Færslur

Rauðhóll

Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson skrifuðu um “Hraun í nágrenni Straumsvíkur” í Náttúrfræðinginn árið 1998.

Hraun í nágrenni Straumsvíkur
HraunÞegar fjallað er um hraunstrauma þá sem á síðustu árþúsundum hafa runnið í átt til sjávar í Straumsvík og næsta nágrenni er óhjákvæmilegt að sú umfjöllun teygi sig til upptakanna, eldgíganna sjálfra. Af þeim sökum nær umfjöllunin yfir um 200 ferkílómetra svæði, þ.e. ströndina frá Hvaleyrarholti til vesturs að Vatnsleysuvik (Kúagerði) og frá ströndinni suður í Reykjanesfjallgarð milli Grindarskarða og Trölladyngju. Á þessu svæði er fjöldi hrauna og sum sjást ekki á yfirborði, því yngri hraun þekja þau alveg. Þeirra verður aftur á móti vart í borholum, m.a. á athafnasvæði álversins í Straumsvík. Leitast er við að draga upp einfalda mynd af því hvaða leið hraunin hafa runnið og hvernig þau hafa, eitt af öðru, lagt sitt af mörkum til að færa ströndina til núverandi horfs. Örnefni á þessu svæði eru fjölmörg og þau eru ekki bundin við einstaka hraunstrauma heldur ákveðin svæði. Þannig getur sama hraunið heitið mörgum nöfnum og nöfn geta einnig náð yfir hluta úr mörgum hraunum. Þau nöfn sem hér eru notuð á einstökum hraunum ber ekki að taka sem örnefni heldur sem sérheiti á jarðmyndunum.

Hraun frá fyrri hluta nútíma
HraunÞað tímaskeið jarðsögunnar sem tók við er ísöld lauk, fyrir 10.000 árum, nefnist nútími og varir hann enn. Á þeim tíma runnu hraunstraumar þeir sem almennt kallast hraun f dag (2. mynd). Elst þeirra hrauna sem sjást á yfirborði á þessu svæði er Búrfellshraun en það rann fyrir um 7.300 árum (Guðmundur Kjartansson 1973).

Búrfellshraun

Hraunið rann frá stórum gíg ofan við Hafnarfjörð sem Búrfell heitir og er hann nyrsti gígurinn í Krýsuvíkurrein. Frá Búrfelli rann hraunið til norðvesturs í tveimur meginkvíslum og fór önnur niður í Hafnarfjörð (Hafnarfjarðarhraun) en hin í Arnarnesvog (Gálgahraun). Að líkindum hefur á sama tíma runnið hraun til norðurs frá öðrum gíg, Hraunhól, sem er skammt norðan við Vatnsskarð. Hraunhóll er nú rústir einar eftir efnisnám. Hraunið frá honum kemur fram í Selhrauni, um einn og hálfan kílómetra suður af Straumsvík, og hefur sannanlega runnið þar í sjó fram. Neðst í Almenningum og Selhrauni koma fram þrjú hraun sem eru yngri en Búrfellshraun. Upptök þeirra eru ekki þekkt og hafa gígarnir líklega horfið undir yngri hraun. Eitt þessara hrauna er sýnu mest og hefur það runnið fram í a.m.k. fjögurra kílómetra breiðri tungu og fært þáverandi strönd allnokkuð út. Skáhallt norðaustur yfir Almenninga neðarlega hefur runnið þunnt hraun sem hverfur inn undir Kapelluhraun skammt suður af Straumsvfk. Upptök þessa hrauns eru lfklega norðan við Grænudyngju. Aldur hraunsins er óþekktur nema af afstöðunni til annarra hrauna, og er það yngra en Hrútagjárdyngja og eldra en Kapelluhraun.

Hrútargjárdyngja

Hrútagjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Langmesta hraunið á þessum slóðum er Hrútagjárdyngja. Upptök þess eru nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem Hrútagjá heitir og við hana er dyngjan kennd. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og myndar það ströndina milli Vatnsleysuvíkur og Straumsvíkur. Stærsti hluti hraunsins gengur í daglegu tali undir nafninu Almenningar. Að vestan hefur hraunið runnið upp að eða út á hraundyngju frá ísaldarlokum, Þráinsskjaldarhraun. Þegar Hrútagjárdyngja rann var sjávarstaða nokkru lægri en nú er og hefur hraunið fært ströndina mikið fram. Bungulögun Hrútagjárdyngju og Þráinsskjaldar veldur því að slakki er á milli dyngnanna og eins er slakki austan Hrútagjárdyngju, milli hennar og Undirhlíða. Yngri hraun hafa haft tilhneigingu til að renna í átt til sjávar eftir þessum slökkum. Ekki hefur enn tekist að aldurssetja Hrútagjárdyngju, en öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir um 5.000 árum.

Skúlatúnshraun – Hellnahraunið eldra

Skúlatún

Skúlatún – Helgafell fjær.

Fyrir um 2.000 árum varð mikil goshrina á Reykjanesskaga og gaus þá m.a. í Brennisteinsfjallareininni. Frá einum gígnum, Stórabolla í Grindarskörðum, rann mikið hraun niður í átt að Straumsvík. Það breiddist út yfir stórt svæði ofan við Helgafell og Húsfell. Ein kvísl hraunsins rann sunnan og vestan við Helgafell og þaðan niður á milli Helgafells og Gvendarselshæðar og síðan vestur fyrir Stórhöfða, allt tíl sjávar og myndaði núverandi strönd milli Straumsvíkur og Hvaleyrarholts. Þetta hraun stíflaði uppi Hvaleyrarvatn. Suður af Helgafelli heitir hraunið Skúlatúnshraun en við Hvaleyrarholt myndar það meginhluta Hellnahrauns.

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni.

Fyrir um 1800 árum varð gos í Krýsuvíkurrein og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum við Bláfjallaveg (Jón Jónsson 1974). Hraunið frá þeim, sem að hluta heitir Óbrinnishólabruni, rann í mjóum taumi langleiðina niður undir Straumsvík. Gígarnir í Óbrinnishólum eru nú aðeins svipur hjá sjón því þeir hafa verið grafnir út.

Hellnahraunið yngra

Hraun

Hraun ofan Straumsvíkur.

Fyrir um eitt þúsund árum hófst goshrina á Reykjanesskaga (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991). Hrinan hófst með gosum í Brennisteinsfjallarein á tíundu öld. Þá runnu m.a. Svínahraunsbruni frá Eldborgum við Lambafell (Kristnitökuhraun), stórir hraunflákar í Húsfellsbruna komu frá Kóngsfellsgígum og Eldborg í Bláfjöllum og mikil hraun runnu frá gígaröðum í Brennisteinsfjöllum; runnu þau m.a til sjávar í Herdísarvík. Þá gaus í Tvíbollum í Grindarskörðum og rann einn hrauntaumurinn nánast sömu leið og Skúlatúnshraun í átt til Straumsvíkur. Hrauntaumurinn endaði skammt frá Sædýrasafninu sáluga og átti þá ófarna um 300 m til sjávar.

Kapelluhraun

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess.
Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krísuvfkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni. Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krýsuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík. í sama gosi rann hraun frá röð minni gíga sem liggur meðfram Undirhlíðum og norður um Gvendarselshæð. Rann það m.a. niður í Kaldárbotna. Kapelluhraun er úfið apalhraun og hefur verið hinn versti farartálmi nýrunnið. Því hafa menn tekið það ráð að ryðja braut í gegnum það. Brautin hefur nú verið eyðilögð með öllu, að undanskildum um tuttugu metra kafla við svonefnda Kapellu sem er lítil rúst í hrauninu. Kristján Eldjárn rannsakaði kapellu þessa 1950 (Kristján Eldjárn 1956) og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Heilög Barbara var góð til áheita gegn eldsgangi hvers konar. Hún var einnig verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðsmannna og námumanna og raunar einnig verkfræðinga og jarðfræðinga. Kapellutóftin er á fornminjaskrá. Kapelluhraunið var ákaflega fallegt, úfið og mosagróið, en nú hefur karganum verið flett af yfirborði þess á stórum svæðum svo hörmung er á að líta. Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu.

Gervigígar

Þorbjarnastaðarauðamelur

Í Þorbjarnastaðarauðamel.

Á svæðinu eru nokkrir gervigígar sem stinga kollinum upp úr yngri hraunum. Gervigígarnir hafa myndast við það að hraun runnu í sjó og sýna þeir því legu strandarinnar á myndunartímanum. Gervigígunum í nágrenni Straumsvíkur má skipta í þrjá hópa eftir útbreiðslu.
Austast var Rauðhóll við Hvaleyrarholt, sem stóð upp úr Hellnahrauninu eldra, en langt er síðan hóllinn hvarf vegna efnisnáms og þar er nú geil í hraunið. Nokkru sunnar og vestar standa tveir gervigíar upp úrsamahrauni.
Í Selhrauni, skammt suður af kvartmílubrautinni, hefur verið numið töluvert magn af gjalli úr gervigígum sem standa þar upp úr einu af elstu hraununum á svæðinu (Selhraun 4, Helgi Torfason o.fl. 1993).
Skammt suður og vestur af Straumsvík er mikil rauðamalargryfja í Hrútagjárdyngju. Þar var upphaflega rauðamalarbunga upp úr hrauninu, Rauðimelur sem svo var nefndur. Nokkru vestar má sjá í kollinn á allmiklum gjallhól og enn vestar hefur hinn þriðji verið numinn brott.
Í flestum þessara gervigíga hafa fundist skeljar sem þeyst hafa upp úr þeim er hraun rann út yfir setlög við þáverandi strönd. Ekkert er vitað um aldur gíganna annað en að þeir eru örugglega myndaðir eftir ísöld og eru eldri en hraunin sem upp að þeim hafa runnið.

Niðurlag

Hraun

Hraun ofan Straumsvíkur.

Núverandi strönd við Straumsvík er mynduð af þremur hraunum. Elst og vestast eru hraun Hrútagjárdyngju, sem runnu frá stórum dyngjugíg nyrst í Móhálsadal fyrir um 5.000 árum. Vestast er Hellnahraunið eldra, sem er langt að komið, upprunnið í Grindarskörðum í Brennisteinsfjallareininni fyrir um 2.000 árum. Bæði þessi hraun eru helluhraun og fremur auðveld yfirferðar.
Yngsta hraunið er Kapelluhraun, úfið apalhraun, sem rann árið 1151 frá gígum suður undir Vatnsskarði. Það rann til sjávar um lægð sem myndast hafði á mótum Hrútagjárdyngju og Hellnahraunsins eldra. Á síðustu 10.000 árum hafa hraunstraumar smám saman fært ströndina fram sem nemur allt að 2 km.
Eldgos á Reykjanesskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár.
Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240.1 hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.
Af ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krýsuvíkurrein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hinsvegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni.

