Tag Archive for: Reykjavík

Háubakkar

Vestan Geirsnefs nyrst í Fossvogi (veg veg að smábátahöfninni) er skilti; Háubakkar. Á því má lesa eftirfarandi:

Háubakkar

Háubakkar – mörk hins friðaða svæðis.

„Háubakkar eru eitt af sex friðlýstum svæðum í Reykjavík. Háubakkar voru friðlýstir árið 1983. Á Háubökkum finnast þykk og afar merkileg setlög, sennilega um 200 þúsund ára gömul.
Þar sjást áhrif mikilla loftslagsbreytinga á ísöld. Eftir nýjar aldursgreiningar í Fossvogslögunum sem leiddu til nýrra upplýsinga um aldur þeirra er e.t.v. rétt að taka framanskráðan aldur Háabakka með fyrirvara. Setlögin eru um 8 m á þykkt og er þar m.a. að finna undir grágrýtislagi um 20 sm þykkt surtarbrandslag og í því fræ, aldin og fjókorn ýmissa jurtategunda.
Stærð náttúrvættisins er 2,1 ha.

Setlög
Setlögin í Háubökkum eru staðsett undir Reykjavíkurgrágrýtinu sem myndar að miklum hluta berggrunn Reykjavíkur og er grunnur setlaganna á tveggja milljón ára gömlum hraunlagamyndunum frá fyrri hluta ísaldar.

Háubakkar

Háubakkar – setlög.

Þar ofan á eru sjávarsetlög með steingerðum leifum ýmissa sjávaradýra og má þar nefna skeljategundir eins og hallloku, kúskel og krókskel.
Ofan á sjávarsetlögunum eru síðan setlög mynduð af framburði áa sem runnið hafa um svæðið. Þar ofan á er um 20 sm þykkt surtarbrandslag (en þá var gróðurfar svipað og nú) og efst er Reykjavíkurgrágrýtið.

Í klettunum hér beint á móti eru nær eingöngu siltsteinslög og sandsteinslög til skiptis. Ekki sést þar í Reykjavíkurgrágrýtið né í surtarbrandslögin, en þau eru norðar í setlögunum.

Jarðasaga og myndun

Háubakkar

Háubakkar.

Þegar ísaldarjökullinn hopaði í lok þriðja síðasta jökulsskeiðs ísaldar fylltust lægðir í berggrunninum af sjávarsetlögum. Yfir þau lögðust síðan setlög mynduð í sjó úr áframburði. Eftir það tók við langt tímabil þar sem land var algróið þar til gífurlegt eldgos varð á Mosfellsheiði og hraunið er myndar Reykjavíkurgrágrýtið rann yfir svæðið.
Jöklar síðustu íslandarskeiða gengu síðan yfir og mótuðu landið í svipað horf og það er nú.“

Auðvelt aðgengi að Háubökkum er frá litlu bílastæði við skiltið.

Háubakkar

Háubakkar í Elliðavogi.

Árbæjarsafn

Í „Fornleifaskrá; Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024“ er m.a. getið um tvo fornsteina í Öskjuhlíð er nú prýða innganginn að kirkju Árbæjar í Árbæjarsafni:

Öskjuhlíð

Kortið sýnir staðsetningu á meintri „hoftóft“.

„Um 15 m austan við núverandi Bústaðaveg þar sem nú er göngu- og hjólastígur, um 90 m suðaustur af gatnamótum Bústaðavegar og Litluhlíðar, var tóft sem merkt er inn á kort Bolla Thoroddsen.
Árið 1939 skrifaði Ólafur Friðriksson grein í Fálkann um fornleifar í Öskjuhlíð og segir þar frá tóftinni. „Austan við þar, sem vegurinn liggur nú yfir Öskjuhlíðina gengur dálítil kvos inn í hana, og hefur hún ef til vill gefið hlíðinni nafn. En þarna í kvosinni eru fornminjar sem ekki hefur verið tekið eftir, þó að þær séu þarna rétt hjá langfjölfarnasta þjóðvegi landsins, Hafnarfjarðarbraut. […] Veitti jeg eftirtekt, að austan við veginn, ofan við áðurnefnda kvos, var steinn sem unninn var af manna höndum.“ Virtist Ólafi í fyrstu að þetta væri steinkross en við nánari athugun hafði steinninn lögun sem Þórshamar.

Lárus Sigurbjörnsson

Lárus Sigurbjörnsson (22. maí 1903 – 5. ágúst 1974) var íslenskur rithöfundur, leikskáld og minjavörður. 
Lárus þýddi fjölda leikrita, m.a. Hrekkir Scapins (Les fourberies de Scapin) eftir Molière (meðþýðandi), Jóhann úlfstjarna (Johan Ulfstjerna) eftir Tor Hedberg og Jeppi á fjalli (Jeppe paa Bierget) og fleiri gamanleikrit eftir Ludvig Holberg. Auk þess skrifaði hann greinar og bækur um leiklist og leiklistarsögu Íslands.
Á árunum 1954 til 1968 var hann forstöðumaður Minjasafns Reykjavíkur og varð sá fyrsti til að gegna því embætti. Hann beitti sér fyrir stofnun Árbæjarsafns. Árbæjarsafn var fyrsta útisafnið á Íslandi og var opnað árið 1957.
Myndin er af Lárusi Sigurbjörnssyni og Sveini Þórðarsyni við gamla kistu fulla af munum. Enginn myndatexti en fyrirsögn greinar er „Árbæjarsafnið opnað í dag“. Þar segir m.a. „Mynd þessi var tekin þá er Sveinn Þórðarson bankagjaldkeri framkvstj. Reykvíkingafélagsins, til hægri og Lárus Sigurbjörnsson skoða ýmsa gripi, úr stórum kistli sem geymdur var í eldtraustum skáp.“

Þegar hann leit í kringum sig sá hann annan stein sem hann taldi líka tilhöggvinn, í laginu eins og stóll. Ólafur velti fyrir sér hverjir hefðu höggvið þessa steina og í hvaða tilgangi og taldi að þetta myndi vera fornt hof.“

Árið 1963 fjallaði Lárus Sigurbjörnsson um þessa sömu tóft í grein í Vísi. Þar segir hann frá því að Matthías Þórðarson þjóðminjavörður hafi talið líklegra að þetta væru rústir af gömlu seli frekar en hoftóft. „Í henni fundust tveir merkilegir steinar, annar greinilega tilhöggvinn sem sæti en hinn í lögun sem Þórshamar. Báðir þessir steinar eru nú komnir í Árbæjarsafn. Af rúst þessari sér ekki urmul lengur. Hún er gersamlega horfin, og var farið yfir það síðasta af henni með ýtu.“
Steinarnir tveir standa nú fyrir framan safnkirkjuna á Árbæjarsafni, þeir eru skráðir undir jörðina Árbæ og eru ekki taldir manngerðir.

Á ljósmynd sem fylgdi grein Ólafs af öðrum steininum er hægt að áætla að um sömu rúst sé að ræða og er merkt inn á kort frá 1933. Á myndinni er langt útihús sem stóð á Norðurmýrarbletti 33 (Litlu-Hlíð), sama húsið sést á ljósmynd HAP RVK. Á annarri ljósmynd; ÁBS, sem er tekin úr vestri í austur, má sjá að rafmagns- og símastaurar eru að norðan við veginn. Samkvæmt grein Ólafs fór vinur hans upp í einn staurinn til að sjá betur yfir og rissaði upp rústina. Var stærð hennar um 11 stikur á hvorn veg og telur Ólafur að um hof Ingólfs sé að ræða.

Árbæjarkirkja

Örnefnið Háfaleiti á milli Öskjuhlíðar og Minni-Öskjuhlíðar á korti frá 1933.

Á korti Björns Gunnlaugssonar frá 1850 sem sýnir mýrar í Reykjavík er merki á svipuðum stað eða norður af Leynimýri, býlið „Háfaleiti“ sem er líklega nafnið á þessum rústum.
Fyrir margt er þetta sérstakur staður, líklega hafa þetta verið í grunninn gömul útihús frá Reykjavík sem hugsanlega hefur verið búið í um 1850, Háfaleiti kemur ekki fram í manntölum. Háfaleiti svipar mikið til örnefnisins Háaleiti sem er þarna ekki langt frá.“

Þegar steinarnir í Árbæjarsafni eru skoðaðir er augljóst, þrátt fyrir allar fyrrum spekulagsjónir hinna fyrrum „sérfræðinga“, að þarna er um aðflutta náttúrumyndun að ræða.

Heimildir:
-Fornleifaskrá; Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024.
-Páll Líndal, Reykjavík: Sögustaðir við Sund, bindi 2 og 3.
-Ljósmyndasafn Reykjavíkur. KAN 001 145 4-1. Ljósmyndari Karl Christian Nielsen.
-Borgarsögusafn. Korta- og uppdráttasafn. Bolli Thoroddsen, [Rauðará – Öskjuhlíð – Vatnsmýri 1932–1933].

Árbæjarsafn

Árbæjarsafn – steinarnir tveir…

Nauthólsvík

Nauthólsvík er lítil vík norðan megin í Fossvogi suðvestanmegin við Öskjuhlíð. Víkin heitir eftir kotinu Nauthól sem stóð þar við rætur Öskjuhlíðar í landi Skildinganess. Í Nauthólsvík er skeljasandur og þar hefur verið vinsælt útivistarsvæði frá því eftir Síðari heimsstyrjöld þegar Reykjavíkurborg eignaðist landið. Áður hafði breski herinn tekið landið eignarnámi (hvernig s.s. það gekk fyrir sig?) fyrir Reykjavíkurflugvöll og byggingar honum tengdar. Í Nauthólsvík var braggabyggð í stríðinu og hótel fyrir flugvallarfarþega.

Nauthólsvík

Í Nauthólsvík.

Í Nauthólsvík er vinsælt að stunda alls kyns vatnaíþróttir, svo sem sjósund, kajakróður, kænusiglingar, seglbrettasiglingar og kappróður. Siglingafélag ÍTR, Siglunes, Siglingafélag Reykjavíkur, Brokey og Sportkafarafélag Íslands eru þar með aðstöðu, en auk þeirra er fjöldi íþrótta- og áhugamannafélaga með aðstöðu í og við Nauthólsvík.

Nauthólsvík

Öskjuhlíð og nágrenni 1945.

Árið 1932 falaðist Íþróttasamband Íslands eftir lóð í Nauthólsvík til að gera þar sundskála og íþróttavelli. Árið 1936 var þar skipulagt íþróttasvæði með stórum íþróttaleikvangi, átta knattspyrnuvöllum og níu tennisvöllum. Kappróðradeild Ármanns hóf þá að reisa þar hús yfir tvo innróna kappróðrabáta sem félagið átti og hafist var handa við að gera skeiðvöll fyrir kappreiðar. Framkvæmdir við svæðið lögðust hins vegar alveg af þegar breska setuliðið á Íslandi tók það undir braggabyggð í tengslum við Reykjavíkurflugvöll. Á styrjaldarárunum var því farið að horfa til Laugardals sem framtíðarsvæðis fyrir íþróttaiðkun í Reykjavík.

Nauthólsvík

Nauthólsvík – bryggja.

Eftir styrjöldina var róðradeild Ármanns starfrækt í Nauthólsvík. Síðar bættist við bátaskýli Róðrarfélags Reykjavíkur. Siglunes, siglinga- og róðraklúbbur æskulýðsráða Reykjavíkur og Kópavogs, var stofnaður árið 1962 og vorið 1967 keypti klúbburinn síðarnefnda bátaskýlið sem þá átti að rífa og hóf þar starfsemi. Á 8. áratugnum var skýlið stækkað mikið og steyptur rampur frá húsinu að sjó.

Frá 1971 til 1983 voru hátíðahöld á sjómannadaginn haldin í Nauthólsvík, en 1984 var dagskráin flutt yfir í Reykjavíkurhöfn.

Núverandi Ylströnd í Nauthólsvík átti sér nokkrun aðdraganda, allt frá því að setuliðið hlóð frárennisrás frá herkampinum við Nauthól, sem síðar var notaður sem affall frá heitavatnstönkunum á Öskjuhlíð.

Í Vísi 1977 var fjallað um „Nafntogaðan læk„:

Nauthólslækur

Nauthólslækur – loftmynd 2023.

„Sá einstæði atburður gerðist á fimmtudaginn í síðustu viku að fólk lagðist í sólbað á Íslandi, í miðjum október. Fjölmenni var í læknum góða í Nauthólsvík, sem nú getur státað af mörgum ágætum nöfnum. Hann er kallaður: Volga, Læragjá, Beruvík, Læralind og Dóná, svo nokkuð sé nefnt. Nafntogaður lækur það.“

Á Wikipedia er kafli um „Læragjá„:

Nauthólslækur

Nauthólslækur. Vestan við Lyngberg er uppþornaður lækjarfarvegur sem nær frá göngustíg og suður í sjó, um 80 m. Upprunalega var þetta frárennslisskurður frá tíma setuliðsins og lá með öllum Nauthólsvegi að vestanverðu. Nú er einungis syðsti hluti hans sýnilegur og grjóthlaðinn. Hitaveita Reykjavíkur leiddi affallsvatn úr heitavatnsgeymunum á Öskjuhlíð í lækinn á árunum 1968 til 1983. Í örnefnalýsingu Skildinganess segir: „Í Nauthólsvík … fellur til sjávar tilbúinn lækur, heitur, yfirfall frá Hitaveitu Reykjavíkur, nú vinsæll baðstaður, rétt við Lyngberg. Nú hefur lækurinn verið lagfærður og byggður upp. Sumir hafa nefnt lækinn Volgu og gjána þar sem menn baða sig í Læragjá. Vel má vera að þessi örnefni eigi enga framtíð fyrir sér en eru skemmtileg samt sem áður.“ Hætt var að veita affalli frá heitavatnstönkunum á Öskjuhlíð í lækinn 1985 vegna ógætilegrar umgengni baðgesta við lækinn.

„Læragjá var nafn sem var notað um breiðasta og dýpsta hluta lækjarins í Nauthólsvík þar sem fólk baðaði sig, sérstaklega eftir að skemmtistöðum var lokað. Margir böðuðu sig þar naktir og fékk staðurinn nafn af því. Vatnið var yfirfallsvatn úr heitavatnstönkunum uppi á Öskjuhlíð og var affall sem seytlaði í lækinn úr framræsluskurði með hlíðinni. Þar sem menn böðuðu sig var hlaðið dálítið baðsvæði með höggnu grjóti. Löngum fór orð af gjálífi í læknum, og auk þess voru drukknir menn oft nærri drukknaðir í honum, og sökum þessa beindi borgarstjórn því til hitaveitustjóra hvort framkvæmanlegt væri að loka fyrir rennsli í lækinn að næturlagi. Hætt var að láta heitt vatn renna að næturlagi í Læragjá um 1980. Um líkt leyti komu upp hugmyndir um að breyta svæðinu þar í kring í hitabelti undir þaki. Af því varð þó aldrei.
Lækurinn gekk einnig undir ýmsum öðrum heitum, svo sem: Volga, Beruvík, Læralind, Dóná og Rasslind, en var oftast nefndur Læragjá.“

Í Lesbók Morgunblaðsins 1976 skrifar Ásgeir Jakobsson svonefnda „Öskjuhlíðarþanka„:
„Það var eldsnemma, rúmlega sjö, á laugardagsmorgni þann 10. júlí aö ég rölti uppí Öskjuhlíð að njóta sólar eftir langan dumbungskafla. Ég fann orðið til dálítillar sektarkenndar gagnvart þessari vinkonu minni og reykvísku heimasætu eftir langt framhjáhald með öðrum og reisulegri meyjum í nágrenni Reykjavíkur, svo sem Esjunni og fleiri hennar líkum. En nú þarf ég að endurnýja kynnin, og kominn heim eftir langa útivist, sá ég strax margt, sem hafði dulizt mér í hlaðvarpanum.

Nauthólslækur

Nauthólslækur. Farvegur lækjarins er greinilegur frá göngustíg neðan við Nauthólsveg að sjó, liggur nánast norður-suður. Hann er V laga, hlaðinn úr grjóti með steypu á milli. Stærð steina er breytileg frá 20 x 10 cm upp í 40×70 cm, blanda af tilhöggnum brúnsteinum og kantsteinum auk náttúrulegra steina. Sjö þverhleðslur, stíflur, eru í læknum til að stöðva vatnið, lækurinn er um 3 m breiður en sumstaðar er lækjarfarvegurinn breiðari, t.d. fyrir ofan stíflurnar, en þar er hann allt að 7 m að breidd þar sem hann er breiðastur. Neðarlega í lækjarfarveginum eru leifar af trébrú og fyrir neðan hana breikkar farvegurinn aftur og er neðsta þverhleðslan við fjöruna er um 5 m á lengd. Áletrunin „EH77“ er höggvin í einn hleðslusteininn í vesturbakkanum, nánast neðst fyrir ofan syðstu þverhleðsluna. Farvegurinn er nú grasi gróinn með töluverðum trjágróðri og ekkert vatn er í honum lengur. Gengið var með bökkum lækjarins og þeir mældir inn.

Ég fór léttan stíg niður hlíðina, enda í svo góðri þjálfun. Þegar ég nálgaðist, sá ég konur baukuðu sér en karlmenn stóðu álengdar og horfðu til þeirra. Þær vóru að tína af sér spjarirnar. Sú athöfn er vissulega ein af undirstöðuathöfnum mannlífsins og útá hana hefur margur maðurinn fæðst og alltaf er nú þetta forvitnilegt verk — kona að hátta —. Þó að mestu skipti í hvaða tilgangi hún háttar.

Berrassað fólk á asfalti eða í borgarumhverfi er hjákátlegt og særir augað og hjartað og ergir skynsemina. Bert mannsholdið fellur ekki vel við borgarumhverfið. Nakin kona á steinsteypunni er eins og blóm, sem fallið hefur á gangstétt. — Hins vegar myndi allsbert fólk sóma sér vel á beit úti í guðgrænni náttúrunni.
Þegar fólk vill leita uppruna síns í einu eða öðru tilliti þá verður það að gæta þess, að gera það í samsvarandi umhverfi. Sem sagt: Strípaður maður á almannafæri í borg, á þar ekki heima fremur en maður á lakkskóm með pípuhatt og í kjólfötum í fjallgöngu.
Þegar ég hafði uppgötvað hvað var að gerast vissi ég til hvers þetta fólk var komið. Það ætlaði, a.m.k., eitthvað af því, að baða sig í hinni frægu Læragjá, eins og margir nefna þessa nýju heilsulind, sem fellur úr Öskjuhlíðinni. (Rasslind, eins og sumir nefna Lindina finnst mér ósmekklegt, en óneitanlega réttnefni). Ég hafði aðeins heyrt þessarar heilsulindar getið svo og þess að meiningar væru deildar um ágæti hennar. Nú gafst mér tækifæri eldsnemma morguns að fylgjast með heilsuræktinni.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð 1946.

