Tag Archive for: Reykjanesskagi

Reykjanes - göngukort

Árið 2005 gáfu Landmælingar Íslands út nýtt sérkort yfir Suðvesturland.
Í framhaldi af því skrifaði
Sesselja GudmundsdottirSesselja Guðmundsdóttir gagnrýni um kortaútgáfuna í Morgunblaðið. Gagnrýni Sesselju er upp tekin hér sem dæmi um mikilvægt viðmót þeirra er til þekkja þann fróðleik er um er höndlað, en fá jafnan ekki eðlilega aðkomu að undirbúningi slíkrar mikilvægrar vinnu.
Nýlega kom út sérkort af Suðvesturlandi frá Landmælingum Íslands í mælikvarðanum 1:75 000. Í kápukynningu segir m.a.: „Á kortinu er fjöldi örnefna, upplýsingar um vegi og vegalengdir, göngu- og reiðleiðir auk helstu upplýsinga sem útivistarfólk þarf á að halda.“ Hér koma nokkrar athugasemdir sem snerta Reykjanesskagann: Þorpið Hafnir í Reykjanesbæ var byggt út úr höfuðbólunum Kirkjuvogi og Kotvogi en þau örnefni sjást ekki. Í Höfnum stendur Kirkjuvogskirkja sem á sér merka og langa sögu en hún er ekki sett inn, aðeins kirkjugarðstáknið (þrír krossar). Þarna mætti ætla að kirkja væri aflögð sem er rangt.
sulur-101Suður undir Reykjanesi er örnefnið Tjaldstaðagjá sem vísar til bæjarnafns (-staðir) en á kortinu stendur Tjaldstæðagjá. Til eru skrif um byggð úti á Reykjanesi og örnefnið Tjaldstaðagjá styður þær sagnir, nafnið er rétt á eldri kortum. Súlnagjá er sett suðaustan við fjallið Súlur austan Hafna en gjáin er vestan (neðan) við fjallið og hefur verið rétt staðsett á eldri kortum. Gamli-Kirkjuvogur (nefndur Vogur í Landnámu, seinna kirkjustaður) stóð handan við Ósana norðan Hafna en var fluttur til Hafna líklega vegna landbrots og landeyðingar á 16. öld. Á kortinu er Gamla-Kirkjuvogs ekki getið en hann er á eldri kortum. Á Grímshól á Vogastapa er hringsjá en hún er ekki sýnd (var á korti frá 1989).Þorpið Vogar var byggt út úr höfuðbýlinu Stóru-Vogum en það nafn er ekki inni nú, aðeins Minni-Vogar. Örnefnin Stapaþúfa, Gjásel og Brunnastaðasel í Strandarheiði eru sett niður á röngum stöðum.

Brunnastadasel-101

Stapaþúfa er suðvestan við Gjásel og Gjásel norðan Brunnastaðasels. Enn og aftur er bæjarnafnið Auðnar á Vatnsleysuströnd rangt skráð á kort, sagt Auðnir, en í Jarðabókinni 1703 og í öðrum gömlum heimildum er alltaf sagt Auðnar. Höskuldarvallastígur er settur á núverandi göngustíg sem liggur frá Oddafelli að Keili en örnefnið á aðeins við gömlu götuna sem liggur yfir hraunið næst Oddafelli en sú lá yfir í selin austan við. Sandakravegur (gömul lestaleið að austan til Suðurnesja) hefur alla tíð verið rangt staðsettur á kortum og er enn. Yngstu reiðgötuna um Herdísarvíkurhraun vantar á kortið en sú elsta (?) er sýnd þó óljós sé. Yngsta reiðgatan er djúp og vörðuð og fær bæði hestum og fólki og ætti frekar heima á kortinu en sú eldri. Sláttudalur austan Geitahlíðar (fjall, 384 m) í Krýsuvíkurlandi er á röngum stað nú en var réttur á korti 1989.
Örnefnið Meltunnuklif-101Geitahlíð hefur aldrei fyrr teygt sig austur með hlíðinni frá fjallinu Geitahlíð. Samkvæmt örnefnaskrám heitir fjallið sjálft (hnjúkurinn) Geitahlíð og efst á því tróna Æsubúðir. Örnefnið Drumsdalavegur er sett á vellina sunnan við Vigdísarvallaeyðibýlið en á heima á fjallveginum yfir Sveifluhálsinn sunnarlega en þar er kletturinn Drumbur. Reykjavegur (stikuð gönguleið) er rangur að hluta á kortinu, villa sem hver apar eftir öðrum. Hann liggur EKKI um Méltunnuklif og svo austan við Höfða heldur niður Brattháls norðan klifsins og svo vestan Höfðans og gengur um skarðið milli hans og Sandfells. Þeir sem stofnuðu til Reykjavegarins ættu að koma upplýsingum um legu hans í rétt horf sem fyrst. Fyrrnefnd villa er ekki sú eina á þessari leið.

Raudholssel-101

Rauðhólssel – uppdráttur ÓSÁ.

Í kynningu kortsins er sagt að það hafi að geyma „helstu upplýsingar sem útivistarfólk þarf á að halda.“ Því miður er ekki svo. Á svæðinu eru margar rústir sem útivistarfólk hefur ánægju af að skoða en eru ekki settar inn, ekki einu sinni merktar með rústakrossi (x). Hér má nefna selrústir í Hafnaheiði, Merkinessel og Möngusel; selrústir við Seltjörn við Grindavíkurveg; Nýjasel við Skógfellaveg; Hvassahraunssel og Lónakotssel; selrústirnar við og í Núphlíðarhálsinum, þ.e. Rauðhólssel, Oddafellssel og Sogasel svo ekki sé talað um selrústirnar á Selsvöllum.

Flestar fyrrnefndar rústir liggja við merktar gönguleiðir á kortinu. Gvendarhellir í Krýsuvíkurhrauni er merkilegur vegna mannvistarleifa og sagna en hann er ekki á kortinu en er á eldri kortum. Elsta (?) þjóðleiðin með Suðurströndinni er sýnd um Herdísarvíkurhraun eins og fyrr segir en nálægt henni eru selrústir sem og gömul fjárrétt á Seljabótarnefi sem er við það að hverfa í hafið. Þessar rústir eru ekki settar inn.

Suðvesturland

Suðvesturland – kort.

Sumar gönguleiðirnar á kortinu enda að því er virðist í öngstræti og ekkert sem segir að við lok þeirra sé eitthvað áhugavert, t.d. er einn slíkur leggur í Geldingahrauni austan Afstapahrauns og annar ofan Draugahlíða í átt að Brennisteinsfjöllum. Sú leið hefði átt að liggja alla leið að námunum en þar eru merkar mannvistarleifar í og við hverasvæði. Flest þarf gagnrýni við. Ef enginn gagnrýnir birtast sömu villurnar aftur og aftur eins og illgresi í túni.
Landakortaútgáfa virðist varðveita villur af kerfislegri íhaldssemi og heimur versnandi fer þrátt fyrir sérfræðinga út og suður. Atlaskortin eru vönduð sem og kort frá 1989 og mættu kortagerðarmenn hafa þau meira til hliðsjónar við gerð nýrri korta. Sögufalsanir eru nógu slæmar þó ekki séu þær skjalfestar um aldur og ævi.“
Framangreint kort er langt í frá að vera gallalaust líkt og gerist með slík kort nú til dags. Sennilega kemst ekki skikk á ágreiningis- og deilumál um örnefni og minjar á Reykjanesskaganum fyrr en væntanleg „Reykjanesskinna“ kemur út seint á öðru áratug þessarar aldar.
Til upplýsinga og fróðleiks um framangreint Rauðhólssel, svo dæmi sé tekið, má t.d. geta heimildar í Jarðabók ÁM og PV 1703: Stóra-Vatnsleysa; „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Rauðhólssel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein á vatnsskorti“.

Heimild:
-Morgunblaðið 16. júlí 2005, bls. 30.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 3. b. 1923. S. 152.

Gvendarborg

Gvendarborg.

Fugl

„Reykjanes er alveg einstakur staður á jörðinni því þar má sjá flekaskil milli meginfleka jarðskorpunnar, Evrasíuflekans og Norður-Ameríkuflekans, á þurru landi.

pall E

Páll Einarsson.

Flekaskilunum fylgir landmótun, eyðing, eldvirkni, jarðhitavirkni, sprungur, misgengi og jarðskjálftar. Flekarnir fjarlægjast hver annan um tvo sentímetra á ári “sagði Páll Einarsson, prófessor við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og einn helsti sérfræðingur landsins í jarðskjálftum við upphaf 6 klst ferðar um Reykjanesið. „Þegar ný kvika kemur ekki upp úr iðrum jarðar, eins verið hefur s.l. 800 árin verða afleiðingarnar þær að landið lækkar og sjórinn nær að éta smám saman af landinu, einkum á sunnanverðum Skaganum. Í þessari ferð var m.a. ætlunin var að skoða bæði jarðsöguna, – mótunina og kíkja á mögulega þróun í þeim efnum í nánustu framtíð. Páll var annar tveggja leiðsögumanna í skoðunarferð sem farin verður um Reykjanesið sem lið í afmælisdagskrá Verkfræði- og náttúruvísindasviðs í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands. Hinn var Gunnar Þór Hallgrímsson, líffræðingur, og er fjallað um hans þátt hér á eftir.

gja-22

Svæðið er stöðugt viðfangsefni vísindamanna, bæði innlendra og erlendra, sem koma til að rannsaka þau ferli sem skapa nýja jarðskorpu á flekaskilum. Í ferðinni voru m.a. skoðuð þversnið í gegnum eldgíga og gossprungur sem og mismunandi gerðir sprungna athugaðar. Sérstök stopp voru áætluð ofan við Sandvík og á Reykjaneshæl.
Strax í upphafi ferðar fjallaði Páll um flekaskil Ameríkuflekans annars vegar og Evrasíuflekans hins vegar. Sagði hann líta mæti t.d. á Keflavík sem „ameríska borg“ en Grindavík aftur móti sem „evrópska borg“. Skilin væru um 5 km breið, en þau væru hvergi skýrari en yst á Reykjanesi.

Flekaskil

Flekaskil.

Flekarnir rækju í burt frá hvorum öðrum sem næmi að jafnaði 18-19 mm á ári. Þannig mætti greina 18 cm rek á 10 ára tímabili, 1.80 m á einni öld og 18 m á þúsund árum. Það samsvarði nokkurn veginn breidd svonefndrar gjáar á milli meginlenda, sem væri einungis skemmtileg framsetning á efninu, en fjarri lagi. Jaðar Ameríkuflekans væri nokkurn veginn þarna, en eins og fyrr sagði, er jaðar Evrópuflekans í u.þ.b. 5 km fjarlægð í austri. Þegar um hreint frárek væri að ræða færðust flekarnir beint í sundur, en þegar flekarnir hliðruðust kallaðist það hliðrek.

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa.

Þannig væri ysti hluti jarðar samsettur úr nokkrum geysistórum bergflekum sem ná djúpt niður í seigan möttul jarðar. Flekarnir eru 100–200 km þykkir og „fljóta“ ofan á möttlinum. Efsti hluti flekanna kallast jarðskorpa og er hún 5-70 km þykk. Við flekamót rekur fleka saman, líkt og sjá mátti afleiðingarnar af nálægt Japan nýlega, en við flekaskil rekur þá í sundur.
Við flekaskil valda iðustraumar í möttulbráðinni því að flekar færast í sundur. Þar þrýstist bráðin hraunkvika upp og bætist á jaðra flekanna. Eldgos verða þar sem hraunkvikan brýst alla leið upp á yfirborð. Flekaskil eru að langmestu leyti á botni úthafanna og mynda þau geysilangt net af neðansjávarhryggjum, alls um 60 þúsund km að lengd.

Sprunga

Hraunsprunga.

Aðeins um 1% af úthafshryggjum jarðar eru ofansjávar og það gerir Reykjanesið sem og Ísland allt svo sérstakt. Úthafshryggurinn sem liggur um Ísland og sker það í tvennt kallast einu nafni Norður-Atlantshafshryggur og er hann hluti af jöðrum flekanna tveggja.
Svæði þar sem flekana tvo rekur hraðast í sundur eru kölluð gliðnunarbelti eða rekbelti. Utan rekbeltanna eru tvö hliðarbelti og liggja þau í eldri jarðskorpu en rekbeltin. Tvö þverbrotabelti tengja saman hliðrun sem er á Norður-Atlantshafshryggnum um mitt Ísland.
Hliðrun úthafshryggjarins stafar líklega af miklum möttulstrók, svokölluðum heitum reit með sérstaklega heitu, léttu og miklu kvikuuppstreymi, sem er undir Íslandi. Miðja möttulstróksins er undir Vatnajökli og togar strókurinn hrygginn eða gliðnunarbeltin til sín.
AtlantshafshryggurinnTil eru þrjár gerðir af hreyfingum við flekamæri, svæðin sem tveir flekar liggja saman. Sú fyrsta er tveir samliggjandi flekar færast í átt hvor frá öðrum á svæði sem nefnist flekaskil, önnur er að flekar færast hvor í átt til annars á svæði sem kallað er flekamót og sú þriðja er sniðgeng flekamæri (þverbrotabelti, hliðrunarbelti) þar sem tveir flekar færast meðfram hvor öðrum. Við flekaskil, þar sem plöturnar færast í sundur, eins og t.d. á Íslandi, er uppsteymi í möttli jarðar og ný jarðskorpa myndast stöðugt þar sem flekarnir skilja eftir sig gliðnunina. Við flekamót gerist  annaðhvort það að þar sem flekar rekast hvor á annan eyðist jarðskorpan hjá þyngri flekanum en léttari flekinn byggist upp eða þá að tveir jafnþungir flekar rekast hvor á annan en þá geta þeir ekkert annað en þrýst upp á við. Við sniðgeng flekamæri geta verið miklar jarðskjálftahreyfingar þar sem mikill þrýstingur myndast við mismunandi hreyfingar tveggja fleka.

Atlantshafshryggurinn-2

Frá því að Atlantshafið byrjaði að opnast, í lok Miðlífsaldar og upphafi Nýlífsaldar, hefur Norður-Ameríkuflekann og Evrasíuflekann rekið í gagnstæðar áttir. Á gliðnunarsvæðinu í miðju Norður-Atlantshafi hefur byggst upp hryggur og þessi hryggur skýtur kollinum upp úr hafinu hér á Íslandi. Fljótlega eftir að endurbætt landrekskenning varð viðurkennd á 7. áratugnum
var ljóst að tilvera Íslands er mjög tengd landrekinu og í raun afleiðing þess og samspils við möttulstrókinn. Ísland gnæfir um 2-4 km yfir venjulega hæð Norður-Atlantshafshryggjarins.