Helstu heimildir höfunda:
-Guðmundur Kjartansson 1973. Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð. Náttúrufræðingurinn 42. 159-183. Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson 1989.
-Krýsuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins. Jökull 38. 71-87. Helgi Torfason, Árni Hjartarson, Haukur Jóhannesson, Jón Jónsson & Kristján Sæmundsson 1993.
-Berggrunnskort: Elliðavatn 1613 III-SV-B 1:25.000. Landmælingar Íslands, Orkustofnun, Hafnarfjarðarbær, Garðabær, Kópavogsbær, Seltjarnarnesbær og Reykjavíkurborg.
-Jón Jónsson 1978. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Orkustofnun OS-JHD 7831. 303 bls. kortamappa.
-Jón Jónsson 1974. Óbrinnishólar. Náttúrufræðingurinn 44. 109-119.
-Kristján Eldjárn 1956. Kapelluhraun og Kapellulág. Árbók Fornaleifafélagsins 1955-56. 5-8.
-Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 1991. Krýsuvíkureldar ll. Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra. Jökull 41. 61-80.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 67. árg., 3.-4. tbl., 01.05.1998, Hraun í nágrenni Straumsvíkur, Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1960-1961, bls. 171-177.

Hraun

Hraunin ofan Straumsvíkur.

Jarðskjálfti

Stærsti jarðskjálfti á sögulegum tíma á Íslandi er gjarnan talinn vera skjálftinn á Suðurlandi 14. ágúst 1784. Stærð hans hefur verið metin 7,1. Þessi stærð er að sjálfsögðu ekki fengin með mælingum enda komu skjálftamælar ekki til sögunnar fyrr en rúmri öld síðar. Stærðin er fengin með því að bera áhrif skjálftans saman við áhrif annarra skjálfta á sama svæði sem mælingar eru til á. Það er einkum jarðskjálftinn á Rangárvöllum árið 1912 sem hefur verið notaður í þessum tilgangi. Hann mældist 7 stig að stærð og áhrifasvæði hans var nokkru minna en skjálftans 1784. Ætla má að byggingar hafi verið sambærilegar á Suðurlandi í báðum skjálftunum.

Jarðskjálftar

Margir bæir hafa hrunið í jarðskjálftum hér á landi.

Skjálftinn 1784 átti upptök í Holtum. Þar varð tjónið mest og í nágrenni Eystra-Gíslholtsvatns má finna sprungur sem telja má að hafi orðið til í upptökum skjálftans. Finna má vísbendingar um þetta upptakamisgengi til norðurs og teygir það sig í átt til Skálholts. Þar varð einmitt tilfinnanlegt tjón í skjálftanum. Varð það mönnum tilefni til vangnavelta um að flytja biskupsstólinn og Skálholtsskóla til Reykjavíkur.

Stærstu skjálftar á Íslandi sem mælst hafa eru skjálfti undan norðurströndinni 1910, fyrrnefndur skjálfti á Rangárvöllum 1912, og skjálfti sem varð fyrir mynni Skagafjarðar árið 1963. Allir mældust þeir 7 stig að stærð. Nýlegri skjálftar hafa mælst nokkru minni, til dæmis voru skjálftarnir 17. og 21. júní 2000 af stærðinni 6,5, sömuleiðis Kópaskersskjálftinn 1976.

Jarðskjálftar á Reykjanesskaga

Jarðskjálftar

Jarðskálftabelti landsins.

Í kjölfar atburða á Reykjanesskaga hefur Páll Einarsson, prófessor emeritus við Jarðvísindadeild, tekið saman yfirlit yfir jarðskjálftavirkni á svæðinu og byggir þar á nýlegri grein Sveinbjörns Björnssonar o.fl. höfunda.

Að sögn Páls byggja gögn fyrir árið 1900 á samantekt Þorvaldar Thoroddsen, meðan skýrsla Kjartans Ottóssonar er helsta heimildin fyrir tímabilið 1900-1930 og skýrslur Eysteins Tryggvasonar fyrir áratugina 1930-1960. „Frá 1960 er stuðst við lista frá International Seismological Centre, Veðurstofu Íslands og Sveinbirni Björnssyni o.fl. Eftir að mælitæki koma til sögunnar eru skjálftar á listanum einungis tilgreindir ef stærðin er 5 eða meira, eða ef þeir ollu tjóni, tengdust sprunguhreyfingum eða breytingum á hveravirkni.“

Sögulegt yfirlit

Jarðskjálftar

Jarðskálftasvæði Reykjanesskagans.

1151: „Eldur uppi í Trölladyngjum, húsrið og manndauði“.

1211: „Eldur kom upp úr sjó fyrir utan Reykjanes. Sörli Kolsson fann Eldeyjar hina nýju, en hinar horfnar er alla æfi höfðu staðið. Þá varð landskjálfti mikill hinn næsta dag fyrir Seljumannamessu og létu margir menn líf sitt. … og féllu ofan alhýsi á fjölda bæjum og gjörðu hina stærstu skaða.“

1240: „Landskjálftar miklir fyrir sunnan land. Sól rauð. Eldur fyrir Reykjanesi.“ Þetta er talið vera síðasta eldgosið í hviðu slíkra atburða á Reykjanesskaga. Hviðan er talin hafa byrjað stuttu eftir 870 AD og voru flest gosin hraungos (Kristján Sæmundsson og Magnús Sigurgeirsson, 2013).

1724: Jarðskjálfti í ágústmánuði. Hrapaði bærinn í Herdísarvík og maður fórst við sölvatekju undir Krýsuvíkurbjargi.

1754: Jarðskjálfti í Krýsuvík, og kom þar upp hver, 6 faðma víður og 3 faðma djúpur.

1785-1886: Jarðskjálftar fundust mörgum sinnum í Reykjavík og nágrenni, en ekki er getið um tjón. Sterkustu skjálftarnir voru 1868.

1879: „Allharðir landskjálftakippir á Reykjanesskaga um lok maímánaðar, harðastir voru þeir í nánd við Krýsuvík, sterk baðstofa á Vigdísarvöllum féll og í Nýjabæ við Krýsuvík flýði fólk úr húsum. Um sama leyti hófst eldgos á mararbotni fyrir utan Reykjanes nærri Geirfuglaskeri.“

Jarðskjálftar

Nýleg jarðskálftahrina á Reykjanesskaga.

1887: Jarðskjálftahrina gekk yfir Reykjanes og fundust margir kippir um Suðvesturland. Valahnúkur, sem Reykjanesviti stóð á, klofnaði og féllu úr honum stykki. Leirhverinn Gunna nærri Reykjanesvita breyttist töluvert.

1889: Sterkur jarðskjálfti olli minni háttar tjóni í Reykjavík og nærliggjandi byggðum. Nokkur hús hrundu á Vigdísarvöllum og í Krýsuvík.

1899: Skjálftahrina gekk yfir Reykjanes og varð tjón á vitanum. Við Gunnuhver opnaðist sprunga og breytingar urðu á hvernum.

1900-1910: Vægir skjálftar fundust oft við Reykjanesvita á þessum árum. Umtalsvert tjón varð í janúar 1905 á Litla Nýjabæ, Vigdísarvöllum og Ísólfsskála.

1919: Reykjanesviti skemmdist í jarðskjálfta sem fannst víða á Reykjanesskaga. Nýr hver myndaðist á Reykjanesi.

1920: Skjálfti varð 14. maí sem líklega átti upptök í Krýsuvík, fannst í Reykjavík. Mældist 5,2 að stærð.

1924: Sterkur jarðskjálfti varð 4. september í Krýsuvík, fannst víða. Nýr hver, Austurengjahver, myndaðist, sprungur opnuðust og grjót hrundi úr fjöllum. Stærðin mældist 5,1.

1924: Í desember varð áköf hrina á Reykjanesi sem olli minni háttar tjóni á vitanum. Stærsti skjálftinn metinn 4,7 stig.

1925-1928: Tíðir jarðskjálftar fundust á Reykjanesi. Vitinn skemmdist 25. október 1926. Sprungur mynduðust í jörð og breytingar urðu á hverum.

1929: Hinn 23. júlí varð stærsti skjálfti sem vitað er að hafi orðið á Reykjanesskaga. Upptök hans voru nálægt Brennisteinsfjöllum, líklega á hinu svokallaða Hvalhnúksmisgengi. Stærðin var 6, 3 og skjálftinn fannst víða um land og olli umtalsverðu tjóni í Reykjavík og nágrenni.

Jarðskjálftar

Vegsummerki eftir jarðskálfta.

1933: Skjálfti sem varð 10. júní fannst víða á Suðvesturlandi. Upptökin voru líklega suður af Keili og vestan Núpshlíðarháls. Rétt við Vigdísarvelli hrundi og mikið rót varð á yfirborði jarðar, sprungur og viðsnúnir steinar. Mælingar erlendis gáfu stærð skjálftans tæplega 6 stig.

1935: Skjálfti 9. október átti upptök á Hellisheiði. Minni háttar tjón varð, en grjót hrundi úr fjöllum og vörður á Hellisheiði féllu á nokkru svæði. Mælingar gefa stærð um 6 stig.

1952: Skjálfti að stærð 5,2 átti upptök nærri Kleifarvatni. Hann fannst víða en olli engu tjóni.

Jarðskálfti

Ummerki jarðskálfta.

1955: Skjálfti ad stærð 5,5, sem varð 1. apríl, átti upptök austarlega á Hellisheiði. Hann fannst víða en olli litlu tjóni.

1967: Kröftug skjálftahrina átti upptök á Reykjanesi 28.-30. september. Miklar breytingar urðu á jarðhitasvæðinu þar og sprungur mynduðust. Stærsti skjálftinn var af stærðinni 4,9 en alls urðu 14 skjálftar af stærðinni 4,0 og stærri. Skjálftarnir fundust víða en tjón var óverulegt.

1968: Jarðskjálfti af stærðinni 6,0 varð 5. desember og átti hann upptök í Brennisteinsfjöllum, líklega á Hvalhnúksmisgenginu, líkt og skjálftinn 1929. Brotlausn hans sýnir að hann varð vegna hægri handar sniðgengishreyfinga á misgengi með N-S stefnu. Skjálftinn fannst víða og olli minniháttar tjóni í Reykjavík.

Jarðskálfti

Afleiðingar jarðskálfta innanhúss.

1973: Skjálftahrina gekk yfir Reykjanesskaga 15.-17. september. Fimm skjálftar voru stærri en 4, þar af þrír stærri en 5, sá stærsti 5,6. Virknin byrjaði í Móhálsadal, austan Djúpavatns og færðist síðan til vesturs, allt vestur að Eldvörpum. Stærsti skjálftinn varð vegna hægri handar sniðgengishreyfinga á misgengi með N-S stefnu.

1974: Jarðskjálftahrina varð 8. desember skammt undan ströndinni á Reykjanesi. Fjórir kippir voru á stærðarbilinu 4,0-4,5.

