Tag Archive for: Reykjavík

Reykjavík

Í Fógetagarðinum í miðbæ Reykjavíkur er skilti um „Víkurkirkju„. Á því má lesa eftirfarandi fróðleik:

Reykjavík - skilti

Reykjavík – Víkurkirkja; skilti.

„Vitað er að kirkja var byggð í Reykjavík fyrir 1200. Elsti máldagi Víkurkirkju er frá árinu 1379 og er hún þar sögð helguð heilögum Jóhannesi.
Í Vík bjuggu höfðingjar af ætt Ingólfs Arnarssonar landnámsmanns. Þormóður langafabarn hans var allsherjargoði árið 1000 þegar kristni var tekin á Þingvöllum. Eftir kristnitökuna létu blndur og höfðingjar byggja kirkjur við bæi sína vegna þess að þeim var lofað því að þeir fengju pláss fyrir jafn margar sálir í himnaríki og rúmuðust í kirkjum þeirra. Kirkja gæti því hafa verið byggð í Reykjavík þegar á 11. öld.
Bóndinn í Vík lét reisa torfkirkju við bæinn árið 1724. Hálfri öld síðar var kirkjan endurbyggð og torfveggjunum skipt út fyrir timburveggi. Einnig var byggður klukkuturn framan við kirkjuna. Sú kirkja var notuð sem dómkirkja eftir að biskupsstóllinn var fluttur frá Skálholti til Reykjavíkur árið 1785, en þótti reyndar of lítil og ómerkileg sem slík. Eftir að Dómkirkjan við Austurvöll var vígð árið 1796 var gamla kirkjan rifin og grundin sléttuð.
Talið er að kirkjur í Vík hafi ávallt staðið á sama stað í kirkjugarðinum. Í stéttinni í miðjum garði má sjá skjöld sem sýnir hvar altari kirkjunnar er talið hafa verið.“

Reykjavík - Víkurkirkja

Reykjavík – minnismerki um Víkurkirkju.

Reykjavík - Víkurgarður

Í Fógetagarðinum í miðbæ Reykjavíkur er skilti um „Víkurgarður„. Á því má lesa eftirfarandi fróðleik:

Reykjavík - skilti

Reykjavík – Víkurgarður; skilti.

„Gamli kirkjugarðurinn við Aðalstræti, Víkurgarður, er talinn hafa verið í notkun í um 800 ár, eða frá því stuttu eftir kristnitöku árið 1000 og fram á 19. öld. Jarðað var bæði í garðinum sjálfum og inni í kirkjunni. Talið er að garðurinn hafi upphaflega verið um 1500 m2 að flatarmáli.
Kirkjugarðurinn var formlega aflagður árið 1838 þegar Hólavallagarður var tekinn í notkun, en nokkrir einstaklingar voru þó jarðaðir í gamla garðinum eftir það. Ómögulegt er að segja til um hversu margir voru grafnir í Vígurgarði frá upphafi, en ætla má að jarðneskar leifar um þrjátíu kynslóða Reykvíkinga hvíli hér.
Vigurgarður er friðlýstur minjastaður, en það er mesta mögulega vernd sem menningarminjar á Íslandi geta notið.“

Í Fógetagarðinum má auk þessa finna fimm önnur fróðleiksskilti um garðinn og nágrenni hans, s.s. fróðleik um Víkurkirkju, byggð við Aðalstræti á 10. öld, landnámið og fleirra.

Reykjavík

Reykjavík 1786 (Aage Nielsen-Edwin).

 

Landnámssýning

Í Fógetagarðinum í miðbæ Reykjavíkur er skilti um „Byggð í Aðalstræti á 10. öld„. Á því má lesa eftirfarandi fróðleik:

Reykjavík - skilti

Reykjavík – skilti; Byggð í Aðalstræti á 10. öld.

„Skálinn í Aðalstræti var svipaður því sem tíðkaðist almennt í Norður-Evrópu á víkingatíma. Hann var aflangur með tveimur stoðarröðum eftir endilöngu og vönduðu eldstæði á miðju gólfi. Á skálanum vorutveir inngangar, aðaldyr á framhlið (austurhlið) og bakdyr á vesturhlið. Í Norðurnda skálans voru básar fyrir uxa eða hesta. Annar minni skáli fannst við suðurhlið skálans og hafði verið byggður við nokkrum áratugum seinna.
Stóri skálinn var 86.5 m2 að flatarmáli og í stærra meðallagi miðað við aðra íslenska skála frá sama tíma. Talið er að 5-10 mann hafi búið í skálanum.“

Auk skiltisins eru fimm önnur í Fógetagarðinum. Þau innihalda m.a. fróðleik um Víkurgarð, Víkurkirkju, Skrúðgarðinn, landám í vestanverðri Kvosinni og Föður Reykjavíkur, Skúla Magnússon.

Landnám

Reykjavík – útsýni frá landnámsbænum í Kvosinni yfir Tjörnina. Lönguhlíð og Sveifluháls fjær.

Reykjavík

Á Miðbakka í Reykjavík er sýning á 18 skiltum undir yfirskriftinni „Reykjavík þá og nú„. Sýningin er á vegum Faxaflóahafna.

Reykjavík þá og nú

Reykjavík þá og nú; skilti.

„Á 19. öld var Reykjavík lítið þorp með lágreistum timburhúsum, sem með tímanum hafa vikið fyrir stærri og endingarbetri byggingum. Á þessari sýningu er fylgst með þessari þróun og sýnt hvernig nokkir valdir staðir í borginni hafa breyst í tímans rás. Farið er allt að 190 ár aftur í tímann og skoðað hvernig byggðin leit út áður fyrr og breytinguna sem hefur átt sér stað alveg til dagsins í dag.
Efri myndin er tekin úr Örfirisey um 1890, á myndinni sést mið- og austurhluti Reykjavíkur. Neðri myndin er tekin á sama stað 135 árum síðar.“

Hér má sjá önnur skilti á sýningunni:

Reykjavík þá og nú - sýning Reykjavík þá og nú - sýning Reykjavík þá og nú - sýning Reykjavík þá og nú - sýning Reykjavík þá og nú - sýning Reykjavík þá og nú - sýning Reykjavík þá og nú - sýning Reykjavík þá og nú - sýning Reykjavík þá og nú - sýning Reykjavík þá og nú - sýning Reykjavík þá og nú - sýning Reykjavík þá og nú - sýning Reykjavík þá og nú - sýning Reykjavík þá og nú - sýning Reykjavík þá og nú - sýning Reykjavík þá og nú - sýning

Landnám

Í ritinu „Landnám Ingólfs – Nýtt safn til sögu þess„, I. bindi, skrifar Björn Þorsteinsson m.a. eftirfarandi um Landnám Ingólfs:

Ritun Landnámu

Ari Þorgilsson

Ari Þorgilsson (1067/1068 – 1148).

Ari fróði setti saman Íslendingabók snemma á 12. öld, en hún er höfuðritheimild um atburði hér norður frá fyrir 1100; „Ísland byggðist fyrst úr Noregi á dögum Haralds hins hárfagra Hálfdánarsonar hins svarta í þann tíð… er Ívar Ragnarsson loðbrókar lét drepa Eadmund hinn helga Englakonung. En það var sjö tigum vetra hinn níunda hundraðs eftir burð Krists að því er ritað er í sögu hans.

Ingólfur hét maður norrænn, er sannlega er sagt að færi fyrst þaðan til Íslands, þá er Haraldur hinn hárfagri var 16 vetra gamall, en í annað sinn fám vetrum síðar. Hann byggði suður í Reykjavík. Þar er Ingólfshöfði kallaður fyrir austan Minþakseyri, sem hann kom fyrst á land, en þar Ingólfsfell fyrir vestan Ölfossá, er hann lagði sína eigu á síðan.“

Landnáma

Landnáma – endurgerð.

Svo farast Ara orð í 1. kafla Íslendingabókar, og er þetta marktækasta frásögnin, sem við eigum um upphaf Íslandsbyggðar, en hún var skrifuð um 250 árum eftir að atburðirnir áttu að hafa gerst.