Vatnið í Læragjá er affall frá hitaveitugeymunum uppi á Öskjuhlíðinni, en einnig seytlar í hana skurðvatn úr framræsluskurði í brekkukverkinni vestur með hlíðinni. Í rauninni er heilsulindarfarvegurinn framræsluskurður, sem hefur verið hugsaður til að veita vatnsaganum ofan úr hlíðinni og undan henni til sjávar og þurrka upp svæðið vestan við skurðinn. Vegurinn að bátanaustinu og gufuböðunum og reyndar öllum hinum gamla baðstað liggur yfir skurðinn þar sem affallsrörin koma í hann, en þau liggja senni]ega nokkurn veginn beint frá geymunum efra.

Nauthólslækur

Nauthólslækur (Sigmund-mbl).

Í Læragjá eru þrjú uppistöðulón; það hafa verið hlaðnar stíflur á þremur stöðum í stokknum og þær mynda þessi lón, hvert svo sem eins og tvær mannslengdir. Stíflurnar hljóta náttúrlega að draga úr gegnumstreyminu.
Eiginmenn, (eða það skyldi maður halda), kvennanna, sem voru í vatnsnuddinu, stóðu á skurðbakkanum og horfðu ólundarlega á konur sfnar, en þær brostu alsælar á móti. Þarna var mikið hold, sem þurfti að fjarlægja, og líklegra verkefni fyrir Dettifoss en þessa lækjarsytru úr hitaveitugeymunum. Það kom á daginn, að það hafði fleirum dottið í hug að þörf gæti reynzt á kraftmeira rennsli. Eg spurði:
—Finnst ykkur þetta hafa borið árangur?
Mennirnir vóru seinir til svars.
Loks sagði annar:
— Það skiptir nú minnstu, hvað okkur finnst. Þær segja að þetta grenni þær, en þú sérð nú að eitthvað er eftir þarna niðri í skurðinum.
— Það þarf að auka rennslið, sagði ég hughreystandi.
— Já, sagði nú hinn maðurinn ákafur, þaö var einmitt það, sem ég sagði við mína konu í morgun, að ef hún ætlaði að ná af sér spikinu með vatnsrennsli, segði þessi spræna lítið, hins vegar skyldi ég fara með hana austur í Þjórsá, þar sem hún fellur þrengst og leggja henni þar við stjóra fram yfir aldamót …“

Í Morgunblaðinu 1978 segir: „Menn nær drukknaðir, slagsmál tíð og ástarlíf með áhorfendum„:

Nauthólsvík

Nauthólslækur (Mbl. Ó.K.M)

„Útideild og lögreglustjóri hafa áhyggjur af Læragjá – Menn nær drukknaðir, slagsmál tíð og ástarlíf með áhorfendum.

Fyrir tilstuðlan Æskulýðsráðs Reykjavíkurborgar er nú lækurinn í Nauthólsvík eða Læragjá, eins og hann er oft nefndur, að nýju kominn á dagskrá í borgarstjórn. Upphaf pessa nýja erindis fyrir borgarstjórn má rekja til bréfs frá Útideild/Eskulýðsráðs og Félagsmálaráðs, en þar kemur fram að ástandið að næturlagi við lækinn veldur starfsfólki deildarinnar miklum áhyggjum og að það telur nauðsynlegt að koma vitneskju þeirra um ástandið á framfæri við viðkomandi yfirvöld. Sendi því Útideildin bréf til Æskulýðsráðs, Félagsmálaráðs og Heilbrigðisráðs.
Í bréfi Útideildar kemur fram, að hún hefur margsinnis í störfum sínum kannað ástand og fjölda ungs fólks við hinn margumtalaða læk við Nauthólsvík. Á umliðnum vetri hafi oft verið mjög slæmt ástand þar en þó einkum að næturlagi um helgar.

Nauthólsvík

Nauthólslækur. Mbl. Ó.K.M.)

Þá hafi fólk safnazt saman í tugatali, yfirleitt dauðadrukkið og tekið sér bað í læknum, ýmist í alfatnaði, hálfnakið og jafnvel allsnakið. Ekki hafi verið óalgengt að sjá fólk í samförum og stóran hóp áhorfenda umhverfis. Mikið er um flöskubrot og annan óþrifnað, og fólk gerir þarfir sínar í lækinn eða nánasta umhverfi hans, þar sem engin hreinlætisaðstaða er fyrir hendi. Meiðsli eru einnig tíð að því er fram kemur í bréfinu.
Flest er fólkið yfir tvítugt en einnig eru áberandi hópar unglinga og hefur sá hópur alltaf stækkað með hækkandi sól, að því er segir f bréfinu. Er það álit starfsmanna Útideildar að mesta mildi sé að ekki skuli nú þegar hafa hlotizt þarna af stórslys, og segir í bréfinu að miðað við núverandi aðstæöur telji starfsmenn deildarinnar algjörlega óforsvaranlegt aö fólk hafi aðgang að læknum aö næturlagi.

Nauthólsvík

Nauthólslækur. (Mbl. Ó.K.M.)

Í framhaldi af þessu ritaði Æskulýðsráð lögreglustjóranum í Reykjavík bréf og óskaði umsagnar hans, og er sú umsögn barst var hún lögð fram í borgarráði ásamt bréfi Útideildar. Umsögn lögreglustjóra er mjög á sömu lund og bréf Útideildar. Hann getur þess í upphafi aö þessi afrennslislækur hafi lengi verið búinn aö renna til sjávar í Nauthólsvík án þess að nokkur vandræði hlytust af. Hins vegar hafi loks komið að því að ölvað fólk fór að sækja í lækinn um nætur, dagblöð að birta myndir og þar með hafi verið komin sú athygli og auglýsing er þurfti til að stefna því fólki þangað er sízt skyldi. Borgarstjórn hafi þá látið lagfæra lækjarbakkana og snyrta til svo vistlegra yrði á svæðinu en slíkt hafi dugað skammt er baðgestir kunnu ekki fótum sínum forráð.

Lögreglan

B-vakt lögreglunnar 1975. Hafði nóg að gera að nætulagi við Nauthólsvík.

Fram kemur í umsögn lögreglustjóra, að lögreglan hafi að undanförnu þurft að hafa dagleg afskipti af baðgestum sakir ölvunar, slagsmála og slysa og sé nú svo komið að ekki verði viðunað lengur. Sérstaklega sé ástand við lækinn um nætur slæmt eftir að dansleikjum lýkur, fólk haldi að baðstaðnum, og leggist í lækinn ýmist nakið, á nærfötum eða í öllum fötum. Af þessum sökum hafi hlotizt alvarleg slys og einn maður hafi fundizt örendur í læknum. Hinn 17. júní sl. hafi rænulaus maður verið fluttur í gjörgæzludeild eftir að hafa sofnað í læknum og næstum drukknað og margir hafi þarna skorizt illa á glerbrotum, slasazt í slagsmálum og hrasað.

Nauthólsvík

Nauthólslækur.

Fyrir liggi margar lögregluskýrslur um óhöpp á staðnum og slæma hegðun fólks, m.a. vegna þess að engin snyrtiaðstaða sé á staðnum og menn gangi þar örna sinna á víðavangi og í læknum. Ekki er heldur aðstaða til að hafa fataskipti og geyma verðmæti, svo að talsvert hefur borið þarna á þjófnaði á fötum og munum. Þá kemur fram að aöfaranótt 17. júní þurfti lögreglan tvívegis að fara á björgunarbát og sækja ölvaða menn, sem höfðu lagt til sunds yfir Fossvog eftir bað í læknum og voru báðir aðframkomnir er þeir náðust. Þá kemur fram, að mjög mikið ónæði er á Hótel Lottleiðum af völdum fólks sem kemur úr læknum um nætur og ítrekaðar kvartanir hafa borizt frá hótelinu í því sambandi.“

Í Morgunblaðinu 1978 segir:

Nauthólsvík

Nauthólslækur. Önnur umfjöllun í Morgunblaðinu 1978: “ Læragjá lokuð að næturlagi,“

Læragjá lokað að næturlægi? Dæmi um og að menn hafi jafnvel í ölæði lagzt til sunds úr læknum.
LÆRAGJÁ eða lækurinn í Nauthólsvikinni veldur borgarstjórn áhyggjum eða öllu heldur sú slysahætta sem af honum stafar vegna ásóknar ölvaðs fólks um nætur.
Í borgarráði Reykjavíkur í gær var lagt fram bréf frá framkvæmdastjóra Æskulýðsráðs borgarinnar með skýrslu lögreglustjóra, þar sem lýst er heldur ókræsilegu næturlífi við lækinn vegna mikillar ásóknar ölvaðs fólks. Minnt er á að þegar hafi hlotizt af þessu eitt dauðaslys, fólk hafði verið fiskað meðvitundarlaust upp úr læknum og út í sjálfa víkina.
Þá hefur löngum farið það orð af gjálífi þessu, að það fari langt út fyrir öll velsæmismörk, en engu að síður mun það vera áðurnefnd slysahætta sem af læknum er talin stafa sem veldur borgarstjórn mestum áhyggjum. Var í því sambandi rætt á borgarráðsfundinum í gær hvað væri til ráða og var því beint til hitaveitustjóra og borgarverkfræðings hvort framkvæmanlegt væri að loka fyrir rennsli í læknum að næturlagi og hver kostnaður af því væri.“

Í DV árið 1983 segir:

Lækurinn aldrei framar baðstaður?
Lækurinn vinsæli í Nauthólsvík mun hugsanlega aldrei opnast framar til baða. Heitt vatn hefur ekki runnið í hann frá því í apríl síðastliðnum.
„Það er eins líklegt að þetta verði svona um alla framtíð,” sagði Árni Gunnarsson, verkfræðingur hjá Hitaveitu Reykjavíkur, þegar DV spurði hann um hversu lengi yrði vatnslaust í Læknum.
„Við höfum verið að auka dælingu úr Reykjavíkursvæðunum. Þar af leiðandi höfum við þurft að fullnýta afgangsvatnið,” sagði Árni.

Nauthólslækur

Nauthólslækur.

Borholusvæði Hitaveitunnar eru þrjú; Laugardalssvæði sem er tæplega 130 gráðu heitt; og Reykjasvæði í Mosfellssveit sem er um 80 gráðu heitt.
Hitaveitan selur viðskiptavinum sínum 80 gráðu heitt vatn. Vatnið úr Reykjavíkursvæðunum er hins vegar mun heitara. Það þarf því að kælast niður.
Til kælingarinnar notar Hitaveitan frárennslisvatn. Það vatn er orðið um 40 gráðu heitt eftir að viðskiptavinurinn hefur notað það til upphitunar.
Áður rann afgangur af þessu frárennslisvatni um öryggisventil úr gömlu geymunum á Öskjuhlíð niður í Lækinn í Nauthólsvík. Eftir að Hitaveitan fór að nýta heitari svæðin meira þarf hún á öllu frárennslisvatninu að halda til kælingarinnar.
„Það er ákaflega erfitt að segja til um það hvort það verði til afgangsvatn fyrir Lækinn í framtíðinn. Það þarf ekki að búast við neinu. Þetta er algerlega háð rekstri Hitaveitunnar,” sagði Árni.
Lækurinn var á sínum tíma fjölsóttur baðstaður. Mikil vinna hefur verið lögð í að gera umhverfi hans snyrtilegt.“ -KMU.

Svo mörg voru þau orð – vandinn var einfaldlega leystur með eðlilegri og betri nýtingu í stað langra óþarfa skoðanaskipta stjórnmálamanna…

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Nauth%C3%B3lsv%C3%ADk
-Vísir, 256. tbl., Nafntogaður lækur, 17.10. 1977.
-https://is.wikipedia.org/wiki/L%C3%A6ragj%C3%A1
-Lesbók Morgunblaðsins, Öskjuhlíðarþankar, Ásgeir Jakobsson, 34. tbl. 05.09. 1976, bls. 14 og 15.
-Morgunblaðið, 142. tbl. 06.07.1978, Menn nær drukknaðir, slagsmál tíð og ástarlíf með áhorfendum, bls. 5 og 20.
-Morgunblaðið, 141. árg., Læragjá lokað að Næturlagi?, 1978, bls. 32.
-DV, 205. tbl., Lækurinn aldrei framar baðstaður?, 9. sept. 1983, bls. 40.
-Fornleifaskrá; Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024.
-Morgunblaðið, 167. tbl, 05.08.1978, Læragjá lokuð að næturlagi, bls. 48.

Nauthólsvík

Nauthólsvík og nágrenni 1945.

Fossvogur

Á sjávarbakka í botni Fossvogs á klettinum Hanganda/Votabergi um 110 m vestur af Kringlumýrarbraut og 122 m norðvestur af bensínstöð N1 er skotbyrgi.

Fossvogur

Fossvogur – skotbyrgi.

Byrgið tilheyrði Camp Fossvogi sem var fyrir botni vogsins og var síðar einnig nefndur Camp Cook South. Kampurinn er skráður undir jörðina Laugarnes.

Á bakkanum norðvestan við eru leifar af tveimur undirstöðum og grunni sem tilheyrðu einnig kampinum.
Byrgið er heillegt skotbyrgi. Veggir eru hlaðnir en þakið er steypt með halla að framan. Gengið er niður þrjú steypt þrep í byrgið á norðausturhlið. Byrgið er þakið jarðvegi og er grasi vaxið.

Fossvogur

Fossvogur – skotbyrgi.

Norðvestan við er lágt garðlag um 20 m á lengd, liggur norður-suður með ströndinni og annað minna 10 m austar, um 10 m á lengd, bæði garðlögin eru greinileg á loftmyndum frá árinu 1954 og síðar, ekki er ljóst hvaða garðlög þetta eru.
Úr byrginu var útsýni til sjávar þannig að þar hefur verið hægt að fylgst með skipaferðum og flugi yfir Fossvog. Fyllt hefur verið upp í skotraufina en líklega hefur það verið notað sem geymsla fyrir matjurtir seinna.
Hlaðin eða steypt skotbyrgi frá stríðsárunum eru 50 talsins á höfuðborgarsvæðinu.

Heimild:
-Fornleifaskrá; Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024.

Fossvogur

Fossvogur – skotbyrgi.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt er ein af 222 skráðum fjárréttum FERLIRs í landnámi Ingólfs fyrrum. Þær eru að öllum líkindum miklu mun fleiri þegar upp verður staðið.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt 1911.

Í „Örnefnalýsingu fyrir Þormóðsdal„, skráða af Tryggva Einarssyni frá Miðdal, segir m.a. um Hafravatnsrétt og nágrenni (heimildarmaður og skrásetjari er gagnkunnugur í Þormóðsdal, sem er næsta jörð norðan Miðdals. Tryggvi er fæddur í Miðdal árið 1901 og hefur átt þar heima alla sína tíð. Hann skráði lýsinguna veturinn 1976-77):

„Við Hafravatn er Hafravatnsrétt. Sunnan við réttina er fallegur klettahóll, sem Stekkjarhóll heitir. Skammt austan við Stekkjarhól er Stekkjarás. Vestan undir Stekkjarás er stekkur ásamt beitarhúsum frá Þormóðsdal.
Norðaustur af Hafravatnsrétt er Stekkjargil. Upp af áðurnefndum Torfum eru smágrasblettir, er Blettir heita. Frá Hafravatnsrétt, norður með Hafravatni, er Hafrahlíð. Þar sem Hafrahlíð beygir í norðaustur, heitir Hlíðarhorn.“

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt 1952.

Í Tímanum 1957 er grein um Hafravatnsrétt; „rétt Reykjavíkurbarna“ eftir Guðna Þórðarson:

„Reykvíkingar fjölmenntu í rétfirnar í fyrradag. Enda þótt tilvera réttanna séu mörgum Reykjavíkurbörnum aðeins óljós þjóðsaga, gefst þeim þó mörgum tækifæri til að fara í réttir, þegar réttað er í Hafravatnsrétt í Mosfellssveit. Þær eru stærstu réttirnar í nágrenni Reykjavíkur og eru því öðrum réttum framar réttir Reykvíkinga, að minnsta kosti Reykjavíkurbarna, sem ekki komast í sveit. En sá hópur fer stækkandi með hverju árinu sem líður og borgin vex.
Snemma morguns var orðið mikið annríki í Hafravatnsrétt. Frá Reykjavík komu bílar í löngum lestum með fullorðna og börn, og tveir lögregluþjónar höfðu ærinn starfa við að stjórna umferð mannfólksins fyrir utan réttarveggina, og á flötnum niður með vatninu, þar sem ökutækjum var fundinn staður.

Engir rekstrar en margir fjárbítar

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt 1957.

Margir komu líka ríðandi í réttirnar. Leitarmenn höfðu flestir komið daginn áður, enda var vakað yfir safninu við réttina í fyrrinótt, þar til réttarstörfin hófust með birtnggu að kalla. Flestir bændanna lögðu flutningabílum að útvegg réttar hjá dilk sínum og fluttu féð jafnóðum heim á bílunum.

Ónæðisamt er að vera á ferð með fjárrekstra á þjóðvegunum í næsta nágrenni Reykjavíkur. Fæstir bændanna, sem sækja fé sitt til Hafravatnsréttar eru líka stórbændur á sauðfjárræktarsviðinu, enda búskapur þeirra rekinn í höfuðsveitum mjólkurframleiðslunnar. Engu að síður er fjáreign bænda í nágrenni Reykjavíkur nokkuð almenn og fer heldur vaxandi. Sauðfjárræktarbændurnir eru samt ekki fleiri en svo, að erfitt er fyrir þá eina að standa að smölun á öllum afréttarlöndum. Þau eru ótrúlega víðáttumikil og erfið til smölunar. Féð gengur saman allt austur í Grafning og heiðarnar eru stórar og margar hæðir og lautir, þar sem kindur géta leynzt vökulum augum leitarmanna.

Börnin ekki færri en lömbin
Hafravatnsrétt
Réttarstjórinn í Hafravatnsrétt er Kristinn bóndi á Mosfelli, skörulegur og geðgóður réttarstjóri, sem oft þarf að taka á þolinmæðinni allri, þegar annríkið stendur sem hæst. Þá kemur stundum fyrir að réttarstjórinn stígur upp á réttarvegginn, gætilega svo að grjót hrynji ekki úr hleðslunni og heldur hóflega orðaða ræðu til háttvirtra réttargesta. Hann biður þá með góðum orðum og fögrum að sýna sveitamönnum miskunnsemi og rýma til í réttinni sjálfri, í almenningnum, þar sem skilamenn þurfa að finna sitt fé og draga það í dilka.

Fyrst í stað gengur allt að óskum og fleira er af kindum en börnum í almenningnum, en börnunum fjölgar meir en kindunum fækkar, og þá þarf réttarstjórinn aftur að stíga í stólinn og gera ráðstafanir til þess að hægt sé að halda áfram störfum í réttum Reykjavikurbarnanna.

HafravatnsréttSveitin tæmist, er fólkið fer í réttir En það eru fleiri en börnin, sem fjölmenna í Hafravatnsrétt, þangað koma svo til allir vopnfærir menn og konur úr Mosfellssveit og dvelja lengi dags, svo að símstöðin á Brúarlandi nær varla í nokkurn mann, þegar kvaðning kemur frá landssímanum. Óvíða er svarað hringingu, því að allir ungir og gamlir eru í Hafravatnsrétt.
Réttin stendur skammt frá vatninu undir hlíðinni, þar sem margir sitja og fylgjast með réttarstörfum.
Þegar líður á réttardaginn, fara menn að gera nestinu einhver skil, en kvenfélagið sér fyrir góðum veitingum, heitu kaffi, pönnukökum og smáréttum.