2000: Jarðskjálftinn 17. júní á Suðurlandi hleypti af stað röð skjálfta á flekaskilunum sem liggja um Reykjanesskagann, allt vestur að Núpshlíðarhálsi. Þrír skjálftanna voru stærri en 5. Sá stærsti (5,9) átti upptök undir Kleifarvatni. Vatnsborð Kleifarvatns féll um 4 metra á næstu vikum. Þá voru FERLIRsfélagar á göngu í Sveifluhálsi, en sakaði ekki.

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

2003: Jarðskjálfti að stærð 5,0 varð 23. ágúst og átti upptök nálægt Krýsuvík. Honum fylgdu margir smærri eftirskjálftar sem röðuðu sér á N-S línu.

2013: Skjálfti að stærð 5,2 með upptök skammt austan Reykjaness varð 13. október. Ekkert tjón varð en sprungur sem hreyfðust á svæði austan jarðhitasvæðisins gáfu til kynna færslur á vensluðum sniðgengjum með stefnur í norður og aust-norð-austur.

Sjá meira um jarðskjálfta á Íslandi fyrrum.

Heimildir:

-https://is.wikipedia.org/wiki/Jar%C3%B0skj%C3%A1lftar_%C3%A1_%C3%8Dslandi
-Eysteinn Tryggvason, 1978a. Jarðskjálftar á Íslandi 1930 – 1939. Raunvísindastofnun Háskólans, Skýrsla RH-78-21, 92 pp.
-Eysteinn Tryggvason, 1978b. Jarðskjálftar á Íslandi 1940 – 1949. Raunvísindastofnun Háskólans, Skýrsla RH-78-22, 51 pp.
-Eysteinn Tryggvason, 1979. Earthquakes in Iceland 1950 – 1959. Raunvísindastofnun Háskólans, Skýrsla RH-79-06, 90 pp.
-International Seismological Centre, 2014.
-Kjartan Ottósson, 1980. Jarðskjálftar á Íslandi 1900 – 1929. Raunvísindastofnun Háskólans, Skýrsla RH-80-05, 84 pp .
-Sveinbjörn Björnsson, Páll Einarsson, Helga Tulinius, Ásta Rut Hjartardóttir, 2018. Seismicity of the Reykjanes Peninsula 1971-1976. J. Volcanol. Geothermal Res., https://doi.org/10.1016/j.jvolgeores.2018.04.026.
-Þorvaldur Thoroddsen, 1899. Jarðskjálftar á Suðurlandi. Hið íslenska bókmenntafélag, Kaupmannahöfn, 197 bls.
-Þorvaldur Thoroddsen, 1905. Landskjálftar á Íslandi, II. Jarðskjálftar við Faxaflóa. Hið íslenska bókmenntafélag. Kaupmannahöfn. bls. 201-269.-
Þorvaldur Thoroddsen,1925. Die Geschichte der isländischen Vulkane, Det Kongelige Danske Videnskabernes Selskab, Köbenhavn 1925, 18+458 p.
-https://jardvis.hi.is/sogulegt_yfirlit_um_jardskjalftavirkni_reykjanesskaga

Jarðskálftar

Yfirlit yfir styrk jarðskjálfta á Íslandi aftur til 1734.

Jarðskjálfti

Jarðskjálftar á Íslandi verða á brotabelti á flekaskilum. Tvö slík belti eru á landinu: Á Suðurlandi, frá Ölfusi til Landssveitar og á Norðurlandi, kennt við Tjörnes. Öflugustu jarðskjálftar á Íslandi eru um 7 að stærð og geta valdið töluverðu tjóni. Þeir eru tíðir undir brotabeltunum og undir megineldstöðvum.

Ebenezer Henderson

Bók Ebenezers Hendersons um ferðalag hans á Íslandi – útg. 1818.

Enskur ferðamaður var hér á landi í byrjun 19. aldar og skrifaði um ýmislegt áhugavert, sem hann bæði heyrði og bar augum. Skrif hans birtust í framhaldinu í bókinni “Iceland; or the Journal of a Resicence in that Island, during the years 1814 and 1815″ eftir Ebenezer Henderson, London 1818. Á bls. 235-239 skrifar hann um jarðskjálfta  á Íslandi eftir að hafa fundið fyrir einum slíkum er hann var við Geysi í Haukadal í lok ferðar sinnar um landið.

“Fyrstu jarðskjálftarnir, sem vitað er um, urðu á árunum 1181 og 1812; en við vitum ekki um afleiðingar þeirra. Árið 1211 er fyrst getið um jarðhræringar í neðansjávareldfjalli nálægt Reykjanesi og fjöldi jarðskjálfta fylgdu í kjölfarið og nokkrir létust og hús víða um Ísland hrundur gjörsamlega til grunna. Á árunum 1260 og 1261 varð vart við harða skjálfta í Flatey á Breiðafirði. Árið 1294 skalf jörð í Rangárvallasýslu; Rangá breytti um farveg og margir bæir snerust á hvolf, og í átta daga urðu allir hverir hvítir sem mjólk. Árið 1300 gaus Hegla og miklar jarðhræringar fylgdu í kjölfarið á Suðurlandi og mötg hús hrundu. Skjálftahrina fygldi í kjölfarið átta árum síðar. Þá eyðilöguðust átján bæir og menn og skepnur dóu.

Ebenezer Henderson

Ebenezer Henderson fæddist 17. nóvember 1784 í litlum bæ í Dunfermline-héraði í Skotlandi og lést 17. maí 1858 skammt þar frá. Bók sem hann skrifaði um dvöl sína á Íslandi 1814-1815 er talin með merkari ferðabókum þar sem öllu er lýst mjög nákvæmlega, einkum jarðfræðitengdum fyrirbærum og hún er skrifuð í Reykjavík að stóru leyti.

Árið 1311 varð skelfilegur jarðskjálfti þar sem ekki færri en fimmtíu og einn bær hrundu og dró fyrir sólu þegar aska og sandur voru ýft upp af eldfjöllum svo ómögulegt var að ferðast frá einum hluta landsins til annars. Árið 1313 eyddust átján hús í miklum jarðskjálfta. Árið 1339 fundust nokkir skjálftar á Suðurlandi, útihýs hrundu og nautgripir lyftust frá jörðu, nokkur fjöll skriði, sprungur og hverir mynduðust. Árið 1370 hrundu tólf bæir í jarðskjálfta í Ölfusi.

Geysir

Mynd af Geysi í bók Ebenezers.

Á árunum 1390 og 1391 urðu fjöldi jarðskjálfta, einkum síðarnefnda árið; fjórtán bæir eyðilögðust í Grímsnesi, Flóa og Ölfusi og fólk grófst undir rústunum. Jörð breyttist; sjóðandi vatn spratt upp, og áhrifa skjálftans fannst alla leið upp á Holtavörðuheiði.
Árið 1552 urðu nokkrir stórir jarðskjálftar, en engar skemmdir urðu á mannvirkjum; og árið 1554 héldu skjáltarnir slíkt áfram að fólk dirfiðist ekki að vera innan dyra í húsum sínum heldur héldu til í tjöldum. Nokkrir jarðskjálftar urðu 1578; og árið 1597 olli skjálfti allmiklum skemmdum á bæjum í Ölfusi. Árið 1614 varð endurtekin skjálftahrina allt haustið og nokkrir bæri hrundu. Um veturinn 1633 eyddust bæri í Ölfusi og áhrifin voru svo mikil að í mörgum kirkjum varð engin þjónusta það sem eftir lifði vetri. Árin 1657 og 1661 urðu nokkuð harðir jarðskjálftar á mismunandi stöðum í Fljótshlíð, suðaustan Heklu, og nokkur hús jöfnuðust við jörðu.

Jarðskjálftar

Margir bæir hafa hrunið í jarðskjálftum hér á landi.

Alvarlegastu jarðskjálftarnir fundust í Ölfusi og í Flóa 28. janúar, 1. apríl og þann 20. árið 1706. Ekki færri en tuttu og fjórir bæir eyðilögðust, fjölmargir urðu fyrir skemmdum og nautgripir drápust. Skjálftunum fylgdu aðrir stórir og smáir um vorið, og voru raktir til heklu og nágrennis.
Líkt og jarðhræringar í Skaptáreldum voru hinar hræðilegustu skráðum í annála Íslands, urðu jarðskjálftarnir sem 14. og 16. ágúst 1784 þeir afdrifaríkustu, sem orðið höfðu fyrir íbúa landsins. Þeir munu hafa orðið á svæði vestan Heklu og fundust um land allt. Í Snæfellssýslu og Ísafirði fundust þeir greinilega. Í Árnessýslu einni hrundu ekki færri en þrjú hundruð og sjötíu og tveir bæir; sextíu og níu gereyðilögðust. Fjöldi húsa er skemmdust í landinu urðu eitt þúsund fjögur hundruð og fimmtíu og níu. Nítján kirkjur skemmdust og fjórar algerlega.
Til viðbótar skemmdum á húsum spilltust hagar, ár breyttu um farvegi og mikil grjóthrun varð í hlíðum fjalla. Margir sjóðandi hverir hurfu og aðrir nýir spruttu upp. Við Geysi nálægt Haukadal birtust ekki ekki færri en þrjátíu og fimm nýir hverir á svæðinu.
Árið 1789 varð enn einn afdrifaríkur jarðskjálfti. Í fyrstu varði hann í u.þ.b. tíu mínútur, en varð síðan viðvarandi af og til það hluta sumarsins. Áhrif skjálftans urðu mest í kringum Þingvallavatn. Botn vatnsins sökk til norðausturs, víða flæddi yfir gamlar leiðir og til suðvesturs og þornaði vatnið upp á allt að fjóra faðma dýpi (haft eftir biskupi Finnssyni).
Árið 1808 reið harður jarðskjálfti yfir sem hafði áhrif á háhitasvæði landsins. Síðasti skjálftinn var í júni 1815, en hann var vægur og fannst einungis í norðurhluta landsins.”

Sjá meira um jarðskjálfta á Reykjanesskaga.

Heimild:
-Iceland; or the Journal of a Resicence in that Island, during the years 1814 and 1815 by Ebenezer Henderson, London 1818, bls. 235-239.

Ebenezer Henderson

Ebenezer Henderson var skoskur guðfræðingur og ritaði gagnmerka bók um ferðir sínar, land og þjóð. Bókinni fylgir kort af Íslandi, gert að fyrirsögn höfundarins af feðgunum Daniel og William Home Lizars. Undirstaðan eru kort af Knoff-gerð, sérstaklega þau sem Jón Eiríksson átti hlut að. Helsta nýmælið á kortinu er að búið er að kippa norðanverðum Vestfjörðum suður fyrir heimskautsbaug. Annars er það í svo litlum mælikvarða að lítið af athugunum Hendersons kemst til skila.

