt til Húshólmans sem var fyrirhugaði áfanga staðurinn, en hittum ekki á bestu leiðina, heldur þá alverstu.
Fórum of nærri sjónum og lentum inn í kolsvart brunahraun, afarúfið, með engum mosagróðri. Byrðarnar voru þungar: 40-50 kg., á þeim er þyngst var. Þegar þarna var komið var hundurinn orðinn svo sárfættur, að bæta varð honum ofan á eina byrðina. Við höfðum þó gert honum skó á alla hans fjóra fætur, en ekkert vildi duga þó sífellt væri verið að reyra og vefja og endurbæta skógerðina. Hann fór margan óþarfa krókinn: „Aumingja strákurinn“, og flengdi af sér skóböslin í eltingaleik við kjóahjón, er hann átti í erjum við, þó enginn yrði árangurinn annar en skóslit og sárir fætur eftir margt vel útilátið vindhögg og mörg misheppnuð frumhlaupin.

Húshólmi

Húshólmi – skálatóftir.

Steinuppgefin með sprengda skó og rifnar flíkur komum við í áfangastaðinn, Húshólmann. Þar féllum við til jarðar á rennislétta, ilmandi grundina undir úfnum, bröttum hraunjaðrinum skammt frá rústum forna stórbýlisins sem eru þar umluktar og inni bræddar í hrauninu.
Marflöt eins og ormar teigum við angan gróður vinjarinnar, er hvílir þarna innan vébanda eldstorkunnar í hrjósturkufli eyðimerkurinnar. Faðmur móður vorrar, jarðarinnar, er æ reiðubúinn að taka börn sín og hjúfra í friði og farsæld.
Örfá andartök og þreytan er þorrin. Sami töfrailmurinn er hér enn úr grasi og Grelöð Jarlsdóttir hin írska fann, er hún, á fyrstu dögum Íslandsbyggðar, valdi sér bústað eftir angan jarðar og ilman blóma.
Og gamla persneska skáldið Omar Khayyám vissi hvað hann söng, er hann, fyrir meir en 800 árum, kvað um mannsævina og líkti henni við lestargöngu.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjulágar.

Vel var sofið og vært þessa fyrstu nótt í tjaldbúðum vorum í Húshólma, enda aldrei áður tjaldað þarna og sofið svo menn viti til. Miklir voru draumar og mannfróðlegir. Meðal annars þóttist eitt okkar finna allmargar beinagrindur og hirða. Voru þær frá ýmsum tímum og öldum og sín úr hverri áttinni. Þegar farið var að rannsaka kom það upp úr kafinu að beinagrindur þessar voru af draumamanninum sjálfum, frá áður lifuðum og liðnum æviskeiðum. Ein fannst austur í Eyjahafi, nálægt stórri eyju undan Grikklandsströndum; önnur í Atlantshafi í nánd við Hebrides-eyjarnar og tvær, eða fleiri, grófust upp úr kafinu einhvers staðar á voru landi, Íslandi.
Draumamann langaði mjög til að hirða hauskúpurnar og eiga sem minjagripi, því mjög gæti það verið fróðlegt, að eiga vel verkaða hauskúpu af sjálfum sér frá einhverri fyrri jarðvist. En allar hurfu þær draumamanni, að undantekinni einni, er hann vildi ekki fyrir nokkurn mun missa. Og er hann vaknaði hélt hann báðum höndum ríghaldi um hauskúpu þessa og horfði á hana leysast upp og hverfa úr greipum sínum. Dreymanda þótti þetta miður, og það mundi fleirum hafa þótt, svo raunverulegur var draumurinn. Þetta var klukkan 6, að morgni laugardagsins 29. júlí 1944. Fuglar loftsins komnir á kreik og farnir að hefja dagskipan sína. Draumamaður skreið úr svefnpoka sínum og klæddist, skundaði síðan út í glitrandi morgunljómann og fór að rannsaka umhverfið. Hann hafði áður farið hér um sér til angurs og fróðleiks, en rannsóknarefnið er ótæmandi fyrir allflesta sem eitthvað hafa lært að tileinka sér.

Húshólmi

Húshólmi – hin gamla Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Húshólminn er allstór. Aðalhólminn mun nálægt 30 ha. (um 100 dagsl.) að stærð. Uppblásturs gætir þar á nokkrum stöðum. Austan við Hólmann hefur hraunið runnið utan í hliðarhalla og fylgt honum allt í sjó fram. Má vera að þarna hafi verið daldrag sem hafi yfirfyllst af hrauni; öðruvísi verður þetta varla skýrt eða skilið og harla einkennilegt, að hraunið skyldi ekki steypa sér yfir hólmann allan. Millum aðalhólmans og sjávar er mikill og svartur hraunkampur, úfinn og ljótur, en fyrir ofan þennan hraunkraga, þvert yfir graslendi Hólmans, er fornt fjöruborð af brimsorfnu grágrýti.
Vestan megin Hólmans hefur hraunið einnig runnið langt í sjó fram, fyllt alveg víkina og lokað henni. Er glóandi grjótleðjan kom í sjóinn og kólnaði, hlóðst hún upp og stöðvaði framrennslið, svo hraunið hefur sumstaðar runnið til baka aftur.

Rústir í hrauni

Húshólmi

Húshólmi – tóft og garðar í Kirkjulág.

Úti í hrauninu, rétt fyrir vestan aðalhólmann, heitir Kirkjulág. Þar eru rústir mikillar húsaþyrpingar sem hraunið hefur að nokkru leyti runnið yfir, en nokkuð hefir orðið eftir og standa veggir og tóftar brot út undan hraunröndunum.
Kringum eina rústina er garður og hefur hraunið runnið inn í hann, en ekki fyllt hann alveg, svo austurkanturinn og norðurhornið er hraunlaust. Er það sagður hafa verið kirkjugarður, en ekki er víst að svo sé.
Í há norður frá Kirkjulánni, um 100 metrum ofar í hrauninu, eru aðrar rústir miklu heillegri. Þær rústir hafa aldrei verið athugaðar af fræðimönnum. Hefur hraunið hlaðist að þeim á alla vegu en hvergi komist inn fyrir veggina. Hleðslurnar haldast ennþá á pörtum fastar í hraunstorkunni. Sumt af hleðslunum hefur bráðnað, en sumt af steinunum hitnað svo og eldast að þeir bera þess merki. Tóft þessi er um 20 m. á lengd og 8 á breidd og liggur frá austri til til vesturs. Við austurendann hefur verið minna hús áfast en ekki eins breitt og aðalrústin. Í hleðslum húsarústa og garðabrota er mestmegnis grásteinn og margt af honum vatnsnúið eða brim marið, sennilega tekið úr forna fjörukampinum sem verið hefur skammt fyrir sunnan, því víkin hefur náð langt inn að vestanverðu, áður en hún fylltist af hrauni. Bæjarhúsin munu hafa staðið skammt austan við víkurbotninn.

Húshólmi

Húshólmi – forn garður hverfur undir Ögmundarhraun.

Forna fjöruborðið, eða sjávarkampurinn, er mjög merkilegur til fróðleiks. Hans gætir kringum allt land og eins norður á Grímsey sem annarstaðar. Þetta fjöruborð liggur í 4-5 metra hæð yfir núverandi sjávarmál og eigi myndað fyrr en löngu eftir síðustu ísöld. Hlýindatímabil hefur þá staðið yfir, um alllangt skeið, svo jöklar hafa bráðnað á norður hveli, að svo miklum mun að hækkað hefur í höfunum. Hefur þá verið orðið nær jöklalaust á Íslandi. Síðan hefur kólnað aftur og mikil uppgufun bundist. Á aðalhólmanum eru greinilegar fornar garðhleðslur, sá lengsti um 300 metra langur og hverfa báðir endar hans inn undir hraunið.
Margar sagnir eru til á ýmsum tegundum af „galdraletri” um Gömlu Krýsavík og starfhætti krýsa og menningu. Ber öllum þeim lýsingum saman í aðalatriðum. Í tíð Kolskeggs vitra voru þar stórt hundrað manns í heimili og 30 hurðir á járnum. Þar voru miklir akrar og ræktun. Auk korntegunda var þar ræktað lín og hör og einhverskonar korntegund sem Kolskeggur flutti inn frá Vesturheimi og kallað er „hölkn“, og eftir lýsingunni að dæma hlýtur að hafa verið maís. Í Krýsavík var og skipasmíðastöð og mörg hafskip smíðuð. Gjá ein eða klauf gekk upp í landið úr vesturbotni víkurinnar og mátti þar fleyta skipum inn og út um stórstraumsflóð. Mátti hafa þar 1-2 hafskip í vetrarlagi.”

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2019 – Einn áfangi á Reykjanesi – Jockum Magnús Eggertsson (1896-1966) fjallar um ferðir hans um Reykjanesskagann árið 1945, bls. 20-28.

Húshólmi

Gamla Krýsuvík hægra megin, nú fyllt af hrauni. Tóftirnar á víkurbakkanum.

Ísólfsskáli

Nokkrir svonefndir “brimkatlar” eru við strandir Reykjanesskagans, misstórir þó. Þeir eru flestir undir bjargbrúnum, s.s. Herdísarvíkurbergi, Krýsuvíkurbergi og Staðarbergi. Einnig eru dæmi er um slíka katla neðan hraunstranda, s.s. neðan Skollahrauns, en sá er hinn stærsti á Skaganum.

Brimketill

Brimketill – Oddnýjarlaug.

Brimketillinn í sjávarklettunum vestast í Staðarbergi utan við Grindavík er sennilega sá margumtalaðisti. Hann, líkt og aðrir bræður hans, hefur myndast í stöðugum öldugangi þegar brimið lemur bergið. Basaltbergið er misfast fyrir, ýmist sem hraunmulningur, berghella eða þéttar hraunrásir. Þar sem sjórinn mætir þeim síðastnefndu á hann erfiðara um vik að vinna á þéttu berginu. Við það myndast framangreindir tímabundnir “katlar”, ekki ólíkt og skessukatlar í móbergi. Í báðum tilvikum leika steinar lykilhlutverkin í samvinnu við vindinn í tilviki skessukatlanna og sjóinn í tilfelli brimkatlanna.

Brimketill

Brimketill. Hart bergið umhverfis.

Hafið hefur mikil áhrif á landmótun á Reykjanesi. Með því að fylgjast með brimi skella á klettunum má sjá þann kraft sem býr í Norður-Atlantshafinu. Aldan vinnur á föstu berginu með því að þrýsta þétt saman lofti í rifum og sprungum. Við útsogið dregur sjórinn loftið með sér. Þá verður til undirþrýstingur. Þannig brýtur hafið upp hraunhelluna smám saman. Við bætist svo rof vegna bergbrota þegar aldan skellur með ofurkrafti á sjávarkletta og laust grjót og þeytir hvorutveggja upp í loft. Þar sem lausara hraunhrap er fyrir myndast sjávarhellar. Þegar þung aldan steypist inn í rásirnar myndast mikill þrýstingur með þeim afleiðingum að “þakið” innst gefur sig. Þegar það gerist myndast nokkurs konar “strandgeysir” þar sem aldan nær að spýjast upp innan á ströndinni með tilheyrandi strókamyndun.

Brimketill

Brimketill vestast á Staðarbergi. Hér má sjá takmarkað gagn af brúnni. Annar, minni ketill sést hægra megin við enda brúarinnar, sem virðist ná athygli ferðamanna umfram “Ketilinn” sjálfan.

Hraunið umhverfis framangreindan Brimketil er gróft, sprungið og með háum úfnum jöðrum og yfirborði. Líklega hefur það runnið í Reykjaneseldum á árunum 1210-1240.

Brimketill

Brimketillinn vestan við brúarpallinn.

Um Brimketilinn austan Grindavíkur er til þjóðsaga. Laugin sú arna mun áður hafa heitið Oddnýjarlaug. Þjóðsaga segir frá nátttröllinu Oddnýju sem bjó í Háleyjabungu, rétt vestan við Brimketil, ásamt Hróari manni sínum og syni þeirra Sölva. Eina nóttina fór hún út að Ræningjaskeri rétt austan við Brimketil til að ná í hvalhræ sem hafði rekið að landi. Í bakaleiðinni hvíldi hún sig og baðaði í Brimkatli. Þegar hún hélt loks heim á leið komst hún ekki langt þar sem sólin kom upp um það leyti. Varð hún því að steini og sást þarna lengi sem hár bergdrangur, allt þar til sjórinn braut hann smám saman niður. Brimketill hefur því einnig verið nefndur Oddnýjarlaug í höfuð á nátttröllinu.

Ísólfsskáli

Kvennagöngubásar – brimketill.

Nú hefur metnaðarfull göngubrú verið handeruð í átt að Brimkatli, en smíðin sú virðist misheppnuð. Í fyrsta lagi fæst ekki nægileg yfirsýn yfir Brimketilinn frá enda brúarinnar. Brúarendinn hefði þurt að ná lengra út til austurs. Í öðru lagi er annar minni brimketill vestan við miðja brúnna. Fjölmargir ferðamenn, sem heimsækja staðinn telja að þar sé hinn eiginlegi “Brimketill” því þeir ná aldrei sjónhendingu að þeim eina og sanna.

Kvennagöngubásar

Kvennagöngubásar – brimketill.

Austan Ísólfsskála er tilkomumesti brimketillinn á Reykjaneskaganum. Hann er á svonefndum “Kvennagöngubásum”. Básar eru nefndir svo austan við Rangargjögur; Skálabásar, Kirkjubásar og Kvennagöngubásar allt þangað til komið er að Hraunsnesi. Þar austan við er Mölvík.

Þegar Ísólfur Guðmundsson á Ísólfsskála var spurður árið 1983 um tilefni nafnsins Kvennagöngubásar svaraði hann: “Þar var kvenfólk sagt baða sig”. Að öllum líkindum hefur Ísólfur haft í huga þekktu þjóðsöguna um Oddnýjarlaugina vestar á ströndinni.

Kvennagöngubásar

Kvennagöngubásar – brimketill.

Hið réttara er að Básunum austan við Ísólfsskála var skipt upp á milli bæjarins og kirkjustaða, sem fyrrum voru að hluta til eigendur jarðarinnar. Þannig átti Kálfatjörn um tíma rekaítök í Skálalandi, í svonefndum Kirkjubásum, líkt og Garðakirkja átti rekaítök í Kirkjubásum í Krýsuvíkurlandi austan Bersenda. Rekinn skipti hlutaðeigandi miklu máli í þá daga, líkt og kveðið er á um Jónsbók og fleiri gildandi lögbókum. Kvaðir voru á jarðeigendum af kirkjujarðanna hálfu að sinna reka sínum til jafns við þá. Þannig þurfti bóndinn á Ísólfsskála að þjóna presti Kálfatjarnarsóknar og fylgast með rekanum. Kvenfólkinu á Skála var ekki ætlað það hlutverk að ganga rekann lengra en að Kvennagöngubásum, enda þótt Skálabóndi ætti allan reka frá þeim að Dágon á Seltaöngum, en þangað var öðrum ekki ætlað gangandi en karlmönnum.

Brimketillinn í Kvennagöngubásum er hinn tilkomumesti og þangað hafa meðlimir Sjósundsfélaga farið til að njóta hinna tilkomumiklu náttúrulegru aðstæðna.

Hraunið umhverfis Kvennagöngubása er talið hafa runnið 1151.

Ó.

Kvennagöngubásar

Kvennagöngubásar – brimketill. Festarfjall, Fiskidalsfjall og Húsafell fjær.

Ísólfsskáli

Í jólablaði Víkurfrétta árið 1984 eru Ísólfur Guðmundsson og Herta Guðmundsson á Ísólfsskála heimsótt undir fyrirsögninni “Eina lögbýlið á Suðurnesjum heimsótt, Verða að búa við algjöra einangrun yfir vetrarmánuðina – samgöngulaus, jafnvel hita, vatns, rafmagns og símalaus”:

[Hafa ber í huga að ritstjórar og blaðamenn Víkurfrétta hafa í gegnum tíðina haft eingregin vilja til að heimfæra Grindavík upp á Suðurnesin, sem er gegn öllum fyrri heimildum. Efnisumfjöllunin sem slík á hins vegar erindi til almennings.]

Inngangur – Eina lögbýlið á Suðurnesjum heimsótt

Ísólfsskáli

Herta og Ísólfur á Skála.

Verða að búa við algjöra einangrun yfir vetrarmánuðina – samgöngulaus, jafnvel hita-, vatns-, rafmagns. Eins og flestir vita er þéttbýiasti staður landsins hérna á suðvestur horninu, og þvi teljast Suðurnesin vera með þéttbýlustu svæðum landsins. Er það þá ekki skritið, að á þessu svæði skuli finnast bóndabýli sem er aðeins 5 km frá einum af þremur kaupstöðum á svæðinu, þar sem heimilisfólkið verður að búa við einangrun oft frá hausti og fram á vor, vegna þess hve vegarsamgöngur eru slæmar? Þetta fólk, sem er hið eina á Suðurnesjum sem hefur afkomu sina eingöngu af fjárbúskap, verður einnig, þó það sé ekki lengra frá þéttbýli, að búa rafmagnslaust og vatnslaust meira og minna á hverjum vetri. Laugardaginn 1. desembersl. brutust Víkurfréttir á bíl með drifi á öllum hjólum til þessa fólks og tóku það tali, og birtist viðtalið hér á eftir. En fyrir þá sem ekki eru þegar farnir að renna grun um hverja er verið að tala, skal þess getið að hér er átt við hjónin Ísólf og Herthu Guðmundsson, að Ísólfsskála við Grindavík.

