Tag Archive for: skógrækt

Rósel

Í Víkurfréttum 2018 er fjallað um „Þrjátíu ára skógrækt við Rósaselstjarnir“ ofan Keflavíkur. Auk þess sem „Rósaselstjarnir“ eru ranglega stafsettar, eiga að vera „Róselstjarnir„, er skógræktinni hrósað í hástert, þrátt fyrir eyðilegginguna á fornminjunum sem þar eru, og hvergi er minnst á, hvorki hina fornu „Hvalsnesgötu“ né á „Róselin“ tvö við vötnin. Selin frá Hólmi við þau nefndust Rósel.

Hvalsnesleið

Hvalsnesleið fyrir skógrækt.

„Í ár eru liðin þrjátíu ár síðan hafin var skógrækt við Rósaselstjarnir. Það er svæði sem er ofan byggðarinnar í Keflavík. Svæðið var innan sveitarfélagsmarka Sveitarfélagsins Garðs og tilheyrir nú sameinuðu sveitarfélagi Garðs og Sandgerðis. Svæðið hefur hins vegar í áratugi verið vinsælt útivistarsvæði hjá Keflvíkingum og verið leynd perla sem lengi var innan flugvallargirðingar. Fólk læddist yfir eða undir girðinguna til að fara á skauta á frosnum tjörnunum.

Árið 1988 hóf Rotaryklúbbur Keflavíkur að gróðursetja við Rósaselstjarnir. Þá var svæðið enn innan girðingar og vaktað af Varnarliðinu og því þurfti leyfi frá Varnarliðinu til að fara á svæðið til gróðursetningar.

Konráð Lúðvíksson

Konráð Lúðvíksson.

Konráð Lúðvíksson læknir hefur tekið þátt í gróðursetningunni í öll þessi ár, enda með græna fingur og áhugasamur um uppgræðslu á svæðinu. Í samtali við Víkurfréttir sagði Konráð að fyrsta verkið fyrir 30 árum hafi verið að fara með vörubíl í Heiðmörk ofan Reykjavíkur og sækja þangað lúpínu sem hafi verð sett niður við Rósaselstjarnir. Hún hafi verið grunnurinn að því sem þarna er í dag og myndað bæði jarðveg og skjól.
Rotarymenn úr Keflavík hafa árlega gróðursett 300 trjáplöntur á svæðinu og því hafa verið sett niður 9000 tré af klúbbnum þessa þrjá áratugi.
Fleiri hafa komið að gróðursetningu á svæðinu. Þannig hefur Oddfellowreglan komið að gróðursetningu við tjarnirnar, einnig Vímulaus æska og Lionessur. Þá er Fjölbrautaskóli Suðurnesja með svæði við tjarnirnar í fóstri og Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi forseti, setti niður plöntur við Rósaselstjarnir og þar er lundur í hennar nafni.

Hvalsnesleiðin forna

Hvalsnesleiðin forna – með tilkomu skógræktarinnar.

Eftir að malbikaður göngu- og hjólreiðastígur var lagður frá Eyjabyggðinni í Keflavík og að Flugstöð Leifs Eiríkssonar er útivistarsvæðið við Rósaselstjarnir orðið mun aðgengilegra. Áður hafi þarna bara verið hálfgerður jeppaslóði en nú sé auðveldara að koma aðföngum að svæðinu og hugmyndir eru uppi um frekari uppbyggingu við tjarnirnar. Áhugi sé fyrir því að leggja stíg kringum tjarnirnar.
Eins og áður segir er svæðið innan sveitarfélagsmarka nýs sameinaðs sveitarfélags Garðs og Sandgerðis þó svo það liggi aðeins nokkuð hundruð metra frá efstu byggð í Keflavík.

Rósel

Rósel vestara við Róselstjarnir.

Konráð rifjar upp að þegar menn sýndu svæðinu fyrst áhuga til skógræktar fyrir 30 árum, þá hafi heyrst áhyggjuraddir utan úr Garði að þarna væru Keflvíkingar hugsanlega að sölsa undir sig þetta svæði. Konráð segir af og frá að Rósaselstjarnir séu einkamál Keflvíkinga, þetta sé áhugavert útivistarsvæði og náttúruperla fyrir alla. Rotaryfélagar hafi aðeins gert svæðið verðmætara sem útivistarsvæði með gróðursetningu síðustu þrjá áratugi.
Konráð segir að gróðursetningin á svæðinu hafi tekist vel. Þar eru hæstu tré í dag á sjötta metra og svæðið hafi tekið miklum framförum á síðustu árum með breyttu veðurfari og betri vaxtarskilyrðum. Fyrstu trjáplönturnar á svæðinu hafi verið Tröllavíðir en nú sé meiri fjölbreytni.

Rósel

Rósel 2020 – umlukið trjárækt.

Eins og kemur fram hér að framan þá eru Rotaryklúbbur Keflavíkur og Fjölbrautaskóli Suðurnesja einu aðilarnir sem séu að setja niður trjáplöntur við Rósaselstjarnir. Konráð hvetur fleiri aðila til að koma að verkefninu og taka svæði við tjarnirnar í fóstur ef svo má segja. Það sé skemmtileg dagstund að taka þátt í gróðursetningu og gera sér svo glaðan dag á eftir. Þannig hafi Rotaryfólk gefið sér góðan klukkutíma í að gróðursetja og svo var slegið upp grillveislu og fólk gerði sér glaðan dag.“

Þegar FERLIRsfélagar voru á göngu um Hvalsnesgötu ofan Keflavíkur árið 2015, austan Róselsvatna, vakti athygli þeirra fólk, sem var að planta trjám í þá fornu götu. Þegar það var spurt hverju gengdi svaraði það að þarna í gróningum væri svo gott skjól fyrir plönturnar.
Þegar því var bent á að „gróningarnir“ væru forn gata á milli Keflavíkur og Hvalsness og þar með taldir til fornleifa, virtist það koma af fjöllum – sem þó eru engin á Suðurnesjum.

Heimild:
-Víkurfréttir, 24. tbl. 14.06.2018, Þrjátíu ára skógrækt við Rósaselstjarnir – hæsta tré á sjötta metra, bls. 12.

Rósel

Róselsvötn.

Bakki

Í blaðinu „Vífilsstaðir – Sagan í 100 ár 1910-2010“ er m.a. sagt frá „Skógræktarstarfi berklasjúklinga„. Þar segir:

Vífilsstaðavatn

Skógarreiturinn við Vífilsstaðavatn – loftmynd.

„Austan við Vífilsstaðavatn gefur að líta fagran trjálund sem berklasjúklingar á hælinu eiga heiðurinn af. Hann heitir Bakki. Upphaf hans má rekja til skógræktaráhuga hins unga vélstjóra, Harðar Ólafssonar, sem ungur kom til dvalar á Vífilsstöðum, sjúkur af berklum.
Erla Bil Bjarnadóttir, garðyrkjustjóri Garðabæjar, segir frá því í heimildaritgerð um Vífilsstaði (2008) að Hörður hafi vorið 1940 með leyfi lækna Hælisins gengið austur fyrir vatn í þeim erindum að girða af hálfan hektara. Þar helgaði Hörður sér land og hóf trjárækt ásamt heitkonu sinni Guðrúnu Ingimundardóttur, Dúnu eins og hún var kölluð, dvaldi einnig á hælinu.

Vífilsstaðavatn

Vífilsstaðavatn.

„Hann var ágætlega heilsuhraustur ef frá er talin berklaveikin, þá þrítugur að aldri. Á þessum árum var Vífilsstaðahælið yfirfullt af sjúklingum. Flestir sjúklingar voru ungt og hraust fólk í blóma lífsins. Það var ömurlegt hlutskipti ungu fólki að vera einangrað frá umheiminum, langt utan borgarlífsins, og  hafa lítið við að vera.“
Vélstjórinn ungi var jafnframt góður smiður, bæði á járn og tré, og hafði aðstöðu á hælinu til að sinna hugðarefnum sínum á veturna.
„En þegar daginn tók að lengja og vorilmur fyllti loft vaknaði trjáræktaráhuginn,“ segir Erla.
Vegna þess að hið fyrirhugaða trjáræktarsvæði var handan vatnsins og engin slóð að skógarreitnum, notaðist Hörður við hjólbörur við efnisflutninga. Hann byrjaði á því að girða af svæðið til að koma í veg fyrir ágang búfénaðar. Fleira vistfólk bættist fljótlega í hópinn og til varð rösk sveit karla og kvenna sem kölluðu sig Hjólbörudeildina.
Einnig flutti Hörður og hjólbörudeildin húsdýraáburð á sleðum á ís yfir vatnið á veturnar, sem var mun léttari vinna. Flutningarnir munu einnig hafa farið fram á seglbátum Vífilsstaðaheimilisins, Vífli og Gunnhildi, sem vistmenn höfðu til afnota. Einnig smíðaði Hörður eigin báta, bæði eins manns kajak og síðan stærri kanó sem gat tekið fjóra til sex farþega. Hann notaði Hörður bæði til flutninga og veiða á vatninu.

Vífilsstaðavatn

Vífilsstaðavatn – Bakki; hlið.

Nokkrum árum seinna stækkaði Hörður skógræktarsvæðið um helming. Þar dvaldi hann jafnan á sumrin, fyrsta árið í tjaldi. Fljótlega smíðaði Hörður timburgólf í tjaldið og útbjó eldunaraðstöðu. Vistir fékk hann á hælinu. Vorið 1952 reisti Hörður síðan lítinn bústað, sem hann nefndi Bakka. Hann smíðaði Hörður í nokkrum einingum og flutti yfir vatnið.
Bústaðurinn reis á einni helgi með hjálp vina sinna í Hjólbörudeildinni. Eftir að Hörður útskrifaðist af hælinu hefur bústaðurinn verið sumardvalarstaður fjölskyldunnar.
Hörður ræktaði sjálfur flestar plöntur sem þarna voru gróðursettar, en reiturinn byggðist í upphafi fyrst og fremst af nokkrum birkihríslum. Með hjálp Skógræktarfélags Reykjavíkur og Skógræktar ríkisins aflaði hann líka fræja frá öðrum stöðum á landinu og útlöndum. Skógræktarstarf stóð sleitulaust til ársins 1977 er Hörður lést, eða í tæp fjörutíu ár. Þar er nú myndarlegur skógarreitur, þar sem hæstu trén eru um níu metrar. Reiturinn er í umsjá afkomenda Harðar og er opinn þeim sem ganga hringinn umhverfis Vífilsstaðavatn.“

Vífilsstaðavatn

Steinar Harðarsson.

Í Skógræktarritinu árið 2003 fjallar Steinar Harðarsson um „Skógrækt við Vífilsstaðavatn„. Þar segir m.a.

„Dag nokkurn vorið 1940 gekk Hörður Ólafsson vélstjóri austur fyrir Vífilsstaðavatn. Erindið var að girða af hálfan hektara af hlíðinni suðaustan vatnsins.
Hörður var berklaveikur og hafði dvalist á Hælinu nokkur misseri. Hann var fæddur að Eyvindarhólum undir Eyjafjöllum en fluttist með föður sínum til Vestmannaeyja ungur að árum. Þar nam hann vélstjórn og starfaði síðan við það á fiskibátum og strandferðaskipum. Hörður veiktist af berklum aðeins 24 ára gamall og dvaldi til lækninga á berklahælinu í Kópavogi og útskrifaðist þaðan. Þá fór hann aftur til sjós en veiktist á ný og hafði þennan vordag dvalið á Vífilsstöðum nokkur misseri. Hann var ágætlega heilsuhraustur ef frá var talin berklaveikin, nú þrítugur að aldri.

