Tag Archive for: Krýsuvík

Stóra-Eldborg

Gengið var um Krýsvíkur- og Fjárskjólshraun vestan Herdísarvíkurhrauns.

Krýsuvíkurhraun

Krýsuvíkurhraun – herforingjaráðskort.

Krýsuvíkurhraun neðan Eldborganna, Litlu- og Stóru-Eldborg, hefur margra hrauna nefnur. Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar má lesa eftirfarandi:
„Hér blasir Eldborgin við, Stóra-Eldborg. Milli hennar og Geitahlíðar er skarð, nefnt Deildarháls. Þegar komið er fram úr skarðinu blasir við Hvítskeggshvammur er skerst inn og upp í Geitahlíðina. Þá blasir við hraunbunga með smá strýtum á. Þarna eru Dysjarnar. Þarna mættust þær eitt sinn þær maddömurnar. Krýsa úr Krýsuvík og Herdís úr Herdísarvík með smölum sínum og hundum þeirra. Deildu þær um beit, veiði í Kleifarvatni og fleira. Urðu báðar reiðar. Drap þá Dísa smalamann Krýsu. Krýsa drap þegar í stað hinn smalann. Þá sló í svo harða brýnu milli þeirra og heitingar, að báðar létur þarna líf sitt og hundarnir.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

Síðan eru þarna Kerlingadysjar, Smaladysjar og Hundadysjar, Krýsudys og Dísudys. Neðan við bunguna er Kerlingahvammur. Síðan heldur leiðin áfram um Geitahlíðardal, austur milli hrauns og hlíðar. Þegar austar kemur með hlíðinni er Sláttudalur skarð upp í henni. Upp hann liggur Sláttudalsstígur. Af Breiðgötum syðst lá stígur niður með Vesturbrún hraunsins, sem runnið hefur frá Eldborgunum. Eldborg stóru, sem áður er á minnst, og Eldborg litlu, sem er aðeins neðar og liggur Akvegurinn milli þeirra. Krýsuvíkurhraun kallast allt hraunið, en niður af Eldborgunum er Klofningur eða Klofningshraun. Milli Eldborganna er reyndar talað um Eldborgahraun. Neðst á Klofningi er Kletturinn og þar rétt hjá er Klettsgreni.

Keflavík

Hellnastígur milli Bergsenda og Keflavíkur.

Stígurinn sem liggur af Breiðgötum nefnist Bergsendastígur. Neðan við Klett spölkorn liggur stígur upp á hraunið og austur um það, nefnist Hellnastígur. Í austur frá honum þar sem hann beygir niður og í suðurátt blasir við Hellnahæð, og á henni Hellnahæðarvarða. Þar spölkorn neðar á sléttu klapparhrauni eru hellar. Gvendarhellir er þeirra merkastur, tekur móti 200 fjár. Hellir þessi var áður nefndur Arngrímshellir eftir samnefndum manni frá Læk í Krýsuvík. Hann lést er sylla undir berginu féll á hann um 1700. Arngrímur kemur við sögu í þjóðsögunni um Grákollu (Mókollu). Frá fjárskjólinu liggur stígur til vesturs um Klofningahraun og áfram að Krýsuvík framhjá Jónsbúð. Annar stígur liggur til norðurs um Eldborgarhraun að Eldborgunum sunnanverðum.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli / Arngrímshelli.

Nokkru neðar er svo Bjálkahellir, og austur frá þessum hellum er svo Krýsuvíkurhellir og enn austar er Fjárskjólshellir í Fjárskjólshrauni.
Guðmundur sá er byggði Lækjarbæinn hafði fé sitt í Gvendarhelli. Hann byggði sér skýli allgott við Hellismunnann. Að sunnan var íbúðarkompa hans, en að ofan var geymsla. Þar á milli var gangur, þar um fór féð í hellirinn. Við þetta bjó Guðmundur nokkra vetur: Þótti honum langt að fara að fé daglega heima frá Læk austur í hraunið.

Fjárskjólshraunshellir

Fjárskjólshraunshellir (Krýsuvíkur(hrauns)hellir.

Klettstrýta er hér ekki langt frá Hellunum, nefnist hún Arnarsetur. Héðan er skammt niður í Keflavík. Austur af Fjárskjólshrauni er Háahraun. Í því er Háahraunsskógur. Þar var gert til kola frá Krýsuvík. Tvær hraunnybbur eru þarna á hrauninu, nefnast, önnur Skyggnisþúfa, hin Hraunþúfa. Er þá komið á Austurbrún hraunsins.
Í austur frá Krýsuvík blasir við fallegt fjall, heitir Geitahlíð. Uppi á fjalli þessu eru þúfur. Nefnast Ásubúðir eða Æsubúðir. Hlíð sú er í norður snýr, nefnist Hálaugshlíð. Nyrst í vesturhlíðum fjallsins eru klettabelti, nefnast Veggir. Suður og upp frá eru Skálarnar, Neðri-Skál og Efri-Skál.

Breiðivegur

Breiðivegur (Breiðgötur).

Þá er upp frá Breiðgötum austast Geitahlíðarhorn vestra og nær allt inn að Hvítskeggshvammi. Herdísarvíkurvegur nefnist vegurinn og liggur um dalkvos milli hrauns og hlíðar, nefnist Geitahlíðardalur. Hér upp á brún hlíðarinnar er klettastallur, nefnist Hnúka. Um Sláttudal hefur Sláttudalshraun runnið. Skammt hér austar er Geitahlíðarhorn eystra. Hér tekur við úfið hraun, er nefnist allt Herdísarvíkurhraun. Á hæstu bungu þess er Sýslusteinn. Þar eru jarða-, hreppa- og sýslumörk. Alfaraleiðin lá upp með horninu og ofar en vegurinn liggur nú út á hraunið. Neðan við Sýslustein er Vondaklif, Illaklif eða Háaklif. Úr Sýslusteini liggur línan í Skjöld öðru nafni Lyngskjöld sem er breið bunga vestast í Herdísarvíkurfjalli. Úr Lyngskildi miðjum lá L.M. línan um Lyngskjaldarbruna uppi á fjalli og um Stein á Fjalli, eins og segir í gömlum bréfum.“

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um sama svæði segir: „Skreppum nú austur á merki, austur að Seljabótarnefi, og höldum þaðan vestureftir. Vestan við nefið heita Seljabótarflatir. Vestur og upp frá þeim er allmikið hraunsvæði, sem heitir einu nafni Krýsuvíkurhraun. Norður af því uppi við veg, sitt hvoru megin hans, er svo Litla-Eldborg og Stóra-Eldborg. Líkjast þær nokkuð að lögun Eldborg í Hítardal, en frá Eldborgum og heim að bæ í Krýsuvík eru 3-4 km, og mundi þá haldið í vestur. Í Krýsuvíkurhrauni eru gróðurblettir, góðir sauðhagar, þar sem heitir Eystri-Klofningar upp af Seljabót, en Vestri-Klofningar eru upp af Keflavík, er síðar getur. Í Klofningum eru tveir hellar. Annar er Gvendarhellir, sem ber nafn Guðmundar nokkurs Bjarnasonar, er bjó þar einn á vetrum með sauðfé sitt um 1840. Hellir þessi er víðáttumikill og lágur. Bálkahellir heitir hinn. Hann er lítt kannaður, en nafn sitt hefur hann af því, að þegar litið er inn í hann, virðist sem bálkur sé með hvorum vegg, eins og í fjárhúsi. Nálægt Seljabót er svo einn hellir enn, sem heitir Krýsuvíkur[hrauns]hellir. En í Klofningum er Klettagren.

Lyngskjöldur

Lyngskjöldur – þrætugrenið við Steininn.

Beint upp af Stóru-Eldborg og austur af bæ er allhátt fell, sem heitir Geitahlíð. Milli Eldborgar og Geitahlíðar er Eldborgarskarð, en litlu austar er Deildarháls; um hann lá vegurinn áður. Beint upp af Stóru-Eldborg er hvammur, sem Krýsvíkingar kalla Hvítskeggshvamm, en annarstaðar heitir Hvítserkshvammur eða jafnvel Hvítskeifuhvammur. Hvítskeggshvammur er hann nefndur í Landfr. s. Ísl II, 312, þar sem sagt er frá því, að þar hafi fundizt fleiri lækningajurtir en á nokkrum öðrum stað. Austan við hvamminn og hálsinn eru þrjú dys, austust er Herdís, svo er Krýs og loks Smalinn. Er hann ofan götunnar, en þær neðan; má um þetta lesa í þjóðs. J. Á. En eitthvað hafa merki færzt til síðan, ef þetta hefur verið á merkjum áður fyrr. Austast í Geitahlíð er dalur, er liggur inn í hlíðina, og heitir hann Sláttudalur.

Keflavík

Keflavík.

Nú bregðum við okkur aftur til sjávar. Vestarlega undir Krýsuvíkurhrauni gengur inn vík ekki kröpp, sem heitir Keflavík. Vestan við víkina fer landið aftur að ganga meira til suðurs. Tekur þar við berg, sem heitir einu nafni Krýsuvíkurbjarg.“

Í skráningunum segir ýmist: „Í Klofningum Krýsuvíkurhrauns er Gvendarhellir (Arngrímshellir) vestastur, þá Bálkahellir skammt austar, þá Krýsuvíkurhellir  og Fjárskjólshraunshellir þaðan til suðausturs neðar í hrauninu“ eða „Krýsuvíkurhellir er austur af Bálkahelli, nær Seljabót“. Þar er einmitt „Fjárskjólshelli“ að finna. Nefndur „Krýsuvíkurhellir er því annað hvort neðra op (miðop) Bálkahellis (ofan við opið er gömul varða) eða annað nafn á „Fjárskjólshelli“.

Frábært veður. Gangan tók 3. klst og 3. mín.

Krýsuvíkurhraun

Krýsuvíkurhraun – herforingjaráðskot.

Krýsuvík

Benedikt Elínbergsson (09.09.1941) var í Vinnuskólanum í Krýsuvík á árunum 1953-’54.

Benedikt Elínbergsson

Benedikt Elínbergsson.

