Færslur

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, skrifar grein í Náttúrufræðinginn 1983 um”Hálfrar aldar þögn um merka athugun. Þar segir hann m.a.:

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson í FERLIRsfer undir Festisfjalli.

“Einhvers staðar í ritum sínum segir Helgi Péturss, að ekki sé nóg að gera uppgötvun, heldur þurfi aðrir líka að uppgötva að uppgötvun hafi verið gerð. Hér skal getið um eitt slíkt tilfelli, þar sem mér og fleirum hefur sést yfir snjalla ályktun um eldvirkni á Reykjanesskaga.
Síðustu æviár sín vann Guðmundur G. Bárðarson að jarðfræðirannsóknum þar, en féll frá í miðju verki.
Hálfkarað handrit af jarðfræðikorti (í vörslu Náttúrufræðistofnunar) er til frá hans hendi og auk þess nokkrar prentaðar ritgerðir og greinar í blöðum um Reykjanesskagann. Á „18. Skandinaviske Naturforskermöde” í Kaupmannahöfn 1929 lagði Guðmundur kortið fram og flutti um það erindi, sem seinna var prentað í skýrslu fundarins undir heitinu „Geologisk Kort over Reykjanes-Halv0en’ (Guðmundur G. Bárðarson 1929). Þar er höfundi ljós aldursmunur dyngjuhrauna og sprunguhrauna og fjallar niðurlag greinarinnar um sprunguhraunin undir yfirskriftinni „De yngste Lavadoekker”. í lýsingu sinni á sprungugosunum aðgreinir Guðmundur fjögur belti (Vulkanbælter) sem hann gerir síðan nánari grein fyrir. Belti þessi svara nákvæmlega til eldstöðvakerfanna, sem við yngri mennirnir höfum verið að vekja máls á næstliðinn áratug.

Kristján Sæmundsson

Kristján skoðar berggang undir Lyngfelli.

Beltin sem Guðmundur aðgreinir á Reykjanesskaga ná (1) frá Reykjanesi norðaustur fyrir Grindavík. – (2) Yfir Vesturháls og Austurháls. Nefnt er, að hverirnir í Mosfellssveit séu í norðaustur framhaldi þess. — (3) Yfir Brennisteinsfjöll og Grindaskörð. — (4)  Frá Selvogsheiði norðaustur yfir Hengil og áfram norðaustur um gjárnar á Þingvöllum. Seinni höfundar, sem lýstu jarðfræði skagans, virðast ekki hafa haft sama skilning á aðskiljanlegum eldvirknibeltum. Svo er t. d. um Kuthan (1943), sem gekk þó fram úr hófi langt í túlkun sinni á jarðfræði Reykjanesskaga. Skipan eldsprungna, gjásvæða og móbergshryggja fangar þó augað strax og litið er á kort hans. Sama gildir um jarðfræðikort Guðmundar Kjartanssonar (1960). Sjálfur vakti ég upp hugmyndina um stórar einingar í gosbeltinu þ. á. m. á Reykjanesskaga kringum 1970 (Kristján Sæmundsson 1971a og b) og hélt þá í barnaskap mínum að ég væri að benda á eitthvað nýtt. Veifaði ég á fundi í Jarðfræðafélagi Íslands korti Kuthans og jarðfræðikorti Guðmundar Kjartanssonar framan í viðstadda félagsmenn til að þeir mættu sjá einingar þessar ljóslifandi á eldri kortum þótt enginn hefði bent sérstaklega á þær fyrr. Hefði ég þá betur verið búinn að lesa grein Guðmundar G. Bárðarsonar, því hann hafði sagt 40 árum fyrr aðalinntakið í því, sem ég var að boða kollegum mínum á þessum fundi.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – eldstöðvakerfi; sveimar.

Það kom fljótlega fram, að fleiri jarðfræðingar lögðu sama skilning í byggingu Reykjanesskagans og raunar landsins alls (Eysteinn Tryggvason 1973, G. P. L. Walker 1975, Sveinn Jakobsson o. fl. 1978). Almennt er nú farið að kalla einingar þessar eldstöðvakerfi, en það er bein þýðing á „volcanic system” sem ameríkumenn nota um sömu fyrirbæri. Amerískur jarðfræðingur, J. G. Moore, benti hérlendum á enska heitið og er það fyrst notað af Sveini Jakobssyni (1979a) og í sérhefti Jökuls um jarðfræði íslands (1979b).
Eldstöðvakerfin eru í mörgum tilfellum saman sett af einni megineldstöð og gossprungum og gjám sem liggja í gegnum hana. Megineldstöð er þýðing á ensku „central volcano” og mun fyrst koma fyrir hjá Þorleifi Einarssyni í 1. útg. jarðfræðibókar hans (1968). Bæði þessi orð voru innleidd um rofin eldfjöll í tertíera bergstaflanum. Í rofnum bergstafla koma gossprungur og gjár fram sem berggangar.

Kristján Sæmundsson

Kristján skoðar bergganga í Hraunsfjöru.

Gangasveimur var það kallað er margir gangar lágu því sem næst í sömu stefnu út frá megineldstöð og mynduðu aflanga heild. Orðið kemur einnig fyrst fyrir hjá Þorleifi í áður tilvitnaðri jarðfræðibók (1968). Það er bein þýðing á ensku „dyke swarm”. Þegar farið var að draga fram hliðstæður í virku gosbeltunum voru þessi heiti yfirfærð með þeirri breytingu einni, að í stað gangasveims var talað um sprungusveim (fissure swarm) (Kristján Sæmundsson 1971a og b). Hliðstæð fyrirbæri við eldstöðvakerfin í virku gliðnunarbeltunum hér á landi eru eldstöðvakerfin á Hawaii. Þar heitir megineldstöðin „shield volcano” en sprungusveimurinn „rift zone”. Íslensk þýðing á shield volcano er eiginlega ekki til*, en um „rift zone” hefur verið haft orðið gjástykki (Kristján Sæmundsson 1979). Bæði ensku og íslensku heitin hafa hér þrengri merkingu en felst í orðunum megineldstöð (central volcano) og sprungusveimur (fissure swarm). Margir eru þeir sem ekki fella sig við orðið sveimur, og því mjög á reiki hvað einstakir höfundar nefna þessi fyrirbæri á íslensku. Um þetta hafa sést á prenti eftirtalin orð: þyrping (Sveinn Jakobsson 1979b, Ari T. Guðmundsson 1982), belti (Oddur Sigurðsson 1976), belti eða rein (Freyr Þórarinsson o. fl. 1976), kerfi (Guðmundur E. Sigvaldason 1982, Guðrún Larsen, 1982), stykki (Axel Björnsson, í fyrirlestrum).

Isor

Jarðfræðikort ISOR af Suðvesturlandi.

Sjálfum er mér tamast að nota orðið sveimur og sama gera þeir Sigurður Þórarinsson, Sigurður Steinþórsson og Sveinbjörn Björnsson og Páll Einarsson í ritgerðum sínum á 2. útg. af Náttúru Íslands (1981). Orðin sveimur og þyrping missa að nokkru marks, vegna þess að þau gefa ekki til kynna að regla sé í dreifingu sprungnanna. Það undirstrika hins vegar orðin belti og kerfi. Hér skal ekki tekin afstaða til þess hvert af þessum orðum sé skárst.
Framar í þessum greinarstúf var þess getið að sá maður sem fyrstur kom auga á og lýsti eldstöðvakerfunum á Reykjanesskaga hafi verið Guðmundur G. Bárðarson. Notaði hann um þau orðið belti. Eitt framantaldra orða var haft til að lýsa skyldu fyrirbæri rúmum þremur öldum fyrr: „Frá Eldeyjum og Geirfuglaskeri grynnra og nyrðra skal telja 7 smásker og sést hvert frá öðru á sömu rein rétt í haf frá Reykjanesi”. Þannig komst Jón lærði að orði í riti sínu „Ein stutt undirrjetting um Íslands aðskiljanlegar náttúrur” (tilvitnað eftir útg. Halldórs Hermannssonar 1924). Kannske er þar komið heitið, sem allir hefðu getað fellt sig við.”

Heimild:
-Náttúrfræðngurinn, Kristján Sæmundsson, “Hálfrar aldar þögn um merka athugun”, 52. árg. 1-4 tbl, 01.05.1983, bls, 102 -103.

Kristján Sæmundsson

Í Hraunsfjöru.

Reykjanesskaginn

Eftirfarandi grein um “Eldgos á Reykjanesi á sögulegum tíma” er eftir Jón Jónsson, jarðfræðing, og birtist í Náttúrfræðingum árið 1983.

Isor

Jarðfræðikort ISOR af Suðvesturlandi.

“Reykjanesskagi er hluti af gosbeltinu, sem liggur um Ísland þvert og er í beinu framhaldi af Reykjaneshryggnum, sem neðansjávar teygir sig langt suðvestur í haf og raunar er hluti af Atlantshafshryggnum mikla. Frá því að síðasta kuldaskeiði lauk hefur mikil eldvirkni verið á þessu svæði bæði ofansjávar og í hafi. Sú eldvirkni hefur á umliðnum öldum byggt upp Reykjanesskaga og verður ekki enn séð nokkurt lát á þeirri starfsemi. Er það efni þessarar greinar að draga saman nokkrar staðreyndir í því sambandi.
Jarðvísindalega séð er Reykjanesskagi hreinasti dýrgripur því hann er einn aðgengilegasti hluti hins virka gosbeltis og dæmi um það hvernig slíkir hryggir byggjast upp.

Heimildir um eldgos á Reykjanesskaga

Gvendarselsgígar

Gvendarselsgígar.

Fyrsta heimild um gos á umræddu svæði er hin alkunna frásögn Kristnisögu: „Þá kom maðr hlaupandi ok sagði að jarðeldr var upp kominn í Ölfusi ok mundi hann hlaupa á bæ Þorodds goða” (Kristnisaga, bls. 270). Kristnisaga er talin vera „að stofni til frá 12. öld” (sama heimild bls. 29) og gæti því verið rituð rösklega öld eftir að atburðir þessir áttu sér stað.

Eldborg

Eldborgin syðri í Svínahrauni.

Hér er að sjálfsögðu látið liggja milli hluta hvort kristnitakan hafi verið árið 1000 eða 999. Lengi hefur verið fullyrt að gos þetta hafi verið í gígaröð austan við Hveradali. Svo gerir Hálfdán Jónsson (1703, útg. 1979), Sveinn Pálsson (1945) og svo hver af öðrum, m. a. hefur það slæðst inni í sögu Íslands I (Sigurður Líndal 1974, bls. 241) og er þar til áréttingar sýnd mynd af hrauntungu þeirri sem „mundi hlaupa á bæ Þórodds goða” að Hjalla. Síðari heimildir um eldgos á Reykjanesskaga eru með afbrigðum óljósar og torráðnar.
NýmyndunÞannig er t. d. getið um gos í Trölladyngju eða Trölladyngjum 1151, 1188, 1340, 1360 og 1389-90 og um hraun, sem runnið hafi niður í Selvog 1340 (Þorvaldur Thoroddsen 1925, 1958). Líkur eru til að það, sem nú er nefnt Brennisteinsfjöll hafi áður fyrr verið nefnt Trölladyngjur, en sannanlega hefur þar verið eldvirkni mikil — og líka á sögulegum tíma og verður að því vikið síðar.
Ljóst er að Ögmundarhraun hefur runnið á sögulegum tíma þar eð það hefur runnið yfir bæ og hluti af rústum hans sést ennþá, en skráðar heimildir um það gos munu ekki vera fyrir hendi.
GjóskusniðVafalaust hafa skráðar heimildir um ýmsa atburði á þessum landshluta, þar á meðal eldgos, glatast í aldanna rás. Má í því sambandi minna á afdrif bóka Viðeyjarklausturs (Árni Óla 1969).
Nú hefur, eftir mismunandi leiðum, verið mögulegt að sýna fram á, að a. m. k. 12 eða 13 eldgos hafa átt sér stað á Reykjanesskaga frá því að norrænt landnám hófst hér. Þekktan aldur hafa einnig verið mjög til hjálpar eins og sýnt verður hér á eftir. Einkum eru það tvö öskulög, sem hafa haft mikla þýðingu í þessu sambandi, en þau eru landnámslagið frá því um 900 (Sigurður Þórarinsson 1968, Jón Jónsson 1978) og öskulag frá Kötlu um 1495 (Jón Jónsson 1978). Bæði eru þessi öskulög auðþekkt séu þau á annað borð sæmilega greinileg. Landnámslagið er tvílitt, ljóst að neðan en svart að ofan. Öskulagið frá Kötlu er svart og þykkara en nokkurt annað öskulag í jarðvegssniðum á þessu svæði ofar en landnámslagið.

Aldursákvarðanir
Aðferðum, sem notaðar hafa verið til þess að flokka aldur hrauna á Reykjanesskaga má skipta í 4 flokka:
1) Sögulegar heimildir.
2) Geislakolsákvarðanir, C14.
3) Öskulög.
4) Afstaða til hrauna með þekktan
aldur.

Nyrðri-Eldborg

Eins og áður er sagt, eru sögulegar heimildir um eldgos á þessum landshluta bæði mjög fátæklegar og auk þess svo ruglingslegar að vant er að vita hverju má treysta. Örnefnið Nýjahraun (Kapelluhraun) bendir til þess að það hafi orðið til á sögulegum tíma.
Bæjarrústirnar í Ögmundarhrauni tala sínu máli, en þar með eru sannanir á þrotum. Um vitnisburð annála er áður getið. Ákvarðanir aldurs gróðurleifa (C14) hafa reynst notadrjúgar þar sem þeim verður við komið. Öskulög með þekktan aldur hafa einnig verið mjög til hjálpar eins og sýnt verður hér á eftir. Einkum eru það tvö öskulög, sem hafa haft mikla þýðingu í þessu sambandi, en þau eru landnámslagið frá því um 900 (Sigurður Þórarinsson 1968, Jón Jónsson 1978) og öskulag frá Kötlu um 1495 (Jón Jónsson 1978). Bæði eru þessi öskulög auðþekkt séu þau á annað borð sæmilega greinileg.

Landnámsöskulagið

Dökka lagið með ljósum botni þar fyrir neðan er Landnámsöskulagið.

Landnámslagið er tvílitt, ljóst að neðan en svart að ofan. Öskulagið frá Kötlu er svart og þykkara en nokkurt annað öskulag í jarðvegssniðum á þessu svæði ofar en landnámslagið.

