Færslur

Járnbrautarvegur

Á vefsíðu Hraunavina má lesa eftirfarandi um “Veginn sem aldrei varð“:

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn í Garðahrauni / Hafnarfjarðarhrauni.

“Merkilegar hleðslur eru enn sjáanlegar í hrauninu suðuvestur af Flötunum, handan við Hraunsholtslækinn, sem heitir reyndar Vífilsstaðalækur örlítið ofar þar sem hann renndur úr Vífilsstaðavatni. Þessar hleðslur vitna um vegasögu 0kkar og hægt er að aldursgreina þær nákvæmlega því þarna voru vinnuflokkar að störfum fyrir hluta árs 1918 á sama tíma og mikil harðindi með frosthörkum gengu yfir landið og atvinnuleysi var í sögulegu hámarki.

Járnbraut

Járnbrautavegurinn í Hafnarfjarðarhrauni.

Þegar leið á fyrri heimsstyrjöldina fór að gæta atvinnuleysis víða á landinu. Fiskveiðar og fiskverkun drógust saman þar sem erfiðleikum var bundið að koma aflanum í verð. Kuldar voru miklir en aldrei hafði annað eins frost komið og frostaveturinn mikla árið 1917-18. Nauðþurftir voru af skornum skammti og yfir vetrarmánuðina þegar kaldast var gengu fullhraustir karlmenn um göturnar í von um að geta snapað vinnu stund og stund.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegur – fyrirhuguð lagning milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.

Ríkisstjórnin ákvað haustið 1917 að veita sveitastjórnum dýrtíðarlán úr landsjóði til að ráðast í framkvæmdir svo að hægt væri að ráða atvinnulausa fjölskyldumenn í vinnu. Bæjarstjórn Reykjavíkur samþykkti í lok nóvember 1917 að taka lán til að vinna grjót í námunum í Öskjuhlíð til margvíslegra nota. Fyrsta lánið var veitt í nóvemberlok en í ársbyrjun 1918 var lánum úthlutað til sveitastjórna víðar á landinu. Bæjarstjórnir Hafnarfjarðar og Reykjavíkur fengu sameiginlega 65.000 kr. til að leggja nýjan veg frá Suðurlandsbraut við Sogamýri í Reykjavík að Lækjargötu í Hafnarfirði. Að auki var 25.000 kr. lán veitt til kaupa á mulningsvélum og mótor til að brjóta niður stórgrýti.

Járnbraut

Járnbraut.

Nýskipaður landsverkfræðingur Geir G. Zoega sem tók við af Jóni Þorlákssyni í febrúar 1917 kynnti sér hvar best væri að leggja veginn og mældi út fyrir honum. Vegurinn átti að vera 7 metra breiður þannig að hægt væri að leggja járnbrautarteina á eystri hluta hans en vestari hlutinn var ætlaður almennri umferð ökutækja og reiðmanna. Vegurinn átti að sveigja út af Suðurlandsveginum í Sogamýri, skammt frá Elliðavogi og liggja líkt og Breiðholtsbrautin er nú, vestan Blesugrófar upp að austurenda Digraneshálsins, skammt austan við bæinn Digranes. Þar átti hann að fylgja gömlum götum að Kópavogslæk á móts við Fífuhvamm.

Miðaftanshóll

Miðaftanshóll framundan.

Síðan átti hann að liggja um mýrina að Nónskarði syðst í Arnarneshálsi á milli Nónhæðar og Hnoðraholts nánast á milli núverandi Búða- og Byggðahverfa í Garðabæ, ekki langt frá Karlabraut. Vegurinn átti þessu næst að fara yfir Arnarsneslæk og um Dýjakróka sem Gísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði kallaði Kringlumýri. Þaðan var honum ætlað að fara um Bjarnarkrika í suðvesturhorni Vetrarmýrar undir Hofstaðaholti sunnanverðu að Vífilsstaðalæk. Handan hans var vegurinn lagður suðaustan við Miðaftanshól í stefnu á melinn norðan Setbergshamars. Þar átti hann að liggja yfir Kaplakrikalæk í áttina að Sjávarhrauni framhjá þeim stað þar sem Sólvangur er nú og þaðan niður á Hörðuvelli. Þar átti vegurinn að tengjast Lækjargötu en síðan var ætlunin að leggja veg um Almenning á milli Móhálsa og suður með ströndinni um Selvog í Árnessýslu.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar.

Verkið hófst 1. febrúar 1918 og var skipt í tvennt. Hófust verkamenn handa í Sogamýri þennan dag en þeir áttu að leggja veginn suður að Nónhæð, en Hafnfirðingar sem byrjuðu saman dag áttu að leggja veginn frá landamerkjum Fífuhvamms og Arnarness við Nónskarð að Lækjargötu í Hafnarfirði.

Vinna Hafnfirsku verkamannanna hófst við Miðaftanshól í Vífilsstaðahrauni, sem þá var aldrei kallað annað en Svínahraun. Sigurgeir Gíslason vegavinnuverkstjóri stjórnaði veglagningunni yfir hraunið í áttina til Hafnarfjarðar, en vinnuflokkur sem Jón Einarsson stjórnaði hélt í austurátt og hófst handa á þeim stað þar sem Reykvíkingarnir ætluðu að enda á mörkum Garðahrepps og Seltjarnarneshrepps.

Sigurgeir Gíslason

Sigurgeir Gíslason.

Báðir verkstjórarnir sem komu að málum Hafnarfjarðarmegin voru vanir vegavinnu, hvort heldur var í nágrenni Hafnarfjarðar eða úti á landi. Sigurgeir hafði stjórnað vinnu við flesta vegi í Hafnarfirði og næsta nágrenni, þ.á.m. þegar Hafnarfjarðarvegurinn var gerður vagnfær sumrin 1887 og 1888 og þegar Suðurnesjavegurinn (Keflavíkurvegurinn) var lagður 1900-1905. Þeir menn sem hann valdi í vinnuflokk sinn kunnu flestir til verka og voru vanir að hlaða grjótbrýr yfir hraungjótur og brjóta niður hraunkletta. Hann réð einnig unga og hrausta pilta til að bera grjótið og mulning á handbörum svo að hleðslumennirnir hefðu ætíð nægan efnivið til að moða úr.

Hafnarfjörður

Vinnuflokkur Sigurgeirs við Norðurbraut í Hafnarfirði.

Verkstjórarnir fengu 1 krónu á tímann í laun, en þeir sem voru næstir þeim fengu 90 aura á tímann. Venjulegir verkamenn voru með 75 aura á tímann.
Kaupið var sæmilegt en vinnan var mjög slítandi og tók verulega á, sérstaklega í þessum mikla kulda. Það sem mestu máli skipti var að þetta var örugg vinna á meðan fjármagnið entist. Þar sem vinnustaðurinn var lengst uppi í hrauni langt frá allri mannabyggð varð mannskapurinn að vera vel mettur þegar lagt var af stað snemma að morgni. Vinnuflokkurinn hittist fyrir framan hús Jóns Einarssonar að Strandgötu 19 í bítið og síðan þræddi hópurinn sig eftir hraunstígum sem verkstjórarnir gjörþekktu upp eftir hrauninu að Miðdegishólnum.

Járnbraut

Járnbrautarvegur – skjól verkamanna.

Unnið var án áfláts til klukkan tólf en þá var gert hálftíma matarhlé. Vinnan hófst aftur að því loknu og stóð til klukkan fimm síðdegis. Þegar aðeins var liðið á verkefnið var Sveinn Sigurðsson járnsmiður ráðinn til að skerpa og herða áhöld eins og járnkarla og fleyga. Hann flutti með sér einfalda smiðju til að sinna þessum starfa og var hún fyrst í stað undir berum himni. Ekki leið á löngu áður en vinnuskúr var fluttur upp í hraunið svo að Sveinn gæti sinnt sínu starfi í sæmilegu skjóli, þar sem það gat gustað hressilega og slyddað eða jafnvel snjóað enda var allra veðra von svo snemma árs. Þar kom að annað skýli flutt upp í hraunið og þar gátu vinnuflokkarnir matast til skiptis, en skúrinn var ekki stærri en svo að aðeins annar hópurinn komst þar fyrir í senn.

Miðaftansvarða

Miðaftansvarða / Miðdegisvarða.

Vinnuflokkur Jóns Einarssonar náði að Miðaftanshól áður en verkinu var lokið og tók þá til við að aðstoða Sigurgeir og hans menn við vinnuna í hrauninu sem var erfiðari og seinfarnari en vinnan á holtunum og í mýrunum. Þegar fjármagnið var uppurið var þessari vinnu hætt og vegurinn var eins og sérkennileg lína fjarri allri mannabyggð og umferð, þar sem honum var aldrei lokið.

Er glæðast fór aftur um atvinnu gleymdist þetta verkefni og þegar í ljós kom að íslenska þjóðin hafði misst af járnbrautaröldinni féll þetta merka verkefni í gleymsku. Sáralítið er eftir af veginum, eingöngu sá hluti sem er sitthvoru megin við Miðaftanshól. Öðrum hlutum hans hefur því miður verið spillt svo gjörsamlega að það er engu líkara en þessi vegaframkvæmd hafi aldrei átt sér stað.

Miðaftansvarða

Ártal á Miðaftansvörðu. Ártalið er frá því að bæjarverkfræðingur Hafnarfjarða, Björn Árnason, lét steypa með landamerkjavörðunni.

Þegar farið var að moka burt hrauninu þar sem nú er iðnaðarhverfið í Molduhrauni hafði enginn rænu á að vernda þennan vegaspotta, þrátt fyrir að Ómar Ragnarsson hefði farið þarna um í einum af Stiklu þáttum sínum. Nú eru aðeins fáein ár þar til það litla sem eftir er af veginum verður 100 ára og þá njóta minjarnar sjálfkrafa verndar samkvæmt fornminjalögum. Það breytir ekki því að þessi merki kafli í vegasögu okkar verður áfram í hættu þar sem sveitastjórnir hér á landi eru þekktar fyrir allt annað en fara eftir lögum um fornminjar, náttúrvernd, hvað þá um hverfisvernd sem þær setja sjálfar.” – (JG tók saman)

Heimildir:
-https://www.hraunavinir.net/vegurinn-sem-aldrei-var%C3%B0/
-Blaðagreinar frá 1898-1918.
-Frásögn Gísla Sigurðsson.

Atvinnubótavegur

Skilti við Atvinnubótaveginn.

Eldborgir

Í Andvara 1973 er grein eftir Finnboga Guðmundsson; “Gripið niður í fornum sögum – og nýjum“:

Kristnitökuhraun

Kristnitökuhraun – kort.

Þar segir m.a. annars: “Hvað er það í fornum frásögnum, er hrífur oss einna mest? Eru það ekki hinir einföldu drættir og skýru myndir, sem þar er tíðum brugðið upp?
Vér skulum líta á t.a.m. örfáar frásagnir af jarðeldum eða öðrum náttúruhamförum”.

Eldborg

Eldborg í Kristnitökuhrauni.

Í Landnámabók segir svo frá: “Allir kannast við frásögn Kristnisögu af því, er menn deildu sem fastast um hinn nýja sið á alþingi sumarið 1000 og maður kom „hlaupandi og sagði, að jarðeldur var upp kominn í Ölfusi og mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða [er þá hafði tekið kristni].
Þá tóku heiðnir menn til orðs: „Eigi er undur í, að goðin reiðist tölum slíkum.”