„Í þá daga fóru drengirnir heim á föstudögum og sneru aftur til vinnu á mánudögum. Síðar breyttist það í að drengirnir voru tvær vikur í senn í Krýsuvík, en fengu þá helgarfrí. Eyjólfur Guðmundsson og Snorri Jónsson, kennarar, veittu Vinnuskólanum forstöðu í fyrstu. Þeim til aðstoðar voru jafnan tvær til þrjár stúlkur, t.d. Guðrún Ágústsdóttir og Hulda Run. Viðdvölin tók breytingum eftir því sem tímar liðu“.
Benedikt var í framhaldinu við vinnu hjá Jóhannesi Trapp í garðyrkjustöðinni eitt sumar, tvö sumur hjá Reyni Ragnarssyni á búinu og eitt sumar hjá Hrafni Ólafssyni við fjárbúið. Jens Hólmgeirsson var þá kominn til starfa og turnarnir tveir við enda fjóssins byggðir.

Krýsuvík

Gróðurhúsin 1950.

Einungis vestari turninn var tekinn í notkun, enda hann þá með þaki. Í hann var blásið söxuðu heyi fyrir fjárhaldið. Díselknúin rafstöð (ljósavél) var í Krýsuvík og átti hún það til að „slá út“ þegar álagið á blásarann var hvað mest. Þegar upp var staðið voru þarna í fjósinu hátt í þúsund kindur. Krýsuvík var góð bújörð. Reynir var gamansamur. Eitt sinn spurði Jóhannes hann að því hvað tiltekinn tvíhornóttur lambhrútur í hjörðinni væri gamall. Reynir: „Hann er tveggja vetra“. Jóhannes: „Hvernig sérðu það?“. Reynir. „Á hornunum“. Jóhannes: „Huh, ég gat sagt mér það sjálfur“.
Ýmislegt var brasað í Krýsuvíkinni á þessum tíma, m.a. var Hlín Johnson í Herdísarvík veitt aðstoð við heyskap. Sagt var að jafnan rættist sú spá hennar að eftir að Herdísarvíkurtúnið hafði verið slegið tæki við fjögurra vikna þurrkur á Selvogssvæðinu.

Krýsuvík

Krýsuvík 1964 – bæjarhóllinn ruddur með jarðýtu. Ljósm. Þór Magnússon.

Hluti bæjarhóls gamla Krýsuvíkurbæjarins var ruddur með jarðýtu 1956 og restin af honum 1964. Söknuður er af mannvirkjunum þótt fátækleg hafi verið orðin. Í kirkjunni, sem Björn Jóhannesson, formaður „Krýsuvíkurnefndarinnar“ endurbyggði, var jafnan altaristafla, bogadregin að ofan. Hún var í kirkjunni að sumarlagi, en hékk uppi á vegg í Sólvangi þess á millum – eða þangað til Þjóðminjasafnið tók hana til handargagns. Ólíklegt er að almenningur fái að njóta altaristöflunnar eftir að hrammar safnsins hafi náð að klófesta hana.

„Þú mátt gjarnan fjalla um „Krýsuvíkurnefndina“ svokölluðu  sem og störf hennar“, stakk Benedikt upp á við viðmælanda. „Þá hafa störf Björns Jóhannessonar í Krýsuvík verið vanmetin. Hann endurbyggði t.d. Krýsuvíkurkirkju 1986“.

Krýsuvík

Krýsuvík 1936. Ljósm. Ásgeir L. Jónsson.

Stjórnmálamenn hafa deilt um byggingu mannvirkja og ýmsar framkvæmdir í Krýsuvík frá því að Hafnarfjarðabær keypti landið sunnan Kleifarvatns að Krýsuvíkurbergi af Ríkinu eftir að hafa verið tekið eignarnámi 1936. „Krýsuvíkurnefndin“ svonefnda, skipuð af bæjarstjórn Hafnarfjarðar, fór ekki varhluta af deilunum. Hér á eftir verður lesendum gefinn nokkur smjörþefnur af álitamálum þeim er að framangreindu laut:

Í Hamri 29. sept. 1954 segir: „Á bæjarstjórafundi [í Hafnarfirði], sem haldinn var 14. þ.m. samþykkti bæjarstjórnarmeirihlutinn að stofna til sauðfjárbúskapar í Krýsuvík. Samþykkt var tillaga Björns Jóhannessonar, formanns Krýsuvíkurnefndar, að keypt verði 100 gimbralömb um haustið.“ Aðrir í nefndinni voru Gísli Guðmundsson og Helgi S. Guðmundsson.

Krýsuvík

Fyrstu fulltrúar Hafnarfjarðabæjar meta aðstæður í Krýsuvík um 1940. Ljósm. Emil Jónsson.

Í Hamri 19. maí 1950, þ.e. um það bil fjórum árum fyrr er fjallað um kosningu fulltrúa í Krýsuvíkurnefnd: „Á bæjarstjórnarfundi 25. apr. s.l. var samþykkt í bæjarstjórn að kjósa sérstaka nefnd til að fara með málefni Krýsuvíkur.
Frestað var að kjósa í nefndina þar sem ekki mun hafa verið fundinn framsóknarmaður, sem Alþýðuflokkurinn gat fellt sig við. Loksins fannst maður, sem fært var talið að tæki sæti í nefndinni er það Sigurður Guðmundsson kaupmaður. Mun hann hafa verið tregur til starfans þar sem heilsa hans leyfir honum því miður ekki að leggja sitt lið fram eins og sakir standa. Á síðasta fundi voru kosnir í nefndina auk Sigurðar Ingólfur Flygenring og Vigfús Sigurðsson.“

Krýsuvík

Krýsuvíkurvegurinn lagður um Helluna við Kleifarvatn 1936-’37. Ljósm. Emil Jónsson.

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 27. maí 1950 segir í fréttum „Frá bæjarstjórnarfundi“: „Fundur var haldinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar þiðjudaginn 16. maí s.l. Á þessum fundi var nokkuð rætt um garðyrkjustöðina í Krýsuvík og starfsemina þar. Samþykkt var á fundinum samkvæmt tillögu meirihluta bæjarráðs þeirra Emils Jónssonar og Óskars Jónssonar að fela bæjarstjóra að ráða garðyrkjumann að gróðrarstöðinni, þar, sem Einar Þórir, garðyrkjumaður, hefur sagt upp starfi sínu, og hann óskar að losna úr starfi sínu, eins fljótt og orðið getur, og að upplýst er að Óskar Sveinsson, sem hefur verið veikur um hálfs árs skeið, er enn ekki fær til fullrar vinnu.
Þá lögðu þeir Emil Jónsson og Óskar Jónsson til við bæjarstjórn, að Jens Hólmgeirssyni verði falin framkvæmdastjórn við garðyrkjustöðina í Krýsuvík ásamt framkvæmdastjórn búsins, og yfirumsjón að undirbúningi þess.
Á fundinum var kosin þriggja manna Krýsuvíkurnefnd, í henni eiga sæti: Vigfús Sigurðsson, Sigurður Guðmundsson og Ingólfur Flygenring.“

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegur ofan Kleifarvatns 1937. Sjá má hvernig vegurinn er „púkkaður“ skv. gamla laginu.  Ljósm. Emil Jónsson.

Í Hamri 21. mars 1954 er dálkur; „Eitt og annað…“. Þar segir m.a.: „Þegar veðurblíðan er svona mikil, þá er ekki óeðlilegt að þeir fari eitthvað, að hugsa til hreyfings, sem ætla að fást við landbúnað. Það var líka ekki látið bíða, að Krýsuvíkurnefnd legði land undir fót og héldi til Krýsuvíkur til að skoða öll herlegheitin þar. Enda fer varla hjá því, að margt hljóti að vera þar með myndarbrag, þar sem Krýsuvíkin mun vera orðin ein dýrasta jörðin á Íslandi.
Til er gamalt máltæki, sem segir að sjaldan launi kálfar ofeldið. Það virðist eitthvað því líkt hafa gerst í Krýsuvík. Þó að bændur þessa lands hafi ekki fengið nálægt því jafnmikið fé handa á milli og búandinn í Krýsuvík, þá hefur líklega enginn skilað eins litlum arði, ávaxtað sitt pund eins illa og hann. Það er ekki einungis, að það pund korni aftur án þess að vera ávaxtað, heldur kemur það aldrei allt aftur og ekki nóg með það, heldur dregur það til sín og sóar arði annarra punda, svo að til stórvandræða horfir.

Krýsuvík

Vinna í gróðurhúsunum.

Það vantar svo sem ekki, að í mörgu hefur verið vasast í Krýsuvík. Þar hafa verið byggð íbúðarhús yfir starfsfólk, og man fólk vel eftir því, þegar vatnið í steypuna var keyrt alla leið neðan úr Hafnarfirði. Að vísu voru fáir, sem skildu þá ráðdeildarsemi!! Það hafa verið byggð gróðurhús og minriast menn þess, að fyrstu gróðurhúsin máttu hafnfirzkar hendur ekki smíða ekki einu sinni íslenzkar, heldur voru þau flutt inn frá Noregi. Og Norðmenn eru oft gamansamir, enda höfðu þeir svo litlar dyr á húsunum, að varla var hægt að komast um þær með tómatkassa í fanginu og moldinni varð að sturta af bílunum utan dyra og moka henni svo aftur upp í hjólbörur og aka henni inn. Til þessa verks var þó notaður íslenzkur vinnukraftur.
Þá hefur verið látið mikið af ræktuninni í Krýsuvík. Þar hafa skurðir verið grafnir og lokræsi gerð. Jörðin hefur verið plægð og sums staðar herfuð. En — það hefur engan ávöxt gefið. Ekkert gras, ekkert hey, ekki einu sinni beit. Ekki hefur þó skort áburð, hann var keyptur fyrir nær áratug og er geymdur enn, að nokkru leyti og mun hann vera talinn elzti tilþúni áburðurinn á landinu.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskóladrengir að störfum við túnrækt…

Tveir himinháir votheysturnar gnæfa þar efra á bökkum Grænavatns en þeir eru báðir þaklausir og að sjálfsögðu tómir, aðeins steinhólkarnir. Fyrir þeim fékkst fjárfestingarleyfi á mjög erfiðum tíma, því það voru að eins veitt leyfi til að byggja 10 slíka turna á landinu öllu. Þetta voru því fágætar byggingar og gaman að eiga þær. Það mun því hafa þurft mikinn dugnað til að fá fjárfestingarleyfin og sennilega ekki nokkur leið öðruvísi en að fórna leyfum, sem e.t.v. hefði verið hægt að fá fyrir öðrum framkvæmdum eins og t.d. yfirbyggingu sundlaugarinnar, steypu á Strandgötunni, byggingu húsmæðraskóla eða einhverju slíku niður í Hafnarfjarðarbæ.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið og turnarnir tveir. Aðstaðan er nú (2022) notuð fyrir kvikmyndatöku.

