Tag Archive for: Kaldá

Kaldársel

Gengið var frá Kaldárseli eftir Kúastíg, um Kýrskarð og Gvendarselshæðargíga, yfir Undirhlíðar, niður í Kerin og suður með vestanverðum Undirhlíðum. Litið var niður í dýpi Aðalholu og sigið niður í Aukaholu. Um er að ræða gamlar djúpar (17 m og 10 m) sprungugjár, sem nýrra hraun hefur runnið niður í og smurt veggi og lausagrjót, formað súlur og ýmis litbrigði. Bandspotti reyndist nauðsynlegur til að komast upp úr holunni.

Kerin

Kerin í Undirhlíðum – Helgafell fjær.

Undirhlíðarnar eru framhald af Sveifluhálsinum til norðurs, ef svo má segja. Nyrsti hluti þeirra að austanverðu nefnast Gvendarselshæðir og Gvendarselshæðargígar norðan þeirra. Þeir eru stórbrotnir þar sem þeir liggja á sprungurein austan með hæðinni og út frá henni til norðausturs.
Selfarir voru lengi tíðkaðar við Kaldá og voru hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri síðust til að hafa þar í seli. Selförum var hætt í Kaldárseli árið 1865 eða 1866 og lögðust þar með af í Álftaneshreppi og líkast til á öllu Reykjanesi. Eftir það var reynd búseta í Kaldárseli sem lagðist fljótlega af vegna rýrra landkosta.

Aukahola

Aukahola.

Við Kaldársel eru m.a. bæjarrústir, fjárhústóft og gerði sem eru friðlýstar fornminjar. Nær friðlýsingin einnig yfir hleðslu undir vatnsveitustokk sem lagður var frá Kaldárbonum áleiðis til Hafnarfjarðar 1917 – 1918. Var 1600 m löng trérenna látin flytja vatnið og því sleppt niður í Gráhelluhraun við Sléttuhlíð. Það rann síðan um 3 km neðanjarðar og kom upp í Lækjarbotninum við norðurenda hraunsins. Vatnsból Hafnfirðinga er nú við Kaldárbotna og er vatnasvæðið girt af þ.á.m. Helgidalur sem var áður vinsæll útivistastaður. Kaldá sprettur fram undar Kaldárhöfða og streymir um 1100 m leið ofanjarðar áður en hún hverfur ofan í gljúpt hraunið. Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Ofan við Karlársel eru Gjárnar, merkileg náttúrusmíð.

Sprungur

Vatnsból Hafnfirðinga í Kaldárbotnum.

Kaldárstraumur á upptök í sunnanverðum Bláfjöllum og Lönguhlíð. Hann streymir þaðan til norðvesturs um Húsfellsbruna og Heiðmörk. Grunnvatnsskil liggja frá Straumsvík og í vesturenda Lönguhlíðar. Berggrunnurinn er úr hraunum, grágrýti og móbergsmyndunum. Þótt hraunin þeki víðáttumilkil svæði á þessum slóðum liggja þau að mestu yfir grunnvatnsborði. Sprungur auka mjög vatnsleiðni og hafa afgerandi áhrif á grunnvatnsstreymið. Sprungurnar eru hluti af sprunguskara sem kenndur hefur verið við Krýsuvík. Þær beina grunnvatninu úr sunnanverðri Heiðmörk til suðvesturs í átt til Kaldárbotna.

Aðalhola

Aðalhola.

Athyglisvert er að fyrir vikið streymir grunnvatnið á þessum slóðum ekki hornrétt á grunnvatnshæðarlínur, eins og algengast er, heldur skálægt á þær. Straumþunginn fylgir því sprunguskaranum. Í Kaldárbotnum sést örlítið brot af því vatni sem þarna er á ferð. Meðalrennsli Kaldár skammt neðan upptakanna er 800 l/s samkvæmt mælingum í vatnshæðarmælinum vhm 124, en sveiflur eru miklar í rennslinu. Kaldá er einskonar yfirfall úr grunnvatnsstraumnum. Einum kílómetra neðar er hún öll horfin til grunnvatnsins á ný. Neðan við Undirhlíðar sveigir grunnvatnið út úr sprunguskaranum og flæðir um hraunin til norðvesturs uns það birtist í fjörulindum í Straumsvík og í Hraunsvík, en svo nefnist bugurinn milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Þar upp af ströndinni eru vatnsból Álversins. Sennilegt er að einungis minnihluti lindarennslisins komi í ljós í fjörulindum þegar lágt stendur í sjó en að meirihluti þess sé jafnan í flæðarmálinu sjálfu eða neðan þess. Kaldárstraumur er langmesti grunnvatnsstraumurinn á höfuðborgarsvæðinu. Stærð hans er áætluð 5 – 10 m³/s.
Gengið var frá Kaldárseli frá seltóftunum sunnan undir húsgafli KFUMogK. Kaldá rennur þar um hraunið neðanvert. Sunnan hennar eru áklappaðir letursteinar. Sólin baðaði bakkana og vatnið lét sér við klakana.

Aukahola

Í Aukaholu.

Fylgt var Kúsastígnum að Kaldárhnúkum nyrst á Undirhlíðum og þeim síðan fylgt til suðurs að Kýrskarði um skógræktina til suðurs með vestanverðum hlíðunum. Gengið var upp skarðið og upp að Gvendarselshæð. Gvendarselshæðargígar sáust þar norðar, en haldið var ofan og framhjá einum syðsta gígnum og áfram upp að hinu svonefnda Gvendarseli. Þar eru tóftir selstöðu, en hvort hún hafi verið brúkuð til lengri eða skemmri tíma er erfitt að álykta með því eina að horfa á tóftirnar.
Gengið var niður dal milli Undirhlíða og Gvendarselsgíga og var stefnan tekin að rafmagnsmastri fremst á brún Undirhlíða, að vestanverðu. Þar fyrir neðan eru Kerin, falleg náttúrufyrirbæri, hluti af gígaröð. Hægt er að gagna niður í nyrðri gíginn og um gat upp í þann syðri. Hann er kjörinn áningastaður, enda skjólgóður með afbrigðum. Ofan við barma hans vex ein stærsta villta birkihrísla á Reykjanesskaganum, ca. 5-6 m há. Hið ágætasta útsýni var frá Kerunum suðvestur að Keili og Grænudyngju með Fjallið eina í forgunni. Stighækkandi sólin baðaði hæstu fjallakollana.

Stóri-Skógarhvammur

Stóri-Skógarhvammur framundan.

Undirhlíðastígnum var fylgt til suðurs, yfir Bláfjallalveg og inn að Stóra-Skógarhvammi. Þar hefur átt sér stað mikil gróðursetning trjáplatna s.l. 40 ár á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Guðmundur Þórarinsson, kennari, var m.a. einn frumkvöðla þessarar gróðursetningar og er lundurinn í raun lifandi minnisvarði um þann ágæta , annars hlédrægna, heiðursmann.
Undirhlíðar eru hluti af vestra gosbelti landsins, sem liggur eftir endilöngu Reykjanesi noður í Langjökul, oft kallað Reykjanesgosbeltið. Helstu einkenni þess eru móbergshryggir með hraunþekju inn ámilli. Móbergshryggirnir hafa sennilega myndast á síðasta jökulsskeiði, sem stóð yfir í um 100.000 ár og lauk fyrir um 10.000 árum. Þeir hafa myndast við gos undir jöklum, þars em gosefni ná ekki að renna sem hraun heldur hlaðast þau upp nálægt gosstöðvum sem móbergsfjöll eða móbergshryggir, allt eftir lengd gossprungu.

Aðalhola

Í Aðalholu.

Undirhlíðar er dæmigerður móbergshryggur. Á hlýskeiðum renna gosefnin aðallega sem hraun er mynda breiður í dali og lægðir á milli gosbergsmyndana. Harun,s em myndast hafa eftir síðustu ísöld kallast nútímahraun og eru Kapelluhraun (rann 1151) og Skúlatúnshraun dæmi um slík hraun. Skúlatúnshraun er svonefnt dyngjuhraun, en dyngjuhraun eru í raun stafli af mjög þunnum hraunlögum.
Undirhlíðar eru móbergshryggur með bólstrabergskjarna, sem myndast hefur á ísöld, en síðustu ísöld lauk fyrir u.þ.b. 10.000 árum.
Bólstraberg er stundum nefnt kubbaber eða bögglaberg eftir stærð bólstranna.

Gvendarselshæð

Gvendarsel í Gvendarselshæð.

Fornleifakönnun var gerð árið 1998 og Dalaleið, sem liggur ofan Undirhlíða (Gvendarselshæðar) var könnuð árið 2003. Á svæðinu fundust sex fornleifar á þremur stöðum. Þær eru Gvendarsel (sel frá Görðum, fjórar rústir), óþekktar rústir í gíg vestan við Báfjallaveg og Undirhlíðarvegur, gömul þjóðleið, sem lá til Krýsuvíkur. Undirhlíðavegur er þegar spilltur á kafla þar sem Bláfjallavegur fer yfir hann. Dalaleiðin var forn þjóðleið er lá til Krýsuvíkur.
Vestan við Stóra-Skógarhvamm er alllöng sprunga á misgengi. Um er að ræða eldri sprungu í nýrra hrauni. Óbrennisbrunahraunið hefur runnið niður í gömlu gjána og myndað falleg litbrigði sem og formað hinar ýmsustu hraunmyndanir.
Óbrinnishólar er röð gígaraða í hæð sem stendur upp úr hraunhafinu um 700 metra vestan við Undirhlíðar og tæpum 2 km sunnan við Kaldársel. Hólaröðin sjálf er um 900 metrar á lengd. Hæsti gígurinn er um 44 metra hár yfir næsta umhverfi og 124 metrar yfir sjó.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar eru nú nánast óþekkjanlegri frá fyrri tíð vegna gífulegrar efnistöku.

Óbrinnishólar tilheyra Krísuvíkureldstöðvakerfinu. Talið er að um tvö gos hafi verið að ræða sem sést af gróðurleifum sem fundust milli gosmyndanna. Um fyrra gosið í Óbrinnishólum er lítið vitað eða hvenær það gaus, en frá því eru a.m.k. 3 gígir og virðist gosið hafa verið á sama stað þá og í því síðara. Hraun frá þessu gosi er nú hulið yngri gosmyndun. Það er aðeins á einum stað sem fundist hefur hraun frá fyrra gosinu og var það í sjálfum gíghólnum. Þetta hraun er frábrugðið hinu hrauninu að það inniheldur verulega meira ólivín. Síðara gosið hófst fyrir 1800 árum og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum. Hæðin sem Óbrinnishólar eru á er að mestu úr bólstrabergi og grágrýti. Eftir endilangri hæðinni er um 50 metra breiður sigdalur. Að vestan takmarkast hann af 4-6 m háu misgengi. Rétt austan við sigdalinn rísa gígarnir og stefnir röðin eins og dalurinn. Óbrinnishólahraun er undir Kapelluhrauni við Straumsvík.

Óbrinnishólar

Í Óbrinnishólahelli.

Eftir að kíkt hafði verið niður í Aðalholu, lítt árennilega, var haldið yfir að Aukaholu skammt sunnar með sprungunni.
Sigið var á böndum niður í hana. Fallegar hraunmyndanir eru niður í sprungunni og enn bættu grýlukertin og klakaseparnir á gólfum um betur. Hellirinn í holunni er á tveimur hæðum. Birta kemur og niður um stórt op sunnan við það sem farið var niður um.
Gengið var til baka um Óbrinnishólabruna með stefnu á Kaldársel. Víða sáust refa- og rjúnaspor, auk þess fjölmargar rjúpur sásust á flugi með hlíðunum.

Kaldársel

Áletrun við Kaldársel.

Búrfell

Guðmundur Kjartansson skrifaði um „Hraunin kringum Hafnarfjörð“ í jólablað Þjóðviljans árið 1954:

Hafnarfjörður

Hraun ofan Hafnarfjarðar – uppdráttur GK.

