Tag Archive for: Trölladyngja

Eldborg

Gengið var frá Trölladyngju á Núpshlíðarhálsi um Eldborg og Einihlíðar með stefnu á Mávahlíðar og Mávahlíðarhnúk. Þaðan var haldið yfir að Fjallsgjá norðan við Fjallið eina norðan Hrútargjárdyngju og endað á Krýsuvíkurvegi.

Dóruhellir

Dóruhellir.

Trölladyngjan er 375 m.y.s. Hún er formfagurt móbergsfjall. Í dyngjunni eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Hraun hafa runnið þaðan bæði í norður og suður, meðal annars Afstapahraun. Þar er og mikill jarðhiti á ýmsum stöðum, t.d. í Sogunum. Um þau rennur Sogalækur.
Höskuldarvellir er grasslétta yfir hrauninu vestur af Trölladyngju. Þangað liggur farvegur frá Sogalæk. Rennur hann niður á vellina í leysingum og hefur myndað það mikla landflæmi og gróðurbreiðu með framburði sínum. Höskuldarvellir munu vera ein stærsta samfellda graslendi í Gullbringusýslu eða um 100 ha.

Eldborg

Eldborgin í dag.

Eldborgin norðan Trölladyngju hefur verið afmynduð með efnistöku. Sennilega hefur hún einhvern tímann verið eitt af djásnum Reykjanesskagans. Ef væntumþykjan og virðingin fyrir umhverfi og náttúru hefðu orðið efnishyggjunni yfirsterkari þegar ákvörðun um eyðilegginguna var tekin, væri Eldborgin nú margfalt verðmætari en krónurnar, sem fengust fyrir kápuna af henni á sínum tíma. En skaðinn verður ekki bættur, úr því sem komið er. Nú stendur Eldborgin þarna sem minnisvarði og þörf áminning um hvað ber að varast í umgengi við náttúruna. Ekki meira um það að sinni.

Mávahlíðar

Mávahlíðar.

Fallegir eldgígar eru utan í Dyngjuhálsi, eða Dyngjura

na eins og hann er stundum nefndur. Lambafellið sást vel á vinstri hönd, en framundan sást einnig vel til Einihlíða. Fallegt er að sjá hvernig hraunstraumurinn hefur runnið niður hlíðarnar og elfan storknað í hlíðunum. Ofan við þær er nokkuð úfið hraun, en vönum greiðfært. Suðaustar blasa Mávahlíðar við. Nýrra hraunið er norðvestan við hlíðarnar, mikið jarðfall og hár hraunbakki við þær norðanverðar. Eldra hraun og grónara er ofan (sunnan) við Mávahlíðar. Gígarnir, sem það hefur komið úr, eru litlir og mynda röð samhliða sprungureininni. Frá Mávahlíðum sést vel upp í Hrúthólma, gróin skjöld í hrauninnu. Sunnar er Hrútfellið.

Mávahlíð

Mávahlíð – stígur.

Gengið var yfir að Mávahlíðahnúki austan Mávahlíða og síðan strikið tekið frá vatnsstæði við gamla götu eftir tiltölulega sléttu, en eyðilegu, helluhrauni með úfnum hraunkanti á hægri hönd. Þegar honum sleppti tók við gróið hraun með fallegum hraunæðum. Í einni þeirra var beinagrind. Leggur af dýrinu var tekin með. Við greiningu á Keldum kom í ljós að um var að ræða hrossabógslegg. Óvíst var um aldur. Beinagrindin var ekki langt frá Stórhöfðastígnum frá Stórhöfða áleiðis upp á Ketilsstíg, ofan við Mávahlíðar og Hrútafell. Annað hvort hefur hrossið orðið til þarna við gömlu leiðina, eða refaveiðimenn hafa borið þar út hræ af hrossi til að egna fyrir ref.

Hálsar

Hraunin milli Hálsa – loftmynd.

Skammt austar er falleg og tilkomumikil gjá, hér nefnd Konugjá, einu kvenveru hópsins að þessu sinni til heiðurs. Í gjánni er stór skúti, sem opnast hefur þegar jörðinn klofnaði og gjáin myndaðist, líkt og Hundraðmetrahellirinn ofan við Helgadal. Hann var nefndur Dóruhellir. Skútinn, sem er hinn skjólsælasti, verður að teljast álitlegur til samkomuhalds. Ofar í hæðinni eru nokkrir hellar. Að þessu sinni var gengið niður með hæðinni til austurs, að fallegum gervigíg, sem var líkt og hásæti í laginu – tilvalinn hópmyndastaður.

Suðaustar blasti Fjallið eina við í allri sinni reisn, en norðar opnaðist Fjallgjáin.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Hún er ein af nokkrum gjám á svæðinu, en sú stærsta og lengsta. Víða er hún mjög djúp og sumsstaðar mjög breið, ekki ólík Almannagjá á köflum.
Gangan endaði á Krýsuvíkurvegi, sem fyrr sagði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-www.reykjanes.is

Trölladyngja

Mávahlíðar og Trölladyngja fjær.

Sogaselsgígur

Gengið var um Trölladyngjusvæðið, austur fyrir fjallið um Hörðuvallaklof, sunnan Grænudyngju niður í Sogasel, upp Sogin og að Spákonuvatni, um Grænavatnseggjar, niður á Selsvelli og til baka með Oddafelli.

Trölladyngja

Trölladynga og Grænadyngja.

Trölladyngja er fallega formað fjall, um 375 m.y.s. Vestari hnúkurinn heitir því nafni, en sá eystri (402 m.y.s.) heitir Grænadyngja. Í Trölladyngju hefur m.a. fundist silfurberg.. Milli dyngnanna er skarð, auðvelt uppgöngu, sem mun heita Söðull. Heyrst hefur og nafnið Folaldadalir eða Folaldadalur um skarðið sjálft, en það örnefndi mun einnig vera til á Austurhálsinum. Þegar komið er upp úr skarðinu tekur við grösug skál. Hún er grasi gróin. Líklega er þarna um að ræða gíginn sjálfan.

Núpshlíðarháls

A Núpshlíðarhálsi.

Gengið var austur með norðanverðum Dygnahálsi (eða Dyngjurana sem stundum er nefndur). Utan í honum eru margir gígar, sem hraunstraumar þeir hafa komið úr er liggja þarna langt niður í Almenning. Gamall stígur liggur við enda Dyngahálsins. Honum var fylgt yfir að Hörðuvöllum. Fallegur gígur er við enda Fíflvallafjalls, en að þessu sinni var gengið inn Hörðuvallaklofa milli Grænudyngju og Fíflvallafjalls. Um er að ræða fallegan dal, en gróðursnauðan. Uppgangan úr honum vestanverðum er tiltölulega auðveld. Þegar upp var komið blasti varða við á brúninni. Frá henni var ágætt útsýni yfir Djúpavatn. Haldið var niður með vestanverðri Grænudyngu með viðkomu í dyngjunni. Síðan var haldið niður með vestanverði Trölladyngju og niður í Sogagíg.

Grænavatnseggjar

FERLIRsfélagar í Grænavatnseggjum.

Sogagígur er vel gróinn og skjólsæll staður. Í honum er Sogasel, eða öllu heldur Sogselin, því tóftir selja má sjá á a.m.k. þremur stöðum sem og tvo stekki. Enn ein tóftin er utan við gíginn, uppi í Sogadal. Þarna var sel frá Kálfatjarnarhverfi og einnig áður frá Krýsuvík.
Gengið var upp Sogin. Þau eru 150-200 m djúpt leirgil sem mikill jarðhiti hefur verið í fyrrum og enn eimir af. Þarna má sjá merkilegt jarðfræðifyrirbæri. Svo til allur leir og mold, sem dalurinn hafði áður að geyma, hefur Sogalækur flutt smám saman á löngum tíma niður á sléttlendið og myndað Höskuldarvelli og Sóleyjarkrika, sléttar graselndur í hrauninu.

Sogalækur

Sogalækur.

Lækurinn er enn að og færir jarðveg úr Sogunum jafnt og þétt áfram áleiðis niður Afstapahraunið. Varla mun líða langur tími uns hann hefur hlaðið undir sig nægum jarðvegi til að ná niður í Seltóu, en þaðan mun leiðin greið niður í Hrístóur og áfram áleiðis niður í Kúagerði. Væntanlega mun síðasti áfanginn, í gegnum Tóu eitt, verða honum tímafrekastur.

Haldið var upp vestanverða hlíð Sogadals og upp að Spákonuvatni. Vatnið er í misgengi. Í því eru í rauninni tvö vötn. Sumir nefna þau Stóra-Spákonuvatn og Litla-Spákonuvatn, en aðrir nefna stærra vatnið einungis Spákonuvatn en hitt Sesseljutjörn eða Sesseljuvatn.

Sogin

Sogin.

Gengið var eftir Grænavatnseggjum til suðurs. Austan þeirra er Grænavatn í Krýsuvíkurlandi. Haldið var áfram suður á brún Selsvallafjalls (338 m.y.s.). Fjallið greinist frá Grænavatnseggjunum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn upp á fjallið. Neðan undir vestanverðu fjallinu er eitt fallegasta gróðursvæðið á Reykjanesi, Selsvellirnir.
Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík. Í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi þar í seli. Vogamenn hafa jafnan viljað halda því fram að Selsvellirnir hafi tilheyrt þeim, líkt og Dalsselið, en sá misskilningur hefur jafnan dáið út með gaumgæfninni.

Selsvellir

Horft að Selsvöllum frá Trölladyngju.

Seltóftir eru bæði á austanverðum Selsvöllum, undir Selsvallafjalli, og á þeim norðvestanverðum. Moshóll setur merkilegan og tignarlegan blæ á svæðið í bland við Keili.
Gengið var til norðurs með vestanverðum Selsvöllum, að Oddafelli. Þorvaldur Thoroddsen kallar það Fjallið eina. Þá er getið um útilegumenn nálægt Hvernum eina. Málið er að Fjallið eina er norðan undir Hrútargjárdyngju og þar er hellir, Húshellir, með mannvistarleifum í.
Oddafellið er lágt (210 m.y.s.) og um 3ja km langt. Tóftir Oddafellssels frá Minni-Vatnsleysu eru undir vesturrótum fellsins.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Spákonuvatn

Spákonuvatn og Keilir.

Trölladyngja

Trölladyngja er eitt af formfegurri fjöllum Reykjanesskagans. Í rauninni er hún „síamstvíburi“ Grænudyngju, en þær hafa gjarnan saman verið nefndar einu nafni Dyngjur. Á landakortum er Trölladyngja sögð vera hæst 275 m y.s. og Grænadyngja 393 m.y.s. Einnig mætti vel halda því fram að Dyngjurnar væru „símastvíburar“ Núpshlíðarhálss, en þær eru nyrsti hluti hans. Á millum eru Sogin, sundurgrafið háhitasvæði. Háhitinn hefur sett mikinn svip á suðurhlíðar Dyngnanna þar sem litadýrðin er mikil. Í Trölldyngju hefur fundist silfurberg.

Hraunkarl

Út úr Grænudyngju til norðausturs gengur Dyngjuháls eða Dyngjurani. Utan í honum er fjöldi gíga sem sent hafa hraunstrauma langt niður í Almenning.
Dyngurnar eru órofahluti af fjallamyndun Skagans, urðu til við gos á sprungurein. Gróft séð er Skaginn um 50 km langur og 20 km breiður eða um 1000 ferkílómetrar, sem samsvarar lauslega reiknað 1% af landinu. Hann einkennist af þessum fjöllum, sem eru flest frekar lág móbergsfjöll, mynduð við gos undir jökli á ísöld, og hraununum, sem runnið hafa bæði fyrir landnám og á sögulegum tíma. Þótt Skaginn sé frekar gróðursnauður má þó finna á honum ótrúlegan tegundafjölda ef vel er að gáð, ekki síst í kringum Dyngjurnar Jarðfræðilega er svæðið umhverfis þær mjög athyglisvert og ennfremur er það kjörið til útivistar og gönguferða.
Trölladyngja og Grænudyngja eru tilvaldar til uppgöngu. Óvíða er útsýni fegurra en þaðan. Sogunum má jafna við „miniture“ Brennisteinsöldu og Landmanalauga. Auðvelt er að ganga á þær um dal á millum þeirra að norðanverðu, áleiðis upp Sogin og áfram upp með Sogagíg þar sem sjá má minjar fornra seltófta eða bara fara upp frá Lækjarvöllum við norðanvert Djúpavatn og þar af brúninni inn á fjöllin til hægri.