Landris

Landris.

Það sem skapar Íslandi þessa sérstöðu, er að undir landinu er óvenjumikið uppstreymi heits efnis úr möttlinum, svokallaður möttulstrókur eða heitur reitur. Þessi heiti reitur hefur verið virkur að minnsta kosti síðustu 55 milljónir árin og virkni hans virðist ekki fara minnkandi enn sem komið er.

Sandfellshaed

Talið er að fyrir um 20 milljónum ára hafi flekaskilin rekið yfir heita reitinn og þar með hafi myndun Íslands hafist.
Páll sagði megineldfjöllin eftir síðustu ísöld, dyngjurnar, hafa gefið af sér undirlendi það er Reykjanesskaginn byggist á nú. Í raun væru þau ekki líkar hinum gríðarstóru dyngjum er þekkjast víða um heim, heldur mætti fremur kalla þær dyngjuskyldi. Á leið um Reykjanesbrautina var ekið yfir hraun frá Hrútargjárdyngju vestan við Straum. Dyngjan gaus fyrir ca. 7.000 árum og hefur, líkt og aðrar dyngjur, gosið samfleitt í nokkra áratugi eða jafnvel í eina öld. Hrútagjárdyngjan hefði gefið af sér apalhraun. Þegar litið væri yfir slík hraun mætti víða sjá flatar ójöfnur og hraunkýli (hraunhveli). Þegtta gerðist þegar fljótandi efsti flötur hraunkvikunnar storknaði en fljótandi hraunið streymdi fram undir. Þá safnaðist það stundum í þrær eða hólf, lyftu storknuðu þakinu um stund, en rynni síðan áfram ef og þegar kvikan næði að bræða sér áframhaldandi leið – og landið sigi á ný. Við þessar aðstæður spryngi storknuð hraunkvikan ofan á glóðinni.

Berggangur a reykjanesi

Apalhraun, lík Afstapahrauni, gerðu sig á annan hátt; yltu fram seigfljótandi undan þunga straumsins og mynduðu gróf hraun sem jafnan væru síðar erfið yfirferðar.
Þráinsskjöldurinn væri dyngjuskjöldur allt frá því í lok síðustu ísaldar. Sjá mættu leifar þessa efst við gígbrýnina. Sandfellshæðin væri litlu yngri, en frá henni hefði runnið mikið magn hraunvikur er myndaði núverandi undirlag ysta hluta Reykjanesskagans, stranda á millum. Tvo hliðarskyldi mætti sjá á dyngjuskyldinum; annars vegar Berghóla og Hafnarbergs og hins vegar Langhól miklu mun ofar. Einn væri þó sá dyngjuskjöldur, sem ekki  væri ætlunin að heimsækja að þessu sinni, þ.e. Heiðin há. Hún væri dæmigerður dyngjuskjöldur, líkt og Skjaldbreið og Trölladyngja.

Kapelluhraun

Kapelluhraun.

Páll lýsti Kapelluhrauni (rann 1151) og Afstapahrauni (ca. 1700 ára) þegar ekið var í gegnum þau. Auk þess fjallaði hann nánar um nýhraunin á Skaganum. Fram kom að kortlagning og aldursgreiningar á hraunum á Reykjanesskaga hafi leitt í ljós að eldvirknin síðustu 10.000 árin einkennist af gosskeiðum sem vara í 400-600 ár. Á milli gosskeiðanna eru um 600-800 ára goshlé. Á hverju gosskeiði verða flest eða jafnvel öll eldstöðvakerfin á skaganum virk. Gossaga síðustu tveggja gosskeiða er allvel þekkt og myndin af því þriðja síðasta óðum að skýrast. Um eldri gosskeið liggja fyrir takmarkaðar upplýsingar enn sem komið er, þó bætist smám saman við ný vitneskja.
Tímasetning hrauna á Reykjanesskaga Atlantshafshryggurinn-23byggir annars vegar á C-14 aldursgreiningum á gróðurleifum undan hraunum og hins vegar á gjóskulagatímatali.
Gjóskutímatalið byggir á Heklu- og Kötlulögum ásamt gjóskulögum sem eiga upptök í sjó við Reykjanes. Landnámslagið (LNL), frá því um 870 e.Kr., finnst um allan skagann og er eitt mikilvægasta leiðarlagið. Á seinni hluta nútíma, síðustu 4500 árin, er stutt á milli gjóskulaga í jarðvegssniðum og tímatalið því notadrjúgt en neðar verður það hins vegar mun gisnara, sem takmarkar notagildi þess. Frá síðasta gosskeiði eru þekktir þrennir eldar, þeir fyrstu á 10. öld og hinir síðari á 12. og 13. öld. Hraun frá fyrstu eldunum eru í Brennisteins-fjallakerfinu, s.s. Tvíbollahraun, Breiðdalshraun, Húsfellsbruni, Selvogshraun og Kristnitökuhraunið. Þrjú fyrstnefndu hraunin hafa verið aldursgreind af Jóni Jónssyni (1983). Mögulegt verður að teljast að einhver þessara hrauna hafi brunnið á 11. öld. Öll liggja þessi hraun ofan á Landnámslaginu og undir Miðaldalaginu (ML) frá 1226.

Atlantshafshryggurinn-24

Við kortlagningu hrauna í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu kom í ljós að þar er að finna hraun sem liggja fast undir Landnámslaginu. Lítill sem enginn jarðvegur er sjáanlegur þar á milli. Næsta þekkjanlega gjóskulag undir þessum hraunum, eða gjalli frá upptakagígum þeirra, er Heklulag sem er 1400-1500 ára gamalt (kallað „Gráa lagið“ vegna sérstaks litar). Yfirleitt er nokkur jarðvegur á milli „Gráa lagsins“ og hraunanna. Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga teljum við að þau séu frá 8.-9. öld.

gja-22

Ljóst er að hraunin tilheyra síðasta gosskeiði en ekki því næsta á undan sem varð fyrir um tvö þúsund árum. Síðasta gosskeið lengist því um allt að 200 ár og spannar tímabilið frá um 750-1240 e.Kr., eða um 500 ár. Hraunin sem um ræðir er annars vegar að finna í Brennisteinsfjalla-kerfinu og hins vegar í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum eru það Hvammahraun og Vörðufellsborgahraun. Upptök þess fyrrnefnda eru í gígaröð efst í Brennisteinsfjöllum. Stærsti gígurinn heitir Eldborg. Síðarnefnda hraunið kemur frá gígaröð nokkru sunnar, vestan undir Vörðufelli, sem nefnd er Vörðufellsborgir. Skammur tími hefur liðið á milli gosanna. Hraunin eru ungleg og hafa stundum verið talin meðal sögulegra hrauna. Jón Jónsson taldi þau ekki með í þeim hópi en þó vera mjög ung. Hraunin þekja til samans ríflega 40 km2 og runnu ofan úr fjöllunum á nokkrum stöðum, s.s. um Hvamma í átt að Kleifarvatni og fram af Herdísarvíkurfjalli um Lyngskjöld og nokkur fjallaskörð þar fyrir austan.

Nutimahraun

Í Krýsuvíkurkerfinu er hraun frá líkum tíma í Móhálsadal. Upptök þess eru á um sjö kílómetra langri gígaröð, talsvert slitróttri. Á nýlegu jarðfræðikorti af Reykjanesskaga er hraunið nefnt Hrútafellshraun. Stærstu gígarnir eru Lækjarvallagígar austan við Djúpavatn. Lítill hraunfláki sem aðgreinist frá meginhrauninu er á risspildu Hrútagjárdyngju. Ofan á henni, skammt norðvestur af gíg dyngjunnar, hefur opnast tveggja kílómetra löng gossprunga sem gefið hefur frá sér hraun sem er um 0,66 km2 að flatarmáli. Meginhraunið er hins vegar um 6,8 km2 að lágmarki en syðsti hluti þess er hulinn af Ögmundarhrauni, sem er frá 12. öld.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga verður ekki annað séð en að þau séu öll mynduð á mjög svipuðum tíma. Ekki er þó víst að eldar hafi verið uppi í báðum eldstöðvakerfunum samtímis, en skammt hefur liðið á milli þeirra. Úr þessu mætti mögulega fá skorið með aldursgreiningum á koluðum gróðurleifum og mó undan hraunum og gjalli. Slík sýni hafa nýverið náðst frá tveimur stöðum. Annar staðurinn er norðan við rissvæði Hrútagjárdyngju og hinn í Sogum. Sýnin hafa verið send til greiningar.

Móhálsadalur

Móhálsadalur.

Á báðum svæðunum, þ.e. í Móhálsadal og í Brennisteinsfjöllum, hafa hlaðist upp stórir gjall- og klepragígar sem bendir til að gosin hafa verið kröftug og staðið nokkuð lengi. Hraunin í Brennisteinsfjöllum ná yfir stórt svæði. Gosvirknin þar hefur smám saman færst í einn megingíg sem gefið hefur frá sér mikið af hrauninu. Hvammahraun er að mestu úfið og illfært apalhraun en umhverfis gígasvæðið er helluhraun. Talsverð hraunbunga með dyngjulögun er við aðalgíginn.

Sveifluhals-22

Eldarnir á 8.-9. öld bæta nokkru við þá mynd sem við höfum af eldvirkni á Reykjanesskaga. Til dæmis er nú ljóst að á sama gosskeiðinu hefur gosið tvisvar í sama eldstöðvakerfi. Einnig bendir nú flest til að gosskeiðin séu nokkru lengri en talið hefur verið, en vísbendingar um það hafa einnig komið fram varðandi gosskeiðið fyrir um 2000 árum. Eldgos á Reykjanesskaga á næstunni kæmi ekki á óvart.
brennisteinsfjoll-222Vísindamenn sem voru við rannsóknir á Reykjaneshrygg síðasta sumar rak í rogastans þegar þeir uppgötvuðu gríðarstóra megineldstöð á hryggnum en fræðilega ætti hún ekki að geta verið þar. Er hún líklega sú eina sinnar tegundar í heiminum. Fullyrt er að þetta sé með merkustu uppgötvunum í jarðvísindum í áratugi. Auk eldfjallsins fundu þeir tvö gömul rekbelti sem stjórnuðu upphleðslu Vestfjarðarkjálka og Snæfellsness. Á meðal þess sem finna mátti á hafsbotninum voru greinileg ummerki eftir borgarísjaka og fornir árfarvegir.
Megineldstöðin, sem fengið hefur nafnið Njörður, er á stærð við Reykjanes, eða um 50 km í þvermál. Í toppi hennar má greina öskju, eða sigketil sem er um 10 km í þvermál. Núverandi rekás Reykjaneshryggjar liggur í gegnum Njörð. Reykjanes-sprungukrefiAðstæður við Njörð eru því svipaðar og í Kröflu, þar sem að megineldstöðin og sigketill hennar er klofin af Kröflusprungu-sveimnum.
Reykjaneshryggurinn er því um margt stórmerkilegur jarðfræðilega. Einnig Reykjanesið, sem er eini staðurinn á jarðkringlunni þar sem glögglega má sjá úthafshrygg ganga á land.
Sprengigígur er á Reykjaneshæl og 6-7 slíkir í Krýsuvík, þ.e. Gestsstaðavatn, Grænavatn, Stamparnir og Augun og a.m.k. einn norðan við Grænavatn. Þeir hefðu orðið til vegna kvikuuppleitunar undir bergvatn, sem sprenging hafi hlotist af með tilheyrandi afleiðingum.
Páll taldi að Sveifluháls (Austurháls) hefði orðið til í nokkrum gosum, bæði undir snemmjökli og undir lok síðasta jökulsskeiðs þegar íshettuna var að leysa. Mætti sjá þess glögg merki á einstaka hnúkum hálsins.
Greanavatn-22Gossaga Reykjanessskagans er tiltölulega vel þekkt. Eldvirknin virðist hafa verið stöðug síðustu árhundruðþúsundin. Dyngjugos virðast hafa verið algeng á fyrri hluta Nútíma þ.e. fyrir 5000 – 10 000 árum en sprungugosin hafa verið nær einráð síðustu 5000 árin.
Eldgos eru ekki jafndreifð í tíma. Þau virðast koma í hrinum. Á Reykjanesskaganum koma hrinurnar á um 1000 ára fresti og stendur hver goshrina í 200 – 350 ár. Síðasta hrinan hófst um miðja tíundu öld og lauk á seinni hluta þrettándu aldar.
nedansjavargosNeðansjávargos verða einnig á Reykjaneshryggnum, suðvestur af Reykjanesi. Þau hegða sér svipað og gos undir jökli. Spungugos undir jökli mynda móbergshryggi og eru þeir algengir á Reykjanesskaganum.
Á Krýsuvíkursvæðinu má víðast hvar sjá túff, brotaberg, móberg og bólstraberg. Sumstaðar er þessu öllu hrært saman líkt og í risastórum grautarpotti. Landlyfting hefur orðið í Krýsuvík síðustu par ára. Landið suðvestan við Kleifarvatn hefur risið um 5-15 cm sem getur gefið vísbendingu um að ekki verði langt að bíða eftir einhvers konar hraunuppstrymi þar. Einkennin eru dæmigerð fyrir aðdraganda goss, þ.e. landlyfting og tíðir litlir skjálftar í langan tíma. Að vísu seig landið um tíma, en hefur nú verið að rísa á nýjan leik. Svona goshrinur eru taldar koma eftir öllu Reykjanesinu á um 1000 ára fresti og standa í um 300 ár með hléum. Síðasta hrina hófst fyrir um 1100 árum.

bolstraberg-22„Ég vildi gjarnan sjá Hafnfirðinga taka tillit til staðreynda tilverunnar eins og íbúar snjóflóðahættusvæða gera. Það er þó alls ekki raunhæf hætt á að sprunga opnist inn í byggðina þarna – en ansi nálægt (það er verið að moka gjallinu úr gígunum í burtu þarna rétt fyrir ofan) og það ætti að gera fyrirfram ráð fyrir varnar-mönum til að stýra hugsanlegu hraunflóði því þau munu koma og eru fremur þunnfljótandi á Reykjanesi – þarna ættu ekki síður að vera hraunvarnar-manir fyrir ofan byggðina en að menn reisa hljóðvarnar-manir meðfram götum og hraðbrautum til að verja hús fyrir hávaða. Það er engin hætta á miklum sprengigosum á Reykjanesi og fyrir ofan Hafnarfjörð heldur fyrst og fremst hraungosum. –

Sundhnúkur

Sundhnúkur ofan Grindavíkur.

