Tag Archive for: örnefni

Keflavík

Ægir Karl Ægisson fjallaði um örnefnið Keflavík.

“Þegar orðið kefli kemur fyrir í örnefnum eins og í Keflavík er kefli vanalega talið merkja rekaviðardrumbur. Keflavík myndi þá standa fyrir víkina þar sem er mikið af rekakeflum. Það þykir mér nokkuð skringilegt að kenna Keflavíkina við rekakefli þar sem hún er hreint ekki þekkt sem góð rekafjara. Náttúruaðstæður kunna að vísu að hafa breyst og uppsafnaður reki kynni að hafa verið í fjörunni þegar landnámsmenn komu hingað og væri það skásta skýringin á nafngiftinni samkvæmt hefðbundinni túlkun.

Keflavík

Duushús og tóftir Keflavíkurbæjarins.

Ég get þó hugsað mér aðrar skýringar, .s.s. að þarna séu annars kona kefli en rekaviðarkefli eða að nafnið sé afbökun á öðrum orðum. Kefli gæti verið afbökun á kapall, þ.e. hestur sbr. Kaplaskjól. Upp af Keflavíkinni hefðu verið geymdir hestar og hún þá verið kennd við þá og köluð Kaplavík, sem hefði síðan ummyndast í Keflavík. Þá hefur mér dottið í hug að nafnið Keflavík megi rekja til enskra duggara, sem bundið hefðu skip sín vandlega í víkinni og því kennt hana við þau digru reipi, sem til þurfti, nefnilega “Cable”-vík. Því miður er nafnið of gamallt til þess að þessi skemmtilega tilgáta fæst staðist.

Reykjanesskagi

Gamalt örnefnakort af Reykjanesskaga.

En nú hefur mér nýlega komið í hug ný skýring, sem eins og annað nýfengið er nú í uppáhaldi hjá mér. Ég var að spjala við Sigrúnu forstöðukonu byggðasafnsins um hentugar hafnir fyrir víkingaskip hér í nágrenninu. Þó að Keflavík hefði þótt skásta legan hérna austan megin á Rosmhvalanesinu þá væri Njarðvík hentugri höfn fyrir víkingaskip. Þar er nokkuð skjól og þar ætti að vera tiltölulega auðvelt að draga skip á land. Þá væri engin furða að hún væri kennd við sjálft siglingagoðið Njörð.
En svo datt mér í hug að það mætti draga skip upp Grófina, eftir lækjarfarveginum, sem þar var. Sigrún sagði þá að þar kynnu þessi kefli að hafa komið við sögu. Mikið rétt. Keflin gætu hafa verið stokkar eða hlunnar, sem skip voru dregin yfir upp Grófina, upp yfir flóðmörk. Það hefði skipið verið öruggt fyrir sjó að vetrarlagi og haft nokkuð skjól fyrir vindi af Berginu ef ekki hreinlega var reist yfir það bátahús eða naust. Keflavík væri þá víkin þar sem keflin til að draga skip á eru.”Keflavík
Rétt er að geta þess að a.m.k. þrjár Keflavíkur eru á Reykjanesskaganum; vestan við Hlein í  (Þorláks-)Hafnarbergi, neðan Klofninga í Krýsuvíkurhrauni og vestan Grófarinnar við Stakksfjörð. 

Í Keflavík.Á Vísindavef Háskóla Íslands fjallar Svavar Sigmundsson um örnefnið „Keflavík. Þar segir:

Keflavík

Í Keflavík.

„Nafnið Keflavík er vafalítið dregið af orðinu kefli í merkingunni ‚rekaviðarbútur‘.
Allir kannast við Keflavík sem nafn á þéttbýli á Reykjanesi en Keflavíkur eru víðar á landinu, ein á Hellissandi á Snæfellsnesi, önnur vestan við Rauðasand í Vestur-Barðastrandarsýslu, þriðja við Galtarvita í Vestur-Ísafjarðarsýslu og sú fjórða í Fjörðum í Suður-Þingeyjarsýslu. Alls staðar er uppruninn hinn sami“.

-Ægir Karl Ægisson – safnvörður við Byggðasafn Reykjanesbæjar.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=51096

Keflavík

Keflavík neðan Herdísarvíkurhrauns.

Reykjanes

Drepið á örnefni:

Landnám

Landnám á Reykjanesskaga.

„Þegar sagt er í veðurfregnum, að djúp og kröpp lægð sé skammt undan Reykjanesi, vita sjómenn, hvað átt er við, en í máli fréttamanna og ýmissa, sem vilja þó fræða um landið, er Reykjanes alloft allur Reykjanesskagi. Ef menn vilja virða mál sjómanna og hefðbundið mál Suðurnesjamanna, segja þeir ekki, að Keflavík sé á Reykjanesi, heldur á Suðurnesjum, og ekki, að Keilir sé á Reykjanesi, heldur á Reykjanesskaga. Ég kom eitt sinn á bæ á Suðurlandi og var settur við borð með ungri konu af næsta bæ. Hún kvaðst vera frá Reykjanesi. Þetta reyndist vera nákvæm kynning; hún var nefnilega dóttir vitavarðarhjónanna á Reykjanesi. Þar undan er Reykjanesröst, og ekkert lamb að leika við fyrir sjófarendur.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – Innnes.

Reykjanes í merkingunni Reykjanesskagi fór að tíðkast, eftir að Reykjaneskjördæmi varð til (það var árið 1959). Þá varð svæði þess umdæmi ýmissar opinberrar starfsemi, einnar af annarri. Ég nefni aðeins dómsmál, þar sem heitið varð Héraðsdómur Reykjaness. Heitið Dómur Reykjaneshéraðs á betur við. Brátt heyrir Reykjaneskjördæmi sögunni til, og mætti það vera tækifæri til að virða betur málfar Suðurnesjamanna í tali um Reykjanes.“

Fjölmiðlafólk fer oft villu vega og tala um Reykjanes þegar fjallað er um Reykjanesskagann. Skaginn nær yfir fyrrum landnám Ingólfs, sem úthlutaði síðan vinum og vandamönnum einstök svæði, þ.a. Herjólfi, sem fékk Reykjanes.
Þá er rétt að geta þess að Suðurnes nær einungis yfir norðvestanverðan Reykjanesskaga, en ekki Skagann allan vestanverðan.

-Björn S. Stefánsson
-http://www.simnet.is/bss/oernefni02.htm

Reykjanes

Reykjanes.

Hvassahraun

Erindi þetta var flutt í Kálfatjarnarkirkju á menningardegi í kirkjum á Suðurnesjum 23.10.05.

Ólafsgjá

Ólafsgjá og Ólafsvarða.

„Örnefni er dýrmætur arfur sem geymir upplýsingar um sögu, tungu og lifnaðarhætti horfina kynslóða. Örnefni hafa oft augljósa tilvísun til landslags, náttúrunnar og eða tengt atburðum svo sem slysförum. Örnefni er nauðsynleg til að staðsetja sig og aðra og mun persónulegri heldur en gerfihnattarstaðsetning GPS. Samantektin er um nokkur örnefnum sem vakið hafa áhuga höfundar.

Byrjum ferðina inn við landamerki Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandarhrepps, Markaklettur er þar við Hraunsnes. Örnefnin; Markaklettur, Markhella, Markhóll, Markhelluhóll og Markavarða eru öll notuð til aðgreiningar á eignalöndum, þ.e. þau afmarka land hvers bónda.

Upp í Almenningum ofan Hvassahrauns er örnefnið Brennhólar, þar var gert til kola í eina tíð.
Önnur örnefni í Strandarheiðinni sem vísa einnig til kolagerðar eru; Kolgrafarholt, Kolhólar, Kolhólagjá og Kolhóll. Þessi örnefni eru flest í Vatnsleysulandi sem segir að fyrr á öldum hafi verið meiri skógur þar en sunnar í heppnum

Vegrið er ofan Reykjanesbrautar við Hvassahraun, þar eru; Vatnsgjárnar, Helguhola, Þvottargjá og Ullargjá sem augljóslega segja til um notkun. Þar nálægt er Strokkamelur með Strokkunum, sem bera nafn sitt af lögun sinni. Þetta eru hraundrýli, hol að innan og líkjast smjörstrokkum. (Hvassahraunskatlar). Þá er þar næst Brugghellir, þar var soðin landi (heimaunnið brennivín) á bannárunum á síðustu öld.

Kálfatjörn

Ólafur Erlendsson við Landabrunn.

Mestu undirlendin í hreppnum eru Þráinskjaldarhraun, gamalt hraun sem nú er heiðin, vestan við Afstapahrauni og að Vogastapa. Ekki er vitað af hverju hraunið heitir þetta.

Búðavík, Búðabakkar eða Búðaflatir heitir í Vatnsleysuvík. Þar var fyrrum verslunarstaður og höfn Hansakaupmanna sem voru þýskir. Hafnhólar eru við fjarskiptamöstrin á Strandarheiðinni og tengjast höfninni á Vatnsleysu fyrrum.

Upp með Afstapahraunskanti að vestan miðja vegu til fjalla er hringlaga hlaðin fjárborg, Gvendarborg, hlaðin af Guðmundi Hannessyni sem bjó hér í Breiðagerði, annað örnefni hér er kennt við son hans Brand. Komun að því síðar.

Efstu hjallar heiðarinnar heita Brúnir, þar er Hemphóll, „þjóðsagan“ segir að prestarnir á Stað og Kálfatjörn hafi átt sameiginlega hempu og var þetta afhendingarstaður hennar. Hemphóll er þó ekki miðja vegu milli Staðar og Kálfatjarnar og sagan er ótrúleg enda hóllinn mikið úr leið.

Förum nú niður heiðina í stefnu á Vogana, þar er svæði sem heita Margur Brestur og Huldur og vísa til margra gjáa og sprungna á svæðinu sem sumar geta verið huldar (faldar) þegar snjór liggur yfir og auðvelt að hrapa niður í þær.

Þráinsskjöldur

Í gíg Þráinsskjaldar.

Þar suður af er Ólafsvarða og Ólafsgjá, tilurð þess örnefnis er í grófum dráttum þessi. Árið 1900 bjó í Hlöðuneshverfi, Ólafur Þorleifsson, þá 39 ára gamall. Rétt fyrir jól það ár fór Ólafur í heiðina að leita kinda en skilaði sér ekki heim um kvöldið. Hafin var leit að Ólafi daginn eftir með 30-40 mönnum. Til Ólafs hafði sést við Kálffell í Vogaheiði daginn áður, þrengdi það leitarsvæðið dálítið. Leitað var á Aðfangadag og aftur milli jóla og nýárs, án árangurs. Liðu nú 3 áratugir.

Á jólaföstu árið 1930 þegar verið var að smala heiðinna misstu smalarnir þrjár kindur í sprungu og þurfti því að fara aftur daginn eftir með reipi og annan búnað til að síga eftir fénu. Sigmaður var Rafn Símonarson frá Austurkoti á Ströndinni, tvær kindanna náðust upp úr gjánni á lífi, en þar ofan í fann Rafn líka tvö brot af göngustaf sem hann tók með sér til byggða. Um kvöldið fór Rafn að Halakoti til Ágústar bónda þar og biður hann að lýsa staf Ólafs (þá voru liðin 30 ár frá hvarfi hans). Lýsing Ágústar passaði við stafbrotin. Var nú ekki meira gert í bili. Um vorið þegar snjóa leysti héldu 4 menn að gjánni og seig Rafn aftur niður, þá sá hann þar strax mannabein og þóttust menn þess fullvissir að þar væri um bein Ólafs að ræða. Beinin voru tínd saman og grafin að Kálfatjörn.

