Tag Archive for: Reykjavík

Bláfjöll

Í Sveitarstjórnarmál 1980 fjallar Kristján Benediktsson um „Bláfjallafólkvang„.

Bláfjallafólkvangur

Bláfjallafólkvangur – kort.

„Hinn 31. janúar 1973 samþykkti náttúruverndarráð stofnun fólkvangsins, og með auglýsingu í Stjórnartíðindum tveimur mánuðum síðar má segja, að hann hafi verið orðinn að raunveruleika. Þau sveitarfélög, sem í upphafi stóðu að Bláfjallafólkvangi, voru Reykjavík, Kópavogur, Seltjarnarnes og Selvogur. Síðar bættust í hópinn Hafnarfjörður, Garðabær og Keflavík.
Meðfylgjandi uppdráttur sýnir vel legu Bláfjallafólkvangs og veginn á skíðasvæðin, sem tengist Austurveginum víð Sandskeið. Austurhornið er Vífilfell. Þaðan liggur línan eftir háhrygg fjallgarðsins í Kerlingahnúk á Heiðinni há. Hæsti punkturinn á fjallshryggnum er Hákollur, 702 metrar, og er hann beint upp af Kóngsgili. Frá Kerlingahnúk liggja mörkin um Litla-Kóngsfell, Stóra-Bolla og í Heiðmerkurgirðinguna við Kolhól.
Síðan eru mörkin um Heiðmerkurgirðingu að punkti, sem skerst af línu, sem dregin er milli Stríps og Stóra-Kóngsfells. Síðan liggja mörkin um Sandfell, norðvestur af Rjúpnadölum, í koll Vífilfells.

Bláfjöll

Bláfjöll – Drottning.

Innan Bláfjallafólkvangs er mikið um hraun og eldstöðvar margar. Víða í hraununum eru op og hellar og vissara að fara með gát um þau svæði og fylgja merktum gönguleiðum.

Eldborg

Eldborg (Drottning) og Stóra-Kóngsfell við Bláfjöll.

Eldborg er friðlýst náttúruvætti rétt við veginn. Hún er falleg eldstöð, sem mikið hraun hefur komið frá. Vegurinn frá brekkubrúninni norðan Rauðuhnúka og upp á skíðaslóðirnar liggur mestan part á Eldborgarhrauni.
Skammt frá Eldborginni eru tvö fell, Stóra-Kóngsfell (596 m), þar sem fjallkóngar skipta leitum, og Drottningarfell, sem bæði er lægra og minna um sig. Hvergi hef ég séð nákvæma stærðarmælingu af Bláfjallafólkvangi. Ekki mun fjarri lagi að áætla, að hann sé 70—80 km2.“

Heimild:
-Sveitarstjórnarmál 01.02.1980, Bláfjallafólkvangur, Kristján Benediktsson, bls. 7-8.

Bláfjöll

Gengið um Bláfjallasvæðið.

Viðeyjareldstöð

Einar Gunnlaugsson, jarðfræðingur, leiddi FERLIR um Elliðaárdal og fræddi þátttakendur um jarðfræði dalsins.

Elliðaárdalur

Einar Gunnlaugsson.

Elliðaárdalurinn er eitt fjölsóttasta útivistarsvæði Reykvíkinga enda býður hann upp á fjölþætta möguleika til útivistar. Árnar eru kenndar við skip Ketilbjarnar gamla á Mosfelli, en hann kom hingað á skipi sínu Elliða og „kom í Elliðaárós“ að því er segir í Landnámu.
Í Elliðaárdal eru stígar og brautir og fræðsluskilti um jarðfræði og gróður dalsins.
Reykjavíkurborg keypti Elliðaárnar árið 1906 til beislunar vatnsafls en Elliðaárstöð hefur framleitt rafmagn frá árinu 1906. Um það leyti hefur líklega hafist trjárækt í Elliðaárdalnum og uppgræðslu verið haldið áfram sleitulaust síðan.
Jarðfræði Elliðaárdals er einstök vegna margbreytileika síns. Við Elliðaárósa eru merkileg setlög, kölluð Elliðavogslögin og má þar finna leifar ýmissa plantna sem uxu við Elliðavog fyrir nokkur hundruð þúsund árum og skeljar af grunnsævi.  Það má einnig finna jökulrákaðar grágrýtisklappir, hraun frá nútíma og sjávarhjalla. Þá má einnig finna jökulrákaðar grágrýtisklappir, hraun frá nútíma og sjávarhjalla. Í dalnum er jarðhitasvæði og eitt af vinnslusvæðum Orkuveitu Reykjavíkur.

Megineldstöð
MegineldstöðinEinar sagði m.a. frá myndun landsins í og utan Elliðaárdals. Elsta bergið væri um 3-4 milljón ára gamalt. Það fæddist í megineldstöð, sem reis úr sjó utan núverandi lands, þar sem nú eru Viðey og Engey. Eldstöðin var virk þar til fyrir um 2 milljón árum. Þá féll hún saman er kvikuþróin undir henni tæmdis og eftir stóð hluti af jöðrum hennar, þ.e. eru m.a. fyrrnefndar eyjar. Þar sem miðja eldstöðvarinnar var áður er nú um 50 metra dýpi. Þá var sjávarstaðan hærri og myndaðist t.d. vogur þar sem nú er Elliðaárdalur. Eftir að síðasta ísaldarskeiði lauk fyrir u.þ.b. 10.000 árum byrjaði landið að rísa hægt og bítandi. Dæmi um þáverandi sjávarstöðu má enn sjá í setlögum sunnan í dalnum.

Elliðavogslögin
FallBeggja vegna Elliðaárósa eru merkileg  setlög sem lengi hafa verið umtöluð meðal jarðfræðinga. Þetta eru Elliðavogslögin. Þau sjást undir grágrýtinu í Ártúnshöfða en þekktasti hluti þeirra er í Háubökkum við Elliðavog. Þar hafa Elliðaárnar með hjálp sjávarins sorfið fram allháa þverhnípta hamra við ströndina. Lögin voru rannsökuð í byrjun 20.aldar af jarðfræðingnum Helga Péturss. Neðst sá hann grófan harðan ruðning sem hann áleit vera jökulruðning, þar ofan á var sjávarset með skeljum, síðan annað jökulruðningslag eftir nýtt framgangsskeið jökla. Efst var Reykjavíkurgrágrýtið. Með þessari athugun komst Helgi að því að ísöldin hafi ekki verið einn samfelldur fimbulvetur heldur hefðu skipst á jökulskeið og hlýskeið.

Fornt

Þá má finna á stöku stað í Elliðavogslögunum skeljar sem eru af sömu tegundum og þær sem lifa við ströndina enn í dag. Í lögunum finnst einnig samanpressaður mór eða hálfgerður sultarbrandur. Talið er að skeljarnar séu um 300 þúsund ára gamlar en þá ríkti hlýskeið sem nefnt er Cromer. Yngra jökulbergslagið er hins vegar talið vera frá jökulskeiði sem nefnt er Holstein og ríkti fyrir um 250 þúsund árum. Sultarbrandurinn er yngsti hluti laganna og myndaður úr gróðri sem þarna óx á Elster-hlýskeiðinu fyrir nálægt 200 þúsund árum.

Elliðaárdalur

Einar Gunnlaugsson.

Myndunarsaga Elliðavogslaganna og Reykjarvíkurgrágrýtisins er í stuttu máli þannig: Meginjöklar gengu yfir Reykjarvíkursvæðið og mótuðu mishæðótt landslag á ár-kvarteran berggrunninn. Þegar jökullinn hopaði í lok þriðja síðasta jökulskeiðs fylgdi sjórinn honum eftir inn yfir láglendið. Sjávarset settist í allar lægðir í berggrunninum. Ofan á sjávarsetið lagðist síðan árset, landið var risið úr sjó. Þá tóku ár og lækir að grafa sér farvegi í setlögin, en jafnframt tóku plöntur að nema land en leifar þessa gróðurs er einmitt surtarbrandurinn í Háubökkum og undir grágrýtinu í Ártúnshöfða.

Elliðavogshraun

Leiti

Reykjavík er í næsta nágrenni við Reykjanesgosbeltið. Einungis eru um 7 km frá byggðamörkum að næsta eldgíg sem er í Búrfelli ofan Hafnarfjarðar.
Fyrir 5200 árum gaus í stórum dyngjugíg sem nefnist Leiti og er austan Bláfjalla. Miklir og breiðir hraunstraumar flæddu niður um sandskeið og niður í Lækjabotna. Þaðan rann eldáin að Elliðavatni, sem hefur verið mun stærra en það er í dag. Þegar glóandi hraunið flæddi út í vatnið og yfir það urðu miklar sprengingar og gufugos. Í þessum hamförum mynduðust Rauðhólar. Hólarnir eru svokallaðir gervigígar. Þegar hraunið hafði brotist yfir Elliðavatn féll það niður með Elliðaám allt til sjávar í Elliðavogi.
Hraunið er mjög greinilegt í Elliðaárdalnum sérstaklega þar sem áin hefur skorið sig í gegnum hraunið t.d. í kringum Elliðaárhólmann.

Ísaldarminjar
LeitarhraunÍ Elliðaárdal er nokkuð mikið af setmyndunum jökla frá lokum ísaldar, en henni lauk fyrir um 10 þúsund árum. Þá hófu jöklar að hörfa af Bláfjallahálendinu og Hengilsvæðinu þar sem skriðjökullinn, sem lá yfir Elliðaárdal, átti upptök sín. Á þessum tíma hafði þykkur jökulísinn myndað mikið farg á undirlag sitt sem olli því að land þrýstist niður um tugi metra. Þegar jökull loks hörfaði varð sjávarstaða til skamms tíma mun hærri en þekkt er í dag. Við árósa og annars staðar, þar sem mikill framburður lausra efna frá bráðnandi jöklinum hlóðst upp, Fróðleikurmynduðust malarhjallar og setfyllur. Í Elliðaárdal má finna minjar um hærri sjávarstöðu frá ísaldarlokum og setmyndanir tengdar henni og frárennsli bráðnandi jökuls. Víða má finna rispaðar grágrýtisklappir, jökulgrópir, hvalbök (ávalar jökulheflaðar klappir), grettistök (stórir steinar og björg sem jökull hefur rifið upp og flutt til) og jökulruðninga (blanda af sandi, urð og grjóti sem víða er í þykkum lögum ofan á berggrunninum). Á þessum tíma mynduðust sandfjörur og malareyrar sem teygðu sig út með Blesugróf og Árbæjarhverfi. Þessar myndanir, nefndar strandhjallar og óseyrar, benda til að sjávarmál hafi verið um 40 m hærra en nú er. Glöggt dæmi um fornar strandlínur má t.d. finna innan við Ártún. Á þessum tíma voru Elliðaár beljandi jökulfljót en ekki lindár eins og nú er. (Sjá má kortið af Elliðaárdalnum í stækkun HÉR.)

Leitarhraun
Gos með hraunrennsli um Elliðaárdalinn hefur aðeins einu sinni orðið frá því að ísa leysti fyrir um 10 þúsund árum. Það er Leitarhraun sem er nefnt eftir gíg sem það kom úr austan Bláfjalla. Hraunið rann fyrir um 5000 (5300) árum og flæddi niður Sandskeið og um Lækjarbotna. Þaðan rann það í Elliðavatn, sem hefur verið mun stærra en það er í dag, og myndaði Rauðhóla. Þaðan flæddi hraunið viðstöðulítið um Elliðaárdal í sjó fram við Elliðaárósa. Hraunið er mjög greinilegt í Elliðaárdalnum sérstaklega þar sem áin hefur skorið sig í gegnum hraunið t.d. kringum Elliðaárhólmann.
ElliðaáLeitarhraun á uppruna sinn í gígnum Leiti undir austanverðum Bláfjöllum. Frá honum streymdi mikill hraunmassi niður þar sem nú er Selvogur og Þorlákshöfn, auk fyrrnefnds hrauntaums er náði niður í Elliðavog. Hraunið liggur m.a. undir Kristnitökuhrauninu (Svínahrauni). Í því mynduðust Rauðhólar er glóandi hraunið rann yfir norðanvert Elliðavatn og áfram niður til sjávar í Elliðaárósum. Áin náði að renna ofan á heitu hrauninu, kæla og rífa sig inn í það á leið til sjávar.

Elliðaár
Elliðaárnar eru lindár en þær falla úr stöðuvatni og hafa tiltölulega jafnt og stöðugt rennsli, gróðurinn nær að vatnsborði, fiskigengd er mikil og fuglar una sér vel. Þær eru því sannkallaðir lífgjafar. Núverandi farvegir mótuðust eftir að Elliðavogshraunið rann. Talið er að áður fyrr hafi áin bara verið ein en eftir að hraunið fyllti hana þá hafi hún kvíslast í tvær.
Meðalrennsli Elliðaánna er um 5,5 m3 /sek.

Hamfaraflóð
SkessuketillAðfaranótt þriðjudagsins 15. desember 1998 brast aðveituæð Orkuveitu Reykjavíkur í Elliðaárdal með þeim afleiðingum að 12 m3 vatns á sekúndu streymdu niður í dalinn í rúmlega hálfa klukkustund. Ummerki flóðsins sjást á nærri 700 m2 svæði.
Þar sem flóðið reif með sér jarðveg og gróður í brekkunni við Rafveituheimilið opnuðust jarðvegssnið þar sem getur að líta áfoks-, gjósku- og mólög frá Nútíma (síðustu 10 þúsund ár), en þar sem jarðvegur skolaðist burtu má sjá berggrunn svæðisins og undirliggjandi jökulurð sem vitna til eldri hlýskeiðs og kuldaskeiðs.
Á svæðinu má sjá jarðvegsnið með öskulögum úr rofsárinu. Jarðvegurinn hefur verið að myndast í um 10-11 þúsund ár enda er elsta þekkta öskulagið svokallað Saksunarvatns-öskulag sem féll fyrir um 10200 árum síðan. Um miðbik jarðvegssniðsins má sjá mikla litabreytingu á jarðveginum. Neðarlega er dökkbrúnn mór en ofar er ljósbrúnn fokjarðvegur.

Leitarhraun

Leitarhraun í Elliðaárdal.

Þegar Leitahraunið rann fyrir um 5000 árum síðan hefur hraunstraumurinn ýtt Elliðaánum tímabundið úr þáverandi farvegi sínum út til jaðra dalsins. Á sama tíma var mýrarfláki staðsettur þar sem rofsárið er nú. Ummerki benda til þess að áin hafi náð að renna yfir mýrarflákann og rofið burt sem nemur um 2-3000 ára uppsöfnun af mó. Nokkru eftir þennan atburð hefur jarðvegur byrjað að safnast fyrir á ný. Vegna breyttra aðstæðna í umhverfinu hefur mýri ekki myndast líkt og áður heldur jarðvegur með meiri einkenni fokjarðvegs. Neðarlega í ljósbrúna fokjarðveginum má sjá svokallað landnámsöskulag sem féll árið 871 eða rétt áður en landnám hófst á Íslandi. Ofar í jarðveginum má greina svokallað Miðaldalag sem féll árið 1226. Efsta öskulagið í jarðveginum er frá Kötlu og féll í kringum árið 1500.
Í máli Einars kom fram að tveimur árum eftir „hamfara-flóðið“ höfðu 98 plöntutegundir fest rætur á fyrrum „hamfara-svæðinu“. Nú væri gróðurinn að taka yfir það sem áður virtist vera áhugaverð jarðfræðiyfirlit.

