Tag Archive for: Njarðvík

Keflavík

Dr. Fríða Sigurðsson skrifaði árið 1972 í Sunnudagsblað Tímans um upphaf þéttbýlis, „Tvær aldir í Keflavík„:
Keflavik -221„Í Keflavík hafði öldum saman aðeins verið bóndabær. Víkin hafði reyndar verið notuð sem höfn, ef ekki fyrr, þá að minnsta kosti með vissu síðan í byrjun 16. aldar, en enginn kaupmaður hafði þar fast aðsetur á undan Holger Jacobæus. Því hefur reyndar verið haldið fram, að Christen Adolph, sonur Holgers, hafi fæðzt í Keflavík, og hefði það þá verið árið 1766 eða 1767, en ekki hef ég getað fundið sannanir fyrir byggð í Keflavík á timabilinu á undan 1772. Heldur ekki í manntali frá 1816 finnst nokkurt fólk, sem sagt er fætt í Keflavík á þessu tímabili, og hefði manneskja, fædd 1766, þá þó ekki verið eldri en um fimmtugt!

Keflavík

Keflavík 1877.

Því þykir mér rétt að álíta árið 1772 fæðingarár Keflavíkurbyggðar, og var stundin sú, þegar Holger Jacobaeus ásamt fjölskyldu sinni og fylgdarliði steig í land í Keflavík, sennilega einn góðan vordag í júni 1772.
Í byrjun 16. aldar vitum við um Englending, Robert Legge frá Ipswich, sem árið 1540 kvaðst hafa stundað Íslandssiglingar í 26 eða 27 ár og lent þar meðal annars í Keblewyckey. (Björn Þorsteinsson: Enskar heimildir um sögu Íslands á 15. og 16. öld, bls. 94). Og það muna allir, að Hallgrímur Pétursson kom út 1637 á Keflavíkurskipi. En byggð var þar ekki nema eitt lítið kotbýli. Þó að Hallgrímur hafi ef til vill verið púlsmaður í sjálfri Keflavíkinni, þá bjó hann á Bolafæti i Njarðvíkurlandi! Og enn var aðeins einn bóndabær í Keflavík 125 árum seinna, þegar manntal var tekið 1762.

Keflavík

Frá Keflavík.

Þéttbýlið og mannfjöldinn voru í Leirunni, í Garðinum, á Rosmhvalanesi og í Kirkjuvogi, en fjölsetnasta hverfið var Stafnes með hjáleigum sínum. Þar hafði konungsútgerðin bækistöð sína, þar sat fyrsti íslenski landfógetinn, Guðni Sigurðsson. Og þegar Skúli Magnússon hafði tekið við þessu embætti, var Stafnes sýslumannssetur í tvö ár. Jafnvel Hólabiskupsstóllinn lét róa frá Stafnesi. Og í nánustu nánd við útvegsstaðinn Stafnes voru verzlunarstaðirnir, Þórshöfn, á 18. öld ekki lengur notuð, og Bátsandar, eins og þessi staður var skrifaður þá, síðan 1640 hin löggilta höfn danska konungsins á Suðurnesjum.
Þetta gerbreyttist, þegar konungsútgerðin var tekin af. Eftir því sem útgerðin á Stafnesi og með henni verzlunin á Bátsöndum minnkaði færðist byggðin til og Keflavík reis úr ómerkilegu kotbýli, þangað til hún varð höfuðstaður Suðurnesja.

Stafnes

Á Stafnesi.

Konungsútgerðin hafði lengi barizt í bökkum, og margt heilræði hafði verið reynt, en þegar rentukammer reiknaði loksins út, að kostnaðurinn við kost, föt og laun þeirra manna, sem stöðugt varð að hafa við útgerðina (ráðsmann, smið, fjóra vinnumenn, tvær stúlkur, einn dreng), nam nærri 250 ríkisdölum meira en hvað allt fiskiríið með innstæðubátum fimmtán færði inn, þá fékkst konungurinn til að afnema konungsútgerðina með lögum þann 12. desember 1769. Bátarnir fimmtán og sjóbúðirnar þrjár voru seldar og fasta starfsfólkið sent heim. Varð það endirinn á hinu illræmda mannsláni og að upphafi Keflavikurbyggðarinnar!

Keflavík

Keflavík 1901.

Eftir að hætt var að gera út frá Stafnesi, lögðust fyrst hjáleigurnar, hinir svokölluðu Refshalabæir, í eyði. Á Stafnesi sjálfu hélt bóndinn, Magnús Jónsson, áfram að búa, og eftir hans andlát 1784 ekkja hans, Helga Eyvindsdóttir, þá orðin 73 ára gömul. 1786 eru aðeins þrir menn búsettir á þessum áður svo fjölmenna stað,1790 jafnvel bara tveir, hjón ein. Þau tolldu þar fram undir aldamót og ólu á þessum árum nokkur börn, en þegar þau fóru burtu, lagðist Stafnes í eyði. Tók þessi þróun ekki nema þrjátíu ár. Með útveginum á Stafnesi hnignaði einnig verzlunin á Bátsöndum. Frá því að konungsútgerðin var afnumin 1769, sat enginn kaupmaður á Bátsöndum þangað til Dýnus Jespersen kom 1777.

Básendar

Básendar – gamli bærinn.

1778 var enn einu sinni nítján manns búsett þar. 1789 tekur Hinrik Hansen við af Jespersen, síðasti kaupmaðurinn á Bátsöndum. Þegar flóðið fræga braut húsin varð hann að yfirgefa staðinn. Hann fékk fyrst húsaskjól á Loddu, en hreiðraði þá um sig „á eyðibýlinu Stafnesi“. Þar dvelst kaupmannsfólkið enn, þegar manntal er tekið árið 1800, en 1801 flyzt það, eins og kunnugt er til Keflavíkur. Simon Hansen hlýtur að hafa áttað sig á því að ekki var hægt að snúa vísi tímaklukkunnar til baka. Hann hlýtur að hafa gert sér ljóst, að verzlunarstaðurinn hafði verið á niðurleið síðustu þrjátíu árin, og átti sér ekki viðreisnar von. Að flóðið setti bara punktinn yfir i-ið, sem skrifað hafði verið 1769. Þess vegna settist hann að í Keflavík, þó að þar væri annar kaupmaður fyrir. Því einnig í Keflavík höfðu tímarnir breytzt. Þar sem 1762 höfðu aðeins búið nokkrar sálir, var tíu árum seinna risinn vísir að byggð.

Keflavík

Í tveimur greinum í Faxa, blaði Suðurnesjamanna, hef ég skýrt frá því, að þegar árið 1772 hljóti fleiri menn að hafa búið í Keflavík en bóndinn og hans fjölskylda. Í jólablaðinu 1969 hef ég sagt frá því, að snemma árs 1773, áður en vorskipin komu út, hafi einhver borgarafrú Brickers dáið í Keflavík, augsýnilega erlend kona, sem ekki tilheyrði Keflavíkurkotinu, og barn eitt fæðzt, Gottfrede Elisabeth, dóttir kaupmannshjónanna Jacobæus, og hljóta hjónin að hafa dvalizt í Keflavik árið áður. En guðfeðginin við skírnina voru þrír Danir. Ályktaði ég af þessu, að allt þetta fólk hafi búið i Keflavík þegar árið 1772, rúmum tveimur árum eftir að konungsútgerðin hafði verið tekin af með lögum þann 12 desember 1769. Eftir var þá að leysa fyrirtækið upp. Salan gekk treglega, og getur vel hafa dregizt fram á árið 1771, og var það sennilega þar af leiðandi, að kaupmaður settist að í Keflavík. Í maíblaði 1970 hef ég þá fært sönnur fyrir þessari tilgátu minni um byggð í Keflavík árið 1771 með því að benda á „Suðurnesjabókina gömlu“, eins og ég nefndi hana, skattabók Rosmhvalaneshrepps fyrir árin 1772 til 1778. En sá hreppur náði á þeim tima alla leið frá Bátsöndum um Miðnes, Garðinn og Leiruna til Keflavíkur. Hefur bók þessi verið í öruggri geymslu að Útskálum þangað til 1901. Þegar hún komst á þjóðskjalasafnið var gert við hana, og er hún nú í öruggu bandi og tættu blaðkantarnir festir á pergament. Hún er fallega skrifuð og auðlæsileg. Þessi gamla hreppsbók byrjar nú einmitt á þessu sama ári, 1772, og staðfestir hún, að 1772 hafi verið tveir „kaupstaðir“ í hreppnum, Bátsandar og Keflavík, og í Keflavík hefur þá setið kaupmaður, undirkaupmaður, „annað þeirra þjónustulið“ og „búlausir menn“. Var signor kaupmaður Jacobæus skatthæsti einstaklingurinn í hreppnum, en „Keflvíkingar“ hafa á þessu ári 1772 borið nærri því helminginn opinberra gjalda!

