Færslur

Selhóll

Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir reyndu að ráða gátuna í skrifum þeirra um “Aldur Eldra- og Yngra Hellnahrauns” í ritinu Jökli árið 1991:

Hellnahraun

Jarðfræðikort ÍSOR. Eldra Hellnahraun er merkt SKÚ (Skúlatúnshraun/Stórabollahraun).

“Samkvœmt annálum urðu eldgos í Trölladyngjum á Reykjanesskaga árin 1151 og 1188. Líkur benda til að 1151 hafi Ögmundarhraun í Krýsuvík og Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar runnið er umbrotahrina varð í eldstöðvakerfi Trölladyngju. Hrinunni lauk líklega 1188 með myndun Mávahlíðahrauns. Umbrotahrinan í heild er nefnd Krýsuvíkureldar. Gossprungan er ekki samfelld en milli enda hennar eru um 25 km. Flatarmál hraunanna er 36,5 km2 og rúmmálið er áœtlað um 0,22 km3. Vegið meðaltal fimm geislakolsgreininga gefur 68,3% líkur á að hraunin hafi runnið á einhverju tímabilanna 1026-1045 (12%), 1052-1065 (35%), 1089-1125 (35%) og 1138-1153 (18%).
Traðarfjöll
Hellnahraun sunnan Hafnarfjarðar er í rauninni tvö hraun og eru bœði komin frá eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla. Yngra hraunið er sama hraun og Jón Jónsson (1977) hefur nefnt Tvíbollahraun. Það er að öllum líkindum runnið ísömu goshrinu og hraun sem Jón Jónsson (1978a) hefurnefnt Breiðdalshraun.
Vegið meðaltalfjögurra geislakolsgreininga á sýnum undan Yngra Hellnahrauni, Breiðdalshrauni og Tvíbollahrauni (tvö sýni) gefur 68,3% líkur á að hraunin hafi runnið annaðhvort á árabilinu 894-923 eða, sem er mun líklegra, á árunum 938-983.

Hellnahraun

Eldra-Hellnahraun (svart), Yngra-Hellnahraun (grátt), Óbrinnihólabruni (ljósgrár) og Kapelluhraun (blátt). Fært inn á nútíma loftmynd.

Helluhraunið sunnan og vestan við Hvaleyrarholt í Hafnarfirði heitir Hellnahraun (Guðmundur Kjartansson hefur nefnt hraunið Hvaleyrarhraun þar sem hann minnist á það í sínum greinum og það nafn hefur hraunið fengið á kortum Landmælinga Íslands. Í fyrri grein okkar um Krýsuvíkurelda er hraunið einnig nefnt Flatahraun). Flestir jarðfræðingar sem um það hafa fjallað hafa álitið hraunið mjög gamalt, án þess þó að færa fyrir því haldbær rök. Hraunið er dæmigert helluhraun, með ávölum sprungnum hraunkollum, að mestu gróðurlaust nema í gjótum og bollum og þess sjást engin merki að það hafi nokkum tíma verið gróið að marki. Allt var á huldu um aldur hraunsins þar til sumarið 1986, en þá tókst okkur að finna nothæft jarðvegssnið sem liggur inn undir hraunið, norðvestan við Stórhöfða. Þar kom í ljós að Landnámslagið liggur inn undir hraunið. Áður töldum við að Hellnahraun hefði runnið í sama gosi og Kapelluhraun og einnig að Hellnahraun og hraunið frá Óbrinnishólum væru eitt og sama hraunið (sbr. Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980).

Hellnahraun

Mannvirki í Óbrinnishólahrauni. Sjá má í Eldra-Hellnahraun fjær.

Við nánari könnun á Óbrinnishólum sumarið 1989 kom í ljós að athuganir Jóns Jónssonar (1974) á þeim standa óhaggaðar. Þá var aðeins eftir að kanna mót Hellnahrauns og Obrinnishólahrauns nánar, en á jarðfræðikorti Jóns Jónssonar (1978a) er Hellnahraunið talið eldra. Könnunin leiddi í ljós að vestur af Stórhöfða hefur Hellnahraunið augsýnilega runnið út yfir hraunið frá Óbrinnishólum og er því örugglega yngra. Að fenginni þessari niðurstöðu þótti ljóst að Hellnahraun hlaut að hafa komið upp nærri nyrsta hluta Undirhlíða. Þar er þó engum eldstöðvum til að dreifa nema Gvendarselsgígunum en hraunið frá þeim hefur greinilega runnið út yfir Hellnahraunið. Hægt er að ímynda sér að gígarnir hafi horfið undir Gvendarselshraun en sú skýring er ekki sennileg í ljósi þess hversu þunnt Gvendarselshraunið er. Einnig má hugsa sér að Hellnahraun hafi komið úr sjálfum Gvendarselsgígum í byrjun goss en sú skýring verður að teljast langsótt.

Stóri-Bolli

Stóri-Bolli, Kóngsfellsgígur, í Kóngsfelli.

Eftir allmiklar vangaveltur um uppruna Hellnahrauns fannst, eins og stundum vill verða, einföld og augljós skýring. Hraunið er einfaldlega ekki komið úr eldstöðvakerfi Trölladyngju, heldur eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla. Sunnan undir Helgafelli er allmikill helluhraunsfláki. Næst Helgafelli liggur ofan á honum tiltölulega mjór taumur af yngra helluhrauni sem hverfur inn undir Gvendarselshraun.

Jón Jónsson

Jarðfræðikort Jóns Jónssonar – eldgos og hraun á Reykjanesskaga.

Jón Jónsson (1977) hefur fjallað um hraun þetta og telur það komið úr Tvíbollum í Grindaskörðum. Ekki verður annað séð en að Hellnahraun sé framhald Tvíbollahrauns til vesturs. Í Krýsuvíkureldum flæddi hraunið frá Gvendarselsgígum yfir hluta hrauntaumsins þannig að samhengið rofnaði og hefur það villt mönnum sýn. Hellnahraun er auk þess einsdæmi á Reykjanesskaga að því leyti að það hefur runnið þvert yfir eitt eldstöðvakerfi og langleiðina yfir í það næsta, þ.e.a.s. hraunið kemur upp í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla, rennur þvert yfir eldstöðvakerfi Trölladyngju og þar sem það liggur næst sjó við Hvaleyrarholt er það í aðeins um 5 km fjarlægð frá austustu sprungunum sem þekktar eru í eldstöðvakerfi Reykjaness.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Þegar Hellnahraunið var kannað nánar sumarið 1991 kom ýmislegt nýtt í ljós. Sem fyrr segir liggur Hellnahraunið út á hraunið frá Óbrinnishólum vestur af Stórhöfða. Við könnun á neðri hluta hraunsins reyndist aldursafstaðan þveröfug, þ.e. Óbrinnishólahraunið hefur runnið út yfir Hellnahraun. Þegar betur er að gáð reynist Hellnahraun samanstanda af tveimur hraunum sem hér á eftir verða nefnd Yngra og Eldra Hellnahraun. Hraunin eru ákaflega lík í ytri ásýnd og var nokkrum erfiðleikum bundið að greina þau að, en það tókst. Aldur Eldra Hellnahraunsins er ekki þekktur að öðru leyti en því að það er eldra en hraunið frá Óbrinnishólum og yngra en Búrfellshraunið. Eftir útliti að dæma er það þó vart eldra en 3000-1000 ára. Hraunið er líkt og Yngra Hellnahraunið komið frá eldstöðvum í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla og hefur runnið svipaða leið í átt til sjávar

Aldur Yngra Hellnahraunsins

Hellnahraun

Eldra-Hellnahraun í sjó fram sunnan Hvaleyrar.