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Þá mælti Snorri goði: „Um hvað reiddust goðin þá, er hér hrann hraunið, er nú stöndum vér á?“ Eftir það gengu menn frá lögbergi.
Jarðfræðilegar athuganir á Eldborgarhrauni og hraunum Hellisheiðar hafa leitt í ljós, að frásagnir Landnámabókar og Kristnisögu af fyrrnefndum jarðeldum fá að öllum líkindum staðizt, að Eldhorgarhraun hið yngra hafa raunverulega runnið á landnámsöld og hraun hafi teygt arma sína af Hellisheiði ofan í byggð sumarið 1000.”

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1973, Gripið niður í fornum sögum – og nýjum – Finnborgi Guðmundsson, bls. 100-101.

Kristnitökuhraun

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Eldgos

“Reykjanesskagi er hluti af gosbeltinu, sem liggur um Ísland þvert og er í beinu framhaldi af Reykjaneshryggnum, sem neðansjávar teygir sig langt suðvestur í haf og raunar er hluti af Atlantshafshryggnum mikla. Frá því að síðasta kuldaskeiði lauk hefur mikil eldvirkni verið á þessu svæði bæði ofansjávar og í hafi. Sú eldvirkni hefur á umliðnum öldum byggt upp Reykjanesskaga og verður ekki enn séð nokkurt lát á þeirri starfsemi, sbr. nýjasta eldgosið í Geldingadal í Fagradalsfjalli.

Kristnitökuhraun

Svínahraun.

Fyrsta heimild um gos á umræddu svæði er hin alkunna frásögn Kristnisögu: „Þá kom maðr hlaupandi ok sagði að jarðeldr var upp kominn í Ölfusi ok mundi hann hlaupa á bæ Þorodds goða” . Kristnisaga er talin vera „að stofni til frá 12. öld” og gæti því verið rituð rösklega öld eftir að atburðir þessir áttu sér stað. Hér er að sjálfsögðu látið liggja milli hluta hvort kristnitakan hafi verið árið 1000 eða 999. Lengi hefur verið fullyrt að gos þetta hafi verið í gígaröð austan við Hveradali.

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni.

Síðari heimildir um eldgos á Reykjanesskaga eru með afbrigðum óljósar og torráðnar. Þannig er t. d. getið um gos í Trölladyngju eða Trölladyngjum 1151, 1188, 1340, 1360 og 1389-90 og um hraun, sem runnið hafi niður í Selvog 1340 . Líkur eru til að það, sem nú er nefnt Brennisteinsfjöll hafi áður fyrr verið nefnt Trölladyngjur, en sannanlega hefur þar verið eldvirkni mikil — og líka á sögulegum tíma og verður að því vikið síðar.
Ljóst er að Ögmundarhraun hefur runnið á sögulegum tíma þar eð það hefur runnið yfir bæ og hluti af rústum hans sést ennþá, en skráðar heimildir um það gos munu ekki vera fyrir hendi.

Gjóskusnið

Unnið við að sniðgreina gjóskulög í jarðvegssniði.

Vafalaust hafa skráðar heimildir um ýmsa atburði á þessum landshluta, þar á meðal eldgos, glatast í aldanna rás. Má í því sambandi minna á afdrif bóka Viðeyjarklausturs .
Nú hefur, eftir mismunandi leiðum, verið mögulegt að sýna fram á, að a. m. k. 12 eða 13 eldgos hafa átt sér stað á Reykjanesskaga frá því að norrænt landnám hófst hér.  Einkum eru það tvö öskulög, sem hafa haft mikla þýðingu í þessu sambandi, en þau eru landnámslagið frá því um 900.

Gjóskulög

Gjóskulög í jarðvegssniði.

Bæði eru þessi öskulög auðþekkt séu þau á annað borð sæmilega greinileg. Landnámslagið er tvílitt, ljóst að neðan en svart að ofan. Öskulagið frá Kötlu er svart og þykkara en nokkurt annað öskulag í jarðvegssniðum á þessu svæði ofar en landnámslagið.

Aldursákvarðanir
Aðferðum, sem notaðar hafa verið til þess að flokka aldur hrauna á Reykjanesskaga má skipta í 4 flokka:
1) Sögulegar heimildir.
2) Geislakolsákvarðanir, C14.
3) Öskulög.
4) Afstaða til hrauna með þekktan aldur.

Eins og áður er sagt, eru sögulegar heimildir um eldgos á þessum landshluta bæði mjög fátæklegar og auk þess svo ruglingslegar að vant er að vita hverju má treysta.

Bæjarrústirnar í Ögmundarhrauni tala sínu máli, en þar með eru sannanir á þrotum. Um vitnisburð annála er áður getið. Ákvarðanir aldurs gróðurleifa (C14) hafa reynst notadrjúgar þar sem þeim verður við komið. Öskulög með þekktan aldur hafa einnig verið mjög til hjálpar.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – kort.

Þegar Krýsuvíkureldar loguðu var aðalgosið árið 1151. Í því gosi opnaðist 25 km löng gossprunga, og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan er það Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krýsuvík sem stóð niður við sjávarbakkann.
Ögmundarhraun er runnið frá norðurhluta gígaraðar austan í Núpshlíðarhálsi og hefur meginhraunflóðið fallið milli Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsuvíkurberg.

Hér á eftir má sjá nokkrar umfjallanir um afmörkuð hraun:

Svínahraun — Kristnitökuhraunið
Kristnitökuhraun
Sýnt hefur verið fram á að yngsta hraunið austan við Hveradali getur ekki verið frá gosi því, er Kristnisaga getur um, ekki heldur hraunið úr Eldborg undir Meitli, er runnið hefur þannig, að það stefnið á Hjalla í Ölfusi og kemur að því leyti vel heim við söguna.

Eldborg

Edborg undir Meitlum.

Hins vegar er landnámslagið ofan á Eldborg, og mosakol undan hrauninu við Hveradali sýna að það er um 800 árum eldra en kristnitakan . Þetta leiddi til þess að gerðar voru athuganir á yngsta hrauninu milli Lambafells og Bláhnúks, en það er augljóslega yngra en það, sem talið var vera Kristnitökuhraunið. Kom brátt í ljós að landnámslagið er undir þessu hrauni, en Kötlulagið frá um 1495 ofan á því (. Endurteknar athuganir í óbrennishólmanum í Svínahrauni leiddu í ljós, að ekki verður greindur minnsti vottur af jarðvegi eða gróðurleifum milli öskulagsins og hraunsins. Það, sem hér er nefnt Svínahraun, er hraunið úr Nyrðri Eldborg, en hraunið úr Syðri Eldborg er nefnt Lambafellshraun. Það hraun er eitthvað yngra, en talið vera nær samtíma, þ. e. úr sömu goshrinu. Þó er þetta enn ekki sannað mál. Bæði þessi hraun ná yfir 11,9 km2 svæði) og teljast um 0,24 km Þetta eru ólivínþóleíthraun og innihalda rösklega 14% ólivín.

Rjúpnadyngnahraun

Rjúpnadyngjuhraun

Rjúpnadyngjuhraun.

Í nær miðjum Húsfellsbruna milli Þríhnúka og [Húsfells] er eldstöð, sem mjög lítið ber á, en nefnist Rjúpnadyngjur. Húsfellsbruni er örnefni, sem nær til margra hrauna, sem flest eru runnin fyrir landnám, en einnig eru þar yngri hraun. Naumast verður það talið, að augljóst sé við fyrstu sýn, að Rjúpnadyngjur séu eldvörp.

Jón Jónsson

Jón Jónsson; jarðfræðikort – Rjúpnadyngjuhraun og nágrenni.

Þarna er óvenju stórbrotið hraun með djúpum sprungum og illfærum gjám. Eitt hringlaga niðurfall er á þessu svæði og er talið líklegast að það sé yfir uppvarpinu. Gjall kemur aðeins fyrir á litlum hól miðsvæðis. Við nánari athugun sést að þarna er um eldstöð og um dæmigert hraungos að ræða, en yngri hraun hafa runnið upp að henni sunnan frá og verið langt komin með að færa hana í kaf. Hraun frá Rjúpnadyngjum hefur runnið norður og norð-vestur.
Nyrsti tangi þess endar í allhárri brún rétt austan við Búrfell og hefur þar runnið út á Búrfellshraun. Leysingavatn hefur grafið dálítinn farveg meðfram hraunröndinni norðaustur af Búrfelli og þar reyndist mögulegt að grafa inn undir hraunið. Komu þá í ljós bæði öskulögin, sem áður var minnst á.
Landnámslagið liggur inn undir hraunið, en svarta Kötlulagið er ofan á því. Þar með er ljóst að þarna hefur gosið eftir 900. Annað, sem sannar þetta, er að hraunið hefur á einum stað runnið út á Tvíbollahraun, en það var áður aldursákvarðað (sjá síðar). Gróðurleifar undir þessu hrauni eru afar fátæklegar og því hefur enn ekki verið hægt að koma C14 athugunum við.

Kóngsfellshraun

Stóri-Bolli

Stóri-Bolli, Kóngsfellsgígur, í Kóngsfelli.

Vestan við Stóra Kóngsfell er stutt gígaröð, sem nær upp í fellið og er á sprungu, sem gengur gegnum það. Þarna hafa einkum tveir gígir verið virkir. Hraunið hefur runnið báðum megin við Kóngsfell norður og niður á við. Það hefur runnið upp að Rjúpnadyngjum og báðum megin við þær og er því yngra en sú gosstöð og þar með frá sögulegum tíma. Nánari aldursákvörðun á þessu gosi liggur ekki enn fyrir.

Breiðdalshraun

Breiðdalur

Breiðdalur.

Á Brennisteinsfjöllum er feiknamikil eldstöð. Það hraun, sem til norðurs rann, er dæmigert helluhraun.

Brennisteinsfjöll

Útsýnið að Brennisteinsfjöllum úr Kistuhrauni (ÓSÁ).

Unun er að ganga þessar svörtu klappir, sem bjóða upp á hin furðulegustu mynstur í formi straumgára, fellinga og hraunreipa. Það hefur runnið í fremur mjóum straumi norðvestur fjallið milli eldri hrauna og fallið í bröttum fossi ofan í Fagradal, þar sem það hefur hrifið með sér stór björg og steina úr brúninni og liggja þeir nú í tugatali ofan á hrauninu í dalnum, meðal grjóts sem síðar hefur hrunið úr fjallinu út á hraunið. Það hefur svo haldið áfram allt að Undirhlíðum og loks staðnæmst í Breiðdal og þekur allan dalbotninn með sléttu hrauni. Þar sem það fellur niður í dalinn austan við Breiðdalshnjúk er það örþunnt. Leysingavatn hefur þar grafið sér farveg meðfram því og nokkuð inn undir rönd þess. Þar má sjá jarðveg þann, sem hraunið rann yfir og finna leifar þess gróðurs, sem þar var þá og raunar liggja þær gróðurleifar í sjálfu landnámslaginu. Liggur því tvöföld sönnun fyrir aldri þessa hrauns, enda gaf C” ákvörðun um ár 910. Meðal gróðurleifa virtist vera beitilyng, víðir, bláberjalyng og einír, en þetta allt vex á staðnum enn í dag.

Gráfeldur á Draugahlíðum

Gráfeldur

Gráfeldsgígur í Draugahlíðum.

