Færslur

Brennisteinsfjöll

Gengið var upp Selvogsgötuna um Kerlingaskarð.

Kerlingarskarð

Tóft brennisteinsvinnslumanna undir Kerlingarskarði.

Áður en komið var efst í skarðið var beygt til austurs að tótt brennisteinsmanna undir hlíðinni. Enn sést móta vel fyrir hleðslum umhverfis húsið, sem þar var. Efst í skarðinu var staðnæmst við drykkjarsteininn, sem er vinstra megin við stíginn. Skálin var full af tæru vatni. Ofan skarðsins var beygt til vesturs ofan Tinda og haldið inn eftir sléttu helluhrauni Stórkonugígs norðan Draugahlíða. Á móti blasti Draugahlíðagígurinn, en rauði liturinn utan á honum gerir hann frábrugðinn öðrum gígum, sem eru fjölmargir, á svæðinu. Vatn er í gíg á hálsinum vestan Stórkonugígs. Gengið var niður hann að vestanverðu, eftir sléttum dal norðan hálsanna þar sem brennisteinsnámurnar eru sunnan undir.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – tóft af húsi námumanna í Námuhvammi.

Fast undir þeim að sunnanverðu eru tóttir af húsi námumanna. Englendingar hófu þar brennisteinsnám í kringum 1880 fyrir atbeina Skotans W.C. Spence Paterson, sem kenndi á Möðruvöllum í tvo vetur og varð síðan ræðismaður í Hafnarfirði. Það þurfti að brjótast í gegnum 3-4 m þykka hraunskorpu til að komast að brennisteininum og flutningar voru erfiðir, þannig að þessi starfsemi varð ekki langvinn. Flutningaleiðin var um Grindaskörð til Hafnarfjarðar.
Þegar komið var í hallann upp að Kistufelli var byrjað að leita að niðurföllum, sem þar áttu að vera. Í ljós komu þrjú op á stórri rás, sem lá NV-SA í brekkunni. Rás er upp í fyrsta opið, en þó ekki nema um 5 metra löng.

Kistufellshellar

Einn Kistfellshellanna.

Þriðja opið er stærst. Niður úr því liggur stór rás, en mikið hrun er í henni. Hún endar í hruni eftir um 20 metra. Í neðsta opinu er einnig rás niður á við, um 15 metra löng. Hún virðist lokast í hurni. Alls virðist rásin vera vel á annað hundrað metra á lengd. Engin merki voru í rásinni.
Skoðaður var hellir norðaustan við Kistufellsgíg. Þar eru nokkar lágar rásir, en ein virtist þeirra stærst. Hún lofaði góðu, en lokaðist stuttu síðar.
Jarðföllin norðvestan við Kistufell voru skoðuð næst. Um er að ræða gríðarstóra katla. Í nokkrum þeirra eru hellar (geimar) og rásir. Í þeim geimum, sem kíkt var inn í, var merki HERFÍ. Á þeim stóð, auk nr. hellanna, “Hér voru á ferð Björn Símonarson og Sverrir P. Símonarson, 30. 08. 1997”.

Kistufell

Jökulgeymir í Kistufellshrauni.

KST-1, sem fékk staðarnafnið “Ískjallarinn”, er í vesturenda efsta jarðfallsins, sem hellar eru í. Gatið liggur um 10 metra niður á við. Hægt er að komast ofan í hellinn með því að fara vinstra megin niður með niðurfallinu og þaðan af stórum steini á botninn. Rásin þar niður í er um 15 metra löng. Á leiðinni þarf að fara yfir ísfoss og síðan niður ísbrekku. Gæta þarf varúðar.
KST-2 fékk viðurnafnið “Jökulgeimur”. Þegar komið er niður í geiminn blasir ísgólf við. Það fyllir gólfið á milli veggja. Dropar falla úr loftinu og hafa þeir mótað bolla í ísinn. Bollarnir eru fullir af vatni og myndar samspil dropanna hljómkviðu í hellinum. Undir niðri heyrist í læk, sem rennur undir ísnum. Um 15 metrar eru á milli veggja og lofthæðin er mikil. Innar í hellinum er talsvert hrun. Inni á milli í hruninu eru glærir ísklumpar. Þegar komið er yfir hrunið tekur við rás áfram. Í henni er einnig allnokkur ís. Innst í hellinum er fallegur rauður litur í lofti. Alls er þessi hellir um 60 metra langur.

Brennisteinsfjöll

Hellisop í Brennisteinsfjöllum.

KST-3 var nefndur “Kistufellsgeimur”. Um er að ræða vítt gat í nýlegra hruni í minna jarðfalli ofan við eldra og stærra jarðfall. Þegar komið er inn og niður er komið í stóra hvelfingu.
KST-4 fékk nefnuna “Loftgeimur. Nafngiftirnar eru aðallega skráningarlegs eðlis m.t.t. GPS-punkta. Hellirinn er austan í miklu jarðfalli. Opið er stórt, en innan við það hefur loftið fallið í einu lagi ofan á hellisgólfið. Innar er grágrýtisgeimir. Hellirinn er ekki nema um 20 metrar.
Norðvestan við jarðföllin er mikil fallin hraunrás. Yfir hana liggur breið steinbrú. Greinilegt er að fallið hefur nýlega úr steinbrúnni beggja vegna. Í rásinni eru einnig mikil jarðföll og höft á milli. Stór op eru sumstaðar, en hellarnir eru stuttir. Þeir lokast yfirleitt með hruni. Gjá þessi er allöng og endar þar sem helluhraun hefur runnið í enda hennar þar sem hún er opin á móti nýja hrauninu.

Brennisteinsfjöll

Einn Kistufellshellanna.

Skammt austan við þessa miklu hraunrás eru nokkur op á rásum. Kíkt var inn um eitt opið, sem nýlega virtist hafa fallið niður. Hellirinn var nefndur Nýhruni, en þessi hluti hans var stuttur. Hann lokaðist í hruni eftir einungis nokkra metra. Hins vegar má sjá hraunrásina liggja áfram til austurs og á þeirri leið eru allnokkur op.
Norðan við Kistufell er alllöng gróin hraunrás. Víða í henni eru op og hellar innundir. Síðast er FERLIR var á ferð á þessum slóðum var gengið fram á a.m.k. tvö göt í hrauninu norðan við þessa grónu rás. Götin voru u.þ.b. 2-3 metrar í þvermál og virtust um 12-15 metra djúp.

Brennisteinsfjöll

Einn Kistufellshraunshellanna.

Opið var þrengst og vítkuðu rásirnar niður. Snjór var í botninum á annarri þeirra. Þessi op sáust ekki fyrr komið var alveg að þeim. Þau urðu á vegi FERLIRs þegar gengið var frá Kerlingagili með beina stefnu á skarðið vestan við austustu hæðina norðan Kistufellsgíg. Þau eru ekki allfjarri brún hinnar nefndu hraunrásar. Opin fundust ekki að þessu sinni, en ætlunin er að ganga síðar sömu leið og fyrrum til að freista þess að finna þau aftur.
Skoðaðir voru á annan tug hella á Kistufellssvæðinu, en enginn var þó öðrum fremri.
Á leiðinni til baka var gengið yfir mikla hraunrás er lá til norðvesturs. Hún var um 10 metra breið og um átta metra há, slétt og gróin í botninn. Hvergi virtist vera þak á þessari rás.
Gengið var ofan hamrana í átt að Hvirfli, síðan niður í dalina og til baka ofan Draugahlíða. Í stað þess að fara niður Grindarskörð var farið niður skarðið vestan Grindarskarðstinda og síðan niður dalinn norðan þeirra. Það er mjög falleg leið. Þrjár rjúpur.
Gengið var tæplega 15 kílómetra. Veður var með ágætum – logn og hlýtt.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll.

Snorri

Gengið var í þoku upp girðingaveg á mótum Árnessýslu og Gullbringusýslu við Sýslustein.

Slóðaketill

Við Slóðaketil.

Veður var að öðru leyti milt og hlýtt. Í miðri hraunhlíð var litið ofan í hraunketil, sem nefndur hefur verið Slóðaketill. Ofan í honum er um 6 metra gat virðist hraunrás liggja þar inn undir. Rás þessa þarf að skoða betur síðar. Slóðanum var fylgt upp á hraunbrúnina og áfram upp grónar hlíðar melhóla uns komið var á efstu brún. Inni í þokunni í austur eru Sandfjöllin og fjær Vesturás og Austurás. Í suðaustur er Herdísarvíkurfjallið og í góðu skyggni sést þaðan inn yfir Svörtubjörg og alveg að Hnúkum. Í suðvestri eru Æsubúðir á Geitahlíð. Í vestri er Sveifluhálsinn, en nær má sjá gíga, bæði austan í Geitahlíð og eins ofan við Kálfadalahraunið, sem rann þarna til vesturs ofan í Kálfadalina. Þar liggur slóðinn til norðurs inn á hraunbreiðu, en beygir fljótlega til vesturs. Vinstra megin er fallegur hraungígur.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufell framundan.

Áð var þegar komið var út úr hrauninu eftir tæplega klukkustundar gang. Þar í austur á að vera hægt að sjá Vörðufell og inn að Kistufelli í Brennisteinsfjöllum. Austan við Vörðufell er Eldborgin, röð fallegra hraungíga og mikilla hraunrása. Þar vestan við rann Hvammadalshraun niður í Hvammadal austan Kleifavatns. Í suðurjaðri þess er m.a. Gullbringuhellir.
Hraunkantinum var fylgt til suðurs. Austan við hraungíga Kálfadalshrauns var haldið til suðsuðausturs inn á mosahraunið og þar fylgt háum hraunkanti á hægri hönd. Þegar komið var út úr hrauninu var komið í gróið hraun úr eldborgunum austan Geitahlíðar. Þeim kanti var fylgt til suðausturs þangað til hann mætti eysti hluta Geitarhlíðar. Þar rann hluti gróna hraunsins niður svonefndan Sláttudal, á milli hlíða. Hallar þar undan til suðurs. Hlíðin er nokkuð brött efst, en jafnar sig fljótlega. Neðar er hraunið mjög gróið. Hamrar eru á vinstri hönd og mikil hraunrás á þá hægri.

Slóðaketill

Slóðaketill.

Þegar komið er niður á þjóðveginn er hlaðið hrossaskjól undir hraunkantinum handan hans. Þar var áð uns haldið var að bílunum. Eða eins og einn þátttakenda sagði þegar niður var komið:
“Flestum þykir eigi miður,
komin niður,
um gil,
sem reyndar virtist ekki til
og að hafa sloppið heil,
um geil,
í fjalli
úr margra alda gömlu gjalli.
Þokan reyndist óvenjuþétt,
en gangan létt,
enda vanir menn,
sem þekkja og rata þetta enn.
Förum síðar aftur sömu leið,
gatan er greið.”

Gangan var um 7.7 km og tók um 3 klst. Ætlunin er að fara aftur upp girðingaslóðann, yfir hraunið ofan melhólanna og fylgja síðan hraunkantinum til austurs, í stað vesturs eins og nú var gert, og koma niður við suðaustanvert Kleifarvatn, þar sem bílar munu bíða göngufólks. Sú ganga mun líklega taka um 4 klst, en á þessu svæði er hægt að líta eitt mikilfengslegasta eldgosasvæði landsins.
Frábært veður.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Slóðaketill

Farið var aftur inn í hraunið austan Geitahlíðar til að leita að Snorra, jarðfalli sem upplýsingar höfðu fengist um að ætti að vera þar inni í hrauninu.

Snorri

Leitin að Snorra.