Fossarnir
SkessukatlarSelfoss er myndarlegur foss skammt neðan Höfðabakka-brúarinnar. Nokkru neðar er Stórifoss, sem er beint framundan félagsheimili Orkuveitu Reykjavíkur. Skáfossar eru varla sjáanlegir nema þegar vatn er með meira móti í Elliðaánum. Þá rennur vatn eftir klöppunum á syðri bakkanum við Stórafoss og í ána rétt neðan við fossinn. Getur þá að líta smáfossa sem falla á ská, miðað við straumstefnu, út í ána og draga nafn sitt af því. Framundan rafstöðinni er Ullarfoss. Nafn sitt dregur fossinn væntanlega af því að þar hefur verið þvegin ull, en fossa með þessu nafni má finna allvíða í íslenskum ám. Neðsti fossinn í eystri kvísl Elliðaánna er Sjávarfoss. Hann hefur frá öndverðu verið gjöfull á lax og þar veiðast yfirleitt fyrstu laxar sumarsins. Myndir eru til af Sjávarfossi frá ýmsum tímum með mörgu stórmenni. Áður fyrr, þegar yfirvöld lands eða borgar vildu sýna erlendum gestum sínum sóma, var farið með gestinn inn að Elliðaám og hann látinn renna fyrir lax í Sjávarfossi.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur – Búrfoss.

Í vestari kvíslinni eru fjórir nafngreindir fossar. Skorarhylsfoss, sem einnig er nefndur Kermóafoss, er efstur. Á þessum slóðum í árhólmanum heitir svæðið Kermói. Næst fyrir neðan er Arnarfoss, en hann er gegnt Kúavaði í eystri kvíslinni, nokkru ofan við Ullarfoss. Þar talsvert fyrir neðan, eða skammt ofan við hitaveitustokkinn sem er neðan rafstöðvarinnar er Búrfoss, rétt við Reykjanesbrautina, og skammt þar neðan við er Skötufoss.Við Skötufoss er Drekkjarhylur. Í Drekkjarhyl var konum drekkt, en ekki er vitað hve margar konur létu þar líf sitt.
Við Skötufoss eru fallegir skessukatlar.

Jarðhiti
ElstaElliðaárdalurinn er einn af þremur jarðhitasvæðum á Reykjarvíkursvæðinu. Hin tvö eru í Laugardalnum og á Seltjarnarnesi. Jarðhitasvæðin í Reykjavík eru tengd gamalli megineldstöð sem kennd hefur verið við Viðey. Elliðaársvæðið er við suðurjaðar eldstöðvarinnar. Ummerki um jarðhita finnast á 8-10 km2 svæði, allt frá Breiðholtsmýri og norður fyrir Grafarvog. Sjálft vinnslusvæðið er um 300 m frá austri til vesturs og um 250 m frá norðri til suðurs. Frá 1967 hafa verið boraðar 16 djúpar holur (600-2300 m) á jarðhitasvæðinu og eru 8 þeirra nýttar. Holurnar skera móberg og hraunlög en streymi vatnsins stjórnast af sprungum og misgengjum. Hiti vatnsins er 80-100°C. Heita vatnið streymir úr norðaustri en tunga með kaldara vatni streymir á móti úr suðvestri.

Gróðurfar

Eliðaárdalur

Elliðaárdalur – Kermóafoss.

Gróðurfar í Elliðaárdal er fjölbreytt. Fjölbreytileikinn ræðst af mismunandi gróðurlendum og ræktun. Helstu gróðurlendi eru: Mýrar, kvistlendi, valllendi, blómlendi, og skóglendi. Aðalsérkenni gróðurfarsins í dalnum eru slæðingar. En það eru plöntur sem hafa borist með manninum beint eða óbeint.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-Einar Gunnlaugsson, jarðfræðingur.
-http://nemendur.khi.is
-www.or.is

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur – Kermóafoss.

Skálafell

B.B. í Grafarholti skrifaði eftirfarandi í Lesbók Morgunblaðsins árið 1930 undir fyrirsögninni „Saga Reykjavíkur“ – Hvar var Víkursel?
Vikursel-322„Bls. 9-10: „….jörðin átti sel, Víkursel, er var notað með vissu ennþá um 16OO, en hvar það sel hafi verið, er óljóst…. hefir mjer helst dottið í hug, að það hafi verið upp í Seljadal…. Víkursel er á einum stað (A. M.) nefnt „undir Undirhlíðum“, og kynni það að benda á Öskjuhlíð. Eftir (Oddgeirsmáldaga átti kirkjan Víkurholt með skóg og selstöðu. Virðist það geta bent á, að selið hafi verið í nánd við holtið.“
Bls. 17: (úr Jb. Á. M.): „Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum. Sumir kalla það gamla Víkursel. Þar hefir jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn.“
Bls. 45: „Dóttir Narfa (Ormssonar bónda í Reykja-Vík) ein hjet Þórey; hún átti Gísla prest Einarsson, bróðir Odds biskups. „Þótti sú gifting af rasandi tilhlaupi sjálfs hans. Reið um Mosfellsheiði um sumarið, gisti í Víkurseli. Smalamaður reið heim um nóttina, sagði bónda gestkomuna. Hann brá skjótt við, kom að selinu óhentuglega, þótti fleira í sæng dóttur sinnar heldur en von átti á. Sýndist gestinum skárst afráðið, að lofa eiginorði. Síðan var hún sótt frá Skálholti til að læra siðu og sóma; veitti tregt, því samur er barns vani. —
Þetta síðasta er sjálfsagt prestatilbúningur frá þeim tíma: þeim hefir þótt bróðir biskupsins taka ógurlega niður fyrir Vikursel-323sig, að eiga selstúlkuna. En Þórey hefir verið mikilhæf, eins og hún átti kyn til snarráð og harðfylgin sjer).
Það kemur ekki til mála, sem höf. sögunnar þó virðist hugsa, að sel stórbýlisins Víkur hafi verið í heimalandi. Slík fjénaðarmörg bú, höfðu selin í nokkurri fjarlægð, þar sem sumarland var gott. Smærri býlin höfðu selin oft í útjöðrum heimalands, eins og að Hlíðarhús áttu sel sunnan undir Öskjuhlíð. En t. d. Se]tjarnar-Nes átti selið upp í Seljadal, fyrir ofan Kamb, þar sem heitir Nessel. Viðeyjarsel er enn svo nefnt við Fóelluvötn, uppi undir Lyklafelli (= Litlaf.). Esjuberg átti sel uppi við Svínaskarð, fyrir ofan Haukafell. Gufunes sel í Stardal, o. s. frv. Reykjavíkurkirkju-ítakið „Víkurholt með skógi og selstöðu“ hefir einnig verið í nokkurri fjarlægð. „Gamla Víkursel“ má telja víst að hafi verið þar sem enn heita Undirhlíðar (fornt. undir Hlíðum), sunnan Hafnarfjarðar, fyrir ofan hraun. Þar eru enn hrískjörr nokkur. Er líklegt, að kunnugir menn þar um slóðir geti vísað á seltóftirnar. Seljatófta er aðeins þar að leita, sem trygt vatnsból er í nánd. En Víkursel það hið yngra. eða síðari tíma sel Víkur — er Gísli gisti í, hefir verið selið við Selvatn, í vesturjaðri Mosfellsheiðar, milli Miðdals og Elliðakots.
Videyjarsel-321Það er eina selið nálægt þeim vegi, sem þá var farinn milli Skálholts og Inn-nesja (Álftaness og Seltjarnarness), 
annað en Grafarsel við Rauðavatn. Frá því Víkurseli (við Selvatn) er til Reykjavíkur ca. tveggja stunda reið, eins og vegurinn lá í þá daga. Það hefir því verið leikur einn fyrir Narfa, að ná Gísla í rúmi.
Þá, á ofanverðri 16. öld, lágu tveir vegir yfir Mosfellsheiði, hinn nyrðri nyrst um hana, úr Þingvallasveit um Vilborgarkeldu, Þrívörðuás, Moldbrekkur, Illaklif, sunnan Geldingatjarnar, niður með Köldukvísl, Langholt, Mosfollsdal, um Tjaldanes, um syðri Leirvogstungubakka, Hestaþingshól, og suður Mosfellssveit neðanverða (gamla voginn frá Korpúlfsstöðum).
Syðri Mosfellsheiðarvegurinn (Skálholtsmannaleið) lá: yfir Ölvesá á Álftavatnsvaði, upp eftir Grafningi, yfir Hengilhálsinn, um Sporhellu og Dyraveg, yfir Brekku og nyrðri Bolavelli, vestur heiðina hjá Sýsluþúfn, fyrir norðan Lykla- (Litla)-fell, sunnan Selvatn, um Sólheima, Hofmannaflöt, Hestabrekku, Almannadal, hjá Rauðavatni; þar skiftust leiðir eftir því, hvort fara skyldi til Hafnarfjarðar og Álftaness (þá farið hjá Vatnsenda, Vífilsstöðum) eða til Seltjarnarness og eyjanna.
Nessel-321Það var ekki fyr en ca. öld síðar, að nyrðri vegurinn var lagður um Seljadal. Syðri vegurinn var tíðfarinn fram á 18. öld.

Þórey Narfadóttir hefir verið eftirmynd föður síns, eftir því er sagan lýsir honum. Þegar hún varð þess vís, að Gísli ætlaði að gista í selinu hjá henni, hefir hún sjeð sér leik á borði að krækja þar í álitlegt gjaforð. En til þess hefir hún sjeð að nauðsynlegt var að hinn kappsfulli, harðdrægi karl faðir hennar kæmi til, og stæði Gísla að sök; því hefir hún sent smalamanninn. Og Narfi „brá við skjótt“ — og svo gekk alt eins og í sögu! Hún varð prófastsfrú í Vatnsfirði. — Einkennilegt er að sjá skapgerðareinkenni Narfa Ormssonar í Vík ósljófguð hjá afkomanda hans í 9. lið, þeim er sagan tilgreinir.
Þegar eftir útkomu „Sögu Reykjavíkur“, sendi jeg höfundinum athugasemdir um Víkursel og fleira, nokkru fyllri en hjer. En þar sem hann er nú látinn, býst ég ekki við, að þær komi þar til greina.“
Af framangreindu og að teknu tilliti til landræðilegra aðstæðna má ljóst vera að framangreint „Víkursel“ hafi verið Viðeyjarsel (Bessastaðasel) í Lækjarbotnum, sem hins vegar hefur fram að þessu ekki verið fornleifaskráð sem slíkt.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 26. október 1930, bls. 333-334.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel (Bessastaðasel) – uppdráttur ÓSÁ.

Þingvallavegur

Gamla reiðleiðin til Þingvalla frá Reykjavík lá um Seljadal.
Þar má enn sjá leifar götunnar. Vagnvegur var síðan lagður í og við reiðleiðina á síðari hluta 19. aldar. Árið 1901 var byrjað á vagnvegi upp frá Fridrik 8Reykjaveg ofan Seljadalsbrúna, sunnan Seljadals, og upp á Háamel þar sem göturnar mættust austan hans. Þeirri framkvæmd lauk 1906. Seljadalsleiðin var öll vel vörðuð, en hin ekki. Við Þrívörðuhæð skiptast aftur vagnvegirnir og gamla reiðleiðin. Árið 1906 var síðan byrjað á leið frá Þingvöllum að Geysi og Gullfossi – til handa voru danska kóngi.
Gamli Þingvallavegurinn, sem liggur yfir háheiðina, var lagður á árunum 1890-96. Byrjað var á honum af Suðurlandsvegi við Geitháls. Vegalagningin miðaðist þá að sjálfsögðu við umferð hestvagna og ríðandi fólks. Vegurinn var lagður nær á sömu slóðum sem hinar fornu ferðamannaslóðir lágu um, en þó ívið sunnar eins og fyrr sagði. Eftir lagningu hans beindist nær öll umferð um heiðina að þessum vegi. Vörður voru hlaðnar við hann á allri heiðinni til leiðbeiningar ferðamönnum.

Thingvallavegur gamli - 218

Byggt var nýtt sæluhús við veginn í stað gamla hússins, sem stóð talsvert austar og norðar, á sýslumörkunum. Talsverðar endurbætur voru gerðar á þessum vegi vegna konungskomunnar 1907. Sumarið 1913 var í fyrsta sinn ekið bifreið eftir þessum vegi til Þingvalla og var notast við hann sem bílveg eftir það í hálfan annan áratug.
Þegar fjallað er um Konungsveginn frá Reykjavík að Þingvöllum og áfram að Geysi og Gullfossi gleymst oft fyrrnefndur fyrsti hluti hans, þ.e. um Mosfellsheiði að Þingvöllum. Enn má glögglega sjá leifar vegarins. Leiðin frá Elliðakoti um Djúpadal að Vilborgarkeldu var genginn eitt kvöldið árið 2012, 105 árum eftir að Friðrik VIII. Vegarlengdin er um 21 km. Danakonungur reið þessa götu er sérstaklega hafði verið lögð af því tilefni. Ætlunin var m.a. að skoða handverkið við vegagerðina; vörður, ræsi, brýr, kanthleðslur, púkk, steinhlaðið sæluhús og leifar hins gamla veitingastaðar, Heiðarblómsins.

