Tag Archive for: Reykjavík

Apótekarasteinn

Sunnan við húsið Þingholtsstræti 9 á safnlóð Árbæjarsafns er grágrýtissteinn ættaður úr Örfirisey, kallaður „Apótekarasteinn„.
ApótekarasteinnSteinninn lá við sjávarmálið og var á góðri leið með að eyðileggjast þegar hann var fluttur á safnið árið 1963. Steinninn dregur nafn sitt af apótekarakeri sem er dregið utan um ártal, en vafalaust tengist hann verslunarstaðnum í Örfirisey á 18. öld. Þekkt var að danskir verslunarstjórar hjuggu nöfn í steinana á eyjunni.
Lýsing: Steinninn er 1,6 x 1,5 m að stærð og á hann er rist einföld mynd af keri, 60 x 63 cm og á því miðju er fangamarkið HCB og ártalið 1747. Letrið er orðið mjög óljóst.
Sem fyrr segir eru fjölmörg fangamörk og ártöl klöppuð í klappirnar í Örfirisey, á bak við olíugeymana, sem þar eru.

Apótekarsteinn

Apótekarasteinninn í Árbæjarsafni.

Eldgos

Í Bæjarblaðinu, útgefnu af Stapaprenti, árið 1991 er fjallað um mögulegan „Suðurlandsskjálfta árið 2020“ sem og „Drauma og fyrirboða um náttúruhamfarir á Reykjanesi„:

Sprunga

Sprunga á Reykjanesi.

„Eigum við á suðvesturhorninu yfir höfði okkar það gífurlegar náttúruhamfarir, að Reykjanesskaginn klofni frá landinu? Allir hafa einhvern tímann heyrt minnst á hinn svokallaða Suðurlandsskjálfta; stóra jarðskálftann, sem talið er að snarpur og öflugur, að af hljótist þær gífurlegu hamfarir sem að ofan greinir. Og það sem meira er; stóri skjálftinn gæti venð á næsta leiti.
Við skulum til fróðleiks líta örlítið á jarðfræðilega gerð Reykjanesskagans annars vegar og hins vegar á drauma og fyrirboða um stóra skjálftann.

Glöggt samband á milll sprungureina og jarðskjálfta

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – sprungureinar.

Sagt er að hugsanlegur stórskjálfti muni kljúfa Reykjanesskagann austan frá Grindavík að Hafnarfirði en þar liggur stór sprungurein. Eins er líklegt að skaginn klofni frá Önglabrjótsnefi, skammt norður af Reykjanestánni, en þar liggur sprungurein í Norðaustur til Suðvesturs, og glöggt samband er á milli þessara sprungureina og jarðskjálfta á Reykjanesi. Þegar skoðað er jarðfræðikort af svæðinu kemur þetta betur í ljós. Telja má líklegt að þessi gliðnun muni frekar gerast á löngum tíma en í einu vettfangi.

Sprungur

Hraunsprungur millum Vatnsleysustrandar og Grindavíkur.

Draumspakt fólk segir hins vegar að þetta gerist í einu vettvangi, fyrirvaralaust, eins og fram kemur á eftir.
Á Reykjanesi eru sex aðskildar sprungureinar, en ein þeirra er hin svokallaða Eldeyjarrein. Hún liggur norðan Sandvíkur og nær norðaustur undir Vogaheiði. Þetta er norðurendi reinar sem teygir sig suðvestur fyrir Eldey. Miðja hennar er að líkindum á Eldeyjarsvæðinu. Engar gosmyndarnir hafa fylgt þessari rein uppi á landi, en oft hefur gosið á henni neðansjávar undir Reykjanesi, nú síðast í haust. Í lok októbermánaðar mældist gífurleg jarðskjálftahrina u.þ.b. 150 kílómetra suðvestur af Reykjanestá. Stóð hrinan yfir í sólarhring og mældust skjálftarnir allt að 4,8 stig á Richterskvarða.

Jarðskjálftar

Jarðskálftasvæði Reykjanesskagans.

„Þetta er það mesta sem við höfum sé í áratugi“, sagði Ragnar Stefánsson, jarðeðlisfræðingur, í samtali við DV þann 2. nóvember 1990. Önnur óvenjulega kröftug jarðskjálftahrina á Reykjaneshryggnum stóð yfir dagana 8. – 9. september síðastliðinn.

Grindavík

Sprunga í íþróttahúsinu í Grindavík 2023.

Þeir skjálftar áttu upptök sín um 100 kílómetra suðvestur af Reykjanestá. Sterkustu kippirnir mældust 5,5 – 6 stig. Svipað gerðist í maí 1989 á stað milli hinna tveggja framangreindra eða á 900 – 1000 metra dýpi um 500 kílómetra frá Íslandi Þeir kippir mældust 5 stig á Richter. Þessar þrjár óvenjukröftugu jarðskjálftahrinur hafa því mældst í beinni línu suðvestur af landinu á rúmlega 800 kílómetra belti út frá Reykjanesskaga, og þessi virkni færist nær og nær landi.
Fjórða og síðasta hrinan mældist síðan um miðjan nóvember í aðeins 50 kílómetra fjarlægð frá landi. Sterkustu kippirnir í þeirri hrinu mældust 4,5 á Richter.

Samfelld sprungubelti

Karlsgígurinn

Stampahraunið á Reykjanesi.

Lítum aðeins á sprungukerfin á Reykianesskaganum. Þar kemur ýmislegt athyglisvert í ljós sem styður kenninguna um gliðnunina. Í skýrslu eftir Hauk Jóhannesson jarðfræðing segir: NA-SV sprungureinarnar eru mest áberandi á skaganum og ráða mestu um jarðfræðilega gerð hans. Þegar betur er að gáð, koma í ljós aðrar sprungur sem einnig gegna þýðingarmiklu hlutverki í sama tilliti.

Grindavík

Grindavík – gjár, sprungur og misgengi.

Þetta eru sprungur sem stefna norður – suður og eru yfirleitt lítið áberandi. Þær raða sér saman í stuttar reinar sem ekki eru skýrt afmarkaðar en skera sig þó nokkuð úr NA-SV-sprungunum. Þær eru tiltölulega stuttar eins og áður er nefnt, um 5-10 km. Þessar N-S reinar virðast vera framhald af þeim sprungum sem Suðurlandsskjálftarnir eiga upptök sín í og má e.t.v. líta svo á að þessar sprungur myndi nær samrellt belti frá Suðurlandsundirlendi og út á Reykjanes, þótt ekki sjáist sprungur á því öllu.
Þegar dreifíng N-S sprunganna er borin saman við dreifingu jarðskjálfta á Reykjanesi, kemur mjög glöggt samband í íjós. N-S sprungurnar falla nær alveg saman við skjálfta á Reykjanesi á árabilinu 1971-75. Skjálftarnir raða sér á mjótt belti sem liggur nær austur-vestur þvert á NA-SV reinarnar. Af þessu má draga þá ályktun að N-S brotabeltið sé í orsakasambandi við skjálftana.

Sprungur

Hraunsprunga Við Kaldársel.

Á Suðurlandsundirlendi er einkar glöggt samband milli „-Sprungureinanna og jarðskjálfta. Slíkt samband er einnig hægt að sjá á Reykjanesi. Í skjálftahrinu sem varð á tímabilinu 3. ágúst til 13. september 1972 yst á Reykjanesi, urðu flestir skjálftanna á Reykianesrein en þar sem NS-sprungurein sker hana austan á Reykjanestánni leiddu skálftarnir út í N-S sprungurnar.
Reykjanesskaginn er hluti af sprungukerfi, sem liggur um Atlandshaf endilangt og tengir saman svonefndan Reykjaneshrygg, þar sem áðurnefndir skálftar voru í haust, og gosbelti Íslands. Sprungureinarnar einkennast af opnum sprungum og gjám. Þær eru mislangar, 25 – 50 km og yfirleitt 5-7 km. breiðar. Svæðið er því allt „sundurskorið“ og sprungubeltin eru stærst þar sem talið er að Reykjanesskaginn muni klofna frá meginlandinu.
Þá er ónefnd ein sprungurein, sem veita ber athygli með hliðsjón af draumafrásögnunum hér til hliðar. Það er hin svonefnda Krýsuvíkur – Trölladyngjurein. Reinin er mjög löng, eða a.m.k. 60 km og nær allt upp í Mosfellssveit.

Draumar og fyrirboðar -um náttúruhamfarir á Reykjanesi

Jarðfræði

Jarðfræði Reykjaness.

Fjölmargt fólk með dulskyggnigáfu hefur fengið vitranir eða draumfarir um stórbrotnar náttúruhamfarir á Reykjanesi og benda draumarnir allir í sömu átt.

Í bókinni Framtíðarsýnir sjáenda, sem kom út árið l987, er sérstakur kafli um þetta. Þar skýra sjáendur frá upplýsingum sem þeim hefur vitrast í draumi, og það er einkar athyglisvert hvað draumum fólksins ber saman.

Náttúruhamfarir árið 2020

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – hraun.

Draumspakur maður og dulskyggn með forspárgáfu, segir frá draumi sínum, sem er á þá leið að farið var með hann í flugferð “ um svæðið næst höfuðborginni“. Honum var sagt að þáverandi tímatal væri 2020 og honum voru sýndar breytingarnar sem orðnar voru. Hið helsta úr lýsingunni var það, að Hafnarfjörður var kominn undir hraun að miklu leyti.

Sprunga

Hraunsprunga á Reykjanesskaga.