Smali hafði gengið frá Vörðufelli í gegnum mosahraun, komið að grasbrekkum neðan við Melhóla og haldið áfram til suðvesturs að geilinni á Geitahlíð ofan við Sláttudal. Austan Geitahlíðar eru allnokkrir eldgígar og eldborgir. Vestara hraunið hefur runnið til vesturs og niður í Kálfadali, en eystra hraunið hefur runnið til austurs og niður með austanverðri Geitahlíð vestan Sláttudals. Um er að ræða mikil hraun. Smalinn hafði á leið sinni gengið fram á mikið jarðfall, sem birtist fyrirvaralaust framundan í hrauninu. Yfir jarðfallið átti að vera falleg steinbrú.

Snorri

Á leið í Snorra.

Svarta þoka var á fjallinu þegar að var komið, en milt veður. Haldið var fyrst í um kílómetra til vesturs yfir hraunið, að brún Kálfadalahraunsins, síðan til suðausturs og loks til austurs. Jarðskálftinn 17. júní árið 2000 hafði greinilega leikið hraunhólana þarna illa. Margir þeirra voru klofnir, aðrir maskaðir. Ekki er ólíklegt að seinni skjálftinn þennan dag hafi átt upptök sín einhvers staðar þarna undir hrauninu. Þegar um 500 metrar voru eftir í vestari melhólinn birtist jarðfallið fyrirvaralaust framundan, djúpt og mikið um sig. Steinboginn var fallinn niður í jarðfallið, en hann hefur verið nokkuð stór.

Snorri

Leitin að Snorra.

Gríðarlegt gat var inn í jarðfallið til vesturs. Þar hefur runnið mikið hraunmagn. Veggir voru sléttir og virtist rásin hafa verið nær hringlaga. Fallið hefur úr loftinu, svo mikið að lokast hefur fyrir rásina rétt fyrir innan opið. Á milli steina fremst í rásinni sást þó niður í dimman “kjallara”. Með nokkrum tilfæringum var hægt að forfæra grjót og var þá hægt að láta sig síga niður um gat. Um mannhæðar hátt er niður á fast, en þar í frá lækkar hvelfingin, sem þar er undir, inn til miðjunnar. Hún er mikil um sig og er undir stóru hraunrásinni. Inni í enda hennar er lítið gat í um tíu metra hæð.

Snorri

Unnið að inngöngu í Snorra.

Stiga þarf til að komast upp í hana. Út um gatið hefur seitlað þunnfljótandi hraun og myndar það fallegan storknaðan foss svo til beint niður úr gatinu. Þá var farið inn í eystri rásina, sem eiginlega liggur fyrst til suðurs og beygir síðan til austurs. Mikið hrun er í henni. Var rásinni fylgt í um 20 metra, en þá lokaðist hún nær alveg í hruni. Loftið virtist ótryggt.
Á leiðinni til baka var aftur litið á Slóðaketilinn austan Geitahlíðar. Ekki verður hjá því komist að nota stiga til að komast ofan í neðri rásina í katlinum sjálfum til að kanna hvort og hversu löng neðri rásin kann að vera.
(Framhald í annarri lýsingu – Snorri sigraður – óvæntur fundur).

Snorri

Snorri – kort.

Snorri

Upplýsingar höfðu fengist um jarðfall austan Geitahlíðar. Jarðfallið átti að vera nokkrir metrar í ummál og um sex metra djúpt. Þar ofan í sást í rásir.

Snorri

Haldið upp í Snorra.

Haldið var upp slóða, sem liggur upp með girðingunni vestan Sýslusteins og honum síðan fylgt upp hraunhlíðina. Á slóðanum er einn og einn girðingastaur á stangli, en hann hefur verið ruddur þarna upp með það fyrir augum að leggja girðingu eftir fjallgarðinum. Þegar komið var upp á hæðina heldur slóðinn áfram uns hann beygir til vinstri við beygju á girðingunni. Úr hornstaurnum liggja strengir í henni áfram til norðurs, upp grasbrekkur. Ekið var slóðann upp brekkuna. Þegar komið var upp beygir girðingin og slóðinn enn til vinstri og heldur áfram yfir hraunbreiðu. Þarna vinstra megin, við hornið, er melhóll. Af honum á að taka mið á jarðfallið.

Snorri

Á leið í Snorra.

Ekið var áfram eftir slóðanum, en útsýni er þarna allfagurt; Geitahlíð til suðurs, fjórir fallegir eldgígar til vesturs, Sveifluháls norðar, Sandfell og Vörðufell til norðurs, Austurásar, Vesturásar og Herdísarvíkurfjall til austurs. Inni í hrauninu beygir girðingin enn í nær 45° til vinstri. Litið var á einn gíginn, næst slóðanum, en hann er mosagróinn og opnast til suðvesturs. Þegar komið er út úr hrauninu beygir girðingin til norðausturs með hraunkantinum. Slóðinn liggur þar að mestu í grasi og virðist liðast með honum langleiðina að Vörðufelli. Mikil vinna og mikill kostnaður hefur legið í bæði vegavinnunni og girðingavinnunni, en strengirnir liggja víðast hvar niðri og er girðingin því ónothæf með öllu.

Snorri

Leitin að Snorra.

Haldið var aftur að melhólnum og gengið út frá honum til vesturs, eins og lýsingin sagði. Þarna er nýtt hraun á eldra hrauni á kafla, en nýja hraunið er mjög mosagróið. Jarðfallið átti að vera þarna í 50-100 metra fjarlægð frá melhólnum, en það fannst ekki þrátt fyrir leit.

Haft var samband við upplýsingagjafann. Hann sagðist hafa farið að rifja staðsetninguna betur upp, en nokkuð er um liðið síðan hann var þarna á ferð. Sagðist hann hafa verið að koma frá Vörðufelli, komið að hæsta melhólnum vestan girðingarinnar og ætlað að stytta sér leið yfir hraunið því hann hafi ætlað niður í Sláttudal á milli Æsubúðar-Geitahlíðar og Geitahlíðar. Hann hafi gengið ofan hraunbrúnarinnar áður en hraunið tekur að halla undan til suðurs. Þegar hann hafi verið kominn 50, 100 eða 200 metra inn í hraunið hafi hann allt í einu staðið á barmi jarðfallsins. Hann hefði ekki séð það tilsýndar. Steinbogi er yfir því. Hann taldi að hægt væri að fara ofan í jarðfallið án búnaðar. Rétt væri því að ganga frá melhólnum með stefnu á Geitahlíð, þ.e. meira til suðvesturs og fara með hraunbrúninni.

Björn Hróarsson

Björn Hróarsson við Snorra.

Á leið til baka sást op vinstra megin við slóðann þar sem hann liggur niður hraunhlíðina. Þarna er um hraunrás í katli að ræða. Í katlinum er gat, ca. 3×4 metrar að ummáli og er um 6 metrar niður á botn. Ekki er hægt að komast þar niður nema á stiga eða síga. Rás virðist liggja þar til suðvesturs. Uppi liggur rás til norðurs, u.þ.b. 20 metra löng. Hún endar í hruni og lausu hrauni. Í katlinum má einnig sjá inn í reglulega fallega, en mjóa rás. Innan hennar sést í þrifalega hraunrás. Neðri rásina þarf að skoða síðar með viðeigandi búnaði.

Ætlunin er að gera aðra tilraun fljótlega með það fyrir augum að finna jarðfallið – FERLIR er þekktur fyrir allt annað en að gefast upp.

Snorri

Snorri – kort.

Fjárskjólshraunshellir

Krýsuvíkursvæðið er eitt fallegasta og fjölbreytilegasta útivistarsvæði hér á landi. Margir útlendingar, sem fara þar í gegn á leið úr ferðum sínum á Gullfoss og Geysi, minnast þeirrar ferðar lengur, en flest annað sem bar fyrir augu þeirra um landið. Boðið er upp á sérstakt, tilkomumikið og fjölbreytt landslag, hlaðið sögulegum minjum frá upphafi landnáms. Bæjarfell er nokkurs konar miðdepill þess. Út frá fellinu liggja allar leiðir, enda flestir Krýsuvíkurbæjanna á síðari öldum undir rótum þess. Ákjósanlegt er að staldra við á hæsta tindi fellsins, sem er einkar auðveldur uppgöngu, og virða fyrir sér svæðið allt í kring..

Krýsuvík

Krýsuvík – Augun.

Austan Bæjarfells eru tóttir bæjanna Snorrakots, Norðurkots, Lækjar, Suðurkots og Krýsuvíkurbæjarins á hólnum við Krýsuvíkurkirkjuna. Honum var því miður rutt um koll um og eftir 1960. Enn má vel sjá húsaskipan og bæjarlag þeirra þriggja fyrstnefndu. Snorrakot liggur nyrst bæjanna, utan garðs. Heimagarðurinn er beint fyrir framan bæinn og fallegir torfgarðar út frá honum. Inni á túninu er stór tótt Norðurkots og þar hefur einnig verið garður framan við bæinn. Við heimtröðina að norðan er tótt alveg við hana og önnur upp í brekkunni skammt sunnar. Svipað bæjarlag hefur verið á Læk, en þar eru þó enn fleiri tóttir, sem vert er að skoða. Á Vestari-læk, sem liðast til suðurs á milli kirkjunnar og Lækjar var eitt sinn kornmylla. Vestan við lækinn er Ræningjadys við Ræningjahól og ofar á hólnum er gamli bæjarhóll Suðurkots. Þessa kennileita er getið í sögunni af Tyrkjunum og séra Eiríki Vogsósapresti.

Gestsstaðir

Gestsstaðir sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Norðan við Snorrakot var Litli-Nýibær og Stóri-Nýibær þaðan til austurs, handan þjóðvegarins. Enn má sjá bæjarhólinn í túninu. Sunnan undir brekku sunnan Gestsstaðavatns, neðan við Krýsuvíkurskóla, eru tóttir Gestsstaða, næstelsta bæjarins í Krýsuvík. Þær eru tvær. Önnur tóttin virðist hafa verið gripahús, en hin íbúðarhús. Austan utan í Sveifluhúsi skammt suðvestar er enn ein tóttin og virðist hún hafa verið hluti Gestsstaða. Frá hlíðinni ofan við bæjartóttirnar sést til sex vatna; Gestsstaðavatns næst í norðri og Kleifarvatns fjær, Grænavatns í austri, Augnanna sitt hvoru megin við þjóðveginn í suðaustri og Sefsins skammt sunnan af þeim. Tóttir bæjarins Fells er í hvammi í brekkunni sunnan Grænavatns og tóttir elsta bæjarins, Kaldrana er við suðvestanvert Kleifarvatn, rétt austan við þjóðveginn.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-Lækur fellur fram af berginu, nafnlaus.

Gamla fjósið í Krýsuvík, norðan Grænavatns, stendur nú autt og yfirgefið, en áður var það tengt stórum draumum um mjólkandi rauðar kýr á básum. Bústjórahúsið norðan við Gestsstaðavatn varð síðar vinnustaður Sveins Björnssonar, málara, en er nú Sveinssafn að honum gengnum. Krýsuvíkursamtökin njóta góðs af stærri húsakosti, bæði í gamla húsinu og í því nýja sunnan við vatnið. Vinnuskólinn naut aðstöðu í Krýsuvík á síðari hluta sjötta áratugarins og fyrri hluta þess sjöunda, en þá undu ungir piltar frá Hafnarfirði sér þar vel sumarlangt. Gróðurhúsin vestan við húsin voru þá í notkun og mikið um að vera.

Krýsuvík

Krýsuvík – frá Vinnuskólanum.

