Tag Archive for: Kerlingaskarð

Grindaskörð

Haldið var upp eftir Selvogsgötunni frá Bláfjallavegi í átt að Grindaskörðum. Ætlunin var að skoða tótt skiptistöðvar brennisteinsmanna þar undir skörðunum. Á leiðinni var komið við í helli, sem nefndur hefur verið Elgurinn. Um er að ræða tiltölulega lítið jarðfall. Reipi þarf til að komast niður. Hins vegar einfaldaði hár snjóskafl neðan við opið niðurgönguna að þessu sinni.

Selvogsgötuhellar

Í Rósaloftshelli.

Rás liggur um 30 metra til norðurs. Fremst eru nokkuð fallegar hraunmyndanir. Á botni rásarinnar er brúnt hraun, en rásin er annars dökkleit. Út úr veggnum hægra megin kemur steinn, sem lítur út eins og elgshaus. Til suðurs er hellirinn um 70 metrar. Fremst er fallega brúnt gólfið og fallegar myndanir í lofti.
Ofar í hlíðinni er mikið og djúpt jarðfall. Ekki verður komist niður í það nema á reipi. Inngangur virðist vera í norðanverðu jarðfallinu. Það var hins vegar ekki skoðað að þessu sinni.
Farið var í Rósaloftshellir. Hann er fremur stuttur, en rás liggur upp hann vinstra megin. Ef loftið er skoðað með góðu ljósi sést hversu stórbrotið rósamynstrið þar er. Þátttakendur hafa ekki séð slíkt í öðrum helli.

Spenastofuhellir

Í Spenastofuhelli.

Skammt ofar er Spenastofuhellir. Í honum innanverðum er litadýrð með fallegum sléttum jarðmyndunum.

Kristjánsdalir

Tóft í Kristjánsdölum.

Tótt af skiptistöð brennisteinsmanna er austan við Selvogsgötuna undir hlíðum Grindaskarða. Gengið var austur og niður með hlíðunum. Ofan frá þeim mátti sjá móta fyrir gamalli þvergötu úr austri inn á Selvogsgötuna neðar.
Í Kristjánsdölum er ein tótt af húsi og einnig sést móta fyrir öðru. Það hefur líklega verið timburhús og nokkuð stórt. Hitt er hlaðið úr torfi og grjóti.
Á leiðinni til baka var gengið á ská yfir Tvíbollahraunið og þar rakin gömul leið spölkorn í hrauninu. Sést vel móta fyrir henni á klapparhæð þar sem hún er mörkuð í bergið. Leiðin er frá Selvogsgötunni þar sem hún mætir Bláfjallavegi og í ská upp að vatnsstæðunum vestan Kristjánsdala. Þar virðist vera gömul leið upp með fjallsöxlinni, sem er nokkuð gróin, og beygir hún síðan upp með Tvíbolla.
Frábært veður – 8°C hiti og nánast logn.

Grindaskörð

Tóft undir Grindaskörðum.

Kristjánsdalir

Viktor og Jóhanna (FERLIRsfélagar) voru nýlega á ferð um Brennisteinsfjöll. Þau komu m.a. við í námunum vestan Draugahlíða.

Tóftin

Tóft undir Skörðum.

Á leið þeirra niður Kerlingarskarð gengu þau óhefðbundna leið niður með rótum Tvíbolla (Miðbolla) og Stórabolla. Ofarlega, undir Tvíbollum, eru leifar af húsi námumannanna (hleðsluhús). Neðar taka við gróningar í rótum. Skammt neðan við mesta brettann má vel greina tóft á hægri hönd, fast upp við hlíðina. Hún er ferköntuð (2×3.50 m að innanmáli). Hleðslur sjást vel, einkum að þeirri hlið er snýr að hlíðinni. Hæð á hleðslum eru um 60-80 cm. Þær standa grónar.
Þegar tóftin var skoðuð komu í ljós a.m.k. þrjú umför í tvíhlaðinni hleðslu. Það bendir til þess að þarna sé um að ræða neðri hluta (hlaðinn) af timburhúsi. Grjót hefur fallið inn og út úr veggjum, en hvergi er að sjá timbur. Bendir það til þess að húsið getið verið a.m.k. frá fyrri hluta síðustu aldar eða eldra. Ekki er að sjá dyr á vegghleðslunni. Hurð hefur því einungis verið á timburveggnum (hugsanlega þó á austanverðum suðurveggnum).