Vífilsstaðavatn

Dúna og Hörður 1946.

Á þessum árum var Vífilsstaðahæli yfirfullt af sjúklingum. Flestir sjúklingar voru ungt og „hraust“ fólk í blóma lífsins. Það var ömurlegt hlutskipti ungu fólki að vera einangrað frá umheiminum, langt utan borgarlífsins, og hafa lítið við að vera. Sjúklingar á Vífilsstöðum voru úr öllum stéttum samfélagsins, ríkir sem fátækir, verkamenn, bændur, iðnaðarmenn, listamenn og skáld. Hörður var listasmiður og fékk á Vífilsstöðum aðstöðu, bæði til tré- og járnsmíða og undi sér við smíði á vetrum. Hann hafði einnig mikið yndi af tónlist og eignaðist mikið plötusafn sígildra höfunda, Bach, Beethoven, Mozart, Liszt, Tsjaikovski og svo mætti lengi telja.
VífilsstaðavatnÞegar dag tók að lengja og vorilmur fyllti loft vaknaði trjáræktaráhuginn og Hörður helgaði sér land austan Vífilsstaðavatns og hóf trjárækt ásamt heitkonu sinni Guðrúnu ingimundardóttur (Dúnu) sem þá dvaldi líka á hælinu. Fljótlega bættist í hópinn og til varð rösk sveit karla og kvenna sem kölluðu sig „Hjólbörudeildina“. Nafnið kom til af því að hjólbörur voru þarfasta flutningatækið enda hvorki vegur né slóði að skógræktarreitnum, aðeins fjárgötur og kúatroðningar.
Einn vistmanna, ungt skáld, Borgar Grímsson, sem lést á hælinu í blóma lífsins orti um Hörð og hans áhugamál.
Flutningar fóru einnig fram á bátum, þvert yfir vatnið, en árum saman voru gerðir út 2 seglbátar á vatninu, Vífill og Gunnhildur, til afnota fyrir vistmenn. Hörður smíðaði sér þó sjálfur eigin báta, fyrst eins manns kajak og síðan kanó sem bar 4-6 farþega. Bátarnir voru byggðir á eikargrind og strengdir segldúki, léttir og meðfærilegir. Kanóinn notaði Hörður árum saman til flutninga og til veiða í vatninu.
VífilsstaðavatnÞað var algjör nauðsyn að girða reitinn fjár- og kúaheldri girðingu því að á svæðinu gengu bæði sauðfé og kýr, enda fjöldi kúa á Vífilsstaðabúinu. Heiðmerkurgirðingin, sem nú umlykur svæðið, var ekki gerð fyrr en á 7. áratugnum. Það var því fyrsta verk Harðar að girða svæðið með 5 strengja gaddavírsgirðingu. Í fyrstu var girtur af hálfur hektari en nokkrum árum seinna var svæðið stækkað um helming til austurs.
Frá fyrstu tíð dvaldi Hörður megnið af sumrinu í skógræktinni. Fyrsta árið í tjaldi en fljótlega smíðaði hann tjaldundirstöðu úr timbri, þannig að timburgólf var í tjaldinu og aðstaða til eldunar á prímus.

Vífilsstaðavatn

Bakki – jarðhýsi.

Þá var gert jarðhýsi, grafið inn í hlíðina að hálfu og reft yfir með braggajárnum sem hirt voru úr aflóga rústum breskra herbragga á hlíðunum umhverfis vatnið. Í jarðhýsinu voru geymd matvæli og kartöflur enda hitastig nokkuð jafnt allt árið, 1-5°C. Vistir voru sóttar á Hælið og matseljur nestuðu Hörð brýnustu nauðsynjum, mjólk, brauði, eggjum og kaffi. Hann skrapp þó nær daglega á Hælið til að fá a.m.k. einn staðgóðan málsverð og endurnýja mjólkur- og brauðbirgðir.
Árið 1952 reisti Hörður lítinn bústað „fyrir austan vatn“ eins og staðurinn var almennt kallaður í byrjun. Síðar nefndi Hörður staðinn að Bakka. Bústaðinn smíðaði hann í einingum veturinn áður. Hann flutti einingarnar á kanóinum yfir vatnið og bústaðurinn reis á einni helgi með hjálp góðra vina í Hjólbörudeildinni. Þegar bústaðurinn var risinn var hægt að byrja störf fyrr á vorin og halda áfram langt fram á haust.

Vífilsstaðavatn

Bakki – bústaður í smíðum.

Eftir að Hörður loksins útskrifaðist af hælinu árið 1960 var bústaðurinn sumardvalarstaður fjölskyldunnar og á sumrum var Hörður að störfum nær öll kvöld eftir vinnu og flestar helgar sumarsins var dvalið þar við skógrækt og ræktun garðávaxta.
Frá byrjun voru ræktaðar kartöflur, gulrætur, radísur og fleiri garðávextir innan skógræktargirðingar og var það mikil búbót fyrir „útilegukindurnar“ Hörð og Dúnu. Þá má ekki gleyma silungsveiði í vatninu en á þessum árum höfðu starfsmenn og sjúklingar Vífilsstaða einir leyfi til veiða í vatninu. Hörður veiddi mikið af silungi, bæði bleikju og urriða, og ógleymanlegar sælustundir voru þegar nýveiddur silungur var soðinn í eigin vökva, vafinn inn í álpappír, og meðlætið voru nýuppteknar kartöflur.
VífilsstaðavatnFyrsti trjáreiturinn samanstóð af nokkrum birkihríslum. Síðan voru gróðursettar birkihríslur með girðingunni allan hringinn til að mynda skjól fyrir frekari ræktun. Hörður ræktaði plöntur af fræjum í vermireitum og framleiddi því sjálfur megnið af þeim plöntum sem gróðursettar voru í trjáreitnum. Sett var upp vatnsveitukerfi og vatni dælt með bensíndrifinni vatnsdælu til vökvnar plantna og í vermireitum.
Fræja var aflað víða að, m.a. frá Noregi, Síberfu og Alaska. Í skógræktarstarfinu naut Hörður mikillar velvildar bæði Skógræktarfélags Reykjavíkur og Skógræktar ríkisins en félögin útveguðu honum fræ ýmissa plöntutegunda og kvæma, innlendra sem erlendra.
VífilsstaðavatnVöxtur í reitnum var afar hægur fyrstu árin og áratugina, jarðvegurinn rýr mói. Mikið var notað af kúaskít til áburðar bæði við gróðursetningu og borið á eftir að plöntur fóru að vaxa. Birkið í skjólbeltinu umhverfis reitinn er frekar kræklótt og hægvaxta. Þegar fram liðu stundir og skjól fór að myndast var plantað ýmsum tegundum í skógræktinni. Þar má finna skógarfuru, fjallafuru, lerki, elri, ösp og sjaldséðar tegundir, s.s. fjallaþöll og blæösp.
Markvisst skógræktarstarf var stundað óslitið frá 1940-1977. Eftir það hefur ekki verið plantað í reitinn en grisjað Iítillega af og til. Engin stærri áföll hafa orðið við ræktunina ef frá er talinn skógarbruni sem varð vegna fikts unglinga með eld árið 1972. Ummerki þess eru þó löngu horfin.

Vífilsstaðavatn

Dúna og Hörður við Bakka.

Hörður var andvígur notkun eiturefna og notkun þeirra var því sáralítil við ræktunina alla tíð.  Það má segja að vöxturinn hafi verið afar hægur framan af en eftir fyrstu 40 árin hafi hann tekið rækilega við sér og undanfarin ár hefur verið mikill og góður vöxtur í skóginum. Hæstu tré eru nú um 7-9 metrar, hæstar aspir og greni.
Dúna lést árið 1995 og Hörður árið 1977.“

Heimildir:
-Vífilsstaðir – Sagan í 100 ár 1910-2010, Skógræktarstarf berklasjúklinga, bls. 13.
-Skógræktarritið, 1. tbl. 15.05.2003, Skógrækt við Vífilsstaðavatn, Steinar Harðarson, bls. 79-84.

Vífilsstaðavatn

Vífilsstaðavatn.

Sléttuhlíð

Í deiluskipulagi fyrir Sléttuhlíð, frístundabyggð ofan Hafnarfjarðar, frá árinu 2023, segir m.a. um sumarbústaðabyggðina undir hlíðinni:

Hamarskotshellir

Hamarskotsselshellir.

„Svæðið er Sléttuhlíð sem er við Setberg-Hamarkot, í Hafnarfirði. Í kringum 1553 er ritað um jörðina Hamarskot í fógetareikningum. Árið 1579 eru landamerkjadeilur á milli Hamarkots og Setbergs. Í Jarðarbók frá árinu 1703 er Garðakirkja eigandi að Sléttuhlíð og selstöð sem heitir Hamarkotssel og helli sem heitir Kethellir. Hafnarfjarðarbær keypti jörðina Hamarkotstún árið 1912.
Sumarið 1926 úthlutaði fasteignanefnd Hafnarfjarðar fyrstu lóðunum fyrir sumarbústað á svæðinu, þeim Jóni G. Vigfússyni og Magnúsi Böðvarssyni.

Jón Gestur Vigfússon

Jón Gestur Vigfússon (1892-1980).

Um svipað leyti hófst skógrækt á svæðinu. Með þessu hófst skógrækt og uppgræðsla í hlíðunum sem var að miklu leyti ógróin þegar fyrstu bústaðirnir risu, en eitthvað var um kjarrlendi í hraunhvammi í norðurenda hlíðarinnar. Árið 1941 voru girðingar settar upp sem hjálpuðu mikið til við uppvöxt gróðurs þar sem fjárbeit var enn almenn.
Kringum 1940 fjölgaði eftirspurn eftir landi fyrir sumarhús og var þá úthlutað nokkrum lóðum. Árið 1950 bættust einnig nokkur sumarhús við eftir að vatsnveitan var leidd í stokk.
Á svæðinu er einnig að finna gróðurspildur, kallaðar Landnemaspildur sem hefur verið úthlutað til einstaklinga eða félagasamtaka sem Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefur haft umsjón með.
Þar hefur í áranna rás vaxið upp myndarlegt skógræktarsvæði. Landnemaspildum var fyrst úhlutað árið 1979 og svo aftur um 1990. Auk þess hefur mikið verið plantað í Gráhelluhrauni.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – hlið að bústað Jóns Gests.

Svæðið samanstendur af láglendu, hraunyfirborði og hlíðum, hlíðarnar mynda einskonar skeifu sem snýr á móti suðri. Láglendið er hraun, Selhraun sem er eldri en 4000 ára, mosavaxið með gjallkarga á yfirborði. Hlíðarnar eru víðast hvar aflíðandi og voru mestallar set sem hafði að geyma óhulið berg og þurrlendisjarðveg. Á svæðinu er að finna jarðmyndanir eins og hrauntraðir og jökulrákir. Svæðið liggur á bilinu 50-100 m.y.s. Hæðstu toppar Sléttuhlíða eru 96 m og 110 m.y.s. Grunnvatnshæðin við Sléttuhlíð er um 60 m.y.s.