Piltarnir stunduðu vinnu á afkastahvetjandi launakerfi hálfan daginn, en voru í annan tíma við leiki og gönguferðir um nágrennið. Á kvöldin voru haldnar kvöldvökur og kvikmyndasýningar. Vinnan var m.a. fólgin í skúringum, hreingerningum, matargerð, borðlagningu, uppvaski, umhirðu húsa og nágrennis, girðingum, heyskap, rakstri, málningu, gróðursetningu og vegagerð. Nýjar reglugerðir gerðu síðar þessa mannbætandi og uppbyggjandi starfsemi Vinnuskólans því miður ómögulega í framkvæmd.
Í hlíðum sunnanverðs Arnarfells eru tóttir Arnarfellsbæjarins. Suðvestan hennar er Arnarfellsréttin, hlaðin stór rétt í lægð í átt að Selöldu. Sunnan fellsins er Arnarfellsvatnið.
Talið er að Krýsuvíkurbændur hafi haft í seli, bæði til fjalla og fjöru. Krýsuvík hafði í seli um tíma á Vigdísarvöllum og á Seltúni í Hveradal, undir Hatti. Framan við Hveradal er timburþil, einu minjar gamla brennisteinsnámsins. Lækurinn var fyrst stíflaður á nokkrum stöðum í tengslum við brennisteinsnámið og síðar vegna borna og fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir.

Krýsuvík

Strákar í Selöldu.

Einnig er gamalt sel sunnan undir austanverðri Selöldu. Þar eru líka tóttir bæjarins Eyri, rétt ofan við uppþornaðan lækjarfarveg, og tvö fjárskjól skammt sunnar. Annað er minna og virðist mun eldra en það stærra. Vestar eru svo tóttir bæjarins Fitja. Ofan við þær er heillegar hleðslur fjárhúss undir háum móbergsskletti á Strákum.
Sunnan við Bæjarfell er hlaðin rétt og norðan við fellið er hlaðin stekkur, Hafliðastekkur. Austar í hlíðinni er stór tótt og enn austar gamall stekkur. Varnargarður liggur upp úr engjunum í miðja hlíð fellsins. Hefur hann bæði átt að varna því að fé færi inn á túnin og auk þess stýra vatnsstreyminu um engi og mýrar.

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Aðrir varnar- og vörslugarðar liggja frá Bæjarfelli, bæði norðan Norðurkots og beggja megin Lækjar að Arnarfelli. Annar langur garður liggur á milli sunnanverðs Bæjarfells í Arnarfell neðan við bæinn og upp í öxina austan hans. Eldri garður er innan við þann garð og virðist hafa legið á milli Bæjarfells og Arnarfells, skammt ofan við Suðurkot. Í vestanverðu Bæjarfelli er fjárhellir og hlaðið fyrir opið að hluta. Skátar notuðu hellir þennan oft til gistinga áður en skáli þeirra að Skýjaborgum kom til. Austan í Arnarfelli er hlaðinn stekkur og upp í því er Dísuhellir.
Utar á Krýsuvíkurheiði er hlaðið hús, Jónsbúð. Skammt suðaustan þess, þar sem heiðin hallar til suðurs, er annað fallega hlaðið hús. Neðar, skammt ofan við austanvert bjargið er tótt utan í hraunhól í Litlahrauni og skammt sunnan við hann er hlaðið fyrir fjárskjól í skúta. Utan við Bergsenda er Krýsuvíkurhellir. Sést frá honum yfir að Skilaboðavörðu þar sem hún stendur hæst skammt austan og ofan við Keflavík. Endimörk Krýsuvíkurlands í suðaustri er í Seljabót. Í henni er hlaðið gerði.

Arngrímshellir

Gvendarhellir (Arngrímshellir) í Krýsuvíkurhrauni

Uppi í Klofningum er Arngrímshellir, öðru nafni Gvendarhellir. Við hann gerðist þjóðsagan af Grákollu og Arngrími bónda. Fyrir framan fjárhellinn er tótt og inni í honum eru hleðslur. Skammt austan við hellinn er Bálkahellir, falleg hraunrás. Efst í jaðri Fjárskjólshrauns, neðan Geitahlíðar, er hlaðið hús, sem sést vel frá þjóðveginum skammt vestan Sýslusteins. Vestar, við gömlu leiðina upp Kerlingadal á leið um Deildarháls ofan Eldborgar, eru dysjar Herdísar og Krýsu, þeirrar er deildu um land og nytjar og getið er um í þjóðsögunni.

Stóra-Eldborg

Stóra Eldborg.

Ofar Eldborgar er Hvítskeggshvammur þar sem sagt er að skipið Hvítskeggur hafi verið bundið við festar í bjarginu. Neðan Eldborgar, í formfallegri hraunrás, er gamla Krýsuvíkurréttin. Vegghamrar eru upp með vestanverðri Geitahlíð og innan þeirra eru Kálfadalir. Niður í syðri dalinn hefur runnið tilkomumikil hrauná. Norðanverður dalurinn er grasi gróin og svo er einnig nyrðri dalurinn. Norðan við Kálfadali er Gullbringa og gamla þjóðleiðin yfir Hvammahraun upp á Vatnshlíð og niður í Fagradal í Lönguhlíðum.

Í hrauninu eru hellar, sem vert er að skoða.

Litlahraun

Litlahraun – fjárhústóft.

Mikil hraun hafa runnið um svæðið á sögulegum tíma. Má þar bæði nefna Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun.
Í Ögmundarhrauni er Húshólmi. Í honum eru margar minjar og sumar þeirra mjög gamlar. Þar er t.d. hluti af stekk þegar komið er niður úr Húshólmastígnum og enn vestar er gömul fjárborg. Sunnar er svo vörslugarður og grafreitur, tóttir af sjóbúð eða íveruhúsi og inni í hrauninu eru tóttir gömlu Krýsuvíkurkirkju og Gömlu-Krýsuvíkur. Þar rétt hjá eru leifar skála, sem hraunið hefur runnið allt í kringum. Ekki er óraunhæft að ætla að í Húshólma kunni að leynast minjar frá því fyrir norrænt landnám hér á landi. Austan undir Ögmundarhrauni er gömul rétt utan í hraunkantinum. Gamall stígur liggur suðvestur úr Húshólma, í átt að Brúnavörðum.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – tóft.

Í Óbrennishólma eru tvær fjárborgir, önnur stærri og eldri. Þar ofarlega í hólmanum er veggur, sem hraunið, er rann um 1150, hefur runnið að og stöðvast. Neðst í suðaustanverðum hólmanum er nýrri hleðsla í hraunjaðrinum. Enn vestar í hrauninu, sunnan Lats, er fallega hlaðið fyrir skúta, sem líklega hefur verið sæluhús eða skjól vegavinnumanna á sínum tíma. Enn vestar eru svo Selatangar, en mörk Krýsuvíkur teigja sig að Dágon, klettastandi, sem þar er niður við sjó. Fjölbreytni Selatanga og saga eru efni í sjálfstæða frásögn.

Ögmundastígur

Dys Ögmundar við Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni.

Í austurjaðri Ögmundarhrauns, upp undir Mælifelli, er dys Ögmundar er segir frá í sögunni um þursinn er vildi giftast dóttir (Njarðvíkurbónda) Krýsuvíkurbónda. Gamli vegurinn liggur þaðan í gegnum hraunið, yfir að Latfjalli. Norðan þess er Stóri-Hamradalur. Undir vegg hans er gömul rúningsrétt. Í gýgunum, sem Ögmundarhraun rann úr, er falleg hleðsla fyrir fjárhelli og ofar eru Vigdísarvellir undir Bæjarfelli í Núpshlíðarhálsi. Þar voru tveir bæir og má vel sjá tóttir þeirra beggja. Frá Völlunum liggur Hettustígur austur yfir á Sveifluháls þar sem hann mætir Sveifluvegi frá Ketilsstíg og áfram niður að Gestsstöðum í Krýsuvík um Sveiflu. Drumbsdalavegur liggur yfir Bleikingsdal og áfram austur yfir sunnanverðan Sveifluháls við Drumb. Komið er yfir hálsinn skammt sunnan við Skugga, klettaborg austan Sveifluhálsar og síðan fylgt gömlu götunni beggja vegna þjóðvegarins að Bæjarfelli. Gatan sést enn vel, en vörðurnar við hana eru víðast hvar fallnar. Þó sést móta fyrir brú á götunni á einum stað sunnan vegarins. Skammt vestan við Borgarhól er enn ein fjárborgin.

Seltún

Seltún.

Falleg hverasvæði eru víða í Krýsuvíkurlandi. Má í því sambandi nefna hverasvæðið við Seltún, í Hveradal, upp undir Hettu og einnig svæðið vestan fjallið, á milli þess og Arnarvatns á Sveifluhálsi.
Í austurjarðri Krýsuvíkur er fjölbreytt göngusvæði, s.s. að Austurengjahver, Lambafellin og yfir að Hverahlíð þar sem skáli Hraunbúa er sunnan við Kleifarvatn. Fjölbreytnin á ekki síður við um Sveifluhálsinn, sem er einka fjölbreytilegur. Ef ganga á hann allan frá Einbúa eða Borgarhól að Vatnsskarði tekur það um 6 klst, en það er líka vel þess virði á góðum degi.
Eins og sjá má er Krýsuvíkursvæðið hið fjölbreytilegasta til útivistar. Hægt að er að ganga bæði stuttar og langar leiðir og mjög auðvelt er fyrir alla að finna þar eitthvað við sitt hæfi.

Austurengjahver

Við Austurengjahver.

Krýsuvíkurbjarg

Gengið var frá Grænavatni að Austurengjahver (Stórahver), um Vegghamra að Stóru-Eldborg, þaðan um Borgarhraun niður á Krýsuvíkurbjarg vestan við Bergsenda, eftir bjarginu (13 km) að Selöldu, upp að Arnarfelli og yfir að Bæjarfelli með viðkomu í Krýsuvíkurkirkju. Loks var haldið upp að Augum og hringnum lokað við Grænavatn.

Grænavatn

Grænavatn.

Krýsuvík er mikið jarðhitasvæði. Þar eru bæði leir- og gufuhverir en einnig sprengigígar. Stærsti sprengigígurinn á svæðinu er Grænavatn.
Í grein Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings sem nefnist Náttúruvernd og birtist árið 1950 í tímariti Náttúrurfræðingurinn segir hann m.a. frá Grænavatni:
“Suður í Krýsuvík er lítið stöðuvatn, Grænavatn, sem fengið hefur nafn af hinum sérkennilega græna lit vatnsins, er stafar af brennisteinssamböndum. Þetta litla vatn, nokkur hundruð metra breitt, en 45 metra djúpt, er myndað eftir ísöld, við eldgos, sem orðið hefur með sérkennilegum hætti, sem hér er ekki tími til að rekja. Meðal annars hafa í því gosi, sem myndaði vatnið, þeyst upp hraunkúlur, sem hafa gabbrókjarna, en bergtegundin gabbró hefur ekki fundist annars staðar á Suðvesturlandi.

Grænavatn

Grænavatn.

Vatnið er óefað meðal merkustu náttúrurfyrirbrigða í sinni röð, og þar sem það liggur í sérkennilegu umhverfi, við þjóðveg, og ekki nema klukkutímakeyrslu frá höfuðstaðnum, kemur vart sá útlendur jarðfræðingur til landsins, að ekki sé keyrt með hann um um Krýsuvíkurveg og honum sýnt Grænavatn, og fjöldi annarra útlendinga fer um þann veg.”
Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn. Töluverð ummyndun sést í bergi alllangt út frá beggja megin. Auk jarðhitans eru á þessari hitarák nokkrir sprengigígar sem gosið hafa gjalli og smáhraunum með úrkastinu. Sá stærsti er um 100 m í þvermál. Gígar þessir eru frá því snemma á nútíma. Síðsumars 1924 lifnaði Austurengjahver við jarðskjálfta, var áður lítilfjörlegur. Stórir hverasprengigígar eru norðurfrá honum en eldri, sem bendir til að grunnt sé á jarðhitakerfi nærri suðu líkt og í Krýsuvík.

Kleifarvatn

Hellir við Kleifarvatn.

