Tag Archive for: útgerð

Sjómannablaðið Víkingur

Gils Guðmundsson skrifaði þrjár greinar í Sjómannablaðið Víkingur á árinu 1945 um „útgerðarsögu Sandgerðis„. Fyrsta greinin var um fortíðina; upphafið og önnur um þróun atvinnuhátta í bænum. Þriðja greinin fjallaði síðan um stöðu byggðarinnar og framtíðina. Hér birtist útdráttur úr annari greininni.

Tímabil Mattíasar Þórðarsonar

Gils Guðmundsson

Gils Guðmundsson (1914-2005).

Þegar danska útgerðarfélagið lagði upp laupana, átti Einar Sveinbjörnsson bóndi í Sandgerði forkaupsrétt að fiskveiðistöð þess. Hafði hann ekki tök á að kaupa, eða kærði sig ekki um það. Varð það úr, að Pétur J. Thorsteinsson, útgerðarmaður frá Bíldudal keypti stöðina af hinu danska útgerðarfélagi, en seldi brátt helminginn Matthíasi Þórðarsyni, sem verið hafði útgerðarstjórinn. Ráku þeir stöðina í sameiningu árið 1909, en vorið 1910 keypti Matthías hinn helminginn af Pétri, og átti þá stöðina alla. Rak hann síðan útgerð frá Sandgerði um fjögurra ára skeið.
Matthías Þórðarson er fæddur árið 1872, á Móum á Kjalarnesi. Hann er sonur Þórðar hreppstjóra Runólfssonar og Ástríðar Jochumsdóttur. Matthías tók skipstjórapróf árið 1890, og var skipstjóri í nokkur ár. Árið 1899 gerðist hann leiðsögumaður strandvarna- og mælingaskipanna dönsku hér við land, og hafði þann starfa á hendi til ársins 1907.

Matthías Þórðarson

Matthías Þórðarson (1872-1959).

Matthías hafði mikinn áhuga á framfaramálum útvegsins. Sá hann það glögglega, að eitthvert bezta vopnið í baráttunni fyrir þróun og eflingu þessa mikilvæga atvinnuvegar var gott og vekjandi málgagn. Árið 1905 hófst hann því handa af eigin atorku, og byrjaði útgáfu fiskveiðiritsins ,,Ægis“, er kom út mánaðarlega. Gaf Matthías Ægi út í fjögur ár og annaðist ritstjórn hans að öllu leyti. Þá hætti Ægir að koma út um sinn. Var það einkum vegna þess, að Matthías hafði mörgu öðru að sinna, og gat ekki í því snúizt að halda úti blaðinu, en enginn þess um kominn að grípa merkið á lofti. Síðar var Ægir vakinn til nýs lífs, eins og kunnugt er, eftir að Fiskifélag Íslands var stofnað. Hefur Fiskifélagið gefið ritið út síðan.
Þegar er Matthías Þórðarson hafði keypt útgerðarstöðina í Sandgerði tók hann að leita þeirra leiða, er hann áleit vænlegastar til góðs og farsæls árangurs. Hann var sannfærður um það, að Sandgerði var kjörinn staður til vélbátaútgerðar, ef rétt væri á haldið.

Ægir

Ægir, 1. tbl. 1945.

Lét hann svo um mælt í blaði sínu, Ægi, er hann skýrði frá því að hin danska útgerðartilraun hafði farið út um þúfur, að þrátt fyrir allt hafi staðurinn verið ,,mjög vel valinn, hvað snertir sjósókn og hægt að ná til fiskjar, . . . og mun því tíminn bezt leiða það í ljós, að hér verður framtíðar fiskistöð Suðurlands“.
Matthías sá þegar, að Sandgerði var fyrst og fremst til þess kjörið, að þaðan væri róið á vetrarvertíð. Til þess þurfti góða og sterka báta, sem hægt væri að bjóða annað og meira en blíðu sumarsins. Lét Matthías nú smíða þrjá vélbáta í Reykjavík. Hétu þeir Óðinn, Þór og Freyr. Þá leigði hann viðlegurúm aðkomubátum, og tók ákveðið gjald fyrir. Einnig hóf hann verzlunarrekstur í Sandgerði.
Matthías var svo hepinn að fá góða aflamenn á báta sína. Gekk þeim fremur vel að fiska, og var viðgangur útgerðarstöðvarinnar hægur og jafn þau árin, sem Matthías veitti henni forstöðu. Meginhluti alls þess starfsliðs, sem til þurfti bæði á sjó og landi, var aðkomufólk, því að enn voru menn ekki farnir að setjast að í Sandgerði til stöðugrar dvalar.

