Tag Archive for: Reykjavík

Kolviðarhóll

Þorsteinn Bjarnason frá Háholti skrifar í Örnefnalýsingum um „Sögu Kolviðarhóls„:

„Hinn forni vegur yfir fjallgarðinn milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá af Kambabrún sjónhending í skarðið milli vesturenda Skarðshlíðar og norðurenda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með Húsmúla, niður Norðurvelli með norðurbrún Svínahrauns hjá Lyklafelli, og var þá komið í byggð hjá Helliskoti í Mosfellssveit.

Draugatjörn

Sæluhúsið við Draugatjörn.

Á þessari löngu leið voru sama sem engar vörður. Austast á Hellisheiði voru vörðubrot og önnur vörðubrot vestast á heiðinni. Í ekkert hús var að venda nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan; munu nú flestar þessar draugasögur gleymdar. Heyrði ég í ungdæmi mínu haft eftir grobbnum karli, sem náttaði í kofa þessum, að hann sagðist hafa verið í áflogum við draug alla nóttina. „Hafði ég draugsa stundum undir, en hann slapp alltaf úr höndum mér, af því hvergi var eiginlega hægt að festa höndur á honum.“ Slíkar og þvílíkar sögur hafa skotið mönnum skelk í bringu, því draugatrú var á þessum tímum bráðlifandi. Forðuðust menn því kofann, og hefir óefað margur af því orðið úti. Í Þjóðólfi er þess getið, að svo megi telja, að á þessari leið hafi orðið úti maður annað hvort ár. Fóru menn nú að sjá, að þetta ástand var óþolandi.
Kolviðarhóll
Árið 1845 var nú kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól. Hvatamenn þess voru þeir séra Páll Matthíasson, prestur í Arnarbæli, Ölfusi, og Jón Jónsson, bóndi á Elliðavatni. Var að þessu mikil bót, fækkaði nú slysförum, því nú var hægara að finna kofann. Draugatrúin hvarf að mestu leyti; sagt var, að mörgum hafi verið illa við, að spýtur úr Svínahraunskofanum voru látnar í nýja kofann.
Nú liggur þetta sæluhúsmál niðri í 28 ár, en árið 1873 er það aftur vakið upp af þessum þrem mönnum; Guðmundi Thorgrímssen, verzlunarstjóra á Eyrarbakka, séra Jens Pálssyni, presti að Arnarbæli í Ölfusi, og Randrup lyfsala og konsúl í Reykjavík. Í örnefnaskrá frá því um 1700 í Þjóðskjalasafninu er Hellisskarð nefnt Nautaskarð, Bolavellir nefndir Hvannavellir, en Bolavellir strekki sig út frá Norðurvöllum. Þannig til orða tekið. Þ.B. þeirra er, að á Kolviðarhóli sé byggt svo veglegt hús, að í því geti búið gestgjafi, sem geti veitt móttöku vegfarendum og látið þeim í té rúm, mat og kaffi, ef með þarf. Ennfremur hey og hús handa hestum þeirra.
Kolviðarhóll
Hófu þeir nú fjársöfnun, en svo virðist sem undirtektir væru daufar, því ekki höfðu safnazt nema 10 rd. og 18 sk., þegar komið er langt fram á árið 1874. Þó ekki blási byrlega, gefast þeir ekki upp. Árið 1876 rita þeir enn um málið og skora nú fastlega á menn að gangast fyrir samskotum. Við árslok 1876 eru komnar í samskotasjóðinn 1378 krónur, 35 aurar.
Nú snúa þeir máli sínu til landshöfðingja og sækja um 1500 króna tillag úr landssjóði. Landshöfðingi svarar beiðni þeirra svo, að hann lofar 1000 króna framlagi úr landssjóði, þó með því skilyrði, að húsið væri byggt á næsta vori (þ.e. 1877). Því þora þeir ekki að lofa, því þeir álíta, að samskotaféð og þetta tillag landssjóðs verði of lítið, þar eð þeir höfðu einsett sér, að útveggir hússins yrðu byggðir úr steini. Skrifa þeir enn um þetta mál í Þjóðólfi og fara þungum orðum um undirtektir landshöfðingja í þessu máli.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – loftmynd.

Árið 1877 eru samskotin orðin 2600 krónur. Þá eru þeir Björn Guðmundsson múrari og Helgi Helgason trésmiður fengnir til þess að gjöra áætlun um, hvað húsið muni kosta, og um leið að ákveða stærð hússins í samráði við séra Jens. Áætlunin varð 3600 krónur. Nú koma þeir landshöfðingja inn í málið í staðinn fyrir Randrup. Eflaust hefir landshöfðingi lagt fram fé úr landssjóði, sem á vantaði, því nú er ákveðið að byggja húsið, og er það fullgjört árið 1878. Húsinu er lýst þannig: Tvö herbergi niðri og annað með ofni, ennfremur eldhús með suðuvél. Uppi tvö herbergi, annað til geymslu, en hitt fyrir ferðamenn. Er nú loksins húsið komið upp eftir 5 ára látlausa baráttu. 27. ágúst 1878 er húsið auglýst til leigulausrar ábúðar. Þá flutti sig þangað frá Hreiðurborg í Flóa Ebeneser gullsmiður, sonur Guðmundar bókbindara og bónda á Minna-Hofi á Rangárvöllum, Péturssonar bónda s.st. Einarssonar bónda í Litla-Klofa á Landi, síðar á Minna-Hofi, Bergsteinssonar.

Kolviðarhóll
Á Kolviðarhóli átti Ebeneser við erfiðleika að stríða, og er það skiljanlegt, þar sem ekki var á öðru að lifa en greiðasölu til ferðamanna, sem ekki höfðu gjaldeyri nema af skornum skammti. Sezelja, kona Ebenesers, sagði sér hefði hvergi liðið eins illa um ævina. Þar hefði hún liðið bæði hungur og kulda. Vorið 1879 flytur Ebeneser frá Kolviðarhóli suður á Eyrarbakka.
KolviðarhóllÁrið 1879 sést enginn skrifaður á Kolviðarhóli, en 1880 flytur á Hólinn Ólafur bókbindari Árnason frá Eyrarbakka. Á Kolviðarhóli er hann til vorsins 1883. Ferðamenn gera það að blaðamáli, hve ófullkominn sé viðurgjörningur hjá Ólafi, þar fáist ekkert nema kuldi. Hóf nú Jón Jónsson ritari fjársöfnun í Reykjavík til hjálpar gestgjafanum á Kolviðarhóli. Safnaði hann 64 krónum og keypti nú mat, olíu og kol fyrir peningana, en Ölfusmenn fluttu vöruna upp á Kolviðarhól. Um vorið 1883 flytur Ólafur burtu, en þá tekur Kolviðarhólinn Sigurbjörn trésmiður Guðleifsson. Sama vorið sezt líka að á Kolviðarhóli Jón bóndi frá Stærribæ í Grímsnesi. Byggði hann sér bæ framan í hólnum.
Jón náði fljótt hylli ferðamanna, svo Sigurbirni var ekki viðvært; flúði hann burtu eftir 3ja mánaða dvöl á Kolviðarhóli við lítinn orðstír. Jón var af traustu bergi brotinn, og yfirvann hann erfiðleikana með dugnaði. Hann var fæddur á Minna-Mosfelli árið 1838; var Jón bróðir Arnórs föður prófessors Einars hæstaréttardómara; voru þeir bræður synir Jóns bónda á Minna-Mosfelli, fæddur 1810, Jónssonar bónda á Reykjanesi, Grímsnesi, fæddur 1771, Sigurðssonar bónda í Miðdalskoti, Laugardal, fæddur 1722, Sigurðssonar Skíðastöðum, Tungusveit, og Hofi í Skagafjarðardölum, fæddur 1670, Jónssonar Flatatungu, fæddur 1633, Sigurðssonar Flatatungu Jónssonar. Kona Jóns á Minna-Mosfelli, móðir Jóns á Kolviðarhóli, fædd 1804, var dóttir Jóns bónda á Neðra-Apavatni, dáinn 1839, Jónssonar og Ingveldar Jónsdóttur.
KolviðarhóllÞegar Sigurbjörn fór frá Kolviðarhóli, flutti Jón í nýja húsið, en lét þó bæinn standa fyrst og hýsti ferðamenn í honum. Jón fór nú að græða út tún og girti með grjótgarði. Mótak fann hann í gilskorningi við austurenda Húsmúlans. Slægjur keypti hann austur í Ölfusi; fluttu ferðamenn oft hey fyrir hann á hestum sínum út á Hól, naut hann þar vinsældar sinnar.
Eftir að þau hjón Jón og Kristín – var hún dóttir Daníels bónda á Hæðarenda í Grímsnesi – komu að Kolviðarhóli, heyrðust aldrei neinar kvartanir koma frá vegfarendum yfir því, að ekki fengist það, sem um var beðið. Þó kröfurnar væru ekki gjörðar háar af þeim vegfarendum, sem þá komu oftast að Kolviðarhóli, hefir þurft mikla fyrirhyggju til að sjá um, að undan engu væri að kvarta. Næturgreiði var mjög sanngjarn. Rúm kostuðu frá 25 aurum upp í 50 aura, kaffibolli brauðlaus 10 aura, með brauði 25 aura. Hey var dýrast, og var það að vonum, því dýr var flutningur á því austan úr Ölfusi. Jón og Kristín mörkuðu fyrstu sporin til þess, sem Kolviðarhóll varð síðar.
Kolviðarhóll
Árið 1895 fór Guðni, tengdasonur Jóns, að búa á Kolviðarhóli, hann átti Margréti Jónsdóttur. Guðni var fæddur á Arnarstöðum í Flóa 1863, sonur Þorbergs bónda þar, fæddur 1829, Helgasonar bónda á Lambastöðum hjá Hraungerði, fæddur 1795, Jónssonar bónda í Ölvisholti, Flóa, fæddur 1766, Einarssonar bónda í Götu, Selvogi, Jónssonar. Guðni og Margrét kona hans voru mjög vinsæl og hinir mætustu gestgjafar.

Guðni var dugnaðarmaður. Sótti hann um nýbýlarétt á Kolviðarhólnum til Ölfushrepps, sem honum var veittur. Innti hann af hendi allar þær skyldur, sem nýbýlaréttur áskilur. Stækkaði túnið og afgirti stórt land undir suðurhlíð Húsmúlans. Bætti húsakynni mikið. Eftir að Guðni tók við gistihúsinu, sótti hann um styrk af opinberu fé, til þess að afla heyja handa hestum ferðamanna. Mælti sýslunefnd Árnessýslu með því. Árið 1900 fékk Guðni 150 krónur úr jafnaðarsjóði. Síðar fékk hann 200 krónur úr amtsjóði, sem viðurkenningu fyrir jarðabætur. Árið 1906 selur hann jörðina Kolviðarhól Sigurði Daníelssyni, og flytur Sigurður þangað.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – bæjarhóllinn 2008.

Brátt áunnu þau hjón sér virðingu og traust ferðamanna. Voru nú húsakynni orðin allgóð. 1910 voru tvö hús á Hólnum, timburhús og steinhús, þar að auki næg búpeningshús. Ég læt það öðrum eftir, að skrifa um þær miklu endurbætur, sem Sigurður gjörði á Kolviðarhóli, í jarðrækt og húsabyggingum.
Svo enda ég þessar línur með því að segja, að Suðurlandsundirlendið ásamt Reykjavík eru í mikilli þakkarskuld við þá menn, sem börðust fyrir því, að svo veglegt hús var byggt á Kolviðarhóli, að menn gátu búið í því, og þá ekki síður í þakkarskuld við þá þrjá búendur á Kolviðarhóli, Jón, Guðna og Sigurð, ásamt konum þeirra, sem gjörðu garðinn frægan. Nú taka aðrir við. „Eftir er yðvar hluti“, sagði Skarphéðinn.“

Heimild:
-Örnefnastofnun, Árnessýsla Saga Kolviðarhóls, Ölfushreppur – Saga Kolviðarhóls eftir Þorstein Bjarnason frá Háholti.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1914.

Þerneyjarsel

Þrjú sel eru innan og ofan við Tröllafoss í Leirvogsá. Varmársel er efst. Skammt þar frá er Þerneyjarsel. Esjubergssel er ofan við Rauhólsgil, innan við Esjubergsflóa. Þar er hæðin Skopra. Tóftir eru greinilegar.

Tröllafoss

Tröllafoss.

Gengið var upp með norðanverðri Leirvogsá áleiðis að framangreindum seljum. Einnig var ætlunin að skoða tóftir Sámsstaða og jafnvel leifar bæjar Halls goðlausa Helgasonar er nam land að ráði Ingólfs millum Mógilsár og Leirvogsár og bjó í Múla.
Esjubergsflói er dalverpi sem skilur að Haukafjöll og Stardalshnúka. Vestan við flóann eru þrír stakir grágrýtishnúkar í Haukafjöllum og nefnast Þríhnúkar. Esjubergsflói hefur nafn sitt af því að forðum var þangað selför frá Esjubergi á Kjalarnesi; má enn líta tóftir selsins austast í honum undir strýtumynduðum hnúk sem heitir Skopra. Úr flóanum fellur lækur suður til Leirvogsáar um svonefnt Rauðhólsgil.
Stefnan var tekin upp Rauðhólsgil. Gilið er djúpt neðst, en lagast vel að landinu ofar. Haldið var upp í Esjubergsflóa og þaðan í Svartaflóa. Mikið gras er þarna og mýrlendi. Útsýnið er fallegt yfir hæðir og hnúka. Esjubergssel kúrir þarna undir nefndri klettahæð norðan við Esjubergsflóa. Sér í vesturöxl Skálafells til austurs.
Haldið var yfir að Stiftamti neðan við Amtið (eða Ömtin), sem er áberandi stuðlabergshæð, einkum mót suðri. Undir hæðinni hefur verið gerð tilraun til ræktunar og þar er gamalt sumarhús, eyðilegt. Þetta er örskammt norðan við vegslóða og vað á Leirvogsá. Þarna rís lág klettarhæð eins og hús að líta frá götunni. Hún heitir Rípur. Neðan (suðvestan) við Ríp, rétt ofan við Leirvogsá, eru miklar tóftir.
Norðan við Ríp gnæfir Stiftamtið fyrrnefnda með lóðréttum hamraveggjum eins og gríðarstór bergkastali. Vestan við það er hnúkaþyrping sem nefnist Amtið. Í því má vel sjá ummerki eftir jökulinn, sem hefur skafið svo duglega ofan af stuðlabergsendunum þarna í hæðunum. Í giljum má sjá fallega bólsta og aðrar kvikustorknunarmyndir jarðsögunnar.

Varmársel

Varmársel.

Þarna fyrir austan er skarð inn í hnjúkaþyrpinguna, sem heitir Sámsstaðaklauf, en neðan hennar sér enn þá tún og rústir gamals eyðibýlis, sem heitir Sámsstaðir.
Tóftin er vestast í túnbleðli við lítinn sumarbústað. Í tóftunum er staur með málmplötu á. Líklega hefur einhvern tímann staðið þar: „Friðlýstar fornleifar“. Fyrir áhugasamt fólk segir áletrunin ekki neitt, ekki einu sinni að þarna séu friðlýstar minjar. Munnmæli eru um að þarna hafi fyrrum verið kirkjustaður en legið í auðn síðan drepsótt var hér á landi, þ.e. Plágan mikla 1402, eða svo er hermt eftir elstu mönnum í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Um eigendur þeirrar kirkjujarðar vissi enginn neitt að segja enda vart von á því þeirrar kirkju getur hvergi í skjölum. Nafnið bendir til þess að þarna hafi fremur verið bær en selstaða. Þarna er hlýlegt og skjól fyrir flestum áttum.
Ef „bæjarstæðið“ er skoðað mætti ætla að þarna hafi verið sel, a.m.k. eru tóftirnar „seljalegar“; tvö til þrjú hús að svipaðri stærð og sjá má í seljum á þessu svæði. Vitað er að margir bæir í Kjósinni áttu fyrrum selstöðu í núverandi Stardalslandi. Tóftirnar miklu suðvestan undir Ríp gætu hugsanlega hafa tengst einhverjum bæjanna, Sámstöðum, Múla eða Rauðhólum, sem þarna áttu að hafa verið.