Hvassahraun

Brugghellir við Hvassahraun.

Yfirgefum nú Ólafsgjá og höldum í suðvestur að Stóru-Aragjá en yfir hana liggur gamla þjóðleiðin til Grindavíkur Skógfellavegurinn, þar heitir gjáin Brandsgjá. Brandur þessi var sonur Guðmundar sem hlóð Gvendarborg sem ég nefndi áðan.
Brandur bjó á Ísólfsskála austan við Grindavík og var kallaður Skála-Brandur.
Í byrjun jólaföstu 1911 fór Brandur til Hafnarfjarðar að selja rjúpur og kaupa inn fyrir heimilið. Dagleið var frá Grindavík til Hafnarfjarðar, og gisti Brandur því í Hafnarfirði og fór að snjóa um nóttina. Á heimleiðinni kom hann við hjá Benedikt Péturssyni (Bensa) í Suðurkoti í Vogum og var langt liðið á dag þegar hann lagði á Skógfellaveginn, hnédjúpur snjór var þá kominn á heiðinni. Honum gekk förin ágætlega í byrjun en margar gjár eru þarna á leiðinni. Þegar hann kom að Stóru-Aragjá sem er síðasta gjáin sem hann þurfti að fara yfir vildi svo illa til að hann missti annan hestinn ofan í gjánna. Þá snýr hann til baka að Suðurkoti í Vogum eftir aðstoð. Bensi útvegar honum þrjá menn sem fara upp eftir í myrkrinu, með byssu meðferðis. Hesturinn náðist ekki upp og var því aflífaður. Hætt var að snjóa og komið harðnandi frost. Skiljast nú leiðir Vogamanna og Brands.
Brandur komst heim að Ísólfsskála undir morgun, þá illa kalinn á báðum fótum. Hann var sendur á Keflavíkurspítala á Þorláksmessu og kom ekki heim aftur fyrr en sumardaginn fyrsta árið eftir, þá orðin örkumla maður og hætti búskap og flutti til Hafnarfjarðar.

Förum næst að Stapanum, Reiðskarð heitir þar sem Stapagatan (gamla þjóðleiðin) fer upp Stapann. Næsta skarð vestan við Reiðskarð heitir Kvennagönguskarð. Karlmenn fóru Reiðskarðið enn kvenfólkið valdi frekar Kvennagönguskarðið og gat þá verið í friði og úr augnsýn karlanna um smá stund.

Förum nú til baka í Brunnastaðahverfi. Í Suðurkotstúni er flöt ein sem heitir Pelaflöt, hún mun hafa verið seld fyrir einn pela af brennivíni segja örnefnaskrár.

Endum nú ferðina í túnfætinum á Kálfatjörn, þar heitir Landabrunnur, þó er ekki neinn landi í honum heldur er um lítið vatnsstæði að ræða ofan við svonefndan Landamóa.“

Brandsgjá

Vörður við Brandsgjá.

Seltún

Ólafur Þorvaldsson var vel kunnugur örnefnum í Krýsuvík. Sumarið 1968 aðstoðaði hann við að staðsetja og merkja örnefni svæðisins inn á meðfylgjandi kort. Meðfylgjandi fylgdi eftirfarandi texti: „Skrá þessi um örnefni í Krýsuvík á við kort 1:50.000, Blað 1512 I og 1612 IV, þar sem númerin eru færð inn. Skrásetning á kortin er gerð með aðstoð Ólafs Þorvaldssonar sumarið 1968. Nánari heimild um örnefnin er spjaldskrá um Krýsuvík – 30.7. 1968. S.S.“
Ólafur ÞorvaldssonFERLIR fékk gögnin frá Örnefnastofnun eða Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eins og hún nefnist í dag (2022).
Á einu kortanna er skráð leiðrétting um staðsetningu Búðarvatnsstæðisins eftir Gunnar Sæmundsson. Skv. því liggja landamerki Vatnsleysustrandarhrepps og Hafnarfjarðar í Markhelluhól við Búðarvatnsstæðið (á hólnum er mosavaxin varða) en ekki í Markhelluna eins og nú er, en hún er allnokkru austar en merkin sýndu áður.
Þegar örnefnalistinn er skoðaður kemur ýmislegt annað áhugavert í ljós. Má þar t.d. nefna að Eiríksvarðan á Arnarfelli er nefnd „Arnarfellsvarða“ (7) og Stínuskúti í norðaustanverðu fellinu er nefndur „Arnarfellshellir“ (4).

Húshólmi

Beinteinsbúð í Húshólma.

Örnefnið „Beinteinsbúð“ (16) er staðsett ofan við Svörtuloft á milli „Útheiðar“ (140) og Húshólmafjöru (70). Þar eru að vísu gróinn óbrinnishólmi í vik neðst í Ögmundarhrauni, en engar greinanlegar tóftir. Líklegra að átt sé við sjóbúðartóftina ofan Hólmastígs í neðanverðum Húshólma, en þaðan gerðu Arnarfellsbændur út allt ársins 1913. Minjarnar þar eru enn óskráðar (líkt og svo margar aðrar). Ekki er minnst á sundvörðuna á hraunbrúninni skammt austar.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Á kortinu er getið um „Engjafjallsveg“ (35), sem var syðri hluti „Dalaleiðar“ (26) sunnan Kleifarvatns. Þá er getið um Engjafjall (34), en það er ekki merkt sem slíkt. Getið er um „Eldborgarhelli“ (31), en hann er ekki heldur merktur, sem og „Krýsuvíkurhellir“ (95), „Bálkahellir“ (15), „Gvendarhellir (57) og „Lambhagahellir“ (100). Ekki er Lambhagaréttar getið í örnefnaupptalningunni.
„Miðdalavegur“ (28) er staðsettur milli Vigdísarvalla og „Drumbdalastígs“ (28) vestan „Drumbsdals“ (29). „Breiðugötur“ (22) eru staðsettar vestan við Deildarháls ofan Stóru-Eldborgar og Krýsuvíkurbæjanna. „Fagradalsstígs“ (42) er getið í upptalningunni, en hann er ekki merktur á kortið. Líklega er þar um að ræða götu upp frá Dalaleið inn í Fagradal, upp á ofanvert Vatnshlíðarhorn og yfir í Hvamma austan Kleifarvatns. Spákonuvatn ofan við Sogin er nefnt „Smákonuvatn“ (125).
„Jónsvörður“ (81) eru merktar á „Miðheiðinni“ (106), en Jónsbúðar er ekki getið. Fleira áhugavert mætti nefna ef grannt er skoðað – sjá meðfylgjandi örnefnalista:

Örnefni í Krýsuvík:
1 Afvatnabrekkur
2 Ál(f)steigar
3 Arnarfellsbær
4 Arnarfellshellir
5 Arnarfellstagl
6 Arnarfellstjörn

Krýsuvík

Eiríksvarða á Arnarfelli (Arnarfellsvarða).

7 Arnarfellsvarða
8 Arnarsetur
9 Ásar
10 Augu(n)
11 Austurengjar
12 Austurengjavegur
12a Austurlækjarvað
13 Baðstofubrekka
14 Bali

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

15 Bálkahellir
16 Beinteinsbúð
17 Bergsendi eystri
18 Bergsendi vestri
19 Bleiksflöt
20 Blettahraun
21 Breiðdalsvatnsstæði
22 Breiðugötur

Seltún

Seltún – minjar brennisteinsvinnslunnar.

23 Brennisteinshúsatættur
24 Bæjarfellshellir
25 Bæjarhals
26 Dalaleið
27 Dalirnir
28 Drumbsdalastígur
29 Drumbsdalur
30 Dýjakrokar

Krýsuvík

Krýsvík – Ólafur Þorvaldsson; örnefni og kort I.

31 Eldborgarhellir
32 Eldborgarskarð
33 Eldborgarhraun
34 Engjafjall
35 Engjafjallsvegur
36 Engjaháls
37 Engjalækur
38 Engjar
39 Eystra-Hlíðarhorn
40 Eystrigjá
41 Fagradalsmúlavatnsstæði
42 Fagradalsstígur
43 Fíflavellir

Fitjar

Fitjar.

44 Fit(j)ar
45 Fjárskjólshraun
46 Flatengi
47 Flóðin
48 Geststaðir
49 Giltungur
50 Eystrigjá
51 Vestrigjá
53 Grásteinn
54 Grásteinsmýri
55 Grjóthóll
56 Grænavatnsmelar

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli (Arngrímshelli).

57 Gvendarhellir
59 Hafliðastekkur
60 Hálsendi
61 Hamradalir
62 Hattshverir
63 Heimaberg
64 Herdís
65 Hermannshilla
66 Hettumýri

Hetturvegur

Hettuvegur.

67 Hettuvegur
68 Hnaus
69 Hrossabrekkur
70 Húshólmafjara
71 Húshólmabruni
72 Hvalbásar
73 Hveradalabarð

Krýsuvík

Hverafjall, Hveradalur og Baðstofa efst.

74 Hveradalir
75 Hverafjall
76 Hæll
77 Hælsheiði
78 Höfðamýri
79 Höfði
80 Jónsmessufönn

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

81 Jónsvörður
82 Kaldrani
83 Kálfadalahnúkur
84 Kálfadalir
85 Katlahraun
86 Katlar
87 Ker(ið)
88 Kerlingadalur
89 Kirkjuflöt

Húshólmi

Húshólmi – minjasvæðið. Kirkjulágar fremst.

90 Kirkjulágar
91 Klettur
92 Klofningar
93 Kotaberg
94 Kringlumýri
64 Krýs
95 Krýsuvíkurhellir
96 Krýsuvíkurhraun
97 Krókamýri
98 Kúablettur
99 Lambhagaflöt

Lambhagarétt

Lambhagarétt. „Lambhagahellir (100) er efst v.m.

100 Lambhagahellir
101 Látur eystri og vestri
102 Lækjarvellir
103 Lönguhlíðarhorn
104 Máfafláar
28 Miðdalavegur
105 Miðdalir
106 Miðheiði

Mígandagróf

Mígandagröf.

107 Mígandagröf (-gróf)
107a Móholt
108 Mosalágar
109 Mosar
110 Möngulag
110a Nýibær
111 Ós(inn)
112 Rauðhólsmýri
113 Ræningjastígur
114 Selalón

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

115 Selatangabúðir
116 Selbrekkur
117 Selhella
118 Selhóll
119 Seljabótarklettar
120 Seljabótarnef
121 Seltúnsbörð
122 Skál
123 Skyggnisþúfa
124 Slysadalur

Spákonuvatn

Spákonuvatn og Keilir.

125 Smákonuvatn
126 Smalaskáli
127 Smali
128 Sog
129 Steinabrekkur
130 Steinbogi
131 Stekkjarmýri
132 Stórabrú
133 Stóri-Skógarhvammur
134 Stórkonugil

Krýsuvík

Strákar í Selöldu.

