Tag Archive for: Járngerðarstaðir

Tyrkjahellir

Fimm skip frá Algeirs komu hingað til lands sumarið 1627.
TyrkjarániðTilgangur áhafnarinnar var að ræna verðmætum og hneppa fólk í þrældóm. Skipin urðu viðskila sunnan við land vegna veðurs. Tvö fóru til Grindavíkur þar sem um 20 manns var hertekinn, þar af nokkrir Danir, og tvö fóru til Austfjarða þar sem rúmlega hundrað manns var tekinn höndum og færður um borð í skipin. Þau skip mættu því þriðja sunnan við landið og saman héldu þau til Vestmannaeyja. Þar voru langflestir teknir höndum, drepnir eða særðir. Hér á eftir er frásögn af atburðunum í Eyjum og í Djúpavogi, en þær lýsa vel því sem gerðist og hvernig viðbrögðin voru við svo óvæntri árás á annars friðsæl samfélög.

Grindavík

Grindavík – Tyrkjaskipin.

Þrjú skip stefndu undir Eyjar. Vindur var ekki hagstæður. Uggur og ótti greip fólk í Vestmannaeyjum, þegar sást til skipanna, enda höfðu Vestmannaeyingar frétt af ránum í Grindavík og víðar um landið. Höfðu Eyjamenn haldið uppi vöku og haft nákvæmar gætur á öllum skipum, er sást til af hafi. Öllum vopnfærum mönnum var safnað saman niður að Dönsku húsunum. Þar voru fallbyssur til staðar, en einnig voru mönnum fengnar byssur og önnur tiltæk vopn. Átti þannig að verja ræningjunum aðgang að höfninni.
Á sjónum undan Eyjafjöllum höfðu ræningjaskipin hitt enska duggu, er þar var að fiska. Tóku ræningjarnir þar 9 menn, sem þeir lofuðu að sleppa aftur, ef þeir ensku vísuðu þeim til hafnar í Vestmannaeyjum. Einn þessara 9 manna af ensku duggunni réð ræningjunum frá því að halda inn höfnina og vísaði þeim á aðra uppgöngu sunnan til á eynni. Varð því úr, að skipin sigldu frá höfninni, suður með Heimaey og hurfu bak við Helgafell.
Tyrkjaránið Þegar skipin voru horfin bak við Helgafell, reið kaupmaðurinn í þorpinu, Lauritz Bagge, sem virðist hafa haft aðalforystuna á hendi, með nokkra menn suður á eyju til þess að fylgjast með ferð skipanna. Í Stakkabótinni sá hann, að settir voru út bátar frá þeim fullmannaðir og taldi, að hægt yrði að verjast ræningjunum þarna. Sendi hann því boð til skipstjóra á dönsku kaupskipi, sem lá hér í höfninni, að menn kæmu fjölmennir suðureftir með vopn.
Ræningjarnir sáu strax að uppganga þar yrði erfið, og hurfu frá. Reru þeir bátum sínum suður fyrir Litla-Höfða með Svörtuloftum og lentu við tanga suður af Brimurð, sem síðan heitir Ræningjatangi. Kaupmaðurinn danski sá nú, að ekkert yrði gert á móti svo fjölmennu liði vopnaðra manna og sneri aftur í bæinn ásamt mönnum sínum. Á leiðinni niður í bæ mætti hann skipstjóranum, og saman riðu þeir nú eins hratt og þeir gátu niður í þorpið. Skipstjóri fór út í skip sitt, boraði gat á það, og hjó á festar þess svo að það ræki upp eða sykki. Síðan fór hann í árabát með fjölskyldu sína og náði að komast upp á meginlandið. Kaupmaðurinn og hans fólk komust einnig sömu leið til lands, en ekki er vitað til þess að fleiri hafi bjargast með þessu móti.
Tyrkjaránið Af ræningjunum er það að segja, að þeir fóru í þrem hópum í kaupstaðinn. Austasti hópurinn kom með miklum óhljóðum austan við Helgafell og réðst á Kirkjubæina og Vilborgarstaði. Miðhópurinn stefndi beint að höfninni. Vestasti hópurinn lagði svo til atlögu við bæina umhverfis Ofanleiti. Á efstu bæjunum hefur fólkið orðið verst úti, þar sem ræningjana bar svo fljótt að og óvænt. Neðst í bænum komst fólkið fremur undan og leitaði skjóls í hellum og gjótum. Hvar sem ræningjarnir fundu fólk á vegi sínum, tóku þeir það og bundu og ráku á undan sér niður í þorpið. Sama gilti jafnvel líka um búpening, sem á vegi þeirra varð. Þeir, sem komust ekki nógu hratt, voru höggnir í sundur og drepnir.
Ræningjarnir gáfu sér tíma. Þeir voru í Eyjum í þrjá daga, gengu fjöllin og leituðu hella og skúta, svo að enginn kæmist undan. Þeir klifruðu upp á syllurnar í Fiskhellum og tóku þaðan nokkrar konur og börn, sem leitað höfðu skjóls í fiskbyrgjunum. Enn má sjá nokkur þessara byrgja utan í klettaveggnum, þar sem fiskur er geymdur.

Tyrkir

Tyrkir í Eyjum.

Prestinn á Kirkjubæ, séra Jón Þorsteinsson, fundu ræningjarnir í helli einum austur af Kirkjubæjum, en þar hafði hann falið sig ásamt fólki sínu, og drápu ræningjarnir hann. Margrét, kona Jóns, var hrakin ásamt dóttur og syni í átt til hafnarinnar.
Marga drápu ræningjarnir af hreinni morðfíkn og limlestu líkin. Erlendi nokkrum Runólfssyni stilltu þeir upp fram á bjargbrún og skutu hann niður, svo hann féll um hundrað faðma. Þá fundu ræningjarnir mann að nafni Ásmund, þar sem hann lá á sóttarsæng. Hann stungu þeir í sundur, svo að sæng hans varð rauð af blóði. Bjarna nokkurn Valdason hjuggu þeir þvert yfir höfuðið fyrir ofan augun. Konur fundust dauðar við sínar bæjardyr, sumar stungnar með spjótum, aðrar höggnar, svo svívirðilega við skilið, að fötunum var flett upp fyrir hnakkann og þær naktar. Tvær konur voru með börn, og urðu þær seinfærar, en börnin æptu mjög. Þau tóku ræningjarnir og hálsbrutu og mölvuðu í hvert bein við kletta og köstuðu síðan út á sjó.
Tyrkjaránið Landakirkju brenndu ræningjarnir eftir að hafa rænt skrúða hennar og öðru fémætu, sem kirkjan hafði eignast eftir fyrra ránið 1614. Kirkjuklukkunum mun hins vegar hafa verið komið undan í fylgsni í fjallaskúta, og er önnur enn í fullri notkun í Landakirkju. Þá fluttu ræningjar prestshjónin, séra Ólaf Egilsson og konu hans, ásamt börnum og öðru heimilisfólki niður að Dönskuhúsum, sem stóðu á Skansinum. Var prestskonan þunguð og nær komin að falli, en samt var henni ekki hlíft. Fæddi hún barn sitt um borð í ræningjaskipinu á 11. degi eftir brottförina frá Eyjum.
Í Dönskuhúsunum á Skansinum geymdu ræningjarnir fólkið og héldu því þar, uns það var flutt út í skip. Höfðu skipin leitað inn á höfnina og lagst þar, þegar ekki þurfti að óttast neitt viðnám heimamanna lengur. Var fólkinu síðan smalað úr húsunum og látið róa út í skipin, en þar hitti það fyrir fleiri Íslendinga, sem ræningjarnir höfðu komist yfir.
Tyrkir
Á miðvikudagskvöld, þann 18. júlí voru allir komnir út í skipin nema nokkuð af gömlu fólki, sem ræningjunum fannst ekki þess virði að flytja með sér til að selja mansali. Þetta fólk skildu þeir eftir inni í húsunum og kveiktu í. Frá þessu sagði piltur einn er komst af með þeim hætti, að hann skreið eftir gólfinu í mannþrönginni og komst út um leynidyr, sem ekki hafði verið læst.
Um miðjan morgun, fimmtudaginn 19. júlí voru ræningjarnir tilbúnir. Sigldu þeir á braut með herfang sitt í öllum skipunum, ásamt danska kaupfarinu, sem ekki hafði sokkið eins og ráðgert var. Setti nú mikinn harm og kvein að fólkinu, er það sá eyjarnar og landið hverfa sýnum.
Flestum ber saman um, að hernumdar hafi verið í Eyjum 242 manneskjur í þessu ráni. Rúmlega 30 munu ræningjarnir hafa drepið og líklega hafa um 200 manna komist undan hér í Tyrkjaráninu. Frásagnir eru til af nokkrum mönnum, sem komust undan í Ofanleitishamar, sem ræningjunum hefur ekki litist á að klífa, enda er hann víða snarbrattur. Þá bjargaðist nokkuð af fólki ofarlega í Fiskhellum, en þar er sums staðar ókleift og fólkið því orðið að síga þangað niður. Er sagt, að pils sumra kvennanna, sem björguðust, hafi lafað fram af berginu og hafi 18 kúlugöt verið á pilsi einnar konunnar eftir skothríð Tyrkjanna.

Til Austfjarða komu Tyrkir miðvikudagurinn 4. júní, sem þeir taka land við Hvalnes. Fóru þeir ómildum höndum um eigur fólksins á Hvalnesi, sem allt var statt í seli meðan ræningjarnir létu greipar sópa, en þeir fundu ekki fólkið og héldu því ferð sinni áfram austur á bóginn á tveimur skipum.
Um aftureldingu á föstudagsmorgun sáust skipin við Papey. Var þá hið hagstæðasta leiði inn á Djúpavog og veður svo háttað, að bjart var hið neðra, en þoka miðhlíðis. Sigldu skipin hraðbyri inn í mynni Berufjarðar. Á þessari leið urðu þeir varir við danskan bát úr Djúpavogskaupstað, er lá við línur sínar og voru þar á fjórir menn. Þennan bát hremmdu þeir óðar með allri áhöfn og héldu síðan inn fjörðinn þar til þeir komu á móts við Berunes. Þar vörpuðu þeir akkerum.
Var þá sól um það bil að rísa. Jafnskjótt og akkeri voru botnföst, voru þrír bátar mannaðir.

TyrkirRéru víkingar sem mest þeir máttu suður yfir fjörðinn að kaupstaðnum í Djúpavogi, gegnt Berunesi. Þar var fyrir danskt kaupskip, er komið hafði til hafnar fyrir nokkru, og voru skipverjar í fasta svefni svo árla morguns. Einn bátanna lagðist samstundis að skipinu og vissu þeir, sem á því voru, ekki fyrr til en víkingarnir ruddust inn á þá með alvæpni. Fengu þeir engum vörnum við komið og voru í bönd reyrðir, áður en þeir áttuðu sig á því, hvað á seyði var. Hinir bátarnir tveir renndu hljóðlega upp í flæðarmálið, annar sunnan hafnarinnar, en hinn norðan. Hlupu víkingarnir á land upp sem fætur toguðu og umkringdu kaupmannshúsin og búðirnar, svo að engum, sem þar var inni, skyldi auðnast að komast undan á flótta; -flykktust síðan viðstöðulaust inn með brugðna branda.  Hér fór sem úti á skipinu. Fólkið, sem vaknaði við þessa atburði af værum blundi, vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið og var hver gripinn, þar sem hann var kominn, sumir naktir í rekkjum sínum, aðrir á hlaupum um húsin. Var allt fólkið fært í fjötra á svipstundu, dregið niður í fjöru og flutt á tveimur bátum út í víkingaskipin. Voru þeir fimmtán, sem fangaðir voru á Djúpavogi þennan morgun, allt danskt fólk, nema einn.

