Tag Archive for: Sandgerði

Gils Guðmundsson

Gils Guðmundsson skrifaði þrjár greinar í Sjómannablaðið Víkingur á árinu 1945 um „útgerðarsögu Sandgerðis„. Fyrsta greinin var um fortíðina; upphafið og önnur um þróun atvinnuhátta í bænum. Þriðja greinin fjallaði síðan um stöðu byggðarinnar og framtíðina. Hér birtist útdráttur úr fyrstu greininni.

Fortíðin

Sjómannablaðið Víkingur

Sjómannablaðið Víkingur, 10. tbl. 1945.

Á Reykjanesskaga hefur allt frá fornu fari verið mikill fjöldi verstöðva, stórra og smárra. Hinar helztu þeirra voru Bieringstangi á Vatnsleysuströnd, Vogar, Njarðvíkur, Leira, Garður, Sandgerði, Stafnes, Hafnir og Grindavík. Frá öllum þessum stöðum og mörgum fleiri, leituðu menn út á mið Faraflóa og Suðurstrandarinnar.
Fiskimiðin reyndust að vísu misjafnlega gjöful, og brugðust stundum, en þegar öllu er á botninn hvolft, má það heita miklum vafa bundið, hvort nokkur annar landshluti hefur átt slíka auðlegð fyrir ströndum úti, sem þessi hrjóstrugi, eldbrunni og hraunrunni skagi, sem teygir hæl og tá út í Atlantshafið.
Neðan á „ilinni“ á Reykjanesskaga, en þó miklum mun nær tánni (Garðskaga) en hælum (Reykjanesi), er byggðarlag það, sem Miðnes heitir. Þar er Miðneshreppur. Skiptist hann í sjö hverfi, er sum hafa verið fjölbyggð mjög á fyrri tímum, meðan útræði opinna skipa var í fullum blóma. Hverfi þessi heita: Kirkjubólshverfi, Klapparhverfi, Sandgerðishverfi, Bæjaskershverfi, Fuglavíkurhverfi, Hvalsneshverfi og Stafneshverfi. Nálægt miðbiki þessa svæðis er Sandgerði, sem hefur á síðari árum orðið bækistöð mikils vélbátaflota, og telst nú í hópi stærstu útgerðarstöðva þessa lands.

Sandgerði

Sandgerði – tóftir gamla Sandgerðisbæjarins.

Jörðin Sandgerði er snemma nefnd í skjölum. Einna fyrst mun hennar getið í skrá nokkurri um rekaskipti á Rosmhvalanesi, en sú skrá er talin vera frá því seint á Sturlungaöld, eða nálægt 1260—1270. Gömul munnmæli herma, að jörðin hafi upphaflega heitið Sáðgerði, af því að þar lágu kornakrar Gullbringu, sem sýslan er við kennd. Segja sagnir, að hún hafi gefið þræli sínum, Uppsa, jörð þá, er hann nefndi Uppsali. Uppsalir eru skammt ofan við Sandgerði. Voru þeir 20 hundruð að fornu mati, en Sandgerði 60 hundruð. Líklegt má telja, að saga þessi um þrælinn Uppsa, sé alþýðleg skýringartilraun á bæjarnafninu Uppsalir. Jarðarheitið Sáðgerði kemur hvergi fyrir í gömlum skjölum, og er það að öllum líkindum tilbúningur síðari tíma. Hitt mun rétt vera, að Sandgerði hefur fyrr á öldum verið grasgefnara miklu og frjósamara en síðar varð.

Sandgerði

Sandgerði – örnefni.

Votta heimildir, að áður á tlmum hafi verið svo hátt stargresi milli Bæjaskerja og Sandgerðis, að fénaður sást ekki er hann var þar á beit. Síðar blés þetta svæði upp og gekk á það sjór, svo að þar urðu ýmist berar klappir eftir eða gróðurlaus foksandur. Til skamms tíma hafa sézt nokkur merki í Sandgerðislandi, sem bent geta til þess, að þar hafi akuryrkja verið stunduð í allríkum mæli fyrr á öldum. Séra Magnús Grímsson, prestur á Mosfelli, sem kunnur er vegna þess að hann var annar helzti upphafsmaður þjóðsagnasöfnunar hér á landi, kynnti sér fornmenjar á Reykjanesskaga, og skrifaði um þær merkilega grein. Hann ræðir þar nokkuð um Sandgerði, og kemst meðal annars svo að orði:

Sandgerði

Sandgerði – loftmynd 2023.

„Suður af Flankastöðum við sjóinn eigi langt er bær, sem nú er kallað Sandgerði, en hét að sögn áður Sáðgerði. Þar eru tún fögur og allslétt. Mikið af túni þessu hefur í fyrndinni verið akrar, og sér þar glöggt fyrir skurðum, scm hafa skipt ökrunum í breiðar og langar reimar. Austan og norðanvert með akrinum liggur hóll eða brekka, sem hefur skýlt honum. Garðar sjást hér ei kringum akurinn eða um hann eins og á Skaganum. Tjörn ein er fyrir norðan bæinn, og sér til skurðar úr henni niður á akurinn. Hefur þar mátt hleypa vatni úr í allar rásirnar og af eða á akurinn eftir geðþekkni. Vestanvert við akurinn er túnið nokkuð hálendara. Þar eru þrír eða fjórir bollar eða lautir í röð, og mótar fyrir skurði á milli þeirra og fram úr þeim út í sjó.

Sandgerði

Sandgerði – Landakot; loftmynd 2023.

Bollar þessir eru nærfellt kringlóttir, misstórir og eigi djúpir nú. Bolla þessa held ég vera mannaverk, og hafi þeir verið notaðir sem böð eða laugar, því að vel hefði mátt hleypa í þá vatni úr tjörninni og kann ske sjó, þó nú virðist það miður ætlandi. Má og vera að þeir hafi verið notaðir til einhvers við akurinn, t. a. m. til að láta vatn standa í (Vandbeholdere). Þeir eru nú grasi grónir innan. Engar sögur hafa menn nú um bolla þessa, en þeir eru svo frábrugnir öllum hlutum þar í nánd, að mér þótti þeir eftirtektarverðir. Þeir eru hér um bil 3 til 5 faðma í þvermæli“.

Sandgerði

Sandgerði og nágrenni – herforingjaráðskort 1903; Rosmhvalanes.

Árið 1703, er Árni Magnússon og Páll Vídalín ferðuðust um Gullbringusýslu, lýstu þeir jörðinni Sandgerði allnákvæmlega, og er þá lýsingu að finna í jarðabók þeirra. Um þær mundir var eigandi og ábúandi Sandgerðis Vilhjálmur Jónsson lögréttumaður. Ekki hafði hann stórt bú á svo mikilli jörð. Kvikfénaður var talinn þessi: „Sjö kýr, ein kvíga tvævetur, ein kvíga veturgömul, einn kálfur, sextán ær, tólf sauðir veturgamlir, tveir tvævetrir, lömb tíu, tveir hestar“. Hlunnindi jarðarinnar voru ekki margvísleg, og bar þar útræðið langt af öðrum. Hlunnindum lýsir jarðabókin svo:
„Torfrista og stunga engin nema í sendinni jörð. Lyngrif nokkuð lítið. Eldiviðartak af fjöruþangi bæði lítið og erfitt. Sölvatekja fyrir heimamenn. Grasatekja nærri því engin. Eggver nokkuð lítið af kríu, en hefur áður betra verið. Rekavon nokkur.

Sandgerði

Sandgerði – Hamarssund.

Heimiræði er árið í kring og ganga skip ábúandans eftir hentugleikum; áður hafa hér stundum gengið inntökuskip fyrir undirgift, sem ábúandinn eignaðist; mætti og enn vera ef fiskirí tekist. Lending er góð. Sjór og sandur brjóta nokkuð á túnin þó ekki til stórmeina enn nú. Vatnsból sæmilegt en bregst þó, en það mjög sjaldan“.
Árið 1703 fylgdu Sandgerði hvorki meira né minna en níu hjáleigur, er svo hétu: Bakkakot, Krókskot, Landakot. Tjarnarkot, Harðhaus (?), Gata, Stöðulkot, Bakkabúð og Helgakot. Tvær hinar síðastnefndu voru komnar í eyði, önnur fyrir meira en 10 árum, hin fyrir nær 30 árum.

Reykjanes og Miðnes - sjóslys

Reykjanes og Miðnes – sjóslys.

Þessi mikli fjöldi af hjáleigum á ekki víðlendara né gróðurríkara svæði en Sandgerðishverfið er, talar skýru máli um það, að afkomumöguleikar fólksins hafa fyrst og fremst verið við sjóinn bundnir. Það var útræðið, sem gerði hjáleigumönnum kleift að haldast við á þessum stað. Ella hefði þar verið ólíft með öllu.
Árið 1839, þegar Sigurður B. Sívertsen, prestur á Útskálum, samdi sóknarlýsingu sína, taldi hann Sandgerði einhverja fallegustu jörðina þar um slóðir, kvað túnið grasgefið og í góðri rækt, en kvartaði undan því að sjór bryti þar upp á svo að til mikils tjóns horfði. Þá voru enn sex hjáleigur bvggðar frá Sandgerði og útræði mikið stundað.

Umhverfið
Í Sandgerði er lending góð. Þar er eitthvert hið bezta og tryggasta sund fyrir sunnan Skaga. Það heitir Hamarssund.

Sandgerði

Sandgerði – erfið innsigling.

Sundið er fremur mjótt og blindsker á báða vegu, svo að voði er fyrir höndum ef nokkuð ber út af. Þarf því allmikla nákvæmni og kumiugleik til að taka sundið rétt, þegar illt er í sjóinn, enda er þá nauðsynlegt að kunna skil á straumaköstum þar. En sé rétt að farið, er sundið hættulaust í öllu skaplegu.
Sandgerðishöfn myndast af Bæjaskerseyri að sunnan og vestan, en Sandgerðis- og Flankastaðalandi að norðan og austan. Mynni víkurinnar snýr í norðurátt. Að sunnanverðu við sundið, sem siglt er um inn á höfnina, er skerig Bóla, en skerið Þorvaldur að norðanverðu. Sú frásaga er höfð í munnmælum, að bóndi einn hafi í fyrndinni búið á Flankastöðum og átt sonu, efnispilta hina mestu. Sóttu þeir sjó af kappi, og réru úr Sandgerðisvík. Einhverju sinni komu þeir úr róðri og lögðu á sundið.

Flankastaðir

Flankastaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Stórstraumsfjara var og bára mikil. Steytti skipið á hellu nokkurri í miðju sundinu, hvolfdi því og drukknuðu menn allir. Bónda féllst mjög um atvik þetta. Litlu síðar rann á hann hamremmi. Fór hann þá út með menn sína og tóku þeir að þreyta fangbrögð við helluna. Tókst þeim að reisa hana upp sunnan til við sundið, og er hún sker það hið mikla, sem nú kallast Bóla. Eftir þessar aðgerðir reyndist sundið nægilega djúpt hverju skipi.
Út af skerinu Bólu, sem eins konar framhald af Bæjaskerseyri, er rif eitt mikið, sem Bólutangarif heitir. Skagar það langt í sjó fram, og mega skip hvergi nærri koma, svo að þeim sé ekki grand búið. Eru dæmi þess, að fiskiskip og jafnvel kaupför hafi strandað á Bólutangarifi. Árið 1839 strandaði þar frönsk húkkorta frá Dunkirque. Menn komust af allir, en skip braut í spón.

Sveinbjörn Þórðarson

Sandgerði

Sandgerði – bátar.

Litlu eftir miðja 19. öld, fluttist sá maður frá Hrauni í Grindavík og að Sandgerði, sem Sveinbjörn hét og var Þórðarson. Sveinbjörn var fæddur árið 1817. Snemma varð hann alkunnur maður um allan Reykjanesskaga fyrir fádæma dugnað, kapp og áræði. Svo var harðhugur Sveinbjarnar mikiil og sjósókn hans grimm, að flestum blöskraði, jafnvel þeim, sem ýmsu voru vanir og köllu ekki allt ömmu sína. Sveinbjörn var hverjum manni skjótráðari og ákafari, svo að óðagot hans varð stundum ærið hlátursefni.
Eftir að Sveinbjörn Þórðarson fluttist til Sandgerðis, rak hann þar gott bú og sinnti útræði af ofurkappi. Auðgaðist hann brátt að fé. Þá var það, að hann lét smíða lítinn þiljubát, sem Skarphéðinn var nefndur.

Sandgerði

Sandgerði – steinbryggja og fiskhús.

Gerði hann bátinn út um skeið, aðallega til lúðu- og þorskveiða í Reykjanesröst og þar í kring. Var Sveinbjörn sjálfur formaður bátsins. En er hann hafði átt Skarphéðinn í fjögur ár eða þar um bil, rak bátinn upp í klappirnar norðan við Sandgerðisvík, í ofsaveðri á suðaustan, og brotnaði hann í spón. Þá varð Sveinbirni að orði, er hann sá bát sinn í braki og bútum: „Kári skal hefna Skarphéðins!“ Lét hann ekki sitja við orðin tóm, en hóf samstundis smíð á nýjum þiljubát, er hann nefndi Kára. Þann bát notaði Sveinbjörn til fiskveiða að sumarlagi, og mun hafa átt hann um alllangt skeið. Jón, sonur Sveinbjarnar, var formaður bátsins hin síðari ár. Var hann, eins og faðir hans, sjógarpur hinn mesti og tilheldinn. Stýrði hann áttæringi þeirra feðga á vetrum, og sat einatt fram í rauða myrkur, svo framarlega sem veður leyfði. Þá formenn, er það gerðu, kölluðu Sunnlendingar setuhunda.

Sandgerði

Sandgerði – fjara, fiskhús og bryggja.

Það þóttust menn vita, að fráleitt hefðu viðtökurnar verið blíðar hjá Sveinbirni gamla, hefði sonur hans lagt það í vana sinn að koma fyrr að landi en karli þótti hóf að vera. Var sagt, að Sveinbjörn ýtti helzt til of undir syni sína að róa, stundum jafnvel út í nálega ófæru.
Var hann einatt óður og uppvægur, æddi um hús öll og tautaði, unz Jón stóðst ekki lengur mátið, kallaði á Einar bróður sinn og aðra menn sína og ýtti á flot. Hægðist karli þá í bili. En þegar þeir voru komnir út fyrir sundið, umsnerist Sveinbjörn á nýjan leik og sagði að þeir væru helvítis flón, þessir strákar sínir, að æða út í vitlaust veður. Gat hann síðan naumast á heilum sér tekið alla þú stund sem synir hans voru á sjónum, og hægðist ekki fyrr en þeir voru komnir heilu og höldnu í land.

Sandgerði

Sandgerði – trébryggja og geymsluhús.

Einhverju sinni er veður var ískyggilegt, höfðu þeir bræður, Jón og Einar, róið í skemmra lagi. Var ekki laust við að þess sæist vottur, er aflinn var athugaður, að þar hefði skotizt þaraþyrslingur innan um. Sveinbirni gamla þótti slælega að verið, en hafði þó venju fremur fá orð um að sinni. Næstu nótt var enn hið verstaveðurútlit, og ákváðu þeir bræður að sitja heima og róa hvergi. Að morgni, þegar Sveinbjörn gamli kom á fætur, sér hann að veður er allgott, en verður þess var, að synir hans hafa ekki róið. Verður hann nú ofsareiður, veður inn til þeirra, og sváfu báðir. Segir Sveinbjörn þá með þjósti miklum: „Ykkur hefði verið nær að fara út í þara og sofa þar!“ Strax og karli rann reiðin, sá hann eftir orðum sínum, og var það oft síðan, er synir hans voru á sjó í vondu veðri, að hann minntist ónotalega þessara ummæla.
Hér fer á eftir frásögn um fyrirbæri nokkuð, sem kunnugir menn fullyrða að hafi orðið í Sandgerði. Hafa sumir sett það í samband við Jón Sveinbjörnsson og drukknun hans. Aðrir telja, að þar sé ekkert samband á milli.