Um svipað leyti og Ari fróði safnaði efni í Íslendingabók um 1100 varð til stofninn að Landnámu, sagnasafni um upphaf fólks og byggðar á Íslandi.

Víkingaskip

Farkostur landnámsmanna.

Þar greinir frá um 430 svonefndum landnámsmönnum, forystumönnum um landnám á Íslandi og kynkvíslum þeirra, en haukur lögmaður, sem setti saman Hauksbók, síðustu miðaldagerð bókarinnar snemma á 13. öld, segir hana ritaða „eftir því sem fróðir menn hafa skrifað, fyrst Ari prestur hinn fróði Þorgilsson og Kolskeggur hinn vitri. En þessa bók ritaði ég, Haukur Erlendsson, eftir þeirri bók, sem ritað hafði Sturla lögmaður, hinn fróðasti maður, og eftir þeirri bók annarri, er ritað hafði Styrmir hinn fróði, og hafði ég það úr hvorri, sem framar greindi, en mikill þorri var þar, er þær sögðu eins báðar; og því er það ekki að undra þó að þessi Landnámabók sé lengri en nokkur önnur“ (Í.fr.I, 395-97).
Þetta er það helsta sem vitað er um ritun Landnámu.

Íslendingabók

Blaðsíða úr Íslendingabók.

Ari fróði (d. 1148) og Kolskeggur vitri skrifuðu fyrstu gerðina, Frumlandnámu, snemma á 12. öld, en hún er glötuð.
Styrmir Kárason fróði (d. 1245) prestur og lögsögumaður, síðast príor í Viðey og um skeið prestur í Reykholti hjá Snorra Sturlusyni, skrifaði aðra gerð, Styrmisbók, um 1220, en hún er einnig glötuð.
Sturla Þórðarson sagnaritari (d. 1284) skrifaði þriðju gerðina, Sturlubók, líklega um 1270. Hún er sæmilega varðveitt í afritum.

Hauksbók

Hauksbók á sýningu í gamla Landsbókasafninu.

Haukur Erlendsson (d. 1334) skrifaði fjórðu gerðina, Hauksbók, um 1310, og er hún varðveitt í eiginhandarriti.
Landnáma hefur verið vinsæl bók og einhverjar fleiri gerðir hennar hafa verið til (SR.: S.L. 68-84).
Af varðveittum gerðum bókarinnar sést að afritarar hafa talið sér heimilt að breyta forritum sínum bæði með viðbótum, breytingum á efnisröð og jafnvel textanum sjálfum.
Handrit líttskaddað, af stofni Styrmisbókar, hefur verið til frá 17. öld, og var þá afritað og aukið eftir öðrum Landnámugerðum af Þórði Jónssyni prófasti í Hítardal (d. 1670), og þá varð til Þórðarbók. Þar eru í eftirmála taldar hvatirnar að ritun Landnámu, og er klausan ýmist eignuð Styrmi fróða eða talin úr Frumlandnámu og verður það hér haft fyrir satt.
Samkvæmt frásögn Landnámu var henni ætlað að vera:
1) varnarrit gegn meintu illmæli erlendra manna,
2) ættfræðirit,
3) almennt fræðirit um upphaf byggða á landinu.

Styrmisbók

Styrmisbók.

Landnáma var m.ö.o. skrifuð til fróðleiks og af metnaðar hvötum eins og öll önnur saga, en metnaður og pólitík hafa lengi verið samtvinnaðir þættir í samskiptum manna. Mikilvægasti fróðleikurinn fjallaði um upphafið; frumhöfundur Landnámu segist ætla að grafast fyrir um upphaf ætta, byggða og skipanir, því að sá sé háttur allra vitra þjóða að vilja vita um upphaf sitt.
Landnáma er heildstætt safn sagna og skáldskapar og sett á skrá snemma á 12. öld, af því að landslýðurinn var orðinn tíundarskyldur biskupum, sem þurftu að vita skil á byggðum landsins. Oft er frásögn ritsins lítið annað en eyðufylling, og leikur að örnefnum eins og Þórhallur Vildmundarson hefur fjallað um manna rækilegast:
„Þorgeir hét maður, er nam Þorgeirsfjörð og Hvalvatnsfjörð“ (Í.fr.I, 272).
Sagnir Landnámu eru margar sannanlegu skáldskapur, og ýmsir nafngreindir landnámsmenn hafa líklega aldrei verið til. Samt sem áður er bókin storkandi heimild um sjálft landnámið og þ.á.m. um hann Ingólf landnámsmann.

Ingólfur landnámsmaður

Landnám

Ingólfur og fjölskylda í Reykjavík.

Upphafleg gerð Landnámu er löngu glötuð, og á 13. öld tók Sturla Þórðarson sér fyrir hendur að breyta þáverandi gerð bókarinnar í inngangsrit að sögu Íslendinga með sérstökum kafla um fund landsins (J.Jóh. G.L.b. 70). Fram á hans daga hafði bókin hafist á Sunnlendingafjórðungi, landnámi Þrasa í Skógum undir Eyjafjöllum, og verið rakin landnámin sólarsinnis umhverfis landið.

landnámsskáli

Reykjavík – minjar landnámsbæjar í Aðalstræti.

Landnáma Sturlu hefst hins vegar á byggð Ingólfs í Reykjavík, þegar landfundasögunni sleppir. Við breytinguna hækkaði hagur landnámshetjunnar Ingólfs sem breiðir úr sér við upphaf og endi Sturlubókar.
Þórðarbók Landnámu heldur fyrri efnisskipan, en þar hefst frásögnin af Landnámu vestan Ölfusár og Sogs á þætt um Ingólf landnámsmann, eins og þekkt er.
Íslendingabók Ara er varðveitt í annarri útgáfu endurskoðaðri, ef svo má að orði komast. Þar fullyrðir hann að Ingólfur hafi farið fyrstur manna úr Noregi til Íslands, lagt undir sig og ætt sína ákveðin héruð á tilgreindu aldursári Haralds hárfagra eða um 870, og nefnir örnefni frásögninni til styrktar.

Hellir

Hellir landnámsmanna, Papa eða Kelta, á Suðurlandi.

Ari segir ekki að Ingólfur hafi verið fyrsti landneminn á Íslandi, heldur fór hann fyrstur frá Noregi til Íslands. Það ríður því ekki í bág við frásögn Ara, þótt fólk af Bretlandseyjum hafi numið hér land á undan honum.
Landnámsöld er tíminn frá 850-950. Fólksflutningarnir til landsins hafa verið dræmir fyrstu áratugina, eða fram undir 890, en glæðst þá og fjara síðan út eftir 930.
Ingólfsfrásögnina og tímasetningu hennar hafði Ari eftir Teiti Ísleifssyni biskups (d. um 1110), en hann var manna spakastur; Þorkeli föðurbróður sínum, „er langt mundi fram“, og Þuríði Snorradóttur goða (d. 1112), „er var margspök og óljúgfróð“.
LandnámÞessir vinir og vandamenn Ara fróða og Skálhyltingar hafa talið Ingólf einn helsta brautryðjanda landnámsins, af því að upphaf forréttindastéttar og þingaskipunar varð til í landnámi hans.
Á dögum Landnámshöfunda hefur ýmsum sögnum farið af fyrstu landnemunum í héruðum, en Ingólfur vann forsætið meðal þeirra af því að nafn hans var tengt stjórnskipaninni og afkomendur hans nefndust allsherjargoðar og settu alþingi árlega. Sagan er tæki til þess að skapa hefð og reglu, og í þá veru unnu Ari fróði og félagar hans. Alþingi og stjórnskipanin hefur einkum orðið til þess að halda á loft minningum um hálfgleymda söguhetju (Íb. 3. kap; J.Jóh.I, 53-59).

Sjá meira um landnám Ingólfs HÉR.

Landnámið

Landnám

Landnámið.

Landnáma greinir að Ingólfur hafi kannað sunnanvert landið í þrjú ár. Fyrsta árið hafði hann bækistöð við Ingólfshöfða, annað árið við Hjörleifshöfða, þriðja undir Ingólfsfjalli, og á fjórða ári fluttist hann til Reykjavíkur.