Eftir að ræningjarnir höfðu fullvissað sig um að hafa náð öllu fólki á verslunarstaðnum Djúpavogi lögðu þeir af stað inn með Hálsum, 30 – 40 í hóp. Komu þeir fyrst að bænum Búlandsnesi með miklum hrópum og háreysti. Þar gripu ræniningjarnir 12 eða 13 manns. Bundu þeir hendur karlmanna á bak aftur og ráku síðan tveir úr þeirra flokki hópinn á undan sér til Djúpavogs. Þar voru fangarnir vistaðir um sinn í danska kaupskipinu á legunni.
Þessu næst héldu víkingarnir inn með Hamarsfirði og að prestssetrinu Hálsi. En þar fundu þeir engan heima á staðnum, því að presturinn, séra Jón Þorvarðarson, var í seli ásamt konu sinni, Katrínu Þorláksdóttur, heimamönnum öllum og þremur mönnum frá Hálshjáleigu. Ekki var þetta þó fólkinu til bjargar; ræningjarnir fundu selið og komu þar að fólkinu óvörum, svo að enginn komst undan, nema einn piltur, sem tók á rás. Það voru 11 menn, sem fangaðir voru í selinu. Þennan hóp ráku víkingarnir á undan sér í þá átt, sem pilturinn hafði leitað.
Þegar yfir hálsinn kom héldu þeir sem hann inn með Berufirði og léttu ekki fyrr ferðinni, en þeir komu að kirkjustaðnum við fjarðarbotn.
Víkingarnir herjuðu nú á hvern bæinn á fætur öðrum norður alla Berufjarðarströnd. Létu þeir fólk illa, drápu og limlestu. Alls munu þeir hafa rænt 62 mönnum af Berufjarðarströnd. Þá tóku þeir til fanga 13 manns frá Hamri í Hamarsfirði. Létu þeir vera sitt síðasta verk að ræna kirkjuna á Hálsi, áður en þeir skildu við Djúpavog.

Frá því fólkið var tekið héðan var það einungis sem fénaður í augum þeirra, sem yfir því réðu. Strax við komuna til Afríku var það selt, margir í burtu frá Algeirsborg, en þeir sem eftir urðu reyndu að hafa samband sín á milli, hjálpa hver öðrum og styrkja í útlegðinni.
Á fyrsta mánuðinum veiktist flest fólkið, og hafði 31 Íslendingur látist úr sjúkdómum þegar að mánuði liðnum. Meðferðin á fólkinu var nokkuð mismunandi eftir því hvort það lenti hjá góðu eða slæmu fólki. Flestir áttu þó erfiða daga, og var algengt að menn væru píndir til þess að reyna að fá þá til að kasta kristinni trú og taka upp Múhameðstrú. Um afdrif margra Íslendinganna úti í ánauðinni, vita menn fátt. Fólkið sem kom upp til Íslands aftur hafði frá mörgu að segja, en af sumu spurðist aldrei neitt.

Heimild m.a.:
-http://www.vestmannaeyjar.is/safnahus/byggdasafn/tyrkir.htm
-http://www.ismennt.is/vefir/eyglob/sagave/folk.html
-http://www.djupivogur.is/sagan/tyrkir.html

Aðrar heimildir um Tyrkjaránið:
-Helgi Þorláksson, Sjórán og siglingar, Mál og menning, Reykjavík, 1999.
-Þorsteinn Helgason, „Hverjir voru Tyrkjaránsmenn“, Saga 1995, bls. 110-34.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – sögusvið „Tyrkjaránsins“ – uppdráttur ÓSÁ.

Járngerðarstaðir

Kristinn Kristjánsson fjallar um ógnaratburðina í Grindavík og annars staðar á landinu árið 1627 í Íslenskar bókmennir 1550-1900, bls. 31-32. Þar segir m.a.:
Tyrkjaránið“Sjórán hafa löngum verið talin arðbær en áhættusamur atvinnuvegur. Á öldum áður tíðkaðist að ríki styddu við bakið á sjóræningjum eða gæfu þeim leyfi til þess að stunda sjórán og tóku þá toll af þeim. Í upphafi 17. aldar voru sjórán mikið stunduð út frá ýmsum smáríkjum á norðurströnd Afríku, einkum á Miðjarðarhafi, en oft brugðu þeir sér út á Atlantshafið til Englands og í Norðursjó. Árið 1627 fengu Íslendingar að kynnast nokkrum skipum frá Algeirsborg þar sem nú er Alsír og hefur sá atburður jafnan erið nefndur Tyrkjaránið. Tyrkir eru á þessum tíma fyrst og fremst samheiti í huga Íslendinga fyrir þá sem tilheyra Islam. Reyndar var Algeirsborg á þessum tíma í sambandi við Tyrkjasoldán. Tyrkjaránið vakti löngum ótta með íslensku þjóðinni, til eru Tyrkjafælur í kvæðaformi, Vestmannaeyingar komu sér upp eina innlenda hernum sem til hefur verið á Íslandi til að verjast nýrri árás Tyrkja.

Tyrkir

Tyrkir.

Atburðurinn hefur sest svo vel í minni þjóðarinnar að þegar keppt er við sárasaklaus Tyrki í knattspyrnu í lok 20. aldar er nóg að rifja atburðina upp til að æsa áhorfendur og keppendur.
Skipin sem komu til Íslands voru fimm. Þau voru þó aldrei öll saman því þau urðu viðskila vegna veðurs en af þeim sökum dreifðust þau meira með ströndum landsins. Tvö þau fyrstu [sennilega var þó ekki nema eitt skip] komu til Grindavíkur 20. júní og voru þar teknir um 15 Íslendingar og nokkrir Danir. Þaðan héldu þau inn á Faxaflóa, annað þeirra strandaði utan við Bessastaði og hefur danska hirðstjóranum löngum verið legið á hálsi fyrir þann aumingjaskap að nota ekki tækifærið og taka skipið. Hann lét nægja að bíða vopnaður í landi á meðan ræningjarnir losuðu það.
TyrkjarániðMeðal þeirra sem voru undir vopnum var Jón Ólafsson Indíafari. Að því loknu ætluðu ránsmenn til Vestfjarða en hættu við er þeir fréttu af enskum herskipum og héldu til síns heima. Tvö hinna skipanna sigldu fyrst til Austfjarða, tóku land í Berufirði 5. júlí og rændu þar, á Djúpavogi og um næstu byggðir, um Hamarsfjörð, um Breiðdal og jafnvel um Fáskrúðsfjörð. Á Austfjörðum tóku þeir yfir hundrað fanga, drápu nokkra menn. Fjöldi særðist. Fréttirnar bárust fljótt um landið og biðu menn skelkaðir, kæmu skipun í þeirra sveit? Vestmannaeyingar voru þó þeir einu sem urðu fyrir árás, skipin tvö fyir Austfjörðum sneru við út af Reyðarfirði vegna andvirðis, hittu fimmta skipið einhvers staðar fyrir sunnan landið og birtust síðan í Eyjum. Þar urðu ægilegustu atburðirnir, Vestmannaeyingar reyndu að flýja en þeir guldu þess að þeir bjuggu á eyju. Tugir voru drepnir, yfir 240 teknir og margar byggingar brenndar.
Fljótlega var reynt að kaupa fólkið í Alsír út en það tók sinn tíma, var dýrt og danski kóngurinn blankur eins og getur gerst á bestu bæjum. En tæpum tíu árum eftir ránið voru um 35 fangar keyptir fyrir mikið fé og komust 27 til Kaupmannahafnar. Rétt þótti að fólkið rifjaði upp kristindóminn og var Hallgrímur Pétursson fenginn til þess verks.

Ólafur Egilsson (1564-1639) var annar tveggja presta í Vestmannaeyjum 1627. Hann var hertekinn ásamt konu og þremur börnum, einu ófæddu. Hinn presturinn, Jón Þorsteinsson píslavottur, var drepinnn. Ólafur var fljótlega eftir að hann kom til Algeirsborgar sendur til Danmerkur til að reka á eftir kaupum á föngum og kom hann til Íslands tæpu ári eftir ránið, 6. júlí 1628. Stuttu eftir heimkomuna skrifaði hann um þessa reynslu sína og er það rit þekkt undir nafninu Reisubók séra Ólafs Egilssonar.

Tyrkja-Gudda.

Tyrkja Gudda – málverk efir Jóhannes S. Kjarval.

Ólafur var fyrstur norrænna manna til að skrá frásögn af lífi og háttum fólks í “Barbaríinu” eins og lönd Íslams í Norður-Afríku voru nefnd og er hin mesta furða hversu hlutlægur hann getur verið þegar hann segir frá. Hann segir ekki bara frá því vonda varðandi ræningjana, eins og að þeir hafi drepið fólk og barið hann, heldur einnig því góða, þegar kona hans eingnast barn sýna þeir því hina mestu umhyggju. Hann lýsir staðháttum og klæðnaði hvars em hann er staddur af stakri nákvæmni og má vel sjá fyrir sér sögusviðið og presónur þess.

TyrkjarániðSitthvað misskilur hann á ferðalaginu heim enda ekki með nákvæmt landakort og þeir sem hitta hann leika sér að því að gabba hann. Þegar hann lýsir neyð sinni og angist grípur hann til ritningarstaða í Biblíunni og allan tímann er það trúin sem heldur honum uppi og með henni skýrir hann það sem hefur hent:
“Nú, það gengur oss sem herrann vill; nær að vér dæmumst, þá refsumst vér af drottni, svo að vér ekki glötumst með þessum heimi.”
Eiginkona Ólafs, Ásta Þorsteinsdóttir, var ein þeirra sem var leyst úr haldi tæpum tíu árum síðar og kom til Íslands 1637. Börnin þrjú komu aldrei aftur, létu turnast, það er, gengu af trúnni og tóku nýja trú.”

Heimild:
-Íslenskar bókmenntir 1550-1900 – Kristinn Kristjánsson-

Aðrar heimildir um Tyrkjaránið:
-Helgi Þorláksson, Sjórán og siglingar, Mál og menning, Reykjavík, 1999.
-Þorsteinn Helgason, „Hverjir voru Tyrkjaránsmenn“, Saga 1995, bls. 110-34.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – sögusvið „Tyrkjaránsins“ – uppdráttur ÓSÁ.

Hvalreki

Nýlega rak dauðan hval, hrefnutarf,  á Álftanesfjöru norðan Breiðabólstaðar. Slíkur hvalreki er ekkert einsdæmi hér á landi, enda þurfti fljótlega í upphafi byggðar að setja sérstakar reglur um eignarhald um hvalreköld.
Í hinni fornu lögbók Jónsbók er langur bálkur, rekabálkur, um hvali og hvalnytjar. Þar er m.a. kveðið á um að ef hval rekur á land er hann eign landeiganda, en ef í honum er hvaljárn eða spjót og rekur á land beri að skipta honum milli landeiganda, eiganda járnsins og fátækra.

Hvalreki

Hvalreki á Seltjarnarnesi 1955.