„Ekki verður komist landveg til Hafnarfjarðar úr öðrum byggðarlögum án þess að fara yfir hraun, því að kvíslar úr hinu mikla hraunflæmi Reykjanesskagans ná út í sjó báðum megin fjarðarins. Auk þess stendur hálfur kaupstaðurinn (þ. e. fyrir norðan eða „vestan“ læk) í hrauni, en hinn hlutinn (fyrir sunnan læk) er hraunlaus. Hraunið í Vesturbænum er í meira lagi mishæðótt og setur einkennilegan og fáséðan svip á þennan bæjarhluta. Hraunhólar og drangar skaga jafnvel hærra upp en húsin; gömlu göturnar laga sig eftir landslaginu, brattar og krókóttar, en hinar nýrri, sem liggja beinna, eru ýmist hlaðnar Hátt upp yfir hraunbolla og gjár eða sprengdar djúpt niður í gegnum hraunkambana. Þarna í Vesturbænum, þar sem hraunið er hvað úfnast, er skrúðgarður Hafnfirðinga, Hellisgerði.

hellisgerði

Hellisgerði.

Að landslagi til, á sá skrúðgarður sér engan líka hér á landi. Þetta hraun, sem hluti Hafnarfjarðarbæjar stendur í, mun ég í þessu erindi kalla Hafnarfjarðarhraun til hægðarauka, því að það er ein heild, upp komið í einu gosi. En raunar heita ýmsir hlutar þess sérstökum nöfnum: Gálgahraun, Garðahraun, Vífilsstaðahraun, Svínahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Stekkjarhraun, Gráhelluhraun, Smyrlabúðarhraun o.fl.

Vífilsstaðahraun

Í Vífilsstaðahrauni.

Suðurbærinn í Hafnarfirði stendur í stórri eyju, sem hraun umkringja, og sunnan hennar (sunnan við Hvaleyri) tekur við mikil breiða af mörgum misgömlum hraunum, óslitin suður að Vogastapa. Hér verður aðeins getið þeirra tveggja af suðurhraununum, sem næst liggja Hafnarfirði. Þó að þetta greinarkorn eigi aðallega að fjalla um hraun, þá þykir mér hlýða að fara um það nokkrum orðum, hvernig umhorfs var hér í Firðinum, áður en hraunin urðu til. Ég ætla því að rekja í tímaröð helstu stórviðburði í sköpunarsögu Hafnarfjarðar frá ísöld.

Hvaleyrarhraun

Hvaleyrarhraun – loftmynd.

Röð viðburðanna má heita ljós, en því miður get ég ekki tímasett þá nema heldur ónákvæmt og skal ekki eyða mörgum orðum að því. Tímasetningin stendur þó til bóta við nánari rannsóknir.

Hamarinn

Markaðar klappir á Hamrinum.

Elsta bergmyndun Hafnarfjarðar, undirstaðan sem allt annað hvílir á, er grágrýti. Úr þeirri bergtegund er allt það, sem við myndum í daglegu tali kalla fasta klöpp, að undanskildum hraununum. Hamarinn, sem Flensborgarskóiinn stendur á, er úr grágrýti, ennfremur allar þær hæðir í grenndinni, sem hafa „holt“, „hlíð“, „brún, „hæð“ eða „alda“ að endingu í nafni sínu. Ásfjall er ein af rismestu grágrýtishæðunum. Víðast er grágrýtisklöppin hulin lausum jarðlögum, þ.e. ýmiss konar melum eða grónum jarðvegi, En hvar, sem til er grafið, kemur niður á klöppina fyrr eða síðar, og mjög víða liggur hún ber.

Ástjörn

Ástjörn og Ásfjall.

Hér verður ekki frá því sagt hvernig þetta öldótta grágrýtislandslag varð til, heldur hefjum við þar söguna, er það er að verða fullmyndað og hvert holt og hæð hefur fengið núverandi lögun sína í öllum stórum dráttum.

Búrfellshraun

Búrfellshraun – kort. Hraunið náði allt að Hraunum ofan Straumsvíkur (sjá Selhraun), en yngri hraun, s.s. Kapelluhraun, Óbrinnishólahraun, Skúlatúnshraun, Stóra-Bolla- og Tví-Bollahraun og Hraunhólshraun (Sandklofahraun) hafa þakið það að mestu leyti.

Einu hljótum við þó að veita athygli um uppruna þessa landslags: Sá, sem þar vann að síðastur hefur rist fangamark sitt skýrum stöfum í klappirnar. En það var jökulskjöldur sá, er lá yfir því nær öllu íslandi á síðasta jökulskeiði ísaldarinnar. Jöklar liggja ekki kyrrir, heldur mjakast undan hallanum og sópa með sér lausagrjóti og lausum jarðlögum; sem verða á vegi þeirra.

Hamarinn

Hamarinn – hvalbök.

Grjótið frýs fast í botnlagi jökulíssins og dragnast með. Með því grópar og rispar jökullinn klöppina líkt og skörðótt hefiltönn. Frostið sprengir nýtt lausagrjót upp úr botnsklöppinni, svo að það gengur meira til þurrðar. Flestar grágrýtisklappir í grennd við Hafnarfjörð eru skýrt rispaðar með þessu móti og rispurnar stefna allar h.u.b. frá SA til NV. Hreyfing jökulsins hefur verið undan hallanum, ofan af Reykjanesfjallgarði út í Faxaflóa. Einkar skýrar og fallegar jökulrispur eru uppi á Hamrinum fast norðan við Flensborgarskóla. Jökullinn hefur mætt fast á þessum grágrýtishnjót á botni sínum og fastast á þeim klöppum, sem hallar til suðausturs gegnt skriðstefnu hans; þar eru rispurnar dýpstar og allar brúnir ávalaðar og máðar.

Hamarinn

Hamarinn – upplýsingaskilti.

Um margar þúsundir ára svarf ísaldarjökull ofan af grágrýtisspildunni, sem þá mun hafa náð óslitin um allt það svæði, sem nú er sunnanverður Faxaflói og sveitir og heiðar upp frá honum allt til Þingvallavatns.
Í ísaldarlokin, sennilega fyrir fullum 10 þúsundum ára, bráðnaði þessi jökull fyrir batnandi loftslagi. En klappirnar bera æ síðan þær minjar hans, sem þegar er getið, og annars staðar eru þær þaktar jökulruðningi, þ.e. leir og grjóti, sem jökullinn ýtti með sér og lá eftir, er hann bráðnaði. Um þessar mundir leysti ísaldarjökla víða um heim, og við það hækkaði í öllum höfum. Fyrir þá hækkun var sennilega mikið af botni Faxaflóa ofan sjávar. Sjórinn hækkaði meir en upp að núverandi sjávarmáli. Mun hann hafa náð mestri hæð skömmu eftir að jökulinn leysti hér í grennd.

Hafnarfjörður

Ásfjall – útsýni yfir Hafnarfjörð.

Enn má glögglega sjá hér á holtunum við Hafnarfjörð og Reykjavík, hvar sjávarborðið hefur legið, er það var hæst. Þau merki köllum við efstu sjávarmörk. Þau liggja í 33 metra hæð yfir núverandi sjávarmál á Hvaleyrarholti sunnan við Hafnarfjörð, en um 10 m hærra á Öskjuhlíð í Reykjavík. Austur í Ölfusi er hæð efstu sjávarmarka um 60 m, uppi í Borgarfirði 80—100 m og Austur í Hreppum allt að 110 m.
Reykjaneseldar
Þessi mismunur stafar vitaskuld ekki af því, að sjávarfletinum hafi hallað, er hann lá sem hæst; heldur af því að þessir staðir hafa lyftst mismikið síðan. En ástæðan til þess, að sjórinn fjaraði aftur af undirlendinu, er sú, að landið tók að lyftast, er jökulfarginu létti af því. Áður hafði jökullinn sveigt það niður.

Fuglastapaþúfa

Fuglastapaþúfa.

En landið lyftist afar hægt, og því vann sjórinn á í bili og flæddi inn yfir láglendið, er hann hækkaði í ísaldarlokin, Markalínari efstu sjávarmörk kemur einna gleggst fram í því, að neðan hennar er stórgrýtið, sem jöklinum lá þar eftir, orðið að lábörðum hnullungum af að velkjast í brimi; en ofan línunnar verður þetta grjót snögglega með flötum hliðum og lítt slævðum brúnum, eins og jökullinn skildi við það. Þá hafa hnullungarnir einnig víða kastast upp í kamba, sem marka hæstu sjávarstöðuna einkar glöggt og eru í engu frábrugðnir nýmynduðum sjávarkömbum, nema hvað mold og þurrlendisgróður er nú kominn á milli steinanna.

Hrafna-Flóki

Minnisvarða um Hrafna-Flóka á Hvaleyrarholti.

Yzt á holtunum, “ þar sem brimasamast hefur verið, hafa sjóirnir sums staðar klappað bergstáli í þau. Efstu sjávarmörk eru einkar glögg hringinn í kringum Hvaleyrarholt, nema áð austan, þar sem mjótt eiði hefur tengt það við meginlandið. Frá Hvaleyrarholti má rekja þessa fornu fjöru í sömu hæð neðan við túnið á Jófríðarstöðum umhverfis hamarinn hjá Flensborg (sem aftur er fornt sjávarberg) og inn í Lækjarbotna. Þaðan heldur hún áfram, glögg malar- og hnullungafjara, en að vísu grasi gróin, laust neðan við Setbergsbæinn og um hlaðið á Þórsbergi. Loks hverfa þessi efstu sjávarmörk undir Hafnarfjarðarhraun, sem rann löngu eftir að sjórinn fjaraði frá þeim.

Rauðhóll

Rauðhóll – uppdráttur GK.

Fast sunnan undir Hvaleyrarholti stóð til skamms tíma lítill hóll að mestu úr rauðu hraungjalli og með grunna gígskál í kolli. Hann hét Rauðhóll. Nú er lítið eftir af Rauðhól. Í hans stað er komin stór malargryfja. Um 1940 var farið að taka þarna mikið af rauðamöl í vegi og fleira. Nú er hún upp urin að kalla, svo að undirlag hennar, sem er harðla fróðlegt, kemur í ljós. Eftir stendur þó stabbi í miðju, og sér enn fyrir botni gígskálarinnar uppi á honum. Þessi stabbi, sem er sjálfur hrauntappinn í gígnum, reyndist of fastur fyrir, er rauðamölinni var mokað á bíla, og því var honum leift.

Hraunhóll

Hraunhóll – námuvinnsla og sóðaskapur undir Vatnsskarði.

Rauðhóll er mjög lítið eldvarp. Þar hefur aðeins kornið upp eitt smágos, sem virðist ekki hafa afrekað annað en hrúga upp þessum gíghól. Ekki er að sjá, að neitt hraun hafi runnið frá honum. En því get ég Rauðhóls hér, að hann hefur að geyma furðu merkilegar og auðlesnar jarðsöguheimildir. Þær komu ekki í ljós fyrr en hann var allur grafinn sundur. Þessar heimildir eru vitaskuld jarðlög, og við lestur þeirra ber að byrja á neðstu línunni og lesa upp eftir. Þessi lög hafa eflaust myndast víðar, en máðst burt aftur, þar sem þau lágu ber en Rauðhóll hefur hreint og beint innsiglað þau og varðveitt með því að hrúgast ofan á þau og liggja þar eins og ormur á gulli.
Dýpst í malargryfjunni liggur einkennilegt leirlag allt að hálfum metra á þykkt. Þetta er svokölluð barnamold. Hún er mjúk og þjál og ljós-gulbrún að lit meðan hún er vot, en verður stökkari viðkomu og snjóhvít við þurrk. Ef barnamoldin er látin undir smásjá, kemur í ljós, að hún er því nær eingöngu úr örsmáum skeljum og skeljabrotum, af lífverum þeim, er nefnast kísilþörungar (eða eskilagnir eða díatómeur).

Rauðhóll

Rauðhóll 2020.

Þetta eru örsmáar svifverur, sem lifa víða í mikilli mergð í vatni, og teljast til jurtaríkisins, þó að margar þeirra syndi knálega um í vatninu. Þegar jurtirnar deyja, rotna þær upp, en skeljarnar falla til botns og mynda eðju eins og þá, sem hér var lýst. Danskur sérfræðingur hefur rannsakað fyrir mig lítið sýnishorn af barnamoldinni undan Rauðhól og fann í henni 117 tegundir kísilþörunga. Sú tegundagreining leiddi í ljós, að barnamoldin hefur sest til í ósöltu vatni, a.m.k. að mestu leyti. Af þessu er sýnt, að þarna hefur verið tjörn, oftast eða alltaf með ósöltu vatni, löngu áður en Rauðhóll varð til. Enn fremur sannar barnamoldin, að sjávarflóðið mikla í ísaldarlokin hefur þá verið að mestu fjarað, eða a. m. k. niður fyrir 10 m hæð yfir núv. sjávarmál, því að í þeirri hæð liggur hún.