Þeir félagar Eggert og Bjarni voru á ferð um Krýsuvík árið 1756 og var þá unnin brennisteinn í Krýsuvík. Hafa þeir eflaust komið að Austurengjahver, en einnig í Hveradal (Seltún) og Baðstofu. Sveinn þórðarson segir frá því að bændur hafi í gegnum aldirnar grafið upp brennistein og selt ferðamönnum milliliðalaust. Árið 1753 var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein að undirlagi Skúla Magnússonar landfógeta og Bjarna Pálssonar landlæknis. Nokkur ágóði varð af brennisteinsvinnslunni. Árið 1858 keypti Bretinn Joseph William Bushby  brennisteinsnámurnar í Krýsuvík.

Seltún

Seltún – brennisteinn.

Kostnaðurinn varð þó of mikill og var bara unnin brennisteinn í tvö sumur eftir það. Eftir það tóku ýmsir námurnar á leigu en síðastur þeirra var Bretinn T. G. Paterson og bróðir hans W. G. S. Paterson sem tóku námurnar á leigu árið 1876. Þeir stofnuðu Brennisteinsfélag Krýsuvíkur en á þessum tíma var orðið lítið af brennisteini ofanjarðar þar sem auðvelt var að ná í hann.

Bora þurfti því eftir brennisteininum.  Árið 1880 er talið að allri námuvinnslu hafi verið lokið og sama ár var uppboð á ýmsum eigum félagsins. Vinnsla brennisteins í Krýsuvík stóð því yfir í hartnær tvær aldir.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Austurengjahver, áður nefndur Nýihver, er syðstur svokallaðra Austurengjahvera. Sonder (1941) mældi 118°C í hvernum, sem á þeim tíma var gufuhver en telst í dag vatnshver (Barth 1950). Rennsli er ekki mikið frá hvernum og mest gufa sem stígur upp frá honum.
Gengið var í syðri Kálfadalinn. Þar er fallegur hraunfoss, Víti. Haldið var yfir að Vegghömrum vestan Geitahlíðar, niður með henni og yfir að Stóru-Eldborg.
Eldborgir eru hluti af gjallgígaröð. Stóra-Eldborg er meðal fegurstu gíga Suðvesturlands. Þær voru friðlýstar árið 1987. Stóra-Eldborg er formfagur klepragígur, sem rís um 50 metra yfir umhverfið og er um 30 metra djúpur. Hraunin, sem runnu frá honum hafa myndað margar hrauntraðir.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Á leiðinni áleiðis niður á Krýsuvíkurbjarg um Litlahraun var rifjað upp ýmislegt um Krýsuvíkina. Hún er sennilega landnámsjörð. Segir Landnáma að Þórir haustmyrkur hafi numið Selvog og Krýsuvík. Eftir að kristni var lögtekin var þarna kirkja og helguð Maríu mey. Voru prestar búsettir í Krýsuvík fram yfir 1600, séra Eiríkur í Vogsósum þjónaði m.a. Krýsuvíkur prestakalli.
Stóri Nýibær lagðist síðastur í eyði í Krýsuvík og var það árið 1938, en eftir það var ekki mannlaust þarna. Einn maður var eftir og bjó í kirkjunni í Krýsuvík þegar allir höfðu flúið af hólmi.
KrýsuvíkurkirkjaMeð órjúfandi tryggð við staðinn gafst hann aldrei upp þraukaði fjarri mannabyggðum aleinn og ósveigjanlegur og barðist þar áfram með hinn einstöku íslensku seiglu. Þessi maður var Magnús Ólafsson.
Magnús Ólafsson var nauðugur sendur í vist 18 ára gamall til Árna sýslumanns Gíslasonar, í kringum 1895 (bærinn lagðist í eyði 1938).

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja var einföld timburkirkja í Krýsuvík. Hún var byggð árið 1857, endurbyggð árið 1964 og fór þá í vörslu þjóðminjavarðar og komst við það á lista yfir friðuð hús. Altaristafla kirkjunar var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara.
Krýsuvíkurkirkja var notuð sem sóknarkirkja allt fram undir 1910. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64 fyrir tilstuðlan Björns Jóhannessonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, en Hafnarfjarðarbær færði Þjóðminjasafninu húsið til varðveislu haustið 1964.
Kirkja mun hafa risið í Krýsuvík í upphafi kristni hér á landi í Kirkjulág í Húshólma áður en Ögmundarhaun rann um miðja 12. öld. Eftir þann atburð var kirkjan færð ofar í landið. Kirkjuna sem brann smíðaði Beinteinn Stefánsson hjáleigubóndi í Krýsuvík úr rekatrjám 1857. Byggð lagðist af í Krýsuvík í byrjun síðustu aldar og 1929 var Krýsuvíkurkirkja aflögð sem helgidómur. Magnús Ólafsson, sem síðastur bjó í Krýsuvíkurbænum, dvaldist í kirkjunni um árabil sem góður hirðir er gætti kinda.
Viðamiklar viðgerðir hófust árið 1986 og hún þá færð til upprunalegrar gerðar. Útveggir voru með tjargaðri listasúð og bárujárn á þaki. Engir gamlir kirkjumunir höfðu varðveist og voru kirkjubekkir, altari og prédikunarstóll af nýlegri og einfaldri gerð.
Hún brann til kaldra kola aðfaranótt 2. janúar 2010.
Spurður hvers vegna hann hafi ekki flutt til Hafnarfjarðar eftir að búskapur lagðist af á Nýjabæ svararði hann: ” Vinnan var stopul í Hafnarfirði og ég hafði meiri löngun til þess að hugsa um kindur heldur en að snapa eftir vinnu þar.” Eitt sinn var Magnús spurður hvort ekki væri hann myrkfælinn á því að búa í kirkju og hafa kirkjugarð sem sinn næsta garð.

Ætlunin var að senda Magnús í verbúðir sem að Árni sýslumaður átti í Herdísarvík. Enn Magnúsi var ekki um sjóinn gefið og vonaðist eftir starfi í Krýsuvík. Betur fór en á horfðist og fékk Magnús fjárhirðastöðu í Krýsuvík, á Nýjabæ.
Magnús bjó í kirkjunni í Krýsuvík sem var úr timbri og óþétt, svo óþétt að skór hans frusu oft á köldum vetrarnóttum. Kirkjan var 22×14 fet og svo lág að ekki var manngengt undir bita. Ekkert tróð var í veggjum, gólfið sigið og gisið.

“Myrkfælinn, – nei ég veit ekki hvað það er. Og óþarfi að óttast þá, sem hér liggja. Sumt af þessu hefur verið kunningjafólk mitt. Þeir gera engum manni mein, og ég hef aldrei orðið var við neina reimleika. Þeir dauðu liggja kyrrir.”
Magnús vann sem fjárhirðir hjá Árna sýslumanni og bjó í vestri enda bæjarins. Eftir að hann kvæntist Þóru Þorvarðardóttur, bjuggu þau bæði í vestri enda húsins ásamt öðru vinnufólki. Eftir að þau eignuðust börn, var þröngt í búi og bjuggu þau í Krýsuvík á Nýjabæ þar til elsta barnið var komið á skólaaldur og flutti þá frú Þóra Þorvarðardóttir til Hafnarfjarðar með börnin.

Magnús átti erfitt með að aðlagast bæjarlífinu í Hafnarfirði og flutti aftur í Krýsuvík. Þar dvaldi hann í 50 ár í og mestan hluta þeirra sem einbúi.
Tóft, sem blasti við efst á Krýsuvíkurheiði er ein minjanna um Magnús. Þar er sagt að hann hafi setið yfir sauðum á unga aldri að undirlægi Árna sýslumanns.
Skoðaðar voru minjarnar í Litlahrauni og síðan haldið vestur með Krýsuvíkurbjargi. Frábært útsýni er af bjargbrúninni svo til alla leiðina.
Skoðaðar voru minjarnar við Selöldu, upp við Arnarfell og kíkt inn í Krýsuvíkurkirkju áður en haldið var upp að Augunum. Þau eru tveir sprengigígar með vatni í, þó mun minni en Grænavatn. Þjóðvegurinn liggur milli þeirra.
Frábært veður – Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.islandsvefurinn.is/photo2.asp?ID=471
-http://hot-springs.org/krysuvik.htm
-http://saga.khi.is/torf/2002/nyibaer/
-http://www.landvernd.is/page3.asp?ID=1089

Graenavatn-221

Grænavatn.

Krýsuvík

Ólafur Einarsson skrifaði í Lesbók Morgunblaðsins árið 1986 um síðustu ábúendurna í Krýsuvíkursókn.
Hjónin í Stóra Nýjabæ héldu lengst út og komu öllum sínum seytján börnum til manns:
Storinyja-1
Stytzta og fljótfarnasta leiðin til Krýsuvíkur, að minnsta kosti fyrir þá, sem á höfuðborgar-svæðinu búa, er að aka til Hafnarfjarðar, suður og niður Hvaleyrarholtið og beygja við fyrstu vegamót til vinstri, halda síðan þvert yfir Kapelluhraun, þar til að Snókalöndum kemur. Aka þá til hægri og halda ferðinni áfram upp í Vatnsskarð og enn áfram eins og leið liggur meðfram Kleifarvatni, allt þar til kemur að Krýsuvík. En hún var, eins og mörgum er kunnugt, höfuðból Krýsuvíkursóknar, en fór í eyði um síðustu aldamót. Bærinn stóð undir samnefndu fjalli (Bæjarfelli) stuttan spöl frá Krýsuvíkurkirkju.
Um það bil 10 til 15 mínútna gangur var frá höfuðbólinu til Stóra-Nýjabæjar, sem var austan við Stóra-Kambafell á Austurengjum. Stóri-Nýjibær er þekktastur fyrir, að ábúendur, Guðmundur Jónsson frá Hiíð í Selvogi og kona hans, Kristín Björnsdóttir frá Herdísarvík, bjuggu þar myndarbúi og héldu lengst út við búskapinn allra þeirra, sem í Krýsuvíkursókn bjuggu. Þess ber að geta, að Guðmundur Jónsson frá Selvogi missti föður sinn, þegar hann var á fermingaraldri, með sviplegum hætti. En faðir hans féll niður um ís á Hlíðarvatni og drukknaði. Mikill harmur hefur það verið syninum. Og varð hann að taka að sér forsjá heimilisins strax eftir fermingu. En sú þolraun, sem föðurmissirinn hlýtur að hafa orðið syninum unga, mun óefað hafa mótað hann og hert, enda var Guðmundur alla tíð mikill búforkur, jafnhliða því að vera afbragðs formaður á vetrarvertíðum um áratugi.
Storinyja-2Næsti bær við Hlíð í Selvogi, var Herdísarvík. Það gat því varla hjá því farið, að þau Kristín frá Herdísarvík og Guðmundur frá Hlíð kynntust. Tókust með þeim ástir þegar á unglingsárum. Og voru þau gefin saman í hjónaband í Krýsuvíkurkirkju af séra Eggert Sigfússyni á Vogsósum, þann 8. september 1895. Hún 18, en hann 29 ára að aldri. Eins og fram hefur komið, var Guðmundur í Stóra-Nýjabæ afburða búforkur og jafnhliða því mikill formaður. Gerði út bát frá Herdísarvík árum saman í félagi við Símon á Bjarnastöðum í Ölfusi og var ennfremur formaður í Grindavík í þrjár eða fjórar vertíðir fyrir Júlíus Einarsson, ættaðan þaðan.
Undirritaður ræddi við þau Nýjabæjarsystkini, Hrafnhildi Guðmundsdóttur og Sigurð Guðmundsson. Þau voru sammála um, að ekki hafi verið einmanalegt á heimili þeirra í Nýjabæ. Alltaf nóg að gera, segir Sigurður. Auðvitað gat það verið erfitt á stundum, t.d. var um fimm kílómetra gangur milli að Krýsuvíkurbergi og þangað þurfti oft að fara til fugla- og eggjatöku frá heimili þeirra og austur að Herdísarvík var vegalengdin um það bil 10 kílómetrar. Og sama var að segja um leiðina vestur að Ísólfsskála, hún er svo til jafn löng. Þessi nefndu býli voru næstu nábúar okkar og oft heimsótt, þegar vel stóð á, og veður hamlaði ekki, segir Sigurður að lokum.
Storinyja-3Það voru Nýjabæjarhjónin, frú Kristín Bjarnadóttir, heimasætan frá Herdísarvík og Guðmundur Jónsson frá Hlíð í Selvogi, sem lengst héldu út. Þau hófu búskap að Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík árið 1893 og fluttu þaðan alfarin 1933 til Hafnarfjarðar og bjuggu á Jófríðarstöðum 8B, allt til æviloka. Þegar á það er litið að Nýjabæjarhjónin þraukuðu lengst af við búskapinn í Krýsuvíkursókn, á erfiðleikaárum eftir fyrri heimsstyrjöldina, þá lýsir það skapgerð þeirra og dugnaði.
Í viðtali, sem Árni Óla átti við Guðmund árið 1932 segir svo: „Hlunnindi eru lítil, trjáreki er þó nokkur og eggja- og fuglatekja í Krýsuvíkurbjargi, en síga verður eftir hverju eggi og hverjum fugli. Í Geststaðavatni, sem er þar uppi í heiðinni, er dálítil silungsveiði. Var silungur fluttur þangað fyrir mörgum árum, að ráði Bjarna Sæmundssonar, og hefur hann þrifist þar vel. Það hefði einhverntíma verið kallað gott bú hjá bóndanum í Nýjabæ: 3 kýr, 14 hross og rúmlega 400 fjár framgengið. En hvað er gott bú nú?
Ég hefi reynt að halda í horfinu, segir Guðmundur, og búið hefur ekki gengið saman. En nú er svo komið, að það er einskis virði, nema það sem fæst af því til heimilisins. Í haust sem leið fékk ég 200 krónur fyrir jafnmargar kindur og lögðu sig á 1100 krónur á stríðsárunum. Ull og gærur telur maður ekki lengur. Fyrir 10 punda sauðagæru fékk ég t.d. kr. 1,50 í haust sem leið.”
Það var kreppan, sem skapaðist í heiminum eftir fyrri heimsstyrjöldina, sem svarf að Nýjabæjarheimilinu, eins og fleirum. En Guðmundur í Nýjabæ var ekki á þeirri reiminni að gefast upp, eða að óska eftir aðstoð. Ekki sótti hann um lán úr Kreppulánasjóði, og enga aðstoð þáði hann vegna ómegðar.
Þau Nýjabæjarhjónin komu öllum sínum sautján börnum vel til manns. Og öll urðu þau myndar- og dugnaðarfólk. Það verður að teljast þrekvirki.
Sautján afkomendur ög allt dugnaðarfólk. Það er hvorki meira né minna en ein til tvær skipshafnir. Hve mikils virði er það þjóðfélaginu, þegar að hjón frá afskekktu byggðarlagi skila slíku ævistarfi?”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 24. desember 1986, bls. 47.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.