Thingvallavegur gamli - 202

Árið 1904, þegar Íslendingar fengu heimastjórn, má segja að hestvagnaöld hefjist; það sama ár fór sá þekkti vagnasmiður, Kristinn Jónsson á Grettisgötunni, að framleiða sína vagna. Tveimur árum síðar var lagt í stórvirki: Konungsvegurinn lagður með hökum og skóflum til Þingvalla og þaðan austur að Geysi, því von var á Friðriki konungi 8. sumarið eftir. Gert var ráð fyrir að kóngur kysi að aka í yfirbyggðum hestvagni, en svo fór að hann vildi heldur fara ríðandi og aðeins ferðakamarinn var á hjólum í konungsfylgdinni austur að Geysi. Nú sést lítið eftir af konungsveginum, sem var þó þjóðleið til Geysis og Gullfoss.
Lagning Konungsvegarins reyndi ekki aðeins á þolgæði og útsjónarsemi vegargerðarmanna sem unnu verk sitt með skóflu, haka og hestvagni heldur þurfti líka að seilast djúpt í landssjóðinn en sennilega er Konungsvegurinn dýrasti vegur sem lagður hefur verið á Íslandi ef miðað er við hlutfall af útgjöldum landssjóðsins.
Thingvallavegur gamli - 204Ráðist var í vegaframkvæmdina 1906 og lauk fyrir komu konungs 1907. Lög um landsreikning voru samþykkt fyrir árin 1906/07 í einu lagi og var kostnaður við vegabætur 220.257 krónur, stærsti hluti Konungsvegur en heildarútgjöld landssjóðs voru liðlega 3.1 milljón. Konungsvegurinn er sennilega ein dýrasta vegaframkvæmd Íslandssögunnar u.þ.b. 14% af ársútgjöldum ríkisins á þeim tíma og kostaði líka ómælt strit og dugnað vegagerðarmanna við frumstæð skilyrði.
„Erfitt er nútímamönnum að gera sér í hugarlund hvernig hingaðkoma konungs 1907 var. Gríðarlegt tilstand var: stór hluti af fjárlögum þessa árs var lagður í vegagerð um Suðurland en til stóð að konungur færi þar um í vagnalest. Var vögnum safnað af öllu landinu til að flytja föruneyti konungs.
Thingvallavegur gamli - 203Þegar til kom vildi Friðrik sitja hest og fór því föruneyti hans ríðandi að mestu. Hingað kom í sveit konungs mikill fjöldi danskra blaðamanna og fyrirmenna úr dönsku opinberu lífi. Alþingi bauð hingað 30 dönskum þingmönnum og endurgalt þar með heimboð íslenskra þingmanna frá árinu áður en þá fóru 35 af 40 alþingismönnum til Hafnar í heimsókn.
Hingað til lands kom konungur með föruneyti á þremur skipum. Var lagt upp frá Tollbúðinni hinn 21. júlí og var mikill mannfjöldi við strandlengjuna til að kveðja konung, þúsundir manna segja samtímaheimildir. Var sægur skipa sem fylgdi skipunum þremur, Birma, Atlanta og Geysi, á leið. Fyrri skipin voru fengin að láni frá Austur-Asíufélaginu, því aldna félagi sem hafði um aldaskeið einokun á viðskiptum Dana við Asíulönd. Birma var þeirra stærst, 5.000 smálestir að stærð. Tvö hundruð manns voru um borð, tuttugu þjónar, hljómsveitarmenn, kokkar auk gestanna og áhafnar.

Thingvallavegur gamli - 205

Fyrsti áfangi ferðarinnar voru Færeyjar og þangað kom konungsflotinn 24. júní. Reru heimamenn tugum báta undir flöggum til móts við flotann. Dvaldi konungur með fylgdarliði sínu í Færeyjum í þrjá sólarhringa, fór víða um eyjarnar, skoðaði atvinnulíf og híbýli manna. Lagt var upp til Íslands að morgni 27. júlí. Sóttist ferðin það vel að skip konungs máttu liggja heilan dag undan Akranesi til að ná réttum komudegi til Reykjavíkur.
Íbúar Reykjavíkur voru um tíu þúsund sumarið 1907. Þar var uppi fótur og fit hinn 29. júlí; menn voru þegar teknir að flagga og mátti víða sjá hvítbláinn við hún innan um Dannebrog. Konungur skyldi gista í húsi Lærða skólans, en gestum var víða komið niður; á Hótel Reykjavík og Hótel Íslandi. Móttökunefnd hafði aðsetur í Iðnaðarmannahúsinu. Skipað hafði verið við lægi undan landi en svo stór skip sem voru í fylgd konungs voru fátíð hér og engin höfn enn í bænum. Skyldi konungur stíga á land að morgni 30. júlí kl. 10 og skyldi bátur hans leggja að gömlu steinbryggjunni.
Thingvallavegur gamli - 206Þann dag voru allir í bænum í sparifötunum og komnir niður í Pósthússtræti þar sem nú er Tryggvagata að hylla konung.
Erlend fyrirmenni og innlend í einkennisbúningum, karlar í jakkafötum og sumir á fornklæðum, konur á skautbúningum, upphlut og dönskum búningum, börnin þvegin og snyrt og stóðu hvítklæddar ungmeyjar í röð sitthvorum megin við gönguleið konungs: pláss var tekið frá fyrir fimmtíu innlenda og erlenda ljósmyndara. Er skipafloti konungs seig inn sundin var skotið úr fallbyssum af frönsku herskipi er hér lág við festar. Hannes Hafstein hélt þegar til skips konungs og stundvíslega kl. 10 lagðist konungsbáturinn að steinbryggjunni, þeir konungur og Hannes stigu á land og Hannes bauð kóng sinn velkominn með handabandi: „Velkominn til þessa hluta ríkis yðar, herra konungur!“
„Hér á landi dvaldi konungur ásamt fylgdarliði til 15. ágúst. Hann fór um Suðurland ríðandi, sigldi síðan flota sínum vestur fyrir land, tók land á Ísafirði, fór síðan norður fyrir og kom við á Akureyri og loks austur um með lokaáfanga á Seyðisfirði.
Hvarvetna sem Friðrik áttundi fór kom hann fram við háa og lága sem jafningja sína, gaf sig að múgamönnum rétt sem embættismönnum. Hann var forvitinn um hagi fólks, alúðlegur og alþýðlegur. Víst er að móttökur þær sem hann fékk hér á landi hafa hlýjað honum um hjartarætur. Samtímaheimildir danskar eru fullar af hrifningu, geðshræringum, yfir viðtökum. Enda fór svo að konungur hreyfði í för sinni sjálfstæðismálum þjóðarinnar, nánast í blóra við ráðherra sína.“

Thingvallavegur gamli - 207

„En hann gaf íslenskum almenningi annað sjálfstæði ekki minna að virði: hann veitti þeim tækifæri í samtakamætti að skarta öllu sínu með þeim árangri að þeir fengu hrós fyrir og gátu verið stoltir af; bara konungsvegurinn austur var gríðarstórt afrek og synd að hann skuli ekki betur varðveittur og nýttur.
Margt af viðbúnaði hér var með séríslenskum hætti; til fundar við konung riðu bændur í Eyjafirði hópreið til Akureyrar og sátu einungis hvíta hesta. Er margt í lýsingum gestanna með sérstökum sakleysisbrag. Því heimsókn konungs var ekki síður landkynning sem beindist einkum gagnvart Dönum sjálfum og hefur vafalítið átt sinn þátt í hinni djúpstæðu lotningu sem hefur um langan aldur ríkt í Danmörku fyrir Íslandi, sögu og náttúru.“

Örn H. Bjarnason skrifaði m.a. um Konunsveginn:
 „Í lok júlí 1907, um miðjan þingtíma Alþingis, komu gestirnir til Reykjavíkur á tveimur skipum og herskip til fylgdar.

Thingvallavegur gamli - 208

Fyrir Íslendinga var konungskoman stór stund. Barnungur sjónarvottur minntist þess síðar hvað honum fannst „skrúðganga gegnum bæinn, með konung og Hannes Hafstein í fylkingarbrjósti, óumræðilega stórkostleg, og sólin aldrei hafa skinið yfir jörðina með þvílíkri birtu.“
Konungskoman var líka stórframkvæmd fyrir Íslendinga, sem vildu tjalda því sem til var að veita gestunum viðeigandi og eftirminnilegar móttökur. Frá Reykjavík var farið með gestina í vikuferð á hestum um Suðurland. Hátíð var haldin á Þingvöllum, líkt og við fyrstu konungsheimsókn til Íslands 1874, með nær sex þúsundum gesta.
Ferðin hófst 1. ágúst og var lagt af stað frá Latínuskólanum í Reykjavík. Konungur reið gráum hesti og var í búningi sjóliðsforingja með derhúfu að hætti aðmiráls og í uppháum leðurstígvélum. Hannes Hafstein Íslandsráðherra var á léttvígum, rauðskjóttum gæðingi Glæsir að nafni, kallaður Ráðherra-Skjóni. Seinna í ferðinni reið hann brúnum hesti en konungur hélt sig við gráa litinn enda hafði honum verið ætlaðir fjórir í þeim lit í ferðina. Þegar til kom líkaði honum aðeins við tvo þeirra. Mér skilst að Eggert Benediktsson bóndi í Laugardælum, stórbýli rétt fyrir austan Selfoss, hafi skaffað þessa gráu hesta.
Thingvallavegur gamli - 210Haraldur prins var í húsarabúningi. Þarna voru líka Axel Tulinius sýslumaður Suður-Múlasýslu, aðalskipuleggjari ferðarinnar, Rendtorff yfirhestasveinn konungs í rauðum búningi, J.C. Christensen forsætisráðherra og Rosenstand leyndaretatsráð svo að einhverjir séu nefndir. Leiðsögumenn voru m.a. þeir Guðmundur Björnsson landlæknir og Jón Magnússon skrifstofustjóri, síðar forsætisráðherra. Jón var hæglætismaður og frekar orðfár, en hvar sem hann sýndi sig fóru hjólin að snúast. Þannig var það einnig við undirbúning þessarar ferðar.
Það þurfti töluverða skipulagshæfileika til að henda reiður á öllu því hafurstaski sem fylgdi þessu liði, kerrur með tjöld og matföng og trússhestar, klyfsöðlar, hnakkar, beisli, lyfjaskrín, hattaöskjur og ferðakoffort. Þetta líktist meira innrásinni í Rússland eða herleiðingu eins og sagt er frá í Gamla testamentinu hjá Móse frá Egyptalandi eða Esekiel til Babylon, erillinn var svo mikill. Að morgni fyrsta dags voru allir að ganga af göflunum og þá var notalegt að hafa Jón Magnússon með sína góðu nærveru.
Thingvallavegur gamli - 211Hófaskellirnir á götum Reykjavíkur þennan dag komu öllum í ferðaham og góðhestarnir sem bændur sunnanlands og norðan höfðu lánað af þessu tilefni voru ekki af verri endanum. Flestar sýslur landsins lögðu til 18 hesta hver landssjóði að kostnaðarlausu, en einnig voru fjöldinn allur af leiguhestum.
Af lista yfir íslenska alþingismenn sem varðveist hefur er svo að sjá, að flestir þeirra hafi fengið tvo hesta til afnota. Númer 13 á listanum er Hannes Hafstein, 1. Þingmaður Eyfirðinga, Tjarnargötu. Hann fékk bara einn hest enda lagði hann sjálfur til Ráðherra-Skjóna. Björn M. Olsen, 3. Konungskjörinn þingmaður, Lækjargötu 8, fékk 3 hesta. Tryggvi Gunnarsson 1. Þingmaður Reykvíkinga fékk 2 hesta og sömuleiðis Þórhallur Bjarnarson þingmaður Borgfirðinga síðar biskup yfir Íslandi. Guðmundur Björnsson 2. Þingmaður Reykvíkinga, Amtmannsstíg 1, fékk engan hest enda hefur hann sjálfsagt verið með sína eigin hesta í ferðinni.

Thingvallavegur gamli - 212

Í bréfi dagsettu 7. febrúar 1907 býður Daniel Danielsson hinni háttvirtu Heimboðsnefnd vagnhesta til kaups á kr. 160 stykkið. Hann segir í bréfinu, að hann treysti sér ekki til að fara neðar þar sem hann telji að verð á hestum á sumri komandi verði mjög hátt. Þetta var svo sannarlega uppgripstími fyrir hestaspekúlanta.
Þar sem riðið var upp Hverfisgötu blakti danski fáninn við hún. Farið var upp hjá Rauðavatni og Geithálsi og síðan Hafravatnsveg í Djúpadal á Mosfellsheiði, en þar byrjar hinn eiginlegi gamli Þingvallavegur. Svipusmellir fylltu loftið og öllum mátti vera ljóst að þetta var enginn venjulegur reiðtúr. Á leiðinni bættust í hópinn bændur sem höfðu hlaupið frá búum sínum til að skoða kónginn. Þegar til kom gátu þeir ekki stillt sig um að slást í för á Þingvöll. Sumir voru ekki einir á ferð heldur með allt sitt hyski, konu og krakka.

Í Djúpadal var framreiddur hádegisverður. Eins og allir vita þá eru Danir fyrst í essinu sínu þegar matur er annars vegar. Þeir borða ekki eingöngu til að lafa á fótunum.

Thingvallavegur gamli - 209

Leifar Heiðarblómsins.

Matargerð er í þeirra augum listgrein og að skeggræða um mat umræðuefni sem stendur jafnfætis heimspekitali á gangstéttarkaffihúsum stórborganna.
Virkilega siðaður Dani getur rifjað upp matseðla áratugi aftur í tímann af jafn mikilli nákvæmni og veðurglöggur Íslendingur lýsir skýjafari. Danir eru heimsmenn.
Nema hvað í Djúpadal hafði Franz Håkansson, bakari og conditori, Austurstræti 17 látið senda 150 rúnstykki, 7 rúgbrauð og 12 franskbrauð. Pagh veitingastjóri var staðráðinn í því, að hvað sem öðru liði þá myndi Friðrik 8. Danakonungur ekki verða hungurmorða í ferðinni og þyrstur yrði hann ekki, enda sést í skjölum að Thomsens Magasin lét senda 4000 flöskur vestur að Rauðamel.
Thingvallavegur gamli - 213Þar var tappað ölkelduvatni á flöskurnar. Þetta ölkelduvatn var haft til hressingar í heimsókn konungs. Að loknum málsverði þumlungaðist hersingin áfram fyrir norðan Borgarhóla í áttina að Þrívörðum og sunnan við Vilborgarkeldu á Mosfellsheiði, sem er forn áningarstaður. Þaðan var ekki langt í Ferðamannahorn, en það heitir svo vegna þess að þar sést fyrst til langferðamanna að koma á Þingvöll. Svo lá leiðin um Kárastaðastíg og niður í Almannagjá. Þegar konungur reið niður gjána hrópaði fólkið sem hafði raðað sér þar upp nífalt húrra, ég endurtek nífalt, minna mátti ekki gagn gera.
En hver var þessi konungur sem verið var að hrópa húrra fyrir? Friðrik 8. var fæddur árið 1843 og dó árið 1912. Hann ríkti frá árinu 1906 til 1912. Faðir hans var Kristján 9. Þann stutta tíma sem Friðrik var við völd ferðaðist hann mikið um ríki sitt og komst í nána snertingu við þjóð sína. Hann beitti sér m.a. fyrir bættum samskiptum við Íslendinga. Árið 1869 gekk hann að eiga sænska prinsessu Louise að nafni.
Thingvallavegur gamli - 214Og þjóðin sem hann var að heimsækja hvernig var hún? Af því að maður er svolítið blindur á sitt eigið fólk þá gerði ég það að gamni mínu að fletta upp í Nordisk Konversasions Leksikon, 5. bindi, bls. 183. Þar stendur: “Íslendingar tilheyra hinum hvíta kynstofni, flestir eru háir, ljósir yfirlitum og langhöfðar. Þeir eru með blá augu og grannvaxnir.” Þetta fannst mér áhugaverð lesning, en meira hafði ég samt gaman af að koma út af bókasafninu og labba eftir Austurstræti og sjá margbreytileikann í útliti fólks enda er þjóðin örugglega ekki svona einslit eins og stendur í alfræðiritinu. Rannsóknir á blóðflokkum Íslendinga sýna raunar að þjóðin er af margvíslegum uppruna.
En við vorum stödd á Þingvöllum. Þar höfðu miklar vegabætur farið fram sem og annars staðar á leið konungs.