Reykjanes

Reykjanes fyrrum – kort ÓSÁ.

Innnesin buðu Ingólfi og félögum hans allsnægtaborð á íslenskan mælikvarða. Þar var mikið undirlendi, varp og akureyjar, svo hægt væri að rækta bygg og brugga öl, en bygg er samstofna orðinu byggð; þar sem ekki var hægt að rækta bygg var óbyggilegt. Eyjar fyrir landi voru sjálfgirt akurlönd, sífrjó af fugladriti og sjórinn varði þær fyrir næturfrosti, haust og vor. Við Reykjavík voru laxár, veiðivötn, selalátur og fiskigengd upp að landsteinum, hvalagöngur inn í Hvalfjörð, fuglabjörg ekki langt undan og talsverður reki. Þá voru heitar laugar til baða og þvotta, og sjálf nesin voru allmiklu stærri að fornu en þau eru í dag, og var þægilegt að gæta búgjár bæði fyrir vargi og víðáttu meðan það var fátt; hlaða mátti garða yfir eyði og hafa fénað úti í Viðey. Innnesin tóku vel á móti gestum sínum og voru örlát, og beitilandið á Reykjanesskaga brást aldrei. Bændur, sem komu úr barrskógaþykknum Skandinavíu hafa verið hugfangnir af björtu og grösugu birkiskógunum íslensku. Þar voru svo góð beitilönd, að sumir þeirra vissu brátt ekki sauða sinna tal, eins og sagt var um Hafur-Björn Gnúpsson landnámsmann í Grindavík.

Landnám

Búfé við erfiðar aðstæður.

Búfé landnemanna fjölgaði ört, og er landið var ósnortið, graslendi rúmlega helmingi stærra en það er nú og árferði allgott. Ef 30% fæddra lamba eru gimbrar, verða 100 ær 220 á 3 árum, en 340.000 á 31 ári. Ef 20% fæddra lamba eru gimbrar, verða 100 ær 207 á 4 árum, en 304.000 á 44 árum.

Landnám Ingólfs

Landnám Ingólfs.

Þessar tölur sýna að á skömmum tíma hafa landnemarnir getað haft þann fjölda fjár sem þeir vildu, og Íslendingar hafa snemma orðið önnum kafnir við ullariðnað. Vaðmál virðist hafa verið verðmæt útflutningsvara á 10. öld, 6 álnir, um 3 m af algengri tegund hafa gengið á eyri silfurs, um 27 gr., en fyrir 48 álnir fékkst aðeins 1 silfureyrir, þegar komið var fram á 12. öld og ullariðnaður var hafi í Vestur-Evrópu.
Ari segir að Ingólfur hafi lagt eign sína á allt land vestan Ölfusár, og Landnámabækurnar endurtaka þá staðhæfingu með tilbrigðum. Þinglýsing á þeirri einkaeign hefur aldrei verið til, en landnemum á Íslandi hefur auðvitað verið kappsmál að ná undir sig og vildarlið sitt sem stærstum og kostbestum héruðum, og það varð ekki gert nema með mannafla.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fyrrum landnám Ingólfs – kort Björns Gunnlaugssonar 1844.

Landnám Ingólfs vestan Ölfossár og Sogs og sunnan Hvalfjarðar var skýrt afmörkuð landfræðileg heild milli höfuðhéraða Vestur- og Suðurlands og kostasæl mjög með góðri skipaleið undan ströndum Faxaflóa, en aðrir hlutar landnámsins skiptu ekki máli, af því að þeir hlutu að verða fámenn jaðarsvæði. Hvaða serimoníur sem Ingólfur og félagar hans hafi haft í frammi, þegar þeir ákváðu bústað sinn, var þeim mikilvægara að fá fólk, trausta félaga, til þess að setjast að í héraðinu. Landnámabækurnar greina á annan tug dæma um landnámsmenn, sem voru hraktir úr landnámi sínu af ofbeldismönnum, sem síðar komu að því að hinir höfðu einangrast.

Landnám

Við upphaf landnáms.

Landhelgun, hvernig sem hún var framkvæmd, dugði ekki til þess að eignast land, ef mannafla skorti. Landnemahóparnir voru aðeins ein eða tvær skipshafnir, nokkrir tugir karla og kvenna, og gátu ekki lagt undir sig svæði í grennd byggðra héraða nema með samþykki nágrannanna. Nágrennisvald höfðingja hefur snemma tekið talsvert út fyrir heimasveitina.
Engum sögum fer af því, hvernig fréttir bárust austur yfir hafið um nýja landvinninga, sem engin styrjöld fylgdi, en frændur og vinir sigldu í kjölfar frumherjanna og röðuðu sér á ströndina frá Reykjanesi og inn í Hvalfjörð.

Landnámsliðið: Frændur og venslamenn

Landnám

Landnám Ingólfs – Safn til sögu þess, I. bindi.

Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar, sem fellur úr Vífilsstaðavatni í Arnarnesvog, og Hvassahraun eða nærfellt allan hinn gamla Álftaneshrepp og núverandi; Bessastaðahrepp, Garðabæ og Hafnarfjörð. Ásbjörn bjó á Skúlastöðum, en þeir eru óþekktir og hafa sennilega verið upphafið að stórbýlinu Görðum á Álftanesi og nafnbreyting orðið við flutninga.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Vífill, þræll Ingólfs hlaut frelsi og land á Vífilstóftum. Þetta er merkileg saga um fyrsta kotið á Íslandi. Bærinn hefur líklega legið í eyði á elsta stigi Landnámuritunar, en byggst aftur undir nafninu Vífilsstaðir seint á 13. öld, en svo nefnist hann í Hauksbók (Í.fr. I, 48).
Steinunn gamla, frændkona Ingólfs, leitaði á fund hans, þegar hún var orðin ekkja eftir víking á Bretlandseyjum. Hann „bauðst að gefa henni Rosmhvalanes (Rostunganes) allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf honum heklu flekkótta, enska og vildi kaup kalla. Henni þótti það óhættara við riftingum“ (Mb. 28). Heklan hefur verið tískukápa og dýrust flík, sem Íslendingur hefur borið. Í henni sprangaði fyrsti bóndinn í Reykjavík um tilvonandi Austurvöll, og galt fyrir gripinn; Vatnsleysuströnd, Njarðvíkur báðar, Keflavík, landið undir Keflavíkurflugvelli og Miðneshreppa. þetta mun hafa orðið með þekktustu jarðakaupum á Íslandi.

Landnám

Landnám Ingólfs – skipting.

Herjólfur að nafni, frændi og fóstbróðir Ingólfs, byggði að sögn Landnámu syðst á Reykjanesi í Vogi eða núverandi Hafnahrepp og hefur búið í Gamla-Kirkjuvogi. Þar eru ókannaðar rústir sunnan við Ósabotna.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Sonarsonur hans, Herjólfur yngri, bjó á Drepstokki (Rekstokki) á Eyrarbakka og sigldi til Grænlands og byggði á Herjólfsnesi syðst á landinu. Herjólfur er sagður fóstbróðir Ingólfs í melabók og Hauksbók, en Sturla Þórðarson sviptir hann titlinum og setur hann á Hjörleif Hróðmarsson, sem hann hafði miklar mætur á. Hér liggur beint við að barna söguna og gera Herjólf að farmanni, fá honum skip og senda hann til landnáms með Ingólfi, sem gerði hann að útverði landnámsins og flotaforingja suður í Höfnum. Þar er Þórshöfn gegnt Kirkjuvogi.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Eyvindur, frændi og fóstri Steinunnar gömlu, hlaut hjá henni Voga og Vatnsleysuströnd, og settist hann að í Kvíguvogum. Þaðan hrökklaðist hann undan Hrolleifi Einarssyni barnakarli, sem telst hafa komið út seint á landnámstíð, vera margtengdur Ingólfsfrændum og lenti hjá þeim á Heiðarbæ í Þingvallasveit og undi þar illa við murtuveiði í vatninu. Hrolleifur bauð Eyvindi bústaðaskipti eða hólmgöngu öðrum kosti. Eyvindur kaus skiptin og stofnaði líklega til sjósóknar hjá Steinunni frænku á Bæjarskerjum á Miðnesi, en hefur haft búsmala á Heiðarbæ.