Selvogsgata

Selvogsgata neðan Kerlingarskarðs.

Tilgangur hússins gæti verið einhver eftirfarandi: Athvarf fyrir rjúpnaveiðimenn í Lönguhlíðum og Brennisteinsfjöllum. Á fyrri hluta síðustu aldar gerðu athvæðamiklir veiðimenn út á rjúpuna á þessu svæði, enda leitaði sú litla gjarnan niður í hlíðarnar eftir að snjóa tók efra. Sagnir eru til af mikilli veiði. Þá héldu veiðimennirnir til í húsum undir hlíðunum, sem gott hefur verið að leita í, einkum þegar veður tóku skyndilega að versna þarna efra. Slíkar tóftir má t.s. sjá í Kristjánsdölum þarna skammt norðar með hlíðunum. Önnur tóftin þar (sú nyrðri) er svo til eins og þessi.
Þá gæti þarna hafa verið skjól eða sæluhús fyrir ferðamenn um Selvogsgötuna eða geymsla og/eða athvarf fyrir „aðflutningsmenn“ aðdrátta og afurða til og frá námumönnum í Brennisteinsfjöllum. Fyrstnefnda tilgátan er væntanlega sú er helst kemur til greina.
Frábært veður.

Varða

Varða við Selvogsgötu.

Grindarskörð

Eftirfarandi fyrirspurn barst FERLIR um Bollana ofan Grindarskarða.
„Mig langar til að forvitnast um hvað þið (Ferlir.is) nefnið bollana í Grindaskörðum. Ég hef vanist Stóribolli, Miðbollar og Syðstibolli. Einnig séð: StSelvogsgata-21óribolli, Miðbollar og Syðstubollar. Syðribollar væri þó fremur réttnefni því að aðeins einn bolli getur verið syðstur. Ennfremur að einungis Stóribolli sé nafngreindur sem slíkur en aðrir „bollar“ kallaðir Grindaskarðahnjúkar. Þar að auki segir Jón Jónsson að næstu bollar við Stórabolla heiti Tvíbollar og aðeins gígurinn í þeim stóra eigi að bera nafnið Stórabolli – ekki fellið sjálft. Það er þó væntanlega búið að vinna sér hefð og skilgreinist sem hluti fyrir heild.“
Framangreint er reyndar allt rétt – svo langt sem það nær. Öll nöfnin hafa heyrst og verið skráð af ýmsum, einkum í seinni tíð.
Áður fyrr var einungis tala um Bollana og/eða Grindaskarðshnúka, sem reyndar er rangnefni því Grindaskörð eru utar (norðan við Stóra bolla), en Kerlingarskarð þar sem nefndir Grindarskarðshnúkar eru. Reyndar hafa menn kallað Kerlingarskarðið Grindarskörð í seinni tíð.