Stardalsmúli

Stardalhnúkur.

Stardalshnúkur er áberandi kennileiti til norðurausturs. Hann myndaðist við að hraunkvika tróðst upp í móberg inni í í Stardalsöskjunni. Móbergið er enn hægt að skoða í giljum upp af Sámsstöðum, sem koma niður úr fyrrnefndu skarði, Sámsstaðaklauf, austan við Stiftamt og Ríp.
Víða er fallegt stuðlaberg á þessu svæði og há lóðrétt bergþil. Basaltinnskotið var lengi að kólna þarna og náði því að mynda gilda stuðla.
Stuðlaberg er notað um storkuberg þar sem stuðlar blasa við; [columnar basalt]. Stuðlar í bergi myndast við storknun þegar bergið dregst saman við að kólna og myndar margstrenda stuðla hornrétt á kólnunarflötinn. Stuðlað storkuberg verður til þegar kvika storknar og kólnar minnkar rúmtak efnisins. Kraftarnir, sem myndast við þessar rúmmálsbreytingar, losna á auðveldastan hátt með því að mynda marghyrnt sprungumynstur, oftast sex- eða fimmhyrnt. Neðst í hraununum eru stuðlarnir sem myndast á þennan hátt reglulegir og ávallt hornréttir á kólnunarflötinn. Ofar og nær yfirborði hraunanna er lag smágerðra óreglulegra stuðla sem mynda kubbaberg.  Þetta óreglulega lag er víða horfið á gömlum hraunum vegna rofs, samanber Kirkjugólfið á Kirkjubæjarklaustri.

Sámsstaðir

Sámsstaðir.

Víða sjást mjög sérkennilegar myndanir stuðla eins og til dæmis í gömlum gígfyllingum þar sem gjallkápa gígsins hefur máðst burtu við rof eins og t.d. í Hljóðaklettum. Þekktar stuðlabergsmyndanir hérlendis eru t.d.: Gerðuberg í Hnappadal, Kirkjugólfið að Klaustri, Dverghamrar á Síðu, við Svartafoss í Skaftafelli og við Litlanefsfoss í Hengifossá í Fljótsdal.

Í landnámsbókum er greint frá manni sem hét Hallur goðlausi Helgason og sagður venslaður eða skyldur ýmsum kunnum landnámsmönnum, t.a.m. Þórði skeggja, sem nam Skeggjastaði, og Ketilbirni gamla að Mosfelli í Grímsnesi. Hallur nam land að ráði Ingólfs í Reykjavík allt millum Mógilsár og Leirvogsár og bjó í Múla. Bæjarnafnið Múli er nú týnt og kann enginn að segja hvar sá bær hefur staðið. Í túni núverandi býlis Stardals undir Múlanum eru margar rústir eftir forna byggð, segja heimildir a.m.k.
Hús var tekið á Magnúsi bónda í Stardal. Hann tók vel á móti göngufólkinu, benti m.a. á hinn gamla bæjarhól Stardals norðan núverandi húss. Þar má enn sjá leifar hlaðinna túngarða. Magnús sagði að þar hafi jafnan verið snjóþungt og því hafi húsin verið færð svolítið lengra til suðurs. Ekki kannaðist hann við leifar fornra bæjarstæða undir Múlanum, en hann væri þó eina örnefnið með því nafni á þessum slóðum. Magnús sagði að Esjubergsselið væri enn greinilegt undir Skopru. Hann hefði sjálfur margoft komið í þessi sel við leitir. Þá væru hin tvö augljós, 30-40 metrum ofan við norðurbakka Leirvogsár, skammt ofan við Tröllafoss.
Haldið var niður með Leirvogsá, áleiðis niður að Tröllagljúfrum.

Þerneyjarsel

Þerneyjarsel.

Á leiðinni var komið við í einni seltóftinni, Varmárseli. Hún er skammt ofan við bakka árinnar að norðanverðu, í fallegu gróðurverpi. Gömul reiðgata liggur svo til alveg við tóftirnar. Þær eru dæmigerðar fyrir sel á Reykjanesskagagnum; tvö rými saman og eitt til hliðar (eldhúsið).
Gerð var leit að annarri tóft, Þerneyjarseli, sem átti að vera þarna nálægt, en hún vildi ekki láta sjá sig í fyrstu atrennu. Hún mun örugglega koma í ljós síðar.
Í Tröllagljúfrum er sérkennilegt landslag berghóla með grösugum lægðum á milli og heita þær Tröllalágar. Þar segir sagan að enn megi sjá rústir fornra selja sem nefnast Varmársel og Þerneyjarsel. Segja nöfnin til um hvaða bæir áttu þangað selför. Líklegt er að selið, sem skoðað var hafi verið Varmársel.
Tröllafoss setur mikinn svip á gljúfrin. Skammt neðar er miklu mun minni foss, nafnlaus.
Tröllalágar bera nafn með réttu. Í gilinu neðan við Tröllafoss eru hrikaleg ummerki vatnsgraftar í 11000 ár.

Svæðið er vel fallið til gönguferða. Gömul reiðleið liggur norðan með ánni og er ákjósanlegast að fylgja henni. Af götunni er hið fegursta útsýni og alltaf tekur við ný sýn á landið umhverfis. Rétt er að njóta þess áður en áin verður virkjuð varanlega.
Móskarðshnúkar „brostu“ sínu bjartasta, hnúkarnir lögðu sig fram við að sýna kolla sína og stuðlabergsdranga og Skálafell vildi alls ekki verða neinn eftirbátur þeirra. Lognið og blíðan í febrúar undirstrikuðu gildi svæðisins til útvistar.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33. mín.

Heimild m.a.:
-Árbók FÍ 1985.
-http://www.ismennt.is/not/gk/jfr/ordskyr/

Esjubergssel-401

Esjubergssel.

 

Landnámssýning

Eftirfarandi umfjöllun um fyrirhugaða sýningu á víkingaaldarskála við Aðalstræti í Reykjavík er byggt á fyrirlestri OV í fornleifafræði við Háskóla Íslands 2006.

Fornminjar hafa fundist við Aðalstræti og næsta nágrenni. Forsaga staðarins er nokkur sem og eldri rannsóknir á svæðinu. Hér verður m.a. fjallað um sannfræði upplýsinganna, upprunaleika minja og helgi þeirra.
Fornleifar í Kvosinni fundust þegar fyrir 1950. Áður var vitað að slíkar minjar kynnu að leynast á svæðinu m.a. vegna texta Landnámu um búsetu Ingólfs Arnarssonar og síðari tíma texta um að „öndvegissúlur hafi sést í eldhúsi í Reykjavíkurbænum“ fram á 19. öld. Örnefnin Ingólfsnaust og Ingólfsbrekka bentu m.a. til staðsetningar bæjar Ingólfs, elsta bæjar Reykjavíkur. Þegar grafið var fyrir Tjarnargötu 4 (Happrætti Háskóla Íslands) á fimmta áratug 20. aldar, komu í ljós miklar fornminjar, dýrabein o.fl., en fáir voru upprifnir af því sem þá bar fyrir augu. Þá var líkt og nú gerist. Matthías Þórðarson skoðaði svæðið, en ekki var gerð gagnmerk rannsókn á leifunum, sem þá fundust, enda enginn sérstakur áhugi þá á að varðveita minjar tengdar Ingólfi heitnum, hvað þá að varðveita þær til sýningarhalds. Sennilega hefur mest af gamla bænum verið mokað burtu umrætt sinni – því miður.
Áskorun embættismönnum borgarinnar kom fram árið 1959 um að friða svæði á horni Túngötu og Aðalstræti – „því þar væri að finna leifar af bæ Ingólfs, hins fyrsta landnámsmanns“. Helgi Hjörvar gaf m.a. út bók með greinum þar sem fram kom að hann vildi staðsetja Alþingi Íslendinga á fyrrgreindum stað, „enda vel við hæfi“.
Fornleifarannsóknir fóru fram á svæðinu 1962. Við C14 greiningar komu í ljós mjög gamlar minjar. Uppgröftur Else Nordahl í Aðalstræti 14 og 18 og jafnframt Suðurgötu 3 og 5 fóru fram á árunum 1971-75. Hún var mjög varfærin í túlkun niðurstaðna sinna og þær skyldu því lítið eftir sig. Málið í heild hlaut litla athygli og engir minnisvarðar voru reistir á vettvangi, þrátt fyrir tilefni til þess. Ummerki fundust um landnámsbyggð.
Uppgreftir í Aðalstræti 12 og 8 og Suðurgötu 7 gáfu einnig til kynna ummerki eftir landnámsbyggð á svæðinu.
Ummerki um landnámsbyggð, allt frá elstu tíð, s.s. leifar af skálum, en fáir gripir. Skálarnir voru litlir, 12-14 m langir og eldri byggingar höfðu greinilega raskað þeim eldri.
Útbreiðsla minjanna má greina með lagni. Elstu minjar eru þar sem nú er Herkastalinn og hús Happdrættis Háskóla Íslands. Meginsvæðið nær þó lengra til norðurs að Ingólfstorgi og jafnframt lengra til suðurs. Lýsingar Matthíasar eru slíkar að líkur benda til þess að þarna hafi elstu minjarnar verið. Herkastalinn er grunnt grafinn svo ekki er með öllu útilokað að þar undir kunni að leynast minjar er gætu gefið bæjarstæðið til kynna. Hér er þó ekki komin endanleg mynd á svæðið því enn eru reitir á svæðinu, sem enn hafa ekki verið grafin upp, bæði lóðir og götur.
Alls staðar þar sem grafið hefur verið hafa fundist einhverjar minjar frá fyrstu tíð. Hið merkilega er að eftir rannsóknina á 8. áratugnum var mokað yfir rústirnar og hvergi sjást ummerki eftir uppgötvanir þær, sem þá voru gerðar.
Endurbygging Aðalstrætis 16 og uppbygging á reitnum Aðalstræti 14-18 hafa nú að mestu farið fram. Áður voru gerðar fornleifarannsóknir á útmánuðum 2001. Í ljós komu minjar frá Innréttingatíma og síðar, auk skála frá 10. öld. Skálinn var nánast heill og dæmigerður fyrir sinn tíma. Það gerði hann hentugan til sýningarhalds. En var hann “Ingólfsbær”? Fjölmiðlar voru a.m.k. upprifnir af þeirri mögulegu staðreynd. Því verður þó ekki hnikað að skálatóftin getur ekki verið eldri en frá miðbiki 10. aldar og síðar. Við norðurenda skálans fundust veggjabrot er bendir til að sé eldra en textalandnám segir til um, þ.e. fyrir 870. Því er hér um að ræða einn tveggja staða á landinu, sem benda til eldra landnáms en textaheimildir kveða á um. Hinn er Húshólmi í Ögmundarhrauni, í umdæmi Grindavíkur.
Einkenni skálans voru bogadregnir útveggir, langeldur í miðju hans, inngangur á öðrum langvegg og þrískipting byggingarinnar. Hið óvenjulega voru bakdyr og forskáli til hliðar er síðar kom í ljós. Langeldurinn er óvenju vel hannaður. Það bendir til þess að fólkið hafi litið stórt á sig. Skálinn er hins vegar lítill á íslenskan fornaldaskálamælikvarða. Um hefur verið að ræða meðalheimili og þar hefur verið búið í u.þ.b. 70 ár. Skálinn hefur að öllum líkindum verið yfirgefinn um 1000.
Þrjár rostungstennur fundust í skálanum. Fleiri slíkar hafa fundist í Reykjavík. Þessum var stungið undir hellu og geymdar þar. Hafa ber í huga að fyrst var, skv. heimildum, farið til Grænlands 983 svo rostungurinn gæti hafa verið veiddur hér á landi. Það eitt ætti að vera nokkuð merkilegt.
Glerbort úr litlum bikar fannst í tóftinni. Það á sér hliðstæðu úr öðrum víkingaaldargripum. Þetta mun þó vera elsta glerbrot úr uppgrefti á Íslandi. Glerið gæti verið stöðutákn og til merki um sambönd og ríkidæmi ábúandans.
Borgarstjórn ákvað að varðveita skálann. Rökin voru afgerandi, en ekki einhlít. Hönnun fyrirhugaðs hótels var því breytt og gert ráð fyrir að hægt væri að sýna þessar minjar. Sumir vildu þó ganga lengra og byggja sérstaka sýningaraðstöðu þeim til handa. Það þótti hins vegar of dýr framkvæmd. Því varð þessi málamiðlun niðurstaðan. Borgarsjóður ber kostnað af sýningarrýminu, en hann má áætla um 500 milljónir króna.
Rústin var hulin eftir uppgröftin og framhaldsrannsókn síðan gerð 2003. Sýningarundirbúningurinn hófst 2004, en sýningin er í rauyn tækifæri til að upplýsa hvernig fornleifar líta út. Með því er ekki verið að útiloka að eldri minjar kunni að leynast á svæðinu, jafnvel undir skálanum, þótt litlar líkur bendi þó til þess.
Forvarsla skálans varð erfitt viðfangsefni því ekki hafði verið tekist á við slíkt viðfangsefni hér á landi fyrr. Áætlað var að þurrka tófina, en hún myglaði. Í ljós kom að vatnslind er undir henni miðri. Efnið er í rauninni mold, sem verður að ryki við þornun. Niðurstaðan var að baða hana í sílikoni. Það hefur ekki verið gert áður svo hér er um tilraun að ræða. Óvíst er hver árangurinn kann að verða. Forvarslan nær í fyrstu til ytri gerðar tóftarinnar, en síðar verður hugað að miðju hennar.
Sérsýning verður því í fyrirhöguðu hóteli um landnám í Reykjavík.
Skálinn verður aðalsýningargripurinn. Áhersla verður lögð á fornleifarnar fremur en söguskýringu. Skýr aðgreining verður milli hefðar (sagnfræði) og fornleifaupplýsinga. Um er að ræða málamiðlanir.
En fyrir hvern er sýningin? Erlenda eða innlenda ferðamenn?, skólabörn? eða alla? Er hún samkeppni eða viðbót við Þjms og aðrar sýningar? Líklega verður hún samkeppni þar sem ferðamenn í miðborginni munu geta á einum stað og á skömmum tíma geta kynnt sér upphaflega búsetu norrænna manna hér á landi, án þess að þurfa að fara í Þjms.
En hvað um Hallveigu og Ingólf? Í Íslendingabók Ara fróða frá því um 1130 segir að Ingólfur, maður norrænn, hafi fyrstur sest að í Reykjavík um 870. Yngri heimildir segja að afkomendur Ingólfs og Hallveigar konu hans hafi búið hér mann fram af manni. Þorkell máni, sonarsonur Ingólfs og Hallveigar gæti samkvæmt því hafa búið í skálanum, sem hér var reistur um 930.
Niðurstöður fornleifarannsóknarinnar varpa engu ljósi á sannleiksgildi hinna rituðu heimilda. Mörgum þykir hins vegar athyglisvert að fornleifafundurinn hér stangast ekki á við frásögn Ara fróða af landnámi Ingólfs í Reykjavík. En hafa ber í huga, að þótt elstu mannvistarleifarnar á þessum stað geti ekki verið yngri en frá því um 870 þá gætu þær vel verið nokkrum áratugum eldri.
Hugsanlega eiga líka eftir að finnast ennþá eldri merki um búsetu manna á Íslandi, því margt er enn órannsakað, bæði í Reykjavík og annars staðar á landinu, s.s. í Húshólma.
Yfirskrift sýningarinnar í kjallara hótelsins verður: Reykjavík 871±2 – Landnámssýning / The settlement exhibition.
En af hverju að sýna þessar fornleifar? Og það á þessum stað? Og með þessum tilkostnaði?
Í rauninni er þetta „helgur“ staður í augum Reykvíkinga? Fyrirhuguð sýning er áhersla á fornleifarnar frekar en söguna. Skálinn er aðalsýningargripurinn og sýningin snýst um hann. Um er að ræða skýr aðgreining hefðar (sagnfræði) og fornleifaupplýsinga. Það er sérstakt.
Sýningin er fremur lítil. Tekur um 10-15 mínútur að ganga í gegnum hana, en möguleiki er á lengri viðdvöl. Fyrst, á leið niður, verður kynnt landnám á Íslandi í alþjóðlegu samhengi. Svolítill texti verður um Ingólf Arnarsson til þessa dags. Móttaka, sölubúð og tölvuver með ítarupplýsingum taka á móti gestum í kjallara. Sagt verður frá ritheimildum áveggjum, auk „panaorama“ myndum er sýna umhverfið við landnám. Vandamálið er hversu lágt er til lofts. Það verður stærsti ókostur sýningarinnar. Við enda tóftarinnar verður lítil upphækkun, en þar verður möguleika að horfa yfir „sviðið“. Klefi verður þar sem hægt er að horfa í skjá og skoða endurgerð af rústinni. Hægt verður að fara í gegnum hana og skoða sig um. Margmiðlunarborð með líkan af rústinni leiðir gestina í gegnum hana. Skýringar og textar segja til um einstaka hluta hennar. Þarna gæti fólks staldrað við í allt að klukkustund.