Thingvallavegur gamli - 215

Árið 2000 voru líka lagðir vegir á Þingvöllum. Það tengdist Kristnitökuhátíðinni. Þetta voru mjög snotrir vegir út um alla móa, en lágu svo sem ekkert sérstakt að mér fannst. Áhugavert þótti mér að sjá hvílíkri tækni vegakarlar bjuggu yfir þegar þeir mokuðu þessum sömu vegum upp á vörubíla aftur og keyrðu í burtu. Þarna hófst nýr kafli í samgöngusögu þjóðarinnar. Það er ekki enn búið að moka í burtu Kóngsveginum gamla en slitróttur er hann orðinn á köflum.“
Á háheiðinni er enn að finna tóftir veitingahússins Heiðarblómsins sem rekið var þarna á heiðinni á árunum 1925-1930. Rekstri þar var hætt um leið og vegurinn lagðist af í kjölfar Alþingishátíðarinnar 1930, en af því tilefni var nýr malarvegur lagður um Mosfellsdal til Þingvalla.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 40 mín.

Heimildir m.a.:
-Lesbók Morgunblaðsins 7. september 1991, bls. 3.
-Morgunblaðið, 3. mars 2007, bls. 32.
-Morgunblaðið 15. júní 2007, bls. 40.
-Fréttablaðið, 31. maí 2007, bls. 64.
-heimastjorn.is/heimastjornartiminn/thingmannaforin-og-konungskoman/index.html
-hugi.is. Gamlar götur – Konungskoman 1907, Örn H. Bjarnason.

Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn – ræsi og varða framundan.

Esjuberg

Í Úrskurði Óbyggðarnefndar, máli nr. 3-4/2004 um  Kjalarnes og Kjós frá 31. maí 2006 má lesa eftirfarandi fróðleik um „Landnám í Kjós„:

Kjósarhreppur

Kjósarhreppur – bæir og mörk (rauð lína).

„Landnámabók getur ýmissa manna, sem námu land á þessu svæði. Fyrstur landnámsmanna var Ingólfur Arnarson: En Ingólfr nam land milli Ölfusár ok Hvalfjarðar fyrir útan Brynjudalsá, milli
ok Öxarár, ok öll nes út.
Eins og getið er um varðandi Kjalarnes var Mýdalsá (nú Miðdalsá og Kiðafellsá) takmark landnáms Helga bjólu. Norðan Mýdalsár var landnám Svartkels hins katneska: Svartkell hét maðr katneskr; hann nam land fyrir innan Mýdalsá milli <ok> Eilífsdalsár ok bjó at Kiðjafelli fyrst en síðan á Eyri.

Kiðafell

Kiðafell.

Svartkell hét maðr; hann fór af Englandi til Íslands ok nam land fyrir innan Mýdalsá ok millum Eilífsdalsár ok bjó at Kiðjafelli fyrst en síðan á Eyri. Eilífsdalá heitir nú Dælisá eða Bugða.
Gera má ráð fyrir að landnám Svartkels hafi náð upp í Esjuna, milli upptaka Mýdalsár og Eilífsdalsár. Valþjófr, son Örlygs hins gamla frá Esjubergi, nam Kjós alla ok bjó at Meðalfelli; frá honum eru Valþjóflingar komnir.

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.

Valþjófr, er fyrr var getit, son Örlygs at Esjubergi, hann nam Kjós alla ok bjó at Meðalfelli. … Valbrandr hét annarr son Valþjófs, faðir Torfa, er fyrst bjó á Möðruvöllum. Þeir feðgar gerðu félag við Tungu-Odd; af því bjöggu þeir síðan á Breiðabólstað í Reykjardal hinum nörðra. Landnám Valþjófs hefur því náð yfir Kjós vestan Laxár og ofan Bugðu.
Þorsteinn, son Sölmundar Þórólfssonar smjörs, nam land milli Botnsár ok Forsár, Brynjudal allan. Hann átti Þorbjörgu kötlu, dóttur Helga skarfs; þeirra son var Refr enn gamli, er Bryndælir eru frá komnir.

Brynjudalur

Brynjudalur.

Son Þórólfs smjörs var Sölmundr, faðir Þorsteins, þess er land nam í Brynjudal á millim Bláskeggsár ok Forsár; hann átti Þorbjörgu kötlu, dóttur Helga skarfs Geirleifssonar, er nam Barðaströnd; þeira son var Refr í Brynjudal, faðir Halldóru, er átti Sigfúss Elliða-Grímsson.
Landnámugerðum ber ekki saman um mörk landnáms Þorsteins Sölmundarsonar, hvort þau miðast við Botnsá eða Bláskeggsá. Er hér komið út fyrir landnám Ingólfs Arnarsonar sem náði til Brynjudalsár eins og segir í upphafi.

Brynjudalur

Brynjudalur. Tóftir Múla.

Bústaður Þorsteins Sölmundarsonar er ekki nefndur, en í Þórðarbók Landnámu segir að Refur sonur hans hafi búið í Múla. Sá bær þekkist ekki og hafa menn velt vöngum yfir líklegum stað án niðurstöðu.
Maðr hét Ávangr, írskr at kyni; hann byggði fyrst í Botni; þar var þá svá stórr skógr, at hann gerði þar af hafskip.  Ávangr hét maðr írskr, er bjó í Botni fyrstr manna, ok bjó þar allan aldr sinn; þá var þar svá stórr skógr, at hann gerði þar hafskip af ok hlóð þar sem nú heitir Hlaðhamarr. Hér er átt við Stórabotn í Botnsdal, sem á land báðum megin Botnsár. Ekki kemur fram, hversu stórt land Ávangur hefur haft til umráða. Haraldur Matthíasson telur hann hafa numið allan Botnsdal.“

Heimild:
-Úrskurður Óbyggðarnefndar, mál nr. 3-4/2004 – Kjalarnes og Kjós; 31. maí 2006.

Brynjudalur

Í Brynjudal.

Flórgoði

Flórgoðinn er fallegur fugl. Hann mætir á vötnin ofan höfuðborgarsvæðisins; Hvaleyrarvatn, Ástjörn, Urriðavatn, Vífilsstaðavatn, Rauðavatn o.fl., í kringum 15.-20. apríl eftir vetrardvöl s.s. við strendur Islands, Noregs og Skotlands, verpir um miðjan maí og liggur á 3-6 eggjum í u.þ.b. 21-25 daga. Ef varpið misferst getur hann verpt aftur og aftur uns allt um þrýtur. Á síðustu árum hefur flórgoðapörum fjölgað mjög á Reykjanesskaganum og er það vel.

Í Tímanum árið 1991 segir um flórgoðann:

Flórgoði

Flórgoðapar.

„Flórgoði (Podiceps auritus) er andarættar og heldur sig við tjarnir og síki. Höfuðið er gljásvart, fiðurmikið og úfið. Nefið er stutt, rýtingslaga og stélið er örstutt. Fæturnir eru með sundblöðkur á tánum.

Flórgoði

Flórgoði.

Frá höfði um aftanverðan háls, bak og vængi er fjaðurhamur svartur en á flugi koma fram áberandi hvítir vængspeglar. Flórgoðinn er hálsgrannur og búkurinn kubbslegur. Hann fellir fjaðurskúfa að vetri og litauðugt fiðrið tekur á sig dökkan lit. Röddin er lík væli nema á mökunar- og varptíma, þá er hún margvísleg. Flórgoðinn verpir 3-6 eggjum í flothreiður við sefgrónar grynningar. Á veturna dvelur hann á sjávarvogum.“

Í Morgunblaðinu árið 1993 fjallar Guðmundur Guðjónsson um flórgoðann undir fyrirsögninni „Flórgoðinn á „hættulistann““ (kynning á tegundinni í Bæjarbíói og á Ástjörn).

Flórgoði

Flórgoði með unga.

„Flórgoði, eða sefönd, heitir einn af fallegustu og sérstæðustu varpfuglum landsins. Hvergi hefur fugl þessi verið áberandi utan á Mývatni og svo ef til vill á einhverjum einstökum vötnum hér og þar án þess þó að magnið hafi verið mikið. Nú hefur brugðið svo við, að flórgoða hefur snarfækkað síðustu tvo áratugi. Ævar Petersen fuglafræðingur segir að flórgoðinn sé einn af þeim fuglum sem visindamenn hérlendis hafi sett á hættulistann.
Flórgoðinn er tiltakanlega algengur, það hafa verið þetta 300 til 400 pör og rúmlega helmingur þeirra á Mývatni en afgangurinn dreifður um landið.
Ástjörn er eini staðurinn á landinu að Mývatni undanskildu þar sem talandi er um flórgoðabyggð. Þó eru nú aðeins 6 til 8 pör á tjörninni sem er með mesta móti.

Ýmsar orsakir…

Flórgoðar

Flórgoðar á Hvaleyrarvatni.

Ástæður fyrir svo mikilli fækkun flórgoða geta verið ýmsar og þeir aðilar sem rætt var við töldu að samspilandi þættir væru hér á ferðinni. Flórgoðinn þarf mjög sérstætt umhverfi. Einungis grunn og gróskumikil vötn með starargróðri henta honum. „Allur fjandinn“ hefur verið gerður við slík vötn hér á landi eins og menn sögðu. Minkur hefur lengi verið skaðvaldur í fuglaríkinu og vitað er að flórgoðinn er ein þeirra tegunda sem á sérstaklega erfítt með að varast minkinn og veldur því sameiginlegt kjörlendi og hættir fuglsins. Aðrir þættir geta og spilað inn í, þannig benti Ævar Pedersen á, að menn vissu lítið um vetrarheimkynni flórgoða. Þau væru talin vera um norðanverðar Bretlandseyjar, Írland, Suðureyjar og Shetlandseyjar. Eitthvað er auk þess af flórgoða við strendur landsins á veturna, að minnsta kosti kemur hann oftast fram í árlegri fuglatalningu sem fram fer nærri áramótum. Aðeins fimm sinnum hafa íslensk merki fundist á dauðum flórgoðum og eru allar heimturnar frá þessum slóðum. Hvernig fuglinum reiðir af á vetrarstöðvunum er lítið vitað og aldrei að vita nema að einhverja fækkunarorsökina sé að finna þar.

Flórgoðar

Flórgoðar á Hvaleyrarvatni.

Flórgoði hefur mikla sérstöðu í íslenska fuglaríkinu. Nægir þar að benda á skrautlegt og óvenjulegt útlit fuglsins, en margur álítur hann með fegurstu fuglum þessa lands. Þá er hann eina varptegundin af svokallaðri goðaætt, en goðarnir eru náskyldir svokölluðum brúsum, en himbrimi og lómur eru þekktastir þeirra og þekktir varpfuglar á Íslandi. En fleira er sérstætt en útlit fuglsins. Hann er eina íslenska tegundin sem gerir sér flothreiður. Hreiðurstaðurinn er í stör og öðrum vatnagróðri og hreiðurefnið nærtækur vatnagróður sem fuglinn hleður upp í dyngju. Eggin eru 3 til 5 og tekur útungun um 25 daga, en varptíminn hefst oftast í lok maí eða í byrjun júní og fer það eftir árferði. Kemur þá inn í myndina hvort varpstaðurinn er sunnanlands eða norðan. Þar sem flórgoðar eru á annað borð eru þeir mjög áberandi framan af sumri og er svo fyrir að þakka útliti þeirra og látbragði. Þá þykir mörgum falleg sjón að sjá ný- og nýlega klakta flórgoðaunga sitja á baki móður sinnar. Og það hefur sína kosti að notast við flothreiður þó svo að meinbugir séu þar einnig á. Þannig eru goðarnir næmir á veðurbreytingar eins og önnur dýr og til þeirra hefur sést „leysa landfestar“ og draga hreiðrin á nýja bletti. Hefur þá ekki brugðist að vind hefur hert og nýi bústaðurinn til muna öruggari en sá fyrri.
Það væri sjónarsviptir af flórgoðanum úr íslensku fuglaríki og það er segin saga, að fuglastofn sem er strjáll fyrir þolir illa þegar samverkandi þættir ógna honum.

Flórgoði

Flórgoði – dans tilhugalífsins.

Flórgoðinn hefur aldrei verið áberandi fugl ef Mývatn er undanskilið, en nú fækkar honum þar ár frá ári. Fleiri fuglategundir á Íslandi stefna niður á við þótt almenningur verði ekki var við það þar sem stofnarnir eru enn stórir.
Áður hefur verið getið í fréttum Morgunblaðsins um fækkun steindepils og maríuerlu. Það sama gildir um hávellu og óðinshana. Þeim fækkar stöðugt og sérfræðinga okkar bíða þau verkefni að finna út hver vandinn er og stöðva hina óheillavænlegu þróun.“ – Guðmundur Guðjónsson

Í Morgunblaðinu árið 2013 fjallar Ásgeir Ingi Jónsson um flórgoðan; „Saman á sumrin en óháð að vetri„:

Flórgoði

Úr skýrslu um fugla í Garðabæ 2018.

„Flórgoðar af sama vatninu, pör eða nágrannar sem höfðu búið sumarlangt hlið við hlið, eiga sér vetrarstöðvar hvorir á sínum stað. Þannig kom t.d. í ljós að pör fóru hvort í sína áttina að hausti og dvaldist annar fuglinn í Noregi og hinn við Skotlandsstrendur yfir veturinn. Svo komu þau aftur heim að vori, strengdu sín heit að nýju, gerðu sér hreiður á sama stað og ólu upp unga.“
Þannig greinir Þorkell Lindberg Þórarinsson, líffræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Norðausturlands, frá merkum niðurstöðum rannsóknar starfsmanna stofnunarinnar á vetrarstöðvum íslenskra flórgoða, en þær voru að mestu óþekktar. Niðurstöðurnar hafa nú þegar aukið þekkingu varðandi farhætti og vetrarstöðvar flórgoða.
Þorkell segir að það hafi til að mynda komið verulega á óvart hversu óháðir sambýlisfuglar eru hver öðrum í vetrarorlofinu. Við rannsóknina eru svokallaðir dægurritar (e. geolocator) festir á fætur fuglanna til þess að rannsaka farhætti og vetrarstöðvar. Verkefnið hófst árið 2009 og hafa nokkrir flórgoðar verið merktir á hverju ári.
Alls hafa 46 fuglar nú verið merktir með dægurritum, þar af tíu í fyrrasumar, og hafa 15 merki endurheimst nú þegar.

Nokkuð tryggir varpstaðnum
Flórgoðinn
Dægurritar safna upplýsingum um birtutíma. Út frá þeim er hægt að reikna staðsetningu á hverjum tíma, náist merkið aftur. Þessi tækni hefur einnig verið notuð til að skrá ferðir ritu, skúms og skrofu hér á landi. Fuglarnir voru veiddir og merktir á hreiðrum og er byggt á að þeir komi aftur á sama stað ári síðar. Þorkell segir að flórgoðinn virðist vera nokkuð tryggur varpstaðnum.
Niðurstöður rannsókna Náttúrustofunnar staðfesta vetrarstöðvar við Bretlandseyjar, Noreg og Ísland. Hér sjást flórgoðar í litlum mæli að vetrarlagi á suðvesturhorni landsins og á Austfjörðum.
Út frá upplýsingum sem fengust úr dægurritum má líka sjá hversu lengi flórgoðarnir voru að ferðast til og frá vetrarstöðvum. „Flórgoði hefur ekki þótt sérlega flinkur flugfugl,“ segir Þorkell. „Hann er vatnafugl af guðs náð og hálfankannalegur á flugi, stéllaus, með lappirnar aftur úr búknum. Það vafðist þó ekki fyrir honum að fljúga heim frá Skotlandi á aðeins einum sólarhring. Það finnst okkur vel af sér vikið.“

Fjölgað hratt á síðustu árum

Flórgoði

Flórgoði á flotdyngju.