Rauðamöl

Rauðamöl í Rauðhól.

Yfir barnamoldinni í Rauðhólsgryfjunni liggur fínn ægissandur morandi af skeljum og skeljabrotum. Skeljarnar eru allar af sjódýrum. Ég hef getað greint tíu tegundir af þeim örugglega, og eru allar þær tegundir enn algengar lifandi á sams konar sandbotni hér í Faxaflóa. Þetta lag sýnir, að sjórinn hefur hækkað aftur í bili og flætt inn yfir landið, þar sem tjörnin var áður.

Hraunhóll

Hraunhóll undir Vatnsskarði.

Enn fremur sýna dýrategundirnar, sem eru frekar kulvísar, að þetta hið síðara sjávarflóð var ekki öllu kaldara en Faxaflói er nú, og hefur því ekki getað átt sér stað fyrr en alllöngu eftir ísaldarlokin, er sjórinn var fullhlýnaður. Yfir þessum ægissandi liggur ennfremur þunnt lag af fínni, brúnni sandhellu, sem er miklu fastari í sér og hefur engar skeljar að geyma. Þykir mér sennilegt, að það sé fokmyndun, til orðin á þurrlendi, eftir að síðara sjávarflóðið fjaraði. Ekki hef ég fundið neinar gróðurleifar í þessu lagi, en það sannar engan veginn, að landið hafi verið ógróið. Ofan á þessu móhellulagi stendur loks Rauðhóll sjálfur. Hann hefur hrúgast þarna upp í litlu eldgosi, eins og fyrr segir, ofan sjávar, en. ef til vill nærri sjávarströndu. Rauðhóll er elsta gosmyndun í grennd við Hafnarfjörð — að undanskildu grágrýtinu, sem að vísu er hraun að uppruna, en runnið löngu fyrir ísaldarlok,; enda ekki kallað hraun í daglegu tali.

Rauðhóll

Rauðhóll – uppdráttur GK.

Nokkur rauðamöl er enn eftir í Rauðhól, en ekki auðvelt að ná henni. Það ber til, að hraunflóð eitt mikið hefur runnið kringum hólinn og ekki aðeins upp að honum, heldur yfir hin ystu börð hans, sem einnig eru úr Rauðamöl. Aðeins háhóllinn, sem stóð upp úr hrauninu, er burt grafinn. Hraunið kringum Rauðhól nefnist nú Hvaleyrarhraun. Það hefur runnið út í sjó sunnan við Hvaleyrarholt og komið að suðaustan, en verður ekki rakið lengra í átt til upptaka en að Stórhöfða. Þar hverfur það undir miklu yngra hraun, Brunann, sem síðar verður getið. í börmum malargryfjunnar í Rauðhól liggur Hvaleyrarhraunið víðast milliliðalaust á rauðamölinni. Það þótti mér lengi benda til, að aldursmunur væri lítill, jafnvel enginn, á hólnum og hrauninu.

Rauðamöl

Rauðamöl.

En þegar gryfjan stækkaði, kom reyndar í ljós á litlum kafla í nýja stálinu örþunnt moldarlag og þar yfir svart öskulag, hvort tveggja á milli rauðamalarinnar og hraunsins. Í öskunni fundust kolaðir lyngstönglar. Þetta þunna millilag með jurtaleifum sínum sannar ótvírætt, að þarna hefur þó verið komin lyngtó með þunnum moldarjarðvegi neðarlega í austurbrekku Rauðhóls, áður en Hvaleyrarhraun rann þar yfir. Askan er sennilega úr sama gosi og hraunið, sem yfir henni liggur.

Hellnahraun

Eldra-Hellnahraun (svart), Yngra-Hellnahraun (grátt), Óbrinnihólabruni (ljósgrár) og Kapelluhraun (blátt). Fært inn á nútíma loftmynd.

Hvaleyrarhraun er einna fomlegast hrauna í grennd við Hafnarfjörð, og má vel vera, að það sé elst þeirra allra. En það er helst ellimarka á því, að sjórinn hefur klappað í það nokkurra mannhæða háan bergstall um núverandi sjávarmál, þar sem nú heita Gjögrin sunnan við Hvaleyrarsand.
Ég hef áður getið að nokkru Hafnarfjarðarhrauns, þ.e. hraunsins sem nær út í Hafnarfjörð norðanverðan og kaupstaðurinn stendur að nokkru leyti í. Þetta hraun er auðvelt að rekja til upptaka. Það hefur komið upp í Búrfelli eða Búrfellsgíg skammt norðaustur frá Kaldárseli. Þaðan hafa runnið hraun eitthvað til suðurs og suðvesturs, en þau hverfra skammt frá upptökum undir yngri hraun, og verður eigi vitað, hvert þau hafa komist.

Garðahraun

Í Garðahrauni.

En langveigamesti hraunstraumurinn er Hafnarfjarðarhraun, sem teygist til norðvesturs og nær niður í sjó báðum megin við Álftanes, annars vegar að Lambhúsatjörn, sem er vogur inn úr Skerjafirði, er vogur inn úr Skerjafirði, hins vegar í Hafnarfjörð. Þetta er 12 kílómetra vegur mælt eftir miðjum hraunstraumnum. Minni kvísl úr þessum hraunstraumi hefur runnið sunnan við Setbergshlíð og breiðst þar yfir, sem nú heitir Gráhelluhraun; þaðan hefur hún runnið í mjóum taumi áfram ofan lækjargil og komið saman við meginhraunið aftur niðri á Hörðuvöllum.

Búrfell

Gígur Búrfells.

Í Búrfelli er stór og djúpur gígur, en það er lítið einstakt eldfjall, aðeins 179 m yfir sjó og fáir tugir metra frá rótum. Sennilegast þykir mér, að þar hafi gosið aðeins einu sinni og öll hraunin, sem þaðan hafa runnið, séu því jafngömul, en ekki er þetta óyggjandi, þó að ég ætli nú að gera ráð fyrir því. Hitt er fullvíst, að það sem hér er kallað Hafnarfjarðarhraun, hefur runnið allt í einu lagi.
Reynum nú að gera okkur í hugarlund, hvernig það land leit út, sem Hafnarfjarðarhraun breiddist yfir. Vitaskuld renna hraunflóð æfinlega undan halla og ekki skáhallt, heldur í þá átt sem hallinn er mestur. Það má því t. d. gera ráð fyrir, að hraun, sem lent hefur í árfarvegi, yfirgefi hann ekki úr því, heldur fylgi honum svo langt sem magn þess endist til.

Maríuhellar

Í Maríuhellum.

Nú liggur meginstraumur Hafnarfjarðarhrauns — sá sem lengstan veg hefur runnið frá upptökum — norðvestur á milli Setbergshlíðar og Vífilstaðahlíðar. Þá er varla heldur að efa, að vatn, sem komið hefði upp á sama stað og hraunið, hefði einnig runnið sömu leið.

Kaldá

Kaldárbotnar.

Með þetta í huga er fróðlegt að athuga hinar miklu vatnsuppsprettur skammt frá Búrfelli, þar sem heita Kaldárbotnar. Þar eru upptök Kaldár, eins og nafnið bendir til, og þar er enn fremur hið nýja vatnsból Hafnfirðinga. Kaldá er ólík flestum ám í því, að hún er vatnsmest í upptökunum, en minnkar stöðugt á leið sinni. Hún kemst ekki nema röskan kílómetra frá upptökunum; þá er hún öll sigin í jörð Þessa skömmu leið rennur hún eftir hrauni, sem er ættað úr Búrfelli og virðist helst jafngamalt Hafnarfjarðarhrauni eða með öðrum orðum hluti af því. En einnig í miðri höfuðkvísl Hafnarfjarðarhrauns, hjá Gjáarrétt norðvestur frá Búrfelli, sér í vatn niðri í djúpum gjám, og í því vatni er mjög greinilegur straumur til suðvesturs.

Kaldá

Kaldá – farvegur árinnar fyrrum, áður en Búrfellshraunin runnu.

Áður en Hafnarfjarðarhraun rann, hlýtur allt þetta vatn, sem nú rennur um upptakasvæði þess — bæði ofanjarðar (í Kaldá) og neðanjarðar (í gjám) — að hafa runnið ofanjarðar — sem vatnafall — þá leið, sem hraunið rann síðan. Við getum kallað þetta vatnsfall „Fornu-Kaldá“.  Að líkindum hefur hún verið drjúgum meira vatn en sú Kaldá, sem við þekkjum nú, því að botn hinnar fornu Kaldár lak ekki frá vatninu. Hún rann eftir hraunlausum dal undir Vífilstaðahlíð norður að Vífilsstaðatúni. En hvar rann hún í sjóinn? Hraunið gefur okkur einnig ákveðna bendingu um það: Meginhluti þess féll út í Hafnarfjörð. Og þar sem hraunið er þykkast, þar liggur árfarvegurinn enn undir því.

Kaldá

Kaldá.

Forna-Kaldá hlýtur að hafa runnið í Hafnarfjörð. En þá var fjörðurinn lengri en nú, ekki af því að sjórinn stæði hærra — hann var lækkaður niður að núverandi sjávarmáli, áður en hraunið, rann — heldur styttist fjörðurinn við það, að hraunið fyllti upp í innstu voga hans. Ekki verður vitað með vissu, hvar fjörðurinn endaði. Ef til vill hefur hann náð langleiðina upp að Vífilsstöðum, ef til vill skemmra. Vitaskuld mætti kanna þetta með því að bora gegnum hraunið og finna hvar undirlag þess kemst upp fyrir sjávarmál. Að sjálfsögðu hefur innsti hluti fjarðarins verið grunnur. Hann hefur smám saman verið að fyllast af framburði Fornu-Kaldár. Trúlegt er, að þar hafi verið leirur og mikið útfiri, og ef til vill voru grösugir óshólmar milli árkvíslanna. En nú er þetta allt innsiglað af hrauninu, nema sá leirinn, sem lengst barst út eftir firðinum. Hann stendur út undan hraunbrúninni og þekur þar fjarðarbotninn í þykku lagi. Það leirlag hefur reynst heldur ótraust undirstaða undir hina nýju hafnargarða. Þeir hafa hvað eftir annað sigið og sprungið.

Búrfell

Búrfell.

Af því, sem ég hef nú sagt frá Búrfelli og Hafnarfjarðarhrauni, mætti ætla, að Hafnarfjarðarbæ stafaði nokkur hætta af eldgosum og hraunflóðum: Þá leið, sem hraun hefur áður runnið, gæti hraun runnið aftur! En þessi hætta er miklu minni en ég hef til þessa gefið í skyn: Búrfell, þar sem hraunið kom upp, og stór landspilda hið næsta því öllum megin hefur sigið, eftir að hraunið rann. Hin signa spilda hefur brotnað sundur í rima milli sprungna, sem stefna allar frá norðaustri til suðvesturs. Barmarnir hafa sigið mismikið, svo að stallur er um sumar sprungurnar, eystri barmurinn þá jafnan lægri en hinn vestri, rétt eins og á Almannagjá. Sums staðar eru sprungurnar gínandi gjár, en annars staðar saman klemmdar og koma aðeins fram sem bergveggur. Einn slíkur sigstallur brýtur Hafnarfjarðarhraun um þvert við suðurenda Vífilsstaðahlíðar. Sá er 5—10 m hár og myndi einn sér veita verulegt viðnám nýju hraunflóði. En raunar er sigið meira en nemur hæð þessa stalls.

Búrfell

Misgengi í Helgadal – uppdráttur GK.

Önnur misgengissprunga liggur vestan við Helgadal, sem er sigdalur, og sú klýfur sjálft Búrfell í miðju. Misgengið veldur því, að eystri gígbarmurinn er nú lægri en hinn vestri. En þetta var öfugt, meðan Hafnarfjarðarhraun var að flæða upp úr gígnum. Það rann vestur úr honum, og eru þar mjög fagrar og lærdómsríkar hrauntraðir eftir rennsli þess. Þær nefnast Búrfellsgjá (þótt þær séu raunar engin gjá í venjulegri merkingu) og eru óslitnar um nokkurra kílómmetra veg vestur og norður frá fjallinu. Hraun, sem nú flæddi upp úr Búrfellsgíg, tæki ekki þessa stefnu, heldur rynni austur eða suður af.