Fimmtán textar verða á veggjum. Síðasti textinn fjallar um framangreindan texta um Hallveigu og Ingólf.
Nokkur umfjöllun hefur verið um þessa fyrirhugaða sýningu. Þráinn Bertelsson, dálkahöfundur, sagði m.a. í Fréttablaðinu 29. 08. 2001 eftirfarandi: „Ekkert land í veröldinni er svo ríkt af fornminjum að þar geti að líta bústað fyrsta nafngreinda fólksins sem tók sér bólfestu í landinu. Bæjarrústir Ingólfs og Hallveigar eru fornleifafundur sem er einstæður ekki bara á Íslandi heldur í veröldinni. … Ingólfsbær er þjóðargersemi og þjóðargersemar á að varðveita með öðrum og myndarlegri hætti heldur en í hótelkjallara, jafnvel þótt með því sé hægt að harka inn fáeinar krónur. Þarna á að rísa safn einstakt í Evrópu og minna á landnám Íslands, landkönnun í vesturátt, íslenska þjóðveldið og þróun víkingasamfélagsins til okkar daga. Þjóð sem misbýður sögu sinni með því að vísa fyrstu landnámsfjölskyldunni til dvalar í hótelkjallara verður aumkunarverð í augum alls heimsins.”
Um svipað leyti fór fram umleitan og skoðanakönnun á nýtingu fornleifanna við Aðalstræti. Spurt var: Á að byggja yfir landnámsbæinn í Aðalstræti? Já sögðu 33%, nei sögðu 67%.
Skoðanakönnun þessi var birt á www.visir.is og í Fréttablaðinu 12.11.2001.
Gunnar Smári Egilsson, dálkahöfundur, skrifaði eftirfarandi um sýninguna í DV þann 15.01. 2002: „Það hefur heldur enginn efast um að landnámsskáli hafi verið í Aðalstræti. Þær rústir sem menn hafa nú grafið upp bæta þar engu við – það er líklegra að þær skyggi á hugmyndir okkar af bænum en auðgi þær.
GrafiðOg þótt við drögum túrista að rústunum mun það ekki auðga líf þeirra – eða skilning þeirra á sjálfum sér eða okkur. Það er því óþarfi að byggja viðhafnarskála kringum heimsókn túristanna að rústunum. Eðlilegast er að moka yfir grjótið og halda lífinu áfram.”
Varðveisla skálans er véfengjanleg sem og túlkun fornleifafræðinga. Skörð hafa myndast í veggi tóftarinnar, hún varð hvít að lit, kostnaður varð mikill, lágt er til lofts og erfitt er fyrir gesti að skynja tóftina. Til hvers er þá sýningin? Forvarsla varð bæði kostnaðarsöm og hæpin þar sem umbreyting á eðli efnisins (torf í plast) er að ræða. Önnur áferð og litbrigði gefa varla rétta sýn á minjarnar sem slíkar. Og hvað er þá upprunalegt? Staðurinn, formið, steinefnin? Nóg er eftir til að hægt sé að halda því fram að tóftin sé upprunaleg. En hvers vegna ekki að hlaða veggina á nýtt og jafnvel skipta um þá reglulega? Hversvegna ekki að lækka rústina svo hægt verði að sjá yfir hana? Hér er einungis fárra álitamála getið.
Ljóst er að fornleifar frá landnámsöld í Kvosinni eru helgistaðir íslensks þjóðernis. Helgin er aðdráttarafl. Fjármagn skortir ei. Áhugi ferðamanna mun vissulega verða fyrir hendi – a.m.k. sumra.
Hvert er þá hlutverk fornleifafræðinga í þessu öllu saman? Hver er ábyrgð þeirra? Fornleifafræðingar hljóta að spyrja sig; hvað er hægt að tala um og hvað ekki? Sýningin opnar a.m.k. á aðrar túlkanir og aðra sýn á landnámið en tíðkast hefur. Hugsanlega gæti hún breytt ríkjandi skoðunum. Fleira kemur og til greina.
Hið sérstæða, og þó, er að enginn höfundur er að fyrirhugaðri sýningu í kjallara hótelsins. Leiktjaldahönnuður sér um útlit og verkefnastjóri stýrir hópi vísindamanna um álitamál og textagerð. Enginn ber heildarábyrgð á sýningunni sem slíkri. Ritstjóri er yfir sýningarbók og bæklingi (textum) og umskrifari fer yfir og gengur frá textum. Ljóst er að vandað verður til útlits og allra formlegheita. Forðast þarf alla meinbugi því þeir munu verða öðrum eftirminnilegri en kostirnir og megináherslur.
Segja má að í gegnum tíðina, m.a. vegna meðvitunar- og eftirtektarleysis, hafi Reykvíkingar gloprað niður tækifærinu til að uppgötva að nýju hinn raunverulega forna landnámsskála Ingólfs Arnarssonar.
Gaman verður að sjá hvernig til tekst.

Framangreint er byggt á fyrirlestri OV í fornleifafræði við Háskóla Íslands 2006. Texti er á ábyrgð ritara.

Landnámssýning

Landnámsýningin.

Reynisvatnsheiði

Fá skrif eru til um jafn nærtæka heiði og Reynisvatnsheiðin er. Reyndar hefur heiðin sú ekki verið nærtæk öðrum en sumarbústaðaeigendum og tímabundum hernámsmönnum fyrr en allra síðustu árin. Eftir að Morgunblaðið byggði prentsmiðju og flutti síðan ritstöðvar sínar í Hádegismóa á Grafarheiðinni norðan Rauðavatns varð Reynisvatnsheiðin skyndilega í örskotsfjarlægð.
Miðjan í minjasvæðinu á ReynisvatnsheiðiAð vísu var skógræktarfólk búið að undirbúa jarðveginn með því að planta trjám við Rauðavatn og utan í sunnanverða heiðina, gera göngustíga og reyna að laða fólk að útivistarmöguleikum hennar, en árangurinn skilaði sér ekki að ráði fyrr en byggðin fór að teygja sig áleiðis. Rauðavatnið sjálft varð aðalaðdráttarafl 
skautafólks, skaflskeiðunga og smábátaunnenda, en lengra náði áhugi þangaðleitenda tæpast – með örfáum undantekningum þó. Með byggðaaðþrengingunni jókst nýtingin svo að jafnvel þaulsetið listafólk sýndi því áhuga. Svæðið var síðan fornleifaskráð og því fékkst staðfest að búsetuminjar frá fyrri tíð leyndust í heiðunum. Einna merkilegust þeirra eru líklega leifar  Grafarsels, fjárhústóft frá Hólmi, tvær fjárborgsleifar austan Rauðavatns og myndarleg fjárborg norðaustan á hæð austan vatnsins. Þá verður hlaðin ferköntuð rétt austan Rauðavatns að teljast til merkilegra fornleifa á svæðinu. Gömul gata liggur og ofan Rauðavatns áleiðis til austurs, að Lyklafelli, en utan í hana hafa myndast seinni tíma sumarhúsagötur. Nú eru til viðbótar komnir þar betrumbættir göngustígar, malbornir.
Reynisvatnsheiðin er spölkorn austar, eða millum Rauðavatns og Reynisvatns sem og Langavatns skammt austar. Austar er Miðdalsheiði.
Einn FERLIRsfélaga fór nýlega um Reynisvatnsheiðina og rak þá þjálfuð augun í umtalsverðar hleðslur sunnan í grónu holti. Þær eru tæpast numdar með venjulegum augum. Um er að ræða nánast ferkantað gerði, 10×12 m, með grónum jöðrum, en í því miðju eru tveir hlaðnir þverveggir, líkt og undirstöður eða hrófl að göflum. Grjótið í hleðslunum hefur þó verið með stærra móti. Skammt sunnar eru sprengiefnageymslur. Austan þeirra eru leifar af götu og steyptum grunni mannvirkis, líklega frá Seinni heimsstyrjöldinni. Þær virðast þó ekkert hafa með fyrrgreint mannvirki að ræða, sem virðist mun eldra.
Haft var samband við fulltrúa Minjasafns Reykjavíkur og athygli hans vakin á mannvirkinu.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.
Minjar á Reynisvatnsheiði - hoft til suðurs

 

Kjalarnes

Í Fréttabréfi Ættfræðifélagsins árið 2000 má lesa eftirfarandi frásögn um „Kjalarnes og Kjós„:
„Esjan er fjall sem allir Reykvíkingar og fleiri hafa fyrir sjónum nær alla daga.Uppi í hlíðum þess var unnið kalk og flutt til Reykjavíkur. Brennsluofhinn stóð þar sem nú heitir Kalkofnsvegur og eru enn til hús sem kalkið var notað í. Á Esjuna eru margar góðar og frekar auðveldar gönguleiðir, t.d á Þverfellshorn, um Gunnlaugsskarð, úr Blikdal og margar fleiri. Á Esjubergi var fyrsta kirkja á Íslandi reist og þar bjó Búi Andríðsson, aðalsöguhetja Kjalnesingasögu.
Esja-221Á Móum bjó séra Matthías Jochumsson þegar hann var prestur í Saurbæ á Kjalarnesi 1867-73 og þar þýddi hann leikritin Hamlet, Othello og Rómeó og Júlíu.
Um Brautarholt segir í Kjalnesingasögu að Helgi bjóla, sem nam land á Kjalarnesi fengi Andríði, írskum manni, bústað. Þar fæddist Bjarni Thorarensen, 1786-1841, skáld og amtmaður. Helgi bjóla bjó á Hofi, en Þorgrímur goði reisti þar hof mikið.
Saurbær á Kjalarnesi er kirkjustaður og höfuðból. Árið 1424 rændu enskir víkingar staðinn og stálu vopnum, hestum og fleiru.
Tíðaskarð innan við Saurbæ heitir svo því að þar fóru kirkjugestir um á leið til tíða og þegar til þeirra sást, þótti tími til að hringja til tíða. Fyrir um 15-20 árum var farið að brotna mikið úr sjávarbakkanum fyrir neðan kirkjugarðinn og komu þá í ljós bein úr garðinum.
Hvalfjarðareyri, löng og flöt eyri er gengur út í Hvalfjörðinn. Þar var verslunarstaður um tíma á seinni hluta 17. aldar eftir að Maríuhöfn eyðilagðist. Rétt innan eyrarinnar heitir Naust. Þaðan gekk ferja um tíma yfir að Katanesi. Þar er og elsti vegarkafli í Kjósinni, sem enn er notaður.
Laxárvogur (Laxvogur) er grunnur en þótti góður beitutínslustaður.
mariuhofn-221Maríuhöfn var verslunarstaður á miðöldum og sjást þar rústir, sem eru að mestu ókannaðar. Árið 1402 kom Hval-Einar Herjólfsson skipi sínu í Maríuhöfn og flutti með sér svarta dauða, mannskæðustu drepsótt er hingað hefur komið. Þegar Alexíus prestur Svarthöfðason á Saurbæ reið frá skipi, komst hann ekki nema í Botnsdal og andaðist hann þar og sjö fylgdarmenn hans. Svo bráð var sóttin.
Árið 1387 kom Björn Einarsson Jórsalafari skipi sínu í Hvalfjörð.
Hvammur, þar bjó Hvamm-Þórir er land nam milli Laxár og Fossár.
Steðji, Karlinn í Skeiðhól, Staupasteinn, sem allt eru nöfn á sama steininum, en þar er forn áningarstaður.
glymur-221Í Landnámu segir að Ávangur hinn írski hafi reist bú að Botni. Um Botnsdalinn rennur Botnsá, en hún skiptir löndum milli Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu. Í henni er Glymur, 198 m hár, talinn hæsti foss á Íslandi. Botnsá fellur úr Hvalvatni, sem er næst dýpsta vatn landsins, um 160 m djúpt. Inn af dalnum er Hvalfell, móbergsfjall, sem hlóðst upp í gosi undir jökli síðla á ísöld. Grágrýtiskollur er á fjallinu, sem bendir til að gosið hafi náð upp úr jöklinum. Sagt er að Arnes Pálsson hafi hafst við í hellisskúta við vatnið á árunum 1750-57.
Botnssúlur, einstakir tindar, sá hæsti 1095 m. talið er að um gamla eldstöð sé að ræða og tindarnir séu rústir af gömlum gíg. Þyrill er 358 m hátt hömrum girt fjall úr basalti, þar finnast margar tegundir sjaldgæfra geislasteina. Nafnið mun vera dregið af þyrilvindum þeim, sem eru svo algengir fyrir botni Hvalfjarðar. Í Þyrli er klauf, Helguskarð, sem sagan segir að Helga jarlsdóttir klifi upp með syni sína, Björn og Grímkel, á flótta eftir víg Hólmverja á leið sinni yfir að Indriðastöðum í Skorradal.
Í Geirshólma höfðust við Hólmverjar undir forustu Harðar Grímkelssonar, sem frá segir í Harðar sögu og Hólmverja. Þar hafðist við flokkur Sturlu Sighvatssonar undir forustu Svarthöfða Dufgussonar og fóru með ránum þaðan um hríð.
Bessastaðir, kirkjustaður og fornt höfuðból á Álftanesi. Bessastaða er fyrst getið í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar og eru þá í eigu Snorra Sturlusonar. Eftir dráp Snorra sló Noregskonungur eign sinni á Bessastaði og eru þeir fyrsta jörðin í konungseign á íslandi. Frá 1867 voru Bessastaðir í eigu Gríms Thomsen, en faðir hans bjó bar áður. Grímur var fæddur á Bessastöðum 1820. Á Bessastöðum fæddist einnig skáldið Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal 1826. Þar var Bessastaðaskóli, arftaki Hólavallaskóla, frá 1805 og í um 40 ár. Þá var hann fluttur til Reykjavíkur aftur og nefndist þá Lærði skóli og síðar Menntaskólinn í Reykjavík. Bessastaðir voru gefnir íslenska ríkinu 1941, með því skilyrði að þar yrði setur ríkisstjóra og forseta. Gefandinn var Björgúlfur Ólafsson, læknir á Bessastöðum og síðar í Kópavogi. Hús þar eru í elstu röð húsa í landinu, reist á árunum 1761-66 sem amtmannssetur. Kirkja var reist þar á árunum 1777-1823. Þar var gert virki á 17. öld, Skansinn, til varnar sjóræningjum og óvinaherjum.“

Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðifélagsins, 18. árg. 2000, 4. tbl., bls. 1 og 3.

