Tag Archive for: minjar

Þingvellir

Í Morgunblaðinu árið 2018 má finna skrif Einars Á.E. Sæmundsen um „Þingvelli, friðun og fullveldi„. Þingvellir skipa sérstakan sess í hjarta íslensku þjóðarinnar. Einar Á.E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, fjallar hér um mikilvægi staðarins í sjálfstæðisbaráttunni.

Einar E.Á. Sæmundsen

Einar E.Á. Sæmundsen.

„Saga Íslands og íslensku þjóðarinnar kemur hvergi betur fram á einum stað en á Þingvöllum við Öxará. Með stofnun Alþingis um árið 930 urðu Þingvellir að einum mikilvægasta samkomustað landsins. Eftir að formlegu þinghaldi lauk árið 1798 urðu Þingvellir að hljóðum stað utan alfaraleiða.
[Reyndar er þetta ekki alveg rétt. Saga Íslendinga endurspeglast hvergi betur en í minjum þeim sem skilgreina má sem leifar liðinna kynslóða um land allt, frá upphafi byggðar til vorra daga. Að skilgreina Þingvelli sem miðdepil alls athafna- og mannlífs í landinu í gegnum tíðina verður að teljast svolitla þröngsýni].
Kröfur um aukna sjálfstjórn til handa Íslendingum og heimsóknir erlendra ferðamanna færðu Þingvöllum nýtt hlutverk í samfélaginu að loknu þinghaldi. Erlendir ferðamenn, sem komu til Þingvalla, undruðust og dáðust að landslagi og söguminjum um leið og þeir fengu fyrirgreiðslu hjá presti og fólki hans á Þingvöllum. Lýsingar ferðamanna rötuðu á ferðabækur og komu Þingvöllum á kortið sem fyrsta ferðamannastað landsins.

Kristján VIII

Kristján VIII Danakonungur.

Á sama tíma náðu straumar sjálfstæðisvakningar í Evrópu til Íslendinga. Við það fengu Þingvellir táknrænt hlutverk í þjóðlífinu þar sem saga Alþingis á þjóðveldisöld var sett fram í ræðum og ritum. Fjölnismenn settu fram kröfur um að endurvekja Alþingi á Þingvöllum. Úr varð þó með konungsúrskurði Kristjáns VIII, um stofnun þings á Íslandi, að endurnýjað Alþingi kom saman í húsi Menntaskólans í Reykjavík 1. júlí 1845. Þrátt fyrir það urðu Þingvellir að mikilvægum fundarstað þar sem kjörnir fulltrúar mættu til hvatningarfunda allt til ársins 1907, til knýja á um meiri réttindi Íslendingum til handa. Þingvellir festust í sessi sem mikilvægur staður til að fagna merkustu atburðum í sögu þjóðarinnar eins og afhendingu stjórnarskrárinnar 1874 á völlunum skammt norðan við Öxará. Á síðari hluta 19. aldar fjölgaði gestum á Þingvöllum og var því gistihúsið Valhöll reist skömmu fyrir aldamótin norðanvert á þingstaðnum forna.

Þingvellir 1907

Heimsókn Friðriks VIII til Þingvalla 1907.

Heimsókn Friðriks VIII konungs til Íslands í ágúst 1907 var stórviðburður sem hafði mikil áhrif vegna allra þeirra framkvæmda sem fylgdu heimsókninni víða um land en einnig vegna þess samningaferlis sem hófst í kjölfar konungsheimsóknarinnar og átti eftir að leiða til fullveldis Íslands 1918. Heimsókn konungs var ekki án gagnrýni. Árið 1907 birtist fyrsta skrif þar sem fjallað var um nauðsyn þess að friða Þingvelli og aðra staði. Í grein sinni „Um verndun fagurra staða og merkra náttúruminja“ í Skírni fjallaði Matthías Þórðarson fornminjavörður um nauðsyn þess að friða merka staði landsins og ritar:

Þingvellir

Almannagjá.

„Fyrst og fremst má nefna Almannagjá alla og svæðið umhverfis Þingvelli við Öxará,– er ekki getur kallast sögustaður alt eða talist til fornmenja“.
Síðar í grein sinni nefnir hann að vegagerð hafi spillt Almannagjá og söguminjum þar. Hann fjallaði um friðunaráform erlendis og nefndi meðal annars Yellowstone í Bandaríkjunum sem dæmi um stað sem friðaður væri með allsherjarlögum. En vegurinn var kominn um Almannagjá og greiddi leið gesta til Þingvalla. Fleiri ferðamenn komu og vinsældir Þingvalla jukust jafnt og þétt. Fyrsti helgaráfangastaður ferðamanna utan Reykjavíkur var orðinn að veruleika en slæm umgengni varð viðvarandi.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá frá vestri til austurs.

Árið 1913 ritaði Guðmundur Davíðsson kennari grein í Eimreiðina sem ýtti hugmyndum um friðun Þingvalla úr vör. Honum blöskraði umgengnin og ritaði: „Náttúrufegurð og sögufrægð Þingvalla gæti ekki verið höfð í jafnlitlum metum hjá neinni menningarþjóð, eins og raun er á, nema Íslendingum einum.“
Guðmundur hafði kynnt sér hugmyndir um þjóðgarða erlendis og lýsti þeim: „Þjóðgarðarnir eru friðhelgir reitir. Engum er leyft að deyða þar nokkra skepnu, né skemma jurtagróðurinn. Náttúran fær algerlega að njóta sín, óspilt af hálfu mannsins og alidýra hans. Þjóðgarðar þessir eru flestir þjóðeignir og opinberir skemtistaðir almennings, – „til gagns ok gleði fyrir þjóðina“, eins og komist er að orði um þjóðgarðinn fræga í Bandaríkjunum.“

Þingvellir

Þingvellir við Öxará ásamt „allra þjóða gestum“.

Niðurstaða Guðmundar var skýr en hann ritaði að „Þingvellir við Öxará væri sá staður, sem framar öllum öðrum stöðum hér á landi ætti skilið að vera gjörður að þjóðgarði Íslands.“
Í grein sinni lýsti hann ýmsum hugmyndum varðandi framtíðarnýtingu svæðisins, mögulega stærð og hvaða áhrif friðunin myndi hafa. Í lokin nefnir hann að til að varðveita Þingvelli sem best á 1.000 ára afmæli Alþingis árið 1930, sem þó voru enn 17 ár í, væri best að friðlýsa svæðið sem þjóðgarð.
Greinin vakti athygli og var gagnrýnd. En fræjum var sáð með þessari hugvekju Guðmundar og á næstu árum fóru fram umræður um framtíð Þingvalla og hugmyndir um þjóðgarð.

Þingvellir

Þingvellir 1944.

Sumarið 1918 voru samningaviðræður á lokastigi um fullveldi Íslands. Sunnudag einn í júlí gerði samninganefnd Dana og Íslendinga um fullveldissamninginn hlé á vinnu sinni og fór í dagsferð til Þingvalla. Þrátt fyrir kalsalegt veður gengu þeir um vellina og virtu fyrir sér söguminjar staðarins og nutu veitinga í Konungshúsinu skammt neðan við Öxarárfoss. Var glatt á hjalla og komið seint til baka til Reykjavíkur.
Líklega má telja að þessi einfalda heimsókn samninganefndarinnar til Þingvalla hafi verið eina beina tenging Þingvalla við samningagerðina um fullveldi Íslands í konungssambandi við Danmörku sem tók gildi 1. desember 1918. Þrátt fyrir það var saga og ímynd Þingvalla alltaf Íslendingum hvatning til að vinna að sjálfstæði Íslands áratugina á undan.
Rúmum aldarfjórðungi síðar, þann 17. júní 1944, urðu Þingvellir meginvettvangur stærsta atburðar í nútímasögu Íslands þegar sambandinu við Danmörku var slitið og stofnað sjálfstætt lýðveldi á Lögbergi að viðstöddu fjölmenni.“

Heimild:
-Morgunblaðið 01.12.2018, „Þingvellir, friðun og fullveldi, Einar Á.E. Sæmundsen, bls. 16.

Þingvellir

Þingvellir – íslenski ríkisfáninn að húni á Lögbergi.

Hvítanes

Í Skýrslu um „Hernámið frá sjónarhóli Fornleifafræðinnar: Skráning á minjum úr Síðari heimsstyrjöldinni í Hvítanesi í Hvalfirði“ frá árinu 2025 segir m.a.:

„Skýrsla þessi fjallar um herminjar í Hvítanesi í Hvalfirði. Rannsóknin var síðasti áfangi verkefnisins Hernámið frá sjónarhóli fornleifafræðinnar sem, eins og nafnið gefur til kynna, beindi sjónum sínum að herminjum hér á landi.
HvítanesHvítanes gegndi mikilvægu hlutverki í hernaðarsögu Íslands, en þar var flotastöð sem þjónustaði herskip bandamanna. Í skráningunni voru samanlagt skráðar 398 minjar á 179 stöðum. Skráningin leiddi í ljós fjölbreyttar herminjar; bryggjur, byggingar, vegi, og aðra efnislega innviði sem tilheyrðu flotastöðinni. Skýrslan veitir innsýn í byggingarsögu svæðisins og efnismenningu hersins. Í minjunum er fólgin vísbending um þá starfsemi sem fór fram í Hvítanesi og þau áhrif sem flotastöðin hafi á staðbundna landnotkun og samfélagið á svæðinu.
Ástand herminja í Hvítanesi er sæmilegt en þó hefur nokkuð af minjunum neðst í nesinu skemmst við malarnám og aðrar framkvæmdir og virðist minjum hafa verið raskað enn frekar eftir að skráningu lauk. Rannsóknin í heild varpar ljósi á ástand herminja í landinu og mikilvægi verndunar þeirra og getur lagt grunn að frekari rannsóknum og stefnumótun í varðveislu slíkra menningarverðmæta hér á landi.

Hvítanes – sagan

Hvítanes

Hvítanes – herforingjaráðskort 1903.

20 hdr. 1705.
1585: Jörðin gefin í arf. Metin á 20 hdr. Jarðabréf, 18.
Í eyði frá um 1942, í Hvítanesi byggði herinn mikið af byggingum, herskálahverfi o.fl. og lagðist jörðin því í eyði. Í bókinni Kjósarmenn eftir Harald Pétursson segir: ,,Jón Helgason og síðari kona hans Lára Þórhannesdóttir bjuggu í Hvítanesi 1933-1941, en hrökkluðust þaðan er jörðin var hernumin. Þar hefur ekki verið búið síðan.“
1705: „Túnum og úthögum spillir fjallsskriða. Engjar eru nær öngvar, því skriður hafa mestan part eyðilagt þær litlar sem voru.“… „… þar er stór tún, rammþýft. Engi lítið grasgott og lítið land til veitar – ekki óhult fyrir aurskriðum á túnið.“ Túnakort 1917: „Mest alt túnið sléttað, smáblettir og jaðrar þýfðir. Tún telst 5,9 t. (Mikil útgræðsla). Kálgarðar 950 m2.“

Hvítanes

Hvítanes – túnakort 1917.

„Kálgarður var austan við bæinn, en þegar byggt var, 1914, var gamli bærinn jafnaður við jörðu og gerður kálgarður þar; hann var þá vestan við bæinn. Snúrur voru framan við bæinn. Talið var vita á þurrk, þegar lét hátt í Glym í Botnsdal,“ segir í örnefnaskrá.
Í bókinni Ljósmyndir segir um Hvítanes: „Bætti Sveinbjörn [Einarsson, kemur 1907, fer 1921] mikið túnið í Hvítanesi, byggði þar lítinn steinbæ í stað baðstofunnar gömlu og stendur hann enn að mestu.

… Var jörðin Hvítanes mjög notaleg jörð, túnin stór og grasgefin, en engjar litlar. Hafði túnið verið stórbætt á liðnum áratugum, byggð heyhlaða, votheyshlaða og allgóð fénaðarhús.

Hvítanes

Hvítanes – bæjarhóllinn.

Allt þetta mátti heita í góðu lagi, er herstjórnin tók jörðina til sinna umráða [árið 1941].“ „Í Hvítanesbænum var aðsetur yfirmanna úr breska hernum. Einhverjar lítilsháttar breytingar gerður þeir á honum en í aðalatriðum og að ytra útliti hélt hann sinni upprunalegu mynd,“ segir í bók Óskars Þórðarssonar sem vann í Hvítanesi í upphafi stríðsáranna. Bæjarhóllinn í Hvítanesi er suðvestarlega á nesinu um 200 m
norðan við Hvalfjarðarveg, um 3 km NNA við Reynivelli og um 2,5 km VNV við Fossá. Hvítanes hefur verið í eyði síðan herinn yfirgaf Ísland eftir seinni heimstyrjöldina.

Hvítanes

Hvítanes – bæjarhóllinn; uppdráttur.

Hvítanes er vel grasigróið, sérstaklega bæjarhóllinn, en brenninetlur eru búnar að breiða úr sér, sérstaklega á gömlum steingrunnum herskálanna. Landið hallar í um 5-20° til NNA. Á austan-og norðaustanverðu nesinu er láglent við sjóinn en að norðvestan og vestan hækkar landið mjög til suðvesturs. Þverhnípt er niður í sjó um 180 m vestan við bæinn.
Sjálfur bæjarhóllinn í Hvítanesi virðist óraskaður af hernum, a.m.k. í kring um bæinn sjálfan. Hóllinn er ekki mjög skýr en hægt er að greina óljósa 0,5-1,5 m háa hæð í landinu þar sem bæjarhúsin standa, á svæði sem er um 70×50 m stórt og snýr ASA-VNV. Herinn nýtti húsin á hólnum og kann að hafa bætt og breytt húsum eitthvað. Þær leifar sem nú sjást eru steinveggir yngsta íbúðarhúss sem byggt var 1914. Veggirnir standa ennþá uppi illa farnir en þakið er horfið. Steypuklumpar sem liggja á víð og dreif inni og utan við íbúðarhúsið og gömlu útihúsin sýna að veggirnir eru smám saman að hrynja.

Hvítanes

Hvítanes – bæjarhúsin 2024.

Leifar skorsteins liggja í grasinu um 4 m norðvestan við rústir íbúðarhússins. Lítil op í hleðslu íbúðarhússins, neðst við jörðu gefa vísbendinu um að hugsanlega hafi verið kjallari undir húsinu. Útlínur kálgarðs sjást ennþá en engin greinileg ummerki eru sjáanleg um gamla bæinn sem þar stóð áður. Steypan sem notuð var í að reisa yngsta húsið er mjög gróf og samsett úr fjörumöl, sandi og sementi. Veggirnir eru um 20 cm á breidd og 1,5-3 m hæð.

Hvítanes

Hvítanes – AMS-kort (bandaríska hersins).

Yngstu útihúsin voru einnig steinsteypt. Grunnur íbúðarhúss er 8×8 m að stærð.
Gengið hefur verið inn bæinn að norðvestan. Fast norðvestan við húsið norðaustan við innganginn glittir í lágar grjóthleðslur sem eru trúlega leifar lítils timburskúrs, 4×4 m að stærð, sem sýndur er á túnakorti.
Yngstu útihúsin eru um 2 m ANA við íbúðarhúsið, þau eru þrískipt og um 12×12 m að stærð. Þau hafa verið byggð eftir 1917 því þau eru ekki sýnd á túnakorti Hvítaness. Útihúsin voru steypt upp að norðvestanverðri útihústóft sem búið var að hlaða 1917 því hún er sýnd á túnakorti. Hægt var að ganga inn í útihúsin bæði að norðaustan og suðvestan. Herinn bjó þar og nýtti sér þau mannvirki sem þar voru.