Höfuðskeljar
SandgerðiFyrir allmörgum árum bar svo við, að höfuðkúpur tvær rak á land í Sandgerði. Einhverjir tóku þær úr fjörunni og báru upp til húsa. Enginn vissi nein deili á höfuðkúpum þessum, en það þótti sýnt, að þær voru jarðneskar leifar sjódrukknaðra manna. Benti margt til þess, að þær væru nokkuð gamlar og hefðu velkst lengi í sjó. Lítt var um höfuðkúpur þessar hirt í fyrstu, og ekki voru þær færðar til greftrunar eða veittur neinn sá umbúnaður, sem hæfa þykir leifum dauðra manna. Lágu höfuðkúpurnar innan um allskonar skran í vörugeymsluhúsi og þoldu misjafna meðferð. Var loks svo komið, að flestir höfðu gleymt fundi þessum, og vissu fáir hvar höfuðkúpurnar voru niður komnar.

Hauskúpa

Hauskúpa.

Þá urðu þau atvik er nokkuð var frá liðið, að berdreymir menn tóku að láta illa í svefni og þóttust verða ýmissa hluta varir. Hinir aðrir, er ekkert dreymdi, höfðu slíkt allt í flimtingum, kváðu lítt mark takandi á þess konar rugli og hindurvitnum. Þrátt fyrir öll slík ummæli, tók það nú að verða æ tíðara, að draumvísir menn yrðu þess áskynja, að til þeirra kæmu halir tveir, er báðu þess, að eigi væri hraklega með höfuðbein sín farið. Báðu þeir þess einatt með mörgum fögrum orðum, að þeim væri komið í einhvern þann stað, þar sem þeir gætu verið í friði og rnættu horfa út á sjóinn. Létu þeir svo um mælt, að ekki myndi bátur farast eða slys verða á Hamarssundi, meðan þeir fengju að líta fram á hafið. Ágerðust draumfarir þessar smám saman, og var erindi hinna látnu sæfara einatt hið sama. Báðu þeir stöðugt um að fá að horfa út á sundið.
SandgerðiNokkuð bar á því um skeið, að hinir framliðnu létu sér ekki nægja að vitja manna í draumi. Urðu ýmsir varir við eitt og annað þótt vakandi væru. Mergjaðasta draugasagan, $em við hauskúpurnar er tengd, hefur verið sögð á þessa leið:
Það var einhverju sinni, að sjómenn nokkrir áttu leið um húsið, þar sem hauskúpurnar lágu. Með var í förinni ungur maður, ærslafenginn nokkuð og djarfmæltur. Gekk hann þar að, sem höfuðkúpurnar voru, þreif til þeirra ómjúklega og manaði eigendur beina þessara til að birtast sér í vöku eða svefni, ef þeir væru ekki alls vesælli. Að því búnu varpaði hann frá sér höfuðskeljunum og gekk burtu hlæjandi.

Sandgerði

Frá Sandgerði fyrrum.

Hið sama kvöld var veður ekki gott og réru engir. Gekk sjómaður þessi til náða ásamt félögum sínum. Svaf hann á efri hæð í tvílyftu húsi, og var svo til hagað, að svefnskálar sjómanna opnuðust allir að sameiginlegum gangi, sem lá eftir endilöngu húsinu.
Leið nú af kvöldið, og bar ekkert til tíðinda. Um miðnæturskeið, er flestir voru sofnaðir, varð maður einn, er í fremsta svefnskálanum hvíldi, var við það, að hurðin opnaðist og inn var gengið í skálann. Sér hann að inn koma karlmenn tveir, og er annar stórvaxinn mjög. Verður honum bilt við og leggja ónot um hann allan, en hvergi má hann sig hræra. Ganga komumenn inn skálann og lúta að hinni fremstu rekkju, svo sem leiti þeir einhvers. Hljóðlaust hverfa þeir þaðan og halda áfram ferð sinni frá einni hvílu til annarar. Er þeir höfðu farið um allan skálann, hurfu þeir út jafnhljóðlega og þeir komu.
SandgerðiFáar mínútur liðu. Heyrðist þá vein rnikið og svo ámátlegt, að það vakti af værum blundi alla þá, er á svefnloftunum sváfu. Hrukku menn upp með andfælum, kveiktu ljós í skyndi og tóku að leita orsaka þessa fyrirbæris. Reyndust hljóðin koma frá hvílu sjómanns þess, sem fyrr um daginn hafði gamnað sér við höfuðkúpurnar. Var hann kominn hálfur fram á rekkjustokkinn og hékk höfuðið fram af. Hafði hann andþrengsli svo mikil, að lá við köfnun, og allur var hann orðinn blár og afmyndaður ásýndum.
Fóru félagar hans að stumra yfir honum og kom þar brátt, að honum hægðist nokkuð. Leið þetta smám saman frá. Þegar hann hafði að mestu leyti náð sér, var hann spurður um orsakir til þessa atviks. Kvaðst hann hafa verið sofnaður sem aðrir í skálanum. Þótti honum þá sem maður kæmi inn í skálann og gengi að rekkju sinni. Var hann reiður mjög, og mælti á þá leið, að nú skyldi hefnt hæðnisorða þeirra, sem fallið hefðu um daginn, og annara mótgerða við sig. Við sýn þessa og orð komumanns, dró allan mátt úr sjómanninum. Fann hann að hinn óboðni gestur beygði sig niður að rekkjunni. Þóttist hann þá skynja óglöggt í myrkrinu, að ekki væri hér holdi klædd vera á ferð, heldur beinagrind ein.

Sandgerði

Sandgerði – nokkur húsa h.f. Miðness.

Í þeim svifum læsti beinagrindin berum kjúkunum um kverkar honum og herti að sem fastast. Tókst honum með erfiðismunum miklum að gefa frá sér óp það, er vakti hina sjómennina. Þegar er ljósinu var brugðið upp, hvarf hinn óboðni gestur.
Sjómaður þessi hafði ekki kunnað að hræðast, en mátti nú ekki einn sofa og vildi helzt láta yfir sér loga ljós á hverri nóttu. Ella þótti honum sem beinagrindin sækti að sér og sæti um að kyrkja sig.

Nokkru eftir að atburður þessi gerðist, urðu eigendaskipti að fiskveiðistöð þeirri, sem vörugeymsluhús það tilheyrði, sem höfuðkúpurnar voru í. Þegar hinn nýji eigandi hafði kynnt sér alla málavöxtu, lagði hann svo fyrir, að höfuðkúpurnar skyldu teknar úr vörugeymslunni.

Sandgerði

Sandgerði – byggingar.

Var síðan smíðaður utan um þær kassi eða stokkur, með gleri á þeirri hliðinni, sem fram vissi. Kassa þessum var síðan valinn staður í aðalglugga verzlunarinnar. Þaðan blasti við höfnin, svo að nú var öllu réttlæti fullnægt.
Svo virðist og, sem eigendur höfuðskeljanna yndu nú betur hlutskipti sínu en áður, því að mjög dró úr öllum draumum og tók fyrir flest það, sem menn höfðu viljað reimleika kalla.
Fyrir þrem eða fjórum árum var kassinn með höfuðskeljunum tekinn úr búðarglugganum og honum valinn staður þar sem minna ber á. Eru kúpurnar enn í kassa sínum í húsi einu frammi við sjó. Verða þær að horfa í gegnum héðan vegginn, en virðast una því hið bezta.

Dönsk útgerðartilraun

Lauritz Ditlev Lauritzen

Lauritz Ditlev Lauritzen (1859-1935).

Árið 1906 hófust miklar umræður í dönskum blöðum um auðæfi hafsins við strendur Íslands. Gekk þar maður undir manns hönd til að sannfæra Dani um það, að fátt væri gróðavænlegra og líklegra til skjótrar auðsöfnunar, en að nytja vel þær gullnámur, sem íslenzku fiskimiðin væru. Var rætt um það fram og aftur, að það væri Dönum meira en meðalskömm, hversu stórfeldir möguleikar lægju ónotaðir, meðan ekki væri hafizt handa um mikla útgerð á íslandi. Þyrfti nú að gera gangskör að því, sögðu blöðin, að kom upp miklum Íslandsflota, og reisa á hentugum stöðum fiskveiðistöðvar í stórum stíl.
Blaðaskrif þessi komu allmikilli hreyfingu á málið, og urðu þess valdandi, að fjármálamenn ýmsir tóku að kynna sér þennan möguleika. Í fremstu röð þeirra manna, sem horfðu hingað rannsóknaraugum, var D. Lauritzen, konsúll í Esbjerg. Hann var enginn byrjandi á sviði útgerðarmála, hafði rekið mikla fiskútgerð í Danmörku, og var öllum þeim hnútum kunnugur. Lauritzen beitti sér nú fyrir stofnun öflugs félags, er reka skyldi fiskveiðar við ísland og í Norðursjó, bæði á vélskipum og gufuskipum.

Sandgerði

Sandgerði – bryggja og viti.

Sumarið 1907 vann Lauritzen að félagsstofnuninni, en lét þó ekki þar við sitja. Þegar á því ári sendi hann út hingað nokkur skip, er stunduðu fiskveiðar fyrir Vestur- og Norðurlandi. Veiðin gekk mjög illa, svo að stórtjón varð á útgerðinni. Var það ekki glæsilég byrjun, en þó lét Lauritzen þetta hvergi á sig festa.
Lauritzen konsúll vildi kynnast sem flestu, er til sjávarútvegs heyrði og að gagni mætti koma við fiskveiðar frá Íslandi. Ferðaðist hann hingað í því skyni, — var með í konungsförinni 1907, — og gerði sér þá ljóst, að fyrsta skilyrðið til góðs árangurs var að ráða vel hæfan og þaulkunnugan Íslending í þjónustu félagsins. Fyrir valinu varð Matthías Þórðarson, skipstjóri frá Móum á Kjalarnesi. Skyldi hann gerast framkvæmdastjóri félagsins á Íslandi þegar er það væri formlega stofnað, og annast vélbátarekstur allan, er þar yrði.

Sandgerði

Sandgerði – nýr viti í smíðum.

Haustið 1907 var smiðshöggið rekið á félagsstofnunina. Langstærstu hluthafarnir voru D. Lauritzen, konsúll í Esbjerg og J. Balslev, stórkaupmaður í Kaupmannahöfn. Auk þess voru ýmsir minni hluthafar, þar á meðal nokkrir Íslendingar. Hlutaféð var ákveðið 300 þús. kr., en mátti auka það að vild upp í 1/2 millj. kr. Skyldi félagið hafa aðalbækistöð í Kaupmannahöfn. Í stjóm þess voru kjörnir eftirtaldir menn: D. Lauritzen, konsúll í Esbjerg, formaður og meðstjórnendur Joh. Balslev, stórkaupmaður, J. Krabbe, yfirréttarmálafærzlumaður og C. Trolle, sjóliðsforingi, allir í Kaupmannahöfn og Ágúst Flygenring, kaupmaður í Hafnarfirði.

Sandgerði

Sandgerði – fiskaðgerðarhús Haraldar Böðvarssonar.

Eitthvert fyrsta verkefnið, sem Lauritzen, konsúll varð að leysa af höndum, var að kynna sér það sem rækilegast, hvar skilyrði til útgerðar væru einna vænlegust við strendur landsins. Ætlunin var sú, að reka vélbátaútgerð í stórum stíl, en auk þessi átti að stunda veiðar á togurum og línugufuskipum. Þá var og til þess hugsað, að notfæra sér síldarmiðin fyrir Norðurlandi. Ýmsir staðir komu til athugunar.
Eftir nokkra könnun var ákveðið að Sandgerði í Miðneshreppi yrði fyrir valinu sem fiskveiðistöð fyrir vélbáta, er stunda áttu þorskveiðar með línu bæði vor og sumar. Það var talið af kunnugum, að skilyrði væru einhver hin beztu, sem hugsast gæti. Þá mun það og hafa ráðið nokkru um val staðarins, að þar var íshús þeirra Hjálmarsson frá Mjóafirði, og stóð nú autt. Var því engum erfiðleikum bundið að fá það keypt fyrir lítið fé. Samningar tókust einnig greiðlega við eiganda jarðarinnar, Einar Sveinbjörnsson. Var síðan hafizt handa um framkvæmdir.
Þessu næst var Hafnarfjörður valinn að bækistöð fyrir botnvörpuútgerðina, en Siglufjörður sem síldarstöð.

Sandgerði

Sandgerði – fiskaðgerð.

Aðalstjórnandi þessa nýja fiskveiðifélags var ráðinn J. Balslev, og hafði hann skrifstofur sínar í Kaupmannahöfn. Auk hans gengu í þjónustu félagsins þrír framkvæmdastjórar. Einn þeirra, Adamsen að nafni, skyldi hafa aðalstjórn á útveginum í Esbjerg, en þar átti að vera ein deild félagsins. Annar, S. Goos, hafði aðalumsjónina hér á landi, og annaðist reikningsfærzlu. Hann bjó í Hafnarfirði. Hinn þriðji, Matthías Þórðarson, átti að hafa umsjón með vélbátaútgerðinni í Sandgerði, eins og fyrr segir.
Innarlega við Sandgerðisvík að austanverðu, út frá Sandgerðistúninu, liggur hólmi nokkur, umflæddur á flóði. Nefnist hólmi þessi Hamar, enda eru þar víða berar klappir. Á hólma þessum lét hið nýja útgerðarfélag reisa hús allstór. Voru það bæði fiskhús, salthús og bækistöð til að beita í línu fiskibátanna. Framan við Hamarinn var gerð steinbryggja, 10 fet á hæð og 75 álnir á lengd. Öll var bryggja þessi steypt og hlaðin úr höggnu grjóti. Var grjótið höggvið úr klettum þeim, sem næstir voru.

Sandgerði

Sandgerði – hús og trébryggja.

Þá var gerð trébryggja frá landi og niður á Hamarinn. Var lengd hennar um 70 álnir. Fiskhúsið á Hamrinum þótti myndarleg smíð. Það var 35 álnir á lengd og 16 álnir á breidd. „Bólverk“ allstórt eða fiskaðgerðarsvæði var steypt fyrir framan húsið. Breidd þess var 10 álnir.
Þá var ennfremur reist stórt hús, — eða öllu heldur tvö hús sambygð —, fyrir ofan Hamarinn. Var annað húsið íbúðarhús fyrir verkafólk, skrifstofur og eldhús, en í hinum hlutanum var verzlun og vörugeymsla.
Allar þessar byggingar voru reistar að fyrirsögn Matthíasar Þórðarsonar og undir umsjón hans. Tók verkið skamman tíma og var að mestu leyti lokið á fimm mánuðum. Mannvirki þessi öll munu ekki hafa kostað nema um 50 þús. kr.

Bágborin sjómennska

Sandgerði

Sandgerði – Nelly við bryggju.

