Tag Archive for: Þórkötlustaðir

Hópsnes

Gengið var um Hópsnes, framhjá Siggu, ofan við Bólu, framhjá Hópsnesvita (sem heitir í raun Þórkötlustaðaviti því landamerkin eru í fjörlægan stein u.þ.b. 60 metrum vestan hans), um Þórkötlustaðanesið, um Strýthólahraun, framhjá Leiftrunarhól, ofan við Þórkötlustaðabótina, yfir Kónga, neðan Buðlungu, inn á Klappartúnið, upp á Sloka og að landamerkjum Hrauns nyrst í Slokahrauni. Róleg ganga um þessa leið tekur nálægt klukkustund, en nú var ætlunin að staldra við af og til og gefa flestu því merkilegasta á leiðinni sérstakan gaum – af mörgu er að taka.

Hóp

Hópnes – uppdráttur ÓSÁ.

Í bókinni “Frá Suðurnesjum – Frásagnir frá liðinni tíð”, lýsir Guðsteinn Einarsson örnefndum og staðháttum með strandlengju Grindavíkurumdæmis í skrifum sínum “Frá Valahnúk til Seljabótar”. Um þetta svæði segir hann m.a.:
“Um sundin á Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum er til gömul þjóðsaga, sem hér fer á eftir:
Í fyrndinni voru aðalhöfuðbólin í Grindavík, hvort við sitt sund; Járngerðarstaðir við samnefnt sund og Þórkötlustaðir við sitt sund. Ekki er getið nafna bændanna á höfðubólum þessum, en konurnar hétu, Járngerður á Járngerðarstöðum og Þórkatla á Þórkötlustöðum.

Hópsnes

Fiskgarðar á Hópsnesi.

Engir aukvisar munu bændunrir þó hafa verið, þó nafna þeirra sé ekki getið, því þeir höfðu mannaforráð, svo sem betri menn höfðu, og stjórnaði hvor sínum bát, af kappi miklu, þannig, að þeir fóru lengra og sátu lengur en fjöldinn.
Einhverju sinni, þegar flestir Grindvíkingar voru á sjó, bar það til, að sjó tók að brima, sem kallað var, þ.e. þegar aldann vex svo að hún fer að brotna yfir leiðina (sundin). Bátarnir höfðu fljótlega farið að leita lands og allir verið komnir í land þegar þeir heimabændurnir komu hvor að sínu sundi. Þá gerðist það, að bóndi Járngerðar fórst með allri áhöfn á Járngerðarstaðasundi, en bóndi Þórkötlu hafði komist klakklaust inn Þórkötlustaðasund.

Hópsnes

Sjóbúð á Hópsnesi.

Hitnað mun þeim frúnum hafa í hamsi við að bíða eftir afdrifum bænda sinna, því eftir að séð var, að maður Járngerðar hafði farist á Járngerðarstaðasundi, lagði hún það á, að á því sundi skyldu farast 20 bátar. Aftur á móti lagði Þórkatla þá, að á Þórkötlustaðasundi, réttförnu, skyldi enginn bátur farast.
Þetta þykir allt hafa orðið að áhrínsorðum, þannig að enginn bátur hefur farist á Þórkötlustaðasundi, en talið að 20 bátar hafi farist á Járnegrðarstaðasundi og enginn eftir að komið var í þá tölu.

Sigga

Sigga.

Fram af Sölvaklöppum (undan Hópsnesi) er skerstandur úti í sjónum; sá heitir Bóla. Sigga heitir stór og mikil varða, þarna uppi á kampinum; ekki veit ég önnur deili á henni, en hún var notuð sem mið af sjó. Þá koma Hópslátur; það eru klettarnir með malarbásum framan á Þórkötlustaðanesi. Austan við Hópslátur halda áfram svipaðir Klettaranar, sem heita Kotalátur. Mörkin milli þessara klettalátra eru landamörk milli Hóps og Þórkötlustaða. Fram af þessum látrum, beint fram af Nesinu, kemur nokkuð hundruð metra langur skerjatangi fram í sjó, er kallast Nestá; fer í kaf á flóðum, en upp úr á fjörum.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – Þórshamar neðst og bryggjan efst.

Þarna á Nesinu varð hinn 18. janúar 1952 eitt hið hörmulegasta sjóslys, sem orðið hefir hér í Grindavík, þegar mb. Grindvíkingur fórst þar með allri áhöfn, fimm ungum og hraustum mönnum. Þá má segja, að þegar hin ótömdu náttúruöfl eru í sínum mestu hamförum, eins og var í þetta skipti, megi alltaf búast við slysum. En þarna fórst stærsti og besti báturinn, að talið var þá í Grindavík.

Gamalt máltæki segir, “að Guð fleyti jafnt grátitlingum sem gamalálftinni”. Og víst er um það, að náttúröflin virðast í öðru tilfellinu leggja sig fram um að bjarga öllu sem best, en í hinu að tortíma og eyðileggja.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Fyrir austan Kotalátur koma Austurbæjarlátur; þá Þórkötlustaðalátur. Sagnir eru um, að einhvers staðar á þessum látrum hafi skip strandað á árunum 1880-´90. Þetta hafði verið kútter og heitið Vega – verið með saltfram. Mannbjörg hafði orðið, en skipið brotnað. Sumarið 19?? í norðan kalda og sléttum sjó sigldi og þarna upp í nestána þrímastrað briggskip; var að koma til landsins með saltfarm. Það flaut upp í næsta flóði, barst undan kaldanum frá landi og losnaði þannig úr strandinu.

Sloki

Fiskgarðar á Sloka.

Austan við Látrin er Leiftrunarhóll. Frá honum liggja svo kölluð Rif austur og út á Þórkötlustaðavíkina.

Strýthóll

Efri Strýthóll.

Í fjörunni niður undan hólnum lenti enskur togari hinn 23. mars 1932. Skipshöfninni var komið í björgunarbát og út á hættulausan sjó. Heyrði ég sagt að varðskipið Ægir hefði náð þessum togara út með því að koma taug í togarann. Þarna nálægt Leiftrunarhól hafa þá tvö skip strandað, sem náðst hafa út aftur, en það eru líka einu skipin, sem vitað er um að grinfdavíkurfjörurnar hafi sleppt aftur.

Hópsnesviti

Hópsnesviti/Þórkötlustaðanesviti.

Innar undir Leiftrunarhól, víkurmegin, strandaði í maímánuði 1917, ensk skonnorta með saltfarm og eitthvað af síladartunnum. Sú hét Scheldon Abby. Áhöfnin komst í björgunarbáta, en skipið liðaðist í sundur næstu daga.
Innan Leiftrunarhóls koma næst Drítarklappir, þá Stekkjafjara og varirnar á Þórkötlustaðanesi. Þar var þriðja bryggjan (auk bryggjunnar neðan Hvirfla í Staðarhverfi og neðan Járngerðarstaða), byggð 1930. Allar þessar bryggjur, sín í hverju hverfi, má segja að hafi komið að miklum notum með því að losa menn við það hroðalega erfiði að bera allan aflann á bakinu upp úr fjörunni. Fyrir þá bættu aðstöðu hefir og eitthvað meiri afli komið á land, svo að þannig, bæði beint og óbeint, hefir fé það, sem í þær fór, fengist endurgreitt, þótt nú séu þær allar ónotaðar og einskis virði.

Þórkötlustaðanes

Lifrabræðslan.

Innan við varnirnar er klettur, sem heitir Draugur, þá Draugsklappir, Herdísarvík – upp af henni í kampinum eru hólar kallaðir Kóngar -, þá Miðmundarflöt og Syðri- og Heimri-Bót. Þarna í Bótinni er sögn um, að eftir miðja 19. öld hafi frönsk skúta strandað þar. Áhörnin gekk sjálf upp á hlaið á Einlandi, en skipstjórinn, sem gekk fremstur, féll í hlandforina framan við bæinn og var næstum drukknaður þar. Félagar hans brugðust skjótt við og björguðum honum í því er bóndinn á Einlandi, Hannes, birtist í dyragættinni.

Þórkötlustaðanes

Fiskgarðar á Kóngum.

Austan við Bótina, í klettunum niður af Þórkötlustaðabæjunum, er Buðlungavör. Meðan árabátarnir voru, var sú vör notuð, alltaf þegar fært þótti, en í öllu misjöfnu lent í Nesinu, sem kallað var, og áttu þeir Þórkötlustaðamenn því aflann eftir hverja vertíð á tveim stöðum. Þetta breyttist, þegar vélarnar komu í bátana (trillur). Eftir það var eingöngu lent í Nesinu.
Austan við Buðlunguvör koma Slokin; út af þeim samnefndur skerjatangi, sem gengur vestur og út í Þórkötlustaðavík, og er sundið inn í víkina á milli þessara tanga og þeirra, sem liggja út frá Leiftrunarhól og áður er getið.

Slok

Slok – fiskigarðar.

Þarna á Slokanum er álitið að eitt af stóru slysunum hafi orðið. Það var nóttina áður en mb. Aldan frá Vestmannaeyjum rak upp í Nesið að vestanverðu, að annan vélbát frá Vestmannaeyjum, Þuríði formann, sem einnig varð fyrir vélbilun í sama veðrinu, rak þar upp. En þr tóku höfuðskepnurnar öðru vís á hlutunum. Þegar fólk kom á fætur á Þórkötlustöðum, varð þar vart við óeðlilega mikið brak í fjörunni, og þótt allt væri mjög maskað niður, sást þó, að þarna hafði Þuríði formann rekið upp og hún farist með allri áhöfn.

Þórkötlustaðanes

Pétur Guðjónsson við Höfn í Þórkötlustaðanesi.

Næsta örnefni við Slokin er svo Markabás. Þar eru landamerki milli Þórkötlustaða og Hrauns.”
Þórkötlustaðaneshraunið kom ofan úr Vatnsheiði, en í henni eru þrír gígar. Falleg, stór og skjólgóð hrauntröð liggur eftir Nesinu. Í raun væri hún kjörin til útivistarnotkunar. Endur og gæsir verpa beggja vegna gjárinnar.

Pétur Guðjónsson, skipstjóri, sem uppalinn er í Höfn á Þórkötlustaðanesi, einu af þremur íbúðarhúsum, sem þar voru, hefur í annarri FERLIRslýsingu sagt frá mannlífi og minjum á Nesinu fyrir miðja 20. öldina. Við þá skoðun komu í ljós gömul mannvirki, bæði ofan við sjávarkambinn og ofar í Nesinu.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni í Þórkötlustaðanesi.