Grindavík æti að huga að þessu líka – þó aldir geti liðið þá getur það líka gerst á morgun. Menn byggja háhýsi með hliðsjón af miklum jarðskjálftum þó líkur á að stór jarðskjálfti ríði yfir Reykjavík (með upptök við eða undir Reykjavík) séu nær engar – þegar aftur víst er að fyrr að síðar mun hraun renna þar sem Vallahverfi er nú og víðar. Því ætti að skipuleggja byggð frá upphafi þannig að byggðin þoli það, rétt eins og að gera þarf ráð fyrir að hús þoli jarðsjálfta af stærð sem aldrei eða nær aldrei kemur í Reykjavík. Einföld en nægilega efnismikil og öflug efnis-mön ofan byggðar stýrir hrauninu frá byggðinni“

Gunnar thor-2Gunnar Þór Hallgrímsson fuglafræðingur annaðist leiðsögnina ásamt Páli. Gunnar hefur unnið að doktorsverkefni um máfa og tófur á Reykjanesi ásamt því að rannsaka fuglalíf svæðisins fyrir  Náttúrustofu Reykjaness í Sandgerði. „Á Reykjanesi er eitt fjölbreyttasta fuglalíf á landinu yfir vetrartímann og það er viðkomustaður fjölmargra farfugla á haustin og vorin. Þar eru  líka nokkur fuglabjörg þar sem finna má mikinn fjölda sjófugla,“ segir Gunnar og bætir við. „Í ferðinni sjáum við flesta þá vetrargesti sem enn eru til staðar og einnig fyrstu farfuglana, eins og sílamáv og lóu.“
Gunnar Þór Hallgrímsson er líffræðingur frá Háskóla Íslands og er í doktorsnámi við sama skóla. Helstu verkefni Gunnars eru á sviði fuglafræði en mörg verkefni eru í vinnslu á því sviði. Þannig fylgist Gunnar mjög náið með sílamávavarpinu á Miðnesheiði en samkvæmt gögnum frá 1995 er það eitt hið stærsta í heimi.

Sílamávur

Sílamávur.

Athuganir á sílamávavarpinu felast meðal annars í að skoða aðferðir sem nota megi til fækkunar máfsins en bent hefur verið á vandamál tengdu svo stóru varpi í nágrenni alþjóðaflugvallar. Samhliða rannsóknum á sílamávi sem unnar eru í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og Háskólans vinnur Gunnar m.a. að athugunum á sendlingum í samstarfi við skoska aðila, æðarfugli í samstarfi við Háskólann í Glasgow, eiturefnavistfræði í samstarfi við Stokkholmsháskóla og vöktun arnarstofnsins í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrustofu Vestfjarða, Náttúrustofu Vesturlands og Fuglavernd.

loa-12

Undanfarin tvö ár hefur mikið borið á mávum í Reykjavík og nærliggjandi sveitarfélögum og hafa margir kvartað undan átroðningi fuglsins inn í mannabyggðir. Fuglafræðingar benda á að ástandið sé mjög óvenjulegt og að það tengist atferlisbreytingum hjá fuglategundinni. Fæðuskortur rekur máva frá varpstöðvum inn í þéttbýlið.
„Mávarnir eru að segja okkur að það er ekki allt í lagi í sjónum,“ segir Gunnar Þór Hallgrímsson, líffræðingur hjá Náttúrustofnun Reykjaness, í samtali við mbl.is „Það er alvarlegt ástand í gangi sem við skiljum ekki og mávarnir eru að minna okkur á það.“  Sílamávurinn hefur til að mynda verið mjög aðgangsharður í ætisleit við Reykjavíkurtjörn og jafnvel veitt sér andarunga til matar. Gunnar segir stofn sílamávsins hafa fjölgað mjög mikið undanfarin ár en árið 2004 virðist sem að hann hafi náð hámarki. Ári síðar hafi farið að halla undan fæti í varpi hjá mávnum og það varð algjör viðkomubrestur, þ.e. fáir ungar komust á legg úr varpinu.

Fjöruspói

Fjöruspói.

Gunnar Þór benti þátttakendum á sílamáva, bjartmáva (sem eru vetrargestir hér, en verpa á Grænlandi), urtönd (sem er smæst anda), skúfönd, stokkendur, tjald (sjá má aldur hans bæði á gogg og fótum), fjöruspóa (sem er sjaldgæfastur fugla hér á landi, telur einungs ca. 10 fugla), lóu (sem nýkominn var til landsins, m.a. sást hópur slíkra með ca. 30 fuglum koma inn yfir ströndina), geirfuglinn og margt fleira.

geirfuglar

Gunnar benti reyndar á að síðustu tveir geirfuglarnir í heiminum hefðu verið veiddir  á syllu í Eldey þann 3. júní 1844. Þar með hefði þeirri merkulegu fuglategund verið útrýmt endanlega. Geirfuglinn var allt að 70 cm hár, vóg um 5 kg og var ófleygur. Í útliti líktist geirfuglinn nokkuð mörgæsum, en er ekki af sömu ætt. Geirfuglinn var góður sundfugl og nærðist einkum á fiski. Útbreiðslusvæði geirfuglsins voru strandsvæði Norður-Atlantshafsins. Geirfuglinn var algengur víða í Norður-Atlantshafinu allt fram á 16. öld, en veiði gekk grimmt á stofninn. Einhverjar sögur fara af því að til geirfugls hafi sést eftir það, einkum á Grænlandi allt fram á sjötta áratug 19. aldar, en óvíst er um áreiðanleika þeirra sagna. Framan af var geirfugl veiddur til matar, en þegar fuglinum fór að fækka verulega fóru safnarar og náttúrugripasöfn að borga háar fjárhæðir fyrir fuglinn og má segja að það hafi verið hinn endanlegi dauðadómur tegundarinnar.

Geirfugl

Geirfulg á Náttúruminjasafninu.

Um 80 uppstoppaðir geirfuglar hafa varðveist til dagsins í dag. Einn þeirra má finna á Náttúrufræðistofnun Íslands.
Gunnar Þór fjallaði auk þess m.a. um sendil, súlu og fýl, en síðastnefndi er ekki mávategund þó svo að flestir teldu svo vera. Í Eldey væri ein af stærstu súlubyggðum í heimi og sú stærsta hér við land. Þar væri fjöldinn orðin svo mikill að fáar fleiri kæmust þar að.
Þá fjallaði Gunnar Þór um tófuna og tilvist hennar á Skaganum, ekki síst til að stemma stigu við fjölda máva við flugbrautirnar á Miðnesheiði.
Frábært veður. Ferðin tók 6 klst og 6 mín.

Heimildir m.a.:
-Páll Einarsson, prófessor við HÍ.
-Gunnar Þór Hallgrímsson, líffræðingur.
-Haustráðstefna Jarðfræðafélags Íslands 26. nóvember 2010.
-Magnús Á. Sigurgeirsson og Kristján Sæmundsson, Íslenskar Orkurannsóknir, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík.

Eldey

Eldey.

Flagghúsið
Menningardagar voru haldnir í Grindavík fyrsta sinni með fjölbreyttri dagskrá.
Í Flagghúsinu voru m.a. haldin fræðsluerindi um eldfjöll og hraunhella. Ásta Þorleifsdóttir, jarðfræðingur, flutti erindi um Ástaeldfjallagarða og framtíðarsýn. Ómar Smári Ármannsson (FERLIR) lagði upp erindi um grindvíska hella og Kristján Sæmundsson jarðfræðingur fjallaði um jarðfræði Reykjaness.
Erindi Ástu verður hér gert að aðalumfjöllunarefni. Hinum erindunum verður gerð ítarlegri skil síðar.
Ásta sagði m.a. að á miðhluta Reykjanesskagans þyrfti áhersla að verð á að varðveita einstaklega fjölbreyttar jarðmyndanir og minjar um eldvirkni á úthafshryggnum sem hafa algera sérstöðu á Jörðinni. Þessi hluti Skagans verði gerður sem aðgengilegastur öllum almenningi og ferðamönnum með vegum, stígum, þjónustumannvirkjum og sögu- og upplifunarstöðum og þar verði höfuðgestastofa svæðisins.
ÓmarÁ svæðinu eru Reykjanesfólkvangur og Bláfjallafólkvangur auk a.m.k. 15 svæða sem færð hafa verið á náttúruminjaskrá sem staðfestir að þar er að finna mikil verðmæti. Svæðið frá Stóra-Kóngsfelli suður og vestur fyrir Brennisteinsfjöll eru ósnortin víðerni og enn einstakt tækifæri að halda þeim sem slíkum. Hvergi annars staðar á Jörðunni sést úthafshryggur ,,ganga á land” svo sýnilega og á jafn aðgengilegum stað sem á Reykjanesi. Reykjanesskagi er svo einstakur á heimsvísu að það skortir í reynd alþjóðleg viðmið til að staðfesta alþjóðlegt verndargildi hans.
Á Reykjanesskaga eru fimm háhitasvæði og umtalsverð nýting er þegar til staðar á tveimur þeirra sem eru austast og vestast á skaganum. Á þessum svæðum er skynsamlegt að þróa áfram nýtingu jarðvarmans með orkuverum, heilsumannvirkjum og upplýsingastöðum fyrir ferðamenn jafnframt sem kannaðir verða möguleikar djúpborana sem geta margfaldað nýtingu þeirra.
Kristján
Á Reykjanesskaga eru einstakir möguleikar til að byggja upp eftirsótta ferðamannastaði og nálægð hans við flugvöllinn gefur einstaka möguleika til að gera svæðið eftirsótt af ferðamönnum. Miklar menningarminjar eru á Reykjanesi öllu og má nefna Selvog, Herdísarvík, Krýsuvík, Húshólma og Selatanga. Staðir eins og Bláa lónið sýna þá miklu möguleika sem náttúra Reykjanesskagans býður uppá. Með því að nýta hin mörgu tækifæri á Reykjanesskaga til útivistar, afþreyingar og ferðamennsku á að vera unnt að skapa mikinn arð fyrir samfélagið sem yrði síst minni en möguleikar orkusölu til stóriðju.
HraunÍ allri mannvirkjagerð innan ,,Eldfjallagarðsins og fólkvagnsins” ber að hafa það að leiðarljósi að halda sjónrænum áhrifum í lágmarki. Ekki hefur verið gert heildstætt skipulag fyrir Reykjanesskaga og hafa ólíkir nýtingarmöguleikar því ekki verið skoðaðir og metnir. Nú er mikil eftirspurn eftir orkuvinnslu á svæðinu og því er brýnt að líta heildstætt á Reykjanesskaga með nýtingu allra auðlinda hans í huga.
Þá lagði Ásta fram nokkrar spurningar og svör um efnið, s.s. Hverjir eru möguleikar eldfjallagarðs á Reykjanesskaga? Hvað höfum við upp á að bjóða?  Er Eldfjallagarður einstakt tækifæri til arðbærrar atvinnusköpunar?
Til að nýta náttúruna þarf hágæða vísindaþjónustu, alþjóðlegt tengslanet, aðgengi að þekkingu heimamanna, rannsóknaaðstöðu þar sem kennslustofan er náttúran.
LitríkiReykjanesskagi sem eldfjallagarður hefur marga kosti; frábær staður fyrir eldfjallagarð, mitt á milli Ameríku og Evrópu, aðeins 30 mín frá flugvelli og borg, plötuskil – land verður til á Reykjanes, hægt að “ganga” milli heimsálfa, gríðarleg fjölbreytni, eldgos undir jökli: Móbergskeilur, -hryggir og –stapar: Aveg einstakt! Litlar og stórar dyngjur. Minni gígar og fleiri tegundir, setströnd – rofströnd: Sandvík – Reykjanestá/ Krísuvíkurbjarg-Selatangar. Flottari og fleiri hrauntraðir og hraunhellar, miklu fjölbreyttari jarðhitasvæði, bullandi leirhverir, litrík gasaugu, útfellingar sem eiga fáa sína líka, lifandi listaverk “audio-visual upplifun: Hver hver með sinn takt! Auðlindagarður;  samspil orku og umhverfis.
Hellir
Reykjanesskagi væri í raun „ótal lyklar að leyndardómum“. Fyrir jarðvísindamenn, stjarnvísindamenn og aðra! Nýtt land myndast: Gliðnun úthafshryggsins, misgengi, gjár og sprungur.  Fjölbreytt eldvirkni: Eldborgir, gjallgígar, stapar, keilur, dyngjur… Undir jökli, í sjó og á þurru. Móberg og bólstraberg. Stuðlar og straumflögun. Frumstætt berg: Lykill að uppruna vatnsins? Jarðhiti með ótrúlegum fjölbreytileika; gufa, vatn og leir. Brennisteinn og aðrar útfellingar: Lykill að uppruna lífsins? Jarðskjálftar, einstakt samspil innri og ytri afla.
Reykjanes væri gósenstaður fyrir ljósmyndara; litríki hverasvæðanna. Krýsuvík er oftar en ekki i í dagskrá slíkra ferða. Reykjanes, brim og klettamyndir
Ómar Smári lýsti og sýndi ljósmyndir af nokkrum af smærri og stærri hellum Grindvíkinga, sem eru nú um 300 talsins. Fyrir síðustu aldamót voru þeir einungis innan við 20. Merkilegastur fyrrum þótti Grindarvíkurhellir, en hann er nú kominn undir veg. Væri það dæmi um vanþekkingu og áhugaleysi þeirra, sem gæta eiga að vermætum þeim er felast í hraunhellunum. En sem betur fer væru til fleiri hellar. Meðal þeirra væru mestu dýrgripir sinnar tegundar í heiminum. Vonandi verða þeir ekki líka eyðilagðir af sömu ástæðum.
Hraunkarl
Kristján rakti myndun Reykjanesskagans frá vestri til austurs, byrjaði á Reykjanestá og endaði í Henglinum. Hann sagði frá misvísandi legu jarðskjálfta- og sprungubeltanna eftir aldri. Þau yngri liggja NA / SV en þau eldri N / S eins og glögglega má m.a. sjá á svæðinu sunnan Kleifarvatns. Þar eru sprengigígar. Glóandi kvikan undir niðri hefur nýtt sér jarðskjálftabeltið og þrengt sér upp með miklum látum. Kristján sagði frá gígskál undir Stóra-Lambafelli, sem erfitt væri að koma auga á, en væri augljós þegar betur væri að gáð. Hann taldi Hrútagjárdyngjuna eitt merkilegasta jarðfræðifyrirbæri hér á landi. Sambærilegt svæði hefði hann einungis séð á einum öðrum stað á landinu, víðsfjarri Grindavík. Um væri að ræða tvær goslotur; þá síðari um 5-7 þúsund ára. Gígurinn væri syðst og vestast í „dyngjunni“. Frá henni liggur hrauntröð til norðurs. Nyrst í „dyngunni“ væri hringlaga hrauntjörn. Hún væri sennilega massívt berg, að öllum líkindum eldri gígtappinn. Í seinna gosinu hefði afmarkað svæði þar er myndaði „dyngjuna“ lyft sér um 10-15 metra, líklega vegna innskots frá kvikuþrónni undir. Þess mætti nú sjá glögg merki allt umleikis „dyngjuna“.
Kristján kynnti gosbeltin og sýndi bæði dæmi um einkenni þeirra og myndanir. Þá rakti Kristján mismunandi jarðmyndanir, en þar er móbergsmyndunin hvað séríslenskust. Auk þess mætti sjá á Skaganum flestar ef ekki allar tegundir eldgosa. Aðspurður kvaðst Kristján um 50% líkur á eldgosi á Reykjanesskaga „innan tíðar“.