Um miðjan marzmánuð 1908, kom fyrsta skipið frá félagi þessu til að fiska hér við land. Var það togari er „Britta“ hét. Á togara þessum voru að mestu leyti íslenzkir hásetar, en skipstjóri og stýrimaður danskir. Ráðinn var íslenzkur fiskiskipstjóri, og fór „Britta“ síðan út á veiðar. Litlu síðar kom annað skip félagsins, línuveiðarinn „Nelly“. Á „Nelly“ voru skipverjar allir Norðmenn. Bæði voru skip þessi gömul og illa löguð til fiskveiða hér við land. Afli reyndist nauðatregur, og mun félagið hafa orðið fyrir allmiklum skaða á þessari útgerð.
Frá því um miðjan júlímánuð og þar til í septemberbyrjun, stunduðu „Britta“ og ,,Nelly“ síldveiðar frá Siglufirði. Afli var góður, en síldin seldist fyrir smánarverð. Fór því svo, að síldarleiðangurinn svaraði naumast kostnaði.

Sandgerði

Sandgerði – síldarsöltun.

Í byrjun maímánaðar komu fyrstu Danirnir, sem fiska áttu frá Sandgerði, og höfðu með sér tvo opna vélbáta. Um miðjan mánuðinn komu tólf vélbátar frá Esbjerg, 15—20 smálestir að stærð. Áttu þeir einnig að stunda línuveiðar frá Sandgerði. Bátar þessir voru allt tvístöfnungar, vel smíðaðir og góðir í sjó að leggja, en vélarnar reyndust gersamlega ófullnægjandi. Var það hvort tveggja, að þær voru of litlar og illa gerðar, svo að bilanir máttu heita daglegt brauð. Lágu sumir bátarnir stöðugt vélvana og í algerum ólestri. Var og ekki hlaupið að því að fá viðgerð í fljótu bragði, og mátti einu gilda hvort stórt var eða smátt, sem úr lagi hafði gengið. Þurfti að leita með hvað eina til Reykjavíkur, en það reyndist tafsamt og kostnaðarmikið.

Sandgerðisgata

Sandgerðisgata.

Væri það lítilræði, sem bilað hafði, var einatt til þess gripið að senda röskan mann gagngert með hinn brákaða hlut til Reykjavíkur, en það var hvorki meira né minna en fullur tólf stunda gangur. Mátti því ekki slæpast ef komast átti á einum degi hvora leið, sízt þegar bera þurfti allþunga pinkla, sem oftast var.
Skipverjar á þessum józku bátum voru allir danskir. Aðeins var ráðinn einn íslenzkur leiðsögumaður eða fiskiskipstjóri, sem átti að,,lóðsa“ allann flotann á fiskimiðin. Í landi voru 40—50 íslenzkar stúlkur, sem beittu línuna, 4—5 stúlkur við hvern bát. Útgerðinn gekk mjög skrykkj ótt, og mátti raunar segja að á flestum bátunum færi allt í handaskolum. Voru það ekki nema opnu bátarnir tveir, sem komust upp á lag með að fiska svo að nokkru næmi. Þar voru aðeins þrír menn á sjónum, tveir Danir og einn Íslendingur á hvorum. Allir fiskuðu bátarnir með línu. Bar margt til þess, hversu lélegur árangur varð af tilraun þessari. Þess er fyrr getið, hve lélegar vélar bátanna voru.

Síldarnet

Síldarnet.

Mátti heita að tveir þeirra lægju rígbundnir við bryggju allt sumarið, og komust ekki út fyrir höfnina án þess að allt endaði með ósköpum og skelfingu. Þá voru yfimennirnir algerlega ókunnugir öllum staðháttum hér við land, og höfðu ekki hugmynd um hvernig hentast væri að bera sig til við línuveiðar á Íslandsmiðum.
Enn kom það til, að veiðar þessar voru reyndar að sumarlagi, en þá er jafnan minnstur fiskur í Faxaflóa og út af Reykjanesi. Loks er þess að geta, að hinir dönsku sjómenn reyndust heldur illa. Voru þeir daufir og áhugalausir um sjósókn, en drukku bæði oft og mikið. Sá var fastur siður þeirra, að róa aldrei á laugardögum.

Sandgerði

Sandgerði – við línudráttinn.

Vildi það við brenna hjá sumum a. m. k., að þeir fleygðu línunni örgrunnt á leirinn á föstudagskvöldum, til að vera kamnir í land um hádegi á laugardögum; þá stokkuðu þeir upp línuna og fóru í betri brækurnar. Síðan var efnt til dansleiks í beitingaskúrunum á laugardagskvöldum. Þangað komu að sjálfsögðu beitingastúlkurnar og auk þeirra allmikið meyjaval úr nágrenninu. Drykkjuskapur var mikill og enginn skortur á áfenginu. Var sá siður hafður, að blikkfata, full af brennivíni, stóð á hentugum stað, nálægt því sem dansinn var troðinn, og spilkoma eða bolli hjá fötunni. Fékk sér þar hver sem vildi, og var sótt í skjóluna eftir þörfum, líkt og þegar farið er til brunns eftir vatni.
Oft var ,,ástand“ mikið um helgar, og þótti einna hentugast form þess að fara í „eggjaleit“ upp um heiði, en þar verptu fáeinar kríur. Alla sunnudaga slæptust Danir í landi og gerðu ekki handarvik. Síðan beittu þeir á mánudögum og réru þá loks um kvöldið. Þótti Íslendingum þetta helzt til mikið gauf og slóðaskapur, enda voru þeir meiri og harðvítugri sjósókn vanir.
Að lokinni sumarvertíðinni 1908, fór Lauritzen, konsúll að kynna sér það, hvernig félaginu hafði reitt af. Kom þá í ljós það, sem raunar var áður vitað, að stórtap hafði orðið á allri útgerðinni. Urðu þetta slík vonbrigði fyrir eigendur og stjórnendur félagsins, að þeir ákváðu að hætta allri útgerð við Ísland og selja fasteignir þær, sem félagið átti þar. Varð þetta til þess, að löngun Dana til að ráðast í útgerðarbrask á Íslandi rénaði stórum.

(Í annarri grein verður sagt frá útgerð Matthíasar Þórðarsonar, Lofts Loftssonar og Haraldar Böðvarssonar).

Heimild:
-Sjómannablaðið Víkingur, 8. tbl. 01.08.1945, Útgerðarstaðir og verstöðvar – Sandgerði, Gils Guðmundsson, bls. 172-179.

Sandgerði

Fiskimið á Íslandi fyrrum.

Sandgerði

Gísli Sigurðsson fjallar um „Forvitninleg hús á förnum vegi“ í Lesbók Morgunblaðsins 1999, þar á meðal „Efra-Sandgerði“ í Sandgerðisbæ.

Sandgerði

Sandgerði – örnefni.

Þegar gamli Sandgerðisbærinn (Neðra-Sandgerði), sem stóð um aldir, eða allt frá því um 1200, niður við sjóinn skammt ofan við Hamarsundið í Sandgerðisvík, upp af Stokkavör ofan við núverandi Sjávarbraut, hætti að þjóna hlutverki sínu sem útvegsbændabýli þar sem frá upphafi hafði verið stunduð sjósókn frá Sandgerði á opnum bátum, enda stutt í fengsæl mið, húsakynnin orðin léleg og nýir og bættir atvinnuhættir að hefja innreið sína, keyptu fjársterkir aðilar jörðina. Í stað þess að ætla sér að hýrast í gamla torfhúsakotinu byggðu þeir sér nýtt og stærra hús úr timbri ofar í landareigninni og nefndur Efra-Sandgerði. Upp frá því myndaðist þar umleikis hverfi og síðan bær, sem hefur til langs tíma byggt afkomu sína á útgerð, líkt og var gert fyrrum, en nú með öðrum og með betri áhöldum en áður þekktust.

Efra-Sandgerði

Efra-Sandgerði – líkan á Byggðasafninu á Garðskaga, gert af Sigurði Hilmari Guðjónssyni.

„Sum hús eiga sér merka sögu, önnur eru bara skrýtin og skemmtileg. Á ferðum sínum um landið hefur blaðamaður Lesbókar átt stefnumót við dálítið öðruvísi hús en þau sem kynnt hafa verið í Lesbók annað veifið.

Þegar komið er til Sandgerðis eftir veginum norðan frá Garðskaga vekur einstakt hús athygli á útmörkum bæjarins. Sandgerðingar búa í einbýlishúsum og þau eru yfirleitt steinsteypt og bera öll merki þessarar aldar og nútímans. En þetta bárujárnsklædda og blámálaða hús, sem heitir Efra-Sandgerði, vísar aftur til 19. aldar, en ber jafnframt með sér að einhver annast um það af kostgæfni.

Efra-Sandgerði

Efra-Sandgerði. Ljósmynd frá ljósmyndasafni Akraness.
Texti: Efra-Sandagerði, við norðurhlið og er það elsta húsið í Sandgerði, byggt árið 1883 Frá vinstri: Óþekktur, óþekktur, óþekkt, óþekkt, óþekkt, óþekkt, óþekkt, óþekktur, óþekktur, Sturlaugur Haraldsson Böðvarsson (1917-1976), óþekkt, Ingunn Sveinsdóttir (1887-1969), óþekkt, óþekkt, óþekkt, óþekkt, óþekkt og óþekkt.

Það kemur raunar í ljós þegar að er gáð, að Efra-Sandgerði er elzta húsið í Sandgerði og að það á sér 116 ára sögu. Sú saga hófst með skipsstrandi sem varð happafengur fyrir húsakost í næsta nágrenni líkt og skipsstrandið nokkru síðar austur í Selvogi sem varð til þess að Árnesingar fengu ódýran húsavið.
Það var árið 1881 að kaupfarið James Town rak mannlaust að landi við Þórshöfn, skammt sunnan við Stafnes. Ekki hef ég rekizt á heimildir um hvað varð af skipshöfninni; hvort henni var bjargað í annað skip, eða hvort allir fórust. En svo mikið er víst að skipið var hlaðið húsaviði. Segja heimildir að þar hafi verið um 100 þúsund plankar og áttu menn erfitt verk fyrir höndum að koma farminum í land. En allt þetta timbur var vitaskuld eins og hver önnur himnasending, því mikill skortur var á timbri. Á næstu mánuðum risu mörg myndarleg timburhús á Suðurnesjum og Efra-Sandgerði var eitt þeirra.

Efra-Sandgerði

Efra-Sandgerði 2025.

Húsbyggjandinn þar var Sveinbjörn Þórðarson útvegsbóndi í Sandgerði, fæddur 1817 á Járngerðarstöðum í Grindavík, þá talinn annar auðugasti maður á Suðurnesjum á eftir Katli Ketilssyni í Kotvogi í Höfnum. Hann gerði út marga báta og átti auk þeirra nokkur þilskip. Litlar heimildir er að hafa um byggingu Efra-Sandgerðis en séra Sigurður B. Sívertsen segir í Suðurnesjaannál sínum að mörg hús hafi verið í smíðum haustið 1883, „þeirra mest Sandgerði hjá Sveinbirni bónda“.
Sími var fyrst lagður suður til Sandgerðis 1915 og þá í húsið Efra-Sandgerði, sem um tíma varð símstöð í plássinu. Enda þótt grunnflötur hússins sé aðeins um 60 fermetrar var oft þétt setinn bekkurinn í húsinu, en það var þó fremur regla en undantekning á fyrstu áratugum aldarinnar.

Efra-Sandgerði

Seinna ankerinu af James Town komið fyrir við Efra-Sangerði árið 2010. Þetta var vel við hæfi því viðurinn í húsinu er reki frá skipinu 1881.

Fyrir utan heimilisfólk fengu sjómenn á vertíðum að búa í húsinu og þar að auki voru þar 3-4 vinnukonur sem bjuggu í „stúlknaherberginu“.
Tvær stofur voru á jarðhæð, „Hornstofan“ og „Laufeyjarstofa“. Í suðurenda var stúlknaherbergið en þrjú herbergi á loftinu. Kolaofn var í stofunni og engin önnur upphitun, en í einangrun hafði verið notaður mór og ýmis skonar dót; þar á meðal fannst skinnskór. Oft var kalt í Efra-Sandgerði; einnig það var regla fremur en undantekning í húsum af þessu tagi. Í viðbyggingu að norðan var upphaflega hlóðaeldhús og barst þaðan reykur upp á loftið; var stundum talað um „svartaloft“ og „svartagang“. Spölkorn sunnan við húsið voru hlaða, hesthús og 8-9 kúa fjós, en mjólk var seld til bátanna í Sandgerði.

Sandgerði

Sandgerði – hluti tófta gamla Sandgerðisbæjarins.

Svo fór að Efra-Sandgerði þótti ekki íbúðarhæft og lengi stóð húsið mannlaust og vildu sumir rífa það eða brenna. Af því varð þó ekki og svo fór fyrir 20 árum að Lyonsklúbburinn í Sandgerði eignaðist húsið og þar er nú félagsheimili klúbbsins.
Á síðustu tveimur áratugunum hefur verið unnið að endurgerð Efra-Sandgerðis og er nú aðeins lítilháttar verk eftir á loftinu. Allir gluggar hafa verið endursmíðaðir í upprunalegri gerð, nema hvað þeir eru tvöfaldir og komin er hitaveita í stað kolaofnsins og veggir einangraðir á nútímavísu. Upprunalega var standandi timburklæðning utan á húsinu úr 2,5×7 tommu borðum, en með tilkomu bárujárns fyrir aldamótin var húsið járnklætt og er það enn.
Fyrir Lyonsklúbbinn og Sandgerðinga alla er sómi að Efra-Sandgerði, húsinu sem speglast í góðu veðri í Kettlingatjörn og er ólíkt öllum öðrum húsum í bænum.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 13.11.199, Forvitnileg hús á förnum vegi, Efra-Sandgerði, Gísli Sigurðsson, bls. 12.
Efra-Sandgerði

 

Hvalsnesgata

FERLIR hafði vinsamlega sótt um leyfi til lögreglu- og tollyfirvalda á Keflavíkurflugvelli að fá að fylgja hinni fornu Hvalsnesgötu frá Keflavík að Hvalsnesi. Leyfisbeiðnin fólst í að fá að fylgja fornu götunni í gegnum hið svonefnda „ytra varnarsvæði“ vallarins, sem í dag verður að teljast alger tímaskekkja.

Hvalsnesleið

Hvalsnesleið – ytri varnargirðingin.

Þegar hvorutveggja yfirvöldin svöruðu engu um alllangt skeið, líkt og opinberum stofnunum er líkt, var bara ákveðið að fara með stóran hóp áhugasamra landmanna nefnda leið, allt frá Keflavík, upp með Róselsvötnum að kirkjunni á Hvalsnesi um Melaberg.
Reyndar þurfti að takast á við óþarfa manngerðar hindranir á leiðinni, en með góðum undirbúningi var fyrirhöfnin vel þess virði. Gat á varnargirðingunni auðveldaði innkomuna og meðfylgjandi stigar hjálpuðu til við yfirgönguna að handan, ofan Melabergsvatna.

Hvalsnesgata

Hvalsnesgata.