Ásdís Dögg

Ásdís Dögg Ómarsdóttir jarðfræðingur, gönguleiðsögumaður og einn eigenda Asgard ehf. og starfsmaður Fjallakofans hefur smekk fyrir ævintýrum. Hún elskar náttúruna og dýrkar Ísland. Hún deilir hér með okkur gönguleið vikunnar í Innstadal.

Innstidalur“Það tekur um 20 mínútur að keyra frá Rauðavatni í Reykjavík að Hellisheiðarvirkjun. Eftir að beygt hefur verið út af þjóðvegi 1, er ekið er framhjá stöðvarhúsinu beint af augum í átt að Henglinum. Ef maður fylgir veginum þangað sem leyfilegt er að aka, endar maður á nokkuð veglegu bílastæði í Sleggjubeinsdal sem markar upphaf göngunnar.

Leiðin er vel merkt með skiltum og stikum, í okkar tilfelli gulum stikum með bláum toppi.

Í upphafi er á brattann að sækja áleiðis að Slekkjubeinsskarði, en stígurinn er glæsilegur og virkilega gaman að ganga eftir honum.

Hækkunin er um 150 m og á meðan gengið er upp í móti öskrar blásandi borholan við bílastæðið á mann. Það er engu líkara en myrkrahöfðinginn hafi fengið aðgang að yfirborði jarðar og skammi okkur öll sem eitt af lífs og sálar kröftum. Sem betur fer nýtist þessi kraftur okkur vel í formi hitaveitu og orkuframleiðslu. Það er ekki hægt annað en að vera þakklátur fyrir alla þessa hreinu orku sem við eigum, og fríska loftið sem maður andar að sér á leiðinni minnir mann á það.

Innstidalur

Innstidalur.

Þegar hækkuninni er að mestu lokið lækkum við okkur ofan í breiðan grasivaxinn dal, og göngum um 1 km eftir sléttu. Þar sem þunnt lag af snjó þakti grasið á þessu kalda þriðjudagssíðdegi, var virkilega notalegt að ganga á grasinu. Nánast eins og að ganga á skýi eða stífu trampólíni. Það var erfitt að valhoppa ekki. Og kannski gerðist það óvart nokkrum sinnum. Þögnin í dalnum var ærandi, þegar öskrandi borholan var komin í hæfilega fjarlægð. Og það var gaman að sjá í snjónum spor eftir alls konar fugla og ref. Öll dýrin á sléttunni eru tæplega vinir þegar veturinn skellur á. Þá lifa bara þau hæfustu af.

Þegar komið er í Innstadal, greinist leiðin og hægt er að ganga alla leið í Hveragerði og jafnvel yfir á Úlfljóstvatn. Einnig er hægt að ganga á Vörðuskeggja, hæsta tind Hengils (803 m.y.s.).

Mikill jarðhiti er í Innstadal; mikið er um hveri, gíga og heitt vatn í dalnum. Og einn mesti gufuhver landsins er í Innstadal. Stefnan var m.a. tekin á gilið er hýsir hverinn, en áður var huga beint að bæði jarðfræðinni og fyrrum útilegumannahelli innst í Innstadal.

Hengill er eitt svipmestu fjöllum í grennd við Reykjavík. Hengill telst til stapafjalla en er mjög sprunginn og hagaður.  Hengill er aðallega úr móbergi en grágrýtishrúður er uppi á honum.

Innstidalur

Lækur í Innstadal.

Ef við eltum leiðina upp á Vörðuskeggja (svartar stikur), framhjá litlum skála, Lindarbæ, skammt neðan við Hveragilið, þá er hægt að baða sig í heitum læk, sem eru frábært verðlaun fyrir um það bil 4 km göngu. Og endurnæra sig fyrir gönguna til baka.

Þar sem myrkrið var að skella á og ískaldur vindur farinn að læsa sig í kinnarnar, var látið nægja í þetta sinn að skoða sig um í Innstadal, stökkva uppá nokkra hóla og njóta útsýnisins sem var glæsilegt þrátt fyrir þungbúinn himinn. Svo var haldið til baka svipaða leið eftir heita hressingu. Það er vissulega kominn nóvember, en enn hefur ekki snjóað í Reykjavík, svo val á skóbúnaði litaðist af íslenskri bjartsýni og sól í hjarta. Slapp til en var ekki sá ákjósanlegasti.

Á leiðinni eru óbrúaðir lækir, sem hægt er að stikla yfir á steinum. Fara þarf varlega þegar frystir, því þá eru steinar í lækjum þaktir ís. Og að sjálfsögðu þarf alltaf að huga að veðurspá þegar lagt er af stað í leiðangur að vetrarlagi, og snúa við ef manni lýst ekki á blikuna. Áfangastaðurinn bíður alltaf eftir manni.

Njótið útivistarinnar.”

Heimild:
-https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2020/11/06/gonguleid_vikunnar_innstidalur/

Innstidalur

Áð í Innstadal.

Hvalbak

Við Álfhól í Kópavogi er upplýsingaskilti. Þar má m.a. lesa eftirfarandi:
Hóllinn er trúlega þekktasti álfhóll Kópavogs og hefur skapað sér slíkan sess í skipulagi bæjarins að varla verður honum hnikað héðan af. Hann er sýnilegt dæmi um þjóðtrú Íslendinga og hve sterk hún hefur verið allt fram á þennan tíma. Hólinn mætti merkja með látlausum hætti.

Kópavogur

Álfhóll.

Álfhóll er stórgrýttur grasi gróinn hóll sem gengur út í götuna. í hólnum er sagt að búi þrír álfar, einn gamall og tveir unglingsálfar; en að þeir hafi verið fleiri hér áður.
Fjórum sinnum er talið að álfar hafi haft áhrif á framkvæmdir við hólinn.
Byrjað var á lagningu Álfhólsvegar seint á fjórða áratugnum. Veginn átti að leggja frá Hafnarfjarðarvegi að Álfabrekku og tengja við Nýbýlaveg. vel gekk að leggja veginn út að Álfhólnum en þegar þangað var komið og átti að fara að sprengja var framkvæmdafé uppurið. því er haldið fram að álfar hafi komist í bókhald bæjarins.

Áratug síðar átti að hefja framkvæmdir aftur. Fyrsta skrefið var að ryðja burt hólnum en þegar þær framkvæmdir hófust fóru dularfullir atburðir að gerast. Vinnuvélar biluðu, verkfæri skemmdust og mörg þeirra hurfu á óskiljanlegan hátt. Hætt var við að ryðja burtu hólnum og var settur hlykkur á veginn fram hjá honum.

Kópavogur

Álfhóll.

Í lok níunda áratugarins átti að endurbæta veginn. Framkvæmdirnar gengu mjög vel þar til ráðgert var að leggja mabik upp að hólnum. Fjarlægja átti hluta hólsins en til þess átti að nota öflugan steinbor tengdan kraftmiklli loftpressu. Þegar menn hófust handa við að bora í klöppina þá brotnaði borinn. Það dugði heldur ekki til að ná í annan bor því allt fór á sama veg og segja sjónarvottar að hann hafi hreinlega kubbast í sundur. í kjölfar þess neituðu verkamenn að koma nálægt hólnum með vélar og verkfæri. Vegaskipulaginu var breytt og er þarna þrenging og hraðahindrun á veginum ásamt gangbraut sem þjónar vel þeim börnum sem sækja Digranesskola.
Áhrifum álfa var þó ekki lokið. Lóðunum austan við hólinn var úthlutað á níunda áratugnum og þar á meðal var lóðin Álfhólsvegur 102, sú sem næst liggur hólnum. Eigandi lóðarinnar hóf þar aldrei framkvæmdir heldur skilaði lóðinni með þeim skýringum að honum litist ekki á lóðina og vildi ekki byggja þar. Að öðru leyti vildi hann sem minnst um málið segja. Hvort sem álfum var um að kenna eða ekki þá er enn ekkert hús númer 102 við Álfhólsveg og fellur lóðin ásamt hólnum nú undir bæjarvernd.
Hvort sem um er að ræða álfa, röð tilviljana eða ókunnug öfl þá er Álfhóllinn athyglisvert kennileiti í bænum. Örnefnið er hluti af sögu bæjarins og álfasögurnar af þessum skemmtilega stað gefa tilefni til mikilla vangavelta.

Álfhóll

Álfhóll – skilti.

Tröllabörn

Við Tröllabörn neðan Lögbergs í Kópavogi er upplýsingaskilti. Þar má lesa eftirfarandi texta:

Tröllabörn

Tröllabörn.

Tröllabörn/Tröllabollar voru friðlýst sem náttúruvætti árið 1983.
Tröllabörnin eru tíu talsins og fyrna gömul, eða um 4.500 ára. Á máli jarðfræðinnar nefnast þau hraundrýli (hornitos).
Hraundrýli myndast þegar gas streymir út um rásir við eldgíga og í hraungöngum og rífur með sér klepra sem hlaðast upp í litlar strýtur eða drýli. Drýli eru einkum algeng í eldstöðvum af dyngjugerð, en dyngjur gjósa ávallt þunnfljótandi hraunkviku sem jafnan rennur í göngum og myndar helluhraun.

Tröllabörn

Myndun hraundrýla.

Tröllabörn tilheyra Leitarhrauni sem kom upp úr Leitum, stórum dyngjgíg austan undir Bláfjöllum. Frá Leitum runnu hraun í sjó fram bæði við Reykjavík (Elliðavog) og Þorlákshöfn fyrir um 4.500 árum. Í Leitarhrauni eru margir hellar og hraungöng og hafa Tröllabörnin myndast þegar gosgufur brutust upp í gegnum þak á slíkum helli eða göngum.

Tröllabörn

Tröllabörn – skilti.

Kópavogur

Á Borgarholti í Kópavogi er upplýsingaskilti. Á því stendur m.a.:

Jarðfræði

Kópavogur

Vindmylla á Borgarholti.

Borgarholt, eins og önnur holt og hæðir í Kópavogi og á höfuðborgarsvæðinu, er að mestu gert úr grágrýtishraunum sem runnu á hlýskeiðum ísaldar fyrir nokkur hundruð þúsund árum síðan. Þá grúfði jökull yfir Kópavogi sem náði allt frá Bláfjöllum og út á Faxaflóa. Jöklarnir grófu “dali” í hraunstaflann og mótuðu að landslag sem við sjáum í dag og eru jökulrákirnar á klöppunum glöggur vitnisburður um þau átök.
Í lok síðasta jökulsskeiðs, fyrir um 10.300 árum síðan var sjávarborð í um 40 metra hæð yfir núverandi sjávarmáli og gekk sjór yfir Borgarholt eins og lábarðir hnullungar í holtinu eru til vitnis um. Á sama tíma var sund á milli Borgarholts og ássins austan við. Síðar, fyrir um 9.800 árum, hafði sjávarstaða lækkað niður í um 20-25 metra hæð og þá myndaðist allmikil sand- og malarfjara utanvert á Kársnesi.
Seinna reis land endanlega úr sjó og strandlínan fékk á sig þá mynd sem hún er í dag.