Reykjanesskagi

Eldgos í Fagradalsfjalli 2021.

Eldvörp

Vefurinn „VisitReykjanes“ gaf út „göngukort„; Reykjanes-HikingMap, sem leiðbeina átti áhugasömu fólki um útivist að dásemdum Reykjanesskagans. Kortið og upplýsingarnar eru sæmilegar til síns brúks:

1. Arnarsetur

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – hrauntjörn.

Fremur stutt gossprunga (2 km) með gjall- og klepragígum. Hraun frá henni (um 20 ferkm) er stórskorið og þar eru hraunhellar og ummerki um mannvistir. Eldgosið er úr seinni hluta rek- og goshrinunnar Reykjaneseldar á árabilinu 1210-1240.

2. Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.

Stór þyrping móbergsfjalla frá síðari hluta ísaldar. Efst er hraundyngjan Kistufell. Fjöllin eru skorin nokkrum gossprungum með nútíma gígaröðum en þó ekki yngri en landnám. Háhitasvæði er norðan í fjöllunum. Þar var numinn brennisteinn nálægt 1880.

3. Djúpavatn/Spákonuvatn/Arnarvatn

Djúpavatn

Djúpavatn.

Þrjú stöðvötn í móbergshryggjunum Vesturhálsi og Sveifluhálsi, að mestu með grunnvatni. Djúpavatn er við samnefnda ökuleið, að hluta eldgígur. Spákonuvatn við Sogin er sprengigígur, eins og Arnarvatn við göngustíg yfir Sveifluháls.

4. Eldborg við Höskuldarvelli

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju.

Norðvestur af Höskuldarvöllum, sléttu graslendi við rætur Grænudyngju og Trölladyngju, rís stór gjall- og klepragígur, eldri en landnám. Gígurinn er skemmdur eftir efnisnám. Jarðhitagufur stíga upp við gíginn.

5. Eldborg við Geitahlíð

Eldborg

Eldborg undir Geitahlíð.

Forsöguleg gossprunga skerst inn móbergsstapann Geitafell með fimm gígum. Eldborg er þeirra langstærstur og brattastur, úr gjalli en einkum kleprum. Austur úr honum liggur myndarlegur hraunfarvegur, hrauntröð.

6. Eldvörp

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Um 10 km löng gígaröð í skástígum hlutum úr gos- og rekhrinunniReykjaneseldum 1210-1240, ásamt um 20 ferkm hrauni. Jarðhiti er á yfirborði við miðbik raðarinnar og ein rannsóknarborhola. Mannvistarleifar eru hér og var við Eldvörp.

7. Grænadyngja/Trölladyngja

Trölladyngja

Trölladyngja á Reykjanesskaga.

Brött móbergsfjöll vestan við Sog. Ungar gossprungur umlykja þau og háhitasvæði eru þar nálæg. Apalhraun runnu frá gosstöðvum suður til sjávar við Reykjanesbraut, t.d. Afstapahraun.

8. Hafnarberg

Hafnarberg

Hafnarberg.

Há og löng sjávarbjörg, að mestu úr hraunlögum, sunnan við gömlu verstöðina Hafnir. Nokkrar tegundir sjávarfugla verpa í þverhnípinu. Merkt og vinsæl gönguleið liggur þangað frá vegi að Reykjanesi.

9. Háleyjarbunga

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Lítil og flöt hraundyngja með stórum toppgíg, 20-25 m djúpum, eftir flæðigos. Hún er 9.000 ára gömul eða eldri, og úr frumstæðri basalttegund úr möttli sem nefnist pikrít. Grænir ólivínkristallar eru áberandi.

10. Hrafnagjá

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Siggengi á togsprungu, 12 km langt og allt að 30 m hátt. Það er lengsta brotalínan af þeirri gerð á Reykjanesskaga og sést af Reykjanesbraut. Gjáin er hluti dæmigerðs sigdals skammt frá Vogum.

11. Hrólfsvík

Hrólfsvík

Hrólfsvík.

Lítil vík, þekkt sem fundarstaður hraunmola með hnyðlingum, þ.e. grófgerðum djúpbergsmolum úr gabbróinnskoti. Hraunið er af óvissum aldri og uppruna.

12. Hrútagjáardyngja

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja.

Hraundyngja, 6.000-6.500 ára, ásamt 80- 100 ferkm hrauni; alls rúmir 3 rúmkílómetrar. Hún er með stórum toppgíg og skorin djúpum gjám sem kunna að vera merki um ris vegna kvikuinnskota.

13. Hvassahraunskatlar

Hvassahrauns

Hvassahraunskatlar.

Hraundrýli í hrauni úr Hrútagjárdyngju. Þau myndast jafnan við öflugt gasútstreymi nálægt eldgíg en í þessu tilviki um 10 km frá dyngjuhvirflinum.

14. Katlahraun

Katlahraun

Í Katlahrauni.

Hraun sem rann í sjó fram fyrir um 2.000 árum, hlóðst upp við ströndina vegna fyrirstöðu. Stór, hringlaga hrauntjörn myndaðist en tæmdist eftir að hlutar hennar höfðu storknað. Eftir standa margvíslegar hraunmyndanir.

15. Kerlingarbás

Önglabrjótsnef

Berggangur í Kerlingarbás.

Leifar þriggja stórra gjóskugíga, 800 til 2.000 ára gamalla. Ofan á þeim liggja hraunlög, það efsta úr Yngri Stampagígum, úr Reykjaneseldum, eins og tvö yngstu gjóskulögin. Berggangar skera gjóskuna.

16. Lambafellsgjá

Lambafellsgjá

Í Lambafellsgjá.

Lambafell myndaðist sennilega á næst síðasta jökulskeiði. Toghreyfingar vegna plötuskriðs hafa klofið fellið. Í norðri opnast 150 m löng og 50 m djúp gjá en aðeins 3-6 m breið, með veggjum úr bólstrabergi. Gjáin er vel fær.

17. Méltunnuklif

Méltunnuklif

Méltunnuklif.

Lágt klettabelti með ólíkum jarðlögum, móbergi (palagónít túffi), gamalli jökulurð, millilögum, hraunlögum og einum roffleti; samtals ágætt yfirlit yfir helstu þætti í myndunarsögu Reykjanesskagans.

18. Rosmhvalanes

Rosmhvalanes

Á Rosmhvalanesi.

Stórt flatlendi með elstu jarðlögum Reykjanesskagans. Yfirborðslögin eru úr dyngjuhraunum, mjög jökulsorfnum. Myndunartíminn er talin vera tvö síðustu hlýskeið ísaldar sem gengu yfir fyrir 120.000 (Eem) til 240.000 árum (Saale).

19. Sandfellshæð

Sandfellshæð

Sandfellshæð.

Ein stærsta hraundyngja Reykjanesskagans. Hraunbreiðan úr henni nær vel yfir 100 ferkm. Toppgígurinn er stór en grunnur. Eldstöðin er um 14.000 ára en þá stóð sjór 30 m lægra en nú.

20. Skálafell

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.


Samsett eldstöð sem hlóðst upp fyrir 3.000 til 8.000 árum í fáeinum eldgosum. Efst er reglulegur gjall- og klepragígur. Misgegngi í grendinni mynda austurjaðar Reykjaneseldstöðvakerfisins og gos- og rekbeltisins á Suðvesturlandi.

21. Sog

Sog

Í Sogum.

Fáein vatnssorfin gil og lágir hryggir suðvestan við Trölladyngju mynda sundursoðið, myndbreytt og litríkt svæði eftir virka háhitahveri. Þar er töluvert um gufuaugu, vatnshveri og leirhveri.

22. Stampar

Stampar

Gígar í Yngra- Stampahrauni.

Tvær samsíða gossprungur með fjölda gjall- og klepragíga á Reykjanesi, nálægt Reykjanesvirkjun. Eldri gígarnir og hraun eru 1.800 til 2.000 ára en hinir urðu til í Reykjaneseldum, langri gos- og rekhrinu 1210-1240, ásamt 4,6 ferkm hrauni.

23. Sundhnúkaröð

Sundhnúkar

Sundhnúkar.

Gígaröð sem reis á gossprungu fyrir um 2.300 árum. Hraun frá henni rann til sjávar, m.a. þar sem nú er Grindavík. Þar voru ágætar bátalendingar í lóni sem smám saman þróaðist til góðrar hafnar og þéttbýlisins.

24. Sveifluháls

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Einn af lengstu og stærstu móberghryggjum jarðvangsins. Hann geymir góðan þverskurð af ásýndum móbergsmyndunar; lagskipt móberg (túff), þursaberg (breksju) og bólstraberg. Allt ber þetta vitni um átök kviku, jökulíss og vatns.

25. Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – gígurinn.

Stór og flöt hraundyngja, vel sjáanleg af Reykjanesbraut. Hún liggur langan veg yfir helluhraun hennar. Það er yfir 130 ferkm að flatarmáli og rúmmál gosmyndunarinnar a.m.k. 5,2 rúmkm. Dyngjan er talin um 14.000 ára gömul.

26. Ögmundarhraun

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – dys Ögmundar.

Stór hraunbreiða frá 1151. Hún er syðsti hluti nokkru yngri hrauna úr rek- og goshrinunni Krýsuvíkureldum (1151-1180). Gossprungan nær sundurslitin um 25 km til norðausturs. Ögmundur var sagður berserkur sem lagði veg um hraunið.

27. Brimketill

Brimketill

Brimketill – Oddnýjarlaug.

Lítil náttúrulaug í rofdæld með sjó, án jarðhitavirkni, við ströndina vestan við Grindavík. Þarna á skessan Oddný að hafa setið á góðum stundum.

28. Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa.

Táknræn göngubrú liggur yfir togsprungu sem rekja má til gliðnunar jarðskorpu vegna plötu-(fleka-)reks um Mið-Atlantshafshrygginn. Meðalrekhraðinn er um 2 cm/ár en hreyfingarnar verða í hrinum með mislöngu bili.

29. Eldey

Eldey

Eldey.

Eldey reis úr sjó í gjóskugosi og er gerð úr lagskiptu móbergi, 77 m há, um 15 km frá landi úti á Reykjaneshrygg sem er hluti Mið-Atlanshafshryggjarins. Aldur hennar er óþekktur. Um 18.000 súlupör halda sig á 0,3 ferkm flötu landi.

30. Gunnuhver

Gunnuhver

Gunnuhver.

Þyrping ólgandi leir- og gufuhvera á Reykjanesi. Þeir breytast með tíma. Þyrpingin varð til að nokkru eftir jarðskjálftahrinu 1967. Heitið vitnar um sögu af illræmdum draug, Gunnu, sem sökkt var með blekkingum ofan í hver.

31. Festarfjall/Hraunsvík

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Móbergsfjall eftir eldgos undir jökli, sennilega á síðasta jökulskeiði ísaldar. Sjávararof hefur afhjúpar háan þverskurð af móbergi, brotabergi og bóstrabergi ásamt aðfærslugangi kviku. Hann er sagður vera silfurfesti tröllskessu.

32. Hópsnes

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes.

Lítið nes við Grindavíkurbæ, myndað við hraunrennsli frá gígaröð kenndri við Sundhnúk. Hraunið á hlut í góðum hafnarskilyrðum við bæinn.

33. Húshólmi

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Óbrinnishólmi (kipuka), land sem Ögundarhraun náði ekki af kaffæra árið 1151. Þar getur að líta rústir býlis og kirkju, auk hlaðinna veggja. Hluti húsanna og mest allt ræktarland hvarf í hraunið.

34. Keilir/Keilisbörn

Keilir

Keilir.

Keilulaga móbergsfjall tengt við lágan hrygg, Keilisbörn. Gosmyndunin kom undan ísaldarjökli á sínum tíma. Keilir er einkennisfjall Reykjanesskagans, vegna lögunar, og það er gamalt mið af sjó.

35. Kleifarvatn

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Stærsta stöðuvatn Reykjanesskagans, 9,1 ferkm og 97 m djúpt. Það fyllir í dæld milli Brennisteinsfjalla og móbergshryggjarins Sveifluhálss. Smálækir renna í það en aðeins grunnvatn úr því. Sagt er að þar búi svartur
risaormur.

36. Mannvistarleifar við Eldvörp

Eldvörp

Eldvörp – byrgi.

Ýmsar mannvistarleifar er af finna í Eldvarpahrauni; þrjá þjóðstíga milli byggða og þyrpingu kofa úr hraungrýti. Óvíst er um tilgang þeirra en varla unnt að samþykkja sögusagnir um útilegumenn.

37. Ósar

Ósar

Ósar.

Vogur með mörgum skerjum og hólmum við Hafnir. Í þorpinu er uppgrafnar rústir af norrænni eða keltnskri útstöð. Ósar eru verndarsvæði vegna fuglalífs og áhugaverðs sjávarvistkerfis.

38. Pattersonflugvöllur

Patterssonsvöllur

Lífsstöðugrjót við Patterssonsvöll.

Undir gömlum flugvelli er að finna þjappað sjávarset með lítið steingerðum skeljum. Algengasta tegundin er sandmiga (smyslingur), 20.000 –
22.000 ára gamlar leifar vistkerfis frá því skömmu fyrir hámark síðasta jökulskeiðs.

39. Selatangar

Selatangar

Selatangar – sjóbúðir.

Lágir hrauntangar með rústum af verbúðum, að mestu úr hraungrýti. Auk þeirra eru þar fiskibyrgi, bæði til að þurrka fisk og geyma. Verstöðin var notuð frá því á miðöldum allt til 1884.