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreind skálatóft á hól.

Við Gufuskála á Rosmhvalanesi á hrakhólavíkingur að hafa lent, og hrekja Landnámahöfundar hann úr einum Gufu-staðnum í annan; frá Gufuskálum í Rosmhvalanesi í Gufunes og þaðan í Gufuám þá í nýja Gufuskála og loks í Gufufjörð. Melabók nefnir manninn Gufa Ketilsson Bresasonar, en Ketill faðir hans „átti Akranes allt fyrir vestan Reyni og fyrir norðan Akraffell og til Urriðaár“ og hafði komið frá Írlandi til Íslands (Mb. 33). Gufi „vildi byggja á Nesi (Gufunesi), en Ingólfur rak hann á brott þaðan. Þá fór hann á Rosmhvalanes og vildi byggja að Gufu (skálum). En þau Steinunn keyptu saman að hann skyldi á burt fara en vermannastöð skyldi ávallt vera frá Hólmi“ (Mb. 35). Hér mum um Hólm í Leiru að ræða, en þar er talið að Steinunn gamla hafi búið.

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir og Hrafnhólar.

Þórður skeggi Hrappsson Bjarnasonar bunu var giftur prinsessu, sem átti sér þjóðardýrling Engilsaxa fyrir afa. Þórður fluttist austan úr Lóni líkt og Ingólfur frændi hans hafði gert og tók sér bólfestu í nágrenni hans að Skeggjastöðum í Mosfellssveit. Hann nam land milli Leirvogsár og Úlfarsár, sem nú nefnist Korpúlfsstaðaá, en lönd sín í Lóni seldi hann Úlfljóti, sem síðar gerðist löggjafi Íslendinga. Þórður hefur hlotið rúmlega allan Mosfellsdalinn til búskapar og utanverða Mosfellsheiði, og styrkt stöðu sína og frændliðsins pólitískt við flutningana.

Stardalur

Stardalur – fyrrum bæjarstæði Múla?

Hallur goðlausi á hafa verið tengdur Þórði skeggja og numið land frá Leiruvogi til Mógilsár. Hann reisti bæ að Múla, en bæjarstæðið er glatað. Leirvogsá hefur skilið lönd þerra Þórðar allt að Leirvogsvatni, en Esjan frá Mógilsá markað landnámið að norðan. Líklega hefur Þerney fylgt landnámi halls. Sonarsonur hans á fyrstur að hafa reist bú í Álfsnesi.
Helgi bjóla Grímsson Bjarnasonar bunu, fór úr Suðureyjum og nam land á Hofi á Kjalarnesi milli Mógilsár og Mýdalsár, sem síðar nefndist Miðdalsá og nú Kiðafellsá á mótum Kjósar og Kjalarness. Niður við Hofsvoginn norðaustur frá bænum eru miklar rústir, sem virtust við könnun 1973 vera frá elsta skeiði byggðarinnar.

Esjuberg

Esjuberg.

Örlygur gamli, annar Suðureyingur og frændi þeirra Helga, sigldi á hans fund. Hann tók hér land með liðið sínu norður í Örlygshöfn við Patreksfjörð. Þar hefur hann frétt hverra kosta hann átti völ hjá frændliðinu við Faxaflóa. Hann sigldi suður og hlaut land milli Mógilsár og Ósvífurár, sem á síðari öldum kallst Ósénulækur, eða Ósýnilækur (L.L. 86). Örlygur bjá að Esjubergi. Hann telst hafa verið kristinn og reist kirkju á bæ sínum.

Svartkell katneski, frá Katanesi á Skotlandi, nam land milli Kiðafellsár og Elífsdalsár, sem nú heitir Dælisá og Bugða og fellur í Laxá neðanverða. Hann bjó að Kiðafelli og síðar á Eyri í Kjós.

Eilífsdalur

Eilífsdalur.

Valþjófur Örlygsson frá Esjubergi nam Kjós alla segir Landnáma og bjó að Meðalfelli. Hér mun átt við Meðalfellsdalinn báðum megin Laxár að Bugðu.
Þessir tíu landnámsmenn eru allir tengdir Ingólfi og liði hans í frásögnum Landnámu nema Svartkell katneski á Kiðafelli. Frá Reynivallahálsi og suður í Hafnir lá kjarnasvæði byggðarinnar sunnan Hvalfjarðar og vestan fljótsins mikla, Ölfusár. Utan þess lágu jaðarsvæði, sem gátu ekki orðið neinir mótandi byggðarkjarnar á frumstigi mannlífsins í landinu.

Jaðarsvæði

Landnám

Landnámið – landnámsmenn.

Hvamm-Þórir nam land milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi. Engin deili eru sögð á honum.

Brynjudalur

Brynjudalur – tóftir Múla?.

Þorsteinn Sölmundarson Þórólfssonar smjörs af ætt Gríms kambans, sem nam Færeyjar, nam land frá Fossá að Botnsá og Brynjudal allan. Um bústað hans er ekki annað vitað en sonur hans telst búa á Múla í Brynjudal, en bær með því nafni er ekki í dalnum.
Molda-Gnúpur kom frá Moldatúni (Moldtuna) á Norðmæri til Íslands og nam Álftaver. Hann flýði þaðan með fólk sitt undan jarðeldi (úr Eldgjá 934) vestur til Grindavíkur, og námu synir hans land frá Selatöngum til reykjaness. þeir komu þangað með fátt kvikfé, sem gekk mjög ört, og vissi Hafur-Björn Gnúpsson ekki sauða sinna tal.
Þórir haustmyrkur nam Selvog og krýsuvík líklega austur á Hafnarberg og miðja Selvogsheiði, en sonur hans Heggur byggði í Vogi, sem síðar varð Vogsósar.

Landnám

Þórir haustmyrkur nam Selvog.

Álfur hinn egski frá frá Ögðum í Noregi og „kom skipi sínu í þann ós, er við hann er kenndur og heitir Álfsós“ (Mb. 37). Álfi er eignað landnám fra Varmá út á Selvogsheiði að mörkum Selvogshrepps, en annars telst tilvera hans vafasöm. Nafn hans mun til orðið vegna misskilnings á heitinu Ölfus, sem telst samsett úr stofni orðsins elfur og ós.

Ölfusá

Ölfusá neðan Gnúpa.

Um 1700 hafa gengið sagnir um það að Álfur hafi komið skipi sínu „inn Ölversármynni, upp eftir Þorleifslæk í Álfsós og bjó að Gnúpum. Ós þessi liggur að austanverðu, nær því við Þurárhraun“ (L.I.II, 13; III, 4). Hér mun um að ræða tilraun til þess að staðsetja örnefnið Álfós, sem er hvergi nefnt í fornritum nema í Landnámu, og var þar sem Varmá féll „í Ölversá fyrir austan Arnarbælisstað“ (L.I.II, 10). Síðar brýtur Varmá sér leið vestur „allt í Álfós“ (L.I.III, 4, 10), sem sumir nefna Álftárós, segir í Jarðabók Árna og Páls (II, 420, 422) en það mun upprunalegt nafn (Í.fr.I, 390-91).
Ormur hinn gamli Eyvindarson „nam land fyrir austan Varmá til Þverár og um Ingólfsfell allt og bjó í Hvammi“ (Mb, 27). Þverá sú er þar getur heitir nú Tunguá og fellur í Sogið.
Þorgrímur bíldur Úlfsson „nam lönd fyrir ofan Þverá (Tunguá) og bjó að Bíldsfelli.“ Hér er um að ræða allan Grafning ofan Tunguár að mörkum Þingvallasveitar.

Steinröðarstaðir

Steinröðarstaðir.

