Benedikt Elínbergsson (09.09.1941) var í Vinnuskólanum í Krýsuvík á árunum 1953-’54.
„Í þá daga fóru drengirnir heim á föstudögum og sneru aftur til vinnu á mánudögum. Síðar breyttist það í að drengirnir voru tvær vikur í senn í Krýsuvík, en fengu þá helgarfrí. Eyjólfur Guðmundsson og Snorri Jónsson, kennarar, veittu Vinnuskólanum forstöðu í fyrstu. Þeim til aðstoðar voru jafnan tvær til þrjár stúlkur, t.d. Guðrún Ágústsdóttir og Hulda Run. Viðdvölin tók breytingum eftir því sem tímar liðu“.
Benedikt var í framhaldinu við vinnu hjá Jóhannesi Trapp í garðyrkjustöðinni eitt sumar, tvö sumur hjá Reyni Ragnarssyni á búinu og eitt sumar hjá Hrafni Ólafssyni við fjárbúið. Jens Hólmgeirsson var þá kominn til starfa og turnarnir tveir við enda fjóssins byggðir.
Einungis vestari turninn var tekinn í notkun, enda hann þá með þaki. Í hann var blásið söxuðu heyi fyrir fjárhaldið. Díselknúin rafstöð (ljósavél) var í Krýsuvík og átti hún það til að „slá út“ þegar álagið á blásarann var hvað mest. Þegar upp var staðið voru þarna í fjósinu hátt í þúsund kindur. Krýsuvík var góð bújörð. Reynir var gamansamur. Eitt sinn spurði Jóhannes hann að því hvað tiltekinn tvíhornóttur lambhrútur í hjörðinni væri gamall. Reynir: „Hann er tveggja vetra“. Jóhannes: „Hvernig sérðu það?“. Reynir. „Á hornunum“. Jóhannes: „Huh, ég gat sagt mér það sjálfur“.
Ýmislegt var brasað í Krýsuvíkinni á þessum tíma, m.a. var Hlín Johnson í Herdísarvík veitt aðstoð við heyskap. Sagt var að jafnan rættist sú spá hennar að eftir að Herdísarvíkurtúnið hafði verið slegið tæki við fjögurra vikna þurrkur á Selvogssvæðinu.
Hluti bæjarhóls gamla Krýsuvíkurbæjarins var ruddur með jarðýtu 1956 og restin af honum 1964. Söknuður er af mannvirkjunum þótt fátækleg hafi verið orðin. Í kirkjunni, sem Björn Jóhannesson, formaður „Krýsuvíkurnefndarinnar“ endurbyggði, var jafnan altaristafla, bogadregin að ofan. Hún var í kirkjunni að sumarlagi, en hékk uppi á vegg í Sólvangi þess á millum – eða þangað til Þjóðminjasafnið tók hana til handargagns. Ólíklegt er að almenningur fái að njóta altaristöflunnar eftir að hrammar safnsins hafi náð að klófesta hana.
„Þú mátt gjarnan fjalla um „Krýsuvíkurnefndina“ svokölluðu sem og störf hennar“, stakk Benedikt upp á við viðmælanda. „Þá hafa störf Björns Jóhannessonar í Krýsuvík verið vanmetin. Hann endurbyggði t.d. Krýsuvíkurkirkju 1986“.
Stjórnmálamenn hafa deilt um byggingu mannvirkja og ýmsar framkvæmdir í Krýsuvík frá því að Hafnarfjarðabær keypti landið sunnan Kleifarvatns að Krýsuvíkurbergi af Ríkinu eftir að hafa verið tekið eignarnámi 1936. „Krýsuvíkurnefndin“ svonefnda, skipuð af bæjarstjórn Hafnarfjarðar, fór ekki varhluta af deilunum. Hér á eftir verður lesendum gefinn nokkur smjörþefnur af álitamálum þeim er að framangreindu laut:
Í Hamri 29. sept. 1954 segir: „Á bæjarstjórafundi [í Hafnarfirði], sem haldinn var 14. þ.m. samþykkti bæjarstjórnarmeirihlutinn að stofna til sauðfjárbúskapar í Krýsuvík. Samþykkt var tillaga Björns Jóhannessonar, formanns Krýsuvíkurnefndar, að keypt verði 100 gimbralömb um haustið.“ Aðrir í nefndinni voru Gísli Guðmundsson og Helgi S. Guðmundsson.
Í Hamri 19. maí 1950, þ.e. um það bil fjórum árum fyrr er fjallað um kosningu fulltrúa í Krýsuvíkurnefnd: „Á bæjarstjórnarfundi 25. apr. s.l. var samþykkt í bæjarstjórn að kjósa sérstaka nefnd til að fara með málefni Krýsuvíkur.
