Steinhes

Viðtal þetta við Gísla Sigurðsson um örnefni birtist í sunnudagsblaði Þjóðviljans árið 1965:
“Suður í Hafnarfirði býr maður sem les og skráir örnefni í Garðahreppi. Þeir fengu hann að láni úr annarri byggð, eins og raunar flesta rithöfunda sína. Að vísu réðu þeir hann ekki til slíks starfa, heldur til að handleika fyllibyttur, þjófa og aðra af slíku tagi. Og á þeim eftirlitsferðum lærði hann bæ sinn, Hafnarfjörð, utanað. Og svo tók hann að skrá nöfn gamalla húsa, upplýsingar um þau og fólkið sem í þeim bjó og brátt batt hann sig ekki við þenna litla blett hins forna Álftaneshrepps heldur lagði leið sína um Álftaneshrepp allan. Og nú skulum við líta heim til Gísla Sigurðssonar lögregluþjóns, í dalnum upp af Hafnarfirði, milli Ásfjalls og Setbergs.
gisli sigurdsson 1965— Þú skráir örnefni, Gísli, og sögu þeirra, er ekki fátt um forn heiti hér um slóðir? Og hvernig verða örnefni til?
— Þau tínast til. Hérna beint á móti okkur er Setberg, svarar Gísli, lítil hvilft milli lágra hamra, líkt og sæti milli þeirra, hamrarnir eins og armar á stól. Svo rís upp bær með þessu nafni, og margt skapast kringum hann: tún, traðir, engjar og tjarnir; þannig verða til mörg nöfn er bera þetta fornefni: Setbergs.
— Álítur þú að þetta sé gamalt nafn?
— Já, ég er sannfærður um að nafnið sé mjög gamalt, — frá fyrstu tíð mannavistar. Þú manst eftir sögunni um Ása-Þór, þegar hann keyrði hamar sinn og eftir varð far, kallað setberg. Þetta nafn mun því vera heiðið nafn.
Einhverstaðar í smágrein hef ég getið þess áður, að þar sem talað er um komu Hrafna-Flóka er sagt að Herjólf ur kom hingað fyrstur manna, — hann kom í Herjólfshöfn. Hafnir voru þá kallaðar litlar víkur eða lækjarósar þar sem þeir gátu lagt skipum sínum; hafnirnar voru litlir staðir, firðir stórir staðir, og Hafnarfjörður er fjörður Herjólfshafnar.
Hvaleyri heitir svo af því þeir fundu hval rekinn á tanganum utan fjarðarins.
Álftanes heitir svo af því álftir voru þar. En svo vandast málið út af Görðum og Garðahreppi. Nú halda margir að Garðar séu Skúlastaðir þar sem Ásbjörn Össurarson nam land að ráði frænda síns, Ingólfs Arnarsonar. Þá er ekki ósennilegt að ímynda sér að Garðar standi eitthvað í sambandi við kornrækt, það sé dregið af görðunum kringum sáðrækt. Úti á Álftanesi er fjöldi nafna er minnir á komrækt, t.d. Akurgerði, Akrakot, Tröð, Sviðholt — það er holtið þar sem landið var sviðið, skógurinn brenndur, áður en hafin var ræktun. Og hér í Hafnarfirði er Akurgerði.
kaldarsel 1965— Þú ætlar þó ekki að halda því fram að það hafi verið ræktað korn hér í hrauninu!
— Jú! Akurgerði var eina túnnefnan hér — og fóðraði eina kú. Þessir smábollar hér voru mátulegir reitir til að hagnýta sér til akuryrkju — það er hlýtt í hraunbollunum og sprettur vel þar. Hér og suður í Hraununum er ákaflega mikið af gerðis-nöfnum, og mér þykir sennilegt að gerði hafi verið gerði um akur. Í Arnarnesi er garður fyrir ofan veginn sunnan í holtinu, hringmyndaður um 40 m í þvermál. Þarna tel ég að verið hafi akur.
— Telur þú að það hafi raunverulega verið það mikil kornrækt hér að þetta standist?
— Já. Þeir fluttu út korn, — það sannar bannið á að flytja út korn af Íslandi. En svo þurftu Danir að fara að selja okkur sína framleiðslu, sitt maðkaða korn. —
Það er mjög víða sem ég hef fundið nöfn sem minna á kornrækt.
setbergsbaerinn gamliÉg hef rætt þetta atriði við Björn Þorsteinsson sagnfræðing, sem heldur er ekki í neinum vafa um að hér á nesjunum var mikil kornrækt áður fyrr.
Hér, sem annarstaðar, eru það atvinnuhættirnir sem skapa örnefni mest og flest. Hér lá land að firðinum og flóanum, og hér hefur alla tíð verið geysimikil sjósókn, þar af koma allar varir, búðir og slík nöfn.
— Er mikið um slík nöfn?
