Tag Archive for: Svartsengi

Reykjanes

Jón Jónsson, jarðfræðingur okkar allra tíma, skrifaði í Náttúrufræðinginn 1974 um „Sundhnúkahraun við Grindavík„, hraunið norðaustan við Þorbjörn (Þorbjarnarfell):

Inngangur.

Grindavík

Grindavík – gjár, sprungur og misgengi.

Á Reykjanesskaga er mikill fjöldi eldstöðva og hrauna. Mörg þeirra hafa ekki nafn, svo vitað sé. Vafalaust hafa ýms örnefni fallið í gleymsku hin síðari ár og önnur brenglazt. Hraun eru allt umhverfis Grindavík, þorpið stendur á hrauni og á beinlínis hrauni tilveru sína að þakka, eins og hér mun verða sýnt fram á.

Sundhnúkahraun og Sundhnúkur.
Hluti af hrauninu ofan við Grindavík, milli Járngerðarstaðahverfis og Þorbjarnarfells, ber nafnið Klifhólahraun. Af þessu virðist mega ráða að til séu örnefnin Klifhólar og Klif, en hvar þau eru, hefur mér ekki tekizt að fá upplýsingar um. Hólar eru ekki á svæðinu, nema gíghólarnir suðvestur af Hagafelli, en samkvæmt korti herforingjaráðsins 1:50000 heitir sá hóll Melhóll. Þaðan er verulegur hluti hrauns þess, er Klifhólahraun er nefnt, án efa komið, því að hólarnir eru endinn á langri gígaröð. Sökum þeirrar óvissu, sem ríkir um þessi örnefni, hef ég leyft mér að nota hér nýtt nafn um hraunin og eldvörpin, sem þau eru komin frá. Það skal þó tekið fram, að þetta nafn er eingöngu hugsað sem jarðfræðilegt hugtak og breytir að sjálfsögðu ekki örnefnum, sem fyrir eru á svæðinu. Ennfremur gildir þetta aðeins fyrir eldvörp þau og hraun, sem til urðu í því gosi, sem síðast varð á þessu svæði.

Gígaröðin.
Gígaröð sú, sem Sundhnúkahraun er komið úr, byrjar suðvestan undir Hagafelli. Þar eru nokkrir gígir í röð, og er, eða öllu heldur var, einn þeirra mestur, því að nú hefur hann verið um langan tíma notaður sem náma fyrir rauðamöl, og er því farinn að láta á sjá. Þaðan liggur svo röð af smágígum upp suðvesturhlíðina á Hagafelli og eru þar snotrar hrauntraðir (1. mynd), sem sýna, að þarna hefur verið hraunfoss. Ur ofangreindum gígum er meginhluti þess hrauns kominn, sem á kortinu ber nafnið Klifhólahraun. Gígaröðin er svo lítt áberandi á kafla norðan undir Gálgaklettum, en þeir eru misgengi, sem stefnir eins og gígaröðin frá suðvestri til norðausturs. Hún er þar á kafla tvískipt og stefna hennar lítið eitt óregluleg, gígirnir smáir og hraunhellan, sem myndazt hefur kringum þá á sléttunni norðan við Gálgakletta, vafalaust þunn.

Hagafell

Gígur og hrauntröð sunnan Hagafells.

Frá þessum gígum hefur hraun runnið í þrjár áttir, til austurs norðan við Gálgakletta, til suðvesturs eins og áður er nefnt og loks til norðvesturs og norðurs. Örmjór hraunfoss hefur fallið niður á Selháls, þar sem vegurinn liggur nú, en numið þar staðar. Hefur hraunið runnið þar út á jarðhitasvæði, sem virkt hefur verið, þegar hraunið rann og væntanlega nokkru eftir það. Verður vikið að því síðar. Allbreiður hraunfoss hefur svo fallið norður af fellinu og runnið út á forna gjallgígi, sem þar eru fyrir. Er vegurinn skorinn gegnum nyrzta hluta þessarar hrauntungu. Verður nánar greint frá þessu svæði síðar.

Sundhnúkur

Sundhnúkur, á miðri mynd, ofan Grindavíkur.

Nokkurn spöl norðaustur af Hagafelli verður gígaröðin öllu fyrirferðarmeiri. Rísa þar háir gígir og nefnist Sundhnúkur sá þeirra, er hæst ber. Frá þessari gígaþyrpingu hefur meginhraunfióð það, er til suðurs rann, komið. Það hefur fallið eftir dalnum, sem verður milli Vatnsheiðar, sem er dyngja, og Hagafells. Það hefur fyllt dalinn hlíða milli og fallið beint í sjó fram og myndar þar um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands.
Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því að án þess væru þar engin hafnarskilyrði. Svo vikið sé að nafninu Sundhnúkur, hefur Ísleifur Jónsson, verkfræðingur, bent mér á, að nafnið muni vera komið af því, að hnúkurinn hafi verið notaður sem leiðarmerki fyrir siglingu inn sundið inn á höfnina í Grindavík. Nokkru norðan við Sundhnúk verður skarð í gígaröðina á ný, en norðar tekur hún sig upp aftur og heldur eftir það beinu striki að heita má austur að Stóra Skógfelli. Þessi kafli gígaraðarinnar er annar sá mesti hvað hraunrennsli snertir. Er ljóst, að hraunrennsli hefur að mestu verið bundið við ákveðna kafla gígaraðarinnar, og hefur hún því naumast verið virk öll nema rétt í byrjun gossins og sennilega um mjög stuttan tíma. Virðist þetta eiga almennt við um sprungugos (Jónsson 1970).

Sundhnúkur

Hraunssvæðið norðan Grindavíkur.

Frá þessum kafla gígaraðarinnar — kannski væri réttara að kalla það gígaraðir — hafa hraunstraumar fallið til norðurs og austurs, auk þess sem þaðan hafa hraun runnið niður í áðurnefndan dal milli Hagafells og Vatnsheiðar saman við hraunin úr Sundhnúkagígunum. Mikill hraunstraumur hefur fallið til norðurs frá þessum gígum, runnið vestur með Svartsengisfelli að norðan, og þekur allstórt svæði vestur af því, langleiðina norður að Eldvörpum. Þar hverfur það undir Illahraun, sem því er yngra.
Hraunin úr Eldvörpum, Illahraun og hraun úr stórum nafnlausum (P) gíg suðvestur af Þórðarfelli eru samtímamyndun, en ekki verða hér raktar sannanir fyrir því. Þessi hraunstraumur hefur fyllt skarðið milli Svartsengisfells og Stóra Skógfells. Virðist hraunið þar mjög þykkt, enda er sýnilegt, að hver straumurinn hefur þar hlaðizt ofan á annan. Geta má þess, að þrjár gossprungur eru í Stóra Skógfelli og stefna allar eins. Sjálft fellið er úr bólstrabergi.

