Sýsluvegurinn frá Reykjavík suður að Vogastapa.
Hér er ritað um sýsluveginn frá Reykjavík suður í sýsluna. „Ég ætla þá að fara úr Reykjavík suður eftir, og geta um ýmislegt, sem fyrir augun ber, hvað veginn snertir.
Þegar maður kemur niður í Fossvog, verða fyrir manni rásirnar þar. Þær eru að vísu þannig á sumrum, að fáum ókunnugum mundi til hugar koma, að við þær væri neitt að athuga; en á vetrum í leysingum verða þær lítt færar eða stundum ófærar.
Þá kemur Fossvogslækur, lækur þessi, sem er á sumrum ekki nema ofurlítil spræna, verður stundum á vetrum svo, að naumast verður yfir hann komist, og það ber við, að hann verður með öllu ófær.
Vegurinn upp Kópavogsháls er óhæfilega brattur, lítt fær með vagn, en vagnvegur á vegurinn milli Rvíkur og Hafnarfjarðar að verða úr þessu. Með því að sneiða hálsins lítið eitt utar, má fá hann mjög hallalítinn.
Þegar kemur suður að Kópavogi, kemur ein torfæran, þótt stutt sé; hún er rétt við landnorðurhornið á túngarðinum í Kópavogi; þar eru götutroðningar, djúpir mjög, og verður þar á vetrum kafhlaup, þegar snjóþyngsli eru. Þá kemur brúin yfir Kópavogslæk. Að henni er mesta vegarbót, og er furða, að hún skyldi ekki vera á komin fyrir mörgum tugum ára; en trén í henni eru mikils til of veik; brúin skelfur undan gangandi manni, hvað þá heldur þegar hún er riðin.
Þá er nú úr því brýr yfir lækina, og vegur all góður þangað til kemur suður í Hafnarfjörð.
Þar er vegurinn lagður yfir Hamarinn hér um bil þar sem hann er brattastur; en auk þess er vegur þessi óruddur, ekkert í hann borið, og er hann fullur af lausu grjóti, og má það kallast hættulegt að ríða hann ofan að norðanverðu; í sunnanverðum Hamrinum neðst er sjórinn búinn að taka burtu hleðsluna úr veginum, og er honum því einnig hætta búin úr þeirri átt. Svo er þess að gæta, að rétt við endann á veginum er skipa-uppsátur þeirra manna, er búa þar í grennd. Af því, að sjórinn gengur þar rétt upp að veginum, standa skipin svo hátt, að ókunnugum mönnum, sem í myrkri fara um veginn, getur verið af þeim hætta búin; skipa-uppsátur er ekkert annað til þar í grennd.
Svo kemur nú suður undir Flensborg. Þar standa þilskip, og liggja járnkeðjur af þeim yfir þveran veginn, og er furða, að ekki skuli oft hafa hlotist slys af þeim. En þess ber að geta, að þar er enginn vegur lagður, nema hvað hrossin hafa unnið þar að vegavinnu. Flensborgarskóli á þar lóðina, sem skipin standa á, og leigir þar uppsátrið, og tekur 10 kr. fyrir hvert skip yfir veturinn. Ef skipin mega ekki hafa þar landfestar, þá er ekki til neins að ljá manni uppsátur; hafa þar að undanförnu legið 4 skip á vetrum; gjaldið eftir þau eru þá 40 kr., eður sama sem að skólaeignin sé 1000 kr. meira virði en ella. Eitt af tvennu er: annaðhvort verður að banna að hafa þar skipauppsátur, eða að leggja veginn annarsstaðar.
Um stórstraumsflóð flæðir alveg upp undir túngarðinn í Flensborg, og verða menn þá að ríða sjóinn fram með garðinum, oft talsvert djúpt, og auk þess er þar mjög grýtt, svo að þar er mjög illt yfirferðar.
En þá tekur ekki betra við, þegar Ásbúðarmegin kemur; þar er hár bakki, sem upp verður að klöngrast; vinnist sú þraut, þá tekur við dý, sem hver hestur liggur í.
