Færslur

Hernám

Eftirfarandi fróðleik um kampa (herskálasvæði) og örnefni þeim tengdum á árunum 1940-1945 má lesa á vef Árnastofnunar:

Hernám

Hermenn í Reykjavíkurhöfn.

“Árið 1940 var upphaf eins merkasta tímabils í sögu Íslands, en 10. maí það ár var landið hernumið af Bretum. Styrjöld hafði hafist í Evrópu með innrás Þjóðverja í Pólland 1. september 1939 og stríðsyfirlýsingum Breta og Frakka gegn Þjóðverjum. Í lok apríl 1940 höfðu Þjóðverjar lagt undir sig Danmörku og Noreg og sóttu fram á öllum vesturvígstöðvunum, var aðeins tímaspursmál hvenær Frakkland, Belgía og Holland féllu. Stríðið um Atlantshafið var þá hafið og töldu Bretar sér stafa ógn af staðsetningu Íslands ef það lenti í óvinahöndum. En Winston S. Churchill hafði vitnað í eftirfarandi sem haft var eftir Karli Haushofer: „Hver sá sem ræður Íslandi beinir byssu að Englandi, Ameríku og Kanada.“ Þessi ummæli töldu Bretar m.a. réttlæta hernám Íslands.

Hernámið

Njarðvík

Á fyrstu dögum hernámsins.

Þegar breskur her, landgöngusveitir flotans eða Royal Marines, gekk hér á land 10. maí 1940 var lítið um varnir. Hluti af landhernum fylgdi svo í kjölfarið viku síðar eða 17. maí, yfirstjórn hersins undir stjórn Henrys O. Curtis hershöfðingja kom 26. maí og síðan hver deildin af annarri næstu vikurnar á eftir. Breski herinn lagði strax undir sig það húsnæði sem hann taldi sig þurfa á að halda til að hýsa sína menn og starfsemi, þar má nefna ÍR húsið við Landakot, KR húsið sem stóð þar sem ráðhús Reykjavíkur er í dag, Austurbæjarbarnaskólann, Miðbæjarbarnaskólann, Menntaskólann í Reykjavík sem var gerður að aðalstöðvum hersins, Hafnarhúsið og Hótel Borg o.fl.

Hernámið

Hernámið.

Þar sem nægjanlegt húsnæði fyrir þann fjölda hermanna sem settist að í og við Reykjavík var ekki fyrir hendi reisti herinn í fyrstu tjaldbúðir. Síðan var hafist handa við að reisa hermannaskála eða svokallaða bragga, og á skömmum tíma risu upp braggahverfi víðsvegar í Reykjavík og nágrenni.

Hermennirnir fluttu jafnóðum úr því húsnæði sem þeir höfðu lagt undir sig við hernámið í braggahverfin. Í framhaldi af því var farið að gefa hverfunum nöfn. Má geta þess að aðalstöðvar hersins, sem höfðu verið í Menntaskólanum í Reykjavík við Lækjargötu, voru fluttar í hverfi inn við Elliðaár er hlaut nafnið Camp Alabaster. Alabaster var dulnefni sem Bretar notuðu yfir áætlun og framkvæmd á hertöku Íslands og var liðið sem sent var til landsins kallað Alabaster Force.

Hernám

Braggahverfi við Gamla-Garð.

Kamparnir eða braggahverfin í Reykjavík urðu um 80 talsins en hverfanöfnin um 100 þar sem skipt var um nöfn á sumum kömpum og það oftar en einu sinni, í einstaka tilfellum. Hér verður aðeins drepið á nokkur þessara nafna og getið uppruna þeirra; auk þess verður aðeins getið um ensk og bandarísk götu- og staðarheiti í og við Reykjavík frá sama tímabili, þ.e. 1940-1945. (Sjá kort.)

Breskir kampar

Hernám

Kampurinn á Skólavörðuholti.

Flestir bresku hermannanna komu frá Norður-Englandi, t.d. Yorkshire, og kölluðu þeir sína kampa yfirleitt eftir bæjarnöfnum í heimahéruðum sínum eða þá stöku stað víðsvegar um Bretland. Má hér til dæmis nefna að á Skólavörðuholti, þar sem Hallgrímskirkja stendur nú, var braggahverfi sem kallað var Camp Skipton. (Sjá mynd.) Kampurinn var nefndur eftir bæ í Norður- Yorkshire sem er nokkuð miðsvæðis í Yorkshire. Í augum Breta er bærinn The Gateway to the Dales eða Hliðið að dölunum. Áður fyrr fóru bændur í Yorkshiredölum með sláturfé og nautgripi um Skipton. Þangað komu sérstakar lestir eftir búpeningnum og fluttu til slöktunar. Camp Skipton er líklega einn fyrsti kampurinn ef ekki sá fyrsti sem Bretar reistu í Reykjavík. Skólavörðuholt var eiginlega miðpunktur Reykjavíkur á þessum tíma og áður hafði aðalleiðin út úr bænum legið um holtið svo það er sennilega engin tilviljun að þessi kampur hlaut nafnið Skipton.

Nokkur önnur braggahverfi reist af Bretum báru nöfn sem rekja má til Yorkshire eins og hér má sjá:

Valhúsahæð

Herminjar, Camp Keighley, ofan við kirkjuna á Valhúsahæð.

Camp Bingley, var vestan við Smyrilsveg á horni Smyrilsvegar og Hjarðarhaga.
Camp Bradford, var austan við Langholtsveg á horni Holtavegar og þar sem nú er Efstasund. Holtavegur lá á þeim tíma yfir á Suðurlandsbraut og kölluðu þeir hann Bradford Road.
Camp Harrogate, var vestan við Sundlaugaveg og afmarkaðist af Sundlaugavegi, Gullteig og Hraunteig.
Camp Keighley, var á Valhúsahæð en hæðina kölluðu Bretar Keighley Hill. Til gamans má geta þess að skammt sunnan við Keighley bjuggu þær frægu Bronté-systur, rithöfundarnir Emily Jane, Charlotte og Anne.
Camp Ripon var í Sogamýri við Tunguveg, hér er einnig um heiti á smábæ í Norður-Yorkshire að ræða.

Camp Pershing

Camp Pershing 1942.

Selby Camp, var í Sogamýri sunnan við Sogaveg og austan Réttarholtsvegar.
Camp Tadcaster, var þar sem nú er eystri göngubrúin yfir Miklubraut norðan við Rauðagerði. Eftir að Bandaríkjamenn tóku við hervörnum landsins voru aðalstöðvar þeirra fluttar í Tadcaster. Fljótlega breyttu þeir nafninu í Camp Pershing. Síðar fluttu þeir í fyrrum aðalstöðvar breska hersins í Camp Alabaster inn við Ártúnsbrekku og breyttu því nafni í Camp Pershing en Camp Pershing, áður Camp Tadcaster, í Camp Curtis til heiðurs breska yfirhershöfðingjanum Henry O. Curtis sem var að fara af landi brott.

Kaninn kemur

Hernám

Júlí 1941 – Bandarískur óbreyttur hermaður, Robert C. Fowler, boðinn velkominn af óbreyttum Bretanum Gunner Harold Ricardi.

Árið 1941 var gerður sérstakur samningur milli Íslendinga, Breta og Bandaríkjamanna um að Bandaríkjamenn tækju við vörnum landsins á meðan ríkjandi ástand varði. Þetta var gert til að losa um breska hermenn, sem hér voru, og þörf var á vegna hernaðarátaka, m.a. í Norður-Afríku og Asíu. Bandarískir landgönguliðar flotans, United States Marines, voru fyrstu bandarísku hermennirnir sem stigu hér á land, 7. júlí 1941. Breski herinn rýmdi bragga og braggahverfi fyrir landgönguliðana svo þeir þurftu ekki að byrja á því að hírast í tjöldum eða leggja undir sig íþrótta- eða skólahús. Í kjölfar landgönguliðanna kom svo landherinn, U.S. Army. Brátt fóru Bretarnir að hverfa á brott og halda heim á leið, en Bandaríkjamönnum fór fjölgandi. Í lok desember 1942 voru um það bil 38.000 bandarískir hermenn á Íslandi, sem höfðu aðsetur í um 300 kömpum víðsvegar um landið. Bandaríkjamennirnir ýmist fluttu inn í bresku kampana eða byggðu nýja. Í mörgum tilfellum breyttu þeir nöfnum bresku kampanna og gáfu nýju hverfunum nöfn.

Bandarískir kampar

Hernám

Camp-Hálogaland.

Það var nokkur munur á nafngiftum Breta og Bandaríkjamanna á kömpunum. Bretar eins og áður hefur komið fram leituðu til heimahéraða sinna, bæði eftir bæjar- og staðarnöfnum. Nafngiftir Bandaríkjamanna virðast allar tengdar hernaðarsögu þeirra og voru þau breytileg eftir því hver átti í hlut, landgönguliðið, flotinn, landherinn eða flugher landhersins.

Landgöngulið flotans, U.S.M.C., nefndi sína kampa eftir frægum stöðum þar sem þeir höfðu háð orrustur og má hér nefna:

Hernám

Camp Tripoli.

Tripoli Camp. Þegar Bandaríkjamenn tóku við vörnum landsins sameinuðu þeir tvo breska kampa vestur á Melum, þá Camp Camberley og Crownhill Camp, í einn og kölluðu hann Tripoli Camp. Camp Camberley var kallaður eftir bæ í Surrey á Suður-Englandi, sem er á milli Ascot og Farnbourough, en Crownhill er hinsvegar nafn á strandvirki við hafnarborgina Plymouth á Suður- Englandi. Árin 1801-1805 áttu Bandaríkjamenn í stríði við sjóræningja frá borginni Tripoli í Líbíu í Norður-Afríku.

Hernám

Camp Tripoli.

Camp Montezuma var uppi við Úlfarsfell þar sem Skyggnir er nú. Árin 1842-1847 áttu Bandaríkjamenn í stríði við Mexikó. Landgöngusveitir flotans tóku undir lok þess stríðs Þjóðarhöllina í Mexikóborg en hún mun standa á sama stað og höll Montezuma síðasta konungs Azteka, sem var drepinn 1520.
Bæði þessi nöfn koma fyrir í fyrsta erindi lofsöngs bandarísku landgönguliðanna:

The Marines Hymn:

From the halls of Montezuma
To the shores of Tripoli,
We fight our country’s battles
On the land as on the sea.
First to fight for right and freedom
And to keep our honor clean;
We are proud to claim the title of
United States Marines

Keflavíkurflugvöllur

Braggahverfi á sunnanverðu Keflavíkurflugvallasvæðinu.

Til gamans má geta þess að þegar landgönguliðarnir komu hér fyrstir bandarískra hermanna 7. júlí 1941 bættu þeir inn í lofsönginn þessu erindi:

Again in nineteen forty one
We sailed a northern course
And found beneath the Midnight Sun
The Viking and the Norse
This old Icelandic nation
We’ll defend by every means
And uphold the reputation
of The United States Marines

Camp Corregidor var vestan við Brautarholt á Kjalarnesi. Kampurinn var kenndur við síðasta vígi Bandaríkjamanna, sem féll í hendur Japana, á Filippseyjum í seinni heimsstyrjöldinni er var á eynni Corregidor í mynni Manilaflóa.

Hernám

Camp Tientsin ofan Úlfarsárdals.

Camp Tientsin var vestan við Úlfarsfell við Leirtjörn, sem landgönguliðarnir kölluðu Tientsin Lake. Tientsin þýðir bókstaflega „Hið himneska vað“ en það er nafn á hafnarborg í Kína sem stendur við Hai Ho fljót og er um 56 kílómetra inni í landi frá Bo Hai flóa. Þessi staður kom mjög við sögu í hinu svokallaða Boxarastríði árið 1900 þegar fjölþjóðlegur her lenti þar og marseraði til Peking (Beijing) til að leysa sendiráð vestrænna ríkja úr umsátri sem stóð í 55 daga. Fjölmennasti herinn var úr landgönguliði bandaríska flotans eins og svo oft áður.

Varnarsvæði

Varnarsvæðið á Miðnesheiði – einstök hverfi (campar).

Kampar flotans voru víða en hér er aðeins getið um tvo þeirra:

Camp Bunker Hill. Í þessum kampi voru aðalstöðvar flugdeildar bandaríska sjóhersins og strandvarna eða „coastal artillery“. Kampurinn var sunnan við Bústaðaveg, nánast þar sem brúin yfir Kringlumýrarbraut er nú. Bunker Hill er algengt í bandarískri hernaðarsögu og hefur fylgt bandaríska hernum nánast hvar sem hann hefur haft herstöðvar eða átt í hernaðarátökum. Nafnið kemur frá samnefndum stað við Boston í Massachusetts, þar sem frelsisher Bandaríkjanna háði sína fyrstu stórorrustu gegn breska hernum 17. júní 1775.

Herkampur var í Urriðaholti, nefndur Camp Russel.

Camp Russel

Kamp Russel – kort.

Tveir kampar voru í Garðaholti, Camp Gardar og Camp Tilloi. Þá var loftskeytastöð á Álftanesi; Camp Jörfi. Kampabyggðin í Hafnarfirði þjónaði m.a. varðstöðu á Ásfjalli og nálægum svæðum. Hvaleyrarkampur annaðist varnir við innsiglinguna í Hafnarfjörð.

Á Garðaholti er skilti með upplýsingum um herkampana Camp Gardar og Camp Tilloi, sem þar voru þar á stríðsárunum. Í texta á skiltinu segir: “Sumarið 940, í beinu framhaldi af hertöku landsins, hóf breski herinn varnarviðbúnað með ströndinni frá Kjalarnesi og suður á Hvaleyri í Hafnarfirði og einnig á helstu hæðum á höfuðborgarsvæðinu og austan þess. Fótgöngulið sem gætti strandlengjunnar á Álftanesi, kom sér fyrir á austanverðu Garðaholti og stórkostaliðsflokkur setti þar upp tvær stórar loftvarnarbyssur. Á Garðaholti og beggja vegna Garðaholtsvegar, sem breski herinn lagði upphaflega, má sjá ummerki eftir hersetuna.

Hernám

Camp Knox.

Camp Knox var við Kaplaskjól, milli Reynimels, Kaplaskjólsvegar og Hofsvallagötu, nánast á svæði Sundlaugar Vesturbæjar. Þar var aðsetur bandaríska sjóhersins á Íslandi. Þetta er einn þekktasti kampurinn í sögu Reykjavíkur. Hann var nefndur eftir Frank Knox, sem var flotamálaráðherra 1940–1944 eða í seinni stjórn Franklín D. Roosvelts forseta. Hann barðist á Kúbu í liði Theodor Roosvelts í spánsk-ameríska stríðinu 1898 og síðar í Frakklandi, í fyrri heimsstyrjöldinni.

