Ætlunin var að ganga til baka og fram eftir Alfaraleiðinni, hinni gömlu þjóðleið milli Innnesja (Hafnarfjarðar) og Útnesja (Voga, Njarðvíkna, Hafna, Keflavíkur, Garðs og Sandgerðis). Vestari hluti leiðarinnar, milli Hvassahrauns og Voga, hefur jafnan verið nefnd Almenningsleið (Menningsleið), en kaflinn frá Hvassahrauni til Hvaleyrar Alfaraleið.
Gangan hófst við nýlegt bílastæði sunnan undirgangna Reykjanesbrautar innan (austan) við Hvassahraun. Þegar Reykjanesbrautin var breikkuð var tekinn hluti af Alfaraleiðinni á þessum kafla. Áður sást hún sunnan brautarinnar, liggja undir hana og síðan spölkorn af henni norðan brautarinnar, ofan við gömlu réttina.
Alfaraleiðin milli Hafnarfjarðar og Hvassahrauns.
Gengið var beint inn á Alfaraleiðina, gegnt gatnamótunum, þar sem hún byrjar núna. Framundan er nokkuð hæðótt og gróið hraun þar sem vörður sjást á stangli við götuna, þ.a. ein mjög myndarleg er stendur hátt á hraunhól hægra megin hennar. Þegar innar dregur liggur hún um nokkuð slétta, vörðulausa hraunfláka sem nefnast Sprengilendi. Í fyrstu er leiðin óljós en þegar komið er hálfa leið yfir „sléttuna“ skýrist hún verulega og hófför fara að sjást í klöppunum. Í götunni fannst m.a. skeifubrot frá löngu liðnum tíma. Gatan liggur ofarlega á þessu svæði en þó aldrei meira en 3-400 m frá Reykjanesbrautinni. Myndarleg varða við götuna sést á hæðarhrygg framundan.
Innan við Sprengilendið liggur slóðinn ofan við mjög klofinn og sérkennilegan hraunhól en ofan götunnar og hólsins er hæð sem heitir Taglhæð og á henni er merktur jarðsímastrengur. Þarna sveigir Almenningsvegurinn til austurs, hækkar dálítið og fjarlægist Reykjanesbrautina til muna. Næst er haldið yfir kennileitalítið svæði um nokkurn veg. Framundan til hægri við götuna og aðeins ofar er mjög sérkennilegur, stakur klettahóll sem er eins og hetta í laginu. Þessi hóll er mjög áberandi séður frá Reykjanesbrautinni þó hann sé ekki stór. Hér sjást lítil og fá vörðubrot við götuna. Við hólinn liggur Lónakotsselsstígur áleiðis upp í Lónakotssel. Nú fer útsýnið að víkka til muna og fljótlega sést í stóra sprungna klapparhæð í austurátt sem nefnist Smalaskálahæð og klapparhól í framhaldi af henni til suðurs. Stefna götunnar er fast hægra megin við hólinn í stefnu sem næst á Vífilfellið. Þarna liggur Óttarsstaðaselsstígur þvert á Alfaraleiðina. Gatnamótin eru nokkuð glögg. Neðar sést í Kristrúnarborg, fallega heillega fjárborg frá Óttarsstöðum sem sögð er hlaðin um 1870 af Kristrúnu Sveinsdóttur húsfreyju á Óttarsstöðum og vinnumanni hennar. Handan borgarinnar er svo Smalaskálhæðin með fallegum jarðföllum sem gaman er að skoða. Listaverkið Slunkaríki var þar til skamms tíma, en hefur nú verið fjarlægt.
Þá er gengið um Draugakróka. Gvendarbrunnshæð heitir næsta hæð en sveigt er upp fyrir hana og farið um Löngubrekkur sem liggja utan í hæðinni ofanverðri. Nú sést í fjárskjól, Gvendarbrunnshæðarskjól, með hleðslum við op og er hellirinn í hæðinni við götuna. Fast austan við fjárskjólið er svo Gvendarbrunnurinn, gott vatnsból í klöpp en um brunninn þveran liggur gömul fjárgirðing, landamerki Straums og Óttarsstaða.
Austar er komið að hárri og uppmjórri vörðu en hún er önnur af þremur fallegum vörðum sem standa við götuna frá Gvendarbrunnshæð að Miðmundarhæð. Nú taka Þrengslin við en þar liggur hún þröngt á milli hárra hraunhóla. Næsta kennileiti er hár og brattur klapparhóll með rismikilli vörðu sem sést víða að. Neðan við hann er gatan mjög greinileg en frá hólnum og ofan eyðibýlisins Þorbjarnarstaða er hún óljós og hverfur loks undir háan hraunkantinn spöl fyrir ofan Gerði (starfsmannahúss á vegum álversins). Þar sem gatan lá upp á hraunið hét Brunaskarð syðra. Mótar enn fyrir því í hraunkantinum þar sem gatan liðast upp á hraunbrúnina.