Í Strýthólahrauni eru t.d. gömul þurrkbyrgi, lík þeim sem sjá má við Ísólfsskála og á Selatöngum. Ofar eru miklir þurrkgarðar líkt og í Herdísarvík, en þeir segja til um hina gömlu vinnusluaðferð fiskjarins er allt far þurrkað og hert. Fáir virðast vita af þurrkbyrgjunum í Strýthólahrauni og því hafa þau varðveist svo vel sem raun ber vitni.
Austan við Strýthólahraun má sjá tóftir og minjar í kringum Þórshamar, en útveggir hússins standa enn við Flæðitjörnina. Jóhann vitavörður bjó þar síðastur manna.

Þórkötlustaðanes

Innsiglingarvarða og Þórshöfn á Þórkötlustaðanesi.

Suðaustan við húsið er manngerður hóll. Hann virðist vera fjárborg eða tóft, miklu mun eldri en allar minjar umhverfis. Sunnan við húsið er heillegt fjárgerði og fjárhústóft. Suðvestan við það eru minjar hins eina skrautblómagarðs, er þá var til í umdæmi Grindavíkur. Eflaust hefur hann vakið mikið umtal og margar vangarveltur á þeim tíma er lífið snerist um þurrfisk og síðan saltfisk (undir steini).

Ofan bryggjunnar milli Kónga og Strýthóla eru mörg íshúsanna er komu við sögu seinni tíma útgerðar á Nesinu.

Þórkötlustaðanes

Ískofi á Þórkötlustaðanesi.

Klöpp er austastur Þórkötlustaðabæjannna. Bæjartóftin kúrir austan undir fjárhúsgafli Buðlungu. Beint vestan hennar má sjá austustu sjávargötuna í hverfinu, en þær voru þrjár talsins. Þarna fæddist m.a. Árni Guðmundsson, síðar bóndi í Teigi. Faðir hans, Guðmundur í Klöpp var formaður og þótti veðurglöggskyggn með afbrigðum og aflasæll. Klappartúnið er nú í eigu afkomenda hans í þriðju kynslóð þótt aðrir stelist stundum til að nýta það á óstundum. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi mun hafa gist í Klöpp er hann var við sjósókn á yngri árum því hann ritaði m.a. Jóni Árnasyni dagsett bréf þaðan um söfnun og skráningu þjóðsagna, sem hann var iðinn við. (Hafa ber í huga hér gæti einnig verið um að ræða Klöpp í Selvogi, en Brynjúlfur var þó nokkrar vertíðir í Grindavík og dvaldist þar).

Þórkötlustaðir

Hraunkot.

Hraunkotið, sem er skammt norðar, var upphaflega þurrabúð frá Klöpp. Þannig var að bændur í hverfinu leyfðu vermönnum, sem hjá þeim réru og ílengdust, að byggja sér kofa eða kotbýli meðan ekki varð landskerðing. Þegar fram liðu stundir efldust kotin, kind kom og kýr, þá kona og loks krakki. Köttur og krafa um lánaðan landsskika fylgdu í kjölfarið. Allt var þetta látið meinlaust meðan miðaði.
Í Slokahrauni eru miklir þurrkgarðar og einstaka þurrkbyrgi frá löngum fyrri tíð. Hafa þau að mestu fengið að vera í friði, en eru nú verðmætar leifar hins liðna. Ofan við Markabás er Sögunarhóll. Þar söguðu men rekan og má sjá hlaðin hrauk við hólinn þar sem viðurinn var hafður.
Í Hraunkoti eru fallegar hleðslur heimtraðarinnar sem og fallegar og heillegar garðhleðslur. Frá Slokahrauni er fagurt útsýni yfir að Hraunsvík og Festarfjalli. Í fjörunni eru víða grágrýtishnyðlingar og annars sérstæðir gatasteinar. Hraunreipin neðan Klappar eru og einstaklega falleg.
Frábært veður.

Sloki

Sloki – uppdráttur ÓSÁ.

Þórkötlustaðir

Álagasteinninn Heródes er vestan traðanna, innan garðs Vestari-Vesturbæjar í Þórkötlustaðahverfi.

Heródes

Áletrun á Heródesi.

Sagnir eru um að steininn egi hvorki færa né raska honum á nokkurn hátt. Talið var að fornar rúnir væru markaðar á hlið steinsins, en ef vel er að gáð í réttri birtu má sjá þar klappað á bókstafinn „S“, ferkantaðan.
Sú sögn hefur gengið mann af manni að þennan stein beri að umgangast af varfærni. Dæmi er um að illa hafi verið hirt um steininn og hefur þá hinum sama bæði liðið illa og gengið brösulega uns úr var bætt. Nú er löngu gleymt hvers vegna, en þó er ekki útilokað að einhver búi enn yfir þeirri vitneskju.Álagasteinar eru víða til og engin ástæða til annars en að taka ábendingar um þá alvarlega. Eflaust er einhver ástæða fyrir ábendingunni, s.s. grafstaður, staður þar sem sýn hefur birst, annað hvort í sjón eða draumi, sóttarstaður eða jafnvel tilbúningur. Hvað sem öllu líður er ekki hægt að útiloka að ábendingin sé af alvarlegum toga og því full ástæða til að fara varlega. Mörg dæmi eru þekkt þar sem menn hafa gengið gegn álögum og hlotið skaða af, einkum frá álfum.
Sjávargöturnar í Þórkötlustaðahverfi voru þrjár. Steinninn er skammt frá Mið-götunni. Ekki er ólíklegt að ætla að þar hafi sjómenn fyrrum gengið framhjá og signt sig á leið til skips, líkt og við Járngerðarleiðið við sjávargötuna milli Járngerðarstaða og Fornuvarar. Skammt neðar lá gamla gatan milli Hrauns og Ness (Þórkötlustaðaness).

Heródes

Heródes.

Festarfjall

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur má m.a. sjá pistil eftir ritstjórann, Óskar Sævarsson, um „Silfru og Festarfjall„. Þar segir:

Sifra

Silfurgjá.

„Silfurgjá heitir gjá ein í Grindavík, skammt frá Járngerðarstöðum. Gjáin ber nafn af kistum tveim er þar eiga að vera geymdar.
Skulu kistur þessar vera úr skíru silfri og að öllum líkindum ekki alveg tómar af öðru verðmæti. Kisturnar eru yfirskyggðar og ósýnilegar, en þær losna og koma í ljós ef bræður tveir frá Járngerðarstöðum sem báðir heita sama nafni ganga í gjánna, en samtímis verður dóttir bóndans á Hrauni, sem er austastaði bær í Þórkötlustaðahverfi, að ganga undir festina í Festarfjalli.

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Festarfjall heitir fjallið sem gengur þverhnýpt í sjó fram milli Hrauns og Ísólfsskála. „Festin“ sem fjallið dregur nafn sitt af er í raun basaltgangur sem liggur í gegnum fjallið niður í sjó, en þó gegnt fyrir festarendann um fjöru.

Festarfjall

„Festin“ í Festarfjalli.

Festin á í raun réttri að vera úr skíru silfri, þótt hún sé svona ásýndum og losnar hún ef stúlkan gengur undir hana á sömu stundu og piltarnir hverfa í gjána.
En sá galli er þó á gjöf Njarðar að þessi bóndadóttir frá Hrauni verður að heita sama nafni og tröllskessa sú sem kastaði festinni fram af fjallinu. En enginn veit hvað sú skessa hét eða heitir eða hvort hún er lífs eða liðin. Á þeirri stundur sem tröllskessan kastaði festinni fram af fjallinu hét þar Siglubergsháls sem fjallið er, en bergið Sigluberg þar sem festin liggur.

Festarfjall

„Festin“ í Festarfjalli neðst.

Hér er þá komin hin forna sögn sem gengið hefur manna á millum í árhundruð hér í Grindavík. Staðirnir og örnefnin sem fram koma eru sem greypt í mannlífið og er skemmst frá því að segja að t.d. félgasheimlið okkar hét Festi, nokkur fyrirtæki hafa borið nöfn eins og Silfurhöllin, Festi h/f og Silfurberg sem voru útgerðarfyrirtæki.
Í gamali kálfskinnsbók (að öllum líkindum að finna á Írlandi) frá anno 400 post Cristum natum ritast; að Ísland hafi verið byggt Írum er hafi hingað út farið á 8 skipum og verið hér á landinu í 200 ár.

Festarhringur

Festarhringur.

Eftir það er mælt að niðjar þeirra er byggð áttu á Írlandi hafi hingað komið og séð hér yfir 50 elda og var þá útdautt hið gamla fólk (nefnt Troll í hinu gamla handriti).
Þar komur og fram örnefnið Siglubergsháls; ritast „Og við Sigubergsháls sem skuli hafa verið í Grindavík“ skyldu ískir hafa fest skipum sínum, þá hingað komu og segja gamlir menn að um stórstraumsfjöru megi þar sjá járnhringa fasta í sjávarklöppum.“

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2022 – Silfra og Festarfjall, Óskar Sævarsson, bls. 103.

Silfra

Í Silfurgjá.

Þórkötlustaðir

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1903 skrifar Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi m.a. um skálatóft við Austurbæinn á Þórkötlustöðum í Grindavík.
Thorkotlustadir-220„Á Þorkötlustöðum í Grindavík var í vor (1902) bygð heyhlaða í bæjarhúsaröðinni, og grafið fyrir henni nál. 3 al. djúpt í jörð. Þar komu menn niður á merkilegar byggingarleifar. Kom fram grjótveggur langsetis eftir gröfinni, þeim megin sem inn vissi í húsagarðinn. Neðst stóð framundan þeim vegg svo sem ‘/2 al. breitt þrep, tæplega hnéhátt, alveg slétt ofan, og svo vandað og óhaggað, að byggingarmenn létu það standa og höfðu það fyrir undirstöðu undir bakvegg hlöðunnar. Ofan á þessu þrepi var stæðilegur grjótveggur, rúml. 1 al. á hæð, eða að þrepinu meðtöldu um 2 al. á hæð. Langs með þessu þrepi, svo sem 2 al. frá því, lá grjótbálkur eftir endilöngu, viðlíka hár og þrepið, eða vart það. Hann var nál. 2 al. breiður og allur lagður flötum hraunhellum ofan. Á þeim öllum var eldslitur.