Ísólfsskáli
Ferðin að Ísólfsskála gekk nokkuð vel, þó var það ansi skrítin tilfinning í þessu góða veðri, að á Grindavíkurveginum frá Seltjörn og upp undir Gíghól [Gíghæð], var það þétt hrímþoka að aðeins var nokkurra metra skyggni.
Nú, eftir að henni lauk gekk ferðin vel. En til þess að komast að Ísólfsskála þarf að fara yfir Festarfjall og þar var algjörlega ófært fyrir venjulega fólksbíla, en fyrir þann farkost sem við völdum til fararinnar var þetta lítið mál. Þó voru kaflar sem voru afar slæmir jafnvel fyrir slíkan bíl.
Engu að síður tókst vel að komast á staðinn og eftir að hafa fengið kaffi hjá þeim hjónum var sest inn í stofu. Fyrst báðum við Ísólf að segja frá uppruna og sögu jarðarinnar.
„Ísólfsskáli er landnámsjörð, hér er ég fæddur og uppalinn”, sagði Ísólfur bóndi, „pabbi og mamma bjuggu hérna líka í 5 1/2 ár og afi bjó hérna. Hann var þrígiftur og átti 33 börn og eitt á milli kvenna, þannig að börnin voru 34. Hann hóf búskap að Hjalla í Ölfusi og þaðan fluttist hann að Breiðagerði á Vatnsleysuströnd. Þá fluttist hann að Vigdísarvöllum, bjó þar í nokkur ár. Síðan fluttust þau hingað og hér létust þau. Eftir það var Skálinn í eyði í 3 ár, en eftir það var Brandur bróðir hans pabba hér í 3 ár, en þá flutti pabbi hingað úr Grindavík 1916 og bjó hér eins og áður segir í 51 1/2 ár.
Ísólfsskáli
Mamma var gift áður, en við systkinin erum 11 á lífi, 5 hálfsystkini og 6 alsystkini. Eitt, þ.e. elsta hálfsystkinið, er nýlega dáið, en hann bjó hérna í Grindavík. Fyrst þegar pabbi kom hérna þá var þetta eiginlega ekki árennilegt, þetta var nú ekki annað en smá túnsnepill sem náttúrulega varð að slá með orfi og ljá eins og það gerðist í gamla daga, og þá setti hann á þetta eina belju og 10 gemlinga, og ég held að hann hafi fengið eitthvað um 20-25 hesta af heyi af þessu með því að slá þetta með orfi og ljá og kroppa þetta saman. Nú eru túnin með því sem hann stækkaði og ég líka, orðin um 40 hektarar, að mér er sagt. Þar af leiðandi hefur þetta stækkað smátt og smátt, en erfiðleikar fyrst voru miklir hérna varðandi það að rækta þetta, því að hér voru sandur og melar og varð að tína ofan af þessu grjót með handafli og grafa það niður til þess að losna við það, eða þá að bera það út fyrir í hauga.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – ýtusléttur Ísólfs ofan Skála.

Svo eftir að ýturnar komu þá fengum við ýtu hingað tvívegis til að ýta hérna melum og með því móti gátum við ræktað töluvert svæði hérna og þetta hefur þróast svona. Núna er ég eingöngu með fé, hátt á þriðja hundrað, en þetta fer að verða nokkuð mikið, því fóðurverð hefur hækkað mikið og þetta því orðið nokkuð dýrt. Ég keypti áburð í fyrra fyrir 60 þúsund. Svo keypti ég aftur í vor og þá fyrir 120 þúsund, og það var ekki nema 3 tonnum meira, svo á þessu sést hvað allt hefur hækkað”.
-Eru þeir ekki orðnir fáir hér á Suðurnesjum sem lifa á búskap?
“Þetta er eina lögbýlið sem er eingöngu með fjárbúskap, en þeir eru fleiri með fé hérna í Grindavík og á Vatnsleysuströnd. Eru það aðallega bræðurnir á Efri-Brunnastöðum sem eru með margt fé. En fé hefur fækkað á skaganum undanfarin ár, því mér var sagt að 1922 hefði verið 22 þúsund fjár hérna á Reykjanesskaganum og 100 hross í fjalli, auk þess sem allir bændur voru með beljur, eina, tvær og þrjár, en núna er ekki nema líklega 3 þúsund kindur á þessu svæði. Er þetta yfirleitt komið heim í rétt eða hólf við fyrstu eða aðra rétt og ekkert beitt yfir vetrarmánuðina, en áður fyrrgekk þetta fé úti allt árið og svo á sumrin suður í Selvogi eða Ölfusi. Nú eru menn að tala um ofbeit, en það er ekki fyrir hendi, því undanfarin ár hafa verið köld, eins og t.d. í fyrra þegar heyin hröktust ekki einu sinni á túnunum, því þau voru eins og í kæliskap og í sumar hröktust þau meira, því það var heitara og í sumar var gott sumar hvað sprettu snertir”.
-Hefur þú hér einhver önnur hlunnindi, s.s. reka?
Ísólfsskáli.-“Nei, að vísu rekur hérna smávegis af belgjum og plastkúlum, en maður verður eiginlega að passa þetta þvi það er svo mikið af fólki sem gengur um og annað hvort hirðir þetta eða þá hreinlega gengur vopnað um og skýtur þetta og eyðilegur, og það er það sem gerir það að verkum að þessi umferð hérna er ekki góð þegar menn skemma svona mikið í kringum sig. Það væri allt í lagi með þessa umferð, ef það væru almennilegir menn sem gengju um þetta”.
-Nú er aðeins korters keyrsla til Grindavíkur, búið þið við einangrun?
-“Það eru 5 km héðan til Grindavíkur, en þeir hafa aldrei verið það framfærir menn að þeir legðu rafmagn þessa leið. í upphafi uppistóð oddviti Grindavíkur ásamt nokkrum úr hreppsnefndinni sem þá var, að hreppurinn keypti ljósavél, 10 ha. Lister og aðra að Stað við Grindavík, því þá var búið á þessum tveimur bæjum. Nú, það var náttúrlega betra að hafa þessar vélar en myrkrið, en þær reyndust mjög illa, að minnsta kosti þessi hérna, því að það var rétt að maður gat haft ljóstýru af henni, annað ekki”.
-En hvernig eru þessi mál núna?
-“Ég hef mikið rifist út af þessu bæði við þingmenn og aðra. En þingmennirnir virðast ekkert gera fyrir mann. Eins hef ég rifist við bæjarstjórn og bæjarráð og hafa þeir sýnt þessu máli nokkurn skilning. Keyptu þeir vél, að vísu gamla og gerðu hana upp, og létu mig hafa hana. Verð ég síðan að sjá um rekstur á henni, og núna sl. sumar fór rafall í henni og þá kostaði 26 þúsund að láta gera við vélina fyrir utan rafvirkja sem ég varð að fá til að rífa hana í sundur og setja saman aftur. Kostaði þetta því stórfé. Tel ég þetta vera algjörlega ófullnægjandi að hafa þessa ljósavél, því að í 3 mánuði á síðasta ári vorum við hitalaus og vatnslaus vegna bilunar, því ef vélin ekki snýst, er allt stopp”.
-Hvernig eru þá símamálin?
Ísólfsskáli
-„Fyrst var hérna bara „bretasími” sem var lagður á jörðina og var hann í lagi ef logn var, en ef það gerði vind þá hristist hann og skarst í sundur á jörðinni.
Nú, einu sinni fór ég að rífast í því að fá síma, við Ólaf heitinn Thors rétt fyrir kosningar. Spyr ég hann um símann og sagðist hann skyldi athuga það. Svo varð nú ekkert úr því, nema að ég var með þennan helv … bretasíma sem á höppum og glöppum í lagi. Nú, svo koma kosningarnar og þá er ég staddur í Grindavík og þá er Ólafur þar. Þá segir einn við hann: Hvernig heldur þú að kosningarnar fari núna, Ólafur? Ja, ætli það rokki ekki til eins og vant er, segir Ólafur. Ja, þú átt nú einn þarna, og bendir á mig.
Ja, ég segi þá við hann að ég lifði nú ekki á lygum og svikum. Þá segir Ólafur og ræskti sig: Ég man nú ekki eftir því aö hafa lofað þér þessu, en þetta kom til tals. Já, en ég vil nú að það sé byrjað á að mæla fyrir þessu. Nú, daginn eftir komu verkfræðingar og byrjuðu að mæla fyrir þessu, og síðan kom síminn”.
-Þannig að síminn hefur komið vegna kosningaloforðs Ólafs Thors?
-“Já, en það gildir ekki varðandi þá þingmenn sem nú eru, t.d. varðandi rafmagnið, því ég hef talað við þá marga, bæði Gunnar Schram og fleiri. Þeir virðast engir vilja vinna fyrir okkur, við eigum enga þingmenn núna, sem vilja starfa fyrir kjósendur sína, eins og virðist þó vera varðandi aðra landshluta. Þar koma þingmenn vilja kjósenda á framfæri og efna loforðin. Enda leggja þessir þingmenn rafmagn og láta byggja brýr o.fl., en þingmenn okkar gera ekki neitt”.
-Þrátt fyrir það að aðeins 5 km séu til Grindavíkur, þá er oft ófært hingað svo mánuðum skiptir og þið því algörlega einangruð?

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

-Já, 1932 þegar þetta hús var byggt hérna, var enginn vegur hingað og þá þurfti að leggja veg til að koma efninu í húsið. Þá fóru pabbi og systkinin í þáð að ryðja veg og voru allirsneiðingar handmokaðir, fyrst brekkurnar til að komast upp og svo aftur niður. Svo fengum við hálfs annars tonna vörubíl til að koma hingað með efnið í sperrurnar og sementið. Gekk ágætlega að komast hingað niður, en verra að komast upp aftur, því það var svo laust í brekkunum. Enduðu mál með því að farið var ofan í Grindavík til að fá skipshöfn af bát til að koma hingað. Lentu þeir í fjörunni og síðan ýttu þeir bílnum upp brekkurnar”.
-Eruð þið þá í algjörri einangrun frá hausti til vors, og haf ið því engin tök á að nýta ykkur þá þjónustu sem sveitarfélagið býður upp á?
-“Nei, þeir hafa nú komið hingað og rutt veginn t.d. ef ég verð rafmagnslaus og eins ef mig hefur vanhagað um eitthvað sérstakt. Það er hins vegar útilokað i sambandi við slysahættu og annað að hafa engar samgöngur við Grindavik, því hér er heldur hvergi hægt að koma aö af sjó. Enda sýndi þaö sig einu sinni, er ég var vakinn hér upp um miðja nótt, að þá hafði maður sem ætlaði á bát úr Grindavík til Eyrarbakka orðið að taka land hérna fyrir neðan vegna bilunar á vél. Var hann orðinn það kaldur að ef hér hefði ekki verið fólk, þá hefði hann ekki lifað þetta af. Á þessu sést að nauðsynlegt er að hafa byggð hérna. En það væri ekkert vandamál, ef hér væri rafmagn, en það ástand sem er á þeim málum háir manni bæði varðandi féð og annað. Hér vill fólk reisa sumarbústaði og laxeldi, og einnig hafa menn viljað fá að búa hér, en þetta strandar allt á rafmagninu, því þetta er mátulega langt frá þéttbýliskjarnanum”.
-Hvað myndi ske ef hér kæmi upp eldur að vetrarlagi?
-“Þá er annað hvort að reyna að slökkva sjálfur eða reyna að fá hjálp með því að hringja, svo framarlega sem síminn er ekki bilaður”. Til að geta lifað í slíkri einangrun, verðið þið ekki að lifa eftir öðrum kenningum en aðrir íbúar í þessum mikla þéttbýliskjarna sem Suðurnes eru?

Ísólfsskáli

Jólagetraun Víkurfrétta 1984.

-“Jú, lífið hér byggist upp á því að vera sjálfum sér nógur og geta bjargað sér, hvað sem kemur fyrir”.
-Hvað gerið þið af ykkur í ykkar frítíma?
-„Hér er engin leið að sjá sjónvarp. Hafa þeir frá sjónvarpinu komið til að mæla það út, en fjöllin virðast skyggja á, þannig að í sjónvarp næst ekki nema til komi sendir til að endurvarpa t.d. frá Grindavik. Annars líður dagurinn þannig, að ég er allan daginn yfir fénu, síðan matast maður og sefur, eða þá að maður lítur í bók. Við erum afskipt af öllum félagsmálum. Hitt er verra, að hingað hefur á undanförnum áru

m komið mikið af alls konar óþverralýð, sem hafa verið að skjóta hér og eyðileggja. Skotið hefur verið á húsin hér, jafnvel þó fólk hafi verið í þeim, á fjárhúsin. Einu sinni skutu þeir rétt yfir konuna þegar hún var hér uppi við hjalla, en þá var ég í grenjaleit. Eru því víða för eftir kúluskot hér á húsunum. Virðast þetta vera einhverjir vitleysingar. Sem dæmi get ég sagt að hér verpir mikið af fýl og eitt árið sem það var mjög áberandi, óku þeir hér um og skutu fuglinn út um bílgluggann og létu hræin liggja síðan tvist og bast. Þessir menn virðast geta fengið byssuleyfi hvenær sem þeim dettur í hug, án þess að hafa ákveðin skotsvæði í huga. Sama er með selinn, hann flýtur hér um allar fjörur eftir að hafa verið skotinn af þessum mönnum”.
-Að lokum?
-“Það verður að fá hingað rafmagn. Það er helv… hart aö þurfa að eyða 1600 lítrum af olíu á mánuði. Þó maður fái þennan olíustyrk þá dugar þaö ekki. Samt reynir maður að spara olíuna eins og hægt er. Nú hefur hún hækkað enn, og þá sjá menn hvað þetta gildir. Svo það, að halda þessari vél gangandi, þetta eyðileggst og því þarf að endurnýja það. Nú, svo ef eitthvað bilar, þá kostar þetta tugi þúsunda, svo það er útilokað fyrir einn mann að standa undir þessu helv. … nema að þingmenn eða einhverjir menn hafi það að markmiði eins og í öðrum byggðarlögum, að leggja hingað rafmagn”.
ÍsólfsskáliHúsfreyjan á Ísólfsskála heitir Hertha Guðmundsson. Við spurðum hana hvernig henni fyndist að búa þarna.
“-Mér líkar það alls ekki illa. Ef hér væri bara meiri hiti í húsinu og meira rafmagn, þá væri þetta allt í lagi, en eins og nú er getum við ekki haft nein raftæki, t.d. er frystikistan geymd í húsi í Grindavik”.
-Eru rafmagnsmálin þá aðalvandamálið hérna?
-“Já, ljósavélin bilar oft, þá erum við gjörsamlega hitalaus, vatnslaus og ljóslaus. Það hefur oft komið fyrir að maður hefur verið 3-4 mánuði vatnslaus og þá lifir maður bara af rigningarvatni og þá er ekki hægt að hugsa um þvott, nema þá sem fátækraþvott eins og hann var í gamla daga. Fólk í Grindavík hefur oft boðið okkur að þvo fyrir okkur. En þetta finnst mér það versta við að vera hérna. En vatnsskorturinn stafar af því að í rafmagnsleysinu er ekki hægt að dæla vatninu og því verðum við að notast við rigningarvatnið. Það hefur því komið fyrir að við höfum þurft að fá vatn til neyslu frá Grindavík”.
-Finnst þér ekkert bagalegt að missa af ýmsu sem gerist í félagsmálum?
-“Jú, mann langar nú stundum að komast í samband við fólk eða á samkomur eða annað því um líkt. Við vitum ekkert um þau mál”.
-Hvernig er þá um háveturinn, leiðist ykkur ekkert?
-„Jú, það kemur stundum fyrir, sérstaklega ef símasambandslaust er. Þessi mál hafa nú lagast stórlega eftir að Keflavíkursímstöðin tók við þessum málum. Þær hafa oft samband við okkur eftir slæm veður til að athuga hvort allt sé í lagi. Það er mikil bót”.
-Hvernig líður dagurinn hjá þér?
-“Ég er mikið í handavinnu, sauma, hekla og les töluvert. Ég fæ bækur að heiman og les þær. Svo er maður allan daginn að hugsa um skepnurnar því það er afkoman okkar”.
-Nú ert þú þýsk að uppruna, hefur þú samband við Þýskaland?
-“Já, já, við höfum mikið samband, og margt fólk sem kemur hingað á sumrin kemur við hérna. Síðan hef ég mikið samband við þetta fólk”.
-Hvernig komst þú hingað til lands?
Ísólfsskáli
-“Ég kom hingað til lands í gegnum ráðningu hjá Jóni Helgasyni núverandi landbúnaðarráðherra, en hann var þá í Lubeck að ráða fólk til Íslands. Þetta var árið 1949. Kom ég hingað til lands með gamla Maí frá Hafnarfirði. Höldum við enn kunningsskap þrenn hjón sem eins var með, þ.e. konan kom með togaranum hingað til lands. Voru þetta mikil viðbrigði að koma hingað, með mínar minningar, og setjast svo að á sveitabæ sem var svona afskekktur, því ég kom beint hingað að Ísólfsskála. Var þetta allt mjög nýtt fyrir mér, þó ég hafi alist upp á sveitabæ, þó voru viðbrigðin kannski ekki alveg eins mikil og þau hefðu getað orðið að koma hingað. Ég er mikið náttúrubarn og finnst gott að vera mikið úti. Ég gæti ekki hugsað mér að vera alltaf inni”.
-Hvað finnst þér um Íslendinga sem Þjóðverji?
-„Íslendingar eru ágæt þjóð að sumu leyti, en ég held að þeir kunni ekki að hagræða hagsmunum sínum rétt. Þeir hafa of fljótt orðið ríkir að loknu stríðinu og hafa síðan átt erfitt með að halda á peningamálum sínum”.
-Að lokum?
“Ég vil óska öllum kunningjum okkar og vinum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs”.
Þetta fólk býr eins og fram kemur við mikla einangrun, þó það sé aðeins um 5 km frá Grindavik. Það sættir sig við að vera meira og minna innilokað, en rafmagnsmálin eru aftur á móti mikið mál hjá þeim, enda furðulegt að það skuli ekki vera fyrir löngu búið að leggja rafmagn í þessa átt út frá Grindavík eins og í hina áttina. Eins er það mikið öryggismál bæði fyrir þau og sæfarendur, að lagður verði upphækkaður vegur þarna, sem ekki væri eins snjóþungur og sá sem nú er, því þarna fyrir utan eru mið bátaflotans og því þarf að vera akfært þarna, ef eitthvað ber út af, t.d. skipsstrand eða annað því um líkt. Enda ófært að slíkar vegsamgöngur skuli vera hér á einum mesta þéttbýliskjarna landsins. – epj.