Bláa lónið

Grindavík ofanverð – kort.

Til suðurs og suðausturs hefur hraunið náð lengst í mjóum tanga, sem liggur meðfram Vatnsheiðardyngjunni að austan. Mikill hraunfláki er milli ofangreindrar gígaraðar, Vatnsheiðar og Fagradalsfjalls. Ganga þau hraun undir nafninu Dalahraun (Bárðarson 1929), en aðeins lítill hluti þeirra er kominn úr því gosi, sem hér um ræðir. Það er hins vegar ljóst, að áður hefur gosið á sprungu, sem er lítið eitt til hliðar við Sundhnúkasprunguna.

Sumt af þessum hraunum á rætur að rekja til hennar, nokkuð til Vatnsheiðardyngjunnar og enn nokkur hluti til fornra eldstöðva norðaustan undir Hrafnshlíð. Loks má vel vera, að fleiri eldstöðvar séu faldar undir þessum hraunum. Það er greinilegt, að þarna hafa mörg gos átt sér stað frá því að ísöld lauk.
Yngsta hraunið á þessu svæði er það, sem komið er úr Sundhnúkagígnum, en það þekur ekki stórt svæði þarna austan til og hefur víðast hvar ekki runnið langt til suðurs frá eldvörpunum. Það er því mun minna, en virðast kann við fyrstu sýn.
Við suðurhornið á Stóra Skógfelli er gígaröðin lítið eitt hliðruð til suðausturs og stefnan breytist um hér um bil 7° til suðurs. Hraunið hefur runnið báðum megin við Stóra Skógfell, en nær þó ekki saman norðan þess. Milli Stóra Skógfells og Litla Skógfells eru mörk hraunsins sums staðar óljós, enda koma þar fyrir eldri hraun og eldstöðvar auk þeirra, sem eru í Stóra Skógfelli sjálfu og áður er getið. Suðurbrún hraunsins er víða óljós, enda svo skammt frá eldvörpunum, að hraunið hefur verið mjög heitt og því náð að renna í mjög þunnum straumum. Nú er það gróið mosa og mörk þess víða hulin. Að þessu leyti verður kort af hraunröndinni ekki hárnákvæmt.

Kálffell

Kálffell.

Fremur lítið hraun hefur runnið um gígaröðina eftir að kemur austur fyrir Stóra Skógfell. Gígirnir eru litlir, mest í þráðbeinni röð, sem heita má að sé óslitin úr því. Smáhraunspýja hefur runnið norður eftir vestanhallt við Litla Skógfell, en ekki náð alla leið norður á móts við það. Gígaröðin endar svo í smágígum, sem liggja upp í brekkurnar, suðaustur af Litla Skógfelli, en þær brekkur eru raunar hluti af dyngjunni miklu, sem er við norðausturhornið á Fagradalsfjalli. í heild er gígaröðin um 8,5 km á lengd. Nokkru norðan við austurenda gíganna er Kálffell. Það eru gígahrúgöld, ekki sérlega stór, og hefur hraun frá þeim runnið norðvestur og norður. Þessi eldvörp eru eldri en Sundhnúkahraun. Guðmundur G. Bárðarson (1929) er fyrstur til að nefna þessa eldstöð.

Útlit hraunsins og innri gerð.
Hraunið er venjulegt feldspat-pyroxen basalthraun. Í því er mjög lítið um ólívín en allmikið um tiltölulega stóra feldspatkristalla (xenokrist.).
Samsetning hraunsins er þessi:
-Plagioklas 43,59%
-Pyroxen 44,98%
-Olívín 0,68%
-Málmur 10,75%
-Plagioklas-dílar eru innan við 1% og sömuleiðis pyroxen-dílar.

Þeir síðarnefndu eru oft með svonefndri „stundaglaslögun“, en það einkennir titanágit. Hnyðlingar koma fyrir í þessu hrauni, og hafa fundizt í vestasta gígnum sjálfum. Ekki hefur tekizt að ná sýni af þeim, en ljóst er, að þeir eru af svipaðri gerð og þeir, er finnast víða annars staðar á Reykjanesskaga. Hér virðast þeir vera úr olívíngabbrói. Aðeins einstaka olívín-dílar koma fyrir í hrauninu og þá allstórir.

Eldri gígaröð.
Engum efa er það bundið, að áður hefur gosið svo til á sömu sprungu. Gígir eru suðvestan í Hagafelli aðeins austan við Sundhnúkagígina, og stefnir sú gígaröð alveg eins og þeir. Suðaustur af Stóra Skógfelli sér á stóran gjallgíg, sem opinn hefur verið til suðausturs. Hann er lítið eitt austan við Sundhnúkagígina og einmitt þar, sem sú gígaröð hreytir nokkuð um stefnu. Um 1,5 km austar er svo annar stór ösku- og gjallgígur og er gígaröðin fast við hann að norðan. Gígur þessi er líka eldri. Báðir eru þeir að nokkru leyti færðir í kaf í yngri hraun. Hraunflákinn vestur af Fagradalsfjalli virðist að mestu leyti vera kominn úr þessari eldri gígaröð, en þó eru þar fleiri eldstöðvar. Hraunin á þessu svæði ganga undir nafninu Dalahraun. Hraun frá Vatnsheiðardyngjunni hafa og náð alllangt þarna austur, því að þau koma fram í bollum í yngri hraununum, þar sem þau hafa ekki náð að renna yfir.

Vatnsheiði

Í Vatnsheiði – gígur.

Eftir þessu að dæma eru bæði gosin á Sundhnúkasprungunum yngri en dyngjugosin, sem skópu Vatnsheiði og Fagradalsdyngju. Loks endar þessi eldri gígaröð í litlum gjall- og klepragígum utan í vesturhlíð Fagradalsdyngju nokkur hundruð metrum sunnar en austustu gígirnir í Sundhnúkaröndinni, sem áður er getið.

Hvenær rann hraunið?

Grindavíkurvegur

Gígar sunnan Moshóls sunnan Hagafells.

