Tag Archive for: Selvogsgata

Selvogsgata

Eftirfarandi er hluti lýsingar Konráðs Bjarnasonar af kaupstaðaleið Selvogsmanna frá Torfabæjarhliði um Grindarskörð til Hafnarfjarðar.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

“Þetta var gamla lestamannaleiðin um aldir og allt fram undir 1940 á meðan henni var haldið við ruðningi sem sýsluvegi.
Vorsmalamennsku og rúningi var lokið og ull fullverkuð, þurrkuð, sekkjuð og bundin til klakks, sem hestaburður á mörgum hestum. Góðveðursdagur var valinn, hestar heima við vel járnaðir og lagt af stað í fulla dagleið klukkan sjö að morgni.

Selvogur

Selvogur – Þorkelsgerði.

Þorkelsgerði var um aldir ein jörð; lögbýli með bændakirkju á 15. og 16 öld og varð um skeið eign höfðingjanna á höfuðbólinu Strönd, en deildist síðar, einkum milli fjögurra búsetumanna, undir heitunum Austurbær, Miðbær, Vesturbær og Torfabær, eftir að Torfi Erlendsson, sýslumaður, náði þar búsetu ásamt Stafnesi. Hann kom þangað um 1656 og dó þar. Hin fjórskipta búseta á Þorkelsgerðisjörðinni er bókfest: 1681, 1703 (Jarðabók Á.M. og P.V.), 1706, 129 og 1735. Eftir 1760 varð samruni í Austurbæ og Miðbæ til bújarðarinnar Þorkelsgerðis I og æ síðan. Þá kemur fram í þinglesinni landamerkjaskrá 12.06.1890, að hún er gildandi fyrir Þorkelsgerði I, Vesturbæ og Torfabæ.

Selvogur

Selvogur – Útvogsvarða.

Hestalest Þorkelsgerðismanna lagði upp frá heimtröðinni austur í Moldu og þar norður og vestur með túngörðum, uns hún beygði á götuna upp Flögin á móts við áðurnefnt hlið. Gatan var vel rudd og eftir tæpan stundarfjórðung er lestin komin móts við Útvogsvörðu á hægri hönd. Mikil varða, þykk, ferköntuð með strýtu upp úr miðju og þar upp úr sundmerki, af tré í þríkant, enda mikilvægt tákn, vegna Stokksvíkurssunds til Þorkelsgerðislendingarvara.

Strandarhæð

Strandarhæð – uppdráttur ÓSÁ.

Þá liggur gatan nokkuð greið eftir sandeyðingum, þar til hún nær grasflötum neðan Dalhólalágar. Rétt áður á vinstri hönd fórum við framhjá vörðubroti á lágum hól, Hrossabeinavörðu. Þar sá ég á æskudögum hvíttærð hrossabein þeirra er fallið höfðu í harðræði. Þar skammt ofar á vinstri hönd er Dauðhóll, einn vitnisburður um búgripafelli.
Nú erum við komin upp í Dalhólalágina, gróna vallendis snögggróðri. Austan við hana lá Bjarnastaðavegur í átt til sýsluvegar upp Selvogsheiði til Ölfuss.

Lestargatan úr Útvogi, er við fylgjum upp úr Dalhólalág, liggur fast að Útvogsskála, þykkhlaðinni ferkantaðri vörðu með strút efst og var allvíðsýnt frá henni, einkum inn í vesturheiði, allt til Hlíðarvatns og fjallgarðsins þar upp af. Við Skálavörðuna var fyrrum stekkur, er vel sást fyrir í umdæmi mínu.

Árnavarða

Árnavarða.

Austur af Útvogsskála voru Dalhólar og á einum stóð Árnavarða. Í norðaustur af henni sést til Bjargarhellis með vörðu á grónum hellishól. All nokkur austar af Bjargarhelli, eru sandkenndar grasflatir, er tóku við í suðvestur af Hásteinaflagi og sveigjast til suðvesturs, sem snögggróið valllendi vestan við hið mikla sandflæmi til austurs. Þar í sandjarðri eru Fornugötur, er liggja niður að Digruvörðu og framhjá henni til Nes og túngarðshliða Bjarnastaða.

Selvogsgata

Selvogsgata – ÓSÁ.

Frá Útvogsskála lá lestargatan eftir snögggrónum vallargróðri, er náði inn að Kökuhól, en vestan við hann lá gatan inn á Rof með stefnu á Katlahraun, vestan Urðarfella. Ekki var löng leið frá Útvogsskálavörðu að Kökuhól, en rétt áður en við höfum náð til hans förum við yfir þjóðleiðina fornu úr Ölfusi framhjá Vogsósum til Útnesja.

Selvogsgata

Selvogsgata á Strandarhæð.

Kökuhóll er vestasti hluti lágheiðararms þess, er liggur til vesturs frá suðurhluta Standarhæðar. Nokkru austar af honum fast við þjóðleiðina er fjárhellirinn Gapi. Framan við hann var fjárrétt vel hlaðin og stendur hún enn með lágum veggjum vegna þess hvað gróinn jarðvegur hefur hækkað innan hennar, svo og í hellinum, sem var fyrr hár til lofts og rúmgóður. Sagt var í honum hefðu fyrr á tímum hafst við næturlangt langferðamenn til Útnesja. Suður af honum var smáhellir með vörðubroti, en nú með gleymdu nafni. Nokkru austar og norður af Gapa, er allvíð hæð er ber hátt yfir umhverfi sitt og allvel gróið lyngi áður fyrr. Þar var venja að svipast um í hestaleit miðheiðar. Á hábungu hæðarinnar er hringlaga jarðfall, grasi gróið í botni ogmeð góðum niðurgangi fyrir menn og skepnur. Þetta er Kerið á Strandarhæð með stórhelli einkum í norður, er hýsti um 200 fjár. Strandarhellir, sem er sögulegur og verður því ekki komist hjá því að staðfesta það frekar:

Strandardalur

Strandardalur.

Þorvarður og sonur hans Erlendur, lögmenn sunnan og austan sátu höfuðbólið Strönd í Selvogi á 15. og 16 öld og náðu undir það í krafti stórveldis síns, nærliggjandi jörðum. Erlendur fór að vísu offari og tapaði stóreign sinni til Konungs um 5 ára skeið, en fékk svo aftur 1558 og varð þá stórbú hans mest, allt til æviloka 1576, þá um áttrætt.
Sú saga er sögð og fyrir löngu skráð, að Erlendur átti 600 ásauði og af þeim gengu 200 með sjó á vetrum og höfðu þar fjárborg, og geymdi þeirra einn maður. Önnur 200 gengu upp á völlunum við Strandarborgir (Borgirnar þrjár) og geymdi þeirra annar maður. Þriðju 200 gengu á Strandarhæð við Strandarhellir, og geymdi þeirra hinn þriðji maður.

Hlíðardalur

Tóft í Hlíðardal.

Sú saga er sögð af fjárgæslumanni Erlendar við Strandarhelli, sem hafði ströng fyrirmæli frá Erlendi, sem og hinir, að týna engri kind úr hjörðinni og að líf smalamanns gæti legið við. Þá bar það til einn vetur, að fjármaður við Hlíðarendahelli í Ölfusi (um 12 km fjarlægð) fann 2 kindur með marki Erlendar á Strönd í fjárbyrgi sínu og voru Erlendi send boð þar um. Erlendur kallaði þá fjárgæslumann inn við Strandarhelli fyrir sig og var þungbúinn mjög og sagði að upp væri komið, að hann hefði týnt úr hjörð sinni og hverju hann svaraði til. Sauðfjámaður harðneitaði að hafa týnt úr hjörð sinni og sagði að kindur þessar hefðu geta komist neðanjarðar í Hlíðarendahelli, því enginn hafði komist svo langt inn í Strandar- eða Hlíðarendahelli að endir hafi fundist. Við þessu átti Erlendur engan mótleik og lét kyrrt liggja, því hann var mikill lögmaður og mat að verðleikum réttmæt gagnrök og viðurkenndi eigin rökþrot.

Dísurétt

Dísurétt.

Við erum nú komin drjúgan spöl framhjá Kökuhól in á heiðina og áfram eftir hinu fjölgróna Katlahrauni, sem kemur niður austanvert af Hlíðarfjallsbrekkum og verður að Katlabrekkum í halla sínum. En þar sem lestargatan liggur yfir það í átt til Hlíðardals, er það milt og vinalegt í fjöljurtagróðri sínum. Austur af eru Svörtubjörg. Þar stendur Eiríksvarða í fullri reisn sinni svo tæpt á bjargsbrún að ekki fýsir menn að ganga framan við hana. Í munnlegri geymd er talið fullvíst að séra Eírikur Magnússon, hinn fjölfróði, hafi staðið fyrir byggingu vörunnar og valið henni stað. Tilgangur vörðubyggingarinnar hefu vafalaust verið slá að slá á þann stöðuga ótta er fólkið á úthafsströndinni bjó við, einkum frá landgöngu víkinganna voðalegu frá Algeirsborg, er gengu á land í Grindavík 20. júní 1627, nokkru vestar á sömu úthafsströnd.

Sælubuna

Sælubuna í Standardal.

Nú er lestin komin langleiðina yfir Katlahraun. Nú blasa við augum á hægri hönd Strandardalabrekkur allbrattar og vel grösugar að efstu brún. Kálfsgil, er liggur frá Stakafelli, klífur Strandardalinn nær miðju og endar innri hluti hans í hvammi undir bergvegg, sem gengur út í Katlahraun og verður að öxl þeirri er skilur að Strandar- og Hlíðardal. Úr bergöxl þessari sprettur silfurtær vatnslind, Sælubuna, sem er ómetanleg fyrir heyskapafólk í nefndum dölum.
Nú erum við lestarmenn í nokkrum halla á fótinn að komast framhjá bergöxlinni með sælubuninni sinni og þar með erum við komin á undirlendi Hlíðardals. Hann stendur Strandardal ofar mót hækkandi heiðlendi. Hann er hvammslaga og vel grösugur upp á brún. Efst í dalnum stóð eitt sinn bær Indriða lögréttumanns, Jónssonar. Hann var þar á fyrri hluta 17. aldar, merkur maður, góður skrifari og smiður.

Selvogsgata

Selvogsgata um Leirdali.

Lestargatan frá Urðarfellum til Litla-Leirdals liggur yfir einskonar hraunmóa, ávallt vel rudd á tímum lestarmanaferða. Nú fara að koma í ljós þokkafullir hraunhólar á hægri hönd með nokkrum brekkuhalla frá þeim niður í dæld þar sem stargresi vex út í snoturt vatnsstæði, Rituvatnsstæðið, sem kom sér vel fyrir sauðféð í sumarhögum og heyskapamenn á fjalli. Ofan við vatnsstæðið beygði gatan í norðaustur upp grasbrekkuhalla. Þegar upp var komið blasti Litli-Leirdalur við, alllangur í sömu átt. Í suðausturhorni hans, nú á hægri hönd, er fallegur hraunhelluhóll með fallegri grasflöt er leggst upp að honum vestanverðum. Dalur þessi var allvel grösugur fyrr og sleginn ásamt brekkum og grasgeirum austan og innan við hann.

Gatan upp úr dalnum liggur eftir lágbrekkuhalla og sveigist brátt í norðvestur yfir hraunmóa með grasdrögum hér og þar, einnig með klifum sem voru á tímum lestarferðanna þannig gerðar að þær yrðu hestum sem best færar. Hinir mörgu svigar á vegferð þessari voru vegna hraunhólanna þar til komið var upp að Hvalskarðsbrekkum.

Selvogsgata

Selvogsgata við Litla-Kóngsfell.

Þá liggur gatan eftir mjúkri moldargötu neðanvert brekkum þessum þar til komið er að Hvalskarði, sem er allskörp klauf milli Hvalshnúks Eystri og Vestri. Sá Eystri verður því á hægri hönd og sveigist allhátt til norðurs, en sá Vestri á vinstri hönd upp skarðið og er alllangur í vestur, fer hækkandi frá Hvalskarði uns hann hækkar nokkuð við vesturhluta sinn.
Þegar kaupstaðalestin kemur að Hvalskarði blasir lestargatan við sem afbragðslestargata, sneiðskorin austan í rauðamelsskriðu Hvalshnúks Vestri og endar í rúmri góðgötu á hálsinum upp af skarðsgilinu og liggur þaðan örstutta leið ofan í suðurhluta Stóra-Leirdals, sem liggur fast upp að Hvalhnúk Eystri. Graslendi hans er breiðast og best syðst. Þar mátti sjá á sumardögum á beit 50-100 sauðfjár, en að þar haf verið heyjaðir hundruð hestburðar verður að teljast vafasamt.

Selvogsgata

Selvogsgata – syðri hluti.

Hestar lestarinnar verða léttari í spori niður á grasvöll dalsins, enda hefðarlöggiltur áningastaður á hinni löngu lestarleið yfir Grindarskörð. Hér eru hestburðir ofan teknir og hestar leystir úr lestarbandi og þeim leyft að grípa niður með reiðing sínum og beisli um háls. Þar spenntu lestarmenn töskur sínar frá hnakki og tóku fram nesti sitt. Klukkan var um 11 f.h. og hafði því lestargangur í Stóra-Leirdal verið 4 klukkustundir á fótinn.
Á heimleið úr kaupstað var hér gjarnan tekinn tappi úr flösku sem gekk milli manna og dreypt var á af háttvísi. Því fylgdi eftir ættjarðarsöngur sem fór vel í fjallasal þessum.

Var nú haldið norður eftir dalnum og um sinn eftir leirflagi (sístækkandi) framhjá hraunbrún hins víðáttumikla Skarðahrauns á vinstri hönd. Við norðurenda dalsins var farið framhjá lágbungu þeirri er tengist Hvalhnúk Eystri og þá á hægri hönd. Þarna gæti verið Sæmundarmelur sá er sumir nefna. Norðan við lágbungu Hvalhnúks Eystri tók við vesturjarðar Heiðarinnar háu sem verður með lágbrekkusniði á hægri hönd milli skarða. Að götunni vestan megin liggur hið mikla Skarðahraun fast upp að götunni og sumsstaðar yfir hana en það liggur fast að Hvalhnúk Vestri í suðri og til Draugahlíðar og Kerlingarskarðs í norðri en í vestur allt til Brennisteinsfjalla.

Selvogsgata

Selvogsgata.

Lestargatan milli skarða var allgóður lestarvegur með árlegu viðhaldi í ruðningi á árum áður, einnig í skorningunum milli hrauns og hlíðar er Grafningar nefndust. Sumsstaðar var sýnt að gamalt hraun ofan af heiðinni hafði hnigið undir vegferð lestargötunnar. Þarna gæti veri það sem kallað hefur verið Hrauntraðir. Ferð lestarinnar milli skarða miðar vel og er komin um hálftíma ferð frá Stóra-Leirdal norður úr Grafningum og að beygja sunnan við Litla-Kóngsfell. Með beygju þessari mildast vegferðin með snögggrónum lautum, ásamt pollum í dældum. Hér verður þessari vegferð lestarinnar í vesturátt til Grindarskarða en hið einkarfallega hringlaga fell Litla-Kóngsfell á hægri hönd. Það er borglaga gígsfell hæst á suðurbarmi og með grasgeira neðantil. Norðaustur af því er gjá mikil, Stórkonugjá. Það er talið að fjall þetta sá á markalínu Gullbringu- og Árnessýslna með stefnu á Vílfilsfell, enda var Jósepsdalir sunnan þess smalaðar á haustdögum sem afréttarland Selvogshrepps um aldir.

Selvogsgata

Selvogsgata vestan Setbergshlíðar.

Ekki var nú lestarferð löng vestur að uppgöngu austanmegin Kerlingarskarðs. En rétt austan við uppgönguna fórum við yfir örmjóa apalhrauntungu er runnið hefur niður Skarðahraun. Þar standa Tvívörður við vegferð og frá þeim í beinlínu eru hinar vel hlöðnu vetravegsvörður í stefnu á vesturenda Hvalhnúks Vestri. Þær höfðu þann kost að út úr sérhverri þeirra stóð steinn í átt þeirrar næstu sem var mikið öryggi þegar hin svarta þoka lá yfir Skarðahrauni sem oft var. Nefndust steinar þessir Vegvísir.

Vestan við apalhrauntunguna lá vegurinn upp á Kerlingarskarð í allsnörpum halla, vel ruddur á tímum lestarferðanna sem og vegurinn yfir nefnda hrauntungu.

Selvogsgata

Selvogsgata – nyrðri hluti.

Þá verður að taka fram að girðing sú sem títt er nefnd í nútíma var enn í þekkt á tímum lestarferðanna því hún var uppsett vegna mæðiveikivarna á stríðsáratugnum. Þá verður að minnast þess að hér skárust saman í sömu uppgöngu á Kerlingarskarð, Eystri leið eftir Katlahrauni og Vestri leið upp Selsstíg frá Herdísarvík og Stakkavík. En rétt áður en við beygðum upp á Skarðið blöstu við á vinstri hönd Draugahlíð og framhjá þeim í vestur sér til Eldborgar. En nær nefndri hlíð er að finna leifar af brennisteinsvinnslu Breta á púðurskots- og hernaðarárum þeirra.

Þegar lest okkar er komin á norðurbrún Grindarskarða rétt ofan við Kerlingarskarð blasir við augum víð og fögur sýn allt til þéttbýliskjarna á strönd hins fagurbláa Faxaflóa og til Akrafjalls og Esju í norðri, nær okkur Helgafell og Húsfell.

Kerlingarskarðsvegur

Efst í Kerlingaskarði. vegur sést vel neðra sem og drykkjarsteinninn í efra.

Og enn nær okkur hið mikla helluhraun sem verður illþyrmislega úfið neðan undir Kerlingarskarði. Það er í fyrsta sinn sem nú við 12 ára aldur lít augum hina kvöldfögru strandbyggð Faxaflóans og óraði ekki fyrir því að þar myndi um hálfraraldar skeið æfi minnar renna. Á háskarði höfðum við verið um 5 klukkustundir á ferð úr heimabyggð.

Fyrir niðurgöngu Kerlingarskarðs er litið eftir klyfburði á hestum og gjarðir enn hertar. Við niðurgöngu var sýnt að gatan var vel valin í sveigum og nú vel rudd og vel tókst hinum vönu burðarhestum að spyrna framfótum sínum til móts við aðstæður. Lestinni farnaðist því vel niður aðalbrattann. En þá tók við úfnasti hlutu Hellnanna. Líklega það sem kallað var Flár. Hér er víðsjál vegferð með bröttum klifum niður í svonefnda Mosa, einnig ótrygg vegferð, þar til mesti hallinn er að baki og við taka sjálfar Hellurnar með vel ruddri og varðaðri hestagötu í beinstefnu á Strandartorfur.

Selvogsgata

Selvogsgatan – Hellur.

Þegar komið var niður Hellurnar sást vel til hinna grösugu Kristjánsdala er liggja norðan undir fjallshlíðum þeim er sveigjast í norðaustur frá Kerlingarskarði í átt að Vífilsfelli.
Vel gekk lestarferðin niður Hellurnar og við taka lágholt eða hrauntungur með grasgeirum og moldarrofum. Hér eru því bithagar og væntanlega þess vegna kallaðir Kaplatótur (þunnar torfur). Af landslagi þessu taka við Strandartorfur sem taldar eru hafa tengst ítökum þeirra höfðingja er sátu Strönd í Selvogi fyrr á öldum.
Lestragatan liggur nú bugðótt yfri allvel gróið, gamalt helluhraun með Húsfellið reista á hægri hönd ó norðausturátt. Austanmegin þess liggur úfið, þykk hraunbreiða og sveigist suður fyrir fellið allt niður undir Mygludali þar sem það stöðvast í húm hraunkambi.

Mygludalir

Mygludalir.

Nú er kausptaðalestin komin niður úr gamalgróna hrauninu og niður í hina grösugu Mygludali er teygjast á átt til Búrfellsgjár. Þeir einkennast af nær sokknum hraunhólum niður í grassvörðinn. Hér var gjarnan áð á austurleið og klyfjar stundum teknar ofan en nú talin tímaeyðsla þar sem skammt var til ferðaloka. Þess vegna hélt lestin rakleitt áfram yfir dalina út á rauðamelinn slétta í átt til Valahnúka.
Valahnúkar eru norðaustur af Helgafelli og eru gróðurlausar svartmelhæðir með bergstrýtum uppúr. Norðan þeirra hefur fyrr verið gróið land í átt til Mygludala en er nú uppblásið. Norðan í vestasta Valahnúknum er vinalegur grashvammur er nær upp að helli inn í móberg og nefnist Músarhellir.

Valaból

Valaból.

Kaupstaðalestin er nú komin framhjá Valabóli og eftir nokkra hlykki á hestagötunni er hún komin á lágan melás er liggur til norðurs með grösugum brekkuhalla að sunnan sem endar niður í djúpum sérkennilegum dal. Þetta er Helgadalur með vinalegri tjörn vestast er nær upp að gjáarbergvegg. Hestagatan liggur niður brekkuna nyrst ú dalnum og kemur að nefndum bergveggofan við tjörnina. Þar liggur gatan upp hið illfæra klif upp á gjáarbergsbarminn. Þegar upp er komið tekur við slétt greiðfært helluhraun, Slétthraun.
Innan við stundarfjórðung var burðarlestin að komast yfir Séttuhraun sem markaðist vestanvert af Folaldagjá, ljótri sprungu í misháum gjáarvegg er lá í átt til Gjáarréttar í norðaustri. Þar allnokkru norðar Selogslestargötu reis upp allhár bergkambur vestan við gjána og ber nafnið Smyrlabúðir. Þar verptu smyrlar í áraraðir. Þegar burðarlestin var komin norðvestur yfir Folaldagjá tóku við uppblásin melholt og vel grónir lágmóar sunnan þeirra, ásamt kjarrbreiðum og nær bithagi þessi fram í átt til háhæðar Sléttuhlíðar.

