Tag Archive for: Krýsuvík

Húshólmi

Sveinbjörn Rafnsson skrifaði um aldur Ögmundarhrauns í afmælisrit helgað Sigurði Þórarinssyni, jarðfræðingi. Greinin birtist í bókinni “Eldur er úr norðri”, sem gefin var út árið 1982. Eftirfarandi er úr greininni:

Húshólmi

Húshólmi – garður.

“Nóg er af eldstöðvum og hraunum á Reykjanesskaganum. Þessi gróðursnauði og eldbrunni skagi hefur þó lengst af verið þéttsetinn fólki frá því að land byggðist. Því valda einhver fengsælustu fiskimið landsins í sjónum umhverfis. Á síðari öldum flykktist fólk hundruðum saman á vetrarvertíð á Suðvesturlandi. Á þessu landssvæði var og er reyndar enn hlutfallslega margt um manninn. Þar settust erlendir kaupmenn snemma að og þaðan barst tíska, auður og fréttir utan úr heimi um allt land. Þetta var land tækifæranna þar sem stundum hlaust mikill afli og gróði, en stundum mikil fátækt og örbirgð. Þessi ólga mannlífsins á Suðvesturlandi mótaði ýmsa drætti í íslenskri menningu fyrrum ekki síður en nú á tímum.

Húshólmi

Húshólmi – leifar af fornum garði.

Margar þeirra þjóðsagna sem skráðar voru á 19. öld endurspegla að einhverju leyti ferðalög vermanna að norðan í verið á Suðvesturlandi þegar þeir eiga að hafa hitt tröll eða útilegumenn á leiðinni. En einnig eru til sagnir af sjálfu Suðvesturlandi sem þekktar hafa verið um allt land og mega því ef til vill fremur en aðrar sögur kallast þjóðsögur. Dæmi um slíka sögu er sagan um huldukonuna í Geirfuglaskeri. Sögur urðu oft til um staði þar sem menn áttu leið um á sjó eða landi.

Á Reykjanesskaga lágu leiðir um ung og úfin hraun og þar kynntust menn meiri óvegum á landi en víðast annars staðar. Fjölförnust slíkra leiða fyrrum hefur væntalega legið um Kapelluhraun sem líklega er nefnt Nýjahraun í Kjalnesingasögu eins og Þorvaldur Thoroddsen hefur getið sér til um.

Húshólmi

Húshólmi – meint kirkjutóft í Kirkjulág.

Annað hraun á Reykjanesskaganum úfið og ungt, sem ruddur var vegur um fyrrum var Ögmundarhraun. Dálítið er af sögum og sagnbrigðum um veginn yfir Ögmundarhraun. Elsta skráða sögnin um hraunið er líklega hjá Sveini Pálssyni frá 1796. Þar er sagt frá því að Ögmundur nokkur hafi rutt veg um hraunið og verið myrtur að launum austan við það, þar sem sé dys hans. Sveinn virðist stinga upp á að dysin sé leyfar af tollbúð Ögmundar.

Húshólmi

Gerði við Húshólma.

Á nítjándu öldinni voru svo skráðar ítarlegri sagnir um Ögmundarhraun. Jón Vestmann prestur í Selvogi skráir sögu um Ögmund og Ögmundarhraun tvisvar á fyrri hluta 19. aldar. Hjá honum er sagan lík um Ögmund nema þar vinnur hann við vegargerðina til að fá dóttur bónda (á Ísólfsskála 1818 og í Krýsuvík 1840) sér til handa, en bóndi drepur hann sofandi áður en hann fær hennar. Brynjúlfur frá Minna-Núpi skráði einnig sögu um Ögmund og Ögmundarhraun á síðari hluta 19. Aldra. Þar er sagan svipuð hinum fyrri, en þar er Ögmundur kallaður berserkur. En vegurinn um Ögmundarhraun fær þess einkunn:

Eru í hrauni Ögmundar
Ótal margir þröskuldar
Fáka meiða fæturnar
Og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Sagan um Ögmund er auðvitað skyld sögunni um berserkina og Berserkjahraun, sem sagt er frá í Eyrbyggju eins og Þorvaldur Thoroddsen benti á fyrir löngu. Eins og sjá má virðist sagnamyndunin um staðinn ekki ýkja gömul og hafa þróast á 18. og 19. öld.

Allt frá útgáfu ferðabókar Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar hafa lýsingar á byggðaleifum í Ögmundarhrauni verið almennt kunnar. Í ferðabókinni segir:
“..at Innbyggerne I og nær ved Kriseviig, viide at fortælle om en forskrækkelig Jordbrand, som… har skikket en Ildström neð til Söekanten, og ödelagt nogle Gaarde paa den Strækning, hvor ÖgmundsHraun nu ligger, og iblandt disse er Kirkestedm kaldet Holmastadur, hvo man endnu seer Stykker af Kirke-Gaarden og Huuse-Toftene”.
Jón Vestmann lýsir einnig byggðaleifum þarna og nefnir Húshólma árið 1818 og segir að ein tóftin, sem snúi eins og kirkja, sé talin gamalt goðahof. Enn lýsir Jón Vestmann byggðaleifunum í Húshólma árið 1840. Þá er í sögnum, sem Brynjúlfur frá Minna-Núpi skráir á síðari hluta 19. aldar, stuttaraleg lýsing á byggðaleifunum. Þorvaldur Thoroddsen lýsir einnig byggðaleifunum í ritum sínum og hefur greinilega mælt þær.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Ítarlegust þeirra lýsinga á byggðaleifunum sem birst hafa á prenti er lýsing Brynjúlfs frá Minna-Núpi í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1903, bls. 48-50. Þar birtist einnig kort eða mynd af legu rústanna í Húshólma. Fram að tíma Brynjúlfs hafði þess ekki verið getið að byggðaleifar eldri en Ögmundarhraun væru ekki einungis í Húshólma, sem er nærri austurjaðri hraunsins, heldur einnig í Órennishólma, sem er nokkur vestar í hrauninu en Húshólmi. Telur Brynjúlfur það af þessum ummerkjum ekki efamál að kirkjustaðurinn Krýsuvík og bæri “ef til vill eigi allfáir” hafi farið undir hraunið. Tilgáta Brynjúlfs er sennileg ef hverfisbyggð hefur verið á þessumstað þegar Ögmundarhraun rann, eins og tíðkast á Suðurlandi, frá Kjós og austur í Lón. Í Jarðatali Johnsens eru t.d. taldar 7 hjáleigur í Krýsuvíkurhverfi.

Selatangar

Á Selatöngum.

Verbúðir og fiskbyrgi á Selatöngum eru yngri en Ögmundarhraun enda úr því hlaðin. Á þá verstöð er fyrst minnst í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.
Loks verður að geta þess að Ólafur Þorvaldsson hefur nokkuð lýst staðháttum á þessum slóðum í fróðlegum þáttum um Krýsuvík og mannlíf þar í byrjun þessarar aldar.

Fræðimenn hafa metið aldur Ögmundarhrauns á tvennan hátt. Annars vegar af athugun á sjálfu hrauninu og legu þess, hins vegar af ritheimildum, fyrst og fremst annálum, um gos á þessum slóðum.

Húshólmi

Húshólmi – skálatóft.

Af útgáfu ferðabókar Eggerts og Bjarna er ljóst að þeir telja Ögmundarhraun nýlegt hraun, “en nye opkommen sæl Egn”. Að hraunið sé kki ýkja gamalt er innig skoðun Jónasar Hallgrímssonar. Þorvaldur Thoroddes kveður hins vegar upp úr um það að hraunið sé yngst allra hrauna sem þarna séu. Athugaði Þorvaldur Ögmundarhraun sérstaklega árið 1883 og birti síðar af því kort. Þannig var fræðimönnum ljóst af Húshólmarústunum, allt frá tímum Eggerts og Bjarna, að hraunið var yngra en Íslandsbyggð og eftir könnun Þorvalds varð ljóst að það var með yngstu hraunum á Reykjanesskaganum.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Íslenskir jarðfræðingar á þessari öld hafa auðvitað ýsmir skoðað Ögmundarhraun en einhver merkasti áfanginn í rannsóknunum á því í seinni tíð hlýtur þó að teljast hið ítarlega jarðfræðikort Jóns Jónssonar, jarðfræðings, af Reykjanesskaga, sem út kom 1978. Jón lýsir upptökum hraunsins, útbreiðslu og samsetninu. Hann telur að það þeki 16 ferkílómetra lands og ætlar að það muni vera um 0.32 rúmkílómetrar. Af korti Jóns má glöggva sig á legu og stærð Óbrennishólma og Húshólma í hrauninu.
Snúum okkur þá að ritheimildum og tilraunum fræðimanna til að koma við algeru (absolut) tímatali í árum eftir Kristburð hvað varðar Ögmundarhraun.
Eins og fyrri daginn ríður útgáfa ferðabókar Eggerts og Bjarna á vaðið. Þar er fjallað um Trölladyngjur, sem minnst sé á í annálum miðalda, en það séu eldfjöll sem gert hafi usla á Suðurlandi. Er á það bent að á Reykjanesskaga sé fjall sem sé kallað Trölladyngja og talið að það nafn hafi ef til vill átt við fleiri fjöll á þessum slóðum. Enn fremur segir frá því að uppteiknanir Gísla biskups Oddssonar séu eina ritið sem geti um gos í Trölladyngju 1340 og er látið að því liggja að þá hafi Ögmundarhraun kannski runnið. Rit Gísla biskups Oddssonar er latínuskrif hans Annalium farrago, annálabrot.

Ögmundardys

Ögmundardys.

Snemma á nítjándu öld var hafi útgáfa Árbóka Íslands eftri Jón Espólín. Í fyrsta bindi þeirra er annálagrein, sem er nær samhljóða annálagreininni í riti Gísla um gos í Trölladyngju, eini verulegi munurinn er ársetning gossins. Espólín telur það 1390, en Gísli og útgáfa ferðabókarinnar um 1340. Eftir útgáfu Jóns Jóhannessonar á Sjávarborgarannál er ljóst að þar er komin heimild Espólíns um Trölladyngjugosið.
Með útgáfu ferðabókar Eggerts og Bjarna og útgáfu Árbóka Espólíns var markaður sá bás sem aldursákvarðanir Ögmundarhrauns áttu eftir að velkjast í á 19. öld. Jónmas Hallgrímsson stendur ráðþrota frammi fyrir þessum heimildum og veit ekki hvort hann á heldur að telja hraunið runnið 1340 eða 1390. Þorvaldur Thoroddesn virðist heldur ekki kunna lausn á þessum ágreiningi, en tilfærir báðar heimildirnar og telur þær ef til vill eiga við Ögmundarhraun.
Þó reynir Þorvaldur að höggva á hnútinn með því að vitna í aðrar ritheimildir en annála.

Húshólmi

Húshólmastígur.

Jón Þorkelsson setti fram tilgátu í sambandi við leshátt í gömlu kvæði um krossinn helga í Kaldaðarnesi frá 16. öld. Þessi tilgáta var því miður slæm. Í Kvæðinu stendur þetta vísuorð í 23. vísu: “Út á mitt kom orgnisraun” (eða oguisraun). Þessu síðasta orði í vísuorðinu vill Jón breyta og lagfæra í Ögmundarhraun. Þessa lagfæringartilgátu Jóns taldi Þorvaldur að mætti nota sem aldursmark við tímasetningu Ögmundarhrauns.
Ögmundarhraun er ekki upprunnið úr Trölladyngju og þurfa þá tímasetningar gosa í einhverri Trölladyngju ekki að skipta máli hvað varðar aldur þess. Ekki er unnt að reiða sig áneina þeirra ritheimilda sem nefndar hafa verið um aldur hraunsins.

Krýsuvík

Krýsuvík.

Í dagbók Eggerts og Bjarna, en þeir munu hafa verið í Krýsuvík 1755, eru upplýsingar, sem fólk í Krýsuvík hefur gefið þeim félögum. Hraunið rann samkvæmt lýsingu þess um miðja 16. öld og kirkjustaður varð fyrir barðinu á því. “Om Effter middagen forloed vi Krisevigen með alla, og Reiste moed NV, först over et Nyt hraun, Ögmundarhraun Kaldet, dette Steenfloed Har for omtrent 200. aar siden, brændt og rundet Ned fra fieldene hen til Söen over 2. miile lang vey…! Erfitt er að segja hvers vegna þessari frásögn var sleppt í prentútgáfunni af ferðabókinni 1772.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – Latfjall fjær.

Örnefnið Ögmundarhraun finnst ekki í eldri heimild en ofangreindri dagbók þeirra Eggerts og Bjarna frá 1755. Öðru máli gegnir um Húshólma, þar örnefni kemur fyrst fyrir í heimild frá byrjun 17. Aldar. Í handritinu AM 66a 8vo, sem er bók með ýmsum gögnum úr embættistíð Odds Einarssonar biskups, er á bl. 55r-56v afhending séra Gísla Bjarnasonar á Krýsuvík til séra Eiríks Stefánssonar árið 1609. Er það úttekt á húsum og búfé og fylgir trjáreikningur, þ.e. upptalning og rekatrjáa á Krýsuvíkurfjörum frá sama ári. Örnefni á rekafjörunum eru greinilega talin frávestri til austurs. Þar er getið um Selatanga, Húshólma, Bergsenda, Sandskriðu og Keflavík. Athyglisvert er að í þessari upptalningu á Krýsuvíkurrekum er ekki að sjá að gæti þeirra skipta á rekaítökum milli Viðeyinga, Bessastæðinga, Skálhyltinga, Krýsvíkinga og Strenda sem fram kemur í máldögum miðalda. Þessi rekamál eru að vísu firna erfið viðfangs, því að við brotakennda varðsveislu heimildanna bætast ófullnægjandi prentútgáfur þeirra í Íslensku fornbréfasafni, ekki síst af Vilkinsbók.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun.

Húshólmi virðist ekki til í eldri heimild en trjáreikningum frá 1609. Þess verður að geta sérstaklega að í þeim lýsingum frá síðari tímum sem til eru, er Húshólmi talinn einn þeirra staða þar sem hvað rekasælast er á Krýsuvíkurrekum. Húshólmi markast af Ögmundarhrauni og verður þessi elsta heimild um hann þá einnig elsta ótvíræða ritheimildin um tilvist hraunsins.
Af kirknaskrá Páls Jónssonar Skálholtsbiskups frá því um 1200 virðist ljóst að þá sé komin prestskyldarkirkja í Krýsuvík. Til eru og heimildir frá 14. Öld um Krýsuvík og er ljóst af þeim að þá er staður (beneficium) í Krýsuvík. Staðarprestar í Krýsuvík koma einnig glöggt í ljós í þeim heimildum frá 15. Öld, sem nefndar eru í sambandi við rekaítök Viðeyjarklausturs í Krýsuvík.

Gestsstaðir

Gestsstaðir í Krýsuvík, sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Heimildir frá 15. öld eru til fleiri. Máldagi Krýsuvíkur, samhljóða framan af fyrsta hluta Krýsuvíkurmáldaga í Vilkinsbók um rekana, er til varðveittur úr tíð Magnúsar Eyjólfssonar Skálholtsbiskups (1477-90). Ennfremur er til varðveitt stutt minnisgrein um það að árið 1496 hafi Stefán Jónsson Skálholtsbiskup látið meta byggingarnar á Krýsuvíkurstað, kirkjuna “og staðinn allan með hjáleiguhúsum innan garða”.
Árið 1525 á séra Guðmudnru Steinsson “beneficiator” í Krýsuvík viðskipti við Viðeyjarklaustur með milligöngu Ögmundar Pálssonar Skálholtsbiskups. Engan bilbug virðist þannig vera að finna á Krýsuvíkurstað á kaþólskum tímum.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – kort.

Ekki virðist vegur Krýsuvíkurstaðar heldur fara minnkandi í tíð Marteins Einarssonar Skálholtsbiskups, en frá honum er til Krýsuvíkurmáldagi 1553-54. Greinilegur lútherskur keimur er af talinu um fánýtar bækur í kirkjunni en þar segir einniga ð “kirkja góð” sé í Krýsuvík.
Gísli Jónsson varð Skálholtsbiskup eftir Marteini árið 1558 og var þar til dauðadags 1587. Úr biskupstíð Gísla eru varðveittir allmargir máldagar. Þau ártöl, sem þar koma fyrir, eru á tímabilinu 1574-79. Þar er máldagi Krýsuvíkurstaðar með sama miðaldaforminu og áður, rekaskipanin talin, en innanstokksmunir og ornament líkt og í Marteinsmáldaga.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Það er í biskupstíð Gísla sem Krýsuvík er lögð niður sem beneficium og alkirkjustaður og var það gert með dómi höfuðsmanns Páls Stígssonar 27. september 1563. Það er því víst að Krýsuvíkurmáldaginn úr biskupstíð Gísla er frá árabilinu 1558-63.
Af öllu framansögðu er ljóst að líklega hefur hraunið ekki runnið fyrr en Gísli biskup hafði vísiterað í Krýsuvík, a.m.k. einu sinni. Ögmundarhraun hefur þannig líklega brunnið seint á árabilinu 1558-1563.”

Heimild m.a.:
-Eldur er í norðri – afmælisrit helgað Sigurði Þórarinssyni sjötugum – Sveinbjörn Rafnsson – 1982.

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni.