Flórgoði er eini fulltrúi sinnar ættar, goðaættarinnar, sem verpir hér á landi en tegundin finnst víða á norðurhveli. Eins og aðrir goðar er hann sérstæður að byggingu og sérhæfður að vatnalífi. Hann fer aldrei á land, ekki einu sinni til þess að verpa, því hann byggir sér flothreiður á vötnum sem hann festir yfirleitt uppi í stör eða víðibrúskum sem slúta út í vötn af bökkum.

Flórgoði

Flórgoði.

Nú er talið að um þúsund pör séu í íslenska flórgoðastofninum.“

Heimildir:
-Tíminn, 16.02.1991, bls. 12.
-Morgunblaðið, 146. tbl., 02.07.1993, Flórgoðinn á „hættulistann“ – Guðm. Guðjónsson, bls. 26.
-Morgunblaðið, 59. tbl. 12.03.2013, Saman á sumrin en óháð að vetri – Ásgeir Ingi Jónsson, bls. 16.

Flórgoði

Flórgoði með unga.

Hof

Á Kjalarnesi má finna ýmsa álagabletti, staði sem tengjast álfum, huldufólki, dvergum, vættum og draugum.
Kjalarnes-442Má t.d. nefna álagablett á Klébergi fyrir neðan Klébergsskóla, Helguhól utan við bæinn Gil (draugasaga), álagablett við Lykkju, huldufólk við Arnarholt og Borg sunnan Brautarholts, draugasaga í Strýthólum, dvergasögur tengdar Dvergasteini vestan við Bakka, Árnesi og Ártúnsgljúfri, álagablett (haugur Andriðar) í Andriðsey (Andrésey), dys í gilinu neðan við Saurbæ, vætti við Miðloku, huldufólk við Tíðarskarð, álagbletti við Óskiptu (land vestan Mela og Norðurkots) og loks draugasögu tengda við Tindstaði Innri.
Um Helguhólsdrauginn segir m.a.: „Helguhóll er grjóthóll upp með Bergvíkurlæk vestan við Vallárgrundir. Hann er eitt af landamerkjum milli jarðanna Hofs og Vallár, ásamt Hrafnaklettum, tveimur einstökum klettum upp í miðri Esjuhlíð og grjótvörðu á Klébergi sem ekki finnst lengur. Vestan við Helguhól er Aurinn. Þar var Aurbrú, gamall snidduhlaðinn vegur sem náði frá fjalli og niður á Grundarholt. Við Helguhól er sögn um lífseigan draug, Helguhólsdraug og var það trú manna að hann gæti tekið upp á því að villa um fyrir mönnum, er áttu leið um Aurbrú. (Kjalnesingar. Hof. 1998 Þorsteinn Jónsson, Byggðir og bú.)
Kjalarnes-441Í Krosshól[um] á að búa huldufólk. Í Kjalnesingasögu er getið um komu Auðar djúpuðgu er hún kom á leið sinni til og um landið við hjá bróður sínum, Helga bjólu, er bjó að Hofi. Helgi vildi bjóða henni og helmingi skipshafnarinnar húsaskjól og mat (hafa ber í huga að á sérhverju skipi voru a.m.k. 64 manna áhöfn), en Auði fannst bróður sinn helst til og nýskur á kostina svo hún ákvað að halda ferð sinni áfram uns Hvammsfirði norðvestra var náð. Þar er nú eitt örnefnið; Krosshólar, fyrir ofan tófta bæjar Auðar. Ekki er með öllu útilokað að það hafi tengst stuttri viðdvöl hennar í Hofi á Kjalarnesi. Í dag er Hof sunnan við Brautarholt, millum þess og Esjubergs. Þar eru fáar minjar er gefa tilefni til fyrrum fornaldarbæjar. Bæjarnöfn hafa jafnan haft tilhneigingu til að færast til með tíð og tíma.
Kjalarnes-443Austan við núverandi Brautarholtsbæinn (og kirkjuna) er allálitlegar tóftir; vel gróinn bæjarhóll. Í honum eru leifar tiltölulega ungs bæjar; m.a. baðstofu, eldhús, fjós og hlöðu. Skammt vestar má sjá leifar fjárhúsa. Líklegt er að þessi bær hafi farið í eyði öðru hvoru megin við árið 1900. Krosshól[a] má sjá skammt norðaustan við bæjarstæðið. Augljóst er að þarna hafi fyrrum staðið eldri bær eða bæir um langt skeið. Staðurinn er kjörinn til fornleifauppgraftar, og þá með þeim formerkjum að verða grafinn upp í heilu lagi. Ekki er grunlaust um að ýmislegt forvitnilegt kynni að koma þar upp úr sverðinum.
Haugur Andriðar, föður Búa (skv. Kjalnesingasögu) er í Andriðaey. Ætlunin er að skoða hann við fyrsta tækifæri. Við hauginn á að vera Kjalarnes-444stór steinn, uppréttur, sagður legsteinn landnámsmannsins í Brautarholti, þess er sonur Helga bjólu drap á gamalsaldri til að jafna sig á því að hafa ekki náð að drepa son hans, Búa. (Samkvæmt sögunni virðist þetta hafa verið bilað lið.)
Þegar komið var að Saurbæ var þar fyrir sérkennileg kerling á gamals aldri. Aðspurð um „Dysina“ sagðist hún vita hvar hún væri, en það mætti alls ekki grafa í hana, a.m.k. ekki meðan hún væri á lífi. Nú væri dysin nánast orðin jarðlæg og ekki fyrir óreynda að staðsetja hana. Sagði hún fornmann vera þarna grafinn og sá átrúnaður væri á honum að á meðan hann fengi að vera óáreittur myndu „hey í Saurbæ ekki bresta“.
Af þeim sökum hefði verið séð til þess að gengið væri um dysina með Kjalarnes-446tilhlýðilegri virðingu. Þessa stundina stóð þannig á að sú gamla í Saurbæ var ekki ferðafær og baðst undan því að fara á staðinn að svo komnu máli. Skrásetjari fékk á tilfinninguna að sú at tharna vissi minna en hún vildi vera láta. Á korti um minjar og sögustaði á Kjalarnesi er dysin staðsett í gljúfrinu norðan og neðan við kirkjuna.
Í örnefnalýsingu Mela segir m.a.: „Rétt neðan við Melabæinn er kvos í gilinu. Þar er brekka, sem heitir Álagabrekka. Hana má ekki slá, því þá ferst bezti gripurinn í fjósinu.“ Þegar hús var tekið á Guðna Ársæli Indriðasyni í Laufabrekku austan Mela var ólíku saman að jafna og í Saurbæ. Móttökurnar voru hinar vinsamlegustu. Hann sagði nefnda Álagabrekku vera ofan Álagahvamms í landi Mela. Norðurkot væri ofan og sunnan við hvamminn.

Kjalarnes-447

Faðir hans hefði jafnan haft á orði að Álagahvamm mætti ekki slá. Hann hefði ekki tekið mark á sögninni tvö sumur og ákveðið að slá hvamminn, enda væri hann sérstaklega grösugur. Nú væri búið að gróðursetja þar nokkur grenitré. Þá hefði borið svo við að tvær bestu mjókurkýrnar á bænum hefðu drepist – og tengdi hann það hvammssláttunni.
Guðni sagði þrjár grónar þúfur eiga að vera í Óskiptu (óskiptu landi Melabæjanna). Þær hafi ekki mátt slá með svipuðum formerkjum og í Álagahvammi. Faðir hans taldi sig vita hverjar þessar þúfur væru, en nú væri erfitt að staðsetja þær af nokkurri nákvæmni.

Efstu bæirnir á Kjalarnesi í austri eru Tindstaðir Ytri og Innri. Handan þeirra taka Kjósarbæirnir við; Kjalarnes-448Kiðafell, Morastaðir og Miðdalur.
Á Tindstöðum Innri var draugurinn „Tindastaðaflyksa“. Þetta var hundtík flegin aftur fyrir miðju, sem send var Halldóri bónda á Tindstöðum í Kjós seint á 18. öld. Um tíkina þá verður fjallað nánar um síðar.
Brautarholt er sagnastaður er fyrr greinir. Í örnefnalýsingu segir: „Sagt er, að í Krosshól hafi verið huldufólk. Eitt sinn þurfti að sækja yfirsetukonu til konu í Mýrarholti. Þegar hún kom, var búið að skilja á milli, en konan vissi ekki sjálf um, hvernig það gerðist. Þetta var um 1880.“ Hamrarnir sunnan Borgar suðvestan Brautarholts geymir og sagnir um huldufólk, sem fyrr er lýst.
Við Bakka er Dvergasteinn. Húsfreyjan á Kjalarnes-445bænum, þrátt fyrir annir við mjaltir, gaf sér brosandi tíma til að útskýra tilurð örnefnisins. „Ég var hér í sveit fyrrum. Þá lá fyrir vitneskja um steininn. Hann var alltaf nefndur „Dvergasteinn“. Hann er þarna í túninu og hefur ávallt verið látinn í friði þrátt fyrir túnasléttur og aðrar framkvæmdir. Steinninn, sem nú virðist lítill, hefur áður verið mun hærri. Sagt er að sonur bóndans á Bakka hafi eitt sinn bjargað sér upp á steininn til að forðast mannýkt naut er sótti að honum. Ég veit ekki hvaðan sagan er komin eða hversu gömul hún er, en þarna er steinninn og þess hefur ávallt verið gætt að láta hann í friði“.

Heimildir m.a.:
-kjalarnes.is.
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar.
-Guðni Ársæll Indriðason frá Laufbrekku á Kjalarnesi.
-Úrill kona í Saurbæ á Kjalarnesi.

Esja

Esja á Kjalarnesi.

 

Jaðar

Í Skýrslu nefndar um „Könnun á starfsemi vistheimilisins Silungapolls 1950-1969, vistheimilisins Reykjahlíðar 1956-1972, og heimavistarskólans að Jaðri 1946-1973″, þann 31. ágúst 2010 má lesa eftirfarandi um heimavistaskólann að Jaðri:

Jónas B. Jónsson

Jónas B. Jónsson.

„Reykjavíkurbær hóf starfsemi heimavistarskóla að Jaðri í Elliðavatnslandi hinn 5. febrúar 1946. Þingstúka Reykjavíkur hafði þá nýlega lokið við byggingu sumardvalar- og félagsheimilis að Jaðri og leigði Reykjavíkurbær húsnæðið yfir vetrarmánuðina. Á tíu ára starfsafmæli skólans árið 1956 hélt fræðslufulltrúi Reykjavíkur, Jónas B. Jónsson, ræðu þar sem hann lýsti aðdraganda stofnunarinnar og hver aðkoma fræðslufulltrúaembættisins hefði verið: „Haustið 1943 er ég tók við núverandi starfi mínu, var eitt fyrsta verk mitt að gera spjaldskrá yfir alla skólaskylda nemendur í barnaskólum bæjarins. Mér þótti sýnt, að þá fyrst væri hægt að sjá hvað væri af nemendum, sem þyrftu sérstakrar umönnunar við, hverjir sæktu illa skóla og hverjir kæmu alls ekki í skóla. Þegar þessi spjaldskrá var fullgerð og skólasókn barna var könnuð, kom í ljós, að allmargir drengir sóttu ekki skóla og aðrir mjög illa. Nánari eftirgrennslan hjá skólunum svo og hjá lögreglunni og barnaverndarnefnd sýndi að þeir drengir sem iðkuðu útigang og lausung á kvöldin komu ekki í skóla, þeir voru hnuplsamir, þeir reyktu og höfðu oftsinnis komist í kast við lögregluna. Um þetta gerði ég allítarlega skýrslu og sendi bæjarráði.“
Skýrsla fræðslufulltrúa sem minnst var á hér að ofan var send bæjarráði í janúar 1944 og þar var bent á að fyrir afbrotadrengi þyrfti að setja á stofn „nokkurs konar heimavistarskóla, helzt á einangruðum stað […] sem hafi sterk uppeldisleg áhrif, sem kenni drengjunum til munns og handa, skapi þeim verkefni, góða aðbúð og vellíðan […]“.

Jaðar

Jaðar á frumbýlisárinu.

Bæjarráð vísaði málinu til bæjarstjórnar og á fundi í febrúar 1944 samþykkti bæjarstjórn að stofna heimavistarskóla í nágrenni bæjarins fyrir þau börn á skólaskyldualdri, sem heimilin hafa ekki hemil á að dómi fræðslufulltrúa og barnaverndarnefndar.“ Fræðslufulltrúa var falið að vinna að athugun málsins og vorið 1944 kom hann með tillögu um að finna skólanum stað í Öxney á Breiðafirði. Tekið var vel í tillöguna í bæjarstjórn en ekkert varð þó úr því að heimavistarskólinn yrði stofnaður þar eða á annarri jörð í sveit.

Jaðar

Jaðar.

Í lok maí 1945 barst bæjarráði Reykjavíkur bréf frá formanni og ritara Landnáms Templara að Jaðri en svo nefndist stjórnin í Þingstúku Reykjavíkur sem fór með málefni Jaðars. Í bréfinu sagði: „Á síðastliðnu ári skoðaði Barnaverndarnefnd og fræðslufulltrúi Reykjavíkur, byggingu þá er við höfðum í smíðum að Jaðri, með tilliti til þess að bærinn tæki hana á leigu í sína þágu, þann tíma árs er við rekum ekki þar okkar eigin starfsemi. Mæltist Barnaverndarnefnd til þess að fá að sitja fyrir, ef húsið yrði leigt til afnota yfir vetrarmánuðina. Með tilvísun til þessa og með því að sýnt er að húsið verður fullgert innan skamms, leyfum við okkur að bjóða bæjarráði húsið til leigu. […] Við erum reiðubúnir til að leigja húsið 8-9 mánuði ársins fyrir sanngjarnt verð“.

Jaðar

Jaðar.

Bæjarráð óskaði eftir áliti barnaverndarnefndar Reykjavíkur og á fundi nefndarinnar hinn 1. júní 1945 var samþykkt að mæla með því að Reykjavíkurbær tæki tilboði Þingstúku Reykjavíkur um að leigja húsið að Jaðri fyrir heimavistarskóla. Á fundi bæjarstjórnar hinn 16. ágúst 1945 samþykkti bæjarstjórnin að heimila bæjarráði að leigja húsið að Jaðri og var fræðslufulltrúa falið, „í samráði við skólanefndir og borgarstjóra að annast rekstur skólans.“ Í janúar 1946 ritaði fræðslufulltrúi Reykjavíkur bréf til fræðslumálastjóra og tilkynnti um fyrirhugaða starfsemi á Jaðri: „Heimavistarskólinn á að vera fyrir skólaskyld börn, sem eiga ekki samleið með öðrum börnum í barnaskólum bæjarins. Tekin verða í fyrstu 10-16 börn, en síðan 24. Skólinn er aðallega ætlaður fyrir drengi.“

Jaðar

Jaðar.