Helgadalur

Helgadalur.

Brátt fer hið úfna apalhraun á hægri hönd að láta meira til sín taka en hestagatan fær möguleika til þess að liðast eftir vinalegum grasgeirum sunnan undir hrikalegum hraunjarðrinum á hægri hönd. Endaði þessi sérkennilega vegferð í þríhyrndi grasflöt er teygðist suður á vesturbrún Sléttuhlíðar. Þar lá gatan yfir allgróið hraun í átt til austurenda Setbergshlíðar og lá í hallanum niður að hlíðinni fast að Kershelli. Kershellir opnast til suðurs í er bolli með botngróðri er nær upp að lestargötu þeirra Selvogsmanna. Þar var talið að hraktir vegfarendur hafi leitað skjóls fyrr á tímum, sem og í Músarhelli Valabóla.

Setbergssel

Setbergssel.

Fleiri sigbollar með smáhellum eru sýnilegir á vinstri hönd á leið niður hallan frá Kershelli uns komið er niður á jafnlendið móts við austasta hluta Setbergshlíðar. Þar með hefst síðasti áfangi leiðarinnar eftir vel ruddri hestagötu milli hinar fögru kjarrivöxnu Setbergshlíðar á hægri hönd og Gráhelluhrauns á vinstri hönd en það er gamalgróið hraun, lungi og kjarri vaxið og geymir ótal hraunbolla grasi og skógi vaxna. Þar er einnig að finna minjar um sauðfjárbúskap Setbergsbænda.

Gráhella

Tóftir við Gráhellu.

Gráhelluhraun nær frá Setbergshlíð suður ap norðausturhlíðum Ásfjalls en það mjókkar og dulúð þess magnast er nær dregur byggð og á sín endimörk nyrst undir Hádegisholti (eyktamörk frá Setbergi).

Kaupstaðalestin úr Selvogi hefur nú að baki götuna ljúfu undir hinni fögru Setbergshlíð og slakkan norðvestan hennar og er nú undir nyrsta hluta Hádegisholts.
Þar má sjá hinar tæru bergvatns-uppsprettur sem streyma fram undan nyrsta hluta Gráhelluhrauns og verða að straumhörðum læk er hlykkjast milli hrauntungu og láglendis suðaustur af Setbergstúnjarðri uns hann mætir læk þeim sem rennur úr Urriðakotsvatni og fer síðan niður austan við Kaplakrika til suðausturs. Sameinaðir verða þeir að Hamarskotslæk er rennur til sjávar gegnum Hafnarfjarðarbyggð vestan Hamarsins.

Hamarskot

Hamarskot í Hafnarfirði – tilgáta.

Vegferð lestarinnar liggur frá Lækjarbotunum í átt til Mosahlíðar á vinstri hönd og fram hjá Hvíldarbörðum sem svo voru kölluð vegna þess að fyrri tíma Hafnfirðingar settust þar niður á göngu sinni með hrísbagga sína er ætlaðir voru til eldneytis. Síðar varð þarna hinn endanlegi hvíldarstaður þeirra, Kirkjugarður Hafnarfjarðar. Þar rétt neðar komum við að Selvogsgötu sem svo er nefnd vegna hinna fastmótuðu lestarferða Selvogsmanna vor og haust um aldir.

Nú er ljóst að við höfum verið rúma fjóra tíma á leið okkar úr Kerlingarskarði og þar með á tíunda klukkutíma úr Selvogi, að frádreginni áningu í Stóra-Leirdal.“

Tekið saman á síðsumri 1993 af Konráði Bjarnasyni.

Selvogsgata-601

Selvogsgatan við Litla-Kóngsfell.

Grindaskörð

Haldið var upp eftir Selvogsgötunni frá Bláfjallavegi í átt að Grindaskörðum. Ætlunin var að skoða tótt skiptistöðvar brennisteinsmanna þar undir skörðunum. Á leiðinni var komið við í helli, sem nefndur hefur verið Elgurinn. Um er að ræða tiltölulega lítið jarðfall. Reipi þarf til að komast niður. Hins vegar einfaldaði hár snjóskafl neðan við opið niðurgönguna að þessu sinni.

Selvogsgötuhellar

Í Rósaloftshelli.

Rás liggur um 30 metra til norðurs. Fremst eru nokkuð fallegar hraunmyndanir. Á botni rásarinnar er brúnt hraun, en rásin er annars dökkleit. Út úr veggnum hægra megin kemur steinn, sem lítur út eins og elgshaus. Til suðurs er hellirinn um 70 metrar. Fremst er fallega brúnt gólfið og fallegar myndanir í lofti.
Ofar í hlíðinni er mikið og djúpt jarðfall. Ekki verður komist niður í það nema á reipi. Inngangur virðist vera í norðanverðu jarðfallinu. Það var hins vegar ekki skoðað að þessu sinni.
Farið var í Rósaloftshellir. Hann er fremur stuttur, en rás liggur upp hann vinstra megin. Ef loftið er skoðað með góðu ljósi sést hversu stórbrotið rósamynstrið þar er. Þátttakendur hafa ekki séð slíkt í öðrum helli.

Spenastofuhellir

Í Spenastofuhelli.

Skammt ofar er Spenastofuhellir. Í honum innanverðum er litadýrð með fallegum sléttum jarðmyndunum.

Kristjánsdalir

Tóft í Kristjánsdölum.

Tótt af skiptistöð brennisteinsmanna er austan við Selvogsgötuna undir hlíðum Grindaskarða. Gengið var austur og niður með hlíðunum. Ofan frá þeim mátti sjá móta fyrir gamalli þvergötu úr austri inn á Selvogsgötuna neðar.
Í Kristjánsdölum er ein tótt af húsi og einnig sést móta fyrir öðru. Það hefur líklega verið timburhús og nokkuð stórt. Hitt er hlaðið úr torfi og grjóti.
Á leiðinni til baka var gengið á ská yfir Tvíbollahraunið og þar rakin gömul leið spölkorn í hrauninu. Sést vel móta fyrir henni á klapparhæð þar sem hún er mörkuð í bergið. Leiðin er frá Selvogsgötunni þar sem hún mætir Bláfjallavegi og í ská upp að vatnsstæðunum vestan Kristjánsdala. Þar virðist vera gömul leið upp með fjallsöxlinni, sem er nokkuð gróin, og beygir hún síðan upp með Tvíbolla.
Frábært veður – 8°C hiti og nánast logn.

Grindaskörð

Tóft undir Grindaskörðum.

Selvogsgata

Í tilefni af því að FERLIRsferðirnar náðu tölunni 1800 laugardaginn 14. júlí var gamla Selvogsleiðin gengin frá Bláfjallavegi í Selvog. Leiðin er um 24 km.
Selvogsgata-603Eftirfarandi lýsing Gísla Sigurðssonar um gömlu Selvogsleiðina birtist í Þjóðviljanum árið 1973:
„Áður fyrr var álgengt, að farið væri í kaupstaðarferð til Hafnarfjarðar úr Selvogi. Gísli Sigurðsson, umsjónarmaður Minjasafns Hafnarfjarðar, fylgir okkur suður í Selvog eftir velheppnaða verzlunarferð í Firðinum. Gísli Sigurðsson, fyrrverandi lögregluþjónn, er margfróður um sögu Hafnarfjarðar og Reykjaness. Hann þekkir gamlar slóðir um Reykjanes eins vel og lófann á sér, og hefur gengið þær flestar margoft. Það er þess vegna ærin upplyfting að fara með honum í gönguför suður í Selvog. Seinna geta svo lesendur farið sjálfir af stað og látið þessa leiðarlýsingu Gísla vísa sér veginn.

Lagt af stað úr Firðinum Ein er sú gönguleið, sem ég tel með þeim skemmtilegri hér í nágrenni við höfuðborgina, það er Selvogsgatan eða Selvogsgata-604Selvogsleiðin, sem ég ætla að fara með ykkur um, og við skulum fylgja lestum þeirra Selvogsinga. Þeir hafa verið í kaupstaðarferð. Hafa búið vel upp á hesta sína. Þeir leggja upp frá plássinu, Akurgerði, og leiðin liggur suður yfir Hamarskotslæk suður á Mölina upp í Illubrekku, og sveigir til austurs neðan undir Austurhamri. Og þvi er nú til Selvogsgata í Hafnarfirði, að Selvogsingar fóru þessa leið. Við förum með lækjarsytru sem rennur með Hamarskotstúngarði upp á öldurnar þar ofan. Á leiðinni verða fyrir okkur nokkur móabörð og austasta barðið heitir Moldarbarð og er þar nú kirkjugarðurinn.
Mosahlíðin blasir nú við okkur, og við förum upp á Hrygginn, þaðan liggur leiðin niður undir Hraunið og yfir hraunrimann, og höfum við þá Lækjarbotnana á hvora hönd. A vinstri hönd eru Neðri-Lækjarbotnar þar sem tekið var vatnið i fyrstu Selvogsgata-605vatnsleiðsluna til Hafnarfjarðar.
En á hægri hönd eru Efri-Lækjarbotnar, nokkrar lautir i hrauninu með tæru vatni og fersku. Þegar yfir Hraunrimann er komið, er þar lækjarfarvegur, venjulega þurr nema á vetrum, og er þá Svinholt á vinstri hönd, en Gráhelluhraunið á hægri. Nokkru sunnar eru Moldir og er þá Setbergshlíð á vinstri hönd, allhá hlíð vaxin birkikjarri. Innar gengur fram svo kallað Háanef, en fyrir innan það hallar landinu móti okkur og er þar upp hraunbrekku að fara. Þar komum við að helli, sem heitir Kethellir. Suður af honum er hellir, sem mun hafa verið bæði í landi Setbergs og Hamarskots. Þarna var í eina tíð sel, að líkindum frá báðum þessum bæjum. Á tímum hraungosanna miklu úr Búrfelli hefur um þessa brekku runnið mikill hraunfoss. Við færumst fet fyrir fet upp brekkuna, en á brúninni komum við á grágrýtisklappir. Sléttuhlíðarhorn, og niður af þeim er þá Sléttahliðin á hægri hönd en Smyrilbúðarhraun á vinstri.

Selvogsgata-606

Svæðið, sem leiðin liggur um, kalla Selvogsingar Torfur og ná þær allt að gjá þeirri, sem er framhald af Hjöllunum. Gjáin er mjó en á þó sína sögu. Maður nokkur Kristján að nafni var þarna á ferð með folaldsmeri. Hann missti folaldið í gjána. Varð hann að fara til Hafnarfjarðar eftir mannhjálp til að ná folaldinu upp úr gjánni. Því kölluðu Hafnfirðingar gjána Folaldagjá, en Selvogsingar Stjánagjá. Frá Gjánni liggur leiðin suður eftir sléttu hrauni, sem heitir Helluhraun allt að okkar fagra Helgadal. Þar er gjá yfir að fara niður í dalinn. Leiðin upp úr dalnum liggur í troðningum tveim megin við rúst, sem ég hygg að sé fjárhúsarúst. Hún stendur nú undir vernd fornminjavarðar, allt frá því að Brynjólfur fræðimaður Jónsson frá Minna-Núpi var hér á ferð 1897.
En hraunriminn austur frá Helgadal geymir sína sögu. Í Setbergsannál segir svo frá við árið 1427: „Voru 12 þjófar í einu teknir syðra í helli einum í fjalli einu eða felli, þar sem nefnt er Húsfell. Voru allir hengdir um sumarið“. Í hraunrima þessum er hellir, og hygg ég, að þar sé hellir sá, sem um getur í annálum. Kannske getum við giskað á, hvar þjófar þessir voru réttaðir þegar við komum lengra.
Við höldum svo yfir Helgadalsás og niður af honum og austur um og förum þar eftir móbergsklöppum, og erum við þá komnir að Valahnúkum, norð-austan við Helgafell, okkar tignasta fell, sem ég trúi að margur Hafnfirðingur óski sér að deyja í og sitja þar að sumri og skrafa saman við langelda. Í Valahnúkum er Músarhellir. Þar sváfu eina nótt fjárleitarmenn á haustum, þeir sem smöluðu Norðurfjallið. Nú hefur helli þessum verið annað nafn gefið, heitir Valaból.
Og áfram höldum við og komum i grunnar dalkvosir sem heita Migludalir. Líklega hefur einhver áð þar á gæðing sínum, henni Miglu, sem skeiðaði allra hrossa mest. Nú liggur leiðin upp yfir hraunrima allbreiðan og er þar í gjá, sem nefnist Húsfellsgjá.

Selvogsgata-609

Þegar kemur upp fyrir hraunið taka við melhæðir með hraunrimum á milli. Svæði þetta heitir Strandartorfur, og segja munnmælin, að þar hafi Strandarkirkja átt skógaritak. Þar fer nú lítið fyrir skógi eða kjarri. Siðar hefur svæði þetta fengið nafnið Kaplatóur.
Þegar kemur suður fyrir taka við Hellurnar; er það helluhraun mikið og liggur upp undir Grindarskörð, sem blasað hafa við sjónum allt frá því, að við vorum hjá Músarhelli. Hér má sjá að um hafa farið langar lestir hesta, því víða eru gótur sorfnar í klappirnar. Hér hefur líka verið farið með rekstra, ekki sízt þegar aðalsláturhöfnin var i Hafnarfirði. Þegar við höfum farið um 10 mín. gang upp Hellurnar eru á hægri hönd klettar sem heita Gálgaklettar.
Mér er að detta í hug, að þegar Álftnesingar hafi verið búnir að fanga útileguþjófana í heimahögum sínum hafi þeir farið með þá að klettum þessum og hengt þá þar.

Selvogsgata-608

Þegar komið er eftir hellunum upp þar sem aðalbrekkan byrjar, er þar jarðafall mikið, þar í eru hellar nokkrir. 1927 eða 8 var einn þessara hella notaður af rjúpnaskyttum, sem stunduðu veiði upp um fjöllin og lágu þarna við nokkrar nætur. Þórðarhelli kalla ég þennan helli og kenni hann við Þórð nokkur Eyjólfsson, sem bjó á Brúsastöðum.
Þegar hér er komið taka við Mosarnir, og nokkru ofar er svæðið nefnt Flá, og er þá komið að örðugasta hjallanum, Kerlingarskarði. Þarna deildust vegir. Stígur lá upp hraunbungu á vinstri hönd, Grindarskarðastígur. Lá hann suður um austurenda Stórkonugjár upp að Heiðartoppi á Heiðinni há og austur áfram að Vindheimum í ölfusi.
Við höldum nú upp þennan örðuga hjalla. Brekkan er svo brött að kunnugir segja mér, að þeir hafi Selvogsgata-607orðið að hvila hestana minnsta kosti einu sinni áður en upp var komið. Svo komumst við á brekkubrúnina. Þá höfum við austan okkur Mið-Bolla, sem eru tveir, og vestan eru svo Þríbollar, sem Selvogsingar kalla Kerlingahnúka. Við hnúk næsta tökum við eftir stlg sem liggur yestur. Þetta er Námastigurinn og liggur vestur í Brennisteinsnámur. En við höldum áfram og liggur leiðin um austurenda Draugahliðar. Þar hefur bæði verið ruddur vegur og hlaðinn. Þegar niður kemur liggur leiðin yfir hraun, sem nefnist Skarðahraun, kennt við Grindaskörð. Þar förum við gegnum girðingarhlið og litið eitt austar eru svo tvær vörður, sem við köllum Tvívörður. Liggur nú leiðin austur og upp undir Kóngsfellið litla.
Í hrauntröðum, sem þar eru, blasir við okkur lítill skúti. Hann er kallaður Dauðsmannsskúti. Þar varð úti maður um 1860. Selvogsgata-441Skörðin búa yfir mikilli dul, þvi 1633 hvarf þarna maður og hefur ekkert af honum fengizt. Haldið var að tröll hafi heillað hann. Þorstanum svalað í Sælubunu Nú tekur leiðin á sig hlykk og stefnir vestur og liggur þar um svonefndan Grafning. Við Þrívörður eru vegamót. Þar niður eftir sléttu klapparhrauni liggur Stakkavíkurvegur, fyrir endann á vestari Hvalhnúk og slðan niður Fjallið niður um Selstig að Stakkavik og vestur að Herdísarvík. Annar stigur liggur nokkru austar niður Fjallið og heitir hann Hlíðarvegur, liggur í Hlíðarskarð og niður skarðið að Hlíð. Þessir vegir eru nú sjaldan farnir.
Þegar komið er niður úr Grafningi er komið I fagran dal, sem heitir Stóri-Leirdalur. Þar er grösugt og sléttar flatir norður með Hvalhnúknum. Úr Leirdal liggur leiðin upp í Hvalhnúkaskarð og niður úr því sunnan við gil, sem þar er.
Blasir nú við Fjallið, sem þeir kalla sSelvogsgata-442vo Selvogsingar, Herdísavíkurfjall, Stakkavíkurfjall og Hlíðarfjall,og er þetta afréttur þessara bæja í Selvogi. Þegar kemur fram úr Hvalhnúkaskarði liggur leiðin vestur undir hliðartöglum Heiðarinnar háu, er þar víða grösugt, og heita á vinstri hönd Hvalhnúkabrekkur.
Góðan spöl suður frá Skarðinu er hraunhóll mikill og heitir Þorvaldshóll. Þegar honum sleppir taka við móar og er gatan heldur ógreið um þá. Þá er komið í Litla-Leirdal, sem eiginlega er slakki utan í Heiðinni. Þar nokkru neðar er svo uppspretta og kringum hana flöt, og er þetta kallað Rituvatnsstæði. Nokkru neðar verða á vinstri hönd við okkur fell, sem heita Urðarfell. Þau eru tvö, Urðarfellið stóra og Urðarfellið minna. Þau eru aðskilin af gili er nefnist Kálfsgil. Í því er uppspretta nefnd Sælubuna. Gott vatn ungum sem gömlum.
Utan í Urðarfelli stóra er Strandardalur, en í Urðarfelli litla eru Hliðardalirnir tveir. Þá komum við i Katlana og Katlahraun. Við sniðskerum það vestur á við og erum þá komnir á fjallsbrúnina. Heita Selvogsgata-610hér Katlabrekkur þar sem leiðin liggur niður af fjallinu. Þar í grasivaxinni laut eru vegamót. Liggur ein leiðin þaðan út með Hlíðarfjalli og heitir þar Hlíðarvegur. Önnur leið er þarna og heitir Vogsósaleið. Liggur hún niður svæði sem kallast Rofin um Aldindal og Stekkjardali í Hlaupandahóla heim til Vogsósa.
Hópurinn dreifist En við skulum halda áfram ogstefna á byggðina. Leiðin liggur um Austur-Rofin,og sunnar er fell á vinstri hönd, sem heitir Vörðufell. Þar voru lögréttir þeirra Selvogsinga. En fell þetta er einnig frægt fyrir sinar mörgu vörður. Svo er mál með vexti, að þegar unglingar voru sendir að leita fjár eða annars búpenings, þá kom oft fyrir, að þeir fundu ekki gripina. Fóru þeir þá á Vörðufell, og ef þeir hlóðu vörðu brást það ekki að þeir fundu gripina.
Leiðin liggur þarna upp svo nefndar Eymu-Illhæðir eða Eymu-Hellhæðir, og svo er komið að Selvogsgata-611Kökhól og Skálinn er þar ekki langt frá. Austan leiðarinnar eru nokkrarhæðir, svo sem Strandarhæð og Strandarhellir, og þar skammt frá e r hellirinn Gapi, og enn sunnar er Bjarnarhellir. Á þessum stöðum eru rúmgóðir fjárhellar.
Nú erum við komnir niður á þjóðveginn og þar hittum við á vegamót. Við höldum svo niður í Klifið og eru þá Dalhólalágar á hægri hönd, en nokkru neðar á vinstri hönd eru Bjarnastaðahólar. Þeir sem byggja Þorkelsgerði fara nú í suð-vestur, en Bjarnastaðamenn og Nesmenn halda niður undir túngarð. Þar skilja enn leiðir, og halda Bjarnastaðamenn suður og heim, en Nesmenn austur með garði um slétta velli, sem heita Flatir, síðan í túngarðshliðið og heim til bæjar.
Við köllum þetta Selvogsleið eða Selvogsveg, en Selvogsingar kalla hana Suðurferðaleið, og er það einkennilegt, þvi leiðin liggur þvi sem næst i norður.