Þess er getið hér að framan, að hraunfoss frá gígnum vestan við Gálgakletta hafi fallið vestur, eða réttara norðvestur af Hagafelli. Blasir þessi hraunfoss við, þegar komið er suður yfir hraunið við vesturhornið á Svartsengisfelli. Þessi hraunspýja hefur runnið út á forna gjallhóla vestan undir fellinu. Þar er það mjög þunnt, og hefur það verið skorið sundur við rauðmalarnám og vegagerð. Kemur þá í ljós, að hólar þessir hafa verið grónir, þegar hraunið rann. Leifar þess gróðurs má nú finna sem viðarkol undir hrauninu. Mest eru það smágreinar og stofnar, líklega af víði, lyngi og ef til vill fjalldrapa og birki. Jarðvegslagið hefur verið örþunnt, líkt og það er víða á gjallhólum ennþá. Viðarbútarnir eru sjaldan meira en 2—3 mm í þvermál. Þessar jurtaleifar hafa nú verið aldursákvarðaðar með C14-aðferð. Hefur dr. Ingrid U. Olsson á Rannsóknarstofnun Uppsalaháskóla gert það. Samkvæmt niðurstöðum af þeirri rannsókn eru jurtaleifarnar 2420 ± 100 C1 4 ára gamlar, talið frá árinu 1950, og hraunið hefur því runnið tæpum 500 árum fyrir upphaf okkar tímatals.

Bergsprungur.
Í hraunum kringum Grindavík er mikið um sprungur og gjár, en einkum eru þær áberandi í hinum eldri hraunum og í móbergsfjöllunum. Er Þorbjarnarfell ljósasta dæmið um það. í Sundhnúkahraununum ber lítið á sprungum yfirleitt og bendir það til, að fremur hægfara breytingar séu þar eða þá, og það virðist fullt eins líklegt, að þær séu bundnar ákveðnum tímabilum. Má telja sennilegt, að hreyfingar þessar eigi sér aðallega stað samfara jarðskjálftum. Má í því sambandi minna á jarðskjálftana á Reykjanesi 30. september 1967.

Sýlingafell

Sýlingafell – sýlingurinn (gígur/hvylft/laut).

Vestur af Svartsengisfelli má, ef vel er að gætt, sjá fyrir sprungum í þessu tiltölulega unga hrauni. Þær eru í beinu framhaldi af sprungum, er ganga í gegnum Þorbjarnarfell. Rétt við eina þeirra er jarðhitastaður sá, sem jafnan er kenndur við Svartsengi.

Ummyndun og jarðhiti.

Þorbjörn

Þorbjörn og nágrenni

Eins og áður var getið um, er jarðhiti í hrauninu vestur af Svartsengisfelli. Þar hefur mælzt yfir 60° hiti. Engum efa er bundið, að allstór hver hlýtur að vera þarna undir hrauninu, því líklegt má telja, að vart séu minna en 20—30 m niður á grunnvatnsborð á þessum stað.

Grindavík

Þorbjarnarfell og Baðsvellir. Selháls lengst t.v.

Við hagstæð veðurskilyrði, logn og nálægt 0° C má sjá gufur leggja upp úr hraununum víðs vegar á þessu svæði. Eru þær í áberandi beinum línum, sem sýnir, að þær eru bundnar við sprungur í berggrunni þeim, sem Sundhnúkahraun og önnur hraun hafa runnið yfir.

Rétt austan við veginn norðan í Selhálsi hefur hraunið runnið út á svæði, sem er mjög ummyndað af jarðhita. Það er athyglisvert, að hraunið sjálft er þarna líka nokkuð ummyndað, en það sýnir, að þarna hefur verið virkur jarðhiti, eftir að hraunið rann, þ. e. fyrir eitthvað skemur en um það bil 2400 árum.

Svartsengi

Orkustöðin við Svartsengi.

Ummyndun eftir jarðhita er þarna víða í kring, bæði í Þorbjarnarfelli og Svartsengisfelli. Sömuleiðis er mikil jarðhitaummyndun í austustu gígunum í Eldvörpum við hina fornu slóð milli Njarðvíkur og Grindavíkur. Boranir þær, sem gerðar voru á þessum stað 1971, hafa staðfest, að þarna er um háhitasvæði að ræða.

Illahraun

Gígur í Illahrauni, vestan Bláa lónsins – Rauðhóll.

Ef marka má af ummyndun, og eins því á hve stóru svæði vart verður við gufur í hraununum við hagstæð skilyrði, þá er svæðið ekki lítið. Eftir er nú að kanna takmörk þess.

Sjá fleiri upplýsingar á http://eldgos.is/reykjanesskagi/

Einnig HÉR og HÉR.

Sjá MYNDIR.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn-3.-4. tölublað (01.02.1974), bls. 145-153.

Tilvísanir:
-Jón Jónsson, 1978b. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga (1:25 000). OS-JHD-7831. Orkustofnun, Reykjavík.
-Kristján Sæmundsson, 1995b. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, 1:25.000. Blað 1. Orkustofnun, Hitaveita Suðurnesja og Landmælingar Íslands, Reykjavík.
-Kristján Sæmundsson, 1995b. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, 1:25.000. Blað 1. Orkustofnun, Hitaveita Suðurnesja og Landmælingar Íslands, Reykjavík.
-Kristján Sæmundsson, 2002. Jarðfræði Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Þingvallavatn. Undraheimur í mótun. Mál og menning, Reykjavík, 40-63.
-Sinton og fleiri, 2005. Postglacial eruptive history of the Western Volcanic Zone, Iceland. Geochemistry, Geophysics, Geosystems, 6, Q12009; doi: 10.1029/2005GC001021.
-Jón Jónsson, 1986b. Hraunið við Lambagjá. Náttúrufræðingurinn, 56, 209-212.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1988a. Aldur Illahrauns við Svartsengi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 7.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1988b. Krísuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Jökull, 38, 71-87.
-Jón Jónsson, 1973. Sundhnúkahraun við Grindavík. Náttúrufræðingurinn, 43, 145-153.
-Jón Jónsson, 1978b. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga (1:25 000). OS-JHD-7831. Orkustofnun, Reykjavík.
-Kristján Sæmundsson, 1995b. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, 1:25.000. Blað 1. Orkustofnun, Hitaveita Suðurnesja og Landmælingar Íslands, Reykjavík.
-Kristján Sæmundsson, 1997. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, 1:25.000. Blað 2. Orkustofnun, Hitaveita Suðurnesja og Landmælingar Íslands, Reykjavík.
-Jón Jónsson, 1983a. Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga.Náttúrufræðingurinn, 52, 127-139.
-Jón Jónsson, 1978b. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga (1:25 000). OS-JHD-7831. Orkustofnun, Reykjavík.
-Sigmundur Einarsson, munnlegar upplýsingar.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1988a. Aldur Illahrauns við Svartsengi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 7.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1988b. Krísuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Jökull, 38, 71-87.
-Sigmundur Einarsson og Haukur Jóhannesson, 1989. Aldur Arnarseturshrauns á Reykjanesskaga. Fjölrit Nátturufræðistofnunar, 8. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík.