Söguleg hraun á Reykjanesskaga
Svínahraun — Kristnitökuhraunið
MelhóllSýnt hefur verið fram á að yngsta hraunið austan við Hveradali getur ekki verið frá gosi því, er Kristnisaga getur um, ekki heldur hraunið úr Eldborg undir Meitli, er runnið hefur þannig, að það stefnið á Hjalla í Ölfusi og kemur að því leyti vel heim við söguna. Hins vegar er landnámslagið ofan á Eldborg, og mosakol undan hrauninu við Hveradali sýna að það er um 800 árum eldra en kristnitakan (Jón Jónsson 1977). Þetta leiddi til þess að gerðar voru athuganir á yngsta hrauninu milli Lambafells og Bláhnúks, en það er augljóslega yngra en það, sem talið var vera Kristnitökuhraunið. Kom brátt í ljós að landnámslagið er undir þessu hrauni, en Kötlulagið frá um 1495 ofan á því (Sigurður Þórarinsson 1968, Jón Jónsson 1979). Endurteknar athuganir í óbrennishólmanum í Svínahrauni leiddu í ljós, að ekki verður greindur minnsti vottur af jarðvegi eða gróðurleifum milli öskulagsins og hraunsins. Það, sem hér er nefnt Svínahraun, er hraunið úr Nyrðri Eldborg, en hraunið úr Syðri Eldborg er nefnt Lambafellshraun. Það hraun er eitthvað yngra, en talið vera nær samtíma, þ. e. úr sömu goshrinu. Þó er þetta enn ekki sannað mál. Bæði þessi hraun ná yfir 11,9 km2 svæði (Þorleifur Einarsson 1960, Jón Jónsson 1978) og teljast um 0,24 km Þetta eru ólivínþóleíthraun og innihalda rösklega 14% ólivín.

Rjúpnadyngnahraun
RjúpnadyngjaÍ nær miðjum Húsfellsbruna milli Þríhnúka og Sandfells er eldstöð, sem mjög lítið ber á, en nefnist Rjúpnadyngjur. Húsfellsbruni er örnefni, sem nær til margra hrauna, sem flest eru runnin fyrir landnám, en einnig eru þar yngri hraun. Naumast verður það talið, að augljóst sé við fyrstu sýn, að Rjúpnadyngjur séu eldvörp. Þarna er óvenju stórbrotið hraun með djúpum sprungum og illfærum gjám. Eitt hringlaga niðurfall er á þessu svæði og er talið líklegast að það sé yfir uppvarpinu. Gjall kemur aðeins fyrir á litlum hól miðsvæðis. Við nánari athugun sést að þarna er um eldstöð og um dæmigert hraungos að ræða, en yngri hraun hafa runnið upp að henni sunnan frá og verið langt komin með að færa hana í kaf.

Rjúpnadyngjuhraun

Í Rjúpnadyngjuhrauni.

Hraun frá Rjúpnadyngjum hefur runnið norður og norð-vestur. Nyrsti tangi þess endar í allhárri brún rétt austan við Búrfell og hefur þar runnið út á Búrfellshraun. Leysingavatn hefur grafið dálítinn farveg meðfram hraunröndinni norðaustur af Búrfelli og þar reyndist mögulegt að grafa inn undir hraunið. Komu þá í ljós bæði öskulögin, sem áður var minnst á.
Landnámslagið liggur inn undir hraunið, en svarta Kötlulagið er ofan á því. Þar með er ljóst að þarna hefur gosið eftir 900. Annað, sem sannar þetta, er að hraunið hefur á einum stað runnið út á Tvíbollahraun, en það var áður aldursákvarðað (sjá síðar). Gróðurleifar undir þessu hrauni eru afar fátæklegar og því hefur enn ekki verið hægt að koma C14 athugunum við.

Kóngsfellshraun
Stóra-KóngsfellVestan við Stóra Kóngsfell er stutt gígaröð, sem nær upp í fellið og er á sprungu, sem gengur gegnum það. Þarna hafa einkum tveir gígir verið virkir. Hraunið hefur runnið báðum megin við Kóngsfell norður og niður á við. Það hefur runnið upp að Rjúpnadyngjum og báðum megin við þær og er því yngra en sú gosstöð og þar með frá sögulegum tíma. Nánari aldursákvörðun á þessu gosi liggur ekki enn fyrir.

Breiðdalshraun

Kistufellsgígur

Kistufellsgígur.

Á Brennisteinsfjöllum er feiknamikil eldstöð, sem ég hef nefnt Kistu og sem sent hefur hraunstrauma bæði suður og norður af fjallinu. Það hraun, sem til norðurs rann, er dæmigert helluhraun. Unun er að ganga þessar svörtu klappir, sem bjóða upp á hin furðulegustu mynstur í formi straumgára, fellinga og hraunreipa. Það hefur runnið í fremur mjóum straumi norðvestur fjallið milli eldri hrauna og fallið í bröttum fossi ofan í Fagradal, þar sem það hefur hrifið með sér stór björg og steina úr brúninni og liggja þeir nú í tugatali ofan á hrauninu í dalnum, meðal grjóts sem síðar hefur hrunið úr fjallinu út á hraunið.

Breið

Það hefur svo haldið áfram allt að Undirhlíðum og loks staðnæmst í Breiðdal og þekur allan dalbotninn með sléttu hrauni. Þar sem það fellur niður í dalinn austan við Breiðdalshnjúk er það örþunnt. Leysingavatn hefur þar grafið sér farveg meðfram því og nokkuð inn undir rönd þess. Þar má sjá jarðveg þann, sem hraunið rann yfir og finna leifar þess gróðurs, sem þar var þá og raunar liggja þær gróðurleifar í sjálfu landnámslaginu. Liggur því tvöföld sönnun fyrir aldri þessa hrauns, enda gaf C” ákvörðun um ár 910. Meðal gróðurleifa virtist vera beitilyng, víðir, bláberjalyng og einír, en þetta allt vex á staðnum enn í dag.

Selvogshraun

Herdísarvíkurfjall

Herdísarvíkur- og Hlíðarfjall – sjá má hrauntauma ofan frá Brennisteinsfjöllum.

Skammt eitt austan við hina fornu brennisteinsnámu, sem raunar mun hafa gefið þessum fjallaslóðum nafn, rís á fjallsbrún hár og brattur gígur, sem ég í dagbókum mínum hef nefnt Gráfeld. Hljóti það nafn viðurkenningu, skal hraun þetta Gráfeldshraun heita, en fram til þess nota ég hitt nafnið enda hef ég áður notað það (Jón Jónsson 1978).

Draugahlíðar

Gráfeldur á Draugahlíðum.

Þessi gígur er á sprungu og smágígir eru vestan við hann. Auðsætt er að hann hefur þegar í upphafi tekið völdin og sent hraunflóð mikið niður í dalinn, þar sem fleiri hraun voru þegar fyrir og fylla hann nú fjalla milli. Meðal þeirra er áðurnefnt Breiðdalshraun, sem hverfur inn undir þetta hraun, sem þannig örugglega er yngra, enda yngst í dalnum og samkvæmt þessu frá sögulegum tíma. Annálar geta þess að hraun hafi runnið niður í Selvog 1340 og 1389 (Þorvaldur Thoroddsen 1925, bls. 188-189). Mjög trúlegt sýnist að Selvogshraun sé frá öðru hvoru þessu gosi, en vel gætu hafa orðið enn fleiri gos í Brennisteinsfjöllum á sögulegum tíma og vafalaust hafa bæði þessi gos orðið þar, en tímasetning er óljós. Hraunið hefur fallið fram af Herdísarvíkurfjalli við Hlíðarvatn, en staðnæmst neðan við brekkurætur aðeins norðan við núverandi þjóðveg. Hraun það er fallið hefur niður í Kleifarvatn sunnanvert og Hvammahraun nefnist er mjög ungt og gæti jafnvel verið frá sögulegum tíma.

Tvíbollahraun
TvíbollahraunVið Grindaskörð eru gígaraðir á sprungubelti og hefur þar verið mikil eldvirkni. Meðal þessara gíga eru Tvíbollar, en það eru gígir tveir, sem gnæfa á norðurbrún fjallsins og hef ég áður fjallað um þá (Jón Jónsson 1977). Eins og nafnið bendir til eru gígir þessir samvaxnir og sést það vel neðan úr byggð. Aðalgígurinn er 40 – 60 m hár en minni gígurinn tæplega þriðjungur þess. Gígirnir eru hlaðnir úr gjalli og hraunkleprum og hraunstraumurinn hefur fallið norður og mest um undirgöng, sem enn má sjá. Lengst norður nær hraun þetta að Helgafelli og hefur runnið í örþunnum straumi vestur með því að sunnan en hverfur loks undir Gvendarselshraun við suðvesturhornið á fellinu. Rétt þar hjá hefur leysingavatn grafið fornan jarðveg undan hrauninu svo það hefur á kafla fallið niður. Kemur við það í ljós jarðvegslag, sem er rösklega 1,2 m þykkt og í því m. a. eitt ljóst öskulag, sem talið er að sé H3 (frá Heklu fyrir 2.800 árum), en næst hrauninu eru kolaðar gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst 1075±60 C’4 ár, (Jón Jónsson 1977) en það þýðir að hraunið gæti hafa runnið árið 875 og er því frá sögulegum tíma.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Jafnframt fannst landnámslagið undir þessu hrauni, aðeins ofan við áðurnefnt niðurfall. Þrjú hraun hafa síðar runnið út á þetta hraun og eru því yngri, en þau eru Rjúpnadyngnahraun, Kóngsfellshraun og svo það litla hraun, sem næst verður fjallað um í þessari grein.

Gvendarselshraun
GvendaselsgígarNorðurendi Undirhlíða er nefndur Gvendarselshæð. Hún endar við Kaldárbotna. Austan í hæðinni gegnt Helgafelli er gígaröð, sem ég hef nefnt Gvendarselsgígi. Þeir eru á misgengi því, sem liggur eftir endilöngum Undirhlíðum, klýfur Kaldárhnúk, myndar vesturbrún Helgadals og klýfur Búrfellsgíginn um þvert og heldur áfram um Heiðmörk. Hraun frá þessari litlu gígaröð þekur allt svæðið milli Gvendarselshæðar og Helgafells. Víðast er það dæmigert helluhraun. Það hefur runnið niður í Kaldárbotna að norðaustan í smátotu, sem hangir þar níður, en hefur staðnæmst neðan við hjallann.

Gvendarselsgígar

Gvendarselsgígaröðin og Gvendarselshraun.

Annar straumur hefur fallið vestur um skarðið milli Kaldárbotna og Hlíðarhorns og nær nokkuð vestur fyrir Kaldársel. Vestast er það svo þunnt að talsverða nákvæmni þarf til þess að rekja ystu mörk þess. Þriðja hraunkvíslin hefur svo fallið um Kýrskarð við suðurenda megin gígaraðarinnar, og út á Óbrinnishólahraun, og myndar smá hraunbleðil vestan undir hæðinni. Eins og áður er sagt hverfur Tvíbollahraun inn undir Gvendarselshraun við suðurenda Helgafells. Gvendarselshraun er því yngra. Auk þess grófum við Sigmundur Einarsson jarðfræðingur inn undir hraunið syðst og fundum þar bæði landnámslagið og gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst vera frá því um 1075.

Nýjahraun — Kapelluhraun
KapelluhraunEins og áður er sagt bendir upprunalegt nafn þessa hrauns ótvírætt til þess að það hafi orðið til á sögulegum tíma. Um aldur þess hefur að öðru leyti ekki verið vitað. Í sambandi við rauðamalarnám við gígina, sem hraunið er komið úr, opnaðist möguleiki til þess að komast að jarðvegslögum undir því og ná þar í kolaðar gróðurleifar. Þar voru tekin alls 3 sýni á jafnmörgum mismunandi stöðum. Aldursákvarðanir á þeim sýndu að gosið hafi þarna um 1005. Þrátt fyrir þær skekkjur, sem loða við þessar aldursákvarðanir er með þeim staðfest að hraunið er frá sögulegum tíma og næsta ljóst að gosið hafi orðið snemma á 11. öld.

Ögmundarhraun
ÖgmundarhraunEkki er kunnugt um uppruna nafnsins á hrauni þessu, en langt er síðan að ljóst var að það hafði runnið á sögulegum tíma. Það sanna rústir bæjar, sem eyðst hafði í gosinu. Ögmundarhraun er komið úr gígaröðum austan í og austanundir Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi). Samanlögð lengd þessara gígaraða er nær 5 km.
Næsta ljóst er að allar hafa þær verið virkar aðeins í byrjun gossins, en fljótlega hefur hraunrennslið færst yfir í, einkum þrjá gígi, nálægt austurenda gígaraðarinnar og þaðan hefur megin hraunflóðið runnið suður dalinn milli Krýsuvíkurmælifells og Latsfjalls alla leið í sjó fram. Þarna hefur það farið yfir gróið land og eyðilagt a. m. k. eitt býli eins og rústirnar sanna, en vel gætu þau hafa verið fleiri og raunar ekki ólíklegt að svo hafi verið (Jón Jónsson 1981).

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Hraunið hefur fallið í sjó fram á um 7,5 km strandlengju og hugsanlegt gæti verið að þar hafi sú vík verið, sem Krýsuvík er kennd við — sé það á annað borð nauðsynlegt að skýra nafnið svo – og hafi hraunið fyllt hana. Um þetta skal ekkert fullyrt. Lengi hefur því verið haldið fram að þetta gos hafi orðið árið 1340. Þetta ártal er komið frá Jónasi Hallgrímssyni, en ekki getur hann heimilda fyrir því. Á öðrum stað hef ég rakið það, sem vitað er um aldur hraunsins og er ekki ástæða til að endurtaka það hér (Jón Jónsson 1981). Því má aðeins bæta við hér að engar mannvistarleifar er að finna í tveim smá óbrennishólmum ofar í hrauninu. Þess skal hér einnig getið að svo virðist sem Ögmundarhraun, Nýjahraun (Kapelluhraun) og Gvendarselshraun hafi öll orðið í einni goshrinu, sem þá hafi orðið á fyrri hluta 11. aldar. Því má svo bæta við, að vel gætu fleiri gos hafa orðið um svipað leyti eða samtímis víðar á Reykjanesskaga og skal nánar að því vikið síðar. Sjá ennfremur töflu I hér á eftir.

 

Afstapahraun
AfstapahraunÁður hef ég leitt nokkur rök að því (Jón Jónsson 1978) að nafnið á þessu hrauni sé afbökun úr Arnstapa — enda er hitt nafnið lítt skiljanlegt. Ekkert hefur verið vitað með vissu um aldur þessa hrauns. Þorvaldur Thoroddsen (1925, bls. 187) segir raunar að það sé „in aller Wahrscheinlich
nach bei Ausbrúcken in historischer Zeit hervorgebrochen”, en ekki fer hann í þessu eftir öðru en unglegu útliti hraunsins. Í norðanverðu hrauninu eru nokkrir óbrennishólmar og eftir að athuganir meðfram vesturbrún hraunsins höfðu ekki borið árangur, leituðum við Sigmundur Einarsson jarðfræðingur fyrir okkur nyrst í einum þessara hólma. Eftir að hafa grafið á nokkrum stöðum við hraunröndina töldum við okkur hafa fundið landnámslagið, sem liggur inn undir hraunið. Þar eð ég var ekki fyllilega ánægður með sniðið fór ég aftur á staðinn og gróf lengra inn undir hraunið. Þar fann ég landnámslagið mjög greinilegt með þess einkennum, ljóst að neðan en dökkt að ofan. Þetta má vel greina á ljósmyndinni ef hún prentast sæmilega. Þar með er ljóst að Afstapahraun er runnið á sögulegum tíma. Ekki heppnaðist að finna gróðurleifar nothæfar til aldursákvörðunar.