Krýsuvík

Eftirfarandi fróðleikur barst frá einum FERLIRsfélaganna: „Rakst á meðfylgjandi bréf frá hjáleigubændum í Krýsuvík um daginn og datt í hug að þið hefðuð gaman að.
Bréfin eru til krysuvik-spegill-221Landsnefndarinnar fyrir sem starfaði hér á landi á árunum 1770-1771 en þá gafst landsmönnum tækifæri á að skrifa til konungs eða embættismanna hans milliliðalaust (þ.e. án aðkomu innlendra embættismanna, s.s. sýslumanna) og segja álit sitt á stjórnun landsins, viðreisn atvinnuveganna eða bara hverju sem var sem þeim lá á hjarta. Það notfærðu hjáleigumenn í Krýsvík sér og fjölluðu um samskipti sín við Krýsuvíkurbóndan. Hátt í tvö hundruð bréf bárust nefndinni alls, bæði frá embættismönnum hér á landi og almenningi.
Bréf Krýsvíkinganna er einstakt að því leyti hve mikið af örnefnum á svæðinu koma fram. Gaman væri að vita hvort sérfróðir menn um svæðið þekki örnefnin og geti staðsett þau?
Þess má geta að Símon Sighvatsson sem getið er um í bréfinu er sá hinn sami og vann við brennisteinsvinnsluna á meðan hún var í gangi ca. 1755-1763. – Með bestu kveðju.“

Tvö bréf til Landsnefndarinnar frá hjáleigubændum í Krýsuvík. – ÞÍ. Rtk. 18,6 örk 11. (liggja með bréfum úr Árnessýslu):
„Veleðla, hálærðir og háttagtaðir herrar!
Náð, heilsa, lukka og blessan af Guði föður og drottni vorum herra Jesú Christo. Vér undirskrifaðir Vernharður Rafnsson og Hallvarður Jónsson ábúendur á Stóra-Nýjabæ í Krýsuvíkurhverfi.
Stori-nyjabaer-31. Gefum fyrst til vitundar ásigkomulag jarðarinnar. Á þessari jörð sem við nú á búum voru fyrst þriðjungaskipti það menn lengst til muna og bjó annar á tveim pörtum jarðarinnar og hinn á þriðjungi, voru og eru bæirnir nefndir Austurbær og Vesturbær. Austurbænum fylgdu 2 partar jarðarinnar og Vesturbænum þriðjungurinn og skipti gata túnum af bæjarhlaði norður og suður í mýri til suðurs en í mel til norðurs. So og voru tilgreind örnefni eður kenniteikn engjanna, beggja partanna jarðarinnar, sem so nefndust, Flóðakrókur, Teitsflóð, Fremri-Álfsteigur, á miðli Álfsteiga, Innri-Álfsteigur. Þessar engjar sem nú eru nefndar tilheyrðu þriðjungi jarðarinnar og eitt kúkvíildi, eftir hvört voru goldnir 2 fjórðungar smjörs og tvær vættir af hörðum fiski í landskuld. Austurbænum eður tveim pörtum jarðarinnar tilheyrðu sonefnd Engjapláts, Kringlumýri, Mosar eður lítið holt það sem Nýjabæjar engjagarður á stendur.

fifumyri-1

Þar fyrir norðan nefnist Syðri-Höfði og Nyrðri og Fífumýri fyrir austan Litla-Lambafell, fyrir norðan og austan Gilið nefnist fyrst Þúfnamýri vestanundir Seljamýrarholti og Arnarófur áfastar við Þúfnamýri. Frá fyrrnefndri Kringlumýri fyrir austan Gilið nefnast Dýjarófur, Blettir, Höfði, Grasgil, Litli-Höfði fyrir vestan Seljamýrarholt. Fyrir austan greint holt nefnist Seljamýri og Nýjabæjarhvammur. Eftir þessa tvo parta jarðarinnar guldust árlega í hörðum fiski 4r vættir. Eitt kúkvíildi og þrjár ær fylgdu þessum tveim pörtum, eftir þetta hálft annað kvíildi guldust 3 fjórðungar smjörs.
Seljamyri-2

Nú nefnist sá bóndi er bjó á Krýsuvík Sveinbjörn Eiríksson og kona hans Hallbera Jónsdóttir, að fyrrnefndum Sveinbirni sáluðum giftist Hallbera aftur velnefndum Jóni Sigmundssyni, hvör og so er sálaður. Í tíð Sveinbjarnar var heimajörðinni Krýsuvík skipt til helminga og kom til jarðarinnar móti Sveinbirni og Jóni sál. Sigmundssyni, Magnús Jónsson nú búandi á Stafnesi, hann bjó á helmingi jarðarinnar. Að Magnúsi burtviknum og Jóni sáluðum, bjó fyrrnefnd Hallbera ein á heimajörðinni Krýsuvík þar til Símon Sighvatsson tók við jörðinni, sem nú er jarðarinnar ábúandi.
Í tíð fyrrnefnds Sveinbjarnar Eiríkssonar bjó sá maður fátækur er Jón Jónsson hét á tveim pörtum Stóra-Nýjabæjar. Þá skipti Sveinbjörn engjum Stóra-Nýjabæjar sem tveim pörtunum tilheyrðu til helminga (að hann sokallaði) og tók þann partinn er hann sjálfur vildi og lét eina vætt af landskuld niður falla. So og tók hann til sín þær þrjár ær sem jörðinni fylgdu og setti aftur kúkvíildi, hvar eftir han tók 2 fj. smjörs, og þessi kvíildaþungi helst við jörðina enn nú og sama er að segja um Nýjabæjarengjar er Sveinbjörn sér skipti, að þær yrkir og heldur hvör Krýsuvíkurbóndi eftir annan, jafnvel þó Stóra-Nýjabæjar fátækir ábúendur stórlega eftir sjái.

Krysuvik - vesturengjar

Í tíð Hallberu Jónsdóttir var Stóra-Nýjabæ skipt til helminga að forngildunni frátekinni, og ég Vernharður Rafnsson óskaði eftir mínum parti forngildunnar og fékk ég ekki. So og er engjastykki með hefð fallið undan Stóra-Nýjabæ úr þriðjunga engjunum til heimajarðarinnar, og fyrir það ekkert fiskvirði niðurfallið, hvört engjastykki ég nefni Flóðakrók er fyrrnefndi og Teitsflóð allt, allt að Fremra-Álfsteig, hvört engjastykki ég meina 6ta part af þriðjunga engjun-um. Þetta engjastykki sýnist mér okkur báðum tilheyra sem nú búum á Stóra-Nýjabæ. Sömu-leiðis á Járngerðastaða manntalsþingi, óskaði ég eftir mínum parti forngildunnar og fékk ég ekki.
Krysuvik - vesturengjar - 22. So eru og afmarkaðar fjörur sem Stóra-Nýjabæ fylgja og so nefnast Bergsendi, og í öðrum stað Keflavík, á hvörjum greindum fjörum vér tökum söl oss til lífsbjargar, en ekki megum vér þar eitt trékefli af taka, hverki til jarðarinnar húsa eður bæta nokkra vora búshluti er vér þurfum daglega á að halda.
3. So og hlýt ég gefa til vitundar ásigkomulag um heilsu mína og fémuni sem er, ég er vanfær maður og veikur, og oftar í rekju liggjandi en á fæti vinnandi, so er og kona mín heilsulin orðin, og ekki er fyrir okkur að hafa utan einn piltur um tvítögs aldur, sem er launsonur minn, so og er laundóttur konu minnar, og er þetta okkar fyrirvinna. En um fjármuni er það að segja að við eigum 5 ær veikar af kláðapest, eina kú og eina kvígu að fyrsta kálfi og eina kálflausa kvígu, og tvísýnt að þessir gripir lifi fyrir hor og 7 hross klifbær og 2 trippi, einn 6 ræðing og verð ég að kaupa mann úr annarri sveit fyrir 40 álnir að vera formann fyrir skipinu.
Á þessu ári 1770 var uppá mig fluttur undirvetur, bróður minn skilgetinn Hálfdan Rafnsson að nafni, mállaus og so gott sem mætti fyrtur í læri, síðu og handlegg, hvörjum ómaga eftirfylgdi kona hans og eitt barn, og taldist ég undan móti þeim að taka, og sögðu þeir það legði sig sjálft að leggja honum af sveitinni, og hafa þeir það soleiðis efnt að ég hef meðtekið eina mjöl hálftunnu af því innflutta forskemmda gamla mjöli, og annað hef ég en nú ekki meðtekið. Þetta átti að vera fyrir vökvum. En fyrir guðssakir skyldast til að hýsa þennan ómaga flutti lögréttumaðurinn mr. Jón Stefánsson á Járngerðastöðum í Grindavík og hreppstjórinn mr. Símon Sigvatsson á Krýsuvík á mitt heimili. Ég bið Guð á himnum og herra Danmerkur kóngsins innsenda herra á málefni mitt að líta hvört mig rétt skeður. Þetta staðfesti ég í kör liggjandi með mínu réttu skírnarnafni og hjáþrykktu signeti. –
Stóra-Nýjabæ, Vernharður Rafnsson d. 1. júní 1771. Hallvarður Jónsson L. S.“

Og seinna bréfið…

krysuvik 1810-2„Vér undirskrifaðir ábúendur á Krýsuvíkur-hjáleigum gefum til vitundar. 1. Um okkar afmarkaða fjöru sem vér tökum söl oss til lífsbjargar, hvar og so er trjáreki hvörn heimabóndi Krýsuvíkur hirðir og til sín tekur, og megum vér ekki þar af taka álnar langt tré. En þurfum þess þó nauðsynlega við til uppbyggingar vorra leiguhúsa og verkfæra sem vér daglega meðþurfum. En sumir af oss so fátækir að vér getum ekki keypt til húsa eður verkfæra sem vér meðþurfum.
2. Um ásigkomulag hjáleignanna. Fyrst Suðurhjáleiga, henni fylgir eitt kvíildi, eftir hvört árlega eru goldnir 2 fjórðungar smjörs og þrjár vættir af hörðum fiski árlega í landskuld. Þar nærst Norðurhjáleiga sem fylgir eitt kvíildi og eftir það árlega goldið 2 fj. smjörs og 2 vættir í landskuld árlega.

Krysuvik-442

Þriðja hjáleiga, Litli-Nýjabær, fylgir 1 kvíildi og eftir það goldnir 2 fj. smjörs árlega og tvær vættir af hörðum fiski árlega í landskuld. Í þessar skuldir gildir ekki annað að bjóða þó bág tíð falli, en fisk í landskuld og smjör í leigur.
3. Hér er og so bjarg það við sjó sem fuglvarp er í og festi tilbrúkuð að ná fugli og eggjum í þessu bjargi. Bóndinn í Krýsuvík á festina og tekur eftir hana hlut, hann setur þangað so marga menn sem hann vill, en hvör hjáleigumaður á þar einn mann. Krýsuvíkurbjarg er óskipt land og tekur heimabóndi Krýsuvíkur landhlut af þessu bjargi, sömuleiðis tekur hann menn undir festina úr öðrum plátsum til fulls hlutar þá hann vill, að hjáleigumönnum sínum óaðspurðum.
4. Laust við þetta bjarg er og so umflotið sker eður klettur sem fuglvarp er á, í hvörn nefndan klett ekki verður utan á skipi komist. Af þeim klett tekur heimabóndi landhlut og eru nú 8 ár síðan sá landhlutur var fyrst tekinn, og muna ei menn að hann hafi fyrr tekinn verið.
vigdisarvellir-2215. Það er sagt að allt Krýsuvíkurland sé óskipt að fráteknum túnum og engjum. Hér í Krýsu-víkurlandi eru selstöður frá tveimur bæjum í Grindavík, nefnilega Hópi og Þórkötlustöðum. Tekur heimabóndi 1 rixdal árlega frá Hópi en 8 ræðing lætur hann ganga á Þórkötlustöðum sem kvittar þeirra selstöðu, en búsmali þeirra gengur í óskiptu Krýsuvíkurlandi, að fráteknum þeim mikla yfirgang er hross þeirra í Grindavík, tamin og ótamin, veita Krýsuvíkur innbyggj-urum árlega bótalaust á þeirra engjum.
6. Vér Krýsuvíkur innbyggjarar erum til kvaddir að gjöra allt torfverk að Krýsuvíkurkirkju og kirkjugarða og fáum hvörki mat né drykk eður nokkur laun fyrir það erfiði. En þetta skeður tíðast um þann tíma er menn þurfa að bjarga lífi sínum til lands og sjávar.
7. Allir hjáleigumenn hér sem tíund gjöra gjalda kirkjunni árlega 6 fiska og er sá tollur ljóstollur nefndur.
Hopssel II 8. Prestinum gjöldum vér árlega 15 fiska hvör hjáleigumaður í peningum eður undir stakk.
9. Sálist fullorðinn maður hér innan sóknar þá mega menn gjalda 24 fiska í legkaup og prestinum 12 fiska. En eftir ungbarn eður tannleysing 12 fiska í legkaup og 6 fiska prestinum.
10. Allir þeir hjáleigumenn hér sem tíund gjöra gjalda árlega undir stakk 10 fiska hvör maður og er sá tollur kóngsfiskar eður gjaftollur kallaður.
11. Vér gefum og til vitundar halla þann eður afvigt er vér líðum í kaupstaðnum, þar okkar vigt stendur skjaldan eður aldrei heima í kaupstaðnum. En það oss er þar útvegið er oftast lagt á vora vigt.
12. Einninn gefum vér til vitundar bágindi þau sem langvarandi verið hafa og enn nú viðhaldast af fjárpestinni, að menn geta ekki bjargað sér til lands eður sjávar fyrir klæðleysi.
Þessu til frekari staðfestu eru vor undirskrifuð nöfn Krýsuvíkurhjáleigumanna, að Stóra-Nýjabæ í Krýsuvíkurhverfi, dag 1. júní Ao 1771. –
Vernharður Rafnsson, Rafn Magnússon, Jón Jónsson, Magnús Ingimundsson, Hallvarður Jónsson.“

Heimild:
-www.skjalasafn.is, ÞÍ. Rtk. 18,6 örk 11. Lit. Hh. N° 2.

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

Eftirfarandi umfjöllun um „Gróðurhús og búskap í Krýsuvík“ birtist í Skinfaxa árið  1951:
„Á síðari árum hefur margt og mikið verið rætt og ritað um framkvæmdir Hafnarfjarðarkaupstaðar í Krýsuvík. Verður hér stuttlega skýrt frá því, sem þegar hefur verið gert þar og helztu fyrirætlunum.
Krýsuvík liggur um miðbik Reykjaness að sunnanverðu, milli Grindavíkur og Herdísarvíkur, en suðvestan við Kleifarvatn. Fyrr á tímum var þar höfuðból með sex hjáleigum, og um síðustu aldamót lifðu þar um 40 manns. Var sauðfjárræktin undirstaða búskaparins þar og sömuleiðis sjósókn. — Krysuvik - bustjorahusid
Síðan tók fólki stöðugt að fækka og byggðin að eyðast. Olli því að sjálfsögðu breyttir búskaparhættir og þjóðarhættir, og auk þess samgönguleysi. Kom þar að lokum, að aðeins einn maður dvaldi í Krýsuvík, og hafðist hann við i leifum af kirkjunni. Leið þó ekki nema einn vetur, að mannlaust væri í Krýsuvík, áður en starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar settist þar að.
Hafnarfjarðarbær fékk eignarrétt á ræktunarlandi og hitasvæði í Krýsuvík árið 1937. Undirstaða framkvæmda þar hlaut að teljast vegarlagning þangað, en lög um Krýsuvíkurveg höfðu verið samþykkt á Alþingi árið 1936. Síðan sá vegur tengdist Suðurlandsundirlendinu, hefur hann komið í góðar þarfir á vetrum, — ekki hvað sízt á síðastliðnum vetri. — Milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur eru 25 km.
Framkvæmdir í Krýsuvík eru þríþættar, og hafa þessir þrír þættir frá upphafi verið aðskildir, þótt á síðasta ári hafi tveir þættirnir verið sameinaðir undir eina stjórn. Þessir þrír þættir eru: Ræktun í gróðurhúsum, grasrækt og kúabúsframkvæmdir og boranir eftir jarðhita.

A. Gróðurhús.
Krysuvik - grodurhusinVegna jarðhitans eru skilyrði til ræktunar í gróðurhúsum ótakmörkuð í Krýsuvík. Nú eru gróðurhúsin orðin fjögur, og eru ca. 1600 ferm. undir gleri. Tvö þessara gróðurhúsa (600 ferm.) voru tekin í notkun vorið 1949, en hin tvö er verið að ljúka við. Í gróðurhúsunum eru einkum ræktaðir tómatar, agúrkur, gulrætur og blóm. Í sambandi við gróðurhúsin er auk þess hálfur hektari útiræktar, þar sem gert er ráð fyrir að rækta alls konar grænmeti. Jarðhitinn, sem gróðurhúsin eru hituð með, er gufa, og er hún leidd í þró, þar sem katli hefir verið komið fyrir, og hitar gufan þannig vatnið í hitakerfi gróðurhúsanna, en það er venjulegt miðstöðvarkerfi.
Í sambandi við gróðurhúsin hafa verið reist tvö íbúðarhús, ca. 360 ferm. að grunnflatarmáli, fyrir bústjóra og starfsfólk. Eru í húsunum öll þægindi, vatnsleiðsla, skólpræsi og rafmagn frá dieselrafstöð.

B. Búskapur.
Krysuvik - starfsmannahusidÍ Krýsuvík eru ca. 300 ha. ræktanlegl graslendi, en auk þess melar, sem e.t.v. mætti rækta með sérstakri aðferð. Kom fljótt til tals að setja þarna á fót stórt kúabú, er jafnan gæti séð Hafnfirðingum fyrir ferskri og góðri barnamjólk. Á þessum grundvelli hafa verið hafnar allmiklar búskaparframkvæmdir, þótt enn megi þær teljast á byrjunarstigi. Þegar hafa verið brotnir um 30 ha. lands, en vinnslu er misjafnlega langt á veg komið. Meginhlutann mætti þó fullvinna undir grasfræssáningu á þessu vori. Grafnir hafa verið 8 km langir, opnir skurðir til landþurrkunar, en ca. 45 km löng lokræsi (kílræsi). Tveir súrheysturnar hafa verið reistir. Eru þeir 5 m í þvermál og 14 m háir. Fjós fyrir 154 kýr og tilheyrandi ungviði er komið undir þak. Hér er komið framkvæmdum í búskaparmálum í Krýsuvík, en um framhaldið verður ekki sagt á þessu stigi málsins. Það er rétt að geta þess, að í Krýsuvík er mjög votviðrasamt, og verður því naumast gerlegt að vera háður náttúrunni með verkun á heyi. Gera má ráð fyrir, að þarna mætti hafa um 300 kýr. Öll mannvirki, sem hingað til hafa verið reist í Krýsuvík, bæði vegna ræktunar í gróðurhúsum og fyrirhugaðs búskapar, eru hin vönduðustu og af fullkomnustu gerð.