Grindavík

Grindavík – séð frá Þjófagjá.

Bláa lónið

Á Vísindavefnum fá m.a. finna eftirfarandi upplýsingar um tilurð Bláa lónsins sem og notargildi þess:

Bláa lónið

Bláa lónið.

Bláa lónið er affallslón jarðvarmavirkjunarinnar í Svartsengi. Ef til vill er hægt að tala um Bláa lónið sem manngert jarðfræðifyrirbæri, ásamt til að mynda uppistöðulónum vatnsaflsvirkjana.

Bláa lónið

Bláa lónið – umfjöllun í Bæjarbót – jan. 1987.

Andstætt uppistöðulónum vatnsaflsvirkjana er Bláa lónið ekki forsenda jarðvarmavirkjunarinnar við Svartsengi heldur fylgifiskur hennar. Vena mikils þrýstings í leiðslum orkuversins fellur kísillinn þó ekki út fyrr en vatnið er komið út úr orkuverinu út í Bláa lónið. Þar falla kísilagnirnar til botns og mynda hina hvítu kísileðju lónsins. Svífandi kísilagnir gefa vatninu einnig hinn einkennandi rjómabláa lit, sem lónið dregur nafn sitt af, því kísilsameindirnar endurkasta best bláa litnum úr sólarljósinu.

Bláa lónið

Bláa lónið.

Bláa lónið er fjölsóttasti ferðamannastaður Íslands en þangað koma um 90% allra erlendra ferðamanna sem heimsækja landið. Lónið er þekkt víða um heim fyrir fegurð sína þar sem það liggur furðublátt í kolsvörtu hrauninu við Svartsengi. Orðstír Bláa lónsins er þó ekki síður tilkominn vegna eiginleika baðvatnsins, sem er ríkt af uppleystum steinefnum og hafa þau heilnæm áhrif á ýmsa húðsjúkdóma.

Bláa lónið

Bláa lónið – vistkerfi.

Í jarðfræðilegu tilliti er Bláa lónið einnig um margt sérstakt. Bláa lónið er affallslón jarðvarmavirkjunarinnar í Svartsengi, og því manngert án þess þó að vera mannvirki í venjulegum skilningi þess orðs, að sjálfum byggingunum umhverfis lónið undanskildum. Það er ef til vill hægt að setja það í flokk manngerðra jarðfræðifyrirbæra, ásamt til að mynda uppistöðulónum vatnsaflsvirkjana. Öfugt við uppistöðulónin þá er Bláa lónið hins vegar í sífelldri framrás. Frá gangsetningu virkjunarinnar 1976 hefur lónið farið sístækkandi, fikrað sig lengra og lengra út í svart hraunið með hverju árinu.

Andstætt uppistöðulónum vatnsaflsvirkjana er Bláa lónið ekki forsenda jarðvarmavirkjunarinnar við Svartsengi heldur fylgifiskur hennar. Ráðist var í virkjun háhitasvæðisins við Svartsengi árið 1971 þegar hafist var handa við borun jarðhitahola þar. Fyrstu holurnar voru ekki nema nokkur hundruð metra djúpar en nægilega öflugar til að hægt væri að nýta rúmlega 200°C heitan jarðhitavökva úr þeim til framleiðslu á heitu vatni, en árið 1976 hófst dreifing á heitu vatni frá Svartsengi.

Bláa lónið

Bláa lónið.

Jarðhitavökvinn í Svartsengi er afar ríkur af uppleystum efnum og er því ákaflega tærandi. Af þeim völdum er ómögulegt að nýta hann beint til upphitunar húsa, þar sem vökvinn myndi eyðileggja pípulagnir. Vökvinn er því nýttur til að hita upp ferskvatn, sem síðan er dælt til þéttbýlisstaðanna á Suðurnesjum. Er þetta raunar einnig gert á öðrum háhitasvæðum svo sem á Nesjavöllum.

Bláa lónið

Bláa lónið – gamla (MWL).

Þar sem jarðhitavökvinn sjálfur er ekki nýttur beint gengur hann af við heitavatnsvinnsluna. Strax við gangsetningu virkjunarinnar á miðjum áttunda áratugnum var því byrjað að dæla afgangsvökvanum einfaldlega út í hraunið við virkjunina. Hraunið sem Svartsengisvirkjunin stendur á nefnist Illahraun og er það talið hafa runnið í eldgosi árið 1226 úr stuttri gígaröð nokkru vestan við Bláa lónið.

Bláa lónið

Bláa lónið.

Vegna ungs aldurs er hraunið ferskt og gljúpt og seytlar yfirborðsvatn auðveldlega niður í gegnum hraunið. Í fyrstu hefur affallsvatnið frá virkjuninni því horfið niður í gegnum hraunið ofan í berggrunninn. Vökvinn er hins vegar ákaflega kísilríkur og fellur stór hluti af kíslinum út í vatninu við kólnun. Þannig myndast eðja í vatninu sem þéttir hraunið og fljótlega eftir virkjun tók lón að myndast þar sem affallsvatnið rann út í hraunið. Fyrst um sinn var lónið þó ekki mikið um sig og fáum hefur líklega dottið í hug að baða sig í sjóðheitum og rammsöltum pollinum.

Bláa lónið

Bláa lónið.

Það var ekki fyrr en síðla árs 1981 að ungur Keflvíkingur, Valur Margeirsson, hóf að baða sig í útfallsvatninu með leyfi forstjóra Hitaveitu Suðurnesja. Valur glímdi við húðsjúkdóminn psóríasis og ákvað að láta reyna á hvort vatnið myndi draga úr einkennum sjúkdómsins, sem það og gerði. Í samtali við blaðamann mun Valur hafa kallað staðinn Bláa lónið og var það strax gripið á lofti.

Bláa lónið

Bláa lónið – gamla.

Fljótlega eftir þessar tilraunir hófst uppbygging aðstöðu við lónið, sem var í fyrstu sérstaklega ætluð fólki með erfiða húðsjúkdóma. Undir lok níunda áratugarins var svæðið svo girt af og búningsaðstaða opnuð. Síðan þá hefur uppbyggingin verið stöðug og er nú gríðarumfangsmikil heilsulind með hótel- og veitingarekstri rekin við lónið. Árið 1999 var nýtt baðlón útbúið ásamt aðstöðu lengra frá virkjuninni sjálfri.