— Já, það er alveg geysilegur fjöldi af vörum á allri strandlengju Álftaneshrepps, sem áður var, — en Álftaneshreppur náði áður frá Kópavogi og suður fyrir Hraun, eða suður fyrir Lónakot og þá var Hafnarfjörður í Garðahreppi.
— En eru þessar varir ekki flestar horfnar nú?
—Jú, þær eru flestar horfnar, að ekki sé talað um hve mikið er horfið af notagildi þeirra, það er nær búið að vera. Þó er það til enn að þeir lenda í Pálsvör, Kotavör, Hlíðarvör, Hausastaðavör og Dysjavör úti í Garðahverfi. Úti á Álftanesi eru Hliðsvör, Eyvindarstaðavör, já krökt af vörum. Hjá Bessastöðum er vör við Búðaflöt.
Svo koma öll sundin, sem eru kennd við stað sem er fjarlægur, en heita svo af því að taka varð mið af staðnum — á fjarlægum stað. T. d. Valahnúkasund úti á Álftanesi, sem kemur til af því að Valahnúka — sem eru hér langt fyrir ofan Hafnarfjörð — ber í Bessastaðastofu. Eins er suður í Hraununum, þar eru allskonar varir frá Lambhaga, Straumi, Óttarsstöðum, Lónakoti og kotunum í kring. — Allt minnir þetta á sjósókn, og fjöldi þessara nafna ber atvinnuháttunum glöggt vitni — að hér hafa menn sótt sjóinn af miklu kappi.
bessastadir 1720— En er nú ekki fátt um verulega forn nöfn á þessu landsvæði?
— Þau eru nokkur allt frá söguöld; Hafnarfjörður, Hvaleyri, Eyvindarstaðir, Sviðholt, Hlið, allt munu þetta vera ævafom nöfn. Melshöfði mun líka gamalt nafn. Vífilstættur og Vífilsstaðir, en sá staður ber nafn Vífils húskarls Ingólfs Arnarsonar, er hafði fengið bústað þar.
— Eru Bessastaðir kannski nefndir eftir einhverjum húskarli?
Engin vitneskja er um Bessastaði eða Bessa þann ef sá staður er við kenndur, enda er þetta ekki mikil jörð, aðeins 9 hundraða, — En Garðar voru stór jörð, með öllum hjáleigunum í kringum sig.
Hæð er suður í Hraunum sem heitir Hafurbjarnarholt. Sú er sögn að Björn, son Gnúpa-Bárðar dreymdi að bergbúi kom og bauð honum að gera helmingafélag um bústofn, og Björn gekk að því. Eftir það virtist sem tvö væru höfuð á hverri skepnu svo Björn varð fjárríkasti maður hér á nesinu og átti hafra ágæta og því kallaður hafur-Björn.
hafurbjarnaholt-221Hafur-Bjarnarstaðir eru í Garði og Hafur-Bjarnarholt í Hraununum — og má líklega telja að báðir þessir staðir séu kenndir við áðurnefndan Hafur-Björn.
Hafur-Björn og þeir feðgar tóku sér land frá Selvogi og allt út á nes. Þeir voru miklir menn og greindir og frá þeim er t.d. kominn Skafti Þóroddsson lögsögumaður. Bárður, faðir þeirra bræðra, Björns, Gnúps, Þórðar og Þorsteins hröklast austan úr Skaftafellssýslu undan gosi, þá orðinn gamall maður. Gnúpur setst að á Gnúpi, — er síðar hverfur undir Ögmundarhraun, Björn verður mikill fjárbóndi hér á skaganum og Þórður og Þorsteinn setjast að í Grindavík. Við Þórð þenna mun Þórðarfell kennt, en ég kannast ekki við neitt örnefni sem kennt er við Þorstein.
Þá, eins og gefur að skilja með þessu umhverfi hér, verða nöfn dregin af hrauni gífurlega mörg. Stærstu svæðin af því tagi eru Garðahraun, sem nú er kallað Hafnarfjarðarhraun, og Almenningur, sem nær frá Ásfjalli allt suður fyrir Hvassahraun, og jafnvel að Almenningur hafi náð yfir stærra svæði fyrrum, en það var skógarsvæði og þangað var sóttur skógviður til kolagerðar af öllum Suðurnesjum.