Hernám

Í Camp Knox um 1960.

Í Camp Knox var öllum sjóliðum bandaríska flotans, sem höfðu orðið skipreika og bjargað, komið fyrir til aðhlynningar. Skipreika menn úr kaupskipaflotanum voru hinsvegar hýstir í Camp Caledonia, er var betur þekktur sem Múlakampur. Hann var vestan við Suðurlandsbraut, á móts við Múla, en nú má miða við Laugardalshöllina þar sem Múli er horfinn.

Landherinn kenndi marga af sínum kömpum í og við Reykjavík við fræga hershöfðingja úr sinni sögu:

Camp Pershing, sem fjallað er um hér að framan, var kenndur við John J. Pershing, sem var yfirhershöfðingi bandaríska hersins í Frakklandi í fyrri heimsstyrjöldinni.

Hernám

Kampar í Reykjavík og nágrenni.

Camp Sheridan var rétt norðan við Bráðræði, milli Seilugranda og Frostaskjóls.
Sheridan er nafn á einum frægasta hershöfðingja norðanmanna í borgarastyrjöldinni í Bandaríkjunum 1861-1865. Er honum jafnað við hershöfðingjana Grant og Sherman.
Camp MacArthur var í Mosfellssveit og var kenndur við Douglas MacArthur einn frægasta hershöfðingja Bandaríkjanna í seinni heimsstyrjöldinni.
Flugdeild landhersins, „U.S. Army Airforce“, nefndi nokkra af sínum kömpum og flugvöllum eftir flugmönnum, sem látist höfðu af slysförum.

Meeks Camp var við Meeks Field, sem seinna hlaut nafnið Keflavíkurflugvöllur.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur.

Kampurinn og flugvöllurinn var kallaður eftir fyrsta bandaríska herflugmanninum sem fórst á Íslandi, George Meeks. Það gerðist fyrir hádegi 19. ágúst 1941. George Meeks var að koma á orrustuflugvél sinni inn til lendingar á Reykjavíkurflugvelli, frá norðri. Hermaður mun hafa hjólað út á flugbrautina og flugmaðurinn þá fengið merki um að taka upp aftur. Hann var í lágflugi. Í stað þess að halda áfram í beinni stefnu eftir brautinni þá beygði hann til vinstri með þeim afleiðingum að hann flaug á loftnetsvírstreng, sem var strengdur á milli tveggja mastra. Annað mastrið brotnaði og hluti af öðrum væng vélarinnar. Vírdræsa vafðist um skrúfu vélarinnar og hún steyptist stjórnlaus í Skerjafjörðinn við Nauthólsvík. Flugmaðurinn mun hafa látist samstundis.

Hernám

Kampur í Nauthólsvík – Camp Kwitcherbelliakin.

Eitt undarlegasta nafn á braggahverfi, sem hér var, var Camp Kwitcherbelliakin (Quit-Your-Belly-Aching), sem mun þýða „hættu þessu nöldri“. Þessi kampur tilheyrði flugdeild bandaríska sjóhersins og var staðsettur við Nauthólsvík. Yfirmaður flugdeildarinnar, Dan Gallery kapteinn, var um margt sérstakur maður en nafngift kampsins er hans. Hann varð frægur fyrir stjórn á töku þýsks kafbáts, U-505, 4. júní 1944, en þá var hann kapteinn á flugmóðurskipinu USS Guadalcanal. U-505 er nú sýningargripur í Chicago. Dan Gallery varð síðar aðmíráll. Eftir heimsstyjöldina skrifaði hann nokkrar greinar í Saturday Evening Post um reynslu sína á stríðsárunum, m.a. um dvöl sína á Íslandi. Það er ekki hægt að segja að hann hafi skrifað neitt jákvætt um landið eða dvölina hér.

Íslensk kampanöfn

Hernám

Camp Leynimýri.

Bretar og Bandaríkjamenn gáfu nokkrum kömpum íslensk nöfn eða höfðuðu til íslenskra staðhátta. Verður nokkurra þeirra getið hér:

Camp Leynimýri var á svæðinu við Bústaðaveg þar sem Veðurstofa Íslands er.
Camp Fossvogur var þar sem Nesti í Fossvogi er nú.
Camp Ártún var við bæinn Ártún í Elliðaárdal.

Hernám

Camp Hálogaland – Í styrjaldarlok keypti Íþróttabandalag Reykjavíkur skálann af setuliðinu og
var hann eftir það kallaður Hálogaland. Húsið varð nú miðstöð handknattleiks
í landinu og vettvangur allra helstu kappleikja innahúss fram á 7. áratuginn,
þegar Laugardalshöll tók við því hlutverki. Á tímabili var Hálogaland einnig
íþróttahús Vogaskóla og notað undir guðsþjónustur fyrir Langholtssöfnuð.
Skálinn var rifinn árið 1970.

Camp Hálogaland var kenndur við samnefndan bæ og var á svæðinu sem markast af Suðurlandsbraut, Skeiðarvogi og Gnoðarvogi.
Camp Langholt var austan við Langholtsveg rétt við Skeiðarvog.

Herskóla Camp var þar sem hús Landssímans er við Suðurlandsbraut. Margir kölluðu þennan kamp „Herskálakamp“ það mun hafa komið til af því hve orðin herskóli og herskáli eru lík í framburði. Þarna ráku Bretar herskóla sem mun hafa verið sá fyrsti í seinni heimsstyrjöldinni, sem kenndi vetrarhernað.
Laugarnes Camp var á samnefndu svæði norðaustan við Kirkjusand.
Camp Defensor var við samnefnt hús við Borgartún; Balbo Camp nefndur eftir Balbo, ítalska flugkappanum, en kampurinn var uppi á hæð norðan við Vatnagarða og austan við Kleppsveg (Sæbraut).

Elliðaárdalur

Camp Ártún.

Camp Ingolfs var við Ingólfsstræti þar sem Hallveigarstaðir eru nú; Camp National Theatre, þetta var kampur við Þjóðleikhúsið.
Stadium Camp var við gamla íþróttavöllinn á Melunum eða Melavöllinn þar sem Þjóðarbókhlaðan er.
Camp Tower Hill var vestan við Sjómannaskólann og fékk nafnið af vatnstankinum sem þar er.

Eftirtaldir þrír kampar voru allir á Kjalarnesi og voru við þá staði, sem þeir eru kenndir við:

HernámCamp Arnholt (Arnarholt).
Camp Brautarholt.
Camp Saurbær, sá kampur var upp við þjóðveginn en ekki niður við kirkjustaðinn.

„Örnefni“
Bretar og Bandaríkjamenn áttu oft í mesta basli við að bera fram íslensk staðarnöfn og gripu þá til þeirra ráða að nefna staði enskum eða bandarískum nöfnum eftir því sem hentaði. Það virðist samt svo að Bretar hafi verið duglegri við þetta, að minnsta kosti í Reykjavík. Verður hér getið örfárra staða, sem hlutu þessi örlög.

Álftanes:
Bless Bay (Bessastaðatjörn); Deilit (Deild); Spidnholt (Sviðholt); Bottle Neck Bay (Skógtjörn) og Lamb Bay (Lambhúsatjörn).

Hernám

Eftir heimsstyrjöldina 1939 til 1945 stóðu borgaryfirvöld í Reykjavík frammi fyrir miklum húsnæðisvanda. Fólki fjölgaði ört og fjöldi flutti til borgarinnar af landsbyggðinni í von um betra líf. Uppbygging húsnæðis hafði verið hæg og ekki gert ráð fyrir þeim fólksflutningum sem hafinn var. Eitt neyðarráð borgarinnar kom þó upp í hendurnar á henni við lok styrjaldarinnar og var óspart notað. Á styrjaldarárunum byggðu Bretar og einkum Bandaríkjamenn mikinn fjölda hermannaskála eða bragga víðs vegar um landið til að hýsa þann mikla fjölda hermanna sem hingað kom á stríðsárunum. Þessir skálar mynduðu oftast þyrpingar eða hverfi sem kölluð voru kampar sem dregið er af enska orðinu camps. Í Reykjavík voru reist um 80 braggahverfi með hátt í sex þúsund bröggum. Stærsti bragga-kampurinn í Reykjavík var í Vesturbænum, kallaðist Kamp Knox og stóð á svæðinu milli Kaplaskjólsvegar og Hofsvallagötu þar sem Hagamelur og Grenimelur eru í dag. Kampurinn var fyrst og fremst svefnstaður hermanna en nokkur þjónusta varð til í kringum þessa byggð. Höfuðstöðvar bandaríska setuliðsins voru staðsettar í Camp Knox á stríðsárunum. 2300 íbúar í 543 bröggum Við stríðslok 1945 hurfu hermennirnir á braut og braggarnir stóðu auðir eftir. Í húsnæðisneyðinni gripu borgaryfirvöld til þess ráðs að kaupa bragga af Bandaríkjamönnum til að leigja efnalitlu fólki. Árið 1947 keyptu borgaryfirvöld Camp Knox fyrir 415 þúsund krónur. Í fyrstu var litið á þetta sem skammtímalausn á ört vaxandi húsnæðisvanda en raunin varð allt önnur. Braggalausnin varð mun lífseigari en til stóð. Í september 1944 bjuggu um 800 Reykvíkingar í bröggum og rúmum áratug síðar eða árið 1955 bjuggu 2300 bæjarbúar í 543 bröggum. Taldi Camp Knox þá 165 skála, stóra og smáa. Að geta fengið inni í bragga var skárra en ekkert. Braggarnir í Camp Knox voru notaðir undir leiguhúsnæði allt til ársins 1966 eða í nær tvo áratugi.

Arnarnes og austan við það:

Puffin Bay (Arnarnesvogur); Puffin Point (Arnarnestá), þetta getur aðeins þýtt það að þarna hafi verið eitthvað um lunda; Gala Hill (Hnoðraholt) og Hawick Hill (Selhryggur). Hawick er bær i Skotlandi rétt norðan við landamæri Englands og Skotlands. Nafnið kemur trúlega þaðan.

Kópavogur:
Hilton Road, lá frá Hafnarfjarðarvegi næst Kópavogslæk eða þar sem Fífuhvammur er nú. Hilton Flats, Smárinn eða flatirnar þar sem íþróttasvæði Kópavogs er nú.

Reykjavík:
Baldurshagi Hill, þ.e. Breiðholtshvarf, en Baldurshagi Hill var kallað svo eftir Camp Baldurshagi, sem var þar sem nú er skeiðvöllurinn austan við Elliðaár.

Consul Point. Klettarnir sem voru fyrir norðan Höfða en á þessum tíma hafði ræðismaður Breta aðsetur í Höfða.

Howitzer Hill eða Fallbyssuhæð. Bretar kölluðu Öskjuhlíðina Howitzer Hill en þar höfðu þeir komið fyrir fjölda fallbyssna auk vélbyssna til varnar flugvellinum. Það má enn sjá skotbyrgi eða vélbyssuhreiður á Howitzer Hill frá þessum tíma.

Park Lane Road. Njarðargata frá Hringbraut suður að þar sem nú er Skerplugata. Það er nokkuð augljóst að nafnið kemur frá Hljómskálagarðinum.

Tower Hill Road. Þessi gata lá frá vatnsgeyminum við Sjómannaskólann, til austurs yfir þar sem nú er Álftamýrin og allt austur að Elliðaám. Gatan var betur þekkt meðal Íslendinga sem Sogavegur.

Wellington Road eða Kringlumýrarvegur. Nafnið kemur frá herdeildinni Duke of Wellingtons Regiment, sem hér var. Vegurinn lá rétt frá mótum Laugavegar og Suðurlandsbrautar eða rétt vestan við þar sem Kringlumýrarbrautin var síðar lögð og suður að að Bústaðavegi.

Lokaorð

Hernám

Winston Churchill heimsótti Ísland 16. ágúst 1941 á heimferð sinni í sögulegri heimsókn til Roosevelt forseta Bandaríkjanna. Hér skoðar hann hervörð í Reykjavík. 

Hér hefur verið stiklað á stóru um sérstakt efni og í rauninni merkilegan þátt í sögu hernáms og hersetu Íslands 1940-1945. Ekki eru öll kurl komin til grafar enn. Það sem hér hefur verið skráð er hreint ekki tæmandi og margt er enn hulið. Smátt og smátt bætast þó við nýjar upplýsingar, sem fylla í skörðin, og vonandi kemur að því áður en mjög langt um líður að nokkuð heildstæð mynd skapist um þetta efni.

Sjá nánar Eggert Þór Bernharðsson: Undir bárujárnsboga. Braggalíf í Reykjavík 1940–1970. JPV Forlag. Reykjavík 2000.”

Heimild:
-https://arnastofnun.is/is/utgafa-og-gagnasofn/pistlar/kampanofn-og-ornefni-tengd-hersetu-islandi-1940-1945
Hernám

Hafnarfjörður

Á vefnum “Íslandskort.is” má lesa eftirfarandi fróðleik um Björn Gunnlaugsson og Íslandskortagerð hans á árunum 1831-1843. Hér verður lögð áhersla á vinnu hans við kortlagninu Reykjanesskagans.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – myndin er unnin af Sigurði Guðmundssyni málara.

Björn Gunnlaugsson (28. september 1788 – 17. mars 1876) var landmælingamaður og höfundur stjörnufræðirita. Hann starfaði þó mestan hluta ævinnar sem kennari, fyrst við Bessastaðaskóla, en fluttist með skólanum til Reykjavíkur og varð síðar yfirkennari.
Björn Gunnlaugsson er þekktastur fyrir uppdrátt sinn af Íslandi en hann ferðaðist um landið til mælinga sumurin 1831–1843, að frátöldu sumrinu 1836. Mælingar Björns urðu undirstaðan að Íslandskorti sem Hið íslenska bókmenntafélag gaf út árin 1844 og 1849. Mælingar Björns lögðu einnig grunninn að öðrum Íslandskortum næstu áratugina fram til þess að dönsk herforingjaráðskort tóku við á fyrstu árum tuttugustu aldar.

Gullbringa- og Kjósarsýsla med nokkrum parti af Árnesssýslu

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Björns Gunnlaugssonar af Reykjanesskaga 1831, fyrsta útgáfa.

Þegar Björn Gunnlaugsson hóf landmælingar sínar á Íslandi var ákveðið að fjárveiting hans yrði aðeins til eins árs til að byrja með og bundin því skilyrði að hann byrjaði á Gullbringu- og Kjósarsýslu. Um áframhald verksins átti svo að fara eftir árangri fyrsta sumarsins.
Björn hófst strax handa um leið og hann fékk mælingatækin í hendurnar og tókst að ljúka mælingu Gullbringu- og Kjósarsýslu um sumarið 1831 þrátt fyrir ýmsa byrjunarörðugleika. Eftir að kortið var tilbúið sendi Björn það til Kaupmannahafnar.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Björns Gunnlaugssonar af Reykjanesskaga 1831, önnur útgáfa.