Jón Jónsson (1977) fann Landnámslagið undir Tvíbollahrauni og einnig kolaðarjurtaleifar sem hann lét aldursgreina. Taldi Jón hraunið hafa runnið á fyrstu árum Íslandsbyggðar. Árið 1988 tókum við sýni af koluðum jurtaleifum á sama stað og Jón hafði tekið sín sýni, við suðvesturhorn Helgafells. Einnig var tekið sýni af koluðum jurtaleifum undan Yngra Hellnahrauninu, í rústum af gömlum gervigíg, Rauðhól, skammt frá mótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar.

Fagridalur

Gengið upp úr Fagradal um Breiðdalshraun.

Frá eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla hefur á sögulegum tíma runnið annar helluhraunstaumur, sem minnir mjög á Yngra Hellnahraunið. Hraunið kom upp sunnan við Kistufell í Brennisteinsfjöllum, rann til norðvesturs eftir Lönguhlíðarfjöllum og síðan fram af þeim niður í Fagradal og Breiðdal við Undirhlíðar. Þetta hraun hefur Jón Jónsson (1978a) nefnt Breiðdalshraun. Aldursgreining, sem Jón lét gera, bendir sterklega til að það hafi runnið í sömu goshrinu og Yngra Hellnahraun.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – hrauntröð.

Geislakolsgreiningar hafa verið gerðar á hraunum sem talin eru mynduð í sama gosi eða goshrinu og Yngra Hellnahraun. Greiningar á Breiðdalshrauni og Tvíbollahrauni eru ættaðar frá Jóni Jónssyni (1977, 1978a), en okkar sýni, sem tekið var undan Tvíbollahrauni á sama stað og sýni Jóns, er kennt við Helgafell. Sýnin frá Helgafelli og Rauðhól voru meðhöndluð til geislakolsmælingar á Raunvísindastofnun Háskólans, en sjálf mælingin fór fram á tandemhraðli Árósaháskóla. Líklegast hafa öll þessi hraun runnið á sama tíma á 9. eða 10. öld.”

Heimild:
-Jökull, 1. tbl. 01.12.1991, Krýsuvíkureldar II; Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns, Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, bls. 61-74.

Hellnahraun

Yngra-Hellnahraun ofan Hafnarfjarðar.

Sveifluháls

Sveifluháls eða Austari Móháls er bæði eitt af aðgengilegustu útivistarsvæðunum á Reykjanesskaganum og jafnframt það stórbrotnasta.

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Óvíða er hægt að sjá fyrrum jarðmyndun skagans jafn augljóslega og á hálsinum. Arnarvatn í samspili við Folaldadalina í norðri og Smérdalina í suðri eru einstakar náttúruperlur – sjá MYNDIR

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi við Ketilsstíg.

Meðalfellsvatn - skilti

Á norðurbakka “Meðalfellsvatns” er upplýsingaskilti. Á því má lesa eftirfarandi texta:

“Í Kjós er hægt að lesa merkilega sögu um hop og framskrið jökla ísaldar. Kjósin er dalur sem jöklar ísaldar hafa forðum grafið út úr Esjuhálendinu. meginjökull hefur skriðið út Hvalfjörð, en minni jöklar úr Kjós, sem hafa skilið Meðalfell eftir. Smærri skrijöklar hafa grafið út dalina norðan í Esjunni.

1. Meðalfell

Meðalfell

Meðalfell.

Í Landnámu segir að Valþjófur, sonur Örlygs hins gamla Hrappssonar landnámsmanns á Esjubergi, hafi byggt bæ sinn að Meðalfelli. Er hann því landnámsmaður Kjósrainnar, hann “nam Kjós alla” segir orðrétt.

2. Eyjarétt

Eyjarétt

Eyjarétt.

Rétt neðan við Kaffi Kjós eru leifar Eyjaréttar sem var lögrétt frá 1890 til 1955. Hægt er að sjá merki um réttina ef gengið er upp í hlíðar Meðalfells upp af Kaffi Kjós og horft yfir svæðið þaðan.

3. Írafell

Írafell

Írafell (MWL).

Einn frægasti draugur landsins er Írafellsmóri. Sagt er að hann hafi verið vakinn upp úr dreng sem varð úti á milli bæja. Draugurinn var sendur að Möðruvöllum til að ásækja Kort nokkurn Þorvarðarson og var sagt að hann myndi fylgja ætt hans í níu ættliði. Draugurinn fylgdi syni Korts að Írafelli og dregur síðan nafn sitt af bænum.

4. Grjóteyri

Grjóteyri

Grjóteyri.

Um miðja 20. öld voru gerðir nokkrir skógarreitir af félagasamtökum, m.a. í landi Grjóteyrar.

5. Flekkudalur

Flekkudalur

Flekkudalur

Í Flekkudal eru hraunlög og móberg. Þessi hraun runnu líklega þegar eldstöðin á Kjalarnesi var að deyja út, en eldstöðin í Stardal ekki vöknuð. Meðalfell er myndað úr sömu jarðlögum. Í gili Flekkudalsár er einnig að finna margvíslegar stuðlamyndanir í móbergi, bólstra og móbergstúff með gerggöngum og stórum gúlum af stuðluðu blágrýti.

Meðalfellsvatn - skilti

Meðalfellsvatn – skilti.

Ómar

Í Fjarðarfréttum í janúar 2020 segir ritstjórinn, Guðni Gíslason, frá endurnýjaðri vefsíðu FERLIRs (www.ferlir.is) undir fyrir sögninni; “Vefsíða sem getur verið uppspretta að ókeypis leið til að hreyfa sig”.  Þar segir m.a.:

Guðni Gíslason

Guðni Gíslason.

Í upphafi árs horfir fólk gjarnan til lýðheilsu sinnar fyrir reglubundna áeggjan fjölmiðla.

„Svo virðist sem fréttaflutningurinn sé fyrst og fremst runninn undan rótum líkamsræktarstöðvanna, sem er jákvætt, en með tilheyrandi kostnaði,“ segir Ómar Smári Ármannsson sem heldur úti fróðleikssíðunni www.ferlir.is og segir hann að til séu miklu mun ódýrari leiðir að sama marki.

FERLIR stóð upphaflega fyrir Ferðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar í Reykjavík. Áhugasamt lögreglufólk um útivist og hreyfingu í tilbreytingu frá hversdagslegum önnum, krefjandi rannsóknum og kyrrsetu þeirra á millum, tók sig saman árið 1999 og ákvað að líta í kringum sig utan starfstöðvanna – víkka sjóndeildarhringinn og kynnast betur sínu nærtækasta úthverfi. Reykjanesskaginn varð fyrir valinu, bæði vegna nálægðarinnar og ekki síður vegna lítils áhuga fólks almennt á því svæði, „þótt undarlega megi teljast, þrátt fyrir fjölbreytileikann“ segir Ómar Smári.

Ný endurbætt vefsíða með hafsjó af fróðleik – www.ferlir.is

Ferlir

Ferlir – fyrsta vefsíðan.

Ómar setti upp vefsíðuna ferlir.is þar sem hann skráði inn fróðleik og ferðalýsingar sem söfnuðust saman eftir því sem ferðirnar urðu fleiri. Nýlega var síðan uppfærð og er nú betur aðgengileg í símum og öðrum snjalltækjum. Síðan verður uppfærð og fleiri myndir gerðar aðgengilegar en öll vinna við skráningu og innsetningu efnis á síðuna hefur verið unnin í sjálfboðavinnu.

Kringlumýri

Kringlumýri – áður óþekktar minjar frá fyrstu tíð landnáms hér á landi.