Sandgerði

Sandgerði – við línudráttinn.

Þótt aflinn í Sandgerði væri dágóður þessi árin, var aðstaða að ýmsu leyti erfið og kostnaður reyndist mikill við bátana. Bryggjan var ákaflega stutt, miðað við þörfina. Bátarnir komust ekki að henni nema á flóði. Þá varð að fleygja fiskinum upp á bryggjuhausinn og bera hann síðan í kassabörum upp í fiskkassana. Sumir höfðu til þess hjólbörur. Síðar komu handvagnar og þóttu þeir miklir kostagripir.
Á þessum árum urðu menn að bera salt allt á bakinu. Þegar saltskip komu, urðu þau að liggja úti á höfn, en síðan var saltið sótt um borð á árabátum. Frá árabátunum var hver einasti saltpoki síðan borinn á bakinu og komið í hús.
Þá var ekki smáræðis staut við fiskverkunina. Allan fisk burfti að bera og draga fram og til baka, milli húsa til vöskunar, söltunar og geymslu, út á kamb til þurrkunar, heim í hús aftur o.s.frv. Einn þeirra manna, sem átti í þessu stauti árum saman, hefur lýst því á þá leið, að í raun og veru hafi allt lífið veriö einlægur burður og dráttur, sí og æ, aftur og fram.

Sandgerði

Sandgeðri – fiskur á bryggjunni.

Stúlkur unnu mjög mikið að störfum þessum, og var ekki talið ofverkið þeirra að bera jafnvel hundrað punda pokana á bakinu klukkustundum saman. Oft var það við uppskipun, að nauðsyn bar til að vaða. Vöknuðu þá margir, og það jafnvel allt upp til miðs. Einatt slampaðist kvenfólkið með karlmönnunum við slíkt vos, og þótti engum mikið.
Matthíasi Þórðarsyni mun ekki hafa fundizt útgerðarstöðin bera sig nógu vel. Ákvað hann því að selja, og snúa sér að öðrum verkefnum. Urðu eigendaskipti að Sandgerði árið 1913. Eftir að Matthías hvarf frá Sandgerði, gerðist hann ráðsmaður hjá Fiskifélagi Íslands, en hann hafði átt góðan hlut að stofnun þess. Starfi þessu hjá Fiskifélaginu gegndi Matthías þó ekki nema eitt ár. Árið 1914 fluttist hann til Danmerkur og hefur átt þar heima síðan.

Sandgerði

Þýðing úr skrifum Matthíasar í „Nordisk Havfiskeri Tidskrift“ í Ægi 1927.

Matthías hefur fengizt mikið við ritstörf. Hann stofnaði og gaf út ritið „Nordisk Havfiskeri Tidsskrift“, er út kom árin 1926—1932, og þótti fróðlegt. Síðan árið 1935 hefur hann gefið út „Aarbog for Fiskeri“, sem einnig hefur aflað sér nokkurra vinsælda. Tvær stórar bækur hefur hann samið. Hin fyrri, „Havets Rigdomme“ er skrifuð á dönsku og kom út árið 1927. Síðari bókin er „Síldarsaga Íslands“, sem út var gefin árið 1930. Matthías er fróður mjög um fiskveiðamálefni og allvel ritfær.

Loftur Loftsson

Sjómaður

Sjómaður í vinnufatnaði þess tíma.

Segja má, að nýr kafli hefjist í sögu Sandgerðis þegar Akurnesingar „uppgötvuðu“ staðinn og komu þangað með dugnað sinn, tæki og verkkunnáttu.
Menn þeir, sem keyptu útgerðarstöðina af Matthíasi Þórðarsyni voru félagamir Loftur Loftsson og Þórður Ásmundsson á Akranesi. Þeir höfðu stofnað verzlun í sameiningu árið 1908, og hugðust nú að færa út kvíarnar. Varð það hlutskipti Lofts að sjá um rekstur Sandgerðisstöðvarinnar, en Þórður stjórnaði fyrirtæki þeirra félaga á Akranesi. Síðar gerðist Loftur einn eigandi stöðvarinnar í Sandgerði. Rak hann þar útgerð samfleytt í 22 ár.
Loftur Loftsson er fæddur á Akranesi árið 1884, sonur Lofts Jónssonar sjómanns þar og konu hans, Valgerðar Eyjólfsdóttur verkamanns í Reykjavík Pálssonar. Loftur hóf verzlunarstörf á unga aldri, en stofnaði sem áður segir verzlun á Akranesi, árið 1908 með Þórði Ásmundssyni. Áttu þeir verzlunina þar og Sandgerðisútgerðina í sameiningu til 1918, en þá slitu þeir sameigninni, og tók Loftur að öllu leyti við fyrirtækinu í Sandgerði. Loftur hefur jafnan verið búsettur í Reykjavík síðan útgerð hans hófst í Sandgerði. Kvæntur er hann Ingveldi Ólafsdóttur læknis í Þjórsártúni Ísleifssonar.

