Tag Archive for: Sel

Hnúkasel

Ísland er skv. skriflegum heimildum sagt hafa verið numið af norrænum mönnum árið 874. Segjum svo hafa verið. En á 1.150 árum hlýtur margt að hafa breyst í gegnum tíðina, bæði hvað varðar búskaparhætti og landnýtingu.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Tökum dæmi: Seljabúskapur fluttist hingað með landnámsfólkinu. Sá búskapaháttur var stundaður nánast óbreyttur í u.þ.b. 996 ár. Að honum loknum tóku við miklar breytingar í aðdraganda mikilla þjóðfélagsbreytinga. Fólk var að flytjast úr sveitum í nýmynduð þorpin allt umleikis landið. Fiskveiðar, sem reyndar höfðu verið stundaðar í útverum á síðustu árum selsbúkaparins, tóku mið af þróuninni.
Útvegsbændur á Reykjanesskaganum þráuðust við þegar vinnufólkinu tók að fækka; færðu „selstöður“ sínar nær bænum, enda tilgangur þeirra ekki lengur eins mikilvægur og fyrrum, þ.e. að tryggja með tilvist þeirra vitund annarra á eignarrétti landsins.
Helsta breytingin og þar með viðbrögð bænda í lok 18. aldar var að selstöðurnar fyrrum urðu að stekkjum, mun nær bæjunum. Stekkirnir, sem oft voru nefndir eftir þjónustum sínum, höfðu nánast sama tilgang og selin fyrrum, en til að þjónusta þá þurfti bæði minni mannskap og nánast engan húsakost því þangað var bæði hægt að ganga fram og til baka á skömmum tíma, án þess að þurfa að gista. Í selin fyrrum hafði meðalstalsselsstígurinn verið ca. 6 km., eða um þriggja klukkustunda gangur aðra leiðina, en í stekkina var gangurinn ekki nema ca. 20 mínútur.

Hvassahraun

Hvassahraunsstekkur II – uppdráttur ÓSÁ.

Síðustu leifar seljabúskaparins má finna næst bæjunum, stekkina nánast við túngarðinn og fjárréttirnar í framjhaldinu.
Í byrjun 19. aldar byrjuðu bændur að byggja hús yfir fénað sinn, bæði heima við bæ og í beitarhúsum upp frá þeim, í göngufæri. Áður höfðu þeir nýtt fyrirhlaðin hraunsskjól og upphlaðnar fjárborgir til bjargar fénu yfir vetrarmánuðina.
Þegar lesnar eru opinberar fornleifaskráningar virðast nánast aldrei vera gerður munur á minjum eftir þróun búskaparhátta í tíma. Í þeim hefur því engin samfelld saga myndast í fræðigreininni, sem verður að þykja miður….

Árnastekkur

Árnastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

 

Straumssel

Í Fjallkonunni 1890 er m.a. fjallað um „Lax og selr„. Um selin segir:

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel.

„Selstöður eru, nú orðið, því nær ekkert notaðar hjá því sem var á fyrri öldum. Eins og enn er ástatt með jarðræktina hér á landi, má það óefað teljast afturför í landbúnaðinum, að hafa ekki í seli, þar sem svo stendur á, að gott er um selstöður enn heimaland rýrt. Fyrst er nú það, að málnytan verði meiri og betri í seljunum og skepnurnar þó oftast feitari og holdþéttari enn heima; og í öðru lagi „hvílast“ heimalöndin svo að beitin verði drýgri og betri á þeim haust og vetur; enn fjallabeitin, sem ekki næst í nema um miðhluta sumarsins, vinnst betur upp enn ella. Sauðum (gömlum) er nú víða farið svo að fækka, að það léttir mikið á afréttarlöndunum á sumrin, og er því fremur ástæða til að nota gæði þeirra sem mest má verða á annan hátt, þenna stutta tíma sem þau bjóðast.

Gjásel

Gjásel í Vogaheiði – samvinnuselstaða.

Líklega er það aðalástæðan fyrir mörgum, að nota ekki selstöður, að það sé of kostnaðarsamt með fólkshald, áhöld og hesta til selflutnings, fyrir ekki fleiri málnytupening enn á flestum búum er. Enn þessi ástæða hyrfi ef menn kæmu sér saman um félagsskap í þessu sem fleiru. Ef 3 bændur, sem eiga um 50 ær, legðu saman í sel, og legðu til einn mann hver (2 í selið, 1 til flutninga), og annan tilkostnað eins að hlutfalli, mundi það til lengdar verða miklu kostnaðarminna enn heimagæsla víðast hvar, því heima þyrftu þeir sinn smalann hver, auk allra annara tafa við málnytuhirðinguna, þó ekki væri búist við neinum mismun að öðru leyti. Selfólkið getur líka oft haft einhver smávegis aukastörf, ef tími er til, t.d. safnað fjallagrösum m.fl.

Snorrastaðasel

Snorrastaðasel við Háabjalla – kúasel.

Kýr ætti að hafa í seli eigi síðar enn ær. Í þéttbýlum sveitum eru kýr oft til mestu vandræða; þær vaða yfir tún, engjar og sáðgarða, og valda oft miklum usla og töfum. Eru því aldrei látnar í friði, enn hraktar með hundum milli bæjanna, til mikils hnekkis fyrir gagnsmunina af þeim. Þar sem svo á stendur, væri sjálfsagt betra að hafa þær í félagsskap í seli, að minsta kosti flestallar, þó haldið væri eftir heima einni eða svo á búi.
Þessi atriði eru þess verð, að þau séu athuguð.“

Í Frey 1962 er skrifað um „Mjólkurneyslu„: Íslendinga:
„Samhliða vexti þorpa, kauptúna og kaupstaða, hefur á dyrnar knúð þörfin á því að laga sig eftir aðstœðum og útvega mjólk til neyzlu, í líkum mæli og gerzt hefur um allar aldir Íslandsbyggðar, en allt frá landnámsöld til vorra daga hefur mjólkin verið snar þáttur í nœringu þjóðarinnar.

Skálafell

Skáli Ingólfs í Skálafelli, fornleif með vísan í Landnámu. Þarna ku Ingólfur hafa haft geldneyti í seli og ræktað korn á Gullakri.

Á fyrstu öldum byggðarinnar er líklegt, að kýrnar hafi verið aðal málnytupeningur og sagnir eru af því og ábyggilegar heimildir, að stórbú voru eigi fátíð og nautahjarðir stórar.
Síðar hefur sauðfé fjölgað og af selstöðum, þar sem kýr voru mjaltaðar, eru til margar sögur og ábyggilegar. Langt er síðan selstöður lögðust niður hér á landi, og aðeins eru nokkrir áratugir siðan fráfœrur lögðust niður, en með þeim hvarf neyzla sauðamjólkur með öllu, nema ef einhverjir neyta enn sauðaþykknis á haustnóttum.
Nú er það kúamjólkin, sem er eina nœring þjóðarinnar af mjólkurtagl. Þegar þjóðin bjó öll í sveitum var fyrirhafnarlitið að koma mjólkinni frá framleiðslustað til neyzlustaðar. Hvert heimili var hvort tveggja, nema þegar þurrabúðarfólk átti í hlut eða fátœklingar með eina kú, sem auðvitað var þá geld tíma úr árinu, en þeir, sem svo illa voru settir að eiga ekki mjólkandi kýr, voru upp á annarra náð komnir eða urðu að líða skort annars, einkum í harðindum. Kýrin var „fóstra mannkynsins“ og það er hún raunar að vissu marki þann dag í dag á okkar landi.“

Lesbók Morgunblaðsins 1951 rifjar upp konungsbréf frá árinu 1754 er kveður á um „Viðhald selja„:

Hlöðunessel

Hlöðunessel – frá fornu fari.

„Á 18. öld þegar einokun, fjárkúgun og ill stjórn hafði drepið allan dug úr Íslendingum og landið var auk þess í kaldakoli af harðindum og fjárfelli og fólkið hrundi niður úr hungri, hugkvæmdist dönsku stjórninni að bæta úr þessu. Var gefið út konungsbrjef 24. febr. 1754 er fyrirskipaði bændum að hafa í seli, að minsta kosti tveggja mánaði tíma, frá því er átta vikur væri af sumri til tvímánaðar. Lagaboð þetta varð auðvitað ekki að neinu gagni.“

Heimildir:
-Fjallkonan, 31. tbl. 14.10.1890, Lax og selr, bls. 122-123.
-Freyr, 5. tbl. 01.03.1962, Mjólkurneysla, bls. 5.
-Lesbók Morgunblaðsins, 39. tbl. 07.10.1951, Selstöður, bls. 452.

Förnugötur

Straumsselsstígur austari/Fornaselsstígur/Gjáselsstígur.

Dýrafjörður

Í riti LbhÍ (Landbúnaðarháskóla Íslands) nr. 131 fjallar Bjarni Guðmundsson, prófessor emeritus, um „Sel við Dýrafjörð„. Verulega fróðlegt er að bera skrif hans saman við fyrirliggjandi þekkingu FERLIRs á seljum og selstöðum á Reykjanesskaganum; hugtök, vinnubrögð, húsakostur og nýting virðist á báðum svæðum hafa verið með líkum hætti. Í ritgerðinni er samansafn gagnlegra heimilda almennt um sel fyrrum. Þrátt fyrir orðaskrúð fræðimannsins, sem skiptir í stóra samhenginu litlu máli, er, það sem skiptir öllu meira máli, að í ritgerðinni að finna upplýsingar manns er hafði a.m.k. fyrir því í framhaldinu að leita uppi minjarnar á vettvangi og bæði heimfæra þær upp á heimildirnar og lýsa þeim með hliðsjón af sögulegum og landfræðilegum aðstæðum. Þær eiga jafnt um fáu selstöðurnar við Dýrafjörð og þær u.þ.b. 440 er finna má á Reykjanesskaganum.

Dýrafjörður

Forsíða ritgerðarinnar um sel við Dýrafjörð eftir Bjarna Guðmumdsson.

„En frammi á fjöllum háum,
fjarri sævi bláum,
sefur gamalt sel.“ – Guðmundur Böðvarsson

Hvað er sel?

Dýrafjörður

Það er viðeigandi að byrja með nokkur hugtök og skilgreiningar á þeim. Styðjast má við Íslenska orðabók. Samkvæmt henni er sel útihús í högum langt frá bæjum þar sem búpeningur er látinn ganga á sumrum. Selstaða er það að hafa búpening í seli og selför ferð í sel en einnig sögulegur réttur jarðarábúanda til að hafa búpening í seli. Selland er land þar sem haft er í seli og selhöfn beitarland sem seli tilheyrir. Þá má nefna þótt ekki komi það við sögu fyrr en síðar að búsgagnið selskrína er ílát sem mjólk var hleypt í skyr, hæfilega stórt til að flytja skyrið heim úr seli. Og hugtökin eru fleiri. Hér munu orðin seljaþorp og seljaþyrping verða notuð um það þegar sel frá fleiri bæjum hafa verið sett á sama stað eða í nábýli. Með sínum hætti áréttar hinn ríkulegi orðaforði tengdur seljum mikilvægi búháttarins á ýmsum tímum þjóðarsögunnar.

Dýrafjörður
Lengst af skráðum tíma Íslandsbyggðar lifði þjóðin öðru fremur á kvikfjárrækt. Afurðir búfjárins, mjólk, ull og kjöt, voru ásamt fiskmeti þau verðmæti sem daglegt amstur fólks snerist um.

Þerneyjarsel

Þerneyjarsel á Reykjanesskaga.

Kvikfjárræktin fólst einkum í nýtingu beitilanda og árstíðabundinni framleiðslu afurða. Landið með gróðri sínum var sú auðlind sem afkoma fólksins í veigamiklum atriðum byggðist á. Fornar hefðir og margvíslegar aðstæður í umhverfi og landslagi mótuðu kvikfjáræktina og þá verkhætti sem við hana var beitt. Einn hátturinn var sá að hafa hluta kvikfjárins í seli fjarri heimabýli. Í norður-evrópsku ljósi er það eldforn aðferð eins og síðar verður sagt frá en er aðferð sem fyrir all löngu var lögð af hérlendis. Enn má þó víða í úthaga ganga fram á minjar þessa búháttar þar sem greinilegar eru rústir gamalla selmannvirkja, rétt eins og Guðmundur Böðvarsson skáld segir í ljóðlínunum sem þessi kafli hófst á. Urmull örnefna vitnar líka um sel og seljabúskap en í þessu tvennu lifir ekki síst minningin um þennan þátt í sögu íslenskrar kvikfjárræktar.

Rauðhólssel

Rauðhólssel sel frá Vatnsleysu á Reykjanesskaga.

„Dalabotnarnir voru alsettir seljum“, fyrirlas Páll Zóphóníasson nemendum sínum á Hvanneyri veturinn 1919-1920, „og enn má sjá þess ljós merki af tóftunum sem nú standa sem menjar um horfna frægð, því frægð var það að hafa manndóm í sjer til að hafa fjenað í seljum.“
Seljahugtakið hefur með árunum fengið á sig eilítið rómantískan blæ, ef til vill vegna ýmissa þjóðsagna sem seljum eru tengdar, legu þeirra í víðernum og frjálsræði fjarri byggð en sjálfsagt einnig vegna erlendra áhrifa, einkum frá Noregi, þar sem þessi búskaparháttur tengist í hugum margra fögru landslagi og sællegum selstúlkum.
Ýmsir kannast t. d. við lag Ole Bull, Sunnudagur selstúlkunnar, leikrit Riis: Upp til selja, sem mjög var vinsælt hérlendis á fyrri hluta síðustu aldar, og fleira mætti nefna úr flokki rómantískra lýsinga.
Skáldið Snorri Hjartarson orti til dæmis kvæði sem er verðugur fulltrúi þeirra, kvæði sem hann nefndi Mig dreymir við hrunið heiðarsel:

Mig dreymir við hrunið heiðarsel:
heyri ég söng gegnum opnar dyr,
laufþyt á auðum lágum mel?
Líf manns streymir fram, tíminn er kyr.
Allt sem var lifað og allt sem hvarf
er, það sem verður dvelur fjær
ónuminn heimur, hulið starf;
hús þessa dags stóð reist í gær.
Við göngum í dimmu við litföl log
í ljósi sem geymir um eilífð hvað
sem er, og bíður. Fuglinn sem flaug
framhjá er enn á sama stað.

Veruleiki selfólksins hérlendis og sennilega einnig í nágrannalöndum okkar mun þó ekki aðeins hafa verið gleði og rómantík. Víða var seljabúskapurinn hluti þess að komast af við þröng kjör og óblíða náttúru fyrri alda; enginn leikur heldur bláköld og oft mjög erfið lífsbarátta.

Selin í sögu og lögum
DýrafjörðurSeljabúskapur er eitt af einkennum fornrar norrænnar kvikfjárræktar. Sel og selför voru hluti hins dreifbæra (extensive) búskapar sem einkenndi hana. Hann var og er einnig þekktur í Alpahéruðum Evrópu, í Skotlandi, Írlandi og raunar í fleiri hornum heimsins (summer farming). Seljabúskapur var leið til þess að nýta fjarlæg en oft kostamikil beitilönd, gjarnan ofan skógarmarka, til framleiðslu mjólkur á hásumri með sauðfé, kúm og geitum. Mjólkin var unnin í ýmsar afurðir til heimaneyslu um ársins hring en gat einnig verið liður í öflun nauðsynlegs gjaldmiðils t. d. smjörs upp í land- og gripaleigu.
Seljabúskapur á einu eða öðru formi á sér fornar rætur er rekja má langt aftur til járnaldar. Þrennt mótaði seljabúskapinn: búfé, fólk og landkostir, einkum beitarkjörin.
Margar rannsóknir hafa verið gerðar á seljum og seljabúskap. Það eru ekki síst Norðmenn sem þar hafa verið afkastamiklir enda búhátturinn mjög algengur þar í landi.

Hans Reinton

Lars Reinton (1896-1987).

Hér verða þeim rannsóknum ekki gerð sérstök skil heldur látið nægja að vísa til yfirlitsverka, svo sem þriggja binda verks Lars Reinton skrifaði um sel og selfarir; skipulag, verklag og lið í framfærslu, búhátt lagaðan að hinum ýmsu landsháttum og landkostum Noregs og á ýmsum tímum. Þá hefur Karoline Daugstad fjallað um sel og selfarir í margbreytilegum formum sem mótandi þátt menningarlandslags svo og vitundar fólks og viðhorfa frá starfrænum og ekki síst fagurfræðilegum sjónarmiðum í listum og menningu.
Reinton skilgreindi hinn norræna seljabúskap (sæterbruk) þannig: Sæterbruk er det når ein gard (ein fast vinterbustad) har krøtera sine i sumarbeite på ein stad eit stykke frå garden der det er husvære og fast personale, så ein kan nytta ut større vidder til beite, som regel òg til slått og onnor fórsanking, og så ein kan spara på heimemarkene og nå i betre beite, føde fleire krøter over vinteren og skaffe forråd til levemåten på den faste bustaden (garden).
Dýrafjörður
Með nokkurri einföldun má segja að tvær kenningar hafi einkum staðið um upphaf og þróun hins norræna seljabúskapar: Fyrst sú að seljabúskapurinn hafi þróast úr hjarðmennsku (nomadism) og eigi sér rætur í hinum indóevrópska frumbúskap og fyrstu búsetu jarðyrkjufólks. Reinton var einkum talsmaður þeirrar kenningar en verk hans var lengi vel miðlægt í norrænni seljaumræðu. Hin kenningin er sú að seljabúskapur hafi á löngum tíma einkum þróast sem svæðabundið svar við breytilegri þörf fyrir beitilönd og fóður. Svo virðist sem síðari kenningin njóti nú meira fylgis þótt í raun séu þær sprottnar af sömu rót – þörfinni fyrir hagkvæma nýtingu takmarkaðra beitilanda til öflunar lífsnauðsynlegs matarforða.
Þótt álitið sé að vestur-norskir landnámsmenn hafi fært seljabúháttinn með sér til Íslands og mótað hann í fyrstu með hliðsjón af eigin reynsluheimi og áþekkum umhverfisaðstæðum virðist hátturinn hafa þróast með ólíkum hætti í löndunum tveimur.

Hraunssel

Hraunssel undir Núpshlíðarhálsi á Reykjanesskaga.

Cabouret segir Frostaþingslög geyma orðið sel í sömu merkingu og hin 200 árum yngri lög nota orðið setur/sætr. Upphaflega merkti sel aðeins lítið einsrýmis hús en setur dvalarstað. Það síðara taldi hann fela í sér hlutverkaskiptara mannvirki fyrir fólk og fé og til framleiðslu mjólkurafurða.
Ennfremur að það benti til þess að það hafi fyrst verið á hámiðöldum sem norski seljabúskapurinn var fullþróaður. Að baki því áleit Cabouret liggja byggðaþróun sem ýtti búfjárhaldi að sumarlagi það langt frá býlinu að hverfa varð frá mjaltastað svo nærri býli að í mesta lagi þurfti dálítið sel til næturhvíldar, ef fjarlægðin heim var þá ekki orðin það mikil að frágangssök var að fara heim á milli morgun- og kvöldmjalta. Cabouret benti á aðþað var aðeins heitið sel sem fluttist til Íslands, og að þess vegna megi reikna með því að þetta form seljabúskapar hafi verið hið algenga í Vestur-Noregi við landnám Íslands. Þegar støl/stöðull varð algengt heiti selja í Vestur Noregi bendir það til hins sama. Orðið táknar mjaltastað, upphaflega án búsetu. Á Íslandi er orðið aðeins þekkt í hinni upphaflegu merkingu, sem mjaltastaður. Það taldi Cabouret benda til þess að merkingar-breytingin hafi fyrst orðið í Noregi eftir fólksflutningana til Íslands.

Hraunssel

Hraunssel í Ölfusi – uppdráttur ÓSÁ.

„Hve afarmikla þýðingu selin hafa haft á fyrri öldum, sést af hinum óteljandi seljarústum, sem eru dreifðar um afdali og heiðar um allt Ísland“, skrifaði Þorvaldur Thoroddsen árið 1919 en hann er líklega sá, ásamt þjóðverjanum Hitzler, sem lengi vel átti rækilegasta yfirlitið um sel og selstöður á Íslandi.
Annars eru innlendar heimildir eru býsna ríkulegar. Þær byggjast bæði á sérstökum sagnfræði- og fornleifarannsóknum, sem gerðar hafa verið, sem og almennum frásögnum af seljum og seljabúskap í einstökum sveitum. Til viðbótar þeim heimildum, sem þegar hafa verið nefndar, má úr fyrri hópnum sérstaklega nefna rannsóknir þeirra Guðrúnar Ólafsdóttur og Guðrúnar Sveinbjarnardóttur. Þá ber úr þeim flokki að nefna afar athyglisverða heimasíðu með fróðleik um sel, selstöður og seljabúskap á Reykjanesskaganum. Þá birti Benedikt Eyþórsson samantekt um seljabúskap á Íslandi og í norrænu ljósi í tengslum við rækilega rannsókn sína á búskap og rekstri Reykholtsstaðar fyrr á öldum.
Beitarbúskapurinn, sem var grunnur að rekstri seljanna, gegndi miklu hlutverki í norrænum heimi, jafnvel svo að á vissum tíma sögunnar, svo sem á víkingaöld, hafa fræðimenn talið að [góðir] hagar hafi verið meginuppspretta auðs og valda, að: „The ultimate source of wealth and power was pasture, and the correlation between cattle, good grazing, and chieftainship is clear both in the historical and archaeological record.“ Ekkert minna.
DýrafjörðurFornar lýsingar selja hérlendis, svo sem í Laxdæla sögu, selin frá Sælingsdalstungu í Hvammssveit og Vatnshorni í Skorradal, bera með sér að þau hafi verið allmikil mannvirki þótt ekki lægju fjarri heimabæjum. Í Sælingsdalstunguseli var til dæmis sagt vera margt manna er einnig starfaði að heyskap: Selin voru „tvau, svefnsel og búr“, segir í sögunni. Höfundur sögunnar notar þannig heitið sel um hin einstöku hús svo sem talin er hafa verið hin upphaflega merking orðsins. Við stympingar í Vatnshornsseli rifu árásarmenn „ræfrit af selinu“ en „selit var gert um einn ás, ok lá hann á gaflhlöðum, og stóðu út af ásendarnir, og var einart þak á húsinu ok ekki gróit.“ Orðalagið einart þak má í þessu samhengi skilja sem þak einfaldrar gerðar.
Frásögnin bendir til þess að yfir selhússveggina hafi verið reft með einföldum hætti, hugsanlega aðeins til sumars í senn. Ekki er fráleitt að takmörkuð árleg notkun selhúsanna, og það á hlýjasta tíma sumars, hafi ýtt undir það að húsagerðin væri höfð einföld og að efni til þeirra væri sparað, til dæmis hvað snerti burðarviði þaks og árefti.

Selsvellir

Selsvellir – sel Grindvíkinga; uppdráttur ÓSÁ.

Í lögbókunum fornu, Grágás, lagasafni íslenska þjóðveldisins, og Jónsbók, sem samþykkt var á Alþingi árið 1281, er allvíða vikið að seljum og selförum. Er það mjög til marks um mikilvægi seljanna á gildistíma lögbókanna. Lögin geyma ýmis atriði varðandi umgengni um sel og selstöður svo og selfarir, atriði sem varpa gagnlegu ljósi á forsendur og framkvæmd þessa búháttar. Hér verður því nokkurra ákvæða lögbókanna getið með beinum tilvitnunum í texta þeirra:
319: OF SELFÖR. Ef maður hefir lönd fleiri undir bú sitt en eitt, og vill hann fara þar í sel yfir annars manns land, og á hann þar að fara með fé sitt tysvar á sumri til sels, en því aðeins oftar ef þar verða misgöngur fjár, þá á hann að reka heim smala sinn. Hann á fornar götur að fara, ef þær eru til.
Ef hann fer of engi manns, þá skal hann í togi hafa hið lausa hross. Ef þar eru keldur á götu hans, og á hann að gera brúar þar yfir og vinna þau áverk á annars manns landi. Ef maður fer yfir engi annars, og hlýtur hinn af því skaða, þá varðar honum það útlegð, enda skal hann bæta honum skaða, svo sem búar fimm virða við bók.
320: ENN OF SELFÖR. Ef maður fer annan veg til sels of annars manns land með smala sinn eða klyfjahross en áðan var tínt, og verður hann útlagur of það þrem mörkum, og bæta auvisla sem búar virða við bók. Ef fimm aura skaði verður að eða meiri, þá varðar fjörbaugsgarð. . .
330: . . . Eigi skal sel gera í afrétt. Ef gert er, þá er sel óheilagt, og eigu þeir að brjóta sel er afrétt eigu, enda verður sá útlagur er sel gerði eða gera lét við þá alla er afrétt eigu, og sinni útlegð við hvern þeirra.
146: . . . þá skal það boð hver bera en engi fella, og á það að fara með veturhúsum eftir boðburð réttum en eigi með sætrum…
147: Sá skal boð bera bæja í milli . . . En ef hjú eru öll af bæ gengin, þá skal ganga í seturhús bónda ef það er opið og setja niður í öndugi svo að eigi falli.
177: Engi maður skal fyrir öðrum brenna með heiftugri hendi hús né heyhlaða, sætur, búð né skip. En ef hann brennir og verður að því kunnur og sannur, þá er 178: hann útlægur og óheilagur og heitir brennuvargur, og hefir fyrirgert hverjum peningi fjár síns í landi og lausum eyri…

Hraunssel

Hraunsselsstígur.

186: [Hvervetna þar sem sætur eru til bæja manna, þá skulu menn fara með búfé sitt yfir annars land til sætra, fornar götur ef til eru, og hafa í togi laus hross ef yfir eng er að fara. En ef keldur eru á leið hans, þá má hann gjöra þar brú yfir og vinna þann áverka á jörðu hins]. Menn skulu fara úr húshaga með fé sitt þá er tveir mánaðir eru af sumri, utan þeim þikki öllum annað hentara er brottfærslu eigu.
En ef einhver situr lengur niðri, þá skal sá er að telur fyrirbjóða honum þarsetu. Nú situr hann heima eigi að síður, þá skal hann stefna honum héraðsþing fyrir rán og þarsetu. Þá eiga þingmenn að dæma konungi hálfa mörk fyrir grasrán en grönnum hans hálfa mörk fyrir grasverð þeim er gras missa. Nú skal hann æsta svo marga bændur liðs sem hann þarf að færa fé hins úr haga sínum. Sekur er sá hver tveimur aurum við konung er eigi fer, ef hann er til krafður. Slíkt hið sama liggur við ef maður fer heim í húshaga fyrir tvímánuð.
186: [Nú skal til sætra á fjöll upp vera merki sem að fornu fari hefir verið og færa sætur eigi úr stað utan hann færi öngum manni til skaða, og svo skulu þeir hið sama sætrum halda. Engi maður skal setja sætur sitt við annars land eður haga, þar sem eigi hefir að fornu verið. Þar skal mæta horn horni og hófur hófi.]
186: Þjóðgata og sæturgata og allir rekstrar skulu vera sem að fornu fari hafa legið . . . [187] … Ef maður rænir annan mann sæturgötu eður rekstri þeim sem að fornu fari hefir verið, bæti konungi hálfri mörk fyrir vegarán og hafi hinn þó götu sem áður.
Dýrafjörður198: . . . Sætur má hver maður gjöra er þann almenning á ef hann vill þar sitja í sumarsetri, ef það er úr búfjárgangi . . . Nú brennir maður sætur í almenningi, veiðibúð eður andvirki það sem þar er, þá sekist sá er það gerir þrimur mörkum við konung en tvígildi þeim er hann brenndi fyrir það sama aftur jafngott . . .
282: Ef maður brennir hús eður hey, sætur eður búð eður skip heiftugri hendi, þá er hann útlægur og óheilagur og heitir brennuvargur. . . .
284: Nú rænir maður mann sæturgötu eður rekstri, sekur hálfri mörk við konung fyrir vegarán.
284: Ef sætur eru ger í afrétt, þá sem eigi ná lög til, þá eru þau óheilög við broti og bæti skaða og landnám með hverj-[285]um er í þeim afrétt á.
Ákvæðin, sem eru áþekk í lögbókunum tveimur, bera með sér að réttur til selfarar hefur verið afar ríkur og sýnilega tengdur hefðum með fornar rætur.
Ekki mátti setja sel í afrétt eða almenning. Ákvæði Jónsbókar [186] fela í sér eiginlega skyldu til selfarar [. . . Menn skulu fara úr húshaga með fé sitt þá er tveir mánaðir eru af sumri. . . Slíkt hið sama liggur við ef maður fer heim í húshaga fyrir tvímánuð].

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel í Hvalfirði.

Sýnilega er gert ráð fyrir að heimahögum sé hlíft í allt að tíu vikur um aðalsprettu- og heyskapartímann; frá Jónsmessu og fram til Höfuðdags. Óneitanlega er Jónsbókarhugtakið grasrán og viðurlög við grasráni í þessu sambandi athyglisvert. Grasið var auðlind sem ekki varð bæði notuð til beitar og slægna. Í sömu átt benda ákvæðin um rán selgötu – ef mönnum var meinað að koma búpeningi sínum í sel/sætur.
Þá eru líka athyglisverð þau ströngu viðurlög sem lágu við spjöllum á selmannvirkjum.
Ákvæði lagabálkanna tveggja sýna með skýrum hætti að löggjafi þessara tíma hefur haft þroskaðan skilning á nýtingu landsins til framleiðslu nauðsynlegra afurða og þýðingu hennar fyrir afkomu þegnanna. Þetta eru ekki einustu dæmin um skilning hinna fornu löggjafa á samspili náttúrulegrar vistar, þarfa fjölskyldnanna og sjálfbæris búhátta þeirra. Athyglisvert er að í Grágás er jafnan talað um sel en Jónsbók um sætur eða setur þótt átt sé við sama fyrirbrigðið.
Aldursmunur er á lögbókunum og hefur þegar verið bent á að hann skýri hugtakamuninn sem að sínum hluta eigi rætur í þróun búháttarins á tímabilinu og þá sérstaklega þróunina er varð í Vestur-Noregi.

