Tag Archive for: minjar

Grindavík

Í Bæjarbót – óháðu fréttablaði í Grindavík, var m.a. fjallað um umhverfismál árið 1991.

Grindavík

Grindavík.

Umhverfismál í brennidepli – Mjög mikill áhugi á skógræktinni – nokkur þúsund plöntur gróðursettar í Selskógi í fyrra!
Fróðlegt er að lesa eftirfarandi í ljósi þess að orðum virðast ekki hafa fylgt gerðum – líkt og svo oft þegar dægurstjórnmálaflokkar eru annars vegar.

„Eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar voru Náttúruverndarnefnd og Fegrunanefnd sameinaðar í eina, Umhverfisnefnd. Mun sú nefnd reyna eins og tök eru á að halda þeim störfum áfram sem forverar hennar hófu. Áfram verður fylgst með umgengni innan bæjar og utan og reynt að hindra náttúruspjöll. Þá verða veittar viðurkenningar fyrir fallega garða og snyrtilegt umhverfi fyrirtækja.
Nefndin tekur öllum ábendingum með þökkum.

Hafnarsvæðið
Grindavík
Höfnin og hafnarsvæðið hefur um langan aldur verið miðpunktur og hjarta Grindavíkur og verður trúlega lengi enn. Fátt er því mikilvægara en að þar ríki fyllsta hreinlæti og snyrtimennska, tákn þess að þar séu meðhöndluð matvæli. Ferðamenn, innlendir og eriendir, eru næstum daglegir gestir við höfnina og í þeirra hópi áreiðanlega bæði fiskkaupendur og neytendur. Því miður má allvíða á hafnarbakkanum sjá rusl og drasl, sem ekki á þar heima. Opnir sorpgámar eru síst til prýði og feykir vindurinn innihaldi þeirra iðulega um nágrennið. Setja þarf upp lokaða gáma fyrir smærra sorp og léttara og sjá til þess að allir gámar séu losaðir nægilega oft.
Ekki er heldur til fyrirmyndar að skólp skuli renna í höfnina, en lausn á þeim vanda er tæpast í augsýn, enda er dýrt að leggja allar lagnir út fyrir varnargarðinn.

„Fjaran mín“

Grindavík

Fjaran við Grindavík.

Nú á vordögum verður verkefnið „Fjaran mín“ endurvakið og er fólk eindregið hvatt til að veita því brautargengi með því að velja sér fjörurein til að fylgjast með.
Upplýsingar og eyðublöð er hægt að fá á bókasafninu. Kerfisbundnar upplýsingar um ástand fjörunnar, lífríki og mengun eru mikilvægar til ákvörðunar um leiðir til úrbóta og verndunar. Einnig eru sjómenn hvattir til að koma með allt sorp að landi í stað þess að láta það fara í sjóinn. Á mörgum bátum er þetta í góðu lagi, en víða má betur gera. Sjórinn er nú einu sinni matarkistan okkar og í hana hendum við ekki sorpi.

Skógrækt

Selskógur

Í Selskógi.

Á liðnu ári voru gróðursettar nokkur þúsund trjáplöntur í Selskógi og suðurhlíðum Þorbjarnar. Voru þar að verki bæði félagasamtök og einstaklingar. Var greinilega mikill áhugi meðal þátttakenda að þessu starfi verði haldið áfram og eru nú allar horfur á að svo geti orðið. Er því full ástæða til að Skógræktarfélag Grindavíkur, sem verið hefur heldur atkvæðalítið sem slíkt, taki nú á sig rögg og nýti þennan áhuga almennings til frekara átaks. Margt hefur breyst síðan félagið var stofnað í litlu sjávarþorpi og því þarf að aðlaga félagið öðrum aðstæðum. Í dag er einnig vitað mun meira um skógrækt en þá, um plöntuval og aðferðir og því meiri líkur á góðum árangri. Næg eru verkefnin.

Sögulegar minjar

Strýthólahraun

Sögulegar minjar við Grindavík.

Mjög víða í landi Grindavíkur, svo og víðar á Suðurnesjum, eru sögulegar minjar sem vitna um atvinnuhætti liðinna tíma. Má þar nefna seljarústir víðs vegar inn til landsins og minjar um útræði og fiskverkun við sjóinn. Saga þessara staða er að falla í gleymsku og því síðustu forvöð að skrá þá vitneskju sem enn er að finna, ljósmynda staðina og merkja inn á kort. Þá þyrfti að friðlýsa merkustu minjarnar í samráði við þjóðminjavörð. Á síðasta aðalfundi SSS mun hafa verið gerð samþykkt í þessa veru, en fylgja þarf málinu eftir hér heima.

Hreinsunarátak

Grindavík

Grindavík.

Fyrirhuguð er hreinsunarátak helgina 25.-26. maí næstkomandi. Ætlunin er að þetta átak verði á öllum Suðumesjunum þessa helgi. Er fólk hvatt til að hreinsa til á lóðum sínum og annars staðar þar sem rusl er. Allt rusl verður svo fjarlægt af bæjarstarfsmönnum.
Fólk getur fengið plastpoka hjá bænum undir ruslið.
Verum samtaka í þessu hreinsunarátaki og gerum bæinn okkar fallegri og snyrtilegri.“ – Umhverfisnefnd Grindavíkur; Guðrún Sigurðardóttir, Haukur Guðjónsson, Ólafur Guðbjartsson.

Heimild:
-Bæjarbót – óháð fréttablað í Grindavík, Umhverfismál í brennidepli, 5 tbl. 01.05.1991. bls. 2.
Bæjarbót

Hellisheiði

„Frá örófi alda gengu menn að mestu þangað sem þeir þurftu að fara, það má því segja að tveir jafnfljótir hafi verið fyrsta samgöngutæki mannkynsins. Svo var farið að nýta hesta og önnur dýr til að bera menn á milli staða og loks komu annarskonar samgöngutæki, svo sem hestvagnar og bílar komu enn síðar.

Fornagata

Fornagata í Selvogi – hluti leiðar.

Eitt af sérkennum samgangna á Íslandi er að það urðu almennt ekki til vegir sem gátu annað umferð vagna fyrr en fyrir rúmri öld síðan. Á meðan að góðir, vagnfærir vegir voru í nánast öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við, voru hér troðningar sem eingöngu voru færir gangandi og ríðandi umferð.
Vegir sem hlykkjuðust á milli hrauntraða eða þræddu sig eftir þægilegustu leiðinni á milli bæja. Stærri flutningar, sem ekki var hægt að flytja á hestbaki, fóru nánast alfarið fram á sjó.
Fyrsti grunnur að skipulagðri vegagerð á Íslandi varð til með tilskipun árið 1861. Það var svo árið 1904 sem fyrst var hafist handa við að leggja það sem kallast gæti akvegur til Suðurnesja, en það var ekki fyrr en árið 1912 sem Suðurnesjavegurinn var tilbúinn og hægt var að fara með hestvagn frá Reykjavík til Keflavíkur.

Vatnsleysuströnd

Almenningsvegur – Eiríksvegur ofan Vatnsleysu. Fyrsti vagnvegurinn milli Hafnarfjarðar og Voga.

Ári síðar tókst að koma bíl eftir þeim vegi í fyrsta sinn. Allt fram að því voru ekki vagnfærir vegir sem heitið gat á milli byggðarlaga á Íslandi þrátt fyrir rúmlega þúsund ára búsetu.
Út um allar jarðir má finna gamlar götur sem lágu um langan eða skamman veg, sumar voru á milli húsa og til nausta og selja, meðan aðrar lágu á milli landshluta. Á Reykjanesskaganum er margar slíkar götur að finna, en þar liggur ein megingata, í daglegu tali kölluð almenningsvegurinn, meðfram sjónum að norðanverðu og Krýsuvíkurleiðin að sunnanverðu. Það er þó ekki svo einfalt að einungis sé um tvær götur að ræða því að net gönguleiða liggur um öll Suðurnes. Í raun má skipta þessum gömlu götum í tvennt, annars vegar eru það götur sem urðu til á milli bæja og upp til selja. Hins vegar eru verleiðir, götur sem lágu á milli verstöðva víðsvegar um nesið. Þegar skoðuð eru kort af þessum gömlu götum sem lágu á milli verstöðva virðast þær flestar liggja til Grindavíkur.

Kristborg Þórsdóttir

Kristborg Þórsdóttir.