Loftur Loftsson

Loftur loftsson (1884-1960).

Þegar Loftur hóf útgerðina í Sandgerði, keypti hann báta þá er Matthías Þórðarson hafði átt, Óðinn, Þór og Frey. Brátt tók hann að færa meira út kvíarnar og bætti við sig ýmsum bátum. Hétu þeir Ingólfur, Björgvin, Svanur II og Hera. Voru þessir bátar stærri miklu en áður hafði tíðkazt að gera út frá Sandgerði, eða um og yfir 30 smálestir. Þeir voru og svonefndir útilegubátar, komu ekki tilhafnar á hverjum degi, en beittu og gerðu að fiskinum um borð.
Strax og Loftur kom til Sandgerðis, fjölgaði þar einnig aðkomubátum, sem keyptu sér viðleguleyfi og aðstöðu til róðra á vertíðinni. Í fyrstu voru bátar þessir einkum frá Akranesi, en brátt kom þar, að til Sandgerðis streymdu bátar víðs vegar að. Má óhætt segja, að með komu Lofts hófst mikið athafnalíf í Sandgerði.
Stækkaði Loftur allmikið hús þau sem fyrir voru, þar á meðal íshúsið. Rak hann stöðina af dugnaði og myndarskap. Margir höfðu góða atvinnu í landi á vertíðinni, auk þess sem sjómenn báru oftast mikið úr býtum, þegar miðað er við það sem annars staðar var. Fiskvinna var mikil að sumrinu. Kvenfólk kom fjölmargt úr Garði, af Miðnesi og víðar að, vaskaði fiskinn og þurrkaði hann. Síldveiðar voru hins vegar sáralítið stundaðar í Faxaflóa á þessum árum, og var mikil beitusíld fengin frá Norðurlandi.

Haraldur Böðvarsson

Sandgerði

Haraldur Böðvarsson (1889-1967).

Þegar er Loftur hafði dvalizt árlangt í Sandgerði og gert þaðan út eina vertíð, þótti sýnt, að þar væru ágæt skilyrði til vélbátaúrgerðar. Einkum var þessi skoðun ofarlega í hugum manna á Akranesi, því að þaðan var Loftur og þar var, af eðlilegum ástæðum, einna mest talað um framkvæmdir hans.
Á Akranesi óx upp um þessar mundir mannval mikið svo sem síðar hefur komið greinilega í ljós. Einna fremstur í þeim hópi er sá maðurinn, sem um langan aldur hefur borið höfuð og herðar yfir aðra atvinnurekendur á Akranesi, og þótt víðar væri leitað. Sá hinn sami maður var og um nær þrjá tugi ára annar helzti máttarstólpinn í Sandgerði, og átti meginþáttin í því, ásamt Lofti Loftssyni, að gera þann stað að einu stærsta útgerðarþorpi landsins. Maðurinn var Haraldar Böðvarsson.
Haraldur Böðvarsson er fæddur árið 1889 á Akranesi. Foreldrar hans voru Böðvar kaupmaður Þorvaldsson og kona hans Helga Guðbrandsdóttir bónda í Hvítadal Sturlusonar. Haraldur sá það glögglega, þegar er hann kynntist Sandgerði, að þar var um mikinn framtíðarstað að ræða. Þetta hið sama ár, 1914, leigði hann allstóra lóðaspildu af landi Einars bónda Sveinbjörnssonar í Sandgerði, og hóf þegar að reisa þar nýja útgerðarstöð frá grunni. Naut hann við þetta hjálpar föður síns og tókst með framsýni mikilli og dugnaði að sigra allar torfærur. Lét hann smíða állstór verzlunar- og
vörugeymsluhús, salthús, sjóbúðir og bræðsluskúr.

Sandgerði

Sandgerði – trébryggja og geymsluhús.