135 Strákar
136 Strandarbergskriki
137 Syðstiskalli
138 Sýslusteinn
52 Teigar

Krýsuvík

Krýsuvík – Ólafur Þorvaldsson; örnefni og kort II.

139 Urðarfell(in)
140 Útheiði
141 Vaðlar
142 Vatnsskarðsháls
147 Vestrigjá

Krýsuvík

Krýsuvík; örnefni og kort – Ólafur Þorvaldsson III.

143 Vigdísarvallagil
144 Víti
145 Yrphóll
146 Ytra-Hlíðarhorn
148 Þúfnadalir
149 Ögmundardys

Hér á neðan má sjá framangreind örnefni í samantektinni  hafa verið færð yfir á loftmynd af svæðinu til að auðvelda yfirsýn. Taka ber viljan fyrir verkið…

Heimild:
-Krýsuvík; örnefni og kort – Ólafur Þorvaldsson 1968.

Krýsuvík

Örnefni úr samantekt Ólafs Þorvaldssonar – gullituð.

Esja

Heimildir um landnámið
Töluvert er vitað um landnám Íslands enda gefa ritheimildir frá 12. og 13. öld, á borð við Landnámu, Íslendingabók og Íslendinga sögur, auk fornleifa, örnefna og erfðarannsókna gleggri mynd af uppruna íslenska landnámsfólksins en Handritþekkist víða annars staðar.
Ritheimildum ber yfirleitt saman um að landnáminu hafi verið stjórnað af norrænu fólki, í Landnámu er t.d. rakinn uppruni 268 karla og kvenna af þeim 430 landnemum sem þar eru nefndir. Langflestir þeirra eru norrænir (rúm 90% karla og 80% kvenna) þó einnig sé þar nefnt fólk frá Bretlandseyjum.
Hafa má í huga að Landnáma, sem telja má karlasögu, skrifaða af körlum og fyrir karla, tilgreinir aðallega húsbændur en nefnir í fáu konur, vinnufólk og þræla sem frekar gætu hafa átt ættir að rekja til Bretlandseyja. Alls er talið að til landsins hafi flutt um það bil 10-20.000 manns á landnámstímanum og getur Landnáma þá aðeins sáralítils hluta þeirra, einkum hinnar ráðandi yfirstéttar norrænna stórbænda sem skipaði efstu lög samfélagsins og setti mark sitt á það.

Norrænt yfirbragð
HúshólmiNorræn menningaráhrif urðu enda æði ríkjandi á Íslandi, tungumálið er að meginstofni norrænt, þó í því finnist keltnesk tökuorð, mannanöfn og örnefni, en jafnframt benda fornleifar til þess að atvinnu- og lifnaðarhættir landnámsfólksins hafi í meginatriðum verið með norrænu sniði. Keltnesk áhrif hafa fyrst og fremst verið talin merkjanleg í frásagnarminnum þeirra fornsagna og kvæða sem síðar voru færð í letur á Íslandi, einkum fornaldar sagna og go
ðfræðilegra kvæða.
Mörgum hefur fundist sem ekki væri öll sagan sögð um ætterni landnámsfólksins í íslenskum fornritum sem skráð voru 12. og 13. öld. Forvitni Íslendinga um uppruna sinn hefur orðið til þess að fræðimenn á sviði erfðafræði hafa leitað leiða til að fá nánari mynd af samsetningu landnámshópsins og benda niðurstöður þeirra til þess að hún hafi verið nokkuð á aðra lund en ráða má af einum saman ritheimildum og fornleifum.

Vitnisburður erfðaefnis

Margt óljóst

Rannsóknir á erfðaþáttum núlifandi íslenskra karla og kvenna og samanburði þeirra við erfðaefni fólks af norrænu, skosku og írsku þjóðerni gefa til kynna hvernig samsetningu landnámshópsins gæti í raun hafa verið háttað. Erfðaefni þeirra íslensku karla sem kannaðir voru reyndist í rétt rúmlega 80% tilvika mega rekja til Noregs og annarra Norðurlanda en í tæplega 20% tilvika til Bretlandseyja. Ríflega 62% þeirra íslensku kvenna sem athugaðar voru báru hins vegar í sér erfðaefni sem rekja mátti til Bretlandseyja en einungis rúm 37% þeirra báru norrænt erfðaefni. Af niðurstöðunni má ráða að í heildina hafi um 60% landnámsfólksins verið af norrænum uppruna en 40% frá Bretlandseyjum. Hið háa hlutfall kvenna frá Bresku eyjunum gæti t.d. stafað af því að íbúar norrænu byggðanna á Bretlandseyjum, t.a.m. norrænir víkingar og innfæddar konur, eða afkomendur þeirra, hafi átt stóran þátt í landnámi Íslands.

Áhrif keltnesku á íslensku í upphafi Íslands byggðar eru einkum á sviði tökuorða, mannanafna og örnefna. Merkasta rannsóknin á þessu sviði er verk Helga Guðmundssonar, Um haf innan, sem kom út hjá Háskólaútgáfunni 1997. Undirtitill bókarinnar er Vestrænir menn og íslenzk menning á miðöldum. Á blaðsíðum 127-160 er rætt um gelísk tökuorð í norrænum málum og má þar finna ýmis orð sem enn eru lifandi í málinu, önnur hafa aftur á móti gleymst. Nefna má til dæmis brekán ‘ábreiða’, des, heydes ‘heystakkur’, gjalti í orðasambandinu verða að gjalti, sem í nútímamáli merkir ‘fara hjá sér, fuglsheitið jaðrakan, kapall ‘hestur’, kláfur ‘hrip, heymeis’, fjalaköttur ‘músagildra’.
Nokkur keltnesk mannanöfn hafa lifað í íslenskum nafnaforða frá landnámsöld, önnur hafa verið endurvakin og sótt til Íslendingasagna. Meðal nafna, sem lifað hafa fram á þennan dag eru Kjartan, Kormákur og Njáll en meðal endurvakinna nafna eru Brjánn, Kalman, Trostan, Eðna, Kaðlín og Melkorka. Eitt þekktasta örnefni af keltneskum toga er fjallsheitið Dímon en það er nafn á hólum og hæðum á nokkrum stöðum á landinu. Það er bæði notað í karlkyni og kvenkyni. Oftast eru hólarnir tveir og þá nefndir Stóri/Stóra, Litli/Litla Dímon. Nafnið hefur oft verið skýrt á þann veg að það sé sett saman úr dí- ‘tveir’ og muin ‘bak, háls’, það er tvítyppta fjallið.

Heimildir m.a.:
-www.am.hi.is
-www.visindavefur.hi.is

 Brim

Örn

Arnarörnefnin hér á landi eru fjölmörg. Þótt fuglinn hafi hörfað frá flestum fyrrum óðulum sínum á suður- og suðvesturlandi standa örnefnin eftir. Þá eru arnarörnefndin oft tengd landa- og hornmerkjum.
Svavar Sigmundsson, fyrrum forstöðumaður Örnefnastofnunar, fjallar m.a. um örninn á Vísindavef HÍ þar sem hann fjallar um framangrein auk örnefnisins Arnarhóls (Arnarhváls):

Svavar Sigmundsson

Svavar Sigmundsson.

„Í Landnámabók segir að öndvegissúlur Ingólfs Arnarsonar hafi fundist „… við Arnarhvál fyrir neðan heiði“ (Landnámabók, Íslensk fornrit I, 45) og er þá átt við Mosfellsheiði að talið er. Spurningin er hvort Arnarhváll er núverandi Arnarhóll eða hvort hann hefur verið nær sjónum, þar sem nú er Arnarhólsklettur sem svo er nefndur. Líklegt er að Arnarhóll sé kenndur við fuglinn þó að mannsnafnið hafi vissulega verið þekkt á landnámstíma, og faðir Ingólfs heitið Örn. Engar heimildir er að finna um að mannsnafnið hafi haft áhrif á staðarnafnið. [Engar heimildir eru heldur til um að svo hafi ekki verið (Ó.)] Þórhallur Vilmundarson segir í grein sinni, „Örnefni landsins, sem fór undir vatn í Stíflu“, í Grímni 2 (44):
Arnarhóll við Stífluá í landi Hvamms er trúlega eitt hinna fjölmörgu örnefna, sem geyma minningu um, að ernir hafa vakað yfir veiði í vatnsföllum og stöðuvötnum víðs vegar um land, áður en þeim fækkaði svo mjög, að við liggur, að þeim hafi verið gereytt.

Arnarhóll

Arnarhóll – kort.

Nafnið Arnarhóll er til á nokkrum stöðum annars staðar á landinu. Bær í Neshreppi innan Ennis á Snæfellsnesi er nefndur Arnarhváll í Eyrbyggja sögu, nú Arnarhóll í Snæfellsbæ (Íslensk fornrit IV). Skammt frá Öxnafelli í Eyjafirði var Arnarhváll (Landnámabók, 253, 268), nú Arnarhóll, sem var á landamerkjum í landnámi Helga magra. Auk þess eru sex bæir að minnsta kosti nefndir Arnarhóll: 1) í Gaulverjabæjarhreppi í Árnessýslu, 2) í Sandgerði, 3) í Eyrarsveit á Snæfellsnesi, 4) í Presthólahreppi í Norður-Þingeyjarsýslu, 5) á Jökuldal á Norður-Héraði og 6) í Vestur-Landeyjum í Rangárvallasýslu.

Arnarhóll

Arnarhóll, handan Stjórnaráðshússins, 1874.

Örnefnið Arnarhóll kemur víða fyrir, til dæmis eru Arnarhólar nærri 20 talsins á Suðurlandi eingöngu. Sums staðar má finna Arnarhól nærri landamerkjum, stundum sem klappar- eða klettahól. Það leiðir hugann að því hlutverki sem tákn arnarins hafði ef til vill við setningu landamerkja, eins og þekkt er með öxina. Í Árnessýslu eru átta Arnar-örnefni á landamerkjum, þar af tvö hornmörk, Arnarhreysi og Arnardys. Á Þingvöllum er Arnarklettur á barmi Almannagjár og kann að hafa gegnt hlutverki sem landamerki. (Um þetta má lesa nánar í grein Helga Þorlákssonar, „Örn og öxi“, í tímaritinu Níu nóttum frá árinu 1993.)

Arnarhóll

Arnarhóll og tukthúsið (Stjórnarráðshúsið) um 1820.

Ekki er vitað hvenær Arnarhváll í Reykjavík varð sérstök jörð, en hún er nefnd Arnarhóll (einnig skrifað Annarhóll) 1534 (skráð um 1570, Íslenskt fornbréfasafn IX, 693-694). Bærinn Arnarhóll stóð nokkurn veginn þar sem nú er stytta Ingólfs. Land hans náði frá ósi Arnarhólslækjarins að Bankastræti á þá hlið og hefur Arnarhóll þá verið nærri mörkum móti Vík. Núverandi Skólavörðuholt var áður kennt við Arnarhól, nefnt Arnarhólsholt (Páll Líndal, Reykjavík: Sögustaður við Sund, 1. bindi. Sjá Kort 5 í 5. bindi sem Einar S. Arnalds og Guðlaugur R. Guðmundsson sáu um).
Upphaflega nafnmyndin Arnarhváll hefur breyst í Arnarhvoll, samanber hljóðbreytinguna svá > svo, en víxlmyndin Arnarhóll er að minnsta kosti komin til sögu um 1570.“

Á vefsíðu Náttúruminjasafns Íslands er fjallað um örninn og m.a. getið um Arnarklett á Þingvöllum, sem fáir þekkja, en er þó áberandi kennileiti ofan Lögbergs.