Arnarseturshraun
ArnarseturshraunHraun þetta hefur komið upp í tveim gígum og ber sá þeirra sem hæstur er nafnið Arnarsetur. Hraunið hefur ótvíræða dyngjulögun, einkum séð vestan frá, en bergfræðilega er það skyldara sprunguhraunum. Þetta hefur verið allmikið gos. Hraunið þekur sem næst 22 km2 og telst samkvæmt
því 0,44 km en sennilega er sú tala talsvert of lág því hraunið er greinilega mjög þykkt á stóru svæði kringum eldvarpið. Eldra hraun, sem aðeins sést í smá óbrennishólma bendir til þess að áður hafi gosið á þessum sama stað. Í sambandi við jarðfræðikortlagningu kom í ljós að Arnarseturshraun hlaut að vera yngst allra hrauna á þessu svæði. Það vakti grun um að það gæti verið frá sögulegum tíma.

Litla-Skógfell

Út frá þeím skráðu heimildum, sem til eru, virtist liggja beinast fyrir að ætla að gos þetta hafi orðið 1660 og sé það, sem getið er um í annál Gunnlaugs Þorsteinssonar fyrir árið 1661, Vallholtsannál, (Annálar 1400-1800) sem getur um eldgos í Grindavíkurfjöllum þetta ár. Sú var og niðurstaða mín (Jón Jónsson 1978, bls. 258-9). Hins vegar hafa nú rannsóknir leitt í ljós að svo getur ekki verið, og er hraunið talsvert eldra, en eigi að síður frá sögulegum tíma. Óbrennishólmi einn lítill er skammt fyrir neðan Litlaskógfell og eftir árangurslausa leit á nokkrum stöðum fórum við Sigmundur Einarsson jarðfræðingur og grófum þar við hraunröndina. Fundum við þar bæði landnámslagið og Kötlulagið, hið fyrra undir, hið síðara ofan á hrauninu. Af jarðvegssniðinu má ráða að talsvert lengri tími hafi liðið frá því að landnámslagið féll til þess að hraunið rann, en frá því til þess að Kötlulagið féll. Sýnist því að þetta gos gæti vel hafa orðið eitthvað nálægt 1300, samanber töflu I.

Eldborg við Trölladyngju
EldborgÞess skal og getið að gos það er orðið hefur rétt norðan við Trölladyngju og myndað gíginn Eldborg sýnist hafa orðið um líkt leyti og Afstapahraun rann. Ég hef áður talið þetta hraun yngra en Afstapahraun (Jón Jónsson 1978) en ekki treysti ég mér til að telja þá niðurstöðu með öllu ótvíræða. Vel gætu þessi gos bæði hafa verið svo að segja samtímis og mætti þá raunar um það deila hvort um er að ræða eitt gos eða tvö. Einar Gunnlaugsson (1973) fann öskulag ofan við landnámslagið í Hörðuvallaklofa og er líklegt að það sé af þessum slóðum komið. Ekki verður hins vegar í það ráðið hvort það kann að vera úr Eldborg eða öðru eldvarpi í nágrenninu.

Traðarfjöll
TraðarfjöllEftir að þessi grein var búin til prentunar, fannst enn ein eldstöð, sem telja verður óvéfengjanlegt að sé frá sögulegum tíma. Þessi eldstöð er sunnan í Traðarfjöllum, skammt sunnan við Djúpavatn. í riti mínu um jarðfræði Reykjanesskaga (Jón Jónsson 1978, bls. 165-166) er eldstöðvum á þessu svæði nokkuð lýst og hraunið nefnt Traðarhraun, en réttara væri e. t. v. að nefna það Traðarfjallahraun. Þegar vegur var lagður gegnum Reykjanesfólkvang var hann skorinn inn í gíg sunnan í Traðarfjöllum. Við það kom í ljós allþykkt moldarlag undir gjallinu og reyndist þar auðvelt að grafa fram jarðvegssnið, sem nær frá því og niður á fast berg, sem þarna er móberg. Undir gjallinu er fyrst 9 cm þykkt moldarlag en þá kemur ljósleitt (nánast gulleitt) öskulag, sem ekki getur annað verið en landnámslagið margumtalaða.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; nútímahraun.

Sýnir þetta að þarna hefur gosið, að líkindum þó nokkru eftir árið 900 þar eð um 9 cm jarðvegur hefur verið kominn ofan á öskulagið áður en gosið varð. Vel gæti þetta hafa verið um sama leyti og Ögmundarhraun rann, þótt ekkert sé um það hægt að fullyrða. Eins og teikningin sýnir er annað ljóst öskulag neðar í sniðinu og ætti það samkvæmt reynslu að vera H3. Ekki hefur enn gefist tími til að rekja útbreiðslu hraunsins frá þessu gosi, enda er það ekki auðvelt. Hitt er ljóst að með þessu bætist við enn eitt gos, sem örugglega hefur orðið á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Þykir þetta renna enn einni stoð undir það að meiriháttar goshrina hafi þar orðið snemma á landnámsöld. Ekki var mögulegt að greina neinar gróðurleifar undir gjallinu. Nægilega mikið loft hefur þarna komist að til þess að gras hefur brunnið til ösku en ekki kolast. Því má bæta hér við að þar eð svona þykkt jarðvegslag er komið ofan á landnámslagið, gæti þetta verið það gos sem Jónas Hallgrímsson talar um og Þorvaldur Thoroddsen (1925) vitnar í. Gæti þetta verið skýringin á því að ártalið 1340 hefur verið tengt Ögmundarhrauni.

UMRÆÐA
Eldborg 3Af því sem hér hefur verið rakið er ljóst að gos hafa orðið á Reykjanesskaga a. m. k. 12 sinnum eða 13 frá þeim tíma að norrænt landnám hófst. Mjög sennilegt virðist að Eldborg við Bláfjöll hafi gosið á sögulegum tíma endanlegar. Svo virðist sem eldvirkni hafi verið mikil á tímabilinu 1000-1400 og raunar eins skömmu fyrir landnám. Hraun frá sögulegum tíma þekja um 143 km2 og rúmtak þeirra ætti að vera um 2,3 km. Einnig þetta eru lágmarkstölur. Það skal tekið fram að enda þótt hraunin 6, sem talin eru í efri hluta töflunnar, séu sett í ákveðna aldursröð er engan veginn víst að hún sé rétt.

Stóri-Bolli

Stóri-Bolli, Kóngsfellsgígur, í Kóngsfelli.

Ljóst er að Kóngsfellshraun er yngra en Rjúpnadyngjur, en þær aftur yngri en Tvíbollahraun. Arnarseturshraun og Afstapahraun gætu vel verið frá sama tíma. Spursmál sem þessi hljóta að bíða úrlausnar. Af sumum hraunanna eru til nokkrar aldursákvarðanir gerðar með nokkurra ára millibili, aðrar samtímis. Af Leitahrauni eru til 4 ákvarðanir, af Óbrinnishólum 4, Reykjafellshrauni 3 og af Ögmundarhrauni 5. í töflu I er gefið meðaltal.

Hraunmyndun

Nokkrum sinnum hafa verið gerðar tvær ákvarðanir á efni frá sama stað. Er þá annað sýnið að jafnaði leifar kolaðs kvistgróðurs, stöku sinnum örugglega leifar birkikjarrs, en hins vegar kolaðar leifar gróðurs, sem ekki verður nánar ákvarðaður, væntanlega einkum leifar mosa og grasa. Ófrávíkjanlega hefur slíkt efni sýnt hærri – stundum verulega hærri aldur. Hefur það því ekki verið notað við gerð töflunnar, enda oft í ósamræmi við staðreyndir fengnar frá öskulögunum eða hreint jarðfræðilegum staðreyndum (t. d. jarðlagafræðilegum „stratigrafiskum”). Þessi mismunur er ofur eðlilegur þar eð lífrænar leifar efst í jarðveginum hafa líka náð að kolast, þegar hraunið rann yfir gróið land. Slíkt lag er 3 – 4 cm þykkt eða meir. Þess má geta að hraunið úr Eldborgum undir Meitlum, það er runnið hefur niður í Ölfus og bæði ég (Jón Jónsson 1977) og Þorleifur Einarsson (1960) höfum talið vera nær samtíma gosinu í Reykjafellsgígum (Hellisheiðarhraun IV hjá Þorleifi), er samkvæmt C14 ákvörðuninni verulega eldra.

Hrútagjá

Hrútagjárdyngja.

Af innbyrðis afstöðu hraunanna er ljóst að hraunið úr Eldborgum er eldra. Af innbyrðis afstöðu annarra hrauna til þeirra, sem aldursákvörðuð hafa verið, má nokkuð ráða um lágmarksaldur þeirra. Sem dæmi má nefna að hraunin frá Hrútagjárdyngjunni, en þau þekja svæðið frá Hvaleyrarholti vestur að Vatnsleysuvík, eru yngri en Búrfellshraun, þ. e. minna en ca. 7000 ára. Sama gildir um hraun það er ég hef kennt við Helgadal, en það hefur runnið út á Búrfellshraun, er brotið af misgengi eins og það og því sennilega óverulega yngra.
Margt fleira mætti telja, en hér skal nú staðar numið.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, Jón Jónsson, Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga, 54. árg, 1-4 tbl, 01.05.1983, bls. 127 – 138.Aldur

Eldgos

Á vefsíðu ÍSOR fjallar Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, um jarðfræði Reykjanesskagans (upphaflega frá 2010 og uppfært (MÁS) 2021):

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, með drög að jarðfræðikorti ÍSOR af Reykjanesskaganum í FERLIRsferð undir Festisfjalli/Lyngfelli.

“Jarðfræðilega nær Reykjanesskagi austur að þrígreiningu plötuskilanna sunnan Hengils. Reykjanesskagi er svokallað sniðrekbelti og fer gliðnunin fram í NA-SV-eldstöðvakerfum, sem eru tugir kílómetra að lengd, með misgengjum, gjám og gígaröðum.

Á kortinu eru sýndir helstu hnikþættir á Íslandi. Rekbeltin á Íslandi (svört) hliðrast til austurs frá Reykjaneshrygg (RH) og Eyjafjarðarál (EÁ). Það gerist um Suðurlands-þverbrotabeltið (SB) og annað þverbrotabelti kennt við Tjörnes (HF) milli Húsavíkur og Flateyjar. Rekhraði er um 1 cm á ári í hvora átt.

Á Reykjanesskaga kemur sniðgengisþátturinn fram í nokkurra kílómetra löngum norður-suður sprungum með láréttri færslu og sprunguhólum. Þær eru á mjóu belti sem liggur eftir skaganum endilöngum. Þar verða tíðum jarðskjálftar. Þeir koma í hrinum og eru flestir litlir. Sá öflugasti hefur verið um 6 stig að stærð. Tímabil eldgosa og gliðnunarhreyfinga annars vegar og sniðgengishreyfinga hins vegar skiptast á og standa hvor um sig í 6-8 aldir. Tímabil sniðgengishreyfinga hefur staðið yfir síðustu aldirnar en vísbendingar eru um að því sé að ljúka.

Jarðfræðikort

Reykjanesskagi  og hestu hnikþættir landsins.

Á Reykjanesskaga eru sex eldstöðvakerfi. Miðstöð þeirra ákvarðast af mestri hraunaframleiðslu í sprungugosum. Sprungusveimar eldstöðvakerfanna, með gjám og misgengjum, eru miklu lengri en gossprungureinarnar. Þar hafa kvikuinnskot (berggangar) frá megineldstöðvunum ekki náð til yfirborðs. Í fimm af eldstöðvakerfunum er háhitasvæði. Hitagjafi þeirra eru innskot ofarlega í jarðskorpunni. Boranir á háhitasvæðunum hafa sýnt að 20-60% bergs neðan 1000-1600 m eru innskot. Súrt berg og öskjur eru ekki í eldstöðvakerfum skagans. Veik vísbending er þó um kaffærða öskju á Krýsuvíkursvæðinu, og í Hengli kemur fyrir súrt berg í megineldstöðinni, en það er norðan þrígreiningar plötuskilanna (gosbeltamótanna). Bergfræði gosbergsins í eldstöðvakerfunum spannar bilið frá pikríti til kvarsþóleiíts.

Eldvirkni og gliðnunartímabil

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – eldstöðvakerfi.

Rannsóknir sýna að eldvirkni- og gliðnunartímabil (gosskeið) verða á 6-8 alda fresti á Reykjanesskaga. Gosvirknin einkennist af eldum sem geta staðið í nokkra áratugi, með hléum. Eldstöðvakerfin hafa yfirleitt ekki verið virk samtímis heldur hefur gosvirkni flust á milli þeirra eitt af öðru. Hvert eldstöðvakerfi verður virkt á 900-1100 ára fresti. Um 950 ár eru frá síðasta gosi í Brennisteinsfjallakerfinu en 780-830 ár í vestari kerfunum. Rannsóknir benda til að síðasta gosskeið hafi byrjað með eldum í Brennisteinsfjöllum og á Trölladyngjurein Krýsuvíkurkerfisins laust fyrir árið 800. Eftir þá hrinu kom um 150 ára hlé þar til eldvirkni tók sig upp aftur í Brennisteinsfjallakerfinu á 10. öld. Þar á eftir fylgdi Krýsuvíkurkerfið á 12. öld. Að síðustu gaus á vestustu kerfum skagans, Reykjanes- og Svartsengiskerfunum, á 13. öld. Þeim eldum lauk um árið 1240. Brennisteinsfjallakerfið hefur verið virkast af eldstöðvakerfum Reykjanesskaga eftir ísöld og framleitt mest hraun, bæði að flatar- og rúmmáli.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – eldvirkni og gliðnunartímabil.

Tímabil eldgosa eru fundin með aldursgreiningu hrauna með hjálp öskulaga og C14- aldursgreiningum, auk skráðra heimilda um gos eftir landnám. Tvö síðustu gosskeiðin eru vel þekkt og það þriðja fyrir um 3000 árum að nokkru leyti. Vísbendingar eru um fleiri gosskeið þar á undan en aldursgreiningar eru of fáar enn sem komið er til að tímasetja þau af nákvæmni.”

Kristján Sæmundsson fjallar einnig um jarðfræði Reykjanesskagans á Vísindavef Háskóla Íslands:
“Gosbeltið á Reykjanesskaga er sniðreksbelti, það er að segja í senn þverbrota- og gliðnunarbelti. Stefna þess er 70-80 gráður austur, en það sveigir til norðaustlægari stefnu allra vestast. Þarna munar 25-35 gráðum frá rekstefnu. Þáttur þverbrotabeltisins kemur fram í norður-suður sniðgengjum með hægri hliðrun. Sniðgengin eru minni háttar skástígar gjár, oft samtengdar með sprunguhólum.

Reykjanesskagi

Gliðnunarbelti millum Lönguhlíðar og Geitahlíðar – sigdæld.