Mikið hefur verið gróðursett á svæðinu af skógarplöntum og setur það mikinn svip á ásýnd svæðisins.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – bústaður Jóns Gests 20225.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefur úthlutað landnemaspildum til skógræktar og ásamt því hafa sumahúsaeigendur gróðursett mikið á svæðinu. Í dag er að finna á svæðinu dæmigerða skógrækt frá 1930-1980 og notaðar hafa verið tegundir eins og; sitkagreni, blágreni, stafafura, bergfura, lerki og birki. Trén dafna vel og eru orðin um 10-15 m há.

Landnemaspildum var úthlutað fyrst 1979 til 20 ára í senn, eftir þann tíma var möguleiki á að endurnýja samning til 20 ára í viðbót. Samkvæmt samningum er öll mannvirkjagerð bönnuð á úthlutaðri spildu og er svæðið ætlað til útivistar og skógræktar. Skógræktarfélag Hafnarfjarðar í umboði Hafnarfjarðarbæjar hefur haft umsjón með landnemaspildum. Á svæðinu eru um áætlaðar um 60 spildur, stærðir eru frá 6500-115.000 m2.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – varða.

Söguminjar er að finna í jaðri svæðisins til norðurs, suðurs og ofan á hlíðunum. Um er að ræða vörður, sel, stekki og gönguleiðir sem tengjast fjárbúskap fyrri tíma. Engar minjar eru í Sléttuhlíðinni sjálfri. Minjarnar sem er að finna á svæðinu eru ekki friðlýstar. Þjóðleiðin Selvogsgata er staðsett að hluta til innan svæðisins og einnig eru þar nokkrar aðrar minniháttar leiðir sem notaðar voru á fyrri tímum.“

Í Ársriti Skógræktarfélags Íslands árið 1981 er minningagrein um Jón Gest Vigfússon, rituð af Hákoni Bjarnasyni. Í henni segir m.a.:

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – bústaður Jóns gests 2025.

„Þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað haustið 1946 kom það í hans hlut að verða ritari félagsins fyrstu 10 árin. Mun ekkert skógræktarfélag landsins eiga jafn greinagóðar og vel ritaðar fundargerðir sem þær, er Jón Gestur færði með sinni fögru rithönd. Síðar gegndi hann formannsstörfum í félaginu um tveggja ára skeið, en úr stjórn gekk hann 1964.
Það var ekki að ófyrirsynju að Jón Gestur var með í félagsstjórninni frá upphafi. Um 1935 fékk hann stórt land til ræktunar í Sléttuhlíð, um 5 km veg austur af bænum. Landið var ekki álitlegt við fyrstu sýn, óræktarmóar og grágrýtisklappir í hlíðinni, en þrautnagaðar valllendisgrundir við hlíðarræturnar.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð skilti á bústað Jóns Gests og eiginkonu.

En þar voru samhent hjón að verki ásamt stórum barnahópi, sem breyttu þessu landi í gróðursælan unaðsreit þar sem þau dvöldu allar stundir, sem fært var. Eitt sinn er ég kom til Jóns Gests og við gengum um landið sagði hann við mig eitthvað á þessa leið: „Ég kæri mig ekki um stærra land, en ég vil sýna mönnum hvað gera má án allt of mikillar fyrirhafnar svo að þetta megi verða öðrum fordæmi. Jón Gestur fann ekki til fyrirhafnarinnar, sem hefur verið ærin, í gleði sinni yfir því að hafa slíkt land undir höndum. Þau voru orðin ærið mörg sporin hans úr Hafnarfirði í Sléttuhlíð áður en sæmilegur vegur náði þangað. Á þessum stað má nú sjá hvernig allt umhverfi Hafnarfjarðar gæti litið út, ef bæjarbúar og bæjarstjórn vildu feta í fótspor hans.“

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – bústaður Jóns Gests.

Í Morgunblaðinu 1980 er jafnframt minningargrein Ólafs Vilhjálmssonar um Jón Gest Vigfússon: „Hér verður rakinn í stórum dráttum hinn félagslegi þáttur Jóns Gests að skógræktarmálum og er nú komið að öðrum ekki veigaminni þætti og á ég þar við landnám hans og trjárækt í Sléttuhlíð sem sýna og sanna hve skógræktarhugsjónin var hans mikið hjartans mál. Það mun hafa verið árið 1925 sem Jón nam land þarna. Var þá öll hlíðin að mestu uppblásin og sundur skorin rofabörðum en á stöku stað lítilsháttar birkikjarr.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – aðkoman að bústað Jóns Gests.

Á þessum fyrstu árum Jóns í Sléttuhlíð var mjög erfitt að fá trjáplöntur nema þá helst reyni og björk en árið 1937 mun Jón hafa fengið fyrstu sitkagreniplönturnar sem setja nú mestan svip á þennan fagra lund þó aðrar trjátegundir skarti þar einnig vel.
Hver sá bær sem ætlar sér að ala upp heilbrigða og hrausta borgara kemst ekki af með götur einar og steinlögð torg, hann þarfnast ekki síður þess hreina lífslofts sem gróðurlundir veita. Takmark Hafnfirðinga hlýtur því að vera að breyta hæfilega miklum hluta bæjarlandsins í iðgræna trjálundi til skjóls, hollustu og fegurðar fyrir þá er í framtíðinni byggja þennan bæ, þar hefur Jón Gestur vísað veginn, okkar hinna er að fylgja fordæmi hans.“

Í ár, 2025, eru eitt hundrað ár liðin frá frumkvöðlastarfi skógræktarlandnámsmannanna í Sléttuhlíð. Byggðasafn Hafnarfjarðar hefur nú splæst í skilti af minna tilefni – sjá t.d. Kaldársel 100 ára.

Sjá meira um Sléttuhlíð HÉR.

Heimildir:
-Sléttuhlíð í Hafnarfirði, deiluskipulag; frístundabyggð, greinargerð og skipulagsskilmálar 09. feb. 2023.
-Ársrit Skógræktarfélags Íslands, 1. tbl. 15.12.1981, Jón Gestur Vigfússon, bls. 58.
-Morgunblaðið, 236. tbl. 24.10.1980, Minning; Jón Gestur Vigfússon Hafnarfirði, Ólafur Vilhjálmsson, bls. 22.

Sléttuhlíð

Ágústmorgunhafgolan í leik undir Sléttuhlíð.

Rauðavatnsstöðin

Suðaustan við Rauðavatn er skilti; „Rauðavatnsstöðin – Upphaf skógræktar á höfuðborgarsvæðinu„. Á því má lesa eftirfarandi texta:

Rauðavatnsstöðin

Rauðavatnsstöðin – skilti.

„Skógar voru fáir og illa farnir á Íslandi, þegar Skógræktarfélag Reykjavíkur var stofnað 25. ágúst 1901. Félagið var stofnað til að safna fé til að kaupa landskika nálægt Reykjavík og rækta þar skóg.
Að félaginu stóðu ýmsir þekktir bæjarbúar, og svo danskur skógfræðingur að nafni Christian Flensborg, sem hafði umsjón með öllum framkvæmdum. Flesborg taldi að við Rauðavatn væri tilvalinn staður fyrir lystigarð í framtíðinni. Staðurinn væri stutt frá höfuðborginni, við lítið vatn og með fagurt útsýni yfir Rauðhóla.

Rauðavatnsstöðin

Rauðavatnsstöðin – Tré ársins 2021.

Ýmsar trjátegundir voru gróðursettar við Rauðavatn á næstu árum. Plönturnar flutti Flensborg með sér frá Danmörku, þegar hann sigldi til Íslands á vorin. Flestar þrifust þær illa enda vanar hlýrra loftslagi og mikil afföll urðu í flutningunum yfir hafið. Aðrar voru gróðursettar í þeirra stað og kom Flensborg einnig upp græðireit þar sem trjáplöntur voru ræktaðar upp af fræi.
Þetta var mikið framfaraskref því lítið var vitað um hvaða tegundir gætu dafnað á Íslandi aðrar en birki og reynir og erfitt að nálgast fræ eða trjáplöntur.
Sum af fyrstu trjánum sem íbúar í Reykjavík og víðar gróðursettu í görðum sínum eru komin úr Rauðavatnsstöðinni. Talsverður gangur var í ræktunarstarfinu við Rauðavatn fyrstu árin en þrótturinn minnkaði er leið á annan áratug aldarinnar. Trén, einkum fjallafura, héldu þó áfram að vaxa og mynda skjól og jarðvegsskilyrði fyirir uppvöxt annarra trjáa.
Rauðavatnsstöðin var vinsæll áfangastaður fyrir borgarbúa í helgarferðum fram undir miðja öldina. Í dag er þarna fallegt skóglendi sem er hluti af miklu stærra útivistarsvæði upp af Rauðavatni. Lystigarðurinn sem Flensborg og félagar létu sig dreyma um, var hins vegar stofnaður örskot frá, við annað vatn og með fagurt útsýni yfir Rauðhóla. Og fékk nafnið Heiðmörk.“

Rauðavatnsstöðin

Rauðavatnsstöðin – skilti.

Möðruvallarétt

Í „Fornleifaskráningu í Kjósarhreppi I“ frá árinu 2008 er m.a. fjallað um „Möðruvallarétt„. Þar segir:

Möðruvallarétt

Möðruvallarétt – uppdráttur.

„Innan við þetta er gil, sem heitir Ytra-Réttargil. Sultarmói er næst, nú túnblettur upp af Eyrunum, sérskilið er ofan við götuna heiman, en neðar er tún á Eyrunum niður að á. Næst er Heimra-Réttargil eða Réttargil. Milli þessara gilja er stuttur kambur. Upp af Eyrunum neðan við Réttargilið er Hæðarskarð, þar sem vegurinn liggur í gegnum. Upp af skarðinu undir rótum er Réttarhóll, og heiman við hólinn er Réttin, gömul fjárrétt. Innar, rétt utan bæjar, er gil á ská upp,“ segir í örnefnaskrá. Réttin er um 340 m norðvestan við bæ. Ekki er vitað hvenær réttin var síðast í notkun.
Réttin er í lægð milli tveggja ílangra hæða þar sem landinu hallar til norðausturs. Réttin er innan um og neðan við fjölda stórra bjarga sem hrunið hafa úr fjallinu. Framan við réttina til norðausturs er grösugt dalverpi. Búið er að planta trjám um allt svæðið sem réttin stendur á en þau eru enn mjög smá.

Möðruvallarétt

Möðruvallarétt 2024- loftmynd.

„Möðruvallarétt er milli Ytra- og Heimra-Réttargils,“ segir í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá. Réttin skiptist í a.m.k. 14 hólf og svo eru tvær aðskildar tóftir neðan við réttina til norðurs og norðausturs. Svæðið allt er um 40×30 m og snýr NA-SV. Í miðri réttinni er stærsta hólfið sem hefur verið almenningur, það er um 18×7 m að stærð og snýr NA-SV. Það hólf er þar sem lægst er í dældinni og sléttast. Ekki sést greinilega hvar rekið hefur verið inn í almenninginn en það hefur að öllum líkindum verið við norðausturhlið hans þar sem engir dilkar eru. Ofan við þetta hólf og báðum megin við það eru minni hólf, dilkar.