40. Snorrastaðatjarnir/Háibjalli

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.

Háibjalli er 10 m hátt siggengi næst Snorrastaðatjörnum. Þarna er gróskumikið og vinsælt útvistarsvæði, og farfuglar hvílast þar á leið sinni.

41. Sogasel

Soagsel

Sogasel í Sogaselsgíg.

Rústir af seli (sumarkofa þar sem fólk hafi auga með sauðfé á beit); skammt frá Grænudyngju og Sogum. Selið er sérstætt vegna þess að það var byggt inni í stórum gjallgíg.

42. Svartsengi

Svartsengi

Háhitasvæðið í Svartsengi.

Eitt af helstu háhitasvæðum á Reykjanesskaga. Þar er framleitt rafafl á landsnetið og heitt vatn til byggða á skaganum. Afrennsli frá virkjuninni er notað í Bláa lónið en auðlindagarðurinn er fyrirtaks dæmi um heildræna nýtingu jarðvarma.

43. Valahnúkar/Valabjargargjá/Valahnúksmöl

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Hér mætast þurrlendið og Mið-Atlantshafshryggurinn. Valahnúkur er rofið móbergsfell með bólstrabergi og þursabergi. Valabjargargjá er stórt siggengi og Valahnúksmöl, úr hnullungum, girðir fyrir lítinn sigdal austan við Valahnúk.

44. Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn).

Stakt móbergsfjall norður af Grindavík. Misgengi þvera það og mynda grunnan sigdal. Hluti hans kallast Þjófagjá eftir 15 misyndismönnum sem þar eiga að hafa dvalist.

45. Básendar

Básendar

Básendar – húsgrunnur.

Gríðarmikil fárvirðri, við háflóð, olli versta sjávarflóði í manna minnum á Suðvesturlandi árið 1799. Heitið, Básendaflóð, er komið af lítilli verslunar- og verstöð. Þar breyttist ströndin til mikilla muna og byggðin eyddist að
mestu.

46. Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

Stór steinn við þjóðleiðina milli Krýsuvíkur og Grindavíkur. Í honum eru þrjár holur. Sagnir herma að ein sé fyrir hunda, önnur fyrir menn og sú þriðja handa hestum. Ferðalangar áttu að geta treyst á að komast þarna í drykkjarvatn.

47. Garðskagaviti

Garðskagaviti

Garðskagaviti.

Eldri vitinn er reistur 1897 en hinn var byggður 1944. Áður hafði stóra varða verið hlaðin á skagatánni og 1884 var sett í hana ljósker. Svæðið er mikilvægt fyrir farfugla.

48. Gálgaklettar

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Efst á Þorbjarnarfelli við Grindavík eru háir móbergsklettar með þessu heiti. Þjóðsaga hermir að þar hafi staðbundnir þjófar verið teknir af lífi.

49. Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Vel viðhaldin kirkja og kirkjugarður frá árinu 1887. Kirkjan er byggð úr tilhögnu grágrýtishrauni (basalti) sem fengið var í nágrenninu. Hluti innviða
eru úr rekatimbri. Systurkirjkuna er að finna í Njarðvík.

50. Reykjanesviti

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Vitinn er elsti viti í fullri notkun á landinu, frá 1908. Lengst af var þar vitavörður og bóndi að störfum og má sjá ummerki eftir búskap víða í nágrenninu. Nú er vitanum að mestu fjarstýrt.

51. Skagagarðurinn

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Leifar af mjög löngum og háum garði síðan á fyrri hluta Þjóðveldisaldar (870-1000). Hann var byggður úr tofi og grjóti til að aðskilja húsdýr, tún og akra. Garðurinn er mjög siginn og hefur víða horfið með öllu.

52. Staðarborg

Staðarborg

Staðarborg.

Hringlaga fjárgeymsla en án þaks. Hún er rúmlega 2 m há, 8 m í þvermál og 35 m að ummáli og vandlega hlaðin úr flötu hraungrýti. Aldurinn er óþekktur en talinn í nokkrum öldum.

53. Vigdísarvellir

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Víðir, flatir grasvellir við rætur móbergshryggja. Þar sjást rústir tveggja smábýla sem minna á forna búskaparhætti á hálendi. Yngri bærinn var yfirgefinn eftir harða jarðskjálfta 1905.

54. Vogur í Höfnum

Hafnir

Skálinn í Höfnum.

Rústir elstu byggðar á Reykjanesskaga. Aldursgreind til 9. aldar. Þarna eru hefðbundinn skáli og smáhýsi. Ef til vill er um að ræða útstöð landkönnuða, svipaða byggingum norrænna manna á Nýfundnalandi.

55. Þórshöfn

Þórshöfn

Áletrun á klöpp við Þórshöfn.

Einn helsti 15. og 16. aldar verslunarstaður Þjóðverja á Íslandi. Á 18. öld tóku skip að nýta höfnina að nýju, en smám saman varð þar fáfarnara eftir því sem höfnin í Sandgerði batnaði.

Heimild:
-https://www.visitreykjanes.is/static/files/pdf/Reykjanes_HikingMap.pdf

Göngukort

Göngukortið.

Flekkuleiði

Á Mbl.is 20. mars 2002 birtist eftirfarandi undir fyrirsögninni; „Leita að letusteinum„.

Letursteinar

Letursteinar – yfirlit.

„FERLIR, ferða- og útivistarhópurinn, hefur að undanförnu verið að skoða og leita letursteina nálægt Keflavík og vill fá upplýsingar um fleiri. Ferlisfélagar segja að vitað sé um ýmsar áletranir og hægt að ganga að þeim vísum.

Ferlisfélagar segja að vitað sé um ýmsar áletranir og hægt að ganga að þeim vísum. Nefna þeir sálmavers sem er klappað á stein við Prestsvörðuna (séra Sigurðar Sívertsen) ofan við Leiru, áletranir á steinum við Básenda, stafi sem klappaðir eru í bergið við Helguvík og á klöpp á Keflavíkurbjargi, ártal og stafi á klöpp í Másbúðarhólma, ártöl og stafi á klapparsteini ofan við Þórshöfn, stafi á hellu yfir fornmannagröf í Garði, rúnir á steini við Kistugerði og ártal á steini í Fuglavík sem og stafi sem eru á klöpp þar í fjörunni og ártal og stafi undir Stúlknavörðunni.

Þá eru nokkur dæmi um svonefnda LM-steina (landamerkjasteina) sem og leturhellur.

Í fréttatilkynningu frá Ferli kemur fram að auk þessara áletrana séu til heimildir um letur á klöpp eða hellu yfir smalagröf innan við forna túnhliðið á Hólmi, leturstein á Draughól við Garð, en áletrunin á að vera tengd handtöku manna Kristjáns skrifara á Kirkjubóli, áletrun við eða á Dauðsmannsvörðu norðan Vegamótahóls (við Sandgerðisveginn forna) og ártal á steini í eða við Kolbeinsvörðuna á mörkum Voga og Njarðvíkur. Ef einhver getur upplýst hvar áletranir þessar geta verið eða hefur séð þær er viðkomandi beðinn um að láta Ómar Smára Ármannsson vita (omarsmari@simnet.is), einnig um annað það er málið varðar og kann að þykja merkilegt.“

Básendar

Letursteinn við Básenda.

Áletranir á steinum eða klöppum geta verið minningarmörk, ártöl, ártöl sögulegra viðburðir, landamerki eða hvaðaneina, allt annað en grafskriftir í kirkjugörðum.

Hallgrímshellan

„Hallgrímshellan“ í geymslum Þjóðminjasafnsins.

Þjóðminjasafnið hefur dregið til sína allnokkra steina með áletrunum þar sem þeir eru jafnan geymdir í hinum dýpstu dýflissum safnsins. Að sjálfsögðu ættu slíkir steinar að vistast á þeim stöðum, sem þeir áttu uppruna sinn í hinu sögulega samhengi eða hjá hlutaðeigandi byggða- eða minjasafni.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes – letursteinn.

Á Reykjanesskaganum er að finna a.m.k. 125 þekkta letursteina í mismunandi ásigkomulagi. Nauðsynlegt er að viðhalda þeim ásamt því að varðveita vitneskju um sögu þeirra. Til þess að það sé hægt er nauðsynlegt að skrá staðsetningu, munnmæli og sögur þeirra sem þekkja til steinanna ásamt því að halda utan um og taka saman helstu heimildir um þá.

Heimild:
-Mbls 20. mars 2002 – Leita að letusteinum.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/658213/

Fuglavík

Fuglavík – elsti ártalssteinninn á Reykjanesskagnum.

Strýthólahraun.

Eftirfarandi er megininntak erindis, sem einn FERLIRsfélaganna flutti á opinni ráðstefnu Landverndar um þá framtíðarsýn að Reykjanesskagi verði eldfjallagarður og Handritfólkvangur. Ráðstefnan var haldin í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju 24. febr. 2007:

Reykjanesskaginn geymir miklar náttúru- og mannvistarminjar – mikil verðmæti. Með sanni má segja að á svæðinu megi sjá minjar um svo til alla búsetu- og atvinnusögu þess frá upphafi landnáms hér á landi.
Skaginn – hið forna landnám Ingólfs – er vestan línu sem dregin er frá  Botni að Ölfusrárósum.
Á þessu svæði búa nú, árið 2007, um 207.000 manns. Það skapar bæði möguleika í verulegra góðri nýtingu, en einnig þörf á yfirveguðum varnaraðgerðum.
Hópur fólks, FERLIR, hefur endurkannað landnámið markvisst og skipulega í nokkur ár, leitað uppi minjar, skoðað, myndað og skráð þær.
“Reykjanesskaginn er alger auð“ og þar er ekkert merkilegt að sjá”. Þetta má sjá í ferðabók fyrr á öldum. Segja má að viðhorfið hafi lítið breyst  – hjá mörgum.
Það sem flest fólk sér á ferð sinni um svæðið eru þjóðvegir og háspennumöstur – og kannski hraun og stöku fjall.
Svæðinu hefur verið raskað, oft að óþörfu og stundum án tilskilinna leyfa.
Margar hinna merkilegu mannvistaleifa eru vanræktar (Kapellan á Hraunssandi).
StakkavíkurselAðrar hafa verið skemmdar án nokkurrar skynsamlegrar hugsunar.
Svæðið hefur fjöldamargar mannvistaminjar að geyma. Segja má að hvar sem stigið er niður fæti megi sjá ummerki eftir forfeður og –mæður.
Minjarnar eru engu ómerkilegri en hin fornu handrit. Þau eru skráð í leður. Bæði letur og skinnin eru mannanna verk. Það eru aðrar minjar líka. Þær eru úr efni, sem fólkið nýtti sér, efni sem landið gaf af sér, mest grjót, torf og timbur. Úr því má enn lesa sögu fólksins, hagi þess og aðstæður á hverjum tíma. Engum dytti í hug að rífa blað úr fornu handriti. Með því hyrfi hluti sögunnar.
Fortíðin skiptir máli. Minjarnar eru áþreifanleg tengsl okkar við fortíðina.
Með sanni má segja að gömul hús eru bæði minnismerki um fortíðina og arfleifð fortíðar, einkum kirkjurnar.
Af sömu hvötum hefur verið reynt að gera upp gömul hús í upprunalegri mynd.
En uppruninn, algerlega ósnertur, liggur víðar. Áþreifanleiki hans felst í minjunum, sem víða leynast.
Í minjunum felast mikil verðmæti, bæði umhverfisleg og söguleg. Náttúruminjar gleðja augað, fylla okkur stollti á landinu okkar og skapa atvinnu. Mannvistaminjar eru áþreifanleg tengsl okkar við fortíðina.
Án fortíðar er framtíðin lítils virði.

Álftanes

Álftanes – varðskýli í Camp Brighton.

Náttúra

„Margt hefur verið ritað og birt um jarðfræði Reykjanesskaga og Reykjaneshryggjar í fræðigreinum og ritum, bæði innlendum og erlendum. Grundvallarrit um jarðfræði Reykjanesskaga er skýrsla og jarðfræðikort Jóns Jónssonar, þar sem dregnar eru saman niðurstöður 18 ára rannsóknarvinnu við kortlagningu hrauna og eldvarpa (Jón Jónsson, 1978).

Afstapahraun

Afstapahraun – jarðfræðikort Jóns Jónssonar.

Jón hefur þar að auki ritað ítarlegar yfirlitsgreinar um jarðfræði Reykjanesskaga í Árbækur Ferðafélags Íslands og yfirlit yfir söguleg eldgos á skaganum í tímaritið Náttúrufræðinginn (Jón Jónsson, 1983, 1984, 1985). Annað yfirgripsmikið jarðfræðirit um Reykjanesskaga er skýrsla Freysteins Sigurðssonar um vatnajarðfræði svæðisins (Freysteinn Sigurðsson, 1985). Sveinn P. Jakobsson o.fl. gerðu grein fyrir bergfræði á vestanverðum Reykjanesskaga (Jakobsson, Jónsson, & Shido, 1978). Ari Trausti Guðmundsson skrifar sérstaka kafla um eldstöðvakerfi skagans og gossögu þeirra í ritum sínum um íslenskar eldstöðvar (Ari Trausti Guðmundsson, 1988, 2001). Gunnar Birgisson skrifaði námsritgerð um laus jarðlög á svæðinu (Gunnar Birgisson, 1983).

Margt hefur verið birt í erlendum jarðvísindatímaritum og einnig í innlendu tímaritunum Náttúrufræðingnum (á íslensku) og Jökli (á ensku og íslensku).

Íslandskort

Íslandskort Guðbrandar Þorlákssonar 1590.

Til er fjöldi skýrsla frá Orkustofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands um ýmsar náttúrurannsóknir á Reykjanesskaga. Margar þeirra snúa að jarðhitarannsóknum (bæði jarðfræði og jarðeðlisfræði) en einnig að öðrum náttúrurannsóknum, til að mynda rannsóknum í líffræði. Það yrði of langt mál að telja öll þessi skrif upp hér og skal vísað til frekari heimilda sem skráðar eru í ofangreindum ritum og til fyrrnefndra stofnanna. Í framhaldinu verður gerð grein fyrir þeim náttúrurannsóknum sem fram fóru á Reykjanesskaga fyrr á öldum og fram á áttunda áratuginn þegar flekakenningin tók að ryðja sér til rúms innan jarðvísindanna og margir þættir í jarðfræði Reykjanesskaga og Reykjaneshryggjar tóku að skýrast út frá auknum skilningi á reki jarðskorpuflekanna.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – uppdráttur.