Í ljós kom að „varnargirðingin“ umhverfis Völlinn hafði risið undir nafni, því hún hafði stuðlað að hingað til ósnertum aldagömlum minjum á svæðinu, m.a. stórkmerkilegum vörðum á vetrarhlutaleiðinni með persónulegum einkennum þeirra tíma, auk varðveislu Fuglavíkurselstóftanna.
Engu var raskað á flugvallasvæðinu og engin hætta stafaði af flugumferð af göngu hópsins um „hið ytra varnarsvæði“ vallarins.
Á svæðinu eru um að ræða fornminjar, sem stofnanir stjórnvalda geta ekki hindrað áhugasama landsmenn í að skoða með viðbragðsleysinu og þögninni einni saman, enda þjónar „hin austari ytri varnagirðing“ á Miðnesheiði nákvæmlega engum tilgangi í dag, árið 2025…

Hvalsnesgata

Gengið um Hvalsnesgötu um ytra varnarsvæðið.

Kflavíkurflugvöllur

Í Samvinnunni árið 1946 fjallar Arnaldur Jónsson um „Flugvöllinn á Reykjanesi„, þ.e. Meeksflugvöll á Keflavíkurheiði.

Suðurnes

Suðurnes – kort.

Reyndar er um meinvillu eða þekkingaleysi á staðháttum að ræða að staðsetja flugvöllinn á „Reykjanesi“ því hann er á Keflavíkurheiði, þ.e. á „Reykjanesskaga“, í landi er hafði tilheyrt ábúendum í Njarðvíkurhreppi og Gerðarhreppi. Hér um sömu meinvilluna að ræða þegar Grindavík er talið til „Suðurnesja“. Sama bábiljan endurspeglast í nýjustu auglýsingum Reykjanesbæjar um „Safnahelgi á Suðurnesjum„. En hvað um það – hér kemur frásögn Arnaldar:

Flugvöllurinn á Reykjanesi

Samvinnan

Samvinnan 1946 – forsíða.

Flestir Íslendingar munu hafa heyrt getið hins mikla flugvallar, er Bandaríkjamenn létu gera á Reykjanesskaga, en færri munu hins vegar hafa gert sér grein fyrir hvers konar risamannvirki þetta er.
Í stuttu mali má segja, að flugleiðir úr öllum áttum mætist á þesssum flugvelli. Með öðrum orðum, á flugvellinum eru krossgötur Norður-Atlantshafsins. Þegar minnzt er á flugvöllinn sjá flestir í huga sér steinsteyptar brautir, sem notaðar eru til að láta flugvélar lenda á eða hefja sig til flugs, en flugvöllur er í sjálfu sér miklu meira. Um flugvöllinn við Keflavík má segja, að hann sé ein stórkostleg vélasamstæða, þar sem hundruð sérfróðra manna vaka yfir hverjum hlut nótt og dag. Hvergi má vera autt rúm, til þesss að hið mikla tákn geti gegnt því hlutverki sínu á hvaða tíma sólarhrings, sem er, að taka við flugvélum, sem koma svífandi utan úr himingeimnum úr öllum áttum eða leggja þaðan til flugs til fjarlœgra landa handan við höfin. Við skulum nú litast um á flugvellinum og í nágrenni hans.

Völlurinn og umhverfi hans

Varnarsvæði

Varnarsvæðið – uppdrátturinn fylgir umfjölluninni til skýringa.

Flugvöllurinn liggur á Keflavíkurheiði. Ná sumar brautirnar nálega þvert yfir Reykjanesskagann, milli Keflavíkur og Hafna. Brautirnar eru 4, og skerast þær allar nær öðrum endanum, nokkru utan við miðju. Vísa brautarendarnir í allar höfuðáttir, svo að unnt er fyrir flugvélar að lenda og taka sig upp á vellinum í hvaða vindátt, sem er. Er þetta einn höfuðkostur flugvallarins, en auk þess er þarna mjög rúmgott, lítið um fjöll í næsta nágrenni og því auðvelt fyrir flugvélar að ná eðlilegri hæð, án þess að tefla í nokkra tvísýnu.
Lengd hverrar brautar er geisimikil. Til samanburðar fyrir þá, sem þekkja flugvöllinn við Reykjavík, munu brautir þessa vallar vera að minnsta kosti helmingi lengri. Utan með því svæði, sem sjálfar rennibrautirnar liggja á, eru flugvélavegir í hálfhring kringum völlinn. Báðum megin við þennan veg eru upphlaðnar tóftir fyrir um 80 flugvélar af stærstu gerð og auk þesss allmargar tóftir fyrir minni vélar. Þessar tóftir munu aðallega hafa verið gerðar fyrir styrjaldarþarfir, þegar fjöldi risaflugvéla var geymdur á vellinum vikum saman í margs konar tilgangi, en auk þess er mjög hentugt að hafa þessi byrgi, hvenær sem þörf er á að geyma margar flugvélar á vellinum, t. d. fyrir nætursakir. Sjálfar eru rennibrautirnar steinsteyptar og ofan á steininn hefur verið sett mjúkt malbikslag. Undirstaða vallarins er traust — hin aldagömlu brunahraun Reykjanesskaga.

Í „turninum“

Varnarsvæði

Varnarsvæðið á Miðnesheiði – einstök hverfi (campar).

„Turninn“ er eins konar heili þesssa mikla mannvirkis. Þaðan er allri umferð á vellinum stjórnað. Frá honum er haft samband við veður og loftskeytastöðvar vallarins. Þaðan er enn fremur haft stöðugt þráðlaust samþand við flugvélar, sem eru á leiðum sínum einhvers staðar í loftinu. Sumar eru vestur á Atlantshafi, á miðri leið milli Íslands og Ameríku, aðrar eru suður við Skotland og enn aðrar austur við Noregsstrendur. Flugvélunum eru gefnar leiðbeiningar um veður og önnur flugskilyrði, og jafnframt fá þeir, sem í „turninum“ vinna, vitneskju um, hvernig flugvélunum gengur, í hvaða hæð þær fljúga og hvernig veðrið er á þeirra slóðum.
Mest af þeim byggingum, sem tilheyra þessum hluta flugvallarins, eru neðanjarðar, aðeins „turninn“ sjálfur er ofanjarðar. Í þessari byggingu eru margbrotnar vélar sem tugir sérfræðinga vinna við allan sólarhringinn.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – flugturninn.

Í miðri turnbyggingunni er talsvert stór salur. Á veggjunum hanga stór landabréf. Sum eru af Íslandi, þar sem svæðið kringum Reykjavík er sérstaklega merkt, en það er raunverulega það veðursvæði, sem sérstaklega kemur flugvellinum við. Einnig eru þar veðurkort af norðanverðu Atlantshafi, og sýna þau Jægðir þær, sem daglega eru að sveima á hafinu hér fyrir vestan og austan landið.
Að öðru leyti er þessi salur notaður til að gefa flugmönnum, sem leggja frá vellinum, leiðbeinigar. Áður en þeir leggja af stað, safnast þeir saman í þessum sal. Þeir skoða veðurkortin og setja sig inn í veðurskilyrðin. Síðan eru þeim gefnar fyrirskipanir um, í hvaða hæð þeir eigi að fljúga. Er þeim gefin mismunandi hæð, sem þeir verða að halda sig í alla leiðina, til hvað lands, sem þeir kunna að fara. Er þetta gert til að forðast árekstrarhættu á leiðunum. Að öðru leyti eru þeim gefnar fyrirskipanir og upplýsingar, sem allar miða að sem mestu öryggi flugvéla og farþega á leiðinni.

Veðurstöðin

Keflavíkurflugvöllur

Ríkisstjórnir Íslands og Bandaríkjanna undirrituðu samning haustið 1946 sem kvað á um um brottför Bandaríkjahers, sem þá taldi einungis um 1.000 menn sem störfuðu við rekstur Keflavíkurflugvallar. Samningnum sem jafnan er nefndur Keflavíkursamningurinn veitti Bandaríkjastjórn heimild til þess að nota flugvöllinn til millilendingar herflugvéla á leiðinni til og frá Evrópu í tengslum við hersetuna í Þýskalandi. Flugvellirnir og önnur mannvirki urðu eign Íslendinga eins og til stóð en Bandaríkjastjórn stóð áfram straum af rekstrarkostnaði flugvallarins sem hlaut nafnið Keflavíkurflugvöllur.

Ekkert er eins mikilvægt fyrir flugmanninn og nákvæmar upplýsingar um veður á þeim leiðum, sem hann flýgur. Veðrið er hans aðal glímunautur, hvort sem flogið er að nóttu eða degi, yfir haf eða land. Af þessum sökum hafa allir fullkomnir flugvellir á að skipa færustu mönnum í veðurfræði, sem vinna til skiptis nótt og dag. Meeks-flugvöllurinn hefur díjög fullkomna veðurstöð. Þar eru tugir veðurfræðinga að störfum nætur og daga að reikna út og fylgjast með hinu breytilega og dutlungasama veðri Norður-Atlantshafsins og í næsta nágrenni flugvallarins. Veðurstöðin er í stöðugu sambandi við „turninn,“ sem eins og áður er sagt, sendir stöðugar fregnir um veður og veðurhorfur til ótölulega margra flugvéla, flugvalla og veðurstöðva á ströndum meginlandanna beggja megin Atlantshafsins. Er þessi þáttur í rekstri hins mikla flugvallarmannvirkis einn sá mikilvægasti, enda krefst hann mikils fjölda sérfræðinga og stöðugrar árvekni

Miðunarstöðvar

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur og umráðasvæði hersins frá einum tíma til annars.

Við flugvöllinn eru tvær mjög fullkomnar miðunarstöðvar, sem eru þáttur í hinu margbrotna leiðsögukerfi flugvallarins. Einnig við þessar stöðvar vinna eingöngu sérfræðingar. Verður að vera þar á varðbergi allan sólarhringinn.
Starfræksla þessara tækja er mjög mikilvæg ekki síður en annarra þátta þess margbrotna vélakerfis, sem tilheyrir flugvellinum. Mjög er algengt nú orðið að fljúga fyrir ofan veður og ský. Það hjálpar þó ekki, Þegar lenda skal á flugvellinum. Þessar stöðvar eru því ómissandi á flugvellinum til að hjálpa flugmönnum til að finna völlinn og rennibrautirnar. Stundum er skýjahæðin lítil og skammt niður í gegnum dimmviðrið, niður á völlinn. Í öðrum tilfellum er skýjahæðin mikil og erfitt að komast í höfn. Verða Þá mennirnir, sem stjórna miðunarstöðvunum, að vera þeim vanda vaxnir að leiða flugvélarnar farsællega gegnum dimmviðrið inn á flughöfnina. Það er í alla staði ábyrgðarmikið starf. Getur þar oft verið Urn hf eða dauða að tefla.

Viðgerðarverkstœðin

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – flugskýli.

Þær byggingar, sem hæst ber á flugvellinum, eru hin risavöxnu verkstæði, þar sem fullkomnustu tæki eru til að gera við flugvélar og allt, sem þeim tilheyrir. Verkstæði þessi eru tvö, og vinna tugir manna í hvoru fyrir sig. Eru þeir allir sérfræðingar, hver á sínu sviði. Þar á meðal eru vélaviðgerðarmenn, menn, sem gera við móttöku- og loftskeytatæki og sérfræðingar í mörgum öðrum greinum. Öryggi loftflutninganna hvílir ekki hvað sízt á starfsmönnum þessarar deildar vallarins. Mikið er undir því komið, að vélar og skeytatæki flugvélanna séu í öruggu lagi. Á því byggist líf og afkoma flugáhafnar og farþega.

Rauðu-Krossstöðvarnar
KeflavíkurflugvöllurVilji svo illa til, að eitthvað beri út af hjá flugvél, er annað hvort er að lenda eða að hefja sig til flugs, er nauðsynlegt að vera við slíkum óhöppum búinn, þótt þau komi nú sjaldan fyrir. Fyrir þessu er líka vel séð á flugvellinum. Á stað, þar sem komast má svo að segja að hvaða rennibraut vallarins, sem er, á broti úr mínútu, hefur hjálparstöð vallarins bækistöð sína. Þar eru læknar og hjúkrunarkonur til taks allan sólarhringinn. Enn fremur sjúkrabifreiðar með sérstaklega æfðum mönnum, sem hafa mikla leikni í því, að komast örskjótt á slysstaðinn. Þetta er mjög nauðsynlegt af þeim sökum, að slík slys ber venjulega að höndum með ofsahraða, og eina lífsvonin getur
oft verið sú, að unnt sé að koma þeim, sem í slysinu hafa lent, til hjálpar um leið og það á sér stað. Eins og áður er sagt, eru slíkir atburðir orðnir mjög fátíðir nú, en fullkimin flughöfn lætur á ekkert skorta til að gera öryggið fyrir loftfarendur sem mest að öllu leyti.

Birgðastöðvar

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – A.T.C.

Hin stóru flugvélabákn, sem fljúga yfir heimshöfin, þurfa auðvitað mikið eldsneyti. Það segir sig hins vegar sjálft, að því meira eldsneyti sem flugvélin hefur meðferðis, því minna getur hún flutt af öðrum þunga. Flugvöllurinn við Keflavík hefur ómetanlega þýðingu í þessum efnum. Vegna þess, að unt er að koma við á íslandi og taka þar forða á leiðinni yfir heimshöfin, geta flugvélarnar flutt fleiri farþega og meiri farangur, og um leið verður flugið ódýrara. En það þýðir hins vegar, að alltaf verður að vera mikið af birgðum við völlinn fyrir flugvélarnar. Hver flugvél, sem þangað kemur, tekur meiri eða minni birgðir. Það þarf því mjög mikið starfslið við birgðadeild vallarins eina saman, eins og allar hinar deildirnar. Sumir þeirra eru sérfræðingar, sem hafa mikla æfingu í að fara með olíur og hina risavöxnu „tanka,“ sem tilheyra vellinum, en aðrir, sem við þetta vinna, eru verkamenn.

Lýsing vallarins og viðhald

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur.

Vegna hinnar miklu úrkomu, sem er yfirleitt á þeim slóðum, sem völlurinn er á, er viðhald vallarins vinnufrekt.
Komið hefur verið upp grjótnámu mikilli við völlinn. Er þar malað grjót og haft tilbúið annað það efni, sem þarf til að endurbæta malbikslagið á vellinum. Hvergi má vera hola eða misfella svo nokkru nemi á rennibrautunum. Slíkt getur orsakað óhöpp og jafnvel stórslys.
Nauðsynlegt er að hafa fullkomna lýsingu á vellinum fyrir þær flugvélar, sem koma og fara að næturlagi. Er völlurinn að nokkru leyti lýstur með ljósum á jörðu, en auk þess með mjög sterkum kastljósum. Þarf að sjálfsögðu sérfræðinga við kastljósin.

Ferðamannaþjónustan

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur við verklok Bandaríkjahers 1943.

Enn er ótalinn mjök mikilvægur þáttur í starfrækslu flugvallarins, en það er sú almenna þjónusta, sem nauðsynleg er fyrir ferðamenn, er þangað koma á öllum tímum sólarhringsins. Sú þjónusta er mannfrek og krefst mikils tilkostnaðar, ef hún á að vera viðunandi. Skal ekki farið lengra út í þá sálma að sinni.
Það ætti hins vegar öllum að vera ljóst af þeim atriðum, sem hér hefur verið drepið lauslega á að framan, að hin mikla flughöfn við Keflavík er ekkert venjulegt fyrirtæki á íslenzkan mælikvarða og þótt víðar væri leitað. Það er haft eftir manni, sem mjög var kunnugur rekstri vallarins, að ekki væri unnt að reka völlinn, svo í lagi væri á friðartímum, með minna en 600—700 manns. Það mun láta nærri, að svo sé. Flest af þessum mönnum eru sérfræðingar í sinni grein. Að sjálfsögðu verður svo að vera. Það má hvergi vera veila í hinu stórfenglega flugvallarbákni, ef það á að geta verið hlutverki sínu vaxið í framtíðinni, að vera eins konar vegamót Norður-Atlantshafsins.“

Heimild:
-Samvinnan, 2. tbl. 01.02.1946, Flugvöllurinn á Reykjanesi, Arnaldur Jónsson, bls. 40-42.