Í ritverkinu „Fornar leiðir á Íslandi“ skilgreinir Kristborg Þórsdóttir, fornleifafræðingur, meðal annars að gömul leið sé „Leið [sem] er hverskyns skilgreinanleg leið milli tveggja staða sem farin var að jafnaði“.
Kristborg segir í grein sinni hvaða skilyrði leið þurfi að uppfylla til þess að teljast til fornleiða. Þær leiðir sem talist geta til fornleiða eru leiðir sem farnar voru fótgangandi og ríðandi fyrir tíð bílsins og mannvirkja tengdum honum. … Leiðir þurfa ekki að vera sýnilegar og þær þurfa ekki að hafa verið farnar oft til að geta talist til fornleiða. Til þess að hægt sé að skrá fornar leiðir þarf samt eitthvað að gefa vísbendingu um þær. Vísbendingarnar geta verið ýmist á kortum, í rituðum eða munnlegum heimildum, sýnilegar slóðir eða mannvirki á leiðunum. Ef leiðar er getið í heimildum á þann hátt að legu hennar er lýst, staðirnir sem hún tengir eru nefndir eða nafns hennar er getið, er um skilgreinda leið að ræða sem telja ætti til fornleifa. Ekki er hægt að skrá leið sem byggir eingöngu á vitnisburði um stakar samgönguminjar án þess að sjá hvert leiðin hefur legið – milli hvaða staða.
Minjarnar gefa til kynna að þær séu hluti af arfleifð.“

Heimild:
-Helgi Valdimar Viðarson Biering, MA ritgerð í Hagnýtri menningarmiðlun – Gamlar og nýjar götur á Reykjanesskaga. Samanburður á fornum þjóðleiðum og nýrri gönguleiðum með áherslu á leiðina um Brúnir. HÍ 2024.
-www.ferlir.is
-Kristborg Þórsdóttir. “Fornar leiðir á Íslandi; tillaga að skilgreiningu, flokkun og skráningu, rit Fornleifafræðingafélags Íslands. (2012).

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu ofan Grindaskarða.

Grindavíkurvegur

Hrauntunga úr sprungurein eldgoss ofan Sundhnúks er hófst að morgni dags 8. febrúar 2024 tók að renna til vesturs sunnan Stóra-Skógfells í átt að gatnamótum Grindavíkurvegar og Norðurljósavegar að Bláa lóninu og Svartsengisvirkjun.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir við Norðurljósaveg.

Hraði þunnfljótandi rennslisins var um 500-1000 m á klst. Um kl. 10.30 náði það að gatnamótunum, rann yfir Grindavíkurveg og til vesturs eftir Norðurljósavegi þar sem hægði á því í rýmilegri hraunkvos sem þar er á milli Illahrauns og Arnarseturshrauns.
Við gatnamótin var eitt af skjólum vegavinnumanna er lögðu fyrsta vagnveginn frá Stapanum (Suðurnesjavegi) til Grindavíkur á árunum 1914-1918. Skammt sunnan við gatnamótin voru tvö önnur byrgi, sem nú er komin undir hraun. Uppi á hrauninu skammt sunnan kvosinnar er hlaðið hringlaga skjól símamanna er lögðu jarðstreng til Grindavíkur á svipuðum tíma.
Sjá meira um Grindavíkurveginn HÉR, HÉR og HÉR.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – skjól símamanna.

Grindavík

Árið 2011 gaf Ferðamálafélag Grindavíkur út ritið „Grindavík – sögu og minjakort„. Á baksíðu þess segir:

Grindavíkurkort

Grindavík; saga- og minjakort, forsíða.

„Hér er um að ræða samantekt minjakorta, sem sett hafa verið upp víðsvegar í bænum á undanförnum árum, unnin af Ómari Smára Ármannssyni fyrir Grindavíkurbæ með styrk frá Pokasjóði og Menningarráði Suðurnesja. Áður hefur Ferðamálafélag Grindavíkur gefið út samantekt um Húshólma og Selatanga í sama ritflokki. Það er von útgefanda að efnið, Sögu- og minjarkort Grindavíkur, sem hér er sett fram myndrænt og í texta, muni nýtast íbúum bæjarins, ferðamönnum og nemendum bæjarins við vinnslu námsefnis. Ritið er tilvalið til að taka með sér á göngu um sögusvið hinnar gömlu Grindavíkur, hvort sem um er að ræða í Þórkötlustaða-, Járngerðarstaða- eða Staðarhverfi. Rakin er þróun og saga hverfanna frá upphafi til nútíma. Sagt er frá einstökum minjum því tengdu jafnframt sem þær eru staðsettar á handgerð kortin.
Leitendur geta þannig auðveldlega fengið innsýn í mannlífið í Grindavík í gegnum aldirnar og notið í leiðinni hins fagra umhverfis Grindavíkur.

Þórkötlustaðanes

Minjar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ. Uppdrátturinn er ekki í ritinu, líkt og svo margir aðrir, enn óbirtir.  Pétur í Höfn lýsir örnefnum og minjum í Þórkötlustaðanesi. Beitnaskúrar einstakra báta um 1930 eru númeraðir m.v. staðsetningu.

Þótt kortin takmarkist að mestu við hið gamla sögusvið byggðarinnar er fjölmargt að finna utan þeirra, s.s. minjar, jarðsaga og – mótun, gróður, dýralíf og nýbreytni í menningu og ferðaþjónustu á svæðinu.“
Ritið er birt hér á vefsíðunni, bæði vegna það er nú uppselt og litlar líkur á það verði endurútgefið.
Hér má sjá efni ritsins – Grindavíkurkort.

Húsatóftir

Staðarhverfi – örnefni og minjar; uppdráttur ÓSÁ.

ísólfs

Eftirfarandi eru friðlýstar fornleifar og minjastaðir á Reykjanesskaganum:

Þingvellir

Þingvellir – Þingvallakirkja.

Þingvellir, Alþingisstaðurinn forni. Þar var Alþingi Íslendinga háð frá því um 930 til ársins 1798. Á Þingvöllum eru friðlýstar allar þingbúðarústir og aðrar fornleifar og gömul mannvirki á hinum forna alþingisstað beggja vegna Öxarár ásamt rústum fornra býla. Þingvellir er fyrsti þjóðgarður Íslendinga frá árinu 1928.

Þingnes gengur fram í Elliðavatn, fyrir ofan Reykjavík. Þar hafa verið gerðar fornleifarannsóknir. Tilgátur erum að Kjalarnesþing hafi verið háð þar.

Herdísarvík. Allar fornleifar á jörðinni Herdísarvík voru friðlýstar 1977. Þar er að finna fiskigarða, verbúðir, tættur af íveruhúsum, peningshús og önnur útihús. Þar eru líka leifar af rústum sels í Seljabót.

Selatangar

Selatangar.

Selatangar. Rústir fornrar verstöðvar á milli Krýsuvíkur og Grindavíkur. Þar var útræði á vegum Skálholtsstóls fyrr á öldum.

Básendar á Suðurnesjum var verslunarstaður sem fór í eyði í mesta sjávarflóði sem sögur fara af aðfaranótt 9. janúar 1799. Þar eru greinilegar leifar kaupstaðarins og hafnarinnar. Roskin kona drukknaði í hamförunum og kaupmaðurinn danski varð gjaldþrota.

Bessastaðir

Bessastaðir – FERLIRsfélagar í heimsókn.

Bessastaðir á Álftanesi eru fornt höfuðból. Fornleifarannsóknir á árunum 1987 til 1996 leiddu í ljós mikla byggð allt frá 10. öld. Þar var aðsetur fulltrúa konungs frá 14. öld til loka 18. aldar. Þar hafa ríkisstjóri og forsetar Íslands setið frá 1941 og er forsetabústaðurinn á Bessastöðum eitt elsta hús á Íslandi, reist sem amtmannssetur úr steini á árunum 1761-1766.

Bessastaðakirkja var reist á árunum 1777-1823. Bessastaðaskans er norðarlega á Bessastaðanesi við Dugguós (heitir nú Bessastaðatjörn). Þar var hlaðið virki til varnar í Tyrkjaráni 1627.

Hofsstaðir

Hofsstaðir – fyrirmyndar frágangur eftir uppgröft.

Hofstaðir í Garðabæ. Þar hafa verið grafnar upp rústir myndarlegs skála frá 10. til 12. Aldar með stóru hringlaga gerði. Ýmsir merkilegir gripir fundust við fornleifarannsóknina, m.a. bronsnæla. Á Hofsstöðum er nú minjagarður um hina fornu byggð.

Kapella. Kapelluhraun er milli Hafnarfjarðar og Straums. Árið 1950 fannst þar við uppgröft líkneski frá 15. Öld af heilagri Barböru og bendir það til að þar hafi verið bænastaður í kaþólskum sið. (Lambhagi. Kapellutóft forn úr grjóti í Kapelluhrauni. Sbr. Árb. 1903: 34. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938).

Þinghóll

Afhjúpun upplýsingaskilta við Þinghól.