Ástæða þess að vatnið í Bláa lóninu hefur reynst svo vel í baráttu við húðsjúkdóma er ekki fyllilega ljós. Líklegast er þó um að ræða samspil uppleystra efna í jarðhitavökvanum og lífríkisins í lónvatninu. Lífríki Bláa lónsins er ekki fjölbreytt og kveður mest að tveimur lífverum. Annars vegar er þar um að ræða ákveðna tegund blágrænþörunga og hins vegar bakteríutegund sem hvergi hefur fundist annars staðar en í Bláa lóninu.
Þessar lífverur dafna vel í söltu vatninu og eru taldar hafa jákvæð áhrif á húð baðgesta. Yfirleitt fer ekki mikið fyrir lífríkinu en þó kemur það fyrir á sólríkum sumardögum að aukinn vöxtur hleypur í blágrænþörungana og getur það valdið því að lónvatnið fær fagurgrænan blæ.

Bláa lónið

Bláa lónið.

Jarðhitavökvi háhitasvæða eins og Svartsengis er yfirleitt mjög ríkur af uppleystum efnum. Á miklu dýpi ofan í jörðunni leysir sjóðheitur vökvinn í jarðhitakerfunum auðveldlega upp ýmis frumefni og efnasambönd úr berginu sem vatnið leikur um og ber jarðhitavökvinn þessi uppleystu efni með sér upp á yfirborð. Miðað við önnur háhitasvæði er vökvinn í Svartsengi hins vegar óvenjuríkur af uppleystum efnum. Stafar það af því að jarðhitauppspretta Svartsengis, djúpt undir Reykjanesskaganum, er miklu saltari en gengur og gerist annars staðar á landinu. Er það vegna áhrifa frá hafinu umhverfis skagann, en sjór leitar inn í jarðlögin undir skaganum og er grunnvatnið því salt á miklu dýpi. Þegar þannig háttar er talað um jarðsjó og finnst hann raunar yfirleitt þegar borað er í jörðu nálægt ströndum landsins.

Bláa lónið

Bláa lónið.

Ofan á jarðsjónum flýtur þunnt lag af ferskvatni, tilkomið vegna úrkomunnar sem fellur á Reykjanesskaganum. Til að komast í jarðsjóinn þarf því að bora niður í gegnum hið ferska grunnvatn en í Svartsengi eru um 100-150 metrar niður á jarðsjóinn. Borholurnar á svæðinu ná hins vegar flestar margfalt dýpra en það, og eru núverandi vinnsluholur á milli 400 og 1900 metra djúpar. Úr grynnstu holunum fæst aðeins sjóðheit gufa en holur sem eru dýpri en þúsund metrar eru svokallaðar tvífasa holur, sem þýðir að úr þeim fæst bæði gufa og heitur jarðsjór. Þetta þýðir að vatnsyfirborð jarðhitakerfisins liggur einhvers staðar á 700 til 900 metra dýpi og hefur það lækkað töluvert síðan virkjunin var gangsett.

Bláa lónið

Bláa lónið – umfjöllun í Bæjarbót 1987.

Ástæða þess að vatnið í Bláa lóninu hefur reynst svo vel í baráttu við húðsjúkdóma er ekki fyllilega ljós. Líklegast er þó um að ræða samspil uppleystra efna í jarðhitavökvanum og lífríkisins í lónvatninu.

Bláa lónið

Bláa lónið – úr bæjarbót 1987.

Hinn jarðefnaríki vökvi skýrir hið mikla magn kísileðju sem finna má í botni Bláa lónsins og notuð er í húðvörur frá lóninu. Sem fyrr segir er jarðsjór og gufa fyrir orkuverið í Svartsengi tekin af 400-1900 metra dýpi og er jarðhitavökvinn þá um 230-240°C heitur. Jarðhitavökvi við svo hátt hitastig getur haldið miklu magni af uppleystum efnum og eru helstu efnin í jarðhitavökva Svartsengis klóríð og natrín, sem saman mynda sjávarsalt, auk kalsíns, kalíns og kísils. Önnur efni og efnasambönd, svo sem brennisteinn, karbónat og magnesín, eru einnig til staðar en í miklu minna magni.

Bláa lónið

Bláa lónið.

Á leið sinni um virkjunarmannvirkin kólnar vökvinn hins vegar niður og þegar affallsvatninu er dælt út úr virkjuninni er það ekki nema um 70-80°C heitt. Við kólnunina minnkar geta jarðhitavökvans til að halda fyrrgreindum efnum uppleystum. Fyrir flest efnanna er það ekki vandamál en kísillinn verður hins vegar það sem kallað er „yfirmettaður“. Það þýðir að of mikið er af kísli í vökvanum til að hann geti haldist í upplausn þegar jarðhitavökvinn hefur kólnað. Kísillinn fer því að falla út og mynda litla ógegnsæja kristalla í vatninu.
Þótt flestir telji Bláa lónið nú vel heppnað og það megi teljast góð nýting á affallsvatni virkjunarinnar í Svartsengi þá kristallast þó í því mikill og aðkallandi vandi tengdum jarðvarmavirkjunum. Sumir segja að Bláa lónið sé umhverfisslys, þar sem affallsvökva jarðhitavirkjunarinnar hafi verið hellt út í umhverfið.

Bláa lónið

Bláa lónið.

Í tilfelli Bláa lónsins er kannski fulldjúpt í árinni tekið að tala um umhverfisslys en Bláa lónið er hins vegar alls ekki eina lónið sem myndast hefur við dælingu affallsvatns frá háhitavirkjunum landsins út í umhverfið. Svipuð lón má sjá við virkjanirnar í Bjarnarflagi, Kröflu, og úti á Reykjanesi, auk þess sem affallsvatni frá Nesjavallavirkjun er einnig að stórum hluta hellt beint út í umhverfið. Affallsvökvi jarðhitavirkjana inniheldur ýmis óæskileg eða jafnvel hættuleg efni í sem gætu í versta falli spillt grunnvatni á stórum svæðum neðan virkjanasvæðanna.

Bláa lónið

Bláa lónið.

En affallsvatnið í Bláa lóninu er þó ekki einu umhverfisáhrifin frá orkuverinu við Svartsengi. Útblástur frá jarðhitavirkjunum inniheldur ýmis efnasambönd og er brennisteinsvetni eitt þeirra. Brennisteinsvetni gefur hina einkennandi brennisteinslykt á háhitasvæðum en í miklu magni er það eitrað fyrir lífríkið. Mosaþekjan á hrauninu umhverfis virkjunina hefur látið töluvert á sjá á þeim um það bil 40 árum sem liðin eru frá því virkjunin tók til starfa og er það áhyggjuefni þar sem mosi vex afar hægt.