Hvalreki við strendur Íslands var býsna algengur á árum áður og þótti í þá daga mikill happafengur. Algengar voru frásagnir af hvalreka sem björguðu heilu sveitunum frá hungri. Um hvalreka innan netlaga var fjallað í 54. landbrigðisþætti Grágásar, þar kom fram að landeigandi ætti reka fyrir landi sínu, þar á meðal hval.
Í Jónsbók er að finna sambærilegt ákvæði um hvalreka og verða hér rakin þau ákvæði sem enn gilda í íslenskum rétti. Í áðurnefndum 1. kapítula rekabálks Jónsbókar kemur fram að „hver maður á reka allan fyrir landi sínu, viðar og hvala, sela og fiska, fugla og þara nema með lögum sé frá komið“.

Á Vísindavef Háskóla Íslands var spurt: „Er Jónsbók enn í gildi í íslenskum lögum?“:

Hvalreki

Hvalreki fyrrum.

„Stutta svarið við þessari spurningu er: Rúmur tíundi hluti lögbókarinnar frá 1281, sem nefnd hefur verið Jónsbók, er enn í lagasafni Íslands.
Íslendingar gengust Noregskonungi á hönd á árunum 1262-4. Þjóðveldislögin giltu þá í landinu, það er Grágás. Konungur vildi skipta þeim lögum út fyrir eigin lögbók. Hann fékk lögleiddar tvær lögbækur með skömmu millibili. Fyrri lögbókin var nefnd Járnsíða og þótti ekki góð og gilti bara í um 10 ár. Betur tókst til með síðari lögbók konungs, sem lögleidd var á Alþingi árið 1281. Fljótlega var farið að nefna hana Jónsbók eftir aðalhöfundi hennar, Jóni lögmanni Einarssyni. Jónsbók var meginréttarheimild á Íslandi í meira en 400 ár.

Hvalreki

Hvalreki við Garðskaga.

Upprunalega lögbókin, sem konungur lagði fyrir Alþingi árið 1281, er ekki lengur til en hún hefur varðveist í mörgum afskriftum. Reyndar er engin íslensk miðaldabók til í eins mörgum handritum og Jónsbók. Til eru 224 heil eða heilleg handrit af Jónsbók og 62 handritabrot. Elsta handritið er frá því fyrir 1300 (AM 134 4to) en fallegasta handritið er frá 1363 og er nefnt Skarðsbók (AM 350 fol.). Myndprentuð eftirgerð af Skarðsbók var gerð í tilefni 700 ára afmælis Jónsbókar árið 1981. Jónsbók var fyrsta bókin sem prentuð var á Íslandi, sem ekki var Guðsorðabók. Það var gert árið 1578 í Hólaprentsmiðju. Jónsbók hefur verið prentuð nokkrum sinnum síðan það er 1578, 1580, 1591 (Núpufellsbók, ekki er vitað hvenær hún var prentuð en talið er að það hafi verið einhvern tímann á bilinu 1582 til 1620), 1707, 1709, 1763 (dönsk þýðing Egils Þórhallssonar (1734-1789)), 1858 (Akureyrarútgáfan), 1885 (Gustav Storm í bókinni Norges gamle love), 1904 (fræðileg útgáfa), 1934 (ljósprentuð 1578 útgáfan), 1981 (Skarðsbók myndprentuð) og 2004 (fræðileg útgáfa).

Jónsbók

Blaðsíða úr Jónsbók í myndprentaðri útgáfu Skarðsbókar frá 1981.

Í bréfi Magnúsar konungs, sem fylgdi Jónsbók, segir að bókinni sé skipt í 10 bálka. Hverjum bálki er svo skipt í marga kafla. Mjög snemma eða strax í Skarðsbók (1363) fór að bera á ýmiskonar ruglingi í bálka- og kaflaskiptingunni, sem ýmist erfðist í næstu útgáfur eða var leiðrétt og þá mismunandi eftir útgáfum eða skrifað var upp eftir öðrum handritum en Skarðsbók. Í það minnsta riðlaðist skipan bókarinnar og er því ekki að öllu leyti samræmi á milli Jónsbókarútgáfna hvað þetta varðar. Ekki er þó um stórvægilegan mun að ræða. Sem dæmi má nefna að Jónsbók frá 2004 er skipt í 13 bálka og 260 kafla en í Jónsbókarútgáfunni frá 1904 eru bálkarnir 10 og kaflarnir 251.
Eftir að einveldið komst á árið 1662 hvarf fljótlega síðasti snefill af löggjafarvaldi Alþingis til konungs. Enn meiri þáttaskil urðu þegar Kristján konungur fimmti setti lögbók fyrir Danmörku árið 1683 og fyrir Noreg árið 1687. Þessar lögbækur nefnast Dönsku og Norsku lög og var hvorugri ætlað að gilda á Íslandi.

Hvalreki

Hvalreki við Eiðisgranda.

Á átjándu öld setti konungur nokkrar óljósar tilskipanir um gildi Norsku laga á Íslandi. Oft og tíðum var ekki kveðið nákvæmar að orði en það, að ákvæðin og heilu bálkarnir ættu að gilda eins og átt gæti við á Íslandi. Kastað var höndum til þessa verks vegna þess að lögbók átti fljótlega að taka gildi á Íslandi. Meinið var, að það gerðist aldrei. Stafaði af þessu hinn mesti glundroði og má segja að á 18. öldinni hafi næsta fáir kunnað skil á því, hvað væru í rauninni gildandi lög í landinu. Það leiddi til þess að dómar voru oft og tíðum byggðir á dönskum og norskum lögum, sem hvorki höfðu verið sett fyrir Ísland né birt hér. Hafði strax upp úr 1700 fjarað svo mjög undan Jónsbók, að Árni Magnússon (1663-1730) snupraði Björn Þorleifsson (1663-1710) Hólabiskup fyrir að láta prenta hana árið 1707. Árni segir í bréfi til biskups, að hann hefði ráðið frá því að bókin yrði prentuð og segir að margt í bókinni sé undarlegt og stór hluti hennar sé liðinn undir lok. Árni vildi samt fá eintak handa sjálfum sér og þá frekar tvö en eitt úr því að biskup var hvort sem er búinn að prenta bókina. Magnús Stephensen (1762-1833), dómstjóri Landsyfirréttar, lyfti grettistaki við að leysa úr réttaróvissunni. Þegar hann lést árið 1833 var réttaróvissunni að miklu leyti eytt.

Hvalreki

Hvalreki við Þorlákshöfn.

Árið 1945 voru hlutar af 56 köflum Jónsbókar í lagasafninu. Árið 1983 voru kaflarnir 47 og hefur þeim ekki fækkað síðan þá. Jónsbókarákvæðin frá 1281 munu vera alveg einstök í lagasafni nú á dögum og minna á langa sögu Alþingis sem löggjafarstofnunar.
Flestir kaflar Jónsbókar í lagasafninu eru úr Búnaðarbálki (Landsleigubálki) og Rekabálki. Rekabálkur fjallar um hvalreka og rekavið. Sum Jónsbókarákvæðin, sem tilgreind eru í lagasafninu, eiga uppruna sinn í íslenska Þjóðveldinu það er eru komin úr Grágás. Það eru því til lagaákvæði í lagasafni Íslands sem hafa verið í gildi frá upphafi Íslandsbyggðar eða að minnsta kosti frá stofnun allsherjarríkis og Alþingis árið 930.
Nokkuð oft hefur verið vísað til Jónsbókarákvæða í Hæstaréttardómum. Venjulega er það í málum sem snerta ágreining um eignarrétt yfir landi eða um rétt til ýmiskonar landnytja, svo sem veiði, beitar og reka.“

Í „Landsyfirréttardómum og hæstaréttardómum í íslenskum málum“ frá 1895 er dómur um hvalreka. Málið höfðuðu bændur á Járngerðarstöðum gegn Oddi V. Gíslasyni, presti á Stað:

Hvalreki

Hvalreki við Grindavík.

„Hinn 26. ágústmánaðar 1890 fannst dauður hvalur á floti fyrir utan Grindavík, og var hann af þeim sem fundu hann róinn í land á Járngerðarstöðum; hvalurinn var óskemmdur og 25 álnir að lengd milli skurða.
Afrýjendurnir, sem eru fyrirsvarsbændur á Járngerðarstöðum, ljetu skera hvalinn og skiptu honum í 3 hluti jafna: uppróðrarhlut til flutningsmanna, landshlut og skurðarhlut. Var þannig farið með hvalinn sem flutningshval eptir fyrirmælunum í 7. kap. J.bókar Rb. Hinn stefndi, sem hefur haldið því fram, að hvalurinn væri rekahvalur, taldi skipti þessi ólögmæt, og áleit, að það bæri að skipta hvalnum þannig: 1/3 hluta til uppróðrarmanna, en af hinum 2/3 hlutunum einum fjórðungi til Skálholts- og Staðarkirkju til jafnra skipta, ein um fjórðungi í skurðarhlut milli allra grasbýlismanna í Grindavík og tveim fjórðungunum til allra (7) jarðanna í Griudavík sem landhlut til jafnra skipta. Hinn stefndi höfðaði þá mál gegn áfrýjendunum út af hvalskiptum þessum og var það dæmt í aukarjetti Kjósar- og Gullbringusýslu 7. febr. 1892 á þá leið, að áfrýjendurnir skyldu allir fyrir einn og einn fyrir alla greiða hinum stefnda sjera Oddi Gíslasyni fyrir hönd kirkjunnar á Stað í Grindavík 1/8 — einn áttunda — úr 2/3 — tveim þriðju — hlutum hins umrædda hvals og hinum sama sem ábúanda á Stað 1/7 — einn sjöunda — hluta af 2/4 hlutum af hinum sömu 2 þriðjungum hvalsins, allt eptir mati óvilhallra manna; með sama dómi voru áfrýjendurnir dæmdir til að greiða 100 kr. í málskostnað og nokkur ummæli málsfærslumanns þeirra í varnarskjölum hans fyrir aukarjettinum voru dæmd dauð og ómerk. Að öðru leyti voru áfrýjendurnir sýknaðir fyrir aukarjettinum.

Hvalreki

Hvalreki á Álftanesi 2021.

Nefndum aukarjettardómi Kjósar- og Gullbringusýslu hafa þeir Einar Jónsson, Sæmundur Jónsson, Eiríkur Ketilsson og Magnús Maguússon skotið til yfirdómsins með stefnu, útgefinni 9. júlí f.á., og krafizt þess, að dómurinn verði úr gildi felldur, að þeir verði algjörlega sýknaðir af öllum kærum og kröfum sjera Odds Gíslasonar, og að hann verði dæmdur til að greiða þeim allan sakarkostnað fyrir báðum rjettum með nægilegri uppbæð. Hinn stefndi, sjera Oddur Gíslason, sem befur haft gjafsókn í hjeraði og gjafvörn fyrir yfirdómi og skipaðan talsmann, hefur af sinni hálfu krafizt pess, að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur, og að áfrýjendurnir verði allir fyrir einn og einn fyrir alla dæmdir til að greiða honum málskostnað fyrir yfirdómi að skaðlausu, svo og, að hinum skipaða málflutningsmanni verði tildæmd hæfileg málsvarnarlaun.

Hvalreki

Hvalreki við Granda.