Stjórn Bókmenntafélagsins leist vel á það og ákveðið var að styrkja Björn áfram. Við áframhald verksins þurfti Björn að fá kortið af Gullbringu- og Kjósarsýslu aftur vegna tengingar þess við síðari kort. Í stað þess að fá sent frumkortið fékk hann hins vegar í hendur handdregnar eftirmyndir þess. Ekki er vitað til annars en að kortin séu nákvæm eftirgerð af korti Björns. Ef litið er nánar á þau sést vel hvernig Björn hefur lagt sig fram um draga upp sem flest fjöll inn til landsins en þau höfðu strandmælingamenn alveg skilið eftir.

Uppdráttur Íslands

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Íslands, 1. útg. eftir Björn Gunnlaugsson.

Þó að strandmælingarnar hefðu verið merkur áfangi var enn langt í land að komið væri viðunandi kort af landinu í heild, byggðum þess og óbyggðum. Strandkortin nægðu farmönnum en fyrir landsmenn komu þau að litlu gagni hvort sem litið var til almennrar þekkingar á landinu sjálfu eða til annarra nota. Eftir að strandmælingunum lauk varð ekki vart neinna tilburða til þess að hrinda verkinu lengra áleiðis.
Nú vildi svo vel til að til var Íslendingur er lokið hafði háskólaprófi í stærðfræði við mjög góðan orðstír og unnið um skeið að landmælingum erlendis. Hann hét Björn Gunnlaugsson, kennari við latínuskólann á Bessastöðum.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Íslands eftir Björn Gunnlaugsson á árunum 1849-1850.

Árið 1829 ritaði Björn stiftsyfirvöldum og mæltist til að Danir létu Íslendingum eftir landmælingaáhöld þau er notuð voru við strandmælingarnar. Í bréfinu segist hann oft vera beðinn um að mæla ýmislegt og þægilegt væri að hafa áhöldin við höndina. Þessari ósk Björns var ekki sinnt. Hið íslenska bókmenntafélag skarst þá í leikinn og ákvað eftir nokkuð hik árið 1831 að verja ákveðinni upphæð til mælinga á landinu öllu. Stiftamtmaður var beðinn um að hlutast til um það að mælingatækin og eftirmyndir strandkortanna yrðu látin af hendi og varð hann við því. Birni Gunnlaugssyni var falið verkið en fjárveitingin var aðeins til eins árs til að byrja með og bundin því skilyrði að mælingin hæfist í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Um áframhald verksins skyldi svo fara eftir árangri fyrsta sumarsins.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Íslands – 1. hluti.

Björn hófst strax handa um leið og hann fékk mælingatækin í hendurnar og tókst að ljúka mælingu Gullbringu- og Kjósarsýslu um sumarið 1831 þrátt fyrir ýmsa byrjunarörðugleika. Eftir að kortið var tilbúið sendi Björn það til Kaupmannahafnar til þess að hægt yrði að gera myndamót af því. Stjórn Bókmenntafélagsins leist vel á kortið og ákveðið var að halda mælingunum áfram. Björn vann að verkinu árin 1831-1843 að sumrinu 1836 undanskildu. Hann mun hafa ferðast rúma 700 daga í mælingaleiðöngrum sínum. Árið 1836 rættist úr fjárhagsáhyggjum þeirra er stóðu að mælingunum er rentukammerið ákvað að veita Birni árlegan styrk.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Íslands, 2. hluti.

Í upphafi hafði áætlunin verið sú að mæla hverja sýslu fyrir sig og búa til sérkort af þeim en vegna mikils kostnaðar var hætt við það og ákveðið að búa til heildarkort af landinu á fjórum blöðum. Forstöðumanni landmælingadeildar herforingjaráðsins, Olaf Nikolas Olsen, var falið að sjá um útgáfu kortsins í Danmörku. Í hans hlut kom að taka við svæðakortum frá Birni, tengja þau saman og minnka þau síðan í rétta stærð. Vegna minnkunarinnar varð að fella niður fjölda örnefna sem Björn hafði tekið til, velja úr þeim og bæta inn nýjum nöfnum ef ástæða þótti til. Á kortinu stendur að það sé gefið út 1844 en það varð líklega ekki tilbúið fyrr en fjórum árum síðar.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Íslands, 3. hluti.

Kortið er gert í keiluofanvarpi, mælikvarðinn er 1:480.000 og lengdarbaugar miðaðir við Kaupmannahöfn. Nafnið stendur á suðausturkortinu en á titilblaði sem fylgir er það nokkuð stytt. Þar eru einnig skýringar á merkjum, stutt greinargerð um útgáfuna og frönsk þýðing.
Þegar Olsen fór að sjá fyrir endan á vinnunni við fjögurra blaða kortið byrjaði hann á öðru og handhægara Íslandskorti í helmingi minni mælikvarða. Kortið kom sennilega ekki út fyrr en 1850 þó á því standi útgáfuárið 1849. Mælikvarði er 1:960.000 og ofanvarp hið sama og á stærra kortinu. Uppdrátturinn er aðeins minnkuð eftirmynd stærra kortsins með færri nöfnum.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Íslands, 4. hluti.

Þó að sami maður hafi séð um eirstunguna á báðum kortunum er hinn minni lakar gerður. Þar veldur mestu um að Olsen hefur leitast við að taka upp það marga landslagsþætti frumgerðarinnar að öllu hættir til að renna saman. Nöfn eru líka oft með það smáu letri að erfitt er að lesa þau. En kortið kostaði hins vegar aðeins þriðjung af verði stóra kortsins. Útgáfa kortanna var mjög dýr, kostnaðurinn mun hafa numið tífaldri þeirri upphæð sem Bókmenntafélagið greiddi Birni Gunnlaugssyni í beinan ferðakostnað á tólf árum.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – Reykjanesskagi.

Mæling og kortagerð Björns Gunnlaugssonar var mikið vísindalegt afrek. Í fyrsta skipti var fenginn sæmilegur uppdráttur af landinu öllu. Þó að eldri heildaruppdrættir, byggðir að nokkru leyti á mælingum, væru til voru þeir oft fjarska handahófskenndir og ónákvæmir. Björn studdist við strandkortin eins langt og þau náðu. Hann fór um allar byggðir landsins í mælingaleiðöngrum sínum en ferðaðist hins vegar lítið um óbyggðir. Um sum svæði varð hann að treysta frásögnum kunnugra. Miðhálendið hefur mætt afgangi en útlit þess er þó mikil framför frá fyrri kortum. Kortið var hið fyrsta sem menn gátu notað til þess að gera sér sæmilega grein fyrir staðsetningu byggða og útbreiðslu jökla, hrauna og fjallþyrpinga. Meiri háttar fljót voru rakin til upptaka og stöðuvötn mörkuð af meira raunsæi en áður.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Björns Gunnlaugssonar af miðlendi Skagans.

Kort Björns Gunnlaugssonar er ekki laust við villur en við öðru var ekki að búast miðað við að hann fór ekki um allt landið og vann verkið einn og aðstoðarlítið með frumstæðum tækjum. Við bágar aðstæður lagði Björn undirstöðu sem aðrir byggðu á uns skipulegar mælingar hófust upp úr aldamótum og þá í miklu stærra sniði.

Í Ísafold, föstudaginn 24. mars 1876, er fjallað um lát Björns Gunnlaugssonar og eftirmæli skrifuð:
“Björn bjó að Sviðholti meðan hann kenndi við Bessastaðaskóla og vann að “Uppdrætti Íslands“. Á því starfi byrjaði hann árið 1831, eptir tilmælum bókmenntafjelagsins, fyrst eingöngu á þess kostnað, en síðan styrkti stjórnin. Verkið var mikið og vandasamt, en launin lítil, og óhætt að fullyrða, að engin nema Björn hefði ekizt það á hendur fyrir svo lítið.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1903.

Haun ferðaðist á sumrin, tók fyrir stærri eða minni kafla landsins, mældi þá í krók og kring og gjörði uppdrætti yfir, þegar hann var kominn heim og hafði tómstundir til, og hjelt því starfi fram þangað til sumarið 1843, að hann hafði yfirfarið landið, eins og hann segir í brjefi til bókmenntafjelagsdeildarinnar í Kaupmannahöfn, dagsettu f Sviðholti 10. febr. 1844: «Nú er eg þá loksins búinn að yfir fara allt landið, eins og kostur er á, þó sumstaðar sje ekki svo vel skoðað sem skyldi,; en það mundi kosta óþolandi tímalengd og peninga útlát fyrir fjelagið, að láta skoða hvert einstakt fjall, þar sem þau standa mjög þjett saman, álíkt og hús í stórum og þjettbyggðum borgum».
Landsuppdrættir þessir voru síðan steinprentaðir eins og kunnugt er, og hafa þeir flutt frægðarorð Bjarnar út um allan hinn menntaða heim. Í summar sem leið fjekk bókmenntafjelagið heiðurspening frá París fyrir þenna landsuppdrátt.”

Nágrenni Reykjavíkur og Hafnarfjarðar

Hafnarfjörður

Herforingjaráðskort; Hafnarfjörður og Álftannes 1903.

Á síðasta áratug 19. aldar varð dönskum yfirvöldum ljóst að þau kort sem til voru af Íslandi stæðust ekki þær kröfur sem gera þyrfti í samfélagi þess tíma. Bestu kort af Íslandi sem buðust voru í stórum dráttum byggð á strandmælingum danska sjóhersins sem fram fóru á árunum 1801-1818 annars vegar og hins vegar á kortum Björns Gunnlaugssonar sem byggð voru á fyrrnefndum strandmælingum og eigin mælingum Björns á árunum 1831-1843.
Á fjárlögum 1899 voru veittar 5000 krónur og skyldi hefja nýjar þríhyrninga- og strandmælingar á Reykjanesi.

Bessastaðir

Herfirngjaráðsuppdráttur 1908; Bessastaðir og Lambhús.

Árið 1900 var gefin út í Danmörku tilskipun um að sendur skyldi leiðangur til Íslands til að mæla hér grunnlínu og hnattstöðu. Síðan var ætlunin að mæla þríhyrninganet út frá nýju grunnlínunni. Hingað voru sendir danskir liðsforingjar og sumarið 1900 var unnin ýmis undirbúningsvinna. Árið 1902 höfðu fjárveitingar verið auknar svo að rétt þótti að hefjast handa. Byrjað var á Hornafirði og mælt vestur ströndina og um lágsveitir Suðurlands en uppsveitum og hálendi frestað.

Ás

Herforingjaráðsuppdráttur; Ás ofan Hafnarfjarðar.

Verkinu var svo haldið áfram tvö næstu árin en féll niður 1905 vegna fjárskorts og annarra anna hjá Landmælingadeild danska herforingjaráðsins (Generalstabens topografiske Afdeling) er tókst verkið á hendur. Eftir eins árs bið var þráðurinn tekinn upp að nýju enda bættist nú við fjárstyrkur úr ríkissjóði Dana. Á árunum 1906-1914 var unnið öll sumur, nema 1909, þegar ekkert var aðhafst. Var þá lokið byggðamælingum sunnanlands og mælt um Vesturland, norður og austur um Húnaflóa. Árangurinn var 117 kortblöð af þriðjungi landsins, suður- og vesturhluta, í mælikvarða 1:50.000 (auk nokkurra sérkorta af afmörkuðum svæðum). Þau eru gjarnan nefnd herforingjaráðskortin í höfuðið á þeim sem stóðu fyrir gerð þeirra.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Bj%C3%B6rn_Gunnlaugsson
-https://islandskort.is/map/126#?c=0&m=0&s=0&cv=0&r=0&xywh=32%2C710%2C15103%2C8277
-https://islandskort.is/map/599#?c=0&m=0&s=0&cv=1&r=0&xywh=780%2C3052%2C7177%2C3933
-https://islandskort.is/map/1135#?c=0&m=0&s=0&cv=0&r=0&xywh=1012%2C4663%2C3138%2C1327
-Íslandskort.is – sótt 27.04.2023.
-https://timarit.is/files/9289295
-Ísafold, föstudaginn 24. mars 1976, Björn Gunnlaugsson, bls. 1-2.

Herforingjaráðskort

Reykjanesskagi – samsett herforingjaráðskort.

Árnakrókur

Ætlunin var að steðsetja Víkursel, Litlasel, Árnakrók og Stórasel austan við Selvatn.

Reykjavíkursel

Reykjavíkursel við Selvatn.

Árnakrókur er lögrétt Mosfellinga frá því um 1850 til 1900 uns hún fluttist í Hafravatnsrétt. Stórasel gæti hafa verið sel frá Elliðakoti (Helliskoti), en landamerki Elliðakots og Miðdals eru við lækjarsprænu, Sellæk, austast í Selvatni. Kort gefa misvísandi mynd af stöðu seljanna, en haft var hliðsjón af korti frá því um 1940, sem mun vera öllu réttar en seinni tíma kort af slíkum minjum. Þannig eru seljunum stundum víxlað á kortum og uppdráttum. Líklega hefur Stórasel verið norðar og Litlasel við Litluselsvík, sem er þar skammt sunnar við austanvert vatnið. Á báðum þessum stöðum eru nú sumarhús.
Gengið var austur með norðanverðu vatninu, að sumarbústað, sem þar er. Bústaður, Selbúð, er þar skammt vestar. Þegar komið var að bústaðnum tók á móti þátttakendum elskuleg hjón. Árni Kristinsson hafði orð fyrir þeim. Hann varð bæði hissa og glaður því enginn hafði fyrr sýnt neinn áhuga á rústum þessum. Hann taldi að hinar gömlu rústir væru skammt norðan við bústaðinn, á bakka Sellækjar. Sóttar voru loftmyndir, kort og aðrar upplýsingar, en kortin voru að vísu svolítið misvísandi. Sýndi Árni m.a. grein úr “Hesturinn okkar, 30. árg. 2. og 3. tbl. 1989”, en í þeirri umfjöllun er lýst staðháttum, örnefnum og minjum á þessu svæði.

Árnakrókur

Árnakrókur.