— Þú ætlar þó ekki að segja mér að hraunin hér fyrir ofan og sunnan hafi verið vaxin þeim skógi að byggðin á ströndinni sækti þangað eldsneyti sitt?
almenningur-221— Jú, en það var gengið á hann þar til hann þraut, en samt er birkikjarr þarna enn, og það hefur dafnað mikið, því miklu minna hefur verið beitt þarna en áður — og engin hrísla tekin til eldiviðar. Menn sem voru kunnugir í Hraununum áður segja að skógarkjarrið hafi breiðzt ótrúlega út á síðustu árum. Skógarsvæðin hér í hrauninu fyrir sunnan voru kölluð almenningur, því þangað sóttu allir eldivið, en svæðið þar sem Heiðmörk er nú var þá kallað Kóngsskógur, eftir að konungur hafði lagt undir sig flestar jarðir á þessu svæði, ásamt Viðey og Reykjavík. Á 16. öld tók kóngur Reykjavík af einum afkomanda Ingólfs Arnarsonar, og saga er til um það að hann hafi grátið þegar hann hafði látið jörðina af hendi.
Þegar kemur upp fyrir Hraunabæina taka við nöfn, eins og Skjól, þau eru í ótölulegum grúa, — það eru fjárskjólin, þar sem sauðfé gat leitað afdreps í illviðrum. Þarna eru mannvirki, sum e.t.v. allt frá landnámstíð, en það eru upphleðslur fyrir þessi skjól og fyrir hella. Í þessum skjólum í skútum og hellum er hvarvetna mikið tað. Á þessu svæði eru líka nokkrar fjárborgir: Óttarstaðaborg, — Kristínarborg, kölluð svo eftir Kristínu Sveinsdóttur húsfreyju á Óttarsstöðum um 1860—1870, mjög merkileg kona. Borg þessa hlóð hún um vetrartíma ásamt vinnumanni sínum. Þá er Þorbjarnarstaðaborgin, sem er hringborg og hefur átt að hlaðast upp í topp — þess vegna er stöpull í henni miðri sem átt hefur að bera uppi þakið. Ennfremur eru Kaldárselsborgin, Vatnsendaborgin og Hólmsborgin. Suður á etröndinni er enn ein borgin, stærst af þeim öllum. Víða eru hleðslur þar sem byrjað hefur verið á borgum en hætt við þær af einhverjum ástæðum.
straumssel-221Svo eru það selin; þau eru nokkuð mörg. Syðst er Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumssel, Fornasel, sem er austur við skógargirðinguna, Gjásel, sem er inni í girðingu Skógræktarinnar, — og það nafnkunnasta: Kaldársel.
— Hvernig var hægt að hafa í seli í vatnslausum hraununum?
— Það einkennilega er að við þessi sel eru allstaðar vatnsstæði, þannig að á þessum stöðum þraut ekki vatn.
— Var þar nema regnvatn í smáholum?
— Vatnið er 1 skálum, hálfgerðum brunnum og 1—2 fet niður að því og vatnið 1—2 fet á dýpt. Það er ótrúlegt að þetta sé uppistöðuvatn, það hlýtur að renna einhversstaðar að — en hvaðan?
Gvenndarbrunnur er við gamla veginn fyrir ofan Óttarsstaði — hálfur í Óttarsstaðalandi, hálfur í Straumslandi.
— Er hann ekki óttaleg hola?
— Heldur er hann lítill, en nægilegur til þess að fénaður og vegfarendur gátu náð þar í vatn að drekka. Gvendarbrunnur er einnig í Arnarnesi, að ógleymdum Gvendarbrunni sem Reykvíkingar fá vatn sitt frá.
Og úr því við erum farnir að tala um vatn er rétt að geta þess, að á Hraunabæjunum þraut aldrei vatn, því í lónunum og Straumsvíkinni fékkst alltaf ferskt vatn, það kemur svo mikið af fersku vatni undan hrauninu.
— Segðu mér, Gísli, hve stórt svæði er það sem þú hefur safnað örnefnum á?
— Ég hef tekið fyrir hinn forna Álftaneshrepp.
— Ég er litlu nær fyrir það svar.
lonakot-221— Arnarnes er austasti bærinn í hreppnum og mörkin liggja við Kópavog suður um Rjúpnahæð, Kjóavelli, Sandahlíð, Arnarbæli, Húsafell og þaðan beina leið í Kóngsfell og þar eru sýslumörkin milli Gullbringu- Kjósar- og Árnessýslna.
Að vestan eru mörkin frá Lónakoti, þ. e. frá Hraunsnesi niðri við sjó, upp um Búðarvatnsstæði í Markhelluhól, en þar mætast lönd Óttarsstaða, Hvassahrauns og Krýsuvíkur. Frá Markhelluhól á Lönguhlíð við Kerlingargil, sem er Alftanesmegin, og þaðan yfir Lönguhlíðarfjall í Litla-Kóngsfell, og þar eru sýslumörk.
— Hefur nokkur kóngur prílað upp á þessi fell?
—Fráleitt, — nöfnin eru sennilega frá því að kóngur eignaðist allar jarðir hér í Álftaneshreppl, nema þær sem Garðakirkja hélt, — og einu jörðina sem aldrei lenti í klóm kirkju né kóngs, en það er Setberg, eina jörðin í hreppnum sem hefur verið bændaeign frá upphafi vega til þessa dags.