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.

Elliðavatn

Saga Elliðavatnsbæjarins er áhugaverð og samofin sögu Reykjavíkurborgar og þeim breytingum sem orðið hafa á síðustu öldum.
Fyrstu heimildir um Elliðavatnsjörðina finnast í máldaga frá 1234 en þar segir að Viðeyjarklaustur eigi Elliðavatnið hálft. Við siðaskipti varð jörðin konungseign en ekki fer miklum sögum af jörðinni þar til Innréttingar taka til starfa í Reykjavík upp úr miðri 18. öld. Eitt helsta verkefni þessa fyrirtækis var ullarvinnsla. Ákveðið var árið 1756 að stofna fjárræktarbú á Elliðavatni fyrst og fremst til að bæta þar með kynbótum þá ull, sem yrði tekin til vinnslu, en jafnframt til að tryggja fyrirtækinu næg verkefnið. Til kynbóta voru fluttir inn hrútar af enskum stofni. Sænskur maður, Hastfer barón, mikill áhugamaður um kynbætur sauðfjár rak þetta fyrirtæki fyrst í stað, en fjárbú Innréttinganna var aftur Elliðavatn - bærinnstofnað í Helliskoti þarna skammt frá árið 1757.  Á ýmsu gekk með reksturinn; svo virðist þó brátt, að allt mundi fara skaplega, en þá dundi ólánið yfir. Í búinu kom upp veiki í sauðfénu, aðallega fjárkláði, sem breiddist út með miklum hraða, þannig að ekkert fékkst við ráðið. Um 1760 var sauðfjáreign landsmanna talin nálægt 360 þúsund, en 1770 var hún komin niður í um það bil 140 þúsund. Þetta er talið eitt mesta áfall, sem íslenskur landbúnaður hefur nokkur sinni orðið fyrir. Það er nokkuð sjálfgert að sögu fjárræktarbúsins á Elliðavatni var nú lokið. Var það formlega lagt niður 1764. Árið 1815 var jörðin seld eins og fjöldi konungsjarða þá um mundir.
Árið 1860 eignast Benedikt Sveinsson alþingismaður og yfirdómari í Landsyfirrétti jörðina og flutti þangað ásamt fjölskyldu sinni árið eftir. Þann 30. október 1864 fæddist sonur Benedikts og Katrínar konu hans, þjóðskáldið Einar Benediksson.
ElliðavatnBenedikt hóf mikil umsvif á Elliðavatni; búskapur var þar fyrst í stað mikill, vinnufólk 11, en auk þess bætt við um sláttinn. Hann ákvað að ráðast í geysimiklar áveituframkvæmdir, réð tugi manna til að gera um eins km langan stíflugarð yfir Dimmu og Bugðu (nokkurn veginn þar sem stífla Rafmagnsveitunnar er nú). Með þessari áveitu á Elliðavatnsengin sem átti að ná yfir 200 ha lands, átti að vera unnt að margfalda heyfenginn. Svo fór þó að draumar Benedikts um að gera Elliðavatn að mestu bújörð á Íslandi vildu lítt rætast. Búskapur gekk saman og Benedikt hvarf úr embætti yfirdómara og fluttist norður að Héðinsflóa sem sýslumaður Þingeyinga.
Benedikt var mikill áhugamaður um byggingu steinhúsa, enda af sumum talinn sjúklega eldhræddur. Hann réðst í það að láta reisa steinhús á Elliðavatni úr hlöðnu grjóti. Hefur það nú um skeið verið notað sem hlaða. Þegar Benedikt var kominn í andstöðu við yfirvöldin hugðist hann stofna án tilskilins leyfis prentsmiðju á Elliðavatni, en næsta lítið varð úr því fyrirtæki. Var rekstur stöðvaður þegar í byrjun. Aðeins tveir ritlingar voru prentaðir þar og var Jón Ólafsson höfundur beggja.
Elliðavatn og Heiðmörk hafa af og til komist í kastljós fjölmiðla. Skógareldar hafa komið upp, óáran geisað og leyfislausar framkvæmdir hafa leikið hið friðaða svæði grátt.
Á árunum 1923, 1927 og 1928 eignaðist Rafmagnsveit Upplýsingaskilti í HeiðmörkReykjavíkur Elliðavatn. Var jörðin keypt í sambandi við raforkuvinnslu, sem hófst við Elliðaárnar árið 1921. Búskapur var stundaður með hefðbundnum hætti þar til 1941, en þá tók þar til starfa vistheimili fyrir geðsjúklinga, og starfaði það um alllangt skeið. Að því kom að vistheimilið var lagt niður og búskap með öllu hætt. Árið 1963 var samið um það við Skógræktarfélag Reykjavíkur, að það skyldi fá jörðina til varðveislu, frá 1964 var bærinn aðsetur starfsmanns félagsins sem hafði eftirlit með Heiðmörk. Árið 2004 flutti Skógræktarfélag alla starfsemi sína í Heiðmörk og er bærinn nú notaður undir skrifstofur félagsins.
Saga Heiðmerkur er einnig áhugaverð fyrir margra hluta sakir en hún segir einnig sögu vaxandi byggðarlags í nágrenni svæðisins. Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur frá upphafi sinnt svæðinu sem var friðað 1950. Gróðursetning hefur verið í höndum starfsmanna félagsins, fjölmargra landnema en einnig hefur Vinnuskóli Reykjavíkur unnið ómetanlegt starf á svæðinu, en ungingar á þeirra vegum eru enn við störf á svæðinu að sumarlagi. Í dag einbeita starfsmenn sér í auknum mæli að grisjun þó svo að gróðursetning haldi áfram. Hafa ýmsir lagt þar hönd á plóginn, nú síðast Kópavogsbær.
Sigurður Guðmundsson málari hafi hug á því þegar árið 1870 að gera Heiðmörk að útivistarsvæði fyrir Reykvíkinga, en það mál varð ekki að veruleika fyrr en u.þ.b. 70 árum síðar þegar Hákon Bjarnason, þáverandi skógræktarstjóri, var í reiðtúr um Heiðmörkina þann 16. júní 1935. Erindi hans var að skoða þar kjarrleifar og gróður er leyndust milli hrauna og meðfram Hjöllunum þar sem Vatnsendaborgin trjónir fagurlega enn þann dag í dag.
Eftir þessa ferð kom Hákon fram með hugmynd um friðland og útivistarsvæði fyrir borgarbúa og verndun þeirra kjarrleifa á þessu svæði í grein sem hann skrifaði í ársrit Skógræktarfélags Íslands 1936 og nefndist: „Frá ferðum mínum sumarið 1935.“
Upp úr þessu tóku að þróast í einstökum atriðum hugmyndir um útivistarsvæði Reykvíkinga austan og sunnan Elliðavatns.
VatnsendaborgÁrið 1941 gaf Skógræktarfélag Íslands út bækling, sem nefndist Friðland Reykvíkinga ofan Elliðavatns. Þar var birtur ýmis fróðleikur um svæðið og skýrt frá frumkvæði félagsins í þessum málum.
Nafnið Heiðmörk var fyrst sett fram í útvarpsþætti sem félagið stóð að til kynningar á hugmyndinni, vorið 1941 og var það prófessor Sigurður Nordal sem það gerði. Árið 1946 var Skógræktarfélag Íslands gert að landsambandi skógræktarmanna og var þá stofnað nýtt félag, Skógræktarfélag Reykjavíkur sem tók það við ýmsu sem Skógræktarfélag Íslands hafði unnið að, þar með talið hugmyndinni að stofnun Heiðmerkur. hefur félagið síðan haft umsjón með og annast framkvæmdir á svæðinu samkvæmt samningi sem gerður var við bæjarstjórn Reykjavíkur þann 3. mars 1949.
Fyrsta gróðursetningin fór fram árið 1949 en þá fóru nokkrir starfsmenn félagsins á hestum með plöntur og verkfæri og gróðursettu um 5000 plöntur. Voru það, skógarfura, rauðgreni og sitkagreni og nefnist þessi lundur Undanfari.
Sama ár var lokið við að girða 1350 hektara. Nú var verkið svo vel á veg komið að tímabært var að vígja það formlega. Það gerði þá verandi borgarstjóri Gunnar Thoroddsen á vígsluhátíð sem haldin var sunnudaginn 25. júní 1950, með því að gróðursetja sitkagreniplöntu á svokallaðri Vígsluflöt.
Fljótlega fór að vakna áhugi fyrir stækkun friðlandsins. Það er svo á árunum 1957 – 58 að suðurhluti núverandi Heiðmerkur er girtur, er það svæði úr landi Garðakirkju og Vífilsstaða. Við það stækkaði friðlandið í 2500 hektara. Það er svo árið 1963 Þegar Skógræktarfélag Reykjavíkur gerir samning um varðveislu Elliðavatnslands að girðingin er færð norður fyrir Rauðhóla. Við það stækkaði Heiðmörk í 2800 hektara og er það í dag að undanskildum þeim svæðum sem Orkuveita Reykjavíkur hefur girt af vegna nálægðar við brunnsvæði.
ÁrNýjustu framkvæmdir í Heiðmörkið 1956 hófu unglingar á vegum Vinnuskóla Reykjavíkur störf á Heiðmörk og hafa þeir unnið í um 2 mánuði á hverju ári, frá 100 og upp í 450. Þessir unglingar hafa unnið stórvirki í skógrækt, göngustígagerð o.fl. og má segja að Heiðmörk sé talandi dæmi um hverju unglingastarf getur skilað. Einnig ber að geta þess að mikið hefur verið gróðursett fyrir gjafafé frá fyrirtækjum og stofnunum og frá einstaklingum sem gefið hafa fé til minningar um nákomna.
Jörðin Elliðavatn var löngum ein sú þekktasta í nágrenni Reykjavíkur og höfðingjasetur á tímabili. Bæjarstæðið er glæsilegt, en umhverfið gerbreyttist þegar stíflað var vegna vatnsmiðlunar 1924. Þá stækkaði vatnið um helming, en hinar frægu Elliðavatnsengjar hurfu. Á þeim tíma stóð enginn styr um þessar umhverfisbreytingar.
Í Reykjavík og næsta nágrenni hafa eðlilega orðið stórfelldar umhverfisbreytingar; það fylgir því að byggja borg. Einhverjar mestu umhverfisbreytingar í borgarlandinu hafa orðið við Elliðavatn, en ekki vegna bygginga. Jafnframt er bújörðin Elliðavatn ekki til lengur, hún er orðin hluti af friðlandinu í Heiðmörk.
Flest nútímafólk hefur enga hugmynd um þær umhverfisbreytingar sem orðið hafa á bökkum Elliðavatns, eða hvernig vatnið leit út á fyrsta fjórðungi 20. aldarinnar. Því þarf að minnsta kosti ekki að lýsa fyrir fólki sem þekkir til á höfuðborgarsvæðinu að vatnið, sem bezt sést af hæðunum ofan við Vatnsenda, er mikil umhverfisprýði og náttúruperla. Ef nauðsynlegt yrði talið að minnka vatnið verulega vegna einhverra framkvæmda er hætt við að rekið yrði upp ramakvein. Vonandi kemur aldrei til þess. En í ljósi alls þess sem búið er að segja og skrifa um uppistöðulón á hálendinu er hins vegar er ekki úr vegi að minnast þess að í aldanna rás og allt fram til 1924 var Elliðavatn miklu minna. Raunar voru vötnin tvö en tveir mjóir álar tengdu þau saman eins og sést á korti frá árinu 1916. Vestara vatnið var kennt við Vatnsenda, en það eystra var nefnt Vatnsvatn, kennt við bæinn á Elliðavatni, eða á Vatni eins og sagt var.
Ásamt með beitarlandinu uppi á Elliðavatnsheiði voru víðáttumiklar og grasgefnar engjar beztu hlunnindi jarðarinnar á Vatni. Túnið var alltaf lítið, en hafi Elliðavatnsbændur náð í starung á engjunum; sem ekki er ólíklegt, þá var hann kúgæft hey og þótti geysileg búbót. Lítið eitt vestan við miðju vatnsins eins og það er nú var allstór eyja sem skildi vötnin nánast að. Úr vestara vatninu rann áin Dimma allar götur niður að brúnni við núverandi Seláshverfi. Þar rann í hana áin Bugða, en svo heitir neðsti og vestasti hluti Hólmsár. Tvö læmi tengdu þó árnar saman við hólinn Skyggni, skammt frá stíflunni sem síðar kom.
HÍ Heiðmörkvað hefur eiginlega gerzt sem haft hefur í för með sér svo róttækar breytingar á umhverfi Elliðavatns? Ekki annað en það, að á árunum 1923-1928 eignaðist Rafmagnsveita Reykjavíkur jörðina Elliðavatn og 1924 var ráðizt í vatnsmiðlun með stíflu sem síðar var tvívegis hækkuð og flestir þekkja þessa stíflu núna. Við stíflugerðina hefur vatnsborð Elliðavatns hækkað hvorki meira né minna en um heilan metra og vatnið hefur stækkað um það bil um helming. Eyjan út af Þingnesi fór að stórum hluta í kaf, svo og hinar rómuðu Elliðavatnsengjar.
Starungur er að vísu ekki lengur eftirsóttur heyfengur og engjaheyskapur allur aflagður fyrir löngu, svo segja má að ekki hafi stór skaði verið skeður. En það er annað þessu tengt sem nútíminn telur verðmæti: Votlendi. Hér var sökkt stórum flæmum votlendis þar sem án efa hefur verið fjölskrúðugt fuglalíf.
Ekki verður séð að því hafi verið mótmælt árið 1924, eða að tilfinning hafi verið fyrir því að þarna væri verið að vinna náttúruspjöll. En var það svo?
Um það má ugglaust deila, en ljóst er að Elliðavatn, þessi náttúruperla við útmörk höfuðborgarsvæðisins, er að stórum hluta uppistöðulón. Því er á það bent, að í hita undangenginnar umræðu um virkjanir á hálendinu hafa öfgamenn haldið ákaflega fram þeirri skoðun að öll uppistöðulón séu beinlínis ljót. Að sjálfsögðu var skaði að missa votlendið. En í staðinn höfum við fengið stærra og fegurra Elliðavatn.
Í umhverfi Elliðavatns er víðast hvar fagurt um að litast og bærinn sem ber nafn af vatninu var byggður á fallegum stað á nesi sem skagar út í vatnið frá austri. Kvöldfegurð á Vatni er við brugðið; útsýnið fyrst og fremst yfir vatnið og til hæðanna ofan við Vatnsenda. Nú klæðir skógur baklandið; hlíðar Heiðmerkur sem búið var að ganga svo nærri með ofbeit að uppblástur var næsta þróunarskref. Þar er ævintýri líkast um að ganga og víða frábært útsýni yfir það land sem fyrrum tilheyrði jörðinni Elliðavatni, en var þó aldrei stórt. Vatnsendaland var mun stærra og Hólmsland var það einnig; það náði allar götur upp í Bláfjöll, sunnan við Elliðavatnsland.
AlÍ Heiðmörklt er þetta umhverfi mikilfenglegt, en einhver fegursti reiturinn er við smærri vötnin norðaustur og austur af Elliðavatnsbænum: hjá Helluvatni, Hrauntúnstjörn og Kirkjuhólmatjörn. Þessi undrafögru smávötn sjást þegar ekið er sem leið liggur að Elliðavatni framhjá Rauðhólunum. Vegurinn liggur á brú yfirálinn úr Helluvatni og áfram upp í Heiðmörk, en afleggjari er heim að Elliðavatnsbænum. Stöldrum aðeins við þarna áður en lengra er haldið..
Norðan við Helluvatn eru nokkrir lágir gjallhólar af sama uppruna og Rauðhólarnir, en óskemmdir, og verður þetta umhverfi ævintýralega fallegt í lok júnímánaðar þegar lúpínan, sem þar er útbreidd, blómstrar og breiðir bláan lit yfir umhverfi tjarnanna.
Rauðhólarnir urðu til fyrir 4.600 árum þegar glóandi og þunnfljótandi hraunstraumur rann úr eldstöðinni Leiti í Svínahrauni og fylgdi nokkurn veginn sömu slóð til sjávar og Suðurlandsvegurinn. Þorleifur Einarsson jarðfræðingur taldi að Elliðavatn, eða einhver hluti þess, hafi þá náð þangað sem Rauðhólarnir mynduðust og hefur það eflaust verið tilkomumikil sjón að sjá glóandi hraunstraum þurrka vatnið upp. Hraunstraumurinn hélt áfram niður í voginn sem 3.500 árum síðar var kenndur við Elliða, skip Ketilbjarnar hins gamla. Árnar bera og nafn skipsins og trúlega Elliðavatn einnig.
Vatnið í tjörnunum þremur sprettur fram undan hraununum í Heiðmörk, en að hluta er það úr Suðurá sem á upptök sín í Silungapolli og undir Selfjalli hjá Lækjarbotnum. Við erum hér í næsta nágrenni Gvendarbrunna; þeir eru suðaustan við Hrauntúnstjörn.
Elliðavatn í Seltjarnarneshreppi var lengst af meðal þekktustu bújarða í nágrenni Reykjavíkur. Vatn eins og bærinn var gjarnan nefndur var þó ekki höfuðból; til þess að svo væri þurftu jarðir að vera 60 hundruð, en Vatn var aðeins 12. Hlunnindin voru engjarnar fyrrnefndu sem nú sjást ekki lengur, kvistbeit í hraununum og veiði í vatninu og ánum Dimmu og Bugðu.
EÍ Heiðmörklliðavatn var í landnámi Ingólfs og því ekki landnámsjörð. Ef til vill hefur Ingólfur ráðstafað þessari blómlegu og kjarri vöxnu engjajörð til frændfólks eða vina, en um það er ekkert vitað. Engar heimildir eru til um upphaf bæjarins á Elliðavatni, en í máldaga frá 1234 segir að Viðeyjarklaustur eigi hálft land jarðarinnar. Getið er um Elliðavatn í Kjalnesinga sögu, sem skrifuð var á 14. öld, en telst full ævintýraleg til þess að vera treystandi sem heimild. Þar segir að á þeim bæ „er heitir að Vatni, er síðan er kallat Elliðavatn“ hafi búið kona sem Þorgerður hét. Hún átti son þann er Kolfinnur hét og var kolbítur, eða með öðrum orðum: Hann lá í öskustó og hafðist lítt að. Þetta fyrirbæri er vel þekkt úr ævintýrum. Ef til vill þjáðist hann af þunglyndi, en síðan hefur bráð af honum; hann reis úr öskustónni og tók að líta í kringum sig eftir konuefni. Með tilliti til þess að kolbítar voru ekki í miklu áliti, verður að teljast að Kolfinnur hafi ekki ráðizt á garðinn þar sem hann var lægstur með því að leita eftir ástum Ólafar vænu, dóttur Kolla bónda í Kollafirði. Urðu vígaferli vegna bónorðsins og kolbíturinn sýndi að það voru töggur í honum, því hann nam Ólöfu á brott og hafði hana með sér heim að Elliðavatni.
Ekki hélst honum þó lengi á konunni. Ástmaður hennar, sá mikli kappi Búi Ástríðsson sem Kjalnesinga saga greinir frá, gerði sér lítið fyrir og felldi Kolfinn. Við konunni leit hann ekki meir, „síðan Kolfiðr hefir spillt henni“.
Klausturjarðir urðu konungseign eftir siðaskiptin og þeirra á meðal var Elliðavatn. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Í HeiðmörkVídalín sem gerð var skömmu eftir 1700 segir að eigandinn sé „kóngl. Majestat.“ Jarðardýrleiki er sagður óviss og á jörðinni er þá þríbýli. Ábúendur eru Einar Eyvindsson á hálfri jörðinni, Tómas Vigfússon á fjórðungi og sá þriðji er Snorri Snorrason, og býr hann á þeim fjórðungi jarðarinnar, sem áður var hjáleigan Vatnskot. Allir eru þeir leiguliðar hjá kónginum og er landskuld goldin með „iii vættum fiska eður í fríðu og átta tunnum kola“ (viðarkol).
Margvíslegar kvaðir eru og á jörðinni, enda þótti ekki gott að búa í næsta nágrenni við Bessastaðavaldið. Sem dæmi um þessar kvaðir má nefna að eitt mannlán er um vertíð, hestlán til alþingis eða austur á Eyrarbakka; einn hestur frá hverjum ábúanda. Enn gætir yfirráðanna frá Viðey, „tveir dagslættir“ renna þangað. Hægt er að kalla menn til formennsku á bátum ef þeir eru til þess hæfir og fá þeir formannskaup „ef þeim heppnast afli.“ Tvo til þrjá hríshesta verður jörðin að láta af hendi og tvö til þrjú lömb skulu tekin í fóður og láta verður tvo heyhesta „til fálkafjár í Hólmskaupstað“.
Tólf kýr má fóðra á allri jörðinni segir Jarðabókin, en rifhrís til eldiviðar og kolagjörðar „fer mjög í þurð“. Þrönglendi er í högum, engjar spillast af vatnsgángi, en torfrista og stúnga „lök og lítt nýtandi“.
Þessi lýsing bendir ekki til mikillar búsældar á Elliðavatni. Segir nú fátt af búskap á Vatni þar til brautryðjandinn Skúli Magnússon kom upp Innréttingum sínum í Reykjavík eftir 1750. Meðal verkefna þar var ullarvinnsla og þurfti þá að koma Skilti við Þjóðhátíðarlundinn - þar sem nýjustu framkvæmdirnar fara framupp fjárræktarbúi, bæði til þess að tryggja vinnslunni næga ull, en einnig var ætlunin að bæta hana með blöndun á útlendu sauðfé.
Elliðavatn varð fyrir valinu og má ætla að ástæðan hafi einkum verið sú að þar hefur verið talin bezta fjárjörðin í nágrenni Reykjavíkur vegna beitarinnar í skóglendinu þar sem Heiðmörk er nú.Vegna kynbótanna voru fluttir inn hrútar af enskum sauðfjárstofni, en sænskur barón, Hastfer að nafni, átti að stýra kynbótunum fyrsta kastið. Ekki er alveg ljóst hvers vegna þessi kynbótatilraun var flutt að Helliskoti, skammt frá Elliðavatni árið 1757. En þar var reist „mikil stofa“ þó ekki sjái hennar stað, en einnig að sjálfsögðu vandaðasta fjárhús landsins, „meira en flestar kirkjur hér á landi og afþiljað“.
En ekki dugði þetta afburða fjárhús til þess að bægja óláninu frá, sem fólst í að upp kom veiki í fénu: Fjárkláði sem breiddist ört út og olli gífurlegum búsifjum. Á einum áratugi frá 1760-1770 hrapaði sauðfjáreign landsmanna úr 360 þúsundum í 140. Ugglaust er það eitthvert mesta efnahagsáfall sem Íslendingar hafa orðið fyrir, svo háðir sem þeir voru sauðfjárbúskap.
Fjárræktarævintýrinu á Elliðavatni lauk með þessu; búið var lagt formlega niður 1764. Ber nú lítt til tíðinda fram til 1815 að fjöldi konungsjarða var seldur og Elliðavatn þar á meðal.
Sextán árum síðar, 1836, var Paul Gaimard í öðrum Íslandsleiðangri sínum. Hann var maður ferðavanur; hafði þá tvívegis farið kringum hnöttinn. Í leiðangurinn til Íslands hafði hann með sér lið valinkunnra manna og þar á meðal var teiknarinn Auguste Mayer. Hann gerði fjölda teikninga og skyssa á Íslandi sem eru ómetanleg heimild, ekki sízt um húsakynni landsmanna, og þar á meðal er teikning af Elliðavatnsbænum.
Mayer var frábær teiknari, en ætla má að oft hafi hann fullunnið baksviðið, fjöll og annað úr umhverfi bæja, eftir að heim var komið. Fyrir kemur að þekkt kennileiti eru óþekkjanleg og þar á meðal er hæðin ofan við Elliðavatnsbæinn. Ætla má þó að myndin sé trúverðug heimild um bæinn og hún er einnig allnokkur vísbending um að Elliðavatn hafi þá þótt markverður bær. Kirkja var þó aldrei á Vatni; bærinn átti kirkjusókn að Laugarnesi ásamt Breiðholtsbænum, Vatnsenda, Bústöðum, Kleppi, Rauðará, Hólmi, Hvammskoti, Digranesi og Kópavogi.
Á teikningu Mayers af Elliðavatnsbænum er aðeins að sjá eina stæðilega byggingu. Hún er með hefðbundnu lagi torfbæja eins og það varð á síðustu öld og snýr sJ.C. Schütte - 1845tafninum fram. Prýði þessa húss er vindskeið og hefur verið lagður metnaður í að hafa hana viðhafnarlega. Slíkar vindskeiðar voru ekki á bæjum almennt. Skýringuna má ef til vill finna í því, að ábúendur á Elliðavatni voru þá Jón Jónsson silfursmiður og Ragnheiður Guðmundsdóttir. Kynni að vera að listrænn metnaður silfursmiðsins kæmi þarna í ljós. Að öðru leyti sýnir myndin venjulega og fremur bágborna torfkofa, en hjallur úr timbri stendur sér. Tröðin heim að bænum liggur meðfram hlöðnum grjótvegg sem sveigist til suðurs, enda var algengasta leiðin úr Reykjavík að Elliðavatnsbænum sunnan við vatnið.
Hægt var að fara aðra leið norðan vatnsins, en þá þurfti að komast yfir Elliðaárnar, Bugðu og álinn úr Helluvatni.
Bærinn á teikningu Mayers hefur trúlega verið á Elliðavatni 1841 þegar náttúrufræðingurinn og skáldið Jónas Hallgrímsson kom þar til að sjá og teikna upp minjar um þingstaðinn Þingnes sunnan við vatnið. Þaðan hélt Jónas för sinni áfram til Þingvalla og Skjaldbreiðar og lenti í frægri villu og útilegu, sem fór þó vel og gaf af sér eitt vinsælasta kvæði Jónasar.
Þingstaðurinn var þó ekki á sjálfu nesinu sem skagar út í vatnið, heldur í hallanum ofan við nesið. Þar hafa fornleifarannsóknir farið fram; stórt rannsóknarsvæði var grafið upp og komu í ljós leifar af stórum, hringlaga garði. Innan hans sást móta fyrir fleiri mannvirkjum. Garður og rústir voru taldar vera frá 11.-12. öld og undir þeim reyndust vera minjar frá 10. öld. Frá vegamótum austan við Elliðavatnsbæinn liggur vegur sem nefndur er Þingnesslóð út með vatninu og er ökufært alla leið að Þingnesi. Sunnan vegarins er Myllulækur og samnefnd tjörn, sem samkvæmt uppdrættinum frá 1916 virðist ekki hafa verið til þá, enda hefur hún orðið til við framkvæmdir Vatnsveitunnar. Ætla má aÞingnesð kornmylla hafi einhverju sinni verið við Myllulæk
Þingnes er talinn einn merkasti sögustaður í nágrenni Reykjavíkur, jafnvel á landsvísu og hafa fleiri en Jónas Hallgrímsson rannsakað hann. Þeirra á meðal er Sigurður Guðmundsson málari, sem gerði uppdrátt af staðnum, Brynjólfur frá Minna-Núpi, Daniel Bruun, Finnur Jónsson prófessor, svo og Þjóðminjasafnið að sjálfsögðu. Ari fróði segir í Íslendingabók sinni, að Alþingi hafi verið sett „at ráði Ulfljóts ok allra landsmanna þar es nú es, en áður var þing á Kjalarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfssonr landnámsmanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir es at því hurfu“.
Því er verr, að ekki eru til neinar heimildir um það hvar Kjalarnessþing var háð, en vísir menn hafa talið að um tíma hafi það verið í Þingnesi. Rannsóknir sem fóru fram 1984 benda eindregið til þess að þar hafi mannfundir farið fram. Dr. Jakob Benediktsson telur ljóst í Sögu Íslands, 1. bindi sem út kom 1974, að Kjalarnesþing hafi verið eins konar undanfari Alþingis, enda þótt það hafi ekki verið löggjafarþing, heldur aðeins dómþing og „sennilegt sé að upptakanna að stofnun Alþingis sé að leita í hópi þeirra höfðingja, sem stóðu að þinginu á Kjalarnesi.“
Sé þetta rétt er Þingnes hinn allra merkasti staður á bökkum Elliðavatns.

