Tag Archive for: Langeyri

Hausastaðaskóli

Gengið var um Langeyri og Malir, skoðaðir gamlir fiskreitir og síðan haldið út með ströndinni með Bala, Dysjum og Görðum. Gengin var Lindargata að Garðalind og síðan út á Hliðsnes og að Hausastaðaskóla.

Langeyri

Langeyri og nágrenni – örnefni.

Langeyri var upphaflega tómt hús í landi Garðakirkju sem stóð autt árið 1703 vegna aflabrests. Þegar fríhöndlunin gekk í garð 1787 lögðu danskir lausakaupmenn Langeyri undir sig og reistu sér íbúðarhús og vöruskemmur. Örnefnið Rauðhúsnef er frá þeim tíma er rauðlituð dönsk hús stóðu við tangann er kallast í dag Rauðsnef. Þar var í eina tíð hvalstöð sem lagðist niður þegar alvarlegt slys varð í stöðinni. Núverandi Langeyrarbær var byggður árið 1904 og telst vera dæmigerður hafnfirskur hraunbær af stærri gerðinni.

Fagrihvammur

Fagrihvammur.

Nokkru vestar eru fleiri gömul hús Eyrarhraun, Fagrihvammur og steinbærinn Brúsastaðir. Utar taka við Brúsastaðamalir eða Litlu-Langeyrarmalir og Skereyrarmalir. Hér voru fyrirtaks malir fyrir smábáta sem þurftu ekki að fara djúpt til að afla vel.
Finna mátti samskonar malarkamba inn eftir öllum Hafnarfirði í aldarbyrjun. Langeyrarmalir voru lengstar malanna og hér reisti August Flygenring fiskvinnsluhús 1904. Malirnar voru mikið athafnasvæði og var saltfiskur breiddur til þurrkunar á góðviðrisdögum á fiskreitum í hrauninu sem enn sést móta fyrir, t.d. utan við beygjuna neðan við Eyrarhraun.

Allians

AllianZ-fiskreitur við Hrafnistu. Var eyðilagður er viðbygging var gerð.

Fiskverkunarhúsin voru rifin á níunda tug 20. aldar. Líklegt er að þessir fiskreitir verði eyðilagðir innan skamms vegna fyrirhugaðra byggingaframkvæmda á svæðinu. Allians-reiturinn, sem var þarna skammt ofar, var t.d. rifinn uppá einum degi þegar síðast var byggt við Hrafnistu. Í rauninni virðist það hafa verið óþarfa eyðilegging ef tekið er mið af byggingunni, sem reist var á svæðinu. Í rauninni hefði verið táknrænt að vernda þennan gamla fiskreit svo til við gaflinn á þessu dvalarheimili aldraðra sjómanna.

Langeyri

Langeyri og nágrenni – Loftmynd 1954. Fiskreitir víða.

Þegar saltfiskverkun var sem mest í bænum á fyrrri hluta 20. aldar var fjöldi fiskreita og stakkstæða um allan bæ þar sem fiskurinn var breiddur og þurrkaður. Það er enn hægt að skoða fagurlega hlaðna fiskreiti á nokkrum stöðum í bænum þó mjög hafi verið þrengt að þeim. Alliansreitur (stundum nefndur Allanzreitur) er sunnan Hrafnistu. Hann er kenndur við Allen Major, framkvæmdastjóra hinna ensku Hellyers bræðra sem stunduðu útgerð frá Hafnarfirði 1924 – 1929. Annar þekktur fiskreitur var Einarsreitur, sem Einar Þorgilsson útgerðarmaður og kaupmaður lét útbúa, er á svæðinu milli Arnarhrauns, Smyrlahrauns, Álfaskeiðs og Reykjavíkurvegar.

Einarsreitur

Einarsreitur.

Byggð hefur verið í landi Garðabæjar frá landnámstíð og er talið að núverandi landsvæði bæjarins hafi tilheyrt þremur mönnum. Vestasti hlutinn hafi verið land Ingólfs Arnarsonar, landið í kringum Vífilsstaði í eigu Vífils, leysingja Ingólfs, og syðsti hlutinn í eigu Ásbjarnar Özurarsonar, sem Landnáma segir að hafi fengið land á milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt og bjó á Skúlastöðum. Talið er að Skúlastaðir hafi annað hvort verið þar sem nú eru Bessastaðir eða þar sem nú er kirkjustaðurinn Garðar á Álftanesi en við hann er Garðabær kenndur.

Hausastaðaskóli

Minnismerki við Hausastaðaskóla.

Minnismerki stendur nú þar sem Hausastaðaskóli var. Enn má sjá tóftir hans. Skólinn var annar fyrstu skóla á Íslandi fyrir börn og unglinga á aldrinum 6-17 ára. Skólinn starfaði á árunum 1792-1812. Skólinn var stofnaður handa fátækum börnum sem fengu ekki tækifæri til að læra. Það voru bæði strákar og stelpur í skólanum sem þótti merkilegt því stelpur gengu ekki í skóla þá. Fyrst í stað voru 6 stelpur og 6 strákar en þeim fjölgaði fljótlega. Eftir 1804 fækkaði þeim aftur. Markmið Hausastaðaskóla var ekki bara að lesa, skrifa og reikna, heldur líka að ala upp fátæk börn. Minnisvarði um Hausastaðaskóla var reistur árið 1979.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Sjá meira um Hausastaðaskóla HÉR.

Heimild m.a.:
-http://www.gardabaer.is/default.asp?cat_id=69
-http://www2.hafnarfj.is/hafnarfj.nsf/pages/merkir_stadir
-Jón Skálholtsrektir – minning um Jón Þorkelsson Thorkillius, Rvík 1959.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli.

Brúsastaðir

Í skráningarskýrslu um „Fornleifar milli Skerseyrar og Langeyrar“ árið 1998 segir m.a.:

„Skráningin afmarkast af Flókagötu og Hjallabraut, Skjólvangi að norðan, bæjarmótum við Garðabæ að vestan og sjó að sunnan.

Fornleifar í Hafnarfirði milli Skerseyrar og Langeyrar

Langeyri

Langeyri og nágrenni.