C. Boranir eftir jarðhita.
Krysuvik - borholurÍ Krýsuvík er eitt mesta jarðhitasvæði á landinu, enda ber Reykjanesskaginn allur ljósar menjar mikilla jarðumbrota og eldgosa. — Festi Hafnarfjarðarbær ekki hvað sízt kaup á Krýsuvík vegna jarðhitans, enda hafa jafnan miklar vonir til hans staðið og standa enn.
Fyrstu jarðboranir í Krýsuvík voru framkvæmdar af rannsóknarráði ríkisins árið 1941 og 1942. Var þá borað við suðurenda Kleifarvatns. Þetta var aðeins gert í rannsóknarskyni til þess að kynnast jarðlögum. Festust borarnir tíðum, og engin gufa kom.
Næst var borað 1945. Rafmagnseftirlit ríkisins hafði þær boranir með höndum, einnig í tilraunaskyni. Borað var við svonefndan Austurengjahver og í Seltúni. Jarðborar voru grannir. Nokkurt gufumagn kom þó, en þar sem holurnar voru þröngar, stífluðust þær fljótt, enda var hér um rannsókn að ræða.
Haustið 1946 var Ólafur Jóhannsson úr Hveragerði fenginn til að bora eftir gufu vegna væntanlegra gróðurhúsa. Þá voru boraðar 3 holur, ein með allgóðum árangri, og er íbúðarhús starfsfólks gróðurstöðvarinnar hitað með gufu þaðan.
Um áramótin 1946—47 tók til starfa í Krýsuvík nýr jarðbor, sem Hafnarfjarðarbær hafði keypt, en Rafveitu Hafnarfjarðar var falið að annast rekstur hans. Þessi bor er fallbor, en fram til þessa höfðu verið notaðir snúningsborar. Fallborar geta borað víðari holur en snúningsborar, þótt vélaorkan, sem knýr þá, sé hin sama. Ennfremur er minni festuhætta fyrir þá gerð, en áður hafði það tafið mikið, hve horar vildu festast. Með fallbornum var fyrst borað vegna gróðurstöðvarinnar, skammt frá henni. Sú borhola mistókst. Var þá borinn fluttur i svonefnt Seltún og byrjað að bora með tilliti til væntanlegrar raforkuvirkjunar. Meðan á því stóð, var aftur fenginn bor frá rafmagnseftirliti ríkisins til þess að bora uppi í fjallinu ofan við gróðurstöðina, í svonefndum Hveradölum. Voru þær boranir vegna gróðurhúsanna og gáfu nægjanlegt gufumagn fyrir þau, eins og þau voru þá. —
Þessar holur hafa þó stíflazt, og hefur fallborinn þá verið fluttur upp í Krysuvik - seltun IIHveradalina til þess að bora upp þessar stíflur. Ennfremur hafa víðari holur verið boraðar með fallborum í Hveradölum, sem heppnazt hafa, og gefa þær samtals um 10 tonn af gufu á klst. Gufumagn, sem fyrir hendi er úr borholum í Hveradölum, er þref alt meira en gróðurstöðin þarfnast, eins og hún er nú. Í Seltúni hafa boranir gengið upp og ofan, enda er jarðvegur í Krýsuvík sérstaklega erfiður viðfangs fyrir jarðboranir. Með fenginni reynslu tókst þó að endurbæta svo borvélina á síðastliðnu ári, að borun hefur gengið mun greiðar en áður. Hefur nú tekizt að bora allt að 13 m á dag, en stundum áður varð ekki komizt nema nokkra centimetra niður á degi hverjum.
Það var 12. sept. síðastl., að verulegur árangur varð af borunum í Seltúni. Þá kom skyndilega gos úr holu, sem verið var að bora, og orðin var 229 m djúp. Hola þessi er fóðruð með 8 tommu víðum járnpípum 100 m niður. Gosið hefur sífellt haldið áfram, siðan það byrjaði, og kemur úr holunni allvatnsblönduð gufa. Hefur magnið verið mælt við mismunandi mótþrýsting, þ.e. þrengt hefur verið mismunandi mikið að gosinu. Gufa sú, sem úr holunni kemur, mun geta framleitt um 5000 kílóvött rafmagns. En auk þess koma úr holunni um 30 1 af 100° heitu vatni á sekúndu, sem nota mætti í hitaveitu eða til annars. — Til samanburðar má geta þess, að Hafnarfjarðarbær notar nú 3000 kílóvött rafmagns. Gos kemur úr 5 holum alls, þótt gosið úr fyrrnefndri holu sé langmest, en heildargufan úr öllum holunum er 60 tonn á klst. Í ráði er að virkja þarna í Seltúni, og hefur ýmsum fyrirtækjum í Evrópu og Bandaríkjunum verið send greinargerð um þelta efni og óskað eftir tilboðum um vélar og tæki. Komið hefur í ljós, að ítölsk og svissnesk fyrirtæki ein telja sig geta sinnt svo sérstæðu verkefni, sem hér um ræðir. Stendur Rafveita Hafnarf jarðar nú í sambandi við ítölsk fyrirtæki varðandi þessi mál. Bráðabirgðaáætlun sýnir, að slík gufuvirkjun yrði nokkru ódýrari en samsvarandi vatnsvirkjanir. Stendur rafveitan í sambandi við ítölsk orkuver, sem reynslu hafa af gufuvirkjunum. Hafa Ítalir gufuorkuver, sem framleiða 300 þús. kílóvött rafmagns. Til samanburðar má geta þess, að nýja Sogsvirkjunin, eins og hún er nú áætluð, mun framleiða 31 þús. kílóvött. Borunum er að sjálfsögðu haldið áfram í Krýsuvík.“

[Þessi grein er byggð á upplýsingum Jens Hólmgeirssonar, bústjóra í Krýsuvík, varðandi gróðurhús og búskap, og Valgarðs Thoroddsen rafveitustjóra í Hafnarfirði varðandi boranir, en hann veitir borunum og raforkuframkvæmdum í Krýsuvík forstöðu. — Myndirnar af húsum í Krýsuvík eru teknar núna í marz, en óvenju mikill snjór hefur verið þar í vetur. — S. J.]

Heimild:
-Skinfaxi, „Krýsuvík“, 42. árg., 1. tbl., 1951, bls. 17-23.

Krýsuvík

Krýsuvík.

 

Arngrímshellir

Í aprílmánuði árið 1948 birtist eftirfarandi lýsing á „Mókollu“ í Lesbók Morgunblaðsins í dálknum „Fjaðrafok“:

Heimkynni Mókollu í Klofningum

Gvendarhellir (Arngrímshellir).

„Sú er sögn að í Krýsuvík hafi einu sinni búið bóndi, sem átti 900 fjár. Fóstra hans sagði honum á haustin hvað skera skyldi, en eitt haust, er hún leit á fje bónda, sagði hún að eins: „Lengi lifir Mókolla“ – og fekk bóndi ekki meira upp úr kerlingu.
Bóndi ljet skera fátt fje þetta haus, en um veturinn missti hann 300 fjár í Kleifarvatn, 300 í Kerið á Kirkjufjöru og 299 kindur fyrir berg, en Mókolla stóð ein eftir á bjargbrúninni þegar bóndi kom að. Varð hann þá svo reiður út af missi sínum að hann ætlaði að þrífa Mókollu og henda henni fram af líka, en hún hafði sig undan bónda, og segir sögnin að svo margt fje hafi æxlast út af henni að bóndi hafi orðið fjárríkur maður aftur.“

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg.

Önnur saga segir: „Eitt sinn var bóndi í Krýsuvík sem átti 900 fjár. Fóstra hans sagði honum á haustin, hvað skera skyldi, en eitt haust er hún leit yfir fé bónda sagði hún aðeins: „Lengi lifir Mókolla,“
– og fékk bóndi ekki meira upp úr kerlingu, hvernig sem hann reyndi til.
Bóndi lét skera fátt fé þetta haust, en um veturinn missti hann 300 fjár í Kleifarvatn og 300 í Kerið á Kirkjufjöru; sjást þar enn kindabein, þegar smogið er inn í Kerið um fjöru, því að ekki er hægt að komast niður í það að ofan; 299 kindur missti bóndi niður fyrir berg, en mókollótt ær ein, sem bóndi átti, stóð á bergsbrúninni, þegar hann koma að; varð hann þá svo reiður yfir missi sínum, að hann ætlaði að fleygja Mókollu fram af líka, en hún hafði sig undan bónda, og segir sagan, að svo margt fé hafi æxlast út af henni, að bóndi hafi orðið fjárríkur maður aftur.“
(Þessi saga er til í nokkrum útgáfum.)
Heimild:
-Lesbók MBl. apríl 1948, bls. 188.
-Ólaf Davíðsson II 124.

Kirkjufjara

Keflavík neðan Klofninga.

Krýsuvík

Hér verður fjallað um „Krýsuvík“ út frá samantekt Óbyggðanefndar frá árinu 2004 um úrskurð vegna Grindavíkur og Vatnsleysustrandar. Samantektin felur í sér gagnlegar heimildir um búsetu í Krýsuvík sem og mörk jarðarinnar.

Í kirknaskrá frá árinu 1200 kemur fram að kirkja sé í Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík 1810.

Í máldaga Krýsuvíkur frá því um 1275 segir að kirkjan eigi: „…heimaland alltt. Herdijsarvijk. ix. mæla land a þorkotlustödum“.
Í máldaga Krýsuvíkur frá því um 1307 segir að kirkjan eigi: „…heimaland allt. Herdysarvijk. ix. mæla land aa þorkotlustodum“.
Máldagi frá 1367 er samhljóða, sbr. Íslenzkt fornbréfasafn, III. b. s. 222.
Í máldaga Krýsuvíkurkirkju frá 1375 kemur fram að henni hafi verið ánafnaður fjórðungspartur í jörðinni Vatnsleysu [ekki kemur fram við hvaða Vatnsleysu er átt en ljóst er af öðrum heimildum að það er sú á Vatnsleysuströnd].

Í visitasíu sem gerð var í Krýsuvík árið 1395 stendur eftirfarandi: „… Reiknadist svo micid goss kirkiunnar j Krýsuvijk ad auk fornra maldaga vc. portio vmm .ij. är hälf .xiiij. alin“ …
Máldagi frá því um 1477 er samhljóða máldagnum frá 1375, sbr. Íslenzkt fornbréfasafn, VI. b. s. 124.

Krýsuvík

Krýsuvík 1887.

Þann 28. apríl 1479 vottuðu tveir aðilar skriflega að þeir, ásamt öðrum, hefðu heyrt eiginkonu fyrrum eiganda jarðarinnar Vatnsleysu lýsa því yfir að: „… kirkian kryssvvik ætti þar j xc“ …
Árið 1525 ákvað Ögmundur Pálsson, biskup í Skálholti, að Krýsuvíkurkirkja skyldi selja eignarhlut sinn í Vatnsleysulandi til Viðeyjarklausturs.
Máldagi frá 1553-54 var samhljóða þeim fyrrum, sbr. Íslenzkt, XII. b. s. 662.
Þann 27. september 1563 á Bessastöðum var sóknarkirkja í Krýsuvík lögð niður að beiðni Gísla biskups Jónssonar.
Í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar segir að kirkjan í Krýsuvík eigi: „…heimaland alltt. Herdijsarvijk. ix mælaland ä Thorkøtlustödum.”

Fjallið eina

Fjallið eina.

Í kjölfar þess að ágreiningur reis um landamerki Krýsuvíkur í upphafi 17. aldar vitnuðu nokkrir aðilar um merkin síðla árs 1603 og snemma árs 1604. Tvö vitni gáfu samhljóða lýsingu á landamerkjum Krýsuvíkur sem byggð var á vitnisburði þriðja manns53 26. desember 1603. Lýsing vitnanna var svohljóðandi: „… Krýsuvík ætti austur frá sér allt land að Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði eður leirtjörn, hvör leirtjörn þó uppþornar stundum, og aftur sjónhending úr Skildi í miðjan Breiðdal og vestur í Markrakkagil. Úr Markrakkagili og vestur yfir Sliturin fyrir norðan Fjallið eina. Þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju og fram eftir miðjum Selsvallahálsi, úr hálsinum og suður í Raufarklett við Selatanga“. Tveir menn gáfu nánast samhljóða vitnisburð. Sá vitnisburður var efnislega á þessa leið: „Krýsuvík á land allt að steini þeim sem stendur uppá fjallinu hjá Skildi og sjónhending þaðan suður í sjó. Síðan sjónhending úr Skildi og í miðjan Breiðdal, úr Breiðdal og vestur í Markrakkagil, úr Markrakkagili og vestur yfir Sliturin fyrir norðan Fjallið eina.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju og fram eftir Selsvallarhálsi [annar aðilinn segir Selsvallarhálsi en hinn segir Selsvallakálfi] og suður í Raufarklett sem stendur við Seltanga“.
Samkvæmt einu vitnanna: „á Krýsuvík austur frá sér land allt að Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó“. Sem staðfestingu á framburði sínum greindi vitnið frá því að það hefði eitt sitt heyrt menn segja að: „… Krýsuvík ætti land allt austur yfir haan54 hraun hvert hraun að liggur fyrir austan Geitahlíð“.
Sjötta vitnið greindi frá því að það kannaðist ekki við annað en að: „Krýsuvík ætti land allt austur á eystri hraunsbrún á hrauni því sem liggur fyrir austan Hlíðarhorn“. Til þess að styrkja frásögn sína greindi vitnið frá því að það hefði heyrt að á þeim tíma sem séra Guðmundur hélt Krýsuvíkurstað hefði það verið almæli allra manna að hraunið væri Krýsuvíkureign með réttu.
Að sögn sjöunda vitnisins átti Krýsuvík: „… land allt að steini þeim sem stendur uppá fjallinu hjá Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó“.

Sýslusteinn

Sýslusteinn (Steinninn).

Vitnið kvaðst einnig hafa heyrt að: „… Krýsuvík ætti land allt að Skildi og sjónhending suður í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði, hvert vatnsstæði, eður leirtjörn þó upp þornar á sumarið, og ættu þessir sömu steinar að standast á“.
Einnig hafði vitnið heyrt að: „… það hefði ætíð verið almæli allra manna, að selstaða ætti að leggjast frá Krísivík til Herdísarvíkur en frá Herdísarvík skyldi koma skipstaða“.
Árið 1629 er vottað, að árið 1621 hafi Skálholtsbiskupi verið afhentir vitnisburðir þriggja vitna. Eru þeir meðal kirkjuskjala Staðar í Grindavík og hljóða svo: „… að Krísivík … ætti austur frá sér land allt að Skildi og þaðan sjónhending austur í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði eður leirtjörn, hvör leirtjörn þó uppþornar stundum. Og aftur sjónhending úr Skildi í miðjan Leirdal vestur í Markagil, úr Markagili vestur yfir Slitrin fyrir norðan Fjallið eina, þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju þeirri og frameftir miðjum Selsvallahálsi, úr hálsinum og suður í Raufarklett við Selatanga“.

Krýsuvík

Krýsuvík 1910.

Í tíð Brynjólfs Sveinssonar Skálholtsbiskups, nánar tiltekið árið 1642, var jörðin Krýsuvík vísiteruð. Hluti skýrslunnar sem unnin var eftir vísitasíuna fer hér á eftir: „Mariukyrkia ad Krÿsivÿk ä ad mäldógum heimaland allt Herdïsar vÿk 9 mæla land ad Þorkótlustodum … För þetta alltt framm i Krÿsivÿk Anno 1642“. (Undir þetta rita Þorsteinn Erlingsson, Hallur Árnason, Pétur Gissursson og Stefán Ólafsson).
Þrjátíu og sex árum eftir að Brynjólfur Sveinsson stóð fyrir vísitasíu í Krýsuvík var kirkjan vísiteruð af nýjum biskupi. Þá var Þórður Þorláksson biskup í Skálholti. Í vísitasíunni, sem fór fram 28. ágúst 1678, kom eftirfarandi fram: „… Mariæ kkia ad Krysivÿk hefur att ad fomngilldu … heima land allt Herdÿsarvyk …et, Enn er nu eigninn óll kominn undir Skalhollts domkkiu og henni til dæmd af hófudzmannj Pälj Stïgssyni og hr. Gisla Jonssyni med tilftardömi, huad þessi kyrkia hefur framar átt i rekum og i sókum utvysa maldagar sem eru i Skalholltj“. (Undir þetta rita Bjarni Jónsson, Eiríkur Magnússon, Bjarni Sigurðsson, Jón Jónsson og Árni Gíslason).
Jörðin Krýsuvík var metin árið 1703. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að Krýsuvík eigi hjáleigurnar Nýjabæ, Litla – Nýjabæ, Norðurhjáleigu, Suðurhjáleigu og Austurhús. Þar stendur einnig eftirfarandi: „Skógur lítill þó til kolagjörðar fyrir ábúendur og líka að nokkru leyti til eldiviðar. Afrjett fyrir jaðarinnar pening nægileg, en er þó öngvum burtu ljeð“.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Í kaflanum um Austurhús kemur eftirfarandi fram: „Selstöður tvær á jörðin, aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar. Og mega þær nýta hjáleigumenn og bóndi“.
Í Jarðabók Árna og Páls stendur eftirfarandi um Þórkötlustaði: „Selstöðu brúkar jörðin og hefur lengi brúkað í Krýsivíkurlandi, þar sem heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sje ljeð frá Krýsivík, en Krýsivík aftur ljeð skipstaða fyrir Þorkötlustaða landi. Er selstaðan að sönnu góð, en miklega lángt og erfitt til að sækja“.
Á tíma Jóns Vídalíns Skálholtsbiskups var Krýsuvík vísiteruð á nýjan leik 18. ágúst 1703. Í vísitasíubókinni er ekki að finna neinar gagnlegar upplýsingar.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Jón Árnason Skálholtsbiskup vísiteraði Krýsuvík þann 8. maí 1723. Í vísitasíunni er staðfest það sem fram kom í vísitasíunni árið 1642 um jarðeignir Krýsuvíkur: „Anno ut supra þann 8. Maji var visiterud kirkiann ad Krysuvik. Hún ä epter visitatiu herra Gisla Jónssonar heimaland allt, Herdysarvik, ix mäla land ä Þorkótlustódum“ … (Undir þetta rita Halldór Einarsson, Arngrímur Bjarnason, Jón Magnússon, Ólafur Gissursson og Jón Bjarnason).
Rúmum 28 árum síðar, nánar tiltekið þann 10. júní árið 1751, var Krýsuvík vísiteruð af Ólafi Gíslasyni biskupi í Skálholti. Í visitazíunni er minnst á jarðeignir sem voru einnig í eigu Krýsuvíkur er vísitasíur voru gerðar þar árin 1642 og 1723 þ.e.: „… heimaland allt, Herdysarvÿk, 9 mæla land ad Þorkótlustodum“ … (Undir þetta rita Ólafur Gíslason, Sigurður Sigurðsson, Sigurður Ólafsson, Magnús Jónsson, Jón Sigmundsson).
Þann 28. maí 1758 var Krýsuvík vísiteruð af .Finni Jónssyni Skálholtsbiskupi Í vísitasíubókinni stendur eftirfarandi: „… visiterud kkian að Krysuvik Hun á efter þeim gomlu maldogium heimaland allt enn nu orden stols Jord. Efter Vilchins maldaga a hun, alla Herdysarvyk, ix mæla lands a Þorkotlustódum … Enn efter maldaga Gísla bps. á hun Herdysarvyk og ix mäla land á Þorkotlustodum …” (Undir þetta rita Finnur Jónsson, Jón Magnússon, Jón Sigmundsson og Sigurður Sæmundsson).

