Tag Archive for: Þorbjarnastaðir

Lambhagi

Þegar gengið var um Lónakot og Svínakot í Hraunum voru rifjaðar upp eftirfarandi upplýsingar um gömlu bæina og Suðurnesjaalmenning þar fyrir ofan í hraununum:

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta.

Í Jarðabók ÁM og PV 1703 er eftirfarandi lýsing: “ Það sem Suðurnesjamenn kalla Almenning tekur til suður við Hvassahrauns land og Trölladyngjur, gengur svo norður eftir fyrir ofan lönd allra Hraunbæjanna og endast svo norðan til þar sem hann mætir Áslandi svo sem við taglið á Kapelluhrauni. Þá kemur Garðastaðaland og selstaða.
Þar fyrir norðan tekur til það, sem Innesingar kalla Kóngsland, gengur það norður og austur með fjöllunum inn að Elliðaám og upp undir Hellisheiði fyrir ofan Vífilsstaði, Urriðakot, Elliðavatn, og hina aðra bæina. Er þetta land eigi sérdeilis kóngsland, þó það svo kallað sé, heldur er það svo sem afréttur eður óskipt land þeirra kóngsjarðanna, sem liggja upp og inn undan Álftanesi.”
Í jarðabókinni er víða getið um Suðurnesjaalmenninga, sem ofangreind býli áttu rétt í. Auk jarða á Vatnsleysuströnd áttu öll lögbýli í Grindavíkurhreppi rétt til kolagerðar í almenningum eða Suðurnesjaalmenningum án þess að getið sé hvar þeir eru. Sama er um margar jarðir Í Rosmhvalaneshreppi og nokkrar í Álftaneshreppi.
Um jörðina Þorbjarnarstaði, sem er nú í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar þar sem Straumsvík er, segir þetta:

Réttarklettar

Réttarklettar- stekkur.

“Skóg hefur jörðin átt, en nú má það varla kalla nema rifhrís. Það hefur hún svo bjarglega mikið, að það er brúkað til kolagerðar og eldiviðar, og svo til að fæða pening á í heyskorti. Aldrei ljá það búendur til annarra og eru þetta þau skógarpláss, sem almenningar eru kölluð.” Ennfremur segir í jarðabókinni um Hamarskot, að hrísrif hafi jörðin í Þorbjarnarstaðalandi, þar sem heita almenningar, er það haft til kolagerðar og eldiviðar og til að fæða pening í heyskorti.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Jarðirnar Stóri-Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir, Lónakot og Svínakot voru fyrrum nefndar Hraunjarðir og voru allar í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því kóngsjarðir við siðaskipti. Sá almenningur, sem hér er fjallað um er fyrir ofan (eða sunnan) lönd þessara jarða og einnig fyrir ofan Hvassahraun hvað þetta mál varðar. Svínakot mun hafa verið þar sem nú eru Réttarklettar vestan Lónakots. Hagar þar mannvirkjum svipað til og í Borgarkoti á Vatnsleysuströnd, austan Kálfatjarnar.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur.

Eftir að jarðir þessar voru seldar á árabilinu 1827-1839 reis upp ágreiningur um eignarheimildir á almenningnum ofan þeirra. Stiftamtmaður fól sýslumanni að skoða málið 1847 og fór áreið fram árið eftir með eigendum og ábúendum hraunsjarðanna,
sem liggja við almenninginn og helst hafa notað landið til beitar og skógaryrkingar sökum afstöðu þeirra og þess að þetta land tekur við, þar sem tún þeirra og Brunahraunsgirðingum um þau sleppa.
Í skoðunar- og áreiðargerðinni var mörkum lýst með þessum hætti:

Lónakot

Grænhólsskjól.

“Að neðan byrjar það nyrst við Kolbeinshæð, gengur svo til vesturs niður að Markhólum fyrir neðan Lónakotssel hvar skógurinn endar á móti suðri. Þó gengur skógartunga þríhyrnt niður frá alfararveginum. Hennar botn og breidd er að ofan og gengur frá Löngubrekkum til suðurs að Markhólum. Sporður skógarspildu þessarar endar í útnorðri við Brunnhólavörðu skammt fyrir ofan Lónakot.
Að norðan gengur skógarlandið frá Kolbeinshæð til landsuðurs langs með Kapelluhrauni og Brunanum upp að Stórhöfðastíg, þaðan til suðurs í Fremstahöfða langs með Brunanum suður að Fjallinu Eina, þaðan til vesturs og útnorðurs í krókum og hlykkjum allt niður að Markhólum.
Yfirvöld mæltu eftir áreiðina fyrir um eins konar friðlýsingu svæðisins vegna lélegs ástands skógar og umsjón var falin einum Hraunjarðarbónda, en þeir einir máttu nýta landið án leyfis yfirvalda.
Segir síðan að allt þetta land álítist vera ein fermíla að stærð (dönsk míla var 7.5 km) eða 56 ferkílómetrar og er þetta svæði nú bæði innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar (29.71 ferkílómetri), en einnig upp af Vatnsleysustrandarhreppi, aðallega upp af Hvassahrauni.
Sjá MYNDIR.

Lónakot

Sjóbúð við Lónakot.

Þorbjarnastaðir

Tóftir Þorbjarnastaða eru síðustu heillegu minjar af íslenska torfbænum í umdæmi Hafnarfjarðar (áður Garðahrepps). Bærinn eru hluti af heilstæðu búsetulandslagi Hraunajarðanna ofan og utan Straumsvíkur og í þeim felast því mikil vanmetin menningarverðmæti.