Svæði það sem hér er birt skýrsla um er í útjaðri Hafnarfjarðarkaupstaðar, á mörkum landbúnaðarhverfisins í kringum Garða og kaupstaðarins sem breiddist út frá botni fjarðarins frá því seint á 17. öld. Stærsti hluti svæðisins er úfið en þó víða gróið hraun og eru mannvistarleifar fyrst og fremst meðfram sjónum. Landið tilheyrði upphaflega Görðum en ekki er vitað um búsetu á því fyrr en undir lok 17. aldar að býli var reist á Skerseyri. 1703 er auk þess getið um einar sjö þurrabúðir á svæðinu sem virðast hafa verið í óstöðugri byggð og virðist sem þær hafi alla verið byggðar eftir 1650 (JÁM X, 178). Vitað er að1670 voru allar þurrabúðir norðan við Hafnarfjarðarkaupstað í eyði (SS Saga Hafnarfjarðar, 192). Vera má að útræði frá þessum stað með tilheyrandi kotbúskap hafi ekki hafist að marki fyrr en kaupstaðurinn var fluttur frá Hvaleyri inn í fjörðinn eftir 1667.

Hafnarfjörður

Herforningjaráðskort; Hafnarfjörður og Álftanes 1903.

Frá þeim tíma virðist þó sennilegt að búskapur hafi verið af og til á stöðum eins og Brúsastöðum, Eyrarhrauni og Langeyri. Þessi bæjarstæði gætu því verið allfornar þurrabúðir þó ekki hafi ritheimildir varðveist um það. Þurrabúð hafði verið á Langeyri um langt skeið er verslunarhús voru reist þar 1776. Föst verslun mun þó ekki hafa verið rekin þar eftir 1793 en á 19. öld risu kotbýli á svæðinu auk Skerseyrar og Langeyrar: Gönguhóll, Eyrarhraun og Brúsastaðir. Hvalstöð virðist hafa verið reist á Rauðsnefí um 1860 en starfaði ekki lengi.

Langeyri

Langeyri og nágrenni – Loftmynd 1954.

Um aldamótin 1900 voru risin fiskverkunarhús á Fiskakletti og í kjölfarið byggðist upp fiskverkunarðastaða á Langeyrarmölum og allmargir fískreitir voru gerði í hrauninu ofanvið á fyrstu árum 20. aldar. Þetta svæði hefur þó lengstaf verið á jaðri bæjarins og fyrir utan Langeyrarmalir hafa helstu umsvif þar á 20. öld tengst búskap í smáum stíl, en langt fram eftir þessari öld áttu margir bæjarbúar nokkrar kindur í kofum í útjöðrum bæjarins. Íbúðabyggð hefur ekki orðið á skráningarsvæðinu nema á hrauninu norðaustantil (við Sævang) en þar hefur verið lítið um eldri mannvirkjaleifar.

Skerseyri

Skerseyri – túnakort 1903. Hér má bæði sjá sjávargötuna upp með Bala og gamla Garðaveginn (kirkjugötuna frá Hafnarfirði).

Engu að síður hefur verið töluvert rask á svæðinu, tengt ýmisskonar framkvæmdum síðustu áratugi og er sáralítið eftir af fornum mannvirkjum þar. Einkenni fyrir svæði eru gtjóthleðslur frá ýmsum tímum, sem finna má mjög víða, og er oft ógerlegt að segja hvort þær eru fornar eða aðeins nokkurra ára gamlar.
Upplýsingar um minjastaði eru fengnar úr rituðum heimildum, einkum gömlum kortum, örnefnaskrám og skjölum prentuðum í Sögu Hafnarfjarðar.

Garðar

Garðar

Garðar og nágrenni.

Hafnarfjörður á 16 ha þríhyrning úr landi Garða, frá gömlu marklínunni í átt að Álftanesvegi, þar sem nú er hluti ad Norðurbænum í Hafnarfirði. Görðum tilheyrir landið sjávarmegin við Hafnarfjarðarveg inn að Arnarneslæk sem ræður til sjávar. Ö-Garðahverfi, 2.

Bali

Balavarða (landamerkjavarða).

Er Hafnarfjarðarkaupstaður var stofnaður 1907 voru honum ákveðin norðurmörk: “Úr sjó utanvert við Balatún, sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur. Eftir þeim vegi í Engidal. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur á móts við austurhorn Hraunholtstúns …“ (ÁG Saga Hafnarfjarðar 1, 101).
Land þetta tilheyrði þó Garðastað eftir sem áður en 1912 keypti Hafnarfjarðarkaupstaður það mestallt og heimilaði Alþingi það með lögum nr. 12, 22.10.1912 með þessum merkjum: “Bein lína úr Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar í veginn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur, þar sem hann fer að fara lækkandi frá norðurbrún hraunsins. Þaðan bein lína í Hádegishól, hádegismark frá Hraunsholti, nálægt í hásuður frá bænum, spölkorn frá hraunjaðrinum. ..“ Hamarskotstún var eftir sem áður eign Garðastaðar (ÁG Saga Hafnarfjarðar 1, 102-104).
1703: “Úthagar nálægt heimastaðnum eru bæði þröngvir og snögglendir.“ JÁM IT, 181.

Skerseyri

Skerseyri

Tóftir Skerseyrar.

1703 segir um Skerseyri: “Hjáleiga í Garðastaðarlandi hjer um XX ára gömul“ og hefur þetta býli samkvæmt því fyrst byggst eftir 1680 — JÁM X,178-179. 2 heimili með 6 og 2 mönnum voru á Skerseyri 1801 en 1816 var þar aðeins eitt heimili með 4 mönnum. Skerseyri er talin meðal býla í sóknarlýsingu frá 1842.
Samkvæmt manntali 1845 voru enn 4 til heimilis á Skerseyri. Samkvæmt manntali 1901 bjuggu 5 heimilismenn þar. Haustið 1902 var Skerseyri í eyði en byggðist þó aftur skömmu síðar. “Skerseyrartún: Næsta býli við Litlu|-Langeyri. Þar var kýrgras eitt sinn og býlið hjáleiga frá Görðum. Skerseyrartúngarður. Hann lá um túnið. En við sjó horfinn í Mölina.“ segir í örnefnalýsingu.