Kaldá

Farvegir Kaldár.

Hrakningasögu Kaldár lýkur ekki með uppkomu Hafnarfjarðarhrauns. Það lokaði leið hennar til Hafnarfjarðar, eins og þegar er getið. En það er engan veginn óhugsandi, að hún hafi samt um þúsundir ára eftir allar þær ófarir komist ofanjarðar alla leið til sjávar — og þá fyrir sunnan Hafnarfjörð, litlu innar á ströndinni en þar, sem Straumsbæirnir eru nú. En hvort sem hún hefur nú komist til sjávar eða ekki, þá er fullvíst, að hún hefur um langt skeið náð miklu lengra áleiðis en nú.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar eru nú nánast óþekkjanlegri frá fyrri tíð vegna gífulegrar efnistöku.

Þá kemur enn upp eldgos, hið síðasta, sem orðið hefur í nágrenni Hafnarfjarðar. Að þessu sinni gaus úr sprungu, sem nú markast af gígaröð með fram Undirhlíðum, langleiðina frá Vatnsskarði til Kaldárbotna. Í syðsta og stærsta gíghólnum skammt frá Krýsuvíkurveginum eru nú stórar malargryfjur. Frá þessari sprungu rann hraun það, sem nú er kallað Bruninn í heild, en efri hlutinn Óbrinnishólabruni og fremsta totan, sem komst alla leið niður í sjó, Kapelluhraun.

Kapelluhraun

Kapelluhraun og nágrenni – fornar leiðir og örnefni.

Þetta hraun nær alla leið norður að Kaldá og hefur bersýnilega ýtt henni eitthvað norður á bóginn. Hún fylgir nú jaðri þess ofan á Búrfells- (eða Hafnarfjarðar-) hrauninu, sem fyrr getur. Vatnið úr Kaldá virðist allt hverfa inn undir þennan hraunjaðar. Ekki er nú annað sennilegra en hinn forni farvegur Kaldár liggi undir Brunanum þar, sem hann er þykkastur, og áfram í átt til sjávar undir hinni tiltölulega mjóu álmu Brunans, sem endar í Kapelluhrauni.

Smyrlabúð

Smyrlabúð – misgengi; uppdráttur GK.

Bruninn (að meðtöldu Kapelluhrauni) er unglegastur að sjá og vafalaust einnig yngstur allra hrauna, sem runnið hafa út í Faxaflóa sunnanverðan. Hann breiddist yfir allan suður- og vesturhluta Hvaleyrarhraunsins, sem fyrr var getið, og féll út í sjó fram af lágu sjávarbergi vestan við Gjögrin og myndaði þar dálítinn tanga út í sjóinn. Ekki hefur sjórinn enn brotið þann tanga að neinu ráði. Í Kjalnesinga sögu er getið hrauns, sem þar er kallað Nýjahraun, og er þar varla öðru til að dreifa en Brunanum. Og í máldaga, sem talinn er vera frá miðri 15. öld, er nafnið Nýjahraun haft alveg ótvírætt um það, sem nú heitir þykir nafnið Nýjahraun (sem nú hefur fyrnst) benda eindregið til, að menn hafi verið sjónarvottar að myndun hraunsins, það hafi ekki runnið fyrr en á landnámsöld eða söguöld. Að vísu hefur engin frásögn um það eldgos varðveist til þessa dags.

Bollar

Tvíbollar.

En annálariturum hefur löngum þótt annað merkilegra til frásagnar en náttúruviðburðir, og þögn þeirra sannar ekkert. Enda er fullvíst, að fleiri eldgos hafa orðið á Reykjanesskaga, löngu eftir að land byggðist, án þess að þeirra sé nokkurs staðar getið í annálum. Hér hlýt ég að enda þetta gloppótta söguágrip, þar sem aðeins stórviðburða er getið, því að síðan Kapelluhraun rann í sjó fram á fyrstu öldum Íslands byggðar, hafa engin þau tíðindi orðið í nágrenni Hafnarfjarðar, er sambærileg séu að mikilfengleika þeim sem nú var sagt frá.“

Heimild:
-Guðmundur Kjartansson, Hraunin kringum Hafnarfjörð. Þjóðviljinn 24. 12. 1954, jólablað, bls. 10-12.
-Náttúrufræðingurinn 19. árg. 1. hefti 1949, Guðmundur Kjartansson, Rauðhóll, bls. 9.-19.

Mygludalir

Búrfell – Kringlóttagjá nær.

Kaldársel

Hér verður drepið niður í skrif Ólafs Þorvaldssonar um „Sögu Kaldársels„. Þau birtust í bók hans „Áður en fífan fýkur„, sem gefin var út af Skuggsjá 1968:

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson.

„Á þeim tíma, sem menn ferðuðust um landið á hinum frumstæðu farartækjum, svo sem eigin fótum eða á hestum, bar allvíða fyrir augu þeirra sitthvað, sem minnti þá á, að þar hefði einhvern tíma fólk hafst við eða haft nokkurn umgang lengur eða skemur. Víða gat að líta rústir og tóttabrot, misstæðileg eftir aldri og efni þeirra. Sums staðar var þyrping húsatótta, sem bentu til þess, að þar hefði bær verið, og oft mátti rekja húsaskipan greinilega. Allt voru þetta þegjandi vitni þess, að þar hefðu endur fyrir löngu menn að verki verið, sem byggðu úr íslensku efni að mestu.

Eftir framanskráðar hugleiðingar um hin fornu eyðibýli skal nú vikið að einu þeirra. Þetta býli er Kaldársel. Staður þessi hefur nokkuð komið við sögu síðustu áratugina, einkum Hafnarfjarðar.

Áður en fífan fýkur

Kápa bókarinnar „Áður en fífan fýkur“.

Ég held því, að ekki sé úr vegi að tína hér nokkuð til af því, sem vitað er um þennan stað áður en hinn nýi tími hélt þar innreið sína. Mun spora þess tíma getið síðar, og þá í þeirri tímaröð, sem þau hafa verið stigin.

Býli þetta á sér ekki langa sögu sem fastur bústaður, og ekki er saga þess á nokkurn hátt frábrugðin sögu svipaðra smábýla á þeim tíma, – en sögu á þetta býli samt – „sigurljóð og raunabögu“. En að Kaldársel eigi sér nokkra sögu, áður en nýi tíminn nemur þar land, mun ekki almenningi kunnugt, og fækkar nú óðum þeim, sem nokkuð vita þar um, umfram það sárafá, sem fært er í letur, þó á víð og dreif, ýmist prentað eða óprentað.

Kaldársel liggur í 6-7 km fjarlægð suðaustur frá Hafnarfirði. Staðurinn dregur nafn af lítilli á, sem rennur fast sunnan við hið forna tún. Bærinn stóð sem næst á miðjum túnbletti, örfá metra frá Kaldá.

Kaldársel

Kaldársel.

Áin rennur á mótum tveggja hrauna, hefur annað komið frá suðri, hitt úr Búrfelli, norðaustur af Kaldárseli. Það þarf ekki lengi að virða fyrir sér þessi hraun til að sjá, að ekki hafa þau úr sama eldgígnum komið, svo ólík er þau að flestu, hraunið sunnan Kaldár tilbreytingarlítið og snautt af gróðri, nema grámosa, allt til Óbrennishóla en kringum Kaldársel með margs konar gróðri. Gjár eru þar með vatni í botni og hraunmyndanir eru þar margvíslegar, og mætti helst líkja þeim við suma staði við Mývatn.

Kaldársel

Kaldársel – Gamla þjóðleiðin.

Árið 1929 kom út í Reykjavík lítil bók með þremur kvæðum eftir Friðrik Friðriksson. Hver þetta nefnist „Útilegumenn“ og heitir aðalkvæðið „Kaldársel„. Fyrsta erindið er svona:

Eitt sinn ég kom
að Kaldárseli,
eyðistað
í ógna hrauni, gömlu býli
og bæjarrústum:
Einmana tóttir eftir stóðu.

Næsta erindi var svona:

Reikaði ég einn
um rústir þessar, ríkti þar yfir
ró og friður,
unaðskyrrð djúp
við elfu niðinn
svölun gaf sál
og sæla gleði.

Selstöð í Kaldárseli

Kaldársel

Kaldársel – túnakort 1903.

Elstu heimild, sem ég hef séð um Kaldársel, er að finna í Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Þar segir í III. bindi, bls. 180, í sambandi við Garða á Álftanesi: „Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott“. Þetta telur Jarðabókin ein af hlunnindum Garðastaðar, án kvaða eða afgjalds, og því augljóst, að staðurinn hefur átt landið, og hefur sjálfsagt sá eignarréttur verið ævaforn, og eflaust hefur þar engin breyting á orðið, þar til Hafnarfjarðabær kaupir árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi, og er Kaldársel í þeim keypta hluta.

Þótt Kaldársel hafi um aldir verið eign Garðakirkju ásamt miklu landflæmi til suðurs, austurs og norðurs frá Kaldárseli, er með öllu óvíst, hvort Garðaprestar hafi nokkru sinni haft þangað selfarir. Þó er það engan veginn óhugsandi. Hitt er vitað, að þar var haft í seli frá Hvaleyri á síðasta fjórðungi síðustu aldar, sem leiguselstöð hlýtur það að hafa verið, þar að elstu landamerki, sem vitað er um, liggja í að minnsta kosti eins km vegalengd vestur frá Kaldárseli. Meðan selfarir voru mikið tíðkaðar, urðu landlitlir bændur oft að leigja land undir sel sín hjá landríkum bændum, svo að einsdæmi hefði það ekki verið, þótt Hvaleyrarbóndinn leigði selstöð í Garðakirkjulandi.

Kaldársel

Húsin í Kaldárseli – Daniel Bruun.

Hvenær þessi selstöð hafi fyrst verið notuð frá Hvaleyri, er með öllu óljóst. Þegar litið er á bændatal Hvaleyrar um árið 1700 og það ástand, sem var þar í búskap mann, þegar jarðamat fór fram, 1703, sést, að bændur þar hafa allir búið við sátt, og varla er hugsanlegt, að selfarir hafi haft og síst svo langt burtu sem í Kaldárseli, þar eð allgott selland og nóg vatn var fullkomlega helmingi nær Hvaleyri og auk þess í heimalandi, þar sem var selstöðin við Hvaleyrarvatn. – Í fyrrnefndri Jarðabók frá 1703 segir, að Hvaleyri eigi selstöð, þar sem heitir Hvaleyrarsel, og séu þar sæmilegir hagar og gott vatnsból. Vitað er, hvar þessi selstöð hefur verið, hennar sjást glöggar minjar enn í svonefndum Selhöfða suður af Hvaleyrarvatni; þar nálægt er einnig Seldalur og Selhraun.

Kaldársel

Kaldársel – uppdrættir og ljósmyndir Daniel Bruun.

Það eina, sem nú er vitað með vissu um selfarir í Kaldárseli, er að hjónin Jón Hjartarson (Hjörtsson var hann oftast nefndur) og Þórunn Sigurðardóttir höfðu þar í seli. Jón Hjartarson keypti Hvaleyrina ásamt öllum hjáleigum, sem voru sex, árið 1842. Jón mun vera ríkasti bóndi, sem nokkru sinni hefur setið á Hvaleyri. Þórunn, kona hans, var kvenkostur góður og skörungur mikill, og var hennar meir getið til allra búsforráða heldur en manns hennar, sem þó var hinn mætasti maður. Jón dó árið 1866. Bjó Þórunn eftir það á Hvaleyri til 1873, að einu ári undanteknu, en var þar þó það ár. Þórunn dó 1880.

Kaldárssel

Kaldárssel – ljósm: Daniel Bruun 1897.

Góðar heimildir tel ég mig hafa fyrir búskap þessara Hvaleyrishjóna, eftir að þau komu þangað. Foreldrar mínir þekktu þau allvel, einkum þó Þórunni, þar eð hún lifði mann sinn í fjórtán ár.