Heimildir:
-Víkurfréttir, jólablað, 47. árg. 13.12.1984, Eina lögbýlið á Suðurnesjum heimsótt, Verða að búa við algjöra einangrun yfir vetrarmánuðina – samgöngulaus, jafnvel hita, vatns, rafmagns og símalaus.
-Morgunblaðið, 28. tbl. 03.02.1965, Gengið á fjörur, bls. 12.
Ísólfsskáli

Ísólfsskáli

Í Vísi árið 1967 er viðtal við hjónin á Ísólfsskála; Agnesi Jónsdóttur og Guðmund Guðmundsson, undir fyrirögninni “Fimm tugir ára á bröttum kambi við brimlúðar flúðir”:

“Það var gaman að vera ungur Íslendingur í dag,” sagði við mig vaxandi maður ekki alls fyrir löngu. Hann stóð rétt á tvítugu, vænn og” vörpulegur.
Vonandi á hann framundan langa og giftudrjúga ævi, og á eftir að sjá og reyna margt, sem sýnir honum fyllri og fegurri lífsmynd en þá sem heillar hann í dag.
En hvað er þá að vera ungur Íslendingur? Eru það aðeins árin, sem segja til um aldur fólks — eða er það eitthvað annað og meira? Ef til vill getur sú innri glóð, sem skapazt hefur við reynslu áranna viðhaldið æskunni, sem eðlislægri eigind, en jafnframt auðgað hana rökhyggju og víðsýni.
Milli brattra gróðurlítilla hæða, skammt ofan við brimsorfna strönd nokkru austar en Grindavíkurþorp, stendur snoturt og vel umgengið býli sem heitir Ísólfsskáli. Þangað hef ég nú lagt leið mína og notið til þess atbeina tveggja systkina, sem slitið hafa þar barnsskónum á bröttum brimlúðum mölum. Og í notalegri stofu, þar sem ég get hreiðrað um mig í mjúku hægindi, situr andspænis mér kona. — Já, víst er aldurinn orðinn hár, því nú á hún 90 ár að baki. — En hvort aldurinn segir alla sögu tel ég vafasamt og nú skulum við heyra stutta þætti úr lífssögu þessarar konu, og blik bjartra augna segir mér að þar á megi nokkurt mark taka — ennþá sé minnið trútt og dómgreindin óbiluð.
Ísólfsskáli
— “Ég heiti Agnes Jónsdóttir og er fædd á Þórkötlustöðum í Grindavík. Foreldrar mínir voru Jón Þórðarson og Valgerður Gamalíelsdóttir, sem þar bjuggu, og þar ólst ég upp.
— Það er sennilega orðin mikil breyting á frá þeim tíma?
— Já, það er meira millibilið. Þá voru bara nokkrar torfbaðstofur í Þórkötlustaðahverfinu, og öll útgerð á áraskipum. Veiðarfærin voru handfæri og lína. Afli var oft ágætur, einkum á vertíðinni, og fiskurinn gekk mjög nærri landi. Þó brimlending sé í Grindavík og oft tvísýn landtaka kom mjög sjaldan fyrir að ekki væri fært Þórkötlustaðasund. — Það eru álög á því sundi.
— Hver eru þau álög?
— Það var álfkona, sem missti manninn sinn á Járngerðarstaðasundi. — Þar fórust 18 skip. — En hún sagði að aldrei skyldi skipstapi verða á Þórkötlustaðasundi ef rétt væri farið — og það ég bezt veit hefur þetta rætzt, — aldrei farizt skip. En á Járngerðastaðasundi munu þau orðin 20. — Og ég man eftir að hafa orðið áhorfandi að slysförum þar.
— Manst þú eftir mikilli fátækt í æsku þinni?
— Ójá. Það höfðu nú margir lítið fyrir framan hendurnar. Flestir höfðu mjög fáar kindur, t. d. höfðu foreldrar mínir 11 kindur, og svo höfðu þau eina kú. Aðalbjargræðið var því sótt til sjávar. Faðir minn stundaði alltaf sjó, og segja má að þaðan brysti aldrei björg. Ég man enga ördeyðu vertíð.
— Þú manst hörðu árin um 1880?
— Já. Þá var afskaplega mikill snjór, t.d. man ég það að grafa þurfti göng til að komast út úr bæjunum. Þeir voru að vísu ekki háreistir.
— Hvenær ert þú fædd?
— Þann 3. desember 1876.
— Þú ert þá orðin vaxin kona um aldamót?
— Já, og ég man eftir slysförum sem urðu hér á sjó aldamótaárið, það var úti á rúmsjó — ekki við land. Þetta var 28. október um haustið. Af þessum báti var einum manni bjargað en þrír fórust. Hann var þó ekki langlífur því á vertíðinni lézt hann. Og ævilok hans urðu þau, að hann fór fram í Þórkötlustaðanes, og hafði með sér byssu. Það var oft siður að skjóta fugl til bjargræðis heimilum. En skotið hljóp úr byssunni og varð honum að bana.

Þórkötlustaðir

Hraun í Grindavík – Þórkötlustaðagata.

— “Þegar ég var 23ja ára gömul fór ég frá foreldrum mínum og réðist til manns og var hjá honum í 11 ár og áttum við saman 6 börn. — En svo sundraðist það samband og fór ég þá aftur til foreldra minna og var hjá þeim um tíma. En svo vorið 1910 fór ég til hans Guðmundar míns, sem þá var lausamaður á Hrauni og þar vorum við í 6 ár, en fluttum þá hingað að Ísólfsskála og höfum verið hér síðan eða 51 ár, þann 4. júní í vor.
— Hvernig var nú um að litast þegar þú komst hingað?
— Það var nú ekkert björgulegt. Jörðin hafði þá verið þrjú ár í eyði og fremur köld aðkoman. Baðstofan var lítil og ekki vel útlítandi. — Meðan við dvöldum á Hrauni hafði Guðmundur þar útgerð á stóru áraskipi, sem á voru 11 menn og höfðum við þá 18 manns í heimili. Fyrstu árin eftir að við fluttum hingað hafði hann áfram útgerð á Hrauni yfir vertíðina, og þá var ég ein heima með krakkana. — En það, að við fluttum hingað orsakaðist nokkuð af því, að ég hygg, að Guðmundur er hér fæddur og uppalinn. Hann er nú 83 ára og við höfum átt saman 6 börn. Mín börn eru því 12 og af þeim 11 á lífi.
— Þetta er orðið þó nokkuð ævistarf?
— Já, það hefur stundum orðið að taka til hendinni. Fyrst þegar við komum hér var aðeins örlítill túnblettur kringum húsið. En hér er nú orðin töluverð ræktun og mest unnin upp úr sandi.
— Hvað er þér nú sérstaklega minnisstætt frá þessari 50 ára veru hér í Ísólfsskála?
Ísólfsskáli
— Hér í skálanum hefur okkur liðið mikið vel. Aldrei orðið fyrir neinum óhöppum eða á föllum sem þannig eru frásagnarverð. Lífið hefur verið fábrotið en oftast notalegt og alltaf heldur miðað í átt til batnandi hags, svo það er ekki undan neinu að kvarta. Við vorum að vísu mjög fátæk fyrstu árin meðan börnin voru í æsku.
Hjá okkur voru tvö börn mín frá fyrra sambandi og svo öll börn okkar Guðmundar. Auk
þess tókum við tvö börn í fóstur.
– Bættuð við það sem lítið var?
— Já, þess var þörf vegna barnanna.
— Þú manst þá tíð þegar askar voru matarílát fólksins?
— Já, heima hjá pabba og mömmu var ætíð borðað úr öskum og með hornspónum, og á þá voru grafin fangamörk eigendanna. Ljósabúnaður á heimilinu voru fýsislampar — kveikurinn í þá var snúinn úr ljósagarni. — Og fræðin mín — Helgakverið — lærði ég við lýsislampa. — Eldiviðurinn sem brennt var. Í eldhusinu var mosi og þang. — Ég man mjög vel eftir því aö ég var þar að lesa kverið mitt og þá féll sótkökkur úr mæninum niður á bókina.
— Fékkst þú tilsögn í skrift á þínum uppvaxtarárum?
— Já, ég var látin í skóla, sem þá starfaði í Garðhúsum og vorum við tvær systur þar sína vikuna hvor. Og hérna getur þú séð skriftina mína, — og nú réttir hún mér bók, sem er þannig frágengin að margur 70 árum yngri gæti verið hreykinn af. — Og þessi bók hefur að geyma mikinn og merkilegan fróðleik, í hana er skrifuð dagleg veðurlýsing síðustu 30 ára.
— Og það virðist svo sem höndin sé því nær jafnstyrk á síðustu og fyrstu síðum bókarinnar.
— Finnst þér minni þitt nokkuð farið að förlast?
— Nei, ekki held ég það, ennþá man ég flesta atburði sem nokkurs er um vert í lífshlaupi mínu — og ég get fylgzt með því sem fram fer í kringum mig og haft full not af blöðum og útvarpi.
Ísólfsskáli
Og nú er hér kominn bóndi Agnesar, Guðmundur Guðmundsson, en foreldrar hans, Guðmundur Hannesson og Guðrún Jóelsdóttir, bjuggu hér í Ísólfsskála í 20 ár — en þegar þau féllu frá flutti hann út í Grindavík, og byrjaði að stunda þaðan sjó 14 ára gamall.
— Var nú ekki stremið að setjast undir svo stórar árar á þeim aldri?
— Jú, náttúrlega var það erfitt, og svo að setja skip og bera upp fiskinn. En skipin varð öll að setja af handafli, spil voru ekki komin fyrr en á síðustu sjófaraárum mínum, en þau yoru nú fremur ófullkomin í fyrstu.
— Og hvað segir þú svo um fimmtíu ára samstarf ykkar hjóna hér á Ísólfsskála?
— Mér finnst það hafa verið gott og lífið hér ánægjulegt og boðið okkur marga góða kosti, þótt örðugt væri í fyrstu.
— Hefur þú aldrei róið héðan að heiman?
— Það er tæpast teljandi. Fyrstu árin reri ég frá Hrauni — lá þar við, en hún var ein heima með börnin og satt að segja var ég þá aldrei í rónni þegar vond voru veður. — En vorum að reyna að rétta okkur við þetta hlutskipti meðan við vorum að reyna að rétta okkur úr kútnum og börnin að komast á legg. — Öll innkaup varð að spara til að geta staðið í skilum og borgað allt upp einu sinni á ári.  Þá hlaut maður líka nokkra tiltrú í viðskiptum.
— Eru engin selalátur eða lagnir hér í nágrenninu?

Nótarhóll

Nótarhóll.

— Jú, líklega hefur það nú verið, því hér framan við tána hérna er hóll, sem hét Nótarhóll.
Svo hér fyrri — 1703 — var stunduð selveiði í látrum hér austur á Selatöngum — en þann veiðirétt áttu Krýsuvíkingar að nokkru.
— Þú manst eftir byggð í Krýsuvík?
— Já, en hún var þó farin að dragast saman bá. Faðir minn bjó þar nokkur ár á Vígdísarvöllum.
— Hefur þú aldrei lent í neinum verulegum erfiðleikum á sjó, Guðmundur?
— Nei, ég hef nú verið formaður hér og svo líka róið austur á fjörðum, bæði Borgarfirði, Seyðisfirði og Fáskrúðsfirði og reri út í Seley, en aldrei lent í neinu sem í frásögur er færandi og á sér ekki ótal hliðstæður í lífi íslenzkra sjómanna.
— En þú hefur oft aflað vel?
— Já, svona eftir hætti en mig skorti efni til að hafa nægilega góðan útbúnað hvað veiðarfæri snerti. Ég þurfti að fá allt að láni hjá kaupmanninum — Einari í Garðhúsum. Hann var svo sem ágætur ef maður stóð í skilum og eins og ég sagði áðan, þannig hafðist þetta. —

Ísólfsskáli

En svo þurfti að byggja hér upp, þá fór ég til Tryggva Þórhallssonar og hann aðstoðaði mig við að fá til þeirra framkvæmda 6000 króna lán úr byggingar- og landnámssjóði.
— Voru það ekki talsverðir peningar þá?
— Jú, en það var nú sama. Það var nú ekki nóg.
— Lengst af ykkar búskap hér á Ísólfsskála, að frá teknum fyrstu árunum, hafið þið haft ykkar aðalframfæri af landbúnaði?
— Já, það hefur verið svo, en við höfum aldrei haft stórt bú, til þess eru engin skilyrði, útengi er ekkert, og heysskapur ekki annar en sá sem tekinn verður á ræktuðu landi. Hér er engin fjörubeit á veturna, en dálítið kropp hér upp í hrauninu, þannig að í sæmilegum vetrum gengu sauðir mikið úti, meöan ég hafði þá.
— Þú hefur haft sauði?
— Já, ég held þeir hafi komizt upp í 40. Hvað sumarhaga snertir er hér mikið landrými.
— Hér kemur ekki hafís?
— Aldrei hefur það komið fyrir svo langt sem við munum, en af því höfum við haft sagnir frá eldri tímum.
— Hvað gerði fólkið sér til skemmtunar á ykkar æskuárum?
— Það þætti nú held ég fábreytt núna. Gíslakeðja — Höfrungaleikur og feluleikur. — Fullorðna fólkið lagði sig í rökkrinu og þá fengu unglingarnir að leika sér með því móti að hafa ekki hátt.
— Þú segist ekki hafa gert út héðan?
— Nei, en faðir minn gerði héðan út tvo báta einu sinni og það var vegna þess að hann fékk ekki uppsátur úti í Nesi [Þórkötlustaðanesi].
Þetta gekk nú ágætlega, það var í tvö skipti sem þeir hleyptu út í Nes. Annað skiptið fyrir brim — en annað skipti vegna þess að hann var svo hvass á norðan og þá börðu þeir upp í nesið.
— Hvernig lending er hér?
— Hún getur nú ekki talizt góð. Með landinu er alltaf geysilegur austanstraumur. Og þegar komiö var úr róðri var aflinn allur settur á seilar utan við lendinguna, færi bundið við og dufl sett á, en færið var í hnykli í skipinu og rakti sig þegar tekinn var landróðurinn, um leið og lagið kom. Þegar skipið kenndi grunns, stukku allir út og brýndu því undan sjó.
Þurfti hér oft mikið snarræði og örugg handtök. Síðan voru seilarnar dregnar í land og bornar á bakinu hér upp á kambinn, þar sem aflanum var skipt. — Það var stórt atriði að formaðurinn væri öruggur að taka lagið, og eins var það þegar farið var frá landi, þá var skipinu ýtt niður — hver maður stóð við sitt ræði og þegar formaðurinn kallaði — lagið — stukku allir upp í og gripu til ára og fyrir kom að fram á mennirnir komust ekki upp í og voru innbyrtir þegar fram á lónið kom. — Hér út á Selatöngum var þetta svona líka.
Ísólfsskáli
— Var þaðan útræði?
— Já, ég hef heyrt að fyrir Bátsendaflóðið hafi gengið þaðan 14 skip og ennþá sjást glögg merki verbúðanna.
— Já, það er margs að minnast frá fyrri árum, t.d. á haustin, þá var „þangað” í fjörunni og reitt upp á fleiri hesta.
— Þangað? — Hvað kallarðu að þanga?
— Nú, þangið í fjörunni var tekið og reitt upp og svo þurrkað til eldiviðar. — Svo var reittur mosi. — Þetta var aðaleldsneytið, og svo dálítið af taði. Þetta var svo allt borið heim til bæjar á bakinu og þar var eina eldstóin hlóðir. T.d. þegar konan fór í mosatekju, þá bar hún hann heim í „fætli” og prjónaði á leiðinni. — Svona var nú vinnumennskan þá.
— Er ekki hægt að fara með sjó úti í Grindavík?
— Nei. Það er ógengt, verður að fara hér efra — eins er það inn til Krýsuvíkur.
— Hvernig voru skiptin á þessum áraskipum hér?
— Væru 11 á þá var skipt í 14 staði. — Þrír hlutir dauðir, — einn fyrir skipið og tveir fyrir veiöarfærin — formannshlutur þekktist ekki, enginn aukapartur fyrir það. — En nú skal ég segja þér nokkuð: — Einu sinni rauk hann upp í suðvestan veður aö næturlagi, þeir fara allir ofan og þá er báturinn farinn en skipið komið á hliðina — Þeim tókst að bjarga því við illan leik. — En hvar heldurðu að bátinn hafi rekið? — Hann rak vestur á Hraunssand á móti þessu stórviðri — Svona sterkur er straumurinn. —
— Hve langa línu höfðuð þið?
— Það var nú dálítið misjafnt — stundum á vorin lögðu þeir 300 króka hérna í leirinn og fylltu bátana. Og eftir því man ég, að pabbi reri stundum á vorin með 60 króka skötulóð hérna austur á Mölvíkina — og það var oft skata á hverju einasta járni — kannski ber svona einn öngull. — Allt saman stór skata. — Það er góður matur vel verkuð skata. — Þá var svo mikið lifað á harðæti og bræðingi. Þetta kom mergnum í mann — sérstaklega bræðingurinn — en hann var búinn til úr bræddri tólg og sjálfrunnu þorskalýsi. — Hver útvegsbóndi varð að leggja háseta til eitt fat undir lifur og ég held einnig fjórðung af rúgi og fjórðung af fiski. — Svo fékk hver maður 50 pund af mjöli, sem átti að duga í kökumat yfir veturinn, og einn sauð, sem átti að duga í kæfu, hvort sem menn vildu heldur stykkjakæfu eða soðkæfu — svo tvo fjórðunga af tólg og einn af smjöri — eða þrjá af smjöri. — Þetta var matan. Soðninguna tóku menn af afla. Það voru tveir í hverju rúmi, þeir höfðu kastið saman og tóku af því. — Fiskurinn var svo verkaður sem harðfiskur eða skreið á þeirra tíma vísu, en með nokkuð ólíkum hætti og nú er gert. Salt var þá ekki fáanlegt.
Ísólfsskáli
– Ég tók eftir mjög vel hlöðnum grjótgörðum víða hér umhverfis túnið og niður við sjóinn. Eru þeir þín verk?
— Já, flestir eru þeir hlaðnir eftir mig.
— Er ekki trjáreki hér?
— Jú, dálítill. T. d. get ég sagt þér að báturinn sem brotnaði hérna vestur á Hraunssandinum var smíðaður úr einu rekatré.

