Tag Archive for: Reykjanesbær

Reykjanes

Gengið var um suðvestanvert Bæjarfellið sunnan Vatnsfells á Reykjanesi og litið í fallegan brunn er hlaðinn er úr „betons“grjóti upp á dönsku.

Skálafell

Áletrun við Skálabarmshelli.

Hann er sérstakur að því leyti að gengið er inn í hann til að sækja vatn, en ekki bara horft ofan í vatnsaugað eins og algengara var. Segja má að þessi brunnur hafi verið forveri fölmargra annarra er á eftir komu víðar um Reykjanesskagann. Brunnurinn var byggður á sama tíma og (gamla) vitavarðarhúsið, þ.e. þegar fyrsti vitinn hér á landi var reistur á Valahnúk (1879). Næstu brunnar voru grafnir og hlaðnir við helstu kirkjustaðina og síðan við hvern bæinn á eftir öðrum. Flesta þeirra má sjá enn þann dag í dag. Þeir voru reyndar sumir fylltir eða fyrirbyggðir eftir miðja 20. öldina þegar vatnsleiðslur höfðu verið lagðar í hús svæðisfólksins, en enn má berja marga þeirra augum.

Reykjanes

Reykjanes – brunnur.

Tóftir fyrrum útihúsa fyrrum vitavarðar á ystu mörkum Reykjanessins eru skammt frá brunninum. Vitinn sjálfur var hlaðinn úr tilhöggnu grjóti þarna skammt frá, sem dregið var upp á Valahnúk og raðað þar vandlega saman eftir fínni teikningu. Mannvirkið átti að standa um aldur og ævi, en 8 eða 9 árum seinna gerði mikla jarðskjálfta og mynduðust þá þrjár stórar sprungur í bergið skammt frá honum. Bær vitavarðarins skemmdist í jarðskjálftunum og enn meira rask varð á jörðu og öðrum mannvirkjum. Var annar viti byggður á Vatnsfelli (Grasfelli), síðar nefnt Bæjarfell, þar sem hann er nú, á árunum 1907-1908.

Reykjanes

Reykjanesviti á Vatnsfelli.

Skammt undan landi trónar 52 m hár móbergsdrangur úr sjó. Heitir sá Karl. Sjá má þverhnípta klettaeyju (77 m.y.s.) 8 sjómílur utan af Reykjanesi. Eldey er mynduð úr móbergi og er 0,03 km2. Hún er innsta skerið í skerjaklasa miklum. Annað sker, Geirfuglasker, er skammt undan. Þar voru síðustu höfuðstöðvar geirfuglsins, Sothbysuppboðsvæna, en skerið sökk að mestu í eldsumbrotunum 1830. Í Eldey er mesta súlubyggð sem þekkist í heiminum og er eyjan jafnan þakin súlum. Súludans er þar algengur, einkum fyrir varptímann. Við talningu, sem gerð var 1949, var fjöldi súlna þar talin um 70 þúsund.

Reykjanesviti

Flóruð gata milli vitavarðarhússins og Valahnúks, áleiðis að gamla vitanum.

Fuglinn hefur hins vegar ekki verið talinn þar á síðari árum, a.m.k. ekki fugl fyrir fugl. Drangarnir voru baðaðir sól.

Gengið var eftir flóraðri „vitagötunni“ að Valahnúk. Undir honum má sjá leifar af vitanum, fast við grjóthlaðið hesthús. Gengið var á Valahnúk, skoðað gerðið, sem áður stóð neðan og til hliðar við gamla vitann. Gott útsýni yfir umhverfið (tækifærið notað og uppdráttur gerður af svæðinu). Hægur andvari var og 8 gráðu hiti. Gengið með austanverðum Valahnúk og litið upp í draugahellir þann er svo rammlega er fjallað um í Rauðskinnu. Þeir, sem þar gistu að næturlagi eftir rekasögun, eru sagðir aldrei hafa orðið samir á eftir – sjá meira HÉR.
Frá hellinum var gengið austur yfir að gamalli volgrusundlaug Grindvíkinga í Valbjargargjá (Saga Grindavíkur). Elstu núlifandi grindjánar (innfæddir) lærðu sína sundfimi í þessari laug – syntu bakka á millum. Hún er hlaðin utan um vermslagjá og þótti allvelboðleg á þeim tíma. Laugin er innan túngarðs.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Lagt var á misgengið eftir að hafa litið á hlaðið skjól refaskyttu neðan við Keldutjarnir. Olíuskipið Clam strandaði undan ströndinni skammt austan við hamravegginn 28. febr. 1950, á stað, sem nefndur var Kirkjuvogsbás (Suður með sjó – leiðsögn um Suðurnes). Það var um tíu þúsund smálesta olíuskip með 54 manna áhöfn. Tuttugu og sjö úr áhöfninni, bretar og kínverjar, drukknuðu, en öðrum var bjargað.
Gengið var austur með ströndinni að Blásíðubás. Básinn er í senn bæði falleg og hrikaleg Ægissmíð (sjá mynd í Grindavíkurbókinni). Í fárvirði 24. mars 1916 hleypti Einar Einarsson frá Merki í Staðarhverfi, þar upp skipi sínu. Áhöfnin, 11 manns, bjargaðist, en skipið brotnaði í spón. Oftar mun básinn hafa bjargað sjómönnum í vanda.

Reykjanes

Reykjanesviti á Reykjanesi. Bæjarfell t.v., Vatnsfell t.h. og Valahnúkar framundan. Eldey við sjóndeildarhringinn.

Áð var við vitann (byggður 1970 – áletrun), sem þar er á bjargbrúninni. Skammt austan við hann er fallegur gatklettur undan bjarginu.

Allt er svæðið þarna mjög eldbrunnið og sundurskorið af gjám, enda snautt að gróðri, nema ef vera skyldi ofanvert Krossavíkur- og Hrafnkelsstaðabergið (borgin). Gamlar sagnir segja frá byggð þar fyrrum, en lítið hefur fundist af minjum. Ætlunin var að nota tækifærið og gaumgæfa það vel að þessu sinni, en engar slíkar fundust. Hins vegar fundust þrjú merkt greni (vörður).

Reykjanes

Reykjanes – Skálafell.

Eldfjöll eru þarna mörg, en öll fremur lág. Þau eru einkum hraundyngjur, s.s. Skálafellið og Háleyjarbungan. Komið var við á hinu fyrrnefna og lóðrétt hellisopið var barið augum (BH-Hraunhellar á Íslandi). Á klöpp nálægt opinu er gömul áletrun í berginu (?RELDA). Forvitnilegt væri að grennslast meira fyrir um þetta.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Á Reykjanestánni er mikið hverasvæði, leirhverir og vatnshverir. Allt er landið þar sundurtætt af jarðeldum, gígum, leirpyttum, gufuhverum o.fl. Stærsti leirhverinn heitir Gunna. Um þann hver er til sú þjóðsaga að kona ein, sem Guðrún hét, hafi gengið aftur. Lék hún menn grátt, reið húsum og fældi fénað. Loks var galdraprestur nokkur fenginn til koma draugnum fyrir og gerði hann það í hver, sem síðan var nefnd Gunna. Við hverasvæðið eru gamlar minjar búsetu og byggðar. Þar er einnig mikið kríuvarp, en fuglinn sá kemur ekki á varpstað fyrr en líða tekur á þriðjungsbyrjun maímánaðar.

Gangan tók 1 og 1/2 klst. Frábært veður.

Reykjanesviti

Skjöldur konungs á Reykjanesvita.

Reykjanes
Sagt er að náttúran á Reykjanesi sé engu lík.
Reykjaneshryggurinn er kannski ekki þekktasta náttúruparadís Íslands en þar er hins vegar náttúran óviðjafnanleg. Reykjanesfjallgarðurinn í öllu sínu veldi með fjöll eins og Keilir, tignarlegt fjall í miðju hrauni, þar sem umhverfið milli fjallanna minnir helst á tunglið. Umhverfið er gráleitt og þar er gamalt mosavaxið hraunið í samspili við græn engi.

Stampar

Stampar – gígur.

Sandvík og svæðið þar í kring er skemmtilegt útivistarsvæði fyrir vini og vandamenn að koma saman og njóta náttúrufegurðar í góðu veðri. Þar er flott strönd þar sem m.a. er hægt að fara í strandblak og fleiri strandleiki ásamt ýmsu öðru.
Hafnarbergið er mjög tignarlegt og þar er fjölskrúðugt fuglalífið í miklum blóma í hrauninu og klettunum. Þar er einn besti fuglaskoðunarstaður á suð/vestur horninu og þar er stutt 40m gönguleið sem orðin er mjög vinsæl hjá göngufólki.
Ýmis hverasvæði eru á Reykjanesinu, s.s. Gunnuhver.

Skálafell

Gígur Skálafells – flugmynd.

Á Reykjanesvitasvæðinu eru ýmsar merktar gönguleiðir út á Reykjanestá og að Skálafelli og einnig frá Valarhnúk út á Önglabrjótsnef þar sem hægt er að fara í stuttar gönguferðir í fallegri og skemmtilegri náttúru en þess má geta að á Reykjanesinu er mikið um merktar gönguleiðir s.s. Prestastígur, Skipsstígur og Skógfellavegur sem eru mjög vinsælar leiðir.
Á Stafnesinu, frá Hvalnesi að Básendum sem er forn verslunarstaður frá tímum einokunarverslunar, má sjá rústir af húsum og festingar polla sem festir hafa verið í klappirnar þar sem verslunarskipin voru bundin.