Þegar Þórunn dvaldist í „Selinu“ á sumrin, sem var þó ekki nema við og við, fór hún stundum með orf sitt og hrífu upp með Kaldá og sló þar í hólmum, þar sem slægt var, einnig smámýrarbletti milli kvíslanna í Kaldárbotnum. Hvert skipti sem hún gekk heim í „Selið“, bar hún með sér það, sem hún kom í svuntu sína af heyinu. Þessi sjaldgæfa vinnuaðferð Þórunnar lýsir hyggindum hennar og nýtni vinnuaflsins, svo sem verst mátti verða, og var talið einsdæmi, jafnvel þá.

Kaldárstígur

Kaldársel – Kúastígur.

Þegar Þórunn á Hvaleyri hætti selförum að Kaldárseli, lagðist selstöð þar niður með öllu, og má ætla, eftir því sem síðar kemur fram, að það hafi verið 1865 eða 1866.

Eftir því sem best verður vitað, hafa selfarir Þórunnar á Hvaleyri verið þær síðustu í Garðahreppi og líklega á öllum Reykjanesskaganum.

Kaldársel verður fastur bústaður

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellar.

Í Húsvitjunarbók Garðaprestakalls sést, að ábúandi er kominn í Kaldársel árið 1867, og er svo að sjá sem það sé fyrsta árið, sem fólk sé þar til ársdvalar. Þessi ábúandi var Jón Jónsson, kona hans og tvö börn, eftir því sem fyrrnefnd húsvitjunarbók ber eðs ér. Þessa fólks er ekki aftur getið í Kaldárseli, þó mun Jón hafa verið þar tvö eða þrjú ár, þó varla nema tvö, eftir því sem sonur Jóns, Sigurjón, hefur sagt mér, en hann lifir enn.

Fátæk voru hjón þessi og bústofn þeirra mjög lítill. Óhægur var þeim búskapurinn og sáu þau brátt, að í Kaldárseli var þeim engin framtíð búin. Þau voru einyrkjar og höfðu engin tök á hjúahaldi sökum fátæktar, en unglingsstelpa var þeim lánuð við og við, húsfreyju til hjálpar, einkum þegar bóndi fór að heiman til matfanga. Þessi hjálparstelpa var Sigríður Jónsdóttir frá Setbergi, móðir Árna Helgasonar ræðismanns í Chicago. Efir hina skömmu dvöl Jóns í Kaldárseli fluttist hann að Ási í Garðahreppi í byggingu Vigfúsar Vigfússonar og Úlfhildar.

Við burtför Jóns frá Kaldárseli lagðist þar búskapur niður um nokkur ár.

Þorsteinn í Selinu

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Standinum; ljósmynd Daniels Bruun.

Árið 1876 er manntal tekið í Kaldárseli, og er það sennilega fyrsta árið, sem það er í byggð eftir burtför áðurnefnds Jóns. Sá, sem þá er orðinn ábúandi Kaldársels, er Þorsteinn Þorsteinsson, upprunninn í Ölfusi. þetta ár telur húsvitjunarbók þar þrjár manneskjur í heimili, bóndann, ráðskonu og tökubarn. Árið eftir, 1877, eru þar fjórir í heimili, og hefur þá bæst við vinnukona.

Svo er að sjá, að manntal hafi ekki verið tekið í Kaldárseli frá 1877 fram til 1881. Það er þó vitað, að Þorsteinn var þar þau ár. Árin 1881 og 1882 eru fimm og sex manns í heimili hvort árið, þar á meðal vinnumaður og vinnukona, auk barns, sem er talið sveitarómagi, og vikadrengs. Árið 1883 virðist allmikil breyting hafa orðið á fólkshaldi Þorsteins, því að þá er hann orðinn einn í Kaldárseli.

Kaldársel

Teikning Daniel Bruun af Borgarstandi í Kaldárseli. Fjárborg efst og stekkur og fjárskjól undir að vestanverðu.

Sama er að segja um árið 1884. Árið eftir hefur nokkuð úr þessu raknað. Þá fer til Þorsteins stúlka úr Hafnarfirði, Sigríður Bjarnadóttir, og er hún hjá honum þegar hann deyr í Kaldárseli 14. júlí 1886, þá 67 ára. Þar með lauk búsetu í Kaldárseli.

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.

Báðir hafa þessir fyrrnefndu búendur Kaldársels setið í byggingu Þórarins prófasts Böðvarssonar að Görðum á Álftanesi, þar eð hann hafði öll umráð yfir landi Garðakirkju, en í því lá Kaldársel, eins og fyrr er getið. Ekki hefur mér tekist að hafa upp á byggingarbréfum eða öðrum skriflegum leiguskilmálum, hafi þeir nokkrir verið. Í manntalinu 1867 er Jón, sem áður er nefndur, talinn þurrabúðarmaður, en Þorsteinn er aftur á móti nefndur bóndi.

Þegar Þorsteinn í Kaldárseli fellur frá eru þar nokkrar byggingar og önnur mannvirki, þar á meðal matjurtagarður ekki svo lítill, og lá frá bænum niður að ánni mót suðri, einnig vörslugarður af grjóti umhverfis túnið. Ætla verður, að mest af þessu, jafnvel allt, hafi verið verk Þorsteins, og styður það þá tilgátu, að öll hús eru seld á opinberu uppboði, haustið eftir dauða Þorsteins, ásamt gripum hans og öllum eftirlátnum munum.

Kaldársel

Kaldársel um 1932. Gamla selið (tilgáta) sett inn á ljósmyndia.

Hús öll í Kaldárseli keypti Jón Guðmundsson bóndi að Setbergi svo og flestar kindurnar. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.

Kaldársel

Uppdráttur af húsum í Kaldársseli í lok 19. aldar – Daniel Bruun.

– Danski höfuðsmaðurinn Daniel Bruun kom í Kaldársel árið 1897. Lýsir hann allvel Kaldárseli og umhverfi þar. Hann segir meðal annars um húsatætturnar, að þær séu frábrugðnar flestum, ef ekki öllum þess konar byggingum hér á landi, þar sem þær séu byggðar úr grjóti einu saman, en almennt sé annars staðar byggt úr grjóti og torfi eða mýrarhnaus, þar sem grjóts sé vant. Tættur þessar gætu staðið enn lítt eða ekki haggaðar, ef menn hefðu ekki skemmt þær með því að taka úr þeim grjót til einhverra nota. Þó stendur þar enn, eftir sem næst 90 ár, það mikið, að vel sést, hver húsaskipan þar var. tel ég illa farið, að tættur þessar skyldu ekki fá að standa óáreittar og þeim haldið við, ef steinar féllu úr hleðslu, efir því sem þörf gerðist.

Kaldársel

Teikning Daniels Bruun af baðstofunni í Kaldárseli 1897.

Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé og eitt eða tvö hross, kú mun hann aldrei hafa haft þar. Að mestu mun Þorsteinn hafa haft fullorðna féð á útigangi, þar eða heyfengur var þar lítill. Fjárhús með jötu við annan vegg var norðvestan við bæjarhúsin, og mun hann hafa haft lömb sín þar. Fullorðna féð hafði hann við hella, sem voru skammt norðan frá bænum, eða þá í fjárborgum uppi á Standinum, sem er nokkru nær. Eitt sérkenni var á flestu fé Þorsteins, það var ferhyrnt, með fáum undantekningum. Fé þetta var oft nefnt horseigt.

Kaldársel

Kaldársel

Þorsteinn í Kaldárseli var alla tíð ókvæntur og barnlaus, bjó með bústýrum þau ár, sem hann var í Selinu, en þau munu hafa verið tíu. Áður var hann búinn að vera allmörg ár á Lækjarbotnum í Seltjarnarneshreppi og þá ýmist skrifaður bóndi eða vinnumaður. Þá bjó á Lækjarbotnum hinu eldri, sem stóðu suður með Selfjalli, og munu sjást þar enn bæjartóftir og fleiri mannvirki frá þeim tíma, ekkja, Hallbera að nafni, stórbrotin kona í meira lagi, en tröll í tryggðum og mannkostum, þar sem henni þótti við eiga. Þorsteinn mun hafa haldið fé þeirra mest á útigangi, það er litlar voru slægjur í Lækjarbotnum.

Þorsteinshellir

Í Þorsteinshelli.

Eggert G. Norðdahl á Hólmi hefur sagt mér, að efst í heiðmörk sé hellir, sem Þorsteinn hafi haft fé sitt við á vetrum, og er hellir sá eftir honum nefndur og heitir Þorsteinshellir. Viðbúið er, að fáir þekki nú helli þennan. Síðasta árið áður en Þorsteinn fór að Kaldárseli bjó hann í Hvammakoti, sem nú heitir Fífuhvammur.

Kaldársel - fjárhellar

Fjárskjól og heykuml við Kaldársel – uppdráttur ÓSÁ.

Með Þorsteini lagðist niður að fullu búskapur í Kaldárseli, en handverk sjást þar enn nokkur eftir hann, en of illa tel ég þau farin. Bráðlega voru öll hús rifin í Kaldárseli nema baðstofa ein, sem látin var standa uppi fram undir aldamót. Var hún á þeim árum einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá héldu fé sínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högunum. Einnig var gott fyrir krýsvíkinga, sem þá áttu aðalleið um Kaldársel, þegar til Hafnarfjarðar fóru, að hafa þarna nokkurt afdrep. Þarna lágu einnig haustleitarmenn Grindavíkurhrepps, sem þá leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárseli. Á þessum árum var mikill straumur erlendra ferðamann, aðallega enskra, til Krýsuvíkur. Voru það einkum hinar svo til nýyfirgefnu brennisteinsnámur þar, sem þessir ferðamenn voru að skoða. Við námurnar stóðu þá enn tvö stór og allvönduð hús frá þeirri starfsemi, og voru þau mikið notuð til gistingar af þessu fólki. Mjög bar baðstofan Í Kaldárseli merki þess, að þar hefðu margir komið, og mjög voru sperrur og súð skorin mannanöfnum, bæði fullum og skammstöfunum, og voru þar nöfn bæði innlendra manna og erlendra.

Kaldársel

Kaldársel – loftmynd.

Að liðnum aldamótum síðustu var svo komið, að ekkert hús stóð lengur í Kaldárseli, og flest gekk þar af sér.

Enn gerð tilraun til búskapar í Kaldárseli

Kaldársel

Kaldársel 1965. Tóftir selsins ( lambhúss Kristmundar) sjást enn suðaustan við húsið.

Árin 1906-1908 er enn gerð tilraun til búskapar í Kaldárseli. Maður sá, sem þá fékk Kaldársel til afnota, var ungur Hafnfirðingur, Kristmundur Þorláksson að nafni, síðar stórbóndi í Stakkavík í Selvogi.

Þegar Kristmundur fékk Kaldárselsland til nytja, átti hann víst framt að fimmtíu kindur, ungar og gamlar. Þennan fjárstofn hafði hann á fáum árum dregið saman og aflað fóðurs fyrir með fádæma dugnaði, án þess þó að niður væri sleppt nokkurri vinnu, þegar hún bauðst. Um sumarið vann hann að því að koma upp smáheyhlöðu með því að byggja yfir hin gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallin.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Þegar hlaðan var komin undir þak, fór Kristmundur að öngla saman heyi í hana. Þennan heyfeng fékk hann víðs vegar í landi Garðakirkju, svo sem hann hafði leyfi fyrir, og mun hafa numið um 30 hestburðum. Þetta þurfti að endast 15-20 lömbum og einum hrút. Ærnar áttu að lofa að mestu á jörðinni, því að fjárland var þarna gott. Ekki hafði hann not gömlu tóttanna þar að öðrum en því, að í þeim var gnægð af góðu og sléttu helluhraungrýti, sem hann varð að nokkru að færa úr stað.

Kristmundur hélt fé sínu í Kaldárseli, en hafði búsetu í Hafnarfirði. Langur var því beitarhúsavegur hans, eða um 1 1/2 stundar gangur í sæmilegu færi. Í myrkri fór hann að morgni og í myrkri heim að kvöldi. Lömbin hafði Kristmundur í húsi og beitti ekkert framan af vetri, en ærnar hafði hann við hella þá hina gömlu, sem eru skammt norður af Selinu. – Brátt kom í ljós, að eitthvað háði nokkrum lömbunum, þau fóru ekki að, þegar gefið var á, en stóðu þess í stað lotin úti við veggi. Músin étur sig venjulega ofan í herðakamb lambanna, ogfái hún að vera óáreitt, étur hún sig stundum langt niður með bóg, og er þá sárið lítt læknanlegt.