Þessir turnar hafa líka verið vel varðveittir. — Þegar turnar þeir, sem bændurnir fengu að byggja hafa verið notaðir til heygeymslu og við það hafa þeir orðið blakkir að innan og loftið í þeim blandað heylykt, þá hafa turnarnir í Krýsuvík verið látnir standa auðir, svo að á þá félli ekki blettur og loftið í þeim er tært og ferskt, enda loftræsting með afbrigðum góð!!

Krýsuvík

Krýsuvík 2022.

En það eru fleiri byggingar í Krýsuvík. Þar hefur verið byggt fjós yfir á annað hundrað nautgripi. Það er að vísu ekki nema veggir og þak. Frá innri skipan hefur ekki verið gengið, né heldur hreinlætistækjum. Hins vegar eru geymd þar nokkur jarðvinnslutæki svona yfir vetrartímann. Fjós þetta á sér einna merkasta sögu fyrir það, að svo mikið lá á byggingu þess, að menn þeir, sem voru að byggja Sólvang, voru teknir úr þeirri vinnu til að hraða fjósbyggingunni. Sólvangur var því látinn bíða nokkuð það var meira aukaatriði, hvort hann yrði tekinn í notkun árinu fyrr eða síðar.

Krýsuvík

Seltún – borað með „höggbor“. Ljósm. Emil Jónsson.

Krýsuvíkurnefnd hefur nú skoðað alla þessa dýrð og rifjað upp söguna um allar framkvæmdirnar og hugsar „ráðstjórnar“-hluti nefndarinnar sér að sjálfsögðu eitthvað til hreyfings, þar sem nýbúið er að samþykkja stóra fjárveitingu til Krýsuvíkur. Einn ljóður er þó á þessu öllu saman. Í upphafi vega hafði verið ráðinn bústjóri. Var hann sendur utan til að forframast í búskap. Var einkum talað um það, að hann hefði kynnt sér, hvernig fara ætti með rauðar kýr, svo að þær gæfu sem beztan arð, en að sjálfsögðu hefur hann kynnt sér margt fleira og verið mjög vel að sér, þegar hann kom, að minnsta kosti skrifaði hann um nýja tegund kúa, sem hann nefndi „votheyskýr“, í Tímann eftir að hann kom úr utanför sinni.
En það var fleira, sem hann lærði í búvísindum, — Þegar hann gerði áætlun um rekstur kúabús í Krýsuvík, þá reiknaði hann alla mjólkina til tekna og svo reiknaði hann á móti til gjalda þá mjólk, sem fór til kálfaeldis. Það merkilegasta í þessu var það, að hann reiknaði hvern lítra 8 aurum meira til tekna en hann reiknaði hann til gjalda aftur. Þannig græddi hann 8 aura á hverjum lítra, sem kálfarnir drukku, náttúrlega auk gróðans af eldi kálfanna.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2023.

En nú er bústjórinn horfinn með alla þekkinguna, sem Hafnarfjarðarbær var búinn að láta hann afla sér. „Ráðstjórnin“ þarf því að grípa til nýrra ráða í þessum efnum. En hver verða þau? Á að halda áfram að koma upp kúabúi og baka bæjarbúum þannig stórra fjárútláta í viðbót við það sem orðið er? Eða á að fara að tillögum Sjálfstæðismanna um að athuga möguleikana til að koma upp iðnaðarfyrirtæki eða tækjum í Krýsuvík og hagnýta þá fjárfestingu, sem þegar er orðin í Krýsuvík, til þeirra hluta, eftir því sem við verður komið? „

Svo mörg voru þau orð… eða eins og Benedikt orðaði það: „Ég man aldrei eftir, meðan ég dvaldi í Krýsuvík, að nokkurn skugga hafi fallið á starfsemina þar“.

Þrátt fyrir pólitískar deilur um uppbyggingu og framkvæmdir í Krýsuvík eftir miðja síðustu öld hefur engum slíkum verið að dreifa um Vinnuskólann…

Heimildir:
-Hamar VIII. árg. 29. sept. 1954, bls. 1.
-Hamar IV. árg. 19. maí 1950, bls. 1.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 18. árg. 27. maí 1950, bls. 2.
-Hamar VIII. árg. 21. mars 1954, bls. 2 og 3.
-Viðtal ÓSÁ við Benedikt Elínbergsson (09.09.1941) 31. mars 2023.

Krýsuvík

Fjósið og turnarnir í Krýsuvík 2023. Bústjóra- og starfsmannahúsið, auk gróðurstöðvarinnar ofar. Hetta efst og Hveradalur t.h.

Krýsuvík

Í MS-ritgerð Helgu Stefánsdóttur, „Krýsuvík – á móti sólu„, frá Landbúnaðarháskóla Íslands er m.a. fjallað um sögu Krýsuvíkur:

Krýsuvík

Krýsuvík 1887.

„Gjóskulagarannsóknir sýna að Krýsuvík hefur verið í byggð allt frá landnámsöld. Samkvæmt Landnámu var jörðin hluti af landnámi Þóris haustmyrkurs
Vígbjóðssonar. Krýsuvíkurjörðin var snemma talin til stórbýla vegna mikilla landgæða, sjávarfangs og hlunninda, t.d. eggjatekju, trjáreka og bjargfuglatekju í Krýsuvíkurbergi. Um miðja 19. öld var Krýsuvík talin 31 1/3 hundruð að verðleika.

Heimildir eru um allt að 18 hjáleigur og kot í landi Krýsuvíkur, þó voru þau ekki öll í byggð á sama tíma.

Krýsuvík

Krýsuvík um 1900 – Howell.

Lengst af voru í byggð Suður- og Norðurkot, Stóri Nýibær 1 og 2, Litli Nýibær, Vigdísarvellir, Bali og Lækur. Heimabær Krýsuvíkur stóð á allháum hól er rís upp úr sléttlendinu skammt sunnan við Bæjarfell. Þangað var bæjarstæðið flutt um miðja 12. öld í kjölfar Krýsuvíkurelda en hraunið lagði undir sig mikinn hluta af undirlendi heimajarðarinnar.

Í Krýsuvík er fyrst getið um prestskylda alkirkju árið 1203. Krýsuvíkurkirkja átti mikil rekaítök, bæði hval- og trjáreka. Kirkja var reist árið 1857 og var hún endurbyggð og endurvígð árið 1964.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1936. Fyrir utan kirkjuna standa þrír menn og einn drengur. Annar frá vinstri er Magnús Ólafsson einsetumaður í Krýsuvík. Kirkjan var afhelguð árið 1929 og þess vegna nýtt sem íbúðarhús þegar myndin var tekin – Ásgeir L. Jónsson.

Árið 2010 brann síðan kirkjan til kaldra kola en um þessar mundir er unnið að endurgerð hennar. Krýsuvík var heil kirkjusókn og eitt mesta höfuðból landsins.

Um aldamótin 1900 bjuggu um 90% landsmanna í dreifbýli en 100 árum seinna bjó samsvarandi hlutfall Íslendinga á þéttbýlisstöðum með 200 íbúum eða fleiri. Í lok 19. aldar hófust miklir flutningar úr dreifbýli til þéttbýlisstaða við innanverðan Faxaflóa og síðan hefur byggð í Reykjavík og nágrenni vaxið hraðar en íbúafjöldi landsins. Krýsuvík fór ekki varhluta af þessari þróun og fækkaði þar mjög í byrjun 20. aldar.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1940.

Síðasti bóndinn í Krýsuvík var Magnús Ólafsson (1872-1950). Hann hóf búskap á eyðihjáleigunni Suðurkoti árið 1920 ásamt konu sinni Þóru Þorvarðardóttur (1884-1957). Þau bjuggu í gamla heimabænum í Krýsuvík þar til Þóra flutti til Hafnarfjarðar með börn þeirra svo þau gætu gengið í skóla. Magnús bjó áfram í Krýsuvík í 10 ár en eftir það dvaldi hann þar á sumrin og síðustu sumrin, eftir afhelgun kirkjunnar árið 1929, hafðist hann við í kirkjunni. Hann flutti alfarið burt vegna veikinda árið 1945.
Árið 1937 tók ríkið land Krýsuvíkur og Stóra Nýjabæjar eignarnámi. Árið 1941 var gengið frá kaupum Hafnarfjarðarbæjar á jörðunum Krýsuvík
og Stóra-Nýjabæ. Þetta landsvæði sem er um 43 ferkílómetrar að stærð var innlimað í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar árið 1946.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík.

Árið 1945-1960 stóð Hafnarfjarðarbær fyrir búrekstri í Krýsuvík, túnrækt og smíði gróður- og gripahúsa. Nærri Grænavatni var byggð garðyrkjustöð, bústaður fyrir starfsmenn og íbúðarhús fyrir bústjóra kúabúsins. Frá 1949-1952 var íbúðarhúsið setið af bústjóra en frá 1953-1964 hýsti það stjórnendur vinnuskóla drengja sem Hafnarfjarðarbær rak í Krýsuvík. Síðan stóð húsið autt þar til Sveinn Björnsson (1925-1997), yfirlögregluþjónn og listamaður í Hafnarfirði, fékk húsið til afnota sem vinnustofu. Frá andláti hans hefur húsið verið varðveitt í minningu Sveins. Opnuð var sýningaraðstaða í húsinu árið 2000.

Nokkur svæði hafa verið hverfisvernduð vegna náttúruminja, þ.e. ströndin, Selalda, Sveifluháls, Seltún, Gestsstaðavatn, Grænavatn og Augað, Vesturengjar, strönd Kleifarvatns og Austurengjar. Eldborg við Litlahraun, sem er að mestu í Grindavík, er friðlýst sem náttúruvættur.

Þóra Þorvarðardóttir

Þóra Þorvarðardóttir.

Árið 1975 gerðu erlendir sérfræðingar samanburð á 10 stöðum á Íslandi sem líklegir þóttu fyrir staðarval fyrir hugsanlega uppbyggingu ferðaþjónustu. Í niðurstöðum var tekið sérstaklega fram að í Krýsuvík væri stórkostleg náttúra og staðhættir til uppbyggingar á fjölþættri ferðaþjónustu.
Krýsuvíkurskóli var reistur um miðjan áttunda áratuginn til að sinna unglingum sem þyrftu sérúrræði en ekkert varð af þeirri starfsemi. Húsið stóð autt til 1986 þegar Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota. Þar er rekið meðferðarheimili fyrir fíkniefnaneytendur.

Árið 1935 var Suðurstrandavegur lagður um Krýsuvík og árið 1945 var lagður vegur með Kleifarvatni. Árið 2012 var Suðurstrandarvegur endurgerður og hefur hann bætt mjög samgöngur á svæðinu (Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025, 2014).

