Færslur

Árið 2005 gáfu Landmælingar Íslands út nýtt sérkort yfir Suðvesturland. Í framhaldi af því skrifaði Sesselja GudmundsdottirSesselja Guðmundsdóttir gagnrýni um kortaútgáfuna í Morgunblaðið. Gagnrýni Sesselju er upp tekin hér sem dæmi um mikilvægt viðmót þeirra er til þekkja þann fróðleik er um er höndlað, en fá jafnan ekki eðlilega aðkomu að undirbúningi slíkrar mikilvægrar vinnu.

Sjá meira undir Frásagnir.

Reykjanes - göngukort

Árið 2005 gáfu Landmælingar Íslands út nýtt sérkort yfir Suðvesturland.
Í framhaldi af því skrifaði
Sesselja GudmundsdottirSesselja Guðmundsdóttir gagnrýni um kortaútgáfuna í Morgunblaðið. Gagnrýni Sesselju er upp tekin hér sem dæmi um mikilvægt viðmót þeirra er til þekkja þann fróðleik er um er höndlað, en fá jafnan ekki eðlilega aðkomu að undirbúningi slíkrar mikilvægrar vinnu.
Nýlega kom út sérkort af Suðvesturlandi frá Landmælingum Íslands í mælikvarðanum 1:75 000. Í kápukynningu segir m.a.: „Á kortinu er fjöldi örnefna, upplýsingar um vegi og vegalengdir, göngu- og reiðleiðir auk helstu upplýsinga sem útivistarfólk þarf á að halda.“ Hér koma nokkrar athugasemdir sem snerta Reykjanesskagann: Þorpið Hafnir í Reykjanesbæ var byggt út úr höfuðbólunum Kirkjuvogi og Kotvogi en þau örnefni sjást ekki. Í Höfnum stendur Kirkjuvogskirkja sem á sér merka og langa sögu en hún er ekki sett inn, aðeins kirkjugarðstáknið (þrír krossar). Þarna mætti ætla að kirkja væri aflögð sem er rangt.
sulur-101Suður undir Reykjanesi er örnefnið Tjaldstaðagjá sem vísar til bæjarnafns (-staðir) en á kortinu stendur Tjaldstæðagjá. Til eru skrif um byggð úti á Reykjanesi og örnefnið Tjaldstaðagjá styður þær sagnir, nafnið er rétt á eldri kortum. Súlnagjá er sett suðaustan við fjallið Súlur austan Hafna en gjáin er vestan (neðan) við fjallið og hefur verið rétt staðsett á eldri kortum. Gamli-Kirkjuvogur (nefndur Vogur í Landnámu, seinna kirkjustaður) stóð handan við Ósana norðan Hafna en var fluttur til Hafna líklega vegna landbrots og landeyðingar á 16. öld. Á kortinu er Gamla-Kirkjuvogs ekki getið en hann er á eldri kortum. Á Grímshól á Vogastapa er hringsjá en hún er ekki sýnd (var á korti frá 1989).Þorpið Vogar var byggt út úr höfuðbýlinu Stóru-Vogum en það nafn er ekki inni nú, aðeins Minni-Vogar. Örnefnin Stapaþúfa, Gjásel og Brunnastaðasel í Strandarheiði eru sett niður á röngum stöðum. Brunnastadasel-101
Stapaþúfa er suðvestan við Gjásel og Gjásel norðan Brunnastaðasels. Enn og aftur er bæjarnafnið Auðnar á Vatnsleysuströnd rangt skráð á kort, sagt Auðnir, en í Jarðabókinni 1703 og í öðrum gömlum heimildum er alltaf sagt Auðnar. Höskuldarvallastígur er settur á núverandi göngustíg sem liggur frá Oddafelli að Keili en örnefnið á aðeins við gömlu götuna sem liggur yfir hraunið næst Oddafelli en sú lá yfir í selin austan við. Sandakravegur (gömul lestaleið að austan til Suðurnesja) hefur alla tíð verið rangt staðsettur á kortum og er enn. Yngstu reiðgötuna um Herdísarvíkurhraun vantar á kortið en sú elsta (?) er sýnd þó óljós sé. Yngsta reiðgatan er djúp og vörðuð og fær bæði hestum og fólki og ætti frekar heima á kortinu en sú eldri. Sláttudalur austan Geitahlíðar (fjall, 384 m) í Krýsuvíkurlandi er á röngum stað nú en var réttur á korti 1989.
Örnefnið Meltunnuklif-101Geitahlíð hefur aldrei fyrr teygt sig austur með hlíðinni frá fjallinu Geitahlíð. Samkvæmt örnefnaskrám heitir fjallið sjálft (hnjúkurinn) Geitahlíð og efst á því tróna Æsubúðir. Örnefnið Drumsdalavegur er sett á vellina sunnan við Vigdísarvallaeyðibýlið en á heima á fjallveginum yfir Sveifluhálsinn sunnarlega en þar er kletturinn Drumbur. Reykjavegur (stikuð gönguleið) er rangur að hluta á kortinu, villa sem hver apar eftir öðrum. Hann liggur EKKI um Méltunnuklif og svo austan við Höfða heldur niður Brattháls norðan klifsins og svo vestan Höfðans og gengur um skarðið milli hans og Sandfells. Þeir sem stofnuðu til Reykjavegarins ættu að koma upplýsingum um legu hans í rétt horf sem fyrst. Fyrrnefnd villa er ekki sú eina á þessari leið.

Raudholssel-101

Rauðhólssel – uppdráttur ÓSÁ.

Í kynningu kortsins er sagt að það hafi að geyma „helstu upplýsingar sem útivistarfólk þarf á að halda.“ Því miður er ekki svo. Á svæðinu eru margar rústir sem útivistarfólk hefur ánægju af að skoða en eru ekki settar inn, ekki einu sinni merktar með rústakrossi (x). Hér má nefna selrústir í Hafnaheiði, Merkinessel og Möngusel; selrústir við Seltjörn við Grindavíkurveg; Nýjasel við Skógfellaveg; Hvassahraunssel og Lónakotssel; selrústirnar við og í Núphlíðarhálsinum, þ.e. Rauðhólssel, Oddafellssel og Sogasel svo ekki sé talað um selrústirnar á Selsvöllum. Flestar fyrrnefndar rústir liggja við merktar gönguleiðir á kortinu. Gvendarhellir í Krýsuvíkurhrauni er merkilegur vegna mannvistarleifa og sagna en hann er ekki á kortinu en er á eldri kortum. Elsta (?) þjóðleiðin með Suðurströndinni er sýnd um Herdísarvíkurhraun eins og fyrr segir en nálægt henni eru selrústir sem og gömul fjárrétt á Seljabótarnefi sem er við það að hverfa í hafið. Þessar rústir eru ekki settar inn. Sumar gönguleiðirnar á kortinu enda að því er virðist í öngstræti og ekkert sem segir að við lok þeirra sé eitthvað áhugavert, t.d. er einn slíkur leggur í Geldingahrauni austan Afstapahrauns og annar ofan Draugahlíða í átt að Brennisteinsfjöllum. Sú leið hefði átt að liggja alla leið að námunum en þar eru merkar mannvistarleifar í og við hverasvæði. Flest þarf gagnrýni við. Ef enginn gagnrýnir birtast sömu villurnar aftur og aftur eins og illgresi í túni.
Landakortaútgáfa virðist varðveita villur af kerfislegri íhaldssemi og heimur versnandi fer þrátt fyrir sérfræðinga út og suður. Atlaskortin eru vönduð sem og kort frá 1989 og mættu kortagerðarmenn hafa þau meira til hliðsjónar við gerð nýrri korta. Sögufalsanir eru nógu slæmar þó ekki séu þær skjalfestar um aldur og ævi.“
Framangreint kort er langt í frá að vera gallalaust líkt og gerist með slík kort nú til dags. Sennilega kemst ekki skikk á ágreiningis- og deilumál um örnefni og minjar á Reykjanesskaganum fyrr en væntanleg „Reykjanesskinna“ kemur út seint á öðru áratug þessarar aldar.
Til upplýsinga og fróðleiks um framangreint Rauðhólssel, svo dæmi sé tekið, má t.d. geta heimildar í Jarðabók ÁM og PV 1703: Stóra-Vatnsleysa; „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Rauðhólssel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein á vatnsskorti“.

Heimild:
-Morgunblaðið 16. júlí 2005, bls. 30.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 3. b. 1923. S. 152.

Gvendarborg

Gvendarborg.

Náttúra

„Margt hefur verið ritað og birt um jarðfræði Reykjanesskaga og Reykjaneshryggjar í fræðigreinum og ritum, bæði innlendum og erlendum. Grundvallarrit um jarðfræði Reykjanesskaga er skýrsla og jarðfræðikort Jóns Jónssonar, þar sem dregnar eru saman niðurstöður 18 ára rannsóknarvinnu við kortlagningu hrauna og eldvarpa (Jón Jónsson, 1978). Jón hefur þar að auki ritað ítarlegar yfirlitsgreinar um jarðfræði Reykjanesskaga í Árbækur Ferðafélags Íslands og yfirlit yfir söguleg eldgos á skaganum í tímaritið Náttúrufræðinginn (Jón Jónsson, 1983, 1984, 1985). Annað yfirgripsmikið jarðfræðirit um Reykjanesskaga er skýrsla Freysteins Sigurðssonar um vatnajarðfræði svæðisins (Freysteinn Sigurðsson, 1985). Sveinn P. Jakobsson o.fl. gerðu grein fyrir bergfræði á vestanverðum Reykjanesskaga (Jakobsson, Jónsson, & Shido, 1978). Ari Trausti Guðmundsson skrifar sérstaka kafla um eldstöðvakerfi skagans og gossögu þeirra í ritum sínum um íslenskar eldstöðvar (Ari Trausti Guðmundsson, 1988, 2001). Gunnar Birgisson skrifaði námsritgerð um laus jarðlög á svæðinu (Gunnar Birgisson, 1983). Margt hefur verið birt í erlendum jarðvísindatímaritum og einnig í innlendu tímaritunum Náttúrufræðingnum (á íslensku) og Jökli (á ensku og íslensku). Til er fjöldi skýrsla frá Orkustofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands um ýmsar náttúrurannsóknir á Reykjanesskaga. Margar þeirra snúa að jarðhitarannsóknum (bæði jarðfræði og jarðeðlisfræði) en einnig að öðrum náttúrurannsóknum, til að mynda rannsóknum í líffræði. Það yrði of langt mál að telja öll þessi skrif upp hér og skal vísað til frekari heimilda sem skráðar eru í ofangreindum ritum og til fyrrnefndra stofnanna. Í framhaldinu verður gerð grein fyrir þeim náttúrurannsóknum sem fram fóru á Reykjanesskaga fyrr á öldum og fram á áttunda áratuginn þegar flekakenningin tók að ryðja sér til rúms innan jarðvísindanna og margir þættir í jarðfræði Reykjanesskaga og Reykjaneshryggjar tóku að skýrast út frá auknum skilningi á reki jarðskorpuflekanna. Náttúrurannsóknir á skaganum má rekja allt aftur til 18. aldar og koma þar bæði innlendir og erlendir vísindamenn við sögu. Skipulögð jarðfræðikortlagning hefst á skaganum á 7. áratug síðustu aldar vegna mikilvægi hans í sambandi við jarðhitarannsóknir (Jón Jónsson, 1978). Það er auk þess um það leyti sem erlendir vísindamenn taka að sýna svæðinu meiri áhuga vegna flekakenningarinnar. Hér að neðan er upptalning í tímaröð um jarðfræðitengdar rannsóknir á Reykjanesskaga allt frá 18. öld. Fróðleikur um þetta efni byggir að mestu á Jóni Jónssyni en hér eru fæðingar- og dánarár sett við hlutaðeigandi (spurningarmerki í sviga ef óljóst). Reykjanesskagi birtist í heild árið 1590 í riti flæmska kortagerðamannsins og landfræðingsins Abrahams Ortelíusar (1527-1598), Additamendum IV. Teatri Orbis Terrarum. Skaginn birtist þar mjög afbakaður á korti. Kortið er komið frá Guðbrandi Þorlákssyni (1541-1627) biskupi á Hólum en ekki er ljóst hvenær það er gert.