Skammt eitt austan við hina fornu brennisteinsnámu, sem raunar mun hafa gefið þessum fjallaslóðum nafn, rís á fjallsbrún hár og brattur gígur, nefnt Gráfeld. Hljóti það nafn viðurkenningu, skal hraun þetta Gráfeldshraun heita,

Gráfeldur

Gráfeldur – loftmynd.

Þessi gígur er á sprungu og smágígir eru vestan við hann. Auðsætt er að hann hefur þegar í upphafi tekið völdin og sent hraunflóð mikið niður í dalinn, þar sem fleiri hraun voru þegar fyrir og fylla hann nú fjalla milli. Meðal þeirra er áðurnefnt Breiðdalshraun, sem hverfur inn undir þetta hraun, sem þannig örugglega er yngra, enda yngst í dalnum og samkvæmt þessu frá sögulegum tíma. Annálar geta þess að hraun hafi runnið niður í Selvog 1340 og 1389 . Mjög trúlegt sýnist að Selvogshraun sé frá öðru hvoru þessu gosi, en vel gætu hafa orðið enn fleiri gos í Brennisteinsfjöllum á sögulegum tíma og vafalaust hafa bæði þessi gos orðið þar, en tímasetning er óljós. Hraunið hefur fallið fram af Herdísarvíkurfjalli við Hlíðarvatn, en staðnæmst neðan við brekkurætur aðeins norðan við núverandi þjóðveg. Hraun það er fallið hefur niður í Kleifarvatn sunnanvert og Hvammahraun nefnist er mjög ungt og gæti jafnvel verið frá sögulegum tíma.

Tvíbollahraun

Tvíbolli

Tvíbollar.

Við Grindaskörð eru gígaraðir á sprungubelti og hefur þar verið mikil eldvirkni. Meðal þessara gíga eru Tvíbollar, en það eru gígir tveir, sem gnæfa á norðurbrún fjallsins .

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Eins og nafnið bendir til eru gígir þessir samvaxnir og sést það vel neðan úr byggð. Aðalgígurinn er 40 – 60 m hár en minni gígurinn tæplega þriðjungur þess. Gígirnir eru hlaðnir úr gjalli og hraunkleprum og hraunstraumurinn hefur fallið norður og mest um undirgöng, sem enn má sjá. Lengst norður nær hraun þetta að Helgafelli og hefur runnið í örþunnum straumi vestur með því að sunnan en hverfur loks undir Gvendarselshraun við suðvesturhornið á fellinu. Rétt þar hjá hefur leysingavatn grafið fornan jarðveg undan hrauninu svo það hefur á kafla fallið niður. Kemur við það í ljós jarðvegslag, sem er rösklega 1,2 m þykkt og í því m. a. eitt ljóst öskulag, sem talið er að sé H3 (frá Heklu fyrir 2.800 árum), en næst hrauninu eru kolaðar gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst 1075±60 C'4 ár, en það þýðir að hraunið gæti hafa runnið árið 875 og er því frá sögulegum tíma. Jafnframt fannst landnámslagið undir þessu hrauni, aðeins ofan við áðurnefnt niðurfall. Þrjú hraun hafa síðar runnið út á þetta hraun og eru því yngri, en þau eru Rjúpnadyngnahraun, Kóngsfellshraun og svo það litla hraun, sem næst verður fjallað um í þessari grein.

Gvendarselshraun

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Norðurendi Undirhlíða er nefndur Gvendarselshæð. Hún endar við Kaldárbotna. Austan í hæðinni gegnt Helgafelli er gígaröð, nefnt Gvendarselsgígi. Þeir eru á misgengi því, sem liggur eftir endilöngum Undirhlíðum, klýfur Kaldárhnúk, myndar vesturbrún Helgadals og klýfur Búrfellsgíginn um þvert og heldur áfram um Heiðmörk.

Gvendarselsgígar

Gvendarselsgígaröðin og Gvendarselshraun.

Hraun frá þessari litlu gígaröð þekur allt svæðið milli Gvendarselshæðar og Helgafells. Víðast er það dæmigert helluhraun. Það hefur runnið niður í Kaldárbotna að norðaustan í smátotu, sem hangir þar níður, en hefur staðnæmst neðan við hjallann. Annar straumur hefur fallið vestur um skarðíð milli Kaldárbotna og Hlíðarhorns og nær nokkuð vestur fyrir Kaldársel. Vestast er það svo þunnt að talsverða nákvæmni þarf til þess að rekja ystu mörk þess. Þriðja hraunkvíslin hefur svo fallið um Kýrskarð við suðurenda megin gígaraðarinnar, og út á Óbrinnishólahraun, og myndar smá hraunbleðil vestan undir hæðinni. Eins og áður er sagt hverfur
Tvíbollahraun inn undir Gvendarselshraun við suðurenda Helgafells. Gvendarselshraun er því yngra undir hraunið syðst og fundum þar bæði landnámslagið og gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst vera frá því um 1075.

Nýjahraun — Kapelluhraun

Kapelluhraun

Kapelluhraun – loftmynd.

Eins og áður er sagt bendir upprunalegt nafn þessa hrauns ótvírætt til þess að það hafi orðið til á
sögulegum tíma. Um aldur þess hefur að öðru leyti ekki verið vitað. Í sambandi við rauðamalarnám við gígina, sem hraunið er komið úr, opnaðist möguleiki til þess að komast að jarðvegslögum undir því og ná þar í kolaðar gróðurleifar. Þar voru tekin alls 3 sýni á jafnmörgum mismunandi stöðum. Aldursákvarðanir á þeim sýndu að gosið hafi þarna um 1005. Þrátt fyrir þær skekkjur, sem loða við
þessar aldursákvarðanir er með þeim staðfest að hraunið er frá sögulegum tíma og næsta ljóst að gosið hafi orðið snemma á 11. öld.

Ögmundarhraun

Latur

Latur í Ögmundarhrauni.

Ekki er kunnugt um uppruna nafnsins á hrauni þessu, en langt er síðan að ljóst var að það hafði runnið á sögulegum tíma. Það sanna rústir bæjar, sem eyðst hafði í gosinu. Ögmundarhraun er komið úr gígaröðum austan í og austanundir Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi).

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Samanlögð lengd þessara gígaraða er nær 5 km. Næsta ljóst er að allar hafa þær verið virkar aðeins í byrjun gossins, en fljótlega hefur hraunrennslið færst yfir í, einkum þrjá gígi, nálægt austurenda gígaraðarinnar og þaðan hefur megin hraunflóðið runnið suður dalinn milli Krýsuvíkurmælifells og Latsfjalls alla leið í sjó fram. Þarna hefur það farið yfir gróið land og eyðilagt a. m. k. eitt býli eins og rústirnar sanna, en vel gætu þau hafa verið fleiri og raunar ekki ólíklegt að svo hafi verið . Hraunið hefur fallið í sjó fram á um 7,5 km strandlengju og hugsanlegt gæti verið að þar hafi sú vík verið, sem Krýsuvík er kennd við — sé það á annað borð nauðsynlegt að skýra nafnið svo – og hafi hraunið
fyllt hana. Um þetta skal ekkert fullyrt. Lengi hefur því verið haldið fram að þetta gos hafi orðið árið 1340. Þetta ártal er komið frá Jónasi Hallgrímssyni, en ekki getur hann heimilda fyrir því.
Því má aðeins bæta við hér að engar mannvistarleifar er að finna í tveim smá óbrennishólmum ofar í hrauninu. Þess skal hér einnig getið að svo virðist sem Ögmundarhraun, Nýjahraun (Kapelluhraun) og Gvendarselshraun hafi öll orðið í einni goshrinu, sem þá hafi orðið á fyrri hluta 11. aldar. Því má svo bæta við, að vel gætu fleiri gos hafa orðið um svipað leyti eða samtímis víðar á Reykjanesskaga

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun.

Hraun þetta hefur komið upp í tveim gígum og ber sá þeirra sem hæstur er nafnið Arnarsetur.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun.

Hraunið hefur ótvíræða dyngjulögun, einkum séð vestan frá, en bergfræðilega er það skyldara sprunguhraunum. Þetta hefur verið allmikið gos. Hraunið þekur sem næst 22 km2 og telst samkvæmt því 0,44 km en sennilega er sú tala talsvert of lág því hraunið er greinilega mjög þykkt á stóru svæði kringum eldvarpið. Eldra hraun, sem aðeins sést í smá óbrennishólma bendir til þess að áður hafi gosið á þessum sama stað. Í sambandi við jarðfræðikortlagningu kom í ljós að Arnarseturshraun hlaut að vera yngst allra hrauna á þessu svæði. Það vakti grun um að það gæti verið frá sögulegum tíma.
Út frá þeím skráðu heimildum, sem til eru, virtist liggja beinast fyrir að ætla að gos þetta hafi orðið 1660 og sé það, sem getið er um í annál Gunnlaugs Þorsteinssonar fyrir árið 1661, Vallholtsannál, (Annálar 1400-1800) sem getur um eldgos í Grindavíkurfjöllum þetta ár.

Eldborg við Trölladyngju

Eldborg

Eldborg við Trölladyngju.

Þess skal og getið að gos það er orðið hefur rétt norðan við Trölladyngju og myndað gíginn Eldborg sýnist hafa orðið um líkt leyti og Afstapahraun rann.
Vel gætu þessi gos bæði hafa verið svo að segja samtímis og mætti þá raunar um það deila hvort um er að ræða eitt gos eða tvö. Einar Gunnlaugsson (1973) fann öskulag ofan við landnámslagið í Hörðuvallaklofa og er líklegt að það sé af þessum slóðum komið. Ekki verður hins vegar í það ráðið hvort það kann að vera úr Eldborg eða öðru eldvarpi í nágrenninu.

Traðarfjöll

Reeykjanes

Dásemdir Reykjanesskagans má í dag finna víða, þökk sé jarðvánni….

Í jarðfræði Reykjanesskaga (eftir Jón Jónsson 1978,) er eldstöðvum á þessu svæði nokkuð lýst og hraunið nefnt Traðarhraun, en réttara væri e. t. v. að nefna það Traðarfjallahraun. Þegar vegur var lagður gegnum Reykjanesfólkvang var hann skorinn inn í gíg sunnan í Traðarfjöllum. Við það kom í ljós allþykkt moldarlag undir gjallinu og reyndist þar auðvelt að grafa fram jarðvegssnið, sem nær frá því og niður á fast berg, sem þarna er móberg.

Traðarfjöll

Traðarfjöll – loftmynd.

Undir gjallinu er fyrst 9 cm þykkt moldarlag en þá kemur ljósleitt (nánast gulleitt) öskulag, sem ekki getur annað verið en landnámslagið margumtalaða. Sýnir þetta að þarna hefur gosið, að líkindum þó nokkru eftir árið 900 þar eð um 9 cm jarðvegur hefur verið kominn ofan á öskulagið áður en gosið varð. Vel gæti þetta hafa verið um sama leyti og Ögmundarhraun rann, þótt ekkert sé um það hægt að fullyrða. Eins og teikningin sýnir er annað ljóst öskulag neðar í sniðinu og ætti það samkvæmt reynslu að vera H3. Ekki hefur enn gefist tími til að rekja útbreiðslu hraunsins frá þessu gosi, enda er það ekki auðvelt. Hitt er ljóst að með þessu bætist við enn eitt gos, sem örugglega hefur orðið á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Þykir þetta renna enn einni stoð undir það að meiriháttar goshrina hafi þar orðið snemma á landnámsöld. Ekki var mögulegt að greina neinar gróðurleifar undir gjallinu. Nægilega mikið loft hefur þarna komist að til þess að gras hefur brunnið til ösku en ekki kolast. Því má bæta hér við að þar eð svona þykkt jarðvegslag er komið ofan á landnámslagið, gæti þetta verið það gos sem Jónas Hallgrímsson talar um og Þorvaldur Thoroddsen (1925) vitnar í. Gæti þetta verið skýringin á því að ártalið 1340 hefur verið tengt Ögmundarhrauni.