Eftir að þátttakendur höfðu kynnt sér og rannsakað gaumgæfilega margvíslegar heimildir, bæði gamlar og nýjar, skráðar og óskráðar, kom í ljós að skaginn hafði upp á ótrúlega mikla fjölbreytni að bjóða; allt frá fornum minjum um búsetu frá því fyrir upphaf norræns landsnáms til áþreifanlegrar atvinnuþróunarsögu frá fornöld til vorra tíma, þjóðsagnakennda staði, fornar þjóðleiðir, stórkostlega og síbreytilega náttúrufegurð, tímasetta jarðsögu, fjölbreytta flóru og fánu, sendnar strandir jafnt sem rísandi björg, magnþrungið brim, langa fjallgarða, formfögur fjöll, gróna dali, tifandi læki, fjölskrúðug jarðhitasvæði og svo mætti lengi telja.

Yfir fjögur þúsund gönguferðir

Ferlir

FERLIR – síðasta gamla vefsíðan.

Til að gera langa sögu stutta er rétt að nefna að þegar hafa verið farnar rúmlega 4.000 gönguferðir um Reykjanesskagann, sem markast af hinu forna landnámi Ingólfs, vestan línu milli Hvalfjarðarbotns og Ölfusárárósa.

Hópurinn, breytilegur frá einum tíma til annars, hefur notið leiðsagnar frábærs fólks, því að kostnaðarlausu, á einstökum afmörkuðum svæðum og segir Ómar að því fólki verði seint fullþakkað fyrir móttökurnar. Árangurinn má sjá á vefsíðunni www.ferlir.is.

Auk texta má sjá fjölda mynda og uppdrætti af yfir 200 minjasvæðum. Margt mjög áhugasamt fólk hefur verið með í ferðum. Sumt af því hafði áður skoðað og skráð merkilegar upplýsingar á einstökum svæðum. Þátttaka þess hefur gert hópnum kleift að auka víðsýnið og fræðast um ýmislegt það, sem áður virtist óþekkt. Við leitir hefur hópurinn og fundið áður óþekktar minjar og staðsett aðrar, sem heimildir voru um en virtust týndar.

Alls staðar, þar sem bankað hefur verið að dyrum, hefur hópnum verið mjög vel tekið að sögn Ómars Smára. „Þátttakendur hafa einnig átt frábært samstarf við ágætan fulltrúa Hellarannsóknarfélagsins, Björn Hróarsson, Ferðamálafélags Grindavíkur, Erling Einarsson, kirkjuverði, skólastjórnendur, staðkunnugt heimafólk frá elstu tíð, innfædda leiðsögumenn og marga fleiri á ferðum sínum. Sem dæmi má nefna að bæjarstjórinn í Grindavík, Ólafur Ólafsson, hefur verið mjög áhugasamur um sitt umdæmi og mætt í margar ferðir er farnar hafa verið innan umdæmisins. Verður það að teljast einkar virðingarvert og gott fordæmi því talsverður tími hefur farið í ferðir um víðfeðmin umdæmin,“ segir Ómar Smári.

Minjar skráðar ásamt mikilvægum fróðleik

Ölfus

Selvogur – örnefna og minjakort (ÓSÁ).

Safnað hefur verið miklum fróðleik um Reykjanesskagann, skráðir GPS-punktar á minjar í sérstakar hnitaskrár, hellar, skútar, sel, sögulegir staðir, flugvélaflök frá stríðsárunum, vörður, fornar þjóðleiðir og annað er merkilegt hefur þótt. Þá hafa einstök minjasvæði, s.s. Gömlu Hafnir, Básendar, Húshólmi, Selatangar, Krýsuvík, Selalda, Strandarhæð, Kaldársel o.fl. staðir verið dregnir upp skv. lýsingum eldra fólks, en fróðleiksmiðlun þess verður seint metin að verðleikum. Viðtöl hafa og verið tekin við fróðleiksfólk, sem enn man hvaða minjar voru hvar, af hvaða tilefni og hvað var gert á hverjum stað á hverjum tíma.

Sjá má því nánast óteljandi möguleika til ókeypis hreyfingar og heilsubótar á www.ferlir.is.

Ómar Smári Ármannsson er Hafnfirðingur, fæddur í Grindavík. Hann er fv. aðstoðaryfirlögregluþjónn og er lærður fornleifafræðingur og leiðsögumaður.

Fjarðarfréttir mun nánar segja frá fróðleik á www.ferlir.is.

Heimild:
-Fjarðarfréttir, Guðni Gíslason, 5. janúar 2020.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

Móbergskúla

Jón Jónsson, jarðfræðingur, fjallar um “Sérkennilegar móbergskúlur” í Náttúrufræðingnum árið 1987:

Jón Jónsson

Jón Jónsson, jarðfræðingur.

“Meðan ég var að vinna að jarðfræðikorti yfir Reykjanesskaga, það mun hafa verið 1963, veitti ég athygli sérkennilegum kúlum í móbergi í Bæjarfelli í Krýsuvík, og er þeim lýst í ritinu Jarðfræðikorti af Reykjanesskaga (Jón Jónsson 1978) svo sem hér segir: „Við lítið ból norðan í háfellinu koma fyrir harla sérkennilegir kúlur í móberginu. Þær eru úr móbergsglerkornum og hvað það snertir eins og túffið í kringum þær, en hafa veðrast út sem reglulegir boltar oft um 15—25 sm í þvermál. Sumar eru nú holar innan og virðist það vera vegna veðrunar. Það er því skelin um þessar kúlur, sem stenst veðrunina betur en bæði túffið í kring og eins inni í kúlunni sjálfri. Myndun sem þessa hef ég séð á einum stað öðrum, en það er í Syðri-Stapa við Kleifarvatn.”
Frá því að þetta var skrifað hef ég fundið samskonar myndanir á tveim öðrum stöðum og eru báðir í Mýrdal. Besta dæmið, sem ég nú þekki um svona myndanir er að finna í hömrunum austan við Skiphelli í Mýrdal örskammt frá þjóðvegi 1. Þar gefur að líta þverskurð af fornri eldstöð. í greinakorni um jarðfræðiathuganir í Mýrdalsfjöllum er þessa getið með þessum orðum: (Jón Jónsson 1985):

Móbergskúla

Móbergskúla.

„Mjög sérkennilegar móbergskúlur koma á kafla fyrir í þessari gosmyndum. Þær eru eingöngu úr móbergsglerkornum og í ýmsum stærðum, frá því að vera 2—3 sm í þvermál og allt upp í 40-50 sm. Kúlurnar eru ýmist á strjálingi inni í svartri ösku og vikri eða í svo þéttum hópum að þær ná því að vera 60-80% af berginu.
Flestar eru þær á stærð við tennisbolta en aðrar á stærð við fótbolta eða enn stærri. Einkum koma þær fyrir í þykku lagi úr svörtum vikri og gjalli og þá ásamt venjulegum hraunkúlum (bombum) sumum stórum.”
Nokkrar svona kúlur hef ég fundið í þeirri sérstæðu myndun, sem nefnist Lambaskörð og er í Kerlingardalsheiði. Gamli akvegurinn liggur um þetta svæði niður að brúnni, sem eitt sinn var á Múlakvísl í sundinu milli Selfjalls og Léreftshöfuðs.
Ekki skal hér um þá myndun fjallað, en þess aðeins getið að þar koma svona móbergkúlur líka fyrir. Í dagbók minni frá þeim athugunum er eftirfarandi að lesa: „Ofan til í þessu túffi eru móbergskúlur eins og þær, sem ég hef áður séð í Bæjarfelli og Syðri Höfða í Krýsuvík, en einnig við Skiphelli. Þær eru hér mjög mismunandi stórar, þær stærstu um 30-40 sm í þvermál aðrar á stærð við fótbolta og minni. Ekki mynda þær reglulegt lag en koma fyrir á víð og dreif í berginu.”
Ekki er auðráðið í hvað var þess valdandi að þessar kúlur urðu til. Þær eru einfaldlega öskuboltar, sem orðið hafa til við það að blautt eða hæfilega rakt öskulag rúllaðist upp. Svo laust er það allt í sér að það hlýtur að hafa farið rólega fram, en hvað kom því af stað?