Já, það er margt sem rifjast upp þegar litið er til baka um langan veg — og víst væri fróðlegt að heyra meira úr lífssögu þeirra Ísólfsskálahjóna — sem svo margt er frábrugðin þeirri sögu sem skráð yrði um hagi þeirra, sem nú eru ungir eða innan við miðjan aldur. —
Ungir? — Það er nú spurningin. — Er það gamalt fólk, sem hér hefur talað? — ánægt með sitt hlutskipti — laust við andlega lífsþreytu, að vísu með rúnir áranna ristar í skurnið.
— Hver er ungur?
„Oft hefur sjötugur fyrir
tvítugs manns tær stigið”.

Í Náttúrufræðingnum 1947 er vitnað í Lýsingu Grindavíkursóknar 1840-41 eftir sr. Geirs Backmanns um Ísólfsskála:

“Ísólfsskáli er þar austast við sjó. Getur Jarðabók þess (ár 1703), að vatnsból, sem þá er grafinn brunnur, sé háskalegt bæði mönnum og skepnum, enda sjórinn þá kominn svo nærri, að hætta sé á, að brunninn fylli af möl og grjóti, og þá jafnvel hætta á, að jörðin leggist í eyði af vatnsleysi. Svo illa hefur þó ekki farið. En að sjórinn hefur gengið upp í brunninn og fyllt hann, má sjá á því, að séra Geir Bachmann getur þess árið 1841, að mikill vatnsskortur sé á Ísólfsskála og ekki annars kostur þar en fjöruvatna og sé það vatn haft bæði til neyzlu heimilisfólks og búpenings. En fjöruvötn eru nefndar þær uppsprettur, einatt aðeins seytlur, sem koma upp fyrir neðan flóðmál og ekki er hægt að ná til nema um fjöru. Líka getur séra Geir þess, að sjór brjóti land á Ísólfsskála og sandur frá sjónum sé farinn að berast upp í selalátur jarðarinnar undir Festarfjalli og spilla þeim.
Frá Ísólfsskála eru 4—5 rastir til hinnar eiginlegu Grindavíkurbyggðar, því að björg eru með sjónum, svo að ekki verður farin stytzta leið, heldur verður að fara kringum Festarfjall.”

Heimildir:
-Vísir, blað II 12.06.1967, Fimm tugir ára á bröttum kambi við brimlúðar flúðir, Viðtal dagsins er við hjónin á Ísólfsskála, Agnesi Jónsdóttur og Guðmund Guðmundsson, bls. 16-17.
-Náttúrufræðingurinn, 1. tbl. 01.04.1947, landnám Ingólfs – Grindavík, bls. 42.
-Geir Bachmann: Lýsing Grindavíkursóknar 1840—41.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Ísólfsskáli

 

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1990 fjallar Ólafur E. Einarsson um Ísólfsskála:

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli 1990.

“Næsti bær við Krýsuvíkurlönd að vestanverðu er ísólfsskáli. Bærinn stendur undir lágu hamrabelti í góðu skjóli fyrir norðanáttinni. Í jarðamatsbók er jörðin talin vera 16 hundruð að dýrleika. Veglengd frá Þórkötlustöðum til ísólfsskála er um það bil 25 km og liggur upp svokallaða Hálsa, kringum Festarfjall og niður að sjó á hægri hönd. Hlunnindi jarðarinnar eru talin vera trjáreki og selalátur undir Festarfjalli. En eins og öllum mun nú ljóst vega slík hlunnindi ekki þungt nú þótt góð þættu fyrr á öldum. Landrými er mikið á Ísólfsskála en ákaflega hrjóstrugt og illt yfirferðar, hraun og sandur. Það má raunar teljast furðulegt að hægt skuli vera að búa þar góðu búi á landbúnaði eingöngu og einhvern veginn fínnst manni margir staðir ákjósanlegri til landbúnaðar. Þarf ekki að líta nema fáeina kílómetra í austurátt til að sannfærast um það.
ÍsólfsskáliÍ mínu ungdæmi bjuggu á Ísólfsskála hjónin Agnes og Guðmundur Guðmundsson, mikil ágætishjón. Í þá daga var það talin holl og góð skemmtun að fara um helgar þegar vel viðraði í útreiðartúra frá Grindavík til Krýsuvíkur. Var þá stundum komið við í heimleið á Ísólfsskála, þar sem vel var tekið á móti gestum. Á þeim árum stundaði Ísólfsskálabóndinn venjulega sjóróðra á vetrarvertíðum frá Þórkötlustöðum í Grindavík, og þá að venju hjá bróður sínum, Hjálmari á Þórkötlustöðum, miklum og aflasælum dugnaðarformanni. Það var að vísu ekkert óvanalegt í þá daga að bændur stunduðu sjóróðra á vetrarvertíðum til að afla búum sínum fiskmetis, sem allsstaðar var talið sjálfsagt og nauðsynlegt. En það er hollt fyrir nútímamenn að gera sér grein fyrir því hvað forfeður okkar þurftu oft mikið á sig að leggja. Guðmundur þurfti mjög oft að ganga frá Ísólfsskála til skips, vegalengd sem er um 25 kílómetrar, eins og áður er getið. Hvernig skyldi ungum mönnum lítast á að gera slíkt í dag.
Þau Ísólfsskálahjón, Agnes og Guðmundur, bjuggu góðu búi, þótt aðstæður væru oft þröngar frá náttúrunnar hendi. Fjölskyldan var stór, enda börnin mörg. Ég þekkti flest þeirra vel. Sum voru um tíma á heimili foreldra minna og önnur unnu undir minni stjórn í fyrirtæki föður míns. Öll voru þau öndvegismanneskjur, dugandi, heilbrigð og ráðvönd.
Ísólfsskáli
Ísólfur sonur þeirra ágætu hjóna er nú eigandi jarðarinnar ásamt konu sinni Herte, sem er af þýskum ættum. Þau búa þar myndarbúi.
Það er með ólíkindum, hversu búskapur á Ísólfsskála hefur dafnað vel á liðnum árum og lýsir það best dugnaði þeirra hjóna Hertu og Ísólfs. Bæði hafa þau starfað við búskapinn svo að segja myrkranna á milli.
Þess má geta, að Ísólfur er afbragðs grenjaskytta.
Það er athyglisvert hversu búskapurinn hefur blessast vel hjá þessu dugnaðarfólki, þrátt fyrir erfiðar aðstæður frá náttúrunnar hendi.” – Ólafur E. Einarsson

Í Víkurfréttum 1993 segir:  “Fjárbúskapur að Ísólfsskála til rannsóknar – Áttu bara hey til hálfs mánaðar“:

Ísólfsskáli
“Ákvörðun hvað verður um sauðfjárbúið að Ísólfsskála verður tekin á morgun, 12. mars. Lögregla og forðagæslumaður Grindavíkur könnuðu aðstæður að Ísólfsskála í síðustu viku í framhaldi af bréfi Dýraverndunarfélags Íslands til sýslumannsins í Gullbringusýslu. Þar var krafist að búreksturinn að Ísólfsskála yrði kannaður.
Sigurður Ágústsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á lögreglustöðinni í Grindavík sagði í samtali við Víkurfréttir að forðagæslumaður teldi ekkert vera að búfénaði að Ísólfsskála. Áður hefur komið fram hér í blaðinu getsakir um að ástand fjársins væri ekki gott, en það virðist ekki hafa verið á rökum reist samkvæmt þessu. Hins vegar þarf að laga göt á fjárhúsi og einnig þyrfti að útvega fóður fyrir búfénaðinn, þar sem heybirgðir voru eingöngu til hálfs mánaðar þegar könnun fór fram í síðustu viku.

Ísólfsskáli

Auglýsing í Morgunblaðinu 1996.

Á morgun verður það lögreglustjóra að taka ákvörðun um framhald búfjárhalds að Ísólfsskála ef ekki hefur orðið breyting til batnaðar sem aðilar geta sætt sig við. Þess má geta að Ísólfsskáli er eina búið á Suðurnesjum, þar sem ábúandinn hefur einu framfærslu sína af fjárbúskap. Þess má einnig geta að bóndinn, sem hefur legið á sjúkrahúsi, hefur gert ráðstafanir til úrbóta.”

Auglýsing í Morgunblaðinu 01.03.1996 segir að jörðin Ísólfsskáli sé til sölu.

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 13. tbl. 31.03.1990, Á Ísólfsskála – Ólafur E. Einarsson, bls. 6.
-Víkurfréttir. 10. tbl. 11.03.1993, Fjárbúskapur að Ísólfsskála til rannsóknar – Áttu bara hey til hálfs mánaðar, bls. 9.
-Ísólfsskáli til sölu – Morgunblaðið 01.03.1996, bls. 21 D.

Isólfsskáli

Ísólfsskáli 1920.

Reykjanesskagi

Ólafur við Faxafen, eins og höfundur nefnir sig, skrifaði um “Hæð sjávarborðs við strendur Íslands” í tvö tbl. Náttúrufræðingsins árið 1947:

Sjávarhæð

Sjávarhæð – mismundur.

“Landið stendur ekki kyrrt, það hækkar og lækkar undir fótum vorum. Það gerir það nú, það gerði það fyrir hundrað árum, fyrir tvö hundruð árum, og hefur sennilega gert það frá landnámstíð, ef það hefur þá ekki alltaf annað slagið dúað og vaggað, síðan þurrt land varð á þessum hluta jarðaryfirborðsins, sem nefndur er Ísland. Það er tvisvar stórstreymt og tvisvar smástreymt á hverjum tunglmánuði, alls staðar þar sem sjávarfalla gætir á jörðinni. Og hér við land, (en þó ekki hvarvetna á Iinettinum, þar sem munur er flóðs og fjöru) stígur sjórinn tvisvar og fellur á sólarhring. En þó að stórstraumsflóð séu misjafnlega mikil, aðallega af mismunandi ólgu sjávarins og áhlaðningi við land, breytist meðalhæð stórstraumsflóða ekki, miðað við ströndina, nema annað komi til. En af því að Ísland ýmist hækkar eða sígur, þó að hægt fari, þá hlýtur efsta fjöruborð að breytast í samræmi við það. En fjöruborðið hér við land er að breytast á ýmsa vegu. Því svo fjarri er það, að Foldin hreyfist alls staðar jafnt, að hún er sumsstaðar að síga, en rís á öðrum stöðum.
En hér verður rætt eingöngu um þær breytingar, er stafa af hreyfingu lands, og aðallega þær breytingar, sem eru að verða nú á vorum dögum. Nokkuð verður þó að seilast aftur á bak, jafnvel til landnámstíðar. En um sjávarborð, sem eru eldri en byggð landsins, verður ritað síðar og sér.
Þó að allnákvæmlega sé hér sums staðar frá sagt, er langt frá, að hér séu öll kurl látin til grafar koma — ekki einu sinni sviðið í hverri gröf.

Landnám Ingólfs

Þorlákshöfn

Gægst um í Þorlákshöfn.

Verður nú byrjað á landnámi Ingólfs austanverðu og haldið vestur með landi. Náði landnám hans í fyrstu að Ölfusá, er feður vorir nefndu Hvítá. Fellur áin nú til sjávar úr austurkrika lóns þess, er hún myndar við sjóinn. En ósinn var á landnámstíð nálægt miðri sandeyrinni, sem er framan við lónið og mun hafa verið nefndur Álfsós.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns — hér eftir til hægðarauka nefnd bara Jarðabók — getur ýmissa jarða í Ölfusi, er spillzt hafa af sjávarflóðum. En þeim verður sleppt hér, því betur á við að geta þeirra, þegar kemur að flata landinu, austan Ölfusár. (Jarðabók Árna Magnússonar og PAls Vídalíns, er þeir tóku saman á árunum 1702 til 1712, en ekki var prentuð fyrr en liðlega tveim öldum síðar. Hafa 1.—9. bindi verið prentuð í Kaupmannahöfn á árunum 1913 til 1943 og eru ekki enn komin öll).
Eini bærinn í Ölfusi, er stendur við sjálfan útsæinn er Þorlákshöfn, en hún er 6—8 rastir frá þeim bæjum, sem næstir eru. Jarðabók getur þess (ár 1706), að sjávarbrot grandi þar túni. Síðan fara litlar sögur af þess konar skemmdum þar, en landið þar virðist þó hafa verið að síga, því í stórflóðum flæðir inn yfir allan kamp. Varð mest þess konar flóð þar fyrir um 20 árum (að líkindum 1925).
Á þessum slóðum gerist ströndin klettótt, en endar sendna ströndin, er nær, svo að segja óslitin, meðfram landinu að sunnanverðu, austur undir Berufjörð.

Selvogur

Selvogur

Selvogur.

Engin byggð er í vestur frá Þorlákshöfn, fyrr en komið er í Selvog, og eru þarna um 15 rastir milli bæja. Selvogurinn er sérstakur hreppur, og eru þar aðallega tvær byggðir, auk nokkra einstakra bæja.
Jarðabók (ár 1706) getur, að sjór grandi að framan túnunum á Nesi og Bjarnastöðum, og er líkt sagt um túnin í Götu og Þorkelsgerði. Um Bæjarbúð er sagt, að lendingin sé orðin ónýt, um Eimu, að sjór brjóti framan af túni, og um Vindás, að sjórinn sé búinn að brjóta svo af túninu, að bænum sé varla óhætt lengur. Voru bæði Eima og Vindás komin í eyði fyrir 1750. Um Snjóthús er sagt í Jarðabók, að sandur og sjávargangur spilli þar túninu ár frá ári, og um Sauðagerði, að sjávargangur skemmi árlega meir og meir túnið og sé nú svo komið, að hvorki sé óhætt húsum né mönnum og hafi fólkið oft þurft að flýja úr bænum í stórbrimum. Snjóthús og Sauðagerði voru bæði komin í eyði, þegar séra Jón Vestmann ritaði sóknarlýsingu Selvogs 1840 (en ekki er fullkunnugt, að það hafi allt verið Ægi að kenna, því að sandfok af landi hefur líka verið mikið í Selvogi).
Vestasti bærinn í Selvogshreppi er Herdísarvík. Um hana segir Jarðabók, að tjörn, sem sé hjá bænum, grandi túninu, því að hún fyllist af sjávargangi, svo að bænum sé ekki óhætt fyrir flóði tjarnarinnar. Síðan hafa þar oft komið stór flóð, eitt þeirra skömmu eftir aldamótin og annað á fyrri stríðsárunum eða rétt á eftir. Tók þetta síðarnefnda flóð af bæinn, sem sennilega hefur staðið þarna frá landnámstíð. Að minnsta kosti er ólíklegt, að hann hafi verið fluttur nær sjó þaðan, sem hann fyrst var byggður. En vafalaust hafa mörg stærri flóð komið en þetta og hefðu tekið bæinn fyrr, hefði landið ekki staðið hærra þá.
Selvogur er enn að lækka. Má sjá það á því, að sker koma minna upp úr en áður, og á því, að kampar færast upp á við. Hefur sjór verið að brjóta f járborgir, sem byggðar hafa verið nokkuð fyrir ofan sjávarmál (til skjóls fyrir sauðfé, sem beitt er á fjöruna) í mikla flóðinu, sem kom fyrir liðlega tuttugu árum, braut sjórinn aðra af tveim fjárborgum í Nesi. Sjórinn er nú að brjóta þar fjárborg, og er sagt, að það sé sú, sem eftir stóð árið 1925.

Grindavík

Grindavík

Grindavík.