Midbollar

Á landakortum eru tilgreindir Stóribolli, Miðbollar og Syðstubollar. Stóribolli er greinilegur úr fjarlægð sem og Miðbollar. Um er að ræða nokkra gíga utan í aðalgígnum (Miðbolla), einum þeim fallegasta á brúninni. Um Syðstubolla gildir annað því þeir sjást ekki neðan frá. Þeir eru minni og rétt innan (ofan) við Grindarskarðshnúka. Þeir koma í ljós þegar komið er upp á brúnina, vestan við Hlíðarveginn og beygt er til vesturs, að ofanverðum Draugahlíðum. Grindarskarðshnúkarnir eru hins vegar tindarnir vestan Kerlingarskarðs og eru ekki gígar. Um þá liggur leið (styttingur) ofan frá námusvæðinu í Brennisteinsfjöllum.
Í einni lýsingunni segir: „Á leiðinni upp í skarðið blasir Stóri bolli, Tvíbolli og Þríbolli við, en eru einu nafni nefndir Bollar eða Grindaskarðshnúkar.“ Hér er talað um Tvíbolla og Þríbolla, auk Stóla bolla. Hægt væri að tala um, líkt og Jón gerði, Tvíbolla vestan Stórabolla. Miðbolli og Syðstubollar eru þó aðskilin gígasvæði, bæði með nokkrum gígum (3-5). Kóngsfellið (sunnan Miðbolla) er hluti af þessum gígum og mætti því vel teljast til Bollanna. Þar hittust fjárkóngar Grindvíkinga, Hafnfirðinga (Seltjerninga) og Ölfusmanna við upphaf leita á haustin.
Midbollar-2Gísli Sigurðsson lýsti Selvogsgötunni og örnefnum á henni á sínum tíma. Hann talar um bollana þrjá. Þá lýsti Ólafur Þorvaldsson leiðinni, en fer skarðsvillt. Konráð í Selvogi lýsir Suðurfaraleiðinni (en svo nefndu Selvogsmenn Selvogsgötuna). Þegar herflugvél fórst þarna ofan við á stríðsárunum var slysstaðurinn tilgreindur Bollar. Þorkell Kristmundsson frá Stakkavík (síðar Brunnastöðum), sem fór þarna oft um talaði einungis um Bollana. Annars fór hann, og bræður hans, Múlann (Fagradalsmúla). Sama nafni nefndi Eggert bróðir hans hábrúnina. (Greiðfærasta leiðin milli Stakkavíkur og Hafnarfjarðar er um Múlann, Breiðdalshraunið, Eldborgina og um Stakkavíkurstíg ofan Selsstígs (munar tveimur tímum). Hún er jafnframt sú fallegasta).
Svona til smábúbótar; Selvogsgatan lá um Grindarskörð (austan við Stórabolla). Þá var einnig farið um Kerlingarskarðið, en einungis fótgangandi eða með lausbeislað. Undir Kerlingarskarði eru tóftir húss námumanna í Brennisteinsfjöllum. Þegar Hlíðarvegurinn var varðaður með stefnu á Kerlingarskarðið tók fólk hann sem Selvogsgötuna. Þá leið hafa leiðsögumenn farið með heilu hópa og talið sig vera á Selvogsgötunni. Selvogsgatan liggur hins vegar frá Stórabolla niður með Litla-Kóngsfelli og um Hvalsskarð, Hlíðardal, Strandardal og áfram niður um Strandarhæð. Hún er vel greinileg, en vörður eru flestar fallnar, nema kannski gatnamótavörður á tveimur stöðum (Heiðarvegur og afleggjari yfir á Hlíðarveg).

Grindarskörð

Grindaskörð og Bollar. Helgafell nær.

Brennisteinsfjöll

Gengið var frá Bláfjallavegi upp í Kerlingarskarð milli Miðbolla og Syðstubolla. Selvogsgatan hefur verið vinsæl gönguleið, en hún skiptist þarna ofan við Helluna, annars vegar upp Kerlingarskarð og hins vegar upp Grindarskörð skammt norðar, norðan Stórabolla. Ofan við Kerlingarskarð eru gatnamót, annars vegar á Hlíðargötu niður að Hlíðarskarði ofan við Hlíð við Hlíðarvatn og hins vegar inn á hina gömlu Selvogsgötu niður í Selvog.

Selvogsgata

Selvogsgata/Kerlingarskarðsvegur.

Hlíðargata er vel vörðuð leið, en við Selvogsgötuna eru flestar vörðurnar fallnar og margar orðnar jarðlægar. Gatan sjálf er þó vel greinileg og sums staðar bæði bein og breið. Hlíðargatan liggur gegnum hraunið niður með vestanverðum Hvalhnúki og Austurásum, en Selvogsgatan um Hvalskarð nokkur austar og niður í Hlíðardal. Hlíðarskarð var talið ófært klyfjahestum og því var Hlíðargatan aðallega farin af gangandi fólki t.d. vermönnum. Vegalengdin er um 15 km.
Þegar gengið var í góða veðrinu áleiðis að Kerlingarskarðinu var m.a. velt vöngum yfir nafngiftinni. Var hún til komin vegna þess að það þætti lægra eða auðveldara uppgöngu en Grindarskörðin? Nei, hvorugt á við rök að styðjast. Kom nafnið þá kannski til vegna einhverrar kerlingar, sem nú er löngu gleymd, eða hver er annars sagan á bak við nafnið?

Kerlingarskarð

Kerlingarskarð.