Hvítanes„Herstjórnin ljet byggja stærri og minni byggingar á jörðinni, bæði á túni og engjum, ennfremur ljet hún leggja vegi um allt braggasvæðið, koma fyrir leikvelli og svo framvegis. Hafskipsbryggju ljet hún og byggja við nesið austanvert. Skildi herstjórnin svo við tún og engjar jarðarinnar, að allt var þetta eyðilagt að mestu leyti,“ segir í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson. Í bókinni Vígdrekar og vopnagnýr eftir Friðþór Eydal segir svo: „… viðhald kafbátagirðingarinnar og tundurduflabeltisins í Hvalfirði [krafðist] aðstöðu í landi þar sem taka mátti hluta þeirra á land til viðgerðar. Var þessari aðstöðu valinn staður í Hvítanesi um það leyti er lagning neta og dufla hófst haustið 1940.

Hvítanes

Hvítanes – einn dráttarvagnanna á bryggjunni; nú við Kiðaberg í Kjós.

Gerðar voru áætlanir um að smíða bryggju á nesinu austanverðu sem skip gætu athafnað sig við til að landa og taka um borð net og tundurdufl og búnað þeirra. Þá varð að byggja yfir starfsemina verkstæði og steypa stórt plan þar sem hægt væri að setja netin saman. Auk þess yrði reist herskálahverfi með viðeigandi aðstöðu fyrir 188 menn er annast skyldu þessa starfsemi. […] Ekki var búið á jörðinni eftir [1942]. … Vinna hófst í Hvítanesi 1941. … samþykkt að gera smærri steinbryggju sem þjónað gæti umferð báta og smærri skipa er flyttu vatn, vistir og mannafla um borð í skip flotans á læginu, enda var stærri bryggjan sem í smíðum var einungis ætluð fyrir neta- og tundurduflalagnirnar.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan 2024.

Bryggjugólfið var ekki ætlað bílaumferð en um það gengu tveir 8 tonna gufuknúnir kranar á spori og drógu flutningavagna.
Bygging íbúðarskála, sjúkraskýlis og vörugeymslna hélt áfram um haustið, en vinnu var hætt um áramót, enda ljóst að bryggjan yrði ekki tilbúin fyrr en haustið eftir og því hægt að nýta mannaflann betur annars staðar til vors. Byggingaframkvæmdum í Hvítanesi var að mestu lokið fyrir árslok 1942. … gefið nafnið H.M.S.Baldur III,“.

Hvítanes

Hvítanes – stríðsminjar.

Stríðsminjar þekja svo til allt Hvítanes, frá sjó upp í fjallsrætur, en mesta umfangið var þó á norður helmingi nessins NNV við bæjarhól. Ekki fundust upplýsingar að svo stöddu um það hvenær herinn yfirgaf svæðið. Hvítanes er nú orðið sæmilega gróið eftir umbrot breska og bandaríska hersins. Fjölmargir steinsteyptir grunnar bragga og annarra bygginga eru ennþá greinilegir á yfirborði. Nyrsti hluti nessins, þar sem umsvif hersins voru sem mest, er þó enn nokkuð sendinn og gróðurlítill.
Brenninetlur hafa hreiðrað um sig á stórum svæðum. Lítill sumarbústaður stendur nálægt sjónum í litlum bolla á nesinu austanverðu.

Hvítanes

Hvítanes – stríðsminjar.

Á 2-3 stöðum norðarlega á nesinu standa enn steinsteypt og/eða hlaðin hús, ýmist alveg eða að hluta. Stórgerðir múrsteinsstrompar og steinsteyptir grunnar bragga og annarra bygginga sjást enn á yfirborði á víð og dreif um nesið.
Tvær bryggjur hanga ennþá uppi að hluta, bæði norðvestan og norðaustan við nesið og vagnaspor sem liggja að vestari bryggjunni eru enn greinileg. Vegslóðar og upphleðslur eru einnig víða greinilegar. Stríðsminjarnar eru þó smám saman að hverfa í gróður. Trúlega verður aldrei hægt að byggja upp Hvítanes á ný sem ræktunarland, a.m.k. ekki án gríðarlegrar vinnu og kostnaðar þar sem herinn virðist m.a. hafa tekið undir sig stóra hluta af heimatúni. Herinn virðist þó ekkert hafa rótað til bæjarhól Hvítaness svo ekki er ólíklegt að fornminjar finnist þar undir sverði. Ekki er ljóst hvenær herinn fór frá Hvítanesi en trúlega hefur það verið við enda seinni heimsstyrjaldar um síðla árs 1944 eða á fyrri hluta árs 1945.

Hvítanes

Hvítanes – steinbryggjan.

Eitt fyrsta mannvirkið sem ákveðið var að koma upp í Hvítanesi var lítil steinbryggja norðvestarlega á nesinu þannig að landa mætti efni á svæðinu (m.a. í stóru bryggjuna) til að vatnsbátar gætu tekið vatn og fært skipum á legunni. Lítil steinbryggja var norðvestarlega í Hvítanesi. Bryggjan var um 265 m vestan við stóru bryggjuna. Talsverðar leifar sjást ennþá af bryggjunni þótt sjórinn brjóti þær greinilega hægt og bítandi niður og greinilegt sé að talsverður hluti hennar sé þegar horfinn. Bryggjan var notuð fyrir báta og smærri skip, m.a. við löndun og flutninga á mönnum, vatni og vistum samkvæmt bók Friðþórs Eydals. Þrátt fyrir að ákvörðun um byggingu steinbryggjunnar hafi verið tekin snemma virðist hún ekki hafa risið (a.m.k. ekki að fullu) fyrr en veturinn 1942-43.

Bryggja/lending

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

„Vinna hófst, sem fyrr segir, í Hvítanesi vorið 1941. Verkfræðingadeild hersins annaðist framkvæmdir utan smíði bryggjunnar sem breska fyrirtækið Dorman Long & Co. Ltd annaðist í umsjón hersins […]. Þá voru aðdrættir mjög erfiðir og varð að byrja á að smíða litla bryggju á vestanverðu nesinu svo landa mætti efni til verksins og vatnsbátar gætu tekið vatn og fær skipum á legunni,“ segir í Vígdrekar og vopnagnýr e. Friðþjóf Eydal. Þar segir ennfremur: „Gerðar voru áætlanir um að smíða bryggju á nesinu austanverðu sem skip gætu athafnað sig við til að landa og taka um borð net og tundurdufl og búnað þeirra.“ Í myndatexta í sömu bók segir: Hvítanes vorið 1943. Bryggjan fyrir kafbatanetið var í stöðugri notkun fyrir skip af ýmsum stærðum. . .“ Í bókinni er fjallað ítarlega um bryggjubygginguna og birt frásögn Önundar Ásgeirssonar sem vann við bryggjusmíðina sumarið 1941 og að hluta til 1942. Samkvæmt honum vann hann bæði við bryggjusmíðina og gerð stórs byggingakrana sem var reistur ofan við bryggjustæðið og undirstöður járnbrautarspors á efsta hluta bryggjunnar.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

Hópur kafara frá Dormans Long sprengdu undirstöður undir bryggjustaurana á sjávarbotninum og var fyllingarefni sprengt af klöpp þar skammt frá. Kafarahópurinn samanstóð af Lundunabúum og Skotum og var kafað í hefðbundnum kafarabúningi með þungum og miklum hjálmi og blýlóðum. Breskur verkfræðingur stjórnaði verkinu en verkstjóri á staðnum var John Weatherall. Í frásögn Ömundar kemur fram að tafir hafi orðið á bryggjusmíðinni þar sem skipið sem flutti allt stálið í sniðið í bryggjuna var sökkt á leið til landsins.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

Í bókinni kemur einnig fram að ekki hafi verið talið ráðlegt að halda áfram smíði bryggjunnar vegna slæmra vetrarveðra og óhagstæðra skilyrða til köfunar og þar sem efnið barst aðeins á svæðið í septmeber en þá var ákveðið að koma upp í staðinn smærri steinbryggju. Hafskipabryggjan er norðvestarlega í Hvítanesi.
Fjörugróður er talsverður við sjóinn en þar sem bryggjan en nær landi er meira um bera klappir og sjávarbarið stórgrýti. Hér og þar sjást litlir fjörupollar, einkum sunnan við bryggjuna. Bryggjan er úr járni og viði en næst landi er bryggjan og stöplar hennar úr steypu.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

Bryggjan er í sæmilegu ástandi en járn hennar er ryðgað, auk þes sem hún hefur brotnað við fjöruna og ekki er lengur hægt ganga á þeim hlut bryggjunar sem er úti í sjó. Bryggjan er rúmlega 180 m á lengd og er nálega L-laga. Hún rís um 5-8 m yfir sjávarmáli og rúmlega 6-7 m á breidd. Fyrir miðju hennar sjást járnbrautateinar og á mörgum stöðum eru járnvírar í hrúgum. Við fjöruborðið sjást leifar af ryðguðum járnbútum sem losnað hafa frá bryggjunni. Sjávarbarinn lestarvagn er sömuleiðis í fjörunni, um 5 m suðaustan við bryggjuna.

Leið/lestarteinar

Hvítanes

Hvítanes – járnbrautarteinar.

Umfangsmiklir lestarteinar lágu frá steinbryggju og til suðausturs um hernámshverfið í Hvítanesi að aðalvegi niður á nesið. Frá þeim lá einnig vegur í sveigum upp upp brekkuna. Svo virðist sem slóði hafi legið frá teinunum og til vesturs að bröggum (og mögulega áfram til bryggju) en ummerki um hann sjást ekki vel og var ekki skráður sérstaklega. Vegurinn virðist steyptur en er víða að molna í sundur. Í bók Friðþórs Eydals um hernámsárin í Hvalfirði segir: „Akvegur lá niður á nesið og greindist í átt að bryggjunum tveimur, en auk þess var lögð járnbraut í sneiðingum upp nesið hægra meginn við veginn fyrir litla flutningsvagna.“

Tvö hús yfirmanna

Hvítanes

Hvítanes – hús yfirmanna.

Tvö hús standa enn (2019) að nokkru leyti norðan við veginn niður Hvítanes og það þriðja 113 undir þaki um 45 m austar. Húsið sem hér er skráð er það neðra (austara). Húsið er það rúmum 80 m vestan við bryggju og 2-3 m norðan við veg. Mýrlent er sunnan við veginn á þessum kafla en minna norðan hans en þar eru tveir skurðir sem hafa ræst fram landið.
Húsið sem þarna stendur hefur verið stæðilegt og er um 12.5 x 10.5 m að stærð og snýr h.u.b. austur-vestur. Suður- og austurveggir eru mest hrundir en norður- og vesturveggir standa enn sæmilega og þá norðvesturhornið sérstaklega. Húsið er þaklaust. Það er byggt úr steinsteyptum múrsteinaeiningum með steypulími á mili og svo múrhúðað.

Hvalfjörður

Herskip við lægi í Hvalfirði.

Ekki er hægt að greina líklega þakgerð með vissu út frá þeim leifum sem standa en hugsanlega helst að giska á að flatt þak hafi verið á húsinu. Húsið virðist hafa verið hæð og hugsanlega e.k. kjallararými undir. Greinilegt er að tveir gluggar hafa verið á norðurvegg og tveir gluggar á vesturhlið en annar þeirra er nú nær alveg horfin í hrun. Ekki er augljóst af heimildum hvaða tilgangi húsið þjónaði. Ekki er ólíklegt að það hafi verið bústaður yfirmanna í hernum.

Rafstöð
HvítanesRafstöð hersins í Hvítanesi var um 100 austan við braggahverfi. Í myndatexta við ljósmynd tekna af Hvítanesi árið 1943 sem birtist í Vígdrekar og vopnagnýr e. Friðþjóf Eydal segir: „Vatnsveita og götulýsing voru í stöðinni. Þar voru alls um 20 byggingar og gufukynnt hitaveita í mörgum þeirra. Fjórar 75 kW díselrafstöðvar sáu íbúum nessins fyrir raforku.“

Varðturn
HvítanesSæmilega varðveittur varðturn er um 200 m austan við braggahverfi en um 60 m vestan við sjó. Turninn er um 90 m austan við rafstöð.Tturninn er í miðri grasigrónni brekkur sem hallar til austur, að sjó.
Mannvirkið er steypt, 2,5×2,5 m að stærð og rúmlega 2 m hæð. Steypan er tekin að molna í neðri hluta þess. Dyr hafa verið á suðausturhlið varðturnsins en þar má sjá rygðaðar hjarir. Húsið er enn undir þaki.

Flotastöðin í Hvítanesi
Þann 10. maí 1940 var Ísland hernumið. Að baki hernáminu lá talsverður undirbúningur og áður en fyrstu hermennir stigu á land höfðu verið gerðar ýmsar rannsóknir á landi og landsháttum. Frá upphafi var ljóst að ákveðnir staðir yrðu þýðingarmiklir í vörnum landsins, bæði á sjó og landi. Hvalfjörður gegndi lykilhlutverki í vörnum á sjó og urðu umsvifin þar mikil.
HvítanesSkipulag flotavarnarmála á landinu þróaðist talsvert á fyrstu árum hernámsins en í árslok 1941 var komið nokkuð endanlegt skipulag á málaflokkinn. Flotadeild heimaflotans skyldi hafa aðsetur og liggja fyrir í Hvalfirði. Í henni áttu að vera tvö beitiskip, tundurdufl og tvö orrustuskip en deild tundurduflaslæðara var einnig staðsett í firðinum. Frá fiðrinum voru gerðar út deildir skipa sem fylgdu skipalestum suður af landinu. Þar var einnig lægi fyrir kaupskip en framan af var slíkum skipum safnað saman í firðinum áður en þau sigldu saman í lest til Norður-Rússlands. Þetta fyrirkomulag var viðhaft fram til ársloka 1942 þegar skipalestirnar hófu að sigla beint frá Skotlandi. Fylgdarlið skipalesta og herskipadeildir lögðu þó áfram leið sína til Hvalfjarðar.

Hvítanes

Hvalfjörður 1943.

Hafist var handa við lagningu tundurduflabeltis og kafbátagirðingar í Hvalfirði haustið 1940. Netalagnir lágu þvert yfir ytri hluta fjarðarins og tundurduflagirðing með segulnemum við Hálsnes. Framkvæmdirnar kröfðust talsverðs viðhalds og varð snemma ljóst að koma þyrfti upp aðstöðu í firðinum til viðgerða og viðhalds. Var umræddri aðstöðu valinn staður í Hvítanesi þar sem skilyrði til hafnargerðar voru góð.
Undirbúningur að gerð fotastöðvar í Hvítanesi hófst strax haustið 1940 en vinna við framkvæmdir vorið eftir, 1941 og lauk þeim fyrir árslok 1942. Frá upphafi var ákveðið að gera stórskipabryggju á austanverðu nesinu, flotkví, viðgerðarverkstæði, stórt plan þar sem setja mætti saman net og herskálahverfi. Upphaflega var áætlað að hverfin hýstu 188 hermenn sem vinna myndu við stöðina en síðar var íbúðarbröggum fjölgað.

Hvalfjörður

Hvammsvík – skipalægi vestan Hvítaness.

Herstöðin var formlega tekin í notkun 20. nóvember 1942 og var hún nefnd H.M.S. Baldur III (Skip hans hátignar, Baldur III). Hún var nefnd eftir því skipi flotans sem áður hýsti höfðustöðvar hans við Reykjavíkurhöfn áður en byggð var aðstaða í landi.

Þegar herinn ákvað að byggja flotastöð í Hvítanesi var þar bújörð í fullum rekstri. Sveinbjörn Einarsson sem flutti á jörðina 1907 hafði t.a.m. byggt þar veglegt steinhús og bætt túnið mikið. Árið 1935 flytja í Hvítanes hjónin Jón Helgason og Lára Þórhannesdóttir (ásamt börnum) og reka þar búskap næstu árin sem leiguliðar.

Hvítanes

Hvítanes – loftmynd.