Trölladyngja

Í rauninni eru þetta með fallegustu gönguleiðum í Reykjanesfólkvangi sökum litadýrðar og fjölbreytni. Þegar komið er að Dyngjunum að Höskuldarvöllum hverfur Grænadyngja að mestu á bak við systur sína.
Trölladyngja er klettótt og hvöss, einkum eftir því sem ofar dregur, en hin er stærri um sig og nær flöt að ofan. Aðeins um 40 mínútna rólegur gangur er upp á Trölladyngju og síðan má gera ráð fyrir svona svipuðum tíma af henni og á þá Grænu. Hún líkist ekki dyngjum, reyndar hvorugar, að einu eða neinu leiti, enda eru þær það ekki. Hins vegar er gróin gígskál á milli þeirra er gæti verið gígopið, en jökullinn síðan sorfið niður barmana að norðan og sunnan. Þegar haldið er á Grænudyngju að suðaustan er hægt að ganga áfram upp á suðvesturhlíðina, sem er nokkuð brött. Innan skamms er þó komið langleiðina upp og þá er skammt að hæsta tindi. Einnig er hægt að halda upp með austurhlíðinni, en þar er líkt og gata liggi áleiðis upp hana. Henni er ágætt að fylgja ef ætlunin er einungis að fara með og niður norðurhlíðina.
Trölladyngja Útsýnið er stjórbrotið, sem fyrr sagði. Vel má sjá hraunstraumana sem runnið hafa um nágrennið, Afstapahraun, Eldborgarhraun, Dyngnahraun og fleiri og fleiri hrauntauma sem líklega bera ekki neitt nafn. Útsýnið yfir Móhálsadal er sérstaklega gott. Víða má sjá gíga í dalnum, litla og stóra og formfagrar litlar eldborgir. Undarlegt er að sjá stöku stað sem hraunið hefur hlíft, s.s. Lambafell og Snókafell, en það eru smáfell, mynduð á jökulskeiði, er hraunið hefur runnið umhverfis.
Vestan við Grænudyngju er Trölladyngja, sérkennilegur mjór hryggur sem úr norðri hefur keilulögun, Oddafellið. Undir honum eru Höskuldarvellir, víðir og fagrir í skjóli fjalla og hrauns.
Af Dyngjunum virðist Keilir (379 m.y.s.), handan Oddafells, smávaxinn, en einstaklega lögulegur þar sem hann sendur sem „einbirni“ þar í hraunsléttunni.
Trölladyngjusvæðið er eitt af háhitasvæðunum. Árið 1975 vottaði ekki fyrir jarðhita neðan við Soginn, nema í kringum Hverinn eina allnokkru suðvestar. Árið 1979 byrjaði að örla á jarðhita á svæðinu, en nú u.þ.b. 25 árum seinna er svæðið jarðgufuvaki. Búið er að gera tilraunaborholu á svæðinu, leggja veg að henni og annan upp í Sogadal þar sem nú er verið að bora slíkar holur. Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur o.fl. hafa m.a. rannsakað Trölladyngjusvæðið. Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju, og við Sandfell. Fjögur þau fyrst töldu sýna sig samfelld í viðnámsmælingum, en Sandfellssvæðið er laust frá. Meginsvæðið er hringlaga um 50 km2 að flatarmáli. Sandfellssvæðið er mælt á sama hátt um 4 km2.

Trölladyngja

Sveifluháls og Vesturháls með Trölladyngju eru móbergshryggir samsettir úr mörgum goseiningum og ná mest í 300–400 m hæð. Nútímahraun þekja allt sléttlendi vestan við hálsana og á milli þeirra. Upptök þeirra eru í gossprungum beggja megin við og utan í Vesturhálsi og Trölladyngju. Gossprungur eru einnig austan í Sveifluhálsi og sprengigígar á öldunum vestan hans, en hraunmagn úr öllum er lítið. Gosvirknin hjaðnar þaðan til NA og verður af lægð þar sem Kleifarvatn er. Jarðmyndanir milli Sveifluháls og Austurengja eru eldri en vestur í hálsunum og á hraunasvæðunum. Efnismiklar móbergsmyndanir úr öðru eldstöðvakerfi eru austan við Kleifarvatn og öldurnar þar suður af. Hveravirknin á ofannefndum fjórum jarðhitasvæðum er að ýmsu leyti ólík.
Í Trölladyngju sjálfri eru hverir og ummyndun samfelldust á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirkin er nú fremur dauf, tveir hverir upp við Sogin, gufur með smávegis brennisteini og hverasprengigígur neðan undir hálsinum og hitaskellur í Oddafelli. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru á gossprungum þar sem þær liggja yfir ofannefnda A-V-skák. Ummyndun er mest í Sogum þar sem stórt svæði er ummyndað í klessuleir. Vestan í hálsinum frá Sogum suður á móts við Hverinn eina er móbergið einnig ummyndað en hvergi nærri eins og í Sogum. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld, og vatn í sumum. Djúpavatn er myndað á sama hátt. Kalkhrúður finnst á tveim stöðum. Hitarák með gufuhverum liggur frá Trölladyngju um Eldborg norður í Lambafell, bundin nánast við eina sprungu. Hverinn eini er í hrauni skammt suðvestur af SV-endanum á Oddafelli. Gufuauga með smávegis brennisteini er í hraunbolla og gufur á smásvæði í kring. Þar hjá er dálítil hrúðurbunga (kísill) og kaldar hveraholur í henni.
Trölladyngja Í Trölladyngju voru fyrir tvær borholur, önnur við hverasprunguna norðan undir henni, hin á hverasvæðinu vestan undir hálsinum. Báðar sjá um 260°C hita ofarlega. Þegar borholan var gerð suðvestan við Trölladyngju lofaði hún góðu. Borholan í Sogadal virðist þó hafa haft gagnvirk áhrif á hana. Um tíma hitnaði í henni til mikilla muna svo hún reyndist vera ein heitasta hola landsins. Nú hefur það breyst að nýju. Borholan í Sogadal hefur þann eiginleika að „gjósa“ á ca. 12 klst fresti, líkt og geysishverir. Um er að ræða skáborun og gæti það hafa haft þessi áhrif. Sumir hafa gælt við þá hugmynd að gera þessa holu að tilbúnu „túristagosi“ líkt og er við Perluna, en slíkt tal ber nú bara keim af slæmum brandara því það virðist eiga að vera sárabót fyrir eyðileggingu svæðisins með vegagerðinni og borstæðinu.
Framkvæmdir Hitaveitu Suðurnesja (matið á umhverfisáhrifum) voru kærðar til umhverfisráðuneytis á sínum tíma. Niðurstaðan var enn einn brandarinn. „Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar á síðu 5 segir að fyrirhuguð framkvæmd hafi ekki „..umtalsverð umhverfisáhrif. Staðsetning framkvæmdarinnar hefur áhrif á svæði sem nýtur verndar skv. lögum um náttúruvernd en umhverfisáhrif eru ljós og að mati Skipulagsstofnunar ekki veruleg og leiða því ekki til matskyldu…“ Síðan segir í beinu framhaldi: „Að mati Skipulagsstofnunar er hægt að tryggja að framkvæmdin, eins og hún er kynnt, hafi ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með samvinnu framkvæmdaraðila, sveitarstjórna og Náttúruverndar ríkisins…“
Keilir Að sjálfsögðu hafa tilraunaboranir haft áhrif á svæðið, jafnvel varanleg. Vegagerðin í gegnum hraunið er ekki afturkræf. Borstæðið er skorið inn í gróna hlíð. Hæðarmismunur er um 3 metrar. Verði svæðið virkjað, sem er jú tilgangurinn með þeim tilraunaborunum, sem ekki hafa þurft að sæta umhverfismati, mun röskunin verða varanleg; hús, röralagnir, vegagerð, háspennumöstur o.fl. munu fylgja í kjölfarið.
Trölladyngja er í raunininni bæði minnisvarði um hið liðna og áskorun um að virkjunaraðilar staldri nú við og ígrundi hvernig hægt er að standa að undirbúningi virkjana með lágmarks röskun eða eyðileggingu að markmiði. Hingað til hafa þeir fengið að fara sínu mótþróalaust fram þar sem jarðýtustjórinn hefur síðan ráðið ferðinni. Stjórn Hitaveitu Suðurnesja hefur skipuð fulltrúum sveitarstjórnanna á svæðinu, sem stundum virðist hafa farið fram úr sér við einstaka framkvæmdir. Nú gera verndunarsinnar þá sjálfsögðu kröfu að jarðýstustjóranum verði leiðbeint miðað við þær ákvarðanir, sem aðrir hafa tekið fyrir stjórnina og hlotið hafa sáttarviðurkenningu, með framangreint (verndun og nýtingu) að leiðarljósi.
Eyðilegging við borsvæðið í Sogadal
Á Trölladyngusvæðinu, þ.e. í Sogadal, hefur umhverfinu verið raskað verulega í þágu væntanlegra virkjunarframkvæmda. Nýjustu fréttir í þeim efnum eru boranir á Krýsuvíkurheiði. Þær framkvæmdir hafa farið hljótt, svo hljótt að þær hafa hvergi verið kynntar opinberlega – ekki einu sinni á vefsíðu umhverfisráðuneytisins (sjá m.a. Umhverfisráðuneytið).

Trölladyngja

Fíflvallafjall, Mávahlíðar, Grænadyngja og Trölladyngja.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja Guðmundsdóttir (1995), bls. 106-107.
-http://is.wikipedia.org/wiki/Reykjanesskagi.
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Fjoll/Trolladyngja/
-http://web.mac.com/sigurdursig
-http://www.os.is

Dyngjurnar

Trölladyngja

Eftirfarandi grein birtist í Náttúrufræðingnum 1941 og fjallar um Trölladyngjur (hér er hún lítillega stytt):
Trolladyngja-222„Íslenzkir annálar og árbækur geta 6 sinnum eldgosa í Trölladyngjum, en þar sem fjöll með þessu nafni eru tvö á landi hér, annað í Ódáðahrauni, hitt á Reykjanesskaga, hafa fræðimenn ekki orðið á eitt sáttir um það, hvoru beri að telja þessi gos.
Trölladyngja í Ódáðahrauni er hraunbunga mikil í suðurhluta hraunsins, formfögur og regluleg. Trölladyngja á Reykjanesi er röð af óreglulegum móbergshnjúkum, skammt vestur af Sveifluhálsi.
Þorvaldur Thoroddsen telur líklegt, að Trölladyngjugosin hafi orðið í Trölladyngju á Reykjanesi og nágrenni hennar, því Trölladyngja í Ódáðahrauni hafi ekki gosið síðan land byggðist. Þó viðurkennir hann, að Trölladyngja á Reykjanesi hafi tæplega gosið nema einu sinni síðan á landnámstíð, en hyggur að önnur gos þar í nágrenninu hafi verið við hana kennd. Rök þessi eru ákaflega veik, því með sama rétti má segja, að gos í nágrenni Trölladyngju í Ódáðahrauni hafi verið við hana kennd, en þess mun þó ekki við þurfa, því hægt er að færa sterk rök að því, að gos þessi, flest eða öll, hafi orðið í Trölladyngjum í Ódáðahrauni.
Það, sem fyrst vekur athygli við rannsókn þessa máls, er sú staðreynd, að tvö fjöll, gerólík að uppruna og útliti, bera sama nafnið. Þetta er vafalaust mjög sjaldgæft, þegar um forn nöfn er að ræða og getur aðeins byggst á því, að þeir, sem nöfnin gáfu, hafi lagt ólíkan skilning í nafnið. Nú er aðeins notuð eintölumynd nafnsins; hvort fjallið sem í, hlut á, en í eldri ritum er fleirtölumyndin lang algengust og er það réttmætt, þegar Trölladyngja á Reykjanesi á í hlut, því hún er ekkert einstakt fjall, heldur safn af óreglulegum hnjúkum, en jafn fráleitt væri að tala um reglulegt og einstakt fjall í fleirtölu, eins og Trölladyngju í Ódáðahrauni.
HerdubreidÞetta hvorutveggja stangast svo óþægilega, að varla getur dulizt, að eitthvað sé nú orðið bogið við notkun þessara örnefna. Á uppdrætti Knopfs af Íslandi frá 1734, og kortum þeim, sem gerð eru eftir honum í ferðabókum ýmsum, sjáum við, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni eru ýmist sýndar, sem mikið óreglulegt fjall, eða þyrping af fjöllum, skammt suðvestur af Herðubreið. Á uppdrætti Björns Gunnlaugssonar, frá 1844, er hraunbungan Trölladyngja nefnd Skjaldbreiður eða Trölladyngja, en milli Herðubreiðar og Bláfjalls eru Dyngjufjöll hin nyrðri, eða Trölladyngjur.
Þeesi fjöll munu nú heita Herðubreiðarfjöll. Í bók Kaalunds (Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island) er kort af Þingeyjarsýslu, gert eftir uppdrætti Björns Gunnlaugssonar, með leiðréttingum Prof. Jonstrups frá 1876. Þar eru Dyngjufjöll syðri og Dyngjufjöll nyrðri nefnd einu nafni Trölladyngjur. Sé þetta rétt, er fullt samræmi fengið. Þessar stóru fjallþyrpingar eru einmitt safn af óreglulegum hæðum og hnjúkum, eins og Trölladyngja á Reykjanesi, og þess vegna er vel til fundið að nota fleirtölumynd nafnsins og nefna þær Trölladyngjur.
1. Árið 1151 er í fyrsta sinn getið um gos í Trölladyngjum (Isl.ann.). Frásögnin er mjög stuttorð og hljóð Hannes Finnsson segir í ritgerðinni Mannfækkun á Íslandi af hallærum, (Lærdómslistafélagsrit 1793) að Trölladyngjur hafi gosið 1152 og nefnir eftirfarandi vetur sóttarvetur. Jónas Hallgrímsson telur (Rit J. H. IV. bls. 164) að klausan: ,.Húsrið og manndauði“, sé óræk sönnun þess, að gosið hafi verið í suðvesturhluta landsins, því þeim gosum fylgi mestir landskjálftar og óhollnusta. Þessi rök eru ákaflega hæpin. í hinni fáorðu frásögn þarf ekkert beint samband að vera milli setninganna: „Eldur í Trölladyngjum“ og „Húsrið og manndauði.“ Landskjálfti og manndauði hafa oft gert usla hér á landi, þótt ekki hafi valdið eldgos, og óhollusta og tjón af gosum mun venjulega hafa farið meira eftir því, hvort um öskugos eða hraungos var að ræða, heldur en hinu, hvar á landinu gosin voru. Frásögnin er ákaflega fáorð, sem bendir til þess, að gosið hafi verið fjarri mannabyggðum og því lítið um það vitað. Það er ósennilegt, að ekki hefði verið sagt fleira frá gosi á Reykjanesi, eða einhver örnefni nefnd í sambandi við það. Mér virðist því sennilegast, að gos þetta hafi verið í Trölladyngjum í Ódáðahrauni.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