Magnús Arason (?-1728), sem gegndi herþjónustu í danska hernum, var sendur af Dönum til landmælinga á Íslandi. Hann birtir fyrsta vísinn að sérkorti fyrir Reykjanesskaga á tímabilinu 1721-1722 en drukknaði áður en hann náði að ljúka við landmælingar sínar.
Náttúrufræðingarnir Eggert Ólafsson (1726-1768) og Bjarni Pálsson (1719-1779) rituðu um Reykjanesskaga í Ferðabók sína. Rannsóknir þeirra (1752-1757) á Reykjanesskaga eru þó fremur fátæklegar. Þeir geta til um eldgos sem orðið hafa frá Landnámstíð fram til þeirra daga og vitna til skráðra heimilda í sögum og annálum.
Sveinn Pálsson (1762-1840) læknir og náttúrufræðingur, virðist litlar rannsóknir hafa gert á Reykjanesskaga. Í Ferðabók hans frá 1791-1797 eru einungis stuttar lýsingar sem lítið mun vera hægt að byggja á, sér í lagi hvað jarðfræðina varðar.
Skotinn Sir George Steuart Mackenzie (1780-1848), ferðaðist um Ísland árið 1810 og safnaði talsverðu af efni varðandi jarðfræði landsins. McKenzie skrifaði bók um ferðir sínar á Íslandi sem virðist hafa náð talsverðri hylli erlendis og hafa vakið áhuga á landinu.
Björn Gunnlaugsson (1788-1876) stærðfræðingur mælir Reykjanesskagann á tímabilinu 30. júní – 30. ágúst árið 1831 og fæst þá fyrsta rétta myndin af honum í heild. Fram að því hafði hann birst meira og minna afbakaður á kortum.
Jónas Hallgrímsson (1807-1845) rannsakaði Krýsuvíkursvæðið og nágrenni Reykjavíkur á árunum 1837-1842. Hann dvaldi í nokkra daga í Krýsuvík ásamt Japetus Steenstrup og beindust rannsóknir þeirra að brennisteinsnámi og hverasvæðum. Þeir skoðuðu einnig Lönguhlíð og Brennisteinsfjöll, en síðarnefnda nafnið kemur þar fyrst fyrir í skráðum heimildum. Upplýsingar frá Jónasi eru einkum í formi dagbókarbrota.
Ríkisstjórn Danmerkur sendi líf- og dýrafræðinginn Japetus Steenstrup (1813-1897) og jarðfræðinginn Jørgen Christian Schythe (1814-1877) til Íslands. Þeir dvöldu hér á tímabilinu 1839-1840, en Jónas Hallgrímsson starfaði um tíma með þeim fyrrnefnda eins og áður sagði. Schythe er þekktur fyrir rit sitt um Heklugosið 1845 en virðist ekkert hafa ritað um Reykjanesskagann.
Í kjölfar Heklugossins 1845 koma til Íslands tveir vísindamenn sem höfðu mikil áhrif á jarðfræðirannsóknir á Íslandi. Þetta voru jarðfræðingurinn Sartoríus Von Walterhausen (1809-1876) og Robert Wilhelm Bunsen (1811-1899). Talsverður hluti rannsókna þeirra fór fram á Reykjanesskaga. Bunsen rannsakaði móbergið og ummyndun bergs á jarðhitasvæðum, auk þess sem hann rannsakaði hveri og setti fram skýringu á eðli goshvera. Walterhausen rannsakaði móbergið og er hugtakið palagónít (yfir móberg) frá honum komið. Theodor Kjerulf (1825-1888) var norskur jarðfræðingur og skáld sem dvaldi á Íslandi árið 1850. Hann skrifaði nokkrar greinar um jarðfræði Íslands. Hann fjallar um efnagreiningar á Íslenskum bergtegundum og á hveraleir. Telur hann sig líka hafa fundið hrúðurkarla á steinum upp á Mosfellsheiði í meira en 100 m hæð yfir sjó. Hann ritar einnig um sprungumyndanir og sprungugos, athugar stefnu gangabelta o.fl.
Lífeðlisfræðingurinn William Preyer (1841-1897) og steindafræðingurinn Ferdinand Zirkel (1828-1912) ferðuðust um Ísland árið 1860. Þeir gerðu fáeinar athuganir á Reykjanesskaga
á brennisteinsnámum og á hverunum í Krísuvík. Zirkel mun vera fyrstur til að nota smásjá til rannsókna á íslensku bergi.
Skotinn W. L. Lindsay (?) dvaldi á Íslandi árið 1860. Hann gerði ýmsar efnafræðilegar rannnsókni á hveravatni og útfellingum við hveri, t.d. þvottalaugarnar í Reykjavík og hverina í Krýsuvík.
Sænski jarðfræðingurinn Carl Wilhelm Paijkull (1836-1869) ferðaðist um Ísland árið 1865 og útbjó jarðfræðikort af landinu. Paijkull skrifaði ferðabók og gerði ýmsar athuganir. Hann lýsir t.d. grágrýtinu í kringum Reykjavík sem ungum jarðmyndunum, en margir höfðu áður talið þær til elstu myndana landsins. Hann er fyrstur manna til að veita jökulrákum á grágrýtinu athygli og dregur út frá því þá ályktum að landið hafi eitt sinn allt verið hulið jökli.
Jón Hjaltalín (1807-1882) landlæknir gerði ýmsar athuganir á brennisteinsnámum og hverum á Reykjanesskaga um miðja 19. öld. Átti hann bréfaskipti við Jón Sigurðsson um þetta efni og skrifaði um það ritgerð í tímaritið Ný Félagsrit.
Johannes Frederik Johnstrup (1818-1894), prófessor í bergfræði við Kaupmannahafnar-háskóla var sendur til Íslands af danska ríkinu árið 1871 í þeim tilgangi að gera rannsóknir á brennisteinsnámum, en Bretar höfðu sýnt þeim nokkurn áhuga. Hann skoðaði Krýsuvíkurnámur en hefur líklega aldrei ritað um þær rannsóknir sínar.
Þorvaldur Thoroddsen, sem síðar varð manna mikilvirkastur í rannsóknum á landafræði og jarðfræði Íslands, var í fylgdarliði Johnstrup. Þorvaldur var á þessum tíma í námi við Kaupmannarhafnarháskóla. Þorvaldur Thoroddsen (1855-1921) ferðaðist um Reykjanesskagann í nokkra mánuði árið 1883. Hann skrifar ritgerðir í Geologiska Föreningens Förhandlingar í Stockholm (1884), Geografisk Tidsskrift (1903), Lýsing Íslands (1911), Islands Grundriss der Geographie und Geologie (1905-1906), Ferðabók (1913-1915) og Geschicte der Islandischen Vulkane (1925). Eftir Þorvald Thoroddsen liggja nokkuð ítarlegar lýsingar á jarðmyndunum á Reykjanesskaga. Jarðfræði Reykjanesskagans eru einnig gerð skil á jarðfræðikorti hans yfir Ísland frá 1901 (mælikvarði 1: 60 000).
Walther Von Knebel (1880-1907) hefur rannsóknir á íslenskum eldstöðvum árið 1905 en skömmu síðar drukknar hann í Öskjuvatni. Að Knebel látnum gaf samferðamaður hans, Hans Reck út handrit Knebels frá Íslandsferðinni og bætti þar við ýmsu. Reck ferðast síðan sjálfur um Reykjanesskaga og gerir þar ýmsar athuganir t.d. á Stampagígaröðinni og gígaröðinni við Sveifluháls. Karl Sapper (1866-1845) var afkastamikill eldfjallafræðingur. Hann ferðaðist hér á landi árið 1906 og rannsóknir hans beindust meðal annars að gígaröðinni sem Ögmundarhraun er komið úr, en honum vannst þó ekki tími til að skoða nema hluta hennar.
Maurice Von Komorowicz (?) jarðfræðingur, rannsakaði Rauðhólana við Elliðavatn árið 1907 og gerði af þeim kort. Hann gerði einnig uppdrætti af Búrfellsgjá og Búrfelli.
Guðmundur G. Bárðarson (1880-1933) jarðfræðingur, er fyrstur til að hefja nákvæma jarðfræðikortlagninu á Reykjanesskaga í heild en hann náði þó ekki að ljúka því verki.
Hann byggði á landakortum Herforingjaráðsins frá 1908 (mælikvarði 1:50 000).
Jón Jónsson fékk síðar aðgang að dagbókafærslum hans og drögum að jarðfræðikorti og hafði þær til hliðsjónar við sínar rannsóknir á Reykjanesskaga.
Þorkell Þorkelson (1876-1961) eðlisfræðingur, er fyrstur manna hér á landi til að taka jarðhita fyrir sem sérstakt rannsóknarefni og fjalla nokkur rit hans um jarðhitasvæði á Reykjanesskaga. Hann var ásamt Steingrími Jónssyni rafmagnsstjóra helsti hvatamaður þess að farið var að bora eftir heitu vatni í Reykjavík.
Þýski jarðfræðingurinn Konrad Keilhack (1858-1944) gerði jarðfræðikort af Reykjavík og nágrenni árið 1924 og skrifaði jarðfræðilega lýsingu á svæðinu. Kort hans var nákvæmara en eldri kort og mun vera fyrsta jarðfræðikortið sem gert er af einum landshluta á Íslandi.
Englendingarnir G. W. Tyrell (?) og Martin A. Peacock (?) dvöldu við jarðfræðirannsóknir á Íslandi um sama leyti og Keilhack. Peacock útbjó jarðfræðikort af Viðey og tók út frá þeim rannsóknum sérstaklega fyrir rannsóknir á móberginu. Uppruni þess var þá óljós þótt jarðfræðingurinn Dr. Helgi Pjéturs hafi verið búin að færa sönnur á aldur móbergsmyndunarinnar. Peacock taldi móbergið mega rekja til basalt eldgosa sem átt hefðu sér stað undir jöklum ísaldar og hefur sú skoðun hlotið almenna viðurkenningu síðan. Svissneski jarðfræðingurinn R. A. Sonder (?) dvaldi á Íslandi sumrin 1935 og 1936. Rannsóknir hans snerust einkum að brotalínum og jarðhita og virðist hann hafa reynt að útbúa einhversskonar skilgreiningarkerfi fyrir jarðhita á Íslandi. Sonder gerði talsverðar athuganir á jarðhitakerfunum á Reykjanesskaga.
Norski jarðfræðingurinn Tom Fredrik Weiby Barth (1899-1971) dvaldi á Íslandi árin 1934 og 1937 og rannsakaði íslensk jarðhitasvæði. Barth gaf út bók um rannsóknir sínar sem kom út í Washington, en í henni eru lýsingar á hverasvæðinu á Reykjanesi, við Krýsuvík og á Hellisheiði, ásamt korti yfir nútímahraun á Hellisheiði sem er það fyrsta í sinni röð. Í bókinni eru sérkort af ýmsum svæðum en Barth gerði fjölmargar athuganir á bæði háhita- og lághitasvæðum bæði í Reykjavík og Mosfellssveit.
Árið 1913 setti Alfred Wegener fram landrekskenningu sína og upp úr því, skömmu fyrir heimstyrjöldina síðari, tóku þýskir jarðfræðingar og jarðeðlisfræðingar að sýna jarðskorpuhreyfingum á Íslandi áhuga.
Sumarið 1938 kom til landsins leiðangur undir stjórn Oskar Niemczyk (1886-1961) prófessors til mælinga á sprungusvæðum hér á landi. Í þessum leiðangri starfaði Tómas Tryggvason. Ýmsar mælingar voru gerðar í leiðangrinum og meðal annars á Reykjanesi, en niðurstöðurnar voru gefnar út í riti árið 1943. Þessar rannsóknir marka upphafið að fjölþættum jarðeðlisfræðilegum rannsóknum á Íslandi.
Guðmundur Kjartansson (1909-1972) jarðfræðingur, vann að jarðfræðirannsóknum í Árnessýslu og var afrakstri þeirra rannsókna safnað saman í bók sem kom út árið 1943. Jarðfræðikort Guðmundar yfir suðvesturland (mælikvarði 1:250 000) kom út árið 1960 sem var þá hið nákvæmasta yfir svæðið í heild. Guðmundur skrifaði einnig nokkrar greinar um jarðfræðilegar rannsóknir sínar á Reykjanesskaga.
Í Bratislava var árið 1943 gefin út ritgerð eftir M. F. Kuthan (?) sem nefnist „Die Ozillation, der Vulkanismus und die Tektonik von Reykjavík”. Ritgerð þessi er 74 síður og í henni er að finna 22 myndir og stórt jarðfræðikort (mælikvarði 1:50 000).
Trausti Einarsson (1907-1984) kannar hraun á Hellisheiði og jarðhitasvæði í Hengli á árunum 1947-1949.
Tómas Tryggvason (1907-1965) er fyrsti íslenski bergfræðingurinn og ritaði árið 1957 fyrstur um gabbróhnyðlinga sem finnast við Grænavatn í Krýsuvík. Hann hafði nokkrum árum áður hafist handa við jarðfræðikortlagninu Reykjavíkur og nágrennis. Kort Tómasar (mælikvarði 1:40 000) náði yfir svæðið frá Esju suður fyrir Álftanes og er það fyrsta sem sýnir bæði berggrunn og laus jarðlög og er að öllu leyti unnið hér á landi.
Jón Jónsson (1910-2005) gefur út ítarlegt jarðfræðikort af Reykjanesskaga árið 1978 sem var afrakstur 18 ára rannsóknarvinnu á skaganum. Kortið var tímamótaverk í rannsóknum á jarðfræði Reykjanesskagans.“

Heimild:
-Helgi Páll Jónsson – Eldfjallagarður og jarðminjar á Reykjanesskaga, HÍ 2011.

Kristján Sæmundsson

Eftirfarandi grein Páls Imslands, „Úr þróunarsögu jarðskorpunnar við sunnanverðan Faxaflóa –
sprungumyndunarsaga“, birtist í Náttúrufræðingnum árið 1985:

Berggrunnur-ökort

„Kenningin um landrek og tilurð jarðskorpu á gliðnandi plötumótum, gerir betur grein fyrir myndun, þróun og ástandi íslensku jarðskorpunnar en nokkurt annað tiltækt hugmyndakerfi. Það sem hér verður útlistað um almennt jarðfræðilegt ástand og þróun skorpunnar á Suðvesturlandi er gert innan ramma plötukenningarinnar, sem er óneitanlega frjóasta og notadrýgsta heildarmynd, sem jarðfræðin hefur átt. Á fáum stöðum á jörðinni tala merkin ljósar á máli þessarar kenningar en einmitt hérlendis. Samhengið í jarðfræðilegri þróun er tiltölulega auðsætt hér, þó flókið sé, og samband „strúktúra“ og þeirra ferla, sem eru orsök þeirra, liggur ljósar fyrir en almennt gerist. Veldur því bæði, að landið er í hraðri myndun og eins hitt, að það er gróðursnautt, svo opnur eru yfirleitt mjög góðar í berggrunninn. Það er vegna þessa, sem Ísland gegnir gjarnan lykilhlutverki í jarðfræðilegum rannsóknum, er beinast að skilningi á jörðinni í heild.
Íslenska jarðskorpan verður til í rek- og gosbeltinu. Á Suðvesturlandi liggur þetta belti um Reykjanesskagann og Hellisheiðar-Þingvallasvæðið í átt til Langjökuls. Framhald þess til suðurs er sjálfur Reykjaneshryggurinn. Flói og Ölfus liggja á nýmynduðum vesturjaðri Evrópuplötunnar, er rekur til austurs með u.þ.b. 1 cm hraða á ári að meðaltali. Höfuðborgarsvæðið liggur hins vegar á nýmynduðum austurjaðri Ameríkuplötunnar, vestan við rekbeltið, og rekur með líkum hraða til vesturs (Leó Kristjánsson 1979). Landið verður því eldra, sem lengra kemur frá rekbeltinu.
Nýtt land er ætíð að myndast í rekbeltunum. Það verður til, þar sem spennuástand í jarðskorpunni veldur því, að landið brotnar upp og myndar langar sprungnar ræmur eða spildur, sprungusveima. Þeir eru virkastir inn til miðjunnar, en jaðrar þeirra og endar eru venjulega minna sprungnir og eins er þar heildartilfærslan á sprungunum minni.
Myndun nýrrar jarðskorpu í sprungusveimnum á sér stað samfara gliðnuninni. Það gerist á þann hátt að bergkvika neðan úr möttli jarðar streymir upp í sprungurnar og storknar þar eða vellur að hluta út yfir umhverfið í eldgosum. Þessi nýmyndun jarðskorpu á sér ekki stað á einni ákveðinni sprungu, heldur dreifist hún á nokkrar þyrpingar sprungna, sprungusveimana. Á milli sjálfra sprungusveimanna er oftast minna um alla virkni. Stærð sprungusveima og afstaða þeirra hvers til annars er breytileg svo og framleiðslumynstur þeirra og e.t.v. „lífslengd“.
Á Reykjanesskaganum liggja sprungusveimarnir skástígt og að allverulegu leyti samsíða. Annars staðar á landinu hliðrast þeir meira til á langveginn, svo að samsíða spildur þeirra eru tiltölulega styttri. Hver sprungusveimur þekkist á yfirborði af þrem gerðum sprungna: misgengjum, gjám og gossprungum. Misgengin mynda stalla í landslaginu og um þau hliðrast jarðlögin, sem þau skera, mest í lóðrétta stefnu. Misgengin hafa tilhneigingu til að mynda ákveðinn sigdal (graben) um miðbikið, þar sem virknin er mest. Þingvallalægðin er gott dæmi þar um. Rof og önnur eyðingaröfl hafa tilhneigingu til þess að brjóta niður og jafna út misgengisstallana jafnótt og þeir myndast.
SprungusveimarÁsamt jöklum hefur rennandi vatn tilhneigingu til þess að grafa landið í samræmi við gamalt sprungumynstur. Misgengin og gjárnar geta því orðið stýrandi þáttur í landslagsmótun í eldri  berglögum. Opnu gjárnar myndast eingöngu á gliðnunarsvæðum. Um dýpi þeirra er lítið vitað. Með tímanum hafa roföflin og eldvirknin tilhneigingu til þess að fylla gjárnar. Gígaraðir myndast yfir gossprungum, þar sem kvikan berst til yfirborðsins. Hlaðast þar upp gígar, sem hraun renna frá. Á meðan jöklar lágu yfir gosbeltunum á kuldaskeiðum ísaldarinnar, hindruðu þeir hraunrennsli með þeim afleiðingum, að gosefnin hrúguðust nær öll upp yfir gosrásunum. Þá urðu til móbergshryggir, þar sem annars hefðu orðið gígaraðir. Móbergsfjöll eru áberandi í landslaginu austan og sunnan höfuðborgarsvæðisins, enda er það land að mestu leyti orðið til á síðasta hluta ísaldarinnar og þar af leiðandi lítið rofið.
Um líf- eða virknitíma sprungusveimanna er fremur lítið af haldgóðri þekkingu til staðar, enn sem komið er. Flest bendir þó til þess, að líflengd þeirra séu takmörk sett í raun. Framan af framleiða þeir tiltölulega frumstætt berg og eingöngu basískt að samsetningu. Á sama tíma virðist einnig sprunguvirknin vera mest og e.t.v. ná lengst út til enda og jaðra. Er líður á, hefur virkni sprungusveimanna tilhneigingu til þess að safnast inn á miðsvæði þeirra. Þar myndast háhitasvæði, eldvirknin eykst þar hlutfallslega jafnframt því sem bergkvikan verður þróaðri að samsetningu. Eldgosin verða tíðari en gjarnan minni í hvert sinn. Ennfremur virðist sprunguvirknin fara minnkandi. Jarðfræðingar segja að megineldstöð verði til á sprungusveimnum. Þegar líður svo á þróun þessara megineldstöðva dregur aftur úr virkni þeirra og að lokum deyja þær út. I flestum tilfellum deyr
megineldstöð út samtímis því að nýr sprungusveimur verður til í nágrenninu; eitt kerfi (sprungusveimur-megineldstöð) deyr út og annað hliðstætt kerfi tekur við hlutverkinu. Hinn útdauða sprungusveim ásamt tilheyrandi megineldstöð rekur þá í heilu lagi út úr gosbeltinu til annarrar hvorrar áttarinnar, eftir því hvorum megin nýi sprungusveimurinn myndast. Eyðingaröflin byrja að brjóta megineldstöðina niður og ef til vill kaffærist hún að einhverju marki í gosefnum frá nýja sprungusveimnum.
Í þeirri þróunarsögu jarðskorpunnar, við sunnanverðan Faxaflóa, sem hér verður gerð grein fyrir, koma sjö sprungusveimar við sögu. Af þeim eru tveir útdauðir en fimm virkir. Hinir dauðu voru virkir á árkvarter og eru kenndir við Kjalarnes og Stardal. Á báðum þróuðust samnefndar megineldstöðvar. Hér er því bæði rætt um Kjalarnessprungusveiminn og Kjalarnesmegineldstöðina o.s.frv. Kjalarnesmegineldstöðin var virk á tímabilinu frá 2.8-2.1 miljón ára síðan en Stardalsmegineldstöðin á tímabilinu frá 2.1-1.6 miljón ára (Ingvar B. Friðleifsson 1973). Fyrstu merki megineldstöðvanna koma í ljós, þegar alllangt er liðið á þróunarskeið.

Jarðfræði

Jarðfræði Reykjaness.