Samkvæmt lýsingu var Hvítanes þá talin „… mjög notaleg jörð, túnin stór og grasgefin, en engjar litlar. Hafði túnið verið stórbætt á liðnum áratugum, byggð heyhlaða, votheyshlaða og allgóð fjenaðarhús.“
Hernám Breta í Hvítanesi og víðar í Hvalfirðinum kom heimamönnum þar í opna skjöldu, og ábúendur í Hvítanesi höfðu væntanlega lítið um þá ákvörðun að segja að reisa skyldi flotastöð í túnfætinum. Í upphafi var því haldið fram að vel yrði hægt að stunda búskap á svæðinu samhliða herrekstrinum, en fljótlega kom í ljós að umsvifin voru það mikil að hætta þyrfti búskap. Ábúendur yfirgáfu því jörðina síðla árs 1942 og fengu engar bætur fyrir tjón sitt vegna þessa enda einungis
leiguliðar.

Hvítanes

Hvítanes – naust bæjarins fyrir hernám.

Þegar herinn hóf framkvæmdir í Hvítanesi vorið 1941 var eitt af fyrstu verkunum að smíða þar litla bryggju til að hægt væri að landa byggingarefni og öðrum nauðsynjum, og til að bátar gætu lent þar og tekið vatn fyrir skipin á legunni. Aðflutningar á landi voru mjög erfiðir í upphafi, þar sem vegslóðar í firðinum voru lélegir og dugðu engan veginn til þungaflutninga.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan 2024.

Almennt voru aðstæður til framkvæmda í Hvítanesi frekur erfiðar í upphafi. Þá þurfti t.a.m. að sækja steypuefni á prömmum í fjöruna undir Fossá. Handmoka þurfti efninu á og af prömmunum sem voru svo dregnir á mótorbátum í Hvítanes. Framan af var vélknúinn tækjakostur mjög takmarkaður í Hvítanesi og nágrenni, helst að notaðir væru einstaka flutningabílar og steypuhrærivélar. Snemma voru þó steyptar undirstöður undir stóran byggingakrana við bryggjuna sem auðveldaði framkvæmdir þar.
HvítanesFyrstu hóparnir sem unnu við framkvæmdir í Hvítanesi tjölduðu á nesinu. Ætla má að ásamt vega- og hafnargerð hafi þótt forgangsverkefni að koma upp bröggum fyrir vinnuhópa á svæðinu.
Framkvæmdirnar voru skipulagðar og unnar af verkfræðideild hersins (sem síðar var til húsa á ofanverðu nesinu miðju), að hafskipabryggjunni frátalinni en umsjón með gerð hennar hafði breska fyrirtækið Dorman Long & Co. Ldt.
HvítanesÁ vegum þeirra unnu verkfræðingar, vélamenn, kafarar, járnsmiðir og aðrir iðnaðarmenn og ásamt verkamönnum. Verkamennirnir sem unnu við bryggjuna voru upphafi Íslendingar. Almennt voru vinnuhóparnir í Hvítanesi skipaðir bæði Íslendingum og Bretum en í forustu í bryggjugerðinni var hópur kafara frá Skotlandi og London. Mikill hörgull var á bæði mannskap og efniviði í upphafi, enda var unnið að ýmsum stórframkvæmdum á sama tíma, svo sem flugvallargerð í Reykjavík og Kaldaðarnesi í Flóa, auk gerðar stórra birgðageymslna og herkampa í Reykjavík.
HvítanesTil eru frásagnir Íslendinga sem unnu við uppbyggingu í Hvítanesi og veita þær áhugaverða innsýn í lífið á svæðinu. Óskar Þórðarson frá Haga í Skorradalshreppi hóf til dæmis störf hjá hernum þar sumarið 1941. Hann lýsir byggingum niður á eyrinni og mannlífi í nesinu eins og það kom honum fyrir sjónir daginn sem hann hóf þar vinnu, á eftirfarandi hátt: Byggingar sem vegna útlits síns voru kallaðar braggar stóðu ýmist strjálar eða í þyrpingu og náðu allt neðan frá sjó og upp að veginum sem lá eftir fjallshlíðinni, ljótar byggingar og óskipulega niður raðað. Enn fleiri braggar voru í byggingu, misjafnlega á veg komnir.
HvítanesHvarvetna að barst að eyrum vélaskrölt bifreiða og annarra vélknúinna faratækja, auk annars hávaða sem fylgir miklum umsvifum. Að vegagerð út með hlíðum fjallsins unnu Íslendingar sem teymdu á eftir sér hesta er drógu þung malarhlöss í kerrum. Allmargir þeirra voru sveitamenn. Sumir hverjir höfðu komið um langan veg með hross sín og kerrur til að afla hinna dýrmætu peninga sem borgaðir voru út í hönd á hverjum föstudegi. Breskir hermenn í grænum einkennisbúningum landhersins og sjóliðar í dökkum búningum voru hvarvetna á ferli, hundruðum saman, ýmist í löngum röðum eða smærri hópum.
Allur þessi fjöldi var á sífelldri hreyfingu fram og aftur í rigningunni, öslandi forina á túninu sem vaðist hafði upp undan allri þessari gríðarlegu umferð. Þetta var þá Hvítanes 7. júlí 1941.

Hvítanes

Hvítanes – yfirlit minja.

Sumarið 1941 var unnið sex daga vikunnar í Hvítanesi, frá klukkan sjö á morgnanna og til sex eða sjö á kvöldinn en verkamennirnir fengu matarhlé og tvö kaffihlé.

Allir þeir sem voru við vinnu á svæðinu fengu úthlutað númeri sem letrað var á gulan borða sem þeir áttu að bera á svæðinu á meðan þeir væru að vinna og skila svo aftur í dagslok. Borðarnir voru notaðir til að halda skrá yfir vinnuna.
Þrátt fyrir að gerð hafskipabryggju hafi snemma hafist urðu nokkrar tafir á verkinu. Ekki síst þar sem skipið sem flytja átti stálið í bryggjuna var sökkt á leið sinni til landsins og því barst efniviðurinn ekki á svæðið fyrr en í september. Þar sem unnið var að köfun þótti ekki ráðlagt að halda áfram vinnu um veturinn og fyrirskipaði flotamálaráðuneytið því að vinnu skyldi hætt að sinni en þess í stað yrði strax komið upp smærri steinbryggju á vestanverðu nesinu sem gæti þjónað umferð báta og smærri skipa, t.d. hvað varðar vistir og þjónustu.

Hvalfjörður

Hvalfjörður – skipalest á stríðsárunum.

Auk vinnu við gerð steinbryggjunnar hélt ýmis önnur vinna í Hvítanesi áfram fram að áramótum og var t.d. unnið að byggingu sjúkraskýlis og vörugeymslu og steinbryggju greinilega, auk margvíslegrar vega- og skurðagerðar.

Framkvæmdir í Hvítanesi héldu áfram fram undir áramót 1941-42 en var þá hætt enda þótti ljóst að sjálf bryggjan yrði ekki tilbúin fyrir haustið á eftir.
Talsverður vinnuaflsskortur var í Hvítanesi stærstan hluta uppbyggingarskeiðsins líkt og í samfélaginu í heild enda mikil uppbygging í tengslum við veru hersins víða. Þótt að einhverjir Íslendingar hafi verið ráðnir til starfa áfram var algengt að þeir kysu heldur vinnu í Reykjavík sem var nóg af, á sömu kjörum.
HvítanesMargvíslegar frásagnir eru til um aðbúnað á byggingarstigi kampsins í Hvítanesi og óánægju þeirra verkamanna sem þar dvöldu, bæði íslenskra og erlendra. Í frásögn Friðþórs Eydals af byggingarframkvæmdum í Hvítanesi kemur fram að sumarið 1942 hafi verkinu miðað mjög hægt áfram sökum margvíslegrar óánægju starfsmanna Dorman Long & co. með aðbúnaðinn á svæðinu og fásinnið. Fór það svo að yfirmaður þeirra hætti og fór heim. Af þessu leiddi að yfirmaður flotans kvataði við flotamálaráðuneytið í London um það að þurfa að treysta á almenna borgara í svo mikilvæg verkefni sem þessu. Málin voru leyst þannig að landgönguliðarnir voru látnir vinna að bryggjugerðinni með starfsmönnum Doman Long & co. jafnvel þótt þeir hefðu átt að vera að sinna öðrum verkum.

Hvalfjörður

Hvalfjörður – herstöðin á Miðsandi.

Þegar framkvæmdum í Hvítanesi var lokið var risið þar stórt þorp á íslenskan mælikvarða. Þar voru um 300 byggingar, vegir, raf- og vatnsveita, brunnar og ljósastaurar, skotgrafir o.s.frv. Ekki hafa fengist áreiðanlegar upplýsingar um það hversu margir dvöldust í stöðinni. Því var haldið fram að þar hefðu verið allt að 10 þúsund manns þegar mest var, en líklegt er að það sé orðum aukið.
Áætlað hefur verið að mannvirki og búnaður í Hvítanesi hafi kostað a.m.k. 270.000 pund sem framreiknað til dagsins í dag væru um 9.4 milljarðar.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

Í flotastöðinni í Hvítanesi var unnið að viðhaldi og viðgerðum á netum og tundurduflabelti í Hvalfirði og þjónustaði stöðin einnig skip á firðinum með ýmsum hætti. Mikið magn af vatni var t.d. flutt úr Hvítanesi í skip í firðinum enda flest skipin voru gufukynt og þurftu því mikið vatn. Sum þeirra eimuðu vatn úr sjó fyrir vélarnar en þurftu þó engu að síður vatn fyrir áhafnir og farþega, og smærri skip þurftu jafnvel einnig vatn fyrir vélarnar. Vatnabátar unnu við að koma vatni í skipin en eftir að vatnsveita var lögð í Hvítanesi varð auðveldara að þjónusta skipin á firðinum að þessu leyti. Afgreiðsla á kolum til skipa flotans fór einnig fram í Hvítanesi að hluta og var í höndum breska eimskipafélagsins Delaware (og síðar einnig kolapramminn P.L. M 14). Það tók kol í Reykjavík og sigldi með upp í Hvalfjörð en áhafnirnar þurftu sjálfar að starfa við kolatökuna.

Hvalfjörður

USS KEARNEY , laskaður tundurspillir eftir að hafa leitaðs sér skjóls í Hvalfirði.

Þeir sem dvöldu í Hvítanesi eftir að framkvæmdum var lokið voru væntanlega flestir í vinnu á vegum flotastöðvarinnar, til dæmis við viðgerðir á netum, þjónustu við skip o.s.frv.. Ýmsir dvöldu þar þó aðeins tímabundið, meðal annars flugliðar sem stöldruðu þar við á leið til og frá Kanada þangað sem þeir fóru í þjálfun. Að auki starfaði stór hópur manna við ýmsa þjónustu tengda rekstri hverfisins, svo sem viðhald innviða og aðra starfsemi. Dæmi um fólk í síðastnefnda hópnum var Robert Maltby, sem kom ásamt tólf manna hópi til Hvítaness árið 1941 til að setja upp og reka þar verslun og veitingastofu breska flotans, sjóliðaklúbbinn. Auk klúbbsins rak Íslendingur þar sjoppu í timburskúr nokkru ofan við Hvítanesbæinn. Kvikmyndahús var einnig rekið í Hvítanesi en í skráningunni tókst ekki að skera úr um það í hvaða bragga það var. Samvæmt Óskari Þórðarsyni var aðstaðan þar fremur bágborin: Gólfið var óslétt, bekkirnir lélegir. Bíóbragginn var þó staður sem var hvað eftirsóttastur. Þar komust færri að en vildu.
HvítanesBíóið var fyrst og fremst ætlað þeim hermönnum sem engar virðingarstöður skipuðu. Einungis ef svo vildi til að þeir fylltu ekki húsið fengum við aðgang. […] Sýnt var að minnsta kosti tvisvar í viku, stundum oftar. Líklega hefur myndaúrvalið verið frekar fábrotið.
Eftir að amerískir sjóliðar fóru að venja komur sínar í Hvítanesi (þegar þeir fengu landvistarleyfi) glaðnaði yfir sölunni í bæði klúbbnum og sjoppunni. Bóndinn á Fossá sá einnig tækifæri í komu amerísku sjóliðanna og fór að bjóða upp á um klukkutíma hestaferðir um nágrennið sem urðu mjög vinsælar hjá amerískum sjóliðum, en ekki er getið um að Bretarnir hafi nýtt sér afþreyinguna mikið enda höfðu þeir úr mun takmarkaðri fjármunum að spila en amerísku dátarnir.

Hvítanes

Hvítanes – loftmynd.

Í Hvítanesi var rekinn spítali sem sinnt gat íbúum á svæðinu (og væntanlega úr flotanum á firðinum), þótt líklega hafi aðstaða þar verið fremur einföld (sjá umfjöllun um minjar hér á eftir). Auk þessara bygginga voru víða ýmiskonar aðrar þjónustubyggingar, s.s. skemmur, smærri samkomubraggar og eldhús (Mess hall), klósett og sturtur.
Matur var eldaður á nokkrum stöðum í flotastöðinni og líklegt að fæði hermanna á svæðinu hafi aðallega samanstaðið af innfluttum mat. Vörur bárust ýmis frá Reykjavík eða beint með skipum frá Bandaríkjum og Bretlandi en lítið hefur fundust um hvernig mataræði þeirra var samsett að því frátöldu að bjórinn sem neytt var á svæðinu kom frá Kanada. Vörubirgðir voru bæði geymdar í móðurskipum á firðinum en einnig í birgðageymslum í Hvítanesi (og Hvammsvík).

Hvítanes

Hvítanes – tröppur þær er Winston Churchill var myndaður á í heimsókn hans hingað til lands á styrjaldarárunum.

Á framkvæmdaárunum í Hvítanesi vann þar nokkur fjöldi af Íslendingum og því voru samskipti á milli hermanna og Íslendinga talsverð. Í bók Óskars greinir hann frá því að tungumálaerfiðleikar hafi þó takmarkað öll samskipti og oft gert mönnum erfitt fyrir, enda hafi fáir Íslendingar kunnað ensku. Þeir sem voru færir í tungumálinu urðu hins vegar eftirsóttir sem verkstjórar og túlkar. Óskar vann meðal annars í blönduðum hópum af Íslendingum og Englendingum og komu þar oft upp vandamál tengd skorti á tungumálakunnáttu. Þótt Óskar sjálfur kynni afar takmarkaða ensku í upphafi greinir hann frá því að hermennirnir hafi mjög sótt í félagsskap hans og annarra Íslendinga. Margir þeirra hafi verið mjög einmana og á kvöldin hafi alls staðar orðið á vegi hans einmana menn langt frá heimahögunum sem vildu tala um fjölskyldur sínar, fræðast um landið eða kvenpeninginn.

Þeir hafi oft verið á ferli til og frá baðhúsi og vildu gjarnan bjóða Íslendingunum inn í braggana til sín, sýna þeim byssurnar sínar, myndir af fjölskyldu eða litla happa og heillagripi sem margir þeirra áttu.

Hvítanes

Hvítanes – loftmynd.

Jafnvel þótt að viðvera og umferð Íslendinga í Hvítanesi hafi verið meiri en í ýmsum öðrum kömpum er ljóst er að herinn lagði áherslu á halda ákveðinni leynd yfir skipulagi og uppsetningu á mannvirkjum sínum þar. Í ævisögu Sigurðar A. Magnússonar segir frá því að þegar hópur pilta kom við á svæðinu á leiðinni úr útilegu í Vatnaskógi þá var það brýnt fyrir piltunum að gæta þess vandlega að myndavélar þeirra væru ekki uppivið heldur kyrfilega geymdar í töskum. Í frásögninni kemur fram að herinn hefði þá nýlega hirt einar 60 myndavélar af Íslendingum sem þar voru á ferð og mynduðu þær á svæðinu.

Hvítanes

Hvítanes.