Meeks-flugvöllur

Meeks-flugvöllur og Patterson – AMSkort.

Hvalsnes

Hvalsnes er kirkjustaður sunnan við Sandgerði á Miðnesi. Þar var lengi prestsetur og þjónaði Hvalsnesprestur þá að jafnaði einnig í Kirkjuvogi (Höfnum) og í Innri-Njarðvík.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Á Hvalsnesi er steinkirkja, byggð utan við kirkjugarðinn. Kirkjan sú var vígð á jóladag árið 1887, en Hvalsnesprestakall hafði verið lagt niður 1811 og síðan hefur Hvalsnessókn tilheyrt Útskálaprestakalli.
Kirkjubóndinn Ketill Ketilsson í Kotvogi lét reisa Hvalsneskirkju. Þar hafði kirkja staðið frá allt frá 1200. Ketill hafði frétt að verið væri að reisa hlaðna kirkju í Innri-Njarðvík (1885-1886). Snaraðist þangað og samdi við steinsmiðina um að koma á Hvalsnes þegar verkinu væri lokið og hefja þar hleðslu. Grjótið var tekið úr klöppinni fyrir utan túnið og því ekki langt að fara.
Kirkjusmiður var Magnús Magnússon, steinsmiður í Garði. Hann fórst 1887 áður en smíðinni lauk og tók þá við Stefán Egilsson.

Hvalsnes

Grafsteinn Steinunnar í Hvalsneskirkju.

Stórbóndinn Ketill Ketilsson í Kotvogi í Höfnum var þá eigandi Hvalsnesjarðarinnar og kostaði hann kirkjubygginguna. Hún á nú marga góða gripi, meðal annars er þar geymdur legsteinn Steinunnar, dóttur Hallgríms Péturssonar sálmaskálds, en hann var þar prestur frá 1644 til 1651. Hann er sagður hafa höggvið legsteininn sjálfur. Legsteinn þessi var lengi týndur en fannst 1964 þar sem hann hafði verið notaður í stéttina framan við kirkjuna.

Þekktastir Hvalsnespresta voru fyrrnefndur Hallgrímur Pétursson (1644-1651) og Árni Hallvarðsson (1743-1748).

Hallgrímur Pétursson (1614–27. október 1674) var prestur og mesta sálmaskáld Íslendinga. Ævi hans var að mörgu leyti óvenjuleg en þekktastur er hann í dag fyrir Passíusálmana sína sem voru fyrst gefnir út á prenti árið 1666. Hann var af góðum ættum en bjó lengst af við fátækt. Hann naut mikils stuðnings Brynjólfs Sveinssonar biskups og fékk prestsvígslu frá honum þrátt fyrir að Hallgrímur lyki aldrei formlega prófi. Hallgrímskirkja í Reykjavík og Hallgrímskirkja í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd eru nefndar eftir honum.

Hvalsnes

Hallgrímur Pétursson – glerlistaverk í Akureyrarkirkju.

Árni Hallvarðsson (1712-1748) var prestur á Suðurnesjum. Foreldrar hans voru Hallvarður Ingimundarson í Gerðum í Garði og Þórdís Halldórsdóttir frá Keflavík. Hann varð stúdent frá Skálholtsskóla 1739 en var á sumrum hjá Brynjólfi Sigurðssyni sýslumanni á Reykjum í Ölfusi. Hann var prestur á Hvalsnesi frá 1742 til dauðadags.
Sagt er að séra Árni hafi bannað vikivaka og jólaskemmtanir þær sem haldnar voru á Flankastöðum og að honum hafi hefnst fyrir það er hann drukknaði í embættisferð að Kirkjuvogi þann 31. mars 1748.

Á Hvalsnestorfunni voru eftirtaldir bæir á fyrri hluta 20. aldar; Vesturbær og Austurbær, Kirkjuhóll suðvestan kirkju, Brandskot norðan sjávargötunnar að vörinni til norðausturs, Nýibær og Smiðshús vestast, sunnar Gerðakot, norðar Tjörn Moshús, Hlið og Garðbær, austar Nýlenda, Bursthús og Skinnalón. Flestir bæjanna eru nú tóftir einar, en sumum jörðunum standa þó enn íbúðarhús.

Hvalsnes

Hvalsnes – loftmynd 1954.

Í „Fornleifaskráningu vegna fyrirhugaðs ljósleiðara í Suðurnesjabæ“ árið 2022 má m.a. lesa eftirfarandi fróðleik um bæina:

Hvalsnes

Hvalsnes

Hvalsnes um miðja 20. öld.

1686 og 1695: 60 hdr., 3/4 konungseign, 1/4 kirkjueign, samkvæmt The Old Icelandic Land Registers, 122.
1703: Jarðardýrleiki óviss, ¾ konungseign ¼ kirkjueign. Kirkjustaður með hjáleigunum Gierdakoti, Smidshúsi, Ervidi, Moakoti, hjáleigu kennd við ábúanda hverju sinni (þá Þorbjörn) og Fiosakoti, samkvæmt JÁM III, 45-47.
1847: Jarðardýrleiki óviss, bændaeign, með hjáleigunum Gerðakoti, Rembihnúti, Mosahúsi og Nýlendu. Þar segir að í jb. 1803 séu hjáleigurnar Smiðshús og Brandshús undirsettar jörðinni, samkvæmt JJ, 86.
Um 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII 9.

Hvalsnes

Brunnur, fylltur, í Brunnlág.

1225: “Síðan fór Aron [Hjörleifsson] suðr a Hvalsnes til Þorsteins ok var þar um hríð,” segir í Íslendingasögu, Sturl I, 308. Hvalsness er einnig getið í sömu sögu bls. 457, 495.
Um 1270: Skrá um rekaskipti á Rosmhvalanesi. “Þadann fra fvlavik xl fadma a sanndinn fra kolldvhomrvm. Þadann aa hvalsnes. krokvr. ok vtskaler sydvr til midær holms sinn þridivng hvor þeirra. […] Þadann eigv vtskaler einer sydvr til miosyndis. Þadann aa sydvr hvalsnes ij hlvti j vidreka enn starnes þridvng.” DI II, 77.
Um 1270: “Þetta er hvalskipte rost hvelínga: at þann hval sem meire er enn xij vætter ok half vætt ok rekvr millvm æsvbergs ok kefl v vikur til motz vid niardvikínga skall skiptta j nív stade. […] Hinn ixa hlvt hvals aa hvalsnes ok starnes.” DI II, 78-79.

Hvalsnes

Lögréttan á Hvalsnesi.

Um 1270: “landamerkia bref aa milli huals nes og starnes.” DI II, 81.
1367: “xliij. Hvalnes maldage eins og j vilchinsbok. þa lidit var fra hijngad burd vors lausnara Jesu christi þushundrut ara þriu hundrut ara og siau tijger ara vijgde herra othgeir Biskup kirkiu a Hualsnese et cetera”; Hítardalsbók, sjá 1370; DI III 219.
1370: “Hvalsnes. Þa er lidit var fra hijngadburd vors herra Jesu Christi Þushundrud ära ccc. oc lxx ara. vijgdi herra Otthgeir Biskup kirkiu a Hvalsnesi […]. ad kirkian a fi ordung j heima landi sem Biorn bondi Olafsson oc Salgierdur kona hanz [gafu] kirkiunni til vpphelldis og ad standa skylldi fi rir presti og jord j nordurnesium […].” DI III, 256-257.

Hvalsnes

Hvalsnes – Virkishóll.

1415: “[…] hustru jnghunn gunnarsdotter medr fullo handabandhi fek […] herra arnna med gudz nadh biskup i skalholti sitt fullt oc loghligt æighnar vmbodh yfuer hualsnesi a hrosmalanesi […].” DI III, 761.
25.8.1426: Vottað “ath herra hanis paalsson feck med fullo handabande herman langha forstandara ath allra heilagra kirkiu j bergwin huaalsnes a Rosmalanesi liggiande bade síns herra kongsins oc suo sína vægna […].” DI IV, 336.
1435: Jón Kárason prestur vottar um viðtal Árna Ólafssar biskups við Helga Guðinason systurson sinn: “hielt biskup aarne aa eirne skaal ok drack helga aulit til. ok hier til gef ek þier jaurdina er hualsnes heiter er liggr aa Rosmalanese til fullrar eignar.” DI IV, 554.

Hvalsnes

Hvalsneshverfi – túnakort 1919.

1436: Snorri Ingimundarson prestur og þrír aðrir menn votta: “ath gudrun styrsdottir handfeste helga gudinasyne suo felldan vitnissburd. Ath hun heyrde […] gerra aarna med guds naad biskup j skalhollte kennazt […] ath hann hefde gefi t nefndum helga jaurdina er hualsnes heiter er liggr aa rosmalanese til
fullrar eignar ok sagdizt þa enn gefa honum adr nefnda jaurd.” DI IV, 555.
1436: Helgi Ingjaldsson prestur vottar: “at nefnd jngun [gunnarsdotter] feck biskp arna jordina a hualsnese er liggr a rosmalanesi til fullrar eignar med ollum þeim gognum ok gædum sem til liggr […].” DI IV, 555-556.

Hvalsnes

Hvalsnes – Smiðshúsabrunnur.

1436: Alþingisdómur tólf manna útnefndum af Ormi Loptssyni hirðstjóra: “at dæma i milli hera laughmannzins helga gudinasonar ogh nikulas snæbiarnarsonar. Kærdi fyrrnefndr helghi ath aadrnefndr nikulaas hielldi ogh sier eignadi jordina hvalsnes er liggr aa rosmhvalanesi. […] þvi dæmdvm vier fyrrnefnder domsmenn títtnefndom helgha optnefnda jord hvalsnes til fvllrar eignar svo mikit sem gilldi aatta lester fi sk fram komnar i bergvin en honum til hallz þad sem jördin væri dyrri.” DI IV, 559-560.
1445: Torfi Arason selr Skúla Loptssyni Hvalsnes á Rosmhvalanesi og Gegnishól í Skagafi rði fyrir jarðirnar Þykkvaskóg, Miðskóg Þórólfsstaði, Smyrlahól Giljaland og Heinaberg. “[Seljandi jarðarinnar reiknar] at hualsnesi fylgdi tuer jarder nes ok Melaberg ok stedi onnur fi rir omagavist. enn adra etti kirkian ok Þar til tolf kugilldi. kynni [kaupandi] at spyria at helge gudinason hefdi fl eire peninga tekit kirkiunnar vegna aa hualsnesi Þa skylldi [seljandi] Þa til leggia.” DI IV, 665-666.

Hvalsnes

Hvalsnes – Virkishóll.

1488: Jörðin Býjasker á Rosmhvalanesi er í Hvalsneskirkjusókn. DI VI, 637.
1541. Minnisgreinar Gizurar biskups. “Jtem lofad sira Eyolfi Hualsnesi ef sera Halldor hefur þad ecki heima sialfur.” DI X, 691.
1546: Bréf Gizurar biskups til síra Eyjólfs á Hvalsnesi. “J hueriu þier skrifudut at sira Einar hefdi b(ygt) undan ydur hualsnes veit ec þar ecki til.” DI XI, 528. 1552: Fógetareikningar. “Jtem Ogmonder aff Hualsnese ff or ij skatte xvj alne vadmel.” DI XII, 420. Sjá einnig Fógetareikninga 1553, DI XII, 577, 579.
1563: Jarðaskiptabréf hirðsjóra fyrir hönd konungs við Skálholtsstól. “[…] under minn nadugasta herra og Krununa skulu þessar jarder liggia til eignar oc aftekta […] Hvalznes med Hualsness hverfi fyrer jc hundrada.” DI XIV, 156. 1575: Máld DI XV 639 1698-1720: Jón bp Vídalín lætur lögtaka að Njarðvíkurkirkja fái alkirkjurétt og skuli vera annexía frá Hvalnesi; PP, 102.

Hvalsnes

Hvalsnes (HWL).

Fasteignamat frá 1916 er til fyrir Hvalsnes ásamt Móum, Loftstöðum, Smiðshúsum, Nýjabæ, Móhúsum og Tjörn.
1919: “Túnin að mestu slétt og sléttuð.” Tún (Hvalsnes A), 3.4 hekt., garðar 800 m2. Tún (Hvalsnes V),
3.4 hekt., garðar 540 m2. Tún (Smiðshús), 1.3 hekt., garðar 540 m2. Tún (Nýibær), 0.9 hekt., garðar 810 m2. Tún (Tjörn), 0.15 hekt., garðar 380 m2. Tún (Garðbær), 0.15 hekt., garðar 380 m2. Tún (Hlið), 0.15 hekt., garðar 380 m2. Sléttað tún (Móakot), 0.44 hekt., garðar 370 m2. Sléttað tún (Loftstaðir) 0.1 hekt., garðar 590 m2. Öll torfan samtals 9.9 hekt., og garðar 4790 m2.

Hvalsnes

Hvalsnes; bæirnir Nýibær, Moshús og Tjörn. Smiðshús t.h.

1703: [S]o er og mestalt land jarðarinnar komið í sand, grjót og hrjóstur […]. Torfrista og stúnga engin nema í sendinni jörðu, valla nýtandi. Eldiviðartak ekkert nema fj öruþáng. Fjörugrasatekja sem jörðinni nægir. Sölvatekja lítil. Fuglveiði og eggver ekkert nema ef sótt væri til Geirfuglaskers, sem presturinn þykist heyrt hafa kirkjunni eignað að nokkrum parti, en þángað er háskaför so mikil, að það hefur um lángar stundir ekki farið verið […]. Rekavon nokkur. Hrognkelsafj ara að nokkru gagni. Murukjarnar, söl og bjöllur eru um veturinn brúkaðar til að næra á nautpeníngi í heyskorti […]. Vatnsskortur er að miklu meini, so að margoft bæði sumar og vetur verður það að meini mönnum og fjenaði, þegar ekki nást fjöruvötn,” segir í JÁM III, 44-45.
“Hvalsnestangi […]. Skiptast þar á tjarnir og þýfðir móar. Þar er kúabeit, einnig hesta og sauðfjár að nokkru,” segir í örnefnalýsingu MÞ (Ö-Hvalsnes MÞ, 1).
Í örnefnaskrá AG segir: “Kúatraðir eru frá bæ milli Norðurtúns og Tjarnarbletts.” (Ö-Hvalsnes AG, 1).

Hvalsnes

Hvalsnes – útihús frá Austurbæ.