Kópavogsþingstaður. Einn af fjórum þingstöðum í Gullbringusýslu var Kópavogur. Þar hafa verið gerðar fornleifarannsóknir. Við Kópavogsþingstað er minningarsteinn um Kópavogseiðana árið 1662. (Þinghússtóft syðst á túninu og fangakofatóftir skamt frá. 2. Dysjar austan túns, nefndar Hjónadysjarnar og Systkinaleiðin. Sbr. Árb. 1929: 29-33. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 16.11.1938).

Af húsum í umsjá Þjóðminjasafnsins má nefna:

Seltjarnarnes

Nesstofa.

Nesstofa við Seltjörn. Fyrsti íslenski landlæknisbústaðurinn, hlaðinn úr tilhöggnu grjóti á árunum 1761-63. Þar var einnig fyrsta opinber lyfsala á Íslandi. Höfundur húsins er danski hirðsteinsmiðurinn Jacob Fortling. Í vörslu Þjóðminjasafnsins frá 1979. Í húsinu er læknaminjasafnið Nesstofusafn.

Krýsuvíkurkirkja. Turnlaus timburkirkja, reist 1857 af Beinteini Stefánssyni smið. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64. Í vörslu Þjóðminjasafnsins frá 1964.

Heimild:
-Þjóðminjasafn Íslands – 2004.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Garðskagi

Fyrstu heimildir um ljósvita á Garðskaga er frá því 1847, en þá var hlaðin varða til leiðarvísis sjófarendum. Varðan var hlaðin úr grjóti og upp úr henni stóð járnstöng. Í blöðunum frá þeim tíma segir, að í ágústmánuði 1847 hafi komið með póstskipinu smíðuð járnvarða, sem setja eigi upp á Garðskaga, til leiðarvísis skipum sem sigldi inn Faxaflóa. Gert er ráð fyrir, að varðan með grjótstöpli, sem undir hana verði hlaðinn, verði 15 álna há (3,7m). Þetta var leiðarmerki um daga en ekki viti.

Garðskagi

Garðskagi – Gamli Garðskagavitinn.

Árið 1897 var svo byggður ljósviti á Garðskagatá. Það var ferstrengd bygging úr steinsteypu, 12.5 metrar á hæð og 3,25 metrar á hverja hlið. Áfast við hann var varðhús, þar sem vitavörðurinn hélt til um nætur. Umhverfis vitan var pallur, hlaðinn úr höggnu grjóti, um 3 metrar á hæð. Í vitanum voru sett mjög vönduð ljósatæki, sem var olíulampi. Ljósbrjótur magnaði ljósið og sneri lóðaklukka ljósbrjótnum. Hana þurfti að vinda upp á fjögra klukkustunda fresti og því talið nauðsynlegt, að vitavörðurinn dveldist í varðhúsinu um nætur. Á síðari árum þótti ekki hættulaust að dveljast í vitanum þegar mikið brimaði og var þá vitans gætt frá vitavarðahúsinu.

Garðskagi

Garðskagi – Nýi Garðskagaviti.

Nýr viti var svo byggður á Garðskaga árið 1944 og var ein höfuðástæða þess, að sjór hafði gengið mikið á landið frá því að gamli vitinn var byggður. Nýji vitinn er sívalur turn úr steinsteypu, 28 m. á hæð með ljóshúsi. Garðskagavitin mun vera hæsti viti á landinu, það er að segja, byggingin sjálf. Ljóstæki gamla vitans voru flutt yfir í nýja vitann, en fljótlega kom þó rafljós í stað olíuljóssins, í fyrstu frá vindrafstöð, en síðar frá Sogsvirkjuninni og var ljósmagn vitans aukið um leið. Árið 1961 var vitinn búinn sænskum ljóstækjum og var hann með sömu ljósmerkjum og sá gamli (upplýsingar um ljósmerki). Radiomiðstöð var tekin í notkun á Garðskaga árið 1952 fyrir atbeina Slysavarnafélags Íslands og fjórum árum síðar var sú stöð leyst af hólmi með ljósradiomiðunarstöð, sem er miklu langdrægari og fullkomnari.

Garðskagi

Garðskagi – nýi vitinn.

Í BS-ritgerð Sigurlaugar Herdísar Friðriksdóttur í Lanbúnaðarháskóla Íslands, „Vitinn á Garðskaga – Hönnun umhverfis, aðgengis og aðkomu“ frá árinu 2022 má lesa eftirfarandi um minjar á Garðskaga:

Fyrsti viti
Árið 1847 var elsti vitinn á Garðskaga hlaðinn en það var hlaðin grjótvarða. Grjótvarðan var 7 m á hæð og upp úr henni stóð 3,7 m hár járnkarl. Árið 1884 var síðan sett lítið timburskýli á vörðuna og inn í það var sett ljósker. Talið er að grjótvarðan hafi verið um 100 m norðvestan við gamla Garðskagavita.

Gamli viti

Garðskagi

Garðskagi – Gamli vitinn.

Árið 1897 var síðan byggður viti á Garðskagatá. Vitinn var byggður eftir teikningu frá danskri vitamálastjórn. Gamli vitinn er ferstrendur og byggður úr steinsteypu. Vitinn er um 11,4 m á hæð en með ljóshúsi var hæð hans um 15 m. Byggð var varðstofa við vitann og árið 1933 var gert anddyri við varðstofuna.
Þegar vitinn var fyrst byggður var gras fyrir framan hann og náði það líklega fram á Garðskagarif. Í dag er land alveg gróðurlaust í kringum vitann. Skömmu eftir að vitinn var byggður sáust merki um að tanginn sem vitinn er á væri að verða fyrir rofi vegna sjávargangs. Erfitt var orðið að komast að vitanum í slæmu veðri skömmu eftir að hann var byggður og var því byggð göngubrú yfir í vitann árið 1912. Vegna sjávarrofs við vitann var steyptur pallur við hann árið 1925.

Garðskagaviti

Garðskagaviti vígður – Svanhildur Ólafía Guðjónsdóttir (Lóa) frá Réttarholti í Garði.

Gamla vitanum var lokað þegar nýr viti var byggður en vitinn hefur þó gegnt ýmiss konar tilgangi síðan þá. Á árunum 1962-1978 notaði Náttúrufræðistofnun Íslands vitann sem fuglaathugunarstöð. Í dag er hægt að leigja vitann við ýmis tilefni, til að mynda fundi eða í skemmtanir. Árið 2003 var vitinn friðaður.

Nýi viti

Nýi vitinn á Garðskaga var byggður árið 1944 og var hannaður af Axel Sveinssyni verkfræðingi. Vitinn er sívalur og er um 28,6 m hár frá undirstöðu að ljóshúsi. Neðst er þvermál vitans 7,5 m en 5 m efst. Garðskagaviti er hæsti sérbyggði vitinn á Íslandi. Vitinn er steinsteyptur og var húðaður með ljósu kvarsi en árið 1986 var hann kústaður með hvítu þéttiefni.
Vitavörður hafði fasta búsetu á svæðinu og starfaði við vitavörslu til ársins 1979. Haldnar hafa verið ýmsar listasýningar í nýja vitanum. Til að mynda hefur meðal annars verið haldin hvalasýning með teikningum, Norðurljósasýning RAX og vitasýning af vitum á Suðurnesjum.

Vitavarðarhús

Garðskagi

Garðskagi – Vitavarðahúsið.

Byggt var vitavarðahús árið 1933, húsið er steinsteypt og var notað sem íbúðarhús fyrir vitavörð. Árið 1951 var byggð viðbygging við vitavarðarhúsið en það var ferkantaður turn sem notaður var fyrir miðunarstöð og nokkur útihús tilheyrðu einnig búi vitavarðar. Húsið hefur nú verið notað undir ýmsar listasýningar ásamt því sem húsið hefur verið nýtt sem aðstaða fyrir sölu á handverkum.

Mikið er um minjar í Garðskaga. Svæðið hefur langa sögu af akuryrkju og hefur breski herinn einnig verið með viðveru á svæðinu á sínum tíma.

Garðskagi

Breskir dátar í viðbragðsstöðu við Garðskagavöll.

Gamli Garðskagaviti er einnig talinn til minja á svæðinu.
Steypt gangstétt lá frá gamla vita að bæjarstæði og var hún 170m á lengd og 1m á breidd. Í dag er enn steypt göngubrú sem liggur frá gamla vita að bílastæðinu. Göngubrúin er um 40 m á lengd og hefur henni verið haldið við með hlöðnu stórgrýti meðfram henni til þess að forðast rof.

Bær

Á árum áður var bær suðaustan við gamla vitann, fyrir framan vitavarðarhúsið, en ekki er hægt að sjá greinilegt byggingarlag fyrir bænum í dag.