Bláa lónið

Bláa lónið.

Á vefnum Cutis.is er umfjöllun um Bláa lónið og psoriasis eftir læknana Bárð Sigurgeirsson og Jón H. Ólafsson. Þar er einnig stuttlega gerð grein fyrir myndun lónsins og er umfjöllunin hér á eftir stytt útgáfa af þeim hluta greinar þeirra félaga.

Bláa lónið

Bláa lónið.

Bláa lónið varð til sem affallsvatn frá Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi árið 1976. Reykjanesskaginn er fyrst og fremst samsettur úr gljúpu hrauni og er hraunið ekki þéttara en svo að það hleypir sjó í gegnum sig. Djúpt í iðrum jarðar eru katlar sem eru fullir af jarðsjó en það er blanda af sjó og ferskvatni í hlutföllunum um það bil (65/35%). Efnasamsetning jarðsjávarins breytist við það að efni losna úr aðliggjandi bergi, sem er mjög kísilríkt. Efnastyrkur kísils (e. silicon) hundraðfaldast (430 mg/kg) við þetta, en hins vegar fellur magnesín (magnesium) út og styrkur þess minnkar um það bil þúsundfalt.
Litur Bláa lónsins stafar af því að kísilsameindir í vatninu dreifa bláu ljósi meira en öðru á svipaðan hátt og sameindir lofthjúpsins þegar þær gera himininn bláan.

Svartengi

Svartsengi.

Við Svartsengi eru borholur sem ná nokkur hundruð metra niður í neðanjarðarkatla og er hitastigið þar um 240° C. Jarðsjó er veitt upp á yfirborðið gegnum þessar borholur. Gufan sem myndast er notuð til að drífa gufuhverfla sem framleiða rafmagn en vökvinn er hins vegar notaður til að hita kalt ferskvatn sem síðan er veitt til byggða á Suðurnesjum og notað til húshitunar.
Að þessu loknu er jarðsjónum dælt út yfir aðliggjandi hraunbreiðu. Þegar hér er komið sögu er hitastig jarðsjávarins um 70° og eru það um það bil 900 rúmmetrar sem dælt er út yfir hraunbreiðuna á hverri klukkustund. Mestur hluti jarðsjávarins rennur ofan í gljúpt hraunið, en töluverður hluti gufar upp. Þegar jarðsjórinn kólnar ofurmettast vökvinn af kísli og langar keðjur af kísilsameindum myndast. Þessar kísilsameindir falla að lokum út og mynda hvíta leðju sem gestir Bláa lónsins kannast við.

Bláa lónið

Fyrsta „Bláa lónið“ við Svartsengi.

Leðjan lokar sprungum í hrauninu og þéttir botninn, sem stuðlar enn frekar að myndun lóns. Styrkur kísils er um 140 mg/kg, en það eru einmitt þessar kísilsameindir í vökvanum sem dreifa ljósinu sem á lónið fellur þannig að blár litur myndast og af því dregur Bláa lónið nafn sitt.

Heimildir:
-Árni Hjartarson. 1981. Jarðsjór og salt grunnvatn á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 51 (3), 116-122.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson. 1988. Aldur Illahrauns við Svartsengi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 7.
-Hrefna Kristmannsdóttir, Guðrún Sverrisdóttir og Kristján H. Sigurðsson. 1996. Efnasamsetning vatns og kísilleðju í Bláa lóninu. – Styrkur þungmálma og helstu ólífrænna sporefna (skýrsla). Orkustofnun, Reykjavík.
-Jón Örn Bjarnason. 1991. Um efnasamsetningu vökva í Bláa lóninu í Svartsengi (skýrsla). Orkustofnun, Reykjavík.

-Sjá https://www.visindavefur.is/svar.php?id=14019
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=4919

Bláa lónið

Bláa lónið – gönguhópur FERLIRs.

Svartsengi

„Ungmennafélag Grindavíkur hélt sumarhátíð sína á hinum gamla samkomustað Grindvíkinga, Svartsengi, helgina 18. og 19. júlí. Umf. Grindavíkur hefur undanfarin ár unnið að endurbótum á þessum sérstæða útisamkomustað og endurvakið hinar gamalkunnu Svartsengis-skemmtanir í nýju formi.
svartsengiDagskrá mótsins var fjölbreytt: íþróttir, tónlist, gamanþættir og fallhlífastökk, og tókst hún í alla staði mjög vel. Formaður UMFÍ, Hafsteinn Þorvaldsson, flutti ávarp á mótinu. Dansað var á palli bæði laugardags- og sunnudagskvöld. Sólskin var báða dagana og veður hið ákjósanlegasta, enda komu margir með alla fjölskylduna og bjuggu í tjöldum á mótssvæðinu.
Var það mál mótsgesta, að sumarhátíð Umf. Grindavíkur hefi farið hið bezta fram, og skemmtu allir sér prýðilega. Svartsengishátíðin er einn liður í víðtækri starfsemi ungmennafélaganna í þá átt, að koma á í hverju héraði glæsilegri sumarhátíð fyrir fólk á öllum aldri, þar sem það getur komið saman og skemmt sér á heilbrigðan hátt úti í náttúrunni.“

Heimild:
-Skinfaxi, 61. árg. 1970, bls. 24.

Svartsengi

Svartsengi – hátíð.

Eldvörp

Í Mbl. 17.11.1981 er frétt með fyrirsögnina „Hellir með mannvistarleifum finnst við Svartsengi“. Þar segir:
Mannvistir„Í síðustu viku fannst fyrir hreina tilviljun hellir við Svartsengi með minjum um einhverjar mannvistir. Var verið að jafna út jarðveginn og undirbúa borun holu þegar ýta féll skyndilega niður um hellisþakið.
Guðmundur Ólafsson, safnvörður, fór og skoðaði hellinn á fimmtudaginn, og sagði hann að þar væru tveir hlaðnir grjótveggir, 2-3 metra langir og tæpur metri á hæð.
„En fleira gæti leynst þarna af mannvistarleifum, því mikið grjót féll niður í hellinn þegar þakið hrundi. Eitthvað gæti komið í ljós þegar grjóthrúgan verður fjarlægð.“
Hellirinn mun vera um 30 metra langur og allt upp í 6-8 metra breiður. „En það er ekki hægt að ganga í honum uppréttur,“ sagði Guðmundur, „því hann er ekki meira en 1 1/2 metri á hæð þar sem hann er hæstur.“
MannvistirSagði Guðmundur að á hellinum væru tvö op. „Annars vegar er megininngangur, ef svo má segja, rétt við þann stað sem ýtan féll niður. Það hefur verið lokað fyrir þann inngang og gengið þannig frá honum að illmögulegt er að finna hann. Það bendir til að einhver hafi viljað dyljast þarna. Hins vegar er önnur leið inn í hellinn inn í rangala, svona 25 metra langan, sem hægt er að skríða eftir inn í hellinn.“
En síðan hvenær eru þessar menjar og hverjir gætu hafa haft þarna bústað?
Guðmundur taldi að þetta væru talsvert gamlar menjar, sem þarna fundust, jafnvel nokkurra alda gamlar. Hins vegar vildi hann ekki vera með neinar getsakir um það hverjir kynnu að hafa hafst þarna við. „En það lítur út fyrir að þetta hafi verið skammtímabústaður.“
Gísli Sigurðsson, fyrrverandi lögregluþjónn í Hafnarfirði, er fróður um þjóðleg efni, og blaðamaður Mbl. innti hann eftir því hvort nokkuð væri hægt að segja um hver eða hverjir hefðu dvalist þarna.

