Tag Archive for: Reykjanesskagi

Gvendarhellir

Hitti Grindvíking á N-1 í morgun. Bauð honum að venju upp á ókeypis kaffi. Settumst niður í „Heita pottinn“ og spjölluðum um allt og ekkert. Hann virtist svartsýnn á ástandið í bænum og nágrenni en varð loks sammála um að framtíð Grindavíkur væri bara verulega björt – til langrar framtíðar litið.

Ferlir

Ferlir – fyrsta myndin. Þátttakandi við öllu búinn – fyrirhuguð ganga á Helgafell; spáð var rigningu, yfir á að fara, slæmu skyggni í hellum á leiðinni og takmörkuðu súrefni á efstu hæðum.

Hann: „Heyrðu, ég hef alltaf af og til verið að fylgjast með vefsíðunni ykkar; ferlir.is. Hún er alveg frábær, ótrúlega mikill fróðleikur saman kominn um tiltekið landssvæði. Upplýsingarnar koma mér alltaf jafn mikið á óvart – bæta til muna við fyrrum vitneskjuna. Þið fjallið um minjar, náttúrufyrirbæri, sagnir, sögur og birtið viðtöl við fólk, sem hefur frá ýmsu markverðu að segja frá fyrri tíð. Það hlítur að liggja mikil vinna þarna að baki; að leita uppi heimildir, tala við heimafólk, fara á vettvang og skoða aðstæður og uppgötva svona margar áður óþekktar fornleifar. Bara talandi um selstöðurnar. Mér hefði aldrei dottið í hug að þær væru svo margar sem ykkur hefur tekist að skrá á ekki stærra svæði. Hvernig hafið þið farið þið að þessu?, að ekki sé talað um alla vinnuna við að stofna og reka síðuna öll þessi ár frá degi til dags.“
Gaman var að sjá að einhver skuli vera eins meðvitaður um viðvangsefnið og raun bar vitni.

Ég: „Markmiðið í upphafi var að fá samstarfsfólkið í rannsóknarhluta lögreglunnar í Reykjavík til að breyta bæði um umhverfi og viðfangsefni a.m.k. einu sinni í viku, þ.e. um helgar, með hreyfingu í huga.

Bessastaðir

FERLIRsfélagar með staðarhaldara Bessastaða.

Þetta fólk á mikið lof skilið. Það lagði á sig mikla ánægjulega vinnu. Leitin að bæði þekktum og óþekktum minjum eða minjasvæðum var tálbeitan. Eftir að hafa gengið markvisst um Reykjanesskagann í áratug og safnað upplýsingum var ákveðið að koma gögnunum á stafrænt form, gert öllu áhugasömu fólki um landssvæðið aðgengilegt. Þau lýsa m.a. ágætlega við hvaða aðstæður og hvaða kost forfeður og – mæður bjuggu við hé ráður fyrr. Vefurinn hefur síðan þrisvar sinnum gengið í gegnum endurnýjun lífdaga vegna krafna um tæknilegar uppfærslur. Sérhver slík hefur í framhaldinu bæði kostað álitlega fjármuni og auk þess kostað einn mann a.m.k. árs vinnu við að aðlaga og uppfæra gamlar skrár að nýjum og bæði tengja þær gömlum myndum, sem jafnan hafa farið forgörðum, og endurnýja aðrar.“

Ferlir

Í hellinum Ferlir í Brennisteinsfjöllum.

Hann: „Þetta er nú svolítið sérstakt í ljósi nýjustu umræðu sérfræðinga í fjölmiðlum um mikilvægi hreyfingar og útivistar á lýðheilsu almennings. Þið virðist, a.m.k. á þeim tíma, hafa verið svolítið á undan ykkar samtíð?“
Ég: „Við vorum á undan öðrum hvað varðaði tilgang og nýtingu hreyfingarinnar í þágu annars en hreyfingarinnar einnar vegna sem slíkrar. Áður höfðu t.d. Ferðafélagið og Útivist boðið upp á dagsgönguferðir, en til gangurinn var fyrst og fremst að fara frá A-B með formötuðum fróðleik. Þátttakendur þeirra félaga þurftu að greiða fyrir leiðsögnina, en í okkar tilvikum var hún að mestu ókeypis, auk þess sem öðru áhuga- eða átthagafólki, sem vildi taka þátt í „leitinni“, var frjálst að slást í hópinn. Í því áhugasama fólki fólust mikil áður óþekkt verðmæti. Áherslan var m.a. lögð á að grennslast fyrir um lifnaðarhætti fólksins okkar fyrrum. Vitneskja um fortíðina nýtist jú nútímafólki ágætlega – ef vel er skyggnst.

FERLIR

FERLIR – elsta vefsíðan.

Hef tekið eftir því undanfarið að yngri „sérfæðingar“ hafa birst í fjölmiðlum og talið sig hafa fundið lausnina á að viðhalda lýðheilsu landsmanna. Hún er, að þeirra sögn, fólgin í hreyfingu og útivist, sem eru jú reyndar bæði gömul sannindi og ný.“
Hann: „Var að spá. Þið hafið komið óhemjumiklum upplýsingum á framfæri, að ógleymdum öllum uppdráttunum af einstökum stöðum og svæðum. Hefur hann nýst öðru en áhugasömu fólki, t.d. opinberum aðilum, á einhvern hátt og hvernig ætlið þið eiginlega að viðhalda öllum fróðleiknum. Ef vefsíðan hverfur einn góðan veðurdag, eða jafnvel vondan, munu vissulega mikil verðmæti glatast.“

Ferlir

Ferlir – jólakort frá Dóru Hlín, einum Ferlisfélaganum árið 2000.

Ég: „Fróðleikurinn hefur fyrst og fremst verið gerður fyrir áhugasama einstaklinga. Uppdrættir af minjum og minjastöðum fylla heilans skáp. Margir þeirra hafa verið birtir með umfjöllunum á vefsíðunni. Við höfum jú sent opinberum stofnunum upplýsingar þegar einhvers staðar stefnir í óefni, t.d. við opinberar framkvæmdir, en höfum skynjað að lítill áhugi hefur verið þar innan dyra á slíkum ábendingum „áhugafólks“. FEERLIs félagar bentu t.d. á sínum tíma á fyrirhugaða eyðileggingu verktaka á vörslugarðinum í Tóum í Afstaðahrauni. Framkvæmdir voru, sem betur fer, stöðvaðar samstundis. Í ljós kom að eftirlitslaus verktakinn var kominn langt út fyrir heimilt framkvæmdarsvæði.

Tóustígur

Vinnuvélar komnar fast af fornum garði í Neðstu-Tóu.

Í dag stendur garðurinn enn við hinn forna Tóustíg á þeim slóðum.
Beinlínis vegna áhugaleysis hins opinbera hafa fornleifar því miður verið látnar fara forgörðum. Má þar nefna fornleifar að Úlfarsá í Úlfarsárdal, fjárskjól í Dalnum í Hafnarfirði og brennisteinsnámutóftir undir Baðstofu í Krýsuvík. Í tilviki fjárskjólsins létu yfirvöld hjá líðast, því miður – að viðhafast nokkuð án nokkurra viðurlaga eða áminninga þrátt fyrir augljóst tilefni. Í tilviki Krýsuvíkur létu yfirvöld hjá líðast að skrá fornleifar á fyrirhuguðu framkvæmdarsvæðinu, með tilheyrandi afleiðingum. Ljóst er að framangreindu að einhver í þágu hins opinbera er ekki að vinna vinnuna sína.“

Grænavatnseggjar

FERLIRsfélagar í Grænavatnseggjum.

Héldum samtalinu áfram um stund – um nánast allt og ekkert, sem ekki verður fjölyrt um hér.
Hann: „Þetta er alveg ótrúlegur fróðleikur, eins og ég sagði. Eigið þið eftir við einhverju að bæta.“
Ég: „Já, reyndar. Að baki vinnu undanfarinna áratuga liggja fyrir hnitaskrár yfir allar skráðar fornleifar og náttúruminjar á Reykjanesskaganum, hvort sem um er t.d. að ræða, sel og selstöður, selstíga, brunna, fjárborgir, flugvélaflök, fornar þjóðleiðir, greni, hella og fjárskjól, letursteina, refagildrur, fjárréttir, skotbyrgi, sæluhús, vörður, bæði nafngreindar, með vísan í konungsútskurði eða við fornar leiðir, og aðrar tóftir á Reykjanesskaganum, svo eitthvað sé nefnt.

Skipsstígur

Skipsstígur – endurbættur skv. „nútíma“ kröfum á tímum hestvagnsins.

Við eigum bara eftir að finna út hvernig er hentugast að birta slík uppsöfnuð verðmæti almenningi til handa. Reynsla okkar er því miður sú að sumir skráningaraðilar fornleifa virðast nýta sér upplýsingarnar á vefsíðunni án þess að geta þeirra í heimildum sínum. Það er ólíðandi. Svo virðist sem sumir fornleifafræðingar virðast haldnir einhverri minniháttarkennd, þ.e. eru feimnir við að tala við og/eða vitna í heimildir og uppgötvanir áhugafólks. Sjálf höfum við reyndar tekið þátt í einstökum fornleifaskráningum, án þess að þiggja fyrir það greiðslur, sem jafnan hafa reynst þær bestu er þekkjast.“
Hann: „Var að spá. Hafið þið einhvern tíma fengið einhverja viðurkenningu fyrir framlagið?“

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Ég: „Já, vissulega. Daglega berast jákvæðir póstar frá einstaklingum á ferlir@ferlir.is er innifela þakklæti fyrir efnið, auk fjölda spurninga, s.s. um tilfallandi hnit á einstaka staði. Höfum ávallt svarað slíkum fyrirspurnum samdægurs. Höfum hins vegar aldrei fengið slíka pósta frá opinberum aðilum. Sum sveitarfélög á Reykjanesskaga hafa þó verið okkur hliðholl og styrkt okkur með smáupphæðum ár hvert, sem og einstakir notendur. Styrkirnir hafa hjálpað okkur til að viðhalda síhækkandi hýsingarkostnaði.
Hvert sem við höfum leitað hefur okkur ávallt verið vel tekið. Fólk hefur haft samband við okkur vegna upplýsinga eða heimilda, sem það hefur búið yfir frá forfeðrum sínum og sýnt okkur gögn er beinlínist stangast á við aðrar yfirlýstar sem slíkar.
Heimsóknir á vefsíðuna er u.þ.b. ein milljón á ári hverju.“

Ferlir

FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd.

Hann: „Þið eigið skilið riddarakross fyrir framlag ykkar. Ég er stoltur af því, að þú Grindvíkingurinn, skuli vera í forsvari fyrir þessu stórmerkilega verkefni. Þakka þér og þínum.“
Ég. „Myndi afþakka krossinn þann fyrir okkar hönd. Hann er einungis pjátur forsetaembættisins í anda forláta danska konungsveldisins og á ekkert skylt við uppeldislífsviðhorf okkar Íslendinga um aldir.“
Samtalið var nú truflað af öðrum nýkomnum í „Heita pottinn“. Sá hafði meiri áhuga á enn einu væntanlegu eldgosinu ofan Grindavíkur á næstu dögum…

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, með drög að jarðfræðikorti Reykjanesskagans í FERLIRsferð undir Festisfjalli/Lyngfelli.

 

 

Reykjanesskagi

Margir virðast hafa mikinn áhuga á Reykjanesskaganum, enda úr fjölmörgu að velja.

Eldborg

Víða má sjá raskaðar jarðmyndanir – Eldborg undir Trölladyngju.

Á meðan sumir njóta þess að ganga um svæðið og skoða smáatriðin hafa aðrir gaman að því að aka um það og njóta útsýnisins.
Fá landsvæði bjóða upp á fjölbreyttari möguleika til útivistar. Ef benda ætti á einn tiltekinn stað öðrum fremri væri úr vandi að velja. Landssvæðið í heild er svo stórbrotið og fallegt; sjá má myndunina og jarðsöguna hvar sem á það er litið, menningarsagan er við hvert fótmál og ófáir staðir eru til sem ekki tengast þjóðtrú og sögulegum atburðum. Í rauninni er sá staðurinn fallegastur þar sem þú ert staddur hverju sinni. Allt umfram það er einungis myndbreyting í allri fegurðinni.
Í elstu heimildum segir að fyrst hafi land verið numið á Reykjanesskaganum, en svo er landssvæðið nú jafnan nefnt er þá spannaði landnám Ingólfs Arnarssonar.

Jarðhiti er óvíða meiri

Jarðhiti er óvíða meiri en á Reykjanesskaga.