Reykjanes

Reykjanes – uppdráttur ÓSÁ.

Bergið í Reykjanesbæ er einnig dæmi um fallegt útivistarsvæði og í góðu veðri er þaðan ómótstæðilegt útsýni til fjalla höfuðborgarsvæðisins.

Gunnuhver

Reykjanes – Gunnuhver.

Þetta eru bara lítil dæmi um náttúrufegurð Reykjaness og væri hægt að telja upp endalaust af stöðum, s.s. Bláa-lónið, Garðskaga þar sem er fjara með hvítum sandi og einnig mætti nefna Þórkötlustaðanes í Grindavík og Þorbjörn frá fjallinu sést vítt yfir vestanverðan Reykjanesskaga og jafnvel víðar.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja var vígð 18. júlí 1886. Hún var reist að frumkvæði Ásbjörns Ólafssonar, bónda í Innri-Njarðvík.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Kirkjan er gerð úr alhöggnum steini og var grjótið sótt í heiðina fyrir ofan byggðarlagið. Um steinsmíði sá Magnús Magnússon (1842-1887).
Viðarmiklar viðgerðir fóru fram á kirkjunni 1944, en þá hafði hún ekki verið notuð sem sóknarkirkja frá 1917, og síðan aftur 1980-1990. Arkitekt að seinni viðgerð var Hörður Ágústsson. Kirkjan er friðuð.
Altaristaflan (1986) er eftir Magnús Á. Árnason og sýnir krossfestinguna.
Forn kirkjuklukka (1725) er ein þriggja kirkjuklukkna í turninum.
Saga kirkju í Innri-Njarðvík er nokkuð slitrótt. Í heimildum frá 13. öld er kirkju getið. Hún virðist hafa verið lögð niður á 16. öld, en endurreist á síðari hluta 17. aldar. Kirkjan var aflögð 1917, en endurgerð 1944 og hefur verið þjónað í kirkjunni síðan. Í kaþólsku var hún Maríukirkja og Þorlákur helgi var einnig dýrlingur kirkjunnar.
Sjá meira um Innri Njarðvíkurkirkju HÉR.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Reykjanes

Eftirfarandi grein, „Einhver einkennilegasti staður í nágrenni Reykjavíkur“, eftir V. St. birtist í Lesbók Morgunblaðsins 13. júní árið 1926. Efnið gæti að mörgu leyti átt við í dag, 97 árum síðar.

Stampar

Stampar – gígur.

“Fæstir Reykvíkingar þekkja hið eiginlega Reykjanes, þó undarlegt megi virðast. Er óhætt að fullyrða, að margir hafa dvalið hjér langvistum í höfuðstaðnum, án þes að vita, hvar á Reykjanesskaga hið einkennilega Reykjanes er; en það er skagatotan syðst og vestast á Reykjanesskaga, þar sem er vitinn mikli, þar sem Vigfús Grænlandsfari var vitavörður um langt skeið. En hann hrökklaðist þaðan í fyrra og er sagt að hann, eða einkum fjölskylda hans, hafi verið búin að fá nóg af þarvistinni, jarðskjálftunum og erfiðleikunum á Reykjanesinu.

Gunnuhver

Gunnuhver – hverasvæðið.

Á Reykjanesi er einhver einkennilegasta og stórfenglegasta náttúra, sem þekkist hér í nágrenni. Þar er land allt hrauni þakið, gígar margir og gróður lítill eða enginn. Þar eru þverhnýptir fuglaklettar í sjó fram. – Í sjávarhamrana eru hellrar miklir og merkilegir. Á felli einu bröttu stendur vitinn, hár og reisulegur, en úr umhverfinu rýkur, þegar kyrrt er veður, eins og það væri alelda.
Þar er litli Geysir. Hann gýs hátt með mikilli gufu, og hinn heljarmikli leirhver, Gunna, sem hefir verið spök um hríð, er er nú að rífa sig. Og þar eru jarðskjálftar svo tíðir, að heimafólk á vitavarðabústanum tekur eigi til þess, þó húsgögn leiki þar á reiðiskjálfi, og rúður skrölti í gluggum.

Grindavíkurvegir

Varðaðar leiðir til og frá Grindavík frá fyrstu tíð.

Frá Reykjanesi er rösk tveggja tíma ferð til byggða, hvort heldur er frið austur á bóginn til Grindavíkur, eða norður til Hafna.
Sjaldan er gestkvæmt á Reykjanesi, enda eigi að vænta að vetri til; en á sumrin væri það ætlandi, að margir Reykvíkingar kysu heldur að skussast með bifreið suður til Grindavíkur eða Hafnir og ganga síðan um hin einkennilegu hraun, 2-3 tíma ferð út á Reykjanes, heldur en gleypa hjér göturykið í Reykjavík um helgar og góna á náungann. Þeir, sem eru allra fótlatastir, geta fengið sér hesta, þar sem akveg þrýtur. En að því er lítill flýtisauki, því akvegurinn er ljelegur.

Reykjanes

Gamli vagnvegurinn frá Grindavík.

Margur farkostur hefir strandað á suðurströnd Reykjaness, og margur sjógarpur látið líf sitt í þeim ægilega brimgarði, þar sem öldur úthafsins skella á sundurtættum hraunhömrunum.
Í vetur sem leið druknuðu margir vaskir drengir í lendingunni í Grindavík. Það var á björtum sólskinsdegi; og gátu menn notið góðviðris og sleikt sólskinið hjér inni í Reykjavík, þó svona væri þar.
Skammt frá Járngerðarstaðahverfinu liggur nú togarinn Ása, fáar skipslengdir frá fjöruborði, Er búist við, að hún náist út, með stórstraum. Það er að segja, eftir því sem björgunarmenn segja. En Grindvíkingar voru lengi vel vantrúaðir á, að hægt væri að ná skipi á flot, sem hefði haft þar jafn náin kynni af ströndinni, eins og Ása.

Á rekafjöru frá Grindavík vestur að Reykjanesi, verður fyrir augum manns margskonar hrygðarsjón. En í því umhverfi, sem þar er, blandast hrygðin lotningu fyrir stórfenglegum náttúruöflunum.

Hvalreki

Hvalreki við Garðskaga.

Fyrir ströndinni er víða hár sjávarkampur, þar sem eigi hamrar ganga í sjó fram. En þeim, sem aldir eru upp við norðlenska firði, þykir hjer vera allmjög á annan veg, en þar er títt. Þar eru sjávarkambar úr smágrjóti og möl, svo greiðfærir, að hægt er að ríða þá í fleng, á hvötum, fótvissum hesti. En hjer er kamburinn margra metra hár úr stórgrýti, sem hestar geta vart fótað sig á, hvað þá heldur meira.

Slíkur er aflsmunur brimsins, er hefir verið að verki hjer og norður þar, enda er reynsla fyrir því, að sunnlenska brimið rótar björgum til, sem eru tugir tonna að þyngd.
Í túnfætinum á Staðarhverfi, skammt vestan við Járngerðarstaði, er skrokkur af enskum togara. Spölkorn þaðan, vestan, fórst færeyska skútan í hitteðfyrra, þar sem allir skipverjar týndust og ekki fannst örmul af, nema þóftubútur með nafni skútunnar og annað smábrak.

Reykjanes

Reykjanes – Karlinn.

Svona mætti víst lengi telja. Meðfram allri ströndinni liggur mikið vogrek, og mest er það unninn viður, og á því sennilega hver spýta sína sögu, í sambandi við slys og tjón. Þar er á hverju strái allskonar skran; beyglaðar, ryðgaðar jártnplötur, dunkar, tunnur, skipskörfuræflar, og á löngu svæði er nú meðfram götuslóðinni við ströndina sáld af slöskutöppum. Einkennileg tilbreyting í viðurstyggð eyðileggingarinnar, sem lýsir sjer í öllu brakinu. Ósjálfrátt rennir maður huganum til íslensks sjávarútvegar, til þess, hve lífskjör og lífsbarátta er hörð, þar sem hver fjölskyldumaður á lífsuppeldi sitt og sinna að sækja yfir brimgarð sem þenna.
Skömmu áður en komið er út að Reykjanesvita, er farið fram hjá gígbungu einni, Háleyjarbungu. Er gígur þessi, (að sögn Þ.Th.), um 440 fet að þvermáli, og tæp 150 fet á dýpt.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Þegar þangað kemur, blasa við reykir hverasvæðisins. Er vegurinn sæmilega greiðfær, sem eftri er, og er maður brátt kominn inn á hverasvæðið.
Til vinstri handar við götuna er Litli-Geysir. Hann gýs ört, og fer vatnsstrókurinn stundum 3 til 4 metra í loft upp. Hann gýs sjávarvatni, og er þó um 100 et yfir sjávarmál. Rjett við hann er leirhver einn mikill. Í honum vellur gráleit eðja og gýs upp úr skálinni, en sljákkar á milli, og er skálin eða gjótan þá þurr og allt með kyrrum kjörum stundarkorn, uns nýtt gos byrjar.

Reykjanes

Á Reykjanesi.