— Hvernig stóð á því að þú lagðir í svo mikið og tímafrekt verk?
— Þetta hófst með því að ég fór að safna gögnum varðandi frásagnir um Hafnarfjörð, það var um 1950, og tók þá að sjálfsögðu með upplýsingar um nágrennið.
— Hvernig vannstu að söfnuninni?
— Eg var svo heppinn að hitta fyrir ágæta menn, sem vildu bæði fórna tíma og fróðleik sínum um eitt og annað og ber fyrst að nefna Gústaf Sigurðsson, kenndan við „Eyðikotið” í Hraunum, en þar ólst hann upp. Ég leitaði einnig upplýsinga hjá öðrum þeim sem fæddir voru á Hraunabæjunum en höfðu flutzt burt. Á Álftanesi leitaði ég til manna upprunninna þar. Þegar kom upp um landið og til fjalls varð Ólafur Þorvaldsson þingvörður mér drýgstur, og siðast en ekki sízt Guðbjörg Guðmundsdóttir frá Urriðakoti og maður hennar, Páll Kjartansson, er bæði fræddu mig um Setbergs-, Vífilsstaða- og Urriðakotslönd, kirkjulandið, þ. e. upprekstrarland Garðakirkju, Bessastaða og Álftaness. Ólafur Þorvaldsson er fæddur í Ási og fólk hans verið í hreppnum frá því um 1800 og hann hafði fræðslu margra kynslóða. Jófríðarstaðabræður, Þorvarður og Arnór Þorvarðarsynir fræddu mig mikið um Jófríðarstaði — þ. e. Ófriðarstaði.
— Höfðu engir safnað örnefnum á þessu svæði?
thorbjarnastadir-stekkur— Ari Gíslason fór hér um og ég gat minnt hann á margt. En eftir að hann hafði farið hér um varð ég þess var að margt hafði gleymzt svo ég fór í örnefnaeftirleit og þegar ég hafði safnað töluverðu setti ég mig í samband við Kristján Eldjárn, er hefur yfirumsjón með örnefnasöfnun á landinu og hvatti hann mig eindregið til að vinna að þessu.
Þó að mér væru sögð nöfn á ýmsum stöðum var mér það ekki nóg, heldur varð ég að ganga á örnefnin, — og það eru held ég mjög fá örnefni nú sem ég veit ekki hvar eru í Alftaneshreppi hinum forna. Sum nöfn í þessari skrá minni er hvergi að finna nema í Íslenzku fornbréfasafni og hef ég leitað bæði í annálum og fornbréfasafninu að örnefnum sem voru horfin, en sem hægt var að staðsetja vegna þess að þeim var lýst þannig í afstöðu til annarra örnefna þekktra. — Í þessu sambandi má það ekki gleymast að þeir Björn Þorsteinsson sagnfræðingur og Magnús Már Lárusson prófessor hafa báðir hvatt mig og aðstoðað í þessu verki.
Einn þátturinn í þessari skrá eru nöfn á öllum bæjum búðum og kotum, og þau eru 660—700.
Rembihnútinn rak ég svo á þetta með því að taka upp öll mið sem róið var á frá Álftanesi, Garðahverfi, Hafnarfirði og Hraunum, bæði til hrognkelsaveiða og annarra veiða. Gísli Guðmundsson á Hellu hjálpaði mér mest með mið Hafnfirðinga en um fiskimið Alftnesinga hef ég stuðzt mest við Erlend gamla á Breiðabólstað, og bók hans Sjósókn.
— Eru ekki misjafnlega mörg örnefni á jörðunum gömlu?
— Jú, í Arnarnesi eru þau 57, Lónakoti 79, Óttarsstöðum 225, Þorbjarnarstöðum 278, Garðahverfi 282, á Bessastöðum 50.
— Nokkur sérkennileg?
— J á , t.d. Steinhes, yngra nafn Steinhús, þar sem saman koma jarðir Áss, Jófríðarstaða, Hamarskots og Garðakirkju. Í gömlum bréfum er þessi staður nefndur Steinhes.
— Verða örnefnin merkt á kort?
— Á loftmynd sem ég fékk hjá Ágústi Böðvarssyni landmælingamanni hef ég merkt margt af örnefnum, svo fróðleiksfúsir menn eiga síðar að geta gengið á þau. Miðin ætla þeir hjá Sjómælingum og Vitamálastjórninni að draga á kort.
— Hve mörg örnefni eru þetta samtals?
— Þau eru um 4400.
— Og enn höfum við lítið minnzt á Hafnarfjörð, — eigum við að gera það seinna?
— Já, við verðum að fresta því að sinni. -J . B .”

Heimild:
-Sunnudagur, fylgrit Þjóðviljans, 5. árg. 1965, 17. tbl., bls. 194-196 og 202.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.