Tóftir Þorbjarnastaða

Túngarðurinn við Þorbjarnarstaði er hlaðinn tvöfaldur. Ástæðan er tvíþætt; annars vegar er um útfærslu að ræða og hins vegar endurgerð. Bæjartóftirnar eru dæmigerðar fyrir bæjarstæði. Bærinn var úr torfi og grjóti, en nýjustu viðbyggingar og útihús voru með bárujárnsþaki. Tréþil stóðu mót suðri. Heimtröðin er milli gaflana og dæmigerðs matjurtargarðs í umgirtum hallanda. Brunngatan er til norðausturs að Tjörnunum. Þar, sem ferskt vatn kemur undan hrauninu, er hlaðinn brunnur svo og steinbrú. Á hana var ull og þvottur lagður eftir atvikum í þerrum.
Í landi Þorbjarnarstaða má finna allt það er tilheyrði gömlu bæjararfleifðinni; auk íbúðar- og útihúsa, hlaðinn túngarð, réttir, stekki, fjárskjól, götur og stíga, eyktarmörk, brunna, vatnsból, byrgi, selstöður, vörður og álagabletti.
Hafnarfjarðarbær á heimajörðina, en hefur langt í frá sýnt henni tilhlýðilega virðingu. Íslenska álfélagið keypti útjörðina af bænum fyrir nokkrum árum. Til stóð að selja hana alla, en nokkrir bæjarfulltrúar með skilningshjarta komu í veg fyrir það.
Stekkur við ÞorbjarnarstaðiÍ örnefnaskrá fyrir Þorbjarnarstaði má sem svolítið áþreifanlegt sýnishorn nefna Þorbjarnarstaðakerið. Það virðist hvorki merkilegt né áhugavert, er jafnvel ósýnilegt þeim sem ekki kunna að lesa landið, en er samt sem áður ágætt dæmi um hlutdeildina í hinu áðurnefnda ómetanlega búsetulandslagi.
„Úr skarðinu [á Kapelluhraunsbrúninni/Brunabrúninni] liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum. Þegar hér er komið, verður fyrir stígur, er liggur frá Gerðinu, nefnist Gerðisstígur. Lá stígur þessi suður með vesturbrún Brunans. Skammt sunnar lá stígurinn um Hólaskarð milli Brunans og Hólanna, og var hann því allt eins nefndur Hólaskarðsstígur. Rétt sunnan við Skarðið var vik í Brunann. Hér vestur af eru klettaborgir miklar; í lægð milli þeirra er Þorbjarnarstaðaker, djúpt jarðfall, og var þar hætta fyrir fé. Það komst ekki upp úr. Þorkell Árnason bóndi á Þorbjarnarstöðum hlóð tröppur upp, og eftir það var fé engin hætta búin. Lægðin nefndist Stóridalur. Skammt vestar var svo Litlidalur. 

Þorbjarnarstaðakerið

Ofan við Hólana allt frá Bruna og vestur að Óttarsstaðarauðamel liggur Seljahraun. Seljahraunsstígur liggur gegnum það upp með Brunanum. Seljatún nefndist lítil, gróin flöt norðan hraunsins.“
Þorbjarnarstaðakerið er vandfundið, líkt og önnur mannvirki í Hraununum. Það er þó þarna. Hleðslan er áþreifanlegur minnisvarði um Þorkel bónda – og burkninn, sem þar vex nú, er hinn ágætasti minnisvarði um þann ágæta mann. Þorkell, sem var frá Guðnabæ í Selvogi, og Ingveldur, dóttir Jóns Guðmundssonar hreppsstjóra á Setbergi (Guðmundar Jónssonar hins fjárglögga úr Tungunum), einnig þá í Garðahreppi, áttu 11 börn. Þorkell var löngum við róðra eða vinnumensku annars staðar, en Ingveldur annaðist bæði uppeldi barnanna og búreksturinn. Segja má því með sönnu að Ingveldur Jónsdóttir hafi verið dæmigerð móðir, dugnaðarkona og því verðug að minnast – ekki síst í ljósi síðari tíma krafna um jafnrétti versus ábyrgð og skyldur.

Thorbjarnarstadir

Áætlanir eru uppi um að „valta yfir“ menningarminjar í Selhrauni (Selhraunum) og nágrenni og gera þar akstursæfingasvæði. Slík framkvæmd, ef af yrði, væri hin mesta sóun menningarverðmæta í umdæmi Hafnarfjarðar á síðari árum – og er þó nóg komið af slíku síðustu ár og áratugi.
Hvorki Byggðasafn Hafnarfjarðar né menningarfulltrúi Hafnarfjarðar, hvað þá kjörnir bæjarfulltrúar, hafa svo sem lyft litlafingri til mótvægis við fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu. Nýleg fornleifaskráning á svæðinu er í einu orði sagt háðung. Og íbúarnir virðast algerlega ómeðvitaðir, og jafnvel áhugalausir, um verðmæti svæðisins til lengri framtíðar litið. Þarna er jú um að ræða eina vitnisburð og einu tengsl íbúanna við fortíðina, þá arfleifð er skilaði þeim til þessa dags – nútímans. Hana ber bæði að virða og heiðra – markvisst.
Sá einn sem fær tækifæri til að standa á barmi Þorbjarnarstaðakersins, staldra við og horfa niður á hleðslurnar og gróðurinn, veit hvaða mikilvægi fortíðin hafði fyrir nútíðina. Hleðsla Þorkels sést enn og er táknræn – henni var ætlað fyrir fé er rataði óvart niður í kerið í snjóum, en hefði ella orðið þar til. Fyrir tilstuðlan hleðslunnar komst það upp úr jarðfallinu – og lifði.

Thorbjarnarstadir

Þorbjarnastaðaborg.

Þorbjarnastaðastekkur

Gengið var upp með vestanverðum Þorbjarnarstaðatúngarðinum með það fyrir augum að skoða Straumsstíg (Straumsselsstíg) upp í Tobbuklettaskarð, rekja síðan markavörður með hraunbrún til suðurs, fara niður í Grenigjá og fylgja gjáargötunni inn á Straumsselsstíg og síðan til baka.

