Jól

 Jól hefjast á miðnætti 25. desember. Þau eiga sér á norðurslóðum ævaforna sögu tengda vetrarsólhvörfum.

Jól

Nafnið er norrænt, og er einnig til í fornensku. Frummerking þess er óljós. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær jól voru haldin í heiðnum sið, sennilega með fullu tungli í skammdeginu. Ekki vita menn heldur hvernig þau voru haldin, nema að þau voru “drukkin” með matar- og ölveislum. Buðu íslenskir höfðingjar oft fjölmenni til jóladrykkju. Norræn jól féllu síðar saman við kristna hátíð. Svipuð kristnun heiðinna hátíða um þetta leyti hafði áður átt sér stað suður við Miðjarðarhaf, og var þá ýmist minnst fæðingar Krists eða skírnar.
Á 4. og 5. öld komst sú venja víðast á að minnast fæðingarinnar 25. desember en skírnarinnar og tilbeiðslu vitringanna 6. janúar, og má þangað rekja jóladagana 13 á Íslandi. Helgi aðfangadagskvölds á rót sína í vöku sem almenn var kvöldið fyrir katólskar stórhátíðir enda var oft talið að sólarhringurinn byrjaði á miðjum aftni klukkan sex. Fasta fyrir jól var einnig lögboðin, stundum miðuð við Andrésmessu 30. nóvember, en oftast fjórða sunnudag fyrir jól. Þaðan eru sprottnir aðventusiðir síðari tíma.

Jól

Mikil þjóðtrú tengist jólum og jólaföstu í miðju íslensku skammdegi. Grýla er þekkt sem flagð frá 13. öld og er á 17. – 18. öld barnaæta tengd jólunum. Fyrst fréttist af jólasveinum á 17. öld sem afkvæmi Grýlu og miklu illþýði. Þeir taka nokkuð að mildast á 19. öld, koma þá ýmist af fjöllum eða af hafi, eru oftast 9 eða 13. Spurnir eru af rúmlega sjötíu jólasveinanöfnum. Seint á 19. öld tekur eðli jólasveina og útlit að blandast dönskum jólanissum annarsvegar en evrópskum og amerískum jólakarli hinsvegar.
Um 1930 verður sú aðlögun að jólasveinarnir koma fram í rauðum alþjóðaklæðnaði og verða gjafmildir, en halda íslenskum sérnöfnum og fjölda. Um miðja 20. öld fóru jólasveinarnir að gefa börnum í skóinn að norðurevrópskum sið.

Jól

Til jólahaldsins var oft slátrað kind á fyrri öldum og höfð kjötsúpa á aðfangadagskvöld. Hangiket var einnig fastur jólamatur, en rjúpur upphaflega fátækrafæði. Vegna korneklu voru grautar og brauðmeti þó mesta nýnæmið eins og við önnur hátíðabrigði á fyrri öldum, þar á meðal laufabrauðið sem áður virðist útbreitt um allt land en einkum norðan og norðaustan eftir miðja 19. öld.
Snemma á 20. öld hefst kökugerð í stórum stíl til jóla og yfirgnæfði sjálfan jólamatinn, en hefur nú látið undan síga fyrir fjölbreyttara veislufæði. Jólatré breiddust upphaflega út frá mótmælendum í Þýskalandi. Einstaka grenitré tók að berast til Íslands á síðara hluta 19. aldar en slík jólatré urðu ekki algeng fyrr en um síðari heimsstyrjöld. Þangað til var hérlendis oftast notast við heimasmíðuð tré. Jólagjafir tíðkuðust ekki hérlendis fyrr en seint á 19. öld, og voru sumargjafir öldum saman almennari. Hinsvegar fékk vinnufólk og heimilismenn sitthvað klæðakyns fyrir jólin sem einskonar launauppbót. Tengdar því eru sagnir um jólaköttinn, sem á sér ættingja í nautslíki við Eystrasalt og annan af geitarkyni í Noregi.

Heimild:
-Saga daganna eftir Árna Björnsson, útgefin 1996.

Jól

Jólasveinn.