Útihús
Nokkur útihús voru við bæinn en talið er að þau hafi verið þrjú í heildina.

Garðskagi

Garðskagi – túnakort 1919.

Fyrsta útihúsið var norðvestan á Garðskaga, nálægt nýjum vita, og tengdist bænum sem var þar áður. Í dag má sjá steyptan sökkul þar sem útihúsið stóð en sökkullinn er 3,2×3,2 m að stærð og er um 0,2 m á hæð. Annað útihús var norðan við vitavarðarhúsið en ekki sjást nein ummerki um útihúsið. Þriðja útihúsið var við vitavarðahúsið en engin ummerki eru um útihúsið.

Kálgarður

Garðskagi

Garðskagi – túnakortið frá 1919 sett ofan á loftmynd 2020.

Kálgarður var við bæjarstað og útihús 1. Ummerki um kálgarðinn sjást ekki en hins vegar var gerði við kálgarðinn sem er enn varðveitt í dag. Kálgarðurinn var 35x23m að stærð og myndaði 90 gráðu horn. Á norðurhluta kálgarðsins var kantur sem afmarkaði garðinn. Veggirnir á kantinum sjást enn og er hann frá 0,4m – 0,8m á hæð.

Akurreinar
Á Garðskaga voru akurreinar girtar af en þeim var skipt í fernt. Sumar akurreinarnar voru aflangar. Garðarnir voru hlaðnir upp úr klömbrum eða sverði. Lítið var um að hlaða þessa garða upp úr grjóti. Leifar eru af þessum görðum en um 18 akurreinar er um að ræða.

Túngarðar

Garðskagi

Garðskagi – loftmynd 1954.

Á svæðinu voru þrír túngarðar en má finna ummerki um tvo af þeim. Fyrsti túngarðurinn var í kringum tún bæjarins á Garðskaga en ekki eru ummerki um túngarðinn í dag. Annar túngarðurinn var við tún á suðvesturhorni Garðskaga, við núverandi veg. Garðurinn var um 100m langur og sjást leifar af honum í dag. Garðurinn er um 0,5m breiður og hæsti puntur er um 0,6m hár. Þriðji túngarðurinn og einn elsti garður á svæðinu er túngarður sem er staðsettur rúmum 160m frá strönd. Garðurinn er talin vera partur af rúmum 230m kafla af garði en tengsl á milli hafa rofnað á nokkrum stöðum. Túngarðurinn er um 4-6 m á breidd og er á milli 0,2m – 0,3m á hæð.

Skagavöllur

Garðskagi

Garðskagi – loftmynd 1954.

Þann 10. maí 1940 hernam Breski herinn Ísland. Á þessum tíma voru ekki til flugvellir á Íslandi en flugvélar voru mikilvæg hernaðartól og þurfti herinn því flugvelli. Mikilvægt var að finna staði sem voru nálægt siglingarleiðum. Herinn hafði ekki tæki og stórar vinnuvélar og því var einnig þörf fyrir að finna svæði þar sem hægt væri að gera flugbrautir á skömmum tíma með litlum kostnaði. Fundu þeir slíkt svæði á Garðskaga þar sem landið þar er óvenju slétt og jarðvegur þéttur og sendinn þannig að vatn settist hvergi að í langan tíma í senn. Samið var við landeigendur á svæðinu og hófust framkvæmdir á flugvellinum haustið 1940. Menn úr Garðinum, Sandgerði og annars staðar af Suðurnesjunum unnu við verkið.

Garðskagi

Garðskagaflatir – loftmynd 1954.

Stærsta verkið var að jafna völlinn þar sem torfið var fært til og síðan tyrft aftur yfir. Bifreiðar, hjólbörur og hestvagnar voru notaðir við að færa sand og túnþökur. Flugvöllurinn var síðan tilbúinn vorið 1941 og fyrsta flugvél lenti á vellinum einn sumardaginn síðar það árið. Flugbrautin var um 90 m breið og 1050 m löng en hún náði frá Garðskagavegi að Hafurbjarnastöðum. Flugvöllurinn var hins vegar ekki notaður mikið þar sem Bandaríkamenn byggðu stærri flugvöll á Miðnesheiði. Skagavöllurinn var því helst notaður sem neyðar- eða æfingavöllur.“

Heimild:
-Vitinn á Garðskaga – Hönnun umhverfis, aðgengis og aðkomu, Sigurlaug Herdís Friðriksdóttir, 2022.
-https://www.visitreykjanes.is/is/stadur/vitarnir-a-gardskaga

Garðskagi

Garðskagi – minjastaðir.

Skotbyrgi

Leifar skotbyrgja frá tímum Síðari heimstyrjaldarinnar er að finna á 23 stöðum á og við höfuðborgarsvæðið. Á þessum 23 stöðum eru 49 minjar, s.s. á Valhúsahæð (10), í Öskjuhlíð (6), á Garðaholti (5) og á Ásfjalli (5). Ýmist er um að ræða grjóthlaðin hringlaga skjól eða steypt.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – skotbyrgi.

Ofan við Setberg í Hafnarfirði, fyrrum Garðahreppi, á svonefndum Setbergshamri ofan við Þórsberg eru 4 grjóthlaðin byrgi. Þrjú þeirra má glöggt sjá á loftmyndum af Hafnarfirði frá árunum 1954 og 1958. Hið fjórða er í skjóli norðvestan undir hamrinum þar sem minna ber á því en hinum, sem ofar stóðu. Varðmönnum byrgjanna var greinilega ætlað að fylgjast með umferð norðan, vestan og sunnan hamarsins. Austar var Camp Russel á Urriðaholti (sem nú hefur verið þurrkaður út vegna nýrrar íbúðarbyggðar) og virkið á Flóðahjalla (Svínaholti).

Setberg

Setbergshamar – fornleifar.

Framangreind skotbyrgi ofan Setbergs eru augljós enn í dag (2023). Einhverra hluta vegna hafa misvísanir varðandi skráningu þeirra ratað inn í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar„. Þá hefur misfarist að skrá eina þá helstu, efst á standinum ofan Þórsbergs.

Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar VII, Setberg 2021“ segir m.a. um framangreindar minjar:
„Númer: 2625-12.

Setberg

Setberg – skotbyrgi.

Sveitarfélag: Hafnarfjörður. Landareign: Setberg. Tegund: Hleðsla. Hlutverk: Skotbyrgi. Ástand: Vel greinanleg. Aldur: 1900-1950. Lýsing: Kringlótt hleðsla sem er mikið hrunin, líklega skotbyrgi úr seinni heimsstyrjöldinni. Enginn sjáanlegur inngangur, gott útsýni í allar áttir. Veggjahæð er frá 0–0.2m og veggjabreidd þar sem hún er greinanleg er að jafnaði um 1m. Heimildir: Loftmyndir frá 1945, 1956 & 1958″

Setberg

Setberg – skotbyrgi.

„Númer: 2625-22
Sveitarfélag: Hafnarfjörður. Landareign: Setberg. Tegund: Tóft. Hlutverk: Útihús. Ástand: Vel greinanleg. Lengd: 8.6m. Breidd: 6.2m. Vegghæð: 0–0.7m. Breidd veggja: 0.6m. Lýsing: Grjóthlaðið útihús, inngangur í suður og timburleifar innan í rústinni. Töluvert hrunin. Veggjahæð er frá 0–0.7m og veggjabreidd er að jafnaði um 0.6m.“

„Númer: 2625-23
Sveitarfélag: Hafnarfjörður. Landareign: Setberg. Tegund: Hleðsla. Hlutverk: Stekkur. Aldur: 1550-1900. Lengd: 8.1m.
Breidd: 4.8m. Vegghæð: 0–0.3m. Breidd veggja: 0.4m. Lýsing: Stekkur, bogadregin hleðsla við klett sem myndar þannig aðhald, austur veggur er klettur. Vel siginn, mikill trjávöxtur í og við hleðsluna. Veggjahæð er frá 0–0.3m og upprunaleg veggjabreidd þar sem hún er greinanleg er að jafnaði um 0.4m.“

Setberg

Setberg – skotbyrgi.

Af framangreindu má sjá að þrjár fornleifar af fjórum eru í Fornleifaskránni skráðar á tiltölulega afmörkuðu svæði. Þá, sem vantar (skotbyrgi), má augljóslega sjá á loftmyndum frá því um miðja síðustu öld. Ein fornleifin af þremur er réttilega sögð vera „skotbyrgi“, hinar tvær eru sagðar vera „útihús“ og „stekkur“, sem fer víðs fjarri. „Timburleifar innan í“ meintu „útihúsi“ segir ekkert um fyrrum nýtingu minjanna.