Nöfn á hraunum á Reykjanesskaga.
1. Rjúpnadyngjuhraun
2. Húsfellsbruni
3. Tvíbollahraun (Hellnahraun eldra)
4. Grindaskarðahraun (Hellnahraun yngra)
5. Þríhnúkahraun
6. Þjófakrikahraun (Eyrahraun)
7. Kristjánsdalahraun
8. Hellur
9. Markrakahraun (Hellnahraun yngra)
10. Dauðadalahraun (Hellnahraun eldra)
11. Skúlatúnshraun (Hellnahraun eldra)
12. Búrfellshraun
13. Flatahraun (Búrfellshraun)
14. Selgjárhraun (Búrfellshraun)
15. Svínahraun
16. Urriðakotshraun (Búrfellshraun)
17. Vífilsstaðahraun (Búrfellshraun)
18. Stórakrókshraun (Búrfellshraun)
19. Garðahraun (Búrfellshraun)
20. Gálgahraun (Búrfellshraun)
21. Klettahraun (Klettar)
22. Mosar (Eldborgarhraun)
23. Smyrlabúðahraun (Búrfellshraun)
24. Gjárnar (Búrfellshraun)
25. Norðurgjár (Búrfellshraun)
26. Seljahraun
27. Gráhelluhraun (Búrfellshraun)
28. Lækjarbotnahraun (Búrfellshraun)
29. Stekkjahraun (Búrfellshraun)
30. Sjávarhraun
31. Hörðuvallahraun (Búrfellshraun)
32. Hafnarfjarðarhraun (Búrfellshraun)
33. Helgafellshraun (Stórabollahraun)
34. Kaldárhraun (Búrfellshraun)
35. Brunahryggur
36. Óbrinnishólabruni
37. Arnarklettabruni
38. Stórhöfðahraun (Hellnahraun yngra)
39. Kornstangarhraun
40. Selhraun (Eldra Afstapahraun)
41. Hellisdalshraun
42. Hellnahraun
43. Leynidalahraun
44. Hvaleyrarhraun (Hellnahraun eldra)
45. Hraunhólshraun
46. Nýjahraun
47. Háibruni
48. Bruni (Kapelluhraun/Nýjahraun)
49. Hrauntungur (Hrútagjárdyngjuhraun)
50. Brenna
51. Kapelluhraun (Nýjahraun/Bruninn)
52. Snókalönd (Hrútagjárdyngjuhraun)
53. Hrútadyngjuhraun
54. Almenningur (Hrútagjárdyngjuhraun)
55. Hólahraun
56. Sauðabrekkuhraun (Sauðabrekkugígar)
57. Fjallgrenshraun (Sauðabrekkugígar)
58. Brundtorfuhraun (Brunntorfuhraun)
59. Hafurbjarnarholtshraun (Hrútagjárdyngjuhraun)
60. Stórhólshraun
61. Eyjólfsbalahraun
62. Bringur (Hvammahraun)
63. Einihólshraun
64. Merarhólahraun
65. Rauðhólshraun (Kapelluhraun)
66. Tóhólahraun (Hrútagjárdyngjuhraun)
67. Þúfuhólshraun
68. Sléttahraun (Búrfellshraun)
69. Laufhólshraun (Hrútargjárdyngjuhraun)
71. Meitlahraun (Eldborgarhraun)
72. Bekkjahraun (Hrútargjárdynguhraun)
73. Brenniselshraun (Hrútagjárdyngjuhraun)
74. Katlar (Hrútagjárdyngjuhraun)
75. Draughólshraun (Hrútagjárdyngjuhraun)
76. Flár (Hrútagjárdyngjuhraun)
77. Rauðamelshraun (Hrútagjárdyngjuhraun)
78. Ögmundarhraun
79. Katlahraun (Moshólshraun)
80. Leggjabrjótshraun (Höfðagígahraun)
81. Beinavörðuhraun (Sunhnúkahraun)
82. Illahraun
83. Bræðrahraun og Blettahraun (Eldvarparhraun)
84. Eldvarparhraun
85. Stampahraun
86. Eldvörp
87. Þríhnúkahraun
88. Hellisheiðarhraun
89. Eldborgarhraun
90. Eldborgahraun
91. Hnúkahraun
92. Dauðadalahraun (Hnúkahraun)
93. Kistufellshraun
94. Draugahlíðahraun
95. Heiðin há
96. Leitarhraun
97. Þurárhraun
98. Astapahraun
99. Kálffellshraun

Heimild:
-https://redlion.blog.is/blog/redlion/

Eldgos

Eldgos á Reykjanesskaga – Geldingadalur mars 2021.

Ólafsskarðsvegur

Gengið var um Svínahraunsbruna milli Blákolls og Lambafellshnúks.

Eldborg

Eldborgin syðri í Svínahrauni.

Mikilli hrauntröð var fylgt upp hraunið, áleiðis að Eldborginni nyrðri. Hún blasti við framundan, há og tignarleg. Þaðan frá séð er hún líkari mosagrónu fjalli, en þegar hrauntröðinni var fylgt áleiðis austur fyrir hana kom eldfjallalagið betur í ljós. Slóði liggur upp að gígnum og hefur verið krukkað í hann að norðanverðu. Reykjavegurinn liggur upp með gjárbarminum að austanverðu, að Eldborginni og áfram til suðurvesturs, að gígnum Leiti undir austanverðum Bláfjöllum. Lambafellið sést vel í austri og Sauðadalshnúkarnir í vestri.

Kristnitökuhraun

Eldborgin syðri og gígurinn Leiti efst í Svínahrauni.

Gengið var upp á Eldborgina. Í henni eru tveir stórir gígar, hvorum öðrum myndarlegri. Frá brúnum þeirra sést hrauntröðin vel þar sem hún liðast niður hraunið. Ofar sést Eldborgin syðri, tilkomumikil.

Leitarhraun

Leitarhraun – uppdráttur.

Á milli Eldborganna er eldra hraun, Leitarhraunið, og sést Leiti vel undir brúnunum. Gígaröð liggur milli Eldborganna, mynduð af fremur litlum gígum og eru þeir flestir ofan við nyrðri Eldborgina. Í einum þeirra er gat niður, um tveggja mannhæða hátt. Forvitnilegt væri að skoða niður í það við tækifæri. Fjölmörg vatnsstæði er í grónum hraunbollum Leitarhrauns, sem er 5000 ára um þessar mundir.

Eldborgir

Hrauntröð norðan Eldborga.

Leitarhraun, sem ásamt ýmsum yngri hraunum (Hólmsárhraunum) gengur einnig undir nafninu Elliðaárhraun, einkum vestan til. Það verður rakið óslitið frá Draugahlíðum niður í Elliðaárvog. Hefur það breiðst víða út, svo sem um Sandskeið og norðvestur yfir Fóelluvötn; heita þar Mosar.

Einnig hefur hraunið runnið til austurs og niður á láglendi í Ölfusi, Hraunsheiði, og líklega í sjó í Þorlákshöfn. Í þessari álmu hraunsins eru tveir af stærstu hellum landsins, Raufarhólshellir og Búri. Annars staðar í hrauninu eru nokkrir smáhellar, svo sem hjá Vatnaöldum. Allvíða eru gervigígar í Leitahrauni, en merkastir eru Rauðhólar.

Eldborg

Hrauntröð.

Suðurlandsvegur liggur á löngum kafla á Leitahrauni, frá Elliðaám að Draugahlíðum. Einnig liggur Þrengslavegur á hrauninu, frá Þrengslum og niður í Ölfus. Frá Draugahlíðum að Þrengslum liggur vegurinn á Svínahraunsbruna en það eru tvö apalhraun sem komið hafa upp á sögulegum tíma í Eldborgum vestan Lambafells og liggja ofan á Leitahrauni. Annað þessara hrauna hefur verið nefnt Kristnitökuhraun.
Þegar komið var upp á syðri Eldborgina sást mikill ílangur gígur. Hraunið frá gígnum hefur mest runnið til austurs og beygt síðan til norðurs, vestan við Lambafellsháls. Ofan við hann sést Lambafellið og ennþá fjær.

Geitafell

Geitafell.

Í suðri stendur Geitafellið staðfast. Í hrauninu austan við Eldborgina sást í stórt gat. Þegar það var skoðað kom í ljós endi lítillar hrauntraðar. Í enda hennar er skúti og inn úr honum liggur rás. Hún var ekki skoðuð að þessu sinni. Fara þarf á fjórum fótum inn eftir rásinni, en ekki er vitað hvað þar kann að leynast inni.

Ólafsskarð

Ólafsskarðsvegur austan Geitafells – vörðukort (ÁH).

Gengið var upp á Ólafsskarðsveginn milli Eldborgarinnar syðri og Bláfjalla. Leiðin er vörðuð. Barmar Leitisins eru allháir, enda mikið hraun úr því komið. Mest af því hefur runnið til austurs og suðurs, en mjó ræma rann til norðvesturs, alla leið til sjávar í Elliðaárósum. Renna Elliðaárnar um það á kafla.

Eldborg

Eldborgin nyrðri í Svínahrauni.

Neðan við Leiti liggur vörðuð leiðin inn fyrir þau með austanverðum Bláfjallabrúnunum. Ólafsskarðsvegurinn heldur áfram áleiðis að Ólafsskarði, sem sést vel framundan, milli Sauðdalshnúka og Ólafsskarðshnúka. Neðan við Leiti er önnur leið vörðuð niður Lambafellshraunið, áleiðis að Sandfelli og niður með austanverðum Krossfjöllum þar sem eru gatnamót, annars vegar götu að Breiðabólstað og hins vegar að Hjalla. Þá sést og í A-laga skátaskála uppi í fyrrnefndu hnúkunum. Austan við skarðið er gamall skíðaskáli, en þegar kíkt er niður skarðið að vestanverðu, niður í Jósepsdal, má sjá leifar af gamalli skíðalyftu og fleira.

Ólafsskarð

Ólafsskarð – skíðaskáli.

Dalverpi suðaustan undir Vífilsfelli. Jósepsdalur er undir Ólafsskarði en um það var gömul alfaraleið úr Ölfusi til Reykjavíkur. Samkvæmt munnmælum átti tröllkona að hafa búið þar í helli fyrr á öldum.

Þjóðsaga um Jósepsdal hermir að í dalnum hafi búið maður sá er Jósep hét og verið smiður mikill. Hafði hann svo óguðlegan munnsöfnuð, blót og formælingar, að bærinn sökk.
Eftir að hafa skoðað skálann var gengið niður Leitarhraunið, að upphafsstað.

Jópsepsdalur

Jósepsdalur.

Á leiðinni var frábært útsýni yfir að Eldborgunum og fjöllunum umhverfis.
Kristnitökuhraunið svonefnda er rann um 1000 er talið vera úr þessum Eldborgargígunum. Þarna hefur gosið á sprungurein og endagígarnir verið sýnum stærstir. Svo virðist sem gosið hafi lengur, eða síðar, úr syðri Eldborginni því hraunið úr henni virðist liggja utan í og yfir hinu mikla hrauni, sem komið hefur úr megineldgígunum í nyrðri Eldborginni. Gígarnir tveir eru með fallegri hraungígum á Reykjanesskaganum.