Keflavík

Kaupmannssetrið á Bátsöndum hélzt enn um 25 ára skeið við hliðina á hinu nýja kaupmannssetri í Keflavík, en um aldamótin lagðist það niður eins og kunnugt er, og einnig byggðin á Stafnesi fór þá i eyði, en báðir þessir staðir höfðu verið i mestum blóma meðan konungsútgerðin var og hafði aðsetur sitt á Stafnesi og höfn á Bátsöndum.
Ekkert hef ég fundið, sem bendir til þess, að byggð hafi risið í Keflavík fyrr en 1772, svo við megum víst líta á þetta ár sem fæðingarár Keflavíkurkaupstaðar. Ekki vitum við, á hvaða degi vorskipin komu út árið 1772 með Holger Jacobæus ásamt fjölskyldu og fylgdarliði hans innanborðs, en þegar hann einhvern góðan veðurdag, sennilega í júní, steig í land í Keflavík með barn og buru, þá fæddist Keflavík, og mega Keflvíkingar því í vor halda upp á tvö hundruð ára afmæli byggðar sinnar!“

Keflavíkurbærinn

Keflavíkurbærinn.

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað 23. apríl 1972, bls. 331-332.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja var vígð 18. júlí 1886. Hún var reist að frumkvæði Ásbjörns Ólafssonar, bónda í Innri-Njarðvík.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Kirkjan er gerð úr alhöggnum steini og var grjótið sótt í heiðina fyrir ofan byggðarlagið. Um steinsmíði sá Magnús Magnússon (1842-1887).
Viðarmiklar viðgerðir fóru fram á kirkjunni 1944, en þá hafði hún ekki verið notuð sem sóknarkirkja frá 1917, og síðan aftur 1980-1990. Arkitekt að seinni viðgerð var Hörður Ágústsson. Kirkjan er friðuð.
Altaristaflan (1986) er eftir Magnús Á. Árnason og sýnir krossfestinguna.
Forn kirkjuklukka (1725) er ein þriggja kirkjuklukkna í turninum.
Saga kirkju í Innri-Njarðvík er nokkuð slitrótt. Í heimildum frá 13. öld er kirkju getið. Hún virðist hafa verið lögð niður á 16. öld, en endurreist á síðari hluta 17. aldar. Kirkjan var aflögð 1917, en endurgerð 1944 og hefur verið þjónað í kirkjunni síðan. Í kaþólsku var hún Maríukirkja og Þorlákur helgi var einnig dýrlingur kirkjunnar.
Sjá meira um Innri Njarðvíkurkirkju HÉR.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Brunnastaðir

Kaupsvæði Keflavíkurverslunar var ekki glöggt afmarkað og kom ekki að sök því lengstum verslaði sami kaupmaður þar og á Básendum. Oftast var þó talið að það næði yfir Garðinn, Leiruna, Keflavík og Njarðavík. Þó töldu sumir Keflavíkurkaupmenn að þeim bæri einnig réttur til verslunar í Vogum og Brunnastaðahverfi.

Brunnastaðahverfi

Brunnastaðahverfi 1961.

Vera má að þessi óvissa hafi verið undirrót þekktra málaferla á hendur Hólmfasti Guðmundssyni árið 1699, en hann var þá búsettur í Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd og átti að versla í Hafnarfirði, en lagði inn lítilsháttar af fiski hjá Keflavíkurkaupmanninum og var húðstrýktur fyrir.
Kaupsvæðaskipulagið var eitt þeirra málefna sem Árni Magnússon og Páll Vídalín tóku til athugunar á ferðum sínum um landið skömmu eftir 1700. Einkum komu þessi mál til kasta Árna Magnússonar og var hann raunar hlynntur áframhaldandi kaupsvæðaverlsun með þeim rökum að kaupsvæðin tryggðu nauðsynlega siglingu til landsins. Árni komst einnig í kynni við Hólmfast og var harla hneykslaður á meðferðinni á honum, og má vera að útreiðin, sem Hólmfastur fékk, hafi einmitt orðið Árna tilefni til að gera að tillögu sinni við yfirvöld í rentumammeri að kaupsvæði Keflavíkur yrði látið ná yfir Brunnastaðahverfi.

Hólmfastskot

Hólmfastskotsbrunnur.

Árið 1699 var Hólmfastur Guðmundsson 52 ára og bjó í Brunnastaðahverfi á Vatnseysuströnd, sem tilheyrði lögvernduðu verslunarsvæði Hafnarfjarðar. Hólmfastur mátti því engum kaupmanni selja fisk nema Hafnarfjarðarkaupmanni, en tók það fyrir að flytja á báti sínum frá Brunnastöðum, þvert yfir Stakksfjörðinn til Keflavíkur, 20 harða fiska í eigu vinnumanns nokkurs, átta fiska í eigu vermanns að austan og 10 ýsur og þrjár löngur, sem hann átti sjálfur. Þessa fiska seldi Hólmfastur í Keflavíkurbúð og gerðist þar með brotlegur við tilskipun um kaupsvæðaverslun. Slíka ögrun þoldu yfirvöld vitaskuld ekki af ótíndum alþýðumanni og sjálfsagt hefur óhlýðnin þótt alvarlegri fyrr það að Hólmfastur lét sér ekki duga að selja sinn eigin fisk, heldur kom fiski annarra í lóg einnig.

Hólmfastskot

Hólmfastskot í Njarðvíkum.

Dómur í máli Hólmfasts var haldinn á Kálfatjörn þann 27. júlí 1699. Dómari var Jón Eyjólfsson sýslumaður, og sátu báðir Njarðvíkurbændur, Þorkell og Gísli, í dómnum, auk nokkurra nágrannabænda annarra, en Jens Jörgensen, fullmektugur á Bessastöðum, sótti málið af hálfu kaupmanna. Þarf ekki að orðlengja það að dómurinn komst að samhljóða niðurstöðu um sekt Hólmfasts og var hann dæmdur til að greiða kóngi átta ríkisdali í sekt eða þola vandarhögg. En því var skotið til ærði yfirvalda hvort ástæða væri til að senda hinn óhlýðna Hólmfast til Brimarhólmsdvalar og báðu dómsmenn honum reyndar ásjár í því efni.

Hólmfastskot

Tóftir Hólmsfastskots í Njarðvíkum.