Móbergskúlur

Móbergskúlur.

Nýlega gerðar smásjárathuganir á þessum kúlum hafa ekki gefið mikið nýtt. Þær sýna ofur venjulegt móberg. Inni í glerkornunum eru feldspat- og pýroxen kristallar ásamt einstaka ólívíni. Eini sýnilegi munurinn á þessu efni er sá að í einstaka tilfellum er megin hluti kúlunnar úr tiltölulega grófum glerkornum, en yst er lag úr mjög fínu efni, sem einnig samanstendur af smáum glerögnum og einstaka kristöllum. í þessu fína efni er myndbreyting (palagonitisering) verulega meira áberandi en í því grófa. Kornin liggja í ákveðna stefnu og mynda þannig húð utan um grófara efnið. Þannig líkist þetta því fyrirbæri sem sjá má í svo nefndum öskubaunum (písólítum) (Sbr. Tómas Tryggvason 1955). Sérstaklega upplýsandi hvað þetta varðar er ljósmyndin á bls. 105. Það skal tekið fram að aðeins í einu tilviki hef ég, svo óyggjandi sé, fundið svona tilhögun glerkornanna í þessum kúlum.”

Móbergskúlur

Móbergskúla á Sveifluhálsi.

Haraldur Sigurðsson fjallar um móbergskúlurnar á bloggsíðu sinni; vulkan.blog.is:

“Ef móbergskúlur myndast eftir gos, en ekki í gosinu, eins og Jón Jónsson taldi, þá verðum við að leita annara skýringa varðandi uppruna þeirra. Kúlur eru algengt fyrirbæri í setlögum um allan heim, og eru oftast nefndar concretions eða setkúlur, en þær eru algjörlega óþekktar í setlögum af gjóskubergi, eins og móberginu á Íslandi — þar til nú. Slíkar kúlur myndast í setlögum vegna þess að límefni byrjar að myndast á milli sandkorna á einhverjum púnkti í setinu og límefnið berst út í allar áttir, til að mynda setkúlu. Þetta virðist vera tilfellið í íslensku móbergskúlunum, en ennþá vitum við ekki hvað límefnið er.

Móbergskúlur

Móbergskúlur í Innri-Stapa í Krýsuvík.

Lang sennilegast er að það sé palagónít, sem er leirsteind eða míneral sem myndast þegar basalt gler byrjar að myndbreytast yfir í móberg, en sú myndbreyting veldur því að gjóska rennur saman í hart berg. Surtsey kenndi okkur að sú hörðnun getur gerst furðu hratt, eða á einum áratug eða svo.”

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.07.1987, Sérkennilegar móbergskúlur – Jón Jónsson, bls. 34-35.
-Haraldur Sigurðsson – https://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/951989/

Móbergskúlur

Móbergskúlur (HS).

Ölfusá

Á skilti neðan við brúna yfir Ölfusá að sunnanverðu má lesa um “Sérstæða hraunbolla“:

Selfoss

Selfoss – hraunbollar.

“Á syðri bakka Ölfusár, nálægt stöplum brúarinnar, eru sérstæðar jarðmyndanir. Þetta eru hringlaga hraunbollar, um 1-2 metrar í þvermál og nálægt hálfum metra á dýpt. Hér er líklega um að ræða fara eftir stórar grasfylltar loftbólur sem stigu upp í bráðnu hrauninu og storknuðu veggir bollanna áður en bólurnar sprungu á yfirborðinu. Hér er hugsanlega á ferðinni forstig hraundrýlis eða gervigígs. Jarðmyndanir þessar eru á náttúruminjaskrá. Vesturbrún Þjórsárshrauns hin mikla myndar bakka Ölfusár á þessu svæði. Hraunið er hið stærsta sem runnið hefur á jörðinni frá lokum síðasta jökulskeiðs ísaldar. Hraunið er um 8.700 ára gamalt. Sjá einnig skilti um endimörk hraunsins skammt austan við byggðina á Stokkseyri.”

Selfoss

Selfoss.

Eldgos

Í Dagblaðið Vísir árið 2001 er haft eftir Ara Trausta Guðmundssyni, jarðeðlisfræðingi, að “Það muni verða eldgos á Reykjanesskaganum“:

Þéttbýlasta svæði landsins óþægilega nálægt virkum eldstöðvum

Ari Trausti Guðmundsson

Ari Trausti Guðmundsson.

Það mun verða eldgos á Reykjanesskaganum – segir Ari Trausti Guðmundsson en vill engu spá um hvar eða hvenær.

„Ljóst er að sumar byggðir á þéttbýlasta svæði landsins eru óþægilega nálægt virkum skjálftasprungnum eldstöðvakerfum gosbeltanna fjögurra á Reykjanesskaga, eða nálægt misgömlum gossprungum í þeim.” Þetta segir Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur m.a. í nýrri bók sinni „íslenskar eldstöðvar” sem kemur út í þessari viku. Þar er m.a. fjallað ítarlega um eldstöðvakerfi Reykjanesskagans sem talið er líklegt að láti á sér bæra, jafnvel í náinni framtíð.
Í niðurlagi kaflans um Reykjanes segir:
„Enn fremur er vitað að rek- og goshrinur ganga yfir í kerfunum á 700-1000 ára fresti. Nú er langt liðið á kyrrðartímabil hvað jarðeldinn varðar. Þess vegna verður t.d. að gera ráð fyrir að eldar, svipaðir Reykjanes-, Bláfjalla- og Nesjavallaeldum, geti valdið tjóni og óþægindum á Reykjanesskaga á næstu öldum.

Sprungusveimar

Sprungusveimar á Reykjanesskaga.

Áhrif hvers eldgoss ræðst m.a. af legu gossprungna, magni gosefna, aðstæðum á nálægu landsvæði og gosháttum. Hraungos í kerfunum virðast flest vera fremur lítil en skaginn er ekki breiður og ávallt er hætta á að hraun nái af hálendi hans út á láglendið og jafnvel til sjávar. Lítil gjóska fylgir slíkum gosum. Gjóskugos verða helst í sjó undan Reykjanesi eða lengra úti á hryggnum. Gjóskumagnið er þó venjulega fremur takmarkað en gæti samt valdið óþægindum og jafnvel tjóni. Ástæða er til að vinna áætlanir um viðbrögð, meta vel hættur og goslíkur og vakta eldstöðvakerfin á skaganum. Allt þetta hefur verið gert og unnið er áfram að því að draga úr áhættunni við að búa á „landlægum” hluta plötuskilanna í Norður-Atlantshafinu.”

Líkurnar aukast
Eldstöðvakerfi
Jarðfræðingar hafa á síðustu árum og misserum ítrekað gefið í skyn að gos í einhverju hinna fjögurra eldstöðvakerfa Reykjanesskagans séu ekki mjög langt undan. Þannig sagði Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur í samtali við DV fyrir skömmu að menn velti því fyrir sér núna hvort við séum hugsanlega að sigla inn í nýtt gostímabil.