Hvað skyldi rannsakað?
Dýrafjörður
Til seljanna gekk ég einkum með búfræðileg sjónarmið í huga og reyndi að horfa samtímis til sem flestra þátta þeirrar framfærsluleiðar og landnýtingar með kvikfjárrækt er seljabúskapur á hinu afmarkaða rannsóknasvæði var.

Sogasel

Sogasel í Núpshlíðarhálsi – uppdráttur ÓSÁ.

Að öðru leyti fólst ásetningur minn í eftirtöldum áformum:
1. að kanna ritaðar og munnlegar heimildir um selin á rannsóknasvæðinu og notkun þeirra, 2. að kanna seljarústir á svæðinu og umhverfi þeirra, m. a. með hliðsjón af staðháttum og beitargildi landsins,
3. að athuga seljabúskapinn með hliðsjón af landkostum og landnýtingu á jörðunum. að athuga seljabúskapinn og þróun hans með hliðsjón af ástandi og breytingum á öðrum búnaðar- og samfélagsháttum á svæðinu.
Síðan skyldi leitast við setja niðurstöður rannsókninnar í samhengi við niðurstöður hliðstæðra rannsókna á öðrum stöðum, innlendum og erlendum, og þær almennu kenningar, sem til hafa orðið á grundvelli þeirra, um þennan þátt kvikfjárræktar hér á norðurslóðum.
Þegar gengið var á seljarústirnar voru þær kannaðar, einkum með hliðsjón af staðsetningu, skipulagi og stærð. Gerðar voru yfirborðsmælingar á þeim til uppdráttar og minjar hnitsettar þegar sú tækni varð mér tiltæk. Hins vegar var hvergi grafið í rústir eða minjum undir sverði hreyft enda er það viðfangsefni á hendi fólks með aðra sérþekkingu en ég ræð yfir. Tekinn skal vari fyrir því að yfirborðsathuganir sýni raunverulega gerð mannvirkis sem undir sverði er. Jarðrask, gróður og langvarandi traðk beitarpenings, en seljatóftir hafa sakir grósku löngum dregið hann að sér, getur hafa raskað yfirborðsmyndinni að einhverju marki. Næsta stig rannsóknarinnar gæti því orðið að athuga lögun og gerð áhugaverðustu rústanna nákvæmar, t.d. með jarðsjá eða uppgreftri.
Mjög var misjafnt hve glöggar tóftirnar á selstöðunum voru. Yfirborðsmælingarnar ættu samt að gefa viðunandi og samanburðarhæfar grunnmyndir af rústum flestra selmannvirkjanna. Fullnaðarvitneskja fæst þó aðeins með uppgreftri. Staðhættir voru kannaðir svo sem landslag, gróðurfar og umhverfi hinna einstöku selja. Þá voru teknar ljósmyndir af mælistöðum og svæðum.

Hvar stóðu selin?
Dýrafjörður
Þótt ekki hafi verið gerð nákvæm gróðurgreining á landinu virðist ekki vera um umtalsverðan mun á gróðurtegundum selhaga og heimalanda. Ég get mér þess til að munurinn sé fremur þroskamunur gróðurs tengdur hæð yfir sjó og snjóalögum, eins og þegar hefur verið nefnt: að seinna hafi sprottið frammi á sellöndunum og beitargróður því yngri og næringarríkari en gróður heimalanda þegar fram á selstöðutímann kom. Þar var einnig átt við landrýmið sem heima við var víða af skornum skammti.
DýrafjörðurSú fyrsta og helsta nytsemd af selverum málnytupenings á sumardag og sérlegasti tilgangur þeirra, sem þær brúka, er, að hafa því meiri mjólk og kost af honum sem selstöðurnar eru tíðast betri heimahögunum“, skrifaði sr. Guðlaugur prófastur Sveinsson í Vatnsfirði árið 1786. Hann var einn helsti talsmaður seljabúskapar á endurreisnarárum íslenskra atvinnuhátta á ofanverðri átjándu öld. Og presturinn rakti dæmi um það hvernig landgæðin gátu endurspeglast í nyt búpeningsins:
„Eg hefir sjálfr verit á þeirri jørd í 14 ár [hér mun átt við Kirkjuból í Langadal þar sem sr. Guðlaugur bjó árin 1766-1780], hvar búsmali giørdi þridiúngi minna gagn heima enn í selinu, hvar eg árliga lét mínum peníngi hallda, alloptazt frá Fardøgum til Høfuddags; en viza og heyrdi adra segia, sem þar áðr búit høfdu, at eigi hefdu þeir meir enn frekliga helmíngs gagn af peníngi sínum haft, þá honum gátu eigi í sel komit.“
– „á hvøriu landbúenda velgengni ecki sízt ríðr, sem hér má þarfnaz miólkur, smiørs, skyrs, sýru, feitara sláturs og fleira“ – svo aftur sé gripið til orða sr. Guðlaugs í Vatnsfirði.
Ekki er marktækur munur á meðalvegalengd frá bæ að seli á milli sveitanna, metinni í áætluðum gangtíma; í Þingeyrarhreppi er hún 40 mínútur að meðaltali en 8 mínútum lengri í Mýrahreppi; staðalfrávikin eru svipuð, um 20 mínútur. Skemmst hefur gangan verið 15 mín en lengst um 90 mín, bil hin sömu í báðum sveitum.

Lega seljanna – liður í skipulegri nýtingu landkosta?
Dýrafjörður
Þegar skoðuð er lega selstaðnanna í landi hverrar jarðar virðist koma fram regla um nýtingu gróðurlendis jarðarinnar.
Ekki er hægt að taka fyrir að einstakar tóftir séu frá mismunandi tíma. Á nokkrum seljanna mátti bæði sjá óljósar minjar eldri mannvirkja sem og sýnileg merki um að byggt hafði verið á grunni eldri mannvirkja.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel við Seltjörn á Reykjanesskaga – fyrir tíma skógræktar.

Má taka þetta sem merki um fleiri tímaskeið seljasögunnar þar sem menn nýttu augljóslega hleðsluefni úr eldri mannvirkjum á selstöðunum til þess að endurbyggja mannvirkin að þörfum hvers tíma. Það hefur líka verið bent á að búhátturinn hafi ekki verið samfelldur; að hann hafi legið niðri um lengri eða skemmri tíma en síðan tekinn upp að nýju.
Mörg selin liggja þannig að auðvelt hefur verið að sjá til beitilandsins sem væntanlega hefur auðveldað smalanum að líta eftir hjörð sinni, svo hann þyrfti ekki að hnappsetja ærnar „því þá datt úr þeim nytin.“
Við mörg seljanna eru landkostir þannig að ekki sýnist hafa verið auðvelt að stinga eða rista torf í veggi og á þök. Af stærð og fyrirferð tófta er þó ljóst að á mörgum seljanna hefur gríðarlega mikil vinna farið í aðdrætti efnis og veggjahleðslu. Það hefur verið leiguliðum ærin fyrirhöfn að halda mannvirkjunum við svo sem leiguliðum bar að gera – auk viðhalds annarra jarðarhúsa. Stærstu tóftirnar á seljunum gefa í engu eftir tóftum margra jarðarhúsa að stærð. Óneitanlega segir það einnig sína hljóðu sögu um mikilvægi selstaðnanna. Flestar voru seljatóftirnar orðnar það máðar að fátt var ráðið um húsagerð. Á að minnsta kosti tveimur seltóftum mátti þó enn sjá allglögg þakummerki. Ætla má að það sé á þeim sem hvað síðast voru í notkun. Fátt verður annars fullyrt um gerð selhúsanna. Vegna takmarkaðs notkunartíma á hverju ári og það hlýjasta tíma þess er freistandi að geta sér þess til að húsagerðin hafi verið einföld.

Stærð og gerð selhúsanna
Dýrafjörður
Þorvaldur Thoroddsen lýsti algengri húsaskipan íslensku seljanna þannig: Voru selhúsin vanalega þrjú, íveruhús eða svefnsel, eldhús og búr, og mun sá húsafjöldi hafa haldist síðan í fornöld, þó sum selin bæði fyrr og síðar hafi verið fátæklegri.

Þróun selja

Aldursþróun selja á Vatnsleysuströnd.

Einföldust voru selin þegar þau voru hólfuð í tvent. Voru herbergin kölluð útsel og innsel. Í útselinu sem var framar, og maður kom fyrst inn í, var öll eldamennska, en í innselinu svaf fólkið og þar var maturinn geymdur. Í innselið var gengið úr útselinu, en aldrei utan frá. Hjá þeim sem betur máttu sín voru selin í þrem herbergjum. Þá var eldað í miðherberginu, en fólkið svaf í öðru hinna. Vanalega voru tvær stúlkur í selinu og smali. Oft var húsmóðirin sjálf í selinu. Öll sel voru bygð úr torfi og grjóti og óþiljuð.
Sé litið yfir uppdrætti seljanna, er vandséð að eitt form öðrum fremur móti skipulag selhúsanna. Frekast er það kvíin sem tengir selstöðurnar saman.
Frásögn Þorvaldar Thoroddsen um gerð selhúsa má skilja svo að um aðskilin mannvirki hafi verið að ræða. Hagkvæmara gat verið að hafa húsin öll samveggja og jafnvel undir sömu þekju til þess að spara efni og vinnu. Nokkrar seljagrunnmyndanna úr Dýrafirði sýna eimitt slíkt form: Tvær til þrjár tóftir hlaðnar í samstæðu. Telja má víst að þar hafi vist vinnufólks verið samfelld um seljatímann og þá við vinnslu mjólkurinnar og eftir aðstæðum önnur verk, svo sem heyskap. Stærð mannvirkjanna ætti að endurspegla umfang starfseminnar á selinu, bæði í gripafjölda og nauðsynlegum mannafla.
Mjaltakvíar voru sýnilegar á þorra selstaðnanna: „Allar höfðu þær mjög svipað form; aflangar og mjög áþekkar að breidd – um það bil 1,9-2,0 m (sem er nálægt 3 álnum). Hin fasta breidd gerði það að verkum að ærnar röðuðu sér jafnan upp þannig að auðvelt var að mjólka þær. Lengd kvíanna var hins vegar mismunandi en af henni má áætla þann fjölda áa sem rúmast gat í hverri þeirra. Þétt saman má gera ráð fyrir að þrjár afteknar (rúnar) mjólkurær komist á lengdarmetrann og örugglega fimm ær á hverja tvo metra.“

Hvað segja örnefni um selin og selstöðurnar?
Dýrafjörður
„Örnefnin eru minjar um mannlega starfsemi á liðnum tímum. Þau verða aðeins til þar, sem menn hafast eitthvað að“, skrifaði Magnus Olsen.
Fjöldi seljaörnefna, sem tengd eru stöðum og svæðum í nágrenni seljanna, má ætla að geti verið nokkur mælikvarði á það hversu gróinn og umfangsmikill búhátturinn hefur verið á hverri jörð. Þar sem langt er síðan hátturinn var lagður af eða lítið fór fyrir honum má ætla að seljaörnefnin hafi horfið úr munni fólks og/eða að forsenda hafi ekki verið fyrir myndun þeirra. Vissulega getur samfella ábúðar á einstökum jörðum hafa haft áhrif á það hversu vel örnefni bárust á milli ábúenda og kynslóða. Nábýli og mikil umferð fólks um landið vegna nýtingar þess ætti þó að hafa ýtt undir góða varðveislu örnefnanna.
Byggt á örnefnaskrám jarðanna reyndust 2,4% allra örnefna á jörðunum tengjast seli.

En hvað má svo lesa úr örnefnum sjálfum?
Dýrafjörður
Seljaörnefnin í Dýrafirði virðast, rétt eins og í flestum öðrum héruðum, einkum vera tvenns konar: Annars vegar eru það sérstök heiti seljanna sjálfra, sem oftast hafa viðkomandi bæjarnafn að forlið, t. d. Hólasel, Sandasel, Botnssel og Mýrasel. Það geta einnig verið nöfn til aðgreiningar fleiri selja frá sama bæ, sbr. Fornasel, Nýjasel, Gamlasel, Heimrasel, Fremrasel. Hins vegar eru það örnefni staða og svæða í nágrenni selstaðnanna sem einkum hafa verið notuð til staðsetningar í samræðum fólks um land og umhverfi, til dæmis Seljalækur, Seljalágar, Selbali og Seljahvilft.

Seljagerðir

Þróun selja á Vatnsleysuströnd.

Úr flokki seljaheitanna virðist einkum mega lesa tvennt: hugsanlegan aldursmun seljanna og staðarmun.
Sel nágrannajarða voru gjarnan sett þannig að stutt væri á milli þeirra.
Það virðist vera einkenni hinna „gömlu“ selja að þau liggja stök í landi viðkomandi jarða og virðast því ekki vitna um seljaþyrpingar. Einhverjar breytingar búhátta eða félagsgerðar virðast hafa orðið sem leiddu til þess að „nýju“ seljunum var valinn annar staður en hinn „forni“. Sérkenni sýnilegra minja fornuseljanna (stærð og lega) gætu bent til þess að þau séu frá tíma stærri og fjölmennari heimila – hugsanlega með rætur allt til landnáms – en að með fjölgandi heimiliseiningum og lækkandi tölu heimilismanna hafi selmannvirkjum nágrannajarða verið þjappað meira saman til samvinnu og selskapar. Vel þekkt er að örnefni benda til sérstakra gæða eða eiginleika landsins.

Niðurlag
Dýrafjörður
Niðurstöður seljaathugann falla hvað snertir nýtingu landsins saman við niðurstöður rannsókna á norrænum seljabúskap og ríma við eldri heimildir um hann. Þótt talið sé að íslenski seljabúskapurinn eigi sér norrænar rætur er ljóst að hann hefur verið lagaður að staðbundnum aðstæðum, svo sem landslagi, eins og fyrri rannsakendur íslenskra selja hafa raunar bent á.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Meðal síðustu selja á Íslandi var selið að Hrauni í Skálavík sem nýtt var sumurin 1952-1954. [Á Reykjanesskaganum lagðist selsbúkapurinn af um 1870. Lengst var selstöðunni í Flekkuvíkurseli viðhaldið, eða til 1874.] Það var vinnan sem á hverjum tíma var sá þátturinn er helst takmarkaði rekstur seljanna: Hún var mikil og ekki eftirsóknarverð, sennilega sakir aðstöðu, aðbúnaðar og fásinnis.
Á vertíðum annarra tíma ársins, einkum vor og haust, fóru menn með hliðstæðum hætti til fiskivera sinna. Markmið beggja ferðanna voru hin sömu: Að afla próteins og feitmetis til eigin viðurværis en einnig sem gjaldmiðla til leigugreiðslna og þeirra takmörkuðu viðskipta er stunduð voru. Í seljunum stóð ríki kvenna. Var það ef til vill eitt form þeirrar tíðar er markaði (annabundið) frelsi og jafnrétti kynjanna? Og þá má líka spyrja hvort aflögn seljabúskaparins hafi haft sambærileg áhrif á afkomugrundvöll heimilanna og hvarf þeirra frá notkun verstöðva til einhliða heimræðis hefði haft? Að þeirri spurningu kom þó ekki því þörfin fyrir selför og sauðamjaltir þvarr með gerbreyttum þjóðfélagsháttum.

Heimild:
-Rit LbhÍ r. 131, Sel og selstöður við Dýrafjörð, Bjarni Guðmundsson, prófessor emeritus, 2020, 73 bls.
-http://www.lbhi.is/sites/lbhi.is/files/gogn/vidhengi/rannsoknur/rit_lbhi_nr_131_sel_og_selstodur_vid_dyrafjord_loka_sm.pdf
Dýrafjörður

Sel

Margrét Björk Magnúsdóttir skrifaði skýrslu um „Rannsókn á seljum í Reykjavík“ árið 2011:

Margrét Björk Magnúsdóttir

Margrét Björk Magnúsdóttir.

„Elstu ritheimildir sem varða sel á Íslandi eru trúlega Grágás, lagasafn íslenska þjóðveldisins sem talið er ritað á þjóðveldisöld og varðveist hefur í handritum frá 13. öld, og Íslendingasögur sem flestar eru taldar ritaðar á 13. öld. Talið er að ákvæði um sel í Grágás séu aðlöguð frá Norskum lögum. Þar segir meðal annars að sel skuli vera inna landamerkja og þau megi ekki staðsetja á afrétti. Í Jónsbók lagabók Magnúsar lagabætis sem tók gildi árið 1281 og var í notkun framá 18. öld, í skinnhandriti frá því um 1363, eru ákvæði sem varða sel. Þar er mönnum sagt hvernig þeir skuli haga ferðum sínum til sels (sætr), að fara skuli fornar götur yfir landareignir annarra, og hvar selin skuli vera. Þetta ákvæði er vísbending um að sel hafi getað verið langt frá bæ. Í Jónsbók er einnig kveðið á um á hvaða tíma eigi að hafa í seli en þar kemur fram að halda skuli kýr og fé sem skilið hefur verið frá lömbum sínum í seli yfir sumarið frá miðjum júní fram í miðjan ágúst. Þá eru sel einnig oft nefnd í lýsingu stærri býla og kirkjustaða.

Af umfjöllun þessara miðaldaritheimilda má sjá að sel hafa verið mikilvæg og verðmæt. Sel koma nokkuð oft fyrir í Íslendingasögum sem bendir til þess að seljabúskapur hafi verið útbreiddur og vel þekktur á Íslandi á þeim tíma sem ritun sagnanna hófst á 13. öld. Í Laxdælu er seli og staðsetningu þess lýst. Selið er sagt samanstanda af tveimur húsum íveruhúsi og búri, nálægt á. Í síðari heimildum er talin venja að þrjú rými séu í seli, búr, eldhús og svefnstaður.
Rannsóknir á seljum á Íslandi eru nokkrar en fram til þessa hefur aðeins farið fram einn fornleifauppgröftur á rústum sem taldar eru hafa verið sel út frá staðsetningu og árstíðabundini notkun. Sú rannsókn fór fram árið 2005 vegna fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda á Kárahnjúkum sem eru á austanverðu hálendinu. Þar fór fram heildaruppgröftur á stað sem heitir Pálstóftir en hann er í 600 m hæð yfir sjávarmáli, um 90 km frá næstu strönd og í minnst 15 km fjarlægð frá næsta bæ.

Pálstóftir

Pálstóftir.

Rannsóknin á Pálstóftum leiddi í ljós að þar hefði verið árstíðabundin búseta og bentu gjóskulög á staðnum til notkunar á tímabilinu 940 til 1070. Þar komu einnig fram vísbendingar um fjölbreyttar athafnir t.d. handverk, veiðar og trúariðkun.29 Fjórar rústir voru grafnar upp á svæðinu, rústir I-IV. Aðalhúsið rúst I var stærst um 15m², þar var eldstæði í miðju og hefur trúlega verið svefnstaður. Rúst II var um 3m² og var túlkuð sem geymsla. Rúst III lá í halla frá hinum og sneri öðruvísi en hin húsin. Hún var um 9m² að stærð og allt benti til að þar hefði verið opið aðhald kannski notað til mjalta. Rúst IV var óvenjulegust, var seinni viðbót við suðurhlið byggingar I minna en 9m² með eldstæði í miðju og steini lagðri stétt frá eldstæðinu og út. Talið var að það gæti hafa verið svefnstaður fyrir eina til tvær manneskjur. Fram að uppgreftrinum á Pálstóftum höfðu rannsóknir á seljum aðallega byggt á ritheimildum.

Daniel Bruun.

Daniel Bruun (1856 – 1931).

Daniel Bruun var danskur kafteinn sem tók sér fyrir hendur að rannsaka íslenskar fornleifar og ferðaðist í þeim tilgangi um landið í 14 sumur í kringum aldamótin 1900 síðar.
Niðurstöður hans birtust árið 1928 í bókinni Fortidsminder og Nutidshjem paa Island. Þar segir hann að fjarlægari beitilönd hafi verið hagnýtt til selstöðu og sellönd séu eign jarðanna sem liggi langt frá bæjum. Bruun segir að sel hafi til forna ýmist verið kölluð sumarsetur eða sumarhús og þangað hafi flestir flutt af bæjunum með allar kvíær, kýr og margt af hestum flutt til að hlífa heimahögum. Hann telur að selstöðum hafi fækkað vegna þess að kúm fækkaði. Bruun segist hafa séð gamlar seltóftir á nokkrum stöðum sem voru venjulegast þrjú sambyggð hús, eldhús, selbaðstofa og mjólkurbúr og kvíar í grennd við húsin.
Í bók norska sagnfræðingsins Lars Reinton Til seters. Norsk seterbruk og seterstell frá árinu 1969 kemur fram að í Noregi þekkist þrjár megin gerðir selja sem notaðar voru á mismunandi tíma yfir sumarið. Heimasel (n.heimsetrane) voru nálægt bæjarhúsum og þangað var flutt strax á vorin. Millisel (n. mellomsetrar) voru lengra frá bæ en lengst frá bæ voru sumarselin (n. sommarsetra) sem voru aðalselin og voru inní skógi eða upp til fjalla.
Reinton telur að svipað seljakerfi hafi verið notað á Íslandi á söguöld. Hann greindi selin í Noregi einnig eftir eðli þeirra og skilgreindi þrennskonar sel; fullsel, mjólkursel, heysel eftir þeim störfum sem þar fóru fram. Fullsel voru yfirleitt reisulegust þar sem aðstaða til mjólkurvinnslu þurfti að vera góð. Þar þekktust einnig vetrarsel þar sem haft var geldfé til að klára heyforða. Þessa þrískiptingu selja telur Guðrún Sveinbjarnardóttir að ekki eigi við á Íslandi.

Egon Hitzler

Egon Hitzler og Gísli Sigurðsson. Gísli fór með Egoni og sýni honum sel í nágrenni Hafnarfjarðar.

Dr. Egon Hitzler gaf út árið 1979 doktorsritgerð sína um sel og selfarir á Íslandi bókina SelUntersuchungen zur Geschicte des isländischen sennwesens sit der landnahmezeit. Rannsókn hans byggðist að mestu leiti á ritheimildum og er grundvallarrit um sel og selstöður á Íslandi. Niðurstaða hans varðandi skipulag húsa í seljum var að venjulegast hafi verið 3 byggingar aðskildar eða í þyrpingu, raðað á mismunandi vegu.
Árið 1991 skrifaði Guðrún Sveinbjarnardóttir fornleifafræðingur grein um rannsókn sem hún gerði á seljum á þrem landsvæðum á Íslandi, Eyjafjallasveit, Berufirði og Ausur og Vesturdal í Skagafirði. Guðrún rannsakaði ritheimildir um landnám á svæðinu, kortlagði minjar og tímasetti útfrá gjóskulögum. Þá var einnig gerð fornvistfræðileg rannsókn á staðnum Engihlíð í Fossárdal til þess að reyna að greina hvort þar hefði verið sel eða býli. Niðurstaða Guðrúnar var að fjarlægð frá býli að seli var yfirleitt stutt. Fjöldi bygginga í seljunum var yfirleitt 1-2 sem skiptust í 3-4 rými. Á tveimur stöðum fundust aðeins ein bygging og einum stað voru tíu byggingar. Uppröðun bygginga var mjög breytilegt á milli staða og einnig hæð yfir sjávarmáli.

Esjubergssel

Esjubergssel / Móasel – uppdráttur ÓSÁ. Dæmi um nokkrar endurgerðir selstöðu.

Mest af selstöðunum sem voru staðsettar lægra virtust vara elstar. Bæði Eyjafjallasveit og Berufirði og benda sel nöfn bæja til að þeir hafi í fyrstu verið sel á láglendi. Í Skagafirði eru dæmi um sel frá fyrstu tíð staðsett innarlega í landi langt frá bæ sem breyttust í býli og aftur í sel eða beitarhús. Í Aðaldal voru sel nýtt sem beitarhús á vetrum og sýnir sú mikla notkun beitarlands mikilvægi þess fyrir efnahag bæja áður fyrr. Allar minjarnar eru taldar vera frá miðöldum og til 1800 og líkjast ekki bæjum frá þeim tíma. Greinilegt var af gögnum að mörkin milli býlis og sels var stundum stutt. Á þeim stöðum í Aðaldal þar sem notkun var breytileg telur Guðrún að notkunin hafi væntanlega stjórnast af veðurfari og hagsæld. Margir staðir í Vesturdal sem túlkaðir hafa verið sem smábýli höfðu meiri einkenni sels en býlis og Engihlíð í Fossárdal er kannski dæmi um slíkan stað. Niðurstöður greininga frá Engihlíð voru að á síðasta notkunarskeiði staðarins hefði það verið nýtt sem sel með hugsanlega einhverri heyvinnslu en ekki var hægt að greina hvort staðurinn hefði í fyrstu verið býli. Til að fá úr þessu skorið var lagt til að gerð yrði nánari sýnataka í tengslum við uppgröft á staðnum.
Árið 2002 skoðaði Sædís Gunnarsdóttir fornleifafræðingur í mastersritgerð sinni sel sem hluta af búsetu landslagi jaðarbyggða og tók fyrir Saurbæjarhreppi í Eyjafjarðarsýslu.
Sædís notaði GIS til þess að skilja dreifingu tengsla á milli selja og sjálfstæðra og ósjálfstæðra býla. Þar kom fram að fjarlægð milli bæjar og sels sýndi tvíþætt mynstur. Stærri hópurinn var um það bil 1,5 km frá bæ en minni hópurinn í 3 km fjarlægð. Þetta mynstur virtist tengt efnahag bæjanna þar sem efnaðri býli áttu fjarlægari sel, kannski vegna þess að þeir áttu einnig stærra landsvæði.

Sædís Gunnarsdóttir

Sædís Gunnarsdóttir.

Sædís telur að nota megi hæð yfir sjávarmáli til að greina á milli smærri býla og selja. Sel voru að meðaltali í 300 m h.y.s. en býli í 150 m h.y.s. Halli á landi var líka meiri í seljum eða um 12° en á býlum um 6° halli.
Albína Hulda Pálsdóttir fornleifafræðingur skrifaði árið 2005 BA ritgerð þar sem hún gerði fræðilega úttekt á seljum. Í rannsókn sinni notaði hún gögn úr fornleifaskráningum frá Fornleifastofnun Íslands og vann úr þeim tölfræðilegar upplýsingar um sel. Hún skoðaði fjölda rústa á hverjum selstað og var meðalfjöldi á hverju selstæði 2,30 en algengast var að aðeins sé ein rúst sé á hverjum stað en á flestum selstæðum er ein til þrjár rústir. Albína skoðaði einnig tengsl á milli dýrleika jarða árið 1686 og fjölda rústa á selstæði, hólfafjölda og flatarmáls. Niðurstaðan var, að eftir því sem dýrleiki jarða var hærri þá jókst fjöldi rústa, hólfa og flatarmáls. Einnig skoðaði hún meðalfjarlægð frá bæ í sel í beinni loftlínu og var niðurstaðan að rúmir 2 km eru á milli í beinni loftlínu og sjaldnast hafi verið nema 1-4 klukkustunda gangur frá bæ í sel.

Ómar Smári Ármannsson

Ómar Smári Ármannsson.

Árið 2007 skrifaði Ómar Smári Ármannsson viðamikla BA ritgerð um sel og selstöður. Hann hefur lengi leitað uppi sel og selstöður og var ritgerðin afrakstur 6 ára vinnu og í henni er að finna upplýsingar um mikinn fjölda selja. Hann segir megingerð selja á Reykjanesskaganum sé þrískipt rými þar sem eldhús sé fráskilið og stekkir séu skammt frá eða áfast húsumum. Seljastígar sem lágu frá bæ að seli sem enn eru sjáanlegir séu oftast um 7 km eða um 1½–2 klukkustunda gangur. Einnig telur hann að staðsetning selja í útlendum jarða hafi verið skilaboð um eignarhald.

Í þessari rannsókn hafa verið teknar saman heimildir um sel og selstöður allra jarða sem eru innan borgarmarka Reykjavíkur eða tilheyra þeim árið 2010. Með samantektinni er komið yfirlit yfir fjölda og staðsetningu selja sem nota má til samanburðar og frekari rannsókna. Þegar sel í Reykjavík eru skoðuð með hliðsjón af fyrri rannsóknum á seljum annars staðar á landinu, kemur í ljós að fjölbreytileiki þeirra er álíka og annarstaðar á landinu.
Í fyrri rannsóknum hefur athyglin beinst að nokkrum þáttum eins og fjölda húsa og rýma innan þeirra á hverjum stað, fjarlægð frá býli að seli, hæð yfir sjávarmáli og halla lands, en auk þess hafa sel verið skoðuð sem hluti af búsetulandslagi. Þegar fjöldi húsa og rýma var skoðaður kom í ljós að fjöldi húsa á hverri selstöðu var 1-2 hús en meðaltal þeirra var 1,42. Í flestum húsum eru 3-4 rými og að meðaltali eru 3 rými í hverju húsi. Þessar tölur eru líkar og fram hafa komið í öðrum rannsóknum og heimildum.

Sel

Sel vestan Esju – ÓSÁ.

