Gengið var um suðvestanvert Bæjarfellið sunnan Vatnsfells á Reykjanesi og litið í fallegan brunn er hlaðinn er úr „betons“grjóti upp á dönsku.
Hann er sérstakur að því leyti að gengið er inn í hann til að sækja vatn, en ekki bara horft ofan í vatnsaugað eins og algengara var. Segja má að þessi brunnur hafi verið forveri fölmargra annarra er á eftir komu víðar um Reykjanesskagann. Brunnurinn var byggður á sama tíma og (gamla) vitavarðarhúsið, þ.e. þegar fyrsti vitinn hér á landi var reistur á Valahnúk (1879). Næstu brunnar voru grafnir og hlaðnir við helstu kirkjustaðina og síðan við hvern bæinn á eftir öðrum. Flesta þeirra má sjá enn þann dag í dag. Þeir voru reyndar sumir fylltir eða fyrirbyggðir eftir miðja 20. öldina þegar vatnsleiðslur höfðu verið lagðar í hús svæðisfólksins, en enn má berja marga þeirra augum.
Tóftir fyrrum útihúsa fyrrum vitavarðar á ystu mörkum Reykjanessins eru skammt frá brunninum. Vitinn sjálfur var hlaðinn úr tilhöggnu grjóti þarna skammt frá, sem dregið var upp á Valahnúk og raðað þar vandlega saman eftir fínni teikningu. Mannvirkið átti að standa um aldur og ævi, en 8 eða 9 árum seinna gerði mikla jarðskjálfta og mynduðust þá þrjár stórar sprungur í bergið skammt frá honum. Bær vitavarðarins skemmdist í jarðskjálftunum og enn meira rask varð á jörðu og öðrum mannvirkjum. Var annar viti byggður á Vatnsfelli (Grasfelli), síðar nefnt Bæjarfell, þar sem hann er nú, á árunum 1907-1908.
Skammt undan landi trónar 52 m hár móbergsdrangur úr sjó. Heitir sá Karl. Sjá má þverhnípta klettaeyju (77 m.y.s.) 8 sjómílur utan af Reykjanesi. Eldey er mynduð úr móbergi og er 0,03 km2. Hún er innsta skerið í skerjaklasa miklum. Annað sker, Geirfuglasker, er skammt undan. Þar voru síðustu höfuðstöðvar geirfuglsins, Sothbysuppboðsvæna, en skerið sökk að mestu í eldsumbrotunum 1830. Í Eldey er mesta súlubyggð sem þekkist í heiminum og er eyjan jafnan þakin súlum. Súludans er þar algengur, einkum fyrir varptímann. Við talningu, sem gerð var 1949, var fjöldi súlna þar talin um 70 þúsund.
Fuglinn hefur hins vegar ekki verið talinn þar á síðari árum, a.m.k. ekki fugl fyrir fugl. Drangarnir voru baðaðir sól.
Gengið var eftir flóraðri „vitagötunni“ að Valahnúk. Undir honum má sjá leifar af vitanum, fast við grjóthlaðið hesthús. Gengið var á Valahnúk, skoðað gerðið, sem áður stóð neðan og til hliðar við gamla vitann. Gott útsýni yfir umhverfið (tækifærið notað og uppdráttur gerður af svæðinu). Hægur andvari var og 8 gráðu hiti. Gengið með austanverðum Valahnúk og litið upp í draugahellir þann er svo rammlega er fjallað um í Rauðskinnu. Þeir, sem þar gistu að næturlagi eftir rekasögun, eru sagðir aldrei hafa orðið samir á eftir – sjá meira HÉR.
Frá hellinum var gengið austur yfir að gamalli volgrusundlaug Grindvíkinga í Valbjargargjá (Saga Grindavíkur). Elstu núlifandi grindjánar (innfæddir) lærðu sína sundfimi í þessari laug – syntu bakka á millum. Hún er hlaðin utan um vermslagjá og þótti allvelboðleg á þeim tíma. Laugin er innan túngarðs.
Lagt var á misgengið eftir að hafa litið á hlaðið skjól refaskyttu neðan við Keldutjarnir. Olíuskipið Clam strandaði undan ströndinni skammt austan við hamravegginn 28. febr. 1950, á stað, sem nefndur var Kirkjuvogsbás (Suður með sjó – leiðsögn um Suðurnes). Það var um tíu þúsund smálesta olíuskip með 54 manna áhöfn. Tuttugu og sjö úr áhöfninni, bretar og kínverjar, drukknuðu, en öðrum var bjargað.
Gengið var austur með ströndinni að Blásíðubás. Básinn er í senn bæði falleg og hrikaleg Ægissmíð (sjá mynd í Grindavíkurbókinni). Í fárvirði 24. mars 1916 hleypti Einar Einarsson frá Merki í Staðarhverfi, þar upp skipi sínu. Áhöfnin, 11 manns, bjargaðist, en skipið brotnaði í spón. Oftar mun básinn hafa bjargað sjómönnum í vanda.
Áð var við vitann (byggður 1970 – áletrun), sem þar er á bjargbrúninni. Skammt austan við hann er fallegur gatklettur undan bjarginu.
Allt er svæðið þarna mjög eldbrunnið og sundurskorið af gjám, enda snautt að gróðri, nema ef vera skyldi ofanvert Krossavíkur- og Hrafnkelsstaðabergið (borgin). Gamlar sagnir segja frá byggð þar fyrrum, en lítið hefur fundist af minjum. Ætlunin var að nota tækifærið og gaumgæfa það vel að þessu sinni, en engar slíkar fundust. Hins vegar fundust þrjú merkt greni (vörður).
Eldfjöll eru þarna mörg, en öll fremur lág. Þau eru einkum hraundyngjur, s.s. Skálafellið og Háleyjarbungan. Komið var við á hinu fyrrnefna og lóðrétt hellisopið var barið augum (BH-Hraunhellar á Íslandi). Á klöpp nálægt opinu er gömul áletrun í berginu (?RELDA). Forvitnilegt væri að grennslast meira fyrir um þetta.
Á Reykjanestánni er mikið hverasvæði, leirhverir og vatnshverir. Allt er landið þar sundurtætt af jarðeldum, gígum, leirpyttum, gufuhverum o.fl. Stærsti leirhverinn heitir Gunna. Um þann hver er til sú þjóðsaga að kona ein, sem Guðrún hét, hafi gengið aftur. Lék hún menn grátt, reið húsum og fældi fénað. Loks var galdraprestur nokkur fenginn til koma draugnum fyrir og gerði hann það í hver, sem síðan var nefnd Gunna. Við hverasvæðið eru gamlar minjar búsetu og byggðar. Þar er einnig mikið kríuvarp, en fuglinn sá kemur ekki á varpstað fyrr en líða tekur á þriðjungsbyrjun maímánaðar.
Gangan tók 1 og 1/2 klst. Frábært veður.