Á Vísindavef Háskóla Íslands er m.a. fjallað um „Kjós og nokkra staði þar innan marka“ í svörum við spurningum þess efnis. Taka ber þó svörunum með hæfilegum fyrirvara.
Yfir hverju þarf landsvæði að búa til að það sé kallað Kjós?
Upprunlega hljóðaði spurningin svona:
Í Hvalfirði er landsvæði sem heitir Kjós. Nálægt Skaftafelli, inn af Morsárdal er líka landsvæði sem heitir Kjós. Spurningin er hvað gerir landsvæði að Kjós? Yfir hverju þarf landsvæði að búa til að það sé kallað Kjós?
Orðið „kjós“ merkti í fornu máli ‚þröng vík‘ en merkir nú ‘kvos, dalur eða dæld’ (Íslensk orðabók, 778; Ásgeir Blöndal Magnússon, 468).
Í Troms og víðar í Norður-Noregi merkir orðið kjos ‘þröngur dalur’ eða ‘laut’ (Norsk stadnamnleksikon, 183).
Auk Kjósar í Kjósarsýslu og í Skaftafellssýslu kemur nafnliðurinn meðal annars fyrir í örnefnum á Snæfellsnesi, í Norður-Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu (Íslandsatlas).
Heimildir:
-Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989.
-Íslandsatlas. Fimmta prentun endurskoðuð. Reykjavík 2015.
-Íslensk orðabók. Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. Ritstjóri: Mörður Árnason. 3. prentun. Reykjavík 2005.
-Norsk stadnamnleksikon. Jørn Sandnes og Ola Stemshaug (útg.). Oslo 1976.
Af hverju heitir Írafell í Kjós þessu nafni og hvað er sá bær gamall?
Írafell er þekkt á nokkrum stöðum á Íslandi, meðal annars í Kjós þar sem bæði fell og bær bera þetta nafn. Bærinn er þekktur í rituðum heimildum allt frá 16. öld en nafn hans kemur fyrst fyrir í fógetareikningum frá 1547-1548 (Íslenskt fornbréfasafn XII:107 og víðar).
Í 18. aldar heimildum er getið um Írafell á Reykjanesi í Gullbringusýslu en það er ekki þekkt nú. Auk þess eru nefnd þrjú Írafell á Snæfellsnesi: eitt á Hellisvöllum (Hellnum) í Breiðuvíkurhreppi (nú slétt flöt, samkvæmt örnefnalýsingu), annað í Helgafellssveit og það þriðja suðvestur af Drápuhlíðarfjalli.
Í Skagafirði er bær sem oft er nefndur Írafell en samkvæmt Landnámabók og fleiri heimildum er upphaflega nafn hans Ýrarfell (Byggðasaga Skagafjarðar III (2004), bls. 410 og áfram).
Ekki er vitað hve gamalt bæjarnafnið Írafell í Kjós er né heldur hvort það er kennt við þá Íra sem taldir eru hafa verið hér við upphaf landnáms eða Íra sem hingað komu í verslunarerindum á 15. öld. Hermann Pálsson fjallaði um Íra-örnefni í grein í Skírni 1953 (bls. 105-111) en hann ræðir ekki Írafell sérstaklega.
Helgi Guðmundsson fjallar um örnefni kennd við Íra, Breta og Pétta1 í bók sinni, Um haf innan (1997, bls. 198-199). Þar nefnir hann meðal annars að á Katanesi í Skotlandi sé fjall með keltnesku nafni, Cnoc an Eireannaich, sem merki ‘Írafell’, en hann telur annars óvíst hvernig eigi að túlka örnefni þau á Íslandi sem kennd séu við erlendar þjóðir (199).
Péttar (e. Picts) voru þjóðflokkur, sem var ef til vill ekki keltneskur að uppruna en bjó á Bretlandseyjum og átti í sífelldum útistöðum við Rómverja. Á níundu öld eða svo runnu þeir saman við Skota.
Hvernig myndaðist Meðalfellsvatn í Kjós?