Árni Magnússon, á ferð sinni um landi, tók upp mál Hólmfasts og fékk honm dæmdar 20 ríksidala bætur fyrir dóminn og hina illu meðferð á honum. Löngu seinna komst Hólmfastur á síður einnar þekktustu skáldsögu Halldórs Laxness (Íslandsklukkuna).
Dómurinn yfir Hólmfasti var óneitanlega harður, en hann var þó fráleitt einsdæmi. Öll frávik frá fyrirskipuðum reglum voru illa séð, sérstaklega ef menn lögðu stund á launverslun, sem kallað var, þ.e. versluðu við annarra þjóða menn en Dani. Lengi voru þýsk, ensk og hollensk fiskiskip hér við land eftir að einokun komst á. Árið 1684 voru t.d. nokkri Suðurnesjamenn kallaðir fyrir fulltrúa réttvísinnar á þingstaðnum Kálfatjörn og dæmdir til búslóðamissins fyrir að hafa verslað á laun við hollenska duggara og var dómurinn staðfestur á alþingi árið eftir.
Eftir 1700 mun hafa dregið úr launverslun og um 1740 var hún nánast horfin. Hólmfastur fluttist síðar að Hólmfastskoti í Innri-Njarðvík.

-Úr Saga Njarðvíkur eftir Kristján Sveinsson – 1996.

Njarðvík

Letursteinn í Njarðvík.

Njarðvík

Njarðvíkur eru tvær hérlendis, önnur í N-Múlasýslu, oft nefnd Njarðvík eystri til aðgreiningar. Flestir hafa hingað til talið Njarðvíkurheitin tengjast norræna goðinu Nirðri í Nóatúnum og dýrkun hans.

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Elsta heimild, sem líklegt þykir að beri vott um átrúnað á Njörð, er frásögn rómverska sagnaritarans Tacitusar, en í riti sínu Germania, sem samið er um árið 100 eftir Krist, gat hann þess að danskir þjóðflokkar dýrkuðu gyðjuna Nerþus. Nafn hennar er talið hið sama og Njarðar, en ekki er þessi gyðja nafngreind í norrænni goðafræði.
Njörður gat ráðið veðri og vindum og gróðri jarðar. Með þá hugmynd að leiðarljósi hafa menn talið að örnefnin Njarðvík hérlendis og í Noregi, og Njarðey, sem kemur fyrir í Noregi en ekki hér á landi, merki lendingarstaði sem helgaðir voru siglingarguðinum eða voru í umsjá hans.

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Þórhallur Vilhjálmsson, forstöðumaður Örnefnstofnunar Þjóðminjasafnsins, hetur um áraraðir rannsakað örnefni með tilliti til örnefna dregin af mannanöfnum. Hann hefu sett fram þá tilgátu að Njarðvíkurnar tvær á Íslandi séu alls ekki kenndar við Njörð, né heldur séu sambærileg heiti í Noregi kennd við goðið. Upphaflega hafi þær haft forliðinn “nær” í merkingunni “nærri”.

Þórhallur hefur í þessu sambandi bent á að heimildir greini frá því að Rosmhvalanesið og nágrenni þess hafi einmitt byggst frá Innesjum og sé Kvíguvoga getið sem landnámsjarðar.

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Einnig bendir hann á að finna megi samsvörun með staðheitum á upprunaslóðum landnámsmanna í Noregi og á Vatnsleysuströndinni. Heiti Njarðvíkur í Gullbringuslýslu er þá samkvæmt tilgátu Þórhalls orðið til vegna þess að hún er næsta vík við landnámsjörðina Kvíguvoga, en Njarðvík eystri í N-Múlasýslu heitir svo vegna þess að hún er næsta vík austan Fljótsdalshéraðs, og hefur verið gefið nafn af mönnum sem þar bjuggu. Hafa ber í huga að í Keflavík er þekkt örnefnið Náströnd. Forliður þess, “ná-“, hefur einmitt merkinguna “nærri” og virðist skírskotun til þess hvort staðir lágu nærri eða fjarri einhverjum öðrum hafa verið virk þegar örnefni urðu til hér um slóðir.

Úr Saga Njarðvíkur eftir Kristján Sveinsson – 1996.

Njarðvík

Innri Njarðvík – Áki Grenz.

Kirkjuvogur

Haldið var að Stekkjarkoti í Njarðvíkum.

Stekkjarkot

FERLIRsfélagar í heimsókn í Stekkjarkoti.

Stekkjarkot var byggt 1855. Jón og Rósa bjuggu þar í u.þ.b. hálfa öld. Eignuðst þau þrjár dætur. Kotið var tómthús og grasbýli og dæmigert fyrir slík býli á 19. öld, en jafnframt var róið til fiskjar eins og títt var um útvegsbændur við ströndina. Síðast var búið í kotinu til 1924, en þá fór það í eyði. Jón var frá Vatnsleysuströnd, en er hann hugðist kvænast Rósu var hann gerður arflaus eftir föður sinn. Hann valdi ástina. Mikil umferð ferðamanna var um Stekkjarkot, en þar stöldruðu þeir við áður en þeir héldu yfir Fitjarnar, sandleirurnar, sem áður gátu verið mikill farartálmi á leiðinni um Njarðvíkur. Brunnur er norðan við túngarðinn í Stekkjarkoti og gömul tóft suðaustan við það. Kotið var endurbyggt fyrir nokkrum árum og er nú safn.

Stekkjarkot

Brunnur við Stekkjarkot.

Fitjakot var norðvestar, en það fór í eyði vegna ágangs ferðamanna, en hestar þeirra hreinlega átu upp túnin og þar með fólkið út á gaddinn.

Á vefsíðu Reykjanesbæjar segir um Stekkjarkot: „Hvernig skyldu menn hafa búið hér áður fyrr, fyrir daga bárujárnshúsa og áður en íslenska steinsteypuöldin gekk yfir.

Stekkjarkot er endurgerð á hefðbundinni þurrabúð eins og þær voru kallaðar og voru algengiar hér í eina tíð.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Þeir sem bjuggu í þurrabúð máttu ekki halda skepnur, s.s. kýr eða kindur. Slík kot voru ávallt byggð á landareign annarra og borguðu kotbúar fyrir afnotin til dæmis með sjávarfangi eða þeir réru á bátum landeigandans. Þurrabúðafólkið varð þannig að treysta algerlega á það sem hafið gaf og oft var þröngt í búi ef illa fiskaðist.

Kotabyggð var fyrsti vísirinn af þéttbýliskjörnum við sjóinn en þótt finna megi heimildir um slíka byggð langt aftur þá er það ekki fyrr en á 19. öld og einkum þeirri 20. sem slík þéttbýli náðu að festa rætur við sjávarsíðuna hér á landi.“

Stekkjarkot

Stekkjarkot – útihús.

Á Safnavef Reykjanesbæjar segir: „Ákveðið var að endurreisa Stekkjarkot á hátíðarfundi sem haldinn var í tilefni 50 ára afmælis Njarðvíkurkaupsstaðar árið 1992.
Ári seinna var kotið opnað með hátíðlegri athöfn að viðstöddum forseta Íslands, frú Vigdísi Finnbogadóttur.

Stekkjarkot var þurrabúð og gefur hugmynd um bústaði sem algengir voru á þessum slóðum í eldri tíð. Þurrabúð merkti að íbúarnir máttu ekki halda skepnur, s.s. kýr eða kindur. Slík kot voru ávallt byggð á landareign annarra og borguðu kotbúar fyrir afnotin til dæmis með sjávarfangi eða þeir réru á bátum landeigandans. Þurrabúðafólkið varð þannig að treysta algerlega á það sem hafið gaf og oft var þröngt í búi ef illa fiskaðist.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Kotabyggð var fyrsti vísirinn af þéttbýliskjörnum við sjóinn en þótt finna megi heimildir um slíka byggð langt aftur þá er það ekki fyrr en á 19. öld og einkum þeirri 20. sem slík þéttbýli náðu að festa rætur við sjávarsíðuna hér á landi.