Selvogsgata-612

Þessi leið sem við höfum nú farið er ágæt gönguleið að sumri til. Tekur 6 klukkustundir að ganga hana þegar rólega er farið. Ráðlegg ég öllum sem vilja halda sér ungum að ganga hana tvisvar til þrisvar á sumri.“ Gísli Sigurðsson
Taka má undir orð Gísla að leiðin heldur eldrendum yngri. Sá hluti er nú var genginn, frá Bláfjallavegi í Selvog um Grindaskörð, er sem fyrr sagði, 24 km löng. Hér er Kerlingarskarðsleiðin látin liggja á milli hluta, hvort sem um er að ræða annan hluta Selvogsgötunnar eða tvískiptar götur Hlíðarvegar og Stakkavíkurvegar.
Selvogsgata-613Tvær vörður segja til um leiðina norðan Kerlingarskarðs-leiðarinnar.
Þær leiða göngufólk að neðanverðum Skörðunum. Neðarlega í þeim er leiðin nokkuð augljós. Úrbætur hafa verið gerðar á nokkrum stöðum á leið upp í öxlina norðan Konungsfells. Á seinni tímum hefur fellið fengið örnefnið „Stóri-Bolli“, en það stafar líklega af ókunnugleika. Samnefndur bolli er norðvestan í fellinu, all mikilfenglegar, en jafnframt mörgum duldar jarðminjar.
Þegar komið er yfir Skörðin skiptist Selvogsleiðin gamla í tvær leiðir, eða reyndar þrjár að meðtöldum Heiðarvegi. Tvær vörður gefa vísbendingu um gatnamótin. Heiðarvegurinn liggur þaðan að vestanverðum Bláfjallaenda, áfram niður með Kerlingarhnúk og niður í Ölfus. Frá Endanum er gatan vörðuð að mestu.
Hinar tvær leiðir Selvogsgötunnar eru annars vegar til vinstri niður með hraunbrúninni og hins vegar upp á hana og yfir. Leiðirnar koma saman skammt sunnar, milli Konungsfells og Litla-Kóngsfells. Vörður vísa leiðina. Síðarnefndin er öllu greiðfærari um slétt helluhraun.
Að þessu slepptu skýrir gatan sig nokkuð vel þegar gatnamótum (tvær vörður) Grindaskarðsleiðar annars vegar og Kerlingarskarðsleiðar hins vegar sleppir. Gatan getur að vísu verið torráðin á köflum, s.s. neðan Fossagils, neðan Hvalshnúkaskarðs og sunnan við Strandarmannahliðið. Að öðru leiti ætti leiðin að vera auðrakin þeim er kunna að lesa landið. Aðrir gætu lent í vanda á þessari leið.
Þess má geta að jafnan þegar auglýstar eru ferðir um „Selvogsgötuna fornu“, jafnvel af virtum ferðafélögum, er Hlíðarvegurinn jafnan genginn um Kerlingarskarð að Hlíðarskarði. Það verður að teljast alveg sérstaklega ódýr biti í hundskjaft, ekki síst ef tekið er tillit til hinnar sögulegu notkunar og þróunnar vega (leiða) millum Selvogs og Hafnarfjarðar. Minna má á, ekki síst vegna þessara leiða, að mikil makatengsl lágu fyrrum milli þessara byggðalaga og eiga afkomendurnir þeim miklar þakkir skyldar.
Frábært veður. Gangan tók 7 klst og 7 mín.

Heimild:
-Þjóðviljinn, 15. júlí 1973, Gísli Sigurðsson, Gamla Selvogsleiðin, bls. 6-7Selvogsgata-602

Selvogsgata

Gengið var upp Selvogsheiði. Gamla Suðurfararveginum (Selvogsgötunni) var fylgt upp heiðina og upp í Strandardal. Þar var ætlunin að kíkja í Kálfsgil og athuga hvort ekki sæist í a.m.k. eitt horn hinnar fornu Gullskinnu, mestu galdrabók allra tíma, sem séra Eiríkur á Vogsósum er sagður hafa grafið þar svo bókin sú arna yrði ekki til fleiri rauna en hún hafði þegar orðið.
vordufell-991Götunni var fylgt upp heiðina. Á henni miðri, skammt vestan og ofan við Vörðufell, var gengið fram á gróna kofatóft. Skammt suðvestan hennar var fallega hlaðið gerði á hól. Húsið var stakt, sem bendir til þess að þar hafi verið sæluhús á heiðinni. Á Vörðufelli er gömul hlaðin fjárrétt Selvogsmanna. Þar eru einnig Smalavörðurnar, en þjóðsagan segir að smalar, sem týnt hefðu einhverjum hlut, hefðu þá hlaðið litla vörðu á fellinu og skipti þá engum togum – þeir fundu hann skömmu síðar. Syðst á fellinu er markavarða. Krossmark er á jarðfastri klöpp sunnan og neðan við hana.
Haldið var áfram upp í Strandardal og stefnan tekin á Kálfsgil. Efst í dalnum er Sælubúna, gömul lind, sem kemur undan hlíðinni. Hana þrýtur aldrei og gat fólk fyrrum jafnan treyst á vatnið úr henni þegar það var við heyaðdrætti í Strandardal og Hlíðardal þar ofan við.

Strandardalur

Strandardalur.

Kálfsgilið var þurrt. Þegar gengið var upp það miðja vegu mátti, ef vel var að gáð, sjá glitta í skinnpjötlu, nær samlitu grjótinu. Nú var hver sekúnda dýrmæt. Þegar reynt var að nálgast staðinn var sem jörðin opnaðist skyndilega á svolitlu svæði og grjót tók að hrinja úr gilinu. Við það hrúgaðist að staðnum svo pjatlan varð næstum því utan seilingar. Þvílík tilviljun að jarðskjálfti skuli endilega þurfa að hrista gilið þegar einungis vantaði herslumuninn að tækist að krækja í Gullskinnu. En skjálftinn kom aðeins of seint til að hylja bókina. Hún var rifin upp, pakkað í skyndi og er nú í öruggri vörslu og bíður opnunar. Hvort í henni megi finna lýsingu á upphafi landnáms hér á landi eða galdraþulur skal ósagt látið – að sinni. Í öllum látunum hvarf myndavélin niður um gatið, sem myndast hafði. Það kom ekki að sök hvað Gullskinnu snerti, enda ekki unnist tími til að taka kyrrstöðumynd af henni í látunum. Engar myndir fylgja því þessari lýsingu.
strandardalur-991Skuggi segir frá Gullskinnu, eða Gullbringu eins og hann nefnir hana einnig, í riti sínu um Brísingamenn Freyju. Ritið kom út 1948 og kallaði á mikil skoðanaskipti. Þar er því haldið fram að Gullskinna hafi verið með fyrstu Landnámsbókunum, en aðrar verið byggðar á henni, þótt ýmsu hafi þá verið sleppt. Hún segir t.a.m. frá Krýsum í Gömlu Krýsuvík, aðförinni að þeim og yfirtöku Dana, sem síðar voru nefndir hinir fyrstu Landnámsmenn. Þeir komu frá Noregi.
disurett-991Í sögnum af galdraprestinum Eiríki frá Vogsósum segir af Gullskinnu. Hún var mikil galdrabók, sem fór víða og margir vildu eiga. Hún barst hingað til lands með útlensku skipi. Það fórst, en maður kom henni í land í Selvogi við illan leik. Eiríki áskotnaðist bókin og notaði hann hana þegar þurfa þurfti. Öfl reyndu að nálgast bókina og taldi Eirkur vænlegast að láta hana hverfa. Segir sagan að hann hafi grafið hana í Kálfsgili. Þar hefur sést til hennar endrum og eins, en ávallt við tilteknar aðstæður, líkt og nú voru. Í bókinni er, skv. sögunum, m.a. kveðið á um hvernig eigi að magna upp óveður, fægja lágþoku og leita regns.

Strandardalur

Strandardalur – hellir.

Gengið var með Katlahlíð yfir að Katlahrauni, þvert á Hlíðargil. Þar er Dísurétt í hraunkvos, fallega hlaðin og hefur haldið sér nokkuð vel frá árinu 1938. Erfitt er þó að finna réttina vegna legu hennar í hrauninu, en hún er mun nær Strandardalnum en áður var talið. Þá var komið að réttinni að vetrarlagi úr vestri, en nú var komið að henni að sumarlagi úr austri. Frá henni er ágætt útsýni upp Strandardal og yfir víðan Hlíðardalinn vestan Svörtubjarga.
Gengið var að nýfundum helli og síðan niður geldingahnappsþakta heiðina vestan Suðurfararvegar. Þá var komið að tóftum Hlíðarsels og Valgarðsborg skoðuð áður en haldið var áfram niður heiðina og að upphafsstað. Á leiðinni var gengið fram á merkt greni og hlaðið byrgi grenjaskyttu.
Fá framangreindra mannvirkja hafa verið skráð.

Strandardalur

Varða ofan Sælubunu efst í Strandardal.

Lýðveldishellir

Lagt af stað kl. 8.00 að morgni í göngu á Brennisteinsfjöll í blíðskapar veðri með tjöld, svefnpoka og vistir til tveggja daga.

Brennisteinsfjöll

Í námum Brennisteinsfjalla.

Bílnum lagt við Bláfjallaveg og haldið upp Grindaskörð, Draugahlíðum fylgt austan megin og stefnan tekin á Gráfeld. Gráfeldur er fallegur rauðleitur gígur við vesturenda Draugahlíða, úr honum er Selvogshraun runnið, yngsta hraunið á þessu svæði, runnið eftir landnám en fyrir 1226. Gráfeldur er 543m h.y.s. og þaðan er gott útsýni. Af Gráfeld var haldið niður í búðir við Brennisteinsnámur, þar var slegið upp tjöldum, námurnar skoðaðar og göngunni haldið áfram. Brennisteinsvinnsla var þarna síðast á síðari hluta 19. aldar. Þá var haldið á Kistufell 602m stór og tilkomu mikil gígur. Þar var mikið dáðst að útsýni enda himin nánast alveg heiður, sást alveg austur til Heklu, á Jarlhettur, Skjaldbreið, Esju o.fl. ofl. Snæfellsjökul og Reykjanesskaginn allur lá eins og útbreidd landakort. Vel mátti m.a. sjá Eldey.

Kistufell

Brak í Kistufelli.

Eftir gott stop og nesti var haldið niður að flugvélaflaki í suðurhlíðum Kistufells. Þar fórst Hudson l/251, tveggja hreyfla kafbátaleitarvél frá breska flughernum 27. mars árið 1945. Með vélinni fórust fimm menn. Brak var þar á víð og dreif fyrir neðan.
Enn var nóg eftir af deginum og því haldið áfram í vesturátt. Gengið um Kistu, fallega en margslungna eldstöð, milli Kistufells og Eldborgar. Kíkt í op Lýðveldishellis en ekki farið inn að þessu sinni enda átti það ekki við í svo mikilli sól og blíðu og stuttbuxum.

Kistufellsgígur

Kistufellsgígur.

Gengið á Eldborg og um sléttar og fallegar hrauntjarnir þar í kring en svo snúið við. Haldið var inn í Kistufellsgíginn á bakaleið, nú skein síðdeginssólin inn í gíginn og naut hann sín til fullnustu. Haldið til baka í tjaldbúðir og súpan hituð í einum af hverunum ofan við brennisteinsnámurnar. Þá mátti sjá einn lítil mórauðan tófuyrðling skjótast þar milli steina.

Brennisteinsfjöll

Gengið um Brennisteinsfjöll.

Vaknað árla morguns næsta dag eftir góðan nætursvefn og enn skein sólin en þoka lagðist þó brátt að. Tjöld tekin saman og byrðirnar axlaðar og stefnan tekin á Hvirfil 621m. Þaðan er mjög gott útsýni þó það nyti sýn ekki að þessu sinni. Þess í stað mátti njóta dulúðugst ævintýrablæs þessarar fornu eldstöðvar í þokunni. Þá var haldið áleiðis niður í Grindaskörð aftur og létti þokunni þá mikið. Gengið upp á Tvíbolla áður en haldið var niður. Til byggða komu þrír þreyttir og sólbrunnir göngugarpar en sælir og ánægðir eftir um það bil 30 km göngu á tveim dögum.

Sjá MYNDIR.

-JG – VG.

Í Brennisteinsfjöllum

Í Brennisteinsfjöllum.

Stórkonusteinar

Gengið var spölkorn eftir Selvogsgötunni áleiði supp í Kerlingarskarð. Áður en síga tók í var vent til hægri, niður slóða til vesturs undir Lönguhlíðum. Komið var m.a. við hjá Stórkonusteinum, gengið um Stórahvamm, framhjá Leirhöfðaatnsstæðinu, upp á Móskarðshnúka norðan Háuhnúka, niður Markrakagil og síðan til norðurs með Undirhlíðum, um Stóra-Skógarhvamm og að Gígbrekkum við Bláfjallaveg.

Stórkonusteinar

Stórkonusteinar framundan.

Selvogsgatan var þjóðleið milli Hafnarfjarðar og Selvogs í Ölfusi, um dagleið þegar hún var farin í einum áfanga. Eftir að komið var upp úr Mosunum í Þríhnúkahrauni ofan við Strandatorfur greindist leiðin, annars vegar upp Kerlingarskarð og hins vegar upp Grindarskörð. Ef haldið var um Kerlingarskarð var staðnæmst við vatnsstæði skammt ofan við skarðið. Svolítið vatn var þó einnig fáanlegt í drykkjarsteinum efst í skarðinu. Við vatnsstæðið er hlaðið í götuna. skammt frá því greinist gatan í tvennt; annars vegar niður Hlíðarveg, vel varðaða áleiðis niður að Hlíðarskarði ofan við Hlíð við Hlíðarvatn, og hins vegar til austurs yfir á Selvogsgötuna, sem kom þar ofan frá Grindarskörðum. Skammt austar var svo Heiðarvegurinn um Heiðina há niður í austanverðan Selvog. Selvogsgatan lá með gjám (m.a. Stórkonugjá) gígum og hlíðum niður að Hvalsskarði. Neðan þess tóku við Strandardalur og Hlíðardalur þar sem Sælubuna var kærkomin áningarstaður. Þaðan lá gatan áfram niður heiðina, um Strandarhæð og niður í Selvog. Vörðurnar við gömlu Selvogsgötuna, eru flestar fallnar. Þar sem gatan liggur um Þríhnúkahraun hafa vörður þó verið endurhlaðnar.
Stórkonusteinar nefnast nokkur móbergsbjörg í Lönguhlíðarkróki, heldur nær Kerlingarskarði en Kerlingagili. Samkvæmt gamalli munnmælasögu velti tröllskessa í Stórkonugjá björgunum niður af Lönguhlíðarfjalli þegar eftirreiðarmenn reyndu að fanga hana.
Moskardsnukar Stórihvammur eða Lönguhlíðarhvammur austan Lönguhlíðarhorns var mjög grösugur í eina tíð og gott beitiland, en sandburður hefur spillt undirlendinu. Þó má enn sjá gróin valllendi milli hrauns og hlíða. Hraunið er úr Bollunum í Skörðunum fyrrnefndu. Stóribolli er einn formfegursti gígur landsins og enn nær óraskaður. Ofan hvammsins eru tvö gil og upp af því vestara áberandi móbergsklettur, sem nefnist Stórahvamms-Stapi. Beggja vegna eru einnig háir móbergsveggir.
Lönguhlíðarhorn skagar út úr hlíðinni líkt og Vatnshlíðarhornið norðan Lambhagatjarnar, Í því sunnanverðu er Kerlingagil, ágæt gönguleið og greiðfær upp á Lönguhlíðar.
Haldið var um Leirdali. Dalirnir eru í lægðarslakka, sem fyllast af vatni á veturna, með gróðurtorfum á milli. Álftanesskógar voru á þessum slóðum til forna, en nú finnast eingöngu stakir víði- og birkirunnar og einibrúskar hér og þar. Tvö vatnsstæði eru í Leirdölum, það syðra líkara vatni. Líklega hefur það verið ástæðan fyrir tóftunum í Fagradal, skammt sunnan þess.
Sunnan Leirdalshöfðavatnsstæðis liggur forn þjóðleið, Leirdalshöfðaleið.
Leirdalshöfðaleið liggur eins og Dalaleið frá Kaldárseli að Leirhöfða. Hún þræðir sig suður með höfðanum og fylgir suðurhlíðum hans að Leirhöfðavatnsstæði. Þar er stefnan tekin á Fagradalsmúla og Fagradal, eða um Breiðdal að Blesaflöt og fylgir síðan Vatnaleiðinni til Krýsuvíkur. Rjúpnaveiðimenn héldu gjarnan inn í Fagradal og fylgdu bröttum slóða, sem liggur frá dalbotni upp á brún Lönguhlíðarfjalls. Þegar upp er komið er hægt að velja ýmsar leiðir, en gömul þjóðleið liggur í áttina að Hvannahrauni (Hvammahrauni) og Gullbringu, hjá Geithöfða, um Hvamma og fram með Lambafellum að Krýsuvík.
Undirhlidar Gengið var á Móskarðshnúka um ás milli Breiðhdals og Slysadala.
Háuhnúkar eru hæstu ásar Undirhlíða suðvestan Markagils (Markrakagils) og skammt frá Vatnsskarði, vestan (sunnan) við Móskarðshnúka. Þeir eru allt að 263 m. háir. Á milli hnúkanna eru grónir hvammar og víða standa móbergskollar upp úr ásunum sem vatn og vindar hafa sorfið og mótað í aldanna rás. Þessi syðsti hluti Undirhlíðanna hefur af sumum verið nefndur Undurhlíðaendi því í Vatnsskarðinu (sem aðrir telja reyndar að hafi verið skarðið vestan Vatnshlíðarenda þar sem menn sjá fyrst niður að Kleifarvatni ofan Blesaflatar) tekur Sveifluhálsinn við. Móskarðshnúkarnir eru hins vegar heimur út af fyrir sig. Hæstur er syðsti hnúkurinn. Þegar horft er á hann úr vestri má sjá andlit horfa efst úr honum til norðurs. Norðan hans er hnúkaþyrping. Norðvestast í henni er falleg lítill móbergsskál, sem vindar og vatn hafa leikið sér að móta svo um munar. Skálin er bæði skjólsæl og einstaklega falleg. Skessukatlar eru við hana vestanverða. Á Undirhlíðum, skammt norðan við Móskarðshnúka, virðist vera gerð tilraun til melræktunar með neti, sem lagt hefurverið á jörðina, þ.e. að láta netið mynda skjól fyrir lággróðurinn.
Móskarðsgil, á milli Móskarðshnúka og Stóraskógarhvamms, þykir fremur torfarið og svo er reyndar um öll gilin fjögur á vestanverðum Undirhlíðum milli Krýsuvíkurvegar og Bláfjallavegar, nema Markagil (Markrakagil). Mörk Hafnarfjarðar liggja um gilið og þar mætast og mörk Garðabæjar og Grindavíkur í sneiðing með Lönguhlíðarhorninu.
Undirhlidarvegur Markagil virðist torvelt uppgöngu, en ofan frá séð er engum torfærum fyrir að vara. Neðst í gilinu eru fallegur smágerður stuðlabergshamar. Ystagil er skammt sunnar og Sneiðingur nyrst þessarra gilja.
Norðan Móskarðsgils er gróskumikill furuskógur, sem unglingspiltar í Vinnuskólanum í Krýsuvík plöntuðu út 1959 til 1964, m.a. sá sem þetta skrifar, í samstarfi við félagsmenn í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar.
Sumir hafa viljað Markagil þar sem nú er Vatnsskarð. Aðrir hafa fært það að næsta gili að norðan, en á kortum er gilið á fyrrnefndum stað. Á milli þess og Stóra-Skógarhvamms er Höfðinn, stundum nefndur Út-Höfði til aðgreiningar frá Inn-Höfða, sem er sunnan þess.
Brunahryggur nefnist hraunbrún í Nýjabruna norðvestan Undirhlíða. Í skjólsælum hvammi sunnan hraunbrúnarinnar hafa birkitré fest rætur og fengið frið til að vaxa. Þessi sérkennilegi blettur í mosagrónu hrauni er utan alfaraleiðar og fáir venja þangað komu sínar.
Undirhlíðaleið hófst við Kaldársel og lá norðan Undirhlíða yfir núverandi Bláfjallaveg að Vatnsskarði. Þar var haldið áfram yfir núverandi Krýsuvíkurveg og gengið með Sveifluhálsi um Norðlingasand og Sandfellsklofa upp að Hrútagjárhrauni, yfir Norðlingaháls um Stórusteinabrekku, framhjá Köldunámum, um Hofmannaflöt í áttina að Katlinum. Þar tók Ketilsstígur við og lá yfir Sveifluháls framhjá Arnarvatni, að Seltúni þar sem heimalönd Krýsuvíkur tóku við.
Nú er búið að stika Undirhlíðaleiðina. Á a.m.k. einum stað á þessum kafla má vel sjá móta fyrir hinni gömlu götu, þar sem hún er mörkuð í slétta hraunhelluna, en annars hefur slóði verið lagður yfir hana að hluta.
Gangan tók 1 klst og 11 mín. Frábært veður – skin og skúrir.

Heimildir m.a.:
-Raleikur Hafnarfjarðar 2006.
-Þorkell Árnason.

 Grindarskörð

Grindarskörð.

 

Selvogsgata

Lagt var af stað eftir Selvogsgötu (Suðurfararvegi) til norðurs frá Útvogsskála[vörðu] vestan við Strandarhæð. Varðan er vandlega hlaðin, ferköntuð, enda ætlað að verða ferðafólki áreiðandi leiðarmerki á ferð um þessa gömlu þjóðleið.