Tóftir Þorbjarnarstaða í Hraunum

Meðfram austurtúngarðinum á Þorbjarnastöðum lá Straumsstígurinn. Honum var fylgt norður með tvöfalt hlöðnum túngarðinum. Var þá fyrst komið að Lambhúsinu, sem er rétt utan við Lambhús-hliðið. Vikið var svolítið af leið. Við norðurtúngarðinn er/var Þorbjarnastaðaréttin, vel hlaðin rétt af grjóti. Hún hefur haldist vel – hleðslur eru um 120 cm að jafnaði. Hér var haustrétt fyrir Innhraunin eða Austur-Hraunabæi, þ.e. Litla- og Stóra-Lambhaga, Gerði, Þorbjarnarstaði og Péturskot – fallegt mannvirki og fagur vitnisburður um fyrrum búskaparhætti í Hraunum.
Skammt austur frá hliðinu á austurtúngarðinum eru tveir hraundrangar, nær mannhæðarháir og voru áberandi af sjó fyrrum. Þeir nefndust Riddarar. Um þá og Riddarann á Helgafelli (austanvert fellið) var mið á Rifið út frá Óttarsstaðatúni. Þar utan við er nú innsiglingin inni í Straumsvíkurhöfnina. Fiskurinn lá gjarnan í hraunkantinum og það vissu útvegsbændurnir.
Í GránuhelliRétt suður af Þorbjarnarstaðatúni er Miðmundahæð. Á henni er Miðmundarvarða og austur af henni er svonefnt Seljahraun sem nær svo að merkjum. Rétt er að geta þess að Geldingahraun (Afstapahraunið eldra) er þarna þversum á millum – ein og glöggleg má sjá). Ofan þessa hrauns er eru svo gjár sem heita Grenigjár. Neðan við Seljahraunið er svo hæð sem heitir Gvendarbrunnshæð og þar er gömul svalalind Gvendarbrunnur. Þá er Rauðimelur, austur af honum er í Hrauninu Rauðamelsrétt. (Þegar hér var komið var örnefnalýsingin komin út fyrir göngusvæðið). Því er hér farið aftur inn á Straumsselsstíg neðan (norðan) Geldingahrauns.
Hér liggur stígurinn upp með sléttri klapparhæð. Norðan hennar er Stekkurinn; falleg heimafjárrétt Þorbjarnarstaðafólksins. Fyrrnefnda var sameignarrétt, en þessi; undir hárri hraunklapparbrún í góðu skjóli, tvíhlaðin af festu, var réttin þeira. Í henni er hlaðin lambakró, sem segir nokkuð til um til ganginn, líkt og sjá má í heimarétt Óttarsstaðamanna allnokkru norðvestar.
Eftir að Stekkurinn/réttin hafði verið virt virðingarinnar viðlits í kvöldsólinni var haldið til vesturs yfir að Gránuhelli/-skúta. Hlaðinn ingangurinn sést vel kunnugum, en getur leynst furðuvel ókunnugum. Innan við opið er flórað gólf, eitt af fáum fjárskjólum með ummerkjum um slíka natni við sauðkindina.
Tobbuklettar austariSkammt norðaustar er varða á enn einum hraunhólnum. Hún virðist merkingarlaus, en ef betur er að gáð má sjá allgóða sprungu í hólinn við vörðuna. Þegar farið var niður í sprunguna var hægt að horfa inn í hinn myndarlegasta skúta þvert á gjána; allgott skjól fyrir þann eða þá, sem þar vildu leynast. Grjót hafði verið fært til við innganginn, en alls ekki þannig að það yki útsýnið í skjólið. Ef laust hefði verið um þetta skjól má ætla að einhver hafi haft um það leynd óskráð orð – einhvern tímann.
Haldið var áfram upp eftir Straumsselsstíg. Í Geldingahrauni er hástend varða, á uppréttu klettanefni. Gengið var  yfir línuveginn og stígnum fylgt upp í Tobbukletta. Klettarnir nafngreindu eiga að hafa verið þrír; og þeir eru það, ef vel er að gáð.
Í örnefnalýsingum hefur verið getið um Tobbukletta vestari og Tobbukletta austari. Einhverra hluta vegna hefa vestari klettarnir verið færðir vestar svo austari Tobbuklettar hafa orðið að Tobbuklettum austari. Í raun eru klettarnir u.þ.b. 30 metra frá hvorum öðrum – sitt hvoru megin við Tobbuklettaskarð.
GrenigjárréttFörum spölkorn til baka. Í örnefnalýsingu segir að „af Tókletti lá landamerkjalínan suður yfir Seljahraun í Tobbuklett vestari. Þar uppi á klettunum er Tobbuklettsvarða. Í skrá G.S. segir, að þarna hafi einnig verið Tobbuklettsrétt. „Nafnið þekkist nú ekki lengur, en þó sést enn fyrir réttum í Grenigjám litlu vestar. Vestur frá Tobbuklettum eru klettar miklir og margsprungnir. Óvíst er um heiti þeirra, en vestan þeirra eru Grenigjár. En suður frá Tobbuklettum liggur landamerkjalínan um Flárnar eða Flárnar nyrðri eða Neðriflár.“
Í skrá Gísla segir, að framan í Tobbukletti vestri hafi verið Tobbuklettsrétt. „Það nafn þekkist nú ekki lengur, en þó sést enn fyrir réttum í Grenigjám litlu vestar, og ljóst er, að hægt hefur verið að reka að í breiðri sprungu, sem hlaðið hefir verið fyrir, í Tobbukletti vestri (skoðað 21. júlí ’80, B. S.).“
Þegar svæðið er skoðað gaumgæfilega mátti sjá hleðslu (aðhald) í klettunum austan Straumsselsstígs. Grasgróningar eru í botninum. Opið er mót norðvestri. Hraunkarl við GrenigjárréttLandamerkjavarðan er ofan skjólsins. Skammt vestar eru Tobbuklettar vestari. Í þeim er fyrirhleðsla í klettasprungu. Ofan sprungunnar er varða; „Tobbuklettsvarða“?
Reyndar ætti austari varðan að hafa þann titil því svo til í beina stefnu frá henni til suðurs eru a.m.k. 6 vörður; landamerkjavörður. Tvær þeirra standa á Draughól. Svo til beint ofan við Grenigjár eru tvær vörður.
Þegar stefnan var tekin frá þeim niður í Grenigjár (sem fremur ættu að heita Birkigjár m.v. hávaxnar birkihríslurnar í lægðum gjánna), var tiltölulega auðvelt að rata leiðina niður í Grenigjárréttina. Gjárnar eru þó ekki nefndar eftir gróðrinum heldur grenjum, sem þar voru (eru).
Réttin er mótuð í náttúrulega ílanga klapparhæð. Fyrirhleðslur er í gjánni og hlaðið umhverfis. Op er á réttinni til norðurs. Austan þess er sérkennilegur og sérstakur hraunkarl, líkt og oft má sjá í aplahraunum.
Þegar gengið var til baka, mót kvöldsólinni, var komið að Miðmundahæð suðaustan Þorbjarnarstaða, eyktamarki frá Þorbjarnarstöðum. Þar er fyrrgreind stór varða.
Þegar komið var niður með tvíhlöðnum görðum hinna gömlu Þorbjarnarstaða, þess einstaka staðar er hýsti, verndi og kom fjölda barna til mannvista, þ.e. tóftir bæjarins anspænis bláköldum nútímanum, stærðarinnar farmskipi og álveri í bakgrunni, vakna óneitanlega spurningar – um lífið og tilgang þess??!!
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Straum (AG og GS) og Þorbjarnarstaði (GS).
-Þorkell Árnason, bóndi á Þorbjarnarstöðum og Ingveldur Jónsdóttir, húsfreyja á Þorbjarnarstöðum.

Alafaraleið

Varða við Alfaraleið.

Brunntorfuskjól

Hrauntungustíg var fylgt suður Selhraun frá Krýsuvíkurvegi, inn í malargryfjur sunnan Brennu og síðan handan þeirra inn í Hrauntungu. Þar var litið á fyrirhlaðið skjól, en síðan gengið áfram til suðurs um Háabruna upp að Þorbjarnarstaðarfjárborginni norðan við Brunntorfur (Brundtorfur – tilhleypingastaður).

Hrauntungur

Hraunkarl við Hrauntungu.