2. Árið 1188 segir svo (Isl. ann.): „Eldsuppkoma í Trölladyngjum“. Lengri er frásögn þessi ekki og því ósennilegt, aS gos þetta hafi verið á Reykjanesi.
3. Árið 1340 hefjast hér mikil eldgos. Um það segir Annáll Gísla Oddssonar (Analium in islandia farago. Islandica vol. X), það, sem hér fer á eftir í íslenzkri þýðingu: ,,Á árunum 1340 og tveimur eftirfylgjandi tók fjallið Hekla að brenna í sjötta sinn með hræðilegum dunum og dynkjum. Sömuleiðis fjallið Lómagnúpur. Jafnframt kastaði úr sér byrðinni annað fjall nokkurt, Trölladyngjur, allt til hafsins hjá héraði því við sjóinn, sem nefnt er Selvogur. Sömuleiðis var skaginn Reykjanes meira en hálfur eyddur eldi og sjást merki hans í opnu hafi, háir drangar þar úti, kallast Eldeyjar (eða eins og hinir gömlu segja Drifarsteinn. Sömuleiðis Geirfuglasker þar sem flestir steinar til þessa sjást vera útbrunnir. Á sama tíma brann einnig fjall á suðurhluta Íslands, Síðujökull og mörg önnur fjöll eyðandi heil héruð, einhverju sinni einnig í hafinu eldur brennandi auðsénn, og hin logandi fjöll steyptust frá meginlandinu fram í sjó. Slíkar breytingar á þeim tíma, sénar á íslandi, höfðu í för með sér ósambærilegt tjón fyrir landið, og hefir það aldrei beðið þess bætur.“
Ég tek hér alla þessa klausu til samanburðar við annað gosár, sem sagt verður frá hér á eftir og ranglega hefir verið talið eitt hið mesta gosár hér á landi.
Thoroddsen sá aldrei Annál Gísla Oddssonar, sem var geymdur í Englandi, en hafði fréttir af honum. Í Lýsing Íslands (II.,bls. 125) heldur hann, að hér sé átt við gos í Brennisteinsfjöllum, því auðvitað hafi hraun frá Trölladyngju ekki getað runnið yfir tvo fjallgarða, niður í Selvog. Á öðrum stað (De Gesch. d. isl. Vulk., bls. 185) gizkar hann á, að Ögmundarhraun, vestan við Krýsuvík, hafi runnið þetta ár, en það hraun er hvorki runnið úr Trölladyngju né niður í Selvog.
Jónas Hallgrímsson fer aðra leið; hann heldur því fram, að frásögn annálsins sanni, að Trölladyngjur hafi verið samnefni fyrir mörg fjöll, líka fjöllin upp úr Selvogi, en færir engin rök fyrir þessu, og vitanlega nær þetta engri átt.
Frásögn Gísla Oddssonar er þannig, að mjög örðugt er að sanna við hvorar Trölladyngjurnar er átt, en þó virðist mér allt eins mikið styðja þá skoðun, að átt sé við Trölladyngjur í Ódáðahrauni. Orðalagið: „Kastaði úr sér byrðinni“ gæti átt við ösku eða vikurgos,og má þá skilja frásögnina þannig, að aska hafi borizt allt suður í Selvog. Ég veit ekki hvort nckkuð bendir til þess, að Trölladyngja á Reykjanesi hafi gosið vikri, en ef svo hefði verið, gat það varla verið í frásögur færandi, þótt vikurinn bærist í Selvog. Frásögnin er öll ruglingsleg og hlaupið úr einu í annað; gæti vel verið, að frásögnin hefði eitthvað brjálazt í meðferð, ef við t. d. setjum orðin: ,,Hraun rann“ á undan setningunni: „allt til hafsins“ þá hefir Selvogur sitt gos, óháð Trölladyngju og er það sízt meiri skáldskapur, heldur en tilgátur þeirra Jónasar og Thoroddsens. Það vekur líka grunsemd um, að gos þetta hafi ekki verið á Reykjanesi, hve ókunnuglega er frá því sagt. Frá gosunum á Reykjanesskaganum er sagt af miklu meiri kunnugleik, og mætti því halda, að annálshöfundurinn hafi ekki verið eins ókunnugur á Reykjanesi og ætla mætti af frásögninni af Trölladyngjugosinu.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls – gígurinn.

Öll væru þessi rök þó veigalítil á báðar hliðar, ef ekki væri fleira við að styðjast, en nú vill svo vel til, að frá þessum gosum er skýrt á öðrum stað (Isl. ann.). Þar segir svo um dó fénaður, naut og sauðir, um Rangárvelli eyddust nálægt 5 hreppar, annar eldur í Hnappavallajökli, þriðji í Herðubreið yfir Fljótsdalshéraði og vóru allir jafnsnemma uppi. Eldsuppkoma með þeim fádæmum, að eyddust margar nálægar sveitir. Öskufall um Borgarfjörð og Skaga svo fénaður féll og hvarvetna þar á milli.“ Hér er sagt frá gosi í Herðubreið. Auðvitað hefir Herðubreið ekki gosið svona seint, en vel gat gosið borið svo við, eða verið í nágrenni Herðubreiðar og var þá eðlilegt að kenna það við þetta nafnkunna fjall. Heklugos hafa ekki öll verið í Heklu sjálfri og Kröflugosin 1725—30 voru ekki í Kröflu, heldur í nágrenni hennar. Sennilegt er, að þetta Herðubreiðargos hafi verið í Herðubreiðarfjöllum, en þau hafa vafalaust verið nefnd dyngjur og ef til vill Trölladyngjur ytri og getur þá vel staðizt, að gosið sé ýmist talið í Herðubreið eða Trölladyngjum.
4. Íslenzkir annálar skýra frá mikilli eldsuppkomu í Trölladyngjum á tímabilinu 1354—1360, en frásagnirnar um gos þetta eru mjög á reiki cg ónákvæmar og hafa gefið tilefni til ýmiskonar ágizkana. Tel ég því rétt að rekja hér umsagnir heimildanna hverja fyrir sig. Skálholtsannáll 1354 segir svo: „Eldsuppkoma í Trölladyngjum og eyddust margir bæir í Mýdal af öskufallinu, en vikurinn rak vestur á Mýrar og sá eldinn af Snæfellsnesi.“
Gottskálksannáll 1357: „Eldsuppkoma í Trölladyngjum, leiddi þar af ógnir miklar og dunur stórar, öskufall svo mikið að nær alla bæi eyddi í Mýdalnum og víða þar nálægt gerði mikinn skaða. Vikurreki svo mikill austan til, að út frá Stað á Snæfellsnesi rak vikurinn og enn utar.“ Flateyjarannáll 1360: „Eldsuppkoma í Trölladyngjum og eyddust margir bæir í Mýdal af öskufalli, en vikurinn rak allt vestur á Mýrar, en sá eldinn af Snæfellsnesi. Mannfall við Mývatn, hálfur 9 tugur manns í þremur kirkjusóknum.“ Í Árbókum Espólíns 1354 stendur þetta: „Þá var eldur uppi í Trölladyngjum, eyðilögðust margir bæir í Mýdal af öskufalli og sá eldinn af Snjófellsnesi“, og ennfremur 1360: „Þá var eldur uppi í Trölladyngjum.“ Hannes Finnsson segir um árið 1357 í grein sinni: Mannfækkun af hallærum o. s. frv.: „Var eldsuppkoma í Trölladyngjum, eyddust margir bæir í Mýdal af öskufalli og sá eldinn af Snæfellsnesi,“ og um árið 1360: „Mannfall mikið við Mývatn í harðrétti dóu þar um 170 manneskjur.“ Hér eru þá taldar þær heimildir, sem við höfum um þetta gos, og mun mörgum virðast, að örðugt sé að finna þann samnefnara, sem öll þessi brot gangi upp í. Jónas Hallgrímsson segir, að þar sem vikur hafi rekið á Mýrum og eldarnir sézt af Snæfellsnesi, sé það augljóst, að gos þetta hafi verið á Reykjanesi. Með Mýdalinn er hann í nokkurum vanda, en hyggur þó, að það sé misritun fyrir Mýrdal, en þar sem sá dalur hafi oft orðið fyrir þungum búsifjum af völdum eldgosa, hafi annálsritarinn, vegna landfræðilegrar fákænsku,sett þetta gos í samband við hann (Rit J. H., IV., bls. 165—166). Thoroddsen segir, að hér sé að líkindum átt við Trölladyngju á Reykjanesi, en ef til vill hafi samtímis verið eldur uppi í Austurjöklum. Báðir telja þeir, Jónas og Thoroddsen, að eldgosið hafi orðið árið 1360.
Ég vil strax taka það fram, að mér virðast ö11 rök hníga í þá átt, að gos þetta hafi verið í Trölladyngjum í Ódáðahrauni. Þegar skýrt er frá eins miklu gosi, eins og ætla má, að þetta hafi verið, gat það ekki verið neitt tiltökumál, þótt eldar sæjust á Snæfellsnesi og vikur ræki á Mýrum, ef gosið var á Reykjanesi. Hins vegar var það í frásögur færandi, ef gosið var inn í Ódáðahrauni. Nafnið Mýdalur er vafalaust sótt í sameiginlega heimild. Hugsanlegt er, að það sé misritun fyrir Mýrdal og vel gat gosmökk frá Dyngjufjöllum lagt þannig, að mest tjón yrði í Mýrdal, en sennilegasta skýringin er, að með Mýdal sé átt við byggðina kringum Mývatn, en vegna ókunnugleika hefir annálsritarinn haldið, að vatnið lægi í dal og gefið dalnum nafn Þá er líka fengin góð skýring á mannfalli því við Mývatn, sem Flateyjarannálls kýrir frá, en Hannes Finnsson telur þær hálfu meira. Aðeins með þessari skýringu er hægt að láta frásagnirnar allar falla í ljúfa löð.

Trölladynggja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls – hraun.