Spölkorn norðar er hin nafntogaða Gunna, einhver mesti og “helvítasti” leirhver á landinu, í orðsins upprunalegu merkingu, enda valdi hinn fjölkunnugi Eiríkur á Vogsósum Gunnu sem hentugast sáluhlið handa þeim, sem hann útbjó greiðan gang niður til þess neðsta.
Gunna er eigi ein samfelld hveraskál, heldur er það mikill leirpyttaklasi, sem ber þetta nafn. Er jörðin þar öll sundursoðin og logandi.
Sögusögn er um það, að um þessar slóðir sje einhvers staðar hin víðfræga jarðskjálftagjá Páls Torfasonar; en á því veit jeg eigi deili. En gjár eru þar svo margar, og jarðskjálftar sennilega óvíða tíðari í heiminum, svo mjög er eðlilegt, að velja slíkum merkisgrip þar samastað.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk.

Gamli Reykjanesviti stóð á hinum svonefnda Valahnúki. Er það móbergshóll, eða öllu heldur leifar af hól, því ekki er nema endinn eftir, sem eigi á langt eftir ólifað á jarðfræðivísu, því sjávarbrimið er langt komið að eyða honum.

Uppi á ströndinni, skammt frá sjávarhamrabrúninni, var vitinn reistur, áttstrendur turn úr hraungrýti, segir Þ. Th., og loftsvalir yfir, en þar upp af voru ljóskerin, er Danir gáfu, og kostuðu 12 þús. kr.

Reykjanes

Reykjanes – hellir í Valahnúk.

En sífellt hrundi úr berginu, því um sjávarborð er bergið lint. Eru þar því hellar miklir og merkilegir, í bergið. Jarðgöng hafa þannig myndast gegnum einn hluta Valahnúks. Er afar einkennilegt um fjörum að standa niðri í stórgrýtinu framan við bergið, með hafrótið hvítfyssandi á aðra hönd, og gínandi hellisskúta á hina.

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Mávar verpa í berginu, og eru gæfir um þessar mundir.
Það þótti eigi tryggt að hafa vitann lengur á Valahnúki. – Bergið gat hrunið í sjó fram við einhvern jarðskjálftarkippinn; – Því var ráðist í það að byggja annan vita a Vatnsfelli. Er það hóll álíka að gerð og Valahnúkur, nema hvað han er heill, því hann stendur inni í landi. Heill er e.t.v. of mikið sagt, því þarna er helst allt sprungið, – þó hann sje hinn rammbyggilegasta smíði. Hann er 30 metra hár. Uppi undir ljóskeri er vitavarðarherbergi. Þar verður að vera vörður alla stund meðan ljós er á vitanum. Má get nærri, aðþað er eigi viðkunnalegt staða þegar jarðskjálfatr eru mjög tíðit og regnskúrir, að kúldrast þarna uppi í 30 metra háum turninum, þegar turninn dinglar eins og “reyr af vindi skekinn.”

Reykjanesviti

Reykjanesvitar.

Eins og nærri má geta, er hið ágætasta útsýni úr vitanum inn yfir Reykjanesskaga og langt á haf út.
Undir Vatnsfelli er vitavarðabústaðurinn. Þar er nú Ólafur Sveinsson vitavörður. Hann var ekki heima er við komum þangað fjórir umdaginn, Þjóðverjar tveir, málarinn Webepohl, Lubinski blaðamaður, Ragnar Ásgeirsson garðyrkjumaður og jeg.
Mikið höfðu útlendingarnir undrast öll náttúrufyrirbrigði, er fyrir augu vor bar; hefir Lubinski nýverið farið um Sahara, Túnis, Algier, Spán, Frakkland og víðar.

Aldrei kvaðst hann hafa komið á jafn undraverðan stað og þenna. En eitt var undrunarefni hans enn, og það var að finna þarna úti í auðninni, aðra eins framleiðslu við kaffiborðið og hjá konu vitavarðarins, og jafn skýran og frjálsmannlegan pilt og son vitavarðar, 13 ára gamlan, er fylgdi okkur um nágrennið.

Reykjanes

Reykjanes – gamlar leiðir (ÓSÁ).

Svona eru ekki unglingarnir í borgunum okkar á Þýskalandi, sagði hann, enda fá þeir annað uppeldi en hjer fæst í þessu mikilúðlega umhverfi.
Er við vorum að standa upp frá kaffiborðinu, heyrðust allt í einu drunur miklar svo undir tók, og á vetvangi ljek allt á reiðiskjáli. Útlendingarnir skimuðu og vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið, en við Ragnar þóttumst heimavanir og sögðum rjett sisona, að þetta væri ekki annað en jarðskjálfti, rjett eins og við hefðum pantað hann sem síðasta númer á skemmtiskránni.
Til allrar hamingju voru þeir ekki búnir að heyra um gjána hans Páls, annars hefðu þeir haldið, að nú hefði einhver dengt í hann grjóti þeim til skemmtunar.”

-Lesbók Morgunblaðsins 13. júní árið 1926 – eftir V.St.

Reykkjanes

Á Reykjanesi.

Hinrik í Merkinesi

Rætt við Hinrik í Merkinesi, 85 ára, um veiðar, sjómennsku, skipasmíðar o. fl.

Merkines

Í Merkinesi.

Hinrík í Merkinesi, er hann nefndur í daglegu tali en heitir fullu nafni Vilhjálmur Hinrík Ívarsson. Vegna þeirra sem ekki eru kunnugir á Suðurnesjum er rétt að taka fram að jörðin Merkines er skammt fyrir utan Hafnir en Hafnir eru vestan Miðnesheiðar. Fyrir utan Merkines eru jarðirnar Kalmarstjörn og Junkaragerði, sögufræg býli, en svo tekur við hraun og sandur og verður að fara allt út á Reykjanes til að finna grænan bala. Úti í hafinu trónar Eldey við sjóndeildarhring – Hinrík skírði dóttur sína Eldey, í höfuðið á eynni, og Elly Vilhjálms var um eitt skeið ein kunnasta söngkona landsins. Vilhjálmur heitinn sonur hans, flugmaður hjá Arnarflugi, var einnig kunnur fyrir söng. Maron sonur hans hlaut útþrána í vöggugjöf og hefur farið um víða veröld og er nú búsettur í Ástralíu en þangað fór hann frá Suður-Ameríku um Bandaríkin. Þá eru tveir synir þeirra hjóna ótaldir, þeir Sigurjón og Þóroddur, sem báðir eru búsettir hér á landi. Þau Hinrík og kona hans, Hólmfríður Oddsdóttir, hafa lengi átt heima í Merkinesi og ég byrja á því að spyrja Hinrík hvort hann hafi kannski alltaf átt þar heima.
„Nei, ég er Eyrbekkingur en fæddur í Grímsnesi þar sem foreldrar mínir voru vinnuhjú hjá Jóni Sigurðssyni á Búrfelli. Faðir minn var jafnframt formaður í Þorlákshöfn. Síðar gerðist hann skipsformaður fyrir Lefolii-verzlun, og var með áttæringinn Vonina frá Þorlákshöfn allt til 1913. Eftir að faðir minn lét af formennsku fyrir Lefolii-verzlun, var hann fenginn til formennsku á teinæring er gera skyldi út frá Herdísarvík. En það var alveg dauðadæmt fyrirtæki frá upphafi því landtaka var þar svo slæm. Ég átti að vera landmaður hjá þeim, en lendingarskilyrðin voru svo vond þarna að þeir urðu að gefast upp á þessari útgerð eftir þrjár vertíðar. Ég gerðist þá vinnumaður hjá Þórarni bónda í Herdísarvík og var þar næstu 3 árin.

Merkines

Í Merkinesi.

Jú, Lefolii-verzlunin hafði mikil umsvif á Eyrarbakka – sveitamenn verzluðu svo mikið þar. En svo fór þetta að breytast fljótlega eftir aldamótin, og verzlunin byrjaði að færast til Reykjavíkur – prísarnir voru víst lægri þar.
En í minni bernsku var mikil stasjón á Bakkanum. Það voru þarna a.m.k. tveir menn sem stunduðu akstur með hestvögnum: þeir Ólafur í Sandprýði og Loftur í Sölkutóft, og alltaf var nóg að gera hjá þeim við aksturinn.
Þórarinn í Herdísarvík átti um 400 fjár og var fénu þar haldið til beitar allan veturinn. Það var alltaf byrjað á að reka upp úr fjörunni á morgnana því féð mátti ekki nærast á eintómum þara. Þarna er gott beitiland víða um hraunið og gott að halda fé til haga. Við misstum tvö lömb eitt árið man ég, þrjú annað og ekkert það þriðja, – þannig að þú sérð að skepnurnar hafa ekki verið illa haldnar. Þarna er mikið og gott fjárland, féð komst hvergi að sjó nema heim við bæinn, því alls staðar annars staðar er berg með sjó. Jú, jú, þetta kostaði óskaplegar göngur þetta kindarag. Tveggja tíma ganga er út í Krísuvík og um einn tími út í Vogsósa.
Ég þurfti að fara í allar Krísuvíkurréttir og eins Gjárréttir fyrir ofan Hafnarfjörð. Þá skellti ég mér bara beinustu leið yfir fjallið. Þarna var ég í 3 ár, þar til ég var 19 ára. Já, maður var léttur á sér hér í gamla daga og lét sér ekki muna um að skreppa bæjarleið.
Svo fór ég til Hafnarfjarðar – var vinnumaður á Jófríðarstöðum hjá Þorvarði Þorvarðssyni, en þar var ég aðeins í eitt ár. Síðan lá leiðin til Reykjavíkur þar sem ég lærði trésmíði hjá Bjarna Símonarsyni húsasmið. Þar kynntist ég konunni minni og giftum við okkur árið 1923. Það var nóg að gera í trésmíðaiðninni – þó tók ég ekki að mér nein meiriháttar verk til að byrja með heldur var í viðgerðum og ýmsu snatti.