Virku sprungusveimarnir fimm eru kenndir við stærstu jarðhitasvæðin, sem á þeim finnast, Hengil, Brennisteinsfjöll, Krýsuvík, Svartsengi og Reykjanes. Hengilssprungusveimurinn hefur þegar þróast í megineldstöð, en mjög nýlega. Það er hins vegar skilgreiningaratriði, hvort megineldstöð er til staðar á hinum sprungusveimunum enn sem komið er. Þeir bera sum merki dæmigerðra megineldstöðva, en vantar önnur. Þeir eru því allir ungir. Upphafs þeirra er að leita í sjó undan gamalli suðurströnd höfuðborgarsvæðisins seint á ísöld; að öllum líkindum fyrir minna en 700 þúsund árum.
Um jarðfræði höfuðborgarsvæðisins hefur ýmislegt verið ritað og er vitnað til þess helsta í köflunum, sem á eftir fylgja. Jarðfræðileg kortlagning svæðisins var gerð af þeim Tómasi Tiyggvasyni og Jóni Jónssyni (1958). Er það kort í mælikvarðanum 1:40.000 og sýnir fyrst og fremst lausu jarðlögin ofan á berggrunninum, sem þó er mjög víða sýnilegur í gegn um lausu þekjuna.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Jarðlögum við sunnanverðan Faxaflóa má skipta upp í nokkrar ákveðnar stórar einingar. Hér er notast við fjórar myndanir. Dreifing þeirra er sýnd á (1) Tertíera myndunin er elst. Hún er gerð að mestu úr blágrýtishraunlögum og er mynduð áður en þeir sprungusveimar, sem hér er fjallað um, urðu virkir. (2) Árkvartera myndunin liggur ofan á tertíera berginu. Hún er gerð úr hraunlögum og móbergi að mestu leyti. Hún varð til í þeim tveimur útdauðu sprungusveimum, Kjalarnes- og Stardals-sveimunum, sem að ofan getur og virkir voru á fyrri hluta kvarters. Á báðum þróaðist megineldstöð með háhitakerfi og þróuðum bergtegundum (Ingvar B. Friðleifsson 1973). (3) Nútímamyndunin er gerð úr móbergi frá síðasta jökulskeiði og hraunum, sem runnin eru eftir að ísöld lauk. Þetta berg hefur myndast í sprungusveimunum fimm, sem kenndir eru við Hengil, Brennisteinsfjöll, Krýsuvík, Svartsengi og Reykjanes, en þeir eru allir virkir enn og framleiða nú jarðskorpu á sunnanverðu svæðinu. Þeir hafa ekki náð þroskastigi háþróaðra megineldstöðva. (4) Grágrýtismyndunin er gerð úr grágrýtishraunum frá síðustu hlýskeiðum ísaldarinnar. Þessi hraun liggja á milli árkvarteru og nútíma myndananna. Þau verða ekki talin tilheyra ákveðnum sprungusveimum. Þau eru yfirleitt talin vera upp komin í dyngjum, en upptök eða gígasvæði þeirra flestra eru enn óþekkt.
Á þeim tíma, er forverar Hengilssprungusveimsins voru virkir og jarðskorpan á höfuðborgarsvæðinu var að myndast, var Reykjanesskaginn ekki til sem slíkur, eftir því sem best verður séð. Suðurströndin lá norðar en nú er. Hún hefur að sjálfsögðu verið eitthvað breytileg frá einni tíð til annarrar vegna ýmissa breytiþátta, svo sem: Uppbyggingar af völdum eldvirkninnar, niðurbrots af völdum sjávar og jökla, sem langtímum voru á svæðinu, og síðast en ekki síst vegna breytinga á jafnvægisástandi í jarðskorpunni af „ísóstasískum“ toga. Við getum til einföldunar áætlað að lengst af hafi ströndin legið til austurs eða suðausturs frá svæðinu milli Hafnarfjarðar og Grafarvogs. Sprungusveimar þeir sem nú finnast á Reykjanesskaganum voru ekki orðnir virkir og framhald rek- og gosbeltisins til suðurs var neðan sjávarmáls. Afraksturinn af virkni þeirra sprungusveima, sem þá voru virkir neðansjávar, sést ekki á þurrlendi í dag og virðist ekki skipta verulegu máli fyrir endurröðun atburða í þessari þróunarsögu.
Elsta berg við Faxaflóa er frá tertíer. Það finnst ekki sunnar á yfirborði en á norðurströnd Hvalfjarðar. Úr því er t.d. Akrafjall. Þetta berg er myndað í sprungusveimum, sem ekki verða til umfjöllunar hér. Á því hvílir það berg, sem myndar berggrunninn á norðanverðu höfuðborgarsvæðinu. Meginhluti þess bergs, sem nú finnst á yfirborði, myndaðist í árkvarteru sprungusveimunum tveimur. Það finnst í Esju og þeim fjallabálki, sem henni tengist. Það er því myndað í nyrðri hluta kerfanna. Botn Faxaflóa
úti fyrir höfuðborgarsvæðinu er einnig gerður úr bergi frá Kjalarneskerfinu, þ.e.a.s. suðurhluta þess. Ofan sjávarmáls sést í þetta berg, þar sem það hverfur undir grágrýtið í Viðey, Kleppsskafti, Geldinganesi og fleiri stöðum. Einnig kemur það fram ofarlega í borholum vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið (Ragna Karlsdóttir 1973). Tiltölulega meira berg er sýnilegt úr suðurhluta Stardalskerfisins, enda er kerfið yngra og minna rofið. Það finnst í fjöllunum vestan Mosfellsheiðar. Í Seljadal og sunnan Úlfarsár hverfur það undir grágrýtið. Lítið er vitað um það, hvernig þessi árkvarteru jarðlög enda í staflanum undir grágrýtinu. Mörk árkvarteru myndunarinnar og grágrýtisins hlýtur eiginlega á flestum stöðum að vera strand-mislægi. Hver heildarþykkt ákvarteru myndunarinnar er liggur ekki ljóst fyrir, en neðri mörk hennar eru mótin við tertíera bergið. Á yfirborði finnst það fyrst norðan Hvalfjarðar. Ummyndað og holufyllt árkvartert berg kemur fyrir í borholum um allt höfuðborgarsvæðið.

Reykjanes

Reykjanestáin – jarðfræðikort.

Fræðileg samstilling jarðlaga og uppröðun þróunarsögunnar innan þessarar myndunar, er að því er virðist töluvert erfið í smáatriðum. Bergið í þessari árkvarteru myndun er mestmegnis allvel holufyllt basalthraunlög og basískt móberg, enda var landið ýmist hulið jöklum eða ísfrítt á myndunarskeiðinu. Slæðingur af súru bergi finnst, einkum úr Stardalsmegineldstöðinni. Það kemur fyrir í Móskarðshnjúkum og Grímmannsfelli (sjá Helga Torfason 1974). Innskotsberg er einnig töluvert áberandi í þessum jarðlagastafla. Er þar bæði um að ræða ganga og minniháttar óregluleg innskot eins og til dæmis í Þverfelli og umhverfis Stardal (Ingvar B. Friðleifsson 1973). Gangarnir mynda kerfi með sömu stefnu og sprungukerfin hafa, enda eru þeir storknuð kvika, sem leitaði inn í sprungukerfið. Ofan á árkvarteru myndunina leggst grágrýtið. Núverandi þekja þess teygir sig frá Þingvallavatni í sjó fram, sitt hvorum megin við Mosfellssveitarfjöllin. Það finnst á öllum nesjum og eyjum frá Hvaleyri til Brimness. Það finnst í ásum og holtum á höfuðborgarsvæðinu, frá Ásfjalli í suðri til Keldnaholts og Reynisvatnsáss í norðri. Það er einkennisberg flatlendisins ofan Lækjarbotna, umhverfis Sandskeið og á Mosfellsheiði. Stór og mikill fláki af sama bergi finnst sunnar við Faxaflóa og myndar þar Vogastapa, Miðnesheiði og Garðaskaga. Hvort þetta syðra svæði tengist hinu nyrðra beint um botn flóans úti fyrir Vatnsleysuströnd er óljóst. Það gæti eins verið stök myndun. Heildarþykkt grágrýtisins á svæðinu er óþekkt en í borholum reynist það víða allþykkt (Jens Tómasson o.fl. 1977). Þrátt fyrir rofið yfirborð sjást víða um 40 m af því á yfirborði í einu hrauni. Sem jarðlagamyndun með millilögum er það varla undir 150—200 m. Þó grágrýtið sé myndað á tiltölulega stuttu tímaskeiði, þá fer aldur þess almennt lækkandi eftir því sem austar dregur. Neðstu og elstu hlutar grágrýtismyndunarinnar finnast vestur við sjó, í Reykjavík, á Álftanesi og Brimnesi, o.s.frv. Efst og yngst er grágrýtið austur á Mosfellsheiði. Grágrýtið er yfirleitt fremur grófkorna bergtegund. Það er basalt eins og blágrýtið í eldri myndunum og flestöll yngri hraun.
Dyngjur þær, sem myndast hafa eftir að ísöld lauk, eru margar gerðar úr bergi, sem mjög líkist grágrýti hlýskeiðshraunanna frá síðkvarter. Auk þess er ýmislegt annað líkt með dyngjunum og þessum hraunum. Yfirleitt telja því jarðfræðingar að síðkvartera grágrýtið á höfuðborgarsvæðinu, og reyndar víðar, sé komið úr dyngjum. Dyngjulögunin er þó í flestum tilvikum horfin svo og sjálfir gígarnir. Upptök grágrýtisins eru því yfirleitt óþekkt. Það hefur vegna þessa (líkrar berggerðar og samsetningar og horfinna flestra upprunalegra yfirborðseinkenna) reynst mjög erfitt að deila grágrýtinu upp í einstök hraun, þrátt fyrir nokkrar tilraunir. Grágrýtið var fyrr á tímum gjarnan afgreitt sem ein stór myndun komin úr Borgarhólum á Mosfellsheiði (Aðalskipulag Reykjavíkur 1962-1983 og Þorleifur Einarsson 1968), en nú á síðari árum hefur sýnt sig (sbr. Jón Jónsson 1972), að þetta er of mikil einföldun. Að hluta til hefur hún verið leiðrétt með því að greina grágrýtisflákann upp í smærri myndanir (Ragna Karlsdóttir 1973; Árni Hjartarson 1980; Kristján Sæmundsson 1981), þó öll kurl séu langt frá því komin til grafar. Nokkuð bendir til þess, að enn eimi eftir af upprunalegu landslagi í grágrýtinu, þrátt fyrir jökulrof og sjávarágang. Grágrýtið er víða enn mjög þykkt, jafnvel svo að skiptir nokkrum tugum metra. Sú skoðun hefur því komið fram, að upptakasvæði sumra
grágrýtiseininganna sé að finna í námunda við þykkustu hluta þess (sbr. Jón Jónsson 1978). Enn sem komið er, er þó ekki gengið úr skugga um þetta. Ef satt er, bendir þetta til þess að upptök grágrýtisins séu ekki eins tengd sprungusveimum og upptök annarra hrauna.
Árkvarteru kerfin tvö, sem að ofan er lýst, voru virk á tímabilinu frá 2.8 – 1.6 miljón ára. Grágrýtið, sem ofan á jarðmyndanir þeirra leggst, er allt rétt segulmagnað (Leó Kristjánsson 1982, munnlegar upplýsingar), þ.e.a.s. með sömu segulstefnu og ríkir á svæðinu í dag. Grágrýtið hefur því runnið sem hraun á þeim tíma, sem liðinn er frá síðustu segulumpólun, fyrir 700 þúsund árum, eða á síðkvarter.
Nútímabergið eru hraun, sem runnin eru eftir að ísöld lauk og móberg frá síðasta hluta ísaldar. Móbergið er að mestu leyti frá síðasta jökulskeiði. Það er því yngra en grágrýtið. Móbergið finnst í stökum fjöllum og fellum, löngum fjallgörðum og jafnvel flóknum fjallaklösum, sem hraunin hafa lagst upp að eða runnið umhverfis. Hraunin eru komin úr fáeinum nútímadyngjum og eldborgum en fyrst og fremst úr gígaröðum, sem raðast samsíða á sprungusveimana. Það er ekki vani jarðfræðinga, að tala um nútímaberg, nema það sé myndað eftir að ísöld lauk, þ.e.a.s. á nútíma. Hér er þessi hefð þó brotin, vegna þess að hvort tveggja bergið, móberg síðasta jökulskeiðs og nútímahraunin, eru mynduð í sömu sprungusveimunum, þeim sem ennþá eru virkir á nútíma og fyrr eru taldir upp. Þó þetta berg skiptist í tvær ólíkar berggerðir og önnur þeirra (móbergið) sé eldri, þá er það allt ættað úr sömu einingunum (virku sprungusveimunum). Báðar berggerðirnar eiga því
saman sem „stratigrafísk“ og tímaleg eining.

Reykjanesskagi

Nútímahraun á Reykjanesskaga.

Nútímabergið liggur ofan á grágrýtinu. Mörk grágrýtisins og móbergsins eru ekki víða áberandi, en hraunaþekjan leggst sýnilega ofan á grágrýtið á stórum svæðum. Á höfuðborgarsvæðinu er þetta áberandi frá Hafnarfirði austur um og upp undir Draugahlíðar (sbr. Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980). Þetta er í suðurjaðri þess, sem venjulega er kallað höfuðborgarsvæði, og því má segja, að þessi yngsta myndun sé hvergi mjög þykk á sjálfu höfuðborgarsvæðinu. Þegar suður fyrir það kemur, verður hún hins vegar nær einráð og víða mjög þykk. Jafnframt dýpkar yfirleitt á eldri myndununum. Báðar berggerðir þessarar myndunar eru mjög gropnar, einkum hraunin.
Þau eru jafnvel gropnari en grágrýtið í sumum tilvikum. Því veldur bæði lágur aldur þeirra og myndunarmáti. Vatn hripar því auðveldlega niður í myndunina, enda rennur hvorki á né lækur til sjávar á milli Lækjarins í Hafnarfirði og Ölfusár. Ekki verður séð að aldursmunur sé á einstökum sprungusveimum innan myndunarinnar. Uppbygging er mest og land stendur hæst á Hengilssveimnum, sem er lengst inn til landsins. Uppbyggingin er hins vegar minnst og land stendur lægst á Reykjanessveimnum, sem nær lengst út til sjávarins. Hlutfallslega virðist móberg vera mest inni á Hengilssveimnum, en minnst úti á Reykjanessveimnum. Þetta gæti bent til þess, að Hengilssveimurinn væri ef til vill eitthvað eldri. Það er þó líklegra að öll þessi einkenni spegli fremur afkastagetu sprungusveimanna og mismikla virkni en verulegan aldursmun.
Eins og fyrr er sagt myndaðist elsti hluti jarðskorpunnar á höfuðborgarsvæðinu í sprungusveimnum og megineldstöðinni, sem kennd eru við Kjalarnes og voru virk í upphafi kvartertímans og fram undir 2.1 miljón ára. Sambærilegt kerfi, Stardalskerfið, hafði við endalok hins kerfisins verið í uppsiglingu um tíma. Stardalssprungusveimurinn óx þá að virkni og hrakti Kjalarnesmegineldstöðina út úr gosbeltinu. Þá dó Kjalarnesmegineldstöðin út, en Stardalsprungusveimurinn þróast sjálfur í megineldstöð. Stardalsmegineldstöðin dó svo út fyrir 1.6 miljón árum og hefur síðan verið að
fjarlægjast gosbeltið og rofna niður. Núna rekur hana til vesturs undan virkni Hengilssprungusveimsins. Hann er þó yngri en 0.7 miljónir ára samkvæmt segulstefnudreifingu (Kristján Sæmundsson 1967; Leó Kristjánsson og Ágúst Guðmundsson 1980). Það getur því vart verið, að hann einn eigi sök á færslu Stardalsskerfisins vestur á bóginn. Líklegast er, að á tímabilinu á milli u. þ. b. 1.8 miljón ára og þess að Hengilssveimurinn tók við gliðnunarhlutverkinu, hafi verið virkur sprungusveimur, sem nú ætti að finnast útdauður á milli Hengils og Stardals. Ekki hefur þó slíkt kerfi fundist, en sá möguleiki er fyrir hendi, að það sé til staðar undir hinni miklu grágrýtisþekju á Mosfellsheiði og nágrenni. Annar möguleiki er reyndar sá, að af einhverjum ástæðum hafi ekkert slíkt sprungukerfi myndast á þessum tíma og að grágrýtið sjálft sé eins konar staðgengill þess, þannig að afleiðingin af tregu reki og lítilli virkni um langan tíma hafi að lokum verið tiltölulega þétt hrina stórra dyngjugosa, sem framleiddu grágrýtið. Á tímum þessara árkvarteru kerfa myndaðist jarðskorpa, sem nú finnst ofan sjávarmáls um norðanvert höfuðborgarsvæðið og á botni Faxaflóa undan ströndum þess. Sunnanvert höfuðborgarsvæðið var undir sjó eða við ströndina og Reykjanesskaginn sem slíkur var ekki enn orðinn til. Þegar leið að lokum kvartertímans hófust hin miklu dyngjugos, sem lögðu til grágrýtið. Þau virðast flest hafa átt sér stað á þurru landi og íslausu og hraunin hafa runnið út að ströndinni og lagst meðfram henni í eins konar kraga. Sum þessara gosa gætu jafnvel hafa byrjað á grunnsævi og myndað eyjar, sem ýmist tengdust ströndinni eða ekki. Hér er helst skírskotað til grágrýtisflákans á Rosmhvalanesi og Vogastapa og ef til vill á Krýsuvíkurheiði.