Fjarlægð frá býli að seli var einnig skoðuð. Algengasta fjarlægð var annarsvegar um 12 km, hinsvegar 7 km og síðan um 2 km. Meðalvegalengd var 8,6 km en meðalgildi var 7,3 km. Þegar dýrleiki jarða og fjarlægð sels frá býli var skoðað var ekki hægt að greina fylgni þar á milli.
Af þessari samantekt má sjá að töluverður efniviður er til staðar til frekari rannsókna á seljum og selstöðum. Tóftir seljanna eru mikilvægar menningarminjar og vitnisburður um þátt í atvinnusögu okkar allt frá landnámi framá 20. öld. Það er því mikilvægt að gerðar verði nákvæmar athuganir á þeim, en frekari rannsóknir geta gefið svör við ýmsum spurningum. Náttúrufegurð er mikil á öllum selstöðusvæðunum innan borgarmarkanna og eru þau kjörin til útivistar. Þar sem tóftir selja eru enn vel greinanlegar auka þær á upplifun landsins þar sem þær kúra að því er virðist samvaxnar landinu.“

Sjá Skýrsluna.
Sjá úrdrátt úr BA-ritgerð ÓSÁ um „Sel vestan Esju“ frá árinu 2007.

Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Rannsókn á seljum í Reykjavík – Reykjavík 2011, Minjasafn Reykjavíkur; Skýrsla nr. 159.

Reykjavíkursel

Reykjavíkursel við Selvatn.

Stardalur

Margrét Björk Magnúsdóttir skrifaði skýrslu um „Rannsóknir á seljum í Reykjavík“ fyrir Minjasafn Reykjavíkur árið 2011. Þar fjallaði hún m.a. um selin ellefu í Stardal og nágrenni:

Stardalur – Selstöður sunnan undir Svínaskarði (Stardal)

Stardalur

Sel í Stardal og nágrenni.

Sunnan undir Svínaskarði á jörðunum Stardal, Sámsstöðum og Hrafnhólum var höfð selstaða frá ellefu bæjum samkvæmt Jarðabók Árna og Páls sem sjá má í töflu 1. Selstöður gætu hafa verið fleiri því á svæðinu er að finna mikið og gott beitiland. Bærinn Stardalur stendur við mynni samnefnds dals, norðanvert við Leirvogsá, suðaustan undir Skálafelli. Sámstaðir eru um 1,5 km neðar með Leirvogsá neðan við klettabeltinu Stiftamt. Hrafnhólar eru svo um 2,5 km neðar einnig norðan við Leirvogsá sunnan undir Haukafjöllum á móts við Skeggjastaði uppá hól, en bærinn stóð áður aðeins ofar með ánni undir brekkunum.

Stardalur

Sel í Stardal og nágrenni.

Heimildir eru um 11 selstöður bæja undir Svínaskarði en flestir voru í Mosfellssveit eða 7 talsins og 4 í Kjalarneshrepp. Árið 2010 tilheyra 7 af þessum bæjum Reykjavík, en 4 í Mosfellsbæ eins og sjá má í töflu 5. Af þeim 11 selstöðum sem heimildir eru fyrir eru nú aðeins þrjár sjáanlegar og fylgja þeim enn örnefni bæjanna sem nýttu þau, en þetta eru Þerneyjarsel, Varmársel og Esjubergssel.

Stardalur

Stardalur.

Stardalur var framan af í eigu Brautarholtskirkju og Þerneyjarkirkju. Fram kemur í máldaga Brautarholtskirkju frá 1497-1518 að hún eigi hálfan Stardal. Í máldaga Þerneyjarkirkju til ársins 1269 segir að kirkjan eigi helming í selför í Stardal og afrétt. Samkvæmt Jarðabókinni var Stardalur ekki byggður fyrr en um 1674 en þar segir; „Nýlega uppbyggð fyrir þrjátíi árum, og kemur hjer sá enginn fram. Sem þykist vita að þar hafi fyrri nokkurn tíma bygt ból verið.“… „Hitter almennilega kunnugt úngum og gömlum, að þar sem nú er þessi nýi bær, Stardalur, hafa um lánga æfi selstöður verið frá mörgum bæjum í Mosfellssveit, sem Jarðabókin í þeirri sveit vottar, og so frá Þerney, sem hjer er áður getið.“ Árið 1704 er Stardalur í konungs og tveir ábúendur eru á jörðinni.“

Sámsstaðir

Bærinn Sámsstaðir í Stardal – byggðist upp úr fyrrum selstöðu.

Hrafnhólar voru líka eyðijörð þegar Jarðabók Árna og Páls er gerð og þar er jörðin nefnd „…Hafnhoolar, sumir kalla Hafnabjörg, og segja það nafn eldra.” Þá er jörðin sögð forn eyðijörð og veit engin hversu lengi þar til sextán árum áður að byggður var nýr bær fram á fardaga 1703 að jörðin lagðist aftur í eyði. Jörðin var í konungseign þegar Jarðabókin var gerð sumarið 1704 og dýrleiki hennar óviss.

Sámsstaðir

Sámsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Sámsstaðir eru forn eyðijörð á milli Hrafnhóla og Stardals sem heyrir nú undir Stardal. Við gerð Jarðarbókarinnar 1704 voru Sámsstaðir eign konungs og brúka ábúendur konungsjarða alla grasnaut og talað er um eina selstöðu á jörðinni Esjubergssel.

Blikastaðir standa á láglendu mýrlendi skammt norðan Lágafellshamra, austan við Korpúlfsstaðaá, sunnan við Leiruvoga á móti Víðinesi. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstaða hefur til forna brúkuð verið í Stardal.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Esjuberg stendur á skriðuvæng uppi undir rótum Esju og uppaf bænum er Gljúfurdalur. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu á jörðin undir Svínaskarði að sunnan, og er þar berjalestur nokkur.“ Þá er jörðin í eigu konungs. Í Jarðabókinni kemur einnig fram þar sem fjallað er um Sámstaði að Esjubergssel var talið í landi þeirra ….„sem þessari jörðu halda menn tilheyrt hafa,…“. En Sámsstaðir var talin forn eyðijörð sem engin vissi hver hafði verið eigandi að og konungur hafði eignað sér og nýtt „…um langa æfi…“.

Þerneyjarsel - uppdráttur

Þerneyjarsel – uppdráttur.

Gufunes stendur skammt vestan við bæinn Eiði á litlu flatlendu nesi á milli Geldinganess og Gufuneshöfða. Gufuness er getið í Landnámu og virðist snemma hafa orðið sjálfstæð jörð. Þar var komin kirkja um 1150 og var þar til 1886 þegar hún var lögð niður. Gufunes varð eign Viðeyjarklausturs eftir 1313 og varð konungseign við siðaskipti. Gufunes var keypt af bæjarsjóð Reykjavíkur árið 1924 ásamt Eiði, Knútskoti og Geldinganesi. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstaða hefur til forna brúkuð verið í Stardal, þar sem nú stendur býli það, er Stardalur kallast, eftir sögn þeirra manna, er að undirrjettingu foreldra sinna vita til yfir hundrað ár.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Helgafell stendur undir útsuðurhorni Helgafells. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Landþröng er mikil, og hafði jörðin áður í lánga tíma selstöðu í Stardal frí, en nú verða ábúendur hana út að kaupa.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Varmársel

Varmársel – uppdráttur.

Korpúlfsstaðir standa á sléttum melum skammt í suðvestur frá Blikastöðum, vestan við Korpúlfsstaðaá. Korpúlfstaða er fyrst getið í Kjalnesingasögu. Þeir voru sjálfstæð jörð árið 1234, þá orðnir eign Viðeyjarklausturs, og urðu konungseign um siðaskipti. Reykjavíkurbær keypti jörðina árið 1942. Í Jarðabók segir; „Selstöðu hefur jörðin til forna brúkað í Stardal.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Lambhagi er jörð suðvestan undir rótum Hamrahlíðar, austan við Korpúlfsá þar sem hún fellur í bug og fer að stefna norður. Lambhagi hefur orðið eign Viðeyjarklausturs á tímabilinu 1378-1395 og konungseign við siðaskipti. Reykjavíkurbær keypti jörðina árið 1942. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu hafði jörðin að fornu í Stardal.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Lágafell stendur vestan undir Lágafelli. Í Jarðabók segir; „Selstöðu hefur jörðin áður brúkað í Stardal.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Esjubergssel

Esjubergssel – uppdráttur.

Móar standa á flatlendi neðan þjóðvegar, sunnan frá Esjubergi nær sjó. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstaða hefur hjeðan brúkast hjá Esjubergsseli og vita menn ei hvort að láni Esjubergsmanna eður eign þessarar jarðar.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Varmá stóð skammt í vestur frá Helgafelli, vestan Varmár, skammt í landsuður upp frá Leiruvogum, austan við núverandi Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar. Í Jarðabókinni er ekki getið um sel eða selstöðu en erþess getið í Örnefnalýsingu fyrir Stardal; „Austan við Tröllalága er Varmársel og sést vel fyrir því.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Skrauthólar

Skrauthólar 1909 – herforingjaráðskort.

Skrauthólar standa hátt nálægt Esju, austan Vallár. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstaða er, hefur hjeðan lengi brúkuð verið frí þar sem heitir undir Haukafjöllum, nálægt Hrafnhólum.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Þerney er í vestur frá Álfsnesi ekki stór en grasivaxin. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu hefur jörðin til forna um lánga æfi brúkað í Stardal, og fæst hún nú ekki síðan þar var bygð sett.“ Þá er jörðin í eigu konungs. Máldagi kirkjunnar í Þerney með sundum í Kjalarnesþingi, sem Magnús biskup Gissurarson setti um 1220 segir svo; „Kirkia a at helmingi selfor j Stardal ok sva afreit. Ok sva þess hlutar fiorv j krossa vik er þerney fylger, halft þriðia kvgilldi bvfiar.“ Í máldaga Þerneyjarkirkju sem Árni biskup Þorláksson setti haustið 1269 segir; „Kirkia a helming j selfor j Starrdal: og svo afret.“

Stardalur

Sel við Stardal og nágrenni.

Af þessum máldögum og síðar má sjá að ekki hefur verið búið í Stardal fyrrum.

Á þessu landsvæði sunnan undir Svínaskarði eru nú þrjár sýnilegar selstöður. Tvær þeirra Varmársel og Þerneyjarsel eru norðan við Leirvogsá austan við Tröllalágar. Esjubergssel er töluvert ofar og nær Svínaskarði á rana út frá Skopru sem gengur útí Esjubergsflóa. Tóftirnar eru allar grasi og mosavaxnar.
Af þessari samantekt má sjá að töluverður efniviður er til staðar til frekari rannsókna á seljum og selstöðum.

Þerneyjarsel

Þerneyjarsel.

Tóftir seljanna eru mikilvægar menningarminjar og vitnisburður um þátt í atvinnusögu okkar allt frá landnámi framá 20. öld. Það er því mikilvægt að gerðar verði nákvæmar athuganir á þeim, en frekari rannsóknir geta gefið svör við ýmsum spurningum.
Náttúrufegurð er mikil á öllum selstöðusvæðunum innan borgarmarkanna og eru þau kjörin til útivistar. Þar sem tóftir selja eru enn vel greinanlegar auka þær á upplifun landsins þar sem þær kúra að því er virðist samvaxnar landinu.

Sjá meira um Rannsókn á seljum í Reykjavík HÉR og HÉR.

Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Rannsókn á seljum í Reykjavík – Reykjavík 2011, Minjasafn Reykjavíkur – Skýrsla nr. 159, bls. 15-19.

Esjubergssel

Esjubergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Helgusel í Bringum

Í ritgerð Ástu Hermannsdóttir til MA-prófs í fornleifafræði við Háskóla Íslands árið 2014 er m.a. fjallað um rannsóknir á seljum á hluta Snæfellsness og jafnframt almennt um „sel og seljabúskap“ hér á landi. Síðarnefndi hlutinn er fyrir margt athyglisverður og verður efni hans því getið að hluta til hér á eftir.

Ásta Hermannsdóttir

Ásta Hermannsdóttir.

„Seljabúskapur var lengi framan af lítt rannsakaður á Íslandi en á síðustu áratugum hafa farið fram fornleifarannsóknir sem miða að því að gera bragarbót þar á. Ritgerðin miðar að því að líta yfir farinn veg og benda á þá staðreynd að seljabúskapur var hluti af samfélags- og efnahagslegu kerfi hvers bæjar og svæðis og þess vegna má gera ráð fyrir mismun og margbreytileika í seljabúskap á landsvísu. Alhæfingar um ýmsa þætti seljabúskapar á Íslandi og hugmyndir um einsleitni í seljabúskap eiga ekki við og nauðsynlegt er að skoða sel og seljabúskap hvar sem er í sínu landslags-, samfélags- og efnahagslega samhengi. Í síðasta hluta ritgerðarinnar er sýnt fram á hve mikilvægt samhengi seljabúskaparins er í rannsóknum á honum og hvernig breytingar í því kerfi sem hann var hluti af höfðu áhrif á seljabúskapinn.

Inngangur

Kringlumýri

Kringlumýri – líklega ein elsta selstaðan á Reykjanesskaganum.

Seljabúskapur er búskaparform sem nokkuð hefur verið fjallað um og rannsakað á Íslandi og þá sérstaklega á síðustu áratugum. Fornleifarannsóknir á seljum á Íslandi hafa aukist á þessum tíma en fáar þeirra eru þó mjög umfangsmiklar og veldur það því að umfjöllun um sel og seljabúskap er oft byggð á takmörkuðum raungögnum (en. empirical data). Þótt sel séu skráð við fornleifaskráningar eins og aðrar minjar er því þó sjaldnast svo farið að í úrvinnslu þeirra felist frekari rannsókn á minjunum. Rannsóknir á seljabúskap hafa því ekki sótt mikið í þau yfirgripsmiklu gögn sem venjubundnar fornleifaskráningar skilja eftir sig.

Selsvellir

Selstaða á Selsvöllum.

Seljabúskapur var ekki stakstætt kerfi heldur hluti af flóknara samfélags- og efnahagslegu kerfi hvers bæjar og svæðis en einnig landsins alls. Grundvöllur seljabúskaparins lá í þessum þáttum og breytingar á þeim hafa í gegnum aldirnar haft áhrif á breytingar í seljabúskap og ekki síst endalok hans.

Í hluta ritgerðarinnar verður fjallað um þær íslensku fornleifarannsóknir sem beinst hafa að seljum og seljabúskap í það minnsta að hluta. Einnig er sagt frá nýlegum fornleifarannsóknum á sama efni á hinum Norðurlöndunum til að setja rannsóknir á Íslandi í stærra samhengi.

Baðsvellir

Selstaða á Baðsvöllum.

Umfjöllunin um sel og seljabúskap er alls ekki ætluð til alhæfingar um sel og seljabúskap á Íslandi heldur þvert á móti til þess að vekja umræður og skoðanaskipti og benda á að seljabúskapur var flóknari og margbreytilegri en hingað til hefur verið gengið út frá. Tilgangur ritgerðarinnar er að draga fram þá staðreynd að seljabúskapur, framkvæmd hans og umfang, hefur ekki verið eins alls staðar á landinu og að við eigum enn margt ólært um þetta forna búskaparform. Auk þessa er ætluð hliðarafurð ritgerðarinnar að sýna fram á að fornleifaskráning getur gefið af sér heildstæðar rannsóknir og það þarf ekki alltaf stórtæka uppgrefti til að geta skapað nýja þekkingu: fornleifaskráning er fornleifarannsókn.

Fornleifarannsóknir á seljum

Selsvellir

Selsvellir – sel Grindvíkinga; uppdráttur ÓSÁ.

Í þessum hluta verður fjallað um fornleifarannsóknir sem gerðar hafa verið á Íslandi og beinst hafa að hluta til eða öllu leyti að seljum. Teknar verða saman helstu upplýsingar um rannsóknirnar og niðurstöður þeirra og í lokin metið hvað fræðimenn telja sig nú vita um sel og seljabúskap á grundvelli fornleifafræðinnar og með hjálp sagnfræðinnar og á hvaða sviðum upplýsingar vantar.
Seljarústir er misjafnlega auðvelt að þekkja en yfirleitt er miðað við að rústirnar séu nokkuð frá bæ, ekki sé mikil mannvistaruppsöfnun á staðnum nema vísbendingar séu um búsetu þar fyrir eða eftir að seljabúskapur var þar stundaður, um fleiri en eina rúst sé að ræða og góð vísbending er ef aðhald eða einhvers konar innrekstrarmannvirki er á staðnum. Örnefni eru mikið notuð þegar sel eru skráð og geta þau bæði bent á staði sem nauðsynlegt er að leita á við fornleifaskráningu en einnig geta þau gefið vísbendingar um hlutverk rústa sem hafa áður óljóst eða óþekkt hlutverk. Til dæmis getur fengist vísbending um hlutverk þekktrar rústar með áður óþekkt hlutverk ef upplýsingar um seljaörnefni koma fram í nýjum heimildum eða viðtölum við heimildamenn.

Gjásel

Gjásel í Vogaheiði.

Ætíð verður þó að skoða slíkar upplýsingar með gagnrýnum hætti í samhengi við fornleifarnar og umhverfi þeirra. Heimildamenn eru mikilvægur viskubrunnur um sel, ekki síst á þeim stöðum þar sem seljabúskapur hélst sem lengst. Sums staðar er þó svo komið að fáir sem engir eru eftir sem hafa þekkingu á seljabúskap ákveðinna svæða ekki síst hvað varðar staðsetningu seljanna og tilhögun búskaparins enda er hann sums staðar lagstur af að nær öllu leyti fyrir 1800.

Hefðbundin sýn á sel og hugtakanotkun

Arasel

Ara(hnúka)sel.

Áður en lengra er haldið verður hér sett fram hin hefðbundna sýn á seljabúskap á Íslandi og í kjölfarið verða skýrð nokkur hugtök og orð sem koma fyrir í ritgerðinni og notkun/merking þeirra í henni til að fyrirbyggja misskilning.

Seljabúskapur á Íslandi
Merking orðanna sel, selstaða og seljabúskapur er ekki almennt þekkt í dag. Fæstir vita hvað felst í þessum orðum séu þeir undanskildir sem tilheyra elstu kynslóð landsins. Enn síður veit fólk hve mikilvægur þáttur selin voru í búskap þjóðarinnar. Í Íslenskri orðabók segir um sel: „útihús í högum langt frá bæjum þar sem búfénaður er látinn ganga á sumrin“ og um selstöðu: „það að hafa búpening í seli > selstaða langt á fjöllum uppi“.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel.

Samkvæmt þessum skilgreiningum ná orðin sel og selstaða ekki yfir nákvæmlega sama hlutinn heldur í raun yfir byggingar annars vegar (sel) og svæði eða jafnvel athafnir hins vegar (selstaða). Ljóst er að ekki er alltaf farið með þessi hugtök á þennan hátt en reynt verður að ganga hér í takt við ofangreindar skilgreiningar eins og hægt er. Í öllu falli voru sel/selstöður til þess fallin að fara þangað með búsmala – kindur og kýr – á sumrin. Þetta var gert til að koma skepnunum frá heimatúninu svo hægt væri að rækta það upp og slá um sumarið. Í selstöðunum voru hús sem hýstu þá sem þar dvöldu, eldhús, geymsla/búr og jafnvel fleiri rými.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Víða er talað um að í seli hafi verið þrjú hús eða rými (sjá t.d. Hitzler). Auk þessara rýma gefur augaleið að líklegt er að flestar ef ekki allar selstöður hafi haft einhvers konar aðhald eða innrekstrarmannvirki til þess að halda utan um skepnurnar á meðan á mjöltum stóð. Í Búalögum frá 17. öld er talað um að þrjár konur eigi að vera í seli ef þar eru 80 mjólkandi ær og 12 kýr (Búalög). Svipuð tala kemur fram víða en oft er einnig nefndur til sögunnar smali sem sjá skal um féð (sjá t.d. Jónas Jónasson 1945:62).

Skýring hugtaka og orða

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Selstaða: svæði þar sem seljabúskapur hefur farið fram. Getur verið eitt eða fleiri sel.
Sel: fornleifar í selstöðu sem eiga saman og mynda þar með eitt sel, þ.e. frá sama tíma, sama bæ o.s.frv. Skipting fornleifa á milli selja er yfirleitt byggð á túlkun fornleifanna á yfirborði.
Kvíarúst: einföld, aflöng rúst eða aflöng rúst með tveimur löngum rýmum samhliða notuð til mjalta.
Rúst/tóft/hús: fornleifar sem eru samfastar og hafa verið ein bygging.
Rými: hólf/herbergi innan rústar/tóftar/húss.
Aðföng: auðlindir í náttúrunni sem hægt hefur verið að nýta við hverja selstöðu.

Seljarannsóknir á Íslandi

Hraunssel

Hraunssel.

Áhugi íslenskra fræðimanna á seljabúskap og minjum um hann virðist ekki hafa verið mikill fyrr en á síðustu áratugum 20. aldar. Ástæðan getur verið sú að seljabúskapurinn er víða nálægur í tíma en hann var við lýði fram undir og jafnvel fram á 20. öld sums staðar á landinu. Þrátt fyrir að fornfræðingar og áhugamenn um fornminjar á Íslandi í lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20. færu víða um, skráðu og rannsökuðu virðast sel og seljabúskapur ekki hafa fangað áhuga þeirra. Líklega má að miklu leyti rekja það til stefnu þess tíma sem að mestu leyti snerist um að minjar sem tengdust Íslendingasögunum og gömlu handritunum væru þær sem vert væri að rannsaka. Sel og seljabúskapur voru yfirleitt ekki stór þáttur í hetjusögum fornaldar og hafa rannsóknir á þeim því ekki þótt spennandi kostur.

Hraunssel

Hraunssel – selsstígurinn.

Á áttunda áratug 20. aldar fóru seljarannsóknir að fá byr í seglin og hefur vegur þeirra aukist mjög á síðustu 10-15 árum. Í raun má segja að seljarannsóknir séu í tísku og er líklegt að áhuga fræðimanna á seljum nú sé hægt að rekja til þess að vitundarvakning hefur orðið í að skrásetja minjar gamla bændasamfélagsins og vitneskju þar að lútandi áður en kynslóðin, sem nú gengur sín síðustu spor, hverfur alveg. Seljabúskapurinn er hluti af þessu gamla bændasamfélagi sem hverfur nú hratt. Fátt er ritað um seljabúskapinn, lítið eða nær ekkert af gripum tengdust honum sérstaklega þannig að ekki eru minjar hans geymdar á söfnum landsmanna. Víða er einnig svo langt síðan seljabúskapur lagðist af að elstu menn muna vart hvenær síðast var haft í seli, hvað þá hvar rústir seljanna er að finna. Vitneskjan er þó ekki alltaf svona gloppótt og þar sem seljabúskapur hélst lengst eru bæði til ritaðar og munnlegar heimildir fólks sem þekkti seljabúskapinn af eigin raun.

Egon Hitzler

Egon Hitzler

Egon Hizler og Gísli Sigurðsson.

Varla er hægt að byrja umræðu um rannsóknir á seljum án þess að minnast á doktorsritgerð Egon Hitzlers frá áttunda áratug síðustu aldar. Hitzler er þýskur fræðimaður sem dvaldist hér á landi sem sendikennari við Háskóla Íslands á árunum 1974-79. Rannsókn Hitzlers, sem unnin var á sjöunda og áttunda áratugnum, var sú fyrsta sem fjallaði nokkuð heildstætt um sel og seljabúskap á Íslandi. Ritgerðin var gefin út á þýsku og hefur ekki verið þýdd á íslensku þannig að innihald og niðurstöður hennar eru ekki öllum aðgengileg.
Rannsóknin er eitt fyrsta dæmið um rannsókn á seljum og seljabúskap þar sem ekki var einungis unnið með heimildir þótt þær væru stærsti hluti verkefnisins heldur voru einnig nokkur sel skoðuð á vettvangi. Þannig má segja að fyrsta fræðilega úttektin á seljum, sem gæti að einhverju leyti talist fornleifafræðileg, sé hluti af þessu doktorsverkefni.

Þerneyjarsel

Þerneyjarsel.

Hitzler reynir í doktorsritgerð sinni að setja saman heildstæða mynd af seljabúskap á Íslandi og notar til þess mestmegnis ritaðar heimildir. Hann dregur margvíslegar ályktanir af þeim og m.a. kemst hann að því, eins og ýmsir aðrir, að selhúsin hafi verið þrjú. Hitzler skoðar mismunandi hliðar seljabúskapar, s.s. mannvirki, skipulagningu, upphaf og endi, auk þess að skoða sel á ýmsum tímum út frá heimildum. Kafli VI í doktorsritgerð Hitzlers fjallar um vettvangsskoðun hans á meintum seljarústum í Sauðadal í Austur-Húnavatnssýslu. Með þeirri skoðun vildi hann reyna að svara því hvort seljabúskapur hefði eitthvað breyst á svæðinu á 18. og 19. öld, eða frá því að Jarðabók Árna og Páls var rituð. Því svarar Hitzler játandi og kemst að þeirri niðurstöðu að breytingarnar hafi að mestu leyti byggst á breyttu eignarhaldi og þar af leiðandi skiptum á seljum og byggingu nýrra selja.

Sveinbjörn Rafnsson

Sveinbörn Rafnsson

Sveinbjörn Rafnsson, f. 1944.

Árið 1990 kom út ritið Byggðaleifar í Hrafnkelsdal og á Brúardölum eftir Sveinbjörn Rafnsson. Í því er gerð grein fyrir rannsóknum sem fram fóru á 8. og 9. áratug síðustu aldar en þær miðuðu að því að skrá byggðaleifar og grafa í nokkrar þeirra til að reyna að varpa ljósi á byggðasögu svæðisins í samhengi við ritaðar heimildir.

Guðrún Sveinbjarnardóttir
Fyrsta alvöru fornleifarannsóknin á Íslandi, sem beint var að seljum að hluta eða öllu leyti, var rannsókn sem Guðrún Sveinbjarnardóttir vann fyrir doktorsritgerð sína, Farm abandonment in Medieval and Post-Medieval Iceland: an interdisciplinary study, á árunum 1979-1985. Í þeirri rannsókn skrásetti Guðrún eyðibýli, meint eyðibýli og sel á þremur stöðum á landinu: í þremur dölum í Berufirði, undir Eyjafjöllum og í Austur- og Vesturdal í Skagafirði. Auk þess að skrá staðina voru tekin borkjarnasýni og grafnar prufuholur á mörgum þeirra til að staðfesta að um mannvistarleifar væri að ræða sem og að kanna aldur og umfang rústanna sem þar var að finna.

Guðrún Sveinbjarnardóttir

Guðrún Sveinbjarnardóttir (f. 1947).

Gjóskulög voru notuð til aldursgreiningar þegar slíkt var mögulegt. Einnig voru gerðar fornvistfræðilegar rannsóknir á sýnum sem tekin voru á nokkrum rannsóknarstaðanna. Niðurstöður rannsóknarinnar setti Guðrún fram í áðurnefndri doktorsritgerð sinni en sá hluti gagnanna sem sneri að seljum kom þó lítið við sögu í ritgerðinni sjálfri. Aftur á móti birti Guðrún þær niðurstöður í grein sem kom út í Acta Archaeologica og nefnist „Shielings in Iceland: an Archaeological and Historical survey“ (1991). Í greininni útlistar Guðrún sögulegan bakgrunn seljabúskapar á Íslandi í stuttu máli og gerir þar á eftir grein fyrir öllum þeim selstöðum sem hún skráði í rannsókn sinni. Þessi atriði voru skráð fyrir hverja selstöðu: stærð og lögun, staðsetning, heimabær, elstu heimildir og aldur, sem yfirleitt fékkst út frá heimildum, auk þess sem stundum er skráð lega, lýsing á ástandi rústar eða annað slíkt. Teikningar eru af mörgum seljanna en nær engar ljósmyndir.

Acta Archaeologica

Acta Archaeologica 1991.

Heilt á litið er það sem fram kemur í greininni nokkuð upplýsandi. Niðurstöður rannsóknarinnar eru ræddar stuttlega í lok greinarinnar og er hægt að draga þar fram nokkur aðalatriði. Guðrún telur að verulegar vísbendingar séu um seljabúskap á svæðunum þremur og að ekki hafi verið langt á milli selja og heimabæja. Að sama skapi telur hún að norska módelið, að skipta seljum upp í tegundir eftir fjarlægð frá bæ og athöfnum í selinu, eigi ekki við á Íslandi. Svæðin hafa öll að geyma nokkuð ungar seljaminjar og eru byggingar á stöðunum um 1-2 að meðaltali og fjöldi rýma um. Í sambandi við fjölda rýma nefnir Guðrún að líklegt sé að gamla hugmyndin um að þrjú rými í seljum hafi verið venjulegur fjöldi hafi ekki alltaf átt við rými í byggingu heldur vinnusvæði. Ein helsta niðurstaða Guðrúnar er sú að sel hafi í fyrstu tíð verið staðsett nær bæjum en þau hafi síðan verið færð hærra upp í landslaginu.

Sandssel

Eyjasel.

Þessi fyrsta rannsókn er að nokkru leyti brautryðjandaverk í skilningi íslenskra fornleifafræðinga á seljarústum en þarna er í fyrsta sinn komin skrá yfir seljarústir, einkenni þeirra, útlit og staðsetningu á ákveðnum svæðum. Niðurstöður greinarinnar gefa líka tóninn fyrir það sem á eftir kom í seljarannsóknum á Íslandi þótt fáir hafi tekið upp atriði eins og færslu selja frá láglendi hærra upp í landið og rými sem hugsanleg vinnusvæði í stað afmarkaðra, fastra húsrýma. Reyndar segir framarlega í greininni að
„Hingað til hafa engar fornleifafræðilegar vísbendingar um sel verið til frá neinu tímabili á Íslandi“. Þótt hægt sé að neita þessari staðhæfingu á grundvelli þess að vísbendingarnar hafi verið til í formi jarðfastra minja, það hafi bara enginn tekið sig til og túlkað þær, er það rétt að enginn fornleifafræðingur hafði fram að þessu nýtt sér sel sérstaklega sem efnivið í rannsóknir hér á landi.

