Færslur

Reykjanesskagi

Eftirfarandi upplýsingar um Reykjanesskagann birtust í upplýsingariti Ferðamálasamtaka Íslands 2005: Suðurnes / Reykjanesskagi – MANNLÍF, NÁTTÚRA OG SAGA / SOCIETY, NATURE AND HISTORY.

Inngangur
„Þegar tímar jafnréttis eru runnir upp þá er ekki úr vegi að minna á að fyrsti femínistinn á Íslandi var frá Suðurnesjum. Það var landnámskonan Steinunn gamla sem vildi eiga sig sjálf og þáði því ekki að gjöf landið frá Hvassahrauni til Sandgerðis af frænda sínum Ingólfi Arnarsyni heldur greiddi fyrir með heklu flekkóttri.
Annar landnámsmaður á Suðurnesjum var Herjólfur Bárðarson fóstbróðir Ingólfs en hann fékk frá honum land frá Ósabotnum suður á Reykjanestá. Talið er að rústir sem fundust við kirkjuna í Höfnum árið 2003 séu hús Herjólfs sem hann reisti á 9. öld. Herjólfur var afi Bjarna Herjólfssonar þess sem fyrstur Evrópumanna barði Ameríku augum. Frá fornu fari hafa sjósókn og fiskverkun verið höfuðatvinnuvegir Suðurnesjamanna og byggðin og mannlífið mótast af sjónum kynslóð fram af kynslóð. Náttúran á Reykjanesinu býður upp á gróðurvinjar, fagrar strendur, náttúruperlur og hrífandi umhverfi. Við tökum vel á móti ferðamönnum og bjóðum öllum að kynnast sögu okkar, menningu og náttúru. Matsölustaðir og veitingahús bjóða bæði innlenda og erlenda rétti úr íslensku úrvals hráefni og gistihúsin eru af þeim gæðaflokki sem hver vill hafa. Vertu velkomin.“
Undir framangreint ritar Kristján Pálsson, formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja.

Náttúran og gönguleiðir
Náttúran er einstök. Nakin eldhraun í bland við gróðurvinjar, fuglabjörg, sandfjörur og ólgandi brim eru ferðamönnum áskorun um útivist. Hverasvæðin eru meðal öflugustu jarðhitasvæða landsins. Eldvörpin eru um tíu km löng gígaröð með jarðhita. Suður af Hafnarbergi eru skil Ameríku og Evrópu þar sem jarðflekarnir mætast. Fuglalíf er fjölbreytt. Stærstu fuglabyggðirnar eru í Hafnarbergi, Krýsuvíkurbergi og Eldey. Við Vogastapa og Hólmsberg eru brattar og brimasamar fjörur en sandfjörur eru m.a. í Sandvíkum og við Garðskagavita. Tilvalið er að bregða sér í göngutúr. Frá Keili er útsýni stórfenglegt, forn gönguleið liggur frá Vogum yfir Stapann til Njarðvíkur og önnur til Grindavíkur. Vinsælar gönguleiðir til fuglaskoðunar eru frá Garðskaga suður í Sandgerði, um Stafnes til Hafna. Og á Berginu í Keflavík hefur verið gerð skemmtileg gönguleið meðfram sjónum.

Kirkjurnar, söfnin og fornminjar
Saga kynslóðanna er heillandi. Tilvalið er að skoða fornminjar, söfn og gamlar kirkjur sem ilma af fortíðinni. Á Hafurbjarnarstöðum fannst konukumbl. Á Stóra-Hólmi var ein elsta verstöð landsins og Skagagarður er forn garðhleðsla. Stafnes var fjölmennur útgerðarstaður og að Básendum var rekin einokunarverslun til 1799.

Á skeri utan friðlýstra bæjarrústanna eru festarboltar sem kaupskipin voru bundin við. Í Þórshöfn var verslunarstaður Þjóðverja. Á Selatöngum eru forn fiskbyrgi. Á Reykjanesi eru fimm kirkjur frá 19. öld sem geyma gamla muni og sögu. Ógleymanlegt er að skoða Hvalsneskirkju þar sem séra Hallgrímur Pétursson þjónaði. Síðan er upplagt að koma við á einhverju safnanna. Í Garði er byggðasafn. Duushús er í Reykjanesbæ. Saltfisksetur er í Grindavík en Fræðasetrið í Sandgerði tengir saman umhverfi, náttúru og sögu. Þá eru í flestum bæjarfélögum lista- og handverksstaðir sem fróðlegt er að heimsækja.

Virkjun orku
Á Reykjanesi eru mikil jarðhitasvæði og er Reykjanesvirkjun sem nú er í byggingu til vitnis um hve Íslendingar standa framarlega í virkjun jarðvarma. Hitaveita Suðurnesja virkjar heitan jarðsjó í Svartsengi til húshitunar fyrir allt Reykjanes auk þess sem hún virkjar gufu á öðrum stö›um á nesinu og framleiðir rafmagn í gufuhverflum. Í Eldborg, sem staðsett er við virkjunina í Svartsengi, er Gjáin sem er upplýsingamiðstöð um jarðfræði Íslands. Þar er jarðfræði Íslands, framleiðsluferli rafmagns og hitaveituvatns kynnt á lifandi og skemmtilegan máta.

Jarðhitasvæði
Heilsulindin er vel þekkt víðs vegar um heiminn og hefur meðal annars fengið verðlaun fyrir að vera besta náttúrulega heilsulind heims, einn af tíu ótrúlegustu baðstöðum heims og ein af 25 bestu heilsulindum í heimi. Það er einstök upplifun að slaka á í hlýju lóninu (37 – 39°C) á meðan virku efni BLUE LAGOON jarðsjávarins, steinefni, kísill og þörungar, leika um húðina. Eimböð, sauna og foss sem tilvalið er að bregða sér undir er meðal þess sem bíður gesta heilsulindar. Úrval spa- og nuddmeðferða er í boði. Að lokinni slökun og endurnæringu er tilvalið að njóta veitinga í einstöku umhverfi.

Útivist
Möguleikar til útivistar og afþreyingar eru ótalmargir. Hafið út af Reykjanesi er eitt besta svæðið hér við land til hvalaskoðunar. Skip fer daglega á sumrin og haustin í hvalaskoðunarferðir út á dimmbláan sjóinn og leitar uppi hvali. Hvað er stórfenglegra en að sjá þessi tignarlegu dýr koma upp til að anda. Einnig er hægt að fara í sjóstangaveiði og skemmtisiglingu. Þetta eru öllum ógleymanlegar ævintýraferðir. Fjórir góðir golfvellir eru á Reykjanesi en þeir sem gefnir eru fyrir hraða og spennu heimsækja Go-Kart brautina í Njarðvík þar sem brunað er á litlum bílum á öruggri braut. Hægt er að skipuleggja keppni fyrir hópa. Tilvalið að reyna hæfileikana til kappaksturs við öruggar aðstæður.

Byggðirnar og mannlífið

Fyrrum var blómleg byggð á Vatnsleysuströnd, bændabýli og útræði. Töluverð byggð var á Leirunni en nú er þar einn besti golfvöllur landsins. Hafnir anga af sögu liðins tíma og Stekkjarkot, gömul endurbyggð þurrabúð, er minnisvarði um gamla búskaparhætti. Í sveitarfélögunum fimm: Grindavík, Vogum, Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði byggist afkoman sem fyrr á sjávarútvegi en í Reykjanesbæ skiptir þjónusta og upplýsingatækni líka miklu máli.
Mannlífið er fjölbreytt og blómlegt. Á Suðurnesjum er fjöldi kaffihúsa og veitingastaða og glæsileg hótel. Sjóarinn síkáti í Grindavík er vinsæl sjómanna- og fjölskylduhátíð á sjómannadaginn. Sandgerðisdagar eru í ágúst og með Ljósanóttinni í Reykjanesbæ í september kveðja Suðurnesjamenn sumarið.

Íslendingur – Víkingaskipið – víkingasetur

Norrænir menn námu Ísland á ofanverðri 9. öld. Hingað komu þeir á knörrum og hraðskreiðum víkingaskipum. Árið 1996 smíðaði Gunnar Marel Eggertsson víkingaskipið Íslending sem er nákvæm eftirlíking Gaukstaðaskipsins sem var smíðað í Noregi um 870 og fannst árið 1882. Íslendingur er 23m á lengd, 5,25m á breidd og mælist 80 brúttótonn. Hann er miðlungsstórt víkingaskip og á slíkum skipum voru 70 manns í áhöfn. Gunnar sigldi Íslendingi til Ameríku og heim aftur árið 2000 til að minnast 1000 ára afmælis siglinga og landafunda Íslendinga í Ameríku. Reyknesingar vilja halda afrekum forfeðranna á lofti. Eftir heimkomuna keypti Reykjanesbær skipið. Nú er verið að vinna að því að koma því fyrir til frambúðar á glæsilegu víkingasetri.“

Framangreint lýsir vilja til að vekja athygli á því stóra er fólk gæti haft áhuga á þegar það vill sækja Reykjanesskagann heim, en allt hið smáa og merkilegra er látið ferðalöngunum eftir að finna að eigin frumkvæði – því sjaldnast er leiðbeinandi merkingum fyrir að fara.