Minjar frá fyrri tíð eru víðar en fólk grunar, jafnvel heilstæð búsetusvæði. Garðar eru enn víða heillegir, götur grópaðar í berghelluna og hlaðnar réttir eða fjárborgir skipta hundruðum. Brunnar voru svo til við hvern bæ og sjást fjölmargir þeirra enn. Verbúðir og mannvirki þeim tengdum eru víða við ströndina og ef vel er að gáð má sjá hlaðin skjól og sæluhús við gamlar þjóðleiðir. Til marks um verðmætin í minjunum einum má auk þess nefna að enn má sjá leifar um 250 selja á landssvæðinu. Þá eru víða vörður, sem hlaðnar hafa verið til marks um söguleg atvik, minningar um fólk er varð úti á ferðum sínum eða til leiðsagnar og tilvísunar. Auk þessa má nefna hina fjölmörgu hella á svæðinu. Sumir þeirra geyma mannvistarleifar.

Mannvistarleifar í helli

Mannvistarleifar í Húshelli við Hrútagjárdyngju.

Mikilvægt er að efla enn frekar áhuga fleirri á möguleikum Reykjanesskagans. Áður þarf þó að huga að ýmsu; sveitarstjórnarfólk þarf að sammælast um að eyða engu að óathuguðu máli er skipt getur máli í framangreindu samhengi, íbúarnir sjálfir þurfa að verða meðvitaðir um möguleikana og tala um þá með jákvæðum formerkjum, áhugafólk með þekkingu á svæðinu þarf að ýta undir áhuga annarra og fagfólk, ekki síst í minjavörslunni, þarf að beina athygli sínu að svæðinu í mun meira mæli en það hefur gert hingað til. Þá er gildi aukinnar samvinnu ferðaþjónustuaðila á svæðinu í heild aldrei ofmetin.
Það fólk, sem hefur aflað sér mikillar vitneskju um svæðið, skoðað það lengi, leitað uppi vettvang er lýst hefur verið eða sagt frá í ræðu og riti, uppgötvað annað áður óþekkt, fengið tækifæri til að setja hluti í samhengi eða sýna fram á rangildi, þarf að vera meðvitað um mótunaráhrif sín. Hér vegur jákvæðnin þyngst á vogarskálunum. Sem dæmi má taka örnefni.

Atvinnusagan

Atvinnusagan sögð í Saltfisksetrinu í Grindavík.

Gamalt fólk býr yfir mikilli þekkingu á þessum þætti og felast í upplýsingum þess mikil verðmæti. Vitað er þó að örnefni hafa breyst frá einum tíma til annars og til eru þeir staðir, sem fólk þekkir undir fleiru en einu nafni. Þá hafa örnefni færst á milli, t.d. hæða og hóla. Stundum bregst fólk, sem telur sig búa yfir mikilli eða staðbundinni þekkingu, illa við upplýsingum um annað en það sjálft telur hið eina og rétta. Oft hefur þurft að verja lengri tíma í að leiðrétta slíkt fólk og færa rök fyrir hinu gagnstæða en að svara fyrirspurnum þess er minni vitneskju á að hafa, öllu jöfnu.
Mikið hefur breyst á skömmum tíma og margt færst til betri vegar í framangreindum efnum. Enn sem fyrr er sérstaklega mikilvægt að allir hlutaðeigandi samhæfi sig í að efla upplýsingamiðlun, auðvelda aðgengi og hvetji aðra til að nýta sér hina stórkostlegu möguleika Reykjanesskagans til útivistar.
Líklegt má telja að við lok goshrinunnar liðinna missera ofan Grindavíkur sem og í dölum Fagradalsfjalls muni ásókn ferðafólks aukast til mikilla muna að svæðinu. Mikilvægt er að huga að því framtíðarverkefni i tíma svo náttúruverðmætum verði ekki raskað að óþörfu til lengri framtíðar litið. 

Eldvörp

Eldvörp – gígur.

Sól og skuggar

FERLIR fékk senda eftirfarandi frásögn skömmu eftir áramót 2012-2013:

„Ég sendi lýsingu á ótrúlegri, stórkostlegri ljósadýrð á svæðinu á milli Þorbjarnar og Þórðarfells föstudaginn 14. desember 2012.

geimur-3Það var föstudaginn 14. desember 2012 sem ég var staddur á Grundartanga í Hvalfirði í ákaflega góðu veðri, landið skartaði sínu fegursta með sólina í aðalhlutverki, birtan sérstök, sólin lagt á lofti sem setti sérstakan litblæ á landið og magnaði upp gil og skorninga með skuggavarpi.

Það var svo þegar klukkuna vantaði um það bil 15 mínútur í fjögur þegar ég var á leið til höfuðborgarinnar nýkominn á þjóðveginn að framundan eru tvö sterk ljós í fjarska, í stefnu á höfuðborgarsvæðið,  þó greinilega ekki frá Reykjavík, heldur nokkru hærra og fjær að sjá úr Hvalfirðinum. Ljósamagnið var svo mikið að þau voru líkust stórum þorpum, þar sem ég vissi fyrir að á þessu svæði sem ljósin birtust væri engin mannabyggð, var ég að velta fyrir mér hvar þetta gæti verið. Það sem var ljóst var að ljósin sáust á milli fellanna Þorbjörns og Þórðarfells, en þau sjást ágætlega og eru vel þekkjanleg úr Hvalfirði.

geimur-5Á örstuttum tíma breytist ljósadýrðin, þannig ljósið sem er nær Þórðarfelli myndar nokkurskonar hyllingar og þá er eins og stórt skemtiferðaskip birtist, varir þetta ljós í mjög stuttan tíma, og skyndilega hverfa þessi ljós, en nú  sést hvað er að gerast, sólin hverfur loks á bakvið landslagið, og þá er eins og hvítar ljósaseríur logi á landslaginu sem stendur hæst milli fellanna. Þegar betur er að gáð, eru það gígar í Eldvörpum sem sólin lýsti svo fallega upp, og menn horfðu á og hrifust af alla leið ofan úr Hvalfirði.

Reykjanesskagi

Eldgos á Reykjanesskaga.

Þennan dag sá ég fallegust jólaljós sem ég hef séð.

Ég sendi þér þessa lýsingu, vegna þess að mér þykir hún svo sérstök, og hún lýsir landslagi á Reykjanesskaga, sem hefur áhrif  á fólk í mikilli fjarlægð, jafnvel þó landslagið sé ekki hátt yfir sjávarmáli.
Þá vill ég að lýsingin geymist, en gleymist ekki.

Það er sjálfsagt að birta þessa lýsingu, enda skrifaði ég hana niður til að festa þessa minningu í sessi. Því miður var ég ekki með myndavél meðferðis, en ef hún hefði verið til staðar hefði ég stoppað og tekið eins mikið af myndum og ég hefði getað.“

Takk fyrir mig;
Eyjólfur Guðmundsson.

Reykjanesskagi

Eldgos og norðurljós ofan Grindavíkur.

Seltún

Ólafur Grímur Björnsson skrifaði um ferðir Sir George Mackenzie um Reykjanesskagann og nágrenni árið 1810 í Náttúrufræðinginn 2007:

Mackanzie

Mackanzie – málverkið eftir Sir Henry Raeburn.

„Skotinn Sir George Steuart Mackenzie (1780-1848), 7. barónett af Coul, kom til Íslands 1810 ásamt félögum sínum, Henry Holland (1788-1873), nýútskrifuðum lækni frá Edinborgarháskóla, Richard Bright (1789-1858), en hann var þá nýbyrjaður í læknisfræðinámi þar, og Ólafi Loftssyni, sem numið hafði læknisfræði hjá Tómasi Klog landlækni. Ólafur hafði verið læknir á Suðureyjum (The Hebrides) og meginlandi Skotlands og síðan haldið áfram læknisnámi í Edinborg. Hann var í senn túlkur og leiðsögumaður í ferðinni, en stundum höfðu þeir að auki aðra innlenda fylgdarmenn.
Erindið var að ferðast um Ísland, kynnast landi og þjóð og þó sérstaklega jarðfræði landsins eða eins og Sir George orðaði það, ferðin „… was undertaken chiefly in consequence of the geological theories which agitated the learned in Edinburgh at the time, and with the hope of my being able, by observations made in a volcanic country, to settle some of the points in dispute“.

Seltún

Málverk í bókinni af hverunum í Seltúni í Krýsuvík.

Hér átti Mackenzie við deilur neptúnista og plútónista um myndun yfirborðs jarðar. Neptúnistar héldu því fram að yfirborðsbergiðværi botnfall úr sjó (setlagakenningin) og voru þeir ýmist nefndir eftir sjávarguðinum Neptúnusi eða Werneristar eftir upphafsmanni kermingarinnar, Þjóðverjanum Abraham Gottlob Werner (1750-1817).

Aðrir töldu að bergið væri mótað af eldi sem brotist hefði út á yfirborði jarðar (eldmótunarkenningin). Þeir voru kallaðir plútonistar eftir guði undirheima, en einnig Huttonistar eftir Skotanum James Hutton (1722-1797) sem hélt fram kenningunni og hafði búið í Edinborg á þessum tíma.
Til Íslands fengu félagarnir far frá Straumnesi í Orkneyjum 25. apríl með skipinu Elbe og komu til Reykjavíkur 7. maí. Þeir dvöldu á landinu til 19. ágúst, höfðu aðsetur í Reykjavík (1. mynd) og fóru þrjár meiriháttar könnunarferðir þaðan.
Henry Holland hélt dagbók um ferðirnar.
KrýsuvíkFyrst var Reykjanesskagi kannaður. Lagt var af stað gangandi frá Reykjavík til Hafnarfjarðar 21. maí. Frá Hafnarfirði brugðu þeir sér af leið og heimsóttu Bessastaði. Þá lá leiðin til Helgafells að skoða helli, en svo seinir voru þeir fyrir að gista varð í tjaldi við Kaldá. Þaðan fóru þeir til Krýsuvíkur þar sem hverasvæðið var athugað og sýni tekin, en hverirnir voru það merkilegasta sem þeir höfðu þá séð í ferðinni. Næst var haldið til Grindavíkur og þaðan til Keflavíkur. Þeir slepptu Reykjanesi vegna veðurs en ætlunin hafði verið að skoða hveri þar líka. Til baka gengu þeir um Vatnsleysuströnd og Hvassahraun til Reykjavíkur, því hesta notuðu þeir ekki í þessari ferð nema undir farangur (2. mynd).
MackenzieNæsti leiðangur var um Vesturland. Þann 15. júní lögðu þeir af stað sjóleiðina upp á Kjalarnes en hestar voru sendir landleiðina. Riðið var inn Hvalfjörð en á móts við Saurbæ létu þeir ferja sig yfir fjörðinn. Á Innra-Hólmi var gist í þrjár nætur hjá Magnúsi Stephensen, gengið á Akrafjall og safnað sýnum. Til Borgarfjarðar fóru þeir um Skarðsheiði og gistu á Hvanneyri.
Áfram héldu þeir vestur á Mýrar og Snæfellsnes; gististaðir voru á Svignaskarði, Staðarhrauni, Rauðamel, Miklaholti og Staðarstað og vöndust þeir á að gista í kirkjum, komust svo að Búðum. Hjá Stapa fóru þeir yfir Kambsheiði til Ólafsvíkur. Holland, Bright og Ólafur gengu á Snæfellsjökul ásamt tveimur fylgdarmönnum, en komust ekki á hæsta hnjúkinn.

Richard Bright

Richard Bright.

Leiðangurinn hélt svo för sinni áfram og fylgdi norðurströnd Snæfellsness til Stykkishólms, en í Stykkishólmi voru fyrirmenn, faktorinn Bogi Benedictsen og læknirinn Oddur Hjaltalín. Holland ræddi lengi á latínu við kollega sinn Odd og sagði hann vera vel að sér í læknisfræði.” Áfram héldu þeir og söfnuðu plöntu- og steinasýnum og þar á meðal sýnum úr Drápuhlíðarfjalli.
Þeir áttu náttstað í kirkjum á Narfeyri og í Snóksdal og fóru þaðan um Bröttubrekku í Hvamm í Norðurárdal og gistu í kirkjunni. Leiðin lá að Síðumúla, en yfir Hvítá komust þeir ekki fyrr en niður við Hvítárbakka og héldu þá til Hvanneyrar. Þeir hittu Stefán Stephensen amtmann, sem Holland hældi umfram bróður hans, etasráðið á Innra-Hólmi. Holland og Mackenzie fóru í Reykholt og skoðuðu hveri, en mest dáðust þeir að Deildartunguhver í bakaleiðinni, stærð hans og hegðun.
Næst var að halda aftur að Innra Hólmi, en þar geymdu þeir steinasafn sitt úr Akrafjalli, og sjóleiðina fóru þeir til Reykjavíkur og höfðu verið mánuð í burtu.