Reykjanes

Nútímahraun á Reykjanesskaga.

Nágrennið við sjávarsíðuna er meðal annars sterklega gefið til kynna af algengum brotabergsmyndunum í botni margra grágrýtiseininganna um allt svæðið (sbr. Ragna Karlsdóttir 1973; Jón Jónsson 1978; Árni Hjartarson 1980 og Kristján Sæmundsson 1981). Að loknu gostímabili grágrýtisdyngjanna gekk kuldaskeið í garð og jökull lagðist yfir svæðið. Þar sem nú er Reykjanesskagi var orðið grunnsævi og land ef til vill að hluta til risið úr sæ. Eldgos á sprungum hófust undir íshettunni og móbergsfjöllin urðu til. Þetta er fyrsta virknin, sem þekkt er á sprungusveimum Reykjanesskagans. Mikil virkni hófst á þessum sprungusveimum og hélt hún sleitulaust áfram eftir að kuldaskeiðinu lauk og nútími gekk í garð. Þetta sést glöggt af þeim aragrúa hrauna, sem eru á skaganum, mjög áberandi höggun (með misgengjum og gjám) og mörgum háhitasvæðum (Jón Jónsson 1978), ákafri jarðskálftavirkni (Páll Einarsson 1977) og síðast en ekki síst á þykkt hraunlagaog móbergsstaflans eins og hann birtist í borholum innan sprungusveimanna (Sveinbjörn Björnsson o.fl. 1971 og Stefán Arnórsson o.fl. 1975), þar sem sigið er mest. Hinn lági aldur sprungusveimanna á Reykjanesskaga er ennfremur gefinn til kynna af
sprungumynstrinu í grágrýtinu. Það er ósprungið eða lítt sprungið víða, en hins vegar mjög brotið í beinu framhaldi af sprungusveimum Reykjanesskagans.
Sprungurnar í árkvartera berginu undir grágrýtinu hverfa innundir grágrýtið og virðast ekki hafa nein áhrif á það sjálft (sbr. Kjartan Thors 1969). Hreyfingum á þeim er því lokið, þegar grágrýtishraunin renna, en hefjast e.t.v. aftur síðar. Sprungusveimarnir, frá Hengli í austri til Reykjaness í vestri, eru nýmyndunarsvæði jarðskorpunnar við sunnanverðan Faxaflóa.
Höfuðborgarsvæðið liggur utan gosbeltisins, þar sem jarðskorpan myndast í dag. Það er að mestu leyti þakið grágrýtinu, sem er á milli gömlu útdauðu sprungusveimanna og hinna virku. Grágrýtið rann á sínum tíma út yfir sprungið land gömlu sprungusveimanna. Það virðist sjálft ekki hafa myndast á sprungusveimum eða í beinum tengslum við sprungusveima og er því óbrotín og ósprungin myndun við lok myndunarskeiðsins. Þegar virknin hefst á sprungusveimum Reykjanesskagans leggst berg þeirra ofan á grágrýtið. Vegna afstöðu nýju sprungusveimanna teygja sprungur þeirra sig inn í gamla jarðlagastaflann. Þá fyrst brotnar grágrýtið upp og eflaust nær þessi sprunguvirkni inn í árkvartera jarðlagastaflann líka. Grágrýtið sjálft er mest sprungið á vestanverðri Mosfellsheiði, í beinu framhaldi af sprungusveim Brennisteinsfjallanna og umhverfis Elliðavatn,
í beinu framhaldi af Krýsuvíkursprungusveimnum. Framhald Reykjanessprungusveimsins til norðausturs stefnir beint á Reykjavík. Sprungurnar hverfa í sjó á Vatnsleysuströnd, en þær hafa ekki fundist á landi á Álftanesi eða í Reykjavík. Grágrýtið á þessum stöðum er því að mestu óbrotið, að því er virðist. Erfitt er þó að fá af þessu óyggjandi mynd, vegna þess hversu byggt land er orðið í Reykjavík og sprungukort voru ekki gerð í tíma, eins og nú er farið að gera á framtíðarsvæðum byggðar á höfuðborgarsvæðinu (sbr. Halldór Torfason 1982). Árkvartera bergið undir grágrýtinu er hins vegar brotið, en þau brot tilheyra Kjalarnessprungusveimnum, eins og fyrr segir. Hvort líkur eru á að sprunguvirkni Reykjanessprungusveimsins nái til Reykjavíkur í framtíðinni, er háð því á hvaða stigi Reykjanessprungusveimurinn er. Sé hann enn vaxandi að virkni er ekki útilokað að hann eigi eftir að brjóta Reykjavíkurgrágrýtið á sama hátt og Krýsuvíkursprungusveimurinn hefur brotið grágrýtið umhverfis Elliðavatn og Rauðavatn, og Brennisteinsfjallasveimurinn hefur brotið grágrýtið á vestanverðri Mosfellsheiði. Sé hann á hinn bóginn í hámarki virkni sinnar eða farinn að dala, verður að sama skapi að teljast ólíklegt að hann brjóti nokkurn tíma Reykjavíkurgrágrýtið. Um breytingar á virkni Reykjanessprungusveimsins í framtíðinni er mjög erfitt að segja nokkuð ákveðið. Til þess vitum við of lítið um smáatriðin í þróun sprungusveima, raunverulegan „líftíma“ þeirra, aldur Reykjanessprungusveimsins o.fl. Um aldur hreyfinganna nyrst á

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Krýsuvíkursprungusveimnum er þó hægt að fá nokkra vitneskju og skal hér rakið gleggsta dæmið. Grágrýtið er brotið í framhaldi af Krýsuvíkursprungusveimnum norður fyrir Rauðavatn. Ofan á þetta grágrýti leggjast nokkur tiltölulega ung hraun. Tvö þeirra verða hér til verulegrar hjálpar, þar sem þau renna bæði þvert á sprungukerfið og bæði hafa verið aldursákvörðuð. Annað þevrra er Búrfellshraun upp af Hafnarfirði. Samkvæmt aldursákvörðun með geislakoli rann þetta hraun fyrir um það bil 7200 árum (Guðmundur Kjartansson 1973). Vestur af Búrfelli skera nokkur misgengi, þ.á.m. Hjallamisgengið, taum af þessu hrauni. Tilfærslan á Hjallamisgenginu er mest í grágrýtinu norðan við hrauntauminn, um 65 m, en við aðalbrotið er tilfærslan á Búrfellshrauninu aðeins um 7 m (sbr. Jón Jónsson 1965). Misgengið er því að stofni til eldra en 7200 ára, en hefur eftir þann tíma hreyfst um 7 m. Einum 6—7 km norðar rann hraun í gegnum sundið á milli Skyggnis og Seláss niður eftir Elliðaárdalnum. Hraun þetta er komið upp í Leitum austan Bláfjalla og hefur runnið norður undir Kolviðarhól, svo niður á Sandskeið, um Lækjarbotna og Elliðaárdal til sjávar í Elliðavogi (Þorleifur Einarsson 1961). Samkvæmt geislakolsaldursákvörðun á mó undan hrauninu í Elliðavogi, þeirri fyrstu á íslensku efni, rann þetta hraun fyrir um það bil 5300 árum (Hospers 1953 og Jóhannes Áskelsson 1953). Samskonar aldursákvörðun á birkikolum undan hrauninu í Elliðaárdal, gerð síðar (Jón Jónsson 1971), gefur heldur lægri aldur, eða um 4600 ár, sem er líklega nær hinu rétta. Hraun þetta er óbrotið í sundinu við Skyggni, þar sem það liggur 4 – 5 m þykkt ofan á 2 m af lausum jarðlögum (Gestur Gíslason og Páll Imsland 1971). Austurbrún Selássins norðan sundsins er misgengisstallur á sama misgengja- og sprungusveim og Hjallamisgengið. Fleiri misgengi á þessum sprungusveim liggja norður um svæðið austan Elliðavatns og skera þar grágrýtið beggja vegna Leitahraunsins, án þess að nokkurra brota verði vart í hrauninu (sbr. Jón Jónsson 1965). Það verður því að teljast nær fullvíst, að ekki hafi orðið hreyfing á þessum misgengjasveim norðan Elliðavatns síðustu 4600 árin, þó ljóst sé, að 6 – 7 km sunnar hafi orðið allt að 7 m misgengi á brotum á sama sprungusveim einhvern tíma á síðustu 7200 árum. Leitahraun er hins vegar brotið austur við Vatnaöldur (Jón Jónsson 1982, munnl. upplýsingar), þar sem Brennisteinsfjallasprungusveimurinn sker það. Verið getur að brotavirkni á öllum norðurhluta Krýsuvíkursprungusveimsins hafi dáið út á tímabilinu milli 7200 og 4600 ára. Hitt er líklegra, að áhrifa brotavirkninnar gæti minna eftir því, sem norðar dregur og 7 m misgengið við Búrfellsgjá deyi út áður en það nær norður að Skyggni. Í síðara tilvikinu segir aldur hraunanna ekkert til um lágmarksaldur síðustu misgengjahreyfinga á brotum. Krýsuvíkursveimurinn hefur sem sagt ekki náð að brjóta og hreyfa grágrýtið í Reynisvatnsheiði á síðustu 4600 árum. Ekki liggur fyrir næg vitneskja um eðli og hegðun sprungusveima til þess að draga megi af þessu mjög ákveðna vitneskju um framtíðarhorfur. Yfirleitt virðist sem 5000 ár á milli atburða á sprungusveimum rekbeltanna sé mjög langt hlé, en hér er þess að gæta, að um er að ræða ysta jaðar sprungusveimsins, svo langt frá hámarki virkninnar sem komist verður. Hvenær á „lífsferli“ sprungusveims slíkir jaðrar eru virkastir er ekki vitað með neinni vissu.
Grunnvatnsstreymi allt, ekki síst í jarðhitakerfunum í landinu, er yfirleitt talið standa í mjög nánum tengslum við sprungukerfin. Árkvarteru sprungukerfin hafa þannig, að því er virðist, afgerandi áhrif á lághitasvæðin í Reykjavík og Mosfellssveit. Virku sprungusveimarnir stjórna hins vegar rennsli vatns og gufu í háhitasvæðunum á Reykjanesi, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöllum og Hengli.
Kaldavatnsrennslið á sér stað grynnra og ungar sprungur í grágrýtinu og ungu hraununum stjórna rennsli þess á Elliðavatns-Heiðmerkursvæðinu að einhverju leyti. Vegna þess hversu hátt í jarðskorpunni kaldavatnsstraumurinn á sér stað og þeirrar staðreyndar, að þar eru jarðlög, grágrýti, móberg og hraun, mjög opin að innri byggingu, er kalda vatnið minna háð sprungum um rennsli en heita vatnið, sem streymir dýpra og í þéttara bergi.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, Páll Imsland: Úr þróunarsögu jarðskorpunnar við sunnanverðan Faxaflóa, sprungumyndunarsaga, 54. árg. 1985, 2. tbl., bls. 63-75.

Jarðfræði

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, skrifar grein í Náttúrufræðinginn 1983 um“Hálfrar aldar þögn um merka athugun. Þar segir hann m.a.:

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson í FERLIRsfer undir Festisfjalli.

„Einhvers staðar í ritum sínum segir Helgi Péturss, að ekki sé nóg að gera uppgötvun, heldur þurfi aðrir líka að uppgötva að uppgötvun hafi verið gerð. Hér skal getið um eitt slíkt tilfelli, þar sem mér og fleirum hefur sést yfir snjalla ályktun um eldvirkni á Reykjanesskaga.
Síðustu æviár sín vann Guðmundur G. Bárðarson að jarðfræðirannsóknum þar, en féll frá í miðju verki.
Hálfkarað handrit af jarðfræðikorti (í vörslu Náttúrufræðistofnunar) er til frá hans hendi og auk þess nokkrar prentaðar ritgerðir og greinar í blöðum um Reykjanesskagann. Á „18. Skandinaviske Naturforskermöde“ í Kaupmannahöfn 1929 lagði Guðmundur kortið fram og flutti um það erindi, sem seinna var prentað í skýrslu fundarins undir heitinu „Geologisk Kort over Reykjanes-Halv0en’ (Guðmundur G. Bárðarson 1929). Þar er höfundi ljós aldursmunur dyngjuhrauna og sprunguhrauna og fjallar niðurlag greinarinnar um sprunguhraunin undir yfirskriftinni „De yngste Lavadoekker“. í lýsingu sinni á sprungugosunum aðgreinir Guðmundur fjögur belti (Vulkanbælter) sem hann gerir síðan nánari grein fyrir. Belti þessi svara nákvæmlega til eldstöðvakerfanna, sem við yngri mennirnir höfum verið að vekja máls á næstliðinn áratug.
Beltin sem Guðmundur aðgreinir á Reykjanesskaga ná (1) frá Reykjanesi norðaustur fyrir Grindavík. – (2) Yfir Vesturháls og Austurháls. Nefnt er, að hverirnir í Mosfellssveit séu í norðaustur framhaldi þess. — (3) Yfir Brennisteinsfjöll og Grindaskörð. — (4)

Kristján Sæmundsson

Kristján skoðar berggang undir Lyngfelli.

Frá Selvogsheiði norðaustur yfir Hengil og áfram norðaustur um gjárnar á Þingvöllum. Seinni höfundar, sem lýstu jarðfræði skagans, virðast ekki hafa haft sama skilning á aðskiljanlegum eldvirknibeltum. Svo er t. d. um Kuthan (1943), sem gekk þó fram úr hófi langt í túlkun sinni á jarðfræði Reykjanesskaga. Skipan eldsprungna, gjásvæða
og móbergshryggja fangar þó augað strax og litið er á kort hans. Sama gildir um jarðfræðikort Guðmundar Kjartanssonar (1960). Sjálfur vakti ég upp hugmyndina um stórar einingar í gosbeltinu þ. á. m. á Reykjanesskaga kringum 1970 (Kristján Sæmundsson 1971a og b) og hélt þá í barnaskap mínum að ég væri að benda á eitthvað nýtt. Veifaði ég á fundi í Jarðfræðafélagi Íslands korti Kuthans og jarðfræðikorti Guðmundar Kjartanssonar framan í viðstadda félagsmenn til að þeir mættu sjá einingar þessar ljóslifandi á eldri kortum þótt enginn hefði bent sérstaklega á þær fyrr. Hefði ég þá betur verið búinn að lesa grein Guðmundar G. Bárðarsonar, því hann hafði sagt 40 árum fyrr aðalinntakið í því, sem ég var að boða kollegum mínum á þessum fundi. Það kom fljótlega fram, að fleiri jarðfræðingar lögðu sama skilning í byggingu Reykjanesskagans og raunar landsins alls (Eysteinn Tryggvason 1973, G. P. L. Walker 1975, Sveinn Jakobsson o. fl. 1978). Almennt er nú farið að kalla einingar þessar eldstöðvakerfi, en það er bein þýðing á „volcanic system“ sem ameríkumenn nota um sömu fyrirbæri. Amerískur jarðfræðingur, J. G. Moore, benti hérlendum á enska heitið og er það fyrst notað af Sveini Jakobssyni (1979a) og í sérhefti Jökuls um jarðfræði íslands (1979b).
Eldstöðvakerfin eru í mörgum tilfellum saman sett af einni megineldstöð og gossprungum og gjám sem liggja í gegnum hana. Megineldstöð er þýðing á ensku „central volcano“ og mun fyrst koma fyrir hjá Þorleifi Einarssyni í 1. útg. jarðfræðibókar hans (1968). Bæði þessi orð voru innleidd um rofin eldfjöll í tertíera bergstaflanum. Í rofnum bergstafla koma gossprungur og gjár fram sem berggangar.

Kristján Sæmundsson

Kristján skoðar bergganga í Hraunsfjöru.