Framundan eru svo brunaruðningarnir á móts við álverið og að sjálfsögðu sést engin gata þar fyrr en komið er að Kapellunni sem stendur á hraunhól í miðju umrótinu rétt ofan við Reykjanesbrautina beint á móti álverinu. Gatan sést þar á um 10 m kafla. Kapellan, sem var endurhlaðin klúðurslega á sjöunda áratug 20. aldar, er friðlýst lítið grjótbyrgi úr hraunhellum og snúa dyrnar í suðvestur en veggirnir eru tæplega mannhæðar háir. Kapellan er tileinkuð heilagri Barböru, dýrðlingi úr kaþólskum sið. Fyrir innan Kapelluna tekur við rutt svæði, en göngustígur liggur um það áleiðis til Hafnarfjarðar. Þegar komið er inn á hraunið á ný sjást vörðubrot. Þeim er fylgt til norðurs uns gatan beygir undir Reykjanesbrautina þar sem hún fylgir hraunlægðum í áttina að hárri vörðu, sem nú er á golfvellinum. Héðan í frá sést ekki móta lengur fyrir gömlu Alfaraleiðinni milli Hvaleyrar og Hafnarfjarðar.
Í ljós hafði komið að leiðin er vel greinileg svo til alla leiðina, vel mörkuð í landið á körflum og því tiltölulega auðvelt að fylgja henni þar sem hún liggur framhjá Þorbjarnastöðum í Hraunum (fór í eyði um 1930), sunnan Reykjanesbrautar, og áfram vestur úr. Í rauninni er hægt að fylgja gömlu leiðinni frá Hvaleyri og áleiðis að Hvassahrauni þar sem hún kemur niður að Reykjanesbrautinni ofan við hin nýju mislægu gatnamót, sem þar eru.
Fyrsta varðan á leiðinni er nú inni á miðjum golfvellinum á Hvaleyri. Önnur varða, eða vörðubrot, er skammt sunnar. Þriðja varðan er sunnan Reykjanesbrautar. Síðan tekur við svæði Kapelluhrauns þar sem búið er að fjarlægja yfirborðslagið og þar með götuna. Gatan kemur síðan aftur í ljós við kapelluna á u.þ.b. 10 metra kafla og loks þar sem hún kemur niður Brunann ofan við tjarnirnar við Gerði. Efst á Brunanum við götuna er varða. Þá liðast hún með tjörnunum að austan- og síðan sunnanverðu í áttina að Miðmundarhæð. Hún er augsýnileg þar sem Miðmundarvarða stendur uppi á hæðinni.
„Gerði reisti Guðjón Jónsson frá Setbergi um aldamótin 1900. Alfaraleiðin út á Útnes lá svo að segja um túnblettinn. Hann lá yfir Kapelluhraunið, eða Brunann, eins og það var stundum nefnt, síðan lá leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys. Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum. Þegar hér er komið, verður fyrir stígur, er liggur frá Gerðinu, nefnist Gerðisstígur. Lá stígur þessi suður með vesturbrún Brunans.“
Alfaraleið sunnan Gerðis – Bruninn framundan.
Gengið var eftir Alfaraleiðinni gömlu frá Gerði þar sem hún kemur niður úr Brunanum sunnan við Hraunshornið, norðan Gerðis, og henni fylgt yfir að brunninum í Brunntjörninni. Flóruð brú liggur út að brunninum, sem er í tjörninni. Þarna var og þvottur þveginn og skammt austar var þvegin ull.
Gengið er framhjá túngörðum Þorbjarnastaða. Að þessu sinni var tækifærið notað og kíkt á tóftirnar sem og Gránuskúta. Þvottastæðið er neðan við Þvottastíginn þar sem er hlaðinn bakki út í tjörnina sunnanverða. Vel má sjá hleðslur gamla brunnsins í tjörninni. Ofan við götuna er Þorbjarnarstaðaréttin undir breiðum klapparhól. Hún er ekki ósvipuð Óttarstaðaréttinni, með tvo dilka, lambakró og fallega hlöðnum veggjum. Réttin var fyrrum nefnt Stekkurinn, en eftir að hann var færður út og réttargerði hlaðið norðan við stekkinn, var hann jafnan nefndur Réttin eða Þorbjarnarstaðarétt.
Alfaraleiðin liggur áfram framhjá Miðmundarholti (-hól/-hæð), yfir Straumsselsstíg. Gatan er vörðuð meira og minna, ýmist með heilum vörðum eða endurupphlöðum. Við Miðmundarhæðina eru gatnamót götu heim að Þorbjarnarstöðum. Önnur gatnamót eru skammt austar. Mun þar vera um að ræða Skógargötuna frá Straumi er lá upp með vestanverðum túngarði Þorbjarnarstaða. Gránuskúti er þarna skammt sunnar, lítið en einstaklega fallegt fjárskjól frá Þorbjarnarstöðum.