Henry Holland

Henry Holland.

Þriðja og síðasta ferðin var um Suðurland. Hópurinn komst af stað til Þingvalla 24. júlí, fór í Skálholt og að Geysi og Heklu og gekk á fjallið.
Lengst komust þeir austur að Hlíðarenda í Fljótshlíð. Þar á hjáleigu, Nikulásarhúsum, bjuggu foreldrar Ólafs, Loftur Ámundason hreppstjóri og Ingibjörg Ólafsdóttir. Nú fréttu þeir að skipið sem þeir ætluðu með væri væntanlegt bráðlega til Reykjavíkur, og þeir hröðuðu sér í Odda, fóru á Sandhólaferju yfir Þjórsá til Eyrarbakka, um Þrengslin til Reykjavíkur og náðu í tæka tíð briggskipinu Floru, sem flutti Bretana til Skotlands. Þorvaldur Thoroddsen hefur ritað um jarðfræðilegan árangur þessarar ferðar í Landfræðissögn sinni.
Um Íslandsferðina sömdu Mackenzie, Holland og Bright ritið Travels in the Island of lceland during the Summer of the Year MDCCCX, gefið út og prentað í Edinborg árið 1811 (október). Þessi bók er xvii + 491 bls. í stóru broti (quarto), myndskreytt af höfundum og sumar myndanna eru í lit. Aftast er samanbrotið kort af þeim hluta Íslands sem þeir ferðuðust um og sýnir ferðaleiðir þeirra. Sir George ritaði ferðalýsinguna en studdist við dagbækur Hollands. Einnig ritaði hann um steinafræði, landbúnað og verslun Íslendinga.

Reykjavík 1810

Mynd af Reykjavík 1810 í bókinni.

Henry Holland er höfundur kaflans um sögu og bókmenntir þjóðarinnar, skólahald og menntun í landinu, lög og stjórnmál, trú og sjúkdóma. Í bókinni er kafli sem Richard Bright samdi um dýra- og grasafræði Íslands og þar er líka registur um íslenskar jurtir eftir náttúrufræðinginn William Jackson Hooker og veðurathugunartöflur.
Bókin er vandað verk og var dýr (kostaði 2 pund, 12 shillinga og 6 pence eintakið), en samt seldist hún upp á 6 mánuðum og var strax gefin út aftur í Edinborg 1812 (apríl), allnokkuð endurskoðuð. Vinsamlegur ritdómur birtist þá (1812) í Edinburgh Review og langur úrdráttur og ritdómur í Dansk Litteratur Tidende sama ár. Enn endurskoðaðri og stytt útgáfa, tveggja dálka, prentuð með smáu letri án mynda, kom út í Edinborg 1842 og nefndist ritið þá aðeins Travels in Iceland. Það var síðan endurprentað þar árið 1851.

Seltún

Mynd frá hverasvæðinu í Seltúni í bókinni.

Sir Henry Raeburn (1756-1823) var líklegast þekktasti portrettmálari Skotlands á sínum tíma, kallaður „the Scottish Reynolds“. Það málverk sem hér um ræðir málaði Sir Henry á árunum 1811-1813, að því er talið er, en áður hafði hann málað aðalsmanninn á unglingsaldri, eða um 1795. Málverkið sem hér er kynnt var á sýningu Royal Academy 1813 og var meðal verka á sýningu helgaðri Raeburn árið 1876. Síðast var það sýnt 1997 hjá Lane Fine Art í London.
George Steuart Mackenzie var einkasonur Sir Alexanders MacKenzie, 6. barónetts af Coul, og Katharine (f. Ramsay). George tók við barónett-titli að föður sínum látnum árið 1796. Sir George er líklegast þekktastur fyrir að hafa sýnt fram á að demantar eru úr kolefni, og segir sagan að þá hafi hann brennt gimsteina móður sinnar í tilraunaskyni.

Mackenzie

Mynd af Íslendingum í bókinni.

Sir George var kosinn félagi í Royal Society í Edinborg, yngstur allra sem teknir hafa verið í það félag (hann var einnig félagi í Royal Society í London eins og áður var nefnt). Hann tók þátt í samkeppni 1839-1840 um gerð fyrsta frímerkisins og ritaði meðal margs annars um landbúnað í héruðunum Ross og Cromarty. Hann var sannfærður um að Skosku hálöndin væru betur sett með sauðfé en án þess. Sir George Steuart Mackenzie, Bart, var tvíkvæntur; fyrri eiginkona hans var Mary (McLeod, d. 1835) og eignuðust þau sjö syni og þrjár dætur. Seinni kona hans var Katharine (Jardine) og með henni átti hann einn son. Sir George lét byggja ættarsetrið Coul House, sem stendur enn.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 1. tbl. 2007, Ólafur Grímur Björnsson, Sir George Steuart Mackenzie, Bart, bls. 41-49.

Mackenzie

Kort í bókinni af ferðum Mackenzie og félaga 1810.

Reykjavegur

Michal, göngumaður og gestur hér á landi frá Nýja-Sjálandi, skrifaði ágæta „gönguskýrslu“ árið 2017 um Reykjaveginn, sem hann nefndi „Lengstu merktu gönguleiðina á Íslandi„.

Á vefsíðunni segir hann í inngangsorðum: „Ég er Michal – sporgöngumaður og hægfara ljósmyndari. Ég skrifa aðeins um staðina sem ég hef komið á og búnaðinn sem ég prófaði í langan tíma„.

Reykjavegur

Reykjavegur – vegstika.

Frásögn Michals er á ensku, en hér er gerð tilraun til yfirfæra hana yfir á íslensku, m.a með hjálp „Google translate“, reyndar með enskuskotnum meðfylgjandi innslögum.

Staðreyndir um gönguleiðina;

Vegalengd 127 km frá Þingvöllum. (114 km frá Nesjavöllum)
Áætlaður tími 6-7 dagar.

Reykjavegur er 127 km löng ganga um Reykjanesskagann, Suðvesturland. Þrátt fyrir að Reykjavík sé í nágrenninu þá laðar hún að sér fátt göngufólk. Við hittum engan alla 7 dagana og það var byrjun ágúst, í hámarki göngutímabils. Miðað við gestabók í skálanum Múlaseli reikna ég með að hægt sé að telja árlega fjölda göngumanna í þessari göngu á fingrum þínum.

Reykjavegur

Reykjavegur – fornfáleg hnitun.

Þetta er hugsanlega lengsta merkta gönguleiðin á Íslandi þó svo að merkingargæði séu mjög mismunandi. Hún fer að mestu í gegnum eldfjallalandslag fullt af víðáttumiklum hraunbreiðum þakin mosa og undarlega löguðum vikurmyndunum með einstaka grasbletti. Það er engin aðstaða og fyrir utan einn aðgengilegan kofa þarftu að tjalda alla leiðina.

Í framhaldinu eru leiðarlýsingar á einstökum áföngum vegarins.

Yfirlit yfir gönguleiðina, sem skiptist í 7 áfanga:

1) Nesjavellir – Múlasel (11 km) – https://hikingisgood.com/reykjavegur-stage-1-nesjavellir-mulasel/
2) Múlasel – Bláfjallaskáli (31 km) – https://hikingisgood.com/reykjavegur-stage-2-mulasel-blafjallaskali/
3) Bláfjallaskáli – Kaldársel (16 km) – https://hikingisgood.com/reykjavegur-stage-3-blafjallaskali-kaldarsel/
4) Kaldársel – Djúpavatn (19 km) – https://hikingisgood.com/reykjavegur-stage-4-kaldarsel-djupavatn/
5) Djúpavatn – Brattháls (14 km) – https://hikingisgood.com/reykjavegur-stage-5-djupavatn-bratthals/
6) Brattháls – Grindavík (13 km) – https://hikingisgood.com/reykjavegur-stage-6-djupavatn-grindavik/
7) Grindavík – Reykjanesviti (23 km) – https://hikingisgood.com/reykjavegur-stage-7-grindavik-reykjanesviti/

Reykjavegur

Reykjavegur vestanverður.

Þú getur gengið í hvora áttina sem er. Fyrir mér er skynsamlegra í vesturátt. Í sumum upplýsingagáttum geturðu fundið að leiðin er 114 km löng. Ég held að þessi tala stafi af því að ekki er talið með langan slóð eftir þjóðveginum í áfanga 2 milli Sleggjubeinsdals og Lambafells. Þess vegna, ef þú ert í gegnum gönguferðir, verða það 127 km fyrir þig.

Fyrir hressan göngumann ætti ekki að vera vandamál að gera það á innan við 7 dögum. Ég get aðeins mælt með því að ýta aðeins upp á þeim hlutum þar sem engar náttúrulegar vatnslindir eru. Mér finnst skilvirkara að bera minna vatn og fara hratt yfir þurra hluta, því það hægir á mér ekki að bera margra lítra vatnsbrúsa.

Að komast inn og út

Reykjavegur

Reykjavegur við Nesjavelli.

Okkur tókst að komast á slóðina að byrjun slóðarinnar (Nesjavellir) frá Reykjavík. Ef þú ert áhugasamur um gönguferðir þá er merkt leið alla leið frá Þingvallavatni. Það ætti að vera auðvelt að komast þangað. Það er stundum kallað „áfangi 8 á Reykjavegi“. Þú þarft dag til að ganga þann áfanga.

Frá leiðarenda, Reykjanesvita, er auðvelt að komast að og frá vitanum.

Leiðsögn
Gönguleiðin er merkt með bláodda tréstöngum en merkingargæði eru mismunandi frá frábærum til engin á köflum. Ég gat ekki fundið nein hentug GPS hnit og stundum, í gönguferðinni, var ég í erfiðleikum með að finna slóðina.

Reykjavegur

Reykjavegur – Paddy Dillon.

Til er bók Walking and Trekking in Iceland eftir Paddy Dillon. Ég mæli eindregið með því að þú fáir þér eintak af því. Paddy lýsir hverju stigi mjög nákvæmlega og það hjálpaði mér oft að forðast frá því að villast.

Ef þú vilt ekki fá bókina, þá er kort sem ég hef búið til þar sem ég setti leiðarpunkta með mikilvægum hlutum eins og vatnsbólum, vegvísum og gatnamótum (við vorum hissa að átta okkur á því að það voru margar gönguleiðir með mismunandi leiðarmerkjum sem skárust hvert annað og tvöfaldaðist út um allt. Svo virtist sem fleiri en einn hópur átti frumkvæði að því að merkja nokkrar slóðir en þessir hópar virðast ekki hafa verið í samskiptum sín á milli. Þetta er örugglega ekki tæmandi listi yfir alla mikilvægu staðina en ég vona að það gæti samt verið gagnlegt fyrir aðra göngufólk.

Matur & vatn

Djúpavatn

Djúpavatn.

Fyrir utan fyrsta áfanga frá Nesjavöllum að Múlaseli er skortur á náttúrulegum vatnsbólum. Það er þó hægt að sigrast á því með vandlegri skipulagningu (athugaðu kortið mitt!). Ég hef reynt að hafa allar vatnslindirnar með á leiðinni fyrir utan áfanga 1. Fyrsta daginn er nóg af vatni alls staðar svo þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því.

Það eru stöku tjörn á leiðinni en vatnið þarf að meðhöndla þar sem það er fullt af leðju og sundskordýrum.

Grindavík

Grindavík – Í dag, 2024, er nauðsynlegt að beygja af leiðinni, annað hvort til suðurs eða norðurs til að forðast nýrunnin hraun síðustu missera.

Hægt er að kaupa mat í Grindavík í lok 6. áfanga. Það er aðeins nokkra kílómetra krókaleið. Brautin liggur yfir Hringveginn á stigi 2 og minni vegi síðar þar sem einnig er hægt að komast í nálægan bæ til að endurnýja framboð ef þörf krefur. Við tókum mat fyrir alla gönguleiðina en endurnýtuðum samt í Grindavík fyrir ferskum ávöxtum og góðgæti.

Búnaður
Sérstaklega fyrir þessa slóð ættir þú að hafa góðan gæðabúnað. Jafnvel þótt það sé tiltölulega byggt svæði hittirðu sjaldan neinn annan á gönguleiðinni. Það er enn Ísland með ófyrirsjáanlegum veðurbreytingum og grófu eldfjallasvæði.

Reykjavegur

Reykjavegur – búnaður.