Óbrennishólmi

FERLIR leitaði tófta næstelsta upplandsbæjar Krýsuvíkur, Gestsstaða. Elsti bærinn mun vera, að því er talið er, Kaldrani við suðvesturhorn Kleifarvatns.

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða í Krýsuvík – austan hálsa…

Þrjár heimildir eru um hvar tóttir Gestsstaða kunni að vera að finna. Sú yngsta segir að bærinn hafi verið undir Píningsbrekkum norðaustur af gróðurhúsunum sunnan Hettu, en engin ummerki eru á þeim slóðum. Hinum eldri heimildum tveimur ber saman, þótt orðaðar séu á mismunandi vegu. Þær kveða á um að bærinn hafi verið sunnan undir brekkunum sunnan Gestsstaðavatns, nálægt núverandi skólahúsi. Mikið landrof hefur orðið á svæðinu, en undir brekkunum eru tóftir bæjarins, á a.m.k. þremur stöðum. Megintóftirnar eru neðan við brekkurnar og er merki um Friðlýsar fornminjar í annarri þeirra. Þriðja tóftarsvæðið er uppi í Sveifluhálsi ekki langt frá. Þar er stök tóft og hleðslur ekki fjarri. Vel má sjá móta fyrir húsunum undir Gestsstaðavatnsbrekkunum. Þarna hafa verið nokkuð stór hús, en óvíst er um aldur þeirra.

Sængurkonuhellir

Sængurkonurhellir sunnan Lats.

Tilgangur ferðarinnar var einnig að skoða minjar í Óbrennishólma í Ögmundarhrauni í landi Grindavíkur. Á leiðinni var komið við í hlöðnu sæluhúsi undir Lat. Steinhella, sem notuð hefur verið sem hurð, var enn á sínum stað – til hliðar við dyraopið.
Í svo til beina stefnu á húsið eru merki um tillöguna að svonefndum Suðurstrandavegi í gegnum hraunið. Ef sú tillaga (sem fyrir liggur er þetta er skrifað) verður að veruleika mun vegurinn fara yfir húsið.

Gestsstaðir

Gestsstaðir – tóft utan í Sveifluhálsi.

Í Óbrennishólma var hinn forni garður skoðaður, stóra fjárborgin, sem hefur verið sú stærsta á Reykjanesi, minni fjárborgin skammt austar og ofar nýlegrar kvíar í hraunkantinum sem og forna garðhleðslan, sem hraunið hefur stöðvast við á leið sinni til sjávar. Óbrennishólmi auk Húshólma þarna skammt austar eru sennilega merkustu fornminjasvæði á landinu og jafnvel kunna að leynast þar fornminjar, sem breytt geta vitneskju manna um landnám á þessu landi, sem síðar var nefnt Ísland. Fyrirhugað er nú (gæti breyst) að leggja breiða hraðbraut í gegnum Hólmana með ófyrirséðum afleiðingum því svæðin hafa þrátt fyrir allt verið mjög lítið rannsökuð. Til að mynda er hvergi til vitneskja á einum stað um allar minjarnar, sem vitað er um í hólmunum.

Norðurkot

Norðurkot í Krýsuvík.

Í Húshólma, sem síðar verður skoðaður nánar, er þó vitað um fornu kirkjuna, sem talið er að hafi verið notuð eftir að Ögmundarhraun rann árið 1151, forna skálann, reyndar tvo eða þrjá, sem hraunið umlukti og enn má sjá leifar af, Kirkjuflötina, sem talið er að sé forn grafreitur, Kirkjulágina og forna garðinn, sem liggur á ská í gegnum hólmann, þvergarðinn og fjárborgina í honum ofanverðum – svo til í vegastæði fyrirhugaðs Suðurstrandavegar. Hins vegar liggur ekki fyrir vitneskja um tóttir syðst í hólmanum, sennilega tengt útræði á Seltöngum, en svo eru tangarnir nefndir utan hans við Hólmasundið.

Norðurkot

Norðurkot í Krýsuvík 1892.

Selatangar eru vestar á ströndinni þar sem verið hefur verstöð undir Katlahrauni og enn má sjá miklar leifar af. Þá liggur hvorki fyrir vitneskja um sýnilegar tóttir sels (stekks) efst í Húshólma né hringlaga garðlags austan undir Ögmundarhrauni þar sem Húshólmastígur liggur inn í Hraunið. Einnig mótar fyrir sporöskjulaga gerði í Kirkjuflötinni, sem gæti verið tóft, jafnvel kirkjunnar, sem menn hafa gefið sér að sé innar í hrauninu og fyrr var nefnd. Annars staðar í hrauninu má einnig sjá hleðslur fornra garða. Og án efa, ef svæðið yrði rannsakað betur, kæmu í ljós mun fleiri minjar, en þegar er vitað um að þar kunni að leynast.
Húshólmi og Óbrennishólmi eru því án efa einir af áhugaverðustu stöðum með tilliti til fornminja og sögu landsins.
Frábært veður.

Óbrennishólmi

Tóft í Óbrennishólma.

/https://ferlir.is/husholmi-ogmundarhraun/

Krýsuvíkurkirkja

Vegurinn var góður og umhverfið fagurt. Leiðin lá til Krýsuvíkur á einum af þessum björtu dögum í septembermánuði. Árið var 1995.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson. Myndin er tekin í Krýsuvík.

Ætlunin var að heimsækja Svein Björnsson, listmálara og fyrrverandi yfirlögregluþjón í Hafnarfirði, sem var búinn að koma sér fyrir í gamla bústjórahúsinu. Að öðrum ólöstuðum má segja að Sveinn hafi þá verið með litríkari einstaklingum samtímans, bæði til orðs og æðis.
“Það var mikið að þú lést sjá þig. Ég hélt að eitthvað hefði komið fyrir á leiðinni. Komdu inn. Það er að vísu enginn hiti í húsinu. Leiðslan bilaði einhvers staðar á leiðinni, en það er alveg sama. Gakktu inn fyrir”. Svenni stóð á inniskónum í dyrunum á blámálaða húsinu þegar rennt var í hlað. Hann hélt á járnspaða í annarri hendi og benti mér með hinni, án frekari orða, að fylgja sér innfyrir.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson – Jófríðastaðir.

Sveinn Björnsson listmálari og fyrrverandi yfirlögregluþjónn í rannsóknarlögreglunni í Hafnarfirði var greinilega glaðklakkanlegur þennan dag. Hann hafði strax boðist til að taka á móti mér þarna þegar ég óskaði eftir viðtali. Húsið, sem er í eigu bæjarins, hafði hann haft til afnota síðan árið 1974. Sjálfur hafði hann haldið því við eftir það, holufyllt, málað og látið skipta um glugga, en nú þurfti nauðsynlega að bæta um betur, skipta um járnið á þakinu, laga hitalögnina og múra í nokkrar frostsprungur. Sjálfur leit Sveinn hins vegar mjög vel út og var eldhress að vanda. Það var ekki að sjá að maðurinn væri orðinn sjötugur.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson – sjálfsmynd.

Sveinn var rjóður í kinnum. Það lá vel á honum. Hann hafði verið við veiðar í Hlíðarvatni um morguninn og veitt 7 punda bleikju, 64 sentimetra langa. Hann sýndi mér fiskinn.
“Þetta er flottur fiskur, finnst þér það ekki”, spurði Sveinn mig, potaði í hann og stoltið leyndi sér ekki. “Þeir veiðast ekki stærri í Hlíðarvatni. Heyrðu annars. Ég var búinn að tala um það við Ingvar bæjarstjóra að koma hingað upp eftir og líta á húsið. Heldurðu að það verði nokkuð mál að fá hann til að samþykkja svolítið viðhald. Kannski ekki mikið, en svona það allra nauðsynlegasta?” Hann beið ekki eftir svari. Hann var búinn að koma því á framfæri, sem hann ætlaði sér. Viðbrögðin áttu greinilega að vera undir mér komin – gagnvart öðrum en honum.

Ég fylgdi Sveini um húsið. Niðri voru vinnustofur. Rafmagnshitaofn var í gangi. Það var svolítið svalt í húsinu.

Sveinshús

Sveinshús.

Uppi var eldhúsaðstaða, bað, stofa og herbergi. Alls staðar var snyrtimennskan í fyrirrúmi. Fagurt útsýni var til allra átta – Gestsstaðavatnið fyrir aftan húsið, Grænavatn, Bæjarfell, Arnarfell, Geitahlíð, Stórihver eða Austurengjahver öðru nafni, Kleifarvatn, Hetta, Hnakkur og svona mætti lengi telja. Gamla fjósið blasti við í austri og nýja skólahúsið, sem nú er í umsjá Krísuvíkursamtakanna, í suðri. Í vestri lá gamli Sveifluvegurinn upp hálsinn, en hann var þar ósýnilegur öðrum en sem til þekktu. Þannig er það líka um svo margt.