Thorkotlustadir-221

Var mér sýnt brot úr einni þeirra og var eldsliturinn auðsær. Hinumegin bálksins, viðlíka langt frá honum, sáust leifar af framvegg. En auðséð var, að hann hafði einhverntíma áður verið rifinn og mest alt grjótið úr honum tekið burtu. Báðum megin við bálkinn var gólfskán, um 2. þml. á þykt. En ofan á henni var þykt lag af svörtum sandi, sem líktist eldfjallaösku. Tveir byrkidrumbar láu í tóftinni, annar var brunninn utan, en ófúinn innan, nál. 6 þml. í þvermál; hinn viðlíka digur, óbrunninn og með berki, en fúinn. Eigi var grafið fyrir enda þrepsins eða bálksins; var gröfin þó vel 12 al. löng. Tóku bæjarhúsin við að norðanverðu. En í suðurenda grafarinnar tók við fjósflór; og var að sjá, sem fjósið hefði verið framhald sömu byggingarinnar. Þetta virðast hafa verið leifar af fornum eldaskála. Þrepið ætlað til að sitja á, en bálkurinn arinn, til að kinda langeld á, og er merkilegt, að hann var upphleyptur.

Thorkotlustadir-222

Eldfjallaaskan ofan á gólfskáninni bendir til þess, að bærinn hafi lagzt í eyði um hríð og tóftirnar staðið opnar fyrir öskufalli. Má og vera, að hraunið, sem myndar Þorkötlustaðanes og runnið hefir á báða vegu við túnið, sé yngra en bygging landsins, og verður þetta þá auðskilið.“
Hið síðastnefnda getur reyndar ekki staðist því hraunin, sem nú mynda Þórkötlustaðanes að vestan og Slokahraun að austan er um 2400 ára og eru hlutar Sundhnúkahrauns.
Hlaðan fyrrnefnda var vestan Austurbæjar. Austan hans var hins vegar Miðbær og Austari Austurbær, auk eldiviðarskúrs. Sjávargangstígur lá niður að vörinni milli húsanna og sést hann enn. Mótar og enn fyrir undirstöðum þessara húsa. Milli núverandi Austurbæjar og Vesturbæjar má sjá hluta skálatóftarinnar, auk sjávargötunnar vagnfæru er lá niður að vörinni fyrrnefndu.
Þegar skálasvæðið var skoðað mátti augsýnilega greina hlaðinn langvegg utan hlöðunnar, sem rifin var á fimmta áratug síðustu aldar.

Heimild
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1903, Brynjúlfur Jónsson, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902, bls. 47.Thorkotlustadir-223

Þórkötlustaðarétt

 Eftirfarandi upplýsingar um Þórkötlustaðarétt eru fengnar úr minni Sigurðar Gíslasonar frá Hrauni við Grindavík, 84 ára (f: 05. maí 1923).

Sigurður Gíslason

Sigurður Gíslason við hrossabyrgi við Húsfell.

Siggi á Hrauni, eins og hann er jafnan nefndur, þekkir manna best austurumhverfi Grindavíkur. Hann man tímanna tvenna og hefur ávallt verið reiðubúinn að miðla öðrum fróðleik um liðna tíð. Siggi fylgdi FERLIRsfélögum að réttinni í Þórkötlustaðahverfi, sem lítið hefur verið vitað um – fram að þessu. (Rétt er að geta þess að Þórkötlustaðahverfið í Grindavík er eitt hið fegursta með því nafni á gjörvöllu landinu).

“Þórkötlustaðaréttin, sú sem nú er, var komin, óbreytt að stærð og lögun, þegar ég man fyrst eftir mér. Faðir minn sagði að hún hefði verið hlaðin af Grindavíkurbændum um aldamótin 1900.

Grindavík

Þórkötlustaðaréttin 1. ágúst 2022.

Grjótið var að að einhverju leyti úr Vatnsheiðinni, auk þess sem kom upp úr túnsléttun í hverfinu og áreiðanlega hefur hraunhella verið þarna umhverfis réttina. Hún var síðan endurbætt fyrir nokkrum árum. Réttin hefur ávallt þótt góð til síns brúks.

Fyrrum var fé Grindvíkinga vel á fjórða þúsund á vetrarfóðrum. Féð af fjalli fyllti safnhólfið sem og alla dilka. Urðu bændur að rýma af og til úr dilkunum svo þeir gætu dregið allt sitt fé. Þegar gerðið kom til ofan við réttina greiddist heldur úr þrengslunum. Fjárbóndinn Dagbjartur Einarsson hefur upplýst um heildarfjáreign Grindarvíkurbænda á vetrarfóðrum, en hún mun nú vera 524 um þessar mundir (2007) og er þá allt meðtalið.

Þórkötlustaðarrétt

Gamla Þórkötlustaðarréttin við Efra-Land.

Áður var lögréttin í Krýsuvík, suðvestur undan Arnarfelli (Arnarfellsréttin). Hætt var að nota hana um 1950. Þangað til varð að reka úrdrátt frá Þórkötlustöðum upp í Krýsuvík og var afgangsféð selt þar.

Réttin suðaustan við Bæjarfellið var vorrétt. Þá voru rúningsréttir t.d. á Vigdísarvöllum og í Stóra-Hamradal, sem enn sjást leifar af.

Áður en Þórkötlustaðaréttin kom til réttuðu Þórkötlustaðabændur þar sem nú er grjótgarður vestast innan girðingar Efra-Lands, þ.e. þar í norðvesturhorninu, sem nú er. Þar var Gamla réttin. Í henni var enginn dilkur, einungis gerði. Sjá má leifar hennar ef vel er að gáð. Réttin var mun stærri en ætla mætti, en grjót var tekið úr henni og notað í garðana, sem sjá má ofan við Efra-Land.“

Rétt

Hafur-Björn Molda-Gnúpsson er sagður, ef marka má þjóðsöguna, hafa átt gnægð fjár, enda „efnaðist hann mjög af fé“ eftir draumfarirnar með landvættinum og tilkomu geithafursins í hjörð hans (þess vegna er allt fé Grindvíkinga öðruvísi en annað fé landsmanna), og bræður hans fiskuðu aldrei sem fyrr. Auðguðust þeir bræður bæði af gæðum lands og sjávar.

Þórkötlustaðaréttin

Þórkötlustaðarétt.

Ekki þarf að leita að fjárrétt Hafur-Björns og bræðra því annað hvort hafa þeir ekki þurft að rétta eða sú rétt gæti löngu verið komin undir hraun því ekki eru ófá hraunin við Grindavík, sem runnið hafa eftir að ætt Molda-Gnúps bjó þar eftir árið 934. Fyrstu heimildir um byggð í Þórkötlustaðahverfi er um miðja 13. öld, en þá höfðu hraunin ofan núverandi byggðar runnið og kólnað að mestu.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – skálasvæðið er á milli húsanna.

Við norðvesturhúshornið á núverandi Þórkötlustöðum (Miðbæjar) eru tóftir fornaldarskála að mati Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi (skrifað 1903). Hann skyldi þó aldrei vera eldri, og það jafnvel mun eldri, en gosið ofan við Grindavík árið 1226. Minjarnar, ef vel er að gáð og ef tilgáta Brynjúlfs er rétt, gætu þess vegna verið frá upphafi landnáms í Grindavík.

Neðripartur þessar umfjöllunar tengist ekki umfjöllunni um Þórkötlustaðarétt, nema fyrir það að einungis örkotslengd er á milli hennar og hans.

Fé

Við Þórkötlustaðarétt.

 

Þórkötlustaðahverfi

Gengið var um Þórkötlustaðahverfi í Grindavík.

Heródes

Heródes.

Árið 1703 voru Þórkötlustaðir eign Skálholtsstaðar. Bærinn hafði selstöðu í landi Krýsuvíkur, á Vigdísarvöllum. Hjáleigur voru; Eyvindarhús, Ormshús, Eingland, Klöpp, Buðlunga og tómthúsið Borgarkot. Ekki er vitað hvar Ormshús eða Borgarkot voru. Áður var hjáleigan kölluð Lundun. Árið 1847 hafði hjáleigan Lambúskot bæst við, en 8. ágúst 1787 og síðan 26. janúar 1791 voru Þórkötlustaðir komnir í þrjá hluta (austurparturinn, vesturparturinn og miðparturinn). Þríbýli var á Þórkötlustöðum lengst af á 19. öldinni. Heimræði var árið um kring (1703), en enga engjar. Sjórinn gekk á túnið og braut land að framan. Árið 1840 eru túnin stór og slétt, en hartnær þriðjungur þeirra kominn í móa fyrir órækt og hirðuleysi. Þar var og sæmilegt beitiland fyrir fáan fénað, en þar amar vatnsleysi sem víðar. Syðst á nesinu var fyrrum selalátur frá Þórkötlustöðum. Mikið af landinu er eldbrunnið og bæirnir stóðu austast í landareigninni við sjóinn. Land jarðarinna var frekar mjótt, en nokkuð langt. Lending var dágóð á Þórkötlustaðasundi og margvísleg hlunnindi voru í Nesinu.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Nú eru Þórkötlustaðabæirnir tveir, Miðbær og Vestari-Vesturbær. Áður voru þarna einnig Vesturbær, sem stóð á milli Miðbæjar og Vestri-Vesturbæjar, og síðan Austurbær og Eystri-Austurbær, sem báðir stóðu austan við Miðbæinn.
Áður en Sigmundur Jónasson tók við búi á Þórkötlustöðum á 17. öld voru öll hús á jörðinni skoðuð og metin… „níu vistarverur innabæjar og skiptust í stóra skála, litlu og stóru baðstofu, vesturskála, „hornhús“, „hús innar af skála“ og eldhús. Útíhús voru fjós, hlaða, smiðja og skemma og loks tveir hjallar, annar heima við bæ, en hinn fram á nesinu. Öll voru húsin orðin gömul og hrörleg, og um sum var þess getið, að þau væru að hruni komin vegna elli og fúa. Útveggir voru flestir sagðir „trosnaðir“ og illa farnir, en innveggir virðast sumir hafa verið öllu skrár komnir. Mörg útihúsanna voru hurðarlausar og virðast hvorki halda vatni né vindi.“

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – flugmynd. Fornaldarskáli er á milli húsanna.

Í rannsókn sinni í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902 segir Brynjúlfur Jónsson að „á Þórkötlustöðum í Grindavík var byggð heyhlaða í bæjarhúsaröðinni. Þar komu menn niður á merkilegar byggingarleifar. Eldfjallaska ofan á gólfskálinni bendir til þess, að bærinn hafi lagst í eyði um hríð og tóftirnar staðið opnar fyrir öskufalli. Má vera að hraunið, sem myndar Þórkötlustaðanes og runnið hefur á báða vegu við túnið, sé yngra en bygging landsins, og verður þetta þá auðskilið.“ Samkvæmt hugmynd Brynjúlfs virðist þarna hafa verið um fornaldaskála að ræða. Nú hefur hlaðan verið rifin og svæðið stendur tilbúið til uppgraftar, þ.e.a.s. ef einhver hefur þá yfirleitt einhvern áhuga á að skoða undirlag svæðisins.

Klöpp

Klöpp – tóftir.