Næsta ár lét Haraldur gera bryggju og íshús. Hélt hann svo áfram að fjölga byggingum eða stækka þær, sem fyrir voru, unz upp hafði risið mikil þyrping húsa, og taka mátti til fastrar viðlegu um 20 báta á stöðina. Voru byggingar flestar af miklum myndarskap gerðar, eftir því sem þá var talið hæfa; að langmestu leyti úr steini og vel vandaðar.
Jafnhliða þessum framkvæmdum í Sandgerði, hélt Haraldur áfram að auka bátaflota sinn.
Sá var jafnan háttur Haraldar Böðvarssorar, að hann hafði báta sína í Sandgerði blómann úr vetrarvertíðinni, en flutti þá til Akraness og gerði út þaðan er honum þótti það vænlegra til árangurs eða hentugra. Auk sinna eigin báta, hafði hann á sínum snærum í Sandgerði mikinn hóp viðlegubáta víðs vegar að af landinu. Voru þeir jöfnum höndum af Akranesi, úr Hafnarfirði, Reykjavík, Vestmannaeyjum, Ísafirði eða Eyrarbakka.

Sandgerði

Sandgerði – höfnin.

Bátar þessir fengu allar sínar nauðsynjar hjá verzluninni. Hún keypti aftur af þeim fiskafurðirnar og lét í té svefnskála fyrir skipverja, beitingaskúra, fiskaðgerðasvæði og þar frarn eftir götunum. Þá var og mikill fjöldi svonefndra útilegubáta, sem sóttist eftir að skjótast inn á Sandgerðishöfn. Gerðu þeir oft og einatt samninga við annan hvorn útgerðarmanninn á staðnum, Harald eða Loft, um að fá hjá þeim kost, veiðarfæri, salt og beitu, en seldu þeim aftur lifrina úr fiskinum eða lýsið. Voru oft mikil viðskipti við þessa báta, enda komu þeir sömu oft ár eftir ár. Mátti stundum sjá vænan hóp vélbáta liggja á Sandgerðishöfn, þegar gerði frátök og útileguskipin leituðu í var.
Hafði nú hróður Sandgerðis sem útgerðarstöðvar vaxið svo mjög, að bátaeigendur víða um land gerðust æ ákafari að fá þar viðlegu fyrir fleytur sínar.

Sandgerði

Sandgerði – frá útgerð Haraldar Böðvarssonar.

Þessi mikli vöxtur vélbátaútgerðar frá Sandgerði hafði þau áhrif, að róðrar á opnum bátum lögðust að mestu niður í Garði og á Miðnesi, en netaveiðar höfðu löngum verið mjög mikið stundaðar í Garðsjó og víðar. Garðmenn hófu nú að koma sér upp vélbátum til viðlegu í Sandgerði, því að hafnleysi bannar þeim heimaróðra á öllum meiri háttar fleytum. Frumherji Garðmanna í þessum efnum mun hafa verið Þorsteinn bóndi og útgerðarmaður Gíslason á Meiðastöðum. Síðan kom Guðmundur Þórðarson í Gerðum og þá hver af öðrum.
Þegar flestir voru vélbátarnir í Sandgerði, munu hafa hafzt þar við nálega 40 landróðrabátar, — um 20 frá hvorri útgerðarstöð, — en auk þess hafði þar bækistöð mikill fjöldi útilegubáta, og munu þeir jafnvel hafa komizt upp í 80 eða meira.

Enn frá Haraldi Böðvarssyni

Sandgerði

Sandgerði – tóftir gamla Sandgerðisbæjarins.

Árið 1916 keyptu þeir Haraldur Böðvarsson og Loftur Loftsson í sameiningu jörðina Sandgerði, af Einari Sveinbjörnssyni, og skiptu henni á milli sín. Einar fluttist til Reykjavíkur og átti þar heima til banadægurs.
Árið 1920 keypti Haraldur Böðvarsson hjáleiguna Tjarnarkot, og sameinaði þá landspildu aðaljörðinni. Við það varð olnbogarými meira og aðstaða betri til hvers konar framkvæmda. Rak Haraldur útgerðina í Sandgerði alla stund af fyrirhyggju og dugnaði, enda græddist honum þorp nokkurt í Sandgerði, utan um útgerð þá, sem þaðan var rekin. Þó hefur sá háttur jafnan haldizt, að mikill hluti þess liðsafla, sem starfar í Sandgerði á vertíðinni er aðkominn.
Haraldur Böðvarsson er kvæntur Ingunni Sveinsdóttur frá Mörk. Þau giftust árið 1915, og settust þá að í Reykjavík. Þar bjuggu þau til ársins 1924, að þau fluttu búferlum til Akraness. Hafa þau átt heima á Akranesi síðan.