Það kot sem nú hefur verið endurreist er nokkuð dæmigert um sambærileg kot. Það á sér slitrótta sögu fyrst er það byggt upp úr miðri 19. öld (1855-1857) búsetan þar lagðist síðan af 30 árum síðar (1887). Kotið var byggt upp aftur árið 1917 en rétt tæpum 7 árum síðar var kotið komið í eyði. Reyndar hafði það náð því að verða grasbýli um 1921 sem hefur gefið kotverjum rétt á að hafa einhverjar skepnur.

Stekkjarkot

Í Stekkjarkoti.

Kotið sem við sjáum núna er byggt með stuðningi endurminninga eins af síðustu íbúunum. Eldri hlutinn á rætur aftur til 19. aldar þar er hlóðaeldurinn. Sagt er að þar hafi vinnukona búið og haft með sér barnunga dóttur sem sváfu þar í fleti. Yngri hlutinn er frá síðari búsetudögum. Baðstofa og eldhús eru alþiljuð, komin kolaeldavél og ekki virðist hafa farið illa um heimilisfólk.
Þetta er að sönnu ekki löng saga en gefur innsýn í þennan síðasta hluta merkilegrar sögu kotbyggða við ströndina.

Kotið er í umsjón Byggðasafns Reykjanesbæjar, það er opið eftir samkomulagi.“

Þá var haldið í Hafnir, Kirkjuvog og Kotvog.
Hafnir sunnan Ósabotna, var mikill útgerðarstaður hér áður fyrr. Kirkjan í Höfnum, Kirkjuvogskirkja, var byggð 1861. Það var Vilhjálmur Kr. Hákonarson, sem lét byggja kirkjuna á sinn kostnað. Sagt er að hún hafi kostað 300 kýrverð. Hún er timburkirkja og var upphaflega bikuð að utan með hvítum gluggum. Handan við kirkjuna hefur verið grafinn upp skáli, sem talinn er geta hafa verið frá landnámstíð.

Hafnir

Kirkjuvogskirkja 1970.

Löngu síðar var hún svo múrhúðuð að utan og ljósmáluð. Á árunum 1970-72 var kirkjan endurreist frá grunni og færð til upprunalegs horfs undir umsjón þjóðminjasafns Við Reykjanesveginn í Höfnum er akkeri mikið landmeginn vegarins við björgunarstöðina. Akkerið er af skipinu Jamestown sem rak mannlaust upp í Ósabotna 1870.

Á 19. öld var Kotvogur í Höfnum eitt stærsta býli landsins. Þar bjuggu m.a. 3 forríkir útvegsbændur mann fram af manni, þeir hétu allir Ketill og eru oftast nefndir Katlarnir þrír.

Kotvogur

Kotvogur og Kirkjuvogur.

Annað stórbýli var Kirkjuvogur í Höfnum þar sem búið hafa margir höfðingjar. Á 19. öldinni bjó í Kirkjuvogi dannebrogsmaðurinn Wilhjálmur (Chr(istinn) Hákonarson (1812-1871), en þannig er nafn hans stafað á leiði hans í Kirkjuvogskirkjugarði og á vindfána kirkjuturnsins. Vilhjálmur átti 2 dætur. Önnur þeirra hét Anna.

Oddur. Gíslason

Séra Oddur V. Gíslason.

Heimiliskennari í Kirkjuvogi var þá ungur menntamaður, Oddur V. Gíslason, og felldu þau Anna hugi saman. Þegar ungi maðurinn bað um hönd dótturinnar brást faðir hennar hinn versti við og þvertók fyrir ráðahaginn. Afleiðingin varð eitt frægasta og æsilegasta brúðarrán Íslandssögunnar. Sættir tókust þó síðar. Oddur varð prestur á Stað í Grindavík við mikinn orðstír og var m.a. upphafsmaður að sjóslysavörnum á Íslandi. Af honum er mikil saga sem endar í Bandaríkjunum.

Vilhjálmur Kr. Hákonarson reisti þá kirkju sem nú stendur í Höfnum. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri. Ekkert er eftir af Kirkjuvogsbænum en kirkjan stendur nánast á bæjarhlaðinu enda nefnist hún Kirkjuvogskirkja og sóknin Kirkjuvogssókn. Ketill Ketilsson (1823-1902) dannebrogsmaður og útvegsbóndi í Kotvogi, stundum nefndur Mið-Ketill vegna þess að hann tók við búi af föður sínum og Ketill sonur hans tók svo við búi af honum, hefur ekki viljað vera minni maður en Vilhjálmur í Kirkjuvogi og byggði kirkju úr timbri á Hvalsnesi í Miðneshreppi, en þá jörð átti hann. Kirkjuna lét hann síðar rífa og byggja aðra stærri og íburðarmeiri úr tilhöggnu grjóti. Sú kirkja var vígð 1887 og stendur enn.

Kotvogur

Kotvogur.

Sem dæmi um stærð Kotvogs á dögum Mið-Ketils á 19. öld má nefna að þá var bærinn alls 16 hús og mörg þeirra stór, 38 hurðir á lömum og 72 í heimili á vertíðinni. Bærinn í Kotvogi var enn reisulegur og stór um aldamótin 1899/1900. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið og fórst þrennt í brunanum. Pakkhús úr timbri var austast og fjærst eldinum og skemmdist því ekki . Því var breytt í íbúðarhús og notað sem slíkt til 1984. Það stendur enn ásamt nokkrum útihúsum en allt er það illa farið og ekki svipur hjá sjón.

Kotvogur

Kotvogur.

Stór grasi vaxinn hóll rétt hjá Kotvogi hægra megin götunnar þegar horft er í vestur nefnist Virkishóll.
Gamli Hafnahreppur var stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum mælt í ferkílómetrum – víðáttumikil hraunúfin flatneskja og sandflæmi að stórum hluta. Nyrðri hluti landsins er nokkuð gróið hraun en syðri hlutinn eldbrunnið , uppblásið og hrikalegt svæði. Strandlengjan er einn stærsti skipalegstaður landsins, hrikalegir klettar, sker og boðar þar sem þung úthafsaldan myndar oft tilkomumikið og rosalegt brim. Á sl. 25 árum hefur hraunið ofan við Hafnir tekið stakkaskiptum vegna aukins grasvaxtar sem er árangur landgræðslu sem stunduð hefur verið með flugvélum á Reykjanesskaganum auk þess sem sáð hefur verið í vegkanta af starfsmönnum Vegagerðar ríkisins.

Hafnir

Sandgræðslugirðing ofan Hafna.

Í hrauninu upp af Ósum má enn sjá leifar landgræðslugirðingar sem mun hafa verið lokið við um 1939 en hún skipti Reykjanesskaganum í 2 svæði. Girðingin lá eftir hrauninu
Gríðarlega stórt tréskip, hlaðið timbri, á land nálægt þar sem heitir Hvalsnes á milli Þórshafnar (verslunarhöfn á 19. öld) og Hestakletts nokkru norðan Ósa og gegnt þorpinu. Skipið, sem hét Jamestown og var frá Maine í Bandaríkjunum, rak að landi mannlaust og var auðséð að það hafði verið lengi á reki. Þetta gerðist að morgni hvítasunnudags þann 26. júní 1881. Skipið, sem var þrímastrað og þriggja þilfara, var sagt tröllaukið að stærð.

Jamestown

Annað ankeri Jamestown í Höfnum.