Gliðnunarbeltin koma fram sem gígar og gígaraðir, gjár og misgengi í eldstöðvarkerfum skagans. Þau eru sex, að meðtöldu Hengilskerfinu, og liggja norðaustur-suðvestur, skáhallt á gosbeltið. Eldstöðvakerfin eru flest hver miklu lengri en gosmenjar á yfirborði gefa til kynna. Eldvirkni nær yfir stóran hluta þeirra, en á norðausturhlutanum eru svo til eingöngu gjár og misgengi. Þar hefur hraunkvika sjaldan náð til yfirborðs en setið eftir í berggöngum.
Eldstöðvakerfin mynda grunneiningar í jarðfræði Reykjanesskaga. Þau eru fimm til átta kílómetra breið og flest 30 til 50 kílómetra löng. Í hverju þeirra eru tvær eða fleiri gos- og sprungureinar. Fullmótuð kerfi með háhitasvæði og sprungusveim eru fimm. Þau eru kennd við Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengil. Sjötta eldstöðvakerfið, sem kenna má við Fagradalsfjall, er ólíkt hinum að gerð. Þar er hvorki jarðhiti né sprungusveimur.

Reykjanes

Jarðfræði Reykjanesskaga – sveimar.

Skil milli kerfanna eru oftast skýr, en þau skarast þegar kemur norðaustur á gjásvæðin. Milli Reykjaness- og Svartsengiskerfanna er einföld röð dyngna og bólstrabergsfella úr ólivínríku basalti, Háleyjabunga yst og Stapafell innst. Mörk Fagradalsfjallskerfisins við þau næstu markast af löngum gossprungum beggja vegna. Skil Krýsuvíkur- og Brennisteinsfjallakerfanna eru í Kleifarvatnslægðinni með stapana Lönguhlíð og Geitahlíð að austanverðu. Skil Brennisteinsfjalla- og Hengilskerfis eru hér sett við Þrengsli.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – sprungureinar.

Á Reykjanesskaga skiptast á gos- og gliðnunartímabil á sprungusveimum með stefnu norðaustur-suðvestur og skjálftatímabil með virkni á norður-suður sprungum. Það er afleiðing af því að Reykjanesskagi liggur skáhallt á rekstefnuna og spennusviðið sveiflast á milli lóðréttrar mestu bergspennu og láréttrar með suðvestur-norðausturstefnu. Í báðum tilvikum er minnsti þrýstingur í stefnu reksins. Kvikuinnskot þarf til að gjárnar gliðni, en það getur gerst án þess að gjósi. Gos- og gliðnunartímabilin, hér nefnd gosskeið, standa yfir í nokkrar aldir hvert.

Grindavík

Grindavík – gjár, sprungur og misgengi.

Á síðasta gosskeiði fluttist gosvirknin milli eldstöðvakerfanna með 30-150 ára millibili. Gosvirknin einkennist af sprungugosum sem vara í nokkra áratugi, en með hléum á milli gosa. Goshrinur af þessu tagi eru kallaðar eldar. Á milli gosskeiðanna eru löng skjálftatímabil án kvikuvirkni og þá væntanlega eins og á síðustu áratugum með ótal snöggum hrinum sem standa daglangt eða í fáar vikur. Gosskeið síðustu 3500 ára eru þrjú, og vísbendingar eru um fleiri þar á undan. Í Fagradalsfjallskerfinu hefur ekki gosið á þessu tímabili og aðeins einu sinni í Hengilskerfinu.

Bólstrar

Bólstri í Lambatanga í Krýsuvík.

Á Reykjanesskaga hefur aðeins gosið basalti eftir að land varð jökullaust. Dyngjuhraun eru úr pikríti og ólivínþóleiíti en hraun frá gossprungum yfirleitt úr þóleiíti. Súrt berg er ekki að finna á skaganum nema í Hengilskerfinu. Þar spannar samsetning bergsins allt bilið frá pikríti í ríólít. Í hinum kerfunum nær það einungis yfir í þróað basalt.
Aldursdreifing sprungugosa sem vitað er um á Reykjanesskaga síðustu 3500 árin má sjá á meðfylgjandi mynd. Tímasetning er byggð á sögulegum heimildum, aldursgreiningu með geislakoli (C-14) og öskulagsrannsóknum.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort nútímahrauna.

Af “eldvirknismyndinni” hér að ofan má ráða að skipst hafi á gosskeið sem stóðu í 400-500 ár, og goshlé í 600-800 ár. Núverandi hlé er nálægt efri mörkum. Sé hins vegar litið á eldstöðvakerfin ein og sér, verða hléin mun lengri, að meðaltali nálægt 1000 árum. Í engu eldstöðvakerfanna er komið fram yfir lágmarkslengd fyrri hléa, nema ef til vill í Brennisteinsfjöllum. Allt að fjórar aldir þurfa að líða þar til lengstu hléunum er náð. Í Hengilskerfinu varð eina kvikuhlaupið án goss sem vitað er um. Þá er átt við Þingvallasigið árið 1789.

Reykjaneskagi - jarðfræði

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Dyngjurnar eru gular.

Eldri hraun eru of fá tímasett til að rekja söguna lengra aftur. Segja má þó að grilli í fleiri gosskeið, svo sem fyrir 4000 og 8000 árum. Eins og sjá má á myndinni hefur eldvirkni á hverju gosskeiði oftast hafist í Brennisteinsfjallakerfinu og síðan færst vestur.

Að frátöldum dyngjunum hefur upphleðsla gosefna í eldstöðvakerfum Reykjanesskaga, öðrum en Henglafjöllum, verið mest þar sem sprungusveimar liggja yfir flekaskilin. Þau markast af skjálftabelti skagans, og þar eru einnig háhitasvæðin. Segja má að þar séu vísar að megineldstöðvum. Ætla má að í rætur þeirra geti safnast kvika sem síðan leitar út í sprungusveimana, myndar ganga og kemur upp í sprungugosum.

Jón Jónsson

Jón Jónsson – jarðfræðikort af Hrútagjárdyngju og nágrenni.

Hnyðlingar í gjalli og úrkasti sprengigíga í Krýsuvík eru vísbending um að grunnstæð gabbróinnskot, það er kvikuhólf sem voru eða eru þar undir, en greinast ekki í skjálftum.

Á Reykjanesskaga eru dyngjur í þyrpingum, ýmist í virknimiðjum eldstöðvakerfanna, svo sem í Hengils-, Brennisteinsfjalla- og Fagradalsfjallskerfunum, eða utan þeirra. Stærstu dyngjurnar ná yfir 200 ferkílómetra og áætlað rúmmál þeirra stærstu er fimm til sex rúmkílómetrar. Alls eru þekktar um tuttugu dyngjur á Reykjanesskaga. Af þeim eru 12 úr ólivínþóleiíti, hinar úr pikríti.”

Sjá einnig Jarðfræði Reykjanesskaga I, meira HÉR og HÉR.

Heimildir:
-https://isor.is/jardhiti/yfirlit-um-jardfraedi-reykjanesskaga/
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=65699

Reykjanesskagi

Reykjanesskgai – jarðfræðikort ÍSOR.

Kristján Sæmundsson

Í Morgunblaðinu 2013 er fjallað um stórvirkið “Jarðfræðikort ÍSOR” af Suðvesturhorni Íslands undir fyrirsögninni “Afrakstur rannsókna í áratugi”.

IsorJarðfræði; misgengi, gjár, hverir, lindir og ótalmargar hraunbreiður hafa verið færðar á yfirlitskort. Vísindamenn ÍSOR hafa kannað svæðin ítarlega. Síðan hafa nær sleitulaust verið stundaðar rannsóknir af ýmsu tagi sem fjölmargir vísindamenn hafa komið að. Flestar þessara rannsókna hafa verið í tengslum við virkjanir og hugmyndir þar að lútandi. Kortlagning ÍSORs af jarðfræði landsins er og hefur verið grundvöllur verndar og nýtinga náttúruverðmæta þess.

“Árið 2010 kom hjá ÍSOR fyrsta jarðfræðikortið í kvarðanum 1:100.000 en það var af Suðvesturlandi. Nýverið er hafin vinna við kort af syðri hluta norðurgosbeltisins og vonast er til að það komi út árið 2014.
ÍSOR hefur lagt til að hafist verði handa við alhliða rannsóknir á auðlindum gosbelta landsins, en slíkar rannsóknir eru nauðsynlegar – og grundvöllur þess þegar taka skal ákvörðun um vernd og nýtingu auðlindanna. Reikna má með að átta kort þurfi til þess að ná yfir gosbeltin.

Isor

Jarðfræðikort ISOR af Suðvesturlandi – auglýsing.

Við lítum á það sem samfélagslega skyldu okkar að koma þeirri þekkingu sem vísindamenn okkar afla á form sem nýtist sem flestum til fróðleiks og skemmtunar. Auk þess að vera undirstaða fyrir umhverfismat, skipulag, nýtingu lands og auðlinda eru slík kort fróðleiksnáma fyrir alla þá sem vilja ferðast um landið og fræðast um náttúru þess,“ segir Ingibjörg Kaldal, jarðfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum.

„Það er misjafnt eftir svæðum hve langan tíma það tekur að afla gagna fyrir svona kort, segir Ingibjörg Kaldal sem er einn jarðfræðinganna sem unnu kortið. Hinir eru Kristján Sæmundsson, Árni Hjartarson, Magnús Á. Sigurgeirsson, Sigurður G. Kristinsson og Skúli Víkingsson.
ISORIngibjörg nefnir í að í sumar séu liðin 50 ár síðan aðalhöfundur jarðfræðikortsins nýja, Kristján Sæmundsson, kom fyrst á Kröflusvæðið til jarðfræðirannsókna. Síðan hafa nær sleitulaust verið stundaðar þar rannsóknir af ýmsu tagi sem fjölmargir vísindamenn hafa komið að. Flestar þessara rannsókna hafa verið í tengslum við virkjanir og hugmyndir þar að lútandi. Einnig hefur landið verið kannað vegna annarra verkefna eins og vatnsaflsrannsókna og lághitarannsókna. Ingibjörg Kaldal segir þau mál ekki hafa að neinu leyti þrýst á um útgáfu kortsins góða.

Isor

Jarðfræðikort ISOR af Suðvesturlandi.

„Nei, eiginlega ekki. Við rannsóknir vegna virkjanahugmynda á svæðinu hefur orðið til fjöldinn allur af jarðfræðikortum sem eingöngu hafa birst í skýrslum og greinargerðum fyrir verkkaupa ÍSOR og því fáum öðrum aðgengileg,“ segir Ingibjörg. Bætir við að það hafi verið með samþykki verkkaupa rannsókna á þessu svæði sem ákveðið hafi verið að gefa kortið góða út.

Gjávella er nýyrði
Við gerð þessa korts af Norðurgosbeltinu varð til nýyrðið gjávella. Þar sem greið leið er ofan í opnar gjár getur hraun runnið ofan í þær og langa leið eftir þeim neðanjarðar.

Kvikugangur

Gjávella eða kvikugangur.

Hraunið getur jafnvel komið upp um gjá annars staðar í tuga kílómetra fjarlægð og kallast þá gjávella.
„Augu manna opnuðust fyrst fyrir þessu fyrirbæri í Kröflueldum 1975-1984 þar sem menn urðu vitni að því er hraun rann ofan í gjá í 170 m breiðum hraunfossi. Nýyrðið varð þó fyrst til við gerð þessa korts og er Kristján Sæmundsson nýyrðissmiðurinn. Nokkur dæmi er um eldri gjávellur á þessu svæði en þetta fyrirbæri er ekki þekkt í öðrum landshlutum,“ segir Ingibjörg Kaldal. – sbs@mbl.is

Grindavík

Grindavík – jarðfræðikort Jóns Jónssonar. Kort Jóns voru öll unnin “á fæti” fyrir tíma tölva og nákvæmra loftmynda.

OR (Orkuveita Reykjavíkur) birti á sínum tíma áhugavert rit og síst einstök jarðfræðikort Jóns Jónssonar, jarðfræðings, af Reykjanesskaganum. Það var síðan tekið út af vefnum, einhverra hluta vegna. Eitt eintak er til af ritinu í kjallara Þjóðarbókhlöðunnar.
ÍSOR birti síðan á vefsíðu sinni uppdrátt af jarðfræðikorti Suðvesturlands. Kristján Sæmundsson hafði skömmu áður prentað kortið út fyrir FERLIR, sem fylgdi Kristjáni síðan áfram um Reykjanesskagann með nýjum uppgötvunum. Einhverra hluta vegna var vefútgáfa jarðfræðikortsins í framhaldinu fjarlægð og prentaðri útgáfu komið í sölu í allar helstu bókaverslanir. Slíkt getur nú varla talist “fyrir alla þá sem vilja ferðast um landið og fræðast um náttúru þess”.

Segja má að Jón Jónsson hafi verið frumkvöðull að gerð jarðfræðikorta á Reykjanesskaga, Kristján Sæmundsson hafi síðan tekið upp þráðinn og Árni Hjartarson, Magnús Á. Sigurgeirsson, Sigurður G. Kristinsson og Skúli Víkingsson bætt um betur. Af þessu má sjá hversu mannkynið er öflugt í eigin þróun, þrátt fyrir tiltölulega stuttan líftíma hvers og eins, miðað við jarðsöguna.
Öllum þessum fólki ber að þakka fyrir þess frábæra framlag…

Heimild:
-Morgunblaðið 25.04.2013, Afrakstur rannsókna í áratugi, bls. 14.

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, með drög að jarðfræðikorti Suðvesturlands í FERLIRsferð undir Festisfjalli/Lyngfelli.

Reykjanesskagi

Góð gönguleiðakort af tilteknum svæðum eru mikilvæg. Svo virðist sem ákveðin feiðmni virðist ráða þegar kemur að birtingu þeirra í góðri upplausn á veraldarvefnum. Hér á eftir eru dæmi um nokkur kort af svæðum á Reykjanesskaganum, s.s. Þingvöllum, Hengli, Heiðmörk, Mosfellsbæ og Reykjanesskaga.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – kort.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – kort.

Reykjanesskagi

Jarðfræði Reykjanesskagans – Isor.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi.

Hengill

Hengilssvæðið – kort.

Mosfellsbær

Gönguleiðir í Mosfellsbæ

Tröllafoss

Landmælingar Íslands gáfu á sínum tíma út stafrænt “Hryllingskort” þar sem listuð eru upp allflest örnefni er tengst gætu hryllingi af einhhverju tagi hér á landi. Að eftirskráðu eru þau þar að lútandi örnefni er tengjast Reykjanesskaganum með einum eða öðrum hætti.

Hryllingsörnefnakort Lmi

“Hryllingsörnefnakort” Landmælinga Íslands.

