Eftirfarandi um Reykjanesvita – „Fyrsta vita á Íslandi „- er eftir Skúla Magnússon og birtist í Sjámannablaðinu Víkingi árið 1973:
„Á þessu ári eru liðin 95 ár síðan kveikt var á fyrsta vita landsins, Reykjanesvitanum gamla, nánar tiltekið 1. desember 1878. Mun ég hér á eftir skýra nokkuð frá vitabyggingunni og starfrækslu þess fyrsta vita. Einnig verður greint frá fyrsta vitaverði á Reykjanesi, sem jafnframt varð upphafsmaður að þessari mjög svo þörfu stétt manna. Heimilda um þessi efni er að leita í eftirfarandi ritum: Um vitavörðinn, febrúarblað Faxa 1963 (útg. í Keflavík), grein eftir Mörtu V. Jónsdótur ættfræðing. Um vitann og byggingu hans: Saga Íslendinga IX., 1. bindi bls. 218—219, Ísafold 26. okt. 1878 og 14. sept. 1895. (Um vitavörðinn sjá jafnframt í „Ægir“ sept. blaði 1914).
Fyrsti vitavörður þessa lands var Arnbjörn Ólafsson, síðar kaup- og útgerðarmaður í Keflavík. Hann fæddist að Árgilsstöðum í Hvolhreppi 24. maí árið 1849, en ólst upp hjá afa sínum og ömmu, Arnbirni og Guðríði. Á yngri árum sínum flutti hann til Reykjavíkur og lærði þar trésmíði. Stundaði hann þá iðn, ásamt mörgu fleiru um margra ára skeið. Sama ár og vitinn var tekinn í notkun, 1878, flutti Arnbjörn sig suður á Reykjanes og varð umsjónarmaður með vitaljósinu. Hélt hann þeim starfa til ársins 1884, er hann flutti til Reykjavíkur, og stundaði þar verzlun um nokkur ár. Árið 1891 settist svo Arnbjörn að í Keflavík og dvaldist þar til dauðadags. Þar setti hann upp brauðgerðarhús, hið fyrsta á Suðurnesjum. Marta getur þess að hann hafi sjálfur verið bakari en stundað þá iðn mjög lítið. Hingað til Keflavíkur hafði hann með sér tvo menn, sem munu hafa unnið í bakaríinu, þá Magnús Erlendsson bakarameistara, og Eyjólf Teitsson, er var nemi.
Arnbjörn byggði sér hús sunnarlega í Keflavík, sem þá var lítið þorp með innan við 300 íbúa. Var húsið fljótlega nefnt „Bakaríið“ og er svo kallað enn í dag af gömlum Keflvíkingum. Það stendur við Hafnargötuna, skammt frá hinum gömlu mörkum Keflavíkurjarðarinnar og Njarðvíkurlands, þó innan lands Njarðvíkinga. Bökunarofnar voru í kjallaranum, þá hlóð Símon Eiríksson, steinsmiður, sem kom mjög við sögu í Keflavík um og eftir aldamótin 1900, var hann hinn mesti völundur í hleðslu, eins og handverk hans sem enn sjást, bera vott um. Útgerð hafði Arnbjörn alltaf, hann gerði út áraskip, vélbáta (meðal stofnenda hlutafélagsins „Vísi“, sem gerði út vélbátinn „Júlíus“, hinn fyrsta sinnar tegundar er til Keflavíkur kom. Það var 1908) og togarann Coot sem hann var einn af eigendum að (1904). Lengi vel var Arnbjörn formaður fyrir skipi sínu, en síðar var það Guðmundur á Hæðarenda í Keflavík, sem eldri Keflvíkingar kannast við. Jafnframt þessu hafði Arnbjörn verzlun og átti pakkhús niður við sjóinn í suðvestur krika Keflavíkur, var það ætíð kallað „Arnbjarnarpakkhús“. Ennfremur fylgdi húsunum allstórt tún, sem kennt var við eiganda sinn, það er nú fyrir löngu komið undir götur og hús. Þar var Hafnargatan, sem nú er aðalgata umiferðar og verzlunar í Keflavík, lögð yfir árið 1912. Þann 5. júlí 1879 kvæntist Arnbjörn ungfrú Þórunni Bjarnadóttur, systur síra Þorkels á Reynivöllum í Kjós. Þau eignuðust tvö börn, annað misstu þau, en hitt komst upp, það er Ólafur Jón, sem varð kaupmaður í Keflavík eftir föður sinn (f. í R.vík 1885, d. í K.vík 1941). Hans kona var Guðrún Einarsdóttir útvegsbónda í Sandgerði, Sveinbjarnarsonar. Hún lézt fyrir fáum árum og hafði þá ásamt börnum sínum rekið skóverzlun í Bakaríinu. Auk þess ólu þau Arnbjörn og Þórunn upp stúlku, Jónínu Guðlaugu Sigurjónsdóttur, ættaða af Vatnsleysuströnd. Hún fluttist til Khafnar og bar þar beinin 1935.