Ölfus

Jarðskjálftasprungur eftir Suðurlandsskjálftana 17. og 21. júní árið 2000.

Við stóru jarðskjálftana á Suðurlandi á og eftir 17. júní varð keðjuverkun jarðskjálfta vestur eftir Reykjanesskaga. Áhrif þeirra urðu m.a. mjög sýnileg er Kleifarvatn fór að leka ört niður um sprungur sem þá opnuðust. Jarðskjálftar á Hengilssvæðinu undanfarin ár hafa líka vakið athygli. Hvort það séu vísbendingar um að stórir atburðir séu í aðsigi virðist þó erfitt að henda reiður á. Það lá því beinast við að spyrja bókahöfundinn sjálfan, Ara Trausta Guðmundsson, hvernig hann mæti möguleikana á eldgosi á svæðinu í náinni framtíð.

Það mun verða eldgos
„Það mun verða eldgos á Reykjanesskaganum, það er alveg á hreinu. Það sem bæði jarðfræðingar og leikmenn hafa síðan áhuga á að vita er hvar og hvenær slíkt gos verður. Þegar jarðvísindamenn eru að fjalla um svona mál eru þeir ekki endilega að velta upp öllum hugsanlegum möguleikum.
Eldstöðvakerfi
Það er sjaldan hægt að útiloka nokkurn hlut í náttúrunni en menn velta helst fyrir sér því sem líklegast er að gerist. Menn notast við mæligögn, söguna og það sem almennt er vitað um eldvirkni til að leggja upp möguleika í stöðunni. Þá er helst til að taka að við vitum um þessi fjögur eldstöðvakerfi sem liggja skáhalt vestur eftir Reykjanesskaganum.

Ekki allur Reykjanesskaginn undir

Brennisteinsfjöll

Í Brennisteinsfjöllum.

Við þorum nánast að fullyrða að eldgos verði ekki utan þessara kerfa, heldur einungis innan þeirra.
Þar með erum við að segja að á nánast helmingi flatarmáls skagans verða ekki eldgos. Það verður sjaldan eða aldrei eldgos á milli þessara reina sem greinilega má sjá á korti.

Eldgos

Eldur undir hrauni í Geldingadölum 2023.

Í öðru lagi er hægt að sjá nokkuð ákveðna tíðni í eldgosahrinum. Þetta eru yfirleitt rek- og goshrinur eins og Kröflueldar voru. Það verður jarðgliðnun og það koma og fara eldgos á kannski nokkurra áratuga tímabili. Það virðist vera að það séu um 700 til 1000 ár á milli slíkra lotuhrina í einhverjum af þessum fjórum kerfum á skaganum.”
Ari Trausti segir að á sögulegum tíma hefur eldvirknin þó ekki byrjað í austasta svæðinu sem er Hengilskerfið. Það hefur ekki látið á sér bæra í 2000 ár. Gosvirkni byrjaði hins vegar í næstaustasta kerfinu sem kennt er við Brennisteinsfjöll. Síðan fór virknin í næsta kerfi sem er Trölladyngukerfið og síðast gaus í vestasta kerfinu sem er Reykjaneskerfið. Þegar slík eldvirknitímabil fara af stað virðast þau standa yfir í nokkra áratugi eða aldir í fleiri en einu kerfi. Á sögulegum tíma stóð það siðast seint á tíundu öld og fram yfir miðja þrettándu öld.

Líkt og Kröflueldar
Stampahraun
„Það sem er þó nokkur huggun harmi gegn er að þessi eldgos sýnast ekki vera mikil hvert um sig. Þetta eru sprungugos með hraunflæði og lítilli gjóskumyndun, ekki ólík síðustu Kröflugosum. Það er útilokað á þessari stunda að segja til um hvort svona hrinur byrji eftir ár, einn eða fleiri áratugi eða jafnvel ekki fyrr en eftir eina öld.
Við erum að tala um að 700 til 1000 ár líði á milli hrina og nú eru um 750 ár síðan síðasta hrina gekk yfir.”

Hengill

Hengill.

Líkindi á gosi á Hengilssvæðinu – Nú hefur ekki gosið á Hengilssvæðinu í um 2000 ár. Er þá ekki kominn tími á það, ekki síst ef menn líta til kvikusöfnunar sem vitað er af undir eldstöðinni fram á mitt ár 1999?
„Jú, ef maður hugsar í líkindum þá er auðvitað rétt að meiri líkindi eru á að Hengilskerfið taki við sér næst frekar en önnur þar sem það hefur verið sofandi dálítið lengi. Við vitum að þar hafa gengið yfir að minnsta kosti þrjár goshrinur á síðustu nokkur þúsund árum, síðast fyrir um 2000 árum. Það er því nokkuð líklegt að það geti tekið við sér.
Landris og kvikusöfnun sem var undir Henglinum í lok tíunda áratugarins sýnir svart á hvítu að þarna er heilmikið líf. Þau áhrif sem Suðurlandsskjálftar valda hafa síðan mest áhrif á Hengilskerfið af öllum þessum eldstöðvakerfum. Sem betur fer stoppaði þetta landris 1999. Menn reiknuðu þá út að þetta hafi verið um 100 milljón rúmmetrar af kviku sem hafi risið upp undir Grafarholtshverfinu. Í því er hætta á mun minni skjálftum.

Grindavík, Hveragerði og Hafnarfjörður

Eldgos

Eldgos í Geldingadölum ofan Grindavíkur 2021.

-Hver er hættan á þétfbýlissvæðum Reykjanesskagans?

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

„Ég tel ekki að um yrði að ræða umtalsvert tjón af völdum jarðskjálfta á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Varðandi eldgos er matið öðruvísi. Við getum þó afskrifað gjósku sem alvarlegan tjónvald. Hraunin geta hins vegar runnið langt út frá gossprungum.
Hættan á gosum á Hengilssvæðinu er fyrst og fremst fyrir sumarbústaðasvæði allra syðst við Þingvallavatn. Fyrir Nesjavallavirkjun, mannvirki á Hellisheiðinni og síðan Hveragerði. Ég tel ekki nokkrar líkur á að hraun úr slíku gosi næði fram til Reykjavíkur.
Í Bláfjalla- og Brennisteinsfjallakerfinu er hættan ekki mikil á suðurhluta svæðisins. Hins vegar er viss hætta með skíðamannvirki í Bláfjöllunum. Ekki er mikil hætta á að hraun úr þessu kerfi næðu til þéttbýlissvæða.

Trölladyngjukerfið er einna hættulegast

Trölladyngja

Horft til Trölladyngju og Grænadyngju frá Helgadal. Mökkur frá gösstöðinni í Geldingadal t.h.

Trölladyngjukerfið er hins vegar einna hættulegast af þessum kerfum, vegna legunnar. Innan þess er t.d. Grindavík, ný mannvirki í Trölladyngju og Svartsengi er í námunda við þetta svæði. Þá er möguleiki á því að hraun úr nyrðri hluta svæðisins nái til sjávar nálægt Hafnarfirði. Þar yrði álverið í Straumsvík í hættu og Keflavíkurvegurinn á kaflanum frá Kúagerði að Hafnarfirði. Þarna hafa runnið hraun á sögulegum tíma.

Trölladygja

Trölladyngja og nágrenni.