Leiti

Leiti.

Ólafsskarðsvegur er nefndur eftir samnefndum bryta í Skálholti. Í frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi segir að einni sinni hafi lyklakippa Skálholtsstaðar týnst, og fannst hún hvergi. Varð að smíða aðra lykla. Leið síðan fram, þangað til 12 ár voru liðin og lyklatapið farið að gleymast, þá fundust lyklarnir í Lyklafelli hjá Fóelluvötnum. Kom þá upp hið sama, að ráðsmaður (eða bryti) staðarins hafði haft lyklana á sér, er hann reið í Reykjavíkurkaupstað, og hafði týnt þeim í fellinu, er hann áði.

Austurleið

Austurleið sunnan Lyklafells.

Um Lyklafell fjallar og þekkt þjóðsaga af sama meiði. Hún er um nefndan Ólaf bryta í Skálholti. Á að hafa soðið upp úr milli hans og ráðskonunnar á staðnum. Hún var ótúlegt skass og skaut honum svo skelk í bringu að hann lagði á blindan flótta og nam ekki staðar fyrr en við Lyklafell og kastaði þar búrlyklunum. Síðan hélt hann um Ólafsskarð upp úr Jósefsdal Ólafsskarðveg og heitir skarðið eftir honum. Steðjaði hann austur sýslur á Fjallabaksleið syðri. Við Brytalæki á Fjallabaksleið austanverðri datt hann dauður niður.

Frábært veður – milt og hlýtt. Gangan tók 3 klst og 33 mínútur.

Eldborgir

Eldborgir – loftmynd.

Eldborgir

Af og til hafa verið unnar skemmdir á náttúruverðmætum Reykjanesskagans. Áður fyrr voru það einkum vegargerðarmenn og landeigendur en í seinni tíð hafa orkufyrirtækin verið stórtækust í eyðileggingunni. Raunar er fyndið að heyra fólk tala um að gufuaflsvirkjanir “valdi minni eyðileggingu” en fallvatnsvirkjanir. Þetta er svona álíka gáfulegt og halda því fram að hver sá sem orðið hefur fyrir skaða geti þakkað fyrir að skaðinn varð ekki meiri. Best er að enginn verði skaðinn þegar hægt er að koma í veg fyrir hann.

EldborgFallegir gjall- og klepragígar svo og önnur verðmæt svæði, sem eyðilögð hafa verið á svæðinu eru allnokkur. Má þar nefna Moshól undir og vestan Núpshlíðarhorns, sem Krýsuvíkurvegurinn var lagður í gegnum. Jón Jónsson, jarðfræðingur, taldi hann einn merkilegastan slíkra á landinu. Í honum var t.a.m. hægt að sjá þverskurð myndunarinnar. Eldborg norðan Höskuldarvalla er ágætt dæmi um eyðilegginguna, hluta Rauðhóls við Afstapahraun, minjar í Herdísarvíkurhrauni austanverðu, Rauðhóla við Suðurlandsveg (sem voru gervigígar), gíg austan Hesthúsabrekku við Grindavíkurveg, Hraunhóla undir Vatnsskarði, Óbrennishóla við Bláfjallaveg og Litlu-Eldborg undir Geitahlíð, auk síðustu skemmdarverkanna á gígum Hellisheiðarinnar. Hægt er að fullyrða hér og nú að í öllum tilvikum hefði verið hægt að komast hjá eyðileggingunni og að þau verðmæti, sem þar fóru forgörðum, hefðu nú þegar margfaldast í “verði”. En því miður er það nú svo að enn er líkt með allt of mörgum og verktakanum er greinir frá í fréttinni hér á eftir.
Í Mbl. föstudaginn 16. ágúst árið 1968 er frétt með fyrirsögnina “Skemmdir á fallegum gíg á Hellisheiði – Náttúrvernadrráð stöðvar framkvæmdir”.
Í fréttinni kemur fram að “framtakssamur maður úr Ölfushreppi fékk fyrir nokkru leyfi hreppsins til að taka möl úr eldgígnum Nyrðri-Eldborg, sem er milli Bláfjalla og Lambafells á Hellisheiði. Gígur þessi er hinn fegusti og er Náttúrverndarráð komst á snoðir um hvað gera átti, voru gerðar ráðstafnir til þess að koma í veg fyrir skemmdir á gígnum en því miður virðist það orðið of seint. Hefur verið farið yfir norðurhlið gígsins með jarðýtu og skafinn mosinn ofan af og vegur verið lagður upp í miðja hlíðina.

EldborgBlaðamanni Morgunblaðsins gafst í dag tækifæri til þess að fara með dr. Þorleifi Einarssyni, jarðfræðingi, upp í Svínahraun til þess að skoða þær skemmdir, sem orðið hafa á gígnum Eldborg. Milli Bláfjalla og Lambafells lá nýrudd slóð út af þjóðveginum og stór mannlaus jarðýta við vegamótin. Ókum við 3 kílómetra upp eftir slóðinni unz við komum að gígnum.
Þorleifur, sem þekkir jarðfræði Hellisheiðar manna bezt, benti á það á leiðinni, að slóðin hefur verið lögð á brún hrauntraðar, sem hraunið úr Eldborg rann um og væri þessi hrauntröð ein fallegasta sinnar tegundar hér á landi. Var hún frá slóðinni að sjá sem djúpur árfarvegur og var botninn sem hvítfreyðandi á yfir að líta. Sagði Þorleifur, að þessi slóð væri ljótt ör á þessu fallega landslagi.
Er að gígnum kom, var ljótt umhorfs. Gígurinn er tvöfaldur og hefur hraunið komið þar upp úr nyrðri gígnum. Brattar hliðar gígsins hafa á undanförnum öldum náð að verða mosagrónar, en nú er stór svartur blettur á þeirri hlið gígsins, sem að þjóðveginum snýr. Þar hefur greinilegt verið farið yfir með jarðýtu nýlega og mosinn skafinn ofan af. Sárið var mjög nýlegt og að því er virðist ekki eldra en frá því í gærmorgun. Auk þess að mosinn hefur verið skafinn af hlíðinni hefur verið ruddur slóði upp í miðja hlíð.
Eldborg Er þorleifur skoðaði verksummerki á staðnum, varð honum að orði, að hann skildi ekki hver ætlunin hefði verið með því að gera þetta jarðrask. Þeim, sem þarna ætlaði að taka möl, hlyti að hafa verið kunnugt um, að gjall væri í gígnum og því væri ekki unnt að sjá hver ætlun hans hefði verið með því að spilla hlíðinni, því enn væri vegarslóðinn að gígnum ekki orðin bílfær. Sagði Þorleifur, að verk þetta hlyti að hafa verið unnið af óvitaskap.
Dr. Finnur Guðmundsson sagði í gær, aðð Náttúrverndarráð hefði komist á snoðir um það, sem frra, fór í Eldborg fyrir fáeinum dögum. Hefði þá þegar verið hringt til sýslumanns Árnessýslu og oddvita Ölfushrepps og um leið rætt við eiginkonu mannsins, sem fyrir framkvæmdunum stóð, því ekki hefði verið unnt að ná tali af honum sjálfum. hefði svo um samizt, að ekki yrði haldið áfram framkvæmdum næstu tvo eða þrjá daga, þar til Náttúruverndarráð hefði haldið fund um málið.
Í gær sagði dr. Finnur svo, að haldinn hafi verið fundur í Náttúruverndarráði og hefði verið ákveðið á þeim fundi að friðlýsa staðinn eins og ráðinu er heimilt samkvæmt lögum. Sendi ráðið skeyti sýslumanni Árnessýslu, formanni náttúruverndarnefndar sýslunnar og oddvita Ölfushrepps og tilkynnti um ákvörðun sína.
Að lokum gat dr. Finnur Guðmundsson þess, að ef rétt reyndist, að jarðraski hefði verið haldið áfram eftir að Náttúruverndarráði var gefinn frestur til þess að halda fund um málið, teldi hann það vísvitandi gerð náttúruspjöll og sér þætti mjög alvarlegt, ef ráðist hefði verið á hlíð gígsins í gærmorgun.
Eldborg Morgunblaðið náði í gær tali af Páli Hallgrímssyni, sýslumanni, sem sagði að sér hefði ekki verið kunnugt um framkvæmdir við Eldborg fyrr en dr. Sigurður Þórarinsson hefði hringt til sín í fyrradag. Hreppsnefnd Ölfushrepps hefði upphaflega leyft, að möl yrði tekin úr gígnum, og hefði verið vegna þess, að hún hefði álitið gíginn hverja aðra gjallhrúgu. Myndu á hinn bóginn hreppsnefndarmenn allir af vilja gerðir að stöðva framkvæmdir nú, er víst væri um miklvægi þess, að það yrði gert. Ekki kvaðst Páll hafa fengið skeyti Náttúruverndarráðs, en ef búið væri að friðlýsa staðinn, kæmi það væntanlega til sinna kasta, að sjá um, að því yrði framfylgt.
Morgunblaðið gerði í gær ráðstafanir til að ná tali af manni þeim, sem staðið hefur fyrir framkvæmdum við Eldborg, en á árangurs.”
Slóðinn, sem um getur í fréttinni er enn greinilegur – 38 árum seinna. Hann hefur reyndar verið nýttur talsvert í seinni tíð. Rask það er að honum laut á því enn við og rúmlega það. Gígsárið sjálft hefur hins vegar smám saman verið að gróa upp þó enn megi vel greina það í hlíðinni. Svona sár gróa upp á 60-100 árum. Það verður því að gaumgæfa vel allar framkvæmdir, jafnvel þær smærstu, er áhrif geta haft á umhverfið – til lengri tíma litið. Hér er ekki verið að halda því fram að engu megi raska. Einungis er verið að vara við vanhugsuðari röskun eða röskun án tilgangs.
Segja má að framangreind umfjöllun MBL fyrir 38 árum hafi komið í veg fyrir skemmdir á náttúruverðmætum. Í dag ríkir þögnin ein – og verðmæti glatast.

Heimildir:
-Mbl. 16. ágúst 1968.

Eldborgir

Litla-Kaffistofan

Litla-Kaffistofan neðan Draugahlíðar í Svínahrauni hefur löngum verið áningastaður ferðamanna. Hér verður drepið á ýmist er varpað getur ljósi á skammvæna sögu og tilgang þessa ágætis.  Helgarpósturinn árið 1985 segir m.a. frá kaffistofunni undir fyrirsögninni “Byrjaði nýtt líf í hrauninu“:

Litla-Kaffistofan
“Í Svínahrauni ofan við Sandskeið stendur yfirlœtislítið hús, margsinnis kaghýtt og barið í vetrarstormum og frosthörkum og jafnoft steikt í sumarsól eða baðað í steypiregni árstíðanna. Litla kaffistofan lœtur ekki mikið yfir sér. Hún hefur ekki gert sér tíðförult í sjónvarpsauglýsingarnar eða blöðin og margir þeir sem bruna í bílum sínum austur eða suður yfir Heiði gefa sér ekki tíma til að staðnœmast og líta inn. Samt er það einmitt í Litlu-Kaffistofunni sem menn geta fengið kaffi, kleinur og flatbrauð upp á gamlan og góðan máta — og látið líða úr sér ferðaþreytu ellegar notið um stund návígis við þá hrikalegu náttúru sem blasir við til allra átta.