Krýsuvík

Krýsuvík – Suðurkot; tilgáta.

Árið 2016 samþykkti Hafnarfjarðarbær umsókn Gróðurs fyrir fólk í landnámi Ingólfs um stofnun vistvangs í Krýsuvík. Vistvangurinn tók til starfa sumarið 2016 þegar hafin var uppgræðsla á örfoka melum og gróðursetning trjáa. Svæðið er um 300 ha.“

Heimild:
– MS–ritgerð; Krýsuvík – á móti sólu, Helga Stefánsdóttir, Landbúnaðarháskóli Íslands okt. 2018.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

Í  Alþýðublaðinu 1963 mátt m.a. lesa eftirfarandi um Vinnuskólann í Krýsuvík:

Krýsuvík

„Starfsmaður“ Vinnuskólans við vinnu í gróðurhúsi.

„Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar rekur á vegum Hafnarfjarðarbæjar Vinnuskóla í Krýsuvík og hefur gert það um 12 ára skeið. Alþýðublaðið skrapp upp í Krýsuvík í gær og heimsótti þar 55 drengi, sem eru þar á vinnuskólanum.
Vinnuskólinn í Krýsuvík byrjaði að þessu sinni hinn 18. júní síðastliðinn, en það er nokkru seinna en venja hefur verið. Ýmsar framkvæmdir og lagfæringar á staðnum ollu þessari töf.
Í sumar munu dveljast þarna tveir hópar drengja, hvor hópur í 25 daga. í fyrri hópnum, sem fór í vinnuskólann hinn 18. júní voru 55 röskir drengir á aldrinum 9 til 12 ára. Nú er þeirra tími á skólanum að verða útrunninn og fer þá annar álíka stór hópur upp í Krýsuvík til vinnu og leikja.

Krýsuvík

Starfsfólk Vinnuskólas í Krýsuvík. Rúnar er lengst til vinstri og Sævar lengst til hægri. Fróðlegt væri að fá nöfnin á annars myndarlegt starfsliðið.

Forstöðumaður vinnuskólans í Krýsuvík í sumar er Rúnar Brynjólfsson kennari og skátaforingi, en undanfarin fjögur ár hefur Haukur Helgason, skólastjóri, annast forstöðu skólans. Rúnar var starfsmaður skólans í fyrrasumar og kynntist þá háttum og starfsreglum hans, og taldi hann það hafa orðið sér til ómetanlegs gagns. Sævar Örn Jónsson heitir aðstoðarmaður Rúnars og skipuleggja þeir hvern dag og annast stjórn á drengjunum við hin daglegu störf. Sigurrós Skarphéðinsdóttir, kennari, er ráðskona skólans og hefur þrjár stúlkur sér til aðstoðar.

Stóriskógarhvammur

Piltar úr Vinnuskólanum í Krýsuvík í Stóraskógarhvammi ásamt Hauki Helgasyni.

Verkefni drengjanna eru hin margvíslegustu svo sem garða — og gróðurhúsavinna, trjárækt, vegavinna, ýmis fegrun og snyrting á umhverfinu og margt fleira, auk þess sem þeir hirða herbergi sín sjálfir, hjálpa til í eldhúsi og aðstoða við fleiri innanhússstörf. Vinnuskólinn hefur gróðursett yfir 100 þúsund trjáplöntur í Undirhliðum undanfarin ár.
KrýsuvíkDrengjunum er skipt í 10 flokka og er einn þeirra flokksstjóri fyrir hverjum flokki. —
Svo er verkefnum skipt á miili flokkanna. Vinnutíminn er um 4 klukkustundir á dag, og sagði Rúnar að drengirnir ynnu yfirleitt vel þennan tíma, meðan þeir voru að verki. Og kaup hafa drengirnir fyrir vinnu sína. Við, hin fullorðnu, myndum sennilega ekki vera ánægð með það fyrir okkur, en drengirnir eru ánægðir með sín daglaun, sem eru allt frá tveimur krónum og upp í 4.50 krónur. Upphæð launa fer ekki eftir aldri, heldur dugnaði.

Krýsuvík

Drengir í Krýsuvík við sundlaugagerð sunnan Bleikhóls.

Herbergin, sem drengirnir búa í eru fimm og er keppni milli herbergjanna, hvaða herbergi líti bezt út. Á hverju kvöldi ganga Rúnar og Sævar um herbergin og gefa fyrir, hvernig gengið hefur verið um það um daginn. Hæst eru gefin 10 stig. Þegar herbergið hefur náð samtals 100 stigum fær það verðlaunaskjal úr skinni, sem hengt er upp á einn vegginn í herberginu.
Seinasta kvöldið, sem hver hópur dvelst á skólanum, er athugað, hvaða herbergi hafi hlotið flest stig fyrir umgengnina allan tímann. Það herbergið, sem hlýtur hæstu stigatölu fær stóra og myndarlega rjómatertu í verðlaun og skipta íbúar herbergisins henni milli sín. Í gærkveldi, þegar úrslit voru birt í herbergjakeppninni, vildi svo til, að öll herbergin voru jöfn að stigum Þetta þýddi hvorki meira né minna en það, að fimm glæsilegar rjómatertur voru veittar í verðlaun og 55 drengir ljómandi af ánægju tóku hraustlega til matar síns.

Krýsuvík

Sundlaugin undir Bleikhól.

Þegar hver hópur kveður Vinnuskólann í Krýsuvík er skólanum slitið við hátíðlega athöfn og hver drengur fær í hendur einkunnabók frá skólanum, þar sem gefin er umsögn um vinnu, reglusemi, hreinlæti drengsins og framkomu hans við félaga sína. Í einkunnum eru fjórir möguleikar, prýðilegt, ágætt, gott og sæmilegt.
Einhver spyr kannski: Til hvers er þessi vinnuskóli? —
Svarið við þessu er skráð oftan á einkunnarbækur Vinnuskólans í Krýsuvík en þar stendur: „Vinnuskólinn vill leitast við að efla þroska nemenda sinna bæði í leik og starfi, kenna þeim gildi vinnunnar, vísa þeim leið til sjálfsbjargar og um leið efla félagsþroska þeirra”.

Krýsuvík

Krýsuvík – starfsmannahúsið. Í því dvöldu þátttakendur Vinnuskólans.

Að lokum skulum við athuga hvernig hver dagur er í stórum dráttum skipulagður í Vinnuskólanum í Krýsuvík. Fótaferð hefst klukkan 8 að morgni og morgunverður er snæddur klukkan 9. Klukkan 9.15 er fáninn dreginu að húni og síðan er unnið til hádegis. Þá er matur og hvíld. Klukkan 13.30 er aftur tekið til við vinnuna og unnið til klukkan 15.

Krýsuvík

Vinnan í gróðurhúsunum.

Svo er „kaffi” klukkan 15.30 og síðan leikir, íþróttir, gönguferðir og fleira. Kvöldverður er klukkan 19. Eftir kvöldmat er fáninn dreginn niður. Annað hvert kvöld er kvikmyndasýning, en hitt kvöldið fara fram margskonar íþróttir og keppnir. Klukkan 21.30 fá drengirnir „kvöldkaffið” sitt. Háttatími er klukkan 22. Þá er gengið í öll herbergin, umsjónarmennirnir fara með faðir vorið með drengjunum og bjóða góða nótt.
Drengirnir hverfa inn í draumalöndin, en framundan bíður þeirra heillandi og skemmtilegur dagur.“

Heimild:
-Alþýðublaðið 44. árg., laugardagur 13. júlí 1963, bls. 5.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar 16. maí 1962, bls. 5.

Krýsuvík

Texti í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 16. maí 1962, bls. 5, um Vinnuskólann.

Krýsuvík

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar árið 1949 mátti lesa eftirfarandi um framkvæmdir bæjarins í Krýsuvík:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn 1961 (yfir Vatnsskarð).

„Krýsuvíkin á að verða það haldreipi, sem Bæjarútgerðin gat ekki orðið fyrir 10—15 árum. Þegar Alþýðuflokkurinn á Alþingi 1935, tók að beita sér fyrir lagningu Suðurlandsbrautar um Krýsuvík til þess að fá snjóléttan vetrarveg milli Árnessýslu og Reykjavíkur, opnuðust möguleikar fyrir Hafnarfjörð, að færa sér í nyt auðsuppsprettur Krýsuvíkur.
Í Krýsuvík mun hafa verið byggð frá landnámstíð og allt fram á okkar daga. Samkvæmt manntali 1855 voru þá í Krýsuvíkursókn 12 býli með 72 manns, er þar höfðu sitt framfæri. Síðari hluta 19. aldar fækkaði svo þessum býlum ört, og byggð mun hafa lagst þar alveg af um 1935.
Oft mun hafa verið vel búið í Krýsuvík, enda sauðland gott og ræktunarmöguleikar miklir. Hins vegar munu erfiðar samgöngur, eða réttara sagt samgönguleysi, hafa valdið mestu um það, að byggðin lagðist niður. Með tilkomu hins nýja vegar var aftur þessari hindrun rutt úr vegi. En allir muna hvernig íhaldið snerist við þeirri vegarbót. Um fáa vegi á Íslandi mun hafa verið rifist meira.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vegurinn undir Hellunni.

Morgunblaðið eyddi fjölda dálka rúmi, viku eftir viku, og mánuð eftir mánuð til að reyna að færa líkur að því að þessi vegagerð væri vitleysa. Og jafnvel eftir að vegagerðinni var að mestu lokið, s.l. vetur, þegar vegurinn bjargaði mjólkurflutningunum um tveggja til þriggja mánaða skeið, barði blaðið enn hausnum við steininn og fullyrti að vegurinn væri til einskis gagns. — Þetta er nú íhald, sem segir sex. Látum vera að það berjist á móti nýmælum, það er mál útaf fyrir sig, en að neita staðreyndum, það er erfiðara, og þó harkaði Morgunblaðið af sér að gera það líka.
Hafnfirðingar nutu góðs af vegarlagningu þessari á margan hátt. Í fyrsta lagi nutu þeir góðs af því, eins og Reykjavík, að hægt var að halda sambandi þessu opnu, þegar allir aðrir vegir austur voru lokaðir. Í öðru lagi nutu þeir, á erfiðum tíma, mikillar atvinnu við lagningu vegarins. Í þriðja lagi opnaði vegurinn þeim leiðina til Krýsuvíkur.

Krýsuvík

Krýsuvík – starfsmannahúsið.