Reykjaneskerfi er hins vegar fjær allri byggð. Hættan væri hugsanlega varðandi mannvirki á Reykjanesi og í Eldvörpum. Síðan er Svartsengi nálægt þessu kerfi líka eins og Trölladyngjukerfinu. Hins vegar er möguleiki á sprengigosi líku Surtseyjargosi í sjó við Reykjanes. Þar gaus t.d. á þrettándu öld. Sú gjóska getur fallið á allan Reykjanesskagann og víða á Suðvesturlandi. Ekki eru þó líkur á miklu tjóni af þess völdum.”
Í bók Ara Trausta er einmitt lýst þegar Snorri Sturluson missti naut sín í Svignaskarði af völdum öskufalls úr gosi við Reykjanes árið 1226. Þetta öskulag er kallað miðaldarlagið og er notað sem viðmiðun við fornleifarannsóknir. Drangurinn Karl undan vitanum á Reykjanesi er það sem enn má sjá af gígnum.
Ari Trausti Guðmundsson vill engu spá, frekar en aðrir jarðfræðingar, um hvar og hvenær næsta gos verður. Möguleikar til að spá fyrir slíku eru þó alltaf að batna. Fyrirvarinn sem menn hafa er hins vegar æði misjafn og fer algjörlega eftir eðli hvers eldgosasvæðis fyrir sig – kannski hálftími, jafnvel einhverjir klukkutímar eða dagar. – HKr.

Heimild:
-Dagblaðið Vísir 275. tbl. 28.11.2001, Það mun verða eldgos á Reykjanesskaganum – Ari Trausti Guðmundsson, bls. 8-9.

Eldgos

Eldgos á Reykjanesskaganum 2021.

Geldingadalir

Í Lesbók Morgublaðsins 1962 fjallar Gísli Halldórsson um jarðfræði undir fyrirsögninni “Er jarðskurnin að springa undir Íslandi?”

Áður héldu menn, að jörðin vœri að kólna og dragast saman —
en nú segja þeir sérfróðu: Hún er að hitna og þenjast út.

Er jarðskurnin að springa undir Íslandi?
Flekaskil
“Krýsvík er gamalkunnugt hverasvæði. Þar eru bæði gamlar og líka nýjar hverastöðvar og þar hafa orðið miklar gossprengingar sbr. t.d. Grænavatn. Jörð er þarna víða sundursoðin og jarðhiti virðist megn og upprunalegur, á litlu dýpi.
Sveifluhálsinn liggur, eins og helztu eldfjallasprungur hér á landi, frá suðvestri til norðausturs. Sé farið meðfram hálsinum austanverðum, má sjá ótal gufuhveri, bæði við rætur hálsins og í hlíðum hans, allt upp undir efstu brúnir. Einnig má sjá hveri hinum megin hálsins.

Flekaskil

Jörðin.

Og um 4 km vestar er Trölladyngja, sem er gamalt jarðihitasvæði, er liggur í framhaldi af Vesturhálsi. Í sömu stefnu og hálsarnir, en norðar og austar, liggja Sauðabrekkugjá og Fjallgjá og á milli þeirra margar sprungur, allar samhliða. Skammt sunnan og vestan við Sveifluháls, sem einnig er nefndur Austurháls, er Engihver og Nýihver, ekki alllangt frá Grænavatni. Þá er og laug sunnan við Kleifarvatn.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – kort.

Næsta stórsprunga virðist vera allmiklu austar, þar sem heita Brennisteinsfjöll. Liggur sú sprunga einnig samhliða hálsunum og gjánum sem fyrr voru nefndar.
Ekki verður efast um það, að allt þetta svæði er í nánum tengslum við heit jarðlög, og er líklegt að geysimikil sprunga sé undir þessu svæði og nái inn úr jarðskorpunni.
Samkvæmt þeim hugmyndum, sem menn hafa síðast gert sér um eðli jarðskorpunnar og fram komu á hinni alþjóðlegu jarðeðlisfræðiráðstefnu, sem fyrr var nefnd, er skurn jarðar lagskipt. Er yzta lagið aðeins um 5—7 km á þykkt, þar sem það liggur undir sjávarbotni. Og er það haldið vera að mestu úr basalti. En undir meginlöndunum er lag þetta miklu þykkara, eða líklega um 35—60 km á þykkt, og úr léttu graníti. Innan við þetta lag tekur við hin svokallaða yzta skurn jarðhjúpsins. Og nær um 50 km dýpi, undir höfum, en um 100 km dýpi undir meginlöndum. Þar tekur við innra lag skurnarinnar. En samtals eru þessi lög um 3000 km á þykkt. Ofan á jarðlög þau, sem í sjó liggja, hafa sezt létt lög af botnfalli, en niður í gegn um þessi lög ganga þau berglög, sérstaklega undir fjöllum, sem virðast fljóta eins og ísjakar í jarðskorpunni.

Flekaskil

Flekaskil jarðar.

Vegna þeirra átaka, sem jarðskurnin verður sífellt fyrir, breytir hún iðulega um lögun. Stafa átök þessi að nokkru leyti frá tunglinu, í formi aðdráttaraflsins, og frá hitabreytingum, hitastraumum og misþennslu, innanfrá.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Þá getur mikill ísþungi þrýst niður jarðlögum og jarðlögin á ný flotið upp, eða lyfzt, þegar ísinn bráðnar. Loks hlaðast upp heil lönd og fjallgarðar, af gosefnum innan úr jörðinni. En stundum ná þessi efni ekki upp á yfirborðið og lyfta þá landinu sem ofan á liggur upp. Á öðrum stöðum myndast holrúm og landið fellur niður. Fylgja þessu oft jarðskjálftar.
Það hefur lengi verið skoðun jarðfræðinga, að jörðin væri að kólna og við kólnunina að dragast saman, og að fyrir bragðið myndi skurnin hafa tilhneingu til að mynda fellingar, og að bær fellingar væru orsök hinna ýmsu fjallgarða. En þótt finna megi fjöll, sem virðast hafa myndazt við fellingar, þá telja ýmsir nú að síðustu rannsóknir bendi til þess, að mestu fjallgarðar heimsins hafi ekki myndazt vegna samdráttar skorpunnar, og séu ekki fellingar.

Jörðin að þenjast út

Flekaskil

Flekaskilin um Ísland.

Fremur mun það nú álit manna, að jörðin sé að hitna að innan og að orsök fjallamyndana séu geysilegar sprungur, sem ná langt inn í skorpu jarðar. Er álitið að undir meginlöndum falli þessar sprungur, með 30° halla, allt niður í 300 km dýpi, en breyti þá um halla, allt niður í 700 km dýpi.
Undir eyfjöllum mynda sprungurnar hins vegar 60° halla, allt í 700 km dýpi. En þegar komið er í þetta dýpi er bergið orðið mjög holt og fljótandi og þrýstingur á því geysilegur. Sprungur við eyfjöll eru taldar koma app sjávarmegin fjallsins.
Þriðja tegund sprungna er loks talin vera undir eldfjöllum á Mið-Atlantshafsfjallgarðinum, sem Ísland liggur á. Eru þær sprungur, sem næst lóðréttar og mjög grunnar, e.t.v. aðeins 20—30 km.
Frá sprungum þessum í Mið-Atlantshafsfjallgarðinum ganga ótal hliðarsprungur skáhallt upp á við, og vella þar upp hraun og heit jarðlög.

Flekaskil

Norður-Atlanfshafshryggurinn.