Gangasveimur var það kallað er margir gangar lágu því sem næst í sömu stefnu út frá megineldstöð og mynduðu aflanga heild. Orðið kemur einnig fyrst fyrir hjá Þorleifi í áður tilvitnaðri jarðfræðibók (1968). Það er bein þýðing á ensku „dyke swarm“. Þegar farið var að draga fram hliðstæður í virku gosbeltunum voru þessi heiti yfirfærð með þeirri breytingu einni, að í stað gangasveims var talað um sprungusveim (fissure swarm) (Kristján Sæmundsson 1971a og b). Hliðstæð fyrirbæri við eldstöðvakerfin í virku gliðnunarbeltunum hér á landi eru eldstöðvakerfin á Hawaii. Þar heitir megineldstöðin „shield volcano“ en sprungusveimurinn „rift zone“. Íslensk þýðing á shield volcano er eiginlega ekki til*, en um „rift zone“ hefur verið haft orðið gjástykki (Kristján Sæmundsson 1979). Bæði ensku og íslensku heitin hafa hér þrengri merkingu en felst í orðunum megineldstöð (central volcano) og sprungusveimur (fissure swarm). Margir eru þeir sem ekki fella sig við orðið sveimur, og því mjög á reiki hvað einstakir höfundar nefna þessi fyrirbæri á íslensku. Um þetta hafa sést á prenti eftirtalin orð: þyrping (Sveinn Jakobsson 1979b, Ari T. Guðmundsson 1982), belti (Oddur Sigurðsson 1976), belti eða rein (Freyr Þórarinsson o. fl. 1976), kerfi (Guðmundur E. Sigvaldason 1982, Guðrún Larsen, 1982), stykki (Axel Björnsson, í fyrirlestrum). Sjálfum er mér tamast að nota orðið sveimur og sama gera þeir Sigurður Þórarinsson, Sigurður Steinþórsson og Sveinbjörn Björnsson og Páll Einarsson í ritgerðum sínum á 2. útg. af Náttúru Íslands (1981). Orðin sveimur og þyrping missa að nokkru marks, vegna þess að þau gefa ekki til kynna að regla sé í dreifingu sprungnanna. Það undirstrika hins vegar orðin belti og kerfi. Hér skal ekki tekin afstaða til þess hvert af þessum orðum sé skárst.
Framar í þessum greinarstúf var þess getið að sá maður sem fyrstur kom auga á og lýsti eldstöðvakerfunum á Reykjanesskaga hafi verið Guðmundur G. Bárðarson. Notaði hann um þau orðið belti. Eitt framantaldra orða var haft til að lýsa skyldu fyrirbæri rúmum þremur öldum fyrr: „Frá
Eldeyjum og Geirfuglaskeri grynnra og nyrðra skal telja 7 smásker og sést hvert frá öðru á sömu rein rétt í haf frá Reykjanesi“. Þannig komst Jón lærði að orði í riti sínu „Ein stutt undirrjetting um Íslands aðskiljanlegar náttúrur“ (tilvitnað eftir útg. Halldórs Hermannssonar 1924). Kannske er þar komið heitið, sem allir hefðu getað fellt sig við.“

Heimild:
-Náttúrfræðngurinn, Kristján Sæmundsson, „Hálfrar aldar þögn um merka athugun“, 52. árg. 1-4 tbl, 01.05.1983, bls, 102 -103.

Kristján Sæmundsson

Í Hraunsfjöru.

Reykjanesskagi

Margir virðast hafa mikinn áhuga á Reykjanesskaganum, enda úr fjölmörgu að velja. Á meðan sumir njóta þess að ganga um svæðið og skoða smáatriðin hafa aðrir gaman að því að aka um það og njóta útsýnisins.
Víða má sjó jarðmynduninaFá landsvæði bjóða upp á fjölbreyttari möguleika til útivistar. Ef benda ætti á einn tiltekinn stað öðrum fremri væri úr vandi að velja. Landssvæðið í heild er svo stórbrotið og fallegt; sjá má myndunina og jarðsöguna hvar sem á það er litið, menningarsagan er við hvert fótmál og ófáir staðir eru til sem ekki tengast þjóðtrú og sögulegum atburðum. Í rauninni er sá staðurinn fallegastur þar sem þú ert staddur hverju sinni. Allt umfram það er einungis myndbreyting í allri fegurðinni.
Í elstu heimildum segir að fyrst hafi land verið numið á Reykjanesskaganum, en svo er landssvæðið nú jafnan nefnt er þá spannaði landnám Ingólfs Arnarssonar. Minjar frá fyrri Jarðhiti er óvíða meiritíð eru víðar en fólk grunar, jafnvel heilstæð búsetusvæði. Garðar eru enn víða heillegir, götur grópaðar í berghelluna og hlaðnar réttir eða fjárborgir skipta hundruðum. Brunnar voru svo til við hvern bæ og sjást fjölmargir þeirra enn. Verbúðir og mannvirki þeim tengdum eru víða við ströndina og ef vel er að gáð má sjá hlaðin skjól og sæluhús við gamlar þjóðleiðir. Til marks um verðmætin í minjunum einum má auk þess nefna að enn má sjá leifar um 250 selja á landssvæðinu. Þá eru víða vörður, sem hlaðnar hafa verið til marks um söguleg atvik, minningar um fólk er varð úti á ferðum sínum eða til leiðsagnar og tilvísunar. Auk þessa má nefna hina fjölmörgu hella á svæðinu. Sumir þeirra geyma mannvistarleifar.
Mikilvægt er að efla enn frekar áhuga fleirri á möguleikum Reykjanesskagans. Áður þarf þó að huga að ýmsu; sveitarstjórnarfólk þarf að sammælast um að eyða engu að óathuguðu máli er skipt getur máli í Mannvistarleifar í helliframangreindu samhengi, íbúarnir sjálfir þurfa að verða meðvitaðir um möguleikana og tala um þá með jákvæðum formerkjum, áhugafólk með þekkingu á svæðinu þarf að ýta undir áhuga annarra og fagfólk, ekki síst í minjavörslunni, þarf að beina athygli sínu að svæðinu í mun meira mæli en það hefur gert hingað til. Þá er gildi aukinnar samvinnu ferðaþjónustuaðila á svæðinu í heild aldrei ofmetin.
Það fólk, sem hefur aflað sér mikillar vitneskju um svæðið, skoðað það lengi, leitað uppi vettvang er lýst hefur verið eða sagt frá í ræðu og riti, uppgötvað annað áður óþekkt, fengið tækifæri til að setja hluti í samhengi eða sýna fram á rangildi, þarf að vera meðvitað um mótunaráhrif sín. Hér vegur jákvæðnin þyngst á vogarskálunum. Sem dæmi má taka örnefni. Gamalt fólk býr yfir mikilli þekkingu á þessum þætti og felast í upplýsingum þess mikil verðmæti. Vitað er þó að örnefni hafa breyst frá einum tíma til annars og til eru þeir staðir, sem fólk þekkir undir fleiru en einu nafni. Þá Atvinnusaganhafa örnefni færst á milli, t.d. hæða og hóla. Stundum bregst fólk, sem telur sig búa yfir mikilli eða staðbundinni þekkingu, illa við upplýsingum um annað en það sjálft telur hið eina og rétta. Oft hefur þurft að verja lengri tíma í að leiðrétta slíkt fólk og færa rök fyrir hinu gagnstæða en að svara fyrirspurnum þess er minni vitneskju á að hafa, öllu jöfnu.
Mikið hefur breyst á skömmum tíma og margt færst til betri vegar í framangreindum efnum. Enn sem fyrr er sérstaklega mikilvægt að allir hlutaðeigandi samhæfi sig í að efla upplýsingamiðlun, auðvelda aðgengi og hvetji aðra til að nýta sér hina stórkostlegu möguleika Reykjanesskagans til útivistar.
(Sjá meira undir Einstök útivistarperla).