Hrauntungustígur sést vel í sléttu helluhrauninu vestan Krýsuvíkurvegar. Varða er á hraunhól við jaðar malargryfjunnar. Stígurinn hefur verið fjarlægður í gryfjunum, en við suðurjaðar þeirra má sjá vörðu. Frá henni liggur stígurinn áfram inn í Hrauntungu, kjarri vaxinn hólma inni í vesturjarðri Kapelluhrauns. Tungan, sem er á milli Efri-hellra og Þorbjarnarstaðarborgarinnar, hefur verið skjólgóð og beitarvæn. Inni í henni austanverðri er fyrirhleðsla fyrir skúta. Erfitt er að koma auga á opið vegna þess að birkihríslur hylja það að mestu. Lítil varða er á hólnum ofan við opið. Skjólið, sem var smalaskjól, nefnist Hrauntunguhellir og er í hraunhól skammt norðan við nyrstu hrauntunguna úr Brunanum, en svæðið er nefnt eftir tveimur slíkum tungum vestur út frá meginhrauninu.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Hrauntungustígur liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Brunann að Hrauntungum. Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings og að Sauðabrekkum.
Brunanum var fylgt áfram til suðurs. Hver hraunkynjamyndin tók við af annarri.
Þorbjarnarstaðarborgin er efst í Háabrunanum. Hún er heilleg og fallega hlaðin. Það munu hafa verið börn hjónanna á Þorbjarnarstöðum í Hraunum, sem hlóðu hana um aldarmótin 1900. Börnin voru 11, samhent og dugleg til allra verka. Svo virðist sem ætlunin hafi verið að topphlaða borgina, líkt og Djúpudalaborgina í Selvogi, en hætt hafi verið við það.

Þorkell Árnason, bóndi á Þorbjarnastöðum hefur þekkt til byggingarlags hennar því hann var ættaður frá Guðnabæ í Selvogi. Kona kans var Ingibjörg Jónsdóttir, dóttir Jóns Guðmundssonar, hreppsstjóra á Setbergi.

Hrauntunguskjól

Hrauntunguskjól.

Ofarlega í Brundtorfum eru Brundtorfuhellar (Brunntorfuhellir), lágreistir, en þóttu hæfa vel til að hýsa hrúta Hraunamanna og Hvaleyeringa um fengitímann þegar hleypt var til ánna.
Gengið var til baka norður brunann skammt austar. Fylgt var refaslóð þar sem hún lá í gegnum mosahraunið áleiðis að fiskitrönunum austan Krýsuvíkurvegar. Rebbi hefur greinilega fetað slóðina þarna lengi.
Þegar komið var norður fyrir Rallykrossbrautina virtist gamall maður sitja þar á steini. Þegar komið var nær sást hversu steinrunninn hann var.
Kapelluhraunið er talið hafa runnið um 1151, á sama tíma og Ögmundarhraun og Afstapahraun. Öll hraunin eru talin hafa komið úr sömu gossprungunni, u.þ.b. 50 km langri, er náði frá suðurströndinni austan Ísólfsskála að Helgafelli ofan við Hafnarfjörð.

Brunntorfuskjól

Brunntorfuskjól.

Þorbjarnastaðarétt

Ætlunin var að ganga til baka og fram eftir Alfaraleiðinni, hinni gömlu þjóðleið milli Innnesja (Hafnarfjarðar) og Útnesja (Voga, Njarðvíkna, Hafna, Keflavíkur, Garðs og Sandgerðis). Vestari hluti leiðarinnar, milli Hvassahrauns og Voga, hefur jafnan verið nefnd Almenningsleið (Menningsleið), en kaflinn frá Hvassahrauni til Hvaleyrar Alfaraleið.

Gvendarbrunnur

Gangan hófst við nýlegt bílastæði sunnan undirgangna Reykjanesbrautar innan (austan) við Hvassahraun. Þegar Reykjanesbrautin var breikkuð var tekinn hluti af Alfaraleiðinni á þessum kafla. Áður sást hún sunnan brautarinnar, liggja undir hana og síðan spölkorn af henni norðan brautarinnar, ofan við gömlu réttina.

Alafarleið

Alfaraleiðin milli Hafnarfjarðar og Hvassahrauns.