Nú mætti ætla, af loftmyndunum að dæma, að ofan Setbergs hafi verið hlaðnar fjárborgir, líkt og aðrar 97 slíkar á Reykjanesskaganum, en við skoðun á vettvangi var augljóst að um „skotbyrgi“ hafi verið að ræða. Hermennirnir hefðu ekki fúlsað við vel og vandlega hlöðum fjárborgum Íslendinga þeim til skjóls og þar af leiðandi ekki talið ástæðu til að umbreyta þeim í þau hróf er dæmin eru um. Grjóthlöðnu skotbyrgin á stríðsárunum voru ekki „hlaðin“ sem slík, líkt og þau voru fyrrum ætluð til að veita búfénaði skjól í snjóum og vondum veðrum, heldur var þeim „hrófað“ skipulagslaust upp í svipuðum tilgangi; að veita hermönnum skjól fyrir veðri og vindum sem og mögulegum óvinum.

Setberg

Setberg – skotbyrgi.

Þegar minjarnar ofan Setbergshamars eru skoðaðar er augljóst að um skotbyrgi er um að ræða, en hvorki „útihús“ né „stekk“. Útihús voru yfirbyggð og stekkir voru tvískiptir. Hvorugu virðist í fljótu fari fyrir að fara ofan Setbergshamars. Til að gæta þó allrar sanngirni gætu minjarnar nr. 2625-23 mögulega hafa verið stekkur fyrrum, en hafa ber í huga að „stekkjartíðin“ lagðist af á þessu svæði fyrir aldarmótin 1900.

FERLIR er farið að lengja eftir góðum og gagnmerkum fornleifaskráningum á Reykjanesskaganum.

Heimild:
-Loftmyndir af Hafnarfirði 1954, 1956 og 1958.
-Vettvangsskoðun.
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar VII, Setberg 2021, bls. 25, 35, 42.

Setberg

Setberg – skotbyrgi.

Þinghóll

Ef litið er á sögu fornleifafræðinnar á Íslandi þá er hún í rauninni ekki mikið styttri en hefur gerst og gengið annarstaðar í heiminum. Hins vegar hefur kannski minna gerst og þróunin orðið hægari hér en víða annarsstaðar. Það hefur þó varla komið að sök í ljósi stöðu greinarinnar. Hún hefur tekið allmiklum breytingum í seinni tíð með tilkomu nýrra og áreiðanlegri rannsókna í hinum ýmsu stuðningsgreinum hennar. Virkni fornleifafræðinnar hefur enn aukist á allra síðustu árum með tilkomu aukins fjármagns frá yfirvöldum þótt vissulega megi deila um forræði og skiptingu þess til tiltekinna verkefna.

Fornleifar

Í þróunarsögu fornleifafræðinnar hér á landi er stuðst að nokkru við frásagnir í kennslugögnum HÍ í fræðigreininni. Í þeim kemur m.a. fram að aðdragandi að kenningarsmíð og hugmyndafræðikenningum í fornleifafræði hér á landi sé bæði tilkominn vegna áhuga, reynslu og þekkingar útlendinga á fornleifum (Danska fornminjanefndin, Kålund, Daniel Bruun) sem og heimamanna, einkum á fornsögulegum staðbundnum mannvirkjum (Hið íslenska bókmenntafélag, Jónas Hallgrímsson) og skráningu fornminja. Með skráningunni voru efnisflokkar fornminja m.a. afmarkaðir, s.s. haugar, þingstaðir, rúnasteinar og hof. Og hvað sem ólíkum rannsóknaraðferðum leið, þá var ljóst að á árunum 1860-’75 hafi fornleifaskráning verið á blómaskeiði hér á landi.
Eftir miðja 19. öld hélt fræðimaðurinn Hans Hildebrand (1842-1913) röð fyrirlestra í Stokkhólmi um sögu og menningu Íslendinga til forna Árið 1867 komu þeir út í bók sem nefndist “Daglegt líf á Íslandi á söguöld”. Í bókinni reynir höfundur að láta heimildir fornleifafræðinnar tala sínu máli um hina sögulegu tíma. Hún stendur eins og minnisvarði um stöðu rannsókna og heimilda á þessum árum. Horfa ber til þess að höfundi var þá og þegar ófært að gefa yfirlit yfir fyrstu aldir Íslandssögunnar því hér á á landi voru ekki hafnar reglubundnar rannsóknir, hvort heldur uppgröftur eða skráning á fornleifum, enda kvartaði hann undan skorti á gögnum um fornleifar.