Frá Herdísarvík er engin byggð við sjó, fyrr en komið er að austasta bænum í Grindavíkurhreppi, og er sú vegalengd um 25 rastir, og er á þessari leið hið nafnkunna Krýsuvíkurberg.
Ísólfsskáli er þar austast við sjó. Getur Jarðabók þess (ár 1703), að vatnsból, sem þá er grafinn brunnur, sé háskalegt bæði mönnum og skepnum, enda sjórinn þá kominn svo nærri, að hætta sé á, að brunninn fylli af möl og grjóti, og þá jafnvel hætta á, að jörðin leggist í eyði af vatnsleysi. Svo illa hefur þó ekki farið. En að sjórinn hefur gengið upp í brunninn og fyllt liann, má sjá á því, að séra Geir Bachmann getur þess árið 1841, að mikill vatnsskortur sé á ísólfsskála og ekki annars kostur þar en fjöruvatna og sé það vatn haft bæði til neyzlu heimilisfólks og búpenings. En fjöruvötn eru nefndar þær uppsprettur, einatt aðeins seytlur, sem koma upp fyrir neðan flóðmál og ekki er hægt að ná til nema um fjöru. (Geir Bachmann: Lýsing Grindavíkursóknar 1840—41.) Líka getur séra Geir þess, að sjór brjóti land á ísólfsskála og sandur frá sjónum sé farinn að berast upp í selalátur jarðarinnar undir Festarfjalli og spilla þeim.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Frá Ísólfsskála eru 4—5 rastir til hinnar eiginlegu Grindavíkurbyggðar, því að björg eru með sjónum, svo að ekki verður farin stytzta leið, heldur verður að fara kringum Festarfjall.
Jarðabók (1703) getur þess, að sjór brjóti af túninu á Hópi, svo og land Þorkötlustaða, einkum hjáleigunnar Bugðungu, og sé hætt við enn meira landbroti. Fór það og svo, því að eitthvað liðlega 100 árum síðar, þurfti að flytja tvær hjáleigur Þorkötlustaða, sem voru í landsuður að sjá frá bænum, hærra upp á túnið, því að svo nærri þeim var sjórinn þá farinn að ganga. Var önnur þessara hjáleigna Bugðunga (Bullunga), en hin var Klöpp.
Selalátur hafði verið syðst í Þorkötlustaðanesi, en séra Geir segir (1841), að selurinn hafi „vegna brims og uppbrots á landið yfirgefið látrin”. Vera má, að fleira kunni að liafa komið til en landbrotið, að selurinn fór, en það skiptir engu máli. Aðalatriðið er, að séra Geir er kunnugt um, að þarna hefur brotið svo mikið land, að hann álítur það næga skýringu.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir.

En um 40 árum áður en séra Geir ritaði lýsingu Grindavíkur, hafði sjórinn gert mikinn usla á prestsetrinu Stað: skemmt þar tún, brotið mikið land og tekið alveg af tvær hjáleigur, er liétu Sjávarhús og Litlagerði. Sópaði þá burt öllum jarðvegi, þar sem Sjávarhús höfðu staðið, svo að þar var ekki annað eftir en ber klettur. „Fellur nú sjór á milli klettsins og naustanna í hverju stórstraumsflóði,” segir séra Geir og ennfremur, að þar, sem Litlagerðishúsin stóðu, sé nú hár og stórgrýttur malarkambur. Hann lýsir túnunum á prestssetrinu þannig, að þau séu „mikið slétt, og í gróandanum yfrið fögur,” en þau skemmist nokkuð af sandfoki, og það sem verra sé, að þeim er „af sjávar ágangi líka mikill skaði búinn, af sunnanveðrum og brimi”. Um jörðina Húsatóttir er sagt í bréfi dags. 19. maí 1703, að hún sé skaðvænlegum grjóts- og sjávargangi undirlögð. En séra Geir segir um hana meðal annars: „Milli túnsins og sjávarins er landið mjög lágt, og í sjávargangi gengur löðrið svo að segja alveg upp undir klettana, (sem túnið er á). Hefur jörð þessi mjög liðið við það, því að smágrjót og sandur er nú nægur á láglendi þessu. Muna gamlir menn, að þar hafi verið aligott beitiland, ef ekki líka slægjuland.” Loks getur Jarðbók Járngerðarstaða, að sjór brjóti nokkuð á land þeirra. Hið sama á sér enn stað í tíð séra Geirs, því að hann segir sjó brjóta þar og bætir svo við: „Ekki eru heldur hjáleigurnar á Járngerðarstöðum fríar fyrir sjávargangi, t. d, eru Hrafnshús, sem áður stóðu milli Akurhúsa og Kvíhúsa, í seinni tíð flutt þangað, sem þau nú eru. Kvíhús standa árlega í miklum voða fyrir sjávaráfalli, og það sama má segja um Akurhús, nema herrann vilji enn meiri miskunn gera.” Það er að heyra á séra Geir, að hann hafi ekki búizt við neinu kraftaverki þarna, enda mun ekki hafa af því orðið, því að hjáleigan er liðin undir lok.
Um hina fornu höfn í Grindavík segir í sóknarlýsingu séra Geirs (1840): „Á milli Staðar og Húsatótta, þó nær Stað og rétt í austur þaðan, er höfn sú eður skipalægi, er forðum var siglt upp í Grindavík. Eru tveir festarhringir með boltunum, sá að austan og norðanverðu, enn þá óbrjálaðir í skerjum þeim er Húsatóttum tillieyra.

Staður

Staðarhverfi.

En hinn þriðji boltinn, en úr honum er hringurinn farinn, er á Staðarlóð í skeri austur af Sjávarhúsi. Var kaupskip þannig bundið á þrjá vegu, en atkerum varpað fram af því, og horfði svo á sjó út í landsuður.” Tvö þessara skerja eru nú alvaxin þangi og eru mjög lág að sjá, þó að enn komi þau upp um fjöru. Segir séra Brynjólfur Magnússon í Grindavík (1947), að segja megi um Staðarhverfið (og eiginlega allt byggðarlagið), að sjórinn smámylji niður landið og megi svo að segja árlega sjá mun einhvers staðar, þó að mest beri á þessu í stórflóðum, því að þá beri sjórinn kampinn hærra, og mest í flóðinu mikla, er kom 1925. En í því flóði braut víða stór skörð, er sjá má með allri ströndinni, en kampinn rak flóðið á undan sér nokkuð upp á tún. Nokkur hús lögðust þá í eyði, en sjórinn gekk eftir þetta svo upp í naustin, að nauðsynlegt þótti að steypa varnargarð fyrir framan þau.
Byggð er ekki önnur en sú, er lýst hefur verið, á allri ströndinni frá Þorlákshöfn til Reykjaness , og er vegalengdin um 70 rastir, þó að í lofti sé farið. En við Reykjanes fer landið að ganga sem næst beint til norðurs. Er vesturströnd þessa mikla útskaga 30 rasta löng norður á tá Garðskaga, en syðsti þriðjungur hennar er óbyggður frá fornu fari. Voru þarna enn tíu rastir með sjó óbyggðar frá Stað í Grindavík til Kalmanstjarnar í Höfnum, áður en Reykjanesviti var reistur.

Hafnir

Hafnir

Hafnir.

Fyrir um að bil 100 árum ritar Brandur Guðmundsson, að þurft hafi að fækka kúm í Kirkjuvogi og Kotvogi, af því að tún hafi gengið úr sér, meðal annars vegna sjávar landbrots, og um líkt landbrot talar hann í Junkaragerði. (Brandur Guðmundsson hreppstjóri: Lýsing á Höfnum.) Árnagerði er þá komið í eyði, og segir Brandur, að orsökin hafi verið sandfok frá sjó og landbrot.

Miðneshreppur

Stafnes

Stafnes.

Enn kemur nokkurt óbyggt svæði, þar til komið er að byggðu bóli í Miðneshreppi (eða Rosmhvalahreppi, er svo hér til forna. (Rosmhvalur þ. e. rostungur).
Segir Jarðabók, að sjötíu árum áður en hún er rituð hafi á jörðinni Stafnesi verið land það, er Snoppa (eða Snapa) var kallað, hafi það verið að stóru gagni til slægna og einnig verið notað til skipauppsátra, en nú sé það “af sandi aldeilis yfirfallið og með hverri stórflæði næstum því yfirflotið af sjó.” En um túnin er sagt, að þau spillist ,,æ meir og meir af sandi og sjávargangi.” Um hjáleigurnar þetta: Refakot fór í eyði 1663, og huldi sjórinn síðan allt túnið möl og sandi. Líklegast hefur það verið sama árið, sem Litla-Hólmahús fór í eyði, af því að sjór tók af graslendi það, er því fylgdi. Af sjó og sandi lagðist Halldórshús í eyði 1697 og sama ár Grímuhús vegna skemmda af sjávargangi. En fimm árum síðar var bæjarstæðið, þar sem Grímuhús hafði verið, brotið alveg af. Árið 1701 reisti maður, sem mun hafa heitið Steinn, sér nýbýli, er nefnt var Steinskot, í Stafneslandi. En tveim árum síðar braut sjórinn meiri hlutann af túninu þar. En eitthvað um 140 árum eftir að Jarðabók er rituð, segir sr. Sigurður B. Sívertsen um Stafnes, að það hafi áður verið 143 hundraða jörð,en hafi nú verið sett niður í 30 hundruð. (Sigurður B. Sivertsen: Lýsing Útskálaprestakalls 1839. Prentuð í Sýslulýsingum og Sóknalýsingum, Reykjavík 1937-39.)
Bætir svo við „má þar af sjá, hvað stórlega sú jörð hefur af sér gengið og gengur enn í stórflóðum af sandi og sjávarágangi.”
Um jarðirnar Lönd og Busthús er þess getið, rétt eftir 1700, að túnin skemmist af sjávargangi, og aftur 1839, um hina fyrrnefndu, að hún verði „fyrir sjávarbroti.”

Básendar

Básendar

Básendar.

Verzlunarstaðurinn Básendar var í fyrstu nýbýli úr Stafneslandi. En höfnin þar er vík, sem skerst um 600 stikur inn í landið til norðausturs. Er hún um 300 stikur á breidd fremst, en mjókkar, og er innri hluti hennar um 130—150 stikna breiður. Skerjaröð, sem er um 500 stikur, er fyrir framan víkina og nokkuð suður með landi, svo að leið inn á höfnina er krókótt. Verður fyrst að nálgast land um 500 stikum sunnar en víkin er opin, en síðán, þegar komið er austur fyrir skerin, halda til norð-norðvesturs, þó að víkin liggi til norðausturs, eins og fyrr var frá greint. Tvö skip gátu legið þarna í einu, ef þau voru vágbundin, en til þess voru hringir festir þarna í klettana. Lá þá það skipið, er utar var (á Ytri-Leið), á 9 stikna dýpi, við tvær taugar fram af, og lá önnur í austurlandið, en hin í sker þar beint vestur af. En aftur af skipinu var taug til noðurlandsins. En það skipið, er á Innri-Leið lá, var á 5 stikna dýpi og lá við fjórar taugar, tvær fram af, en tvær aftur af. Lágu stjórnborðstaugarnar til norðurlandsins, en á hitt borðið lágu þær til suðurstrandarinnar.
Segir Skúli Magnússon (árið 1784), að þegar mjög sé stórstreymt, hafi það borið við, að sjór hafi flætt inn í verzlunarhúsin á Básendum, en það hafi þó ekki valdið verulegu tjóni. En fimmtán árum síðar, nóttina milli 8. og 9. janúar 1799, verður mikla flóðið, sem nefnt hefur verið Básendaflóð og víða gerði mikinn skaða, bæði sunnan og vestan lands, en mestan þó á Básendum. Fórst þar ein gömul kona, sem ekki trúði fyrr en um seinan, að hætta væri á ferðum. En verzlunarhúsin tók alveg af. Voru þau þrjú talsins og stóðu 50—120 stikur frá fjöruborðinu inni undir botni vogsins norðanvert við hann. Engin byggð hefur verið í Básendum síðan.

Másbúðir

Másbúðir

Másbúðir.

Um jörðina Másbúðir fyrir norðan Hvalnes segir Jarðabók: „Túnið fordjarfast stórkostlega af sands- og sjávargangi, og hefur sjórinn síðustu sjötíu árin (þ. e. frá því um 1630 til 1700) brotið sig gegnum túnið á tvo vegu, þar sem áður var svarðfast land, svo nú stendur bærinn á umflotinni eyju, og fer þetta landbrot árlega í vöxt, svo þar er ekki fært yfir í stórstraumsflæði nema um brú, sem sjórinn brýtur um vetur.” Másbúðir entust þó lengur en á horfðist, því að það var ekki fyrr en um 56 árum eftir að Tarðabók er tekin saman, að bæinn tók af, að því er séra Sigurður B. Sivertsen segir, er getur um viðburðinn 80 árum síðar. Land Másbúða heyrir nú undir Nes (eða Nesjar), er áður var hjáleiga, og myndi Másbúða-nafnið gleymt, ef ekki væri þarna sund og lítill hólmi, er enn heita Másbúðasund og Másbúðahólmi.
Um Býjasker segir Jarðabók (1703), að tún gangi af sér af sandi og sjávargangi og hafi bóndinn þar orðið að leggja tún tveggja hjáleignanna undir sig (en þær mun u þá liafa verið sjö). Hjáleigan Glæsir var þá búin að vera í eyði frá því um 1620, og var ekki talið hægt að byggja hana upp aftur, því að sjórinn hafði brotið af túnstæðið og borið upp stóra sandhauga. Líka er getið þar um Flankastaði og Sandgerði, að tún spillist af sandi og sjó, en það er tekið fram um Sandgerði, að það sé ekki til stórmeina enn. En í Sandgerði og hjáleigum þess áttu þetta ár (1703) 26 manns heima samtals. En 1839 segir séra Sig. B. Siv. um Sandgerði: „Sjór brýtur þar og á Flankastöðum í stórflæðum og gerir skaða á túnum og görðum.”
Um jörðina Fitjar er sagt 1703, að tún spillist af sjávargangi. Á þessum slóðum er nú ekkert, er sjá megi á, af hverju jörðin hefur nafn dregið, og munu sjávarfitjar þær, er hún heitir eftir, fyrir löngu vera komnar undir sjó. Um Lambastaði er sagt, að sjórinn hafi gert þar svo rækilegan usla, að þurft hafi að flytja bæinn, sé sjór enn að færast nær og hafi brotið á ný svo mikið og sé kominn svo nálægt bænum, að varla megi kalla, að skepnum og heyjum sé óhætt. En 1839 segir séra Sig B. Siv. um Lambastaði, að tvær af þrem hjáleigum þeirra séu komnar í eyði, brotnar af sjó og það svo gersamlega, að ekki sjáist nein. merki eftir þar, sem þær voru, og gangi jörðin mikið af sér af „sjávargangi og sjávar landbroti”. Hann segir, að Lambastaðir hafi sérstaka vör og sé þar útræði mikið, oft mörg aðkomuskip og bátar af suðurnesinu, „þegar þar ekki gefur og fiskur ei fyrir”. En þetta hefur breytzt mikið á þeim 100 árum, sem liðin eru frá því, er séra Sigurður ritaði þetta, því að búið er að flytja bæinn ofar, vörin brotin alveg af upp í túngarð og útræði þarna ekkert.
Milli Fitja og Lambastaða er Kirkjuból. Um það segir séra Sigurður, að það hafi verið 67 hundraða jörð, en sé nú að mestu komið í eyði og hafi bærinn verið fluttur fyrir tveim árum heim á eina hjáleiguna (að nokkru leyti af skemmdum, sem ekki stöfuðu frá sjó).
Frá því sagt var hér á undan frá Stafnesi, syðsta bænum í Miðneshreppi, hefur byggð verið nær óslitin norður með sjó, og er nú komið fyrir nokkru inn í Gerðahrepp (en hér eru engin eðlileg takmörk milli hreppa) og norður á tá Garðsskagans. Gengur land nú til suðausturs.

Gerðahreppur

Gerðahreppur

Gerðahreppur.

Um Útskála segir Jarðabók: „Túnin spillast af sjávargangi, sem brýtur garðana, og af sandi, sem sjór og vindur ber á.” Um 80 árum seinna ritar Skúli fógeti, að sjávargangur brjóti þar af túnum. Og enn, 60 árum eftir það, ritar séra Sigurður B. Sivertsen: Undir Útskála heyra 7 hjáleigur, en áður voru býlin 12, þar á meðal jörðin Naust, og var þar þríbýli 1759. En sjór braut svo þar á, að Naust voru óbyggileg ár 1762 og eyðilögð með öllu 1782. Þar, sem tún þessarar jarðar var fyrrum, heitir nú Naustarif. Gengur sjór þar alltaf yfir, og er þar ekki nema grjót og möl. En um Útskála sjálfa segir séra Sigurður: “Mælt er, að staðarins tún hafi mikið af sér gengið og tvívegis hafi túngarðurinn verið færður upp á túnin að norðanverðu. Núlifandi elztu menn [þ. e. ár 1839] muna eftir grastóm fremst fram í fjöru, sem sýnir, að fyrrmeir hafi allt það svið verið grasi vaxið og ef til vill tú.n. Hefur sjór þá ekki gengið lengra en að rifi því, sem nú brýtur á, fremst framan við fjörumál (þaragarð).”
Um Gerðar segir Jarðabók, að tún, hús og garðar jarðarinnar skemmist árlega af sjávar- og vatnagangi, því að þar sem menn ættu á þurru landi að ganga, verði stundum skinnklæddir menn að bera kvenfólk til nauðsynlegra heimilisverka innanbæjar og utan, þegar vetrarleysingar og sjávargangur hjálpist að, og sé stórt mein að þurfa jafnoft að byggja garðana upp aftur og bera sand og grjót af túninu.
Um aldamótin síðustu lét Finnbogi Lárusson í Gerðum gera þar fiskreit. (Skúli Magnússon landfógeti: Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu. Rituð á dönsku á árunum 1782—84 til þess að sýna stjórninni fram á, að fátæktin og eymdin sé hvorki landinu eða þjóðinni að kenna, heldur einokuninni. Þýtt og prentað á íslenzku, Reykjavík, 1935—36.) Stendur hann óhaggaður, en það flæðir nú yfir hann um hvert stórstraumsflóð.
Um Gauksstaði segir Jarðabók, að sjórinn spilli túnum, görðum og hjöllum, og um Meiðastaði, að sjór grandi þar túni að neðan og hafi þrisvar á 30 árum orðið að færa naustin lengra upp á túnið. Þá segir og í Jarðabók, að góðir menn segi, að heyrt hafi þeir getið, að í þessari sveit hafi til forna verið tvær jarðir, sem hétu Darrastaðir og Stranglastaðir eða Straglastaðir, viti enginn, hvar þessar jarðir hafi verið, en þeirra sé getið í gömlum rekaskiptamáldaga Rosmhvalaneshrepps [er áður náði yfir núverandi Gerðahrepp] og standi þær þar í þeirri röð jarðanna í Garði, að ætla megi, að það séu hinar sömu, sem nú (1703) séu nefndar Kothús og Ívarshús, en hvorugt þetta nafn sé nefnt í gamla máldaganum.
Um jarðirnar í Leiru segir Jarðabók, að sjór grandi túni á Stóra Hólmi og brjóti svo neðan af túninu á Litla Hólmi, að þar hafi tvisvar á níu árum þurft að færa naustin lengra upp. Um Hrúðurnes er tekið fram, að lendingin sé góð, en sjávargangur „túnum og húsum til stórmeina”. Skúli fógeti getur þess líka (1784), að brotni af túni á Stóra Hólmi, og ennfremur, að jörð þessi verði fyrir ágangi af svörtum sandi, en á jarðirnar vestan við Skagann og alla leið að Útskálum sé ágangur af gráum eða hviileitum sandi, og komi hvor tveggja sandurinn, svarti og grái, úr fjörunni. Séra Sigurður segir um Hrúðurnes (1839), að bærinn hafi áður staðið nær sjó, en verið fluttur lengra upp vegna sjávargangs, hafi sjór þá áður brotið hjáleigu, sem undir jörðina lá.
Kunnugur maður segir svo frá: Þegar Garðskagavitinn var byggður, var langur, grasivaxinn tangi norður af honum. Nú er grasið löngu horfið og flæðir sjór nú þarna yfir í hverju flóði. En vitinn hefur verið færður ofar en hann var áður. Sjórinn gengur á við Síkið, og verður sú tjörn bráðum ekki til. Verður þarna þá aðeins rif, líkt og það, sem er þarna fyrir framan og mun vera leyfar tjarnar, sem þarna hefur verið enn framar.
Þar sem skip eru sett upp á flatar klappir, kemur far eftir í klappirnar. Þess konar för má sjá við Útskála í klöppum, sem eru nú svo neðarlega, að þær koma ekki upp nema um stórstraumsfjöru.