Litla-Kaffistofan

Litla kaffistofan í Svínahrauni er um aldarfjórðungs gömul. Lengstum hefur hún verið þjónustustofnun fyrir sumarferðamenn, það hefur verið kynnt undir kaffinu og byrjað að steikja kleinur um svipað leyti og krían lendir á fósturjörðinni. En um skeið hafa nýir eigendur starfrækt áningarstaðinn árið um kring — þarna í Svínahrauninu miðju býr nú lítil fjölskylda og heldur opnu frá því í rauða bítið fram á síðkvöld, afgreiðir bensín og olíur til langferðamanna, býður uppá heitan sopa og gamaldags, íslenskt meðlæti. Litla-Kaffistofan er enginn grillbar uppá amerísku — kannski eina veitingastofan við Hringveginn sem býður tíðinni byrginn og heldur sínu striki.

Annríkið útrýmir einmanakenndinni

Litla-Kaffistofan

Litla-Kaffistofan – Kristbjörg Kristinsdóttir.

Kristbjörg Kristinsdóttir á og starfrækir Litlu-Kaffistofuna. Hún tók við rekstrinum af fyrri eigendum í september 1983, hreiðraði um sig í herbergjunum á bak við eldhúsið og veitingasalinn og bauð svo vegfarendur velkomna. Kristbjörg var í senn að byrja nýtt og óvenjulegt líf, fráskilin kona, fjögurra barna móðir austan af Seyðisfirði, komin í miðja hraunbreiðuna utan við höfuðborgina til þess að duga eða drepast.
„Fyrsta veturinn var ég hér ein með litlu stelpuna mína, hana Ásdísi. Það var vissulega harður, erfiður vetur. Ásdís var átta ára og fór með rútunni í skólann í Hveragerði á hverjum morgni, kom svo heim á kvöldin. Nei — ég fann ekki fyrir einmanakennd. Ætli annríkið hafi ekki komið í veg fyrir hana. Litla-Kaffistofan hefur jafnan verið mikið sótt af bílstjórum langferða- eða flutningabíla. Þeir vilja gjarna líta hér við, fá kaffi og flatköku með hangikjöti — og stundum hef ég eitthvað heitt handa þeim. Ég á orðið marga vini úr hópi bílstjóranna. Við sitjum stundum hér og skröfum. Það hlýtur að vera einmanalegt starf að aka stórum bíl um langan veg, stundum hafa þeir greinilega þörf fyrir að tala…”.

Í Tímanum árið 1990 er umfjöllun Agnars Óskarssonar;  “Kleinukot leitar eftir ríkisstyrk sem athvarf fyrir hrakta ferðamenn“:

Agnar Óskarsson

Agnar Óskarsson.

“Það fór aldrei svo að umræðuefni Þjóðarsálarinnar á Rás 2 snerist ekki um salerni, en svo gerðist einmitt nú í vikunni. Ástæða þess var sú að hneyksluðum ferðalangi, sem leggur leið sína yfir Hellisheiði á hverjum degi, þótti ansi hart að þurfa að eiga viðskipti við Litlu-kaffistofuna, eða Kleinukot eins og kaffistofan er oft kölluð, til að fá að nota salernið. Ástæða þessarar óskar eigenda Litlu-Kaffistofunnar er sú að þeir þurfa að flytja vatnið á staðinn frá Reykjavík, og það ekki minna en sjö til átta tonn á viku þegar mest er.
Að sögn Kristján Kristinssonar, eiganda Litlu kaffistofunnar, kostar það hann 1,50 að flytja hvern lítra vatns að kaffistofunni.
Tíminn aflaði sér upplýsinga um hversu mikið vatn færi í eina „niðurhalningu” á hefðbundnu salemi og reyndust það vera níu til ellefu lítrar í hvert skipti sem sturtað var niður. Kostar því hver klósettferð eiganda Litlu-Kaffistofunnar í það minnsta 15 krónur, ef miðað er við tíu lítra vatnskassa. Síðan má bæta við kostnaði vegna pappírsnotkunar og vatnsrennslis í handlauginni, því vert er að gera ráð fyrir að fólk þvoi sér enn um hendur að lokinni salemisferð.
Litla-KaffistofanHann sagði misjafnt hversu mikil vatnsnotkunin væri, en hún er heldur meiri yfir sumartímann. Kristján tók upp á því nú um áramót að setja upp orðsendingu þess efnis að salernin væru eingöngu ætluð viðskiptavinum. Aðspurður hvers vegna, sagði hann að það hafi verið farið að ganga fram af honum hvernig straumur var á salernin og kostnaðurinn því samfara. Þá var umgangurinn hreint ótrúlegur oft á tíðum, en nú eftir að hann hefur salernin fyrir viðskiptavini, þá hefur umgengnin breyst mikið til batnaðar.. „Þetta er orðin spurningin um það þegar fólk kemur hingað inn, fer á salernið og út aftur, hvers vegna á ég að vera að borga kostnað fyrir fólkið, eða réttara sagt hvers vegna á ég að vera að borga fólki fyrir að gera þarfir sínar,” sagði Kristján.

Litla-Kaffistofan

Litla-Kaffistofan.

Hvernig varð þér við þegar umræðan fór fram í Þjóðarsálinni? „Hún varð mér að mörgu leyti mikill léttir. Fólk gagnrýnir oft án þess að vita hlutina. Menn hafa komið og beðið um vatn á bílana. Þegar maður segir að það þurfi að borga fyrir það, þar sem ég þarf að flytja það úr bænum, þá reka menn oft upp stór augu og jafhvel rífa kjaft,” sagði Kristján.
En viti menn, Tíminn hafði ekki staldrað við á Litlu-Kaffistofunni nema í um 15 mínútur, einn morguninn nú í vikunni, er inn vatt sér ungur maður, er fest hafði bílinn sinn í einu fyrirstöðunni sem var á bílastæðinu við kaffistofuna og óskaði hann eftir smáaðstoð. Við því var orðið eins og góðum þegnum sæmir og bílnum ýtt úr „skaflinum”. Síðan var gengið inn og spjallinu haldið áfram við Kristján. Ekki var liðin nema mínúta, er sami maður kom inn á nýjan leik, gekk rakleiðis að salerninu, vatt sér inn og lokaði. Kom hann út skömmu síðar og hélt á braut. Það leyndi sér ekki undrunin hjá Kristjáni og Tímamönnum, enda þakkaði maðurinn ekki einu sinni fyrir sig.

Litla-Kaffistofan

Litla-Kaffistofan.

Almenningur gerir sér ef til vill ekki grein fyrir gildi þess að hafa áningarstaði sem Litla-Kaffistofan er við fjölförnustu þjóðvegi landsins. Þess er skemmst að minnast að fyrir skömmu þurfti fjöldi fólks að dveljast yfir nótt í Staðarskála í Hrútafirði, þar sem vegir í nágrenninu voru með öllu ófærir og Litla-Kaffistofan í Svínahrauni og eigendur hennar hafa oft komið ferðalöngum sem leið hafa átt um Hellisheiði til hjálpar. Kristján Kristinsson sagði að flestir væru sammála um að áningastaðir, eins og Litla-Kaffistofan er, hefðu mikið gildi. „Þegar það er brjálað veður og bílinn festist þá labbar maður ekki 20 kílómetra til byggða,” sagði Kristján. Hann sagði það oftsinnis hafa komið fyrir að fólk væri veðurteppt hjá honum í lengri eða skemmri tíma. „Það er raunar sérkennilegt að segja frá því, ekki lengra frá höfuðborginni, að það er þó nokkuð algengt að fólk komi hingað til að hringja á aðstoð eða til að fá hér aðstoð,” sagði Kristján. Hann hefur nú sótt um ríkisstyrk, vegna þess öryggis sem Kleinukot veitir ferðalöngum sem leggja á Hellisheiði yfir vetrartímann. Kristján sagðist hins vegar ekkert hafa heyrt af gangi þeirra mála og tíminn yrði að leiða í ljós hvað út úr því kæmi. Um styrkinn er sótt til deildar innan Vegagerðar ríkisins. Ef þú fengir slíkan styrk væri ekki þá sú kvöð á þér að vera alltaf tiltækur?
Litla-Kaffistofan
„Jú, jú. Ég er alltaf á staðnum og ef fólk lendir í hrakningum, þá bankar það upp á hvort sem er á nóttu eða degi,” sagði Kristján.
Virðir fólk það við þig að þú hafir þessa þjónustu, hvort sem er að nóttu eða degi?
„Það er misjafnt. Ég hef verið ræstur upp af því að fólk hefur verið orðið bensínlaust. Eg gat nú ekki annað en glott einu sinni, þá bað maður mig um bensín fyrir hundrað krónur til að komast í bæinn. Það er þá orðið heldur lítið sem maður hefur fyrir það að vakna upp,” sagði Kristján.
Hefurðu hugleitt að leggja vatnsleiðslu hingað eða bora eftir vatni?

Litla-Kaffistofan

Litla-Kaffistofan.

„Það yrði svo rosalega löng lögn og dýrt. Möguleiki væri að fá að nýta borholur í Hveradölum, en lagnirnar þyrfti að einangra og leggja alla þessa leið. Upphæðirnar eru orðnar ævinrýralega háar. Eg hef líka verið að spá í að bora hér fyrir utan. Hraunhellan er um 40 metra þykk, en spurningin er hvar er vatnið. Það liggur á einhvers staðar undir hellunni, en menn vita ekkert hvar hún er,” sagði Kristján.

Litla-Kaffistofan

Litla-Kaffistofan – Stefán Þormar.

Vatnið er ekki eina vandamálið sem Kristján þarf að glíma við. Hann þarf einnig að sjá um að losa sig við allt rusl sem til fellur, bæði frá honum og þeim sem leið eiga framhjá. Hann sagðist margsinnis hafa óskað eftir að þetta yrði gert, en aldrei hafi verið orðið við því. „Það er mjög vinsælt af ferðafólki að koma hér við og tæma bílana af rusli, áður en farið er í bæinn,” sagði Kristján. Litla-Kaffistofan tilheyrir Ölfusinu. Finnst þér að sveitarfélagið eða ríkið ætti að koma til móts við þig?
„Mér þætti það ekkert óeðlilegt. Það eru staðir styrktir víða um land, sem ekki einu sinni eru opnir yfir allan vetrartímann. Mér þætti það ekkert óeðlilegt enda er þetta líklega með fjölförnustu fjallvegum á Íslandi,” sagði Kristján.

Litla-Kaffistofan

Litla-Kaffistofan – bæjarstóri Hveragerðis fagnar 50 ára afmæli Litlu-Kaffistofunnar með Stefáni Þormar.