Hiti var nálægt 0 gráðum á nóttunni (skíðasvæðið í Bláfjallaskála, 500m á hæð) til mjög heitt síðdegis þegar ég var í stuttermabolum og ég svitnaði. Vatnsheldur jakki og buxur eru nauðsynlegar. Húfa, trefil og hanskar koma sér líka vel.

Burtséð frá venjulegum búnaði myndi ég sérstaklega mæla með því að taka góða, harðgerða göngustígvél. Það er falleg upplifun að ganga um hraun en fyrir stígvélin þín er þetta mjög erfitt starf. Ég var í fallegu Meindl Iceland stígvélunum mínum en ég held að þeim líki ekki við mig lengur. Hraun gat verið skörp eins og gler og greyið stígvélin mín á endanum litu út eins og Edward Scissorhands æfði sig í að reima á þau.

Mín tilfinning

Reykjavegur

Reykjavegur vestan Þorbjarnarfells.

Það er djúp reynsla fyrir hvern göngumann að ganga viku yfir hraunbreiður. Ég hef aldrei á ævinni séð eins mikið hraun og þessa sjö daga þó ég hafi búið á Nýja Sjálandi og eytt síðasta vetur á Tenerife á Kanaríeyjum. Skortur á vatni, aðstöðu og merkingum gerir gönguleiðina aðeins erfiðari fyrir meðalgöngufólk en vandað skipulag getur gert þessar hindranir minni.

Ef þú ert að koma til Íslands í eina eða tvær vikur, þá er ég alveg viss um að það séu fleiri spennandi svæði til að ganga á eins og Austfirðina eða Laugavegsleiðina. En ef þú hefur áhuga á jarðfræði og eldfjöllum, eða þú vilt njóta sköpunar þegar þú finnur út hvert þú átt að fara, þá er þetta leiðin fyrir þig.“

Heimild:
-https://hikingisgood.com/reykjavegur-trail-hiking-report/

Reykjavegur

Reykjavegur – Hnitaskráning Michals af vestanverðum Reykjavegi sem og að hluta hans að austanverðu.

Brimketill

Nokkrir svonefndir „brimkatlar“ eru við strandir Reykjanesskagans, misstórir þó. Þeir eru flestir við ströndina undir bjargbrúnum, s.s. Herdísarvíkurbergi, Krýsuvíkurbergi og Staðarbergi.  Einnig eru dæmi er um slíka katla neðan hraunstanda, s.s. neðan Skollahrauns, en sá er hinn stærsti á Skaganum.

Brimketill

Brimketill – Oddnýjarlaug.

Brimketillinn í sjávarklettunum vestast í Staðarbergi utan við Grindavík er sennilega sá margumtalaðisti. Hann, líkt og aðrir bræður hans, hefur myndast í stöðugum öldugangi þegar brimið lemur bergið. Basaltbergið er misfast fyrir, ýmist sem hraunmulningur, berghella eða þéttar hraunrásir. Þar sem sjórinn mætir þeim síðastnefndu á hann erfiðara um vik að vinna á þéttu berginu. Við það myndast framangreindir tímabundnir „katlar“, ekki ólíkt og skessukatlar í móbergi. Í báðum tilvikum leika steinar lykilhlutverkin í samvinnu við vindinn í tilviki skessukatlanna og sjóinn í tilfelli brimkatlanna.

Brimketill

Brimketill. Hart bergið umhverfis.

Hafið hefur mikil áhrif á landmótun á Reykjanesi. Með því að fylgjast með brimi skella á klettunum má sjá þann kraft sem býr í Norður-Atlantshafinu. Aldan vinnur á föstu berginu með því að þrýsta þétt saman lofti í rifum og sprungum. Við útsogið dregur sjórinn loftið með sér. Þá verður til undirþrýstingur. Þannig brýtur hafið upp hraunhelluna smám saman. Við bætist svo rof vegna bergbrota þegar aldan skellur með ofurkrafti á sjávarkletta og laust grjót og þeytir hvorutveggja upp í loft. Þar sem lausara hraunhrap er fyrir myndast sjávarhellar. Þegar þung aldan steypist inn í rásirnar myndast mikill þrýstingur með þeim afleiðingum að „þakið“ innst gefur sig. Þegar það gerist myndast nokkurs konar „strandgeysir“ þar sem aldan nær að spýjast upp innan á ströndinni með tilheyrandi strókamyndun.

Brimketill

Brimketill vestast á Staðarbergi. Hér má sjá takmarkað gagn af brúnni. Annar, minni ketill sést hægra megin við enda brúarinnar, sem virðist ná athygli ferðamanna umfram „Ketilinn“ sjálfan.

Hraunið umhverfis framangreindan Brimketil er gróft, sprungið og með háum úfnum jöðrum og yfirborði. Líklega hefur það runnið í Reykjaneseldum á árunum 1210-1240.

Brimketill

Brimketillinn vestan við brúarpallinn.

Um Brimketilinn austan Grindavíkur er til þjóðsaga. Laugin sú arna mun áður hafa heitið Oddnýjarlaug. Þjóðsaga segir frá nátttröllinu Oddnýju sem bjó í Háleyjabungu, rétt vestan við Brimketil, ásamt Hróari manni sínum og syni þeirra Sölva. Eina nóttina fór hún út að Ræningjaskeri rétt austan við Brimketil til að ná í hvalhræ sem hafði rekið að landi. Í bakaleiðinni hvíldi hún sig og baðaði í Brimkatli. Þegar hún hélt loks heim á leið komst hún ekki langt þar sem sólin kom upp um það leyti. Varð hún því að steini og sást þarna lengi sem hár bergdrangur, allt þar til sjórinn braut hann smám saman niður. Brimketill hefur því einnig verið nefndur Oddnýjarlaug í höfuð á nátttröllinu.

Ísólfsskáli

Kvennagöngubásar – brimketill.

Nú hefur metnaðarfull göngubrú verið handeruð í átt að Brimkatli, en smíðin sú virðist misheppnuð. Í fyrsta lagi fæst ekki nægileg yfirsýn yfir Brimketilinn frá enda brúarinnar. Brúarendinn hefði þurt að ná lengra út til austurs. Í öðru lagi er annar minni brimketill vestan við miðja brúnna. Fjölmargir ferðamenn, sem heimsækja staðinn telja að þar sé hinn eiginlegi „Brimketill“ því þeir ná aldrei sjónhendingu að þeim eina og sanna.

Kvennagöngubásar

Kvennagöngubásar – brimketill.

Austan Ísólfsskála er tilkomumesti brimketillinn á Reykjaneskaganum. Hann er á svonefndum „Kvennagöngubásum“. Básar eru nefndir svo austan við Rangargjögur; Skálabásar, Kirkjubásar og Kvennagöngubásar allt þangað til komið er að Hraunsnesi. Þar austan við er Mölvík.

Þegar Ísólfur Guðmundsson á Ísólfsskála var spurður árið 1983 um tilefni nafnsins Kvennagöngubásar svaraði hann: „Þar var kvenfólk sagt baða sig“. Að öllum líkindum hefur Ísólfur haft í huga þekktu þjóðsöguna um Oddnýjarlaugina vestar á ströndinni.

Kvennagöngubásar

Kvennagöngubásar – brimketill.

Hið réttara er að Básunum austan við Ísólfsskála var skipt upp á milli bæjarins og kirkjustaða, sem fyrrum voru að hluta til eigendur jarðarinnar. Þannig átti Kálfatjörn um tíma rekaítök í Skálalandi, í svonefndum Kirkjubásum, líkt og Garðakirkja átti rekaítök í Kirkjubásum í Krýsuvíkurlandi austan Bersenda. Rekinn skipti hlutaðeigandi miklu máli í þá daga, líkt og kveðið er á um Jónsbók og fleiri gildandi lögbókum. Kvaðir voru á jarðeigendum af kirkjujarðanna hálfu að sinna reka sínum til jafns við þá. Þannig þurfti bóndinn á Ísólfsskála að þjóna presti Kálfatjarnarsóknar og fylgast með rekanum. Kvenfólkinu á Skála var ekki ætlað það hlutverk að ganga rekann lengra en að Kvennagöngubásum, enda þótt Skálabóndi ætti allan reka frá þeim að Dágon á Seltatöngum, en þangað var öðrum ekki ætlað gangandi en karlmönnum.

Brimketillinn í Kvennagöngubásum er hinn tilkomumesti og þangað hafa meðlimir Sjósundsfélaga farið til að njóta hinna tilkomumiklu náttúrulegu aðstæðna.

Hraunið umhverfis Kvennagöngubása er talið hafa runnið um 1151 en Staðarbergshraunið vestan Grindavíkur er talið hafa runnið um 1221.

Ó.

Kvennagöngubásar

Kvennagöngubásar – brimketill. Festarfjall, Fiskidalsfjall og Húsafell fjær.

Jón Jónsson

Vélritað og síðan ljósritað rit Jóns Jónssonar frá árinu 1978, útgefið af Orskustofnun, „Jarðfræðikort af Reykjanesskaga„, er tvískipt. Annars vegar eru skýringar við jarðfræðikort, 303 bls., og hins vegar sjálf jarðfræðikortin.

Jón Jónsson

Jón Jónsson, jarðfræðingur.

Hér verður gerður úrdráttur og samantekt skýringanna. Í formála segir: „Í skýrslu þessari er dreginn saman árangur af rannsóknum sem spanna yfir 18 ára skeið. Frá því dragast að vísu tvö ár þegar höfundur dvaldist í El Salvador og Nicaragua. Eins og vikið er að í skýrslunni var lengi um alger íhlaupaverk að ræða.

Kortlagningin er að mínu mati þýðingarmesti hluti þess verks og hef ég við hana notið aðstoðar einkum tveggja manna, sem hafa hreinteiknað kortin. Eru það þeir Sigmundur Einarsson og Jón Eiríksson.

Á sá fyrrnefndi þar langdrýgstan þátt og hefur auk þess aðstoðað við endurskoðun margra athugana í landslaginu, gert jarðlagasnið og teiknað sérkortin öll og fl. o.fl.

Engum getur það verið ljósara en mér að ýmislegt vantar í þessa skýrslu, sem æskilegt hefði verið að taka þar með en ég lít hana fyrst og fremst sem grundvöll fyrir nákvæmari rannsóknir í framtíðinni og sem slík ætti hún, og umfram allt kortið, að hafa sitt gildi. – Reykjavík í maí 1978, Jón Jónsson.“

Reykjanesskagi – nafnið

Jón Jónsson

Jón Jónsson – kortayfirlit af Reykjanesskaga.

„Það svæði, sem hér er nefnt Reykjanesskagi, er í stórum dráttum vestan við línu, sem hugast dregin því sem næst úr botni Kollafjarðar til Þorlákshafnar. Nokkuð hefur verið á reiki um nafn þessa svæðis, en nafnið kemur fyrst fyrir, það ég veit, í Svarfaðardalsannál frá 1695. Oft er skaginn í heild nefndur Reykjanes og svo telur Sveinn Pálsson (1945, bls. 659) að hann heiti réttu nafni.

Hins vegar telja aðrir, að það nafn gildi aðeins fyrir vestasta tanga nessins og þá nánast um svæðið milli Stóru-Sandvíkur að norðvestan og Sandvíkur austan við Háleyjabungu sunnan á nesinu.

Jón Jónsson

Jón Jónsson – Reykjanes.

Allra vestasti tanginn er þá til áréttingar nefndur Reykjanestá. Þannig er þetta á korti herforingjaráðsins í mælikvarða 1: 50000 frá árin 1908, og flestum ygri kortum. Þorvaldur Thoroddsen (1958) notaði nafnið Reykjanesskagi um svipað svæði og hér er gert, en tiltekur ekki austurmörk svæðisins. nafnið Reykjanes kemur hins vegar snemma fyrir og þá oft í mjög afskræmdri mynd eins og t.d. á korti L. Benedicts frá 1568, þar sem það er nefnt Robenes (Thoroddsen 1902).

Um upprunna nafnsins er óþarft að fjölyrða. Það er án efa dregið af hverasvæðinu vestast á nesinu og er ekki ólíklegt að sjómenn hafi verið fyrstir til að nota það. Þingavallaskaga er getið í fornri heimild og gæti með því verið átt við Reykjanesskaga, en ekki er það ljóst.

Ekki er mér kunnugt um, að nema tveir höfundar hafi notað nafnið Suðurkjálkinn um þetta svæði, en það er Bjarni Sæmundsson (1936) og Guðmundur Kjartansson (1943). Bjarni telur það nafn oftast notað „manna á milli þar syðra“ og mun þá átt við Grindavík og Hafnir.