Ragnheiður Traustadóttir

Ragnheiður Traustadóttir

Ragnheiður Traustadóttir.

Rannsóknin í Urriðakoti er framkvæmdarannsókn vegna nýs íbúðahverfis við Urriðavatn í Garðabæ. Svæðið var skráð á árunum 2005-2006 og fóru eftir það fram forrannsóknir og heildaruppgröftur á minjum á hluta svæðisins á árunum 2007-2011. Bæjarstæði Urriðakots, bæjar sem er a.m.k. frá fyrri hluta 16. aldar, er stutt frá uppgraftarsvæðinu. Grafnar voru tvær rústaþyrpingar, yngri og eldri, og opnað á milli þeirra og nokkuð út fyrir rústirnar víða. Eldra svæðið er frá 10.-12. öld og samanstendur af litlum skála, fjósi, vinnsluhúsi og soðholu. Yngra svæðið, miðaldasvæðið, er frá því eftir 1226 með byggingu sem samanstendur af baðstofu, eldhúsi og sambyggðri baðstofu og búri og auk þess tilheyrir hugsanlega einnig skemma þessu skeiði. Ragnheiður Traustadóttir túlkar bæði skeiðin sem sel en þó eru ekki öll kurl komin til grafar í rannsókninni þar sem lokaskýrslu um hana hefur ekki verið skilað.

Margrét Hrönn Hallmundsdóttir

Margrét Hrönn Hallmundsdóttir.

Eldra selið telur Ragnheiður vera kúasel enda hefur fjósið rúmað 16-18 bása en skálinn er mjög lítill, aðeins um 12 m á lengd. Vinnsluhúsið er áfast fjósinu og er það nokkuð stórt, um 4×12-13 m. Ekkert eldstæði er í skálanum og gólflög eru mjög þunn.
Miðaldasvæðið er frá því eftir 1226 eins og sagði hér að ofan en Ragnheiður álítur þó að það hafi farið úr notkun á 14. öld.

Margrét Hrönn Hallmundsdóttir
Uppgröftur á svokölluðu Koti á Rangárvöllum hefur verið í gangi frá árinu 2008. Um er að ræða eina rúst, garðlag og aðhald við það og voru rústirnar skráðar árið 2005 og könnunarskurðir teknir árið 2006. Margrét segist hafa talið frá upphafi að um sel væri að ræða og að sú hugmynd hafi ekkert breyst þótt enn sé lítið vitað um starfsemi í húsinu.

Margrét Björk Magnúsdóttir

Esjubergssel

Esjubergssel.

Seljarannsóknir Bjarkar í Reykjavík eru tvíþættar. Annars vegar er um að ræða samantekt og skráningu á seljum í Reykjavík og hins vegar er um að ræða könnunarrannsókn og aldursgreiningu nokkurra selja á Kjalarnesi. Til grundvallar í fyrri hluta rannsóknarinnar voru lagðar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, örnefnaskrár og fleiri ritheimildir. Innan borgarmarka Reykjavíkur er 81 jörð og voru sel og selstöður þeirra allra skráðar upp úr heimildum (en hluti þeirra hafði þegar verið skráður á vettvangi.

Blikdalsselin

Selin í Blikdal – uppdráttur ÓSÁ.

Auk heimildaskráningarinnar var leitað að nokkrum seljum sem ekki höfðu verið skráð á vettvangi áður á Kjalarnesi og greind ýmis atriði tengd þeim seljum sem skráð höfðu verið á vettvangi, þ.e. gamlar skráningar og nýjar, s.s. fjarlægð frá bæ í loftlínu, dýrleiki heimajarðanna, fjöldi húsa og rýma. Meðaltal húsa í vettvangsskráðum selstöðum er 1,42 hús og meðaltal rýma er 3. Meðalvegalengd frá bæ að seli er 8,6 km en algengustu fjarlægðirnar eru um 12 km, 7 km og 2 km.

Smærri rannsóknir
Bjarni F. Einarsson ritaði um Hólasel í Eyjafirði, Fornasel í Straumsvík, sel við Úlfljótsvatn og sel á Síðuheiðum Hólasel í Eyjafirði.

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson.

Rannsókn í Fornaseli var afsprengi samvinnu Fornleifafræðistofunnar ehf. við Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar en selið er í landi Hafnarfjarðar. Á árunum 1999 og 2000 voru grafnar þrjár prufuholur í rannsóknarskyni í Fornasel, hver í sína rústina, en skráð voru þrjú hús og tveir stekkir á svæðinu. Holurnar voru grafnar í því skyni að reyna að fá sýni til C-14 kolefnisaldursgreiningar og kanna ástand fornleifanna á staðnum. Eitt C-14 sýni var greint og benda niðurstöður þess og keramik, sem fannst í sama lagi, til þess að lagið sé með 95% öryggi frá 1550-1630. Niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að líklega hafi verið haft í seli í Fornaseli allt frá um 1600 og fram á 19. öld. Húsin á staðnum virðast hafa verið endurbyggð að minnsta kosti þrisvar sinnum en ólíklegt er talið að öll hafi þau verið í notkun í einu eða að hlutverk þeirra hafi haldist óbreytt allan þann tíma. Ekkert rennandi vatn er á svæðinu en rigningarvatni hefur verið safnað í vatnsból fast við rústirnar.

Fornasel

Fornasel – tilgáta.

Haustið 2010 voru grafnar tvær prufuholur, hvor í sína rústina, í meint sel við Fossá við Úlfljótsvatn. Rústirnar fundust árið 2005 og þóttu fornlegar og áhugaverðar og styrkti Orkuveita Reykjavíkur umrædda rannsókn. Markmið rannsóknarinnar var að ná í sýni til C-14 kolefnisaldursgreiningar sem og gjóskulög, einnig til aldursgreiningar. Auk þess átti að kanna hvort hægt væri að lesa út úr gólflögum upplýsingar, t.d. um hvort húsið hafi verið mannabústaður eða ekki. Þrjár rústir voru skráðar á svæðinu 2005 og voru grafnar prufuholur í tvær þeirra eins og fyrr sagði. Eitt C-14 sýni, úr húsi 2, var aldursgreint og var niðurstaða greiningarinnar sú að sýnið væri með 95% öryggi frá 900-920 eða 960 – 1040 e. Kr..

Albína Hulda Pálsdóttir

Albína Hulda Pálsdóttir.

Af gjóskusýnunum er það að segja að svart lag, sem lá vel yfir gólfi húss 1, var greint sem Katla 1500 og er ljóst af því að húsið er yfirgefið einhverju áður en sú gjóska féll. Niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að þarna hafi fólk hafst við um lengri eða skemmri tíma í lok 10. aldar eða í byrjun 11. aldar. Talið er hugsanlegt að ekki hafi einungis farið fram venjulegur seljabúskapur á staðnum heldur hafi mannvist við Fossá tengst auðlindum á svæðinu, s.s. slægjum og mýrarauða.

BA og MA ritgerðir íslenskra fornleifafræðinema Auk ofantalinna rannsókna hafa fjórir íslenskir nemar í fornleifafræði skrifað lokaritgerðir, BA eða MA, sem fjallað hafa um eða komið hafa inn á sel á mismunandi hátt.

Albína Hulda Pálsdóttir – Segðu mér sögu af seli: Fornleifafræðileg úttekt á íslenskum seljum Í BA ritgerð sinni fjallar Albína um sel og seljabúskap á Íslandi. Hún fer yfir sagnfræðilegar heimildir viðkomandi seljum sem og fyrri rannsóknir, bæði íslenskar og norrænar. Hún kemur einnig inn á spurninguna hvernig hægt sé að þekkja sel frá öðrum fornleifum.

Sámsstaðir

Sámsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Helstu fornleifafræðilegu nýjungar ritgerðarinnar liggja í greiningu á seljum sem skráð höfðu verið í Ísleifu, gagnagrunn Fornleifastofnunar Íslands ses., þegar ritgerðin var skrifuð. Þar leitaðist Albína við að skoða fjölda selja út frá heimilda- og vettvangsskráðum rústum en auk þess að athuga seljarústir gerðar- og landfræðilega út frá rústum sem skráðar höfðu verið á vettvangi. Aðallega var skoðaður fjöldi hólfa og flatarmál seljanna, fjöldi rústa, aðrar fornleifar tengdar seljunum, dýrleiki heimajarðar og stærð selja, vegalengd milli sels og bæjarhóls og staðsetningar í landslagi út frá hæð yfir sjávarmáli. Helstu niðurstöður ritgerðarinnar eru að stærð og útlit selja er misjafnt (en þó er fjöldi rústa yfirleitt 1-3 og fjöldi hólfa oftast 3 þótt meðalfjöldi sé 4,66. Sel virðast yfirleitt vera á jaðri hins byggilega hluta landslagsins, í tilfellum Norðaustur- og Suðurlands t.d. um 200 m/y.s., og að meðaltali eru um 2 km á milli sels og meints bæjarhóls heimajarðar í loftlínu. Að lokum er vert að nefna að Albína telur að ekki sé hægt að þekkja sel frá öðrum minjum á einfaldan hátt og auk þess falli þær sagnfræðilegu heimildir, sem til eru um sel og seljabúskap, ágætlega að niðurstöðum sem fornleifafræðin hefur komist að.

Ómar Smári Ármannsson – Sel og selstöður á Reykjanesskaganum – vestan Esju: Heimildir, fjöldi, staðsetning, gerð og aldur Í BA ritgerð sinni fjallar Ómar Smári um sel og selstöður á Reykjanesskaga, vestan Esju, bæði út frá sagnfræðilegum heimildum og vettvangsskoðun á fornleifum.

Sel vestan esju

Sel vestan Esju – BA-ritgerð 2007.

Markmiðið með rannsókninni er að safna saman heimildum um sel og selstöður á þessu svæði, staðsetja þær, kanna fjölda þeirra, gerð mannvirkja, reyna að aldursgreina þær út frá heimildum og bera þær saman. Aðaluppistaðan í ritgerðinni er upptalning á þeim seljum sem á svæðinu eru, sagnfræðilegar upplýsingar um þær og fornleifafræðilegar ef rústirnar hafa verið staðsettar á vettvangi. Eiginleg fornleifaskráning var ekki gerð á seljunum en yfirleitt fylgja myndir og jafnvel teikningar og gróf lýsing á rústunum og því sem á svæðinu er að finna. Selstöður á Reykjanesinu hafa sín sérkenni,t.d. nokkra hella, og víða eru selstígar sem enn eru mjög greinilegir. Að öðru leyti má draga helstu niðurstöður ritgerðarinnar varðandi rústirnar saman í nokkur atriði: víða eru misgamlar tóftir og þar af leiðandi fleiri en ein kynslóð selja á staðnum, sum selin virðast færast nær bæjum með tímanum en önnur eru endurbyggð á sömu eða svipuðum slóðum, þrískipt rými eru mjög algeng og seljarústirnar eru yfirleitt einfaldar og frekar litlar en þó virðast eldri rústir vera einfaldari, óreglulegri og minni. Ómar Smári skoðar auk rústanna sjálfra hugsanlegar ástæður endaloka seljabúskapar í stuttu máli og setur fram nokkrar tillögur þar að lútandi.

Sædís Gunnarsdóttir – The transhumant landscape of Saurbæjarhreppur. A study of shielings, dependent farms and their locations in connection to the mother settlements.

Sædís Gunnarsdóttir

Sædís Gunnarsdóttir.

Í MA ritgerð sinni fjallar Sædís um landslag búfjár og ferðir þess í landslaginu (en. transhumant landscape) og skoðar hún hvaða þættir móta þetta landslag. Aðalrannsóknarefni hennar eru bæir, hjáleigur og sel, staðsetningar þeirra í landslaginu og vinna með þær staðsetningar í GIS (Geometric information system). Viðfangsefnið var Saurbæjarhreppur í Eyjafirði og skoðaðir voru eftirfarandi þættir fyrir hvern og einn stað: staðsetning, hæð yfir sjávarmáli, halli svæðisins, næsti nágranni og fjarlægð á milli svæða. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að í raun sé enginn ákveðinn munur á staðsetningum bæja og hjáleiga en að sel séu hins vegar staðsett í öðrum hlutum landslagsins. Helsti munurinn á staðsetningu selja og hjáleiga er hæð yfir sjávarmáli og halli svæðisins, auk fjarlægðar frá bæ. Selin eru mun hærra í landslaginu þar sem meiri halli er og fjær bæ en hjáleigurnar. Sædís bendir á að þennan mun á staðsetningum hjáleiga og selja mætti nýta til þess að greina á milli rústa sem ekki er vitað hvort eru sel eða hjáleigur. Að öðru leyti eru niðurstöður rannsóknarinnar þær að það sé aðallega byggðamynstur sveitarinnar sem hafi áhrif á landslag búfjárins, auk aðgangs að beitarsvæðum í fjalllendi og virði jarðanna; stærri og eldri jarðir séu þannig oft með aðgang að fjalllendi þar sem sel þeirra eru staðsett en minni jarðir hafi sel nær bæjunum sjálfum.

Stefán Ólafsson – Smávegis um rústaþyrpingar í Kelduhverfi.

Stefán Ólafsson

Stefán Ólafsson – Smávegis um rúsatþyrpingar í Kelduhverfi.

MA ritgerð Stefáns fjallar ekki beinlínis um sel heldur flokkunarkerfi sem hann hefur þróað til þess að gera grein fyrir þeim minjastöðum í Kelduhverfi sem: a) hafa mjög líklega verið býli, b) hafa mögulega verið býli og c) hafa ólíklega verið býli. Flokkunarkerfið nýtir fjölda rústa og garðlög til að greina á milli mikillar eða lítillar búsetu og heilsárs- eða árstíðabundinnar búsetu. Enda þótt ritgerðin fjalli um þetta ákveðna efni þá kemur Stefán aðeins inn á sögu seljarannsókna þar sem hluti staða í gagnagrunninum, sem hann vinnur með, eru sel eða staðir skráðir sem sel. Stefán tekur saman helstu rannsóknir sem gerðar hafa verið á seljum en segir að lokum að rannsóknir, sem byggjast á því að staðsetja og greina seljarústir á yfirborði líkt og Guðrún Sveinbjarnardóttir gerði að hluta og verkefnið Seljabúskapur á norðanverðu Snæfellsnesi snýst um, hafi gefið óljósar niðurstöður og að „… þekking á seljum [sé] í raun jafn þokukennd og áður“.

Sel á öðrum vettvangi

Dyljáarsel

Í Dyljárseli í Eilífsdal.

Fyrir utan rannsóknir á seljum og seljabúskap á Íslandi og ritgerðir um sama efni hafa fornleifaskráningaskýrslur að geyma upplýsingar um sel og seljabúskap víða um land. Við venjubundna fornleifaskráningu getur fornleifafræðingur rekist á hvaða tegundir minja sem er, þar á meðal sel. Skráningar sem þessar beinast þó ekki að seljum sérstaklega og mun því ekki verða leitað fanga þar í þessari ritgerð. Auk þess hafa sel og seljabúskapur án efa vakið áhuga leikmanna og því er hægt að búast við einhverjir utan fornleifafræði hafi tekið saman upplýsingar um sel og seljabúskap og minjar þeirra á ákveðnum svæðum. Ekki verður leitast við að komast yfir slíkar samantektir þar sem ekki er um raunverulegar fornleifarannsóknir að ræða þótt þær geti án efa búið yfir upplýsingum sem gætu reynst áhugaverðar og merkilegar.

Hver er staða þekkingar á seljum í dag?

Brynjudalur

Þórunnarsel í Brynjudal.

Þær fornleifafræðilegu rannsóknir sem gerðar hafa verið á seljum hingað til hafa veitt nokkra innsýn í sel og seljabúskap á Íslandi en þó er mörgum spurningum enn ósvarað. Helstu atriði, sem skoðuð hafa verið, eru rústirnar sjálfar, hæð þeirra yfir sjávarmáli, fjöldi húsa og rýma, fjarlægð frá bæ og dýrleiki heimajarða. Hugsanlegri notkun norska módelsins, þ.e. skiptingu selja í mjólkursel, aðfangasel, alsel og jafnvel heimasel, sumarsel og millisel hér á landi hefur verið velt upp af nokkrum rannsakendum en engin ákveðin afstaða virðist vera til notkunar þess hér á landi. Í flestum tilfellum er samstaða um að í seli séu þrjú hús/rými og oftast kvíar eða annað aðhald auk þess. Þau eru oftast fjarri bæjum, nálægt góðum beitarhögum og ám/lækjum þótt til séu undantekningar á því eins og öðru.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

Seljarústir eru yfirleitt í smærri kantinum og er gengið út frá því að í seljum sé að jafnaði ekki mikil mannvistaruppsöfnun þannig að bæjarhólar og aðrir slíkir mannvistarhólar finnast þar yfirleitt ekki. Margir nota túngarða sem breytu þegar verið er að áætla hvort um sel eða bæ er að ræða og þá er reglan sú að við sel séu ekki túngarðar.
Uppgröftur á seljum hefur gefið meiri og ítarlegri upplýsingar varðandi starfsemina þar en til voru áður og eru vísbendingar um að mun fleira hafi farið fram í þeim en hinn hefðbundni mjólkurbúskapur sem þekktur er frá seinni öldum.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel – tilgáta.

Hugmyndinni um að fleiri auðlindir en beit og mjólkurvinnsla hafi verið nýttar á meðan á seljatímanum stóð hefur verið velt upp í sumum rannsóknanna en lítið hefur verið fjallað um í hve miklum mæli nýting á auðlindum gæti hafa verið, t.d. hvort mjólkurvinnslan hafi verið stærsti hlutinn eða hvort nýting annarra auðlinda hafi gegnt stærra hlutverki en hingað til hefur verið talið. Hér spilar líka tíminn inn í og það verður að segjast að allt of fáir hafa velt því upp í alvöru hvort seljabúskapur hafi breyst í tímans rás.

Í tengslum við þetta má líka benda á að ekki er alltaf gerður nægilegur greinarmunur á kynslóðum þeirra selja sem verið er að vinna með í rannsóknum.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Það skiptir máli hvort rústir, sem verið er að rannsaka, eru frá sama tíma eða ekki. Ef t.d. 12 rústir eru í selstöðu þá getur verið um fleiri en eina og fleiri en tvær kynslóðir selja að ræða. Ekki er nóg að skrá mikinn fjölda selja og segja að tölfræðilega séu mörg sel á vissum stöðum án þess að meta hvort um mismunandi kynslóðir er að ræða. Slíkar alhæfingar eru í líkingu við það að segja að á vissu svæði séu mörg eyðibýli en gera ekki greinarmun á eyðibýlum frá 11. og 19. öld. Að sama skapi þarf að skoða þann möguleika að margir bæir hafi notað sama selið eins og Birna Lárusdóttir hefur rætt um að hugsanlega hafi átt sér stað í Reykjahverfi í Norðurþingi.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – tilgáta – ÓSÁ.

Að síðustu er sláandi hve fáir hafa fjallað um mun á seljum milli sveita, t.d. staðsetningu þeirra og rústunum sjálfum. Staðarval er greinilega mjög breytilegt eftir landsvæðum en athygli rannsakenda hefur aðallega beinst að því að skoða staðsetningu með tilliti til hæðar yfir sjávarmáli. Ljóst er að landslag hvers svæðis hlýtur að hafa mikil áhrif á staðarval en fleira þarf þó að skoða og bera saman á milli svæða. Er það bara landslagið sem hefur áhrif á staðsetningu seljanna? Er húsagerðin mismunandi? Er hún mismunandi á ákveðnum tímum eða hefur hún alltaf verið það? Eru sömu auðlindir nýttar í sama magni? Eru ákveðnar byggingar tengdar ákveðnum athöfnum bara að finna á sérstökum svæðum? Þannig mætti lengi telja.

Pálstóftir

Pálstóftir.

Rannsakendur þurfa að viðurkenna að það er munur á milli svæða og að mínu mati er ógerningur að alhæfa á landsvísu margt sem viðkemur seljum. Ýmsir þættir tengjast án efa á milli svæða eða yfir landið allt, t.d. gæti hluti ástæðunnar fyrir því af hverju seljabúskapur leggst af í síðasta lagi í byrjun 20. aldar átt við allt landið eða stór landsvæði. En ég tel að í fæstum tilvikum sé hægt að alhæfa um sel og seljabúskap á stórum landsvæðum þar sem landslag er mjög ólíkt.
Auðvitað þarf mun fleiri og viðameiri rannsóknir á seljum og seljabúskap til að svara ofangreindum spurningum, auk annarra, t.d. varðandi upphaf og endalok seljabúskapar, áhrif hans á samfélagið og stöðu þeirra sem í seljunum voru en ég tel þó mikilvægt að fræðimenn fari að velta þeim upp í rólegheitum. Fleiri rannsóknir munu án efa verða gerðar á næstu árum enda eru sel í tísku um þessar mundir sem rannsóknarefni. Væntanlega mun með hverri rannsókn safnast ný þekking í sarpinn enda eigum við enn margt ólært um sel og seljabúskap á Íslandi í tíma og rúmi.

Seljarannsóknir á Norðurlöndum á síðustu árum

Urðarsel

Urðarsel í Svarfaðarárdal.

Sel hafa ekki einungis verið rannsökuð á Íslandi á síðustu áratugum heldur einnig á hinum Norðurlöndunum en seljabúskapur er einmitt landnýtingarform sem barst að öllum líkindum hingað til lands með landnámsmönnunum. Ein umtalaðasta seljarannsókn Norðurlanda er rannsókn Reintons, norsks sagnfræðings, þar sem hann setti fram hugmyndir sínar um mismunandi gerðir selja í Noregi (nefnt norska módelið hér að framan og eftirleiðis). Samkvæmt Reinton eru í Noregi til þrjár yfirgerðir selja: heimasel, millisel og fjar- eða fjallsel, tvö hin síðarnefndu einnig nefnd sumarsel. Heimaselin voru oft stoppistöðvar á leið í sumarselin. Hver bær gat haft fleiri en eina gerð sels. Undir yfirgerðunum þremur eru síðan undirgerðir sem ráðast að mestu leyti af landslagi hvers svæðis fyrir sig og eru þær þrjár helstu alsel, mjólkursel og sláttusel.

Birnustaðasel

Birnustaðasel í Dýrafirði.

Nöfn undirseljanna skýra sig að nokkru leyti sjálf. Alselin voru algengust og þannig nýtt að verið var þar allt sumarið og afurðir ekki fluttar heim á bæ fyrr en um haustið. Margs konar verk voru unnin í selinu, ekki bara tengd búsmala heldur einnig nýting á auðlindum í nágrenninu. Í mjólkurseljum var aðaláherslan á mjaltir ánna og var mjólkin yfirleitt flutt heim og unnin áfram þar. Sláttuselin höfðu það hlutverk helst að safna heyi til vetrarfóðurs. Sel af þessari gerð virðast ekki hafa verið algeng víða en nýting sláttu- og mjólkurselja hefur verið takmarkaðri en nýting alselja. Þótt rannsóknir Reintons eigi við miðaldir þá voru sel til í Noregi á víkingatímanum þegar land er numið á Íslandi og enn hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að nýting á beitarlandi hafi breyst mikið frá 800 til 1350 e. Kr. þótt selhúsin hafi örlítið breytt um svip. Þannig er allt eins líklegt að seljagerðir Reintons geti átt sér stoð í raunveruleikanum allt aftur á víkingaöld.

Sogasel

Sogasel – Á Reykjanesskaganum, í fyrrum landnámi Ingólfs eru 443 sel og selstöður. Selstaðan í Sogagíg var lánuð Kálfatjörn frá Krýsuvík um tíma í skiptum fyrir skipsuppsátur.

Á Grænlandi hafa einnig farið fram rannsóknir á seljum og var gróðurfar selstöðu í Vatnahverfi í Eystribyggð rannsakað nýlega með frjókorna- rannsóknum og tengdum aðferðum. Þannig var uppbygging selsins tímasett og áhrif þess á vistkerfið skoðuð auk þess sem breytingar á landnýtingu í selstöðunni voru greinanlegar í frjókornaritum. Að ákveðnu leyti byggist umræða rannsóknarinnar á rannsókn Albrethsens og Kellers sem birt var 1986 en þeir kortlögðu mögulegar seljarústir við Eiríksfjörð í Eystribyggð og ræddu m.a. tengsl rústanna við norska módelið sem nefnt var hér að framan. Selið, sem Ledger og félagar rannsökuðu, var sett á laggirnar um 1050-1150 og verður greinileg aukning á landnýtingu þannig að farið er að slá meira og safna heyi um 1225-1325. Höfundar telja það benda til þess að starfsemi selsins hafi breyst í þá átt að slá og safna vetrarfóðri á meðan beit hafi jafnvel verið færð fjær selinu eða að selstaðan hafi einfaldlega þróast yfir í býli.

Sel og seljabúskapur

Urriðakot

Urriðakot – fornleifauppgröftur neðan bæjarins; fornt sel frá Hofstöðum.

Þótt fornleifarannsóknir á seljum hafi gefið af sér nýjar upplýsingar, sumar sem ýtt hafa undir nýja hugsun varðandi sel og seljabúskap, eru þó enn mörg göt í þekkingunni sem mikilvægt er að fylla í með fleiri og víðtækari rannsóknum. Seljarannsóknir á Íslandi hafa víða gefið upplýsingar um aldur seljanna og jafnvel að einhverju leyti umfang búskaparins í þeim. Hafa margar rannsóknanna hingað til verið uppgreftir af mismunandi stærðum og eru prufuholurannsóknir algengastar. Slíkar rannsóknir gefa þó alltaf takmarkaða niðurstöðu eins og gefur að skilja og er því varla hægt að gera ráð fyrir að annað komi út úr þeim en aldur og eðli rústanna. Undantekningin á þessu er ef tekin eru sýni til annars konar rannsókna, s.s. frjókorna- og skordýrarannsókna, líkt og gert hefur verið í rannsóknum á seljum Reykholts. Færri seljarannsóknir hafa grundvallast á fornleifaskráningu en slíkar rannsóknir hafa það fram yfir uppgraftarrannsóknir að hægt er að rannsaka minjar á stærra svæði og fá þannig yfirlit yfir heilar sveitir eða aðrar ákjósanlegar einingar. Hins vegar getur verið erfiðara að aldursgreina rústir með nokkurri nákvæmni eða gera sér grein fyrir hvað fram hefur farið á staðnum þegar um skráningarrannsóknir er að ræða. Það er því ljóst að mismunandi rannsóknaraðferðir gefa af sér ólík gögn og hefur hver aðferð sína kosti og galla.

Urriðakot

Urriðakot – uppgröftur á selstöðu, sem hvergi var getið í rituðum heimildum.

Mestum upplýsingum hefur hingað til verið safnað um aldur selja, fjölda rústa og rýma í seljum, hæð yfir sjávarmáli, dýrleika jarða og fjarlægð frá bæ. Slíkar upplýsingar eru góðar og gildar og gefa t.a.m. hugmynd um tengsl jarðastærða við seljabúskap, áhrif landslags á staðsetningar selja og umfang seljabúskaparins út frá rústum seljanna. Hins vegar hefur sjaldan verið fjallað um mannlega þætti seljabúskaparins, þ.e. hvaða fólk var í seljum og hver staða þess var, eða breytileika seljabúskaparins. Það er nefnilega svo eins og fram kom í fyrsta hluta þessarar ritgerðar að gætt hefur hugmynda um ákveðna einsleitni í seljabúskap á Íslandi og hvort sem það er orsök eða afleiðing þess að selin eru oft ekki skoðuð í tengslum við samhengi þeirra, hvort sem er landslag, efnahag eða samfélag, þá er ljóst að þetta er eitt vandamála seljarannsókna á Íslandi – það gleymist að setja selin í samhengi og gera ráð fyrir mismun og margbreytileika seljabúskaparins.

Selgjá

Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Seljabúskapur var hluti af flóknu samfélags- og efnahagslegu kerfi sem tekið hefur mið af þörfum samfélagsins en einnig hvers bæjar fyrir sig á hverjum tíma. Því er mikilvægt að skoða seljabúskap í tengslum við samhengi hans á hverju svæði fyrir sig. Einungis með því er hægt að fá innsýn inn í hvaða hlutverki þetta búskaparform gegndi og hvaða þættir höfu helst áhrif á það. Þótt grunnhugmyndin á bakvið seljabúskapinn virðist hafa verið sú sama á landsvísu benda rannsóknir eins og sú á Pálstóftum til þess að vinnsla í seljum hafi að einhverju leyti tekið mið af umhverfinu og þeim auðlindum sem í því voru. Rannsóknir á þessum þætti seljabúskapar gætu að mínu mati hjálpað til við að varpa ljósi á fjölbreytileika hans á Íslandi. Enn vantar þó meiri raungögn um seljabúskap á mismunandi svæðum til þess að hægt sé að skoða hvaða þættir voru ólíkir og hvaða þættir voru líkir í seljabúskap á Íslandi og hvað í samhengi seljanna hafi valdið þessum breytileika.