Byggðin á Seltjarnarnesinu öllu var eydd og gamli miðbær Reykjavíkur sokkinn í sæ. Þéttasta byggðin átti hins vegar að vera kominn í Mosfellsdalinn.
Reykjanesið klofnar frá meginhluta landsins. Annar maður varð fyrir svipaðri reynslu í draumsvefni. Hann segir svo frá:
„Draumurinn var á þá lund, að ég þóttist sjá landabréf af Íslandi, sem var svarthvítt og flatt að öðru leyti en því, að Reykjanesið var marglitt og upphleypt eins og plastkortin líta út.
Þetta var reyndar í fyrsta sinn að ég sá upphleypt kort, þ.e. í draumnum. Mörkin milli litaða svæðisins og þess svarthvíta á kortinu voru lína sem lá í suðvestur-norðaustur og lá nokkurn veginn með Kleifarvatni endilöngu og síðan í norður í átt til Straumsvíkur. Eftir því sem ég heyrði fleiri frásagnir af draumum varðandi þetta mál allt, þýddi ég drauminn á þann veg að Reykjanesið muni klofna frá meginhluta landsins í stórbrotnum náttúruhamförum“. Sami aðili segir að atburðarrásin verði þannig: „Eftir Vestmannaeyjagosið verður gos í Kröflu. Þar á eftir verður svo Suðurlandsskjálfti og Kötlugos. Nokkru síðar verður gos í Bláfjöllum“.

Grindavík horfið með öllu

Grindavík

Grindavík – loftmynd.

Kona sem er skyggn sá Reykjavík og nágrenni í framtíðarsýn. Henni virtist Reykjanesið hafa orðið fyrir stórfelldri jarðfræðilegri röskun.

Reykjavík

Reykjavík og Seltjanarnes.

Hún segist ekki geta fullyrt hvenær þetta verði, né hvort breytingarnar gerist með snökkum hætt eða smám saman. Frásögn hennar er á þessa leið: „Stór hluti Reykjavíkur er kominn undir sjó. Öskjuhlíðin og Langholtið eru óbyggðar eyjar.
Valhúsarhæðin og ýmsir aðrir staðir standa líkt og sker upp úr sjónum. Það er byggð í útjaðri Breiðholts, en þó fyrst og fremst við Úlfarsfell, upp Mosfellsdalinn og meðfram Kjalarnesinu. Égsé að það hafa orðið miklar jarðhræringar og eldsumbrot á Bláfjallasvæðinu. Það leggur hraunstraum niður Elliðaárdalinn. Hafnarfjörður er í eyði og Grindavík hefur horfið með öll. Það er engu líkara en að Reykjanesið hafi færst til í gífurlegum náttúruhamförum“.

Gerist fyrirvaralaust – stutt í atburðinn

Reykjavíkursvæðið

Reykjavíkursvæðið – Viðeyjargígur.

Ung kona sem er berdreyminn og hefur margsinnis orðið fyrir sálrænum viðburðum, segir frá reynslu sinni á þennan veg:
„Áður en Vestmannaeyjagosið varð dreymdi mig það í þrjár nætur samfellt. Síðustu nóttina sá ég hvernig fólkið flúði í átt að bryggjunni og þegar ég vaknaði um morguninn leið mér vel því ég vissi að enginn hafði farist.

Eldgos

Eldgos ofan Grindavíkur.

Skömmu síðar var ég á ferð um landið og var þá bent á þá staði þar sem yrðu eldsumbrot. Ég vissi að eftir Vestmannaeyjagosið yrði gos í Kröflu og því næst í Heklu. Þá verður einnig mikið eldgos nálægt Reykjavík.
Rúmlega tvítug bjó ég í Efra-Breiðholti og dreymdi á þennan draum: Mér rannst ég rísa úr rúmi mínu og ganga fram í stofu, að stofuglugganum. Þá sá ég sjón sem ég gleymi ekki á meðan ég lifi. Ég sá fólk flýja skelfingu lostið í átt að Mosfellssveit. Í áttina að Hafnarfirði var eldur og óhugnanlegur reykjamökkur, sem færðist nær með braki og brestum. Vegna þess að flest af því sem mig hefur dreymt um framtíðina hefur komið fram, varð ég mjög óttaslegin vegna þessa draums. Í margar vikur á eftir hafði ég alltaf til taks það allra nauðsynlegasta, ef til þess kæmi að ég þyrfti að flýja.
Í nóvember árið 1987 dreymdi mig aftur Reykjavíkurgosið. Í Elliðaám sá ég glóandi hraunstraum. Þetta gerist að nóttu til án nokkurs fyrirvara. Rafmagnið fer og og ég skynjaði hvernig undarleg og óþægileg lykt mengaði andrúmsloftið. Margir verða að flýja heimili sín. Mér finnst vera stutt í þennan atburð“.

Suðurlandsskjálftinn 2000

Afleiðingar Suðurlandsskjálftans 17. júní árið 2000.

Í Árbók VFÍ/TFÍ árið 2001 er sagt frá Suðurlandskjálftunum 17. júní og 21. júní 2000:
„Suðurlandsskjálftarnir 17. júní og 21. júní 2000.

Jarðskjálfti

Suðurlandsskjálftinn árið 2000.

Í júní 2000 urðu tveir stórir jarðskjálftar á Suðurlandi með upptök nálægt Þjórsárbrú. Fyrri skjálftinn var 17. júní, kl. 15:40. Hann var af stærðinni 6,6 (Mw) með upptök nálægt Skammbeinsstöðum í Holtum (63,97°N og 20,36°V) um 16 km norðaustur af brúarstæðinu. Upptakadýpi var um 6,3 km. Jarðskjálftinn var svokallaður hægri handar sniðgengisskjálfti og mátti sjá merki um yfirborðssprungur á um 20 km löngum kafla.“

Ekki er minnst á svipuðan jarðskjálfta undir Sveifluhálsi við Kleifarvatn nokkrum mínútum á eftir framangreindum skjálfta.

„Seinni jarðskjálftinn var 21. júní, kl. 00:51. Þessi skjálfti var af stærðinni 6,5 (Mw) og með upptök rétt sunnan við Hestfjall á Skeiðum (63,97° N og 20,71° V) um 5 km norðvestur af brúarstæðinu. Upptakadýpi skjálftans var 5,1 km. Jarðskjálftinn var eins og sá fyrri hægri handar sniðgengisskjálfti og mátti sjá merki um yfirborðssprungur á um 23 km löngum kafla.“

Heimildir:
-Bæjarblaðið. 4. tbl. 30.01.1991, Suðurlandsskjálfti árið 2020? og Draumar og fyrirboðar um náttúruhamfarir á Reykjanesi, bls. 10-11.
-Árbók VFÍ/TFÍ, 1. tbl. 01.06.2001, Suðurlandskjálftarnir 17. júní og 21. júní 2000, bls. 302.

Viðeyjareldstöðin

Viðeyjareldstöðin.

Landnám

Í ritinu „Landnám Ingólfs – Nýtt safn til sögu þess“, I. bindi, skrifar Björn Þorsteinsson m.a. eftirfarandi um Landnám Ingólfs.

Ritun Landnámu
Ari fróði setti saman Íslendingabók snemma á 12. öld, en hún er höfuðritheimild um atburði hér norður frá fyrir 1100; „Ísland byggðist fyrst úr Noregi á dögum Haralds hins hárfagra Hálfdánarsonar hins svarta í þann tíð… er Ívar Ragnarsson loðbrókar lét drepa Eadmund hinn helga Englakonung. En það var sjö tigum vetra hinn níunda hundraðs eftir burð Krists að því er ritað er í sögu hans.

Landnáma

Landnáma – endurgerð.

Ingólfur hét maður norrænn, er sannlega er sagt að færi fyrst þaðan til Íslands, þá er Haraldur hinn hárfagri var 16 vetra gamall, en í annað sinn fám vetrum síðar. Hann byggði suður í Reykjavík. Þar er Ingólfshöfði kallaður fyrir austan Minþakseyri, sem hann kom fyrst á land, en þar Ingólfsfell fyrir vestan Ölfossá, er hann lagði sína eigu á síðan.“
Svo farast Ara orð í 1. kafla Íslendingabókar, og er þetta marktækasta frásögnin, sem við eigum um upphaf Íslandsbyggðar, en hún var skrifuð um 250 árum eftir að atburðirnir áttu að hafa gerst.
Um svipað leyti og Ari fróði safnaði efni í Íslendingabók um 1100 varð til stofninn að Landnámu, sagnasafni um upphaf fólks og byggðar á íslandi. Þar greinir frá um 430 svonefndum landnámsmönnum, forystumönnum um landnám á íslandi og kynkvíslum þeirra, en haukur lögmaður, sem setti saman Hauksbók, síðustu miðaldagerð bókarinnar snemma á 13. öld, segir hana ritaða „eftir því sem fróðir menn hafa skrifað, fyrst Ari prestur hinn fróði Þorgilsson og Kolskeggur hinn vitri. En þessa bók ritaði ég, Haukur Erlendsson, eftir þeirri bók, sem ritað hafði Sturla lögmaður, hinn fróðasti maður, og eftir þeirri bók annarri, er ritað hafði Styrmir hinn fróði, og hafði ég það úr hvorri, sem framar greindi, en mikill þorri var þar, er þær sögðu eins báðar; og því er það ekki að undra þó að þessi Landnámabók sé lengri en nokkur önnur“ (Í.fr.I, 395-97).
Þetta er það helsta sem vitað er um ritun Landnámu.

Íslendingabók

Blaðsíða úr Íslendingabók.