Sveinn björnsson

Sveinn Björnsson við Indíánann í Kleifarvatni.

Eftir að Sveinn hafði sýnt mér nokkrar mynda sinna, bað hann mig um að doka svolítið við – þyrfti að ljúka við mynd, sem hann var að vinna að. Hann tók spaðann, sem hann hélt enn á, brá honum á tréspjaldið, hrærði saman nokkrum litum og renndi síðan yfir auðan blett á striganum. “Þetta er miklu fljótvirkara svona”, sagði hann, leit á mig og glotti. “Ég er alveg kominn yfir í þetta form. Hættur öðru”, bætti hann við, stóð kyrr og velti myndinni fyrir sér smástund. Síðan, snéri hann sér að mér aftur og bauð mér til stofu, hellti upp á kaffi og bar fram hjóna-bandssælu.
“Ég hef orðið fyrir miklum áhrifum af þessu landslagi skal ég segja þér og hef málað það mikið”, sagði Sveinn þegar hann sá að ég hafði verið að virða fyrir mér útsýnið.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson – sjálfsmynd.

“Ég var með hesta í Krýsuvík í gamla daga og þá kynntist ég landslaginu hérna fyrir alvöru. Síðar vann ég við að setja þakið á fjósið þarna. Það var ’51. Bærinn lét byggja þessi hús. Jón Hólmgeirsson ætlaði að hafa 200 rauðar beljur í fjósinu. Rauðar, já sjáðu, ég segi rauðar vegna þess að kratarnir stjórnuðu bænum. Þá var mjólkurhallæri. Þetta breyttist hins vegar allt í einni svipan þegar mjólkur-búinu var komið á laggirnar á Selfossi. Það gat auðvitað enginn séð fyrir.
Ég ætlaði að byggja vinnustofu við húsið mitt í Köldukinninni. Lét meira segja teikna aðstöðina og allt, en fékk ekki tilskilin leyfi. Hún þótti helst til of stór – bílskúr undir sjáðu til. Þeir héldu líklega að stofan yrði notuð undir verkstæði eftir minn dag. Kannski var þetta mér til góðs. Ég fékk augastað á bústjórahúsinu. Það átti að láta jarðýtu jafna það við jörðu á sínum tíma, en ég kom í veg fyrir það. Þegar ég fékk afnot af húsinu þurfti ég að byrja á því að moka út kindaskít og öðrum viðbjóði. Nú er þetta allt annað mál, sjáðu bara”, hélt Sveinn áfram og benti á þrifalega aðstöðuna.

Sveinn Björnsson

Við vettvangsstörf.

“Hér hef ég dvalið eins oft og ég hef getað. Mér líkar vel við vini mína og nágranna í skólahúsinu og það þótt þeir séu eiturlyfjasjúklingar. Þeir hafa ekkert gert mér og ég hef ekkert gert þeim. Maður má ekki líta niður á svona fólk. Allt of margir tala niður til þess. Það má ekki.
Þú spyrð að því hvenær ég fæddist. Það er nú langt síðan skal ég segja þér”, svaraði Sveinn hugsandi, dró fram eina pípuna og stakk henni upp í sig án þess að kveikja í. “Ég fæddist á Skálum á Langanesi 19. febrúar 1925. Móðir mín hét Sigurveig Sveinsdóttir og faðir minn Björn Sæmundarson. Þau skildu þegar ég var fimm ára. Við vorum þá fimm systkynin, ég næstelstur. Systir mín var eldri. Það er ástæðulaust að segja frá þessu öllu. Jæja, látum það flakka. Sjö og hálfsárs fluttumst við til Vestmannaeyja. Þar gekk ég í skóla. Fjórtán ára fór ég á vertíð til að létta undir með móður minni. Sextán ára réði ég mig á Skaftfelling svo ég gæti náð mér í tíma til að komast í Sjómannaskólann, fyrst sem kokkur og síðan sem háseti. Þetta var ekkert sældarlíf á þeim árum skal ég segja þér. Ungt fólk í dag hefði gott af að kynnast svolítið hvernig er að vinna við þær aðstæður.

Sveinn Björnsson

Sveinn með starfsfélögum sínum, Edda og Jóhannesi.

Árið 1947 kom ég fyrst til Hafnarfjarðar. Ég var þá í Sjómannaskólanum, en heimsótti stundum tvo bræður mína, sem voru við nám í Flensborgarskólanum. Ég kvæntist Sólveigu Erlendsdóttur og fluttist í bæinn. Fyrst bjuggum við að Hverfisgötu 47. Það var bara stutt. Ekkert vera að segja frá því. Síðan bjuggum við hjá Hákoni kennara að Sunnuvegi 6. Ég kláraði Sjómannaskólann þetta ár, fór beint út, sótti Faxaborgina og sigldi henni heim til Hafnarfjarðar. Þá reyndi á þekkinguna úr skólanum. Við eignuðumst þrjá syni, Erlend, Svein og Þórð. Sólveig lést fyrir nokkrum árum.
Ég ætlaði að verða skipstjóri – búinn að vera til sjós frá 14 ára aldri. En umskiptin urðu þegar ég var á Halamiðum 1948 og sá ísjakana. Þá byrjaði ég að teikna og mála. Þegar við komum í land eða þurftum að leita vars í fjörðunum fyrir Vestan dundaði ég mér við að teikna umhverfið. Þar er víða fallegt landslag. Úti á sjó var ég oftast í brúnni sem annar eða fyrsti stýrimaður og þá teiknaði ég karlana við störf á dekkinu á dýptamælispappírinn. Þess vegna eru margar mynda minna frá þessum tíma þannig að ég horfi yfir dekkið. Eitthvað af pappírnum endaði seinna á Akademíunni í Kaupmannahöfn.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson.

Gunnlaugur Scheving málari bjó þá að Sunnuvegi 5. Ekki minnkaði áhugi minn á myndlistinni við að kynnast honum. Eitt sinn þegar ég var úti á sjó sá hann nokkra mynda minna heima hjá konunni. Hann rammaði þær inn og sendi á sýningu í Noregi. Þar hlutu þær bara ágæta dóma. Þetta hvatti mig til dáða. Þegar ég var á Júlí var oft siglt með aflann. Í landlegum, sem urðu yfirleitt um tíu dagar, notaði ég tímann og málaði. Ég fór þá á milli á reiðhjóli, m.a. út á Hvaleyrina.

Ég var á sjónum til 1952. Þá sá ég að þetta gekk ekki lengur. Það þurfti einhvern veginn að kosta börnin í skóla. Þegar ég frétti af góðum vöktum í lögreglunni sá ég fram á að ef ég kæmist í liðið gæti ég málað á daginn. Fyrst fór ég þó sem sekjúrití upp á Keflavíkurflugvöll. Þar var starfið helst fólgið í að reka á brott kvenfólk. Þú mátt ekki skrifa um það. Árið 1954, árið sem þú fæddist, sótti ég um í lögregluna í Hafnarfirði ásamt öðrum. Við nefnum engin nöfn. Báðir fengum við inngöngu og áttum að verða nr. 6 og 7. Mig langaði að verða nr. 6, en varð nr. 7. Síðan hefur sú tala ávallt reynst mér vel.

Sveinn Björnsson

Eitt verka Sveins.

Mér líkaði strax vel í löggunni – gat málað á daginn, bæði fyrir og eftir næturvaktir. Þá vorum við 10 í liðinu. Jón Guðmundsson var yfirlögregluþjónn. Síðan tók Kristinn Hákonarson við af honum. Tíminn leið og ég var allt í einu orðinn nr. 1. Kristinn sá að einhvern lögregluþjón þyrfti til að taka skýrslur og benti á mig. Ég byrjaði 6 á morgnanna og var að til klukkan eitt. Þetta líkaði mér vel því ég hafði allan eftirmiðdaginn til að mála. Þá var engin aukavinna. Vinnan var fólgin í að skoða innbrotsstaði, yfirheyra þjófa og fá þá til að játa.

Sveinn Björnsson

Verk Sveins.

Síðar jókst umfangið. Kristinn lagði til að stofnuð yrði Rannsóknarlögregla Gullbringu- og Kjósarsýslu. Svæðið var frá Hafnarfirði upp í Botn í Hvalfirði, Seltjarnarnes, Grindavík og Njarðvík. Þegar Jóhannes kom til starfa með mér fórum við að vinna frá átta til fimm. Þetta var tími breytinga. Björn Sveinbjörnsson, settur sýslumaður fyrir Guðmund I. hafði góðan skilning á málefnum löggæslunnar á þessum árum. Þegar þriðji maðurinn, Eðvarð Ólafs., var ráðinn fór þetta fyrst að ganga. Bunkarnir voru teknir úr gluggakistunum og farið var að vinna í málunum. Þú mátt ekki hafa þetta eftir mér.

Hvaleyri

Hvaleyri – málverk Sveins Björnssonar.

Svo fengum við bíla til afnota. Stefán Gunnlaugsson, bæjarstjóri, var ansi skilningsríkur á störf lögreglunnar. Löggan var þá undir sveitarfélögunum sjáðu. Húsplássið, sem við vorum í við Suðurgötuna varð fljótt of lítið. Þegar ég byrjaði hafði verið útbúið herbergi sem áður hafði verið notað sem bað fyrir fangana og aðra sem vildu. Síðar fengum við afnot af sýslumannshúsinu við hliðina. Loks fluttum við upp á loft í því húsi. Það var gott að vera á loftinu. Bifreiðaeftirlitið var þá í suðurendanum niðri.
Hafnarfjörður
Ég fann mig ágætlega í rannsóknarlögreglunni. Mér fannst starfið spennandi. Þegar mikið var að gera lagði ég málaravinnuna á hilluna um tíma. Þá höfðum við öll hegningalögin, öll mannslát o.s.frv.

Sveinn Björnsson

Forstofan í Sveinshúsi.

Þau voru mörg málin sem við réðum til lykta á þessum árum. Og ég held að þau hafi ekki verið nema tvö sem við áttum eftir óleyst þegar ég hætti. Annað var sprengingin í hylnum í Botnsá og hitt var innbrotið í Golfskálann í Hafnarfirði. Ég þyrfti að ná í þá sem sprengdu hylinn. Í Golfskálanum stálu þjófarnir 20-30 flöskum af Ronrico víni og skemmdu heil ósköp. Ég reyndi mikið að upplýsa málið. Hafði njósnara út um allan bæ. Meira að segja Siggi sjaplín og Fiddi gátu ekki þefað góssið uppi. Fyrst þeir gátu það ekki er ég helst á því að þetta hafi verið einhverjir kunnugir sem hafi síðan sest einir að veigunum.

Krýsuvík

Bústjórahúsið (Sveinssafn).

Ég hef alltaf haldið því fram að það er ekki allra að verða góðir rannsóknarlögreglumenn. Það á bara ekki fyrir öllum að liggja. Áhugi og trúin að geta upplýst mál þurfa að vera til staðar. Hið sama á við um aðra lögreglumenn. Áður fyrr var mun betra samstarf með rannsóknarögreglumönnum og öðrum lögreglumönnum. Það skilaði líka meiri árangri. Ég tel að það sé betra að hafa fáa og samhenta menn við þessi störf en marga og sundurleita.
Ég náði fram bakvaktarálagi fyrir okkur rannsóknarlögreglumennina og það líkaði mér vel. Fulltrúarnir okkar stóðu jafnan með mér. Það var mikils virði. Þeir treystu mér – báðu ekki einu sinni um skýrslur. Við settum heldur menn aldrei inn nema að hafa rökstuddan grun. Þá beittum við reyndar svolítið öðrum vinnubrögðum. Nú má ekkert. Ég upplýsti mörg mál með aðferðum sem núna teljast til óhefðbundinna vinnubragða. Nú er búið að vernda afbrotamenn-ina.