Sel á Íslandi – eðli og umfang

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Seljabúskapur er æði gamalt fyrirbæri á Íslandi þótt skilningur á hugtakinu og því sem það stendur fyrir minnki með hverri kynslóð og trúlega hafa fæstir þeirra, sem fæddir eru á seinustu áratugum 20. aldar eða seinna, nokkra þekkingu á því. Ljóst er þó að seljabúskapur hefur haft stóru hlutverki að gegna í landbúnaði og þar með afkomu Íslendinga og er því vert að rannsaka fyrirbærið nánar. Í umræðunni hér á eftir verður leitast við að skoða ýmis atriði tengd seljabúskapnum, allt frá upphafi hans til endaloka. Farið verður yfir umfang hans og eðli, kjarna hans og aðra mögulega starfsemi í seljunum samhliða kjarnanum og að lokum verður seljahugtakið sjálft skoðað.

Upphaf og eðli

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Seljabúskapur er talinn hafa komið með landnámsmönnunum til Íslands og hugsanlegt er að hann hafi hafist strax í upphafi byggðar. Í Landnámabók er sagt frá landnámsmanninum Birni austræna í Bjarnarhöfn í Helgafellssveit en hann er sagður hafa haft „selför upp til Selja“. Vísbendingu um eina aðra selför er að finna í Landnámu en þar er Geirmundur heljarskinn sagður hafa haft selför í Bitru. Íslendingasögurnar segja einnig frá selförum sögupersóna og ber þar helst að nefna frásagnir í Hrafnkels sögu Freysgoða, Laxdæla sögu, Vatnsdæla sögu, Grettis sögu Ásmundarsonar og Hallfreðar sögu vandræðaskálds. Erfitt er þó að meta sannleiksgildi þessara frásagna þegar kemur að því að reyna að átta sig á aldri seljabúskapar á Íslandi og eðli hans í upphafi. Líklegt verður þó að telja að seljabúskapurinn hafi í fyrstu fylgt norskum hefðum enda hafi hann verið hluti af landbúnaði Noregs í langan tíma fyrir landnám Íslands. Þó má gera ráð fyrir ákveðinni aðlögun búskaparformsins að umhverfinu á Íslandi, bæði landslagi og samfélagi. Elsta heimild um seljabúskap í Íslenzku fornbréfasafni er frá því 1140 en þótt víða séu selfarir nefndar í safninu eftir það fylgja sjaldnast meiri upplýsingar en að ákveðinn bær eða kirkja eigi selför á tilteknum stað.

Lónakotssel

Lónakotssel.

Áhugavert er að velta upp þeirri staðreynd að sé farið í gamlar heimildir, s.s. Íslenzkt fornbréfasafn, þá er hugtakið selför helst notað í tengslum við seljabúskap. Hins vegar er mun algengara í yngri heimildum að talað sé um selstöður. Til að mynda er orðið selstaða notað í Jarðabókinni og er það mun algengara en selför, í það minnsta í skrifum um Hnappadals- og Snæfellsnessýslu. Að sama skapi eru orðin sel og selför notuð í Grágás en sætur og setur í Jónsbók og má líklega rekja þá orðnotkun til norskra lagabálka. Þessi breyting á orðnotkun ein og sér vekur forvitni og er vert að velta því fyrir sér hvort einungis er um breytt orðaval að ræða í tímans rás sem þýði í raun ekki neitt eða hvort breyting hafi orðið á seljabúskapnum, hugsanlega á landsvísu þar sem ekki ekki virðist endilega vera landsvæðamunur á notkun þessara orða, hvort heldur er á eðli búskaparháttanna eða framkvæmd.
Þessari spurningu verður ekki svarað hér en mig langar þó að benda á tengingu sem orðin selstaða og selstöð hafa vissulega við orðið verstöð.

Straumssel

Straumssel – Tilgáta ÓSÁ.

Bendir orðnotkunin til ákveðinnar vinnslueiningar og þess að selstaðan sé útstöð frá sínum heimabæ. Þannig er selstaðan efnahagsleg eining innan býlisins og gegnir ákveðnu hlutverki í örheimi býlisins. Þótt staðreyndin virðist vera sú að orðið selför hafi verið notað á fyrstu öldum en síðar selstöður í meira mæli yfir þessa búskaparhætti er ekki þar með sagt að tilvist seljabúskaparins sem efnahagsleg eining og útstöð hafi breyst í eðli sínu. Hins vegar er hægt að velta því upp hvort seljabúskapur hafi í upphafi verið stundaður meira af menningarlegum og jafnvel pólitískum ástæðum en brýnni þörf og hvort breytt orðaval geti stafað af meiri efnahaglsegum ávinningi af seljabúskapnum á seinni öldum og mikilvægi hans að því leyti – hann hafi þannig verið sambærilegur við verstöðvar.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Vísbendingar eru um að seljabúskapur hafi ekki verið stöðugur í gegnum aldirnar heldur hafi hann víða lagst af um tíma á ákveðnum stað og síðan verið tekinn upp aftur, jafnvel áratugum ef ekki öldum seinna. Ástæður þessa eru óljósar en í Íslenzku fornbréfasafni má lesa um deilur manna í millum vegna þess að aðili hefur hafið seljabúskap á gamalli selstöðu sem hann ekki hefur notkunarleyfi fyrir. Ljóst er að fyrst óvissa var um hver ætti tilgreinda selstöðu hlýtur annaðhvort að vera að endurnýjun hafi verið slík á svæðinu að upplýsingarnar hafi glatast eða þá að svo langur tími sé liðinn frá því síðast var haft í seli á viðkomandi stað að vitneskjan um selstöðurnar sé við það að glatast. Af þessu að dæma, sem og skráðum fornleifum auk aldursgreininga líkt og í Þórsárdalsseli sem fjallað var um í II. hluta ritgerðarinnar, er ljóst að víða eru nokkrar, jafnvel margar, kynslóðir selja á sama stað. Þær geta verið til komnar af því að nýjar byggingar voru reistar á stöðugum selstöðum þegar þurfa þótti eða vegna þess að gamlar selstöður voru teknar aftur í notkun og nýjar byggingar byggðar í stað þess að lappa upp á þær sem fyrir voru. Þannig geta sýnilegar kynslóðir selja verið bæði dæmi um samfellu í seljabúskap en einnig rof.

Breiðagerðissel - Auðnasel

Auðnasel og Breiðagerðissel – uppdráttur ÓSÁ.

Sums staðar hafa bæir og/eða kirkjur átt fleiri en eina selstöðu. Sést þetta í Íslenzku fornbréfasafni þar sem t.a.m. Grenjaðarstaðarkirkja í Suður-Þingeyjarsýslu á tvö sel; selför til Kringluvatns og hálfa selför „í skarði uppi“. Ekki er ljóst hvort um mismunandi tegundir selja hefur verið að ræða eða hvort búsmalanum hefur einfaldlega verið skipt upp til að nýta betur landið eða vegna landþrengsla í selstöðunum. Annar möguleiki er einnig að selstöðurnar hafi ekki verið nýttar samtímis heldur til skiptis. Ástæðuna fyrir slíkri nýtingu er erfitt að sjá en mögulega hefur það verið vegna viðkvæms gróðurs eða nýtingar ákveðinna auðlinda í hvorri selstöðunni fyrir sig. Í Noregi var þekkt að bæir ættu fleiri en eitt sel og flyttu sig á milli þeirra á ákveðinn hátt sem bundinn var í hefðir. Engar vísbendingar eru þó enn um að þetta hafi verið gert hér á landi.

Í rannsóknum Guðrúnar Sveinbjarnardóttur á seljum Reykholts í Borgarfirði hefur þó komið í ljós að staðurinn átti fleiri en eitt sel. Var eitt þeirra, Faxadalur, í notkun líklega allt frá 11./12. öld og fram á þá 19. Engar vísbendingar var að finna um að selið hefði nokkurn tíma lagst af á þessu tímabili. Tvö önnur sel Reykholts hafa verið rannsökuð, Reykholtssel og Norðurtungusel, en þau voru ekki í notkun á sama tíma og virðist Norðurtungusel hafa verið leigt út á seinni öldum en seljabúskap þar lauk ekki fyrr en um miðja 19. öld. Ekki er ljóst hvers vegna Reykholt hafði í seli að því er virðist á tveimur stöðum í einu og engar vísbendingar fundust um ólíka starfsemi á stöðunum.

Umfang seljabúskapar

Fornasel

Fornasel í Hraunum. Forsenda fyrir seljabúskapnum var nálægð við vatnsstæði, læk, á eða vatn.

Af ofangreindri umræðu má sjá að varla er hægt að búast við því að seljabúskapur á Íslandi hafi verið byggður á landlægu kerfi sem var eins alls staðar, bæði í framkvæmd og eðli. Án efa hefur umfang seljabúskaparins verið mismunandi, svo sem áherslur, staðsetningar og annað. Erfitt er að áætla umfang hans á hverjum stað út frá fornleifum, hve margir voru í selinu á hverjum tíma og hve mikið var gert þar, nema með uppgrefti á þeim í heild sinni. Út frá rústum á yfirborði er hugsanlega hægt að meta hvort húsin þykja lítil eða stór, mörg eða fá, og draga þannig ályktanir varðandi umsvif á staðnum en slíkar ályktanir eru þó einungis getgátur sem dregnar eru upp í ljósi þeirra staðreynda sem fyrir hendi eru.

Fornasel

Fornasel í Strandarheiði.

Heimildir um seljabúskap í Íslenzku fornbréfasafni eru margar en þó ekki margvíslegar. Oft er einungis sagt að umtalaður bær eða kirkja eigi selför á ákveðnum stað og síðan ekki söguna meir. Þó er hægt að lesa út úr öllum færslunum í heild að selfarir hafa verið mikilvæg ítök, líkt og skógarhögg eða reki, og að seljabúskapur virðist ekki hafa verið stöðugur alls staðar heldur hafa sel fallið úr notkun og síðan verið tekin í notkun á ný eins og nefnt var hér að framan. Í Fornbréfasafninu er nefnt að farið hafi verið með kindur, kýr, hross og jafnvel geitur í sel. Hrossin eru þarna líklega vinnudýr, m.a. til að flytja heim á bæ afurðir sem framleiddar voru í selinu en ólíklegt verður að teljast að hryssur hafi verið færðar í sel til mjalta eins og annar búsmali þótt neysla kaplamjólkur sé þekkt.

Baðsvellir

Baðsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Benedikt Eyþórsson sagnfræðingur kom inn á seljabúskap í meistararitgerð sinni um búskap og rekstur í Reykholti. Fjallar hann um seljabúskap og eðli hans út frá Íslendingasögunum og öðrum heimildum og kemst að þeirri niðurstöðu að tvö kerfi seljabúskapar hafi tíðkast á Íslandi: 1) fámennar selfarir þar sem aðaláhersla var á beit og mjólkurvinnslu og 2) fjölmennar selfarir þar sem meirihluti fólks á bænum fór í selið og vann þar fleiri störf en þau sem viðkomu beit og mjólkurvinnslu.

Telur Benedikt þetta kerfi líkjast fulseterbruk (ís. alsel) kerfinu í Noregi og að kerfin tvö hafi verið notuð hér á landi þegar á miðöldum. Verð ég að segja að mér finnst að þær vísbendingar fyrir tvöföldu kerfi í seljabúskapnum allt frá upphafi seljabúskapar og a.m.k. fram á 17. öld, sem Benedikt dregur fram, beri að taka alvarlega. Þó verð ég að slá varnagla við frásagnir í annálum um selfarir á 17. öld sem hægt er að túlka bæði sem fjölmennar selfarir en einnig þannig að heimilisfólk hafi verið í heimsókn í selinu.

Selsmatsselja

Selsmatsselja eftir mjaltir.

Þótt síðari tíma hugmyndir um seljabúskap séu að mestu leyti byggðar á hugmyndum um fámennar selfarir, sauðfé og mjólkurvinnslu þá er næsta víst að þessi hugmynd á ekki við um öll sel í gegnum alla Íslandssöguna og líklegast er að hugmyndir þessar séu sprottnar upp úr frásögnum fólks sem síðast var í seljunum auk frásagna fræðimanna eins og Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili. Segir Jónas að í seli hafi einungis verið ein selráðskona og smali en ef fé var margt hafi selráðskonan tekið með sér eina eða tvær unglingsstúlkur til viðbótar. Gera verður ráð fyrir að hafi seljabúskapur borist strax með fyrstu landnámsmönnum og síðan áfram með þeim sem seinna komu þá hafi hann ekki verið einsleitur heldur jafnvel hver gert hlutina á þann hátt sem hann þekkti og vildi. Þannig er mögulegt að seljabúskapur hafi með tímanum þróast yfir í tvöfalt kerfi sem þótti henta íslensku samfélagi.

Segja má að það sem fram kemur í Íslenzku fornbréfasafni um seljabúskap stangist ekki á við hugmyndir Benedikts um tvöfalt kerfi í seljabúskap á Íslandi. Þó ýtir það frekar undir hugmyndir um fámennari selfarir þar sem hvergi er fjallað greinilega um stórtækari selfarir eða starfa í seljunum.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki er þó öll sagan sögð með rituðum heimildum og er Íslenzkt fornbréfasafn auðvitað einungis safn bréfa sem varðveist hafa og ómögulegt að segja hvað hefur staðið í bréfum sem glötuð eru. Að sama skapi eru allar hugmyndir okkar um seljabúskap á Íslandi byggðar á götóttum heimildum fyrri alda og orðmörgum lýsingum seinni alda selfara. Hér þyrfti fornleifafræðin að koma til skjalanna og hjálpa til við að stoppa í götin og reyna að varpa frekara ljósi á umfang seljabúskapar og starfann í seljunum.
Fornleifafræðilega séð er kenningin um tvöfalt kerfi í seljabúskapnum vandkvæðum háð því óljóst er hvort og hvernig hægt er að greina slíkt kerfi í fornleifunum. Líklegt er að bæði fámennar og fjölmennar selfarir hafi skilið eftir sig minjar þar sem selja- búskapurinn virðist alltaf hafa kallað á að hafa kvíar/aðhald og geymslu og/eða vinnslurými. Hér verður því gengið út frá að minni selfarirnar sjáist glöggt í fornleifunum og möguleikinn á fámennum selförum sem eru ósýnilegar í fornleifafræðilegu tilliti útilokaður. Slíkar athafnir, þ.e. mjaltir og meðhöndlun búsmala þar sem engar varanlegar byggingar eru, kýs ég að kalla ekki seljabúskap.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ.

Annar möguleiki varðandi fjölmennar selfarir er einnig sá að einhver hluti fólksins hafi farið fram og til baka yfir daginn og einungis lítill hluti selfólksins hafst við í selinu yfir nóttina. Slíkan möguleika þarf þó að skoða í tengslum við hvert sel fyrir sig með tilliti til fjarlægðar frá bæ og aðgengis að selinu. Í sumum seljum eru rústir þó fleiri og/eða með stærri rýmum og er það vísbending um fjölmennari selfarir þar sem fólk dvaldi allt í selhúsunum. Sem dæmi um slíkt má nefna Svelgsársel neðra í Helgafellssveit  en þar eru þrjú rými sem gætu komið til greina sem íverurými og gætu einhver þeirra jafnvel verið samtíða. Nálægt því seli fannst einnig heystæði sem hugsanlega hefur verið heyjað í á seltímanum.
Þegar litið er á fornleifarnar virðast ekki forsendur fyrir að skipta selstöðunum í Helgafells- og Eyrarsveit í tvo hópa, fámennar og fjölmennar selfarir, og í reynd má spyrja hvort nokkuð vinnst með slíkum bókhaldsæfingum.

Þorlákshafnarsel

Í Þorlákshafnarseli (Hafnarseli).

Upplýsingar um fjölda fólks í seljum eru áhugaverðar og geta gefið hugmynd um hve mikil framleiðni selsins var og hve mikið af auðlindum í nágrenni þess gætu hafa verið nýttar en það segir þó ekki alla söguna. Ekki er mikilvægast að skoða hve margt var í seljunum hverju sinni heldur frekar hver tilgangur og áhrif seljanna voru í efnahagslegum og samfélagslegum skilningi.

Til er frásögn af ferðalangi á fyrri hluta 19. aldar sem er á ferð nálægt seli Þorlákshafnar sunnan við Hellisheiði og kemur þar við til að fá sér að drekka því hann er þyrstur og sér reyk í selinu. Þannig er líklegt að í seljunum hafi ekki óviðkomandi verið bannaður aðgangur heldur hafi þau verið vinnslustöð og dvalarstaður fólks þar sem gestir og gangandi voru velkomnir. Aðrar seinni tíma frásagnir segja einnig frá gestakomum í selin, sérstaklega um helgar, og var þá oft glatt á hjalla. Ekki síður væri mikilvægt að rannsaka stöðu þeirra sem í seljunum voru, ekki bara hve margir voru þar heldur hverjir. Var selfólkið eingöngu hraust vinnufólk á góðum aldri eða fóru húsbændur í selin líka? Voru liðléttingar skildir eftir heima á bæ ef margir fóru í sel eða var þeim einnig fengin vinna þar?

Hvað fór fram í seljum?

Hraunssel

Hraunssel í Ölfusli.

Eins og fram hefur komið hér að framan snýst grunnhugmyndin um seljabúskap á Íslandi um beit búpenings, mjaltir og mjólkurvinnslu í seljunum. Fólk dvaldist í seljunum frá fráfærum á vorin og fram eftir sumri og voru afurðirnar, sem til urðu í selinu, fluttar heim á bæ með reglulegu millibili. Nauðsynlegt var að hafa aðgang að vatni til þess að þrífa ílátin, sem nota þurfti við mjólkurvinnsluna, auk þess sem íveruhús, eldhús og geymsluhús voru talin hinn venjulegi húsakostur í seljum.
Því hefur verið haldið fram að í seljum hafi ekki verið eldstæði, heldur sé slíkt vísbending um heilsársbúsetu: „Mér finnst ólíklegt að seljafólk hafi ómakað sig á að halda eldi lifandi í húsum sínum yfir hásumarið“ eru orð sem Gunnar Karlsson hafði um eldstæði sem fannst á Pálstóftum. Sé Íslenzkt fornbréfasafn skoðað kemur í ljós að staðhæfing þessi getur vart staðist þar sem greinilegt er að í seljum var eldiviður nauðsynlegur, ekki síst í ljósi þess að hita þarf mjólk – flóa hana – til þess að hægt sé að gera úr henni skyr. Sést þetta einnig á því að eigendur jarða gefa leyfi fyrir eldiviðartöku eins og selin þurftu. Að auki er ljóst að ýmis önnur not voru höfð af eldstæðum en til þess að ylja sér við eingöngu og tel ég að ekki nokkur fornleifafræðingur myndi halda því fram að eldstæði væri skýrt merki um heilsársbúsetu þar sem gera má ráð fyrir að eldstæði geti fundist á flestum stöðum, ef ekki öllum, þar sem menn hafa á annað borð hafst við.

Breiðabólstaðasel

Breiðabólstaðasel.

Í hinni hefðbundnu sýn á seljabúskapinn sá kvenfólkið um öll mjólkurverk og annað sem þeim tengdist í selinu en smalinn sá um að koma búsmalanum í og úr haga á milli mjalta. Samkvæmt þeirri mynd sem dregin er upp af selförum í eldri heimildum er þó óljósara hver gegndi hvaða hlutverki í seljabúskapnum. Þó eru til nokkur dæmi um frásagnir af verkaskiptingu í seljum. Í Hrafnkels sögu Freysgoða segir frá konum sem mjólka í seli Hrafnkels auk þess sem Einar smali á að viða heim öllum sumarviði á meðan hann er í seli. Í Laxdæla sögu segir frá húskörlum sem stunda heyverk í seli en þó lítur út fyrir að það sé eftir að seljatímanum lýkur og í Grettis sögu segir frá Auðuni á Auðunarstöðum sem fer í sel og kemur heim með mat þaðan, m.a. skyr. Þessar frásagnir ríma þó við verkaskiptingar í yngri heimildum.

Breiðabólstaðasel II

Breiðabólstaðasel II (Þorlákshafnarsel II). Selstöðunnar er hvergi getið í skráum heimildum.

Fornleifarannsóknir á Íslandi hafa því miður ekki gefið miklar upplýsingar um það sem fram fór í seljunum, helst sökum þess hve fá sel hafa verið grafin upp. Upplýsingar, sem þó hafa safnast, eru áhugaverðar og gefa að nokkru leyti nýja sýn á verkefni selfólksins. Ber þar helst að nefna niðurstöður uppgraftarins á Pálstóftum sem fjallað var um í I. hluta þessarar ritgerðar en þar fundust vísbendingar um að skartgripasmíði hafi verið stunduð í selinu auk þess sem gæsabein benda til þess að gæsir hafi verið veiddar í nágrenninu og nýttar í selinu og/eða fluttar heim á bæ. Þótt vísbendingar finnist í seljum um hvað þar fór fram getur fornleifafræðin ekki sagt okkur hver vann hvaða störf og því er ekki hægt að vita hvort hlutverk kynjanna í seljabúskapnum hefur breyst í aldanna rás. Líklegt er þó að ekki einungis kyngervi hafi ráðið verkum fólks í seljum heldur einnig staða og aldur. Mætti því ef til vill spyrja hvort siðir og venjur hafi stjórnað því hvort ákveðnir heimilismenn færu í selið og hvort veran í selinu hafi verið eftirsótt eða ekki, hvort hún hafi verið virðingarverð og veitt fólki upphafningu – eða jafnvel þvert á móti.

Kjarni seljabúskapar og önnur starfsemi

Ölfus

Núpasel.

Enn bendir flest til þess að grunnurinn í seljabúskap á Íslandi hafi verið búsmalinn, beitin og mjólkurvinnslan sem honum tengdist þótt rannsóknir eins og sú á Pálstóftum hafi náð að víkka þá sýn nokkuð. Færslur í Íslenzku fornbréfasafni gefa sterklega til kynna að búsmalinn sé kjarni selfararinnar. Þannig er minnst á búsmala eða sauðfé/kýr/geitur/hesta víða þar sem meira er sagt um selfarir en bara það að ákveðin kirkja eða jörð eigi selför á tilteknum stað  og hvergi í heimildum er getið um að kjarni þess sem fram fór í seljum hafi verið annað en ofangreint.
Hér verður ekki skilið á milli kúaselja annars vegar og fjárselja hins vegar enda ekki litið svo á að vinna í seljunum hafi verið mjög ólík hvort sem haldnar voru þar kýr, ær eða geitur.

Sognsel

Sognsel.

Sé litið til fornleifafræðinnar blasir við ákveðið vandamál þegar skoða á þennan meinta kjarna seljabúskaparins, beitina og mjólkurvinnsluna, eins og Gavin Lucas hefur bent á í tengslum við rannsóknina á Pálstóftum. Tilvist rennandi vatns eða annarrar góðrar vatnsuppsprettu er ágæt vísbending þegar kemur að því að draga ályktanir um mjólkurvinnslu á staðnum. Sé slíkt ekki fyrir hendi er ólíklegt að mjólk hafi svo nokkru nemi verið unnin á staðnum en þó verður að gera ráð fyrir tímanum í þessu samhengi og taka mark á því að landið er síbreytilegt og lækir og vatnsuppsprettur geta horfið í tímans rás.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – vatnsstæði. Grunn vatnsstæði áttu það til að þorna upp þegar líða tók á sumarið.

Auk þessa er mögulegt að rigningarvatni hafi verið safnað eða brunnar grafnir. Yfir höfuð er eina leiðin að segja til um tilvist búsmala í seljum, þegar einungis er um yfirborðsrannsóknir að ræða, að skoða hvort mannvirki eru á staðnum sem tilheyra búsmala, s.s. kvíar, aðhöld, garðar eða slíkt. Séu þess konar mannvirki ekki til staðar er ekki hægt að vita með vissu hvort búsmali hafi verið haldinn á viðkomandi stað. Með uppgrefti er hins vegar hægt að segja meira og geta ýmsar greiningar komið þar að góðum notum, s.s. greiningar á skordýrum, örformgerðargreiningar á jarðvegi þar sem m.a. er hægt að greina úrgang dýra og frjókornagreiningar þar sem hægt er að merkja breytingar á nýtingu lands, t.d. vegna beitar. Auk þessa er mögulegt að finna ílát og önnur merki um mjólkurvinnslu.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – nátthagi.

Vandamálið liggur þó ef til vill í því að þótt engar vísbendingar finnist er ekki hægt að slá því föstu að búpeningur hafi hvergi komið nærri í starfsemi selsins. Fræðilega séð getur því komið upp áhugaverð staða. Aðalgerandi seljabúskaparins að því er virðist, búsmalinn, getur verið ósýnilegur í fornleifunum sem vekur spurningar um hvernig skuli í því ljósi haga umfjöllun um sel. Var stundaður seljabúskapur án búsmala? Vangaveltur í tengslum við þessa síðustu spurningu verða teknar upp aftur síðar en fyrst skal hugað að öðrum starfa í selinu, ótengdum búsmalanum.
Nokkrar vísbendingar má finna í rituðum heimildum um að önnur aðföng eða ítök hafi verið nýtt á meðan á seltímanum stóð en þurfti í selinu sjálfu en slíkar vísbendingar eru þó ekki sterkar. Til að mynda má gera ráð fyrir að allar frásagnir af heyverkum í seljum teljist sem aðfanganýting fyrir heimabæinn þar sem hey teljast til vetrarfóðurs.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – tóft; sennilega kolagröf.

Frásögur af eldiviðartöku, hrísrifi og torfristu eru erfiðari viðureignar þar sem um nýtingu í seljunum eingöngu gæti verið að ræða. Ljóst er að þótt fáar séu heimildirnar þá hefur nýting auðlinda í nágrenni selja sums staðar tíðkast og líklegt er að mjög víða hafi eldiviður fyrir selið verið fenginn úr nánasta umhverfi þess. Fyrir utan smávægilegar vísbendingar hér og þar er ágæt frásögn rituð af sr. Guðlaugi Sveinssyni þar sem hann lýsir ýmsum verkum í seljum í lok 18. aldar sem ekki einungis virðast vera draumsýn hans á seljabúskapinn heldur eiga sér stoð í raunveruleikanum. Þannig fjallar Guðlaugur um hrístekju, kolagjörð, fjallagrasatekju og heyverk sem verk sem vert er að vinna í seli samhliða umhirðu búsmalans og mjólkurverkum.

Brennisel

Brennisel – kolagröf í miðið. Selstöður voru ekki einungis nýttar fyrir búsmala heldur og til kolagerðar, fuglatekju og jafnvel grasaferða.

Þótt vísbendingar um að ítök og auðlindir í nágrenni selja hafi verið nýtt meðan á seltímanum stóð séu litlar og víða engar er ekki þar með sagt að slíkt hafi ekki verið gert. Hugsanlegt er að slíkt hafi verið svo sjálfsagt að ekki hafi þótt vert að nefna það. Einnig getur verið að sums staðar hafi nýtingin verið í svo litlum mæli að ekki hafi þótt ástæða til að nefna hana og enn annars staðar getur auðvitað verið að selfólkið hafi einungis haft með búsmalann að gera og ekkert annað. Að mínu mati er það þó mjög mikil einföldun að gera ráð fyrir að ekkert annað hafi farið fram í seljum en mjólkurvinnsla og þegar greinilegar auðlindir eru í næsta nágrenni við sel verður að teljast líklegt að þær hafi verið nýttar að einhverju marki. Í ljósi þess að víða eru greinilegar auðlindir í nágrenni selja verður einnig að velta upp þeirri spurningu hvort seljum hafi að einhverju leyti verið valinn staður með nýtingu þeirra í huga.
Þó svo að skráningar á seljum geti sjaldnast gefið miklar vísbendingar um hvað í seljunum fór fram finnst mér sjálfsagt að líta á umhverfi seljanna til þess reyna út frá því að áætla hvaða auðlindir hafi verið hægt að nýta á svæðinu.

Seljabúskapur án búsmala?

Litlahraun

Litlahraun – fjárskjól og fyrrum selstaða.

Eins og áður sagði bendir ekkert til annars en að sel hafi verið mjög ákveðin gerð af vinnslustöð þar sem búsmali og mjólkurvinnsla voru í forgrunni en líklega þó með nýtingu annarra auðlinda í bland að meira eða minna leyti. Notkun orðsins sel á Íslandi yfir staði og vinnslustöðvar, sem ekki uppfylla þessi meginskilyrði, á sér því engan stuðning í raunveruleikanum eftir því sem næst verður komist. Þetta á við hvort sem litið er til fyrstu alda Íslandsbyggðar eða seinni alda. Notkun og tilbúningur hugtaka eins og „kolasel“ í íslensku samhengi þar sem enginn búskapur fór fram heldur einungis kolagjörð og hugsanlega skyldar athafnir er því ekki heppileg og ætti að forðast því það grefur undan hugtakinu sel og því sem það stendur fyrir.

Hvað er sel í fornleifafræðilegum skilningi?

Gljúfursel

Gljúfursel.

Helsta vandamálið, þegar kemur að fornleifafræði og seljum, er hvernig þekkja skuli seljarústir á yfirborði. Það getur reynst misjafnlega erfitt og fer mikið eftir landsvæðum hve greinilegar rústirnar eru og hve auðvelt er að greina þær frá öðrum rústaþyrpingum, s.s. kotbýlum. Að geta skilið á milli sels og rústaþyrpingar með annað hlutverk liggur að miklu leyti hjá viðkomandi fornleifafræðingi og skiptir þá miklu að sá hinn sami hafi reynslu og þekki vel til minja á svæðinu sem verið er að rannsaka. Þetta á ekki einungis við þegar skráðar eru rústir með áður óþekkt hlutverk eða áður óþekktar rústir heldur einnig þegar skráðar eru þekktar rústir með meint þekkt hlutverk samkvæmt munnmælum því ekki er alltaf víst að þekking á hlutverki rústanna hafi borist rétt milli kynslóða. Annað sem getur valdið vandamálum er að fornleifar hafa oft gegnt fleiri en einu hlutverki í gegnum tíðina og getur reynst erfitt að greina þau hvert frá öðru á yfirborði. Til að mynda er mjög þekkt að beitarhús eða bæir hafi verið byggð á gömlum selstöðum og jafnvel bæði beitarhús og bæir. Í þeim tilfellum getur reynst erfitt eða jafnvel ómögulegt að greina undir öllu kraðakinu elstu rústirnar.