Þegar búið er að draga þá upp úr því, er haldið suður Hvaleyrarholt. Þetta holt hefur ekki verið rutt í ár, og er það mjög seinfarið. En þegar kemur suður fyrir Sandskörðin sunnanvert við Hvaleyrartjörn, þá liggur vegurinn svo lágt, að þar flóir yfir í stórstraumum.
Svo koma nú Hraunin, þ. e. Gráhelluhraun, Kapelluhraun, Almenningur og Afstapahraun. Um veginn gegnum þau ætla ég ekki að tala; hann er alkunnur, og líklega ekki þeirrar núlifandi kynslóðar meðfæri að bæta hann svo, að nokkru nemi; þó ætti það að vera vinnandi vegur, að ryðja veginn gegnum þau árlega; þegar það er gjört, er þó ólíku betra að fara yfir þau, heldur en þegar vegurinn er fullur af lausu grjóti og steinvölum.
Þegar Hraununum sleppir, kemur Vatnsleysuheiði. Yfir hana mestalla hefir verið lagður upphækkaður vegur, en hann er nú orðinn því nær ófarandi, og miklum mun verri en gamli vegurinn var. Þessi upphækkaði vegur er í daglegu tal oft kallaður Vatnleysu(heiðar)brú, en af sumum „Svívirðingin“, og þykir bera það nafn með rentu; það er sama smiðs-markið á henni og Svínahraunsveginum gamla, og þarf þá ekki lengra til að jafna.
Þessi upphækkaði vegur stefnir frá Kúagerði til Kálfatjarnar, og er honum sleppir, þá tekur við hinn gamli vegur suður með bæjunum á Vatnsleysuströnd; þessi gamli vegur er allgóður á sumrum, enda er hann oftast vel ruddur; en á vorum og haustum, þegar bleyta og leysingar eru, er hann mjög illur yfirferðar, liggur sá vegur allt suður að Vogastapa og lengra ætla ég ekki að fara að sinni.
Hvað skal nú gjöra við þennan veg? Eins og er, er illa við hann unandi.
Í Fossvogi má ef til vill leggja veginn fyrir ofan rásirnar allar, nema hina syðstu; hana þarf að brúa.
Fossvogslæk ber brýna nauðsyn til að brúa, og það sem allra fyrst, og væri það lítill kostnaður.
Götutroðningana við Kópavogstún verður að brúa, og virðist það auðgjört.
Kópavogslækjarbrúna þarf að athuga; það er of seint að gjöra það eftir að slys er búið að hljótast af því, hversu veikgjörð hún er. Í öllu falli væri nauðsynlegt að láta áreiðanlega menn, sem vita hafa á því, dæma um það, hvort henni sé treystandi eins og hún er.
Veginn yfir Hamarinn í Hafnarfirði, þar sem hann er, ætti alveg að leggja niður. Þar sem hann liggur upp Hamarinn, er mikils til of bratt; það er ógjörningur, og líklega heldur engin lagaheimild til, að vísa mönnum burtu með skip sín, sem uppsátur hafa rétt fyrir sunnan Hamarinn, en skipa-uppsátur þar og vegur geta ekki samrýmst. Sama er að segja um þilskipa-uppsátrið hjá Flensborg; annaðhvort er, að banna skólanum að hafa þar uppsátur, eða að leggja af sýsluveginn þar fram hjá. Og þegar þess er gætt, að vegurinn þar er afar-illa lagður, þ. e. undirorpinn sjávargangi, og menn verða að sæta sjávarföllum til að komast hann, þá virðist lítil eftirsjón í honum þar sem hann er.
En hvar ætti þá að leggja hann?
Hann ætti að leggjast sunnar upp Hamarinn en nú er, fyrir ofan bæinn „á Hamri“ neðan til í Jófríðarstaðaholti, fyrir sunnan Ásbúð og svo suður Hvaleyrarholt hér um bil beina stefnu á Hjörskot. Það, sem ynnist við að leggja veginn þannig, hjá því sem nú er, mundi verða: vegurinn upp Hamarinn yrði ekki eins brattur, hann yrði ekki undirorpinn sjávargangi; vegfarendum yrði engin hætta búin af bátum, sem nú standa því nær yfir þveran veginn; skólaeigninni í Flensborg yrði ekki meinað að hafa þann hag af þilskipa-uppsátri, sem hingað til hefir oftast samsvarað vöxtum af 1000 krónum; menn kæmust hjá hinni afarillu torfæru hjá Ásbúð, og um stórstraumsflóð þyrfti ekki að klifra upp sandskörðin hjá Hvaleyri.