Merkines

Tóft í Merkinesi.

Við bjuggum í Reykjavík fyrstu árin og fluttum ekki hingað í Hafnir fyrr en 1933. Ég hafði þó unnið hér töluvert í bátaviðgerðum og byggt hér 4 hús, þannig að við vorum vel kunnug hér áður en við fluttum hingað.
Það mun hafa verið árið 1930 að ég smíðaði fyrsta áttæringinn minn, og var svo með hann héðan í 3 vertíðir – eins frá Kirkjuvogi og tvær héðan frá Merkinesi. Um það leyti dó hann Guðmundur sem bjó hér á Vesturbænum og talaðist svo til milli mín og erfingjanna að ég fengi jörðina keypta.
Mönnum hefur líkað vel þessir bátar sem ég hef smíðað – þetta hafa verið blendingar af árabátum og vélbátum, allir staðið sig vel held ég. Ég lærði aldrei skipasmíðar sérstaklega en á Eyrarbakka voru miklir skipasmiðir eins og t.d. Steinn í Einarshöfn – og ég hafði þetta svona í blóðinu. Ég gerði mér far um að ná laginu hans Hallgríms á Kalastöðum á Stokkseyri – það voru úrvals skip sem hann smíðaði.
Annars hef ég farið mikið eftir því sem maður hefur fundið og séð. Ég tel mig hafa haft töluverða tilfinningu fyrir þessu, enda lagði ég mig fram um að glöggvar mig á eiginleikum báta, bæði í landi og á sjó. Og ég er ennþá að smíða báta þótt það séu bara smá kríli núorðið – það eru margir sem vilja eiga eftirlíkingar af gömlu áraskipunum, og ég hef ekki undan að smíða. Sérðu hvernig þetta módel hérna er lagað við stafninn að framan – það skiptir afar miklu hvernig byrðingurinn er lagaður. Smá reiging á bógnum getur gert gæfumuninn hvernig sjóskip báturinn verður. Sé stafninn með réttu lagi fara þeir mjúkt í ölduna framan og setjast hæfilega á skutinn. Ef rétta lagið hefur ekki náðst fara bátarnir að höggva þegar eitthvað er að sjó, og geta jafnvel verið hættuleg skip, jafnvel hreinir manndrápsbollar. Alls smíðaði ég níu báta og var sá stærsti 7 tonn og svo eru það ein 9 hús sem ég hef byggt hér í Höfnum.“
– Þú varst hreppstjóri hér í Höfnum og stundaðir hér formennsku lengi.

Merkines

Merkinesvör.

„Já, ég var hreppstjóri hér frá því árið 1956, að mig minnir, þar til ég var áttræður. Þá greip ég tækifærið og lét af starfinu. Ég réri hér á hverri einustu vertíð frá 1931 en hætti 1978. Þá var róið út með Stafnesi eða fyrir Reykjanes, allt inn að Háleyjabungu og Staðarbergi. Þetta gat verið einn vökusprettur ef gott verðu hélst marga daga samfleytt og þótti ekki gott nema farnir væru tveir róðrar á sólarhring að sumrinu.
Þetta er fornfræg veiðistöð hér í Höfnum og héðan hafa róið fræknir formenn. Héðan réri Eldeyjar-Hjalti um eitt skeið, en það var löngu fyrir mína tíð. Þá var Eldeyjar-Hjalti svo fátækur að hann átti ekki heilan stakk og vantaði alveg ermina öðru megin. Þeir sögðu að hann hefði fært stakkinn til eftir því sem hann krusaði og haft heilu ermina áveðurs. Þetta var hörku karl en varð víst rembinn með aldrinum – það hefur sjálfsagt verið tíðarandinn öðrum þræði.
Framanaf voru alltaf einhverjir með mér á sjónum en svo réri ég mest einn síðustu árin. Flugvöllurinn breytti öllu hérna, það fóru allir að vinna þar og menn urðu svo kostbærir að maður hætti að fá nokkurn til að róa með sér. Lengi réri ég héðan úr Merkinesvörinni en svo var gerð bryggja í Höfnum og eftir það fór ég að róa þaðan. Það urðu margar ferðirnar hjá mér á hjóli hér á milli – að athuga með bátinn, maður þurfti alltaf að vera að athuga með bátinn. Nú er ég fyrir löngu hættur öllu sjógutli en maður gat þetta hér í gamla daga – þá gerðist maður mótoristi þegar vélarnar komu og kunni þetta allt saman.
Annars er hafsbotninn hérna útifyrir rannsóknarefni útaf fyrir sig. Það hafa orðið alveg hrikalegar breytingar á landinu hér frá landnámi, og sennilegt að mikið land, sem líklega hefur náð allt út að Eldey, hafi sigið í sæ. Í Íslendingasögunum stendur að landnámsmenn hafi siglt vestur með Reykjanesi þar til þeir höfðu opinn Hvalfjörð – og þá séðu að þeir hafa þá verið langt úti. Þá hefur Reykjanesið verið eitt gjósandi krap og mikið gengið á.

Merkines

Heimtröðin.

Það er grunnt hér út með öllu Reykjanesinu töluvert langt út, og er að jafnaði um 12 faðma dýpi. Svo snöggdýpkar, eins og farið sé fram af klettavegg og er þá um 30 faðma dýpi sem helzt langleiðina út í Eldey.
Þegar komið er svo sem þrjá fjórðu af leiðinni í Eldey tekur við hraunkargi í botninum og síðan kemur stallur þar sem dýpið er aðeins sex faðmar, en þar á milli er dýpið aftur um 30 faðmar, þar til kemur að Eldeyjargrunninu. Þarna hefur mikil landspilda sigið í sæ og hafa það verið ólitlar náttúruhamfarir.“
– Nú varst þú grenjaskytta hér í Hafnahreppi um langt skeið.
„Já, frá árinu 1948 stundaði ég grenjaskytterí og síðar minkaveiði. Ég veit um 14 greni hér á svæðinu og vann mest 4 greni á ári. Núna seinni árin höfum við ekki orðið vör við tófu hér í Hafnahreppi. Ég vorkenndi alltaf refnum – en minkinn hef ég hatað og minkurinn er sú eina skepna sem ég hef haft gaman af að drepa. Það verður þó ekki á móti borið því sem hann Þórður Halldórsson frá Dagverðar á hefur sagt, „að þetta meindýr er til okkar komið í gegn um sali hins Háa Alþingis“. Minkurinn er grimmdarskepna – hann drepur til þess eins að drepa og nýtir ekki nærri alltaf það sem hann drepur. Drápsgirndin er alveg ótrúleg í honum, hann eyðir öllu fuglalífi og er sannkallað afkvæmi andskotans. Tófan vinnur hins vegar upp sína veiði og drepur ekki nema sér til matar. Ég komst upp í 63 minka mest um árið en nú verður ekki vart við mink hérna.“
– Hver heldurðu að sé skýringin á því?
„Ég hef tvær teoríur, en hvoruga get ég þó sannað. Sko, núna undanfarin tvö ár hefi ég gaumgæft landsvæðið hér umhverfis, og aldrei séð far eftir mink, hvorki í snjó eða sandi. Svo virðist sem minkurinn sé hér alveg horfinn. Á sama tíma gengur farsótt í minkabúunum þannig að þeir þurftu að farga hverjum einasta mink. Gæti ekki verið að villiminkurinn hafi fengið þessa sömu veiki? Því þetta virðist gilda um landið allt, að menn verða lítið varir við mink. Vinur minn, Þór Jónsson í Fljótum, hefur veitt 90 minka mest um árið en í fyrra náði hann aðeins tveim. Hann hefur víst veitt eina sex í vor þannig að þeim er eitthvað að fjölga aftur.

Merkines

Brunnurinn.

Svo er það önnur teoría sem ég hef. – Hér á árum áður tóku menn það upp að eitra fyrir refnum og þótti öllum þjóðráð. Upp úr því fækkaði refnum mikið og þökkuðu menn það þessum aðgerðum. En ég er alls ekki á því að þessar aðgerðir hafi fækkað refnum. Athugaðu að á þessum tíma gekk hér einmitt mikið hundafár svo að heilu sýslurnar urðu hundlausar. Refurinn er mjög skyldur hundinum og hefur að minni hyggju smitast af sömu veiki og fækkað vegna þess.
Ég eitraði einu sinni fyrir ref hér í Hafnahreppi á 38 stöðum – með fjallahringnum allt frá Sýrfelli til Hvassahrauns. Ég merkti staðina alla en hræin höfðu aðeins verið snert á tveimur, og ég er alls ekki viss um að það hafi verið tófa sem það gerði. Ég var með afar glöggan hund og hann hafði ekki veður af neinu tófuhræi á allri þessari leið. Ég tel því að fækkun refs á þessum tíma hafi stafað af sjúkdómi í refastofninum en ekki af þessum eitrunum.
Það er nú svona með það sem maður er hneigður fyrir – það lifa margar minningar frá þessum veiðum í gegnum árin. Það skiptir öllu á minkaveiðum að hafa góðan hund. Ég var allaf með byssu til taks þegar ég var á ferðinni ef ég rækist á einhvern af þessum andskotum. Bezt reyndist mér haglaskammbyssa sem ég hef lengi átt en hef nú lánað frá mér.
Einu sinni vann ég þó mink byssulaus – var þá að koma inn úr Kirkjuvogi og verð var við mink í malarkambi hér á Hnausendunum. Ég var með góðan hund með mér og finnur hann strax hvar minkurinn er undir. Ég var ekki einu sinni með hníf og gat ekki farið heim eftir byssu því þá hefði minkurinn sloppið á meðan. Þarna er kastmöl og fer ég að róta til nokkrum steinum þar sem hundurinn ólmaðist og sé þá í skottið á minkinum. Ég bregð þá við, gríp í skottið og kasta honum í háaloft, en svo mikil var snerpan í hundinum að hann greip minkinn á fluginu og allt að því klippti hann í tvennt með kjaftinum.“

Merkines

Möngutóft.