Kortlagning

Íslandskort

Íslandskort Guðbrandar Þorlákssonar 1590. Um eða eftir 1580 komst Ortelíus í samband við danskan mann, Anders Sörensen Vedel, sem fengizt hafði við kortagerð og sitthvað fleira. Vedel hafði fengið frá Guðbrandi biskupi Þorlákssyni kort af íslandi, og gerði nú eftirmynd af því fyrir Ortelíus. Ekki er kunnugt um nánari atvik þessara skipta, — nema hvað ýmislegt bendir til, að Otelíus hafði ekki fengið frumteikningu biskups og lík-lega ekki vitað, hvaðan Vedel fékk upplýsingar og fyrirmynd sína. Hefði hinn hollenzki meist ari án efa getið biskups, ef hann hefði þekkt alla málavöxtu. í þess stað fékk Vedel heiður af kortinu og var það tileinkað Friðriki konungi II.

Reykjanesskagi í heild komst að því er virðist fyrst á kort, sem gefið er út af A. Ortelíus í hans Additamentum IV Teatri orbis Terrarum 1590 (Nörlund 1944) og er þar mjög afbakaður. Á því virðist hins vegar ekki leika vafi, að kort það sé í raun réttri frá hendi Guðbrands Þorlákssonar biskups á Hólum (1542-1627), en ekki sýnist ljóst hvenær það var gert. Á yngri kortum fær svo Reykjanesskagi að vera með, meira eða minna afbakaður allt þar til Björn Gunnlaugsson mælir Skagann á tímabilinu 30. júní til 30. ágúst 1831. Mælingar hans voru grundvallaðar á strandmælingum þeim, er gerðar voru á árunum 1801-1819. Með mælingum Björns fæst fyrst að mestu rétt mynd af Reykjanesskaga í heild. Fyrta vísi að sérkorti yfir umrætt svæði verður líklega ða telja kort Magnúsar Arasonar frá 1721-22, (Nörlund 1944), en erfitt er að þekkja skagann á því korti. Á kortlagningu skagans verða svo ekki umbætur fyrr en Björn Gunnlaugsson kemur til skjalanna eins og áður er getið.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – Reykjanesskagi 1932.

Björn mun hafa gengið á flest fjöll á Reykjanesskaga, og er hann vafalaust fyrsti maður, sem fær gott yfirlit yfir landafræði skagans. Því miður virðist Björn ekki hafa skrifað neina dagbók aðra en mælingadagbók á ferðum sínu og er því ekki vitað hverjar aðrar athuganir en mælingarnar hann kann að hafa gert.

Aðrar rannsóknir á Reykjanesskaga

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen – Íslandskort 1906.

Telja verður rannsóknir þeirra Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar á árunum 1752-1757 fyrstu skipulögðu rannsóknir á náttúru Íslands í heild og ferðabók þeirra (1766, 1943) fyrsta nokkurn veginn alhliða heildaryfirlit yfir land og þjóð. Hvað jarðfræðinni víkur við eru athuganir og upplýsingar þeirra félaga þó harla sundurleitar sem von er til þar eð jarðfræðin var á þeim tíma á stigi frumbernsku. Hvað varðar Reykjanesskaga eru athuganir þeirra af skornum skammti og varða, það sem að jarðfræði lýtur, einkum eldgos, sem orðið hafa, eða sem talið er að hafi orðið frá landnámstíð og fram til þeirra daga. Er þar vitnað til skráðra heimilda í sögum eða annálum og til sagna, sem lifðu meðal fólks.

Jón Jónsson

Jón Jónsson – Lambafell; Kristnitökuhraun.

Sem fyrsta gos á sögulegum tíma nefna þeir gosið, sem getið er um í Kristnisögu (1946) að orðið hafi árið 1000 og talið að hafi verið á því svæði, sem nú gengur undir nafninu Hellisheiði og hefur lengi verið haft fyrir satt að svo væri. Síðar verður sýnt fram á að hér er málum blandað. Einnig geta þei um gos í Trölladyngjum, sem talið er að orðið hafi 1340 og er í annálum sagt að hraun frá því gosi hafi runnið ofan í Selvog. Thoroddsen (1958, 1925) hefur bent á þetta fái ekki staðist eins og raunar allir, sem kunnugir eru staðháttum hljóta að sjá. Af orðalagi Ferðabókarinnar er raunar ljóst að Trölladyngju-nafnið hefur ekki verið bundið við það fjall eitt, sem nú bera það nafn. Í Ferðabókinni segir svo: „Trölladyngjur – kaldes et af sammenstaaende Bjærge, norden til paa kaldes Undirhlíðar“. Ekki er auðgert að heimfæra þetta upp á það fjall, sem nú teitir Trölladyngja, enda bæta þeir við neðar á sömu blaðsíðu: „Det synes ogsaa, at man har udstrakt detta Navn til flere Bjærge her í Nærverelsen“. Með þessu móti verður frásögn annálsins skiljanleg. Verður nánar vikið að þessu síðar.

Trölladyngja

Trölladyngja, Sogaselsgígur nær.

Trölladyngja á Reykjanesi er ekki eldfjall í venjulegum skilningi heldur móbergsfjall, en gosið hefur oftar en einu sinni við það eins og síðar verður sgat frá. Annað það, er varðar jarðfræði Reykjaneskaga, rúmast í frásögn þeirra félaga á tæpum 2 blaðsíðum. Sveinn Pálsson (1762-1840) virðist ekki hafa gert verulegar athuganir á þessu landsvæði og frá hans hendi er til aðeins stutt og ekki alls kostar fögur lýsing á Gullbringusýslu og greinarkorn um 4 bls., nefnt Reykjanesför 1796 í ferðabók hans.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll.

Sá Íslendingur, sem næst kemur við sögu rannsókna á Reykjanesskaga, er Jónas Hallgrímsson (1807-1845). rannsóknir hans ná einkum til nágrennis Reykjavíkur og Krýsuvíkursvæðisins, en á síðarnefnda svæðinu dvaldi hann ásamt Japetus Streemstrup í átta daga vorið 1840 og munu rannsóknir þeirra þar aðallega verið í sambandi viðbrennisteinsnám og því beinst mjög að hverasvæðunum. Einnig skoðuðu þeir félagar Brennisteinsfjöll og Lönguhlíð, og það sama ár kemur nafnið Brennisteinsfjöll fyrst fyrir í skráðum heimildum.

Olavíus

Olavíus – Krýsvíkurnámur.

Þess má geta hér að um miðja 19. öld gerði Jón Hjaltalín (1807-1882) landlæknir ýmsar athuganir á Reykjanesskaga einkum hvað varða brennisteinsnámur og hveri og er frá því greint í ritgerð, er hann reit í Ný Félagsrit (XI 1851) og einnig eru ýmar upplýsingar að þessu lútandi að finna í bréfum frá honum til Jóns Sigurðssonar, og eru þau prentuð í sama riti (XII 1852).

Þorvaldur Thoroddsen (1858-1921) ferðaðist um Reykjanesskaga um þriggja mánaða skeið sumarið 1883 og hefur lýst jarðmyndunum þar nokkuð ítarlega í reitgerð í Geologiska foreningens förhandlinger (GFF í Stockholm 1884, Geografisk Tidskrift í Kaupmannahöfn 1903, í Lýsingu Íslands 1911, í „Island, Grundriss der Geografhie und Geologie“ 1905-1906 og í Ferðabík 1913-1915, og loks einnig í „Geschichte der Isländischen Vulkane“ 1926, sem kom út að honum látnum.

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen – Íslandskort 1901.

Auk þess er jarðfræði Reykjanesskagans gerð skil á jarðfræðikorti hans yfir Ísland (1901) í mælikvarða 1:60000 og á öðru jarðfræðikorti, sem fylgir riti hans „Ísland, Grundriss der Geographie und Geologie“.

Guðmundur G. Bárðarson (1880-1933) tekur fyrstur manna til við nákvæma jarðfræðilega kortlagningu Reykjanesskaga í heild, en fékk því miður ekki lokið því verki. Sen undirlag notaði hann kort herforingjaráðsins frá 1908. Sonur Guðmundar, Dr. Finnur, hefur sýnt mér þá velvild að leyfa mér að athuga drög þau að jarðfræðikorti, sem til er frá hendi Guðmundar og geymt er í Náttúrufræðistofnun Íslands, og jafnframt lánað mér til yfirlestrar dagbækur þær, sem hann til eru um ferðir og rannsóknir hans á þessu svæði.

Guðmundur Kjartansson

Guðmundur Kjartansson (1909-1972).

Þorkell Þorkelsson (1867-1961) verður að teljast „Grand Old Man“ íslenskra jarðhitarannsókna, því hann er fyrstur manna hér á landi til að taka jarðhita fyrir sem sérstakt rannsóknarefni, og raunar er hann í fararbroddi hvað snertir þó leitað sé út fyrir Ísland.

Jarðfræðikort Guðmundar Kjartanssonar yfir Suðvesturland kom út 1960 og er það hið nákvæmasta jarðfræðikort yfir svæðið í heild, það sem ennþá er til.

Tómas Tryggvason (1917-1965) er fyrsti Íslendingurinn með sérmenntun í bergfræði. Það er því eðlilegt að hann yrði fyrstu til að rannsaka og rita um gabbró hnyðlinga, sem fundist höfðu við Grænavatn í Krýsuvík.

Erlendir vísindamenn og rannsóknir þeirra á Reykjanesskaga

Gaimard

Gaimard – Hafnarfjörður 1834.

Á fyrri hluta 19. aldar taka ýmsir erlendi vísindamenn að leggja leiðir sínar til Íslands með rannsóknir á náttúru landsins fyrir augum. Meðal þeirra er allmargir, sem einkum hafa helgað sig jarðfræðirannsóknum eða rannsóknum í tengslum við jarðfræði. Talsvert er ritað um Ísland á þessu tímabili og margt af því er á sinn hátt merkilegt, en mikið er aðeins landlýsingar skrifaðar í ferðasöguformi.

Árið 1835 komu hingað til lands tveir franskir vísindamenn, þeir Paul Gaimard og Eugene Robert. Það varð til þess að þeir komu hingað aftur næsta ár og þá sem þátttakendur í leiðangri miklum, sem var undir stjórn Paul Gaimard.

MacKensie

MacKenszie – kort 1810.

Þremur árum síðar sendi ríkisstjórn Danmerkur (og Íslands) hingað til lands tvo danska jarðfræðinga, þá Japetus Streenstrup og J.C. Schythe, og dvöldu þeir hér 1839-1840. Með Streenstrup starfaði um tíma Jónas Hallgrímsson eins og áður er sagt.

Árið 1945 komu hingað þýskir vísindamenn, Sartoríus von Walterhausen og R.W. Bunsen. G.S. Mackenzie (1810) ferðaðist hér um og safnaði talsverðu efni varðandi jarðfræði landsins. Hann reit bók um ferð sína og hefur hún náð verulegri útbreiðslu og orðið til þess að vekja áhuga manna erlendis fyrir landi og þjóð.

Theodor Kjerulf

Theodor Kjerulf (1825-1888).

Norski jarðfræðingurinn og skáldið Theodor Kjerulf (1853) dvaldi hér á landi 1850 og skrifaði a.m.k. þrjár greinar um jarðfræði landsins og eru þær fyrir ýmsa hluti merkilegar. Geta má þess að þjóðberjar tveir, W. Preyer og R. Zirkel, ferðuðust jér á landi 1860, en ekki verður séð að þeir hafi gert nema fáeinar jarðfræðilegar athuganir á Reykjanesskaga og aðallega skoðað brennisteinsnámurnar í Krýsuvík. Sama ár dvaldi hér á landi nokkurn tíma skoskur efnafræðingur, W.L. Lindsay, og gerði ýmsar efnafræðilegar rannsóknir á hveravatni og útfellingum við hveri, m.a. við Þvottalaugarnar í Reykjavík og við hverina í Krýsuvík.

C.W. Paijkull (1866), sænskur jarðfræðingur, ferðaðist hér á landi 1865 og gerði af því öllu jarðfræðikort, sem að sjálfsögðu er afar ófullkomið, en er að því er ég best veit hið fyrsta í sinni röð. J.K. Johnstrup prófessor í bergfræði við háskólann í Kaupmannahöfn var sendur af stjórninni til Íslands (1871) til að athuga hér brennisteinsnámur, sem bretar höfðu sýnt áhuga á.

C.W. Paijkull

C.W. Paijkull – jarðfræðikort 1865.

Hann skoðaði m.a. Krýsuvíkurnámur, en mér er ekki kunnugt um að nokkuð hafi hann ritað um athuganir sínar. Með honum var sá maður, er síðar varð mikilvirkastur allra fyrr og síðar hvað varðar rannsóknir í landafræði og jarðfræði Íslands, Þorvaldur Thoroddsen, sem þá var stúdent í Kaupmannahöfn.