Keflavík og Njarðvíkur

Keflavík

Keflavík.

Þegar Jarðabók er rituð (1703), var Keflavík hjáleiga (ein af mörgum) frá Stóra-Hólmi og kóngseign eins og hann. Var afgjaldið 50 kg af harðfiski, sem skila átti í kaupstað landeiganda að kostnaðarlausu.
Íbúar í Keflavík voru þá samtals 6 (sex). Það fara því litlar sögur af Keflavík á fyrri tímum. En þegar Skúli Magnússon fógeti ritar lýsingu sína á Gullbringu- og Kjósarsýslu 1784, eru þar 4 kaupmannabúðir, 16 timburhús og íbúar 120. Má vera, að eitthvað mætti ráða af uppdráttum frá þeim tímum um breytt sjávarborð. En kunnugt er, að frá því um síðustu aldamót hefur orðið þar mikil breyting, og eru nú sums staðar berar klappir, sem sjór þvær um í hverju stórstraumsflóði, þar sem áður voru bakkar, sem sjávarhús stóðu á. Um Ytri-Njarðvík er sagt 1703, að sjór brjóti svo þar tún, að tvisvar hafi þurft að færa (það) á 17 árum. Landið gengur héðan til austurs.

Vatnsleysustrandarhreppur

Vatnsleysustrandarhreppur

Vatnsleysustrandarhreppur.

Þegar komið er fram hjá Vogastapa er svo að segja óslitin hraunströnd, þar til komið er inn undir Hafnarfjörð. Er sú vegalengd fullar 20 rastir, þó að farin sé skemmsta leið yfir holt, hæðir og víkur.
Jarðabók getur þess (1703), að sjávargangur spilli Vogunum, brýtur tún í Minni-Vogum, en um Stærri-Voga er kvartað undan, að skemmdirnar aukist þar ár frá ári. Einnig er sagt, að skemmdir fari í yöxt á Brunnastöðum, þ. e. sjórinn brýtur túnið og ber á sand. Þá er talin hjáleiga frá Brunnastöðum, Tangabúð, sem sjórinn sé að brjóta af, og mun hún hafa farið í eyði. Hjáleiga frá Stóru-Ásláksstöðum, sem hét Atlagerði, var líka að skemmast um þessar mundir. Er hún horfin, en enn heitir þar Atlagerðistangi.
Byggð er hér samhangandi á 5—6 rasta svæði meðfram ströndinni, og segir Jarðabók ennfremur frá skemmdum af völdum sjávarins á þessum jörðum: Hlöðunesi, Stóru- og Minni- Ásláksstöðum, Minna og Stóra-Knarrarnesi, Breiðagerði, Auðnum, Landakoti, Þórustöðum, Kálfatjörn, Bakka, Flekkuvík, Minni-Vatnsleysu (en ekki Stóru Vatnsleysu).
Jarðabók getur um forna jörð, Akurgerði, sem sé búin að vera í eyði frá því fyrir 1600. Álítur séra Pétur Jónsson, (1840), að Akurgerði muni hafa verið innst í Vatnsleysuvíkinni, innar (austar) en Kúagerði. (Pétur Jónsson: Njarðvíkur og Kálfatjarnarsóknir 1840.) Um Vogavík, sem er austan við Vogastapann (eða Kvíguvogabjörg, er forðum hétu), segir séra Pétur, að hún lengist hvað af öðru upp með Stapanum, því að þarna sé flatur sandur. Og mun hún enn vera að lengjast (1946). En um ströndina yfirleitt í Vatnsleysustrandarhreppi segir hann: „Sjórinn brýtur af túnum og landi,” og munu þau orð hans einnig eiga við enn í dag.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Hvaleyrargrandi er nefnd eyri, sem nú flæðir yfir og er sunnan megin fjarðarins inn með bænum (til austurs), og mun bilið milli hennar og landsins fyrir sunnan hana vera höfn sú, er Hafnarfjörður dregur nafn af. Voru verzlunarhúsin fyrst á eyri þessari. En á 17. öld er farið að bera svo mikið á því, að sjór gangi á eyrina, að óráðlegt þótti að hafa þau þar lengur, og voru þau flutt árið 1677 austur fyrir fjörðinn og reist á túni Akurgerðis, sem þá var hjáleiga frá Görðum.
En um höfnina við grandann segir Skúli fógeti 1784: „Sunnan megin fjarðarins fyrir ofan áður nefndan Hvaleyrargranda er lítil höfn, 225 faðma breið og nefnd Hvaleyrartjörn. Á henni liggja fiskiskúturnar á vetrum, lausar við sjógang með öllu. Fyrir innan Skiphól er dýpið í höfn þessari 8—9 fet, en fyrir utan hann 9 1/2—12 fet.” (Eftir ísl. útgáfunni.) En Akurgerðistúnið var lítið hærra en eyrin, sem flúið var frá, og þegar Skúli fógeti ritar um þetta (sem var 107 árum eftir að húsin voru flutt), þá er sjórinn farinn að flæða upp í þau, þegar stórstreymt er. Og þegar séra Árni Helgason ritar um þetta, 58 árum á eftir Skúla, segir hann Akurgerðistúnið komið í sjó (sjá síðar). (Árni Helgason: Lýsing Garðaprestakalls 1842.) Á þeim liðlega hundrað árum frá því húsin voru flutt, þar til Skúli fógeti ritar, hafði sjávarhæð breytzt það, að sjórinn var sumsstaðar farinn að flæða yfir Hvaleyrargranda, þegar stórstreymt var.
Þegar landmælingar voru gerðar í Hafnarfirði, 1903, flæddi yfir mestan hluta hans. Samt var breiddur fiskur á honum, og mátti sjá þar á sumrin 2—3 fiskstakka fram undir 1910, en nú flæðir yfir hann allan. Hann er sýndur ofansjávar (en nokkuð mjór) á sjókorti, sem birt er í lýsingu hafna (Löwenörns) á suðvesturhluta landsins, eftir mælingum H. E. Minors skipstjóra, er mældi hér strendurnar í tvö ár, en drukknaði í Hafnarfirði þriðja árið, vorið 1778. (Beskrivelse over den islandske Kyst o. s. frv., Kjöbenhavn 1788.)

Garðahreppur

Garðahreppur

Garðahreppur.

Jarðabók getur þess ekki, að sjór sé neitt ásælinn við Lónakot, vestasta bæinn í hreppnum. En um sjötíu árum síðar (1776) eyddist það af sjávargangi. Segir Skúli fógeti, að sjórinn hafi þá rifið grassvörðinn af túninu og fyllt vörina” og húsin af grjóti og möl. Var Lónakot þá álitið með öllu óbyggilegt og var í eyði um tvo mannsaldra.
Nú er komið að Straumi. Segir Jarðabók um Óttarsstaði, að sjór brjóti eitt hjáleigulandið, um Lambhaga, að túnin skemmist árlega af sjávaryfirgangi, og fari það sífellt í vöxt. (Er þessi hluti Garðahrepps fyrir sunnan Hafnarfjörð.) Af jörðum í Garðahverfi getur Jarðabók einkum um fimm, er sjór brjóti, Dysjar, Bakka, Hlíð, Sandhús og Lónshús, einkum þó Bakka, því að þar spillist túnið svo stórlega, að það hafi þurft þrisvar að færa bæinn frá sjónum, og sé þar þó enn svo illa statt, að það „sýnist sem að túnið, mestan part, muni með tíðinni undir ganga”.

Bessastaðahreppur

Álftanes

Bessastaðahreppur.

Eftir því sem Jarðabók skýrir frá (1703), er sjórinn að brjóta eða á annan hátt aðskemma margar jarðir á Álftanesi. Hlið: Tún jarðarinnar brotnar af sjávargangi, sífellt meir, og er hið sama sagt um þrjár hjáleigur þar. Möishús: Þar grandar sjávargangur túninu á tvo vegu. Skógtjörn: Sjórinn brýtur engi, og fer það ár eftir ár í vöxt. Brekka: Sjór spillir túninu og gerir jafnframt usla á hjáleigunni Svalbarða. Sviðholt: Sjávargangur spillir túni. Deild: Sjávargangurinn þar svo mikill, að varla er óhætt mönnum og fénaði fyrir stórflæðum, “og hafa menn fyrir þessum háska í þrjár reisur flúið bæinn”. Báruseyri: Brýtur á tvo vegu tún. Akrakot: Túnskemmdir af sjó. Breiðabólstaður: Sjórinn brýtur af landinu og ber sand á tún. Kasthús: Sjórinn skemmir. Bessastaðir: Túni ð brýtur að sunnan verðu Lambhúsatjörn, er gengur úr Skerjafirði. En norðanvert á Bessastaðalandi ganga flæðiskurðir úr Bessastaðatjörn og brjóta haglendið. Selskarð: Sjórinn spillir túnum.
Skúli fógeti segir (1784), að túnin á Álftanesi hafi langflest minnkað verulega af sjávargangi.
Það er fróðlegt, að séra Árni Helgason, sem ritar nær sex áratugum á eftir Skúla, segir mikið til hið sama. Kemst hann svo að orði, að sjór sé smátt og smátt að þoka sér á landið og nuddi af bökkum og túnum meira eða minna á hverju ári, og að allar jarðir, sem tún eigi að sjó, verði að kalla árlega fyrir skemmdum á þeim af sjávargangi. Þannig sé Akurgerðistún, sem verzlunarhúsin í Hafnarfirði voru flutt á 1677, allt horfið, og að mestu leyti af völdum sjávar.
Báruseyri hafi tvívegis verið færð frá sjó (og að því er virðist á þeim 16 árum, sem hann hefur dvalizt á þessum slóðum). Fóðri þessi fyrrum 24 hundraða jörð nú aðeins eina kú. Engi, sem legið hafi undir Svalbarða, sé á síðustu árum orðið ónýtt og Bakkatún mikið skemmt.
Sandhús í Garðahverfi séu að mestu leyti farin í sjó, þótt leifar sjáist af þeim. En um þessa jörð segir Jarðabók 139 árum áður: Túnin skemmast á hverju ári stórlega, og hefur ábúandinn mikið ómak af því á hverju ári að bera og láta bera af sandinn. Árið 1701 hafi sjórinn varpað upp svo miklum sandi, að sýnilegt þótti, að bóndinn yrði ekki þess megnugur að ráða bót á, og hafi þá umboðsmaður konungs á Bessastöðum fyrirskipað nábúum hans að hjálpa honum. Samt brjóti sjávargangur árlega æ meir af jörðinni.
Landnorðan á Álftanesi var við Skerjafjörð (gegnt Skildingarnesi) hafskipahöfn, sém hét Seilan. Um hana ritar Björn á Skarðsá og segir frá því, að þegar fréttist til Tyrkjans 1627, hafi höfuðsmaðurinn á Bessastöðum sent eftir dönsku kaupförunum, er í nágrenninu voru. (Tyrkjaránssaga Björns á Skarðsa, samin 1643.) Komu tvö þeirra og var haldið inn á Seilu. Vofu þar þá þrjú skip, því að skip höfuðsmannsins lá þar fyrir. En er Tyrkir komu á tveim skipum og ætluðu inn á Seiluhöfn, rann annað skipið á grunn. Höfðu þeir sig á brott, er þeir náðu því út aftur.
Eggert Ólafsson getur um Seilu í ferðabók sinni (1757) og segir, að höfuðsmenn á Bessastöðum hafi notað höfn þessa sumarlangt, meðan siður var, að þeir kæmu á skipum, er þeir áttu sjálfir. (Eggert Olafsson: Reise igiennem Island, Soröe 1772.) Segir hann, að skipunum verði að halda inn í höfnina um flóð og það fjari úr mestum hluta hennar, en þarna sé öruggt vetrarlægi meðalstórum skipum og þaðan af minni.
Skúli fógeti ritar 1784: „Hin gamla skipahöfn, Seila, er alveg uppi undir virkinu á Bessastöðum, sem nú er með öllu niður fallið. Þarna er örugg lega handa skipum þeim, er fluttu lénsmenn konungs til Íslands fyrr á tímum og lágu þar að sumrinu til. Innsigling á höfn þessa er torveld og nálega ófær nema með vel kunnugum leiðsögumanni Annars er höfnin rúmgóð, laus við allan meiriháttar sjógang, hefur tvö stór skipalægi á 9 faðma dýpi og sandbotn, sem er þó nokkuð blandinn skeljum. Ég efast ekki um, að tíu skip gætu legið þar yfir veturinn, ef vel væri linað á köðlum, þegar sjógangur er Bessastaðátjörn fyrir innan Seiluna er vetrarlægi fyrir seglskútur og smáskip.” Höfn þessi er nú ekki lengur til.

Sjávarvíkur, sem heita tjarnir

Hlið

Hlið á Álftanesi.

Á Álftanesi eru þrjár víkur, sem skerast inn frá sjónum, en allar heita þær tjarnir, Bessastaðatjörn, Lambhúsatjörn og Skógtjörn.
Skýringin á þessum nöfnum er sú, að þetta hafa upprunalega verið tjarnir nokkuð frá sjó, en með hækkandi fjöruborði hefur sjórinn brotizt inn í þær, þær orðið sjávarvíkur, en haldið nafninu.
Viðburðir gleymast stundum ótrúlega fljótt, en stundum eru þeir lengi í minnum manna, þar, sem þeir gerðust, ásamt öðrum munnmælum, sem oft eru uppspuni einn. Telur séra Árni Helgason (1842) upp ýmis munnmæli, er þar gangi í sveitinni og honum þyki ótrúleg, en segir svo: „Aðrar sögur segja menn, sem meiri líkindi eru til, að gæti verið satt, að Skógtjörn og Lambhúsatjörn hafi fyrrum verið engi.” Bendir það á, að það hafi verið alllöngu fyrir tíð séra Árna, að þessi breyting varð, enda má sjá á Jarðabók, að 1703, þegar sá kafli hennar er ritaður, sem segir frá Álftanesi, eru bæði Lambhúsatjörn og Bessastaðatjörn sjávarvíkur. Hins vegar bendir sumt á, að í Skógtjörn hafi þá enn verið ósalt vatn.

Melshöfði
Svo hét nes, er gekk vestur frá bænum Hliði á Álftanesi. Þar voru árið 1703 þrjú hús, og áttu þrjár fjölskyldur heima þar, eða alls 11 manns. En auk þess höfðu Bessastaðamenn þarna sjóbúðir, og voru þar stundum þrjátíu kóngshásetar, því að of langt þótti að róa frá Bessastöðum, þ. e. innan úr Skerjafirði og kringum Álftanesið. Melshöfði er nú gersamlega horfinn í sæ, en suðvestur frá Hliði ganga flúðir og má vera, að þær séu leyfar höfðans, sem átti reyndar eftir munnmælum að vera til vesturs, séð frá bæjarhúsunum á Hliði.

Laug í fjörunni

Álftanes

Hlið – túnakort 1917.