Nú berst talið að ótrúlegum veiðisögum og Hinrík segir mér veiðisögu sem hlýtur að teljast ótrúleg.
„Ég var einu sinni í heimsókn hjá honum séra Lárusi Arnórssyni í Miklabæ. Við vorum að tala um veiðar og ég segi sem svo: „Mikið andsk . . . hefur þetta gengið illa hjá honum Gísla að miss svona þennan stóra fisk.“ Þá segir séra Lárus: „Þegar menn eru að segja þessar veiðisögur ýkja þeir að minnsta kosti til helminga.“ Ég varð reiður við og sagðist skyldi segja ótrúlega veiðisögu sem engu að síður væri sönn, og sagði honum þessa sögu:
Sumrin 1922 og 1923 var ég við stangveiði við Kaldárhöfða við Úlfljósavatn. Þar veiddist oft vel, upp í 111 á einum degi. Þar er bezt veiðin snemmsumars og veiðist þá þriggja punda bleikja, en nú var komið fram í ágúst og veiddist bara depla og dauft við veiðina. Einhvern daginn fer ég þó út á ána – það þurfti að sperra sig töluvert á móti straumnum til að komast á góðan veiðistað og leggjast þar við dreka. Nú, þarna set ég í allvænan fisk og verð að sleppa drekanum svo hann slíti ekki fyrir mér. Svo kem ég fisknum alveg að borðstokknum og sé þá að hann er kræktur í gegnum fremri bakuggann. En þegar ég ætla að innbyrða fiskinn sé ég að háfurinn hafði gleymst í landi. Ég reyni þá að ná fisknum með höndunum en hann sleppur frá mér.
Þegar ég kem í land gengur mér auðvitað illa að sannfæra hina um að ég hafi misst þennan stóra fisk. Daginn eftir fer ég svo aftur út – og hvað heldurðu gerist þá. Set ég ekki aftur í vænan fisk á sama stað og í þetta skipti var háfurinn með í bátnum. Mér brá þó heldur betur í brún þegar ég fór að skoða fiskinn – fremri bakugginn var rifinn að endilögnu, og þarna var kominn sami fiskurinn og ég hafði sett í daginn áður.

Merkines.

Garður.

Sr. Lárus gapti alveg þegar ég sagði honum þetta – hann sagði ekki eitt einasta orð og ég veit ekki enn hvort hann hefur trúað mér.“
– Hefurðu ekki lent í ýmsu misjöfnu til sjós?
„Jú, það var nú sitthvað sem kom fyrir. Einu sinni hafði ég næstum álpast fyrir borð . – það er ekki segjandi frá því. . . . Jæja, það vildi nú svona til. Það var stýrishús á bátnum, og þilfar út í lunninguna frá því örðu megin. Þarna sem ég var hagar svo til að snardýpkar og var lygnt fyrir innan en töluverð ólga utar enda allmikill straumur. Ég var að kippa inn á lygnuna og ætlaði að fara að fá mér í nefið, en þá tek ég eftir því að ég hef gleymt bauknum frammí.
Nú get ég ekki á mér setið og ákveð að skjótast fram í bátinn og ná í baukinn. Það var handrið meðfram stýrishúsinu og held ég mér í það en þegar ég ætla að fara niður í pontuna skriplast mér fótur . . . þá kemur kröpp alda á bátinn og skiptir það engum togum að ég missi fótanna og fer í sjóinn. Svo einstaklega vildi þó til að í fallinu næ ég taki á borðstokknum og gat hangið þar. „Er það nú búið lagsi minn,“ sagði ég þá við sjálfan mig – ég fór alveg í sjóinn upp fyrir haus, en þegar báturinn rétti sig af og valt yfir á hina síðuna, gat ég vegið mig upp og komist um borð aftur.“
– En hvað um refaveiðarnar, á þeim hefur sitthvað borið við er það ekki?
„Jú, það er ekki fyrir aðra en vana menn að sjá við tófunni – hún er svo klækjótt og vör um sig. Svo hafa þau svo ólíkt lundarfar þessi dýr, þau eru rétt eins og menn hvað það varðar. Ég hef oft alið yrðlinga hér sumarlangt og þau geta orðið afskaplega gæf þessi dýr, en svo er eins og önnur sé ómögulegt að temja. Ég var einu sinni með högna og læðu eitt sumar. Högninn var alveg forhertur – virkilegt óartarkvikindi, kom aldrei fram í búrið þegar ég gaf honum og byrjaði aldrei að éta fyrr en ég var farinn. Læðan var aftur afskaplega blíð og vinaleg. Einu sinni ól ég yrðling hérna heimavið og tókst að temja hann. Það var maður sem hét Sólmundur og bjó í Sandgerði sem fékk hann hjá mér og átti í tvö ár. Rebbi elti hann um allt eins og hundur og lagðist aldrei í strok. Það er hægt að temja refinn furðanlega, en þeir veriða aldrei allra og það er alltaf grunnt á villidýrseðlið í þeim.
Hver grenjaferð saga útaf fyrir sig.

Merkines

Varða.

Oft hef ég tekið það nærri mér að vinna greni og sárvorkennt þessum greyjum. Maður verður að spila á þessar helgustu tilfinningar, móðurástina, og það er heldur óskemmtilegt. En þau mega ekki vaxa manninum yfir höfuð.
Annars er gaman að tilstandinu við þetta, og má segja að hver grenjaferð sé saga útaf fyrir sig. Einu sinni sem oftar var ég búinn að vinna bæði læðuna og yrðlingana á greni. Rebba skaut ég í munnanum en hann var það innarlega að ég náði honum ekki. Ekki var hann alveg dauður og gat skreiðst innar í grenið með því að krafsa með löppunum. Nú, ég gat lítið aðhafst og sneri heim við svo búið. Þegar ég kem til hreppstjórans til að fá greitt segi ég honum að ég hafi unnið grenið en misst stegginn inn. „Það er nú venja að sýna þá,“ sagði þá hreppstjórinn.
Nú, ég fer aftur af stað nokkrum dögum síðar, og þá eru þau í för með mér Maron sonur minn sem var átta ára og Eldey dóttir mín. Ég hafði með mér stöng, kerti, band og sitthvað fleira sem að gagni gat komið við að ná refnum. Þegar við komum að grenismunnanum sést hvergi til rebba og var þar myrkt innifyrir. Það verður að ráði hjá mér að láta strákinn skríða inn en bind fyrst kaðalinn um lappirnar á honum. Hann skríður svo inn og lýsir fyrir sér með kertinu sem ég hafði fest framaná prikið, en mér er um og ó ef eitthvað líf væri í refnum sem þá gat bitið illa. Nú, ég öskra á strákinn, hvort hann sjái nokkuð refinn. Hann öskrar á móti að þarna sé hann og virðist dauður. Ég öskra á strákinn að taka kertið og setja það fram á prikið og bera að nefninu á rebba – því þá hlaut hann að sýna viðbrögð. Nú stráksi gerir þetta og reynist refurinn steindauður. Nú, ég dreg svo strákinn út úr greninu með kaðlinum og strákurinn refinn. Þannig lauk þeirri viðureign.

Bragi Óskarsson tók viðtalið.

Hinrik í Merkinesi

Hinrik ásamt fjölskyldu.

Brunnastaðir

Kaupsvæði Keflavíkurverslunar var ekki glöggt afmarkað og kom ekki að sök því lengstum verslaði sami kaupmaður þar og á Básendum. Oftast var þó talið að það næði yfir Garðinn, Leiruna, Keflavík og Njarðavík. Þó töldu sumir Keflavíkurkaupmenn að þeim bæri einnig réttur til verslunar í Vogum og Brunnastaðahverfi.

Brunnastaðahverfi

Brunnastaðahverfi 1961.

Vera má að þessi óvissa hafi verið undirrót þekktra málaferla á hendur Hólmfasti Guðmundssyni árið 1699, en hann var þá búsettur í Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd og átti að versla í Hafnarfirði, en lagði inn lítilsháttar af fiski hjá Keflavíkurkaupmanninum og var húðstrýktur fyrir.
Kaupsvæðaskipulagið var eitt þeirra málefna sem Árni Magnússon og Páll Vídalín tóku til athugunar á ferðum sínum um landið skömmu eftir 1700. Einkum komu þessi mál til kasta Árna Magnússonar og var hann raunar hlynntur áframhaldandi kaupsvæðaverlsun með þeim rökum að kaupsvæðin tryggðu nauðsynlega siglingu til landsins. Árni komst einnig í kynni við Hólmfast og var harla hneykslaður á meðferðinni á honum, og má vera að útreiðin, sem Hólmfastur fékk, hafi einmitt orðið Árna tilefni til að gera að tillögu sinni við yfirvöld í rentumammeri að kaupsvæði Keflavíkur yrði látið ná yfir Brunnastaðahverfi.