Möðruvallarétt

Dilkur í Möðruvallarétt.

Dilkarnir sem eru norðvestan við almenninginn eru nokkuð svipaðir að stærð og eru allgreinilegir. Dilkarnir sem eru sunnan og austan við almenninginn eru óljósari og erfiðara að sjá dilkaskiptinguna. Ef til vill er sá hluti réttarinnar eldri eða hefur síður verið haldið við. Réttin er grjóthlaðin milli stórra bjarga og eru stórgrýtt brekka og steinar í hleðslum víða mjög stórir. Hleðslur eru mjög signar og víða grónar. Öll hólfin halla inn að almenningnum. Tóftin sem er 2 m norðan við réttina er tvískipt, um 8×5 m og eru hleðslur signar. Tóftin snýr NA-SV, ekki sést op milli hólfa. Hólfið í suðvesturendanum er mjög óljóst, þar sjást nokkrir steinar í röð en ekkert grjót sést í hleðslum hólfsins í norðausturendanum. Tóftin sem er um 8 m norðaustan við réttina er einföld, um 7×5 m, snýr NV-SA, opin til suðvesturs. Tóftin er vel gróin en grjót sést í hleðslum sem eru signar.

Möðruvallarétt

Möðruvallarétt.

Nokkur stór björg eru í veggjum tóftar. Ekki er víst hvaða hlutverki þessar lausu tóftir hafa gegnt. Ólíklegt er að tóftin sem er fjær réttinni hafi verið hús vegna þess hve stór björg eru í veggjum hennar. Líklegra er að tóftin sem er nær réttinni hafi verið hús, a.m.k. norðausturhólfið þar sem veggir eru rúmur 1 m á þykkt. Mesta hleðsluhæð í rétt og tóftum er um 0,4 m.
Hættumat: hætta, vegna trjáræktar.“

Þegar FERLIRsfélagar skoðuðu réttarstæðið 2025 mátti greina innan um þétta skógræktina einstaka hluta réttarinnar, sem virðist hafa verið lítilfjörleg innan um stokka og steina.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Kjósarhreppi I: Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2008.
-Örnefnalýsing Möðruvalla, Ari Gíslason.

Möðruvallarétt

Möðruvallarétt.

Möðruvallarétt

Sesselja Guðmundsdóttir skrifaði í Skógræktarritið 2008 um „Fornminjar og skógrækt„:

Skógræktarritið

Skógræktarritið 2008.

„Tilgangurinn með þessum greinarskrifum er að hvetja skógræktarfólk til þess að gefa gaum að fornminjum í skógrækt eða á væntanlegum skógræktarsvæðum. Víða um landið eru fornminjar nú þegar kaffærðar í útlendum trjám og svo virðist sem ekkert eftirlit sé með þeim verknaði af hálfu hins opinbera. Fyrstu lög um verndun fornminja voru sett árið 1907 en þau nýjustu árið 2001. Allar götur frá því fyrstu lögin voru sett, er kveðið skýrt á um að ekki megi raska fornminjum án þess að áður fari fram mat á þeim. Gróðursetning ofan í fornminjar, eða í allra nánasta um hverfi þeirra, er bönnuð með lögum á Íslandi. Minjar sem eru 100 ára og eldri teljast til forn leifa.

Fornminjalög og fleiri lög

Sesselja Guðmundsdóttir

Sesselja Guðmundsdóttir.

Eins og áður segir, voru fyrstu fornminjalögin (Lög um verndun fornmenja) sett árið 1907 og í 1. kafla, 2. grein, er tilgreint hvað telst til „staðbundinna fornleifa“ og þar segir m.a.: „Til fornleifa teljast m.a. Þingbúðarústir, gömul mannvirki á fornum þingstöðum, sögustöðum og öðrum merkisstöðum, sem nokkurs er um vert fyrir menningarsögu landsins, rústir af hofum, hörgum og hvers konar blótstöðum frá heiðni, af kirkjum og kirkjugörðum, kapellum og bænahúsum,forn vígi eða rústir af þeim, forn garðlög, rústir af fornum bæjum, seljum, búpeningshúsum, farmannabúðum, naustum og öðrum fornbyggingum, ennfremur fornir öskuhaugar.“ Í þessum lögum er kveðið á um tilkynningaskyldu til yfirvalda og … „skal verkstjóri eða það stjórnarvald, sem hlut á að máli, skýra stjórnarráðinu frá málavöxtum, áður enn nokkuð er haggað við fornleifunum, og ákveður þá stjórnarráðið, hvað gjöra skuli.“
Fyrstu lög um Skógrækt ríkisins voru líka sett árið 1907 en gildandi lög eru frá árinu 1955 og í þeim er hvorki minnst á fornminjar né náttúruvætti.

Fossárrétt

Fossárréttin gamla 2009 – að hverfa í plantaðan skóg.

Í seinni tíma lögum um fornminjar eru svipuð ákvæði og árið 1907, en þó ítarlegri, varðandi minjar sem teljast til fornleifa (gamlar þjóðleiðir og vörður teljast nú til fornleifa). Í gildandi lögum (Þjóðminjalög 2001 nr. 107) segir m.a. í 1. kafla, 1. gr.: Tilgangur þessara laga er að stuðla að verndun menningarsögulegra minja og tryggja að íslenskum menningararfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða.“ Í 4. kafla, 10. gr., segir m.a.: „Fornleifum má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi né nokkur annar, spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær, laga né aflaga né úr stað flytja nema með leyfi Fornleifaverndar ríkisins.“

Möðruvallarétt

Möðruvallarétt – horfin í skóg.

Í 11. gr. segir m.a.: „Fornleifavernd ríkisins lætur, eftir föngum, skrá allar þekktar fornleifar og gefur út skrá um friðlýstar fornleifar og skal hún endurskoðuð á þriggja ára fresti.“ Í 11. gr. segir einnig: “Þeim minjum, sem friðlýstar eru, skal fylgja 20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum fornleifa og umhverfis nema kveðið sé á um annað.“ Í 14. gr. segir: „Nú telur landeigandi, ábúandi eða einhver annar, þar á meðal sá sem stjórnar opinberum framkvæmdum, að hann þurfi að gera jarðrask, svo sem vegna vegagerðar, veitu lagnar, framræslu eða skógræktar, er haggað geti við fornleifum og skal hann þá skýra Fornleifavernd ríkisins frá því áður en hafist er handa við verkið.“

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar eyðilagðar á fyrsta degi framkvæmda.

Í markmiðum Skipulags- og byggingarlaga, frá árinu 1997, segir m.a.: „…að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja varðveislu náttúru- og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi,…“

Trjárækt í og við fornminjar
Á fyrri helmingi 20. aldar plantaði fólk trjám við hús sín og býli, sér og sínum til yndisauka og skiljanlegt að á þeim tíma hafi menn ekki verið að velta því fyrir sér hvort plantað var í gamla bæjarhóla eða tóftir á landareigninni.

Rósel

Rósel 2020 – umlukið trjárækt.

Í árdaga skógræktar á Íslandi hefur almenningur ekki verið vel meðvitaður um gildandi lög um fornminjar. En nú er öldin önnur og skógræktar fólk ætti að vera vel upplýst um þessi mál, þó sérstaklega þeir sem starfa í félagasamtökum tengdum skógrækt. Hér verða tínd til nokkur dæmi um eyðileggingu fornminja af völdum gróðursetningar á Suður- og Suðvesturlandi:

Búðasandur (Maríuhöfn) í Hvalfirði, við norðanverðan Laxvog. Þar er talin hafa verið mesta kauphöfn á Suðvesturlandi á miðöld um og fjölsóttasta höfn landsins á 14. öld með tilheyrandi kaupstefnum.

Hálsnesbúðir

Hálsnesbúðir á Búðarsandi.

Margar búðarústir liggja í sveig á grasrima ofan við sandinn og vestan lónsins. Þar stendur gamall sumarbústaður og trjáreitur inn við hann hefur kaffært hluta tóftanna. Rústirnar á Búðasandi voru friðlýstar árið 1975 en sumar húsið á tóftasvæðinu hefur líklega verið byggt fyrir þann tíma og trjám plantað í tóftirnar, þrátt fyrir að þáverandi fornminjalög bönnuðu slíkt.

Sámsstaðir

Tóftir Sámsstaða.

Fornbýlið Sámsstaðir í Kjósarsýslu, norðan Leirvogsár en vestan Stardals. Friðun tóftanna var þinglýst árið 1938. Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (vegna ársins 1705) segja munnmæli (þá) að á Sámstöð um hafi verið kirkja. Gamall grenilundur er efst í túninu og engin veit nú hvort fornminjar leynast þar í trjárótunum. Fyrir örfáum árum var mörgum barrtrjáplöntum stungið niður í bæjarrústir Sámstaða þrátt fyrir að þar sé skilti um friðlýstar fornleifar.

Hrísakot

Hrísakot – uppdráttur.

Fjárréttarrústir í Hrísakoti í Brynjudal, Hvalfirði. Réttin var t.d. í notkun fyrir aldamótin 1900, samkvæmt örnefnaskrá, en er þó líklega miklu eldri. Vöxtuleg grenitré hafa nú kaffært hluta réttarinnar og því er ógerningur að sjá lögun hennar lengur. Landgræðslusjóður keypti fyrrnefnda landspildu á árunum 1975-1979 og stjórn sjóðsins hefði átt að sýna þá fyrirhyggju að leyfa réttarveggjun um að standa sem „vin í mörkinni“, sem og að virða lög um fornminjar.

Sveinagerði í Strandarkirkjulandi í Selvogi. Það er hringhlaðinn vörslugarður á milli tveggja kletta hóla og er svæðið innan hans 35–40 m í þvermál.

Sveinagerði

Sveinagerði í Selvogi.

Í lýsingu Selvogsþinga árið 1840 eru tilgreind munnmæli um að í Sveinagerði hafi Erlendur lögmaður Þorvarðsson (d. 1576) átt lystihús á öðrum hólnum og horft þaðan á sveina sína við „leiksæfingar“ í gerðinu. Nú hefur víði verið plantað fast við grjótgarðinn allan hringinn, þannig að varla sést örla á hleðslunni. Lúpínu hefur líka verið sáð þarna vegna uppblásturs og að vísu hefur leikflögin gróið upp á síðustu árum vegna þessa „gróður átaks“ en fornminjarnar horfið.

Baðsvallasel

Selsminjar í skógi á Baðsvöllum.

Baðsvallasel (Járngerðastaðasel) í Grindavík, norðan undir Þorbjarnarfelli. Selið var í notkun árið 1703 skv. Jarðabókinni. Fast ofan við eina tóftanna er gamall grenilundur og inni í honum er hluti selrústanna.