Selvogsgatan neðanverð

Ætlunin var að fylgja götunni upp Selvosgheiði, um Strandardal, Hlíðardal, Litla-Leirdal og allt upp að Hvalsskarði í Hvalhnúk. Þaðan var ætlunin að ganga til vesturs með sunnanverðum Austurásum og yfir að Vesturásum þar sem eru gatnamót Stakkavíkurvegar og Hlíðarvegar skammt austar. Af þeim tvennum átti að þessu sinni setja meginstefnuna á fyrrnefnda stíginn, niður í Selsskarð og eftir Selsstíg áleiðis niður að Stakkavík. Til eru greinargóðar lýsingar á stígum þessum og verður helstu kennileita á þeim getið hér á eftir – eftir því sem fætur um þær leiðir liggja. Og auðvitað, líkt og venjulega, urðu nokkrar óvænta, og áður óþekktar, uppgötvanir á leiðinni.
Eftirfarandi er hluti lýsingar Konráðs Bjarnasonar af kaupstaðaleið Selvogsmanna frá Torfabæjarhliði um Grindarskörð til Hafnarfjarðar.
“Þetta var gamla lestamannaleiðin um aldir og allt fram undir 1940 á meðan henni var haldið við ruðningi sem sýsluvegi.
Vorsmalamennsku og rúningi var lokið og ull fullverkuð, þurrkuð, sekkjuð og bundin til klakks, sem hestaburður á mörgum hestum. Góðveðursdagur var valinn, hestar heima við vel járnaðir og lagt af stað í fulla dagleið klukkan sjö að morgni.
Þorkelsgerði var um aldir ein jörð; lögbýli með bændakirkju á 15. og 16 öld og varð um skeið eign höfðingjanna á höfuðbólinu Strönd, en deildist síðar, einkum milli fjögurra búsetumanna, undir heitunum Austurbær, Miðbær, Vesturbær og Torfabær, eftir að Torfi Erlendsson, sýslumaður, náði þar búsetu ásamt Stafnesi. Hann kom þangað um 1656 og dó þar. Hin fjórskipta búseta á Þorkelsgerðisjörðinni er bókfest: 1681, 1703 (Jarðabók Á.M. og P.V.), 1706, 129 og 1735. Eftir 1760 varð samruni í Austurbæ og Miðbæ til bújarðarinnar Þorkelsgerðis I og æ síðan. Þá kemur fram í þinglesinni landamerkjaskrá 12.06.1890, að hún er gildandi fyrir Þorkelsgerði I, Vesturbæ og Torfabæ.
Gerði neðan StrandarmannahliðsHestalest Þorkelsgerðismanna lagði upp frá heimtröðinni austur í Moldu og þar norður og vestur með túngörðum, uns hún beygði á götuna upp Flögin á móts við áðurnefnt hlið. Gatan var vel rudd og eftir tæpan stundarfjórðung er lestin komin móts við Útvogsvörðu á hægri hönd. Mikil varða, þykk, ferköntuð með strýtu upp úr miðju og þar upp úr sundmerki, af tré í þríkant, enda mikilvægt tákn, vegna Stokksvíkurssunds til Þorkelsgerðislendingarvara.
Þá liggur gatan nokkuð greið eftir sandeyðingum, þar til hún nær grasflötum neðan Dalhólalágar. Rétt áður á vinstri hönd fórum við framhjá vörðubroti á lágum hól, Hrossabeinavörðu. Þar sá ég á æskudögum hvíttærð hrossabein þeirra er fallið höfðu í harðræði. Þar skammt ofar á vinstri hönd er Dauðhóll, einn vitnisburður um búgripafelli.
Nú erum við komin upp í Dalhólalágina, gróna vallendis snögggróðri. Austan við hana lá Bjarnastaðavegur í átt til sýsluvegar upp Selvogsheiði til Ölfuss.
Selvogsgata ofan HlíðardalsLestargatan úr Útvogi, er við fylgjum upp úr Dalhólalág, liggur fast að Útvogsskála, þykkhlaðinni ferkantaðri vörðu með strút efst og var allvíðsýnt frá henni, einkum inn í vesturheiði, allt til Hlíðarvatns og fjallgarðsins þar upp af. Við Skálavörðuna var fyrrum stekkur, er vel sást fyrir í umdæmi mínu.
Austur af Útvogsskála voru Dalhólar og á einum stóð Árnavarða. Í norðaustur af henni sést til Bjargarhellis með vörðu á grónum hellishól. All nokkur austar af Bjargarhelli, eru sandkenndar grasflatir, er tóku við í suðvestur af Hásteinaflagi og sveigjast til suðvesturs, sem snögggróið valllendi vestan við hið mikla sandflæmi til austurs. Þar í sandjarðri eru Fornugötur, er liggja niður að Digruvörðu og framhjá henni til Nes og túngarðshliða Bjarnastaða.
Frá Útvogsskála lá lestargatan eftir snögggrónum vallargróðri, er náði inn að Kökuhól, en vestan við hann lá gatan inn á Rof með stefnu á Katlahraun, vestan Urðarfella. Ekki var löng leið frá Útvogsskálavörðu að Kökuhól, en rétt áður en við höfum náð til hans förum við yfir þjóðleiðina fornu úr Ölfusi framhjá Vogsósum til Útnesja.
Varða við Selvogsgötu við Litla-LeirdalKökuhóll er vestasti hluti lágheiðararms þess, er liggur til vesturs frá suðurhluta Standarhæðar. Nokkru austar af honum fast við þjóðleiðina er fjárhellirinn Gapi. Framan við hann var fjárrétt vel hlaðin og stendur hún enn með lágum veggjum vegna þess hvað gróinn jarðvegur hefur hækkað innan hennar, svo og í hellinum, sem var fyrr hár til lofts og rúmgóður. Sagt var í honum hefðu fyrr á tímum hafst við næturlangt langferðamenn til Útnesja. Suður af honum var smáhellir með vörðubroti, en nú með gleymdu nafni. Nokkru austar og norður af Gapa, er allvíð hæð er ber hátt yfir umhverfi sitt og allvel gróið lyngi áður fyrr. Þar var venja að svipast um í hestaleit miðheiðar. Á hábungu hæðarinnar er hringlaga jarðfall, grasi gróið í botni og með góðum niðurgangi fyrir menn og skepnur. Þetta er Kerið á Strandarhæð með stórhelli einkum í norður, er hýsti um 200 fjár. Strandarhellir, sem er sögulegur og verður því ekki komist hjá því að staðfesta það frekar:
Þorvarður og sonur hans Erlendur, lögmenn sunnan og austan sátu höfuðbólið Strönd í Selvogi á 15. og 16 öld og náðu undir það í krafti stórveldis síns, nærliggjandi jörðum. Erlendur fór að vísu offari og tapaði stóreign sinni til Konungs um 5 ára skeið, en fékk svo aftur 1558 og varð þá stórbú hans mest, allt til æviloka 1576, þá um áttrætt.
Sú saga er sögð og fyrir löngu skráð, að Erlendur átti 600 ásauði og af þeim gengu 200 með sjó á vetrum og höfðu þar fjárborg, og geymdi þeirra einn maður. Önnur 200 gengu upp á völlunum við Strandarborgir (Borgirnar þrjár) og geymdi þeirra annar maður. Þriðju 200 gengu á Strandarhæð við Strandarhellir, og geymdi þeirra hinn þriðji maður.
Sú saga er sögð af fjárgæslumanni Erlendar við Strandarhelli, sem hafði ströng fyrirmæli frá Erlendi, sem og hinir, að týna engri kind úr hjörðinni og að líf smalamanns gæti legið við.

Varða við Stakkavíkurveg millum Ása

Þá bar það til einn vetur, að fjármaður við Hlíðarendahelli í Ölfusi (um 12 km fjarlægð) fann 2 kindur með marki Erlendar á Strönd í fjárbyrgi sínu og voru Erlendi send boð þar um. Erlendur kallaði þá fjárgæslumann inn við Strandarhelli fyrir sig og var þungbúinn mjög og sagði að upp væri komið, að hann hefði týnt úr hjörð sinni og hverju hann svaraði til. Sauðfjámaður harðneitaði að hafa týnt úr hjörð sinni og sagði að kindur þessar hefðu geta komist neðanjarðar í Hlíðarendahelli, því enginn hafði komist svo langt inn í Strandar- eða Hlíðarendahelli að endir hafi fundist. Við þessu átti Erlendur engan mótleik og lét kyrrt liggja, því hann var mikill lögmaður og mat að verðleikum réttmæt gagnrök og viðurkenndi eigin rökþrot.
Við erum nú komin drjúgan spöl framhjá Kökuhól in á heiðina og áfram eftir hinu fjölgróna Katlahrauni, sem kemur niður austanvert af Hlíðarfjallsbrekkum og verður að Katlabrekkum í halla sínum. En þar sem lestargatan liggur yfir það í átt til Hlíðardals, er það milt og vinalegt í fjöljurtagróðri sínum. Austur af eru Svörtubjörg. Þar stendur Eiríksvarða í fullri reisn sinni svo tæpt á bjargsbrún að ekki fýsir menn að ganga framan við hana. Í munnlegri geymd er talið fullvíst að séra Eírikur Magnússon, hinn fjölfróði, hafi staðið fyrir byggingu vörunnar og valið henni stað.

StakkavíkurvegurTilgangur vörðubyggingarinnar hefur vafalaust verið að slá á þann stöðuga ótta er fólkið á úthafsströndinni bjó við, einkum frá landgöngu víkinganna voðalegu frá Algeirsborg, er gengu á land í Grindavík 20. júní 1627, nokkru vestar á sömu úthafsströnd.
Nú er lestin komin langleiðina yfir Katlahraun. Nú blasa við augum á hægri hönd Strandardalabrekkur allbrattar og vel grösugar að efstu brún. Kálfsgil, er liggur frá Stakafelli, klífur Strandardalinn nær miðju og endar innri hluti hans í hvammi undir bergvegg, sem gengur út í Katlahraun og verður að öxl þeirri er skilur að Strandar- og Hlíðardal. Úr bergöxl þessari sprettur silfurtær vatnslind, Sælubuna, sem er ómetanleg fyrir heyskapafólk í nefndum dölum. [Bunan sæla var reyndar þurr í þetta sinnið.]
Nú erum við lestarmenn í nokkrum halla á fótinn að komast framhjá bergöxlinni með sælubuninni sinni og þar með erum við komin á undirlendi Hlíðardals. Hann stendur Strandardal ofar mót hækkandi heiðlendi. Hann er hvammslaga og vel grösugur upp á brún. Efst í dalnum stóð eitt sinn bær Indriða lögréttumanns, Jónssonar. Hann var þar á fyrri hluta 17. aldar, merkur maður, góður skrifari og smiður.
Lestargatan frá Urðarfellum til Litla-Leirdals liggur yfir einskonar hraunmóa, ávallt vel rudd á tímum lestarmanaferða. Nú fara að koma í ljós þokkafullir hraunhólar á hægri hönd með nokkrum brekkuhalla frá þeim niður í dæld þar sem stargresi vex út í snoturt vatnsstæði, Rituvatnsstæðið, sem kom sér vel fyrir sauðféð í sumarhögum og heyskapamenn á fjalli. Ofan við vatnsstæðið beygði gatan í norðaustur upp grasbrekkuhalla. Þegar upp var komið blasti Litli-Leirdalur við, alllangur í sömu átt. Í suðausturhorni hans, nú á hægri hönd, er fallegur hraunhelluhóll með fallegri grasflöt er leggst upp að honum vestanverðum. Dalur þessi var allvel grösugur fyrr og sleginn ásamt brekkum og grasgeirum austan og innan við hann.
Gatan upp úr dalnum liggur eftir lágbrekkuhalla og sveigist brátt í norðvestur yfir hraunmóa með grasdrögum Varða við Stakkavíkurveghér og þar, einnig með klifum sem voru á tímum lestarferðanna þannig gerðar að þær yrðu hestum sem best færar. Hinir mörgu svigar á vegferð þessari voru vegna hraunhólanna þar til komið var upp að Hvalskarðsbrekkum. Þá liggur gatan eftir mjúkri moldargötu neðanvert brekkum þessum þar til komið er að Hvalskarði, sem er allskörp klauf milli Hvalshnúks Eystri og Vestri. Sá Eystri verður því á hægri hönd og sveigist allhátt til norðurs, en sá Vestri á vinstri hönd upp skarðið og er alllangur í vestur, fer hækkandi frá Hvalskarði uns hann hækkar nokkuð við vesturhluta sinn.
Þegar kaupstaðalestin kemur að Hvalskarði blasir lestargatan við sem afbragðslestargata, sneiðskorin austan í rauðamelsskriðu Hvalshnúks Vestri og endar í rúmri góðgötu á hálsinum upp af skarðsgilinu og liggur þaðan örstutta leið ofan í suðurhluta Stóra-Leirdals, sem liggur fast upp að Hvalhnúk Eystri. Graslendi hans er breiðast og best syðst. Þar mátti sjá á sumardögum á beit 50-100 sauðfjár, en að þar hafa verið heyjaðir hundruð hestburðar verður að teljast vafasamt.
Hestar lestarinnar verða léttari í spori niður á grasvöll Stakkavíkurvegurdalsins, enda hefðarlöggiltur áningastaður á hinni löngu lestarleið yfir Grindarskörð. Hér eru hestburðir ofan teknir og hestar leystir úr lestarbandi og þeim leyft að grípa niður með reiðing sínum og beisli um háls. Þar spenntu lestarmenn töskur sínar frá hnakki og tóku fram nesti sitt. Klukkan var um 11 f.h. og hafði því lestargangur í Stóra-Leirdal verið 4 klukkustundir á fótinn.
Á heimleið úr kaupstað var hér gjarnan tekinn tappi úr flösku sem gekk milli manna og dreypt var á af háttvísi. Því fylgdi eftir ættjarðarsöngur sem fór vel í fjallasal þessum.
Var nú haldið norður eftir dalnum og um sinn eftir leirflagi (sístækkandi) framhjá hraunbrún hins víðáttumikla Skarðahrauns á vinstri hönd. Við norðurenda dalsins var farið framhjá lágbungu þeirri er tengist Hvalhnúk Eystri og þá á hægri hönd. Þarna gæti verið Sæmundarmelur sá er sumir nefna.  Norðan við lágbungu Hvalhnúks Eystri tók við vesturjarðar Heiðarinnar háu sem verður með lágbrekkusniði á hægri hönd milli skarða. Að götunni vestan megin liggur hið mikla Skarðahraun fast upp að götunni og sumsstaðar yfir hana en það liggur fast að Hvalhnúk Vestri í suðri og til Draugahlíðar og Kerlingarskarðs í norðri en í vestur allt til Brennisteinsfjalla.“
Áður hafði FERLIR gengið Selvogsgötu frá Bláfjallavegi um Grindarskörð til suðurs, upp fyrir Hvalsskarð sem og götuna upp að Hvalskarði í tvígang. Í fyrstnefndu ferðinni var „Selvogsgötunni Vestari“ (Stakkavíkurstígnum) fylgt upp að gatnamótum hans og Selvogsgötu Eystri sunnan undan Kerlingarskarði (sjá HÉR). Lóu- og þúfutittlingshreiður voru nokkur skoðuð á leiðinni. Þegar komið var upp undir Hvalskarð var Vestri Hvalhnúk fylgt til vesturs, yfir á Stakkavíkurveg við austanverða Vesturása. Þar liggur gatan ofan frá gróningum neðan við slétt helluhraun (Selvogsgatan Vestari) og niður með austanverðum ásunum. Á skammleiðinni við hornið eru tvær vörður með stuttu millibili. Þaðan fylgir gatan undirhlíðum Vesturása, þ.e. misgengi sunnan þeirra. Suðvestar eru klettaborgir. Liggur gatan millum þeirra og niður með einni þeirra í sneiðing að norðanverðu. Varða er neðar og önnur nokkru sunnar.
Eftir það liðast hún niður á við í gróningum undir Stakkavíkurvegurhlíðum, fyrst í Dýjabrekum, og allt fram á brún Stakkavíkurfjalls, þar sem Selstígur liggur niður heim að bæ. Á nokkurm stöðum er búið að raska götunni vegna girðingarvinnu (beitarhólfið). Er það í rauninni leitt því sumstaðar hefði með svolítilli hugsun einungis þurft að færa girðinguna um nokkra metra til að hlífa götunni svo hún hefði verið óröskuð alla leiðina. Sjálfsagt er þetta all gjört með fullri heimild Fornleifarverndar ríksins.
Þegar komið var niður á Selsskarðsstígsbrúnina var kjörið að rifja upp örnefnalýsingar, bæði af Stakkavíkurveginum og Hlíðarveginum:  „Stakkavíkurstígur lá heiman frá húsi, austur yfir hraunið yfir að Botnaviki, um Flötina upp um Lyngskjöld í Selstíg. Stígur þessi var kaupstaðarleið Stakksvíkinga til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.“ Þá segir ennfremur í annarri örnefnalýsingu: „Í Selskarði er Selskarðsstígur; ekkert hraun hefir runnið þar fram. Það er grasi gróið og fyrir neðan það. Selstígur heitir upp á fjallinu; liggur hann í Stakkavíkursel, sem er þar norðar á fjallinu. Brekkurnar neðst í fjallinu heita einu nafni Stakkavíkurfjallsskriður, en í daglegu tali voru þær greindar í þrennt, þannig frá vestri til austurs: Selstígsbrekkur við Selskarð, skammt austar Snataklettsbrekkur; þá taka við austast Urðar-brekkur.“
Í lýsingu af Stakkavíkurveginum áðurgengna segir í upptalningu örnefnanna: „Stakkavíkurvegur; 1. Stakkavík: Heim við tún byrjaði vegurinn og lá upp. 2. Stakkavíkurhraun:  Í austur neðanvert við Fjárborgina. 3. Flötin: Úr hrauninu lá vegurinn um flöt ofan við Botnavik. 4. Lyngskjöld: Sem er hraunbrekka ofan og austan Flata. 5. Selskarðsstígur: Heitir vegurinn eiginlega heiman frá bæ þá leið sem þegar er lýst upp í 6. Selskarð: Sem er í Stakkavíkurfjallsbrún. 7. Stakkavíkurfjall: Er þá komið upp á Stakkavíkurfjall, eða Fjallið.

Þúfutittlingsegg við Stakkavíkurveg

8. Stakkavíkursel: Spölkorn ofan brína [?] er þetta sel. 9. Leirdalur: Er þar nokkru ofar. 10. Helgadalur: Dalur þessi eða hvammur er þar enn ofar. 11. Langhólar: Þeir eru þar enn ofar og liggja í Hlíðarveg. 12. Brekkurnar: Þær eru nokkrar með sérnöfnum. 13. Dýjabrekkur 3: Þær eru allt upp undir Ása. 14. Dýjabrekkuhóll: Hann er á hægri hönd við Veginn. 15. Ásarnir: Taka svo við og liggja á beggja megin vegar. 16. Svörtu-Ásar: Liggja á vinstri hönd. 17 .Vesturásar: Þar norðar og á vinstri hönd. 18. Austurásar: Beint á mót á hægri hönd. 19. Hvalhnúkur vestari: Hann hefur blasað við alla leiðina. 20. Hvalhnúkatagl: Um það liggur vegurinn og beygir til hægri. 21. Skarðshraun: Inn og austur eftir hrauni þessu, sem mun vera kennt við Grindaskörð. 22. Skarðahraunsvörður: Allur er vegurinn varðaður þessum vörðum. 23. Tvívörður: Upp í þessar vörður sem standa með nokkurra metra millibili. Þar um liggur svo 24. Suðurferðaleið: Sem áður er lýst. 25. Vetrarvegur: Vegur þessi var farinn á vetrum. Þótti hann öruggari en Suðurferðaleiðin.“
Áður en haldið var niður um Selskarð var enn og aftur rifjuð upp sú gata er gangið hafði verið yfir milli Selvogsgötu og Stakkavíkurvegar, þ.e. Hlíðarvegurinn. Í örnefnalýsingu fyrir veginn segir (og er þá miðað við að hann sé genginn heiman frá Hlíð og upp á milli Vesturása og Austurása áleiðis til Hafnarfjarðar: „Hlíðarvegur; l. Hlíðartún: Heiman frá bæ lá vegurinn um túnið. 2. Skjólabrekka: Um brekkur þessa. 3. Hlíðarskarðsstíg: Sem hefst neðst í 4. Hlíðarskarði. Sem eiginlega er gil og er þar bratt upp. 5. Hlíðarfjall: Ofan brúna er Fjallið, Hlíðarfjall. 6. Teigarnir: Uppi á Fjallinu voru teigar þessir. 7. Ytri-Teigar: Voru neðar. Þangað var farið til slægna. 8. Innri-Teigar: Ofar voru þeir á Fjallinu. 9. Langhólar: Þeir teygðu sig austur fyrir veginn.

Við neðanvert Stakkavíkursel

10. Dýjabrekkur: Um þær lá vegurinn. 11. Ásarnir:  Milli Ásanna sameinuðust Hlíðarvegur og Stakkavíkurvegur. 12. Vetrarvegur: Var vegurinn kallaður. 13. Sjávarvörður: Voru vörðurnar kallaðar, þar sem steinn í vörðunni sneri við suðri.“
Ljóst er af framangreindri vinnu að hin forna Selvogsgata er enn glögg millum Útvogsskála við Strandarheiði og Lækjarbotna í Hafnarfirði. Stakkavíkurvegur er að mestu glöggur frá Selskarði upp að Tvívörðum sunnan Kerlingarskarðs og Hlíðarvegur (Vetrarvegur) sést glögglega (enda vel varðaður) frá Tvívörðum að Hlíðarskarði ofan við Hlíð. Sennilega hefur Stakkavíkurvegur verið greiðfærasta lestargatan fyrrum af þessum þremur leiðum að dæma (a.m.k. er hún nú ein sú áhugaverðasta).
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín. Gengnir voru 21.3 km.
Sjá MYNDIR.

Heimildir m.a.:
-Konráð Bjarnason, 1993, leiðarlýsing á kaupstaðaleið Selvogsbúa – Selvogsgötunni.
-Örnefnalýsingar fyrir Stakkavík.