Ari fróði (d. 1148) og Kolskeggur vitri skrifuðu fyrstu gerðina, Frumlandnámu, snemma á 12. öld, en hún er glötuð.
Styrmir Kárason fróði (d. 1245) prestur og lögsögumaður, síðast príor í Viðey og um skeið prestur í Reykholti hjá Snorra Sturlusyni, skrifaði aðra gerð, Styrmisbók, um 1220, en hún er einnig glötuð.
Sturla Þórðarson sagnaritari (d. 1284) skrifaði þriðju gerðina, Sturlubók, líklega um 1270. Hún er sæmilega varðveitt í afritum.
Haukur Erlendsson (d. 1334) skrifaði fjórðu gerðina, hauksbók, um 1310, og er hún varðveitt í eiginhandarriti.
Landnáma hefur verið vinsæl bók og einhverjar fleiri gerðir hennar hafa verið til (SR.: S.L. 68-84).
Af varðveittum gerðum bókarinnar sést að afritarar hafa talið sér heimilt að breyta forritum sínum bæði með viðbótum, breytingum á efnisröð og jafnvel textanum sjálfum.
Handrit líttskaddað, af stofni Styrmisbókar, hefur verið til frá 17. öld, og var þá afritað og aukið eftir öðrum Landnámugerðum af Þórði Jónssyni prófasti í Hítardal (d. 1670), og þá varð til Þórðarbók. Þar eru í eftirmála taldar hvatirnar að ritun Landnámu, og er klausan ýmist eignuð Styrmi fróða eða talin úr Frumlandnámu og verður það hér haft fyrir satt.
Samkvæmt frásögn Landnámu var henni ætlað að vera:
1) varnarrit gegn meintu illmæli erlendra manna,
2) ættfræðirit,
3) almennt fræðirit um upphaf byggða á landinu.
Landnáma var m.ö.o. skrifuð til fróðleiks og af metnaðar hvötum eins og öll önnur saga, en metnaður og pólitík hafa lengi verið samtvinnaðir þættir í samskiptum manna. Mikilvægasti fróðleikurinn fjallaði um upphafið; frumhöfundur Landnámu segist ætla að grafast fyrir um upphaf ætta, byggða og skipanir, því að sá sé háttur allra vitra þjóða að vilja vita um upphaf sitt.
Landnáma er heildstætt safn sagna og skáldskapar og sett á skrá snemma á 12. öld, af því að landslýðurinn var orðinn tíundarskyldur biskupum, sem þurftu að vita skil á byggðum landsins. Oft er frásögn ritsins lítið annað en eyðufylling, og leikur að örnefnum eins og Þórhallur Vildmundarson hefur fjallað um manna rækilegast:
„Þorgeir hét maður, er nam Þorgeirsfjörð og Hvalvatnsfjörð“ (Í.fr.I, 272).
Sagnir Landnámu eru margar sannanlegu skáldskapur, og ýmsir nafngreindir landnámsmenn hafa líklega aldrei verið til. Samt sem áður er bókin storkandi heimild um sjálft landnámið og þ.á.m. um hann Ingólf landnámsmann.

Ingólfur landnámsmaður

Landnám

Ingólfur og fjölskylda í Reykjavík.

Upphafleg gerð Landnámu er löngu glötuð, og á 13. öld tók Sturla Þórðarson sér fyrir hendur að breyta þáverandi gerð bókarinnar í inngangsrit að sögu Íslendinga með sérstökum kafla um fund landsins (J.Jóh. G.L.b. 70). Fram á hans daga hafði bókin hafist á Sunnlendingafjórðungi, landnámi Þrasa í Skógum undir Eyjafjöllum, og verið rakin landnámin sólarsinnis umhverfis landið. Landnáma Sturlu hefst hins vegar á byggð Ingólfs í Reykjavík, þegar landfundasögunni sleppir. Við breytinguna hækkaði hagur landnámshetjunnar Ingólfs sem breiðir úr sér við upphaf og endi Sturlubókar.
Þórðarbók Landnámu heldur fyrri efnisskipan, en þar hefst frásögnin af Landnámu vestan Ölfusár og Sogs á þætt um Ingólf landnámsmann, eins og þekkt er.
Íslendingabók Ara er varðveitt í annarri útgáfu endurskoðaðri, ef svo má að orði komast. Þar fullyrðir hann að Ingólfur hafi farið fyrstur manna úr Noregi til Íslands, lagt undir sig og ætt sína ákveðin héruð á tilgreindu aldursári Haralds hárfagra eða um 870, og nefnir örnefni frásögninni til styrktar. Ari segir ekki að Ingólfur hafi verið fyrsti landneminn á Íslandi, heldur fór hann fyrstur frá Noregi til Íslands. Það ríður því ekki í bág við frásögn Ara, þótt fólk af Bretlandseyjum hafi numið hér land á undan honum.
Landnámsöld er tíminn frá 850-950. Fólksflutningarnir til landsins hafa verið dræmir fyrstu áratugina, eða fram undir 890, en glæðst þá og fjara síðan út eftir 930.
Ingólfsfrásögnina og tímasetningu hennar hafði Ari eftir Teiti Ísleifssyni biskups (d. um 1110), en hann var manna spakastur; Þorkeli föðurbróður sínum, „er langt mundi fram“, og Þuríði Snorradóttur goða (d. 1112), „er var margspök og óljúgfróð“. Þessir vinir og vandamenn Ara fróða og Skálhyltingar hafa talið Ingólf einn helsta brautryðjanda landnámsins, af því að upphaf forréttindastéttar og þingaskipunar varð til í landnámi hans.
Á dögum Landnámshöfunda hefur ýmsum sögnum farið af fyrstu landnemunum í héruðum, en Ingólfur vann forsætið meðal þeirra af því að nafn hans var tengt stjórnskipaninni og afkomendur hans nefndust allsherjargoðar og settu alþingi árlega. Sagan er tæki til þess að skapa hefð og reglu, og í þá veru unnu Ari fróði og félagar hans. Alþingi og stjórnskipanin hefur einkum orðið til þess að halda á loft minningum um hálfgleymda söguhetju (Íb. 3. kap; J.Jóh.I, 53-59).

Landnámið

Landnám

Landnámið.

Landnáma greinir að Ingólfur hafi kannað sunnanvert landið í þrjú ár. Fyrsta árið hafði hann bækistöð við Ingólfshöfða, annað árið við Hjörleifshöfða, þriðja undir Ingólfsfjalli, og á fjórða ári fluttist hann til Reykjavíkur.
Innnesin buðu Ingólfi og félögum hans allsnægtaborð á íslenskan mælikvarða. Þar var mikið undirlendi, varp og akureyjar, svo hægt væri að rækta bygg og brugga öl, en bygg er samstofna orðinu byggð; þar sem ekki var hægt að rækta bygg var óbyggilegt. Eyjar fyrir landi voru sjálfgirt akurlönd, sífrjó af fugladriti og sjórinn varði þær fyrir næturfrosti, haust og vor. Við Reykjavík voru laxár, veiðivötn, selalátur og fiskigengd upp að landsteinum, hvalagöngur inn í Hvalfjörð, fuglabjörg ekki langt undan og talsverður reki. Þá voru heitar laugar til baða og þvotta, og sjálf nesin voru allmiklu stærri að fornu en þau eru í dag, og var þægilegt að gæta búgjár bæði fyrir vargi og víðáttu meðan það var fátt; hlaða mátti garða yfir eyði og hafa fénað úti í Viðey. Innnesin tóku vel á móti gestum sínum og voru örlát, og beitilandið á Reykjanesskaga brást aldrei. Bændur, sem komu úr barrskógaþykknum Skandinavíu hafa verið hugfangnir af björtu og grösugu birkiskógunum íslensku. Þar voru svo góð beitilönd, að sumir þeirra vissu brátt ekki sauða sinna tal, eins og sagt var um Hafur-Björn Gnúpsson landnámsmann í Grindavík.

Landnám

Búfé.

Búfé landnemanna fjölgaði ört, og er landið var ósnortið, graslendi rúmlega helmingi stærra en það er nú og árferði allgott. Ef 30% fæddra lamba eru gimbrar, verða 100 ær 220 á 3 árum, en 340.000 á 31 ári. Ef 20% fæddra lamba eru gimbrar, verða 100 ær 207 á 4 árum, en 304.000 á 44 árum. þessar tölur sýna að á skömmum tíma hafa landnemarnir getað haft þann fjölda fjár sem þeir vildu, og Íslendingar hafa snemma orðið önnum kafnir við ullariðnað. Vaðmál virðist hafa verið verðmæt útflutningsvara á 10. öld, 6 álnir, um 3 m af algengri tegund hafa gengið á eyri silfurs, um 27 gr., en fyrir 48 álnir fékkst aðeins 1 silfureyrir, þegar komið var fram á 12. öld og ullariðnaður var hafi í Vestur-Evrópu.
Ari segir að Ingólfur hafi lagt eign sína á allt land vestan Ölfusár, og Landnámabækurnar endurtaka þá staðhæfingu með tilbrigðum. Þinglýsing á þeirri einkaeign hefur aldrei verið til, en landnemum á Íslandi hefur auðvitað verið kappsmál að ná undir sig og vildarlið sitt sem stærstum og kostbestum héruðum, og það varð ekki gert nema með mannafla. Landnám Ingólfs vestan Ölfossár og Sogs og sunnan Hvalfjarðar var skýrt afmörkuð landfræðileg heild milli höfuðhéraða Vestur- og Suðurlands og kostasæl mjög með góðri skipaleið undan ströndum Faxaflóa, en aðrir hlutar landnámsins skiptu ekki máli, af því að þeir hlutu að verða fámenn jaðarsvæði. Hvaða serimoníur sem Ingólfur og félagar hans hafi haft í frammi, þegar þeir ákváðu bústað sinn, var þeim mikilvægara að fá fólk, trausta félaga, til þess að setjast að í héraðinu. Landnámabækurnar greina á annan tug dæma um landnámsmenn, sem voru hraktir úr landnámi sínu af ofbeldismönnum, sem síðar komu að því að hinir höfðu einangrast. landhelgun, hvernig sem hún var framkvæmd, dugði ekki til þess að eignast land, ef mannafla skorti. Landnemahóparnir voru aðeins ein eða tvær skipshafnir, nokkrir tugir karla og kvenna, og gátu ekki lagt undir sig svæði í grennd byggðra héraða nema með samþykki nágrannanna. Nágrennisvald höfðingja hefur snemma tekið talsvert út fyrir heimasveitina.
Engum sögum fer af því, hvernig fréttir bárust austur yfir hafið um nýja landvinninga, sem engin styrjöld fylgdi, en frændur og vinir sigldu í kjölfar frumherjanna og röðuðu sér á ströndina frá Reykjanesi og inn í Hvalfjörð.