Fornleifar “Skipuleg skráning fornleifa á Íslandi fór fyrst fram á vegum Konunglegu dönsku fornminjanefndarinnar. Árið 1817 sendi hún út spurningalista til allra sóknarpresta í landinu og eru svör þeirra enn eina heildstæða yfirlitið sem til er um íslenskar fornleifar á landsvísu.
Undir miðja 19. öld var annarri fornleifaskráningu ýtt úr vör. Hið íslenzka bókmenntafélag sendi sóknarprestum spurningalista árið 1838, en viðbrögð presta voru öllu minni en fyrr á öldinni og töldu margir þeirra engar fornleifar að finna í sínum sóknum. Er líða tók á 19. öld fór þjóðerniskennd Íslendinga vaxandi og henni fylgdi aukinn áhugi á fortíð þjóðarinnar. Í vísindum og fræðum birtist þessi áhugi einkum í rannsóknum á fornsögum, en jafnframt var sjónum beint að staðháttum og fornleifum sem hægt var að fella saman við lýsingar í fornritum. Fornleifakönnun fluttist af höndum presta til sérfróðra manna.
Það var danski norrænufræðingurinn Kristian Kaalund sem fyrstur ferðaðist um Ísland í þeim tilgangi að finna staði sem getið er um í fornsögum og lýsa staðháttum og fornminjum sem sagnir voru um að vörðuðu atburði eða einstaklinga frá söguöld. Rit hans Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse av Island, sem birtist á árunum 1877-1882 (íslensk þýðing Haraldar Matthíassonar var gefin út 1984-1986 undir heitinu Íslenskir sögustaðir), er enn þann dag í dag undirstöðurit í staðfræði Íslendingasagna og hinn vandaðasti leiðarvísir um söguslóðir.
Hið íslenzka fornleifafélag var stofnað 1879 og á vegum þess fóru fornfræðingar í rannsóknarleiðangra víðsvegar um landið næstu þrjá áratugina. Þar voru í broddi fylkingar Sigurður Vigfússon og síðar Brynjúlfur Jónsson. Markmið þeirra var áþekkt markmiði Kaalunds; að finna og lýsa fornleifum sem þeir töldu að gætu skýrt einstakar frásagnir í Íslendingasögum eða varpað ljósi á þjóðskipulag Íslands á söguöldinni.
Um aldamótin 1900 voru einnig á ferð hér danski kafteinninn Daniel Bruun og skáldið Þorsteinn Erlingsson, en þeir beittu til muna hlutlægari aðferðum en þeir Sigurður og Brynjúlfur höfðu gert. Báðir reyndu þeir að lýsa mismunandi tegundum fornleifa og Bruun gerði fyrstur manna skipulegar rannsóknir á landbúnaðarminjum frá síðari tímum og byggingarlagi íslenskra torfhúsa.
Fornleifar Fornleifaskráning í nútímaskilningi, þar sem leitast er við að skrá allar þekktar fornleifar, burtséð frá því hversu merkilegar þær kunna að þykja á hverjum tíma, hófst fyrst í Reykjavík á 7. áratugnum og hefur staðið þar með löngum hléum síðan. Ólíkt fornleifakönnun á 19. öld, sem hafði það að meginmarkmiði að finna áþreifanleg minnismerki um sögu lands og þjóðar, hefur áhugi á skráningu fornleifa síðastliðin 20-30 ár fyrst og fremst stafað af vaxandi áhyggjum af stórfelldri eyðileggingu fornleifa sökum þéttbýlismyndunar og vélvæðingar í landbúnaði.
Auk fornleifaskráningar á vegum opinberra aðila, hafa einstakir vísindamenn staðið fyrir fornleifaskráningu í rannsóknarskyni. Þar hefur fyrst og fremst verið um að ræða skráningu á eyðibyggðum og afdölum þar sem rústir eru í lítilli hættu. Síðast en ekki síst er rétt að minnast á að víða um land hefur áhugasamt fólk skráð fornleifar að eigin frumkvæði og á eigin kostnað. Slíkar skrár eru misjafnar að gæðum, enda upplýsingar skráðar á ýmsan hátt og misnákvæmlega, en reynast oft ómetanlegar heimildir um fornleifar sem síðar hefur verið hróflað við.”
Daniel Bruun var afkastamesti fornfræðingurinn á árunum 1894-1910. Hann rannsakaði minjastaði í öllum landshlutum , og ekki aðeins víkingaaldarminjar, heldur frá öllum tímaskeiðum íslenskrar menningarsögu.
Kristján Eldjárn var fyrsti Íslendingurinn, sem hlaut sérstaka menntun erlendis í fornleifafræði og þjálfun í fornleifarannsóknum undir leiðsögn fornleifafræðinga – (einkum í fornleifafræði Norðurlanda) á afmörkuðum fornminjum, s.s. kumlum , má segja að aðstaða hafi skapast til nánari skilgreininga á aldri, tilurð og uppruna þeirra. Einnig voru gerðar tilraunir til að horfa til þess frá hvaða fólki þær voru komnar, við hverjar aðstæður og reynt að leita svara við spurningunum “hvernig” og af hverju”. Á litlu öðru en skriflegum heimildum var þá að byggja lengi framan af – og í sumum tilvikum allt til vorra tíma. Í seinni tíð hefur athyglinni verið beynt að húsum og híbýlum þess fólks, sem hér nam land um og eftir 870 og síðar, þróun þeirra og gerð.
“Upp úr jarðvegi fornmenningaráhugans uxu tvær öflugar rannsóknarstefnur. Var það annars vegar um að ræða rannsóknir á hinum sameiginlega fornnorræna menningararfi frá lokaskeiði járnaldar, þ.e. hin svokallaða “víkingamenning”, og hinsvegar mjög þjóðleg fræði þars em áhersla er lögð á þjóðleg einkenni; þjóðmenningu”. Segja má því að þjóðmenningaráhuginn hafi verið undanfari menningarumleitunnar í fornfræðilegri merkingu. Hæg þróun var þó í þeirri viðleytni þangað til á allra síðustu árum. Hin menningarsögulega áhersla snerist fyrst og fremst um söfnun og varðveislu forngripa. Kristian Kålund skráði allt sem hann gat fundið um daglegt líf til forna(P.E.K. Kålund, Familielivet på Island í den förste sagaperiode (indtil 1030), Aarböger for nordisk Oldkyndighed og Historie, 1870) og Valtýr Guðmundsson tilfærði hverja vísun í húsagerð og húsbúnað og skrifaði um það heila doktorsritgerð en þetta eru aðeins dæmi um annars fjölskrúðuga fræðahefð þeirra daga.
Fornleifar Mikilvægt skref var tekið þegar athyglin beindist fyrst og fremst að forngripunum sjálfum og menningarsögulegu samhengi þeirra, en eftir sem fyrr í rómantísku ljósi. Í stað fornmenningar var sjónum nú beint að “venjulegri” bændamenningu og þekking um hana fengin úr áþreifanlegum munum, sem oft voru skýrðir með hliðsjón af gömlum hefðum, gömlu verklagi eða visku sem gamalt fólk bjó yfir og kunni. Nú hefur þessum þætti fornleifafræðinnar enn fleygt fram hvað áhuga, þekkingu og áreiðanleika varðar. Þar kemur að þætti hinnar kennilegu fornleifafræði – nálgun með nýjum hætti.
Klæði, tréskurður, íslenski torfbærinn og grafir sem og einstakir gripir eru m.a. nokkur af viðfangefnum kennilegrar fornleifafræði. Það er athyglisvert sérkenni á íslenskri fornleifafræði hve sjaldan hefur verið reynt að taka saman árangur rannsókna og draga upp þann heildarsvip sem vitnisburður fræðigreinarinnar hefur af sögu lands og menningar. Kaalund reið á vaðið árið 1882, en þá var frá litlu að segja. Bruun hafði gert sér grein fyrir gagnsemi þess, en enginn Íslendingur reyndi að draga fram heildarmyndina fyrr en á s.hl. 20. aldar. Það féll í hlut Krisjáns Eldjárns að semja fyrsta, frumlegasta og langítarlegasta yfirlitið um alla helstu þætti fornleifarannsókna hér á landi. Var það í tilefni af 1100 ára búsetu hér á landi; Saga Íslands. Þar er að finna jarðsögu Íslands, sögu veðurfars, gróðurs og eldvirkni, vitnisburð fornleifafræðinnar um landnám mannsins og menningu, og upphaf allsherjarríkis, upphaf kirkju og samskipti við útlönd. Hlutverk fornleifafræðingsins í þessu riti var mikilvægt og hefur framlag hns að geyma heildarmynd sem enn hefur ekki verið hrakin þótt vissulega hafi ágreiningur vaxið um einstök atriði á síðustu árum þar sem nýjar áherslu hafa komið fram. T.a.m. hafa fundist leifar af kornrækt, áhöld, rauðablæstri og ýmslegar aðrar efnislegar leifar manna. Kristján og samverkamenn hans skilgreindu fornleifafræðina fyrst og fremst se aðferð til að afla heimilda um verkmenningu, en ekki t.a.m. andlegt líf, samfélagsgerð, efnahag og fleira. Áherslan var lögð á að lýsa þeim þáttum daglegs lífs sem finna mátti áþreifanleg ummerki um. Þótt engin áhersla hafi verið lögð á að rannsaka samfélagið eða samfélagsgerð, þá er ljóst að menningarsögurannsóknir byggja á annarri pólitískri afstöðu en t.d. rómantíski skólinn. Rannsóknarsviðið er víðtækara, fornmennirnir verða nafnlaus almúgi, höfuðbólið er ekki tekið fram yfir hjáleiguna, hvert mannsins verk er jafnmerkilegt, ekki aðeins skrautmunir eða vopn. Það er alþýðumenningin sem verður lykilatriði. Virðing er borin fyrir lítilmagnanum í sögulegri framvindu. Það kostaði Kristján hörku að sannfæra menn um gildi smárra hluta, um verklag, um hag fátækrar alþýðu.
Fornleifar Uppgraftartækni, aldursgreiningar, byggðaþróun, áhrif veðurfars og meðvitund um gildi efnahags hefur knúið fram breytta hugsun; nýjar og þróaðri aðferðir. Framan af takmarkaðist hinar hefðubundnu spurningar í íslenskri fornleifafræði við hag þjóðarinnar, þ.e. hvers vegna ákveðnar byggðir lögðust í eyði, og hvers vegna járngerð, kornrækt og svínarækt lögðust af. Í stað mjög almennra rannsóknaspurninga um búsetuþróun, hefur orðið mikill vöxtur í nýjum upplýsingum um bústeuskilyrði á öllum tímum. Í stað þess að einblína á afdrif og örlög einstakra búsetuþátta hefur athyglin beinst að heildinni, hinu efnahagslega kerfi sem þróaðist í landinu frá landnámi og fram til iðnvæðingar og þéttbýlismyndunar. Starf fólks er ekki lengur skoðað sem fornir landbúnaðarhættttir eða verklag, heldur sem framleiðsluþættir, orka og afurðir, neysla og vöruviðskipti. Spurt er hvernig var kerfið, hvernig virkaði það, hvað olli breytingunum. Til þessar rannsókna hefur verið, sem fyrr sagði, notast við margvíslega tækni, s.s. frjókornagreininu, dýrabeinagreiningu og jarðvegsathuganir. Frjókornamælingar staðfesta að birkiskógar hopa fyrir graslendi og helstu dýrabein úr úrgangslögum landnámsbæja birta heildarsvip hefðbundins búfénaðar á hverju býli; nautgripir, sauðfé, geitur, svín og hestar. Jarðvegsrannsóknir á áhrifum mannsins á umhverfið sýna að framvindan þegar á landnámsöld hafi ekki aðeins verið hröð heldur hafi landnám mannsins haft mikil og afgerandi áhrif á gróður, jarðveg og landslag.
Rannsóknir á dýrabeinum og öskuhaugum hefur fleytt fram síðustu ár og árangur þeirrar myndar meginstofn heimilda um lífsviðurværi og afkomu fólks á fyrri tíð. Rannsóknir og greining á einstökum efnisleifum, s.s. keramiki, málmi og gleri, geta orðið sagt bæði til um tímatilurð og upprunastað og þar með um verslun og viðskipti sem og jafnvel um innihald. Nýjustu rannsóknir á ískjörnum geta mögulega auðveldað túlkun á breytingum sem birtast í t.d. húsagerð, landnýtingu, bústetumynstrum, samsetningu búfjárstofna eða mataræði.
Af fornvistfræðirannsóknum eru það einkum dýrabeinarannsóknir sem upp úr standa. Dýrabein eru heimild um efnahag til forna og þau endurspegla lífsviðurværi fólks á ýmsum tímum, þ.e. sýna hvaða veiðar voru stundaðar og hver var bústofn heimilanna.
Fornleifar Engar ritaðar heimildir eru til um lífsviðurværi þjóðarinnar fyrr en á síðari öldum og eru allar rannsóknir á þessu sviði því vel þegin viðbót fyrir aðrar vísbendingar sem forleifafræðin gefur um hina sögulausu fortíð. Beinin er talin og flokkuð og greind til dýrategunda, stærð og aldur dýranna metinn og jafnvel áverkar á beinunum, sem stundum gefa til kynna verkunaraðferð eða slátrun. Á grundvelli talningarinnar er hægt að áætla hlutföll á milli mismunandi tegunda og skoða vægi þeirra, s.s. fiðurfénaðar og fiska, sauðfé, nautgripa og svína. Þessi rannsókn býður upp á nýtt sjónarhorn til að skoða efnahag fólks á forsöguskeiðum. En hún kallar jafnframt á töluverða fyrirhöfn og enn er langt í land að hægt sé að lýsa með nokkurri nákvæmni lífsviðurværi eða afkomu þjóðarinnar á grundvelli beinarannsóknanna. Þó er ljóst að með þessum rannsóknum verður unnt að komast nær um ýmsa þætti, s.s. þátt veiðimennsku í upphafi landnáms og á síðari tímum, efnahagslegan mun á stórum býlum og smáum og í hverju hann felst, þróun sauðfjárbúskapar, nýtingu sjávarafurða, stærð og samsetningu búpenings á ýsum tímum, áhrif veðurlagsbreytinga á þjóðarhag og þróun íslensks efnahags frá landnámi fram á síðustu aldir.
Auk rannsókna á fornleifum og beinum og plöntuleifum, hafa einnig verið gerðar nýstárlegar athuganir á öllum smærri einingum, sem finnast við fornleifarannsóknir. Er þar annarsvegar um að ræða athuganir á leifum skordýra, sem varðveist hafa í jarðvegi, og hinsvegar míkróskópískar athuganir á innihaldi gólfefna húsa. Ýmis skordýr hafa fylgt manninum og tekið þátt í mannlífinu á ýmsa vegu í dul smæðar sinnar. Í undirlaginu spretta fram heillandi myndir af lítt könnuðum hliðum mannlegs eðlis, s.s. fornum mannasaur og innihaldi hans, hland, lýs og flær. Þessar athuganir sýna líf fólks og samfélag þeirra í nýju ljósi. Árangur umhverfisrannsókna í þágu fornleifafræðinnar er fyrst og fremst fólginn í nýrri aðferðafræði og umbótum á þessum aðferðum. Þessi fræði eru enn í mótun. En hafa ber í huga að ekki dugir að einblína á raunvísindalegar niðurstöður sem sýna breytingar eða þróun og orsakasamband milli náttúru og mannlífs, heldur þurfi einnig að þróa kenningar sem gera ráð fyrir samfélagslegum og pólitískum áhrifum breytinga eða kyrrstöðu. Vandinn liggur í fjölbreyttum möguleikum á túlkun gagnanna og reynslan á eftir að leiða í ljós að hve miklu leyti fornvistfræðin mun breyta núverandi hugmyndum um efnahag og áhrif umhverfis á hann á fyrri kynslóðir, eða staðfesta ríkjandi skoðanir sem sprottnar eru af sagnfræði og hefðbundinni fornleifafræði.

