Færslur

Jól

 Jól hefjast á miðnætti 25. desember. Þau eiga sér á norðurslóðum ævaforna sögu tengda vetrarsólhvörfum.

Jól

Nafnið er norrænt, og er einnig til í fornensku. Frummerking þess er óljós. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær jól voru haldin í heiðnum sið, sennilega með fullu tungli í skammdeginu. Ekki vita menn heldur hvernig þau voru haldin, nema að þau voru “drukkin” með matar- og ölveislum. Buðu íslenskir höfðingjar oft fjölmenni til jóladrykkju. Norræn jól féllu síðar saman við kristna hátíð. Svipuð kristnun heiðinna hátíða um þetta leyti hafði áður átt sér stað suður við Miðjarðarhaf, og var þá ýmist minnst fæðingar Krists eða skírnar.
Á 4. og 5. öld komst sú venja víðast á að minnast fæðingarinnar 25. desember en skírnarinnar og tilbeiðslu vitringanna 6. janúar, og má þangað rekja jóladagana 13 á Íslandi. Helgi aðfangadagskvölds á rót sína í vöku sem almenn var kvöldið fyrir katólskar stórhátíðir enda var oft talið að sólarhringurinn byrjaði á miðjum aftni klukkan sex. Fasta fyrir jól var einnig lögboðin, stundum miðuð við Andrésmessu 30. nóvember, en oftast fjórða sunnudag fyrir jól. Þaðan eru sprottnir aðventusiðir síðari tíma.

Jól

Mikil þjóðtrú tengist jólum og jólaföstu í miðju íslensku skammdegi. Grýla er þekkt sem flagð frá 13. öld og er á 17. – 18. öld barnaæta tengd jólunum. Fyrst fréttist af jólasveinum á 17. öld sem afkvæmi Grýlu og miklu illþýði. Þeir taka nokkuð að mildast á 19. öld, koma þá ýmist af fjöllum eða af hafi, eru oftast 9 eða 13. Spurnir eru af rúmlega sjötíu jólasveinanöfnum. Seint á 19. öld tekur eðli jólasveina og útlit að blandast dönskum jólanissum annarsvegar en evrópskum og amerískum jólakarli hinsvegar.
Um 1930 verður sú aðlögun að jólasveinarnir koma fram í rauðum alþjóðaklæðnaði og verða gjafmildir, en halda íslenskum sérnöfnum og fjölda. Um miðja 20. öld fóru jólasveinarnir að gefa börnum í skóinn að norðurevrópskum sið.

Jól

Til jólahaldsins var oft slátrað kind á fyrri öldum og höfð kjötsúpa á aðfangadagskvöld. Hangiket var einnig fastur jólamatur, en rjúpur upphaflega fátækrafæði. Vegna korneklu voru grautar og brauðmeti þó mesta nýnæmið eins og við önnur hátíðabrigði á fyrri öldum, þar á meðal laufabrauðið sem áður virðist útbreitt um allt land en einkum norðan og norðaustan eftir miðja 19. öld.
Snemma á 20. öld hefst kökugerð í stórum stíl til jóla og yfirgnæfði sjálfan jólamatinn, en hefur nú látið undan síga fyrir fjölbreyttara veislufæði. Jólatré breiddust upphaflega út frá mótmælendum í Þýskalandi. Einstaka grenitré tók að berast til Íslands á síðara hluta 19. aldar en slík jólatré urðu ekki algeng fyrr en um síðari heimsstyrjöld. Þangað til var hérlendis oftast notast við heimasmíðuð tré. Jólagjafir tíðkuðust ekki hérlendis fyrr en seint á 19. öld, og voru sumargjafir öldum saman almennari. Hinsvegar fékk vinnufólk og heimilismenn sitthvað klæðakyns fyrir jólin sem einskonar launauppbót. Tengdar því eru sagnir um jólaköttinn, sem á sér ættingja í nautslíki við Eystrasalt og annan af geitarkyni í Noregi.

Heimild:
-Saga daganna eftir Árna Björnsson, útgefin 1996.

Jól

Jólasveinn.