Frestað var að kjósa í nefndina þar sem ekki mun hafa verið fundinn framsóknarmaður, sem Alþýðuflokkurinn gat fellt sig við. Loksins fannst maður, sem fært var talið að tæki sæti í nefndinni er það Sigurður Guðmundsson kaupmaður. Mun hann hafa verið tregur til starfans þar sem heilsa hans leyfir honum því miður ekki að leggja sitt lið fram eins og sakir standa. Á síðasta fundi voru kosnir í nefndina auk Sigurðar Ingólfur Flygenring og Vigfús Sigurðsson.“
Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 27. maí 1950 segir í fréttum „Frá bæjarstjórnarfundi“: „Fundur var haldinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar þiðjudaginn 16. maí s.l. Á þessum fundi var nokkuð rætt um garðyrkjustöðina í Krýsuvík og starfsemina þar. Samþykkt var á fundinum samkvæmt tillögu meirihluta bæjarráðs þeirra Emils Jónssonar og Óskars Jónssonar að fela bæjarstjóra að ráða garðyrkjumann að gróðrarstöðinni, þar, sem Einar Þórir, garðyrkjumaður, hefur sagt upp starfi sínu, og hann óskar að losna úr starfi sínu, eins fljótt og orðið getur, og að upplýst er að Óskar Sveinsson, sem hefur verið veikur um hálfs árs skeið, er enn ekki fær til fullrar vinnu.
Þá lögðu þeir Emil Jónsson og Óskar Jónsson til við bæjarstjórn, að Jens Hólmgeirssyni verði falin framkvæmdastjórn við garðyrkjustöðina í Krýsuvík ásamt framkvæmdastjórn búsins, og yfirumsjón að undirbúningi þess.
Á fundinum var kosin þriggja manna Krýsuvíkurnefnd, í henni eiga sæti: Vigfús Sigurðsson, Sigurður Guðmundsson og Ingólfur Flygenring.“
Í Hamri 21. mars 1954 er dálkur; „Eitt og annað…“. Þar segir m.a.: „Þegar veðurblíðan er svona mikil, þá er ekki óeðlilegt að þeir fari eitthvað, að hugsa til hreyfings, sem ætla að fást við landbúnað. Það var líka ekki látið bíða, að Krýsuvíkurnefnd legði land undir fót og héldi til Krýsuvíkur til að skoða öll herlegheitin þar. Enda fer varla hjá því, að margt hljóti að vera þar með myndarbrag, þar sem Krýsuvíkin mun vera orðin ein dýrasta jörðin á Íslandi.
Til er gamalt máltæki, sem segir að sjaldan launi kálfar ofeldið. Það virðist eitthvað því líkt hafa gerst í Krýsuvík. Þó að bændur þessa lands hafi ekki fengið nálægt því jafnmikið fé handa á milli og búandinn í Krýsuvík, þá hefur líklega enginn skilað eins litlum arði, ávaxtað sitt pund eins illa og hann. Það er ekki einungis, að það pund korni aftur án þess að vera ávaxtað, heldur kemur það aldrei allt aftur og ekki nóg með það, heldur dregur það til sín og sóar arði annarra punda, svo að til stórvandræða horfir.
Það vantar svo sem ekki, að í mörgu hefur verið vasast í Krýsuvík. Þar hafa verið byggð íbúðarhús yfir starfsfólk, og man fólk vel eftir því, þegar vatnið í steypuna var keyrt alla leið neðan úr Hafnarfirði. Að vísu voru fáir, sem skildu þá ráðdeildarsemi!! Það hafa verið byggð gróðurhús og minriast menn þess, að fyrstu gróðurhúsin máttu hafnfirzkar hendur ekki smíða ekki einu sinni íslenzkar, heldur voru þau flutt inn frá Noregi. Og Norðmenn eru oft gamansamir, enda höfðu þeir svo litlar dyr á húsunum, að varla var hægt að komast um þær með tómatkassa í fanginu og moldinni varð að sturta af bílunum utan dyra og moka henni svo aftur upp í hjólbörur og aka henni inn. Til þessa verks var þó notaður íslenzkur vinnukraftur.
Þá hefur verið látið mikið af ræktuninni í Krýsuvík. Þar hafa skurðir verið grafnir og lokræsi gerð. Jörðin hefur verið plægð og sums staðar herfuð. En — það hefur engan ávöxt gefið. Ekkert gras, ekkert hey, ekki einu sinni beit. Ekki hefur þó skort áburð, hann var keyptur fyrir nær áratug og er geymdur enn, að nokkru leyti og mun hann vera talinn elzti tilþúni áburðurinn á landinu.