Heimild m.a.:
-http://www.heidmork.is
-Gísli Sigurðsson – „Skin og Skúrir á Elliðavatni“ I. hluti – Lesbók Morgunblaðsins 12. febrúar 2000.

Elliðavatn

Elliðaárdalur

Í Morgunblaðinu 2016 er fjallað um bókina „Elliðaárdalur – Perla Reykjavíkur„:

Elliðaárdalur„Elliðaárdalur er stærsta græna svæðið innan Reykjavíkur, hluti af umhverfi og menningarsögu borgarinnar og eitt vinsælasta útivistarsvæði höfuðborgarinnar. Í nýrri bók um Elliðaárdalinn, Elliðaárdalur – Perla Reykjavíkur, er fjallað um gróðurfar, fuglalíf og fjölbreytilega jarðfræði dalsins og einnig sögustaði og friðlýstar minjar.
Í eftirfarandi kafla úr bókinni er í máli og myndum gerð grein fyrir ýmsum minjum frá stríðsárunum síðari.

Stríðsminjar í Elliðaárdal
Í síðari heimsstyrjöldinni, 1940-1945, var kömpum, þ.e. braggaþyrpingum setuliðsins, komið upp nánast alls staðar í borgarlandinu þar sem því varð við komið. Þar á meðal voru nokkrir í Elliðaárdal.