Kristján sagði að fólk væri oft ótrúlega skammsýnt í vondum veðrum. Sagði hann frá dæmi þessa efnis sem átti sér stað í vetur þegar björgunarsveitir voru kallaðar út og rútur stoppaðar af fyrir utan kaffistofuna. Ökumenn fólksbílanna gerðu hins vegar sitt til að reyna að komast áfram, þrátt fyrir fortölur bæði björgunarsveitarmanna og bílstjóra rútubílanna.
Fjöldi fólks notar svæðið í kringum Litlu kaffistofuna sem áningar- og útivistarsvæði, enda kjörið gönguskíðaland þar í nágrenninu. Gegnt kaffistofunni eru einnig haldnar vélsleða- og torfærukeppnir. Kristján sagði um leið og hann horfði út um gluggann og brosti, að fyrsta torfærukeppnin yrði líklega í kringum 13. maí.
Aðspurður sagðist Kristján ekki vera viss um hversu lengi hann hygðist vera með kaffistofuna. „Það er mun betra að vera hér, en í bænum,” sagði Kristján.
Hvað er svona gott við þetta? „Það er góður andi hér. Draugahlíðin rétt hjá,” sagði Kristján.
Aðspurður hvort hann hafi orðið var við draugana sagði hann svo ekki vera. „Það eru margir hér á sveimi, en það er allt gott.
Kaffistofan væri líklega búin að fuðra upp oftar en hún hefur gert ef þeir væru ekki á sveimi hér í nágrenninu,” sagði Kristján.”

Í Blaðinu árið 2006 segir frá  “Vinsælasta áfangastaðnum við hringveginn“:

Litla-Kaffistofan

Litla-Kaffistofan – Stefán Þormar.

“Litla kaffistofan býður upp á heimalagað bakkelsi og miðlar upplýsingum til vöruflutningabílstjóra. Til okkar koma bílstjórar sem eru að leggja upp í langferð eða eru að klára langar ferðir,” segir Stefán Þormar, staðarhaldari á Litlu kaffistofunni.
„Litla-Kaffistofan er elsti áningarstaðurinn við hringveginn og hjá okkur koma bílstjórar og bera saman bækur sínar. Yfir vetrarmánuðina er rætt um veðrið og færð á vegum þannig að það má segja að Litla-Kaffistofan gegni hlutverki upplýsingamiðstöðvar um veður en hjá okkur er aldrei lokað vegna veðurs. Svo er auðvitað spjallað um pólitíkina, landsmálin og í raun allt milli himins og jarðar.“

Litla-Kaffistofan

Stefán rekur Litlu kaffistofuna ásamt fjölskyldu sinni og skipta þau löngum opnunartíma á milli sín.
„Við opnum kaffistofuna klukkan sex á morgnana og þá þarf að vera búið að gera allt klárt,“ segir Stefán og bætir við að heimabakað brauð sé á boðstólum alla daga.
„Síðan erum við stundum með pönnukökur og annað bakkelsi sem alltaf er vel þegið. Þess má einnig geta að þeir sem taka bensín á Litlu-Kaffistofunni fá frítt kaffi.“

Litla-Kaffistofan

Litla-Kaffistofan.

Stefán er búinn að reka Litlu-Kaffistofuna í fjórtán ár og segir flesta vöruflutningabílstjóra hafa verið karlmenn á þeim tíma. „Þetta er þó að breytast og nú koma stundum blómarósir sem vinna við akstur flutningabíla. Við Litlu-Kaffistofuna stoppa flutningabílstjórar, vörubílstjórar, bílstjórar af malbikunarbílum og mjólkurbílum svo það má segja að það komi öll flóran til okkar. Það kemur líka fyrir að sjúkraflutningamenn reki inn nefið í lok vinnudags en þá vonar maður að engin alvarleg slys hafi orðið.“
Mikil umferðaraukning Stefán reiknar með að umferðaraukning hafi orðið um 20-30% á hringveginum á síðustu fimm til sex árum. „Fólk er meira á ferðinni núna og það kemur fyrir að sumarbústaðaeigendur líti við til að heyra nýjustu kjaftasögurnar.“

Hvað gera vörubílstjórar á langkeyrslum?

Litla-Kaffistofan

Litla-Kaffistofan.

“Mér heyrist á tali þeirra að síminn sé vinsæll enda handhægt að tala í síma eftir að handfrjáls búnaður leit dagsins ljós. Þeir hlusta líka mikið á útvarp. Á Litlu-Kaffistofuna koma öll dagblöð og ekki óalgegnt að vöruflutningabílstjórar grípi þau með sér til að lesa á næsta áningarstað og til að vera viðræðuhæfir um það sem er að gerast í þjóðfélaginu. Yfirleitt eru menn einirí bílunum en ungir menn taka kærustuna stundum með sér.“
Stefán segir það góða tilbreytingu fyrir vöruflutningabílstjóra að setjast inn í kaffi og spjall eftir að hafa verið einir í bílum allan daginn.
„Vöruflutningabílstjórar eiga sinn hvíldartíma eins og aðrir og finnst gott að sýna sig og sjá aðra í matar- og kaffitímum.”
Litla kaffistofan hefur tvívegis verið kosin vinsælasti áningarstaðurinn við hringveginn og segir Stefán mikilvægast að hafa viðskiptavinina ánægða. „Það er líka gaman frá því að segja að vörubílstjórar sem hafa hætt störfum sökum aldurs halda áfram að koma til okkar svo það má segja að við höldum viðskiptavinum okkar þar til þeir fara yfir móðuna miklu,“ segir Stefán og hlær.”

Í Dagblaðinu Vísi árið 2007 segir;  “Vill tryggja framtíð Litlu-Kaffistofunnar“:

Litla-Kaffistofan

Litla-Kaffistofan.

“Stefán Þormar segir tvöföldun Suðurlandsvegar mikið ánægjuefni: Vill tryggja framtíð Litlu kaffistofunnar.
Þetta er vissulega mikið gleðiefni að því gefnu að við fáum akrein inn til okkar. Ef við fáum það ekki verðum við eins og Palli sem var einn í heiminum,“ segir Stefán Þormar Guðmundsson, sem rekur Litlu-Kaffistofuna á Suðurlandsvegi.

Kristján Möller

Kristján Möller.

Í síðustu viku tilkynnti Kristján L. Möller samgönguráðherra að ákveðið hefði verið að ráðast í tvöföldun Suðurlandsvegar. Þetta sagði hann á fundi með fulltrúum frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga. Enn eru þó nokkrir lausir endar varðandi tvöföldunina, eins og hvort framkvæmdin verður einkaframkvæmd eða borguð að fullu af ríkinu. Auk þess á eftir að koma fram hversu langur tími er áætlaður í tvöföldunina og hvort hún verður gerð í áföngum.
Stefán segir að Litla-Kaffistofan hafi sannað ágæti sitt á undanförnum árum. „Það er einnig mikið öryggi fólgið í því að hafa verslunina á Suðurlandsveginum þar sem umferð eykst sífellt. Við vonum að þeir gangi frá því þannig að það verði svoleiðis áfram. Ég hef í raun enga trú á öðru en að þeir geri það,“ segir Stefán en Litla-Kaffistofan hefur verið starfrækt frá árinu 1960 og hefur Stefán haldið utan um reksturinn í fimmtán ár.”

Olís er eigandi Litlu kaffistofunnar

Litla-Kaffistofan

Litla-Kaffistofan.

Stefán segir að margir leiti á náðir Litlu-Kaffistofunnar á veturna þegar vond veður geisa á Hellisheiðinni.
Hann segir að skjótt skipist veður í lofti á heiðinni og þegar verstu veðrin gangi yfir geti menn lagt bílum sínum á svæðinu við Litlu-Kaffistofuna. Því sé mikilvægt að halda fráreininni að henni opinni. „Þetta er sá hlutur sem lýtur að okkur en tvöföldunin sjálf er mikið ánægjuefni og í raun löngu kominn tími á hana.“
Á vefsíðunni sudurlandsvegur.is sem stofnuð var í kjölfar hörmulegs slyss sem varð þann 2. desember í fyrra, segir að 52 hafi týnt lífi í umferðarslysum á veginum frá árinu 1972. Auk þess hafi hundruð manna hlotið varanlega örorku.”

Í Morgunblaðinu árið 2016 segir;  “Kaffispjall í éljagangi“:
Litla-Kaffistofan
“Nýtt í Litlu-kaffistofunni – Mikilvægur viðkomustaður í Svínahrauninu – Skemmtileg samskipti við alls konar fólk.
„Mér finnst við hafa reynt á fyrsta ófærðardegi vetrarins nú á mánudaginn þegar loka þurfti leiðinni milli Rauðavatns og Kamba í rúmlega klukkustund, að þessi staður skiptir máli. Þeir sem þó voru á ferðinni stoppuðu gjarnan hér og biðu af sér svart élið. Svo birti til og þá gat fólkið haldið áfram eftir að hafa setið hér í kaffi og spjalli,“ segir Svanur Gunnarsson, staðarhaldari í Litlu-Kaffistofunni í Svínahrauni. Það var 1. nóvember sem Svanur og kona hans, Katrín Hjálmarsdóttir, tóku við rekstri þessa fjölsótta veitingastaðar; vegasjoppu sem skiptir miklu máli í vitund margra.

Kjötsúpa og heimabakað

Litla-Kaffistofan

Litla-Kaffistofan – kjötsúpa.

Það var kaffiilmur í loftinu og nýtt heimabakað brauð með laxi og eggjum í kælinum þegar Morgunblaðið leit við í Litlu-Kaffistofunni og heilsaði upp á vertana nýju sem búa í Þorlákshöfn. „Þetta kemur vel út, við erum ekki nema 20 mínútur að heiman og hingað,“ segir Svanur.
Þau Svanur og Katrín koma á staðinn um klukkan sex á morgnana og og opna fyrir gestum og gangandi hálftíma síðar. „Það var frábært að fá þetta tækifæri og að vera valinn úr þeim stóra hópi sem sótti um að taka staðinn á leigu af Olís,“ segir Katrín. „Við rákum á sínum tíma sjoppur bæði á Selfossi og Stokkseyri en Litla-Kaffistofan er allt öðruvísi dæmi. Hér kemur fólk til þess að fá sér hressingu og teygja aðeins úr sér. Flutningabílstjórarnir stoppa hér oft, snjóruðningskarlarnir koma í kaffi eldsnemma á morgnana og kjötsúpu í hádeginu og fólk að austan sem sækir vinnu til Reykjavíkur eða öfugt tekur hér kaffibollann – og jafnvel ábót í pappamáli. Og það sem gefur þessu öllu gildi eru samskiptin við alls konar fólk; fjölbreyttan hóp.“

Traffíkin í gusum

Litla-Kaffistofan

Litla-Kaffistofan – bakkelsi.

Sem mikilvægur viðkomustaður er Litla-Kaffistofan opin 362 daga á ári; aðeins er lokað á jóladag og annan í jólum og nýársdag. Afgreiðslutíminn er líka langur – það er frá því í rauðabítið og fram undir kvöldmat – en lengra fram á kvöldið til dæmis ef eitthvað er að færð. Viðvera vertanna er því mikil og frídagarnir ekki margir.
„Auðvitað er þetta okkar val. Við vissum vel að þessu hlutverki fylgdi mikil vinna og það nánast alla daga. Annars kemur traffíkin svolítið í gusum. Það er talsverður gestagangur snemma á mognana og í hádeginu – en hitt er lausatraffík. Síðdegis dettur þetta svo niður. Hér erum við með heimilismat í hádeginu en eftir áramót ætlum við að bjóða upp á rétti af matseðli og athuga með lengri opnunartíma. Fyrir nýtt fólk tekur alltaf svolítinn tíma að ávinna sér fastakúnna en við erum afar bjartsýn á framhaldið hér,“ segir Katrín að síðustu.”