Sjá meira um Reykjanesskagann HÉR, HÉR og HÉR.

Heimild:
-http://www.icetourist.is/upload/files/sudurnes.pdf21Skoðað

Svartsengi

Eftirfarandi grein eftir Kára Jónasson birtist undir dálknum „Skoðun“ í Fréttablaðinu föstudaginn 8. september 2006:
„Landshættir hér á landi eru gjarnan þannig að á sömu stöðunum fara saman mikil náttúrufegurð og álitlegir virkjunarkostir. Á þetta bæði við um jarðvarmavirkjanir og vatnsaflsvirkjanir, eins og öllum ætti að vera kunnugt núorðið.

GataKárahnjúkavirkjun hefur mikið verið í umræðunni sem eðlilegt er, og þar sýnist sitt hverjum. Sú umræða hefur svo leitt til þess að augu manna hafa beinst að öðrum vatnsaflsvirkjunarkostum á landinu, sem reyndar er bæði gömul umræða og ný. Minna hefur hins vegar verið tekist á um jarðvarmavirkjanir fyrr en nú á allra síðustu misserum, en því er ekki að leyna að þær hafa einnig í för með sér breytingar á umhverfinu, þótt með öðrum hætti sé.

Í næsta nágrenni við höfuðborgina og nálægar byggðir eru mikil eldfjallasvæði, sem jafnframt eru upplögð útivistarsvæði, þótt þau sé mörgum íbúum á Suðvesturlandi ókunn. Það er oft þannig að menn leita langt yfir skammt til að komast í ósnortna náttúru.

Reykjanesskaginn allur býður upp á mikla möguleika bæði sem útivistar- og náttúrusvæði og svo virkjunarkosti fyrir jarðvarmaveitur. Nú þegar eru miklar virkjanir á vestasta hluta skagans og svo á Hengilssvæðinu. Stór svæði um miðbik hans eru hins vegar tiltölulega ósnert, utan þess að þar hafa á nokkrum stöðum verið boraðar tilraunaholur til að kanna hvað felst þar í iðrum jarðar, og síðan hefur verið óskað eftir að fara í frekari tilrauna- eða rannsóknaboranir, þar sem eru óspillt svæði. Það eru þessi ósnortnu svæði á Reykjanesskaganum, sem menn þurfa nú að fara að taka ákvörðun um hvað gert verður við. Þeim ætti eindregið að hlífa við hvers konar raski, nema að gera eitthvað til að þau verði aðgengilegri fyrir gesti og gangandi. Þeim má alls ekki spilla með virkjunum og því sem þeim fylgir.

Nesjavallavirkjun er austast á þessu svæði og með virkjun og vegalagningu þangað má segja að opnast hafi nýr heimur fyrir marga. Mikill fjöldi innlendra og erlendra ferðamanna leggur leið sína þangað árlega og það er eiginlega fastur liður að fara þangað með erlenda tignarmenn sem koma hingað í heimsókn, til að kynna fyrir þeim á auðveldan og aðgengilegan hátt þær orkulindir sem eru hér í jörðu.

Orkuver

Íslendingar gera sig nú æ meira gildandi varðandi nýtingu á jarðvarma í öllum heimshlutum og þar er byggt á reynslunni af slíkum verkefnum hér heima. Svipaða sögu er að segja af nýtingu jarðvarmans vestast á Reykjanesskaganum – það kemur varla nokkur útlendingur til landsins án þess að heimsækja Bláa lónið.

Það er því miðja skagans sem fyrst og fremst þarf að verja og vernda frá strönd til standar, jafnframt því að svæðið verði gert aðgengilegt fyrir þá sem vilja njóta þess. Þarna eru miklir möguleikar fyrir hendi til útivistar, ekki aðeins á þeim svæðum þar sem jarðhiti er talinn nýtanlegur heldur ekki síður við og upp af suðurströndinni. Nægir þar að nefna Krýsuvíkurbjarg, Ögmundarhraun og Seltanga, að ógleymdum Selvogi og svæðinu þar í kring.“
Ganga

Landnámsmenn

Hér á eftir fylgir listi yfir landnámsmenn á Reykjanesskagnum (landnámi Ingólfs) og landnám þeirra. Listanum fylgir upptalningu Landnámabókar sem byrjar á Ingólfi Arnarsyni í Reykjavík og telur þaðan réttsælis um skagann.

Letursteinn– Ingólfur Arnarson nam land milli Ölfusár og Brynjudalsár í Hvalfirði og öll nes út. Hann bjó í Reykjavík.
Ingólfur Arnarson (stundum nefndur Björnólfsson) er jafnan talin fyrsti landnámsmaður Íslands. Hann kom fyrst til Íslands ásamt fóstbróður sínum og mág, Hjörleifi Hróðmarssyni, til landkönnunar í kringum 867. Þeir komu svo til að nema land á Íslandi í kringum 870, þó hefð sé að miða við 874. Ingólfur hafði verið gerður útlægur frá heimkynnum sínum í Dalsfirði í Firðafylki á Noregi og ákvað því að flytja til Íslands. Ingólfur er sagður hafa haft vetursetu í Ingólfshöfða sinn fyrsta vetur á Íslandi. Sagan segir að hann hafi kastað öndvegissúlum sínum fyrir borð áður en hann kom að landi og svarið að setjast að þar sem þær kæmu að landi, vegna þess að þar myndu goðin vilja að hann byggi. Hann sendi svo þræla sína Karla og Vífil til að leita þeirra, og fundu þeir þær við Arnarhvol í Reykjavík. Sú leit tók 3 ár. Ingólfur settist að í Reykjavík en landnám hans náði á milli Ölfusár og Hvalfjarðar og öll nes út. Kona Ingólfs var Hallveig Fróðadóttir.

– Vífill, þræll Ingólfs. Ingólfur gaf honum frelsi og land og bjó hann á Vífilsstöðum.
Vífill var annar af tveimur nafngreindum þrælum Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns. Að sögn Landnámabókar fundu þrælarnir Karli og Vífill öndvegissúlur Ingólfs við Arnarhvol í Reykjavík. Samkvæmt Landnámu hlaut Vífill síðar frelsi og setti niður bú sitt að Vífilsstöðum Vífilsgata í Reykjavík dregur nafn sitt af þrælnum Vífli.

– Þórður skeggi Hrappsson nam land með ráði Ingólfs milli Úlfarsár og Leiruvogs og bjó á Skeggjastöðum.
Þórður skeggi (fæddur um 839) nam að sögn Landnámabókar land milli Leirvogsár og Úlfarsár (Korpu), en hann hélt til Íslands að ráði Ingólfs Arnarsonar. Bú hans var að Skeggjastöðum. Þórður skeggi var sonur Hrapps Bjarnarsonar bunu. Þórður átti Vilborgu Ósvaldsdóttur, eldri dóttir þeirra hét Helga en hennar maður var Ketilbjörn hinn gamli. Yngri dóttirin hét Þuríður. Skeggjagata í Reykjavík er nefnd eftir honum.

– Hallur goðlaus Helgason nam land með ráði Ingólfs milli Leiruvogs og Mógilsár.

– Helgi bjóla Ketilsson nam Kjalarnes milli Mógilsár og Mýdalsár og bjó að Hofi.

Forn leið– Örlygur gamli Hrappsson nam land með ráði Helga bjólu frá Mógilsá til Ósvífurslækjar og bjó að Esjubergi.

– Svartkell nam land milli Mýdalsár og Eilífsdalsár, bjó fyrst á Kiðafelli en síðan á Eyri.

– Valþjófur Örlygsson nam Kjós og bjó á Meðalfelli.

– Hvamm-Þórir, nam land milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi.

– Þorsteinn Sölmundarson nam land milli Fossár og Botnsár.