Frúin, sem uppalin er á þessum slóðum, taldi sig og muna eftir tóftum austan við Árnakróka, í grösugri hlíð þar á mót suðvestri. Gæti verið forvitnilegt að skoða síðar. Boðið var bæði upp á vatn og meðlæti, en hvoru tveggja var afþakkað að þessu sinni. Markmiðið var að skoða nærtækar minjar.
Árni vísaði á minjarnar skammt norðan við sumarhúsið. Þar var að sjá mjög gamlar rústir. Sjá mátti þó móta fyrir þremur rýmum. Árni sagðist hafa heyrt að rústir þessar gætu hugsanlega hafa verið af seli frá gamla Víkurbænum. Af einhverju hefur Selvatn a.m.k. verið nefnt eftir. Aðstaðan þarna er hin ákjósanlegasta, í skjóli fyrir suðaustanáttinni, nægt vatn og nægir bithagar, skammt neðan við Mosfellsheiði. Sellækur rennur hjá rústunum og ofan við þær er Selásinn. Líklegt þykir að bæði hafi verið hærra í vatninu á öldum fyrrum og auk þess hafi gróðurfar við vatnið breyst í aldanna rás.

Árnakrókur

Hleðslur í Árnakrók.

Í máldögum 1397 og 1505 er ekki getið um Víkursel. Ekki er þó ástæða til að álykta að seljabúskapur hafi legið niðri á því tímabili, því máldagarnir eru mjög fáorðir um búskaparefni.
Víkursel kom við sögu atburða sem gerðust nálægt aldamótum 1600 og vörðuðu tildrög hjúskapar. Séra Gísli Einarsson (f. 1570, d. 1660), hálfbróðir Odds biskups, “fékk lítilmótlega giftingu, átti mörg börn, en erfitt bú og hjónaband”. Kona hans var Þórey Narfadóttir (ein heimild nefnir hana Þórnýju) bónda í Reykjavík. Frá því er greint að Gísli, þá óvígður, hafi átt leið um Mosfellsheiði og náttað í Víkurseli. Var Þórey í selinu, en smalamaður fór heim um nóttina og tilkynnti Narfa bónda mannkomuna. Hann brá við skjótt og var kominn snemma næsta morgun til selsins að óvörum komumanni, gekk hart fram og neyddi Gísla til að taka Þóreyju að sér og ekta hana. Klemens Jónsson, skrásetjari Reykjavíkursögu 1929, dró þá ályktun af frásögn þessari að selið hafi verið undir Mosfellsheiði.
Víkursel hefur í seinni tíð verið staðsett í Öskjuhlíð. Elsta heimildin sem með vissu greinir frá því að Víkursel hafi verið í Öskjuhlíð er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Selsins er getið á eftirfarandi hátt: “Selstaða er jörðinni [REYKJAVÍK] eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn”.
Höfðinn ofan við selið við Seltjörn heitir Hríshöfði.

Árnakrókur

Árnakrókur.

Þá var gengið í Árnakrók. Um er að ræða lögrétt Mosfellinga frá því um 1850 til 1900 uns réttin færðist að Hafravatni. Árnakrókur er skammt austan við Selvatnið og hin merkilegasta mannvirku. Réttin er nokkuð heilleg og vel má sjá í henni almenning og dilka. Dilkarnir hafa verið 11 að tölu auk, tveggja minni. Þeir eru mismunandi stórir. Tækifærið var notað og GPS-punktar teknir og réttin rissuð upp.
Haldið var niður að svonefndu Stóraseli. Stór sheffer-hundur stökk að þátttakendum, sem fyrr voru hvergi bangnir. Enda kom í ljós að kjarkur hins stóra hunds var ekki meiri en hjá meðal hænu.
Gunnar Kristjánsson tók vel á móti þátttakendum. Hann kvaðst vera uppalinn á Gunnarshólma og þekkja nokkuð vel til á landssvæðinu. Elliðakot hafi undir það síðasta heyrt undir Gunnarshólma. Það hafi verið landmikil jörð og hafi landamerki þess náð allt að lækjarsprænunni austan í Selvatnið neðan við Litlasel og upp á Sandskeið. Helmingur Selvatnsins (austurhlutinn) hefði tilheyrt þessu landi.

Hænur

Hænur við Stórasel.

Stórasel gæti því hugsanlega hafa verið sel frá Elliðakoti (Helliskoti). Handan (að norðanverðu) væri land Miðdals og Miðdalsheiði ofar. Landamerkin lægju svo til í gegnum mitt hjónarúm sumarhússins sunnan Litlasel. Gunnar er þarna með íslenskar hænur og sígalandi hana. Hann sagðist ekki muna eftir tóftum hins gamla Stórasels á þessum stað. Sjálfur hefði hann byggt sumarhús sitt (sem reyndar, líkt og mörg önnur “sumarhús” við vötnin á heiðinni eru heilsársbústaðir) upp úr gömum bústað. Líklegt megi telja að Stórasel hafi verið þarna á sléttu í hlíðinni, á þeim stað, sem bústaðurinn er nú. Svipast var um eftir hugsanlegum tóftum, en engar sáust. Lækur er sunnan bústaðarins og grassvæði neðst með honum. Af ummerkjum að dæma gæti selið hafa verið á hæðardraginu þar sem bústaðurinn er nú.
Við Selvatn býr bæði áhugasamt og frótt fólk um fyrri nytjar.
Ætlunin er að skoða svæðið austan við Selvatn og hugsanlegar tilteknar tóftir, sem þar eiga að vera utan í hlíðardragi. Í hlíðinni skammt frá á að vaxa stór og fallegur einir.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tík 1 klst og 11 mín.

Sjá nánari umfjöllun um svæðið í “Hesturinn okkar, 30. árg. 2. og 3. tbl. 1989”.

Árnakrókur

Árnakrókur – uppdráttur ÓSÁ.

Elliðakot

Tóftir gamla bæjarins að Elliðakoti eru á ási norðan Nátthagavatns.

Elliðakot

Elliðakot.

Einkennandi fyrir tóftirnar, sem enn standa, eru reglulega tilhöggvnir steinar, allir að svipaðri stærð. Um er að ræða stórt skepnuhús og annað minna, líklega sauðakofa, sem breytt hefur verið í hænsnahús. Íbúðarhúsið hefur staðið á grunni vestan skepnuhússins. Heimagarðurinn er í brekku á móti suðvestri. Heimtröðin er norðan hans.

Elliðakot

Elliðakot.

Gamlir hleðslugarðar umlykja heimatúnið. Norðaustan í því eru garðar umhverfis matjurtargarð. Sunnan bæjarins, á klapparholti, er snyrtilega hlaðin tóft. Ekki er að sjá að tóftin hafi verið þekjuð eða notuð. Þó gæti hafa verið hlið í henni framanverðri. Þá gæti þana verið um að ræða “sýningarbás” í vegghleðslu með grjótinu úr námunni, en í holtinu er steinnáma og þar hefur að öllum líkindum mest af grjótinu í skepnuhúsin og önnur hlaðin hús verið sótt. Stafaáletrun (EG eða EC) er á einum steini útihúsanna. Þess má geta að Eggert Norðdal Guðmundsson bjó í Elliðakoti frá þriggja ára aldri (fæddur í Landbroti 1866). Faðir hans fluttist síðan að Geithálsi, en Eggert að Hólmi eftir að hann kvæntist. Talið er að Eggert og Skúli, bróðir hans, hafi hlaðið steinveggina í Elliðakoti seint á 19. öld. Ættarnafnið Norðdal mun vera komið frá Hvammi í Norðurárdal.

Elliðakot

Elliðakot.

Bærinn hefur staðið undir lágu hamrabelti. Ofan hans liggur gata um Miðdalsheiði, framhjá Selvatni og áfram upp með Lyklafelli, Draugatjörn og að Kolviðarhól annars vegar og hins vegar áleiðis að Grafningi við Þingvallavatn. Um er að ræða svonefnt nyrðra vegarstæði á þjóðleiðinni austur fyrir fjall, en deilur stóðu um það um 1880 á hvora leiðina ætti að leggja áherslu m.t.t. til samgöngubóta. Þessi leið var ákjósanlegri þar sem hún sneiddi ofan við Fóelluvötn og þær ófærur sem Sandskeiðið var.

Elliðakot

Elliðakot – útihús.

Leifar kots Sólheimatjarnar eru norðvestar. Skammt austar eru þrjú stór grenitré. Við þau eru hluti skorsteins, nokkurs konar minnismerki um fólkið, sem þarna lifði og hrærðist. Vestan við Elliðakot, á grónum hæðóttum túnum, eru allnokkrar mun eldri minjar, a.m.k. gamall bæjarhóll með beðasléttum. Túnið er bókstaflega allt unnið þannig, eða svo til. Þetta var víst víða gert en svo sléttað aftur þegar tæki komu í stað handa. Mjög mikil vinna, allt með höndum. Menn töldu að það fengist meira hey af slíku, þ.e. að fermetrafjöldinn yrði meiri fyrir utan það skurðirnir á milli söfnuðu til sín vatni þannig að þurrara yrði. Slétturnar eru mót suðvestri. Skammt frá eru tóftir útihúsa, garðar o.fl. Rétt er að geta þess að eldra nafn á Elliðakoti var Helliskot og gætu þarna verið um að ræða tóftir þess bæjar.

Elliðakot

Beðsléttur við Elliðakot.

Búið var í Elliðakoti fram til 1940. Brá þá síðasti bóndinn búi. Búið var þó í húsunum fram til 1948 eða 1949. Brunnu húsin þá og fór jörðin þar með endanlega í eyði.
Þegar farið er um þetta svæði er hvergi merkingar að sjá. Engar aðgengilegar upplýsingar er að fá um það. Í fornleifaskýrslum er einungis fjallað um vörður og einstaka tóft, en hvergi svo vitað sé um um býlin sjálf, fólkið og minjarnar. Svæðið í heild er mjög fallegt og ákjósanlegt til útivistar, en sagnfræðilega einangrað. Hvort það er af ásettu ráði eða ekki skal ósagt látið.

Elliðakot

Fjárhústóft ofan Elliðakots.

Fyrir ofan Lækjarbotna, liggur vegurinn um svo kallaða Fossvelli, er áin rennur yfir, og hefur hún þar oft gert usla. Svo liggur hann upp Lakheiði, en þar er ekki annað að óttast en þverrásir, sem stundum hafa orðið nokkuð dýrar. En þegar kemur upp undir Arnaþúfu, fer heldur að versna sagan. Þar liggur vegurinn á parti fram með ánum, fyrir sunnan neðri vötnin – svo er Fóelluvötnum skipt – enda flýtur hann þar burtu árlega, sem þó er enn verra, er kemur upp á Sandskeiðið. Þar má segja, að komi vatn úr hverri átt og það eigi lítið. Renna þar saman allar leysingakvíslir, er koma sunnan með öllum Bláfjöllum og hraunum og heiðum þar í kring, einnig með Vífilfelli að austan og norðan. Verður þá yfir allt Sandskeiðið og Fóelluvötnin einn hafsjór, enda sýndi það  sig best, veturinn eftir að vegurinn var þar lagður, því þá gersópaðist hann svo burtu, að eftir voru kafhlaup, þar sem hann var áður. Síðan hefur þar ekki verið vegur lagður og var það hyggilegt. Að vísu er þar allgóður vegur í þurrkatíð um hásumarið, en fram eftir öllu vori er þar oft lítt fært.

Elliðakot

Varða á Austurleið ofan Elliðakots.

Fyrir ofan Sandskeiðið taka öldurnar við og er þar ekki slæmt vegstæði í sjálfu sér, en þar er svo mikið aðrennsli, sunnan úr Sauðadölum og fjöllum þar í grennd, að vegurinn hefur orðið þar fyrir miklum áföllum og er nú svo eyðilagður, að víða er hann verri en enginn vegur. En síðast og ekki síst kemur Svínahraun, er staðið hefur eins og “þrándur í götu” fyrir allri vegasmíð á þessari suður-vegsleið, með alla sína lögnu og flóknu vegargerðasögu, er væri nóg í stóra bók, og verður henni því sleppt hér.

Austurleið

Austurleiðin sunnan við Lyklafell.

Í fáum orðum sagt, virðist vegurinn frá Hólmi upp að Kolviðarhól vera lagður um þær verstu torfærur, er voru á þessari leið og er það hrapalegt, um hinn fjölfarnasta veg upp frá sjálfum höfuðstaðnum. Þetta sýnist nú því verra, þar eð fenginn var útlendur vegfræðingur til að leggja veginn, en ætli hann hafi eða verið þá skipað að skoða, hvort ekki væri hentugra vegstæði á öðrum stað, en eitt má telja víst, að hefði vegurinn verið fyrst lagður frá Reykjavík, að þá hefði aldrei verið farið með hann suður fyrir ár, og upp í Fóelluvötn, sem nú er líka dálaglegur krókur.

Austurleið

Austurleiðin nyrðri.

Hér skal því benda á, hvar vegurinn hefði átt að liggja, eða öllu heldur, hvar hann nú ætti að leggjast, því ótrúlegt er að hann, þar, sem hann nú er líti dagsljós tuttugustu aldarinnar, og það því heldur, sem við nú höfum vegfræðing við hendina, og erum búnir að fá dálitla reynslu í vegasmíði.
Nyrðri leiðin hefur af sumum hefur verið álitin betri til vegalagningar, enda er þeim óðum að fjölga, er sannfærast um, að þar hefði hann orðið að mun styttri, ódýrari og varanlegri, því á leiðinni frá Árbæ og upp að Húsmúla, eru bara tvær leysingavatns-rásir og lækurinn milli Vilborgarkost og Elliðakots, er bæði væri hægt að brúa, og eins að fara fyrir upptök hans, ef það þætti betra, en það mætti með því móti að skilja ekki suðurveginn frá Mosfellsheiðarveginum fyr en fyrir ofan Sólheimatjörn.

Austurleið

Varða við nyrðri leiðina.

Leysingarásirnar eru, önnur fyrir vestan Lyklafell, sem sjaldan rennur og þá örlítil, en hin fyrir austan fellið og er hún nokkuð meiri, en þó hverfandi á móti öllu því vatni, er kemur úr suðurfjallinu, er nú stendur mest hætta af, hvað veginn áhrærir. Að nyrðri leiðin sé styttri, getur hver meðalgreindur maður séð og þó ekki sé mælingafróður, því frá Árbæ upp í Hellisskarð, er línan hér um bil um Elliðakot, Lyklafell og norðan til á öldunum, en bein lína milli tveggja punkta er þó stysti vegur.

Fóelluvötn

Fóelluvötn – Lyklafell fjær.