Jamestown mun hafa verið með stærstu seglskipum á 19. öld; á lengd svipað og fótboltavöllur og líklega mælst um eða yfir 4000 tonna skip á okkar tíma mælikvarða. Gríðarlegu magni af timbri, sem allt var plankar, var bjargað úr skipinu og flutt á brott. Timbrið var notað til húsbygginga á Suðurnesjum og víðar, t.d. austur um allar sveitir. Þó var það einungis hluti timburfarmsins því áður en tókst að bjarga meiru brotnaði skipið í spón í óveðri. Rak þá talsvert af timbri á land. Sögusagnir um annan farm skipsins virðast ekki hafa verið á rökum reistar. Sumarið 1989 var einu af 4 akkerum þessa risaskips lyft upp af hafsbotni þar sem það hafði legið í 108 ár. Að því verki stóðu tveir Hafnamenn. Akkerið og hluti af akkerisfestinni prýðir nú hlaðið framan við fyrrum Sæfiskasafnið við Hafnagötu í Kirkjuvogshverfi. Hin akkerin ásamt lengri akkerisfesti höfðu fyrir löngu verið flutt til Vestmannaeyja þar sem festin var lengi notuð sem landfesti smábáta í höfninni.

Heimildir m.a.:
-leo.is
-https://visitreykjanesbaer.is/upplifun/stekkjarkot/
-https://sofn.reykjanesbaer.is/byggdasafn/vidburdir/Stekkjarkot-2

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Ytri-Njarðvík

Í Skýrslu Reykjanesbæjar um „Breytingu á deiliskipulagi í Innri-Njarðvík v/kirkjugarð og Thorkellinsgarð“ árið 2020 má m.a. lesa eftirfarandi sögulegt ágrip Njarðvíkna sem og sögu Innri-Njarðvíkurkirkju.

Sögulegt ágrip

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Í ritgerð sinni Guðir og goð í Örnefnum skoðar Helgi Biering Þjóðfræðingur meðal annar Njarðar forskeytið í örnefnum á Íslandi. Þar segi hann meðal annars um Njarðvíkurnar.
Ekki er mikið um Njarðar forskeyti í örnefnum á Íslandi en þó eru tvær Njarðvíkur og svo skemmtilega vill til að þær eru á sitthvorum enda landsins. Önnur þeirra er á suðvesturhorni landsins en hin er á norðaustur horninu.

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Sú sem er á Suðvesturhorninu er ekki stór landfræðilega heldur einungis lítil vík sem gengur inn úr Staksvík í Faxaflóa og er sá hluti víkurinnar sem er við svokallaðar Njarðvíkurfitjar, eða Fitjarnar eins og þær eru nefndar í daglegu tali. Hún er í landnámi Steinunnar gömlu en samt er líklegt að nafnið á víkinni hafi verið komið fyrir hennar tíð. Þó er áhugaverð kenning í Bókinni Saga Njarðvíkur þar sem haft er eftir Þórhalli Vilhjálmssyni, sem gegndi starfi forstöðumanns Örnefnastofnunar Þjóðminjasafnsins þegar bókin var gefin út, að nafnið tengist ekki átrúnaði á Njörð né heldur séu sambærileg heiti í Noregi kennd við goðið.

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Heldur snúist örnefnið um það að upphaflega hafi þær haft forliðinn “nær” í merkingunni “nærri”. Hann vill meina að Njarðvík á Suðurnesjum heiti svo vegna þess að hún er næsta vík við landnámsjörðina Kvíguvoga, en Njarðvík eystri í N-Múlasýslu beri sitt heiti vegna þess að hún er í næsta nágrenni við Fljótsdalshérað. Ritari ætlar ekki að leggja neinn dóm á það er hitt gæti allt eins verið rétt að nafnið komi af tilbeiðslu við Njörð sem sjávarguð og þá getur Njarðvík vel passa við að vera til marks um góða lendingarstaði og nefnd Njarðvík Nirði til heiðurs.

Njarðvík

Frá Njarðvík.

Það gæti vel passað við Njarðvíkurfitjar þar sem þar er mjúk og sendin strönd með grýttar- og klettastrandir í báðar áttir. Þegar skoðað er kort og myndir af Njarðvík sést hve þar er góð lending fyrir skip eins og Knerri og langskip landnámsmanna voru. Tvennt er sameiginlegt með þeim syðri og eystri, annarsvegar eru báðar með sendinn botn og góðar strendur til að lenda skipi á þannig að lágmarks hætta er á að skemmdir á skipi tefji för, slæmar lendingar á báðar hendur með klettum og skerjum. Og báðar eru sennilega lausar við mjög krappa öldur eða brim inni í botni þar sem þær eru báðar grónar alveg niður í fjöru.

Njarðvík

Innri-Njarðvík – Stekkjakot og Víkingasafnið.

Fram til 1889 var Njarðvík hluti Vatnsleysustrandahrepps, en varð þá sjálfstætt sveitarfélag. En það hafði verið staðfest með dómi árið 1596. Árið 1908 var Njarðvíkurhreppur sameinaður Keflavíkurkauptúni, enda var þar hluti verslunarlóðar Keflavíkur innan Njarðvíkurhrepps. Njarðvík var áður skipt í Innri- og Ytri Njarðvík, sem seinna mynduðu eitt sveitarfélag.
Njarðvíkurnar fengu þá sjálfkrafa verslunarréttindi og hreppurinn fékk nafnið Keflavíkurhreppur. Árið 1942 var hreppunum skipt og Njarðvík varð aftur sjálfstætt sveitarfélag.

Njarðvík

Kot í Innri-Njarðvík.

Heldur er það rýrt sem fjallar um það landsvæði sem Njarðvíkurnar tilheyra í Landnámu. Og í raun er það eingöngu um það að Ingólfur hafi gefið Steinunni gömlu landsvæði og hvernig hún deildi því niður á sitt fólk. „Steinuður hin gamla, frændkona Ingólfs, fór til Íslands og var með Ingólfi hinn fyrsta vetur. Hann bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, Borgaði hún honum fyrir með “heklu flekkótta enska og vildi kaup kalla; henni þótti það óhættara við riftingum.” Úr Landnámabók, merkir að hún vildi ekki fá landið að gjöf heldur borgaði fyrir líklega með enskri flík, með því vildi hún tryggja eignarhald sitt ef Ingólfi eða erfingjum hans myndi snúast hugur. Eyvindur hét maður, frændi Steinunnar og fóstri; honum gaf hún land milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns.“

Njarðvíkur

Njarðvíkur um 1910.

Landnámsmenn hafa siglt hingað á knörrum sem ekki hafa hentað til fiskveiða, of stór og þurftu góð hafnarskilyrði, minni bátar voru meðfærilegri og auðveldara til dæmis að draga þá á land milli róðra í vörum. Reyndar voru fiskibátarnir sumir hverjir töluverð fley, gott dæmi um þessi stærri skip er hákarlaskipið Ófeigur sem varðveittur er á Byggðasafninu á Reykjum. Í Eiríkssögu rauða er sagt frá ferðum Eiríks og fleiri landnámsmanna til Grænlands og áfram til Vínlands og Íslands.

Víkingar

Víkingaskip – knerrir í legu.

Knerrin voru farskip landsmanna svo lengi sem þeir entust, en ólíklegt er að í landnemahópnum hafi ekki verið menn sem kunnu til skipasmíða. Þeir hafa fljótlega tekið til við að gera heppilega báta til fiskveita við landið, og sterk rök benda til þess að þegar á söguöld – 985, þegar Eiríkur rauði og fleiri Vestlendingar lögðu í landnámsferð til Grænlands – hafi verið komin fram sú gerð fiskibáta sem notuð var víða um land allt fram á þessa öld (20. öld) og hákarlabáturinn Ófeigur sem smíðaður var 1875 og enn er varðveittur þykir góður fulltrúi fyrir.

Ytri-Njarðvík

Ytri-Njarðvík – túnakort 1919.