Uppmældar minjar á bæjarhólnum í Hvalsnesi eru áberandi og sjást vel úr öllum áttum. Á túnakorti frá 1919 er bærinn Hvalsnes merktur með níu steinhúsum, tveimur kálgörðum og einni for vestan við suðurkálgarðinn. Íbúðarhús er suðaustast á bæjarhólnum og steinsteypt útihús til norðurs og vesturs.
Íbúðarhúsið er byggt yfir austurenda bæjarhúsanna líkt og þau eru sýnd á túnakortinu og útihúsin eru vestarlega á hólnum, á sama stað og útihús á túnakortinu. Stafnar bæjarins snéru til suðurs að öllum líkindum en mikið rask er á bæjarhólnum vegna húsbygginga sem og annarra framkvæmda. Áætlað er að ljósleiðarinn liggi þvert yfir miðjan bæjarhólinn.
Slétt, ræktuð tún eru allt umhverfis bæjarhólinn á Hvalsnesi. Bæjarstæðið er Bæjarhóllinn er um 50 m í þvermál og 1-2 m á hæð. Brún hólsins sést einna best til suðurs, þar er hún 1,5 m á hæð. Malarplan er á hólnum miðjum og vegur yfir norðurhluta hans. Ekkert er varðveitt af eldri húsum á bæjahólnum en án efa er enn mannvist undir sverði.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Á túnakorti frá 1919 er steinkirkja, sem er samtengt kirkjugarði, merkt um 80 m suðaustan bæjar. Kirkjustæðið sést enn.
c. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII 9. HVALSNES Á MIÐNESI (G) -Guði, Maríu, heilögum krossi, Ólafi , Katrínu, öllum Guðs helgum mönnum.
1367: “xliij. Hvalnes maldage eins og j vilchinsbok. þa lidit var fra hijngad burd vors lausnara Jesu christi þushundrut ara þriu hundrut ara og siau tijger ara vijgde herra othgeir Biskup kirkiu a Hualsnese et cetera”; Hítardalsbók, sjá 1370, DI III 219.
10.6.1370: “Hvalsnes. Þa er lidit var fra hijngadburd vors herra Jesu Christi Þushundrud ära ccc. oc lxx ara. vijgdi herra Otthgeir Biskup kirkiu a Hvalsnesi Gudi til lofs oc dyrdar og heilagri Gudz modur Mariæ. hinum heilaga krossi. Olavo kongi. heilagri Katariæ oc ollum Gudz helgum monnum næsta dag fi rir festum Barnabæ Apostoli med þessum mäldaga. ad kirkian a fi ordung j heima landi sem Biorn bondi Olafsson oc Salgierdur kona hanz [gafu] kirkiunni til vpphelldis og ad standa skylldi fi rir presti og jord j nordurnesium oc xij kyr.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Þar skal vera heimilisprestr oc syngia hvern dag helgann oc hvern dag vm Langafostu oc jolafostu. ymbrudaga oc oll ix lestra holld oc octavas oc iij daga j viku þess j milli. þar skal lvka presti iiij merkur aa hveriu aare. þangad liggia Þesser iiij bæer ad tiundum oc lysitollum oc ollum skylldum. þoristader. fl angastader. Sandgerdi oc Vppsaler. Og af ollum bæium sudur þadan til Voga allar skylldur vtan af Biaskerium oc þeim tveimur kotum sem þar fylgir jordunni. tekst þar af heima tiund. af Hvalsnesi skal syngia til Biaskeria annan huern dag helgan. Þetta aa kirkian innan sig. kross fornan storan med vnderstodum. Mariuskriptt. olafsskriptt. iij krossa smä. Salvatoris skriptt. skrijn med helgum domum. v. kluckur. iiij biollur.

Hvalneskirkja

Hvalsneskirkja.

Tabulum oc brijk. tiolld vmmhverfi s sig. kiertistikur iiij med kopar. jarnstikur iiij. sacrarium mvnnlaug. ampli oc fonts vmbuning med skijrnar katle. vijgdz vattzkietill oc stockull. paxspialld oc paskablad. sacrarium handklædi oc kiertistiku. glodarkier. elldbera. baksturjarn. kirkiu läs. kista. vj manna messuklædi oc iiij hoklar ad auk. kantarakapur iij. sloppar ij. alltaraklædi iij med dvkum. kaleika iij. oc hvslkier med silfur glerglugga iij. merki ij. lectara ij. stol. kiertaklofa. paskakiertis vmbunad. dymbil oc halftt pund vax. xij manada tijder. J mote þeim iiij bæium sem vndann Vtskaala kirkiu eru tekner leggur Biorn bonde kirkiunni ad Vtskalum jord er hiter j Votum med tveimur kugilldumtil æfi nnligrar eignar. fi ell nidur portio sijdan Svarthofdi erfdi jordina fi rir ad hann giordi kluckna hvs oc fi ri brad oc brot aa kirkiu”; Vmáld DI III 256-257 [ef seinasta málsgreinin er ekki seinni viðbót, þá getur hér ekki verið um kirkjustofnun að ræða. Umtalsverð ornamentiseign bendir líka til að kirkjan hafi átt sér lengri sögu. Máldaga Oddgeirs ber þá etv að skoða sem breytingu úr hálf- í alkirkju].

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

7.5.1445: “[Seljandi jarðarinnar reiknar] at hualsnesi fylgdi tuer jarder nes ok Melaberg ok stedi onnur firir omagavist. enn adra etti kirkian ok Þar til tolf kugilldi. kynni [kaupandi] at spyria at helge gudinason hefdi fl eire peninga tekit kirkiunnar vegna aa hualsnesi Þa skylldi [seljandi] Þa til leggia”; DI IV 666.
22.8.1488: Jörðin Býjasker á Rosmhvalanesi er í Hvalsneskirkjusókn. DI VI, 637.
1575: Máld DI XV 639.
1698-1720: Jón bp Vídalín lætur lögtaka að Njarðvíkurkirkja fái alkirkjurétt og skuli vera annexía frá Hvalnesi; PP, 102.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

1811: Hvalnesprestakalli skipt upp og varð Hvalnes annexía frá Útskálum, staðfest með konungsbréfi 26.4.1815, Þó þannig að Hvalneskirkja skyldi niður lögð; PP, 104.
5.4.1820: Hvalneskirkja tekin upp á ný og byggð upp aftur 1821; PP, 102 [konungsbréf].
“[K]irkjan var uppbyggð að heita mátti á ábúandans kostnað 1821; þykir hún vera snoturt hús og prýðilegt,” segir í sýslu og sóknalýsingum. “Nýlega er búið að færa Hvalsnesskirkju út úr kirkjugarðinum suðaustur fyrir hann; er hún nú bygð úr steini og mjög vönduð. — Mér hafði verið sagt, að í Hvalsnesskirkjugarði hefði verið legsteinn yfir Steinunni Hallgrímsdóttur skálds, Péturssonar.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja og minnismerki um horfna sjómenn.

Nú var þar aðeins einn legsteinn sjáanlegur og af honum var alt letur þó horfið. En sú sögn fylgdi honum, að hann væri yfir séra Eiríki Guðmundssyni ([d.] 1796). Var mér sagt, að gras mundi gróið yfir Steinunnar-steininn, en að Hákon bóndi í Nýlendu mundi vita, hvar hans væri að leita. Hákon kvaðst muna eftir steininum: hann hefði verið alsettur letri. Og hann vísaði til, hvar hann minnti að steinninn hefði verið. Þar lét ég gjöra talsverða leit, en kom fyrir ekki. […] Á Stafnesi kom maður til mín, og sagðist hafa beyrt það haft eftir Steingrími bónda í Nesjum (Jónssyni prests í Hruna, Steingrímssonar), að hann (Steingrímur) myndi eftir því, að þá er síðast var bygð kirkjan í kirkjugarðinum (sem var 1864), þá hefði legsteinn verið settur í »grunnmúrinn«, og á honum hefði verið nafnið »Steinunn Hallgrímsdóttir« og ártalið, en ekkert annað.

Hvalsnes

Sólveig; minningarteinn á Hvalsnesi.

Ártalið hefði verið annaðhvort 1660 eða 1669. […] Sé hún rétt hefir sá steinn eigi tilheyrt Steinunni dóttur séra Hallgríms skálds. Hann var farinn frá Hvalsnesi fyrir 1660,” segir í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1903. “Á skrásetningarferð minni um Suðurnes í ágústmán. i sumar var mér sagt til tveggja rúnasteinsbrota á Hvalsnesi. […]. Annað lá úti undir kirkjugarðsveggnum að sunnanverðu, fyrir utan hann; er það aftari hluti steinsins. Hitt var í hleðslunni í norð-vesturvegg kirkjugarðsins að innanverðu og sást á þá hlið sem rúnirnar voru á. Efni beggja brotanna er grágrýti (dolerit) og er það brotið, sem í hleðslunni var, orðið eytt og veðurbarið; hefði það verið hér mörg ár enn, var fyrirsjáanlegt að rúnir og alt verk hefði eyðst af því. […] Bæði brotin eru nú komin á Forngripasafnið. Í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1971 er áletrunin sögt talin frá um 1500.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

“Síra Gestur var þá prestur á Hvalsnesi. Hann kom út úr bænum um vökuna og sér hvar tveir menn eru að glíma í kirkjugarðinum. Prestur gengur þangað og sér hvað um er að vera; er þar Þórarinn [í Glaumbæ] og Jáson [unglingspiltur sem grafinn var að Hvalsneskirkju] nærri því búinn að drepa hann.
Gestur prestur bjargaði Þórarni og kom Jásyni frá honum. Þórarinn hafði vakið Jáson upp og sent hann eftir peningum; var hann þá aftur kominn. Sagt er að síra Gestur muni hafa tekið til sín megnið af peningunum,” segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar.

Skóli

Hvalsnes

Hvalsnes – fyrrum skólinn sést á risbyggingunni.

Á túnakorti frá 1919 er skólahús merkt um 180 m austan bæjar, rétt utan við heimatúnið. Óræktaður mói og uppblásið svæði. Ekki sést til skólans – búið að byggja skemmu þar sem skólinn hefur staðið.

Garðbær
Á túnakorti frá 1919 er þurrabúðin Garðbær teiknuð með steinhúsi með skemmu ásamt einum kálgarði, um 140 m norðan bæjar.

Hvalsnes

Hvalsnes – Garðbær. Hlið t.h.

“Yztu takmörk Tjarnarbletts er rúst eftir þurrabúð, sem heitir Tjörn, og þar vestast í yztu merkjum Norðurtúns er Garðbæjartóft. Þar austur af er önnur þurrabúð, Hlið,” segir í örnefnaskrá AG. Garðbær er um 130 m norðan við Hvalsnesbæ og 25 m VSV við Hlið. Bæjartóftin er horfin en var fast sunnan við núverandi íbúðarhús.
Garðbær samanstendur af bæjarstæðinu og kálgarði sem enn sést fyrir norðan íbúðarhúsið.
Kálgarðurinn er ennfremur sambyggður Hliði. Núverandi íbúðarhús er inni í kálgarðinum og bæjartóftin hefur verið sléttuð út. Grasivasið slétt svæði sem nýtt er sem bakgarður. Engin ummerki um Garðabæ sjást á yfirborði.

Hlið
HvalsnesÁ túnakorti frá 1919 er þurrabúðin Hlið, ásamt þremur kálgörðum, merkt um 150 m norðan Hvalsnesbæjar.
“Yztu takmörk Tjarnarbletts er rúst eftir þurrabúð, sem heitir Tjörn, og þar vestast í yztu merkjum Norðurtúns er Garðbæjartóft. Þar austur af er önnur þurrabúð, Hlið,” segir í örnefnalýsingu.
Hlið er fast austan við Garðbæ, kálgarðar bæjanna voru sambyggðir. Minjar á Hliði sjást enn og samanstanda af bæjartóft, kálgarði og leið.
Tóftin er um 13×13 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Veggirnir eru 2 m á breidd og 0,5-2 m á hæð, algrónir en víða glittir í grjót. Tóftin skiptist í tvö hólf. Vestara hólfi ð er stærra, 5,5 x 2,6 m að innanmáli og snýr norðvestur-suðaustur. Op er á miðri vesturhlið, inn í kálgarð. Eystra hólfið er minna, 3 x 1 m að innanmáli og snýr norðvestur-suðaustur. Op er til suðausturs. Veggir í vestara hólfi nú standa betur og eru hærri en í minna hólfinu.

Smiðshús

Hvalsnes

Hvalsnes- Smiðshús.

Á túnakorti frá 1919 er Smiðshús merkt, með fimm steinhúsum sem og kálgarði austan við þau, um 280 m vestan Hvalsnesbæjar. Innan túns eru teiknuð tvö
steinhús og stakur kálgarður.
“Smidshús, önnur hjaleiga. Jarðardýrleiki óviss,” segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.
“Brunnurinn á Smiðshúsum sést í túninu norðaustan við gamla húsið,” segir á Ferlir.is. Alls eru skráðar fimm fornleifar á Smiðshúsum, innan túns býlisins og
sýnt er á túnakorti Hvalsnes frá 1919. Smiðshús hafa ekki farið varhluta af landbroti og hluti bæjarhólsins kominn undir sjóvarnargarð. Íbúðarhúsið er nú
um 15 m austan við strandlengjuna og engin hús á bæjarhólnum utan tófarbrots.
Smiðshús eru á sjávarbakka og einungs tóftarbrot fast vestan við veg að núverandi íbúðarhúsi að sem er 115m NNA.
Bæjarhóllinn er horfinn og búið ad slétta allt út nema einn vegg. Hann er L-laga, um 5,5×5,5 m að stærð.
Hann er um 1 m á hæð, steyptur til vesturs en til austurs má greina 4-5 umför af grjóthleðslu.

Gerðakot

Hvalsnes

Hvalsnes – Gerðakot.

1703: Jarðardýrleiki óviss, sögð fyrsta hjáleiga frá Hvalsnesi, samkvæmt JÁM III, 45.
1847: Jarðardýrleiki óviss, sögð hjáleiga frá Hvalsnesi, samkvæmt JJ, 86.
Kuml: “Útsuður frá Hvalsnesi nær sjó er bær, sem heitir Gerðakot.” Árið 1854 var grafið fyrir nýbýli á hóli í landi Gerðakots. Kom þá upp beinagrind sem snéri N-S (Magnús Grímsson 1940, 254).
“Gerðakot var flutt þangað sem var torfbær, er hét Landlyst,” segir í örnefnaskrá Hvalsness (Ö-Hvalsnes AG, 2).
1919: Tún (Gerðakot), 2 hekt., garðar 980 m2.
Samkvæmt túnakorti frá 1919 á Gerðakot kálgarð í Loftstaðatúni.
Á túnakorti frá 1919 eru sex steinhús merkt og norðan við þau for. Kálgarður er teiknaður sunnan bæjarhúsanna.

Hvalsnes

Hvalsnes – Gerðakot nýrra/Landlyst.

“Útsuður frá Hvalsnesi nær sjó er bær, sem heitir Gerðakot,” segir í örnefnaskrá. “Gamla-Gerðakot stóð á flötu túninu innan við lágan malarkamp, norðan við Hrossatjörn. Í stórflóðum gekk sjór yfir kampinn inn í tjörnina: hún hækkaði þá, svo að fyllti kálgarðinn fyrir framan bæinn og varla var fært um stéttina, fyrr en fjaraði. Sjór gekk einnig inn á túnið fyrir norðan bæinn í stórflóðum. Þótti þetta svo uggvænlegt orðið, að 1929 var bærinn fluttur ofar í túnið,” segir Magnús Þórarinsson.
“Gerðakot var flutt þangað sem var torfbær, er hét Landlyst,” segir í örnefnaskrá Hvalsness.
“Árið 1880 taldi hann [sr. Sigurður B. Sívertsen] prýðileg timburhús með stofum (undir baðstofu) á Stafnesi, Gerðakoti og Sandgerði og þokkalegar innanþiljaðar baðstofur á Stafnesi, Sandgerði og Klöpp,” segir í Við opið haf e. Ásgeir Ásgeirsson.
Bæjarhóllinn er 30 x 22 m að stærð og snýr austur-vestur. Hann er algróinn og þakin tóftum, erfitt er að sjá hvað eru bæjarhús og hvað útihús. Tóftirnar eru ekki samtengdar heldur stakar sem bendir til endurnýtingar. Hóllinn er grasivaxinn, 0,5-1 m hæð, hæstur til suðurs.