Gróður
Á Borgarholti þrífst mosaríkt mólendi og er gróðurfarið enn að miklu leyti dæmiger fyrir Kársnesið eins og það var áður en byggð tók að rísa þar.
Á holtinu hafa fundist 95 tegundir af mosum, þar á meðal kuðulmosi, sem aðeins hefur fundist á einum öðrum stað á landinu.
Þá hafa fundist 103 tegundir af innlendum háplöntum sem er nær fjórðungur af íslensku flórunni. Rætt hefur verið um hvort hindra ætti vöxt sjálfsáðra trjá s.s. birkis í holtinu, en um það eru skiptar skoðanir.

Saga

Kópavogur

Merki Kópavogs.

Borgarholtið er mjög svo samofið sögu byggðar í Kópavogi. Borgarholtið var að mestu ósnortið eins langt og elstu menn muna, þó með þeirri undantekningu að á árunum milli 1920-30 var byggð vindmylla á háholtinu til að framleiða rafmagn fyrir hressingarhælið, sem Kvenfélagið hringurinn rak á Kópavogsjörðinni. Reyndar voru myllur þessar tvær, eða frekar það að fyrri myllan var þá endurbyggð vegna skemmda á spöðum, sem ekki höfðu þolað veðurlag á holtinu. Vindmyllur þessar voru síðan teknar niður einhvern tíma á árunum eftir 1930. Holtið stóð síðan óbyggt allt þar til samþykkt var í hreppsnefnd Kópavogs 1957 að byggja þar kirkju. Reyndar hafði hreppsnefndin haldið þessu svæði óbyggðu allt frá því 1946 með það í huga að síðar yrði byggð þar kirkja. Var hafist handa við byggingu hennar síðsumars 1958. Teikningar af kirkjunni voru gerðar undir stjórn Harðar Bjarnasonar þáverandi húsameistara ríkisins. Gerður Helgadóttir gerði steinda glugga sem settir voru í kirkuna. Byggingarmeistari kirkjunnar var Siggeir Ólafsson múrarameistari. Það tók 5 ár að byggja kirkjuna og kostaði hún 5 milljónir króna á verðlagi byggingartímans. Kirkjan var síðan vígð 15. desember 1962. Bent skal á að í skjaldarmerki bæjarins sem gert var á 10 ára kaupstaðarfamæli bæjarins 1965 var hluti þess merkis einmitt útlínur kirkjunnar með mynd af kópi undir.

Kópavogur

Borgarholt – skilti.

Seltún

Á fjórum upplýsingaskiltum við Seltún í Krýsuvík má lesa eftirfarandi fróðleik:

Reykjanesskaginn – myndun og mótun – jarðfræði

Seltún

Kort af eldstöðvakerfum á Reykjanesskaga, háhitasvæðum og rekbelti á upplýsingaskilti við Seltún.

Reykjanesskagi hefur verið í sífelldri myndun og mótun síðustu 6 milljónir ára, allt frá að rekbelti Atlantshafshryggjarins fluttist af Snæfellsnesgosbeltinu og Reykjanes-Langjökulsgosbeltið tók að myndast.
Á Reykjanesi má sjá hvernig rekbelti (flekaskil) Atlantshafshryggjarins gengur á land og fer þvert yfir landið til norðausturs. Það markar virk gosbelti landsins ásamt heita reitnum sem liggur undir miðju landsins. Á gosbeltið raðast virk eldstöðvakerfi ásamt háhitasvæðum landsins.
Fyrir sex til sjö milljónum ára lá rekbeltið um Snæfellsnes og fór eftir það að flytjast til austurs og við það myndaðist Reykjanes-Langjökulsgosbeltið. Síðan þá hefur Reykjanesskagi verið í sífelldri myndun og mótun með eldgosum neðansjávar, undir jöklum ísaldar og á þurru landi, auk þess sem landið hefur mótast af rofi sjávar, vatns og vinda.
Á reykjanesskaga eru fimm eldstöðvakerfi: Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengill. Í hverju kerfi eru sprungusveimar með stefnu norðaustur-suðvestur og háhitasvæði sem raða sér eftir flekaskilum Atlantshafshryggjarins. Að Hengli undanskildum eiga kerfi það sameiginlegt að eingöngu kemur upp basaltkvika í eldgosum.
Goshrinur á Reykjanesskaga virðast að jafnaði verða á um 1000 ára fresti og geta þær staðið yfir í nokkur hundruð ár. Í goshrinum einkennist eldbvirkni af sprungugosum en í goshléum eru jarðskjálftar algengir í eldstöðvakerfunum. Eftir að ísöld lauk, eða síðustu 10.000 ár, hafa hátt í 200 gossprungur myndast á Reykjanesskaga og eru gjall- og klepragígaraðir algengastar. Auk þess hafa myndast níu dyngjur eftir ísöld en talið er líklegt að flest dyngjugosin hafi byrjað sem sprungugos.

Eldstöðvakerfið Krýsuvík

Jarðfræði

Jarðfræði Reykjaness.

Krýsuvíkurkerfið er um 8 km á breidd og um 50 km á lengd. Innan þess eru tvö gos- og sprungukerfi sem eru kennd við Trölladyngju og krýsuvík. Jarðfræði svæðisins einkennist af lágum móbergshryggjum, gígum og gígaröðum, hraunflákum og jarðhita.
Móbergshryggirnir Sveifluháls og Vesturháls mynduðust við eldvirkni undir jökli á ísöld og sýna glöggt ríkjandi sprungustefnu eldstöðvakerfisins norðaustur-suðuvestur. Á hryggjunum má greina sprungur, misgengi og sigdali. Síðast gaus í Krýsuvíkurkerfinu á 12. öld og er sú goshrina nefnd Krýsuvíkureldar. Í goshrinunni opnuðust gossprungur frá syðsta hluta Núpshlíðarháls [Vesturháls], eftir endilöngum Móhálsadal og norðausturenda Undirhlíða. Gossprungurnar eru ekki samfelldar og sums staðar tvöfaldar, en fjarlægðin frá upphafi til enda þeirra er um 25 km. Í þessum eldum árið 1151 runnu Kapelluhraun og Ögmundarhraun. Kapelluhraun rann úr gosgígum í nyrsta hluta sprungunnar við Undirhlíðar og þaðan til sjávar á norðanverðum Reykjanesskaga. Ögmundarhraun kom upp í syðsta hluta gossprungunnar, fyllti Móhálsadal af hraunum og rann til sjávar á sunnanverðum Reykjanesskaga þar sem það fór yfir hina fornu Krýsuvík.

Seltún

Upplýsingaskilti við Seltún.

Í Krýsuvíkurkerfinu er háhitasvæði með gufuhverum og ummyndun á yfirborði. Ummerki jarðhita eru mest og samfelldust við Seltún í Krýsuvík. Jarðhitasvæðið við Austurengjar markar austurhluta háhitasvæðisins og teygir jarðhitasvæðið sig norður í Kleifarvatn. Jarðhitasvæðið við Trölladyngju nær frá Djúpavatni að Oddafelli og markar vesturhluta háhitasvæðisins. Við Sandfell eru smávægileg jarðhitaummerki á yfirborði.
Hverasvæðin eru síbreytileg og sjá má kaldar jarðhitaskellur á yfirborði sem bendir til þess að þar hafi áður verið virk hverasvæði. Hveravirkni svæðisins hefur oft breyst í kjölfar jarðskjálfta á svæðinu.
Nálægt hverasvæðunum má víða sjá sprengigíga.
[Á upplýsingaskiltið vantar kort af svæðinu með hlutaðeigandi nöfnum svo lesandinn geti áttað sig á umhverfinu, staðháttum og því sem um er fjallað.]

Háhitasvæði – almennt

Seltún

Háhitasvæðið við Seltún.

Háhitasvæði eru oft staðsett í miðju eldstöðvakerfi þar sem eldvirkni er mest. Þau verða til vegna heitra innskota djúpt í jörðu sem geta verið allt að 1000-1200 °C heit í upphafi. Innskotin hita upp nálægt grunnvatn sem verður eðlisléttara og stígur upp til yfirborðsins sem djúpvatn eða gufa. Hluti grunnvatnsins kólnar á leið sinni upp og leita þá aftur niður. Við þetta myndast hringrásakerfi sem er eitt af einkennum háhitasvæða.
Kvikugös sem losna úr heitu innskotinu, eins og til dæmis brennisteinsveti (H25) sem veldur hverafýlu, brennisteinstvíoxíð (SO2) og koltvísýringur (CO2), blandast við grunnvatnið og berast með því til yfirborðs. Hitinn og súr efnasambönd valda því að berg grotnar, ummyndast og útfellingar myndast. Þetta kallast efnaveðrun. Háhitasvæði einkennast af fjölbreytilegum jarðhitafyrirbærum og mikilli litadýrð á yfirborði, sérstaklega þar sem berggrunnurinn er úr móbergi en þar er ummyndun meiri og hraðari en t.d. í hraunum.

Jarðhiti við Seltún og Baðstofu.
Jarðhitinn í Krýsuvík dreifist að langmestu leyti á aflangt svæði sem erum um 1500 m langt og um 500 m breitt með stefnu u.þ.b. ANA-VSV. Í austurhlíðum Sveifluháls, við Seltún og Baðstofu (Hveragil), er mest um jarðhita á yfirborði og ummyndanir.

Seltún

Leirhver við Seltún. Leirhverir myndast þar sem gufa streymir upp gegnum grunnvatn og súr vökvinn leysir upp berg og myndar leir sem oft sýður og vellur.

Gufa er ríkjandi á svæðinu en hún hitar upp yfirborðsvatn þannig að bæði leirhverir og gufuhverir eru algengir. Einnig finnast gufuaugu, brennisteinsþúfur og soðpönnur.
Í Krýsuvík er ummyndun mikil og litskrúðug sem sést best á fjölda leirhvera og mislitum leirflögum sem eru rauð, bleik, dökkgrá, blágrá, gulbrún, gul og hvít á lit. Algengustu útfellingar eru hverasölt, brennisteinn [mynd] og gifs. Dálítið hefur fundist af hverajárni.
Eggert Ólafsson náttúrfræðingur og Bjarni Pálsson landlæknir voru fyrstir til að bora í jarðhitasvæði á ‘islandi og líkast til í heiminum öllum. Handsnúinn jarðbor var fenginn að láni hjá Konungslega danska vísindafélaginu. Tilgangur borunar var að leita að brennisteini í jarðlögum á hverasvæðum, en brennisteinn var verðmæt útflutningsvara á ófriðartímum í Evrópu. Fyrst var borað við Laugarnesið haustið 1755 og sumarið 1756 í Krýsuvík. Í Krýsuvík voru borðaðar tvær holur og náði sú dýpri 10 metrum. Borholan gaus og var þá bortilraunum hætt.

