Tag Archive for: Sigurður Eiríksson

Grímsvarða

Þriðjudaginn 23. desember 2014 mátti lesa eftirfarandi í Víkurfréttum um „Grímsvörðuna“ við Sandgerðisveginn:

Guðmundur

Guðmundur Sigurbergsson.

„Grímsvarða við Sandgerðisveg hefur verið endurreist og er nú minnisvarði um þá sem látist hafa á Miðnesheiði. Það var fyrir tilstuðlan þeirra Guðmundar Sigurbergssonar og Sigurðar Eiríkssonar í Norðurkoti að varðan var endurreist.

Þeir Guðmundur og Sigurður eru áhugamenn um sögu Miðnesheiðar og hafa m.a. endurhlaðið vörður á þjóðleiðinni yfir heiðina.

Miðnesheiði er mannskæðasta heiði landsins og í kirkjubókum á Útskálum eru nafngreindir næstum 60 einstaklingar sem orðið hafa úti á heiðinni í aldanna rás. Talið er að þeir séu mun fleiri. Nú er Miðnesheiði sakleysisleg á að horfa en ástæða þess að svo margir hafa orðið úti þar er að heiðin veitir lítið skjól og þar eru fá kennileiti og því var auðvelt að villast þar á árum áður þegar hverrgi sást til ljósa.

Heimild:
-https://www.vf.is/frettir/minnisvardi-um-latna-a-midnesheidi-1

Grímsvarða

Á hinni nýju Grímsvörðu er kross sem Guðmundur Sigurbergsson byrjaði að höggva til á Þorláksmessu 2013.

 

Hvalsnesleið

Þeir eru ekki margir núlifandi er hafa fengið tækifæri til að skoða fornleifarnar innan girðingar varnarsvæðis Keflavíkurflugvallar.

Sigurður Eiríksson

Ómar og Sigurður við Dauðsmannsvörðu í Miðnesheiði.

Að beiðni Stefáns Gunnars Thors hjá VSÓ ehf. fyrir hönd Isavía tóku skýrsluhöfundar, Ragnheiður Traustadóttir og Ómar Smári Ármannsson, að sér fornleifaskráningu á Miðnesheiði innan girðingar Keflavíkurflugvallar vegna aðalskipulags flugvallarins árið 2014.
Á hinu skráða svæði er að finna fornar leiðir, vörður, byrgi, fjárborgir, selstöðu og fjöldann allan af ummerkjum um veru hersins á stríðsárunum auk yngri byrgja frá hernum. Heiðin hafði verið nýtt sem beitiland í gegnum aldirnar, leiðir hafa legið þar í gegn og auk þess skipt sköpun fyrir mið sjómanna áður en nýtísku staðsetningartæki leystu þau af hólmi.

Hvalenesleið

Hvalsnesleið – varða.

Skýrsluhöfundar töldu auk þess nauðsynlegt að skrá minjar að hluta til utan við girðinguna til að gæta samhengis, enda skiptir máli að skoða minjaheildir sem slíkar. Eins reyndist það nauðsynlegt til að rekja aðrar götur á heiðinni: Hvalsnesveg/Melabergsgötur, Stafnesleið yfir heiðina framhjá Háaleiti til Keflavíkur, Fuglavíkurleið og Gömlu Fuglavíkurleiðina.

Svæðið er ekki aðgengilegt fyrir almenning og voru fornleifarnar skráðar í fylgd öryggisvarða.

Hvalsnesleið

Hvalsnesleið – vörður.

Ómar Smári hafði áður fengi nokkrum sinnum leyfi til að fara inn fyrir varnagirðinguna og skoða svæðið vegna fornleifa, m.a. í fylgd með Sigurði Eiríkssyni frá Norðurkoti sem er fæddur og uppalinn í Fuglavíkurhverfi. Sigurður er manna fróðastur um örnefni og fornleifar á svæðinu. Auk þess veitti Jón Ben Guðjónsson frá Stafnesi gagnlegar upplýsingar.
Þeim og öðrum, sem veittu aðstoð við gerð þessarar fornleifaskráningar, er þökkuð aðstoðin.
Með skýrslunni fylgir fornleifaskrá og stafrænn hnitagrunnur.