Hafravatnsrétt

Mörgum er það svo mikið ævintýri að komast þarna í lifandi samband við kindurnar, að því fá engin orð lýst.
Fjögurra ára Reykjavíkurtelpa stóð við hliðina á átta ára bróður sínum fast við hliðgrindina og horfðu heilluð á fallegt lamb, sem stóð skorðað með höfuðið upp að grindinni. Þau höfðu aldrei séð lifandi kind fyrr. — Verst, að við skyldum ekki hafa með okkur brauðmola, sagði telpan við bróður sinn.
Þannig gerðust fjölmörg ævintýri í lífi Reykjavíkurbarna við Hafravatnsrétt í gær. Fyrsti réttardagurinn verður flestum ógleymanlegur, ekki sízt kaupstaðarbörnunum, sem vaxið hafa upp í faðmi borgarinnar, þar sem fá tækifæri gefast til náinna kynna við lifandi dýr. Og einhvern veginn er það svo, að lömbin eru í meira uppáhaldi hjá börnunum en flest önnur húsdýr, þó að oft séu kynnin stutt. Þau hverfa til fjalla, þegar þau eru fallegust á vorin og koma svo ekki aftur fyrr en í réttirnar á haustin. En ef til vill er það þessi langa eftirvænting sumarsins um samfundi í réttum að hausti, sem heillar hugi barnanna.
Og Reykjavíkurbörnin mörgu, sem í fyrsta sinn komust í lifandi snertingu við kindur í Hafravatnsrétt í fyrradag, munu heldur ekki gleyma því strax, að fundum bar þar saman. Þau hafa fengið í blóðið þann óróleika, sem verður þess valdandi að réttirnar gleymast ekki, þegar að þeim kemur á haustin. Vafalaust hafa mörg börn og jafnvel fullorðnir, sofnað út frá kindajarmi að loknum löngum og viðburðaríkum réttardegi, dreymt um fangbrögð við frískar kindur, draumar, sem verða að veruleika, þegar aftur verður enn á ný farið í réttir.“

Í Vísi 1964 er grein; „Í Hafravatnsrétt„:
Hafravatnsrétt
„Það var mikið um að vera í Hafravatnsrétt í gær. Bændur og búalið kepptust við að draga og fleiri tugir Reykvíkinga komu þangað í gær, með börn sin til þess að fylgjast með réttarstörfunum. Gizkað er á, að um fimm þúsund fjár hafi verið réttað núna í Hafravatnsrétt, og er það færra fé en nokkru sinni fyrr.
„Fénu er alltaf að fækka, og nú eru margir bæir hér að verða fjárlausir,“ sagði Kristinn Guðmundsson, réttarstjóri, þegar við litum inn í skúrinn til hans í gær.

Hafravatnsrétt

Kristinn Guðmundsson (1893-1976), réttarstjóri um árabil (mynd frá 1963).

Réttarstjórinn í Hafravatnsrétt hefur það fram yfir flesta réttarstjóra á landinu, að hann hefur sérsakan skúr, eða skýli, við almenninginn, þar sem hann heldur til og stjórnar réttarstörfunum með kalllúðri.
Mikið kapp var lagt á að draga fyrir hádegi, vegna þess að eftir hádegi kemur margt aðkomumanna, einkum frá Reykjavík, og vilja þá réttarstörfin ganga nokkuð seint fyrir sig. Í Hafravatnsrétt hittum við bæði alvörubændur og sportbændur, og allir virtust vera í góðu skapi og menn voru komnir í réttarstemmningu síðdegis. — Kvenfélagskonurnar í Lágafellssókn sáu um veitingasölu í bragganum og tveimur tjöldum, þar sem fólki var gefinn kostur á að kaupa sér kaffisopa með gómsætu heimabökuðu meðlæti.
Mjög margt barna var í Hafravatnsrétt og mátti sjá flest andlit þeirra ljóma af ánægju, enda er þetta í eina skiptið, sem mörg reykvísk börn komast í snertingu við kindur. — Og það voru fleiri andlit, sem ljómuðu í Hafravatnsrétt. Þegar bændurnir voru búnir að draga og fá sér góða lögg af réttarpelanum mátti sjá ánægju svip á andlitum þeirra, þegar þeir litu yfir fjárhópinn sinn, sem þeir höfðu fengið heim af afrétt.“

Í Vísi 1965 er aftur fjallað um „Hafravatnsrétt“:
Hafravatnsrétt
„Það þykir ævinlega stór dagur til sveita, þegar réttað er. Þessi dagur er sannkallaður hátíðisdagur og ætti vitanlega að vera „rauður dagur“ á almanakinu.
Það má líkja réttardeginum við uppskeruhátíðir erlendis, enda er alltaf haldið upp á réttardaginn og réttarskálin sopin.
Blaðamaður Vísis kom við í Hafravatnsrétt í gær, þar sem allt var á ferð og flugi. Í almenningnum í miðri réttinni voru bændur úr Mosfellssveit í óðaönn að draga fé sitt í dilkana og úr dilkunum var farið með féð á vörubílana sem biðu þess.

Hafravatnsrétt

Í Hafravatnsrétt.

Það var feitt fé og fallegt sem kom af Mosfellsheiði núna eftir gott sumar. Við sögðum í gær í frétt að það hefði verið um 1000 fjár, en það var vissulega sök prentvillupúkans, en í Hafravatns rétt munu um 5000 fjár væntanlega koma til skila eftir fyrstu leit og er það svipað og í fyrra.
Réttarstemningin var ekki byrjuð ennþá, þegar blaðamaðurinn fór af staðnum, — enginn réttarpeli var a.m.k. réttur að honum, — en í nefið fékk hann og það var allt i áttina.
Í dag verður brugðið upp svipmyndum af Hafravatnsrétt, rétt Mosfellinga, Kópavogsbúa, Seltirninga, þeirra fáu sem þar eiga enn kindur og svo þeirra Reykvíkinga, sem eru fjáreigendur, en reykvísku kindurnar munu vera á 4. þús. talsins. Segið svo að höfuðborgin eigi ekki álitlegan fjárstofn. Að vísu kemur ekki nema hluti fjárstofns Reykvíkinga í Hafravatnsrétt, en það mun samt vera álitlegur hluti hans.“

Í Morgunblaðinu 1982 er frétt; „Réttað í Hafravatnsrétt í síðasta sinn?“:
Hafravatnsrétt
„Sennilega var réttað í síðasta skipti í Hafravatnsrétt í gær, því nú er fyrirhugað að reisa fjárhelda girðingu umhverfis Stór-Reykjavíkursvæðið frá Straumsvík og upp að Kiðafellsá í Kjós. Fjárhald innan girðingar verður ekki leyft nema undir eftirliti, þannig að rekstur á heiði innan girðingar leggst fyrirsjáanlega af. Ekki er að efa að mörgum verður eftirsjá að réttinni ef hún hverfur, því að hana hafa margir sótt heim, enda sú rétt sem næst hefur verið þéttbýlustu svæðum landsins.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt 2023.

Að sögn Hreins Ólafssonar, bónda í Helgadal, sem var leitarstjóri í leitunum, voru það ekki nema um 600 fjár, sem nú voru réttuð í Hafravatnsrétt, en undanfarin ár hafa það verið 1.500—2.000. Ástæða þess að það var svo fátt nú, er kuldinn sem verið hefur undanfarið, svo margt fé hafði sjálft skilað sér heim, enda um 10 sentimetra snjór á heiðinni á sunnudag, þegar smalað var. Fyrir 20 árum voru það 12—15.000 fjár sem réttuð voru í Hafravatnsrétt, svo að umskiptin hafa verið mikil, en fé hefur farið fækkandi ár frá ári. Eins og fyrr sagði var réttað í gær og tók það ekki langan tíma eins og gefur að skilja, þar sem féð var svo fátt. Til Hafravatnsréttar var smalað á sunnudaginn og taka leitirnar einn dag, en réttað er daginn eftir.“

Í Bændablaðinu 2017 er skemmtilega söguleg umfjöllun dr. Ólafs R. Dýrmundssonar undir fyrirsögninni „Reykjavík er eina höfuðborgin í heiminum með fjárhúsahverfi, afrétt og löggskilarétt„:

Ólafur R. Dýrmundsson

Dr. Ólafur R. Dýrmundsson. „Ég held að það blundi sveitamaður í fjölda þéttbýlisbúa,“ segir Ólafur Dýrmundsson sem heldur 12 kindur, og forystusauðinn Hring, í fjárhúsi við heimili sitt í Breiðholti. Ólafur býr efst í Seljahverfinu, þar sem hann og fjölskylda hans voru frumbyggjar á sínum tíma. Hluti hverfisins var byggður upp með stórum lóðum með það fyrir augum að íbúar gætu haldið hesta og jafnvel önnur dýr og þar hefur Ólafur stundað fjárbúskap, eða það sem hann kallar örbúskap.
„Þetta er horfið að mestu, þannig að ég er einn af þeim sem held þessu vakandi. En ég held að það sé talsvert af ungu fólki sem hefði áhuga á því að byggja þetta upp aftur en þá þarf að skipuleggja það.“

„Sauðfjárbúskapurinn í Reykjavík er nú eitt af því fáa í höfuðborginni sem enn minnir á sveitabúskap. Liðin eru 90 ár síðan sauðfjárbændur í Reykjavík, bæði á lögbýlum og utan þeirra, stofnuðu fyrsta félag fjáreigenda í þéttbýli hér á landi, Fjáreigendafélag Reykjavíkur.
Fénu hefur fækkað mikið og þeir borgarbúar sem eiga þar kindur eru orðnir fáir. Engu að síður hefur kindaeignin menningarlegt, félagslegt og uppeldislegt gildi.

Fjáreigendafélagið stofnað 2. desember 1927
Fjárborg
Fyrir 90 árum var töluverður fjárbúskapur í Reykjavík og vel fram yfir miðja liðna öld var fé haldið á ýmsum stöðum í öllum hverfum hennar.
Þéttbýlismyndunin var ör, sveitaumhverfi var að breytast í borgarumhverfi og á meðal helstu hagsmunamála fjárbænda var að koma betri skipan á fjallskil í samvinnu við nágrannasveitarfélögin og fá nægilega stóra girðingu til vor- og haustbeitar til þess að koma í veg fyrir árekstra við garð- og trjárækt í Reykjavík. Þetta kom m.a. skýrt fram á fundi fjáreigenda 15. nóvember 1927 þar sem grunnur var lagður að stofnun Fjáreigendafélags Reykjavíkur rúmum tveim vikum síðar, 2. desember.

Helsti forvígismaður og fyrsti formaður félagsins var Maggi Júl, Magnús læknir á Klömbrum. Þann vetur voru 123 skráðir fjáreigendur í Reykjavík með samtals 1357 kindur á fóðrum og var fjárflest á Bústöðum, 164 kindur, en næst komu Breiðholt, Kleppur og Klambrar með fjártölu á bilinu 50–80 vetrarfóðraðar kindur. Sögulegt hámark fjárfjölda í Reykjavík var um 1960, nær 4.000 fjár í eigu vel á 2. hundrað manns.
Nú eru fjárhjarðirnar í Reykjavík aðeins 12 að tölu og 250 kindur settar á vetur. Svipuð þróun hefur verið í kaupstöðum og kauptúnum um land allt, jafnvel alveg fjárlaust í nokkrum þeirra.

Fjárborg

Fjárborg var byggð 1959, þarna voru reist rúmlega 30 fjárhús sem stóðu til 1968, var þar sem nú er stórhýsi Tengis.

Breiðholtsgirðingin og Breiðholtsréttin
Breiðholtsrétt
Á meðal helstu verkefnanna fyrst eftir stofnun félagsins var að semja við bæjarstjórnina um Breiðholtsgirðinguna og Breiðholtsréttina, hvort tveggja mikil mannvirki ofan við Blesugróf, tekin í notkun haustið 1933. Girðingin og réttin komu að miklu gagni allt til haustsins 1965 þegar stórfelldar byggingaframkvæmdir hófust í Breiðholtinu. Þangað var safnað fjölda fjár á haustin, einnig af Seltjarnarnesi og úr Kópavogi, bæði rekið úr Hafravatnsrétt og bílflutt úr ýmsum útréttum í Landnámi Ingólfs Arnarsonar.

Ólafur Dýrmundsson

Ólafur Dýrmundsson – síðasti fjárbóndinn í Reykjavík.

Oft var mannmargt og ágæt réttastemning í Breiðholtsrétt, bæði við rúning á vorin og í réttum á haustin en einnig notuðu hestamenn hana töluvert sem áningarstað. Réttin var ferhyrnd, vel viðuð, með háa veggi og klædd refaneti.
Almenningurinn var mjög stór og var safnið rekið beint inn í hann yfir Vatnsveituveginn í norðvesturhorni Breiðholtsgirðingar, skammt frá þeim stað þar sem mislægu gatnamótin eru á Stekkjarbakka. Breiðholtsgirðingin, sem var vönduð og vel strengd net- og gaddavírsgirðing, var í grófum dráttum á því svæði sem Stekkir, Bakkar, Hólar, Berg og Fell standa á en sunnan girðingarinnar var ógirt land Breiðholtsjarðarinnar þar sem Skógar og Sel eru núna.

Afréttur Seltjarnarneshrepps hins forna smalaður vor og haust

Fossvallarétt

Fossvallarétt ofan Lækjarbotna.

Eftir að Fjáreigendafélag Reykjavíkur var stofnað fór það að annast öll fjallskil í umboði Reykjavíkur samkvæmt afréttarlögum en Reykjavík hefur nýtingarrétt til sauðfjárbeitar í afrétti Seltjarnarneshrepps hins forna ásamt Kópavogi og Seltjarnarnesi, að jöfnum hluta hvert sveitarfélag. Afrétturinn er allur innan lögsagnarumdæmis Kópavogs og telst nú þjóðlenda.
Þar sem sauðfjáreigendur á Seltjarnarnesi voru í Fjáreigendafélagi Reykjavíkur gætti það einnig hagsmuna þeirra en Nesið hefur verið fjárlaust síðan 1966. Seltjarnarnes heldur þó fullum beitarrétti í afréttinum og hefur alltaf átt góð samskipti við Fjáreigendafélag Reykjavíkur og Sauðfjáreigendafélag Kópavogs sem var stofnað 1957. Fram til þess tíma voru nokkrir fjárbændur í Kópavogi í Reyjavíkurfélaginu. Í Kópavogi er nú aðeins eftir ein hjörð, á Vatnsendabýlinu.

Fossvallarétt

Fossvallarétt.

Allt til 1987 var allur afrétturinn smalaður til rúnings og á haustin voru þrennar göngur til 1985, en síðan er gengið tvisvar haust hvert. Eftir að vörslugirðingar voru reistar 2001 gengur Reykjavíkur- og Kópavogsféð allt norðan Suðurlandsvegar, samtals um 300. Eftir að Árnakróksrétt við Selvatn var aflögð varð Hafravatnsrétt í Mosfellssveit lögskilarétt frá 1903–1985, bæði fyrir Mosfellsbæ og sveitarfélögin þrjú sem eiga aðild að afrétti Seltjarnarneshrepps hins forna.
Leiðir skildu haustið 1986 þegar Fossvallarétt við Lækjarbotna var gerð að lögskilarétt fyrir Reykjavík, Kópavog og Seltjarnarnes. Mikil og góð samvinna er við önnur sveitarfélög sem hafa afréttarnot í svokölluðu Norðurhólfi, þ.e.a.s. Mosfellsbæ, Þingvallasveit, Grafning og Ölfus, og skilamenn eru sendir í helstu útréttir, þó færri en áður þegar féð var margt og fór víða um Landnám Ingólfs Arnarsonar.

Sauðfjárstríðið í Reykjavík og Fjárborgirnar
Fjárrekstur
Á seinni hluta 7. áratugar liðinnar aldar urðu mikil átök á milli ráðamanna Reykjavíkur og fjáreigenda þar með Fjáreigendafélag Reykjavíkur í broddi fylkingar.
Reykjavík stækkaði ört, allt sem tengdist búskap var á undanhaldi og félagið fékk spildu sumarið 1959 undir fjárhúsabyggingar á afgirtri mýrarspildu upp af Blesugróf, í tungu sem myndaðist á milli Nýbýlavegar (nú Smiðjuvegur) og Breiðholtsbrautar (nú Reykjanesbraut). Nú stendur þar stórhýsi Tengis. Þarna voru reist rúmlega 30 fjárhús og stóð þessi byggð til haustsins 1968 þegar reynt var að útrýma sauðfjárbúskap í Reykjavík með markvissum hætti.

Almannadalur

Fjárborg í Almanndal.

Svikið hafði verið samkomulag um aðstöðu fyrir fjárhúsabyggð og beitarhólf í Hólmsheiði frá 1964 og reyndist þetta tímabil í sögu félagsins mjög erfitt.
Með seiglu sauðkindarinnar að leiðarljósi lét stjórn félagsins ekki bugast og tókst að ná samkomulagi haustið 1970 við Reykjavíkurborg um 5 hektara spildu fyrir allt að 40 hús upp af Almannadal, neðst í Hólmsheiðinni, á móts við Rauðhóla. Þá lauk stríðinu með farsælum hætti og strax um haustið risu fyrstu fjárhúsin.
Þegar fénu fækkaði fóru hestamenn að kaupa og byggja hús í hinni nýju Fjárborg. Nú eru flestir fjáreigendur líka með hesta. Þar eru nú mun fleiri hross en kindur.
Allt Reykjavíkurféð er þar til húsa utan ein hjörð en samtals telur vetrarfóðrað fé í Reykjavík 250 kindur í 12 hjörðum eins og áður hefur verið greint frá. Þar hafa orðið litlar breytingar á síðan um aldamót.

Landakaup í Hvassahrauni

Hvassahraun

Kind í Hvassahrauni.

Eftir fjárskiptin, sem fólu í sér allsherjar niðurskurð fjár í Reykjavík og öðrum sveitarfélögum í Landnámi Ingólfs Arnarsonar haustið 1951, fjölgaði fénu ört eftir að vestfirsku lömbin komu, flest haustið 1952 og nokkur 1954. Þá reyndi mikið á Fjáreigendafélag Reykjavíkur, bæði við fjárskiptin sjálf og einnig vegna þess að mun meira land vantaði til haustbeitar en tiltækt var í Breiðholtsgirðingunni þótt margir fjáreigendur væru að nýta afgirt tún og bletti á ýmsum stöðum í bænum. Reyndar heyjuðu þeir mikið á slíku landi á sumrin og notuðu jafnvel líka til beitar á vorin. Þá voru sinubrunar fátíðir.
Eftir miklar kannanir og umræður ákvað stjórnin 1957 að stofna félagið Sauðafell hf um kaup á rúmlega 2000 hektara landi í Hvassahrauni á Vatnsleysuströnd.
Fjáreigendafélagið átti og á enn rúmlega 45% hlut en erfingjar 25 einstakra fjáreigenda, sem keyptu misstóra hluti á sínum tíma, samtals tæplega 55%. Síðan 2004 hefur félagið verið skráð sem Sauðafell sf. Þetta víðáttumikla, ógirta land nýttu sumir reykvískir fjáreigendur til haustbeitar og á sauðfjárstríðsárunum byggðu tveir þeirra myndarleg fjárhús þar, fluttu þangað féð ásamt nokkrum öðrum, aðallega úr gömlu Fjárborg, og höfðu fé sitt þar líka á sumrin. Þeir síðustu sem það gerðu voru reyndar úr Kópavogi og Hafnarfirði, fram yfir 1990, þegar mest allur Reykjanesskaginn var beitarfriðaður.“

Hafravatnsrétt

Skilti við Hafravatnsrétt.