Arnbjörn Ólafsson tók mikinn þátt í menningar- og framfaramálum í Keflavík, sat m.a.í skólanefnd og hreppsnefnd (þá er átt við hreppsn. Njarðvíkurhrepps gamla, sem 1908 var sameinaður Keflavíkurkauptúni). Hann lézt í Kaupmannahöfn á ferð heim frá fiskiráðstefnu í Bergen 30. júlí 1914, en þangað fór hann fyrir Fiskifélagið, sem þá var nýlega stofnað.
Gamli Reykjanesvitinn.
Eftirfarandi segir um Arnbjörn í Ægi 1914 (minningargrein): „Hann var hár maður vexti og vel limaður, gæfulegur og góðmannlegur á svip með greindarlegt yfirbragð, enda var hann maður vel greindur og vel að sér í ýmsum fræðum og tók allmikinn þátt í almennum málum. Hann var einkar dagfarsprúður, vinfastur, ráðhollur og hjálpsamur öllum þeim, sem leituðu til hans, gestrisinn og mjög skemmtilegur í viðræðum. Hann ávann sér því bæði vináttu og virðingu hinna mörgu bæði innlendra og útlendra, sem kynntust honum. Hann var búsýslumaður mikill, einkum í öllu er að fiskveiðum lýtur, og í hinum margbreyttu störfum, sem hann hafði með höndum til sjós og lands, sýndi hann bæði kapp, ráðkænsku og dugnað og framúrskarandi rósemi og úrræði. Kom það m.a. í ljós, þegar hann fyrir allmörgum árum síðan bjargaði heilli skipshöfn af enskum botnvörpungi frá drukknun „fyrir Söndunum“. Sæmdi útgerðarfélag botnvörpungsins hann með skrautrituðu þakkarávarpi og mjög vönduðu gullúri fyrir hans bjargráð, enda hafði skipstjórinn talið víst, að öll skipshöfnin hefði farist, ef Arnbjörn hefði ekki verið þar innanborðs, og lagt á ráðin, hvernig öllu skyldi haga, er skipið var strandað. Hann var jafnrólegur þó hann horfði í augun á dauðanum, og kjarkurinn óbilandi. Hann var gæfumaður og heppnaðist allt sem hann tók sér fyrir hendur, hann virtist jafnvígur á allt. En ég hygg að hann hafi lagt mestan hug á fiskveiðar og vildi afla sér sem mestrar þekkingar á öllu því, er laut að þeirri grein.
Reykjanesvitinn á Valahnúk.
Arnbjörn var frjálslyndur í skoðunum sínum og ættjarðarvinur mikill, fylgdi hann jafnan þeim flokki stjórnmálamanna, sem djarflegast börðust fyrir frelsi og sjálfstæði lands vors, og var góður og einbeittur liðsmaður í þeim hóp. Hann hataði kúgun, áþján og öll óeðlileg bönd hverju nafni sem nefnast, og sömuleiðis óhreinlyndi og ódrengskap, enda var hann sjálfur hreinskilinn, og jafnframt því gætinn í orðum og drengur góður“ Meðan hann var vitavörður átti hann sæti í Hreppsnefnd Hafnahrepps, og var jafnframt hreppsstjóri. Eiginkona Arnbjörns lézt að heimili þeirra í júlí árið 1912.
Byrjað á vitabyggingunni Sumarið 1878 var byrjað á byggingu vitans á Reykjanesi. Borgaði ríkissjóður Dana ljóskerið, kr. 12.000,00, en landssjóður Íslands allt annað. Árið 1875 hafði alþingi ritað konungi „allraþegnsamlegast ávarp um að hans hátign allramildilegast vildi sjá svo fyrir, að fé yrði veitt úr ríkissjóði til vitagjörðar á Reykjanesi m.m.“, þar sem vitagerðir heyrðu undir flotamálaráðuneyti Dana og þar með til sameiginlegra mála ríkisins, en ekki hinna sérstöku mála Íslands eftir „stöðulögunum“. Ekki gat þó stjórnin aðhyllzt þá skoðun, en veitti fé til kaupa á sjálfu ljóskerinu með speglum og fleira, sem tilheyrir.