5. Þá er komið að árinu 1390, sem talið hefir verið mjög mikið gosár, en um öll þau gos, að Heklugosinu undanskildu, er Espólín einn til frásagnar (Árb. Esp.). Frásögn Espólíns hljóðar svo: „Logaði Hekla með miklum undrum og Lómagnúpur og Trölladyngja, allt suður í sjó og vestur að Selvogi og allt Reykjanes, brann þar hálft og stendur þar eftir í sjó fram Dýptarsker og Fuglasker og er það allt eldbrunnið grjót síðan, einnig logaði Síðujökull og mörg önnur fjöll og sveitir heilar eyddust af eldgangi.“ Espólín segir ennfremur, að eldurinn hafi haldizt í Heklu og fleiri jöklum hinn sami árið eftir. Engum getur dulizt, að hér er á ferðinni frásögn Gísla Oddssonar af eldgosunum 1340. Isl. ann. nefna aðeins Heklugos þetta ár (1390), en engin önnur. Það er því augljóst, að frásögn þessi er komin á rangan stað hjá Espólín og er vafalaust mislestri á ártölum um að kenna. Við getum því með góðri samvizku strikað út eitt mesta gosárið í sögu landsins. Mér hefir verið þetta ljóst alllengi og sé, að Matthías Þórðarson þjóðskjalavörður hefir komizt að sömu niðurstöðu. (Athugas. við Rit J. H. IV., bls. 314—315). Nauðsynlegt er að benda sem rækilegast á þessa villu, sem gengur í gegnum flest eða öll meginrit okkar um jarðelda, og er meðal annars tekin athugasemdalaust upp í Sögu Íslendinga í Vesturheimi, sem er nýútkomin.
6. Árið 1510 segir Biskupsannáll, að eldur hafi verið uppi bæði í Trölladyngjum og Herðubreið (Safn. t, s. Isl. I., bls, 44). Engin ástæða er til að rengja þetta, þótt aðrar heimildir geti þess eigi. Af því má ráða, að gos þessi hafi verið fjarri mannabyggðum og ekki valdið tjóni. Samtímis er mikið Heklugos, sem vitanlega dró að sér mesta athygli. Þá eru Trölladyngjugosin talin og er hér litlu við að bæta. Þó má geta þess, að þeir Eggert og Bjarni telja, í ferðabók sinni, Trölladyngjur og Herðubreið í Ódáðahrauni, mikil eldfjöll: „Der har sprudet en forfærdelig Ild i gamle Dage.“ Þetta hefðu þeir tæplega gert, ef ekki hefðu farið sögur af gosum þessara fjalla.
Við megum ekki gleyma því, að þeir Eggert og Bjarni eru um 200 árum nær hinum sögulegu frásögnum um þessi gos heldur en við og gátu því betur dæmt um þetta. Það væri líka dálítið kynlegt, ef Trölladyngjur á Reykjanesi hefðu gosið hvað eftir annað, á tímabilinu 1150—1510, en svo hætt með öllu, en Dyngjufjöll, sem nú gjósa með litlu millibili og öll bera augljós merki eldsumbrota frá fyrri tímum, hefðu aldrei bært á sér allan þennan tíma svo í frásögur þætti færandi. Þótt Þorv. Thoroddsen hallist á þá sveif, að Trölladyngjugosin hafi verið á Reykjanesi, þá gerir hann það auðsjáanlega hikandi og ég hygg, hann hefði litið öðruvísi á það mál, ef honum hefði verið ljóst, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni voru sama og Dyngjufjöll. Ég tel þetta mikilsvert atriði og hefi álitið rétt að benda rækilega á það, þótt ég telji ekki æskilegt, að nöfnum verði breytt á ný í hið upprunalega horf á þessum slóðum.
Sumum kann að virðast, að ekki skipti miklu máli í hvorri Trölladyngjunni gos þessi hafi verið, en þetta skiptir einmitt miklu máli. Það hefir nokkura almenna sögulega þýðingu og getur haft verulega þýðingu fyrir jarðfræði landsins, og auk þess er ætíð skylt að leita hins rétta og hafa það er réttara reynist.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn 1941, Ólafur Jónsson, Trölladyngjur, bls. 76-88.

Trölladyngja

Trölladyngja á Núpshlíðarhálsi.

Sogasel

Haldið var upp á Höskuldarvelli þar sem ætlunin var að ganga á Trölladyngju og síðan til baka um Sogin. Vegurinn upp á Höskuldarvelli liggur upp Afstapahraun, sem mun vera frá sögulegum tíma.

Keilir

Hoft á Keili af Trölladyngju.

Gengið var upp grasi gróna vesturhlíð Dyngjunnar, um skarð og síðan aflíðandi upp á hana að austanverðu. Dyngjan er ber á bakinu, en ekki erfið uppgöngu. Heildargangan tekur u.þ.b. 30 mínútur. Fallegt útsýni er af Trölladyngju yfir Höskuldarvelli, Oddafell, Eldborg, Lambafell, niður og norðaustur eftir Dyngjurana, Grænudyngju og um hálsinn að sunnanverðu, yfir að Spákonuvatni og Sogin. Grænadyngja er austan við Trölladyngju og er gróinn dalur (dyngja) á milli þeirra. Hún er gróin upp á topp og því tiltölulega auðveld uppgöngu.
Trölladyngja er móbergsfjall, en þegar komið er á efri hluta hennar verður bólstraberg áberandi. Stundum var talað um Trölladyngur, Dyngjur eða Dyngjuhnúka, og þá átt við báða hnúkana. Trölladyngja er um 375 m og Grænadyngja er um 400 m. Í Trölladyngju hefur fundist silfurberg.
Milli Dyngnanna er skarð sem skipt er þversum af lágum hálsi og heitir hann líklega Söðull.

Sog

Í Sogum.

Sogin skilja Dyngjurnar frá Núpshlíðarhálsi, en þau eru grafningar miklir. Í þeim eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu, og litadýrðin mikil, einkum að sunnanverðu. Hraun hafa runnið bæði í norður og suður, meðal annars Afstapahraun, bæði yngra og eldra (Geldingahraun). Enn er þarna mikill jarðhiti á ýmsum stöðum.
Reykjanesinu er gjarnan skipt í 4 eða 5 eldstöðvakerfi, Reykjanes-Grindavík-Vogar (oft talið sem tvö kerfi), Krýsuvík-Trölladyngja, Brennisteinsfjöll-Bláfjöll og Hengill-Selvogur. Hliðrunarbelti með austur-vestur stefnu í gegnum þessi kerfi veldur tíðum jarðskjálftum á Reykjanesi og á því hafa myndazt háhitasvæði á yfirborði, s.s. á Reykjanesi, í Eldvörpum, í Svartsengi, í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum. Eldstöðvakerfin hafa öll skilað blágrýti (þóleiískt berg) til yfirborðsins á nútíma nema Hengilssvæðið. Píkrít er að finna í gömlu og minni dyngjunum á svæðinu en ólivínþóleit í hinum yngri og stærri. Fjöldi dyngnanna frá nútíma er u.þ.b. 30 og gossprungur eru í tugatali.

Sogin

Litadýrð Soganna.

Eldborgin norðan við Trölladyngju var einnig nefnd Ketillinn. Hún hefur verið fallegur gígur, en er nú ekki svipur hjá sjón. Jón Jónsson, jarðfræðingur, segir að gosið í Eldborg hafi án efa verið með þeim seinustu á þessu svæði og sennilega það síðasta. Það er því yngra en Afstapahraun.
Höskuldavellir eru rúmur kílómetri að lengd og tæpur kílómetri á breidd. Þeir urðu til við leiframburð Sogalækjar, sem kemur úr Sogunum og rennur norður um vellina. Ekki er vitað við hvaða mann vellirnir eru kenndir, en þeir eru í landi Stóru-Vatnsleysu.
Gengið var upp skarðið stóra milli Dyngnanna, yfir að Sogunum. Búið er að girða af beitarhólf Suðurnesjamanna, en víða í grónum giljum má sjá allt að fimm metra undir girðinguna.

Sog

Í Sogum.

Sogin eru 150-200 m djúp leirgil sem mikill jarðhiti hefur verið í fyrrum og aðeins eimir af enn. Þægilegt er að ganga niður í Sogin sunnan við Dyngjurnar og útsýnið er stórbrotið og litadýrðin mikil. Leirkenndur jarðvegurinn er rokgjarn, en drekkur í sig bleytu. Fallegur hver er í hlíðinni sunnan við Sogalæk. Honum var fylgt niður Sogaselsdalur eða Sogadal, litið á tóftir þar sunnan við lækinn og síðan haldið að selsminjunum inni í Sogagíg eða Sogaselsgíg. Gígurinn er opinn til suðurs, girtur skeifulaga hamrabelti og hefur því myndað gott aðhald fyrir skepnur. Þarna var Sogasel frá Kálfatjarnarhverfi og jafnvel Krýsuvík. Margar kofatóftir eru á þremur stöðum í gígnum og kví undir vestari hamraveggnum og við nyrstu tóftina.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Sesselju G. Guðmundsdóttur.

Sogin

Sogin.

Trölladyngja

Ólafur Jónsson skrifaði um „Trölladyngjur“ í Náttúrufræðinginn árið 1941. Trölladyngjur eru tvær á landinu, önnur norðan Vatnajökuls og hin ofan Vatnsleysustrandar. Hér er grein Ólafs lítillega stytt:

Trölladyngja

Trölladyngja nyrst á Núpshlíðarhálsi.

„Íslenzkir annálar og árbækur geta 6 sinnum eldgosa í Trölladyngjum, en þar sem fjöll með þessu nafni eru tvö á landi hér, annað í Ódáðahrauni, hitt á Reykjanesskaga, hafa fræðimenn ekki orðið á eitt sáttir um það, hvoru beri að telja þessi gos. Trölladyngja í Ódáðahrauni er hraunbunga mikil í suðurhluta hraunsins, formfögur og regluleg. Trölladyngja á Reykjanesi er röð af óreglulegum móbergshnjúkum, skammt vestur af Sveifluhálsi.
Þorvaldur Thoroddsen telur líklegt, að Trölladyngjugosin hafi orðið í Trölladyngju á Reykjanesi og nágrenni hennar, því Trölladyngja í Ódáðahrauni hafi ekki gosið síðan land byggðist. Þó viðurkennir hann, að Trölladyngja á Reykjanesi hafi tæplega gosið nema einu sinni síðan á landnámstíð, en hyggur að önnur gos þar í nágrenninu hafi verið við hana kennd. Rök þessi eru ákaflega veik, því með sama rétti má segja, að gos í nágrenni Trölladyngju í Ódáðahrauni hafi verið við hana kennd, en þess mun þó ekki við þurfa, því hægt er að færa sterk rök að því, að gos þessi, flest eða öll, hafi orðið í Trölladyngjum í Ódáðahrauni. Það, sem fyrst vekur athygli við rannsókn þessa máls, er sú staðreynd, að tvö fjöll, gerólík að uppruna og útliti, bera sama nafnið. Þetta er vafalaust mjög sjaldgæft, þegar um forn nöfn er að ræða og getur aðeins byggst á því, að þeir, sem nöfnin gáfu, hafi lagt ólíkan skilning í nafnið. Nú er aðeins notuð eintölumynd nafnsins; hvort fjallið sem í, hlut á, en í eldri ritum er fleirtölumyndin langalgengust og er það réttmætt, þegar Trölladyngja á Reykjanesi á í hlut, því hún er ekkert einstakt fjall, heldur safn af óreglulegum hnjúkum, en jafn fráleitt væri að tala um reglulegt og einstakt fjall í fleirtölu, eins og Trölladyngju í Ódáðahrauni. Þetta hvorutveggja stangast svo óþægilega, að varla getur dulizt, að eitthvað sé nú orðið bogið við notkun þessara örnefna.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

Á uppdrætti Knopfs af Íslandi frá 1734, og kortum þeim, sem gerð eru eftir honum í ferðabókum ýmsum, sjáum við, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni eru ýmist sýndar, sem mikið óreglulegt fjall, eða þyrping af fjöllum, skammt suðvestur af Herðubreið. Á uppdrætti Björns Gunnlaugssonar, frá 1844, er hraunbungan Trölladyngja nefnd Skjaldbreiður eða Trölladyngja, en milli Herðubreiðar og Bláfjalls eru Dyngjufjöll hin nyrðri, eða Trölladyngjur. Þessi fjöll munu nú heita Herðubreiðarfjöll.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson.

Í bók Kaalunds (Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island) er kort af Þingeyjarsýslu, gert eftir uppdrætti Björns Gunnlaugssonar, með leiðréttingum Prof. Jonstrups frá 1876. Þar eru Dyngjufjöll syðri og Dyngjufjöll nyrðri nefnd einu nafni Trölladyngjur. Sé þetta rétt, er fullt samræmi fengið. Þessar stóru fjallþyrpingar eru einmitt safn af óreglulegum hæðum og hnjúkum, eins og Trölladyngja á Reykjanesi, og þess vegna er vel til fundið að nota fleirtölumynd nafnsins og nefna þær Trölladyngjur. Það er auðgert að finna þessari skoðun stuðning í ýmsum heimildum.
Í bók Eggerts Ólafssonar frá 1751, (Disquisitio antiquario etc.) stendur þessi klausa, eftir að rætt hefir verið um Herðubreið: „Ekki langt þaðan liggur vatn (Lacus), sömuleiðis eldspúandi, Trölladyngjur, nefndar svo af þeim öskuhæðum, sem í því og kringum það rísa.“ Lýsing þessi er að vísu öfgakennd, en getur þó á vissan hátt átt við Dyngjufjöll. Austan við fjöllin hefir til skamms tíma verið stórt vatn, Dyngjuvatn, sem nú er horfið. Líklega hafa menn haft veður af þessu vatni og sett gosin í samband við það. Það er að minnsta kosti ljóst, af þessari lýsingu, að á tíð Eggerts, eru þyrpingar af hólum og hæðum nefndar dyngjur.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – kort af svæðinu norðan Vatnajökuls 1831.

Þyngri á metunum verður þó lýsingin á Trölladyngjum í Ódáðahrauni í ferðabók þeirra Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1772 (Reise igennem Island, bls. 752). Þar segir, er lokið hefir verið að lýsa Herðubreið: „Trolddynger er derimod et lavt Bjerg med nogle og især 3de Afdelinger og forbrændte Spidser, men rundagtige Knolde der imellem.“ (Trölladyngjur eru hins vegar lágt fjall, er skiptist í nokkra en aðallega 3 hluta, með brunatindum og ávölum hæðum á milli.) Þetta er lýsing sjónarvotta á Trölladyngjum og getur hún prýðilega átt við Dyngjufjöll.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – kort af Trölladyngju á Reykjanesskaga 1831.