Austan Mölvíkur taka við Draugagjártangar, sker og drangur fram í sjó, og austur af þeim taka svo við Draugagjár, og eru þar klappir og klettar. Á einum stað liggur milli klettanna gjá; þar svarrar sjórinn fast. Á Draugagjárlóninu er steinn mikill, Skarfaklettur. Austarlega í Draugagjám er klöpp, þangi vaxin og öðrum sjávargróðri. Í eina tíð lá Steinbogi út á klöppina, og þá leið fór féð til beitar. En á flæði hraktist það af klöppinni í ker, sem þar liggur inn af, og drapst þar. Þar af var kerið kallað Drápsker. Fyrir þessa sök var steinboginn brotinn. (Gísli Sigurðsson – örnefnalýsing fyrir Stakkavík)

Stakkavík

Stakkavík og Hlíðarvatn – örnefni.

Tangi eða hólmi er úti í vatninu fram undan bænum; Hjalltangi eða Hjallhólmi er hann nefndur. Þar á bærinn að hafa staðið upphaflega. Arnarþúfa er suður af tanganum. Sat þar örninn oft og hlakkaði yfir veiði. Þar fyrir sunnan skerast inn í landið vikin þrjú. Þar er fyrst Kristrúnarvik, og þá Girðingarvik, sem er nýlegt nafn, og þá vik með mörgum nöfnum, Vondavik, Forarvik og Moldarvik. Í viki þessu var venjulega kafhlaup af for, og því eru nöfnin. Gerð hafði verið brú með grjóti yfir vikið, og var að því nokkur bót. (Gísli Sigurðsson – örnefnalýsing fyrir Hlíð)

Hraun

Hraun – uppdráttur ÓSÁ.

Örnefni sem mér eru kunn í landi Hrauns eru eftirfarandi: Með sjó er Markabás vestast. Hann er austan við svonefnd Slok og skiptir löndum á milli Þórkötlustaða og Hrauns. Austan við Markabás er Hádegistangi. Hádegisklettur er þar ofan og sunnan við. Hann hét öðru nafni Klofaklettur, tvær strýtur voru upp úr honum en önnur er nú brotin af fyrir mörgum áratugum. Þetta var hádegismark frá gamla bænum á Hrauni. Þar norðan við er Skarfatangi. Það er smátá sem skagar út í sjóinn en fer í kaf á flóði. Magnús Hafliðason segist muna eftir grasi á Skarfatanga og þegar hann var ungur hafi gamlir menn sagt sér að grasbakki hafi verið á Skarfatanga. Skip hafa strandað sitt hvoru megin við Skarfatanga. Franski togarinn Cap Fagnet að sunnan og kútterinn Hákon að norðanverðu. Vikið norðan við Skarfatanga heitir Vatnagarður og sama nafn ber syðsti hluti túnsins þar upp af. Sker út af Vatnagarði kemur aðeins upp úr á stórstreymisfjöru og er kallað Klobbasker. Sagt er að það hafi komið upp þegar bænahús var aflagt á Hrauni (sennil. Á 17. öld).

Hraun

Hraun í Grindavík.

Gamla sundið lagðist þá einnig af. Vatnstangi er norðan við Vatnagarð. Þar rennur fram ferskt vatn. Fast norðan Vatnstanga er Suðurvör og var þar aðallending á Hrauni. Norðan við Suðurvör er sker og var farið fast með því þegar lent var og var það nefnt Rolla.
Norðurvör er í þröngum klöppum þar norður af og þar var aðeins hægt að lenda í mátulega sjávuðu. Baðstofa er stór klöpp fast fyrir norðan Norðurvör. Þar norður af er Bótin og þar var nyrsta lendingin. Þaðan var hægast að fara út í vondu. Efst í Bótinni er klettur sem fer í kaf á flóði og heitir Barnaklettur. Þar áttu að hafa flætt og síðan drukknað tvö börn. (Loftur Jónsson – örnefnalýsing fyrir Hraun)

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell – Baðsvellir nær.

Þorbjörn mun upphaflega hafa heitið Þorbjarnarfell en nú er það nafn alveg glatað. Hann rís upp hár og tignarlegur frá Grindavík séð yfir alla flatneskjuna.
Toppur fjallsins er klofinn af stórri sprungu sem heitir Þjófagjá. Þar eiga að hafa haldið til þjófar og ræningjar er gerðu Grindvíkingum slæmar búsifjar. Lauk því svo að þeir fóru að þeim, handtóku þá og hengdu í Gálgaklettum sem eru í Hagafelli austur af Þorbirni. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Járngerðarstaði)

Skipsstígur

Götur og hraun ofan Grindavíkur.

Hraunið vestur af Kasti heitir Beinavörðuhraun og nær fram að Hrafnshlíð, Fiskidalsfjalli og Vatnsheiði. Norður á móts við áður getinna er hraunið mikið sléttara með stórum mosaþembum og heitir þar Dalahraun. Í Dalahrauni eru tveir hólar með nokkru millibili og heita Innri-Sandhóll og Sandhóll sem er hærri og sunnar. Gömul gata inn með Fagradalsfjalli að vestan og allt til Voga heitir Sandakravegur. [Beinavörðuhraun rann fyrir u.þ.b. 6000 árum.] (Loftur Jónsson – örnefnalýsing fyrir Hraun)

— Eru ekki líka draugar hér á Reykjanesi?

Óskar Aðalsteinn

Óskar Aðalsteinn, vitavörður.

Óskar: Jú, það vantar ekkert uppá það. Ég varð strax var við par, sem hélt til í kjallaranum hjá okkur hér. Mér líkaði illa við það hyski. Mér fannst stafa kuldi, jafnvel illska frá þeim. Mér hefur tekist aö koma þeim útúr kjallaranum, en þau eru samt ekki farin.
Ég hef spurt karlmanninn hvort þau ætli ekki aö koma sér burt, en hann þverskallast viö. Þau eru búin að vera hér siðan á 18. öld. Fórust á enskum togara. Þessi náungi var illmenni, hefur morð á samviskunni. Hann segist hvergi finna frið, eins og oft vill verða með menn sem deyja í slysi og hafa illt á samviskunni. Ég veit að hann vill gera okkur illt, en hann er bara ekki nógu kröftugur til þess, sem betur fer. (Viðtal við Valgerði Hönnu Jóhannsdóttur og Óskar Aðalsteinn, vitaverði í Reykjanesvita – Þjóðviljinn 2. des. 1978, bls. 11)

Norðan Selhellu er Seljavogur og norðan hennar er Beinanes (Ari Gíslason – Örnefnastofnun)

Ósabotnar

Ósabotnar – uppdráttur ÓSÁ.

Stafnes hefur verið á sama stað frá öndverðu. Landamerki milli Hvalsness og Stafnesshverfis eru í viki einu litlu sem heitir Mjósund, stundum kallað Skiptivík, sunnan við Ærhólma. Endar landið í Djúpavogi í Ósabotnum. Átti Stafnes inn í land að Beinhól og Háaleiti. Heimild um blóðvöll; Beinhóll: „Þar var slátrað hrossum til refafóðurs,“ segir í örnefnalýsingu. (Ari Gíslason -Örnefnaskrá)

Þegar komið var austur fyrir Hunangshelluna var haldið frá gatnamótunum að Njarðvík eftir reiðleiðinni þar sem Lágafellsleiðin sameinast henni áleiðis að gamla verslunarstaðum í Þórshöfn. Gatan er greinileg í heiðinni og sjá má fallnar vörður við hana. Þegar komið var yfir austanverðan Djúpavog tók við vagnvegur frá Illaklifi áleiðis að verslunarstaðnum.

Kaupstaðaleiðin

Kaupstaðaleiðin ofan Illaklifs.

Af og til mátti þó sjá gömlu reiðleiðina út frá veginum. Á Selhellu og við Draugavog eru tóftir, bæði ofan Selhellu og efst á henni. Vestan við tóttina er fallegt vatnsstæði í klöpp. Efst við sunnanverðan Selvoginn, sem er næsti vogur, eru einnig tóttir. Gengið var inn fyrir voginn og inn á þjóðleiðina, ofan við Beinanesið að Hestaskjóli og áfram fyrir Djúpavog, sem fyrr sagði. Í botni vogarins liggur girðing upp í heiðina, í átt að varnarsvæðinu. Norðan vogarins, þegar upp á holtið (Illaklif) er komið, er Kaupstaðaleiðin rudd svo til þráðbein á drjúgum kafla. Í stað þess að fylgja leiðinni niður að tóttum sunnan við Illaklif var haldið áfram vestur yfir holtið, að kletthól, sem þar er beint framundan. Vestan undir hólnum er allnokkuð gras og í því tóttir Stafnessels. (Ferlir.is)

Gálgar

Gálgar/Gálgaklettar ofan Stafness.

Þá er að bregða sér upp í heiðina. Á Flötunum fyrrnefndu er svo nefnd Urðarvarða, og ofan túns er Heiðarvarða. Beint upp af túni eins og 1 km er varða á leið til Hafna. Hún heitir Pétursvarða og stendur þar á klettasyllu. Þar til austurs er garðbrot fyrir fé, nefnt Skjólgarður. En niðri við Flatirnar er vik, sem fellur upp í og er nefnt Fagradalsvik. Þar upp frá er Fagridalur, sem nú hefur verið girtur af. Hér nokkuð austar upp frá sjó, suður frá Draughól, eru klettar tveir allháir og nokkurra faðma breitt sund á milli. Heitir þetta Gálgaklettar. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Stafnes)

Másbúð

Brúin út í Másbúðarhólma.

Norðan í Langarifi, skammt framan við Réttarklappir, er stór og hár klettur, ljótur og hrikalegur, ílangur og söðulbakaður; heitir hann Svartiklettur. Lítið eitt utar er stórt og hátt sker, fast norðan við rifið; heitir það Illasker. Út í Illasker má ganga þurrum fótum um fjöru; sækir sauðfé mjög í skerið, því þar eru söl, en af því leiðir ákaflega flæðihættu. Líklega hafa öll „Illusker“ á Miðnesi fengið nafnið vegna flæðihættu. (Magnús Þórainsson – örnefnalýsing fyrir Másbúðir – Nesjar)

Gamla Sandgerðisgatan (Sandgerðisvegurinn, sbr. Sig. B. Sívertsen – sóknarlýsing um 1880) var gengin frá Sandgerði að Grófinni í Keflavík.

Sandgerðisvegur

Gengið um Draugaskörð á Sandgerðisvegi.

Gatan sést þar sem hún kemur undan einum húsgrunnanna á nýbyggingarsvæðinu ofan bæjarins og liðast síðan upp móann. Vestan við Vegamótahól, þar sem voru gatnamót Sandgerðisgötu og Bæjarskersvegar, liggur gatan undir nýja Sandgerðisveginn, en kemur aftur undan honum í Draugaskörðum. Ofan við þau eru t.d. Efri-Dauðsmannsvarðan. Þar liggur hann áfram til suðurs framhjá Dynhól. Fallnar vörður eru vinstra megin götunnar svo til alla leið upp að Gotuvörðu. (Ferlir.is)

Garðskagi

Garðskagi – kort.

Naust hafa fyrr verið nefnd sem býli, en er nú horfið í sjó. Heitir þar nú Naustarif, þar sem bær þessi var, en nú brýtur á því sem þaragarði fyrir framan land og fer í kaf um öll flóð. Fyrr var talað um Lónsós og Lónið, sem er fram undan Akurhúsum. Hér er svo hin lendingin í Útskálalandi landmegin við Naustarif og heitir Króksós. Innan við ósinn er svonefnd Manntapaflúð, sem ekki mun tilheyra Útskálalandi. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Útskála).

Vatnsleysa

Vatnsleysa – örnefni.

Rétt utan túngarðs Minni-Vatnsleysu eru klettar tveir, sem kallast Gálgaklettar. Þó eru þeir nefndir til frekari glöggvunar Gálgaklettur nyrðri og Gálgaklettur syðri. Klettar þessir standa í fjörubakkanum, og er þröngt vik á milli þeirra. (Jónas Þórðarson, örnefnalýsing fyrir Stóra- og Minni-Vatnsleysa)

Trölladyngja er eldfjall semmyndaðist við gos undir jökli fyrir lok ísaldar og rétt við hana er Grænadyngja, en oft er talað um fjöllin sem tvíbura og saman eru þau kölluð Dyngjurnar. (Reykjanesgeopark.is)

Út í Lambhúsatjörn ganga Hrauntangar. Þar innar með sjónum eru svonefndir Gálgaklettar, sem svo skiptast í Gálga og Litlagálga, sem er nær hrauni og innan við Stóragálga. Þar eru tjarnir, sem heita Vatnagarðar. Framar eru Gálgaflöt. (Ari Gíslason – örnefnaskráning fyrir Garðahverfi)

Garðahverfi

Garðahverfi – örnefni (ÓSÁ).

Á milli Kringlu og Oddakotsóss eru Vöðlar. Þar eru leirur og hægt að vaða um fjörur. Aðeins úti í sjó, rétt fyrir vestan Granda, er svolítil steinaþyrping, sem heitir Draugasker (et.). Það fer í kaf með flóði. (Kristján Eiríksson – örnefnalýsing fyrir Garðahverfi)

Verður nú rakin merkjalína Garðalands, er Vífilstaðalandi sleppir. Arnarbæli var fyrr nefnt. Þaðan er línan í austur-landsuður upp í Hnífhól, og þaðan með sömu stefnu í mitt Húsfell, sem er allhátt fell, sem rís hér upp af hraunbreiðunni. Breytir nú stefna merkjanna suður í miðja Efri-Strandatorfu, svo beint suður í Markraka í Dauðadölum. Markraki er hóll, en dalirnir eru lægðir kringum hólinn. Við Markraka breytist stefna merkjanna. Þar vestur eða norður frá er allhátt fell, sem heitir Helgafell. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Garðaland)

Dauðadalir

Dauðadalir – hellisop í jarðfalli.

Stórabollahraun er talið vera um 2700 ára. Hraunið ber keim af dyngjugosi. Gígurinn, mjög stór, er utan í vestanverðu Kóngsfelli í norðanverðum Grindaskörðum ofan Hafnarfjarðar. Hraunið er undir Tvíbollahrauni, komið úr gígum skammt sunnar. Dauðadalahellarnir eru í Stórabollahrauni, Þeir eru nokkrir, þ.á.m. Flóki. Leiðarendi, einn mest sótti ferðamannahellir á landinu, er einnig í Stórabollahrauni. Yfir honum hvílir Tvíbollahraunið. Á einum stað hefur það náð að þröngva sér inn í hellinn.

Tvíbollar

Tvíbolli.

Upptök Tvíbollahrauns eru í framangreindum Tví-Bollum eða Mið-Bollum. Tví-Bollarnir þeir eru tveir samliggjandi gígar í brúnum Grindarskarða, í um 480 m hæð yfir sjó. Hraunið hefur fossað niður bratta hlíðina niður á láglendið en einnig runnið í lokuðum rásum. Hraunið flæmdist síðan til norðurs milli móbergshnúka og klapparholta allt niður undir Hvaleyrarholt við Hafnarfjörð.
Tvíbollahraun er runnið eftir landnám og er eitt af nokkrum hraunum sem brunnu í miklum eldum á 10.-11. öld. (Ratleikur hafnarfjarðar 2021)

Draugahlíðagígur

Draugahlíðagígur (Bláfeldur).