Upplýsingaskilti við Valahnúk.
Aftur var vitamálið tekið fyrir á næsta alþingi, 1877, en þá voru þing haldin annað hvert ár. Veitti alþingi þá til vitagerðarinnar kr. 14.000, samkvæmt áætlun frá þar til kjörnum verkfræðingi, A. Rothe, er hingað hafði verið sendur þá um vorið til að rannsaka vitastæðið, gera kostnaðaráætlun o.fl. vitanum aðlútandi, Rothe stóð síðan fyrir byggingunni, en ekki kom áætlun hans betur heim en svo, að kostnaðurinn varð kr. 22.000,00 og fór þannig langt fram úr áætlun. Ísafold segir svo: „Verkstjóri við vitahleðsluna var Luders, múrarameistari, sem hér dvaldi síðan mörg ár á eftir. Hann fékk góðan orðstír almennings, en Rothe miður. Sagði Luders svo, að sú sérvizkufirra hins, að hafa turninn hlaðinn í átthyrning, hefði hleypt kostnaðinum fram um helming. Sívala turna eða ferhyrnda hefði mátt hlaða tvo fyrir sama verð“.
Miklir erfiðleikar fylgdu byggingu vitans, eins og eðlilegt var, voru erfiðleikar margir og miklir við bygginguna. Rothe ætlaðist fyrst til að haft yrði hraungrýti í hleðsluna, sem nóg var af, en það var óvinnandi. Luders var svo heppinn að finna mikið af grásteini niður við fjöruborð undir hraunsnös, á að gizka 1-200 faðma fyrir norðan Valahnjúk (þar sem vitinn var reistur). Það grjót mátti kljúfa og höggva að vild. En síðan varð að bera það allt á handbörum að rótum hnjúksins og síðan upp á hann. Var það eins og nærri má geta bæði erfitt verk og seinlegt.
Ísafold gerir lítið úr Rothe verkfræðingi, og segir að almenningi hafi mjög lítið þótt til hans koma. Er eftirfarandi saga sögð því til sönnunar: „Til merkis um, hvað almenningi þótti lítið til „mannvirkjafræðingsins“ koma, er þar í frásögur fært, að þegar að því kom að á vatni þurfi að halda í kalkið og sementið, til turnhleðslunnar, vantaði fötur til að bera það í upp á hnjúkinn frá vatnsbóli því, er loks hafði fundist góðan spöl fyrir neðan hann, eftir mikla leit og margar árangurslausar tilraunir til brunngraftar, sumar næsta fákænlegar, að sumum þótti.
Reykjanesviti á Valahnúk.
Brá þá mannvirkjafræðingurinn sjálfur við, og lagði af stað inn til Reykjavíkur að útvega föturnar. Segir ekki af þeirri ferð fyrr en hann á heimleiðinni aftur, er kominn suður undir Bæjarfell, fyrir ofan bæ vitavarðar. Þá minntist hann þess, að hann hefir steingleymt erindinu, hann hafði skemmt sér svo vel í Reykjavík, að þar komst engin vatnsfötuhugsun að. Eftir hæfilega hvíld leggur hann síðan af stað aðra ferð til höfuðstaðarinss. Þá er þess getið að hann hittist einhvern dag í fögru veðri í barnaleik suður á melum með sonum landshöfðingja (H. Einssen). Það var Grímur Thomsen, sem rak sig þar á hann og hjalaði við hann lítilsháttar, fann síðan landshöfðingja að máli og hafði orð á því, að betur mundi fara á, að mannvirkjafræðingurinn“ væri við starf sitt suður á Reykjanesi úr því að Landssjóður gyldi honum afarhátt kaup daglega. Verður niðurstaðan sú, að Rothe sást vonbráðar aftur syðra, í mjög slæmu skapi og hábölvandi Grími þeim, en — fötulaus. En í þriðju ferðinni höfðust svo föturnar. Varð þá turnhleðslan að bíða á meðan, í margar vikur? Nei, menn björguðust við naglakassa, kíttuðu þá og þéttu og báru vatnið í þeim“. Í sjálfum byggingarkostnaðinum var innifalið verð á íveruhúsi handa vitaverði og fjölskyldu hans. Því var spáð í Ísafold árið 1870, að þetta hús, sem var torfbær, myndi ekki standa í 10 ár, sakir þess hve óvandað það var og illa frá því gengið. Þetta rættist.