Tóftir eru skammt vestan við Sólbakka. Þær eru nýlegar fjárhúsleifar frá Hofi. Fjárhúsin suðvestan við Vestari-Vesturbæ voru áður fjárhús og fiskverkunarhús frá Vesturbænum. Þar áður voru þarna fiskhús frá Duus-versluninni í Keflavík og Lafollie-versluninni á Eyrabakka skammt vestar. Annars eru þarna gamlir kálgarðar allt um kring. Sunnan við Miðbæinn voru áður fjárhús og saltverkunarhús frá Miðbænum. Austan við þau voru fiskverkunar- og salthús frá Vestari-Austurbæ. Traðirnar liggja þarna niður að sjó milli bæjanna. Vestan í austasta kálgarðinum var fiskverkunar- og salthús frá Eystri-Austurbænum.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – Túnakort 1918.

Samkvæmt túnkorti frá 1918 var brunnur skammt (40 m) norðan við Miðbæ. Að honum lá gata frá Einlandi. Brunnurinn var notaður af öllum bæjunum. Nú sést móta fyrir brunninum í malbikuðum veginum framan við hliðið að Valhöll (áður en malbikið var endunýjað).
Á milli Valhallar og Miðbæjarins eru tvær bárujárnsklæddar skemmur. Sunnan í syðri skemmunni er hesthústóft. Nyrðri skemman er flór, skv. uppl. Margrétar á Hofi, en sú syðri var ýmist notuð sem fjós eða hesthús.
Kálgarðar eru víða í Þórkötlustaðahverfi, sem fyrr segir. Skv. túnakorti frá 1918 var t.d. kálgarður 50 m vestan við Lambúskot. Garðurinn var frá Eystri-Vesturbæ. Veggirnir hafa verið grjóthlaðnir, þ.e. uppkastið úr túnsléttunni notað til vegghleðslu. Oftast var grjóti, sem týnt var úr móanum, hlaðið í hrauka eða í garða ef því var við komið. Flestar túnbæturnar ofar í hverfinu eru tiltölulega nýlegar því ræktunarmörkin voru til skamms tíma rétt ofan við veginn í gegnum hverfið. Þá var t.a.m. Þórkötludys við mörkin.

Buðlunga

Buðlunguvör.

Klöpp var hjáleiga frá Þórkötlustöðum skv. Jarðabók JÁM 1703. Tóftirnar eru enn greinilegar. Þær eru tvær, báðar vel heillegar. Hleðslur eru úr torfi og grjóti. Grjótið er að einhverju leyti tilhöggvið. Sunnan bæjartóftanna er tröð, um 10 metra langar, suður á kampinn, sbr. síðargreint (austasta sjávargatan).
Móar voru norðan við Einland. Þar eru nú mikar hleðslur um afmarkaða kálgarða. Bærinn var syðst í görðunum. FERLIR mun fljótlega fara með heimamanni um tóftir Móa. Þá verður rústunum þar lýst bæði vel og skilmerkilega. Þegar Móastæðið er skoðað vakti hleðsla, lík sléttum hól, athygli. Hún er um 10 metrum sunnan við eystri kálgarðaþyrpinguna að Móum, í sléttuðu túni. Þar voru fjárhús.

Klöpp

Gamla Klöpp – uppdráttur ÓSÁ.

Fjárhústóftir eru í túninu austan við Buðlungu. Umhverfis tóftirnar er óslétt tún, en fast sunnan þeirra er stórgrýttur sjávarkambur. Um 6 m austan við tóftirnar er gjóthlaðinn túngarður í norður-suður. Sjávarkamburinn er kominn alveg upp að tóftunum að sunnanverðu.
Í örnefnaskrá AG segir: „Austast á merkjum mót Hrauni, niður við sjóinn, er bás inn í klettana, og heitir hann Markabás… Vestur frá Markabás eru smáhvilftir og kvosir með sjó, sem heita einu nafni Básar. Ná þeir vestur að svonefndir Stóruklöpp. Vestan hennar er aðallending, sem nefnd er Buðlungavör. Fram undan vörinni eru tveir boðar, sem heita Fjósi og sá ytri Lambhúsi“.

Guðsteinn Einarsson segir í lýsingu sinni að „austan við Bótina í klettunum niður af Þórkötlustaðabæjunum, er Buðlunguvör.

Þórkötlustaðanesi

Fiskigarðar ofan Kónga.

Meðan árabátaranir voru, var sú vör notuð, alltaf þegar fært vera, og áttu þeir Þórkötlustaðamenn því aflann eftir hverja vertíð á tveim stöðum. Þetta breyttist þegar vélar komu í bátana (trillur). Eftir það var eingöngu lent í Nesinu.“ Ef gengið er suður traðirnar milli Miðbæjar og Vestaði-Vesturbæjar, sem enn standa á Þórkötlustaðatorfunni, fram á kampinn og þá lítið eitt austar, gengur klöpp í suðsuðaustur fram í sjó. Austan við klöppina er lygnara en þar er lendingi í Buðlunguvör.“ Engin mannvirki eru þarna við sjóinn önnur en ryðgaðir festarboltar.

Þórkötlustaðahverfi

Sundvarða ofan Þórkötlustaða.

Sundvarðan ofan við Buðlunguvör var neðst í túninu, suðvestur frá húsinu. Sjórinn lagði vörðuna reglulega útaf, en hún var alltaf endurhlaðin á meðan lent var í Buðlunguvör [eða fram til 1929. Buðlunguvör var einkum notuð af Þórkötlustaðabæjunum að sumarlagi]. Nú hefur sjórinn hins vegar tekið vörðuna. Sundvarða í Buðlungu átti að bera í fjós og lambhús á túninu hjá Einlandi og þaðan eru nöfn boðanna dregin.
Fast norðan við bárujárnsskúr austan við Buðlungu er fjárhústóft, sem nú er orðin jarðlæg.
Randeiðarstígur var gata milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hún farin áður fyrr, en aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna“, segir í örnefnaskrá LJ.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Tóftir Hraunkots eru austast í túninu, við túngarðinn. Götur milli Hrauns og Þórkötlustaða lágu í austur-vestur í gegnum hraunið með stefnu á kotið. Það sér móta fyrir Hraunkotsgötu (sunnar) og Þórkötlustaðagötu (norðar) í hrauninu austan Hraunkots og best í landi Hrauns. Hins vegar eru þær horfnar í túninu vestan kotsins.
Austast á merkjum móti Hrauni er bás inn í klettna er heitir Markbás. Þar utar er tangi er gengur fram í sjó og heitir Slok og upp af honum er Slokahraun. Nafnið er tilkomið af slokrhljóðinu er báran skall undir hraunhelluna á tanganum. Þar ofar er Markhóll, smáhóll upphlaðinn á Leiti milli bæjanna. Þarna eru tveir hólar, grónir í toppinn, alveg á kampinum og er Markhól sá syðri af þeim. Girðing liggur þarna í suður frá Austurvegi með stefnu á hólinn. Umhverfis hólinn er úfið mosagróið hraun. Hann er um 7 m hár og sker sig greinilega frá umhverfinu.
Eyvindarhús voru um 100 m vestan við Búðir. Þar er nú steyptur grunnur á smá bungu í sléttuðu túni. Árið 1703 er getið um Eyvindarhús sem hjáleigu. Árið 1918 er einnig etið um Eyvindarstaði sem kot í norðvesturhorni Þórkötlustaðatúns. Þar stóð síðast timburhús, en það ásamt Miðhúsum var flutt í Járngerðarstaðahverfi um 1950.

Þórkötlustaðahverfi

Valhöll í Þórkötlustaðhverfi. Helgi Andersen stendur þar sem brunnurinn var.

Tómthúsið Borgarkot stóð fyrir norðan bæinn vestasta. Ekki er vitað hvar býlið var, sem fyrr segir, en líklegt er að það hafi staðið vestan við Valhöll, vestan við Brunnskákina svonefndu. Hún var ofan við Þórkötlustaðbrunninn, sem nú er undir malbikinu framan við hliðið að Valhöll. Hann var fallega hlaðinn, en var fylltur möl til að forðast slysum líkt og títt var um slíka brunna.
Tl fróðleiks má geta þess að þurrabúðir eða tómthús voru reist úr jörðum bæjanna, s.s. Hraunkot úr landi Klappar. Vermönnum var gjarnan leift að byggja sér hús í jarðri bæjanna ef það kom ekki niður á landkostum. Þeir ræktuðu skika umhvergis, endurgerðu húsakostinn og smám saman urðu húsin að kotum. Í rauninni eignaðist þurrabúðarfólkið aldrei skikana, en vegna afskiptaleysis afkomendanna má segja að þegjandi samþykki hafi fengist fyrir eignarhaldinu.
Slokahraun er á merkum Þórkötlustaðahverfis og Hrauns. Þar eru leifar fiskigarða og það mikið af þeim. Slokahraun er austan við sjávarkampinn frá Þórkötlustöðum. Það er mosagróið apalhraun.

Þórkötlustaðanes

Lending á Þórkötlustaðanesi.

Garðarnir eru hlaðnir úr hraungrýti og liggja þvers og kruss um hraunið án þess að mynda ákveðið munstur. Þeir eru mosagrónir, en misvel standandi. Hleðsluhæðin er milli 0,5-1,0 m. Garðarnir teygja sig allt austur að Markhól, en eru þá í Hraunslandi.
Á milli Vestari-Vesturbæjar og Miðbæjar eru traðir suður að sjávarkampi. Hlaðnir kálgarðar eru beggja vegna traðanna. Traðrinar eru 30 m langar og um 3 m breiðar, Hleðslurnar eru grjóthlaðnar, en allgrónar á köflum. Traðirnar, eða sjávargöturnar, í Þórkötlustaðahverfi voru þrjár. Sú austasta er beint neðan við elsta Klapparbæinn (flóruð), önnur er neðan við Miðbæ og sú vestasta er framangreind. Gamli Klapparbærinn stóð skammt sunnar og austan sjávargötunnar. Tóftir sjást enn.

Þórkötlustaðir

Heródes – áletrun.

Álagasteinninn Heródes er vestan traðanna, innan garðs Vestari-Vesturbæjar. Sagnir eru um steininn þann að hann megi hvorki færa né raska á nokkurn hátt. Talið var að fornar rúnir væru markaðar á hlið steinsins, en ef vel er að gáð í réttri birtu má sjá þar klappað á bókstaf eða tákn.
Nokkrir kálgarðar eru sunnan Þórkötlustaðabæjanna, flestir hlaðnir. Sunnan þeirra eru fjárhúsin.
Ef við færum okkur svolítið ofar í hverfið verður fyrir Gamla-rétt. Um 350 m norður af bæjarhól í hraunjaðrinum norðvestan við Efra-Land er grasbali inn í hraunið. Í honum, við túngarðinn, er hlaðin kró, sem nefnd er Gamla-rétt. Sunnan við balann er sléttað tún, en hraun norðan við hann. Um hraunið, fast norðan túngarðsins, liggur Austurvegur í austur-vestur. Vel má sjá hann liggja út frá gamla garðhliðinu vestan við Hraun.
Hvammur er um 100 m austan við Efra-Land, fast norðaustan við Þórsmörk.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – ískofi.