Gengið var beint inn á Alfaraleiðina, gegnt gatnamótunum, þar sem hún byrjar núna. Framundan er nokkuð hæðótt og gróið hraun þar sem vörður sjást á stangli við götuna, þ.a. ein mjög myndarleg er stendur hátt á hraunhól hægra megin hennar. Þegar innar dregur liggur hún um nokkuð slétta, vörðulausa hraunfláka sem nefnast Sprengilendi. Í fyrstu er leiðin óljós en þegar komið er hálfa leið yfir „sléttuna“ skýrist hún verulega og hófför fara að sjást í klöppunum. Í götunni fannst m.a. skeifubrot frá löngu liðnum tíma. Gatan liggur ofarlega á þessu svæði en þó aldrei meira en 3-400 m frá Reykjanesbrautinni. Myndarleg varða við götuna sést á hæðarhrygg framundan.
Innan við Sprengilendið liggur slóðinn ofan við mjög klofinn og sérkennilegan hraunhól en ofan götunnar og hólsins er hæð sem heitir Taglhæð og á henni er merktur jarðsímastrengur. Þarna sveigir Almenningsvegurinn til austurs, hækkar dálítið og fjarlægist Reykjanesbrautina til muna. Næst er haldið yfir kennileitalítið svæði um nokkurn veg. Framundan til hægri við götuna og aðeins ofar er mjög sérkennilegur, stakur klettahóll sem er eins og hetta í laginu. Þessi hóll er mjög áberandi séður frá Reykjanesbrautinni þó hann sé ekki stór. Hér sjást lítil og fá vörðubrot við götuna. Við hólinn liggur Lónakotsselsstígur áleiðis upp í Lónakotssel. Nú fer útsýnið að víkka til muna og fljótlega sést í stóra sprungna klapparhæð í austurátt sem nefnist Smalaskálahæð og klapparhól í framhaldi af henni til suðurs. Stefna götunnar er fast hægra megin við hólinn í stefnu sem næst á Vífilfellið. Þarna liggur Óttarsstaðaselsstígur þvert á Alfaraleiðina. Gatnamótin eru nokkuð glögg. Neðar sést í Kristrúnarborg, fallega heillega fjárborg frá Óttarsstöðum sem sögð er hlaðin um 1870 af Kristrúnu Sveinsdóttur húsfreyju á Óttarsstöðum og vinnumanni hennar. Handan borgarinnar er svo Smalaskálhæðin með fallegum jarðföllum sem gaman er að skoða. Listaverkið Slunkaríki var þar til skamms tíma, en hefur nú verið fjarlægt.
Varða við Alfaraleiðina HvassahraunsmeginÞá er gengið um Draugakróka. Gvendarbrunnshæð heitir næsta hæð en sveigt er upp fyrir hana og farið um Löngubrekkur sem liggja utan í hæðinni ofanverðri. Nú sést í fjárskjól, Gvendarbrunnshæðarskjól, með hleðslum við op og er hellirinn í hæðinni við götuna. Fast austan við fjárskjólið er svo Gvendarbrunnurinn, gott vatnsból í klöpp en um brunninn þveran liggur gömul fjárgirðing, landamerki Straums og Óttarsstaða.
Austar er komið að hárri og uppmjórri vörðu en hún er önnur af þremur fallegum vörðum sem standa við götuna frá Gvendarbrunnshæð að Miðmundarhæð. Nú taka Þrengslin við en þar liggur hún þröngt á milli hárra hraunhóla. Næsta kennileiti er hár og brattur klapparhóll með rismikilli vörðu sem sést víða að. Neðan við hann er gatan mjög greinileg en frá hólnum og ofan eyðibýlisins Þorbjarnarstaða er hún óljós og hverfur loks undir háan hraunkantinn spöl fyrir ofan Gerði (starfsmannahúss á vegum álversins). Þar sem gatan lá upp á hraunið hét Brunaskarð syðra. Mótar enn fyrir því í hraunkantinum þar sem gatan liðast upp á hraunbrúnina.
Framundan eru svo brunaruðningarnir á móts við álverið og að sjálfsögðu sést engin gata þar fyrr en komið er að Kapellunni sem stendur á hraunhól í miðju umrótinu rétt ofan við Reykjanesbrautina beint á móti álverinu. Gatan sést þar á um 10 m kafla. Kapellan, sem var endurhlaðin klúðurslega á sjöunda áratug 20. aldar, er friðlýst lítið grjótbyrgi úr hraunhellum og snúa dyrnar í suðvestur en veggirnir eru tæplega mannhæðar háir. Kapellan er tileinkuð heilagri Barböru, dýrðlingi úr kaþólskum sið. Fyrir innan Kapelluna tekur við rutt svæði, en göngustígur liggur um það áleiðis til Hafnarfjarðar. Þegar komið er inn á hraunið á ný sjást vörðubrot. Þeim er fylgt til norðurs uns gatan beygir undir Reykjanesbrautina þar sem hún fylgir hraunlægðum í áttina að hárri vörðu, sem nú er á golfvellinum. Héðan í frá sést ekki móta lengur fyrir gömlu Alfaraleiðinni milli Hvaleyrar og Hafnarfjarðar.

Í ljóAlfaraleiðins hafði komið að leiðin er vel greinileg svo til alla leiðina, vel mörkuð í landið á körflum og því tiltölulega auðvelt að fylgja henni þar sem hún liggur framhjá Þorbjarnastöðum í Hraunum (fór í eyði um 1930), sunnan Reykjanesbrautar, og áfram vestur úr. Í rauninni er hægt að fylgja gömlu leiðinni frá Hvaleyri og áleiðis að Hvassahrauni þar sem hún kemur niður að Reykjanesbrautinni ofan við hin nýju mislægu gatnamót, sem þar eru.
Fyrsta varðan á leiðinni er nú inni á miðjum golfvellinum á Hvaleyri. Önnur varða, eða vörðubrot, er skammt sunnar. Þriðja varðan er sunnan Reykjanesbrautar. Síðan tekur við svæði Kapelluhrauns þar sem búið er að fjarlægja yfirborðslagið og þar með götuna. Gatan kemur síðan aftur í ljós við kapelluna á u.þ.b. 10 metra kafla og loks þar sem hún kemur niður Brunann ofan við tjarnirnar við Gerði. Efst á Brunanum við götuna er varða. Þá liðast hún með tjörnunum að austan- og síðan sunnanverðu í áttina að Miðmundarhæð. Hún er augsýnileg þar sem Miðmundarvarða stendur uppi á hæðinni.
„Gerði reisti Guðjón Jónsson frá Setbergi um aldamótin 1900. Alfaraleiðin út á Útnes lá svo að segja um túnblettinn. Hann lá yfir Kapelluhraunið, eða Brunann, eins og það var stundum nefnt, síðan lá leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys. Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum. Þegar hér er komið, verður fyrir stígur, er liggur frá Gerðinu, nefnist Gerðisstígur. Lá stígur þessi suður með vesturbrún Brunans.“

Alfaraleið

Alfaraleið sunnan Gerðis – Bruninn framundan.