Á hinu svokallaða jarðeðlisári, sem ábur var á minnst, komust menn fyrst að raun um, hve geysilega víðáttumikill Mið-Atlantshafs-fjallgarðurinn er, því að hann nær óslitinn, heimskautanna á milli. Og er frá 500 til 2000 km á breidd.
Eftir honum endilöngum, og þar sem Ihann rís hæst, gengur sprunga, sem sker hann í sundur og er allt að 50 km að breidd. Stafa hverir bæði á Íslandi og á Azoreyjum, frá varmanum sem berst upp um þessa sprungu. Fjallgarður þessi tekur yfir nær 1/3 hluta Atlantshafsins. Í Kyrrahafinu, sunnanverðu, beygir Austur-Kyrrahafs-fjallgarðurinn, eða neðansjávar-hásléttan, sem, svo mætti nefna og sem er nær 5000 km á breidd, í kringum Ástralíu og tengist Mið-Atlantshafs-fjallgarðinum. Og saman ná þessir tveir fjallgarðar, að mestu neðansjávar, yfir 64,000 km lengd og grípa umhverfis gjörvalla jörðina.
Mælt hefur verið, að varmauppstreymið í skorpunni yfir neðansjávarhásléttunni, undir Galapagos og Páskaeyjum, reyndist sjöfallt meira en þekkist í jarðskorpunni annars staðar. Og æ fleiri rök hníga nú að því, að fjallmyndun fari fram, ekki með samdrætti og fellingum, heldur með þeim hætti, að efni berist innan úr jörðinni, upp í gegnum sprungur í jarðskorpunni og að land þar ofan á rísi þá smám saman úr sjó, en eins og vitað er. Þá nær sjór yfir meir en 70% af yfirborði jarðar.

Skurnin að springa undir Íslandi?

Flekaskil

Flekaskil og eldsumbrot á jörðinni síðustu milljón árin.

Ef skoðanir þær, sem hér hefur yfirborð, eða efsta skurn jarðar umhverfis Krýsuvík, sé þanið, eins og ef teygt væri á landinu til norðvesturs og suðausturs, þvert á sprungurnar, sem við þetta hafa myndazt.

Seltún

Hverasvæðið í Seltúni.

En Ísland virðist einmitt hafa orðið til, og vera sífellt að rísa hærra, vegna jarðhræringa og gosa, sem stafa frá hinni miklu sprungu í Mið-Atlantsbafs-fjallgarðinum. Þessi mikla sprunga skiptir jarðskurninni í rauninni í tvo helminga og er eins konar öryggis- og þensluloki fyrir hið heita berg, sem helzt undir miklum þrýstingi innan við skurnina. Þetta berg kann að endurnærast af ofsa heitum bergstraumum innan úr jörðinni, sem þenjast út þegar ofar dregur og fargið minnkar, undir þunnri jarðskorpu.
Í ljósi þessa skilnings má gizka á, að hitinn undir Krýsuvíkurlandi eigi sér upptök á ekki miklu dýpi, e.t.v. á aðeins 20—25 kílómetra dýpi. Einnig að aðalsprungurnar séu brattar eða lóðréttar, en hliðarsprungur greinist frá þeim, með langtum minni halla. Því miður eru jarðlög í Krýsuvík þannig, að erfitt er með hitamælingum að finna aðalupptök varmans.
En þetta gerir jarðboranir vandasamar, vegna þess hve erfitt er að staðsetja heppilega borstaði.” – Gísli Halldórsson

Heimild:
-Lesbók Morgublaðsins, 4. tbl. 11.03.1962, Er jarðskurnin að springa undir Íslandi?, Gísli Halldórsson, bls. 9 og 15.

Flekaskil

Flekaskilin um Ísland.

Snorri

Björn Hróarsson skrifaði um “Hellaferðir” í Helgapóstinn, ferðablað, árið 1987.

Björn Hróarsson

Björn Hróarsson við Snorra.

“Ísland er eitt af merkari eldfjallalöndum jarðar og óvíða getur að líta jafn margar gerðir eldfjalla og hrauna.  hraununum er fjöldinn allur af hellum. Þeir eru af ýmsum stærðum og gerðum með strompum, afhellum, útskotum, fossum, veggsyllum, dropsteinum, hraunstráum og margs konar öðrum formum.
Þegar hraunár renna lengi í sömu stefnu myndast fyrst hrauntraðir og síðan í mörgum tilfellum hellar. Hraunið getur runnið langar leiðir í göngum undir storkinni hraunhellu. Þegar hraunrennslinu lýkur, slíkt getur bæði gerst er eldvirkni stöðvast eða ef hraunáin fær annan farveg, heldur streymið oft áfram niður göngin, þau tæmast og holrúm myndast. Ef þak holrúmsins er nægilega sterkt til að haldast uppi eftir kólnunina varðveitist hellirinn.

Víðgemlir

Í Víðgemli.

Margskonar hraunmyndanir eru í hellum og eitt af því sem gleður augað er dropasteinar sem myndast meðan hraunið er að storkna. Dropasteinar myndast hins vegar smátt og smátt vegna útfellingar efna eins og t.d. kaiks eða salts og finnast vart hér á landi. Ýmis form í hellum myndast við endurbráðnun hrauns. Slíkt gerist líklega vegna gasbruna við mikinn hita og þá lekur hið endurbráðna hraun oft niður veggi hellisins eða lekur niður úr loftinu og myndar stuttar keilulaga myndanir, gjarnan með glerjuðu yfirborði.

Dropsteinn

Dropsteinn í Snorra.

Í sumum heilum eru afar fagrar ísmyndanir sem eru hvað fegurstar eftir langa frostakafla síðla vetrar. Íssúlurnar geta orðið meira en mannhæðarháar. Vatnsdropar er falla úr hrauninu frá lofti hellisins frjósa er þeir koma niður í hellinn og ísdrjólar hlaðast upp. Er líður á sumarið og hlýnar bræða vatnsdroparnir sig inn í ísdrjólana, gera þá hola að innan og eyða þeim.

Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins er fjöldi hella, enda Reykjanesskagi þakinn hraunum. Hraun á skaganum þekja yfir 1000 ferkílómetra og þar leynist fjöldi glæsilegra hella.
Þingvallasvæðið er einnig þakið hraunum er geyma nokkra skemmtilega hella. Hallmundarhraun, ofan byggða í Borgarfirði, hefur nokkra sérstöu meðal íslenskra hrauna, þar eru kunnir nokkrir stórir hellar. Stærstu og þekktustu hellarnir eru Víðgelmir, Surtshellir og Stefánshellir. Víðgelmir er talinn stærstur hraunhella á jörðinni, rúmmál hans er um 150.000 rúmmetrar sem samsvarar um 250 meðal einbýlishúsum.
Hraunmyndanir í hellum eru viðkvæmar og þola margar þeirra nær enga snertingu án þess að brotna. Samt eru flestir þeir hellar sem fundist hafa á liðnum árum alveg ósnortnir, þegar þeir finnast, þó þeir séu jafnvel 5.000—10.000 ára gamlir. Í hellunum er stöðugt veður, svipað hitastig árið um kring, alltaf logn og veðrun engin. Hellarnir haldast því óbreyttir þar til ferðafólk tekur að leggja leið sína þangað.

Tanngarðshellir

Tanngarðshellir.

Nær allir íslenskir hraunhellar sem frést hefur af eiga það sameiginlegt að vera stórskemmdir. Viðkvæmar hraunmyndanir hafa verið brotnar og fjarlægðar. Rusl af ýmsu tagi hlaðist upp og hellarnir sótast. Um þennan undraheim íslenskrar náttúru hefur umgengni verið með ólíkindum slæm. Hraunhellar eru hluti af viðkvæmustu náttúru Íslands. Þar má lítið út af bera til að valda skemmdum. Fjölmargir hellar eru þess eðlis að þeir verða aldrei opnaðir ferðafólki. Aðrir eru stórir og ekki eins viðkvæmir þó glæsilegir séu.
Glæsilegir hraunhellar eiga það sameiginlegt að þar er margt að skoða en hellarnir eru það stórir að lítil hætta er á skemmdum og í þessum hellum er lítið af viðkvæmustu hraunmyndununum.” – Björn Hróarsson

Heimild:
-Helgapósturinn, ferðablað 24.06.1987, Hellaferðir, Björn Hróarsson, bls. 14.