Ingvaldarsel

Ingvaldarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Fyrir utan þetta eru seljarústir svo mismunandi að sel lítur ekki alltaf út eins og sel. Hér kemur til þekking fornleifafræðingsins á minjum á svæðinu eins og fram kom hér að framan. Það er erfitt að skýra hver grunnurinn í hugsanaganginum var en reyni maður að ráða í það hafði líklega mest að segja staðsetningar, landslagið umhverfis og svo rústirnar sjálfar. Yfirleitt samanstóð rústaþyrpingin af einni stórri rúst með þremur til fjórum rýmum auk kvía/aðhalds og jafnvel fleiri rústa eða mörgum litlum rústum og kvíum/aðhaldi. Einn stað skráðum við sem hafði örnefnið Sel (í landi Berserkseyrar) en þá rúst töldum við í raun ekki vera sel og var sú ályktun dregin af staðsetningu, umhverfi og útliti rústarinnar en engar aðrar rústir voru í nágrenni hennar. Það má því ætla að þessir þrír þættir hafi mikið með það að gera hvort um er að ræða sel eða ekki, a.m.k. í tilfelli Helgafells- og Eyrarsveitar. Ekki síst er mikilvægt að hafa í huga að í seli hljóta yfirleitt að vera minnst tvær rústir: marghólfa rúst með íverurými, geymslu og/eða vinnslurými og kvíarúst.

Hvassahraunssel

Tóftir í Hvassahraunsseli.

Erfitt er að búa til uppskrift af því hvernig seljarústir eiga að líta út. Þó hefur verið reynt að tína til ákveðin atriði sem hægt er að nota til að greina á milli selja og býla. Eitt er að ekki eru bæjarhólar í seljum. Það gefur augaleið að þessi punktur hefur eitthvað til síns máls enda var í flestum tilfellum einungis hafst við í seljum á sumrin og því er ekki mikil mannvistaruppsöfnun í þeim. Á móti kemur að margar sögur eru til af fólki, sérstaklega í seinni tíð, sem bjó í millibilsástandi í eitt eða fleiri ár í seljum. Ef slíkt hefur gerst í sama selinu oftar en einu sinni og oftar en tvisvar er allt eins víst að mannvistaruppsöfnun hafi aukist og því hafi selið farið að líkjast meira bæ að því leyti. Engu að síður er selið áfram sel þótt það hafi verið bær á þessum ákveðna tímapunkti. Hér kemur því aftur upp vandamálið með breytileg hlutverk fornleifanna og áhrif mismunandi hlutverka á þær.

Næsta víst er að sé gengið út frá umræðunni hér að ofan varðandi kjarna seljabúskaparins er ljóst að eitt mikilvægt atriði verður undantekningarlítið að vera í seljum en það eru kvíar eða aðhald til þess að halda utan um búsmalann á meðan mjólkað er.

Villingavatn

Villingavan – Gamlasel í Gamlaselsgili.

Komi fornleifafræðingur að rústum með óþekkt hlutverk þar sem ekki eru kvíar eða aðhald er ólíklegt að sá hinn sami myndi túlka rústaþyrpinguna sem sel.
Líta verður á minjasvæðið sem heild og skoða rústirnar í samhengi við umhverfið – rannsaka menningarlandslagið. Þannig þarf að leggja saman gerðir rústanna, staðsetningu þeirra og umhverfi, auðlindir í nágrenninu, aðgengi og fjölda rústa. Ég vil ekki taka undir að hæð yfir sjávarmáli sé endilega atriði sem gott er að nota til að skilgreina sel á landsvísu en hitt er annað mál að sel eru líklega oftast staðsett ofar í landslaginu og lengra inn til landsins en heimabæir þeirra. Í Helgafellssveit þýðir þetta ekki marga metra yfir sjávarmáli en hins vegar yfirleitt nokkrum kílómetrum lengra inn til landsins, annaðhvort inn í dalina við fjöllin eða á sléttuna upp af ströndinni. Svona hefur landslag hvers svæðis áhrif á hvar seljum hefur verið valinn staður.

Selflatir

Selið á Selflötum í Grafningi.

Bestu tilfinninguna gefur það auðvitað ef gengið er að selinu eftir gömlum leiðum, þjóðleiðum og selgötum, og mest gefandi væri að ganga frá hverjum heimabæ í viðkomandi sel. Það er þó því miður sjaldnast í boði þegar verið er að vinna fornleifaskráningu, aðallega tímans vegna. Sums staðar verður þó að ganga nokkurn spöl að seljunum sem gefur tækifæri til að ganga í gegnum landið og fá tilfinningu fyrir menningarlandslaginu og samhengi seljanna við landslagið.

Hafnasel II

Hafnasel norðan Krossfjalla – uppdráttur ÓSÁ.

Seljarústir geta verið margar eða fáar í hverri selstöðu og eru líklegustu áhrifavaldarnir í þeim efnum án efa samfella í seljabúskap, kynslóðir selja, umfang seljabúskaparins og nýting fleiri en eins bæjar á selstöðunni. Fjallað var um þessi atriði hér að framan en mig langar að nefna þau hér örstutt aftur til að leggja áherslu á hve ólíkar rústaþyrpingar selja geta verið og ekki megi gleyma þeim möguleika að um margar og jafnvel aðskildar kynslóðir geti verið að ræða í sömu selstöðunni. Einnig getur sama selstaðan hafa innihaldið sel margra bæja frá sama tíma.

Sel og seljabúskapur á Íslandi

Selvogsheiði

Selvogsheiði – minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Af umræðunni hér að framan má sjá að seljabúskapur á Íslandi hefur verið flóknari og margslungnari en frásagnir Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili gefa til kynna og það er langt því frá að við höfum á honum fullkominn skilning og þekkingu. Seljabúskapur hefur líklega fylgt landnámsmönnum hingað til lands strax í upphafi og hefur án efa tekið mið af þeim venjum sem hver og einn þekkti. Líklegt er því að seljabúskapurinn hafi ekki alls staðar verið eins í upphafi byggðar. Þessi mismunur á seljabúskapnum hefur haldist í gegnum tíðina en helgast líklega mest af landslagi hvers staðar og þeim áherslum sem hver og einn hafði í seljabúskapnum, þ.e. skepnufjölda og nýtingu annarra auðlinda. Ekki verður vart við neina stórfellda, landlæga breytingu á seljabúskap á Íslandi en breyting orðavals frá selför í selstöðu gæti bent til þess að einhvers konar breyting hafi orðið á búskaparháttunum þótt einnig gæti verið um nokkurn veginn merkingarlausa breytingu á orðnotkun að ræða. Seljabúskapur virðist hafa getað lagst af í nokkur ár eða jafnvel áratugi og síðan verið tekinn upp aftur. Á því eru engar haldbærar skýringar en líklega hafa aðstæður á hverjum bæ ráðið því eða breytingar á náttúrufari.

Litlalandssel

Litlalandssel – mjólkurafurðirnar voru geymdar í hellisskútanum.

Hvað varðar seljabúskapinn sjálfan, umfang hans og verkin sem unnin voru í selinu er ljóst að kjarni seljabúskaparins hefur verði búsmalinn og mjólkurvinnslan sem honum fylgdi. Vinnslustaður, sem ekki byggðist á búsmala, ætti því ekki að kallast sel. Þó eru vísbendingar um að búsmalatengd vinna sé ekki sú eina sem hafi verið unnin í seljum og því eru miklar líkur á að víða hafi önnur aðföng verið nýtt úr nágrenni seljanna, bæði til hagnýtingar í seljunum sjálfum en einnig til að flytja heim á bæ. Líklegt er að til hafi verið fámennar og fjölmennar selfarir þar sem fjöldi fólks í selinu hefur haft áhrif á hve mikil afköst selsins voru hverju sinni.

Þorkelsgerðissel

Þorkelsgerðissel – uppdráttur ÓSÁ.

Hitt er svo annað mál að aðalatriðið er ekki endilega hve margir voru í selinu hverju sinni heldur frekar hvaða hlutverki selin gegndu í efnahags- og samfélagslegu tilliti. Þannig hafa selin að því er virðist ekki verið jaðarfyrirbæri heldur staðir sem jafnvel voru „í leiðinni“ og gestagangi vel tekið. Áhugavert væri að skoða hverjir voru í seljunum, hvaða starfa þeir höfðu og hvaða stöðu seljabúskapurinn hafði í samfélaginu – hvort vistin í seljunum var eftirsótt eða ekki. Að mínu mati ættu fræðimenn framtíðarinnar að spyrja sig spurninga af þessu tagi auk þess að reyna að setja seljabúskapinn á hverjum stað í samhengi við landslag, samfélag og efnahag til þess að auka skilning á honum á hverju svæði fyrir sig því seljabúskapur hefur ekki alltaf eða alls staðar verið það sama og seljabúskapur þótt kjarni hans hafi verið búsmalinn og störf honum tengd.

Samfélag og efnahagur

Bjarnastaðasel

Bjarnastaðaból – uppdráttur ÓSÁ.

Seljabúskapurinn er partur af búskap bæja og spila þar líklega stórt hlutverk bæði hefðir og efnahagslegur ávinningur. Ekki var þó nóg að hafa einungis hugsjónina að vopni þegar kom að seljabúskap heldur þurfti bæði að hafa aðgang að landsvæði og mannskap til að geta stundað hann. Það var því ekki á allra færi að stunda seljabúskap þótt viljinn væri hugsanlega fyrir hendi. Engum sögum fer þó af því hvort bændur á minni bæjum, kotum og hjáleigum hafi haft áhuga á því að stunda sjálfir seljabúskap. Það er þó líklegt þar sem dæmi eru um í Jarðabókinni að hjáleigur megi nýta selstöðu með heimajörðinni.

Forsendubrestur
Ef reynt er að svara fyrri spurningunni er ljóst að eitthvað hlýtur að hafa sett af stað snjóboltann sem svo að lokum varð til þess að farið var að leggja niður selstöður; slíkt gerist ekki upp úr þurru. Grunnforsendur seljabúskaparins hljóta að hafa brostið eða í það minnsta breyst á einhverjum tímapunkti og ýtt þróuninni af stað. Líklegast er að hér sé um marga samverkandi þætti að ræða. Sé litið á framangreind atriði varðandi endalok seljabúskapar í samhengi við umræður um fólksfækkun og fiskleysi í Ferðabók Eggerts og Bjarna, auk ítarlegrar umfjöllunar Hitzlers um endalok seljabúskapar, er hægt að draga upp eftirfarandi mynd sem gæti skýrt upphaf þróunarinnar.

Eimuból

Stekkur í Eimubóli.

Þessi skýring er byggð bæði á land- og svæðisbundnum upplýsingum en vísbendingarnar eru fáar og því verður víða að geta í eyðurnar.
Á árunum 1200-1500 eru vísbendingar um að smjörverð hafi hækkað ört og því er líklegt að blómatími seljabúskaparins hafi verið á þeim tíma þar sem smjör var ekki eingöngu ætlað til heimabrúks heldur einnig til að borga skuldir, t.d. við jarðeigendur, og nota sem gjaldmiðil í verslun og öðrum viðskiptum eins og síðar verður fjallað um.

Nessel

Nessel í Seljadal – uppdráttur ÓSÁ.

Samkvæmt rannsóknum Jóns Jóhannessonar á verðlagi smjörs var vætt smjörs um árið 1200 metin á 30 álnir en strax þegar Jónsbók var lögtekin árið 1281 var verðið komið upp í 48 álnir. Á 15. og 16. öld fór verðið upp í hæstu hæðir og komst í 80 álnir. Rekur Jón þessar verðhækkanir til aukinnar eftirspurnar innanlands og utan. Ekki einungis var það vegna matarvenja Íslendinga heldur var smjör einnig gjaldmiðill sem notaður var til að borga biskupstólum, klaustrum og jarðeignamönnum auk þess sem smjör varð útflutningsvara í síðasta lagi árið 1480 og líklega nokkuð fyrr (Jón Jóhannesson 1958:144). Í klaustrum og víðar söfnuðust upp gríðarlegar birgðir smjörs sem urðu umtalsefni erlendra manna á ferð um Ísland. Árið 1555 kom út í Róm bók Olaus Magnusar um fólkið í norðri, Historia de Gentibus Septentrionalibus. Hefur hann skrifað um Ísland einhverju áður en bókin kom út þar sem klaustrin voru þá enn við lýði en um smjörbirgðir á Íslandi segir hann: „… in Iceland may be found such an abundant supply of salted butter, owing to the numerous herds of cattle and the luxuriant pastures, that there are insufficient barrels and kegs to hold it all … [it is stored] partially for consumption at home, but more particularly for barter with merchants. … Tubs of this plentiful butter are to be found in the monastery which the people in their own tongue call Helgafell. Its economy is based on butter and dried fish, an equivalent of richer treasures“.

Nærsel

Nærsel í Efri-Þormóðsdal.

Af þessum skrifum Olausar má sjá að smjör hefur verið mikið verðmæti um og fyrir miðja 16. öldina og þá er fiskurinn það einnig. Lýsing þessi er án efa nokkuð ýkt, sérstaklega fyrri hluti hennar, og er ólíklegt að allt þetta smjör sé afurð kúa heldur er líklegra að þarna sé um bæði sauða- og kúasmjör að ræða. Burtséð frá því er samt nokkuð ljóst að smjörframleiðsla hefur enn á þessum tíma, undir miðja 16. öld, verið töluverð og smjör notað sem gjaldmiðill í verslun og viðskiptum. Má í ljósi þessa gera ráð fyrir að seljabúskapur hafi enn staðið með blóma þegar hér er komið sögu og mest af smjörinu framleitt í seljunum.
Sé litið á klaustrin og eignir og viðskipti þeirra í smjöri er hægt að velta upp þeim möguleika að endalok klaustranna gætu hafa haft áhrif á seljabúskap landsmanna. Þegar klaustrunum var lokað hafa án efa losnað gríðarlegar smjörbirgðir og það hefur hugsanlega haft áhrif á verðlag og eftirspurn eftir smjöri fyrst á eftir. Enn fremur hætti fólk að borga klaustrunum með smjöri og því hefur þörfin fyrir það sem gjaldmiðil minnkað þar sem ólíklegt er að konungur hafi tekið við miklum borgunum í smjöri en hann tók við miklu af eignum klaustranna. Hugsanlegt er að tengsl endaloka klaustranna og smjöreignar þeirra hafi haft enn meiri áhrif í sveitum þar sem margar jarðir voru í eigu klaustranna.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Sé litið á útflutning á ný eru til tölur frá 1585 um útfluttar vörur frá Nesvogi í Helgafellssveit. Sjávarafurðir eru mesti og verðmætasti hluti útflutningsins en þó er einnig að finna landbúnaðarvörur á listanum. Þannig er verðmæti útfluttra vara metið á 569 vættir og eru 496 af þeim tilkomnar vegna skreiðar. Þar á eftir kemur lýsi með 33,5 vættir og lax með 13 vættir. Vaðmál og löng höld eru 12 vættir og smjör síðan 8,5 vættir. Auk þessa voru einnig flutt út 120 kg af blautfiski, 4 kindur og uxi sem öll samanlagt hafa nokkuð minna heildarverðmæti en smjörið. Smjör er því fimmta verðmætasta útflutningsvaran í Nesvogi en þó er villandi að nota slíkt orðalag þar sem verðmæti smjörs er ekki nema 0,017% af heildarverðmæti skreiðarinnar og 0,015% af heildarútflutningsverðmæti.
Árið 1625 eru til tölur yfir útflutning frá landinu í heild og eru þá fiskafurðir 75,1% heildarútflutningsverðmæta en ullarvörur og ýmsar vörur um 14% og eru smjör, æðardúnn og skinn þar undir, u.þ.b. 2% verðmætisins. Greinilegt er að fiskur er langtum mikilvægasta útflutningsvaran og gera má ráð fyrir að vegur hans í útflutningi hafi vaxið jafnt og þétt frá því að skreið varð útflutningsvara á 14. öld og tók við af vaðmáli sem aðalútflutningsvara Íslendinga. Verðlag fisks virðist hafa verið frekar hátt fram undir 1550 en á milli 1550 og 1600 varð verðfall sem hefur líklega haft einhver áhrif á íslenskan fisk þótt óvíst sé hve mikil þar sem hann var seldur á sérstökum markaði í Evrópu.

Strandarhellir

Í Strandarhelli.

Hvað forsendur seljabúskaparins varðar má gera ráð fyrir að í upphafi hans hér á landi hafi hann gegnt bæði efnahagslegu og samfélagslegu hlutverki eins og rætt hefur verið um fyrr í þessari ritgerð. Þótt líklegt sé að stór hluti afurða seljanna hafi verið nýttur til heimabrúks og til að borga skuldir við eigendur jarða er líklegt að smjör og/eða aðrar mjólkurafurðir hafi verið notaðar í viðskiptum að einhverju leyti jafnvel frá upphafi. Hugsanlegt er þó að með hækkandi smjörverði á tímabilinu 1200-1500 hafi mikilvægi smjörs í viðskiptum aukist og þess vegna hafi forsendur seljabúskaparins og mikilvægi hans í tengslum við ákveðna þætti í afkomu býlisins færst í meira mæli yfir á viðskiptahlutann en neysluhlutann. Sé þetta rétt hefur það haft mikil áhrif á seljabúskapinn þegar fiskur fór að taka algerlega yfir í magni og verðmæti því þá hafði seljabúskapurinn blásið út en afurðirnar voru farnar að falla í verði.

Ólafarsel

Ólafarsel.

Líklegt er að með aukinni áherslu á fisk sem verslunar- og viðskiptavöru hafi staða smjörs í sama tilgangi breyst og mikilvægi þess minnkað. Í kjölfarið á því er líklegt að áhugi og efnahagslegur ávinningur af seljabúskap hafi einnig minnkað. Hvenær nákvæmlega þessi breyting verður er erfitt að segja en í Ferðabók Eggerts og Bjarna kemur fram að þeim þykir merkilegt að áður fyrr hafi fiskveiðar verið minni en í þeirra tíð þegar nær allir stunda sjóinn. Þá hafi landbúnaður verið aðalatvinna fólks en „hann er nú í mesta vesaldómi“. Ferðabókin er auðvitað skrifuð um miðja 18. öld en tónninn í þessari umræðu Eggerts og Bjarna gefur til kynna að alllangt sé síðan þessi breyting varð.
Líklegt er því að þessi áherslubreyting frá landbúnaði yfir í fiskveiðar verði um 1600 þegar verð er farið að hækka aftur á fiski og fiskgengd er enn þá mikil. Helgi Þorláksson hefur velt upp svipuðum hugmyndum um endalok seljabúskaparins og tengt þær m.a. við útflutningsverslun. Nefnir hann að þýskir kaupmenn hafi gjarnan keypt smjör en danskir einokunarverslunarmenn ekki haft á því mætur. Þetta styður það sem sett var fram hér að framan að breytingar um 1600 hafi verið grunnurinn að forsendubresti seljabúskaparins en einokunarverslun Dana hófst einmitt árið 1602.

Selvogsheiði

Tóftir á Selvogsheiði.

Eggert og Bjarni láta í veðri vaka að á 17. öld hafi fiskveiðar á Snæfellsnesi orðið til þess að landbúnaðinum hnignaði og eftir að stórabóla gekk yfir á árunum 1707-1709 hafi mannfæð verið slík að útróðrar frá bæjum lögðust niður. Landbúnaðurinn hafi þó verið kominn í slíkar ógöngur að mikla vinnu hefði þurft að leggja af mörkum til að ná honum í fyrra horf og í stað þess að leggja í slíkt, vegna þess að menn voru orðnir vanir því að borða mestmegnis fisk, hafi bændur sent fólk í ver og jafnvel farið sjálfir. Nú – um miðja 18. öld – sé svo komið að mestur vinnukraftur fari í sjósókn og því geti komið harðindaár ef fiskurinn bregst þar eð landbúnaðurinn sé ekki nægur til að geta tekið við sveiflunum í fiskinum þótt tíðarfar sé honum hagstætt.

Staðarsel

Strandarsel (Staðarsel) í Selvogsheiði.

Líklegt er þó að ekki sé öll sagan sögð hjá Eggerti og Bjarna þegar kemur að niðurníðslu í landbúnaði og er ekki eingöngu fiskveiðum Íslendinga eða almennu dugleysi þeirra í landbúnaði um að kenna. Á 15. öld hófst Litla ísöldin á norðurslóðum og hefur kólnandi veðurfar henni tengt haft áhrif á fólk, dýr og ekki síst gróðurfar. Í tengslum við minnkandi landgæði í kjölfar kólnandi veðurs getur verið að menn hafi tekið þá ákvörðun að flytja vinnuafl frá landbúnaðinum yfir á fiskveiðar og þess vegna hafi fiskveiðarnar sjálfar ekki verið aðalástæða þess að vinnuaflsflutningurinn átti sér stað.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel.

Í tengslum við rannsóknir á veðurfari og kólnun á norðurslóðum hefur því verið velt upp að stöðug kólnun og stök slæm ár hafi ekki endilega verið verst heldur það þegar forspárgildi veðursins var orðið lítið, ekki var hægt að gera ráð fyrir nokkurn veginn stöðugu veðurfari og þ.a.l. hafi ákvarðanir verið teknar sem gátu dregið dilk á eftir sér. Slíkar ákvarðanir í tengslum við gróðureyðingu eru t.d. þær að breyta búskaparháttum þannig að stjórna ekki beit búfjár með smölum og auka með því hættuna á því að það gangi of nærri viðkvæmum svæðum. Í kjölfar kólnandi veðurs og versnandi gróðurfars, auk hugsanlegrar gróðureyðingar á köflum, getur verið að búsmala hafi verið fækkað og að það hafi einnig haft áhrif á seljabúskapinn.
Til að taka saman umræðuna hér að ofan eru vísbendingar um að fram að ritun Jarðabókarinnar hafi tilvist og mikilvægi seljabúskaparins fylgt eftirfarandi atburðarás: að hátt smjörverð á árunum 1200-1500 hafi skapað umhverfi fyrir blómaskeið seljabúskaparins. Í kjölfar aukinnar áherslu á fisk í verslun og viðskiptum minnkaði eftirspurn eftir smjöri og í samvinnu við breytta veðráttu og færslu vinnuafls frá landbúnaði yfir á fiskveiðar minnkaði áhugi og efnahagslegur ávinningur af seljabúskapnum um 1600. Víða leggst hann af í kjölfarið en þó ekki alls staðar.

Seljabúskapur hvers bæjar fyrir sig

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar grunnstoðir seljabúskaparins voru fallnar, eða í það minnsta orðnar valtar, voru án efa sérstakar aðstæður á hverjum bæ fyrir sig sem ákvörðuðu hvort og hvenær seljabúskapur bæjarins var lagður niður. Slíkar ástæður geta hafa legið í aðstæðum á bænum sjálfum og/eða í seljalandinu. Ástæður eins og mannekla, ónýt selhús, erfitt aðgengi að selinu og breytt gróðurfar geta allar hafa átt við, hver í sínu tilviki eða jafnvel saman. Í sumum tilfellum getur verið að forsendubresturinn hafi verið nægur til þess að hætta seljabúskap en svo hefur ekki verið hjá öllum. Erfitt er að greina nákvæmlega út frá rústum á yfirborði endanlegar ástæður þess að hvert sel fyrir sig fór í eyði en þó eru ákveðnar vísbendingar um hvað olli því að seljabúskap var hætt.
Á heildina litið legg ég til þá skýringu að við áherslubreytinguna um 1600 hafi hann farið mjög halloka þegar mannskap á bæjunum var skipt niður á verk. Á 17. öld voru harðindi og plágur sem leiddu til fólksfækkunar, þótt það komist ekki með tærnar þar sem stórabóla hefur hælana, og þá hafi seljabúskapurinn víða verið lagður af til að geta sett meira vinnuafl í fiskveiðar. Hins vegar lagðist það sem fram fór í seljunum ekki niður heldur voru mjólkandi ær og kýr hafðar heima á bæ í heimakvíum eða færikvíum þar sem það átti við og þeim beitt á engjar og haga nærri bæjunum. Auðlindir hafa einnig verið nýttar áfram en þó á annan hátt, m.a. með sérstökum ferðum, s.s. grasaferðum. Að færa færa mjólkandi ær – og kýr þar sem það átti við að kýr væru enn í seli á þessum tíma – heim á bæ krefst þess auðvitað að landrými sé fyrir slíka búskaparhætti heima við.

Lokaorð

Krosssel

Krosssel.

Seljabúskapur á Íslandi var mun flóknara og margbreytilegra fyrirbæri en sú mynd gefur til kynna sem Jónas Jónasson dregur upp í Íslenzkum þjóðháttum (1945). Fornleifarannsóknir á seljum á Íslandi hafa hjálpað til við að varpa nýju ljósi á seljabúskap Íslendinga. Oft er þó umfjöllun um seljabúskap byggð á takmörkuðum raungögnum og því munu nýjar rannsóknir vonandi bæta meiri þekkingu í sarpinn á komandi árum. Margt er enn órannsakað og þá ekki síst mannlegi þátturinn – staða og hlutverk selfólksins. Mín von er að umfjöllunin hér að framan um birtingarmyndir seljabúskaparins, mismun og fjölbreytni veki upp hugmyndir og kveikjur að nýjum rannsóknarverkefnum sem geta hjálpað til við að geta í eyðurnar varðandi þetta mikilvæga og margbreytilega búskaparform fortíðarinnar.

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Seljabúskapurinn kom að öllum líkindum með landnámsmönnunum og var hann ekki einungis stundaður fyrir efnahagslegan ávinning og betri landnýtingu heldur einnig sem hluti af hefð sem tekin var með heiman að. Selin verða að hefð í nýja landinu og tíðkast líklega um allt land. Sniðið á búskaparháttunum og seljunum sjálfum hefur þó verið misjafnt þótt kjarninn hafi alltaf verið búsmalinn og mjólkurvinnsla honum tengd. Ekki síst hefur landslag haft áhrif á staðsetningar og nýtingu seljanna og má ekki gera of lítið úr mögulegum þætti auðlinda í nágrenni þeirra í þessu samhengi. Venjan virðist hafa verið að fólk fór í selin með búsmalann og dvaldi þar yfir seltímann, eins og tíðkaðist í alseljum í Noregi. Einhver fór svo á milli með afurðir hvort sem sá var staðsettur heima á bænum eða í selinu.
Seljabúskapurinn var hluti af samfélags- og efnahagslegu kerfi bæjarins, sveitarinnar og landsins alls. Selin voru því ekki einungis efnahagsleg eining innan býlisins heldur líka samfélagsleg. Þau voru staðir þar sem gestir voru velkomnir og staðsett við alfaraleiðir hafa þau verið áfangastaðir fleira fólks en bara selfólksins. Ekki síst hafa selin haft pólitíska þýðingu og menn bæði helgað sér land með þeim, jafnvel langt frá bæ, og einnig sýnt vald sitt út á við með því að hafa selin á sjónrænt mikilvægum stöðum. Seljabúskapurinn hefur því margar hliðar sem vert er að skoða í samhengi við samfélag, efnahag og landslag hvers svæðis fyrir sig og þannig það kerfi sem hann var hluti af.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel (Bessastaðasel) í Lækjarbotnum.

Landslag og jarðnæði sveitanna eru að öllum líkindum helstu áhrifaþættir varðandi endalok seljabúskaparins eftir að forsendubrestur tengdur auknum fiskveiðum, minnkandi mikilvægi smjörs, manneklu og breyttum landgæðum kemur af stað því ferli sem endalokin voru. Þannig höfðu breytingar á því efnahags- og samfélagslega kerfi sem seljabúskapurinn var hluti af áhrif á seljabúskapinn og hrundu af stað endalokum hans. Munurinn á endalokum seljabúskapar í þessum tveimur samliggjandi sveitum sýnir að óvarlegt er að alhæfa um seljabúskap á landsvísu og gera ráð fyrir einsleitni í umræðum um hann. Ekki þarf að skoða stærra svæði en þetta til að rekast á greinilegan mun sem grundvallast á samhengi seljabúskaparins.
Umfjöllunin hér að framan sýnir að hægt er að nýta fornleifaskráningu sem rannsóknaraðferð í fornleifafræði og að fornleifaskráning getur gefið miklar og áhugaverðar upplýsingar sé hún vel unnin og hugað að atriðum eins og nákvæmum staðháttalýsingum og skráningu mikilvægra atriða fyrir hverja tegund minja, eins og vatnsuppsprettum og nálægum auðlindum í tilfelli selja. Fornleifarannsóknir þurfa ekki að grundvallast á uppgrefti til að geta skilað nýjum og áhugaverðum niðurstöðum: fornleifaskráning er fornleifarannsókn!“

Sjá má ritgerðina í heild HÉR.

Reykjavíkursel

Reykjavíkursel við Selvatn.

Kringlumýrarsel

Selsstöðunnar í Kringlumýri ofan Krýsuvíkur (Húshóma) í umdæmi Grindavíkru er hvergi getið í heimildum né í fornleifaskráningum af svæðinu. Hún var því vel frekari rannsóknarinnar virði, en FERLIRsfélagar fundu minjarnar fyrir u.þ.b. tveimur áratugum á ferð þeirra um svæðið.