Lagt var til að þingið léti vegfr. Sigurð Thoroddsen rannsaka vegarstæði á nyrðri leiðinni, áður en veitt væri stórfé til viðgerðar suðurveginum enn á ný, því þó gert væri við hann all-rækilega þá er þó efri hlutinn í mesta óstandi, helst öldurnar, er ekki mundi veita af nokkrum þúsundum krónum til viðreisnar. Sumum þótti nú kannske nokkuð í ráðist, að hætta nú við suðurveginn, en slíkt er þó varla áhorfsmál, því þó búið sé að verja til hans allmiklu fé, þá er því þó alls ekki á glæ kastað. Fyrst hefur vegurinn verið til mikils hægðarauka og að öðru leyti hefur féð að mestu leyti runnið í hendur landsmanna sjálfra. En úr því við höfum ekki peninga til vegabóta, nema af skornum skammti, ætti þeim helst að vera varið þar, er traustast yrði með framtíðinni, en ekki fleygt út til eins fávíslegrar vegagerðar, eins og suðurvegurinn er, því á þeim stað, sem hann er nú, verður hann fyrr eða síðar dæmdur ófær.

Letursteinn

Áletrun á hornsteini Elliðakots.

Nátthagavatn er syðst, þá Selvatn (en vegarslóðinn ofan Elliðkots (Helliskots) liggur áleiðis að því, þá Krókatjörn, Nykurtjörn og Leirtjörn og loks Silungatjörn nyrst.
Í viðtölum við fólk í sumarbústað við Nátthagavatn kom fram að það teldi að vegurinn ofan við Elliðakot hafi verið gömul reiðleið austur fyrir fjall sem og að Grafningi að Þingvallavatni. Það gæti vel passað við legu gamla Þingvallavegarins, sem liggur skammt norðan nýja vegarins að Nesjavöllum.
Meira um svæðið á næstunni.
Frábært veður – sól og stilla. Ferðin um svæðið tók 1 klst og 1 mín.

Upplýsingarnar um vegagerðina eru m.a. fengnar af
http://www.vegag.is/vefur

Elliðakot

Letursteinn í Elliðakoti.

Rauðavatn

Ætlunin var að skoða og staðsetja fjárborg sunnan við Rauðavatn sem og tóft af sauðahúsi þar skammt austar. Einnig var og ætlunin að skoða minjar Örfiriseyjarsels í Lækjarbotnum undir Selfjalli.

Lækjarbotnar

Aðsetur útilegumanna fyrrum – Hellisopið.

Lækjarbotnar voru efsta byggða ból vestan Hellisheiðar og þar lá þjóðleiðin um áður. Útilegumenn bjuggu í helli í gili skammt ofan við Botnana. Guðmundur H. Sigurðsson, bóndi í Lækjarbotnum, færði bæ sinn á árunum 1904-1910 að Suðurlandsvegi og nefndi Lögberg. Þá var gamli bærinn nefndur Gömlubotnar. Sjá má leifar af gamla túninu á Lögbergi sunnan þjóðvegarins, en bæjarstæðið hvarf undir veginn. Tröllakatlarnir neðan Lögbergsbrekku eru fallegir gervigígar líkt og hraunkatlarnir á Strokkamelum við Hvassahraun og stóru hraunkatlarnir í Hnúkunum.

Rauðavatn

Rauðavatn – fjárborg.

Í Rauðavatnsskógi eru bæði góðir göngustígar og nægt rými. Umhverfið er hið fallegasta. Umfeðmingur, blágresi og smjörgras ásamt fleir blómategunum vaxa þar utan barr- og birkitrjáa.
Skógræktarfélag Reykjavíkur var stofnað var 1946, en undanfari þess var Skógræktarfélag Íslands, stofnað 1930, sem þá breyttist í landssamtök skógræktarfélaga. Fyrsta skógræktarfélagið var raunar stofnað upp úr aldamótum en starfsemi þess lognaðist út af nokkrum árum síðar, þótt brautryðjendastarf frumherjanna gleðji nú gest og gangandi við Rauðavatn.

Rauðavatn

Rauðavatn – rétt.

Rauðberjalyng (Vaccinium vitis-idaea) er mjög sjaldgæft á Íslandi, þótt það sé með algengasta berjalynginu í Noregi og Svíþjóð (Sæ: tyttebær). Það líkist nokkuð sortulyngi, en blöðin eru ofurlítið tennt, þynnri en á sortulyngi og með niðurorpnum röndum. Berin eru rauð og safarík. Heimkynni rauðberjalyngsins á Íslandi eru á Austfjörðum, en einnig vex það á þrem stöðum í Öxarfirði. Á síðari árum hefur það einnig fundizt í Þrastarskógi og í furulundinum við Rauðavatn, og gæti það á báðum þeim stöðum verið aðflutt með skógrækt.
Leitað var að sauðakofatóftinni. Leitarþjálfun undanfarinna ára kom nú í góðar þarfir.

Rauðavatn

Rauðavatn – letursteinn.

Gengið var upp á hæsta móholtið sunnan Rauðavatns og línan síðan tekin til vesturs. Þá var gengið svo til beint á tóftina, sem er vestan undir hæðinni, svo til alveg í skógarmörkunum. Tóftin er með hlöðu í endann. Vel sést móta fyrir henni í hlíðinni. Neðan hennar, inni í skóginum eru greinilegir hlaðnir garðar er mynda ferköntuð gerði.

Í framhaldi af samþykkt bæjarstjórnar Reykjavíkur þann 26. september 1918 bentu verkfræðingarnir Jón Þorláksson og Guðmundur Hlíðdal á tvær virkjunarleiðir í Reykjavík, annars vegar að virkja nýtanlega fallhæð í ánum í tveimur rafstöðum sem byggðar yrðu við árnar, hin neðri við Ártún og hin efri ofan við Árbæ, og hins vegar að nota alla fallhæðina í einni stöð sem staðsett yrði í Grafarvogi.

Skyggnir

Skyggnir.

Bæjarstjórn ákvað að stöðin yrði sett við Grafarvog, svo framarlega sem engir óvæntir erfiðleikar kæmu í ljós við fullnaðarrannsókn á virkjunaraðstæðum. Ætlunin var að stífla Elliðaárnar við hólinn Skyggni, neðan við Elliðavatnsengjar, veita ánum þar úr farvegi sínum í Rauðavatn eftir Margróf og nýta alla fallhæðina þaðan til sjávar um 74 metra fall, í einni stöð við Grafarvog.
Niðurstaðan úr rannsóknum sem fram fóru sumarið 19191 leiddu til þess að horfið var frá þessari tilhögun á virkjun ánna og ákvað bæjarstjórn hinn 6. desember 1919 að byggja 1000 hestafla rafstöð við Ártún.

Borgarholtsbrekkur

Fjárborg.

Á móhól skammt sunnan við Rauðavatn er fjárborgin. Vel sést móta fyrir henni á hólnum. Hún hefur verið gerð úr nokkuð stórum steinum neðst, en síðan hefur hún verið tyrfð. Borgin er á fallegum stað, en líklega vita fáir, sem þarna eiga leið um, hvaða mannvirki þetta gæti hafa verið.

Þá var haldið upp í Lækjarbotna með viðkomu í hraunkötlunum, klepragígum í Leitarhrauni undir Lögbergsbrekku, Tröllabörnum. Þrír katlanna eru stærstir. Hægt er að fara ofan í tvo þeirra, en þeir hafa myndast vegna gasuppstreymis úr hrauninu á sínum tíma. Fallegt náttúrufyrirbæri við fjölfarna leið, sem óhætt væri að gera hærra undir höfði en nú er. Tröllabörn (Tröllabolar) eru friðlýst náttúruvætti síðan 1983. Þau eru tíu talsins, um 4.500 ára gömul.

Laekjarbotnar-2

Tóft í Lækjarbotnum.

Í Lækjarbotnum, nálægt skátaskála Væringja, eru tóftir Örfiriseyjasels, auk tófta frá Lækjarbotnum.
Árið 1868 var gefið út nýbýlaleyfi fyrir landinu Lækjarbotnum undir Selfjalli. Fjallið dregur nafn sitt af seli jarðarinnar Örfiriseyjar á Seltjarnarnesi. Örfirisey átti selstöðu þar og hafði í seli og hefur svo verið vegna landleysis jarðarinnar. Selið var líklega aflagt árið 1799, þegar byggð í Örfirisey fór í eyði eftir Básendaflóðið. Lækjarbotnar var efsta byggða ból vestan Hellisheiðar og í þjóðbraut, því þarna inn við Selfjallið lá gamla leiðin um Lækjarbotna. Þetta nýbýli var því vinsæll áningarstaður bænda úr austursveitum á kaupstaðarferð til Reykjavíkur og ekki síður á austurleið.

Lögberg

Lögberg.

Guðmundur H. Sigurðsson bóndi í Lækjarbotnum (1876-1957) flutti húsið á árunum 1904-1910 að þjóðveginum sem lá um Fossvallaklif og rak þar greiðasölu. Í manntalinu 1910 er býlið nefnt Lögberg Lækjarbotnar og er líklegt að þá hafi verið farið að nefna eldra bæjarstæðið Gömlubotna. Guðmundur gaf Skátasambandi Reykjavíkur land í Gömlubotnum og reistu þeir þar árið 1929 fyrsta útivistarskálann á Íslandi. Hann var nefndur Væringjaskálinn og var fluttur á Árbæjarsafn árið 1962 og endurbyggður þar. Fimm fornminjar eru skráðar í Gömlubotnum: Fjárhús, rétt, sel, fjárból og rúst.

Lögberg

Leiði Guðmundar á Lögbergshólnum.

Á Lögbergi hafði Guðmundur greiðasölu og gistingu ásamt bústýru sinni, Guðfinnu Karlsdóttur, og nefndi býlið Lögberg. Húsið var rifið þegar Suðurlandsvegurinn var lagður á sjöunda áratug 20. aldar. Á ás sunnan vegarins er gamla túnið á Lögbergi, Túnhóllinn. Þar eru bæjarstæði og fleiri rústir ásamt grafreit, en þar hvílir Guðmundur bóndi og veitingamaður, Svavar Guðmundsson. Norðan við grafreitin má sjá leifar útihúss með hlöðu í suðurenda.

Upphaf byggðar í Kópavogi var í landi jarðanna Kópavogs og Digraness sem voru í eigu ríkisins en búskap á þeim var hætt skömmu eftir 1930. Í sveitarstjórnarkosningum sumarið 1946 náðu íbúar Kópavogs meirihluta í hreppsnefnd Seltjarnarneshrepps og öll stjórnsýsla fluttist til Kópavogs.

Lögberg

Tóft á túnhólmum við Lögberg.

Íbúar Seltjarnarness knúðu á að eigum Seltjarnarneshrepps yrði skipt upp. Skipting sveitarfélagsins fór fram um áramótin 1947-48 og efnt var til kosninga í hinum nýja Kópavogshreppi í janúar 1948. Sama ár var reytum Seltjarnarneshrepps skipt. Jarðirnar Kópavogur, Digranes, Hvammkot (Fífuhvammur), Vatnsendi, Geirland, Gunnarshólmi og Lögberg (Lækjarbotnar) voru lagðar undir Kópavogshrepp.
Í gili ofan við Lækjarbotna er hellir og skjól þeirra Eyvindar og Margrétar Símonardóttur úr Ölfusi.
Frábært veður – stilla og hiti. Ferðin tók 1 klst og 1 mín.

Laekjarbotnar-1

Hellir Margrétar og Eyvindar ofan Lækjarbotna.

Árbæjarsafn

FERLIR er vanur víðáttunni, en að þessu sinni var ákveðið að fræðast um Árbæjarsafn á svonefndum Safnadegi. Margt forvitnilegt bar fyrir augu og mikið af upplýsingum lágu á lausu á safnasvæðinu, ýmist utan við húsin, sem þar eru eða inni í þeim. Þó vantar merkingar við sumt, sbr. letursteininn vestast á svæðinu. Á hann er m.a. markaður stafurinn M, sem gæti merkt landamerki eða mörk lands. Um uppruna hans er hvergi getið að sjá má.

Árbæjarsafn

Árbæjarsafn.

Árbæjarsafn er í senn útisafn og byggðasafn og tilheyrir Minjasafni Reykjavíkur. Safninu er ætlað það hlutverk, að gefa almenningi innsýn í lifnaðarhætti, störf og tómstundir Reykvíkinga fyrr á tímum. Safnið er einnig varðveizlu- og skrásetningarstofnun safngripa, húsa og fornleifa. Árið 1957 var ákveðið, að á túni Árbæjar skyldi gerður almenningsgarður og komið upp safni gamalla húsa með menningarsögulegt gildi fyrir höfuðborgina.

Árbæjarsafn

Árbæjarsafn í árdaga.

Safnið var opnað strax sama sumar. Flest húsanna, sem safnið skartar eru úr Miðbænum. Húsin eru u.þ.b. 20 talsins og alltaf bætist við. Þau eru forvitnileg bæði innan- og utandyra. Safnsvæðinu má skipta í fimm hluta: Við Torgið eru stærstu húsin, reisuleg, tvílyft eða portbyggð timburhús frá s.hl. 19. aldar og byrjun hinnar 20. Í Þorpinu eru smærri íbúðarhús iðnaðar- og tómthúsmanna frá 19. öld og upphafi 20. aldar.
Á Hafnarsvæðinu eru tvö stór verzlunarhús frá Vopnafirði og leikfangasýning og aðstaða fyrir skólahópa í öðru þeirra. Fjölgað verður bátum og öðru, sem tilheyrir siglingum og útgerð á svæðinu. Í Sveitinni er gamli Árbærinn og fleira, sem tengist búskap og dreifbýli.

Árbæjarsafn

Bríet.

Í Vélasalnum er m.a. fyrsta eimreið landsins, gufuvaltarinn Bríet, slökkvibílar o.fl. Árbæjarsafn er aðallega opið yfir sumartímann en tekur á móti skólabekkjum og hópum allan ársins hring. Árbæjarsafn hefur árlega gengizt fyrir gönguferðum með leiðsögu um Elliðaárdalinn.
Árbæjarsafn var stofnað 1957 sem útisafn til að gefa almenningi hugmynd um byggingarlist og lifnaðarhætti fyrri tíma. Tíu árum seinna var það sameinað Minjasafni Reykjavíkur.

Árbæjarsafn

Árbæjarsafn – Árbær.