Austan Rauðavatns í Reykjavík eru tóftir Grafarsels en þær voru friðaðar árið 1987. Selstæðið er við gamlan lækjarfarveg, í lágum hlíðum sem heita Selbrekkur og snýr mót suðvestri. Eins og flestir vita, hefur skógrækt við Rauðavatn lengi verið við lýði og frá árinu 1946 í hönd um Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Grafarsel

Grafarsel.

Við gróðursetningu þarna hefur verið að mestu tekið tillit til tóftanna og göngustígur liggur upp með þeim í átt til holtsins. Við gerð stígsins hefur ekki verið farið að fornminjalögum hvað varðar „20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörk um forn leifa …“. Tuttugu metra friðhelgi er ekki stórt svæði þegar skógrækt er höfð í huga, því tré stækka yfir leitt á alla kanta, ef svo má segja, fyrir utan það að svörðurinn breytist. Á öðrum stöðum í sömu skógrækt, hefur furutrjám verið plantað í fornminjar og það meira að segja fast við verndunarskilti. Það er vel framkvæmanlegt í mörg um til fellum, sérstaklega þar sem tré eru ung, að endurheimta fornminjarnar og sýna þeim þá virðingu sem þeim ber, samkvæmt lögum.

Reykjavíkursel

Reykjavíkursel við Selvatn.

Við Selvatn í Mosfellssveit voru tvö selstæði, samkvæmt örnefnaskrám og annað hefur mjög líklega verið frá Vík á Seltjarnarnesi (nú Reykjavík) og nefnt Víkursel. Á því selstæði stendur nú sumarhús í þéttum skógarlundi.

Aðgát skal höfð…
Í gönguferðum um vel skipulögð skóglendi, er það flestum til yndisauka að ganga fram á gamlar búsetuminjar, s.s. húsarústir, fjárréttir og stekki á opnum svæðum. Menn staldra við, setjast á veggjabrotin og velta fyrir sér sögu lands og þjóðar. Fornminjar á skógræktarsvæðum auka fjölbreytni og gera þau áhugaverðari en ella.

Fornasel

Við Fornasel 2008.

Í 2. tbl. Skógræktarritsins 2007 er grein eftir Björn Jónsson um Bjarnagarð í Landbroti en það er 7–8 km langur og mikill vörslugarður frá því um 1200. Greinin er falleg og skrifuð með mikilli virðingu fyrir fornminjum sem og skógrækt. Björn telur að trjáræktin hafi bjargað hluta Bjarnagarðs og segir að „án hennar væru þær [fornminjarnar] horfnar, þurrkaðar út í nafni framfara [stækkun túna o.fl.] …“ Hann nefnir líka að þess hafi verið vel gætt að gróðursetja hvergi í fornar minjar í þess um 20 ára gamla skógi. Mætti fleira skógræktar fólk temja sér slík vinnubrögð.

Heiðarbær

Tóftir Móakots í Þingvallasveit – horfnar í skóg.

Skógræktarfélag Íslands hefur nú gefið út góðar leiðbeiningar á vefnum sem heita Skógrækt í sátt við um hverfið og eru þær samdar af þverfaglegum starfshópi en í honum eiga m.a. sæti fulltrúar frá samtökum um skógrækt, fornleifavernd, landvernd, fuglavernd og náttúruvernd.
Í leiðbeiningunum segir: „Skógrækt veldur breytingum. Því er afar mikilvægt að hún falli sem best að heildarsvipmótum lands og eins að hún raski ekki náttúru- eða menningarminjum.“ Á þessum tímum tækni og upplýsingar ættu að vera hæg heimatökin að kortleggja minjar um leið og skógrækt er skipulögð.
Fornminjar og náttúruminjar eiga vel heima í skógrækt – en þær þurfa svo sannarlega sitt rými.“

Undirhlíðar

Undirhlíðar – girðingarleifar.

Málið er, eða a.m.k. virðist svo, að framangreindu að dæma, að launað starfsfólk fornminjavörslunnar hafi ekki hinn minnsta áhuga á að vernda fornleifar landsins. Og þá þarf ekki að minna skógræktarfólkið á að hirða eftir sig leifar skógræktargirðinganna, sem nú bæði hefta og skaða fætur göngufólks um hin annars áhugaverðu útivistarsvæði…

Heimild:
-Skógræktarritið, 1. tbl. 15.05.2008, Fornminjar og skógrækt – Sesselja Guðmundsdóttir, bls. 96-103.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – stekkur.

Girðingar

Í „Lögum um skógrækt“ 1955 er m.a. fjallað um girðingar tengdri skógrækt. Í lögunum er því miður meiri áhersla lögð á skyldur en ábendingar til hlutaðeigandi, s.s. v/ skyldur vegfarenda, bann við aðgengi o.s.frv.

Girðing

Girðing með gaddavír.

Í 17. gr. segir: “ Komist sauðfé eða geitfé inn á skógræktarsvæði, sem girt er löggirðingu, má umsjónarmaður skógræktarsvæðisins taka féð í gæslu og láta merkja það. Skal þá hreppstjóri láta athuga girðinguna þegar í stað, og fullnægi hún kröfum 16. gr., eru fjáreigendur skyldir til að taka féð í vörslu, sem hreppstjóri telur örugga. Sleppi fénaður úr þeirri vörslu og komist enn inn á sama svæði, getur umsjónarmaður skógarins krafist þess, að honum verði afhent féð til ráðstöfunar.

Girðing

Girðingastaur.

Í 18. gr. er kveðið á um heimild hreppsnefndum og bæjarstjórnum að ákveða, að ákvæði næstu greinar hér á undan skuli gilda um trjáræktarreiti og garðlönd einstakra manna innan umdæmisins, enda séu þau girt löggirðingu samkvæmt 16. gr.
Agner F. Kofoed Hansen skógræktarstjóri lagði til við bæjarstjórn Hafnarfjarðar 1926 að friða þá skógarrunna sem eftir voru í Undirhlíðum. Girðinganefnd tók sér góðan tíma áður en ákveðið var að girða af einn hvamm þar sem uppblástur og skemmdir voru minnstar. Í framhaldinu voru ofanverðar Undirhlíðarnar girtar af fyrir ágengi búfjár.

Undirhlíðar

Undirhlíðar – girðingarleifar.

Í undirbúningi frumvarps til laga 1989 um takmörkunum á aðgengi búfjárs segir m.a.: „Þann 25. nóvember var haldinn fundur þar sem fulltrúar allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum voru boðaðir, ásamt sýslumanni Gullbringusýslu, bæjarfógetanum í Hafnarfirði og framkvæmdastjórum SSS. Þar var markmiðið kynnt og rætt. Var ekki annað að heyra en fundarmenn væru sammála erindinu. Sérstaklega var undirstrikað að tíminn væri naumur í þessu máli og að krafa um girðingu meðfram Reykjanesbraut stæði óbreytt ef ekki tækist að koma á banni við lausagöngu búfjár á svæðinu frá ársbyrjun 1990.

Skógræktargirðing

Skógræktargirðing á Undirhlíðum.

Þann 1. desember var síðan haldinn annar fundur um sama efni. Á þann fund voru boðaðir fulltrúar frá Búnaðarfélagi Íslands, Stéttarsambandi bænda, Landssambandi sauðfjárbænda, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Vegagerð ríkisins, Náttúruverndarráði, Búnaðarsambandi Gullbringu- og Kjósarsýslu, Félagi sauðfjárbænda í Gullbringu- og Kjósarsýslu, ráðunaut Búnaðarsambands Kjalarnesþings og félögum sauðfjárbænda af svæðinu. Alls mættu 18 aðilar á fundinn. Svo sem að líkum lætur voru skoðanir nokkuð skiptar, en umræður málefnalegar. Fram kom nauðsyn þess að fjárhólf væru undirbúin í tíma og að leitað yrði samninga við búfjáreigenda um þau.

Í janúar sl. skipaði landbúnaðarráðherra fjögurra manna nefnd til að vinna frekar að framgangi málsins.

Girðingar

Umhverfis- og framkvæmdaráð hefur samþykkt beiðni Landgræðslunnar að styrkja uppgræðslu sameiginlegs beitarhólfs Hafnfirðinga og Garðbæinga í landi Hafnarfjarðar í Krýsuvík um 800.000 kr. og uppgræðslu norðan við Arnarfell um 250.000 kr.
Unnið hefur verið að uppgræðslu í beitarhólfi Hafnarfjarðar í Krýsuvík frá árinu 1988 en
uppgræðslan var á þeim tíma ein af forsendum þess að forsvaranlegt væri að
nýta hólfið til beitar sauðfjár.

Í henni eiga sæti Níels Árni Lund, deildarstjóri í landbúnaðarráðuneytinu, Ólafur R. Dýrmundsson, landnýtingarráðunautur Búnaðarfélags Íslands, Stefán H. Sigfússon landgræðslufulltrúi og Valur Þorvaldsson, ráðunautur Búnaðarsambands Kjalarnesþings.
Nefndin hitti að máli fulltrúa frá Grindavíkurbæ, Vatnsleysustrandarhreppi og Hafnarfjarðarbæ ásamt fulltrúum fjáreigenda og landeigenda á svæðinu, framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, formann gróðurverndarnefndar Gullbringusýslu og fulltrúa frá stjórn Reykjanesfólksvangs. Á grundvelli þeirra viðræðna lagði nefndin fram ákveðna tillögu um beitarhólf innan friðaða svæðisins og kostnaðarskiptingu vegna girðingaframkvæmda.“
Í niðurlagi segir: „Góðar vonir standa til að fullt samkomulag geti tekist um tilhögun búfjárhalds á svæðinu og gerð sérstakra beitarhólfa innan hins friðaða svæðis.“

Kaldrani

Kaldrani – hleðsla undir nýlega girðingu.

Þrátt fyrir allt framangreint, sem eflaust hefur verið talið tímabært þá og þegar var, má í dag sjá girðingaleifar og flaksandi ryðgaðan gaddavír vítt og breytt um Reykjanesskagann, einkum í ofanbyggðum Hafnarfjarðar. Má í því sambandi nefna niðurnýddar skógræktargirðingarnar umlykjandi Hrauntungurnar, sem eru einstaklegar augljósar á hægri hönd þegar ekið er upp Krýsuvíkurveginn sem og allt skógræktarsvæðið, niðurnýdda gaddavírsgirðinguna eftir endilöngum ofanverðum Undirhlíðum og óþarfa meintum fjárveikisgirðingunum ofan Helgadals að Kolhól o.s.frv. Í dag þarf göngufólk um upplandið t.d. að klofa yfir gaddavírsgirðingar sunnan Kringlóttugjáar. Auk þessa liggja gömlu bæjargirðingarnar niðri á kafla sunnan Helgafells allt að endastaurnum vestan Fagradals.

Gaddavír

Gaddavír. Enn má sjá leifar sumra þeirra á hálsunum ofan Hafnarfjarðar.

Við, íbúarnir á höfðuðborgarsvæðinu, og gestir, eigum ekki að þurfa á gönguferðum okkar um upplandið að klofa yfir gaddavírsgirðingar eða detta um leifar gaddavírsins í lúpenubreiðunum… Forkólfar skógræktarinnar lögðu sig fram á sínum tíma, eðlilega, við að girða af bæði einstaka skógræktarreiti og jafnvel heilu landssvæðin. Girðingar þjónuðu sínum tilgangi, á meðan var, en í dag standa þær eftir sem „rusl“ á víðavangi. Forkólfar skógrækarinnar þurfa að bregðast við og hreinsa upp leifar forkólfanna, eða bíða eftir að Alþingi samþykki lög um slíka framkvæmd.