Vesturmynd Draugahlíðar var sem ævintýraland elddrottningarinnar. Hraungígar og mosagróið land. Dúnmjúkur ljós gulgrænn mosi sem birtist með hvítum og svörtum tilbrigðum. Litadýrðin var ótrúleg, samspil grábláa hraunsins, gjóskusteinar sem voru ljósrauðir og ótal afbrigði af mosa. Vætan í loftinu og snjórinn gerði allt tilkomumeira. Gekk niður fönnina og kom niður á hinn þykka mjúka mosa sem maður ber ósjálfrátt lotningu fyrir. Náttúruteppi sem hefur verið samviskulega ofið í meir en þúsund ár.

Draugahlíðagígur

Draugahlíðagígur í Brennisteinsfjöllum.

Margar álfakirkjur má hér finna, furðusmíð íslenskra náttúru í líkingu við margar “Sagrada Familia” Gaudis. Steinborgir í Grindaskörðum eru tilkomumiklar og gaman að ganga þar fram ótroðnar slóðir. Klifra niður steinklappir og láta sig detta niður í bratta fönnina. Sjá kvöldsólina hverfa út við Snæfellsjökull. Allt borgarsvæðið er undir, en næst dökkrautt Húsfell og Helgafell, Þríhnúkahraun. Í norðausturátt er Þríhnúkahellir. Alstaðar dýrgripir sköpunarverksins sem kynslóðir eiga eftir að uppgötva og njóta. (Sigurður Antonsson – blogg)

Dauðsmannsskúti

Dauðsmannsskúti. Litla-Kóngsfell fjær.

En við höldum áfram og liggur leiðin um austurenda Draugahlíðar. Þar hefur bæði verið ruddur vegur og hlaðinn. Þegar niður kemur liggur leiðin yfir hraun, sem nefnist Skarðahraun, kennt við Grindaskörð. Þar förum við gegnum girðingarhlið og litið eitt austar eru svo tvær vörður, sem við köllum Tvívörður. Liggur nú leiðin austur og upp undir Kóngsfellið litla.
Í hrauntröðum, sem þar eru, blasir við okkur lítill skúti. Hann er kallaður Dauðsmannsskúti. Þar varð úti maður um 1860. Skörðin búa yfir mikilli dul, þvi 1633 hvarf þarna maður og hefur ekkert af honum fengizt. Haldið var að tröll hafi heillað hann. (gísli Sigurðsson – Gamla Selvogsgatan)

Mæðgnadys

Mæðgnadys.

Í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Mæðgnadys: “Dys eða þúfa norðan í holtinu skammt frá Garðagötu [nr. 54] norðan Torfavörðu [nr. 49] Þar varð úti griðkona frá Görðum með barn sitt ungt […] mæðgur […]”. (Gísli Sigurðsson – Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðahreppi: Garðahreppi: Hafnarfirði og Hraunum)

Gengið var norður með vesturjarði hraunsins og inn á svonefndan Sakamannastíg (Gálgastíg) í Gálgahrauni.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Skammt austar, norðan stígsins má sjá nokkrar mjög gamlar hleðslur. Ein þeirra er herðslugarður og sést móta fyrir húsi á einum stað. Stígnum var fylgt að Gálgaklettum. Klettarnir, sem eru þrír; Vesturgálgi, Miðgálgi og Austurgálgi, standa reisulegir rétta ofan við sjóinn. Sígurinn liggur beint að þeim. Utan í vestanverðum Gálgaklettum er skeifulaga garður, sennilega Gálgaflöt. Í henni voru sakamenn dysjaðir. (Ferlir.is)

Völvuleiði

Á Völvuleiði.

Völvuleiði er við Holtsendann, austan til á Garðaholti. Gamall stígur, Kirkjustígur, lá við Völvuleiði. Á 18. öld er þess getið í lýsingu séra Markúsar Magnússonar. Hann segir að fornar sagnir séu um Völvuleiði. Þar sé grafin Völva (spákona), sem farið hafi um í heiðni. Bóndinn í Pálshúsi vísaði FERLIR á Völvuleiðið á sínum tíma. Völvuleiði munu vera til víða um land og segir t.d. af einu þeirra í Njálssögu. Í örnefnaslýsingum Garðabæjar segir að Mæðgnadys sé í norðanverðu Garðaholti, sunnan við Presthól. Svo virðist sem fyrri hluti lýsingarinnar sé rétt (í norðanverðu Garðaholti), en síðari hlutinn getur vart staðist. (Ferlir.is)

Þorgarðsdys

Þorgarðsdys.

“Sviðholtsættinni fylgdi draugur, sem kallaður var Þorgarður. En um uppruna hans er þessi saga:
Hallldór faðir Bjarna í Sviðholti bjó að Skildinganesi og var maður auðugur. Um þessar mundir fekk maður einn, sem annað hvort var dæmdur til dauða eða ævilangrar fangelsisvistar, leyfi til þess að leysa sig út með peningum, en hann var sjálfur fátækur og fekk því loforð hjá Bjarna fyrir gjaldi því, er þurfti. Aðrir nefna til þess bróður Halldórs. Þá er Halldór var að telja gjaldið, kom að kona hans. Hún sópaði saman peningunum og sagði að þarfara væri aft verja þeim öðruvísi en að kasta þeim svo á glæður. Seki maðurinn fekk ekki fjeð, og sagði hann að svo mætti fara að tiltæki konunnar yrði henni til lítillar hamingju og ættliði hennar. Nú átti að flytja hann utan, en dugga sú, er hann var á, týndist fyrir Austfjörðum með allri áhöfn. Eftir þetta gekk hann aftur og sótti mjög að konu Halldórs og fór svo að hún ljest. Tók draugurinn þá fyrir aðra menn í ættinni og varð að ættarfylgju. Hann var nefndur Þorgarður. Hann var síðar dysjaður á Arnarneshæð. (Ferlir.is)

Skorarhylur

Skorarhylur.

“Rétt fyrir innan Skorarhyl voru Draugaklettar, sem trúlega eru enn til. Þeir voru nokkurn veginn á móti Árbæ og hljóta því nú að vera til móts við Höfðabakkabrúna. Draugaklettar voru nokkuð stórir klettar, dökkir á lit, og átti að vera þar huldufólk.” (Athugasemdir og viðbætur Þóru Jónsdóttur við Örnefnaskrá Breiðholts)

Þegar hugað er nánar að örnefninu Víghóll eða Víghólar, vekur það athygli, að nafnið er víðar til en í Kópavogi. Þannig er mér kunnugt um fjóra aðra Víghóla á Suðvesturlandi: einn í Selvogi, tvo í Garðabæ og einn í Mosfellssveit. Engra þessara nafna er getið í fornum heimildum. (Víghóll; Lesbók Morgunblaðsins, Þórhallur Vilmundarson, 26.03.1994, bls. 6.)

Húsfell

Húsfell – Víghóll neðst til vinstri.

Draugaklettar eru í Breiðholsthvarfi á móts við Árbæinn, ekki háir en dökkir að lit. Þar fer ekki sögum af draugum; hins vegar átti huldufólk að búa í þeim.
Einnig er talað um Draugasteina skammt frá suðurenda Árbæjarstíflu.
Uppi á Breiðholtshvarfinu, eða við fjölbýlishúsið Vesturberg 2-6, er önnur álfabyggð í hól einum, skv. Fornleifaskrá Reykjavíkur. Trúin á hana lifir svo sterkt að þegar byggja átti fjölbýlishús þar sem hóllinn var, í samræmi við skipulag annarra húsa við götuna, þótti það óráðlegt. Var ákveðið að hrófla ekki við hólnum heldur víkja frá skipulagi og byggja húsið fyrir framan hann. (Ferlir.is)

Viðey

Viðey – kort.

Þar sem eyjan gengur næst landi gegnt Vatnagörðum nefnist Sundklöpp, en Sundbakki autast, gegnt Gufunesi; á þeim stöðum voru hestar sundlagðir úr eynni. Suður af túninu eru Kvennagönguhólar, g er sagt, að þar hafi huldufólk búið. Þar niður undan heitir Drápsnes við sjóinn. (Viðey, útvarpserindi dr. Guðna Jónssonar 28. 12. 1962)

Líkaflöt, austan í hólnum. Þar höfðu verið þvegin lík.” (Ágúst Jósefsson – Minningar og svipmyndir úr Reykjavík, Leiftur, Reykjavík, 1959. Örnefnakort unnið 1984-1986 af Einari J. Hafberg frá Viðey)

Gaman er að ganga út á Þórsnes og vestur fyrir það, yfir á Kríusand. Þaðan er hægt að fara með ströndinni vestur að bryggju. Sé farið aftur eftir veginum er ráðlegt að ganga niður í Kvennagönguhóla, skoða réttina og hellisskútann Paradís.

ViðeyLoks er svo farið um Heljarkinn heim að stofu, minnisvarði Skúla skoðaður, Danadys og Tóbakslaut. Hin leiðin er í vestur. Veginum er fylgt af Viðeyjarhlaði, vestur á Eiði. (DV – Viðey; tvær gönguleiðir vinsælastar, 24, júni 1992, bls. 27)

Í Viðey hafa trúlega um 3.000 manns verið bomir til moldar, en á öldum áður þótti það örugg leið til himnaríkis, ef munkamir í Viðey sáu um síðasta spölinn. Slík helgi hvíldi yfir grafreitnum, að lík frá landi voru lauguð á Þvotthól við Líkaflöt, áður en þau voru færð til hinstu hvíldar. ( Morgunblaðið – Viðey; eyjan við bæjardyr Reykjavíkur, 20.08.1988, bls. 17)

Gönguskarð heitir þar sem gengið er upp á kinnina. Þar voru dysjaðir fjórir Danir, sem vegnir voru eftir víg Diðriks af Mynden.(Útvarpserindi Guðna Jónssonar. Á örnefnakortinu er dysin merkt inn á upp á kinninni rétt suður af uppgöngunni upp Gönguskarði – Örnefnaskrá yfir Viðey)

Tröllabörn

Tröllabörn.

Tröllabörnin eru nokkurs konar systkini Rauðhóla í jarðsögunni, ef svo má að orði komast. Bæði náttúrufyrirbrigðin mynduðust í sama eldgosinu, sem átti sér stað fyrir rétt rúmum 5000 árum í eldstöðinni Leitum austan Bláfjalla. Frá Leitum runnu tveir heljarmiklir hraunstraumar, annars vegar til suðurs niður á láglendið vestan Ölfusárósa og hins vegar til norðurs og nefnist sá Svínahraun. Mjó hraunlæna læddist svo loks til vesturs, yfir Sandskeið og Fóelluvötn, niður Lækjarbotna og um Elliðavatn alla leið niður í Elliðavog. Á þeirri leið mynduðust Tröllabörn og Rauðhólar þegar hraunstraumurinn flæddi yfir vatnsósa mýrarlendi. (Vísindavefurinn)

Orrustuhóll

Réttin við Orrustuhól.

Orrustuhóll er í Orrustuhólshrauni sunnan við Litla-Skarðsmýrarfjall. Í lýsingu frá árinu 1703 segir að “fyrir austan Skarðsmýrarfjöllin er kallaður Orrustuhóll og þó fyrir vestan ána, er úr Hengladölum fram rennur. Þar undir hrauninu sjást enn í dag glögg merki til fjárrétta, er menn heyrt hafa brúkað hafi í fyrri tíð Ölves innbyggjarar og Suðurnesjamenn, þá saman og til afréttarins hvorutveggja rekið höfðu, og hafi á milli þessara óeining komið, hvar af Orustuhóll mun nafn sitt draga.” Önnur lýsing segir að “austan undir hrauninu er Orrustuhóll. Gömul sögn kveður á um, að á þessum slóðum hafi verið sundurdráttarrétt. Áttu réttarmenn að hafa orðið missáttir og barist á hólnum. (Ferlir.is)

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Árið 1703 var hún talin nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. “Er og lofsvert, að þetta sælhús skuli ei niður fallið (1793)”. Hann var ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallaðist sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. Í örnefnalýsingu segir að í ekkert hús var að venda [á leiðinni yfir Hellisheiði] nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan. (Ferlir.is)

Lakastígur

Lakastígur.

Þarna um dalina liggur Lakastígur (Lákastígur), greiðfærasta leiðin milli Þrengsla og vestanverðrar Hellisheiðar. Reyndar er um Lágaskarðsleið að ræða því hún liggur Lágaskarð sem er þarna mitt á milli.
Gengið var upp á vesturbrún Norðurhálsa, en svo nefnist næsti stallur á undirhlíðum Skálafells ofan Hverahlíðar. Þegar upp er komið má sjá hversu víðlent svæðið er, mosaþýfi, smáhæðir og stallar er hallar að brúnum. Haldið var inn að Trölladal og áfram til austurs með norðurbrún Tröllahlíðar að norðurhlíð Skálafells. (Ferlir.is)

Sleðaás

Steinn við Sleðaás (Matthías Þórðason).

Sumir hafa haldið og halda enn, að Sleðaás sé sama og Tröllaháls. Á Íslandskortinu eftir Björn Gunnlaugsson er Sleðaás settur ofan til við Tröllaháls, og Sveinn Pálsson talar um í Dagbók sinni 1772, að Sleðaás sé einnig þar (sbr. Kålund I, bls. 151), enn þetta getur með engu móti verið rétt, sögurnar sanna það. Sleðaás heitir enn í dag ásklifið, sem gengur suður úr Ármannsfelli fyrir ofan grænu brekkuna, sem kallaður er Bás, og Sleðaáshraun heitir þar niður undan. Grettissaga Kh. 1853 nefnir Sleðaás, bls. 31, þar sem höfðingjarnir áðu, er þeir riðu af þingi, og Grettir hóf steininn, er sagan segir að liggi þar í grasinu. (Ferlir.is)

Líkatjörn

Líkatjörn.

Úr Suðurhól eftir hæstu brúnum Krossfjalla og í há Sandfell. Þaðan norður eftir Líkatjarnarhálsi og í Bátsnef (líklega fremur nýtt örnefni), sem er sunnan við Hagavík.
Fagrabrekka byrjar fyrir ofan og norðan Sandfellskrika og liggur niður á Líkatjarnarháls. Fremst á Líkatjarnarhálsi er djúpur dalur, sennilega gígur, nefndur Pontan. Líkatjörn er rangt merkt á kortið. Hún er nú horfin. Þegar Guðmann man fyrst eftir, var þetta aðeins uppsprettulind, mjög lítil að ummáli. Hún var rétt austan Líkatjarnarháls og hefur sennilega horfið undir sand, framburð úr Sandfelli. Þar rétt fyrir ofan er mýri, en Leirur fyrir norðaustan og síðan Leirhóll. Sú sögn er um Líkatjörn, að í henni hafi þvegin, er þau lík verið voru flutt austur að Skálholti. (Guðmann Ólafsson – örnefnalýsing fyrir Hagavík)

MosfellsheiðiBeinakerling var einnig á Mosfellsheiði, skammt frá Borgarhólunum. Hún lagðist af nálægt 1880, eptir að sæluhúsið var reist á heiðinni. Frá þeirri kerlingu er þessi vísa:
„Herra minn guð, eg held nú það”
hann Sigurður rendi
…………………..vað,
„mikil skelfing! Vittu hvað”.
Vísan er frá síðara hluta 19. aldar, og kveðin á leið í verið; eru í henni orðatiltæki manns þess, sem hún er kveðin til.” (Ferlir.is)

Guðnahellir

Guðnahellir.