Langeyri

Langeyri

Síðasta íbúðarhúsið á Langeyri.

Hjáleiga frá Görðum. Garðakirkjueign. “Langeyri var fyrrum þurrabúð, en á síðara hluta 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar var rekin þar verslun …“ SS: Saga Hafnarfjarðar, 408. Í jaraðbókum 1760 og 1802 er getið um smábýlin Langeyri, Bala og Skerseyri en 1842 er í skýrslu sóknarprests aðeins getið um Langeyri. Það er hinsvegar ekki nefnt í skýrslu sýslumanns frá sama tíma – JJ, 92. Langeyri hefur verið í hvað stöðugastri byggð af býlum á þessu svæði frá 18. öld og fram á þá 20. 1802 voru þar 2 ábúendur sem báðir hlutu fátækrastyrk úr konungssjóð — SS Saga Hafnarfjarðar, 248. 1816 var aðeins ein fjölskylda á Langeyri en 1845 var þar aftur komið tvíbýli. “Langeyri var stundum nefnd Skóbót, en það gæti verið afbökun eða stytting úr nafninu Skómakarahús, sem rekur lestina t.d. í bæjatali í Hafnarfirði |frá um 1805, en þar kemur Skómakarahús á eftir Gönguhóli.“ – MS: Bær í byrjun aldar, 114.

Langeyri

Langeyri um 1920.

Í manntali frá 1845 er Skóbót þó talin næst á eftir Langeyri (sunnan við) þannig að ekki virðist það geta staðist að um sama býli hafi verið að ræða. Eftir aldamótin 1900 óx athafnasvæði í kringum Fiskaklett í átt að Langeyri og lét Ágúst Flygenring reisa fiskverkunarstöð á Langeyrarmölum árið 1902. Hún var keypt af hlutafélaginu Höfrungi 1920 og stækkuð og þá voru einnig gerðir þar fiskreitir – SS Saga Hafnarfjarðar, 515. Seinna átti Lýsi og Mjöl þessi hús. Þessi mannvirki eru horfin nú en þau hafa skemmt eldri mannvirki að meira eða minna leyti.

Langeyri

Langeyri um 1970.

Býlið var innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar frá því að kaupstaðurinn var stofnaður 1907 en bærinn keypti landið af Garðastað með heimild Alþingis, lögum nr. 13, 22.10.1912.
Á bæjarstæðinu stendur steinhús merkt “Langeyri 1904″ og er það númer 30 við Herjólfsgötu. Húsið stendur í lægð í hrauninu. Ekki er að sjá neinar leifar eldri mannvirkja. Umhverfis húsið er grasi gróin garður. Framan við húsið hefur garðurinn verið niðurgrafin að hluta til, og þar hefur verið plantað trjám.

Litla Langeyri/Brúsastaðir (býli)

Brúsastaðir

Brúsastaðir.

Í manntali frá 1801 er Litla Langeyri talin milli Skerseyrar og Stóru-Langeyrar og vor þar þá tvö heimili með 4 og 2 mönnum. Í sóknarlýsingu frá 1842 er Litla-Langeyri talin meðal býla á svæðinu milli Fiskakletts og Skerseyrar.
“Litla-Langeyratún: Tún býlis er þarna stóð. Síðar Brúsastaðir. Litlu-Langeyrartúngarður: Garður af grjóti kringum býlið.

7 þurrabúðir

Brúastaðir

Brúsastaðir (Litla-Langeyri) um 1975.

Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem tekin var saman fyrir Garðahrepp árið 1703 er sagt að eftiralin tómthús standi út með Hafnarfirði í Garðastaðarlandi: “Eysteinshús eður Geirahús. Þingvallnabúð. Stigshús eður Jodísar hús. Illugabúð eður Langeyrarbúð. Ofanmannabúð. Laugardælabúð. Þessar búðir eru sumar 50 ára gamlar, sumar ýngri, sumar fárra ára. Hefur staðarhaldarinn þær í þeim góðu fiskiárum burt leigt, sumar aðkomandi mönnum með skipsuppsátri fyrir v aura undirgift og sumar tómthúsmönnum fyrir x álna leigu og mannslán.

Brúsastaðir

Brúsastaðir um 1975.

Í sumar lögðust inn skipshafnir, sem reru á staðarhaldarans bátum, er þar við búðirnar uppsátur höfðu, og fjekk þá tómthúsmaðurinn soðningarkaupið. Þessar grasleysubúðir eru nú síðan fiskirfið minkaði sumpart öldúngiss niðurfallnar, sumar hánga uppi enn nú íbúðar og leigulausar á fallanda fæti, ef fiskiríið ei aftur að legst.“ JÁM X, 178
Ekki er vitað hvar þessar þurrabúðir hafa verið að öðru leyti en því að þær hafa verið milli kaupstaðarlóðarinnar (þ.e. norðan við Fiskaklett) og Skerseyrar sem næst er talin af hjáleigum Garða. Langeyrarbúð hlýtur að hafa verið nálægt Langeyri eða jafnvel á því bæjarstæði því býlisins er ekki getið í jarðabókinni. Líklegt er að einhverjar hinna hafi verið á bæjarstæðum sem seinna eru þekkt undir öðrum nöfnum, s.s. Gönguhóll, Flatir og Brúsastaðir en ekkert verður þó um það fullyrt.

Verslunarhús

Langeyri

Langeyri (lengst til vinstri) um 1950.

Á árabilinu 1774-1787 var tekin hér við land konungleg þilskipaútgerð, m.a. í því augnamiði að kenna Íslendingum fiskveiðar. Bækistöðvar þessarar útgerðar voru í Hafnarfirði og þar “var fiskurinn verkaður, og þar voru reist geymsluhús og íbúðarhús handa verkafólki. Bauð Thodal stiftamtmaður Guðmundi sýslumanni Runólfssyni með bréfi, dagsettu í júní 1776, að út sjá hentuga staði til þessara húsbygginga og tjáði honum í því sambandi, að hin konunglega tollstofa hefði tilkynnt sér, að vegna húkkorta og jaktfiskveiða í Hafnarfirði þyrfti að reisa þar tvö ný hús, annað á Hvaleyri til vetrarbústaðar stýrimönnum og hásetum á jöktunum, en hitt á Langeyri handa eftirlegumönnum. Óskaði stiftamtmaður eftir því, að sýslumaður veldi hentugar lóðir undir þessi hús …

Langeyri

Langeyri um 1920.