Níutíu árum síðar lýsa þeir Preyer og Zirkel Trölladyngju mjög á sama veg og þeir Eggert og Bjarni gerðu. Í bók þeirra (Reise nach Island) segir svo: „Trölladyngja zwischen dem Ódáðahraun und dem Vatnajökull gelegen, ein nicht besonders hoher Berg mit drei Hauptgipfeln“. (Trölladyngja milli Ódáðahrauns og Vatnajökuls, ekki mjög hátt fjall með þrem aðaltindum). Bezta heimildin um það, að Dyngjufjöll og Trölladyngjur séu eitt og sama, er ritgerð Jónasar Hallgrímssonar frá 1839, „De islandske Vulkaner“ (Rit J.H., IV., bls. 163). Þar segir svo: „Inde i Landet, syd for Myvatnsfjældene findes en stor Bjærgklynge, som af Myvatnsbeboerne kaldes Dyngjufjöll, men den hedder ogsaa Trölladyngjur og har en Række af Vulkaner, som har avgivet Materialet til en stor Del af Ódáðahraun o.s.v.“ (Inn til landsins, sunnan við Mývatnsfjöllin, er mikil fjallþyrping, sem Mývetningar nefna Dyngjufjöll, en hún heitir líka Trölladyngjur. Þar eru margar gosstöðvar, sem hafa lagt til efnið í mikinn hluta Ódáðahrauns.) Þessi frásögn sýnir, að um 1840 er Trölladyngjunafnið ennþá loðandi við Dyngjufjöll, en það síðara þó orðið algengara, að minnsta kosti sums staðar.

Eggert og Bjarni

Eggert og Bjarni – Íslandskort þeirra um 1770.

Að lokum skal þess getið, sem séra Sigurður Gunnarsson segir um þetta í grein sinni: „Miðlandsöræfi Íslands“ (Norðanfari, 16. ár, bls. 28). Hann telur örnefni í Ódáðahrauni þannig, að fyrst sé Trölladyngja skammt frá jöklinum, þá Dyngjufjöll með Dyngjufjalladal eða Öskjunni. Síðan segir orðrétt: „Norðanmegin ganga út frá þessu hraunfjallahálendi hæðir miklar- og fjalldyngjuklasar, vestur og norðvestur af Herðubreið. Þar eru Trölladyngjur eða Dyngjufjöll hin ytri og engin mjög há eða þá nokkuru lægri en hraunfjöllin innfrá“. Þessi frásögn sýnir prýðilega þann rugling, sem kominn er á örnefnin. Trölladyngjur heita nú bara Dyngjufjöll. Trölladyngjunafnið hefir klofnað í tvennt, eintölumynd, sem hefir færzt suður á hraunbungu, sem áður hét Skjaldbreiður, og fleirtölumynd, sem flutzt hefir norður í Herðubreiðarfjöll.

Eggert og Bjarni

Eggert og Bjarni – kort þeirra af norðanverðum Vatnajökli.

Það er því líkast, sem þessi örnefnaflutningar haldist í hendur með mælingum og rannsókn á landinu og er slíkt skiljanlegt. Alþýða manna lét sig öræfin, sem lágu utan við takmörk afréttanna, litlu skipta, og auðvitað hafa þessi örnefni verið orðin á talsverðu reiki, þegar fræðimennirnir komu til skjalanna. Rannsóknir og mælingar landsins þarfnast fastra örnefna og hefir því gömlu örnefnunum, sem orðin voru á reiki, verið slengt niður eftir ágizkun, eða að minnsta kosti án ýtarlegrar rannsóknar. Þetta er í raun og veru ekki verra en viðgengizt hefir fram á þennan dag. Erlendir og innlendir fræðimenn og ferðalangar fara fram og aftur um óbyggðir landsins og ausa örnefnum, af miklu örlæti, á báðar hendur. Sum þessi örnefni eru jafnvel útlend eða þá mjög vanhugsuð og ósmekkleg. Önnur lenda á stóðum, sem áður höfðu prýðileg nöfn, og getur það kostað töluverða fyrirhöfn að losna aftur við þessi uppnefni.

Eggert og Bjarni

Eggerts og Bjarni – kort þeirra af Reykjanesskaga um 1770.

Af framanrituðu má draga þá ályktun og telja fullvíst, að Dyngjufjöll hafi heitið Trölladyngjur og mun enginn, sem þar er kunnugur, vilja neita því, að þau hafi gosið oft síðan land byggðist. Það var Thoroddsen líka fullkomlega ljóst og má því furðulegt kalla, að hann, sem var kunnari gömlum heimildum en flestir aðrir, skyldi ekki koma auga á örnafnaflutning þann, sem þarna hefir átt sér stað. Líklega hafa Herðubreiðarfjöll líka verið kölluð dyngjur, því svo virðist, sem það hafi verið málvenja að nefna þyrpingar af óreglulegum móbergsfjöllum dyngjur eða fjalldyngjur. Nú hefir þetta heiti algerlega skipt um merkingu, svo það er notað um regluleg einstök bungumynduð eldfjöll, sem sameiginlegt, fræðilegt nafn, ekki aðeins í íslenzkum fræðum, heldur líka í sumum erlendum jarðfræðiritum.

Trölladyngja

Trölladyngja og Dyngjufjöll.

Trölladyngja hefir líklega ekki gosið eftir að sögur hófust, en Trölladyngjur, þ.e. Dyngjufjöll, hafa vafalaust gosið oft eftir að landið byggðist. Þótt það sé merkilegt, að Thoroddsen skyldi ekki sjá þetta, þá er það ennþá furðulegra, að Jónas Hallgrímsson, sem vissi að Dyngjufjöll voru sama og Trölladyngjur, skuli fullyrða, að öll Trölladyngjugosin hafi verið á Reykjanesi. Þessa niðurstöðu reynir hann að byggja á frásögnum annálanna af gosunum, en tekst ákaflega óhönduglega og virðast mér rök hans stundum sanna alveg hið gagnstæða. Vil ég nú rekja ummæli annálanna um þessi gos og draga af þeim þær ályktanir, sem auðið er.

Trölladyngja

Trölladyngja á Reykjanesskaga.

1. Árið 1151 er í fyrsta sinn getið um gos í Trölladyngjum (Isl. ann.). Frásögnin er mjög stuttorð og hljóðar svo: „Eldur í Trölladyngjum. Húsrið og mannskaði.“ Hannes Finnsson segir í ritgerðinni Mannfækkun á Íslandi af hallærum, (Lærdómslistafélagsrit 1793) að Trölladyngjur hafi gosið 1152 og nefnir eftirfarandi vetur sóttarvetur. Jónas Hallgrímsson telur (Rit J. H. IV. bls. 164) að klausan: „Húsrið og manndauði“, sé óræk sönnun þess, að gosið hafi verið í suðvesturhluta landsins, því þeim gosum fylgi mestir landskjálftar og óhollnusta. Þessi rök eru ákaflega hæpin. Í hinni fáorðu frásögn þarf ekkert beint samband að vera milli setninganna: „Eldur í Trölladyngjum“ og „Húsrið og manndauði.“ Landskjálfti og manndauði hafa oft gert usla hér á landi, þótt ekki hafi valdið eldgos, og óhollusta og tjón af gosum mun venjulega hafa farið meira eftir því, hvort um öskugos eða hraungos var að ræða, heldur en hinu, hvar á landinu gosin voru. Frásögnin er ákaflega fáorð, sem bendir til þess, að gosið hafi verið fjarri mannabyggðum og því lítið um það vitað. Það er ósennilegt, að ekki hefði verið sagt fleira frá gosi á Reykjanesi, eða einhver örnefni nefnd í sambandi við það. Mér virðist því sennilegast, að gos þetta hafi verið í Trölladyngjum í Ódáðahrauni.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls ofar, Urðarháls og gígur neðar.

2. Árið 1188 segir svo (Isl. ann.): „Eldsuppkoma í Trölladyngjum“. Lengri er frásögn þessi ekki og því ósennilegt, að gos þetta hafi verið á Reykjanesi.
3. Árið 1340 hefjast hér mikil eldgos. Um það segir Annáll Gísla Oddssonar (Analium in islandia farago. Islandica vol. X), það, sem hér fer á eftir í íslenzkri þýðingu: „Á árunum 1340 og tveimur eftirfylgjandi tók fjallið Hekla að brenna í sjötta sinn með hræðilegum dunum og dynkjum. Sömuleiðis fjallið Lómagnúpur. Jafnframt kastaði úr sér byrðinni annað fjall nokkurt, Trölladyngjur, allt til hafsins hjá héraði því við sjóinn, sem nefnt er Selvogur. Sömuleiðis var skaginn Reykjanes meira en hálfur eyddur eldi og sjást merki hans í opnu hafi, háir drangar þar úti, kallast Eldeyjar (eða eins og hinir gömlu segja Drifarsteinn. Sömuleiðis Geirfuglasker þar sem flestir steinar til þessa sjást vera útbrunnir. Á sama tíma brann einnig fjall á suðurhluta Íslands, Síðujökull og mörg önnur fjöll eyðandi heil héruð, einhverju sinni einnig í hafinu eldur brennandi auðsénn, og hin logandi fjöll steyptust frá meginlandinu fram í sjó. Slíkar breytingar á þeim tíma, sénar á Íslandi, höfðu í för með sér ósambærilegt tjón fyrir landið, og hefir það aldrei beðið þess bætur.“ Ég tek hér alla þessa klausu til samanburðar við annað gosár, sem sagt verður frá hér á eftir og ranglega hefir verið talið eitt hið mesta gosár hér á landi.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

Thoroddsen sá aldrei Annál Gísla Oddssonar, sem var geymdur í Englandi, en hafði fréttir af honum. Í Lýsing Íslands (II., bls. 125) heldur hann, að hér sé átt við gos í Brennisteinsfjöllum, því auðvitað hafi hraun frá Trölladyngju ekki getað runnið yfir tvo fjallgarða, niður í Selvog. Á öðrum stað (De Gesch. d. isl. Vulk., bls. 185) gizkar hann á, að Ögmundarhraun, vestan við Krýsuvík, hafi runnið þetta ár, en það hraun er hvorki runnið úr Trölladyngju né niður í Selvog.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

Jónas Hallgrímsson fer aðra leið; hann heldur því fram, að frásögn annálsins sanni, að Trölladyngjur hafi verið samnefni fyrir mörg fjöll, líka fjöllin upp úr Selvogi, en færir engin rök fyrir þessu, og vitanlega nær þetta engri átt.
Frásögn Gísla Oddssonar er þannig, að mjög örðugt er að sanna við hvorar Trölladyngjurnar er átt, en þó virðist mér allt eins mikið styðja þá skoðun, að átt sé við Trölladyngjur í Ódáðahrauni. Orðalagið: „Kastaði úr sér byrðinni“ gæti átt við ösku- eða vikurgos, og má þá skilja frásögnina þannig, að aska hafi borizt allt suður í Selvog. Ég veit ekki hvort nokkuð bendir til þess, að Trölladyngja á Reykjanesi hafi gosið vikri, en ef svo hefði verið, gat það varla verið í frásögur færandi, þótt vikurinn bærist í Selvog. Frásögnin er öll ruglingsleg og hlaupið úr einu í annað; gæti vel verið, að frásögnin hefði eitthvað brjálazt í meðferð, ef við t.d. setjum orðin: „Hraun rann“ á undan setningunni: „allt til hafsins“ þá hefir Selvogur sitt gos, óháð Trölladyngju og er það sízt meiri skáldskapur, heldur en tilgátur þeirra Jónasar og Thoroddsens.

Trölladynggja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls – hraun.

Það vekur líka grunsemd um, að gos þetta hafi ekki verið á Reykjanesi, hve ókunnuglega er frá því sagt. Frá gosunum á Reykjanesskaganum er sagt af miklu meiri kunnugleik, og mætti því halda, að annálshöfundurinn hafi ekki verið eins ókunnugur á Reykjanesi og ætla mætti af frásögninni af Trölladyngjugosinu. Öll væru þessi rök þó veigalítil á báðar hliðar, ef ekki væri fleira við að styðjast, en nú vill svo vel til, að frá þessum gosum er skýrt á öðrum stað (Isl. ann.). Þar segir svo um árið 1341: „Eldur í Heklufjalli með svo miklu sandfoki um vorið, að dó fénaður, naut og sauðir, um Rangárvelli eyddust nálægt 5 hreppar, annar eldur í Hnappavallajökli, þriðji í Herðubreið yfir Fljótsdalshéraði og vóru allir jafnsnemma uppi. Eldsuppkoma með þeim fádæmum, að eyddust margar nálægar sveitir. Öskufall um Borgarfjörð og Skaga svo fénaður féll og hvarvetna þar á milli.“

Trölladyngja

Trölladyngja á Núpshlíðarhálsi.