Þegar Ísafoldar-Björn skrifaði um Reykjanesvitann 1895, er búið að byggja þar timburhús, og þó tvö heldur en eitt, járnvarin, góð híbýli og myndarleg nú orðin, enda hefur talsverðu verið kostað til þeirra síðan. Íbúðarhúsin stóðu þá eins og nú, sunnan undir Bæjarfelli, sem núverandi viti stendur á.
Vitagjaldið
Vagnvegur að Reykjanesvita frá Grindavík.
Landssjóður Íslands átti að sjá um reksturinn á vitanum, og var með lögum 1879 lagt vitagjald á skip þau, sem fóru framhjá Reykjanesi, 20 aurar á smálest, ef skip leitaði hafnar við Faxaflóa, en annars 15 aurar. Herskip og skemmtiskútur voru undanþegin gjaldi. Þá er komið að lýsingu á sjálfu vitahúsinu og því sem það hafði að geyma. Er hún tekin hér orðrétt úr Ísafold frá 1895: „Reykjanesvitinn stendur yzt á suðurtá Reykjanesskaga, á dálitlum hnjúk rétt við sjóinn, er nefnist Valahnjúkur, og er beint undan landi. Framan í hnjúknum er þverhnípt berg í sjó niður og hallar töluvert upp frá brúninni. Nokkra faðma frá henni stendur vitinn, þar í hallanum. Það er turn, hlaðinn í átthyrning, úr íslenzkum grásteini, höggnum og steinlími, rúml. 22 feta hár, og 6—7 fet á vídd (að þvermáli) að innan, veggimir rúm 4 fet á þykkt nema helmingi þynnri ofan til, þar sem ljóskerið stendur, enda víddin þar meiri. Ljóskerið er áttstrent, eins og turninn, rúm 8 fet á vídd, og 9—10 á hæð upp í koparhvelfinguna yfir því. Það er ekki annað en járngrind, húsgrind, með stórum tvöf öldum glerrúðum í, sem eru nálægt alin í ferhyrning, afarsterkum og þykkum, 6 á hverri af 7 hliðum átthyrningsins — eins og 6 rúðugluggar — en engri á hinni áttundu, þeirri er uppá land veit. Þar utanyfir er svo riðið net af málmþræði, til varnar gegn fuglum, og er manngengt á milli þess og ljósskersins. En innan í holspeglum (sporbaugaspeglum) úr látúni, fagurskyggðum, 21 þuml. að þvermáli, er þeim raðað 2 og 3 hverjum upp af öðrum á járnsúlnagrind hringinn í kring, nema á sjöttung umferðarinnar, þann er upp að landi veit. Verður svo mikið ljósmagn af þessum útbúnaði, að sér nærri 5 vikur sjávar undan landi, enda ber 175 yfir sjávarmáli.
Tvíloftaður turn
Brunnur við Reykjanesvita.
Turninn er tvíloftaður fyrir neðan ljóskerið, og eru þar vistarverur fyrir vitagæzlumennina, með ofni, rúmi, sem neglt er neðan í loftið m. m. Tvöfaldir gluggar litlir eru á þeim herbergjum, 2 á hvoru. Allt er mjög rammgert, hurðir og gluggaumbúnaður o.fl., og veitir ekki af, því fast knýr Kári þar á dyr stundum, t.d. í veðrinu mikla milli jóla og lýárs í vetur sem leið, þeytti þá ekki einungis sandi úr fellinu, heldur allstórum steinum upp um vitann og bæði inn um turngluggana tvöfalda og eins í ljóskersrúðurnar í gegnum málmþráðarnetið og mölvaði þær, þótt sterkar væru.