– Ávangur byggði fyrst í Botni í Hvalfirði.
Þar var þá svo stór skógur, að hann gerði þar af hafskip.
Hans son var Þorleifur, faðir Þuríðar, er átti Þormóður Þjóstarsson á Álftanesi og Iðunnar Molda-Gnúpsdóttur. Sonur Þormóðar var Börkur, faðir Þórðar, föður Auðunar í Brautarholti.

– Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krísuvík.

– Molda-Gnúpssynir byggðu í Grindavík.

– Steinunn gamla fékk Rosmhvalanes fyrir utan Hvassahraun af Ingólfi frænda sínum.

– Eyvindur fékk land af Steinunni frænku sinni milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns.

– Herjólfur Bárðarson fékk land af Ingólfi frænda sínum milli Reykjaness og Vogs.

– Ásbjörn Össurarson nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns og bjó á Skúlastöðum.

Heimild:
-Landnáma (Sturlubók).Landnámsmaður

Húshólmi

Nú nýverið lauk Landgræðsla ríkisins verkefni sem miðar að því að loka slóðum í fjallendi Grindavíkur, Hrauns og Ísólfsskála. Settar voru lokanir við allar helstu leiðir þar sem torfærutæki hafa verið að fara inn á viðkvæm svæði og valdið þar skaða á gróðri. Fyrst og fremst eru þessar lokanir í Reykjanesfólkvangi sem er að mestu í landi Grindavíkur, en einnig í landi Ísólfsskála og Hrauns. Í vettvangsferð kom í ljós að fólk hefur að mestu virt þessar lokanir og virðist hafa skilning á málinu. Með þessu verkefni vill Landgræðslan tryggja að gróðurverndar átak sem þegar er hafið og mun halda áfram á næstu árum skili árangri. Vonandi verður í framhaldi hægt að hafa þessar leiðir opnar yfir sumartímann og komi til lokunar haust vetur og vor. Lykklar eru á hliðum á hverri lokun og hafa hagsmunaðilar þegar fengið lykkla. Með þessum aðgerðum ætti störf löggæslu á svæðinu að verða mun auðveldara í framtíðinni sem og starf landvarðar í fólkvanginum.
Þess má geta að Landgræðslan hefur unnið með FERLIR að uppgræðslu í Húshólma með góðum árangri. Sáð var í hólmann s.l. sumar og aftur í sumar (2006). Svo virðist sem tekist hafi að hefta gróðureyðinguna og auka þannig líkur á varðveislu hinna ómetnalegu minja, sem þar er að finna.

Heimild:
-www.grindavik.is

Eldfjallagarður

Hér fer á eftir Framtíðarsýn Landverndar gjörð í kjölfar aðalfundar 29. apríl 2006. Lagt er til að Reykjanesskagi verði ,,Eldfjallagarður og fólkvangur“.

Tvíbolli

Tvíbolli.

Framtíðarsýn Landverndar fyrir Reykjanesskaga, þ.m.t. Hengilssvæðið, er að frá Þingvallavatni og út á Reykjanestá og Eldey verði stofnaður ,,Eldfjallagarður og fólkvangur.“ Þessi framtíðarsýn grundvallast á náttúruvernd samhliða fjölbreyttri annarri nýtingu á auðlindum Reykjanesskagans. Skaginn hefur óumdeilanlega jarðfræðilega sérstöðu á heimsvísu og í reynd skortir alþjóðleg viðmið til að staðfesta verndargildi hans. Reykjanes er til að mynda eini staðurinn á jörðinni þar sem berlega má sjá hvar úthafshryggur gengur á land með eldsumbrotum og jarðhræringum.

Fjölmörg náttúruvætti og minjar á náttúruminjaskrá yrðu innan „Eldfjallagarðsins og fólkvangsins“, þ.á.m. Reykjanesfólkvangur og Bláfjallafólkvangur. Jarðmyndanir á Reykjanesskaganum hafa margar hverjar hátt verndargildi og gætu orðið helsta aðdráttarafl skagans fyrir ferðamenn og útivistarfólk.
Svæðið frá Stóra Kóngsfelli suður og vestur fyrir Brennisteinsfjöll eru ósnortin víðerni. Fágætt er að slíkar landslagsheildir sé að finna svo nálægt þéttbýli og er mikilvægt að halda þeim ósnortnum.

Eldborg

Eldborg í Svínahrauni.

Verðmætar menningarminjar eru einnig víðsvegar á Reykjanesskaganum og má þar nefna Selvog, Herdísarvík, Krýsuvík, Húshólma og Selatanga. Þá ber að nefna mikilfenglegt lífríki, s.s. fuglalíf í Eldey, Hafnarbjargi og Krýsuvíkurbergi, mosaþakin nútímahraun og gróskumikil svæði með háplöntum á stöku stað. Á svæðum sem þessum þarf að leggja ríka áherslu á að varðveita menningarlandslag, lífríki, einstaklega fjölbreyttar jarðmyndanir og minjar um eldvirkni á úthafshryggnum.

Á Reykjanesskaga eru nokkur háhitasvæði, Reykjanes, Eldvörp, Svartsengi, Sandfell, Trölladyngja, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengilssvæðið. Umtalsverð orkuvinnsla er þegar til staðar á svæðunum austast og vestast á skaganum. Helst er skynsamlegt að þróa áfram nýtingu jarðvarmans á þeim svæðum sem þegar hafa verið virkjuð að hluta. Leggja þarf áherslu á rannsóknir og djúpboranir sem gætu margfaldað orkuvinnslugetu þessara svæða.
Auk orkunýtingar væru á virkjunarsvæðum starfrækt heilsuböð og nýting jarðhitaefna s.s. í framleiðslu húðvara, upplýsingastöðvar og þjónustumannvirki fyrir ferðamenn, útivistarfólk og íbúa.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg undir Geitahlíð.

Á og við Reykjanesskaga búa nú um 200 þúsund manns og er fyrirsjáanlegt að þeim fjölgi á næstu árum. Þannig vex þörfin fyrir fjölbreytt og skipulagt útivistarland í nágrenni þéttbýlisins enn frekar. Flestir ferðamenn sem koma til landsins fara um Keflavíkurflugvöll og spár benda til að eftir áratug verði árlegur fjöldi þeirra allt að ein milljón. Rannsóknir sýna að íslensk náttúra dregur þá flesta til landsins og bætt aðgengi að náttúru og menningarminjum skagans myndi efla ferðaþjónustu innan svæðisins til mikilla muna því flestar gistinætur ferðamanna hérlendis eru einmitt á Reykjanesskaganum.

Með því að nýta hin mörgu tækifæri sem Reykjanesskagi hefur upp á að bjóða til náttúruverndar, útivistar og ferðaþjónustu auk orkuvinnslu og nýtingu jarðhitaefna, er unnt að skapa mikinn arð fyrir samfélagið. Framtíðarsýn Landverndar um náttúruvernd og fjölbreytta nýtingu felur í sér jákvæð áhrif á efnahag, samfélag og umhverfi í anda sjálfbærrar þróunar.