Hér er sagt frá gosi í Herðubreið. Auðvitað hefir Herðubreið ekki gosið svona seint, en vel gat gosið borið svo við, eða verið í nágrenni Herðubreiðar og var þá eðlilegt að kenna það við þetta nafnkunna fjall. Heklugos hafa ekki öll verið í Heklu sjálfri og Kröflugosin 1725—30 voru ekki í Kröflu, heldur í nágrenni hennar. Sennilegt er, að þetta Herðubreiðargos hafi verið í Herðubreiðarfjöllum, en þau hafa vafalaust verið nefnd dyngjur og ef til vill Trölladyngjur ytri og getur þá vel staðizt, að gosið sé ýmist talið í Herðubreið eða Trölladyngjum. Svo er ekki heldur ósennilegt, að samtímis gosi í Herðubreiðarfjöllum, hafi gosið í Trölladyngjum, þ.e. Dyngjufjöllum. Árið 1875 gýs til dæmis bæði í Dyngjufjöllum og í Sveinagjá, sem er miklu norðar á öræfunum. Öll þrjú gosin, sem Isl. ann. segja frá 1341, hafa líklega verið ösku- eða vikurgos. Heklugosið gerði mestan usla um Rangárvelli, en langsennilegast er, að askan, sem féll um Borgarfjörð og Skaga og allt þar á milli, hafi komið frá Trölladyngjum í Ódáðahrauni. Að öllu þessu athuguðu, er það ákaflega sennilegt, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni hafi gosið 1340 eða 1341, að minnsta kosti má fullyrða, að þessi ár hafi gosið einhversstaðar í nágrenni þeirra.

Trölladyngja

Trölladyngja og Grænadyngja á Núpshlíðarhálsi. Spákonuvatn og Sesseljupollur fyrir miðri mynd.

4. íslenzkir annálar skýra frá mikilli eldsuppkomu í Trölladyngjum á tímabilinu 1354—1360, en frásagnirnar um gos þetta eru mjög á reiki og ónákvæmar og hafa gefið tilefni til ýmiskonar ágizkana. Tel ég því rétt að rekja hér umsagnir heimildanna hverja fyrir sig. Skálholtsannáll 1354 segir svo: „Eldsuppkoma í Trölladyngjum og eyddust margir bæir í Mýdal af öskufallinu, en vikurinn rak vestur á Mýrar og sá eldinn af Snæfellsnesi.“
Gottskálksannáll 1357: „Eldsuppkoma í Trölladyngjum, leiddi þar af ógnir miklar og dunur stórar, öskufall svo mikið að nær alla bæi eyddi í Mýdalnum og víða þar nálægt gerði mikinn skaða. Vikurreki svo mikill austan til, að út frá Stað á Snæfellsnesi rak vikurinn og enn utar.“ Flateyjarannáll 1360: „Eldsuppkoma í Trölladyngjum og eyddust margir bæir í Mýdal af öskufalli, en vikurinn rak allt vestur á Mýrar, en sá eldinn af Snæfellsnesi. Mannfall við Mývatn, hálfur 9 tugur manns í þremur kirkjusóknum.“

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – kort af Reykjanesskaga 1831.

Í Árbókum Espólíns 1354 stendur þetta: „Þá var eldur uppi í Trölladyngjum, eyðilögðust margir bæir í Mýdal af öskufalli og sá eldinn af Snjófellsnesi“, og ennfremur 1360: „Þá var eldur uppi í Trölladyngjum.“
Hannes Finnsson segir um árið 1357 í grein sinni: Mannfækkun af hallærum o.s.frv.: „Var eldsuppkoma í Trölladyngjum, eyddust margir bæir í Mýdal af öskufalli og sá eldinn af Snæfellsnesi,“ og um árið 1360: „Mannfall mikið við Mývatn í harðrétti dóu þar um 170 manneskjur.“
Hér eru þá taldar þær heimildir, sem við höfum um þetta gos, og mun mörgum virðast, að örðugt sé að finna þann samnefnara, sem öll þessi brot gangi upp í. Jónas Hallgrímsson segir, að þar sem vikur hafi rekið á Mýrum og eldarnir sézt af Snæfellsnesi, sé það augljóst, að gos þetta hafi verið á Reykjanesi. Með Mýdalinn er hann í nokkurum vanda, en hyggur þó, að það sé misritun fyrir Mýrdal, en þar sem sá dalur hafi oft orðið fyrir þungum búsifjum af völdum eldgosa, hafi annálsritarinn, vegna landfræðilegrar fákænsku, sett þetta gos í samband við hann (Rit J. H., IV., bls. 165—166). Thoroddsen segir, að hér sé að líkindum átt við Trölladyngju á Reykjanesi, en ef til vill hafi samtímis verið eldur uppi í Austurjöklum. Báðir telja þeir, Jónas og Thoroddsen, að eldgosið hafi orðið árið 1360.

Jónas Hallgrímsson

Jónas Hallgrímsson.

Ég vil strax taka það fram, að mér virðast öll rök hníga í þá átt, að gos þetta hafi verið í Trölladyngjum í Ódáðahrauni. Þegar skýrt er frá eins miklu gosi, eins og ætla má, að þetta hafi verið, gat það ekki verið neitt tiltökumál, þótt eldar sæjust á Snæfellsnesi og vikur ræki á Mýrum, ef gosið var á Reykjanesi. Hins vegar var það í frásögur færandi, ef gosið var inn í Ódáðahrauni. Þetta er einmitt tekið fram til þess að gefa frásögninni kraft og sýna, hve stórfenglegt gosið var. Það eru nokkur dæmi til þess, að vikurhrannir hafa rekið óraleiðir með ströndum landsins og leiftur frá sumum eldgosum sést um land allt.
Auðsjáanlega styðjast flestar þessar frásagnir við sameiginlega heimild, en þess vegna er einkennilegt, hve tímasetningin er ósamhljóða. Þó gæti þetta verið gostímabil og eldarnir verið uppi öðru hvoru allt tímabilið, en einhverntíma á þessu tímabili hefir komið mikið vikurgos, sem svo er mismunandi árfært af höfundum annálanna. Nafnið Mýdalur er vafalaust sótt í sameiginlega heimild. Hugsanlegt er, að það sé misritun fyrir Mýrdal og vel gat gosmökk frá Dyngjufjöllum lagt þannig, að mest tjón yrði í Mýrdal, en sennilegasta skýringin er, að með Mýdal sé átt við byggðina kringum Mývatn, en vegna ókunnugleika hefir annálsritarinn haldið, að vatnið lægi í dal og gefið dalnum nafn. Þá er líka fengin góð skýring á mannfalli því við Mývatn, sem Flateyjarannáll skýrir frá, en Hannes Finnsson telur þar hálfu meira. Aðeins með þessari skýringu er hægt að láta frásagnirnar allar falla í ljúfa löð.
5. Þá er komið að árinu 1390, sem talið hefir verið mjög mikið gosár, en um öll þau gos, að Heklugosinu undanskildu, er Espólín einn til frásagnar (Árb. Esp.). Frásögn Espólíns hljóðar svo: „Logaði Hekla með miklum undrum og Lómagnúpur og Trölladyngja, allt suður í sjó og vestur að Selvogi og allt Reykjanes, brann þar hálft og stendur þar eftir í sjó fram Dýptarsker og Fuglasker og er það allt eldbrunnið grjót síðan, einnig logaði Síðujökull og mörg önnur fjöll og sveitir heilar eyddust af eldgangi.“ Espólín segir ennfremur, að eldurinn hafi haldizt í Heklu og fleiri jöklum hinn sami árið eftir.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls – gígurinn.

Engum getur dulizt, að hér er á ferðinni frásögn Gísla Oddssonar af eldgosunum 1340. Isl. ann. nefna aðeins Heklugos þetta ár (1390), en engin önnur. Það er því augljóst, að frásögn þessi er komin á rangan stað hjá Espólín og er vafalaust mislestri á ártölum um að kenna. Við getum því með góðri samvizku strikað út eitt mesta gosárið í sögu landsins. Mér hefir verið þetta ljóst alllengi og sé, að Matthías Þórðarson þjóðskjalavörður hefir komizt að sömu niðurstöðu. (Athugas. við Rit J. H. IV., bls. 314—315). Nauðsynlegt er að benda sem rækilegast á þessa villu, sem gengur í gegnum flest eða öll meginrit okkar um jarðelda, og er meðal annars tekin athugasemdalaust upp í Sögu Íslendinga í Vesturheimi, sem er nýútkomin.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

6. Árið 1510 segir Biskupsannáll, að eldur hafi verið uppi bæði í Trölladyngjum og Herðubreið (Safn. t, s. Isl. I., bls, 44), Engin ástæða er til að rengja þetta, þótt aðrar heimildir geti þess eigi. Af því má ráða, að gos þessi hafi verið fjarri mannabyggðum og ekki valdið tjóni. Samtímis er mikið Heklugos, sem vitanlega dró að sér mesta athygli. Þá eru Trölladyngjugosin talin og er hér litlu við að bæta.
Þó má geta þess, að þeir Eggert og Bjarni telja, í ferðabók sinni, Trölladyngjur og Herðubreið í Ódáðahrauni, mikil eldfjöll: „Der har sprudet en forfærdelig Ild i gamle Dage.“ Þetta hefðu þeir tæplega gert, ef ekki hefðu farið sögur af gosum þessara fjalla.

Eggert og Bjarni

Eggert og Bjarni – kort um 1770.

Við megum ekki gleyma því, að þeir Eggert og Bjarni eru um 200 árum nær hinum sögulegu frásögnum um þessi gos heldur en við og gátu því betur dæmt um þetta. Það væri líka dálítið kynlegt, ef Trölladyngjur á Reykjanesi hefðu gosið hvað eftir annað, á tímabilinu 1150—1510, en svo hætt með öllu, en Dyngjufjöll, sem nú gjósa með litlu millibili og öll bera augljós merki eldsumbrota frá fyrri tímum, hefðu aldrei bært á sér allan þennan tíma svo í frásögur þætti færandi.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Þótt Þorv. Thoroddsen hallist á þá sveif, að Trölladyngjugosin hafi verið á Reykjanesi, þá gerir hann það auðsjáanlega hikandi og ég hygg, hann hefði litið öðruvísi á það mál, ef honum hefði verið ljóst, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni voru sama og Dyngjufjöll. Ég tel þetta mikilsvert atriði og hefi álitið rétt að benda rækilega á það, þótt ég telji ekki æskilegt, að nöfnum verði breytt á ný í hið upprunalega horf á þessum slóðum.
Sumum kann að virðast, að ekki skipti miklu máli í hvorri Trölladyngjunni gos þessi hafi verið, en þetta skiptir einmitt miklu máli. Það hefir nokkura almenna sögulega þýðingu og getur haft verulega þýðingu fyrir jarðfræði landsins, og auk þess er ætíð skylt að leita hins rétta og hafa það er réttara reynist.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.04.1941, Trölladyngjur – Ólafur Jónsson, bls. 76-88.

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju í dag.

Eldborg

Ætlunin var að ganga spölkorn eftir hinni gömlu og djúpt mörkuðu þjóðleið er lá eftir endilöngum Reykjanesskaganum um Mosa og framhjá Eldborg undir Trölladyngju. Skammt frá götunni leyndist m.a. skjól með mannvistarleifum (fyrirhleðslu) og e.t.v. einhverju fleira.