Mannvistir

„Það er ómögulegt að segja með nokkurri vissu. En það hafa fundist menjar um mannvistir í Eldvarpinu þarna skammt frá, og einnig í Grindavíkurhrauni. Manni dettur helst í hug að þegar Tyrkir voru hér – sem voru reyndar alls ekki Tyrkir heldur Alsírbúar – þá hafi fólk flúið þarna uppeftir og haft þarna einhverja dvöl. Þessi byrgi sem hafa fundist eru talin vera frá þeim tíma.
Meira get ég nú ekki sagt þér, nema þá kannski að það er til saga um þrjá stráklinga sem struku úr sveit einhvern tíma á 16. öld og voru á þvælingi þarna í stuttan tíma.“
Björn Þorsteinsson, prófessor í sagnfræði, taldi tilgátu Gísla sennilega. Björn var spurður að því hvort þetta gæti ekki verið útilegumannabústaður.
„Það er til í dæminu kannski. Það hefur verið eitthvað um útilegumenn þarna. Árið 1703 voru teknir útilegumenn í Henglinum, tveir eða þrír, að mig minnir. Þeir höfðu reyndar kerlingu með sér til að elda oní sig sauðina, og gekk víst seinlega að ná henni. Mennirnir voru drepnir, en kerlingin var sett á.“ 

Heimild:
-Mbl. 17.11.1981.

Eldvörp

Hleðslur í helli í Eldvörpum.

Vatnshólavarða

Gengið var eftir Melabergsleið (Hvalsnesleið), upp að Vatnshólavörðu og síðan var leiðinni fylgt áfram um Miðnesheiðina að hringtorginu austan við Leifsstöð.

Melaberg

Melaberg.

Vatnshólavarðan sést vel frá Melabergsvötum. Þegar komið var framhjá þeim blasti Leifsstöðin við – inngöngudyr ferðamanna til Íslands. Á leiðinni var tækifærið notað og vöngum velt yfir stöðu og framtíð ferðaþjónustunnar á svæðinu.
Undanfarin ár hefur ferðamönnum fjölgað verulega hér á landi. Fjöldi þeirra er nú um 360.000 á ársgrundvelli og hefur verið að fjölga um 12-14% að jafnaði á milli ára. Ekki er því langt að bíða þangað til fjöldi þeirra verður kominn í milljónamarkið. Áður en það verður þurfa hagsmunaðilar ferðaþjónustunnar þó væntanlega að vera búnir að ákveða hvernig þeir vilja stýra ferðamennskunni og ferðum gestanna hér um land með hliðsjón að undirbúningi á einstökum svæðum.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkuflugvöllur.

Í ljósi breytinga í atvinnumálum og nær ótæmandi möguleikum á Suðurnesjum er ljóst að mikilvægt er að stuðla að eflingu atvinnulífsins t.d. með verulega aukinni þjónustu. Það er m.a. hægt að gera með því að nýta þá ótrúlegu kosti sem svæðið býður upp á. Aðstaðan er einnig mjög góð til fiskeldis, og svo er nauðsynlegt að hlúa að þeirri starfsemi sem fyrir er, þ.á.m. sjávarútvegi og iðnaði. Til að mæta samdrætti í starfsemi á Keflavíkurflugvelli þarf að skapa ný störf í öðrum greinum, einkum iðnaði og þjónustu, ekki síst ferðaþjónustugreinum.

Melabergsleið

Melabergsleið – vörður.

Eitt af forgangsverkefnunum er að að skapa Suðurnesjum jákvæða ímynd í hugum fólks og nýta vel þá kosti sem svæðið hefur upp á bjóða, s.s. alþjóðaflugvöllinn og nágrenni hans, orkulindir til iðnaðarframleiðslu, ágæta hafnaraðstöðu og hina einstöku sagnfræðilegu, náttúru- og jarðfræðilegu möguleika til að stórefla ferðaþjónustu, helsta vaxtarbroddinn í íslensku atvinnulífi.
Hingað til hefur mikið verið fjallað um vilja til aðgerða. Sumu hefur og verið komið í framkvæmd. Í skýrslum, sem gerðar hafa verið og gefnar út á undanförnum árum um þetta efni, má t.d. lesa um;
a) hugleiðingar Samgönguráðuneytisins frá árinu 2002 þar sem fjallað er um framtíðarsýn í íslenskri ferðaþjónustu og m.a. fjallað um ímynd Íslands, umhverfismál, gæða- og öryggismál, menntamál, samgöngumál, byggðamál, skipulag ferðamála, rekstrarumhverfi og markaðsmál. Þá segir að meginþættir ferðaþjónustu séu fjórir: ferðafólkið, fyrirtæki og stofnanir, opinber þjónusta og áfangastaðurinn. Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunnar er lögð til grundvallar framtíðarsýninni.

Brimketill

Brimketill.

b) efni Ferðamálaráðs Íslands 2002 um Auðlindina Ísland með hliðsjón af ferðaþjónustusvæðum þar sem markaðssvæðin eru skilgreind, sérstaða þeirra dregin fram, teknar saman fyrirliggjandi upplýsingar, seglar skilgreindir og tillögur gerðar.
c) framsetningu Samgönguráðuneytisins um íslenska strandmenningu árið 2004 þar sem er fjallað um gæðaferðaþjónustu, markaðsrannsóknir og frumkvöðlastarf.
d) fróðleik frá samgönguráðuneytsiins um menningartengda ferðaþjónustu 2002 þar sem er fjallað um íslenska menningu og ferðaþjónustu sem og nútímamenningu Íslendinga og nauðsyn stefnumörkunar.
e) tillögur samgönguráðuneytisins um stefnumörkun íslenskrar ferðaþjónustu 1996 þar sem er kannað með áhuga og möguleika hinna einstöku þjóða að nýta sér Ísland sem ferðamannaland.
f) og einnig má sjá rit frá ferðamálaráðstefnu Reykjavíkurborgar 2004 þar sem ræddir voru styrkleikar og veikleikar Reykjavíkur skilgreindir og gerðar tillögur um markaðassetningu borgarinnar til ferðamanna.