Safnið er staðsett í landi Árbæjar, rótgróinnar bújarðar, sem er fyrst nefnd í rituðum heimildum árið 1464. Árbær var meðalstórt býli og bjuggu þar lengi tvær fjölskyldur. Síðasti ábúandinn flutti burtu árið 1948.
Flest húsin á Árbæjarsafni hafa verið flutt úr miðbæ Reykjavíkur. Elsta húsið er Smiðshús, byggt um 1820. Af öðrum 19. aldar húsum má nefna Suðurgötu 7, Nýlendu, Þingholtsstræti, Efstabæ og Líkn.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Í Árbæjarsafni eru ýmsar sýningar og viðburðir sem draga að sér fjölda gesta. Má þar nefna ýmsa handverksdaga, fornbílasýningu og jólasýningu. Að þessu sinni var áhugaverð sýning á gömlu bifhjólum.
Árbæjarsafn er minjasafn Reykjavíkur og er hlutverk þess á sviði minjavörslu, rannsókna og miðlunar í formi safnfræðslu, sýninga og útgáfu.
Borgarminjavörður er forstöðumaður Árbæjarsafns.
Að þessu sinni var m.a. sýning er nefndist Dagur í lífi Reykvíkinga – sjötti áratugurinn.
Á sýningunni er fylgst með sex Reykvíkingum á ólíkum aldri í amstri hversdagsins á árunum 1950-1960. Dvalist er við iðju þeirra einn tiltekinn dag og þeim fylgt eftir frá morgni til kvölds. Jafnframt er litið inn á heimili sex manna fjölskyldu í bænum 2. september 1958 og reynt að endurskapa andrúmsloft á dæmigerðu Reykjavíkurheimili þess tíma.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Veturinn 2003-2004 er hægt er að panta leiðsögn á þessa sýningu sem er í Kornhúsinu.
Þá voru gestir boðnir velkomnir á sýninguna Saga Reykjavíkur – frá býli til borgar í Árbæjarsafni – Minjasafni Reykjavíkur þar sem þróun byggðar og mannlífs í Reykjavík allt frá landnámi til ársins 2000 er í kastljósinu. Sýningin byggir að stórum hluta til á áralangri rannsóknarvinnu á safninu á fornleifum í Viðey og víðar, sögu Innréttinganna, munum 19. og 20. aldar og byggingarsögu borgarinnar.
Sögusýningin er liður í dagskrá Reykjavíkur menningarborgar Evrópu árið 2000. Á þessari sýningu var m.a. farið yfir eftirfarandi úr sögu Reykjavíkur:

Ingólfur og niðjar hans

Árbæjarsafn

Letursteinn í Árbæjarsafni.

Ísland byrjaði að byggjast frá Noregi á 9. öld. Samkvæmt hefðbundinni söguskoðun og þeim skriflegu heimildum, sem til eru, nam Ingólfur Arnarson fyrstur manna land á Íslandi. Hann setti bæ sinn niður í Reykjavík um 870 og staðfesta fornleifarannsóknir við Aðalstræti og Suðurgötu þá tímasetningu.
Lítið er vitað um fjölskyldu Ingólfs og hagi hennar annað en að kona hans hét Hallveig Fróðadóttir, sonur þeirra Þorsteinn og þrælar Vífill og Karli. Þau reistu sér skála við núverandi Aðalstræti en landið, sem Ingólfur helgaði sér, var afar víðáttumikið, náði frá Brynjudalsá í Hvalfirði að Ölfusá í Árnessýslu.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Afkomendur Ingólfs og Hallveigar í karllegg báru virðingarheitið allsherjargoðar vegna stöðu sinnar sem afkomendur fyrsta landnámsmannsins. Þeir beittu sér fyrir stofnun Kjalarnesþings og áttu verulegan þátt í stofnun Alþingis á Þingvöllum árið 930. Þorkell máni, sonarsonur þeirra, var lögsögumaður og sonur hans, Þormóður, var allsherjargoði er Íslendingar tóku kristni árið 1000.
Sagan segir að Ingólfur hafi valið sér Reykjavík til búsetu eftir tilvísun guðanna vegna þess að öndvegissúlur hans rak þar á land. Líklegra er þó að Reykjavík hafi verið valin vegna ótvíræðra landkosta. Þar má nefna milda veðráttu, gott skipalægi, nægt undirlendi, rekafjörur, mýrar til rauðablásturs og mótekju, heitt vatn í jörðu, gjöful fiskimið, eggver og selalátur í eyjum, ágætt beitiland, akureyjar og laxveiði í ám. Landnámsmennirnir þurftu ekki síst að treysta á veiðiskap sér til lífsviðurværis og er staðurinn sem Ingólfur kaus sér heppilegur frá því sjónarmiði.

Ingólfur hefur með hinu stóra landnámi sínu hugsað sér að ráða því hverjir settust að undir veldisstól hans á Suðvesturlandi.

Árbæjarsafn

Árbær.

Eftir hans daga saxaðist smám saman á landnám hans. Í nágrenninu risu stórbýli sem skyggðu jafnvel á sjálfa Reykjavík, hugsanlega vegna erfða meðal afkomenda Ingólfs. Þar má nefna Laugarnes og Nes við Seltjörn. Eftir árið 1000 er Reykjavíkur sjaldan getið í heimildum og ætt Ingólfs hverfur af sögusviðinu. Vaðmál varð helsta útflutningsvara Íslendinga og veiðijörðin Reykjavík því ekki eins eftirsótt og hún var á landnámsöld.

Víkin og Viðey – búskapur og klausturhald

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Á tímabilinu 1200-1750 voru misjafnlega stöndug býli dreifð um landsvæðið þar sem nú er Reykjavíkurborg. Bændur á höfuðbólinu Vík (Reykjavík) stunduðu hefðbundinn búskap og reru til fiskjar. Framan af tímabilinu er fátt skrifað um Víkurbændur en í heimildum frá síðmiðöldum kemur fram að þar hafi jafnan búið heldri bændur, hreppstjórar og lögréttumenn, þó að ekki teldist býlið til helstu höfðingjasetra. Víkurkirkja stóð, gegnt bæjarhúsum, þar sem nú er Bæjarfógetagarður við Aðalstræti. Kirkja mun hafa staðið í Vík a.m.k. frá því um 1200, sennilega miklu fyrr.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Að síðasta sjálfseignarbóndanum í Vík látnum, snemma á 17. öld, var jörðin keypt undir konung en þungamiðja valds og verslunar hafði þá smám saman færst að sunnanverðum Faxaflóa. Kirkja og konungsvald höfðu eignast þar margar jarðir en Bessastaðir urðu aðsetur hirðstjóra konungs árið 1346.
Klaustur af Ágústínusarreglu var stofnað í Viðey árið 1226 og átti það eftir að vaxa og dafna að veraldlegum auði næstu aldir og verða eitt ríkasta klaustur landsins. Klausturkirkjan var helguð Maríu mey og sungu Viðeyjarmunkar þar tíðir sínar dag hvern. Í klaustrinu var ágætur bókakostur og voru þar iðkuð klausturleg fræði og skrifaðar bækur.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Á síðmiðöldum, a.m.k., er líklegt að straumur pílagríma hafi legið til Viðeyjarklausturs á helstu hátíðisdögum kirkjuársins. Margir merkir menn hafa notið príors- eða ábótatignar í Viðeyjar-klaustri, þeirra á meðal Styrmir Kárason fróði, Steinmóður Bárðarson, officialis Skálholtskirkju, og Ögmundur Pálsson, síðar Skálholtsbiskup.

Eftir að siðbreyting gekk í garð í Danmörku tók Diðrik af Minden, umboðsmaður hirðstjóra konungs á Íslandi, Viðeyjarklaustur á hvítasunnudag 1539. Menn hans létu greipar sópa og misþyrmdu munkunum. Eftir að siðbreytingin gekk endanlega í garð á Íslandi 1550 var klausturlíf í Viðey lagt af og jarðeignir klaustursins komust í eigu konungs. Eftir það var rekið bú frá Bessastöðum og síðar holdsveikrahæli í Viðey.
Fornleifauppgröftur fór fram í Viðey á árunum 1987-1995 á vegum Árbæjarsafns – Minjasafns Reykjavíkur og fundust við hann margar merkar minjar, ekki síst frá klausturtímanum, þeirra á meðal fágætar vaxtöflur.

Þorp myndast – Innréttingarnar

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Með kaupauðgistefnunni á 17. og 18. öld vaknaði áhugi um Evrópu á að auka sem mest framfarir í hverju landi með því að koma upp innlendum iðnaði og efla aðra atvinnuvegi. Danska konungsvaldið stuðlaði að því að sú stefna næði einnig fram að ganga á Íslandi með því að styrkja stofnun hlutafélags um íslenskt iðnaðarfyrirtæki, svokallaðar Innréttingar. Konungsjarðirnar Reykjavík og Örfirisey voru m.a. lagðar til fyrirtækisins. Ullariðnaði var komið á laggirnar í Reykjavík. Alls voru reist um 16 hús á vegum Innréttinganna á sjötta áratug 18. aldar og urðu þau fyrsti vísirinn að þorpi í Reykjavík. Ummerki um öll þessi hús, nema tvö, eru nú horfin. Húsið Aðalstræti 10 er eina húsið, sem enn stendur heillegt, en Aðalstræti 16 er einnig að grunni til Innréttingahús.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Fyrsta húsið, sem reis í Reykjavík, fyrir utan verksmiðjuhúsin og nokkur íbúðarhús, var stórt steinhús sem byggt var í landi Arnarhóls fyrir austan læk á árunum 1761 til 1771. Það var tugthús fyrir Ísland (nú Stjórnarráð Íslands) sem átti að rúma 54 fanga. Hugmyndin var sú að fangarnir ynnu við ullariðnað og yrðu þannig betri verkmenn.
Skúli Magnússon landfógeti var meðal helstu talsmanna Innréttinganna og barðist ötullega fyrir tilvist þeirra allan embættistíma sinn. Hann kom sér upp virðulegum bústað í Viðey, sem enn stendur, og bjó þar frá 1754 til dauðadags 1794. Eftir 1767 dró mjög úr starfsemi Innréttinganna. Í Reykjavík var lengst unnið við ullariðnað og hélst það fram yfir aldamótin 1800.

Verslun og handverk

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Elsta heimild um verslunarstað í Hólminum (Grandahólma) við Reykjavík er frá 1521 en um 1700 voru verslunarhúsin flutt þaðan í Örfirisey. Kaupmaðurinn fluttist inn til Reykjavíkur 1759 en verslunarhúsin voru ekki flutt þangað fyrr en 1780.
Konungleg auglýsing um afnám einokunarverslunar var gefin út 18. ágúst 1786 og 17. nóvember sama ár var gefin út tilskipun um einkaleyfi sex kaupstaða til verslunar á Íslandi en Reykjavík ein hélt því óslitið til frambúðar. Verslun var þó eingöngu heimil þegnum Danakonungs og danskir kaupmenn voru eftir sem áður allsráðandi um verslunina.
Í febrúar 1787 var kaupstaðarlóð Reykjavíkur mæld út en þá var aðeins einn kaupmaður í Reykjavík, Sunchenberg, sem áður hafði stýrt einokunarversluninni. Verslunarhús hans stóð þar sem nú er Aðalstræti 2. Ári síðar lét fyrsti nýi kaupmaðurinn, Hans Kristjan Fisker frá Björgvin í Noregi, útmæla sér lóð þar sem síðar var Aðalstræti 3. Þar með var hafin samkeppni í verslun í Reykjavík.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Tíu til tólf danskir og norskir kaupmenn settu næstu ár niður verslunarhús sín á fjörukambinn (í Hafnarstræti) en bjuggu yfirleitt sjálfir í Danmörku eða Noregi og höfðu verslunarstjóra (faktora) til að stýra daglegum rekstri í Reykjavík. Auk kaupmanna, faktora og verslunarþjóna gátu iðnaðarmenn einnig fengið borgarabréf og töldust meðal borgara bæjarins. Bráðlega myndaðist þar stétt margs konar handverksmanna.
Sölubúðir kaupmanna í Reykjavík voru yfirleitt í lágreistum, biksvörtum timburhúsum í dönskum stíl. Búðirnar voru kaldar og dimmar og þar ægði saman hvers kyns vörum. Peningaverslun var nær óþekkt fram undir aldamótin 1900 en allt fór fram með vöruskiptum.

Árbæjarsafn

Árbæjarsafn.

Ný tímamót í verslunarsögu Íslands urðu árið 1855 er verslunin var gefin frjáls öllum þjóðum. Upp úr 1880 breyttust verslunarhættir verulega í Reykjavík með nýjum verslunarsamböndum, auknu vöruúrvali og bættri þjónustu. Þáttur íslenskra kaupmanna jókst þá hratt og ný verslunarsambönd urðu til, einkum við Noreg, sem þá tilheyrði ekki lengur Danaveldi, og Bretlandseyjar.

Höfuðstaður í nánd við nýja tíma

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Þjóðhátíðin 1874 hafði mikla þýðingu fyrir Reykjavík. Bærinn var þá allur prýddur, götur breikkaðar og lagaðar, reglulegt torg var gert á Austurvelli með styttu eftir Thorvaldsen á því miðju og í framhaldi af því voru götur í fyrsta sinn lýstar í Reykjavík. Árið 1881 var Alþingishúsið reist við völlinn. Þjóðleg öfl voru í sókn í höfuðstaðnum. Það lýsti sér í auknu félags- og menningarstarfi og blaðaútgáfu. Aukið sjálfstraust íslenskra borgara í Reykjavík sást meðal annars í nýjum og veglegum timburhúsabyggingum í klassískum stíl. Tómthúsmennirnir tóku nú einnig að reisa sér steinhlaðna bæi og hús í stað torfbæja.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Reykvíkingar fögnuðu nýrri öld er árið 1901 gekk í garð. Miklar tækniframfarir við lok 19. aldar og upphaf þeirrar tuttugustu efldu hagvöxt í Evrópu og breyttu hugarfari manna. Þessi framfaratrú og vísindahyggja náði einnig til Íslands eins og sést best á kvæðum sem ort voru í tilefni aldamótanna. Fyrstu vélarnar (steinolíumótorar) höfðu komið til Reykjavíkur árið 1897 og nú voru vélbátar og gufuknúnir togarar í augsýn.
Árið 1904 var Íslendingum veitt takmarkað sjálfstæði með heimastjórn. Þeir fengu eigin ráðherra sem var ábyrgur gagnvart Alþingi og Stjórnarráð Íslands var stofnað í Reykjavík. Þar með tók Reykjavík raunverulega við hlutverki Kaupmannahafnar sem höfuðborg Íslands. Þessi þróun var svo innsigluð með fullveldi Íslands árið 1918. Gamla íslenska bændasamfélagið var að ummyndast í nýtískulegt borgar- og iðnaðarsamfélag þar sem Reykjavík bar höfuð og herðar yfir aðra staði. Fólk streymdi þangað og mikil fólksfjölgun hélst nær óslitin alla 20. öld.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Með örri fjölgun bæjarbúa og iðnvæðingu á nýrri öld varð bæjarstjórn Reykjavíkur loks að taka á sig rögg og hefja miklar verklegar framkvæmdir í bænum. Embætti borgarstjóra var stofnað 1908. Fyrsta stórframkvæmdin var vatnsveitan 1909. Samhliða henni voru lögð holræsi í götur og hreinlæti jókst stórlega. Árið 1910 var Gasstöð Reykjavíkur tekin í notkun og var hún fyrsta orkuverið í Reykjavík. Næst kom vatnsaflsvirkjun í Elliðaám 1921. Austurstræti var malbikað 1912 og um svipað leyti var farið að leggja gangstéttir.
Stærsta framkvæmd bæjarstjórnar var Reykjavíkurhöfn sem gerð var á árunum 1913 til 1917. Höfnin varð til þess að Reykjavík fékk yfirburðastöðu sem togarabær og miðstöð heildverslunar fyrir allt landið.