Landnemarnir voru járnaldarmenn ritaði Kristján Eldjárn, fólk sem byggði verkmenningu sína á víðtækri notkun járns og mikilli leikni í meðferð þess innan þeirra takmarka sem algjör skortur á vélmenningu setti. Lágt tæknistig hefur hins vegar áreiðanlega valdið því að þorri fólks hefur þurft að eyða megninu af tíma sínum til að afla sér fæðis og klæða. Þar hefur verið í mörgu að snúast því hvert heimili þurfti að afla allra sinna fanga sjálft og sjálfsþurftarsamfélagið var afar háð árstíðabreytingum. Allt árið þurfti að sinna skepnum, að vetrarlagi var stunduð tógvinna, þá var gripið til enn fornaldarlegra tækja, halasnældu og kljásteinavefstól, hvorutveggja frá steinöld. Að sumarlagi þurfti að sinna kornyrkju og líklega hafa menn heyjað, lítilsháttar, en treyst á útibeit. Veiðar stundaðar allt árið, fugl, fiskur og selur. Þá var berjum, sölvum og öðrum jarðargróðri verið safnað.

Innri-Njarðvík

Stapakot – túnakort.

Mikilvægt var að einhver á heimilinu kynni til allra verka, hvort sem var við matseld, klæðagerð, smíðar hverskonar, húsbyggingar, umönnun búfjár o.s.frv. í þessu felst hugtakið sjálfsþurftarbúskapur. Eitthvað þurfti þó alltaf að kaupa að, til dæmis efni eins og góðan við og járn. Treysta varð á innflutning járns, þótt menn hafi reynt að vinna járn úr mýrarrauða þá var það ekki gerlegt nema fyrstu aldirnar, verkþekkingu þurfti og síðan töluverðan skóg til viðarkolagerðar, hvorutveggja minnkaði eftir því sem leið á. Í upphafi var Ísland viði vaxið eins og Ari fróði sagði en ólíklegt má telja að viðurinn hafi alls staðar verið nægilega góður til hús- og skipasmíða. Þá kom til góða, rekafjörur, sem sést að þær hafa verið mjög eftirsóttar, rekinn hins vegar dugði ekki og flutti því landinn inn við. Þannig gerði landlægur efnisskortur á þessum grundvallarþætti húsagerðar og skipasmíða.

Njarðvíkur

Njarðvíkur – Áki Grenz.

Búsetu á jörðinni Njarðvík er fyrst getið á 13. öld. Svo virðist sem 25 jarðir hafa verið í byggð á 13. öld í Rosmhvalaneshreppi og í Vatnsleysustrandarhreppi teljast 19 jarðir örugglega hafa verið byggðar á 13. öld. Alls er talið að sæmileg vitnesja sé um 54 býli á Suðurnesjum á 13. öld en í lok 16 aldar voru þau orðin 65 talsins.
Ályktað hefur verið að byggð hafi verið að þéttast hér á 12. og 13. öld með vaxandi hjáleigu– og kotbúskap og ennfremur hefur verið bent á að hjáleigur hafi flestar verið í fiskveiðihéruðunum sunnanlands og megi því tengja fjöldun þeirra viðleiti til að lifa af sjávarfangi.
Fram til þessa hafa fræðimenn flestir verið þeirrar skoðunar að útflutningur skreiðar frá Íslandi til Noregs hafi komist á um 1330 og valdið því að fleiri tóku að stunda sjósókn en áður hafði tíðkast.“
Framhaldið um sjálfsþurftarbúskapinn þekkja meðvitaðir. Minjar um hann er víða að finna, ef vel er að gáð…

Heimild:
-Reykjanesbær, Innri-Njarðvík, Kirkjugarður og Thorkellinsgarður – Breyting á deiliskipulagi. Húsakönnun 2020.

Innri-Njarðvík

Innri-Njarðvík – loftmynd 1954.

Njarðvík

Í Skýrslu Reykjanesbæjar um „Breytingu á deiliskipulagi í Innri-Njarðvík v/kirkjugarð og Thorkellinsgarð“ árið 2020 má m.a. lesa eftirfarandi sögulegt ágrip Njarðvíkna sem og sögu Innri-Njarðvíkurkirkju.

Innri-Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Hítardalsbók segir: “Maríukirkja og hins [heilaga] Þorláks biskups í Njarðvík á eina kú, altarisklæði tvö, et cetera” Bókin gæti verið frá 1367 en líklegt er þó að kirkjan sé frá 13. öld í gömlum ritum er talað um KirkjuNjarðvík, sem ekki er óumdeilt að hafi verið notað um bæinn. Þegar á miðöldum eru Njarðvíkurjarðirnar tvær.
Kirkjueignir á Suðurnesjum komust í eigu konungs árið 1515 og voru í eigu konungs í 275 ár eða til ársins 1790. 17. Febrúar 1790 kaupa bræðurnir Ásbjörn og Egill Sveinbjarnarsynir kirkjujörðina Innri-Njarðvík ásamt hjáleigunum. Hákoti, Stapakoti, Tjarnarkoti, Móakoti og Hólmfastskoti.

Hólmfastskot

Tóftir Hólmfastskots.

Halldór Jónsson, hertekni, var hertekinn í Tyrkjaráninu í Grindavík 1627, en Halldór kom aftur til Íslands.
Sonur hans, Jón Halldórsson lögréttumaður, sat jörðina Innri Njarðvík frá 1666. Ásamt konu sinni Kristínu Jakobsdóttur. Jón fæddist að Járngerðarstöðum í Grindavík árið 1623 en dó í Innri Njarðvík 19. apríl 1694.
Jón Halldórsson barðist fyrir því að kirkja yrði reist í Innri Njarðvík. Brynjólfur biskup Sveinsson gaf leyfi þann 16. september 1670, með þeim skilmálum að Jón sæi til þess að allur tilkostnaður við embættið og þjónustu forsmáðist ekki á nokkurn hátt. Auk þess fékk Jón leyfi landfógeta Jóhanns Kleins til að byggja kirkjuhúsið, en Brynjólfur gaf leyfi til guðsþjónustugjörðar.

Njarðvík

Frá Innri-Njarðvík.

Jón lét byggja kirkju sem var vígð 13. nóvember 1670 af sr. Rafni Ólafssyni á Stað í Grindavík. Kirkjan fékk hálfkirkjurétt en Njarðvíkingar voru þó enn bundnir Kálfatjarnarkirkju og skyldaðir til að gjalda henni kirkjugjöld, urðu miklar rekistefnur út af þessu fyrirkomulagi.

Bolafótur

Bolafótur í Ytri-Njarðvík – bústaður Hallgríms Péturssonar.

Kálfatjarnarprestar þjónuðu kirkjunni til ársins 1700 er Jón biskup Vídalín, lét lögtaka að hálfkirkjan í Njarðvík væri orðin alkirkja og skyldi vera annexía frá Hvalsnesi.
Sama ætt hefur búið á gamla stórbýlinu Innri-Njarðvík í yfir 300 ár. Saga ættarinnar og Njarðvíkurkirkju er samofin þar sem bændurnir voru einnig kirkjuhaldarar. Síðasti fulltrúi ættarinnar var Jórunn Jónsdóttir (1884-1974). Hún bjó í húsinu Innri-Njarðvík frá upphafi sem var byggt árið 1906 ásamt eiginmanni sínum Helga Ásbjörnssyni (1867-1953) en þau giftust árið 1905.
Húsið og jörðin voru komin í eigu athafnamannsins Eggerts Jónssonar frá Nautabúi í Skagafirði fyrir dauða Helga. Afkomendur Eggerts ákváðu að gefa Njarðvíkurbæ húsið við lát Jórunnar og erfingjar hennar gáfu innbúið.