Í Selskarði

Selvogsgata

Gengið var áleiðis upp Grindarskörð millum Kristjánsdalahorns og Kerlingarhnúka (Kerlingarskarðs).
Ætlunin var að ganga gömlu Selvogsgötuna (Suðurfararveginn) milli Selvogs og Hafnarfjarðar. Ferðafélög og leiðsögumenn síðustu Selvogsgata um Grindarskörðáratuga hafa gjarnan fetað aðra götu upp Kerlingarskarð og síðan fylgt vörðum frá því á sjötta áratug síðustu aldar niður að Hlíðarskarði – og kynnt þá leið sem hina einu sönnu „Selvogsgötu“. Í rauninni eru nú um þrjár götur að velja og er „túrhestagatan“ nýjust, eins og síðar á eftir að minnast á. „Túrhestagatan“ er seinni tíma „gata“, beinvörðuð. Um var að ræða vetrarsýsluveg Selvogsmanna um þann mund er fyrri tíma þjóðleiðir voru að leggjast af (um 1940). Vörður við leiðina hafa síðan verið endurhlaðnar og virðist leiðin þess vegna við fyrstu sýn „sú eina“ millum Selvogs og Hafnarfjarðar. Raunin er hins vegar allt önnur.
Að baki var úfnasti hlutu Hellnanna. Líklega það sem kallað var Flár. Þar er víðsjál vegferð með bröttum klifum niður í svonefnda Mosa, einnig ótrygg vegferð. Að baki voru sjálfar Hellurnar með vel ruddri og varðaðri hestagötu í beinstefnu ofan við Strandartorfur. Þegar komið var upp Hellurnar sást vel til hinna grösugu Kristjánsdala er liggja norðan undir fjallshlíðum þeim er sveigjast í suðaustur frá Kerlingarskarði í átt að Kristjánsdalahorni.
Tvær vörðuleifar eru á þessum hluta Selvogsgötu (Eystri), en annars er yfir slétt helluhraun að fara. Leiðin er nokkuð eðlileg, bæði með hliðsjón af lestarferðum og vatnsöflun. Undir Grindarskörðum er öllu jafnan ágætt vatnsstæði. Nú var það þurrt líkt og öll önnur vatnsból við götuna, önnur en Rituvatnsstæðið millum Litla-Leirdals og Hliðardals.
Gatan upp Grindarskörðin er augljós þar sem hún liggur í sneiðinga. Vörðubrot eru á stefnumiðum. Þrátt fyrir þarf að lesa hlíðina vel, nú tæplega 70 árum eftir að síðasta lestarferðin var farin þessa leið milli Selvogs og Hafnarfjarðar. Bæði hefur vatn fært jarðveginn til á köflum og gróðureyðingin sett svip sinn á leiðina. Með góðri athygli má þó sjá hvernig lestarstjórarnir hafa leitt stóð sín ákveðið og óhikað upp sneiðingana, allt upp á efstu brún á hálsinum. Þar er varða og augljóst hvar gatan hefur legið vestan hennar.
Efst í GrindarskörðumÞegar lestirnar komu frá Selvogi fram á norðurbrún Grindarskarða blasti við augum víð og fögur sýn allt til þéttbýliskjarna á strönd hins fagurbláa Faxaflóa og til Akrafjalls og Esju í norðri, nær okkur Helgafell og Húsfell. Á háskarðinu höfðu lestirnar jafnan verið um 5 klukkustundir á ferð úr heimabyggð í Selvogi. Ferðin frá Mosum og upp á skarðsbrúnina hafði tekið um þrjá stundarfjórðunga (án lestarinnar).
Frá brúninni liggur gatan á ská niður hálsinn (Grindarskörðin) og þaðan svo til beint að augum. Tvær vörður eru áberandi framundan. Fyrri varðan vitnar um gatnamót; annars vegar Selvogsgötu og hins vegar Heiðarvegar niður  að Hrauni í Ölfusi. Næsta varða er á þeirri leið, upp á og niður með Heiðinni há. Við fyrri vörðuna var beygt til hægri og stefnan tekin milli gígs á vinstri hönd og hraunbrúnar á þá hægri. Framundan voru vörðubrot við götuna, sem annars virðist augljós. Þegar komið var að gatnamótum norðvestan við Litla-Kóngsfell var staðnæsmt um stund. Í norðvestri blöstu Stóri-Bolli, Miðbolli, Kerlingahnúkar og Syðstu Bollar við. Norðaustan við Kelringahnúka er Kerlingarskarð, sem leið FERLIRsferðalanganna átti síðar eftir að liggja um.
Dæmigert vörðubrot við SelvogsgötunaHér reis slétt hraunhella upp úr móðurhrauninu; táknræn varða. Skammt sunnar voru tvö vörðubrot sitt hvoru megin götunnar. Vestar voru vörður og síðan tvær beggja vegna götu er lá millum þessarar og „Selvogsgötu Vestari“ og Hlíðarvegar (hinna beinvörðuðu vetrarleiðar). Gatan lá yfir að „Hliðinu“ á sýslugirðingunni, sem lá þarna upp að sunnanverðum Grindarskörðum. Leifar hennar sjást enn vel.
Gömlu Selvogsgötunni var fylgt um Grafninga neiður með Litla-Kóngsfelli og áfram niður í Stóra-Leirdal. Á leiðinni verður fyrir þurr foss á vinstri hönd og uppþornaður lækjarfarvegur, sem stundum fyrrum hefur þótt óárennilegur. Þess vegna liggur gatan yfir hann (en ekki eftir) og upp á hraunbrúnina að vestanverðu. Þar liðast gatan skamman veg niður af henni aftur að austanverðu. Eftir það liggur gatan um Stóra-Leirdal, vel gróinn slátturdal ofan við Hvalskarð. Þar mátti sjá á sumardögum á beit 50-100 sauðfjár, en að þar hafi verið heyjaðir hundruð hestburðar, eins og sagnir eru til um, verður að teljast vafasamt. Hestar lestanna fyrrum urðu hér léttari í spori niður á grasvöll dalsins, enda hefðarlöggiltur áningastaður á hinni löngu lestarleið yfir Grindarskörð. Hér eru hestburðir ofan teknir og hestar leystir úr lestarbandi og þeim leyft að grípa niður með reiðing sínum og beisli um háls. Þar spenntu lestarmenn töskur sínar frá hnakki og tóku fram nesti sitt.
„Lestargatan milli skarða var allgóður lestarvegur með árlegu viðhaldi í ruðningi á árum áður, einnig í skorningunum milli hrauns og hlíðar er Grafningar nefndust. Sumsstaðar var sýnt að gamalt hraun ofan af heiðinni hafði hnigið undir vegferð lestargötunnar. Þarna gæti veri það sem kallað hefur verið Hrauntraðir. Ferð lestarinnar milli skarða miðar vel og er komin um hálftíma ferð frá Stóra-Leirdal norður úr Grafningum og að beygja sunnan við Litla-Kóngsfell“.
„Lestargangur í Stóra-Leirdal var um 4 klukkustundir á fótinn frá Selvogi. Sunnan við dalinn liggur gatan í sneiðing upp Vestari leiðinlágt skarðið. Þegar upp er komið blasir vitinn í Nesi við sem og Selvogur vestan hans. Hér er leiðin tæplega hálfnuð (gengnir höfðu verið 14 km) niður á Strandarhæð (og er þó Selvogsheiðin eftir).
Handan Hvalskarðins liggur gatan eftir lágbrekkuhalla og sveigist brátt í suðaustur að hraunmóa með grasdrögum hér og þar, einnig með klifum sem voru á tímum lestarferðanna þannig gerðar að þær yrðu hestum sem best færar. Hinir mörgu svigar á vegferð þessari eru vegna hraunhólanna neðan við Hvalskarðsbrekkur.“
Þegar komið var niður fyrir Hvalskarð var látið staðar numið. Héðan er gatan augljós niður í Litla-Leirdal, Hlíðardal, Strandardal og um Standarmannahliðið að Selvogsheiði, allt niður á Strandarhæð (Útvogsskála[vörðu]).
Staldrað var við í aðalbláberjahvammi og horft var eftir Hvalhnúk og Austurási, allt vestur að Vesturási. Kjói lét öllum illum látum. Líklega var hreiðurstæði hans í nánd. Sólin baðaði allt og alla og lognið umlék þátttakendur á alla vegu. Í dag var 17. júní, þjóðhátíðardagurinn sjálfur. Líklega var hvergi betra að vera en einmitt hér í tilefni dagsins. Fánar blöktu við götuna á hverjum bakpoka í tilefni af merkilegheitum dagsins.
Eftir stutta hvíld var gengið vestur með Hvalhnúk og vestur fyrir Austurása. Líklega eru nafngiftirnar augljósari en einmitt sunnan við fellin. Ásarnir; Austurás og Vesturás, eru móbergshæðir á sprungureinum (gos undir jökli), en Hvalfell er grágrýtisbrotafell frá upphaf nútíma (í lok ísaldar). Með fellunum eru, þrátt fyrir gróðureyðingu síðustu áratuga, fjölbreytilegt blómaskrúð.

Drykkjarsteinn í Kerlingarskarði

Milli hnúkanna eru gatnamót; annars vegar Hlíðarvegar og hins vegar Stakkavíkurvegar. Þrjár vörður (og vörðubrot) á hraunbrúninni undirstrika það. Hér var stefnan tekin til baka upp Hlíðarveginn velvarðaða. Selvogsgatan Vestri er skammt vestar. Þar liggur hún upp úfið apalhraun. Eftir skamma göngu eftir slóða austan við „Hlíðarveginn“ lá gata inn á úfið hraunið. Yfir stutt hraunhaft var að fara. Þegar þeirri götu var fylgt áleiðis að vörðunum þráðbeinu var komið inn á Vestari leiðina. Hún liggur upp frá Vesturásum, inn á hraunbreiðuna og upp fyrir hans. Hér var hægt að velja um tvennt; annars vegar að fylgja Hlíðarvegnum með vörðunum eða beygja af og fylgja „Selvogsgötunni Vestri“. Í raun er hér ekki um Selvogsgötu að ræða. Selvogsgatan er þar sem fyrstneftnt var lýst; upp Grindarskörð og niður með Litla-Kóngsfelli, um Grafninga, Stóra Leirdal, Hvalskarð og dalina áleiðis að Strandarheiðinni.
Ákveðið var að fylga „Vestri“ leiðinni. Hún er öllu greinilegri og fótmeðfærilegri en „túrhestagatan“. Fallnar vörður eru við götuna. Ofan við og móts við Gráhnúk sker hún Hlíðarveginn og liggur svo til beint upp að hinum tveimur vörður á millileiðinni er fyrr var minnst á. Annars vegur liggur leiðin til hægri að Selvogsgötunni um Grindarskörð, er fyrr hefur verið lýst, eða til vinstri, að Kerlingarskörðum.
„Ekki var nú lestarferð löng vestur að uppgöngu austanmegin Kerlingarskarðs. En rétt austan við uppgönguna fórum við yfir örmjóa apalhrauntungu er runnið hefur niður Skarðahraun. Þar standa Tvívörður við vegferð og frá þeim í beinlínu eru hinar vel hlöðnu vetravegsvörður í stefnu á vesturenda Hvalhnúks Vestri. Þær höfðu þann kost að út úr sérhverri þeirra stóð steinn í átt þeirrar næstu sem var mikið öryggi þegar hin svarta þoka lá yfir Skarðahrauni sem oft var. Nefndust steinar þessir Vegvísir.
Vestan við apalhrauntunguna lá vegurinn upp á Kerlingarskarð í allsnörpum halla, vel ruddur á tímum lestarferðanna sem og vegurinn yfir nefnda hrauntungu. Þá verður að taka fram að girðing sú sem títt er nefnd í nútíma var enn í þekkt á tímum lestarferðanna því hún var uppsett vegna mæðiveikivarna á stríðsáratugnum. Þá verður að minnast þess að hér skárust saman í sömu uppgöngu á Kerlingarskarð, Eystri leið eftir Katlahrauni og Vestri leið upp Selsstíg frá Herdísarvík og Stakkavík. En rétt áður en við beygðum upp á Skarðið blöstu við á vinstri hönd Draugahlíð og framhjá þeim í vestur sér til Eldborgar. En nær nefndri hlíð er að finna leifar af brennisteinsvinnslu Breta á púðurskots- og hernaðarárum þeirra.“
Gengið um SelvogsgötuAf ummerkjum að dæma má telja líklegt að „Vestri“ leiðin hafði verið framhald af Stakkavíkurselstígnum, enda mjög svipuð leið og önnur leið þess fólks um Brennisteinsfjöll framhjá Eldborg, vetrarleið þess til Hafnarfjarðar. Hvorugur stígurinn er varðaður, en þó hafa einhverjir á seinni tímum lagt sig fram við að rekja þá og merkja með litlum vörðum er það bara hið besta mál.
Líklegt má telja að frá hraunbrúninni við Vesturása hafi sameinast Stakkarvíkurstíg fyrrum Hlíðarvegur áleiðis niður að Hlíðarskarði ofan við Hlíð við Híðarvatn. Umferðin um þær götur hafa varla verið jafnmikil og um sjálfa Selvogsgötuna (Eystri).
„Vestri“ leiðin liggur um slétt helluhraun og er auðfarin. Á einstaka stað hefur gatan verið unnin, sem verður að teljast óvenjulegt, því hvergi er gatan mörkuð í hraunhelluna. Það staðfestir fyrrnefna ályktun. Það er ekki fyrr en upp undir gatnamótunum „tvívörðuðu“ að forn gata fær staðfestu. Þar eru greinileg gatnamót; annars vegar um Grindarskörð og hins vegar um Kerlingarskarð.
„Að götunni vestan megin liggur hið mikla Skarðahraun fast upp að götunni og sumsstaðar yfir hana en það liggur fast að Hvalhnúk Vestri í suðri og til Draugahlíðar og Kerlingarskarðs í norðri en í vestur allt til Brennisteinsfjalla.
Með beygju þessari mildast vegferðin með snögggrónum lautum, ásamt pollum í dældum. Hér verður þessari vegferð lestarinnar í vesturátt til Grindarskarða en hið einkarfallega hringlaga fell Litla-Kóngsfell á hægri hönd. Það er borglaga gígsfell hæst á suðurbarmi og með grasgeira neðantil. Norðaustur af því er gjá mikil, Stórkonugjá. Það er talið að fjall þetta sá á markalínu Gullbringu- og Árnessýslna með stefnu á Vílfilsfell, enda var Jósepsdalir sunnan þess smalaðar á haustdögum sem afréttarland Selvogshrepps um aldir.“
Í þessari lýsingu kemur m.a. fram að Litla-Kóngsfell sé á markalínu. Í dag er Stóra-Kóngsfell, allnokkru norðaustar, notað sem slíkt viðmið. Verður það að teljast athyglisvert í ljósi þessa (sem og annarra vitnisburða).
Gengið var niður Kerlingarskarð, framhjá drykkjarsteininum sögufræga og niður að Mosum – þar sem gangan endaði (eftir 24 km).
Sjá lýsingu af leiðinni (frá suðri til norðurs) HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 8 klst og 8 mín.
Sjá MYNDIR.

Heimild:
-Byggt á heimild Konráðs Bjarnasonar um Selvogsgötuna til norðurs – 1993.

Miðbolli og Litla-Kóngsfell

Grindarskörð

Ætlunin var að ganga frá Strandarhæð ofan Selvogs og fylgja Selvogsgötunni, Eystri leið, til norðurs, allt niður fyrir Grindarskörð.
Bergmyndin í HerdísarvíkurfjalliVið Strandarhæð er Útvogsskáli (Skálavarða) og Dalhólar austar. Á þeim er Árnavarða. Fornugötur liggja niður að Digruvörðu (götur, sem FERLIR hefur áður fetað um Selvogsheiði). Halda átti áfram framhjá Kökuhól og yfir Katlahraun, um Strandardal framhjá Sælubunu og upp í Hlíðardal þar sem bær Indriða lögmanns átti að hafa staðið á fyrri hluta 17. aldar. Ekki var talið með öllu útilokað að enn mætti sjá móta fyrir tóftum þar, ef vel væri gáð.
Þá var ætlunin að rekja götuna um Litla-Leirdal, framhjá Rituvatnsstæðinu, um Hvalskarð, Stóra-Leirdal, um Grafninga og niður Grindarskörð þar sem gangan endaði ofan við Mosa.
Á leiðinni að upphafsstað ráku þátttakendur augun í sérkennilega risastóra bergmynd í veggjum Herdísarvíkurfjalls; kindarhaus, líkt og Surtla heitin hefði rekið þarna hausinn út úr hamrinum (sjá meira HÉR og HÉR). Margt býr í berginu…
Áður en lagt var stað var farið yfir lýsingu af Suðurfararveginum (Selvogsgötunni).
Eftirfarandi er hluti lýsingar Konráðs Bjarnasonar af kaupstaðaleið Selvogsmanna frá Torfabæjarhliði um Grindarskörð til Hafnarfjarðar, sem hann tók saman árið 1993.
Selvogsgata - kort“Þetta var gamla lestamannaleiðin um aldir og allt fram undir 1940 á meðan henni var haldið við ruðningi sem sýsluvegi.
Vorsmalamennsku og rúningi var lokið og ull fullverkuð, þurrkuð, sekkjuð og bundin til klakks, sem hestaburður á mörgum hestum. Góðveðursdagur var valinn, hestar heima við vel járnaðir og lagt af stað í fulla dagleið klukkan sjö að morgni.
Þorkelsgerði var um aldir ein jörð; lögbýli með bændakirkju á 15. og 16 öld og varð um skeið eign höfðingjanna á höfuðbólinu Strönd, en deildist síðar, einkum milli fjögurra búsetumanna, undir heitunum Austurbær, Miðbær, Vesturbær og Torfabær, eftir að Torfi Erlendsson, sýslumaður, náði þar búsetu ásamt Stafnesi. Hann kom þangað um 1656 og dó þar. Hin fjórskipta búseta á Þorkelsgerðisjörðinni er bókfest: 1681, 1703 (Jarðabók Á.M. og P.V.), 1706, 129 og 1735. Eftir 1760 varð samruni í Austurbæ og Miðbæ til bújarðarinnar Þorkelsgerðis I og æ síðan. Þá kemur fram í þinglesinni landamerkjaskrá 12.06.1890, að hún er gildandi fyrir Þorkelsgerði I, Vesturbæ og Torfabæ.
Hestalest Þorkelsgerðismanna lagði upp frá heimtröðinni austur í Moldu og þar norður og vestur með túngörðum, uns hún beygði á götuna upp Flögin á móts við áðurnefnt hlið. Gatan var vel rudd og eftir tæpan stundarfjórðung er lestin komin móts við Útvogsvörðu á hægri hönd. Mikil varða, þykk, ferköntuð með strýtu upp úr miðju og þar upp úr sundmerki, af tré í þríkant, enda mikilvægt tákn, vegna Stokksvíkurssunds til Þorkelsgerðislendingarvara.
Þá liggur gatan nokkuð greið eftir sandeyðingum, þar til hún nær grasflötum neðan Dalhólalágar. Rétt áður á vinstri hönd fórum við framhjá vörðubroti á lágum hól, Hrossabeinavörðu. Þar sá ég á æskudögum hvíttærð hrossabein þeirra er fallið höfðu í harðræði. Þar skammt ofar á vinstri hönd er Dauðhóll, einn vitnisburður um búgripafelli.
Nú erum við komin upp í Dalhólalágina, gróna vallendis snögggróðri. Austan við hana lá Bjarnastaðavegur í átt til sýsluvegar upp Selvogsheiði til Ölfuss.
Lestargatan úr Útvogi, er við fylgjum upp úr Dalhólalág, liggur fast að Útvogsskála, þykkhlaðinni ferkantaðri vörðu með strút efst og var allvíðsýnt frá henni, einkum inn í vesturheiði, allt til Hlíðarvatns og fjallgarðsins þar upp af. Við Skálavörðuna var fyrrum stekkur, er vel sást fyrir í umdæmi mínu.