Veginn suður Hraunin ætti sannarlega að ryðja á hverju ári; minna má það ekki vera; hann er full-illur samt.
Af hinum upphækkaða vegi suður Strandarheiði (eða Vatnsleysu-heiði), þar sem hann nú er, ætti sýslunefndin alls ekki að skipta sér. Sá vegur liggur vestur Ströndina, og ef menn ætla t. a. m. suður í Voga eða þaðan af lengra, þá er það sá afarkrókur, að ríða niður á Ströndina, að ég er viss um, að það nemur fullum þriðjungi, móti því að fara beint úr Kúagerði á Reiðskarð (upp Vogastapa). Strandarmenn mundu þá halda við gamla veginum sem hreppsvegi. En eigi að halda við hinum gamla vegi sem sýsluvegi, þá mundi sú aðgjörð, sem hann þarfnast, ef hann á að geta kallast viðunanlegur, dragast að verðinu til hátt upp í það, sem nýr vegur, beint frá Kúagerði á Reiðskarð, mundi kosta.
Sumir berja því við, að með slíku fyrirkomulagi þyrfti svo víða að leggja vegi frá Ströndinni upp á sýsluveginn. Þetta fæ ég ekki séð að sé nauðsynlegt. Sá, sem ætlar að koma við á Ströndinni, ríður hreppsveginn; en ætli maður beint frá Kúagerði suður, án þess að eiga erindi á Ströndina, þá fer maður sýsluveginn.
Ritað á Fidesmessu 1890.
Vegfarandi.“
Ísafold, 26. apríl 1899, 26. árg., 26. tbl., bls. 103:
„Sumrin 1897 og 1898 lét sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu leggja mikið laglegan vagnveg milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, frá Fossvogi, en þangað hafði bæjarstjórn Reykjavíkur lagt áður og hefir þessa ekki enn verið getið í blöðum vorum.
Vegur sá er sýslan lét byggja af nýju, er rúmar 5 rastir á lengd, einnig var borið ofan í og endurbættur gamall vegur (Hafnarfjarðarhraun) rúml. 1 ½ röst á lengd. Hver röst er 531 faðmur. Brýr voru gerðar yfir fjóra læki, og er ein þeirra þrjátíu áln. Lengd, með 50 álna löngum stöplum (þeir eru þrír) og 5 áln. Háum á fullum helmingi. Hinar eru 5-8 álna langar.
Til vinnu þessarar var varið 9.600 kr.
Brýrnar allar kostuðu 1.800 krónur. Aðgerð við gamla veginn um 800 kr. Kostar þá her um bil kr. 2,80 faðmurinn í hinum nýja vegi. Í gegnum veginn eru 16 rennur gerðar úr grjóti 50×100 cm., utan ein úr timbri 3×2½ alin. Mold og möl höfð undir í öllum veginum með torf og grjót á hliðunum, nema um 150 faðmar eru eingöngu úr grjóti (púkkvegur). Ofaníburður allstaðar frá 8-12 þuml. á þykkt. Við vinnuna voru 12 menn fyrra sumarið með 4 hestum, en 15 til 18 hið síðara með 6 og 8 hestum. Verkstjóri var bæði sumrin Sigurgeir Gíslason í Hafnarfirði.
Það var myndarlega til ráðist af sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu að leggja veg þennan, og væri óskandi að hún fengi styrk til þess að geta gert meira í líka átt sem þetta. Hefir talsverð vagnaferð verið eftir vegi þessum síðan hann var fullger, en talsverð óþægindi eru að því, að ógert er enn við hallann ofan í Hafnarfjörð, því þar er vegurinn mikils til of brattur fyrir vagna, og er vonandi að ekki bíði mjög lengi svo búið.“
Heimildir:
-Ísafold, 11. okt. 1890, 17. árg., 82. tbl., forsíða.
-Ísafold, 26. apríl 1899, 26. árg., 26. tbl., bls. 103.