Steinröður Melpatriksson af Írlandi og leysingi Þorgríms bílds og tengdasonur „nam öll Vatnalönd og bjó að Steinröðarstöðum“ (Mb, 27). Vatnalönd munu efri hluti Grafnings sunnan Þingvallavatns og Jórukleifar og landnáms Hrolleifs á Heiðarbæ, sem nam land allt fyrir utan Öxará til móts við Steinröð.
Ketilbjörn gamli úr Naumudal í Noregi telst tengdasonur Þórðar skeggja, en hann fór til Íslands, „þá er landið var víða byggt með sjó.“ Hann hafði veturvist hjá tengdaföður sínum, en fór þá austur um heiði og „nam Grímsnes allt upp frá Höskuldslæk og Laugardal allan og alla Biskupstungu upp til Stakkslækjar (Stakksár) og byggði að Mosfelli“ (Mb. 24-25).

Skálholt

Skálholt – teikning; Kalund.

Landnámsmörkin að vestan voru ekki glögg og hafa verið þrætuland, en Ketilbjörn hefur náð undir sig mjög miklu landi, þ.á.m. Tungunni ytri (E.A.:Á. 102, 124-128). Þetta var mikilvægt svæði. Þar stóð höfuðstaður Íslands í 7 aldir í Skálholti, en Þingvöllur lá á milli landnáms Ingólfs og Ketilbjarnar, og þangað lágu þjóðleiðir.
Landnám Ketilbjarnar rak smiðshöggið á landvinninga þeirra Ingólfsfrænda og tengdaliðs þeirra suðvestan lands. þar höfðu þeir lagt undir sig kjarasvæði, en ættmenn áttu þeir á Snæfellsnesi, um Breiðafjörð, Eyjafjörð, austur á Síðu og víðar um land.
Samkvæmt frásögn Landnámu var þetta fólk komið úr ýmsum áttum í Noregi og á Bretlandseyjum, bæði frá írlandi, Suðureyjum og Katanesi á Skotlandi. Það hefur haft ýmis kynni af kristinni trú og verið blendið í skoðunum.

Framkvæmd landnámsins

Landnám

Landnámið virðist hafa verið framkvæmt á þann hátt að;
1) ættingjar og tengdafólk raðaði sér á ströndina sunna úr Vogum og inn í Hvalfjörð;
2) menn voru fengnir til þess að flytjast úr öðrum landnámum á þetta svæði;
3) þaðan lögðu menn undir sig uppsveitir Árnesþings.
ÞingnesHér var unnið skipulega að ákveðnu marki. Í landnámi Ingólfs hafa menn líklega frá upphafi stefnt að því að stofna stórbændasamfélag undir forystu goðans í Reykjavík og verja eignarrétt og forréttindi í héruðum, halda þrælum í skefjum og skipuleggja byggðina. valdastétt goða er óþekkt utan Íslands og virðist hér nýgervingur og til orðin vegna óvenjulegra aðstæðna. Hér voru allir nýgræðingar í stóru og dreifbýlu landi; landnemarnir hafa fæsti verið af höfðingjaættum, en flestir þekkt til þingaskipanar undir forystu ákveðins bændahöfðingja. Við sunnanverðan Faxaflóa hafa forystumenn landnámsins þingað, bundist samtökum um skipulag allt frá því að þeir tóku sér bólfestu, og nágrennisvald þeirra hefur verið allríkt í héruðum suðvestan lands. Fólksflutningar voru dræmir fyrstu áratugina, svo að fyrstu landnemunum gafst tóm til að búa um sig.

Heimild:
-Landnám Ingólfs – Nýtt safn til sögu þess, Björn Þorsteinsson; Landnám Ingólfs, bls. 9-35.

Landnám

Farkostur landnámsmanna.

Reykjavík

Við innganga í Grasagarðinn í Reykjavík eru skilti. Á þeim má lesa eftirfarandi texta:

Reykjavík

Grasagarðurinn – skilti.

„Velkomin í Grasagarðinn.
Grasagarðurinn var stofnaður árið 1961 og er eitt af söfnun Reykjavíkurborgar. Hlutverk hans er að varðveita og skrá plöntur til fræðslu, rannsókna og yndisauka. Í honum eru átta safndeildir með um 5.000 plöntum. Heildarfjöldi tegunda, undirtegunda, afbrigða og yrkja er rúmlega 3.500. Plöntusafn garðsins sýnir fjölbreytni þess gróðurs sem vex í norðlæga tempraða beltinu.

1. Flóra Íslands
Í safndeildinni er að finna um 300 af þeim u.þ.b. 485 tegundum blómplantna og byrkinga sem teljast til íslensku flórunnar. Reynt er af fremsta megni að líkja eftir náttúrlegum vaxtarsvæðum plantnanna, svo sem votlendi og jarðhitasvæðum.

Reykjavík

Í Grasagarðinum.

2. Fjölærar jurtir
Fjölæringum er raðað í beð eftir flokkun þeirra í plöntuættkvíslir og ættir. Í safndeildinni er að finna bæði tegundir af villtum uppruna, afbrigði þeirra sem og ræktuð yrki.

3. Rósir
Í safndeildinni eru sýnishorn af algengum rósategundum og mörgum þeirra rósayrkja sem eru í ræktun utandyra á Íslandi.

4. Lyngrósir
Safn sígrænna lyngrósarunna. Elsta lyngrósin, skógalyngrós, er frá árinu 1977, blómgast í maí og blómstrar stórum, bleikum, klukkulaga blómum. Einnig eru í safndeildinni ýmsar skógarbotnstegundir sem þrífast í súrum jarðvegi.

Reykjavík

Í Grasagarðinum.

5. Skógarbotnsplöntur
Skógarbotsplöntur safndeildarinnar eiga uppruna sinn á skógarsvæðum tempraða beltisins nyrðra og blómstra margar áður en tré laufgast. Þær þrífast best í skugga og í jarðvegi sem er ríkur af lífrænum plöntuleifum.

6 Trjásafn
Trjásafnið er stærsta safndeild Grasagarðsins og í henni eru fjöldi tegunda trjáa og runna prófaðar utandyra með tilliti til þrifa og harðgerðis.

7. Steinhæð

Reykjavík

Grasagarðurinn – skilti.

Í steinhæðinni eru erlendar fjölærar háfjallajurtit og smárunnar. Plöntunum er raðað saman eftir upprunalegum heimkynnum þeirra. Þar má finna plöntur frá fjallasvæðum Evrópu, Norður- og Suður-

Ameríku, Asíu og Eyjaálfu.

8. Nytjajurtagarður
Í safndeildinni eru ræktaðar matjurtir, krydd og lækningajurtir. Þar má finna allar helstu tegundir þeirra nytjajurta sem eru ræktaðar í heimilisgörðum á Íslandi.“

Reykjavík

Grasagarðurinn – skilti.

Rauðhólar

Rauðhólar voru friðlýstir sem náttúruvætti á árinu 1961 vegna jarðminja en einnig landsslags, lífríkis og útivistargildis, og sem fólkvangur frá árinu 1974.

Rauðhólar

Rauðhólar – kort er fylgdi friðlýsingunni 1974.

Stærð hins friðlýsta svæðis er um 45 ha og er afmörkun þess sýnd á uppdrættinum. Fólkvangar eru útivistarsvæði í umsjón sveitarfélaga þar sem reynt er að auðvelda aðgang almennings án þess að náttúran bíði tjón af. Efnisnámi hefur verið hætt í Rauðhólum, nema til að snyrta efnistökusvæðið. Um helmingur hólanna er raskaður og þar er jafnframt víða hægt að skoða innviði rofinna gervigíga.

Í „Stj.tíð. B, nr. 185/1974“ segir í „Auglýsingu um fólkvang í Rauðhólum“:
„[Umhverfisstofnun] hefur fyrir sitt leyti samþykkt stofnun fólkvangs í Rauðhólum við Reykjavík og tjáð ráðuneytinu, að frestur til að gera athugasemdir við stofnun fólkvangsins sé útrunninn, og hafi engar athugasemdir borist.
RauðhólarRáðuneytið er samþykkt ákvörðun [Umhverfisstofnunar] og með skírskotun til laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, tekur stofnun fólkvangsins gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum. Reglur um fólkvanginn eru í meðfylgjandi fylgiskjali.“ – Í menntamálaráðuneytinu, 12. mars 1974; Magnús T. Ólafsson.