Á uppdrætti af firðinum, sem gerður var um þessar mundir, sjást … verzlunarhúsið á Langeyri … aðalsaltfiskverkunin fór fram á Langeyri, norðan fjarðarins.
Þetta hús er merkt sem verslunarhús á uppdrætti af Hafnarfirði frá um 1778. Það var reist á kostnað konungs en selt ásamt öðrum eignum hans í Hafnarfirði á uppboði 31.7.1792 og keyti það Dyrkjær skipstjóri fyrir 17 rd. og 4 sk. (SS Saga Hafnarfjarðar, 249) en hann hafði áður verið leigjandi í húsinu. Þann 28.5.1793 skipaði danska rentukammerið Jochum Brinck Lund að hætta verslun á Langeyri frá næsta hausti og 8.6.1793 var Kyhn kaupmanni, sem rekið hafði lausaverslun og fiskverkunarstöð á Langeyri bannað að halda þeirri starfsemi áfram (SS Saga Hafnarfjarðar, 252). Þessar aðgerðir voru til stuðnings fastakaupmanni í Hafnarfirði og virðist ekki hafa verið verslað á Langeyri eftir þette. Þó leyfði stiftamtmaður O.P. Möller kaupmanni í reykjavík að reka útibú á Langeyri sumarið 1832. Rentukammerið hafnaði þessu hins vegar og varð Möller að hætta verslun sinni 1833 (SS Saga Hafnarfjarðar, 244).
Ekki er vitað nákvæmlega hvar þetta hús stóð nema að það mun hafa staðið í grennd við þurrabúðina Langeyri. Ekki er að sjá neinar húsaleifar á því svæði enda hefur þar verið ýmiskonar rask undanliðnar tvær aldir. Fiskverkunin hefur verið á sama svæði skammt frá fjörunni.

Langeyrarbyrgi (fiskbyrgi)

Langeyri

Garðar og hús í hrauninu vestan Langeyrar.

“Fyrrum voru allmikil fiskibyrgi á hraunhólum þarna.“ segir í örnefnalýsingu.
Tvö fiskbyrgi sjást enn. Þau eru í halla í N hrauninu. Ofar er lítil tóft (3x2m) með tveim rekaviðar-drumbum þvert yfir tóftina og netaleifum. Neðan við hana er stærri og ógreinilegri tóft (1 1×1 lm), skipt í hólf. Allt hlaðið úr hraungrýti, neðri tóftin að miklu leyti grasigróin.

Langeyrarbrunnur (brunnur)
“Var neðst í túninu. Aðeins vatn á fjöru“, segir í örnefnalýsingu.
Brunnur þessi er nú horfinn. Hann hefur annaðhvort lent undir Herjólfsgötu eða er horfinn fyrir raski neðan við hana.

Langeyrarstígur (leið)

Langeyrarstígur

Langeyrarstígur.

“Langeyrarstígur lá úr Langeyrartúni, austur og upp hraunið eftir lægð í því upp á bala vestan við Víðastaði á Garðaveginn. Verslunarvegur er verslun var á Langeyri“, segir í örnefnalýsingu.
Þessi gata sést enn að hluta frá enda Drangagötu og til austurs. Þar tvískiptist hún, liggur annarsvegar til norðurs og endar þar við enda Klettagötu, og hinsvegar til norðurs og endar þar aftan við Herjólfsgötu 18. Gatan liggur yfir hraunið og er að hluta til upphlaðinn vegur. Ef það er rétt að gata þessi séð frá þeim tíma er verslað var á Langeyri þá er hún frá 18. öld.

Draugaklif (örnefni)

Langeyri

Eyrarhraunsgata ofan Langeyrar.

„Vestur af Melunum er Gatklettur. Nú hruninn að mestu, var allhár áður fyrr, og vestan við hann er bás, sem nefndur er Bás. Þetta er djúpt malarvik, Þar aðeins vestar var einstigi með sjónum, sem var nokkuð tæpt, og var það nefnt Draugaklif.“ segir í örnefnalýsingu Hafnarfjarðar eftir Ara Gíslason en í örnefnaskrá fyrir Álftaneshrepp segir að Gatklettur hafi verið fallinn saman 1929 og hafi verið fram frá Sundhöllinni vestanverðri“.
Dregaklif. Sigurgeir Gíslason segir að þetta nafn muni hafa verið réttara. Þarna strandaði skip og kjölurinn – dregarinn – lá þarna lengi eftir í fjörunni.“
Einstigið er horfið enda liggur Herjólfsgata tæpt með sjónum á þessum stað og hlaðinn kantur sjávarmegin við hana. Ekki er vitað við hvaða draugagang klifið var kennt.

Gönguhóll (bústaður)

Gönguhóll

Gönguhóll (Sönghóll).

Gönguhóll eða Sönghóll var klapparrani kallaður sem gekk fram í sjó framan við Langeyrarbæ. “Bær stóð þarna vestan undir, lóðin kölluð svo“ segir í örnefnalýsingu. Þar er einnig bætt við að Lifrarbræðslustöð hafi verið sett á bæjarrústunum 1903 en byggð mun hafa lagst af í Gönguhóli skömmu fyrir 1902. Þá var einnig bryggja byggð niður frá þessum stað og stóð neðsti hluti hennar enn 1964. Litlar heimildir eru um byggð við Gönguhól en býlið er nefnt í bæjatali úr Hafnarfirði frá 1805 milli Fiskakletts og Skómakarahúss, sem mun vera sama og Langeyri.

Langeyri

Lifrabræðslan við Hvaleyri, byggð af August Flyrening um 1910.