Mígandagróf

Mígandagröf.

J. Johnsen minnist á það í bók sinni, Jarðatal á Íslandi, að stólsjörðin Krýsuvík hafi verið seld þann 8. ágúst 1787. Þann 26. júní 1790 er gefinn vitnisburður um landamerki Krýsuvíkur. Þar greinir sá sem skrifar undir lýsinguna frá því að hann hafi: „… heyrt af vissum mönnum, sem hér í Krísivík hafa verið, um landamerki þau, sem heyrt hafa henni, Krísivík, til, eru svoleiðis: Úr Raufarklett á Selatöngum og í Trölladyngju, úr Trölladyngju og í Gráhellu, úr Gráhellu og í Markrakkagil, úr Markrakkagili og Mígandagröf á fjalli, úr Mígandagröf á fjalli og í stein á Herdísarvíkurfjalli, úr þeim steini og á Seljabótarnef við sjó“. Landamerkjalýsing þessi er staðfest af tveimur mönnum.
Um mitt ár 1800, en þá var Geir Vídalín biskup, var Krýsuvík vísiteruð. Í greinargerðinni sem samin var vegna þessarar eftirlitsferðar kemur eftirfarandi fram: „Anno 1800 þann 1sta Julii, visiteradi Biskupinn Geir Vidalin Kirkiuna ad Krysevík; hun hefur ad fornu átt heimaland allt, sídann var hun i meir enn 200 ár, Skálhollts Biskupsstolls, égn, og er nu loks, asamt ödrum Biskupstólsins fastégnum, ásamt jördinni, af Kongl. Hátign burtuseld, svo hun er nu bónda egn – hún á alla Herdisarvik, ix Mælira lands á Þorkötlustodum“ … (Undir skrifa: Arne Nathanaelss., Geir Vidalin, B. Sveinson, Gudmundur Þorsteinsson).

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Í kaflanum um Krýsuvík með hjáleigunum Suðurkoti, Norðurkoti, Stóra–Nýjabæ og Litla–Nýjabæ í jarðamati 1804 stendur að: „Jorden har god Udegang for Faar og Heste, af de sidste indtages nogle fra Fremmede mod Betaling 1 rdlr. aarlig. Tillige ejer den Sætter til Fiælds, hvoraf for nærværende, ogsaa 2 andre Jorde betjene sig, mod Betaling 20 al. aarlig af hver. Endelig findes her en god Svovelmine som dog ej benyttes, da ureenset Svovel ikke finder Afsætning, og kan dette derfore ikke evalueres“.
Í athugasemdum um Krýsuvík segir, sem gilda mun um sýsluna í heild: „Paa Grund af at Udegang for Beder i Almindelighed her i Sysselet saa god, at disse Kreature, de fleste Vintere (undertiden endog Faar og Lam) blot eller da for det meste leve ved at gaae ude, haves desuden de færreste Stæder i nogen betydelig Mængde, uden hvor Udegangen er fortrinlig god, saa formeenes Nedsættelse af denne Herlighed ikke fornöden, uden i Fölge særdeles Omstændigheder, der da paa vedkommende Stæder skal blive anmærket“.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

Þann 12. ágúst 1838 seldi Erlendur Jónsson á Brunnastöðum P.C. Knudtzon jörðina Krýsuvík. Henni fylgdu hjáleigurnar Stóri – Nýibær, Litli – Nýibær, Norðurkot, Suðurkot, Austurhús og Vesturhús og tvær nýlendur; Vigdísarvellir og Garðshorn.
Árið 1839 settist Einar Þórðarson að á nýbýlinu Bala sem var nálægt bænum Vigdísarvöllum en þar bjó bóndinn Jón Þorsteinsson. Hann var ósáttur við veru Einars á Bala og þann 20. maí 1840 samdist þeim Einari um að sá síðarnefndi myndi flytja frá Bala á næstu fardögum.
Bali er þó talinn meðal hjáleigna Krýsuvíkur í Jarðatali Johnsens og Nýrri jarðabók eins og síðar verður nefnt en ekki hefur verið kannað í sóknarmannatölum hvernig búsetu var háttað þar.
Í sýslu- og sóknarlýsingum Árnessýslu er að finna lýsingu Páls Melsted, frá árinu 1842, á mörkum Árnessýslu annarsvegar og Gullbringu- og Kjósasýslu hinsvegar: „Sá syðsti punktur takmarkanna millum Árness- og Gullbringusýslu eru þeir svonefndu Sýsl[u]steinar undir Geitahlíð millum bæjanna Herdísarvíkur, sem heyrir til Árnessýslu og Krýsivíkur, sem tilheyrir Gullbringusýslu. Frá Sýslusteinum ganga sýslutakmörkin beina stefnu yfir fjallið nálægt Vífilfelli til ens stóra steins austan undir Lyklafelli, sem nefnist Sýslusteinn; þaðan beina stefnu í Borgarhóla á Mosfellsheiði; þaðan í Syðri – Moldbrekkur; þaðan í Rjúpnagil millum bæjanna Stardals í Kjósar- og Stíflisdals í Árnessýslu: þaðan í vörðu, sem hlaðin er á Stóra – Sauðafelli; þaðan í Sýsluhólma í Stóru – Laxá; þaðan í Steinkirkju; þaðan í Súlur“.

Garðar

Garðar um 1900.

Í lýsingu Garðaprestakalls í ritinu Landnám Ingólfs, Sýslulýsingar og sóknalýsingar, stendur eftirfarandi: Hverjir bæir eiga selstöður etc? Svar: Ég veit ekki nema það, að Garðar eiga selstöðu í því svokallaða Kirkjulandi, sem liggur fyrir ofan byggðina, frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi og upp undir fjöllin. Hitt veit ég og, að nú brúkar enginn hér selstöður og séu Garðar undanteknir, sem höfðu pening í seli til 1832, hafa ei selstöður héðan verið brúkaðar í næstliðin 50 til 60 ár.
Samkvæmt bókinni Jarðatal á Íslandi, sem gefin var út 1847, fylgja Krýsuvík sjö hjáleigur Suðurkot, Norðurkot, Stóri – og Litli – Nýibær, Vigdísarvellir, Bali og Lækur.
Í Jarðamati 1849–1850 er kafli um Krýsuvík og hjáleigurnar, Suðurkot, Norðurkot, Stóra – Nýjabæ, Litla – Nýjabæ, Vigdísarvelli, Bala, Læk og Fitjar. Þar stendur m.a.: „Landrými mjög mikið. … Skógarló. Talsverður brennusteinn. … Jörðin að flestum ínytjum mjög örðug og fólksfrek, þareð þær liggja langt frá og eru sumar sameinaðar lífshættu“.
Í afsals- og veðmálabók Gullbringu- og Kjósarsýslu frá árunum 1848 – 1862 kemur fram að eigandi hálfrar Krýsuvíkur hafi leigt Jóni Hjaltalín námarétt og gefið byggingarleyfi þann 13. september 1851. Þar kemur einnig fram að þann 30. september 1858 selja eigendur Krýsuvíkur Joseph William Busby esq.brennisteinsnámur í landi Krýsuvíkurtorfu og Herdísarvíkur og að eigandi hálfrar Krýsuvíkur og Herdísarvíkur hafi heitið því þann 4. september 1858 að selja Jóni Hjaltalín námuréttindi.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Manntalsþing var haldið í Innri – Njarðvík þann 20. júní árið 1859. Þar var auglýst samningi sem Sverrir Eiríksson í Krýsuvík hafði gert við dr. Jón Hjaltalín þann 4. september 1858 um að Sverrir seldi Jóni sinn helming úr Krýsuvíkurtorfunni ef leyfi fengist ekki til þess að selja sérstaklega undan jörðinni brennisteinsnámur þær sem þar voru.
Á manntalsþinginu var einnig þinglýst afsalsbréfum sem eigendur Krýsuvíkur, S. Sivertsen og Sverrir Eiríksson, gáfu út síðla árs 1858. Í þeim kemur fram að þeir selji Joseph William Busby Esq. allar námur í Krýsuvíkurlandi.
Í bókinni „Ný jarðabók fyrir Ísland” frá árinu 1861 kemur fram að Krýsuvík fylgi átta hjáleigur; Suðurkot, Norðurkot, Stóri- og Litli – Nýibær, Vigdísarvellir, Bali, Lækur og Fitjar.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Í byrjun janúar 1870 sendi sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu hreppstjóra Vatnsleysustrandarhrepps fyrirspurn um það hvort að tiltekin maður, sem sýslumaðurinn taldi búsettan á Vigdísarvöllum, væri heimilisfastur í Vatnsleysustrandarhreppi. Ástæða fyrirspurnarinnar var sú að téður maður hafði neitað að greiða tíund í Grindavík á þeirri forsendu að hann hefði greitt hana í Vatnsleysustrandarhreppi. Í svarbréfi til sýslumannsins greindi hreppstjórinn frá því að hann teldi manninn heimilisfastan á Vatnsleysuströnd, þó hann flytti sig og fé sitt um sumartímann á Vigdísarvelli, líkt og þegar Grindavíkurmenn hefðu í seli á Selsvöllum.

Stóribolli

Kóngsfell / Konungsfell / Stóri-Bolli.

Í byrjun 8. áratugar 19. aldar reis upp ágreiningur milli Þorkels Bjarnasonar á Mosfelli, vegna Mosfellskirkju, og Ófeigs Vigfússonar á Nesjum í Grafningi um landamerki þessara tveggja jarða á Mosfellsheiðinni. Málið fór fyrir dóm og voru þar lögð fram margvísleg gögn. Þann 22. september 1873 var vitnisburður Árna Björnssonar, frá 9. september 1869, um sýslumörk milli Gullbringu- og Kjósarsýslu samhliða Borgarfjarðarsýslu annars vegar og Árnessýslu hins vegar lagður fram: „Sýslusteinn í Krýsuvíkurbergi. Þaðan fjöll norður í hæst Vífilfell, þá yfir Lyklafell, Borgarhóla og í Rjúpnagil,“ …

Sýslusteinn

Sýslusteinn suðaustan Lyklafells.

Þá voru einnig lagðir fram vitnisburðir Ingimundar Gíslasonar, frá 29. júlí 1869, og Guðmundar Jakobssonar, frá 26. apríl 1871, um mörk Árnes- og Gullbringusýslu (og Kjósarsýslu).
Í vitnisburði Ingimundar stóð eftirfarandi: „Sýslusteinn í Krýsuvíkurbergi. Þaðan fjöll norður í Kóngs fell. Þá yfir Likla fell, (hvar stór steinn stendur norðanvert við fellið sem þeir kölluðu alt til sýslustein.)“ …
Í vitnisburði Guðmundar kom eftirfarandi fram: … endamork, að sunnan, væri i svo kallaðan sislu stein, undir geitahlið, og beina stefnu eftir há fiöllum til Norðurs, sem þá væri um hærst Vifil fell …
Samningur milli eigenda Krýsuvíkur og Herdísarvíkur og Patersons um námur frá 2. desember 1871 var þinglesinn þann 20. júní 1877.

Seljabót

Seljabót undir Seljabótarnefi.

Þann 20. nóvember 1886 var skrifað undir landamerkjalýsingu jarðarinnar Herdísarvíkur. Lýsingunni var þinglýst 3. júní 1889: „Maríu kirkja í Krýsuvík á í Arnessýslu samkvæmt máldögum jörðina Herdísarvík“.
Landamerki Herdísarvíkur eru þau er nú skal greina: … að vestanverðu, milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur ræður mörkum stefnulína frá áður nefndu Kongsfelli í Seljabótarnef lágan hraunhnúk, vestast í Seljabót, við sjó fram. –
Kirkjan á … sömuleiðis allar landsnytjar innan hjer taldra ummerkja, með þeim takmörkunum, er síðar greinir (sbr. No 2). …
Landamerkjabréf Krýsuvíkur var undirritað 14. maí 1890 og þinglesið 20. júní s.á.:

Dágon

Dágon á Selatöngum.

1. að vestan: sjónhending úr Dagon (= Raufarkletti), sem er klettur við flæðarmál á Selatöngum í Trölladyngjufjallsrætur að vestan, sem er útbrunnið eldfjall norðanvert í Vesturhálsi; þaðan bein stefna í Markhelluhól háan steindranga við Búðarvatnsstæði.
2. að norðan: úr Markhelluhól sjónhending, norðanvert við Fjallið Eina, í Melrakkagil (= Markrakkagil) í Undirhlíðum og þaðan sama sjónhending að vesturmörkum Herdísarvíkur, eða sýslumörkum Gullbringu- og Árnessýslu.
3. að austan: samþykkt og þinglýst vesturmörk Herdísarvíkur, s: [þ.e.] sjónhending úr Kongsfelli sem er lág mosavaxin eldborg umhverfis djúpan gíg, á hægri hönd við þjóðveginn úr Selvogi til Hafnarfjarðar, örskammt frá veginum, í Seljabótarnef, klett við sjó fram.
4. að sunnan nær landið allt að sjó.

Sogasel

Sogasel.

Í landamerkjabréfinu kemur einnig fram hver hafi verið ítök kirkjunnar. Einnig er greint frá því í landamerkjabréfinu að Strandarkirkja og Kálfatjarnarkirkja eigi ítök í landi kirkjunnar, þar á meðal mánaðarselsátur í Sogum, sunnanvert við Trölladyngju, samkvæmt munnmælum og vitnisburði kunnugra manna, eign Kálfatjarnarkirkju, og að allar brennisteinsnámur á Krýsuvíkur- og Herdísarvíkurlandi séu í eigu útlendinga. Þar stendur einnig: „Þess skal hjer getið, að ýmsir eigna kirkjunni talsvert meira land, sem jeg ekki finn ástæðu til að taka til greina, geti hlutaðeigendur orðið ásáttir um landamerki þau, sem hjer eru talin“.
Landamerkjabréfið er samþykkt af eigendum Ísólfsskála, Hrauns og Vatnsleysulands, eigendum og umboðsmönnum Knarrarnesja og Ásláksstaða, eigendum og umráðamönnum Brunnastaðatorfu, eiganda Þórustaða og Landakots og eiganda og umboðsmanni Auðnahverfis og 1/3 Breiðagerðis auk umboðsmanns skólasjóðsins. Það er einnig samþykkt af forráðamönnum Óttarsstaða og Strandarkirkju og umboðsmanni Hlöðunesstorfu svo og Garðapresti. Nokkrir þeirra sem skrifuðu undir gerðu athugasemdir við landamerkjabréfið. Umboðsmaður jarðanna Staðar og Húsatópta skrifaði: „Hinsvegar skráðum landamerkjum Krýsuvíkur verð jeg að mótmæla hvað 1. tölulið snertir um sjónhending úr Dagon í Trölladyngju fjallsrætur að vestan þar jeg hefi aldrei annað heyrt frekar, en Krýsuvík ætti land úr Dagon, eptir Núpshlíð og vesturfjallgarði áfram N – austur eptir, en að öðru leyti hefi jeg ekki að athuga nema óráðið mun um rjetta þekkingu á „Markhellu” að vestanverðu“.

Markhelluhóll

Markhelluhóll við Búðarvatnsstæðið.

Eftirfarandi athugasemd kom frá eigendum og umboðsmönnum Hvassahrauns: „Sem eigendur og umboðsmenn Hvassahraunshverfis leyfum við oss að gjöra þá athugasemd við framanskráð landamerki að í staðinn fyrir „Markhellu” sje settur „Markhelluhóll”. Að öðru leyti samþykkt“.
Fjárráðandi Kálfatjarnarkirkjulands lét líka skrá niður athugasemd: „Framanskráðu landamerkjaskjali er jeg samþykkur sem fjárráðandi Kálfatjarnarkirkjulands, að undanskildum tölulið 2. í ítökum Kirkjunnar þ.e. Krýsuvíkurkirkju, þar eð Kálfatjarnarkirkju er í máldögum eignaður allur reki á Selatöngum; mótmæli eg þessvegna nefndum tölulið 2“.
Í lok landamerkjabréfsins er eftirfarandi athugasemd: „Af ókunnugleik mínum hef jeg látið sýna landamerkjalýsingu þessa sumum, sem engan eignarrjett hafa yfir landi við landamerkin að vestan (jeg vildi vera viss um að engum yrði sleppt, sem land ætti að), t.d. Grindavíkurpresti, eigendum Brunnastaðatorfunnar o.fl., svo ekki verður af undirskriptunum einum ráðið, að hinir undirskrifaðir eigi allir land að landamerkjum Krýsuvíkur, og verður það bezt sjeð á merkjalýsingum þeirra þegar þær koma í ljós, svo hinar óþörfu undirskriptir þurfa engan vafa eða misskilning að gjöra. Á. Gíslason.

Markhelluhóll

Markhella.