Hettustígur

Hettustígur.

Hvort sem þarna hafi verið kúasel eða fjársel breytir í rauninni litlu um gildi fundarins því næsta öruggt má telja að selstaðan kunni verið mjög forn, mögulega frá hinum fornu bæjarleifum í Húshólma, hinni fornu Krýsuvík. Vegarlengdin þangað er um 6.5 km. Enn má rekja selstíginn frá hraunjarðri Ögmundarhrauns (rann 1151) ofan Krýsuvíkur-Mælifells í selstöðina. Þetta er sjöunda selstaðan, sem FERLIR hefur staðsett í landi Krýsuvíkur.

Genginn var stígur frá austanverðum Vigdísarvöllum upp í gegnum neðanverða Smérdali undir Hettu vestanverðri, svonefndur Hettustígur. Stígurinn liggur upp með læk uns hann greinist í tvennt, annars vegar í göngustíg og hins vegar í hestagötu skammt ofar. Göturnar sameinast í eina skammt ofar þar sem útsýni birtist yfir Innradal norðan Bleikingsdals austan Slögu. Bleikingsdalur er grösugur og skjólsæll dalur er lækur hríslast um hann miðjan.

Kringlumýri

Innridalur.

Hettustígurinn liggur áfram áleiðis upp með Hettu vestanverðri, en áður en hann liggur á brattann er slóði til suðurs, yfir lítinn læk Bleikingsdals ofanverðan. Slóðinn er kindargata. Hún liggur inn að Kringlumýri. Eftir að hafa klofað auðveldlega yfir lítinn læk og klöngrast léttilega upp á ofanverða mýrina var gangan auðveld inn að selstóftunum, sem hvíla ofan grafins lækjarfarvegs efst og austast á þurru grasigrónu svæði.

Kringlumýrarsel

Kringlumýrarsel.

Sestaðan er gróin sporöskulaga „bæjarhóll“. Í honum má greina óregluleg rými á a.m.k. þremur stöðum. Ekki er neinum vafa undirorpið að þarna eru mannvistarleifar, mjög fornar, mögulega þær elstu hér á landi. Greina má reglulegar grjóthleðslur í tóftunum. Miðað við umfang og hæð tóftasamstæðunnar virðist hún hafa verið notuð um allnokkrun tíma. Þegar staðið er við selið efst í Kringlumýrinni og horft til suðurs má sjá startjörn í fornum gíg fjærst, en allt svæðið neðanvert rís vel undir örnefninu því segja má að það sé nánast allt samfeld mýri. Af aðstæðum að dæma má telja líklegt að þarna hafi verið kúasel þar sem kýr og gjeldfé hafa verið haft í seli yfir sumartímann.

Kringlumýrarsel

Kringlumýrarsel.

Fyrir einhverja tilviljun hafði stunguskófla verið með í för. Hvernig er hægt að hemja áhugasamt fólk þegar „sérfræðingarnir“ hafa brugðist ítrekað? Á meðan þátttakendur snæddu nestið sitt undir grasi grónum bakkanum ofan við selið hafði einhverjum, öllum að óvörum, dottið í hug að grafa holu í tóftarhólinn. Í henni kom í ljós, að því er virtist, að landnámsöskulagið svonefnda liggur ofan á minjunum. Öðrum datt í hug að stinga niður þverskorinni mælistöng. Í ljós komu kolagnir. Það styrkir þá trú að þarna hafi fyrrum verið selstaða frá Húshólmabæjunum, enda liggur sama öskulagið þar yfir minjum, s.s. görðum, sem þar neðra er að finna. Ekki er ólíklegt að ætla að hér hafi verið um byggð kelta eða papa um nokkurra ára skeið, jafnvel áratuga, áður en norrænir menn festu ráð sitt hér á landi.
Þess var vel gætt að frágangur væri með þeim hætti að hvergi var ör að sjá á jörð.

Frábært veður. Gangan tók 2 kst og 2 mín.

Kringlumýrarsel

Kringlumýrarsel.

Garðahverfi

Í Archaeologia Islandica 1998 spyr Orri Vésteinsson m.a. um „Hvað er stekkjarvegur langur?„:

Arc 1998

Archaeologina Islandica 1998 – forsíða.

„Allt frá því fyrir 1980 hefur töluverð umræða verið um það meðal fornleifafræðinga og safnamanna að nauðsynlegt sé að gera gangskör að því að skrá fornleifar á Íslandi. Skráningin snýst fyrst og fremst um að þær upplýsingar sem safnað er hafi eitthvert áþreifanlegt gildi fyrir stærri hóp en þann sem hefur atvinnu af því að láta sér annt um menningarminjar. Í þessari grein verður fjallað um hvernig fornleifaskráning getur komið að gagni við rannsóknir á menningarsögu, en einnig verður gerð grein fyrir helstu markmiðum fornleifaskráningar og fjallað um hvernig skráningunni þarf að vera háttað til að þær upplýsingar sem safnað er nýtist til fulls.
Tryggja þarf að skráningargögnin komi að sem mestu gagni. Í því sambandi verður að hafa í huga hverjir munu nota gögnin og í hvaða tilgangi — en þar fyrir utan er fyrirsjáanlegt að stórt gagnasafn um minjastaði verður mjög fljótlega frábært rannsóknargagn fyrir byggða- og menningarsögu.

Orri Vésteinsson

Orri Vésteinsson, fornleifafræðingur.

Það eru ekki bara fornleifafræðingar sem geta þurft að kynna sér gögn um staðsetningu, gerð og ástand minjastaða. Skráningargögn þurfa að vera aðgengileg og skiljanleg öllum sem hafa áhuga á menningarsögu, bæði fræðimönnum úr öðrum vísindagreinum og fróðleiksfúsum almenningi.
Allir sem koma nálægt skipulagsgerð eða annarri áætlanagerð um framkvæmdir sem og þeir sem að framkvæmdum standa þurfa einnig að geta fengið nákvæmar upplýsingar um staðsetningu minjastaða. Þetta þýðir að skráningarmenn geta ekki látið eftir sér að skrá eingöngu eftir sínu eigin höfði og áhugamálum ef þeir vilja að upplýsingarnar sem þeir safna komi að fullum notum fyrir verndun minjastaða.

Gamlasel

Gamlasel frá Villingavatni efst í Gamlaselsgili – stekkurinn t.h. Við sérhverja fjarlæga selstöðu bæja var óhjákvæmilega stekkur. Auk hans má í sérhverju seli á Reykjanesskaganum (þrjú rými; baðstofu, búr og eldhús) finna vatnsstæði (á eða læk), selsvörðu og/eða kví, auk nátthaga og oftlega smalaskjóls.

Það er list að lýsa landslagi og leiðum á svo skýran hátt að ókunnugir sjái fyrir sér staðhætti og geti ratað á þá staði sem verið er að fjalla um. Slíku listfengi er hins vegar sóað á hinn ört vaxandi hóp hönnuða og annars tæknimenntaðs fólks sem mestu ræður núorðið um mannvirkjagerð og jarðrask í landinu. Slíkt fólk kýs yfirleitt frekar að nálgast upplýsingar af þessu tagi á stafrænu eða myndrænu formi og það er því mikilvægt að gögnum um staðsetningu minjastaða sé einnig safnað á þann hátt. Þar á ég bæði við kort með nákvæmum tilvísunum og eins hnit sem auðvelt er að varpa yfir í staðbundin hnitakerfi.
Samkvæmt 18. gr. þjóðminjalaga er skylt að fornleifaskráning fari fram á skipulagsskyldum svæðum áður en gengið er frá skipulagi eða endurskoðun þess. Skráning fornleifa er því liður í að framfylgja þjóðminjalögum. Það er ekki skýrt í lögunum hversvegna löggjafinn vill að til sé skrá um fornleifar, en það er hins vegar augljóst að þekking á staðsetningu, gerð og ástandi minjastaða er forsenda þess að hægt sé að vernda fornleifar í landinu.

Selsvellir

Selsstígurinn að Selsvöllum.

Skilvirk minjavarsla hlýtur að vera meginmarkmið fornleifaskráningar. Það er ekki hægt að vernda minjastaði nema við vitum að þeir séu til og hvar þeir eru. Það er heldur ekki hægt að gera áætlanir um minjavörslu nema fyrir liggi þekking á fjölda, ástandi og gerð minjastaða. Þegar þekkingin liggur ekki fyrir eru slíkar ákvarðanir skot út í loftið og ávallt tekin sú áhætta að verið sé að eyðileggja minjastaði sem hafa varðveislugildi. Taka má sem dæmi að standi til að leggja veg yfir stekkjartóft þá væri auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að ekki væri stór skaði skeður þó hún viki. Nóg sé af stekkjunum um land allt og langt þangað til þeir verði allir upp urnir.
Það er alveg rétt og við mætti bæta að stekkir hafi tæplega mikið rannsóknargildi – við vitum vel til hvers þeir voru notaðir og erfitt að sjá hvernig hægt er að flækja það mál að ráði. Það hefur hins vegar komið í ljós við fornleifaskráningar að þar sem stekkir eru mjög fjölbreytilegir að gerð, bæði er lögun þeirra með ýmsu móti og stærðin mismunandi. Það er ekki skýrt af hverju þessi munur stafar og bændur þeir sem rætt hefur verið við hafa yfirleitt lýst yfir undrun sinni á að stekkir skuli ekki allir vera eins og stekkurinn þeirra.

Hvassahraun

Hvassahraunsstekkur II – uppdráttur ÓSÁ.

Þangað til við komumst að því af hverju hin fjölbreytilega gerðfræði stekkja stafar og þangað til við vitum hversu margir fulltrúar eru til fyrir hverja gerð tökum við þá áhættu að mikilsverðar heimildir um menningarsögu okkar glatist í hvert skipti sem við leyfum stekkjartóft að hverfa undir veg eða sumarbústað.
Það kann einhverjum að finnast hálfhlægilegt að hafa áhyggjur af málum sem þessu þar sem minjavarsla á Íslandi er langt frá því að vera í stakk búin til að vernda einstaka stekki hvað þá meira. Kerfið er svo ófullkomið að það kemur einfaldlega ekki til þess að taka þurfi illa ígrundaðar ákvarðanir — eftirlitið er ekkert og eyðilegging fornleifa heldur áfram eftir sem áður. Ef
eitthvað hefur dregið úr eyðileggingu minjastaða síðustu árin er það vegna samdráttar í landbúnaði en ekki efldrar minjavörslu.

Heimristekkur

Heimristekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Við hljótum hins vegar að stefna að markvissari verndun fornleifa á Íslandi og við skráningu fornleifa er því nauðsynlegt að taka mið af hugsanlegum þörfum skilvirkari minjavörslu jafnvel þó að langt sé í að hún verði að veruleika. Það má einnig færa rök fyrir því að fornleifaskráning sé ekki einungis forsenda minjavörslu, með því að safna upplýsingum um fornleifar og vera þannig tæki í höndum þeirra sem vernda vilja minjastaði, heldur sé hún bein minjavernd.
Bændur eru auðvitað sú þjóðfélagsstétt sem stendur fyrir hvað stórfelldastri eyðileggingu menningarminja, en það er yfirleitt ekki af illgirni eða fautaskap, heldur einfaldlega af því að þeim hefur ekki verið leitt fyrir sjónir að öðru fólki finnist tóftabrot og rústabungur í landi þeirra merkilegar. Þegar það hefur einu sinni verið gert eru þeir langoftast reiðubúnir til að taka tillit til minjanna og verða oft á tíðum mjög áhugasamir um varðveislu þeirra.

Borgarkotsstekkur

Borgarkotsstekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Á þennan hátt eflir fornleifaskráning meðvitund um fornleifar en það er auðvitað langódýrast og einfaldast ef hægt er að byggja minjavörslu á áhuga heimamanna. Það er jafnframt eðlilegast því minjarnar hafa eða ættu að hafa mest gildi fyrir þá sem næst þeim búa.
Við höfum ekki hugmynd um hversu mikið af fornleifum verður uppblæstri að bráð á ári hverju, né höfum við forsendur til að meta hversu skaðvænleg áhrif stóraukin skógrækt í landinu hefur á fornleifar. Ef við ætlum einhvern tíma að geta spornað gegn eyðileggingu fornleifa hvort heldur sem er af völdum náttúruafla eða af mannavöldum verðum við að hafa aðgang að upplýsingum um umfang eyðileggingarinnar.

Fossárrétt

Fossárrétt 2011 (friðuð). Fornleifarnar hafa hins vegar verið klæddar skógi.

Það er hæpinn málstaður á Íslandi í dag að berjast gegn skógrækt en ef við hefðum í höndum tölulegar upplýsingar um hversu margir minjastaðir væru í hættu vegna trjáræktar þá ættum við mun auðveldara með að fá skógræktarfólk til taka mark á sjónarmiðum minjavörslu.
Ekki er hægt að rannsaka minjastað eða kynna hann fyrir ferðamönnum eftir að búið er að setja jarðýtur á hann. Það hjálpast hins vegar allt að í þessu máli, því að efld meðvitund um fornleifar, hvort heldur sem er með heimsóknum fornleifaskrásetjara, markvissri kynningu eða rannsóknum, mun skila sér í bættri varðveislu minjastaða.

Baðsvellir

Baðsvallasel í miðjum Selskógi.

Kynning á fornleifum er siðferðileg skylda okkar sem erum svo lánsöm að mega hlaupa um holt og móa í leit að minjastöðum; okkur ber að gera þau gögn sem við söfnum aðgengileg fyrir almenning og það stendur einnig upp á okkur að setja skráningarupplýsingarnar í menningarsögulegt samhengi svo að þær komi að sem mestum notum fyrir sem flesta. Sem mögulegir áningarstaðir ferðamanna hafa minja staðir einnig efnahagslegt gildi en skipuleg og yfirgripsmikil skráningarvinna er forsenda þess að hægt sé að velja úr heppilega minjastaði sem eru bæði áhugaverðir og þola ágang.

Húshólmi

Húshólmi – forn skáli.

Saga landsins og menningararfur er í síauknum mæli notuð sem söluvara fyrir erlenda ferðamenn og oft á tíðum er sú markaðssetning meira af vilja en mætti og stundum afar óvönduð. Ferðamálafrömuðum er tæplega neinn akkur í að kynna fortíð landsins eða ákveðinna staða á þann ófullkomna hátt sem oft er raunin, en þeir munu halda áfram á þeirri braut uns vandaðri upplýsingar eru gerðar aðgengilegar. Léleg og óvönduð landkynning er á góðri leið með að verða vandamál sem dregið gæti úr tekjum Íslendinga af erlendum ferðamönnum, en ein af leiðunum til að hamla gegn slíkri þróun er að auka upplýsingasöfnun og þar með talið fornleifaskráningu.

Krýsuvíkursel

Tóftir Krýsuvíkursels austan Selöldu.

Skipuleg gagnasöfnun eins og fornleifaskráning er auðvitað forsenda þess að hægt verði að stunda ýmiskonar rannsóknir. Heildstætt gagnasafn um minjastaði auðveldar mjög starf fornleifafræðinga þegar kemur að því að finna staði sem áhugaverðir væru til að rannsaka nánar. t.d. með uppgrefti.
Mikilvægt er að skipuleggja fornleifaskráningu þannig að gögnin nýtist öllum sem best og komi að fullum notum hvort sem er við verndun, kynningu eða rannsóknir. Engin fornleifaskráning er fullkomin en ef stefnumörkun er skýr og aðferðafræðin liggur ljós fyrir á skráningarvinnan að verða markvissari og leiðréttingar auðveldari.

Bleiksteinsháls

Landamerkjavarða á Bleiksteinshálsi. Hefur nú (2024) verið eyðilögð.

Hefðbundin fornleifaskráning hefur fyrst og fremst miðað að því að skrá minjastaði sem sýnilegir eru á yfirborði. Þar hefur líklega ráðið mestu um að það er auðvitað nærtækast og jafnframt að sýnilegir minjastaðir eru augljóslega meira spennandi við fyrstu sýn en minjastaðir sem búið er að slétta yfir eða byggja á.

Það er hins vegar ljóst að mannvirkjaleifar sem sýnilegar eru á yfirborði eru aðeins brot af öllum þeim fornleifum sem til eru í landinu og jafnframt að slíkir staðir eru næsta tilviljanakennt úrtak af öllum minjastöðum. Á þessari öld hafa átt sér stað gríðarlegar framkvæmdir í landbúnaði og stór hluti láglendis hefur verið ræstur fram og sléttaður undir tún.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum – nú horfið vegna framkvæmda.

Á milli 1940 og 1980 voru svo til öll tún á Íslandi gerð véltæk og stór landflæmi sem áður höfðu verið móar og mýrar brotin undir tún, en á milli 1917 og 1990 hafa tún að jafnaði meira en tífaldast að stærð. Þessar miklu framkvæmdir og breytingar á landslagi hafa haft í för með sér að stór hluti fornra mannvirkja hefur annað hvort farið forgörðum eða spillst. Þær fornleifar sem verst hafa orðið úti eru einmitt þær sem mest var til af áður — það er bæjarhólar og útihús innantúns. Það leiðir af þessu að flestar þær fornleifar, sem enn eru sýnilegar, eru leifar mannvirkja sem voru í jaðri atvinnu- og efnahagslífs í gamla landbúnaðarsamfélaginu.

Leynir

Byrgi í Leyni. Nú horfið undir framkvæmdir.

Allar mannvistarleifar njóta lagaverndar og gildir þar einu hvort þær eru sýnilegar á yfirborði eða ekki og því er jafnmikilvægt að skrá þær sem ósýnilegar eru og hinar sem enn sjást á yfirborði. Á það má einnig benda að minjar sem huldar eru sjónum eru jafnvel í meiri hættu en þær sem sýnilegar eru því að líklegra er að þær verði fyrir raski af ógáti eða vanþekkingu. Frá sjónarmiði framkvæmdaaðila sem komast vilja hjá því að rekast á fornminjar við jarðrask er því brýnt að til séu upplýsingar um staðsetningu minja sem ekki eru sýnilegar á yfirborði.

Það eru auðvitað ýmis vandkvæði á því að skrá minjar sem ekki eru sýnilegar og vonlítið að hægt verði að komast að staðsetningu allra slíkra staða.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes/Hópsnes – uppdráttur ÓSÁ.

Með skipulegri heimildaöflun er hins vegar hægt að komast nærri um staðsetningu allmargra slíkra staða og einnig má styðjast við óbeinar vísbendingar eins og landslag og gróðurfar til að meta almennar líkur á að mannvistarleifar finnist á tilteknum landsvæðum. Við getum aðeins fengið heildarmynd af mannvirkjagerð og efnahagslífi á hverri jörð ef við reynum að skrá allar mannvistarleifar sem þar eru, hvort sem þær eru sýnilegar eða ekki.
Langflestar fornminjar á Íslandi tengjast búsetu og hefðbundnum búskaparháttum og bendir flest til að mannvirkjagerð því tengd hafi verið í nokkuð föstum skorðum lengst af þeim tíma sem landið hefur verið byggt. Búseta hefur – eftir því sem við best vitum — verið stöðug og ekki er sýnilegt að stórfelldar breytingar hafi orðið í skiptingu landsins í jarðir a.m.k. frá því á hámiðöldum þegar ritheimildir koma til sögunnar. Flestar fornleifar hafa því orðið til í mjög fastmótuðu samhengi og það er nauðsynlegt að skrá upplýsingar um þetta samhengi jafnhliða hinni eiginlegu fornleifaskráningu.

Hvalsnes

Hvalsnes – uppdráttur ÓSÁ.

Með samhengi fornleifanna er átt við byggðamynstur, skiptingu byggðarlaga í jarðir og skiptingu jarða í býli; einnig hagræn og náttúrufarsleg atriði eins og staðsetningu og gæði bithaga eða engja. Aðeins með því að gera okkur grein fyrir eignarhaldi og landnotkun höfum við forsendur til að skilja af hverju hús stóðu þar sem þau stóðu, af hverju byggð hélst á sumum stöðum en öðrum ekki og af hverju byggð var reynd á sumum stöðum en öðrum ekki — en slíkar spurningar eru liður í að skilja hvernig Íslendingar lifðu af þessu landi allar þessar aldir. Sjálfsævisögur hafa reynst mikilsverðar heimildir í þessu samhengi — það er nánast regla að á þriðju eða fjórðu síðu í sjálfsævisögum fólks sem fætt er um eða fyrir síðustu aldamót er sagt frá hvar höfundur sat yfir ám, hvernig háttað var fráfærum og upplýsingar um kúahaga og grasatekju fljóta einnig oft með. Þegar slíkar upplýsingar hafa verið færðar inn á kort fara strax að skýrast staðsetningar mannvirkja sem áður virtist óskiljanlega dritað niður um holt og móa. Á grunni slíkra upplýsinga má jafnvel gera ýmsar áhugaverðar athuganir og verður hér í lokin gerð grein fyrir lítilli tölfræðilegri úttekt sem gerð var á lengd stekkjarvegar.

Smali

Smali og mjaltarstúlka við færikvíar.

Ég er fæddur svo seint á 20. öld að hið litla sem ég veit um sveitalíf og gamla búskaparhætti hef ég þurft að læra af öðrum, og mest af bókum, eftir að ég komst á fullorðinsár. Það er ekki óskaplega langt síðan ég gerði mér grein fyrir til hvers stekkir voru hafðir eða hver væri munurinn á þeim og kvíum. Þó mér hafi nú loksins skilist hlutverk þessara mannvirkja hefur lengdareiningin stekkjarvegur valdið mér heilabrotum. Ég velti því til að mynda fyrir mér hvort tilvist þessa hugtaks væri vísbending um eitthvert aðdáunarvert samræmi í mannvirkjagerð eða hvort það væri einhver einföld og augljós ástæða fyrir því að vegalengdin milli bæjar og stekkjar væri yfirleitt svipuð.

Förnugötur

Straumsselsstígur/Fornugötur.

Af fjölda þekktra stekkja í tiltekinni sveit er u.þ.b. þriðjungur þeirra enn sýnilegir. Auðvelt er að reikna út vegalengdina á milli þessara staða. Yfirleitt er augljóst hvaða bæ stekkur tilheyrði eða til eru góðar heimildir um það. Stekkjarvegir eru mjög mislangir, stystur var hann 213 metrar en lengstur 1276 metrar. Meðaltalið var 575 metrar en tíðustu gildin voru í kringum 400 metrana og virðist það sennilegasta nálgunin á þeirri vegalengd sem hugtakið stekkjarvegur felur í sér. Líklegast er auðvitað að hugtakið hafi verið eins og mörg önnur vegalengdarhugtök í gamla landbúnaðarsamfélaginu verulega teygjanlegt og ekki átt að vera mikið nákvæmara en að vera lengra en fjósvegur en styttra en bæjarleið.
Þetta teljast varla menningarsöguleg stórtíðindi en þetta minnir okkur á að fornleifaskráning getur hjálpað okkur til að skilja betur ýmsa ólíka þætti í menningu Íslendinga.

Stakkavíkursel

Selstígurinn í Stakkavíkursel – Hlíðarvatn fjær.

Þó að gaman sé að hafa hugmynd um lengd stekkjarvegar þá má hugsa sér fleiri samhengi þar sem sú vegalengd getur verið nytsamleg. Það er t.d. áberandi að lengstu stekkjarvegirnir voru á þeim jörðum sem dýrast voru metnar og er þar um allgóða fylgni að ræða. Ef þessi athugun prófast á stærri gagnasöfnum þá er hér komin sjálfstæð vísbending um gæði jarða. Samhengið er líklega það að jarðir sem dýrar voru metnar gátu fóðrað fleira sauðfé, og fleira sauðfé hefur þurft stærri bithaga sem hafa þar með teygt sig lengra frá bæ en á jörðum með færra sauðfé og minni dýrleika. Næsta skrefið í þessum rannsóknum verður að mæla stærð stekkjanna og bera saman við tölur um fjölda sauðfjár á jörðum á 18. og 19. öld. Ef fylgni er milli allra þessara talna þá verður hægt að nota þau hlutföll sem líkön á aðrar jarðir þar sem sambærilegar upplýsingar eru ekki þekktar og líka á eldri tímaskeið, og með því reynt að endurgera búfjárfjölda og stærð bithaga á fornbýlum.

Eldvörp

Eldvörp – minjar (geymslubyrgi) sem ekkert hafa verið sannsakaðar.

Rannsóknir í menningarsögu eru ekki langt á veg komnar á Íslandi og hafa til skamms tíma einskorðast við ritheimildir og munnlegar heimildir og hafa rannsóknarspurningarnar verið mótaðar af fólki sem sjálft stóð með annan fótinn í gamla landbúnaðarsamfélaginu og hafði þar með ekki forsendur til að skilja hvað við sem yngri erum skiljum ótrúlega lítið. Markviss og kerfisbundin fornleifaskráning er augljós leið til draga fram nýjar heimildir og þróa nýjar rannsóknarspurningar sem eru skiljanlegar og áhugaverðar fyrir hinn sístækkandi hóp malbiksbúa. Þær kynslóðir sem höfðu persónulega reynslu af hefðbundnum búskaparháttum eru óðum að hverfa og að þeim gengnum höfum við ekki aðrar heimildir en það sem tókst að skrifa niður eftir þeim og þær leifar sem þær skildu eftir í jörðinni.

Kaldársel

Kaldársel (nú horfið síðan 1925) – tilgáta ÓSÁ.

Fornleifarnar eru að hverfa næstum því jafn hratt og örugglega og fólkið og því er brýnt að sporna gegn eyðileggingunni með fornleifaskráningu sem bæði forðar upplýsingum frá glötun og er forsenda skilvirkrar minjaverndar.“

Frá því að hin framangreindu ágætis áhríningarskrif voru sett á prent árið 1998 hefur a.m.k. tvennt gerts; annars vegar hefur fornleifaskráningum fjölgað til muna og þær gerðar aðgengilegri, settar fram t.d. í þeim tilgangi að minnka líkur á eyðileggingu þekktra fornleifa, og hins vegar hefur þeim embættismönnum og verkfæðingum fjölgað, sem ekkert mark taka á slíkum fyrirliggjandi gögnum.

Flekkuvíkurstekkur

Flekkuvíkurstekkur/rétt – uppdráttur ÓSÁ.

Þá ber einnig þess að geta, í ljósi af framangreindum skrifum, að stekkir voru ekki bara stekkir, þ.e. óumbreytanlegir, frá einum tíma til annars, s.s. frá upphafi landnáms til byrjun 20. aldar er þeir að lokum lögðust af – sjá HÉR. Máli skiptir um hvaða einstaka tímatal er um að ræða. Þegar seljabúskapurinn stóð sem hæst voru stekkirnir jafnan í selstæðum fjarri bæjum, en þegar fjaraði undan selsbúskapnum færðust stekkirnir nær bæjunum og jafnvel heim að túnmörkum undir hið síðasta. Þar með styttist stekkjarvegurinn úr nokkrum kílómetrum í nokkuð hundruð eða jafnvel tugi metra. Máli skiptir því við hvaða tímabil er miðað þegar fjallað er um mælingar á „stekkjarveginum“…
Annars skiptir lengd „stekkjarvegarins“ minnsta máli í framangreindri umfjöllun.  Hins vegar ánægjulegt til þess að vita selsstígunum sé gefinn séstakur gaumur því lengst af í fyrrum fornleifaskráningu var þeirra jafnan hvergi getið. Þá ber að taka skrifin um gildi fornleifanna, skráningu og varðveislu þeirra þess alvarlegar!

Heimild:
-Archaeologia Islandica, 1. tbl. 01.01.1998, Hvað er stekkjarvegur langur? – Orri Vésteinsson, bls. 47-57.

Garðastekkur

Garðastekkur, heimasel sem varð að rétt. Stekkurinn (gróinn) er neðst t.v. á myndinni.

Merkinessel

Í ritgerð um „Sel og selstöður í Dýrafirði„, skrifuð af Bjarna Guðmundssyni 2020 er fjallað um sel og selsbúskap í þeim landsfjórðungi. Auðveldlega má hins vegar heimfæra þau skrif, einkum hvað varðar upphaf búskaparins upp á selsbúskap annars staðar á landinu á þeim tíma – þótt ekki væri til annars en til uppfræðarfærslu hins almenna um selsbúskap þess tíma:

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – meint seltóft Víkursels, þess fyrsta frá Reykjavíkurbæ Ingólfs.

„Dalirnir voru alsettir seljum“, fyrirlas Páll Zóphóníasson nemendum sínum á Hvanneyri veturinn 1919-1920, „og enn má sjá þess ljós merki af tóftunum sem nú standa sem menjar um horfna frægð, því frægð var það að hafa manndóm í sjer til að hafa fjenað í seljum.“

Seljahugtakið hefur með árunum fengið á sig eilítið rómantískan blæ, ef til vill vegna ýmissa þjóðsagna sem seljum eru tengdar, legu þeirra í víðernum og frjálsræði fjarri byggð en sjálfsagt einnig vegna erlendra áhrifa, einkum frá Noregi, þar sem þessi búskaparháttur tengist í hugum margra fögru landslagi og sællegum selstúlkum.

Selin í sögu og lögum

Reykjavíkursel

Reykjavíkursel við Selvatn.