Ekki er óhugsandi að Gönguhóll sé sama býli og Hraunbrekka sem getið er um í sóknarlýsingu frá 1842, sem næsta býlis austan við Langeyri – SSGK, 206. Gönguhóls er ekki getið í manntölum frá 19. öld en í manntali frá 1845 er Skóbót með tveimur fjögurra manna fjölskyldum talin næst á eftir Langeyri og má vera að um sama býli sé að ræða.
Gönguhóll var nálægt því sem nú er Herjólfsgata 24. Allar minjar eru horfnar á þessum stað. Þarna standa nú hús á öllum lóðum og sker Drangapata það svæði þar sem líklegt er að túnið hafi verið.

Flatir/Eyrarhraun (býli)

Langeyri

Varða við fyrrverandi Eyrarhraun.

Í sóknarlýsingu frá 1842 er getið um býlið Flatir milli Langeyrar og Litlu-Langeyrar. “Flatirnar: Sléttar flatir innan við Malarkambinn fyrir Mölunum miðjum. Þarna var býli, þurrabúð, hér óx brenninetla. Eyrarhraunstún: Svo voru Flatirnar kallaðar eftir nafnbreytinguna á þessari þurrabúð. Eyrarhraunstúngarður: Garður er lá innan við Malarkampinn og var á hlið og stétt heim að Flötunum og Mýrarhrauni.

Langeyri

Eyrarhraunstúngarður.

Flata eða Eyrarhrauns er ekki getið í manntölum 1801, 1816 eða 1845.
Nú stendur steinhúsið Eyrarhraun, sem að hluta til er grafið inn í hólinn, á hæð í hrauninu, um 200m frá sjó, SOm norðaustur af Eyrartjörn. Þar er einnig grunnur úr bragga. Ekki er að sjá neinar leifar eldri mannvirkja.

Tjarnarbryggja (bryggja)

Langeyri

Leifar lifrabræðslunnar vestan Gönguhóls.

“Tjarnarbryggjan: Bryggja að Steinboga yfir Eyrarhraunstjörn.“ segir í örnefnalýsingu.
Vestan við Eyrartjörn eru leifar af sementsstöpli með járna- og grjóthrúgu „sem gætu verið leifar Tjarnarbryggju.
Fiskreitir; Dísureitur og Ingveldarreitur, voru ofan Eyrarhraunstjarnar. Þeir eru nú horfnir.

Vegur

Langeyrarstígur

Langeyrarstígur.

Vegur sem að hluta til er hlaðinn upp sitthvoru megin með hraungrýti, með smásteinum og mold á milli, er sunnan við Sævang 33 og liggur yfir hraunið að Eyrarhrauni.

Brúsastaðir
Í laut sunnan við Bæinn. Aðeins á Fjöru. … Brúsastaðatún: 1890 var grafið í gömlu bæjarústirnar og kom upp brot af leirbrúsa. Þar af kom nafnið.“ segir í örnefnlýsingu Álftaneshrepps. 1901 voru 5 heimilismenn á Brúsastöðum en fyrir aldamótin hafði þurrabúðin verið í eyði um skeið.
Tvö hús standa í bæjarstæðinu og er mikið af grjóthlöðnum görðum umhverfis, flestir nýlegir en hugsanlegt er að sumir séu leifar af túngörðum frá 19. öld.

Draugur (Stifnishólar)

Brúsastaðir

Brúsastaðir og Stifnishólar (t.v.).

“Fram af Brúsastöðum (012), fram í sjó, eru háir hraundrangar, sem heita Stifnishólar. Þar var kveðinn niður draugur um aldamótin 1800″.
Stifnishólar eru rétt sunnan við Brúsastaði.

Skerseyrarvör (lending)

Skerseyri

Sjávargata Skerseyrar að Skerseyrarvör.

“Þegar kemur vestur fyrir Stifnishóla, er Skerseyrarmöl, og í henni er Skerseyrarvör.“ — “Skerseyrarvör. Hún var þarna í fjörunni á sinni tíð. Niðurlögð (1964).“
Þar sem vörin hefur verið er hlaðin og steypt varða.

Hvíluhóll (áfangastaður)
“Þaðan er bein lína í Hvíluhól, en sá hóll er fast norðaustan við Garðaveginn til Hafnarfjarðar. Á Hvíluhól lögðu menn af sér byrgði á leið til og frá Hafnarfirði.“
Mikið rask hefur verið á þessu svæði og er hóllinn horfinn.

Landamerkjavarða

Langeyri

Landamerkjavarða við Hvíluhól.

“Þaðan er bein lína í Hvíluhól, en sá hóll er fast norðaustan við Garðaveginn til Hafnarfjarðar. Á Hvíluhól lögðu menn af sér byrgðir á leið til og frá Hafnarfirði. Úr vörðu á Hvíluhól er svo línan í vörðu á hraunbrún sunnan við Engidal.“
Mikið rask hefur verið á þessu svæði og er hóllinn með vörðunni horfinn.

Markvarða (landamerkjavarða)
“Stóð ofanvert við Árnagerði.“ “Svo var svæðið nefnt frá Garðaveginum allt upp að Hellisgerði. Árni Hildibrandsson ræktaði það um 1866.“
Mikill hluti af þessu svæði er byggt upp. Ekkert sést og því ekki hægt að staðsetja nákvæmlega, en líklegast er að varðan hafi staðið á svæðinu frá Sævangi 18 að
enda Klettagötu.

Hvalstöð

Langeyri

Kofatóft ofan Langeyrar.

“Þegar komið er yfir Gönguklif, taka við Langeyrarmalir, og þar vestar er Rauðsnefstangi. Þar var eitt sinn hvalstöð, en lagðist niður vegna þess, að þar kom fyrir slys“, segir í örnefnalýsingu.
Rauðsnefstangi er mjög óslétt hraungrýtt svæði. Þar eru tvær litlar tjarnir, um 20 m frá sjó. A.m.k 7 litlar (3×5 m) grjóthlaðnar tóftir eru á þessum stað, og grjóthlaðnir garðar á milli. Ein tóft stendur enn með þaki og timburstoðum.

Hammershús (bæjarstæði)
“Hammershússlóð: Hún lá sunnan við Rauðsnef undir húsi sem Hvalfangarinn norski Hammer reisti þarna um 1860. Hér átti að verða Hvalstöð, en hætt var við það.“
Enginn húsgrunnur er þó þar.