Heimild:
-http://www.landvernd.is/Ummerki

Bálkahellir

Svæði Reykjanesskagans búa yfir miklum verðmætum, hvort sem horft er til orku eða annarra náttúruauðlinda. Mörg svæðanna eru enn að mestu óröskuð. Þau geyma ótal mannvistarleifar er endurspegla búsetu- og atvinnusöguna frá upphafi Forn tóftlandnáms hér á landi. Flestir landsmenn búa nú á skaganum, en hann spannar hið forna landnám Ingólfs, vestan línu frá Ölfusárósum í Hvalfjarðarbotn.
Reykjanesskaginn telst til landnáms þessa fyrsta norræna landnámsmanns hér á landi. Eftir að hafa dvalið um tíma á Austurlandi, þangað sem flestir verðandi landnámsmannanna komu reyndar í fyrstu frá Suðureyjum, færði hann sig um set og taldi loks ákjósanlegri búsetukosti vera við heitavatnslindir ofan víkur þeirrar, er hann lagði loks við skipi sínu. Landnámið hefur verið nefnt eftir manninum og getið er um í Landnámu. Hóf hann, ásamt þrælum sínum, að byggja sér bæ og önnur nauðsynleg mannvirki. Landnámið færðist síðan smám saman yfir á frændur og búalið. Þegar minjar nátengdra afkomenda Ingólfs voru grafnar upp við byggingu húss Happdrættis Háskólans við Tjarnargötu og Herkastalans tæplega 1100 árum seinna var rótað í ummerkjum elstu mannvistarleifa á svæðinu og síðan húsin reist á grunni þeirra. Enginn hafði þá áhuga á hinum fornu og hinum augljósu tengslum þeirra við hinn fyrsta landnámsmann. Auðveldlega hefði verið hægt, með svolítilli umhugsun, að byggja húsin spölkorn frá og geyma svæðið til seinni tíma rannsókna. Nú eru þessar merku minjar glataðar og verða ekki endurheimtar – því miður. Svona er og hefur reyndar verið um margt það sem merkilegt hefur getað talist, hvort sem um er að ræða minjar eða einstök náttúrufyrirbæri. Það er þó bót í máli að á fyrrnefndu svæði eiga eftir að finnast fornleifar er gefa munu til kynna mannvist hér á landi löngu fyrir hið „opinbera norræna landnám“.
VegaframkvæmdirAf og til, einkum við hátíðleg tækifæri, og af gefnu tilefni eru mörg orð höfð um umhverfismál, mikilvægi verndunar, verðmæti umhverfis og náttúru, gildi hvorutveggja fyrir ferðaþjónustuna (hinnar sívaxandi atvinnugreinar) sem og nauðsynleg skil núverandi kynslóða til afkomendanna. Á milli orðanna er vaðið yfir stór áður óspillt svæði með stórvirkum vinnuvélum, jarðýtum og skurðgröfum í nafni arðbærar atvinnusköpunnar og aukningar á vergri þjóðarframleiðslu, framfara og „mikilvægrar nauðsynjar“, án þess að sú nauðsyn hafi yfirleitt verið útskýrð fyrir fólki. Gleymst hefur, að ekkert af því sem glatast, verður nokkurn tíma endurheimt – hvorki til handa komandi kynslóðum né öðrum.
En hér er í rauninni alls ekki um einfalt mál að ræða. Staðreyndin er þó auðvitað sú að huga þarf að skynsamlegu meðalhófi, annars vegar að varðveislu verðmætra náttúru- og minjasvæða, og hins vegar að arðsemi og nauðsynlegri nýtingu. Hingað til hefur fulltrúum síðarnefndu sjónarmiðanna verið gefinn um of laus taumur, með sárgrætilegum afleiðingum. Þeir hafa fengið, þegjandi og hljóðlaust, að sóða út dýrmæt svæði, jafnvel án nokkurrar skynsamlegrar ástæðu. Þegar horft er á loftmyndir eða svæði gengin og skoðuð, má vel sjá hvar farið hefur verið yfir landið á “skítugum skónum”. Mestu sóðarnir eru orkufyrirtækin og sjálf sveitarfélögin, sem einna helst hefðu átt að spyrna við fótum og gæta varúðar.
Utanvegaakstur Fjárhagslegir hagsmunir hafa því miður fengið að ráða um of ferðinni – hingað til a.m.k. Fjármagn og möguleg arðsemi (í peningum talið) hefur jafnan ráðið afstöðu manna til fyrirsjáanlegrar eyðileggingar á umhverfinu.
Fólk, sem ber umhyggju fyrir landinu, hefur mótmælt óhóflegri röskun þess. En hversu víðtækur er landverndaráhuginn? Takmarkast hann einungis við ákveðna staði af tilteknum ástæðum? Endurspeglar hann afstöðu fjöldans, eða er hann bara bergmál hrópandans í eyðimörkinni? Langflestir vita mjög lítið um umhverfisvernd, örfáir svolítið meira og til eru þeir sem bulla um eitthvað sem skiptir engu máli. Stjórnmálamenn vita sennilega minnst um efnið þótt þeir tali mest um það – og þá jafnan um ekkert sem skiptir máli.
Tiltölulega auðvelt ætti að vera að samhæfa nýtingu og meðferð verðmætra náttúruauðlinda. Til þess þarf þó meira en menn sem horfa ekki til mögulegrar aðrsemi þeirra sjálfra – í aurum talið. Fólk með heilbrigða skynsemi kann og getur gætt að samræmi þess sem í raun skiptir máli.
Á hverju hefur fólk yfirleitt áhuga? Kannanir hafa sýnt að áhugi á óspilltri náttúru og menningartengdum svæðum séu áhugaverðastar. Þótt langflestir íbúar á Reykjanesskaganum sæki í ósnortna náttúru og nálægð við söguminjar í öðrum og fjarlægari landnámssvæðum eru möguleikar skagans nær óþrjótandi í þeim efnum. Og hvers vegna að aka í þrjár klukkustundir til að geta skoðað eitthvað á fimmtán mínútum þegar hægt er að aka í fimmtán mínútur til að geta skoðað sig um í þrjár klukkustundir? Allflest það er finna má í öðrum landshlutum er einnig að finna á Reykjanesskaganum. Fólk hefur hins vegar tilhneiginu til að horfa langt fyrri skammt.
Háspennumöstur Óyggjandi þörf er fyrir að varðveita landið sem mest ósnortið svo komandi kynslóðir og gestir þeirra geti notið þess sem skyldi. Líklegra má telja að fólk beri virðingu fyrir landinu meðan það er enn fallegt og jafnvel einstakt – telur sig tilheyra því. En um leið og búið er að raska eða eyðileggja hluta þess, minnkar áhuginn svo og virðingin í réttu hlutfalli við skemmdirnar. Enginn hefur t.a.m. áhuga á brotnum stól eða götóttum hjólbarða. Hvers vegna ætti fólk þá að hafa áhuga á eldborg, sem búið er að skemma og fjarlægja að hluta, eða fallegum dal, sem hefur verið sléttaður út til að koma fyrir stórvirkum bortækjum?
Mikilvægt er að þeir, sem fá leyfi til framkvæmda, standi þannig að málum að sem minnst röskun verði vegna þeirra. Öllum er ljóst að byggja þarf nýja vegi, virkja jarðorkuna, ná í sand, möl og grjót, en það er hægt að gera það að yfirlögðu ráði og með fullri meðvitund.
Eitt þeirra svæða, sem enn er ósnortið á Reykjanesskagnum eru Brennisteinsfjöll. Þar er jarðsagan og –myndunin líkt og opin fræðibók, bæði með litmyndum og augljósum skýringum; fallegar eldborgir, hrauntraðir, hellar og gígar, einstakri fánu og flóru ásamt einu frábærasta útsýni sem hægt er að hugsa sér – í friði fyrir háspennulínum. Minjar námuvinnslu eru í fjöllunum og gamlar þjóðleiðir liggja um þau, þvert yfir Reykjanesskagann, milli suður- og norðurstrandar hans.
Svæði Reykjanesskagans mynda bæði sjálfstæð og heilstætt búsetuminjasvæði. Þau hafa að geyma tæplega 260 selstöðuminjar, yfir 100 hlaðin fjárskjól, meira en 100 réttir og stekki, um 80 fjárborgir, ótal vörður tengdar sögulegum atburðum, a.m.k. 32 hlaðnar refagildrur, yfir 100 brunna og vatnsstæði, ótal gamlar götur þar sem fætur, hófar og klaufir liðinna kynslóða hafa markað djúp för í hraunhelluna, allnokkrar verminjar, varir naust og lendingar, fiskverkunarminjar Gömul þjóðleiðog aðrar þær mannvistarleifar sem maðurinn hefur skilið eftir sig á löngum tíma. Minjar þessar lýsa m.a. hvernig forfeður og –mæður lifðu, við hvaða aðstæður og hversu aðdáunarvert megi telja að við, sem nú lifum, skulum yfirleitt geta orðið til. Fyrir það ber okkur að sjálfsögðu að þakka, t.d. með því að bera umhyggju fyrir því sem þetta fólk skildi eftir sig, hvort sem um er að ræða minjar, líkar þeim er byggt var á við Tjarnargötu, eða landið sjálft.
Mikið hefur verið rætt um mikilvægi eftirlits í samfélaginu – til að auka öryggið. Þær hugmyndir eru að mörgu leyti góðra gjalda verðar, en í umræðunni gleymist að helstu „skemmdarvargarnir“, sem fólki og landi stafar hvað mest hætta af um þessar mundir eru stjórnmálamenn og embættismenn tengdir ýmiss konar framkvæmdum, s.s. virkjanagerð, álversframkvæmdum og öðru því sem til þarf, s.s. vegagerðaraðilar. Utanvegaakstur spillir og landinu, malartaka ýmiss konar, íbúðabyggð o.fl. Engum hefur hins vegar látið sér detta í hug sérstakt eftirlit með aðilum er telja sig hjafa fengið leyfi til framkvæmda. Eitt nýlegt dæmi um slíkt er frá Heiðmörk. Annað frá Reykjanesbraut. Fáum dettur í hug að bæði sé hægt að vera með framkvæmdir og varðveita þau svæði, sem framkvæmdir ná yfir, en með svolítilli hugsun, eins og áður segir, þar sem varfærni er höfð til hliðsjónar og virðing fyrir umhverfinu er meðvituð, ættu verðmæti náttúrunnar sem og sögulegar minjar sér meiri möguleika til lengri framtíðar en hingað til, sbr. minjar hins fyrsta landnámsmanns við Tjarnargötu í Reykjavík. Einnig gamla gatan yfir Siglubergsháls, sem fór að óþörfu undir Suðurstrandarveginn.
Malargryfjur Ef einhverjum hefði þá dottið í hug að leggja til að færa áætlaðar byggingar í miðborginni á sjötta áratug 20. aldar eða hnika til skipulagi um nokkra metra, væru nú, hálfri öld seinna, til sögulegasta minjasvæði landsins, og þótt víðar væri leitað – um upphaf landnámsbúsetu heillrar þjóðar. En það var bara ekki gert – því miður.
Náttúru- og söguminjar Íslands eru bæði einstakar og fjölmargar. En þær eru hvorki ótakmarkaðar né óaðgengilegar fyrir stórhuga framkvæmdamenn í arðsemisleit. Létttifandi lækur, fiðraður vorboði á hreiðri, háreistur álfaklettur, vel hlaðið fjárskjól í hrauni frá sögulegum tíma, tímalaus vör eða brönugras í júní með undirspil golunnar virðist allt fátæklegt í fyrstu. En þegar betur er að gáð er allt þetta, hver einstakt, margfalt verðmætara en t.d. ipot, tölvuleikir, gargandi tónlist, pizza eða samfelldur umferðarniður frá morgni til kvölds. Jafnvel verðmætara en suðið í háspennulínum hinna óteljandi mastra með undirliggjandi slóðum er hlykkjast nú þvers og kurs um landið.
Virðing fyrir landinu kostar ekkert. Eyðilegging náttúru- eða menningarminja verða aldrei bætt. Með ákvörðun um varðveislu og skynsamlegri nýtingu landsins er hægt að koma í veg fyrir óþarfa eyðileggingu, auka vitund fyrir raunverulegum verðmætum og skapa sátt. Og allir græða – a.m.k. eitthvað.
Hraun