Seljabúskapur er eitt af einkennum fornrar norrænnar kvikfjárræktar. Sel og selför voru hluti hins dreifbæra (extensive) búskapar sem einkenndi hana. Hann var og er einnig þekktur í Alpahéruðum Evrópu, í Skotlandi, Írlandi og raunar í fleiri hornum heimsins (summer farming). Seljabúskapur var leið til þess að nýta fjarlæg en oft kostamikil beitilönd, gjarnan ofan skógarmarka, til framleiðslu mjólkur á hásumri með sauðfé, kúm og geitum. Mjólkin var unnin í ýmsar afurðir til heimaneyslu um ársins hring en gat einnig verið liður í öflun nauðsynlegs gjaldmiðils t. d. smjörs upp í land- og gripaleigu. Seljabúskapur á einu eða öðru formi á sér fornar rætur er rekja má langt aftur til járnaldar Þrennt mótaði seljabúskapinn: búfé, fólk og landkostir, einkum beitarkjörin.

Fornasel

Fornasel.

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á seljum og seljabúskap. Það eru ekki síst Norðmenn sem þar hafa verið afkastamiklir enda búhátturinn mjög algengur þar í landi.
Lars Reinton skilgreindi hinn norræna seljabúskap (sæterbruk) þannig: „Sæterbruk er det når ein gard (ein fast vinterbustad) har krøtera sine i sumarbeite på ein stad eit stykke frå garden der det er husvære og fast personale, så ein kan nytta ut større vidder til beite, som regel òg til slått og onnor fórsanking, og så ein kan spara på heimemarkene og nå i betre beite, føde fleire krøter over vinteren og skaffe forråd til levemåten på den faste bustaden (garden).

Fornasel

Fornasel – vatnsból.

Með nokkurri einföldun má segja að tvær kenningar hafi einkum staðið um upphaf og þróun hins norræna seljabúskapar: Fyrst sú að seljabúskapurinn hafi þróast úr hjarðmennsku (nomadism) og eigi sér rætur í hinum indóevrópska frumbúskap og fyrstu búsetu jarðyrkjufólks. Reinton var einkum talsmaður þeirrar kenningar en verk hans var lengi vel miðlægt í norrænni seljaumræðu. Hin kenningin er sú að seljabúskapur hafi á löngum tíma einkum þróast sem svæðabundið svar við breytilegri þörf fyrir beitilönd og fóður. Svo virðist sem síðari kenningin njóti nú meira fylgis þótt í raun séu þær sprottnar af sömu rót – þörfinni fyrir hagkvæma nýtingu takmarkaðra beitilanda til öflunar lífsnauðsynlegs matarforða.

Straumsel

Straumssel – efri Straumselshellar.

Þótt álitið sé að vestur-norskir landnámsmenn hafi fært seljabúháttinn með sér til Íslands og mótað hann í fyrstu með hliðsjón af eigin reynsluheimi og áþekkum umhverfisaðstæðum virðist hátturinn hafa þróast með ólíkum hætti í löndunum tveimur. Cabouret segir Frostaþingslög geyma orðið sel í sömu merkingu og hin 200 árum yngri lög nota orðið setur/sætr. Upphaflega merkti sel aðeins lítið einsrýmis hús en setur dvalarstað. Það síðara taldi hann fela í sér hlutverkaskiptara mannvirki fyrir fólk og fé og til framleiðslu mjólkurafurða. Ennfremur að það benti til þess að það hafi fyrst verið á hámiðöldum sem norski seljabúskapurinn var fullþróaður.

Njarðvíkursel

Stekkur norðan Njarðvíkursels sunnan Seljavatns (Seltjarnar).

Að baki því áleit Cabouret liggja byggðaþróun sem ýtti búfjárhaldi að sumarlagi það langt frá býlinu að hverfa varð frá mjaltastað svo nærri býli að í mesta lagi þurfti dálítið sel til næturhvíldar, ef fjarlægðin heim var þá ekki orðin það mikil að frágangssök var að fara heim á milli morgun- og kvöldmjalta. Cabouret benti á að það var aðeins heitið sel sem fluttist til Íslands, og að þess vegna megi reikna með því að þetta form seljabúskapar hafi verið hið algenga í Vestur Noregi við landnám Íslands. Þegar støl/stöðull varð algengt heiti selja í Vestur Noregi bendir það til hins sama. Orðið táknar mjaltastað, upphaflega án búsetu. Á Íslandi er orðið aðeins þekkt í hinni upphaflegu merkingu, sem mjaltastaður. Það taldi Cabouret benda til þess að merkingar-breytingin hafi fyrst orðið í Noregi eftir fólksflutningana til Íslands.

Selsvellir

Selsvellir – Uppdráttur ÓSÁ.

„Hve afarmikla þýðingu selin hafa haft á fyrri öldum, sést af hinum óteljandi seljarústum, sem eru dreifðar um afdali og heiðar um alt Ísland“, skrifaði Þorvaldur Thoroddsen árið 191912 en hann er líklega sá, ásamt þjóðverjanum Hitzler, sem lengi vel átti rækilegasta yfirlitið um sel og selstöður á Íslandi.

Annars eru innlendar heimildir býsna ríkulegar. Þær byggjast bæði á sérstökum sagnfræði- og fornleifarannsóknum, sem gerðar hafa verið, sem og almennum frásögnum af seljum og seljabúskap í einstökum sveitum. Til viðbótar þeim heimildum, sem þegar hafa verið nefndar, má úr fyrri hópnum sérstaklega nefna rannsóknir þeirra Guðrúnar Ólafsdóttur og Guðrúnar Sveinbjarnardóttur en úr þeim síðari til dæmis verk Eyfirðingsins Hólmgeirs Þorsteinssonar og Skaftfellingsins Einars H. Einarssonar. Þá ber úr þeim flokki að nefna afar athyglisverða heimasíðu www.ferlir.is með fróðleik um sel, selstöður og seljabúskap á Reykjanesskaganum.

Selsvellir

Gömlu selin á Selsvöllum.

Í lögbókunum fornu, Grágás, lagasafni íslenska þjóðveldisins, og Jónsbók, sem samþykkt var á Alþingi árið 1281, er allvíða vikið að seljum og selförum. Er það mjög til marks um mikilvægi seljanna á gildistíma lögbókanna. Lögin geyma ýmis atriði varðandi umgengni um sel og selstöður svo og selfarir, atriði sem varpa gagnlegu ljósi á forsendur og framkvæmd þessa búháttar. Hér verður því nokkurra ákvæða lögbókanna getið með beinum tilvitnunum í texta þeirra: Úr Grágás (tölur vísa til blaðsíðu).

20: Manni er rétt að fara, þótt drottinsdagur sé, til sels með byttur…

Straumssel

Straumssel.

146:… þá skal það boð hver bera en engi fella, og á það að fara með veturhúsum eftir boðburð réttum en eigi með sætrum…

147: Sá skal boð bera bæja í milli… En ef hjú eru öll af bæ gengin, þá skal ganga í seturhús bónda ef það er opið og setja niður í öndugi svo að eigi falli.

177: Engi maður skal fyrir öðrum brenna með heiftugri hendi hús né heyhlaða, sætur, búð né skip. En ef hann brennir og verður að því kunnur og sannur, þá er hann útlægur og óheilagur og heitir brennuvargur, og hefir fyrirgert hverjum peningi fjár síns í landi og lausum eyri . . .

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

186: [Hvervetna þar sem sætur eru til bæja manna, þá skulu menn fara með búfé sitt yfir annars land til sætra, fornar götur ef til eru, og hafa í togi laus hross ef yfir eng er að fara. En ef keldur eru á leið hans, þá má hann gjöra þar brú yfir og vinna þann áverka á jörðu hins]. Menn skulu fara úr húshaga með fé sitt þá er tveir mánaðir eru af sumri, utan þeim þikki öllum annað hentara er brottfærslu eigu.

En ef einhver situr lengur niðri, þá skal sá er að telur fyrirbjóða honum þarsetu. Nú situr hann heima eigi að síður, þá skal hann stefna honum héraðsþing fyrir rán og þarsetu. Þá eiga þingmenn að dæma konungi hálfa mörk fyrir grasrán en grönnum hans hálfa mörk fyrir grasverð þeim er gras missa.

Brynjudalur

Brynjudalur – í Þórunnarseli.

Nú skal hann æsta svo marga bændur liðs sem hann þarf að færa fé hins úr haga sínum. Sekur er sá hver tveimur aurum við konung er eigi fer, ef hann er til krafður. Slíkt hið sama liggur við ef maður fer heim í húshaga fyrir tvímánuð.

186: [Nú skal til sætra á fjöll upp vera merki sem að fornu fari hefir verið og færa sætur eigi úr stað utan hann færi öngum manni til skaða, og svo skulu þeir hið sama sætrum halda. Engi maður skal setja sætur sitt við annars land eður haga, þar sem eigi hefir að fornu verið. Þar skal mæta horn horni og hófur hófi.]

Stakkavíkursel

Selstígurinn í Stakkavíkursel – Hlíðarvatn fjær.

186: Þjóðgata og sæturgata og allir rekstrar skulu vera sem að fornu fari hafa legið … Ef maður rænir annan mann sæturgötu eður rekstri þeim sem að fornu fari hefir verið, bæti konungi hálfri mörk fyrir vegarán og hafi hinn þó götu sem áður.

Það var vinnan sem á hverjum tíma var sá þátturinn er helst takmarkaði rekstur seljanna: Hún var mikil og ekki eftirsóknarverð, sennilega sakir aðstöðu, aðbúnaðar og fásinnis.

319: Of selför: Ef maður hefir lönd fleiri undir bú sitt en eitt, og vill hann fara þar í sel yfir annars manns land, og á hann þar að fara með fé sitt tysvar á sumri til sels, en því aðeins oftar ef þar verða misgöngur fjár, þá á hann að reka heim smala sinn. Hann á fornar götur að fara, ef þær eru til.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel.

Ef hann fer of engi manns, þá skal hann í togi hafa hið lausa hross. Ef þar eru keldur á götu hans, og á hann að gera brúar þar yfir og vinna þau áverk á annars manns landi. Ef maður fer yfir engi annars, og hlýtur hinn af því skaða, þá varðar honum það útlegð, enda skal hann bæta honum skaða, svo sem búar fimm virða við bók.
320: Enn of selför: Ef maður fer annan veg til sels of annars manns land með smala sinn eða klyfjahross en áðan var tínt, og verður hann útlagur of það þrem mörkum, og bæta auvisla sem búar virða við bók. Ef fimm aura skaði verður að eða meiri, þá varðar fjörbaugsgarð. . .
330:… Eigi skal sel gera í afrétt. Ef gert er, þá er sel óheilagt, og eigu þeir að brjóta sel er afrétt eigu, enda verður sá útlagur er sel gerði eða gera lét við þá alla er afrétt eigu, og sinni útlegð við hvern þeirra.

Sel og verstöðvar

Selatangar

Selatngar – verkhús.

Á sama grunni og selstöðurnar voru handan mæra menningar (kultur) og náttúru (natur) má segja að verstöðvarnar hafi verið það hvað snerti sókn til sjávarins. Með verstöðvunum tóku menn sér tímabundna búðsetu til þess að auðvelda nýtingu auðlindar hafsins, rétt eins og menn gerðu með selstöðunum hvað gróðurlendið snerti. Á vertíðum annarra tíma ársins, einkum vor og haust, fóru menn með hliðstæðum hætti til fiskivera sinna. Markmið beggja ferðanna voru hin sömu: Að afla próteins og feitmetis til eigin viðurværis en einnig sem gjaldmiðla til leigugreiðslna og þeirra takmörkuðu viðskipta er stunduð voru.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Í seljunum stóð ríki kvenna. Í verstöðvunum ríktu karlar. Var það ef til vill eitt form þeirrar tíðar er markaði (annabundið) frelsi og jafnrétti kynjanna? Og þá má líka spyrja hvort aflögn seljabúskaparins hafi haft sambærileg áhrif á afkomugrundvöll heimilanna og hvarf þeirra frá notkun verstöðva til einhliða heimræðis hefði haft? Að þeirri spurningu kom þó ekki því þörfin fyrir selför og sauðamjaltir þvarr með gerbreyttum þjóðfélagsháttum – og nútíma.

Enginn veit lengur með fullri vissu hvernig hús og önnur mannvirki á selstöðunum litu út á meðan þau stóðu heil og voru í fullri notkun. Það má hins vegar giska á það, m.a. á grundvelli mælinga á tóftum og öðrum minjum sem enn sjást.

Fráfærur lagðar af og búháttum breytt

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Rétt undir lok nítjándu aldar skrifaði Pétur Jónsson á Gautlöndum rækilega grein þar sem hann færði rök fyrir og hvatti til stofnunar samlagsselja, til dæmis 6-8 bæja með þá 6-800 ám. Kvað hann mikla umræðu hafa farið fram í Þingeyjarsýslu um málið þótt ekki hafi þá enn orðið af framkvæmdum. Torfi Bjarnason í Ólafsdal skrifaði rækilega grein um fráfærur og samlagssel árið 1908, studdi hana glöggum hagreikningum og hvatti til stofnunar samlagsselja: „Það væri vert að athuga, hvort vér höfum haft gilda ástæðu til að leggja selin niður, eða þau hafa verið lögð niður í hugsunarleysi og af óframmsýni, eins og sumt annað gamalt og gott, sem týnst hefur.“
Fleiri ræddu málið en ástæðan fyrir endurreistum áhuga á selförum hefur líklega verið sú að nokkru fyrr hafði tekið fyrir sauðasöluna til Bretlands sem gefið hafði ýmsum bændum í stöku héruðum vel þegnar tekjur. Ein leið til þess að mæta tekjubrestinum var talin vera framleiðsla smjörs fyrir erlendan markað, leið sem reynd var og gaf góðan en skammæan ábata.

Mosfellsbær

Í stekknum.

Menn gerði bæði sárt og að klæja eins og haft var eftir Sigríði Jónsdóttur húsfreyju í Alviðru í Dýrafirði, f. 1896, um fráfærsluna: „Þetta var svo mikið tilstand. Það þurfti að þrífa kollur og kirnur en það kom svo gríðarmikið smjör úr sauðamjólkinni.“ Erfiðir tímar urðu svo til þess að árið 1918 lagði Sigurður Jónsson atvinnumálaráðherra fram frumvarp á Alþingi um heimild til landsstjórnarinnar að fyrirskipa „fráfærur ásauðar“, fyrst og fremst í þeim tilgangi „að reyna að bæta úr feitmetisskortinum, sem nú er að verða mjög tilfinnanlegur í kaupstöðum og sjávarþorpum og jafnvel einnig í sveitum,“ sagði í greinargerð með frumvarpinu. Málið var rætt allrækilega en því síðan vísað frá með rökstuddri dagskrá „í því trausti, að landsstjórnin stuðli að því eftir föngum, að bændur geti fengið sem ódýrastan og hentugastan vinnukraft, til framkvæmdar fráfærum ásauðar, og gefi þeim upphvatningu til þess á annan tiltækilegan hátt“…

Færikvíar

Færikvíar.

Annmarkar á fráfærum voru helst taldir vera hve erfitt og dýrt yrði að útvega nauðsynlegan vinnukraft, að heyafli bænda mundi minnka sakir fólkseklu og að minna yrði framleitt af góðu kjöti og spilla kjötmarkaði erlendis sem þá var til staðar.176 Engu breytti þetta, selin voru að hverfa.

Mótstaðan gegn fráfærunum er aðallega bygð á fólkseklunni. Bændur kvarta um, að þá vanti kvenfólk til að nytka ærnar, og að ekki fáist unglingar til að smala eða sitja hjá …

Í Alþingistíðindi 1918 skrifaði Sigurður Sigurðsson í grein um viðbrögð við dýrtíð árið 1918.. „Svo virðist sem síðasta bára eljabúskaparins, hafi hnigið með framtaki bolvíkskra bænda sumurin 1952-1954.“

Flekkuvíkurstekkur

Flekkuvíkurstekur/rétt – uppdráttur ÓSÁ.

Sum mannvirkin geta hafa verið fullburðug íveru- og mjólkurvinnslu hús en önnur aðeins næturskýli eða smalakofar – mannvirki sem líka geta verið frá ýmsum tímum og breytileg frá einni jörð til annarrar. Í þriðja lagi eru það svo stekkarnir, þessar einkennandi réttir eða kvíar sem mörg örnefni eru tengd og lágu í dálítilli fjarlægð – stekkjarveg – frá býli. Vegalengdin var að sönnu ekki stöðluð en líklega ekki höfð meiri en svo að á stekkinn og af honum mætti ganga á skaplegum tíma og með tilheyrandi byrði (málnytuna). Ég hef ekki gert sérstaka rannsókn á stekkjaminjum á svæðinu en lausleg athugun sýnir að stekkir hafa, að minnsta kosti sumir hverjir, verið býsna íburðarmikil mannvirki. Í ljósi þess má velta því fyrir sér hvort menn hafi komið þeim upp til þess eins að nota þau um stekktíð, á meðan lömb voru vanin undan mæðrum sínum – á svo sem 2-3 vikna tíma á hverju ári.

Mundastekkur

Mundastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Ég tel ekki fráleitt að ætla að stekkur kunni á tíðum að hafa þjónað hlutverki sels (mjaltasels); að vegna fjarlægðar frá bæ, þótt takmörkuð væri, hafi hann dugað til þess að halda uppi hinni nauðsynlegu tvískiptingu landnýtingarinnar: húshaga og selhaga. Sú skipting var sýnilega ekki landfræðilega fastbundin heldur kvik eftir eftir ýmsum aðstæðum. Þarft væri að kanna þátt stekkanna í þessu efni nánar. Hvernig tókst að hagnýta þessa hugmyndafræði á heimilunum mörgu og á ýmsum tímum sögunnar markaði efnalega afkomu einstaklinganna – og úr því spunnust hvort heldur bláþræðir eða gildir kaflar á hnökróttu bandi kynslóðanna.

Vinnubrögðin, mjólkin og smjörið

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – tilgáta.

Hvernig var vinnubrögðunum hagað í seljunum? Sjálfsagt hafa þau verið með ýmsu móti, allt eftir aðstæðum.
2-3 stúlkur voru í selinu að jafnaði. Kýrnar voru mjólkaðar fyrst, og var það oftast búið þegar féð kom. Ein stúlkan fór að öllum jafnaði þegar búið var að mjólka kýrnar og ærnar fyrri mjölt til þess að setja mjólkina, en hinar mjólkuðu eftirmjölt. Smérið var flutt heim í krókum, en skyrið einu sinni í viku í strokkum.

Ærnar voru aftur á móti strax reknar fram í sel. Yfirleitt var ekki setið hjá ánum nema kannske einn dag, heldur var þeim smalað allan fráfærnatímann. Eftir mjaltir kvölds og morgna voru þær reknar fram fyrir á. – Ekki er nema 7-8 mínútna gangur frá selinu fram að á eða tæplega það.

Ássel

Ássel – tilgáta; ÓSÁ.

Smalinn var vakinn kl. 3-4 á nóttunni til smalamennskunnar og einnig var farið að smala um svipað leyti, kl. 3-4, að degi til. Smalinn hélt alltaf til í selinu.

Venjulega voru 3 stúlkur í selinu, selráðskonan og 2 mjaltakonur. Selráðskonan annaðist matseld og mjólkina, renndi trogum og sá um smjörgerðina, en undanrennan var daglega flutt heim að bæ í tveimur 80 marka (40 lítra) kútum og þar var skyrið búið til. Dallur með dagssmjörinu var reiddur ofan á milli á hestinum.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel- tilgáta; ÓSÁ.

Selkonurnar fóru oft heim að bæ á daginn til þess að þurrka og raka þegar svo stóð á, en voru alltaf í selinu yfir nóttina.

Þegar heyjað var í selinu, en það eru brekkurnar heiman til við á, grasgefnar mjög, munu tveir karlmenn hafa dvalið þar framfrá vikutíma eða svo. Heyið var flutt heim í selið.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – tilgáta (ÓSÁ).

Í sláttarlok flutti svo fólkið úr selinu heim að bæ og tók ærnar með sér. Eftir þann tíma munu þær ekki hafa verið mjólkaðar nema einu sinni á dag.

Féð var haft heima í bæ fram undir snjóa, en þá voru ærnar reknar í selið að nýju og hafðar þar fram undir hátíðar eða meðan selheyið entist.

Mjólkurfata

Mjólkurfata.

Svo má nú ekki síðar verða í þessari ritsmíð að vikið sé að afurðinni sem fráfærur og seljabúskapur snerist um – mjólkinni – magni hennar og gæðum. Skiljanlega vitum við fátt um slíkar tölur frá tímum seljanna en þegar dró að lokum mjólkurframleiðslu með sauðfé og kjöt tók að hækka í verði sakir vaxandi eftirspurnar birtust niðurstöður athugana glöggra bænda. Fróðlegum athugunum er sagt frá í búnaðarblöðum á fyrstu tveimur áratugum tuttugustu aldar. Þá hvöttu nefnilega ýmsir til eflingar fráfærna, eins og nánar verður vikið að.

Ungur smali, aðeins fimm ára gamall, sat yfir ám frammi á dal sumarið 1910, ef til vill nálægt Fremraseli . . . „honum leið illa og var hræddur . . . hann hafði misst móður sína skömmu áður“. . .: Ungum var börnum falin hjásetan. Fjarlægð frá heimabæ, framandi umhverfið og hinar persónulegu aðstæður kunna að hafa valdið óttanum þótt hugur reiki líka að reimleikum sem skýringu.

Dyljáarsel

Í Dyljárseli í Eilífsdal.

Að áliti Kjartans Ólafssonar virðast bændur víðast hvar hafa verið fastheldnari á forna búskaparhætti en almennt var í nálægum byggðum og „á það einkum við um seljabúskapinn“, skrifaði Kjartan, og um 1820 „var búsmali frá eigi færri en þrettán jörðum og enn eru hafðar í seli á sumrin.

Lýsingarnar benda til þess að selstöðurnar hafi verið notaðar af og til, legið niðri um hríð og síðan jafnvel teknar upp aftur.

Selin eru jafnan æva gömul ef marka megi gróður og gerð tóftanna. Það er eins og landslagsarkitekt alheimsins hafi úr gróðrinum ofið snotran krans og lagt hann mildilega yfir seltóftina – líkt og í virðingarskyni og til minningar um löngu horfin störf, og blessað fólkið sem störfin vann þarna af trúmennsku sinni og elju.

Heimild:
-Sel og selstöður í Dýrafirði, Bjarni Guðmundsson, landbúnaðarháskóli Íslands 2020 – uppfært til hins almenna.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – tilgáta – ÓSÁ.

Seljadalur

Í „Lögbók konungs, Lagabætis, handa Íslendingum eður Jónsbók hin forna, lögtekin á alþingi 1281„, útg. 1856, er m.a. fjallað um þegnskylduvinnu og landsleigu. Í síðarnefnda dálknum eru ákvæði um „sætr“ eða selstöður, einkum aðgengi bænda að slíkum nytjastöðum:

1. Um þegnskyldu við konung ok skattgjald

Jónsbók

Jónsbók hin forna.

Í nafni várs herra Jesú Christi, þess sem vár er vernd ok varðveizla, líf ok heilsa, skulum vér konungi várum, eðr hans lögligum umboðsmanni, eigi synja slíkrar þegnskyldu, sem vör höfum honum játað: at hverr sá bóndi er skyldr at gjalda skatt ok þingfararkaup, er hann á fyri sjálfan sik ok hvert skuldahjón sitt, kú eðr kúgildi, skip eðr nót, ok skal hann eiga um fram eik, uxa eðr hross, ok alla bús búhluti, sem þat bú má eigi þarfnast. En skylduhjú hans eru þeir menn allir, sem hann á at skyldu fram at færa, ok þeir verkamenn, sem þar þurfa at skyldu fyri at vinna. En þetta eru alls 20 álnir, af hverjum bónda. Skal konungr taka 10 álnir, en aðrar 10 álnir sá sem kongr skipar sýslu, með slíkri afgreiðslu, sem lögbók váttar, af þeim 10 álnum, sem þingfararkaup heitir.
(R. R. H. K. Svá skal ok hverr maðr gjalda skatt einhleypr, karl ebr kona, þó at hann sé búlaus, ef hann á 10 hundruð fyri sjálfan sik skuldlaust ok hundrað fyri hvern ómaga sinn, ok eitt hundrað um fram).
ÍsólfsskáliEn eigi skal meira gjaldast en einar 20 álnir, þar sem bóndi eðr húsfreyja andast frá, ok halda feðgin, systkyn eðr mæðgin, eðr aðrir arfar, saman þeim bóndi, hvárt sem er meiri eðr minni. En sá sem í burt fer með sinn hlut, gjaldi sem fyr váttar. En hverr sem þetta geldr eigi forfallalaust, áðr menn ríða til þing, sekr 6 aurum við konung. Skal þetta fé greiðast í vaðmálum, ok í allri skinna vöru, í ullu ok húðum, ok gjaldi þar sem hann hefr heimili átt fyri næstu fardaga, þó at hann færi heimili sitt á annan stað.
(H. B. E. K. Sá skal skatt gjalda, sem búnað reisir, en eigi sá er bregðr búi, ef hann hefr rninna fé en 10 hundruð, skuldlaust ok ómagalaust).

42. Um sætr ok selfarir

Villingavatn

Villingavan – Gamlasel odan Gamlaselsgils.

Hvervetna þar sem sætr eru til bæja manna, þá skulu menn fara með búfé sitt yfir annars land til sætra, ok hafi fornar götur, ef til eru, ok hafi í togi laus hross, ef yfir eng er að fara. En ef keldr eru á leið hans, þá má hann gjöra þar brúar yfir, ok vinna þann áverka á jörðu hins. Menn skulu fara úr húshaga með fé sitt, þá tveir mánuðir eru af sumri, utan þeim þyki öllum annat hentara, er burtfærslu eigu. En ef einhverr sitr lengr niðri, þá skal sá er at telr fyrirbjóða honum þar setu.
Nú sitr hinn heima eigi at síðr, þá skal hann stefna honum héraðsþing fyri grasrán ok þrásetu.

Dalssel

Dalssel í Fagradal.

Þá eiga þingmenn at dæma konungi hálfa mörk fyrir grasrán, en grönnum hans hálfa mörk fyri grasverð, þeim er gras missa. Nú skal hann æsta svá marga bændr liðs, sem hann þarf at færa fé hins úr haga (húshaga) sínum. Sekr er sá hverr 2 aurum við konung er eigi fer, ef hann er til krafðr. Slíkt hit sama liggr við, ef maðr fer heim í húshaga fyrir tvímánað.

43. Um almennings vegu
Nú skal til sætra á fjöll upp vera merki, sem at fornu fari hefr verit. Ok færa sætr eigi úr stað, utan hann færi engum manni til skaða. Ok svá skulu þeir hit sama sætrum halda. Engi maðr skal setja sætr sitt við annars land eðr haga, þar sem eigi hefr at fornu verit. Þar skal mæta horn horni ok hófr hófi.

44. Um þjóðgötur

Straumsselsstígur

Straumselsstígur vestari -(Gjáselsstígur/Fornaselsstígur).

Þjóðgata ok sætrgata, ok allir rekstrar skulu vera sem at fornu fari hafa legit, utan færa má götu ef vill sem fyr segir. Nú skal þjóðgata vera 5 álna breið. En ef hann spillir víðar akri eðr eng, þá skal hann bæta sem 6 skynsamir menn meta, skaða þann, ok landnám með. Nú rænir maðr annan mann þjóðgötu, þá skal hann gjalda konungi hálfa mörk, ok svá fyri handrán, en þeim fullrétti eptir dómi er ræntr var. (R. B. E. K. Skylt er bændum at gjöra vegu færa um þver héruð ok endilöng, þar sem mestr er almanna vegr, eptir ráð i lögmanns ok sýslumanns. Sekr er hverr eyri, er eigi vill gjöra, ok leggist þat til vegabóta. Nú brýtr maðr brú af þjóðgötu eðr sætrgötu, gjöri aptr aðra brú jafngóða sem áðr var, ok bæti þeim mörk er brú átti.
Ef maðr rænir annan mann sætrgötu eðr rekstri, þeim sem at fornu fari hefr verit, bæti konungi hálfri mörk fyri vegarán, ok hafi hinn þó götu sem áðr.

52. Um almenninga

Selsvellir

Selsvellir – rétt.

Svá skulu almenningar vera sem at fornu hafa verit, bæði hit efra ok hit ytra. En ef menn skilr á, ok kallar annarr sér almenning eðr afrétt, þá festi sá lög fyri, er sér kallar, ok stefni þing, þar er menn eiga því máli að skipta, ok skeri upp þingboð fyri fimmt. En ef hann gjörir eigi svá, þá er ónýt lögfesta hans at því sinni. En á þingi skulu þeir nefna 12 bændr hina skynsömustu, 6 hverr þeirra, í þinghá þeirri, ok hafa þá 2 af þeim 12 at bera megi ok sverja, hvárt sú afrétt er hans eign eðr almenningr.

Almenningur

Í Almenningi ofan Straums.

En af því þingi leggi sá fimmtarstefnu, er sér kallar þá jörð, ok njóti þar vitnis þess, er á þingi var nefnt. Ef fimmt ber á helgan dag, þá sé fimmtarstefna hinn næsta rúmhelgan dag eptir, ok færi þar þá vitni fram at jafnfullu sem á fimmtarstefnu. En svá skal þann eið sverja, at því skýtr hann til guðs, at þat hefr hann sér eldri skynsama menn heyrt segja, at þar skilr mark millum eignar bónda ok almennings, eðr afréttar, ok eigi veit ek annat sannara fyri guði í þessu máli. En síðan sé sett fimmtarstefna, ok dæmist þá hverjum þat sem hafa skal.

Heimild:
-Lögbók konungs, Lagabætis, handa Íslendingum eður Jónsbók hin forna, lögtekin á alþingi 1281, Akureyri 1856, bls. 28-29, 151-152 ofg 162-163.

Laufhöfðavarða

Laufhöfðavarða á Laufhöfða við Gjásel.