Landamerkjabréf fyrir Garða var undirritað 7. júní 1890 og þinglýst tveimur dögum síðar. Í því kemur eftirfarandi fram: „þaðan til austurs landsuðurs í miðt Húsfell, úr miðju Húsfelli beint til suðurs í efri Strandartorfu, þaðan beint í (suður) Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð (Vatnsskarð, Markrakagil) í Undirhlíðum, sem er norðanvert við Fjallið Eina, þaðan til norðurs ofanvert við Hvaleyrar- og Áslönd í Steinhús“.
Á hreppsnefndarfundi Grindavíkurhrepps, sem haldinn var 9. mars 1895, var ákveðið að hafna kröfu eiganda og ábúanda Krýsuvíkur um að hrossa- og sauðfjáreigendur í Grindavík greiddu sér hagatoll fyrir sumarbeit í Krýsuvíkurlandareign. Rökin fyrir þessari ákvörðun voru þau að sárafátt fé Grindvíkinga hefði beit í Krýsuvíkurlandi enda hefðu þeir nóg upprekstarland.
Árið 1911 sendu ábúendur Krýsuvíkur hreppsnefnd Grindavíkur bréf þar sem þeir kröfðust greiðslu fyrir sumarbeit í Krýsuvíkurlandi. Þann 25. júní 1911 tók hreppsnefnd Grindavíkur þetta bréf fyrir. Á fundinum kom fram óánægja með kröfuna því að Grindvíkingar hefðu í mörg ár hjálpað Krýsuvíkingum við smölun vor og haust og sú aðstoð hlyti að teljast nægileg greiðsla fyrir sumarbeitina. Eftir að hafa rætt málið komust nefndarmenn að þeirri niðurstöðu að þeir væru tilbúnir að greiða fyrir beitina en þá myndi hreppurinn líka draga úr þjónustu sinni. Hreppsnefndarmenn voru tilbúnir að greiða ábúendum Krýsuvíkur 50 kr, en þá myndi falla niður hjálp við haustsmölun, eða 30 kr auk aðstoðar við smölun á Vigdísarvöllum.

Krýsuvík

Stóri Nýibær í Krýsuvík.

Í fylgiskjali nr. 8. b. með hreppsreikningi 1910 – 1911 kemur fram greiðsla fyrir sumarbeit í Krýsuvík, 50 kr.
Í þeim hluta fasteignamats Gullbringu- og Kjósarsýslu 1916 – 1918 sem fjallar um jörðina Krýsuvík kemur fram að útbeit sé heiðarland og hraun og að jörðinni fylgi hjáleigan Stóri – Nýibær.
Fasteignabók 1921 minnist ekki á að Krýsuvík fylgi nein hjáleiga þótt enn hafi verið búið í Stóra-Nýjabæ.
Í kaflanum um Krýsuvík í fasteignamati árið 1932 kemur m.a. fram að þar sé ekkert beitarland nema heimaland jarðarinnar. Þar segir einnig að á jörðinni sé góð mótekja og að þar séu hverir og jarðhiti. Einnig kemur þar fram að landamerki séu ágreiningslaus.
Í fasteignamati 1932 er sérkafli um jörðina Stóra–Nýjabæ sem er hjáleiga frá Krýsuvík. Meðal þess sem þar er greint frá er að býlið hafi ekkert upprekstrarland enda hafi jörðin næg beitilönd. Þar kemur einnig fram að býlið hafi mótak og að hverir séu í landi jarðarinnar. Síðan segir að býlið hafi eggjatekju og fuglaveiði á litlum parti í Krýsuvíkurbjargi. Í kaflanum er einnig greint frá því að býlið hafi óskipt beitiland við Krýsuvík og að merki séu glögg á engjum og túnum. Stóri–Nýibær hefur engin ítök og landamerki býlisins eru óumdeild.

Seltún

Seltún 1977.

Íslenska ríkinu var heimilað með lögum nr. 11 1936 að taka jarðirnar Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ eignarnámi. Var skipuð sérstök matsnefnd til þess að ákvarða bætur. Skilaði nefndin matsgerð dagsettri 4. nóvember 1936. Í matsgerðinni er litið til landamerkjaskrár 14. maí 1890 og segir nefndin landamerkin virðast ágreiningslaus.
Um jörðina segir nefndin: „Jörðinni Krýsuvík hafa fyrrum fylgt 7 hjáleigur (sbr. Jarðatal Johnsens bls. 84), en allar hafa þær verið lagðar undir aðaljörðina, nema Stóri-Nýjabær, sem verið hefur í sjálfstæðri byggingu fram á síðustu ár, en er nú í eyði, eins og segja má, að sjálft aðalbólið, Krýsuvík, sé líka.

Austurengjar

Stöðull á Austurengjum.

Um óræktanlegt land Krýsuvíkur segir: „Það er, sem fyrr er sagt, að miklu leyti fjöll, hraun og sandar“. [Áður sagt í matsgerðinni að það yrði aðeins notað sem afréttarland]. En það er þó víða dágott sauðland, enda hafa ábúendur á jörðum þessum verið sauðmargir löngum, miðað við það, sem hér á landi hefur tíðkazt. En auk fjár ábúenda Krýsuvíkurtorfunnar hafa víst ýms eða flest byggðarlög þar syðra haft not landsins til sumarhaga fyrir sauðfé sitt, enda er svo látið um mælt í 1. málsgr. 2. gr. laga nr. 11/1936, að afhenda skuli Gullbringusýslu lítt ræktanlegt beitiland jarðanna sem afréttarland fyrir sauðfé, þegar ríkið hafi tekið lönd þessi eignarnámi. Óræktanlega eða lítt ræktanlega land jarðanna er því vitanlega nokkurs virði. Það, sem næst Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ liggur, en það virðist vera gott sauðland víða, mundi að sjálfsögðu verða notað til vetrar- vor- og hausthaga fé því, er nytjendur þeirrar byggðar, sem þar mundi rísa upp, kynnu að hafa. En það af landi þessu, sem fjær liggur, til upprekstrarlands fyrir sauðfé ýmsra hreppa Gullbringusýslu. Það er um þenna hluta lands Krýsuvíkurtorfunnar sem önnur gögn hennar, að erfitt er að ákveða verð þess. En kunnugt er það, að upprekstrarlönd hafa verið seld hér á landi fyrir meðaljarðir eftir því, sem þá tíðkaðist, og þekkir einn okkar undirritaðra slíkt dæmi. Þess skal getið, að Vigdísarvellir eru hér með taldir. Er þar að vísu gamalt túnstæði, talið 5 ha., en annars er þar ekki eða lítt ræktunarhæft land. Óræktanlega eða lítt ræktanlega landið þykir mega áætla 5000,00 -fimm þúsund- króna virði. Matsnefndin ákvað landamerki land þess, sem selja skyldi Hafnarfjarðarbæjar, á fundi 1. maí 1939 og var það selt samkvæmt þeim mörkum árið 1941.

Vesturengjar

Vesturengjar.

Þann 15. maí árið 1939 hafnaði sýslunefnd Gullbringusýslu beiðni Ingólfs Sigurjónssonar á Jófríðarstöðum um að fá að leigja land á gamla túninu á Vigdísarvöllum undir nýbýli. Rök sýslunefndarinnar voru þau að ekki væri hægt að minnka landið sem sýslunni væri ætlað til sauðfjárbeitar úr Krýsuvíkur- og Nýjabæjarlandi.
Þann 20. febrúar 1941 seldi ríkissjóður Hafnarfjarðarkaupstað hluta af landi jarðarinnar Krýsuvíkur og Stóra–Nýjabæjar (Krýsuvíkurtorfunni). Hið selda land afmarkaðist af eftirfarandi landamerkjum: „Að vestan, beina stefnu í norður úr Hælsvík í Borgarhól, þar sem hann er hæstur, úr Borgarhóli eftir Sveifluhálsi í vestustu vík Kleifarvatns, að ber í ysta odda Hvammholtstanga. Að norðan ræður Kleifarvatn, í syðsta odda víkur þeirrar, er gengur úr vatninu vestan við Geithöfða og að austan þaðan beina stefnu í rjettvísandi suður til sjávar, í Keflavík. Að sunnan ræður sjór þó þannig, að óhindraður umferðarrréttur áskilst Gullbringusýslu fyrir búpening og til annarar umferðar, um svæði upp frá sjó, er sé a.m.k. 60 metrar á breidd, enda séu engar girðingar eða umferðarhindranir á þeirri leið. Hafnarfjarðarkaupstaður fékk einnig eignarráð yfir hitaveituréttindum í allri Krýsuvíkurtorfunni og aðstöðu til að notfæra sér þau, líka afnot af Kleifarvatni, svo og allan veiðirétt í vatninu. Hann mátti þó ekki setja girðingar meðfram vatninu nema fyrir sínu landi“.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir brennisteinsnámsins í Hveradal.

Einnig fékk Hafnarfjörður í hendur þau réttindi og skyldur sem fylgdu ítökum Krýsuvíkurtorfunnar í annarra manna löndum og ítökum annarra í löndum Krýsuvíkurtorfunnar. Þessu ákvæði fylgdi sú undantekning að eigandi námuréttinda á landssvæðinu hélt sinni eign og átti hann samkvæmt afsalsbréfinu að hafa óhindraðan umferðar- og afnotarétt af hinu afmarkaða svæði Hafnarfjarðarkaupstaðar. Í afsalsbréfinu kemur einnig fram að ríkissjóður skyldi hafa rétt til að kaupa síðar þau hitaréttindi, sem hann kynni að þurfa í sambandi við námurekstur eða annað, og Hafnarfjarðarkaupstaður þyrfti ekki á að halda til sinna þarfa.
Landbúnaðarráðherra skrifaði þann 29. september 1941 undir afsalsbréf þar sem hann, fyrir hönd ríkisins, seldi sýslusjóði Gullbringusýslu allt lítt ræktanlegt beitiland jarðanna Krýsuvíkur og Stóra – Nýjabæjar (Krýsuvíkurtorfan) til sumarbeitar fyrir sauðfé. Undanskilið sölunni var land það sem ríkið hafi selt Hafnarfjarðarkaupstað þann 20. febrúar sama ár.
Kaupunum fylgdu heldur ekki önnur afnot af svæðinu, ítök og hlunnindi. Þeir sem áttu þau gæði höfðu samkvæmt afsalsbréfinu rétt á óhindruðum umferðarrétti á svæðinu og aðstöðu til að notfæra sér þau.

Markrakagil

Markrakagil.

Í Fasteignabók 1942-1943 er Krýsuvík með Stóra-Nýjabæ sögð í eign og ábúð eign Hafnarfjarðarbæjar, en beitilandið eign sýslunnar [þ. e. Gullbringusýslu].
Í lögum nr. 31 1959 um breytingu á lögum nr. 33 1929 um bæjarstjórn í Hafnarfirði. Í 1. grein er lýst takmörkum kaupstaðarsvæðisins: … 10. Þá lína í markaþúfu við gömlu sandgryfjurnar. 11. Þaðan í Lækjarbotna. 12. Þá í Gráhellu. 13. Þaðan í miðjan Ketshelli. 14. Eftir Selvogsmanna- eða Grindaskarðavegi í Kaplatór (Strandartorfur). 15. Þaðan bein lína í Markraka. 16. Þaðan bein lína um Melrakkagil (Markrakagil) að Krýsuvíkurvegi. 17. Meðfram Krýsuvíkurvegi, þar til kemur að norðurbrún Kapelluhrauns. …
Á sjöunda áratug síðustu aldar reis upp ágreiningur um norðurmörk Krýsuvíkurlands og suðurmörk Hafnafjarðarbæjar. Í þessu máli tókust á annars vegar Jarðeignadeild ríkisins og Gullbringusýsla og hins vegar Hafnarfjarðarbær. Deila þessi fór fyrir landamerkjadóm Gullbringu- og Kjósarsýslu sem kvað upp dóm sinn 14. desember 1971. Niðurstaða dómsins var eftirfarandi:

Kóngsfell

Litla-Kóngsfell nær, Miðbolli fjær.

Norðurmörk jarðarinnar Krýsuvíkur í Grindavíkurhreppi skulu vera þessi: „Bein lína frá vörðu á Markhelluhól …. um punktinn M á uppdrætti af landinu, sem fylgir dómnum [fylgir ekki með], … að vesturmörkum Herdísarvíkur eða sýslumörkum Gullbringu- og Árnessýslu.
Suðurmörk lands Hafnarfjarðarkaupstaðar skulu vera þessi: Bein lína frá punkti D á meðfylgjandi uppdrætti af landinu [fylgir ekki með], … í punktinn M … og fylgja mörkin þaðan markalínu Krýsuvíkur að Krýsuvíkurvegi. …”
Í greinargerð sem samin var af sýslumanninum í Keflavík þann 25. júní 1979 kemur fram að svokallað Seljabótarnef á sunnanverðu Reykjanesinu er ekki þar sem menn höfðu talið. Þessi uppgötvun gerir það að verkum að fjörumörk Gullbringu- og Árnessýslu og jarðanna Krýsuvíkur og Herdísarvíkur færast til en þau voru bæði miðuð við Seljabótarnefið í landamerkjalýsingum. Í greinargerðinni kom einnig fram að árið 1832 ákváðu sýslumenn Árnes- og Gullbringusýslna að svokallaður Sýslusteinn væri merki milli sýslanna tveggja.

Markhella

Markhelluhóll – áletrun.

Þann 25. janúar 1980 var útbúið landamerkjabréf þar sem skráð voru mörk Árnessýslu og Grindavíkur. Mörk jarðanna Krýsuvík og Herdísarvík falla saman við þessi mörk. Samkvæmt bréfinu eru landamerkin eftirfarandi: „Mörk milli Árnessýslu og lögsagnarumdæmis Grindavíkurkaupstaðar eru bein lína úr hápunkti Litla Kóngsfells sunnan við Grindaskörð í Sýslustein undir Geitahlíðum og önnur bein lína úr Sýslusteini til sjávar um hraunstrýtu á Seljabótarnefi“.
Athugasemdir hafa verið gerðar um svokallaða Markhellu/Markhelluhól sem minnst er á í landamerkjabréfum Krýsuvíkur, Hvassahrauns og Óttarsstaða frá árinu 1890: „Sem eigendur og umboðsmenn Hvassahraunshverfisins leyfum við oss að gjöra þá athugasemd við framanskráð landamerki að í staðinn fyrir „Markhellu” sjé settur Markhelluhóll. Að öðru leyti samþykkt“. Þetta undirskrifa Einar Þorláksson og Sigurmundur Sigurðsson.
Setninguna „… Markhelluhól, háan steindranga við Búðarvatnsstæði.” Ca. km fyrir ofan vatnsstæðið er trúlega hinn eini sanni

Markhelluhóll

Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða.

Markhelluhóll og á landakortum síðustu ára eru mörkin um hann. Á hólnum er varða og stendur hann rétt ofan við djúpa en þrönga gjá og eru stafirnir sem getið er um í landamerkjabréfi Óttastaða – Hvassahrauns meitlaðir stórum stöfum á hólklöppina sem snýr til norðausturs. Það er merkilegt hvað stafirnir eru greinilegir ennþá og vel getur verið að þeir hafi verið skýrðir upp einhverntíman á þessari öld.
Steindranginn sem nefndur er í lýsingunni er til þarna í nágrenninu og er hann spöl neðan og vestan við hólinn út í illfæru og grófu apalhrauni. Rétt við steindranginn er gömul mosagróin varða, há og mikil um sig, hlaðin úr stórum hraunhellum. Í lýsingunni hefur því verið blandað saman í eitt mark, hólnum og drangnum og eins gæti hugsast, að mörkin hafi einhverntímann legið neðar, þe.a.s um drangann en ekki hólinn. Hvassahraunsbændur gerðu sér grein fyrir því, við undirskrift bréfsins) að hægt var að ruglast á þessu tvennu og lögðu áheyrslu á örnefnið Markhelluhól sem er drjúgum ofar….

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Krýsuvík

Krýsuvík 2020.

Víti

Gengið var af gamla Herdísarvíkurveginum þar sem hann byrjar í Krýsuvík (nálægt Stóra-Nýjabæ) að Vegghamri og áleiðis inn í Kálfadali.

Eldborg

Stóra-Eldborg.

Ætlunin var m.a. að skoða Víti, hinn mikla hraunfoss, og tökustaðinn þar sem leikin íslensk stuttmynd, „Tunglið, tunglið, taktu mig“, var filmuð við upphaf kvikmyndagerðar hér á landi (1954), haldið yfir ofanverða Vegghamra og um Kálfadali, berja hin fagra hraunfoss Víti augum, ganga með Geithöfða, skoða nýendurheimta hveri við suðurenda Kleifarvatns, ganga með Hvammi og Hvammholti austan Hverahlíðar við fjöruborð Kleifarvatns alla leið að tóftum hins þjóðsagnakennda Kaldrana suðvestan við vatnið. Þar eru friðlýstar fornminjar.

Breiðivegur

Breiðivegur.

Enn sést móta fyrir gamla veginum (Breiðavegi) ofan við mýrarnar austan Arnarfells. Hann liggur mun nær hlíðum Geitahlíðar en nýi þjóðvegurinn, en sést vel frá honum. Elsta þjóðleiðin er enn austar, í brúnunum, neðan við Vegghamra og upp Deildarháls milli Stóru-Eldborgar og Geitahlíðar. Þar liggur hann niður Kerlingardal og áfram yfir hraunið til Herdísarvíkur. Í Kerlingadal deildu þær Herdís og Krýsa með tilheyrandi afleiðingum fyrir bæði þær báðar sem og aðra. Eldborgin skartaði sínu fegursta.
Vegghamrarnir eru klettabelti vestan Geitahlíðar. Þeir eru hluti af grágrýtishálsi er aðskilur Kálfadali frá umhverfinu sunnan þeirra og suðvesturhlíðum Geitahlíðar.

Víti

Móbergsmyndanir vestan Vítis.

Þegar komið var upp fyrir hálsinn blasti við stórbrotið móbergslandslag og varla stingandi strá. Það var ekki að ástæðulausu sem þeir fyrstu geimfarar er stigu síðar fæti á tunglið komu hingað til æfinga fyrir þá ferð. Landslagið er ekki ólíkt því sem ætla megi að gerðist á þeim fjarlæga hnetti. Skútar og litlir hellar eru inn í móbergsklöppina, sem vindur, vatn, frost og veður hafa mótað í gegnum tíðina. Þarna, inni undir geysifallegu, og varla jarðnesku, móbergsgili, var ein af fyrst leiknu íslenslu kvikmyndunum tekin, Tunglið, tunglið taktu mig. Kvikmyndatökumaðurinn var Ásgeir Long.