Vélvæðing og sérhæfing

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Mestallur togarafloti Íslendinga var gerður út frá Reykjavík á árunum milli stríða. Aflinn var einkum verkaður í salt og fiskreitir til þurrkunar saltfisks settu sem fyrr svip sinn á umhverfi bæjarins. Þegar stríðið skall á 1939 var togaraflotinn orðinn gamall og úr sér genginn en ekki var hægt að endurnýja hann fyrr en eftir stríð. Heimsstyrjaldarárin urðu þó mikil veltiár í togaraútgerð en fiskur var þá nær eingöngu veiddur í ís og fluttur þannig til Bretlands.
Iðnaður tók mikinn fjörkipp í Reykjavík með tilkomu rafmagnsins. Fyrsti áfangi Elliðaárvirkjunar, fyrstu stórvirkjunar á Íslandi, var tekinn í notkun 1921. Um svipað leyti var farið að ræða um virkjun Sogsins í þágu Reykvíkinga og næsta virkjun, Ljósafossvirkjun, tók til starfa 1937.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Á þriðja áratugnum beindust sjónir manna fyrir alvöru að nýtingu jarðvarma í Reykjavík. Um 70 hús fengu heitt vatn úr Þvottalaugunum í Laugardal árið 1930 en á stríðsárunum var hitaveita lögð í meginhluta bæjarins og kom vatnið frá Reykjum í Mosfellssveit. Við það hvarf kolareykurinn í bænum að mestu.
Bílainnflutningur til Íslands hófst að einhverju marki árið 1913. Á millistríðsárunum voru bílar einkum notaðir sem atvinnutæki; til leigubílaaksturs og vöruflutninga. Strætisvagnar Reykjavíkur tóku til starfa 1931 og voru fyrst í stað einkafyrirtæki.
Þróun verslunar í Reykjavík á millistríðsárunum var frá stórum vöruhúsum til margra sérverslana. Litlar matvöruverslanir voru á hverju horni en duglegustu kaupmennirnir færðu út kvíarnar og ráku margar slíkar búðir. Þar má nefna Liverpool, Silla & Valda og Kiddabúð. Mikill fjöldi mjólkurbúða og kjötverslana setti líka svip á umhverfið.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Fiskkaupmenn seldu úr opnum vögnum og hjólbörum á götum og torgum. Vandaðar verslanir með sérvöru, svo sem fatnað, skó, búsáhöld og rafmagnsvörur, voru flestar í miðbænum og við Laugaveginn. Fínasta verslunargatan var Austurstræti.
Vorið 1940 hernámu Bretar Ísland og fjölmennt setulið settist að í bænum, svo fjölmennt að Bretarnir urðu næstum því jafnmargir og Reykvíkingar. Árið 1941 tóku Bandaríkjamenn við herverndinni. Mikil umsvif og ný tækni fylgdu hernum og atvinnuleysi kreppuáranna hvarf eins og dögg fyrir sólu.

Reykjavík nútímans

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Á fyrstu árunum eftir stríð var Reykjavík að mörgu leyti eins og ofvaxið sveitaþorp. Stöðugt streymdi þangað fólk á besta aldri og börn settu mikinn svip á borgina. Ísland var enn tiltölulega einangrað land og fáir útlendingar lögðu leið sína þangað. Íslendingar voru þó farnir að reyna sig við útlendinga í íþróttum og náðu meðal annars langt í frjálsum íþróttum á eftirstríðsárunum.
Eftir stríð hóf módernisminn loks innreið sína í listir á Íslandi. Þjóðleikhúsið tók til starfa árið 1950 og sama ár var Sinfóníuhljómsveit Íslands stofnuð en listmálarar sýndu einkum verk sín í Listamannaskálanum við hliðina á Alþingishúsinu.

Árbæjarsafn

Í Skagafirði má finna tvö gömul guðshús, annars vegar Grafarkirkju á Höfðaströnd og svo Víðimýrarkirkju. Kirkjusmiður Víðimýrarkirkjurvar Jón Samsonarson, en hann var jafnframt kirkjusmiður gömlu kirkjunnar á Silfrastöðum. Gamla kirkjan á Silfrastöðum var reist 1842 og fylgdi þeirri hefð að hafa tvenn skilrúm milli kórs og kirkjuskips. Í endurgerðinni á Árbæjarsafni hefur öðru kórþilinu verið sleppt. Í kór áttu sæti heldri bændur, kirkjubóndinn, meðhjálpari og hreppstjórinn auk nefndarbænda. Milli kórs og kirkjuskips var stúkan en þar sátu eiginkonur þeirra bænda sem áttu sæti í kórnum. Aðrir meðlimir safnaðarins sátu í kirkjuskipinu og samkvæmt gamalli venju sátu karlmenn sunnan megin í kirkjunni en kvenfólk norðan megin.
Kirkjan, sem var bændakirkja, var tekinn ofan 1895 en þá var hún farin að láta á sjá. Ný kirkja var reist og er önnur tveggja guðshúsa á Íslandi sem er átthyrnd, en hin er á Auðkúlu í Húnaþingi. Sami kirkjusmiður er að báðum kirkjum, Þorsteinn Sigurðsson. Kirkjuviðirnir úr gömlu kirkjunni voru nýttir í nýja baðstofu sem reist var á Silfrastöðum. Var baðstofan þó einu stafgólfi (þ.e. lengd milli tveggja stoða) styttri. Predikunarstóllinn fékk einnig nýtt hlutverk og varð búrskápur. Búið var í baðstofunni til 1954 þegar heimamenn fluttu sig yfir í nýtt íbúðarhús. Baðstofan stóð þó áfram og árið 1959 voru viðirnir gefnir Árbæjarsafni. Skúli Helgason tók baðstofuna niður og endurreisti sem kirkju á safninu og var hún vígð af biskupnum yfir Íslandi árið 1961.
Viðir gömlu baðstofunnar voru margir fúnir og lítt nothæfir en þó var grindin eða laupurinn að mestu heil. Skúli bætti við stafgólfi svo kirkjan yrði jafn löng og áður. Auk þess skar hann út vindskeiðar til að prýða kirkjuna og hafði sem fyrirmynd vindskeið sem Þjóðminjasafnið varðveitir. Jafnframt smíðaði Skúli nýja bekki en ein brík (þ.e. gaflhlið) hafði varðveist og var höfð sem fyrirmynd. Predikunarstóllinn var gerður upp og þjónar nú aftur sínu gamla hlutverki.
Meðal gripa í kirkjunni er ljóshjálmur sem var áður í Dómkirkjunni í Reykjavík og altaristafla sem fengin er að láni frá Þjóðminjasafninu og er máluð 1720.

Mikill uppgangur varð í Reykjavík eftir 1960 og borgin þandist út sem aldrei fyrr. Einkabílaeign varð almenn og margvísleg rafmagnstæki léttu heimilisverkin. Hópferðir til sólarstranda tóku að tíðkast og með aukinni velmegun varð til sérstök unglingamenning í Reykjavík.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Um þetta leyti myndaði flugfélagið Loftleiðir ódýra loftbrú yfir Atlantshaf með viðkomu á Íslandi. Einangrun Íslands var að nokkru rofin og æ algengara varð að útlendingar, þar á meðal þekktir listamenn, legðu leið sína til Íslands. Stór og nýtískuleg hótel voru reist í borginni.
Listahátíðir, sem haldnar voru í Reykjavík annað hvert ár frá 1970, áttu ekki lítinn þátt í blómlegu listalífi. Ekki þótti lengur tiltökumál að heimsfrægir menn legðu leið sína til Reykjavíkur. Ferðir Íslendinga sjálfra til útlanda og stóraukin menntun áttu líka þátt í að rjúfa einangrunina. Ný matarmenning setti svip á veitingahúsin í borginni.
Á níunda áratugnum var losað um banka- og gjaldeyrisviðskipti og tölvubyltingin bauð upp á nýja möguleika. mislegt af því sem gert hafði Reykjavík sérstaka og svolítið sveitalega hvarf. Bjór var leyfður á ný eftir að hafa verið bannaður áratugum saman. Miðbærinn varð smám saman að fjörugu kráa- og skemmtihúsahverfi en í stað hans fluttist miðja verslunar á Laugaveg og í Kringluna. Einnig var hundahald leyft á ný eftir áratuga bann.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Staða Reykjavíkur í alþjóðlegu tilliti var rækilega undirstrikuð er leiðtogafundur stórveldanna var haldinn haustið 1986 í Höfða, móttökuhúsi Reykjavíkurborgar.
Á síðasta áratug aldarinnar vakti Reykjavík æ meiri athygli á alþjóðavettvangi. Reykvíkingurinn Björk átti ekki síst þátt í að beina athygli umheimsins að Íslandi. Eins og til að leggja áherslu á hversu mikilvæg Reykjavík var orðin í alþjóðlegu samhengi var hún valin ein af níu menningarborgum Evrópu aldamótaárið 2000.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Með nægilegri innsýn í söguna og hæfilegri forvitni á sjálfbjarga safngestur tiltölulega auðvelt með að tileinka sér fjölmargt af því sem boðið er upp á í safninu. Áhugasamt starfsfólk er reiðubúið að gefa upplýsingar ef eftir er leitað og fróðlegt er að fylgjast með handbragði gamla fólksins, sem þarna nýtur sín vel. Reyndar er Árbæjarsafn ekki síður ágætt tækifæri fyrir þá er lítið sem ekkert vita um tímann fyrir tvítugt, en vilja bæta um betur. Dagsstund í safninu er fyllilega þess virði.

Frábært veður – sól og hiti. Röltið um sýninguna tók 2 klst og 49 mín.

Framangreindar upplýsingar eru m.a. fengnar af:
http://www.arbaejarsafn.is/

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Bláfjallahellar

Ætlunin var að skoða hellana í Strompahrauni vestan Bláfjalla. Hellarnir eru norðan undir svonefndum Hellisgíg, sem er nyrstur Strompanna. Skoðaðir voru 11 hellar, auk eins, sem ekki hafði verið skráður; Djúpihellir – Langihellir – Goðahellir – Rótarhellir – Tanngarðshellir – Hurðarbakshellir – Ranghali (Gljái) – Rósahellir – Smáhellir – Krókudílahellir – Rósarhellir – Smáhellir – Bátahellir – (Litla Gatið).

Langihellir

Í Langahelli.

1. Langihellir700 metra langur. Hann er vestan við Djúpahelli. Meginhellirinn er um 300 metra langur. Ekkert hrun er í honum og því auðveldur í umgengni. Haldið var upp hraunrásina. Á tveimur stöðum skín dagsbirtan inn, en síðan tekur við langur gangur þar sem hellirinn lækkar nokkuð. Innar hækkar hann aftur og skiptist hann þá í tvær megináttir. Þessar rásir ligga um mjög sveran hraunstöpul. Þegar inn fyrir er komið sést falleg hraunsúla. Utan í henni, á stalli, eru allmörg hraunkerti. Hraunkerti eru innig á gólfum. Skammt þarna fyrir innan er útgangur upp úr hraunrásinni. Áður hafa verið margir dropasteinar í efri hluta hellisins, en nú er búið að brjóta þá flesta.

Blafjallahellar-223

Í Rótarhelli.

2. Rótahellir er um 210 metra langur. Þegar komið er niður um gatið, sem er hraunketill, tekur við víð rás. Þröng rás liggur inn úr henni og þarf að skríða á nokkurra metra kafla. Þá er komið inn í helgidóminn. Langar rætur teygja sig niður úr loftinu. Þverhellir er þar fyrir innan svo og við rás með nokkrum þrengri. Innan við eina rásina tekur við víður hellir, sem lokast þar. Rótarhellir er nyrstur Bláfjallahella.

Blafjallahellar-222

Í Tanngarðshelli.

3. Tanngarðshellir er um 190 metra langur. Hann er á milli Krókudílahellis og Rótahellis. Farið er niður og inn í sæmilega vítt op til norðurs. Þar skammt fyrir innan er tanngarðurinn utan í nokkuð stórum flór. Farið er yfir haft og þá blasir við fallegur flór og mikil litadýrð. Í lofti eru separ. Hellirinn endar í stórum geimi. Þótt hann sé ekki langur er hann einstaklega fallegur.
Fara þarf varfærnum skrefum hellinn – líkt og um alla aðra slíka á svæðinu.

Blafjallahellar-225

Í Djúpahelli.

4. Djúpihellir er um 150 metra langur. Farið er inn um mjög stórt op í jarðfalli. Hrun er í hellinum, en vegna þess hversu stór hann er kemur það ekki að sök. Dagsbirta kemur niður í hvelfinguna um op á loftinu. Farið er yfir jarðfall og niður og inn um hrunda rás. Þá er komið inn í aðra hvelfingu á þremur hæðum. Liggja hraunrásir þar út frá á hverri hæð, en engin þeirra virðist afgerandi. Lofthæð þarna er a.m.k. 15 metrar.

5. Ranghali (Gljái) er um 100 metra langur. Annað nafn á hellinum er Gljái, en þegar komið er niður um opið eru glansandi hraunfletir utan við þrengri rás. Þegar henni er fylgt er komið inn í víðara rými, en hellirinn endar í hruni. Fallegt sepaloft er í inni hellinum.

Blafjallahellar-224

Í Rósahellir.

6. Rósahellir er um 70 metra langur. Hann er rétt vestan við vestari veginn að skíðasvæðunum og um 15 metra ofan við Kóngfellhraunið. Um miða vegu greinist hann í tvennt, en vinstra rásin nær ekki nema um 20 metra. Hægri rásin nær um 30 metra inn og á gólfi hennar eru fallegt rósamynstur á gólfi.

7. Bátahellir er stuttur, ekki nema um 30 metra langur. Hann er opinn í báða enda, en á gólfi hans mótar fyrir þremur aflöngu bátalaga hraunmyndun. Myndrænt fyrirbæri, líkt og Tanngarðshellir.

8. Smáhellir er fremur stuttur, eða um 20 metra langur. Þegar inn er komið tekur við þröng op, en þar fyrir innan er fallegt hýsi. Falleg hraunrás kemur út úr vegg hellisins innst í honum.