Stöðuvötn eru vatnsfylltar dældir sem ná niður fyrir grunnvatnsflöt eða myndast þar sem einhver þröskuldur girðir fyrir vatnsrennsli á yfirborði eða grunnvatnsrennsli. Jöklar hafa leikið stórt hlutverk við myndun stöðuvatna á Íslandi og má skipta jökulmynduðum vötnum í nokkra flokka. Nánar er fjallað um myndun stöðuvatna í svari við spurningunni Hver eru dýpstu stöðuvötn á Íslandi? og um jökulrof í svari við spurningunni Hvað er jökulrof? Hvernig verður jökulrof og landmótun jökla á Íslandi?
Langflest íslensk stöðuvötn í jökulsorfnum dældum. Dældirnar hafa myndast þegar ísaldarjökullinn heflaði landið, misdjúpt eftir þykkt jökulsins á hverjum stað og styrk undirlagsins. Eftir stóð mishæðótt landslag með dældum sem fylltust af vatni.
Að öllum líkindum er Meðalfellsvatn í Kjós dæmi um stöðuvatn í jökulsorfinni dæld og þá myndast eins og hér hefur verið lýst.
Meðalfellsvatn er 2 km2 að flatarmáli. Mesta dýpi vatnsins er tæplega 19 m og meðaldýpi er 4,4 m. Dýpsti hluti þess er í því austanverðu en meginhluti þess er tiltölulega grunnur (2 – 4 m). Vatnasvið Meðalfellsvatns er um 39 km2 . Í það sunnanvert renna smáárnar Flekkudalsá með upptök í Flekkudal í norðanverðri Esju og Sandsá með upptök í norðanverðum Móskarðshnjúkum. Úr Meðalfellsvatni norðvestanverðu fellur áin Bugða sem rennur í Laxá.
Í Meðalfellsvatni er töluvert af bleikju og einnig er þar að finna urriða. Auk þess veiðast í vatninu nokkrir laxar árleg.
Heimildir:
-Flokkun vatna á Kjósarsvæði – Meðalfellsvatn. Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis og Háskólasetrið í Hveragerði. 2004.
-Meðalfellsvatn á NAT Norðurferðir. Sótt 6. 3. 2008.
Hvernig myndaðist Esjan?
Esjan og berggrunnurinn undir Reykjavík, Mosfellssveit og Kjós myndaðist í gosbeltinu sem nú liggur frá Reykjanestá um Þingvallasveit og norður í Langjökul. Í Esju, á svæðinu frá Hvalfirði og austur fyrir Skálafell í Kjalarneshreppi, var eldvirknin stöðug í rúmlega eina milljón ára frá því fyrir um 2,8 milljón árum. Á þessum tíma voru að minnsta kosti 10 jökulskeið með hlýskeiðum á milli.
Esjan myndaðist vestan til í gosbeltinu og ýttist smám saman frá því til vesturs.
Rekhraðinn til vesturs frá flekaskilunum, sem nú liggja um Þingvallasveit, hefur um milljónir ára verið um einn cm á ári, enda stendur heima að vesturendi Esju er um 30 km norðvestan við vestustu virku sprungurnar (gjárnar) á Þingvöllum og í Hengli. Á sama tíma og berggrunnurinn undir Reykjavík, Mosfellssveit og Kjós var að myndast vestan til í gosbeltinu var berggrunnurinn undir Selfossi og Hreppum að myndast austan til í því. Auðvelt er að fá nútímasamlíkingu á Reykjanesskaga með því að hugsa sér að berggrunnurinn undir Reykjavík sé að myndast í Trölladyngju og Sveifluhálsi vestan við Kleifarvatn, og berggrunnurinn undir Selfossi framtíðarinnar sé að myndast í eldstöðvum milli Kleifarvatns og Herdísarvíkur.
Fyrir tæpum þremur milljón árum var vestasti hluti Esju í vesturjaðri virka gosbeltisins (sem nú liggur um Þingvallasveit). Þetta virka gosbelti teygði sig til norðausturs meðfram Hvalfirði en til suðvesturs yfir Sundin og Vesturbæinn. Á þeim tíma voru þó hvorki Sundin né Hvalfjörður til. Samfellt fjalllendi náði frá hálendinu og miklu lengra í sjó fram en nes og eyjar við innanverðan Faxaflóa nú. Þá var stórt eldfjall í Sundunum, en gjástykki teygðust til norðurs um Kjós og suður yfir Mela. Margt bendir til að stór askja hafi myndast í þessari megineldstöð, Kjalarneseldstöðinni, og mikill fjöldi innskota myndaðist í henni. Stærstu innskotin má nú sjá á yfirborði í Viðey, yst á Kjalarnesi og milli Skrauthóla og Mógilsár.