Fylgiskjal – Auglýsing frá [Umhverfisstofnun] um fólkvang í Rauðhólum.
„Að tillögu náttúruverndarnefndar Reykjavíkur og að fengnu samþykki borgarstjórnar Reykjavíkur, hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið að lýsa Rauðhóla og nágrenni þeirra fólkvang, samkvæmt 26.gr. laga nr. 47/1971.

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

Takmörk þess svæðis, sem náttúruverndarnefnd Reykjavíkur ákvarðar til fólkvangsfriðunar á, eru sem hér segir, sbr. meðfylgjandi uppdrátt:
Brotin lína frá punkti 1 í miðri Hólmsá, þar sem brúin á gamla veginum var, ákvarðast hún af punktunum 1-2-3-4 og 5, frá punkti 5 ræður miður farvegur lækjar þess, sem rennur úr Hrauntúnstjörn í Helluvatn að punkti 6, þaðan brotna línan sem ákvarðast af punktunum 6-7 og 8, þaðan bogin lína, sem ákvarðast af punktunum 9-10-11-12-13-14 og 15, þaðan bogin lína, sem liggur fyrst um 5 m frá norðurbrún vegar að vesturenda Sundhóls og og þaðan áfram vestan sumarbústaða (Litla-Hvamms) suðvestan í Sundhól, sem uppdráttur sýnir, að punkti 16, þaðan brotin lína, sem ákvarðast af punktunum 16-17-18 og 19, þaðan miður farvegur Hólmsár að punkti 1.

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

Reglur þessar gildi um fólkvanginn
1. Fótgangandi fólki er heimil för um allr svæðið og óheimilt er að reisa þar girðingar eða annars konar tálmanir, á þann veg að umferð fólks torveldist.
2. Óheimilt er að gera á svæðinu mannvirki né gera jarðrask, nema leyfi [Umhverfisstofnunar] komi til.
Eftirlit með fólkvanginum er í höndum náttúruverndarnefndar Reykjavíkur.“

Rauðhólar

Kort af Rauðhólum sbemma á 20. öld (von Komorowicz 1912).

Rauðhólar

Við bifreiðastæði við Heiðmerkurveg sunnan Rauðhóla er skilti. Á því má lesa eftirfarandi:

Gervigígar

Rauðhólar

Rauðhólar – skilti.

Rauðhólar eru gervigígar. Þeir myndast þegar hraun rennur yfir grunn stöðuvötn, votlendi eða í árfarvegi.
Gervigígar eru jafnan í óreglulegum þyrpingum. Oft má styðjast við skipulagsleysið og legu í dældum eða dölum til að greina gervigíga frá eldgígum.

Myndunarsaga Rauðhóla
Fyrir fimm þúsund árum varð eldgos í gígnum Leiti, sem er suðaustan í Bláfjöllum. Hraunið nefnist Leitarhraun. Hraunstraumurinn rann niður Sandskeið og þaðan með farvegum Hólmsár og síðan Elliðaáa allt í sjó fram í Elliðavogi.
RauðhólarÞegar hraunkvikan rann yfir hið forna Elliðavatn snöggkólnaði hún og dró í sig vatn í gufuformi. Gufan kom af stað ólgu og suðu í kvikunni svo hún tættist í sundur og varð að gjalli. Við þetta hlóðust upp um 80 gjallgígar, sem mynda Rauðhólana.

Norðaustan í Rauðhólunum var stór og merkilegur gígur, sem hét Kastali og er hann mikið skemmdur. Þar vestur af var Stóri-Rauðhóll, en af honum sést ekki urmull og þar suðaustur af Miðaftanshóll, sem nú er óþekkjanlegur.
Á árinu 1949 flutti Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur erindi um náttúrvernd. Þar fjallaði hann m.a. um eyðileggingu Rauðhóla og taldi að þeim yrði ekki bjargað. Erindið vakti mikla athygli og hafði m.a. áhrif til að flýta gildistöku náttúrverndarlaga á Íslandi.

Rauðhólar

Rauðhólar – friðlýsing.

Rauðhólar voru friðlýstir sem náttúruvætti á árinu 1961 og sem fólkvangur á árinu 1974. Stærð hins friðlýsta svæðis er um 45 ha og er afmörkun þess sýnd á uppdrættinum. Fólkvangar eru útivistarsvæði í umsjón sveitarfélaga þar sem reynt er að auðvelda aðgang almennings án þess að náttúran bíði tjón af. Efnisnámi hefur verið hætt í Rauðhólum, nema til að snyrta efnistökusvæðið. Um helmingur hólanna er raskaður og þar er jafnframt víða hægt að skoða innviði rofinna gervigíga.“

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

Elliðaár

Um Ártúnshöfða er fjallað í „Fornleifaskrá fyrir Ártúnshöfða“ frá árinu 2021. Þar er m.a. rakin saga svæðisins frá fortíð til nútíma:

Ártúnshöfði

Ártúnshöfði.

„Landsvæðið sem núverandi borgarland Reykjavíkur nær yfir skiptist á öldum áður upp í jarðir lögbýla. Það landsvæði sem nú er skilgreint sem Ártúnshöfði tilheyrði áður að mestu tveimur bújörðum. Landið á vestanverðum höfðanum tilheyrði Ártúni en austar var land Árbæjar. Svæðið einkennist af holtum og ásum, mýrum og fornum ísaldareyrum sem nú eru sundurgrafnar vegna malarnáms. Svæðið er að mestu byggt, en við Elliðaárvog og Grafarvog eru miklar landfyllingar. Fyrir botni Elliðaárvogs eru ósar Elliðaánna sem renna nú eftir manngerðum rásum til sjávar.

Ártúnshöfði

Ártúnshöfði – strandlínan um 1900.

Á tímabilinu 1965-1975 voru gerðar miklar uppfyllingar á svæðinu svo að ásýnd og náttúra Elliðaárósa breyttist mjög. Við framkvæmdirnar urðu til tveir flatlendir tangar eða nes og er það eystra kallað Geirsnef en á vestari fyllingunni er gatan Naustavogur og smábátahöfn Snarfara. Þröngur vogur sem myndaðist vestan uppfyllinganna hefur verið kallaður Arnarvogur. Austast er svo þriðja stóra uppfyllingin landföst, á henni er gatan Sævarhöfði, en götunöfn á Ártúnshöfða enda öll á -höfði. Áður en þessar landfyllingar voru gerðar voru þarna miklar leirur og þar sem land og leirur mættust voru kallaðir Árkjaftar. Þar voru neðri veiðihúsin, sunnan við þau voru Almenningsvöð, neðstu vöðin yfir Elliðaár. Sagt er að Elliðaár og Elliðaárvogur dragi nöfn sín af skipi Ketilbjörns gamla landnámsmanns, Elliða.
Ártúnshöfði.Norðan og austan er Grafarvogur. Þar er líka mikil landuppfylling og á henni var Bryggjuhverfið byggt. Svæðinu hallar til vesturs (Ártúnsbrekka) að Elliðaánum frá gatnamótum Höfðabakka og Vesturlandsvegar. Austan við Sævarhöfða voru gamlar malarnámur og norðar grjótnámur. Það land er að mestu allt raskað.
Norðan á höfðanum við Grafarvog er Ytriurð, hár grjótbakki sem liggur niður að uppfyllingunni út í voginn og austan við Gullinbrú er Innriurð, neðan og norðan við Stórhöfða. Krossamýri var stór mýrarfláki á miðjum Ártúnshöfða þar sem nú er Breiðhöfði. Þar voru Krossamýrarblettir. Afrennsli frá mýrinni var til vesturs um Krossagil í Elliðaárvog. Austar á svæðinu var Jörfi og Borgarmýri við Vesturlandsveg.