Náttúrurannsóknir á skaganum má rekja allt aftur til 18. aldar og koma þar bæði innlendir og erlendir vísindamenn við sögu. Skipulögð jarðfræðikortlagning hefst á skaganum á 7. áratug síðustu aldar vegna mikilvægi hans í sambandi við jarðhitarannsóknir (Jón Jónsson, 1978). Það er auk þess um það leyti sem erlendir vísindamenn taka að sýna svæðinu meiri áhuga vegna flekakenningarinnar. Hér að neðan er upptalning í tímaröð um jarðfræðitengdar rannsóknir á Reykjanesskaga allt frá 18. öld. Fróðleikur um þetta efni byggir að mestu á Jóni Jónssyni en hér eru fæðingar- og dánarár sett við hlutaðeigandi (spurningarmerki í sviga ef óljóst).

Abraham Ortelius

Abraham Ortelius.

Reykjanesskagi birtist í heild árið 1590 í riti flæmska kortagerðamannsins og landfræðingsins Abrahams Ortelíusar (1527-1598), Additamendum IV. Teatri Orbis Terrarum. Skaginn birtist þar mjög afbakaður á korti. Kortið er komið frá Guðbrandi Þorlákssyni (1541-1627) biskupi á Hólum en ekki er ljóst hvenær það er gert.

Magnús Arason (?-1728), sem gegndi herþjónustu í danska hernum, var sendur af Dönum til landmælinga á Íslandi. Hann birtir fyrsta vísinn að sérkorti fyrir Reykjanesskaga á tímabilinu 1721-1722 en drukknaði áður en hann náði að ljúka við landmælingar sínar.
Náttúrufræðingarnir Eggert Ólafsson (1726-1768) og Bjarni Pálsson (1719-1779) rituðu um Reykjanesskaga í Ferðabók sína. Rannsóknir þeirra (1752-1757) á Reykjanesskaga eru þó fremur fátæklegar. Þeir geta til um eldgos sem orðið hafa frá Landnámstíð fram til þeirra daga og vitna til skráðra heimilda í sögum og annálum.

Sveinn Pálsson

Sveinn Pálsson.

Sveinn Pálsson (1762-1840) læknir og náttúrufræðingur, virðist litlar rannsóknir hafa gert á Reykjanesskaga. Í Ferðabók hans frá 1791-1797 eru einungis stuttar lýsingar sem lítið mun vera hægt að byggja á, sér í lagi hvað jarðfræðina varðar.
Skotinn Sir George Steuart Mackenzie (1780-1848), ferðaðist um Ísland árið 1810 og safnaði talsverðu af efni varðandi jarðfræði landsins. McKenzie skrifaði bók um ferðir sínar á Íslandi sem virðist hafa náð talsverðri hylli erlendis og hafa vakið áhuga á landinu.
Björn Gunnlaugsson (1788-1876) stærðfræðingur mælir Reykjanesskagann á tímabilinu 30. júní – 30. ágúst árið 1831 og fæst þá fyrsta rétta myndin af honum í heild. Fram að því hafði hann birst meira og minna afbakaður á kortum.

Jónas Hallgrímsson

Jónas Hallgrímsson.

Jónas Hallgrímsson (1807-1845) rannsakaði Krýsuvíkursvæðið og nágrenni Reykjavíkur á árunum 1837-1842. Hann dvaldi í nokkra daga í Krýsuvík ásamt Japetus Steenstrup og beindust rannsóknir þeirra að brennisteinsnámi og hverasvæðum. Þeir skoðuðu einnig Lönguhlíð og Brennisteinsfjöll, en síðarnefnda nafnið kemur þar fyrst fyrir í skráðum heimildum. Upplýsingar frá Jónasi eru einkum í formi dagbókarbrota.
Ríkisstjórn Danmerkur sendi líf- og dýrafræðinginn Japetus Steenstrup (1813-1897) og jarðfræðinginn Jørgen Christian Schythe (1814-1877) til Íslands. Þeir dvöldu hér á tímabilinu 1839-1840, en Jónas Hallgrímsson starfaði um tíma með þeim fyrrnefnda eins og áður sagði. Schythe er þekktur fyrir rit sitt um Heklugosið 1845 en virðist ekkert hafa ritað um Reykjanesskagann.

Robert Bunsen

Robert Wilhelm Bunsen.

Í kjölfar Heklugossins 1845 koma til Íslands tveir vísindamenn sem höfðu mikil áhrif á jarðfræðirannsóknir á Íslandi. Þetta voru jarðfræðingurinn Sartoríus Von Walterhausen (1809-1876) og Robert Wilhelm Bunsen (1811-1899). Talsverður hluti rannsókna þeirra fór fram á Reykjanesskaga. Bunsen rannsakaði móbergið og ummyndun bergs á jarðhitasvæðum, auk þess sem hann rannsakaði hveri og setti fram skýringu á eðli goshvera. Walterhausen rannsakaði móbergið og er hugtakið palagónít (yfir móberg) frá honum komið. Theodor Kjerulf (1825-1888) var norskur jarðfræðingur og skáld sem dvaldi á Íslandi árið 1850. Hann skrifaði nokkrar greinar um jarðfræði Íslands. Hann fjallar um efnagreiningar á Íslenskum bergtegundum og á hveraleir. Telur hann sig líka hafa fundið hrúðurkarla á steinum upp á Mosfellsheiði í meira en 100 m hæð yfir sjó. Hann ritar einnig um sprungumyndanir og sprungugos, athugar stefnu gangabelta o.fl.

Theodor Kjerulf

Theodor Kjerulf.

Lífeðlisfræðingurinn William Preyer (1841-1897) og steindafræðingurinn Ferdinand Zirkel (1828-1912) ferðuðust um Ísland árið 1860. Þeir gerðu fáeinar athuganir á Reykjanesskaga
á brennisteinsnámum og á hverunum í Krísuvík. Zirkel mun vera fyrstur til að nota smásjá til rannsókna á íslensku bergi.
Skotinn W. L. Lindsay (?) dvaldi á Íslandi árið 1860. Hann gerði ýmsar efnafræðilegar rannnsókni á hveravatni og útfellingum við hveri, t.d. þvottalaugarnar í Reykjavík og hverina í Krýsuvík.
Sænski jarðfræðingurinn Carl Wilhelm Paijkull (1836-1869) ferðaðist um Ísland árið 1865 og útbjó jarðfræðikort af landinu. Paijkull skrifaði ferðabók og gerði ýmsar athuganir. Hann lýsir t.d. grágrýtinu í kringum Reykjavík sem ungum jarðmyndunum, en margir höfðu áður talið þær til elstu myndana landsins. Hann er fyrstur manna til að veita jökulrákum á grágrýtinu athygli og dregur út frá því þá ályktum að landið hafi eitt sinn allt verið hulið jökli.

William Preyer

William Preyer.

Jón Hjaltalín (1807-1882) landlæknir gerði ýmsar athuganir á brennisteinsnámum og hverum á Reykjanesskaga um miðja 19. öld. Átti hann bréfaskipti við Jón Sigurðsson um þetta efni og skrifaði um það ritgerð í tímaritið Ný Félagsrit.
Johannes Frederik Johnstrup (1818-1894), prófessor í bergfræði við Kaupmannahafnar-háskóla var sendur til Íslands af danska ríkinu árið 1871 í þeim tilgangi að gera rannsóknir á brennisteinsnámum, en Bretar höfðu sýnt þeim nokkurn áhuga. Hann skoðaði Krýsuvíkurnámur en hefur líklega aldrei ritað um þær rannsóknir sínar.
Þorvaldur Thoroddsen, sem síðar varð manna mikilvirkastur í rannsóknum á landafræði og jarðfræði Íslands, var í fylgdarliði Johnstrup. Þorvaldur var á þessum tíma í námi við Kaupmannarhafnarháskóla. Þorvaldur Thoroddsen (1855-1921) ferðaðist um Reykjanesskagann í nokkra mánuði árið 1883.

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen.

Hann skrifar ritgerðir í Geologiska Föreningens Förhandlingar í Stockholm (1884), Geografisk Tidsskrift (1903), Lýsing Íslands (1911), Islands Grundriss der Geographie und Geologie (1905-1906), Ferðabók (1913-1915) og Geschicte der Islandischen Vulkane (1925). Eftir Þorvald Thoroddsen liggja nokkuð ítarlegar lýsingar á jarðmyndunum á Reykjanesskaga. Jarðfræði Reykjanesskagans eru einnig gerð skil á jarðfræðikorti hans yfir Ísland frá 1901 (mælikvarði 1: 60 000).
Walther Von Knebel (1880-1907) hefur rannsóknir á íslenskum eldstöðvum árið 1905 en skömmu síðar drukknar hann í Öskjuvatni. Að Knebel látnum gaf samferðamaður hans, Hans Reck út handrit Knebels frá Íslandsferðinni og bætti þar við ýmsu. Reck ferðast síðan sjálfur um Reykjanesskaga og gerir þar ýmsar athuganir t.d. á Stampagígaröðinni og gígaröðinni við Sveifluháls. Karl Sapper (1866-1845) var afkastamikill eldfjallafræðingur. Hann ferðaðist hér á landi árið 1906 og rannsóknir hans beindust meðal annars að gígaröðinni sem Ögmundarhraun er komið úr, en honum vannst þó ekki tími til að skoða nema hluta hennar.

Komoeroviz

Bók M.V. Kormorowicz um Ísland.

Maurice Von Komorowicz (?) jarðfræðingur, rannsakaði Rauðhólana við Elliðavatn árið 1907 og gerði af þeim kort. Hann gerði einnig uppdrætti af Búrfellsgjá og Búrfelli.
Guðmundur G. Bárðarson (1880-1933) jarðfræðingur, er fyrstur til að hefja nákvæma jarðfræðikortlagninu á Reykjanesskaga í heild en hann náði þó ekki að ljúka því verki.
Hann byggði á landakortum Herforingjaráðsins frá 1908 (mælikvarði 1:50 000).
Jón Jónsson fékk síðar aðgang að dagbókafærslum hans og drögum að jarðfræðikorti og hafði þær til hliðsjónar við sínar rannsóknir á Reykjanesskaga.
Þorkell Þorkelson (1876-1961) eðlisfræðingur, er fyrstur manna hér á landi til að taka jarðhita fyrir sem sérstakt rannsóknarefni og fjalla nokkur rit hans um jarðhitasvæði á Reykjanesskaga. Hann var ásamt Steingrími Jónssyni rafmagnsstjóra helsti hvatamaður þess að farið var að bora eftir heitu vatni í Reykjavík.

Konrad Heilhack

Konrad Heilhack.

Þýski jarðfræðingurinn Konrad Keilhack (1858-1944) gerði jarðfræðikort af Reykjavík og nágrenni árið 1924 og skrifaði jarðfræðilega lýsingu á svæðinu. Kort hans var nákvæmara en eldri kort og mun vera fyrsta jarðfræðikortið sem gert er af einum landshluta á Íslandi.
Englendingarnir G. W. Tyrell (?) og Martin A. Peacock (?) dvöldu við jarðfræðirannsóknir á Íslandi um sama leyti og Keilhack. Peacock útbjó jarðfræðikort af Viðey og tók út frá þeim rannsóknum sérstaklega fyrir rannsóknir á móberginu. Uppruni þess var þá óljós þótt jarðfræðingurinn Dr. Helgi Pjéturs hafi verið búin að færa sönnur á aldur móbergsmyndunarinnar. Peacock taldi móbergið mega rekja til basalt eldgosa sem átt hefðu sér stað undir jöklum ísaldar og hefur sú skoðun hlotið almenna viðurkenningu síðan.

Svissneski jarðfræðingurinn R. A. Sonder (?) dvaldi á Íslandi sumrin 1935 og 1936. Rannsóknir hans snerust einkum að brotalínum og jarðhita og virðist hann hafa reynt að útbúa einhversskonar skilgreiningarkerfi fyrir jarðhita á Íslandi. Sonder gerði talsverðar athuganir á jarðhitakerfunum á Reykjanesskaga.

Thomas Barth

Thomas F.W. Barth.

Norski jarðfræðingurinn Tom Fredrik Weiby Barth (1899-1971) dvaldi á Íslandi árin 1934 og 1937 og rannsakaði íslensk jarðhitasvæði. Barth gaf út bók um rannsóknir sínar sem kom út í Washington, en í henni eru lýsingar á hverasvæðinu á Reykjanesi, við Krýsuvík og á Hellisheiði, ásamt korti yfir nútímahraun á Hellisheiði sem er það fyrsta í sinni röð. Í bókinni eru sérkort af ýmsum svæðum en Barth gerði fjölmargar athuganir á bæði háhita- og lághitasvæðum bæði í Reykjavík og Mosfellssveit.
Árið 1913 setti Alfred Wegener fram landrekskenningu sína og upp úr því, skömmu fyrir heimstyrjöldina síðari, tóku þýskir jarðfræðingar og jarðeðlisfræðingar að sýna jarðskorpuhreyfingum á Íslandi áhuga.
Sumarið 1938 kom til landsins leiðangur undir stjórn Oskar Niemczyk (1886-1961) prófessors til mælinga á sprungusvæðum hér á landi. Í þessum leiðangri starfaði Tómas Tryggvason. Ýmsar mælingar voru gerðar í leiðangrinum og meðal annars á Reykjanesi, en niðurstöðurnar voru gefnar út í riti árið 1943. Þessar rannsóknir marka upphafið að fjölþættum jarðeðlisfræðilegum rannsóknum á Íslandi.

Tómas Tryggvason

Tómas Tryggvason.

Guðmundur Kjartansson (1909-1972) jarðfræðingur, vann að jarðfræðirannsóknum í Árnessýslu og var afrakstri þeirra rannsókna safnað saman í bók sem kom út árið 1943. Jarðfræðikort Guðmundar yfir suðvesturland (mælikvarði 1:250 000) kom út árið 1960 sem var þá hið nákvæmasta yfir svæðið í heild. Guðmundur skrifaði einnig nokkrar greinar um jarðfræðilegar rannsóknir sínar á Reykjanesskaga.
Í Bratislava var árið 1943 gefin út ritgerð eftir M. F. Kuthan (?) sem nefnist „Die Ozillation, der Vulkanismus und die Tektonik von Reykjavík”. Ritgerð þessi er 74 síður og í henni er að finna 22 myndir og stórt jarðfræðikort (mælikvarði 1:50 000).
Trausti Einarsson (1907-1984) kannar hraun á Hellisheiði og jarðhitasvæði í Hengli á árunum 1947-1949.
Tómas Tryggvason (1907-1965) er fyrsti íslenski bergfræðingurinn og ritaði árið 1957 fyrstur um gabbróhnyðlinga sem finnast við Grænavatn í Krýsuvík. Hann hafði nokkrum árum áður hafist handa við jarðfræðikortlagninu Reykjavíkur og nágrennis. Kort Tómasar (mælikvarði 1:40 000) náði yfir svæðið frá Esju suður fyrir Álftanes og er það fyrsta sem sýnir bæði berggrunn og laus jarðlög og er að öllu leyti unnið hér á landi.
Jón Jónsson (1910-2005) gefur út ítarlegt jarðfræðikort af Reykjanesskaga árið 1978 sem var afrakstur 18 ára rannsóknarvinnu á skaganum. Kortið var tímamótaverk í rannsóknum á jarðfræði Reykjanesskagans.“

Heimild:
-Helgi Páll Jónsson – Eldfjallagarður og jarðminjar á Reykjanesskaga, HÍ 2011.