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Reykjanesfólkvangur

Það mun hafa verið Dr. Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur sem átti hugmyndina að stofnum fólkvangs á Reykjanesi. Þegar hann fór eitt sinn um Krýsuvíkursvæðið og var að skoða verksumerki eftir fjósbygginguna í Krýsuvík 1948 Reykjanesfólkvangur - kortblöskraði honum að sjá hvernig hluta af uppgreftrinum hafði verið ýtt fram af brún Grænavatns, sem er bæði merkilegur og fallegur sprengigígur. Honum fannst að bregðast þyrfti við. Að hans mati virtist fólk ekki gera sér grein fyrir hverskonar náttúrufyrirbæri gígurinn væri. Hann taldi að kominn væri tími til að vernda náttúruna á svæðinu fyrir framkvæmdagleði mannanna.
Náttúruverndarlög, sem sett voru 1956, gerðu ráð fyrir að sveitarfélög gætu stofnað fólkvanga og að þjóðvangar yrðu í ríkiseign. Um málefni Reykjanesfólkvangs hafði verið fjallað, en árið 1968 voru þau tekin upp að nýju þegar skipulagsstjóri boðaði fulltrúa Náttúruverndarráða á Stór-Reykjavíkursvæðinu til samráðsfundar. Í framhaldi af því var skipuð samstarfsnefnd, sem átti að gera tillögu um hvaða náttúruvætti bæri nauðsyn til að friða á svæðinu. Dr. Sigurður Þórarinsson varð formaður samstarfsnefndarinnar og í október 1969 samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur samhljóða hugmynd um að stofnun Reykjanesfólkvangs, sem átti að ná frá Elliðavatni að Krýsuvíkurbergi. Ætlunin var að sameina Heiðmörk, Bláfjallasvæðið, Krýsuvíkurland og Herdísarvíkurland.
Eftir langan meðgöngutíma og margskonar hræringar var ákveðið að einskorða Reykjanesfólkvang við núverandi mörk. Ástæðan var sú að ekki náðist full samstaða um svo stórt svæði innan þeirra sveitarfélaga sem tengdust málinu, enda sveitarstjórnarfólk jafnan illu heilli haft litla innsýn í þau miklu varanlegu verðmæti, sem þar er að finna. Þó var ákveðið að fólkvangurinn spannaði um 300 km2 landsvæði. Það er stærð fólkvangsins í dag, rúmum 30 árum seinna, og er hann enn sem komið er langstærsta friðlýsta svæði sinnar tegundar hér á landi. Hinsvegar er Undir NorðlingahálsiReykjanessvæðið allt um 1700 ferkílómetrar og spannar það þó ekki allt hið forna landnáms Ingólfs.
Reykjanesfólkvangur var stofnaður með reglugerð sem tók gildi  1. desember 1975. Sveitarfélögin sem stóðu að fólkvangnum voru: Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík og Reykjanesbær. Stjórn fólkvangsins er enn í höndum þessara sveitafélaga í samráði við Umhverfisstofnun. Fulltrúi Reykjavíkur er formaður stjórnarinnar þótt Reykjavík eigi ekkert land í fólkvangnum sjálfum.
Mörk fólkvangsins að austan eru sýslumörk Gullbringu- og Árnessýslu. Að norðan tengist hann Bláfjallarfólkvangi. Vesturmörk fólkvangsins eru vestan við Undirhlíðar og Núpshlíðarháls fram í sjó við Selatanga. Suðurmörkin fylgja strandlínunni.
Reykjanesfólkvangur samanstendur að stórum hluta af gróðurlitlum, en litskrúðugum og jarðfræðilega „safaríkum“ móbergshæðum, mosagrónum hraunum og formfögru fjallalandslagi. Tveir áberandi meginfjallshryggir (og aðrir minni) liggja eftir fólkvangnum miðjum og eru í NA-SV stefnu, eins og sprungureinarnar sem ganga úr Atlantshafinu og taka land á Reykjanestá. Þessi hryggur skiptir vestanverðum Reykjanesskaganum á milli Evrasíu flekans og Ameríkuflekans sem gerir svæðið einkar áhugavert fyrir jarðfræðinga og aðra sem velta grundvallarþáttum jarðfræðinnar fyrir sér.
Á SveifluhálsiStærstu fjallahálsarnir fyrrnefndu nefnast Núpshlíðarháls (Vesturháls) og Sveifluháls (Austurháls). Hæstu hnúkar og tindar á þessum hálsum ná upp í u.þ.b. 400 metra hæð yfir sjó. Má þar nefna áberandi formfagra móbergshnúka í Stapatindum Sveifluhálsins og þá nyrstu í Núpshlíðarhálsi; Trölladyngju og Grænudyngju.
Brennisteinsfjöll eru austast í fólkvanginum en þar nær einstaka fjall upp í  u.þ.b. 600 metra hæð. Það má til dæmis nefna Hvirfil, Kistufell, Eldborgir og Vörðufell. Langahlíð, eða Lönguhlíðar, er enn annar fjallshryggurinn sem liggur austan og norðan við Kleifarvatn.
Sunnan og vestan fjallanna þar sem hallar niður að Kleifarvatni er Vatnshlíð, frá Vatnshlíðarhorni að hinu nafnkunna felli Gullbringu, sem sumir segja að öll sýslan hafi verið nefnd eftir. Aðrir segja hana vera langhlíðina ofan og austan hennar. Nokkru sunnar er Geithöfði, Lambafellin og lengra í austurátt er Geitahlíð þar sem enn ein formfegurðin trjónir hæst; gígur Æsubúða. Segir þjóðsagan að þar hafi fyrrum, áður en hraunin runnu, verið verslunarstaður. Skipið Hvítskeggur á m.a. að hafa verið bundið þar við festar, er sáust lengi vel í Hvítskeggshvammi ofan Eldborganna.
Á SveifluhálsiNálægt hinu forna Krýsuvíkurhverfi eru tvö móbergsfell; Arnarfell og Bæjarfell. Nokkru suðvestan af Bæjarfelli er áberandi toppmyndað fell sem nefnist Mælifell, oftast kallað Krýsuvíkur-Mælifell, til aðgreiningar frá Skála-Mælifelli, sem er norðaustan Skála. Að vísu er enn eitt mælifellið á millum, en færri sögum fer af því í örnefnalýsingum. Nafngift fellanna fylgdi jafnan staðsetningum mælingastöðva danskra landmælinga- og kortagerðamanna um og í kringum aldarmótin 1900. Þau kort eru enn talin hin mestu nákvæmissmíð. Keilir er vestan Trölladyngju, eitt hið formfegursta fjall á Skaganum, en hann er þó ekki innan Reykjanesfólkvangs.
Eina verulega stóra stöðuvatnið í fólkvanginum er Kleifarvatn. Það er um 10 km2 að stærð og þar sem það er dýpst, í gjánum austur af Syðri-Höfða, nær það 97 metra dýpt. Sunnan vatnsins eru tjarnir, votlendi og smálækir sem renna í það. Kleifarvatn er á margan hátt undarlegt stöðuvatn sem byggir vatnsbúskap sinn að miklu leiti á regnvatni, og það rignir talsvert mikið í Krýsuvík. KleifarvatnReyndar er öll rigningin tálsýn að hluta. Það þekkja þeir a.m.k., sem varið hafa nokkrum árum æfi sinnar á þeim slóðum. „Rigningin“ er að mestu í formi þoku, sem jafnan grúfir sig yfir fjallgarðinn við hentug veðurskilyrði, enda hefur hann veruleg áhrif á veðurhvörf veggja vegna. Vatnsborðið Kleifarvatns hefur og sveiflast verulega á ákveðnum árabilum, þrátt fyrir að vatnið sé afrennslislaust ofan jarðar. Ástæðan er sú að sprungur í botni vatnsins opnast við jarðhræringar og þegar svo ber undir minnkar í Kleifarvatni. Þetta kom glögglega í ljós árið 2000 þegar vatnsborðið lækkaði um 4 m og ummál vatnsins minnkaði í 8 km2. Þá urðu tveir miklir jarðskjálftar á Suðurlandi og varð sá seinni beint undir Sveifluhálsinum og Kleifarvatni. Það er því ekkert skrýtið þótt eitthvað hafi þurft undan að láta. Þennan dag, 17. júní (í fyrri skjálftanum), má segja að hálsinn hafi risið undir nafni; Sveifluháls, því hann liðaðist líkt og ormur. Það segja a.m.k. þeir er til sáu.
Nokkur merkileg gígvötn og tjarnir eru innan fólkvangsins, merkust þeirra eru Djúpavatn, Gestsstaðavatn, Grænavatn og Augun, en auk þeirra má finna dæmigert Grænavatnheiðarvatn á Krýsuvíkurheiði sem nefnist Bleiksmýrartjörn, líka nefnt Arnarfellsvatn. Arnarvatn er á Sveifluhálsi og Djúpavatn, Grænavatn og Spákonuvatn í Núpshlíðarhálsi. Lækir eru í Krýsuvík og við Djúpavatn, á Selsvöllum og víðar.
Reykjanesfólkvangur er mikið til þakinn hraunum og mörg þeirra hafa runnið í sjó fram. Það er fagur að skoða hraunfossana sem hafa steypst fram af fjöllunum niður á láglendið. Þar má nefna Fagradalshraun, Tvíbollahraun og hinn tilkomumikla hraunfoss Víti í Kálfadölum, auk hraunstraumana austast í sunnanverðum Núpshlíðarhálsi og fram af brúnum Stóra-Hamradals.
Krýsuvíkurland frá Kleifarvatni að Krýsuvíkurbergi er þakið jarðvegs- og gróðurþekju, sem er ofan á nokkrum lögum af hraunum. Þessi hraunlög sjást ágætlega þegar samsetning landsins við Krýsuvíkurberg er skoðað.
Það eru nokkur ung hraun í Reykjanesfólkvangi, þar á meðal eru miklir hraunmassar sem flæddu víða í Krýsuvíkureldum sem stóðu yfir frá 1151-1180. Þessi hraun hafa sum hver mótað landslagið á sögulegum tíma. Hraunakort af ReykjanesskagaNýjustu rannsóknir staðfesta aldurinn svo glögglega að meginhraunin, Ögmundarhraun, Afstapahraun og Nýjahraun (Kapelluhraun/Bruni), eru talin hafa myndast um haustið 1151. Talið er að gamla Krýsuvík í Húshólma hafi að mestu horfið undir hraunflóðið. Þar eru enn allmerkar minjar sem lítill gaumur hefur verið gefinn til þessa. Líklega kunna þær að leiða í ljós, við nákvæmari rannsókn, elstu mannvistaleifa hér á landi – frá því fyrir norrænt landnám.
Krýsuvíkureldar stóðu yfir ein 30 ár og þá varð hluti Kaldárhrauns til, sem kom úr mörgum smágígum við Undirhlíðar og vestan Helgafells; einnig Mávahlíðarhraun skammt frá Fjallinu eina og Traðarfjallahraun í Móhálsadal.
Víðáttumikil hraun, sem eru í stórum hluta bæjarlands Hafnarfjarðar, runnu úr gígum í Grindaskörðum og Þríhnúkum á sögulegum tíma, eftir landnám (um 950). En yngstu hraunin komu í eldgosi í Brennisteinsfjöllum, sem átti sér sennilega stað í kringum 1340 eða 1380. Þessi hraun eru því ekki nema rúmlega 600 ára gömul ef rétt reynist.
VBúrfellið suðurströnd fólkvangsins eru tvær litlar víkur, Hælsvík og Keflavík og milli þeirra er strandbergið Krýsuvíkurberg, sem er eitt merkilegasta fuglabjarg landsins. Þar hafa að jafnði verið um 100 þúsund sjófuglar. Mest er af svartfugli, þ.e. álku, langvíu og stuttnefju, en einnig er nokkuð af toppskörfum, silfurmáfum og fýlum, eða múkka eins og sjómenn kalla þann ágæta fugl. Krýsuvíkurberg var lengi vel nytjað af Björgunarsveit Hafnarfjarðar, en eftir jarðskjálftana árið 2000 varð áhættan meiri en áður vegna hættu á hruni. Áður fyrr var bergið ein helsta matarkista Krýsuvíkinga og hjáleigubænda þeirra.
Það eru æði margar og merkar menningarminjar víða í Reykjanesfólkvangi, sem tengjast búskap og atvinnu fyrri alda, en einnig má finna nýlegar minjar frá síðustu öldum. Elstu fornminjarnar eru í Húshólma (gamla Krýsvík) í Ögmundarhrauni. Þá eru margar selminjar innan fólkvangsins. Sem slík skipa selin stóran sess í búskaparsögu Reykjanesskagans, en í heildina má enn sjá þar leifa um 250 selstöðva.
Krýsuvík var lengi höfuðból og heimajörðinni fylgdu nokkuð margar hjáleigur. Krýsuvík var heil kirkjusókn á sFornar minjar í Húshólmaínum tíma og þótti afskaplega góð jörð á meðan sjálfsþurftarbúskaður var stundaður á Íslandi. Um tíma voru 14 hjáleigur frá Krýsuvíkurbúinu. Útræði var frá Selatöngum fram undir aldarmótin 1900, en nokkur eftir það var róið frá Hólmasundi. Áður höfðu Krýsvíkingar skipt á seljabeit og uppsátri við Þórkötlunga í Grindavík og Kálfatjarninga á Vatnsleysuströnd. Beitilandið var svo gjöfult að sauðfé var látið ganga sjálfala árið um kring, það var stutt á fiskimiðin frá útverunum og þau gáfu vel í aðra hönd.  Í Krýsuvíkurbergi var nóg af fuglakjöti og eggjum, og rekaviður skaffaði efnivið í hús og báta, amboð og annað er til þurfti. Rekaviður var m.a. sóttur í Keflavík austan Bergsenda og niður undir Heiðnaberg. Var þá farið um hinn brattumgengna Ræningjastíg. Frá honum honum segir í þjóðsögunni um komu Tyrkjanna til Krýsuvíkur, för þeirra í selið ofan við bergið og móttökur séra Eiríks á Vogsósum sunnan við Krýsuvíkurkirkju þann örlagaríka dag – fyrir þá.
Þrátt fyrir alla gnæðina fór Krýsuvíkurjörðin hægt og sígandi í eyði á fyrri hluta 20. aldar, eftir að stórskáldið KrýsuvíkurkirkjaEinar Benediktsson eignaðist hana ásamt norskum fjármálamanni. Það var sennilega tímanna tákn að skáldjöfurinn var á fallanda fæti á sama tíma og landsmenn voru að skipta um gír og hverfa frá sveitunum til að setjast að í þéttbýlisstöðunum við sjávarsíðuna þar sem góð hafnaraðstaða skipti meginmáli. Annars verður að segja um Einar Benediktsson, að skáldajöfursímyndin hafi í seinni tíð blindað ásýndina af svindlaranum.
Þegar Hafnarfjarðarbær eignaðist Krýsuvíkurjörðina um 1941 var Magnús Ólafsson síðasti íbúi Krýsuvíkur nánast kominn að fótum fram. Hann var fluttur nauðungarflutningi til Hafnarfjarðar eftir að hafa fengið slag, og um svipað leyti var bílvegurinn til Krýsuvíkur fullgerður. Þar með lauk hinni gömlu búsetu í Krýsuvík eftir tíu alda langa sögu, en nýi tíminn megnaði ekki að endurreisa staðinn á þann hátt sem ætlunin var. Vegagerðinni var m.a. ætlað tvenn hlutverk; annars vegar að gera Hafnfirðingum kleift að reisa mjólkurframleiðslubú í Krýsuvík og hins vegar til að auka öryggi mjólkuflutninga millum Flóamanna og Hafnfirðinga á vetrum þegar Hellisheiðarvegur tepptist. Ætlunin var og að virkja hverina í Seltúni og Hverahvammi til að framleiða raforku, en þær áætlanir runnu út í sandinn, líkt og mjólkurframleiðslan. Nú hefur verið gefið út rannsóknarleyfi í Krýsuvík til Hitaveitu Suðurnesja sem hyggst setja virkjun á laggirnar í þessum miðdepli fólkvangsins ef ráðist verður í byggingu álvers í Helguvík.
Fjöldi merkra náttúruminja eru í fólkvangnum, fallega mótaðar móbergsmyndanir, hraunstapar, hraunhellar og margháttað gróðurfar, sem reyndar á í vök að verjast. Landeyðing er mikil í Reykjanesfólkvangi. Landgræðsla hefur verið stunduð þar um áratugaskeið en árangurinn hefur verið minni en efni stóðu til. Samt sem áður má víða sjá grösuga bala en mest ber á uppblásnum melum og móbergshálsum. Ljóst má vera að fjallskollar, sem nú eru gróðurlausir, hafa margir hverjir verið verið þaktir gróðri áður fyrr. Má þar nefna Mælifellin.
Hraunsel undir NúpshlíðarhálsiJeppamenn notuðu Reykjanesið um tíma fyrir utanvega akstur en núna eru það aðallega menn á miðjum aldri sem aka svokölluðum endúró hjólum, eða mótorkrossmenn sem þeytast upp um öll fjöll og spæna upp viðkvæma dali á Reykjanesinu. Slíkur akstur er með öllu bannaður í Reykjanesfólkvangi eins og annarsstaðar utan vega á landinu. Dæmi eru einnig um að göngufólk skilji eftir sig rusl og önnur líti á ferðum sínum um svæðið.
Það eru tvö beitarhólf innan fólkvangsins. Annað (fyrir „hafnfirðingana“) er orðið nokkuð rótgróið en hitt (fyrir „grindjánana“) er nýlegt. Með beitarhólfunum hvarf „villibráðabragðið“ af kjöti kindanna, sem áður ráfuðu frjálsar um hlíðar og fjöll. Annars hefur fé fækkað svo mikið á Reykjanesskaganum að líklegra hefði verið öllu ákjósanlegra að leyfa því að ganga sjálfala og hjálpa þannig til við að byggja upp annars gróðurlítil eða gróðurlaus svæði.
Nokkrar fornar þjóðleiðir liggja um Reykjanesfólkvang. Hluti af Selvogsgötu, Undirhlíðarleið, Stórhöfðastígur, Hrauntungustígur, Ketilstígur, Þórustaðastígur, MoshóllHálsavegur, Drumbsdalaleið, Sveifluleið, Hettuvegur, Dalaleið, og hluti af Suðurleiðinni gömlu, sem vermenn austan úr Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Skaftafellssýslum, fylgdu á leið sinni í verið á þorranum og aftur heim að vori. Þórustaðastígurinn lá t..d. frá Þórustöðum á Vatnsleysuströnd, meðfram Moshól nyrst á Selsvöllum, yfir Núpshlíðarháls að Vigdísarvöllum. Þar tók við Sléttuvegur upp að Hettuvegi yfir til Krýsuvíkur.
Nú eru helstu leiðirnar Krýsuvíkurvegurinn, sem var lagður 1935-1945, og Ísólfsskálavegur sem er að stofni til frá því um 1932, þótt núverandi vegur sé um hálfrar aldar gamall. Síðarnefndi vegurinn var að mestu lagður yfir gamla götu, þ.á.m. Ögmundarstíg, sem lá þvert yfir samnefnt hraun. Svo er vegslóði sem liggur að Djúpavatni og áfram um Krókamýri og Vigdísarvelli að Latsfjalli, sem er eingöngu opinn á sumrin. Þessa stundinar er verið að vinna við nýjan Suðurstrandarveg sem þó nokkrar deilur hafa staðið um. Sá vegur á að tengja saman byggðirnar í Suðurkjördæmi, þ.e. Suðurnesin og Suðurlandið.
Fyrir nokkrum árum lagði Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur fram tillögu um að gera RFjölmargir hellar eru innan fólkvangsinseykjanesfólkvang að Eldfjallagarði og stækka hann í leiðinni til austurs. Hann vildi draga Þríhnúkasvæðið inn í fólkvanginn. Meðal þess sem rætt hefur verið um í sambandi við Eldfjallagarð á Reykjanesi er sú hugmynd að bora gat inn í miðjan Þríhnúkagíg, sem er einn stærsti eldgígur heims. Hugmyndirnar er góðar sem slíkar, en framkvæmdin yrði auðvitað arfavitlaus – þ.e. að raska og umbreyta einu helsta jarðfræðifyrirbæri í heimi.
Reykjanesfólkvangur er á miðju virka gosbeltinu, sem liggur eftir Reykjanesskaga endilöngum. Gossaga skagans er tiltölulega vel þekkt. Eldvirknin hefur verið stöðug síðustu árhundruðþúsundin og virðast koma í hrinum sem koma á um 1000 ára fresti og stendur yfir í u.þ.b 200 ár.   Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma.   Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos. Það elsta eru Bláfjallaeldar sem hófust árið 930 og stóðu yfir í u.þ.b. 100 ár.   Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151. Í gosinu opnaðist um 25 km löng sprunga og rann hraunið til svávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan myndaðist Ögmundarhraun í þessu gosi en að norðan rann Misgengi og sigdalir eru margir í fólkvanginumNýjahraun sem flestir nefna Kapelluhraun. Í þriðju goshrinunni urðu Reykjaneseldar sem stóðu yfir frá 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó þar sem Eldey reis upp úr sjónum.
Eldvirkni raðar sér á svokallaðar sprungureinar þar sem eru gosstöðvar og opnar gjár. Oft eru sigdalir eftir endilöngum sprungureinunum og gígaraðir.   Sprungureinarnar eru yfirleitt 25-50 km langar og 5-7 km breiðar. Tvær þeirra fara um Reykjanesfólkvang, þ.e Krýsuvíkurrein og Brennisteinsfjallarein sem liggja frá suðvestri í norðaustur yfir Reykjanesskagann. Háhitasvæði er á báðum sprungureinunum, þ.e. Seltún, sem er í næsta nágrenni við veginn norðan við Krýsuvík, og hverasvæðið í Brennisteinsfjöllum sunnan Draugahlíðar.
Jarðlög Reykjanesfólkvangs eru grágrýtishraun frá síðustu hlýskeiðum ísaldar, móberg og bólsturberg sem hafa myndast undir jöklum síðustu jökulskeiða og hraun runnin eftir að jökull hvarf af svæðinu. Í Krýsuvík, og þar suður af allt til sjávar, er grágrýti sem jöklar hafa sorfið og skafið. Það eru væntanlega leifar af fornum dyngjum og hafa líklega myndast á síðasta hlýskeiði sem lauk fyrir 120 þúsund árum. Geitahlíð er gömul grágrýtisdyngja og grágrýtishella er líka suður af Lönguhlíð (um).  Sunnan, vestan og norðan Kleifarvatns er móberg og Núpshlíðarháls og Sveifluháls eru móbergshryggir sem hafa hlaðist upp undir jökli. Syðst og austast í fólkvanginum er Krýsuvíkurhraun, forsögulegt sprunguhraun. Norðan þess eru nokkur hraun runnin úr Brennisteinsfjöllum eftir landnám. Vestast í fólkvanginum er Ögmundarhraun frá árinu 1151.
Jarðsagan er heillandi og á fáum stöðum opnast jarðsögubókin betur en hér á Reykjanesskaganum í fjölbreyttum jarðmyndunum. Hér má sjá úthafshrygg koma á land og á  “Brúnni milli heimsálfa” er hægt að ganga milli Ameríku og Evrópu. Sjá hvernig landið hefur gliðnað, sprungur opnast, gígar myndast og hraun runnið. Landið stækkar sígandi, lúshægt mælt í mannsævinni en á ægihraða í samanburði við ævi Jarðar, að meðaltali 2 sentimetra á ári.
Hér eru eldgígar af öllum gerðum og merkileg fjöll mynduð við eldgos undir jökli, bólstraberg og móberg, t.d. við Kleifarvatn þar sem í kaupbæti býr skrímsli. Litskrúðugt berg í Trölladyngju gefur Landmannalaugum lítið eftir og útsýnið af Keili er stórbrotið. Dyngjur nefnast flatir hraunskildir og móðir þeirra, Skjaldbreiður, rís við endimörk garðsins í norðri en litlar systur skreyta skagann, sumar úr bergi svo djúpt úr iðrum jarðar að það geymir jafnvel lykilinn að uppruna vatnsins á Jörðinni.
TrölladyngjaÁ Reykjanesi brýtur úthafsaldan bergið af ógnarkröftum, molar í spað og skolar upp í Sandvíkina. Næsta land beint í suður er Suðurskautslandið. Krísuvíkurberg og Festarfjall full af fugli, súlur og lundar sveima um. Að leggjast í mjúkan mosa er vandfundinn lífsreynsla í öðrum löndum. Reykjanesskaginn er unaðsreitur náttúruskoðara og ljósmyndara, hrein upplifun. Hér eru háhitasvæði með litríkum ólgandi leirhverum, öskrandi gufuaugum og hæglátum vatnshverum. Hér gengur sjórinn inn í bergið, mætir orku úr iðrum jarðar, hitnar og breytist í sjóðheitan jarðsjó sem nýttur er í Bláa lóninu og geymir lækningamátt. Jafnvel í fúlasta sjóðandi leirpytti er líf, frumstæðar lífverur sem una sér við öfga. Geymir Reykjanes að lykil að uppruna lífsins eða vísbendingar um mögulegt líf á öðrum hnöttum?
Hreindýrum var sleppt á Reykjanesskaga árið 1777 og héldust þau þar við allt framundir 1930. Tófum hefur fjölgað á svæðinu á undanförnum árum. Í Kleifarvatni er nokkur silungur, en þar var sett bleikja um 1960.
Fjörur við suðurströnd skagans eru opnar fyrir úthafinu og klettóttar. Þar við efstu flóðmörk finnst sérkennileg stór grápöddutegund (krabbadýr). Krísuvíkurberg er stærsta fuglabjarg Reykjanesskaga. Rita er þar yfirgnæfandi, en einnig er mikið af fýl og svartfuglstegundunum, álku, langvíu og stuttnefju. Að auki verpur þar lundi, teista, toppskarfur og silfurmáfur. Undir berginu má stundum sjá útseli og lengra úti má stundum sjá til hvala af bergbrúninni.
Háhitasvæði eru innan fólkvangsinsAlls hafa fundist tæplega 200 tegundir blómaplantna og byrkninga (burknar, elftingar, jafnar) í Reykjanesfólkvangi. Flestar tegundirnar eru algengar um land allt, en einstaka eru bundnar við Suðurland, t.d. grástör og gullkollur. Við fyrstu sýn virðist svæðið hrjóstrugt á að líta, en ef betur er að gáð kemur í ljós margbreytilegt gróðurfar. Fyrst ber að nefna mosann sem klæðir hraunin á stórum svæðum eins og t.d. í Ögmundarhrauni og setur hann óneitanlega   mikinn svip á landið. Grámosi(gamburmosi) er ríkjandi tegund og ræðst tilvist hans af hinu raka úthafslofti. Annars staðar er gróskumikill lynggróður, t.d. krækilyng, bláberjalyng, aðalbláberjalyng, sortulyng og beitilyng. Lítið er um kjarrlendi í Reykjanesfólkvangi. Kjarrgróður er einkum norðanmegin á svæðinu, en ljóst er að núverandi kjarr eru leifar víðáttumeira kjarrlendis. Einna vöxtulegastur trjágróður er umhverfis Búrfell og Smyrlabúð. Birki er aðaltrjátegundin sem myndar kjarr, en á stöku stað má sjá allstóra gulvíðirunna. Undirgróðurinn er einkum lyng og grös, s.s. hálíngresi, ilmreyr, bugðupuntur, svo og blómplöntur, t.d. blágresi, brennisóley og hárdepla. Stór hluti fólkvangsins eru melar og bersvæði. Gróður er mjög strjáll á slíku landi og einungis harðgerðar tegundir þrífast þar, t.d. melskriðublóm, holurt, geldingahnappur og lambagras. Þéttur valllendisgróður liggur víða undir fjallshlíðum með ríkjandi grastegundum; týtulíngresi, hálíngresi og blávingli.   Flest eru valllendin tún fornra bæja eða selja eins og örnefnin gefa til kynna: Selvellir, Seltún og Vigdísarvellir. Mýrargróður er helst að finna í suðurhluta fólksvangsins. Stærst er mýrin við Stóra Lambafell, en þar vaxa algengar mýrarplöntur eins og mýrarstör, gulstör, klófífa, engjarós, mýrardúnurt og horblaðka.
KortEitt af sérkennum fólkvangsins eru jarðhitasvæðin og þar eru nokkrar einkennisplöntur. Fjölskrúðugastur er gróðurinn á jarðhitasvæðinu við Seltún. Þar vaxa tegundir  svo sem laugasef, lindasef og lækjadepla. Einnig er margbreytilegur gróður í volgrunni sem rennur um Seltún að leirhvernum Svuntu, t.d. sefbrúða og laugabrúða. Af sjaldgæfari tegundum má nefna ýmsar blómplöntur, t.d. fjalldalafífil. skógfjólu, geithvönn og jarðaberjalyng, sem finnast t.d. í Núpshlíð og Geitahlíð.
Innviðir Reykjanesfólkvangsins hafa allt til þessa dags verið stórlega vanmetnir í 30 ár, eða allt frá því að Sigurður Þórarinsson, vakti athygli á mikilvægi verðmæta hans. Nú er er kominn tími til að breyta um betur – varðveita svæðið í heild og skila sem flestum verðmætum þess til komandi kynslóða.
Það stafar margskonar hætta að Reykjanesfólkvangi. Innan hans eru margar stórar efnisnámur. Ein við Bláfjallaveg sem fer sífellt stækkandi, ein við Vatnsskarð og sú þriðja í gígaröð Ögmundarhrauns nærri Latsfjalli. Nokkrar gamlar námur eru einnig til staðar, ein við Vatnshlíðarhorn og önnur þar sem Litla-Eldborg var undir Geitahlíð, en hún er ekki svipur hjá sjón vegna ótæpilegrar efnistöku á sínum tíma. Eldborgin undir Trölladyngju er að mestu horfin undir vegstæði og víða má bakatil við sjónröndina sjá hvar efni hefur verið tekið úr ómetanlegum jarðmyndunum. Auk þess má nefna mikinn áhuga fyrirtækja og stofnana að virkja þar á sem flestum stöðum – jafnvel þeim verðmætustu.