Blafjallahellar-226

Í Krókudílahelli.

9. Krókudílahellir er sérkennilegur, en fremur stuttur. Opið liggur upp úr geimi, til vinstri og upp þegar inn er komið. Þegar í gegnum hana er komið liggur þverrás þar fyrir innan. Þegar beygt er til vinstri má sjá stallaðan hraunflór og er hann eins og krókudílahaus í laginu. Fyrir innan endar hellirinn í þröngri rás.

10. Goðahellir er nyrsti hluti Djúpahellisrásarinnar (auk Bátshellis). Þegar komið er niður í hellinn tekur við mikið gímald. Hellirinn er um 100 metra langur. Farið er inn um þrengsli í botni hans og er þá komið í fremur lágt rými með fallegri brúnni glermyndaðri hrauntjörn á gólfinu.

11. Hurðarbakshellir er stuttur afgangur vestan við Goðahelli. Hann er þó vissulega skoðunarinnar virði.

12. Litla Gatið er fremur lítið, svo til beint niður í jörðina, u.þ.b. hálf mannshæð. Rásin, sem liggur til suðurs, er um 12 m löng, en með fallegum myndunum; tveimur brúnleitum litlum hraunfossum og flór í smækkaðri mynd.

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Tanngarðshellir

Í Tanngarðshelli.

Arnarþúfa

Skoðaðar voru rústir eftir Bretana frá stríðsárunum vestan undir hólum vestan Arnarþúfu vestan Sandskeiðs.

Arnarþúfur

Skjól í Arnarþúfum.

Vestan við hólana eru miklar rústir eftir, s.s. skotbyrgi, vegir, varnarveggir og önnur mannvirki. Nyrst undir vestanverðum hólunum eru einnig tvær, sem virðast vera eldri en aðrar rústir á svæðinu. Önnur er hlaðið hús úr móbergssteinum. Norðan við tóttina er sorpbrennsluofn frá Bretanum. Tóttin er nokkuð heilleg. Í einn steininn inni í henni eru ritaðir stafirnir R.B. Þarna gæti verið um gamalt sæluhús að ræða, en það er, líkt og svo magrar aðrar tóttir á Reykjanesi, í skjóli fyrir austanáttinni. Skammt sunnan við tóttina er önnur graslæg. Þar virðist hafa verið brunnur og er allgróið í kringum hann. Gamla þjóðleiðin austur er þarna skammt austar. Ekki langt frá, á klapparhól skammt vestan við Sandskeið, er tótt hlaðins sæluhús. Það sæluhús er annað tveggja, sem vitað er um nálægt Fóelluvötunum. Hitt er svo til miðja vegu á milli þessa húss og Lyklafells, þar vestan undir smáhæð. Þar eru a.m.k. tvær tóttir.

Arnarþúfur

Áletrun í Arnarþúfum.

Stromphellar

Ætlunin var að skoða hellana í Strompahrauni vestan Bláfjalla. Hellarnir eru norðan undir svonefndum Hellisgíg, sem er nyrstur Strompanna. Skoðaðir voru 10 hellar:

Langihellir

Í Langahelli.

1. Langihellir er um 700 metra langur. Hann er vestan við Djúpahelli. Meginhellirinn er um 300 metra langur. Ekkert hrun er í honum og því auðveldur í umgengni. Haldið var upp hraunrásina. Á tveimur stöðum skín dagsbirtan inn, en síðan tekur við langur gangur þar sem hellirinn lækkar nokkuð. Innar hækkar hann aftur og skiptist hann þá í tvær megináttir. Þessar rásir ligga um mjög sveran hraunstöpul. Þegar inn fyrir er komið sést falleg hraunsúla. Utan í henni, á stalli, eru allmörg hraunkerti. Hraunkerti eru innig á gólfum. Skammt þarna fyrir innan er útgangur upp úr hraunrásinni. Nyrsti hluti Langahellis nefnist Goðahellir (sjá síðar). Áður hafa verið margir dropasteinar í efri hluta hellisins, en nú er búið að brjóta þá flesta.

Bláfjallahellar

Bláfjallahellar – uppdráttur ÓSÁ.

2. Rótahellir er um 210 metra langur. Þegar komið er niður um gatið, sem er hraunketill, tekur við víð rás. Þröng rás liggur inn úr henni og þarf að skríða á nokkurra metra kafla.

Rótarhellir

Í Rótarhelli.

Þá er komið inn í helgidóminn. Langar rætur teygja sig niður úr loftinu. Þverhellir er þar fyrir innan svo og við rás með nokkrum þrengri. Innan við eina rásina tekur við víður hellir, sem lokast þar. Rótarhellir er vestastur Bláfjallahella, skammt frá hraunjaðri Kóngsfellshrauns.
3. Tanngarðshellir er um 190 metra langur. Hann er á milli Langahellis og Rótahellis. Farið er nniður og inn í sæmilega vítt op. Þar skammt fyrir innan er tanngarðurinn utan í nokuð stórum flór. Farið er yfir haft og þá blasir við fallegur flór og mikil litadýrð. Í lofti eru separ. Hellirinn endar í stórum geimi. Þótt hann sé ekki langur er hann einstaklega fallegur.

Bláfjallahellar

Við Djúpahelli.

4. Djúpihellir er um 150 metra langur. Farið er inn um mjög stórt op í jarðfalli. Hrun er í hellinum, en vegna þess hversu stór hann er kemur það ekki að sök. Dagsbirta kemur niður í hvelfinguna um op á loftinu. Farið er yfir jarðfall og niður og inn um hrunda rás. Þá er komið inn í aðra hvelfingu á þremur hæðum. Liggja hraunrásir þar út frá á hverri hæð, en engin þeirra virðist afgerandi. Lofthæð þarna er a.m.k. 15 metrar.
5. Ranghali er um 100 metra langur í stefnu út frá stóru skíðalyftunni. Annað nafn á hellinum er Gljái, en þegar komið er niður um opið eru glansandi hraunfletir utan við þrengri rás. Þegar henni er fylgt er komið inn í víðara rými, en hellirinn endar í hruni.

Rósahellir

Í Rósahelli.

6. Rósahellir er um 70 metra langur. Hann er rétt vestan við vestari veginn að skíðasvæðunum og um 15 metra ofan við Kóngfellhraunið. Um miða vegu greinist hann í tvennt, en vinstra rásin nær ekki nema um 20 metra. Hægri rásin nær um 30 metra inn og á gólfi hennar eru fallegt rósamynstur.
7. Bátahellir er stuttur, ekki nema um 30 metra langur. Hann er opinn í báða enda, en á gólfi hans mótar fyrir þremur bátalaga hraunmyndunum.
8. Smáhellir er fremur stuttur, eða um 20 metra langur. Þegar inn er komið tekur við þrönng op, en þar fyrir innan er fallegt hýsi. Falleg hraunrás kemur út úr vegg hellisins innst í honum.

Krókudílahellir

Í Krókudílahelli.

9. Krókudílahellir er sérkennilegur, en fremur stuttur. Opið liggur upp úr geimi. Þegar í gegnum hana er komið liggur þverrás þar fyrir innan. Þegar beygt er til vinstri má sjá stallaðan hraunflór og er hann eins og krókudílahaus í laginu. Fyrir innan endar hellirinn í þröngri rás.
10. Goðahellir er nyrsti hluti Langahellis, eins og fyrr sagði. Þegar komið er niður í hellinn tekur við mikið gímald. Hellirinn er um 100 metra langur. Farið er inn um þrengsi í botni hans og er þá komið í fremur lágt rými með fallegri brúnni hrauntjörn á gólfinu.

Í þessari hellaferð var veður með miklu ágætum. Í sumum hellanna liðu fallegir sólstafir inn um opin og mátti vel sjá í þeim hin ýmsu mynstur.

Strompahellar

Í Strompahellum (Bláfjallahellum).

Þingnes

“Heimildarritin geta eigi nema tveggja þinga hér á landi áður en alþingi var sett á stofn, Þórsnesþing og Kjalarnesþing. En að leiða út af þessu þá ályktun, að fleiri þing hafi eigi verið til hér á landi fyrir 930, virðist nokkuð hæpið. Það er auðvitað, að þinganna hér á landi er eigi getið nema í sambandi við einhverja atburði, eða þá af einhverjum öðrum sérstökum ástæðum. Að öðrum kosti er gengið þegjandi fram hjá þeim, eins og gengið er þegjandi fram hjá svo mörgum öðrum merkum atburðum, því fornsagan er fyrst og fremst viðburðasaga, en eigi réttarsaga eða þjóðmenningarsaga.

Þingnes

Þingnes – upplýsingaskilti.

Ari fróði, sem bezt og og áreiðanlegast þræðir réttarsögu landsins og framvaxtarsögu þjóðfélagsins, þótt fljótt sé yfir farið, minnist eigi einu sinni á Þórsnesþing. Aftur á móti getur hann um Kjalarnesþing á talsvert einkennilegan hátt. Hann segir svo frá: “Alþingi vas sett at ráþi Ulflíótz oc alra lanzmanna, þar es nú es, en áþr var þing á Kialarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfssonr lannámamannz, faþeer Þorkels mána lögsögumannz, hafþi þar, oc höfþingiar þeir es at þuí hurfu”. Beinast liggur við að skilja orð þessi þannig, að eigi hafi verið til nema eitt þing hér á landi áður alþingi var sett á stofn, – Kjalarnesþing. Nú vitum vér með fullri vissu, að Þórsnesþing að minsta kosti, var sett löngu fyrir þann tíma, og þar er sjálfsagt, að Ara fróða var fullkunnugt um það líka, því hann var ættaður að vestan, afkomandi Þórðar gellis, er deiluna jafnaði [með liðum á Þórsnesþingi]. Hlýtur þá eitthvað og sérstakt að hafa verið einkennilegt við Kjalarnesþing, úr því hann minnist á það með þannig löguðum orðum, og getur það varla eftir atvikum verið annað en það, að Kjalarnesþing hafi haft líka þýðingu fyrir landið í heild sinni eins og alþingi hafi síðar, eða með öðrum orðum, að það hafi verið eins konar allsherjarþing, og verðum vér að hallast að þeirri skoðun. Þangað var skotið málum úr öðrum héruðum, sektarfé það, sem þar var dæmt, var gert að almannafé, þvert ofan í allar venjur, hefði þingið verið skoðað eingöngu sem héraðsþing, og goði sá, sem Kjalarnesþingi stýrði, var síðar við stofnun alþingis gerður að allsherjargoða. Allt bendir þetta í þá átt, að Kjalarnesþing hafi verið sameiginlegt fyrir land allt, og var þá engin furða, þótt endurminningin um það geymdist bæði vel og lengi”.

Esjuberg

Esjuberg – Leiðvöllur 1946.

Á öðrum stað (bls. 62-63) segir um Kjalarnesþing: “Kjalarnesþing hefir eflaust eins og nafnið bendir á verið haldið á Kjalarnesi, þótt nú sjáist þess lítil eða engin merki. Kjalnesingasaga segir, að það hafi verið haldið “suðr við sjóinn”, og þótt hún sé í flestum greinum á áreiðanleg, er eigi ólíklegt að hún hafi rétt fyrir sér í þessu, því endurminningin um hið forna, merka Kjalarnesþing hlaut að geymast lengi í minnum manna. Skammt út frá Mógilsá undir kleifunum við sjóinn er nefnt “Leiðvöllur”, og bendir það nafn á, að þar hafi einhvern tíma verið þing haldið. Leiðvöllur er breið grjóeyri, sem gengur út í sjóinn. Fyrir ofan eyrina liggur síki, og þar upp af að austanverðu er lítill grasgeiri, sem nú heitir Kirkjuflötur. Á henni sjást leifar af lítilli tóft, og þó mjög óglöggt. Önnur mannvirki sjást þar nú eigi, og mun sjórinn hafa rótað til og brotið af. Upp af eyrinni er brekka, víða grasi vaxin; hefur það eflaust verið “Þingbrekkan”. Slíkar þingbrekkur eru víða nefndar í fornsögunum, og hyggjum vér, að fornmenn hafi jafnan valið sér þingstað með tilliti til þess, að brekka eða hæð væri í nándinni, þaðan er vel mætti heyra mál manna, því frá þingbrekku fóru fram löglýsingar allar og tilkynningar”.

Esja

Esja – stekkur ofan Leiðvalla.

Af framangreindum skrifum að dæma virðist Kjalarnesþing upphaflega verið sem önnur hinna 13 vorþinga, en vegna tengslaleysis þeirra við setningu laga og dómauppkvaðningu virðist hafa orðið þörf fyrir samræmt þing þegar fyrir árið 900. “Víða í sveitum var orðið svo þéttbýlt þegar laust eftir 900, að brýn nauðsyn var á þingum eða einhverju öðru í þeirra stað til að ræða nauðsynjamál héraðanna og jafna deilur, og má nærri geta að örðugt hefir þótt að leita í aðra landsfjórðunga með hvert smáræði. Vér höfum því fyrir satt, að þing hafi risið smám saman víðsvegar um land, þótt eigi sé þess getið í sögunum.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Í hverju þingi fyrir sig hafa menn komið sér saman um helztu lagaákvæði og reglur, er fylgja skyldi, og hafa þær sjálfsagt verið nokkuð mismunandi í ýmsum héruðum landsins og sóttar sitt í hverja áttina. Meðan um innanhéraðsdeilur einar var að ræða, hefir þetta sjálfsagt getað bjargast og eigi orðið svo mjög að meini. En þegar landsbúum tók að fjölga og viðskifti og samgöngur á milli héraða að aukast, þá hlutu menn von bráðar að festa sjónir á annmörkum þeim, sem á þessu voru. Þegar sækja skyldi mál í önnur þing, kom það upp úr kafinu, að þar var allt öðrum reglum fylgt um málatilbúnað, sókn og vörn, eiðspjöll og sakarvætti, en í varnarþingi málshefjanda, og úrskurðir ef til vill byggðir á allt öðrum lagagrundvelli. Þetta hefir gert mönnum ókleift eða að minnsta kosti mjög örðugt að ná rétti sínum, er leita skyldi í önnur þing. Hlaut það því að verða eitt af brýnustu nauðsynjamálum landsins, að koma föstu skipulagi á þingin og mynda sameiginlega löggjöf fyrir allt land”.
Þetta gæti hafa verið hlutverk þingsins á Þingnesi, þ.e. að vera undanfari Alþingis, sem síðar var sett á Þingvöllum.

Efnið er úr Gullöld Íslendinga eftir Jóns Jónsson, alþýðufyrirlestrar með myndum, Reykjavík 1906, bls. 26-28.

Þingnes

Minjasvæðið á Þingnesi.