Hálsagötur - djúpt markaðar

Sesselja Guðmundsdóttir frá Brekku undir Vogastapa (Kvíguvogastapa) er mannakvenna fróðust um uppland Vatnsleysustrandar-hrepps. Fróðleikur hennar hefur m.a. birst í bók hennar „Örnefni og göngurleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ (1995), sem löngu er uppseld, en hefur nú verið endurútgefin (2007). Hún hefur m.a. skoðað Hálsagöturnar, þjóðleið til og frá Grindavík fyrr á öldum, sem og mögulegan „Selsvallaveg“ er gæti hafa verið hluti þeirra. Hún sendi eftirfarandi:
Í fundargerð sýslunefndar Gullbringusýslu frá árinu 1898 er beint spurningu til sýslumanns, hvort sýslunefndinni beri að halda við Selsvallavegi. Á þessum tíma voru nýleg lög um vegi og þeir skilgreindir í þeim eftir mikilvægi.  Þarna virðist eitthvað óljóst hver beri ábyrgð á Selsvallavegi, og Báruskjól í Eldborgarhraunieða hvort Landssjóður eigi að kosta hann.
Líklega er þarna um að ræða Hálsagötur sem Bj. Sæm. (1867-1940) kallar svo. Í Árbók FÍ. 1936 skrifar Bjarni:  ‘’Úr Víkinni [Grindavík] er farið’’ inn’’ í eða ‘’upp’’ í Fjall: Móhálsa …’’  ‘’… Af Krísuvíkurveginum er önnur leið ‘’inn í Fjall’’; er þá farið t.v. út af honum í Litla-Leirdal, inn með Bratthálsi, um Einihlíðasund, upp með Sandfelli sunnanverðu, yfir Skolahraun, yfir að Vesturhálsinum, og ’’ inn’’ Þrengslin, inn á Selsvelli. Þaðan má svo halda áfram inn með hálsinum, inn á Höskuldarvelli, undir Trölladyngju, fram hjá hinum lágvöxnu Lambafelllum, niður Dyngnahraun, og Almenning, niður á þjóðveginn nálægt Straum, eða fara niður hjá Keili, niður með Afstapahrauni á þjóðveginn innan við Vatnsleysu..’’  Þarna er Bjarni að fjalla um vegi um aldamótin og þá nálægt ártalinu úr sýlsunefndarfundargerðinni um Selsvallaveg.
Hér fjallar Bjarni um götu inn á Þrengslin og þá ruddu götuna sem er frekar nær Hraunsseli en Selsvallaseli en ekki þá með hófförunum sem vísar til Selsvallaselja. Spurning hvað hluti götunnar hefur verið kallaður Selsvallavegur?  Samkv. neðanverðum sýsluskjölum  er Selsvallavegur ekki þjóðvegur árið 1866 en einvher vafi um hann sem slíka árið 1898!  Reyndar skrýtið að enginn þjóðvegur er til frá Grindavík og inn úr samkv. þessu!  Virðist hafa gleymst!“
Hálsagötur - unnar að hlutaHálsagötur virðast hafa legið með Dyngjum og yfir Bergshálsinn en ekki með Oddafellinu við Hverinn eina. Og þá var ekki um annað að ræða en að halda enn og aftur af stað.
Gengið var frá Eldborg undir Trölladyngju eftir götu er gæti vel hafa verið hluti af fyrrgreindri Hálsagötuleið. Þegar komið var að Lambafellinu norðaustanverðu sást gatan þar sem hún liggur inn í hraunið til norðausturs. Þar virðist gatan hafa verið unnin á stuttum kafla, líklega með það fyrir augum að gera hana akfæra. Skammt austar eru gatnamót; annars vegar götu er liggur upp að norðanverðu Fíflvallafjalli og hins vegar þeirri götu er gengið hafði verið inn á. Gatamótin gætu verið tilkominn vegna sameiginlegra hagsmuna, en ekki einungis vegna þess að þarna hafi menn viljað geta beygt til öndverðra átta. Menn, sem komu frá Grindavík, höfðu t.a.m. engan hag af því að að beygja til hægri og feta götuna þaðan til Krýsuvíkur. Krýsvíkingar höfðu að sama skapi engan hag af því að fara þessa leið til Grindavíkur. Þarna fóru því annars vegar menn á leið til og frá Grindavík og hins vegar menn til og frá Krýsuvík um Hraunin og vestan þeirra.
Í leiðinni var skyggnst eftir „Báruskúta“ í Eldborgarhrauni austan Afstapahrauns, milli þess og Mosa. Hann kom fljótlega í ljós í hrauninu skammt ofan við Mosana. Fyrir skúta eru manngerð hleðsla. Þarna gætu refaskyttur eða hreindýraeftirförumenn hafa legið fyrrum.
Þá var komið niður á Mosana. Að þessu sinni var haldið til norðurs með vestanverðri hraunröndinni, inn fyrir Klöppuð HálsagataBöggukletta, að þeim stað er gatan er hvað mörkuðust í hraunklöppina norðan þeirrra. Ljóst er að þarna hefur verið mikið umferð um aldir.
Í bakaleiðinni var komið við í Bögguklettum. Um er að ræða einstaka klettastanda þars em sjá má hvernig nýrra hraun hefur runnið þunnfljótandi úr nýrra gosi yfir eldra hraun og smurt sig upp á sprungna klettarhæðaveggina. Síðan hefur hrauneðjan sjatnað og skilið eftir þunna skán á eldra berginu, sem enn má berja augum.
Þegar beinni götu hafði verið fylgt til baka yfir Mosana og upp á Eldborgarhraunið á nýjan leik, komu í ljós gatnamót nokkru norðan Lambafellsins. Sú gata var fetuð upp að ofanverðum hlíðum suðvestan Einihlíða. Gatan er mjög slétt og greiðfær á kafla, en torfærari annars staðar. Líklega er hér um að ræða „stytting“ kunnugra er leið áttu til og frá Krýsuvík til Hrauna vestan Garðahrepps (Hafnarfjarðar) og áður hefur verið lýst. Reikna má með að enn ein gatan geti leynst nokkru norðar og nær Einihlíðum, en góð og greinileg gata er austan þeirra. Liggur sú gata að Búðarvatnsstæðinu.
Í hraunum Reykjanesskagans eru mikil gatnakerfi frá liðnum öldum.
Gangan tók 4 klst og 4 mín. Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Þjóðskjalasafn Íslands. Sýsluskjöl Gullbr.sýslu. Vatnsleysustr.hr. Hreppsskjöl II. Þjóðvegir 1862-1870. (SG).

Bögguklettar

Bögguklettar.

 

 

 

 

Eldborg

Í Náttúrufræðingnum 1983 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur, um „Eldborg undir Trölladyngju„, efst í Afstapahrauni, og reynir að áætla aldur hraunsins, sem úr henni rann:

Eldborg

Eldborg – kort.

„Þess skal og getið að gos það er orðið hefur rétt norðan við Trölladyngju og myndað gíginn Eldborg sýnist hafa orðið um líkt leyti og Afstapahraun rann. Ég hef áður talið þetta hraun yngra en Afstapahraun (Jón Jónsson 1978) en ekki treysti ég mér til að telja þá niðurstöðu með öllu ótvíræða.

Afstapahraun

Afstapahraun – jarðfræðikort Jóns Jónssonar.

Vel gætu þessi gos bæði hafa verið svo að segja samtímis og mætti þá raunar um það deila hvort um er að ræða eitt gos eða tvö. Einar Gunnlaugsson (1973) fann öskulag ofan við landnámslagið í Hörðuvallaklofa og er líklegt að það sé af þessum slóðum komið. Ekki verður hins vegar í það ráðið hvort það kann að vera úr Eldborg eða öðru eldvarpi í nágrenninu.“

Eldborginni hefur nú verið spillt vegna efnistöku.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-4. tbl. 01.05.1983, Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga – Jón Jónsson, bls. 135.

Eldborg

Eldborg undir Dyngju.

Víkingaskip

Í Náttúrufræðingnum 1983 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur, um „Aldur Afstapahrauns milli Kúagerðis og Mávahlíða„:

Afstapahraun
„Áður hef ég leitt nokkur rök að því (Jón Jónsson 1978) að nafnið á þessu hrauni sé afbökun úr Arnstapa — enda er hitt nafnið lítt skiljanlegt.
Ekkert hefur verið vitað með vissu um aldur þessa hrauns. Þorvaldur Thoroddsen (1925, bls. 187) segir raunar að það sé „in aller Wahrscheinlich nach bei Ausbrúcken in historischer Zeit hervorgebrochen“, en ekki fer hann í þessu eftir öðru en
unglegu útliti hraunsins.
Afstapahraun
Í norðanverðu hrauninu eru nokkrir óbrennishólmar og eftir að athuganir meðfram vesturbrún hraunsins höfðu ekki borið árangur, leituðum við Sigmundur Einarsson jarðfræðingur fyrir okkur nyrst í einum þessara hólma.

Afstapahraun

Afstapahraun – jarðfræðikort Jóns Jónssonar.

Eftir að hafa grafið á nokkrum stöðum við hraunröndina töldum við okkur hafa fundið landnámslagið, sem liggur inn undir hraunið. Þar eð ég var ekki fyllilega ánægður með sniðið fór ég aftur á staðinn og gróf lengra inn undir hraunið. Þar fann ég landnámslagið mjög greinilegt með þess einkennum, ljóst að neðan en dökkt að ofan. Þetta má vel greina á ljósmyndinni (5. mynd) ef hún prentast sæmilega. Þar með er ljóst að Afstapahraun er runnið á sögulegum tíma. Ekki heppnaðist að finna gróðurleifar nothæfar til aldursákvörðunar.“

Afstapahraun

Í Afstapahrauni.

Í Andvara 1884 segir Þorvaldur frá Afstapahrauni í riterð sinni „Ferðir á suðurlandi sumarið 1883“:
„Afstapahraun hefir runnið alveg niður í sjó hjá Kúagerði og armur úr því nærtöluvert til vesturs; mestur hluti þessa hrauns hefir komið frá Trölladyngju, on þó virðist töluvert hafa komið úr gígunum við Máfahlíðar. Upp úr Afstapahrauni ofauverðu stendur einstakt móbergsfell, sem heitir Snókafell. Strandahraun eru þau hraun, sem liggja fyrir vestan Afstapahraun, on hinn eiginlegi Almenningur er á milli Afstapahrauns og Kapelluhrauns.“

Afstapahraunið er víðast hvar ill yfirferðar, einkum að austan-, sunnan- og norðanverðu. Að vestanverðu er það jafnara og greiðara yfirferðar, einkum er kemur norður fyrir Rauðhóla. Tóurnar eru óbrennishólmar í miðju hrauninu – sjá HÉR.

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-4. tbl. 01.05.1983, Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga, Jón Jónsson, bls. 134.
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir á suðurlandi sumarið 1883 – Þorvaldur Thoroddsen, bls. 50-51.

Afstapahraun

Afstapahraun – kort.

Selsvellir

Í Faxa 1960 er „Ferðaþáttur III“ eftir Hilmar Jónsson. Þar fjallar hann um ferð félaga í Ferðafélagi Keflavíkur á Selsvelli og nágrenni:

Selsvellir
„Eins og lesendum Faxa er kunnugt, var starfsemi Ferðafélags Keflavíkur fremur lítil í fyrra, aðeins ein ferð var farin á vegum félagsins. Nú hefur brugðið mjög til hins betra um hag félagsins. — Þegar þetta er skrifað hafa 5 ferðir verið farnar, en það er einni ferð fleira en gert var ráð fyrir í áætlun F.K. — Eflaust er þessi ágæti árangur mikið veðrinu að þakka, en framhjá hinu verður ekki gengið, að í ár hafa félaginu bætzt starfskraftar, sem ríða baggamuninn. — Á ég þar við smiðina Magnús og Bjarna Jónssyni, að ógleymdum konum þeirra. En á síðasta aðalfundi var Magnús kosinn varaformaður, en Ásta Arnadóttir, kona Bjarna, gjaldkeri. Þetta fólk hefur myndað kjarnann í flestum ferðum félagsins í sumar. Og í fyrstu ferðinni, sem var gönguferð á Trölladyngju og nærliggjandi staði, var Magnús Jónsson leiðsögumaður. Lagt var af stað í þá ferð kl. 8 að morgni hins 6. júní.
Selsvellir
Þátttakendur voru 17. Þykir það mjög gott, jafnvel í höfuðstaðnum, þegar um gönguferð er að ræða. Á Höskuldarvelli vorum við komin um kl. 10, þar var setzt að snæðingi. Þá var hæg gola og leit út fyrir bezta veður. En að hálftíma liðnum var byrjað að rigna og það veðulag hélzt til kvölds. Fyrst var haldið á Selsvelli. — Þrátt fyrir veðrið voru allir í góðu skapi, sérstaklega lá vel á Guðmundi Magnússyni, sem fór með óprenthæfan kveðskap kvenfólkinu til andlegrar uppbyggingar.
Í Árbók F.Í. 1936 skrifar Bjarni Sæmundsson um Suðurnes. Hann segir: „Einn fallegasti staðurinn á suðurkjálkanum, og einn sá, er verðast er að sjá þar, eru Selsvellir, vestan undir algrænni hlíðinni á Selsvallafjalli, sem er miðhlutinn af vestur hálsinum. Þeir byrja, má segja, þegar komið er inn úr þrengslunum og ná „milli hrauns og hlíðar“ 2 1/2 km. inn með hálsinum, rennsléttir og grösugir. Tærir lækir úr hlíðinni renna yfir vellina og hverfa svo í hraunið.“
Selsvellir
Fjallasýn er þarna mjög fögur, á aðra hönd er Keilir, en á hina Grænadyngja (393 m.) og Trölladyngja.
Í fjarska eru Fagradalsfjöll, Frá Selsvöllum til Grindavíkur er allgreiðfær leið. Í fyrra gengum við Hafsteinn Magnússon frá Festarfjalli í Grindavík og á Keili. Gallinn var bara sá, að við fórum of nálægt Keflavík og lentum þar af leiðandi utan í aðalfjallgarðinum.

Selsvellir

Selstaða á Selsvöllum.

Á Selsvöllum eru nokkrar tættur eftir sel frá Grindavík. Í bókinni Útilegumenn og auðar tóttir er frásaga um þjófa þrjá, sem höfðust við á Selsvöllum við Hverinn eina. Þeir voru hengdir samkvæmt Vallaannál 13. júlí 1703.
Frá Selsvöllum fórum við síðan yfir Selsvallaháls og komum á Vigdísarvelli. Þar eru miklar rústir bæði eftir útihús og mannabústaði. Þaðan er nokkur gangur að Djúpavatni. Með í förinni voru þrír ungir piltar, synir Bjarna og Magnúsar, og Jón Eggertsson. Þegar hér er komið sögu höfðu þeir gengið okkur eldra fólkið af sér. Urðum við að hafa hraðann á til að ná þeim, því að þoka var á og villugjarnt fyrir unga menn og ókunnuga. — Frá Djúpavatni var gengið yfir hálsinn frá Grænudyngju, og það verð ég að segja, að sjaldan hefur maður verið fegnari mat sínum en þegar við komum aftur á Höskuldarvelli. Var nú farið að rigna allmikið og ekki til setunnar boðið. Tóku menn það ráð, að ganga niður á veg, þar eð bíllinn, sem skyldi flytja okkur heim, var ekki væntanlegur fyrr en kl. 6.
Lýkur hér með frásögn af þessari ágætu göngu.“ – Hilmar Jónsson.

