Gengið var um Nýjahraun, síðar nefnt Kapelluhraun, frá kapellunni ofan við Álverið við Straumsvík. Skoðaðar voru m.a. leifar hins gamla krákustígs í gegnum hraunið, en enn sést móta fyrir honum á tveimur stöðum. Hraunið sjálft er margbrotið og víða í því hinar fuðurlegustu myndanir. Sjá má t.d., ef vel er að gáð, skapara þess birtast í því í ýmsum myndum, líkt og væri hann að líta yfir unnin afrek.
Við kapelluna eru tvö skilti, annað frá Byggðasafni Hafnarfjarðar og hitt frá Þjóðminjasafninu. Upplýsingarnar eru svipaðar. Friðlýsingarmerki er við innganginn. Á öðru skiltinu segir að talið sé að Kapelluhraun hafi runnið á 11. öld. Á hinu segir að hraunið hafi runnið á 13. eða 14. öld. Nú liggur hins vegar fyrir að hraunið rann hvorki á 11. eða 13. öld, heldur árið 1151. Venjulegur ferðamaður gæti hæglega orðið ráðvilltur þarna og það áður en hann kemur að sjálfum „fornminjunum“. Á sama hátt og upplýsingarnar á staðnum eru misvísandi er kapellan sem fornleif varla „sjálfri sér samkvæm“. Grunnmynd á skilti sýnir ferhyrnda tóft, eins og dr. Kristján Eldján rissaði hana upp á sjötta áratug 20. aldar. Innanmálið er að vísu ferhyrnt svo fá má á tilfinninguna að þar og þannig hafi gólfflöturinn verið upphaflega, en utanmál kapellunnar, eins og hún er í dag, er fremur sporöskjulaga. Önnur, gömul mynd, tekin við sama tækifæri, sýnir að mestu hrunda mosavaxna kapelluna í úfnu hrauninu, en nú er hún svo formlega löguð, ber og svo vel uppi standandi að varla getur talist um forna leif sé að ræða – nema að hluta til. Endurgerð fornleif stendur þó ávallt fyrir sínu – a.m.k. að ákveðnu marki.
Annar hluti gamla stígsins, sem enn sést, er sunnan við kapelluna. Sennilega er um einskæra tilviljun að ræða að hann skuli hafa fengið að halda sér. Hinn hlutinn er þar sem komið er inn í hraunið af Alfaraleiðinni norðan við Gerði. Í örnefnalýsingu segir m.a. um stíg þennan: „Alfaraleiðin út á Útnes lá svo að segja um túnblettinn. Hann lá yfir Kapelluhraunið, eða Brunann, eins og það var stundum nefnt, síðan lá leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys. Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum“.
Kapelluhraunið hefur að geyma marga fornleifina. Þá þar nefna Þorbjarnastaðaborgina neðan við Brunntorfur, garða og hleðslur ofan við Gerði, hlaðnar brýr og byrgi skammt norðan við gasstöðina. Þá liggja yfir hraunið fornar götur og syðst í því eru myndarlegar hrauntraðir.
Álverið við Straumsvík stendur á Kapelluhrauni, eða Nýjahrauni eins og það fyrst var nefnt, og er allra yngsta hraunið á svæðinu í kringum Hafnarfjörð. Það er frá árinu 1151 skv. upplýsingum frá Íslenskum orkurannsóknum. Það á upptök undir Undirhlíðum og hefur komið úr gígaröðum, sem virðast vera tengdar misgengissprungum. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu hjá Krísuvíkurkerfinu. Þá opnaðist gossprunga undir Undirhlíðum sem var alls um 25 metra löng en slitin í miðjunni.
Kapelluhraun rann norðan á skaganum og til sjávar og myndað þar tanga, en vestan undir honum er Straumsvík.