Í Dagblaðinu Vísi árið 2008 segir;  “Litla Kaffistofan fyrir tvöföldun“:
Litla-Kaffistofan“Litla-Kaffistofan stendur í vegi fyrir tvöföldun Suðurlandsvegar sökum þess að hún er nánast á miðri akrein sem bætt verður við. Því þarf að öllum líkindum að færa hana töluverða vegalengd. Stefán Þormar Guðmundsson, eigandi Litlu-Kaffistofunnar hefur lagt fram eigin hugmynd sem felst í því að hún verði hreinlega á milli akreina og haldist í upprunalegri mynd.
„Kaffistofan hefur verið öryggisatriði alla sína lífstíð. Þegar veður eru válynd hefur hún sannað hlutverk sitt, segir Stefán.”

Á visir.is árið 2020 segir: “Hættir rekstri Litlu kaffistofunnar en vonar að fótboltasafnið verði áfram“.
Litla-Kaffistofan
“Stefán Þormar Guðmundsson lætur brátt af störfum en hann hefur rekið einn þekktasta áningarstað landsins í 24 ár. Stefán Þormar, sem rekið hefur Litlu kaffistofuna á Suðurlandsvegi í nærri aldarfjórðung, lætur brátt af störfum. Auglýst er eftir rekstraraðila á kaffistofunni í Fréttablaði dagsins í dag.
Litla-Kaffistofan
„Ég verð sjötugur á þessu ári og þá fer maður að verða vígmóður,“ segir Stefán. „Ég er búinn að vera þarna síðan 1992, svo það er dágóður tími. Maður verður að fara að leggja árar í bát.”
Litla kaffistofan er, líkt og segir í auglýsingunni í Fréttablaðinu, einn þekktasti áningarstaðurinn við þjóðveg eitt og hefur verið rekin frá því í júní 1960. Stefán kveðst ánægður með reksturinn undanfarin ár og segir að staðurinn eigi gott gengi framundan ef rétt er haldið á spilunum. Stefán Þormar hefur staðið vaktina á Litlu kaffistofunni frá árinu 1992.
„Þetta hefur ótrúlega drjúgt, það er auðvitað fyrst og fremst viðskiptavinunum að þakka sem stoppa hér,“ segir hann. „Ég held að það sé ekkert karlagrobb í okkur að segja að þetta er orðin vel þekkt kaffistofa. Góður áningastaður og hefur oft verið björgunarskýli, þó að björgunarsveitirnar séu búnar að taka það af okkur núna.“
Allir sem litið hafa við á Litlu kaffistofunni undanfarin ár kannast við stórskemmtilega knattspyrnumyndasafnið sem Stefán hefur komið þar upp. Blaðamaður getur hreinlega ekki annað en spurt Stefán, hvað verður um það þegar hann hættir?

Litla-Kaffistofan

Litla-Kaffistofan.

„Já, það er gott að þú komst inn á þetta,“ segir Stefán. „Það eru mínar mestu áhyggjur.“
Guðjón Guðmundsson íþróttafréttamaður heimsótti Litlu kaffistofuna árið 2014 og fékk að skoða safnið.
Stefán hefur klippt knattspyrnumyndir úr dagblöðum frá því að hann var tíu ára en síðan hefur bæst vel í safnið úr öllum áttum. Hann er á þeirri skoðun að safnið eigi að fá að vera áfram uppi á vegg.
„Ég get nú ekki farið með þetta í gröfina með mér. Ég bara trúi ekki öðru en að hér komi aðilar sem sýni því skilning að þetta á að vera hér uppi á vegg, þó ég ætli ekki að hafa neina skoðun á því. Þetta á ekki að fara inn á KSÍ eða skrifstofur einhversstaðar þar sem fáir sjá því þetta er alveg ótrúlegt aðdráttarafl sem við höfum notið góðs af. Þannig ég vona að það líði ekki undir lok.“

Heimildir:
-Helgarpósturinn, 26. tbl. 27.06.1985, Byrjaði nýtt líf í hrauninu, bls. 10-11.
-Tíminn, 81. tbl. 27.04.1990, Kleinukot leitar eftir ríkisstyrk sem athvarf fyrir hrakta ferðamenn – Agnar Óskarsson, bls. 8-9.
-Blaðið 08.02.2006, Vinsælasti áfangastaðurinn við hringveginn, bls. 19.
-Dagblaðið Vísir, 131. tbl. 27.08. 2007, Vill tryggja framtíð Litlu-Kaffistofunnar, bls. 3.
-Morgunblaðið, 300. tbl. 23.12.2016, Kaffispjall í éljagangi, bls. 10.
-Dagblaðið Vísir, 89. tbl. 20.05.2008, Litla Kaffistoafn fyrir tvöföldun, bls. 7.
-https://www.visir.is/g/202079977d

Litla-Kaffistofan

Litla-Kaffistofan.

 

Vífilsstaðir

Ólafur Marteinsson fann hlaðna refagildru í gönguferð um Urriðavatnslandnám og Svínahraun 11.12.2005. Gildran er ca. 660 m frá Vífilstaðaspítala. Hann skoðaði síðan gildruna nánar þann 26.12.2005. Ólafur taldi gildruna, sem er utan alfaraleiðar, greinilega forna, “þakið á gildruhólfi er fallið að hluta en veggir heilir og inngangur sömuleiðis”.

Refagildra

Refagildran.

Við skoðun á mannvirkinu kom í ljós að þar gæti hafa verið um refagildru að ræða, en þar sem hún er hvorki í lægð undir brún, á brún eða á “tilleiðanlegum” stað fyrir tófuna, heldur á litlum hraunhól, er líklegast að hún hafi verið gerð í tilteknum tilgangi. Þegar umhverfið er skoðað nánar má sjá að hlaðið hefur verið sunnan við gildruna, eins og umhverfis op á greni. Gildran sjálf er svo til hliðar við grenið. Þarna gæti verið komin skýringin á tilvist refagildrunnar á þessum stað. Hún hafi verið gerð til að leiða rebba “rétta” leið að greninu og þá…. – tófubandið snarast af hælnum og lokhellan féll. Enn mátti heyra ámótlegt vælið í dýrinu.
Skoða mætti nánar hliðarhleðslurnar.

Svínahraun

Í Svínahrauni.

Litlalandssel

Genginn var slóði upp á Búrfell í Ölfusi. Þegar upp var komið var gengið inn á þjóðleiðina, sem nú er merkt sem slík um Ólafsskarðsveg vestan fellsins og honum fylgt áleiðis að Geitafelli.

Ólafsskarðsvegur

Ólafsskarðsvegur – ÓSÁ.

Í örnefnaskrá segir hins vegar að “um[Ólafsskarð] liggur Ólafsskarðsvegur, og áfram suður með Bláfjöllum, um Þúfnavelli norðan við Geitafell, niður hjá Grislingahlíð, að Litlalandi … “Ólafsskarðsleið frá Litlalandi liggur um Fagradal, Þúfnavelli, milli Fjallsins eina og Bláfjalla, um Ólafsskarð, Jósefsdal á þjóðveg neðan við Þórishamar.” Þannig er Ólafsskarðsvegur merktur inn á gömul kort.

Hlíðarendasel er í götunni þegar þriðjungur leiðarinnar er ófarinn að Geitafelli, eða þar sem hraunbungan ber hæst, með stefnu af Búrfelli í Hrútagil (Fálkaklett).
Bærinn Hlíðarendi stendur undir Hlíðarendafjalli, í hvammi milli Ytra-Buganefs að austan og Áss að vestan.
Slóðinn upp á Búrfell er nokkuð brattur, en greiðfær. Áður en komið er að efstu brúnum fellsins var beygt út af slóðanum til vinstri og inn á sæmilega sýnilega þjóðleiðina um Ólafsskarðsveg, sem lá frá Ölfusá áleiðis til Reykjavíkur um Jósepsdal og Lyklafell. Yfirleitt eru Búrfellin, sem eru 47 talsins hér á landi, nokkuð há stapafjöll með klettum ofantil.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel.

Þetta Búrfell er hins vegar hraungígur ofan við brún Hlíðarendafjallsins. Efst í því er gígur.
Ólafsskarðsvegurinn, sú gamla þjóðleið á milli Ölfuss og Svínahrauns, er varðaður á kafla, en sést að öðru leyti ógreinilega. Helst er að sjá hann þar sem hann hefur mikið til legið um grónar lænur.
Fagurt útsýni er suður af heiðinni, af Búrfelli, um allt til sjávar. Leiðin liggur upp í Jósefsdal um Ólafsskarð og síðan niður með Lyklafelli austan Fóelluvatna.

Litlalandssel

Litlalandssel.

Ólafsskarðsvegur er nefndur eftir samnefndum bryta í Skálholti. Í frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi segir að einni sinni hafi lyklakippa Skálholtsstaðar týnst, og fannst hún hvergi. Varð að smíða aðra lykla. Leið síðan fram, þangað til 12 ár voru liðin og lyklatapið farið að gleymast, þá fundust lyklarnir í Lyklafelli hjá Fóelluvötnum. Kom þá upp hið sama, að ráðsmaður (eða bryti) staðarins hafði haft lyklana á sér, er hann reið í Reykjavíkurkaupstað, og hafði týnt þeim í fellinu, er hann áði.

Lyklafell

Lyklafell – varða við Austurleiðina að Kolviðarhóli fremst.

Um Lyklafell fjallar og þekkt þjóðsaga af sama meiði. Hún er um nefndan Ólaf bryta í Skálholti. Á að hafa soðið upp úr milli hans og ráðskonunnar á staðnum. Hún var ótúlegt skass og skaut honum svo skelk í bringu að hann lagði á blindan flótta, m.a. um veg þann sem síðar var nefndur eftir honum, og nam ekki staðar fyrr en við Lyklafell og kastaði þar búrlyklunum. Síðan hélt hann um Ólafsskarð upp úr Jósefsdal Ólafsskarðveg og heitir skarðið einnig eftir honum.
Þessi hluti Ólafsskarðsvegar, norðan Búrfells, er vel greinilegur og auðvelt að fylgja götunni áleiðis að Geitafelli. Þegar komið er svo til á efstu hæðina er hraunið tekur að halla að Geitafelli með stefnu í Fálkaklett er svo að segja gengið yfir tóftir í götunni.

Geitafell

Geitafell og nágrenni – kort.

Þar er Hlíðarendaselið á milli hóla. Um er að ræða tvær tóttir sitt hvoru megin götunnar og síðan er hlaðinn stekkur á hraunhól norðan þeirra. Á bak við selið að austanverðu er skúti, sem líklega hefur verið notaður sem geymslustaður. Selið lætur ekki mikið yfir sér og erfitt gæti verið að finna það ef ekki væri gatan. Litlalandsselið, sem er þarna allnokkur suðaustar, er t.d. erfitt að finna nema komið sé að því úr suðri. Sama má segja um Hlíðarendasel.
Leitað var annarra hugsanlegra minja við selið. Erfitt er að leita þarna í hrauninu, hver bollinn og hraunhæðin er upp af annarri, en skammt sunnan við Réttargjá, undir hraunhól í skjóli fyrir suðaustanáttinni, skammt ofan Götugjár, fannst hleðsla, sem gæti verið stekkur. Þar austur af heita Selvellir. Engar merkjanlegar tóftir eru þar, en vellirnir eru vel grónir.
Gatan var rölt til baka með viðkomu á gíg Búrfells. Sólin roðagyllti Geitafellið að baki og á móti lýsti sólarrönd hafflötinn.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild m.a.
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra
-Farfuglinn (1975)
-Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel – uppdráttur ÓSÁ.