Geldingadalir

Í Fréttablaðinu þann 30. ágúst 2021 segja Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson sögu gossins í Geldingadölum á Fagradalsdfjalli í stuttu máli og lýsa aðstæðum eftir goslokin undir yfirskriftinni „Sjóðheit djásn beint úr ofninum„:

Geldingadalir
„Það eru ekki margir staðir á jörðinni þar sem náttúrudjásn bókstaflega poppa upp úr jörðinni. Ísland er einn þeirra, enda eitt virkasta eldfjallasvæði jarðar. Það sannaðist þann 19. mars 2021 þegar gos hófst í hlíðum Fagradalsfjalls í Geldingadölum. Það stóð í hálft ár en fram að því hafði ekki gosið á Reykjanesi í næstum 800 ár. Barst kvika til yfirborðs eftir allt að 17 kílómetra kvikugangi og út í gegnum tvo samhliða gíga. Síðan opnuðust ný gosop norðan þeirra sem lokuðust aftur þegar mánuður var liðinn af gosinu. Eftir það barst kvika aðallega úr einum og sama gígnum, og var hraunstreymið lengst af í kringum 5-13 rúmmetrar á sekúndu. Upp úr miðjum ágúst fór síðan að draga úr gosinu og eftir 18. september hefur ekkert hraunstreymi mælst frá gígnum. Þremur mánuðum síðar var goslokum síðan formlega lýst yfir.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

Gosið í Geldingadölum telst ekki á meðal stærstu eldgosa, enda ekki aflmikið, en var engu að síður afar tilkomumikið og auðvelt að fylgjast með því í návígi.
Gígurinn er sérlega mikið fyrir augað, en þar bregður fyrir alls konar litum, meðal annars rauðri gígskál. Á 40 metra háum gígbörmunum eru gular brennisteinsútfellingar síðan mest áberandi sem má rekja til heitra gosgufa sem stafa frá allt að 70 metra þykku hrauninu næst gígnum. Í dag þekur hraunþekjan tæplega 5 ferkílómetra, meðal annars alla Geldingadali, en hrauntungur teygja sig einnig ofan í Meradali og Nátthaga.

Geldingadalir

Geldingadalir – eldgos.

Þótt gosinu sé nú formlega lokið eru eldstöðvarnar og umhverfi þeirra mikið fyrir augað, ekki síst gígurinn sem þegar telst á meðal helstu djásna í krúnu Reykjanesskaga. Því er óhætt að mæla með göngu að þessu stórkostlega náttúrufyrirbæri. Forðast ber að ganga inn á sjálft hraunið eða upp að gígnum, enda ágætt útsýni að honum frá Stóra-Hrúti eða Fagradalsfjalli. Undanfarið hafa jarðhræringar aftur gert vart við sig á svæðinu, sem gætu verið undanfari goss. Því er skynsamlegt að bíða með heimsóknir í Geldingadali uns óróanum linnir og hætta á gosi minnkar. Þessi stöðugi órói svæðisins dregur þó síst úr aðdráttarafli þess og vonandi verður það gert að friðlandi í náinni framtíð.“

Höfundum ber sérstaklega að þakka að nefna ekki ónefnuna, sem Grindvíkingar höfðu ákveðið á hraunið af lítilli yfirvegun.

Heimild:
-Fréttablaðið 30. ágúst 2021, Sjóðheit djásn beint úr ofninum, Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson.

Geldingadalir

Geldingadalir – gígur.

Lesbók Morgunblaðsins 1943

Lesbók Morgunblaðsins, 7. tbl. 21.02.1943, Hreindýr og hreindýraskyttur – Kristleifur Þorsteinsson, bls. 53-54.

Hreindýr

Hreindýr.

„Miklu verri lífsskilyrði fyrir hreindýr hafa verið á Reykjanesfjallgarði heldur en í Múlasýslum, bæði hvað snertir vetrarbeit og veðurfar. Þar var líka mannabygð á báðar hliðar og dýrin á stöðugum flótta. Samt voru þau orðin nokkuð mörg um miðbik 19. aldar, en fráleitt hefir fengist nokkur vissa fyrir því á hvaða árum þau urðu flest eða hvað tala þeirra varð hæst. —

Skjaldarkot

Skjaldarkot – tóftir.

Er tveir fellisvetur hafa höggvið stærsta skarðið í þau, einkum, veturinn 1859, sem kendur var við hörðu föstuna. Ágúst í Hala koti á Vatnsleysuströnd segir í endurminningum sínum, að þann vetur hafi dýrin leitað skjóls og bjargað sér niður við bæi á Ströndinni og hafi þrettán hreindýr þá verið skotin, sem stóðu við hjallana í Skjaldakoti. Hafa þau öll verið að dauða komin. En svo kom annar fimbulvetur 1880—1881, sem var bæði lengri og harðari. Þá var jeg um vetrarvertíð á Vatnsleysuströnd. Fjell þar þá því nær hver einasta sauðkind, sem hvorki var ætlað hús eða hey. Svo hefir verið með hreindýrin, að ekki hefir nema lítill hluti þeirra afborið slík harðindi. En þá voru þau víst orðin fá, samanborið við það, sem var um miðja öldina. Og í grennd við mannabústaði varð þeirra þá ekki vart. Þegar komið var fram undir aldamótin 1900, þótti það í frásögur færandi, ef hreindýr sáust á þessum stöðum. Vorið 1895 kom til mín kaupmaður austan úr Þorlákshöfn. Taldi hann það merkilegasta sem fyrir hann bar á leiðinni, að á Hellisheiði sá hann fimm hreindýr á beit ekki langt frá alfaravegi.
En hvenær síðasta dýrið hefir sjest þar uppistandandi, veit jeg; ekkert um, en ekki hefir það verið löngu eftir síðustu aldamót.

Tvö hreindýr í einu skoti

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Ekki þótti það gerlegt að, skjóta hreindýr með öðru en kúlurifflum, en þeir voru þá í fárra höndum. Samt veit jeg eitt dæmi til þess, að maður banaði tveimur dýrum í sama skoti úr haglabyssu. Það var Jón Sigurðsson á Vífilsstöðum, síðar í Efstabæ í Skorradal. —
Var jeg samtíða honum margar vertíðir við sjó. Hugði jeg þá að hann hlyti að verða stórbóndi og sveitarhöfðingi svo vel þótti mjer hann til foringja fallinn. En hann, þessi frábæra skytta, beið bana af byssuskoti, þegar hann var í broddi lífsins. Var hann þá á rjúpnaveiðum frá Efstabæ. Jeg gat ekki sneitt hjá því að minnast þessa fornvinar míns hjer, af því hann var sá eini maður, sem jeg hefi áreiðanlega heimild fyrir að skyti tvö hreindýr með einu rjúpnaskoti.
Ekki er mjer kunnugt nema um, tvo menn sem urðu nafnkendir fyrir hreindýraveiðar á Reykjanesfjallgarðinum. Voru það Guðmundur Jakobsson frá Húsafelli og Guðmundur Hannesson frá Hjalla í Ölfusi. Verður þeirra hjer að nokkru getið.

Hreindýraskyttan Guðmundur Hannesson

Móakot

Móakot.

Guðmundur Jakobsson var elstur af tólf börnum þeirra Húsafellshjóna Jakobs Snorrasonar og Kristínar Guðmundsdóttur, fæddur 1794. Hann var talinn gáfumaður, þjóðhagasmiður, rammur að afli og alt var honum vel gefið. Þegar hann var fulltíða maður fluttist hann frá foreldrum sínum suður að Elliðavatni og giftist þar frændkonu sinni Valgerði Pálsdóttur, þau voru systrabörn. Valgerður, var alsystir sjera Páls í Hörgsdal, sem fjölmenn ætt er frá komin. Guðmundur bjó á Vatnsenda, síðar á Reykjum í Ölfusi og síðast í Lambhúsum í grennd við Bessastaði. Guðmundur fór að búa á þeim jörðum, sem lágu að því svæði er hreindýr hjeldu sig í þá daga. Hann var æfð skytta frá æsku og neytti hann nú þeirrar listar, þegar hreindýr gengu honum úr greipum. Var hann að líkindum sá fyrsti og næstum sá eini maður á þriðja og fjórða áratug 19. aldar, sem talinn var frækin hreindýraskytta. Mynduðust þá margar sögur af honum, bæði um skotfimi hans og hreysti, bárust sögur mann frá manni ýktar og endurbættar að gömlum þjóðar sið. Til dæmis um krafta hans var sagt, að hann hefði eitt sinn skotið hreindýr uppi í Henglafjöllum og borið það á herðum sjer til Hafnarfjarðar. Vildu Hafnfirðingar er þetta mundu, fullyrða að þetta væri satt. Einn sagði að til merkis um skotfimi Guðmundar, að hann hefði hæft dýr á 900 faðma færi og byssukúlan hefði farið inn um krúnuna og komið út hjá dindlinum. Sjálfur hafði Guðmundur verið rauplaus maður og voru sögur þær annara verk, sem af honum bárust. En sannleikur var það að hann var rammur að afli. Það sagði sjera Þórður í Reykholti mjer, að þegar hann var í Bessastaðaskóla hefði Guðmundur búið í Lambhúsum.

Lambhús

Lambhús – tóftir.

Myndaðist góð vinátta milli hans og sumra skólapilta, sem þótti gaman að líta heim til þessa glaða og gáfaða bónda. En ekki þótti þeim hann árennilegri en ísbjörn til fangbragða, enda þreyttu þeir þau aldrei við hann. Þegar ég var á barnsaldri man jeg Skagfirðinga, sem voru í skreiðarferðum suður með sjó, sögðust hafa gert sjer erindi til Guðmundar Jakobssonar, bara til þess að sjá þennan mann, sem svo margar sögur gengu um. Og Einar á Mælifelli föðurfaðir dr. Valtýs Guðmundssonar, gerði sjer ferð norðan úr Skagafirði og suður á Álftanes. Sagði hann það væri erindið að sjá Guðmund Jakobsson. Einar var gáfumaður með frábærri elju að afrita bækur. Einar heimsótti foreldra mína í þessari ferð. Var hann spurður, er hann var á heimleið, hvernig honum hefði þótt að heimsækja Guðmund og um hvað þeir hefðu helst talað. Lofaði hann Guðmund mikið fyrir gáfur og fróðleik og sagði að lokum: — Mest töluðum við um skáldskap gamlan og nýjan og aflraunir fornar.
Guðmundur flutti síðast að Móakoti í Garðahverfi til Helgasonar síns og Rannveigar konu hans. Meðal barna þeirra hjóna er Helgi Helgason verslunarstjóri og einn meðal nafnkendustu Reykjavíkurbúa. Það sagði frú Rannveig mjer, að Guðmundur tengdafaðir sinn hefði verið sá glaðasti og skemtilegasti maður, sem hún hefði kynst um æfina. Hann dó í Móakoti 1. jan. 1873, kominn að áttræðu.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – tóftir.

Vigdísarvellir hjet heiðarbýli eigi langt frá Keili, en fjarri öllum bygðum bólum. Þegar jeg var sjómaður á Vatnsleysuströnd frá 1878 til 1888, bjó þar maður að nafni Guðmundur Hannesson. Strandarmenn sögðu mjer að hann væri einn af þeim 29 börnum, sem Hannes bóndi á Hjalla hefði eignast með konum sínum, en bókfærðar heimildir hefi jeg engar fyrir þessu. Jeg sá þennan Guðmund nokkrum sinnum og líka þekti jeg mörg systkin hans, sem voru víðsvegar þar syðra, bæði hjú og búendur, meðal þeirra var Sæfinnur vatnsberi í Reykjavík, er gárungar kölluðu Sæfinn með sextán skó. Þessi systkini voru fyrir mínum augum ekki meiri en miðlungsfólk, og báru sum þeirra vitni þess, að vanlíðan í æsku hefði markað þroska þeirra. Einkum var það einn bræðranna, sem Helgi hjet, er talinn var lítilmenni. En Sæfinnur og Guðmundur voru þeirra burðugastir.

Sæfinnur

Sæfinnur Hannesson.

Ágúst í Halakoti lýsir Guðmundi Hannessyni sem frábæru karlmenni og bestu skyttu, og er það enginn efi að svo hafi verið, hafi hann skotið sjötíu hreindýr eins og Ágúst fullyrðir. Til dæmis um frækleik Guðmundar og hreysti, segir hann sögu af því, að eitt sinn hafi helskotinn tarfur, sem ekki átti undankomu auðið, ráðist á hann. Guðmundur brá sjer þá upp á svíra dýrins og banaði því með beittum hnífi. Þessu nákvæmlega samhljóða sögu heyrði jeg í bernsku minni um Guðmund Jakobsson. Kemur mjer til hugar, að það sama atvik sje fært á milli manna. Ekki var Guðmundur Hannesson jafn stórmannlegur í mínum augum, eins og í lýsingu þeirri sem Ágúst í Halakoti gaf af honum og efast jeg um að allar heimildir um dýraveiðar hans sjeu óyggjandi, því bygðar eru þær á sögnum, er gengið hafa mann frá manni. Jeg hefi spurt Herdísi Sigurðardóttur húsfrú á Varmalæk, sem þekti Guðmund vel, er hún átti heima á Vífilsstöðum og Krýsivík, hvort það geti komið til mála að hann hefði skotið sjötíu hreindýr. Hún þorði ekki að mótmæla því með öllu, að svo hefði getað verið þótt henni virtist líklegra að einhverju hefði verið krítað í þá tölu. En það vissi hún að hann var talinn góð skytta og skaut bæði refi og hreindýr, þegar tök voru á. Að öllum líkindum hefir hann lagt fleiri hreindýr að velli á Reykjanessfjallgarði, en nokkur annar maður.
Það væri fróðlegt að vita nöfn allra þeirra manna, sem skutu hreindýr á þessu svæði og tölu þeirra dýra, sem fjellu fyrir skotum, en um það er ekkert að finna nema í munnmælum, sem færast úr lagi og gleymast síðan með öllu.
Nú á dögum líta ýmsir svo á, að það hafi verið mesta goðgá að leggja þessi friðsömu fjalldýr að velli. En þau áttu ekki ætíð sjö dagana sæla. —
Þegar allt fór saman, vetrarbyljir, stórregn og hagleysi, þá hlutu þau að lokum að hníga að velli helfrosin og hungurmorða. Við allar þær nauðir losnuðu dýrin, sem fengu skot í höfuð eða hjarta og hlutu þar með bráðan bana. Má því líta svo á, að þessir markvissu veiðimenn hafi unnið miskunnarverk með því að leggja dýrin hreinlega að velli. Og með þeim færðu þeir líka oft þurfandi fjölskyldu góða björg í búið. Þá var heldur ekki um lagabrot að ræða, þótt hreindýr væru unnin á þeim árum, sem frásagnir þær gerðust sem hjer eru skráðar.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 7. tbl. 21.02.1943, Hreindýr og hreindýraskyttur – Kristleifur Þorsteinsson, bls. 53-54.