Næsta sporið var að eignast landið. Emil Jónsson bar fram á Alþingi 1935 frumvarp um eignarnám á þessu landi öllu, sem náði samþykki, þó ekki eins og upphaflega var til ætlast, heldur var það nokkuð rýrt í meðferð þingsins, en Hafnarfjarðarbær eignaðist þó allt ræktanlegt land milli Sveifluháls og Geitarhlíðar, og milli Kleifarvatns og sjávar, sem er geysilegt landflæmi, fyrir lítið verð eða innan við 50 þús. kr. með rétti til að nytja allan jarðhita í landi jarðarinnar. Það má óhætt fullyrða, að þessi kaup, á jörð og hitaréttindum, eru einhver þau hagkvæmustu, sem Hafnarfjarðarbær hefir nokkurntíma gert, miðað við allar aðstæður og miðað t.d. við verðið á jarðhitaréttindum þeim, sem Reykjavíkurbær hefir keypt í Mosfellssveit, og mikið lán að þessu skyldi vera lokið fyrir verðhækkun ófriðaráranna.

Krýsuvík

Krýsuvík – bústjórahúsið.

Um leið og landið var keypt, var einnig frá því gengið, að það yrði innlimað í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, svo að útsvör manna sem í Krýsuvík eiga heima, renna nú til Hafnarfjarðarbæjar, en ekki til Grindavíkurhrepps, en landið tilheyrði áður þeim hreppi. —
Sömuleiðis er með þessu tryggt að öll starfsemi bæjarins á þessu landi nú og í framtíðinni, verður ekki útsvarsskyld til annarra.

Nú leið og beið, því ekki var hægt að hafast að, fyrr en vegurinn var fullgerður suður fyrir Kleifarvatn, en þá hófust líka þegar framkvæmdir í allstórum stíl. Árið 1945 og ’46 var allt landið girt. Um sama leyti var hafist handa um undirbúning gróðurhúsabygginga og hús byggingar fyrir starfsfólk. Þessu verki var lokið um síðastliðin áramót eða uppúr þeim, og fyrstu gróðurhúsin voru tekin til notkunar í marzmánuði síðastliðnum.

Krýsuvík

Krýsuvík.

Eru gróðurhús þessi um 600 fermetrar að flatarmáli. Í sumar hefir svo verið unnið að því að stækka þau, bæta 1000 fermetrum við. Undirstöður og veggir, fyrir þessar viðbótarbyggingar, er nú fullsteypt. Járnsmíðin á að vera í fullum gangi, og gler og annað efni hefir verið fengið til byggingarinnar. íbúðarhús gróðurstöðvarinnar er stórt og vandað. Þar er, á aðalhæð, íbúð fyrir garðyrkjustj. og aðstoðarmann hans, tvær íbúðir Á neðri hæð er 1 íbúð og nokkur íbúðarherbergi að auki. Á þar með að vera séð fyrir húsnæði fyrir garðyrkjustöðina fyrst um sinn.

Hitaveita, vatnsveita og vegir, hefir einnig verið gert í sambandi við stöðina. Þessar framkvæmdir allar í sambandi við garðyrkjustöðina munu nú kosta samtals um 1,4 milj. kr. — Eins og áður er getið tók garðyrkjustöðin til starfa í marz s.l. og hefir því í ár starfað í 8—9 mán. og aðeins með 600 fermetra hús.

Krýsuvík

Krýsuvík 1962- fjósið (HH).

Reksturinn hefir gengið vel, þegar tekið er til greina, að hér er aðeins um byrjun að ræða, í smáum stíl, og ekki allt árið. Afurðir munu þegar vera seldar fyrir 60—70 þús. kr.
Á næsta ári verður væntanlega hægt að taka til afnota viðbótarbyggingarnar og þrefaldast þá nálega gólfflötur gróðurhúsanna.
Garðyrkja á jarðhitasvæðum er talinn hinn arðvænlegasti rekstur hér á landi og er ekki vafi á að hún muni verða einn af hyrningarsteinunum undir búrekstrinum í Krýsuvík. Ekki má telja ólíklegt að innan fárra ára geti garðyrkjubúið selt afurðir fyrir um 300—400 þús. kr. á ári miðað við svipað verðlag og nú er.
Framkvæmdastjóri garðyrkjubúsins er Óskar Sveinsson. Hefir hann sagt fyrir um gerð gróðurhúsanna og stjórnað verkinu frá upphafi með áhuga og dugnaði.

Krýsuvík

Krýsuvik – gróðurhúsin.

Ráðgert er að stofna til búreksturs til mjólkurframleiðslu í Krýsuvík með ca. 100 mjólkandi kúm, til að byrja með. Síðar verði kúnum fjölgað fljótlega upp í 300, og meira síðar. Með 300 kúm í Krýsuvík, og þeirri mjólkurframleiðslu, sem nú er í bænum og næsta nágrenni hans má gera ráð fyrir að hægt verði að fullnægja mjólkurþörf bæjarins fyrst um sinn. Væri með því stigið mikið heillaspor fyrir bæjarbúa, að geta ávalt fengið nýja mjólk og góða, í stað þeirrar, sem nú er flutt hingað um langan veg og vægast sagt er misjöfn að gæðum.

Krýsuvík

Borað á hlaðinu í Krýsuvík um 1950.

Framkvæmdir þessar hófust árið 1946. Jarðræktarframkvæmdirnar hafa verið fólgnar í skurðgrefti til að þurka landið. Gerðir hafa verið bæði stórir opnir skurðir og lokræsi. Land hefir einnig verið brotið til ræktunar, svo tugum hektara skiptir. Vegir hafa verið gerðir. Vatnsveita lögð. Tveir votheysturnar byggðir. Fjós er í byggingu og sömuleiðis íbúðarhús fyrir bústjóra.
Keyptar hafa verið vélar til jarðræktar, flutninga o.fl. Segja má að allt þetta sé komið svo vel á veg, að sá dagur sé ekki langt undan að rekstur búsins geti hafist. Það sem enn vantar fyrst og fremst, er íbúðarhús fyrir starfsfólk, að fullgera fjós og bústjórahús og að kaupa gripi.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2022.

Bústjóri var ráðinn fyrir þrem ár um Jens Hólmgeirsson, og hefir hann undirbúið framkvæmdir og stjórnað þeim. Hann hefir lagt í það mikið verk að öllu verði sem haganlegast fyrir komið.

Krýsuvík

Krýsuvík – leikmynd True Detective í fjósinu 2023.

Auk staðgóðrar þekkingar og mikillar reynslu frá bústjóraárum sínum á Ísafirði, hefir hann gjörkynnt sér allar upplýsingar sem fram hafa komið hin síðustu ár á þessu sviði, — og þær eru margar, — og í samráði við fróðustu menn valið þær, það sem ætla má að geti orðið Krýsuvíkurbúinu að mestu gagni. Er því ekki vafi á að þegar það tekur til starfa verður það í fremstu röð hvað fyrirkomulag og tækni alla snertir.

Krýsuvík

Krýsuvík 2022.

Kostnaður við framkvæmdir allar snertandi kúabúið, mun nú vera orðinn um 1 millj. kr., ræktunarkostnaður, bvggingarkostnaður og vélakaup, en þar af hafa vélar verið keyptar fyrir um 300 þús. kr. Bæjarútgerðin hefir greitt allan þennan kostnað, en hún lagði fram eins og kunnugt er 1,25 millj. kr. til kúabússtofnunarinnar.“

Heimild:
-Alþýðublaðið, VIII. árg. Hafnarfirði 10. des. 1949, 8. tölublað, bls. 1-3.

Krýsuvík

Fjósið og turnarnir í Krýsuvík 2023. Bústjóra- og Starfsmannahúsið ofar. Hveradalur t.h.

Krýsuvík

Í Morgunblaðinu 1953 er m.a. fjallað um votheysturnana tvo í Krýsuvík:

Krýsuvík„Til þess að standa nokkuð gegn því misræmi, sem orðið var á skráðu gengi erlendrar myntar og verðlaginu hér á landi, var talið nauðsynlegt að taka upp stranga skömmtun á hverjum hlut. Gjaldeyrisskorturinn var ekki orðinn viðráðanlegur og eftirspurnin eftir gjaldeyri og erlendum vörum var gífurlegur. Það, sem þurfti að taka upp skömmtun á m.a. voru vörur til bygginga og var það fjárhagsráð, sem hafði öll völd um það, hvort menn fengu að byggja sér íbúð eða ekki, sem og aðra fjárfestingu. Virtist þar oft ráða meiru hverjir fengu slík fjárfestingarleyfi, dugnaður manna við að tala máli sínu, heldur en þörf manna fyrir að fá leyfin.
Má segja að það sé e.t.v. ekki óeðlilegt, þar sem útilokað er fyrir menn sem sitja inni á skrifstofu að gera sér fulla grein fyrir hlutunum og kanna hvað rétt er hverju sinni.

Krýsuvík

Fjósið í Krýsuvík 2023.

Hafnfirðingar þekkja það mæta vel, þegar óverðugir hafa hlotið hinn dýrmæta gjaldeyri til fjárfestingar. Er þar glöggt dæmi sú geysimikla fjárfesting, sem orðin er í Krýsuvík vegna fyrirhugaðs búreksturs þar. Öll sú fjárfesting hefur ekki orðið til annars en byrða og armæðu fyrir bæjarbúa, og svo vegna þess, að Hafnarfjarðarbær hefur getað beitt aðstöðu sinni til að fá slík leyfi, hefur og dugandi mönnum verið neitað, sem nú hefðu verið farnir að ávaxta sitt pund til hagsældar fyrir sig og þjóðarbúið.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið (2022) notað fyrir kvikmyndatöku.

Eins og fólk, sem fer um Krýsuvík, hefur séð, þá standa þar votheysturnar miklir, að vísu ekki nema steinhólkarnir, því að lengra er ekki smíðinni komið. Þeir eru tveir að tölu og voru þeir steyptir upp á árinu 1949, svona rétt fyrir bæjarstjórnarkosningarnar. Á meðfylgjandi mynd sjást turnarnir og fjósbygging í smíðum, en síðan hefur hún verið gerð fokheld. Í reikningum bæjarsjóðs Hafnarfjarðar sést að turnar þessir kosta ekki undir 55 þús. kr. og er það að vísu lítið fé af öllu þvi, sem búið er að eyða í Krýsuvíkurframkvæmdirnar, en þó verða þessar kr. til að þyngja baggana á bæjarbúum.

Krýsuvík

Fjósið og turnarnir í Krýsuvík 2023.