Fremstihöfði

Hálfhlaðið fjárhús Kristmundar undir Fremstahöfða.

Allir þessir erfiðleikar, sem Kristmundi mættu þarna, áttu drjúgan þátt í því, að hann treysti sér ekki til að halda áfram búskap í Kaldárseli. Hann flutti fé sitt að Hvassahrauni, þar sem hann fékk vist. Þannig lauk búskap þessa síðasta bónda í Kaldárseli. Með honum gekk hinn gamli tími þar úr garði, alfarinn.

Nýi tíminn hefur innreið sína í Kaldársel

Lambagjá

Hleðsla undir vatnsstokkin í Lambagjá.

Um síðustu aldamót rann upp yfir Hafnarfjörð nýtt tímabil, tímabil nýrra atvinnutækja, nýrra framkvæmda, nýs lífs. Á sama tíma sem síðasta tilraun til búskapar í Kaldárseli beið algjöran ósigur, komu Hafnfirðingar upp hjá sér allstóru fyrirtæki eftir þess tíma framkvæmdum, fyrstu vatnsveitu, sem bærinn fékk. Á því tímabili keypti Hafnarfjarðarbær mikið af landi Garðakirkju, eða allt fjallland sunnan Selvogsvegar, þar á meðal Kaldársel, og hafði bærinn þar með tryggt sér nægjanlegt vatn til langrar framtíðar. Kaldá varð því fyrir valinu til úrbóta þeim vatnsskorti, sem orðinn var ærið ískyggilegur.

Kaldársel

Vatnsstokkurinn norðan Kaldár.

– Árið 1918 var ákveðið að leið vatn úr Kaldá, að vísu lítið brot af vatnsmagni árinnar, í ofanjarðar tréstokk allstórum, og sleppa vatninu lausu við suðurhorn Sléttuhlíðar. Stokkur þessi var rösklega 1 1/2 km að lengd. Eftir að vatninu var sleppt úr stokknum, átti það að finna sér leið neðanjarðar eftir hrauninu til Lækjarbotna, þar sem vatnsveitan var fyrir, og þar með auka vatnsmagn lækjarins, sem þá þyldi, að víðari rör væru sett í upptökuna. þetta bragð Hafnfirðinga lánaðist. vatnið skilaði sér á tilætlaðan stað, og nægjanlegt vatn varð um langt árabil. Var nú kyrrð um hríð í Kaldárseli, nema hvað vatnsstokkurinn krafðist viðhalds og umbóta.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M. Kaldársel sést aftan við húsið.

Næst lætur nýi tíminn bóla á sér í Kaldárseli árið 1925. Þá fá K. F. U. M. og K. í Reykjavík og Hafnarfirði leigumála fyrir gamla túninu og leyfi til að byggja þar hús. Hús þetta skyldi vera sumardvalarstaður barna úr þessum félögum nokkurn hluta sumars. Mest efni hússins varð að bera á bakinu fjórða hluta leiðarinnar frá Hafnarfirði.

Árin 1949 til 1953 var ráðist í að gera fullkomna og trygga vatnsleiðslu í neðanjarðarleiðslu frá Kaldá til Hafnarfjarðar. Árið 1955 var byggð lögrétt fyrir Hafnarfjarðarbæ, Garða- og Bessastaðahrepp í Kaldárseli.

Kaldárselsrétt

Kaldárselsrétt.

Þessi rétt kom í stað hinnar fornu Gjáréttar, sem lögð var niður fyrir rúmum 40 árum og þá flutt á óhentugan og vatnslausan stað í Gráhelluhrauni.

Niðurlagsorð

Kaldársel

Kaldársel og nágrenni – loftmynd.

Saga Kaldársel, sem hér er sögð, er hvorki löng né stórviðburðarík, en saga er það samt, og þótt ekki væri nema það fólk, sem nú nýtur þess, sem þessi staður hefur að miðla og mun gera um ófyrirsjáanlega framtíð, vissi hann nokkru betri deili en áður, tel ég tilgangi mínum náð og tíma minn við samantekningu þessa þáttar allvel greiddan.“

Heimild:
-Áður en fífan fýkur – Ólafur Þorvaldsson – 1968; Saga Kaldársels, bls. 119-139.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Borgarstandi.

 

 

Kaldá

„Hitt er fullvíst, að það sem hér er kallað Hafnarfjarðarhraun, hefur runnið allt í einu lagi.
Reynum nú Kalda-502að gera okkur í hugarlund, hvernig það land leit út, sem Hafnarfjarðarhraun breiddist yfir. Vitaskuld renna hraunflóð æfinlega undan halla og ekki skáhallt, heldur í þá átt sem hallinn er mestur. Það má því t. d. gera ráð fyrir, að hraun, sem lent hefur í árfarvegi, yfirgefi hann ekki úr því, heldur fylgi honum svo langt sem magn þess endist til. Nú liggur meginstraumur Hafnarfjarðarhrauns — sá sem lengstan veg hefur runnið frá upptökum — norðvestur á milli Setbergshlíðar og Vífilstaðahlíðar. Þá er varla heldur að efa, að vatn, sem komið hefði upp á sama stað og hraunið, hefði einnig runnið sömu leið. Með þetta í huga er fróðlegt að athuga hinar miklu vatnsuppsprettur skammt frá Búrfelli, þar sem heita Kaldárbotnar. Þar eru upptök Kaldár, eins og nafnið bendir til, og þar er ennfremur hið nýja vatnsból Hafnfirðinga.
kalda-503Kaldá er ólík flestum ám í því, að hún er vatnsmest í upptökunum, en minnkar stöðugt á leið sinni. Hún kemst ekki nema röskan kílómetra frá upptökunum; þá er hún öll sigin í jörð Þessa skömmu leið rennur hún eftir hrauni, sem er ættað úr Búrfelli og virðist helzt jafnt gamalt Hafnarfjarðarhraun eða með öðrum orðum hluti af því. En einnig í miðri höfuðkvísl Hafnarfjarðarhrauns, hjá Gjáarrétt norðvestur frá Búrfelli, sér í vatn niðri í djúpum gjám, og í því vatni er mjög greinilegur straumur til suðvesturs. Áður en Hafnarfjarðarhraun rann, hlýtur allt þetta vatn, sem nú rennur um upptakasvæði þess — bæði ofanjarðar (í Kaldá) og neðanjarðar (í gjám) — að hafa runnið ofanjarðar — sem vatnafall — þá leið, sem hrauni rann síðan.
Við getum kallað þetta vatnsfall Kalda-505„Fornu-Kaldá“. Að líkindum hefur hún verið drjúgum meira vatn en sú Kaldá, sem við þekkjum nú, því að botn hinnar fornu Kaldár lak ekki vatninu. Hún rann eftir hraunlausum dal undir Vífilstaðahlíð norður að Vífilsstaðatúni. En hvar rann hún í sjóinn? Hraunið gefur okkur einnig ákveðna bendingu um það: Meginhluti þess féll út í Hafnarfjörð. Og þar sem hraunið er þykkast, þar liggur árfarvegurinn enn undir því. Forna-Kaldá hlýtur að hafa runnið í Hafnarfjörð. En þá var fjörðurinn lengri en nú, ekki af því að sjórinn stæði hærra — hann var lækkaður niður að núverandi sjávarmáli, áður en hraunið, rann — heldur styttist fjörðurinn við það, að hraunið fyllti upp í innstu voga hans.
Ekki verður vitað með vissu, hvar fjörðurinn endaði. Ef til vill hefur hann náð langleiðina upp að Vífilsstöðum, ef til vill skemmra. Vitaskuld mætti kanna þetta með því að bora gegnum hraunið kalda-506og finna hvar undirlag þess kemst upp fyrir sjávarmál. Að sjálfsögðu hefur innsti hluti fjarðarins verið grunnur. Hann hefur smám saman verið að fyllast af framburði Fornu-Kaldár. Trúlegt er, að þar hafi verið leirur og mikið útfiri, og ef til vill voru grösugir óshólmar milli árkvíslanna. En nú er þetta allt innsiglað af hrauninu, nema sá leirinn, sem lengst barst út eftir firðinum. Hann stendur út undan hraunbrúninni og þekur þar fjarðarbotninn í þykku lagi. Það leirlag hefur reynzt heldur ótraust undirstaða undir hina nýju hafnargarða. Þeir hafa hvað eftir annað sigið og sprungið. Af því, sem ég hef nú sagt frá Búrfelli og Hafnarfjarðarhrauni, mætti ætla, að Hafnarfjarðarbæ stafaði nokkur hætta af eldgosum og hraunflóðum: Þá leið, sem hraun hefur áður runnið, gæti hraun runnið aftur! En þessi hætta er miklu minni en ég hef til þessa gefið í skyn: Búrfell, þar sem hraunið kom upp, og stór landspilda hið næsta því öllum megin hefur sigið, eftir að hraunið rann. Hin signa spilda hefur brotnað sundur í rima milli sprungna, sem stefna allar frá norðaustri til suðvesturs. Barmarnir hafa sigið mismikið, svo að stallur er um sumar sprungurnar, eystri barmurinn þá jafnan lægri en hinn vestri, rétt eins og á Almannagjá. Sums staðar eru sprungurnar gínandi gjár, en annars staðar saman klemmdar og koma aðeins fram sem bergveggur.
Einn slíkur sigstallur brýtur Hafnarfjarðarhraun um þvert við suðurenda Vífilsstaðahlíðar. Sá er 5—10 m hár og rmmdi Kalda-507einn sér veita verulegt viðnám nýju hraunflóði. En raunar er sigið meira en nemur hæð þessa stalls. Önnur misgengissprunga liggur vestan við Helgadal, sem er sigdalur, og sú klýfur sjálft Búrfell í miðju. Misgengið veldur því, að eystri gígbarmurinn er nú lægri en hinn vestri. En þetta var öfugt, meðan Hafnarfjarðarhraun var að flæða upp úr gígnum. Það rann vestur úr honum, og eru þar mjög fagrar og lærdómsríkar hrauntraðir eftir rennsli þess. Þær nefnast Búrfellsgjá (þótt þær séu raunar engin gjá í venjulegri merkingu) og eru óslitnar um nokkurra kílómmetra veg vestur og norður frá fjallinu. Hraun, sem nú flæddi upp úr Búrfellsgíg, tæki ekki þessa stefnu, heldur rynni austur eða suður af. Hrakningasögu Kaldár lýkur ekki með uppkomu Hafnarfjarðarhrauns. Það lokaði leið hennar til Hafnarfjarðar, eins og þegar er getið. En það er engan veginn óhugsandi, að hún hafi samt um þúsundir ára eftir allar þær ófarir komizt ofanjarðar alla leið til sjávar — og þá fyrir sunnan Hafnarfjörð, litlu innar á ströndinni en þar, sem Straumsbæirnir eru nú. En hvort sem hún hefur nú komizt til sjávar eða ekki, þá er fullvíst, að hún hefur um langt skeið náð miklu lengra áleiðis en nú.

Kalda-508

Þá kemur enn upp eldgos, hið síðasta, sem orðið hefur í nágrenni Hafnarfjarðar. Að þessu sinni gaus úr sprungu, sem nú markast af gígaröð meðfram Undirhlíðum, langleiðina frá Vatnsskarði til Kaldárbotna. Í syðsta og stærsta gíghólnum skammt frá Krýsuvíkurveginum eru nú stórar malargryfjur. Frá þessari sprungu rann hraun það, sem nú er kallað Bruninn í heild, en efri hlutinn Óbrinnishólabruni og fremsta totan, sem komst alla leið niður í sjó, Kapelluhraun. Þetta hraun nær alla leið norður að Kaldá og hefur bersýnilega ýtt henni eitthvað norður á bóginn. Hún fylgir nú jaðri þess ofan á Búrfells- (eða Hafnarfjarðar-) hrauninu, sem fyrr getur. Vatnið úr Kaldá virðist allt hverfa inn undir þenna hraunjaðár. Ekki er nú annað sennilegra en hinn forni farvegur Kaldár liggi undir Brunanum þar, sem hann er þykkastur, og áfram í átt til sjávar undir hinni tiltölulega mjóu álmu Brunans, sem endar í Kapelluhrauni. Bruninn (að meðtöldu Kapelluhrauni) er unglegastur að sjá og vafalaust einnig yngstur allra hrauna, sem runnið hafa út í Faxaflóa sunnanverðan. Hann breiddist yfir allan suður- og vesturhluta Hvaleyrarhraunsins, sem fyrr var getið, og féll út í sjó fram af lágu sjávarbergi vestan við Gjögrin og myndaði þar dálítinn tanga út í sjóinn. Ekki hefur sjórinn enn brotið þann tanga að neinu ráði.“

Kaldá

Kaldá.