Í landi Ártúns, Árbæjar og Bústaða
Ártúnshöfði.Svæðið sem hér er til umfjöllunar tilheyrði að mestu tveimur jörðum: Ártúni og Árbæ. Jarðirnar voru lagðar til Viðeyjarklausturs sem var stofnað árið 1226, en klaustrið hafði mikil stjórnsýsluleg völd meðan það var starfandi. Við siðaskiptin 1550 yfirtók Danakonungur allar eignir klaustursins. Konungur seldi síðan jarðirnar árið 1838 og komust þær þá í einkaeigu.
Austan við eystri Elliðaárkvíslina var jörðin Ártún, en um kvíslina lágu sveitarfélagsmörk til ársins 1929. Bæjarstæði Ártúns er á háum hól vestan undir Ártúnsbrekkunni.

Artún

Ártún.

Jarðarinnar Ártúns er ekki getið í Íslenzku fornbréfasafni en menn hafa getið sér þess til að jörðin Árland neðra, sem getið er um í Vilchinsbók frá 1379, þá eign kirkjunnar í Nesi, og í Gíslamáldaga frá 16. öld, sé umrædd jörð. Ártún var lengi vel í alfaraleið og þar var stunduð greiðasala og gistiþjónusta á seinni hluta 19. aldar.
Árið 1906 keypti bæjarstjórn Reykjavíkur jarðirnar Ártún, Árbæ og Breiðholt, ásamt hluta úr Gröf, vegna fyrirhugaðra vatnsveituframkvæmda, því fyrstu hugmyndir gengu út á að taka neysluvatn úr Elliðaánum fyrir þéttbýli í Reykjavík.

Elliðaár

Elliðaár, stífla, um 1900.

Á árunum 1920 1921 voru Elliðaárnar virkjaðar og mannvirki Elliðaárvirkjunar reist sunnan við Ártún.
Austur af Ártúni var jörðin Árbær. Gömlu bæjarhúsin eru nú innan safnsvæðis Árbæjarsafns, en jörðin lá upp með Elliðaánum og í norður að Grafarvogi. Elsta heimild um Árbæ er í skjali frá 31. júlí 1464. Þar votta Steinmóður ábóti í Viðey og Jón Narfason að Ólöf ríka Loptsdóttir hafi látið Gerrek gullsmið í Hafnarfirði fá silfur sem greiðslu fyrir jarðir Guðmundar Arasonar, sem hún og hennar maður Björn Þorleifsson höfðu keypt af konungi, en Gerrekur átti að koma silfrinu til konungs fyrir þeirra hönd. Vitað er að búið hefur verið í Árbæ frá 10. öld, eins og fornleifarannsóknir á bæjarstæði Árbæjar hafa leitt í ljós.

Árbær

Árbær.

Síðustu ábúendur í Árbæ voru hjónin Margrét Pétursdóttir og Eyleifur Einarsson sem bjuggu þar frá 1881 og dóttir þeirra Kristjana, sem tók við búinu árið 1935 og bjó þar til 1948, en þá fór bærinn í eyði. Í tíð Margrétar og Eyleifs var fjölsótt greiðasala í Árbæ,
með svipuðu móti og áður hafði verið í Ártúni.19 Saga Árbæjar, eins og Ártúns, er einnig samofin nýtingu Elliðaánna. Eins og áður segir keypti bæjarstjórn Reykjavíkur jörðina ásamt Ártúni og fleiri jörðum árið 1906 vegna fyrirhugaðra vatnsveituframkvæmda og árið 1929 voru jarðirnar Ártún og Árbær báðar lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.

Ártúnshöfði

Ártúnshöfði – fyrrum beitarhús; loftmynd 1954. Ofra má slá leifar fjarskiptastöðvarinnar.

Ártúnshöfði var áður notaður til beitar og þar var mór tekinn úr mýrum. Beitarhús voru nyrst á Ártúnshöfða þar sem nú er Eirhöfði 11. Þessi rúst er nú horfin en var mæld inn á gömul kort, auk þess sem hún sést á loftmynd frá árinu 1946.

Ártún – Fenton Street Camp – Elliðaárhverfi
Fenton Street Camp var við Ártúnsbrekku þar sem Sævarhöfði 2 er nú (2021). Í fyrstu voru þetta búðir reistar af Breska hernum fyrir stórskotaliðsfylki (Artillery Regiment) sem þó hafði þar einungis aðalstöðvar og þriðjung liðsaflans, samtals um 250 menn.
ÁrtúnshöfðiSeinna tók Bandaríkjaher við búðunum og fékk loftvarnabyssuflokkur sem taldi um 150 menn þær til íbúðar. Þegar þeir fluttu annað voru herbúðirnar notaðar um hríð af byggingarsveit hersins og fleiri fámennum liðsveitum. Eftir að setuliðið yfirgaf braggana nýttu íslenskar fjölskyldur sér hluta af kampinum sem fékk þá nafnið Elliðaárhverfi.

Ártún – Fjarskiptastöð
Á tímum hersetunnar var fjarskiptastöð breska flughersins á Ártúnshöfða við Krossamýri á svæði frá Dverghöfða í norður að Eldshöfða. Þar voru áður Krossamýrarblettir 5-12.
ÁrtúnshöfðiStöðin General Receiving Station, Artunshofdi tók til starfa í ágúst 1941, eftir að starfsemin var flutt frá Reykjavíkurflugvelli (úr Corbett Camp við Nauthólsvík). Nokkrir tugir manna störfuðu við stöðina, en hún var í nokkrum bröggum og hjá þeim stóðu allmörg grindamöstur og staurar sem héldu uppi vírunum sem mynduðu móttökuloftnet af nokkrum gerðum. Á loftljósmynd sem tekin var 6. mars 1946 má sjá sex loftskeytamöstur á Krossamýrarblettum nr. 6, 12, 11 og 10.
Braggaþyrping var á bletti nr. 7, þar sem nú er lóðin Breiðhöfði 10, og vestan við hann, þar sem nú eru bílastæði á lóðinni Þórðarhöfða 4. Á annarri loftmynd frá sama ári eru möstrin og braggarnir horfin, nema einn braggi við endann á Krossamýrarvegi.“

Heimild:
-Ártúnshöfði – Fornleifaskrá, Reykjavík 2021.
Ártúnshöfði

 

Reykjavik

Á Ártúnshöfða í Reykjavík er fallegur skógarreitur, „Fornilundur“ við fyrrum Krossamýrarblett 1, í landi Hvamms, nú Breiðhöfða 3.

Reykjavík

Ártúnshöfði – loftmynd 1954.

Krossamýrarblettir voru fimmtán skikar sem var úthlutað til leigu eða erfðafestu á árunum 1936-38. Krossamýrarvegur var lagður þar sem gatan Breiðhöfði liggur nú, frá Mosfellssveitarvegi, Vesturlandsvegi, til norðurs og var blettur nr. 1 vestan við veginn en hinir fjórtán voru austan við hann. Á flestum skikunum voru reist hús og var búskapur á mörgum þeirra. Krossamýrarblettur 1 náði yfir svæði þar sem nú eru lóðirnar Bíldshöfði nr. 4-6 og 7, Breiðhöfði 1 og 3 og hluti af Þórðarhöfða 4 vestan við Breiðhöfða, áður Krossamýrarvegur. Meðal fyrstu íbúa blettanna voru Jón P. Dungal og Elísabet Jónsdóttir á Krossamýrarbletti 1. Þau fengu leyfi til að reisa einlyft timburhús, um 60 m², á skikanum árið 1936, sem nefnt var Hvammur. Þar voru þau með garðrækt, en auk þess var þar refabú.
FornilundurÁ blettinum lögðu þau grunninn að trjálundi þar sem ræktaðar voru sjaldgæfar plöntur, eins og eplatré. Þau hlutu viðurkenningu Fegrunarfélags Reykjavíkur árið 1954 fyrir garðinn. Hluti af trjálundinum er nú hluti „Fornalundar“, lystigarðs B.M.Vallár að Bíldshöfða 7. Íbúðarhúsið Hvammur stóð vestan við Fornalund.
Íbúðarhúsið Hvammur var horfið fyrir 1984, en trjálundurinn er eftir. Engin ummerki eru lengur eftir Krossamýrarblettina en áhrifa þeirra gætir í skipulagi, staðsetningu og legu gatna.