Landnámsliðið: Frændur og venslamenn

Landnám

Landnám Ingólfs – Safn til sögu þess, I. bindi.

Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar, sem fellur úr Vífilsstaðavatni í Arnarnesvog, og Hvassahraun eða nærfellt allan hinn gamla Álftaneshrepp og núverandi; Bessastaðahrepp, Garðabæ og Hafnarfjörð. Ásbjörn bjó á Skúlastöðum, en þeir eru óþekktir og hafa sennilega verið upphafið að stórbýlinu Görðum á Álftanesi og nafnbreyting orðið við flutninga.
Vífill, þræll Ingólfs hlaut frelsi og land á Vífilstóftum. Þetta er merkileg saga um fyrsta kotið á Íslandi. Bærinn hefur líklega legið í eyði á elsta stigi Landnámuritunar, en byggst aftur undir nafninu Vífilsstaðir seint á 13. öld, en svo nefnist hann í Hauksbók (Í.fr. I, 48).
Steinunn gamla, frændkona Ingólfs, leitaði á fund hans, þegar hún var orðin ekkja eftir víking á Bretlandseyjum. Hann „bauðst að gefa henni Rosmhvalanes (Rostunganes) allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf honum heklu flekkótta, enska og vildi kaup kalla. Henni þótti það óhættara við riftingum“ (Mb. 28). Heklan hefur verið tískukápa og dýrust flík, sem Íslendingur hefur borið. Í henni sprangaði fyrsti bóndinn í Reykjavík um tilvonandi Austurvöll, og galt fyrir gripinn; Vatnsleysuströnd, Njarðvíkur báðar, Keflavík, landið undir Keflavíkurflugvelli og Miðneshreppa. þetta mun hafa orðið með þekktustu jarðakaupum á Íslandi.

Landnám

Landnám Ingólfs – skipting.

Herjólfur að nafni, frændi og fóstbróðir Ingólfs, byggði að sögn Landnámu syðst á Reykjanesi í Vogi eða núverandi Hafnahrepp og hefur búið í Gamla-Kirkjuvogi. Þar eru ókannaðar rústir sunnan við Ósabotna. Sonarsonur hans, Herjólfur yngri, bjó á Drepstokki (Rekstokki) á Eyrarbakka og sigldi til Grænlands og byggði á Herjólfsnesi syðst á landinu. Herjólfur er sagður fóstbróðir Ingólfs í melabók og Hauksbók, en Sturla Þórðarson sviptir hann titlinum og setur hann á Hjörleif Hróðmarsson, sem hann hafði miklar mætur á. Hér liggur beint við að barna söguna og gera Herjólf að farmanni, fá honum skip og senda hann til landnáms með Ingólfi, sem gerði hann að útverði landnámsins og flotaforingja suður í Höfnum. Þar er Þórshöfn gegnt Kirkjuvogi.
Eyvindur, frændi og fóstri Steinunnar gömlu, hlaut hjá henni Voga og Vatnsleysuströnd, og settist hann að í Kvíguvogum. Þaðan hrökklaðist hann undan Hrolleifi Einarssyni barnakarls, sem telst hafa komið út seint á landnámstíð, vera margtengdur Ingólfsfrændum og lenti hjá þeim á Heiðarbæ í Þingvallasveit og undi þar illa við murtuveiði í vatninu. Hann bauð Eyvindi bústaðaskipti eða hólmgöngu öðrum kosti. Eyvindur kaus skiptin og stofnaði líklega til sjósóknar hjá Steinunni frænku á Bæjarskerjum á Miðnesi, en hefur haft búsmala á Heiðarbæ.
Við Gufuskála á Rosmhvalanesi á hrakhólavíkingur að hafa lent, og hrekja Landnámahöfundar hann úr einum Gufu-staðnum í annan; frá Gufuskálum í Rosmhvalanesi í Gufunes og þaðan í Gufuám þá í nýja Gufuskála og loks í Gufufjörð. Melabók nefnir manninn Gufa Ketilsson Bresasonar, en Ketill faðir hans „átti Akranes allt fyrir vestan Reyni og fyrir norðan Akraffell og til Urriðaár“ og hafði komið frá Írlandi til Íslands (Mb. 33). Gufi „vildi byggja á Nesi (Gufunesi), en Ingólfur rak hann á brott þaðan. Þá fór hann á Rosmhvalanes og vildi byggja að Gufu (skálum). En þau Steinunn keyptu saman að hann skyldi á burt fara en vermannastöð skyldi ávallt vera frá Hólmi“ (Mb. 35). Hér mum um Hólm í Leiru að ræða, en þar er talið að Steinunn gamla hafi búið.
Þórður skeggi Hrappsson Bjarnasonar bunu var giftur prinsessu, sem átti sér þjóðardýrling Engilsaxa fyrir afa. Þórður fluttist austan úr Lóni líkt og Ingólfur frændi hans hafði gert og tók sér bólfestu í nágrenni hans að Skeggjastöðum í Mosfellssveit. Hann nam land milli Leirvogsár og Úlfarsár, sem nú nefnist Korpúlfsstaðaá, en lönd sín í Lóni seldi hann Úlfljóti, sem síðar gerðist löggjafi Íslendinga. Þórður hefur hlotið rúmlega allan Mosfellsdalinn til búskapar og utanverða Mosfellsheiði, og styrkt stöðu sína og frændliðsins pólitískt við flutningana.
Hallur goðlausi á hafa verið tengdur Þórði skeggja og numið land frá Leiruvogi til Mógilsár. Hann reisti bæ að Múla, en bæjarstæðið er glatað. Leirvogsá hefur skilið lönd þerra Þórðar allt að Leirvogsvatni, en Esjan frá Mógilsá markað landnámið að norðan. Líklega hefur Þerney fylgt landnámi halls. Sonarsonur hans á fyrstur að hafa reist bú í Álfsnesi.
Helgi bjóla Grímsson Bjarnasonar bunu, fór úr Suðureyjum og nam land á Hofi á Kjalarnesi milli Mógilsár og Mýdalsár, sem síðar nefndist Miðdalsá og nú Kiðafellsá á mótum Kjósar og Kjalarness. Niður við Hofsvoginn norðaustur frá bænum eru miklar rústir, sem virtust við könnun 1973 vera frá elsta skeiði byggðarinnar.
Örlygur gamli, annar Suðureyingur og frændi þeirra Helga, sigldi á hans fund. Hann tók hér land með liðið sínu norður í Örlygshöfn við Patreksfjörð. Þar hefur hann frétt hverra kosta hann átti völ hjá frændliðinu við Faxaflóa. Hann sigldi suður og hlaut land milli Mógilsár og Ósvífurár, sem á síðari öldum kallst Ósénulækur, eða Ósýnilækur (L.L. 86). Örlygur bjá að Esjubergi. Hann telst hafa verið kristinn og reist kirkju á bæ sínum.
Svartkell katneski, frá Katanesi á Skotlandi, nam land milli Kiðafellsár og Elífsdalsár, sem nú heitir Dælisá og Bugða og fellur í Laxá neðanverða. Hann bjó að Kiðafelli og síðar á Eyri í Kjós.
Valþjófur Örlygsson frá Esjubergi nam Kjós alla segir Landnáma og bjó að Meðalfelli. Hér mun átt við Meðalfellsdalinn báðum megin Laxár að Bugðu.
Þessir tíu landnámsmenn eru allir tengdir Ingólfi og liði hans í frásögnum Landnámu nema Svartkell katneski á Kiðafelli. Frá Reynivallahálsi og suður í Hafnir lá kjarnasvæði byggðarinnar sunnan Hvalfjarðar og vestan fljótsins mikla, Ölfusár. Utan þess lágu jaðarsvæði, sem gátu ekki orðið neinir mótandi byggðarkjarnar á frumstigi mannlífsins í landinu.

Jaðarsvæði

Landnám

Landnámið – landnámsmenn.

Hvamm-Þórir nam land milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi. Engin deili eru sögð á honum.
Þorsteinn Sölmundarson Þórólfssonar smjörs af ætt Gríms kambans, sem nam Færeyjar, nam land frá Fossá að Botnsá og Brynjudal allan. Um bústað hans er ekki annað vitað en sonur hans telst búa á Múla í Brynjudal, en bær með því nafni er ókkur í dalnum.
Molda-Gnúpur kom frá Moldatúni (Moldtuna) á Norðmæri til Íslands og nam Álftaver. Hann flýði þaðan með fólk sitt undan jarðeldi (úr Eldgjá 934) vestur til Grindavíkur, og námu synir hans land frá Selatöngum til reykjaness. þeir komu þangað með fátt kvikfé, sem gekk mjög ört, og vissi Hafur-Björn Gnúpsson ekki sauða sinna tal.
Þórir haustmyrkur nam Selvog og krýsuvík líklega austur á Hafnarberg og miðja Selvogsheiði, en sonur hans Heggur byggði í Vogi, sem síðar varð Vogsósar.