Örn við Öxará

Þingvellir

Örn yfir Þingvöllum. Arnarklettur v.m. við flaggstöngina á Lögbergi.

Örn á öðru ári gerði sig heimakominn við Öxará 30. október s.l. en ernir (1 til 4 ára) sjást reglulega við Sog, Þingvallavatn og í Ölfusi. Á þessu svæði eru þekkt 5 gömul arnarsetur sem fóru öll í eyði á fyrri hluta 20. aldar. Fullorðnir ernir hafa heimsótt þau reglulega á síðustu árum og orpið einu sinni, en varpið misfórst. Í ljósi útbreiðsluaukningar á Vestur- og Norðurlandi á síðustu árum og áratugum, má gera ráð fyrir ernir hefji varp að á þessu slóðum innan skamms.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Örninn sveimaði yfir og reyndi fyrir sér á grynningunum þangað sem urriðinn leitar til hrygningar sem áin rennur út í Þingvallavatn. Örninn sást ekki taka fisk en skorti þó ekki áhugann eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem Torfi Stefán Jónsson og Snorri Þór Tryggvason tóku. Haförn getur náð allt að 5 kg þyngd og vænghafið verið 2–2,4 metrar. Þrátt fyrir það gætu stórvaxnir þingvallaurriðarnir reynst honum erfiðir viðfangs en þeir stærstu verða jafnvel yfir einn metri á lengd og 10–13 kg á þyngd. Meira um haförn hér.

Þingvellir

Þingvellir – Lögberg (sjá má Arnarklett á brún Almanngjár v.m. við miðju.

Í Almannagjá eru a.m.k. tveir hrafnslaupar og lét krummi sig ekki muna um að hjóla í þennan óvelkomna og óvænta gest sem er miklu öflugri en krummi verður þyngstur rúmt kíló og vænghafið mest 1,5 m.

Haförn (Haliaeetus albicilla)
Haförninn er af ættbálki haukfugla (Accipitriformes) og af haukaætt (Accipitridae). Hann er eini fulltrúi ættbálksins hér á landi.

Útlit og atferli
Haförn er stærsti og

Örn

Arnarpar.

sjaldgæfasti ránfugl landsins, með yfir 2 m vænghaf, oft nefndur konungur fuglanna. Aðallitur er brúnn. Fullorðinn örn er gulur eða ljósbrúnn á höfði, aftur á bak og niður á bringu en fjaðrajaðrar ljósir á baki og yfirvæng (hann er „hreistraður“). Fleyglaga stélið er hvítt. Ungfugl er allur dekkri, mógul- og rauðbrúnflikróttur að ofan, ljósari að neðan, sérstaklega á bringu. Hann lýsist smám saman með aldrinum, stél á undan höfði, og verður fulltíða sex ára. Kvenfuglinn, assan, er töluvert stærri en karlfuglinn, arinn. Goggurinn er stór, krókboginn og gulur en dökkur á ungfugli. Fætur eru gulir og klærnar dökkar. Augu eru rauðgul á fullorðnum erni, dökkgrá á ungfugli.

Örn

Örn.

Örninn er auðgreindur á stærð og lögun og ferhyrndum vængjunum með ystu handflugfjaðrir vel aðskildar (fingraðar). Svífur gjarnan en er þunglamalegur í flugtaki. Oft má sjá úr mikilli fjarlægð hvar örninn svífur á þöndum vængjum yfir landi eða hafi og leitar að bráð, eða hvar hann situr langtímum saman kyrr á sama útsýnisstaðnum. Venjulega er hann styggur og friðsamur en getur verið ágengur við hreiður. Ernir eru oftast stakir, í pörum eða smáhópum (ungfuglar).

Hljóð arnarins eru hrjúft gelt eða hlakk, assan er dimmraddaðri.

Lífshættir

Örn

Örn.

Örninn veiðir sér til matar og er aðalbráðin fýll sem hann tekur á flugi, en æðarfugl tekur hann á sjó og fisk (hrognkelsi, laxfiskar) grípur hann við yfirborð. Lundi og máfar eru einnig teknir. Hann etur gjarnan hræ og rænir stundum æti frá öðrum fuglum.

Kjörlendi hafarnar er strendur með miklu útfiri, einnig fiskauðugar ár og vötn. Hann verpur í hólmum, á klettasyllum, stöpum í bröttum hlíðum eða hraunum. Hreiðrið er stundum allmikill birkilaupur en oftast lauslega samsett dyngja úr þangi, hvannnjólum og grasi. Eggin eru 1-3, en þrír ungar komast sjaldan á legg. Útungunartíminn er 5-6 vikur og ungarnir verða fleygir á 10-11 vikum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Örn

Örn við Faxaflóa.

Haförninn er staðfugl. Hann var áður dreifður um land allt en höfuðstöðvarnar hafa ávallt verið á Vesturlandi. Þar hélt hann velli þrátt fyrir skefjalausar ofsóknir undir lok 19. aldar. Hann var alfriðaður 1913 en var þrátt fyrir það nærri útdauður um 1960, þá voru aðeins um 20 hjón í stofninum. Árið 1963 var Fuglaverndarfélag Íslands stofnað til verndar erninum. Síðan þá hefur stofninn er rækilega vaktaður í samstarfi Fuglaverndar og Náttúrufræðistofnunnar.

Á síðustu áratugum hefur erninum fjölgað hægt en örugglega og var stofninn 75 pör, 200-250 fuglar, árið 2016. Þar af verpa 63% við Breiðafjörð, en afgangurinn við Faxaflóa, á Vestfjörðum og við Húnaflóa. Sennilega á örninn eftir að nema land í öðrum landshlutum að nýju. Hann hefur reynt varp á Suðurlandi á síðustu árum, en ekki komið upp ungum. Þeir leita aftur á gamla varpstaði, sem hafa ekki verið notaðir í áratugi. Á veturna má búast við þeim hvar sem er. Annars staðar verpa hafernir frá Vestur-Grænlandi austur um Evrópu og Asíu að Kyrrahafi.
Ekki má nálgast hreiður arna á varptíma, nema með sérstöku leyfi frá Umhverfisstofnun. Allar hreiðurmyndir sem fylgja pistlinum eru teknar með leyfi stofnunarinnar.

Þjóðtrú og sagnir

Örn

Örn í Ölfusi.

Eins og eðlilegt má teljast, fylgja ófár sagnir og mikil þjóðtrú erninum. Það er alþekkt þjóðtrú, að ernir taki börn. En börn urðu minnug af að drekka mjólk gegnum arnarfjöðurstaf. Til að sjá hulda hluti skal maður bera á sér arnarauga eða maka því í kringum augu sér. Ef gull er látið í arnarhreiður, skapast óskasteinn og úr ófrjóu eggi brýst sá mikli ránfugl, sem flugdreki nefnist.

Kveðskapur
Örninn flýgur fugla hæst um forsal vinda.
Hinir það sér láta lynda,
leika, kvaka, fljúga og synda. – Þjóðvísa.

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=3209
-https://nmsi.is/frettir/orn-vid-oxara/

Örn

Örn.

Krýsuvík

Þekkt er að örnefni hafa tilhneigingu til að breytast, bæði hvað varðar staðsetningu og heiti í tíma og rúmi.
ofeigskirkja-221Ástæðurnar geta verið margar; t.d. nýtt fólk kemur á vettvang þar sem það þekkti ekki til áður, skrásetjarar fara rangt með (m.a. vegna þess að þeir fóru aldrei á vettvang), þeir sem þekktu best til voru aldrei spurðir (áður en þeir féllu frá), ný tilefni fyrir örnefnum verða til og glaðklakkanlegir einstaklingar einfaldlega giska á bæði heiti og staðsetningu örnefna.
Eitt dæmið er svonefnd „Ófeigskirkja“ í Garðahrauni. Skv. örnefnalýsingu og öðrum skriflegum heimildum fór hún („stór klettur“) undir núverandi Álftanesveg á sínum tíma (staðsetningin er þekkt). Til að viðhalda örnefninu var það allnokkru síðar fært yfir á næsta „stóra klett“ skammt norðar í hrauninu. Leiknir og lærðir, sem aldrei höfðu áður komið á vettvang, hafa fengið tækifæri til að staðfesta flutninginn. Sumir þeirra trúa jafnvel að í klettinum þeim arna sé nú fjölmennur samkomustaður bæði dverga og álfa). Og „Grenshóll“ (þar sem menn lágu fyrir tófu á sínum tíma“ er allt í einu orðinn að athvarfi álfa. A.m.k. tveir segjast hafa séð þessar verur á staðnum.
Ef sú ákvörðun verður tekin að endurbæta núverandi Álftanesveg (í stað þess að gera nýjan veg um Garðahraun) þarf væntanlega að gera ráð fyrir undirgöngum, eða göngubrú, yfir veginn – svo hvorki dvergum né álfum verði bráður bani búinn á ferð þar yfir á leiðinni að samkomustöðunum.
Svo hlýtur alltaf að vera hægt að flytja bara „álfakirkjuna“ fyrst hún hefur nú áður verið færð – án vandræða.

Ófeigskirkja

„Ófeigskirkja“ flutt.

 