Við, íbúarnir á höfðuðborgarsvæðinu, eigum ekki að þurfa á gönguferðum okkar um upplandið að klofa yfir gaddavírsgirðingar eða detta um leifar gaddavírsins í lúpenubreiðunum…
Forkólfar skógræktarinnar lögðu sig fram á sínum tíma, eðlilega, við að girða af bæði einstaka skógræktarreiti og jafnvel heilu landssvæðin. Girðingarnar þjónuðu sínum tilgangi, á meðan var, en í dag standa þær eftir sem „rusl“ á víðavangi. Forkólfar skógrækarinnar þurfa því að bregðast við og hreinsa upp leifar forkólfa sinna, eða bíða eftir að Alþingi samþykki lög um skyldur þeirra til slíks….

Heimild:
-Lög um skógrækt nr. 3 6. mars 1955.

Skógrækt

Stoltur skógarbóndi með ásýnd sína.

Þorbjarnarfell

Í Bæjarbótinni, bæjarblaði Grindvíkinga, árið 1982 er m.a. fjallað um „Skógræktarfélag Grindavíkur“ á 25 ára afmæli þess:

Ingibjörg Jónsdóttir

Ingibjörg Jónsdóttir (1879-1969).

„Nú var leitað til landeigenda í Grindavík, Ekki veit ég annað en henni væri þar vel tekið, og landið var henni gefið, myndarlegt svæði á einum fallegasta stað í nágrenni Grindavíkur.
Ingibjörg gaf því nafnið „Selskógur”. Nafnið er dregið af gömlum seltætlum sem þar eru, því svo undarlegt sem það virðist í dag, þá höfðu Grindvíkingar þar „í Seli”, fyrir eina tíð, en hvað langt er síðan veit ég ekki.
Í maí 1957 var svo hafist handa. Sett var upp bráðabirgðagirðing og gróðursettar 1200 plöntur, greni, birki og fura.
Margir unnu að þessari fyrstu gróðursetningu, konur, karlar og börn undir stjórn manna frá Skógrækt ríkisins. Það var hátíðleg stund þegar Ingibjörg gróðursetti fyrstu birkiplöntuna og hafði yfir eftirfarandi erindi úr kvæði eftir Jónas Hallgrímsson:

„Veit þá enginn að eyjan hvíta
á sér enn vor ef fólkið þorir
Guði að treysta, hlekki hrista,
hlýða réttu, góðs að bíða?

Fagur er dalur og fyllist skógi
og frjálsir menn, þegar aldir renna.
Skáldið hnígur og margir í moldu
með honum búa,- en þessu trúið”.

Selskógur - BaðsvellirHríslan hennar Ingibjargar lifir enn, að vísu hefur hún aldrei orðið stór. Birkið virðist ekki dafna jafnvel í Selskógi og grenið.
Síðar um sumarið var svo allt svæðið girt með myndarlegri girðinu. Það voru menn frá Skógrækt ríkisins sem unnu það verk fljótt og vel, og stendur sú girðing enn.
Þann 14. nóvember sama ár var svo félagið formlega stofnað, og var stofnfundurinn haldinn að Garðhúsum.
Ingibjörg boðaði til fundarins þau Einar Kr. Einarsson skólastjóra, Svavar Árnason oddvita og þrjár konur frá Kvenfélagi Grindavíkur, þær Auði Einarsdóttur, Ingibjörgu Elíasdóttur og Fjólu Jóelsdóttur. Hún hafði áður beðið ofangreint fólk að sitja í fyrstu stjórn félagsins. Ingibjörg hafði þá samið lög fyrir félagið og notið til þess stuðnings æðstu manna hjá Skógrækt ríkisins.

Baðsvellir

Baðsvellir (Selskógur) ofan Þorbjarnar í Grindavík.

Félagið skyldi vera aðili að Skógræktarfélagi Suðurnesja, er þá var starfandi. Með því tryggði hún félaginu plöntukaup á vægu verði frá Skógrækt ríkisins. Þá hafði hún fengið loforð um fjárhagslegan stuðning frá Grindavíkurhreppi í formi fasts framlags ár hvert og hefur svo haldist til þessa dags.
Stjórn Skóræktarfélags Grindavíkur skyldi vera svo skipuð: Skólastjóri barnaskólans og oddviti Grindavíkurhrepps á hverjum tíma og þrjár konur frá Kvenfélagi Grindavíkur, en meðlimir félagsins að öðru leyti allir íbúar í hreppnum.

Garðhús

Garðhús.

Með því að skipa þannig stjórn hugðist Ingibjörg tryggja best framtíð félagsins, þ.e.a.s. skólastjóri myndi fá börn og unglinga sér til aðstoðar við gróðursetningu. Oddviti sjá um að hreppurinn stæði við sín loforð, og konur úr kvenfélaginu sæu um að kvenfélagið yrði virkur þátttakandi í skógræktinni.
Í stórum dráttum hefur þetta haldist í sama formi s.l. 25 ár, en margt hefur breyst í Grindavík á þessum árum sem hvorki Ingibjörg né aðrir hafa séð fyrir.
Grindavík er orðin bær, og í stað hreppsnefndar komin bæjarstjórn, og hefur þá forseti bæjarstjórnar komið í stað oddvita í stjórn skógræktarinnar. Eftir að Einar Kr.Einarsson lét af skólastjórn varð það nokkurskonar „kvöð” á nýjum skólastjóra að taka sæti í stjórninni.

Svavar Árnason

Svavar Árnason.

Og þótt segja megi að það hafi komið þeim nokkuð á óvart hafa þeir tekið því vel, og enginn skorast undan þessu „auka embætti”. Svavar Árnason hefur lengst af verið formaður stjórnar, eða öll þau ár sem hann var oddviti og einnig meðan hann var forseti bæjarstjórnar. Núverandi formaður er Gunnlaugur Dan skólastjóri, með honum í stjórn eru Ólína Ragnarsdóttir forseti bæjarstjórnar, Helga Emilsdóttir, Aðalheiður Jónsdóttir og Fjóla Jóelsdóttir, kosnar af Kvenfélagi Grindavíkur.
Nú mun láta nærri að búið sé að gróðursetja í Selskógi 21-22 þúsund plöntur mest var gróðursett fyrstu árin. Það voru margir sem þar lögðu hönd að verki, en þó mest börn og unglingar undir öruggri stjórn Einars Kr. skólastjóra. Einnig var mikið unnið við aðhlynningu á plöntunum, áburðargjöf o.þ.h..

Baðsvellir

Baðsvallasel í Selskógi.

Á fundi sem nýlega var haldinn í stjórn Skógræktarfélags Grindavíkur kom til tals að líklega væru margir íbúar Grindavíkur sem lítið vissu um þetta félag, hvernig það starfaði, og hvað það hefði gert á þeim 25 árum sem liðin eru síðan það var stofnað og gróðursettar voru fyrstu trjáplönturnar á vegum þess.
Það kom í minn hlut að reyna að bæta úr þessu, þótti sanngjarnt þar sem ég er sú eina í núverandi stjórn sem hef verið með frá byrjun.
Að þetta félag var stofnað var algerlega verk Ingibjargar Jónsdóttur frá Garðhúsum, oft kölluð Ingibjörg kennari, var hér barnakennari í mörg ár. Hún er áreiðanlega minnisstæð öllum eldri Grindvíkingum.

Grindavík

Selskógur – minnismerki; Ingibjörg Jónsdóttir.

Ingibjörg var ættuð úr gróðursælum sveitum Árnessýslu og hefur sjálfsagt runnið til rifja grjótið og gróðurleysið á Reykjanesskaganum, og ekki fundist vanþörf á að bæta þar um. Ingibjörg var mikill náttúruunnandi og hafði lifandi áhuga á öllu er til framfara horfði.
Þegar Ingibjörg varð sextug stofnaði Kvenfélag Grindavíkur sjóð til heiðurs henni. Sjóðnum mátti hún ráðstafa að eigin vild og þegar henni hentaði. Síðar ákvað hún svo að sjóðnum skyldi varið til skógæktar í Grindavík.
Því er ekki að neita að margir höfðu nú litla trú á því fyrirtæki, en þegar Ingibjörg ákvað að hrinda einhverju í framkvæmd var ekki margt sem stöðvaði hana. Fyrst var að fá hentugt land undir skógræktina, og konur úr kvenfélaginu, sem sáu um það. Við sem unnum þar höfðum af því ánægju og eigum þaðan góðar minningar.

Baðsvellir

Baðsvellir – seltóft.

En skógræktin hefur líka orðið fyrir talsverðum áföllum, vorhret hafa valdið tjóni og fyrir fjórum árum herjaði sníkjudýr á grenið, svokölluð „grenilús” og olli miklum skaða, en það er nú á réttri leið aftur. Einnig hefur komið í ljós að plönturnar þrífast mjög misjafnlega á svæðinu, best þar sem skjólið er mest.
Þetta er saga skóræktarinnar í Selskógi í stórum dráttum, en margt er þar ósagt. Við í stjórn skógræktarfélagsins viljum hvetja Grindvíkinga til að nota þennan fallega og friðsæla stað til útivistar. Enn er þar margt óunnið, og margt hægt að gera til að láta drauminn hennar Ingibjargar rætast um „fagran dal, er fyllist skógi”. Og munið að við eigum öll þennan stað.“ – Fjóla Jóelsdóttir

Heimild:
-Bæjarbót. 3. tbl. 01.07.1982, Skógræktarfélag Grindavíkur 25 ára. bls. 2.

Þorbjörn

Þorbjarnarfell – Selskógur.

Háibjalli

Við Háabjalla ofan Voga er skilti með eftirfarandi fróðleik:

„Skógræktin á Háabjalla og Snorrastaðatjarnir.

Saga skógræktar

Háibjalli

Háibjalli – upplýsingaskilti.

Upphaf skógræktar við Háabjalla má rekja til ársins 1948 er Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík fékk 15 ha land gefins frá Vogabændum. Landið var strax girt af en gróðursetning hófst árið eftir. Á árunum 1949-1961 var talsvert gróðursett. Sitkagreniið í skjóli við Bjallann lifir vel og er hér að finna hæstu trén á Suðurnesjum. Árið 2002 eignaðist Skógræktarfélagið Skógfell landið og hóf ræktun að nýju.
Undir klettaveggnum er skjólgott og frjósamt og því góð skilyrði til skógræktar, þar nýtur þó ekki sólar á kvöldin. Undanfarin ár hafa skólarnir í sveitarfélaginu plantað í afmarkaða reiti.
Einn af frumkvöðlum skógræktarinnar við Hábjalla var Egill Hallgrímsson frá Austurkoti í Vogum. Hann var jafnframt einn af stofnendum Skóræktarfélags Suðurnesja árið 1950.

Snorrastaðatjarnir

Háibjalli

Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.