Fyrstu önnina sem skólinn starfaði, vorið 1946, voru 14 nemendur og veturinn 1946-1947 voru nemendur 20. Næstu þrjá veturna voru 22-23 nemendur í skólanum og á sjötta og sjöunda áratuginum voru oftast á bilinu 25-30 nemendur sem dvöldu á Jaðri hvern vetur en nánar er fjallað um aldursskiptingu og námstíma nemenda á Jaðri í kafla 3.2 hér síðar. Fræðsluskrifstofa Reykjavíkur hafði umsjón með því að ákveða hvaða drengir færu á Jaðar en þó í samráði við nokkra aðila, svo sem skólastjóra í viðkomandi barnaskólum, skólastjóra Jaðars og í sumum tilvikum barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Frá og með hausti 1961 fór Sálfræðideild skóla með það hlutverk að rannsaka þá drengi sem sótt var um vist fyrir á Jaðri og mæla síðan með því við skólastjóra Jaðars hverjir fengju vist.

Jaðar

Jaðar.

Fyrstu veturna starfaði heimavistarskólinn að Jaðri frá október og fram í maí en starfstíminn var lengdur skólaárið 1951-1952. Eftir það hófst kennsla um miðjan september og henni var lokið um miðjan maí. Stundaskráin var þétt skipuð alla daga með kennslu, útivist, heimanámi og kvöldvökum. Í skýrslu til fræðslufulltrúa Reykjavíkur vorið 1946 lýsti þáverandi skólastjóri, Loftur Guðmundsson, fyrirkomulaginu á eftirfarandi hátt: „Í skólastofu fór venjulega fram kennsla í 4-5 stundir á degi hverjum, en auk þess fylgdist skólastjóri með námsstarfi nemenda, er þeir voru komnir til herbergja sinna á kvöldin, og veitti þeim þá aðstoð eftir föngum. […] Hvað kennslu viðvíkur, var aðaláhersla lögð á lestrar-, reiknings- og skriftarnám. […] Ef til vill má þó segja, að mest áhersla hafi verið lögð á að bæta framferði barnanna og hegðun, og venja þau við að hlýta [sic] sanngjörnum aga“.

Jaðar

Jaðar.

Þegar Björgvin Magnússon tók við skólastjórn árið 1955 var nemendum skipt upp í tvær deildir, yngri og eldri deild. Í yngri deildinni voru ólæsir nemendur en í eldri deildinni hinir læsu. Björgvin gerði grein fyrir skiptingunni og daglegum störfum í skólaskýrslu fyrir veturinn 1959-1960: „Námið í vetur gekk annars vel, og varð árangur sæmilegur, í sumum tilfellum ágætur, þótt við erfiðar aðstæður sé við að etja, sem aðallega stafa af mismunandi aldri drengjanna. Aðeins er hægt að skipta í tvær deildir. Eru þeir læsu í annarri, en þeir ólæsu í hinni. – Áður en haldið er lengra vildi ég með fáum orðum lýsa dagskránni hjá okkur, hvernig dagurinn skiptist milli náms, leikja o.fl. Kl. 8 er vakið. Drengirnir klæða sig, þvo og snyrta, síðan er tekið til í herbergjunum. Að því búnu er farið í morgunverð. Þrisvar í viku er morgunleikfimi. Kl. 9-12 er kennsla. Kl. 12 miðdegisverður. Kl. 1-3 er útivist, þá eru drengjunum kenndir leikir ýmiss konar o.s.frv. Kl. 3:30 er drykkja. Kl. 4-6 er svo nám. Kl. 6:30 kvöldverður, kl. 7-8 nám aðallega lesið undir næsta dag. Kl. 8-9:30 eru svo leikir, framhaldssögulestur, kvikmyndasýningar og skátakvöldvökur. Kl. 10 kyrrð“.

Jaðar

Jaðar.

Á starfstíma Jaðars voru lagðar fram nokkrar tillögur um breyttar áherslur í starfsemi skólans. Fyrstu hugmyndirnar í þá veru komu frá Jónasi B. Jónssyni fræðslufulltrúa Reykjavíkur þegar árið 1950. Það ár rann út leigusamningur Reykjavíkurbæjar við Þingstúku Reykjavíkur og af því tilefni ritaði Jónas bréf til borgarstjóra og lagði til að starfsemin yrði færð að Laugarási í Biskupstungum: „Húsakynni þar [að Jaðri] hafa verið hin prýðilegustu, en aðstaða til starfa slæm. Það hefur því vart verið hægt að beina orku drengjanna til jákvæðra starfa, heldur hefur starf kennara mest megnis orðið kennsla og gæzla. Hefur því oftsinnis komið óyndi í drengina og þeir strokið í bæinn, enda hægt um vik sökum nálægðar og góðra samgangna. […] Segja má, að skilyrðifyrir heimavistarskóla [að Laugarási í Biskupstungum] fyrir þá drengi, sem áður hefur verið minnst á, séu þarna góð. Þarna má hafa fjölþætt starf, alls konar ræktun, alifuglarækt o.fl. Fjarlægðin frá bænum stuðlar að því, að umsjón með drengjunum verður minni og þeir því eðlilega óþvingaðri. Drengirnir geta fengið útrás fyrir orku sína við eðlileg og gagnleg störf“.

Jaðar.

Jaðar.

Hér enduróma upprunalegu hugmyndir fræðslufulltrúans um að best færi á því að heimavistarskóli á borð við Jaðar væri staðsettur í sveit þar sem drengjunum væri bæði kennt „til munns og handa […]“. Bæjarráð samþykkti á fundi í maí 1950 að fela fræðslufulltrúa að „leita samninga um framlengingu á leigumála um Jaðar, eða leigu á öðrum stað fyrir skólastarfið, sem til þessa hefir verið á Jaðri.“ Ekkert varð þó af fyrirhuguðum flutningi starfseminnar og leigusamningur um Jaðar var framlengdur síðar á árinu 1950.241 Vorið 1951 sendi Bragi Magnússon þáverandi skólastjóri á Jaðri skýrslu til fræðslufulltrúa um þá drengi sem verið höfðu í skólanum undangenginn vetur. Í niðurlagi skýrslunnar lét skólastjórinn það álit sitt í ljós að skóli sem Jaðar ætti ekki aðeins að starfa veturlangt heldur allt árið um kring þar sem margir nemendur hefðu ekki í góð hús að venda þegar skólastarfi lyki að vori. Mæltist hann því til þess að tilraun yrði gerð með sumardvöl fyrir drengi af Jaðri í heimavist Laugarnesskólans. Fræðslufulltrúi tók vel í tilmæli skólastjóra og kannaði möguleikana á því að hafa sumardvöl í heimavist Laugarnesskóla en þetta komst þó aldrei í framkvæmd.

Jaðar

Jaðar.

Fræðslufulltrúi Reykjavíkur ítrekaði þörfina fyrir heilsársstarfsemi á Jaðri í greinargerð um barnaheimili á vegum Reykjavíkurbæjar árið 1956. Þar sem skilyrði á Jaðri „til atvinnu og starfa [voru] nálega engin […]“ lagði fræðslufulltrúinn til að nýbyggingar fyrir barnaheimili og heimavistarskóla yrðu reistar „á kyrrlátum stað utan bæjar, þar sem landrými er nóg og staðhættir góðir.“ Barnaheimilanefnd tók undir þetta sjónarmið í tillögum sínum til borgarstjóra árið 1957 og þar var gert ráð fyrir tveimur heimavistarskólum fyrir 25 drengi hvor og einum fyrir 25 stúlkur sem starfa skyldu allt árið.

Jaðar

Á Jaðri.

Sumarið 1961 skrifuðu Jónas Pálsson forstöðumaður Sálfræðideildar skóla og Símon Jóh. Ágústsson prófessor álitsgerð um vistheimili og barnaverndarmál í Reykjavík. Gerðu þeir athugasemd við það að í stað þess að á Jaðri „dveldust drengir, sem vanrækja nám og skólasókn […]“, eins og upphaflega var ætlast til, væri reyndin sú að „aðalástæðan til vistunar allmargra drengja þar [væru] vondar heimilisástæður, sem jafnframt hafa þá truflað nám þeirra.“ Töldu þeir æskilegt að Jaðri yrði ætlað skýrar afmarkað hlutverk og þar vistaðir drengir sem vanræktu nám og skóla og væru haldnir áberandi hegðunarvandkvæðum í skóla. Einnig var gagnrýnt í álitsgerðinni að allmargir nemendur dveldu þar í 3-4 vetur og var lagt til að dvalartíminn yrði yfirleitt eitt skólaár og að enginn dveldi þar lengur en tvö skólaár. Að lokum var lagt til að nemendur yrðu ekki teknir í skólann „nema á undan hafi farið athugun sérfræðinga á þeim, og sálfræðingur sé til ráðuneytis um rekstur skólans, sitji t.d. fundi með skólastjóra og starfsfólki tvisvar í mánuði“.

Jaðar

Jaðar.

Sálfræðideild skóla tók við síðastnefnda hlutverkinu en hún hafði verið sett á laggirnar árið 1960. Björgvin Magnússon skólastjóri á Jaðri gat þessa í skólaskýrslu fyrir skólaárið 1961-1962: „Í vetur varð sú breyting á hér í sambandi við skólann, að allir drengir, sem hingað koma, eru rannsakaðir og prófaðir af Sálfræðideild skóla, og hefur nú deildin ásamt fræðsluskrifstofunni ákvörðun um, hverjir eru sendir hingað í skólann. Forstöðumaður deildarinnar, Jónas Pálsson, sálfræðingur, kom svo hingað einu sinni í viku og hélt fund með kennurum og húsmóður skólans“.
Í nóvember 1962 settu Jónas B. Jónsson fræðslustjóri Reykjavíkur og Jónas Pálsson forstöðumaður Sálfræðideildar skóla fram tillögur varðandi vistheimili og ráðstafanir vegna barna sem gátu ekki dvalist á heimilum sínum. Þar áréttuðu þeir að afmarka þyrfti hlutverk Jaðars skýrar: „Að því er stefnt, að heimavistarskólinn á Jaðri gegni því aðalhlutverki enn frekar en nú er, að vera heimili til enduruppeldis og sérstakrar meðferðar (milieu-behandling) á börnum, sem eru taugaveikluð; sýna hegðunarvandkvæði eða eru afbrigðileg að öðru leyti, en þó innan „normal“ marka að greindarþroska. Skróp, uppeldisvandræði og taugaveiklun eiga sér afar oft sameiginlegar rætur í lélegri heimilisaðstöðu barnsins, enda þótt um mörg þessara afbrigðilegu barna verði ekki sagt, að heimili þeirra í efnahagslegu né félagslegu tilliti séu léleg“.

Jaðar

Jaðar.

Af minnisblaði sem Jónas Pálsson forstöðumaður Sálfræðideildar skóla ritaði árið 1967 má ráða að ekki hafi fyllilega gengið eftir að afmarka hlutverk Jaðars skýrar eins og lagt var til í álitsgerðinni árið 1961 og tillögunum frá árinu 1962. Í minnisblaðinu kom fram að ákvörðun um ráðstöfun drengja á Jaðar byggðist að „langmestu leyti á félagslegri og uppeldislegri aðstöðu barnanna, þ.e. hve þörf þeirra [væri] brýn fyrir bætta heimilis- og uppeldisaðstöðu.“ Af þessu leiddi að heimavistarskólinn að Jaðri gegndi fyrst og fremst hlutverki vistheimilis en ekki „hlutverki meðferðastofnana (milieubehandling hjem eða observationskole) nema að takmörkuðu leyti, enda [væru] engar beinar heimildir í lögum eða reglugerðum um rekstur slíkra sérkennslustofnana.“

Jaðar

Jaðar.

Árið 1970 tilnefndi Jónas B. Jónsson fræðslustjóri Reykjavíkur nefnd sem fjalla skyldi um starfrækslu heimavistarskólanna að Jaðri og Hlaðgerðarkoti og tengd verkefni. Í nefndinni sátu Þorsteinn Sigurðsson sérkennslufulltrúi, Ragnar Georgsson skólafulltrúi og Jónas Pálsson forstöðumaður Sálfræðideildar skóla sem var formaður nefndarinnar. Í júní 1971 kynnti nefndin tillögur sínar ásamt greinargerð. Lagði nefndin m.a. til að innan skólanna á skyldustiginu í Reykjavík yrði komið á fót stuðningskennslu og meðferð í smáum hópum þar sem nemendur yrðu áfram kyrrir í almennum bekkjum en fengju hjálp sérmenntaðra kennara en einnig að þar yrðu sérbekkir, svokallaðir „observationsbekkir“.

Jaðar

Jaðar – stytta.

Þá var lagt til að utan skólanna yrðu á vegum fræðsluráðs og félagsmálaráðs sett á laggirnar skólaheimili, heimavistir fyrir vanrækt börn og unglinga og meðferðarheimili fyrir taugaveikluð börn og unglinga undir stjórn Sálfræðideildar skóla. Tillaga nefndarinnar varðandi Jaðar var á þá leið að skólaárið 1971-1972 yrði starfsemi skólans með svipuðu sniði og verið hefði en stefnt skyldi að því að flytja kennslu- og meðferðarþátt starfseminnar til borgarinnar jafnóðum og aðstaðan og úrræðin í framkomnum tillögum nefndarinnar væru komin í gagnið.

Jaðar

Jaðar 2020 (mynd; Hafsteinn Björgvinsson).

Tillögur nefndarinnar voru í anda svokallaðrar blöndunarstefnu sem ruddi sér til rúms á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar en með henni var leitast við að finna stöðugt fleiri börnum stað í almenna skólakerfinu og færa sérkennslu frá stofnunum og inn í skólana. Veturna 1971-1972 og 1972-1973 var starfsemi á Jaðri óbreytt nema að því leyti að nemendur voru færri en áður eða 18 og 17 hvorn vetur. Skólahald hófst með venjubundnum hætti haustið 1973 en skömmu síðar var ákveðið að hætta starfseminni frá og með 1. desember 1973 og var öllum starfsmönnum sagt upp.

Jaðar

Jaðar 2020 (mynd; Hafsteinn Björgvinsson).

Veturinn 1973-1974 var komið á fót sérdeild við Réttarholtsskóla fyrir nemendur með geðræna erfiðleika og hegðunarvandkvæði og tók hún við því hlutverki sem Jaðar hafði gegnt. Á árunum 1974-1979 voru samskonar sérdeildir stofnaðar við sex aðra skóla í Reykjavík, svonefnd skólaathvörf.“

Með framangreindum þrætum var starfseminni á Jaðri sjálfhætt.

Heimild:
-Skýrsla nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007, Áfangaskýrsla nr. 2 – Könnun á starfsemi vistheimilisins Silungapolls 1950-1969, vistheimilisins Reykjahlíðar 1956-1972, og heimavistarskólans að Jaðri 1946-1973, Reykjavík, 31. ágúst 2010.