Aflagarpar

Sandgerði

Sandgerði í gamla daga.

Útgerðarmenn í Sandgerði voru svo lánsamir, að þangað völdust ýmsir dugandi og aflasælir formenn, þegar á hinum fyrri árum vélbátaútgerðarinnar. Sýndu þeir og sönnuðu það svo glögglega, að ekki varð um villzt, hversu auðug fiskimið þau voru, sem róið varð til frá Sandgerði. Eiga margir þessir garpar það fyllilega skilið, að minningu þeirra sé á lofti haldið. Og þótt varla tjái að þylja nöfnin tóm, verður nokkurra þeirra hér lítið eitt getið.
Kristjón Pálsson var höfðings- og dugnaðarmaður, og einhver hin mesta aflakló, sem um getur. Hann hafði um skeið forystu fyrir öðrum skipstjórum er reru frá Sandgerði. Fyrstur manna suður þar hætti hann algerlega við þorskanot og veiddi eingöngu á línu alla vertíðina.

Sandgerði

Sandgerði – fiskaðgerð.

Áður hafði það verið föst og ófrávíkjanleg regla, að allir köstuðu frá sér línunni og tóku upp þorskanet þegar sílið (loðnan) kom, en það var oftast í marzmánuði. Höfðu menn þá trú, að ekki þýddi hið minnsta að leggja línu eftir að loðnan var komin. Kristján sýndi fram á að þessi skoðun var röng. Hélt hann áfram línuveiðum þó að loðna kæmi, og fiskaði allra manna bezt. Tóku þá flestir þann hátt eftir honum, og lagðist netaveiði að verulegu leyti niður hjá Sandgerðisbátunum. Bátur sá, er Kristjón stýrði, hét Njáll. Áttu þeir hann í sameiningu Kristjón og Loftur Loftsson. Njáll fórst 11. febrúar 1922, og drukknaði Kristjón þar ásamt hásetum sínum öllum. Þetta var í afskaplegu útsynningsroki, og skeði slysið lítið eitt innan við Garðsskaga. Annar vélbátur, Björg að nafni, hafði orðið að mestu leyti samhliða Njáli, og var að lensa inn fyrir Skaga eins og hann. Sáu skipverjar á Björgu að upp reis ofsaleg holskefla, stærri öllum öðrum. Lenti Björg í útjaðri brotsins og var mjög hætt komin, en Njáll var í miðju hvolfi þessarar himinglæfu og stakkst á endann þráðbeint niður í djúpið. Kristjón var enn ungur maður er hann fórst, og þótti að honum rnikill mannskaði, sem og skipverjum hans.

Sjúkraskýlið

Sandgerði

Sandgerði – sjúkraskýli RKÍ.

„Margt skeður á sæ“, segir gamalt máltæki, og hefur það löngum þótt sanni nær. Eitthvað svipað má eflaust segja um þá staði, þar sem athafnalíf allt er með miklum hraða og stendur ekki með miklum blóma nema skamman tíma á ári hverju, þar sem fjöldi manna safnast saman úr ýmsum áttum, leggur á sig vos og vökur til að grípa gullið meðan það gefst, og verður oft að búa við misjafna aðbúð fjarri heimilum sínum. Ef til vill er óvíða meiri þörf á einhverri aðhlynningu og hjálp í viðlögum en einmitt þeim stöðum, þar sem þessu líkt stendur á.
Í Sandgerði hefur aldrei læknir setið. Hefur því orðið að leita til Keflavíkur eða Grindavíkur þegar til læknis þurfti að grípa. Reyndist það oft mjög bagalegt, meðan ekki var hægt að fá gert skaplega við skurð á hendi eða graftarbólu á hálsi án þess að standa í læknisvitjun eða ferðalögum undir læknishendur. Þá var það ákafiega illt, að sitja ráðalítill uppi ef maður veiktist skyndilega. Var sjaldan hlaupið á að koma sjúklingi fyrirvaralaust í sjúkrahús, enda langan veg að fara, en á hinn bóginn engin leið að annast fárveika menn í litlum og loftillum svefnskálum, þar sem fjöldi sjómanna hafðist við og gekk um á öllum tímum sólarhringsins.

Sandgerði

Sandgerði – byggingar.