Gengið var eftir Alfaraleiðinni gömlu frá Gerði þar sem hún kemur niður úr Brunanum sunnan við Hraunshornið, norðan Gerðis, og henni fylgt yfir að brunninum í Brunntjörninni. Flóruð brú liggur út að brunninum, sem er í tjörninni. Þarna var og þvottur þveginn og skammt austar var þvegin ull.
Gengið er framhjá túngörðum Þorbjarnastaða. Að þessu sinni var tækifærið notað og kíkt á tóftirnar sem og Gránuskúta. Þvottastæðið er neðan við Þvottastíginn þar sem er hlaðinn bakki út í tjörnina sunnanverða. Vel má sjá hleðslur gamla brunnsins í tjörninni. Ofan við götuna er Þorbjarnarstaðaréttin undir breiðum klapparhól. Hún er ekki ósvipuð Óttarstaðaréttinni, með tvo dilka, lambakró og fallega hlöðnum veggjum. Réttin var fyrrum nefnt Stekkurinn, en eftir að hann var færður út og réttargerði hlaðið norðan við stekkinn, var hann jafnan nefndur Réttin eða Þorbjarnarstaðarétt.
Alfaraleiðin liggur áfram framhjá Miðmundarholti (-hól/-hæð), yfir Straumsselsstíg. Gatan er vörðuð meira og minna, ýmist með heilum vörðum eða endurupphlöðum. Við Miðmundarhæðina eru gatnamót götu heim að Þorbjarnarstöðum. Önnur gatnamót eru skammt austar. Mun þar vera um að ræða Skógargötuna frá Straumi er lá upp með vestanverðum túngarði Þorbjarnarstaða. Gránuskúti er þarna skammt sunnar, lítið en einstaklega fallegt fjárskjól frá Þorbjarnarstöðum.
Ekki er minnst á Alfaraleiðina í örnefnaslýsingu fyrir Þorbjarnastaði, sem verður að þykja sérstakt því leiðin liggur um land jarðarinnar og hefur án efa haft mikil áhrif á líf fólksins þar. Í örnefnalýsingu (GS) fyrir Straum er hins vegar getið um Alfaraleið. „Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir. Hér mun og vera staður, sem nefnist Himnaríki. Tilefnið er það, að bóndi nokkur í Hraunum ætlaði að fara á Rauð sínum til himnaríkis – eftir viku drykkju. Hann lagði upp undir rökkur með nesti og nýja skó (en kvaðst ekki þurfa sokka, því að nóg væri af þeim í himnaríki). Hesturinn skilaði sér fljótt heim, og sjálfur kom bóndi undir vökulok. Í skrá G.S. segir, að hnakkurinn og beizlið hafi fundizt vestarlega í Draugadölum, en heimildarmenn sr. Bjarna segja, að þetta hafi legið í Stekkatúninu. Síðan er þarna kallað Himnaríki.
Þegar kemur vestur úr þessum þrengslum eða skorningum, má finna götu, sem liggur upp á klappir norðan við þær, og liggur gatan austur áleiðis að Þorbjarnarstöðum. Gata þessi nefnist Vetrarleið. Snjóþungt var í AGvendarbrunnurlfaraleið, en snjóléttara hér og því var hún farin á vetrum.
Sunnan í klettahrauni því, sem hér er, vestan Miðmundahæðar (sjá Þorbjarnarstaði), liggur rani fram úr. Á þessum rana er vel hlaðið Skotbyrgi, sem stendur enn. Fjárgata liggur upp úr rétt hjá byrginu. Í skrá G.S. segir, að hér liggi fram úr hrauni þessu Mosastígurinn og Skógarstígurinn frá Þorbjarnarstöðum, en þennan Mosastíg kannast sr. Bjarni og heimildarmenn hans ekki við (sjá Þorbjarnarstaði).“ Skotbyrgið sést enn, við vestari Straumsselsstíginn, en er ekki í sjónlínu frá Alfaraleið.
Sunnan við Þorbjarnastaði er Stekkurinn eða Réttin undir háum hraunhól. Hún er vel hlaðin. Í henni er lambakró. Þar er Stekkatún.“
Gengið er þvert yfir vestari Straumsselsstíg að Hæðunum. Þá var komið að Gvendarbrunni, litið á fjárskjólið nálægt honum og síðan haldið áfram suður götuna. Brunnurinn er hola í miðjum grasbala á lítilli klapparhæð við götuna. Sagan segir að Guðmundur góði Hólabiskup hafi blessað hann á sínum tíma.
Annars eru Gvendarbrunnarnir a.m.k. fjórir á Reykjanesi, þ.e. þessi við Alfaraleiðina, Gvendarbrunnur í Vogum, Gvendarbrunnar í Heiðmörk og Gvendarhola í Arnarneshæð. Það er líkt með Gvendarbrunnum og Grettistökum að Gvendur og Grettir hafa að öllum líkindum aldrei litið hvorutveggja augum. En það er nú önnur saga. Sá átrúnaður fylgdi svonefndum Gvendarbrunnum (sem talið var að Guðmundur biskup hinn góði hefði blessað) að vatnið í þeim læknaði mein. Þannig var t.d. talið gott að bera það á augu eða á sár svo þau myndu gróa. Nokkrar heilar og fallega hlaðnar vörður eru á þessum kafla leiðarinnar. Skammt vestan Gvendarbrunns má sjá leifar af tveimur stórum vörðum, sem verið hafa beggja vegna götunnar.
Varða í DraugadölumÞegar komið er framhjá Óttarstaðaborginni (Kristrúnarborginni) liggur Óttarstaðaselsstíg (Skógargötuna) yfir hana. Líklega er hér um misskilning að ræða. Skógargötunnar er getið í lýsingu upp frá Straumi. Þar liggur hún til suðurs vestan túngarðs Þorbjarnarstaða með stefnu upp í Draugahraun. Neðan þess eru gatnamót götu er liggur síðan þvert á Óttarsstaðaselsstíg og áfram upp í Skógarnef. Þessi leið er auðfarin, en ógreinileg vegna gróninga, með föllnum vörðubrotum í fyrstu, en vestan Óttarstaðaselsstígs hafa vörðurnar verið endurreistar og því auðveldara um vik. Líklega er hér um hina eiginlegu Skógargötu að ræða.
Smalaskálahæðir eru á hægri hönd. Skammt vestar liggur Lónakostsselsstígur yfir götuna og upp í hæðir. Varðan ofan við selið sést vel. Nú verður gatan óljósari, en ef farið er hægt og rólega og tekin mið af kennileitum og vörðubrotum má sjá hvar gatan hallar til vesturs og líður svo í bugðum áleiðis að Hvassahrauni. Skammt sunnan Reykjanesbrautar, áður en komið er á móts við Hvassahraun, hverfur hún svo til alveg, en Reykjanesbrautin hefur verið lögð yfir götuna á þessum kafla.
Alfaraleiðin er skemmtileg gönguleið um fallegt hraun. Á leiðinni ber margt fyrir augu, sem áhugavert er að staldra við og skoða nánar.
Leiðin milli Hvassahrauns og Þorbjarnarstaða er 6 km. Að ganga þennan kafla leiðarinnar tekur u.þ.b. 1 og 1/2 klst.
Frábært veður.

Heimild m.a.:

-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.
-Örnefnalýsing fyrir Straum.
-Gísli Sigurðsson.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin.

Straumsselsstígur

Gengið var eftir Straumsselsstíg ofan við Þorbjarnastaði og honum fylgt til suðurs upp í Flár. Þar var strikið tekið til vesturs að Gvendarbrunni og Alfaraleiðinni síðan fetuð til norðurs, að Straumsselsstíg.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur vestari – skotbyrgi.

Straumsselsstígur er enn greinilegur. Hann er gróinn í hrauninu og því tiltölulega auðvelt að fylgja honum áleiðis upp að Selhrauni og áfram upp í selið. Að þessu sinni var stígnum fylgt yfir Alfaraleiðina og upp í svonefndar Flár, nokkuð slétt hraun norðan við Selhraun. Á klapparhrygg við stíginn er hlaðið byrgi refaskyttu. Frá byrginu sést vel yfir Flárnar. Refaskyttan hefur getað greint hvern þann ref, sem leið átti niður úr ofanverðu hrauninu í átt að byggðinni í Hraunum. Slík byrgi eru við flest grenin á Reykjanesskaganum. M.a. er mjög svipað byrgi við efri Straumsselshella. Það er hlaðið úr réttarveggnum, sem þar var. Byrgið mun vera hlaðið af Jónasi Bjarnasyni og félögum er þeir voru við tófuveiðar í Almenning skömmu eftir miðja síðustu öld. Svo mun einnig vera um byrgið við Straumsselsstíginn og byrgið við Sléttugrenin norðan við Sauðabrekkugjá. Fallegasta og jafnframt heillegasta byrgið er þó á hraunsléttunni norðvestan við Búðarvatnsstæðið, auk refagildru norðan Húsfells..