Hinn stefndi hefur eigi fundið neitt að því, að finnendum hvalsins var úthlutaður 1/3 hluti hans í uppróðrarhlut, en að öðru leyti hefur hann byggt kröfur sínar til hluta úr honum á ákvæðum í Wilchinsmáldaga, er segja svo: „að Staðarkirkja eigi 1/8 í hvalreka öllum í Grindavík milli Rangagjögurs og Valagnúpa“, og að því leyti hann sem ábúandi Staðar gjörir kröfur til landhutar, byggir hann það á venju, er á að vera sönnuð með ýmsum hvalrekavitnisburðum, uppskrifuðum árið 1657, en gefnum 1603 og 1627, svo og vitnisburðum um, hvernig hafi verið farið með hvalreka í Grindavík 1860 og 1878, en vitnisburðir þessir fara í þá átt, að landhlut af hval, sem rekur í Grindavík, sje skipt milli allra jarða þar, sem eru 7 að tölu. Ákvæðin í Wilchinsmáldaga, svo og hinir tilvitnuðu vitnisburðir, ræða að eins um rekahval, en áfrýjendurnir hafa stöðuglega haldið því fram, að hjer sje um flutningshval að ræ3a, er heimilt hafi verið að róa upp á Járngerðarstaðaland, og skipta þar á þann hátt, sem þeir gjörðu. Aptur á móti hefur hinn stefndi leitazt við að sanna það, að hvalurinn hafi fundizt í rekhelgi (fiskhelgi) Grindavíkur, og skýrir hann svo frá, að allar jarðir í Grindavík hafi sameiginlegan rjett, að því er rekhelgi snertir.

Hvalreki

Hvalreki í Vogum.

Hinn stefndi heldur því fram, að hvalurinn hafi fundizt á þessum miðum: Djúpmið: Hásteinar mitt á milli Húsatópta og Sýrfells; Hásteinar um Tóptatúnshala; Austurmið, grunnmið: Varðan Sigga í Skotta — og hefur hann látið mæla vegalengdina frá miði þessu til næsta lands, Þórkötlustaðaness, og reyndist vegalengdin 4—500 faðmar(c: 353 mælisköpt á 4 álnir = 1412 ál.). Þá hefur dómarinn eptir beiðni hins stefnda útnefnt 2 menn til þess að athuga, hvort flattur þorskur sæist á bátsborði frá landi í 500 faðma fjarlægð, og hafa þeir gjört tilraun um það, og staðfest með eiði fyrir rjetti, að peir bafi sjeð fisk á borði í 540 faðma fjarlægð. Mælingum þessum hafa áfrýjendurnir mótmælt, og sjerstaklega hafa þeir haldið því fram, að mið þau, sem mælt hefur verið frá, sjeu eigi hin rjettu mið, þar sem hvalurinn fannst. Um þetta hefur hinn stefndi látið fram fara vitnaleiðslu, og hafa 4 vitni, einmitt menn þeir, sem reru hvalinn í land, gefið vitnisburð þar að lútandi. Eitt vitnið skýrði svo frá, að „er þeir komu fyrst að hvalnum, hafi varðan verið vestan til á miðja Vatnsheiði og djúpt af grunnbrún“; annað vitnið tjáist ekkert vita um það; þriðja vitnið segir, að hvalurinn hafi verið á grunnbrún, er þeir fyrst komu að honum, og 4. vitnið ber, að varðan hafi verið austarlega á Vatnsheiði. Með þessum vitnisburðum er það eigi sannað, að hvalurinn hali fundizt á miðum þeim, sem hinn stefndi hefur látið mæla frá vegalengd til lands.

Hvalreki

Hvalreki við Garðskaga.

Hinn stefndi — en á honum virðist sönnunarbyrðin hvíla í þessu efni — hefur þannig eigi sannað það, að hvalurinn hafi fundizt í rekhelgi eða fiskhelgi — enda verða hinar framkvæmdu mælingar eigi álitnar lögmæt sönnun gegn áfrýjendunum, sem eigi voru kvaddir til að vera við þær — og virðist það því rjett, að farið hefur verið með hvalinn sem flutningshval, en í hinum framlögðu skýrslum er hvorki kirkju nje Stað í Grindavík eignaður hluti í hvölum þeim, sem fluttir eru á fjörur annara jarða í Grindavík (c: í flutningum). Það ber því að sýkna áfrýjendurna fyrir kærum og kröfum hins stefnda í þessu máli. Málskostnaður fyrir báðum rjettum þykir eiga að falla niður. Sem gjafsóknarmál hefur málið verið rekið forsvaranlega í hjeraði, og fyrir yfirdómi hefur málsvörnin verið lögmæt.
Því dæmist rjett að vera: Afrýjendurnir, Einar Jónsson, Sæmundur Jónsson, Eiríkur Ketilsson og Magnús Magnússon eiga að vera sýknir fyrir kærum og kröfum stefnda sjera Odds Gíslasonar í þessu máli. Málskostnaður falli niður.“

Heimildir:
-Jónsbók, rekabálkur, kap. 1.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=31477
-Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenskum málum 01.01.1895, Hvalreki, nr. 28/1892, bls. 324-328.

Hvalreki

Hvalreki á Álftanesi 2021.

Túnakort

Í Faxa 2007 skrifar Skúli Magnússon um „Bæjarnafnið Járngerðarstaðir í Grindavík„.

Faxi 2007

Faxi 2007.

„Stutt athugun á tilurð þess Eitt aðaleinkennið á byggð á utanverðum Reykjanesskaga voru lítil þorpshverfi sem í upphafi urðu til út frá einu aðalbýli sem aftur í byrjun varð til við góða lendingu þaðan sem stutt var á góð fiskimið.
Dæmi um slíkar jarðir má finna í Landnámu, Voga á Vatnsleysuströnd og Bæjarsker á Miðnesi. Hinar eru þó fleiri jarðirnar af þessum toga á Reykjanesi sem ekki eru nefndar í elstu heimildum. Meðal þeirra eru jarðir á borð við Hólm í Leiru, Njarðvík og Hóp í Grindavík. Slík býli voru því í rauninni frumbýli, frumjarðir sem vegna legu sinnar byggðust fyrst og voru valin í öndverðu vegna þessara kosta sinna.
Síðan byggðust þær jarðir í nágrenni slíkra kosta jarða en sem lágu fjær miðum eða höfðu lakari lendingar og lágu jafnvel verr við sjósókn. Samkvæmt þessari fingursreglu virðist mér jarðir á Suðurnesjum hafa byggst í öndverðu. Fleira kann þó að hafa komið þar til sem ekki verður rætt um hér. Þannig urðu byggðahverfin til sem einkenndu byggðina. Þeir sem fyrstir námu þessa staði settust að þar sem hægast var til athafna við sjóinn.

Útgerð flyst úr Hópinu

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Við Hópið í Grindavík hefur líklega í byrjun verið ágæt lending og góð veiðiaðstaða, en þar kom er nokkuð var liðið á búsetu þar efra að skipta varð landinu sem þar lá nærri, gæðum þess og gögnum á sjó og landi.
Skúli MagnússonVaxandi byggð þurfti möguleika til útræðis og því var farið að róa úr lendingum utan Hópsins, á Þórkötlustöðum og frá Járngerðarstöðum. Útgerð flyst því út úr Hópinu á staði utan við sem þó voru heldur verr fallnir til lendingar en Hópið var i byrjun. (Sjá Sóknarlýsingu Grindavíkur 1840 eftir Geir Bachmann). Freistandi er að tímasetja þetta á seinni hluta 10. aldar, nálægt 950-1000, en það er þó ágiskun ein enda engar beinar heimildir til þar um. Eigi er þó ólíklegt að þessi skipan hafi komist á fyrir 1000 í austurhluta Grindavíkur. Hugsanlega hefur þó skipun byggðar þar gengið hraðar fyrir sig en okkur grunar og byggðin hafi þegar í lok 10. aldar verið búin að fá á sig þá skipun í meginatriðum sem síðar varð.

Austasti hluti Grindavíkur hefur trúlega byggst fyrst og síðan sá vestari og ysti. Að byggðastefnan sé í öndverðu komin austan að sjást fáein merki enn í dag, m.a. í örnefnum þar eystra. Má þar helst nefna örnefnið Grindaskörð upp af Selvogi sem hugsanlega fyrirrennara nafnsins Grindavík.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Grun hef ég t.d. um að byggð hafi snemma við landnám í Grindavík komið upp á Hrauni sem þó hafði a.m.k, á síðari öldum fremur laka bátalendingu. Hitt er líklegt að varla hafi liðið langur tími frá landnámi í Grindavík um 936 þar til byggð var komin á Hrauni.
Eins og fyrr er getið eru þessar bollaleggingar um upphaf og þróun byggðar aðeins byggðar á líkum enda skortir okkur ritaðar heimildir um slíkt, ef frá er talin hin skemmtilega frásögn Landnámu um komu Molda-Gnúps og barna hans til Grindavíkur nálægt 935-936 eftir gosið mikla í Eldgjá sem jarðvísindamenn hafa kannað og tímasett af talsverðri nákvæmni. Þessvegna er eðlilegt að álykta að byggð í Grindavík hafi þróast og myndast á árunum fram um 950.

Sterk tilhneiging til að kvenkenna bæjarnöfn

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – teikning dr. Bjarna Sæmundssonar 12. apríl 1895. Þorbjörn í bakgrunni.

Vandinn er sá að jarðanöfn í Grindavík eru ekki nefnd í eldri heimildum en rekaskjölum í bréfasafni eru tímasett. Þau skjöl eru talin vera frá um 1270. Þar eru bæjanöfnin Hóp, Hraun, Þorkötlustaðir og Járngerðarstaðir nefnd í fyrsta sinn í rituðum heimildum. Nokkur vandi er því að ráða í upphaf byggðar á þessum jörðum.

Grindavík

Grindavík er kvenkynsorð.

Þegar örnefni og bæjanöfn í Grindavík og austur í Ölfus eru skoðuð kemur í ljós að á þessu svæði hefur verið allsterk tilhneiging til að kvengera bæjarnöfn, kenna þau við konur og breyta þannig ásýnd þeirra og sögu. Þetta sá ég glöggt þegar ég kannaði örnefni á þessu svæði. Þórhallur Vilmundarson hefur líka bent á í safnritinu Kulturhistorisk Leksikon hvernig bæjanafnið Vigdísarvellir þróaðist. Telur Þórhallur að það hafi í byrjun verið Vegdysjarvellir, þ.e. sprottið af dys við veg. Smám saman breyttist fyrri hluti nafnsins í kvenmannsnafnið Vigdísar- og eftir það var skammt í allt annað nafn og óskylt hinu eldra með öllu. En nú var orðið til bæjarnafn með upphaf og sögu. Hugsanlega hefur bæjarnafnið Járngerðarstaðir þróast á svipaðan hátt og skal ég ræða það frekar.

Friðsamir járnsmiðir

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir.

Af Landnámu má ráða að Molda-Gnúpur og faðir hans í Noregi hafi verið járnsmiðir að atvinnu þar í heimahögum sínum en hvorki víkingar né ránsmenn eins og margir aðrir sem til Íslands komu á 9. og 10. öld.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þessir grindvísku landnemar voru því athyglisverð undantekning frá þeim hópum manna sem stunduðu víkingarferðir og rán áður en þeir settust að á Íslandi. Heima í Noregi hafði Gnúpur, eins og faðir hans og sennilega afi, stundað sína járnvinnslu og járnsmíðar í friði þar til einhverjir atburðir um 930 neyddu Gnúp til Íslandsfarar með skjótum hætti og aðdraganda.
Nafnið á Járngerðarstöðum er því hugsanlega sprottið af tvennu: í fyrsta lagi af kvenmannsnafninu Járngerður sem tíðkaðist nokkuð á landsnámsöld en varð þó aldrei algengt og í öðru lagi af einhverju úr umhverfi eða atvinnuháttum hinna fornu Grindvíkinga.

Kvenkenndar jarðir

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir.