Nýlenda

Hvalsnes

Hvalsnes – Nýlenda.

1847: Jarðardýrleiki óviss, sögð undirsett Hvalsnesi, samkvæmt JJ, 86.
Jarðarítök: Jörðin átti reka- og þangfjörur innan Hvalsneslands, segir í örnefnalýsingu Hvalsness (Ö-Hvalsnes MÞ, 2).
Fasteignamat frá 1916 er til fyrir Nýlendu.
1919: “Túnin slétt mestöll, einkum á Busth., létt greiðfært.” Tún (Nýlenda), 1.3 hekt., garðar 1200 m2.
Á túnakorti frá 1919 er Nýlenda merkt með átta steinhúsum og einu timburhúsi sem eru umkringd þremur kálgörðum á öllum hliðum ef frá er talið austurhlið. For er vestanmegin norðurkálgarðs. Stafnar bæjarins snéru að öllum líkindum til norðvesturs. Núverandi bæjarhús eru á sama stað og eldri hús.
Slétt tún eru allt umhverfis bæjarhólinn. Engin ummerki bæjarhóls og -húsa sjást á yfirborði.

Bursthús

Hvalsnes

Hvalsnes – Bursthús.

1686: 10 hdr., konungseign, samkvæmt The Old Icelandic Land Registers, 122.
1695: 10 hdr., konungseign, samkvæmt The Old Icelandic Land Registers, 122.
1703: “Jarðardýrleiki veit enginn til vissu, en eftir einum gömlum manni er haft, að hún hafi verið konungseign“. “Á þessari jörðu er ekki fyrirsvar og fátækraflutníngur nema að helmgíngi við lögbýlissjarðir og er því hálfl enda kölluð; meina sumir hún hafi verið bygð af Hvalsnesslandi,” segir í JÁM III, 47-48.
1703: “Sölva og hrognkelsafjara nokkur. Murukjarnatekja nokkuð lítil, þó stundum að gagni til að lengja líf kvikfjenaðar. Tún fordjarfast af sjávarágángi,
item af grjóti og sandi. Engjar eru öngvar. Útigangur enginn nema í Hvalsnesslandi.
Eldiviðartak ekkert nema í fjörunni og þó lítið. Vatnsból af skorti og fordjarfast af sjávaryfirgángi. Heimræði hefur verið árið um kríng, en er nú að mestu af, því að lendíng og skipsuppsátur fordjarfast af sjáfaryfirgángi,” segir í JÁM III, 37.
1847: Jarðardýrleiki óviss, bændaeign, samkvæmt JJ, 86.

Hvalsnes

Hvalsnes – Skinnalón.

Á túnakorti frá 1919 er Busthús merkt með sjö steinhúsum, einu timburhúsi, tveimur kálgörðum til norðurs og suðurs og einni for. Á túnakorti Kirkjubólshverfi segir: «Bæinn Kirkjuból flutti Gunnar – sonur Erlendar á Stafnesi (ár) að Busthúsum, þangað sem nú er hann.» Ekkert íbúðarhús er á bæjarhólnum, einungis sumarbústaður.
Stafnar bæjarins snéru til suðvesturs. Langur, gróinn hóll. Greinilegt að uppsöfnun mannvistarlaga er undir sverði. Bæjarhóllinn er 48 x 28 m að stærð og snýr norðvestur suðaustur. Hann er um 1 m á hæð. Ekki sjást minjar á hólnum en nokkrar dældir eru þar auk beinna bakka. Mikið rof er i suðurhlið bæjarhólsins, þar sem kálgarður var.

Heimildir:
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 1923-24.
-Árbók hins íslenska fornleifafélags, 1903 – bls. 39.
-Örnefnaskráning fyrir Hvalsnes – Ari Gíslason.
-Örnefnalýsing fyrir Hvalsnes – Magnús Þórarinsson.
-Túnakort 1919.
-Loftmynd 1954.
-Fornleifaskráning vegna fyrirhugaðs ljósleiðara í Suðurnesjabæ. 2. útgáfa 2022.

Hvalsnes

Hvalsnes – uppdráttur ÓSÁ.

Fjörukot

Á Miðbakka í Reykjavík eru nokkur skilti um „fornbáta“ í eigu einstaklinga. Þar á meðal er sagt frá „Lukkugefinn„; tveggja manna fari á Suðurnesjum:

Lukkugefinn

Lukkugefinn; skilti.

„Lukkugefinn er talinn hafa verið smíðaður 1880-1890. Lengd, breidd og dýpt bátsins er 6.7 x 1.45 x 0.58 m. Hann er úr ljósum við, súðbyrtur. Hann er með mastur og var róið og siglt til 1954 en þá sett í hann vél. Báturinn er mjór og grunnskreiður og hefur því verið léttur undir árum. Breidd hans bendir til að hann sé tveggja mann far en lengdin er hins vegar svipuð feræringum.
Heimildir greina ekki frá notkun bátsins fyrstu áratugina en vafalaust hefur honum verið róið til fiskjar enda góð fiskimið skammt undan landi.

Fjörukot

Fjörukot – Lukkugefinn.

Fyrsti nafngreindi eigandinn er Einar frá Þingholti í Gerðahreppi, nú Suðurnesjabæ. 1918 keypti Jón Jónsson síðan bátinn. Hann var frá Bárugerði, sem var ein af hjáleigu Bæjarskers í nágrenni Sandgerðis. Það ár fékk báturinn núverandi nafn. Þriðju nafngreidi eigandinn, Gunnar Jónsson, Reynistað í Sandgerði, var sonur Jóns Jónssonar. Þeir feðgar fóru í róðra á bátnum frá Bæjarskersvör.
Lukkugefinn er með elstu Suðurnesjabátum sem varðvesit hafa.“

Lukkugefinn er nú við Fjörukot vestan Sandgerðis þar sem hjónin Gunnhildur Gunnarsdóttir og Guðmundur Sigurbergsson ráða ríkjum.
Fjörukot

Fuglar

Í bókinni „Miðillinn Hafsteinn Björnsson“ fjallar Elínborg Lárusdóttir um aðkomu Runólfs Runólfssonar (Runka). Þar segir m.a.: „Veturinn 1937-1938 hefir Hafsteinn fasta fundi hjá Einari H. Kvaran. Vera tók þá að birtast. Þegar spurt er, hver þarna sé, er svarað:
 Eg heiti Jón Jónsson eða Maður Mannsson, eða ykkur varðar andskotann ekkert um, hvað ég heiti.
Kvaran spyr, hvað hann vilji.
Hann svarar: Eg er að leita að leggnum mínum, og eg vil hafa legginn minn.
Kvaran spyr aftur, hvar leggurinn muni vera.
Hinn svarar; hann er í sjónum.
Þessi vera heldur svo áfram að koma á fundina og talar alltaf um hið sama, um legginn sinn, og heimtar hann. En hann er ófáanlegur til að segja, hver hann er.
Þegar Lúðvík Guðmundsson, útgerðarmaður í Sandgerði, bætist í hópinn, kemur þessi kynlega vera og talar mikið um, hvað hann hafi verið Flankastaðirlánssamur að hitta Lúðvík.
Lúðvík kannast ekkert við þennan náunga og skilur sízt í, hvað hann vilji sér eiginlega. Sá fullyrðir aftur á móti að Lúðvík viti um legginn sinn. Hann sé í húsi hans í Sandgerði.
Loks krefst Lúðvík að fá að vita hver veran sé, eða þeir sinni þessu ekki. Hún verður öskuill og kemur ekki aftur í langan tíma. Loks brýzt hún í gegnum miðilinn og segir:Â
„Jæja, það er bezt að eg segi þá, hver ég er. Eg heiti Runólfur Runólfsson og var ég 52 ára, er ég lést. Eg bjó með kellu minni í Kólgu eða Klapparkoti hjá Sandgerði. Var eg á ferð frá Keflavík seinni hluta dags og var fullur. Eg kom við hjá Sveinbirni Þórðarsyni í Sandgerði. Þar þáði eg góðgerðir. Þegar eg ætlaði að fara, fannst þeim veðrið svo vont, að þeir vildu láta fylgja mér heim til mín. Þá varð eg vondur og sagðist ekkert fara, ef eg fengi ekki að fara einn. Heim til mín var ekki nema 15 mínútna gangur, eða tæplega það. Fór eg svo, en eg var blautur og illa á mig kominn.
KólgaGekk ég inn Kambinn, sem kallaður er. Þegar eg var kominn yfir Kambinn, settist eg undir klett, sem kallaður er Flankastaðaklettur, en hann er nú næstum horfinn. Þar tek eg upp flöskuna og sýp drjúgum á. Svo sofna eg. Flóðið kemur, mig tekur út. Þetta er í október 1879. Finnst eg ekki fyrr en í janúar 1880. Rak mig þá upp, en þá komust hundar og hrafnar í mig og tættu mig sundur. Leifarnar af mér fundust og voru grafnar í Útskálakirkjugarði. En þá vantaði lærlegginn. Hann tók út aftur, en rak svo síðar upp í Sandgerði, og þar hefir hann verið að þvælast síðan, og nú er hann hjá Lúðvík.
Þeir spyr nú Lúðvík, hvar hann geti fundið sönnun þess, að hann sé sá, sem hann segist vera.
Hann svarar; í kirkjubókum Útskálakirkju.

Nú er farið að grennslast um þetta. Þeir finna nafn hans þar, sem hann hefir vísað á, og stendur heima hvað ártal áhrærir og aldur hans. En nú er eftir að finna legginn.
Þegar Lúðvík Guðmundsson keypti húsið í Sandgerði af Lofti Loftssyni, útgerðarmanni, voru þar í húsinu tvær hauskúpur. Sú saga gekk, að einhverju sinni hefði unglingspiltur hent annarri hauskúpunni út í horn með þeim ummælum, að óþarfi væri að hafa þetta bölvað drasl þarna. Nóttina eftir þóttust menn verða varir við tvo menn, annan lítinn, hinn stórar. Gengu þeir að hvílu hvers og eins og athuguðu það, sem þar hvíldu. Staðnæmdust þeir við beð unglingsins, sem hent hafði hauskúpunni. Heyrðu þá félagar hans hljóð mikil og komu honum til hjálpar. Var hann þá blár í framan, illa á sig kominn og mjög hræddur. Segir sögnin, að eftir þetta hafi honum ekki verið vært framar í Sandgerði og hafi hann krökklast þaðan í burtu.
Lúðvík tók hauskúpurnar og lætur þær í glerkassa og setur svo kassann í glugga, sem veit til sjávar.
Lúðvík fór ekkert frekar út í þetta þá. En er Runólfur fullyrtu, að leggurinn sinn væri í húsi hans í andgerði, rifjaðist þetta upp fyrir honum.

Húsið

Eldri menn búsettir í Sandgerði rekur minni til þess, að lærleggur hafi verið þarna á flækingi, en verið settur á milli þilja. þrátt fyrir leit fannst leggurinn ekki. Í  herbergi í norðausturenda hússins bjó maður, sem hét Helgi. Hafði hann heyrt að smiðurinn hafi látið hann milli þils og veggjar. Getur Helgi þess til, að hann muni vera í herberginu, sem hann býr í. Þegar farið var að rífa finnst leggurinn þá þar. Leggurinn var mjög langur, enda gat Runólfur þess, að hann hefði verið þrjár álnir og sex tommur á hæð.“
Að sögn Reynis Sveinssonar í Sandgerði stóð fyrrnefnt hús á Hamrinum svonefnda, sem var neðan við Fræðasetrið. Þar voru tvo lík verbúðarhús, hlið við hlið. Í því syðra var verkun og verbúð uppi. Húsið fjær á myndinni að ofan var rifið 1985 en þar er sagt að hauskúpur/eða
mannabein hafi verið í glugga sem snéri að sjónum.
„Þegar leggurinn var fundinn, tók Lúðvík hann og fór með hann upp í búðina sína, til þess að hann týndist ekki aftur. Lét hann smíða utan um legginn vandaða kistu, og var leggurinn svo kistulagður. Stóð kistan svo í búðinni upp undir ár, og bar ekkert til tíðinda. Voru svo þessar síðustu leifar Runólfs Runólfssonar frá Kólgu eða Klapparholti í Sandgerði jarðsungnar að Útskálum. Fór allt fram eins og við venjulega jarðaför. Eftir athöfnina var drukkð kaffi hjá presti, og fór þetta allt virðulega fram.

Leggurinn

Þegar fundur var næst eftir útförina, kom Runólfur fram og þakkaði fyrir sig. Sagðist hann hafa verið þarna viðstaddur og lýsti útförðinni svo nákvæmlega, að hann taldi upp kökusortirnar, sem voru fram bornar á Útskálum.“
Kólga (Klapparkot) var skammt sunnan Klappar, sem var sunnan Syðri-Flankastaða. Þar eru enn örnefni er minna á kotið, s.s. Kólgutjörn. Klappartún og Klapparfjara.
„Eg fór að kynna mér kirkjubækur Útskálakirkju frá því tímabili, sem Runólfur Runólfsson vísar til. Eg fann nafn hans í bókunum. Árið 1849 er hann til heimilis í Klöpp í Hvalsnessókn. Árið 1859 er hann í Flankastaðakoti með konu sinni, sem heitir Guðrún Bjarnadóttir. Þau eiga eina dóttur, sem heitir Guðrún María. Þetta ber heim við landsmanntalið 1860. Þar er Runólfur Runólfsson í Flankastaðakoti talinn ókvæntur og grashúsmaður. Þar stendur einnig, að hann sé fæddur í Melasókn. Kirkjubækur Melasóknar sýna, að Runólfur er fæddur 25. desember 1828 að Melaleiti í Borgarfirði. Foreldrar: Runólfur Þorsteinsson, vinnumaður á Hafþórsstöðum í Norðurárdal og Guðrún Magnúsdóttir, vinnukona í Melaleiti.
Guðrún Bjarnadóttir er líka talin húskona í kirkjubókunum. Síðar er Runólfur í Klapparkoti (Kólgu), og eru þá börnin orðin þrjú, tveir drengir og ein stúlka. Árið 1879 er hann á sama stað. Þá er Guðrún Bjarnadóttir sennilega dáin. Nafn hennar sézt ekki í kirkjubókunum. Árið eftir er nafn hans líka horfið úr kirkjubókum Útskálakirkju, en í ministerialbók Útskálakirkju stendur eftirfarandi skýrsla:
Útskálakirkja„Þann 16. október 1879 varð Runólfur Runólfsson, húsmaður í Klapparkoti, úti vofveiflega á heimleið úr Keflavík í stórvirðri, rigningu og stormi, allskammt frá bæ sínum, um miðja nótt, meint að hann hrakizt hafi niður í fjöru fyrir sunnan Flankastaðatúngarð, hvar sjór hefir tekið hann, því bein hans fundust löngu seinna sundurliðmuð og fatnaður.“
Þessi sama bók sýnir, að þessar leifar Runólfs Runólfssonar hafa verið jarðsettar 8. janúar 1880, og er hann þá talinn vera 52 ára. Eru þá liðnir tæpir þrír mánuðir, frá því að hann hvarf og þar til hinar sundurlimuðu leifar hans fá legstað í vígðri mold, og þó ekki allar. Leggurinn finnst ekki fyrr en 1940, og eru þá liðin 60 ár frá þessum atburði.
Það, sem gerðist í sambandi við Runólf Runólfsson, varð okkur, sem við það voru riðin, svo eftirminnilegt, að við teljum okkur muna það greinilega.“

Heimild:
-Elínborg Lárusdóttir, Miðillinn Hafsteinn Björnsson, Reykavík 1946, bls.201-209.