Hólmfastskot

Hólmfastskotsbrunnur.

Árið 1699 var Hólmfastur Guðmundsson 52 ára og bjó í Brunnastaðahverfi á Vatnseysuströnd, sem tilheyrði lögvernduðu verslunarsvæði Hafnarfjarðar. Hólmfastur mátti því engum kaupmanni selja fisk nema Hafnarfjarðarkaupmanni, en tók það fyrir að flytja á báti sínum frá Brunnastöðum, þvert yfir Stakksfjörðinn til Keflavíkur, 20 harða fiska í eigu vinnumanns nokkurs, átta fiska í eigu vermanns að austan og 10 ýsur og þrjár löngur, sem hann átti sjálfur. Þessa fiska seldi Hólmfastur í Keflavíkurbúð og gerðist þar með brotlegur við tilskipun um kaupsvæðaverslun. Slíka ögrun þoldu yfirvöld vitaskuld ekki af ótíndum alþýðumanni og sjálfsagt hefur óhlýðnin þótt alvarlegri fyrr það að Hólmfastur lét sér ekki duga að selja sinn eigin fisk, heldur kom fiski annarra í lóg einnig.

Hólmfastskot

Hólmfastskot í Njarðvíkum.

Dómur í máli Hólmfasts var haldinn á Kálfatjörn þann 27. júlí 1699. Dómari var Jón Eyjólfsson sýslumaður, og sátu báðir Njarðvíkurbændur, Þorkell og Gísli, í dómnum, auk nokkurra nágrannabænda annarra, en Jens Jörgensen, fullmektugur á Bessastöðum, sótti málið af hálfu kaupmanna. Þarf ekki að orðlengja það að dómurinn komst að samhljóða niðurstöðu um sekt Hólmfasts og var hann dæmdur til að greiða kóngi átta ríkisdali í sekt eða þola vandarhögg. En því var skotið til ærði yfirvalda hvort ástæða væri til að senda hinn óhlýðna Hólmfast til Brimarhólmsdvalar og báðu dómsmenn honum reyndar ásjár í því efni.

Hólmfastskot

Tóftir Hólmsfastskots í Njarðvíkum.

Árni Magnússon, á ferð sinni um landi, tók upp mál Hólmfasts og fékk honm dæmdar 20 ríksidala bætur fyrir dóminn og hina illu meðferð á honum. Löngu seinna komst Hólmfastur á síður einnar þekktustu skáldsögu Halldórs Laxness (Íslandsklukkuna).
Dómurinn yfir Hólmfasti var óneitanlega harður, en hann var þó fráleitt einsdæmi. Öll frávik frá fyrirskipuðum reglum voru illa séð, sérstaklega ef menn lögðu stund á launverslun, sem kallað var, þ.e. versluðu við annarra þjóða menn en Dani. Lengi voru þýsk, ensk og hollensk fiskiskip hér við land eftir að einokun komst á. Árið 1684 voru t.d. nokkri Suðurnesjamenn kallaðir fyrir fulltrúa réttvísinnar á þingstaðnum Kálfatjörn og dæmdir til búslóðamissins fyrir að hafa verslað á laun við hollenska duggara og var dómurinn staðfestur á alþingi árið eftir.
Eftir 1700 mun hafa dregið úr launverslun og um 1740 var hún nánast horfin. Hólmfastur fluttist síðar að Hólmfastskoti í Innri-Njarðvík.

-Úr Saga Njarðvíkur eftir Kristján Sveinsson – 1996.

Njarðvík

Letursteinn í Njarðvík.

Njarðvík

Njarðvíkur eru tvær hérlendis, önnur í N-Múlasýslu, oft nefnd Njarðvík eystri til aðgreiningar. Flestir hafa hingað til talið Njarðvíkurheitin tengjast norræna goðinu Nirðri í Nóatúnum og dýrkun hans.

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Elsta heimild, sem líklegt þykir að beri vott um átrúnað á Njörð, er frásögn rómverska sagnaritarans Tacitusar, en í riti sínu Germania, sem samið er um árið 100 eftir Krist, gat hann þess að danskir þjóðflokkar dýrkuðu gyðjuna Nerþus. Nafn hennar er talið hið sama og Njarðar, en ekki er þessi gyðja nafngreind í norrænni goðafræði.
Njörður gat ráðið veðri og vindum og gróðri jarðar. Með þá hugmynd að leiðarljósi hafa menn talið að örnefnin Njarðvík hérlendis og í Noregi, og Njarðey, sem kemur fyrir í Noregi en ekki hér á landi, merki lendingarstaði sem helgaðir voru siglingarguðinum eða voru í umsjá hans.

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Þórhallur Vilhjálmsson, forstöðumaður Örnefnstofnunar Þjóðminjasafnsins, hetur um áraraðir rannsakað örnefni með tilliti til örnefna dregin af mannanöfnum. Hann hefu sett fram þá tilgátu að Njarðvíkurnar tvær á Íslandi séu alls ekki kenndar við Njörð, né heldur séu sambærileg heiti í Noregi kennd við goðið. Upphaflega hafi þær haft forliðinn “nær” í merkingunni “nærri”.

Þórhallur hefur í þessu sambandi bent á að heimildir greini frá því að Rosmhvalanesið og nágrenni þess hafi einmitt byggst frá Innesjum og sé Kvíguvoga getið sem landnámsjarðar.

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Einnig bendir hann á að finna megi samsvörun með staðheitum á upprunaslóðum landnámsmanna í Noregi og á Vatnsleysuströndinni. Heiti Njarðvíkur í Gullbringuslýslu er þá samkvæmt tilgátu Þórhalls orðið til vegna þess að hún er næsta vík við landnámsjörðina Kvíguvoga, en Njarðvík eystri í N-Múlasýslu heitir svo vegna þess að hún er næsta vík austan Fljótsdalshéraðs, og hefur verið gefið nafn af mönnum sem þar bjuggu. Hafa ber í huga að í Keflavík er þekkt örnefnið Náströnd. Forliður þess, “ná-“, hefur einmitt merkinguna “nærri” og virðist skírskotun til þess hvort staðir lágu nærri eða fjarri einhverjum öðrum hafa verið virk þegar örnefni urðu til hér um slóðir.

Úr Saga Njarðvíkur eftir Kristján Sveinsson – 1996.

Njarðvík

Innri Njarðvík – Áki Grenz.

Hvalsnesgata

Friðþór Eydal leiðsagði hópnum um varnarliðssvæði Keflavíkurflugvallar og nágrenni.

Keflavíkurflugvöllur

Í maí s.l. (2004) voru liðin 53 ár frá undirritun varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Meðmælendur samningsins segja hann eina mikilvægustu ákvörðun íslenskra stjórnvalda á seinni tímum og eina þá heillavænlegustu. En hún átti sér nokkurn aðdraganda.
Alvarleg staða heimsmálanna á seinni hluta síðustu aldar hafði áhrif á íslensk stjórnvöld, m.a. valdataka kommúnista í Tékkóslóvakíu 1948, fyrsta kjarnorkusprenging Sovétríkjanna í september 1949 og upphaf Kóreustríðsins í júni 1950. Árið 1949 gerðist Ísland stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og var varnarsamningurinn við Bandaríkin gerður á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins. Honum er ætlað að tryggja varnir Íslands og stuðla að friði og öryggi áþví svæði sem samningurinn tekur til.

Braggar

Braggar við Keflavíkurflugvöll.

Varnarliðið samanstendur af mörgum aðskildum starfseiningum innan Bandaríkjahers, en þar starfa einnig hermenn og fulltrúar frá Hollandi, Noregi, Danmörku og Kanada. Um 750 Íslendingar starfa fyrir varnaliðið (en þeim fer fækkandi). Varnarliðið rekur ratsjárstöðvar, annast skipa- og kafbátaeftirlit, flugvallarekstur, þyrlubjörgunarflug, fjarskipti og landvarnir.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur.

Það var árið 1941 að Ísland og Bandaríkin gerðu með sér herverndarsamning. Samningurinn batt í raun endi á þáverandi hlutleysisstefnu Íslands. Sama ár komu fjögur þúsund landgönguliðar til landsins. Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands kom til landsins, en að því tilefni var haldin stærsta hersýning, sem um getur. Árið 1943 var bandaríski heraflinn á Íslandi hvað fjölmennastur, eða um 45.000 manns. Þá voru hér á landi um 50.000 hermenn (einnig frá Bretlandi og Kanada), eða álíka margir og allir fullorðnir karlmenn á Íslandi. Á haustdögum tók að fækka í heraflanum.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur.

Keflavíkurflugvöllur var lagður af bandaríkjaher í heimstyrjöldinni síðari. Skömmu eftir hernám landsins hófu Bretar flug frá Kaldaðarnesi á bökkum Ölfusár og sumarið 1941 hófst flug þeirra frá Reykjavíkurflugvelli, þrátt fyrir að gerð hans væri ekki að fullu lokið. Jafnframt voru sléttaðir lendingarstaðir á nokkrum stöðum er nota mátti í neyð. Einn slíkur neyðarflugvöllur var útbúinn á Garðskaga og voru það fyrstu flugvallarframkvæmdir á Suðurnesjum.
Bandaríska herráðið áætlaði lagningu stórs flugvallar fyrir sprengju- og eftirlitsflugvélar á suðvesturhorni landsins ásamt minni flugvelli fyrir orrustuflugsveit er þar höfðu aðsetur. Beindust augu Bandaríkjamanna strax að Suðurnesjum, enda Bretar þegar með vísi að flugvelli á Garðskaga og svæðið nánast hindrunarlaust til flugs.