Ég nefndi áðan þá sérkennilegu tilhneigingu í bæjanöfnum frá Reykjanesi og austur í Ölfus að snúast upp í kvennöfn. Jarðirnar fá nöfn af einhverjum óþekktum konum sem síðari alda menn líta svo á að hafi búið þar í upphafi.

Járngerðarstaðahverfi

Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Má því hugsanlega gera því skóna að upptaka fastrar búsetu á viðkomandi jörð hafi átt þátt í slíkri þróun kvenmannsnafna á þessu svæði. Þau hafi þá lyft viðkomandi jörð hærra í samfélaginu, menn hafi látið slíkt gott heita enda hafa slíkar breytingar á suðurhluta Reykjanesskagans gerst án þess að við yrði spornað ekki síst ef viðkomandi jörð fylgdi lítil saga um upphaf byggðar þar og byrjun búsetu. Jörðin varð til af breyttum atvinnuháttum eða af félagslegum umbrotum svo sem eignaskiptum og þörf á nýjum stöðum til að búa á og stunda þar búskap til sjós og lands. Gott dæmi um þetta úr Grindavík er einmitt jörðin Ísólfsskáli sem í upphafi var aðeins verskáli til útróðra og hét þá og lengi Ysuskáli en fékk síðan karlmannsnafnið Ísólfsskáli, líklega eftir að þar hófst föst búseta allt árið og þar varð til sérstök jörð með landamerkjum. Fullgild bújörð verður sjaldan til í einu vetfangi, hún þróast jafnan frá viðverustað til lögbýlis. En sú þróun er vitanlega mislöng eftir umhverfi og aðstæðum. Einhver byggð var t.d. komin á Ysuskála á árunum 1210-1220, a.m.k. var þá róið þaðan til fiskjar og e.t.v. búið þar allt árið.

Er nafn Járngerðarstaða dregið af Járngerði?

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir 1627.

Svipuð þróun kann að hafa átt sér stað á Járngerðarstöðum. Þegar þeim bústað var í byrjun valinn staður er ekki óhugsandi að því vali hafi einmitt ráðið aðgengi að nægu vatni til notkunar og drykkjar enda stutt þaðan í gjár og vötn og þar var besta vatnsból í Grindavík frá aldaöðli (sbr. Sóknalýsingu Grindavíkur 1840).

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir fyrrum.

Sé beinlínis farið eftir hljóðan nafnsins Járngerðarstaðir get ég þess til að þar hafi frumbyggjar í Grindavík stundað sínar jámsmíðar, iðn sína eftir komu sína til Grindavíkur. Við járnsmíði og járngerð þurfti einmitt nægt og gott vatn og losa mátti ösku og gjall í gjárnar frá staðnum, en hvar fá mátti kol til vinnslunnar er þó ekki ljóst nema aðkeypt austan úr sveitum. Land var þó grónara víða en það var síðar og styttra í eldsneyti en okkur grunar.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðarhverfi 1958.

En þeim Molda-Gnúpi og ættmönnum hans var illa í ætt skotið hafi þeir ekki stundað iðn sína í Grindavík eins og heima í Noregi. Þessi tilgáta mín um uppruna bæjarafnsins Járngerðarstaðir kann að reynast fjarstæðukennd vegna þess að við erum vön því kvenmannsnafni og hve löng hefð þess er orðin. Ekkert í umhverfi Járngerðarstaða í dag minnir á slíkar járnsmíðar en hvort þar kunna að leynast náttúrulega kostir eða staðhættir sem vísað gætu til járnvinnslu veit ég ekki. Ljóst er þó að alvanir atvinnumenn við járnsmíð hafa kunnað sitt hvað fyrir sér í iðn sinni. Fljótt á litið virðist manni sem litlir möguleikar hafi verið til járngerðar þarna í hrauninu við Járngerðarstaði en hugsanlega hafa þar verið einhverjir þeir landskostir sem buðu upp á slíka iðju aðrir en blávatnið eitt. Þetta hefur tæplega verið athugað í nágrenni Járngerðarstaða. Hvort örnefni í nágrenni við bæinn geta varpað einhverju ljósi á þessa tilgátu mína um upphaf bæjarnafnsins þekki ég ekki, en það er þó hugsanlegt.

Sterk staða fornkvenna?

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir 1890.

Rétt er að benda á aó sú óvenjulega málvenja að kvenkenna bæjarnöfn er mun algengari á sunnanverðum Reykjanesskaga en á skaganum að norðan og vestan. A því er ein undantekning. Það er jörðin Þóroddstaðir á Miðnesi sem um tíma var kölluð Þórustaðir. Hvað veldur þessari málvenju að kvengera bæjarnöfn er óljóst en varla var staða kvenna á suðurhluta Reykjaness sterkari en á hinum nyrðri. Byggð er raunar eldri á norðanverðum skaganum en hinum syðri en hvort það tengist þessari málvenju eitthvað skal ósagt látið.

Eftirmáli greinarhöfundar

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – gamli bærinn.

Eftir að ég skrifaði grein mína um bæjarnafnið Járngerðarstaðir þar sem ég færði rök að því að nafnið væri dregið af járnvinnslu eða járnsmíði kannaði ég betur nokkrar heimildir sem renna stoðum undir það að sá skilningur á nafninu sé réttari en hinn að nafnið sé upphaflega kvenmannsnafn. Veturinn 1117-1118 dvaldi Grettir Ásmundarson hinn sterki í útlegð í Ljárskógum í Dölum hjá Þorsteini Kuggasyni frænda sínum. Þar vann Grettir m.a. við járnsmíði en „nennti misjafnt“ eins og það er orðað í 54. kapítula Grettissógu. Sem kunnugt er var unnið járn úr mýrum þarna vestra og eru varðveittar um það allgóðar sagnir og fornar minjar. Grettissaga getur þess að Þorsteinn hafi smíðað sér þarna brú úr járni heiman frá bænum úr Ljárskógum sem útgefandi Grettissögu hjá Fornritafélaginu, Guðni Jónsson, hefur þó efasemdir um eða sprottið hefur af blendnum sögnum. Athygli vekja orð Grettlu sem segir eftir að hafa lýst brú þessari: „Hafði Þorsteinn mikinn starfa fyrir þessari smíð (það er smíði brúarinnar) því að hann var járngörðarmaður mikill.“ Hér vísar höfundur Grettissögu til þess að Þorsteinn hafi unnið járnið í brúna þarna heima og smíðað hana líka ásamt Gretti.

Innlent járn úr mýrarrauða

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir.

Þegar litið er í orðabækur frá 19. og 20. öld sem út komu yfir fornmálið kemur í ljós að höfundar þeirra hafa allir skilið orðið járngjörðarmaður á þann veg að það merkti járnsmiður, ekki aðeins sá sem býr til járn úr mýrarrauða heldur líka sá sem úr járninu smíðar (sjá orðabækur eftir Norðmennina Leif Heggstad og Johann Fritzner svo og íslensk-enska oröabók yfir fornmál er þeir Guðbrandur Vigfússon og Englendingurinn Cleasby tóku saman.)

Rauðablástur

Gjall eftir rauðablástur.

Allir vísa þeir til þess dæmis í Grettlu sem heimildar en ekki önnur rit. Talið er að Grettissaga hafi verið færð í letur nálægt 1300 og er ekki annað að sjá en að höfundur hennar noti því sama orðið um þann sem býr til járnið og þann sem smíðar úr því, enda hefur þetta trúlega hvorttveggja farið saman á landnáms- og þjóðveldisöld. En er tímar liðu fram á miðaldir má ætla að orðið járnsmiður hafi unnið á enda hættu menn smám saman að vinna innlent járn úr mýrarrauða. Hafi þar verið byrjað að flytja inn útlent hráefni til járnsmíða, líklega eftir 1400 og síðar, og þá hafi upphafleg merking orðsins járngerðarmaður fyrnst og glatast en orðið járnsmiður tekið við og svo stendur enn á okkar dögum. í ljósi þessara röksemda er ekkert því til fyrirstöðu að gefa þeirri skýringu undir fótinn að hið forna bæjarnafn Járngerðarstaðir sé runnið frá járnsmíðum þeirra Mold-Gnúpssona eða jafnvel frá Gnúpi sjálfum eins og Landnáma sjálf getur um.

Engin Járngerður í Grindavík

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Sú sterka tilhneiging á suðurströnd Reykjanesskagans að kvengera nöfn á svæðinu styður þessatilgátu allvel. Athygli vekur líka að kvenmannsnafnið Járngerður þekkist ekki sem skírnarnafn kvenna í Grindavík, hvorki á miðöldum né á seinni tímum að því er séð verður. Gömul hefð hefur því varla verið fyrir nafninu í grindvískum ættum eins og stundum gerist með mannanöfn sem þannig ná að lifa staðbundið innan héraða allt frá landnámi. Dæmi um slíkt má þó finna á næstu grösum, t.d. í Árnessýslu. Í ljósi alls þessa er ekki annað að sjá en að bæjarnafnið Járngerðarstaðir eigi sér uppruna í hinni fornu iðngrein grindvískra frumbyggja er námu þar land um 936, en ekki kvenmannsnafnið Járngerður.

Rauðablástur

Rauðablástur – ofn; tilgáta ÓSÁ.

Þegar Grettissaga var skráð um og eftir 1300 þekktu menn enn að orðið járngerð merkti bæði gerð járns úr mýrarrauða og smíði úr járni. En þegar þýskir og enskir kaupmenn fóru að koma til Íslands efir 1420 fluttu þeir með sér járn og aðra málma til smíða týndist hin gamla merking í orðinu járngerð en um leið kom upp kvenkenning hins gamla bæjarnafns í Grindavík þegar menn hættu hinni fornu járnvinnslu í landinu. Sú vinnsla borgaði sig ekki lengur þegar innflutningur málma frá miklum námulöndum hófst enda óx námugröftur þá í þeim löndum sem Íslendingar skiptu mest við, ekki síst í Englandi. Þessi þróun varð ekki stöðvuð og gamla íslenska járngerðin var ekki tekin upp aftur enda útlendu málmarnir betri en íslenska járnið. Á árunum 1420-1500 hófst þessi breyting og þegar Danir hófu einokunarverslun sína 1602 voru Íslendingar algjörlega háðir útlendu járni til smíða sinna eins og sést af heimildum. Þá var uppruni hins foma grindvíska bæjanafns löngu gleymdur mönnum en nafnið að fullu orðið kvenmannsnafn sem farið var að tengjast þjóðsögum sem þá mynduðust.“ – Skúli Magnússon

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.02.2007, Bæjarnafnið Járngerðarstaðir í Grindavík, Skúli Magnússon, bls. 8-9.

Jángerðarstaðir

Járngerðarstaðir fyrrum – samsett  mynd.

Grindavík

Árið 2001 var gerð fornleifaskráning um, „Járngerðarstaði og hjáleigur“. Hér er getið um sumt það, sem fram kemur í skýrslunni um gömlu bæina og merkar minjar.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir

Jángerðarstaðir – gamli bærinn.