Sjá skýrsluna HÉR.

Hvalsnesleið

Vörður við Hvalsnesleið – Ási.

Sigurður Eiríksson

Tekið var hús á Sigurði Eiríkssyni í Norðurkoti og litið á Dauðsmannsvörður, en þær munu vera þrjár á þeim slóðum. Ein, þ.e. sú nyrsta ofan við Sandgerði, á skv. gömlum sögnum að vera með áletrun.

Dauðsmannsvarða

Efri-Dauðsmannvarða við Sandgerðisveg.

Sigurður sagði að enn hefði hin meinta áletrun við Neðri-Dauðsmannsvörðu við Sandgerðisveginn ekki komið í ljós. Varðan er hálfhrunin, en þá má enn sjá ferkantaða lögun hennar. Varðan er nokkuð utan við götuna, í slakka, svo hún hefur ekki þjónað neinum sem leiðarmerki í lifandi lífi. Sagan segir að þarna hafi maður eða jafnvel menn orðið úti og varðan verið hlaðin til minningar um hann eða þá. Áletrun átti að hafa verið klöppuð á stein í eða við vörðuna. Þrátt fyrir nokkra leit hefur hún ekki fundist. Næsta verkefni verður líklega að taka hvern stein fyrir sig og skoða. Það er talsverð vinna, en vel framkvæmanleg við góðar aðstæður. Þá er og tími kominn til að endurhlaða vörðuna með því grjóti sem hjá henni liggur. Sjaldgæft er að grjót hafi fengi að vera í friði á Suðurnesjum því oftar en ekki var það tekið, hvar sem til þess sást, að ekki var talað um ef það var uppraðað og aðgengilegt til brúks. Það var notað annað hvort í hafnarmannvirki eða við vegagerð. Þannig hurfu heilu garðarnir og stór hluti af merkilegum vörðum á svæðinu. Þó má víða enn sjá fótstykkin standa sem minnismerki um þær vörður sem voru.

Dauðsmannsvarða

Neðri-Dauðsmannsvarða við Sandgerðisgötu.

Sigurður sagðist hafa skoðað Dauðsmannsvörðuna í heiðinni ofan við Berghús, en hann hefði ekki fundið áletrun á eða við hana. Þá hefði hann frétt að Efri-Dauðsmannsvarðan á efsta Draughólnum við Draugagil hefði verið hlaðin upp s.l. sumar. Það hefði gert áhugamaður um sögu og minjar, Guðmundur, en sá héldi tilfallandi til í bústað vestan Sandgerðis. Ekki væri vitað hvort áletrun hafi leynst þar á steini, en ólíklegt væri það því varða þessi væri greinilega leiðarmerki við gömlu götuna til Keflavíkur.
Tugir manna urðu úti á gömlu þjóðleiðunum um Miðnesheiði fyrr á öldum. Flestir voru þeir á leið frá kaupmanninum í Keflavík, síðladags eða undir kvöld. Í annarri FERLIRslýsingu eru tíundaðir viðskiptahættir þess tíma, s.s. staup fyrir hitt og þetta, t.d. fyrir að bíða.

Sandgerðisvegur

Genginn Sandgerðisvegur.

Sagan af Runka (Runólfi), þess er Hafsteinn miðill hafði jafnan beint samband við á skyggnilýsingarfundum sínum, er ágætt dæmi um þetta. Lík hans fannst illa útleikið eftir að hans hafði verið saknað um tíma. Var jafnvel talið um tíma að honum hafi verið fyrirkomið, en síðar sættust menn á að dauða hans hafi borið að af „eðlilegum“ ástæðum.
Eflaust standa ennþá fleiri vörður, eða fallnar, á Miðsnesheiði sem minningarmörk um fólk, er varð þar úti á sínum tíma, en eru núlifandi fólki flestu gleymt. og enn rölta menn um heiðina, meira og minna „dauðir“ fyrir sögu þeirra, sem þar hafa orðið til í gegnum aldirnar.

Sandgerðisvegur

Sandgerðisvegur – kort ÓSÁ.

Fuglavík

Farið var að Bjargarhúsum þar sem Sigurður Eiríksson frá Norðurkoti tók vinsamlega á móti FERLIRsfélögum.