Mauric von Komorowicz (1912) rannsakaði sérstaklega Rauðhóla við Elliðavatn 1997 og gerði af þeim nákvæmt kort. Rit hans, sem kom út 1912, er frábærlega vel myndskreytt og frágengið. Uppdrátt gerði hann af Búrfellsgjá og Búrfelli, sem hann að hætti Þorvaldar Thoroddsen nefnir Garðahraunsstíg. Hans Reck (1910) hefur ferðast talsvert um Reykjanesskaga og gert ýmsar athuganir þar. Hann hefur skoðað gígaraðirnar Stampa yst á Reykjanesi og lýst hluta gígaraðarinnar allvel. Karl Sapper (1866-1945) er einn af öndvegismönnum eldfjallafræðinnar fyrr og síðar, og ótrúlega mikilvirku á því sviði. Hér á landi ferðaðist hann 1906.

Rauðhólar

Komorowicz – Rauðhólar 1912.

Rannsóknir Sappers snérust aðallega um Eldgjá og Eldborgaraðirnar á Síðuafrétti. Þýskur jarðfræðingur, Konrad Keilhack (1925), gerði jarðfræðikort af Reykjavík og nágrenni 1924 og reit jarðfræðilega lýsingu á því svæði. Mun kort hans vera fyrsta nokkurn veginn nákvæma jarðfræðikortið, sem til er af einum landshluta hér á landi og miklu nákvæmara en eldri kort.

Sama ár og Keilhack var hér einnig enskur leiðangur við jarðfræðirannsóknir. Voru það þeir G.W. Tyrell og Martin A. Peacock. Gerði sá síðarnefndu nákvæmt jarðfræðikort af Viðey.

Jón Jónsson

Jón Jónsson – Brennisteinsfjöll.

Á árunum 1934 og 1937 rannsakaði norskur jarðfræðingur, Tom R.W. Barth, síðar prófessor í Osló og víðar, íslensk jarðhitasvæði og safnaði upplýsingum um þau af öllu landinu. Sumurin 1935 og 1936 dvaldi svissneskur jarðfræðingur, R.A. Sonder (1941), hér á landi við rannsóknir, einkum á jarðhita og brotalínusvæðum landsins.

Árið 1943 kom út í Bratislava ritgerð eftir M.F. Kuthan nefnd „Die Oszillation, der Vulkanismus und die Tektonik von Reykjavik“. Ritgerð þessi er 74 bls. með 22 myndum og stóru jarðfræðikorti.

Tveir frakkar koma hér og lítillega við sögu, þeir P. Bout (1953) og P. Biays (1956), en mest af því, sem í bókum þeirra er, hefur verið til annara sótt, einkum Guðmundar Kjartanssonar og Guðmundar G. Bárðarsonar. Í heild er lítið á ritum þessum að græða ern góðar myndir eru í báðum.

Rannsóknir höfundar

Jón Jónsson

Jón Jónsson – Krýsuvík.

Snemma sumar 1960 var hafist handa um nákvæma jarðfræðilega kortlagningu í Krýsuvík og nágrenni. Frumkvæði að þessu átti Dr. Gunnar Böðvarsson þáverandi forstöðumaður jarðhitadeildar, en djúpboranir í Krýsuvík voru þá í undirbúningi. Korlagt var fysrt svæðið suður af Kleifarvatni og suðurhluti Sveifluháls. Starfið sóttist seint, m.a. vegan þess að ekkert farartæki var að staðaldri til um umráða, en notast var við þær ferðir, sem féllust. Kom fyrir að fara varð fótgangdi af vinnustað til hafnarfjarðar ap loknu dagsverki. Af séstökum ástæðum voru teknar fyrir rannsóknir á jarðhitasvæðinu vestast á reykjanesi og umhverfi þess sumarið 1963.
Árangurinn af þeim rannsóknum kom einkum fram í jarðfræðikorti, sem náði yfir vestasta hluta Reykjanesskaga og gefið var út af Vermi s/f. Það nær vestan frá sjó, austur að Stað í Grindavík og lúitið eitt norður fyrir Kalmanstjörn. Vitað er nú um allmargar skekkjur á þessu korti en talsvert hefur verið notað í sabandi við ýmsar jarðvísndalegar rannsóknir á svæðinu.
Mest var unnið að rannsóknunum sumurin 1968 og 1969. Smásvæði var þó eftir að kortleggja og hefur verið unnið að því að fylla í þau síðan fram á þennan dag (ársbyrjun 1977).

Jón Jónsson

Jón Jónsson – Þráinsskjöldur.

Í framhaldinu lýsir Jón eldri jarðmyndunum, s.s. Rosmhvalanesi og Vogastapa, Stapafelli, Súlum og Þórðarfelli, Sandfelli, Sýrfelli, Bæjarfelli og Valahnúkum, Þorbjarnarfelli, Litla-Skógfelli, Húsfelli, Fiskidalsfjalli, Festarfjalli, Lyngfelli, Fagradalsfjalli, Skála-Mælifelli, Hraunsels-Vatnsfelli, Keili, Móhálsum, Trölladyngju, Traðarfjöllum, Latsfjalli, Mávahlíðum, Krýsuvíkur-Mælifelli, Sveifluhálsi, Undirhlíðum, Valahnúkum, Húsfelli, Vífilsfelli, Helgafelli, Borgarhólum, Krýsuvíkurheiði, Selöldu, Skriðu, Bæjarfelli, Arnarfelli, Litla- og Stóra-Lambafelli, Geitahlíð, Lönguhlíðum, Vörðufelli, Herdísarvíkurfjalli, Vesturásum, Sandfelli, Krossfjöllum, Meitlum, Bláfjöllum, Stóra-Kóngsfelli, Þríhnúkum, Grindaskarðahnúkum, Rauðuhnúkum, Selfjalli og Skálafelli.

Þá tekur Jón fyrir jökulberg og aðrar jökulminjar, nútímahraun og eldstöðvar (dyngjurnar Skálafell, Háleyjabungu, Sandfellshæð, Langhól, Berghól, Lágafell, Vatnsheiði, Fagradal (D-11), Þráinsskjöld, Hraunsels-Vatnsfell, Hrútagjá, Brennisteinsfjöll, Leiti, Heiðina há, Selvosgheiði, Strompa, Búrfell í Ölfusi, Dimmadal og Ása).

Jón Jónsson

Jón Jónsson – misgengi og sprungur.

Gossprungum og öðrum eldstöðvum eru gerð góð skil, s.s. Vatnsfelli á Reykjanesi, Yngri- og Eldri-Stömpum, Rauðhólum við Skálafellsdyngju, Sýrfellsgígum, Klofningum, Eldvörpum, Þórðarfelli, Sundhnúkum, Baðsvöllum, Arnarsetri, Kálffelli, Hrafnshlíð, Borgarfelli, Höfða, Eldborg undir Trölladyngju, Sogum, Sveifluhálsi, Núpshlíðarhálsi, Lækjarvöllum, Kóngsfelli, Mávahlíðum, Móhálsum, Melrakka, Rauðamel, Rauðhól, Sandfellsklofa, Hraunhól, Óbrennishólum, Kötlum, Gvendarselshæð, Búrfelli, Bæjarfelli í Krýsuvík, Kaldrana, Stóru- og Litlu-Eldborg undir Geitahlíð, Kálfadölum, Vörðufelli, Eldborg í Brennisteinsfjöllum, Breiðdal, Kistu, Kistufelli, Tvíbollum, Stóra-Bolla, Svartahrygg, Þríhnúkum, Stríp, Eldborg við Drottningu, Rauðahnúkum, Vífilsfelli, Eldborgum við Lambafell, Litlahrauni, Sandfelli og Eldborgum undir Meitlum.

Allur er framangreindur hin áhugaverðasti. Jarðfræðikortin af Reykjanesskaganum í hluta II eru ekki síður áhugaverð.

Sjá Jarðfræðikort I í heild HÉR.

Sjá Jarðfræðikor II í heild HÉR.

Heimild:
-Jarðfræðikort af Reykjanesskaga, Jón Jónsson, Orkustofnun; jarðhitadeild, apríl 1978.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga; samsett – Jón Jónsson.

Geldingadalir

Á Vísindavefurinn er fjallað um „Eldvirkni á Reykjanesskaga“:

Eldstövakerfi
„Gosbeltið á Reykjanesskaga er sniðreksbelti, það er að segja í senn þverbrota- og gliðnunarbelti. Stefna þess er 70-80 gráður austur, en það sveigir til norðaustlægari stefnu allra vestast. Þarna munar 25-35 gráðum frá rekstefnu.

Misgengi

Misgengi getur verið siggengi, samgengi eða sniðgengi.

Þáttur þverbrotabeltisins kemur fram í norður-suður sniðgengjum með hægri hliðrun. Sniðgengin eru minni háttar skástígar gjár, oft samtengdar með sprunguhólum. Gliðnunarbeltin koma fram sem gígar og gígaraðir, gjár og misgengi í eldstöðvarkerfum skagans. Þau eru sex, að meðtöldu Hengilskerfinu, og liggja norðaustur-suðvestur, skáhallt á gosbeltið. Eldstöðvakerfin eru flest hver miklu lengri en gosmenjar á yfirborði gefa til kynna. Eldvirkni nær yfir stóran hluta þeirra, en á norðausturhlutanum eru svo til eingöngu gjár og misgengi. Þar hefur hraunkvika sjaldan náð til yfirborðs en setið eftir í berggöngum.
Sprunguop
Eldstöðvakerfin mynda grunneiningar í jarðfræði Reykjanesskaga. Þau eru fimm til átta kílómetra breið og flest 30 til 50 kílómetra löng. Í hverju þeirra eru tvær eða fleiri gos- og sprungureinar.

Sprungusveimar

Sprungusveimar.

Fullmótuð kerfi með háhitasvæði og sprungusveim eru fimm. Þau eru kennd við Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengil (sjá mynd hér fyrir neðan). Sjötta eldstöðvakerfið, sem kenna má við Fagradalsfjall, er ólíkt hinum að gerð. Þar er hvorki jarðhiti né sprungusveimur. Skil milli kerfanna eru oftast skýr, en þau skarast þegar kemur norðaustur á gjásvæðin. Milli Reykjaness- og Svartsengiskerfanna er einföld röð dyngna og bólstrabergsfella úr ólivínríku basalti, Háleyjabunga yst og Stapafell innst. Mörk Fagradalsfjallskerfisins við þau næstu markast af löngum gossprungum beggja vegna. Skil Krýsuvíkur- og Brennisteinsfjallakerfanna eru í Kleifarvatnslægðinni með stapana Lönguhlíð og Geitahlíð að austanverðu. Skil Brennisteinsfjalla- og Hengilskerfis eru hér sett við Þrengsli.

Fagradalsfjall

Eldgos í Fagradalsfjalli.

Á Reykjanesskaga skiptast á gos- og gliðnunartímabil á sprungusveimum með stefnu norðaustur-suðvestur og skjálftatímabil með virkni á norður-suður sprungum. Það er afleiðing af því að Reykjanesskagi liggur skáhallt á rekstefnuna og spennusviðið sveiflast á milli lóðréttrar mestu bergspennu og láréttrar með suðvestur-norðausturstefnu.

Kvikuhólf

Kvikuhólf og kvikuþró.

Í báðum tilvikum er minnsti þrýstingur í stefnu reksins. Kvikuinnskot þarf til að gjárnar gliðni, en það getur gerst án þess að gjósi. Gos- og gliðnunartímabilin, hér nefnd gosskeið, standa yfir í nokkrar aldir hvert. Á síðasta gosskeiði fluttist gosvirknin milli eldstöðvakerfanna með 30-150 ára millibili. Gosvirknin einkennist af sprungugosum sem vara í nokkra áratugi, en með hléum á milli gosa. Goshrinur af þessu tagi eru kallaðar eldar. Á milli gosskeiðanna eru löng skjálftatímabil án kvikuvirkni og þá væntanlega eins og á síðustu áratugum með ótal snöggum hrinum sem standa daglangt eða í fáar vikur. Gosskeið síðustu 3500 ára eru þrjú, og vísbendingar eru um fleiri þar á undan. Í Fagradalsfjallskerfinu hefur ekki gosið á þessu tímabili og aðeins einu sinni í Hengilskerfinu.

Sundhnúkagígaröðin

Sundhnúkagígaröðin.