Jaðar

Jaðar – framtíðarhugmyndir; líkan á Þjóðminjasafninu.

Blikdalur

Þegar FERLIR fór enn og aftur í sérstaka leitarferð um Blikdalinn fannst enn ein selstaðan, sú efsta í dalnum hingað til.
Blikdalur-226Áður höfðu átta selstöður verið skráðar beggja vegna í dalnum.
Ætlunin var að rekja selstígana og skoða hvert þeir leiddu. Og þar sem engin selstaða hafði áður fundist ofan við miðjan dalinn var lögð sérstök áhersla á að gaumgæfa hana m.t.t. hugsanlegra minja. Og viti menn (og konur); Í ljós komu nánast jarðlægar leifar af þremur húsum og aflöngum stekk. Veggir voru hlaðnir úr grjóti. Efst var stekkurinn, þá minna hús, líklega eldhús, lítill skáli (5-6 m langur) og loks fjós (10-11 m langt). Enn ofar var hlaðið lítið gerði, hugsanlega kví. Selstaðan var á skjólgóðum stað og greinilega mjög gömul.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 40 mín (í 21°C hita og sól).

Blikdalsselin

Selin í Blikdal – uppdráttur ÓSÁ.

 

Silungapollur

Í Skýrslu nefndar um „Könnun á starfsemi vistheimilisins Silungapolls 1950-1969, vistheimilisins Reykjahlíðar 1956-1972, og heimavistarskólans að Jaðri 1946-1973„, þann 31. ágúst 2010 má lesa eftirfarandi:

Gunnar Thoroddsen

Gunnar Thoroddsen, borgarstjóri 1949.

„Hinn 1. júlí 1950 hóf Reykjavíkurbær starfsemi vistheimilis á Silungapolli sem staðsett var skammt frá Suðurlandsvegi í nágrenni Reykjavíkur. Þar átti Barnasumardvalarfélag Oddfellow húsnæði sem það hafði reist árið 1930 og þar sem það starfrækti sumardvalarheimili fyrir börn. Á hverju sumri dvöldu á vegum Oddfellow 40-60 börn á Silungapolli í 8-10 vikur en árið 1943 fékk Rauði kross Íslands afnot af húsnæðinu og rak þar sumardvalarheimili fram til ársins 1949. Borgarstjóri ritaði bréf til Barnasumardvalarfélags Oddfellow í september 1949 og spurðist fyrir hvort hægt væri að fá húsnæði þeirra að Silungapolli til afnota og þá með hvaða skilmálum enda hefði Reykjavíkurbær „sífellt aukna þörf fyrir húsnæði handa börnum sem ráðstafa [þyrfti] af hálfu hins opinbera.“ Stjórn félagsins tók vel þeirri málaleitan og bauðst til að semja um afnot hússins fyrir vistheimili fyrir börn en félagið áskildi sér rétt til að „geta haft allt að 60 veikluð börn í sumardvöl að barnaheimilinu, hvort sem sú starfsemi [yrði] rekin á vegum Barnasumardvalarfélags Oddfellowa eða á vegum R.K.Í. [Rauða kross Íslands].“ Þegar í kjölfarið ritaði borgarstjóri barnaverndarnefnd Reykjavíkur og óskaði eftir áliti nefndarinnar á málinu. Á fundi hennar hinn 5. október 1949 var bréf borgarstjóra Reykjavíkur lagt fram og af því tilefni gerði nefndin hlé á fundi sínum og fór og skoðaði húsakynni og aðra aðstöðu á Silungapolli. Að því loknu var fundi framhaldið og eftirfarandi samþykkt gerð: „Nefndin mælir eindregið með því, að húsið verði tekið á leigu með það fyrir augum, að þar verði rekin ársstarfsemi fyrir 25-30 börn, einnig telur nefndin mögulegt, að þar sé rekin sumardvalarstarfsemi fyrir allt að 60 börn.“

Silungapollur

Silungapollur.

Samningur milli Reykjavíkurbæjar og Oddfellow var undirritaður hinn 24. mars 1950 og var hann til 15 ára. Reykjavíkurbæ var látin í té afnot af húseign félagsins við Silungapoll í þeim tilgangi að bærinn ræki þar vistheimili allt árið um kring fyrir börn til allt að sjö ára aldurs. Félagið gat krafist þess að bærinn tæki til sumardvalar allt að 60 börn til viðbótar, þriggja til sjö ára gömul, eftir ákvörðun félagsins eða annarra aðila í umboði þess. Afnot fasteignanna voru veitt án endurgjalds en á hinn bóginn skyldi bæjarsjóður láta gera allar þær breytingar og endurbætur er nauðsyn krefði vegna heimilishaldsins á sinn kostnað, m.a. að tengja fasteignirnar við rafveitukerfi bæjarins, leggja fullnægjandi hitunarkerfi og endurbæta vatns- og skolpleiðslur. Allar endurbætur, viðbætur og breytingar á eignum og innanstokksmunum voru kvaðalaus eign Barnasumardvalarfélags Oddfellow að samningstíma loknum. Þá var bæjarsjóði skylt að kosta allt nauðsynlegt viðhald eignanna, greiða af þeim öll opinber gjöld og vátryggja hús og innanstokksmuni gegn eldsvoða.

Silungapollur

Silungapollur.

Silungapollur var þriðja vistheimilið sem Reykjavíkurbær stofnsetti á skömmum tíma. Árið 1945 hófst starfsemi á Kumbaravogi við Stokkseyri sem var vistheimili fyrir munaðarlaus börn og börn sem bjuggu við erfiðar heimilisaðstæður. Heimilið var ætlað 20 börnum af báðum kynjum á aldrinum 7-14 ára. Starfsemin á Kumbaravogi fluttist að Reykjahlíð í Mosfellsdal árið 1956 eins og nánar er rakið í kafla 1 í VI. hluta skýrslunnar. Í október 1949 tók vöggustofan að Hlíðarenda til starfa. Þar var rúm fyrir 22 börn á aldrinum 0-18 mánaða og Silungapollur var ætlaður fyrir allt að 30 börn á aldrinum 3-7 ára. Um þessi tímamót segir í ársskýrslu barnaverndarnefndar Reykjavíkur fyrir árið 1950: „Hefur því nefndin getað fullnægt að mestu þörfum þeirra, sem erfitt hafa átt, ef um góð börn hefur verið að ræða, en afbrotabörnin hafa mátt eiga sig og sýkja út frá sér, en samkvæmt lögum um vernd barna og ungmenna, ber ríkissjóði skylda til að láta reisa hæli fyrir slík börn, þegar fé er veitt til þess í fjárlögum, en það hefur ekki verið gert enn“.

Silungapollur

Silungapollur.

Eins og kveðið var á um í samningi Reykjavíkurbæjar og Barnasumardvalarfélags Oddfellow komu börn til sumardvalar á Silungapoll hvert ár. Sumardvölin var á vegum Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands og að jafnaði komu um 60 börn til tveggja mánaðadvalar. Fyrir á Silungapolli voru börn sem barnaverndarnefnd Reykjavíkur ráðstafaði á heimilið og yfir hásumarið var heildarfjöldi barna því oft um 90-100 börn. Til að mæta þessu var starfsmönnum fjölgað tímabundið og voru 10-12 starfsstúlkur ráðnar yfir sumarið til viðbótar við þær sem fyrir voru en fastir starfsmenn voru að jafnaði 13 talsins. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafði á sínum tíma lýst sig samþykka þessu skipulagi en á fundi nefndarinnar hinn 4. maí 1960 var á hinn bóginn eftirfarandi bókað: „Af gefnu tilefni vill barnaverndarnefnd Reykjavíkur lýsa því yfir að hún telur mjög óheppilegt að á Silungapolli séu samtímis sumardvalarbörn og börn þau er þar dvelja yfir árið.“ Skömmu síðar ritaði Þorkell Kristjánsson fulltrúi nefndarinnar svohljóðandi minnisblað: „Á Silungapolli dvelja 30 börn allt árið á vegum Reykjavíkurbæjar. Þar eru aðeins vistuð börn, sem brýna þörf hafa fyrir vist og vegna þess að heimilin geta ekki látið börnunum í té næga aðhlynningu einhverra hluta vegna.
Helstu ástæður fyrir ráðstöfun barna á barnaheimilið eru: Vanhirða, heilsuspillandi húsnæði, fátækt, veikindi, drykkjuskapur, hrottaskapur, munaðarleysi og önnur óholl uppeldisskilyrði. Barnaverndarnefnd hefur mestu ráðið um val barna á heimilið“.

Silungapollur

Silungapollur.

Mánuðina júlí og ágúst hefur Reykjavíkurdeild R.K.Í. 60 börn á Silungapolli. Ráðstöfun þessa tel ég mjög óheppilega, naumast mannlega gagnvart umkomulausum börnum og mun ég hér á eftir gera grein fyrir þessari skoðun minni.
1. Leik og föndurpláss langdvalarbarna er tekið fyrir svefnstofur handa sumardvalarbörnum.
2. Útiskáli, sem annars er ætlaður fyrir leiki barna í slæmum veðrum, er notaður til að geyma í 60 rúmstæði, dýnur og annað, er þarf til afnota fyrir sumardvalarbörnin. Skáli þessi er því notaður til geymslu 10 mánuði ársins.
3. Sumarbörnin eru þess valdandi, að ekki er hægt að sýna ársbörnunum eins góða umhyggju þessa tvo mánuði sem aðra og er það allmikið áfall fyrir börn, sem ekki eiga kost á því, að njóta móðurhlýju svo mánuðum eða árum skiptir.
4. Heimsóknir falla niður meðan sumardvalir standa, en heimsóknir umhyggjusamra skyldmenna er þeim andleg nauðsyn.
5. Venjulega er óyndi í sumardvalarbörnum fyrstu kvöldin eftir að þau koma, en þau lagast fljótt vegna þess að þau vita, að aðeins er um stuttan dvalartíma að ræða. Þetta er ekki langdvalarbörnunum sársaukalaust, þegar nýkomnu börnin eru að æpa á mömmu og pabba, sem hin eiga annaðhvort ekki til eða eru dæmd til að vera fjarvistum við. Þegar fer að líða á dvalartíma sumarbarna fara þau að tala um, að nú séu þau að fara heim til mömmu og pabba. Hvernig er þá líðan þeirra barna, sem eftir verða þarna, sem engar mæður eiga, eða veikar mæður og verða að dvelja á barnaheimilinu ófyrirsjáanlegan tíma? Margt fleira mætti telja, sem mælir á móti því að reka á Silungapolli árs- og sumarheimili og hæpið er að slíkt geti staðist ef hugsað er um velferð barnanna.

Silungapollur

Silungapollur.

Í febrúar 1961 afhenti Þorkell Kristjánsson borgarstjóra afrit af ofangreindu minnisblaði og lýsti borgarstjóri sig „mjög sammála þeim umræðum, sem þar [komu] fram […]“. Í kjölfarið fól hann Guðmundi Vigni Jósefssyni formanni barnaverndarnefndar Reykjavíkur og Jónasi B. Jónssyni fræðslustjóra að athuga hvort hægt væri að koma sumardvalarbörnum fyrir á öðrum stað. Leiddi þetta til þess að vistheimilamál borgarinnar voru tekin til endurskoðunar en um vorið 1961 fékk Jónas B. Jónsson þá Símon Jóh. Ágústsson prófessor og Jónas Pálsson forstöðumann Sálfræðideildar skóla til að taka til nýrrar athugunar tillögu barnaheimilanefndar frá árinu 1957 og hélt Jónas nokkra fundi með þeim ásamt formanni barnaverndarnefndar Reykjavíkur um málið á meðan álitsgerðin var í vinnslu.

Silungapollur

Silungapollur.

Álitsgerð Símonar Jóh. Ágústssonar og Jónasar Pálssonar um vistheimili og barnaverndarmál í Reykjavík var fullgerð í júní 1961. Um Silungapoll segir í álitsgerðinni: „Forstöðukona Silungapolls og barnaverndarnefnd Reykjavíkur eru sammála um, að ekki sé fært að reka barnaheimilið þar áfram öllu lengur með sama fyrirkomulagi og verið hefur undanfarin ár, þ.e. að hælið sé jafnframt rekið sem sumardvalarheimili á sumrin. Kemur þá tvennt til greina: a) að leggja niður sumardvalarstarfsemina og ársheimilið verði rekið áfram með sama sniði og áður, eða b) að ársstarfseminni verði fengið annað húsnæði. Allir virðast vera sammála um, að húsið á Silungapolli sé af ýmsum ástæðum (eldhætta, kuldi, herbergjaskipun) óhentugt til ársstarfsemi og ekki til frambúðar“.

Silungapollur

Silungapollur 1934.

Ennfremur bentu þeir á að ef leggja ætti niður starfsemina á Silungapolli þá þyrftu tvö vistheimili sem þeir höfðu gert tillögur um að vera til staðar, þ.e. annars vegar nýbygging á lóð vöggustofunnar á Hlíðarenda fyrir börn á aldrinum 1½-3 ára og hins vegar upptökuheimili fyrir 20-30 börn á aldrinum 3-7 ára. Lögðu þeir því til að framkvæmdir við þessi heimili skyldu hafa forgang og þeim yrði lokið innan tveggja ára. Á grundvelli álitsgerðarinnar gerði Jónas B. Jónsson tillögur að byggingu barnaheimila í Reykjavík næstu árin og sendi borgarstjóra. Lagði Jónas til að á árinu 1962 yrði veitt 2 milljónum króna til byggingar uppeldisheimilis fyrir 30-40 börn á aldrinum 3-7 ára. Bygging skyldi hafin árið 1962 og henni lokið vorið 1963 og vistheimilið að Silungapolli þá lagt niður og „aðeins höfð þar sumardvalarstarfsemi á vegum R.K.Í. eða annarra aðila.“ Sumarið 1963 kom enn fram á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur andstaða við sumardvalir barna á Silungapolli. Þá lét Gyða Sigvaldadóttir, fyrrverandi forstöðukona á Silungapolli og þáverandi nefndarmaður í barnaverndarnefnd Reykjavíkur, færa til bókar að hún áteldi að börn væru enn látin á Silungapoll til sumardvalar „þrátt fyrir að dvöl þeirra þar verði að teljast á allan hátt neikvæð fyrir þau börn, sem þar eru að alast upp.“

Jónas B. Jónsson

Jónas B. Jónsson.