Kampar og stríðsminjar í landi Ártúns

Camp Ártún

Camp Ártún 1942.

Fimm herkampar voru í landi Ártúns, þar af þrír á því landi sem nú er undir borgarvernd og einn í jaðri þess. Tveir kampar voru sitt hvorum megin við bæjarhólinn.
Camp Alabaster (Camp Pershing) var skammt frá Elliðaárstöð. Þar voru aðalstöðvar breska setuliðsins eftir að þær voru fluttar úr Menntaskólanum í Reykjavík við Lækjargötu. Alabaster var nafn á hernaðaráætlun Breta við töku Íslands. Þann 13. maí 1942 flutti bandaríska setuliðið hluta af aðalstöðvum sínum eða „Iceland Base Command HQ“ í þennan kamp. Breyttu þeir nafni hans í Camp Pershing.
Camp Battle var norðan við Camp Alabaster/Pershing, hinum megin við bæjarhól Ártúns.

Camp ÁrtúnCamp Hickham var í Ártúnsbrekku, þar sem jarðhýsin eru nú, reistur af bandaríska setuliðinu. Camp Fenton Street var á þeim slóðum sem bílaumboðið BL er nú.
Þann 22. apríl 1942 tóku Bandaríkjamenn við yfirstjórn hers bandamanna á Íslandi úr höndum Breta. Af því tilefni fór herforingi Breta af landi brott en við yfirstjórn breska hersins hér tók fylkisforingi og voru aðalstöðvar hans í Camp Fenton Street.

Camp Pershing

Camp Pershing 1942.

Auk þessa var einn kampur á Ártúnshöfða (Camp Ártún) og tveir kampar voru vestan við Elliðaár, á móts við Ártún (Camp Pony og Camp New Mercur).
Eins og nærri má geta höfðu kamparnir mikil áhrif á líf fólksins á svæðinu. Til að mynda var öryggisgæsla svo ströng að jafnvel börnin þurftu vegabréf til að komast heim til sín. Eftirminnilegt þótti að Elliðaárstöðin var máluð í felulitunum á stríðsárunum, ekki hvít eins og alltaf. En svo var raunar um ýmis önnur mannvirki einnig.
Þegar setuliðið hvarf af landi brott í stríðslok fluttust íslenskar fjölskyldur inn í Camp Fenton Street og fékk hann þá nafnið Elliðaárhverfi. En nú hafa nær öll hernaðarmannvirki verið fjarlægð úr landi Ártúns. Einu ummerkin eru í Ártúnsbrekkunni. Annars vegar er það dæld eftir sandpokavígi sem nú er að mestu fallið saman. Hin ummerkin eru undir yfirborði jarðar, neðanjarðarbyrgi, sem búið er að hylja munnann á með jarðvegi.

Camp Baldurshagi

Camp Baldurshagi

Camp Baldurshagi – þar sem Fákssvæðið varð síðar. Horft í átt að Breiðholti.

Hann var þar sem nú er skeiðvöllur hestamannafélagsins Fáks á Víðivöllum. Þetta var stór kampur með um 100 bröggum sem breska setuliðið reisti.
Fyrst voru þarna breskir hermenn úr Duke of Wellington hersveitinni. Síðar, þegar landgönguliðar bandaríska sjóhersins komu til landsins, 7. júlí 1941, fengu þeir þar inni. Bretarnir fluttust þá að Geithálsi þar sem þeir reistu nýjan kamp. Ummerkin sem nú sjást eftir Camp Baldurshaga eru leifar af braggagólfum og sökklum. Ennfremur var eitt húsið úr kampinum flutt í Seláshverfi og gert að íbúðarhúsi. Nafnið á kampinum er raunar villandi því að hinn upphaflegi Baldurshagi er við Suðurlandsveg.
Meðal íbúa í Camp Baldurshaga árið 1941 var Ralph Hannam, sem eftir stríðið settist að í Elliðaárdal.

Skotbyrgi
BreiðholtshvarfÍ Breiðholtshvarfi, ofan við Árbæjarlón, er steypt skotbyrgi af þeirri gerð sem algeng var á stríðsárunum og finnast enn m.a. í Öskjuhlíð. Þetta er steinkassi, um 3 m á hvern veg, og hefur verið skotrauf framan á honum. Þakplata byrgisins er steypt og hefur lítið látið á sjá. Veggir eru hins vegar hlaðnir úr holsteini og eru þeir farnir að molna nokkuð.“

Heimild:
-Morgunblaðið, 294. tbl. 15.01.2016, Elliðaárdalur – Perla Reykjavíkur, bls. 62.

Eliðaárdalur

Elliðaárdalur.

Reynisvatnsheiði
FERLIRsfélaginn Jón Svanþórsson hefur löngum, ásamt Lucy, gengið um Reynisvatnsheiðina.
Réttin á ReynisvatnsheiðiÁ þessum ferðum þeirra hefur hann, fremur en hún, uppgötvað ýmislegt, sem öðrum hefur verið fjarrænt – jafnvel hulið. Ekki er langt síðan þau feðginin gengu þarna fram á leifar af gamalli hlaðinni fjárborg ofan skammt ofan skógræktarmarka, staðsettu vörðubrot og nánast jarðlæg landamerki, auk þess sem dóttirinn þefnæma staðnæmdist við leifar af rétt, aðhaldi eða stórri fjárborg á heiðinni. Hún, sem og aðrar minjar, t.a.m. leifar af hlöðnum stekk skammt neðan Grafarsels, gætu hafa verið hluti af selstöðunni. Þó er öllu líklegra að þetta tiltekna mannvirki hafi verið vorrétt (rúningsrétt) frá Hólmi og jafnvel fleiri nálægum fjárbæjum á síðari öldum.
Réttin er 12×10 m að stærð. Útveggir hafa verið gerðir úr torfi, en innveggir (dilkar) úr grjóti. Útveggirnir standa grónir og innveggir hafa verið einhlaðnir. Það bendir til fjárréttarnota.

Reynisvatn

Reynisvatn.

Kalkofninn

Kalknám var stundað í Sandhól við Djúpagil og við Mógilsá ofan Mógilsárfoss frá árinu 1873 í nokkur misseri og síðan aftur á árunum 1916-17. Kalkbrennsluofnar voru byggðir við Rauðará í Reykjavík (1873) og síðan neðan við Arnarhól (1876). Kalofnsvegur var nefndur eftir þessum gjörningi.

Í Víkverja 1873 er umfjöllun um „Kalk í Esjunni„:

Mógilsá

Mógilsá – kalknáma.

„Það er flestum kunnugt, að kalk fanst fyrir nokkrum árum í Esjunni. Það var í felli einu fyrir ofan Mógilsá, að menn þóttust sjá kalkberg koma fram í möl þeirri, er á er öllu fellinu. Landlæknirinn, dr. Jón Hjaltalín, lét höggva nokkur brot af berginu, og senda þau fræðimönnum erlendis til rannsóknar, og kom þá fram, að 90 hundruðustu partar af steininum voru hreint kalk; svo reyndist og í fyrra, þá er nokkrir steinar voru fengnir hinum útlensku vinnumönnum, er unnu að þinghúsgjörðinni fyrir austan Reykjavík, að ágætt kalk fékst af þessum steinum, þá er þeir voru brendir.

Egill Egilsson

Egill Egilsson.

Nú hefur herra kaupmaður Egill Egilsson (Sveinbjarnarson) hér í Reykjavík gjört gangskör að því, að kanna þessa kalknámu nákvæmar og nota hana. Kalkbergið er, svo sem vér áðr sögðum, í sérstöku litlu felli sunnan til í Esjunni. Hingað til hefir eigi komið mikið fram af því, en líkur eru til, að bergið nái langt inn í fellið, og merki hafa jafnvel sést til þess, að það nái í gegn um það. Sé það svo, munu margar miljónir tunna af kalki vera fólgnar í fellinu.
Herra Egill Egilsson hefir fyrir hálfum mánuði látið brjóta einar 50 tunnur af kalki úr berginu, og flutt þær ofan að sjó, en svo þungt var grjótið, að það voru klyfjar á 200 hesta. Þar voru 30 tunnur af grjótinu látnar í skip, er herra E. á, og eru þær nú fluttar fram að Rauðará; þar ætlar herra E. að láta gjöra kalkofn og brenna grjótið. Reynist það þá eins gott, og sagt er, mun verða stofnað hlutafélag til þess að vinna námuna enn betur.
Vér óskum herra Egli kaupmanni allrar hamingju til verks þess, er hann hefir gerst forgöngumaðr fyrir, og vér efum eigi, að hið mesta gagn geti hlotist að því, ef kalkbergið að eins að nokkru leyti svarar þeim vonum, er kunnugir menn hafa gert sér um það. Næst vegaleysinu getum vér talið vonda húsagjörð einn hinn mesta hnekki á öllum framförum vorum, en fari svo, að vér getum fengið kalk í hús vor á nokkurn veginn vægan hátt, er tvent áunnið; vér þyrftum þá eigi að skemma hagagöngur vorar með torfristum, og fengjum þá langtum hlýari og stæðilegri, og fyrir því og með tímanum, ódýrari hús, en vér höfum hér til haft.“

Í Þjóðólfi 1877 var eftirfarandi grein:

Vesturgata 52

En sá, sem fyrstur byggði hér íveruhús úr höggnu íslenzku grjóti, ætlum vér sé bóndinn Pétur Gíslason á Ánanaustum; sá þriðji sem á samskonar hús í smíðum er Jóhannes Zöega. Hús úr steini eru hér öllu ódýrari en timburhús, ef með hagsýni er byggt, og ætti það atriði eitt að vera nægilegt til þess að fá menn til að hætta við annað veggjasmíði en úr voru eigin ágæta, þjóðlega grjóti, sem helzt til lengi hefir legið eins og ónýtur «steinn í götu». Ýmsir fleiri eru farnir að byggja meira og minna úr þessu ótæmanlega og óslítanlega efni, enda skortir nú ekki hið bezta kalk, og það á staðnum.  Kalk > Steindir og bergtegundir með kalsínkarbónati (CaCO3). Brennt kalk > kalsíumoxíð (CaO), fæst við hitun kalks, notað m.a. í áburð. Slökkt kalk > kalsíumhýdroxíð (Ca(OH)2), vætt brennt kalk, notað sem steinlím Leskjað kalk > brennt kalk hrært í vatn, notað sem steinlím, til áburðar, til að sýrustilla jarðveg og til iðnaðar.

“Byggingarframfarir í Reykjavík eru sýnilegar ár frá ári, og mundu svo fremur, væri árferði betra… Síðan herra E. Egilsson réðst í kalknámið í Esjunni og þeir konsúll Smith komu upp kalkbrennslunni, hafa menn þegar tekið að skilja hve ómetanlegur hagur – auk fegurðarinnar – er að byggja steinhús, og stöku menn teknir að gjöra það. Sá fyrsti hér í miðjum bænum, sem komið hefir upp steinhúsi, er Eyþór Felixson verzlunarmaður (fyrrum póstur). Hús það er 13 álna langt og 14 álna breitt með 12 álna háum veggjum, og er nú eitt hið laglegasta, en langsterkasta hús bæjarins.

Bergstaðastræti 24

Snemma árs 1884 fékk Jóhannes Pálsson, tómthússmaður, leyfi til þess að byggja sér steinbæ með timburstöfnum á Þingholtslóð.
Húsið er hlaðið úr steini, sléttað utan með kalki, að grunnfleti 12X9 álnir.

En sá, sem fyrstur byggði hér íveruhús úr höggnu íslenzku grjóti, ætlum vér sé bóndinn Pétur Gíslason á Ánanaustum; sá þriðji sem á samskonar hús í smíðum er Jóhannes Zöega. Hús úr steini eru hér öllu ódýrari en timburhús, ef með hagsýni er byggt, og ætti það atriði eitt að vera nægilegt til þess að fá menn til að hætta við annað veggjasmíði en úr voru eigin ágæta, þjóðlega grjóti, sem helzt til lengi hefir legið eins og ónýtur «steinn í götu». Ýmsir fleiri eru farnir að byggja meira og minna úr þessu ótæmanlega og óslítanlega efni, enda skortir nú ekki hið bezta kalk, og það á staðnum. Engir hinna ríkari bæjarbúa hafa þó enn látið til sín taka í þessu, heldur er það eptirtektavert, að þeir sem byrjað hafa, eru allir fremur félitlir menn, en þeir eru skynsamir, og vita vel hvað þeir gjöra.
Kalkbrennslan fór fram í tveimur ofnum. Fyrst var reistur tilraunaofn hjá Rauðará 1873 en 1876 var reistur varanlegri ofn hjá Arnarhólslæk (vatn þarf við kalkvinnslu). Þessi ofn var ámóta að stærð og gamli söluturninn á Lækjartorgi.“

Í Eimreiðinni árið 1900 segir m.a.:

Kalkofn

Kalkofninn að baki húsanna við Lækjargötu, neðan Arnahóls.

„Fram með Arnarhólstúni sjávarmegin liggur stígur, og er þar trébrú yfir lækinn; þessi stígur liggur að allmiklu timburhúsi, þar sem Björn múrari Guðmundsson verzlar með timbur; fyrir nokkrum árum var hér kalkofn, og átti að brenna þar kalkstein, sem fanst í Esjunni; var þetta gert nokkra stund, en fórst fyrir, bæði vegna þess, að flutningur frá námunni varð of dýr og erfiður, og svo vegna þess, að vatn úr læknum var haft í kalkið, en það vatn er óhreint, bæði úr tjörninni og svo blandað sjávarseltu, og óhæfilegt til kalkgerðar; varð kalkið þannig ónýtt eða miklu verra en þurft hefði. En þetta vildu forsprakkarnir ekki heyra, þótt sagt væri við þá.“

Í Ægi 1914 var fjallað um flutning kalksins frá Esjunni til Reykjavíkur:

Hótel Ísland

Hótel Ísland.

„Egill heitinn föðurbróðir minn átti franska loggortu, sem fyrst hjet »Ladon«, en síðar »Esja«. Hannes Hafliðason var þar skipstjóri 1876, en eftir hann tók við hr. Joh. Halberg, sem kom hingað til lands 1877. Var hann skipstjóri á því 1877 og ’78, var það haft til fiskiveiða og kalkflutnings úr Esjunni hingað til Reykjavíkur, því að þá var hjer kalkofn og brent hjer kalk. Hr. J.G. Halberg varð síðan eigandi »Hotel Íslands« og hjelt því í mörg ár.“

Í Tímariti iðnaðarmanna 1941 segir frá Birni Guðmundssyni, múrara, sem byggði kalkofninn við Kalkofnsveg:

Björn Kristjánsson

Björn Kristjánsson.

„Fyrsti útlærði múrarinn hér, sem ég man eftir, af ísl. bergi brotinn, var Björn Guðmundsson, sem þá líka var lengst af alþektur undir nafninu „Björn múrari“, einnig löngu eftir að hann var hættur að halda á múrskeiðinni og orðinn kola- og timbursali. Þótti Björn bráðduglegur og vandvirkur iðnaðarmaður. Hann setti hér upp kalkofn þann, sem Kalkofnsvegur er heitinn eftir og stóð rétt fyrir norðan Varðarhúsið á sjávarbakkanum.
Áður hafði Sverrir [Runólfsson] byrjað að reisa samskonar ofn inni undir Bauðará, þar sem seinna reis klæðaverksmiðjan „Iðunn“, en náði aldrei að fullgera ofninn, svo að ekki varð neitt úr neinu). Kalkið, sem brenna skyldi, var sótt upp í Esju, en forgöngumenn rekstursins voru þeir Marteinn Smith kaupmaður og Egill Egilsson borgari (í Glasgow). Þótti hið brenda kalk Björns fyrirtak að gæðum, en kostnaðurinn við kalkvinsluna úr námunni í Esjunni og flutningur kalksteinsins þaðan á bátum hingað, reyndist of mikill til þess, að fyrirtækið gæti borgað sig; því að vagnar voru hér engir til nema tvílijóla mókerrur og akvegir því síður.“

Í Heilbrigðistíðindum 1973 fjallaði Jón Hjaltalín, landlæknir, um „Kalkbrennsluna„:

Jón Hjaltalín

Jón Hjaltalín, landlæknir.