Hvalsnesgata

Gengið um Hvalsnesgötu við flugvöllinn.

Ljóst var að flytja þyrfti mikinn fjölda flugvéla frá Bandaríkjunum til Bretlands til þátttöku í styrjöldinni í Evrópu. Lagning flugvallanna tveggja, Patterson á Njarðvíkurfitjum og Meeks á Háaleiti hófst snemma árs 1942. Var Patterson flugvöllur tilbúinn til takmarkaðrar umferðar strax um sumarið er flugvélum 8. flughersins bandaríska var flogið til Bretlands með viðkomu á Grænlandi og Íslandi. Meeks flugvöllur, er við þekkjum nú sem Keflavíkurflugvöll, var tekinn í notkun í apríl 1943 og framkvæmdum við flugvellina lokið þá um haustið.
Patterson flugvöllur þjónaði orrustuflugvélum Bandaríkjamanna sem önnuðust loftvarnir á suðvesturhorni landsins til stríðsloka, en Meeks var áningarstaður í millilandaflugi eins og æ síðan. Einu umsvif Breta á Keflavíkurflugvelli (Meeks) voru starfsemi Liberator flugvéla, sem flogið var til stuðnings skipalestum og aðgerðum gegn þýskum kafbátum. Þessar flugvélar, sem aðsetur höfðu í Reykjavík, voru stórar og þungar til að geta athafnað sig þar fullhlaðnar við allar aðstæður. Lögðu þær því gjarna upp í eftirlitsflug frá Keflavík, þar sem þær höfðu aðsetur í Geck flugskýlinu, en lentu í Reykjavík að ferðinni lokinni þar sem áhafnirnar höfðu aðsetur.

Pattersonflugvöllur

Pattersonflugvöllur 1958.

Rekstri Pattersen flugvallar var hætt að styrjöldinni lokinni sumarið 1945, en fámennt herlið annaðist rekstur Meeks flugvallar til ársins 1947, en bandarískir borgarlegir starfsmenn tóku við rekstrinum samkvæmt Keflavíkursamningnum, sem gerður var milli Íslands og Bandaríkjanna haustið 1946. Nafnið á vellinum kom frá flugmanni, sem hafði farist í flugi frá Reykjavíkurflugvelli. Vél hans flæktist í vírum við brautarendann og skall í Skerjafjörðinn (SJ). Flugvöllurinn hlaut þá nafnið Keflavíkurflugvöllur og varð alþjóðaflugvöllur í eigu Íslendinga.

Það var árið 1946 sem íslensk stjórnvöld höfnuðu beiðni Bandaríkjamann um afnot af landi undir herstöðvar til langs tíma. Keflavíkursamningurinn var undirritaður og ákveðið að bandarískt herlið yfirgefi landið, en Bandaríkjamenn hafi áfram tiltekin afnot af Keflavíkurflugvelli. Flugvöllurinn var síðan afhentur Íslendingum. Árið eftir yfirgáfu síðustu bandarísku hermennirnir svæðið.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – flugturn.

Árið 1949 gerast Íslendingar stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu. Aðildin veldur innanlandsdeilum og óeirðum við Alþingishúsið. Fyrstu hersveitir Bandaríkjahers koma til landsins 7. maí 1951 og setja upp bækistöðvar á Keflavíkurflugvelli. Þær voru undir stjórn hershöfðingja í landhernum, sem laut stjórn Atlantshafsherstjórnar NATO og Atlantshafsherstjórnar Bandaríkjanna. Vallarsvæðið og nágrenni verður meginathafnasvæði varnarliðsins. 1955 var fjarskiptastöðin Broadstreet við Seltjörn flutt til Grindavíkur.
Húsnæði varnarliðsins var mjög takmarkað í fyrstu. Þúsundir hermanna höfðu búið í braggahverfum í námunda við flugvöllinn á styrjaldarárunum, en flestar þessara bráðabirgðabygginga voru rifnar eða gengu úr sér á árunum eftir stríð. Þá þurfti flugvöllurinn, sem upphaflega var með þeim stærstu í heimi, allmikla endurbóta við.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur.

Varnarliðið hefur allnokkrum sinnum komið við sögu björgunarmála. Má þar t.d. nefna Vestmannaeyjagosið 1973 og Goðastrandið 1994. Árið 2001 fékk þyrlubjörgunarsveitin viðurkenningu fyrir björgun um 300 mannslífa frá því að hún kom til landsins árið 1971.
Í upphafi fimmta áratugar síðustu aldar var Háaleiti fyrir ofan Keflavík einungis sorfinn jökulruðningur. Efst á honum trjónaði háreist gígopið (þar sem flugstjórnarturninn á Keflavíkurflugvelli stendur nú). Norðan þess stóð Kalka, hvítkölkuð stór varða, áberandi landamerki og kennileiti á Miðnesheiði.

Fuglavíkursel

Fuglavíkursel við Keflavíkurflugvöll.

Allnokkrar minjar eru innan varnarsvæðisins. Má t.d. nefna Fuglavíkursel, gömlu Hvalsnesleiðina, Stafnessel, Gamla-Kirkjuvog, tóftir við Djúpavog og á Selhellu, Kaupstaðagötuna, Hansakaupmannaverslunarstaðinn við Þórshöfn og Kirkjuvogssel, auk þess sem svæðið sker í sundur Skipsstíginn, hina gömlu þjóðleið milli Njarðvíkur og Grindavíkur. Mikilvægt er fyrir stolt okkar Íslendinga að endurheimta það svæði, u.þ.b. 50 metra breytt þar sem hitaveitulögnin liggur í gegn, sem fyrst. Bandaríkjamenn ættu að hafa skilning á því að ávallt er mikilvægt að halda þjóðleiðunum opnum, jafnvel á stríðstímum.

Hvalsnesgata

Varða við Hvalsnesgötu.

Annars hafa minjar innan svæðisins verið ágætlega varðveittar án þess að það hafi beinlínis verið ásetningur þeirra, sem með það höndla.
Þess má geta að lokum, til fróðleiks, að í aðalstjórnstöð NATO á Keflavíkurflugvelli hangir stórt spjald með tveimur myndum undir yfirskriftinni Wanted Dead and Alive; annars vegar er mynd af Bin Laden (dead) og hins vegar (alive) er mynd af hvíthærðri FERLIRsálfkonu. Svo virðist sem hermönnunum sé meira í mun að ná hinni síðarnefndu – alive.

-Upplýsingarnar eru m.a. úr riti um 50 ára afmæli varnarsamningsins 2001 og frá Friðþóri Eydal

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur.

Duushús

Kaupstaðurinn Keflavík stendur við samnefnda vík er markast af Hólmsbergi að norðanverðu, af Vatnsnesi að sunnanverðu, og gengur inn úr vestanverðum Stakksfirði, en svo nefnist syðri hluti Faxaflóa, sem markast af Rosmhvalanesi og Kvíguvogastapa að austanverðu.

Keflavík

Gamli Keflavíkurbærinn.

Heimafólk segir að fallegt sé í Keflavík – þegar vel viðrar. En þar gnauða líka vindar allra átt. Landsynningurinn og Útsynningurinn hlaupa óhindraðir yfir lágan skagann og norðanstormurinn stendur beint uppá víkina, – þá þeytist sjórokið yfir bæinn, og þeim, sem ókunnugir eru, finnst þá ömurlegt um að litast. Því miður endurspeglar þetta um of viðhorf heimamanna þegar þeir lýsa aðstæðum fyrir utanaðkomandi.
En svona hefur þetta verið frá aldaöðli, þeir bera því vitni klettarnir á Vatnsnesinu og Berginu, þeir eru brimsorfnir langt inn til lands. “Landið er til að láta sér þykja vænt um það. Með því einu er hægt að fá landið til að umbera mann.”

Keflavík

Gamli Keflavíkurbærinn.

Jörðin Keflavík var ekki stór. Með sjávarsíðunni afmarkast hún að norðan af “Grófinni”, sem næst er Berginu, að sunnanverðu af Nástrandargróf, sem aðrir kalla Nærstrandar, eða þar sem nú er neðsti hluti Tjarnargötu.
Landamerkin að norðanverðu voru bein lína dregin úr Gróf upp í “Keflavíkurborg”, en svo nefnist gamall stekkur á holtinu upp af Garðvegi, rétt norðan við núverandi byggð, og þar er nú mælipunktur frá Landmælingum Íslands. Þaðan lá svo bein lína í átt að Kölku (sem var stór og mikil hvítkölkuð varða á Háaleitinu), þar til sjónlínu úr Nástrandarvörðu er skar hana í holtinu suðvestur af Iðavöllum.

Keflavík

Brunnur ofan Stekkjarhamars.

Til suðurs frá Grófinni rís landið muög, svo að sjávarkanturinn nær allt að 6 metra hæð og gengur suður að svokallaðri “Stokkavör” þar sem uppsátur Keflavíkurbóndans hafði alltaf verið.

Upp af þessum sjávarkanti reis landið nokkuð og náði 9 metra hæð á áberandi hól, og þar fast fyrir sunnan mun bærinn hafa staðið eftir sögn elstu manna, en túninu hallaði frá bænum í allar áttir.
Marta Valgerður Jónsdóttir getur þess í grein í Faxa í maí 1947, til sannindamerkis um bæjarstæðið sunnan við hólinn, að greint hafi verið frá því, aðþar hefðu fundist greinilegar minjar um byggt ból, er túnið var sléttað í tíð eldri Duus.