Njarðvík

Minnismerki um Jón Thorkellius í Innri-Njarðvík.

Merkir og þjóðkunnir menn eru af Innri-Njarðvíkur ættinni, nefna má, Jón Þorkelsson Thorkillius (1697-1759) kallaður faðir barnafræðslunnar á Íslandi og Sveinbjörn Egilsson (1791-1852), hann var fyrsti rektor Lærða skólans í Reykjavík.
Ari Jónsson lét byggja kirkjuna upp að nýju árið 1827, var það fyrsta altimbraða kirkjan.
Árið 1811 verður Njarðvíkurkirkja annexía frá Kálfatjarnarkirkju en áður hafði henni verið þjónað frá Hvalsnesi í um eina öld. 1815 var það staðfest með lögum að Njarðvíkurkirkja skyldi vera lögð til Útskála, en kirkjan var þó þjónað frá Kálfatjörn.
Ásbjörn Ólafsson hafði forgöngu um að byggja nýja timburkirkju um 1859.
Árið 1884 var ljóst að sú kirkja þarfnaðist verulegra viðgerða, í kjölfarið var ákveðið að byggja steinkirkju.

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Magnús Magnússon kallaður múrari átti heima í Miðhúsum í Garði, hafði lært steinsmíði við gerð Alþingishússins árið 1880-1881, hann var sjómaður, fórst 1887, 45 ára gamall, Ekki er vitað hverjir trésmiðir voru en máli var Árni Pálsson, faðir Ástu málara.
Grjótið var sótt í heiðina fyrir ofan byggðalagið og niður í Kirkjuvík, var dregið á sleðum þegar klaki og snjór voru.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Árið 1917 var Innri Njarðvíkurkirkja lögð niður, en sóknin lögð til Keflavíkur. Árið 1943 vannst loks sú barátta að endurvekja kirkjuna og var þegar hafist handa, var farið í miklar viðgerðir, til dæmis var nýr turn settur á kirkjuna samkvæmt teikningum Guðjóns Samúelssonar. Búnir voru til nýir gluggar, þeir steyptir o.fl
Kirkjan var endurvígð 24. september 1944 eftir miklar viðgerðir. Kirkjan fór í gegnum annað viðgerðartímabil sitt á árunum 1980-1990 undir umsjón Harðar Ágústssonar og Leifs Blumenstein.

Njarðvík

Stapakot, uppgert kotbýli frá fyrri tíð í Njarðvíkum og nútíma Víkingasafnið að baki.

Kirkjan er friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Heimild:
-Reykjanesbær, Innri-Njarðvík, Kirkjugarður og Thorkellinsgarður – Breyting á deiliskipulagi. Húsakönnun 2020.

Stóra-Krossskjól

Stóra-Krossskjól á Njarðvíkurheiði.

Njarðvíkursel

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um Innri-Njarðvík má lesa eftirfarandi um „Seltjörn og nágrenni„:

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel (Selið) sunnan Seljavatns (Seltjarnar).

„Jörð eða hverfi næst austan Ytri-Njarðvíkur. Upplýsingar gaf Finnbogi Guðmundsson í Tjarnarkoti og Guðmundur sonur hans.
Uppi í heiðinni upp af vegi, þegar farið er austanverðu, er þar í lægð gömul selstaða við lítið vatn, sem heitir Seljavatn. Þar í er hólmi með litlu kríu- og andavarpi. Norðanvert við vatnið er svonefndur Háibjalli eða Seltjarnarhjalli. Suður af tjörninni eru tættur, sem heita Sel. Þar suðvestur af eru Hraunslágar. Þær eru við austurenda Rauðamels, en það er melflæmi allmikið hér í hrauninu. Norðvestur af Seljavatni er allstór hóll með vörðu, sem heitir Selhóll.“

Njarðvíkursel

Stekkur norðan Njarðvíkursels sunnan Seljavatns (Seltjarnar).

Forvitnilegt er að sjá að tjörnin hafði áður heitið „Seljavatn“, þ.e. í fleirtölu, sem bendir til þess að fleiri en eitt sel hafi verið við vatnið. Eftir skoðun svæðisins staðfestist að örnefnið hafi verið réttnefni á sínum tíma.

Í „Fornleifaskráningu við Seltjörn í Reykjanesbæ vegna deiliskipulags“ árið 2018 segir: „Í Sýslu- og sóknarlýsingu er tjörnin kölluð Seljavatn og að þar hafi verið sel frá Innri-Njarðvík. „Þessi selstaða, sem er í hrauninu upp frá Stapanum, er nú sökum peningafæðar aflögð.“

Seltjarnarhjallasel

Rjúpa á vörðunni ofan við Selstjarnarhjallasel.

Þetta er skrifað árið 1840. Þó ekki hafi fundist heimildir um að búið hafi verið að staðaldri í Seli, benda minjarnar til þess að á einhverjum tímapunkti hafi verið búskapur þar þó hann hafi ekki verið nægjanlega lengi til að lenda í heimildum. Alþekkt er að selstöður breyttust í hjáleigur og öfugt, hjáleigur breyttust í selstöður. Sel er mjög líklega dæmi um slíkt.“

Þá segir: „Sex fornleifar voru skráðar á deiliskipulagsreitnum. Vafalítið eru þetta fornleifar sem tengjast búskap eða nytjum í Seli þar sem skepnur voru hafðar og veiðar í Seltjörn mikilvægar“. Um er að ræða seltóftirnar, stekk, rétt og kofa, vörðu og götu.

Seltjarnarhjallasel

Seltjarnarhjallasel.

Seljabúskapur lagðist af á Reykjanesskaganum í lok 19. aldar. Tóftir „Njarðvíkursels“ sunnan Seljavatns (Seltjarnar) hafa enn verið í vitund Njarðvíkurmanna um miðja 20. öld enda eru þær af kynslóð seinni tíma selja. Þegar fyrsti Grindavíkurvegurinn (vagnvegurinn) var lagður af Stapanum árið 1913 lá leiðin niður að vestanverðum Háabjalla, suður með austanverðri Seltjörn og áfram að Arnarseturshraunsbrúninni þar sem stefnan var tekin á Gíghæð. Vegavinnuflokkurinn var í fyrsta áfanga með tjaldbúðir við gatnamót Suðurnesjavegar og hins nýja Grindavíkurvegar. Í öðrum áfanga nýttu vegagerðarmenn sér til skjóls tóftir Njarðvíkursels árið 1914. Þeir hafa eflaust lagfært einhverjar af þeim húsum sem fyrir voru og jafnvel byggt ný. Minjar eftir vegagerðarmennina eru meðfram öllum Grindavíkurveginum, allt þar til þeir komu að endastöðinni niður við Norðurvör Járngerðarstaða 1918.

Seltjarnarhjallasel

Seltjarnarhjallasel – stekkur.

Við skoðun og leit að mögulegum minjum undir Seltjarnarhjalla (Háabjalla) komu í ljós selsleifar, s.s. stekkur og hringhlaðið hús auk annarra tófta. Á Bjallanum ofan við tóftirnar var fallin varða á klapparhól. Rjúpa hafði nýtt sér aðstöðuna. Skammt neðan hennar voru nánast jarðlægar leifar fjárborgar. Frá ofanverðu selinu mátti marka götu upp Njarðvíkurheiði áleiðis að Njarðvíkum. Ljóst er að þarna hefur fyrrum verið selstaða, að öllum líkindum mun eldri en sú fyrrnefnda, sennilega forveri hennar. Trjám hefur verið plantað í selstöðuna um nokkurt skeið. Þetta skógræktarsvæði undir Háabjalla (Seltjarnarhjalla) hefur nú verið nefnt „Sólbrekkur“.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Innri-Njarðvíkur. Ari Gíslason skráði.
-Fornleifaskráning við Seltjörn í Reykjanesbæ vegna deiliskipulags, 2018.