Kálfadalir

Gengið í Víti.

Handan við hæðina tóku Kálfadalir við. Þeir eru tveir, en þó innangengt á milli þeirra um tiltölulega mjótt skarð. Botn syðri dalsins hefur nær fyllst af hrauni úr gígum austan og ofan við hlíð hans. Sennilega er hraunið frá svipuðum tíma og hraunið úr Stóru-Eldborg. Tilkomumikill hraunfoss rann þá niður hlíðina, Kálfadalahlíðar, og storknaði, líkt og hraunið. Falleg náttúrusmíð. Hraunfoss þessi, sem er mjög áberandi á svæðinu, hefur gengið undir nafninu Víti, sennilega vegna upprunans.
Fylgt var vesturbrún dalsins til norðurs og gengið inn í nyrðri dalinn. Við enda hans er Gullbringa, tiltölulega lítið fjall, sem sumir segja að sýslan hafi verið nefnd eftir. Aðrir segja Gullbringurnar vera hlíðarnar austan við fjallið. Enn aðrir segja nafn sýslunnar vera dregið af Gullbringunum ofan Mosfellsheiðar.

Hvað sem því leið var ákveðið að ganga upp eftir fallegu gili á vestanverðum dalnum, yfir austurfjöll Kleifarvatns og vestur með sunnanverðu vatninu, skoða hveri er komu í ljós er sjatnaði í vatninu eftir jarðskjálftana árið 2000 og nýta auða ströndina til göngunnar.

Kálfadalir

Við Kálfadali – móbergsmyndanir.

Stefnan var tekin upp úr Kálfadölum um skarðið og síðan haldið niður hart hjanið áleiðis að Geithöfða. Sunnan hans var beygt með vatninu, hverirnir skoðaðir og haldið út á ísilagt vatnið með Hvammholti. Lambatangi skagar út í vestanvert vatnið. Hann átti eftir að koma við sögu síðar í ferðinni.
Þegar komið var að tóftum Kaldrana suðvestan við Kleifarvatn var rifjuð upp sagan af þeim Herdísi og Krýsu. Þegar þær deildu um landamerki sín neðan við Eldborgina lagði Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna En af ummælum þeirra er það að segja að í veiðivötnum Krýsuvíkur hefur enginn silungur fengizt svo menn viti nokkurn tíma síðan, en fullt er þar af hornsílum, og í Herdísarvíkurtjörn hefur ekki heldur orðið silungs var; en loðsilungar ætla menn þar hafi verið.

Um Kleifarvatn gengu þó ennþá fleiri sögur um. Árið 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.

Kálfadalir

Gengið í Víti.

Árið 1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.
Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga (Lambatanga) eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.
Frá Kaldrana er ágætt útsýni yfir sögusviðið.
Frábært veður. Birtan var ævintýraleg. Það var engu líkara en gengið væri í gegnum ævintýri, slík var birtan sem og landslagið í ferðinni.
Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=261

Víti

Víti í Kálfadölum.

Jónsbúð

Gengið var frá Arnarfelli í Krýsuvík til austurs yfir Krýsuvíkurheiði. Farið var yfir gróið þýfi, stigið yfir Eystrilæk og ekki staðnæmst fyrir en við stóra tóft efst á heiðinni; Jónsvörðuhús eða Jónsbúð, eins og hún er stundum nefnd. Þá var haldið yfir að öðru húsi skammt sunnar, þar sem heiðin tekur að halla undan áleiðis niður að Krýsuvíkurbjargi. Það hús er hlaðið og er nokkuð heillegt.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

Ætlunin var m.a. að skoða svæðið austan Arnarfells, en eins og kunnugt er staðnæmdust skreiðarlestirnar á leiðinni austur frá Grindavík við Arnarvatn suðaustan við fellið. Stóra tóftin efst á Krýsuvíkurheiði var fjárhús eða sauðakofi. Ekki er vitað hvernig nafnið á hana, Jónsbúð eða Jónsvörðuhús, er til komið. Elstu menn segjast hafa heyrt af því að þar hafi Magnús, síðasti íbúinn í Krýsuvík, setið yfir sauðum á yngri árum er hann var þar í vist hjá sýslumanninum.

Skammt suðaustar, þegar fer að halla undan á heiðinni til suðurs er heillegt hlaðið skjól og auk þess og vandlega hlaðið hús þar skammt sunnar.

Krýsuvíkurheiði

Tóft í Krýsuvíkurheiði.

Dyr vísa til suðurs. Ekki er vitað til hvers það var notað. Þó er ekki óraunhæft að ætla að þar hafi Magnús, eða einhver annar á undan honum, haft afdrep. Líklegast er að þarna hafi verið afdrep manna. Stigið er ofan í það af þröskuldi og hefur gluggi verið á norðurstafni. Útsýni er þarna yfir neðanverða heiðina, Litlahraun þar sem fyrir eru allnokkrar minjar, s.s. fjárskjól, hústóft, rétt o.fl. og niður að Sundvörðunni á Krýsuvíkurbjargi.
Þarna gæti líka hafa verið útstöð Arnarfellsbónda hér áður fyrr eða hús hlaðið af refaskyttum, sem voru við veiðar ofan við bjargið.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær um 1930.

Nú eru allir bæirnir í Krýsuvík í eyði. Stóri-Nýibær lagðist seinast í eyði. En þó er ekki svo langt síðan að svæðið varð mannlaust þarna. Einn maður varð eftir, þegar allir aðrir flýðu af hólmi. Með órjúfandi tryggð við staðinn gafst hann aldrei upp, heldur þraukaði þar fjarri mannabyggðum aleinn, ósveigjanlegur og hiklaus og barist þar áfram með hinni ódrepandi íslensku seiglu. Þessi maður var nefndur Magnús Ólafsson.
Magnús er upp alinn í Hafnarfirði, en 18 ára gamall fór hann til Árna sýslumanns Gíslasonar í Krýsuvík. Er sagt að hann færi þangað nauðugur. Árni hafði útgerð í Herdísarvík og er að heyra á Magnúsi að hann hafi kviðið fyrir því að verða sendur þangað.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík.

“Mér hefur aldrei verið um sjóinn gefið”, sagði hann eitt sinn í viðtali við Árna Óla, “en ég var snemma hneigður til fjárgeymslu, og það starf fékk ég. Þá var ég ánægður.”
Ábúendur komu og hurfu, margs konar breytingar urðu, en alltaf var Magnús kyrr í hverfinu. Var hann á bæjunum sitt á hvað. Að undanteknu einu ári, sem hann var á Setbergi í Hafnarfirði, og einum vetri, sem hann var þar í kaupstaðnum, hefur hann stöðugt verið í Krýsuvík. Og þegar allir voru flúnir þaðan, settist hann að í kirkjunni. Höfðu verið rifnir úr henni bekkir, altari og prédikunarstóll, loft sett yfir kórinn og hann þiljaður af. Enn fremur hafði verið afþiljuð ofurlítil kompa í framkirkjunni fyrir geymslu.
Menn hugsa sér kirkjur oft nokkuð stórar, en þessi var bæði fornfáleg og lítil. Hún var úr timbri og ekki manngegnt undir bita. Ekkert tróð mun í veggjum og gólfið sigið og gisið. Og hvernig sem á er litið er þetta heldur ömurleg vistarvera. Það hefur því þurft óvenju mikið sálarþrek til þess að geta hírst þarna aleinn árum saman, langt frá öllum mannabyggðum. En það sá ekki á Magnúsi að hann hafði gugnað neitt við einveruna. Þó fór svo að lokum að einnig Magnús varð að yfirgefa sveitina. Síðan hefur sauðkindin ráðið þar ríkjum eða allt fram til þess. Nú er svo komið að einnig hún verður að víkja af svæðinu og verða færð í sérstakt beitahólf á og vestan við Núpshlíðarháls.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Krýsuvíkurheiði

Hús í Krýsuvíkurheiði.

Þórkötlustaðarétt

Núverandi Þórkötlustaðarétt í Þórkötlustaðahverfi var hlaðin af Grindavíkurbændum um aldamótin 1900. Grjótið var að að einhverju leyti tekið úr Vatnsheiðinni, auk þess sem kom upp úr túnsléttun í hverfinu og úr hraunhellunni umhverfis réttina. Hún var síðan endurbætt skömmu fyrir árið 2000. Réttin hefur ávallt þótt góð til síns brúks.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt – loftmynd 1954.

Fyrrum var fé Grindvíkinga vel á fjórða þúsund á vetrarfóðrum. Féð af fjalli fyllti safnhólfið sem og alla dilka. Urðu bændur að rýma af og til úr dilkunum svo þeir gætu dregið allt sitt fé. Þegar gerðið kom til ofan við réttina greiddist heldur úr þrengslunum.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt 1954 – uppdráttur ÓSÁ.

Áður var lögréttin í Krýsuvík, suðvestur undan Arnarfelli (Arnarfellsréttin). Hætt var að nota hana um 1950. Þangað til varð að reka úrdrátt frá Þórkötlustaðarétt upp í Krýsuvík og var afgangsféð selt þar.

Réttin suðaustan við Bæjarfellið var vorrétt. Þá voru rúningsréttir t.d. á Vigdísarvöllum og í Stóra-Hamradal, sem enn sjást leifar af.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Í Borgarhraunsrétt var réttað frá því fyrir aldamótin 1800.

Sigurður Gíslason á Hrauni í Grindavík lýsti smalamennskum í Grindavíkurhreppi (10. nóvember 2004):
„Eftir að seljabúskap lauk voru lagðir til 20 menn í vorsmalamennsku í Krýsuvík, sem tók minnst þrjá daga og allt upp í viku. Fyrst hafi verið smalað á Vigdísarvöllum, Selsvalla- og Sveiflubergshálsar og Selsvellir teknir með frá Núpshlíðarhálsi, Dyngjurnar, Höskuldarvellir inn á Norðlingaháls þegar Höskuldarvellir voru með í smölun. Oft hafi komið tveir til þrír menn af Ströndinni (þ. e. Vatnsleysuströnd). Daginn eftir, ef vel hafði gengið, voru tjöldin flutt vestur yfir Selsvallaháls, menn dreift sér í smölun frá Sogum vestur með Drif<f>felli, sunnan undir Keili, farið um Hemphól, vestasti maður farið fram Dalahraun og Beinavörðuhraun, þaðan um Bleikshól og þaðan austur að Borgarrétt. Í suður frá Sogum verið farið fram fyrir Hraunssel, syðsti maður sunnan við Méltunnuklif og Skála-Mælifell og réttað í Borgarhraunsrétt.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt 2020 – uppdráttur ÓSÁ.

Haustsmölun hafi verið í 22. viku sumars. Á laugardegi var smalað í Krýsuvík og féð rekið til Þorkötlustaðaréttar á sunnudegi en þann dag smalað Hraunsland frá Selsvallahálsi og Ísólfsskála- og Þorkötlustaðalönd. Fjórir menn hafi farið að vestan um Skógfellin og Kálffellsheiði, innsti maður farið inn á Hemphól og beðið eftir þeim, sem komu að austan. Tuttugu manna hópur fór ríðandi inn Selsvelli, inn í Sog, í Kerið, þá riðið inn með Trölladyngju, þar var skipt. Fimm menn látnir smala Dyngjurnar, austasti maður fór fyrir austan Fíflavallafjall og gat þurft að fara austur að Hofmannaflöt ef fé sást þar. Aðrir fóru vestur yfir Oddafell að Keili og vestasti maður hitti þann, sem beið við Hemphól. Þaðan var haldið suður um Kálffell, Aura, Dalahraun og Beinavarðahraun [í lýsingunni er ýmist talað um Beinavörðu- eða Beinavarðahraun] fram Vatnsheiði til réttar. Austasti maður fór um Óbrennuhólma og þaðan um Miðreka og út um Selatanga, Mölvík til Ísólfsskála og áfram til réttar. Fé hafi verið smalað til rúnings fram til ársins 1991 og menn haft stóð á fjalli, Ísólfsskálabóndi fram til 1990.“

Þórkötlustaðarrétt

Gamla Þórkötlustaðarréttin við Efra-Land.

Áður en Þórkötlustaðaréttin kom til réttuðu Þórkötlustaðabændur þar sem nú er grjótgarður vestast innan girðingar Efra-Lands, þ.e. þar í norðvesturhorninu, sem nú er. Þar var Gamla réttin. Í henni var enginn dilkur, einungis gerði. Sjá má leifar hennar ef vel er að gáð. Réttin var mun stærri en ætla mætti, en grjót var tekið úr henni og notað í garðana, sem sjá má ofan við Efra-Land.”

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – skálasvæðið.

Hafur-Björn Molda-Gnúpsson er sagður, ef marka má þjóðsöguna, hafa átt gnægð fjár, enda “efnaðist hann mjög af fé” eftir draumfarirnar með landvættinum og tilkomu geithafursins í hjörð hans (þess vegna er allt fé Grindvíkinga öðruvísi en annað fé landsmanna), og bræður hans fiskuðu aldrei sem fyrr. Auðguðust þeir bræður bæði af gæðum lands og sjávar.
Ekki þarf að leita að fjárrétt Hafur-Björns og bræðra því annað hvort hafa þeir ekki þurft að rétta eða sú rétt gæti löngu verið komin undir hraun því ekki eru ófá hraunin við Grindavík, sem runnið hafa eftir að ætt Molda-Gnúps bjó þar eftir árið 934. Fyrstu heimildir um byggð í Þórkötlustaðahverfi er um miðja 13. öld, en þá höfðu hraunin ofan núverandi byggðar runnið og kólnað að mestu. Við norðvesturhúshornið á núverandi Þórkötlustöðum (Miðbæjar) eru tóftir fornaldarskála að mati Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi (skrifað 1903). Hann skyldi þó aldrei vera eldri, og það jafnvel mun eldri, en gosið ofan við Grindavík árið 1226. Minjarnar, ef vel er að gáð og ef tilgáta Brynjúlfs er rétt, gætu þess vegna verið frá upphafi landnáms í Grindavík.

Samantekt; ÓSÁ fyrir ferlir.is

Heimild m.a.:
-Úrskurður Óbyggðanefndar – mál nr. 1/2004; Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt.

Hverasvæði

Hvera- og jarðhitasvæðin eru nokkur á Reykjanesskaganum, enda landsvæðið bæði tiltölulega ungt á jarðfræðilegan mælikvarða auk þess sem flekaskil liggja um skagann endilangann. Þau skiptast í háhita- og lághitasvæði.
Helstu háhitasvæðin eru í Brennisteinsfjöllum, á Hengilssvæðinu, yst á Reykjanesi, í Krýsuvík, við Trölladyngju, við Stóru Sandvík, í Eldvörpum og í Svartsengi. Sum svæðanna tengjast innbyrðis að einhverju leyti.

Háhitasvæði
Á vefnum Wikipedia.org er fjallað almennt um háhitasvæði:
„Háhitasvæði eru svæði þar sem hiti á 1 km dýpi er yfir 200°C. Jarðhitasvæðum er skipt eftir hámarkshitastigi í efsta lagi jarðskorpu en það er gjarnan metið með mælingu á hitastigli svæðisins. Háhitasvæði eru iðulega að finna á virkum gos- og rekbeltum, ýmist á flekamótum eða flekaskilum. Þar er jarðskorpan heitust og fer kólnandi eftir því sem fjær dregur og jarðlögin jafnframt eldri. Ummerki um háhitasvæði á yfirborði jarðar eru brennisteinshverir, gufuhverir, leirhverir og vatnshverir.

Háhitasvæði
Hitastig í miðju jarðar í kjarna hennar er um 7000°C. Uppruni þessa hita er tvíþættur. Sú orka sem átti þátt í myndun jarðarinnar fyrir 4600 milljónum ára umbreyttist í varma. Hins vegar myndast varmi í möttli og jarðskorpu vegna klofnunar geislavirkra samsæta á borð við þóríum 232Th, úraníum 238U og kalíum 40K0 og berst hann til yfirborðsins með varmaburði og varmaleiðni.

Laugardalur

Laugardalur – þvottalaugarnar.

Talið er að maðurinn hafi öldum saman nýtt sér jarðhita til að mæta ýmsum þörfum. Þar má nefna notkun til baða, þvotta, matseldar og iðnaðar. Ein frægasta laugin á Íslandi er líklega Snorralaug. Þá bendir ýmislegt til þess að jarðhiti hafi verið notaður til ylræktar til dæmis í Hveragerði og á Flúðum. Eins og nafn þeirra bendir til, voru Þvottalaugarnar í Laugardalnum lengi vel notaðar til þvotta og upp úr 1930 var farið að nota þær til húshitunar. Laugardalurinn telst þó til lághitasvæða. Þegar olíukreppa skall á árið 1970 hófst mikil vinna við að finna orkugjafa sem leysti olíu og kol af hólmi til kyndingar. Í dag eru opinberar hitaveitur á fjórða tug og litlar sveitahitaveitur tæplega tvö hundruð.

Ítalir voru fyrstir til að nýta jarðhita til raforkuframleiðslu en þá var gufuvél tengd við rafal sem framleiðir rafmagn. Í kjölfarið var fyrsta jarðhitavirkjun heims reist þar með 250 kW afköstum. Í dag er afl virkjunarinnar rúmlega 700 MW og til stendur að stækka hana í 1200 MW.  Íslendingar hafa lengi verið í fremstu röð hvað varðar jarðhitarannsóknir og jarðhitanýtingu.“

Á vefsíðum Orkustofnunnar og ÍSOR má lesa eftirfarandi um háhitasvæðin:
Megineldstöðvar
„Mið-Atlantshafshryggurinn liggur í gegnum Ísland, sem skýrir dreifingu jarðhitans um landið. Öflugustu háhitasvæðin liggja öll í gosbeltinu sem hefur myndast á flekaskilum. Þar eru skilyrði sérlega góð til myndunar jarðhitakerfa vegna nægra varmagjafa í formi heitra kvikuinnskota og margsprunginnar og vel vatnsgengrar jarðskorpu. Hringrás vatnsins flytur smám saman varma frá dýpri hlutum skorpunnar upp undir yfirborð þar sem hún þéttir að nokkru leyti yfirborðsjarðlögin með útfellingum og myndar jarðhitageyma eins og þekktir eru frá borunum niður á 1 – 3 km dýpi.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – aðkoman upp frá Fagradal – ÓSÁ.

Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í 400–500 m hæð yfir sjó. Í eldstöðvakerfinu sem kennt er við Brennisteinsfjöll er skýrt afmörkuð gos- og sprungurein með stefnu NA-SV. Kjarninn í henni er á milli Heiðarinnar há og Bláfjalla að austan og Lönguhlíðarstapans að vestan. Bláfjöll eru oft felld undir þetta sama eldstöðvakerfi sem sérstök gosrein með móbergshryggjum, dyngjum og fáeinum gígaröðum, mikilli gosframleiðslu, en furðulítið er þar um brot. Jarðhitasvæði er ekki sýnilegt í Bláfjallareininni. Brennisteinsfjöll voru á náttúruverndaráætlun 2003-2008. Þau þykja sérstök vegna óvenju fjölbreyttra jarðmyndana og þá einkum gosmenja. Bent er á að Brennisteinsfjöll og umhverfi eru meðal fárra slíkra svæða nærri höfuðborgarsvæðinu sem mega heita ósnert. Hins vegar er land þar niðurnítt af beit og uppblásið með flögum og vatnsgrafningum.
Viðnámsmælingar benda til þess að svæðið sé um 18 km2 á 700 m dýpi undir sjávarmáli, um 1200 m undir yfirborði þar sem jarðhita verður vart.

Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – námusvæðið.

Virkur jarðhiti kemur fram sem gufur í um 450 m hæð en köld ummyndun er á fjórum stöðum og vitnar um meiri virkni á fyrri tíð. Jarðhiti á yfirborði er óverulegur og miðað við útbreiðslu jarðhita og ummyndunar er svæðið um 3 km2. Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í samnefndri sprungurein og hefur gosið þar a.m.k. 30–40 sinnum eftir að ísöld lauk. Brotalínur eru ungar á svæðinu frá sjó og norður á Mosfellsheiði og verða oft jarðskjálftar á um 5 km breiðu og um 40 km löngu belti. Jarðskjálftar í Brennisteinsfjöllum geta orðið nokkuð stórir.
Megingerð jarðlaga er móberg og þar sem gosstöðvar hafa náð upp úr jökli hafa runnið hraun og myndast stapar eða hraunahryggir. Allar bergmyndanir eru basalt og ekkert súrt eða ísúrt berg hefur fundist á yfirborði.

Hengilssvæði

Hengilssvæðið

Horft yfir Hengilssvæðið að hluta.

Hengilssvæðið er með stærstu jarðhitasvæðum á landinu, eða um 140 km2. Það er þó ekki allt einn og sami suðupotturinn. Vesturhlutinn tengist eldstöðvarkerfi Hengilsins. Innan hans eru vinnslusvæðin á Nesjavöllum og á Hellisheiði. Austan Hengils er Ölkeldu­hálssvæðið, sem tengist Hrómundar­tindseldstöðinni. Sunnan þess er Hverahlíð og ný gögn benda til að vinnanlegur jarðhiti geti verið við Gráuhnúka og Meitil. Austasti hluti háhita­svæðisins tengist Hveragerðiseldstöðinni sem er útdauð og sundurgrafin.

Hellisheiðavirkjun nýtir jarðhitavökva frá Hellisheiði og Hverahlíð. Alls er talið að Hengilssvæðið geti staðið undir um 700 MWe rafafli og enn meira varmafli.

Jarðhiti á Hengilssvæðinu

Hengilssvæðið

Á Hengilssvæðinu.

Hengilssvæðið nær yfir tvær megineldstöðvar og nágrenni þeirra. Önnur, Hveragerðiseldstöðin, er útdauð og sundurgrafin. Hin er virk og nær yfir Hengil og Hrómundartind. Gosmyndanir á svæðinu eru um 800.000 ára gamlar. Elstu jarðlögin er að finna í ásunum suðaustan við Hveragerði en yngst eru hraunin sem flætt hafa frá gosreininni gegnum Hengil.

Gosmyndanir á Hengilssvæðinu eru fjölbreyttar. Aðalgerðir eldstöðva eru þó einungis tvær, tengdar sprungugosum og dyngjugosum. Jarðskorpuhreyfingar í gliðnunarbelti, eins og verið hefur á Hengilssvæði allan þann tíma sem jarðsaga þess spannar, sýna sig í gjám og misgengjum og hallandi jarðlögum á jaðarsvæðunum. Skjálftabelti Suðurlands gengur austan til inn í Hengilssvæðið.

Henglafjöll

Henglafjöll.

Á vestanverðu Hengilssvæðinu er landslagið mótað af gosmyndunum sem hafa hlaðist upp á síðasta jökulskeiði og á nútíma. Austan til hafa roföflin hins vegar mótað það.

Laus jarðlög þekja sléttlendi og fjallshlíðar eru hvergi mjög skriðurunnar nema þar sem þykk hraunlög eru í brúnum eða fjöllin eingöngu úr bólstrabergi. Um vatnafar á Hengilssvæðinu skiptir í tvö horn. Á því vestanverðu eru stöðugar lindir og lækir einungis þar sem jarðlögin eru svo ummynduð að þau halda vatni. Annars sígur þar allt vatn í jörð. Á austanverðu svæðinu renna ár og lækir árið um kring.

Hengilssvæðið er með stærstu jarðhitasvæðum á landinu, eða um 100 km2. Það er þó ekki allt einn og sami suðupotturinn, heldur er það a.m.k. þrískipt:

Grændalur

Í Grændal.

Suðaustasti hluti þess er í Hveragerðiseldstöðinni (Grændalur). Hún er hætt gosum og þegar nokkuð rofin. Boranir í Hveragerði og upp með Varmá hafa sýnt að þar er á ferðinni afrennsli af heitara svæði norðar eða norðvestar. Vinnsla umfram það sem núverandi borholur gefa myndi því byggjast á borunum í Grændal. Ef nefna ætti eitthvert séreinkenni þessa svæðis, þá væru það kísilhverirnir í Hveragerði og á Reykjum, eða hinar fjölmörgu laugar sem spretta fram úr berghlaupum í Grændal. Innan um eru gufuhverir sem gjarnan fylgja sprungum tengdum Suðurlandsskjálftum. Mörg dæmi eru um hverabreytingar á þessu svæði, bæði fornar og nýjar. Svæðið er þægilega lágt í landinu, um og innan við 200 m. Aðgengi útheimtir vegalagningu yfir skriðurnar vestan megin í dalnum án þess að spilla hverum eða laugasvæðum.

Reykjadalur

Í Reykjadal.

Ölkelduhálssvæðið sker sig úr fyrir kolsýrulaugarnar sem eru í þyrpingu frá Ölkelduhálsi suður í Reykjadal og í Hverakjálka. Jarðhitinn þar fylgir gosrein með misgömlum móbergsfjöllum og stökum hraungígi, Tjarnarhnúki.
Loks er jarðhitasvæðið í Henglafjöllum. Það nær frá Nesjavöllum suðvestur í Hveradali og Hverahlíð. Jarðhitinn er mestur og samfelldastur utan í Hengli alls staðar nema norðvestan megin. Brennisteinshverir eru mestir vestan til í Henglafjöllum, þ.e. í Sleggjubeinsdölum, norðan við Innstadal og ofan við Hagavíkurlaugar. Austan megin eru kalkhverir og kolsýrulaugar algengar. Jarðhitanum á Henglafjöllum má hugsanlega skipta í nokkur vinnslusvæði, sem öll gætu verið innbyrðis í þrýstisambandi: Nesjavelli, Sleggjubeinsdal, Hellisheiði, Hverahlíð, Þverárdal, Innstadal og Fremstadal.
Landslag á svæðinu er fjöllótt og vinnsla jarðhita fer mjög eftir aðgengi að viðkomandi svæðum. Einnig eru jarðhitasvæðin misjafnlega heppileg til nýtingar, sem aðallega fer eftir hita og kolsýruinnihaldi.

Reykjanessvæði

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ÍSOR.

Á Reykjanesi kemur gliðnunarbelti Reykjaneshryggjarins úr sjó. Eystri hluti Reykjaness er klofinn af misgengjum og opnum gjám, en vestari hlutinn að mestu hulinn yngri hraunum úr Stamparöðinni. Úr henni hefur gosið 3-4 sinnum á síðustu 5 þúsund árum, síðast 1226. Líklegt er að tvær aðskildar sprungureinar séu á Reykjanestá, og að háhitakerfið sé tengt þeirri eystri en nái ekki yfir í þá sem vestar liggur, þ.e. Stampareinina. Viðnámsmælingar gefa til kynna að jarðhitakerfið sé bundið við þrönga uppstreymisrás eða sprungu og heitt afrennsli út frá henni á 2–300 m dýpi í allar áttir. Þegar rýnt er í viðnámsmyndina neðan lágviðnámskápunnar niður á 5 km dýpi má sjá svæði eða strók með lægra viðnámi en umhverfis. Vökvinn í jarðhitakerfinu er jarðsjór og hiti fylgir suðumarksferli yfir 300°C. Stærð svæðisins er talin um 9 km2 og vinnslugeta er metin 45 MWe.

Framkvæmdasvæðið er innan svæðisins Reykjanes-Eldvörp-Hafnaberg sem er á Náttúruminjaskrá, ekki síst vegna merkilegra jarðmyndana. Einnig njóta jarðmyndanir á svæðinu sérstakrar verndar skv. 37. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Það á við um nánast öll hraun á svæðinu, fjölda gíga, Stamparöðina og Skálafell og hvera­svæðið við Gunnuhver.

Jarðhitasvæðið á Reykjanesi

Gunnuhver

Á Reykjanesi – Gunnuhver og nágrenni.

Jarðhitasvæðið á Reykjanesi (á hælnum) er um það bil 1 km2 að stærð sé einungis miðað við hverina og önnur sýnileg jarðhitamerki. Viðnámsmælingar benda til að það sé a.m.k. fjórfalt stærra og teygist auk þess út í sjó til suðvesturs. Jarðhitasvæðið er að mestu þakið hraunum en móbergs- og bólstrabergshryggir standa upp úr. Einn þeirra, Rauðhólar, nær inn á jarðhitasvæðið. Þar voru fyrstu vel heppnuðu vinnsluholurnar boraðar.

Tvær gosreinar liggja yfir “hælinn” á Reykjanesi og er jarðhitinn á þeirri eystri milli Skálafells og Litla-Vatnsfells. Vestar er Stampareinin með yngstu hraununum. Á henni er ekki jarðhiti en viðnámsmælingar gefa til kynna að jarðhitakerfið nái einnig til hennar.

Stampar

Stampar.

Á Reykjanesi er að finna mörg jarðfræðileg fyrirbæri sem vert er að skoða. Þar ber af öskugíg með berggöngum þar sem Stampagígarnir ganga fram í sjó. Á jarðhitasvæðinu hafa goshverir komið upp endrum og eins, raunar tvisvar á síðustu öld í tengslum við jarðskjálftahrinur. Þeir gjósa jarðsjó en hafa reynst skammlífir.

Kísilhóll

Kísilhóll h.m.

Langlífari hefur verið goshver í svo kölluðum Kísilhól sem nú er óvirkur. Hann er úr móbergi með metraþykku kísilhrúðri ofan á. Þar má einnig sjá sprungu sem reif sig upp í skjálftahrinu fyrir 35 árum og sýnist enn fersk þar sem hún liggur norðaustur frá Gunnuhver. Það sem gefur Reykjanessvæðinu mest gildi er vitundin um að þar koma plötuskil Reykjaneshryggjarins á land.

Ferðamenn sem fara út á Reykjanes staldra hjá Valahnúkum til að skoða brimið og hjá Gunnuhver sem er leirpyttaklasi norðan undir Kísilhólnum.

Höyer

Búsetuminjar við Gunnuhver.

Búseta á Reykjanesi hefur skilið eftir sig ummerki (bú vitavarðar og nýbýlið Hveravellir). Garðrækt hefur lengi verið stunduð, efnistaka í vegi, boranir og verksmiðjurekstur og því hróflað við mörgu. Ný fyrirbæri hafa skapast. Merkast af þeim eru kísilpaldrarnir vestan undir Rauðhólum í afrennslinu frá saltverksmiðjunni.

Reykjanessvæðið er eitt best rannsakaða háhitasvæði landsins. Grunnurinn að þeim rannsóknum var lagður á árunum fyrir 1970. Þá var nýafstaðin öflug skjálftahrina og við hana færðist líf í hveri. Síðan hefur virknin dvínað töluvert.

Reykjanessvæðið er með þeim heitustu sem nýtt eru hér á landi. 30 ára vinnsla hefur ekki haft nein merkjanleg áhrif á forðann í jarðhitakerfinu. Efnainnihald í jarðsjónum skapar vanda við nýtingu en jafnframt seljanlega vöru.

Krýsuvíkursvæðið – Seltún

Seltún

Hverasvæðið í Seltúni.

Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, í Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju, og við Sandfell. Krýsuvík er hluti af Fólkvangi á Reykjanesskaga. Land í Krýsuvík er í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn.

Meginsvæðið er um 80 km2 að flatarmáli. Umfangsmiklar rannsóknir standa yfir en segja má að miðja uppstreymis sé enn ekki staðsett. Í Trölladyngju eru tvær borholur. Í báðum er um 250°C hiti ofarlega, síðan hitalækkun, en dýpri holan endar í 330°C hita á rúmlega 2 km dýpi. Í Krýsuvík er hveravirknin samfelldust í Hveradölum og við Seltún og nokkuð upp á Sveifluhálsinn, með gufu- og leirhverum. Í Krýsuvík hefur dýpst verið borað um 1200 m. Hæstur hiti í borholum þar er í Hveradölum um 230°C og nærri suðuferli niður á um 300 m dýpi en þar neðan við kólnar.

Viðnámsmælingar gefa vonir um að rafafl svæðisins sé 440 MWe og varmaafl öllu meira. Svæðið er metið 89 km2 og rafafl 445 MWe. Óvissa ríkir um vinnslugetu meðan miðja uppstreymis er ekki fundin með rannsóknarborunum.

Jarðhitasvæðið Krýsuvík

Austurengjar

Hveraummyndanir á Austurengjum.

Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, í Krýsuvík, Köldunámum, Trölladyngju og við Sandfell. Fjögur þau fyrsttöldu sýna sig samfelld í viðnámsmælingum en Sandfellssvæðið er laust frá. Meginsvæðið er hringlaga um 50 km2 að flatarmáli innan 10 ohmm jafnlínu. Sandfellssvæðið er mælt á sama hátt um 4 km2. Sveifluháls og Vesturháls með Trölladyngju eru móbergshryggir samsettir úr mörgum goseiningum og ná mest í 300-400 m hæð. Nútímahraun þekja allt sléttlendi vestan við hálsana og á milli þeirra. Upptök þeirra eru í gossprungum báðum megin við og utan í Vesturhálsi og Trölladyngju. Gossprungur eru einnig austan í Sveifluhálsi og sprengigígar á öldunum vestan hans en hraunmagn úr öllum er lítið. Gosvirknin hjaðnar þaðan til NA og verður að lægð þar sem Kleifarvatn er. Jarðmyndanir milli Sveifluháls og Austurengja eru eldri en vestur í hálsunum og á hraunasvæðunum. Efnismiklar móbergsmyndanir úr öðru eldstöðvakerfi eru austan við Kleifarvatn og öldurnar þar suður af.

Hveravirknin á fyrrnefndum fjórum jarðhitasvæðum er að ýmsu leyti ólík.

Baðstofa

Í Baðstofu.

Í Krýsuvík er hveravirknin samfelldust í Hveradölum og við Seltún og nokkuð upp á hálsinn, með gufu- og leirhverum. Þar er nokkuð um brennisteinshveri og miklar gifsútfellingar. Hverir eru einnig í Grænavatni. Frá Grænavatni og Gestsstaðavatni liggja gossprungur með fleiri gígum til norðurs, og stefnir önnur upp í Hveradali en hin á hverina við Seltún. Hæstur hiti í borholum er í Hveradölum um 230°C. Dýpst hefur verið borað um 1200 m. Hiti er nærri suðuferli niður á ~300 m dýpi en þar neðan við kólnar. Engar mælingar eru til úr borholum neðan 400 m.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn. Töluverð ummyndun sést í bergi alllangt út frá beggja vegna. Auk jarðhitans eru á þessari hitarák nokkrir sprengigígar sem gosið hafa gjalli og smáhraunum með úrkastinu. Sá stærsti er um 100 m í þvermál skammt norðaustur af Stóra-Lambafelli og mikil gjalldreif austur frá honum. Gígar þessir eru frá því snemma á nútíma. Ein 600 m djúp borhola er við Kleifarvatn um 150 m vestan við hverarákina. Hæstur hiti í henni er um 160°C. Síðsumars 1924 lifnaði Austurengjahver við jarðskjálfta en var áður lítilfjörlegur. Stórir hverasprengigígar eru norður frá honum en eldri, sem bendir til að grunnt sé á jarðhitakerfi nærri suðu líkt og í Krýsuvík.

Köldunámur

Köldunámur.

Köldunámur heita vestan í Sveifluhálsi langt norður frá jarðhitanum í Krýsuvík. Þar skammt vestur af eru gufuaugu í hraunbolla og nokkur brennisteinn (Leynihver) en í hlíðinni köld jarðhitaskella. Gifsmulningur sést sem bendir til að þar hafi einhvern tíma verið brennisteinshverir.

Leynihver

Leynihver.