Á Reykjanesskaga hefur aðeins gosið basalti eftir að land varð jökullaust. Bergið í hraununum er pikrít, ólivínþóleiíti og þóleiít. Dyngjuhraun eru úr pikríti og ólivínþóleiíti en hraun frá gossprungum yfirleitt úr þóleiíti. Súrt berg er ekki að finna á skaganum nema í Hengilskerfinu. Þar spannar samsetning bergsins allt bilið frá pikríti í ríólít. Í hinum kerfunum nær það einungis yfir í þróað basalt.

Sprungugos

Sprungugos.

Aldursdreifing sprungugosa sem vitað er um á Reykjanesskaga síðustu 3500 árin, er sýnd á næstu mynd hér að ofan. Tímasetning er byggð á sögulegum heimildum, aldursgreiningu með geislakoli (C-14) og öskulagsrannsóknum. Af myndinni má ráða að skipst hafi á gosskeið sem stóðu í 400-500 ár, og goshlé í 600-800 ár. Núverandi hlé er nálægt efri mörkum. Sé hins vegar litið á eldstöðvakerfin ein og sér, verða hléin mun lengri, að meðaltali nálægt 1000 árum. Í engu eldstöðvakerfanna er komið fram yfir lágmarkslengd fyrri hléa, nema ef til vill í Brennisteinsfjöllum. Allt að fjórar aldir þurfa að líða þar til lengstu hléunum er náð. Í Hengilskerfinu varð eina kvikuhlaupið án goss sem vitað er um. Þá er átt við Þingvallasigið árið 1789. Eldri hraun eru of fá tímasett til að rekja söguna lengra aftur. Segja má þó að grilli í fleiri gosskeið, svo sem fyrir 4000 og 8000 árum. Eins og sjá má á myndinni hefur eldvirkni á hverju gosskeiði oftast hafist í Brennisteinsfjallakerfinu og síðan færst vestur.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja.

Að frátöldum dyngjunum hefur upphleðsla gosefna í eldstöðvakerfum Reykjanesskaga, öðrum en Henglafjöllum, verið mest þar sem sprungusveimar liggja yfir flekaskilin. Þau markast af skjálftabelti skagans, og þar eru einnig háhitasvæðin.

Dyngjugos

Dyngjugos.

Segja má að þar séu vísar að megineldstöðvum. Ætla má að í rætur þeirra geti safnast kvika sem síðan leitar út í sprungusveimana, myndar ganga og kemur upp í sprungugosum. Hnyðlingar í gjalli og úrkasti sprengigíga í Krýsuvík eru vísbending um að grunnstæð gabbróinnskot, það er kvikuhólf sem voru eða eru þar undir, en greinast ekki í skjálftum.
Á Reykjanesskaga eru dyngjur í þyrpingum, ýmist í virknimiðjum eldstöðvakerfanna, svo sem í Hengils-, Brennisteinsfjalla- og Fagradalsfjallskerfunum, eða utan þeirra. Stærstu dyngjurnar ná yfir 200 ferkílómetra og áætlað rúmmál þeirra stærstu er fimm til sex rúmkílómetrar. Alls eru þekktar um tuttugu dyngjur á Reykjanesskaga. Af þeim eru 12 úr ólivínþóleiíti, hinar úr pikríti.“

Tilvísanir:
-Freysteinn Sigmundsson, 1985. Jarðvatn og vatnajarðfræði á utanverðum Reykjanesskaga II. hluti. Viðaukar um jarðfræði. Orkustofnun, skýrsla, OS-85075/VOD-06, 49 bls.
-Páll Einarsson, 1991a. Earthquakes and present-day tectonism in Iceland. Tectonophysics, 189, 261-279.
-Sigrún Hreinsdóttir og fleiri, 2001. Crustal deformation at the oblique spreading Reykjanes Peninsula, SW-Iceland: GPS measurements from 1993 to 1998. Journal of Geophysical Research, 106(B7), 13803-13816.
-Clifton, A. E. og S. Kattenhorn, 2006. Structural architecture of a highly oblique divergent plate boundary segment. Tectonophysics, 419, 27-40.
-Sigrún Hreinsdóttir og fleiri, 2001. Crustal deformation at the oblique spreading Reykjanes Peninsula, SW-Iceland: GPS measurements from 1993 to 1998. Journal of Geophysical Research, 106(B7), 13803-13816.
-Keiding og fleiri, 2009. Earthquakes, stress and strain along an oblique plate boundary: the Reykjanes Peninsula, southwest Iceland. Journal of Geophysical Research, 114, B09306, doi: 10.1029/2008JB006253. 16 bls.
-Sveinn P. Jakobsson og fleiri, 1978. Petrology of the Western Reykjanes peninsula, Iceland. Journal of Petrology, 19, 669-705.
-Gee, M. A. M., 1998. Volcanology and Geochemistry of Reykjanes Peninsula: Plume-Mid-Ocean Ridge interaction. Doktorsritgerð, Royal Holloway University of London. 315 bls.

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=65699
-Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur og fyrrverandi deildarstjóri á Orkustofnun.
-Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingur.

Geldingadalir

Eldgos í Geldingadölum í Fagradalsfjalli.

Geldingadalir

Á vefnum Eldey.is má lesa eftirfarandi um „Eldstöðvar og jarðsögu Reykjanesskagans„, auk annars:

Eldvörp

Eldvörp.

„Á Reykjanesskaga má finna allar tegundir eldstöðva sem gosið hafa á Íslandi. Talið er að um tólf hraun hafi runnið þar frá því að land byggðist eða að meðaltali eitt hraun á öld.
Á Reykjanesskaganum eru þrjú háhitasvæði sem eru sérstök fyrir það að í þeim hitnar jarðsjór er hann kemst í snertingu við kólnandi kviku. Þessi háhitasvæði eru Reykjanes, Eldvörp og Svartsengi þar sem jarðsjórinn er notaður til að hita upp kalt vatn fyrir Hitaveitu Suðurnesja.

Jarðfræðikort

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ISOR.

Reykjanesskaginn er um 1.700 ferkílómetrar að flatarmáli og er þar að finna margvíslegar menjar um eldvirkni undanfarinna 200.000 ára. Reykjanes er til að mynda eini staðurinn á jörðinni þar sem berlega má sjá hvar úthafshryggur gengur á land með eldsumbrotum og jarðhræringum.
Reykjanesskagi dregur nafn sitt af Reykjanesi á suðvesturhorni skagans. Mest af skaganum er innan gosbeltis Íslands og yst á skaganum skríður Mið-Atlantshafshryggurinn á land. Gosbeltið liggur eftir miðjum skaganum frá vestri til austurs þar sem það tengist svo aðalgosbeltum landsins.

Reykjanesskagi

Fjórar sprungureinar eru á skaganum: Reykjanes-, Krýsuvíkur-, Brennisteins-, fjalla og Hengilsreinar. Hver þeirra samanstendur af hundruðum opinna spungna. Þá er þar einnig fjöldi gíga og gígaraða.

Háleyjabunga

Háleyjabunga.

Önnur gerð af eldfjöllum á Reykjanesskaga eru dyngjur, skjaldarlaga bungur sem eru svipaðar og eldfjöllin á Hawaii nema mun minni.
Gosbergið er að mestu af tveimur gerðum. Annars vegar er móberg sem er samanþjöppuð gosaska sem myndaðist við eldgos þegar landið var að mestu hulið jöklum. Hins vegar eru hraun; apalhraun með úfnum karga á yfirborði og helluhraun sem eru slétt og oft með hraunreipum. Eldri hraun hafa verið slípuð af jöklum, og er yfirborð þeirra því jökulrákað.
Jarðskjálftar eru tíðir á svæðinu vegna eldvirkninnar og stöku sinnum valda þeir tjóni. Flestir eru þó minni háttar og finnast sem titringur.

Jarðsaga Reykjanesskaga er tiltölulega vel þekkt og hefur verið rakin nokkur hundruð þúsund ár aftur í tímann.

Jón Jónsson

Jón Jónsson; jarðfræðikort – Vogar og Stapi.

Elsta bergið á skaganum er á Romshvalanesi (Stapinn) og í grennd við Reykjavík og er talið vera um 500 þúsund ára gamalt. Mest af jarðlögum á skaganum eru hins vegar innan við 100 þúsund ára gömul. Á þessum tíma hefur loftslag verið mjög breytilegt og óstöðugt. Á vissum tímabilum var Ísland hulið mikilli íshellu. Á milli voru tímabil með svipuðu loftslagi og nú er. Kuldatímabilin eru nefnd jökulskeið og hlýrri tímabilin eru nefnd hlýskeið. Við lifum á hlýskeiði.
Þau hraun sem runnið hafa síðan síðasta jökulskeiði lauk eru ekki slípuð af jöklum.
Á jökulskeiðum áttu sér stað gos undir jökli, og móbergsfjöll mynduðust í geilum sem gosin bræddu upp í ísinn. Þegar jöklarnir hopuðu stóðu eftir óregluleg móbergsfjöll. Á hlýskeiðum runnu hraun svipað og nú þ.e.a.s. frá gosstöðvum undan halla og oft til sjávar. Kappelluhraun og Ögmundarhraun eru dæmi um slík hraun.
Allt gosberg á Reykjanesskaganum er basalt (gosberg með lágt kísilsýrumagn).

Ísöld

Patterssonsvöllur

Lífsstöðugrjót við Patterssonsvöll.

Loftslag hefur verið mjög sveiflukennt síðustu þrjár milljónir ára. Á því tímabili hafa komið um 30 jökulskeið. Meðalhiti var þá 8 gráðum lægri en nú. Hvert jökulskeið stóð í um 100 þúsund ár en hlýskeiðin á milli aðeins í um 10 þúsund ár. Síðasta jökulskeiði lauk fyrir um 10 þúsund árum. Tímabilið sem síðan er liðið nefnist Nútími.

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Jöklarnir skófu og hefluðu landið sem þeir skriðu yfir og mýktu það. Þeir mynduðu U-laga dali, rispuðu berggrunninn sem undir var og skildu eftir sig hvalbök og jökulrispur.
Á jökulskeiðunum var gríðarlegt vatnsmagn bundið í jöklum, og meðan þau stóðu yfir lækkaði yfirborð sjávar á jörðinni um allt að 130 m miðað við núverandi sjávarmál. Aftur á móti fergðu jöklarnir landið undir næst sér.
Jökulskeið enda snögglega og meðalhitastig hækkar undrahratt. Þá bráðna jöklar á tiltölulega stuttum tíma. Sjávarborð hækkar og sjór gengur á land. Fornar strandlínur eru því allhátt yfir núverandi sjávarmáli. Munar þar um 110 m á Suðurlandi. Skeljar og bein sávarspendýra finnast í gömlum sjávarsetlaögum. Einn slíkur staður er við Pattersonflugvöll á Njarðvíkurheiði.

Eldgos á Reykjanesskaga

Stampahraunið

Stampahraunið.

Gossaga Reykjanessskagans er tiltölulega vel þekkt. Eldvirknin virðist hafa verið stöðug síðustu árhundruðþúsundin. Dyngjugos virðast hafa verið algeng á fyrri hluta Nútíma þ.e. fyrir 5000 – 10 000 árum en sprungugosin hafa verið nær einráð síðustu 5000 árin.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – eldgos á nútíma.

Eldgos eru ekki jafndreifð í tíma. Þau virðast koma í hrinum. Á Reykjanesskaganum koma hrinurnar á um 1000 ára fresti og stendur hver goshrina í 200 – 350 ár. Síðasta hrinan hófst um miðja tíundu öld og lauk á seinni hluta þrettándu aldar.
Eldgosin hegða sér þannig að í upphafi þeirra opnast spunga og landrek á sér stað. Rekið er nokkrir metrar í hverri hrinu. Hvert gos er líka í hrinum. Það stendur í fáeina daga eða vikur og síðan er að draga úr virkninni í mánuði eða ár áður en næsta gos verður.
Neðansjávargos verða einnig á Reykjaneshryggnum, suðvestur af Reykjanesi. þau hegða sér svipað og gos undir jökli. Spungugos undir jökli mynda móbergshryggi og eru þeir algengir á Reykjanesskaganum.

Eldgos á sögulegum tíma

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni.

Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga, þ.e.a.s. í yfir 1100 ár. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos.

Reykjaneseldar

Nýjasta goshrinan á Reykjanesskaga er ofan Grindavíkur.