Suðaustan við Háabjalla eru tjarnir nefndar eftir Snorrastöðum. Snorrastaðir er forn eyðijörð sem var komin í eyði áður en fyrsta jarðabókin á Íslandi var gerð árið 1703.
Stærstu tjarnirnar eru í gömlum heimildum nefndar Vatnsgjár. Þar streymir vatn undan hrauninu í gegnum tjarnirnar og er syðsti hluti þeirra yfirleitt íslaus. Mikill og fjölbreyttur gróður er í og við tjarnirnar. Þar blómstrar engjarós á bökkum og horblaðka eða reiðngsgras í tjörnunum. Áður var tjarnargróðurinn nytjaður og þótti horblaðkan góð til lækninga. Á svæðinu má finna flestar plöntutegundir sem vaxa á Suðurnesjum.
Á norðurbakka stærstu tjarnarinnar má sjá tóftir af Snorrastaðaseli og rétt austan við tjarnirnar er Skógfellavegur, gömul þjóðleið til Grindavíkur. Háibjalli og Snorrastaðatjarnir eru á náttúruminjaskrá.

Jarðfræði

Háibjalli

Háibjalli.

Háibjalli er um 10-12 m hátt hamrabelti, norðvesturbarmur einar af fjölmörgum misgengissprungum á þessu svæði. Sprungurnar myndast þegar landið gliðnar er Norður-Ameríkufleki og Evrasíufleki reka hvor í sína átt. Suðuausturbarmur Hábjallasprungunnar hefur sigið mikið og því er norðvesturbarmurinn svo hár sem raun ber vitni og nýtur skógurinn skjóls af honum.

Háibjalli

Háibjalli.

Fjöldi sprungna með svipaða stefnu (NA-SV) er að finna frá hábungu Vogastapa langleiðina að Fagradalsfjalli í suðaustri. Misgengissprungurnar mynda nokkra stalla suðaustan í Vogastapa sem nefndir eru bjallar og er Háibjalli hæstur þeirra. Sunnan við Snorrastaðatjarnir er nútímahraun sem ýmis er nefnt Skógfellahraun eða Arnarseturshraun. Það rann á 13. öld og er 22 km2 að stærð. Arnarklettur skagar upp úr hrauninu skammt frá suðurenda tjarnarinnar.“

Háibjalli

Háibjalli – tóft.

Smalaskáli

Sléttuhlíð og hluti Gráhelluhrauns tilheyrðu áður fyrr upplandi Hamarskots, sem var ein af hjáleigum kirkjustaðarins í Görðum.

Jón Magnússon

Jón Magnússon (1902-2002).

Sumarið 1945 fékk Jón Magnússon í Skuld og eiginkona hans Elín Björnsdóttir úthlutað land í Smalahvammi vestan við syðsta Klifsholt. Hann reisti þar bústað sinn sem hann nefndi Smalaskála og hóf mikið ræktunarstarf. Landið sem Jón fékk til afnota var nánast örfoka hvammur sem stendur nokkru sunnar og ofar í landinu en bústaðirnir í Sléttuhlíð. Í auglýsingu um Reykjanesfólkvang segir m.a. um mörkin: „Lína dregin.. á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkum inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir…“.

Smalaskáli ber Jóni og fjölskyldu hans gott vitni og það er ljóst að hann og ættmenni hans eru með græna fingur, eins og frægt er. Nægir að nefna gróðrastöðina Skuld sem Jón stofnsetti árið 1952.

Elín Björnsdóttir

Elín Björnsdóttir (1903-1988).

Gróðrarstöðin útvegaði Hafnfirðingum og íbúum helstu nágranna byggðarlaga fjölbreyttan trjágróður um langt árabil og þar ræktaði Jón m.a. beinstofna birkitré sem sett hafa svip á garða um allan bæinn. Í trjálundinum í Smalahvammi er minningarsteinn um eiginkonu Jóns, Elínu, sem lést árið 1988. Jón lést árið 2002, á hundraðasta aldursári.

Í Morgunblaðiðinu árið 1986 var m.a. fjallað atorkusemi Jóns á 40 ára afmæli Skógræktarfélag Hafnarfjarðar og Garðabæjar undir fyrirsögninni „Að skila landinu betra í hendur afkomendanna“: „Skilyrði til skógræktar væru óvíða erfíðari en í nágrenni Hafnarfjarðar og Garðabæjar þar sem skiptust á blásnir melar og hrjóstug hraun. Mikið starf biðu því ræktunarmannanna en til marks um það hvað hægt væri að gera væri Smalaskáli Jóns í holtinu fyrir ofan Sléttuhlíð.

Magnús Magnússon

Magnús Magnússon í Skuld.

Upp af örfoka landi reis þar gróskumikill skógur, sem sýndi hvaða framtíð gat beðið holtanna í kring“. Jón minntist að þessu tilefni á áníðsluna, sem landið hefði orðið fyrir af illri nauðsyn vegna beitar um aldaraðir, hvernig skógurinn hefði verið höggvinn til kolagerðar og beittur miskunnarlaust uns svo var komið, að bældar kjarrleifar voru einar eftir á stöku stað. Hafði Jón ljóðperlur þjóðskáldanna á hraðbergi og sagði, að við skulduðum landinu fósturlaunin. Sjálfur hafi honum hefði ávallt fundist sem honum bæri skylda til að reyna að skila landinu betra í hendur komandi kynslóða.

Í Ársriti Skógræktarfélags Íslands árið 1981 er getið um Smalaskála Jóns í Skuld: „Einn öflugsti liðsmaður Skógræktarfélagsins frá upphafi var Jón Magnússon sem var ætíð kenndur við fæðingarheimili sitt Skuld í Hafnarfirði. Þáttur hans í starfseminni er svo margháttaður að ekki gefst rúm til að fjalla um það allt, en við hæfi er að nefna hér ræktunarstarf hans í Smalahvammi í Syðsta-Klifsholti. Þar hafði faðir hans stundum heyjað á sumrin en þegar Jón fékk landinu úthlutað 1945 fyrir sumarbústað var það ekki svipur hjá sjón.

Smalaskáli

Smalaskáli 1949.

Áður hafði landið verið sumar- og vetrarbithagi Kaldársels, en skammt frá hvamminum eru Kaldárselshellar sem voru vetrarskjól útigangssauða Garðhverfinga. Þar er einnig skálatóft fjársmala sem hvammurinn dregur nafn sitt af.
Landið var lítið annað en blásnir moldarflekkir, stórgrýtt holt og stöku rofabörð. Jón byrjaði á að stinga niður börðin, hlaða upp kanta til að mynda skjó, sá í landið og stöðva uppblástur. Hann gróðursetti skógarfuru sem lúsin fór illa með, einnig sitkagreni frá Kanada sem hann ræktaði sjálfur, rauðgreni, stafafurur, bergfurur og fjallaþin.

Smalaskáli

Smalaskáli 1949. Jón að dytta að bústaðnum.

Birkið sem var fyrir í landinu var orðið úrkynjað af margra ára áþján, ofbeit og illri meðferð. Það hefur varla náð sé enn, nema þau tré sem Jón klippti að mestu niður. Nú er Smalaskálahvammur gróskumikill skógarreitur sem ber Jóni og fjölskyldu hans gott vitni. Jón Magnússon fæddist í 20. september 1902 í gamla bænum Skuld í suðurhluta Hafnarfarðar, en þar í túninun setti hann seinna á laggirnar samnefnda gróðrastöð. Jón starfaði lengi sem vörubílstjóri og rak um tíma Áætlunarbíla Hafnarfjarðar ásamt bræðrum sínum og vinum, en hann helgaði sig að mestu gróðrastöðinni seinni hluta ævinnar. Jón var á meðal stofnenda Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og stjórnarmaður frá upphafi og var gerður að heiðursfélaga á 40 ára afmæli félagsins 1986.“

Smalaskáli

Smalaskáli 1966.

Í Morgunblaðinu árið 1999 var viðtal við undir fyrirsögninni „Fékk áhuga á ræktun með móðurmjólkinni“. Í inngani segir að Jón Magnússon, sem gjarnan er kenndur við gróðrarstöðina, Skuld í Hafnarfírði, varð þekktur fyrir margt löngu fyrir að hafa ræktað fallegt birki. Skapti Hallgrímsson spjallaði við Jón, sem nú er orðinn 97 ára.

„Jón kveðst hafa byrjað að rækta birkihríslur um 1940 en áhugann hafi hann líklega fengið með móðurmjólkinni.
„Þetta gekk þokkalega. Ég var talinn vera með ágætt birki,“ segir Jón og er lítillátur þegar hann rifjar upp liðna tíma. Upphaflega var ræktunin einungis áhugamál hans en síðar aðalstarf.

Birki

Beinstofna birki.

„Ég var vörubílstjóri lengi vel og hafði þetta í hjáverkum í mörg ár, en svo óx þetta smátt og smátt og það endaði með því að ég hætti í akstrinum og sneri mér eingöngu að þessu.“
Og hann segist fyrst og fremst hafa haft áhuga á að rækta birki.
„Ég var líka með aspir og furu og greni en fyrst og fremst lagði ég áherslu á birkið. Mér þótti líka vænst um það því birkið var það íslenskasta af því öllu. Birkið átti sinn þátt í því að þjóðin gat lifað í landinu á hennar dimmustu dögum því það var sótt svo margt í birkið, til dæmis eldiviður og byggingarefni.“
Og Jón neitar því ekki að hafa verið talinn rækta betra birki en aðrir, þegar talið berst að því á nýjan leik.
„Já, mér tókst það, og ég lagði mig dálítið fram um það. Ég sá fljótlega að stundum var ekkert sameiginlegt nema nafnið; trén voru mjög breytileg og ég lagði mig fram um að fá þau sem fallegust. Með því að ala upp undan fallegum trjám; nota fræ af fallegustu plöntunum sem ég var með, tókst mér smám saman að fá sífellt fallegri tré.“

Aldrei fullkomlega ánægður

Birki

Birki.