Landnám

Þórir haustmyrkur nam Selvog.

Álfur hinn egski frá frá Ögðum í Noregi og „kom skipi sínu í þann ós, er við hann er kenndur og heitir Álfsós“ (Mb. 37). Álfi er eignað landnám fra Varmá út á Selvogsheiði að mörkum Selvogshrepps, en annars telst tilvera hans vafasöm. Nafn hans mun til orðið vegna misskilnings á heitinu Ölfus, sem telst samsett úr stofni orðsins elfur og ós. Um 1700 hafa gengið sagnir um það að Álfur hafi komið skipi sínu „inn Ölversármynni, upp eftir Þorleifslæk í Álfsós og bjó að Gnúpum. Ós þessi liggur að austanverðu, nær því við Þurárhraun“ (L.I.II, 13; III, 4). Hér mun um að ræða tilraun til þess að staðsetja örnefnið Álfós, sem er hvergi nefnt í fornritum nema í Landnámu, og var þar sem Varmá féll „í Ölversá fyrir austan Arnarbælisstað“ (L.I.II, 10). Síðar brýtur Varmá sér leið vestur „allt í Álfós“ (L.I.III, 4, 10), sem sumir nefna Álftárós, segir í Jarðabók Árna og Páls (II, 420, 422) en það mun upprunalegt nafn (Í.fr.I, 390-91).
Ormur hinn gamli Eyvindarson „nam land fyrir austan Varmá til Þverár og um Ingólfsfell allt og bjó í Hvammi“ (Mb, 27). Þverá sú er þar getur heitir nú Tunguá og fellur í Sogið.
Þorgrímur bíldur Úlfsson „nam lönd fyrir ofan Þverá (Tunguá) og bjó að Bíldsfelli.“ Hér er um að ræða allan Grafning ofan Tunguár að mörkum Þingvallasveitar.
Steinröður Melpatriksson af Írlandi og leysingi Þorgríms bílds og tengdasonur „nam öll Vatnalönd og bjó að Steinröðarstöðum“ (Mb, 27). Vatnalönd munu efri hluti Grafnings sunnan Þingvallavatns og Jórukleifar og landnáms Hrolleifs á Heiðarbæ, sem nam land allt fyrir utan Öxará til móts við Steinröð.
Ketilbjörn gamli úr Naumudal í Noregi telst tengdasonur Þórðar skeggja, en hann fór til Íslands, „þá er landið var víða byggt með sjó.“ Hann hafði veturvist hjá tengdaföður sínum, en fór þá austur um heiði og „nam Grímsnes allt upp frá Höskuldslæk og Laugardal allan og alla Biskupstungu upp til Stakkslækjar (Stakksár) og byggði að Mosfelli“ (Mb. 24-25). Landnámsmörkin að vestan voru ekki glögg og hafa verið þrætuland, en Ketilbjörn hefur náð undir sig mjög miklu landi, þ.á.m. Tungunni ytri (E.A.:Á. 102, 124-128). Þetta var mikilvægt svæði. Þar stóð höfuðstaður Íslands í 7 aldir í Skálholti, en Þingvöllur lá á milli landnáms Ingólfs og Ketilbjarnar, og þangað lágu þjóðleiðir.
Landnám Ketilbjarnar rak smiðshöggið á landvinninga þeirra Ingólfsfrænda og tengdaliðs þeirra suðvestan lands. þar höfðu þeir lagt undir sig kjarasvæði, en ættmenn áttu þeir á Snæfellsnesi, um Breiðafjörð, Eyjafjörð, austur á Síðu og víðar um land.
Samkvæmt frásögn Landnámu var þetta fólk komið úr ýmsum áttum í Noregi og á Bretlandseyjum, bæði frá írlandi, Suðureyjum og Katanesi á Skotlandi. Það hefur haft ýmis kynni af kristinni trú og verið blendið í skoðunum.

Framkvæmd landnámsins

Landnám

Landnámið virðist hafa verið framkvæmt á þann hátt að
1) ættingjar og tengdafólk raðaði sér á ströndina sunna úr Vogum og inn í Hvalfjörð;
2) menn voru fengnir til þess að flytjast úr öðrum landnámum á þetta svæði;
3) þaðan lögðu menn undir sig uppsveitir Árnesþings.
Hér var unnið skipulega að ákveðnu marki. Í landnámi Ingólfs hafa menn líklega frá upphafi stefnt að því að stofna stórbændasamfélag undir forystu goðans í Reykjavík og verja eignarrétt og forréttindi í héruðum, halda þrælum í skefjum og skipuleggja byggðina. valdastétt goða er óþekkt utan Íslands og virðist hér nýgervingur og til orðin vegna óvenjulegra aðstæðna. Hér voru allir nýgræðingar í stóru og dreifbýlu landi; landnemarnir hafa fæsti verið af höfðingjaættum, en flestir þekkt til þingaskipanar undir forystu ákveðins bændahöfðingja. Við sunnanverðan Faxaflóa hafa forystumenn landnámsins þingað, bundist samtökum um skipulag allt frá því að þeir tóku sér bólfestu, og nágrennisvald þeirra hefur verið allríkt í héruðum suðvestan lands. Fólksflutningar voru dræmir fyrstu áratugina, svo að fyrstu landnemunum gafst tóm til að búa um sig.

Heimild:
-Landnám Ingólfs – Nýtt safn til sögu þess, Björn Þorsteinsson; Landnám Ingólfs, bls. 9-35.

Landnám

Farkostur landnámsmanna.

Þingnes

Eftirfarandi úrdráttur úr dagbók eins FERLIRsfélaga á vettvangsnámskeiði fornleifafræðinema í Þingnesi dagana 17. 21. maí 2004 er birtur hér til að gefa áhugasömu fólki svolitla innsýn í „líf“ fornleifafræðinnar, en hún er ein þeirra fræðigreina sem krefst mikillar þolinmæði, nákvæmni, ákveðins verklags og skilyrðislausrar þekkingar á viðfangsefninu.

Vettvangsnámskeið í Fornleifafræði á Þingnesi
17.-21. maí 2004.

Inngangur
Vettvangsnámskeiðið á Þingnesi er liður í námi í fornleifafræði við Háskóla Íslands.
Nemendum hafði áður verið bent á fyrirlestur Guðmundar Ólafssonar, fornleifafræðings, um Þingnesið, sem hann hélt síðan í Kórnum, Safnahúsinu í Kópavogi laugardaginn 8. maí s.l. Þar gaf Guðmundur ágætt yfirlit um rannsóknirnar sem og helstu niðurstöður. Komið verður inn á þær í dagbókalýsingu fyrsta dagsins hér á eftir. Þá var nemendum gert að afrita Vettvangshandbók (Arcaelogical Field Manual) af vefnum og lesa hana vel fyrir námskeiðið. Í handbókinni er m.a. fjallað um undirbúning uppgraftar, uppgöftinn sjálfan og skráningaraðferðir, vettvangsskráningu, muni er finnast og sýnatökur. Hún er tekin saman af Gavin Lucas fyrir Fornleifastofnun Íslands.
Við undirbúning var einnig lesin rannsóknarskýrsla Guðmundar Ólafssonar um fornleifarannsókn og vettvangsæfingu fornleifafræðinema í Þingnesi árið 2003. Í henni kynnir Guðmundur m.a. helstu niðurstöður þeirrar rannsóknar.
Í rannsóknarskýrslunni lýsir Guðmundur aðdraganda vettvangsnámskeiðanna og hvernig hið fyrra gekk fyrir sig í megindráttum. Þar kemur fram að rannsóknin sé skráð í Sarp-menningarsögulegan gagnagrunn minjavörslunnar og hefur þar fengið rannsóknarnúmerið 2004-26. Við rannsóknina 2003 voru teiknaðar 19 flatateikningar og 2 sniðteikningar. Teknar voru tvær filmur, samtals 75 myndir og þær skráðar í Sarp. Opnuð voru tvö svæði til rannsóknar. Annað var um 28 ferm. svæði í suðausturhluta rústar nr. 9 á yfirlitskorti og hitt var um 7 m langt þversnið yfir rúst nr. 12 á yfirlitskorti.
Leiðbeinendur á vettvangsnámskeiðinu eru, auk Orra Vésteinssonar, þeir Guðmundur Óskarsson, Howell Roberts og Oscar Aldred.

DAGBÓK.