Þegar Hafnarfjarðarbær fékk leyfi fyrir votheysturnunum sínum, þá var frá því sagt í fréttum, að veitt hefðu verið fjárfestingarleyfi til að byggja 10 votheysturna á öllu landinu og af þeim fóru tvö leyfi í Krýsuvík, þar sem hvorki var búið að rækta gras til að láta í þá, né heldur var nokkur skepna til að fóðra og er hvorugt fyrir hendi ennþá, nálega fjórum árum síðar. Fer ekki hjá því, að margur hugsi sem svo, að það hefði verið nær að láta eitthvað af þeim á annað hundrað bændum, sem sóttu um fjárfestingarleyfi til slíkra bygginga, en var synjað, hafa þessi tvö leyfi, því þeir munu bæði hafa haft grasið til að láta í turnana og skepnur til að fóðra á því.“ – P
Nú, árið 2023, er fjósið í Krýsuvík að falli komið; norðurveggurinn fallinn út og þakið að mestu. Ef ekkert verður að gert munu leifar fjóssins fjúka út um nágrennið með tilheyrandi sóðaskap.

Krýsuvík

Krýsuvík – hluta af teikningu af fjósinu. Hér er gert ráð fyrir einum votheysturni.

Heimild:
-Morgunblaðið, þriðjudagur 31. marz 1953, bls. 6.

Staður

FERLIR fer jafnan víðreist þegar lagt er af stað á annað borð. Að þessu sinni var ætlunin að skoða nánar meint bæjarstæði Kaldrana norðvestan Kleifarvatns, mögulegar leifar verslunarstaðar ofan Hvalvíkur austan Hrauns í Grindavík, fornan brunn á Brunnflötum ofan Þórkötlustaðarbótar, gamlar bæjarleifar hins þjóðsagnakennda Nýjabæjar ofan Staðar í Staðarhverfi sem og sagðar sjóbúðaleifar í Litlu-Sandvík.

Kaldrani

Kaldrani í Krýsuvík.

Ari Gíslason skráði örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík. Þar segir m.a.: „Inn við Kleifarvatn er svokallaður Kaldrani. Þar eiga að vera leifar eftir bæ með þessu nafni. Er hans getið í þjóðsögum. Þar eru leifar af gömlum túngarði úr grjóti og lítil grasflöt fyrir ofan, utan í sléttum melhól.“

Í fornleifaskráningu Agnesar Stefánsdóttur 2008 um Krýsuvík og Trölladyngju má lesa eftirfarandi: „Matthías Þórðarson Þjóðminjavörður friðlýsti túngarðsleifar býlisins Kaldrana árið 1930 á grundvelli lýsingar Brynjúlfs Jónssonar (Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902“): Kaldrani er nefndur í þjóðsögum. Er sagt að hann hafi verið hjáleiga frá Krýsuvík og staðið inn við Kleyfarvatn. Og líka er sagt að þar hafi alt fólkið dáið af loðsilungsáti.

Kaldrani

Kaldrani í Krýsuvík.

Örnefnið: Kaldrani er til við vatnið. Sést þar 34 fðm. langur túngarðsspotti úr stórgrýti og lítil grasflöt fyrir ofan, suðaustan í sléttum melhól. Uppi á hólnum er dálítil dreif af hleðslugrjóti, sem virðist flutt þangað af mönnum. Gæti það hafa verið leifar af bænum. Því garðspottinn sýnir það, að þar hafa menn búið á sínum tíma.“

Í örnefnaskrám segir að bæjarins sé getið í þjóðsögum og segir sagan að fólkið á bænum hafi étið loðsilung úr Kleifarvatni sem var eitraður. Um það á þessi vísa að vera:

Liggur andvana
lýður í Kaldrana
Utan ein seta
er ei vildi eta

Kaldrani

Kaldrani – garður.

Suður af Kleifarvatni eru Hvammarnir, þar hafa skátar frá Hafnarfirði byggt skála. Hvammahryggur liggur ofan skálans. En sunnan við hann er Litla-Nýjabæjarhvammur. Seljarúst er þarna og talið, að sel hafi þarna verið í eina tíð frá Kaldrana, sem var eitt býli í Krýsuvíkurlandi. Samkvæmt heimasíðu gönguhópsins Ferlis eru minjar á þessum stað. Mögulegar tóftir fundust á tveimur stöðum í Hvamminum.

Í austur frá Krýsuvíkurvegi við suðurenda Kleifarvatns liggur vegslóði í átt að frístundabyggð sem þar er við endann á vatninu. 150 metrum NA við vegslóðann og 50 m neðan við Krýsuvíkurveg eru leifar túngarðs sem svarar nákvæmlega til lýsingar Brynjúlfs hér að ofan. Túngarðsbúturinn er tæplega 60 metra langur og liggur í sveig neðan við melhól. Friðlýsingarskilti er við norðurenda. Krýsuvíkurvegur fer yfir háhólinn vestan við garðinn.

Kaldrani

Kaldrani – hleðsla undir nýlega girðingu.

Vestan við veginn uppi í hlíðinni fundust leifar af öðrum garði, mun ógreinilegri. Sumsstaðar er einungis ein steinaröð eftir. Garður þessi liggur nærri þráðbeinn uþb. 80 metra langur í SA-NA meðfram veginum. Ef loftmyndin af svæðinu er skoðuð virðist garðurinn halda áfram í NA u.þ.b. 100 metra í viðbót og jafnvel sveigja í átt að veginum. Mögulega hafa þessir tveir garðar ofan og neðan vegar verið samtengdir í upphafi. [Þessi „garður“ eru reyndar leifar girðingar frá Krýsuvíkurbúinu frá því um miðja 20. öld öld; FERLIR].
Ef marka má sagnir um býlið um býlið Kaldrana og að túngarðurinn hafi legið umhverfis bæjarstæðið má telja líklegt að bæjarstæðið sjálft sé nú að mestu horfið undir veg. Upp við og neðan túngarðs er smávegis gróið svæði í dálítilli lægð, þar er nokkuð þýft og mögulega gætu leynst þar tóftir. Annars er svæðið milli garðanna mjög uppblásið.
Hvammarnir sem selið frá Kaldrana á að vera í er rúmlega 1 km. suðsuðaustur af túngarðinum. Það var ekki skoðað að þessu sinni og var ekki greinilegt á loftmynd.

Kaldrani

Kaldrani – minjaskrá.

Einu heimildirnar um bæ á þessum stað eru munnlegar þjóðsögur sem skráðar voru af Jóni Árnasyni (Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862). Þjóðsagan, útgefin af Jóni Árnasyni. Túngarðurinn bendir hins vegar til þess að einhver fótur sé fyrir sögum um bæ á þessum stað og túngarðsleifar í brekkunni ofan vegar renna frekari stoðum undir það. Hér væri því um að ræða jafnvel elsta bæjarstæði á svæðinu og sem slíkt hefur það mikið rannsóknargildi. Ekki er ólíkegt að finna megi fleiri minjar á þessum stað. Sögusagnir um að sel frá bænum sé í Hvömmunum suður af Kleifarvatni þyrfti líka að kanna nánar.“

Öfuguggi
Bær er nefndur Kaldrani er lá nærri fjöllum; annar bær var þaðan býsna langt burtu og er eigi getið hvað hann hét, en nær var hann byggðum. Báðir þessir bæir höfðu silungsveiði í vatni nokkru allstóru er var á milli bæjanna. Eitt sinn heyrðu menn á þeim bænum sem ekki er nafngreindur að komið var upp á baðstofuglugga um kvöld og þetta kveðið:

„Mál er að gana,
[geislar flana.
[Liggur lífs andvana
lýðurinn á Kaldrana,
[utan sú eina seta,
sem ekki vildi eta.“

Eða svo:

„Mál er að gala
hauknum hálfvana.
Liggur allur lífs andvana
lýðurinn á Kaldrana.
Át af óvana,
át sér til bana.
Liggur allur lífs andvana
lýðurinn á Kaldrana.

Hvalvík

Hvalvík.

Kviknaði þá umræða af þessum hendingum; þóttu öllum þær undarlegar og lögðu ýmist til. En bóndi sagði að menn skyldu fara að morgni að Kaldrana og vita hvað þar væri tíðinda. Leið svo af nóttin, en að morgni komandi var farið að Kaldrana og fundust þar allir bæjarmenn dauðir nema barn eitt sem þar var í niðursetu. Þeir sem að komu sáu að heimamenn höfðu allir verið að matast því sumir sátu enn þótt dauðir væru með silungsfötin í knjám sér, en aðrir höfðu rokið um koll með silungsstykkin í höndunum. Húsfreyju fundu þeir dauða á eldhúsgólfinu; hafði hún fallið fram yfir pottinn og réðu menn af því að hún mundi hafa farið að borða úr pottinum þegar hún var búin að færa upp og skammta hinu fólkinu. Þessi atburður þótti öllum kynlegur því engir sáust áverkar á hinum dauðu. Var þá niðursetningurinn spurður hvernig þetta hefði orðið og sagði hann að fólkið hefði dáið þegar það fór að borða, en hann sagðist ekkert hafa viljað og ekki heldur borðað neitt af silungnum. Var silungurinn því næst aðgættur sem af var neytt, og sáu menn að það var öfuguggi, en ekki silungur; en öfuguggi hefur jafnan þótt drepvænt óæti.
Þorsteinn Bjarnason frá Háholti safnaði og skráði eftirfarandi: „Fyrir innan Miðdegishnúk er Kaldrani. Meðal manna lifir enn sú sögn, að heitið Kaldrani sé af býli, er þarna hafi verið. Nú sjást þess engin merki og hvergi finnst þess getið.“

Kapella

Kapellan ofan Hvalvíkur.

Um ofanverða Hvalsvík eða Efri-Hrólfsvík skráði Loftur Jónsson: „Upp af Efri-Hrólfsvík er grjóthrúga og kölluð Ræningjabæli. Þar gróf dr. Kristján Eldjárn þegar hann var þjóðminjavörður og taldi hann að þetta hafi verið enskur verslunarstaður.“ Þarna er Loftur að vísa í uppgröft þann er dr. Kristján o.fl. stunduðu ofan við Hrólfsvíkina á síðari hluta 20. aldar. Aðstæður eru allnokkuð breyttar frá því sem þá var. Búið er að fara með jarðýtur yfir svæðið með fyrirhugaðar túnsléttur í huga. Garðahróf á svæðinu gefa það skýrt til kynna. Ef verslunarstaður hefur verið ofan Hvalvíkur hefur ummerkjum um hann verið eytt, annað hvort með stórvirkum vinnuvélum eða freklegum ágangi sjávar, sem mulið hefur af ströndinni svo tugum metra skiptir á undanförnum öldum.