Kapelluhraun er ákaflega fallegt úfið og mosagróið apalhraun en hörmung er að sjá hvernig karganum hefur verið rutt af yfirborði þess á stórum svæðum. Hraunið er fínkornótt með einstaka tiltölulega stórum dílum. Dílarnir eru oftast plagioklas, pyroxen og einstaka ólivín. Stærð hraunsins er 11,6 km2. Gamli krákustígurinn, sem eitt sinni var ruddur í gegnum hraunið, hefur að mestu verið eyðilagður að undanskildum fyrrnefndum um 6 metra kafla við litla rúst í hrauninu, sem er nefnd kapellan og á fyrrnefndum stað í vestanverðum hraunjaðrinum.
Árið 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn þessa kapellu og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi. Einnig var hún verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðs- manna, námumanna, verkfræðinga og jarðfræðinga. Kapellutóftin er á fornminjaskrá og þar má sjá eftirlíkingu af líkneskinu. Fróðlegt er að skoða ljósmyndir, sem teknar voru af tóftinni við upphaf rannsóknar Kristjáns Eldjárns og félaga, en á þeim m.a. úfið mosahraunið og einungis hluti kapellunnar standa upp úr því.
Miklar framkvæmdir hafa verið í kringum Álverið í Straumsvík, auk þess sem Skógrækt ríkisins, fyrrum eigandi svæðisins, hefur leyft töku á gífurlegu efnismagni úr hrauninu. Þá hefur það verið sléttað út á stóru svæði og óþarflega miklu magni efnis hefur verið rutt út yfir hraunjaðrana. Þegar horft er yfir svæðið virðast „skemmdirnar“ hafa bæði verið óstjórnlegar og að stórum hluta óþarfa ómarkvissar.
Nú eru jafnvel fyrirhuguð stækkun á Álverinu. Fyrirtækið hefur m.a. í því skyni fest kaup á landinu ofan þess.
Hjörleifur Guttormsson, fyrrum alþingismaður, skrifaði Skipulagsstofnun árið 2002 þar sem hann geldur vara við frekari framkvæmdum Álversins í Kapelluhrauni. Með bréfi sínu til stofnunarinnar gerir hann athugasemdir og bendir á náttúruvá sem steðjað getur að mannvirkjum við Straumsvík og lítil sem engin skil eru gerð í matsskýrslu vegna stækkunar álverksmiðju ÍSALs.
Þegar álverksmiðja var staðsett og reist við Straumsvík fyrir um aldarþriðjungi gerðu menn sér litla sem enga grein fyrir samhengi eldvirkni og hraunstrauma á svæðinu. Síðan hafa verið gerðar ítarlegar rannsóknir á eldvirkni á Reykjanessskaganum, gosstöðvar frá nútíma verið staðsettar og hraunstraumar sem frá þeim hafa runnið eftir að ísöld lauk, sumpart eftir landnám.
Guðmundur Kjartansson fjallar m.a. um aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð árið 1973. Grein hans birtist í Náttúrufræðingnum 42. 159-183. Jón Jónsson gerði jarðfræðikort af Reykjanesskaga 1978. Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson rituðu um Krýsuvíkureldaa I. – Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins – í tímaritið Jökull árið 1989, 38. 71-87. Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir rituðu einnig um Krýsuvíkurelda II. – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra – í Jökul árið 1991, 41. 61-80. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson rituðu um hraun í nágrenni Straumsvíkur í Náttúrufræðinginn 1998, 67. 171-177.
Páll Imsland ritaði um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu í Náttúrufræðinginn árið 1998, 67. 263-273. Hann taldi þar að Kapelluhraun væri frá 13. öld.
Af þessum rannsóknum og greinum höfunda má m. a. ráða, að líkur séu á að þunnfljótandi hraunstraumar geti runnið í sjó fram frá gosstöðvum vestan Undirhlíða og víðar yfir það svæði sem núverandi álverksmiðja stendur á auk þess sem önnur mannvirki svo sem raflínur og vegir eru í hættu á þessu svæði og víða í grenndinni.