Markasteinn

Gengið var suður með vestanverðri Setbergshlíð, um Gráhelluhraun, Þverhlíð, Seljahlíð og Svínholt. Dagurinn var jóladagur.

Perlumóðurský

Perlumóðurský.

Mannfólkið kúrði enn í híbýlum sínum, en Setbergslækurinn rann rólega sína leið og lék sér við klakaströnglið við bakkana. Mýsnar höfðu verið á kreiki um nóttina.
Birtan yfir Vatnshlíðarhorni og Sveifluhálsi var einstök, gulrauður morgunroðinn í sinni fegurstu mynd. Í austri trjónaði ílangt perlumóðuský er skipti litum í takt við morgunroðann; rauðleitt í fyrstu, en blánaði smám saman. Það tók á sig óskýra olíulitina, en hvítnaði loks og varð gegnsætt uns það samlagaðist himninum. Svo virtist sem skýið hafi viljað birtast þarna á áberandi stað í tilefni jólanna og gefa sem flestum kost á að berja sig augum, en líklegt er að fáir hafi notið augnakonfektisins á austurhimninum þennan fagra jóladagsmorgun.

Perlumóðurský

Perlumóðurský.

Perlumóðuký sjást gjarnan að vetri til á norðurhveli jarðar einkum á milli sólseturs og sólarupprásar. Þau eru olílituð og draga nafn sitt af þeim litabrigðum perluskeljarinnar. Skýn eru mjög sjaldgæf á þessum stað jarðarinnar, en þekkjast þó við norðurhvel jarðar, sem fyrr sagði. Þau myndast er sérstök veðurskilyrði, en eru ekki úrkomuský. Perlumóðuský verða til ofan við háský í um 25 km hæð og eru lýsandi næturský í um 80 km hæð. Þessar skýjagerðir, sem eru mjög sjaldgæfar, tengjast ekki veðri. Þennan jóladagsmorgun voru kjöraðstæður til þessa á höfðuborgarsvæðinu, heiður himinn og veðurstillur.

Perlumóðurský

Perlumúðurský.

Beygt var með Þverhlíðinni og stefnan tekin á Markaklett, landamerkjahornstein Urriðakots og Setbergs. Sagan segir að bóndinn á Urriðakoti hafi fyrrum heyrt rokkhljóð inni í steininum og dregið þá ályktun að í honum kynni að búa huldufólk. Þá hafa aðrir menn, sem það hafa og eru þekktir af því að skýra jafnan rétt frá, fyrir satt að þegar einhver reynir að nálgast steininn þverr honum allur máttur. FERLIR hafði áður sannreynt þetta í tvígang.
Enn ein saga segir að huldufólk geri jafnan vorhreingerninguna hjá sér á jólanótt. Þá hefst nýtt ár hjá huldufólkinu og því vilji það fagna með alsherjartiltekt. Álfarnir gera sér hins vegar glaðan dag á nýársnótt, en engir sértakir kærleikar eru með hudlufólki og álfum, ekki frekan en með mönnum og kálfum.

Markasteinn

Markasteinn.

Gengið var hljóðlega í átt að Markasteini. Létt marr greindist í snjónum, en andvarinn var á móti. Þegar komið var upp að hæðinni er skildi að klettinn og sjónhendinguna virtist einhver hreyfing við steininn. Það var enn morgunrökkvað svo erfitt var að greina hvað þetta var svo vel færi. Svo virtist sem vera kæmi út úr klettinum, staðnæmdist, beygði sig niður, greip eitthvað með sér og hvarf síðan inn í steininn aftur. Eftir stutta stund kom hún, eða einhver önnur, út aftur og greip eitthvað með sér og hvarf á braut.
Reynt var að læðast nær, en við það virtist koma styggð að hreyfingunum. Þær létu ekki sjá sig aftur. Utan við steininn sáust fótspor án sóla. Kjarrið bærðist í golunni. Fornfálegur stólfótur lá við klettinn. Hann var látinn liggja þar sem hann var.
Frábært veður. Lygnt og bjart (miðað við árstíma).

Markasteinn

Markasteinn.