Brennisteinsnám

Brennisteinsvinnslan í Seltúni 1882.

Brennisteinsnám var í Krýsuvík á árunum 1754-1763 og síðan 1858-1880, en eftir það var lítil eða engin námuvinnsla í Krýsuvík. Samvæmt samtímaheimildum voru flutt út 72,5 tonn af brennisteini frá Krýsuvík á 18. öld.
Ekki var reynt að bora aftur á svæðinu fyrr en 1941 þegar tilraunaboranir hófust í því skyni að nýta jarðhitann í Krýsuvík til húshitunar og raforkuframleiðslu.

Krýsuvík

Drengir í Vinnuskólanum við Seltún. Drottningarholan í bakgrunni – HH.

Árið 1947 lét Rafveita Hafnarfjarðar bora svokallaða Drottningarholu í Seltúni Þegar komið var niður á um 230 metra dýpi gaus holan og var þá borun hætt, holunni lokað, en henni leyft að blása vegna mikils gufuþrýstings. Í október 1999 hætti Drottningarholan að blása en nokkru seinn varð sprenging á borholusvæðinu og myndaðist gígur sem mældist 43 metrar í þvermál. Grjót og grá leirdrulla dreifðist í allt að 700 metra fjarlægð til norðurs frá gígnum. Talið er að Drottningarholan hafi stíflast eða hrunið saman sem olli því að sprenging varð.

Nálægt hverasvæðunum má víða sjá sprengigíga og eru Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun við Krýsuvík gott dæmi um slíka gíga. Sprengigígar (stærri en 50 metrar í þvermál) myndast viðs nögga suðyr grunnvatns, oft í tengslum við eldgos eða kvikuhreyfingar. Minni sprengigígar eru algengir á háhitasvæðum og myndast við að vatn hvellsýður á litlu dýpi, venjulega í tengslum við jarðskjálfta. Nær engin hraun myndast í sprengigosum en dálítið getur komið upp af gjalli og kleprum. Oftast er þó eingöngu að finna grjót og bergmylsnu úr gígveggnum sem getur dreifst hundruð metra frá gígnum.

Grænavatn

Grænavatn.

Í Krýsuvík hófust rannsóknarboranir að nýju fyrir nokkrum árum og hefur komið í ljós að mestur jarðhiti er á um 300 m dýpi. Nú er til skoðunar að nýta háhita á fjórum svæðum í Krýsuvík en það er á Austurengjum, Sveifluhálsi, Trölladyngju og Sandfelli.
[Á upplýsingaskiltið vantar kort af svæðinu þar sem m.a. má sjá hvar Drottningarholan var, nálægir sprengugígar sem og brennusteinsvinnslusvæðin.]

[Brennisteinn myndast við oxun á brennisteinsvetni (H25) þar sem vatn er ekki til staðar. Hann er gulgrænn á litinn.]

Almennt um gróður

Krýsuvík

Gróðureyðing á Krýsuvíkurheiði.

Gróðurfar í Krýsuvík og nágrenni er mótað af langvarandi beit. Afleiðingar gróðureyðingar og jarðvegsrofs sjást víða sem lítið grónir melar, moldarflög og rofabörð. Þar má þó finna allmikið votlendi, grasgefna velli og algróin hraun.
Suðvestan Kleifarvatns er mikið votlendi í sléttum dalbotninum og hallamýrar í hlíðum. Á Reykjanesskaga er lítið um stór og samfelld votlendissvæði og því hefur þetta svæði mikið gildi. Vestan Sveifluháls eru grösugir vellir sem eru sérstæðir á landsvísu. Hraun sem hafa runnið yfir vellina á sögulegum tíma eru nú vaxin gamburmosa. Í hraungjótum má finna burknategundir sem hafa takmarkaða útbreiðslu hér á landi.
Jarðhiti mótar sérstæðar vistgerðir á afmörkuðum svæðum við hveri og laugar. Austan Sveifluháls er jarðvatnsstaða víða há, þar spretta fram heitir lækir og uppsprettur og finna má mýrahveravist. Laugasef vex víða í rakanum, ásamt öðrum tegundum af sefi og störum, og mosinn laugaslyðra vex í breiðum við hveri. Í þurrara landi má finna móahveravist þar sem mosar eru jafnan ríkjandi. Þar sem jarðhiti hefur ummyndað jarðveg og berg má finna ljósleitt eða rauðleitt yfirborð hveraleirsvistar.

Jarðtegundir og aðrar sjaldgæfar tegundir

Njaðurtunga

Njaðurtunga.

Laugadepla (Veronica anagallis-aquatica) vex einungis á örfáum jarðhitasvæðum hér á landi. Hún þrífst aðeins við laugar og í vogum lækjum. Plantan getur myndað þéttar breiður, stönglarnir eru uppréttir eða fljóta á vatni, laufblöðin fagurgræn og gagnstæð en blómin smá og ljósfjólublá. Laugadepla hefur takmarkað vaxtasvæði og á válista flokkast hún sem tegund í nokkurri hættu.

Naðurtunga (Ophioglossum azoricum) er sjaldgæf jurt sem vex einungs við jarðhita. Hún þrífst í þurrum, mosavöxnum hraunum en líka rökum, mosagefnum hveramýrum. Plantan er lágvaxin með lanfan og mjóan stöngul sem vex upp af einu til þremur fagurgrænum blöðum. Heiti plöntunnar, naðurtunga, vísar til einhliða gróax sem líkist tungu efst á plöntunni. Á válista flokkast tegundin í nokkurri hættu þar sem vaxtarsvæði hennar er takmarkað. Hún finnst þó á mörgum jarðhitasvæðum landsins.
Laugaslyðra (Gymnocolia inflata) er mosategund sem má finna víða á jarðhitasvæðum hér á landi. Mosinn getur myndað þéttar breiður. Hann er breytilegur að lit, jafnan brúnn eða brúnleitur, stundum grænn eða gulleitur og getur jafnvel verið svartleitur eða rauðbrúnn. Hann vex í leirflögum við hveri og laugar en einnig í rökum jarðvegi við tjarnir og læki eða á kafi í vatni.
Vatnalaukur (Isoetes lacustris) er sjaldgæf vatnajurt að mestu bundin við Suðvesturland. Plantan hefur dökkgræn, upprétt og striklaga blöð. Hún er ekki tengd jarðhita og lætur lítið yfir sér þar sem hún vex á botni stöðuvatna og djúpra tjarna. Hún finnst við Krýsuvík og telst sem tegund í yfirvofandi hættu.

Lifandi náttúra

Austurengjahver

Austurengjahver.

Kyngikraftur náttúrunnar blasir við augum í Krýsuvík. Höfuðskepnurnar eldur, vatn, loft og jörð hafa mótað umhverfið í aldanna rás. Gufustrókar stíga til himins, sjóðandi leirhverir leika taktfasta sinfóníu, hverahvammar skarta grænum, gulum og rauðleitum litum sem skipta um svipmót eftir veðrinu. Náttúröflin eira engu í glímunni við gróðurinn, vatnsrof leikur stórt hlutverk þegar það rignir og ísa leysir. Vindurinn flettir þekjunni í burtu og feykir jarðvegi á haf út þar sem öldur ólmast við klettaströnd og mola strandbergið hvíldarlaust. Þetta er náttúran í öllu sínu veldi.

Krýs og Herdís deila um landamerki

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu í Kerlingardal.

Þjóðsagan hermir að Krýsuvík sé nefnd eftir krýs sem bjó í Krýsuvík. Hún átti í deilum um landamerki við grannkonu sína, Herdísi í herdísarvík. Báðar töldu sig órétti beittar og ákváðu að skera úr deilumáli sínu í eitt skipti fyrir öll. Sammæltust þær um að leggja af stað frá bæjum sínum við sólarupprás og ákveða mörk landa sinna þar sem þær mættust. Þegar þær hittast á Deildarhálsi taldi Krýs að Herdís hefði lagt fyrr af stað en um var samið. Tóku þær að biðja hvor annarri óbæna ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði það á Krýsuvík að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi en Krýs mælti svo fyrir um að ein eða fleiri skipshafnir skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn. Sagan um þessa landaþrætu kerlinganna hefur lifað meðal Krýsvíkinga í ýmsum myndum og sýnir kyngimagn Krýsuvíkur.
[Hér gleymist að geta um hvernig samskiptum kvennanna lauk, en þær slógust og barst leikurinn til austurs niður í Kerlingardal þar sem þær drápu hvora aðra. Með í för voru smalar hvorrar um sig og laug viðureigninni með því að smali Krýsu drap smala Herdísar og dysjaði bæði þær og hann við gömlu þjóðleiðina milli bæjanna. Þar má enn sjá dysjarnar.]

Fornminjar

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða.

Í landi Krýsuvíkur eru víða merkar fornleifar og búsetuminjar. Elstar eru Gestsstaðarústirnar, senilega frá fyrri hluta miðalda. Mestar eru fornleifarnar í Krýsuvíkurhverfi undir Bæjarfelli þar sem höfuðbólið og flestar hjáleigurnar voru. Nútímavæðing hefur lítið komið við sögu og jörðin haldist nánast óbreytt frá fyrri tíð, en snemma á sjöunda áratugnum varð sögulegt slys á bæjarhólnum. Krýsuvíkurbærinn, sem stóð vestan kirkjunnar, var þá kominn að falli og voru stórvirkar vinnuvélar notaðar til að ryðja hólinn og slétta út minjar um þennan merka bæ. Neðan hólsins og allt í kringum hann eru gömlu túnin með túngörðum sínum ósnertum að mestu, tóftir gömlu kotanna og fleiri merkar fornminjar.
[Hér vantar nauðsynlega kort af staðsetningu þess, sem um er rætt.]

Dulúð regnsins

Austurengjar

Austurengjar.

Það getur verið mjög votviðrasamt í Krýsuvík því þar gætir fyrst áhrifa frá lægðum sem nálgast landið úr suðvestri. Umhleypingar eru algengir með tilheyrandi úrkomu en í norð-austlægum áttum má gera ráð fyrir þurrviðri í Krýsuvík. Þá skartar staðurinn sínu fegursta, en einnig getur dulúðin sem fylgir þokulofti og skýjuðu veðurfari búið yfir ólýsanlegri fegurð.

Einföld bændakirkja

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja endurgerð.