Heimild:
-Þjóðviljinn, 24. desember 1954, Hraunin í kringum Hafnarfjörð, Guðmundur Kjartansson, bls. 10-12.

Setbergshellir

Gengið var frá Mosum sunnan Smyrlabúða og haldið norður Selvogsgötu. Ætlunin var að ganga um Gráhelluhraun, niður um Lækjarbotna og enda við stekkinn í Stekkjarhrauni.
Þegar komið var að Smyrlabúðarhrauni var gengið norður með vesturjaðri þess svo sem Selvogsgatan liggur. Ekki leið á löngu þangað til komið var að því er virtist hlöðnu gerði utan í grónum hraunbolla. Áður hafði jafnvel verið talið að þarna gæti hafa verið um hraunskrið úr hlíðinni andspænis að ræða, en við nánari skoðun virðist þarna vera um fyrrum hlaðinn vegg að ræða. Grjótið hefur verið tekið úr hlíðinni, enda handhægt, og raðað reglulega í bogadreginn vegg. Veggurinn virðist hafa verið hlaðinn til að loka af bollanum. Ekki er ólíklegt að þar fyrir innan hafi hestar eða fé verið geymt á ferðum Selvogsmanna í Fjörðinn. Þarna gæti jafnvel verið tilkomið búðarnafnið á Hraunið. Staðurinn er kjörinn áningarstaður áður en haldið hefur verið síðasta áfangann niður í þorpið. Hann er skjólgóður og ágæt beit við hendina.

Búrfellshraun

Búrfellshraunin.

Annars eru framangrein hraun eitt og hið sama; Búrfellshraun. Það er talið hafa runnið um 5300 f. Kr.. Annar angi þess rann til norðurs og kom niður á Álftanesi, beggja vegna. Hraunið ber t.d. nöfnin Urriðavatnshraun (Urriðakotshraun), Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Garðahraun, Flatahraun og Gálgahraun.
Hinn angi þess rann til norðvesturs. Í honum eru Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun og Stekkjarhraun.
Gengin var gatan framhjá Kershelli og haldið niður að Setbergshelli, gömlum fjárhelli Setbergsbænda og að hluta til Hamarskotsbænda. Gamla Selvogsgatan lá svo að segja í gegnum aðstöðuna, eða með austurjarðri hennar, skammt ofan við rétt eða stekk í gróinni laut.

Setbergshellir

Setbergsfjárhellir.

Hellirinn er með myndarlegri hleðslu Setbergshellismegin, auk þverhleðslu er aðskilur hann frá Hamarskotsbóndahlutanum. Í hellinnum vour síðast hafðar geitur, en Setbergsbóndi færði fé sitt úr hellinum, sem einnig var notaður sem selstaða um tíma, enda ber umhverfið þess glögg merki, upp á Setbergshlíðina norðan Þverhlíðar. Þar má sjá rústir hlaðins fjárhúss ofan við fallega hlaðna vörðu. Önnur fallega hlaðin varða er nokkur sunnar á hlíðinni, gegnt selinu.

Í stað þess að fylga Selvogsgötunni var gengi þvert á Gráhelluhraun og síðan haldið eftir því til norðurs, að Gráhellu.

Gráhella

Gráhella.

Gráhella er ílöng klettaborg í austanverðu hrauninu. Norðan undir henni eru hlaðnar rústir gerðist og húss. Þau mannvirki munu Setbergsbændur hafa nýtt sér fyrir fjárhald sitt, en Jón Guðmundsson, bóndi á Setbergi um og fyrir aldamótin 1900 var einn fjármesti bóndi landsvæðsins og jafnvel þótt lengra væri leitað. Faðir hans var um tíma bóndi á Geysi í Haukadal, en ættaður frá Álfsstöðum á Skeiðum. Var hann jafnan nefndur „hinn fjárglöggi“ því hann kunni skil á öllum fjármörkum sem kunna þurfti skil á. Dóttir Jóns á Setbergi bjó m.a. á Þorbjarnarstöðum í Hraunum og önnur á Urriðakoti, svo nærtæk dæmi séu nefnd.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – skilti.

Þegar komið var niður í Lækjarbotna var strax tekið eftir því að þar hafði nýlega verið sett upp upplýsingaskilti um vatnsveituna, sem þar var, en vatnsveita í Hafnarfirði átti aldarafmæli árið 2004. Skiltið stendur við hlaðnar undirstöður undir fyrrum lindarhús. Á því stendur eftirfarandi:
“Fram til 1904 var engin vatnsveita í hafnarfirði, en þða ár stofnuðu nokkrir Hafnfirðingar Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar. Félagið stóð meðal annars að því að grafnir vour brunnar á Jófríðarstaðarholtinu og þaðan lagðar vatnspípur vestur eftir bænum. Nokkur hús voru þá þegar tengd veitunni, en auk þess voru settir upp vatnspóstar víða um bæinn, þangað sem bæjarbúar sóttur sitt neysluvatn. Þessi vatnsveita varð þó snemma ófullnægjandi auk þess sem hún náði aldrei til alls þorpsins og því þurfti að grípa til frekari aðgerða.
Eftir að ljóst var að Vatnsveitan annaði ekki sívaxandi bæ ákvað bæjarstjórn Hafnarfjarðar árið 1909 að kaupa eignir hennar og leggja nýja vatnsveitu ofan úr Lækjarbotnum. Þessi ákvörðun var tekin eftir athugun Erlends Zakaríassonar og Th. Krabbe landsverkfræðings, en það þótti mjög hentugur kostur að leiða vatnið héðan vegna þess hæðarmismunar sem er héðan og niður að bænum. Byggð var vatnsþró í Lækjarbotnum og þaðan lögð þriggja tommu aðfærsluæð til bæjarins. Vatnsveita þessi dugði vel í nokkur ár, en þó þurfti oftar en einu sinni að víkka leiðslurnar til að auka flutningsgetuna.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar.

Árið 1916 var svo komið að uppsprettan í Lækjarbotnum var ekki nægilega vatnsmikil fyrir bæinn. Árið eftir var brugðið á það ráð, samkvæmt tillögu Jóns Ísleifssonar verfræðings, að veita vatni úr Kaldá yfir á aðfrennslusvæði Lækjarbotna. Var þá byggður 1.600 metra langur stokkur þar sem vatni var veitt úr Kaldá og sleppt niður í hraunið við suðurenda Setbergshlíðar, um þremur kílómetrum sunnan lindarinnar. Vonuðust menn til að vatnsheld jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna og varð það úr.
Þessi lausn dugði um tíma, en þó kom að því að betur þurfti að gera og hófust framkvæmdir á vatnsveitu frá Kaldárbotnum 1949, en vatnsmagnið þar er talið nægja bænum um ófyrirsjánlega framtíð. Lauk því verki í júní 1951”.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – stífla.

Skammt neðar er hlaðin stífla, tengd vatnsveitunni í Lækjarbotnum. Ofurlítið norðar er áberandi grágrýtissteinn; eyktarmark frá Setbergi. Af útlitinu mætti vel ætla að í honum byggi huldufólk, eða a.m.k. álfar.
Læknum var fylgt niður að Stekkjarhrauni. Gengið var þvert á hraunið uns komið var að stekknum, sem hraunið dregur nafn sitt af. Hann er í náttúrlegri hraunkvos með klettaveggi á þrjá vegu. Framst er hlaðin fyrirstaða. Skammt suðvestar er hlaðið gerði í einni lautinni.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 10 mín.

Stekkjarhraun

Stekkur í Stekkjarhrauni.

Kaldá

Kaldá er kristaltær lindá sem á upptök í Kaldárbotnum norðan við Helgafell. Hún á, líkt og margar aðrar lindár, upptök í lindum á hrauna-, móbergs- og grágrýtissvæðinu millum Kaldárhnúka. Lindár eiga sér jafnan glögg upptök, oft í ólgandi lindum eða úr stöðuvötnum.
Flóð eru sjaldgæf nema þegar jörðin er frosin. Hitastig í lindám er jafnt allt árið um kring. Kaldá hverfur undir hrauniðÞess vegna leggur Kaldá sjaldan, en vatnsmagnið ræðst gjarnan af úrkomunni frá einum tíma til annars. Þegar þurrkar eru og heitt í veðri dregur verulega úr vatnsrennsli árinnar, bæði vegna minna vatnsmagns er fellur til og vatnsnotkunar Hafnfirðinga, en þeir sækja nú vatn sitt í lindina.
Náttúrulegar aðstæður í nágrenni Kaldár skýra af hverju svo mikið af vatni er í Kaldárbotnum. Eldgos í tugi þúsunda ára hafa hlaðið upp jarðmyndunum á svæðinu. Á meðan ísaldir ríktu hlóðust upp móbergsfjöll og bólstrabergshryggir. Á hlýskeiðum runnu hraun og gígir hlóðust upp en við öll þessi eldsumbrot brotnaði jarðskorpan og seig og reis. Þannig hafa myndast sigdalir og gapandi gjár, sem stundum fóru á kaf í ný hraun.
Kaldárbotnar sjálfir eru í bólstrabergsmyndun. Bólstrabergið er nokkuð gamalt á mælikvarða jarðmyndana á svæðinu og segja má að það sé umflotið ungum hraunum. Bólstrabergið er afburða góð náttúruleg sía ásamt því að vera mjög vel vatnsleiðandi, sérstaklega eftir sprungum.
Ástæður fyrir þessu mikla vatni sem kemur upp austan við misgengið eru því þrjár; vatnsleiðandi bergsprungur tengdar misgengjum, setfylling í megin misgenginu sjálfu og bólstrabergið.
Í eldgosi sem líklega varð á tólftu öld, rann örþunnt hraun niður í Kaldárbotna sjálfa og þaðan niður fyrir Kaldársel og nam þar staðar. Þetta hraun hefur líklega verið mjög heitt og þunnfljótandi því að það fyllti í allar lægðir á leið sinni og storknaði án þess að í því mynduðust kólnunarsprungur og gjótur. Þegar grunnvatnsborð í Kaldárbotnum lækkar niður fyrir efri brún hraunsins hverfur Kaldá. Þegar mest er í ánni rennur hún að hraunbrúninni skammt vestan Kaldársels þar sem hún fer hindrunarlaust undir það á tveimur stöðum. Þar undir eru að öllum líkindum myndarlegar rásir, sem áhugavert væri að kíkja inn í við tækifæri – þegar lítið er í ánni.
Hafnfirðingar voru í fararbroddi í upphafi síðustu aldar. Árið 1904 var Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar stofnað af nokkrum framtakssömum einstaklingum í bænum, með héraðslækninn fremstan í flokki. Lét félagið grafa brunn við svonefnt Kaldadý vestan í Jófríðarstaðaholtinu og leggja þaðan vatnsleiðslur um bæinn. Þótti framtak þetta hið besta og göfugasta, en fljótlega varð ljóst að gera þurfti betur.
Áletrun á bakka KaldárÁrið 1909 kaus bæjarstjórnin nefnd til að vinna að gerð stærri vatnsveitu, sem þjóna skyldi öllum bæjarbúum – en ekki bara þeim er bjuggu út frá Strandgötunni. Varð úr að Hafnfirðingar keyptu rör til framkvæmdanna í félagi við Reykvíkinga sem um svipað leyti unnu að framkvæmdum við sína vatnsveitu. Ákvað nefndin að vænlegast væri að taka vatnið úr Lækjarbotnum, en þar eru upptök Hamarkotslækjar.
Haustið 1909 lauk framkvæmdum við Lækjarbotnaæðina. Var hún einungis þriggja tommu breið og flutningsgetan því takmörkuð. Var hún enda orðin of lítil innan fárra ára. Var þá gripið til ýmissa bráðabirgðaráðstafanna, s.s. byggingu vatnsgeymis og lagningu nýrra aðfærsluæða, en ekki var þar tjaldað til margra nátta.
Strax árið 1916 fengu Hafnfirðingar augastað á Kaldá sem framtíðarvatnsbóli bæjarins og ári síðar ákvað bæjarstjórnin að freista þess að veita vatni úr Kaldá yfir á Lækjarbotnasvæðið, með það að makmiði að tryggja vatnsveitunni og vatnsaflsvirkjuninni í Hamarkotslæknum nægilegt vatn.