Sem dæmi má nefna eftirfarandi úr grein Hauks Jóhannessonar og Sigmundar Einarssonar 1998, s. 175,
„Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess. Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krísuvíkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni. Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krísuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík … Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu“.
Í niðurlagi greinarinnar segja höfundar m. a. (s. 177):
„Eldgos á Rekjanessskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár. Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240. Í hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.
Af ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krísuvíkurein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hins vegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni“.
Í grein sinni um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu (sjá nr. 6 hér að ofan, s. 271) segir Páll Imsland m. a.:
„Eftir Krýsuvíkurelda á 13. öld hafa ekki komið upp hraun í nágrenni Straumsvíkursvæðisins. Landslagi er þannig háttað að hraun sem koma upp vestanundir Undirhlíðum eiga ekki annarra kosta völ en að renna út á hraunflákana til vesturs og norðurs og leita undan halla og þrýstingi frá kvikunni sem flæðir úr gígunum í átt til strandar, í átt að Straumsvík. Áður en að álverinu sjálfu kemur eru raflagnir, spennuvirki, þjóðvegur og fleira slíkt í rennslisleiðum hrauna; mannvirki sem skipta verulegu máli, bæði fyrir starfrækslu álversins og alla byggð sunnar á skaganum. Það er því ljóst að hraunflóðahætta er þarna til staðar, en ekkert er þekkt sem bendir til yfirvofandi hættu. Náttúran á svæðinu hefur ekki sýnt nein þekkjanleg merki þess að þarna séu eldgos í uppsiglingu. Á hitt ber samt að líta að þetta er afkastamikið, virkt eldgosasvæði þar sem ekki hefur gosið í um 850 ár, og til eru vísbendingar um að virknin á Reykjanesskaganum gangi í hrinum með nokkurra alda aðgerðarlitlum hléum. Hrinur þessar einkennast af jarðskjálftum, sprungumyndun og eldgosum.“
Í greininni „Hamfarir á höfuðborgarsvæðinu“ eftir Þórdísi Lilju Gunnarsdóttur, sem birtist í tímaritinu Ský, 6 2001-2002, s. 36, má lesa eftirfarandi:
„Í Kröflueldum í september 1984 rann glóandi hraunáin um tíu metra vegalengd á sekúndu. Það gera 36 kílómetrar á klukkustund. Að mati jarðfræðinganna Páls Imslands og Karls Grönvolds er það álíka hraði og væri á nýju hrauni við höfuðborgina í dag. Því myndi hraunelfan geta náð efstu byggðum borgarinnar á fáum klukkustundum … Ef eldgos brytist út í Húsfelli, Búrfelli eða Trölladyngju gæti hraun runnið niður Kúagerði og yfir Reykjanesbraut, yfir álverið í Straumsvík, rafstöðina við Hamranes og nýjustu byggð Hafnfirðinga sunnan við Reykjanesbraut sökum þess hve Reykjanesskaginn er mjór sunnan við Hafnarfjörð. Í miklum hamförum á þessum slóðum gæti hraun einnig náð til byggðar í Garðabæ og yfir Álftanesið.“
– Þótt hér sé stiklað á stóru af blaðamanni eru ábendingarnar þó umhugsunarverðar.“
Fornleifavernd ríkisins segir að “hraunið dragi nafn sitt af Kapellunni, rúst af litlu húsi skammt frá veginum vinstra megin þegar ekið er suður Reykjanesbrautina. Sen fyrr segir rannsakaði Kristján Eldjárn kapelluna ásamt fleirum 1950 og segir svo frá:
„Fyrir sunnan Hafnarfjörð liggur leiðin yfir úfinn brunafláka sem á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Í þessu hrauni er Kapellan og eftir henni heitir hraunið Kapelluhraun, en hefur heitið Nýjahraun á miðöldum, því að það hefur runnið eftir að land byggðist, líklega þó mjög snemma á öldum. Kapellan er lítil opin húsarúst rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur hefur verið þegar eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið út á nes öldum saman.“
Kapellan er 2,40 m á lengd og 2,10 m á breidd að innanmáli.