Það var því hið þarfasta verk, er Rauði Kross Íslands hófst handa árið 1937 og reisti í Sandgerði ágætt sjúkraskýli. Það er að vísu ekki stórt, en bætir þó prýðilega úr brýnni þörf. Í húsinu eru tvær vel búnar sjúkrastofur, og geta legið þar fjórir sjúklingar í einu. Ef nauðsyn krefur, er hægt að taka við nokkru fleiri sjúklingum um stundarsakir.
Veturinn 1939—1940 var sjúkraskýlið endurbætt allmikið. Þar var þá einnig komið upp finnsku baði. Hafði tekizt að festa kaup á baðofni og fá hann afhentan fáum dögum áður en styrjöldin hófst. Hefur bað þetta verið mikið notað síðan, og þykir sjómönnum það hið mesta þing. Þá eru og venjuleg steypiböð í húsinu.

Sandgerði

Sandgerði – bátar við bryggju.

Á hverri vertíð hefur Rauði Krossinn ráðið vel mennta hjúkrunarkonu til að annast rekstur Sjúkraskýlisins, en læknir frá Keflavík hefur eftirlit með sjúklingum og framkvæmir meiri háttar aðgerðir. Nýtur starfsemi þessi mjög mikilla vinsælda, enda hefur hún bætt úr brýnni þörf. Áður en Sjúkraskýlið var reist höfðu hjúkrunarkonur frá Rauða krossinum starfað um langt skeið á vertíð hverri í Sandgerði.

(Í þriðju og síðastu greininni, 01.12.1945, um Sandgerði er fjallað um uppbyggingu bæjarins og framtíð hans. Hún birtist í næsta blaði).

Heimild:
-Sjómannablaðið Víkingur, 9. tbl. 01.09.1945, Útgerðarstöðvar og verstöðvar, Sandgerði, Gils Guðmundsson, bls. 207-213.

Sandgerði

Sandgerði – aflinn kominn á land.

Gils Guðmundsson

Gils Guðmundsson skrifaði þrjár greinar í Sjómannablaðið Víkingur á árinu 1945 um „útgerðarsögu Sandgerðis„. Fyrsta greinin var um fortíðina; upphafið og önnur um þróun atvinnuhátta í bænum. Þriðja greinin fjallaði síðan um stöðu byggðarinnar og framtíðina. Hér birtist útdráttur úr fyrstu greininni.

Fortíðin

Sjómannablaðið Víkingur

Sjómannablaðið Víkingur, 10. tbl. 1945.

Á Reykjanesskaga hefur allt frá fornu fari verið mikill fjöldi verstöðva, stórra og smárra. Hinar helztu þeirra voru Bieringstangi á Vatnsleysuströnd, Vogar, Njarðvíkur, Leira, Garður, Sandgerði, Stafnes, Hafnir og Grindavík. Frá öllum þessum stöðum og mörgum fleiri, leituðu menn út á mið Faraflóa og Suðurstrandarinnar.
Fiskimiðin reyndust að vísu misjafnlega gjöful, og brugðust stundum, en þegar öllu er á botninn hvolft, má það heita miklum vafa bundið, hvort nokkur annar landshluti hefur átt slíka auðlegð fyrir ströndum úti, sem þessi hrjóstrugi, eldbrunni og hraunrunni skagi, sem teygir hæl og tá út í Atlantshafið.
Neðan á „ilinni“ á Reykjanesskaga, en þó miklum mun nær tánni (Garðskaga) en hælum (Reykjanesi), er byggðarlag það, sem Miðnes heitir. Þar er Miðneshreppur. Skiptist hann í sjö hverfi, er sum hafa verið fjölbyggð mjög á fyrri tímum, meðan útræði opinna skipa var í fullum blóma. Hverfi þessi heita: Kirkjubólshverfi, Klapparhverfi, Sandgerðishverfi, Bæjaskershverfi, Fuglavíkurhverfi, Hvalsneshverfi og Stafneshverfi. Nálægt miðbiki þessa svæðis er Sandgerði, sem hefur á síðari árum orðið bækistöð mikils vélbátaflota, og telst nú í hópi stærstu útgerðarstöðva þessa lands.

Sandgerði

Sandgerði – tóftir gamla Sandgerðisbæjarins.