Búri

Búri – svelgurinn.

Hraunhóll

Í Náttúrufræðingnum 1975 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur, um “Sandfellsklofagíga og Hraunhól efst í Kapelluhrauni undir Vatnsskarði”. Margir telja Kapelluhraun runna úr Hraunhól, en svo var ekki, enda hraunið úr honum um 5500 ára gamalt, en Kapelluhraunið (Nýjahraun/Bruninn) rann árið 1151. Hraunhóll var einn fegursti gjallgígurinn á gjörvöllum Reykjanesskaganum, en hefur nú verið gjörspillt af námuvinnslu.

Hraunhóll
Jón Jónsson

“Eins og áður er sagt, hef ur hraunið runnið upp að eldri gíg, sem ber nafnið Hraunhóll. Þetta var stór og reglulegur gígur, einn hinn fegursti á öllum Reykjanesskaga, hlaðinn upp úr gjalli og hraunkleprum. Aðalgígurinn var um 250 m í þvermál, en inni í honum var lítill en alldjúpur hraungígur, vafalaust myndaður á lokastigi gossins. Skarð er í gíginn austan megin og þar hefur Sandfellsklofahraun runnið inn í hann eins og áður segir og myndað þar lítinn hraunpoll, sem orðið hefur að sléttu helluhrauni.
Nú er Hraunhóll svipur hjá sjón frá því sem áður var. Hann hefur orðið þeim að bráð, er rauðmalarnám stunda og hefur verið leikinn svo grátt, að nú er rúst ein. Hann var um árabil ein aðalnáman á þessu svæði og er nú svo komið, að búið er að grafa langt niður fyrir hraunin, sem upp að honum hafa runnið. Við það kemur í ljós, að hann hefur verið líklega vart minna en 40 m hár, áður en hraun tók að renna upp að honum.
Sýnið, sem áður er getið um, var tekið austan megin í gígnum, þar sem Sandfellsklofahraun rann inn í hann.

Kapelluhraun

Kapelluhraun (rauðlitað).

Annað sýni var tekið norðan í hólnum, og hugði ég fyrst, að hraunið sem þar hefur lagst upp að Hraunhól, væri Kapelluhraun, en nú hefur komið í ljós, að svo er ekki. Þar má sjá, að um 25—30 cm þykkt jarðvegslag hefur verið komið utan á gíginn, þegar hraun eyddi þeim gróðri, er þar var fyrir. Gróðurleifarnar eru mosi og einhver kvistgróður og því væntanlega ekki ósvipað þeim gróðri, er þarna var fyrir, áður en maðurinn fór ránshendi um Hraunhól. Kolaða kvisti og sprota mátti tína úr jarðvegslaginu, en ekki var það meira en svo, að margra klukkustunda verk var það að fá nægilega mikið efni (um 20 g) í eina aldursákvörðun. Hvað þetta varðar, er sama að segja um bæði sýnin, sem tekin voru við Hraunhól. Sýnið, sem tekið var norðan í hólnum reyndist 2690 ± 60 C14 ára. Enn er ekki fullkomlega ljóst, hvaðan það hraun er komið, sem eyddi gróðrinum norðan í hólnum. Eins og ég nefndi áður hugði ég fyrst að það væri Kapelluhraun en að því slepptu Sandfellsklofahraun. Nú er hins vegar svo mikill munur aldurs þessara gróðurleifa, að dr. Ingrid U. Olsson telur, að ekki geti verið um samtímamyndun að ræða. Verður því spurningunni um, hvaða gos hafi verið að verki, þegar gróðurinn norðan í Hraunhól eyddist, ekki svarað að svo stöddu.

Hraunhóll

Hraunhóll og nágrenni.

Það er hins vegar ljóst, að gíghólar, sem hlaðnir eru úr nær eintómu gjalli, gróa ekki sérlega fljótt og er sjálfsagt ein meginorsök þess sú, að allt vatn hripar þar strax niður. Af þessu leiðir, að Hraunhóll hlýtur að hafa verið orðinn nokkuð gamall, þegar þessi hraun runnu upp að honum. Mætti því ætla, að hann væri vart yngri en 3500 ára gamall. Hraunið, sem úr honum hefur komið, er ólívín basalt hraun með töluverðu a£ 3—5 mm stórum ólívínkristöllum og eins feltspatdílum, sem ósjaldan eru 4—5 mm.
HraunhóllAnnað, sem einkennir þetta hraun eru hnyðlingar, flestallir af sömu gerð og fundist hafa á Reykjanesskaga og víðar, en fundist hefur þar hnyðlingur með aðra samsetningu líka. Verður það ekki nánar rakið hér. Eins og getið var um í upphafi þessarar greinar eru Sandfellsklofagígir á sprungu með þá venjulegu stefnu norðaustur-suðvestur, svo er og um Hraunhól og má vel sjá þar að sprungan, sem hann er á, hefur opnast frá því að gosið varð og er ekki ástæða til að efast um, að sú gliðnun sé enn í gangi, þó hægt fari miðað við mannlegt æviskeið. Sama fyrirbæri má og sjá m.a. í Óbrinnishólum (Jónsson 1972) og raunar á fleiri stöðum á Reykjanesskaga. Er þá óneitanlega ekki fráleitt að spyrja: Hve mikla gliðnun þarf til þess að þarna gjósi á ný?

Hraunhóll

Hraunhóll.

Aðeins um 300 m suðvestur af Hraunhól er annar gígur, sem næstum hefur færst í kaf, þegar Sandfellsklofahraun rann. Ekki veit ég nafn á þessum gíg, enda var hann svo lítið áberandi, að litlar líkur eru á, að honum hafi nokkru sinni verið nafn gefið og líklega fáir veitt því athygli, að um eldgíg væri að ræða. Frekar en ekkert mætti í bili nefna hann Litla-Hraunhól. Ber það nafn þá vitni um ámóta hugmyndaauðgi og vel flest cnnur örnefni á Reykjanesskaga og orsakar ekki áhalla hvað það snertir.

Kapelluhraun

Kapelluhraun og nágrenni – örnefni og gamlar leiðir (ÓSÁ).

Einnig Litli-Hraunhóll hefur verið grátt leikinn af nútíma vinnutækni og þar vægast sagt ljótur umgangur, en því miður er alltof víða pottur brotinn hvað þetta snertir á voru landi. Ekki sést nú neitt af því hrauni, sem úr Litla-Hraunhól hefur runnið, fremur en því, sem rann úr Hraunhól sjálfum, en sýni mátti ná úr gígnum. Kemur þá í ljós, að hraunið er að heita má eins úr báðum þessum gígum. Það er og snarlíkt eldra Óbrinnishólahrauni og Búrfellshrauni. Vott af gróðurleifum má sjá undir gjallinu í Litla-Hraunhól og sýnist jarðvegslagið þar vera mjög ámóta og í Hraunhól, en ekki hefur reynst mögulegt að ná nothæfu sýni úr LitlaHraunhól. Af ofangreindum ástæðum tel ég þó langlíklegast, að gosið hafi samtímis á þessum stöðum.
Varðandi aldursákvörðunina hér að framan skal þess getið, að hún er meðaltal af tveim, þar sem við aðra er notaður helmingunartími 5570 ár en við hina 5730 ár.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 2. tbl. 01.03.1975, Sandfellsklofagígir og Hraunhóll, Jón Jónsson, bls. 188-191.

Hraunhóll

Hraunhóll – námuvinnsla og sóðaskapur.