Laug var í fjörunni undan Hliði. Segir séra Árni, að hún sé í skeri, er verði þurrt um stórstraumsfjöru, og sjáist þá reykurinn úr henni. Eftir því, sem kunnugir menn segja, hefur ekki sézt rjúka úr henni í 30—40 ár. Hún er komin undir sjó.
Um Álftanes hefur landskunnur fræðimaður, Björn i Grafarholti, ritað mér í bréfi: „Hér syðra er sjórinn alls staðar að ganga á landið. Ber mest á því þar, sem láglent er eins og á Álftanesi. Þar er t. d. ekki lengur Bessastaðavík heldur vík, sama um Skógtjörn, hún er horfin. Á norðurhluta Álftanessins eru horfnar í sjó jarðirnar Bárekseyri (Báruseyri), Bakki (?) og Bakkakot. Um 1890 var hjá mér kaupamaður bóndinn í Bakkakoti. Ég kom þá þar, og var um 3 til 4 faðma bil frá bæjarvegg að sjávarbakkanum. Bóndinn í Gesthúsum, nú 76 ára, hefur alið þar allan aldur sinn, segir svo: Þar sem Bakkakot stóð, fellur nú yfir í hverju stórstraumsflóði. Var kálgarður fyrir ofan bæinn, einnig þar fellur nú yfir. Á þeim tíma (um 1890) var þar túnblettur, sem af fengust 25—30 kpl. af töðu, og allt þar til nú fyrir 20 árum, að allt er komið í sand og möl. Sama má segja um mikinn part aí engjunum. Þar voru fyrir 20 árum 2 tjarnir, sem ekki voru væðar, nú orðnar fullar af sandi og möl. Um Hlið segir Ólafur í Gesthúsum: „Rétt fyrir mína tíð gaf Jörundur, sem þá bjó á Hliði og var faðir ömmu minnar, hreppnum (þá Álftaneshreppi) svonefndan Sveitarpart, sem var 2 kúa gras. Af parti þessum er nú ekkert eftir, orðin fjara þar, sem hann var áður.” Hliðsnes, sem var landfast við Hlið, er nú svo brotið, að ekki er eftir nema táin, sem er orðin eyja. Fram af Hliði var Melshöfði, sem nú er horfinn, og mest af Hliðslandi.”
Ekki getur Jarðabók skemmda í Arnarnesi né Kópavogi. En sjór hefur frá því um 1916 brotið smám saman framan af túninu í Arnarnesi á að gizka hálfa þúfu á ári. Gras var á klettum þar fyrir neðan bakkann, en það er nú farið. Ekki nær Garðahreppur lengra en þetta á þennan veg, en hér mun skroppið snöggvast yfir í Seltjarnarneshrepp. Í Kópavogi hefur brotið land og það svo, að venjulega hefur sézt munur á missirum. Var brotið alveg upp að gamla bænum í Kópavogi, þegar hann var rifinn. Arnarnesvogur og Kópavogur ganga inn úr Skerjafirði, og leggur þangað aldrei inn haföldu og sízt inn í botn, þar sem tveir áður taldir bæir eru. Lækir renna fram í botn þessara voga, og kemur þar lækkun landsins fram á áberandi hátt á því, hve lengra flæðir upp eftir þeim en áður, og eru þarna brýr, sem auðvelt er að miða við. Þriðji vogurinn inn úr Skerjafirði er Fossvogur. Er þar líka þriðji lækurinn og þriðja brúin, og er einnig þarna greinilegt, hve sjórinn teygir sig lengra inn á við. Klettar eru þarna fyrir botni vogsins úr linu bergi, og hefur vogurinn teygzt þó nokkuð inn í landið, frá því vegur, sem ekki er notaður lengur, var lagður yfir Öskjuhlíð og upp á Digraneshálsinn. En það var á síðara helmingi nítjándu aldar, að hann var lagður. En hann lá þannig, að farið var fyrir framan klettana fyrir Fossvogsbotni, og þyrfti nú að sæta sjávarföllum, ef fara ætti þessa leið. Er þessi gamli vegur á hægri hönd, þegar farið er suður Öskjuhlíðarveginn, en á vinstri, þegar farið er upp Digranesháls.

Niðurlagsorð

Þórkötlustðahverfi

Þórkötlustaðahverfi .

Nú hefur verið farið yfir svæðið frá Ölfusá, vestur með ströndinni fyrir Reykjanes, og er nú komið inn með Faxáflóa, að Seltjarnarnesi, og verður þessi áfangi frásagnarinnar ekki lengri að sinni.
Alstaðar hefur verið sama sagan, sjórinn er að brjóta landið. Sumstaðar hefur verið sagt frá því, að þurft hafi að færa bæi undan sjávargangi og marga þeirra oft. En víst er, að frásagnir gætu verið fleiri, ef skráðar hefðu verið. Bæjargerðin okkar hefur verið þannig, að það þurfti alltaf að vera að byggja bæina upp aftur. Væri sjórinn kominn óþægilega nálægt bænum, þegar þurfti að byggja hann upp, var bærinn byggður lengra frá sjávarbakkanum. En engum datt í hug að kalla það, að það hefði þurft að flytja bæinn vegna sjávarins.
Það var ekki nema þegar þurfti að flytja úr bænum, af því að sjórinn var farinn að brjóta hann, og að þar með var lagt í sérstakan kostnað, að þetta var kallaður flutningur vegna sjávar. Á sama hátt er flutningur túna upp á við, undan sjávargangi, miklu algengari, en í frásögur er fært. Það var ekki nema þegar svo mikið braut af túni á skömmum tíma, að það varð að mestu eða öllu leyti ónýtt, að slíkt varð skráð, eða þegar túnið varð á fáum árum ónýtt af því, að sjórinn bar á það sand og grjót. En hinu veittu menn litla eftirtekt, þótt dálítið bryti árlega framan af túni. Þá var borið í staðinn á móa eða mel ofan við það, og túnið færðist upp. En þau eru mörg túnin, sem þannig hafa skriðið jafnt og þétt upp frá sjónum og bæirnir smátt og smátt fylgt þeim. En breytingin hefur verið svo lítil á hverjum mannsaldri, að eftir þessu hefur varla verið tekið.

Selvogur

Selvogur – fjaran.

Vera má, að einhver myndi vilja spyrja, hvort allt þetta sjávarbrot, sem getið er um í Jarðabók, sé ekki barlómur fátæks almennings, sem hafi óttazt, að þessi yfirheyrsla um kosti jarða myndi
fyrirboði hærri skatta og gjafda. Því er að svara, að sams konar landbrot og lýst er í Jarðabók er enn þann dag í dag á allri þessari strönd, sumpart á sömu jörðunum, sumpart á næstu jprðum. En þegar komið er norður og vestur með landi, þar sem landið bersýnilega er að rísa, hætta líka að heita má allar umkvartanir í Jarðabók, um að sjórinn brjóti land.
Rétt er að geta, að heyrzt hafa raddir um, að landið væri ekki að síga, hér væri eingöngu um landbrot að ræða. En landbrot getur ekki verið orsökin að sér sjálfu. Það er afleiðing einhvers, en hver er orsökin? Land, sem stendur kyrrt, miðað við sjávarborð, brýtur ekki sýnilega nema nokkrar aldir, því að sjórinn er þá búinn að taka allt, sem hann nær til, og hlaða með því undir sig við ströndina.
Ef sjór gæti haldið áfram að brjóta, væru flest lönd sæbrött nema þau, sem væru að rísa.
En hvaða skýringu væri að finna á því, að landið brýtur hér sunnanlands, aðra en þá, að það sé að síga? En hér hefur verið sagt frá landbrotinu, af því það er tákn þess, sem fram er að fara.
En sannanirnar fyrir því, að landið sé að síga, eru nægar. Sjór flæðir lengra og lengra upp á flatt land, sem enginn man til, að hafi flætt upp á, við voga, þar sem aldrei kemur úthafsalda. Sker, sem ekki flæddi yfir nema í stærstu flóðum, fellur nú allaf yfir. Önnur sker, sem alltaf komu upp um stórstraum, koma nú aldrei upp. Þari færist hærra upp eftir sjávarklettum, og hrúðurkarlabekkurinn hækkar á þeim og á flúðum. Allt eru þetta nægar sannanir þess, að land er að síga, og svo eru loks beinar mælingar, sem sýna það.
Verður frá því öllu skýrt, er tími vinnst til.”

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1. tbl. 01.04.1947, Hæð sjávarborðs við strendur Íslands, Ólafur við Faxafen, bls. 40-44.
-Náttúrufræðingurinn. 2. tbl. 01.06.1947, Hæð sjávarborðs við strendur Íslands, Ólafur við Faxafen, bls. 57-71.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi.

Fagradalsfjall

Í 12. lið fundargerðar Bæjarráðs Grindavíkur þann 5. maí 2021 má lesa eftirfarandi um örnefnanefnu í Fagradalsfjalli:

“Nafn á nýju hrauni og gígum við Fagradalsfjall – 2103090.
Lögð fram umsögn Örnefndanefndar á heiti á nýju hrauni og gígum í mótun við Fagradalsfjall. Með vísan til laga nr. 22/2015 leggur bæjarráð til við bæjarstjórn að nýtt hraun austan Fagradalsfjalls verði nefnt Fagradalshraun.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – Fagridalur efst til vinstri.

Skv. framangreindu virðast hlutaðeigendur ekki vera meðvitaðir um staðhætti í og við Fagradalsfjall. Fjallið er nefnt eftir Fagradal norðan þess. Dalurinn er óháður gosstöðvunum í Geldingadölum. Í Fagradal eru m.a. Nauthólar og Dalssel, fyrrum selstaða frá Þórkötlustöðum. Hún hvílir þar við uppþornaðan lækjarfarveg er áður myndaði Aurana neðar í dalnum.
Gígar hraunsins, er málið snýst um, urðu til á sprungu uppi í hlíðum Geldingadala – í miðju Fagradalsfjalli. Sunnar er Hrútadalur millum Einihlíða og Langahryggs og norðaustar eru Merardalir millum Merardalahnúka og Stóra-Hrúts. Afurð gíganna rann fyrst niður í Geldingadali, annars gróðurlitlar kvosir og kaffærði meinta dys Ísólfs á Skála, áður en hún tók upp á því að venda niður í Merardali.
Nefnt hraun hefur, a.m.k ekki hingað til, runnið niður í Fagradal. Til þess þyrfi það að fylla Gildingadalina upp fyrir neðanverðan Langhól eða Merardalina út fyrir Merardalahnúkana og síðan renna upp á við sunnan Þráinsskjaldar áður en það gæti náð rennsli milli Fagradalsfjalls og Fagradals-Vatnsfells og Fagradals-Hagafells.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Í örnefnalýsingu fyrir Hraun segir m.a. um Fagradalsdalsfjall og nágrenni:
“Borgarfjall er eiginlega fremsti hluti Fagradalsfjalls en Fagradalsfjall er eitt stærsta fjall á Reykjanesskaga. Á milli Borgarfjalls og Mókletta er Borgarhraun. Vinkillaga flatlendi framan við Fagradalsfjall heitir Nátthagakriki. Einbúi er þar nokkuð stór stakur hóll. Selskál er grasbrekka framan í Fagradalsfjalli. Trippalágar er graslendi á milli Borgarhrauns og Beinavörðuhrauns og nær fram að Móklettum. Vestan við Trippalágar við hraunjaðarinn á Beinavörðuhrauni er Bleikshóll. Kast er fell sem gengur út úr Fagradalsfjalli að suðvestan. Görn heitir skarðið á milli og nær hún alla leið inn í Innstadal. Stóragil er uppi á fjallinu fyrir ofan Innstadal. Norður af Kasti eru allháir grasgeirar í fjallshlíðinni og heita Fremstidalur, Miðdalur og Innstidalur. Þetta eru ekki raunverulegir dalir heldur brekkur og kvosir.

Kastið

Kastið.

Hraunið vestur af Kasti heitir Beinavörðuhraun og nær fram að Hrafnshlíð, Fiskidalsfjalli og Vatnsheiði. Norður á móts við áður getinna er hraunið mikið sléttara með stórum mosaþembum og heitir þar Dalahraun. Í Dalahrauni eru tveir hólar með nokkru millibili og heita Innri-Sandhóll og Sandhóll sem er hærri og sunnar. Gömul gata inn með Fagradalsfjalli að vestan og allt til Voga heitir Sandakravegur. Norðan við hraunið eru Nauthólaflatir og ná þær upp að Fagradalsfjalli. Dalssel heitir innst með fjallinu fyrir norðan Nauthólaflatir. Austast á Nauthólaflötum er hóll sem heitir Nauthóll. Vestan flatanna er uppblásið land, nú aurmelar, kallað Aurar en hét áður fyrr Fagridalur og er svo nefnt á korti. Nyrsti hluti Fagradalsfjalls heitir Fagradalsvatnsfell og er í landi Þórkötlustaða. Þar norður af er Fagradalshagafell, lítt áberandi að norðanverðu. Vatnskatlar uppi á Fagradalshagafelli eru landamerki á milli Hrauns og Þórkötlustaða. Eitthvað af nefndum örnefnum vestan Fagradalsfjalls að innanverðu gætu verið í landi Þórkötlustaða.

Uppi á Fagradalsfjalli er hæsti hnúkur á norðausturhorninu og heitir Langhóll. Að suðaustan er annar hnúkur og heitir sá Stórhóll.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn í Drykkjarsteinsdal.

Austan undir Borgarfjalli og á milli þess og Langahryggs er Nátthagi. Þetta er nokkuð breitt skarð á milli fjallanna og við suðurenda þess er Drykkjarsteinsdalur. Austan undir Fagradalsfjalli og norðan við Nátthagaskarð og í austur frá Stórhól er smáás og heitir Nátthagaskarð. Þar norður af eru Geldingadalir. Smádalkvosir grónar nokkuð. Þar er sagt að Ísólfur, fyrsti ábúandi á Ísólfsskála, sé grafinn og hafi hann viljað láta grafa sig þar sem geldingarnir hans höfðu það best.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – þverskorinn gígur ofan Fagradals.

Norðaustur frá Langhól er lítið fell fast við Fagradalsfjall sem heitir Kálffell. Norð-norðaustur af Langahrygg er Stóri-Hrútur og síðan þar norður af Meradalir. Þetta eru gróðurlitlar leirflatir. Þar norður af eru Meradalshlíðar og vestur frá þeim er Kistufell í austur frá Langhól. Norður af Meradalshlíðum er Litli-Hrútur og þar norður af er Litli-Keilir.

Þaðan í norðaustur er Keilir, alþekkt fjall. Austan undir Kistufelli er smáhryggur sem nefndur er Rjúpnahryggur. Þarna eru víðast hraun á milli fjallanna og örnefnalaust.

Suðaustan og framan í Langahrygg eru Lyngbrekkur og þar framan við er Stóri-Leirdalur. Austan við Langahrygg eru Einihlíðar. Þetta eru ávalar, gróðurlitlar bungur en hafa sjálfsagt verið vel grónar þegar þær hlutu nafn. Litli-Leirdalur er framan við Einihlíðar að vestan og hlíðin þar austur af, þar sem gamli Krýsuvíkurvegurinn liggur upp, heitir Brattháls (Skyggnir). Litli-Hrútur heitir nyrsti hluti Einihlíða. Þverbrekkur heita grasigrónar brekkur nyrst í Litla-Leirdal.

Dalssel

Dalssel í Fagradal.

Skarðið á milli Langahryggs og Einihlíða heitir Hrútadalur og við hann eru Hrútadalsbörð. Austan í Einihlíðum eru allmiklar grasigrónar kvosir og heita Bratthálskrókur sú fremri og Einihlíðarkrókur sú innri. Sandurinn þar norður af inn með Einihlíðum heitir Einihlíðasandur.

Geldingardalur

Geldingadalur – dys Ísólfs.

Örnefnanefnd og fulltrúar Grindavíkurbæjar virðast, skv. ofangreindu, fara villu vegar er þeir ákveða að nefna hið nýja hraun í Geldingadölum “Fagradalshraun“. Til álita kæmu hins vegar með réttu örnefnin “Fagrahraun”, “Fagradalsfjallshraun” eða “Geldingadalahraun”. En örnefnið “Fagradalshraun” til framtíðar litið er eins og út úr kú, a.m.k. að teknu tilliti til framangreindra örnefna. Fulltrúum Grindavíkurbæjar er þó fyrirgefið því flestir þeirra virðast vera aðkomnir, en ekki er vitað undan hvaða hól fulltrúar Örnefnanefndar hafa skriðið. Ef örnefnið verður að veruleika mun það verða sem myllusteinn um háls nefndarinnar um ókomna tíð…

Sjá meira um Fagradal HÉR.

Fagradalsfjall

Fagridalur – Nauthólar og Dalssel.

Faxi

Í Faxa 1977 fjallar Svavar Árnason um Grindavík undir yfirskriftinni “Landkostir rýrir en stutt á fengsæl fiskimið”.

Svavar Árnason

Svavar Árnason.

“Alþingi veitti Grindavík kaupstaðarréttindi með lögum nr. 18, 10. apríl 1974. Grindavíkurkaupstaður er því með alira yngstu kaupstöðum landsins. Saga hans er að vonum ærið stutt og naumast annálsverð enn sem komið er, en Grindavíkurhreppur, sem er eðliiegur undanfari kaupstaðarins, á sér aftur á móti langa og að ýmsu leyti merka sögu, sem rekja má allt til landnámsaldar. Þess er þó enginn kostur að rekja þá sögu í stuttu máli, aðeins skal lauslega minnst á minnisverða atburði og þá ekki síður þá atburði, sem minni eftirtekt hafa vakið í gegnum tíðina.
Um það hvernig Grindavík byggðist segir svo frá í Landnámabók: „Maður hét Hrólfur höggvandi. Hann bjó á Norðmæri, þar hét Moldatún. Hans synir voru þeir Vémundur og Molda-Gnúpur. Þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir. Vémundur kvað þetta, er hann var í smiðju:

Ek bar einn
af ellifu
banaorð.
Blástu meir.

Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár og Álftaver allt. Þar var þá vatn mikið og álftveiðar á. Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu, og gerðist þar fjölbyggt, áður jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, sonur Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígfar. En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar. Þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórðu leggjaldi.

Hraustir menn og vígreifir víkingar

Grindavík

Grindavík og nágrenni.