Sigurður Eiríksson

Sigurður Krsitinn Eiríksson

Sigurður bauð þeim inn og upp á kaffi og meðlæti. Meðlætið kryddaði hann með fróðleik – og það miklum. Hann benti á Helluhúsið (Bjarghús) og Rafnklesstaðabátinn er hvorutveggja standa ofan við hlýlegan bústað hans austan við þjóðveginn milli Sandgerðis og Stafness, gegnt Norðurkoti. Helluhúsið er lítið, en einstakt hús, hlaðið af Einari Gestssyni úr jafnþykkum hellum er reistar hafa verið upp á rönd og steypt á milli. Húsið er ágætur vitnisburður um vilja byggjandans til að reyna lóðrétta notkun steinhellna í stað láréttar, eins og þá hafði tíðkast frá upphafi Íslandsbyggðar. Væntanlega hefur þurft kjark og krafta til slíkra hluta í þá daga þegar sérhver sá er gerði hlutina með óhefðbundunum hætti gæti auðveldlega átt það á hættu að verða álitin skrýtinn. Báturinn er eftirlíking af hinum merka Rafnskelsstaðabáti, sem Sigurði er einum lagið við að lýsa.

Bjarghús

Brunnlokið.

 Við Bjarghús má einnig sjá brunnlok úr hraunhellu. Á það er klappað gat og í því handmótaður steintappi, einnig eftir Einar Gestsson.
Frá Sigurði var haldið að Fuglavík þar sen Nína Bergmann og bræðurnir frá Nesjum, Magnús og Sigurbjörn Stefánssynir, tóku vinalega á móti hópnum. Tilefni ferðarinnar var m.a. að leita að ártalssteini, sem vera átti skv. gömlum sögnum í fornum yfirbyggðum brunni við Fuglavík, en átti að hafaverið færður til og settur í stéttina framan við gamla bæinn þar sem íbúðarhúsið stendur nú. Steinn þessi átti að bera ártalið 1538.

Fuglavík

Fuglavík og Norðurkot neðst t.h.

Útlendur maður, Pípin að nafni, hafði klappað ártalið í steininn, en þá var steinninn í brunni bæjarins, sem fyrr sagði, en var síðan færður í stéttina skv. sömu heimild. Getið er um steininn í Árbók Hins ísl. Fornleifafélags frá árinu 1903 eftir að Brynjúlfur Jónsson hafði farið um svæðið og fengið spurnir af steininum. Hann ritaði um hann og fleira markvert á Suðurnesjum í nefnt ársrit.
Fuglavíkurfólkið sýndi hópnum gömul lóð frá konungsversluninni, sem fundist höfðu eftir að Sigurður í Norðurkoti hafði farið að minna á FERLIRsheimsóknina fyrir skemmstu þegar hin fyrri tilraun var gerð til að hafa uppi á ártalssteininum, en án árangurs. Á lóðunum eru greinileg merki Kristjáns V. sem og þyngdareining í LBs-um. Sennilega er þarna um merkan fund að ræða.

Fuglavík

Fuglavíkursteinninn í stéttinni – 1581.

Til að gera langa sögu stutta hafði ártalssteinninn fundist á hlaðinu. Nína hafði af tilviljun verið að ganga um hlaðið og þá rekið tærnarí steininn, af einskærri tilviljun eftir að farið var að tala um hann. Ártalið 1580 er á honum, en þó er aftasti tölustafurinn orðinn nokkuð óskýr. Steinninn er á þeim stað þar sem ekið er heim að nýja húsinu og hafði verið færður í kaf með ofaníburði. Um er að ræða elsta ártalsstein á Reykjanesi, sem heimildir eru um og enn hefur fundist.
Eftir að hafa skoðað og myndað steininn fylgdi Sigurður FERLIRshópnum síðan um Fuglavíkurveg og inn um gat á Varnargirðingunni. Ætlunin var að leita hugsanlegra tófta undir hinu forvitnilega nafni Selhólar.

Fuglavík

Fuglavíkurleiðin gengin.