Krýsuvíkurkirkju er fysrt getið í kirkjuskrá Páls Jónssonar Skálholtsbiskups um 1200. Margt bendir til að kirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum kristni, en [tré]kirkjuna byggði Beinteinn Stefánsson á Arnarfelli 1875. Þetta var lítið guðshús einfaldrar gerðar, án turns. kirkjan var aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum 1929. Eftir það notaði einbúinn Magnús Ólafsson, síðasti íbúi Krýsuvíkur, hana sem íbúðarhús til 1945. Endurbygging kirkjunnar hófst 1957 og var hún endurvígð 1964 og færð Þjóðminjasafninu til eignar. Árið 1997 var Sveinn Björnsson listmálai [og lögreglumaður] jarðsettur í kirkjugarðinum en þá voru liðin 80 ár frá síðsutu greftrun þar. Á vorin var haldin messa í kirkjunni og altaristafla eftir Svein hengd upp, en tekin niður við messu á haustin og færð til vetrarvistar í Hafnarfjarðarkirkju.
Krýsuvíkurkirkja brann til kaldra kola aðfaranótt 2. janúar 2020.
[Kennarar og nemendur Iðnskólan í Hafnarfirði, nú Tækniskólans, hafa lokið endurbyggingu Krýsuvíkurkirkju, eins og hún leit út í upphafi (1875). Hún er væntanleg á upprunanlegan stað fljótlega.]

Land í mótun

Seltún

Hveraútfellingar við Seltún.

Virka gosbeltið sem liggur eftir Reykjanesskaga er á milli landsreksflekanna sem kendnir eru við Evrópu og Ameríku. Elsti hlutinn eru Lönguhlíðarfjöll norðaustan Kleifarvatns sem sýna merki tveggja kuldaskeiða og tveggja hlýskeiða, Sveifluháls er móbergshryggur sem myndast hefur við gos undir íshellu á kuldaskeiði. Sunnan Krýsuvíkurhverfis milli Geitahlíðar og Sveifluháls eru nokkur lög af grágrýtsihraunum, sum þakin jökulbergi, en efst ner mest á mó- og mýrlendi. Jarðlögin sjást vel í Krýsuvíkurbergi. Rauðskriða á Krýsuvíkurheiði og Trygghólar eru leifar gamalla eldgíga sem hraun hefur runnið frá. Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun (eiga) eiga upptök sín í Brennisteinsfjöllum, gígum við Eldborgir sunna Geitahlíðar og í gossprungum í Móhálsadal.
[Hér vantar loftmynd af svæðinu þar sem sjá má m.a. hraunflæðin.]

Sprengigígar kallast á

Krýsuvík

Grænavatn og Stampar – sprengugígar í Krýsuvík.

Landslag í Krýsuvík er mótað af umbrotum og jarðeldum. Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun eru sprengigígar sem myndast hafa við sprengigos á ýsmum tímum. Grænavatn er stærst um 46 m djúpt. Vatnið fær lit sinn af hveraþörungum og kristöllum sem draga grænan lit frá sólu í sig. Gestsstaðavatn heitir eftir fornu býli sem fór í eyði á miðöldum.
[Stamparnir; Stóri-Stampur og Litli-Stampur eru vatnslausir sprengigígar sunnan Grænavatns væru vel umfjöllunarinnar virði – að ekki sé talað um minjar Gömlu-Krýsuvíkur í Húshólma.]

Fuglalíf og eggjataka

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg (Heiðnaberg).

Um 57.000 sjófuglapör verpa í krýsuvíkurbergi, aðallega rita og svartfugl, sem skiptist í álkur, langvíur og stuttnefjur. Einnig verpir þar nokkuð af fýl, toppskarfi og silfurmáfi. Fyrrum var ekkjataka mikil og máttu kotamenn taka tiltekið magn af fugli og eggjum úr berginu. Svo mikið fékkst af svartfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu var að segja af bergfuglinum sem gaf af sér kjöt og fiður. Á Krýsuvíkurheiði og nágrenni Bæjarfells verpir mófugl, spói, heiðlóma, snjótittlingur og fleiri tegundir. Arnarfell og Arnarfellstjörn eru kunn kennileiti á Krýsuvíkurheiði og á miðjum Sveifluhálsi eru Arnarvatn og Arnarnípa. Þessi nöfn vísa til þess að ernir hafi orpið á þessum stöðum í eina tíð.
[Enn og aftur; á skiltið vantar kort af svæðinu þar sen nefndra örnefna er getið.]

Mannrækt við Krýsuvíkurskóla

Krýsuvík

Krýsuvík.

Um miðjan áttunda áratuginn hófust miklar byggingaframkvæmdir á mel sunnan Gestsstaðavatns, en þar var ætluninn að reisa skóla fyrir unglinga sem þurftu á sérúrræðum að halda. Áður en byggingunni var lokið var fallið frá hugmyndinni og stóð húsið autt um margra ára skeið þar til Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota. Var þar rekið meðferðarheimili fyrir fíkniefnaneytendur um langt skeið.
[Hér er nálægra sýnilegra mannvirkja ógetið, s.s. fjóssins, starfsmannahússins, ráðsmannshússins, gróðurhúsanna o.fl., en við þau voru bundnar miklar framtíðarvæntingar við uppbyggingu Krýsuvíkursvæðisins. Þá var Vinnuskólinn í Krýsuvík sérstaklega merkileg viðeytni í lok sjötta og byrjun sjöunda áratuga síðustu aldar og er vel þess virði að vera getið á upplýsingaskilti þar sem fjallað er um Krýsuvík.]

ÓSÁ dró saman.

Seltún

Seltún – hverasvæði.

Arnarseturshraun

Sigmundur Einarsson og Haukur Jóhannesson skrifuðu árið 1989 greinargerð um “Aldur Arnarseturshrauns” á Reykjanesskaga. Útgefandi var Náttúrufræðistofnin Íslands.

Í greinargerðinni er lýst niðurstöðum rannsókna á Arnarseturshrauni á Reykjanesskaga. Hrauninu er lýst og mæld stærð þess og rúmmál. Aldur hraunsins var fundinn með könnum öskulaga undir og ofan á því.

INNGANGUR

Sigmundur Einarsson

Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur.

Milli Vogastapa og Svartsengisfells liggur Grindavíkurvegur að mestu í unglegu hrauni. Jón Jónsson (1978) hefur lýst hrauninu og kallar það Arnarseturshraun (mynd 1) en einn hólanna við stærstu gígana sem mynduðu hraunið heitir Árnarsetur. Jón telur að hraunið hafi runnið á sögulegum tíma. Einnig birtir hann meðaltal af þremur efnagreiningum. Sveinn P. Jakobsson o.fl. (1978) birta efnagreiningu af hrauninu sem reynist vera basalt af gerðinni þóleiít. Arnarseturshraun er að mestum hluta komið úr um 400 m langri gígaröð sem liggur um 500 m austan Grindavíkurvegar á móts við Stóra Skógfell. Í upphafi gossins hefur gígaröðin verið mun lengri eða a.m.k. um tveir km. Um einn km norðaustur af aðalgígunum sést hluti af gígaröðinni sem virk var í gosbyrjun. Hún er um 500 m löng en slitrótt. Gígarnir eru litlir, 4-6 m háir, Virknin þar hefur dvínað fljótlega og gosið dregist saman á um 400 m langa gossprungu. Frá henni er allt meginhraunið runnið en aðrir hlutar gígaraðarinnar hafa færst í kaf nema áðurnefndir gígkoppar. Ekkert er vitað um framhald gossprungunnar til suðurs en þar er hraunið mjög þykkt og gígar horfnir ef einhverjir hafa verið.

Haukur Jóhannesson

Haukur Jóhannesson, jarðfræðingur.

Í lok gossins var gosvirkni einkum í þremur eða fjórum gígum. Nyrst og syðst var einkum hraunrennsli en á miðju gígaraðarínnar hlóðust upp gjallgígar. Nyrsti hluti gígaraðarinnar stefnir um N50A en aðalgígarnir stefna N40A. Upphaflega gossprungan hefur ekki verið á einni línu, heldur hefur hún verið skástíg og hliðrast til hægri, sem sést af því að nyrðri gígarnir eru ekki í beinu framhaldi af aðalgígunum.
Aðalgígarnir eru nálægt suðausturjaðri hraunsins. Þeir eru nú rústir einar eftir gjallnám en virðast hafa risið allt að 25 m yfir hraunið. Fyrst hefur hraunið frá gígunum einkum runnið til norðurs en síðar aðallega til vesturs og suðvesturs. Hraunið er að miklu leyti helluhraun en í því eru apalhraunsflákar og sumstaðar hefur helluhraunið brotnað upp og þar er hraunið mjög úfið. Eins og títt er um sprunguhraun á Reykjanesskaga er hraunið að jafnaði þeim mun úfnara og verra yfirferðar er fjær dregur gígunum, en nærri þeim er það afar blöðrótt og frauðkennt og brotnar undan fæti.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun.

Arnarseturshraun er yngsta hraunið á þessu svæði og liggja jaðrar þess alls staðar út yfir aðliggjandi hraunfláka. Suður- og suðausturjaðrar þess liggja út yfir hraun sem að mestu eru runnin frá unglegri gígaröð skammt austan við Stóra Skógfell og hefur hún verið kennd við Sundhnúk (Jón Jónsson 1973). Norðan til hefur Arnarseturshraun runnið út yfir fornlegt og mikið sprungið dyngjuhraun ættað frá stórri dyngju norðan undir Fagradalsfjalli og hefur hún af jarðfræðingum verið kölluð Þráinsskjöldur. Norðvesturjaðarinn liggur út yfir annað dyngjuhraun, ámóta fornlegt og sprungið. Það er komið frá dyngju sem kölluð hefur verið Sandfellshæð eftir dyngjuhvirflinum sem er um tvo km vestur af jarðhitasvæðinu í Eldvörpum. Hraun sem komin eru úr Eldvörpum og stórum stökum gíg skammt suður af Þórðarfelli hverfa inn undir suðvesturjaðar Arnarseturshrauns, en suðurjaðarinn liggur eins og austurjaðarinn út á Sundhnúkshraun.
Ekki hafa neinar sprungur fundist í Arnarseturshrauni svo vitað sé en augljóst er að berggrunnurinn undir því er mjög sprunginn. Gliðnun eða umbrot virðast því ekki hafa átt sér stað á svæðinu eftir að hraunið rann. Illahraun, sem komið er úr gígum um fjóra km suðvestur af Arnarsetursgígunum, er einnig ósprungið (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988a) og því hugsanlega frá svipuðum tíma, Rétt er að benda á að ekki er ljóst hvernig gosbeltið hegðar sér á svæðinu frá Reykjanesi að Fagradalsfjalli, þ.e. hvort líta beri á það sem eina sprungurein eða fleiri. Af þessum sökum er aðeins hægt að draga ályktanir af Arnarseturs- og Illahraunsgosum um næsta nágrenni en ekki sprungureinina í heild.
Arnarseturshraun er fínkornótt í brotsári og að mestu dílalaust en stundum með stökum, litlum plagíóklasdílum og ógreinanlegt frá Illahrauni í handsýni.
Jón Jónsson (1978, 1983) telur flatarmál Arnarseturhrauns vera um 21.84 km2. Jón gerði ráð fyrir að norðurhluti gígaraðarinnar og hraunið frá henni væri sérstök gosmyndun og er það því ekki meðtalið. Rúmmál hraunsins telur Jón vera 0.44 km3 en tekur fram að sennilega sé sú tala talsvert of lág. Flatarmál Arnarseturhrauns reiknast okkur vera 22.02 km2, Erfitt er að meta meðalþykkt hraunsins þar sem landslag fyrir gos er ekki þekkt en út frá mælingum á þykkt hraunjaðra var meðalþykkt áætluð um 15 m og er þá gert ráð fyrir að landið hafi verið tiltölulega flatt. Heildarrúmmál hraunsins er þá um 0.33 km3.