Í Trölladyngju eru hverir og ummyndun samfelldust á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirkin er fremur dauf, tveir hverir upp við Sogin, gufur með smávegis brennisteini og hverasprengigígur neðan undir hálsinum og hitaskellur í Oddafelli. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru á gossprungum þar sem þær liggja yfir fyrrnnefnda A-V-skák. Ummyndun er mest í Sogum þar sem stórt svæði er ummyndað í klessuleir. Vestan í hálsinum frá Sogum, suður á móts við Hverinn eina, er móbergið einnig ummyndað en hvergi nærri eins og í Sogum. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld og vatn í sumum. Djúpavatn er myndað á sama hátt.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Kalkhrúður finnst á tveim stöðum. Hitarák með gufuhverum liggur frá Trölladyngju um Eldborg norður í Lambafell, bundin nánast við eina sprungu. Hverinn eini er í hrauni skammt suðvestur af SV-endanum á Oddafelli. Gufuauga með smávegis brennisteini er í hraunbolla og gufur á smásvæði í kring. Þar hjá er dálítil hrúðurbunga (kísill) og kaldar hveraholur í henni. Í Trölladyngju eru tvær borholur, önnur við hverasprunguna norðan undir henni og hin á hverasvæðinu vestan undir hálsinum. Báðar gefa um 260°C hita ofarlega, síðan hitalækkun, en dýpri holan endar í 320°C hita á rúmlega tveggja km dýpi.

Sogin

Í Sogum.

Jarðhitinn sem kenndur er við Sandfell er í hrauni norðaustan undir fellinu. Þar stígur gufueimur máttleysislega upp á nokkrum stöðum. Á bletti er leirkennd ummyndun í jarðvegi og þar hefur hiti mælst nærri suðumarki. Móbergið í Vesturhálsi er nokkuð ummyndað á móts við Sandfell og inn með Selvöllum og þar eru grónar hlíðar með rennandi lækjum. Uppi á háhálsinum gegnt gufunum við Sandfell er allstór, leirgul hveraskella en alveg köld. Svæðið gæti samkvæmt því verið stærra en sýnist af yfirborðsmerkjunum.

Hitalækkun í borholum eftir að nokkur hundruð metra dýpi er náð hefur vakið spurningu um hvar uppstreymis sé að leita. Boranirnar í Trölladyngju benda til að þar sé þess að leita undir Sogum. Í Krýsuvík væri þess helst að leita undir Sveifluhálsi. Austurengjahitinn er í útjaðri jarðhitakerfisins skv. viðnámsmælingum, líkt og Trölladyngjuholurnar vestan megin. Svæðið þar sem viðnámsmælingar skynja hátt viðnám undir lágu þarf ekki að lýsa núverandi ástandi því þær sjá ekki mun á því sem var og er >240°C heitt.

Stóra Sandvík

Stóra Sandvík

Stóra Sandvík.

Niðurstöður djúpviðnámsmælinga gefa til kynna að jarðhita kunni að vera að finna á Stóru Sandvíkursvæðinu. Ekki er unnt að meta stærð hugsanlegs jarðhitageymis því veru­legur hluti hans gæti legið utan við ströndina. Boranir þarf til að fullvissa sig um hvort nýtanlegur hiti sé á svæðinu. Líklegt er að jarðhitakerfið sé tengt jarðhitakerfinu á Reykjanesi og því mætti líta á Stóru Sandvík sem annan virkjunarstað á Reykjanessvæðinu.

Eldvörp – Svartsengi

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Í Svartsengi hefur verið rekin jarðhitavirkjun frá 1977 og er núverandi afl hennar 70 MWe. Í Eldvörpum liggur fyrir hugmynd um að virkja 30-50 MWe í fyrsta áfanga. Borhola, EG-2 var boruð þar árið 1983 niður í 1265 m dýpi. Hún hefur aldrei verið nýtt, en hefur verið blástursprófuð og eftirlitsmæld nær árlega alla tíð síðan. Hún sýnir náin tengsl við jarðhitasvæðið í Svartsengi, og niðurdælingasvæði Svartsengis liggur mitt á milli svæðanna. Svæðið Eldvörp-Svartsengi er talið um 30 km2 og rafafl þess er metið 150 MWe.“

Lághitasvæði

Ölfus

Ölfusölkelda á Hengilssvæðinu.

Í Wikipedia.org er einnig fjallað um lághitasvæði:
„Lághitasvæði eru skilgreind svæði með jarðhita þar sem hiti er lægri en 150°C á 1-3 km dýpi í jörðu. Lághitasvæði Íslands eru fjölmörg en þau eru misdreifð um landið. Mikill lághiti er á Vestfjörðum, í Borgarfirði og víða um Suðurland og Miðnorðurland. Lítið er um lághita á Austfjörðum og í Skaftafellssýslum. Leit að heitu vatni á lághitasvæðum til húshitunar, garðyrkju, fiskeldis eða annarra nota beinist að því að finna heitt vatn á sem ódýrastan hátt. Lághitavatn keppir við aðra orkugjafa til húshitunar.

Lághitasvæði eru stundum talin nálægt 250 á landinu, og eru þau mjög misstór, allt frá einstökum volgrum og upp í nokkra tugi uppsprettna. Oft er erfitt að skera úr hvað skuli teljast til eins og sama lághitasvæðis, og geta slíkar skilgreiningar breyst með tímanum eftir því sem þekking eykst á einstökum svæðum.“

Á vef ÍSOR segir um lághitasvæði:
Lághitasvæði„Lághitasvæði landsins eru utan við virka gosbeltið sem nær frá Reykjanestá norður um landið út í Öxarfjörð. Þau ná frá jöðrum gosbeltanna, út um allt land og út á landgrunnið. Að vísu má ná ágætis lághitavatni innan gosbeltisins, hvort heldur er til húshitunar, garðyrkju eða fiskeldis, og eru Reykjanesskaginn og Öxarfjörður gott dæmi þar um.

Lághitarannsóknir

Ölkelda

Ölkelda í Hengladölum – nú horfin.

Leit að heitu vatni á lághitasvæðum til húshitunar, garðyrkju, fiskeldis eða annarra nota gengur út á að finna heitt vatn á sem ódýrastan hátt. Lághitavatn keppir við aðra orkugjafa til húshitunar. Einstaklingar og smærri byggðarlög eiga því nokkuð undir högg að sækja þar sem samanlagður jarðhitaleitar- og vinnslukostnaður má ekki fara yfir ákveðið hámark á einhverjum ásættanlegum afskriftatíma, þó í reynd njóti nokkrar kynslóðir góðs af stundum áhættusamri jarðhitaleit.

Með breyttri tækni í jarðborunum hefur þróast upp ný leitartækni hjá ÍSOR sem kallast hefur jarðhitaleit á köldum svæðum (þurrum svæðum) og gengur slík leit út á að gera fjölda viðnámsmælinga eða bora margar 50-60 m djúpar ódýrar hitastigulsholur á tilteknu landsvæði og finna þannig út hvar grynnst er á nýtanlegan jarðhita til húshitunar (helst >60°C). Ef álitlegur valkostur finnst er nokkur hundruð metra djúp vinnsluhola boruð.“

Reykir
Lághitasvæði á Reykjanesskaganum eru t.d. yst á Reykjanesi, á Krýsuvíkursvæðinu, í Ölfusdölum, á Hengilssvæðinu og á Reykjavíkursvæðinu, s.s. á Reykjum í Mosfellsbæ og í Hvammsvík í Kjós.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/H%C3%A1hitasv%C3%A6%C3%B0i
-https://orkustofnun.is/jardhiti/jardhitasvaedi-a-islandi/hahitasvaedi/
-https://www.isor.is/jardhitasvaedid-i-brennisteinsfjollum
-https://www.isor.is/jardhiti-hengilssvaedinu
-https://www.isor.is/jardhitasvaedid-reykjanesi
-https://www.isor.is/jardhitasvaedid-krysuvik
-https://is.wikipedia.org/wiki/L%C3%A1ghitasv%C3%A6%C3%B0i
-https://www.isor.is/laghiti

Hverasvæði

Á hverasvæði Reykjaness.

Krýsuvík

Í Lögbergi 1948 er viðtal við Jens Hólmgeirsson um „Stórfellt landnám í Krýsuvík á vegum Hafnarfjarðarbæjar“:

Stórfellt landnám í Krýsuvík á vegum Hafnarfjarðarbæjar

Krýsuvík

Krýsuvíkurbúið fyrrum.

Lokið er byggingu eins íbúðarhúss og hafinn undirbúningur að túnrækt og byggingu gróðurskálans í Krýsuvík á sunnanverðu Reykjanesi var áður allmikil byggð, sem lagðist með öllu niður fyrir nokkru. Þar eru mikil jarðhitasvæði og allgóð aðstaða til ræktunar bæði við jarðhita og án hans. Nú hefir Hafnarfjarðarbær hafið þar landnám að nýju. Er ætlunin að stunda þar bæði nautgriparækt til mjólkurframleiðslu og ræktun matjurta og grænmetis í upphituðum gróðurskálum. Framkvæmdastjóri garðræktarinnar þar hefir verið ráðinn Óskar Sveinsson garðyrkjumaður, en Jens Hólmgeirsson mun sjá um stofnun og starfrækslu kúabúsins. Tíðindamaður blaðsins hefir átt tal við Jens Hólmgeirsson um þessi mál.

Heil kirkjusókn í eyði

Krýsuvík 1887

Krýsuvík 1887.

— Var ekki allmikil byggð í Krýsuvík áður fyrr?
— Jú, Krýsuvík var stórbýli fyrr á öldum og höfuðból, og auk þess voru áður í Krýsuvíkurhverfinu 10—12 hjáleigur og smærri býli. Á þeim tíma var þarna allfjölmennt og fram undir 1600 var prestur í Krýsuvík.
Eftir það var Krýsuvíkurkirkja annexía frá Strönd í Selvogi, en síðar var kirkjunni þjónað frá Grindavík. Árið 1928 mun kirkjan hafa verið lögð niður, enda var þá aðeins fátt fólk eftir í sókninni. Munir og gripir kirkjunnar voru þá fluttir í Þjóðminjasafnið, en húsið, stendur ennþá. Árið 1901 eru taldar 42 sálir í Krýsuvíkursókn, og eru þá aðeins fimm bæir í byggð. Árið 1934 mun síðasti bóndinn hafa flutt úr byggðarlaginu. — Bjó hann í Nýjabæ og hafði verið þar bóndi um 40 ára skeið og komið upp 17 mannvænlegum börnum.

Bjó einn í kirkjunni

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson – síðasti ábúandinn í Krýsuvík.

Byggð féll þó eigi niður í Krýsuvík fyrr en árið 1945. Síðasti íbúi Krýsuvíkur var Magnús Ólafsson. Hann kom 18 ára gamall sem vinnumaður til Árna sýslumanns Gíslasonar, sem flutti til Krýsuvíkur nokkru fyrir síðustu aldamót. Magnús ílentist svo í Krýsuvík, tók órjúfandi tryggð við staðinn og undi þar vel hag sínum, þótt aðrir flyttu brott. Síðustu árin bjó hann þar einn síns liðs með kindur sínar. Hafði hann íbúð í kirkjunni eftir að hún var lögð niður. 1945 veiktist Magnús, þá um eða yfir 70 ára að aldri, og var fluttur til Hafnarfjarðar. Með brottför hans var í bili lokið byggð í Krýsuvík.

Allgóðir landkostir og mikill jarðhiti
— En hvernig eru landkostir í Krýsuvík?
— Krýsuvíkurland má heita eina verulega gróðurlendið á Reykjanesskaga vestan línu, sem dregin er frá Hafnarfirði í Selvog. Samkvæmt mælingu Ásgeirs L. Jónssonar, ráðunauts, sem gerði ræktunarmælingar af landinu, er graslendi í Krýsuvík nálega 350 ha. að flatarmáli. Er þá ekki talið með gróðurlendi í hallandi hlíðardrögum, né heldur hálfgrónir melar, en það land skiptir vafalaust hundruðum ha.
Verulegur hluti hins mælda graslendis er mýrar og hálfdeigjur. Sums staðar er undirlagið mókennt, en annars staðar leirblandið. Þá er og jarðhiti allmikill í Krísuvík, þar á meðal stór gufu hver, sem ýmsir telja einn hinn hrikalegasta gufuhver í heimi.

Hafnarfjarðarbær hefur nýtt landnám í Krýsuvík

Krýsuvík

Krýsuvik – gróðurhúsin.

Krýsuvíkurland er, sem kunnugt er, eign Hafnarfjarðarbæjar. Hefir stjórnin í huga að hefja þarna nýtt landnám. — Er einkum rætt um tvennt: í fyrsta lagi ræktun alls konar matjurta og grænmetis í gróðurskálum við jarðhita. Í öðru lagi er áform að að stofna þar kúabú til mjólkurframleiðslu fyrir Hafnarfjörð, og hefir í því sambandi einkum verið rætt um framleiðslu barnamjólkur. Fleiri framkvæmdir munu og hafa komið til greina, en hér verður ekki um þær rætt.

Skilyrði til búskapar góð

Krýsuvík

Fjósið í Krýsuvík.

— Hvernig telur þú skilyrði til búskapar þar?
— Þau má telja allgóð. Ræktanlegt land ætti að geta framfleytt um 300 kúm, án þess þó að nota að nokkru hugsanlega túnræktarmöguleika á melalandinu. Verulegur hluti af landi því, sem kortlagt hefir verið til ræktunar, verður að teljast fremur gott. Þá eru og sterkar líkur fyrir því, að hægt sé að fá geysimikinn jarðhita í Krýsuvík. Nú þegar mun mega staðhæfa, að hann sé nægur fyrir hendi til stórfelldrar gróðurskálaræktunar, súgþurrkunar á heyi og til hitunar íbúða þeirra, sem byggja verður vegna þeirrar starfsemi, sem að framan hefir verið greint frá.

Miklar framkvæmdir

Krýsuvík

Krýsuvík.

Svo sem áður er sagt, eru ekki til staðar í Krýsuvík eldri mannvirki, sem nothæf eru, hvorki húsakostur né ræktað land. Hér verður því um að ræða hreint landnám frá rótum. Fyrirhugað ar framkvæmdir munu því verða einhver hin stórfelldustu og myndarlegustu átök til nýs landnáms, sem ennþá hafa verið gerð á landi á einum stað og af einum aðila. Verður hér um að ræða algera nýbyggð á landssvæði, sem komið var í fullkomna auðn og var áður heil kirkjusókn að stærð.

Krýsuvík - vinnuskóli

Drengir úr Vinnuskólanum í Krýsuvík við skógrækt í Undirhlíðum.

Fyrstu framkvæmdirnar í ræktunarátt hóf Hafnarfjarðarbær fyrir nokkrum árum með því að girða landið. Mun girðingin vera um 27 km. að lengd og landið innan hennar um 2000—2500 ha. að flatarmáli. Var girðingunni lokið 1946. Sama ár var hafizt handa um skurðgröft til þurrkunar á væntanlegu ræktunarlarlandi. Alls hafa nú verið grafnir opnir skurðir, sem eru liðlega 5,3 km. að lengd og eru samtals yfir 23 þús. teningsmetrar að rúmmáli.
Þá hefir og verið hafið nokkuð landbrot. Mun það nema nú nálægt 27 ha. að stærð, og er þar innifalinn meginhluti gömlu túnanna, en um ræktun og gróðurfar eru þau eðlilega litlu betri en úthaginn. Ekkert af þessu landi er þó fullunnið ennþá. Lokið er byggingu eins íbúðarhúss og hafin er bygging gróðurskála.
— En hvað er að segja um byggingarframkvæmdirnar?

Krýsuvík

Krýsuvík – Fjósið – HH.

— Eitt íbúðarhús hefir verið byggt og er það ca. 10×26 metrar að grunnstærð. Stendur það á melöldu norðaustan við Gestsstaðavatn, en þar í grennd hefir gróðurskálunum verið valinn staður. Í húsinu eru tvær rúmgóðar fjölskylduíbúðir auk geymslurúms og einstakra herbergja fyrir starfsfólk. — Húsið er hitað með gufu. Hús þetta er einkum ætlað fyrir væntanlegt starfsfólk gróðurhúsanna. Má að nú heita nær því fullgert. Á s.l. sumri flutti Óskar Sveinsson garðyrkjumaður í húsið með fjölskyldu sína. Munu þá hafa verið liðin tæp tvö ár frá því að Magnús Ólafsson, einbúinn, sem ég minntist á hér að framan, flutti alfarinn úr Krýsuvík.
Af öðrum byggingum má nefna skýli yfir 30 kw. dieselrafstöð, sem sett hefir verið upp.
Einnig 60 rúmmetra steyptan vatnsgeymi og dæluhús við Gestsstaðavatn, en þar er neyzlu vatnið tekið. Þá er hafin bygging tveggja gróðurskála um 600 fermetra að flatarmáli. Er það þriðjungur þeirra gróðurskála sem ráðgert hefir verið að byggja á næstunni. Var að því komið að steypa veggi gróðurhúsanna, þegar frostin hófust í desembermánuði s.l. Þá hefir verið lokið við vatnsleiðslu að íbúðarhúsinu, nokkrir vegarspottar lagðir og fleiri smærri framkvæmdir gerðar.

Framkvæmdir á þessu ári

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið í dag, 2021. Framkvæmdin var pólitískt bitbein Alþýðuflokksmanna og Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði frá upphafi.  Rústirnar eru ágætt dæmi um togstreytu án tilgangs…

Svo sem fyrr getur, hefir lítt eða ekki verið byrjað á þeim byggingum, sem væntanlegu kúabúi eru nauðsynlegar. Má þar til nefna, fjós, hlöðu, vot heysgryfjur og íbúðir starfsfólks o. fl. Að sjálfsögðu er aðkallandi að ljúka verulegum hluta af þessum byggingum á yfirstandandi ári og því næsta. Takist það, má telja nokkra von til að mjólkurframleiðsla geti byrjað í Krýsuvík seint á árinu 1949.
Krýsuvík
En svo sem kunnugt er, eru slíkar framkvæmdir bundnar fjárveitingarleyfi og allfrekar á erlent byggingarefni, en á því er nú mikill hörgull eins og allir vita. Verið er að vinna að þess um málum nú. En að þessu sinni verður ekkert um það sagt, hvernig afgreiðslu þeirra reiðir af. — Tíminn, 18. marz.

Heimild:
-Lögberg, 21. tbl. 20.05.1948, Stórfellt landnám í Krýsuvík á vegum Hafnarfjarðarbæjar – viðtal við Jens Hólmgeirsson, framkvæmdarstjóra, bls. 7.

Krýsuvík

Krýsuvík.