Dagur eitt – 17.05. – 09:00-16:30.
Orri Vésteinsson, lektor, tók á móti hópnum, kynnti Þingnesið, tóftirnar og söguna og fór yfir verkefni dagsins. Undirritaður naut þess að hafa skömmu áður farið á fyrirlestur Guðmundar Ólafssonar, fornleifafræðings, um sama efni í Listasafni Kópavogs, en þar lýsti hann mjög vel möguleikum Þingnessins sem þingstaðar, breytingum og hugsanlegri nýtingu svæðisins sem og helstu niðurstöðum fornleifarannsókna þar.
Um var að ræða fjóra hópa er hver um sig fengu ólík verkefni frá degi til dags. Undirritaður var svo heppinn að lenda í hópi nr. 2 þar sem fyrir voru fjórar valkyrjur til verka.
Verkefni hópsins þennan dag var uppgröftur í rúst nr. 12. Leiðbeinandi var Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur. Rústin er neðarlega í hallanum niður að vatninu um 6 m austan við rúst nr. 13. Hún er um 12 m löng og um 6 m breið og snýr í A – V. Rústin er allgreinileg á yfirborði og var mæld inn árið 1984 í mælikvarða 1:50 (1984-386-14). Af yfirborði virtist hún vera um 1,5 x 5.3 m að innanmáli. Við rannsókn 2003 var tekið 6.7 m langt og 75 cm breitt þversnið í gegn um rústina frá N – S. Það var í raun útvíkkun í litlum sniðskurði sem byrjað var á sumarið 1986, en var ekki kláraður og ekki teiknaður upp. Þverskurðurinn 2003 var teiknaður upp bæði í fleti og í sniði og kom þá í ljós að rústin er 2.4 m breið að innanmáli. Veggirnir hafa verið hlaðnir úr torfi og grjóti og eru 1.3 m breiðir.
Neðst í veggjunum við innri og ytri veggjabrún er einföld röð steina. Þar ofan á eru torf og grjót til skiptis og á milli hefur verið fyllt upp með mold. Þrjár raðir steina voru hver upp af annarri, þar sem mest var. Efsti hluti veggjanna hafði hrunið til beggja hliða og lá ýmist innan í rústinni eða fyrir utan hana.
Innan í rústinni mátti greina óljóst mannvistarlag. Það var að sjá sem fjölmargar örþunnar brúnar, ljósbrúnar og dökkbrúnar rákir. Lagið er um 10 cm þykkt. Litabreytingar eru samt mjög litlar og reyndist mjög erfitt að greina lagið frá öðrum jarðlögum.
Í þversniði rústar 12 kemur uppbygging rústarinnar glögglega í ljós. Ytri og innri veggjarbrúnir eru hlaðanar grjóti og torf og moldarfylling þar á milli. Rist hefur verið torf innan úr rústinni og það sennilega lagt á veggina. Þá sést að steinar hafa verið að hrynja úr veggjum hússins á löngum tíma, og að það er löngu orðið að rúst þegar Katla~1500 fellur á svæðið. Í rannsóknarskýrslu Guðmundar Ólafssonar fyrir Þingnes árið 2003 er rannsókninni lýst sem og einstökum lögum í þversniði rústar nr. 12. Þar kemur m.a. fram að jarðlögin gefi til kynna að rústin sé líklega hlaðin og í notkun á 10. öld (900-1100). Hún hafi löngu verið komin úr notkun og hrunin þegar gjóskulagið Katla~1500 fellur. Samkvæmt innbyrðis greiningu mannvistarlaga megi ætla að rúst 12 hafi verið upphaflega hlaðin á fyrri hluta 10. aldar. Óvíst er hversu lengi hún var í notkun, en sennilega er það í mesta lagi um ein öld. Þunn og slitrótt mannvistarlög benda fremur til þess að ekki hafi verið um samfellda heilsárs notkun að ræða, heldur árstíðabundna notkun.
Ekki verði enn hægt að slá neinu föstu um hlutverk minjanna í Þingnesi, en eftir því sem meira hefur verið grafið hallast höfundur æ meir að því að þarna hafi verið þingstaður, fremur en t.d. sel eða útihús.
Þessi rannsókn hefur fengið rannsóknarnúmerið 2004-26 í SARPUR.
Byrjað var á því að taka upp frágang síðasta árs í þverskurði N – S. Einnig var tekið upp úr skurði A – V, hann breikkaður og grafið í hann. Ætlunin var m.a. að kanna hvort dyragat kynni að leynast á suðurveggnum, en yfirborðið bar ekki augljóslega með sér hvar það væri á rústinni. Skafið var með veggjum S – N skurðarins og sýndi Guðmundur og útskýrði jarð- og gjóskulögin, sem í þeim eru. Katla~500 er svart öskulag, nokkuð ofarlega, en landnámslagið ljósleitt og einnig dökkleitra neðst, ofan á óhreyfðum jarðvegi.
Þegar grafið var ofan af suðurveggnum kom Katla~500 í ljós ofarlega milli grjótsins. Eftir að hafa grafið þvert á suðurvegginn, hreinsað ofan af og grafið beggja vegna veggjarins, rúmlega meterlengd sunnan hans, komu í ljós slétthliða steinar neðst og aðrir, eru virtust vera hrun, ofan á. Ekki voru þó steinar á milli þeirra sléttu er sáust neðst, er bent gæti til þess að þar væri dyragat. Landnámslagið var sunnan við vegginn, ofan á óhreyfðu dekkra morldarlagi. Ofan á var ljósleitari fokmold. Síðan kom þunnt lag af ryðleitri mold er gæti hafa verið fyrrum mýrartorf. Ofan á því var fokmold, Katla~500 og síðan fokmold og torf. Dýpt skurðarins var um 60-70 cm og breidd um 70 cm.
Guðmundur leiðbeindi nemendum vel og vandlega hvernig haga ætti uppgreftinum og hvað þyrfti helst að varast, ekki síst er kæmi að hugsanlegum mannvistarlögum. Þá tók hann hæðarpunkt (78 m.y.s.) á línu með norðurbrún S – N skurðarins, snúraði rústina út skv. hniti og mælipunktum og lagði fyrir gerð þversniðs og flatarteikningar. Náðist að ljúka hvorri teikningu fyrir sig áður en vinnudegi lauk. Það verður síðan í höndum næsta hóps að lyfta grjótinu af suðurveggnum og rannsaka hvort dyragatið leynist þar. Einnig er ætlunin, ef tími leyfir, að grafa í suðausturfjórðung rústarinnar.
Áhugaverður og fróðlegur dagur.

Dagur tvö – 18.05. – 09:00-16:30
Í dag fékk hópur 2 tækifæri til að læra á og nota hæðarmælikíki, leggja út hnitakerfi, draga upp minjasvæði og gera “örvateikningu” af því.
Orri Vésteinsson útskýrði hvernig setja ætti upp “TÆKIД, þ.e. hæðarkíkinn, stilla og nota, hvort sem er til hæðarmælinga, fjarlægðarmælinga eða hornamælinga (nota kíkinn sem gráðuboga). Einnig útskýrði hann meginmuninn á hæðarkíki og alstöð (sjá dagur 4). Síðarnefnda tækið er fjölhæfara, en bæði dýrara og vandmeðfarnara. Fram kom hjá Orra að ýmsar aðferðir væru notaðar til að mæla upp rústir, s.s. með alstöð, kíki eða málbandi. Að þessu sinni átti að gefa hópnum tækifæri til að reyna bæði hina fyrstnefndu sem og þá síðastnefndu.
Í framkvæmd var nemum kennt að að nota kíkinn til að lesa hæðarkvarða af mælistiku og færa punkt, í þessu tilviki frá vatnsborði Elliðavatns upp á gróið klapparholt allnokkru sunnar. Hæðarmismunurinn reyndist, skv. mælingunni, vera 18.48 m. Þurfti að mæla af stikunni 12 sinnum til að finna út hæðarmismuninn (3.34-0.13+3.21-0.29+3.91-0.28+3.84-0.13+3.97-0.70+1.56-0.40=18.48). Var það gert með því að leggja kerfisbundið saman og draga frá til skiptis þangað til “flutningum” var lokið.
Kennt var í framkvæmd að nota kíkinn til fjarlægðamælinga með því að draga neðri tölu frá efri tölu tveggja strika mælistikunnar ofan við miðjustrikið á kíkinum þegar horft er í gegnum hann og margfalda með tölunni 100. Þannig var miðjustrikið t.d. á 1.70, efra strikið á 1.76 og neðra strikið á 1.62. Þetta gaf töluna 0.14×100=14. Fjarlægðin frá kíkinum að stikunni var því 14 metrar.
Þá fékk hópurinn að aðstoða annan hóp, sem vann við rúst 9, til að hæðarmæla rústina, eins og hún leit út þá. Fyrst var hæðarpunkturinn fenginn af hæl undir alstöðinni (TH=0.93 (TBM á ensku)) og síðan var tekið mið af honum við mælinguna. Teknir voru 17 hæðarpunktar á skipulegan hátt í rústinni og færði leiðbeinandinn þá samviskusamlega inn á uppdrátt (sjá meðfylgjandi riss).
Hópurinn fékk æfingu í að setja út punkta (8×8), bæði með því að nota kíki og málbönd sem og nota Pýþagórsarregluna (langa línan á þríhyrningi þar sem 1×1=1.41 eða 8×8=11.28).
Þá fékk hópurinn það verkefni að setja út mælilínur og teikna upp minjasvæði með málbandi. Orri útskýrði framkvæmdina og sýndi dæmi, bæði við framkvæmdina og fráganginn, þ.e. notkun tákna. Hópnum var skipt í tvennt og fékku undirritaður það verkefni ásamt Ernu að mæla upp tvær rústir (14 og 15) á landföstum tanga á vestanverðu minjasvæðinu. Lögðum við út mælilínu eftir endurlöngum miðveggnum og mældum síðan rústirnar út frá henni (sjá meðfylgjandi riss (ekki í mælikvarða)) og gerðum uppdrátt í mælikvarðanum 1:100. Það gekk vel eftir að hafa komist upp á lag með að nota aðferðina.
Tækifærið var notað og kíkt af og til á gang mála ú rúst nr. 12. Þar var smám saman að koma í ljós dyradag, auk þess viðakolsleifar fundust við gröft.