Tveir menn eru í vitanum á hverri nóttu allan þann tíma árs, er á honum logar, sem er frá 1. ágúst til 15. maí. Bústaður vitavarðar er sem sé dálitla bæjarleið frá vitanum, fulla 60 faðma. Gæzlumenn slökkva á vitanum hálfri stundu fyrir sólaruppkomu. Tveim stundum þar á eftir skal byrjað á dagvinnunni, en hún er í því fólgin að hreinsa og fægja vandlega lampana og speglana, láta á þá olíu, taka skar af kveikjunum og yfirhöfuð undirbúa allt sem bezt undir kveikinguna að kvöldinu. Sömuleiðis að fægja ljóskersrúðurnar og önnur áhöld sem brúkuð eru. Með því að allbratt er uppgöngu að vitanum og veðrasamt mjög þar, hefur verið lagður öflugur strengur úr margþættum málmþræði meðfram veginum til að halda sér í, og hafðar járnstoðir undir. Upp þann stíg er og borin steinolía og annað, sem til vitans þarf, úr geymsluklefa fyrir neðan hnjúkinn“.
Þegar þetta er ritað, 1895, var vitavörður á Reykjanesi Jón Gunnlaugsson. Hefði hann og Arnbjörn Ólafsson lagt mikið í túnrækt heima við vitavarðarbústaðinn, en samt gat bústofn vart kallast mikill: 1 kýr og 2—3 hestar, sem varð að fá hey fyrir annars staðar. Slægjur voru engar. Eftirfarandi menn hafa verið vitaverðir á Reykjanesi síðan: Jón Gunnlaugsson sem lézt þar 23. okt. 1902, en þá sat ekkja hans þar eitt ár unz hún flutti til Reykjavíkur. Hún hét Sigurveig Jóhannsdóttir.
Vitaverðir á Reykjanesi
Reykjanesviti á Valahnúk.
3. Þórður Þórðarson 1902—1903.
4. Jón Helgason, áður vitavörður á Garðskaga, 1903—1915, síðar bóndi á Stað í Grindavík. Kona hans: Agnes Gamalíelsdóttir.
5. Vigfús Sigurðsson (Grænlandsfari í leiðangri dr. Wegeners) 1915—1925. Kona hans: Guðbjörg Árnadóttir.
6. ólafur Pétur Sveinsson, 1925—1930.
7. Jón Ágúst Guðmundsson, 1930 til dauðadags, 11. ágúst 1938.
8. Kristín Guðmundsdóttir, ekkja Jóns Ágústs, 1938—1943.
9. Einar Jónsson, sonur Jóns og Kristínar 1943—1947. Hafði gengt vitavarðarstarfinu frá andláti föður síns, en á ábyrgð móður sinnar til 1943.
10. Sigurjón Ólafsson frá 1947 og síðan.
Reykjanesviti.
Auðvitað höfðu allir vitaverðir vinnumenn eða aðstoðarmenn, sem voru þeirra önnur hönd við vitavarðarstarfið því oft hefur þurft að hafa sig allan við er napur vindur næddi og ýlfraði um vitann. (Ofangreind upptalning er úr apríl-blaði Faxa 1962 frá Mörtu V. Jónsdóttur).
Reykjanesvitinn sýndi það glögglega, hve mikils virði var að hafa Ijós fyrir sjófarendur á yztu nesjum, en reynslan um viðhald og kostnað hefur sennilega dregið allan framkvæmdahug úr mönnum, svo nokkur tími leið þar til næst var komið upp ljósi fyrir sæfarendur. Var rekstri vitans á Reykjanesi í mörgu ábótavant og fór í ólestur. „Var og lítil þekking á því hvernig hreinsa skyldi hin margbrotnu gler og annað“, segir í Sögu Íslands. Árið 1887 eyðilagðist ljósabúnaður vitans í miklum jarðskjálfta er þá gekk yfir. Og 1896 var vitinn farinn að lýsa mjög illa, og var hingað til þess að athuga hvað gera skyldi. „Þótti honum sem lítið gagn væri í að setja upp góða og dýra vita ef ekki væri séð um að hafa kunnáttumenn við reksturinn. Gegn loforði um, að séð skyldi fyrir því, var hafizt handa um að setja ný ljós í Reykjanesvitann, rannsaka hvar á landinu væri mest þörf á vitum og loks að reisa fyrstu vitana. Voru settir vitar á Garðskaga (1884 hafði verið sett þar upp ljósmerki) og Gróttu, en lengra komust þau mál ekki fyrr en gerð var áætlun, 1905, um 7 nýja vita“. Má hér glöggt greina þann fjörkipp er vitabyggingar taka við komu heimastjórnarinnar 1904.“ – Keflavík, 11. nóv. 1973. Skúli Magnússon.
Heimild:
-Sjómannablaðið Víkingur, 35. árg. 1973, 11.-12. tbl., bls. 359-361 og 384-385.
Við Reykjanesvita – uppdráttur ÓSÁ.