ALDUR ARNARSETURSHRAUNS

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – Jón Jónsson.

Aldur Arnarseturshrauns var ákvarðaður út frá afstöðu þess til þekktra öskulaga í jarðvegi, Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson (1988a,b) hafa fjallað um öskulög frá sögulegum tíma á Reykjanesskaga og verður það ekki endurtekið hér. Grafin voru og mæld 5 jarðvegssnið (R-31, R-46, R-47, R-48 og R-52) sem náðu inn undir jaðra hraunsins og er staðsetning þeirra sýnd á 1. mynd. Sniðin eru sýnd á 2.-6. mynd.
Landnámslagið fannst með vissu í tveimur sniðum, R-31 og R-52 og ef til vill í sniði R-47. Það liggur skammt undir hrauninu. Miðaldalagið liggur beint undir hrauninu í öllum sniðunum og er 5-15 cm þykkt og hefur fallið skömmu áður en hraunið rann. Enginn jarðvegur er milli Miðaldalagsins og hraunsins nema í sniði R-47 þar sem mold hefur greinilega hripað niður í gegnum þunnan hraunjaðar og fyllt upp í glufur neðst í hrauninu.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun, snið.

Miðaldalagið hefur fokið upp að hraunjaðrinum svipað og lýst er í skýrslunni um Illahraun.
Snið R-47 var grafið við hraunjaðarinn vestan undir Litla Skógfelli og er einkar fróðlegt. Neðst í því er ljós leikenndur jarðvegur og í honum gráleit rönd sem gæti verið Landnámslagið. Þá tekur við um 40 cm þykkt lag, sem að mestu er svört, lagskipt basaltaska sem vafalaust er Miðaldalagið. Neðst er um 15 cm af hreinni, svartri ösku, en efri hlutinn er lagskiptur. Þar skiptast á lög af svartri eilítið moldarblandinni ösku og Ijósri, leirkenndri mold. Í þessum lagskipta hluta sniðsins er greinilega vatnsflutt efni. Þá tekur Arnarseturshraun við og neðst í því er leirkennd, ljós mold sem fyllir upp í allar glufur í neðraborði hraunsins. Utan við hraunjaðarinn er um 20-30 cm þykkt lag af dökkri fokmold ofan á Miðaldalaginu. Á þessum slóðum er ekkert yfirborðsvatn að sumrinu og því verður að ætla að lagskipti kaflinn hafi myndast að vetri eða vori til er frost var í jörðu. Því hefur liðið a.m.k. einn vetur frá því að Miðaldalagið féll uns Arnarseturshraun rann.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – snið.

Ljóst er að Arnarseturshraunið hefur runnið skömmu eftir að Miðaldalagið féll sem að líkindum var árið 1226 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988b). Þetta er raunar sama niðurstaða og fékkst fyrir Illahraun (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988a). Ekki er hægt að segja til um aldursafstöðu þessara tveggja hrauna þar sem jaðrar þeirra liggja hvergi saman.
Áður hefur komið fram að engar sprungur hafa fundist í þessum hraunum og því sennilegt að þau hafi runnið í sömu goshrinu eða jafnvel samtímis. Ef Miðaldalagið hefur fallið árið 1226 þá hefur Arnarseturshraun runnið í fyrsta lagi árið 1227 því einn vetur a.m.k. hefur liðið frá því að öskulagið féll uns hraunið rann.
Jón Jónsson (1978) giskaði á að Arnarseturshraun hafi runnið 1661 en það ár getur Vallholtsannáll (Gunnlaugur Þorsteinsson 1922-27) um gos í Grindavíkurfjöllum, Jón hvarf síðar frá þessari hugmynd (Jón Jónsson 1983) og taldi það runnið um 1300 og byggði þá skoðun sína á því að hann fann

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun, snið.

Landnámslagið undir hrauninu en ofan á því öskulag sem hann taldi frá Kötlugosinu 1485. Þetta snið Jóns Jónssonar er tekið á sömu slóðum og snið R-46 en þar fannst Kötlulagið frá 1485 ekki þrátt fyrir nokkra leit. Aftur á móti virðist Jóni hafa sést yfir Miðaldalagið.
Sem fyrr segir taldi Jón Jónsson (1978) að nyrsti hluti gígaraðarinnar í Arnarseturshrauni væri sérstök gosmyndun og auðkennir hann hana með H-37, Ekki fjallar Jón um aldur hraunsins, en samkvæmt jarðfræðikorti hans telur hann hraunið eldra en Sundhnúkshraun. Jarðlagasnið R-52 sýnir hinsvegar ótvírætt að þessu er öfugt farið. Austurjaðar H-37 liggur að mestu út á fremur unglegt hraun sem Jón auðkennir H-38 (Sundhnúkshraun) og liggur jarðlagasniðið með Miðaldalaginu og Landnámslaginu á milli hraunanna. Með hliðsjón af þessu og legu gígaraðarinnar er eðlilegast að álykta að H-37 sé hluti Arnarseturshrauns.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun, snið.

Afar ólíklegt verður að teljast að gosið hafi í Grindavíkurfjöllum 1661 eins og segir í Vallholtsannál því ekki er getið um það gos í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (1923-24). Þeir söfnuðu upplýsingum í Jarðabókina árið 1703 og þá hefði átt að vera fjöldi manna á Suðurnesjum sem mundu gosið og tíundað hefðu skaða þann er það hefði valdið. Líklegast er að annálshöfundurinn hafi í raun verið að lýsa Kötlugosinu er varð 1660 enda á lýsingin að mörgu leyti vel við það.

Heimildir:
-Árni Magnússon og Páll Vídalín 1923-24. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. 3. bindi. Hið íslenska fræðafélag í Kaupmannahöfn. Kaupmannahöfn. 468 bls.
-Gunnlaugur Þorsteinsson 1922-27. Vallholtsannáll. Í Annálar 1400-1800, 1. bindi, bls. 317-367. Hið íslenzka bókmenntafélag. Reykjavík.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988a. Aldur Illahrauns við Svartsengi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 7. 11 bls.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988b. Krýsuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins. Jökull 38: 71-87.
-Jón Jónsson 1973. Sundhnúkahraun við Grindavík, Náttúrufræðingurinn 43: 145-153.
-Jón Jónsson 1978. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga, Orkustofnun OS JHD7831. 303 bls. og kortamappa.
-Jón Jónsson 1983. Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Náttúrufræðingurinn 52: 127-139.
-Sveinn P. Jakobsson, Jón Jónsson og F. Shido 1978. Petrology of the Western Reykjanes Peninsula, Iceland. Journ. Petrol. 19: 669-705.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – hrauntjörn.

Steðji

Ísaldarminjar eru ummerki um ýmiss konar jarðfræðileg fyrirbæri sem mynduðust fyrir meira en 10.000 árum þegar jöklar huldu landið að hluta eða öllu leyti. Hérlendis eru ísaldarminjar ýmiskonar jarðgrunnsmyndanir rofummerki á berggrunni og ummerki um eldvirkni undir jökli. Elstu ísaldarminjar hér á landi eru 4–5 milljóna ára gamlar og er þar um að ræða jökulbergslög sem finnast á milli hraunlaga í jarðlagasniðum.

Grettistak

Grettistak á Reykjanesskaga.

Síðasta ísöld hófst fyrir um 2,6 milljónum ára og henni lauk fyrir um 10.000 árum. Ekki var þó um einn fimbulvetur að ræða heldur skiptust á jökulskeið (kuldaskeið) og hlýskeið. Í setlögum og bergmyndunum í jarðlagastöflum, til dæmis austur í Jökuldal, Borgarfirði og Tjörneslögunum norðan Húsavíkur, eru varðveitt ummerki um 14–16 jökulskeið.

Jökulruðningur

Jökulruðningur og -rákir í Fossvogi.

Þær ísaldarminjar sem eru mest áberandi hérlendis eru frá síðasta jökulskeiði sem hófst fyrir um 100.000 árum og eru þær flestar og mestar frá ísaldarlokum, fyrir um 10.000–15.000 árum, þegar umhverfi og veðurfar færðist smám saman í það horf sem það er í dag.

Helstu ísaldarminjar landsins eru eftirfarandi:
• Jökulruðningur og landform sem jökullinn hefur myndað úr honum, til að mynda jökulgarðar og aflangar jökulöldur og jökulkembur sem vitna um tilvist, stefnu og meginþunga ísstrauma ísaldarjökulsins.

Móberg

Móbergsmyndanir.

• Grettistök eru sérstaklega áberandi á ákveðnum hálendissvæðum. Þau bera vott um lítið lausefni undir jöklinum á þessum svæðum en um leið mikilvirkt plokk jökulsins úr berggrunninum undir jökulhvelinu.

Jökurispur

Jökulrispur í Heiðmörk.

• Jökulrákir, hvalbök og grópir eru dæmi um rofform á berggrunni sem vitna einnig til um stefnu ísflæðis og rofmátt ísaldarjökulsins. Á stöku stað, til dæmis á Melrakkasléttu, finnast jökulrákir með tveimur til þremur mismunandi stefnum. Slíkt er talið merki þess að ísaskil hafi flust og skriðstefna jökuls þar með breyst vegna breytinga á stærð og útbreiðslu ísaldarjökulsins.
• Stærri form og landslagseinkenni í berggrunni landsins, eins og flestir dalir og firðir, eru grafnir og mótaðir af jöklum á mörgum jökulskeiðum, með aðstoð vatns, frostveðrunar og hrunvirkni.
• Móbergsmyndanir, til dæmis hryggir og stapar, myndast við gos undir jökli og eru áberandi við gosbelti landsins. Þær geta gefið upplýsingar um útbreiðslu og þykkt jökulsins við myndun þeirra.

Frostveðrun var mjög virk í fimbulkulda jökulskeiðanna en talið er að ákveðin svæði hafi verið íslaus í lengri tíma, til dæmis hærri fjöll og annes. Af þeim sökum er berggrunnurinn á slíkum svæðum oft mjög sprunginn og molinn, hriplekur og jafnvel óstöðugur í brattlendi.

Sveifluháls

Móbergsháls (Sveifluháls) á Reykjanesskaga – Kleifarvatn.