Skilti við Hafravatnsrétt stendur m.a.:
„Um aldamótin 1900 var Hafravatnsrétt hlaðin og leysti af hólmi fjárréttina í Árnakrók við Selvatn. Hingað var rekið fé af Mosfellsheiði og var hún skilarétt Mosfellinga fram eftir allri 20. öld.“

Í „Skrá um friðlýstar fornleifar 1990“ segir um Þormóðsdal: „Hafravatnsrétt, hin gamla skilarétt við austurenda Hafravatns. Skjal undirritað 14.07.1988. Þinglýst 20.07.1988.“

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Þormóðsdal – Tryggvi Einarsson Miðdal.
-Tíminn, 214. tbl. 26.09.1957, Hafravatnsrétt; rétt Reykjavíkurbarna – Guðni Þórðarson, bls. 7.
-Vísir, 218. tbl. 23.09.1964 – Í Hafravatnsrétt, bls. 3.
-Vísir, 215. tbl. 22.09.1965 – Hafravatnsrétt, bls. 3.
-Morgunblaðið, 208. tbl. 21.09.1982, Réttað í Hafravatnsrétt í síðasta sinn?, bls. 3.
-Bændablaðið, 23. tbl. 30.11.2017, Reykjavík er eina höfuðborgin í heiminum með fjárhúsahverfi, afrétt og löggskilarétt dr. Ólafur R. Dýrmundsson, bls. 36-37.
-Skrá um friðlýstar fornleifar 1990.
-https://www.ruv.is/frett/2020/07/07/sidasti-fjarbondinn-i-borginni-0

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt.

Hólmsheiði

Gengið var um vestanverða Hólmsheiði, austan og norðaustan við Rauðavatn. Á þessu svæði er m.a. finna búskapsleifar frá Hólmi, s.s. réttir, áletranir, fjárborgir og fjárhús auk sels (Grafarsel) frá bænum Gröf, sem var skammt sunnan við Keldur.

Áletrun í réttinni

Allt svæðið tilheyrði Gröf (Grafarholti 1703)., en jörðin átti þá land að Reynisvatni í austri, Hólmi í suðaustri, Elliðavatni í suðri, Árbæ í vestri og Keldum og Lambhaga í norðri. Þrátt fyrir mikla skógrækt ofan við Rauðavatn allt frá árinu 1899 og fram til þessa dags hafa minjarnar að mestu verið látnar í friði. Þó hefur mátt sjá hvar trjáplöntum hefur verið plantað í einstaka þeirra, en þær þá jafnan rifnar upp og plantað utan minjanna. Sumar minjanna eru merktar „Borgarminjar“, en þó ekki allar.
Byrjað var á því að ganga í rétt (borg) við gömlu þjóðleiðina austur fyrir fjall. Hún er í leirblandaðri hlíð, Borgarholti, mót suðri, skammt fyrir ofan leiðina, ómerkt. Réttin hefur verið hlaðin úr stórum steinum, sem enn standa – sumir hverjir. Allt svæðið er nú umlukið lúpínu svo mannvirkið hverfur jafnan þegar líða tekur á sumrin. Norðan í réttinni er flatur steinn. Á hann hefur verið markað ártalið 1818 og SG undir. Ofan við áletrunina er krossmark. Hvort sem „réttin“ hefur verið hlaðin til minningar um mann eða konu, sem þarna hefur látist, eða viðkomandi látist þarna í réttinni, er ekki gott að segja. Eflaust er einhvers staðar til lýsing á tilurð áletrunarinnar.
Þá var haldið upp með norðausturbrún skrógræktarinnar í sunnanverðum Úlfhildarbrekkum. Þar utan í henni (reyndar inni í henni nú orðið) er fjárhústóft (sauðatóft). Austan í henni, samfast, er heykuml. Hleðslur standa í því, en hleðslur fjárhússins standa grónar. Gafl hefur verið mót vestri. Frá þessum stað sést vel yfir Rauðavatnið.
Fjárhústóft utan í HólmsheiðiRauðavatn er í jökuldæld austan Seláss. Austasti hlutinn nefnist Austurvík. Suðurvík er syðst og Jaðar á millum. Fyrstu tilraunir með trjáplöntur voru m.a. gerðar við vatnið skömmu fyrir aldamótin 1900. Áhugamannafélag um skógrækt var stofnað árið 1901 og keypti svæði úr landi Grafarholts austan vatnsins. Tilraunir til skógræktar þar brugðust vonum manna og var hætt. Skógræktarfélag Íslands tók við resktrinum og árið 1946 Skógræktarfélag Reykjavíkur. Nokkrir sumarbústaðir er byggðir voru um og eftir stríðsárin stóðu við vatnið. Aðalskipulag Reykjavíkurborgar árið 1982 gerði ráð fyrir íbúðabyggð við vatnið en að loknum sveitarstjórnakosningum sama ár var hætt við þessa fyrirætlan. Ástæðan var ekki síst aðvörun jarðfræðinga um sprungubelti á þessu svæði. Árið 2005 hófst íbúðabyggð á svokölluðu Norðlingaholtssvæði, milli Rauðavatns og Elliðavatns, þannig að byggð færist æ nær vatninu. Ein stærsta prentsmiðja landsins stendur nú á „sprungusvæðinu“ sem og höfuðstöðvar áreiðanlegasta dagblaðs landsins.
NorðurljósasætiðSkógurinn við Rauðavatn er hluti að „Græna trefillinum“ svonefnda, sem er samheiti yfir skógræktar- og útivistarsvæði á útmörk sveitarfélaganna sjö á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkur, Mosfellsbæjar, Seltjarnarness, Kópavogs, Garðabæjar, Álftaness og Hafnarfjarðar. Á þessu svæði búa tæplega 230.000 íbúar eða rúm 60% þjóðarinnar. Samstarf skógræktar- og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við uppbyggingu útivistarsvæða innan og á jaðri byggðar á sér langa sögu. Má rekja hana allt aftur til ársins 1903 þegar gróðursetningin hófst skipulega við Rauðavatn. Hugmyndin um að líta á svæðið sem eina heild er þó mun yngri og er fyrst farið að nota hugtakið „Græni trefillinn“ upp úr 1990. Árið 1985 gaf Skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins út metnaðarfullt rit sem nefndist „Átak í trjárækt á
höfuðborgarsvæðinu“ sem innlegg í væntanlegt svæðisskipulag. Veturinn 1993 – 94 létu skógræktarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vinna drög að sameiginlegum markmiðum með skógrækt í upplandi svæðisins. Jafnframt voru unnin frumdrög að samræmdu umferðarkerfi á svæðinu
jafnt fyrir gangandi, hjólandi, ríðandi sem akandi útivistarfólk. 

Sumarhúsið

Með þessu frumkvæði vildu skógræktarfélögin leggja fram drög að svæðisskipulagi útivistar og skógræktar í þeirri von að tillögurnar yrðu fléttaðar inn í aðalskipulags- og framkvæmdaáætlun viðkomandi sveitarfélags. Árið 2003 var undirritaður formlegur samningur um Græna trefilinn milli
skógræktarfélaganna. Við gerð Svæðisskipulags fyrir höfuðborgarsvæðið 2001-20241 var Græni trefillinn staðfestur í skipulagi. Græni trefillinn hefur einnig verið tekinn inn í aðalskipulag einstakra sveitarfélaga. Ekki hefur þó enn verið unnið skipulega að því að tengja svæðin saman eða formgera framkvæmd þessa verkefnis.
Að öllum líkindum var fjárhúsið (sauðahúsið) frá Hólmi. Þjóðjörðin Hólmur fær eftirfarandi umsögn í fasteignamatinu 1916-1918: „Land mikið og gott, hagsamt, skjólótt, kvistlendi + hrís á nokkru (Hólmsheiði ekki hér með talin, sjá Mosf.sv.). Kostir: … (nú leigð fyrir slægjur frá Elliðav.,Rauðh.). … Ath. Beitarland, nefnt Hólmsheiði, er liggur í Mosfellsveit (norðan Bugðu) en fylgir nú Hólmi, er metið sérstaklega …“
Í sömu heimild segir um Hólmsheiði: „Beitarland, sunnan við Reynisvatnsland (og talið af því tekið), milli Geitháls og Grafarholtslanda (norðan við ána Bugðu), fylgir nú þjóðjörðinni Hólmi í Seltjarnarnesshreppi og notað þaðan til beitar; má stundum slá vellisbletti í því. Fremur hagsælt og allgott sauðland. Með því áin, Bugða, er talin skilja sveitirnar, telzt land þetta í Mosfellssveit.“
Skammt norðaustar í heiðinni, uppi á ísaldarsorfnu klapparholti Úlfhildarbrekkna, einnig fast við skógræktarreit, er önnur rétt (borg). Hún hefur verið svipuð að stærð og sú fyrrnefnda og lega hennar er svipuð. Ástæðan fyrir tilvist réttarinnar þarna er gömul leið, sem lá þarna með holtinu til austurs, áleiðis upp að Lyklafelli. Með því að fara þessa leið, norðan við Rauðavatn, hafa ferðalangar komist hjá því að ösla mýrar neðra því þeir hafa fljótlega komist í hæð, sem hefur haldist að mestu langleiðina að Hellisskarði, eða  undirhlíðum Hengilsins ef farið hefur í þá áttina eftir gamalli þjóðleið er þar liggur. Ekki var að sjá áletrun á steini í þessari rétt.
GrafarselÁ holti skammt sunnar er líkt og skorsteinn frá braggabyggð, sem var þarna í heiðinni á stríðsárunum. Þegar nánar var að gætt kom í ljós stuttur hlaðinn himnastigi eða hátt hásæti. Þar við var áletrun. „Norðurljósasæti – Erla Þórarinsdóttir, með aðstoð unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur – Landlist við Rauðavatn 2000“. Kunnugir sögðu að listaverkið hefði verið liður í menningarverkefni Reykjavíkurborgar. 17 myndlistarmenn unnu að sýningunni með aðstoð Vinnuskólans. Um er að ræða um 20 listaverk, sem komið var upp við Rauðavatn og á Hólmsheiði. Hvert þeirra er merkt með nafni og höfundar getið. Auk Norðurljósasætisins (nr. 16) er annað (nr. 15) ofan við Grafarsel. Það ber nafnið „Sumarhús“ og er eftir Borghildi Óskarsdóttur. Um verkið segir m.a.: „Sumarhús er línuteikning, náttúran/heimurinn er utan og innan línunnar. „Sumarhús það er heimurinn“ sagði Bjartur í Sumarhúsum.“ Fjárborg suðaustan Rauðavatns
Í Mbl frá árinu 200 segir m.a. um þessa list við Rauðavatn: „Land List er sýning á verkum allt að tuttugu myndlistarmanna sem verður opnuð við Rauðavatn þann 16. júlí.Það eru margir vel þekktir myndlistarmenn taka þátt í sýningunni, sem er framlag Vinnuskóla Reykjavíkur til dagskrár menningarborgarinnar. Skólinn fékk Samband íslenskra myndlistarmanna til að aðstoða við skipulagningu hennar. Hugtakið landlist (land art) er notað um listaverk sem unnin eru úti í náttúrunni og úr náttúrunni. Framlag Vinnuskólans felst m.a. í að 16 ára unglingar í sumarvinnu aðstoða höfundana við að útfæra verkin. Myndlistarmenn sendu inn hugmyndir að verkum sem sýningarnefnd valdi úr. Við val á tillögum til útfærslu var ekki eingöngu haft í huga listrænt gildi verkanna, heldur einnig að þau tækju mið af staðháttum og hentuðu til útfærslu fyrir nemendur skólans. Nú þegar er lokið við gerð tveggja verka, en hægt er að fylgjast með listamönnunum vinna með aðstoð unglinganna að útfærslu annarra frá 13. júní og fram að opnunardegi.“
Listaverkin eru unnin voru úti í náttúrunni og með náttúruna sem efnivið.
Mörk lögbýla árið 1703 - grátt er GröfSkammt sunnan við listaverkið „Sumarhús“ er Grafarsel í Selbrekkum. Ofan þess er Selholt. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (1703) er m.a. fjallað um jörðina Gröf, sem þá tilheyrði Mosfellssveit. Talsverðar kvaðir hafa verið á jörðinni sbr.: „Kvaðir eru mannslán, hestlán bæði til alþingis og annarstaðar, jafnvel stundum norður í land og ýmsar áttir, og þetta stundum til samans á einu ári. Dagslættir tveir. Hríshestar tveir. Móhestar einn eður tveir. Torfskurður. Hest til að flytja lax úr Elliðaám. Skipaferðir. Timbur í Þingvallaskóg að sækja. Húsastörf á Bessastöðum. Fóður mikið eður lítið; allar þessar kvaðir so undir komnar og með slíkum skilorðum sem áður er sagt. Mesta fóður það menn muna var hestur útgjörður um allan veturinn, sem ekki þreifst og drapst frá heyjum um sumarmálaskeið, hann mátti bóndinn betala Jóhann Klein, og í tíð Heidemanns gamalt naut.
Engjar mjög litlar. Kvikfjenaður vi kýr, i kvíka tvævetur, viii ær með lömbum, ii hestar, i hros.“ Þá segir að „selstöðu á jörðin í hemalandi, sem nauðsynlegt er, því jörðin stendur á horni landsins, en er mjög landljett heima.“
Þann 30. maí 1987 var Grafarselið friðlýst (þinglýst 26.06.’87). Það stendur á fallegum stað undir Selbrekkum norðaustan austurenda Rauðavatns. Selbrekkur eru sunnan Grafarheiði. Umhverfið er dæmigert fyrir sel er lögðust hvað síðast af á Reykjanesskaganum; grónar en greinilegar tóftir og grasvænar brekkur umhverfis. Tóftirnar, sem eru þrjú rými, þ.a. tvö samtengd, standa í skjóli vestan undir brekkunum, í skjóli fyrir austanáttinni. Skammt neðan þeirra er hóll, sem líklega geymir kvína. Gamall uppþornaður lækjarfarvegur er norðan við selið og hefur hann sennilega verið ástæða staðsetningar þess þarna í brekkunum.

Göngusvæðið

Selstæðið er mjög fallegt og á góðum stað. Það má eiginlega segja að það sé komið inn í borgina því byggðin hefur nánast teygt sig upp að því. Einmitt þess vegna eru staðsetningin og tóftirnar sérstakar. Þá eru þær og ágætur fulltrúi seljanna (af þeim [250] sem skoðuð hafa verið) á Reykjanesskaganum. Það er miðlungsstórt af seli að vera. Stekk er hins vegar ekki að sjá í nágrenni við selstöðuna.
Bæði hefur trjám verið plantað nálægt selinu og birkið hefur náð að vaxa upp í brekkunum.
Fjárborg er á holti suðaustan við Rauðavatn. Leiðigarður liggur frá henni til suðurs. Búið er að planta trjám yfir hann að hluta.
Á móhól skammt sunnan við Rauðavatn er önnur fjárborg. Vel sést móta fyrir henni á hólnum. Hún hefur verið gerð úr nokkuð stórum steinum neðst, en síðan hefur hún verið tyrfð. Borgin er á fallegum stað, en líklega vita fáir, sem þarna eiga leið um, hvaða mannvirki þetta gæti hafa verið.

 

Hólmsheiði

Hólmsheiði.

Sæfinnur

Raunasaga „Sæfinns með sextán skó“ hefur þegar verið skráð.
Sæfinnur Hannesson, þekktastur undir nafninu Sæfinnur með sextán skó, var einn af vatnsberum í Reykjavík á seinni hluta nítjándu aldar. Hann var hinn ókrýndi konungur þeirrar stéttar þótt ekki hafi það verið glæsimennsSæfinnurka, sem hóf nafn hans upp úr hópi hinna nafnlausu og nafngetnu vatnsbera því hann þótti [einfaldlega] óglæsilegastur þeirra allra.
Sæfinnur var, sem fyrr sagði, einn af vatnsberum í Reykjavík á seinni hluta nítjándu aldar. Einleikar hans, geðprýði, ráðvendni, kurteisi og gott hjartalag, lyftu honum í minningunni á hærra stig en nokkrum öðrum úr hans stétt. Saga hans er þó átakanleg raunasaga, þótt samtíð hans hefði engan skilning á því. Það var ekki fyrr en hann hvarf af sjónarsviðinu og brunnurinn í Aðalstræti hafði verið byrgður, að augu manna opnuðust fyrir þeim mannlega harmleik sem saga hans geymir.

Sæfinnur fæddist að Björk í Flóa hinn 1. júní 1826, fyrsta barn hjónanna Guðlaugar Sæfinnsdóttur og Hannesar Guðmundssonar. Hann ólst upp í föðurhúsum til 18 ára aldurs.

Sæfinnur

Sæfinnur Hannesson.

Samkvæmt lýsingu og frásögnum manna, sem mundu Sæfinn ungan, þótti hann bera af öðrum mönnum um gjörvuleik og líkamsfegurð. Hann var og talinn vel greindur og afburðamaður til allra verka. En það voru ekki einu kostir hans því geðgóður var hann og prúður í allri framgöngu, reglumaður og neytti hvorki áfengis né tóbaks og því hélt hann alla ævi. Hann hafði alist upp við lítil efni og einsett sér að brjótast upp úr fátæktinni og byrjaði því ungur að temja sér sparsemi og nýtni. Ekki var hann þó öfundsjúkur eða ágjarn á eigur annarra, heldur var frómlyndi hans og ráðvendni viðbrugðið.

Margar meyjar hafa eflaust litið þennan unga og efnilega mann hýru auga. Fjöllyndi átti hann þó ekki til, en var tilfinninganæmur og bar heitt hjarta í brjósti. Svo fór að hann felldi ástarhug til ungrar og glæsilegrar stúlku og hún játaði fyrir honum að hún elskaði hann líka og bundust þau ævilöngum trúnaðarheitum. Framtíðin virtist því brosa við björt og fögur og Sæfinnur lagði nú alla stund á að búa svo í haginn, að þau gætu stofnað eigið heimili. Ekki er vitað hversu lengi þessi sæli draumur um fullkomna hamingju stóð, en Sæfinnur fékk að reyna, „að svo er friður kvinna, þeirra er flátt hyggja, sem í byr óðum beiti stjórnlausu“.

Aðalstræti 1836

Aðalstræti 1836. Þangað sótti fólk vatn í Ingólfsbrunn.