Landnámsmenn í Grindavíkurhreppi voru tveir: Molda-Gnúpur Hrólfsson, er nam Grindavík, og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson, er nam Selvog og Krýsuvík. Gnúpur þessi fór til Íslands fyrir víga sakir og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár og allt Álftaver. Þar bjó hann, uns byggðin spilltist af hraunstraumi. Eftir vetursetu á Höfðabrekku fór hann um vorið ásamt sonum
sínum vestur til Grindavíkur, og tóku þeir sér þar bólfestu. „Vitneskja okkar um upphaf byggðar í Grindavík takmarkast við frásögn Landnámu af Molda-Gnúpi og sonum hans, og ekkert er vitað með neinni vissu um byggðina og sögu hennar næstu þrjár aldirnar.“
Heimildir um sögu jarðarinnar og ábúendur þar fyrir 1700 eru mjög af skornum skammti. Í fornbréfum er jarðarinnar sjaldan getið nema helst í sambandi við fjöruréttindi. Er þó sýnt að hún hefur komist í eigu Skálholtsstaðar ekki síðar en um miðbik 15. aldar. Er Wilkinsmáldagi var settur, árið 1397, hafði Staðarkirkja í Grindavík eignast hálfa heimajörðina á Stað og að auki ítök í Húsatóttum, Járngerðarstöðum og Hrauni.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir; Vesturbær, Austurbær og Valdastaðir.

Áttatíu árum síðar, 1477, setti Magnús biskup Eyjólfsson kirkjunni nýjan máldaga og átti hún þá allt heimaland á Stað. Í þeim máldaga kom ekkert fram um eignarhald á öðrum jörðum í víkinni, en líklegt er að þær hafi þá allar verið komnar í kirkjueign.
Í manntali 1703 voru tíu hjáleigur á Járngerðarstöðum, engin þeirra er þó nefnd með nafni. Þá voru tíu í heimili á höfuðbólinu. Á árunum 1785-1791 voru flestar stólsjarðirnar seldar og hófst sala stólseigna í Grindavík 30. júlí 1785 með sölu jarðanna Hrauns og Ísólfsskála. Um sölu Járngerðarstaða hafa engin skjöl fundist en jörðin mun engu að síður hafa verið seld um þetta leyti Jóni Jónssyni, ættföður Járngerðarstaðaættar.
Í manntali 1801 voru Járngerðarstaðir tvíbýli með 8 hjáleigum.
1816 voru þeir einnig tvíbýli með 9 hjáleigum, þar af einu tvíbýli.
1845 áfram tvíbýli og 9 hjáleigur, þar af eitt tvíbýli. Á túnakorti sem gert var 1918 kemur fram að tún eru slétt og voru þau flestöll sléttuð stuttu áður en kortið var gert.
Járngerðarstaðir voru þingstaður Grindvíkinga.

Náttúrufar og jarðabætur

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir 1890.

Landamerki Járngerðarstaða 1889 voru: „Að vestan byrjuð: Frá Markhól við sjóinn beina stefnu á Stapafellsþúfu, þaðan á Arnarstein fyrir ofan Snorrastaða vatnsgjá, úr Arnarsteini í þúfuna á Skógfelli litla, þaðan í þúfuna á Stagafelli, þaðan beint fram í Markalón á Hópsrifi.“ Landamerkjum þessum var mótmælt af eigendum Hóps og Húsatópta.
Í lýsingu Grindavíkursóknar frá 1840-41 eftir sr. Geir Bachmann er svohljóðandi kafli um Járngerðarstaði: „Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sgr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. – Bæði í túninu og utan túns eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka væri og rækt við höfð. Það hafa Járngerðarstaðir til landskosta fram yfir Stað og Húsatóttir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins og líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita.“
Á bls. 145-6 í sömu lýsingu segir: “ hlunnindi eru hér í sveit engi nema trjáreki, og ef menn kalla svo, allgóð sauðganga í fjörunni þá vel vetrar. …
Alla tíma eru kýr hér inni nema þá 2 mánuði, sem í seli eru. … Engin eru hér beitihús á vetrum, borgir né fjárhús. Sauðfé, sem fátt er, gengur allt úti í fjörunni gjafarlaust og kemur aldrei í hús.
Það liggur undir upphrófluðum skjólgörðum, til hverra það er rekið á hverju kvöldi. … Hver sá maður, er býli hefir hér í sókn, hefir og 1 eða 2 kálgarðsholur, eftir því ræktaðar sem hver er hneigður til atorku og pössunarsemi.“
„Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eins og önnur býli hér. Stendur bærinn niðri við sjó, og eru þar nokkur önnur býli, sem hafa sameiginlegt land nema túnblettina. Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: Vallarhús, Kvíhús, Rafnshús, Akurhús, Gjáhús (Norður- Gjáhús heita nú Vík, en SuðurGjáhús tilheyra Garðhúsum), Krosshús, Garðhús, Völlur (byggður úr Kvíhúsum), Hóll og Langi. Sjóbúðir eru nefndar 1703: Gullekra, Krubba og Litlu-Gjáhús.“ (Örn.,1)
Elsta heimild um húsakost og mannvirki í Vesturbænum á Járngerðarstöðum er úttekt frá 7. júní 1882, þar eru talin upp: baðstofa, göng frá baðstofu að bæjardyrum, bæjardyr, skáli frá bæjardyrum til eldahúss, eldahús og búr í norðurenda baðstofu. (J.Þ.Þ og G.M.H,58).

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið „Tyrkjaránsins“ – uppdráttur ÓSÁ.

Völlur (hjáleiga)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Völlur (byggður úr Kvíhúsum)…“ (Örn.,1).
Aðrar upplýsingar Skv. Guðjóni Þorlákssyni, sem býr í Vík, fór Völlur í miklu flóði 1924. Tóftin er að mestu horfin, þó sést aðeins móta fyrir henni í túninu ASA við Járngerðarstaði.

Gömlu-Rafnshús (hjáleiga)

Staður

Staður-loftmynd 1954.

„Hrafnshús eru á milli Gjáhúsa og Akurhúsa út við túngarðinn… Hrafnshús, sem áður stóðu milli Ekurhúsa og Kvíhúsa, eru í seinni tíð flutt þangað, hvar þau nú eru.“ (G.B.,137).
„Upp af Fornuvör eru leifar eftir Kvíhús niðri á sjávarbakkanum, og þar eru Gömlu-Rafnshús um 150 m austar.“ (Örn.,3).

Loftskofi (hjáleiga)

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – loftmynd 1954.

Í manntali frá 1816 er Loftskofi hjáleiga frá Járngerðarstöðum með 2 í heimili.

Nýibær (hjáleiga)
Í manntali frá 1816 er Nýibær hjáleiga frá Járngerðarstöðum með 3 í heimili.

Lambhús (hjáleiga)
Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Hjáleigur eru .. Lambhús, önnur hjáleiga, bygð fyrir innan xx ár“.

Hlaðhús (hjáleiga)
Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Hlaðhús, níunda hjáleiga, gömul.“

Gullekra (verbúð)
„Sjóbúðir eru nefndar 1703: Gullekra, …“ (Örn.,1)
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 segir: „Til forna hafa hjer verið þessar búðir: Gullekra, hefur verið tómthús, búðarleiga var xx álnir.“

Rafnshús

Rafnshús – Járngerðarstaðir fjær.

Krubba (verbúð)

Grindavík

Grindavík – sjóbúð.

„Sjóbúðir eru nefndar 1703: …, Krubba,…“ (Örn.,1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 segir: „Til forna hafa hjer verið þessar búðir: … Krubba. Og svo tómt hús, búðarleiga var xx álnir.“

Litlu-Gjáhús (verbúð)
„Sjóbúðir eru nefndar 1703: … Litlu-Gjáhús.“ (Örn.,1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 segir: „Til forna hafa hjer verið þessar búðir: … Litlu-Gjáhús, hafði grasnyt. Landsskyld var l álnir.“

Skjalda (hjáleiga)

Grindavík

Skjalda.

Geir Bachmann segir svo í Lýsingu Grindavíkursóknar 1840-41: „Eyðikotið kallast Skjalda og liggur í vestur útnorður út við túngarðinn.“ (G.B., 137)

Járngerðarstaðir  (verbúð)
Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Þar gánga skip heimabóndans og þau inntökuskip, er þángað til fiskiafla ráðast fyrir undirgift, sem heimabóndi tekur, og lætur þá verbúð og vergögn í tje fyrir skipsöfnina.“

Járngerðarstaðir  (verbúð)

Grindavík

Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Skip stólsins gánga hjer venjulega iii eður iiii, og hafa þeir verbúðir fyrir sig, sem stóllinn uppbyggir. En soðningu kaupa skipverjar. Hafa þessi skip stólsins verið so um lángar stundir, en alt þar til í tíð Mag.
Brynjólfs var gefin til heimabóndans undirgift undir þau skip, sem fleiri voru en tvö af stólsins hendi.Og hýsti þá heimabóndi þá skipsöfn. En í tíð Mag. Brynjólfs var uppbygð önnur staðarins verbúð, sem síðan hefur viðhaldist, og engin undirgift verið frá stólnum lögð til bóndans.“

Járngerðarstaðir  (verbúð)
Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Á Járngerðarstöðum eru fáeinna verbúða stæði, nú forfallinna, og hafa þar legið við skipshafnir inntökuskipa, sem undirgift gefið hafa.“

Járngerðarleiði

Járngerðardys

Dys Járngerðar – áður en malbikað var hana.

„Járngerðarleiði hafa menn kallað dálítinn aflangan bala í túninu á Hrafnshúsum á Járngerðarstaðahverfi. Eg lét grafa í þann bala, og reyndist hann gamall öskuhaugur.“ (B.J., 46)

Virki

Virki

Virkið ofan við Stórubót.

Í Skarðsárannál, þar sem segir frá árinu 1532, stendur: „Gerði sagður Jóhann Breiði sér þá vígi eður virkisgarð skammt frá búðum á Járngerðarstöðum, sem enn sér merki“
„Þar sem nú er urð og grjót, voru grænir grasbalar fyrir u.þ.b. hálfri öld. Enn má þó greina þarna nokkur ummerki mannvistar, og er t.d. töluvert eftir af hól, þar sem munnmæli herma, að virki Jóhanns Breiða hafi staðið“ (J.Þ.Þ., 240).

Dys
Í Skarðsárannál, þar sem segir frá árinu 1532, stendur: „Tóku sig þá til hinir þýzku menn og Bessastaða fóveti, og komu óvart um nótt upp í Grindavík, komust upp í virki Jóhanns og slógu hann til dauðs og alla hans menn, en tóku skip og góss og allt hvað þeir áttu. Þar sést kuml þeirra eða dysjar hjá virkisgarði.“

Sel

Baðsvallasel

Baðsvellir – Baðsvallasel; uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Selstöðu hefur jörðin og brúkar enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu hagar oflitlir og þröngvir. Item sje þar stórt mein að vatnsleysi,
þá þerrar eru, og fyrir þessa lesti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarstaðar.“
Baðsvellir voru skammt frá Járngerðarstöðum, þar sem nú er skógræktarlundur Grindvíkinga, skammt fyrir norðan Selháls. (J.Þ.Þ.,165).

Akurhús (hjáleiga)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir:…Akurhús…“ (Örn.,1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703, bls. 18, eru Akurhús sögð „fimta hjáleiga bygð um langan aldur. Jarðardýrleiki óviss sem um hinar.“
„Akurhús sópaðist af grunni í sjávarflóði 1925, en þá urðu nokkrir bæir að hólma.“ (Örn.,3).
„Akurhús, út við garð, rétt í suðurátt.“ (frá Járngerðarstöðum) (G.B.,137).

Tún
„Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eins og önnur býli hér. Stendur bærinn niðri við sjó, og eru þar nokkur önnur býli, sem hafa sameiginlegt land nema túnblettina.“ (Örn.,1).

Garðhús (hjáleiga)

Garðhús

Garðhús.