Steinhes

Viðtal þetta við Gísla Sigurðsson um örnefni birtist í sunnudagsblaði Þjóðviljans árið 1965:
„Suður í Hafnarfirði býr maður sem les og skráir örnefni í Garðahreppi. Þeir fengu hann að láni úr annarri byggð, eins og raunar flesta rithöfunda sína. Að vísu réðu þeir hann ekki til slíks starfa, heldur til að handleika fyllibyttur, þjófa og aðra af slíku tagi. Og á þeim eftirlitsferðum lærði hann bæ sinn, Hafnarfjörð, utanað. Og svo tók hann að skrá nöfn gamalla húsa, upplýsingar um þau og fólkið sem í þeim bjó og brátt batt hann sig ekki við þenna litla blett hins forna Álftaneshrepps heldur lagði leið sína um Álftaneshrepp allan. Og nú skulum við líta heim til Gísla Sigurðssonar lögregluþjóns, í dalnum upp af Hafnarfirði, milli Ásfjalls og Setbergs.
gisli sigurdsson 1965— Þú skráir örnefni, Gísli, og sögu þeirra, er ekki fátt um forn heiti hér um slóðir? Og hvernig verða örnefni til?
— Þau tínast til. Hérna beint á móti okkur er Setberg, svarar Gísli, lítil hvilft milli lágra hamra, líkt og sæti milli þeirra, hamrarnir eins og armar á stól. Svo rís upp bær með þessu nafni, og margt skapast kringum hann: tún, traðir, engjar og tjarnir; þannig verða til mörg nöfn er bera þetta fornefni: Setbergs.
— Álítur þú að þetta sé gamalt nafn?
— Já, ég er sannfærður um að nafnið sé mjög gamalt, — frá fyrstu tíð mannavistar. Þú manst eftir sögunni um Ása-Þór, þegar hann keyrði hamar sinn og eftir varð far, kallað setberg. Þetta nafn mun því vera heiðið nafn.
Einhverstaðar í smágrein hef ég getið þess áður, að þar sem talað er um komu Hrafna-Flóka er sagt að Herjólf ur kom hingað fyrstur manna, — hann kom í Herjólfshöfn. Hafnir voru þá kallaðar litlar víkur eða lækjarósar þar sem þeir gátu lagt skipum sínum; hafnirnar voru litlir staðir, firðir stórir staðir, og Hafnarfjörður er fjörður Herjólfshafnar.
Hvaleyri heitir svo af því þeir fundu hval rekinn á tanganum utan fjarðarins.
Álftanes heitir svo af því álftir voru þar. En svo vandast málið út af Görðum og Garðahreppi. Nú halda margir að Garðar séu Skúlastaðir þar sem Ásbjörn Össurarson nam land að ráði frænda síns, Ingólfs Arnarsonar. Þá er ekki ósennilegt að ímynda sér að Garðar standi eitthvað í sambandi við kornrækt, það sé dregið af görðunum kringum sáðrækt. Úti á Álftanesi er fjöldi nafna er minnir á komrækt, t.d. Akurgerði, Akrakot, Tröð, Sviðholt — það er holtið þar sem landið var sviðið, skógurinn brenndur, áður en hafin var ræktun. Og hér í Hafnarfirði er Akurgerði.
kaldarsel 1965— Þú ætlar þó ekki að halda því fram að það hafi verið ræktað korn hér í hrauninu!
— Jú! Akurgerði var eina túnnefnan hér — og fóðraði eina kú. Þessir smábollar hér voru mátulegir reitir til að hagnýta sér til akuryrkju — það er hlýtt í hraunbollunum og sprettur vel þar. Hér og suður í Hraununum er ákaflega mikið af gerðis-nöfnum, og mér þykir sennilegt að gerði hafi verið gerði um akur. Í Arnarnesi er garður fyrir ofan veginn sunnan í holtinu, hringmyndaður um 40 m í þvermál. Þarna tel ég að verið hafi akur.
— Telur þú að það hafi raunverulega verið það mikil kornrækt hér að þetta standist?
— Já. Þeir fluttu út korn, — það sannar bannið á að flytja út korn af Íslandi. En svo þurftu Danir að fara að selja okkur sína framleiðslu, sitt maðkaða korn. —
Það er mjög víða sem ég hef fundið nöfn sem minna á kornrækt.
setbergsbaerinn gamliÉg hef rætt þetta atriði við Björn Þorsteinsson sagnfræðing, sem heldur er ekki í neinum vafa um að hér á nesjunum var mikil kornrækt áður fyrr.
Hér, sem annarstaðar, eru það atvinnuhættirnir sem skapa örnefni mest og flest. Hér lá land að firðinum og flóanum, og hér hefur alla tíð verið geysimikil sjósókn, þar af koma allar varir, búðir og slík nöfn.
— Er mikið um slík nöfn?
— Já, það er alveg geysilegur fjöldi af vörum á allri strandlengju Álftaneshrepps, sem áður var, — en Álftaneshreppur náði áður frá Kópavogi og suður fyrir Hraun, eða suður fyrir Lónakot og þá var Hafnarfjörður í Garðahreppi.
— En eru þessar varir ekki flestar horfnar nú?
—Jú, þær eru flestar horfnar, að ekki sé talað um hve mikið er horfið af notagildi þeirra, það er nær búið að vera. Þó er það til enn að þeir lenda í Pálsvör, Kotavör, Hlíðarvör, Hausastaðavör og Dysjavör úti í Garðahverfi. Úti á Álftanesi eru Hliðsvör, Eyvindarstaðavör, já krökt af vörum. Hjá Bessastöðum er vör við Búðaflöt.
Svo koma öll sundin, sem eru kennd við stað sem er fjarlægur, en heita svo af því að taka varð mið af staðnum — á fjarlægum stað. T. d. Valahnúkasund úti á Álftanesi, sem kemur til af því að Valahnúka — sem eru hér langt fyrir ofan Hafnarfjörð — ber í Bessastaðastofu. Eins er suður í Hraununum, þar eru allskonar varir frá Lambhaga, Straumi, Óttarsstöðum, Lónakoti og kotunum í kring. — Allt minnir þetta á sjósókn, og fjöldi þessara nafna ber atvinnuháttunum glöggt vitni — að hér hafa menn sótt sjóinn af miklu kappi.
bessastadir 1720— En er nú ekki fátt um verulega forn nöfn á þessu landsvæði?
— Þau eru nokkur allt frá söguöld; Hafnarfjörður, Hvaleyri, Eyvindarstaðir, Sviðholt, Hlið, allt munu þetta vera ævafom nöfn. Melshöfði mun líka gamalt nafn. Vífilstættur og Vífilsstaðir, en sá staður ber nafn Vífils húskarls Ingólfs Arnarsonar, er hafði fengið bústað þar.
— Eru Bessastaðir kannski nefndir eftir einhverjum húskarli?
Engin vitneskja er um Bessastaði eða Bessa þann ef sá staður er við kenndur, enda er þetta ekki mikil jörð, aðeins 9 hundraða, — En Garðar voru stór jörð, með öllum hjáleigunum í kringum sig.
Hæð er suður í Hraunum sem heitir Hafurbjarnarholt. Sú er sögn að Björn, son Gnúpa-Bárðar dreymdi að bergbúi kom og bauð honum að gera helmingafélag um bústofn, og Björn gekk að því. Eftir það virtist sem tvö væru höfuð á hverri skepnu svo Björn varð fjárríkasti maður hér á nesinu og átti hafra ágæta og því kallaður hafur-Björn.
hafurbjarnaholt-221Hafur-Bjarnarstaðir eru í Garði og Hafur-Bjarnarholt í Hraununum — og má líklega telja að báðir þessir staðir séu kenndir við áðurnefndan Hafur-Björn.
Hafur-Björn og þeir feðgar tóku sér land frá Selvogi og allt út á nes. Þeir voru miklir menn og greindir og frá þeim er t.d. kominn Skafti Þóroddsson lögsögumaður. Bárður, faðir þeirra bræðra, Björns, Gnúps, Þórðar og Þorsteins hröklast austan úr Skaftafellssýslu undan gosi, þá orðinn gamall maður. Gnúpur setst að á Gnúpi, — er síðar hverfur undir Ögmundarhraun, Björn verður mikill fjárbóndi hér á skaganum og Þórður og Þorsteinn setjast að í Grindavík. Við Þórð þenna mun Þórðarfell kennt, en ég kannast ekki við neitt örnefni sem kennt er við Þorstein.
Þá, eins og gefur að skilja með þessu umhverfi hér, verða nöfn dregin af hrauni gífurlega mörg. Stærstu svæðin af því tagi eru Garðahraun, sem nú er kallað Hafnarfjarðarhraun, og Almenningur, sem nær frá Ásfjalli allt suður fyrir Hvassahraun, og jafnvel að Almenningur hafi náð yfir stærra svæði fyrrum, en það var skógarsvæði og þangað var sóttur skógviður til kolagerðar af öllum Suðurnesjum.
— Þú ætlar þó ekki að segja mér að hraunin hér fyrir ofan og sunnan hafi verið vaxin þeim skógi að byggðin á ströndinni sækti þangað eldsneyti sitt?
almenningur-221— Jú, en það var gengið á hann þar til hann þraut, en samt er birkikjarr þarna enn, og það hefur dafnað mikið, því miklu minna hefur verið beitt þarna en áður — og engin hrísla tekin til eldiviðar. Menn sem voru kunnugir í Hraununum áður segja að skógarkjarrið hafi breiðzt ótrúlega út á síðustu árum. Skógarsvæðin hér í hrauninu fyrir sunnan voru kölluð almenningur, því þangað sóttu allir eldivið, en svæðið þar sem Heiðmörk er nú var þá kallað Kóngsskógur, eftir að konungur hafði lagt undir sig flestar jarðir á þessu svæði, ásamt Viðey og Reykjavík. Á 16. öld tók kóngur Reykjavík af einum afkomanda Ingólfs Arnarsonar, og saga er til um það að hann hafi grátið þegar hann hafði látið jörðina af hendi.
Þegar kemur upp fyrir Hraunabæina taka við nöfn, eins og Skjól, þau eru í ótölulegum grúa, — það eru fjárskjólin, þar sem sauðfé gat leitað afdreps í illviðrum. Þarna eru mannvirki, sum e.t.v. allt frá landnámstíð, en það eru upphleðslur fyrir þessi skjól og fyrir hella. Í þessum skjólum í skútum og hellum er hvarvetna mikið tað. Á þessu svæði eru líka nokkrar fjárborgir: Óttarstaðaborg, — Kristínarborg, kölluð svo eftir Kristínu Sveinsdóttur húsfreyju á Óttarsstöðum um 1860—1870, mjög merkileg kona. Borg þessa hlóð hún um vetrartíma ásamt vinnumanni sínum. Þá er Þorbjarnarstaðaborgin, sem er hringborg og hefur átt að hlaðast upp í topp — þess vegna er stöpull í henni miðri sem átt hefur að bera uppi þakið. Ennfremur eru Kaldárselsborgin, Vatnsendaborgin og Hólmsborgin. Suður á etröndinni er enn ein borgin, stærst af þeim öllum. Víða eru hleðslur þar sem byrjað hefur verið á borgum en hætt við þær af einhverjum ástæðum.
straumssel-221Svo eru það selin; þau eru nokkuð mörg. Syðst er Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumssel, Fornasel, sem er austur við skógargirðinguna, Gjásel, sem er inni í girðingu Skógræktarinnar, — og það nafnkunnasta: Kaldársel.
— Hvernig var hægt að hafa í seli í vatnslausum hraununum?
— Það einkennilega er að við þessi sel eru allstaðar vatnsstæði, þannig að á þessum stöðum þraut ekki vatn.
— Var þar nema regnvatn í smáholum?
— Vatnið er 1 skálum, hálfgerðum brunnum og 1—2 fet niður að því og vatnið 1—2 fet á dýpt. Það er ótrúlegt að þetta sé uppistöðuvatn, það hlýtur að renna einhversstaðar að — en hvaðan?
Gvenndarbrunnur er við gamla veginn fyrir ofan Óttarsstaði — hálfur í Óttarsstaðalandi, hálfur í Straumslandi.
— Er hann ekki óttaleg hola?
— Heldur er hann lítill, en nægilegur til þess að fénaður og vegfarendur gátu náð þar í vatn að drekka. Gvendarbrunnur er einnig í Arnarnesi, að ógleymdum Gvendarbrunni sem Reykvíkingar fá vatn sitt frá.
Og úr því við erum farnir að tala um vatn er rétt að geta þess, að á Hraunabæjunum þraut aldrei vatn, því í lónunum og Straumsvíkinni fékkst alltaf ferskt vatn, það kemur svo mikið af fersku vatni undan hrauninu.
— Segðu mér, Gísli, hve stórt svæði er það sem þú hefur safnað örnefnum á?
— Ég hef tekið fyrir hinn forna Álftaneshrepp.
— Ég er litlu nær fyrir það svar.
lonakot-221— Arnarnes er austasti bærinn í hreppnum og mörkin liggja við Kópavog suður um Rjúpnahæð, Kjóavelli, Sandahlíð, Arnarbæli, Húsafell og þaðan beina leið í Kóngsfell og þar eru sýslumörkin milli Gullbringu- Kjósar- og Árnessýslna.
Að vestan eru mörkin frá Lónakoti, þ. e. frá Hraunsnesi niðri við sjó, upp um Búðarvatnsstæði í Markhelluhól, en þar mætast lönd Óttarsstaða, Hvassahrauns og Krýsuvíkur. Frá Markhelluhól á Lönguhlíð við Kerlingargil, sem er Alftanesmegin, og þaðan yfir Lönguhlíðarfjall í Litla-Kóngsfell, og þar eru sýslumörk.
— Hefur nokkur kóngur prílað upp á þessi fell?
—Fráleitt, — nöfnin eru sennilega frá því að kóngur eignaðist allar jarðir hér í Álftaneshreppl, nema þær sem Garðakirkja hélt, — og einu jörðina sem aldrei lenti í klóm kirkju né kóngs, en það er Setberg, eina jörðin í hreppnum sem hefur verið bændaeign frá upphafi vega til þessa dags.
— Hvernig stóð á því að þú lagðir í svo mikið og tímafrekt verk?
— Þetta hófst með því að ég fór að safna gögnum varðandi frásagnir um Hafnarfjörð, það var um 1950, og tók þá að sjálfsögðu með upplýsingar um nágrennið.
— Hvernig vannstu að söfnuninni?
— Eg var svo heppinn að hitta fyrir ágæta menn, sem vildu bæði fórna tíma og fróðleik sínum um eitt og annað og ber fyrst að nefna Gústaf Sigurðsson, kenndan við „Eyðikotið“ í Hraunum, en þar ólst hann upp. Ég leitaði einnig upplýsinga hjá öðrum þeim sem fæddir voru á Hraunabæjunum en höfðu flutzt burt. Á Álftanesi leitaði ég til manna upprunninna þar. Þegar kom upp um landið og til fjalls varð Ólafur Þorvaldsson þingvörður mér drýgstur, og siðast en ekki sízt Guðbjörg Guðmundsdóttir frá Urriðakoti og maður hennar, Páll Kjartansson, er bæði fræddu mig um Setbergs-, Vífilsstaða- og Urriðakotslönd, kirkjulandið, þ. e. upprekstrarland Garðakirkju, Bessastaða og Álftaness. Ólafur Þorvaldsson er fæddur í Ási og fólk hans verið í hreppnum frá því um 1800 og hann hafði fræðslu margra kynslóða. Jófríðarstaðabræður, Þorvarður og Arnór Þorvarðarsynir fræddu mig mikið um Jófríðarstaði — þ. e. Ófriðarstaði.
— Höfðu engir safnað örnefnum á þessu svæði?
thorbjarnastadir-stekkur— Ari Gíslason fór hér um og ég gat minnt hann á margt. En eftir að hann hafði farið hér um varð ég þess var að margt hafði gleymzt svo ég fór í örnefnaeftirleit og þegar ég hafði safnað töluverðu setti ég mig í samband við Kristján Eldjárn, er hefur yfirumsjón með örnefnasöfnun á landinu og hvatti hann mig eindregið til að vinna að þessu.
Þó að mér væru sögð nöfn á ýmsum stöðum var mér það ekki nóg, heldur varð ég að ganga á örnefnin, — og það eru held ég mjög fá örnefni nú sem ég veit ekki hvar eru í Alftaneshreppi hinum forna. Sum nöfn í þessari skrá minni er hvergi að finna nema í Íslenzku fornbréfasafni og hef ég leitað bæði í annálum og fornbréfasafninu að örnefnum sem voru horfin, en sem hægt var að staðsetja vegna þess að þeim var lýst þannig í afstöðu til annarra örnefna þekktra. — Í þessu sambandi má það ekki gleymast að þeir Björn Þorsteinsson sagnfræðingur og Magnús Már Lárusson prófessor hafa báðir hvatt mig og aðstoðað í þessu verki.
Einn þátturinn í þessari skrá eru nöfn á öllum bæjum búðum og kotum, og þau eru 660—700.
Rembihnútinn rak ég svo á þetta með því að taka upp öll mið sem róið var á frá Álftanesi, Garðahverfi, Hafnarfirði og Hraunum, bæði til hrognkelsaveiða og annarra veiða. Gísli Guðmundsson á Hellu hjálpaði mér mest með mið Hafnfirðinga en um fiskimið Alftnesinga hef ég stuðzt mest við Erlend gamla á Breiðabólstað, og bók hans Sjósókn.
— Eru ekki misjafnlega mörg örnefni á jörðunum gömlu?
— Jú, í Arnarnesi eru þau 57, Lónakoti 79, Óttarsstöðum 225, Þorbjarnarstöðum 278, Garðahverfi 282, á Bessastöðum 50.
— Nokkur sérkennileg?
— J á , t.d. Steinhes, yngra nafn Steinhús, þar sem saman koma jarðir Áss, Jófríðarstaða, Hamarskots og Garðakirkju. Í gömlum bréfum er þessi staður nefndur Steinhes.
— Verða örnefnin merkt á kort?
— Á loftmynd sem ég fékk hjá Ágústi Böðvarssyni landmælingamanni hef ég merkt margt af örnefnum, svo fróðleiksfúsir menn eiga síðar að geta gengið á þau. Miðin ætla þeir hjá Sjómælingum og Vitamálastjórninni að draga á kort.
— Hve mörg örnefni eru þetta samtals?
— Þau eru um 4400.
— Og enn höfum við lítið minnzt á Hafnarfjörð, — eigum við að gera það seinna?
— Já, við verðum að fresta því að sinni. -J . B .“