Hraunkot er austast við túngarðinn á Þórkötlustaðabæjunum, fast við fyrrnefndar hleðslur í Slokahrauni. Tóftirnar eru á litlum hól austast á túninu upp við túngarðinn. Efst og austast eru tvær tóftir. Grjóthlaðnar tröppur eru niður í garðinn. Vestan við garðinn miðjan er dálítil dæld í túninu. Hraunkot er ágætt dæmi um þurrabúð eða tómhús í Grindavík. Venjulega gekk það þannig fyrir sig að vermaður fékk leyfi til að byggja sér hús í jaðri jarðar, sem hann grjóthreinsaði í kringum, komst yfir hænu, kind eða kú, eignaðist konu, krakka og kött og allt óx þetta upp í kot. Í rauninni áttu hann aldrei blettinn undir húsinu eða í kringum það, en fékk að vera þar ef það truflaði ekki jarðeigandann. Afkomendurnir urðu hins vera ráðríkir á skikann, endurbætu híbýli og bættu við fé.

Þórkötludys

Þórkötludys – Sigurður Gíslason á Hrauni við dysina.

Þórkötlustaðahverfi væri lítils virði án Þórkötlu. Þjóðsagan segir að „Þorkatla hafi búið á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar.
Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.“
Í örnefnalýsingum segir að „í túninu austur af bæ er sagt sé leiði Þórkötlu.“ Samkvæmt lýsingum elstu heimamanna, s.s. Sigurðar Gíslasonar á Hrauni, er það í öðrum (eystri) að tveimur grashólum í túninu austan við Hof. Staðsetningin passar vel við þá sögn að sú gamla hafi viljað láta dysja sig í túninu þar sem sæi yfir sundið (Bótina).

Eyrargata

Eyrargata.

Járngerðardysin mun vera undir veginum við Hlið og Þórkötludys mun vera á framangreindum stað. Sá, sem vildi raska þeirri sögu með einhverjum hætti, þætti hugaður í meira lagi, ef tekið er mið af þeim brögðum er slíkir menn hafa beitt í gegnum aldir.
Þegar litið er á upplandið er fróðlegt að huga að inum gömlu þjóðleiðum. Þar segir m.a. um Skógfellastig eða Vogaveg: „Norður af Vatnsheiði er kallað Sprengisandur. Um hann lá gamli vegurinn, einnig um Lyngrima… Dalahraun. Það hraun eru fremur mishæðalítið, nema þar rís norður allhátt fell, sem heitir Stóra-Skógfell. Austan þess er gamall vegur, nefndur Skógfellavegur, stundum nefndur Vogavegur. Austan Svartsengis eru sléttar klappir með melum og vikri á milli og heitir þar Sprengisandur og lá gamli Vogavegurinn þar um. Vogavegurinn liggur austan Stóra-Skógfells og var nefndur þar Skógfellsvegur og tekur við af Sprengisandi“, segir í örnefnaskrá LJ, „en afleggjari er af Skógfellavegi til Hóps og Járngerðarstaðahverfis.
Eyrargötunni var fylgt út á Þórkötlustaðanesið. Hún sést sumstaðar enn. Gömul gata, sem enn sést, liggur og áfram vestur af nesinu um norðanvert Strýthólahraun.

Austur af vitanum á Nesinu er Leiftrunarhóll. Framan af honum er Stekkjarfjara. Upp af Stekkjarfjörunni, á milli Leifrunarhóls og Þórshamars, er Stekkjartún… Það er gróið, en grýtt graslendi, mjög óslétt. Það nær að Flæðitjörn. Í Stekkjartúni eru nokkrar tóftir, einhverjar þeirra eru þó ungar frá því búið var Í Nesinu.

Þórkötlustaðanes

Fiskigarðar á Nesinu.

Vestan Flæðitjarnar eru hlaðnir grjótgarðar, Hraungarðar. Þeir eru í úfu hrauni, uppgrónu að hluta. Hraunsmenn þurrkuðu þar skreið þegar þeir lentu í Nesvör, segir í örnefnalýsingu. Garðarnir liggja þarna um allt og virðast ekki fylgja neinu ákveðnu mynstri. Þeir voru hlaðnir úr hraungrýti, fallnir að miklu leyti.
Skotti er nokkur stór pollur ofan kampsins, norðan Nesvarar, og þar noðrur af er hóll, flattur að ofan með hlöðnum grjótgörðum, kallaður Krabbagerði. Krabbagerði er um 70 m austan við rústir Hafnar, sem var nyrsti bærinn í Nesinu. Hóllinn sjálfur er gróinn og allt umhverfis hann, nema til austurs þar sem stórgrýttur kampurinn skríður inn í landið. Hleðslur eru alveg fallnar og virðist sem grjót hafi verið fjarlægt úr þeim. Af þeim má hins vegar sjá hvernig mynstrið var, þ.e. líklega sex aðskildir garðar í austur-vestur.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – örnefni.

Nesvör var niður og norðan við Leiftrunarhól, norðan Stekkjarfjöru. Nesvörin var svo nefnd til aðgreiningar frá Buðlungavör. Upp af Vörinni og norðan við Flæðitjörn er Sundvörðuhóll. Þar stendur Sundvarða. Nesvör er u.þ.b. í miðju Þórkötlustaðanesi austanverðu, um 100 m sunnan rústanna af Höfn, sem var nyrsti bærinn í Nesinu. Guðsteinn Einarsson segir m.a. um Nesið: „Meðan árabátarnir voru, var Buðlungavör notuð, alltaf þegar fært var, en í öllu misjöfnu var lent í Nesinu, sem kallað var. Þegar vélar komu í bátana var eingöngu lent í Nesinu. Þarna eru steyptar leifar bryggjunnar (reist 1932-3), nú uppfullar af grjóti, sem sjórinn hefur rutt upp í þær.
Látrargötur voru slóðar úr vesturenda Stekkjartúns í Látur. Slóðirnir liggja í grónu túni, en einnig móta fyrir þeim í hrauninu sunnan við túnið. Göturnar eru ekki sérlega djúpar, en afar greinilegar, allt að fjórir paldrar saman.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – örnefni.

Framundan Krabbagerði í flæðamálinu og við syðri enda Herdísarvíkur eru háar klappir, nefndar Draugar. Þar norður af er vík, Herdísarvík. Upp af henni í norðurenda eru klettahólar, sem heita Kóngar. Upp af Kóngum tekur við Kóngahraun og inn undir miðju nesi í norðvestur frá Kóngahrauni er hár hóll með grasþúfu í toppinn, sem heitir Gjáhóll. Hjá Gjáhól er lægð, sem heitir Gjáhólslægð. Síðan tekur Þórkötlustaðabót við og skiptist hún í tvo hluta. Fyrst Syðri-bót og síðan Heimri-bót. Upp af Heimri-bót eru sandflatir nefndar Brunnflatir. Eftir þeim liggur vegurinn um Nesið. Austur af Heimri-bót taka við Vötnin, svartar klappir. Þar rennur ósalt vatn um fjöru.

Látrargötur

Látrargötur.

Brunnflatir voru áður söndugar, en eru nú uppgrónar allt vestur í hraunið. Neðst á Brunnflötum við kampinn var grafinn brunnur, þar sem skepnum var vatnað áður en brunnur var grafinn hjá Þórkötlustöðum. Í norðurnenda Brunnflata, um 100 m sunnan hraðfrystihússins og um 50 m vestan kampsins, er gróin hringlaga gróp, um 1 m í þvermál. Umhverfis hana er talsvert af grjóti, gróið í svörðin. Óvíst er hvort þetta eru leifar brunnsins því skv. örnefnaskrá var hann við kampinn og má vera að hann sé löngu kominn undir hann. Eftir lýsingum elstu núlifandi manna virðist brunnurinn þó enn vera sjáanlegur ofan við kampinn.
Eftir Brunnflötum lá gata og sunnan við sandorpnar hæðir vestur af Brunnflötum, við norðurenda Gjáhólsgjáar, í átt að Rifinu (Eyri). Hét hún Eyrargata, en lítið markar fyrir henni nú.
Norðarlega í Þórkötlustaðanesi er pípuhlið á veginum sem liggur suður í Nesið. Kálgarðar eru í grónum grýttum tanga, sem gengur þar til austurs.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – sundvörður.

Við bryggjuna í Nesvör í Þórkötlustaðanesi eru tvær sundvörður. Vörðurnar eru í grónu, en sósléttu og grýttu túni norðan við rústir Þórshamars, sem er sysða húsarústin í Nesinu. Eystri varðan er fast vestan við leindinguna í Vörina norðaustur af Þórshamri, fast við sjávarkambinn. Sú vestari er um 50 m vestsuðvestur.
Sunnan við Nesvör er gróið en grýtt tún, Stekkjatún. Sunnan og suðaustan við úfið mosagróið hraun. Í hrauninu eru ótal rústir hleðslubyrgja og hleðslugarða. Byrgin virðast vera um 2×2 m að stærð og er skammt á milli þeirra.
Pétur Guðjónsson, skipstjóri, lýsir vel mannvirkjum ofan við Nesvörð í Sjómannablaði Grindavíkur árið 2004. Þar er sérhver ískofi og beitningaskúr tíundaður, lifrabræðslan sem og saltkofar á svæðinu.

Þórkötludys

Þórkötludys.

Kálgarður er sunnan við Þórshamar. Þar er og skrúðgarður. Tóftir eru austan við húsið. Útishúsið stendur þar enn, nokkuð heillegt. Merkasta tóftin er gerði utan um manngerðan hól, sem óvíst er hvað hefur að geyma. Líklegt má telja að þessar minjar sem og þurrkbyrgin í Strýthólahrauni skammt vestar séu með elstu mannvirkjum á Nesinu.
Austnorðaustan við Þórshamar er Flæðitjörn. Meðfram henni sunnanverðir liggur heimreiðin, upphlaðin að hluta, á um 50 metra löngum kafla. Hleðslan er um 2 metra breið.
Minjarnar í Þórkötlustaðahverfi eru „óður um fátækt og óupplýst fólk, sem bjó yfir miklu viti og djúpum tilfinningum.“

Sjá meira undir Þórkötlustaðarhverfi II.