Spenastofuhellir
“Jól og áramót eru hvort tveggja til að halda uppá vetrarsólstöður – að fornum sið. Fyrir 3000 árum síðan kunnu menn að fylgjast með himninum og vissu á hvaða degi vetrarsólstöður lentu á hverju ári.
Kalfatjarnarkirkja-VVVÁ miðöldum tóku svo nefndir valdamanna kirkjunnar við því mikilvæga hlutverki að ákvarða dagsetningu vetrarhátíðarinnar, skálduðu upp sögur í kringum Jesús nokkurn Jósepsson, sem eflaust var mælskur og heillandi maður, en kunnu þá ekki að stilla af dagatal miðað við sólargang, enda slík vísindi ekki á valdi annarra en hinna hæfustu manna. Nefndirnar gátu á þeim tíma ekki orðið sammála um dagsetningarnar og því urðu þær allnokkrar – misgæfulegar.
Nú er aftur leyfilegt að tímasetja vetrarsólstöður eins og þær eru í raun, en við höldum ekki uppá þær sem skyldi (einhverra hluta vegna). Menn dýrka enn Jesús um jól og fagna nýju ári um áramót og þykir hvort tveggja merkilegt en horfa framhjá því hversu stórkostlegt það er að við getum í dag mælt nákvæmlega möndulhalla jarðar og stöðu hennar á braut í kringum sólina og vitum uppá sekúndu hvenær vetrarsólstöður eru. Þetta er í raun allt miklu merkilegra en eldgamlar tilbúnar sögur, sem flestir fylgja enn þann dag í dag (af óskiljanlegri venju).
Framangreint segir sína sögu um hversu nútímamaðurinn er móttækilegur fyrir sjálfgefnum og athugasemdalausum tillögum hversdaglífsins…
Gleðileg jól.”

Vertarsólhvörf

Vetrarsólhvörfum fagnað að jólasið.

 

Jólakort

Jól eru ein stærsta hátíð kristinna manna. Þeir halda þessa hátíð í minningu fæðingar Jesú, sonar Maríu meyjar. Í kristinni trú er Jesús sonur Guðs (Drottins), Kristur (hinn smurði),
Messías, sem spámennirnir sögðu fyrir að koma myndi. Jól eru haldin um gjörvallan hinn kristna heim og víða annars staðar þar sem kristni er jafnvel í miklum Jól fyrri tíðarminnihluta. Hátíðin er ekki á sama tíma alls staðar. Hjá mótmælendum og rómversk kaþólskum eru jól haldin á jóladag, þann 25. desember, og sumir þeirra hafa heilagt frá klukkan 18 á aðfangadag jóla, en það gera alls ekki allar kristnar þjóðir. Í austurkirkjunni (grísk kaþólsku og orþódox) eru jólin haldin um það bil hálfum mánuði síðar.
Uppruni jólahalds er rakinn til sólhvarfahátíða heiðinna manna, sem fögnuðu endurkomu sólarinnar sem lífgjafa. Kristnir menn ákvörðuðu að Jesú hefði fæðst um þetta leyti árs og settu jólin á svipaðan tíma og sólhvarfahátíðin var áður. Með því móti glötuðu menn ekki miðsvetrarhátíðinni þó að þeir skiptu um trú.
Í Lesbók MBL 24. des. 1925 er fjallað um forna jólasiði: “Margar sagnir sanna, að forfeður vorir hafa haldið hátíð mikla  um miðsvetrarskeið, og kallað jól.  En upphaflega mun þó nafnið jól eigi hafa táknað hátíð, heldur hefur það verið mánaðarnafn eða missera. Gotar í Austur-Evrópu nefndu nóvember fyrri mánuð jóla og desember annan. Hjá Engil Söxum hjetu mánuðirnir desember og janúar jól. Og í forn-norrænu hjet einn mánuður ársins (frá því í nóvember og fram að jólum) Ýlir, og er það nafn dregið af jól.
Flestir telja að sólhvarfahátíð, Jólin, sem vér nú höldum helg 25. desember, eru komin í stað jóla heiðingjanna. Fyrst í Upprásstað hjelt kirkjan afmælishátíð Krists hinn 6. janúar, en á 4. öld var þessu breytt, vegna þess, að kristnir menn hjeldu alltaf upp á hin heiðnu jól eða tóku þátt í fögnuðinum út af því, að sólin hækkaði aftur göngu. Og þessi breyting var rjettlætt með því, að sólhvörfin væri afmælishátíð hinnar einu sönnu sólar, Krists, “rjettlætisins sólar”. Jólunum má og eigna siði þá, sem bundnir eru við Eldbjargarmessu (7. jan.). Þá drukku menn Eldbjargarminni sem fagnaðaröl út af því að þá kemur sólin aftur með eld sinn.”
Í Lesbók MBL 1962 er fjallað um jól á fyrri tíð: “Allt frá því, er kristni var lögtekin hé á landi, munu jólin hafa verið mesta trúarhátíð kirkjuársins. Hefir þar aflaust valdið nokkru um, að fyrir voru áður, í heiðni, hátíðir og siðir, að nokkru trúarlegs eðlis, til þess að fagna hækkandi sól. Menn glöddust yfir því að myrkasti tími ársins var liðinn, dagur smálengdist og sól hækkaði á lofti.
Alltaf var unnið mikið á sveitaheimilum í gamla daga, en aldrei þó eins og á Jólaföstunni. Það þurfti mörgu að koma í verk fyrir jólin og lögðu sumir saman næstum nótt og dag. Skömmu fyrir jólin var farið í kaupstað með prjónlesið og var mönnum í mun að koma sem mestu á markaðinn. Bændu komu heim með kaffi, sykur og fleira, sem heimilin þörfnuðust.
Öldum saman hafa jólin, hér á landi, verið dýrlegasta hátíð ársins.”Í