Melabergsvegur

Melabergsvegur.

En svo virðist sem eitt nærtækasta, en jafnframt eitt áhugaverðasta ferðamannasvæðið (a.m.k. fyrir Íslendinga), hafi orðið mikið til útundan, þ.e. Suðurnesin og Reykjanesskaginn allur. Yfirleitt er getið um að þar sé „útsýni mikið og fagurt“, þar megi finna „áhugaverða staði“ og eru þrír slíkir jafnan nefndir til sögunnar, þ.e. Svartsengi, Bláa lónið og Reykjanesviti. Jafnframt að á svæðinu sé fuglalíf og strandir.
Í raun býður svæðið upp á allflest það sem aðrir landshlutar hafa upp á að bjóða, hvort sem lýtur að jarðfræði, náttúru, menningu eða sögu. Dvalartími útlendinga er að styttast og margir koma hingað í öðrum tilgangi en áður, þ.e. til ráðstefnu eða fundarhalda eða í viðskiptaerindum. Þetta fólk þarf oft að bíða hálfan eða heilan dag eftir flugi. Hvaða svæði er þá nærtækara til að nota því til handa en Suðurnesin? Þar er hægt að fara í stuttar ferðir, hvort sem er akandi eða gangandi, skoða fallega hraunhella, þjóðsagnakennda staði, ómótstæðilega náttúru, fuglabjörg, minjar frá upphafi búsetu, nútímahraun, gamlar leiðir markaðar í bergið, eldgíga, atvinnu- og byggðasöguna, verstöðvar, sjóslys, drauga- og huldufólksstaði og svona mætti lengi telja – eða einfaldlega njóta útiveru í fallegu umhverfi. Þá eru afþreyingarmöguleikar sennilega hvergi meiri en á þessu svæði.
En þetta er s.s. allt vitað – og meira til – og eflaust munu hlutaðeigandi aðilar ætla að nýta sér þetta allt til handa framtíðargestunum að utan sem og landsmönnum öllum.
Umhverfið rann saman við vangavelturnar og ferðahugleiðingarnar á leiðinni, en veðrið var frábært.
Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Reykjanes

Á Reykjanesi.

Eldvörp

Í riti Orkustofnunar skrifar Jón Jónsson, jarðfræðingur; „Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort“. Þar lýsir hann m.a. Eldvarpahrauni (-hraunum):

Eldvörp

Eldvörp – loftmynd.

Eldvarpahraun er að því er virðist yngst hrauna á utanverðu Reykjanesi. Það skal þó tekið fram að Stampahraun yngra og Eldvarpahraun ná hvergi saman og verður því ekki séð hvort þeirra yngra er. Hitt ætla ég óhætt að fullyrða að þau hraun bæði séu au yngstu á utanverðu Reykjanesi, og að Eldvarpahraun sé ekki frá sögulegum tíma. Um gos á þessu svæði eru engar glöggar heimildir til, það ég veit, en þó er þessi getið í annálum að eldgos hafi oftar en einu sinni orðið á Reykjanesi og gæti eitthvað af því átt við t.d. Stampa. Austurendi gígaraðarinnar sjálfrar er nærri beint niður af Grindavík, en vesturendinn er suðvestur af Sandfellshæð. Þetta er sjálf gígaröðin en allmiklu neðar, þ.e. nær sjó, og vestar eru smágígir í röð örskammt frá og báðum megin við veginn milli Grindavíkur og Reykjanesvita. Ekki verður annað sé en þeir hafi gosið um leið og Eldey og tel ég þá til sama hrauns. Aðal gígaröðin er þá um 8.5 km á lengd, en bætist þessir litlu gígir við verður lengd gosstöðvarinnar ekki undir 10 km.

Eldvörp

Eldvörp – gígaröðin.

Gígaröðin er sundurslitin á nokkrum stöðum, sums staða alveg en annars staðar eru gígirnir, sem ávallt eru nokkrir saman, tengdir við næsta gígahóp með smágígum, sem lítið eða ekkert hraun hefur runnið frá. Það er því augljóst að hér sem víða annars staðar hefur eldvirknin fljótlega orðið bundin við vissa hluta gígaraðarinnar, en hún í heild verið virk aðeins á fyrsta stigi gossins. Það sýnist ljóst að hér hefur gosið á sprungubelti fremur en á einni sprungu enda vatnar mikið á að gosstöðin myndi eina samfellda línu.

Eldvörp

Eldvörp – Jarðfræðikort Jóns Jónssonar.

Hraunið frá Eldvörpum hefur runnið eingöngu til suðausturs eins og landinu hallar á þessu svæði. Vestast hefur það komist næst sjó skammt austan við Sandvík við Háleyjar. Einna líklegast sýnist að hraunið hafi numið staðar í lægð, sem þarna er og hafi aldrei náð til sjávar. Tangi úr Eldvarpahrauni hefur náð fast að Grænabergsgjá rétt norðan við, en þar austur af hefur það ekki náð eins langt fram. Myndast því allstórt vik í það ofan við Staðarhverfi (Tóttarkrókar).
Eldvarpahraun nær alveg austur að Arnarsetushrauni og er eldra en það og runnið fyrir 900.

Eldgos

Eldgos í Eldvörpum fyrrum.

Eldvarpahraun eldra hefur runnið yfir Sandfellshæðahraun og allt í sjó út milli Grindavíkur (Járngerðarstaða) og Húsatófta. Hraunið hefur runnið í breiðum straumi niður að sjó vestan við Grindavík. Það nær upp að Þorbjarnarfelli að vestan og vestur að Húsatóftum. Þetta hraun er í eðli sínu helluhraun, víða stórbrotið og líkt að úr dyngju væri. Í þessu hrauni er margar gjár og stórar austan við Húsatóftir og sýnir það að það hlýtur að vera talsvert gamalt.“

Rauðhóll í Eldvarpahrauni er hluti af eldri dyngjuhraunmyndunum á svæðinu. Í Eldvarpahrauni má finna fjölmargar mannvistaleifar. Sjá t.d. HÉR.

Heimild:
-Orkustofnun, Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort, Jón Jónsson, 1978, bls. 129-131.

Eldvörp

Eldvörp – gígur.