Gosvirknin færðist smám saman austar, Kjalarnesmegineldstöðin þokaðist til vesturs út úr gosbeltinu en gosvirknin varð mest þar sem Kistufell í Esju er nú. Þá fengu jarðlögin neðst í Kistufelli sinn mikla halla.
En ekki leið á löngu þar til gosvirknin var komin austur fyrir Grafardal. Þar myndaðist stórt og myndarlegt eldfjall, Stardalsmegineldstöðin. Í þeirri eldstöð myndaðist askja álíka stór og Kröfluaskjan. Í henni safnaðist vatn, svipað og síðar gerðist í Öskju í Dyngjufjöllum, en askjan fylltist síðan af gosefnum. Þunnfljótandi hraunlög runnu langt vestur úr virka gosbeltinu og mynduðu hinn reglulega hraunlagabunka, sem nú myndar topp Esjunnar allt frá Skálafelli vestur undir Hvalfjörð. Æviskeiði megineldstöðvarinnar í Stardal lauk með líparítgosum undir jökli á bogasprungum umhverfis öskjuna. Glæsilegustu menjar þeirra eldsumbrota eru Móskarðshnúkar, en aldursgreiningar benda til að líparítið í þeim sé um 1,8 milljón ára gamalt.
Eldvirkni færðist enn til austurs, eða öllu heldur megineldstöðina rak vestur úr gosbeltinu og upphleðslu jarðlaga lauk í Esju, Kjós og byggðum hluta Mosfellssveitar. Samfellt fjalllendi náði frá Akrafjalli og Skarðsheiði austur yfir Esju og fellin í Mosfellssveit. Yfir Sundunum og Reykjavík lá meira en þúsund metra þykkur stafli af hraunlögum og móbergi.
Í rúmlega milljón ár eftir að Móskarðshnúkar mynduðust skófu ísaldarjöklar fjalllendið og skáru út það landslag, sem við sjáum í dag. Ekki er vitað um eldvirkni á svæðinu þennan tíma.
Ekki er heldur vitað um fjölda jökulskeiða á þessu tímabili, en margt bendir til að jökulskeið gangi yfir Ísland á um hundrað þúsund ára fresti.
Fyrir þrjú til fimm hundruð þúsund árum varð eldgos undir jökli í Mosfellssveit og þá myndaðist Mosfell. Þá voru dalir Esju svipaðir og í dag og fellin í Mosfellssveit einnig. Á næstu hlýskeiðum runnu þunnfljótandi hraun úr grágrýtisdyngjum í jaðri virka gosbeltisins vestur yfir hið rofna land, þöktu mikið af láglendinu og runnu í sjó fram. Hraunstraumarnir runnu milli Mosfells og Esju, milli Úlfarsfells og Hafrahlíðar, en einkum þó vestur yfir láglendið sunnan Úlfarsfells. Þessi grágrýtishraun mynda Brimnes á Kjalarnesi, yfirborð eyjanna á Sundunum svo og flest klapparholt á höfuðborgarsvæðinu svo sem Grafarholt, Breiðholt, Öskjuhlíð, Valhúsahæð, Digranesháls, Hamarinn í Hafnarfirði og Hvaleyrarholt. Upptök grágrýtishraunanna eru fæst þekkt, en meðal þeirra hafa þó verið Borgarhólar, Lyklafell og Eiturhóll á Mosfellsheiði.
Nánari upplýsingar er að finna í Árbók Ferðafélags Íslands 1985 í grein eftir Ingvar Birgi Friðleifsson. „Jarðsaga Esju og nágrennis“, bls. 141-172.
Hvað þýðir nafnið Esja?
Bærinn Esjuberg á Kjalarnesi er nefndur á nokkrum stöðum í Landnámu án þess að vikið sé að skýringu á nafninu. Þar bjó Örlygur Hrappsson sem kom til landsins frá Suðureyjum og settist að á Kjalarnesi.