Af hæstu tindum

 Lesbók MBL 1949 er fjallað um heiðin jól og kristin jól: “Samkvæmt gamla tímatalinu voru sólhvörf 25. desember. Prokópis segir; á 6tu öld, að íbúar Thule í norðrinu seu í myrkri, um vetur, 40 daga, þegar 35 þeirra eru liðnir, senda þeir menn upp á fjallatinda að vita hvort sjái til sólar. Ef þeir sjá til hennar, byrjar veislufögnuður hjá öllum. Nú var fæðingardagur Krists ókunnur, og var ekki haldinn hátíðlegur fyr en seint á 4ðu öld e.Kr. “Kristur er sólin, sem sigrar myrkrið”, endurhljómar í kristnum ritum. velja menn honum því fæðingardag, þegar sólin, lífgjafinn, færir oss hita og ljós. Armeníumenn, sem tóku kristni einna fyrstir af öllum þjóðum, halda enn jólin 6. janúar, þ.e. á þrettánda.”
Páll Vídalín skrifaði um jól og heiðni: “Jól er eldra orð í norrænu máli en kristnin sjálf. Orðið þýðir veisla líkt og orðið blót. Kom það í stað veturnátta blóts heiðingja.”
Elsta vísbending um jólahald er í kvæði um Harald hárfagra sem talið er frá 9. öld. Þar er hann sagður vilja ‘drekka jól úti’ og ‘heyja Freys leik’.
Í Heimskringlu segir að Hákon konungur Aðalsteinsfóstri hafi um miðja 10. öld fært jólahald Norðmanna frá einhverri ‘hökunótt’, sem enginn veit hvenær var, til sama tíma og kristnir menn héldu fæðingarhátíð Frelsarans. Líklegast er að tímasetning hinna fornu jóla hafi ekki verið á neinum vissum degi eftir okkar almanaki, heldur þegar vel stóð á tungli í svartasta skammdeginu.

Heimildir m.a.:
-Wikipedia.com
-Fornir jólasiðir; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1925.
-Ljóssins hátíð fyrir 75-80 árum; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1957.
-Jól á fyrri tíð; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1962.
-Heiðin jól og kristin jól; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1949.
-Jólin og heiðnar venjur; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1957.
-Jól og heiðni; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1931.
-Visindavefurinn.