Hreindýr

Hreindýr.

Sjóslys

Í Ægi 1914 er yfirlit yfir „Botnvörpuskip sem strandað hafa við strendur Íslands 1896-1906„:

Ása

Kútterinn Ása 1902.

„Nítján eru þau, skipin sem liggja hingað og þangað með ströndum fram hjer við land, sem strönduðu á 10 árum, og fleiri eru komin síðan. Sum þessara skipa liggja rjett við land, sum eru á þurru landi og af þeim eru mörg óbrotin en sandorpin, og talið ógerningur að ná þeim út. Þau eru sem hjer segir:

Nafn skipsins:  Heimili: Strandár;
1. Thoyetme  Fleetwood  1896.
2. Präsident Herwig   Geestemünde   1898.
3. Richard Simpson  Hull  1899.
4. Oceanic Hull  »
5. Engjanes  Rvík(Vídalín)  »
6. Friedrich  Geestemünde  1900.
7. Spaniel  Hull  »
8. Cleopatra  Hull  1901.
9. Lindsey Grimsby »
10. Aulaby (Anglaby) Hull 1902.
11. Rriton Hull »
12. Jamesia Grimsby »
13. Africa Grimsby »
14. Adeline Hull 1903.
15. Spring Flower Hull »
16. Molops Hull »
17. St. George Grimsby »
18. Friedrich Albert Geestemünde »
19. Würtenberg Nordenham 1906.

Togari
Þetta er það sem liggur ónotað í fjörunum hjer, og vart hægt að færa sjer það í nyt, því flest skipin liggja á þeim stöðum, þar sem björgunartilraunir mundu vera afarörðugar og kostnaðarsamar.
Til skýringar við þessa skipaskrá skal hjer tekið fram, að nr. 4 liggur við Skerjafjörð, nr. 11 við Stapa undir Jökli, nr. 12 við Bervík, nr. 17 við Ásmundarstaðavík á Melrakkasljettu, nr. 18 og 19 við Skeiðarársand, nr. 1, 2 og 6 við Skaftárós, nr. 3 og 9 við Mýrdalssand, nr. 16 við Rangársand, nr. 8 við Stokkseyri, nr. 5 og 10 milli Grindavíkur og Reykjaness, nr. 14 við Hafnarberg, nr. 7, 13 og 15 við Útskálaskaga.“

Í Ægir 1927 segir m.a. um tvö framangreindra sjóslysa:
-„„Engjanes“, botnvörpuskip frá Vídalínsútgerðinni í Hafnarfirði. Strandaði á flúðum utan við Járngerðarstaði, aðfaranótt 3. okt. 1899. Kent um óþektum straum og truflun á áttavita. Menn björguðust allir.“
-„„Anglaby“, enskur togari, strandaði á tanga austan við Karfabás 14. jan. 1902. Drukknuðu þar allir. Skipstjórinn var Nelson, hinn alþekti landhelgislagabrjótur.“

Í framangreindum Ægi 1927 er „Skýrsla um skipströnd í Grindavík á svæðinu frá Hraunsandi til Staðarbergs árin 1850-1927“ eftir Einar G. Einarsson, Garðhúsum í Grindavík:

Einar G. Einarsson

Einar G. Einarsson í Garðshúsum.

Skýrsla um skipströnd í Grindavík á svæðinu frá Hraunsandi til Staðarbergs árin 1850—1927.
1. „Delphin“, frönsk loggorta, strandaði á Kasalóni laust eftir 1850. Menn björguðust allir. Skip þetta var tekið út sumarið eftir. Keyptu það Sveinbjörn Ólafsson kaupmaður í Keflavík o. fl.
2. „Beta“, dönsk jakt lítil. Rak hún á land í Hrólfsvík, en skipshöfn mun hafa druknað í hafi. Var skipið á leið til Búða með vörur.
3. „Kapracius“, frönsk skonnorta, strandaði á Þorkötlustaðabót. Menn björguðust allir.
4. „Vega“ 30. apríl 1885, þýsk skonnerta, með saltfarm til Reykavíkur, strandaði á Þorkötlustaðnesi. Menn björguðust allir.
5. „Brise“, frönsk skonnerta, standaði á Arfadal. Skip þetta hafði orðið fyrir ásiglingu á hafi úti og sigldi upp vegna leka, um bjartan dag.
6. „Lonaine“, frönsk skonnerta. Strandaði 28. apríl 1885 á Hraunssandi og var leka um kent. Menn björguðust allir.
7. „Petit Jean“, frönsk skonnerta. Rak upp á Hraunsfjörur og varð ekki vart við neinn mann. Hafa því að líkindum allir drukknað áður en skipið kom að landi.
8. „Glitner“, norskur galeas. Rak á land á Járngerðarstaðvík 11. júlí 1896. Menn björguðust allir.
9. „Fortuna“, dönsk skonnerta. Rak á land á Járngerðarstaðavík 29. júlí 1897. Allir björguðust.
10. „Flora“, norskur galeas. Rak á land á Járngerðarstaðavík 7. júlí 1903. Menn björguðust.
11. „Oddur“, gufubátur frá Eyrarbakka. Rak á land á Járngerðarstaðavík. Menn björguðust.
12. „Minna“, þýsk skonnerta. Rak á land á Járngerðarstaðavík 17. júlí 1906. Mannbjörg.
13. „Henrij Rheid“, mótorbátur frá Hafnarfirði, Rak á land á Járngerðarstaðavík 16. febrúar 1907. Mannbjörg.
14. „Engjanes“, botnvörpuskip frá Vídalínsútgerðinni í Hafnarfirði. Strandaði á flúðum utan við Járngerðarstaði, aðfaranótt 3. okt. 1899. Kent um óþektum straum og truflun á áttavita. Menn björguðust allir.
15. „Rapid“, norskt flutningagufuskip strandaði á sama stað og nr. 14. Strandið kent, að sést hafi ljós í glugga, er yfirmenn álitu að væri Reykjanesviti, einnig skekkju á áttavita. Þetta skeði 15. nóv. 1899, kl.
3 árdegis. Menn björguðust.
16. „Anglaby“, enskur togari, strandaði á tanga austan við Karfabás 14. jan. 1902. Drukknuðu þar allir. Skipstjórinn var Nelson, hinn alþekti landhelgislagabrjótur.
17. „Sheldon Abbey“, ensk skonnerta, strandaði á Þorkötlustaðanesi. Var með salt og tunnufarm til Reykjavíkur. Menn björguðust.
18. „Varonell“, enskur togari, strandaði á flúðum, utan við Járngerðarstaði 20. janúar 1913. Þrír menn drukknuðu, en hinum tókst að bjarga.
19. „Karl Markmann“, þýskur togari. Rakst á sker, líklega Þorkötlustaðanes, en losnaði aftur og sökk skipið skammt undan landi 8. des. 1913. — Menn björguðust á skipsbátnum og náðu landi á Sandvík vestan við Reykjanesvita.
20. „Resolut“, mótorkútter frá Reykjavík, strandaði vestan við Hásteina 10. spet. 1916. Hafði stýri bilað. — Mannbjörg.
21. „Schlutrup“, þýskur togari. Strandaði við Stekkjarnef. Menn björguðust allir.
22. „Anna“, færeyskur kútter, strandaði austan við Staðarberg 3.—4. apríl 1924. Týndust allir menn 15 að tölu; ráku 9 á land og voru jarðsungnir hér í Reykjavík 11. apríl. („Anna“ hét áður „Sléttanes“ og var keypt héðan).
23. „Ása“, togari H. P. Duus-verslunar í Reykjavík. Strandaði á flúðum vestan við Járngerðarstaði. Áttavitaskekkju kent um. Allir björguðust.  (Skipið nýtt).
24. „Hákon“, mótorkútter frá Reykjavík. Strandaði við Skarfatanga 9. maí 1926. Sigldi á land í svörtum bil. Menn björguðust i skipsbátnum.

Þessa skýrslu um skipaströnd hefir hr. kaupmaður Einar G. Einarsson í Garðhúsum tekið saman eftir beiðni, og bætir eftirfarandi við:

Gufuskip

Reykvískt gufuskip.

„Til skýringar skýrslu þessari vil ég taka þetta fram, að hún er skrifuð eftir minni og ekki þar stuðst við nein heimildarrit eða minnisbækur og vegna þess er flestum ártölum slept, samt geri ég ráð fyr að hún sé í öllum aðalatriðum rétt og að ekki sé neitt skip rangtalið, sem hér hefir strandað á þessu timabili. En frekari upplýsingar um þetta má eflaust fá í Þjóðvinafélagsalmanakinu, yfir þann tíma, sem það nær, svo og í bókum Gullbringusýslu, þvi fram til síðustu tíma voru öll skipströnd meðhöndluð af sýslumönnum.
Ása5 skip eða nr. 8—12 í skýrslunni, hafa slitnað upp á Járngerðarstaðavík. 2 skip, nr. 2 og 7 hafa sennilega rekið mannlaus á land, skipshafnir verið búnar að skilja við þau, eða hafa drukknað á rúmsjó, og 2 skipin, nr. 5 og 6, líklega siglt viljandi á land.
Öll hin skipin, 15 að tölu, hafa strandað af einhverjum atvikum, sem menn ekki hafa getað ráðið við, og þá líklega í mörgum tilfellum, að einhverju leyti, af skekkju á áttavitum. Í því sambandi mætti ef til vill geta sér til, að hraunið hér, sem alstaðar liggur út í sjó, kunni að vera mengað þeim efnum (járni), er hafi áhrif á áttavitana. – Garðhúsum 27. júní 1927. (Sign.) Einar G .Einarsson.

Togari

Hákon RE 113, áður kútter Haraldur MB 1 frá Akranesi sem kátir karlar voru á.

Skýrslan og skýringar þessar eru settar í „Ægi“ til þess að benda á, að hér muni eigi vanþörf að vitaverði hið bráðasta komið upp. Síðasta Alþingi hafði þetta með höndum og munu undirtektir hafa verið hinar bestu og að sögn vitamálastjóra, mun viti verða reistur á Hópsnesi á komandi sumri.
Til áréttingar því, sem hr. Einar G. Einarsson segir um áttavitaskekkju á þessum slóðum, sem sjómenn hafa orðið varir við, geta þar einnig verið óreglulegir straumar, sem bera skip úr leið.

Hópsnes

Hópsnesviti/Þórkötlustaðaviti. Vitin sá arna er í landi Þórkötlustaða og þar með á Þórkötlustaðanesi. U.þ.b. 120 metrar eru í landamerki Hóps frá vitanum.

Mönnum er það ekki hulið, að vegna jarðskjálfta, hefir komið fyrir að Reykjanesviti hefir ekki logað þegar hann átti að gjöra það. Er því brýn nauðsyn, að fyrirhugaður viti í Grindavík, sendi frá sér ljós, sem sé vel aðgreint frá Reykjanesljósinu, svo aldrei komi það fyrir, að skip, sem úr hafi koma, geti vilst á þeim. Hafi orðið að slökkva ljósið á Reykjanesvitanum í fyrra vegna jarðskjálfta, getur hið sama orðið í ár og önnur ár.

Sveinbjörn Egilsson

Sveinbjörn Egilsson.

Enginn segir fyrir, hvenær skip þurfi á Reykjanesvita að halda; getur það orðið jafnt í jarðskjálfta, þegar ekki er auðið að sýna ljós, og þegar alt er í lagi; en sökum þessa mikla ókosts Reykjaness fyrir sjófarendur, virðist svo, sem brýn nauðsyn heimti, að Grindavíkurvitinn verði góður viti vegna þess, að svo getur viljað til, að hann verði eini landtökuvitinn á þessum hættulegu slóðum.
(Ég hef bætt ártölum og mánaðardögum inn í skýrslu Einars eftir föngum). – Reykjavík, 15. okt. 1927. Sveinbjörn Egilson.

Í framhaldinu verður hér fjallað stuttlega um strand togarans Kinston Period H 55 sunnan Kalmanstjarnar árið 1934.

Strand utan við Kalmannstjörn 1934

Kalmanstjörn

Kingston – strandið 1934.

„Myndin er líklega tekin 26. febrúar 1934. Maðurinn til hægri er líklega Jón Bergsveinsson, framkvæmdastjóri Slysavarnarfélags Íslands. Strandaði togarinn er frá Kingston útgerðarfélaginu í Hull. Það strand sem passar best við myndina er strand Kingston Peridot H 55 rétt sunnan Kalmannstjarnar í Höfnum. Togarinn sigldi á land aðfararnótt 24. febrúar 1934 en skemmdist lítið. Jón fór á staðinn með fluglínutæki og hjálpaði ásamt slysavarnarsveitinni í Höfnum áhöfninni í land samdægurs. Varðskipið Óðinn og breska björgunarskipið Henry Lancaster komu og drógu skipið út 26 febrúar.“ (BÞ 2018)

Heimildir:
-Ægir, 9. tbl. 01.09.1914, Botnvörpuskip sem strandað hafa við strendur Íslands 1896-1906, bls. 117.
-Ægir, 10. tbl. 01.10.1927, Skýrsla um skipströnd í Grindavík á svæðinu frá Hraunsandi til Staðarbergs árin 1850-1927 – Einar G. Einarsson, Garðhúsum 27. júní 1927, skráð af Sveinbirni Egilssyni, bls. 220-221.
-Sarpur.is

Gufuskip

Gufuskip-Baldur RE 146-1913.