Sandgerðisfjara
Fyrr á öldum varð fólk úti milli bæja á Miðnesi og Miðnesheiði.
Fræg er sagan af Runólfi Runólfssyni húsmanni úr Klapparkoti er í þá tíð nefndist Kólga. Hann varð úti milli Landakots í Sandgerðishverfi og Flankastaðirheimilis síns í Flankastaðahverfi aðfaranótt 17. október 1879. Hafði Runólfur komið að Landakoti skömmu fyrir hátt á heimleið úr Keflavík. Hafði hann skamma viðdvöl en hélt heimleiðis um ellefuleytið, allkenndur af víni er hann hafði meðferðis. Þótt skömm væri leiðin auðnaðist Runólfi ekki að rata hana í náttmyrkri og stormi. Af honum fannst hvorki tangur né tetur um nokkra hríð. En um jólaleytið fóru bein Runólfs að reka upp undan Flankastöðum. Að sögn sr. Sigurðar B, Sívertsen “voru öll bein slitin í sundur og allt hold af þeim”. Á kreik komust þjóðsögur syðra um að Írafellsmóri, sá víðförli ári, hefði grandað Runólfi eða þá illvígt sæskrýmsli.
Haukur Ólafsson, FERLIRsfélagi vakti nýlega athygli á eftirfarandi:
Hafsteinn„Mig langar að vekja athygli á annarri frásögn um Runólf Runólfsson, Runka, sem var einn helsti milliliður Hafsteins Björnssonar, miðils, við annan heim.“
Hafsteinn Björnsson er talinn vera einn stórkostlegasti og öruggasti sannanamiðill sem Ísland hefur alið. Hann fæddist að Syðri-Höfdölum í Viðvíkursveit í Skagafjarðarsýslu 30. október 1914. Skyggni gekk í móðurætt Hafsteins og fékk hann því góðann stuðning í æsku. Hann var ekki skammaður fyrir lygar og ósannsögli eins og margir skyggnir einstaklingar í æsku. Móðir hans var skyggn og berdreyminn og hún hjálpaði honum mikið til í þessum málum. Hafsteinn sá bæði framliðna og huldufólk í æsku og eitt sumarið þegar hann var milli fimm og sex ára, þá var hann við leik úti og sér þá litla stúlku á aldur við hann sjálfan standa við horn eins kofa. Stúlkan bað hann um að fylgja sér og þau löbbuðu saman út og fyrir ofan bæinn að allháum hól sem heitir Mikligarður. Þegar Hafsteinn kemur þangað þá sér hann ekki hólinn, heldur birtist honum lítill bær og utan við bæjardyrnar sat um það bil þriggja ára gamall drengur, en hann var bróðir litlu stúlkunnar. Þau fóru öll að leika saman og fundir þeirra endurtókust hvað eftir annað.

Glaumbær

Þau urðu náin leiksystkini um sumarið og alveg uppfrá því eða þangað til að Hafsteinn flutti frá bænum Hátúni. Hann fór margoft innum huldubæinn og alla leið inn í eldhús þar sem að hann þáði flóaða sauðamjólk frá huldukonunni, móður barnanna. Hafsteinn sá þessa konu oft koma heim úr fjarveru frá heimili sínu. Hún kom alltaf úr sömu átt, ofan úr Sæmundarhlíð og bar alltaf bagga á bakinu. Seinna komst Hafsteinn að því að sú var trú manna að miklar huldufólksbyggðir væru efst og syðst í Sæmundarhlíðinni.
Á unglingsárum veiktist Hafsteinn og lá lengi á sjúkrahúsi, eftir þetta þoldi hann illa erfiðisvinnu. Hann flutti til Reykjavíkur og starfaði meðal annars sem afgreiðslumaður í búð. Oft á tíðum kom það fyrir að Hafsteinn reyndi að afgreiða fólk sem samstarfsmenn hans sáu ekki. Árið 1937 hlotnaðist Hafsteini starf sem lyftuvörður í Landsímahúsinu við Austurvöll. Á þessum tíma var skyggni hans ótamin og hann átti í miklum erfiðleikum með að greina hverjir voru lifandi eða liðnir. Hann heilsaði til dæmis oft fólki sem enginn annar sá nema hann einn.
ÚtskálakirkjaHafsteinn var varð mjög skyggn og flutti oft skilaboð að skyggnilýsingum loknum. Hann starfaði í 40 ár og var einn virtasti miðill sem hér hefur starfað. Hann hélt margoft fámenna fundi sem fjöldafundi og hann kom með ótrúlegustu skilaboð og smáatriði sem hann hefði ekki með nokkru móti getað vitað og er óhætt að segja að enginn hafi komið svikinn af fundum með Hafsteini.
Hafsteinn féll niður örendur við heyvinnu þann 15. ágúst 1977.
Frásögnina af Runka er að finna í bókinni Miðillinn, Hafsteinn Björnsson, eftir Elínborgu Lárusdóttur.  Frásögnin er mun lengri en í bókinni segir m.a.: „Jæja, það er best að ég segi þá, hver ég er. Ég heiti Runólfur Runólfsson og var ég 52 ára, er ég lést. Ég bjó með kellu minni í Kólgu eða Klapparkoti hjá Sandgerði. Var ég á ferð frá Keflavík seinni hluta dags og var fullur. Ég kom við hjá Sveinbirni Þórðarsyni í Sandgerði. Þar þáði ég góðgerðir. Þegar ég ætlaði að fara, fannst þeim veðrið svo vont, að þeir vildu láta fylgja mér heim til mín.

Lærleggur

Þá varð ég vondur og sagðist ekkert fara, ef ég fengi ekki að fara einn. Heim til mín var ekki nema 15 mínútna gangur, eða tæplega það. Fór ég svo, en ég var blautur og illa á mig kominn. Gekk ég inn Kambinn, sem kallaður er. Þegar ég var kominn yfir Kambinn, settist ég undir klett, sem kallaður er Flankastaðaklettur, en hann er nú næstum horfinn. Þar tek ég upp flöskuna og sýp drjúgum á. Svo sofna ég. Flóðið kemur, mig tekur út. Þetta er í október 1879. Finnst ég ekki fyrr en í janúar 1880. Rak mig þá upp, en þá komust hundar og hrafnar í mig og tættu mig sundur. Leifarnar af mér fundust og voru grafnar í Útskálakirkjugarði. En þá vantaði lærlegginn. Hann tók út aftur, en rak svo síðar upp í Sandgerði, og þar hefir hann verið að þvælast síðan, og nú er hann hjá Lúðvík.
Þeir spyrja nú, Lúðvík og Niels, hvar þeir geti fundið sönnun þess, að hann sé sá, sem hann segist vera.
Hann svarar; í kirkjubókum Útskálakirkju.

Flankastaðir

Flankastaðavör.

Nú er farið að grennslast um þetta. Þeir finna nafn hans þar, sem hann hefir vísað á, og stendur heima hvað ártal áhrærir og aldur hans. En nú er eftir að finna legginn.“
Í framhaldinu segir svo af leitinni að leggnum, sem fannst að lokum milli þilja í húsí í Sandgerði eftir spennandi leit og var jarðaður með pomp og prakt í Útskálakirkju 1940, eða um 60 árum eftir lát Runólfs.“
Fróðleg og bráðskemmtileg frásögn er felur í sér sönnun um líf eftir þetta líf! 
Heimildir m.a.:
-Elínborg Lárusdóttir, Miðillinn, Hafsteinn Björnsson
-www.hugi.is

Sandgerðisfjara

Bæjarsker

Bæjarsker við Sandgerði hefur gengið undir ýmsum orðmyndunum í gegnum tíðina.
Hítardalsbók frá Bæjarsker 19401367 greinir frá kirkju Ólafs konungs helga á Bæjarskerum. Jarðakaupabréf frá 1444 segir að Skúli Loftson hafi selt Hallsteini Höskuldssyni jörðina Þingnes i Borgarfirði í sextíu hundraða en Skúli leggur til á móti hálft Bæjarsker á Rosmhvalnesi, Hraunhafnarbakka á Snæfellsnesi og þar til fjögur kúgildi. Í ágúst 1488 segir í Bíaskersbréfi gert á Mel í Miðfirði, að Guðmundur prestur Skúlason selji Ólafi biskup og heilagri Hólakirkju jörðina Bíasker á Rosmhvalnesi fyrir fjóra tugu hundruð í lausafé. Í júní 1489 er á Hólum er skráður vitnisburður Snjólfs Sigurðssonar prests um lokagreiðslu á andvirði Bíaskerja til handa Guðmundi Skúlasyni presti frá Ólafi biskup sem áður keypt hafi jörðina. Á Býjaskerjum 1490 er “Dómr Diðriks Pínings fóveta og höfuðsmanns yfir alt Ísland um skuldir Norðlendinga við Sunnlendinga, og um það, hve nær skuli vera vorvertíðarlok.”

Bæjarsker 1960

Að Hólum í júlí 1491 lýsir Snólfur Sigurðsson prestur því yfir að hann hafi fyrir hönd Ólafs biskups lokið greiðslu til séra Guðmundar Skúlasonar fyrir jörðina Býasker með þeim greiðslu sem sem í bréfinu greinir.
Í Viðey í apríl 1517 lætur Ögmundur ábóti í Viðey Hannes Eggertsson fá til fullrar eignar jarðirnar Kirkjuból í Selárdal, Suðureyri og Tungu í Tálknafirði, fyrir jarðirnar Býjasker og Þórisstaði í Rosmhvalnesi.
Þá er á Býjaskerjum í september 1539 kveðinn upp 12 manna dómur sem skipaður var af Erlendi Þorvarðarsyni lögmanni vegna yfirgangs enskra manna á Íslandi.
Árið 1550 eru taldar upp jarðir Hólastóls sem seldar hafa verið í tíð Jóns biskups, þar á meðal er hálf Býjasker, xx, c.
ÁlagabletturÍ Fógetareikningum frá 1547-1548 er getið um gjöld Beeraskeeriom (Býjaskers) til kirkju- og landskuldar.
Í Jarðabók frá 1703 segir um Biarskier (Bæjarsker) að jarðadýrleiki á jörðinni sé óviss og hún tíundist engum. Jörðin er í konungseign. Ábúandinn Runólfur Þórðarson lögréttumaður. Landskuld 2 hundruðustu, 60 álnir greiðist með 14 vættum fiska í kaupstað á Básendum, eftir að það var legit út, en áður greitt heim til Bessastaða. Við (timbur) til húsabótar leggur ábúandi til. Kúgildi eru fimm. Leigur greiðist með fiski í kaupstað. Kúgildið uppyngir ábúandinn fram að þessu, annars vonar hann að umboðsmaðurinn muni bæta upp það sem þarf að lóga sökum elli. Kvaðir eru um mannslán um vertíð. Kvikfénaður er fjórar kýr og eitt ungneyti. Heimilsmenn eru átta. Skóg til kolagerðar notar jörðin í almenningnum. Torfrista og stunga engin nema í sendinni jörðu, varla nýtandi. Fjörugrastekja nokkur. Murukjarnar og söl eru notað sem gjaldmiðill. Heimræði er árið um kring og lending slæm, önnur langt frá flæðihólma og þar fyrir utan bæði hættuleg og erfið fyrir skip.
Grásteinn

Hér ganga skip ábúananda eftir hentugleikum. Tún ganga mjög af sér vegna sands og sjávargangs. Engjar eru engar. Land graslítið mestallt grjót og sandur. Flæðihætta mikil. Eldiviðartak ekkert nema af fjöruþangi. Vatnsból slæmt og þrýtur stundum. Býjasker er sagt hafa níu nafngreindar hjáleigur og að auki tvær sem eru farnar í eyði fyrir löngu og nafn á þeim er ekki vitað síðan.
Á Bæjarskerjum eru tveir álagablettir. Annar er um 10 m í suðurtúni Bæjarskers. Þetta er grasivaxin steinaþúfa, um 0.80 m í þvermál, og hæðin er um 0.40 m. Einar Bergsson í Sandgerði sagði að við þúfuna mátti ekki vera með ólæti eða raska henni á nokkurn hátt.
Hinn álagabletturinn er Grásteinn. Staðsetningin er n64°01.662 V22°42.401. Grásteinn er nú í hættu vegna fyrirhugaðra nýbygginga. Hann er í um 320 m í suður frá bæjarstæði Bæjarskers, út við landamerkjagirðingu Hólakots og Bæjarskers í smá brekku á móti norðri. Steinninn er náttúrusteinn og er um 1.60×1.20×0,70 m. Í örnefnskrá Magnúsar Þórarinssonar segir: „Í túninu sunnan við bæ þar í brekku er Grásteinn. Þann stein má ekki hreyfa. Þetta er í átt að Hólshúsum. Svo er túnið áfram brekka upp að grjóti.“

Heimild m.a.:
-Önefnaskrá fyrir Bæjarsker

Bæjarskersrétt

Bæjarskersrétt.

Álaborg syðri

Tvær réttir eru ofan við Bæjarsker: annars vegar Bæjarskersréttin skammt ofan við Stafnesveginn og hins vegar Álaborgarréttin, sem er bæði eldri og nokkru ofar í Miðnesheiðinni.
BæjarskersréttStaðsetningin á Álaborgarréttinni er n: 64,01,667 v: 22,41,077. Réttin er um 500-600 metra ofan við Stafnesveginn, upp af skógræktarreit sem hallar aðeins til suðurs. Veggir réttarinnar eru nokkuð heillegir, grasivaxnir að hluta að utan og innan, en vel sést i hleðslur. Innra skipulag hennar er nokkuð ljóst, það er almenningur og út frá honum liggja minni hólf. Inngangur er í réttina í norður. Hleðsluhæð um 1 m að jafnaði en sumstaðar aðeins lægra. Steinastærð um 0.25-0.50 m. Rétt þessi er eldri en réttin sem er niður við Stafnesveg en sú rétt er tekin í notkun upp úr 1930, en fram að því hafði Álaborgarréttin verið notuð.

Álaborgarrétt

Bæjarskersréttin er grjóthlaðin, en að hluta til úr timbri. Staðsetningin er n: 64,01,687 v: 22,42,022. Hún er um 50 m frá Bæjarskersvegi í suður eftir Stafnesvegi, rétt ofan við veginn. Réttin er upphlaðin að mestu, en með einstaka hliðum sem eru eingöngu úr timbri eða timbrið er til stuðnings hleðslum, og einnig er það notað í hlið í hólf réttarinnar. Hleðsluhæð er um 1.20 m. Hleðslugarðar eru fyrir utan réttina, en þeir eru einhlaðnir, og ræðst hæðin af stærð steinanna sem eru í þeim eða um 0.25-0.30 m. Rétt þessi var tekin í notkun upp úr 1930, en áður var notuð Álaborgarréttin notuð, sem fyrr sagði.

Heimildir:
-Sigurður Eiríksson í Norðurkoti.
-Reynir Sveinsson á „Uppsölum“ í Sandgerði.

Álaborgarréttin