Ekki er vitað hverjar orsakir lágu til þess að unnustan sleit tryggð við hann, en með þeirri harmastund urðu alger þáttaskil í lífi hans. Um þetta segir svo frá í frásögn Árna Óla í ritverkinu Reykjavík fyrri tíma:

Flóahreppur

Flóahreppur – kort.

„Hann tók sér þetta svo nærri, að hann varð ekki mönnum sinnandi. Myrkur grúfði yfir sál hans og lamaði hið innra líf. Og þegar hann vaknaði að lokum af þessari martröð, þá var hann orðinn annar maður. Hinn hrausti og gjörvulegi æskumaður var horfinn, en í hans stað kominn annar Sæfinnur, gamall um aldur fram og andlega bilaður. Hann var að vísu ekki geðveikur í hinni venjulegu merkingu þess orðs, en hann hafði glatað hinni heilbrigðu skynsemi og lifði nú og hrærðist í öðrum heimi en samtíðarmenn hans. Hann gat ekki trúað því, að hann hefði misst stúlkuna sína. Hann var alltaf viss um, að hún myndi koma aftur til sín og þá yrði allt gott aftur. Og þess vegna hélt hann áfram að safna til þess að geta tekið vel á móti henni og gert henni yndislegt heimili. En allt var það ímyndun ein og sjálfsblekking, sjúkleg sjálfsblekking. Að öðru leyti hafði hann ekki tapað gáfum sínum.“

Sæfinnur
Margt var af einkennilegu fólki í Reykjavík á ofanverðri nítjándu öld en þótti þó kasta tólfunum er Sæfinnur bættist í hópinn. Í fyrstu vildu götustrákar gera sér dælt við hann, erta hann og stríða eins og öðrum fáráðlingum í bænum, en gáfust fljótt upp á því. Sæfinnur skipti aldrei skapi og tók öllum hrekkjum og strákapörum með mesta rólyndi og jafnaðargeði, en hélt sínum háttum eins og ekkert hefði í skorist.

Glasgow

Vesturgata 5 a, stórhýsið Glasgow, í Reykjavík, um 1885.
Sæfinnur bjó í útihúsi við Glasgow-verslunina þangað sem hann dró að ýmsa muni. Hann vildi vera viðbúinn ef ástin hans kæmi til baka og búa henni heimili. Þegar Þórður Guðmundsson frá Engey keypti húsið vildi hann koma Sæfinni burt enda þótti lítill þrifnaður af vatnsberanum og slæman þef leggja frá vistarveru hans. Sæfinnur þráaðist við og fór svo að lokum að Þórður kærði hann fyrir Halldóri Daníelssyni bæjarfógeta. Halldór fékk nokkra menn til að rífa niður ruslahauginn í klefa Sæfinns og flytja bústang hans niður í sjó. Hann brotnaði endanlega þegar fleti hans og eigum var hent í nærliggjandi fjöru 10. júlí 1890. Eftir það sást til hans í fjörunni við að reyna að tína saman leifar af dóti sínu enn með hugann við að unnustan myndi koma til hans. Sæfinnur lést árið 1896.

Sá var ljóður á ráði Sæfinns að hann vildi allt gera til að eignast peninga og notfærðu menn sér það til að henda gaman af honum. Sæfinni græddist með þessum hætti nokkuð fé og byrjaði einnig að draga björg í bú með öðrum hætti. Hann tíndi upp af götunum öll bréfsnifsi sem hann fann og druslur, glerbrot og flöskur. Og einatt mátti sjá hann niðri í fjöru þar sem hann rótaði í drasli og hirti, hvort heldur voru slitin föt eða skóræflar, skeljar, flöskur og jafnvel þara bar hann heim til sín. Þessari söfnun hélt hann alla ævi. En til hvers var hann að safna? Hjálmar Sigurðsson segir svo frá í blaðinu Íslandi 1898:

„Enn þráir hann bjarteygu, ljóshærðu meyna, og enn vonast hann eftir að hún muni koma á hverju andartaki og dveljast hjá sér það sem eftir er og aldrei framar við sig skilja. Hann hefur hvorki látið kemba né skera hár sitt frá því er hann sá hana síðast og hvorki kambar né eggverkfæri eiga að fá að snerta það fyrr en hún kemur með gullkambinn og gullskærin, því hún ein á hvert hár á höfði hans. Heima í höll sinni á hann stóra hrúgu af alls konar gersemum. Þar eru bjarnarfeldir og bjórskinn, safali og silkidúkar, pell og purpuri, gull og gimsteinar og alls konar kjörgripir og fágæti, sem nöfnum tjáir að nefna. Þessu hefur hann safnað saman um mörg ár, og sí og æ bætt við einhverju nýju á degi hverjum. Þetta má enginn hreyfa, enginn skoða, þangað til hún kemur, drottning hans, sem hann hefur vonast eftir á hverjum degi nú um mörg ár, því handa henni einni hefur hann safnað, utan á hana eina ætlar hann að hlaða öllum þessum gersemum.“….

Þessi var draumheimur sá, er Sæfinnur lifði og hrærðist í.

Sæfinnur

Melbær í Reykjavík um 1900. Talið er að bærinn hafi verið fyrirmynd Laxness af Brekkukoti.

Með hverju árinu sem leið gerðist Sæfinnur ótrúlegri ásýndum. Enginn slíkur tötradúði hefur sézt hér í bæ fyrr né síðar. Maður, sem þekkti hann, lýsti honum þannig:

„Hann hefur síðan hött á höfði. Hárið hangir í flókaberði dökkjarpt niður um herðar, og skeggið niður á bringu, allt í eintómum flygsum. Hann er í þremur eða fjórum vestum, jafn mörgum brókum, jökkum, frökkum eða úlpum, með fyrnin öll af skóm á fótunum, sem allt er margslitið, marggötótt og margstagað og hanga tuskurnar alls staðar út úr flíkum þessum. Um mjóaleggina eru buxurnar margvafðar að fótunum með samanhnýttum snærisspottum.“

Sæfinnur

Vatnsberarnir Gvendur Vísir og Álfrún.

Sæfinnur bjó lengst af í svonefndu Glasgow-húsi og eftir að Þórður Guðmundsson frá Engey keypti húsið vildi hann koma Sæfinni burt enda þótti lítill þrifnaður að vatnsberanum og slæman þef leggja frá vistarveru hans. Sæfinnur þráaðist við og fór svo að lokum að Þórður kærði hann fyrir Halldóri Daníelssyni bæjarfógeta, sem fékk nokkra menn til að rífa niður ruslahauginn í klefa Sæfinns og flytja allt draslið niður í sjó. Er menn höfðu verið að um stund datt spesía út úr tusku og er betur var að gáð kom í ljós að silfur og gull var víðs vegar um ruslabinginn. Mörg ár eftir þetta voru strákar að finna peninga í fjörunni á þeim stað er rusli Sæfinns var fleygt.

Glasgow

Horft til vesturs úr fjörunni hjá Grófinni um 1890. Stóra húsið vinstra megin er Glasgow. Við hliðin á er Sjóbúð sem er reisulegt timburhús byggt var 1859 í stað torfbæjar með sama nafni. Hægra megin sjást tómthúsbýli norðan við Hlíðarhúsastíg, núverandi Vesturgötu. Á þessu svæði voru allnokkrir torfbæir um miðja 19. öld. Þeir voru auk Sjóbúðar, Hóll, Helluland, Merkisteinn, Klettakot og Jafetsbær. Dúkskot og Gróubær voru á sömu slóðum við Garðastræti.

Þegar Sæfinnur kom heim að loknum vatnsburði þennan dag þótti honum að vonum köld aðkoman. Hann horfði nokkra stund á hervirkið og gekk svo þegjandi burt. Er sagt að hann hafi komið við í Fischersbúð raunamæddur mjög og haft á orði að einkennilegt réttlæti ríkti hér á landi, að eignir manna skyldu ekki vera friðhelgar. Meira sagði hann ekki, en fór niður í fjöru og fór að tína saman það, er hann náði af drasli sínu.

Í frásögn Árna Óla segir svo frá þessum atburði: „En þótt Sæfinnur segði fátt, var þetta annað stóra áfallið, er hann varð fyrir í lífinu. Áður hafði hann talið sig ríkan, en nú fannst honum hann vera orðinn öreigi. Heimurinn var verri en hann hafði haldið. Menn, sem hann hafði aldrei sagt eitt styggðaryrði við, né gert á hluta þeirra, höfðu ráðist inn í helgidóm hans, allsnægtabúrið, og hagað sér eins og og verstu ræningjar, sópað öllu burt og fleygt því í sjóinn. Hann talaði ekki um þetta við neinn, því að geðprýðin var hin sama og endranær. En eitthvað brast í sál hans – héðan af gat han ekki tekið eins vel á móti stúlkunni sinni og hann hafði ætlað. Og hann varð hrörlegri og rolulegri með hverjum deginum sem leið.“
Sæfinnur náði sér aldrei eftir þetta, heilsunni hnignaði smám saman og lést hann 5. febrúar 1896 tæplega sjötugur að aldri.

Reykjavík

Séð til norðurs frá Tjörninni á dögum vatnsberanna. Dómkirkjan, Lærði skólinn nú MR og stjórnarráðshúsið eru á sínum stað. Dómkirkjan í Reykjavík var vígð árið 1796 og var fyrsta byggingin sem reist var sérstaklega með tilliti til þess að Reykjavík skyldi verða höfuðstaður landsins.

Neðst við Vesturgötuna á horni Aðalstrætis og Vesturgötu og upp að Garðastræti og einnig inn í Suðurgötu bjó um aldamótin 1900 fólk sem sumt hvert gekk nokkuð utan alfaraleiðar. Var eftirtektarvert fyrir ýmissa hluta sakir. Framkomu, klæðaburð og öðru sem daglegu líferni horfir. Oft átti þetta fólk við einhverskonar veikindi að stríða sem almenningur bar takmarkað skynbragð á. Þetta fólk vakti athygli. Stundum fundu rithöfundar og listamenn í því fyrirmyndir til verka sinna.

Þegar Halldór Laxnes skrifaði Brekkukotsannál mun hann hafa horft til fólks sem bjó þar sem nú er neðsti hluti Suðurgötu og tengdist einnig neðsta hluta Vesturgötunnar. Magnús í Melkoti er talin fyrirmynd að Birni í Brekkukoti en kona hans var ömmusystir Halldórs. Melkots er ekki getið í heimildum frá 1703 en finna má fyrstu heimildir um það á síðari hluta 18. aldar. Melkot var rifið árið 1915 og mun hafa verið búið þar í um 200 ár.

Ingólfsbrunnur

Ingólfsbrunnur.

Að minnsta kosti ein önnur persóna í Brekkukotsannál mun eiga upptök sín neðst í gamla Vesturbænum á svæðinu á milli Hlíðarhúsa og Aðalstrætis. Í Dúkskoti var til húsa eldri maður hjá Jóni hafnsögumanni sem þar bjó. Að sögn hávaxinn en nokkuð lotinn í herðum með sítt grátt hár og gisið kragaskegg. Útlit hans vakti athygli því hann var jafnan klæddur hálfsíðum klæðisfrakka en ekki vaðmálsflík eins og algengast var með gylltum hnöppum. Var nokkuð keikur í göngulagi og ljóst að hann fann talsvert til sín. Þessi roskni maður kallaði sig jafnan Hogesen en hét Kristján Hákonarson. Hann kvaðst hafa fengið Hogesensnafnið og frakkann hjá útendum skipstjóra vegna starfs síns sem hafnsögumaður við að koma skipi hans heilu í höfn. Kristján mun jafnan hafa verið drjúgur yfir þessu afreki þótt óvíst megi telja að hann hafði unnið til þess á nokkurn hátt. Fremur var talið að erlendir menn hefði gefið honum frakkann og uppnefnd hann á dönsku til að draga dár að honum.

Eiríkur á Brúnum

Eiríkur Ólafsson (1823-1900), Brúnum undir Eyjafjöllum og Mormóni Utha.

Fullvíst er talið að Kristján sé fyrirmynd Halldórs Laxness að Kaftein Hogesen í Brekkukotsannál. Í skáldlegum meðförum Laxness hafði Hogesen hlotið nokkra upphefð. Hann hafði verið leiðsögumaður danskra sjómælingamanna á Breiðafirði stað þangað sem hann hafði trúlega aldrei komið. Í Brekkukotsannál er einnig sagt frá því að Hogesen hafi farið á hverjum nýársdegi upp í Næpu á fund landshöfðingja til að fara með bænaskrá fyrir Íslands hönd og þiggja staup af brennivíni. Landshöfðingi á þá að hafa sagt við hann að hann væri nú eini íslenski sjóherinn.

Fleiri kynlegir kvistir bjuggu á þessum slóðum. Einn þeirra var Eiríkur Ólafsson oftast kallaður Eiríkur frá Brúnum. Hann bjó að Brúnum undir Eyjafjöllum í 23 ár en fór þá til Kaupmannahafnar. Eiríkur fór síðan til Utah í Bandaríkjunum árið 1881 og dvaldi þar í átta ár. Gerðist mormóni en gekk síðan af trúnni. Kom heim og dvaldist í Reykjavík til aldamótaársins 1900 er hann lést.

Laxnes

Halldór Laxnes við Brúnir.

Eiríkur er fyrirmynd Halldórs Laxness að Steinari í Hlíðum undir Steinahlíðum í bókinni Paradísarheimt. Þórbergur Þórðarson fjallaði einnig um ævi Eiríks í kaflanum Bókfell aldanna. Eiríkur hafði einu sinni verið íbúi í Bergshúsi. Bergshús var aðeins ofar í reykvísku byggðinni. Það stóð þar sem Bergstaðastræti og Skólavörðustígur mætast. Alexíus Árnason lögregluþjónn reisti húsið í kringum 1865 en það var lengst kennt við Berg Þorleifsson söðlasmið sem átti það í næstum hálfa öld. Þar var Þórbergur leigjandi um tíma og mun hafa kynnst Eiríki.

Ástarsorgin mikla
SæfinnurSæfinnur með sextán skó var þekktastur vatnsberanna, en bugaður af ástarsorg.
Fyrir daga vatnsveitu í Reykjavík var hópur sem nefndist vatnsberar. Þeir höfðu þann starfa að sækja vatn í svokallaða vatnspósta sem settir höfðu verið upp við brunna. Einn þeirra var nefndur Ingólfsbrunnur við Aðalstræti. Ingólfsbrunnur var á milli húsanna Aðalstrætis 7 og 9 og var eitt aðalvatnsból Reykjavíkur um langt skeið. Í liði vatnsberanna var margt sérkennilegt fólk karlar og konur. Sumt af þessu fólki var bæði vanheilt og þroskaskert og hafði ýmsa kæki, sem gerði það öðruvísi en aðra. Flestir vatnsberarnir voru nefndir styttum nöfnum og án föðurnafns, en höfðu í þess stað auknefni eða kenningarnöfn. Sæfinnur Hannesson eða Sæfinnur með sextán skó var einn þeirra þekktastur.

Sæfinnur lést árið 1896.

Loff Malakoff

Þórður Árnason

Þórður malakoff.

Þórður Árnason var einn af þeim kynlegu kvistum sem héldu til á mörkum Mið- og Vesturbæjarins. Hann var jafnan auðkenndur með heitinu Almala. Margar sögur gengu manna á meðal um afreksverk hans á blómaskeiði ævinnar. Hann var nokkuð ölkær og tíður gestur í þeirri veitingastofu gömlu húsanna við Aðalstræti sem almenningur kallaði Svínastíu. Hugmyndir um vínbann á Íslandi mun eiga rætur til drykkjusiða landans á þessari alræmdu krá. Árið 1904 ákvað bæjarstjórnin í Reykjavík að Læknaskólinn fengi að nota lík fátæklinga í bænum til krufninga í kennslu. Vandræði urðu þó fljótt að fá lík til krufningar. Fólk vildi ekki leyfa læknavísindunum að krukka í ástvini sína látna. Læknar gerðu þá samning við Þórð um að þeir fengju að kryfja hann að honum látnum í staðinn fyrir brennivínsflösku. Dag nokkurn fréttist af Þórði dauðum í verslun í bænum. Læknar þustu niður eftir til að sækja hann. En þá reis hann upp. Hafði bara verið brennivínsdauður. Þá orti Björn M. Ólsen síðar rektor Menntaskólans kvæðið Loff Malakoff. Þórður dó 1897 og var krufinn í líkhúsinu. Fyrsta erindi kvæðis Björns er á þessa leið.

Þótt deyi aðrir dánumenn,
loff- Malakoff,
hann Þórður gamli þraukar enn.

Loff Malakoff – mala,
lifir enn hann Malakoff
þótt læknar vilji flensa’ í

Malakoff, koff, koff
Þá lifir Malakoff,
þá lifir Malakoff.

Kvæðið varð eins konar dægurlagavísa. Auknefni Þórðar breyttist í munni manna. Hann síðan nefndur: Þórður Malakoff. Kvæðið er með sama lagi og danska skopvísan: „Malabrock er död i Krigen”. Mun Malabrock þessi hafa verið pólskur eða rússneskur herforingi. Sagan segir að læknanemar hafi verið hátt á aðra viku að fást við skrokkinn af Þórði. Vínföng munu hafa verið borin upp í Líkhús og læknanemar héldu ræður yfir líkamspörtunum á allt að sjö tungumálum. Ingólfur Gíslason læknir segir í minningum sínum. „Við Jónas Kristjánsson kistulögðum svo leifar Þórðar Malakoff og vonum að hann rísi upp heill á himnum þótt hann væri nokkuð laus í böndunum er við sáum hann síðast.“

Þórður Árnason

Þórður Árnason.

Fólk af erlendum uppruna er ekki nýlunda hér á landi. Við Hlíðarhúsastíginn sem er neðsti hluti Vesturgötu var eitt af allra hrörlegustu kotunum í Vesturbænum og hét Helluland. Í þessu hreysi átti heima kona sem var kölluð Rómanía. Ekki er vitað til að hún hafi átt eiginmann eða börn. Hún var sögð nokkuð gild, lág vexti, dálítið lotin í herðum og með mikið hrafnsvart hár sem hélt litnum þrátt fyrir aldurinn. Augun voru móbrún og tinnuhvöss, og eins og gneistaði af þeim ef hún skipti skapi. Andlitið var kringluleitt og smáhrukkótt. Andlitslitur hennar var gulbrúnn. Hún gat tæpast verið af norrænu bergi brotin. Hún þótti skaphörð og óvægin í orðum og athöfnum. Margir trúðu því að Rómanía væri göldrótt og að bölbænir hennar yrðu að áhrínsorðum. Á þessum tíma kom önnur kona við og við í bæinn. Hún var kölluð Manga dauðablóð. Hún mun hafa verið á fimmtugsaldri með tinnusvart hár og skolbrúnt andlit. Ónorræn að útliti. Manga var í meðallagi á vöxt, beinvaxin og bar höfuðið hátt. Hún var skartgjörn. Hafði mikið dálæti á skærum litum, og notaði því marglitan höfuðklút, grænt slifsi og rauða svuntu. Hún mun hafa átt einhverja kunningja í bænum, sem hún heimsótti, því að aldrei sníkti hún í húsum eða á götum úti. Af lýsingum á þessum konum má draga þá ályktun að þær hafi verið af ættum rómafólks sem stundum hefur verið kallað sígaunar hér á landi. Rómanir hafa verið flökkuþjóð. Trúlega hafa menn af ættum rómana komið hingað til lands – hugsanlega með frönskum fiskiskipum og náð að kasta sæði í fróan veg á meðan skipin lágu við festu.