Ekki er minnst á Alfaraleiðina í örnefnaslýsingu fyrir Þorbjarnastaði, sem verður að þykja sérstakt því leiðin liggur um land jarðarinnar og hefur án efa haft mikil áhrif á líf fólksins þar. Í örnefnalýsingu (GS) fyrir Straum er hins vegar getið um Alfaraleið. „Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir. Hér mun og vera staður, sem nefnist Himnaríki. Tilefnið er það, að bóndi nokkur í Hraunum ætlaði að fara á Rauð sínum til himnaríkis – eftir viku drykkju. Hann lagði upp undir rökkur með nesti og nýja skó (en kvaðst ekki þurfa sokka, því að nóg væri af þeim í himnaríki). Hesturinn skilaði sér fljótt heim, og sjálfur kom bóndi undir vökulok. Í skrá G.S. segir, að hnakkurinn og beizlið hafi fundizt vestarlega í Draugadölum, en heimildarmenn sr. Bjarna segja, að þetta hafi legið í Stekkatúninu. Síðan er þarna kallað Himnaríki.
Þegar kemur vestur úr þessum þrengslum eða skorningum, má finna götu, sem liggur upp á klappir norðan við þær, og liggur gatan austur áleiðis að Þorbjarnarstöðum. Gata þessi nefnist Vetrarleið. Snjóþungt var í Alfaraleið, en snjóléttara hér og því var hún farin á vetrum.
Sunnan í klettahrauni því, sem hér er, vestan Miðmundahæðar (sjá Þorbjarnarstaði), liggur rani fram úr. Á þessum rana er vel hlaðið Skotbyrgi, sem stendur enn. Fjárgata liggur upp úr rétt hjá byrginu. Í skrá G.S. segir, að hér liggi fram úr hrauni þessu Mosastígurinn og Skógarstígurinn frá Þorbjarnarstöðum, en þennan Mosastíg kannast sr. Bjarni og heimildarmenn hans ekki við (sjá Þorbjarnarstaði).“ Skotbyrgið sést enn, við vestari Straumsselsstíginn, en er ekki í sjónlínu frá Alfaraleið.
Sunnan við Þorbjarnastaði er Stekkurinn eða Réttin undir háum hraunhól. Hún er vel hlaðin. Í henni er lambakró. Þar er Stekkatún.“
Gengið er þvert yfir vestari Straumsselsstíg að Hæðunum. Þá var komið að Gvendarbrunni, litið á fjárskjólið nálægt honum og síðan haldið áfram suður götuna. Brunnurinn er hola í miðjum grasbala á lítilli klapparhæð við götuna. Sagan segir að Guðmundur góði Hólabiskup hafi blessað hann á sínum tíma.
Annars eru Gvendarbrunnarnir a.m.k. fjórir á Reykjanesi, þ.e. þessi við Alfaraleiðina, Gvendarbrunnur í Vogum, Gvendarbrunnar í Heiðmörk og Gvendarhola í Arnarneshæð. Það er líkt með Gvendarbrunnum og Grettistökum að Gvendur og Grettir hafa að öllum líkindum aldrei litið hvorutveggja augum. En það er nú önnur saga. Sá átrúnaður fylgdi svonefndum Gvendarbrunnum (sem talið var að Guðmundur biskup hinn góði hefði blessað) að vatnið í þeim læknaði mein. Þannig var t.d. talið gott að bera það á augu eða á sár svo þau myndu gróa. Nokkrar heilar og fallega hlaðnar vörður eru á þessum kafla leiðarinnar. Skammt vestan Gvendarbrunns má sjá leifar af tveimur stórum vörðum, sem verið hafa beggja vegna götunnar.
Þegar komið er framhjá Óttarstaðaborginni (Kristrúnarborginni) liggur Óttarstaðaselsstíg (Skógargötuna) yfir hana. Líklega er hér um misskilning að ræða. Skógargötunnar er getið í lýsingu upp frá Straumi. Þar liggur hún til suðurs vestan túngarðs Þorbjarnarstaða með stefnu upp í Draugahraun. Neðan þess eru gatnamót götu er liggur síðan þvert á Óttarsstaðaselsstíg og áfram upp í Skógarnef. Þessi leið er auðfarin, en ógreinileg vegna gróninga, með föllnum vörðubrotum í fyrstu, en vestan Óttarstaðaselsstígs hafa vörðurnar verið endurreistar og því auðveldara um vik. Líklega er hér um hina eiginlegu Skógargötu að ræða.
Smalaskálahæðir eru á hægri hönd. Skammt vestar liggur Lónakostsselsstígur yfir götuna og upp í hæðir. Varðan ofan við selið sést vel. Nú verður gatan óljósari, en ef farið er hægt og rólega og tekin mið af kennileitum og vörðubrotum má sjá hvar gatan hallar til vesturs og líður svo í bugðum áleiðis að Hvassahrauni. Skammt sunnan Reykjanesbrautar, áður en komið er á móts við Hvassahraun, hverfur hún svo til alveg, en Reykjanesbrautin hefur verið lögð yfir götuna á þessum kafla.
Alfaraleiðin er skemmtileg gönguleið um fallegt hraun. Á leiðinni ber margt fyrir augu, sem áhugavert er að staldra við og skoða nánar.
Leiðin milli Hvassahrauns og Þorbjarnarstaða er 6 km. Að ganga þennan kafla leiðarinnar tekur u.þ.b. 1 og 1/2 klst.
Frábært veður.
Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.
-Örnefnalýsing fyrir Straum.
-Gísli Sigurðsson.