Reykjanesviti

Reykjanes er ysta táin á Reykjanesskaga. Nesið er eldbrunnið, þar eru lág fjöll og hnúkar úr móbergi, jarðhiti, klettótt strönd og hraun runnið í sjó fram. Á Reykjanesi ber mest á Skálafelli, sem er hæsta fellið, og Valahnúk eða Valahnúkum, sem er(u) yst. Mikið brotnar úr Valahnúk á hverju ári, enda brýtur hafaldan úr honum nánast í hverju roki. Yst á tánni eru svokallaðar Skemmur. Þar hefur sjór brotið hella undir efsta hraunlagið og hafa hellisþökin sums staðar brotnað niður. Þetta veldur því að þegar hvasst er og álandsvindur (suðvestan) þá brotnar hafaldan með miklum dyn inn í hellana og standa svo gosstrókar upp um götin. Er þetta oft mikið sjónarspil.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Vatnsfelli.

Sunnan og austan við Valahnúk er gjá nokkur, sem nefnd er Valborgargjá. Í henni er hraungjóta nokkur eða sprunga með vatni, sem áður var volgt. Yfir hana var byggt hús eða skúr snemma á 20. öld og þar kennt sund áður en sundlaugar komu til sögu í byggðarlögunum á utanverðum Reykjanesskaga og man enn margt eldra fólk eftir því er það var að læra að synda þar. Á ströndinni utan við Valbjargargjá er Valahnúkamöl, stórgrýtt fjara þar sem allir steinarnir eru lábarðir og núnir. Margir telja að nafnið Valbjargargjá sé afbökun, því að Valahnúkur heitir líka Valabjörg, og gæti gjáin þá augljóslega heitið Valabjargagjá, sem hefði afbakast í Valbjargargjá og Valborgargjá.
Á Reykjanesi var fyrsti viti á Íslandi reistur árið 1878. Hann var uppi á Valahnúk. Árið 1896 urðu jarðskjálftar sem röskuðu undirstöðu vitans og varð þá ljóst að byggja varð nýjan vita. Hann var reistur á Bæjarfelli um 400 m frá Valahnúk. Þeirri staðsetningu fylgdi þó sá galli, að Skálafell skyggir á vitann séð úr suðaustri. Þess vegna var reistur annar lítill viti (Litliviti) úti á Skemmum og kalla sumir hann hálfvitann. Frá Reykjanesi er óslitið haf allt til Suðurskautslandsins.

Rafnkelsstaðaberg

Gatklettur í Rafnkelsstaðabergi.

Fyrir Reykjanes liggur erfið siglingaleið, sem er sú fjölfarnasta við strendur landsins. Það er sundið á milli Reykjaness og Eldeyjar, sem heitir Húllið. Í Húllinu er Reykjanesröst, sem er straumþung og getur bára orðið þar mjög kröpp í vissum áttum og eftir sjávarföllum.
Reykjanes hefur löngum verið slysasamt fyrir sæfarendur. Eitt mesta strand þar varð árið 1950 er olíuskipið Clam strandaði þétt upp við hamravegginn sunnan Valahnúks. Um 50 manns voru í áhöfn, helmingur Kínverjar og helmingur Englendingar. Hluti áhafnarinnar fór í björgunarbáta, en hluti var um kyrrt í skipinu. Allir sem fóru í björgunarbáta fórust, en hinum var öllum bjargað af björgunarsveitinni Þorbirni frá Grindavík, en skipið brotnaði í spón á staðnum innan skamms. Þessi atburður var rótin að skáldsögunni Strandið eftir Hannes Sigfússon, en hann var einmitt á Reykjanesvita þegar þessir atburðir gerðust.
Reykjanesskagi er suðvesturhluti Íslands, sem skagar eins og ólögulegur fótur til vesturs út úr meginlandinu. Skaginn er sunnan Faxaflóa, sem er stærsti flói við Ísland. Jarðfræðilega er Reykjanesskagi allt svæðið austur að Ölfusá, Sogi, Þingvöllum og í Hvalfjarðarbotn. Hins vegar er í daglegu tali oftast átt við svæðið vestan (sunnan) Hafnarfjarðar og frá Krýsuvík og vestur (suður) úr, þegar talað er um Reykjanesskagann. Venjulega er talað um að fara suður þegar haldið er út skagann, en inn þegar farið er til baka. Suðurnesjamenn fara inn eftir til Reykjavíkur og eru þeir því einir landsmanna sem ekki fara suður til Reykjavíkur, heldur suður heim til sín. Ysti hluti skagans heitir Reykjanes (það er hællinn á fætinum).
Gróft séð er skaginn um 50 km langur og 20 km breiður eða um 1000 ferkílómetrar, sem samsvarar lauslega reiknað 1% af landinu. Hann einkennist af fjöllum, sem eru flest frekar lág móbergsfjöll, mynduð við gos undir jökli á ísöld, og hraunum, sem runnið hafa bæði fyrir landnám og á sögulegum tíma. Skaginn er frekar gróðursnauður en þó má finna þar ótrúlegan tegundafjölda ef vel er að gáð. Jarðfræðilega er svæðið mjög athyglisvert og ennfremur er það kjörið til útivistar og gönguferða.

Valahnúkur

Valahnúkur.

Helstu fjöll á Reykjanesskaga vestanverðum eru Langahlíð (sem blasir við frá Reykjavík), Vatnshlíð (austan við Kleifarvatn), Sveifluháls og Núpshlíðarháls (sem einnig heita Austurháls og Vesturháls) og er norðurendi þess síðarnefnda Trölladyngja og Grænadyngja, Keilir, Fagradalsfjall, Þorbjörn (Þorbjarnarfell) og Festarfjall. Mörg fleiri mætti nefna, en þau eru smærri.
Á Reykjanesskaga eru mörg byggðarlög. Að slepptu höfuðborgarsvæðinu öllu (sem fræðilega tilheyrir skaganum) eru þar Vatnsleysuströnd og Vogar, Reykjanesbær (Keflavík, Ytri- og Innri Njarðvík og Hafnir), Garður, Sandgerði og Grindavík auk Keflavíkurflugvallar, en þar er allstórt byggðarlag á íslenskan mælikvarða. Einu nafni eru þessi byggðarlög oft nefnd Suðurnes og er heildaríbúafjöldi um 16000 manns og fer vaxandi og þar að auki bandarískir hermenn og skyldulið þeirra á Keflavíkurflugvelli. Atvinnulífið byggist mest á sjósókn og fiskvinnslu í smærri byggðunum, en á iðnaði, þjónustu og verslun í Reykjanesbæ, sem er eins konar höfuðstaður svæðisins.
Öll þessi byggðarlög eru kynnt með heitu vatni frá Hitaveitu Suðurnesja í Illahrauni. Hún er reyndar oft kennd við Svartsengi, þar sem fyrstu tilraunaholur voru boraðar áður en vinnsla hófst, en á endanum var orkuverið reist í Illahrauni, sem ber nafn með rentu. Affallsvatn frá Hitaveitunni myndar Bláa lónið, sem nú er einhver fjölsóttasti ferðamannastaður á Íslandi bæði af innlendum og erlendum ferðamönnum. Lónið þykir vera heilsulind og er meðal annars notað við lækningu á sjúkdómnum psoriasis og ýmsum húðútbrotum og exemum.