Útvogsskáli

Austur af Útvogsskála voru Dalhólar og á einum stóð Árnavarða. Í norðaustur af henni sést til Bjargarhellis með vörðu á grónum hellishól. All nokkur austar af Bjargarhelli, eru sandkenndar grasflatir, er tóku við í suðvestur af Hásteinaflagi og sveigjast til suðvesturs, sem snögggróið valllendi vestan við hið mikla sandflæmi til austurs. Þar í sandjarðri eru Fornugötur, er liggja niður að Digruvörðu og framhjá henni til Nes og túngarðshliða Bjarnastaða.
Frá Útvogsskála lá lestargatan eftir snögggrónum vallargróðri, er náði inn að Kökuhól, en vestan við hann lá gatan inn á Rof með stefnu á Katlahraun, vestan Urðarfella. Ekki var löng leið frá Útvogsskálavörðu að Kökuhól, en rétt áður en við höfum náð til hans förum við yfir þjóðleiðina fornu úr Ölfusi framhjá Vogsósum til Útnesja.
Kökuhóll er vestasti hluti lágheiðararms þess, er liggur til vesturs frá suðurhluta Standarhæðar. Nokkru austar af honum fast við þjóðleiðina er fjárhellirinn Gapi. Framan við hann var fjárrétt vel hlaðin og stendur hún enn með lágum veggjum vegna þess hvað gróinn jarðvegur hefur hækkað innan hennar, svo og í hellinum, sem var fyrr hár til lofts og rúmgóður. Sagt var í honum hefðu fyrr á tímum hafst við næturlangt langferðamenn til Útnesja. Suður af honum var smáhellir með vörðubroti, en nú með gleymdu nafni. Nokkru austar og norður af Gapa, er allvíð hæð er ber hátt yfir umhverfi sitt og allvel gróið lyngi áður fyrr. Þar var venja að svipast um í hestaleit miðheiðar. Á hábungu hæðarinnar er hringlaga jarðfall, grasi gróið í botni ogmeð góðum niðurgangi fyrir menn og skepnur. Þetta er Kerið á Strandarhæð með stórhelli einkum í norður, er hýsti um 200 fjár. Strandarhellir, sem er sögulegur og verður því ekki komist hjá því að staðfesta það frekar:
Þorvarður og sonur hans Erlendur, lögmenn sunnan og austan sátu höfuðbólið Strönd í Selvogi á 15. og 16 öld og náðu undir það í krafti stórveldis síns, nærliggjandi jörðum. Erlendur fór að vísu offari og tapaði stóreign sinni til Konungs um 5 ára skeið, en fékk svo aftur 1558 og varð þá stórbú hans mest, allt til æviloka 1576, þá um áttrætt.
Sú saga er sögð og fyrir löngu skráð, að Erlendur átti 600 ásauði og af þeim gengu 200 með sjó á vetrum og höfðu þar Strandarhellirfjárborg, og geymdi þeirra einn maður. Önnur 200 gengu upp á völlunum við Strandarborgir (Borgirnar þrjár) og geymdi þeirra annar maður. Þriðju 200 gengu á Strandarhæð við Strandarhellir, og geymdi þeirra hinn þriðji maður.
Sú saga er sögð af fjárgæslumanni Erlendar við Strandarhelli, sem hafði ströng fyrirmæli frá Erlendi, sem og hinir, að týna engri kind úr hjörðinni og að líf smalamanns gæti legið við. Þá bar það til einn vetur, að fjármaður við Hlíðarendahelli í Ölfusi (um 12 km fjarlægð) fann 2 kindur með marki Erlendar á Strönd í fjárbyrgi sínu og voru Erlendi send boð þar um. Erlendur kallaði þá fjárgæslumann inn við Strandarhelli fyrir sig og var þungbúinn mjög og sagði að upp væri komið, að hann hefði týnt úr hjörð sinni og hverju hann svaraði til. Sauðfjámaður harðneitaði að hafa týnt úr hjörð sinni og sagði að kindur þessar hefðu geta komist neðanjarðar í Hlíðarendahelli, því enginn hafði komist svo langt inn í Strandar- eða Hlíðarendahelli að endir hafi fundist. Við þessu átti Erlendur engan mótleik og lét kyrrt liggja, því hann var mikill lögmaður og mat að verðleikum réttmæt gagnrök og viðurkenndi eigin rökþrot.
Útvogsskáli (Skálavarða)Við erum nú komin drjúgan spöl framhjá Kökuhól in á heiðina og áfram eftir hinu fjölgróna Katlahrauni, sem kemur niður austanvert af Hlíðarfjallsbrekkum og verður að Katlabrekkum í halla sínum. En þar sem lestargatan liggur yfir það í átt til Hlíðardals, er það milt og vinalegt í fjöljurtagróðri sínum. Austur af eru Svörtubjörg. Þar stendur Eiríksvarða í fullri reisn sinni svo tæpt á bjargsbrún að ekki fýsir menn að ganga framan við hana. Í munnlegri geymd er talið fullvíst að séra Eírikur Magnússon, hinn fjölfróði, hafi staðið fyrir byggingu vörunnar og valið henni stað. Tilgangur vörðubyggingarinnar hefu vafalaust verið slá að slá á þann stöðuga ótta er fólkið á úthafsströndinni bjó við, einkum frá landgöngu víkinganna voðalegu frá Algeirsborg, er gengu á land í Grindavík 20. júní 1627, nokkru vestar á sömu úthafsströnd.
Nú er lestin komin langleiðina yfir Katlahraun. Nú blasa við augum á hægri hönd Strandardalabrekkur allbrattar og vel grösugar að efstu brún. Kálfsgil, er liggur frá Stakafelli, klífur Strandardalinn nær miðju og endar innri hluti hans í hvammi undir bergvegg, sem gengur út í Katlahraun og verður að öxl þeirri er skilur að Strandar- og Hlíðardal. Úr bergöxl þessari sprettur silfurtær vatnslind, Sælubuna, sem er ómetanleg fyrir heyskapafólk í nefndum dölum.

Selvogsgatan við Kökuhól - vörðubrot fremst

Nú erum við lestarmenn í nokkrum halla á fótinn að komast framhjá bergöxlinni með sælubuninni sinni og þar með erum við komin á undirlendi Hlíðardals. Hann stendur Strandardal ofar mót hækkandi heiðlendi. Hann er hvammslaga og vel grösugur upp á brún. Efst í dalnum stóð eitt sinn bær Indriða lögréttumanns, Jónssonar. Hann var þar á fyrri hluta 17. aldar, merkur maður, góður skrifari og smiður.
Lestargatan frá Urðarfellum til Litla-Leirdals liggur yfir einskonar hraunmóa, ávallt vel rudd á tímum lestarmanaferða. Nú fara að koma í ljós þokkafullir hraunhólar á hægri hönd með nokkrum brekkuhalla frá þeim niður í dæld þar sem stargresi vex út í snoturt vatnsstæði, Rituvatnsstæðið, sem kom sér vel fyrir sauðféð í sumarhögum og heyskapamenn á fjalli. Ofan við vatnsstæðið beygði gatan í norðaustur upp grasbrekkuhalla. Þegar upp var komið blasti Litli-Leirdalur við, alllangur í sömu átt. Í suðausturhorni hans, nú á hægri hönd, er fallegur hraunhelluhóll með fallegri grasflöt er leggst upp að honum vestanverðum. Dalur þessi var allvel grösugur fyrr og sleginn ásamt brekkum og grasgeirum austan og innan við hann.
Gatan upp úr dalnum liggur eftir lágbrekkuhalla og sveigist brátt í norðvestur yfir hraunmóa með grasdrögum hér og þar, einnig með klifum sem voru á tímum lestarferðanna þannig gerðar að þær yrðu hestum sem best færar. Hinir mörgu svigar á vegferð þessari voru vegna hraunhólanna þar til komið var upp að Hvalskarðsbrekkum. Þá liggur gatan eftir mjúkri moldargötu neðanvert brekkum þessum þar til komið er að Hvalskarði, sem er allskörp klauf milli Hvalshnúks Eystri og Vestri. Sá Eystri verður því á hægri hönd og sveigist allhátt til norðurs, en sá Vestri á vinstri hönd upp skarðið og er alllangur í vestur, fer hækkandi frá Hvalskarði uns hann hækkar nokkuð við vesturhluta sinn. Þegar kaupstaðalestin kemur að Hvalskarði blasir lestargatan við sem afbragðslestargata, sneiðskorin austan í rauðamelsskriðu Hvalshnúks Vestri og endar í rúmri góðgötu á hálsinum upp af skarðsgilinu og liggur þaðan örstutta leið ofan í suðurhluta Stóra-Leirdals, sem liggur fast upp að Hvalhnúk Eystri. Graslendi hans er breiðast og best syðst. Þar mátti sjá á sumardögum á beit 50-100 sauðfjár, en að þar haf verið heyjaðir hundruð hestburðar verður að teljast vafasamt.
Selvogsgata - loftmyndHestar lestarinnar verða léttari í spori niður á grasvöll dalsins, enda hefðarlöggiltur áningastaður á hinni löngu lestarleið yfir Grindarskörð. Hér eru hestburðir ofan teknir og hestar leystir úr lestarbandi og þeim leyft að grípa niður með reiðing sínum og beisli um háls. Þar spenntu lestarmenn töskur sínar frá hnakki og tóku fram nesti sitt. Klukkan var um 11 f.h. og hafði því lestargangur í Stóra-Leirdal verið 4 klukkustundir á fótinn.
Á heimleið úr kaupstað var hér gjarnan tekinn tappi úr flösku sem gekk milli manna og dreypt var á af háttvísi. Því fylgdi eftir ættjarðarsöngur sem fór vel í fjallasal þessum.
Var nú haldið norður eftir dalnum og um sinn eftir leirflagi (sístækkandi) framhjá hraunbrún hins víðáttumikla Skarðahrauns á vinstri hönd. Við norðurenda dalsins var farið framhjá lágbungu þeirri er tengist Hvalhnúk Eystri og þá á hægri hönd. Þarna gæti verið Sæmundarmelur sá er sumir nefna.  Norðan við lágbungu Hvalhnúks Eystri tók við vesturjarðar Heiðarinnar háu sem verður með lágbrekkusniði á hægri hönd milli skarða. Að götunni vestan megin liggur hið mikla Skarðahraun fast upp að götunni og sumsstaðar yfir hana en það liggur fast að Hvalhnúk Vestri í suðri og til Draugahlíðar og Kerlingarskarðs í norðri en í vestur allt til Brennisteinsfjalla.
Lestargatan milli skarða var allgóður lestarvegur með árlegu viðhaldi í ruðningi á árum áður, einnig í skorningunum milli hrauns og hlíðar er Grafningar nefndust. Sumsstaðar var sýnt að gamalt hraun ofan af heiðinni hafði hnigið undir vegferð lestargötunnar. Þarna gæti veri það sem kallað hefur verið Hrauntraðir. Ferð lestarinnar milli skarða miðar vel og er komin um hálftíma ferð frá Stóra-Leirdal norður úr Grafningum og að beygja sunnan við Litla-Kóngsfell. Með beygju þessari mildast vegferðin með snögggrónum lautum, ásamt pollum í dældum. Hér verður þessari vegferð lestarinnar í vesturátt til Grindarskarða en hið einkarfallega hringlaga fell Litla-Kóngsfell á hægri hönd. Það er borglaga gígsfell hæst á suðurbarmi og með grasgeira neðantil. Norðaustur af því er gjá mikil, Stórkonugjá. Það er talið að fjall þetta sá á markalínu Gullbringu- og Árnessýslna með stefnu á Vílfilsfell, enda var Jósepsdalir sunnan þess smalaðar á haustdögum sem afréttarland Selvogshrepps um aldir.

Selvogsgatan

Ekki var nú lestarferð löng vestur að uppgöngu austanmegin Kerlingarskarðs. En rétt austan við uppgönguna fórum við yfir örmjóa apalhrauntungu er runnið hefur niður Skarðahraun. Þar standa Tvívörður við vegferð og frá þeim í beinlínu eru hinar vel hlöðnu vetravegsvörður í stefnu á vesturenda Hvalhnúks Vestri. Þær höfðu þann kost að út úr sérhverri þeirra stóð steinn í átt þeirrar næstu sem var mikið öryggi þegar hin svarta þoka lá yfir Skarðahrauni sem oft var. Nefndust steinar þessir Vegvísir.
Vestan við apalhrauntunguna lá vegurinn upp á Kerlingarskarð í allsnörpum halla, vel ruddur á tímum lestarferðanna sem og vegurinn yfir nefnda hrauntungu. Þá verður að taka fram að girðing sú sem títt er nefnd í nútíma var enn í þekkt á tímum lestarferðanna því hún var uppsett vegna mæðiveikivarna á stríðsáratugnum. Þá verður að minnast þess að hér skárust saman í sömu uppgöngu á Kerlingarskarð, Eystri leið eftir Katlahrauni og Vestri leið upp Selsstíg frá Herdísarvík og Stakkavík. En rétt áður en við beygðum upp á Skarðið blöstu við á vinstri hönd Draugahlíð og framhjá þeim í vestur sér til Eldborgar. En nær nefndri hlíð er að finna leifar af brennisteinsvinnslu Breta á púðurskots- og hernaðarárum þeirra.
Þegar lest okkar er komin á norðurbrún Grindarskarða rétt ofan við Kerlingarskarð blasir við augum víð og fögur sýn allt til þéttbýliskjarna á strönd hins fagurbláa Faxaflóa og til Akrafjalls og Esju í norðri, nær okkur Helgafell og Húsfell. Og enn nær okkur hið mikla helluhraun sem verður illþyrmislega úfið neðan undir Kerlingarskarði. Það er í fyrsta sinn sem nú við 12 ára aldur lít augum hina kvöldfögru strandbyggð Faxaflóans og óraði ekki fyrir því að þar myndi um hálfraraldar skeið æfi minnar renna. Á háskarði höfðum við verið um 5 klukkustundir á ferð úr heimabyggð.
Fyrir niðurgöngu Kerlingarskarðs er litið eftir klyfburði á hestum og gjarðir enn hertar. Við niðurgöngu var sýnt að gatan var vel valin í sveigum og nú vel rudd og vel tókst hinum vönu burðarhestum að spyrna framfótum sínum til móts við aðstæður.  Lestinni farnaðist því vel niður aðalbrattann. En þá tók við úfnasti hlutu Hellnanna. Líklega það sem kallað var Flár. Hér er víðsjál vegferð með bröttum klifum niður í svonefnda Mosa, einnig ótrygg vegferð, þar til mesti hallinn er að baki og við taka sjálfar Hellurnar með vel ruddri og varðaðri hestagötu í beinstefnu á Strandartorfur. Þegar komið var niður Hellurnar sást vel til hinna grösugu Kristjánsdala er liggja norðan undir fjallshlíðum þeim er sveigjast í norðaustur frá Kerlingarskarði í átt að Vífilsfelli.
Selvogsgatan í GrafningumVel gekk lestarferðin niður Hellurnar og við taka lágholt eða hrantungur með grasgeirum og moldarrofum. Hér eru því bithagar og væntanlega þess vegna kallaðir Kaplatótur (þunnar torfur). Af landslagi þessu taka við Strandartorfur sem taldar eru hafa tengst ítökum þeirra höfðingja er sátu Strönd í Selvogi fyrr á öldum.
Lestragatan liggur nú bugðótt yfri allvel gróið, gamalt helluhraun með Húsfellið reista á hægri hönd ó norðausturátt. Austanmegin þess liggur úfið, þykk hraunbreiða og sveigist suður fyrir fellið allt niður undir Mygludali þar sem það 
stöðvast í húm hraunkambi.
Nú er kausptaðalestin komin niður úr gamalgróna hrauninu og niður í hina grösugu Mygludali er teygjast á átt til Búrfellsgjár. Þeir einkennast af nær sokknum hraunhólum niður í grassvörðinn. Hér var gjarnan áð á austurleið og klyfjar stundum teknar ofan en nú talin tímaeyðsla þar sem skammt var til ferðaloka. Þess vegna hélt lestin rakleitt áfram yfir dalina út á rauðamelinn slétta í átt til Valahnúka.
Valahnúkar eru norðaustur af Helgafelli og eru gróðurlausar svartmelhæðir með bergstrýtum uppúr. Norðan þeirra hefur fyrr verið gróið land í átt til Mygludala en er nú uppblásið. Norðan í vestasta Valahnúknum er vinalegur grashvammur er nær upp að helli inn í móberg og nefnist Músarhellir.

Selvogsgatan í Grafningum

Kaupstaðalestin er nú kominm framhjá Valabóli og eftir nokkra hlykki á hestagötunni er hún komin á lágan melás er liggur til norðurs með grösugum brekkuhalla að sunnan sem endar niður í djúpum sérkennilegum dal. Þetta er Helgadalur með vinalegri tjörn vestast er nær upp að gjáarbergvegg. Hestagatan liggur niður brekkuna nyrst ú dalnum og kemur að nefndum bergveggofan við tjörnina. Þar liggur gatan upp hið illfæra klif upp á gjáarbergsbarminn. Þegar upp er komið tekur við slétt greiðfært helluhraun, Slétthraun.
Innan við stundarfjóðung var burðarlestin að komast yfir Séttuhraun sem markaðist vestanvert af Folaldagjá, ljótri sprungu í misháum gjáarvegg er lá í átt til Gjáarréttar í norðaustri. Þar allnokkru norðar Selogslestargötu reis upp allhár bergkambur vestan við gjána og ber nafnið Smyrlabúðir. Þar verptu smyrlar í áraraðir. Þegar burðarlestin var komin norðvestur yfir Folaldagjá tóku við uppblásin melholt og vel grónir lágmóar sunnan þeirra, ásamt kjarrbreiðum og nær bithagi þessi fram í átt til háhæðar Sléttuhlíðar.

Brátt fer hið úfna apalhraun á hægri hönd að láta meira til sín taka en hestagatan fær möguleika til þess að liðast eftir vinalegum grasgeirum sunnan undir hrikalegum hraunjarðrinum á hægri hönd. Endaði þessi sérkennilega vegferð í þríhyrndi grasflöt er teygðist suður á vestrubrún Sléttuhlíðar. Þar lá gatan yfir allgróið hraun í átt til austurenda Setbergshlíðar og lá í hallanum niður að hlíðinni fast að Kershelli. Kershellir opnast til suðurs í er bolli með botngróðri er nær upp að lestargötu þeirra Selvogsmanna. Þar var talið að hraktir vegfarendur hafi leitað skjóls fyrr á tímum, sem og í Músarhelli Valabóla.
Fleiri sigbollar með smáhellum eru sýnilegir á vinstri hönd á leið niður hallan frá Kershelli uns komið er niður á jafnlendið móts við austasta hluta Setbergshlíðar. Þar með hefst síðasti áfangi leiðarinnar eftir vel ruddri hestagötu milli hinar fögru kjarrivöxnu Setbergshlíðar á hægri hönd og Gráhelluhrauns á vinstri hönd en það er gamalgróið hraun, lungi og kjarri vaxið og geymir ótal hraunbolla grasi og skógi vaxna. Þar er einnig að finna minjar um sauðfjárbúskap Setbergsbænda.
Gráhelluhraun nær frá Setbergshlíð suður ap norðausturhlíðum Ásfjalls en það mjókkar og dulúð þess magnast er nær Selvogsgatan ofan Mosadregur byggð og á sín endimörk nyrst undir Hádegisholti (eyktamörk frá Setbergi).
Kaupstaðalestin úr Selvogi hefur nú að baki götuna ljúfu undir hinni fögru Setbergshlíð og slakkan norðvestan hennar og er nú undir nyrsta hluta Hádegisholts.
Þar má sjá hinar tæru bergvatns-uppsprettur sem streyma fram undan nyrsta hluta Gráhelluhrauns og verða að straumhörðum læk er hlykkjast milli hrauntungu og láglendis suðaustur af Setbergstúnjarðri uns hann mætir læk þeim sem rennur úr Urriðakotsvatni og fer síðan niður austan við Kaplakrika til suðausturs. Sameinaðir verða þeir að Hamarskotslæk er rennur til sjávar gegnum Hafnarfjarðarbyggð vestan Hamarsins.
Vegferð lestarinnar liggur frá Lækjarbotunum í átt til Mosahlíðar á vinstri hönd og fram hjá Hvíldarbörðum sem svo voru kölluð vegna þess að fyrri tíma Hafnfirðingar settust þar niður á göngu sinni með hrísbagga sína er ætlaðir voru til eldneytis. Síðar varð þarna hinn endanlegi hvíldarstaður þeirra, Kirkjugarður Hafnafjarðar. Þar rétt neðar komum við að Selvogsgötu sem svo er nefnd vegna hinna fastmótuðu lestarferða Selvogsmanna vor og haust um aldir.
Nú er ljóst að við höfum verið rúma fjóra tíma á leið okkar úr Kerlingarskarði og þar með á tíunda klukkutíma úr Selvogi, að frádreginni áningu í Stóra-Leirdal.“
Enn sést móta fyrir stekknum vestan við Útvogsskálavörðuna. Gatan liggur niður með stekknum og verður æ greinilegri eftir því sem húm fjarlægist gróningana á hæðinni.Í lýsingunni sleppir Konráð hins vegar Skarðsvatnsstæðinu, stuttu áður en komið er að Kerlingarskarði.
Fallnar vörður og vörðubrot eru við þennan kafla Selvogsgötunnar svo til alla leiðina, frá Útvogsskála á Strandarhæð að Mosum undir Grindarskörðum. Upplýsing um tóftir bæjar Indriða lögréttumanns Jónssonar í Hlíðardal er og verður tilefni sérstakra skrifa á vefsíðuna (sjá HÉR).
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.
Sjá MYNDIR.
Heimild:
-Konráði Bjarnasyni – 1993.

Lambagras

Ratleikur Hafnarfjarðar

Þema Ratleiks Hafnarfjarðar í ár, þann 25. í röðinni, eru fornar þjóðleiðir, gamlar götur og stígar.
Guðni Gíslason hjá Fjarðarfréttum (Hönnunarhúsinu) leggur leikinn. Þátttakendur geta nálgast frítt ratleikskort í þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar við Strandgötu, á bensínafgreiðslustöðvum N1, í Fjarðarkaupum og sundlaugum bæjarins.

1. Garða(Kirkju)vegur (norðan Hjallabrautar)

Hjallabraut

Gamlar götur vestan Hjallabrautar.

Hafnfirðingar og Garðbæingar í Hraunum sóttu kirkju að Görðum á Garðaholti allt fram til þess að Fríkirkjan í Hafnarfirði (vígð 14. desember 1913) og þjóðkirkjan (vígð 20. desember 1914) voru byggðar. Allar götur þangað til gengu kirkjugestir eftir Kirkjuveginum ofan Akurgerðis, fram og til baka, að og frá Garðakirkju. Veginum var síðar breytt norðan Víðistaða, upphlaðinn af Sigurgeiri Gíslasyni og vinnuflokki hans til flutninga milli bæjarins og fiskvinnslunnar á Langeyri. Út frá honum voru ótal fiskreitir og hjallar.

Sigurgeir Gíslason

Sigurgeir Gíslason.

Sigurgeir átti blett við Víðistaðatún, s.a.s. fast við Kirkjuveginn. Vegurinn sá lá upp frá miðbæ Hafnarfjarðar sunnan Akurgerðis, upp með Víðistöðum og áfram yfir hraunið að Görðum. Í dag sjést vegurinn enn ofan Akurgerðis (Byggðasafnið), auk þess sem mótar fyrir honum á Víðistaðatúninu að vestanverðu Skátaheimilinu. Í Norðurbænum er vegurinn kominn undir byggðina.
Sigurgeir var vegavinnuverkstjóri við flestar vegaframkvæmdir inn og út frá Hafnarfirði í byrjun 20. aldar, s.s. Suðurnesjaveginn til Njarðvíkna, Grindavíkurveginn, Hafnarfjarðarveginn til Reykjavíkur og Járnbrautarveginn í gegnum Hafnarfjarðarhraun.