Jörðin Sandgerði er snemma nefnd í skjölum. Einna fyrst mun hennar getið í skrá nokkurri um rekaskipti á Rosmhvalanesi, en sú skrá er talin vera frá því seint á Sturlungaöld, eða nálægt 1260—1270. Gömul munnmæli herma, að jörðin hafi upphaflega heitið Sáðgerði, af því að þar lágu kornakrar Gullbringu, sem sýslan er við kennd. Segja sagnir, að hún hafi gefið þræli sínum, Uppsa, jörð þá, er hann nefndi Uppsali. Uppsalir eru skammt ofan við Sandgerði. Voru þeir 20 hundruð að fornu mati, en Sandgerði 60 hundruð. Líklegt má telja, að saga þessi um þrælinn Uppsa, sé alþýðleg skýringartilraun á bæjarnafninu Uppsalir. Jarðarheitið Sáðgerði kemur hvergi fyrir í gömlum skjölum, og er það að öllum líkindum tilbúningur síðari tíma. Hitt mun rétt vera, að Sandgerði hefur fyrr á öldum verið grasgefnara miklu og frjósamara en síðar varð.

Sandgerði

Sandgerði – örnefni.

Votta heimildir, að áður á tlmum hafi verið svo hátt stargresi milli Bæjaskerja og Sandgerðis, að fénaður sást ekki er hann var þar á beit. Síðar blés þetta svæði upp og gekk á það sjór, svo að þar urðu ýmist berar klappir eftir eða gróðurlaus foksandur. Til skamms tíma hafa sézt nokkur merki í Sandgerðislandi, sem bent geta til þess, að þar hafi akuryrkja verið stunduð í allríkum mæli fyrr á öldum. Séra Magnús Grímsson, prestur á Mosfelli, sem kunnur er vegna þess að hann var annar helzti upphafsmaður þjóðsagnasöfnunar hér á landi, kynnti sér fornmenjar á Reykjanesskaga, og skrifaði um þær merkilega grein. Hann ræðir þar nokkuð um Sandgerði, og kemst meðal annars svo að orði:

Sandgerði

Sandgerði – loftmynd 2023.

„Suður af Flankastöðum við sjóinn eigi langt er bær, sem nú er kallað Sandgerði, en hét að sögn áður Sáðgerði. Þar eru tún fögur og allslétt. Mikið af túni þessu hefur í fyrndinni verið akrar, og sér þar glöggt fyrir skurðum, scm hafa skipt ökrunum í breiðar og langar reimar. Austan og norðanvert með akrinum liggur hóll eða brekka, sem hefur skýlt honum. Garðar sjást hér ei kringum akurinn eða um hann eins og á Skaganum. Tjörn ein er fyrir norðan bæinn, og sér til skurðar úr henni niður á akurinn. Hefur þar mátt hleypa vatni úr í allar rásirnar og af eða á akurinn eftir geðþekkni. Vestanvert við akurinn er túnið nokkuð hálendara. Þar eru þrír eða fjórir bollar eða lautir í röð, og mótar fyrir skurði á milli þeirra og fram úr þeim út í sjó.

Sandgerði

Sandgerði – Landakot; loftmynd 2023.

Bollar þessir eru nærfellt kringlóttir, misstórir og eigi djúpir nú. Bolla þessa held ég vera mannaverk, og hafi þeir verið notaðir sem böð eða laugar, því að vel hefði mátt hleypa í þá vatni úr tjörninni og kann ske sjó, þó nú virðist það miður ætlandi. Má og vera að þeir hafi verið notaðir til einhvers við akurinn, t. a. m. til að láta vatn standa í (Vandbeholdere). Þeir eru nú grasi grónir innan. Engar sögur hafa menn nú um bolla þessa, en þeir eru svo frábrugnir öllum hlutum þar í nánd, að mér þótti þeir eftirtektarverðir. Þeir eru hér um bil 3 til 5 faðma í þvermæli“.

Sandgerði

Sandgerði og nágrenni – herforingjaráðskort 1903; Rosmhvalanes.

Árið 1703, er Árni Magnússon og Páll Vídalín ferðuðust um Gullbringusýslu, lýstu þeir jörðinni Sandgerði allnákvæmlega, og er þá lýsingu að finna í jarðabók þeirra. Um þær mundir var eigandi og ábúandi Sandgerðis Vilhjálmur Jónsson lögréttumaður. Ekki hafði hann stórt bú á svo mikilli jörð. Kvikfénaður var talinn þessi: „Sjö kýr, ein kvíga tvævetur, ein kvíga veturgömul, einn kálfur, sextán ær, tólf sauðir veturgamlir, tveir tvævetrir, lömb tíu, tveir hestar“. Hlunnindi jarðarinnar voru ekki margvísleg, og bar þar útræðið langt af öðrum. Hlunnindum lýsir jarðabókin svo:
„Torfrista og stunga engin nema í sendinni jörð. Lyngrif nokkuð lítið. Eldiviðartak af fjöruþangi bæði lítið og erfitt. Sölvatekja fyrir heimamenn. Grasatekja nærri því engin. Eggver nokkuð lítið af kríu, en hefur áður betra verið. Rekavon nokkur.