Björn dreymdi um nótt, að bergbúi kæmi að honum og bauð að gera félag við hann, hann þóttist játa því. Eftir það kom hafur til geita hans, og tímkaðist þá svo skjótt fé hans, að hann varð skjótt vellauðugur. Síðan var hann Hafur-Björn kallaður. Það sáu ófreskir menn, að landvættir fylgdu Hafur-Birni til þings, en þeim Þorsteini og Þórði til veiða og fiskjar.
Af þessari lýsingu er bersýnilegt, að þeir sem námu land í Grindavík voru hraustir menn og vígreifir víkingar, sem létu sér ekki allt fyrir brjósti brenna svo sem kviðlingur Vémundar ber vott um. Það er víst að Landnámsmennirnir hafa frá upphafi byggðar í Grindavík stundað jöfnum höndum landbúnað og fiskveiðar og farnast vel, enda til þess notið fulltingis landvættanna eftir því sem sagan segir.
Landafræðin kenndi okkur að Grindavík væri lítið og afskekkt sjávarþorp á sunnanverðum Reykjanesskaganum, umkringt hraunum og langt frá öðrum byggðum. Landkostir rýrir en stutt á fangsæl fiskimið. Úthafsaldan, ferleg og há, komin um óravegu sunnan úr höfum, brotnar hér við ströndina með háreisti og gný. Af því leiðir að Grindavík hefur ávallt verið talin brimveiðistöð.

Skipströnd og björgunarafrek

Skipsskaðar

Skipsskaðar við Grindavík.

Strandlengjan fyrir landi Grindavíkur nær frá Valahnúk á Reykjanesi, eða nánar tiltekið frá miðri Valahnúkamöl og austur að Seljabót, en þar tekur við Selvogur í Árnessýslu.
Á þessari strönd hefur mörg harmsagan gerst. Guðstéinn Einarsson hreppstjóri hefur í ágætri grein í bókinni Frá Suðurnesjum, skráð örnefnin og um leið fléttað inn í frásögnina viðburðaríkum atburðum af skipsströndum og björgunarafrekum, sem unnin hafa verið á þessari strandlengju, sem hann telur vera um 70 til 80 km. langa.
Fjallahringur upp til landsins umlykur Grindavík og gefur henni hlýlegt svipmót. Fjöllin eru fremur lág, en Þorbjörn er þeirra nálægastur byggðinni og nýtur mestrar virðingar innfæddra Grindvíkinga, þótt hann sé ekki nema 243 metrar á hæð. Þar skammt frá er- Hagafell” með Gálgaklettum og síðan kemur Svartsengi, sem nú er þekkt vegna háhitans, sem er á því svæði, og nú er virkjaður af Hitaveitu Suðurnesja í þágu íbúa á Suðurnesjum.

Útilegumenn hengdir í Gálgaklettum

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Þar sem fjallið Þorbjörn rís upp úr hraunflákanum í allri sinni tign með klofinn toppin og myndar gjá, sem heitir Þjófagjá, þar eiga útilegumenn endur fyrir löngu að hafa átt skjól. Þjóðsagan segir að þeir hafi um síðir verið handsamaðir og færðir til hengingar í Gálgaklettum.
Lengra austur eftir Sakganum koma svo Húsafell í grennd við býlið að Hrauni, þá Fiskidalsfjall, Fagradalsfjall og Festi eða Festarfjall. Festi er fyrir botni Hraunsvíkur. Þar þykir skemmtilegt útivistarsvæði undir fjallinu á Hraunssandi við sjó fram. Ekki er þó þessi staður með öllu hættulaus vegna grjóthruns úr fjallinu og engan veginn er hættulaust að fara þar í sjóinn vegna strauma, sem liggja fram með ströndinni, og hafa gert færustu sundmönnum örðugt að ná landi aftur.
Býlið Hraun er austan við Þorkötlustaðahverfið, en austasti bærinn er ísólfsskáli og er yfir Hálsa að fara þangað. Austan við Ísólfsskála eru fjöllin Slaga og Skála-Mælifell og enn austar er svo Krýsuvíkur-Mælifell, en austast er Geitahlíð með Æsubúðir efst á tindi. Skammt austan við Ísólfsskála eru Selatangar. Þaðan var útræði frá Skálholti á fyrri tíð, og enn má sjá þar ummerki og tóftabrot, er minna á frumstæðan aðbúnað sjómanna í verbúðum þeirra tíma.

Járngerður og Þorkatla

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Grindavík hefur frá fornu fari verið skipt í þrjú hverfi, þ.e. Staðarhverfi vestast, þá kemur Járngerðarstaðahverfi og austast Þorkötlustaðahverfi, en auk hverfanna þriggja voru svo einstaka bæir svo sem Hóp — þar sem nú er höfnin — lífæð byggðarinnar —, Hraun og Ísólfsskáli og áður fyrr byggðarhverfi í Krýsuvík. — Í Krýsuvík er risinn myndarlegur skóli, sem sveitarfélögin í Reykjanesumdæmi, SASÍR, hafa barist fyrir að koma á fót, en kennsla er rétt óhafin.
Það er athyglisvert við nöfn hverfanna, Járngerðarstaðahverfi og Þorkötlustaðahverfi, að svo virðist sem “rauðsokkur” þeirra tíma hafi látið mikið til sín taka í Grindavík. Ekki greinir þó sagan frá jafnréttisbaráttu kvennanna þar, en víst má telja að konur þessar, Járngerður og Þorkatla, hafi verið hnir mestu skörungar og stórbrotnar að allri gerð. Þær sátu báðar jarðirnar, sem einnig bera þeirra nöfn. Báðar munu þær hafa átt útvegsbændur og framsækna fiskimenn, en gifta þeirra fylgdist ekki að. Járngerður missti bónda sinn í sjóinn á Járngerðarstaðasundi. Segja munnmæli að þá hafi Járngerður orðið myrk í skapi, og kveðið svo á, að 20 skip skuli farast á Járngerðarstaðasundi. Telja fróðir menn að þeirri tölu sé náð. Af Þorkötlu er aftur það að segja, að hún hafi látið svo ummælt, að aldrei skyldi skip farast á Þorkötlustaðasundi, ef rétt væri farið og fomann brysti ekki dáð og dug, og þykir það hafa farið eftir.

Oft var teflt á tæpasta vað
Grindavík
Landnámsmennirnir komu til Íslands á opnum skipum. Molda-Gnúpur og synir hans stunduðu sjóinn á opnum skipum að sjálfsögðu, og Grindvíkingar hafa löngum háð sína hörðu lífsbaráttu á opnum skipum — fyrst og fremst áraskipum — fram yfir árið 1926 og þar næst á opnum vélbátum, „trillum,” allt þar til að hafnarskilyrði sköpuðust í Hópinu fyrir stærri skip og báta, svo að sambærilegt er orðið við hvaða verstöð sem er á landinu.
Þeir einir, sem muna tímana tvenna og þær stórkostlegu breytingar, sem hafa orðið á aðstöðu allri til sjósóknar og fiskveiða í Grindavík síðustu 50 árin, hljóta að undrast það nú, að það skuli hafa verið mögulegt að stunda róðra á þessum litlu fleytum og bjóða þeim það sem þeim var boðið og ekki síður eftir að „trillurnar” komu til sögunnar. Þeir sóttu sjóinn fast, og tefldu oft á tæpasa vað. Lendingin var oft erfið og áhættusöm þegar komið var upp að Járngerðarstaðasundi og þurfti að liggja til laga eins og það var kallað. Þeir sem í landi voru, og fylgdust með þegar lagið var tekið, biðu í ofvæni og eftirvæntingu úrslitanna um það, hvort mætti sín meira, mannlegur máttur ræðaranna, eða hrammur holskeflunnar. Oftast tókst þetta vel, og formennirnir lærðu að finna rétta lagið — nákvæmlega rétta augnablikið — þegar lagt var á sundið í tvísýnu. Oft skall hurð nærri hælum og slysin urðu ekki umflúin, eins og hún Járngerður, og svo ótal margir fleiri hafa orðið að horfa upp á og þola. —

Áfram nú í Herrans hafni
Grindavík
En nú er allt orðið gjörbreytt til hins betra. Hætturnar leynast að vísu alls staðar, bæði á sjó og landi. Bátastærðin, öryggistækin og höfnin, allt ber það vott um þá stórkostlegu byltingu, sem átt hefur sér stað í þróun og vexti staðarins. —
Þegar þróunin verður skyndilega ör, vill það stundum gleymast að halda til haga ýmsum fróðleik varðandi atvinnusöguna og líf fólksins á viðkomandi stað. Hvert tímabil á sína sögu.
Ef við hugsum til þess að fram til ársins 1926 er svo til eingöngu róið á árabátum, þá er líklegt að ýmsir siðir og venjur, áhöld og tæki, sem þá voru notuð, séu nú lítt þekkt eða með öllu ókunn þeirri kynslóð, sem nú er að alast upp í landinu.
Við skulum leiða hugann að því að formaðurinn á áraskipinu fer árla dags á fætur, gáir til veðurs, því að þá er engin veðurþjónusta, fer síðar um kotin og kallar, þ.e. ræsir skipshöfnina. Hún bregður skjótt við og innan tíðar eru allir komnir til skips í nausti, hver maður skinnklæddur og kominn að sínum keip. Það fyrsta sem þeir gera, er að þeir taka ofan og signa sig. Þá er losað um skorður og formaðurinn segir: Áfram nú í herrans nafni. —
Samtaka ganga nú allir til verks og setja skipið á hlunnum fram í vörina, og þegar skipið flýtur, hoppa allir léttilega upp í, og setjast undir árar, en formaðurinn kemur fyrir stýri. —
Á vetrarvertíð voru skipin flest tíróin, kölluð teinæringar.
Þegar ýtt hefur verið úr vörinni er fyrst róið yfir Lónið á Járngerðarstaðavíkinni og fram á snúning, en það er hættulegasti staöurinn þegar brim er. Þegar snúningi er náð, er stefnan tekin út Víkina, en þá taka allir ofan, og halda þó róðrinum áfram, en um leið sameinast skipshöfnin í Ijóðlátri sjóferðabæn. Þegar bænin er á enda setja menn upp sjóhattinn á ný. Þannig hefst sjóferðin.

Og forða því frá öllu grandi
GrindavíkEf til vill er verið með línu, þá er hún lögð þegar komið er fram á mið, eða þá að verið er að vitja um netin.
Yfirleitt er hraði í öllum verkum og kostur þótt það að vera fljótur á sjó, því að á skammri stund skipast veður í lofti. — Glöggir formenn gerðu sér Hjótt grein fyrir því, hvort farið væri að brima eða ekki. Þeir sáu það á öldunni og það engu síður þótt í logni væri.
Þegar komið var að landi og sjóferðin var á enda var það venjan að tveir fremstu ræöararnir lögðu upp árarnar áður en komið var í vörina.
Þeir voru kallaðir framámenn og tóku sér í hönd „kolluband” og settust framan á kinnungin og höfðu það Þýðingarmikla og vandasama starf með höndum að taka skrið af skipinu þegar þeir sjálfir höfðu fengið fótfestu, og halda því á floti á meðan bskurinn var seilaður þ.e. dreginn UPP á snæri, sem kallað var seilaról, því að engin var þá bryggjan til að landa við. Seilaról var þannig gerð, að á öðrum endanum var tréspjald en á hinum endanum var lykkja. Lykkjan var þrædd í auga á seilarnál, sem venjulegast var tiltelgd úr hvalbeini.
Með seilarnálinni var svo fiskurinn seilaður upp á seilarólina og þegar allir höfðu lokið við það, voru seilarólarnar sameinaðar og bundnar við streng eða tóg, sem fesi var við klettanöf í fjöruborðinu. Á meðan þessu fór fram hafði formaðurinn nóg að gera við að halda skipinu í horfi í vörinni með sérstökum krókstjaka, sem til þess var ætlaður. Þannig unnu þeir saman formaðurinn og framámennirnir, að því að halda skipinu í réttu horfi og forða því frá öllu grandi. Var það oft erfitt verk og vandasamt, ef sogadráttur var í vörinni og mikil lá.

Hvort viltu heldur, sporð eða haus?

Grindavík

Þegar skipið hafði verið sett í naust var næsta verkefnið að bera aflann upp á bakinu, um annað var ekki að ræða. Fiskurinn var borinn upp á svokallaðri birðaról, einnig úr snæri, en miklu styttri en seilarólin. Hver maður bar það sem hann vildi í einu og var stundum keppni um það hve marga fiska var hægt að bera í einni ferð. Fiskurinn var borinn upp á svokallaðan skiptavöll og þar skipti formaðurinn aflanum í köst. Það var reyndar kallað að skipta í fjöru.
Í kastinu voru 2 hlutir. Síðan var dregið um köstin og þar sem 2 menn voru um kastið skiptu þeir á milli sín, og gerðu út um skiptin með því að annar sneri frá, en hinn spurði t.d. hvort viltu heldur sporð eða haus, lófa eða laska, skaft eða blað, hæl eða tá og sitt hvað fleira mátti nota til að gera út um skiptin. — Síðan gerði hver að sínum aflahlut.
Hér áður fyrr var talið að vetrarvertíð byrjaði 2. febrúar ár hvert og lokadagurinn var óumdeilanlega 11. maí. Í vitund fólksins var lokadagurinn mikill hátíðisdagur, sérstaklega ef vertíðin hafði verið gjöful og stórskaðalaus.
Á tímum áraskipanna var það mjög algengt, að ungir og frískir bændasynir austan úr sveitum og víðar að, fóru í verið út í Vík þ.e. Grindavík, og dæmin voru þess, að þeir komu ár eftir ár, sömu mennirnir og voru hjá sama formanninum og á heimilum þeirra og annara, sem að útgerðinni stóðu. Þessir menn voru á þeim tíma kallaðir útgerðarmenn þ.e. þeir voru gerðir út. Með þessum mönnum og heimamönnum var náið samstarf, sem leiddi oft til traustrar vináttu og samhjálpar í erfiðri lífsbaráttu. Og trúlega munu þeir menn enn finnast, sem eiga hugljúfar minningar um samveruna í verinu og kveðjustundirnar á lokadaginn 11. maí.”

Heimild:
-Faxi, 3. tbl. 01.08.1977, Grindavík – Landkostir rýrir en stutt á fengsæl fiskimið, Svavar Árnason, bls. 2-4.

Grindavík

Grindavík 1963.

Slaga

Í Morgunblaðinu 1991 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur m.a. um Fagradalsfjall og Slögu ofan Ísólfsskála.

Slaga

Slaga að sunnanverðu.

“Næstkomandi sunnudag verður farinn þriðji áfangi raðgöngu Ferðafélagsins um gosbeltið suðvestanlands. Brottför verður frá Umferðarmiðstöðinni, austanmegin, kl. 10.30 og 13. Hér á eftir er stiklað á stóru í jarðfræði þess svæðis sem farið verður um. Sé gengið frá Bláa lóninu austur yfir, má fara hvort heldur vill norðan Svartengisfells eða suður yfir Selháls og austur eftir hraununum þar fyrir sunnan og austan.
Hvor leiðin sem farin er verður gengið þvert yfir gígaröðina, sem Slaga er, þar gaus fyrir 2400 árum, en þá varð Þórkötlustaðanes til og Grindavík skapaðist. Gígaröð þessi er um 8 km löng og á þeirri sprungugrein hefur áður gosið.
Sé gengið norðan fellsins, er vert að veita því athygli hvað gróður breytist þegar kemur austur fyrir gilið, sem er upp af samkomustaðnum gamla. Vestan gilsins er fellið gróið upp eftir hlíðinni og þar grænkar fyrr á vorin. Þetta stafar af jarðhita og gilið er tengt sprungu og ummyndun af jarðhita er þar mikil. Á háfellinu er myndarlegur gígur og frá honum hafa hraun runnið og þekja fjallið.

Vatnsheiði

Vatnsstæðið í Vatnsheiði.

Austan við Sundhnúkahraunið tekur Vatnsheiði við. Það er hraunskjöldur (dyngja) eða hraunskildir öllu heldur, því gosopin eru fleiri en eitt. Nyrsti skjöldurinn er þó þeirra mestur en hraunið er pikrít, mjög ólívínauðugt berg, sem sums staðar er nærri grænt af ólívínkristöllum, en þeir eru mjög dreifðir um bergið. Vatnsheiði er eldri en sprunguhraunin í kring og hverfur því hraunið úr dyngjunum undir þau. Dyngjuhraunin hafa verið þunnfljótandi, heit og talið er að þau komi djúpt úr jörðu, jafnvel neðan úr möttli.

Fagradalsfjall

Gígurinn í Fagradalsdfjalli.

Fagradalsfjall er stapi og gígurinn er á norðurhorni þess og er all myndarlegur. Hraunborð er svo ofan á fjallinu og hallar borðinu til suðurs. Er talið líklegt að jökull hafi haldið að á báðar hliðar þegar komið var á lokastig gossins og þannig markað hrauninu rás svo úr verði þríhyrningur. Syðst á fjallinu eru yngri (nútíma) gígar og hraun í og við lítinn sigdal (snoturt umhverfi, góður hvíldarstaður).

Slaga

Slaga – berggangur.

Slaga. Sunnanfrá séð er Slaga mest áhugaverð. Neðst ofan við skriðurnar koma fram gráir stuðlabergshamrar (grágrýti). Að ofan eru þeir rispaðir af jökli (sést ekki nema upp sé klifrað, varúð, grjóthrun getur átt sér stað). Ofan á þessu kemur svört brotabergskennd gosmyndun, sem þó er yngri en jökull sá er heflaði grágrýtið.
Aðrennslisæð þessarar gosmyndunar má sjá norðaustan til í brúninni, ljósgrá brík, gangur, skerst þar upp í brún og fleiri gangar, þunnir, eru þarna. Á síðjökultíma hefur sjór fallið upp að fjallinu. Hraun hafa þarna og nokkuð austar eftir skapað væna sneið af nýju landi.” – Höfundur er jarðfræðingur.

Heimild:
-Morgunblaðið, 98. tbl. 03.05.1991, Slaga, Jón Jónsson, bls. 25.

Slaga

Slaga.