Seltjörn

Seltjörn (Seljavatn) og nágrenni.

Stúlknavarða
Á Njarðvíkurheiði er varða. Undir vörðunni eru klappaðir stafirnir AGH og að því er virðist ártalið 1773. Í Faxa árið 1955 segir svo um þessa vörðu:
Steinninn í heiðinni„.

Stúlknavarða

Stúlknavarðan.

Kjartan Sæmundsson, Ásgarði í Njarðvíkum, hefir sent blaðinu nokkrar línur varðandi stein, sem er þar í heiðinni rétt fyrir ofan. Segir hann að á stein þennan séu grafnir stafirnir AGH 1773. – Sýnilega hafi verið grafið eitthvað meira á steininn en sé nú máð og illlæsilegt. Hann segir að steinn þessi sé kallaður Stúlkusteinn og fylgi honum sú saga, að þar hafi orðið úti ung stúlka, kaupmannsdóttir úr Keflavík, sem dag nokkurn í góðu veðri hafi farið á rjúpnaveiðar með föðrur sínum.

Stúlknavarða

Stúlknavarða.

Síðar um daginn hafi gert suðvestan fárviðri með snjókomu. Hafi stúlkan þá orðið viðskila við förður sinn og síðar fundist þarna undir steininum látin. Telur Kjartan líklegt, að þetta sé eina stúlkan, sem orðið hafi úti í snjóbyl frá Keflavík. Vill Kjartan að minningu þessarar stúlku sé viðhaldið með því að skýra letrið á steininum og í því sambandi óskar hann þess, að ef einhver kann gleggri skil á sögunni um Stúlkustein, t.d. hvað stúlkan hafi heitið og hversu gömul hún hafi verið, þegar hún varð úti, þá sé hann látinn vita, eða því sé komið á framfæri í Faxa. Einnig býðst hann til að sýna steininn, hverjum sem þess óska”.

Áletrunin, einkum bókstafirnir, sést enn vel á steininum, sem varðan stendur á. Þá sést varðan og vel frá Reykjanesbrautinni (sunnan vegarins). Þarna skammt frá til suðausturs er hlaðin tóft ofan við klapparhæð, ekki langt fyrir ofan rústir frá hernum, sem þarna standa enn.

-Úr tímaritinu Faxa, 17. júní 1955, bls. 67 (Í flæðamálinu) – SG endurritaði 2002.

Stúlknavarða

Stúlknavarða.

Broadstreet

Ofan við Vogastapa í Njarðvíkurheiði eru yfirgefin hús, fyrrum loftskeytastöð Bandaríkjahers á eftirstríðsárunum. Í „Húsakönnun Patterson 2019“ eftir Helga Biering, þjóðfræðing, er m.a. fjallað um Broadstreet:

Broadstreet

Broadstreet – Það sem eftir stendur af steinsteyptu byggingunni við Broadstreet 2023. Þessi byggin var byggð 1948 og notuð frá 1949 til 1955.

„Við gamla Grindavíkurveginn, rétt norðan við Seltjörn, reisti flugfjarskiptadeild Bandaríkjahers (Army Airways Communications System) þyrpingu nokkurra húsa sem nefndur var Camp Broadstreet. Í Broadstreet var loftkseytastöð sem sá um langdræg fjarskipti við flugvélar í millilandaflugi og einnig við flugstjórnarmiðstöðvar. Campurinn opnaði í mars 1942.

Broadstreet

Broadstreet 2023.

Stöðin var stundum kölluð útvarpsstöðin vegna tilgangs hennar í fjarskiptum, en aftur á móti kom hún ekkert nálægt útsendingum talaðs máls og tónlistar. Broadsteet var eins og aðrar slíkar stöðvar með eigin vatnsveitu og stórar rafstöðvar. Kampurinn var samsettur af 36 íbúðum og skálum, auk þess voru sex lítil steinhlaðin hús sem hýstu loftskeytasendana við stærstu loftnetin.

Broadstreet

Broadstreet og nágrenni.

Stöðin sendi sjálfkrafa út skeyti sem bárust þangað um símakapla frá ýmsum fjarskiptamiðstöðvum á flugvallarsvæðinu. Að auki flutti stöðin á Broadstreet ýmis veður- og flugtengd boð á milli stöðva beggja vegna Atlatnshafsins.

Broadstreet

Broadstreet 1958 – loftmynd.

Hús þetta var reist 1948 af bandarísku verktakafyrirtæki sem rak stöðina eftir stríð. Þar var hýst loftskeytasendistöð loftflutningadeildar Bandaríkjahers á árunum 1949 – 1955.“

Broadstreet

Broadstreet – loftmynd 2022.

Í útdrætti úr kaflanum „Fjarskipti varnarliðsins“ í óbirtu handriti um sögu bandaríska varnarliðsins á Íslandi 1951–2006 eftir Friðþór Eydal segir eftirfarandi um Broadstreet og tengsl þess við önnur fjarskipti Bandaríkjahers:

Bandaríski flugherinn byggði á upphafsárum varnarliðsins fjarskipti sín á margskiptu kerfi Bandaríkjahers sem komið hafði verið upp á stríðsárunum og náði vítt um heiminn. Fjarskiptastöðin Broadstreed við Vogastapa á Reykjanesi var ein slíkra stöðva og þjónaði m.a. flugupplýsingakerfi og öðrum langdrægum fjarskiptum varnarliðsins ásamt móttökustöð í Camp Garrity skammt norðan við vesturenda austur-vesturflugbrautar Keflavíkurflugvallar.

Broadstreet

Broadstreet 2023.

Uppbygging langdræga sprengjuflugflotans (SAC) og tuga nýrra bækistöðva hans víða um heim krafðist þess að komið yrði upp nýju, sjálfstæðu fjarskiptakerfi og hófst uppsetning þess árið 1951. Hlaut það heitið U.S. Air Force Global Communications System – GLOBECOM – og byggði á neti öflugra fjarskiptastöðva um heim allan með fjölrásatengingum á helstu tíðnisviðum, þ. á m. langbylgju með háum loftnetsmöstrum sem hentuðu þó illa í námunda við flugvelli. Var nýrri GLOBECOM-sendistöð því valinn staður við rætur Þorbjarnarfells ofan við Grindavík.

Broadstreet

Broadstreet 2023.

Smíði stöðvarinnar hófst árið 1953 og var hún tekin í notkun árið eftir. Stöðin samanstóð af sendistöðvarbyggingu, rafstöð og íbúðar- og skrifstofuskála ásamt stuttbylgjuloftnetum af ýmsum gerðum og tveimur, 183 m (600 feta) og 244 m (800 feta) háum, langbylgjumöstrum sem gnæfðu yfir stöðinni og sáust víða að. Jafnframt var tekin í notkun ný fjarskiptamiðstöð og símstöð á Keflavíkurflugvelli.

Keflavíkurflugvöllur

Herstöðin á Miðnesheiði.

Var sendistöðinni í Broadstreet breytt í móttökustöð fyrir GLOBECOM-kerfið árið 1955 (USAF Strategic Receiver Station). Við þetta kerfi bættist síðan langdrægt talstöðvarsamband við flugvélar.“

Heimildir:
-Húsakönnun Patterson 2019, Helgi Biering, þjóðfræðingur.
-Útdráttur úr kaflanum Fjarskipti varnarliðsins í óbirtu handriti um sögu bandaríska varnarliðsins á Íslandi 1951–2006 eftir Friðþór Eydal.

Broadstreet

Broadstreet 2023.