Íbúar í Hvítanesi voru nokkuð einangraðir frá umheiminum og fæstir þeirra áttu t.d. útvörp. Dagblöð komu þangað sjaldan og þá gjarnan mjög seint og því litlar fréttir að fá. Hermennirnir voru almennt mjög fréttaþyrstir og í raun þyrstir í alla tilbreytingu frá hversdagslífinu sem var mörgum þeirra þungbært. Að mati Roberti Maltby, sem vann í verslun og veitingastofunni á svæðinu, var líf sjóliðanna í Hvítanesi án efa oftast eitthvert versta tímabil í lífi þeirra.
Öll tilbreyting í daglegt amstur var vel þegin, sér í lagi á sunnudögum þegar ekki var unnið, a.m.k. ekki á meðan á uppbyggingarskeiði svæðisins stóð. Óskar Þórðarson lýsir því í bók sinni að guðsþjónustur hafi farið fram undir beru lofti hvern sunnudag í Hvítanesi þegar hann var þar og verið vel sóttar. Messað var í heimatúninu ofanverðu þar sem nokkur halli var og gestir gátu setið. Hann segir að fjölbreyttur hópur hafi sótt messurnar. Ekki er ljóst hvort þær fóru fram á íslensku eða ensku en í lok samkomunnar var í það minnsta sungið lagið Eldgamla Ísafold að sögn Óskars.

Hvítanes

Hvítanes – stríðsminjar.

Ekki fundust nákvæmari upplýsingar um það hvenær flotastöðinni var lokað en að það virðist hafa verið fyrir árslok 1944 því jörðinni var skilað til Sölunefndar setuliðseigna árið 1944. Þá var ljóst að stórt verkefni væri framundan við að leysa upp þorpið í Hvítanesi og koma þeim búnaði sem þar var í notkun annars staðar eða í verð. Mönnum var ljóst að verðgildi eigna á stað eins og Hvítanesi (og öðrum svæðum í Hvalfirði þar sem herinn hafði verið með umsvif) yrði ekki í neinu samræmi við byggingakostnað, en samkomulag var gert við ríkisstjórnina um að hún „keypti og/eða yfirtæki mannvirki og búnað hersins og endurseldi einkaaðlilum eftir atvikum. Í mörgum tilfellum var um að ræða greiðslu fyrir landspjöll sem orðið höfðu við umsvif herliðsins, einkum þegar um mannvirki var að ræða“.

Hvítanes

Hvítanes – stríðsminjar.

Ríkisstjórnin skipaði nefnd (Nefnd setuliðsviðskipta) vorið 1944 til að annast ráðstöfun eigna hersins fyrir sína hönd og ári síðar Sölunefnd setuliðseigna til að „sjá um sölu hermannaskála, bæta úr eignarspjöllum af völdum setuliðsins og greiða landeigendum skaðabætur“.
Nefndirnar höfðu báðar lokið störfum 1948 og var niðurstaða þeirra gjarnan að bæjar- og sveitarfélög fengu forkaupsrétt.
Í Hvítanesi voru fjölbreytt mannvirki. Auk stórskipabryggju og steinbryggju á vestanverðu nesinu var þar mikill fjöldi íbúðabragga, vöruhús og verkstæði og nokkur steinhlaðin hús og vegakerfi með lýsingu, vatnsveita og rafstöð.
Ýmislegt er vitað um örlög einstakra bygginga en margt er þó á huldu um það hvar efniviður flotastöðvarinnar endaði.

Hvalfjörður

Hvalfjörður – útsýni frá Hvítanesi.

Í Hvalfirði var upphaflega höggvið á landfestar kafbátaneta og þeim sökkt og tundurduflagirðingunni þar var eytt með sprengingu. Á næstu árum varð hins vegar ljóst að leifar mannvirkjanna hömluðu skipaumferð og veiðum á svæðinu og var gert samkomuleg við bresk yfirvöld um að sérhæft hreinsunarskip ynni að hreinsun fjarðarins árin 1948-49.
Samkvæmt samantekt Friðþórs Eydals um eftirmál hernaðaruppbyggingar í Hvalfirði gekk vel að selja búnað og byggingar. Vita- og hafnarmálastofnunin (forveri Siglingamálastofnunar) eignaðist t.d. gufukranana tvo sem gengu á járnbrautarspori fram á hafskipabryggjuna og skemmurnar tvær neðarlega á nesinu. Var sú stærri flutt á lóð stofnunarinnar og stóð enn á lóð Siglingamálastofnunar þegar Friðþór ritaði grein um afdrif bygginganna 1999.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

Eina boðið sem barst í stórskipabryggjuna á svæðinu var einnig frá Vita- og hafnarmálastofnuninni, upp á 400 pund en bryggjan hafði kostað 126.000 pund í smíði. Málið endaði með því að breska flotastjórnin ákvað að gefa íslenska ríkinu bryggjuna með þeim skilyrðum að Bretland væri leyst undan allri ábyrgð vegna viðhalds eða hreinsunar síðar meir. Í kjölfarið var ákveðið að taka bryggjuna ekki niður og greiddi Vitamálastofnun landeiganda leigu fyrir aðgang að henni fyrstu árin.

Hvítanes

Hvítanes í dag.

Með tímanum fór timbur úr bryggjunni að hverfa og var þá ákveðið að hirða það sem hægt væri af timbri og brautarteinum. Landeigandi óskaði eftir því að kaupa bryggjuna 1949 en þeirri ósk var synjað. Árið 1960 óskaði hann svo eftir því að ríkissjóður afsalaði honum bryggjunni til niðurrifs vegna þeirra búsifja sem hernámið hefði haft fyrir jörðina og hversu litlar bætur hefðu fengist, en beiðninni var aftur synjað í þeirri von að bryggjuleifarnar gætu nýst betur og hanga því illa farnar leifar bryggjunnar enn uppi.
Ólíkt mannvirkjum í þéttbýli sem gjarnan nýttust tímabundið á staðnum eftir brotthvarf hersins voru mannvirkin í Hvítanesi fjarri alfaraleið og því engar tilraunir gerðar með að nýta það á staðnum eftir því sem best verður séð. Raskið í Hvítanesi var mikið og aldrei virðist hafa komið til greina að freista þess að hefja aftur búskap á jörðinni.

Hvítanes

Hvítanes – varðbyrgi/stjórnstöð.

Efnismenningin úr Hvítanesi dreifðist víða. Sem dæmi um það má nefna að á þessum tíma vann Ungmennafélagið Drengur í Kjós að undirbúningi að byggingu félagsheimilisins Laxárness sem er talið fyrsta félagsheimili landsins. Ungmennafélagið samdi við setuliðið um kaup á nokkrum samkomubröggum í Hvítanesi og Hvammsvík. Síðsumars 1945 tóku svo félagsmenn sig til, söfnuðu efninu saman og fluttu að Laxárnesi. Varðveittar frásagnir af vinnunni benda til að atgangurinn hafi verið talsverður enda var það „…sem hafði kostað heri Breta og Bandaríkjamanna margra vikna, mánaða eða hver veit hvað […] nú rifið niður á tveimur dögum með hömrum og klaufjárnum.“
Efnið nýttist í ýmis minni háttar mannvirki í kringum félagsheimilið, t.d. var settur upp braggi sem þjónaði hlutverki hesthúss í mörg ár en þær byggingar hafa nú allar verið rifnar.

Hvítanes

Hvítanes.

Þótt stríðinu lyki höfðu Bandaríkjamenn áfram hugmyndir um viðveru á Norður-Atlandshafinu. Á eftirstríðsárunum komu fram ýmsar áætlanir um það hvernig slíkar ráðagerðir yrðu best tryggðar og kom Ísland þar oft við sögu. Bandaríski herinn hafði áfram áhuga á Hvalfirði og var það niðurstaða sérstakrar staðarvalsnefndar Bandaríkjaflota árið 1946 að höfuðstöðvar flotans á þessum slóðum gætu orðið í Hvítanesi.

Hvalfjörður

Hvalfjörður á tímum Seinni heimstyrjaldarinnar.

Nefndin lagði fram ýmsar tillögur um mannvirki á suðvesturhorninu á eftirstríðsárunum og þótti Hvítanes einnig koma til greina sem varastaðsetning fyrir olíustöð ef hún gæti ekki verið á Söndum í Hvalfirði. Einnig þótti koma til greina að fjarskiptastöð, sem ráðgert var að risi á Kjalarnesi, gæti risið við austanvert Hvítanes ef áætlun um Kjalarnes gengi ekki upp.
Árið 1953 fóru Bandaríkjamenn fram á að grafa kafbátabyrgi inn í Þyril og árið 1957 var óskað eftir því að reisa olíustöð og sökkla á hafsbotni og legufærum, sem nota mætti fyrir kafbáta og herskip. Engar af ofangreindum tillögum urðu að veruleika. Árið 1959 fékkst hins vegar leyfi til að reisa lóranstöð á Snæfellsnesi til að auðvelda kafbátum miðanir og var ljóst að Bandaríkjamenn höfðu augastað á Hvalfirði fyrir frekari uppbyggingu hernaðarmannvirkja.

Stríðsár

Hermenn á vakt við Vesturlandsveg nálægt Þingvallavegi.

Talsverð andstaða var við uppbyggingu og viðveru bandaríska hersins hér á landi á friðartímum. Á þessum tíma var efnt til ýmissa mótmæla til að sporna við frekari uppbyggingu þeirra hér á landi. Hernaðarandstæðingar fóru t.d. reglulega í Keflavíkurgöngur til að krefjast þess að Bandaríkjamenn létu af allri uppbyggingu og viðverðu á Íslandi og að hvetja til að Ísland gengi úr NATO. Árið 1962 var ákveðið að umrædd mótmælaganga skyldi farin frá Hvítanesi í Hvalfirði (í stað Keflavíkur). Aðspurðir sögðu forvígismenn göngunnar að það væri til að vekja athygli á þeirri ágirnd sem Bandaríkjamenn hefðu á svæðinu fyrir kafbátahöfn og flotastöð. Almannavarnafrumvarpið sem lagt hefði verið fyrir alþingi síðasta vetur hefði sýnt að Hvalfjörður stefndi í að vera jafn mikið uppbyggingarsvæði og Keflavík. Ástæða þess að gangan var farin Hvítanesi sögðu þeir hins vegar vera þá að Hvítanesjörðin hefði verið ein fyrsta íslenska bújörðin sem fór í eyði vegna hernaðarumsvifa.
HvítanesJörðin Hvítanes komst í eigu Jóns Björnssonar og fjölskyldu í stríðslok og hélst í þeirra eigu allt fram á síðustu ár eftir því sem best fæst séð.
Ljóst er að herminjar á jörðinni settu nýtingu hennar nokkrar skorður. Árið 1995 stofnuðu afkomendur Jóns, þeir Björn og Jón Kristinssynir, einkahlutafélagið Hvítanes um eignina og fljótlega eftir 2000 þróuðu þeir tillögu að nýju og breyttu deiliskipulagi sem m.a. var kynnt fyrir sveitarfélaginu á þeim tíma.
Á allra síðustu árum (og eftir að skráningunni lauk) hafa komið fram nýjar ráðagerðir um nýtingu og uppbyggingu í Hvítanesi. Samkvæmt deiliskipulagi stendur þar til að hefja skógrækt og gera jörðina aftur að lögbýli. Gera þessar nýju áætlanir ráð fyrir byggingu íbúðarhúss, skemmu, þjónustu- og vélarhúss, bryggju og bryggjuhúss á jörðinni á 5 ha svæði neðst á tanganum og virðast framkvæmdir nokkuð komnar af stað, af nýlegum loftmyndum að dæma.

Heimild:
-Hernámið frá sjónarhóli Fornleifafræðinnar: Skráning á minjum úr Síðari heimsstyrjöldinni í Hvítanesi í Hvalfirði, Reykjavík 2025.
-https://www.academia.edu/128999410/HERN%C3%81MI%C3%90_FR%C3%81_SJ%C3%93NARH%C3%93LI_FORNLEIFAFRAE%C3%90INNAR

Kjós

Hvítanes á stríðsárunum.

Reykjavík

Fúlutjarnarlækur í landnámi Ingólfs, síðar í umdæmi Seltjanarneshrepps og loks Reykjavíkurbæjar (reyndar um stund í umdæmi Reykjavíkurborgar frá 1908) var afrennsli frá Kirkjumýri og Kringlumýri og var farvegur hans að mestu leyti vestan við núverandi Kringlumýrabraut. Fúlutjarnarlækur var talinn illur yfirferðar í miklum rigningum og leysingum. Nafnið dregur hann af Fúlutjörn, sem var hálfgert sjávarlón ofan vestanverðan Kirkjusand. Lyktaði hún jafnan af rotnandi gróðri og var til lítils nýtanleg.

Reykjavík

Reykjavík – skipulag 1947.

Fúlatjörn, var sem fyrr segir, tjörn eða lón í norðaustanverðri Reykjavík, við sjávarborðið vestan við Kirkjusand, þar sem Borgartún og Kringlumýrarbraut mætast núna. Þegar Borgartún var fyrst lagt, lá það að hluta á brú yfir Fúlutjörn. Á meðan Kringlumýri var eiginleg mýri, þá rann lækur eða framræsluskurður úr henni og endaði norður í Fúlutjörn. Tvær aðrar brýr voru byggðar yfir Fúlutjarnarlæk fyrir og eftir aldamótin 1900; á Suðurlandsvegi og á Laugarnesvegi. Í öllum tilvikum var um að ræða steinhlaðnar brýr með trégólfi.

Reykjavík

Reykjavík – Fúlutjarnarlækur.

Svæðið sem hér er fjallað um nær yfir hluta af því landi sem á öldum áður tilheyrði jörðunum Rauðará og Lauganesi. Samkvæmt landamerkjalýsingu frá árinu 1883 lágu merki á milli þessara jarða eftir Fúlutjarnarlæk, frá sjó að upptökum hans við Ámundaborg, en samkvæmt eldri landamerkjalýsingum lágu merkin austar, þ.e.a.s. frá Ámundaborg sjónhendingu í stein á Kirkjusandi sem nefndur var Stúlknaklettur (Stúlkuklettur). Munnmæli segja að einhvern tíma hafi vanfær vinnukona í Laugarnesi horfið, en svo fundist við þennan stein ásamt tveimur stúlkubörnum. Hornmark Rauðararár, Reykjavíkur og Laugarness lá um Ámundaborg sem var fjárborg. Ámundaborg er löngu horfin en hefur verið þar sem býlið Lækjarhvammur var, nálægt því þar sem Lámúli 4 er nú ofan Suðurlandsbrautar og austan Kringlymýrarbrautar.

Reykjavík

Reykjavík 2024.

Fúlutjarnarlækur var afrennsli frá Kirkjumýri og Kringlumýri og var farvegur hans að mestu leyti vestan við núverandi Kringlumýrabraut. Fúlutjarnarlækur var talinn illur yfirferðar í miklum rigningum og leysingum. Fyllt var upp í Fúlutjörn og var því lokið um 1960. Fúlutjarnarlækur var settur í stokk árið 1957 og er því ekki sýnilegur lengur. Lækurinn var jafnframt nefndur Laugalækur sem afrennsli frá Þvottalaugunum og rann um Laugamýri (Laugardal), vestan við Laugarás. Laugalækur var settur í stokk árið 1949 og gata sem er á svipuðum slóðum nefnd eftir honum.

Reykjavík

Herforingjarráðskortið 1902 – örnefnaskrárlisti.

Í nýlegum fréttum Mbl.is og Rúv.is 26. júlí 2025 er fjallað um „horfna brú talin fundin undir Suðurlandsbraut“. Í báðum tilvikum er vitnað í vefmiðlilinn Sarpur.is. Þar segir m.a.: „Brúin var merkt inn á kort frá 1902 þar sem Laugavegur lá yfir Fúlutjarnarlæk, nú er þar Suðurlandsbraut. Líklega var þetta trébrú á steinhlöðnum stólpum. Fúlutjarnarlækur var settur í rör/stokk um og eftir 1957 og kallað þá Kringlumýrarholræsi, það er en í notkun og er það aðeins vestan við gömlu brúnna. Líklega hefur herinn breikkað brúnna en Suðurlandsbraut var eina af aðalleiðunum út úr bænum, en vestari búin á Elliðaánum var þá gerð úr steypu og brúin yfir eystri kvíslina var þá líka endurgerð með steypu 1941.