Hlíðarhús

Hlíðarhúsabæirnir um 1870 samkvæmt málverki Jóns Helgasonar biskups. Hlíðarhúsabæirnir voru: Norðurbær, Vesturbær, Sund, Skáli, Miðbær, Jónsbær og Austurbær. Allir þessir bæir nema Vesturbærinn voru rifnir fyrir aldamótin 1900. Hlíðarhús stóðu þar sem nú er Vesturgata 24 og 26 og skáhallt niður að gatnamótum Ægisgötu og Nýlendugötu.

Í næstvestasta Hlíðarhúsabænum sem var kallaður Sund bjuggu saman Gvendur Vísir og Álfrún vatnskerling. Vísis nafnið fékk Guðmundur vegna þess að hann var um tíma aðstoðarmaður hjá Skotfélagi Reykjavíkur. Hann þótti seinlátur og lítt vinnugefinn. Álfrún var grannholda og fremur lág vexti, kvik á fæti og hin mesta áhugamanneskja í starfi sínu. Hún stundaði vatnsburð frá Prentsmiðjupóstinum til margra heimila í Miðbænum og Grjótaþorpinu. Hún naut stundum aðstoðar Guðmundar þegar annasamt var. Gekk oftast á undan honum og leit oft við til þess að hvetja hann áfram. Hún kunni illa seinagangi hans. Ekki er vitað hvert sambúðarform þeirra var en ekki voru það eintóm ástarorð sem hún talaði til Guðmundar. Þau dugðu þó illa því að maðurinn var hinn mesti letingi.

Símon Dalaskáld

Símon Dalaskáld

Símon Dalaskáld og Gvendur dúllari.

Símon Dalaskáld svaraði yfirleitt fyrir sig þegar á hann var deilt. Hann freistaðist meira að segja til að svara eigin andlátsfregn.

Símon dalaskáld

Símon Björnsson Dalaskáld (1844-1916) – íslenskt skáld og förumaður á 19. og 20. öld.

Ýmsir fleiri sérlundaðir einstaklingar áttu sér dvalarstað í Rekjavík um lengri eða skemmri tíma. Einn þeirra var Símon Bjarnason. Hann tók sér snemma kenningarnafnið Dalaskáld og kenndi sig við Skagafjarðardali. Hann var fæddur 1844 í Blönduhlíð og lifði til 1916. Símon var elstur af 13 systkinum. Hann fór að heiman fljótlega eftir fermingu og var í vinnumennsku í Skagafjarðardölum. Hann giftist og átti börn sem öll dóu ung nema eitt. Hann fékkst um tíma við búhokur en var þó mest í ferðalögum. Hann fór um allt land og seldi ritverk sín og fleira. Hann var ekki umrenningur eða betlari. Miklu fremur skemmtikraftur sem ferðaðist um og stytti fólki stundir. Hann hafði ekki fastan gistingarstað í Reykjavík en átti þó víða innhlaup hjá fornum kunningjum, eftir því sem honum sjálfum sagðist frá. Margar sögur eru til af Símoni. Ein er sú að eitt sinn mun hann hafa komið að morgni dags í Landsprentsmiðjuna við Aðalstræti þræl timbraður. Hann sagðist hafa skotist inn í hlöðuna hjá blessuninni honum séra Þórhalli í Laufási. Oft minntist hann á góðan viðurgerning við sig á Laufásheimilinu. Þennan morgunn þótti prentsmiðjumönnum Símon vera með einkennilegan trefil um hálsinn og spurðu hann hvar hann hefði fengið hann. Sagðist hann hafa gripið hann einhvers staðar þar sem hann hefði komið um kvöldið því að sér hefði verið orðið kalt. Rakti hann svo þetta af hálsinum og kom þá í ljós að það voru kvenbuxur úr rauðu flúneli.

Reykjavík

Sjómannsbýli við Vesturgötu árið 1836, sennilega kotið Helluland sem stóð norðan við Vesturgötu 11 nálægt þeim stað sem áður var veitingahúsið Naustið. Teikning eftir Auguste Mayer.

Kveðskapur Símonar fór fyrir brjóstið á sumum. “Landhreinsun mikil má það teljast í bókmenntum vorum, ef að það er sönn fregn, er oss hefir munnlega borizt, að ið alræmda leirskáld Símon Bjarnarson, er kallaði sig sjálfur „Dala-skáld,“ sé látinn.“ Á þessum orðum hóf Jón Ólafsson ritstjóri dánarfregn sem hann birti í blaði sínu Skuld þann 1. nóvember 1877. Þess má geta að Símon var um þrítugt og snarlifandi þegar þessu orð voru rituð. Ritháttur sem þessi varð ekki til með samfélagsmiðlum nútímans.

Svo tóku vistheimilin við

Reykjavík

Reykjavík – Vesturgata um 1900.

Hér er aðeins minnst á fáa af því sérkennilega fólki sem tengdist horninu á mótum Aðalstrætis og Vesturgötu með einhverju móti. Þetta sýnir að sumt fólk hefur alltaf haft tilhneigingu af ýmsum ástæðum til þess að fara utan alfaraleiðar. Þegar byggðin tók á sig meira borgarform þótti ýmum nauðsynlegt að fjarlægja þetta fólk úr húsaskrífum og af götum. Þá hófst saga vistheimilanna sem enn þann dag í dag eru að berast fregnir af hvernig farið var með fólk. Ef til vill leið því ekkert verr frjálsu á ráfi um götur bæjarins.

Heimildir:
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/270792/-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/270792/https://borgarblod.is/2021/01/13/af-folki-er-for-utan-leidar-i-vesturbae-og-vidar/
-https://borgarblod.is/2021/01/13/af-folki-er-for-utan-leidar-i-vesturbae-og-vidar/
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/270792/

Reykjavík

Reykjavík fyrrum.

Járnbraut

Í Lesbók Morgunblaðsins 22. ágúst 1998 mátti lesa; „Draumurinn um eimreið austur í sveitir“ eftir Pálma Eyjólfsson.

„Á árunum eftir aldamótin var farið að tala um sjálfrennireiðar eða mótorvagna, en stóri draumurinn var járnbraut oq tvær eimreiðir til að draqa 20 opna 6 smálesta vagna, en þar að auki yrðu 10 lokaðir vagnar og 5 ferðamannavagnar. Dr. Valtýr Guðmundsson vildi veita ensk-íslensku félagi leyfi og fjárstyrk til járnbrautarlagningar oq umræðurnar á þingi 1894 urðu svo miklar, að þær fylltu 345 dálka í þingtíðindum.

Eimreið
Á aukaþingi sem haldið var í ágústmánuði árið 1894 var lagt fyrir Alþingi frumvarp, sem nefndist: „Frumvarp til laga um löggildingu félags með takmarkaðri hluthafaábyrgð til að halda uppi siglingum milli Íslands og útlanda og í kringum strendur Íslands og leggja járnbrautir á Íslandi m.fl.“

Jón Þórarinsson

Jón Þórarinsson (1854-1926).

Flutningsmenn voru þeir séra Jens Pálsson, sóknarprestur á Útskálum, alþingismaður Dalamanna og Jón Þórarinsson, skólastjóri Flensborgarskólans og þingmaður Gullbringu- og Kjósarsýslu. En það var einmitt á þessu sama ári 1894 sem fyrsta vélknúna millilandaskipið komst í eigu Íslendinga; Ásgeirsverslun á Ísafirði átti það. Potturinn og pannan í stóra málinu, sem kom á borð alþingismanna á þessu sumarþingi var Sigtryggur Jónasson, umboðsmaður Winnipeg. Sigtryggur var þá á fimmtugsaldri. Hann hafði verið skrifari Péturs Havsteens, amtmanns, og húskennari. Þegar Sigtryggur hafði starfað í átta ár hjá Pétri var amtmanni vikið úr embætti. Sigtryggur flutti þá vestur um haf og varð meðal fyrstu landnámsmanna í Kanada. Hann efnaðist á viðarhöggi við járnbrautarfélög og var duglegur að bjarga sér og hneykslaðist á framtaksleysi heimaþjóðarinnar. Hann reisti sér myndarlegt býli og nefndi það Möðruvelli eins og höfuðból amtmanns við Eyjafjörð. Hér er stuðst við bók Þorsteins Thorarensen, Vaskir menn, sem út kom árið 1971. Og hvert átti svo að verða hlutverk þessa mikla félags? Það var rakið í mörgum greinum frumvarpsins og verður hér aðeins drepið á það, sem varðar Suðurlandið.

Eimreið
„Félagið hefur fullt leyfi og vald til að ákveða legustað fyrir einsporðar eða tvísporðar stál- eða járnbrautar, sem liggi: a) frá Reykjavík suður og austur gegnum Kjósar- og Gullbringusýslu, Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Í frumvarpinu var einnig greint frá öðrum sýslum, sem njóta eiga samgöngubóta með járnbrautum, allt norður í Eyjafjörð. Þetta fyrirhugaða félag átti að eiga öll hús við enda; stöðvar á járnbrautunum svo og gistihús. Á járnbrautarstöðvunum átti að selja mat, tóbak, vín og ölföng. Hvað er nú stóriðjan á Íslandi í dag á móti því, sem framkvæma átti eftir frumvarpinu, sem lagt var á borð alþingismanna þjóðarinnar í lok nítjándu aldarinnar?

Vort ferðalag gengur svo grátlega seint
EimreiðinÍ tímariti dr. Valtýs Guðmundssonar, Eimreiðinni, var og farið að skrifa um bifreiðar, sem menn nefndu sjálfhreyfivagna, sjálfrennireiðar, eða mótorvagna þegar árið 1905. Þorsteinn Erlingsson orti „Brautina“, sem ávarpskvæði Eimreiðarinnar. Í ljóðinu eru þessi erindi: En ef við nú reyndum að brjótast það beint, þó brekkurnar verði ekki hærri? Vort ferðalag gengur svo grátlega seint, og gaufið og krókana höfum við reynt og framtíðarlandið er fjarri.

Hvatningarljóðið er tuttugu erindi. Sautjánda erindið er svohljóðandi: Og þó að ég komist ei hálfa leið heim, og hvað sem á veginum bíður, þá held ég nú samt á inn hrjóstuga geim og heilsa með fögnuði vagninum þeim, sem eitthvað í áttina líður. Það þarf átta milljónir króna á næstu tíu árum til að koma atvinnuvegum Íslands til góða og til að bæta samgöngur og verslun landsins.

Eimreið
Stærsti pósturinn í þessari nýsköpun var járnbrautin því með „telgrafþræði“ var áætlun 6 milljónir króna. Þannig skrifaði áðurnefndur Sigtryggur í ársbyrjun árið 1889. Þetta var nefnt „Stóra málið“.

Góðtemplarahúsið

Góðtemlarahúsið við Templarasund.

Fimm árum síðar efndi Sigtryggur til fundar í Góðtemplarahúsinu gamla, sunnan við alþingishúsið, þar sem alþingismenn geyma nú farartæki sín. Enn er gripið í bók Þorsteins Thorarensen, Vaskir menn, og þar segir svo: „Til þess er ætlast, að hinni fyrirhuguðu járnbraut austur í Árnessýslu fylgi 20 opnir vagnar, er taki sex smálestir hver og 10 lokaðir vagnar, jafnstórir. Enn fremur eiga þar að vera sex ferðamannavagnar, III. flokks handa 32 farþegum hver, en tveir I. flokks handa 18 hver og tveir farþegavagnar. Til dráttar eru áætlaðar tvær eimreiðar. Getur hver eimreið dregið 20 vagna með 25 enskra mílna hraða á klukkustundinni, þar sem hallalaust er eða því nær 10 vagna upp halla 1:25.“ Of langt mál er að greina frá umræðum og blaðaskrifum um járnbrautarmálið.

Eimreið

Fyrsta járnbrautarlest og járnbrautarferð á Íslandi. Hópur fólks, nær eingöngu karlmenn að sjá, prúðbúnir með hatta á höfði, hafa komið sér fyrir á tveimur sléttum vögnum tengdum aftan í járnbraut á teinum sem rýkur úr gufan, lestarstjóri og starfsmenn standa þar hjá. Þekkja má borgarstjóra Reykjavíkur og landritara.

Einn af stóru fundunum í Þjórsártúni

Það var hinn 30. júlí árið 1905 sem einn af þessum stóru fundum var haldinn í Þjórsártúni. Bogi Th. Melsteð var fyrirlesarinn eins og ræðumenn voru þá kallaðir. Hann nefndi erindi sitt „Verslun Íslendinga og samvinnufélagsskapur“. Svona eins og í framhjáhlaupi segir hann í erindi sínu: „Ég heyri, menn nefna járbraut hingað úr Reykjavík.

Bogi Th. Melsted

Bogi Th. Melsted (1860-1929).

Ég minntist á járnbraut í bæklingi mínum. Framtíðarmálum, fyrir fjórtán árum en vil nú leiða athygli manna að sporbraut fyrir „elektriska“ vagna. Slík braut er talin þrisvar sinnum ódýrari en járnbraut þótt báðar séu reknar með gufu. Tveir „elektriskir“ „sporvagnar geta flutt 150 manns í einu eða áburð af 150 hestum. Þeir geta hæglega farið á dag fram og aftur jafnlanga leið og héðan til Reykjavíkur. Orkuna til að knýja vagnana mætti fá rétt hjá fundarstaðnum úr Búðafossi í Þjórsá.“

Ræðumaðurinn var nánast á heimaslóðum því hann var frá Klausturhólum í Grímsnesi. Bogi var einn af frumkvöðlum samvinnufélagsskapar og sláturhúsa. Þó að hann hafi á sínum tíma verið þekktastur fyrir sagnfræðirit sitt, hafði hann áhuga á samgöngum með járnbrautum, síma og hitaveitu. En ekki tókst málafylgjumanninum að hrífa þingheim með sér í járnbrautarmálinu. Daufu eyrun voru of mörg. Um aldamótin var talað um járnbrautarferðir frá Reykjavík austur að Þjórsá og var þá höfð í huga samvinna við breska aðila. Dr. Valtýr Guðmundsson var kosinn á þing í Vestmannaeyjum í júnímánuði 1894, en þá um sumarið var aukaþing. Var hann þá helsti forystumaður þess að veita fyrirhuguðu ensk-íslensku félagi leyfi og fjárstyrk til járnbrautarlagningar á íslandi og til að halda uppi beinum gufuskipaferðum milli Reykjavíkur og Englands, ásamt strandferðum umhverfis landið. Innan sjö ára skyldi félagið hafa lagt mjóspora járnbraut frá Reykjavík austur að Þjórsá.

Eimreið

Um 1925. Eimreiðin Minör. Við hlið hennar standa eimreiðarstjórarnir f.v. Guðmundur Guðmundsson og Páll Ásmundsson

Aðalforgöngumaður málsins var áðurnefndur Sigtryggur Jónasson, sem staddur var í Reykjavík um þingtímann og taldi sig hafa 900 þúsund króna loforð frá væntanlegum félagsmönnum, ef alþingi samþykkti það tillag úr landssjóði, sem farið var fram á.

Valtýr Guðmundsson

Valtýr Guðmundsson (1860-1928).

Þetta var mesta nýmæli um verklegar framkvæmdir, sem nokkurn tíma hafði komið fyrir alþingi. Umræðurnar á þingi fylltu 345 dálka í þingtíðindum 1894. Um járnbrautina var mest deilt, en flestir voru samþykkir gufuskipaferðum enda voru þær miklu betri eftir frumvarpi dr. Valtýs, en þær sem Sameinaða gufuskipafélagið hélt uppi. Frumvarpið um járnbrauta- og siglingafélagið var samþykkt í neðri deild, en til efri deildar kom það svo seint, að ekki var tími til að ljúka málinu og féll það þar með úr sögunni.

Heimsborgarhljóð stundvísinnar

Það var hinn 17. apríl árið 1913 að fyrsta og eina járnbrautin á Íslandi var tekin í notkun. Járnbrautarteinar lágu frá Öskjuhlíðinni í Reykjavík, sem þá var enn óbyggð, og niður að Reykjavíkurhöfn, sem nú er hin eldri Reykjavíkurhöfn. Grjótflutningarnir voru miklir í þetta stóra mannvirki. Sagt er frá því í blöðum að hinn 10. nóvember 1913 hafi farþegar verið fluttir í fyrsta og eina skipið með járnbrautarlest.

Eimreið

Eimreiðin Minör – nú minnisvarði við Reykjavíkurhöfn.

Verktakar við Reykjavíkurhöfn breyttu vöruflutningavögnum til að geta flutt blaðamenn og fleiri frá höfninni upp í Öskjuhlíð þar sem grjótnáman var þá. Það mun hafa komið fyrir að Reykvíkingar fengju sér sunnudagsskemmtiferð með Pioneer-eimreiðinni upp í Skólavörðuholt og Öskjuhlíð. Meðan á hafnargerðinni stóð var járnbrautin talsvert notuð til vöruflutninga. Olíubirgðastöð var þá komin í Örfirisey og þangað flutti járnbrautin olíu á tunnum, en á þeim árum var steinolía enn mikið notuð í Reykjavík. Saltað kindakjöt í tunnum, sem þá var góð útflutningsvara, var flutt frá húsi Sláturfélags Suðurlands við Skúlagötu, en skammt þaðan var hið virta fyrirtæki, Völundur og þangað flutti járnbrautin timbur frá skipshlið. Þá var og steypumöl í Landspítalann flutt með járnbrautinni.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – grjótnám.

Margir muna enn í dag eftir þungum slögum frá eimreiðinni, járnbrautarteinum og hinum reglubundna hvini. Eimreiðarstgórinn flautaði svo undir tók þegar farið var yfir Hverfisgötuna og Laugaveginn, vestan við gömlu gasstöðina og á þeim slóðum þar sem lögreglustöðin var síðar reist. Einnig var flautað hátt og hressilega þegar farið var yfir Hafharfjarðarveginn gamla. Heimsborgarhljóðin glumdu yfir höfuðborginni, hljóð stundvísinnar, sem einkennir járnbrautarferðir út í hinum stóra heimi. Hafnarsmiðjur, rauðmáluð lágreist hús með svörtu þaki, voru á þeim slóðum þar sem síðar kom Miklatorg, austan við Landspítalann. Hafnarsmiðjan var birgðastöð og skýli yfir eimreiðarnar. Ekki var hægt að snúa eimreiðunum við eða breyta stefnu þeirra að Öskjuhhíðinni þannig að þær drógu ýmist farmvagnana eða ýttu þeim á undan sér. Þann 9. mars árið 1913 varpaði gufuskipið Edvard Grieg akkeram þar sem síðar varð hafnarmynni Reykjavíkurhafnar, en þetta skip kom með verkfæri til hafnargerðarinnar og N.P. Kirk yfirverkfræðing. Hálfum mánuði síðar höfðu hundrað manns hafið vinnu við að leggja járnbrautarteina úr Öskjuhlíðinni yfir Melana og vestur á Granda og var því verki lokið um miðjan apríl. Síðan var önnur braut lögð úr Öskjuhlíð yfir Skólavörðuholt og Arnarhólstún og niður á Batterí, á þeim slóðum, sem Seðlabankinn er í dag.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – grjótnám.