2. Engidalsstígur (norðan Fjarðakaups)

Garðahverfi

Engidalsvegur aftan Fjarðarkaupa.

Enn má sjá nokkurra metra kafla af Engidalsstígnum, uns hann hverfur undir hugsunarlausa framkvæmdargleði nútímamannsins. Þarna lá gamla leiðin suðurúr frá gatnamótunum í Engidal. Hraunkanturinn er þarna skammt norðar, en austar er m.a. tóft sauðakofa og síðan rétt og fleiri mannvirki skammt inni í hrauninu ofan við kantinn. Hraunsholtshellir, Arneshellir, er við Hraunsholt. Á milli Hafnarfjarðarvegarins og réttarinnar liggur Hraunsholtsselsstígur í gegnum hraunið, að Hádegishól, þar sem Hraunsholtsselið var fyrrum sunnan undir honum. Selsminjarnar hafa, því miður, verið í auðn lagðar vegna framkvæmda – eitt þriggja þekktra selja af u.þ.b. 400 slíkum á Reykjanesskaganum.
Skammt sunnan við Engidalsstíginn gamla er listaverkið Jötnar eftir Grím Marinó frá árinu 2000.

3. Hagakotsstígur (á móts við Járnbrautarveginn)

Hagakotsstígur

Hagakotsstígur.

Hagakotsstígur lá frá Hofstöðum að selstöðu bæjarins við Urriðavatn. Nafnið er dregið af Hagakoti, sem var hjáleiga frá Hofstöðum og stóð skammt norðan við Hraunsholtslæk (Hagakotslæk), ofan við Hagakotsvað. Stígurinn sést enn mjög vel í gegnum Hafnarfjarðarhraunið frá hlaðinni tóft á hól sunnan lækjarins við vaðið að mislægum gatnamótum er liggja nú að Kaupstaðahverfinu. Þar hverfur hann undir nútímaframkvæmdir.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn.

Járnbrautarvegurinn (Atvinnubótavegurinn) í Hafnarfjarðarhrauni var stórframkvæmd í lok fyrri heimsstyrjaldar. Hann liggur hann yfir Hafnarfjarðarhraun (nú Garðahraun) sem er hluti Búrfellshrauns.
Atvinnubótavegurinn var lagður frostaveturinn mikla 1918. Þá strituðu verkamenn í miklum frosthörkum við að ryðja og hlaða upp veg gegnum hraunið með handaflinu einu saman. Engu að síður voru þeir starfinu fegnir. Þetta var eina vinnan sem í boði var á erfiðum tímum og löngu fyrir tíma atvinnuleysisbóta og viðlíka úrræða af hálfu hins opinbera. Vonir stóðu til að leggja varanlega járnbraut millum Hafnarfjarðar og Reykjavíkur…

4. Útnesjaleið á Alfaraleið (kapellan)

Kapella

Alfaraleiðin við kapelluna.

Útnesjaleiðin lá frá Hafnarfirði (Innnesjum) út á Suðurnes (Útnes). Frá Hraunabæjunum nefndist gatan Alfaraleið að Kúagerði, þá Almenningsvegur ofan Vatnsleysustrandar og Stapagata frá Vogum til Njarðvíkur. Gatan sést í grónu Hellnahrauninu vestan golfvallarins á Hvaleyri um Leyni. Þar fór hún upp á Brunann (Nýjahraun/Kapelluhraun), en öllu því hraunssvæði hefur nú verið spillt, utan lítils hóls, sem endurgerð kapellutóft stendur nú á. Vestan við hana sést bútur af götunni þar sem hún á að hraunbrúninni við Gerði. Þar sést hvar Útnesjaleiðin og Alfaraleiðin koma saman.

Alfaraleið

Útnesjaleiðin (Alfaraleiðin) – Stóravarða við leiðina; einnig landamerki Lambhaga og Hvaleyrar neðan Leynis.

Alfaraleiðin er elsta kunna samgönguleiðin milli Útnesja og Innnesja á Reykjanesskaganum. Um hana fóru allir fólks- og vöruflutningar fyrr á öldum. Vermenn sem fóru um norðanverðan skagann fylgdu þessari götu á ferðum sínum í og úr verinu. Bændur og kaupmenn, ferðamenn og vinnuhjú fylgdu þessum fjölfarna götuslóða allt þar til Gamlivegur, fyrsti vagnfæri Suðurnesjavegurinn var lagður um 1900. Þá lagðist Alfaraleiðin af. Allflestar aðgengilegar vörður voru rifnar niður af vegagerðarmönnum og leiðin gleymdist smám saman. Hluti leiðarinnar hefur orðið nútímanum að bráð, farið  undir golfvöll, lent undir Reykjanesbrautinni á stöku stað og horfið að hluta þegar mikil efnistaka átti sér stað í Kapelluhrauni á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar. Víða er þessi leið að gróa upp og hverfa en þó getur glöggt fólk auðveldlega fetað sig enn eftir Alfaraleiðinni með því að leggja sig örlítið fram og fylgja þeim kennileitum, sem enn eftir standa.

5. Selvogsgata (Setbergssel)

Setbergssel

Setbergssel við Selvogsgötu – nátthagi.

Sunnan Selvogsgötu suðaustan Fjárhúshlíðar eru tvö sel, Setbergssel og Hamarskotssel. Varða ofan og milli hraunrásar er á mörkum jarðanna. Vestan við austara opið sést móta fyrir hlaðinni kví í skjóli fyrir austanáttinni. [Þessi kví mun hafa tilheyrt Hamarsskotsselinu]. Ofar eru tóttir Setbergssels. Bæði hefur jarðsig verið notað svo og tóttir, sem þarna eru, s.s. hlaðið gerði. Í hraunrásinni er Setbergsselsfjárhellir (Selshellir) að norðanverðu (hlaðinn garður er þvert fyrir hellinn) og Hamarskotsselsfjárhellir að sunnanverðu. Geitur voru hafðar í helli þessum á fyrri hluta 20. aldar, en selið lagðist af í lok 19. aldar.

Fjárhús

Fjárhús.

Uppi í Setbergshlíðinni, ofan við stóra vandaða vörðu á Fjárhúshlíð, má enn sjá háar hleðslur af gömlu fjárhúsi, sem byggt voru þar árið 1904 þegar Setbergsbóndi flutti fé sitt úr Setbergsselinu. Gott útsýni er til selsins frá vörðunni.
Tveir aðrir hellar eru í hraunrás austan og ofan seljanna; Kershellir og Hvatshellir. Selvogsgatan liggur ofan við jarðfallið, sem myndar opið. Þar er hlaðin varða.

6. Selvogsgata (Helgadalur)

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Selvogsgata liggur þvert yfir Helgadal. Vestan götunnar er gróinn Helgadalur með vatni í undir háum hamravegg og að austan er hraunsvæði Búrfellshrauns. Í því eru nokkrir hellar, s.s. Rauðshellir, Hundraðmetrahellir og Fosshellir. Allir eru í sömu hraunrásinni, sem lokast á millum. Í grónu jarðfalli við op fyrstnefna hellsins eru miklar hleðslur, bæði neðar og ofar. Þar eru og undir jarðveginum hleðslur einhverra fornra skjóla. Skammt norðar jarðfallsins er hlaðinn stekkur.
Nyrst í austanverðum Helgadal eru tóftir, annað hvort fornbæjar eða, sem er öllu líklegra, fornar selstöðu, sem lítt hafa verið rannsakaðar.

7. Kaldárselsvegur (vestan Borgarstands)

Kaldárselsvegur

Kaldárselsvegur.

Kaldárselsstígur var fyrst sem selstígur frá Görðum um Setberg (Selvogsgatan) þar sem hún lá af götunni til vesturs ofan misgengis austan Klifsholts að Kaldárseli, en síðar sem frá Hafnarfirði upp á Öldur og þaðan inn með vestanverðri Sléttuhlíð að Borgarstandi og þaðan að selinu. Gatan er enn vel greinileg vestan og norðan Borgarstands þar sem hún er grópuð í hraunhelluna.
Á Borgarstandi voru fyrrum tvær topphlaðnar fjárborgir, en önnur þeirra var endurnýtt (sú austari) af handverksmönnum er unnu að gerð vatnsleiðslunnar frá Kaldárbotnum til Hafnarjarðar árið 1919.
Leifar af undirhleðslu vatnsstokksins úr Kaldárbotnum, þar sem vatninu var fleytt yfir þverhleðslu Lambagjár og áfram yfir í Gjáahraunið þar sem það rann með undir hrauninu uns það kom upp í Lækjarbotnum ofan Hafnarfjarðar.

8. Kúastígur (sunnan Kaldársels)

Kúastígur

Kúastígur frá Kaldárseli.

Kúastígur liggur frá Kaldárseli með stefnu á Kúadal, inn á Undirhlíðaleið vestan Undirhlíða og inn í Kúadal þar sem beit var fyrir kýr. Slíkir staðir eru fáir í nágrenni við selið. Reyndar voru kýrnar fáar og einungis í stuttan tíma, þ.e. á meðan búið var í selinu undir það síðasta.

Kúastígur

Kúastígur að Kúadal.

Vitað er að séra Markús Magnússon á Görðum lét byggja selstöðuna í Kaldárseli upp auk þess sem hann lét hlaða fyrir nálæg fjárskjól, hlaða fjárborgir o.fl. árið 1800 með það fyrir augum að viðhafa þar fjárhald allt árið um kring.
Það eina, sem nú er vitað með vissu um selfarir í Kaldárseli er að hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri höfðu þar í seli. Jón keypti Hvaleyrina 1842. Hann mun hafa verið ríkasti bóndi, sem nokkru sinni hefur setið Hvaleyri. Jón flutti síðan með fjölskyldu sína að Ási. Við brottförina lagðist búskapur niður í Kaldárseli í nokkur ár.
Árið 1867 er manntal tekið í Kaldárseli, og er það sennilega fyrsta árið, sem það er í byggð eftir brottför Jóns. Sá, sem þá er orðinn ábúandi, er Þorsteinn Þorsteinsson, upprunninn í Ölfusi. Þetta ár telur húsvitjunarbókin þar þrjár manneskjur í heimili, bóndann, ráðskonu og tökubarn. Árið eftir, 1877, eru þar fjórir í heimili og hefur þá bæst við vinnukona. Árið 1883 er Þorsteinn orðinn einn í Kaldárseli. Hann dó þar þremur árum seinna.

Kaldársel

Kaldársel – nú og fyrrum.

Þegar Þorsteinn fellur frá eru í Kaldárseli nokkrar byggingar og önnur mannvirki. Hús öll í Kaldárseli keypti Jón Guðmundsson bóndi að Setbergi svo og flestar kindurnar. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.

Kaldárssel

Kaldárssel – ljósm: Daniel Bruun um 1880.

Árin 1906 til 1908 var enn gerð tilraun til búsetu í Kaldárseli. Kristmundur Þorláksson frá Stakkavík í Selvogi fékk það til afnota og hélt hann þar afskekktri útigangshjörð sinni til haga og gjafar. Beitahúsavegur Kristmundar var langur þar sem hann var búsettur í Hafnarfirði og árferði óvenjuslæmt. Hann ætlaði að hlaða hús norðvestan við Kaldársel, en mýs lögðust á féð um veturinn svo fjárhaldi þar varð sjálfhætt.
Jón Guðmundsson, bóndi á Setbergi, keypti síðan Kaldársel með það fyrir augum að hafa þarf athvarf fyrir smala og aðstöðu fyrir ferðamenn á ferðum þeirra um upplandið, en húsunum var lítt við haldið svo þau grotnuðu smám saman niður.
Hafnarfjarðarbær keypti Kaldársel 1912 og árið 1925 byggði K.F.U.M. hús í Kaldárseli, nánast ofan í seltóftunum.

9. Undirhlíðaleið (Litli-Skógarhvammur)

Litli-Skógarhvammur

Litli-Skógarhvammur.

Undirhlíðaleið liggur, eins og nafnið bendir til, með vestanverðum Undirhlíðum frá Kaldárseli, í Sandfellsklofa og áfram til suðurs vestan við Sveifluháls að Ketilsstíg. Í Undirhlíðum hefur verið plantað í skógarreiti.
Kúadalur og Litli-Skógarhvammur í Undirhlíðum tilheyrðu beitilandi Garðakirkju og leiguliða kirkjunnar um aldir, en landið komst í eigu Hafnarfjarðarkaupstaðar 1912. Birkið og víðitrén áttu í vök að verjast þegar Ingvar Gunnarsson kennari plantaði fyrstu barrtrjánum ofarlega í Litla-Skógarhvammi 1930. Þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar tók við Undirhlíðareitnum var fyrsta verkið að girða lundinn. Kúadalsgirðingin var fjarlægð 2005 og Útivistarskógur í Undirhlíðum opnaður í ágúst 2006 í tilefni 60 ára afmælis Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.

10. Undirhlíðaleið (Stóri-Skógarhvammur)

Stóri-Skógarhvammur

Stóri-Skógarhvammur.

Stóri-Skógarhvammur er eitt best varðveitta leyndarmál hafnfirskrar skógræktarsögu. Þangað liggur enginn akfær vegur, einungis slóði, sem ætlunin er að betrumbæta. Hvammurinn er í norðanverðum Undirhlíðum milli Bláfjallavegar og Krýsuvíkurvegar og var áður vinsæll áningastaður þeirra sem fóru Undirhlíðaleið, gömlu þjóðleiðina milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur.
Auðvelt er að komast í Stóra-Skógarhvamm með því leggja bílnum á afleggjara af Kýsuvíkurvegi norðan við Vatnsskarð eða við aflagða malarnámu í Undirhlíðum við Bláfjallaveg. Þar eru stikur sem vísa á Undirhlíðaleið. Leiðin að Stóra-Skógarhvammi er tæplega 2 km löng, hvora leiðina sem farið verður.

Undirhlíðaleið

Undirhlíðaleið.

Eins og nafnið gefur til kynna var Stóri-Skógarhvammur vaxinn gömlum birki- og víðiskógi þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar fékk svæðið til umsjónar og ræktunar 1958. Byrjað var á að girða 56 ha. spildu af sumarið 1958 en árið eftir hófst plöntun trjágróðurs af fullum krafti.
Samið var við Hafnarfjarðarbæ um að piltar í Vinnuskólanum í Krýsuvík önnuðust ræktunarstarfið undir stjórn Hauks Helgasonar forstöðumanns vinnuskólans. Þegar vinnuskólinn í Krýsuvík var lagður niður haustið 1964 var formlegu ræktunarstarfi lokið í Stóra-Skógarhvammi. Skógurinn hefur fengið að aðlagast landsháttum undanfarna fjóra áratugi og hefur nánast verið sjálfbær þennan tíma.

11. Dalaleið (um Leirdal við Leirdalshöfða)

Leirdalur

Slysadalir / Leirdalur  til norðurs- Helgafell fjær.

Dalaleið liggur frá Kaldárseli um Kýrskarð í Undirhlíðum, suður fyrir Gvendarselshæð og um og eftir Bakhlíðum að Leirdalshöfða. Leiðin liggur um Leirdal (Slysadal), yfir Leirdalsháls, um Kjóadali sunnan Háuhnúka, inn með utanverðum Breiðdalshnúk með stefnu á Vatnshlíðarhorn og um Blesaflatir að Kleifarvatni vestan Lambhagatjarnar. Vatnsborði Kleifarvatns er fylgt undir Hellum og farið yfir móbergsklettana Ytri- og Innri Stapa í áttina að Vesturengjum austan Seltúns í Krýsuvík.

Slysadalur

Slysadalur til suðurs – Breiðdalur og Vatnshlíð framundan.

Þegar vatnsyfirborð Kleifarvatns var hátt, sem gerist af og til, þurftu ferðalangar að „fara Helluna“, þ.e. að feta móbergshallan ofan við bergið norðan Ytri-Stapa. Það gat verið varasamt vegna sleipu á kafla og reyndist stundum þörf á að fara hann á sokkaleistunum. Enn má sjá þar rás í hallanum. Við Seltún var brennisteinsnámusvæði fyrrum, auk boranatilrauna, bæði eftir heitu vatni og jarðgufu. Seltún dregur nafn sitt af fyrrum seli frá Krýsuvík. Selshúsin voru jöfnuð við jörðu í byrjun sjöunda áratugs tuttugustu aldar þegar til stóð að reka þar kúabú, en enn ná sjá leifar gerðis og stekks austast í túninu (austan vegarins), sem hross Hafnfirðnga hafa smám saman verið að jarðlægja.
Í nútíma ferðalýsingum er Dalaleið sögð liggja upp úr Fagradal, um ofanverða Vatnshlíð austan Kleifarvatns, um Hvammahraun og Austurengjar að Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík. Sú leið var farin af rjúpnaveiðimönnum fyrrum, enda jafnan veiðivænt í hlíðunum og með hraunkantinum efra.

12. Stórhöfðastígur (varða)

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Stórhöfðastígur liggur frá Ási um Hádegisskarð og Dalinn (Ásflatir), sniðhallt yfir Bleiksteinsháls, út á Selhraunið að Stórhöfða, upp með honum að vestanverðu uns hann beygir yfir Hellnahraunið yngra og Brunann í átt að Snókalöndum. Þar fer hann yfir Krýsuvíkurveginn og síðan suður hraunið upp að Fjallgjá, fylgir misgengi að Fjallinu eina, upp með því að austanverðu að austurjaðri Hrútagjárdyngju og með upprisuvegg hennar að Undirhlíðaleið.
Skammt vestan Stórhöfðastígs á móts við vesturhorn Stórhöfða er heillegt hlaðið fjárskjól og gerði í hraunkrika. Gegnt Stórhöfða hefur stígurinn verið lagaður í gegnum hraunið, sem nú hefur verið úr lagi færður á stórum kafla vegna skammsýnnar efnistöku.

13. Hrauntungustígur (varða)

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur við Krýsuvíkurveg – vegvísir.

Hrauntungustígur liggur frá Ási um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Háabruna að Hrauntungum í Almenningi. Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings að Sauðabrekkum.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Farið er yfir Sauðabrekkugjá um Mosa vestan við Fjallið eina með stefnu á Hrútargjárdyngju, samhliða henni að Hrúthólma og upp með austanverðu Hrútfelli að Ketilsstíg.
Hrauntungustígur frá Hádegisskarði með Hamranesi og yfir fyrrum fiskhjallahraunið (Hellnahraun) er horfin undir byggð og aðrar framkvæmdir. Varða ein er á Brunahraunbrúninni vestan Krýsuvíkurvegar. Stígurinn sést vel frá veginum að henni, en síðan tekur við eyðilagt hrauntökusvæði í boði Skógræktar ríkisins. Ef stikum er fylgt í gegnum svæðið má finna stíginn þar sem hann kemur inn í Hrauntungur og síðan upp úr þeim norðvestan við skógræktina í Brunntorfum. Á þeirri leið er m.a. Hrauntunguskjólið, sem nýtt hefur verið til kolagerðar í tungunum.

14. Hrauntungustígur (Brunntorfur)

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Hrauntungustíg má auðveldlega rekja í gegnum Hrauntungur upp í Brunntorfur. Eftir að komið er úr Hrauntungum (þar sem m.a. má líta Hrauntunguskjólið augum) liggur gatan um Brunntorfur (Brundtorfur). Þar hefur nú verið komið upp miklum skógi af hálfu úthlutaðra spilduáhugagræðara. Á Brunabrúninni má sjá steinhlaðna „skýjaborg“; Þorbjarnarstaðafjárborgina. Fjárborgin var hlaðin af börnum hjónanna á Þorbjarnarstöðum, Þorkels Árnasonar frá Guðnabæ í Selvogi og Ingveldar Jónsdóttur, dóttur Jóns Guðmundssonar, bónda á Setbergi um aldramótin 1900. Systkinin, sem voru 11, hafa eflaust setið yfir fé í Torfunum og ætlað sér að byggja þar topphlaðna borg líkt og þau þekktu frá Djúpudölum í Selvogi. Miðveggurinn í henni var ætlaðu að halda undir þakið, þegar að því kæmi, en líklega hefur þeim verið bannað að halda verkinu áfram því hlutfallslega hefði tilgangurinn ekki helgað meðalið – til þess var ummál borgarinnar allt of mikið.

Þorbjarnastaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Ofan Brunntorfa liggur Hrauntungustígur upp að Fornaseli og síðan áfram upp í Almenning, áleiðis að Fjallsgrensvörðunni, um Sauðabrekkur og áfram á Ketilsstíg.

15. Stórhöfðastígur (ofan Brunntorfa)

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur – gerði.

Stórhöfðastígur um Brunntorfur liggur um gróið Hellnahraunið. Þar er hlaðið gerði í krika. Skammt norðan þess er varða er vísar leiðina inn í Snókalönd, sem eru óbrinnishólmar í Brunanum. Eftir að komið er á stíginn sunnan Krýsuvíkurvegar liggur hann um tiltölulega slétt Hrútagjárdyngjuhraunið. Í því ofanverðu, áður en komið er að Fremstahöfða, má víða sjá stíginn mótaðan í hraunklöppina eftir umferð manna og dýra um aldir.

16. Gerðisstígur (ofan Gerðis)

Gerðisstígur

Gerðisstígur.