Heimild m.a.:
-http://is.wikipedia.org/wiki/Reykjanesskagi

Reykjanesviti

Reykjanesviti – uppdráttur ÓSÁ.

Gullkollur
Gróður á Reykjanesskaganum er að mörgu leyti líkur gróðri annars staðar á landinu. Af öllum plöntum á landinu má finna á honum rúmlega 60% af þeim. Gamburmosinn er einkennisplantan, enda víða nýlega hraun. Ferskvatnstjarnir í bland við saltan sjóinn er og meðal einkenna svæðisins.
Valllendi er víða. Allir þekkja grundir, þurra bala, brekkur og ræktuð tún, sem er að finna hvarvetna á skaganum. Á þessum stöðum eru grastegundir mest áberandi og setja sterkan svip á landið.
Fjara nefnist svæðið þar sem láð og lögur mætast. Breidd fjörunnar er mjög mismunandi og fer eftir staðháttum, aðallega þó halla lands. Við klettótta strönd er breiddin nær engin en við árósa og í grunnum víkum getur hún orðið nokkuð löng. Neðri mörk fjörunnar eru oft miðuð við mestu stórstraumsfjöru og efri mörkin við hæsta stórstraumsflóð, en einnig er hægt að fara eftir útbreiðslu ákveðinna lífvera. Fjara er mjög sérstætt búsvæði. Það stafar einkum af því að flestar lífverur eru ýmist á kafi í sjó eða á þurru eftir því hvernig sjávarföllum er háttað. Í annan stað hefur öldurót mikil áhrif á lífverurnar. Þar sem er mjög brimasamt og undirlagið óstöðugt ná engar lífverur fótfestu, eins og víða við suðurströnd landsins.
Þær plöntur sem eru einskorðaðar við fjöru eru aðallega þörungar en efst í henni eru líka nokkrar eiginlegar fjörutegundir eins og hin svarta fjöruskóf, sem er fléttutegund, og grastegundin sjávarfitjungur. Þá er að geta þess að allmargar landplöntur vaxa eingöngu við efstu fjörumörk og ná oft talsvert niður í fjöru. Af þeim má nefna blálilju, hrímblöðku, skarfakál, fjöruarfa og fjörukál, sem allar hafa tiltölulega þykk og safamikil, blágræn blöð. Þessar tegundir þola háan saltstyrk og á stundum stirnir á saltkrystalla í blöðum þeirra.
Því ofar sem dregur við strönd bætast sífellt fleiri tegundir í hóp strandplantna. Oft ber þar mikið á baldursbrá, tágamuru, kattartungu, holurt og geldingahnappi auk ýmissa grastegunda, einkum melgresi, ef sandur er laus í sér.
Víða flæðir sjór yfir annað votlendi og þá myndast mjög sérstakt gróðurlendi, svo kallaðar sjávarfitjar. Langmest ber á grasleitum tegundum á þessum svæðum, grösum og hálfgrösum (einkum störum), en þó leynast smáar og fagrar jurtir inni á milli, eins og stjörnuarfi, strandsauðlaukur, kattartunga og sandlæðingur.
Til eru ýmsar gerðir af valllendi. Séu grastegundir nær einvörðungu drottnandi í svip landsins kallast það graslendi. Aðrar blómplöntur, eins og fíflar, brennisóley, hvítsmári og gulmaðra, vaxa jafnan inni á milli grasanna, ef vel er að gáð, einkum ef örlítil rekja er í rót eða landið smáþýft.
Stundum eru aðrar blómplöntur miklu meira áberandi í valllendinu til að sjá en grösin og þá kallast það blómlendi eða jurtastóð. Blómlendið er sjaldnast mjög víðáttumikið en er einkum neðst í brekkum, meðfram ám og lækjum eða í lautadrögum. Víða þar sem valllendi er hefur það orðið til úr mólendi við það að vera beitt. Hinar ýmsu gerðir af valllendi voru oft nýttar til slægna fyrr á öldum og síðar var farið að rækta þar tún.
Ekki er til neinn algildur mælikvarði á hvað kalla skal votlendi. Flestum er þó tamt að nota það orð um gróður, þar sem jarðvegur er blautur nær árið um kring, en sumir nota það einnig um tjarnir, læki og vötn. Oft er erfitt að draga þarna skýr mörk á milli.
Algengustu gerðir votlendis eru flói og mýri. Vatnsstaða í votlendi er ærið breytileg en í megindráttum eru skilin á milli flóa og mýrar þessi: Í flóanum flýtur vatn oftast yfir grassverðinum, hann er nær hallalaus og rennsli á vatni er lítið sem ekkert. Í mýrinni stendur vatn sjaldnast yfir grassverðinum, henni hallar oftast nær og vatnið er jafnan á hægri hreyfingu; að jafnaði ber talsvert á þéttum mosa í rót. Af þessu sést að oft getur verið skammt á milli tjarnar og flóa annars vegar og mýrar og þurrlendis hins vegar.
Flóar eru víðáttumiklir, bæði á láglendi og í hálendinu. Brokflói er afar útbreiddur og einkennistegund hans er klófífa en blöð hennar nefnast brok. Síðla sumars er brokflói hvítur yfir að líta, þegar fífan er í algleymingi, en á haustin setur rauðbrúnt brokið sterkan svip á hann. Ýmsar starir eru einnig mjög algengar í flóum. Ljósustararflói kemur næst brokflóa að víðáttu og er allalgengur víða um land og er hann blágrænn til að sjá. Einnig má nefna gulstararflóa, er sker sig úr sem gulgrænar rákir, sem er víða algengur á láglendi. Þessar þrjár af gerðir flóum er mjög auðvelt að greina úr fjarlægð á litnum einum saman.
Mýrar er hvarvetna að finna, frá ystu annesjum til hæstu hæða, þar sem samfelldur gróður nær. Einkennistegundir mýrarinnar eru ýmsar starir, eins og mýrarstör, stinnastör og hengistör. Mýrar eru oft þýfðar og vaxa ýmsar lyngtegundir á þúfnakollum.
Fyrr á árum var víða heyjað í votlendi.
Á eftirstríðsárum heimsstyrjaldarinnar síðari hófst verulegt átak í því að ræsa fram votlendi til að auðvelda ræktun túna. Það leiddi til þess að víðlend votlendi voru eyðilögð. Því hefur nú verið hætt og jafnvel hefur verið reynt að endurheimta það votlendi sem tapaðist með því að fylla upp í skurði.
Venja er að fjalla um kjarr- og skóglendi sem eina heild, þó að á þessu tvennu sé þó nokkur munur.
Birki er eina íslenska trjátegundin sem myndar skóga. Hæstu birkitré verða rúmir 10 metrar á hæð, s.s. við Kerið í Undirhlíðum, og á ýmsum stöðum eru 5 -10 metra háir skógar. Mörg tré í skógum eru einkar fögur, beinvaxin með ljósan börk. Í gömlum bókum, eins og fornsögum, annálum og ferðabókum, eru víða til frásagnir um mjög vöxtulega skóga fyrr á öldum. Eyðing skóga á að verulegu leyti rót sína að rekja til ágengni manna og búsmala hans.
Birki myndar einnig víðáttumikið kjarr, sem er að stærstum hluta innan við tveir metrar á hæð og oft mjög kræklótt og margstofna. Margir álíta að kjarrlendið sé leifar af fornum birkiskógum og er það án efa rétt. Á hinn bóginn verður birki sem vex á útkjálkum vart miklu hærra. Meginhluti alls kjarr- og skóglendis er fyrir neðan 250 metra hæð yfir sjó en þó hefur birki fundist í um 600 metrum ofan sjávarmáls.
Aðrar trékenndar tegundir, eins og gulvíðir og loðvíðir, mynda sums staðar kjarr einnig. Botngróðri í kjarr- og skóglendi svipar oft til gróskumikils valllendis eða mólendis.
Mólendi er yfirleitt þýft þurrlendi, vaxið grasleitum plöntum eða lágvöxnum runnagróðri.
Ein algengasta planta landsins er af hálfgrasaætt og nefnist þursaskegg. Hver planta lætur mjög lítið yfir sér og fáir þekkja hana en samfelldar breiður þursaskeggs varpa sérstökum móleitum blæ á óræktarmóa vítt um land.
Auk þursaskeggsmós eru lyngmóar allalgengir. Flestar einkennistegundir mólendisins eru mjög auðþekktar og dregur mólendið oftast nafn sitt af þeim. Algengustu lyngmóarnir eru krækilyngs-, bláberjalyngs-, sortulyngs- og beitilyngsmór. Oft vaxa þessar tegundir saman að meira eða minna leyti.
Af öðrum gerðum mólendis má nefna fjalldrapamó, hrísmó öðru nafni, og sauðamergsmó.
Vel gróið mólendi þykir með fegurstu gróðurlendum landins og sérstaklega síðla sumars og fram eftir hausti skartar mórinn sínum fallegustu litum.
Mólendi er jafnan mjög ríkt af tegundum en á stundum hleypur svo mikill mosi í svörðinn að blómplöntur láta undan síga. Þá nefnist gróðurlendið mosamór og líkist hann þá mosaþembu sem algeng er í hraunum. Mosaþemba er þó sjaldnast talin til mólendis heldur litið á hana sem sérstakt gróðurlendi.
Berangur setur sterkan svip á landið. Í kjölfar búsetunnar átti sér stað mikil eyðing jarðvegs og gróðurs sem erfitt hefur verið að hemja allt til þessa dags. Auðnir landsins eru samt ekki með öllu gróðurlausar þó að jarðveg skorti. Plönturnar búa yfir sérstökum hæfileikum til þess að ræta sig og kljást við óblíð skilyrði.
Á bersvæði mynda plöntur sjaldnast samfellda gróðurþekju heldur vaxa þær jafnan strjált. Á melum ræðst þéttleiki plantna einkum af hversu rakaheldnir melarnir eru og hvernig yfirborðsgerð þeirra er háttað. Á vorin eru miklar hreyfingar í yfirborði melanna, þegar klaki fer úr jörð, og þá er hætta á að plöntur missi rótfestuna.
Af algengum melaplöntum má nefna geldingahnapp, lambagras og holurt eða fálkapung öðru nafni. Á síðari árum hefur innflutt plöntutegund, alaskalúpína, náð að breiðast verulega út á melum, einkum á Reykjanesskaganum.
Lítinn vind þarf til þess að hreyfa við yfirborði sanda. Plöntum reynist því talsvert erfitt að festa þar rætur. Sumar tegundir eiga þó auðveldara en aðrar með að vaxa þar. Dæmi um slíka tegund er melgresi eða melur. Nokkurt skjól myndast í vari af stórvöxnum blöðum melgresis og því safnast sandur þar fyrir og háir hólar myndast. Ávallt er þó nokkur hreyfing á sandinum svo að melgresishólarnir flytjast úr stað með tímanum.
Nokkuð hefur verið gert af því að rækta upp mela og sanda á undanförnum áratugum. Sums staðar hefur sú uppgræðsla lánast allvel en ekki gengið sem skyldi annars staðar.
Ekki eru skörp mörk á milli gróðurs á láglendi og í hálendi landsins. Samfelldur gróður nær vart hærra en í tæpa 500 metra.
Þar sem snjór liggur lengi fram eftir vori þekur snjómosi svörð og myndar harða skorpu.
Fjallað er um gróðureyðingu á öðrum stað á vefsíðunni.