Með áðurnefndu skipi kom ein eimreið, nefnd Minör, og sama sumar kom svo önnur eimreið, nefnd Pioneer. Í árbók Verkfræðingafélags Íslands árið 1914 skrifar Jón Þorláksson, landverkfræðingur, síðar forsætisráðherra, borgarstjóri og formaður Sjálfstæðisflokksins, grein sem hann nefndi: „Áætlunarferðir með eimreið austur í sveitir“. Hér skal gerð stuttlega grein fyrir aðalatriðum úr áætlun um þessa járnbraut, sem minnst er á í riti þessu á öðrum stað: Lega brautarinnar er ráðgerð frá Reykjavík um Þingvelli og Selfoss til Þjórsár, að lengd alls 112 km. Einnig er gert ráð fyrir hliðarálmu frá Selfossi til Eyrarbakka, að lengd 11 km. Hæð yfir sjávarmál mest 275 m. á þessari leið. Gerð brautarinnar: Breidd undirbyggingar er áætluð 4 m. og fylgt þeirri reglu, að gera brautina allstaðar upphækkaða, en hvergi niðurgrafna, til þess að koma í veg fyrir hindranir af snjóalögum.“ Þar lét Guðjón í Laxnesi, sem þá var vegaverkstjóri mæla snjóþykktina árin 1912-1918 og aftur 1924-1926, af þessum snjómælingum var ályktað að járnbrautarlest gæti komist yfir Mosfellsheiði alla daga ársins. Guðjón var eins og kunnugt er faðir Halldórs nóbelsskálds.

Eimreið

Eimreiðin við gerð hafnargarða Reykjavíkurhafnar.

Stöðvar eru áætlaðar í Reykjavík, við Selfoss og við Þjórsá og auk þess 16 smástöðvar, sem mjög litlu sé til kostað. Fullkomin rannsókn á brautarstæðinu liggur ekki fyrir ennþá, segir í greininni, heldur aðeins bráðabirgðarannsókn, sem þó er byggð á hallamælingum á mestum hluta leiðarinnar. Eftir áætluninni er jarðrask 7.400 tenm. á hverjum km. aðallínunnar.

Eimreið

Eimreiðin í Vatnsmýri.

Kostnaður til bráðabirgða er áætlaður þannig: Aðalbrautin 112 km, krónur 3,5 milljónir. Álma niður á Eyrarbakka 11 km, kr. 300 þúsund. I þessum kostnaði er borgun fyrir landspjöll ekki meðtalin. Fólksfjöldi á brautarsvæðinu er nú sem stendur full 25.000 manns.

Þórarinn Kristjánsson

Þórarinn Kristjánsson, hafnarstjóri.

Þórarinn Kristjánsson, byggingaverkfræðingur vann á skrifstofu landverkfræðings árið 1912, þá nýútskrifaður frá Kaupmannahöfn, og mældi hann fyrir járnbrautarstæðinu frá Reykjavík um Þingvöll að Selfossi. Þórarinn varð síðar hafnarstjóri í Reykjavík. Árið 1920 skrifar svo Jón Ísleifsson verkfræðingur í Tímarit Verkfræðingafélags Íslands og bendir á aðrar leiðir, sem hann nefnir Reykjanesleiðir. Þær leiðir áttu að liggja frá Reykjavík inn að Elliðaám suður í Hafnarfjörð um Vífilsstaði.

Fyrir sunnan Hafnarfjörð á móts við Hvaleyri áttu leiðirnar að skiptast og átti önnur að stefna í hásuður, milli Núpshlíðarháls og Sveifluháls, um Vigdísarvelli og ofan á Krýsuvíkurbjarg vestanvert. Þaðan meðfram sjó yfir Vogsós og Ölfusárós að Eyrarbakka. Frá Eyrarbakka átti leiðin að liggja upp Flóa að Ölfursárbrú og þaðan að Þjórsárbrú. Hin leiðin átti að liggja frá Hvaleyri í vestur, meðfram sjó suður í Voga og beygja þar til hásuðurs meðfram Sandakravegi, yfir Dalahraun niður að Hraunsvík hjá Ísólfsskála, og þaðan meðfram sjó að Krýsuvíkurbjargi, þar átti þessi vestri Reykjanesleið að mæta hinni fyrrnefndu leið. Eystri-Reykjanesleiðin var talin 126 km löng, en hin vestri 146 km. Þessar leiðir áttu að komu öllum íbúum Reykjanesskagans að notum og vera snjóléttar. Við Reykjanesleiðina voru þá 2872, íbúar en við Þingvallaleiðina 827 íbúar.

„Járnbrautarmálið og samgöngumál suðurlandsundirlendisins“

Eimreið

Eimreiðin í Öskjuhlíð.

Þannig hljóðaði yfirskriftin á tveimur erindum, sem Geir G. Zoéga, vegamálastjóri flutti í mars og aprfl árið 1924. Fyrra erindið byrjar þannig: „Járnbrautarmálið er óefað langstærsta samgöngumálið, sem hjá oss hefur verið á dagskrá. Öllum hlýtur að vera það ljóst, að Suðurlandsundirlendið verður að fá samgöngubót, er veitir því greiða og örugga leið til Reykjavíkur jafnt vetur sem sumar ef þess á að vera nokkur von, að fé það allt, sem þar hefur verið lagt í ræktun beri tilætlaðan ávöxt. Þessi samgöngubót hlýtur að verða annað tveggja járnbraut eða fullkominn akvegur til bifreiðaflutninga.“

Eimreið

Eimreiðin Pioneer og gufuvaltarinn Bríet við Árbæjarsafn.

Í greinargerð vegamálastjóra kemur fram að Stóra málið hafði um árabil legið í þagnargildi, en á alþingi 1921 voru samþykkt lög sem heimiluðu landstjórninni að láta framkvæma fullnaðarrannsóknir járnbrautarstæðis frá Reykjavík og austur um Suðurlandsundirlendi.

Valgeir Björnsson

Valgeir Björnsson, bæjarverkfræðingur og hafnarstjóri (1894-1983).

Snéri landstjórnin sér til stjórnar norsku ríkisbrautanna með beiðni um að fá vel hæfan starfsmann þeirra til rannsókna. Var málinu vel tekið og bent á Sv. Möller, járnbrautarverkfræðing. Í janúarmánuði árið 1924 sendir þessi „baneinspektör“ landsstjórninni langa og nákvæma skýrslu með áætlun um stofnkostnað upp á kr. 6.925.000 og er þá miðað við að verkamannakaup sé kr. 1.00-1.10 á klst. Með Sverre Möller vann Valgeir Björnsson verkfræðingur, sem þá starfaði á skrifstofu vegamálastjóra, við mælingarnar og áætlunargerðina. Valgeir varð síðar bæjarverkfræðingur og hafnarstjóri í Reykjavík.

Um járnbrautarstöð í Reykjavík segir norski verkfræðingurinn: „Þar sem hér er aðalstöð og endastöð verður að áætla tiltölulega mikil húsakynni, enda eru stöðvarhúsin, vöruskáli, eimreiðarskáli og smiðja áætluð að kosti um 200 þúsund krónur. Stöðvarstæðið austan við Tjörnina neðst í Laufástúni, neðan við Fjólugötuna, þótti áhugavert en dýrt. Lítum á legu járnbrautarinnar: Járnbrautarstöðin er staðsett austan við Tjörnina og liggur leiðin þaðan til suðurs, en því næst í suðaustur yfir Vatnsmýri, vestan við Eskihlíð yfir Hafnarfjarðarveginn í Fossvogi.

Eimreið
Á þessari leið er hallinn lítill og bugður vel greiðar. Öll leiðin norðan í Fossvogi er mjög hagkvæm, mestur halli 12% vestan við Bústaði, en þar er stuttur láréttur kafli, þar sem stétt verði sett síðar. Því næst er brautin lögð norðan í Breiðholtshálsi að efri Veiðimannahúsum og er þar farið yfir Elliðaárnar. Þá er beygt suður fyrir hálsinn milli Elliðaáanna og Rauðavatns, því næst farið yfir Hólmsá nálægt Baldurshaga, síðan með fram Rauðhólum um túnið á Hólmi og er þar ráðgerð fyrsta stöðin.“

Arnarhóll

Arnarhóll 1787.

Önnur áætlun var og gerð um stöð í Arnarhólstúni austan við Ingólfsstræti, niður undir sjó en það stöðvarsvæði er af ýmsum ástæðum ekki eins heppilegt, sérstaklega kostar miklu meira að jafna svæðið og enn meira tiltölulega, þegar kemur að því að stækka stöðina. Jafnvel þó stöðin verði sett svo austarlega, að gatan með fram sjónum (meðfram Nýborg og Völundi) verði tekin af, mun kosta 165. þúsund krónum meira að jafna þetta stöðvarsvæði og gera nothæft en stöðvarsvæðið austan við Tjörnina, og enn meiri verður munurinn er kemur að því að færa úr kvíarnar. Leiðin frá hafnarstöðinni inn að Elliðaám er heldur ekki eins heppileg og frá Tjarnarstöðinni.“

Járnbraut

Tillaga að legu járnbrautar frá Reykjavík að Ölfusárbrú árið 1924. Lestrarstöðvar á leiðinni áttu að vera: Hólmur, Kolviðarhóll, Þurá og Sandhóll.

Nokkru síðar í skýrslu norska járnbrautarverkfræðingsins er þess getið að Hólmsstöð liggi haganlega með tilliti til Þingvallaumferðar. Eimreiðin verður að staðnæmast hér, segir í skýrslunni, og bæta vatni á ketilinn. Við Kolviðarhólsstöð áttu eimreiðarnar að mætast og enn þarf þar að bæta vatni á ketilinn. Vatnsveitan að Kolviðarhóli er nokkuð dýr eftir áætluninni og eru nefndar 50 þúsund krónur. Kolviðarhóll var á þessum árum þýðingarmikill og vinsæll áfangastaður og rausnargarður. Eftir þessari áætlun átti Ölfusárbrúarstöð að vera fyrst um sinn endastöð austanfjalls. Þar þarf að vera eimreiðarskáli, segir í skýrslunni, – fjölskyldubústaður stöðvarstjóra og herbergi fyrir annað starfsfólk. Verkfræðingurinn telur að 40 km. hraði á klukkustund sé vel fullnægjandi á ekki lengri leið. Í Þrengslunum er brautin hæst yfir sjávarmál, 283 metrar.

Járnbraut

Járnbrautarlest, þe. eimreið með vagna bæði fyrir framan og aftan á ferð. Mun vera járnbrautin sem lögð var uppi í Öskjuhlíð vegna hafnargerðar í Reykjavíkurhöfn.

Framhaldsskýrsla um járnbrautarmálið var lögð fyrir alþingi 1926. Við þá endurskoðun lækkaði stofnkostnaður verulega. Eftir nýju skýrslunni átti að byggja Reykjavíkurstöðina á svonefnt „Skell“ tún austan við Hringbraut, en sunnan við Laugaveg. Þótti sá staður hagkvæmari en neðst í Laufástúninu fyrir neðan Fjólugötu. Í hinni nýju áætlun var gert ráð fyrir sérstöku spori frá Reykjavíkurstöðinni eins og hún er nefnd og niður að höfn og mætti koma fyrir stétt þar, til dæmis við Ingólfsstræti, og nota sem endastöð lesta, ef aðalstöðin þætti vera nokkuð langt frá miðbænum. Í þessari endurskoðuðu áætlun var gert ráð fyrir að Ölfusárstöðin, sem fyrirhuguð var undir brekkunni vestan árinnar gegnt Selfossi, yrði austan Ölfusár og gerir nú járnbrautarverkfræðingurinn ráð fyrir eimreiðarbrú, sem kosta myndi 200 þúsund krónur. Verkfræðingarnir telja að mótorvagnar geti sparað talsverða upphæð með því að nota slík farartæki að einhverju leyti, en segja að sér hafi ekki tekist að gera áætlun þar um. Telur skýrsluhöfundur, að aðalókostur mótorvagna sé, að dráttarafl þeirra upp brekkur sé frekar lítið. Þá kemur greinargerð um rafmagn til rekstrar brautarinnar, en það telur skýrsluhöfundur ekki koma til greina nema að það fáist á mjög vægu verði, enda sé raforkuveitan meðfram brautinni mjög kostnaðarsöm.

Eimreið

Eimreiðin við gerð varnagarða Reykjavíkurhafnar.

Reynsla Norðmanna benti þó í þá átt, að litlar horfur væru á, að rafvirkjun með svo lítilli umferð mundi gerleg. Rekstrarkostnaður bifreiðanna er áætlaður meiri en járnbrautar og munar þar mestu um eldneytiseyðsluna, sem óhætt er að telja að minnsta kosti tvöfalt meiri. Annar liður sem um munar er gúmmí. Þegar hér er komið í skýrslunni er hætt að tala um mótorvagna eins og algengt var í upphafi bílaaldar.

Geir Zoega

Geir Zoëga, verkfræðingur og vegamálastjóri í Reykjavík (1885-1959),

Árið 1918 var mikill mjólkurskortur í Reykjavík. Blöðin fjölluðu um mjólkurskortinn og Guðmundur Björnsson landlæknir og alþingismaður, sem hafði setið í bæjarstjórn Reykjavíkur, taldi að mjólkurskorturinn stafaði af því að hér vantaði járnbrautir. Hermann Jónasson búfræðikandidat, sem verið hafði ritstjóri Búnaðarritsins, taldi og að veigamesta lausnin á mjólkurskortinum væri að flytja hey austan úr sveitum að sumarlagi með járnbraut til Reykjavíkur. Geir G. Zoéga varð vegamálastjóri árið 1917 og 1922 varð hann ráðunautur ríkistjórna í málum er snertu notkun bifreiða og í járnbrauta. Í skýrslu hans, sem hann flutti á fundi Verkfræðingafélags Íslands í febrúarmánuði árið 1926, má lesa: „Hvernig sem á málið er litið verður rekstrarafkoma bifreiðanna miklu lakari en Járnbrautarinnar. En mest gætir þó hins, að þær jafnast alls eigi á við járnbraut um að fullnægja þörfum vaxandi umferðar. Nú verður að gera ráð fyrir því, að ræktun Suðurlandsundirlendisins vaxi til muna jafnvel í náinni framtíð“. Í samanburði á járnbrautinni og bifreiðunum er talið að járnbrautin verði tvær og hálfa klukkustund milli Reykjavíkur og Ölfusár en fólksbifreið yrði þrjár og hálfa klukkustund á leiðinni. Endastöð brautarinnar var eins og það er orðað, fyrst um sinn áætluð við Ölfusá. „Jafnframt verður til frekari tryggingar að banna reglubundnar bifreiðarferðir til almennra vöru- og fólksflutninga á þeirri leið. Flutningsgjöldin fyrir vörur með járnbrautinni eru að vísu áætluð svo lág (20 kr. fyrir 1000 kg. milli Reykjavíkur og Ölfusár, sem nú kostar minnst 60 kr.)“ Eftir áætluninni átti fargjald með járnbrautinni að kosta kr. 6.50, en kostaði 10 krónur með bílum árið 1926. Hér hefur verið stiklað á fóru og aðeins gripið ofaní skýrslur Geirs Zoéga, vegamálastjóra frá árunum 1924 og 1926.

Eimreið

Pioneer við Árbæjarsafn.

En víkjum nú sögunni austur í Rangárvallasýslu: Það var á útmánuðum árið 1922, að sýslunefndarmenn í Rangárvallasýslu voru búnir að koma sér fyrir í kringum stóra fundarborðið á Efra-Hvoli í Hvolhreppi, að oddviti sýslunefhdarinnar, Björgvin Vigfússon, las nefndarmönnum bréf frá stjórnarráði Íslands þar sem það tjáir sig bresta heimild til að veita kaupgjaldsrétt á landsspildu þeirri úr Kálfholtslandi í Ásahreppi sem sýslunefndin hefur tekið á leigu í 100 ár.

Kálfholt

Kálfholt.

Jafnframt tjáir stjórnarráð Íslands sýslunefndinni í Rangárvallasýslu, að það finni ekki næga ástæðu til að útvega heimild til sölunnar með sérstökum lögum. Kálfholt var prestssetursjörð um hundrað ára skeið. Þetta er víðlend kirkjujörð, með land að Þjórsá. Þjórsártún og Lækjartún, sem áður hét Kálfholtshjáleiga, eru byggð úr Kálfholtslandi. Árið 1926 bjó í Kálfholtshjáleigu Jón Jónsson, og kona hans Rósa Runólfsdóttir síðar búandi að Herríðarhóli í sömu sveit. 1. mars árið 1926 skrifar Jón sýslunefndinni í Rangárvallasýslu bréf og óskar eftir meðmælum með því, að hann fái keypta jörðina Kálfholtshjáleigu sem var eign Kirkjujarðasjóðs eins og fjölmargar jarðir í Rangárþingi eru. Eftir sýslufundinn sendi sýslumaður Jóni bónda svarbréf þar sem í meginmáli er skráð: „Meirihluti sýslunefndarinnar telur varhugaverða sölu á Kálfholtshjáleigu, vegna væntanlegrar vatnsvirkjunar Urriðafoss og járnbrautarlagningar austur yfir Þjórsá.“ Urriðafoss er skammt fyrir neðan Þjórsárbrú. Það var mikið talað og skrifað um járnbrautarmálið á öðrum og þriðja áratug þessar aldar. Hinn 20. mars 1919 sótti fossafélagið Títan um sérleyfi til virkjunar Þjórsár allrar. Hafði norskur verkfræðingur, G. Sætersmoen, athugað rennsli hennar um tveggja ára skeið á árunum 1915-1917. Títanfélagið dró umsókn sína síðar til baka. Ekkert skeði svo í virkjunarmálunum við Þjórsá fyrr en en Búrfellsstöðin var byggð eftir lögum um Landsvirkjun árið 1964.

Eimreið

Eimreiðin Pioneer á Árbæjarsafni.

Enn er málið vakið upp á Alþingi eftir að hljótt hafði verið um það í áratugi. Árið 1980 er borin fram tillaga til þingsályktunar um rafknúna járnbraut. Flutningsmenn eru: Þórarinn Sigurjónsson, Guðmundur G. Þórarinsson og Jóhann Einvarðsson. Upphaf tillögurnar er þannig: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram könnun á hagnýtu gildi þeirra hugmynda, sem upp hafa komið um rafknúna járnbraut til notkunar á mestu þéttbýlisstöð; um Suðvesturlands og austur yfir fjall.“

Þórarinn Sigurjónsson

Þórarinn Sigurjónsson (1923-2012).