Sveinn Björnsson

Sveinn í vinnunni.

Ég man eftir innbroti í Frostver. Þar var stolið einum 150 kjötskrokkum og 200 kg af smjöri. Þetta er til í skýrslum. Engin fingraför fundust skiljanlega í frystigeymslunum. Ég fékk lista yfir fyrrverandi starfsfólk og grunaði strax einn. Ég tók hann til yfirheyrslu og sá að hann var að ljúga. Ég hafði eitthvert sjötta skilningarvit sem hjálpaði mér oft að ráða mál farsællega til lykta.
Við boðuðum menn með reglulegu millibili í Stapann. Þar yfirheyrðum við þá eins og vitlausir menn og fórum svo. Þannig gekk þetta fyrir sig í þá daga.
Eitt skemmtilegt innbrot átti sér einu sinni stað í Njarðvíkum. Öllum launaumslögum hafði verið stolið þar frá Skipasmíðastöðinni. Jóhannes var þá nýbyrjaður. Hann fór með mér á staðinn. Rúða var brotin í útihurðinni. Það var eins og þjófurinn hefði verið með lopavettlinga. Inni fann ég einkennilegan leir undan skóm. Ég fór um allt þorpið að leita að samskonar leir, en fann engan. Við fórum heim. Síðar um daginn frétti ég af mönnum við vinnu uppi í heiði. Fór á staðinn og viti menn – þar var leirinn í skurði og sex menn að moka. Einn var með loðna sjóvettlinga. Hann þrætti. Ég dró hann upp á Keflavíkurflugvöll og stakk honum inn í geymslu. Síðan fór ég í kaffi.

Hafnarfjörður

Lögreglan í Hafnarfirði 1974.

Þegar ég tók manninn til yfirheyrslu byrjaði hann að svitna undir höndunum, en þrætti og þrætti. Ég hótaði að fara með hann í fangelsið í Hafnarfirði. Á Stapanum játaði maðurinn. Ég var þó orðinn svo þreyttur á honum að ég lét mig hafa það að fara með hann alla leið í Hafnarfjörð. Peningarnir fundust í eldhússkúffunum heima hjá manninum. Þetta sýnir að það er ekki öllum gefið að vinna með svona mál. Ég hitti þennan mann mörgum árum seinna þegar hann klappaði á öxlina á mér úti á götu. Hann sagðist aldrei hafa stolið eftir þetta.

Sveinn Björnsson

Sveinn með sportsfélögunum.

Árið 1974 kom upp stórt mál – smygl á 30 sjónvarpstækjum. Ég og Magnús Magnússon rslm í Reykjavík voru sendir til New York. Tilgangur ferðarinnar var að finna loftskeytamann á Dettifossi sem átti að vera þar. Hann var talinn eiga lista yfir þá sem keyptu sjónvörpin hér á landi. Þegar komið var til N.Y. var sagt að skipið væri í Norfolk. Við flugum til Washington. Á leiðinni var brjálað veður. Magnús varð hvítur í framan. Þegar ég sá það hallaði ég mér að honum og sagði honum að vera alveg óhræddur. Mér hefði verið spáð að ég yrði a.m.k. 95 ára og því væru engar líkur á að þessi flugvél færi niður. Ég held bara að Magnúsi hafi bara létt við þessar fréttir.

Sveinn Björnsson

Málverk Sveins.

Í Washington tóku á móti okkur þarlendir rannsóknarlögreglumenn. Athygli mína vakti að þeir fengu enga yfirvinnu greidda, en fengu frí á móti. Það kerfi hefði ég viljað sjá hérna. Jæja, í Norfolk fengum við ekki að fara um borð í Dettifoss heldur fór lögreglumenn um borð í skipið með alvæpni og komu til baka með loftskeytamanninn. Við yfirheyrðum hann í tvo tíma og sendum skeyti heim. Skipstjóranum hafði verið stungið inn heima og átti að losna þar eftir tvo tíma, en var haldið lengur eftir að skeytið barst frá okkur. Á heimleiðinni dró ég Magnús með mér á listasöfn í N.Y.

Sveinshús

Eitt listaverka Sveins Björnssonar.

Þegar heim kom hófst puðið. Ég fyllti fangelsið í Hafnarfirði og Magnús stakk einhverjum inn í Reykjavík. Þetta voru allt vel efnaðir menn – forstjórar, framkvæmdastjórar og skipstjórar. Við fundum öll sjónvörpin eftir listanum. Sum voru geymd uppi á háalofti hingað og þangað. Ekki búið að setja þau í samband, sennilega vegna hræðslu. Á listanum voru númerin á sjónvarpstækjunum – allt Normandí. Þegar ég var að setja eitt tækið inn í Vauxhall Vivu, sem við höfðum, sparkaði eigandinn í tækið af einskærri reiði. Ég brást líka reiður við og spurði hvort hann ætlaði virkilega að valda skemmdum á eigum hins opinberra. Maðurinn varð klumsa og hætti.

Sveinn Björnsson

Málverk Sveins Björnssonar.

Árið áður hafði miklum verðmætum verið stolið frá Ulrich Falkner, gullsmið í Reykjavík. Við upplýstum málið þremur árum seinna og 24 önnur innbrot að auki – 14 í höfuðborginni, eitt hjá sýslumannsskrifstofuna á Seltjarnarnesi og hin í Hafnarfirði. Í innbrotinu hjá lögreglunni á Seltjarnarnesi var m.a. stolið skammbyssu og riffli. Þjófarnir höfðu tekið þjófavarnarkerfið úr sambandi. Við fórum að leita. Athygli okkar beindust að strákum sem voru að rúnta á nóttunni. Fundum kúbein hjá einum þeirra. Það passaði við skápana, sem brotnir höfðu verið upp á stöðinni. Fimm voru handteknir. Tveir voru aðalmennirnir, en hinir meðreiðarsveinar. Mikil vinna var að fá þá til að játa innbrotið og rekja mörg önnur mál, sem komu smám saman fram og tengdust málinu, þ.á.m. gullþjófnaðurinn. Í ljós kom að piltarnir höfðu m.a. stolið 5 milljónum frá Olíufélagi Íslands í Hafnarstræti. Peningana höfðu þeir lagt inn á bankabók í Landsbankanum. Ég fann bækurnar heima hjá öðrum þeirra.

Sveinn Björnsson

Vinnustofan í Krýsuvík.

Hefurðu ekki bankahólf, spurði ég. Jú, það var. Ég fékk leyfi hjá sýslumanni til að brjóta upp hólfið þar sem þjófurinn sagðist hafa týnt lyklinum. Fjöldi manns fylgdist með. Þegar hólfið opnaðist blöstu við gullstangir og skartgripir upp á 7 milljóna króna. Falkner hrópaði ég. Menn héldu að ég væri að verða vitlaus. Rannsóknarlögreglan í Reykjavík vildi fá málið, en ég fór með allt í Hafnarfjörð. Falkner var svo ánægður því hann hafði verið grunaður um að hafa stolið þessu sjálfur. Hann gaf okkur sitthvort gullúrið. Ég tók þó ekki við því fyrr en ég hafði borið málið undir sýslumann.

Sveinn Björnsson

Sveinn að störfum við Kleifarvatn.

Að þessu sinni upplýstist einnig innbrot í sprengiefnageymslur Reykjavíkurborgar. Sprengiefnið og hvelletturnar fundust undir háspennulínunni við Straumsvík. Skammbyssan fannst undir mosa í Hafnarfjarðarhrauni. Piltarnir höfðu sprengt eina túpu á Seltjarnarnesi til að stríða Bjarka. Þú mátt ekki hafa það eftir mér. Að öðru leyti höfðu þeir ekki gert sér grein fyrir hvað þeir ætluðu að gera með sprengiefnið. Þá höfðu þeir útbúið sérstaka sög til að saga peningaskápa. Það var reyndar eins gott að þeir notuðu hana ekki því þeir hefðu eflaust drepið sig á því.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson – sjálfsmynd.

Rannsóknarlögreglan í Hafnarfirði var tekin úr leik með lögum nr. 108/1977. Með þeim var kippt undan okkur fótunum. Fulltrúarnir reyndu að gera okkur hluta að RLR, en það var ekki tekið í mál. Ég var sendur með bréf til Hallvarðs ríkisrannsóknar-lögreglustjóra, en hann varð bara rauðari og rauðari eftir því sem hann las meira í bréfinu. Þegar ég sá hvert stefndi sá ég mitt óvænna og hvarf á braut. Síðan höfum við verið í dótaríi. Við fengum að vísu aftur bílslysin og sjóréttarmál, en hvað er það? Kosturinn var hins vegar sá að nú gat ég snúið mér meira að málaralistinni. Starfið varð hundleiðinlegt eftir breytinguna. Ég hékk þó í þessu, en það var lítið spennandi. Ég hætti 19. febrúar s.l. þegar ég varð sjötugur. Mig langaði að hætta fyrr, en fékk mig ekki til þess bara til að stríða dómsmálaráðuneytinu svolítið.

Sveinn Björnsson

Erlendur Sveinsson með eitt verka föður síns.

Eitt sinn þegar ég var á mínum síðasta yfirlögregluþjónafundi kom slompaður deildarstjóri í ráðuneytinu til mín og spurði hvenær ég ætlaði að hætta. “Varstu beðinn um að spyrja að því”, spurði ég. ”
“Já”, svaraði hann.
“Segðu að þú hafir ekki fengið að vita það”, sagði ég þá. Ég held bara að hann hafi skilið sneiðina.
Eitt sinn þegar Þórður sonur minn var að útskrifast úr lögfræðinni notaði ég tækifærið og hélt stutta ræðu. Ég sagðist ætla að vona að hann Þórður minn yrði aldrei lærður lygari. Það sló þögn á hópinn, þar á meðal nokkra viðstadda lögfræðinga. Þórður var ekki par ánægður, en ég er vanur að segja það sem mér finnst.

Sveinn Björnsson

Í Sveinshúsi.

Mér líkar ekki allskostar við dómsmálin í dag. Mér líkar ekki að lögreglumennirnir þurfi alltaf að vera með sömu afbrotamennina í höndunum. Þeir fá að safna innbrotum og fá enga dóma. Ég er svektur yfir þessari þróun mála í dómskerfinu. Það vantar unga menn sem þekkja lífið í dag og það þarf að taka meira mark á lögreglumönnum en gert hefur verið. Ef eiturlyfjasalarnir hefðu strax fengið stranga dóma væri ástandið annað og betra en það er í dag. Þá hefðu þeir skilið alvöruna. Allt snýst orðið um peninga á Íslandi. Enginn má segja sannleikann. Sá sem það gerir er bannfærður. Lögreglan er svelt og afleiðingarnar eru eftir því. Þetta er hryllingur og ég vorkenni lögreglumönnum sem þurfa að standa í þessu.

Sveinn Björnsson

Úr eldhúsi Sveins í Krýsuvík.

Ég álít að þessi lög nr. 108 hafi verið mjög slæm. Þau tóku verkefni frá ýmsum rannsóknarlögreglumönnum út um allt land, áhugi þeirra minnkaði og gert var lítið úr þeim óbeint. Ég hef alltaf haldið því fram að þetta hafi verið vond lög, enda skilst mér að þeim verði nú loks breytt – hegningarlögin fari heim í hérað aftur.

Sveinn Björnsson

Málverk Sveins.