Tveir himinháir votheysturnar gnæfa þar efra á bökkum Grænavatns en þeir eru báðir þaklausir og að sjálfsögðu tómir, aðeins steinhólkarnir. Fyrir þeim fékkst fjárfestingarleyfi á mjög erfiðum tíma, því það voru að eins veitt leyfi til að byggja 10 slíka turna á landinu öllu. Þetta voru því fágætar byggingar og gaman að eiga þær. Það mun því hafa þurft mikinn dugnað til að fá fjárfestingarleyfin og sennilega ekki nokkur leið öðruvísi en að fórna leyfum, sem e.t.v. hefði verið hægt að fá fyrir öðrum framkvæmdum eins og t.d. yfirbyggingu sundlaugarinnar, steypu á Strandgötunni, byggingu húsmæðraskóla eða einhverju slíku niður í Hafnarfjarðarbæ.
Þessir turnar hafa líka verið vel varðveittir. — Þegar turnar þeir, sem bændurnir fengu að byggja hafa verið notaðir til heygeymslu og við það hafa þeir orðið blakkir að innan og loftið í þeim blandað heylykt, þá hafa turnarnir í Krýsuvík verið látnir standa auðir, svo að á þá félli ekki blettur og loftið í þeim er tært og ferskt, enda loftræsting með afbrigðum góð!!
En það eru fleiri byggingar í Krýsuvík. Þar hefur verið byggt fjós yfir á annað hundrað nautgripi. Það er að vísu ekki nema veggir og þak. Frá innri skipan hefur ekki verið gengið, né heldur hreinlætistækjum. Hins vegar eru geymd þar nokkur jarðvinnslutæki svona yfir vetrartímann. Fjós þetta á sér einna merkasta sögu fyrir það, að svo mikið lá á byggingu þess, að menn þeir, sem voru að byggja Sólvang, voru teknir úr þeirri vinnu til að hraða fjósbyggingunni. Sólvangur var því látinn bíða nokkuð það var meira aukaatriði, hvort hann yrði tekinn í notkun árinu fyrr eða síðar.
Krýsuvíkurnefnd hefur nú skoðað alla þessa dýrð og rifjað upp söguna um allar framkvæmdirnar og hugsar „ráðstjórnar“-hluti nefndarinnar sér að sjálfsögðu eitthvað til hreyfings, þar sem nýbúið er að samþykkja stóra fjárveitingu til Krýsuvíkur. Einn ljóður er þó á þessu öllu saman. Í upphafi vega hafði verið ráðinn bústjóri. Var hann sendur utan til að forframast í búskap. Var einkum talað um það, að hann hefði kynnt sér, hvernig fara ætti með rauðar kýr, svo að þær gæfu sem beztan arð, en að sjálfsögðu hefur hann kynnt sér margt fleira og verið mjög vel að sér, þegar hann kom, að minnsta kosti skrifaði hann um nýja tegund kúa, sem hann nefndi „votheyskýr“, í Tímann eftir að hann kom úr utanför sinni.
En það var fleira, sem hann lærði í búvísindum, — Þegar hann gerði áætlun um rekstur kúabús í Krýsuvík, þá reiknaði hann alla mjólkina til tekna og svo reiknaði hann á móti til gjalda þá mjólk, sem fór til kálfaeldis. Það merkilegasta í þessu var það, að hann reiknaði hvern lítra 8 aurum meira til tekna en hann reiknaði hann til gjalda aftur. Þannig græddi hann 8 aura á hverjum lítra, sem kálfarnir drukku, náttúrlega auk gróðans af eldi kálfanna.
En nú er bústjórinn horfinn með alla þekkinguna, sem Hafnarfjarðarbær var búinn að láta hann afla sér. „Ráðstjórnin“ þarf því að grípa til nýrra ráða í þessum efnum. En hver verða þau? Á að halda áfram að koma upp kúabúi og baka bæjarbúum þannig stórra fjárútláta í viðbót við það sem orðið er? Eða á að fara að tillögum Sjálfstæðismanna um að athuga möguleikana til að koma upp iðnaðarfyrirtæki eða tækjum í Krýsuvík og hagnýta þá fjárfestingu, sem þegar er orðin í Krýsuvík, til þeirra hluta, eftir því sem við verður komið? „
Svo mörg voru þau orð… eða eins og Benedikt orðaði það: „Ég man aldrei eftir, meðan ég dvaldi í Krýsuvík, að nokkurn skugga hafi fallið á starfsemina þar“.
Þrátt fyrir pólitískar deilur um uppbyggingu og framkvæmdir í Krýsuvík eftir miðja síðustu öld hefur engum slíkum verið að dreifa um Vinnuskólann…
Heimildir:
-Hamar VIII. árg. 29. sept. 1954, bls. 1.
-Hamar IV. árg. 19. maí 1950, bls. 1.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 18. árg. 27. maí 1950, bls. 2.
-Hamar VIII. árg. 21. mars 1954, bls. 2 og 3.
-Viðtal ÓSÁ við Benedikt Elínbergsson (09.09.1941) 31. mars 2023.