Í ljós kom sumarið 2025 við framkvæmdri Orkuveitunnar, mannvirki sem líklega er þessi brú.

Brúin var talinn horfinn, en líklega er hún það ekki, í ljós kom mannviki sem gæti verið hún, steinhlaðnir stólpar, undir steyptu brúargólfi, þar sjást um 5 raðir af tilhögnu grágrýti, líklega hefur það verið sótt í grjótnámuna á Rauðaárholti fyrir norðan Sjómannaskólann. Áður hefur líklega verið timburgólf á þessari brú. Seinna hefur brúin verið breikkuð til norðurs. Þá hafa stólparnir verið steyptir og líklega hefur þá verið steypt nýtt brúargólf. Austan við brúnna er mikið grjópúkk.

Reykjavík

Fúlutjarnarlæksbrú opinberuð 2025.

Líklegt er að bandaríski herinn hafi breikkað brúna til norðurs en Suðurlandsbraut var þá ein af aðalleiðunum út úr bænum.“

Undir brúnni eru fimm raðir af tilhöggnu grágrýti er bendir til að brúin hafi verið byggð öðru hvoru megin við aldamótin 1900.

Úr miðbæ Reykjavíkur og inn að Þvottalaugum eru rúmir 3 km. Sú leið var ekki hættulaus og gat orðið æði torsótt í svartamyrkri. Úr Lækjargötu lá leiðin upp Bankastræti. Á móts við Laugaveg 18 eða 20 beygðu þvottakonur niður í Skuggahverfi. Þær þræddu síðan strandlengjuna og reyndu að fylgja götutroðningum uppi á bakkanum fyrir ofan fjöruna.

Reykjavík

Reykjavík – brúin yfir Suðurlandsbraut á Fúlutjarnarlæk.

Þegar komið var að Fúlutjarnarlæk var snúið upp frá sjónum og yfir Kirkjumýri sem var blaut og keldótt. Fúlutjarnarlækur gat orðið erfiður farartálmi í votviðri. Þá breyttist lækurinn í stórfljót sem þvottakonur komust ekki yfir nema á fjöru.
Göngumóðir laugagestir komu örugglega gegnvotir til fótanna í áfangastað. Íslenskar alþýðukonur áttu fæstar vatnsstígvél fyrr en á fyrstu áratugum líðandi aldar.

Þvottalaugar

Þvottalaugarnar í Laugardal.

Á haustdögum árið 1885 var byrjað að leggja veg inn að Þvottalaugum, Laugaveginn. Fimm árum síðar var hann loks fullgerður. Eftir það fóru konur að nota heimasmíðuð farartæki til laugaferða. Þau voru af ýmsum gerðum og sum býsna frumleg.
Hjólbörur og litlir fjórhjólaðir vagnar voru algengastir. Kerrur sem konum var beitt fyrir í stað hesta komu til sögunnar í aldarlok. Á vetrum þegar snjór var á jörðu komu sleðar sér vel til laugaferða.

Þvottalaugar

Þvottalaugarnar um 1900.

Þá drógu drengir oft sleðana fyrir mæður sínar. Þvottakonur treystu þó varlega dragfærinu. Þegar þær höfðu unnið á óhreinum fatnaði var snjórinn stundum horfinn. Þess eru dæmi að konur og börn hafi borið sleða og annan farangur heim úr Þvottalaugunum. Í úrkomutíð óðu Reykvíkingar leðjuna á Laugaveginum í ökkla. Þá gat orðið illfært heim úr Laugunum með blautan þvott á frumstæðum hjólatíkum.

Fyrstu reglubundnar áætlunarferðirnar í Reykjavík inn að Þvottalaugunum hófust í júníbyrjun árið 1890. Þá var kominn vagnfær vegur heim að þvottahúsi Thorvaldsensfélagsins. Þetta voru fyrstu áætlunarferðir í Reykjavík enda höfðu aldrei fyrr verið aðstæður fyrir hestvagna í vegleysunum í bænum.
ÞvottalaugarVagninn var fjórhjólaður og gat tekið allt að átta menn í sæti. Einn eða tveir hestar drógu hann. Hestvagninn var ekki notaður til að flytja fólk inn í Laugar heldur þvott.
Laugapokar Reykvíkinga voru sóttir heim til þeirra sem bjuggu við akfæra vegi. Hinir urðu að koma þvottinum á ákveðinn móttökustað í bænum. Þvottakonur urðu enn sem fyrr að fara fótgangandi í Laugarnar. Þar gátu þær tekið óþreyttar til hendinni ef hestaflið létti laugapokaklyfjunum af þeim. Of fáir Reykvíkingar voru hins vegar reiðubúnir að greiða fyrir þjónustuna. Þessar fyrstu áætlunarferðir í bænum lögðust því fljótt niður.

þvottalugarHið íslenska kvenfélag var stofnað í Reykjavík árið 1894. Á öðru starfsári ákvað það að „létta af kvenfólki hinu þunga oki, laugaburðinum.“
Kvenfélagið hóf laugaferðir um miðjan maí árið 1895 undir fyrirsögninni „Laugaferðir“. Félagskonur hugðust þannig koma í veg fyrir að kynsystur þeirra væru notaðar sem áburðarklárar í Þvottalaugarnar. Í árslok höfðu rúmlega 600 pokar fullir af þvotti verið fluttir í Laugarnar. Réttu ári síðar neyddist Kvenfélagið til að leysa flutningafyrirtækið upp. Fjölmörg heimili í bænum gátu ekki pungað út aurum fyrir akstri á þvotti.

Sagan segir að þegar Anna kom inn í Þvottalaugar varð hún að standa úti við vinnuna. Bæjarbúar höfðu ekki hirt um að endurreisa þvottahúsið sem fauk árið 1857. Starfssystur Önnu höfðu mátt strita óvarðar fyrir veðri og vindum við þvottana í tæpa þrjá áratugi. Náttmyrkur var skollið á þegar hún lauk við þvottinn. Þá arkaði hún af stað heim með allt sitt hafurtask á bakinu.

Þvottalaugar

Þvottalaugarnar.

Anna hafði unnið sér til hita í Þvottalaugunum. Hún hefur sennilega ekki veitt því athygli að þíða hafði leyst frostið af hólmi. Þegar Anna kom að Fúlutjarnarlæk hugðist hún fara yfir hann á snjóbrú.
Lækurinn var hins vegar búinn að éta neðan úr henni í blotanum. Snjóbrúin brast undan Önnu og hún féll í lækinn.
Morguninn eftir fannst hún örend liggjandi á grúfu í Fúlutjarnarlæk. Balinn og blautur þvotturinn með öllum sínum þunga hvíldu á Önnu.

Reykjavík

Reykjavík – Fúlutjarnarlækur og brýrnar þrjár skv. Herforingjaráðskorti 1902.

Talið er líklegt að Fúlutjarnarbrýrnar þrjár; á Borgartúni, Laugarnesvegi og Suðurlandsbraut, hafi verið byggðar fljótlega eftir framangreint slys, ekki endilega vegna þess heldur ekki síður vegna vaxandi áhyggna af velferð fólks og stækkandi byggðar Reykjavíkur til austurs og aukinni ásókn fólks í Þvottalaugarnar…

Árið 1917 ákvað bæjarstjórn Reykjavíkur að hefja skipulagðar laugaferðir. Fjórir móttökustaðir víðsvegar um bæinn tóku á móti farangri Reykvíkinga í Þvottalaugarnar.
Laugakeyrslan hófst 16. júní en mest var flutt í september og október. Í árslok 1917 var búið að flytja 72 tonn í Þvottalaugarnar. Árið 1918 voru flutt rúm 161 tonn og árið eftir tæplega 178.

Reykjavík

Kamar fínna fólksins eftir aldamótin 1900. Alþýðan þurfti að lá sér nægja holu í fjöl.

Reykvíkingar sendu raunar fleira en þvott með hestvagninum. Hann var hlaðinn bölum, fötum, körfum, þvottabrettum og nokkrar þvottavindur slæddust jafnvel með. Á árunum 1918-1919 var mest flutt á vormánuðum en minnst í desember. Harðindaveturna 1918 og 1919 voru afurðir kamra bæjarbúa fluttar inn að laugunum í þeim til gangi að afþýða úrganginn og losa sig við hann í Laugalæk.

Á millistríðsárunum dró töluvert úr aðsókn í Þvottalaugarnar. Hún jókst þó aftur eftir að Ísland var hernumið í maímánuði árið 1940. Fjölmargar konur í Reykjavík tóku að sér þvotta fyrir hernámsliðið. Í árslok 1940 unnu um 200 konur í bænum við þvotta. Þá fengu þær greiddar 2 krónur fyrir þvott af einum hermanni.

Á vormánuðum árið 1928 ákvað bæjarstjórn Reykjavíkur að kaupa jarðbor og byrja rannsóknir á jarðhita í bæjarlandinu. Haglaborinn sem bærinn keypti var jafnan nefndur Gullborinn. Mastrið á bornum er þrífótur úr stálrörum, sex til sjö metra hár. Gullbornum fylgdu um 300 m af borstöngum en hann gat í raun borað helmingi dýpri holur.

Þvottalaugar

Þvottalaugarnar – Gullborinn.

Á árunum 1928-1942 var byrjað á 15 borholum í Þvottalaugunum og næsta nágrenni, m.a. við Lækjarhvamm. Af þeim var lokið við 14 holur. Boranir hófust 26. júní árið 1928 og var að mestu lokið 19. maí 1930. Rafmagnsveita Reykjavíkur stóð að þessum jarðborunum í Laugunum. Kanna átti möguleika á því að nota gufuna til þess að framleiða rafmagn. Það höfðu Ítalir gert með góðum árangri á jarðhitasvæði hjá Larderello nálægt Toskana.
Vatnið í borholunum við Þvottalaugarnar reyndist þó ekki nógu heitt til að nýta mætti gufuna til rafmagnsframleiðslu. Þá lagði Rafmagnsveita Reykjavíkur til að vatnið yrði notað til að hita hús.

Reykjavík

Reykjavík – þvottalaugarnar.

Hitaveita Þvottalauganna var lögð árið 1930. Aðalborholur borgarinnar voru í landi Lækjarhvamms, neðan við Lágmúla 4, gegnt umfjallaðri brú fjölmiðlanna fyrrum yfir Fúlutjarnarlæk.

Nauðsynlegt er að gera umfjallaðrar minjar sýnilegar borgarbúum og gestum þeirra er eiga gangandi leið um sunnanverða Suðurlandsbraut austan Kringlumýrarbrautar að viðbættu söguskýringarskilti á nefndum stað brúarinnar yfir Fúlutjarnarlækinn fyrrum. Allar minningar um tilurð borgar eru mikilvægar. Brúargerðin ber öll merki um búargerð fyrir og um aldamótin 1900.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/F%C3%BAlatj%C3%B6rn
-https://ferlir.is/kirkjusandur-sagan/
-https://www.ruv.is/frettir/innlent/2025-07-26-horfin-bru-talin-fundin-undir-sudurlandsbraut-449507
-https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=2463149

Reykjavík

Reykjavík – Þvottalaugar.

Elliðakot

Beðasléttur eru tegund ræktunarminja frá því um miðja 19. öld þar til um 1920 þegar vélvæðingin ryður sér til rúms á Íslandi, sbr. „beðslétta kv“, [skilgr.] Tún, sléttur með reglulegum beðum eða kúfum, [skýr.]

Guðmundur Ólafsson

Guðmundur Ólafsson (1825–1889).
Guðmundur kom 26 ára gamall frá námi í Danmörku, Svíþjóð og Noregi um miðja 19. öld. Þá ríkti hér á landi mikil tregða eða beinlínis andstaða gagnvart nýjum hugmyndum. Það mátti engu breyta.
„Þetta er í sjálfu sér áhugavert í ljósi þeirrar nýjungagirni sem ríkir á okkar dögum en samtími Guðmundar var afar íhaldssamur og hreint ekki móttækilegur fyrir þeim nýjungum sem hann vildi koma á. Framlag hans til ræktunarbóta og búnaðarfræðslu varð þó, þrátt fyrir þetta, mikilvægur hlekkur í framfaraátt í því staðnaða landeigendaveldi sem hér ríkti, fram yfir hans daga, eða allt fram undir aldamótin 1900.“
Guðmundur var við nám á árunum 1847–51 og var tvímælalaust meðal mest menntuðu manna sinnar tíðar hér á landi. Guðmundur var alþingismaður Borgfirðinga 1874–1880.

Árið 1874 kom Guðmundur Ólafsson frá Fitjum í Skorradal fram með þá hugmynd að menn ristu ofan af ósléttum túnum, mokuðu moldinni upp í beð og legðu þökurnar aftur yfir.
Hugmyndin á bak við þessar svokölluðu beðsléttur var að beðin eða kúfarnir kæmi í veg fyrir að pollar mynduðust í túninu og drægi þannig úr hættunni á svellkali.

Í „Leiðbeiningum“ Minjastofnunar Íslands um „Beðasléttur – Viðhald og varðveisla fornleifa“ frá árinu 2025 segir m.a.:
„Beðasléttur eða beðatún eru hluti af menningarlandslagi fyrri tíðar. Þessar minjar eru sýnishorn inn í fornar ræktunaraðferðir sem kynntar voru hér á landi um miðja 19. öld þegar námsmenn sneru aftur heim með nýja verkþekkingu í farteskinu, aðferð sem ætluð var til að efla og auðvelda fóðurframleiðslu. Um er að ræða mjög stutt tímabil í sögu túnræktar sem rennur sitt skeið með aukinni vélvæðingu um 1920. Markmið með beðasléttum var að fá slétt land til heyskapar og hindra að vatn sæti uppi á landinu en það getur valdið vetrarkali túngróðursins.
Fyrstu lýsingar á beðasléttugerð eru sennilega frá árinu 1874. Ásýnd þessara minja svipar mjög til annarra gerða minja, akurgerða, en þær eru mun eldri, eða frá miðöldum.

Aðferð við gerð beðasléttna
Grasvörðurinn var ristur ofan af jarðveginum, oftast með undirristuspaða og kastað til hvorrar hliðar. Jarðvegurinn á milli þeirra var plægður eða stunginn og borið í hann lífrænn áburður. Ávalir teigar voru mótaðir með rennum á milli og fyrir endanum á teigunum. Rennurnar tóku á móti vatninu sem kom af teigunum og veittu því burtu. Lengd, breidd og hæð teiga var mismunandi og fór þá helst eftir veðurfari svæðisins og hversu raklend jörðin var. Breidd teiganna var þó sjaldan meiri en svo að auðvelt væri að bera eða kasta torfþökunum til hvorrar hliðar.

Bjarni Guðmundsson

Bjarni Guðmundsson.

Teigar voru oftast látnir stefna undan halla landsins og þeir voru gjarnan nokkrir saman í syrpum/sléttu. Við jarðvinnsluna var yfirborð beðsins mótað ávalt/bungulaga og torfunum, sem ristar höfðu verið ofan af landinu, raðað yfir teiginn/beðið að nýju.“

Í Frey árið 2004 mátti lesa grein um „Beðasléttur – brot af búsetulandslagi“ eftir Bjarna Guðmundsson:
„Verktækni við ræktun túna hefur breyst mikið frá upphafi ræktunarbyltingarinnar. Langur vegur er frá handverkfærum til þeirrar öflugu verktækni sem nú tíðkast. Langstærstur hluti þeirra túna, sem í dag eru heyjuð, hafa verið unnin með vélum, flest á síðustu fimm áratugum eða svo. Minjar um eldri jarðrækt hafa víða verið máðar út. Nokkur dæmi má þó enn finna, ekki síst á eyðibýlum og hér og hvar heima við bæi, þar sem eldri túnsléttugerð hefur verið látin halda sér.