Heimild:
-Sunnudagur, fylgrit Þjóðviljans, 5. árg. 1965, 17. tbl., bls. 194-196 og 202.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Önglabrjótsnef

Í grein „Um rekamörk og örnefni á Reykjanesi“ er birtist í Blöndu 1921-1923 má lesa eftirfarandi um örnefni á suðvestanverðu Reykjanesi:

Reykjanes-ornefni„Prentað eptir frumritinu í AM. 453 fol.
Af bréfi frá Þorkeli Jónssyni í Innri-Njarðvlk til Árna Magnússonar 30. janúar 1704 í þessu sama hdr. (453 fol.) sést, að þessi örnefnaskrá er samin af honum, því að hann segir í bréfinu: „Í sama máta sendist yður blaðkorn upp á rekaörnefni á Reykjanesi frá Höfnum til Skarfaseturs á Reykjanesi; og hef eg heyrt af mér eldri mönnum þessi rekatakmörk svo nefnd, sem innfærð eru, en þar eð eg skrifa ei framar um takmörkin en að Skarfasetri er ei minn mótvilji, heldur veldur því ókunnugleiki minn og nokkurn part þeir, er um kunnugt er, eru mér ei svo þénustuviljugir, að mér þar um sannferðugt segja vilji, og væri svo, að minn herra vildi enn framar á nýtt uppspyrja láta rekatakmörk á Reykjanesi, væri bezt fallið, að þar til kvaddir væru úr Grindavlk Eyjólfur Jónsson á Þorkötlustöðum, sem og Ólafur Pálsson á Tóptum, svo og Runólfur Þórðarson á Býjaskerjum, sem eg hygg skýrasta í þessu“ etc. — Þorkell í Njarðvík andaðist í stórubólu 1707, 49 ára gamall. Hann var, eins og kunnugt er, faðir Jóns Skálholtsrektors Þorkelssonar. (H. Þ.)
Þetta eru rekamörk og örnefni með sjávarsíðunni á Reykjanesi í Gullbringusýslu allt frá Marflösum í Skiptivík (hver Skiptivík og Marflasir að eru í milli Merkiness og Kalmanstjarnar í Höfnum) og að þeim fremsta tanga á Reykjanesi og sumir kalla eða nefna Skarfasetur, og kallast þetta á sunnanverðu Reykjanesi svo sem eptir fylgir:
1° Fyrst frá Marflösum (sem áður eru nefndar) á Kalmanstjörn allan reka (fráteknu alslags vogreki, sem kongl. Majst. tilheyrir) alt að Leguvörðu, sem er nærri Draugagjá, er liggur á milli Kalmanstjarnar og Kirkjuhafnar.
2° Frá Leguvörðu á Kirkjuhöfn allan reka (með fyrra skilorði) á miðjan klett þann, gem stendur í milli norðari Sandhafnar og Kirkjuhafnarlendinga, og sá sami klettur er nefndur Stjóraklettur. Eitt örnefni í áðursögðu Kirkjuhafnar rekatakmarki er Flyðruhella.
3° Fra Stjóraklett og til vörðu þeirrar, sem stendur á Lendingarmelum, allt kongsreki, sem tilheyrir Sandhöfnum báðum og nú liggur og legið hefur í langan tíma til Viðeyjarklausturs. Örnefni í þessu plássi eru: 1. Stærri Sandhöfn. 2. Minni Sandhöfn. 3. Litið vik norðan við eyraroddann, kallað Kápa. 4. Eyrin sjálf, sem er lítill tangi fram í sjóinn og þar framundan í sjó Eyrarsker. 5. Svarti klettur. 6. Tveir háir klettar, kallast í Klauf. 7. Steinn þar framundan, umflotinn, kallast Murlingur. 8. Hafnaberg, hvar undir að eru Hellrabásar. 9. Á miðju Hafnabergi einn snasaklettur, sem kallast Strákur. 10. Boðinn, sem er rekapláss á landi og þar framundan fiskimið, sem sjómenn kalla Líkaboða. 11. Þaðan eru Lendingarmelar allt að áðursagðri vörðu.
Hafnarberg-214° Frá Lendingarmelavörðu og til Valahnúka er skiptireki til helminga á hvölum og viðum (nema vogrekum öllum) milli Sandhafna (eður Viðeyjarklausturs) og Kirkjuhafnar, (því að Kirkjuhöfn með hennar reka er nú að sali og kaupi samanlögð við Kalmanstjöru). Örnefni innan þessara takmarka eru þessi: 1. Skjótastaðir, sam sagt er áður hafi bær verið, og enn sjást nokkur merki af garðlagssteinum. 2. Stóra Sandvík, hvar eð með hverju flóði uppkemur flæðarvatn, svo langt frá sjómáli, sem svarar 120 föðmum, og það vatn verður að stærð meir en þriðjung mílu allt umkring.
3. Litla Sandvík, og skilur þessar víkur einn klettur, er stendur í sandinum við sjávarmál.
4. Koma smábásar, sem nú eru almennilega kölluð gjögur, og er allt rekapláss. 5. Mölvík. 6. Kistuberg. 7. Þistlingasteinn. 8. Hvasst bergnef, kallað Aunglabrjótur, öðru nafni Kinn; þar framundan eru nefnd Strenglög þau norðari (af Reykjanesröst). 9. Lítill bás í þessum Strenglögum, kallaður Laurentiusbás. 10. Kerlingarbás. 11. Það nafnkunnuga örnefni á Keykjanesi Kerling. 12. Karl, nokkuð langt frá landi, svo fiskur gengur og dregst fyrir innan; hann stendur nær því í suður frá Kerlingu (máske nokkuð vestar). 13. Selahella sú norðari, landföst. 14. Valahnúkar; framan undir þeim eru tveir litlir rekabásar, og hafa sumir annan þeirra (þó að óvissu) kallað Kirkjuvogsbás. 15. Valahnúkamöl. 16. Selahella hin syðri, framundan miðri Valahnúkamöl, sem uppi er ætíð um fjörur en fellur jafnan flóð yfir. 17. Oddbjarnargjá. 18. Blasiusbás framan í því hvassasta nefi eðor tanga Reykjaness, er sumir kalla Skarfasetur. Þar framan undan eru Strenglög þau hin syðri. Frá þessu hvassa nefi er berg og engin rekafjara allt að grastorfu þeirri (og þó lengra), sem er á þessu bergi þar það er hæst, og gamlir menn hafa nefnt Skarfasetur og er það 19. örnefni í tilteknu plássi.
Veitir þá síðan landinu til austurs landsuðurs; það allt til Staðar í Grindavík.“

Heimild:
-Blanda, 2. bindi 1921-1923, bls. 48-50.