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur.

Hrauninu var fylgt til vesturs norðan við Selhraun, að Gvendarbrunni á mörkum Óttarsstaða og Lónakots. Brunnurinn er við Alfaraleiðina, hina gömlu þjóðleið milli Innnesja og Útnesja. Segir sagan að Guðmundur góði biskup hafi vígt brunn þennan líkt og nokkra aðra á Reykjanesi, nefnda eftir honum, s.s. við Voga, í Arnarnesi og í Hólmshrauni. Skammt norðvestan við brunninn er hlaðið fjárskjól undir hraunvegg. Girðingin á mörkum Óttarsstaða og Lónakots liggja við brunninn er má enn sjá undirhleðslur hennar alveg að mörkum Óttarsstaða og Krýsuvíkur uppi í Almenning.
Alfaraleiðin gamla var gengin að Straumsselsstíg og hann síðan að upphafsstað. Fallegar vörður eru við gömlu götuna sem og gatnamótin. Skammt austan þeirra er varðan á Miðmundarholti; Miðmundarvarða, eyktarmark frá Þorbjarnastöðum.
Frábært veður. Gangan tók 50 mín.

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Þorbjarnastaðir

Gengið var um land Þorbjarnarstaða í Hraunum. Bæjartóftirnar eru þær síðstu heillegu er minna á gamla torfbæinn í landi Hafnarfjarðar.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir og nágrenni.

Álfélagið keypti uppland bæjarins af Skógrækt ríkisins á litlar 100 milljónir króna fyrir nokkrum árum. Til stóð að kaupa einnig Þorbjarnarstaðalandið, þ.e. heimalandið, og reyndar munaði litlu að bærinn seldi það frá sér, en sem betur fer varð ekkert úr því. Ekki það að landið færi ekki vel í höndum álfélagsins, heldur ber bæjarfélaginu skylda til að sjá svo um að minja svæði sem þetta varðveitist innan þess og verði gert öllum aðgengilegt er þess óska. Ákjósanlegast væri að gera Þorbjarnastaði upp og leyfa síðan fólki að skoða hann sem ímynd og fulltrúa þeirra bæja er fólk lifði og dó í á 19. og byrjun 20. aldar. Fátt mælir á móti því að álfélagið styrki þá framkvæmd, enda í áhugaverðu sjónarhorni frá Þorbjarnarstöðum þar sem gamli og nýi tíminn mætast.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.

Sóknarmannatöl allt frá árinu 1801 varpa ljósi á búsetu á Þorbjarnarstöðum síðustu tvær aldir. Þau segja m.a. til um mannfjölda á bænum. Einnig gefa hreppsreikningar á Þjóðskjalasafni góða sýn á bátakost, búfénað, mannfjölda á bænum. Í reikningum Álftaneshrepps frá 1845 5 kýr á Óttarsstöðum, en bara 2 á Þorbjarnarstöðum og 40 ær á móti 60 á Óttarsstöðum. Einnig eru nefndir bátar, kálgarðar, mótekja, o.fl. Í Jarðabókinni frá 1703 segir margt um jörðina á síðustu öldum. Í Jarðabókinni segir t.d. um Straum varðandi fóðrun kúa: „Fóðrast kann iii kýr “bjarglega“ . En um Þorbjarnarstaði segir : „Fóðrast kann iii kýr, “naumlega“. Þetta segir að Straumur hafi verið betri jörð árið 1703 en Þorbjarnarstaðir. Sveiflur á milli jarðaverðmæta voru að sjálfsögðu háðar náttúru- sem og þjóðfélagsbreytingum hvers tíma. Margt fleira má lesa út úr Jarðabókinni varðandi jarðarverðmætin á viðkomandi tíma og samanburð á milli jarðanna.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Þorbjarnastaðir eru hið ákjósanlegasta dæmi um torfbæ þessa tímabils. Burstirnar snéru mót suðvestri (sólaráttinni), heimtröðin liggur milli bæjarins og matjurtargarðsins, sem er hlaðinn til að verja hann ágangi skepna. Útihúsin eru bæði fast við bæinn sem og í nálægt hans. Frá bænum til norðausturs liggur vatnsgatan, sem einnig þjónaði sem heimtröð að og frá Alfaraleiðinni, gömlu þjóðleiðinni minni Innnesja og Útnesja.

Þorbjarnastaðir

Þvottarbrú og brunnur við Þorbjarnastaði.

Til eru frásagnir af viðkomu fólks á þessum síðasta bæ í byggð áður en komið var að Hvassahrauni. Aðrir Hraunabæirnir voru mun neðar og norðar. Í vályndum veðrum gat stundum komið sér vel að finna skjól inna veggja bæjarins, þrátt fyrir mikla ómegð, sem þar var um tíma. Börnin voru 11 talsins undir það síðasta, en Þorkell bóndi Árnason var oft fjarri heimahögum, t.d. við sjósókn, til að afla lífsviðurværis. Á meðan annaðist Ingveldur Jónsdóttir, dóttir Jóns sýslumanns Guðmundssonar á Setbergi, barnahópinn. Auk þess sá hún um skepnurnar og um annað er þurfa þótti til heimilisins. Börnin urðu öll manndómsfólk.

Þorbjarnastaðir

Brunnstígurinn við Þorbjarnastaði.

Líklegt má telja að Ingveldur og börn hennar hafi löngum gengið brunngötuna niður að tjörnunum norðan við bæinn, bæði til þvotta og til að sækja þangað vatn í brunninn. Þau komu því einnig svo fyrir að hægt var að geyma lifandi fisk um nokkurn tíma í tjörnunum. Með fyrirhleðslum var komið á jafnvægi í hluta tjarnanna, sem annars gætti í fljóðs og fjöru. Ferskt vatn kemur undan hrauninu ofan við brunnstæðið, en með því að veita því í ákveðna rás, var hægt að viðhalda sjávarseltunni í einstaka tjörn. Það var lykillinn að „fiskgeymslunni“. Enn í dag sést brunnurinn vel sem og hvar ferskt vatnið kemur undan hrauninu ofan hans.
Enn má sjá móta fyrir öllu þessu, og raunar miklu fleiru. Það er alveg á sig leggjandi að ganga frá gamla Keflavíkurveginum, yfir á Alfaraleiðina ofan við Gerði og fylgja henni ofan við tjarnirnar, norðan Þorbjarnastaða. Á leiðinni sést allt það sem að framan er getið. Það sem eftir er birtist ljóslifandi er gengið er í hlað eftir brunngötunni að Þorbjarnastöðum.
Vonandi verður bærinn gerður upp þegar fram líða stundir – og skilningur á mikilvægi þess eykst. Það getur aldrei orðið til annars en bóta. Á og við Þorbjarnastaði er allt, sem prýtt gat dæimgerðan íslenskan bæ, s.s. bæjarhús, matjurtagarður, heimtröð, brunnur, fjárskjól, rétt, stekkur, selsstígur, sel og annað tilheyrandi.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir.