Heimildir m.a.:
-http://www.gamli.umhverfissvid.is/reykjanesfolkvangur/
-http://www.ogmundur.is/VI/news.asp?id=653&news_ID=3149&type=one&multiplier=0.9
-Hrefna Sigurjónsdóttir.

Grindaskarðahnúkar og KerlingahnúkarNúpshlíðarháls

Reykjanesskagi

Málfríður Ómarsdóttir skrifaði í apríl 2007 ritgerð með yfirskriftinni; Reykjanesskagi – náttúrusaga og eldvörp. Þar sem efnið er vel unnið og á brýnt erindi Jarðfræðikort af Reykjanesskagatil áhugafólks um Reykjanesskagann verður hluti textans birtur hér.
„Reykjanesskagi er hluti af gosbeltinu sem liggur þvert í gegnum Ísland og er í raun ofansjávarhluti af Reykjaneshryggnum en hann liggur neðansjávar suðvestur í haf. Hann er hluti af Atlantshafshryggnum og hefur um langt skeið dregið að sér athygli náttúrufræðinga og hefur hún aðallega beinst að þeim þáttum sem mest setja svip sinn á landslagið eins og eldvörp, gígar, hraun, sprungur, jarðhiti og misgengi.
Eldstöðvarkerfi á Reykjanesskaga eru fjögur talsins og eru þekkt tvö gosskeið á síðustu tvö þúsund árum þar sem öll eldstöðvarkerfin urðu virk. Töluvert mikið er um eldvörp á svæðinu og er náttúrufar Reykjanesskaga afar sérstætt og því ekki furða að áform séu uppi um að auka náttúruverndargildi hans og jafnvel að gera Reykjanesskaga að eldfjallagarði.

Eldvirkni
Reykjanesskagi, ásamt Íslandi, liggur á Atlantshafshryggnum en hann er mörk plötuskila Evrasíuflekans og Norður-Ameríkuflekans sem mjakast í Eldstöðvakerfin fjögur (ATG)sitthvora áttina. Þessi hreyfing veldur tíðum umbrotahrinum á hryggnum sem einkennast af jarðskjálftum og eldgosum. Hryggurinn brotnar upp í rekbelti sem tengjast um þverbrotabelti. Slíkt rekbelti er að finna við suðvesturhorn Íslands og nefnist Reykjanesrekbeltið (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Reykjanesrekbeltið tengist Atlantshafsrekbeltinu beint og er um 30 km að breidd (Jón Jónsson, 1967). Framhald rekbeltisins er á landi og liggur eftir Reykjanesskaganum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001) en hann er einn af tveimur stöðum í heimum þar sem hafshryggur rís úr sjó (mynd 1) en það gerir hann að kjöraðstæðum til að rannsaka myndun og mótun hafshryggja á landi (Ármann Höskuldsson, Richard Hey, Einar Kjartansson & Gunnar B. Guðmundsson, 2007).
Reykjanesskagi er afar sérstakur hluti af Atlantshafshryggnum því hann er tengiliður milli heits reits og djúpsjávarhryggs (Fleischer, 1974).
Reykjanesrekbeltið er einkennandi fyrir Reykjanesskaga og þar er að finna fjölmargar sprungur, misgengi og mjóa sigdali sem stefna í norðaustur-suðvestur Eldborg í Kristnitökuhrauni (Svínahrauni)átt (Jón Jónsson, 1967). Á Reykjanesskaganum beygja plötuskilin til austurs en það eru fjögur eldsstöðvarkerfi sem liggja skálægt á plötuskilunum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Þekkt eru tvö gosskeið á síðustu tvö þúsund árum þar sem öll eldstöðvarkerfin urðu virk. Hvert gosskeið stóð í allt að fjórar aldir með um þúsund ára hléi á milli. Í ljósi þeirrar vitneskju og rannsóknum á eldri gosum, er líklegt að eldvirkni hafi verið svipuð, á fyrri hluta nútíma (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Þessi eldstöðvarkerfi eru Reykjaneskerfið, Trölladyngjukerfið, Brennisteinsfjallakerfið og Hengilskerfið (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Reykjaneseldstöðvarkerfið liggur í suðvestur-norðaustur stefnu frá Reykjanesi og inn að Vatnsleysuströnd. Neðan sjávarmáls suðvestur af Reykjanesi er það um 9 km langt en í heildina er það um 45 km langt og um 5-15 metra breitt (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Það tilheyrir vestara rek- og gosbeltinu eins og öll kerfin á Reykjanesskaga. Það hafa komið um 50 rek- og goshrinur úr því ásamt 14 dyngjum. Síðast gaus í kerfinu í Reykjaneseldunum frá 1211-1240 en þar síðast sennilega fyrir um 1500-1800 árum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldvirkni er takmörkuð við syðstu 15 km kerfisins. Þótt Reykjanesið sé að mestu leyti þakið úfnum hraunum og fokösku þá ber það þess skýr Stamparmerki að eldgos hafa verið tíð. Yngstu hraunin þekja meginhluta Reykjaness og því erfitt að áætla fjölda gosa sem orðið hafa frá myndun þess.
Eldvirkni er mikil á þessu svæði vegna plötuskilanna sem eru mörkuð af gjám og misgengjum. Talið er að gliðnunin sé um 2 cm á ári (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Trölladyngju-eldstöðvarkerfið er um 40-50 km langt og 4-7 km breitt. Úr kerfinu hafa komið um 40-50 rek- og goshringur og 3 dyngjur. Síðast gaus í því 1151-1180 sem í gosi sem kallaðist Krísuvíkureldarnir en þar á undan fyrir um 2000 árum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Brennisteinsfjallaeldstöðvarkerfið er næst austasta kerfið á Reykjanesskaganum.
Það er 45 km langt og 5-10 km breitt. Það hafa komið um 30-40 rek- og goshrinur úr því ásamt 3 dyngjum. Það varð einnig virkt, á sama tíma og Reykjaneskerfið, í Reykjaneseldunum árin 1211-1240.
Hengilseldfjallakerfið er austasta eldstöðvarkerfið og er sérstætt að því leyti að þar eru vísbendingar um þrjú kvikuhólf þ.e. tvö virk og eitt gamalt og óvirkt. HáleyjarbungaHengilseldstöðvarkerfið er 100 km langt og 3-16 km breitt. Úr því hafa komið 20 rek- og goshrinur og 6 dyngjur. Síðast gaus í Hengli fyrir um 2000 árum í svokölluðum Nesjavallaeldum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Á sama tíma myndaðist Sandey í Þingvallavatni (Orkuveita Reykjavíkur, 2006). Þar áður gaus fyrir um það bil 5000 árum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Hengilssvæðið er með stærstu háhitasvæðum á Íslandi (Orkuveita Reykjavíkur, 2006).
Eldstöðvarkerfin fjögur raðast skástígt með stefnu í norðaustur, á bogin plötuskilin. Innan þeirra finnast misgengi og gígaraðir. Plötuskilin eru í raun samblanda af gliðnun og sniðgengishreyfingum. Sniðgengið verður öflugra eftir því sem austar dregur. Norður- og suðurhluti hvers eldstöðvarkerfis einkennist af eingöngu af brotalínum en mesta eldvirknin er þar sem plötuskilin liggja um miðbik hvert þeirra. Þess vegna er upphleðsla þar hröðust og þar hafa myndast hálendi. Hálendið verður hærra eftir því sem austar dregur.
Reykjaneshryggurinn hækkar almennt til norðausturs vegna þess að gosefnaframleiðsla á Íslandi eykst eftir því sem nær dregur heita reitnum á miðju landsins. Um miðbik eldstöðvakerfanna eru háhitasvæðin að finna og hitagjafar þeirra eru grunnstæð innskot (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
GunnuhverÞað má skipta bergtegundum, bæði nútíma og eldri bergmyndanna, á Reykjanesskaga í þrjá meginflokka eftir samsetningu þeirra. Landslag á Reykjanesskaga hefur að nokkru leyti mótast af þessum flokkum. Sýni, úr eldri bergmyndunum frá jökultíma og síðjökultíma, benda til þess að engin breyting hafi orðið á eldvirkninni á Reykjanesskaga frá myndun hans og til dagsins í dag. Erfitt er þó að segja til um hvort skipst hafi á tímabil með dyngjugosum og önnur með sprungugosum eins og komið hefur í ljós um eldvirknina á nútíma. Sprungugosin, sem áttu sér stað á jökulskeiðum og mynduðu móbergshryggina Sveifluháls og Núpshlíðarháls, hefðu eflaust myndað dyngjur ef landið hefði verið íslaust. Þess í stað mynduðust stapar (Jón Jónsson, 1978).
Nútímahraunum og gosstöðvum má skipta í þrjá flokka þ.e. gossprungur og dyngjur en dyngjunum má svo skipta aftur skipta í tvo flokka eftir samsetningu hraunanna. Þessa flokka má svo nánar aðgreina út frá aldri og stærð.
Jón Jónsson (1978) telur að hraun runnin á nútíma á Reykjanesskaga nái yfir 1064 km2 og rúmmál þeirra sé um 42 km 3. Af því nái hraun runnin eftir landnám yfir 94 km2 og hafa um 1,8 km3 rúmmál. Nánar verður fjallað um hraun á Reykjanesskaga hér á eftir í kaflanum um hraun.

EÍ Eldvörpumldvörp
Eldstöðvakerfin á Reykjanesskaga framleiða öll þóleískt berg og aðeins kemur þar upp basalt að Hengilseldstöðinni slepptri. Á Hengilssvæðinu er að finna súrt og ísúrt berg en annars er mest berg á Reykjanesskaganum ólivínþóleít.
Eldstöðvar eru ýmist dyngjur eða gjall- og klepragígaraðir ásamt nokkrum gjósku- og sprengigígum. Telja má 26 dyngjur frá nútíma en ekki er vitað um heildarfjölda þeirra þar sem ummerki sjást ekki lengur. Elstu og minnstu dyngjurnar eru úr ólivín pikríti sem runnið er á miklu dýpi og nær yfir 80-200 km.
Stærri og yngri dyngjurnar eru úr ólivín þóleíti og eru þær allt að 6-7 km3 hver. Aldur allra dyngjanna er yfir 4500 ár. Myndunartíminn gæti tengst hröðu landrisi eftir hvarf ísaldarjökulsins (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Gígaraðir á Reykjanesskaga liggja á tveimur gosreinum og hafa sprungugos orðið á sitt hvorri þeirra, um þrisvar sinnum á síðustu 10.000 árum. Síðustu 2000 árin hefur gosvirknin þó takmarkast við vestari gosreinina sem liggur til sjávar við Kerlingarbás en það hefur ekki gosið á eystri gosreininni, sem liggur inn að hraundyngjunni Skálafelli, í 3000 ár. Skjálftavirkni er einnig einskorðuð við vestari gosreinina (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Gossprungur eru hátt á annað hundrað talsins ef hver sprunguhluti er talinn sér (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Neðansjávargos hafa verið Sandfellshæðallnokkur við Reykjanesið og má þar finna 11 gjóskulög úr slíkum gosum. Út frá þessum gjóskulögum má fá mikilvægar upplýsingar um gossögu eldstöðvakerfisins síðustu sex þúsund árin. Við langvarandi neðansjávargos þá myndast gjóskugígar en einnig getur gjóska myndast þegar goshrinur á landi verða og hraunið rennur til sjós. Þá verða miklar gufusprengingar (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Við Reykjanes hafa oft orðið til gígeyjar en þær eru einkar viðkvæmar fyrir rofafli sjávar og eyðast því fljótt en eftir standa sker og boð til vitnis um fyrrum tilveru þeirra. Sem dæmi um gígey má nefna Eldey sem er rétt suðvestur af Reykjanesskaganum.
Jarðfræðilega séð er Reykjanesskaginn enn að byggjast upp til suðvesturs og þó nokkur neðansjávargos hafa orðið suðvestur af honum á sögulegum tíma (Jón Jónsson, 1967). Á yngstu hraunflóðunum eru hvergi sprungur né misgengi sýnileg sem virðist benda til þess að tektónískar hreyfingar á þessu svæði gerast með ákveðnu millibili. Þetta gæti einnig átt við eldvirknina. Ekki er almennt vitað hvaða kraftar eru að baki sprungunum og misgengjunum og er vafasamt að áætla að það sé einungis spenna í jarðskorpunni sem orsaki það (Jón Jónsson, 1967).
Það eru tvær gerðir af eldfjöllum á Reykjanesskaga, þ.e. dyngjur og gossprungur. Dyngjurnar eru eldri og hafa ekki gosið á sögulegum tíma, þ.e. síðan um 800 AD. Stærstu dyngjurnar eru Sandfellshæð og Langhóll. Þær hafa gosið gráu dólerít, ólivín basalti svipuðu og finnst á Miðnesi og á Vogastapa en þau mynduðust á hlýskeiði. Það er einnig mögulegt að dyngjurnar hafi byrjað sem gos á gossprungu því þær eru staðsettar á rekbelti. Það virðist jafnframt sem það hafi orðið breyting á eldvirkni á einhverju tímabili því dyngjur hættu að myndast og gos á sprungum tóku við. Nokkrar af gossprungunum hafa líklega verið virkar á sögulegum tíma eins og Eldvörp og Stampar. Gos á sprungum tengjast með beinum hætti plötuskilunum og sum staðar hefur hraunið einfaldlega runnið út án þess að mynda gíga. Þar sem kvikan storknar og hleðst upp í kringum gosopið þá kallast það eldvörp og við endurtekin gos kallast það eldfjöll. Til eru margs konar eldvörp en flokkun þeirra fer eftir lögun gosops, gerð gosefna, tala gosa og magn og hættir gossins.
Dyngjur myndast við flæðigos þegar þunnfljótandi kvika rennur stanslaust upp um kringlótt gosop mánuðum eða jafnvel árum saman en einnig er líklegt að þær myndist við síendurtekin gos. Hlíðarhalli er oftast minni en 8°. Efst í dyngjunni er gígketill með lágum gígrimum. Eins og áður segir þá er einnig mögulegt að dyngjugos hafi fyrst myndast á sprungu en svo hafi eldvirknin færst á einn stað er leið á gosið (Þorleifur Einarsson, 1968).
Stærsta dyngja innan Reykjaneseldstöðvarkerfisins er Sandfellshæð og er um 12500- 13500 ára gömul. Skálafell og Háleyjar eru yngri en þó forsögulegar. Ofan á Skálafelli er lítil eldborg. Þráinsskjaldardyngja er flöt og breið dyngja og er um 12500-13500 ára eins og Sandfellshæð (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Eldborgir myndast í þunnfljótandi gosum á kringlóttu gosopi í stuttum gosum án kvikustrókavirkni. Umhverfis gosopið hleðst svo upp gígveggur úr örþunnum hraunskánum eftir að það skvettist úr kvikutjörn upp á vegginn. Hraun rennur hinsvegar um göng neðarlega í gígveggnum og streymir langar leiðir undir hraunhellu eða í tröðum á yfirborðinu. Umkringis eldvarpið verður til flöt hraunbunga úr apal- eða helluhrauni. Eldborg undir Geitahlíð fyrir austan Krýsuvík er dæmigerð eldborg (Þorleifur ÞríhnúkarEinarsson, 1968). Þegar kvikustrókavirkni verður á sprungugosum þá hlaðast gjallrimar eða eldvörp upp á stangli yfir sprungurásinni og mynda gígaraðir. Ef það kemur upp þunnfljótandi kvika stöku sinnum með millibili án kvikustrókavirkni þá verða til eldborgarraðir eins og Eldvörp og Stampar á Reykjanestánni. Algengast er að kvikustrókavirkni eða þeytigos samfara hraunrennsli úr sprungum myndi gjall- og klepragígaraðir. Eldvörpin eru þá samvaxin eftir sprungunni eða með mislöngum millibilum. Einstakir gjall- og klepragígar verða til við blönduð gos á kringlóttum gosopum. Upp þeytast svo hraunklessur sem annað hvort hálfstorkna í loftinu og fletjast svo út þegar þeir lenda og mynda sambrædda klepragígveggi eða þeir fullstorkna og mynda gjallhrúgöld. Eldkeilur myndast hins vegar við síendurtekin gos á kringlóttu gosopi en með mislöngum hléum á milli. Þau eru hlaðin upp úr hraun- og gosmalarlögum til skiptis.
Erlendis eru eldkeilur algengastar allra eldfjalla en þær eru afar sjaldgæfar á Íslandi eða aðeins um þrjár talsins þ.e. Öræfajökull, Snæfellsjökull og Eyjafjallajökull. Efst á eldkeilu er stór gígur. Eldhryggir myndast þegar gos verður á sömu sprungunni oftar en einu sinni sem er frekar óvenjulegt. Þá myndast þeir eftir sprungustefnunni og strýtulaga þvert á hana. Þekktasti eldhryggurinn á Íslandi er Hekla (Þorleifur Einarsson, 1968).
HraunÖsku- og sprengigígar myndast í sprengi- og þeytigosum. Upp hlaðast nær eingöngu laus gosefni eins og vikur og aska eða eingöngu bergmolar. Á kringlóttu gosopið hlaðast upp fagurlagaðir öskugígar en við þeytigos á sprungum myndast öskugígaraðir. Í sprengigosum eru megingosefnin vatnsgufa og gosgufur. Gígkatlarnir verða oft mjög djúpir þannig að þeir ná niður fyrir grunnvatnið og myndast því vatn innan í gígnum. Gott dæmi um sprengigíg er Grænavatn í Krýsuvík. Eldstöðvar sem gjósa líparítösku eru sjaldgæfari en þær sem nefndar voru hér að framan. Líparítkvika er seigari og því hrúgast hún oft upp yfir gosrásinni og rennur lítið til þaðan. Þannig gos eru nefnd troðgos og í þeim myndast hraungúlar sem geta verið mjög stórir.
Troðgos verða á stuttum sprungum eða kringlóttum gosopum og verða hraungúlarnir því oftast nær hringlaga. Eldvörp mynduð við gos í sjó eru svipuð móbergsfjöllum og verða þau ýmist hrygg- eða keilulaga í samræmi við lögun gosopanna og hlíðarbrattinn um 20-35%. Þegar hraunbunga hefur svo myndast ofan á gosmalarbinginn þá verður eldvarpið mjög álíkt móbergsstapa (Þorleifur Einarsson, 1968).