Mér finnst að yfirvöld hafi ekki staðið sig nógu vel í stykkinu upp á síðkastið. Fólk ber ekki lengur respekt fyrir lögunum. Því miður – svona er þetta bara orðið. Skilaðu samt góðri kveðju til félaganna og segðu að ég biðji að heilsa”.
Það var liðið á kvöldið þegar ég kvaddi Svein utan við bústjórabústaðinn í Krýsuvík. Honum var greinilega ekki eins leitt og hann lét – enda maðurinn með bjartsýnni mönnum landsins.
Sveinn Björnsson lést 28. apríl 1997, sjötíu og tveggja ára að aldri. Þann 1. júlí það ár tóku gildi ný lögreglulög, sem færðu rannsóknir allflestra afbrota “heim í héruð”.

Birtist í Lögreglumanninum, 3. tbl. 1995.
-Viðtalið tók Ómar Smári Ármannsson.

Bústjórahúsið

Sveinshús í Krýsuvík (bláa húsið).

Krýsuvík

Eftirfarandi grein birtist í Alþýðublaðinu árið 1951.

Krýsuvík

Drengir úr Vinnuskólanum á göngu – HH.

KRÝSUVÍK er eitt þeirra hverasvæða Iandsins, sem mestar framtíðarvonir eru við bundnar, og mestar tilraunir hafa verið gerðar á með virkjun fyrir augum. Í eftirfarandi grein, sem tímarit ungmennafélaganna, „Skinfaxi” birti fyrir nokkru og byggð er á upplýsingum Jens Hólmgeirssonar, bústjóra í Krýsuvík, varðandi gróðurhús og búskap, og Valgarðs Thoroddsen, rafveitustjóra í Hafnarfirði, varðandi jarðboranir og raforkuframkvæmdir, er gerð allítarleg grein fyrir því, sem gert hefur verið í Krýsuvík.
Á SÍÐARI ÁRUM hefur margt og mikið verið rætt og ritað um framkvæmdir Hafnarfjarðarkaupstaðar í Krýsuvík. Verður hér stuttlega skýrt frá því, sem þegar hefur verið gert þar og helztu fyrirætlunum. Krýsuvík liggur um miðbik Reykjaness að sannanverðu, milli Grindavíkur og Herdísarvíkur, en suðvestan við Kleifarvatn. Fyrr á tímum var þar höfuðból með sex hjáleigum, og um síðustu aldamót lifðu bar um 40 manns. Var sauðfjárræktin undirstaða búskaparins þar og sömuleiðis sjósókn. —
Síðan tók fólki stöðugt  að fækka Seltúnog byggðin að eyðast. Olli því að sjálfsögðu breyttir búskaparhættir og þjóðarhættir, og auk þess samgönguleysi. Kom þá að lokum að aðeins einn maður dvaldi í Krýsuvík, og hafðist hann við í leifum af kirkjunni. Leið þó ekki nema einn vetur, að mannlaust væri í Krýsuvík, áður en starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar settist þar að.
Hafnarfjarðarbær fékk eignarrétt á ræktunarlandi og hitasvæði í Krýsuvík árið 1937. Undirstaða framkvæmda þar hlaut að teljast vegarlagning þangað, en lög um Krýsuvíkurveg höfðu verið samþykkt á alþingi árið 1936. Síðan sá vegur tengist Suðurlandsundirlendinu, hefur hann komið í góðar þarfir á vetrum, — ekki hvað sízt á síðastliðnum vetri.
— Milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur eru 25 km. Framkvæmdir í Krýsuvík eru þríþættar, og hafa þessir þrír þættir frá upphafi verið aðskildir, þótt á síðasta ári hafi tveir þættirnir verið sameinaðir undir eina stjórn. Þessir þrír þættir eru: Ræktun í gróðurhúsum, grasrækt og kúabúsframkvæmdir og boranir eftir jarðhita.

GRÓDURHÚS
Vegna jarðhitans eru skilyrði til ræktunar í gróðurhúsum ótakmörkuð í Krýsuvík. Nú eru gróðurhúsin orðin fjögur, og eru ca. 1600 ferm. undir gleri. Tvö þessara gróðurhúsa (600 ferm.) voru tekin í notkun vorið 1949, en hin tvö er verið að ljúka við. Í gróðurhúsunum eru einkum ræktaðir tómatar, agúrkur, gulrætur” cg blóm. Í sambandi við gróðurhúsin er auk þess hálfur hektari útiræktar, þar sem gert er ráð fyrir að rækta alls konar grænmeti.
Jarðhitinn, sem gróðurhúsin eru hituð Krýsuvíkmeð, er gufa, og er hún leidd í þró. þar sem katli hefur verið komið fyrir, og hitar gufan þannig vatnið í hitakerfi gróðurhúsanna, en það er venjulegt miðstöðvarkerfi. Í sambandi við gróðurhúsin hafa verið reist tvö íbúðarhús, ca. 360 ferm. að grunnflatarmáli, fyrir bústjóra og starfsfólk. Eru í húsunum öll þægindi, vatnsleiðsla, skolpræsi og rafmagn frá díselrafstöð.

BÚSKAPUR
í Krýsuvík eru ca. 300 ha. ræktanlegt graslendi, en auk þess melar, sem e. t. v. mætti rækta með sérstakri aðferð. Kom fljótt til tals að setja þarna á fót stórt kúabú, er jafnan gæti séð Hafnfirðingum fyrir ferskri og góðri barnamjólk. Á þessum grundvelli KRÝSUVÍK er eitt þeirra hverasvæða Iandsins, sem mestar framtíðarvonir eru við bundnar, og mestar tilraunir hafa verið gerðar á með virkjun fyrir augum.
Gosið úr nýjustu borholunni í Krýsuvík. hafa verið hafnar allmiklar búskaparframkvæmdir, þótt enn megi þær teljast á byrjunarstigi. Þegar hafa verið brotnir um 30 ha. lands, en vinnslu er misjafnlega langt á veg komið. Undirbúningur hefur verið undir Í fjósinugrasfræssáningu á þessu vori.
Grafnir hafa verið 8 km. langir opnir skurðir til landþurrkunar, en ca. 45 km. löng lokræsi (kílræsi). Tveir súrheysturnar hafa verið reistir. Eru þeir 5 m. í þvermál og 14 m. háir. Fjós fyrir 154 kýr og tilheyrandi ungviði er komið undir þak. Hér er komið framkvæmdum í búskaparmálum í Krýsuvík, en um framhaldið verður ekki sagt á þessu stigi málsins. Það er rétt að geta þess, að í Krýsuvík er mjög votviðrasamt, og verður því naumast gerlegt að vera háður náttúrunni með verkun á heyi. Gera má ráð fyrir, að þarna mætti hafa um 300 kýr. Öll mannvirki, sem hingað til hafa verið reist í Krýsuvík, bæði vegna rætkunar í gróðurhúsum og fyrirhugaðs búskapar, eru hin vönduðustu og af fullkomnustu gerð.

BORANIR EFTIR JARÐHITA
í Krýsuvík er eitt mesta jarðhitasvæði á landinu, enda ber Reykjanesskaginn allur ljósar menjar mikilla jarðumbrota og eldgosa. —Festi Hafnarfjarðarbær ekki hvað sízt kaup á Krýsuvík vegna jarðhitans, enda hafa yfrin nýjar vonir til hans staðið og standa enn. Fyrstu jarðbornir í Krýsuvík voru framkvæmdar af rannsóknaráði ríkisins árið 1941 og 1942. Var þá borað við
suðurenda Kleifarvatns. Þetta var aðeins gert í rannsóknarskyni til þess að kynnast jarðlögum. Festust borarnir tíðum, og engin gufa kom. Næst var borað 1945. Rafmagnseftirlit ríkisins hafði þær boranir með höndum, einnig í tilraunaskyni. Borað var við svonefndan Austurengjahver í Seltúni [??].

Seltún

Jarðborar voru grannir. Nokkurt gufumagn kom þó, en þar sem borrásir voru þröngar stífluðust þær fljótt, enda var hér um rannsókn að ræða.
Haustið 1948 var Ólafur Jóhannsson úr Hveragerði fenginn til að bora eftir gufu vegna væntanlegra gróðurhúsa. Þá voru boraðar 3 holur, ein með allgóðum árangri, og er íbúðarhús starfsfólks gróðurstöðvarinnar hitað með gufu þaðan.
Um áramótin 1946 og 47 tók til starfa í Krýsuvík nýr jarðbor, sem Hafnarfjarðarbær hafði keypt, en Rafveita Hafnarfjarðar var falið að annast rekstur hans. Þessi bor er fallbor, en fram til þess höfðu verið notaðir snúningsborgar. Fallborar geta borað víðaðri holur en snúningsborar, þótt vélaorkan, sem knýr þá, sé hin sama. Enn fremur er minni festuhætta fyrir þá gerð. en áður hafði það tafið mikið, hve borar vildu festast.

Seltún

Með fallbornum var fyrst borað vegna gróðarstöðvarinnar, skammt frá henni. Sú borhola mistókst. Var þá horinn fluttur í svonefnt Seltún og byrjað að bora með tilliti til væntanlegrar raforkuvirkjunar. Meðan á því stóð var aftur fenginn bor frá rafmagnseftirliti ríkisins til þess að bora uppi í fjallinu ofan við gróðurstöðina, í svonefndum Hveradölum.
Voru þær boranir vegna gróðurhúsanna og gáfu nægjanlegt gufumagn fyrir þau eins og þau voru þá. — Þessar holur hafa þó stíflazt, og hefur fallborinn þá verið fluttur upp í Hveradalina til bess að bora upp þessar sliflur. Enn fremur hafa víðari holur verið boraðar með fallbornum í Hveradölum, sem heppnazt hafa, og gefa þær samtals um 10 tonn af gufu á klst. Gufumagn, sem fyrir hendi er úr borholum í Hveradölum, er þrefalt meira en gróðurstöðin þarfnast, eins og hún er nú. Í Seltúni hafa borarnir gengið upp og ofan, enda er jarðvegur í Krýsuvík sérstaklega erfiður viðfangs fyrir jarðboranir.

Seltún

Með fenginni reynslu tókst þó að endurbæfa svo borvélina á síðastliðnu ári, að borun höfð gengið mun greiðar en áður. Hefur nú tekizt að bora allt að 13 m. á dag, en stundum áður varð ekki komizt nema nokkra centimetra niður á degi hverjum. Það var 12. sept. síðastl., að verulegur árangur varð af borunum í Seltún. Þá kom skyndilega gos úr holu, sem verið var að bora og orðin var 229 m, djúp. Hola þessi er fóðruð með 8 Baðstofatommu víðum járnpípum 100 m. niður. Gosið hefur sífellt haldið áfram. Í ráði er að virkja þarna í Seltúni og hefur ýmsum fyrirtækjum í Evrópu og Bandaríkjunum verið send greinargerð um þetta efni og óskað eftir tilboðum um vélar og tæki. Komið hefur í liós, að ítölsk og svissnesk fyrirtæki ein telja sig geta sinnt svo sérstæðu verkefni, sem hér um ræðir. Stendur Rafveita Hafnarfjarðar nú í sambandi við ítölsk fyrirtæki varðandi þessi mál.”
Þrátt fyrir stóra drauma og mikil áform varð allt að engu. Má að mörgu leyti líkja framangreindu við það sem nú er að gerast varðandi virkjunaráform í Eldvörpum – stórhuga framkvæmdarmenn blása tímabundið litlumhjarta stjórnmálamönnum ofgnótt í brjóst, en landið; náttúran, á ávallt síðasta orðið til lengri tíma litið. Hún talar gjarnan sínu máli sjálf, nú sem fyrrum.

Heimild:
-Alþýðublaðið – fimmtudagur 20. sept. 1951, bls. 5.
-Alþýðublaðið – sunnudagur 8. september 1957.Krýsuvíkurkirkja