Beðasléttur

Óskot Mosfellsbæ – beðasléttur.

Einn er flokkur þessara minja sem hér og hvar má enn sjá en það eru beðasléttumar svonefndu er auka skyldu uppskeru túna og létta og flýta heyskap. Í snjóföl eftir léttan skafrenning sjást þær einna best, svo og í gróandanum. Þá koma regluleg beðin, sem einkenna þær, hvað gleggst í ljós; oft í brekkum og öðrum þurrlendishöllum nálægt bæjum.
En hvað er beðaslétta, vegna hvers voru þær gerðar og hvaðan er þessi verktækni hugsanlega komin? Orðið beðaslétta er ekki skráð í Íslenskri orðabók. Hins vegar er þar talað um beðatún sem tún þakið beðum líkt og í matjurtagarði (t.d. vegna handsléttunar).

Beðasléttur

Vilborgarkot – beðasléttur.

Þúfurnar voru „landsins forni fjandi” í yfirfærðri merkingu. Þær voru víðast einkenni þeirra litlu túna er til voru og þær takmörkuðu afköst við slátt og heyvinnu. Álitið er að bændur hafi fyrr á öldum haft áþekka aðferð við ræktun túna og akra, það er að pæla landið, og að það hafi fyrst verið eftir miðja 18. öld sem farið var að slétta tún og þá líklega eftir erlendum verkfyrirmyndum.
Þaksléttuaðferðin var algengasti hátturinn við túnasléttun lengi vel. Illa gekk að beita hestaplógi á gróinn íslenskan svörð; því varð oftast að rista ofan af áður en beita mátti jarðvinnsluverkfærum. Svipaðri jarðvinnslutækni munu bændur á Suðureyjum við Skotland m.a. hafa beitt.

Beðsléttur

Elliðakot – beðasléttur.

Guðmundur Ólafsson (1825-1889), jarðræktarmaður, löngum kenndur við Fitjar í Skorradal, skrifaði grein um þúfnasléttun sem birtist í ritinu tímaritinu Andvari árið 1874 (4). Þar lýsir hann, sennilega fyrstur manna opinberlega, beðasléttugerðinni án þess þó að nefna hana því nafni. Hann segir: „Til þess, að vatn geti ekki staðið á sléttunum, þurfa þær að vera í ávölum teigum, með rennum eður ræsum á milli. Teigarnir skulu vera því hærri og mjórri, sem jörðin er raklendari og liggur lægra, og eptir því, sem héraðið er rigningasamara. Fyrir endunum á teigunum skulu og vera rennur, eins og á milli þeirra. Bæði þessar rennur og þær, sem era á milli teiganna, eru til þess að taka á móti vatninu, sem kemur ofan af sjálfum teigunum, og því, er að þeim kann að koma annarstaðar frá.

Beðasléttur

Beðasléttur.

Meðal-teigsbreidd mundi vera 4-5 faðmar, að lengd 15-20 faðmar, en hæð 1 alin, það er að segja: teigurinn skal vera þetta hærri í miðjunni en í rennunum, sem eru í kríngum hana. Rennurnar skulu vera ávalar, eins og teigarnir, en ekki snarbrattir, lítur þá öll sléttan út eins og ávalar öldur í röð. Svo sem þegar var sagt, verður stærð og hæð teiganna að fara eptir landslagi og veðráttufari. Sé jörðin blautlend, og vatn renni af henni, þá þarf að leggja lokræsi í rennumar milli teiganna”…
Rök Guðmundar fyrir aðferðinni vom þau að losna við yfirborðsvatnið af ræktunarlandinu.

Beðasléttur

Bændaskólinn á Hvanneyri um 1937. Beðasléttur í brekku og áveituvatn fremst á
myndinni. Ljósm. Ólafur Magnússon.
Ásýnd beðasléttna í landslaginu minnir á ávalar öldur og helst má greina þær á túnum
eftir nýfallin snjó, léttan skafrenning eða við ljósaskipti sem dregur fram ávalt yfirborð
túnsins. 

„Vatnið er aðal-orsökin til þess, að jörðin þýfíst eður verður ójöfn. Menn sjá, að þar sem vatnið náir að standa annaðhvort á eður í jörðinni, þar kemur laut”, skrifar hann, og ennfremur „Það þarf nefnilega að slétta svo, að ekkert vatn geti staðnæmzt á sléttunni … Sléttur þurfa því að hafa þá lögun, að vatn geti hvorki staðið í þeim né á”. Guðmundur bendir á að þessi sléttunaraðferð sé seinvirk með þeim verkfærum og aðferðum sem þá tíðkuðust. Til sléttunarinnar þurfi hver bóndi að eiga áhöld sem hann tilgreinir og lýsir: „plógur, ristuspaði, akreka, pörnplógur, aurbrjótur og valti”.

Til þess að móta hinar ávölu öldur, beðin, var nauðsynlegt að flytja jarðveginn nokkuð til. Að vissu marki mátti gera það með plógnum eftir að grasrótin hafði verið rist ofan af landinu með því að „plægja það síðan um í teiga”.

Beðasléttur

Ólafsdalur – beðasléttur.

Guðmundur mælti með tvíplægingu hið minnsta og skrifaði í grein sinni: …,,því optar, sem hver teigur er plægður þannig, því hærri og brattari verður hann, eins og gefur að skilja … Ein plæging nægir ekki til að gjöra teigana nógu háfa og aflenda, eða til að gefa þeim þá lögun, er þeir eiga að hafa”. Að nokkurri vinnslu lokinni mátti síðan færa jarðveginn til með ak-rekunni, áhaldi sem síðar var þekkt undir nafninu hestareka. Breidd beðanna virðist hafa verið nokkuð mismunandi en 4 faðmar (um 7,5 m) sýnist hafa verið algeng breidd.

Beðasléttur

Beðasléttur.

Verkleg kennsla búnaðarskólanna íslensku snerist fyrstu árin (1880-1905) ekki síst um jarðrækt. Þar mun nemendum m.a. hafa verið kennt að búa til beðasléttur, og á skólajörðunum, t.d. Hvanneyri, má enn sjá allglöggar minjar um þær. Síðan beittu hinir brautskráðu búfræðingar kunnáttunni heima í sínum sveitum og verklagið breiddist út.
Hver sá sem slegið hefur gamla beðasléttu með nútíma sláttuvél kannast við að það er ekki skemmtilegt verk; ýmist ristir sláttuvélin í svörð niður eða skilur eftir óslegna mön, að ógleymdum veltingi dráttarvélarinnar.

Hestasláttuvél

Hestasláttuvél.

Skrifarann grunar að tilkoma hestasláttuvéla hafí á sínum tíma dregið úr vinsældum beðasléttnanna – að ekki hafi þótt eftirsóknarvert að slá beðasléttumar með þeim heldur. Fór enda svo að beðasléttugerðin lagðist að mestu af á fyrstu tveimur áratugum 20. aldarinnar.
Ef þú, ágæti lesandi, ræður yfir landi þar sem enn má sjá leifar gamalla beðasléttna skaltu halda yfír þeim hlífiskildi. Þær eru angi af menningarlandslagi fyrri tiðar, dæmi um nýja verkmenningu sem kynnt var til þess að efla og auðvelda fóðurframleiðslu búanna sem var lífsnauðsyn til þess að efla matbjörg þjóðarinnar þannig að hún gæti losað um vinnuafl til annarra starfa í verkaskiptu samfélagi – brotist fram til sjálfstæðis.“

Hestasláttuvél

Hestasláttuvél – framfarartæki þess tíma.

Beðasléttur voru ekki óalgengar um tíma á Reykjanesskaganum, s.s. að Elliðakoti, Óskoti, Vilborgarkoti og Laugarnesi. Telja má að þær hafi verið mun víðar, en nútíma landbúnaðartæki hafi smám saman afmáð þær af yfirborði túna, einfaldlega vegna þess að þeirra tíma tilurð hentuðu ekki framförunum í landbúnaði, s.s. sléttun og framræðslu túnanna til auðveldunar vélvæðingunni.

Heimildir:
-Aðalskrá Þjóðhættir – Undirskrá Spurningaskrár – Svör Sent/Móttekið 30.6.1977.
-https://issuu.com/bjgudm/docs/hvanneyrar_pistlar_22_loka/s/17165427
-Leiðbeiningar Minjastofnun Íslands – Beðasléttur; Viðhald og varðveisla fornleifa, 2025.
-Freyr, 5. tbl. 01.06.2004, Beðasléttur – brot af búsetulandslagi, Bjarni Guðmundsson, bls. 4-5.

Beðasléttur

Á korti Samúels Eggertssonar af Laugarnesi  og Kirkjusandi 1910 eru merktar inn 4 beðasléttur. Beðaslétturnar voru suðvestur af bænum. Beðasléttur voru einnig oft nefndar teigasléttur, en þessi heiti voru höfð um tún sem gerð voru með sléttunaraðferð Guðmundar Ólafssonar búfræðings og alþingismanns. Beðasléttur voru gerðar þannig að rist var ofan af túninu, jarðvegurinn plægður upp í beð í því skyni að vatn sæti ekki í honum og þar sem þess var þörf voru gerð lokræsi milli beðanna til að veita því burt. Síðan voru torfurnar lagðar yfir beðin.

Fornleifauppgröftur

Í Vísi þann 23. janúar 2017 fjallar Kristján Már Unnarsson um doktorsverkefni forneifafræðingsins Magdalenu Schmid undir fyrirsögninni „Telur fornsögurnar sannar um landnámstíma Íslands„.

Magdalena Schmid

Magdalena Schmid.

„Þýskur fornleifafræðingur telur ítarlegar aldursgreiningar elstu minja á Íslandi staðfesta frásagnir fornsagna um að landið hafi fyrst verið numið á árunum eftir 870. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 og í þættinum Landnemarnir.

Fornleifar sem fundust síðastliðið sumar í Stöðvarfirði eru raunar nýjasta dæmið um mannvirki sem einhver virðist hafa reist löngu áður en Ingólfur Arnarson á að hafa numið Ísland fyrstur manna. Sú niðurstaða Margrétar Hermanns Auðardóttur fyrir 35 árum, að fyrsti bóndinn í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum hefði byggt bæ sinn um 150 árum á undan Ingólfi, reyndist olía á eld viðvarandi deilna um hvort landnámssagan sé rétt.

Og þetta er einmitt doktorsverkefni fornleifafræðingsins Magdalenu Schmid; að grandskoða allar aldursgreiningar landnámstímans, en þær eru yfir 300 talsins.

Orri Vésteinsson

Orri Vésteinsson.

„Ef maður skoðar öll gögnin, eins og ég geri í rannsókn minni, – því stundum er auðvelt að draga ályktun frá einu sýnishorni, – en þegar öll myndin er skoðuð segja gögnin okkur að þetta hafi ekki átt sér stað fyrir árið 870,“ segir Magdalena Schmid. Hún viðurkennir að vegghleðslan í Aðalstræti sé dæmi um mannvirki frá því áður en landnámsaskan féll.

Orri Vésteinsson prófessor, sem er leiðbeinandi hennar, telur aðalniðurstöðuna þá hve mikil og traust gögn séu til um landnámið. „Það er búið að gera alveg gríðarlega margar greiningar. Það er búið að fara á marga staði, grafa þá upp, og safna miklum heimildum,“ segir Orri.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Yfirgnæfandi hluti þeirra bendi til að landnám hefjist eftir að landnámsgjóskulagið féll. Tveir staðir, Reykjavík og Húshólmi við Krýsuvík, sýni mannvist undir gjóskunni en yfir 300 staðir sýni elstu mannvist rétt ofan á gjóskulaginu.

„Þetta sýnir okkur það auðvitað að fólk er komið hingað fyrir 870 en landnámið sjálft hefst ekki fyrr en eitthvað eftir þann tíma,“ segir Orri.

Niðurstaða Magdalenu Schmid er að fornleifarnar styðji frásagnir fornsagna af landnáminu.

Landnáma

Landnáma.

„Í sögunum er sagt að Ísland hafi verið numið á 60 vetrum og að fólk hafi komið árið 870 eða 874. Tímasetningin er mjög nákvæm, og þótt við vitum nú að fólk hafi komið aðeins fyrr, er talað um landnám, – og það stenst, – því það átti sér stað eftir 870. Þannig að sögurnar eru sannar,“ segir Magdalena.

Heimild:
-https://www.visir.is/g/2017170129545/telur-fornsogurnar-sannar-um-landnamstima-islands

Fornleifauppgröftur

Fornleifauppgröftur í Stöðvarfirði. Jörðin hefur margt forvitnilegra að geyma, þrátt fyrir allar skráðar ritheimildir…

Hvaleyri

Eftirfarandi upplýsingar um kletta og klifur í og við Hafnarfjörð er að finna í Örnefnalýsingu Guðlaugs Rúnars Guðmundssonar fyrir Hafnarfjörð árið 2004:

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson.

Arnarnípa, uppmjór klettur í vesturenda Hæðarinnar í klifinu, Ljósaklifinu (G.B.).

Ágústarvörður (Augustarvörður) ofan Rauðhólsnefns og framan við Eyrarhraun. Sjá má vörðurlaga klett að baki Herjólfsgötu 34, þaðan markaðist Ágústarland Flygenrings suður í Sönghól (Gönguhól (hjáleiga, eftir 1903, Grútarstöðin) við Sönghóls-/Gönguhólsklif milli Herjólfsgötu 28 og Langeyrarbæjar. Lá fram í sjó. Herjólfsgata var brotin þar í gegn 1946-1947 (G.B.).

Balaklettur (-ar) er fram af túni býlisins bala í Garðahverfi. Á Balakletti er varða, Markavarða. Þaðan er sjónhending í vörðuna sem er rétt sunnan við Hrafnistu í Hafnarfirði.

Hafnarfjörður

Bingurinn.

Bingurinn var svæðið kallað frá Christensenshúsi suður að pakkhúsi sem brann 1906 (G.S.). Þarna er um að ræða neðsta hluta Reykjavíkurvegar nálægt því sem nú er eystri brún eystri akreinar og undir suðvesturhluta Vitans, hins verðandi bókasafns Hafnarfjarðar. Christensenshús stóð þar sem síðar reis Flygeringshús/Hótel Björninn/Hótel Þröstur/Veiðafæradeild Kaupsfélags Hafnarfjarðar. Það var Vesturgata 2 en veitingahúsið A. Hansen er Vesturgata 4. Bingsnafnið virðist tilkomið af því að þarna voru geymdar kolabirgðir dönsku varðskipanna (G.B.).

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður um 1900.

Blikalón I. Býli í Hraunum. Vorið 1966 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að nota heimild í 26. grin skipulagslaga nr. 19/1964 til að áskilja sér forkaupsrétt að öllum lóðum og fasteignum í Hafnarfirði vestan Krýsuvíkurvegar sem lagðar voru undir lögsagarumdæmi Hafnarfjarðar með lögum nr. 46/1964. Meðal þessara eigna voru jörðin Lónakot, jörðin Óttarsstaðir, þar með talið gamla býlið Óttarsstaðir II, Óttarsstaðagerði, Blikalón I og Glaumbær.
Húsið stóð niðri í lægðinni niður og vestur frá Sæbóli. Lægðin var alldjúp, næstum gjóta og hefur þar verið skjólsælt (G.B.).

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – málverk frá því um 1900.

Brúarhraunsklettur var spölkorn norðan Hamrakotslækjar. Allstór klettastapi gekk fram úr hrauninu og náði nokkuð út í fjöruna fram undan Brúarhraunsbæjunum. Brúarhraunsklettur var eini kletturinn fyrir botni fjarðarins sjávarmegin götunnar. Gatan lá skammt fyrir ofan klettinn. Kletturinn var að mestu flatur að ofan og nokkuð gróinn, um 30 metra á lengd en um 10-12 metra á breidd. Endi hans mun hafa verið um 5-7 metrar á hæð og nokkuð þverhníptur. Hliðar hans lækkuðu þegar ofar dró þar sem fjaran beggja vegna hafði nokkurn halla.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – ströndin neðan Hafnarborgar og Hafnarfjarðarbíós.