Öskjuholtsskjól

Gengið var með Jónatani Garðarssyni um nokkra skúta í landi Hvassahrauns, Straums og Þorbjarnarstaða. Byrjað var á að rölta upp í skúta í Öskjuholti með viðkomu í Virkinu undir Virkishólum, þaðan var haldið í skúta í Smalaskála, þaðan eftir Alfaraleiðinni yfir að Þorbjarnarstöðum, að Loftskúta (Grænudalaskúta) og stefnan tekin á Gránuskúta og síðan Kápuskjól og Kápuhelli í Jónshöfða með viðkomu í stóru Tobburétt (Grenigjárrétt) og litlu Tobburétt.

Þorbjarnarstaðir

Gránuskúti – fjárskjól ofan Þorbjarnarstaða.

Virkið var nota til tilhleypinga í brundtíð.
Sunnan undir Öskjuholti, klofnum ílöngum hraunhól skammt ofan línuvegarins um Hvassahraun, er gat. Hleðsla er um gatið. Þegar inn var komið sást vel hvar hlaðið hafði verið efst fyrir skútann, en að utan er vel gróið yfir hleðsluna. Um er að ræða lágt, en rúmgott fjárskjól. Innst undir hlöðnum veggnum voru nokkur bein. Erfitt er að koma auga á opið, nema komið sé að holtinu úr suðri.
Á Smalaskálahæð er varða. Önnur er norðar og sú þriðja skammt austar. Sunnan undir holtinu, sem þar er miðsvæðis er gat. Hleðsla er um gatið. Þegar inn var komið blasti við rúmgott fjárskjól. Fyrirhleðsla er innar í því til að varna fé áframhaldandi för inn eftir hvolfinu. Skjólið er nokkuð þurrt. Nokkrir smalaskálar eru í hraununum. Yfirleitt var nafnið notað um skála eða skjól, en það virðist ekki eiga við á Reykjanesskaganum. Þar virðist heitið hafa verið notað um hæðir, nema nöfnin hafi verið tengd hæðum með skjólum í, líkt og þarna.
Skoðaðar voru landamerkjavörður milli Hvassahrauns og Lónakots sem og leiðarvörður við Alfaraleiðina og komið við í Loftskúta, fallegu fjárskjóli. Þar eru og sagnir um að menn frá Hvassahrauni hafi geymt rjúpnafeng sinn er þeir voru við veiðar í hrauninu.
Nokkur leit hefur verið gerð að Gránuskúta, Kápuskjóli og Kápuhelli, en tveimur þeirra er lýst í örnefnaslýsingu fyrir Þorbjarnastaði.

Kápuskjól

Kápuskjól (Kápuhellir).

Gengið var um heimatún Þorbjarnastaða, rústir síðasta torfbæjarins í landi Hafnarfjarðar. Búið var að Þorbjarnastöðum fram undir seinna stríð (1940). Þar bjuggu síðast Ingveldur Jónsdóttir, dóttir Guðmundssonar á Setbergi, og Þorkell Árnason frá Guðnabæ í Selvogi. Þau eignuðust 11 börn – og það þótt húsbóndinn hafi yfirleitt verið fjari bæ til að afla lífsviðurværis. Það færi vel að gera bæinn upp og hafa hann til sýnis sem dæmi um slíka bæi er voru víða í umdæminu. Hann hefur allt til að bera; heimagarð, vörlsugarð, heimtröð, brunn, selstíg, stekk og fjárskjól.
Gránuskúti er ekki auðfundinn. Hann er sunnan við Þorbjarnastaði, austan Miðmundarhæðrar. Falleg hleðsla er um munnann, en þegar inn er komið tekur við flórað gólf að hluta og fyrirhleðslur. Skjólið er mjög rúmgott og hefur verið vel lagfært. Þá er það óvenjuþurrt. Grána gæti verið nafn á á frá Þorbjarnarstöðum, líkt og Grákolla í frásögninni af Arngrímshelli í Klofningum, þeirri er allt fé Krýsuvíkurbænda átti að hafa verið komið frá.
Haldið var upp í gegnum Selhraun og upp í stóru Tobburétt í Grenigjá. Um er að ræða fallegar hleðslur í og um gjána. Greni er skammt norðan við hana. Steintröll vakir yfir gjánum. Svæðið er allvel gróið. Austar er litla Tobburétt. Gengið var að henni í bakaleiðinni.

Tobburétt

Tobba við Tobburétt.

Straumsselsstígnum var fylgt upp í Jónshöfða. Þar í Laufhrauni komu bæði Kápuskjól og Kápuhellir í ljós. Þessa skúta er einnig erfitt að finna. Lítil varða er á höfðanum ofan við skjólin. Hún er á landamerkum Þorbjarnarstaða og Straums. Skjólið er í landi Straums, en hellirinn í landi Þorbjarnastaða. Fallegar fyrirhleðslur er fyrir þeim báðum. Hellirinn er heldur stærri. Fjárkyn Þorkels á Þorbjarnastöðum var sagt kápótt og þótti allsérstakt. Þá var það ferhyrnt og snúið upp á hornin, sem einnig þótti sérstakt.
Straumsselsstíg var fylgt niður að litlu Tobburétt í Tobbuklettum. Fyrirhleðsla er í stórri hraunsprungu, en ef vel er að gáð má sjá að hlaðinn bogadreginn veggur hefur verið framan við hana. Hann hefur verið leiðigarður fyrir fé, sem rekið var að réttinni að ofanverðu. Stígurinn liggur nú í gegnum garðinn. Þegar horft var á þverklett sprungunnar mátti vel sjá móta fyrir andliti í honum. Ekki er ólíklegt að ætla að álfarnir hafi viljað með því láta vita af tilvist sinni á svæðinu með þeim skilaboðum að fólki gæti þar varfærni.
Annars eru álfa- og huldufólksáminningar víða í hraununum. Þeir, sem gaumgæfa og kunna að lesa landið vita og þekkja skilaboðin. Þegar farið er eftir þeim er engin hætta búin, en ef einhver gleymir sér að er ólæs á landið – guð hjálpi honum.
Gengið var til baka eftir Straumsselsstíg í gegnum Selhraunið og niður að Þorbjarnastöðum.

Öskjuholtsskúti

Í Öskjuholtsskúta.