Heimildir:
-Kennileg fornleifafræði, Ian Hodder, Orri Vésteinsson og Uggi Ævarsson þýddu, Ritið, Tímarit hugsvísindastofnunar Háskóla Íslands, 2004, bls. 195-198.
-Úr “Lesköflum í íslenskri fornleifafræði” – handrit – HÍ, Adolf Friðriksson tók saman – 2003.
-Hans Olof Hildebrand, Livet på Island under sagotiden, Stockhom, Joseph Seligmanns bokhandel, Jos, 1867.
-http://www.instarch.is/instarch/rannsoknir/skraning/saga/
-Daniel Bruun, Fortidsminder og Nutidshjem paa Island (2°édition), Kaupmannahöfn, Gyldendal, 1928.
-Í handriti að varnarræðu Kristjáns við doktorsvörn hans 1956 sést að hann var undir handleiðslu Johannes Bröndström hjá National Museet í Kaupmannahöfn.
-Kristján Eldjárn, Kuml og haugfé 2, útg. 2000.
-Adolf Friðriksson – Leskaflar í fornleifafræði – HÍ – 2003.
-Valtýr Guðmundsson, Privatboligen paa Island I Sagatiden samt delvis I det övrige Norden, KH, 1889.
-P:E:K: Kaalund, Islands fortidslævninger, Aarböger for nordisk Oldkyndighed og Historie, 1882.
-Daniel Bruun, Fortidminder og nutidshjem paa Island, 1987 og 1928.
-Sigurður Línda ritstj., Saga Íslands, Reykjavík, Hið íslenska bókmenntafélag, Sögufélagið, I – 1974.
-Andrew J. Dugmore, Anthony J. Newton, Guðrún Larsen og Gordon T. Cook, Tephrochronology, Environmental Change and the Norse Settlement of Iceland, Environmental Archeaology, 2000.
-Thomas Amorsi, An Archaeofauna from Storaborg, Southern Iceland, Unpublished report on file at the National Museum and Hunter College, 1986.

Húshólmi

Minjasvæði í Húshólma.

Gálgahraun

Nokkuð hefur verið skifað um áætlað landnám hér á landi, hvort sem um er að ræða út frá rituðum heimildum eða nærtækari vísindaaðferðum, s.s. gjóskulagarannsóknum eða geislakolsgreiningum. Páll Theódórsson, Vilhálmur Örn Vilhjálmsson, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, Karl Grönvold og Ingrid Olson hafa m.a. fjallað um þetta viðfangefni út frá viðkomandi fræðigreinum.

Húshólmi

Skáli í Húshólma.

Árný lýsir aldursgreiningum með geislakoli, nálgunum og leiðréttingum, s.s. trjáaldursgreiningu, sjávar- og samsætuleiðréttingum. Sjávarleiðréttingin lýtur t.a.m. að leiðréttingum upp á ein 400 ár. Aðferðin sjálf er tiltölulega einföld, en margs ber að varast, hvort sem er við öflun sýna og meðferð þeirra. Þá ber að hafa margt í huga er leitt getur til skekkjumarka. Hér verður aðferðinni ekki lýst enda auðvelt að nálgast gögn um hana í neðangreindum heimildum.
Páll segir í grein sinni að „þótt grundvallaratriði aðferðarinnar séu einföld er af sögulegum ástæðum nær ávallt farin nokkuð flókin leið til að útskýra hvernig aldur sýnir er fundinn af geislavirkni kolefnisins.“ Vísindin sem slík eru ekki markmið fornleifafræðinnar heldur menningarsagan. En varpa má ljósi á söguna með aðstoð vísindanna.

Landnámslagið

Landnámslagið (Settlement).

Öll lífræn efni taka til sín kolefni úr andrúmsloftinu. Þegar þau deyja byrjar kolefnið að dvína. Helmingunartími þess er um 5700 ár. Þannig er hægt með varfærni og ákveðnum aðferðum að mæla áætlaðan aldur lífvera s.l. 200 til 50.000 ár og jafnvel lengur. Þótt hægt sé að greina aldur allra lífvera er öruggast að aldursgreina bein af húsdýrum og mönnum.
Tvö öskulög hafa einkum verið notuð í fornleifarannsóknum, svokallað landnámslag, sem samkvæmt C14 greiningum er talið vera frá um 890, og öskulagið H-1 eða H-1104 úr gosi í Heklu. Rannsóknir á borkjörnum í Grænlandsjökli gefa gos til kynna á þeim tíma, en einnig árið 871 (sem virðist vera hið eiginlega landnámslag). Ef það er rétt gæti þar verið komin skýringin á öskulaginu yfir mannvirkjum í Húshólma í Ögmundarhrauni, sem haf skv. því verið reist um og eftir 871.

Óbrennishólmi

Virki eða fjárborg í Óbrennishólma.

Páll telur að „vísbendingin um landnám snemma á áttundu öld sé orðin svo sterk að íslenskir fræðimenn komist ekki hjá því að taka hana alvarlega.“ Tekur hann m.a. mið af uppgötvunum á aldri landnámslagsins að tilstuðlan gjóskulagafræðinnar, árhringjagreiningar, geislakolsgreiningar og frjókornarannsókna.
Ingrid Olson segir að „út fá þeirri þekkingu sem við búum við nú á dögum er mögulegt að álykta að hin hefðbundna tímasetning á landnáminu sé rétt, en líklegra er þó að upphaf landnámsins sé eldra.“ Sýni, sem tekin voru við uppgröft í miðbæ Reykjavíkur og í Vestmannaeyjum, bentu við geislakolsmælingu til þess að væru eldri en sögulegar heimildir um landnám gefa til kynna.