„Fyrir 20 árum gat jeg þess í „Nýjum Félagsritum“, hversu nauðsynlegt það væri, að vjer yfir höfuð hefðum annað lag á húsagjörðum vorum, en hingað til hefur tíðkazt, og jeg tók það fram um leið, að eins og það lægi hverjum manni í augum uppi, að hjer væri gnægð af góðu byggingargrjóti, þannig mundi hjer og finnast nóg kalk í fjöllunum og landinu, ef vel væri að gáð, og áræðið og kunnáttuna að nota það vantaði eigi. Hjer um bil 8 árum eptir að jeg hafði ritað þá grein, er hjer um ræðir, í tjeðum fjelagsritum, fann jeg kalksteinslag hjer í Esjufjalli örskammt frá sjónum; jeg reyndi kalksteininn þá þegar eptir efnafræðisreglum, með því að leysa hann í saltsýru, og fann, að hann hafði í sjer yfir 90 hundruðustu parta af hreinu kalki, en slíkt eru hinir beztu kalksteinar. Seinna var hann prófaður í Kaupmannahöfn, og kom mönnum saman um, að svo væri, sem jeg hafði til tekið.

Sverrir Runólfsson

Sverrir Runólfsson.

Stiptamtið ljet um sama leytið herra B. Gunnlögsen og mig nákvæmar skoða námuna, og mæla hana og veginn niður að sjónum, og líka var hún grandskoðuð af enskum jarðfræðingi. Svona hefur þetta nú staðið þangað til í sumar; en nú hefur herra verzlunarstjóri E. Egilsson tekið sjer fyrir að brjóta kalkið, flytja það hingað, og er nú að láta byggja kalkofn til að brenna það í. Af þessu fyrirtæki má að minni hyggju mikið gott leiða, ef menn að eins vilja gefa því nægan gaum, og fara að ráðast í, að byggja steinhús, en þessa er nú því heldur væntandi, sem fleiri menn, er í fyrrasumar störfuðu hjer að hegningarhúsinu, námu af húsasmiðnum herra Bald þá aðferð, er menn nú almennt við hafa, að fleyga steina í tígulmyndað veggjagrjót. Jeg fæ og eigi betur sjeð, en steinhúsbyggingar fari að verða hin bráðasta nauðsyn, þar sem timbureklan er allt af að vaxa ár frá ári, enda ættu allir skynsarair menn fyrir löngu að vera orðnir sárleiðir á vorum ónýtu, óhollu og auðvirðilegu moldarkofum, sem nú í mörg hundruð ár hafa verið heilsu og lífi ilandsmanna til hins rnesta tjóns og auðsjáanlegasta niðurdreps í alla staði. Þær hafa verið og verða, svo lengi sem þær við vara, Íslands sannkallað krabbamein, sem gjörsamlega þarf að burt nema svo fljótt og rösklega sem unnt er.“

Árni Óla skrifaði ítarlega grein í Lesbók Morgunblaðsins 1949 um „Kalknám í Esjunni og Kalkbrenslu í Reykjavík“:

Esja

Mógilsá í Esju.

„Það mun hafa verið um 1863 að Jón Hjaltalín landlæknir fann kalkstein í Esjunni og taldi að þar mundi vera svo mikið af honum að það borgaði sig að hefja námagröft þar og brenna kalk.
Ástandið í byggingarmálefnum Reykjavíkur var þá þannig, að enn voru flestar vistarverur fólksins torfbæir. Innflutningur á timbri frá Noregi hafði farið minkandi árum saman og það timbur, sem fekst, varð æ ljelegra byggingarefni. Ýmsir menn skoruðu á kaupmenn að flytja inn kalk, svo hægt væri að reisa hjer steinbæi og steinhús, því að nóg var hjer af grjóti til að byggja úr og bygging hegningarhússins hafði sýnt þeim að hægt var að nota það. En það var eins og að klappa harðan steininn. Kaupmenn vildu ekki flytja inn kalk, nema þá af mjög skornum skamti, og svo var það svo dýrt, að enginn treystist til að ráðast í að byggja hús úr steini.

Mógilsá

Kort frá árinu 1909 sem sýnir staðsetningu bæja við Kollafjörð og austur með Esjunni. Á Mógilsá eru merkt inn þrjú hús innan túns og þjóðleiðin fyrir botn fjarðarins.

Kalkfundurinn í Esjunni kveikti því hjá mönnum von um það, að bráðlega mundi fást íslenskt kalk til húsbygginga. En enginn þóttist þó svo efnum búinn að hann gæti ráðist í það fyrirtæki að brjóta kalkstein og brenna kalk.
Þá var hjer hinn kunni dugnaðar og áhugamaður, Sverrir Runólfsson. Hann var steinsmiður og honum hefir sjálfsagt verið það allra manna Ijósast hver áhrif það gæti haft til batnáðar í byggingamálum höfuðstaðarins, ef hjer væri hægt að framleiða kalk. Hann fýstist því mjög til þess að ríða á vaðið og gera tilraun um það hvernig kalksteinninn í Esjunni mundi reynast. En þar sem hann átti ekki fje til að leggja í þann kostnað, sótti hann um 650 ríkisdala styrk hjá stjórninni í þessu augnamiði.

Mógilsá

Mógilsá – loftmynd 1963.

Umsókn hans kom fyrir dómsmálaráðuneytið danska, en það fól þeim Jóni Hjaltalín landlækni og Birni Gunnlaugssyni yfirkennara að skoða kalknámuna í Esjunni og láta í ljós álit sitt um það hvort nokkurt gagn væri í henni. Þeir sendu aftur nákvæma lýsingu og teikningu af námasvæðinu sumarið 1864. Þetta sendi svo dómsmálaráðuneytið til „Den polytekniske Anstalt“ í Kaupmannahöfn og bað um umsögn þess. Tveir danskir jarðfræðingar voru fengnir til að láta álit sitt í ljós og þeirra úrskurður var sá, að þetta væri ekki annað en vitleysa, því að á Íslandi fyndist ekkert námakyns. Og að þessum úrskurði þeirra fengnum neitaði stjórnin að veita Sverri hinn umbeðna styrk.

Mógilsá

Gamli bærinn á Mógilsá í júlí 1910. Bærinn stendur undir brekkunni, fyrir framan hann er kálgarðurinn og grjóturðin sem braust fram úr gilinu árið 1866. Á myndinni er hægt að greina sex hús, hlaðan austast sem var timburhús þá, vestar eru tvö torfhús með timburgöflum sem hafa verið íveruhús og líklega fjós vestan við þau, enn vestar eru tvö hús hlaðin úr torfi og grjóti með torfþökum, fyrir framan vestasta húsið er stór haugur og hefur það hús líklega verið hesthús. Þýskir ferðamenn í heimsókn.

Lá svo þetta mál í þagnargildi um nær 10 ára skeið. En það var ekki gleymt. Og sumarið 1873 rjeðist, Egill Egilson kaupmaður í það að leigja námarjettindin í Mógilsárlandi fyrir 40 kr. gjald á ári. Og hinn 10. ágúst fór hann við annan mann upp að Mógilsá til að skoða námuna og búa undir kalkvinslu þar. Viku seinna hafði svo verið brotinn svo mikill kalksteinn þarna að Egill sendi bát uppeftir og hafði 10 hesta heilan dag til þess að flytja á þeim kalkstein úr námunni niður að bátnum. Jafnframt byrjaði hann á því að reisa kalkbrensluofn hjá Rauðará. Þessi ofn var alls ekki fullkominn, því að hann var aðeins gerður í tilraunaskyni. En 109 dagsverk fóru þó í það að hlaða hann, draga að grjót, sand og deigulmó og ennfremur fóru 14 dagsverk í brenslu.

Mógilsá

Mógilsá árið 1945. Austast eru íbúðarhúsin tvö, þá kemur tengibygging vestan við sem líklega var fjós á tímabili, síðan hlaða sem er með gaflinn í suður og svo bygging með skúrþaki vestan við hlöðuna sem hefur verið nýja fjósið. Vestar má sjá hesthúsið úr torfi og grjóti og enn vestar sér í timburskúr líklega frá Kalknámufélaginu.

Var þar brent mó, spýtum, hrísi og kolum og segir Egill sjálfur svo frá að tilraunin hafi tekist vel. Geta má þess, að við vinsluna var brent 113 hestum af mó (hver hestur kostaði þá 50 aura) og 1 1/2 tunnu af kolum. En ekki hefi jeg getað fundið hve mikið kalk hafðist upp úr þessu. Kostnaður við námugröftinn þetta ár nam samtals 682.00 krónum og var þar með talin 40 kr. leiga. Áreiðanlega hefir kalknámið ekki borgað sig, enda var hjer aðeins um byrjunartilraun að ræða. Þó hafði Egill trú á fyrirtækinu, en treystist ekki til að leggja í það meira fje og fyrirhöfn að sinni. Og næsta ár, 1874, var ekkert unnið í námunni, og ekkert kalk brent í ofninum hjá Rauðará.

Mógilsá

Mógilsá árið 1965, útihúsin orðin hrörleg og bíða þess að verða rifin, þakið hefur fokið af fjósinu og hlöðunni. Næst eru hús Kalknámufélagsins og fjær sér í íbúðarhús, starfsmannahús og tilraunastöð skógræktarinnar sem voru reist 1964.

Árið 1875 kom Alþing saman og þar bar Jón Hjaltalín landlæknir fram frumvarp um bann gegn útflutningi á kalksteinum o.fl. í sambandi við það komst hann þannig að orði: „Menn vita lítið um aðra fjallkalksteina hjer á landi en kalklagið í Helgustaðafjalli, því að þótt kalklag hafi fundist í Esjunni, þá er það svo þunt, að það nemur að breidd varla 1/5 hluta af því, sem Helgastaðanáman er, enda vita menn eigi hve langt Esjukalksteinninn gengur inn í fjallið. Það ber öllum saman um, að kalkið og silfurbergið í Helgustaðafjalli sje hið hreinasta kalk, er fundist geti nokkurs staðar“. Hann segir og að kalk það, sem komi frá Danmörku sje leirblandað og magurt og mikið af því mjölkalk sem innihaldi meir en helming þunga síns af vatni. Mundi því kalk úr Helgustaðanámu verða helmingi betra. Danska kalkið kosti 8 til 16 kr. tunnan og sje ókljúfandi fyrir almenning að byggja úr svo dýru steinlími.
Þá fer hann mörgum orðum um óheilnæmi og endingarleysi torfbæja. Í Austfjörðum standi þeir ekki nema svo sem 10 ár, vegna úrkomu, og væri munur fyrir fólk þar og annars staðar að geta bygt úr steini, auk þess sem þá fengist heilsusamlegar íbúðir.

Sandhóll

Sandhóll við Djúpagil.

Eins og sjá má á þessu ber hann ekkert oflof á kalknámuna í Esjunni. En að hann hafi haft trú ú því að landinu væri hagur að því, að náman væri unnin, sjest á því, að á þessu sama þingi bar hann fram þá breytingartillógu við fjárlögin, að Agli væri veittur 1000 kr. styrkur til kalkbrenslu, á 10 gr. fjárlaganna undir ýmislegum útgjöldum.
Landshöfðingi lagðist á móti þessu. Ekki væri það af því að hann vildi ekki styðja fyrirtækið, eins og sæist á því, að í fyrra hefði hann heitið Agli 400 kr. styrk, með því skilyrði að fyrirtækið hefði einhvern framgang, en svo væri ekki enn. Auk þess ætti slíkur styrkur að veitast af því fje, sem veitt væri í 15. gr. til vísindalegra og verklegra fyrirtækja. Það fór því svo að tillaga J. H. var feld.
Egill mun hafa sjeð það, að ekki var heppilegt að hafa kalkbrensluofninn inn hjá Rauðará og að betra mundi að hafa hann niður við höfnina, hjá læknum. Fór hann því til landshöfðingja og bað um ofurlitla lóð úr Arnarhólslandi við lækjarósinn undir kalkbrensluofn og stíg frá honum niður að sjónum, svo gott væri að koma kalksteininum þangað.

Mógilsá

Námusvæðið við Mógilsá.

Landshöfðingi gaf honum kost á þessu með þeim skilyrðum, að þessi blettur væri girtur með 2 álna hárri trjegirðingu, að jafnstór blettur væri sljettaður í túni sínu (Arnarhólstúni) og að Egill greiddi 8 kr. leigu á ári til landsjóðs fyrir afnot kalkofnsblettsins. Þetta fundust Agli harðir kostir, þegar þess var gætt að þessi blettur, sem hann bað um, var ekki tún, heldur alfaraleið allra þeirra, sem fóru yfir lækinn neðst, allur troðinn og auk þess skemdur af sjávargangi. Þó taldi hann sjer nauðugan einn kost að ganga að þessum skilyrðum því að hvergi í Reykjavík miindi tiltækilegt að hafa ofninn nema þarna hjá læknum, vegna þess að mikið vatn verður að nota við kalkvinslu. Mun hann og ef til vill hafa litið svo á, að hann fengi ríflegri styrk hjá landshöfðingja fyrir vikið. Að minsta kosti sótti hann svo um að fá 1000 króna styrk úr landsjóði. Landshöfðingi svaraði því, að hann hefði ekki umráð nema yfir helming þess fjár, sem ætlað væri til styrktar atvinnuvegum (á 15. gr. fjárlaganna). Stjórnin í Kaupmannahöfn hefði umráð hins helmingsins. Gaf hann þó enn vilyrði fyrir 400 kr., en sækja þyrfti um til dönsku stjórnarinnar að fá viðbót úr hinum hluta sjóðsins.

Mógilsá

Norðurhlið bæjarins á Mógilsá 1910, austast er timbur hlaðan með opi fyrir hey í norður, fyrir vestan koma tvö íveruhús, og síðan fjósið. Mikið grjót er fyrir aftan bæinn og má greina eina tóft þar.

Alt þetta ár gekk í þetta og var lítið sint um námagröftinn. Þó telur Egill útgjöld sín vegna námuvinslu hafa numið kr. 396.66 (ásamt leigu), en ekkert sjest um það hvernig brenslan hefur gengið. — Sjálfsagt hefur Egill ekki verið ánægður með hana, og allra síst með ofninn, því að nú fær hann Björn Guðmundsson múrara til þess að fara utan og kynna sjer hvernig nýtísku kalkbrensluofnar væri, og læra að brenna kalk.
Næsta vor (21. apríl) fer Egill enn fram á það við landshöfðingja að fá styrk, og fekk nú þessar 400 krónur. En hann þóttist þó, sem von var, engu nær, því að alt þetta fje fór til þess að girða blettinn hjá læknum, og sljetta jafnstóran blett í túni landshöfðingja.

Mógilsá

Mógilsá árið 1945, búið að byggja við íbúðarhúsið í austur og steypa hlöðu og fjós, vestast er torfhús sem líklega var hesthús og var byggt fyrir árið 1910 og enn vestar eru skúrbyggingar líklega hús Kalkfélagsins.