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Helluvatn

Örnefni eru ekki bara örnefni. Þau geta einnig verið rangnefni í minni annarra er telja sig veita betur. Örnefni eiga það nefnilega til að breytast, bæði mann fram af manni sem og á milli manna í gegnum tíðina. Fólk flytur á brott og nýtt flytur að. Örnefni skráð á einum tíma af tilteknum aðila haft eftir öðrum slíkum geta haft gildi sem slík, en þau þurfa hvorki að vera hin einu réttu frá upphafi né endanleg. Þegar fjallað er opinberlega um örnefni á tilteknu landssvæði má telja víst að ekki verða allir sammála.

Í Morgunblaðinu í maí 1957 er grein; „Svipast um eftir sumrinu„, á bls. 5.:

„Sumrinu hefur dvalizt á leið sinni til Reykjavíkur. Tré standa nakin í görðum og knattspyrnuvellir nýorðnir færir.

Svipast um eftir sumrinu

Mynd með meðfylgjandi grein í Mbl.

Fréttamenn Morgunblaðsins ákváðu þess vegna að leggja land undir fót og svipast um eftir fyrsta þætti sumarsins. Ekki höfðu þeir lengi farið er vestanblærinn og fuglar sungu. Á lítilli tjörn í mýrinni austan Rauðhóla voru ung svanahjón á sundi og fögnuðu blíðunni. Þau voru feimin við gestkomuna, litust á, hófu sig af pollinum og flugu hratt til heiða.
Hretleifar í Hengli blikuðu í sólskini og bliknuðu. Skýjaslitur hurfu hvert af öðru austur fyrir fjall. Drengir stóðu að silungsveiðum í Hólmsá. Fiskurinn var latur í birtunni og sinnti ekki táli. Það lagast með kvöldinu.

Fé

Fé.

Árið er stór sólarhringur. Á morgni þess vaknar landið, skríður undan hvítum næturfeldi og klæðist gróðri, fuglum og ferðamönnum.
Fólkið í landinu hristir af sér skammdegisdrungann og fyllist verkmóði og lífsgleði á ný. Borgarbúar fara um helgar að dytta að sumarhreiðrinu síðan í fyrra eins og maríuerlan. Fátt bragðast þeim ljúfar en bröndur, sem þeir hafa veitt sjálfir, soðnar á primus uppi í hrauni og étnar með jurtum úr eigin garði. Lömbin fylgja sumrinu. Þau brölta klaufalega umhverfis mæður sínar, þegar nálin birtist í túnum, dafna með henni, verða stríðin og státa og hlaupa spretti í hóp um á lygnum síðkvöldum.
Þegar sumri lýkur eru þau ekki lengur lömb, þau eru vísast vaxin mæðrum sínum yfir höfuð. Þá fáum við dilka kjöt og sultu.
Engir fagna sumrinu jafnmjög og nautgipir. Rosknar kýr, síðvembdar og stirðfættar eftir kyrrsetur vetrarins taka á rás eftir gljúpum túnum og vita halar upp. Kálfar, sem aldrei hafa séð víðari veröld en fjósið, staðnæmast ráðvana og litast um áður en þeir hlaupa í fyrsta sinn. Eftir nokkra stund róast hópurinn og fer að bíta sinuvafinn nýgræðing.
Skuggar teygjast í austur þegar fréttamenn komu þreyttir úr sumarleit sinni. Þeir höfðu erindi sem erfiði.

Hrauntúnstjörn og nágrenni

Hrauntúnstjörn og nágrenni.

Í Morgunblaðinu í júní 1967 skrifaði Rg eftirfarandi í velvakanda, í framhaldi af framangreindri grein, undir fyrirsögninni „Litast um eftir réttu máli (íslensku) og réttum örnefnum“: „Í Morgunblaðinu í dag (11. maí) er á 5. síðu efst mynd af á og tveim lömbum hennar, sem horfa upp yfir skilrúm í kró. Undir er svo smágrein: „Svipast um eftir sumrinu“. Þar standa eftirfarandi setningarhlutar, sem ég gjarna ætla að gjöra við smá athugasemdir höfundi til athugunar, en þó aðallega honum og öðrum, sem lesa kunna þessi orð mín, til umhugsunar eftirleiðis og fróðleiks.
Því bæti ég við einu málfræðilegu hugtaksatriði, sem ég hjó eftir í upphafi greinar í fylgiriti, er lá innan í Morgunblaðinu. Þetta eru athugunarklausur mínar. Eru þær merktar bókstöfum a) til c). — Þær gefa aðallega tilefni til að skjalfesta til athugunar nokkur örnefni og notkun fárra orða og hugtaka.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

a) „Á lítilli tjörn í mýrinni austan Rauðhóla voru…svanahjón“. Eftir þessum orðum að dæma (og framhaldi þeirra) virðist greinarhöfundur hafa skroppið suður yfir Bugðu á brúninni, sem setuliðið — hér á árunum eftir 1940 — lagði yfir ána af Tryppanefsoddanum, og þá um leið veginn beggja vegna að brúnnni, og fluttu síðan eftir vegi og brú Rauðhólana burtu. (Því að nú er aðeins lítill hluti eftir af Rauðhólunum eins og þeir voru frá náttúruinnar hendi). Brú þessi er handriðalaus hleri, en slíkar trébrýr yfir smáár, læki og vegaræsi voru á áratugunum í kringum síðustu aldamót, nefndar: „hlemmur“. (Þaðan er nafnið: Hlemmtorg neðan við Laugarveginn, þar sem Rauðaráin féll niður áður en hún var leidd í rör neðanjarðar, því á henni var „hlemmur“ þar sem Laugavegurinn lá yfir ána (lækinn réttara).
Verið getur að „litla tjörnin“, sem höf. nefnir þarna, sé Hrauntúnsvatn, nema um smátjörn, nánast vorleysingapoll sé að ræða, en af þeim er venjulega töluvert þarna í Hólmsengjunum um þetta leyti árs og lengi fram – eftir, því alfestaðar er hraun undir.

Hrauntún

Hrauntúnsvatn – minjar eru við vatnið miðsvæðis.

Hrauntúnsvatn (Hrauntún mun hafa verið þarna — um eitthvert skeið — smáhjáleiga frá Hólmi) er stærst af vötnunum þarna og liggur rétt suður af austurenda Rauðhólanna. Í vatnið, og áður gegnum Helluvatn, rennur Suðurá (nafngift frá Hólmi). Hún kemur austan og ofan fyrir Silungapoll, og með afrennsli úr honum. Það kom einnig með vatnsmagnið úr Gvendarbrunnum áður en það var gert að neyzluvatni. Reykvík (ekki „vis“) inga, (sbr.: Reykvískur). Aðeins sunnan við Hrauntúnsvatn er Kirkjuhólmatjörn hjá Jaðri í Heiðmörk. Vatnsmagn það, er rann úr þessum vötnum, myndaði nokkuð vatnsmikla á, er hét „Dimma“ og fellur hún í Elliðavatn. Brúin á veginum að bænum Elliðavatni, að Jaðri og þeim megin í Heiðmörk, er yfir Dimmu. En nú er venjulega haft svo hátt í Elliðavatni (Rafmagnsupphitaða stífla), að árinnar gætir ekki.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

b) „Drengir stóðu að silungsveiðum í Hólmsá“. Hvorki af þessum orðum höf. né þeim, er á undan standa eða á eftir koma er hægt að sjá hvar þetta var. Þarna nálægt Rauðhólunum er engin á, sem heitir Hólmsá — réttu nafni. En norðan við hólana og fast norðan við túnið á bænum Hólmi rennur áin Bugða, sem ég hef nefnt hér á undan, og sem með einni af þeim óteljandi bugðum myndar Tryppanefið áður nefnda. — Áin er ekki löng. Hún var aðeins um 10 km. áður en Rafmagnsuppistöðustíflan var gerð fyrir neðan Elliðavatn, en við það var Bugða leidd inn í lónið, nú Elliðavatn, um tveim km. ofar.

Hólmsá

Hólmsá.

Bugða myndast af tveimur vatnsföllum: Fossvallaá, sem kemur alla leið austan undan Hengilfjöllunum, af Bolavöllum og víðar og fellur vestur og niður milli bæjanna Lækjarbotna í Seltjarnarnesshreppi, og Elliðakots í Mosfellssveit, síðast um skeið í tveimur kvíslum og rennur sú nyrðri í gegn um Nátthagavatn, lítið vatn skammt sunnan við túnið að Elliðakoti. Í einum farvegi mætir hún þó Selvatnslæk (öðru nafni: Selvatns-ÓS) beint norður af Neðrahraunsnefinu fyrir neðan Lækjarbotna, — en vestan í og á Neðra-Hrautjarnnefinu er nýbýlið (frá um 1925) Gunnarshólmi. — Um 2 km. neðar var vað á Bugðu, þar lá Suðurlands(Austurlands-) vegurinn yfir ána. Þeir ferðamenn, sem komu austan yfir „Heiði“ og ætluðu til Reykjavíkur, Bessastaða, Hafnarfjarðar og Suðurnesja, sáu aðeins einn bæ nokkurn spöl neðar með ánni, Hólm.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Vaðið var því nefnt: Hólmsvað á Bugðu. En flestir létu sér nægja að segja aðeins: Hólmsá. Þannig er þetta ranga nafn komið inn í málið, og hefur því líka verið klínt inn á kortin. Brúin, sem vegurinn liggur nú um, var gerð á ána fast ofan við vaðið og sér enn fyrir vaðinu á árbökkunum beggja vegna. Neðri endi (ós) Bugðu mætti Dimmu þar neðan við er hún féll aftur úr Elliðavatni, rétt suður af suðurenda slakkans, sem liggur suður frá skörpu beygjunni á Rauðavatni, þar sem vegurinn liggur yfir vatnshlykkinn. Þar, sem árnar komu saman, stendur enn dálítil hraunstrýta; heitir hún Hólmaskyggnir. Er þar nú sumarbústaður og hafa verið gerðir stallar neðst um skyggninn og plantað í stallana. Það er vatnsmagin Dimmu og Bugðu, sem þarna myndar Elliðaárnar. Þarna féllu þær strax fram í tveimur kvíslum þegar ekki var sáralítið vatn í ánum, en þó aðalkvíslin að suðvestan. Sléttlendið, — upp gróið hraun, — á milli kvíslanna, heitir: Vatnsendahólmar; þaðan er nafnið á Hólmaskyggni. Rangnefnið á Bugðu mun líklega reynast nokkuð lífseigt eins og títt er um margar málvitleysur og drauga. En fáir munu veita því athygli að áin sýnir og skrifar sjálf með rennsli sínu að hún heitir Bugða.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