Þegar dönsku herskipin Hekla og Heimdallur voru hér við land um og fyrir síðustu aldamót var það oft að lúðrasveit þeirra kom í land, þar eð þau lágu oft langdvölum í Hafnarfirði með lúðra sína og bumbur og raðaði sér upp á Brúarhraunskletti og spilaði fyrir fólkið sem fyllti götuna fyrir ofan. Var Hafnfirðingum að þessu hin besta skemmtun. Að þessu leyti var Brúarhraunsklettur Austurvöllur Hafnfirðinga (Ólafur Þorvaldsson). Brúarhraunsklettur var þar undir sem nú (2002) er Pósthúsið og Símstöðin, gegnt Strandgötu 25-27 (G.B.).

Brúarklöppin var klöppin kölluð sem liggur undir Hafnarfjarðarbíói (G.S.). Brúarklöppin lá svolíti austar en Brúarhraunsklettur, örlitlu austar en móts við Gunnarssund. Þar var einmitt Hafnarfjarðarbíó, sem rifið var um 15. nóvember 2001. Bílastæði nú (2002) (G.B.).

Hafnarfjörður

Efstireitur við Ljósaklif.

Efstireitur var austan við Ljósaklif. Skreiðarskemmur voru reistar þar upp úr 1950 er skreiðaröld hófst að nýju. Hann tók við ofan Háareits, þ.e. nálægt því þar sem nú er vegur að húsunum Ljósklifi og Fagrahvammi. Hann var í raun tvískiptur og var eystri hluti hans, sá er meðfram vegi lá lægri en hinn hlutinn á bungunni þar vestur af. Vesturbrún reitsins má enn já að hluta, hlaðna á barmi lægðarinnar sem Ljósaklif stendur í og er þar lág. Víðast ein steinaröð eða tvær. Hvorugur reitanna náði alveg upp að Garðavegi (G.B.).

Hafnarfjörður

Engidalsnef.

Engidalsnef er hraunbrúnin við Engidal. Þegar vegurinn var lagður 1873 lá hann út af hrauninu um Engidalsnef, rétt á austurhorninu (G.S.).

Fiskaklettur. Krosssprunginn klettur vestur frá Gestshúsum í sjó fram. Allmikið dýpi var við klettinn og þar fiskaðist vel. Enn má sjá leifar af Fiskakletti við vöruskemmu Eimskipafélags Íslands (G.S.). Ólafur Þorvaldsson lýsir klettinum: „Fiskaklettur var hraundrangur, nokkurra metra hár, ekki mikill ummáls, en mjókkaði nokkuð, þegar til toppsins dró, sem var nokkuð klofinn.

Hafnarfjörður

Fiskaklettur.

Nokkuð var hann brimsorfinn á þeim hliðum, séð að sjó vissu, enda var hann oftast votur um fætur, og höfðu Ægisdætur endur fyrir löngu tekið að sér að sjá um þann sjóþvott. Í skjölum og sögnum síðari alda kemur Fiskaklettur oft við sögu. Þetta mun oftast vera vegna þess, að hann var endimark hinnar fornu verslunarlóðaar (Akurgerðislóðar) að vestan með sjó. Að austan voru takmörk þeirra lóðar Hamarskotslækur“.

Hafnarfjörður

Gunnarsbær, bær Gunnars Gunnarssonar.
„Gunnarsbær stóð þar sem húsið Gunnarssund 1 stendur stóð áður.

Fjósaklettur (Linnetsklettur, Fjósklettur) er nú niðurbrotinn, tyrfður og umhlaðinn brotahleðslusteini í hinu húslausa horni austan og ofan gatnamóta Strandgötu og Linnetsstígs, í raun krikinn vestan undir húsunum Strandgötu 17 og 17b en mun hafa náð nokkuð niður í stæði Strandgötunnar (G.B.). Fjósaklettur var einnig kallaður Linnetsklettur (G.S. og Ó.Þ.). Ólafur Þorvaldsson kallar klettinn Fjósklettt eða Linnetsklett og segir ennfremur: „Klettur þessi var austan við verslunarhús H.A.Linnets, og var hann ofan við götuna, þegar vestur eftir var farið. Hann gekk fram í götuna og var nokkur sveigur á henni fyrir klettinn. Þó var sýnilegt, að úr honum hafði verið rifið fyrir götunni, það eð hann var nokkuð þverhníptur fremst, en þó með smásyllum, og höfðu börn þar stundum bú sín og leikföng, sem að mestu voru steinar og skeljar úr fjörunni. Börnunum var þetta hættulaust, þótt við alfaraveg væri, vegna þess að umferðin var þeim ekki þá eins hættuleg á götum úti og síðar varð.

Hafnarfjörður

Gunnarssund 1 og nágrenni.

Linnetsklettur var sléttur að ofan og grasi gróinn. Ekki var hann mikils ummáls, þó hefðu sennilega getað staðið þar uppi í einu framt að hundrað manns. Við þá hlið klettsins, sem frá götunni sneri, hafði Linnet byggt fjós fyrir kýr sínar, sem oftast munu hafa verið tvær. Var fjósið byggt að nokkru inn í klettinn, og sáust því aðeins tveir útveggir, norðurhlið og suðurstafn. Torfþak var á fjósinu og tók ris þess upp fyrir yfirborð klettsins. Var það sniddutyrft og jafngróið, eins og kletturinn að ofan… Flestir ferðamenn sem um Fjörðinn fóru, einkum þeir, sem oft fóru um, svo sem þeir sem með skreiðarlestir fóru, könnuðust vel við þennan klett, sem þeir stundum nefndu „Þránd í götu“, svo oft rákust baggar hestanna í klettinn, sökum þess, hve gatan var mjó þarna vegna hleðslu, sem þarna var fyrir framan til varnar sjávargangi upp á götuna“ (Ó.Þ.).

Hafnarfjörður

Til vinstri í fjarska, er líklega Brúarhraun, næst Gunnarsbær, hann var rifinn fyrir allmörgum árum, þar er nú bílastæði. Í fjarska er líklega Hraunprýði, það var rifið, nú er þar bílastæði. Nær, fyrir miðri mynd, lágreist hús, það var Gunnarssund 4, rifið, á lóðinnin stendur nú tveggja hæða steypt hús. Annað hús frá hægri er hús sem fyrst var Miðsund 3 en er nú Austurgata 30. Það hús byggði Christian Olauvson Smith árið 1905 en hann kom til landsins á vegum Jóhannesar Reykdals til að setja upp vélar í nýja timburverksmiðju hans, við lækinn. Því næst er húsið Austurgata 32 , áður Miðsund 4, byggt 1906. 

Gataklettur var fram undan sundhöll Hafnarfjarðar, en er nú horfinn (Á.G.).

Gunnarssund lá upp í hraunið vestan við Ragnheiðarhól og lá í krókum upp í hraunið. Uppsátur skipa og báta (G.S.). Gunnar Gunnarsson hjó sundið upphaflega í hraunið til að draga þar upp báta sína um vetur. Sundið lá sunnan/austan Árnahúslóðar að Gunnarsbæ er stóð á næstu lóð fyrir ofan, beint upp af Strandgötu 29. Nafnið var síðan notað þegar farið var að gefa götum nöfn í Hafnarfirði. Sigurjón Gunnarsson segir svo um Gunnarssund: „Frá Strandgötunni og heim að bænum ruddi faðir minn braut það breiða að hægt var að setja sexæring þar upp á veturna, hvolfdi hann skipi sínu þar í suðri [sennilega sunnan undir bænum (G.B.] svo að það væri öruggt fyrir sjávargangi“ (G.S.).

Hafnarfjörður

Syðstavarða ofan Gjögurs.

Gjögur nefnist strandlengjan við Hvaleyrarhraun og kapelluhraun frá Arnarklettum vestur undir Lónakot (Á.G.). Í lýsingu G.S.. segir að Gjögrin taki við þar sem Litla-Sandvík endar. Alfaraleiðin eða suðurferðaleiðin lá frá túngarðshliðinu niður á Hveleyrarsand og lá lítið eitt ofan við Gjögrin. Þar var klapparhóll er leiðin lá um, nefndist Miðhóll og þar í Móðhola (G.S.). Í Móðlu var kveðinn niður draugur.

Heimastavarða var við gömlu leiðina við Gjögur í Hvaleyrarhrauni. Síðan kom Miðvarða og syðst Syðstavarða (G.S.).

Hótel Björninn rak Guðrún Eiríksdóttir á Vesturgötu 2 (G.S.). Þar var oft mikill gleðskapur hermanna á stríðsárunum.

Hafnarfjarðar

Hraunprýðishóll.

Hraunprýðishóll (Fríkirkjuhóll) var heitið á Fríkirkjuhól fram að því að Fríkirkjan reis 1913 (G.B.).

Hvíldarhóll (Hvíluhóll) var hraunhóll rétt við Kirkjuveginn (G.D.). Hann var einnig nefndur Hvíluhóll. Hann er fremsti hluti hólranans niður undan markavörðunni fram við Hrafnistu. Garðavegur var brotinn um hann framanverðan og liggur þar enn. Hóllinn dró nafn af því að þar hvíldi kirkjufók sig á göngunni milli Hafnarfjarðar og Garða frá því um aldamót er Garðavegur var lagður og til 1914 er Hafnarfjarðarkirkja var vígð. G.B. heyrði aldrei annað nafn en Hvíluhóll fyrr en 1999 er hann heyrði fyrst Hvíldarhólsnafnið nefnt. Lítið eitt var brotið af hólnum við húsflutning (->Sæból). (G.B.).

Hafnarfjörður

Fagrihvammur og Ljósaklif.

Jóhannshellir (->Kristínarhellir) var nálægt Vitanum, sami hellir og Kristínarhellir. Þar hafði Jóhann Baldvinsson fé sitt (G.S.).

Klofhóll var þar sem Gamla-Fjarðargata lá upp á hraunið við Engidalsnef og suður af honum, Stekkjarlaut, sem nú er afgirt (G.S.).

Ljósaklif (húsið) var reist af Benedikt Guðnasyni 1945-1946. Þar við var hænsnahús, fiskverkunarhús, bílaverkstæði, gallerí, allt sama húsið nema galleríið sem var verkstæðishúsið endurgert.

Hafnarfjörður

Hamarskotsmöl.

Marlaroddinn var vesturendi Hamarskotsmalar, austan við Lækjarósinn. Náði mislangt vestur eftir því hvar ósinn lá – eða var látinn liggja (G.B.).

Mölin (->Hamarskotsmöl) var svæðið sunnan Hamarskotslækjar kallað á svipuðum slóðum og Strandgatan er nú. Um hana segir Ólafur Þorvaldsson: „Þegar til Reykjavíkur var farið úr suðurfirðinum, lá leiðin svipað og Strandgatan er nú. Sunnan lækjarins var Mölin, og var enginn vegur lagður yfir hana, og var því ýmist farið um sýslumannstúnið, ef sæmilega þurrt var um, eða þá eftir Mölinni, allt sunnan frá bakaríi og nyrst á Malarenda, en þar var brú á læknum, rétt þar sunnan við, sem nú er lyfjabúð Hafnarfjarðar.

Hafnarfjörður

Rauðhólsnef.

Mölin var var laus og þung hestum og tók þeim víða í hófskegg. „Magnús Jónsson segir að þegar talað var um húsin á Mölinni að nefnt hafi verið að fara suður fyrir Möl, að vera niðri á Möl eða þvíumlíkt.“ „Síðan var Mölin oft kennd við helstu athafnamenn þar á hverjum tíma – Bergmannsmöl, Ólafsmöl og svo Einarsmöl þegar nálgaðist Moldarflötina og lækinn og Einar Þorgilsson flutti bækistöð sína á Óseyri“ (M.J.).

Ágústarklettur

Ágústarklettur ofan Langeyris.

Sjóhús við Rauðhólsnef, allstór risbyggður bárujárnsskúr til verkunar grásleppuhrogna, reistur á möl beint ofan Rauðhólsnefs um 1953. Rifinn fyrir 75 ára afmæli Hafnarfjarðar 1983 (G.B.).

Skipaklettur (Jaktaklettur) er nefndur í Jarðabók Árna og Páls: „Jörðin [Setberg] á ekki land til sjávar, en búðarstöðu á hún og skipsuppsátur í Garðastaðar landareign þar sem heitir Skipaklettur. Er þetta eiginlega í Akurgerðislandi, sem Hafnarfjarðarkaupstað tilheyrir. En þó er undirgiftin fyrir þetta skipsuppsátur betöluð og hefur betalast til staðarhaldarans í Görðum með xx álnum“.

Hafnarfjörður

Hvíldarhóll.

Bjarni Sívertsen lét árið 1805 grafa þurrkví inn í malarkambinn austan við Skipaklett (Jaktaklett) örskammt vestan við verslunarhúsin í Akurgerði (L.G.).
Ólafur Þorvaldsson þekkir einungis nafnið Jaktaklettur. „Jaktaklettur hefði eftir útliti og lögun mátt fremur nefnast hóll heldur en klettur, svo mikill var hann um sig. Hliðar hans, sem móti norðri og austri sneru, höfðu nokkurn aflíðanda, en suðurhlið, sem að sjó vissi, og vesturhlið voru ýmist þverhníptar eða stöllóttar. Norður- og austurhliðar Jaktakletts drógust nokkuð jafnt til efstu brúnar, og myndaðist þar hryggur til suðvesturs og norðausturs, og stóðu klappirnar þar víða upp úr.

Hafnarfjörður

„Sundklettur“, neðan Sundhallarinnar. Þar var hafnfirskum börnum kennt sund fyrr á árum.

Á efri árum Jaktakletts, ef svo mætti segja, ber að vísu ekki mið við sögu hans, þó skal þess getið, að á fyrstu árum, sem Ágúst Flygering kaupmaður og útgerðarmaður rak þá atvinnu í næsta nágrenni, lét hann reisa fánastöng uppi á Jaktakletti. Þaðan var skipum, innlendum og útlendum, heilsað og þau við burtför kvödd fánakveðju. Á sviðuðum tíma höfðu tveir eða fleiri Hafnafirðingar söltunar- og verkunarstöð sunnan undir klettinum, í pöllum hans og básum, fyrir hrognkelsiveiði sína, og versluðu þar meða afla sinn við sína viðskiptamenn.
Fremur mun fátítt, að klettar og önnur kennileiti á landi uppi séu kennd við skip, en svo er þó hér, Umræddur klettur er kennur við jaktir, þ.e. lítil fiskiskip seytjándu og átjándu aldarinnar (máske eitthvað lengur).

Hafnarfjörður

Gönguhóll.

Á fyrsta tug nítjánu aldarinnar mun fyrstu og að ég ætla einu þurrkvínni, sem byggð hefur verið hér á landi, hafa verið komið upp austan undir þessum umrædda kletti, og allar líkur benda til, að hún hafi verið fyrsta skipasmíðastöð landsins, sem svo getur kallast. Í þurrkví þessa munu, eftir því sem sögur herma, hafa verið teknar til viðgerðar fiskiskútur, sem þá gengu undir nafni jaktir. Sömuleiðir benda og allar líkur til þess, að þarna hafi verið byggðar tvær eða fleiri jaktir. Árið 1803 hafði Bjarni Sívertsen þá ánægju að sjá fyrstu jaktina fljóta fyrir landi.

Stifnishólar

Stifnishólar.