Hraunakort (ATG)Hraun
Flest helluhraun á Reykjanesskaga eru frá fyrri hluta nútíma og eru flest komin frá dyngjum eins og Skálafell og Háleyjarbunga. Frá síðari hluta nútíma en fyrir landnám eru til dæmis Eldborg og Búrfell. Nokkur stór og viðamikil hraun hafa runnið á Reykjanesskaga eftir landnám.
Á meðan kristnitakan fór fram árið 1000 þá rann mikið hraun úr gossprungu á vestanverðri Hellisheiði og hefur það verið nefnt Kristnitökuhraun. Yst á Reykjanesi eru tvö hraun sem koma frá gígaröðunum Eldvörpum og Stömpum. Þau þekja stórt svæði milli Reykjanestár og Grindavíkur (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Ögmundarhraun vestan Krísuvíkur er frá 1151 og rann í svokölluðum Krísuvíkureldum (Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, 1991). Hraunið rann úr gígaröðum rétt austan undir Núpshlíðarhálsi og er samanlögð lengd þessara gíga um 5 km (Jón Jónsson, 1983). Í Krísuvíkureldum rann einnig Kapelluhraun, sunnan Hafnarfjarðar, sama ár og Ögmundarhraun. Þessi eldgosahrina er talin hafa komið úr Trölladyngjum og hefur henni lokið líklega árið 1188 með myndun Mávahlíðarhrauns (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991). Oftast hefur þó gosið í sjó undan HraunReykjanesskaganum á sögulegum tíma. Síðast gaus þar 1879. Aðalgoshrinan í Reykjaneseldstöðvar-kerfinu hófst sennilega í sjó árið 1211 og stóð til 1240 og nefnist hún Reykjaneseldar.
Yngra-Stampahraunið rann í Reykjaneseldunum og mynduðust þar tvær eldborgir sem nefnast Stampar Yngri (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Yngra Stampagosið hefur sennilega orðið á 12-13. öld. Sérstætt við þetta gos er að gossprunga þess lá bæði í sjó og á landi og eru þeir yngsta myndunin á Reykjanesi og gígaraðirnar standa á um 4,5 km langri gossprungunni (Magnús Á.Sigurgeirsson, 1995).
Stampar Eldri mynduðust í Eldra-Stampahrauni fyrir 1500-1800 árum. Það gos byrjaði sennilega í sjó (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldri Stampagígaröðin liggur til norðausturs og er mjög slitrótt vegna þess að hún kaffærist á stöku stað af Yngra Stampahrauninu. Skammt austan við Eldra Stampahraun er víðáttumesta hraun á Reykjanesi sem nefnist Tjaldstaðagjárhraun. Það er úr 1 km langri sprungu sem liggur í norðaustur í framhaldi af Stampagígaröðinni og er það aðeins yngra en Stampahraunið (Jón Jónsson, 1983). Um 1227 aðeins austar við Stampa Yngri gaus í gígaröðinni Eldvörp. Þaðan rann Eldvarparhraun (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldvarparhraunið er talið vera um 2100 ára gamalt (Jón  Jónsson,1983).
Elstu hrauninTrölladyngjueldstöðvar-kerfið hefur tvö háhitasvæði þ.e. Krísuvík og Trölladyngja. Dyngjur eru aðeins þrjár en tvær þeirra, sem eru jafnframt nafnlausar, hverfa í skuggann af Hrútagjárdyngjunni sem er stærst þeirra. Hún myndaðist fyrir um 5000 árum. Gjall- og klepragígar eru algengastu gígarnir innan kerfisins. Hjá suðvesturenda Sveifluhálsar eru sprengigígarnir Grænavatn og Gestsstaðarvatn ásamt Augum. Þar hefur verið snörp eldvirkni
með mikilli gufu og gastegundum. Í mörgum hraunkúlum við Grænavatn eru hnyðlingar úr gabbrói sem bendir til slíks innskots í berggrunninum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001) og gerir það svæðið afar merkilegt því gabbró hefur ekki fundist annars staðar á Suðvesturlandi. Grænavatn fékk nafnið sitt af græna litnum sem er tilkominn vegna brennisteinssambanda. Þetta vatn er meðal merkustu náttúrufyrirbrigða í sinni röð (Sigurður Þórarinsson, 1950).
Frægasta eldstöðin úr Trölladyngju er sennilega Eldborg sem reyndar er nú sundurgrafin. Í Brennisteinseldstöðvarkerfinu er Eldborg undir Geitahlíð en hún er stærsti gígurinn á þessari stuttu gossprungu sem gaus rétt fyrir landnám. Hún er djúpur og reisulegur gígur ásamt nokkrum minni. Nokkru sunnan við miðju kerfisins er að finna Brennisteinsfjöll sem draga nafn sitt af brennisteinsnámum sem þar voru á háhitasvæði sem hefur varma sinn frá innskotum í jarðskorpunni. Það eru þrjár dyngjur í kerfinu þ.e. Heiðin há við suðurenda MóbergBláfjalla og er langstærst með 3,6 km í þvermál og 516 metrar að hæð. Hún er sennilega um 7000-9000 ára. Hvirfill er dyngja frá síðasta frá síðasta jökulskeiði og Leitin er yngsta dyngjan og er um 4700 ára. Í Leitarhrauninu mynduðust Rauðhólar einnig. Fyrir um 2000 árum reið goshrina yfir Reykjanesskagann og myndaðist þá gígaröðin með Stórabolla og Eldborg við Drottningu (mynd 6) sem er einkar glæsileg eldborg og stendur hún við Bláfjallaveginn (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Í Hengilseldstöðvarkerfinu er að finna þrjár dyngjur frá fyrrihluta nútíma. Stærst þeirra er Selvogsheiði sem er úr ólivínþóleíti en hinar eru minni og kannski eldri og nefnast þær Búrfell við Hlíðarenda og Ásadyngjan hjá Breiðabólsstað og eru þær úr pikríti. Gossprungur frá nútíma ná frá Stóra-Meitli í suðri að Sandey í Þingvallavatni í norðri og kerfið er stærsta eldstöðvarkerfið á Reykjanesskaganum. Margir gjall- og klepragígar liggja á gossprungunum og eru goseiningarnar um 20 talsins. Stærsti gjallgígurinn er Eldborg undir Meitli en hún er um 2000 ára. Gossprungurnar í Hengilseldstöðvarkerfinu eru yfirleitt þó ekki afkastamiklar (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Samkvæmt Jóni Jónssyni (1983) þá hefur gosið á Reykjanesskaga allt að 12-13 sinnum frá því að landnám hófst en eins og áður segir þá hefur oftast gosið í sjó (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).

Lokaorð
Reykjanesskagi er afar merkilegur jarðfræðilega, sögulega og náttúrufarslega séð.
• Þar má finna flestar gerðir eldfjalla, mörk Evrasíu- og Norður Ameríkuflekanna, háhitasvæði, sögulegar minjar
og fjögur eldstöðvarkerfi.
• Þar hafa orðið tvö gosskeið á síðustu tvö þúsund árum þar sem hvert stóð í um fjórar aldir og með þúsund ára hléi á milli. Oftast hefur þó gosið í sjó.
• Náttúrufar á Reykjanesskaga er afar viðkvæmt og jarðvegur sérstaklega opinn fyrir rofi sem, meðal annarra þátta, má mögulega rekja til mikillar beitar á svæðinu áður fyrr. Svæðið er einnig einkar opið fyrir vindi. Verndun svæðisins er því einkar mikilvægt málefni sem krefst brýnnar úrlausnar sem fyrst. Það er víst að á Reykjanesskaga myndi eldfjallagarður sóma sér vel og varla annað svæði sem myndi henta betur til þess þótt víða væri leitað. Á Reykjanesskaga má finna flestar tegundir eldfjalla og einstakt tækifæri til þess að skoða myndun og mótun hafshryggja á landi, ásamt því að hann er nálægt þéttbýlasta svæði landsins, sem gerir hann tilvalinn kost til frekari náttúruverndar og útivistarmöguleika. Eldvirknin með þessum stóru háhitasvæðum gerir hann jafnframt að eftirsóknarverðum kosti fyrir jarðhitavirkjanir. En það er stór og ekki síður mikilvæg spurning, hvor kosturinn sé meira virði, þegar til lengri tíma er litið.“

Heimildir:
Andrés Arnalds (1987). Ecosystem disturbance and recovery in Iceland. Arctic and Alpine Research, 19, 508-513.
Ari Trausti Guðmundsson (2001). Íslenskar eldstöðvar. Reykjavík: Vaka-Helgafell.
Ármann Höskuldsson, Richard Hey, Einar Kjartansson & Gunnar B. Guðmundsson (2007). The Reykjanesæ
Ridge between 63°10’N and Iceland. Journal of Geodynamics, 43, bls 73-86.
Fleicher, U. (1974). The Reykjanes Ridge – A Summary of Geophysical Data. Í Kristjansson, L. (ritstj.),
Geodynamics of Iceland and the North Atlantic Area (bls. 17-32). Dordrecht: D. Reidel Publishing
Company.
Guðrún Gísladóttir (1998). Environmental Characterisation and Change in Southwestern Iceland. Doktorsritgerð, Stockholm University, Stockholm.
Jón Jónsson (1967). The rift zone and the Reykjanes peninsula. Í Sveinbjörn Björnsson (ritstj.), Iceland and
mid-oceanic ridges (bls. 142-150). Reykjavík: Prentsmiðjan Leiftur h.f.
Jón Jónsson (1978). Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – I. Skýringar við jarðfræðikort. II. Jarðfræðikort (Rit
Orkustofnunnar – Jarðhitadeild. OS JHD 7831). Reykjavík: Orkustofnun.
Jón Jónsson (1983). Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Náttúrufræðingurinn, 52(1-4), 127-
139.
Landvernd (2007). Reykjanesskagi – Framtíðarsýn Landverndar um eldfjallagarð. Skoðað 8. apríl 2007 á
http://www.landvernd.is/flokkar.asp?flokkur=1776

Strýthólahraun.

Eftirfarandi er megininntak erindis, sem einn FERLIRsfélaganna flutti á opinni ráðstefnu Landverndar um þá framtíðarsýn að Reykjanesskagi verði eldfjallagarður og Handritfólkvangur. Ráðstefnan var haldin í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju 24. febr. 2007:

Reykjanesskaginn geymir miklar náttúru- og mannvistarminjar – mikil verðmæti. Með sanni má segja að á svæðinu megi sjá minjar um svo til alla búsetu- og atvinnusögu þess frá upphafi landnáms hér á landi.
Skaginn – hið forna landnám Ingólfs – er vestan línu sem dregin er frá  Botni að Ölfusrárósum.
Á þessu svæði búa nú, árið 2007, um 207.000 manns. Það skapar bæði möguleika í verulegra góðri nýtingu, en einnig þörf á yfirveguðum varnaraðgerðum.
Hópur fólks, FERLIR, hefur endurkannað landnámið markvisst og skipulega í nokkur ár, leitað uppi minjar, skoðað, myndað og skráð þær.
“Reykjanesskaginn er alger auð“ og þar er ekkert merkilegt að sjá”. Þetta má sjá í ferðabók fyrr á öldum. Segja má að viðhorfið hafi lítið breyst  – hjá mörgum.
Það sem flest fólk sér á ferð sinni um svæðið eru þjóðvegir og háspennumöstur – og kannski hraun og stöku fjall.
Svæðinu hefur verið raskað, oft að óþörfu og stundum án tilskilinna leyfa.
Margar hinna merkilegu mannvistaleifa eru vanræktar (Kapellan á Hraunssandi).
StakkavíkurselAðrar hafa verið skemmdar án nokkurrar skynsamlegrar hugsunar.
Svæðið hefur fjöldamargar mannvistaminjar að geyma. Segja má að hvar sem stigið er niður fæti megi sjá ummerki eftir forfeður og –mæður.
Minjarnar eru engu ómerkilegri en hin fornu handrit. Þau eru skráð í leður. Bæði letur og skinnin eru mannanna verk. Það eru aðrar minjar líka. Þær eru úr efni, sem fólkið nýtti sér, efni sem landið gaf af sér, mest grjót, torf og timbur. Úr því má enn lesa sögu fólksins, hagi þess og aðstæður á hverjum tíma. Engum dytti í hug að rífa blað úr fornu handriti. Með því hyrfi hluti sögunnar.
Fortíðin skiptir máli. Minjarnar eru áþreifanleg tengsl okkar við fortíðina.
Með sanni má segja að gömul hús eru bæði minnismerki um fortíðina og arfleifð fortíðar, einkum kirkjurnar.
Af sömu hvötum hefur verið reynt að gera upp gömul hús í upprunalegri mynd.
En uppruninn, algerlega ósnertur, liggur víðar. Áþreifanleiki hans felst í minjunum, sem víða leynast.
Í minjunum felast mikil verðmæti, bæði umhverfisleg og söguleg. Náttúruminjar gleðja augað, fylla okkur stollti á landinu okkar og skapa atvinnu. Mannvistaminjar eru áþreifanleg tengsl okkar við fortíðina.
Án fortíðar er framtíðin lítils virði.

Álftanes

Álftanes – varðskýli í Camp Brighton.