Litla-Langeyrarvör/Brúsastaðavör (lending)
“L-Langeyrarvör. … vestan við Stifnishóla“, segir í örnefnalýsingu.

Allans-reitur (fiskreitur)

Allians

Allans-fiskreitur við Hrafnistu. Var eyðilagður er viðbygging var gerð.

“Langstærsti fiskreiturinn, sem Hellyer bræður létu gera eftir að þeir keyptu Svendborg 1924 og hófu útgerð frá Hafnarfirði varAllans-reiturinn, sem svo var nefndur, en hann var kenndur við Allen majór, framkvæmdastjóra Hellyers-bræðra í Hafnarfirði. Allans-reiturinn var þar, sem nú er Hrafnista, dvalarheimili aldraðra sjómanna í Hafnarfirði.“
Um 100 m austur af suð-austur horni Hrafnistu eru leifar af fiskreit (60 m langur, liggur norður-suður) og hefur nyðri hluti hans lent undir aðkeyrslu að Hrafnistu.
Reiturinn liggur ofan á lágum hraunhólum, en sunnan við hann og um 2 m neðar ganga tveir garðar (eða leifar af görðum) til suðurs og er grunn dokk á milli ca. 50×20 m.

Heimild:
-Fornleifar milli Skerseyrar og Langeyrar, Fornleifaskráning í Hafnarfirði ll – Hildur Gestsdóttir og Sædís Gunnarsdóttir; Fornleifastofnun Íslands 1998.
-https://www.google.is/url?sa=t&rct=j&q=&esrc=s&source=web&cd=&ved=2ahUKEwjNurDJrNnrAhVB66QKHSSeDVwQFjARegQICBAB&url=https%3A%2F%2Ffornleif.is%2Fwp-content%2Fuploads%2F2018%2F01%2FFS063-98131-Skerseyri-og-Langeyri.pdf&usg=AOvVaw3vonlzqTOr5qFbmLymG6pw

Langeyri

Langeyri og nágrenni – örnefni.

Hleinar

Á upplýsingaskilti við Hleina má lesa eftirfarandi:

Hleinar

Friðlýsingarsvæðið á Hleinum.

„Hleinar voru friðlýstir sem fólkvangur árið 2009. markmiðið með friðlýsingu svæðisins er að vernda fjöru og útivistarsvæði í fögru hraunumhverfi sem vaxið er náttúrulegum gróðri, svo sem mosa- og lynggróðri. Jafnframt er það markmið friðlýsingarinnar að vernda búsetulandslag og menningarminjar, en á svæðinu eru tóftir, fiskreitir, grjóthleðslur, gerði, garðar og vagnslóðar.

Fólkvangurinn er í Hafnarfjarðarhrauni sem rann fyrir um 8.000 árum úr Búrfellsgíg sem er norðan Valhnúka og helgafells. Hraunið er útbreitt í Hafnarfirði og Garðbæ og kallast mörgum nöfnum, s.s. Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, garðahraun og Gálgahraun. Einu nafni kallast það Búrfellshraun. Fólkvangurinn er 32.3 hektarar að stærð og er hluti af friðlýsingu búsvæða fugla við Álftanes og Skerjafjörð í samræmi við náttúrverndaráætlun 2004-2008.

Hleinar

Brúsastaðir og Fagrihvammur á Hleinum.

Í auglýsingu fyrir stofnun fólkvangsins á Hleinum kemur m.a. fram að almenningi er heimil för um fólkvanginn, enda sé gætt góðrar umgengni. Í samræmi við samþykkt um hundahald er óheimilt að hafa hunda í fólkvanginum án fylgdar og tryggar stjórnar. Akstur vélknúinna farartækja utan akvega er óheimil í fólkvanginum. (Akstur utan vega er bannaður samkvæmt náttúrverndarlögum.)

Skerseyri

Tóftir Skerseyrar.

Óheimilt er að spilla gróðri og trufla dýralíf í fólkvanginum. Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt jarðmyndanir í fólkvanginum. Veiðar á dýrum sem valda tjóri eru heimilar í fólkvanginum en þó aðeins í samræmi við lög 64/1994. Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt menningarminjum á hinu friðlýsta svæði.

Langeyrarmalir

Fiskútbreiðsla á Langeyrarmölum.

Upp úr aldamótunum 1900 var fyrsta fiskgeymsluhúsið reist á Langeyrarmölum og var það útgerðar- og kaupmaðurinn August Flygenring sem stóð fyrir því. Á mölunum var fiskvinnsla Augusts og var þar verkaður fiskur sem veiddur hafði verið á skútum hans. Allur fiskur var þá þveginn úti, framan í hámalarkambinum. Þvottakerin voru sundursagaðar stórar ámur og stóð ein stúlka við hvert ker. Þvegið var úr sjó, sem ýmist var borinn í vatnsfötum eða tunnum sem bornar voru á handbörum. Allur fiskur var talinn að eða frá stúlkunum, þar sem fiskurinn var þveginn í ákvæðisvinnu. Á langeyrarmölum var aðalfiskbreiðslusvæðið malarkamburinn meðfram sjónum, breitt var á sjávarmölina frá Sjónarhóli bæjarmegin og út á Rauðsnef, og áfram úr á litlu Langeyrarmalir út undir Brúsastaði að vestanverðu, ef með þyrfti. Auk þessa rak August mikla lifrabræðslu á mölunum og sjást minjar um hana enn við Herfjólfsgötu.

Langeyri

Örnefni við Hleina.

Lengi vel var ekki vegasamband á milli Langeyrar og Hafnarfjarðar og engin bryggja var á mölunum. Bátar og skip sem komu með fisk eða annan varning til löndunar lágu þá skammt frá landi og var fiskurinn fluttur í land á sérstökum löndunarbátum sem voru bæði breiðir og grunnristir. Í fjörunni var komið upp færanlegum bryggjum sem voru geymdar uppi á malarkambinum þegar þær voru ekki í notkun. Bryggjurnar voru þannig útbúnar að undir þeim voru járnslegnir staurar til að auðveldara væri að renna þeim í mölinni en sex til átta menn þurfti til að ýta þeim niður fjöruna og fram ís jó. Neðri endi bryggjunnar var hærri til að bryggjugólfið væri lárétt í hallanum í fjörunni. Ef löndun tók langan tíma þurfti oft að færa bryggjurnar til eftir sjávarföllum þar sem þær flutu ekki heldur hvíldu á botninum.“

Hleinar

Upplýsingaskilti á Hleinum.