Dagur þrjú – 19.05. – 09:00-16:30
Howell Roberts, fornleifafræðingur, tók á móti hópnum um morguninn í Þingnesi. Verkefni dagsins var að fræðast um alstöðina, möguleika hennar og notkun.
Alstöð sú, sem notuð var (Fastmap 700 – DTM 750) er , að sögn Howells, flóknasta vettvangstækið við fornleifarannsóknir. Það mælir hæðir, fjarlægðir og horn, auk þess sem hægt er bæði að finna áður mælda staði og leggja út línur svo eitthavð sé nefnt. Alstöðin er jafnframt eitt viðkvæmasta tækið, sem notað er við vettvangsrannsóknir. Um er að ræða tiltölulega einfaldan tölvubúnað er gengur fyrir rafhlöðum og einnig er alstöðin viðkvæm og vandmeðfarin svo að mörgu þarf að hyggja. Einnig þarf að gæta varúðar við meðferð hennar, ekki síst við uppsetningu og upphafsstillingar. Alstöðin er fimm ára gömul og kostaði u.þ.b. tvær milljónir króna. Í dag eru til fullkomnari alstöðvar er hafa m.a. skynjara er fylgt getur sjálfvirkt þeim, sem staðmælir, og skráð mælinguna. Upplýsingarnar eru skráðar jafnóðum og afritaðar. Síðan er hægt að fara með minnisspjaldið í tölvu og vinna upplýsingarnar þar til frekari nota, samanburðar og úrvinnslu.
Howell leiðbeindi hópnum hvernig setja ætti alstöðina upp; staðsetja þrífótinn, sem hún hvílir á, með nákvæmni, koma alstöðinni fyrir á honum, grófstilla og fínstilla og hverjar hreyfingar eru mögulegar og hverjar takmarkanirnar eru.
Þá er mælt frá punkti (jörð), í þessu tilviki stöð (station) nr. 9004, upp í alstöðina með málbandi og upplýsingarnar skráðar í upphafsstillingu ásamt hæð á mælistikunni (1.5), staðsetningu (nr. stöðvar/staðsetningar), staðarheiti, því sem á að mæla og fleiri grunnupplýsingum eftir efnum og ástæðum.
Venjulega er mælt út frá uppgefnum hæðarpunktum í fyrirfram ákveðnu hnitakerfi, s.s. Reykjavíkurborgar (sveitarfélaga), Landmælinga Íslands eða Vegagerðar ríkisins. Í þessu tilviki var fastur punktur “sóttur” út í “stöð” 9006 á landfasta tanganum (E214.980 – N:562.250 – Z:081.265 þar sem E stendur fyrir austur og N fyrir norður). Stöng með “sól” eða kringlóttum spegli, staðsett á punktinum, endurkastar innfrarauðum geisla, sem alstöðin sendir frá sér, til baka og stöðin reiknar út fjarlægðina. Howell sýndi hvernig hægt var að mæla fjarlægðarpunkta, hæðarpunkta og gráður með því að hreyfa einstaka hluta tækisins. Tölvan sér síðan um útreikningana og birtir þá á skjánum.
Alstöðin mælir áttir fullkomlega. Við uppsetninguna kom í ljós að dagana tvo á undan hafði ekki verið tekið mið af höfuðáttunum af þeirri nákvæmni sem alstöðin gaf nú til kynna. Þannig lá svonefndur S-N skurður í rúst 12 ekki lengur í suður og norður, heldur fremur austur og vestur. Þarf að hafa hliðsjón af því er framangreint er lesið (dagbókinni verður ekki breytt þar sem hún er skrifuð jafnóðum – einungis leiðrétt).
Fram kom hjá Howell að hyggja þarf vel að áttum. Annars geta mælipunktar lent röngum megin við línu, sem síðan getur verið fyrirhöfn að leiðrétta síðar. Í alstöðina er hægt að safna nálægt 900 mælipunktum áður en upplýsingarnar eru afritaðar.
Howell sýndi hversu erfitt getur verið að ákvarða útlínur og innlínur gróinnar tóftar eða rústar. Sagði hann það vel geta verið matsatriði hjá hverju og einum hverjar hann telur útlínurnar vera. Í rauninni er ekkert til sem heitir ranglegra en annað í þeim efnum, en mikilvægt væri að reyna að átta sig á hvað kynni að tilheyra hverjum stað, sem mæla ætti. Þá skipti þéttleiki mælipunkta máli þegar kæmi að skjámyndinni, sem birtist á alstöðinni. Þéttleikinn mætti ekki vera og lítill (því þá tæki mælingin óþarflega langan tíma) og ekki heldur og mikill (því þá væri ónákvæmnin meiri). Fjöldi punktanna, þrátt fyrir tímalengdina, yki þó á nákvæmni mælinga. Beinar línur væri fljótlegra að mæla en t.d. hringi, bugður og beygjur. Ef einhver væri í vafa hvað ætti að mæla væri ávallt betra að taka fleiri punkta en færri. Það gæti sparað aðra ferð á vettvang. Punktmælingin kæmi með æfingunni eins og annað í þessu fagi.
Hægt er að stilla alstöðina þannig að hún dregur punktalínu, strikalínu eða sambland þeirra, á milli punktanna og getur þannig mynd af útlínum þess sem mælt er.
Tækifærið var nota, fyrst búið var að stilla alstöðinni upp á stöð 9004, að aðstoða við að taka tvo punkta á sýnastöðum í rúst 9 (find 9 and 10), en þar hafði fundist málmur og glerbrot (sennilega hvorutveggja frá 20. öld, en allur er varinn góður).
Þá var alstöðin tekin niður og sett upp að nýju yfir stöð 2007 á vestanverðum tanganum, vestan rústar nr. 16. Aftur var farið yfir grundvallaratriðin varðandi uppsetninguna og stillingar. Staðsetningin var nákvæmlega yfir stöðinni (hæll) og eftir fínstillingar varð skekkjan sú minnsta hugsanlega (eða 0.00). Gengið var með mælistikuna með útlínum rústar 16. Upplýsingarnar voru skráðar í alstöðina jafnóðum. Þá var innlínur mældar með sama hætti. Að því loknu sýndi Howell hvernig mæld rústin lítur út á skjámynd tækisins. Niðurstaðan var allsennileg.
Í framhaldi af þessu var, að beiðni Guðmundar, hafist handa við að staðsetja sumarbústaðinn í Þingnesi. Var það gert með því að setja mælistikuna á hvert sýnilegt horn hans (norðurhliðina) og mæla fjarlægðina.
Í framhaldi af þessu var ákveðið að færa stöð 9007 suður fyrir bústaðinn til að mæla horn á vestur og suðurhliðum. Áður þurfti að búa þar til nýja stöð (2008). Gengið var þangað, hæll rekinn niður og hann markaður. Hann var síðan mældur út með alstöðinni við stöð 9007. Alstöðin var síðan tekin niður, færð yfir 2008, sett upp að nýju, stillt og síðan fjarlægðin mælt frá henni í stöð 2007. Að því búnu var hinar hliðar sumarbústaðarins mældar og skráðar.
Howell útskýrði hvernig hægt er að nota alstöðina til að finna punkta og setja út línu. Tók hann æfingu með hópnum í því. Gekk það greiðlega. Loks var nálæg strönd Elliðavatns mæld, skráð og dregin með aðstoð alstöðvarinnar.
Gögn dagsins voru afrituð og Howell nýtti þann tíma, sem eftir var dagsins, til að fara yfir og útskýra skjámynd alstöðvarinnar og möguleika hennar.
Enn einn áhugaverður og fróðlegur dagur við fornleifarannsóknir í Þingnesi.