Keflavík

Drykkjarsteinn ofan Keflavíkurbjargs.

Þá hafa einnig verið sagðar sögur af miklum landspjöllum af völdum sjávar. Bakkarnir meðfram höfninni áttu að hafa verið hærri og skagað lengra fram til sjávar og undirlendi nokkurt fyrir neðan bakkana, en sjórinn brotið það land og bakkarnir hrunið smátt og smátt fram.
Frá Stokkavör suður af Nástrandargróf reis landið aftur fram við sjóinn, og náði sjávarkanturinn þar enn um 6 metra hæð. Það urðu mikil landbrot á því svæði, sem ekki var stöðvað fyrr en 1949 er lokið var að gera steinsteyptan sjávargarð á verstu staðina.
Ekki er vitað hvenær búskapur hefur hafist í Keflavík, um það eru engar sagnir, en ætla má að það hafi verið nokkuð snemma, en sennilega hefur sá búskapur aldrei verið mikill, aðeins kotbúskapur sem að miklu leyti hafur byggst á útræði.

Keflavík

Keflavík – gamli bærinn fremst.

Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir svo um Keflavík: “Hér er fyrirsvar ekkert, jarðardýrleiki óviss. Eigandi kongl. Majestat. Ábúandi Halldór Magnússon, landsskuld (þ.e. afgjald) 25 álnir, sem borgast 1 vætt og 2 fjórðungar fiska í kaupstað í reikning umboðsmannsins á Bessastöðum.
Við til húsábóta leggur ábúandinn. Kúgildi er ekkert. Inntökuskip eru hér engin, lending slæm. Engjar engar, úthagar í betra lagi og vatnsból í allra lakasta máta sumar og vetur. Kirkjuvegur langur og margoft ófær um vetrartímann.”

Keflavík

Keflavík – vinda í Duushúsum.

Samkvæmt jarðabók er hægt að gera sér grein fyrir að land jarðarinnar hafi verið ólíkt grasgefnara þá og fyrr, en varð á síðustu árum og hefur uppbástur eytt jarðvegi og gróðri á þeim tæpum 3 öldum, sem eru liðnar, því allt land fyrir ofan kauptúnið var orðið örfoka, en eldra fólk benti á þykk rofabörð eins og eyjur upp úr melunum með þéttum grasverði, sem sýnishorn af því sem verið hafði.

Keflavík

Stekkur undir Stekkjarhamri.

Í Faxa í maí 1947 segir MVJ um kvaðirnar á Keflavíkurbóndanum. “Kvaðir um mannslán mun láta undarlega í eyrum nútímanna, en svo sem kunnugt er. Hafði konungsvaldið eða umboðsmenn á Bessastöðum, lagt á herðar manna hinar þyngstu skyldur, er þeir urðu að inna af hendi kauplaust, auk þess urðu þeir venjulega að fæða sig sjálfir. Bændur voru skyldugir að leggja til menn á skip Bessastaðamanna, er þeir höfðu í aflabestu verstöðvunum, verka fisk þeirra og skila þurrum og óskemmdum í kaupstað, vinna að húsagerð og landbúnaðarstörfum, bera fálka og margt fleira.”

Keflavík

T.d. voru sumir Innnesjamenn skyldir til að bera fálka frá Bessastöðum til Keflavíkur og Básenda, þegar þaðan voru sendir lifandi fálkar með verslunarskipunum til Danmerkur.
Allar þessar kvaðir lágu sem þungt farg á landsmönnum og voru orðnar nær óbærilegar, er þeir Árni og Páll sömdu jarðabókina.
Keflavíkurbóndinn hefur verið laus við allar þessar kvaðir, en í staðinn hefur hann verið þjónn Keflavíkurkaupmannsins og gætt verslunarhúsa hans á vetrum, er kaupmaður var brottsigldur.
Keflavík
Í Setbergsannál er getið um Grím Bergsson í Keflavík er andaðist 8. janúar 1649 í einni heyótt á kvöldtíma. Grímur hafði fyrrum verið sýslumaður í Kjósasýslu. Hann bjó fyrst á Kirkjubóli á Miðnesi, síðan í Ytri Njarðvík og loks í Keflavík. Á meðan hann var í Ytri Njarðvík varð hann velgjörðarmaður Hallgríms Péturssonar. Tók hann þátt í að liðsinna Hallgrími þegar hann kom frá Kaupmannahöfn vorið 1637, félaus og vinafár með konuefni sitt Guðríði, en þau komu út í Keflavík.

KeflavíkÁrið 1750 er í Keflavík einn meðalbær og lítið kot. Þegar bændamanntal er tekið 1762 býr þar Hannes Höskuldsson. Hann mun vera síðasti bóndinn í Keflavík og leggst jörðin undir verslunina þar eftir hans daga.
Hinn 27. júní 1792 var samkvæmt fyrirskipan Ólafs stiftamtmanns háð söluþing í Reykjavík þar sem hann bauð til kaups 24 konungsjarðir á Miðnesi. Jörðin Keflavík var þar á meðal. Hún var slegin kaupmanninum í Keflavík, Christen Adolph Jacobæusi fyrir 50 ríkisdali.

-Guðleifur Sigurjónsson – Keflavík í apríl 1985.

Keflavík

Keflavík – Gamli bærinn á miðri mynd.

Keflavík

Árið 1845 eru eftirtaldir kaupmenn með verslun í Keflavík: Martinus Smith, Sveinbjörn Ólavsen, W. Ch. H. Fischer og Gros Knutsen.

Duus

Duus-brunnur.

Árið 1848 kaupir Peter Duus Keflavíkurverslunina, sem var norðan Stokkavarar og verslaði hann til 1864 að sonur hans, Hans Peter Duus tók við henni og verslaði hann til dauðadags, en hann lést 23. júlí 1884, aðeins 55 ára að aldri. Ekkja hans, Kristjana Duus, dóttir Sveinbjarnar kaupmanns í Keflavík, hélt áfram verslunarrekstrinum ásamt allri útgerð og umfangi, sem Duus hafði verið með áður, og var bróðir hennar, Ólafur, verslunarstjóri. Þessi verslun og útgerð var rekin til 1918 að Matthías Þórðarson kaupir hana. Matthías var frá Móum á Kjalarnesi.

Duus

Gamla búð er stakstætt bindingshús, kjallari, hæð og portbyggt ris. Það stendur á opnu svæði sunnan við Duus hús. Gamla búð var byggð árið 1870 af Hans Peter Duus og var þar m.a. rekin verslun á neðri hæð en kaupmaðurinn bjó á efri hæðinni. Húsið er einkum merkilegt fyrir þær sakir að það hefur haldist að mestu óbreytt frá fyrstu tíð. Grunnflötur hússins er ca. 80 m2, tvær hæðir og lítill kjallari. Hugmyndir um framtíðarnotkun hússins tengjast menningarlífi bæjarins. Húsið skemmdist í eldsvoða á 7. áratug 20. aldar.

H.P. Duus lét reisa nýja búð árið 1870-’71. Var það tveggja hæða hús er stendur enn á gatnamótum Vesturbrautar og Duusgötu. Í dag er það nefnt “Gamla búðin” og er aðeins eitt hús hér í Keflavík talið eldra, en það er Þorvarðarhús – Vallargata 28 – sem mun vera byggt árið 1870. Þá lét Duus einnig byggja árið 1876-77 stórt og mikið pakkhús upp á tvær hæðir og ris, sem stendur við Duusgötu. Var það strax nefnt “Bryggjuhús”, og var Duusbryggjan fram af því miðju.

Um eða fyrir síðustu aldamót hafði Duusverslunin keypt upp verslanirnar af Knutsen og Fischer og var þar með orðin eigandi að allri Keflavíkinni með mikil umsvif.

Við endurgerð Duushúsanna við gömlu Keflavík kom í ljós letursteinn með stöfunum HPD, sem enginn virtist veita sérstaka athygli. Maður, með athyglina í lagi, tók steininn til handargangs og hefur varðveitt hann æ síðan. Um er að ræða merkilega fornleif.

HPD-steinninn

HPD-steinninn úr fyrrum Duushúsum (Hans Peter Duus) – stoðsteinn og jafnframt hornsteinn Bryggjuhússins. Steinninn er í einkaeigu.

Um aldamótin 1900 var miðhhúsið notað sem bíósalur, sem mun hafa verið sá fyrsti hérlendis.

Sjá meira HÉR.

-Guðleifur Sigurjónsson – Keflavík í apríl 1985.

Duushús

Bryggjuhúsið er elsta húsið í Duushúsalengjunni utan búðarinnar (1871). Það var byggt 1877 af Hans Peter Duus, forstjóra Duusverslunar. Húsið var mjög stórt á þeirra tíma mælikvarða, 250 m2 að grunnfleti og alls tvær hæðir og ris. Mikið er eftir af upprunalegu efni í húsinu sem eykur varðveislugildi þess. Húsið var byggt sem pakkhús eða lagerhús fyrir verslunina og var bryggja (Duusbryggja) byggð við húsið sem þá stóð á sjávarkambinum. Enn má sjá merki um þessa gömlu sögu í húsinu, m.a. er þar forn vatnsbrunnur, og í risi stór vöruvinda sem notuð var til að hífa varning milli hæða.