Brunnflatir

Brunnurinn á Brunnflötum.

Um Brunnflatir á Þorkötlustöðum eru til eftirfarandi heimildir: „Í fyrsta lagi viðtal við Guðmund Benediktsson; í öðru lagi frá feðgunum á Hópi í Grindavík; í þriðja lagi það sem Þorsteinn Bjarnason frá Háholti hefur skráð. Ari Gíslason skráði („Rétt norðan Kónga er flöt í hrauninu sem heitir Miðmundaflöt. Austur frá henni er Syðribót og Heimribót. Upp af þeim eru sandflatir nefndar Brunnflatir. Þá eru Miðmundaklettar, og milli þeirra og túns er Sandfjara. Niður af Brunnflötum var vatnsstæði, sem notað var til að vatna í skepnum“).

Loftur Jónsson skráði eftirfarandi um Þórkötlustaði: „Síðan tekur Þórkötlustaðabót við og skiptist hún í tvo hluta. Fyrst Syðribót og síðan Heimribót. Norðaustan við klapparana sem skiptir bótunum eru klappir í flæðarmálinu; Hundaklettar. Upp af Heimribót eru sandflatir nefndar Brunnflatir. Neðst á Brunnflötum við kampinn var grafinn brunnur þar sem skepnum var vatnað áður en brunnur var grafinn hjá Þórkötlustöðum.“

Rétt mun vera að nefndur brunnur hafi verið á Brunnflötum. Leifar hans, þ.e. hleðslum ofan hans, má sjá þar enn í dag.

Staður

Stekkur ofan Staðs.

Í „Örnefni í Staðarlandi“, sem séra Gísli Brynjólfsson skráði og eru á bls. 25-34 í bók hans: Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók, má lesa um „Nýjabæ“. Heimildir Gísla hafa verið frásagnir kunnugra manna og örnefnalýsing Staðar eftir Ara Gíslason. Lýsing Ara er geymd á Örnefnastofnun og er einnig höfð hliðsjón af henni við gerð þessarar lýsingar. Heimildarmenn Ara voru: Gamalíel Jónsson, bóndi á Stað (d. 1964), Guðsteinn Einarsson, hreppstjóri í Grindavík og Þorsteinn Bjarnason frá Háholti.

„Hæðin vestan og ofan við bæinn á Stað heitir Bringur. Bergskot var uppi á Bringnum, í norðvestur frá Stað (þ.e. bænum). Þar voru tveir bæir sambyggðir þegar Á.V. og S.V.G. mundu eftir. – Nýibær var utan við Bringinn, nálægt 100 m norður af Bergskoti.“
Skv. framanskráðu var nefndur Nýibær í núverandi vegstæði Reykjanesvegar. Ofan vegarins má hins vegar sjá stekk, gerði, rétt, fiskibyrgi, fiskigarða og fleira er hafa verið hluti slíkrar búskaparheildar.

Staður

Staður – gerði ofan bæjar.

Um Litlu-Sandvík segir: „Vestan við Klettinn er Sandvík. Niður í báðar víkurnar, Mölvík og Sandvík, er hægt að aka á bíl.- Skálholtsstaður átti fyrrum allan reka í Sandvík.“
Gísli Brynjólfsson segir, að í Sandvík sé „talið, að hafi verið verbúð, jafnvel tvær, fyrir eina tíð, enda má þetta kallast ein af fáum „byggilegum“ stöðum á þessum auðnarslóðum.“ (Staðhverfingabók, bls. 29). Hvorki S.V.G né Á.V. kannast við að hafa heyrt talað um byggð í Sandvík.

Þegar aðstæður í Litlu-Sandvík voru skoðaðar má ljóst vera að þar hafi fyrrum verið nauðhöfn. Að vísu hefur marinn barið ströndina óbirmilega í gegnum aldirnar svo í dag er þar fyrrum ólíku saman að jafna. Ef sjóbúðir hafa einhvern tíma verið ofan Litlu-Sandvíkur hefur Ægir annað hvort brotið þær undir sig fyrir löngu eða að minjar slíkra búða lumist undir ofanverðri sandorpinni ströndinni. Erfitt er um slíkt að spá…

Litla-Sandvík

Litla-Sandvík – mögulegar mannvistarleifar.

Seltúnssel

Gengið var frá Seltúni að tóftum bæjarins Fells skammt sunnan Grænavatns.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Nafnið Seltún bendir til selstöðu frá einhverjum Krýsuvíkurbæjanna, en hvergi er hægt að greina ummerki eftir það svo glögglega megi teljast. Lítil tóft er á gróinni skák nálægt hverasvæðinu, en hún gæti einnig hafa verið eftir námumenn, sem unnu brennistein á svæðinu á 19. öld. Ágætt handunnið kort er til af námusvæðinu, sem reyndar voru þrjú, þ.e. upp í Baðstofu undir Hettu, utan í Hnakk og ofan við Seltún. Á síðastnefna svæðinu munu umsvifin hafa verið mest. Til eru ljósmyndir Englendinga er sýna háa brennisteinshrauka þar sem nú er bílastæði. Lækurinn var stíflaður með tréþiljum á nokkrum stöðum til að mynda þvottaþrær og má enn sjá leifar þeirrar neðstu austan þjóðvegarins. Frá Seltúni liggur Ketilsstígurinn upp á Austurháls.

Grænavatn

Grænavatn.

Grænavatn skammt frá Krýsuvík er ekki einvörðungu merkilegt fyrir sinn græna lit sem líklega orsakast af dýpt þess heldur einnig af því að margar sögur gengu af undarlegum skepnum sem komu stundum upp úr því. Einn maður fullyrti að hann hefði séð eina slíka skepnu, þó eigi mjög stóra, líkasta marsvíni. Hún hvarf fljótt.
Reyndar segir einnig af skrímsli í Kleifarvatni. 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.

Arnarfell

Arnarfell – bæjartóftir.

1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.
Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.

Krýsuvík

Fell í Krýsuvík.

Litið var á tóftir Fells, sem er í gróinni hvylft vestan í melhæð norðan Stóra-Nýjabæjar. Fáar sagnir eru til af bæ þessum, en hann mun hafa verið einn af fjórtán hjáleigum frá Krýsuvík. Aðrar má t.d. telja Eyri og Fitjar við Selöldu. Vigdísarvelli, Snorrakot, Suðurkot, Norðurkot, Læk, Litla-Nýjabæ og Hnausa. Gestsstaðir suðvestan Gestsstaðavatns og Kaldrani suðvestan Kleifarvatns eru með elstu minjum bæja á svæðinu.
Litið var á Augun, tvo gíga er þjóðvegurinn liggur millum, Sefið er tengist sögunni af barnsmorði ólánskonu frá Stóra-Nýjabæ, brunn við Litla-Nýjabæ og strikið síðan tekið að Grjóthólsrétt utan í Gráhól. Því miður hafa bæjarstæði fyrrnefndu bæjanna verið afmáð og sama gildir um réttina. Þegar þjóðvegurinn var lagður var hún tekin í undirlagið. Norðan við hólinn má sjá gamla veginn áleiðis til Krýsuvíkur og enn móta þar fyrir steinbrú, sem á honum hefur verið.

Stínuskúti

Stínuskúti.

Gengið var yfir Vestari-læk, um bæjartóftir Lækjar og stefnan tekin á Arnarfell. Norðan við fellið er hlaðinn stekkur og upp í fellinu að norðauatsnverðu er lítill skúti er jafnan hefur verið nefndur Stínuskúti. Frá Norðuröxl Arnarfells sést vel yfir Krýsuvíkurtorfuna. Suðvestan við kirkjuna er áberandi hóll og tóft austan í honum. Hóllinn heitir Ræningjahóll og tóftin Ræningjadys.
Svo er sagt að ræningjar hafi komið í land ekki langt frá Krýsivíkurlandi og hefði flokkur mikill af þeim komið gangandi og stefnt fram til Krýsuvíkur, en er til þeirra sást var strax sendur maður til Eiríks prests. Reið hann sem mest mátti, hitti prest og bjóst hann strax með sendimanni, en er þeir sáu heim að bænum þá hafði ræningjaflokkurinn staðar numið á hóli nokkrum fyrir sunnan kirkjuna í Krýsuvík og börðust í ákafa svo að þeir drápust þannig niður fyrir vopnum sjálfra sín, en komust aldrei heima að bænum.

Krýsuvík

Bærinn Arnarfell í Krýsuvík.

Gengið var um tóftir bæjarins undir Arnarfelli. Beinteinn var maður nefndur er bjó að Arnarfelli. Eitthvert sinn var hann að smíða skip við sjó frammi, þar sem heitir á Selatöngum. Hafðist hann þar við í verskála. Þar hafði hann alltaf hjá sér hlaðna byssu. Hannn lét einatt loga ljós í skálanum þegar kveldaði.

Eitt kvöld, er hann hefur kveikt í skálanum, heyrir hann allt í einu mjög mikinn brest og skarkala í skáladyrum. Lítur hann þangað og sér þá að ógurlegt skrímsli treður sér inn úr dyrunum; það hafði brotið tréð úr þeim, hafði dyraumbúninginn á herðunum og tróð sér svo áfram. En þröngt varð um það á milli grjótveggjanna. Það var eins og maður neðan en mjög ófreskjulegt eða dýrslegt ofan.

Krýsuvík

Arnarfell fjær.

Beinteinn var harðfær maður og alleinbeittur. Hann þrífur því byssu sína, lætur sér ekki bilt við verða og hleypir af á ófreskjuna. Henni bregður hvergi og treður sér því meir áfram. Beinteinn hleður aftur byssuna og hleypir af. Þá stansar þetta en ekkert sér á því. Enda var það allt að sjá hulið skeljarögg utan.
Beinteinn var í silfurhnepptri millifatapeysu. Hann man nú allt í einu að hann hefir heyrt sagt að þótt engin kúla vinni á skeljastakk skrímsla þá geri þó silfurhnappar það. Slítur hann því hnappana af peysunni sinni, hleður byssuna og hefur á fyrir högl eða kúlu og skýtur enn á skrímslið. Þá tók það snarpt viðbragð, reif sig út og hvarf til sævar. En Beinteinn hljóp út. Þá fyrst greip hann hræðsla. Tók hann til fóta og hægði eigi á sprettinum fyrr en heima við bæ, óður af hræðslu og nærri sprunginn af mæði og sagði söguna. Að morgni sáust aðgerðir skrímslisins en sjálft var það með öllu horfið.
Litið var á Arnarfellsrétt suðvestan undan fellinu. Um er að ræða fallega hlaðna rétt og er hún enn nokkuð heilleg.
Í bakaleiðinni var komið við í Krýsuvíkurétt, Krýsuvíkurkirkju og skoðaðar tóftir bæjanna að Hnausum, Norðurkoti og Snorrakoti, auk þess sem komið var í hinum fornu tóftum að Gestsstöðum, gengið með börmum Gestsstaðavatns og yfir á Seltún. Síðastnefndu stöðunum er lýst í annarri FERLIRslýsingu (sjá HÉR).