„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Garðhús…“
(Örn.,1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703, bls. 19 eru Garðhús sögð gömul og jarðardýrleiki óviss.
„Hjáleigan Garðhús stóð nokkru austan við heimabæinn á Járngerðarstöðum, lítið eitt norðar en stórhýsið, sem Einar G. Einarsson reisti og enn stendur. Síðasti torfbærinn stóð fram á þessa öld, og var hann notaður sem verbúð í nokkur ár, eftir að steinhúsið var byggt. … Býlið var tekið út … 14. júní 1861, en blaðsíðan, sem úttektin er færð á er svo ílla farin, að litla vitneskju er af
henni að hafa um húsakost á hjáleigunni og ástand hennar. Þó má greina, að þetta ár hefur verið í Garðhúsum baðstofa, sem var sex álna löng með inngangi og hálf fimmta alin á breidd.
Hún var öll undir súð, með einu rúmi, og á henni var einn þriggja rúða gluggi. Fimm aðrar byggingar voru taldar í úttektinni …“ (J.Þ.Þ. og G.M.H,62-3).

Gjáhús (hjáleiga)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Gjáhús (Norður-Gjáhús heita nú Vík, en Suður-Gjáhús tilheyra Garðhúsum)…“ (Örn.,1)
Í Jarðabók Árna og Páls, bls. 18 segir: „Gjahus, sjötta hjáleiga bygð um langan aldur. Jarðardýrleiki óviss sem á heimajörðu.“
Í Manntali 1801, bls. 323 eru Gjáhús einbýli, en 1816 eru þau orðin tvíbýli.

Hóll (hjáleiga)

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðahverfi.

„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Hóll…“ (Örn.,1).
„Á Hóli bjuggu árið 1822 hjónin Sturlaugur Jónsson og Guðrún Jónsdóttir, en er þau fluttust brott, virðist hjáleigan hafa lagst í eyði um hríð. Árið 1840 var Hóll kominn í byggð á ný og hélst svo fram yfir aldamót.“ (J.Þ.Þ. og G.M.H.,71).

Krosshús (hjáleiga)

Járngerðarstaðir

Gjáhús og Krosshús 1930.

„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Krosshús…“ (Örn.,1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703, bls. 19 segir: „Krosshús, sjöunda hjáleiga, gömul hjáleiga.
Jarðardýrleiki óviss sem á heimajörðu.“
„Krosshús í austur líka, en lengra frá og út við túngarðinn“ (frá Járngerðarstöðum) (G.B.,137)
Elsta heimild um húsakost í Krosshúsum er úttekt frá árinu 1888. „Samkvæmt henni hafa bæjarhúsin verið fjögur: baðstofa, göng, bæjardyr og eldhús. Baðstofan var fimm ára gömul, hálf sjötta alin á lengd og fimm álnir á breidd. Hún var öll undir súð, ,,…sem er að sjá lítt fúin en nokkuð vatnssósa af megnum slaga,“ eins og segir í úttektinni. Baðstofan var þiljuð innan, með ,, fjalargólfi fyrir gangi“, fjögurra rúða glugga og tveim rúmum. Önnur bæjarhús voru minni og sýnilega í lakara ástandi.“ (J.Þ.Þ. og G.M.H.,66).

Kvíhús (hjáleiga)

Járngerðarstaðahverfi

Járngerðarstaðahverfi – loftmynd 1954.

Kvíhús voru hjáleiga frá bænum Járngerðarstöðum í Grindavík. (Sjá Járngerðarstaði.)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Kvíhús…“ (Örn, 1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703, bls. 17 segir: „Qví hús, þriðja hjáleiga yfir l ára gömul. Jarðardýrleiki óviss sem á heimajörð.“ (50 ára)
Kvíhús eru ekki nefnd í manntali 1801 né 1816, en 1845 eru þar 6 í heimili.
„Kvíhús í suður frá heimabænum. … Kvíhús standa árlega í miklum voða fyrir sjóaráfalli…“ (G.B.,137).
„Upp af Fornuvör eru leifar eftir Kvíhús niðri á sjávarbakkanum…“ (Örn., 3).
„Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eins og önnur býli hér. Stendur bærinn niðri við sjó, og eru þar nokkur önnur býli, sem hafa sameiginlegt land nema túnblettina.“ (Örn., 1).

Langi (hjáleiga)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Langi.“ (Örn., 1).
„Austan við Járngerðarstaði var kot, sem hét Langi, eins og áður er getið. Túnið milli Járngerðarstaða og Garðhúsa var Langatún.“ (Örn.,4)

Rafnshús (hjáleiga)

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðahverfi.

„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Rafnshús…“ (Örn., 1).
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem rituð var 1703 bls. 18, voru Hrafnshús innan við 40 ára, þ.e. byggð eftir 1663. Jarðardýrleiki óviss.
„Hrafnshús eru á milli Gjáhúsa og Akurhúsa út við túngarðinn… Hrafnshús, sem áður stóðu milli Ekurhúsa og Kvíhúsa, eru í seinni tíð flutt þangað, hvar þau nú eru.“ (G.B.,137).
„Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eins og önnur býli hér. Stendur bærinn niðri við sjó, og eru þar nokkur önnur býli, sem hafa sameiginlegt land nema túnblettina.“ (Örn., 1).

Vallhús (hjáleiga)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Vallarhús…“ (Örn, 1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703, bls. 17 segir: „Hjáleigur eru Vallarhús. Hefur verið um lángan aldur. Jarðardýrleiki óviss sem á heimajörðu.“
„Vallarhús standa í suðurátt að heiman að sjá innan í öllum kotakransinum.“ (G.B.,137)

Staðhættir í Grindavík

Járngerðarstaðir

Kort af Járngerðarstaðahverfi – ÓSÁ.

Land Grindavíkur er að mestu þakið hrauni sem runnið hefur eftir lok síðustu ísaldar.
Hraunflákar skipta Byggðinni í þrennt og milli hraunanna eru gróin svæði þar sem byggðin hefur risið. Sjóndeildarhringur Grindvíkinga til norðurs einkennist af frekar lágum en
svipmiklum fjöllum sem flest eru í landi sveitarfélagsins. Til suðurs er ströndin fyrir opnu úthafinu og er víðast hvar lág og lítið vogskorin. Nokkrar litlar víkur ganga inn í hana og eru
Staðarvík, Járngerðarstaðarvík og Hraunsvík þeirra stærstar.

Landnám og byggðaþróun

Hóp

Hóp; fornar minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Í landnámabók er greint frá því að Molda-Gnúpur Hrólfsson hafi numið land í Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson í Selvogi og Krýsuvík um árið 934. En Grindavíkurhreppur náði yfir tvær kirkjusóknir, Staðarsókn og Krýsuvíkursókn allt til ársins 1946. Synir Moldar-Gnúps settust að á þremur höfuðbólum sem hin 3 hverfi1 Grindavíkur heita eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast. Þessi hverfi eru meðal þess sem einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík fram á þessa öld. Lítið sem ekkert er vitað um byggð í Grindavík næstu þrjár aldir eftir landnám en gert er ráð fyrir því að hverfin þrjú hafi byrjað að myndast strax á 10. eða 11. öld. Líklegt verður að teljast að staðsetning hverfanna ráðist af samspili graslendis á þessum stöðum og því að aðstaða til sjósóknar hefur verið góð. Hverfin þrjú voru aldrei formlegar einingar heldur aðeins þrír hreppshlutar og á milli þeirra voru engin formleg mörk, heldur réðust þau af landamerkjum jarða. Um það bil þremur öldum eftir landnám (á 13. öld) hófst eldgosahrina sem almennt gengur undir nafninu Reykjaneseldar. Þessi umbrot ollu miklum landspjöllum í Grindavík. Rituð heimild frá því um aldamótin 1700 gefur til kynna að þau hafi jafnvel eytt vestasta hluta byggðarinnar sem þá var. Má reikna með að öskulagið hafi þakið alla sveitina, kæft gróður og valdið bændum miklum búsifjum.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðarhverfi 1958.

Byggðin í hverfunum í Grindavík virðist hafa verið í svipuðu formi frá 13. öld og allt til upphafs 20. aldar. Byggð í hverfunum virðist hafa svipað mjög hver til annarrar og ekkert hverfi virðist hafa verið á nokkurn hátt fyrir hinum. Þó hefur Staður haft nokkra sérstöðu. Þar var kirkjustaður og grafreitur Grindvíkinga og þar hafði verslun einnig þróast og því munu Grindvíkingar hafa átt tíðari erindi þangað en á aðra bæi í sveitinni.
Eftir Svarta dauða 1402 mun þungamiðja byggðar hafa færst nær sjónum og sjávarútvegur efldist. Grindavíkurhverfin munu þá hafa vaxið og byggðin aukist. Risu þar fjöldi verbúða.
Ekki er ljóst hvenær Grindavík varð verslunarstaður, en heimildir eru um aukna verslun þar á 15. öld og líklegt virðist að Skálholtsstóll hafi átt þar vörugeymslu- eða verslunarhús í lok aldarinnar.
Þegar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, var tekin saman árið 1703, voru allar jarðir í Grindavík, aðrar en Húsatóftir, í eigu Skálholtsstóls og voru það framundir aldamótin 1800, er biskupsstóll var lagður niður í Skálholti og stólsjarðirnar seldar. Húsatóftir voru konungseign, en höfðu verið eign Viðeyjarklausturs fyrir siðaskipti.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðahverfi 1946.

Á 15. öld og fyrri hluta þeirrar 16. stunduðu Englendingar og Hansakaupmenn verslun í Grindavík. Ekki voru samskipti þeirra þó friðsamleg og kom til átaka milli þeirra með mannavígum.
Þegar einokunarverslun Dana var komið á 1602 var Grindavík meðal þeirra 20 hafna sem gert var ráð fyrir að siglt yrði til árlega. Leyfi sem Hansakaupmenn höfðu til verslunar var úr gildi fallið. Íslandsversluninni var skipt milli þriggja borga, Kaupmannahafnar, Málmeyjar og Helsingjaeyrar. Í hlut Kaupmannahafnar komu Grindavík, Keflavík, Hafnarfjörður, Dýrafjörður, Ísafjörður og Hofsós. Þrátt fyrir þetta héldu Þjóðverjar áfram að versla á Íslandi á fyrstu áratugum 17. aldar og oft komu skip þeirra til Grindavíkur á þessu tímabili. Ákvæði um árlega skipakomu á verslunarstaði voru oft hunsuð og einokunarverslunin var stopul framan af.
Á einokunartímanum risu ýmiss konar verslunarhús í Grindavík eins og öðrum verslunarstöðum, bæði úr timbri og torfi. Verslunarfélögin fluttu tilsniðin hús til landsins af nokkrum gerðum. Mörg voru gerð úr láréttum stokkum, önnur voru grindarhús, klædd lóðréttum borðum og um 1765 risu svokölluð bolhús á mörgum verslunarstaðanna. Fáein hús eru enn uppi standandi frá þessum tíma annars staðar á landinu. Flest eru þau í Neðstakaupstað á Ísafirði, en þar getur að líta hús af þeim þremur gerðum sé hér hafa verið nefndar.