Talið er að útilegumenn hafi m.a. hafst við í helli í Illaklifi á Mosfellsheiði. Hellir þessi hefur í seinni tíð verið nefndur Guðnahellir eftir Guðna Bjarnasyni (f: 1971) refaskyttu á Harðastöðum sem hefur legið þar á greni.
Á þessum slóðum gerðist mikil harmsaga laust eftir miðja 19. öld. (Ferlir.is)

Leirvogsá rennur um Stardal, sem eins og nafnið gefur til kynna, er nokkuð votlendur.

Tröllafoss

Tröllafoss.

Í Stardal eru leifar fornrar megineldstöðvar sem kennd er við dalinn. Stardalseldstöðin var virk fyrir um 1,8 milljónum ára og er hún mikið rofin. Stardalshnjúkar eru grunnstætt berginnskot eða bergsylla, líklega efsti hluti kvikuþróar eldstöðvarinnar.
Tröllafoss er í miðri öskju hinnar fornu eldstöðvar. Hann fellur milli hamra ofan í gljúfur sem áin hefur grafið í gegnum Tröllalágar í mynni Stardals. Fyrir neðan fossinn breiðir áin úr sér sem slæða yfir bergið. Gljúfrið er um 500 metra langt og 50 til 80 metra breitt og kallast TröllagljúfurT. (Mannlíf.is)

Niður af Austurenni er vont dý, sem heitir Vondadý. Það er hættulegt skepnum. Mýrarsund er sunnan við Pyttalæk, suður af Austurenni, sem heitir Mjóaveita og dregur nafn af lögun sinni. Það er mjög grasgefið. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Vellir)

Skálafell

Skálafell.

Um mitt fellið austan Flágils kemur annað gil ofan úr háfjallinu. Ofan við miðjar hlíðar fellur lækur þess fram af þverhníptum svörtum hamrastalli niður í klettabás sem nefnist Bolabás og gilið Bolagil. Skýringu á þessu örnefni hefur höf. heyrt að svartur hamraveggurinn minni á svart naut sem standi á bás séð heiman frá bænum, einkum þegar fjallið er hvítt af snjó, en snjór tollir aldrei í hamravegg þessum.

Skálfell

Skálafell – Beinagil.

Þriðja gilið í fellinu er nokkuð austar og kemur lækur þess úr drögum neðan við fjallsbrúnina. Gilið liggur niður fjallið skammt vestan við skíðaskála KR og liggur nær þráðbeint niður fjallið og kallast Beinagil, þ.e. gilið beina. Skammt austan þess er eins og mjúk brún niður eftir fjallinu og sést nú ekki meir af því heiman frá bæ. Þessi brún er stundum nefnd Höggið. Báðum megin við Beinagil neðarlega í fjallinu eru mjúkir ávalir melhólar með grasteygingum á milli og nefnast Jafnhólar. Fjórða gilið í fellinu kemur úr austurhlíð fellsins úr skálarmyndaðri kvos og heitir Grensgil. Nafnið er dregið af tófugreni sem er skammt austan við gilið og hafa refir þar löngum lagt í þetta greni áður en skíðalyftur og menningarhávaði flæmdu þá þaðan. (Egill Jónasson – örnefnalýsing fyrir Stardal)

Svínaskarð

Dys í Svínaskarði – Innradys.

Skammt austan við Þverfellsgil er Einbúi. Þetta er fallegur, einstakur melhóll, fast ofan götunnar, sem liggur upp til Svínaskarðs. Einbúagil liggur hjá hólnum niður í Skarðsá. Austur af Einbúa eru Einbúalágar. Svo hækkar vegurinn upp á Svínaskarð. Þar á há-skarðinu eru tvö dys, sem heita Fremradys og Innradys. Upp af öllu þessu, sem hér er talið, er stór röð af hnúkum, sem heita Móskarðshnúkar, og skörðin milli þeirra heita Móskörð. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Þverárkot)

Svínaskarð

Svínaskarð – Fremridys.

Fyrir norðan Hrafnagil eru tvö djúp gil. Hátt upp í fjallið norðan við nyrðra gilið er stór steinn og smáskúti undir honum: Einstakiklettur. Lækirnir úr þessum giljum sameinast þegar kemur niður á láglendi. Undan þeim hefur myndazt stórt jarðfall niður að á: Vondasprunga. Milli Vondusprungu og skriðunnar úr Hrafnagili. er stór grasivaxin lægð: Hrafnagilslág. Norðan sprungunnar er allstórt graslendi, norðan til á því eru tveir melhólar, Sandhólar. Milli þeirra er smálækur: Sandhólalækur. (Þórður Oddsson – örnefnalýsing fyrir Eilífsdal)

Kjós

Kjós – kort.

Vatn fellur til Miðdalsár; þá er næst Hrútatunga. Vestan við hana heitir Illagil að ofan. Þá tekur við breið tunga, er heitir Skessutungur ofan til, en Helguhólstungur (neðan til. Neðan til í þeim er grjóthóll, sem heitir Helguhóll. Austan við Skessutungur er lækur, sem heitir Svörtuskriðulækur. Fer hann úr Illagili og rennur eftir grundum, sem nefnast Vellir. Hér er áin að verða til. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Miðdal)

Beint niður undan Valshömrum, við lækinn, er holt, sem heitir Stefánarholt. Nokkuð fyrir framan fremri Valshamarinn rennur smálækur niður úr Hálsinum, hann heitir Hálslækur. Töluverðum spöl framar kemur annar og stærri lækur niður Hálsinn og heitir hann Drápskriðulækur. Hann rennur norður dalinn og sameinast Hálslæknum, eftir það heitir lækurinn Birtingslækur. Hann fellur í Dælisá skammt fyrir framan Háaleiti. (Ellert Eggertsson – örnefnalýsing fyrir Meðalfell)

Valshamar

Valshamar.

Eftir Torfdal rennur samnefnd á, Torfdalsá í henni eru þrír fossar: Kálfabanafoss neðst, rétt áður en Torfdalsá sameinast Flekkudalsá, þá Hjallafoss en efsti fossinn heitir Þrengslafoss, en efsti hluti Torfdals heitir Vestri-Þrengsli og Eystri-Þrengsli. Flekkudalsá rennur um Flekkudal. Í henni eru tveir fossar, Grafarfoss í miðjum dal og Suðurdalsfoss syðst í botni dalsins.
Ofan til og vestan á Miðtunguhjalla er hóll er Skyggnir heitir. Þaðan sést í báða dalina. Miðtungan endar í háu standbergi rétt við Kálfabanafoss, Miðtunguberg, móti því norðan Torfdalsár er Kálfabanaberg, vestar Snös, klettanibba. Milli þeirra Kúahvammur. Stórihvammur er við Flekkudalsá, neðan Miðtunguhjallans. Holtið ofan við Grjóteyrarbæinn heitir aðeins Holt. (Magnús Blöndal og Guðni Ólafsson – örnefnalýsing fyrir Grjóteyri og Flekkudal)

Þjóðskarð

Þjóðskarð.

Í Melafjalli upp af bænum eru skörð. Lækurinn, sem rennur um Melagil, kemur um Stekkjarskarð í brúninni, en nokkru innar er stórt skarð í klettana, sem heitir Þjóðskarð. Vestar er far í berginu eða plötunni, sem heitir Skessuspor. Milli þessara skarða er venjulega nefnt „Milli skarða“. (Ar Gíslason – örnefnalýsing fyrir Mela (Melahverfi))

Dys er hvorugkynsorð (Dysið). Þar fram hjá lá vegurinn vestur undir Dauðsmannsbrekkum. Þjóðsögur greina frá því að bóndi nokkur á Fossá hafi setið þarna fyrir ferðamönnum, drepið þá og rænt. (Páll Bjarnason – örnefnaskrá fyrir Fossá)

Gíslagata

Dys í Dauðsmannsbrekkum á Reynivallahálsi.

Á Reynivallahálsi er þýfður og rofinn melur. Ofan af jafnsléttu er einstigið illgreinanlegt í fjallshlíðinni. Enn er hægt er að ganga upp þennan göngustíg (2010). Vegurinn liggur upp meðfram gilinu á landamerkjum og beygir svo í vestur upp/út hlíðina milli tveggja efstu fjalla. Stígurinn liggur yfir hálendið yfir á Svínaskarðsveg ANA við Dauðsmannsbrekkur. Á Reynivallahálsi og í Dauðsmannsbrekkum er gatan (Gíslagötudrög) enn greinilegur mjór malarstígur sem er um 0,2-0,4 m á breidd og <0,2 m á dýpt. (Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III, 2012)

Reykjanesskagi

“Hryllingsörnefnakort” af Reykjanesskaga.

Selsvellir

Hér verður lýst þróun í atvinnu- og byggðamálum á Reykjanesskaga og reynt að rýna svolítið í framtíðina í þeim efnum.

Selalda

Strákar – fjárhús frá Fitjum í Krýsuvík.

Byggðin á Reykjanesi (Suðurnesjum) var frá upphafi svo til öll með sjávarsíðunni. Einstaka bæir voru bundir litlum gróðurblettum þar sem þá var að finna eða hægt var að rækta upp með sæmilegu móti. Útvegsbændurnir höfðu fjárbúskap samhliða útvegnum. Fá býlin höfðu kýr og þá yfirleitt fáar. Annars höfðu bændur stærri og landmeiri bæja margt fjár og höfðu fé sitt yfirleitt í seli yfir sumarið, venjulega frá 6. – 16. viku sumars. Það var aðallega tvennt er einkenndi atvinnuhætti á Reykjanesi í u.þ.b. eitt þúsund ár, allt frá byrjun og langt fram á 19. öldina; annars vegar seljabúskapurinn á sumrin og hins vegar vermennskan yfir veturinn.

Strýthólahraun.

Minjar í Strýthólahrauni við Grindavík.

Hvergi voru fleiri verstöðvar við strendur landsins en á Reykjanesskaganum. Bændur stunduðu þaðan veiðar sem og aðkomumenn víða af landinu. Efldi það samskipti og fjölbreytni mannlífsins, auk nýrra menningarstrauma á hverjum tíma. Verin voru eitt helsta forðabúr Skálholtsbiskupsstóls um tíma og undirstaða útflutningsverslunar landsmanna.
Selin voru yfirleitt í jaðri jarðanna til að nýta mætti landið sem best, þ.e. hlífa heimatúnum, sem yfirleitt voru lítil, og heimahögum, en beita úthagann. Lífið á Reykjanesskaganum snerist um fisk og fé. Fólkið hélt lífinu í fénu og féð hélt lífinu í fólkinu.

Öskjuholtsskjól

Öskjuholtsskjól – fjárskjól.

Á Reykjanesi, sem telur í dag um 140 sýnilegar selstöður, þ.e. á milli Suðurlandsvegar og Stampa yst á Reykjanesi, voru selin annars eðlis en annars staðar á landinu. Þau voru tímabundnar nytjaútstöðvar bæjanna er byggðu afkomu sína engu minna á útgerð. Selin eða selstöðurnar í heiðunum hafa áreiðanlega ekki öll verið notuð á sama tíma, sum eru greinilega eldri en önnur, þó gera megi ráð fyrir að þau hafi jafnan verið gerð upp eftir því sem not voru fyrir þau. Þá benda gerðir seljahúsanna til þess að þau séu frá mismunandi tímum. Áhersla á landbúnað var meiri á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, en þá voru bæirnir líka færri. Þegar líða fór á miðaldir og síðar urðu fiksveiðar ríkari þáttur útvegsbændanna, en landbúnaður óverulegur. Líklegt er að þá hafi seljunum fækkað.

Nessel

Nessel í Seljadal.

Samkvæmt jarðabókinni 1703 voru t.d. 18 sel og selstöður í notkun frá Vatnsleysustrandarbæjunum, en alls má líta þar minjar 34-40 selja, sum frá fyrstu tíð. Það hefur því oft verið talsvert líf í heiðinni, eða um 40-60 manns að staðaldri yfir sumarmánuðina. Síðasta selið á Reykjanesi var Hraunselið undir Núpshlíðarhálsi, en það var í notkun til 1914. Seljabúskapurinn á Reykjanesskagnum gefur góða mynd af umfangi fjárbúskaparins á svæðinu og þróun byggðar og atvinnuhátta – þar sem allt líf fólks snérist meira og minna um sauðkinda, a.m.k. um allnokkurn tíma.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg í Hraunum.

Selsbúskapurinn hefur því verið stór þáttur í búskaparháttum þessa landsvæðis, en er nú að mestu gleymdur. Hins vegar eru minjar seljanna enn vel sýnilegar og standa þar sem minnismerki þess liðna – fortíðinni – sem nauðsynlegt er að bera virðingu fyrir. Þau tala máli fólksins, forfeðra okkar og mæðra, sem hér bjó, stritaði og dó, en skyldu eftir sig dýrmæta arfleið – okkur.

Á árunum 1940-70 tók íslenskt atvinnulíf stakkaskiptum, auk þess sem tilkoma hersins breytti verulega atvinnuháttum á Suðurnesjum. Ekki var t.d. hægt að manna róðrabáta á útgerðarstöðunum fyrstu tvö árin eftir tilkomu hans þar sem flestir atvinnufærir menn fóru til starfa fyrir herinn.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – Patterson.

Það var í fyrsta skipti sem sumir þeirra fengu greitt í peningum fyrir vinnu sína. Þéttbýliskjarnar tóku að myndast. Grindavík er ágætt dæmi um breytingar og þróun þéttbýlis og atvinnuhátta á Reykjanesi. Bærinn er. einn öflugasti útgerðarbær landsins með fjölda báta og togara og sterkum sjávarútvegsfyrirtækjum. Grindavíkurhöfn hefur lengi verið í hópi þeirra 4 – 5 hafna landsins sem mestum afla skila á land á hverju ári. Undanfarin ár hefur ferðamönnum fjölgað verulega í Grindavík, en það er aðallega ört vaxandi þjónustu að þakka. Bláa Lónið, sem er aðeins 5 km. fyrir utan Grindavíkurbæ, er vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Íslandi.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – kolagröf.