Kaldá

Vatnið úr Kaldá var leitt mestan hluta leiðarinnar í opinni trérennu. Trérennan var lögð yfir Hjallamisgengið og hraunið en vatninu var síðan  sleppt við suðurenda Setbergshlíðar þar sem hraunið byrjar að falla að Lækjarbotnum í þeirri von um að jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna sem það og gerði eftir nokkra daga. Þegar þetta var ekki fullnægjandi var lögð breiðari pípa. Við þá aukningu höfðu flestar götur bæjarins nægilegt vatn. Það dugði samt ekki lengi því að eftir nokkur ár fór svo aftur að bera á vatnsskorti. Ástæðan fyrir því var m.a. sú að rennan úr Kaldá gekk smá saman úr sér og úreltist og þá minnkaði stöðugt vatnsmagnið sem hún gat flutt. Einnig var þetta vegna þess að þrýstingurinn í vatnsleiðslunum í bænum var ófullnægjandi og náði vatnið þá ekki upp í þau hús sem hæst stóðu.
Þá  var ákveðið að leggja vatnsæð úr Kaldárbotnum. Nokkrar endurbætur voru svo gerðar á henni þegar húsum í bænum fór að fjölga. Þegar grunnvatnsyfirborðið fór að lækka ört vegna minnkunar á úrkomu, voru nokkrar holur boraðar við Kaldárbotna og þær tengdar við vantsveituna. Orsakir hinnar miklu vatnsnotkunar í Hafnarfirði voru taldar vera vegna mikils fjölda fiskvinnslustöðva, göllum í gatnakerfi bæjarins, óhóflegrar vatnsnotkunar og vegna skemmda og bilana á heimilislögnum. Árið 1967 rættist svo úr þessu. Vatnsmagnið í vatnsbólinu í Kaldárbotnum jókst vegna aukinnar úrkomu og ýmsar endurbætur voru gerðar á vatnsveitunni.
KVatnsstokkurinnaldá, affall neysluvatnsvirkjunarinnar í Kaldárbotnum, rennur ofan á hrauninu en hverfur niður í og inn undir það um 1000 metrum neðar. Það sem veldur því að Kaldá kemur þarna upp á yfirborðið er misgengi sem hefur hindrað grunnvatnsstreymið. Misgengi þetta er kallað Helgadalsmisgengið og liggur eftir Undirhlíðum og norður um Búrfell. Það hefur þvingað vatnið upp á yfirborðið í Kaldárbotnum og þegar langvarandi úrkoma hefur verið kemur vatn líka upp á yfirborðið austan undan misgenginu. Eftir mikla þurrka getur Kaldá horfið að fullu.
Vatn hefur líklega aldrei þrotið í Kaldárbotnum. Þó er það þekkt. Hafnarfjörður varð vatnslaus af og til á árunum 1965-68. Við vatnsskorti lá einnig 1979 og 1986.
Grunnvatnsrennsli af Kaldársvæði er um 2500 lítrar á sekúndu. Vatnsnotkun er um 190 lítrar á sekúndu en vatnsrennsli í Kaldá er að meðaltali um 1300 lítrar á sekúndu og vatnsnotkun er um 190 lítrar á sekúndu. Hiti vatnsins í Kaldárbotnum er 3,2°C allt árið um kring.
Kaldá sprettur, sem fyrr segir, fram undar Kaldárhnúkum (Kaldárhöfða). Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Kaldárstraumur á upptök í sunnanverðum Bláfjöllum og Lönguhlíð. Hann streymir þaðan til norðvesturs um Húsfellsbruna og Heiðmörk. Grunnvatnsskil liggja frá Straumsvík og í vesturenda Lönguhlíðar. Sprungur auka mjög vatnsleiðni og hafa afgerandi áhrif á grunnvatnsstreymið. Sprungurnar eru hluti af sprunguskara sem kenndur hefur verið við Krýsuvík. Þær beina grunnvatninu úr sunnanverðri Heiðmörk til suðvesturs í átt til Kaldárbotna. Athyglisvert er að fyrir vikið streymir grunnvatnið á þessum slóðum ekki hornrétt á grunnvatnshæðarlínur, eins og algengast er, heldur skálægt á þær. Straumþunginn fylgir því sprunguskaranum.

Niðurfall

Í Kaldárbotnum sést örlítið brot af því vatni sem þarna er á ferð. Meðalrennsli Kaldár skammt neðan upptakanna er 800 l/s samkvæmt mælingum í vatnshæðarmælinum vhm 124, en sveiflur eru miklar í rennslinu. Kaldá er einskonar yfirfall úr grunnvatnsstraumnum. Áin verður lengst um einn kílómetri á lengd því hún hverfur þar inn undir hraunið og hverfur til grunnvatnsins á ný. Neðan við Undirhlíðar sveigir grunnvatnið út úr sprunguskaranum og flæðir um hraunin til norðvesturs uns það birtist í fjörulindum í Straumsvík og í Hraunsvík, en svo nefnist bugurinn milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Þar upp af ströndinni eru vatnsból Álversins. Sennilegt er að einungis minnihluti lindarennslisins komi í ljós í fjörulindum þegar lágt stendur í sjó en að meirihluti þess sé jafnan í flæðarmálinu sjálfu eða neðan þess. Kaldárstraumur er langmesti grunnvatnsstraumurinn á höfuðborgarsvæðinu.
Þjóðsagan segir að fyrrum hafi Kaldá komið úr Þingvallavatni en eftir að Ingólfur landnámsmaður gróf Soginu farveg úr því, þar sem síðan heitir Grafningur, hafi Kaldá þorrið. Önnur saga segir að tveir synir fjölkunnugs karls nokkurs hafi drukknað í ánni og eftir það hafi hann kveðið hana niður. Þriðja sagan segir að hún hafi þornað eftir mikið eldgos.
Hugmynd Eggerts Ólafssonar var þess efnis að áin renni neðan jarðar all aleið vestur á Reykjanestá og þar til hafs, en af straumi hennar myndist Reykjanesröst. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi sagði það almælt að á fyrri öldum hafi á sú runnið úr Þingvallavatni, „eitthvert hið mesta vatnsfalla á Íslandi“. Hún á að hafa runnið norðan við Hengil og ofan þar, sem nú eru Fóelluvötn, og svo suður með hlíðum og í sjó á Reykjanesi. „Sé sagt, að hún komi upp í Reykjanesröst og að Kaldá hjá Helgafelli sé úr henni“. „En svo þurfti að fá skýringu á því, hvernig stóð á því stóð, að þetta mikla vatnsfall skyldi hverfa, og eru um það ýmsar sögur. Ein er sú, að karl nokkur, sem var kraftaskáld, missti í ána tvo sonu sína, og kvað hana þá niður. Önnur sögn, og öllu vísindalegri, er sú, að Kaldá hafi horfið eitt sinn, er suðurfjöll brunnu, svo einn var eldur ofan úr Hengli og út í sjó á Reykjanesi og hafi þá jörðin gengið upp fyrir sunnan Elliðavatn.“

Heimildir m.a.:
-Haukur Hafsteinsson.
-Eggert Ólafsson.
-Brynjúlfur Jónsson.
-Vatnsveita Hafnarfjarðar.Kaldárhnúkar

Kaldársel

Í bókinni “Blárra tinda blessað land” segir Árni Óla frá Grindaskarðavegi: “Rétt fyrir vestan Smalafell liggur gamli vegurinn frá Hafnarfirði til Selvogs. Heitir hann Grindaskarðavegur.
Göturnar eru nú horfnar og gleymdar, þótt þetta væri Grindaskarðavegurinn, sem nefndur er - Jón Bergssonáður alfaraleið, en vegurinn segir þó til sín. Hafa verið sett ýmiss merki við hann, svo sem smávörður, tréstaurar eða járnhælar, sem reknir hafa verið niður með stuttu millibili. Og svo hefir á löngum köflum verið raðað steini við stein meðfram götunni. Kemur þessi langa steinaröð, hér í óbyggðum, ókunnugum einkennilega fyrir sjónir, því að hún líkist gangstétt. Liggur hún þvert yfir jarðfallið með stefnu á eldgíg nokkurn austan Valafell. Er þetta víst eina færa leiðin með hesta þarna þvert yfir, til þess að komast framhjá tveimur hrikalegum gjám, sem eru sín hvoru megin við jarðfallið. Þegar komið er upp undir hlíðarnar að sunnan, beygir vegurinn vestur að Kaldárseli.”
Þarna er væntanlega átt við götu þá, sem enn sést klöppuð í berghelluna vestan við Borgarstand utan við Kaldársel. Þar hefur eininungis á einum stað verið hægt að komast yfir gjána með hesta. Gatan sunnan Kaldársels bendir til þess að sú leið hafi síðan verið farin að Kýrgili og áfram með stefnu sunnan Helgafells. Þá hefur línan verið tekin undir hraunbrúninni að Dauðadölum, síðan beygt inn á slétt hraunið við Dauðadalahella og upp á gatnamótin þar sem Selvogsgata/Grindaskarðsvegur greindust um Grindaskörð annars vegar og Kerlingaskarð hins vegar.
Dauðadalaleiðin gæti skv. þessu hafa verið nefnd Grindaskarðavegur, en Selvogsgata að austanverðu, um Helgadal. Selvogsbúar nefndu þá leið Suðurferðaveg. Hafa ber í huga að jafnan var afdrep í Kaldárseli því það fór ekki í eyði fyrr en um aldamótin 1900 og stóðu þó húsin enn um nokkurt skeið eftir það. Að vísu var afdrep í Setbergsseli á hinni leiðinni, en það fór sennilega í eyði í byrjun 19. aldar.

Kaldá

Í bókinni segir Árni Óla jafnframt: „Einu sinni var byggð í Kaldárseli. Bjó þar seinast einsetumaður og dó þar, svo að enginn vissi fyrr en nokkru seinna, að einhverja menn bar þar að garði. Eftir það fór kotið í eyði. En fyrir nokkrum árum byggði K.F.U.M. í Hafnarfirpi þarna skála og hafði þar bækistöð sína. Í fyrra var skálinn stækkaður um helming, og í sumar hafa Hafnfirðingar haft þar barnaheimili með 27 börnum. .
Um Kaldá er og fjallað. Sagt er frá hugmynd Eggerts Ólafssonar þess efnis að áin renni neðan jarðar all aleið vestur á Reykjanestá og þar til hafs, en af straumi hennar myndist Reykjanesröst. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi sagði það almælt að á fyrri öldum hafi á sú runnið úr Þingvallavatni, „eitthvert hið mesta vatnsfalla á Íslandi“. Hún á að hafa runnið norðan við Hengil og ofan þar, sem nú eru Fóelluvötn, og svo suður með hlíðum og í sjó á Reykjanesi. „Sé sagt, að hún komi upp í Reykjanesröst og að Kaldá hjá Helgafelli sé úr henni“. „En svo þurfti að fá skýringu á því, hvernig stóð á því stóð, að þetta mikla vatnsfall skyldi hverfa, og eru um það ýmsar sögur. Ein er sú, að karl nokkur, sem var kraftaskáld, missti í ána tvo sonu sína, og kvað hana þá niður. Önnur sögn, og öllu vísindalegri, er sú, að Kaldá hafi horfið eitt sinn, er suðurfjöll brunnu, svo einn var eldur ofan úr Hengli og út í sjó á Reykjanesi og hafi þá jörðin gengið upp fyrir sunnan Elliðavatn.“

Heimild:
-Árni Óla, Blárra tinda blessað land“, 1945, bls. 33-34.

Kaldá