Heimildir m.a.:
-http://www1.nams.is/

Sóley

Sóley við Miðsel.

Jarðfræðikort

Gengið var um svæðið ofan við Voga á Vatnsleysuströnd – ofan Reykjanesbrautar. Ekki var ætlunin að skoða hinar fjölmörgu minjar á svæðinu heldur að skoða þau merkilegu jarðfræðifyrirbæri, sem þar eru; flekaskilin (landrekið/höggunina) og misgengin.

Eins og kunnugt er stendur landið á Reykjaneshryggnum, sem er úthafshryggur, á mótum tveggja jarðskorpufleka, Evrasíuflekans í austri og Ameríkuflekans í vestri. Flekana rekur um 1 cm í hvora átt á ári að meðaltali. Nýlega hefur verið reynt að gefa fólki kost á að kynnast þessu með einföldum hætti þar sem “brúnni á milli heimsálfa” hefur verið komið fyrir yfir eina gjána ofan við Stóru-Sandvík. Brúna hefði þess vegna mátt setja upp yfir eina gjána á Vogaheiði eða hvar sem er annars staðar á svæðinu.
Eldvirkni er að mestu bundin við flekaskilin sem liggja þvert yfir landið, frá Reykjanesi í suðvestri að Tjörnesi í norðaustri, en einnig á jaðargosbeltum. Fyrir vikið finnast yngstu jarðmyndanirnar á sömu svæðum og framleiðni gosefna er þar mest, þótt þess sjáist ekki endilega merki í Vogaheiðinni að undanskildum Þráinsskyldi. Merkin eru hins vegar gleggri beggja vegna. Jarðskorpuflekarnir fljóta á deigu möttulefni sem líkja má við það þegar ísjakar fljóta á vatni.

Með „landrekskenningunni“ er venjulega átt við þá kenningu sem þýski jarðeðlisfræðingurinn Alfred Wegener (1870-1930) setti fram í bókinni Myndun meginlanda og úthafa árið 1915. Annað afbrigði kenningarinnar kom fram 1964 og nefnist „botnskriðskenningin“ og loks þriðja afbrigðið 1968, „flekakenningin“.
Meginmunurinn á upphaflegu kenningunni og hinum síðari er sá, að í bók sinni (1915 og síðar) gerði Wegener ráð fyrir því að meginlöndin fljóti í hafsbotnsskorpunni, sem sé stöðug, en meginlöndin hreyfist (reki) um hana. Samkvæmt síðari kenningunum berast meginlöndin með hafsbotninum, sem er á hreyfingu.
Wegener reyndi að skýra kenningu sína um hreyfingu meginlandsflekanna um hnöttinn. Í fyrsta lagi benti hann á hve vel Suður-Ameríka og Afríka falla saman, líkt og kubbar í púsluspili. Í annan stað sýndi Wegener fram á það að ýmsar jarðmyndanir frá mismunandi tímum falla saman, eða halda áfram, sitt hvoru megin við höfin, til dæmis fornar ísaldarmenjar í Suður-Afríku og á Suðurskautslandinu. Í þriðja lagi mátti skýra útbreiðslu ýmissa dýrategunda, sem nú eru aðskildar af breiðum höfum, með því að löndin hefðu fyrrum legið saman. Og í fjórða lagi gerði hann, ásamt veðurfarsfræðingnum Köppen, tengdaföður sínum, mikla samantekt á útbreiðslu ýmissa loftslagsbundinna jarðmyndana í jarðsögunni.

Háibjalli

Háibjalli.

En allt kom fyrir ekki, því engum tókst að benda á krafta sem væru nógu öflugir til að flytja meginlöndin. Árið 1960 setti bandaríkjamaðurinn Harry Hess (1906-1968) fram þá tilgátu, studda góðum rökum, að það séu hafsbotnarnir sem hreyfist: Þeir myndist við gliðnun á miðhafshryggjum en eyðist í djúpsjávarrennum. Kraftarnir sem hreyfa meginlöndin eru því iðustreymi í jarðmöttlinum. Meginlandsflekarnir dragast ýmist eða fjarlægjast hvern annan. Dæmi um fleka, sem dragast að hvorum öðrum eru afleiðingar flóðbylgjunnar í Indlandshafi á annan dag jóla 2004. Hér á landi eru flekarnir að fjarlægjast eins áður hefur komið fram.
Svo undarlega vill til að sumarið 1912 ferðaðist Wegener ríðandi frá Akureyri um Dyngjufjöll, Kverkfjöll og Brúarjökul suður í Esjufjöll og til baka aftur — nefnilega þvert yfir íslenska sprungubeltið, sem er talandi dæmi um gliðnun skorpuflekanna. Ekki er ólíklegt að hann hafi og skoðað hinar augljósu ummerki þessa á Reykjanesskaganum og á Þingvöllum.
Reykjanesskaginn er allur mjög sprunginn. Á liðnum öldum hafa miklar jarðskorpuhreyfingar átt sér stað á skaganum. Þessar hreyfingar eiga sér enn stað og munu einnig eiga sér stað í framtíðinni.
Bruin-26Stöðug og hæg hreyfing í jarðskorpunni veldur spennu í bergi. Spennan getur orðið svo mikil að bergið þolir hana ekki lengur og berglögin bresta og þá verða jarðskjálftar. Sprungubarmarnir sem koma fram við hreyfinguna kippast þá yfirleitt til í gagnstæðar áttir og standa mishátt. Sprungur sem myndast á þennan hátt nefnast misgengi. Á Íslandi eru misgengi og gjár með SV-NA stefnu algengast