Söguskilti um Fornalund og fyrstu ábúendur

Fornilundur

Fornilundur – Söguskiltið var gert að frumkvæði afkomenda Jóns og Elísabetar. Hönnun þess var unnin af starfsfólki Hornsteins og BM Vallár sem lögðu metnað sinn í að heiðra þessa merku sögu í samráði við afkomendur.

Í dag, fimmtudaginn 21. nóvember 2024, var afhjúpað upplýsingaskilti um sögu Fornalundar, sýningarsvæðis BM Vallár, og fyrstu ábúenda Hvamms, sem stóð við Breiðhöfða. Við þetta tækifæri komu saman afkomendur hjónanna Jóns Dungals og Elísabetar Jónsdóttur ásamt fulltrúum frá BM Vallá og Hornsteini.

Frumkvöðlar á sviði skógræktar
Á skiltinu má lesa um sögu svæðisins og hvernig fyrstu íbúar svæðisins, hjónin Jón Dungal og Elísabet Jónsdóttir, umbreyttu hrjóstugu landi í einstakan trjálund. Hjónin reistu bæinn Hvamm árið 1936 sem var 4,2 hektara landspilda sem þau leigðu af Reykjavíkurborg. Fylgdi samningnum sú skylda að leigutakar ræktuðu landið. Þau gerðu gott betur og komu upp skrúðgarði og miklum, fögrum skógi á þessu hrjóstruga svæði. Þar uxu sjaldséðar tegundir á borð við eplatré og þótti það kraftaverki næst.

Reykjavík

Fornilundur – skilti.

Þessi frumkvöðlastarfsemi vakti verðskuldaða athygli, og árið 1954 hlutu þau viðurkenningu frá Fegrunarfélagi Reykjavíkur fyrir garðinn sinn og framlag til fegrunar borgarinnar.

Lystigarður og einstakt sýningarsvæði
Þegar BM Vallá hóf starfsemi á Breiðhöfða tók fyrirtækið við trjálundinum, sem hlaut nafnið Fornilundur, og hannaði svæðið árið 1991 í anda erlendra lystigarða. Fornilundir gegnir hlutverki sýningarsvæðis fyrir vörur BM Vallár og er þar að finna tjörn, gosbrunna, bekki og blómabeð ásamt fjölbreyttu fuglalífi. Fornilundur hefur allar götur verið opinn almenningi og samkvæmt nýju deiliskipulagi Ártúnshöfða mun garðurinn stækka enn frekar og ættu íbúar og gestir að geta notið hans enn betur.

Á skiltinu í Fornalundi má lesa eftirfarandi:
„BM Vallá hóf starfsemi árið 1956 með rekstri steypustöðvar á Ártúnshöfða. Frá 1983 hefur fyrirtækið borið ábyrgð á svæðinu og séð umviðhald garðsins.

Reykjavík

Í Fornalundi.

Lystigarðurinn, sem hlaut nafnið Fornilundur, hefur gegnt hlutverki sýningarsvæðis ásamt því að vera almenningsgarður. Þangað geta garðeigendur sótt sér innblástur og skoðað vörur fyrirtækisins, t.d. hellur, hleðslusteina og garðbekki.
Fornilundur á sér merka sögu og er tákn um þrautseigju og metnað fyrstu ábúenda svæðsins. hjónanna Jóns Dungal og Elísabetar Jónsdóttur, sem um miðbik síðustu aldar lögðu grunninn að þessum einstaka trjálundi.
Samkvæmt nýju deiliskipulagi Ártúnshöfða mun garðurinn stækka enn frekar og ættu íbúar og gestir að geta notið hans enn betur. Fornilundur hefur umbreyst úr hrjóstugu landi í eina af grænum perlum Reykjavíkur, þar sem náttúra, menning og arfleifð frumbyggja Hvamms og forsvarsmanna BM Vallár fléttast saman í hjarta borgarinnar.

Saga Ártúnshöfða
ReykjavíkSögu Ártúnshöfða má rekja allt aftur til 12. aldar, þegar jarðirnar Ártún og Árbær voru lagðar til Viðeyjarklausturs. Við siðaskiptin árið 1550 yfirtók Danakonungur allar eignir klaustursins en þær voru seldar einkaaðilum árið 1838. Átrún var lengi vel í alfaraleið og þar var stunduð greiðasala og gistiþjónusta á seinni hluta 19. aldar.
Árið 1906 keypti bæjarstjórn Reykjavíkur jarðirnar vegna fyrirhugaðra vatnsveituframkvæmda og stuttu síðar, árið 1929, voru jarðairnar Ártún og Árbær báðar lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.
Árið 1933 var samþykkt í bæjarráði að úthluta landskikum úr svæðinu, sem nefndir voru Krossamýrarblettir, til loðdýraræktar. Nokkrum árum síðar, frá 1936 til 1938, var löndum þar úthlutað til leigu eða erfðafestu.
ReykjavíkMeðal fyrstu íbúa Króssamýrarsvæðisins voru hjónin Jón Dungal (1899-1972) og Elísabet Ágústa Jónsdóttir (1898-1983). Þau reistu bæinn Hvamm árið 1936 á Krossamýrarbletti 1, sem var 4.2 hektara landspilda sem þau leigðu af Reykjavíkurborg.
Fylgdi samningum sú skylda að leigutakar ræktuðu landið. Þau hjónin gerðu gott betur og komu upp skrúðgarði og miklum, fögrum skógi á þessu hrjóstuga svæði. Þar uxu sjaldséðar tegundir á borð við eplatré og þótti það krafataverki næst (Saga Ártúnshöfða 2021).
Árið 1954 fengu Jón og Elísabet viðurkenningu frá fegrunarfélagi Reykjavíkur fyrir garðinn sinn og framlag þeirra til fegrunar borgarinnar. Fornilundur hlaut einnig viðurkenningu umhverfisverndar Reykjavíkurborgar 1991 fyrir 1. áfanga.

Lystigarður verður til

Reykjavík

Fornilundur 2023.

BM Vallá hefur lagt mikinn metnað og vinnu í að fegra og viðhalda svæðinu síðustu áratugi. Fornilundur var upphaflega hannaður i anda erlendra lystigarða með margs konar dvalarsvæðum, tjörn, gosbrunnum, bekkjum og blómabeðum.
Þegar forsvarsmenn B; Vallár sóttust eftir leyfi til að byggja á lóðinni árið 1983, óskaði Borgarskipulag eftir umsögn garðyrkjustjóra borgarinnar, hafliða Jónssonar, um trjágróðurinn á svæðinu. Hafliði lýsti trjáreitnum sem einstökum og lagði til að hann yrði friðlýstur vegna sérstæðra aðstæðna og árangurs í skógrækt við erfið skilyrði. Hann nefndi sérstaklega elstu grenitrén, semvoru gróðursett þar á árunum 1951-52.

Reykjavík

Í Fornalundi.

Eftir umsögnina var ákveðið að varðveita greniskóginn sem varð til þess að grunnurinn að lystigarðinum Fornalundi var lagður. Reykjavíkurborg gerði það að slilyrði við sölu landsins að almenningur hefði aðgang að svæðinu og það var opnað í áföngum frá og með árinu 1991. Inni í miðjum lundinum er lystihús þar sem landslagsarkitekt fyrirtækisins veitir ráðgjöf til þeirra sem skipuleggja lóðaframkvæmdir. Mikið fuglalíf prýðir garðinn og gefur honum mikinn sjarma og skapar tengingu við náttúruna.“

Reykjavík

Fornilundur – skilti.

Söguskiltið var gert að frumkvæði afkomenda Jóns og Elísabetar. Hönnun þess var unnin af starfsfólki Hornsteins og BM Vallár sem lögðu metnað sinn í að heiðra þessa merku sögu í samráði við afkomendur.

Heimildir:
-https://www.bmvalla.is/frettir/soguskilti-um-fornalund-og-fyrstu-abuendur
-Ártúnshöfði – Fornleifaskrá, Reykjavík 2021.

Reykjavík

Í Fornalundi.