Dagur fjögur – 20.05. – 09:00-16:00
Oscar Aldred, fornleifafræðingur, tók á móti hópi 2 við rúst nr. 9. Framundan var uppgröftur í rústinni undir hans stjórn. Uppgraftarsvæðið er hluti tóftar. Sýnilegar voru útlínur miðveggs og hluti útveggjar. Ljósmynd var tekin frá norðvesturhorni uppgraftarsvæðisins til að bera saman við útlit þess að vinnudegi loknum (sjá mismuninn).
Oscar byrjaði á því að útskýra verkefnið framundan. Fram kom að grafið væri í svonefndri “single context”, þ.e. grafið lag eftir lag. Uppgraftarsvæðið var hluti stórrar tóftar og var það allt opið. “Fletta” átti lagi ofan af (context nr. 10) og skrá lagið, sem fjarlægja átti. Fyrra lagið (ofan á) hafði verið nr. 9. Gerður hafði verið uppdráttur (flatarteikning) af uppgraftarsvæðinu, eins og skilið hafði verið við það áður þar sem útlínur, steinar og annað, sem skipti máli, var sýnt. Lýsti Oscar hvað hafði verið gert á svæðinu fram að þessu, kynnti moldina, steinana og fyrri fundi til sögunnar og leiðbeindi um næsta skref, þ.e. að fjarlægja lausa steina úr vesturhluta rústarinnar.
Áður en kom að því að fjarlægja steinana fékk Oscar hópinn, sem var að æfa sig í notkun alstöðvarinnar, að taka 17 punkta í rústinni. Þar með voru mælipunktarnir orðnir 277 talsins. Hnitin voru færð á uppdráttinn og mælingarniðurstöðurnar skráðar. Bent var að betra væri að taka fleiri punkta en færri til öryggis ef eitthvað kynni að fara úrskeiðis.
Garfið var frá steinunum með múrskeið og mold fjarlægð þangað til þeir urðu lausir. Voru steinarnir teknir upp hver á fætur öðrum og komið fyrir í kesti við suðurenda rústarinnar. Oscar lýsti muninum á ljósari moldinni og þeirri dekkri, hvaða steinar teldust geta verið í “röð og reglu” og myndað útlínur og hvernig sjá mætti torflög og gjóskuna í þeim. Torfið er mýrartorf, en í því má sjá ljós og grænleit öskulög (landnámsöskulagið) og einnig ryðbrúna tauma (járn). Steinarnir í vesturhlutanum eru hrun úr veggjum og líkast til torfið einnig. Sást móta fyrir útvegg í norðausturhorni uppgraftarsvæðisins, en “veggurinn” í miðjunni virtist vera miðveggur eða gangur.
Sýnt var teikniblaðið og hvað myndi verða skráð á það. Þá sýndi Oscar graftæknina og benti á að ekki væri nóg að horfa á flötinn, sem verið væri að fjarlægja; einnig þyrfti að hlusta vel og reyna að finna þegar umskipti yrðu.
Við skafið fundust viðarkol (smáagnir og ein stærri) á víð og dreif, lítil beinbrot (gulbrún) og lítill ryðgaður málmhlutur (gat verið hluti úr spennu eða sylgju). Síðastnefndi hluturinn var mældur, skráður og fjarlægður, færður í poka, sem var merkturmeð uppgraftarnúmeri (ÞNG04, rústarnúmeri (9), fundarnúmeri (find number) (11), innihaldi (Fe) og tegund hlutar (óljóst í þessu tilviki). Jafnframt voru hnitin skráð á pokann. Hluturinn verður færður til sérfræðings svo fljótt sem verða má. Til að loft léki um gripinn gerði Oscar gat á plastpokann.
Oscar tók yfirlitsmynd og útskýrði jafnframt að ljósmyndnir í uppgrefti væru notaðar í mismunandi tilgangi. Þær geta verið með eða án fólks; til að sýna fólk að störfum eða til skráningar án þeirra og annars, sem því fylgir.
Eftir uppgröftinn skráði Oscar fyrirliggjandi upplýsingar á skráningarblað og færði nauðsynlegar upplýsingar inn á uppdráttarblað, sem ætlunin er að ljúka við á morgun. Ákvað hann að breyta contextnúmerinu úr 10 í 11 og gefa eystri hluta uppgraftarsvæðisins (austan við miðvegginn) sérstakt númer, sem er 10. Á skráningarblaðið færi hann m.a. contextnúmerin og tegund (surface). Oscar benti á að best væri að nota H4 blýant við skráninguna (máist síður og þolir bleytu).
Á uppdráttarblaðið skráði Oscar m.a. tengund teikningar (flatarteikning), uppgraftarnúmerið (ÞNG04), einingarnúmerið (context 11) og type (deposit). Benti hann á að mikilvægt væri að gera uppdráttinn eins fljótt og kostur er á vettvangi þar sem hægt væri að bera hann saman við fyrirmyndina.
Oscar sýndi og dró upp matrixinn af uppgraftarsvæðinu þar sem efsta torflagið er [1] og lagið, sem síðast var fjarlægt [11]. Ofan á því er [9] og ofan á því er [8]. Matrix nr. [10] er til hliðar. Matrixinn lýsir jarðlögunum, bæði innan og utan rústarinnar, í réttri röð. Um væri að ræða svonefndan “vinnumatrix”, sem gæti breyst, sbr. framangreint.
Þá lýsti Oscar með hópnum helstu einkennum uppgraftarins og skráði á uppgraftarblaðið (8 viðmiðunarliðir); 1. Þéttleiki jarðvegs (miðlungs), 2. Litur (dökkbrúnn, með ýmsum litbrigðum, s.s. ljósu, grænleitu og ryðbrúnu), 3. Samsteining (silt – sandleir/fínn), 4. Meðtalning (steinar, ávalir), 5. Þykkt – fjarlægt (10-15 cm), 6. Skil (greinileg, bein í miðvegg að austanverðu), 7. Samhengi (svipað yfir allt), 8. Röskun (erfitt að segja til um á þessu stigi).
Jafnframt þarf að lýsa eftirfarandi: Öskulögin, sem fundust eru að öllum líkindum landnámslagið (ljósleitt og grænleitt). Það var einkar áberandi í torfinu, sem fjarlægt var, ein og áður hefur komið fram. Hlutir, sem fundust; málmhlutur, viðarkolsagnir og smá beinbrot (ekki mælanleg). Sýni var einungis tekið af málmhlutnum. Svæðið var handgrafið og teiknað upp í matrix. “Innviðir” þess (uppgraftarsvæðisins) voru steinar og torf, sem hvorutveggja hafa hrunið inn úr veggjum (og hugsanlega þaki).
Enn einn lærdómsríkur dagurinn að síðdegi kominn.

Dagur fimm – 21.05. – 09:00 – 16:30
Lokadagur vettvangsnámskeiðsins var að morgni kominn. Byrjað var við rúst 9, þar sem endað hafði verið daginn áður. Oscar leiðbeindi hópnum hvernig leggja ætti út mælilínur. Í þessu tilviki voru notaðir þrír hælar, sem aðrir höfðu áður notað, auk þess sem fjórði hællinn var settur niður til að mynda ferning (5×5). Þá voru hornpunktarnir staðsettir á mæliblaðið (frá neðst til vinstri) og undirbúin mæling í 1:20.
Mældar voru útlínur uppgraftarsvæðisins að vestan og norðanverðu, sem og steinar, sem höfðu uppgötvast við gröftin í vestanverðri rústinni daginn áður. Allt var þetta skilmerkilega fært inn á teikniblaðið. Þá var syðri og austari hlutar rústarinnar hæðarmældir. Settur var upp þrífótur, kíkirinn ofan á og hann stilltur. Þá var TBM mælt (80.74), BS skráð (0.88) sem og IH (81.82). Að því búnu fór mælingin fram. Mælt var á 18 stöðum í rústinni, ýmist gólf eða steinar. Punktarnir (1. 0.90, 2. 0.94, 3. 1.06, 4. 1.02, 5. 1.05, 6. 1.00, 7. 0.98, 8. 1.00, 9. 0.71, 10. 0.86, 11.1.05, 12. 0.87, 13. 1.05, 14. 0.93, 15. 0.89, 16. 0.86, 17. 1.13 og 18. 1.00). Gengið var frá uppdráttarblöðum, mælilínur teknar upp og gengið frá áhöldum.
Howell leiðbeindi hópnum um notkun ljósmyndavélar. Fór hann yfir helstu atriði er gæta þarf að, s.s. að hafa ekki fólk, fötur og annað inn á yfirlitsmyndum af einstökum rústum eða gripum. Jafnframt hversu mikilvægt væri að huga að mælikvarða og staðsetja hann rétt m.v. fyrirhugaða afstöðu myndar. Huga þyrfti að áttum, sólstöðu o.fl. Stillingar á myndavélinni væru og mikilvægar og fór hann yfir hvernig þær virkuðu.
Gengið var frá rústunum með því að leggja “drendúk” yfir uppgraftarsvæðin og þekja síðan með torfinu, sem tekið hafði verið upp úr þeim á fyrsta degi eða fallið hafði til síðar í uppgreftinum. Svæðið var snyrt og áhöld voru til handargangs, fötur, skóflur og skeiðar þvegnar og gengið frá eins og leiðbeiningar kveða á um.
Loks var haldið niður að Ægisgarði við Reykjavíkurhöfn. Þar fór Sirrý (kynnti sig sem slík) yfir það helsta er lítur að fleytingu. Í gámi við vinnusvæðið var fjöldi hvítra (10 lítra) plastfatna með mold í úr ýmsum uppgröftu, s.s. Sveigakoti, Hofstöðum og einnig frá uppgreftinum á Þingnesi 2003. Sérhver fata er m.a. merkt með uppgraftarstað, númeri, dags. og hlutatölu af heild. Áður en hvolft er úr fötunni í fínryðið net efst í vatnstunnu, hagalegu gerðu íláti (sjá mynd), eru upplýsingar á fötunni bornar saman við skráningarblað, merkt við og álnúmer í fötunni tekið (en það fylgir síðan með því sem verður eftir úr fleytingunni). Samviskusamlega er moldin hreinsuðu frá öðru (eða öfugt), grófari “afurðirnar”, s.s. þræðir, bein eða gripir, falla í fat með sigti í botninn, en fíngerðari “afurðir”, s.s. frjókorn, verða eftir í enn fíngerðara sigti þar undir. Eftir að skolun úr fötunni er lokið, eru “afurðirnar” skolaðar vel og síðan hvor um sig færðar í fínar grisjur þar sem númerið er tilheyrði fötunni, fylgir með eins og fyrr sagði. Þær eru síðan hengdar upp til þerris áður en innihaldið verður skoðað nánar af sérfræðingi. Sjá mátti m.a. bein, smásteina, gróðurleifar o.fl. verða eftir í sigtunum áður en innihaldinu var komið fyrir í grisjunum.
Sirrý benti á að jafnan þyrfi að taka lítið sýni úr hverri fötu, merkja það og geyma, ef eitthvað kynni að fara úrskeiðis.
Enn einum áhugaverðum degi lokið – fyrr en varði.

Lokaorð
Framangreind lýsing dagbókarinnar er fyrst og fremst yfirlit yfir það sem hópur nr. 2 fékkst við á vettvangsnámskeiðinu. Hvorki er farið út í einstök smáatriði eða einstöku verki lýst í smáatriðum. Skrifin voru færð inn eftir hvern dag þannig að innihaldið ætti að vera nokkuð nálægt lagi. Textanum fylgja nokkrar yfirlitsmyndir, en þeim er einungis ætlað til að gefa mynd af einstökum stað eða hlut án mælikvarða eða viðmiðana.
Kennararnir á námskeiðinu voru hver öðrum betri, yfirvegaðir, þægilegir og gefandi. Þeir miðluðu nemendum af reynslu sinni og fróðleik. Tímanum var vel varið til að fara yfir það sem máli skiptir, hvort sem það lítur að því sem þarf að gera á vettvangi eða að því hvers ber að varast við framkvæmd fornleifauppgraftar, sem er ekki síður mikilvægt.