Gengið var framhjá Selhólavörðunni, sem er gömul hlaðin varða á fiskimið. Þegar haldið var þaðan til austurs var gengið fram á tóftir undir nefndum Selhólum. Um er að ræða gamalt sel undir holti, en enn austar fannst gömul fjárborg, stór og vel gróin. Utan í henni eru tóftir. Var hún formlega nefnd Fuglavíkurborgin því hún er í landi Fuglavíkur. Hvorki Sigurður né Fuglavíkurfólkið, sem einnig var með í för, hafði áður séð þessa fjárborg og hafði það þó farið þarna um áður en varnargirðingin kom til. Hnit hennar eru færð inn á fjárborgaryfirlitið. Dimm þoka grúfði yfir svæðinu er varði hún leiðangursfólkið fyrir ásýnd Varnarliðsins.

Fuglavíkurleið

Gengin Fuglavíkurleið.

Þá var haldið til baka og í kaffiveitingar í Fuglavík þar sem veitt var af kostgæfni. Fuglavíkurfólkið var síðan hvatt með fyrirheit um að koma nú fljótt aftur í heimsókn því enn væru eftir óskoðaðar minjar, m.a. í Másbúðar

hólma (sjá FERLIR-203) þar sem fyrir er letur og ártöl á klöppum frá árinu 1696, en ekki er að sjá að áður hafi verið ritað um það eða þetta skráð. Út í Másbúðarhólmann hefur verið hlaðin brú svo hægt hafi verið að ganga út í hann þurrum fótum á flóði. Enn má sjá móta fyrir henni.

Bjarghús

Bjarghús. Rafnkelsstaðabáturinn fremst.

Í bakaleiðinni var gamli vegurinn, sem liggja átti yfir heiðina sunnan Melabergs, skoðaður, en hætt var við hann af einhverjum ástæðum. Vegurinn átti að vera það breiður að tveir hestvagnar gætu mæst á honum, en það þótti nýlunda í þá daga. Enn má sjá móta fyrir veginum norðan nýja vegarins að Hvalsnes. Þá var genginn Melabergsvegur til austurs og beygt af honum til suðurs að Melabergsborg. Borgin er greinileg og stendur á klapparhól. Allnokkuð er fokið yfir borgina, enda mikil gróðureyðing allt um kring.
Veður var með ágætum – hlýtt og stillt. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Bjarghús

Bjarghús.

Sigurður K. Eiríksson, bóndi í Norðurkoti í Fuglavíkurhverfi utan við Sandgerði á utanverðum Reykjanesskaganum, er á níræðisaldri. Honum er ýmislegt til lista lagt.
Siggi-2Auk þess að verja æðarvarpið fyrir varginum með nýstárlegum aðferðum hefur hann m.a. dundað sér við að tálga eftirmyndir af fuglum í smækkaðri mynd. Þó hafa a.m.k. tvö verka hans fengið að njóta stærðarinnar, en það eru geirfuglar, sem hann hefur unnið nokkuð nákvæmar eftirmyndir af. Hafði hann m.a. geirfuglseintakið fræga á Náttúrufræðisafninu sem fyrirmynd.
„Fuglar náttúrunnar hafa verið mér hugleiknir, allt frá því að ég  var barn“, sagði Sigurður þegar hann var spurður um þennan áhuga á fuglum, „geirfuglinn sem mennirnir náðu reyndar að gera aldauðan hér ekki langt undan, er einn af þeim. Geirfuglinn er nú minnisvarði um hvernig á ekki að standa að verki þegar náttúran og lifandi verur eru annars vegar“.

Siggi-3

Þegar Sigurður var spurður að því hvernig honum litist á að sýna fuglana svaraði hann: „Æi, verður þetta þá bara ekki eins og vitlausa umfjöllunin um hina geirfuglana tvo, listaverkin úti á Reykjanesi og úti við Skildingarnes. En hvernig er svo sem hægt að gera eftirmyndir af fugli öðruvísi en hann er, eða var í þessu tilviki?“
Sigurður er jafnvígur á tré og járn svo það er fátt sem hann getur ekki búið til. Ef fólk á erindi um Stafnesveginn milli Sandgerðis og Ósabotna er tilvalið að sækja Sigurð heim og fá að skoða fuglana sem og hið áhugaverða umhverfi sem þar er að finna.

Sigurður Eiríksson

Sigurður Eiríksson með geirfuglana.