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er rætt um orkukreppu, gjaldeyrissparnað með meiru. Svo og telja flutningsmenn að járnbraut auki öryggi og sjálfstæði þjóðarinnar. Flutningsmenn tillögunar telja eðlilegt að gaumgæfilega verði athugað hvort ekki sé hagkvæmt að koma upp rafknúnum farartækjum og rafknúinni járnbraut um þau svæði sunnanog suðvesturlands þar sem flutningar eru mestir.

Í þingskjölum kemur fram, að Þórarinn Sigurjónsson bóndi og alþingismaður í Laugardælum hefur leitað til Hinriks Guðmundssonar, verkfræðings, sem svo aftur leitaði til ráðgjafaverka í járnbrautarmálum í Þýskalandi. Einnig leitar verkfræðingurinn til Almennu verkfræðistofunnar hf. í Reykjavík. Bæði þessi fyrirtæki lýsa sig fús til að vinna saman að þessu verkefni. Þýska fyrirtækið telur að athugun muni taka 6 mánuði og kosta um 450 þús. D.M., um 18,1 milljón krónur. Þórarinn Sigurjónsson segir m.a. í þingræðu 27. janúar 1981: „Með flutningi þessarar tillögu viljum við flutningsmenn fá úr því skorið, hvort ekki sé tímabært að koma upp rafknúinni járnbraut um þéttbýlustu svæði landsins til vöruflutninga og e.t.v. mannflutninga. Meðal annara þjóða er járnbraut talin ódýrasta og afkastamesta flutningatæki á landi sem hægt er að fá, þar sem hún hentar. Og með það í huga, að stöðugt hækkar verð á erlendum orkugjöfum. „Við eigum að nota okkar innlendu orkugjafa og spara þannig erlendan gjaldeyri,“ sagði Þórarinn í þingræðu, þegar hann lagði áherslu á að rækileg athugun færi fram á hagkvæmni á rekstri járnbrautar um Suðurland og Suðurnes.

Járnbraut

Myndin sýnir röð af óhrjálegum skúrum sem standa meðfram járnbrautarteinum. Nýborg við Skúlagötu.

Í um það bil heila öld hafa umræður um járnbrautarlagnir á Íslandi skotið upp kollinum annað kastið þó með hléum allt til Alþingishátíðarársins 1930, en það ár eru 800 bílar í eigu Reykvíkinga og þörfin á betri vegum á allri landsbyggðinni orðin brýn, en hægt miðaði með hestvögnum á vegum sem ruddir voru með hökum og skóflum. Draumurinn um eimreiðina rættist ekki þó að erlendu sérfræðingarnir, sem hingað komu og athuguðu aðstæður sæju engin vandkvæði á því að leggja járnbraut fyrir eimreið austur í sveit. Í dag eigum við raforkuna og virkjunarmöguleikana, en fátt bendir til þess að innlend orka eigi eftir að knýja hraðlestir um Suðurlandsundirlendið í á nýrri öld.

Ný verkmenning við vegagerð hófst hér á landi með tilkomu þungavinnuvéla í seinni heimsstyrjöldinni og bifreiðar og flugvélar hafa í áratugi sannað ágæti sitt sem góð og örugg samgöngutæki.“

Sjá meira um fyrirhugaða járnbrautarlagningu milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar HÉR.

Heimildir:
-Vaskir menn. Þorsteinn Thorarensen, útg. 1971.
-Tímarit verkfræðingafélagsins 1920, 1924 og 1926.
-Alþingistíðindi: 1980 og 1981.
-Sýslufundargerðir Rangárvallasýslu.
-Eimreiðin. Dr. Valtýr Guðmundsson.
-Járnbrautin í Reykjavík: Árbæjarsafn 1982.
-Íslenskir búfræðikandidatar, Guðm. Jónsson, skólastj.
-Þyrnar: Þorsteinn Erlingsson.
-Lesbók Morgunblaðsins 22. ágúst 1998, Draumurinn um eimreið austur í sveitir, Pálmi Eyjólfsson, bls. 4-6.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegur í Hafnarfjarðarhrauni, milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar.

Lækjarbotnar

Í rannsókn á „Dysjum hinna dæmdu – Rannsókn á Hallberuhelli í Lækjarbotnum„, sem fram fór árið 2019, má t.d. lesa eftirfarandi:

Rannsókn

Hallberuhellir

Forsíða rannsóknarinnar um Hallberulelli.

Þann 7. ágúst 2019 fór fram rannsókn á Hallberuhelli í Lækjarbotnalandi. Í hellinum er talið að Margrét Símonardóttir og Eyvindur Jónsson hafi haldið til um tíma en þau voru tekin af lífi á Öxarárþingi árið 1677 fyrir útileguþjófnað og hórdómsbrot. Rannsóknin á hellinum er þáttur í verkefninu Dysjar hinna dæmdu sem miðar að því að afla upplýsinga um einstaklinga sem teknir voru af lífi á Íslandi á árunum 1550 til 1830, bæði með tilliti til brota þeirra og dóma en einnig til bakgrunns þeirra, samfélagsstöðu og búsetu. Tilgangur rannsóknarinnar á Hallberuhelli er að varpa ljósi á aðstæður og lifnaðarhætti einstaklinga sem lifðu á flakki hér á landi og hlutu síðar dauðarefsingu fyrir þjófnað og fleiri brot. Rannsóknin á hellinum fólst fyrst og fremst í úttekt á innréttingu hans og voru gólf og veggir hans því ljósmyndaðir og teiknaðir en auk þess var gerður prufuskurður í gólf hellisins og þaðan tekin sýni.

Forsaga rannsóknar
Hallberuhellir
„Á Íslandi fóru fram um 240 aftökur á tæplega þremur öldum, frá siðaskiptum, þegar rétturinn til refsinga færðist úr höndum kirkjunnar til veraldlegra valdhafa, til ársins 1830 þegar síðustu dauðadómunum var framfylgt hér á landi. Dauðadómar féllu fyrst og fremst fyrir morð, galdra, þjófnað, dulsmál og blóðskömm.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – hellisopið.

Árið 2018 hófst vinna við rannsóknarverkefnið „Dysjar hinna dæmdu“ en markmið þess er að varpa ljósi á dauðadæmda einstaklinga á íslenskri árnýöld með tilliti til brota þeirra og dómsmeðferðar sem og félagslegs bakgrunns þeirra, kyns, aldurs, stöðu, fjölskyldurhags og búsetu. Rannsóknarverkefni þetta hefur leitt í ljós að dauðadómar á Íslandi féllu oftar fyrir þjófnað en nokkra aðra tegund brota og fleiri en 70 þjófar voru teknir af lífi á árunum 1584–1758. Svo virðist sem að flestir þessara þjófa hafi verið heimilislausir einstaklingar sem lifðu á flakki og stálu sér til viðurværis. Rannsóknin á Hallberuhelli í Lækjarbotnum, þar sem talið er að útilegufólkið Margrét Símonardóttir og Eyvindur Jónsson hafi haft aðsetur á síðari hluta 17. aldar, er liður í áðurgreindu verkefni en tilgangur hennar er að kanna aðstæður og lífshætti flakkara og dæmdra afbrotamanna.
HallberuhellirMargrétar Símonardóttur og Eyvindar Jónssonar er getið í fjölmörgum rituðum heimildum og eru mál þeirra gjarnan kölluð Eyvindarmál hin fyrri til þess að greina þau frá málum Fjalla-Eyvindar og Höllu sem lögðust út tæpri öld síðar (Ólafur Briem 1983, bls. 28).
Í annálum kemur fram að Margrét og Eyvindur, sem var þá þegar giftur annari konu, hafi tekið saman og hlaupið úr Ölfusi. Fyrst um sinn munu þau hafa haldið til vestur undir Snæfellsjökli (Fitjaannáll, bls. 427; Hestsannáll, bls. 512). Síðar földu þau sig í helli sunnan við Örfiriseyjarsel sem Árni Magnússon nefnir Hraunhelli en hefur á síðari árum verið kenndur við Hallberu Jónsdóttur sem bjó á Lækjarbotnum á síðari hluta 19. aldar (Árni Magnússon, bls. 60; ferlir.is). Þann 20. október 1677, þegar Margrét og Eyvindur höfðu legið úti í meira en tvö ár, voru þau handtekin við Hallberuhelli og þýfi þeirra, sem samanstóð af nautakjöti og öðrum hlutum, gert upptækt (Alþingisbækur VII, bls. 403 – 405).

Engidalur

Tóftir útilegumanna í Engidal.

Á Bakkárholtsþingi þá um haustið voru Margrét og Eyvindur dæmd sek um hórdómsbrot með barneign, burthlaup úr héraði sem og foröktun sakramentis og heilagrar aflausnar. Í þetta sinn sluppu þau við dauðadóm en áttu að hljóta þrjár húðlátsrefsingar hvort um sig. Í dómsskjalinu kemur þó fram að sýslumaðurinn, Jón Vigfússon, mætti milda dóm Margrétar ef honum sýndist „vegna hennar nú sýnilegra vesalburða.“ Degi síðar var fyrsta refsingin lögð á þau. Eftir að hafa tekið út allar refsingarnar voru fangarnir svo sendir til Kjalarnessýslu þar sem þjófnaðarmál þeirra var tekið fyrir en samkvæmt lögum átti að dæma í slíkum málum í þeirri sýslu sem þjófnaðurinn fór fram (ÞÍ. Sýslumaðurinn í Árnessýslu 0000 GA/1-2-1).

Engidalur

Engidalur – bæli.

Á Kópavogsþingi voru Margrét og Eyvindur dæmd til líkamlegrar refsingar fyrir þjófnað en eftir að hafa staðið hana og meðtekið sakrament í Skálholtsdómkirkju voru þau aðskilin og tók eiginkona Eyvindar, Ingiríður, hann aftur til hjónabands. Refsingin dugði þó skammt því „þessar vandræðapersónur“ tóku fljótt upp útilegusamvistir á ný og fundust saman í rekkju í hreysi undir bjargskúta við Ölfusvatn með þýfi sitt. Voru þau fangelsuð á heimili valdsmannsins Stórólfshvoli og svo færð í járnum á Öxarárþing þar sem þau voru dæmd til dauða fyrir ítrekuð hórdómsbrot og útileguþjófnað. Þann 3. júlí 1678 var dauðadómnum framfylgt og eftir að hafa meðtekið kristilegar fortölur „til sannrar viðurkenningar, huggunar og trúarstyrkingar í herrans Kristí blessaðri forþénustu” var Eyvindur Jónsson hálshöggvinn en Margréti Símonardóttur drekkt – allt samkvæmt fyrirmælum Stóradóms (Alþingisbækur VII, bls. 403–405).
HallberuhellirEkki er vitað hversu lengi nákvæmlega Margrét og Eyvindur dvöldu í Hallberuhelli, þar sem þau voru handtekin, þann 20. október 1677. Hallberuhellir virðist þrátt fyrir allt ekki alslæmur felustaður; á þessum tíma var enginn bær nálægt hellinum en hann lá þó sennilega ekki algjörlega úr alfaraleið því rétt vestan við hann er talið að Örfirisey hafi átt sel átti til ársins 1799. Hugsanlega nýttu Margrét og Eyvindur sér þetta og stálu fé seljanna til viðurværis.

Viðeyjarsel

Viðeyjar (Örfiriseyjar-) Bessastaðasel).

Sem áður segir rak Örfirisey sel á Lækjarbotnum til ársins 1799. Árið 1868 fékk Þorsteinn Þorsteinsson svo nýbýlaleyfi fyrir landinu og lét Hallberu Jónsdóttur, sem Hallberuhellir er kenndur við, helming jarðarinnar. Á fyrri hluta 20. aldar gaf Guðmundur H. Sigurðsson, sem þá var bóndi að Lækjarbotnum, Skátasambandi Reykjavíkur land á jörðinni. Síðan þá hefur verið starfræktur skátaskáli á Lækjarbotnum (ferlir.is; gardbuar.com).
Fornleifarannsókn hefur ekki áður farið fram í Hallberuhelli en í rannsókn á seljum í Reykjavík, þar sem fjallað er um Örfiriseyjarsel, er hellirinn merktur á kort og hann er því ekki óþekktur. Hellirinn hefur auk þess verið nefndur í ferðahandbókum, t.a.m. í Árbók Ferðafélag Íslands (Egill J. Stardal 1985).“

Niðurstöður

Lækjarbotnar

Hellisopið.

„Sagnir af útilegumönnum eru gjarnar sveipaðar dulúðlegum og þjóðsagnakenndum blæ. Mál Fjalla-Eyvindar og Höllu er sennilega eitt besta dæmi þess. Sem áður segir var útilega og flakk þó raunveruleiki fjölda einstaklinga á íslenskri árnýöld og Eyvindarmálin tvö eru engan veginn einstök. Því er ekki ólíklegt að mannvistarleifar eftir útileguþjófa finnist í hellum þótt sjaldan sé minnst á það í hellarannsóknum.

Lækarbotnar

Lækjarbotnar – Hallberuhellir.

Hallberuhellir er hraunhellir og er hvelfing hans því náttúrusmíð. Þó eru hlutar hellisins greinilega manngerðir; við hellismunnann hefur grjóti verið hlaðið og set hafa verið útbúin upp við norðurvegginn þar sem hægt er að tylla sér og horfa út um hellismunnann. Þó er eftitt að ákvarða hvenær innréttingarnar voru gerðar í hellinum og ekki hægt að fullyrða að þær séu frá tíma Margrétar og Eyvindar. Raunar fannst ekkert í hellinum sem beint var hægt að rekja til dvalar Margrétar og Eyvindar enda voru þar hvorki gripir né jarðlög sem unnt var að aldursgreina. Áhugavert væri þó að framkvæma skordýra- og/eða frjókornagreiningar á jarðvegssýnunum sem tekin voru og í framhaldinu og m.a. nýta þær til kolefnisaldursgreininga.“

Hallberuhellir

Hallberuhellir – teikning.

[FERLIRsfélögum er þrátt fyrir allt framangreint ómögulegt að skilja hvers vegna umræddur hellir hefur fengið nafngiftina „Hallberuhellir“ í  framangreindri rannsókn!?]. Með fullri virðinu fyrir nefndri Margréti, ætti skjólið það arna, fremur að draga nafn sitt af þeirri „mætri“ manneskju. Öll höfum við þurft að takast á við misjafnar aðstæður um lífsins skeið; stundum tekst vel til, stundum ekki. Ef ekki tekst vel til, er og hefur alltaf verið til fólk hér á landi, og jafnvel utan þess, sem er tilbúið að dæma, hvernig til tókst – að þess mati…

Heimild:
-Dysjar hinna dæmdu – Rannsókn á Hallberuhelli í Lækjarbotnum, Reykjavík 2019.

Lækjarbotnar

Hellirinn í Lækjarbotnum.

 

Draugatjörn

Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.

Kålund

Kålund á efri árum.

Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.

Hellisskarð

Gengið um Hellisskarð.

Um Hellisheiðarveg segir Kålund m.a.: „Hellisheiðarvegur hefst skammt fyrir ofan Elliðaár og skilst þar frá Seljadalsveginum; er þá stefnt enn meir til hægri og til suðausturs.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur.

Fyrst liggur leiðin yfir gömul hraun og síðan flata og jafnlenda fláka – ef kosið er að sneiða hjá Svínahrauni, sem hefur hingað til verið næstum ófært, mjög brunnið með grængulum mosavöxnum strýtum – og er þá komið upp undir Hengil, þar sem lítið og blómlegt daldrag í hrauninu er innilokað milli fjallsins og hæða Hellisheiðar, þar sem þær ná lengst fram. Innst inni í dalnum liggur mjór vegurinn gegnum skarð eða eftir lægð milli tveggja hraunhæða upp á bratta heiðina, sem lækkar hér í stöllum niður til láglendisins, svo að brekkuferðin verður í tvennu lagi.

Hellisskarð

Hellisskarð ofan Kolviðarhóls – gata.

Uppgönguskarðið heitir nú Hellisskarð. Í Kjalnesinga sögu er það nefnt Öxnaskarð, og á það vel við fyrri aðstæður, því að margt nauta úr Gullbringusýslu og Árnessýslu var látið ganga í sumarhögum á þessum slóðum, og haust hvert smöluðu bændur nautunum og aðskildu í réttum skammt frá þessum stað, og til Árnessýslu voru þau rekin yfir Hellisheiði og ef til vill einmitt í ggenum Öxnarskarð. Nú er hér eins og annars staðar nautaræktin næstum horfin, en áður fyrr er sagt, að hafi mátt sjá þau hundruðum saman á völlunum neðan við Heillisheiði, og heita þeir því enn Bolavellir.

Búasteinn

Búasteinn.

Rétt við uppgönguna er til hægri handar Kolviðarhóll á fremur lágri hæð eða kollóttum hól þar niðri í dalnum í brekkurótum; á þessari hæð er „sæluhús“ („sæluhús“ eiginlega hús sem reist er fyrir göfugmennsku sakir – í þessu tilfelli til að hýsa örmagna ferðamenn – til sáluhjálpar (að skilningi kaþólskra)), mjög mikið notað, fjallakofi, en slíkir eru allt of fáorð á Íslandi, því að næstum á hverjum vetri verða einhverjir úti á fjallvegum.

Kolviðarhóll.Almenn sögn segir, að í þessum hól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu. Um það bil í miðri heiðarbrekkunni til vinstri, nokkur hundruð fet uppi er stór tenginslaga steinn; þetta er Búasteinn. Er hann settur í samband við frásögn Kjalnesinga sögu (38 o.áfr.), þar sem Búi, þegar hann kom niður úr Öxnaskarði og sá fyrirsát Kolfinns, reið að stórum steini, sem stóð undir skarðinu, „svo mikill sem hamar, mátti þá framan at eins at honum ganga“, og varði sig þar. Sjá má við nánari athugun, að steinninn hefur ekki teningslögun nema að framan, að aftanverðu hallar honum nokkurn veginn jafn niður eftir fjallinu, sem hann er í, og er raunar aðeins einn, en hinn stærsti af mörgum framstandandi hraunklettum, sem eru í röð frá efstu fjallabrekku og niður í rætur, en öll brekkan er annars þakin möl og mylsnu.

Hellisheiði

Gata um Helluna á Hellisheiði.

Yfir þessa heiði, sem er talsvert hærri en Mosfellsheiði, liggur leiðin yfir gamlar hraunbreiður, þar sem nokurra þumlunga djúp gata er komin ofan í hraunklöppina vegna sífelldrar umferðar. Þetta er nefnilega aðalleið bænda í austursýslum, sem versla og veiða í miklum mæli í Gullbringusýslu.
Eftir nokkurra stunda reið hefst niðurleiðin. Er halli nokkrun veginn jafn og brekka alllöng og sýnir glöggt, hve hátt uppi leiðin hafði legið, og nú er útsýn fögur og mikil, því að neðan brekku breiðist suðvesturhluti Árnessýslu. Auk þessarar leiðar liggja nokkrar aðrar yfir heiðina gegnum önnur skörð með sérstökum nöfnum, en frá sama upphafsstað, og eru flestar suðaustar. Þessum leiðum verður að fylgja nákvæmlega, því að ef menn villast getur verið erfitt að komast niður bratta austurhlið heiðarinnar.“

Heimild:
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 47-48.
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Þjóðminjasafnið 2006.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur um 1900.