Landshöfðingi skrifaði þá Íslandsráðgjafanum í Kaupmannahöfn og lagði til að hann veitti fyrirtækinu álíka mikinn styrk af þeim hluta fjárveitingarinnar á 15. gr., sem hann hafði yfir að ráða. Ráðgjafinn neitaði að verða við því, eins og sjest á brjefi frá landshöfðingja til Egils, dags. 19. júní 1876.
Þar segir svo: „Ráðgjafinn hefur tjáð mjer, að hann verði að vera þeirrar skoðunar, að ef yfir höfuð ástæða skyldi vera til fyrir stjórnina að styðja fyrirtæki einstakra manna, önnur eins og þetta, eigi þó að minsta kosti ekki að veita styrkinn að gjöf handa hlutaðeiganda, sem ræðst í fyrirtækið, með því að engin trygging er fyrir því, að eigi fari svo, að alt fyrirtækið, sem styrkurinn á að efla, hætti innan skamms. Ráðgjafinn hefur því eigi þóst geta veitt neinn styrk í þessu skyni af sínum hluta í 15. gr. fjárlaganna, en af því að það, að minni hyggju, sje mjög æskilegt, að farið yrði að vinna áminsta kalksteinsnámu, segist ráðherrann aftur á móti ekki vera því mótfallinn, að jeg láti yður fá 400 kr. lán úr viðlagasjóði, gegn tryggilegu veði.“

Oddgeir Stephensen

Oddgeir Stephensen – 1812-1885.

Ekki er að sjá að Egill hafi þegið þetta lán. Mun hann hafa verið gramur út af þessum undirtektum, og aðallega vænt Oddgeir Stephensen um að hafa spilt fyrir sjer hjá ráðherranum. Þá um sumarið (1876) er samt hafist handa um smíði hins nýa kalkofns. Var dreginn að leir innan frá Elliðaám og sandur innan frá Eiði. Jafnframt er farið að vinna að því af kappi að brjóta kalkstein í Esjunni. Var keypt mikið af púðri á Eyrarbakka til þess að sprengja þar. En þá kom í ljós að kalksteinninn var ekki eins mikill og menn höíðu haldið og þraut brátt fyrsta og annan ganginn. Sá Egill sjer því vænst að tryggja sjer einnig námarjettindi í Kollafjarðarlandi og leigði þau fyrir 20 krónur á ári. Margir menn voru hafðir þarna í vinnu um sumarið. Kaupið var lágt, aðeins 2 krónur á dag, en þó hafði einn maður (Egill í Arabæ) 256 kr. upp úr sumrinu.
Eftir þetta sumar taldi Egill að hann hefði lagt fram kr. 4010.95 í kostnað við námagröftinn, en getur þess ekki að hann hafi haft neinar tekjur af honum. Og þetta sumar hefur ekkert kalk verið brent, heldur kalksteinninn brotinn, fluttur sjóveg til Reykjavíkur og átt að geymast þar þangað til nýi ofninn væri fullger, en hann varð það ekki fyr en á árinu 1877.

Kalkofninn

Kalkofninn neðan við Arnarhól.

Vegna þessara útgjalda, sem voru mikil á þeim dögum, bæði vegna þess að krónan var þá dýrari en nú, menn yfirleitt fátækari og hvergi lán að fá, sá Egill sitt óvænna að halda þannig áfram. En ekki var honum um það að gefast upp. Tókst honum þá að fá M. Smith konsúl í fjelag við sig þannig að Smith ætti fjórða hlutann í fyrirtækinu, en Egill þrjá fjórðu. Björn Guðmundsson vann að smíði kalkofnsins og varð það allmikið hús, turnlaga. Var ofninn vandaður að öllum frágangi og sem líkastur þeim ofnum, er notaðir voru erlendis. Sennilega hefur verið byrjað að brenna kalk í honum snemma á árinu 1877. Fer nú fyrirtækið fyrst að komast á rekspöl.

Reykjavík

Reykjavík 1887.

Kalksteinn var brotinn af kappi í Esjunni og eru þar allmargir menn við vinnu. — Kalksteinninn var sprengdur með púðri, því að dynamit þektist þá ekki. Var fyrst tekin fyrir kalkæð fyrir vestan ána og túnið á Mógilsá, en ganginn þraut brátt, eins og áður er sagt. Þá var kalkið sprengt í svonefndum Sandhól, upp af Djúpagili, en þar fór á sömu leið. Þá var farið að sprengja kalkstein fyrir ofan fossinn í Mógilsá. Var þetta miklu hærra í fjallinu og flutningar allir erfiðari fyrir vikið, Allur var kalksteinninn fluttur á hestum frá námunni niður að sjó. Var þaðbæði kvotlsamt og erfitt og reyndist dýrt. Og svo voru flutningar með bátum þaðan til Reykjavíkur. Voru hafðir tveir eða þrír bátar við flutningana, þar á meðal fröns loggorta, sem Egill átti.

Lækjargata 10

Eitt elsta íbúðarhús úr hlöðnu grágrýti í Reykjavík. Grjótið var fengð úr Skólavörðuholti, en kalkið til bindingar úr Esjunni. Húsið var síðar lengt til suðurs og kvistir gerðir árið 1904.

Til er yfirlit um reksturinn á þessu ári og hefur hann kostað kr. 5323-54 alls. En upp í það kemur selt kalk fyrir kr. 3778.89 og kalksteinn fyrir kr. 1200.00, eða samtals kr. 4978.89, svo að tap kr. 349.65 hefur orðið á rekstrinum. Kalkið var selt í smásölu til hinna og annara og kostaði hver tunna af því 6 krónur. Af því má sjá, að á þessu ári hafa fengist um 630 tunnur af kalki.

Bergstaðastræti 12

Á árunum 1880 til 1905 voru byggð allmörg steinhús og steinbæir í Reykjavík með tækni sem íslenskir steinsmiðir lærðu af byggingu Hegningarhússins við Skólavörðustíg og Alþingishússins. Sérstaða steinbæjanna lá í því að þeir voru að miklu leyti eftirlíking torfbæjanna sem þeir leystu af hólmi. Veggir voru úr hlöðnu grjóti án glugga, gaflar oftst úr timri með gluggum og þakið bárujárnsklætt. Er því oft haldið fram að steinbæirnir séu eina sér-reykvíska húsagerðin. Talið er að um 170 steinbæir hafi verið byggðir á þessum árum en að aðeins 20 þeirra standi enn.

Til er nafnlaus grein um kalknámið,- skrifuð á dönsku þetta ár. Mun hún hafa átt að birtast (og hefur máske birst) í einhverju dönsku blaði. Er þar veist að stjórninni og yfirvöldum fyrir það hvað þau hafi sýnt lítinn skilning á þessu nauðsynjamáli, og jafnframt sýnt því beran fjandskap. Þykir mjer líklegt að greinin sje runnin undan rifjum Egils. Er því þar og lýst hvaða vonir hann hefur bundið við þetta fyrirtæki um bættan húsakost í Reykjavík. Segir þar m.a. svo: — Í Reykjavík hafa verið bygð nokkur steinhús í sumar. Þar á meðal íbúðarhús fyrir almúgafólk, og má það furðulegt heita í því árferði sem nú er, því að hjer er mjög þröngt í búi vegna þess að fiskveiðarnar brugðust algjörlega. — Enginn efi er á því, að framvegis munu menn byggja hús sín hjer úr steini og kalki. En það er ekki gott að segja hve fljótt steinhúsin munu útrýma torfbæunum. En hvort sem þess verður langt eða skamt að bíða, þá mun sú breyting hafa hin heillavænlegustu áhrif á kjör allra, því að bætt húsakynni er eitt af aðalskilyrðunum fyrir því, að hjer geti orðið menningarlegar framfarir. —

Benedikt Gröndal

Benedikt Gröndal.

Þrátt fyrir dugnað og áhuga Egils stóð fyrirtæki þetta ekki nema í nokkur ár. Björn Kristjánsson, síðar bankastjóri, var einn af þeim, sem vann við kalknámið í Esju, og segir hann að það hafi lagst niður vegna þess að það borgaði sig ekki, og kennir þar um óheppilegum vinnubrögðum og of miklum flutningskostnaði. Hann segir að kalksteinninn hafi sprengst illa með púðrinu, og í stað þess að reiða hann á hestum ofan úr námunni, hefði verið betra og kostnaðarminna að hafa þráðbraut niður brekkuna og renna honum niður.

Benedikt Gröndal, bróðir Egils, sem átt hefur að vera þessum málum kunnugur, segir svo um kalkvinsluna: „Fyrir nokkrum árum var hjer kalkofn og átti að brenna þar kalkstein, sem fanst í Esjunni. Var þetta gert nokkra stund, en fórst fyrir bæði vegna þess, að flutningur frá námunni varð of dýr og erfiður, og svo vegna þess, að vatn úr læknum var haft í kalkið, en það vatn er óhreint, bæði úr tjörninni og svo blandað sjávarseltu og óhæfilegt til kalkgerðar. Varð kalkið þannig ónýtt, eða miklu verra en þurft hefði. En þetta vildu forsprakkarnir ekki heyra, þótt sagt væri við þá.“
Eitthvað hefur Gröndal sjálfsagt til síns máls um að vatnið úr læknum hafi skemt kalkið. En ekki hefur það verið altaf, því að sagt var að kalkið hefði verið betra og sterkara heldur en útlent kalk. Steinstjettin gamla í Bankastræti var límd saman með kalki úr Esjunni.

Trausti Ólafsson

Trausti Ólafsson í portinu við Hverfisgötu 44 Reykjavík, en þar bjó hann 1927 – 1934. Í bakhúsinu þar var Efnarannsóknastofa ríkisins til húsa til 1937 þar til að starfsemin var flutt í Atvinnudeild Háskólans. Trausti tók við forstöðumannastarfi á Rannsóknarstofunni er hann kom heim frá námi 1921. Efnarannsóknastofa ríkisins var stofnuð 1906 og var fyrsti forstöðumaður hennar Ásgeir Torfason Bjarnasonar skólastjóra í Ólafsdal. Ásgeir var fyrsti efnafræðingur landsins.

Þegar Bankastræti var breytt, var hún rifin upp, og brotnuðu þá steinarnir fyr en að samskeytin gæfu rig. Það sýnir að ekki hefur alt kalkið verið ljelegt. Og enn stendur steinhús Þorsteins Tómassonar í Lækjargötu 10. Það er límt saman með kalki úr Esjunni og hefur það ekki látið á sjá enn.
Löngu síðar, árin 1916—17, var gerð önnur tilraun með kalknám í Esjunni. Átti þá að brenna kalkið þar efra. „5 eða 6 menn unnu í 2 mánuði við að losa kalkstein úr ákveðnum gangi þar; var komið nokkuð djúpt niður í hann og var veggurinn því orðinn hár að ofanverðu. Verkamennirnir fundu nú upp á því að skjóta 30 dynamitpatrónum í einu í ganginn. Afleiðingin varð, að efri veggurinn hrundi ofan í ganginn og fylti hann. Fjelagið gafst svo upp við fyrirtækið.“

Nokkuð er af gulli í kalksteininum og kvarzgöngum, sem eru í sambandi við hann. Rannsakaði Trausti Ólafsson efnafræðingur sýnishorn úr námunni fyrir Björn Kristjánsson og reyndist gullmagnið í kalkganginum 10—19 grömm í tonni, en í kvarzinum nokkru meira eða alt að 26 gr. í tonni. En í gullnámum Suður-Afríku var þá meðaltal gullmagns 12 1/2 gramm í tonni.
Björn segir því: „Ef nú Egill Egilson hefði látið rannsaka kalksteininn fyrir gull þá hefði ágætlega borgað sig að vinna steininn þar á staðnum sem gullstein. Eins hefði sennilega vel borgað sig að brenna og leskja kalksteininn þar á staðnum og leysa gullið úr afganginum af steininum, sem ekki leskjaðist, með cyankalium.“ – Á.Ó.

Heimildir:
-Víkverji 28.08.1873, Kalk í Esjunni, bls. 82.
-Þjóðólfur 17.5.1877.
-Eimreiðin 01.01.1900, bls. 83.
-Ægir 01.06.1914, bls. 68.
-Tímarit iðnaðarmanna 01.04.1941, bls. 26-27.
-Heilbrigðistíðindi 01.07.1973, Kalkbrennsla, bls. 60-61.
-Lesbók Morgunblaðsins 23.10.1949, „Kalknám í Esjunni og Kalkbrensla í Reykjavík“, Árni Óla, bls. 461-464.
-Hndr. Lbs. 314 fol. Hndr. J. S. 133 fol., Reykjavík um aldamótin, Iðnsaga Íslands II, Alþtíð. 1875, Stjórnartíð, 1876.
-Fornleifaskráning vegna deiliskipulags við bæjarstæði Mógilsár, Borgarsögusafn Reykjavíkur 2019.

Esja

Esja.

Elliðakot

Jón Svanþórsson hefur verið óþreytandi að kanna gamlar götur og leiðir austan Reykjavíkur. Hér grandskoðar hann Elliðakotsmýrina.
dugguosmyri-1„Leiðin liggur frá Elliðakoti yfir Túnholtið og niður með stakan malarhól á hægri hönd sem Einbúi heitir og þaðan að Gudduósi (eins og Karl Norðdahl á Hólmi kallar hann, eða Dugguósi, eins og Tryggvi Einarsson í Miðdal vill kalla hann). Og síðan með honum um þurra bakka þar til komið er að vaði á ósnum. Í dag er vaðið nokkuð djúpt en grjót er í botni. Á vestari bakkanum er gata beint yfir mýrina (styttingur) sem hefur líkleg verið farin þegar mýrin var þurr. Ef ekki var fært yfir styttinginn hefur verið farið niður bakkana (nú eru tveir skurðir á leiðinni) og er þá komið á jarðbrú og sveigir þá leiðin frá bakkanum og stefnir vestur yfir mýrirna, en brúin verðu ógreinileg þegar þegar komið er að gamla farveginum á Augnlæk en ekki er rennsli í honum því hann rennur nú um skurðina sem áður var getið. Gatan liggur svo úr mýrinni um vatnsrof og á götur sem einnig voru dugguosmyri-2bæjargötur að Vilborgarkoti sunnan og vestan við Nónás á Hofmannaflatir. Leið liggur af götunni til vinstri á mill Litla-Nónás og ónefndar hæðar niður að landi sem Guðrún Jacobsen átti og kallaði Dal og þaðan á þjóðveg (frá 1885-7) á Heiðartagli norðan við brúna sem sett var á Hólmsá 1887(Rauðubrú). Gatan gæti hafa verið vagnavegur eftir breidd hans að dæma.
Ef ekki er farið yfir Gudduós á vaðinu er haldið áfram niður bakkann (nú eru yfir tvo skurði að fara) þar til komið er að jarðvegsbrú á læknum. Þegar yfir er komið er jarðbrú stuttan spöl og síðan er komið að leiðinni frá vaðinu. Götur halda áfram í norður að Augnlæk þar sem er komið á styttinginn og er þá beygt til vinstri og farið með gróf sem hefur hugsanlega verið stungið upp í jarðvegsbrýrnar (er líka við syðri götuna). Og þá er komið á götuna sem liggur að Hofmannaflötum.“

Kveðja Jón Svanþórsson.
P.s. Sendi myndir og kort í öðru skeyti.

Elliðakot

Elliðakot 2021.