Á Snæfellsnesi er Kerlingarskarð. Þegar komið er þar niður brekkuna af háskarðinu, þegar komið er að sunnan, er hægt að sjá móbergsdrang skaga upp úr Kerlingarfjalli, það er hin eina sanna kerling sem Kerlingarskarð er kennt við. Í þessu Kerlingarskarði í Lönguhlíðu er hraundrangur svo til efst í því miðju. Mannsmynd hans gæti hafa komið fram í þokukenndu skarðinu eða hún veðrast. Gæti drangurinn einhvern tímann hafa heitið Kerling?
Á Snæfellsnesi eru margar sögur af Kerlingunni á Kerlingarskarði og eru margar þeirra svipaðar en nokkur smáatriði eru ólík. Eru margar sögur af uppruna hennar og erindi: Sumir segja að Kerlingin hafi verið af Barðaströnd, aðrir að hún hafi búið í Hítarhelli í Hítardal og enn aðrir að hún hafi búið í helli í Hallmundarhrauni eða á Kili.

Kerlingarskarðsvegur

Efst í Kerlingaskarði. vegur sést vel neðra sem og drykkjarsteinninn í efra.

Sagt er að Kerlingin hafi verið að fara að hitta vin sinn Lóndrang, einnig er sagt að vinurinn hafi verið Korri á Fróðárheiði. Hún er einnig sögð hafa verið á veiðum í Baulárvallavatni vegna þess að hún hefur silungakippu á bakinu.

Kerlingin lagði af stað heiman frá sér og hélt vestur Snæfellsnes. Hafði hún með sér hest og á honum klifjar með skyrtunnu og heysátu, sumir segja að hún hafi einnig haft með sér hafur. Þegar Kerlingin var komin þangað sem nú er Kerlingarskarð ætlaði hún að stökkva yfir skarðið en þurfti að bíða því menn voru í skarðinu. Sumir segja að þar hafi Þangbrandur eða aðrir kristnir menn verið á ferð að boða kristni og hafi hitinn verið svo mikill að Kerling gat ekki stokkið yfir áður en sólin kom upp og varð því að steini. Einnig er sagt að ferðamaður hafi verið þar og sagt: „líttu í austur kerling“ í þann mund er sólin kom upp og hafi kerlingin orðið að steini.

Kerlingaskarð

Kerlingaskarð framundan.

Í Kerlingarskarði í Lönguhlíðum eru tveir drykkjarsteinar, skessukatlar. Í þessum kötlum er alltaf vatn. Annar þeirra hafði týnst (fyllst) þangað til fyrir stuttu að FERLIR fann hann aftur. Beggja var getið í gömlum heimildum. Ekki er ólíklegt að skálar þessar hafi verið nefndar kerlingar í fyrri tíð og skarðið dregið nafn sitt af þeim.

Þekkt er nafngiftin á Grindaskörðum. Líkt og Molda-Gnúpur á að hafa girt fyrir Siglubergshálsin til að varna fé niðurgöngu á gróna Hraunssandana girti Þórir haustmyrkur Víðbjóðsson fyrir í Grindarskörðum til að varna fé sínu niðurgöngu af Selvogsafrétti. Ætla mætti að nægt girðingarefni hafi þá verið við hálsana og landslag með öðrum hætti en nú er þótt fátt virðist benda til þess að svo hafi verið. Umhverfið er þakið tiltölulega nýjum hraunum, sem komið hafa upp úr Bollunum, s.s. Tvíbollahraunin (Leiðarendi), sbr. Hellnahraun hið síðara, um og í kringum 950.

Grindarskörð

Selvogsgatan efst í Grindarskörðum.

Hvort sem ástæða nafngiftarinnar sé á rökum reist eður ei stendur hún vel fyrir sínu, líkt og svo margar aðrar. Annars er vel þekkt að nöfn hafa færst á milli staða, gömul glatast og ný tekin upp frá einum tíma til annars. Í nafnafræðunum er fátt nýtt undir sólinni, en sömu grundvallaratriðin koma þó yfirleitt byrjendum flestum á óvart. Þannig eru mörg dæmi um að ákv. staður hafi heitið fleiri en einu nafni á meðan aðrar nafngiftir virðast á reiki. En svona er lífið – margþætt og flókið, en einfalt fyrir þá sem hafa öðlast skilning á hvorutveggja.
Fyrst byrjað er að hugleiða nafngiftir: Hvers vegna heitir keilan (kvk) norðan Þráinsskjaldar Keilir, þ.e. karlmannsnafni.? Hvers vegna ekki Keila, eins og eðlilegast væri?
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Selvogsgata

Selvogsgata – kort ÓSÁ.