Gjóskusnið

Unnið við að sniðgreina gjóskulög í jarðvegssniði.

Þannig virtist landnámslagið vera yfir mannvistarleifum á þessum stöðum er aftur gæfu til kynna að landnám hafi veirð hafið hér á landi nokkuð fyrir árið 870, eða nokkru áður en „hið skráða“ landnám gefur til kynna. Spurningin er bara „hversu löngu“ áður? „Landnámið greinist yfirleitt eldra en söguleg hefð (874) segir til um. Ef horft er á stöðuna ein og hún lítur út í ljósi þeirrar þekkingar sem við búum yfir í dag um C14 aldurgreiningar, getur landnám mjög líklega hafa hafist einhvern tímann frá lokum 8. aldar og fram til loka 9. aldar. Nákvæmari tímasetning út frá C14 aldurgreiningum er ekki möguleg miðað við núverandi aðstæður.“
Perlur Karl Grönvold segir að „eldgossins, sem myndaði landnámslagið er hvergi getið í heimildum og því hefur nokkuð verið litið til geislakolsgreininga. Landnámslagið er auðþekkt öskulag sem fallið hefur rétt um landnám en er hvergi getið í heimildum og kemur geislakol þar nokkuð við sögu. En enginn vafi er hins vegar á því hvar lagið liggur í hinum afstæða öskulagatímaskala. Sigurður Þórarinsson fann þetta öskulag fyrst við rannsóknir sínar í Þjórsárdal en á Suðrvesturlandi er það tiltölulega auðþekkjanlegt vegna þess að það er tvílitt, hvítt og svart (dökktvígrænleitt), og kallaði Sigurður það upphaflega VII a og b. Í Grænlandsísnum reyndust vera vera tveir greinilegir leiðnitoppar, annar við 871 og hinn við 898. Það var hins vegar aldrei haldið fram sem vissa að annar þeirra ætti við landnámslagið heldur bent á það sem möguleika.“

Landnámsöskulagið

Dökka lagið með ljósum botni þar fyrir neðan er Landnámsöskulagið. Ofan þess má m.a. sjá Miðaldaöskulagið.

Vilhjálmur segir að „allmargar niðurstöður, sem fengist hafa við kolefnisaldursgreiningar á sýnum á Íslandi benda til þess að landnám hafi hafist fyrr en hingað til hefur verið haldið.“ og jafnframt að „löngu áður en niðurstöður sumra kolefnisaldursgreininga gátu bent til landnáms fyrir þann tíma, sem ritaðar heimildir segja til um, höfðu verið settar fram kenningar um fasta búsetu fyrir tíma hefðbundins landnáms. Hingað til hafa ekki fundist neinar fornminjar við rannsóknir eða á söfnum, sem geta bent til keltneskrar eða norrænar búsetu, miklu ledri en frá þeim tíma sem ritaðar heimildir segja til um. Fornleifarannsóknir, fornminjar og aldursgreiningar á Íslandi geta þó á núverandi stigi bent til eldra landnáms á Íslandi en hins norræna í lok 9 aldar.“

Af framangreindu má sjá að með frekari rannsóknum má vænta óvæntra tíðinda er varpað geta með meiri nákvæmni en áður á landnám hér á landi.
uppgröftur Í ljósi alls þessa skýrist sú varfærni þegar komist er að orði í eftirfarandi kynningu um fornleifarnar í Aðalstræti í miðborg Reykjavíkur: „Sagan segir að Ingólfur hafi valið sér Reykjavík til búsetu eftir tilvísun guðanna vegna þess að öndvegissúlur hans rak þar á land. Líklegra er þó að Reykjavík hafi verið valin vegna ótvíræðra landkosta. Þar má nefna milda veðráttu, gott skipalægi, nægt undirlendi, rekafjörur, mýrar til rauðablásturs og mótekju, heitt vatn í jörðu, gjöful fiskimið, eggver og selalátur í eyjum, ágætt beitiland, akureyjar og laxveiði í ám. Landnámsmennirnir þurftu ekki síst að treysta á veiðiskap sér til lífsviðurværis og er staðurinn sem Ingólfur kaus sér heppilegur frá því sjónarmiði.“ Hér er ekkert minnst á „hið fyrsta landnám“ í Reykjavík, enda óljóst að svo hafi verið ef tekið er mið af vísindalegum niðurstöðum.

Hafnir

Hafnir – fornaldarskáli frá því fyrir norrænt landnám.

Svo virðist sem nefndur Ingólfur, sem hampað hefur verið sem „hinum fyrsta landnámsmanni“ og settist að í Reykjavík, hafi komið á eftir ýmsum öðrum, sem hér höfðu dvalið um allnokkurt skeið, enda virðist það bæði staðfest af ýmsum örnefnum sem og þeim minjum, sem einn á eftir að skoða, ekki síst á Reykjanesskaganum og á sunnanverðum Austfjörðum. Alla jafna hafa fornleifar verið rannskaðar á stöðum með sögulegar skírskotanir. Ef horft yrði framhjá skráðum heimildum og einungis tekið mið af þeim minjum, sem vitað er um og þekktar eru af staðkunnugum um land allt, er ekki ólíklegt að ýmislegt gæti komið þar fram er varpað gæti ljósi á upphafið og tilurð þess – með aðstöð vísindalegra möguleika.

Heimildir:
-Páll Theódórsson. 1997. Aldur landnáms og geislakolsgreiningar. Skírnir, 171. 92-109.
-Páll Theódórsson. 1992. Aldursgreining með geislakoli. Takmarkanir og möguleikar. Árbók hins íslenska fornleifafélags. 59-75.
-Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson. 1990. Kolefnisaldursgreiningar og íslensk fornleifafræði. Árbók fornleifafélagsins. 35-70.
-Árný Erla Sveinbjörnsdóttir. 1996. Aldursgreiningar með geislakoli. Um landnám Íslands (ritstj. Guðrún Ása Grímsdóttir). Vísindafélag Íslendinga. Ráðstefnurit V. Bls. 59-75.
-Ingrid Olson og Erla Vilmundardóttir. 2000. Landnám Íslands og C14 aldursgreiningar. Skírnir, 174. 119-149.
-Karl Grönvold. 1995. Öskulagatímatalið, geislakol, ískjarnar og aldur fornleifa. Nokkrar athugasemdir við skrif Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar. Árbók hins íslenska fornleifafélags. 163-184.

Einihlíðar

„Landnámsmaður“ í Einihlíðum.

Hvaleyrarvatn

Í sumar (2022) standa yfir framkvæmdir í kringum Hvaleyrarvatn. Skv. upplýsingum á skilti, sem sett hefur verið upp á vesturbílastæðinu er ætlunin að betrumbæta bílastæðið og bæði lagfæra og fjölga göngustígum umhverfis vatnið.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – minjar (ÓSÁ).

Við upphaf framkvæmdanna spurðist fulltrúi FERLIRs fyrir um það hjá verktakanum hvort starfsmennirnir væru meðvitaðir um staðsetningu fornminja við vatnið. Hann hafði ekkert heyrt um neina fornminjar á svæðinu og virtist kæra sig kollóttan um hugsanlega tilvist þeirra. Nokkrum dögum síðar var búið að reka niður rauða hæla í tóftir Hvaleyrarsels og Ássels, en öðrum nálægum fornleifum hafði verið sleppt.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Síðar vakti athygli að plastborði hafði verið strengdur umhverfis þrjár tóftir í seljunum tveimur. Þegar FERLIRsfulltrúinn spurðist fyrir um ástæðu þess að ekki væri búið að merkja aðrar nálægar fornleifar, s.s. stekkina neðan við bæði selin var svarið. „Hönnuðurinn virðist ekki hafa haft hugmynd um fornleifar við vatnið. Það kom honum a.m.k. mjög á óvart að spurst hafði verið um þær“.
Hafa ber í huga að upplýsingar um allar fornleifar við og nálægt Hvaleyravatns hafa verið aðgengilegar á vefsíðu FERLIRs í a.m.k. 20 ár. Ef hönnuðurinn kynni að „gúggla“ hefði hann ekki komist hjá því að fá nauðsynlegar upplýsingar um minjar við vatnið.
Nú þegar vitund hefur kviknað hjá a.m.k. einhverjum væri ekki úr vegi og taka upp þráðinn og merkja þær minjar, sem fyrir hendir eru, gangandi og hjólandi til fróðleiks…

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – upplýsingaskilti um framkvæmdirnar.