Heimildir m.a.:
-Saga Grindavíkur.
-Jarðabók ÁM 1703.
-Fornleifaskráning í Grindavík.
-Jón Árnason IV 231.
-Örnefnalýsing.

Við Þórkötlustaðarétt

Fé við Þórkötlustaðarétt.

Járngerðarstaðir
Í Landnámu (Sturlubók) er þess getið að Molda-Gnúpur Hróflsson hafi numið Grindavík, líkleg aum 934, og Þórir haustmyrkur Vígbóðsson nam Selvog og Krýsuvík
Synir Molda-Gnúps voru Gnúpur, Björn, Þorsteinn og Þórður. Einkona Gnúps var Arnbjörg Ráðormsdóttir og Björn giftist Jórunni dóttur Arnbjargar og Svertings Hrolleifssonar (á Hrauni). Í annarri útgáfu Landnámu (Hauksbók) segir að Gnúpur hafi fallið ásamt 2 sonum sínum í átökum við Kaplagarða um veturinn. Hinir synirnir; Björn, Þórður og Þorsteinn, hafi hins vegar numið land í Grindavík.

Herósdes

Heródes- letursteinn.

Lítið er vitað um byggð í Grindavík fyrstu 300 árin. Má það teljast eðlilegt því á ofanverðum þeim tíma hefur byggðin líklega tæmst um tíma. Um 1150 byrjaði að gjósa austan við Grindavík og aftur um 1188. Mikið hraun rann. Um svipað leyti byrjaði að gjósa að austanverðu. Um 1211 færist goshrinan nær (Eldvörpin) og enn 1226 þegar Illahraun og Afstapahraun ógna byggðinni. Ekki er ólíklegt að fólk hafi þá verið búið að fá nóg og því flutt sig til öruggari staða, a.m.k. um tíma.
Líklegt má telja að Molda-Gnúpur Hrólfsson, eða synir hans, hafi sest að þar sem nú er Hóp (aðrir nefna Þórkötlustaði). Fyrrnefnda nafnið bendir til þess þar sem bæ sinn í Álftaveri þar veturinn áður hafði hann nefnt Hof er gæti hafa breyst í Hóp eftir að kristni var innleidd. Önnur vísbending eru aðstæður þær, sem verið hafa þar á þeim tíma. Ferskt vatn rann undan klöppunum, en það er óvíða að fá á þessu svæði, nema ef vera skyldi í Gerðisvallabrunnum vestan við Járngerðarstaði. Fjörubeit hefur verið góð, auk þess sem skipalagi hefur hvergi verið betra en í Hópinu.

Grindavík

Grindavík – Grafið inn í Hópið 1939.

Áður en opnað var inn í Hópið var þar fyrir ós, sem hægt var að komast um á flæði. Grasbleðill hefur og verið þarna við ströndina og tiltölulega greiðfært til fjalla þar sem nýleg hraun voru ofar. Ströndin, bæði að austanverðu og vestanverðu hafa verið allt annars eðlis og legið miklu mun lengra inn í skagann. Há björg hafa einkennt austurströndina, en litlar grónar víkur verið á milli Ísólfsskála og Krýsuvíkurbjargs. Gróið hefur verið í hlíðum Þorbjarnarfells (elsta fellið á svæðinu) og því vænlegt til selstöðu.

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Synirnir voru fullvaxta er hér var komið sögu. Gnúpur hefur væntanlega fyrst tekið sér kvonfang og þurft búsílag. Hinn veraldarvani Molda-Gnúpur, sem fengið hafði viðurnefni (virðingarheiti) sitt frá fæðingarstað hans í Moldartúni á Norðmæri í Norðmæri í Noregi, hefur væntanlega viljað tryggja land sitt að austan, þar sem búið var í Hlíð við Hlíðarvatn í Selvogi. Hann hefur því væntanlega fengið syni sínum land þar sem áður var við Krýsuvík, á ystu mörkum þess tíma. Ofar er Gnúpshlíðarháls og Gnúpshlíðarhorn syðst. Ögmundarhraun rann síðar yfir byggðina um 1151, en hlífði austasta hluta hennar að hluta. Byggðin þar hafði þá náð að þróast í u.þ.b. 211 ár. Líklega hefur Þórir haustmyrkur og hans afkomendur lagt einhverju af sínu fólki til land vestast á landssvæði sínu, til mótvægis við byggð Grindarvíkurbóndans. Þær minjar, sem nú sjást í Húshólma og Óbrennishólma, gætu verið leifar þeirrar byggðar. Byggðin hefur legið vel við sjósókn, fuglar í björgum og greiðfært hefur verið til upplandsins til hrísöflunar eftir hálsunum.

Hóp

Hóp – gamli bærinn.

Venjan var sú að elsti sonurinn tæki bú eftir föður sinn. Björn hefur því væntanlega verið elstur því ýmislegt bendir til þess að hann hafi tekið við búinu að Hópi eða flust þangað sem nú eru Járngerðarstaðir. Ekki er ósennilegt að í heiðni hafi Björn fengið viðurnefnið Þór, þ.e. elstur og æðstur bræðranna, en með kristninni hafi Hafurs-viðurnefnið orðið ofan á, sbr. draumasögnina um bergbúann og geithafurinn er kom í framhaldi af því til hjarðar Björns. Sagt var að landvættir allir hafi fylgt honum og bræðrum hans til þings og veiða. Fellið Þorbjörn ofan við Grindavík (Hóp) mun heita eftir Hafur-Birni.
Líklegt er að Þórði hafi verið fengið land á austurmörkum hins byggilega hluta landnámsins, þ.e. í Staðahverfi. Þórðarfellið ofan við Staðahverfi gæti bent til þess, en sagt er að fellið hafi verið nefnt eftir honum.

Hóp

Hóp – loftmynd.

Þá er Þorsteinn einn eftir. Þar sem mest land við sjó, þar sem fiskur, fugl, reki, þang og þari þóttu hlunnindi, var að mestu frátekið þegar lengra var litið, var ekki um annað að ræða en líta nær eftir landkostum. Þá komu annað hvort núverandi Járngerðarstaðir eða Þórkötlustaðir til greina. Rannsókn sem gerð var við byggingu hlöðu við Vesturbæ í Þórkötlustaðahverfi, bentu til þess að þar hafi komið upp tóft landnámsskála (Brynjúlfur Jónsson).

Skír skírskotun til sagna, sbr. heiðnar dysjar Járngerðar og Þórkötlu, benda til fornra bæjarstæða á hvorum staðnum fyrir sig. Á báðum þessara staða hafa sjósóknarskilyrði verið góð, en þó mun betri á Þórkötlustöðum. Bæði hefur þar verið afmarkaðra land frá Hópi og nærtækara að sækja búbjörg í björgin þar austan við.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Fiskimiðin leggja og betur við og rekamöguleikar þar hafa verið umtalsverðir. Húsafjall og Fiskidalsfjall ofan við Þórkötlustaði (Hraun), benda einnig til ákjósanlegrar búsetu á því svæði.
Hinar fornu þjóðleiðir, sem sjá má djúpt markaðar í bergið, jafnt frá Hópi, Járngerðarstöðum og Staðahverfi, benda til mikillar umferðar til og að þessum stöðum lengi og alllöngum í gegnum aldirnar. Skógfellahraunið, sem Skógfellastígur ofan við Hóp, liggur um, er einna mest markaður, enda hraunið mun eldra en landnámið.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – flugmynd. Fornaldarskáli er á milli húsanna.

Þórkötlustaðahverfið freistaði Skálholtsstóls þegar á 12. öld. Þar þar var ein mesta útgerð stólsins þegar á 14. öld og í raun undirstaða útflutningsverslunar hans fram eftir öldum.
Járngerðarstaðahverfið byggðist síðast upp fyrir alvöru af hinum þremur hverfum er mynda Grindavík í dag. Ljóst er þó að þar hefur verið orðið mannmargt þegar verslun Þjóðverja og Englendinga stóð sem hæst á 15. og 16. öld. Það var skreiðin, sem í rauninni var bitist um. Hún var svo verðmæt, að Englendingar telja skreiðarfarm geta numið allt að fjórum fimmtu hlutum af verði skips, öllum úthaldskostani þess í Íslandssiglingum og vörufarmi, er það flytur til Íslands.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Af þessu má sjá að það var til mikil að vinna, bæði hvað snerti verslun og fiskvinnslu. Þar gegndi Grindavík lykilhlutverki lengi vel. Minjar fiskverkunarinnar má sjá á nokkrum stöðum við Grindavík, s.s. á Selatöngum vestan gömlu Krýsuvíkur, Í Skollahrauni austan Ísólfsskála, í Slokahrauni austan Þórkötlustaðahverfis, í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi og ofan við Staðarhverfi.
Á Járngerðarstöðum hefur „Tyrkjunum“ þótt vænlegt að lenda árið 1627 og þar hóf Einar Einarsson í Garðhúsum verslun sína fyrir 1890, en rekja má upphaf kaupstaðarins til þeirrar verslunar og athafnalífsins í kringum hana. Lengi vel voru aðeins tveir „kaupstaðir“ á Reykjanesskaganum, Grindavík og Hafnarfjörður. Tilkoma hafnarinnar í Hópinu árið 1939 hleypti lífi í þorpið og stækkun hafnarinnar þar upp úr 1950 lífi í athafnalífið, en fólksfjölgun og virkt athafnalíf hefur jafnan farið saman í Grindavík í gegnum aldirnar.
Grindavík flaggaði 30 ára kaupstaðarafmæli árið 2004, en bærinn er sá staður á landinu, sem hvað mest ógn hefur staðið af landinu, en getur að sama skapi þakkað farsæld sína hafinu. Nú er bæjarfélagið hins vegar á þeim tímamótum að geta einnig gert innlandið að verðmætum, þ.e. jarðorkuna, náttúruna og hið nýmótaða umhverfi þess. Og ekki má geyma möguleikum ferðaþjónustunnar, en það er sú atvinnugrein, sem er í hvað mestum vexti hér á landi. Útgerðin er ekki síst uppruninn, þ.e. landnámið og sögulegar minjar. Af þeim er Grindavík æði rík.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Þórkötlusdys

Eins og fram kom í lýsingu í FERLIR-822 (Klöpp) var gengið fram á slökkviliðsstjórann í Grindavík á Klappartúninu með fornleifaskrá fyrir Þórkötlustaðahverfi undir höndum. Þegar að var gáð stóð þar á einum stað um dys Þórkötlu; „Á túninu austan við bæinn [Klöpp] er hóll; Þórkötludys. Ekki er nákvæmlega vitað hvar hún er“.