ar sunnanlands en hins vegar er S-N stefna ríkjandi norðanlands. Dæmi þess má einnig sjá syðst á Reykjanesskaganum, s.s. í Þorbirni.
Á Háabjalla, sem er ákjósanlegt skoðunarsvæði fyrir þá, sem hafa áhuga á að skoða misgengi. Á svæðinu eru misgengisþrep sem liggja hvert upp af öðru. Samtals eru þau 4 eða fimm á Vogasvæðinu, Stapinn þar með talinn. Brúnir mynda nokkrar stórar og dálítið óreglulegar brotalínur. Fyrir austan meginbrotalínuna hefur landið sigið og margbrotnað upp. Hreyfingin er stöðug á þessu svæði og benda mælingar til þess að höggunin nemi að jafnaði um 2.8 millimetrum á ári eða 28 cm á einni öld. Frá Háabjalla má vel sjá hvernig brotabeltið á flekaskilunum hefur færst til beggja átta og sigið. Gjárnar, Hrafnagjá að norðanverðu og Huldugjá, Klifgjá, Aragjár og aðrar slíkar að sunnanverðu gliðna og ekki er óraunhæft að ætla að á þessu svæði geti glóandi hraun hvenær sem er fundið sér leið upp á yfirborðið.
Þátttakendur gengu af einhverjum ástæðum mun hraðar til baka. HÉR má sjá myndir af Kinnargjánum og nágrenni.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mínútur.

Heimild m.a. http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=749Bruin-25

Landrof
Gróður breytist frá einum tíma til annars. Margt getur haft áhrif á það. Reykjanesið er ágætt dæmi um miklar gróðurbreytingar frá upphafi landsnáms til dagsins í dag.
HveravirkniGróður- og jarðvegseyðing er að mati margra fræðimanna alvarlegasti umhverfisvandi Íslendinga. Ekki er til vel rökstutt mat á því hvar mörk samfellds gróðurs lágu inn til landsins við landnám, né hve stór hluti landsins var skógi eða kjarri vaxinn. Hitt er óumdeilanlegt að hér urðu mjög snögg umskipti á gróðurfari fljótlega eftir að land byggðist. Frjókornarannsóknir hafa sýnt að láglendi var að miklu leyti skógi eða kjarri vaxið við landnám. Landið hefur því tapað nær öllum sínum skógum og kjarri og hugsanlega meira en helmingi gróðurþekju sinnar á síðastliðnum 1100 árum. Víða í byggð virðast umskipti frá skógi eða kjarri í nær skóglaust land hafa verið snögg og ef til vill aðeins tekið einn til tvo mannsaldra. Jarðvegur breyttist einnig. Jarðvegur myndaður eftir landnám er víða grófkornóttur með lélega samloðun, hann er ljósari og með miklu meira af áfoksefnum en jarðvegur frá því fyrir landnám. Jarðvegsbreytingarnar sýna hversu þétt uppblásturinn fylgdi í kjölfar skógaeyðingarinnar.
Ísland er eitt virkasta eldfjallaland í heimi. Hér hafa orðið gos að meðaltali á um 5 ára fresti frá landnámi. Gosunum fylgir gjóska sem sest í jarðveginn og ljær honum óvenjulega eiginleika, bæði eðlisfræðilega og efnafræðilega. Gjóskan er eðlislétt – allir vita hve léttur vikur er. Vindur og vatn ná því að hreyfa og flytja kornin auðveldlega til. Þykk öskulög mynda lög í jarðveginum sem auðveldlega grefst undan eða fýkur burt þegar gróðurhulan verndar ekki lengur.
Selin Þá er Ísland ákaflega vindasamt land. Sé gróðurþekjan fjarlægð er jarðvegurinn mjög auðrofinn hvort heldur er af vindi eða vatni. Einkum hefur vindurinn verið afkastamikill. Verstu uppblástursskeiðin er ekki hægt að kalla annað en náttúruhamfarir. Dæmi er hinn hamslausi uppblástur sem geisaði í Landssveit og Rangárvöllum og náði hámarki undir lok 19. aldar og sem hefði getað lagt stóran hluta Rangárvallasýslu í eyði. Gróður eyddist annars vegar við uppblástur þannig að vindurinn reif burt jarðveg þar til ekkert varð eftir nema jökulurðin undir en hins vegar við það að þau ógrynni sands sem losnuðu og bárust but með vindi, lögðust yfir gróður annars staðar og kæfðu hann.
Þetta tvennt, tíð eldgos og vindasamt veðurfar, var vissulega til fyrir landnám en olli þó ekki verulegum skaða á gróðurþekju. Eldgos hafa ekki verið tíðari eftir landnám en næstu árþúsund þar á undan. Sigurður Þórarinsson benti t.d. á að útbreiðsla skóga á Suðurlandi gæfu ekki til kynna að eldgos væru frumorsök að eyðingu skóga: helstu skógarleifar er þvert á móti að finna í nágrenni virkustu eldfjallanna: Bæjarstaðarskógur er nálægt rótum Öræfajökuls, Næfurholtsskógur og Galtalækjarskógur eru í næsta nágrenni Heklu og í Skaftártungum, skammt austan Kötlu, er talsvert kjarr. Merki um staðbundinn uppblástur munu finnast í jarðvegi frá því fyrir landnám en þau eru fá. Meira að segja feiknarleg gjóskugos, miklu stærri en komið hafa eftir landnám, virðast ekki hafa valdið verulegri jarðvegseyðingu. Hún hófst ekki fyrr en þriðji þátturinn bætist við með umsvifum mannsins.
Rof Því er stundum haldið fram að jarðvegseyðingu megi rekja til kólnandi loftslags. Fátt bendir til þess að svo sé. Uppblástur hófst skömmu eftir landnám og áður en veðurfar tók að kólna að ráði nálægt 1200. Þorleifur Einarsson taldi til dæmis að á þeim tíma hafi holtin umhverfis Reykjavík verið orðin gróðurvana og uppblástur þar um garð genginn. Annað sem mælir á móti því að frumorsök hnignandi gróðurfars hafi verið kólnandi loftslag er að skógar virðast víða hafa haldist lengst inn til landsins, á mörkum byggðar og óbyggða sem sést til dæmis á breyttum skógarítökum kirkna. Þar hefðu þeir þó átt hörfa fyrst vegna kólnandi loftslags. Litla ísöldin hefur þó lagst á sveif með eyðingaröflunum og haft áhrif, til dæmis í stærri jökulfljótum sem brutu gróið land, meiri jökulhlaupum og í framskriði jökla sem skildu seinna eftir sig gróðurvana auðnir og báru oft einnig fram fínkornótt efni sem farið gat á flakk.

Það sem líklega skipti sköpum og hrinti af stað vítahring jarðvegseyðingar eftir landnám er að gjóskufall hefur miklu afdrifaríkari afleiðingar fyrir gróður á skóglausu landi. Nokkurra tuga sentimetra gjóskufall getur kæft gróður á graslendi og þar sem beit eða sláttur hefur tekið ofan af gróðri, og náð að drepa allar plönturnar sem flestar hafa sína vaxtarbrodda neðanjarðar, í sverði eða rétt ofan við yfirborð. Þá liggur gjóskan óvarin fyrir vindi og vatni og verður upphaf að sandfoki og frekari gróðureyðingu á nærliggjandi svæðum þegar aðflutt efni kæfa gróður á nýjum stað. Jafnþykkt gjóskulag kann að hafa lítil áhrif á skóg og kjarrlendi þar sem eru tré og runnar sem standa upp úr. Botngróður deyr en hávaxnari gróður heldur að gjóskunni og kemur í veg fyrir að hún fari að fjúka, og skapar auk þess betri skilyrði fyrir uppvöxt botngróðurs á nýjan leik.

Þóra Ellen Þórhallsdóttir,
prófessor í líffræði við HÍ

http://www.land.is/landbunadur/wglgr.nsf/key2/hofudstodvar.html

Rof

Landrof.