Stifnishólar eru beint framan Brúsastaða. Aðrir segja Stífnishóla vera kletta ofan bæjarins. Sama saga er sögð um Stíflishóla í landi Selskarðs við Skógtjörn. Vestan Stífnishóla eru hleðslur, sennilega vígis frá styrjaldarárunum, fremur en naust. Þar hvolfdi Þórður Eyjólfsson á Brúsastöðum kænu sinni á vetrum á 6. áratugnum en almennt var þetta álitið „vígi“ en fley Þórðar á þeim tíma smátt. Þarna var gerð leikmynd fyrir sjónvarp á 8. og 9. áratugnum er upp var tekinn þáttur um börn á stríðsárunum síðari. Nokkrar hleðslur allþykkar mátti sjá í klettaskorum vestan við Stífnishóla á eftirstríðsárunum. Ungmenni kotanna töldu þetta „vígi úr stríðinu“ er þá var nýlokið (G.B.). Stífnishólar eru krossprungnir klapparhólar beint framan af bænum. Þar var kveðinn niður draugur um aldamótin 1800 (G.S.).

Hafnarfjörður

Svendsensklettur neðan Reykjavíkurvegar 16.

Svendsensklettur stendur enn neðan Reykjavíkurvegar 16 (G.S.).

Sæból (áður Reykjavíkurvegur 12), flutt 1959-1951 á næstu lóð framan við eða nær sjó en Dalbær. Þar bjó Björn Bjarnason (f. 1907- d. 1998) með fjölskyldu sinni. Það hús á nú sonur hans Edvard Rafn (G.B.). Er hús þetta var flutt þurfti að brjóta nokkuð framan af Hvíluhól (Hvíldarhól) nokkuð framan við Markavörðuna við Hrafnistu til að húsið mætti flytja þar um veginn (Árni Gunnlaugsson 1984).

Heimild:
-Guðlaugur Rúnar Guðmundsson – Örnefnalýsing Hafnarfjarðar 2004.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – loftmynd 1954.

Gvendarborg

Fjárborgir eru hringlaga byrgi sem ætluð voru sauðfé sem skjól á fyrri öldum, oftast hlaðnar úr grjóti en stundum líka úr torfi. Hleðslan er borghlaðin þannig að hún dregst smám saman að sér og mjókkar upp á við.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg í Selvogi.

Yfirleitt var látið nægja að hlaða háa veggi í fjárborgir en stundum voru þær hlaðnar með hvolfdu þaki. Í sumum tilvikum mætast hleðslurnar í toppinn. Algengast er að fjárborgir séu hringlaga en það er þó ekki algilt. Aðeins einn inngangur er á hverri fjárborg.

Fjárborgir eru algengastar á Suðurlandi og er vitað um að minnsta kosti 142 á Reykjanesskaga. Margar hafa varðveist vel sýnilegar en aðrar eru ógreinilegri. Sums staðar eru einungis undirstöðurnar eftir en þegar hætt var að nota fjárborgirnar var grjótið úr þeim stundum nýtt í önnur mannvirki.

Pétursborg

Pétursborg ofan Voga.

Byggingarlag fjárborganna gæti verið fornt á Íslandi og gefa örnefni og fornleifarannsóknir mögulega vísbendingar um það. Ritheimildir greina þó ekki frá fjárborgum fyrr en á 18. öld.
Fjárborgir eru merkur vitnisburður um sauðfjárrækt sem lengst af skipaði stóran sess hér á landi. Það skipti máli að féð sem gekk úti kæmist í skjól og hafa fjárborgirnar verið mikilvægar til að forða því að það félli í vondum vetrarveðrum.
Fjárborgirnar sóma sér vel í íslensku landslagi og er látlaus tign yfir þeim þar sem þær standa í hrauni og móum sem minnisvarðar um horfna búskaparhætti. Þær hafa tvímælalaust mikið minjagildi enda eru margar þeirra friðlýstar.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Heródes

Af um 128 letursteinum og letursteinastöðum sem hafa verið rannsakaðir á suðvesturhorni Íslands eru langflestir varðveittir á vettvangi undir berum himni.

Básendar

Básendar – letursteinn.

Áletranirnar á steinunum eru af ýmsu tagi en algengast er þó að finna ártöl og upphafsstafi, fangamörk eða nöfn. Stundum fylgja þeim einnig vísur eða aðrar stuttorðar upplýsingar, jafnvel myndir. Steinarnir eru fjölbreytilegir og má skipta þeim í nokkra flokka. Sumir tengjast höfnum og verslunarstöðum en aðrir hafa verið notaðir í tengslum við siglingar og fiskveiðar. Einn flokkur letursteina eru ýmis konar minningarmörk og legsteinar. Þá hafa steinar verið áletraðir til að merkja mannvirki og leiðir og landamerkjasteinar eru algengir. Áletranir alþýðufólks eru af ýmsu tagi og meðal þeirra eru líka áletranir frá hermönnum sem telja má til herminja. Loks eru sumir steinar alveg sér á báti.

Suðurnesjabær

Þórshöfn – letursteinn.

Yfirleitt er letrið höggvið í steinana fremur en rist enda hafa þau sem þannig merktu klappir og grjót ætlað að skilja eftir eitthvað varanlegt.
Skoðaðir voru letursteinar frá síðustu tæplega 500 árum þannig að ljóst er að þessi hefð nær langt aftur. Væntanlega hefur þetta tíðkast hér á landi í einhverju formi frá upphafi byggðar en eldri áletranir hafa veðrast af steinunum í tímans rás. Ártöl eru mjög oft gefin upp og virðist yfirleitt mega treysta þeim þannig að marga letursteina er auðvelt að tímasetja.
Letursteinarnir eru ýmist jarðfastir eða lausir og hafa flestir mikið minjagildi og sumir eru í hættu vegna ágangs náttúruafla. Örfáum hefur því miður verið bjargað á söfn í stað þess að varðveita þá við menningarstaði þar sem saga þeirra á uppruna sinn.

Flekkuleiði

Rúnasteinn á Flekkuleiði.

Grindavík

Í Bæjarbót – óháðu fréttablaði í Grindavík, var m.a. fjallað um umhverfismál árið 1991.

Grindavík

Grindavík.

Umhverfismál í brennidepli – Mjög mikill áhugi á skógræktinni – nokkur þúsund plöntur gróðursettar í Selskógi í fyrra!
Fróðlegt er að lesa eftirfarandi í ljósi þess að orðum virðast ekki hafa fylgt gerðum – líkt og svo oft þegar dægurstjórnmálaflokkar eru annars vegar.

„Eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar voru Náttúruverndarnefnd og Fegrunanefnd sameinaðar í eina, Umhverfisnefnd. Mun sú nefnd reyna eins og tök eru á að halda þeim störfum áfram sem forverar hennar hófu. Áfram verður fylgst með umgengni innan bæjar og utan og reynt að hindra náttúruspjöll. Þá verða veittar viðurkenningar fyrir fallega garða og snyrtilegt umhverfi fyrirtækja.
Nefndin tekur öllum ábendingum með þökkum.

Hafnarsvæðið
Grindavík
Höfnin og hafnarsvæðið hefur um langan aldur verið miðpunktur og hjarta Grindavíkur og verður trúlega lengi enn. Fátt er því mikilvægara en að þar ríki fyllsta hreinlæti og snyrtimennska, tákn þess að þar séu meðhöndluð matvæli. Ferðamenn, innlendir og eriendir, eru næstum daglegir gestir við höfnina og í þeirra hópi áreiðanlega bæði fiskkaupendur og neytendur. Því miður má allvíða á hafnarbakkanum sjá rusl og drasl, sem ekki á þar heima. Opnir sorpgámar eru síst til prýði og feykir vindurinn innihaldi þeirra iðulega um nágrennið. Setja þarf upp lokaða gáma fyrir smærra sorp og léttara og sjá til þess að allir gámar séu losaðir nægilega oft.
Ekki er heldur til fyrirmyndar að skólp skuli renna í höfnina, en lausn á þeim vanda er tæpast í augsýn, enda er dýrt að leggja allar lagnir út fyrir varnargarðinn.

„Fjaran mín“

Grindavík

Fjaran við Grindavík.

Nú á vordögum verður verkefnið „Fjaran mín“ endurvakið og er fólk eindregið hvatt til að veita því brautargengi með því að velja sér fjörurein til að fylgjast með.
Upplýsingar og eyðublöð er hægt að fá á bókasafninu. Kerfisbundnar upplýsingar um ástand fjörunnar, lífríki og mengun eru mikilvægar til ákvörðunar um leiðir til úrbóta og verndunar. Einnig eru sjómenn hvattir til að koma með allt sorp að landi í stað þess að láta það fara í sjóinn. Á mörgum bátum er þetta í góðu lagi, en víða má betur gera. Sjórinn er nú einu sinni matarkistan okkar og í hana hendum við ekki sorpi.

Skógrækt

Selskógur

Í Selskógi.

Á liðnu ári voru gróðursettar nokkur þúsund trjáplöntur í Selskógi og suðurhlíðum Þorbjarnar. Voru þar að verki bæði félagasamtök og einstaklingar. Var greinilega mikill áhugi meðal þátttakenda að þessu starfi verði haldið áfram og eru nú allar horfur á að svo geti orðið. Er því full ástæða til að Skógræktarfélag Grindavíkur, sem verið hefur heldur atkvæðalítið sem slíkt, taki nú á sig rögg og nýti þennan áhuga almennings til frekara átaks. Margt hefur breyst síðan félagið var stofnað í litlu sjávarþorpi og því þarf að aðlaga félagið öðrum aðstæðum. Í dag er einnig vitað mun meira um skógrækt en þá, um plöntuval og aðferðir og því meiri líkur á góðum árangri. Næg eru verkefnin.

Sögulegar minjar

Strýthólahraun

Sögulegar minjar við Grindavík.

Mjög víða í landi Grindavíkur, svo og víðar á Suðurnesjum, eru sögulegar minjar sem vitna um atvinnuhætti liðinna tíma. Má þar nefna seljarústir víðs vegar inn til landsins og minjar um útræði og fiskverkun við sjóinn. Saga þessara staða er að falla í gleymsku og því síðustu forvöð að skrá þá vitneskju sem enn er að finna, ljósmynda staðina og merkja inn á kort. Þá þyrfti að friðlýsa merkustu minjarnar í samráði við þjóðminjavörð. Á síðasta aðalfundi SSS mun hafa verið gerð samþykkt í þessa veru, en fylgja þarf málinu eftir hér heima.

Hreinsunarátak

Grindavík

Grindavík.

Fyrirhuguð er hreinsunarátak helgina 25.-26. maí næstkomandi. Ætlunin er að þetta átak verði á öllum Suðumesjunum þessa helgi. Er fólk hvatt til að hreinsa til á lóðum sínum og annars staðar þar sem rusl er. Allt rusl verður svo fjarlægt af bæjarstarfsmönnum.
Fólk getur fengið plastpoka hjá bænum undir ruslið.
Verum samtaka í þessu hreinsunarátaki og gerum bæinn okkar fallegri og snyrtilegri.“ – Umhverfisnefnd Grindavíkur; Guðrún Sigurðardóttir, Haukur Guðjónsson, Ólafur Guðbjartsson.

Heimild:
-Bæjarbót – óháð fréttablað í Grindavík, Umhverfismál í brennidepli, 5 tbl. 01.05.1991. bls. 2.
Bæjarbót

Hellisheiði

„Frá örófi alda gengu menn að mestu þangað sem þeir þurftu að fara, það má því segja að tveir jafnfljótir hafi verið fyrsta samgöngutæki mannkynsins. Svo var farið að nýta hesta og önnur dýr til að bera menn á milli staða og loks komu annarskonar samgöngutæki, svo sem hestvagnar og bílar komu enn síðar.

Fornagata

Fornagata í Selvogi – hluti leiðar.

Eitt af sérkennum samgangna á Íslandi er að það urðu almennt ekki til vegir sem gátu annað umferð vagna fyrr en fyrir rúmri öld síðan. Á meðan að góðir, vagnfærir vegir voru í nánast öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við, voru hér troðningar sem eingöngu voru færir gangandi og ríðandi umferð.
Vegir sem hlykkjuðust á milli hrauntraða eða þræddu sig eftir þægilegustu leiðinni á milli bæja. Stærri flutningar, sem ekki var hægt að flytja á hestbaki, fóru nánast alfarið fram á sjó.
Fyrsti grunnur að skipulagðri vegagerð á Íslandi varð til með tilskipun árið 1861. Það var svo árið 1904 sem fyrst var hafist handa við að leggja það sem kallast gæti akvegur til Suðurnesja, en það var ekki fyrr en árið 1912 sem Suðurnesjavegurinn var tilbúinn og hægt var að fara með hestvagn frá Reykjavík til Keflavíkur.

Vatnsleysuströnd

Almenningsvegur – Eiríksvegur ofan Vatnsleysu. Fyrsti vagnvegurinn milli Hafnarfjarðar og Voga.

Ári síðar tókst að koma bíl eftir þeim vegi í fyrsta sinn. Allt fram að því voru ekki vagnfærir vegir sem heitið gat á milli byggðarlaga á Íslandi þrátt fyrir rúmlega þúsund ára búsetu.
Út um allar jarðir má finna gamlar götur sem lágu um langan eða skamman veg, sumar voru á milli húsa og til nausta og selja, meðan aðrar lágu á milli landshluta. Á Reykjanesskaganum er margar slíkar götur að finna, en þar liggur ein megingata, í daglegu tali kölluð almenningsvegurinn, meðfram sjónum að norðanverðu og Krýsuvíkurleiðin að sunnanverðu. Það er þó ekki svo einfalt að einungis sé um tvær götur að ræða því að net gönguleiða liggur um öll Suðurnes. Í raun má skipta þessum gömlu götum í tvennt, annars vegar eru það götur sem urðu til á milli bæja og upp til selja. Hins vegar eru verleiðir, götur sem lágu á milli verstöðva víðsvegar um nesið. Þegar skoðuð eru kort af þessum gömlu götum sem lágu á milli verstöðva virðast þær flestar liggja til Grindavíkur.

Kristborg Þórsdóttir

Kristborg Þórsdóttir.

Í ritverkinu „Fornar leiðir á Íslandi“ skilgreinir Kristborg Þórsdóttir, fornleifafræðingur, meðal annars að gömul leið sé „Leið [sem] er hverskyns skilgreinanleg leið milli tveggja staða sem farin var að jafnaði“.
Kristborg segir í grein sinni hvaða skilyrði leið þurfi að uppfylla til þess að teljast til fornleiða. Þær leiðir sem talist geta til fornleiða eru leiðir sem farnar voru fótgangandi og ríðandi fyrir tíð bílsins og mannvirkja tengdum honum. … Leiðir þurfa ekki að vera sýnilegar og þær þurfa ekki að hafa verið farnar oft til að geta talist til fornleiða. Til þess að hægt sé að skrá fornar leiðir þarf samt eitthvað að gefa vísbendingu um þær. Vísbendingarnar geta verið ýmist á kortum, í rituðum eða munnlegum heimildum, sýnilegar slóðir eða mannvirki á leiðunum. Ef leiðar er getið í heimildum á þann hátt að legu hennar er lýst, staðirnir sem hún tengir eru nefndir eða nafns hennar er getið, er um skilgreinda leið að ræða sem telja ætti til fornleifa. Ekki er hægt að skrá leið sem byggir eingöngu á vitnisburði um stakar samgönguminjar án þess að sjá hvert leiðin hefur legið – milli hvaða staða.
Minjarnar gefa til kynna að þær séu hluti af arfleifð.“

Heimild:
-Helgi Valdimar Viðarson Biering, MA ritgerð í Hagnýtri menningarmiðlun – Gamlar og nýjar götur á Reykjanesskaga. Samanburður á fornum þjóðleiðum og nýrri gönguleiðum með áherslu á leiðina um Brúnir. HÍ 2024.
-www.ferlir.is
-Kristborg Þórsdóttir. “Fornar leiðir á Íslandi; tillaga að skilgreiningu, flokkun og skráningu, rit Fornleifafræðingafélags Íslands. (2012).

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu ofan Grindaskarða.