Seltúnssel

Seltúnsselið.

 

Brennisteinn

Brennisteinn var fluttur út frá Íslandi allt frá 14. öld en hann var nauðsynlegur til púðurgerðar og því gat brennisteinsnám verið arðvænlegt. Konungur áttaði sig á þessu snemma og reyndi mikið að ná undir sig einkarétti á þessari verslun.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir brennisteinsnámsins í Hveradal.

Bændur áttu brennisteinsnámurnar og unnu í þeim en vinnslan fór þó aðeins fram hluta af ári þar sem vinnuaflið var bundið við landbúnaðarstörf mikinn hluta ársins og hefur það væntanlega komið í veg fyrir að hægt væri að gera brennisteinsvinnslu að arðvænlegum iðnaði. Því varð brennisteinsvinnsla aðeins hliðarbúgrein bænda.
Á miðöldum var íslenski brennisteinninn notaður til hernaðar og var einkum eftirsóttur á 15. og 16. öld þegar farið var að nota byssupúður en brennisteinn var einmitt nauðsynlegur til púðurgerðar þar sem honum var blandað saman við saltpétur og kol.

Brennisteinsnám

Brennisteinsvinnslan í Seltúni á 19. öld.

Brennisteinn var útflutningsvara frá 14. öld en segja má að blómatími brennisteinsverslunar hér á landi hafi verið á 15. og 16. öld. Nokkuð var um brennistein á Íslandi en svo virðist sem brennisteinsvinnsla hafi hafist snemma hér á landi en elsta heimild um brennisteinsnám er frá 1279. Mest er af brennisteini á norðausturhluta og suðvesturhluta landsins og er þar að finna stærstu námurnar, t.d. í Reykjahlíð í Mývatnssveit á Norðausturlandi en í Krýsuvík á Suðvesturlandi. Fyrr á öldum voru heimildir um brennisteinsmagn hér á landi mjög misvísandi. Til dæmis segir í ferðasögu erlends ferðalangs að „nægtir séu svo miklar (af brennisteini), að það land eitt (Ísland) gæti gert allan heiminn birgan af brennisteini.“

Námuhvammur

Tóftin í Námuhvammi oafn við brennisteinsnámurnar.

Í því landbúnaðarsamfélagi, sem var á Íslandi á fyrri öldum, sáu bændur um að vinna brennistein enda engin önnur stétt sem gat unnið þau störf þar sem mestallt vinnuaflið var bundið í sveitum landsins. Því var upptaka brennisteins venjulega í júnímánuði, eða frá þeim tíma sem hestarnir voru búnir að jafna sig eftir veturinn þangað til heyannir byrjuðu. Brennisteininn er að finna á háhitasvæðum og var hann grafinn úr jörðu. Niels Horrebow, erlendur ferðamaður á Íslandi á 18. öld, lýsti aðförunum við moksturinn svona:

Brennisteinsfjöll

Námur í Brennisteinsfjöllum – bræðsluofn.

„Þegar heitt er í veðri þola menn ekki að vinna að brennisteinsgreftrinum á daginn. Þá er unnið á nóttunni, sem á sumrin er nægilega björt til þess. Menn þeir, sem að greftrinum eru, vefja vaðmálsdruslum um skó sína. því að annars myndu þeir brenna þegar í stað, en brennisteinninn er svo heitur, þegar hann kemur úr jörðinni að ekki er unnt að snerta á honum, en hann kólnar fljótt.“

Brennisteinninn, sem grafinn var upp hér á landi, innihélt um 14-22% óhreinindi og þurfti því að hreinsa hann. Fyrr á öldum var hann þó fluttur út óhreinsaður en árið 1753 var á vegum Innréttinganna reist hreinsunarverk í Krýsuvík og árið 1762 á Húsavík. Samkvæmt skýrslu voru um 72,5 tonn af brennisteini frá Krýsuvík flutt út á árunum 1755-1763 á vegum Innréttinganna sem fengið höfðu einkaleyfi til að vinna og hreinsa brennistein um 1752.

Kerlingarskarð

Tóft brennisteinsvinnslumanna undir Kerlingarskarði.

Brennisteinninn var hreinsaður með vatni og lýsi og hann síðan bræddur í járnpotti sem yfirleitt var hitaður upp með mó. Gæta þurfti þess að hita pottinn ekki um of því þá gufaði brennisteinninn upp. Við bræðsluna flutu óhreinindi og lýsi, sem notað var við bræðsluna, ofan á brennisteininum, sem fleytt var af með járnspaða. Brennisteininum var síðan hellt ofan í eikarmót gegnum síu og honum síðan raðað ofan í tunnur til útflutnings.

Verslun með brennistein gat verið arðbær en svo virðist sem bæði kirkju- og konungsvald hafi áttað sig á þessu snemma enda reyndu þau mikið til að afla sér einkaréttar á verslun með brennistein. Landið varð snemma frægt fyrir þetta gula efni en í tilraunum Danakonunga fyrr á öldum til þess að veðsetja landið var talinn mikill kostur að landið væri ríkt af brennisteini.

Kristjánsdalir

Tóft ofan Kristjánsdala í leið námumanna.

Árið 1560 náði konungur undir sig brennisteinsversluninni en hagnaður hans af þeirri verslun fyrsta árið var nokkur. Hagnaðurinn fór síðan minnkandi og mátti m.a. kenna um lágu verði á brennisteini erlendis. Á fyrri hluta 18. aldar lifnaði þó aftur yfir brennisteinsversluninni en árið 1852 var ákveðið að hvíla brennisteinsnámurnar þar sem búið var að fara illa með þær og vinna í þeim í langan tíma en brennisteinninn hafði í raun ekki fengið að endurnýja sig. Undir lok 19. aldar var nokkur brennisteinsvinnsla í Krísuvík. Árið 1951 gerði Íslenska brennisteinsvinnslan hf. tilraun til brennisteinsvinnslu í námum í Suður-Þingeyjarsýslu en sú starfsemi gaf fljótt upp öndina.

Sjá meira undir Fróðleikur.

www.idan.is

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Sveifluháls

Þann 17. júní árið 2000 reið harður jarðskjálfti yfir Suður- og Suðvesturland (7,2 °R). Nú, skömmu seinna, var ákveðið að fara aftur um Sveifluhálsinn og skoða verksummerki eftir skjálftann.

Sveifluháls

Sveifluháls – Folaldadalir.

Gengið var yfir hálsinn skammt frá Norðlingahálsi og yfir í Folaldadali. Dalirnir eru sléttir sanddalir og greiðfærir yfirferðar. Vatn safnast í þá á vorin og stundum fram eftir sumri. Gengið var upp úr dölunum að sunnanverðu og áfram eftir dæld á hálsinum uns komið var að mosavaxinni hæð innan um móbergsklettana. Á hæð þessari eru fallegir skessukatlar og djúpur rúmgóður dalur neðan undir henni.

Sveifluháls

Gengið um Sveifluháls.

Þar niðri voru FERLIRsfélagar staddir þegar Suðrulandsskjálftinn reið yfir. Þar voru þeir og þegar seinni skjálftinn kom upp, svo til beint undir fótum þeirra. Þegar komið var niður mátti sjá hvar stór björg höfðu fallið úr hlíðunum, en stöðvast í dölunum. Á undan skjálftanum hafði komið mikill hvinur, eins og þotu væri flogið yfir svæðið, en síðan gekk sveiflaðist hálsinn í bylgjum drjúga stund. Á meðan á því gekk tóku skriðutónarnir undir í látunum. Fögur tröllatónlist, en hljómaði ógnvekjandi í eyrum lítillar mannskepnu. Dvalið var nokkra stund innan um klettana, svona til að njóta þess augnabliks, sem fráhverfast hafði verið.

Arnarvatn

Arnarvatn.

Gengið var áfram upp úr dalnum og yfir að Arnarvatni. Sprungur voru enn við vatnsborðið. Fagurt er við Arnarvatnið og gróðurmörkin eru hvergi skýrari en þar. Grátt að norðanverðu en grænt að sunnanverðu. Arnargnýpa trjónir hæst tinda Sveifluhálsins í austri.
Gengið var yfir á Hettustíg undir Hettu, en í því var þokan að læða sér niður hlíðarnar. Fagurt útsýni var þaðan yfir að Vigdísarvöllum þar sem sólargeislar gylltu gular flatir. Bleikingsdalur í suðvestri reis nú vel undir nafni.

Huldur

Gengið um Huldur.

Í stað þess að ganga til baka niður Ketilinn og niður í Móhálsadal var ákveðið að ganga sömu leið til baka, virða fyrir sér enn betur þá breytingu er varð þarna á landslaginu á svo skömmum tíma og stefna á Norðlingaháls. Ljóst er af fenginni reynslu að mótun landslagsins gerist bæði jafnt og þétt (vegna vatns-, frosts- og vindrofs) sem og í stökkum – um það verður ekki efast. Á einni svipan hrundu nokkur tonn af bergi úr „Hulstrum“ sínum niður á jafnsléttu. Þegar horft er á hin háu fjöll, skriðurnar og aflíðandi hlíðarnar má ljóslega gera sér í hugarlund hvernig núverandi útlit hefur fengist smám saman með hinum ýmsu „kröftum“ náttúraflanna í tímans rás. Ekki eru „nema“ um 12.000 ár síðan jökul leysti síðast á landinu. Jökullinn á skriði sínu og leysingum hefur sorfið landið, náttúruöflin síðan sett mark sitt á það smám saman og jarðskjálftar og eldgos ýmist brotið það niður eða bætt um betur. Gangan niður Huldur gekk áfallalaust fyrir sig.
Mikið virðist hafa gengið á á skömmum tíma – og FERLIR fékk að vera hluti af því á Sveifluhálsi þann 17. júní árið 2000.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 31 mín.

Sveifluháls

Á ferð um Sveifluháls.