Vatn

Farið var með heimildarmanni, Jóni Péturssyni frá Eyrarhrauni, að Kaldadý, sem vera átti upp af og til hliðar við hús nr. 53a við Suðurgötu.

Kaldadý

Kaldadý – steypt brunnlok.

Kaldadý er merkileg fyrir það að hafa verið fyrsta neysluvatnsveita Hafnfirðinga. Hún var „virkjuð“ um 1904 og þá af einkaaðilum undir heitinu Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar. Félagið lét grafa brunninn og lögðu frá honum pípur vestur eftir bænum. Hér mun hafa verið um að ræða ein fyrstu vatnsveitu á landinu, sem í ár verður aldargömul. Vatnsveita Hafnarfjarðar keypti síðan holuna er byrjað var að reyna að leiða vatn úr Kaldárbotnum og sækja vatnið í Lækjarbotna.

Kaldadý

Kaldadý árið 2022.

Til langs tíma mátti sjá leifar Kaldadýjar. Steypt var ferningslaga þró umhverfis hana og bárujárnsplata sett yfir. Loks var holan fyllt upp til að minnka líkur á að einhver færi sér að voða í holunni. Nú stendur bílskúrinn að Suðurgötu 53a yfir Kaldadý. Tekinn var GPS-punktur.
Fólk sótti vatn í brunnholur og jafnvel í Lækinn. Það þótti hins vegar ekki gott vatn – mórautt. Einn góður brunnur var skammt frá Selvogsgötu, sem kallaður var Góðhola. Nú er búið að steypa hús á henni.
Haldið var út að Eyrarhrauni á Mölum. Hafnarfjarðarbær er nýbúinn að kaupa húsið, sem var byggt skömmu fyrir aldamótin 1900, og verður það rifið næstu daga. Umhverfis eru miklir grjótgarðar.

Eyrarhraunsbrunnur

Eyrarhraunsbrunnur. Jón Pétursson.

Framan við húsið er Eyrarhraunsvarðan. Á hana er markaður bókstafurinn E til minningar um Engeljón Sigurjónsson er byggði húsið upphaflega. Varðan, sem stendur á hraunhól, var hlaðin af Engeljóni, en hefur nú verið klædd steinsteypu.

Genginn var brunnstígurinn að brunninum í hraunhvilft norðan við bæinn. Hann var fallega hlaðinn – um þriggja metra djúpur. Fyllt var upp í hann með grjóti svo enginn færi sér þar að voða. Mosagróið er yfir grjótið. Auðvelt væri að fjarlægja það og opinbera brunninn. Tekinn var GPS-punktur og mynd af brunnstæðinu.

Allians

Allians-fiskreitur við Hrafnistu. Var eyðilagður er viðbygging var gerð.

Í kringum Eyrarhraun eru fallega hlaðnir garðar. Þar er og nafnlaus skúti, sem reyndist ungum uppalingum notadrjúgur fyrrum.
Nefndir voru nálægir fiskreitir, s.s. Allians reiturinn þar sem nú er nýbygging Hrafnistu (var mokað burt á einum degi fyrir skömmu). Á bakkanum voru hlaðnir garðar og eftir þeim gengu vagnar á teinum. Hefur líklega verið fögur sjón á þeim tíma.

Kaldadý

Kaldadý var aftan við þennan skúr við Suðurgötu.

Eyrarhraun

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar I-2020 er m.a. fjallað um bæina Eyrarhraun og Langeyri ofan við Malir:

Eyrarhraun var byggt árið 1904 af Engilráð Kristjánsdóttur og Sigurjóni Sigurðarsyni, en íbúðarhúsið brann vegna íkveikju árið 2005, en hafði staðið mannlaust í ár fyrir það.

Langeyri

Langeyri og nágrenni – Loftmynd 1954.

Í fasteignamati frá 1918 var húsakosti og jörð Eyrarhrauns lýst svona: Eigandi: Sigurjón Sigurðsson, þrbm. notar eignin sjálfur. Eignin er:
1. Íbúðarbær, stærð 6 x 3.90m hæð 1.45m með risi, byggður úr timbri, varinn pappa að veggjum, járn á þaki, skipt i eitt og eldhús, þiljaður panel. Inngönguskúr, stærð 2 x 1.40m, hæð 1.80m, með vatnshallaþaki, byggður úr sama og bærinn.
Eyrarhraun
2. Útihús: Fjárhús, stærð 6 x 3.50m, hæð 1.45m með risi, veggir að mestu úr torfi og grjóti, þak úr járni á langböndum. Heyhlaða, stærð 8.35 x 3.25m, hæð 1.45m með risi, veggir úr grjóti, þak járnvarið á langböndum. Eldhús, stærð 4.40m x 3.35m, hæð 1m, m. risi, veggir úr grjóti, þak úr járni á langböndum.
3. Lóðin er réttindalaus, óræktuð og ógirt, er býlið hefur grasblett og matjurtagarða á lóð þeirri á Langeyrarmölum er Aug. Flygering á. [ógreinilegt] árlega kr. 10.00.
Virðing Eyrarhrauns var að íbúðarhúsið með viðbyggingum var virði 800 kr., útihúsin það sama, og lóðin 200kr. virði.
Bænum var einnig lýst í brunavirðingu frá 1929:
„a. Bærinn einlyftur með risi. Klæddur innan með panel og málaður, honum er skipt í 2 herbergi og eldhús, notaður til íbúðar. Undir hálfum honum er kjallari, notaður til geysmlu..
b. Við austurhlið bæjarins er skúr með vatnshallaþaki, klæddur innan með panel og málaður, notaður til inngöngu.
c. Fjárhús við norðurhlið bæjarins. Í brunavirðingunni segir einnig að útveggir bæjarins og skúrsins voru úr járnvörðu timbri, kjallarinn sé grjóthlaðinn, og að veggir fjárhússins voru torf og grjót nema suðurgafl.