Grindavík

Grindavík – seilað í Norðurvör.

miðja 18. öld var Grindavíkurhöfn talin ófær venjulegum hafskipum og beinar siglingar þangað höfðu fallið niður. Vörur sem ætlaðar voru Grindavíkurverslun voru fluttar að Básendum og þaðan voru þær fluttar á hestum og bátum til Grindavíkur. Grindavík varð eins konar úthöfn Básendaverslunar.
Við afnám einokunarverslunarinnar 1786 voru eignir hennar seldar og víðast bárust nokkur tilboð. Enginn sýndi þó verslunareignunum í Grindavík áhuga í fyrstu enda staðurinn ekki árennilegur til verslunarreksturs. Veturinn 1788 – 1789 keypti Árni Jónsson á Eyrarbakka þó verslunina í Grindavík, meðal annars fjögur hús í landi Húsaftófta. Verslunarrekstur hans gekk afar illa og lognaðist út af um 1796. Haustið 1802 var verslunarhúsið rifið og efni þess selt og árið 1806 höfðu öll verslunarhúsin verið seld og rifin. Verslun lá niðri í Grindavík fram undir lok aldarinnar. Um aldamótin 1900 sóttu Grindvíkingar verslun til Lefoliiverslunar á Eyrarbakka og Duusverslunar í Keflavík.

Saga Grindavíkur

Flagghúsið

Flagghúsið 1910 og Einarsbúð.

Einar G. Einarsson var fyrsti staðbundni kaupmaðurinn en hann hóf verslun í Grindavík árið 1897. Verslun hans dafnaði vel og að sama skapi dró úr umsvifum Eyrarbakka- og Keflavíkurverslana. Árið 1902 var stofnsettur þar löggildur verslunarstaður á ný en í þetta sinn var hann við Járngerðarstaðarvík. Árið 1932 tók til starfa önnur verslun á staðnum undir nafninu Gimli og upp úr 1940 hóf Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis starfsemi í Grindavík en Kaupfélag Suðurnesja tók svo við rekstrinum og varð stærsta verslunarfyrirtækið á staðnum.
Frá fyrstu tíð hefur sjósókn verið stunduð í Grindavík ásamt landbúnaði og héldust þeir búskaparhættir fram á miðja 20. öld. Vægi landbúnaðar var mikið á fyrstu öldum byggðarinnar  í svokölluðum landbýlahverfum. En þegar sjávarútvegur jókst á 14. öld byggðust svokölluð sæbýlahverfi í námunda við verstöðvar.
Á árunum 1840 og 1841 voru aðeins 7 aðalbýli í sókninni og 13 hjáleigur. Aðalbýlin voru þessi, talin vestan frá, Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli.
Byggð í Staðarhverfi var nokkuð stöðug á árunum 1801 – 1920 en lagðist svo alveg af fljótlega eftir 1920. Byggð í Þórkötlustaðahverfi og Járngerðarstaðahverfi var nokkuð jöfn fram til ársins 1910. Fólksfjöldi var svipaður en á fyrri hluta 20. aldarinnar dró þó nokkuð í sundur með hverfunum. Að lokum var svo komið að Þórkötlustaðahverfi var orðið nokkurs konar úthverfi við hlið meginbyggðarinnar.
Síðari heimsstyrjöld hafði mikil áhrif á byggðaþróun Grindavíkur. Fyrstu áhrif styrjaldarinnar voru að stórir markaðir lokuðust tímabundið árið 1939 en síðla sama árs tóku Bretar við nær allri vöru sem sett var á markað. Vinna tengd hersetuliðinu dró fólk frá fiskvinnslu svo tímabundin fækkun varð í Grindavík.

Fiskveiðar og útgerð

Grindavík

Grindavík 1963.

Fiskveiðar og fiskvinnsla hafa löngum verið aðaluppistaðan í atvinnu og lífsbjörg í Grindavík.
Frá því Grindavík byggðist og fram á miðja 19. öld var ein og sama veiðiaðferð notuð, handfæri. Oftast var stutt róið, öldum saman á sömu miðin, út á víkurnar eða stutt út fyrir þær.
Fyrstu grindvísku bátarnir hafa sjálfsagt verið mjög litlir. Jafnvel aðeins fyrir tvo til fjóra. Skipin hafa verið smátt og smátt að stækka og talið er að um miðbik 14. aldar hafi tólfæringar verið mjög algengir í Grindavík. Strax á 15. öld sóttust erlendir menn mjög eftir fiski í Grindavík og lögðu útvegsmenn mikið kapp á að auka útgerð sína. Bændur í öðrum landshlutum sendu vinnumenn sína á vertíð í verið á Suður- og Vesturlandi, og hafa þá verið settar upp einhvers konar verbúðir. Um miðja 19. öld var fyrst komið með lóð (línu) til Grindavíkur. Línan var stutt í byrjun og stutt á milli öngla, um 100 önglar á streng og 5-6 strengir með áttæringum, en þær smálengdust, ár frá ári en í upphafi var ávallt beitt á sjó. Þessi aðferð tíðkaðist fram um síðustu aldamót. Þá er byrjað að nota net og um svipað leyti er hætt að beita línur á sjó.

Grindavík

Grindavík – fyrsta bryggjan í Járngerðarstaðahverfi.

Árið 1924 hófst vélvæðing báta í Grindavík, nokkru seinna en annars staðar á landinu. Ástæða þess er líklega léleg hafnaraðstaða fyrir stærri báta miðað við önnur vogskornari landsvæði.
Árið 1928 voru allir bátar sem gerðir voru út frá Grindavík orðnir vélbátar en þá þurfti enn að setja bátana á land eftir hvern róður, það var ekki fyrr en á 20. öld sem menn byrjuðu að nota spil til þess að draga báta á land. Fyrsta bryggjan í Grindvík var byggð í Járngerðarstaðahverfi, önnur var svo byggð í Þórkötlustaðahverfi árið 1930 og 1933 var bryggja byggð í Staðarhverfi.
Árið 1939 var Ósinn grafinn og er með ólíkindum að það hafi tekist þar sem allt var grafið með handverkfærum. Dýpkun hafnarinnar árið 1949 markaði svo enn á ný tímamót í uppbyggingu staðarins. Í framhaldinu urðu miklar breytingar á atvinnuháttum þegar fyrirtæki um fiskvinnslu og útgerð voru stofnuð og voru hafnarframkvæmdir miklar á næstu árum og áratugum.

Landbúnaður

Grindavík

Grindavík 1925.

Eitt einkenni elsta hluta bæjarins er að húsin standa frekar strjált og eru túnskákir víða á milli en þetta helgast af því að svokallaður tómthúsbúskapur, sjósókn ásamt landbúnaði, tíðkaðist í Grindvík fram undir miðja 20. öld. Vægi landbúnaðar var mikið á fyrstu öldum byggðarinnar en hann hefur þó alla tíð verið erfiður í Grindavík, eldsumbrot með hraunrennsli og öskulagi hafa skert gróður og valdið búsifjum. Til að fóðra búpeninginn hafa bændur því þurft að grípa til fleiri ráða en heyskapar, einkum seljabúskapar á sumrin og fjörubeit og söfnun hríss og lyngs til að drýgja hey fyrir kýr. Sel eru þekkt víða í Grindavík og eru sum þeirra ævaforn.
Núlifandi Grindvíkingar (fæddir upp úr 1940) muna enn vel eftir því að á hverju heimili voru hænur og kindur og sums staðar einnig kýr, en þeir sem héldu kýr seldu oft nágrönnum sínum hluta af mjólkinni. Heimilisfeðurnir voru flestir sjómenn. Enn í dag er fjárbúskapur í Grindavík þó það sé í mjög litlu mæli og eingöngu stundaður af tómstundabændum.

Járngerðarstaðahverfi

Grindavík

Grindavíkurkirkja – málverk eftir G. Scheving.

Járngerðarstaðir voru vettvangur Grindavíkurstríðsins 1532 og Tyrkjaránsins 1627 og vex þar blóðþyrnir er heiðið og kristið blóð blandaðist.
Árið 1703 voru „öngvar engjar“ á Hópi. „Flæðihætt er fyrir sauð, og líka brýtur sjófargángur túnið, og er hætt við enn meira landbroti.“ Bærinn varð snemma eign Skálholtsstaðar, líkt og flestir útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans.
Um Járngerðarstaði 1840 segir í Landnámi Ingólfs III6 „eigi fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað, þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi, og er þaðan hvergi víðsýnt. Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. Bæði í túninu og utanhúss eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka og rækt við höfð. Það hafa Járngerðarstaðir til landkosta fram yfir Stað og Húsatóptir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita. Mætti þó halda þar fáum skepnum heima á sumardag, hvað ekki má heita mögulegt á Stað og Húsatóptum.“

Grindavík

Grindavík – séð frá Þjófagjá.

Árið 1847 voru Járngerðarstaðir eign Skálholtsstaðar líkt og flestir betri útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans. „Selstöðu hefur jörðin og brúkar þar sem heitir Baðsvellir.
Hjáleigur eru; Vallarhús, Lambús, Kvíhús, Hrafnshús, Akurhús, Gjáhús, Krosshús, Garðhús og Hlaðhús. Búðir til forna voru; Gullekra (tómthús), Krubba (tómthús) og Litlu-Gjáhús, skv. Jarðabók Árna Magnússonar 1703. Þá var „heimræði árið um kring og lending í betra lagi. Engvar öngvar. Jörðin nær frá sjó upp til fjalls eins og önnur býli hér.“
Elsta úttekt bæjarins er af Vesturbænum frá 1882. Þar voru þá baðstofa, göng, bæjardyr, skáli, eldahús, búr í norðurenda baðstofu, fjós með 3 básum, hesthús fyrir 3 hesta, heyhús, smiðja, sjómannabúð, fiskhjallur, húsagarður með bæjarrönd, túngarður 160 fðm, traðargarður 85 fðm og kálgarður. Fyrir sumu þessu mótar fyrir enn í dag.

Grindavík

Grindavík – gamli skólinn.

Þróun byggðarinnar í Járngerðarstaðahverfi hefur einkennst mjög af atvinnuháttum og landfræðilegum aðstæðum. Árið 1925 gerði mikið sjávarfljóð í Grindavík er eyðilagði mörg hús og skemmdi stórkostlega uppsátrið í annarri vörinni og eyðilagði hina að mestu.

Fram til þess tíma bjuggu margir í torfhúsum sem skemmdust í flóðinu. Mikið af húsum í gamla bænum er byggður á næstu árunum eftir flóðin, 1925-1930. Í Landnámi Ingólfs segir um 1840 „á bæ þessum bagar vatnsleysi til neyslu.“ En vatn hefur væntanlega ávallt verið verðmæti í Grindavík enda hraunið gljúpt og regnvatn rennur fljótt niður og saltur sjór gengur undir skagann og brim yfir hann og ofanvatn því oft heldur salt. Enda var í Grindavík lengi steypt vatnsþró við hvert hús þar sem regnvatni var safnað. Eftir að vatnsveita kom í bæinn var þessum þróm iðulega breytt í salernisaðstöðu.

Grindavík

Grindavík – Einarsbúð t.h.

Breyttir atvinnuhættir, eftir 1950 þegar útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki eru stofnuð, hafa haft áhrif á heimilishald í Grindavík en smám saman lagðist búfjárhald af á heimilum og útihús grotnuðu því niður eða voru tekin til annarra nota.

Niðurstaða
Í Landnámu er sagt að Molda-Gnúpur Hrólfsson hafi numið Grindavík ásamt sonum sínum. Elsta ritaða heimild sem minnist á Járngerðarstaði sjálfa er Wilkinsmáldagi frá 1397. Annars eru heimildir um jörðina fyrir 1700 af mjög skornum skammti.

Heimild:
-Fornleifaskráning, Járngerðarstaðir í Grindavík og hjáleigur. Þjóðminjasafn 2001.
-Húsakönnun, Gamli bærinn í Grindavík – janúar 2015.

Járngerðarstaðahverfi

Járngerðarstaðahverfi – húsakort.