Í nóvember 1962 voru að nýju settar fram tillögur um vistheimilamál í Reykjavík, að þessu sinni af þeim Jónasi B. Jónssyni og Jónasi Pálssyni. Þeir settu m.a. fram tillögur um að byggt yrði upptöku- og vistheimili fyrir 30 börn á aldrinum 3-16 ára, vistheimili fyrir 12-16 börn á aldrinum 2-7 ára og að keypt yrði íbúð fyrir fjölskylduheimili fyrir fimm börn, fjögurra ára og eldri. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur tók tillögurnar til umræðu á fundum nefndarinnar í febrúar 1963 og sendi borgarstjóra álitsgerð í mars 1963. Taldi barnaverndarnefnd að brýnust væri þörfin fyrir upptöku- og vistheimili fyrir börn á aldrinum 3-16 ára og jafnframt að gerð yrði tilraun með að starfrækja fjölskylduheimili. Í næsta áfanga taldi nefndin að nauðsyn væri á að reisa heimili fyrir 2-7 ára börn í stað þess sem þá var rekið að Silungapolli „við lélegan og óhagstæðan húsakost.“ Til nánari skýringar við ályktun nefndarinnar sagði: „Í þriðja lið ályktunarinnar er talið, að brýnust þörf sé fyrir vistheimili eða upptökuheimili. Er þá gert ráð fyrir að þetta heimili verði fyrst um sinn rekið jöfnum höndum sem vistheimili og upptökuheimili. Er slíkt heimili nú mjög aðkallandi, þar sem þau heimili, sem nú eru rekin, eru oftast yfir setin, en jafnvel á einni viku getur þurft að ráðstafa mörgum börnum, sem í rauninni er ekkert pláss fyrir. Rétt þykir að taka fram, að ekki er talið, að þetta heimili geti leyst af hólmi barnaheimilið að Silungapolli, sem þó er mikil þörf á að byggja upp. Er ekki talið fært að leggja það heimili niður, nema annað heimili komi í staðinn, fyrir þau börn, sem þar dvelja, og er lagt til, að það verði reist í næsta áfanga“.
Samkvæmt áætlun um byggingu vistheimila árin 1963-1968 sem fylgdi tillögunum og umsögn barnaverndarnefndar Reykjavíkur var gert ráð fyrir að byrjað yrði á upptökuheimili við Dalbraut árið 1963 og því lokið árið 1964, því næst að fjölskylduheimili yrði byggt eða keypt árið 1965 og að árið 1966 hæfist bygging vistheimilis fyrir 12-16 börn á aldrinum 2-7 ára. Því ætti að vera lokið árið 1967 og kæmi þá í staðinn fyrir Silungapoll.

Silungapollur

Á Silungapolli.

Í samningi Reykjavíkurborgar og Barnasumardvalarfélags Oddfellow um afnot borgarinnar af Silungapolli var tiltekið að hann rynni út 1. nóvember 1964. Í nóvember 1962 ritaði stjórn félagsins bréf til fræðslustjóra Reykjavíkur og bauð eignina til kaups.
Fræðslustjóri mælti með því við borgarstjóra að eignin yrði keypt en lagði einnig áherslu á að húsnæðið væri óhentugt sem is og því væri réttast að flytja starfsemi vistheimilisins annað en nota Silungapoll áfram sem sumardvalarheimili á vegum borgarinnar. Á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur hinn 8. apríl 1965 var eftirfarandi tillaga Gyðu Sigvaldadóttur samþykkt: „Þar sem Reykjavíkurborg hefur keypt barnaheimilið Silungapoll og þar með létt af þeirri kvöð, að taka til sumardvalar börn á vegum R.K.Í., vill barnaverndarnefnd fara þess á leit við hlutaðeigandi aðila, að hún fái til ráðstöfunar öll þau pláss, sem þar er um að ræða enda ber til þess brýna þörf.“ Nokkuð dró úr fjölda sumardvalarbarna á Silungapolli á fyrri hluta sjöunda áratugarins, t.d. voru sumardvalarbörn á vegum Rauða krossins 35 árið 1962 og 20 árið 1964. Frá og með sumrinu 1965 lögðust sumardvalir á vegum félagsins á Silungapolli af. Eftir það ráðstafaði barnaverndarnefnd Reykjavíkur alfarið börnum á Silungapoll.

Silungapollur

Á Silungapolli.

Ekkert varð af því að hafist yrði handa við framkvæmdir við vistheimili sem leysa myndi Silungapoll af hólmi, líkt og gert hafði verið ráð fyrir í áætlun um byggingu vistheimila árið 1963. Á hinn bóginn tók til starfa árið 1965 á vegum borgarinnar fjölskylduheimili að Skála við Kaplaskjólsveg sem ætlað var fyrir allt að átta börn sem ráðstafa þyrfti til lengri tíma. Þá hófust framkvæmdir við upptökuheimili Reykjavíkurborgar við Dalbraut árið 1963 og snemma árs 1966 tók það að nokkru til starfa í þeim hluta byggingarinnar sem þá var tilbúinn. Fullbúið skyldi heimilið á Dalbraut rúma 45 börn og átti þar að vera athugunarstöð fyrir börn og unglinga, áður en þeim var ráðstafað annað auk þess sem þar skyldu vistuð börn sem koma þyrfti fyrir um stundarsakir. Árið 1967 hófst undirbúningur að byggingu nýrrar álmu við Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins.

Silungapollur

Silungapollur.

Viðbótarálman átti að rúma 14 börn og var einkum ætluð þeim börnum sem orðin voru of gömul til að dveljast á þeim hluta Vöggustofunnar sem þá var í rekstri. Þá var einu fóstrunarheimili komið á fót árið 1967 og var það hið fyrsta sinnar tegundar. Í ársskýrslu barnaverndarnefndar Reykjavíkur fyrir árið 1967 var fyrirkomulagi fóstrunarheimila lýst nánar og í framhaldinu hver stefnan væri í vistheimilamálum: „Samið er við einkaaðila, venjuleg hjón, að þau, gegn ákveðinni þóknun, taki að sér fáein börn í einu til skemmri dvalar. Kostir fóstrunarheimila eru einkum þeir, að vegna smæðar þeirra er hægt að búa börnum persónulegra og heimilislegra umhverfi en á stærri barnaheimilum. Þá er og dvalarkostnaður venjulega nokkru minni. Fyrirhugað er að koma upp fleiri fóstrunarheimilum á næsta ári“.

Silungapollur

Silungapollur.

Með stækkun upptökuheimilisins við Dalbraut, vöggustofunnar á Hlíðarenda og með fleiri fóstrunarheimilum ætti, í fyrirsjáanlegri framtíð, að vera unnt að fullnægja þörf vegna barna, sem vista þarf vegna tímabundinna heimilisástæðna.
Vistunarúrræði barnaverndarnefndar Reykjavíkur urðu fleiri og fjölbreyttari við þessar breytingar. Árið 1969 var ákveðið að leggja starfsemi Silungapolls af í þeirri mynd sem verið hafði. Fram kom í máli Sveins Ragnarssonar þáverandi félagsmálastjóra Reykjavíkur við skýrslutöku hjá vistheimilanefnd að það hefði verið meðal fyrstu verka Félagsmálastofnunar Reykjavíkur, sem tók til starfa í ársbyrjun 1968 og hafði m.a. alla umsjón með rekstri vistheimila borgarinnar, að taka ákvörðun um að loka skyldi Silungapolli. Í árslok 1969 var rekstri Silungapolls hætt þar sem húsakynni voru ekki lengur talin til þess fallin að halda uppi rekstri þar allt árið. Í tilefni af því gerði barnaverndarnefnd Reykjavíkur félagsmálaráði kunnugt að hún teldi „brýna nauðsyn [vera] á að reka áfram sumardvalarheimili að Silungapolli, nema því aðeins að samskonar aðstaða fyrir sumardvöl barna [yrði] tryggð með öðrum hætti.“ Félagsmálaráð Reykjavíkur ákvað að reka í tilraunaskyni sumardvalarheimili á vegum borgarinnar fyrir 30 börn sumarið 1970. Þrátt fyrir góða reynslu af heimilinu þótti ekki rétt, með tilliti til mikils rekstrarkostnaðar, að halda uppi rekstri sumardvalarheimilis að Silungapolli sumarið 1971.

Silungapollur

Silungapollur.

Við gildistöku laga um vernd barna og ungmenna nr. 29/1947 var í fyrsta skipti með beinum hætti kveðið á um skyldu ríkisvaldsins að setja á stofn og reka vist- eða meðferðarheimili fyrir börn sem ratað höfðu á siðferðilega glapstigu eða framið höfðu lögbrot. Á hinn bóginn voru lög nr. 29/1947 fáorð um skyldu ríkisins, sveitarfélaga eða annarra varðandi stofnun og rekstur vistheimila fyrir börn sem bjuggu við bágar heimilisaðstæður. Þrátt fyrir að lög nr. 29/1947 hafi ekki með beinum hætti kveðið á um skyldu tiltekins aðila til að setja á stofn og reka vistheimili fyrir börn sem bjuggu við bágar heimilisaðstæður hefur vistheimilanefnd áður lagt til grundvallar að ráða megi af ákvæðum laganna að gert hafi verið ráð fyrir tilvist slíkra stofnana. Mælt var fyrir um skyldu sveitarfélaga til að hafa tiltæk úrræði fyrir þau börn og ungmenni sem vista varð utan heimilis ef orsakir voru annars eðlis en lögbrot eða ungmenni væru á siðferðilegum glapstigum, svo vísað sé til hugtakanotkunar laga nr. 29/1947.

Silungapollur

Á Silungapolli.

Með lögum um vernd barna og ungmenna nr. 53/1966 var í fyrsta skipti beinlínis kveðið á um verkaskiptingu ríkisins annars vegar og sveitarfélaga hins vegar varðandi skyldur þeirra til að setja á stofn og reka vistheimili eða stofnanir fyrir börn. Ríkisvaldinu var samkvæmt 1. mgr. 39. gr. skylt að setja á stofn og reka vist- eða meðferðarheimili fyrir börn sem ratað höfðu á siðferðilega glapstigu eða framið höfðu lögbrot. Í 3. mgr. 39. gr. var kveðið á um skyldu sveitarfélaga til að setja á stofn og starfrækja stofnanir fyrir börn sem bjuggu við bágar heimilisaðstæður. Þá var sérstaklega mælt fyrir um í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 29/1947 og 1. mgr. 37. gr. laga nr. 53/1966 um heimild menntamálaráðherra til að veita leyfi til reksturs vistheimilis eða annarrar slíkrar uppeldisstofnunar að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
Hér að framan er rakinn aðdragandi að stofnun vistheimilisins Silungapolls og þær forsendur sem lágu til grundvallar starfseminni, en ljóst er að um var að ræða stofnun sem starfrækt var af Reykjavíkurborg, en ekki af ríkinu. Þá var stofnunin á tímabilinu 1950-1965 samhliða rekin sem sumardvalarheimili fyrir börn en eins og rakið er í kafla 1 hafði Rauði kross Íslands afnot af heimilinu á sumrin og vistaði að jafnaði um 60 börn hvert sumar á fyrrgreindu tímabili. Það er því afstaða vistheimilanefndar með vísan til fyrirliggjandi frumgagna að telja verði að vistheimilið Silungapollur hafi í merkingu laga nr. 29/1947 og laga nr. 53/1966 haft það hlutverk að vera stofnun þar sem vistuð skyldu börn sem bjuggu við bágar heimilisaðstæður, einkum vegna háttsemi, veikinda og vanrækslu foreldra. Á heimilið átti því ekki að vista börn vegna atvika er vörðuðu háttsemi þeirra sjálfra. Þá hafi heimilið einnig verið starfrækt sem sumardvalarheimili. Þær efnisreglur sem fram komu í reglum nr. 31/1963 um sumardvalarheimili hafi því gilt um starfsemi heimilisins frá árinu 1963 er reglur um starfsemi sumardvalarheimila voru fyrst settar hér á landi, þ.m.t. reglur um aðbúnað, fjölda barna, heilbrigðiseftirlit.

Silungapollur

Silungapollur.

Samkvæmt 1. gr. fyrrgreindra reglna um sumardvalarheimili nr. 31/1963 taldist hvert það heimili sumardvalarheimili sem tæki fimm börn eða fleiri til sumardvaldar.
Menntamálaráðherra veitti heimild til stofnunar eða reksturs slíks heimilis að fengnum meðmælum hlutaðeigandi barnaverndarnefndar og héraðslæknis og með samþykki Barnaverndarráðs Íslands. Umsóknum um heimild til að reka sumardvalarheimili skyldu fylgja nánar tiltekin gögn, þ.m.t. umsögn barnaverndarnefndar, heilbrigðisvottorð heimilisfólks, umsögn héraðslæknis um húsakynni, brunahættu o.fl. Samkvæmt því sem að framan er rakið telur vistheimilanefnd að atvik að baki stofnun Silungapolls og starfsemi stofnunarinnar leiði í fyrsta lagi til þeirrar ályktunar að heimilið hafi haft það hlutverk að vera úrræði fyrir barnaverndarnefndir þar sem vistuð skyldu börn sem bjuggu við bágar heimilisaðstæður, einkum vegna háttsemi, veikinda og vanrækslu foreldra. Á heimilinu átti því ekki að vista börn vegna atvika sem vörðuðu hátterni þeirra sjálfra, s.s. vegna lögbrota. Vistun slíkra barna var á hendi ríkisins og var gert ráð fyrir því að sérstakar stofnanir hefðu það hlutverk.

Silungapollur

Silungapollur – loftmynd 1957.

Samkvæmt 3. gr. reglna nr. 31/1963 voru gerðar lágmarkskröfur um húsakynni sumardvalarheimila, þar sem m.a. var kveðið á um að drengir og stúlkur skyldu vera í sérherbergi, hvert barn skyldi sofa í sér rúmi, o.fl. Áður en starfræksla heimilisins hæfist skyldi fara fram læknisskoðun á heimilisfólki og starfsfólki og fylgja skyldi heilbrigðisvottorð hverju barni sem tekið yrði til sumardvalar. Ef slíkt vottorð fylgdi ekki bar forstöðumanni umsvifalaust að fá héraðslækni til að kanna heilbrigði þess. Þá var í 5. gr. sérstaklega kveðið á um eftirlitshlutverk barnaverndarnefnda. Bar þeim að fylgjast rækilega með rekstri barnaheimila í umdæmi sínu og heimsækja þau minnst tvisvar á sumri og oftar, ef þörf væri á, til þess að kynna sér sem best aðbúð og líðan barnanna og beita sér fyrir því að bætt yrði þegar úr ágöllum, ef í ljós kynnu að koma. Þá bar viðkomandi barnaverndarnefnd að tilkynna Barnaverndarráði ef hún yrði vör við alvarlegar misfellur í starfi barnaheimilis. Þá var í 7. gr. sérstaklega kveðið á um eftirlitsskyldu Barnaverndarráðs. Skyldi fulltrúi ráðsins a.m.k. einu sinni á sumri koma á sumardvalarheimili sem löggilt hefðu verið, til leiðbeiningar og eftirlits. Skyldi hann kynna sér allan aðbúnað barna á heimilum og gæta þess að fylgt væri í öllu lögum og reglum um barnaheimili.“

Með framangreindum þrætum var starfseminni á Jaðri sjálfhætt.

Heimild:
-Skýrsla nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007, Áfangaskýrsla nr. 2 – Könnun á starfsemi vistheimilisins Silungapolls 1950-1969, vistheimilisins Reykjahlíðar 1956-1972, og heimavistarskólans að Jaðri 1946-1973, Reykjavík, 31. ágúst 2010.

Silungapollur

Silungapollur 2020 – loftmynd.