Veggirnir eru hlaðnir úr hraunhellum og að mestu uppistandandi.
Við uppgröftinn 1950 fundust allmargir gripir. Sá merkasti þeirra er lítið líkneski af heilagri Barböru, brotið um mjaðmir en nú um 3,3 cm á hæð. Líkneskið er varðveitt í Þjóðminjasafni (Þjms. 14293). Þessi fundur bendir til þess að hús þetta sé í raun og veru kapella frá katólskum tíma og að ferðamenn um hraunið hafi komið þar við og gert bæn sína.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að einn af mönnum Kristjáns skrifara hafi verið drepinn í Kapelluhrauni og grafinn í kapellunni til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans. Engin ummerki benda þó til þess að þessi sögn eigi stoð í raunveruleikanum, en sagan er góð búbót við annars sagnaríkt umhverfi á sögulegum tíma.
ISOR (Íslenskar orkurannsóknir) kveða á um á vefsíðu sinni að aldur Kapelluhrauns sé 1151. Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þetta ár tók af stórbýlið Krísuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum.
Kapelluhraunið er stórbrotið í tvennum skilningi. Annars vegar hefur hraunið mikið gildi vegna þess að það rann á sögulegum tíma og því merkilegt náttúrfyrirbæri sem slíkt. Hins vegar hefur óhóflegum hluta þess verið spillt af mannavöldum. Á því hefur því verið stórlega brotið.
Við þetta má bæta að fyrrnefnd kapella er ekki óhreifð eða óröskuð fornleif í þeim skilningi orðisins. Hún er ónákvæm endurgerð fornleifar frá því um 1960 og virðist nú stenda á sínum upprunalega stað – sem von um fyrirgefningu fyrir fyrrum eyðileggingu. En staðurinn, þar sem hin forna kapella var, er engu að síður merkilegur, bæði út frá fornleifalegum sem og sagnfræðilegum skilningi.
Hins vegar mætti vel, án tilfallandi skaða, ef byggja ætti á annars röskuðu hrauninu, endurreisa kapelluna á ósnortnu hrauninu vestan og ofan við Vestari Brunaskarð, við gömlu götuna skammt ofan við Gerði þar sem alfaraleiðin liggur upp á það. Kapellan yrði þar engu minni „fornleif“ en nú er. Mannvirkið „gekk úr sér“ á sínum tíma og „týndist“, en var síðan „endurvakið“ með fyrrnefndum uppgrefti.
Sem slíkt hefur staðurinn einungis tilfinngalegt gildi líkt og hver annar staður gæti haft með sama tilgang, hvar sem hann er á hverjum tíma. Það hefði hvorki áhrif á sagnfræðina né fornleifafræðina sem slíkar. Í henni mætti taka upp hvaða kvikmynd sem er án þess að til mótmæla kæmi.
Kapellan á Hraunssandi, fyrrum einnig nefnd Dysin, er sambærilegt mannvirki, en öllu merkilegri. Hún var grafin upp á svipuðu tíma, urðuð á ný og hefur því ekki verið „endurgerð“. Við hana eiga að vera grafinn á þriðja tugur manna, án þess að staðnum sé sýnlega nokkur virðing sýnd.
Frábært veður. Gangan tók 2 kls. og 22 mín.
Heimildir m.a.:
-http://www.flensborg.is
-http://www.eldhorn.is
-http://www.isor.is/stadlar/hraun/allt_um_hraun.html
-http://www.reykjanesbaer.is
-Kristján Eldjárn: Heilög Barbara mær og kapella hennar. Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Rvk. 1973, 88.
-Kristján Eldjárn. Kapelluhraun og Kapellulág. Fornleifarannsóknir 1950 og 1954. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1955-1956. Rvk. 1957, bls. 5-34.
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar. II bindi. Rvk. 1954, bls. 78.