Frá miðri 19. öldinni og fram yfir 1930 var mannfjöldinn á Suðurnesjum milli 2000 og 3000, en á 18. öld og fram á þá 19. var íbúafjöldinn á bilinu 1000-1500. Eftir miðja 20. öld og fram til dagsins í dag hefur íbúafjöldinn vaxið hröðum skrefum og byggist það mikið til á sjávarútvegi og þjónustugreinum. Á síðustu öld fækkaði jafnt og þétt í dreifbýli á svæðinu, á sama tíma og þéttbýlisstaðir uxu að sama skapi. Meginþættir atvinnulífs á Suðurnesjum hafa verið öflugur sjávarútvegur og starfsemi á Keflavíkurflugvelli og varnarsvæðunum. Iðnaður og byggingastarfsemi í sveitarfélögunum á Suðurnesjum er hlutfallslega minni en annars staðar og á höfuðborgarsvæðinu, en munurinn jafnast þegar varnarframkvæmdir eru teknar með.

Duushús

Duushús í Keflavík.

Verslun og þjónusta er miklu minni í sveitarfélögunum á Suðurnesjum en annars staðar. Á síðustu árum hefur sjávarútvegur minnkað nokkuð, einkum í Keflavík, Njarðvík og Sandgerði, en annars staðar á Suðurnesjum hefur þessi atvinnugrein að mestu haldið í horfinu sé miðað við fjölda starfa og unnið aflaverðmæti. Segja má þó að í heildina sé atvinnulíf nokkuð einhæft á smærri stöðunum, en benda má á í því sambandi að Suðurnes er eitt atvinnusvæði og samgöngur eru yfirleitt góðar.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – Meeks.

Árið 1984 voru 7850 ársstörf á svæðinu, þar af rúmlega 20% á Keflavíkurflugvelli og varnarsvæðunum, en um fjórðungur starfsfólks þar kemur af höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma voru ársverk fólks með lögheimili á Suðurnesjum um 6900 samtals. Fólksfjölgunin hefur verið 50-100% á síðustu áratugum, en gert er ráð fyrir að mannafli á Suðurnesjum aukist um 2500 manns á næstu 20 árum.

Mikilvægt er að stuðla að eflingu atvinnulífs á Suðurnesjum, t.d. með aukinni þjónustu og með því að nýta þá kosti sem svæðið býður upp á. Þá er aðstaða mjög góð til fiskeldis, og svo er nauðsynlegt að hlúa að þeirri starfsemi sem fyrir er, þ.á.m. sjávarútvegi. Reiknað er með aukningu í fiskeldi, iðnaði og þjónustu í sveitarfélögunum. Til að mæta samdrætti í starfsemi á Keflavíkurflugvelli þarf að skapa ný störf í öðrum greinum, einkum iðnaði og þjónustu.

Urriðakotsvatn

Urriðakotsvatn í Garðabæ.

Ný íbúðarvæði hafa verið tekin í notkun í öllum sveitarfélögunum. Vilji til uppbyggingar og nýbreytni er fyrir hendi. Fólki fjölgar og fjarlægðin við höfðuborgarsvæðin er frekar af jákvæðum toga en neikvæðum. Vegalengdir frá og til vinnu skiptir fólk ekki eins miklu máli og áður var. Mikilvægt er að að skapa Suðurnesjum jákvæða ímynd í hugum fólks og nýta vel þá kosti sem svæðið hefur upp á bjóða, s.s. alþjóðaflugvöllinn og nágrenni hans, aðstaða til fiskeldis, orkulindir til iðnaðarframleiðslu, ágæta hafnaraðstöðu og hina einstöku sagnfræðilegu og jarðfræðilegu möguleika til stóreflingar ferðaþjónustu, vaxtarbroddinn í íslensku atvinnulífi.ósá

Gjásel

Gjásel í Vogaheiði.

Heimildir:
-Annálar 1400-1800.
-Ferðasögur (Eggert og Bjarni, Olavius 1777, SvPá, Þorv. Th, Jón Th….).
-Frá Suðurnesjum : frásagnir frá liðinni tíð. – Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, 1960
-Íslenskir þjóðhættir eftir séra Jónas Jónasson, III. útg. 1961
-Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár – Daniel Bruun – Steindór Steindórsson þýddi – 1987
-Jarðabækur (1686 – 1695 – 1703 – 1874 ).
-Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu – Skúli Magnússon
-Selatangar – verstöð og verkun.
-Sigrún Guðmundsdóttir í Grindavík – viðtal 2003.
-Svæðisskipulag Suðurnesja 1987-2007 – 1989.
-Tómas Þorvaldsson í Grindavík – viðtal 2003.
-Um sel og selstöðu í Grindavíkurhreppi 1979 – Guðrún Ólafsdóttir.
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja Guðmundsdóttir.
-www.ferlir.is
-www.grindavik.is

Gjásel

Gjásel í Vogaheiði – uppdráttur ÓSÁ.

Fagradalsfjall

Á Vísindavef Hákóla Íslands má lesa eftirfarandi svar Svavars Sigmundssonar, fyrrv. forstöðumanns Örnefnastofnunar um “Er Reykjanes sama og Suðurnes?”:

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

“Áður fyrr var skýr munur á Reykjanesi og Suðurnesjum. Árni Magnússon handritasafnari gerir grein fyrir þessu í riti sínu Chorographica Islandica. Hann segir um Reykjanes:
“Fyrir vestan Grindavík, milli hennar og Hafna, er Reykjanes, hraunvaxið land og brunnið og graslaust að fráteknu Grasfelli (so heitir eitt fell mitt á nesinu), sem grasgróið er og óskýrt hver eigi.”
Á eftir skrá um hvalskipti Rosthvelinga, sem Árni birtir í ritinu, segir hann um Suðurnes:
“Hér af kann að sjást, að Rosthvalanes er á milli Keflavíkur og Hafnavogs, það sem menn nú kalla Suðurnes eða distinctius (þ.e. nánar tiltekið): Hólmsleiru, Garð, Miðnes, Stafnes.”

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

Í sóknalýsingu sr. Sigurðar B. Sívertsens um Útskálaprestakall sem náði yfir Útskála-, Hvalsness- og Kirkjuvogssóknir árið 1839, segir hann: “Úr fjarlægum plátsum eru þessar sóknir kallaðar Suðurnes, til aðgreiningar við Innnes, nl. Seltjarnar- og Álftanes. Eiginlega heitir samt ekki annað Suðurnes en Hvalsnessókn, allt frá því nesinu fer að veita til suðurs frá fyrrnefndum Skaga, sem vestast liggur af landinu”.
Hann notar nafnið síðan í eintölu, Suðurnesið.

Frá Suðurnesjum

Frásagnir frá liðinni tíð. Þessi bók fjallar að mestu um útgerð og sjósókn og ýmislegt þessu tengt frá Suðurnesjasvæðinu.

Í ritinu Landið þitt – Ísland telja þeir Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson að nafnið Suðurnes sé upphaflega komið frá vermönnum, helst Norðlendingum, og hafi verið notað um Rosmhvalanes, Álftanes og Seltjarnarnes til aðgreiningar frá Akranesi og Kjalarnesi.”

Áttir á Suðurnesjum voru jafnan tvær fyrrum; út (norður) og inn (suður). Þannig eru t.d. tilkomin örnefnin Út-Garður og Inn-Garður, Ytri-Njarðvík og Innri-Njarðvík.

Heimildir:
Árni Magnússon. Chorographica Islandica. Ólafur Lárusson gaf út. (Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta. Annar flokkur, I.2.) Reykjavík 1955.
Gullbringu- og Kjósarsýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855. Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson sáu um útgáfuna. Ný útgáfa. Reykjavík 2007.
Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson. Landið þitt. Ísland. 4. bindi. Reykjavík 1983.

Heimild:
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=48881

Reykjanesskagi

Fagradalsfjall verður seint talið á Reykjanesi – hvað þá á Suðurnesjum.

Landrof

Gróður breytist frá einum tíma til annars. Margt getur haft áhrif á það. Reykjanesskaginn er ágætt dæmi um miklar gróðurbreytingar frá upphafi landsnáms til dagsins í dag.

Krýsuvík

Gróðureyðing á Krýsuvíkurheiði.

Gróður- og jarðvegseyðing er að mati margra fræðimanna alvarlegasti umhverfisvandi Íslendinga. Ekki er til vel rökstutt mat á því hvar mörk samfellds gróðurs lágu inn til landsins við landnám, né hve stór hluti landsins var skógi eða kjarri vaxinn. Hitt er óumdeilanlegt að hér urðu mjög snögg umskipti á gróðurfari fljótlega eftir að land byggðist. Frjókornarannsóknir hafa sýnt að láglendi var að miklu leyti skógi eða kjarri vaxið við landnám. Landið hefur því tapað nær öllum sínum skógum og kjarri og hugsanlega meira en helmingi gróðurþekju sinnar á síðastliðnum 1100 árum. Víða í byggð virðast umskipti frá skógi eða kjarri í nær skóglaust land hafa verið snögg og ef til vill aðeins tekið einn til tvo mannsaldra. Jarðvegur breyttist einnig. Jarðvegur myndaður eftir landnám er víða grófkornóttur með lélega samloðun, hann er ljósari og með miklu meira af áfoksefnum en jarðvegur frá því fyrir landnám. Jarðvegsbreytingarnar sýna hversu þétt uppblásturinn fylgdi í kjölfar skógaeyðingarinnar.

Eldgos

Eldgos í Fagradalsfjalli.

Ísland er eitt virkasta eldfjallaland í heimi. Hér hafa orðið gos að meðaltali á um 5 ára fresti frá landnámi. Gosunum fylgir gjóska sem sest í jarðveginn og ljær honum óvenjulega eiginleika, bæði eðlisfræðilega og efnafræðilega. Gjóskan er eðlislétt – allir vita hve léttur vikur er. Vindur og vatn ná því að hreyfa og flytja kornin auðveldlega til. Þykk öskulög mynda lög í jarðveginum sem auðveldlega grefst undan eða fýkur burt þegar gróðurhulan verndar ekki lengur.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Þá er Ísland ákaflega vindasamt land. Sé gróðurþekjan fjarlægð er jarðvegurinn mjög auðrofinn hvort heldur er af vindi eða vatni. Einkum hefur vindurinn verið afkastamikill. Verstu uppblástursskeiðin er ekki hægt að kalla annað en náttúruhamfarir. Dæmi er hinn hamslausi uppblástur sem geisaði í Landssveit og Rangárvöllum og náði hámarki undir lok 19. aldar og sem hefði getað lagt stóran hluta Rangárvallasýslu í eyði. Gróður eyddist annars vegar við uppblástur þannig að vindurinn reif burt jarðveg þar til ekkert varð eftir nema jökulurðin undir en hins vegar við það að þau ógrynni sands sem losnuðu og bárust but með vindi, lögðust yfir gróður annars staðar og kæfðu hann.

Gjóskusnið

Unnið við að sniðgreina gjóskulög í jarðvegssniði.

Þetta tvennt, tíð eldgos og vindasamt veðurfar, var vissulega til fyrir landnámen olli þó ekki verulegum skaða á gróðurþekju. Eldgos hafa ekki verið tíðari eftir landnám en næstu árþúsund þar á undan.
Sigurður Þórarinsson benti t.d. á að útbreiðsla skóga á Suðurlandi gæfu ekki til kynna að eldgos væru frumorsök að eyðingu skóga: helstu skógarleifar er þvert á móti að finna í nágrenni virkustu eldfjallanna.

Rof

Rof á Krýsuvíkurheiði.

Bæjarstaðarskógur er nálægt rótum Öræfajökuls, Næfurholtsskógur og Galtalækjarskógur eru í næsta nágrenni Heklu og í Skaftártungum, skammt austan Kötlu, er talsvert kjarr. Merki um staðbundinn uppblástur munu finnast í jarðvegi frá því fyrir landnám en þau eru fá. Meira að segja feiknarleg gjóskugos, miklu stærri en komið hafa eftir landnám, virðast ekki hafa valdið verulegri jarðvegseyðingu. Hún hófst ekki fyrr en þriðji þátturinn bætist við með umsvifum mannsins.

Rofabarð

Rofabarð.

Því er stundum haldið fram að jarðvegseyðingu megi rekja til kólnandi loftslags. Fátt bendir til þess að svo sé. Uppblástur hófst skömmu eftir landnám og áður en veðurfar tók að kólna að ráði nálægt 1200. Þorleifur Einarsson taldi til dæmis að á þeim tíma hafi holtin umhverfis Reykjavík verið orðin gróðurvana og uppblástur þar um garð genginn. Annað sem mælir á móti því að frumorsök hnignandi gróðurfars hafi verið kólnandi loftslag er að skógar virðast víða hafa haldist lengst inn til landsins, á mörkum byggðar og óbyggða sem sést til dæmis á breyttum skógarítökum kirkna. Þar hefðu þeir þó átt hörfa fyrst vegna kólnandi loftslags. Litla ísöldin hefur þó lagst á sveif með eyðingaröflunum og haft áhrif, til dæmis í stærri jökulfljótum sem brutu gróið land, meiri jökulhlaupum og í framskriði jökla sem skildu seinna eftir sig gróðurvana auðnir og báru oft einnig fram fínkornótt efni sem farið gat á flakk.

Oddafellssel

Oddafellssel – í selstöðum frá örófi alda hefur gróður haldist allt til þessa dags þrátt fyrir gróðureyðinguna umhverfis.

Það sem líklega skipti sköpum og hrinti af stað vítahring jarðvegseyðingar eftir landnám er að gjóskufall hefur miklu afdrifaríkari afleiðingar fyrir gróður á skóglausu landi. Nokkurra tuga sentimetra gjóskufall getur kæft gróður á graslendi og þar sem beit eða sláttur hefur tekið ofan af gróðri, og náð að drepa allar plönturnar sem flestar hafa sína vaxtarbrodda neðanjarðar, í sverði eða rétt ofan við yfirborð. Þá liggur gjóskan óvarin fyrir vindi og vatni og verður upphaf að sandfoki og frekari gróðureyðingu á nærliggjandi svæðum þegar aðflutt efni kæfa gróður á nýjum stað. Jafnþykkt gjóskulag kann að hafa lítil áhrif á skóg og kjarrlendi þar sem eru tré og runnar sem standa upp úr. Botngróður deyr en hávaxnari gróður heldur að gjóskunni og kemur í veg fyrir að hún fari að fjúka, og skapar auk þess betri skilyrði fyrir uppvöxt botngróðurs á nýjan leik.

Hér má heyra í Ríó Tríóinu; “Landið fýkur burt” – Sjá og HEYRA.

-Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í líffræði við HÍ.
-http://www.land.is/landbunadur/wglgr.nsf/key2/hofudstodvar.html
-https://www.youtube.com/watch?v=mBwrzCNSP0s

Rof

Landrof.

Sogin

Hér á vefsíðunni má m.a. sjá ljósmyndir og uppdrætti af áhugaverðum svæðum Reykjanesskagans, fyrrum landnámi Ingólfs frá 874, hvort sem um er að ræða umhverfi eða minjar. Þá má t.d. sjá myndir af eldgosunum árin 2021, 2022 og 2023 í og við Fagradalsfjall. Eina sem áhugasamir/áhugasöm þurfa að gera er annað hvort að fara inn á flipann “Myndir” hér að ofan eða skrifa viðkomandi heiti í leitargluggann (stækkunarglerið).
Njótið…

Húshólmi

Skálatóft við Húshólma.