Í Kjalnesingasögu er sagt frá því að írskir menn hafi komið á skipi í Leiruvog í Kollafirði. Meðal þeirra var kona, Esja að nafni, og var hún sögð ekkja og mjög auðug. Hún tók við bæ Örlygs og bjó að Esjubergi. Fjallsnafnið er þar ekki nefnt.
Vegna þessara sagna hefur sú tilgáta komið fram (W. Craigie) að nafnið Esja sé af keltneskum uppruna, dregið af Ésa eða Essa (sjá Hermann Pálsson: Keltar á Íslandi. Reykjavík 1996:170).
Flestir hafna þó þessari skýringu og telja að kvenmannsnafnið sé til orðið á eftir bæjarnafninu og fjallsheitinu. Helgi Guðmundsson (Um haf innan 1997:193-94) hefur bent á að í Lewis (Ljóðhúsum) í Suðureyjum séu varðveitt norræn örnefni í gelísku sem komi heim og saman við röð örnefna frá Akranesi og suður í Kollafjörð. Meðal þeirra er Esjufjall. Hugsanlega hafa örnefnin verið gefin um sama leyti á báðum stöðum og flust með norrænum mönnum vestur á bóginn.
Líklegasta skýringin á Esja er því sú að um norrænt nafn sé að ræða. Ásgeir Blöndal Magnússon (Íslensk orðsifjabók 1989:157) bendir á að í eldra máli hafi verið til orðið esja í merkingunni ‘flögusteinn, tálgusteinn’. Í norsku er til esje í sömu merkingu. Af sama uppruna eru norska orðið esje í merkingunni ‘eimyrja’, sænska orðið ässja í sömu merkingu en einnig í merkingunni ‘smiðjuafl’ og síðastnefnda merkingin kemur fram í danska orðinu esse ‘smiðjuafl’. Ásgeir Blöndal telur upphaflega merkingu orðsins esja í íslensku vera ‘eldstæði’ og ‘steintegund höfð til eldstæðis- og ofngerðar’. Fjallsnafnið væri þá af sama stofni.
Hver er uppruni örnefnisins Skálafell og gæti verið að upphaflega hafi það heitið Skálarfell eða Skaflafjell?
Fyrirspyrjandi nefnir ekki hvaða fell hann á við en Skálafell eru tvö í nágrenni Reykjavíkur:
Austan Esju, inn af Mosfellsdal í Kjósarsýslu (774 m).
Upp af Hellisheiði, suðaustur af Hveradölum (574 m).
Landnámabók segir að Ingólfur Arnarson hafi látið gera skála á Skálafelli (Íslenzk fornrit I, 45) og mun þá átt við Skálafell sunnan Hellisheiðar. Hins vegar segir Kristian Kålund í sögustaðalýsingu sinni að sagnir séu um að Ingólfur hafi haft skála (fjárskála) á Skálafelli austan Esju (Kålund I, 43). Jónas Magnússon í Stardal segir í örnefnaskrá að fellið í Kjós „ætti betur við söguna af Ingólfi Arnarsyni en Skálafell upp af Kömbum, því að Þingvallavatn blasir við af þessu felli.“
Líklega er nafnið á fjallinu austan Esju upphaflega *Skálarfell, af áberandi skál í fjallinu. Þó er önnur skál minni í austurenda fjallsins og gæti því nafnið hafa verið Skálafell í upphafi, segir Egill J. Stardal, sonur Jónasar í Stardal í Árbók Ferðafélagsins 1985, 122-123.
Ekki er líklegt að upphaflega nafnið hafi verið Skaflafjell eða Skavlfjell. Þórhallur Vilmundarson segir að Skálafell sunnan Hellisheiðar minni á húsburst séð úr Ölfusi og gæti því verið líkingarnafn (Grímnir I, 128).
Heimildir:
-Ferðafélag Íslands. Árbók 1985. Rvk. 1985.
-Grímnir I. Rvk. 1980.
-Kristian Kålund. Íslenzkir sögustaðir I. Sunnlendingafjórðungur. Íslenzk þýðing: Haraldur Matthíasson. Rvk. 1984.
-Landnámabók. Íslenzk fornrit. I. Rvk. 1968.
Heimild:
-https://www.visindavefur.is/search/?q=Kj%C3%B3s