Eyrarhraun

Eyrarhraun – bæjarstæði.

Stefán Júlísson sagði frá búskap á Eyrarhrauni í endurminningum sínum „Byggðin í hrauninu“ en hann fluttist þangað ásamt foreldrum sínum 1923 og bjó þar til 1937. Í bókinni sagði hann t.d. frá kartöflugarði sem stunginn hafði verið upp við húsið og frá brunni sem var vestan við húsið og réðist vatnsstaða hans af sjávarföllum. Hann sagðir frá eljusemi Engilráðar og Sigurjóns við uppræktun á svæðinu: „Þessar grasnytjar voru á hraunbölum og í lautardrögum, sem reynt hafði verið að rækta upp með ærinni fyrirhöfn. Víðast var þó grunnt í grjót, og því var sprettan aldrei góð, en engum farartækjum nema hjólbörum varð við komið til að flytja að mold.“

Eyrarhraun

Eyrarhraun – garðar.

„Við tók ræktun á úfnu hrauni, hleðsla á görðum, burður á mold og grjóti. Mörg hafa þau handtök reynzt, og notinvirk hafa þau Engilráð og Sigurjón verið bæði og samstillt við gróðurblettina í kringum litla bæinn sinn…“
Flestar minjarnar að Eyrarhrauni tengjast að öllum líkindum búskap á svæðinu, t.a.m. garðlögin
og útihúsin.

Langeyri

Langeyri

Langeyri um 1920.

Langeyri var hjáleiga frá Görðum og í Garðakirkjueign. Þar var rekin verslun á síðari hluta 18. og fyrri hluta 19. aldar, en þar á undan hafði verið þar þurrabúð, en ekki er vitað hve lengi.
Langeyri hafði verið í hvað stöðugastri byggð af þeim þurrabúðum sem voru á svæðinu, frá 18. öld og fram á þá 20.35 Langeyri var stundum nefnd Skóbót en það gæti verið afbökun eða stytting af nafninu Skómakarahús.

Langeyri

Langeyri um 1920.

Ekki er minnst á jörðina Langeyri í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 en þar segir frá 7 þurrabúðum og er Langeyrarbúð þar á meðal. Þegar jarðabókin var skrifuð voru sumar þessara þurrabúða orðnar um 50 ára gamlar. Fiskveiði í Hafnarfirði hafði eitthvað minnkað árin áður en jarðabókin var gerð og voru flestar þurrabúðirnar niðurfallnar.
Í bréfi frá 1776 bauð Thodal stiftamtmaður Guðmundi Runólfssyni sýslumanni að finna hentuga staði til þess að reisa geymsluhús og íbúðarhús handa verkafólki vegna húkkorta og jaktfiskveiða í Hafnarfirði. Það varð úr að Hvaleyri var valið til þess að byggja vetrarbústað fyrir stýrimenn og háseta á jöktunum en á Langeyri átti að byggja hús fyrir eftirlegumenn en Langeyri varð fyrir valinu vegna þess að þar var nógu víðáttumikil möl til salfiskverkunnar.

Langeyri

Síðasta íbúðarhúsið á Langeyri.

Ýmis starfsemi hefur átt sér stað í gegnum tíðina á Langeyrarmölum en þar var um tíma starfrækt fiskverkunarstöð sem August Flygenring lét reisa um aldamótin 1900 en hann var lengi vel einn stórtækasti athafnamaður í Hafnarfirði. Seinna voru Malirnar í eigu hlutafélagsins Höfrungs sem gerði þaðan út togara og verkaði þar fisk. Fiskverkunarstöðvarnar á Mölunum veittu því fólkinu í hraunkotunum vinnu við fiskverkun eftir því sem aðstæður leyfðu.
Í brunabótavirðingu frá 1916 var sagt að á Langeyri séu fimm hús: Íbúðarhús úr timbri, skúr úr grjóti og timbri, eldhús úr grjóti og timbri og tvö fjárhús, annað úr torfi, grjóti og timbri, og hitt úr torfi og grjóti.

Langeyri

Langeyri – Lýsisbræðsla út á Mölum í Hafnarfirði. „Lifrarbræðslustöð Augusts Flygenring á Langeyrarmölum.

Í fjörunni við Herjólfsbraut, rétt NV við Gönguhólsklif er að finna leifar Grútarstöðarinnar og Grútarbryggjunnar, lifrabræðslu sem reist var á bæjarrústum 1903. Þar má enn sjá hleðslur, undirstöður fyrir bræðsluker og einna greinilegast er bólverkið, sem er hlaðið hafnarmannvirki og í skýrslu sinni frá 2005 sagði Karl Rúnar Þórsson að þetta séu fágætar minjar.

Langeyri

Langeyri – skráð fjárskjól?

Í fornleifaskráningunni 2020 segir m.a. um ofanverða Langeyri:
„Hellir – fjárskýli. Úr hraungrýti. Hleðsla framan við helli, inngangur í austur. Í hrauni norðan við Herjólfsgötu. Er vestan við gerði.

Í hrauni norðan Herjólfsgötu og vestan við Hjallabraut, upp við klett. Austan við garð. Fjárskýli, úr hraungrýti. Hleðsla við gjótu í klett.“

Langeyri

Eyrarhraun – gata.

Ljóst er að framangreind „fjárskýli“ hafa aldrei verið notuð sem slík. Um er að ræða hróf, væntanlega hlaðin af börnum, til skjóls.

Langeyri

Langeyri – vegur.

„Við hraunhól NV við Herjólfsgötu 24. Á grasivöxnum blett í hrauninu. Tóft er nánast áföst rústinni. Er vestan við gerði. Inngangur í vestur. Vestur veggur er töluvert lægri en hinir. Klettar nýttir í hleðsluna.

Við hraunhól NV við Herjólfsgötu 24. Á grasivöxnum blett í hrauninu. Tóft er nánast áföst rústinni. Er vestan við gerði. Inngangur í vestur. Hefur verið brotið úr hrauninu fyrir tóftinni.“

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar I-2020.

Langeyri

Varða við fyrrverandi Eyrarhraun. Á hana er markaður bókstafurinn E til minningar um Engilráð Kristjánsdóttur er byggði húsið upphaflega.