Í Faxa 2008 segir Helga Kristinsdóttir frá „Skátaútilegu á verslunarmannahelgi 1943“ upp á Höskuldarvelli og nágrennið skoðað:

Helga Kristinsdóttir„Það var að koma verzlunarmannahelgi og skátafélagið Heiðabúar í Keflavík að fara í útilegu – og nú tók þátt í sinni fyrstu stórútilegu nýlega stofnuð kvennasveit innan félagsins, 3. sveit. Stefnan var tekin á Höskuldarvelli. Bíll var fenginn til að koma hópnum inn í Kúagerði, en ekki man ég, hvernig bíll var notaður að þessu sinni, hvort farið var á tveimur bílum eða farnar tvær ferðir. Oftast var þó farið á vörubílum, og sátu þá allir í hnapp á pallinum og breiddu yfir sig segl til að skýla sér fyrir regni eða ryki, en þá voru vegir malarbornir og holóttir og allt á kafi í ryki, ef þurrkur var.
Þegar komið var í Kúagerði, var eftir 2-3 tíma ganga upp á Höskuldarvelli. Allir urðu að bera farangur sinn, bakpoka, svefnpoka, tjöld, nesti og stundum vatn, en það fór eftir veðurfari. Ekki var talið æskilegt að bera mikið „gos“, því glerið var alltof þungt – þá voru ekki komnar til sögunnar plastflöskur. Oft höfðum við með okkur suðusúkkulaði, sítrónu og rabarbara til að draga úr sárasta þorstanum.
Í þetta skipti var þó hafður svolítið annar háttur á. Á laugardagsmorgninum fóru tveir skátar úr 1. sveit upp á Höskuldarvellit með hesta, klyfjaða tjöldum, mat og matarílátum fyrir þennan 42 manna hóp, sem ætlaði að dvelja á „Völlunum“ yfir helgina, 15 skátastúlkur, 19 skátadrengi og 8 gesti. Það voru félagsforinginn, Helgi S. Jónsson, og deildarforinginn, Gunnar Þ. Þorsteinsson, sem stjórnuðu ferðinni. Er gangan hófst meðfram hraunjaðrinum, fór það eftir veðri og vindum, hvað við vorum lengi á göngu, en að þessu sinni sýndu veðurguðirnir okkur sína beztu hlið. Öðru hverju gengum við yfir hraunfláka og eftir kindagötum. Í hrauninu eru ákaflega fallegir, grónir bollar og gjótur, en alltaf varð maður að gæta sín að detta ekki og meiðast.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir og Sóleyjarkriki – horft af Trölladyngju í átt að Kúagerði.

Á þessari göngu var stefnt á smá skarð í Trölladyngju. Gerði maður það, var komið svo til beint á tjaldstað. Af og til var tekin smá hvíld, því þetta gat verið þreytandi ganga, ekki sízt þegar bera þurfti mikinn farangur, auk síns hefðbundna búnaðar, svo sem fána, fánastöng, vatn, ef þurrkar höfðu staðið lengi, eldhústjald, prímus og potta, meðal annars til að elda sameiginlegan hafragraut á morgnana og hita kakó á kvöldin. Ekki mátti heldur gleyma eldsneytinu, olíunni á prímusinn, en allt þetta urðu „kokkarnir“, sem skipaðir voru fyrir hverja útilegu, að sjáum.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir. Trölladyngja fjær.

Þegar komið var á „Vellina“, var mikið áhyggjuefni, hve langt væri nú í vatn, en lækur rennur úr Djúpavatni mislangt eftir völlunum. Fór það eftir veðurfari, hvort hann þornaði upp, en þá þurfti að elta hann langt upp í fjall. Núna reyndist þó allt í lagi, lækurinn rann niður vellina.
Þegar búið var að tjalda og afmarka tjaldbúðir, var liðið að kvöldmat. Þá tóku allir upp nestið sitt og nutu þess að borða. Nestið var oftast grautur, brauð með kæfu eða osti, harðfiskur, soðið kjöt og mjólk. Síðan var farið að huga að varðeldinum, finna stað og eldsneyti.
Aðrir fóru að sækja vatn í kakó og graut, og smávegis fyrir morgunþrifin. Nú var setzt við varðeldinn, sungið, hlegið og sagðar sögur og brandarar, en á eftir var drukkið kakó og borðað kex. Tíminn leið hratt og mál að hvíla sig, því á morgun átti að fara í göngu.

Með sól í hjarta og söng á vörum
við setjumst niður í grænni laut.
Í lágu kjarri við kveikjum eldinn,
kakó hitum og eldum graut.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Morguninn rann upp, bjartur og fagur. Fánahylling, hafragrautur, tjaldskoðun og aðrir fastir liðir. Þá var kominn tími til að leggja af stað í gönguferðir. Þeir, sem fóru í styttri gönguna, gengu á Keili, Trölladyngju og Eldborg, en hún er gamall, rauður eldgígur. Mosinn í gígnum var svo þykkur þá, að maður sökk djúpt niður, líkt og verið væri að vaða snjó. Eldborgin er aðeins um 70 fet á hæð. Á milli hennar og Trölladyngju er mikill jarðhiti, og víða gufar úr jörðinni. Þarna á jarðhitasvæðinu var talsvert um svarta snigla, sem gátu orðið upp í 5-7 sentimetrar á lengd.
Þeir, sem fóru í lengri gönguna, gengu meðfram Oddafelli og stefndu á Selsvelli. Í leiðinni var Hverinn eini skoðaður, en hann hefur átt það til að hverfa og koma síðan aftur upp á allt öðrum stað. Eftir góða göngu komum við svo niður á Selsvelli.
Í bók Árna Óla, Strönd og Vogar, er eftirfarandi lýsing doktors Bjarna Sæmundssonar á Selsvöllum:

Selsvellir

Selsvellir – tóftir.

„Einn fallegasti staðurinn á Suðurkjálkanum, og einn sá sem verðast er að sjá þar, eru Selsvellir, vestan undir algrænni hlíðinni á Selsvallafjalli, sem er miðhlutinn af Vesturhálsinum. Þeir ná milli hrauns og hlíðar 2 1/2 km, rennisléttir og vel grösugir. Tveir lækir úr hlíðinni renna yfir vellina og hverfa svo í hraunið. Er þarna mjög kvöldfagurt í góðu veðri, iðjagræn hlíðin á aðra hönd, en opið útsýni til Hraunsels, Vatnsfells, Keilis, Driffells o.fl.“
Þorvaldur Thoroddsen var líka hrifinn af Selsvöllum, er hann kom þangað og gisti þar í tjaldi. Hann sagði, að þar væri fríðara land og byggilegra heldur en víða þar, sem mikil byggð er, nógar slægjur á völlunum og ágæt beit í hálsinum. Hann hélt, að þar mundu vel geta staðið 2-3 bæir.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir [Bali]. Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Þegar við vorum búin að hvíla okkur og næra, héldum við áfram. Nú var farið yfir Núpshlíðarhálsinn og á Vigdísarvelli, en þar var áður búið, eða til ársins 1905, en þá hrundu öll hús eða stórskemmdust í jarðskjálfta. Sá, er þá bjó á Vigdísarvöllum og var síðasti bóndinn þar, hét Bjarni Ívarsson. Flutti hann með fólk og búfénað að Narfakoti í Innri-Njarðvík. Rak hann búsmalann þangað yfir hraun og vegleysur.
Næst var stefnan tekin á Djúpavatn. Þar tengum við okkur fótabað, en vorum vöruð við að vaða of langt útí, því vatnið væri bæði kalt og snardýpkaði. Þarna lukum við nestinu okkar enda veitti ekki af að létta byrðarnar, því hópurinn var nú farinn að þreytast.
Nú var stefnan tekin meðfram Trölladyngju. Á leiðinni var Rauðihver skoðaður og síðan gengið niður á Höskuldarvelli, og þar með var hringnum lokað. Það var þreyttur en glaður hópur, sem skilaði sér í tjaldbúðir, eftir vel heppnaða gönguferð, og við tók bráðskemmtilegur varðeldur, sem stóð til miðnættis, enda þótt bálið væri aðeins ímyndað, því eldiviðurinn var uppurinn – en sólin sló rauðgullnum bjarma sínum á skátana og tjöldin.

Enn logar sólin á Súlnatindi,
og senn fer nóttin um dalsins kinn,
og skuggar lengjast og skátinn þreytist,
hann skríður sæll í pokann sinn.
Og skáta dreymir í værðarvoðum
um varðeld, kakó og nýjan dag.
Af háum hrotum þá titra tjöldin
í takti, einmitt, við þetta lag.

Keilir

Keilir – gestabók.

Talað hafði verið um það um kvöldið, að yrði gott veður með morgninum, væri upplagt fyrir Selsvallafarana að bregða sér á Keili. Morgunninn rann upp með lognblíðu og glampandi sól, svo veðrið gat ekki verið betra. Ekki fóru nú allir í Keilisgönguna. Sumir voru með harðsperrur eða hælsæri og vildu heldur safna kröftum fyrir heimferðina.
Þeir sem fóru, tóku daginn snemma og lögðu upp eftir fánahyllingu og morgunmat. Tveir úr hópnum höfðu þó yfirgefið tjaldbúðirnar strax eftir fótaferð, af því að þeir þurftu að komast fyrri hluta dags til byggða.
Nú þurfti að klöngrast yfir úfið hraunið. Það var alls ekki greiðfært að Keili. Enda þótt fjallið sé ekki ýkja hátt, eða aðeins 375 m, gat verið nokkurt puð að komast upp, því mikið er um skriður, og maður rennur iðulega hálft skref niður fyrir hvert skref upp.

Gunar Eyjólfsson

Gunnar Eyjólfsson, skáti.

Er upp á hátindinn var komið, blasti við okkur skrautlegur kexpakki, með erlendri áprentun. Hvernig í ósköpunum hafði þessi kexpakki komizt upp á tind Keilis óskemmdur og óveðraður? Svona gómsætt gráfíkjukex fékkst ekki í búðum á Íslandi á stríðsárunum. Hafði máski stór fugl frá útlöndum borið hann hingað?
En þegar pakkinn var opnaður, var ekkert kex í honum, aðeins lítill miði, sem á var skrifað: Borðuðum úr pakkanum kl. 11 – Gunni Gerðu og Bötti, en það voru þessir tveir, sem höfðu þurft að flýta sér til byggða. Þeir skruppu þá í leiðinni á Keili til að sitja einir að þessu ófáanlega, gómsæta kexi. Piltarnir eru kunnari nútímafólki sem Gunnar Eyjólfsson leikari og prófessor Þorbjörn Karlsson.
En við nutum útsýnisins yfir Reykjanesskagann og skrifuðum í gestabókina, sem þarna er geymd í vörðu, áður en við héldum niður aftur. Við komumst, án áfalla, í tjaldbúðirnar. Þar beið okkar sætsúpa, sem kokkamir geymdu handa okkur. Við vorum hálfhissa á, hvað þeir ætluðu okkur mikið, því komið var langt framyfir matartíma. En – hvaða bragð var þetta annars af súpunni? Olíubragð? Hvað hafði nú skeð? Og skýringin kom. Prímushausinn hafði stíflazt, og þegar þeir fóru að gera við hann, spýtti hann olíu beint í súpupottinn. Þessvegna fengum við nú svona stóran skammt af súpu. En súpunni voru gerð lítil skil, hún fékk bara að renna beint niður í hraunið, sem væntanlega væri talið mengunarslys nú.
Nú var kominn tími til að taka saman dótið og halda heim. Við þrifum eftir okkur og grófum ruslið, en það var siður hjá okkur, skátunum, að ganga vel frá öllu og valda engum spjöllum.
Nú var haldið af stað heim, eftir mjög góða og skemmtilega helgi, en nokkrir urðu þó eftir til að binda upp á hestana. Svo tóku hestasveinarnir við, og eftir 114 tíma vom þeir búnir að ná hópnum. Þegar við komum svo í Kúagerði, beið okkar bíll (eða bílar) til að koma okkur heim, og þangað komum við svo endurnærð eftir ógleymanlega útileguhelgi.“ – Helga Kristinsdóttir .

Heimildir:
-Faxi, 7. tbl. 01.09.1960, Ferðaþáttur III, Hilmar Jónsson, bls. 111-112.
-Faxi. 2. tbl. 01.05.2008, Skátaútilega á verslunarmannahelgi 1943 – Brot úr óbirtri minningabók Helgu Kristinsdóttur, bls. 16-17.

Keilir

Keilir. Driffell t.v. og Oddafell t.h.