Það elsta eru: Bláfjallaeldar. Það hófst um árið 950 og stóð fram yfir árið 1000 í þessu gosi myndaðist feiknarmikið hraun.
Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krísuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum.
Þriðja gosið voru svonefndir Reykjaneseldar sem urðu á árabilinu 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó. Þá reis upp eyja sem heitir Eldey í fárra sjómílna fjarlægð frá stöndinni.
Aðalgosið var árið 1226 við Reykjanestána, að mestu í sjó. Mikil aska kom upp og dreifðist hún undan suðvestanvindi yfir Reykjanesskagann. Sést öskulagið víða greinilega í jarðvegssniðum. Í kjölfarið jókst mjög jarðvegseyðing á Reykjanesskaga.“

Meira HÉR á Wikipedia.

Sogin

Sogin.

Flekaskil

Samkvæmt jarðfræðikenningum þá þrýstast Evrasíu- og Norður- Ameríkuflekarnir hvor frá öðrum á Reykjanesi. Plötuskilin afmarkast af gosreinum, gjám og gígaröðum sem liggja frá Reykjanesi og norðaustur um land. Segja má að Reykjaneshryggurinn (Mið-Atlantshafshryggurinn) „gangi“ á land á Reykjanesi en með honum liggja skil þessara tveggja fleka. Ísland skiptist þannig milli tveggja jarðskorpufleka. Austurhluti landsins tilheyrir svonefndum Evrasíufleka og vesturhlutinn svonefndum Norður-Ameríkufleka. Skilin milli flekanna birtast okkur ýmist sem opnar sprungur og gjár eða sem sem gígaraðir.

Möttull

Jörðin – að innan.

Ysti hluti jarðar er samsettur úr nokkrum geysistórum bergflekum sem ná djúpt niður í seigan möttul jarðar. Flekarnir eru 100–200 km þykkir og „fljóta“ ofan á möttlinum. Efsti hluti flekanna kallast jarðskorpa og er hún 5-70 km þykk.

Við flekamót rekur fleka saman en við flekaskil rekur þá í sundur.

Við flekaskil valda iðustraumar í möttulbráðinni því að flekar færast í sundur. Þar þrýstist bráðin hraunkvika upp og bætist á jaðra flekanna. Eldgos verða þar sem hraunkvikan brýst alla leið upp á yfirborð.

Flekaskil

Mismunandi flekaskil.

Flekaskil eru að langmestu leyti á botni úthafanna og mynda þau geysilangt net af neðansjávarhryggjum, alls um 60 þúsund km að lengd. Aðeins um 1% af úthafshryggjum jarðar eru ofansjávar.

Brú milli heimsálfa

Brúin milli heimsálfa – flekaskil.

Ísland er á flekaskilum og eru flekarnir tveir, Ameríkuflekinn og Evrasíuflekinn. Úthafshryggurinn sem liggur um Ísland og sker það í tvennt kallast einu nafni Norður-Atlantshafshryggur og er hann hluti af jöðrum flekanna tveggja.

Svæði þar sem flekana tvo rekur hraðast í sundur eru kölluð gliðnunarbelti eða rekbelti. Utan rekbeltanna eru tvö hliðarbelti og liggja þau í eldri jarðskorpu en rekbeltin. Tvö þverbrotabelti tengja saman hliðrun sem er á Norður-Atlantshafshryggnum um mitt Ísland.

Möttulstrókur

Möttulstrókur undir Íslandi.

Hliðrun úthafshryggjarins stafar líklega af miklum möttulstrók, svokölluðum heitum reit með sérstaklega heitu, léttu og miklu kvikuuppstreymi, sem er undir Íslandi. Miðja möttulstróksins er undir Vatnajökli og togar strókurinn hrygginn eða gliðnunarbeltin til sín.

Ameríkuflekann og Evrasíuflekann rekur um 1 cm á ári frá hvor öðrum í vestur og austur. Ísland gliðnar því um 2 cm á ári, eða um 2 m á 100 árum. Óvíst er hvort Ísland stækki við þetta vegna þess að samtímis nýmyndun jarðefna á sér stað landeyðing vegna ýmissra rofafla.

Jörðin er mjög spennandi viðfangsefni fyrir alla aldurshópa. Það er margt sem hægt er að skoða og rannsaka nánar hvort sem það er sólkerfið sem tilheyrir jörðinni, samspili lífvera og jarðarinnar eða uppbyggingu jarðarinnar.

Landrekskenningin – Alfred Wegener

Alfred Wegener

Alfred Wegener.

Árið 1912 kynnti þýskur veðurfræðingur Alfred Wegener fyrstur kenningu um landrek. Þremur árum síðar eða 1915 var Landrekskenning Wegeners sett fram í bókinni Myndun meginlanda og úthafa. Hann hélt því fram að öll meginlönd gætu flust úr stað með því að fljóta. Wegener taldi að meginlöndin hafi verið ein heild, þ.e. Pangea (al-álfa) sem hafi brotnað upp og brotin flust úr stað. Hann taldi með þessu að hann gæti útskýrt ásæðuna fyrir því af hverju löndin pössuðu vel saman. Um 1930 töldu jarðeðlisfræðingar að það væri ekki til nægilega stór kraftur sem gæti flutt heimsálfurnar úr stað og tókst þeim þar með að afsanna þann hluta kenningar Wegeners.

Reykjaneshryggur

Reykjaneshryggur.

Árið 1964 var landrekskenningin endurvakin og var þá nefnd botnskriðskenning og var þá gerð athugun á gerð hafsbotnsins. Í ljós kom að á hafsbotni leyndust langir fjallgarðar sem risu í um 2000-4000 m yfir hafsbotninn. Árið 1968 kom fram flekakenningin, en samkvæmt henni skiptist jarðskorpan í jarðfleka sem eru á reiki um yfirborð jarðar og eru flekarnir knúnir af hita frá möttlinum. Á úthafshryggjum á hafsbotni jarðarinnar rekur þessa fleka í sundur og til þess að það myndist ekki gap í jarðskorpunni fyllir bergkvika bilið og myndar á ný úthafsskorpu.

Innri gerð jarðar

Jörðin er flóknara fyrirbæri en við höfum gert okkur grein fyrir og verður stikklað á stóru um jörðina. Hún er þriðja reikistjarnan frá sólu en fimmta stærsta reikistjarna sólkerfisins.

Möttull

Jörðin – að innan.

Þykkur lofthjúpur umlykur jörðina sem er að mestu úr nitri og súrefni. Á jörðinni hafa miljónir lífvera viðveru, hvort sem það eru plöntur eða dýr.

Möttull

Möttull jarðar.

Jörðin snýst um möndul sinn heilan hring á sólarhring en hún snýst einnig umhverfis sólu, sem tekur hana heilt ár. Jörðinni er skipt upp í nokkur lög, þ.e.a.s. innri kjarna, ytri kjarna, möttul og jarðskorpu. Innan möttulsins er 100 km þykkt lag sem kallast deighvel en ofan á deighvelinu flýtur u.þ.b 100 km þykkir jarðflekar. Ysta lag jarðflekanna hefur tvær misþykkar jarðskorpur, meginlandsskorpu og hafsbotnsskorpu. Jarðskorpan er að stærstum hluta byggð upp af 8 frumefnum eða u.þ.b. 98,5%, súrefni (45,6%), kísil (27,7%), áli (8,1%), járni (5,0%) ásamt kalsíum, natríum, kalíum og magnesíum en þau finnast í minna magni.

Jarðflekar

Flekaskil

Jarðflekar.

Jarðflekarnir sem eru um 100 km á þykkt innihalda jarðskorpuna ásamt efsta hluta möttulsins. Yfirborð jarðarinnar skiptist upp í 6 stóra jarðskorpufleka ásamt nokkra minni. Stærstu flekar jarðarinnar eru Evrasíufleki, Ameríkufleki, Afríkufleki, Kyrrahafsfleki, Suðurskautsfleki og Indlands-Ástralíufleki. Á mörkum þessara jarðskorpufleka birtast innri öfl, til dæmis með eldgosum og jarðskjálftum. Samkvæmt tilraun sem var gerð á árunum 1955-1965 kom fram að flestir jarðskjálftar ásamt mestallri eldvirkni jarðar var á mjóum beltum, þ.e. flekamörkum. Í berginu við mjóu beltin eða flekamörkin byggist upp spenna þegar flekamörkin hnikast til og jörðin losar sig við þennan varma hvort sem það er á meginlandi eða á hafsbotni. Flekamörkin skiptist í þrjá flokka, flekaskil, flekamót og sniðgeng flekamörk eða þverbrotabelti.

Flekaskil

Flekaskil

Flekaskil Norður-Atlantshafshryggjarins.

Flekaskil koma fram þar sem flekarnir gliðna í sundur, eldvirkni er í sprungunum og bergkvika kemur upp um sprungurnar, sem hafa myndast á skilunum. Þegar bergkvikan storknar kemur hún sem viðbót beggja vegna við flekana. Á hafsbotni myndast miðhafshryggir, til dæmis Atlantshafshryggurinn, og þar sem flekarnir gliðna í sundur þá myndast djúpir sigdalir. Á Íslandi má finna marga staði þar sem hægt er að sjá og jafnvel skoða flekaskil sem eru á þurru landi.

Flekaskil og gosbelti á Íslandi

Flekaskil

Flekaskil – Jarðfræðikort ÍSOR – http://jardfraedikort.is/?coordinate=64.96%2C-18.62&zoom=2

Á Íslandi eru flekaskil mjög aðgengileg og liggja þau þvert yfir landið frá Reykjanestá norður í Öxarfjörð.

Þingvellir

Misgengi á Þingvöllum.

Einn vinsælasti staður til þess að sjá flekaskil á þurru landi eru Þingvellir en einnig er hægt að sjá flekaskil vel á Reykjanesi. Á Þingvöllum hefur sigdalur myndast á milli Almannagjár og Hrafnagjár og hefur dalurinn sigið um 40 m á síðustu 9000 árum. Ísland hefur fleiri sérkenni sem má rekja til flekaskilanna, til dæmis mikið af sprungum og gjám, mikinn jarðvarma til dæmis í Kröflu, Öskju og Hengli, eldgos í löngum sprungum en væga jarðskjálfta sem skipta tugum á hverjum sólarhring sem við finnum ekki fyrir.

Flekamót

Við flekamót mætast tveir flekar, þar sem annar lútir fyrir hinum og sveigir undir hann og „eyðist“. Djúpálir myndast þegar hafsbotn eyðist en hafsbotninn sveigir u.þ.b. í 45° niður á við og fer undir hafsbotninn eða meginlandið sem kemur á móti honum. Mikilir jarðskjálftar verða á flekamótum á hafsbotni ásamt hættulegum eldgosum. Þrjár tegundir flekamóta eru til, hafsbotn mætir hafsbotni, hafsbotn mætir meginlandi og meginland mætir meginlandi.

Flekamót

Flekamót.

Hafsbotn mætir hafsbotni; þar myndast djúpálar og hafsbotninn sem hefur svegt 45° niður á við eyðist upp þegar komið er niður í möttulinn og samlagast honum að hluta til. Mikil eldvirkni er á þessum svæðum og eyjabogar myndast, sem er röð eldfjallaeyja. Kúileyjar í Norður-Kyrrahafi eru dæmi um eyjaboga.
Hafsbotn mætir meginlandi; hafsbotninn lútir fyrir meginlandinu og treðst undir meginlandinu í djúpál. Á svæðum þar sem hafsbotn mætir meginlandi er einnig mikil eldvirkni og fellingafjöll með eldfjöllum myndast.
Meginland mætir meginlandi; hvorugur flekanna sveigir undir hinn, heldur myndast óregluleg hrúga, fellingafjöll, þar sem begið leggst í fellingar. Þegar fellingafjöllin myndast er lítil sem engin eldvirkni en harðir jarðskálftar eru á þessum svæðum. Himalayafjöllin í Asíu þar sem Indland rekur til norðurs er dæmi um flekamót þar sem meginland mætir meginlandi.

Sniðgeng flekamörk eða þverbrotabelti

Flekaskil

Jarðflekar.

Engin eyðing eða myndun bergs á sér stað við sniðgeng flekamörk. Tveir flekar nuddast saman á hliðunum og við það koma frekar harðir jarðskjálftar. Aðaleinkenni miðhafshryggjanna er hryggjarstykkin sem myndast við sniðgengu flekamörkin, en flekamörkin búta miðhafshryggina niður og við það kemur hliðrun víða fram á miðhafshryggjunum. San Andreas sprungan í Bandaríkjunum er dæmi um sýnileg sniðgeng flekamörk en þau koma fram á fleiri stöðum á meinglöndunum.

Heimildir:
-https://natkop.kopavogur.is/syningar/jardfraedi/landrek-flekaskil/
-https://is.wikibooks.org/wiki/Jar%C3%B0flekar
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=3811

Flekaskil

Flekaskilin um Ísland.