Gerðisstígur liggur frá Gerði í Hraunum, upp með vesturbrún Brunans (Kapelluhrauns) og í gegnum Selhraun (þar sem hún hefur verið rudd í gegnum hraunið) í áttina að Neðri- og Efri-Hellum (fjárhellum). Stígurinn er varðaður að hluta. Hann liggur að malarnámum þar sem áður var Þorbjarnarstaðarauðamelur í áttina að Neðri-Hellum. Norðan námunnar má sjá fjárskjól með hleðslum í stuttum hraunrásum. Þaðan liggur stígurinn upp með Vorréttinni undir brunanum að Efri-Hellum, sem eru gróin fjárskjól með hleðslum í hraunrás undir háum hraundrang. Frá fjárskjólinu liggur leiðin upp að Kolbeinshæð þar sem fjárskjólið Kolbeinshæðarfjárskjól hvílir og áfram um Laufhöfðahraun að Gjáseli og áleiðis upp á Hrauntungustíg.
Gerðisstíg hefur nú verið spillt að hluta með óskiljanlegum moldartipp sunnan kvartmílubrautarinnar.

17. Alfaraleið (í Draugadölum)

Alfaraleið

Alfaraleiðin um Draugadali.

Alfaraleiðinni er fylgt til vestur frá Þorbjarnarstöðum. Hún er mjög greinileg á þessum slóðum. Þegar lengra er komið verður gatan krókóttari þar sem hún þræðir um skorninga á milli hraunhóla og – hvela. Þessi kafli nefnist Draugadalir og vestar eru Þrengslin. Á móts við miðja Draugadali er áberandi varða á vinstri hönd, hlaðin í atvinnubótavinnu snemma á 20. öld líkt og nokkrar aðrar sambærilegar við leiðina. Þegar komið er vestur úr Þrengslum ber þriðju vörðuna við himinn. Þar við eru gatnamót Rauðamelsstígs (Óttarsstaðaselsstígs/Skógargötu).
Framundan er Gvendarbrunnshæð. Slóðanum er fylgt, þar sem hann liggur um þrjá metra frá hæðinni, þar til komið er að sléttri grasi gróinni klöpp með holu í miðjunni. Þetta er Gvendarbrunnur sem aldrei þrýtur. Brunnurinn er á mörkum tveggja jarða, því um hann miðjan eru landamerki milli Óttarsstaða og Straums. Gott skjól er í nálægu fjárskjóli, Óttarsstaðahelli.
Reimsamt þótti í Draugadölum. Þótti sumum sem þeir heyrðu þungan andardrátt fyrir aftan sig á göngunni í gegnum dalina, einkum eftir að skyggja tók.

Alfaraleið

Alfaraleiðin um Draugadali.

Ekki er minnst á Alfaraleiðina í örnefnaslýsingu fyrir Þorbjarnastaði, sem verður að þykja sérstakt því leiðin liggur um land jarðarinnar, örsutt ofan túngarðs, og hefur án efa haft mikil áhrif á líf fólksins þar. Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Straum er hins vegar getið um Alfaraleið. „Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir. Hér mun og vera staður, sem nefnist Himnaríki. Tilefnið er það, að bóndi nokkur í Hraunum ætlaði að fara á Rauð sínum til himnaríkis – eftir viku drykkju. Hann lagði upp undir rökkur með nesti og nýja skó (en kvaðst ekki þurfa sokka, því að nóg væri af þeim í himnaríki). Hesturinn skilaði sér fljótt heim, og sjálfur kom bóndi undir vökulok. Í skrá G.S. segir, að hnakkurinn og beizlið hafi fundizt vestarlega í Draugadölum, en aðrir segja, að þetta hafi legið í Stekkatúninu [ofan Þorbjarnastaða]. Síðan er þarna kallað Himnaríki.“

18. Rauðamelsstígur (gatnamót við Alfaraleið)

Óttarsstaðasel

Rauðamelsstígur.

Rauðamelsstígur liggur frá Óttarsstöðum upp í Óttarsstaðasel og síðan áfram upp Almenning inn á Hrauntungustíg efst í Almenningi. Stóri-Rauðamelur var fyrrum áberandi í landslaginu þar sem nú er niðurgrafin grjótnáma norðan Alfaraleiðar. Skammt norðan hans er Litli-Rauðamelur, sem í örnefnalýsingum er sagður horfinn. Því fer fjarri. Um er að ræða fagurfræðilegan afrúnaðan rauðamelshól í umluktu hraunlendi. Ofan Meitla sést vel heim til selsins. Skammt neðar er Meitlaskjól (fjárskjól).
Stígurinn var einnig nefndur Óttarsstaðaselstígur. Út frá honum liggur Skógargatan til suðurs. Við gatnamótin eru tvær nánast jarðlægar vörður.

19. Lónakotsselsstígur (gatnamót Alfaraleiðar)

Lónakotsselsstígur liggur frá Lónakoti upp í Lónakotssel undir Skorási. Á ásnum er varða, sem sést víða að.

Alfaraleið

Alfaraleiðin við gatnamót Lónakotsselsstígs.

Alfaraleiðin er skýrt mörkuð í hraunið og stefnt er á krókóttar hrauntraðir, sem eru minni í sniðum en Draugadalir. Þegar komið er út úr þeim blasa Löngubrekkur við á hægri hönd, grasi og kjarri vaxnar brekkur sem eru syðst í allmikilli hraunhæð, Smalaskálahæð. Brekkurnar eru áberandi í landslaginu og mynda hraunvegg. Efst í suðurhluta hæðarinnar er löng og mikil sprunga, Löngubrekkugjá einnig nefnd Hrafnagjá því þar verpur hrafninn jafnan á vorin. Þegar komið er vestur fyrir þessa hæð liggur hliðarleið til norðurs í áttina að Kristrúnarborg eða Óttarsstaðaborg sem blasir við á hægri hönd. Þetta er falleg fjárborg sem Kristrún Sveinsdóttir húsfreyja á Óttarsstöðum hlóð ásamt vinnumanni sínum um 1865-70. Ástæðan fyrir hinni miklu Löngubrekkugjá skýrist þegar gengið er fram á djúpt jarðfall vestast í hæðinn, sem nefnist Smalaskálaker. Á botni þess er gjallhaugur þar sem myndlistarmaðurinn Hreinn Friðfinnsson, félagi í SÚM hópnum svonefnda, reisti lítið hús árið 1974, sem nú er horfið. Húsið kallaðist Slunkaríki og tengist Sóloni sem bjó á Ísafirði snemma á 20. öld. Hann var sérkennilegur fyrir margra hluta sakir, en einkum vegna þess að hann byggði hús á röngunni. Sólon lét bárujárnið snúa inn og veggfóðrið út eins Þorbergur Þórðarson lýsir vel í bók sinni Íslenskum aðli. Nú hefur verið komið fyrir grind af húsinu á gjallhaugnum til minningar um listaverkið sem þar var.

20. Straumsselsstígur vestari (vestan Draughólshrauns)

Straumsselsstígur vestari liggur upp frá Straumi, nokkru vestan við hlaðinn túngarð Þorbjarnarstaða, yfir Alfaraleiðina, upp með vestanverðu Draughólshrauni að vörðu á þverleið milli Straumssels og Óttarsstaðasels. Þaðan sést vel til beggja seljanna.

Straumsselsstígur

Straumselsstígur vestari.

Þegar þverleiðinni er fylgt til austurs er komið að Straumsseli. Í Straumsseli eru bæði leifar selsins sem og bæjar skógarvarðarins í Almenningum.
Guðmundur Guðmundsson hafði keypt Straumsjörðina af Páli Árnasyni sem hafði keypt hana 1839 af konungssjóði. Guðmundur var gerður að skógarverði í Almenningi og settist þá að í Straumsseli. Þetta mun hafa verið um 1847. Hjá honum var faðir hans Guðmundur Bjarnason, oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann andaðist aldraður maður í Lambhaga vorið 1848, en Guðmundur skógarvörður andaðist fimm árum síðar í selinu, nánar tiltekið 1853. Föst búseta var í Straumsseli í ein 40 ár með hléum, enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin Kolfinna Jónsdóttir og Sigurður Halldórsson sem bjuggu þar á tímabilinu 1853-1863. Eftir það fluttu þau í Hafnarfjörð og bjuggu í Kolfinnubæ sem stóð þar sem nú er Strandgata nr. 41. Farnaðist þeim vel í selinu þótt kjörin væru kröpp.
Talið er að síðast hafi verið búið í Straumsseli 1890-1895. Guðmundur lét reisa myndarlegt bæjarhús í Straumsseli sem stóð fram undir aldamótin 1900 en þá mun það hafa brunnið. Selið fór eftir það í eyði en bæjartóftirnar eru all myndarlegar.

21. Skógargata (gatnamót við Rauðamelsstíg/Óttarsstaðaselsstíg)

Óttarsstaðaselsstígur

Óttarsstaðaselsstígur neðan gatnamóta Skógargötu.

Á Rauðamelsstíg (Óttarsstaðaselsstíg) neðan Meitla eru tvær fallnar vörður. Þær eru á gatnamótum Skógargötunnar er liggur vel vörðuð upp í Skógarnef að Bögguklettum. Þaðan liggur leiðin um hraunið að Lambafellsklofa. Norðaustan hans skiptist leiðin; annars vegar upp að norðanverðum Dyngjurana, utan við Fíflvallafjall að Hrúthólma þar sem hún sameinast Hrauntungustíg, og hins vegar til suðurs austan Eldborgar að Trölladyngju og áfram um Selsvelli og Hraunsel vestan við Núpshlíðarháls niður á Krýsuvíkurleið milli Grindavíkur og Krýsuvíkur norðan Skála-Mælifells.
Merkið er nokkru norðan við gatnamótin.

22. Straumsselsstígur eystri (gatnamót Gjáselsstígs/Fornaselsstígs)

Straumsselsstígur eystri liggur upp frá Straumi sunnan garðs Þorbjarnarstaða, yfir Alfaraleiðina og upp gróna kvos vestan Þorbjarnarstaðastekks (Stekksins), til austurs norðan Draughólshrauns um Flárnar ofan Katla. Neðan og norðan við Katlana greinist gatan; annars vegar heldur hún stefnu í átt að Laufhöfða (Laufhöfðavarða) þar sem hún stefnir á Gjásel og síðan áfram upp í Fornasel, og hins vegar stefnir gatan í átt að Kötlunum og upp með þeim í Straumssel.

Straumsselsstígur

Straumselsstígur eystri -(Gjáselsstígur/Fornaselsstígur) ofan Tobburéttar vestari.

Upp frá Straumsseli liggur leiðin um Straumsselshellnastíg (framhjá Neðri- og Efri-Straumsselshellum) upp að Gömlu-þúfu í áttina að Sauðabrekkugjá þar sem stígurinn sameinast Hrauntungustíg við Fjallgrensvörðuna skammt norðan gjárinnar. Straumselsstígurinn eystri er í fari selstígsins að Fornaseli (ofar) og Gjáseli (neðar). Hvorutveggja voru sel frá Þorbjarnarstöðum. Á stígnum skammt ofan við Tobburéttar austari (sem er fast vestan við hann) má sjá hvernig mikil umferð í gegnum aldirnar hefur sett mark sitt á hraunhelluna.

23. Hrauntungustígur (Fjallgrensvarða)

Fjallgrensvarða

Fjallgrensvarða. Girðingarstaur á landamerkjunum sést í fjarlægð.

Norðan við Litlu-Sauðabrekku og Sauðabrekkugíga er áberandi landamerkjavarða við Hrauntungustíg á mörkum Straumslands og Óttarsstaðalands, sem nefnist Fjallgrensvarða og skiptir hinum mosavöxnu Fjallgrensbölum á milli jarðanna, en þar voru áður grösugir hagar. Ofan vörðunnar tekur við nokkuð sléttir mosar á helluhrauni. Grenin eru merkt með dæmigerðum steinum á þrem­ur stöðum og hlaðin skotbyrgi grenjaskyttnanna eru þar skammt frá.
Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Straum segir m.a.: „Austur frá Gömluþúfu er lægð, sem nær allt austur að Hafurbjarnarholti. Þar er að finna Stórholt og á því Stórhóll. Þar er einnig að finna Stórholtsgreni og þar skammt frá Skotbyrgið. Hér suður af er Fjárskjólsklettur með sitt Fjárskjól. Þá er Fjallgrenshæð og þar í kring Fjallgrensbalar og Fjallgrensgjá og Fjallgren. Fjallgrenið er í austur frá Gömluþúfu, á að gizka. Þá kemur nokkuð slétt helluhraun, en suður af því kemur svo Sauðabrekkugjá, sem heitir Fjallgrensgjá austar.“
Hrauntungustígur virðist rangt stikaður á þessum slóðum.

24. Grásteinsgata (í Urriðakotshrauni)

Grásteinn

Grásteinn við Grásteinsgötu.

Grásteinsgata lá frá Hraunsholtstúni til austurs með norðanverðu Flatahrauni í Garðabæ. Stígnum er fylgt framhjá Stekkjartúnsrétt (neðri) og inn í Garðahraun (Hafnarfjarðarhraun), framhjá Miðaftanshól og yfir núverandi Reykjanesbraut, en stígurinn er nú undir brautinni á kafla, upp með Dyngjuhól (landamerki Urriðakots og Vífilsstaða), inn á Moldargötur og áfram eftir Grásteinsstíg yfir Urriðakotshraun framhjá Grásteini að Kolanefi og þaðan á stíg upp með hlíðinni í Selgjá. Í gjánni voru 11 selstöður frá Garðabæjunum og sjást þar enn leifar þeirra.
Hluti gjárinnar, að vestanverðu, hefur nú verið friðlýstur.

25. Dauðadalastígur (ofan Helgafells)

Dauðadalastígur

Dauðadalastígur.

Á kortum er Dauðadalastígur sýndur koma frá austanverðu Helgafelli, inn í elsta Húsfellsbrunann frá því um 950 e.Kr. og síðan um eldri hraun er kom frá Grindaskörðum (1100 – 4000 ára). Síðan liggur hann um Tvíbollahraunið, niður á Hellnahraunið frá sama tíma um Dauðadali og eftir þeim til suðurs uns hann beygir upp með suðvestanverðum Markraka og fylgir honum síðan utanverðum áleiðis upp á Selvogsgötu. Eflaust hafa hellaopin í Dauðadölum litla athygli vakið fyrrum, enda voru ljóslausir ferðalangar ekki að gera sér sérstakan útúrdúr til að kíkja niður í slík „ómerkilegheit“ í þá daga. Nú sækjast ferðalangar einkum í litadýrð þessara hella (Dauðadalahella, Flóka o.fl.). Stígurinn kemur inn á Selvogsgötuna þar sem hún greinist annars vegar í leiðina að Kerlingaskarði og hins vegar í svo til beina stefnu að Grindaskörðum.

Dauðadalastígur

Dauðadalastígur.

Þegar gengið er um þetta hraunsvæði má, sem fyrr er lýst, sjá nokkur hraunskeið, s.s. hraun úr Grindaskörðum (1100-4000 ára gamalt, enda vel gróið líkt og sjá má í Grindarskörðunum sjálfum), Tvíbollahraunið (frá því um 950) og Hellnahraunið (rúmlega 2000 ára gamalt). Austar er Húsfellsbruni (frá svipuðum tíma og Tvíbollahraunið (950). Inni á millum er grágrýtismyndanir kaplatóarhæða (rúmlega 7000 ára gamlar). Efst, í bókstaflegri merkingu, trjóna Helgafells- og Húsfellsmóbergsmyndanirnar í norðvestri (eldri en 11000 ára). Í heildina er á svæðinu um að ræða einstaka jarðsögu (þ.e. ef fólk kann á annað borð að lesa úr henni). Ekki má horfa framhjá hinum stórkostlegu hraunreipsmyndunum í horfnum árfarvegi vestan Dauðadala.
Gatan var einkum notuð af rjúpnaveiðimönnum. Efst í Kristjánsdölum, skammt frá Selvogsgötunni, eru tóftir eftir hús þeirra.

26. Selvogsgata (Kaplatór)

Selvogsgata

Selvogsgata – rudd á kafla gegnt Kaplatór. Húsfell fjær.

Selvogsgata er þjóðleið milli Hafnarfjarðar og Selvogs í Ölfusi, um dagleið þegar hún er farin í einum áfanga. Ferðalangar fyrri alda hafa bæði mótað og sett spor sín á götuna sem liðast eins og farvegur í gegnum Þríhnúkahraun, framhjá Strandartorfum og Kaplatór eftir varðaðri leiðinni um Hellur, upp í Grindarskörð (sem og Kerlingarskarð inn á Hlíðarveg) og áfram niður í Selvog um Hlíðardal og Strandadal.
Strandartorfur og Kaplatór voru kærkomnir áfangastaðir við götuna, enda báðir skjólgóðir og beitarvænir. Hlaðin varða trjónir yfir Kaplatór.
Miðkafli Selvogsgötunnar er vel varðaður og ruddur um úfnar hraunspildur á köflum. Þessi hluti götunnar, frá Grindarskörðum niður í Hafnarfjörð, notaður til flutnings á brennisteini úr námum í Brennisteinsfjöllum um skeið á seinni hluta 19. aldar.

27. Kerlingaskarðsvegur/Selvogsgata (gatnamót við Bláfjallaveg)

Selvogsgata

Selvogsgata um Grindarskörð og  Kerlingarskarðsvegur um Kerlingarskarð.

Selvogsgatan (Suðurferðavegur eins og heimamenn í Selvogi nefndu leiðina) lá á millum Selvogs og Hafnarfjarðar. Gatan er enn vel greinileg þar sem hún liggur upp frá Strönd í Selvogi, upp Selvogsheiði um Strandar- og Hlíðardal, yfir Hvalskarð og áfram að Grindaskörðum austanvert við Konungsfell (síðar Kóngsfell) þar sem undirlendið að Hafnarfirði blasti við.
Fyrir neðan Grindaskörð, við bílastæði neðan sæluhúss, sem þar er, eru gatnamót. Ferðafélög og leiðsögumenn síðustu áratuga hafa gjarnan frá þeim stað fetað aðra götu, sem brennisteinsmenn notuðu á leið sinni upp í Námuhvamm í Brennisteinsfjöllum í lok 19. aldar og Hlín Johnson lét síðar áframleggja niður að Hlíð við Hlíðarvatn, þ.e. upp Kerlingarskarð. Ofan þess hefur síðan vörðum frá því um miðja síðustu öld verið fylgt niður að Hlíðarskarði – og leiðin síðan jafnan verið kynnt sem hina einu sanna “Selvogsgata”.

Selvogsgata

Grindaskarðavegur.

Í rauninni er um þrjár götur að velja og er “túrhestagatan” nýjust. “Túrhestagatan” er seinni tíma “gata”, beinvörðuð. Um var að ræða vetrarsýsluveg Selvogsmanna í þann mund er fyrri tíma þjóðleiðir voru að leggjast af (um 1940). Vörður við leiðina hafa síðan verið endurhlaðnar og virðist leiðin þess vegna við fyrstu sýn vera “sú eina” millum Selvogs og Hafnarfjarðar. Raunin er hins vegar önnur.
Tvær vörðuleifar eru enn á þessum hluta Selvogsgötunnar ofan gatnamótanna, en annars er yfir slétt mosavaxið helluhraun að fara áleiðis upp í Grindaskörð. Leiðin sú er nokkuð eðlileg, bæði með hliðsjón af lestarferðum; áningarstöðum og vatnsöflun. Undir Grindarskörðum er öllu jafnan ágætt vatnsstæði. Við það mótar enn fyrir jarðlægum tóftum.
Gatan upp Grindarskörðin er augljós þar sem hún liggur í sneiðingum. Vörðubrot eru á stefnumiðum. Þrátt fyrir það þarf að lesa hlíðina vel, nú tæplega 80 árum eftir að síðasta lestarferðin var farin þessa leið milli Selvogs og Hafnarfjarðar. Bæði hefur vatn fært jarðveginn til á köflum og gróðureyðingin sett svip sinn á leiðina. Með góðri athygli má þó sjá hvernig lestarstjórarnir hafa leitt stóð sín ákveðið og óhikað upp sneiðingana, allt upp á efstu brún á hálsinum. Þar er varða og augljóst hvar gatan hefur legið vestan hennar.

Grindarskörð

Grindarskörð og Kerlingaskarð.

Frá brúninni liggur gatan á ská niður hálsinn (Grindarskörðin) og þaðan svo til beint að augum. Tvær vörður eru áberandi framundan. Fyrri varðan vitnar um gatnamót; annars vegar Selvogsgötu og hins vegar Heiðarvegar niður er liggur niður að Hrauni í Ölfusi.
Ofan Litla-Kóngsfells er varða og flöt uppsett hraunhella. Hvorutveggja eru merki um ofanverð gatnamót Selvogsgötu og Hlíðarvegar. Skammt vestar er vatnsstæði. Sunnan Hvalsskarðs þverast göturnar af Stakkavíkurselsstíg, sem liggur sem leið liggur niður að Stakkavík um Selstíg. Vestan við Hvalhnjúk taka við Vestur-Ásar.
Neðarlega í Ásunum eru austan vegar grasbrekkur allstórar, og heita þær Dýjabrekkur. Litlu neðar eru Selbrekkur. Þar hefur, þegar það tíðkaðist almennt, verið haft í seli frá Stakkavík. Úr Selbrekkum er stutt fram á fjallsbrúnina. Þegar á brúnina kemur, hýrnar svipur útsýnisins og breytist allnokkuð. Af henni blasir við undirlendið allt sem og hafið svo langt sem augað eygir til suðurs.

Sjá meira um ratleikinn HÉR.

Selvogsgata

Selvogsgatan að morgni dags.