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Kunnugt er að fornleifaskráningar eru ekki alltaf réttar (nokkur sárgrætileg dæmi sanna það), en þó er jafnan gengið út frá því að svo sé. Fram að þessu hefur jafnan verið horft á dys Þórkötlu í óslegnum hól í túninu austan við Hof. Þar hafa hinir elstu menn, sem vel þekkja til, talið hana hafa legið fram að þessu. Staðsetningin passar og við lýsinguna í sögunni þar sem segir að sú gamla hafi viljað láta grafa sig þar “sem hún sæi yfir Þórkötlustaðabótina.” Frá þeim stað sést vel yfir Bótina. Sambærileg sögn er um gröf Járngerðar sunnan við Járngerðarstaði. Slökkviliðsstjórinn hafði einmitt nýlega fjárfest í landsspildu þar sem nefnd dys á jafnan að vera. Þar ætlar hann að byggja sér hús, en skv. Þjóðminjalögum er svæðið friðað í a.m.k. 20 m fjarlægð frá fornleifinni.
Gengið var um Þórkötlustaðahverfið með framangreint í huga. Áður fyrr voru landshagir og staðsetning einstakra býla önnur en nú er. Hraunkot, sem var þurrabúð frá Klöpp, var t.d. í austurjarðri jarðarinnar. Nú eru rústir Hraunkots austan við Bjarmaland og Þórkötlustaði, en norðaustan við gamla Klapparbæinn. Þurrabúðamenn keyptur ekki jarðskikana, þeir áunnu sér þá með „hefðarrétti“.
Þjóðsaga Jóns Árnasonar segir að “Þorkatla hafi búið á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar.
Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.

Þórkötludys

Sigurður Gíslason við dys Þórkötlu í Þórkötlustaðahverfi.

Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.”
Í austur frá Þórkötlustöðum eru nú slétt tún að hraunjaðri Slokahrauns. Þar í túninu eru a.m.k. tveir hólar, óslegnir. Þeir voru gaumgæfðir, en komu varla til álita.
Í túninu á Klöpp er gróinn rúnaður klapparhóll. Hann virðist jafnan hafa verið nýttur. Er hann ílangur til suðurs og norðurs. Sjávarkamburinn er kominn svo til alveg að suðurenda hans. Hafa ber í huga að kamburinn hefur gengið a.m.k. 30 metra á land s.l. 30 árin. Fyrrum hefur kamburinn verið lægri því utan hans var löng sandfjara er náði a.m.k. 50 metra út frá ströndinni í lágfjöru. Um hana lá t.d. gamla sjávargatan, Eyrargata, frá Hrauni út á Þórkötlustaðanes.
Rætt var við Ísleif og Guðnýju Erlu Jónsbörn frá Einlandi, Benóný Benediktsson frá Þórkötlustöðum (sem seldi slökkviliðsstjóranum landsspilduna) og fleiri um hugsanlega staðsetningu Þórkötludysjar, en ekkert þeirra virtist hennar minnug.
Þá var rætt við Óskar í Hofi og loks Sigurð Gíslason frá Hrauni, þann núlifandi sem manna best veit um sögu og staðhætti í austanverðri Grindavík. Sigurður, sem nú er nær blindur, var ekki í neinum vafa, sagðist alltaf hafa heyrt af Þórkötlu undir stórri þúfu í túninu neðan við gamla Lambúskotið. Hann lýsti staðsetningu Þórköltudysjar þannig: “Hún er upp af Sólbakka, vestan við girðingu sem liggur í norður frá húsinu, austan og ofan við Hof. Þetta er stór þúfa í túninu, neðan við gamla Lambhúskotið í suðaustur – í neðra túninu. Óskar í Hofi slær blett frá Austurbænum, en þúfan tilheyrði Vesturbænum, talsvert neðan við Garðbæ, neðan og austar þar sem Lambhúskotið var.”

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun.

Í framhaldi af þessu var Sigurður sóttur og gekk hann af öryggi að því búnu að dysinni. Þúfurnar eru tvær í túninu. Sigurður gekk að þeirri eystri. Áður hafði FERLIR verið bent á hina þúfuna ( Ól. Gamalíasson) sem hina meintu dys. Skýringin á henni er sögð vera sú að undir austari þúfunni hafi hundur Þórkötlu verið grafinn. Stutt er á milli þúfnanna.
Þar sem staðið var við dysina lýsti Sigurður staðháttum fyrrum: „Fjórar jarðir voru á Þórkötlustöðum; Tveir bæir voru í Vesturbæ, einn í miðbæ og tveir í Austurbæ. Þá voru Klöpp, Buðlunga og Einland á fjórðu jörðinni. Túnin náðu rétt upp fyrir dysina. Ofan við þau, í móunum, voru tómthúskotin, s.s. Lambhúskot og Hraunkot austast. Vestan við Sólbakka var kot sem hét Skarð. Þar kom Eyrargatan, sem nú er gleymd, upp úr fjörunni neðan við Buðlungu og Klöpp.

Klöpp

Klöpp – tóftir.

Gamli bærinn í Buðlungu var rétt vestan við Klapparbæinn. Nú má sjá í austurvegg hans sunnan við skemmuna. Skammt austar var Klöpp. Sjá má tættur bæjarins. Garður var milli bæjanna og sést hluti hans enn. Með honum að austanverðu lá sjávargatan. „Nýja“ húsið í Klöpp stóð sunnan við gamla bæinn, þar sem nú er steypt þró. Austan við gamla bæinn var byggt hús er nefndist Teigur. Marel í Klöpp og Árni í Teigi byggðu síðan samföst hús uppi á Leiti, sem enn standa. Eyvindarkot hafi þá verið skammt frá Klöpp, en var fært undir Leitið þar sem nú er skólahúsið. Sjá má hleðslur af hænsnakofanum við götuna. Vestan við leiði Þórkötlu lá gatan á milli bæjanna. Landnámstóft, að því er talið var, hafi sést þegar grafið var fyrir hlöðu milli Miðbæjar og Vesturbæjar. Hlaðan er hofinn sem og Vesturbærinn. (Sigurður vísaði á staðinn). Þar undir eru hinar fornu minjar. Brynjúlfur Jónsson segir m.a. frá athugun á þessari tóft í fornleifalýsingum sínum.

Þórkötlustaðir

Garður ofan Þórkötlustaðahverfis.

Ofar má sjá mikla steingarða, ofan við Heimaland, Efraland og Þórsmörk (Hvamm). Þá hlóð Þorsteinn Þorsteinsson frá Einlandi um 1930. Þeir hafa haldist nokkuð vel, en verið haldið við. Þeir voru á á mörkum Einlands. Fyrir aldarmótin 1900 voru Þórkötlustaðir hjáleiga frá Hrauni, sem og Buðlunga. Afi hans, frá Járngerðarstöðum, átti jarðirnar áður en hann fluttist að Hrauni. Hraun væri allt að því landnámsjörð því sagan segir að þar hafi búið Iðunn, dóttir Molda-Gnúps, þess er fyrstur byggði í Grindavík, sem síðar bjó á Þjósti. Líklegra væri að bær hans hefði verið á Járngerðarstöðum en á Hópi. Iðunn átti fóstursson er Svertingur hét og Svartsengi er nefnt eftir. Hann hafi tekið bú að Hrauni að Steinunni genginni. (Í Landnámu segir m.a. að „Hafur-Björn átti (Jórunni, stjúpdóttur Gnúps bróður síns). Þeirra son var Svertingur“).
Austan við Hraun voru miklar tættur. Þær voru allar sléttaðar út eftir miðja öldina. Kristján Eldjárn hafði mikinn áhuga á þessum tættum, en ekki síst hafði hann áhuga á manngerðum hól að hluta vestan við Hraun, sem hann taldi vera heiðna dys. Þær væru fáar á Reykjanesi og þessi hafi því verið sérstaklega áhugaverð. Ekkert varð þó úr að hann rannsakaði hólinn.“
Sigurður lýsti því er hann var við smölun austan við Krýsuvík, dvaldi í köldum og vindasömum hellisskúta við réttina norðan við Kleifarvatn (Lambhagaskúta), gisti í tjaldi á Blesaflöt, hvernig Grindavíkurbændur nýttu Arnarfellsréttina sem vorrétt og Krýsuvíkurréttina undir Bæjarfelli sem rúningsrétt, útigöngu og innitöku fjárins um áramót þegar illa áraði, ferðum fólks um Skógfellastíginn o.fl., en þær lýsingar munu bíða annarra ferða.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Grindavík

Loftur Jónsson skrifaði um örnefni í landi Þórkötlustaða í Sjómanndagsblað Grindavíkur árið 1992.

Loftur Jónsson„Nú þegar akfær hringvegur er kominn um „nesið“, fjölgar því fólki sem leggur leið sína þar um á bílum eða fótgangandi. Þá er bærði fróðlegt og skemmtilegt að vita nánari deili á landinu og ýmsum kennileitum.
Loftur Jónsson frá Garðbæ hefur á undanförnum árum safnað saman miklum fróðleik um örnefni hér á svæðinu og skráð skipulega neiður. Hann hefu rátt viðtöl við fjölmarga eldri Grindvíkinga og þannig náð að halda til haga ýmsum fróðleik sem annars hefði fallið í gleymskunnar dá.
Því fólki fækkar óðum sem stundar störf úti í náttúrunni, s.s. við smalamennsku, göngu á reka o.fl. Við þessi störf voru örnefni nauðsynleg til aðhægt væri að staðsetja með vissu, hvar kind hefði sést, hvar fundist hafði reki sem bjarga mátti undan sjá og eins hvar rekafjörur og lönd skiptust. Sjómannadagsblað Grindavíkur birtir með leyfi Lofts Jónssonar eftirfarandi grein um örnefni í Nesinu og Þórkötlustaðahverfi.

„Suður úr Reykjanesskaganum gengur allmikið nes. Að vestanverðu við nes þetta er Járngerðarstaðavík en að austan er Hraunsvík. Nes þetta er allt þakið hrauni og sumt bendir til að hraun það sé að minnsta kosti að einhverju leyti runnið eftir landnámsöld (sbr. Árb. Fornlfél. 1903, 47). Að austanverðu heitir nesið Þórkötlustaðanes og er það í landi Þórkötlustaða en að vestan heitir það Hópsnes og er sá hluti í landi Hóps. Í daglegu tali er það eingöngu nefnt Nesið.