En hvernig skyldu birkihríslur Jóns í Skuld hafa verið frábrugðnar öðrum?
Því svarar Jón þannig: „Þær voru beinni, þróttmeiri, laufmeiri og laufstærri; það var einhvern veginn annar blær á þeim. Birkið hjá mér þótti fallegri á allan hátt.“
Jón er 97 ára og segist aðspurður eiginlega nýhættur störfum í gróðrarstöðinni, sem er til húsa við Lynghvamm í Hafnarfirði.
„Stöðin er enn starfandi og nú er það dóttir mín, Guðrún Þóra, sem rekur hana og Gunnar [Hilmarsson], sonur hennar, sem er lærður garðyrkjumaður, starfar þar einnig. Ég hafði mikinn áhuga á þessu en hins vegar enga þekkingu. Ég lærði aldrei neitt í þessum fræðum.“
En hvers vegna hafði Jón svo mikinn áhuga á ræktuninni sem raun ber vitni?
„Ég hef líklega drukkið hann í mig með móðurmjólkinni,“ segir hann. „Mamma var mikið fyrir alla ræktun og fyrir að halda lífi í ýmsu. Og ég byrjaði snemma; innan við fermingu fór ég að hirða birkihríslur, smáanga, hérna uppi í Vatnshlíð og flutti heim í garðholu sem ég var með heimundir bæ. Þannig byrjaði þetta – og varð smátt og smátt meira.“
Jón MagnússonJón fæddist 20. september 1902 og er því nýorðinn 97 ára. „Ég fæddist í gömlum bæ sem hét Guðrúnarkot og það stóð hér um bil á sama stað og heimili mitt er núna. Svo byggði faðir minn timburhús 1906 til hliðar við gamla bæinn og hlaut það nafnið Skuld því það var byggt fyrir lánsfé og í skuld. Og ég hef kunnað vel við nafnið, er oft nefndur Jón í Skuld af öllum kunnugum og kann vel við það. Mér finnst engin minnkun að því.“
Hann segir ómögulegt að vita hversu mörgum birkihríslum hann hafi plantað um ævina; segir þær örugglega skipta þúsundum, bæði á svæðinu heima hjá sér og eins uppi í Ási þar sem hann keypti land. „Ég ræktaði líka þar vegna þess að ég hafði ekki orðið nóg land hér heima.“

Stofnaði ÁBH

Áætlunarbifreið

Áætlunarbíll – Hafnarfjörður var enginn svefnbær Reykjavíkur á fimmta áratug síðustu aldar heldur algjörlega sjálfbært samfélag en svo vel innan viðráðanlegra marka fyrir almenning í Reykjavík, að fólk hafði ráð á að skreppa suður í þennan fallega og vinalega bæ til að fara í Bæjarbíó eða Hafnarfjarðarbíó. Ellegar þá að eyða eftirmiðdagsstund þar syðra á helgidögum og borða nestið sitt í Hellisgerði.

Jón í Skuld starfaði lengi sem bílstjóri og hugaði að trjáræktinni í hjáverkum, eins og áður kom fram. „Ég var einn af eigendum ÁBH, Áætlunarbíla Hafnarfjarðar. Við vorum sex sem stofnuðum og áttum það félag og unnum að því í mörg ár. Ég vann í fimmtán til tuttugu ár sem bílstjóri, en hætti svo í akstrinum og sneri mér alfarið að þessu.“
Jón segir að áhugi fólks á trjám hafi vaknað í lok þriðja áratugar aldarinnar. „Um það leyti fór að vakna áhugi hjá almenningi á að fegra í kringum sig; að fegra lóðir sínar með trjám og blómum. Fram að þeim tíma var ákaflega dauft yfir öllum svoleiðis framkvæmdum. Fólk hafði lítinn áhuga og kannski lítil tækifæri til þess.“
Hann segir mjög lítið hafa verið um tré í görðum á þeim tíma, „en það var danskur kaupmaður sem hét Hansen hér í Vesturbænum í Hafnarfirði sem flutti inn tré. Það voru fyrstu trén sem voru hér í bænum og ég man að við gerðum okkur ferð til að skoða þessi tré.

Birki

Birki.

Þetta hefur sennilega verið reyniviður, fluttur frá Danmörku. Þegar fólk sá þessi tré vaxa upp kviknaði áhugi hjá ýmsum að fegra í kringum sig.“
En skyldi Jón í Skuld ánægður með hvemig til hefur tekist?
„Já, ég er það, en auðvitað mætti gera meira. Áhugi er alltaf heldur að aukast á ræktun og því að fegra í kringum sig. Fyrst var jafnvel hlegið að því þegar maður var að basla við þetta.
Segja má að Júlíus Víborg hafi verið brautryðjandi í trjárækt hér í bænum; hann hafði mikinn áhuga og við erfið skilyrði útbjó hann fallegan trjágarð við hús sitt í brekkunni, milli Strandgötu og Suðurgötu; við Illubrekku sem kölluð var. Hann fékk trén, sem hann byrjaði með, frá Guðbjörgu í Múlakoti. Það var reyniviður. Svo fundust litlir angar af trjám hérna suður í hrauni, í hraunsprungum, og Jón Bergsteinsson, bóndi á Hvaleyri, flutti þetta oft á vorin hingað inn í bæ fyrir ýmsa; við sáum hann oft með hríslur á öxlinni.
Þetta óx upp og hafði sáð sér í hraunsprungum, var þar í friði vegna þess að féð náði ekki í það og fyrir það gat það þróast þarna upp.“

Fór illa í mig að heyra um stríðið 1914

Sigurður Sigurðsson

Sigurður Sigurðsson (1841-1937).

Afi Jóns í Skuld, Sigurður Sigurðsson, varð líka mjög gamall og á heimili Jóns er til úrklippa úr Morgunblaðinu 16. apríl 1937, þar sem birt er viðtal við Sigurð. Hann var þá reyndar nýlátinn; elsti maður í Reykjavík, sem hefði orðið 96 ára á sumri komanda, eins og segir í blaðinu. Jón segist muna vel eftir afa sínum. „Hann var bóndi í Tungu í Grafningnum og lengi ferjumaður yfir Sogið.“
Sigurður afi Jóns er spurður í umræddu viðtali: Það er þá ekki að heyra, að þjer hlakkið til vorsins?
Og Sigurður svarar: „Nei – og aftur nei. Jeg hef eiginlega aldrei hlakkað til neins – og svo er nú af manni mesti barnaskapurinn. Þegar maður er orðinn þetta gamall!“
Og enn er hann spurður: En hvað fínst yður að þjer munið best úr yðar löngu æfí?
Og þá svarar Sigurður: „Ekki nokkurn skapaðan hrærandi hlut. Hvað ætti jeg svo sem að muna, þegar jeg man ekkert! Æfi mín hefur öll verið æfintýrasnauð.“

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1947 eða -48. Skuld var efst h.m.

Jón er því spurður, að síðustu, eins og afi hans forðum: hvað hann muni best frá langri ævi?
Hann er hugsi, segist varla vita hvað hann eigi að nefna. „Ég man auðvitað ýmislegt, en ekki er gott að segja hvað hæst ber,“ segir Jón en bætir svo við: „Ég man reyndar eftir því ennþá að fullorðinn maður hér í bænum sem hét Filipus bar út Ísafold og ég var niðri á götu þegar hann mætti þar einhverjum manni og þeir fara að tala saman og hann segir: „það er ljótt að frétta af stríðinu!“ Og ég man ennþá hvað það greip mig eitthvað illa og hrottalega að heyra minnst á stríð, því það var að skella á. Ég man ennþá hvar þeir voru þegar þeir mættust; niðri á Strandgötu. Þetta var 1914, í ágúst.“

Suðurgata 73

Suðurgata 73. Merkið Skuld er á húsinu. Það sem tengir þetta hús við Skuld er að Jón Magnússon sem var frá Skuld byggði þetta hús.

Í Dagblaðinu Vísi árið 1992 var viðtal við Jón undir fyrirsögninni, „89 ára unglingur í Gróðrastöðinni Skuld – Mér þykir vænt um birkið“: „Ég byrjaði á þessu 1953. Að sjálfsögðu var ræktunin smá í sniðum í upphafi en smám saman vatt hún upp á sig. Á þessum árum var ég líka í vörubílaakstri en hætti honum um 1970, enda fór þetta tvennt illa saman. Fljótt varð birkið fyrir valinu hjá mér. Mér þykir vænt um birkið.“
Sá sem þessi orð mælir er 89 ára unglingur, Jón Magnússon í Gróðarstöðinni Skuld í Hafnarfirði. Jón er að vísu hættur daglegri umsjón með rekstrinum – hefur leigt hann dóttur sinni, Guðrúnu Þóru.

Gamlir kunningjar

Ás

Ás – Skógrætarstöð Skuldar.

Gróðarstöðin Skuld lætur ekki mikið yfir sér en óhætt er að fullyrða að þar fari fram – og hafi farið fram – athyglisverð ræktun á birki. Jón tók ástfóstri við það og lagði sitt af mörkum til aö ná þeim árangri að birkið frá Skuld er afskaplega fallegt. „Við erum eins og bændurnir gagnvart búsmalanum – getum greint Skuldarbirkið frá öðru birki.
Gróðarstöðin er reyndar á tveimur stöðum í Hafnarfirði. Annars vegar í suðurbænum og hins vegar í landi Áss sem er austan við Keflavíkurveginn. Þegar Jón hóf starfsemina á sínum tíma var ekki skortur á landi en tímamir hafa breyst. Þar sem áður var uppeldisstöð fyrir ungar birkiplöntur standa hús og liggja vegir. Því fer sala á plöntum og hluti af ræktuninni fram við Lynghvamm en í landi Áss er einvörðungu plöntuuppeldi. Eins og svo oft áður var ekki ætlunin að hefja atvinnurekstur. Jón fékk land fyrir sumarbústað og sáði fyrir birki með það í huga að setja það niður við bústaðinn en með tíð og tíma var Skuld orðin að fyrirtæki.

Beinvaxið, þróttmikið og lauffallegt

Smalaskáli

„Smalaskálinn“ – listaverk Jóns á klapparholti ofan við bústaðinn.

Hvers vegna valdi Jón birkið?
„Á þessum tíma þekkti ég ekkert annað. Síðan höfum við að vísu farið í ræktun á öllum algengum trjátegundum en birkiö er og hefur verið stofninn í starfsemi Skuldar. Þetta hefur gengið þokkalega og ég fór fljótlega að hafa vit á að velja fræ af trjám sem mér fannst vera þess virði að tekin væra til frekari ræktunar.
Jón hallar sér fram á stafinn og leggur áherslu á orð sín. Hann segir að birkið sé auðvelt í ræktun, vindþolið og henti til dæmis vel í gerði. Þá sakar ekki að það ilmar vel fyrripart sumars. „Flestar plöntumar byrja tilveru sína hér heima en síðan förum við með þær í Ás. Auðvitað er þetta frekar erfitt að þurfaað vera á tveimur stöðum og stækkunarmöguleikar eru engir við Lynghvamminn.“

Smalaskáli

Smalaskáli – minningarsteinn um Elínu Björnsdóttur.

Kýrnar horfnar
Það var gaman að koma í Skuld. Kýrnar frá því í bamæsku, eru að vísu horfnar en í staðinn má sjá birki, víði og blóm. Þegar við stóðum á tröppimum og horfðum yfir gróðarstöðma var Jón inntur eftir því hvort ekki hefði verið gaman að helga líf sitt birkinu.
Unglingnum þótti spurningin ef til vill svolítið barnaleg en hann hugsaði sig um eitt andartak og sagði svo: „Hver og einn verður að hafa gaman af því sem hann fæst við hverju sinni. Ekki skiptir máli um hvaða starf er að ræða. Ég hafði gaman af mínu starfi. Það var mitt lán.“

Heimildir:
-Morgunblaðið, 246. tbl. 01.11.1986, Skógræktarfélag hafnarfjarðar og Garðabæjar 40 ára – „Að skila landinu betra í hendur afkomendanna“, bls. 18-19.
-Ársrit Skógræktarfélags Íslands, 1. tbl. 15.12.1981.
-Morgunblaðið, B 24.10.1999, Fékk áhuga á ræktun með móðurmjólkinni, bls. 18.
-Dagblaðið Vísir, 10.06.1992, Jón Magnússon, 89 ára unglingur í Gróðrastöðinni Skuld – Mér þykir vænt um birkið, bls. 32.

Smalaskáli

Smalaskáli 2025 – Gamli bústaðurinn var fluttur um set og sést h.m. við nýjan bústað.