c) „Rosknar kýr, síðvembdar og stirðfættar eftir kyrrsetur (auðkennt hér) vetrarins“. Segið mér! Hefur nokkur séð kýr sitja? Ég man ekki til þess að ég hafi nokkru sinni séð kýr eða aðrar nautkindur sitja á rassinum — ótilneyddar. Man ekki betur en að þær leggist niður með því að krjúpa á kné framfóta og láti síðan afturhlutan hníga á eftir níður á aðrahvora hliðina. Og upp minnir mig að þær rísi aftur með afturhlutan á undan. Minnir að hitt sé undantekning og þá af einhverjum sérstökum ástæðum. Nei, Ég held að „kyrrsetakreppa“ (Stgr. Th.) mannfólksins eigi ekki við um húsdýrin — eða dýr yfirleitt — heldur kyrrstöðu stirðnun (sem kallað var: innistaða) vetrarins, og sé kyrrstaðan sízt betri, er til lengdar lætur. Munu ýmsir menn, bæði karlar og konur, geta um það borið, þeir er mikið verða að vinna standandi, — t.d. prentararnir, handsetjararnir við leturkassanna.
HólmurÞá vil ég loks benda á eitt orðatiltæki, sem ég aldrei get fellt mig við, en sem mikið kveður að bæði í ræðu og riti, og líklega hjá þorra manna, því að það mun vera orðið gamalt í málinu okkar. Eitt af því marga, sem við höfum látið okkur sæma að apa hugsunarlaust, og að óþörfu, eftir Dönum. Sannast hér sem jafnan að „auðlærð er ill danska“, og það bókstaflega.
Ég tek þetta hér með af því að ég hnaut um þetta orðatiltæki strax í annarri línu og efst á síðu í fjórblöðungi, er lá innan í Morgunbl. í dag (11/5) — (í réttri íslenzkri merkingu, en ekki í ensku merkingunni: today, sem flestir virðast nú hafa gleypt til notkunar bæði í ræðu og riti, íslenzku máli til stórskemmda af því að íslenzkan: „í dag“ þýðir alveg bundinn tíma, en ekki lítt takmarkaðan tíma, bæði fram og aftur, eins og enskan: „today“ gerir).
Orðatiltækið er: „menn og konur. “ Seg mér (og öðrum) hver þú, sem geitur: Hvaða dýrategund eru konurnar fyrst að taka þarf fram svona skýrt að þær séu ekki menn?
Ég þarf ekki að skrifa meira um þetta. Hver einasti heilvita og hugsandi maður, hvort sem er karl eða kona (orðin: karl þýðir ekki gamal karlmaður og kona þýðir ekki aðeins gift kona, slíkt eru síðari tíma rangtúlkanir orðanna) getur svarað spurningunni sjálfur rétt, ef hann aðeins vill hugsa út fyrir áunnin vanatakmörk, sem eru í raun og veru heimska.“
Vinsamlegast,
Rg“.

Í Morgunblaðinu nokkrum dögum síðar skrifar Karl E. Norðdahl, bóndi á Hólmi athugasemdir við áður fram komnar athugsasemdir undir fyrirsögninni „Ár, vötn og örnefni umhveris Hólm“:
„Velvakandi!

Hólmur

Hólmur – Karl E. Norðdahl lengst til hægri.

Í dálkum þínum fimmtudaginn 15. júní sl. er birt langt bréf frá bréfritara, sem nefnir sig Rg., og ber það yfirskriftina „Litazt um eftir réttu máli (íslenzku) og réttum örnefnum.“ Tilefni ritsmíðar Rg. er smágrein, sem birtist í Mbl. 11. maí sl. Rg. hefur fundið sig knúinn til að „fræða“ höfund þeirrar greinar sem og aðra lesendur Mbl. um ýmis örnefni umhverfis Hólm og gengur honum vafalaust gott eitt til. Því miður hefur Rg. þó ekki ekkert betur til en svo, að óhjákvæmilegt er að leiðrétta fjölmörg atriði í grein hans.

Bugða

Bugða.

Nafnið Hólmsá er mjög gamalt. Árið 1887 var fyrst byggð brú á Hólmsá, þar sem núverandi Hólmsárbrú er (og þjóðvegur austur fyrir fjall). Þá brú, sem var 18 álna löng, tók af í vetrarflóði 1888, sbr. Árferði Íslands í þúsund ár, eftir Þorvald Thoroddsen. Upptök Hólmsár eru við Elliðakotsbrekkur. Fossvallaá, sem Rg. talar um er nú ekki nema nafnið eitt.
Fyrir 1920 rann hún meiri hluta ársins en undanfarna áratugi hefur hún verið þurr nærri allt árið, rennur aðeins í stórleysingum.“ Upptök Fossvallaárinnar (hún hét reyndar Lyklafellsá austan Fóelluvatna) voru í Engidal og Marardal í Hengli (ekki á Bolavöllum) og heitir hún þar Mará. Sú á hverfur í jörð á Norðurvöllum.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Rg. talar um Selvatnslæk (öðru nafni Selvatnsós). Þau örnefni eru ekki til og hafa aldrei verið það. Afrennsli Selvatns heitir einungis Ós og fellur um Gljúfur og Elliðakotsmýrar í Hólmsá, þar sem heitir Óskjaftur. Þaðan rennur Hólmsá norðan við bæinn Gunnarshólma (hann var byggður 1928) undir Hólmsárbrú suður um Heiðartagl. Þar féll Ármótakvísl (stífluð 1961) úr Hólmsá í Suðurá.

Hrauntúnstjörn og nágrenni

Hrauntúnstjörn og nágrenni.

Hólmsá fellur síðan sem leið liggur vestur með þjóðveginum norðan við bæinn Hólm. Áin heitir Hólmsá, ekki Bugða, allt vestur á móts við Baldurshaga. Síðan heitir hún ýmist Hólmsá eða Bugða þar til hún fellur í Rafveitulónið. Nafnið Bugða á þessum hluta árinnar var notað af ábúendum Elliðavatns og Grafar (Grafarholts). Vegagerð ríkisins brúaði Hólmsá og lagði veg af Suðurlandsvegi í Rauðhóla árið 1926, ekki „setuliðið hér á árunum eftir 1940″, eins og greinarhöfundur Rg. kemst að orði.
Rg. talar um vað á Hólmsá (eða Bugðu, eins og komizt er að orði) fast neðan við núverandi Hólmsárbrú, og að þar hafi þjóðleiðin áður legið. Þetta er rangt. Þarna befur aldrei verið vað. Þjóðleiðin lá hér áður fyrr yfir Ármótakvísl, sunnan við bæinn Hólm og yfir Hólmsá um 1/2 km neðan við Hólm.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Hraunsnef er aðeins eitt, ekki tvö eins og greinarhöfundur telur. Í Silungapoll fellur Hraunlækur að norðan og kem ur upp í Hraunsnefi. Úr Silungapolli fellur Silungapollsá sunnan við Höfuðleðurhól, jökulnúna grágrýtisklettaborg. Silungapollsá sameinast Ármótakvísl við Ármót og heitir eftir það Suðurá. Stóra tjörnin vestur af Gvendarbrunnum heitir Hrauntúnsvatn og því síður Helluvatn eins og Rg. talar um.

Helluvatn

Helluvatn.

Helluvatn er vatnið sunnan Rauðhóla. Segja má að Rg. sé nokkur vorkunn að rugla saman örnefnunum Hrauntúnstjörn og Helluvatni, þar sem nafnavíxl hafa orðið á þessum vötnum á herforingjaráðskortinu frá 1908 af þessu svæði. Og enn gengur þessi sama vitleysa aftur á endurskoðuðu korti Landmœlinga Íslands frá útgefnu korti 1966 (blað 27, mælikvarði 1:100000). Má því segja, að erfiðlega ætli að ganga að kveða þennan draug niður. Suðurá féll áður í Hrauntúnstjörn í tveimur kvíslum um Hrauntúnshólma. Sunnan Hrauntúnstjarnar má enn sjá tóftarbrot af eyðibýlinu Hrauntúni. Úr Hrauntúnstjörn féll Krikjuhólmakvísl til norðvesturs í Helluvatn og Kirkjuhólmakvísl til norðvesturs í Helluvatn og Kirkjuhólmaá til suðvesturs í Kirkjuhólmatjörn og þaðan í norðvestur í Helluvatn. Á milli þessara kvísla er Kirkjuhólmi.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Helluvatn (suður af Rauðhólum) dregur nafn af Hellunni, sléttri hraunklöpp í Helluvaði, sem er neðst í Kirkjuhólmaá. Þar sem sú á fellur í Helluvatn, er mjög djúpur
hylur (um 4:—5 faðmar á dýpt) og heitir Helluvatnsker eða Kerið, kunnur veiðistaður. Vatnsveita Reykjavíkur hefur nú „lokað“ Hrauntúnstjörn og hefur hún hvorki að- né frárennsli.

Suðurá

Suðurá.

Hefur Suðurá nú verið veitt beint í Helluvatn, Áin, sem fellur úr Helluvatni í Elliðavatn heitir alls ekki Dimma eins og Rg. heldur fram og hefur aldrei heitið, heldur Elliðavatnsáll oftast nær kölluð aðeins Állinn. Yfir hann liggur brú af Sundholti og þaðan vegur í Heiðmörk. Áður fyrr voru vötnin tvö, Elliðavatn og Vatnsendavatn. Tanginn Þingnes (nú eyja) skipti þeim að sunnan. Úr Vatnsendavatni féll Dimma og dró nafn af djúpum og dökkum hyljum. Nú er þetta breytt. Rafmagnsveita Reykjavíkur hefur gert stíflu þvert yfir Elliðavatnsengjar og báðar árnar (Dimmu og Bugðu) og myndað eitt stórt stöðuvatn núverandi Elliðavatn.
Greinarhöfundur Rg. virðist ekki vita, að slakkinn frá Rauðavatni til suðurs, þar sem vegurinn liggur yfir vatnshornið, heitir Margróf (það ðrnefni vantar rcyndar einnig á kort af Reykjavík og nágrenni, sem út kom í fyrra) og hann talar um dálitla hraunstrýtu með nafninu Hólmaskyggnir þar, sem árnar komu saman. Ekki er þetta hraunstrýta, heldur melhóll, og nafnið mun vera Vatnsendaskyggnir, en ekki Hólmaskyggnir.
Mun nú látið staðar numið að sinni, en margt er enn ósagt um örnefni á þessum slóðum.“
Með þökk fyrir birtinguna.“ – Karl E. Norðdahl – Hólmi.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 133. tbl. 15.06.1967, Litast um eftir réttu máli (íslensku) og réttum örnefnum, Rg, bls. 4.
-Morgunblaðið, 143. tbl. 29.06.1967, Ár, vötn og örnefni umhveris Hólm – Karl E. Norðdahl, bls. 4.
-Morgunblaðið, 104. tbl. 11. 05. 1957, Svipast um eftir sumrinu, bls. 5.

Hrauntúnstjörn

Hrauntúnstjörn – minjar.