Áframhald af landi Þórkötlustaða nær inn á Reykjanesskagann og er fremur mjótt en langt. Mest allt landið er þakið hrauni. Bæirnir standa austast í landareigninni innan við nesið og niður við sjóinn.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

Örnefni og kennileiti í landi Þórkötlustaða eru sem hér segir: Vestan við vita sem er í nesinu og heitir Hópsviti er vatnsgjá niður við sjávarkampinn. Þar beint niður undan í flæðarmálinu er stór steinn. Hann heitir Markasteinn og skilur hann lönd Þórkötlustaða og Hóps. Í hann eru klöppuð tákn L.M. um landamerki. Suðaustur af vitanum er grasflöt niður við kampinn; Stóra-Látraflöt, að mestu komin undir kamp. Austur af vitanum er grasi vaxinn hóll, nokkuð stór með grasflöt norður af; Tófuflatarhóll. Þar var tófugreni fyrr á tímum. Niður undan honum austan til var Litla-Látraflöt. Hún er nú komin undir grjót úr kampinum. Austan við Tófuflatarhól eru Strýthólar. Vestri-Strýthóll með tveimur þúfum en Eystri-Strýthóll niður við kampinn. Útfiri er töluvert og heitir fjaran Látur. Selalátur var þar áður fyrr. Hóll var fram undan Tófuflatarhól; Þanghóll, en hann er nú kominn undir kampinn. Hann skipti reka. Fyrir vestan eru Kotalátur. Þar eiga Einland, Buðlunga og Klöpp reka. Austan Þanghóls eru Austurbæjarlátur. Austast í Nesinu að framanverðu er smátangi sem heitir Nestá. Norður af Nestá er stór hóll á kampinum; Leiftrunarhóll. Norður af honum er Stekkatún sem nær að Flæðitjörn. Hún er ofan við sjávarkampinn. Niður undan og norðan Leiftrunarhóls er Stekkjarfjara. Látragötur eru slóðar úr vesturenda Stekkatúns fram í Látur. Við enda Stekkjarfjöru er klettur í fjöruborðinu og er sem sker um flóð. Hann heitir Driti.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Síðan tekur við Vörin stundum kölluð Nesvör til aðgreiningar frá Buðlunguvör. Vararsker er sunnan við vörina, það fer í kaf á flóði. Tveir boðar eru framundan Vararskeri á Þórkötlustaðasundi; Fjósi á bakborða og utar er Lambhúsi á stjórnborða. Sundvarða við Buðlungu átti að bera í fjós og lambhús á túninu hjá Einlandi og þaðan eru nöfnin dregin.

Upp af Vörinni og norðan við Flæðitjörn er Sundvörðuhóll, þar stendur sundvarða. Vestan Flæðitjarnar eru hlaðnir grjótgarðar; Hraunsgarðar. Hraunsmenn þurrkuðu þar skreið þegar þeir lentu í Nesvör. Skotti er nokkuð stór pollur ofan kampsins, norðan Vararinnar og þar norður af er hóll, flatur að ofan með hlöðnum grjótgörðum, kallaður Krabbagerði. Fram undan Krabbagerði í flæðarmálinu og við syðri enda Herdísarvíkur eru háar klappir nefndar Draugur. Þar norður af er vík; Herdísarvík. Upp af henni við norðurenda eru klettahólar sem heita Kóngar. Upp af Kóngum tekur við Kóngahraun, sandorpið hraun, og inn undir miðju Nesi í norðvestur frá Kóngahrauni er hár hóll með grasþúfu í toppinn sem heitir Gjáhóll. Hjá Gjáhól er löng lægð en mjó frá norðri til suð-suðvesturs sem heitir Gjáhólsgjá. Rétt norðan við Kónga er grasflöt fram við kampinn; Miðmundaflöt og þar framan við eru Miðmundaklettar.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Síðan tekur Þórkötlustaðabót við og skiptist hún í tvo hluta. Fyrst Syðribót og síðan Heimribót. Norðaustan við klapparana sem skiptir bótunum eru klappir í flæðarmálinu; Hundaklettar. Upp af Heimribót eru sandflatir nefndar Brunnflatir. Neðst á Brunnflötum við kampinn var grafinn brunnur þar sem skepnum var vatnað áður en brunnur var grafinn hjá Þórkötlustöðum. Eftir Brunnflötum lá gata og sunnan við sandorpnar hæðir vestur af Brunnflötum, við norðurenda Gjáhólsgjáar, í átt að Rifinu (Eyri). Hét hún Eyrargata en litið markar fyrir henni nú. Önnur gata er norðar og liggur um Kirkjuhóla og fram hjá Hópi. Norður frá Heimribót er fremsti og vestasti hluti túnsins kallaður Sigla og þar í er Siglulaut.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – loftmynd 1954.

Austur af Heimribót taka við Vötnin. Þar rennur fram ósalt vatn um fjöru og var þar þveginn og skolaður þvottur áður fyrr. Austur af Vötnunum, á klöppunum, er Stóralón og suður af því Kollóttasker. Upp af Stóralóni er Bakkinn; hár grasivaxinn bakki. Nokkuð austan Stóralóns er Buðlunguvör. Vestan hennar er hringmynduð klöpp með lóni í miðju. Hún heitir Svalbarði. Klofi út í Svalbarða skiptir reka og þangfjöru á milli Buðlungu og Þórkötlustaða. Fyrir ofan Buðlunguvör er slétt klöpp kölluð Skiptivöllur. Þaravaxin klöpp vestan og utan við vörina er kölluð Þangklöpp. Austan við vörina er Stóraklöpp og þar fram af er Vararsker. Það kemur upp á stórstreymisfjöru. Norðaustan við vörina er túnið í Buðlungu og kallað Buðlungudalur. Í suðvesturhorni þess er sundvarða og átti hún að bera í þríhyrnu á svonefndri Brunnskák þegar róið var inn sundið.

Austur af Stóruklöpp eru básar; Vestastibás, Þvottabás, Miðbás og Malarbás. Síðan taka við Slok og er austast Slokatá. Slokin draga nafn af áberandi soghljóði, sérstaklega undir austanátt. Vestan Slokatáarinnar er Lágafjara og síðan Vestrimölin og þar ofan kampsins er Klapparmói. Eystrimöl er neðan við kampinn að austan, ofan við Slokatá. Upp af Slokatánni ofan kampsins eru Hrossbeinalágar, nú komnar að mestu undir kampinn. Austan á Slokunum er bás sem heitir Markabás. Hann skiptir löndum og reka á milli Hrauns og Þórkötlustaða. Upp af honum ofan kamps er hraunhóll með grasþúfu í toppinn. Hann heitir Markhóll.

Randeiðarstígur er gata á milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hann farinn áður fyrr er aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna.

Eystraleiti (í daglegu tali nefnt Leiti) er smábunga á milli bæjanna. Vestraleiti er aftur önnur bunga í vestur þar sem skiptast lönd Þórkötlustaða og Hóps. Vestan undir há-Leiti er Kúakrókur, nú tún.

BuðlunguvörOfan við byggðina er geil í hraunið og byrjar þar gamli vegurinn frá Þórkötlustöðum til Voga og Hafnarfjarðar. Þar heitir Leynir (Þórkötlustaðaleynir til aðgreiningar frá Hraunsleyni) og nær hann inn á móts við Vatnsheiði. Gatan liggur samhliða hraunrima. Efst í Leyninum og austan við götuna er grasivaxinn hóll með hraunklöppum umhverfis og heitir hann Grenhóll. Norð-norðvestan við Grenhól við götuna er skjólsamt fyrir sauðfé og heitir þar Skítastaður.

Vatnsheiði eru þrjár gróðurlitlar, samvaxnar hæðir norður af Húsafelli og nær sú fremsta vestur fyrir og fram fyrir það. Þær heita Fremstahæð, Miðhæð og Innstahæð. Nafnið er dregið af vatnskötlum í Innstuhæð og þornar þar ekki nema í mestu þurrkum. Þar eru landamerki á milli Hrauns og Þórkötlustaða.

ÞórkötlustaðirÍ norðvestur frá Innstuhæðinni, í Vatnsheiði, er hæð eða smáhnúkur; Sundhnúkur og er hann á landamerkjum milli Þórkötlustaða og Járngerðarstaða. Þaðan í norður eru hraunhólar úr brunnu hraungjalli. Heita þeir Lyngrimi. Austan Svartsengis eru sléttar klappir með melum og vikri á milli og heitir þar Sprengisandur og lá gamli Vogavegurinn þar um. Skógfellshraun tekur við þar fyrir norðan og er það all úfið í hraunbrúninni að sunnan. Upp úr Skógfellshrauni rís allhátt fell sem heitir Stóra-Skógfell. Litla-Skógfell er þar nokkru norðar en er allmikið lægra og skiptir það löndum á milli Voga og Járngerðarstaða. Stóra-Skógfell skiptir löndum á milli Járngerðarstaða og Þórkötlustaða og eru merkin í næsta hnúk. Vogavegurinn liggur austan Stóra-Skógfells og var nefndur þar Skógfellsvegur og tekur við af Sprengisandi. Mitt á milli Skógfella er svonefndur Hálfnunarhóll (í Járngerðarstaðalandi) og er þar talið hálfnað til Voga frá Þórkötlustöðum.

Kastið

Kastið.

Hraunið á milli Skógfella og Fagradalsfjalls heitir Dalahraun og nær það fram á móts við Kast. Það er lágt og víða sléttar klappir og mosaþembur. Úr Stóra-Skógfelli liggur markalínan í gjána í Kálffelli en það er lágt fell eða bunga sem er framarlega í Kálffellsheiði. Frá Kálffelli liggja landamerkin í vatnskatla í Fagradals-Hagafelli og þaðan í Innstuhæð á Vatnsheiði eins og áður segir. Samkv. þessu er Sandhóll sem er vestur af kasti og Fagridalur sem er kvos inn í Fagradalsfjall austan við Aura í landi Þórkötlustaða. Fagradals-Vatnsfell sem er norðvesturöxl Fagradalsfjalls er sömuleiðis í landi Þórkötlustaða. Aurar heita melar innan við og austan Dalahraun og þar norður af eru grasflatir sem heita Nauthólaflatir. Þar var heyjað af bændum á Þórkötlustöðum. Vesturhluti Beinavörðuhrauns nær vestur í land Þórkötlustaða. Fagradals-Vatnsfell, sem er norðvesturöxl Fagradalsfjalls, er sömuleiðis í landi Þórkötlustaða.“

Framangreint var skráð samkv. viðtali við systkinin í Buðlungu Guðbjörgu Eyjólfsdóttur og Jón Eyjólfsson. Þau eru fædd þar og uppalin. Yfirfarið af Árna Guðmundssyni, Teigi, og Jóni Daníelssyni, Garðbæ.- Grindavík 22. nóv. 1976, Loftur Jónsson [sign.].“

Heimild:
-Sjómanndagsblað Grindavíkur, Örnefni í Nesinu og landi Þórkötlustaða, Loftur Jónsson frá Garðbæ, bls. 34-40.

Sloki

Sloki – uppdráttur ÓSÁ.