Sandgerði

Sandgerði – Hamarssund.

Heimiræði er árið í kring og ganga skip ábúandans eftir hentugleikum; áður hafa hér stundum gengið inntökuskip fyrir undirgift, sem ábúandinn eignaðist; mætti og enn vera ef fiskirí tekist. Lending er góð. Sjór og sandur brjóta nokkuð á túnin þó ekki til stórmeina enn nú. Vatnsból sæmilegt en bregst þó, en það mjög sjaldan“.
Árið 1703 fylgdu Sandgerði hvorki meira né minna en níu hjáleigur, er svo hétu: Bakkakot, Krókskot, Landakot. Tjarnarkot, Harðhaus (?), Gata, Stöðulkot, Bakkabúð og Helgakot. Tvær hinar síðastnefndu voru komnar í eyði, önnur fyrir meira en 10 árum, hin fyrir nær 30 árum.

Reykjanes og Miðnes - sjóslys

Reykjanes og Miðnes – sjóslys.

Þessi mikli fjöldi af hjáleigum á ekki víðlendara né gróðurríkara svæði en Sandgerðishverfið er, talar skýru máli um það, að afkomumöguleikar fólksins hafa fyrst og fremst verið við sjóinn bundnir. Það var útræðið, sem gerði hjáleigumönnum kleift að haldast við á þessum stað. Ella hefði þar verið ólíft með öllu.
Árið 1839, þegar Sigurður B. Sívertsen, prestur á Útskálum, samdi sóknarlýsingu sína, taldi hann Sandgerði einhverja fallegustu jörðina þar um slóðir, kvað túnið grasgefið og í góðri rækt, en kvartaði undan því að sjór bryti þar upp á svo að til mikils tjóns horfði. Þá voru enn sex hjáleigur bvggðar frá Sandgerði og útræði mikið stundað.

Umhverfið
Í Sandgerði er lending góð. Þar er eitthvert hið bezta og tryggasta sund fyrir sunnan Skaga. Það heitir Hamarssund.

Sandgerði

Sandgerði – erfið innsigling.

Sundið er fremur mjótt og blindsker á báða vegu, svo að voði er fyrir höndum ef nokkuð ber út af. Þarf því allmikla nákvæmni og kumiugleik til að taka sundið rétt, þegar illt er í sjóinn, enda er þá nauðsynlegt að kunna skil á straumaköstum þar. En sé rétt að farið, er sundið hættulaust í öllu skaplegu.
Sandgerðishöfn myndast af Bæjaskerseyri að sunnan og vestan, en Sandgerðis- og Flankastaðalandi að norðan og austan. Mynni víkurinnar snýr í norðurátt. Að sunnanverðu við sundið, sem siglt er um inn á höfnina, er skerig Bóla, en skerið Þorvaldur að norðanverðu. Sú frásaga er höfð í munnmælum, að bóndi einn hafi í fyrndinni búið á Flankastöðum og átt sonu, efnispilta hina mestu. Sóttu þeir sjó af kappi, og réru úr Sandgerðisvík. Einhverju sinni komu þeir úr róðri og lögðu á sundið.

Flankastaðir

Flankastaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Stórstraumsfjara var og bára mikil. Steytti skipið á hellu nokkurri í miðju sundinu, hvolfdi því og drukknuðu menn allir. Bónda féllst mjög um atvik þetta. Litlu síðar rann á hann hamremmi. Fór hann þá út með menn sína og tóku þeir að þreyta fangbrögð við helluna. Tókst þeim að reisa hana upp sunnan til við sundið, og er hún sker það hið mikla, sem nú kallast Bóla. Eftir þessar aðgerðir reyndist sundið nægilega djúpt hverju skipi.
Út af skerinu Bólu, sem eins konar framhald af Bæjaskerseyri, er rif eitt mikið, sem Bólutangarif heitir. Skagar það langt í sjó fram, og mega skip hvergi nærri koma, svo að þeim sé ekki grand búið. Eru dæmi þess, að fiskiskip og jafnvel kaupför hafi strandað á Bólutangarifi. Árið 1839 strandaði þar frönsk húkkorta frá Dunkirque. Menn komust af allir, en skip braut í spón.

Sveinbjörn Þórðarson

Sandgerði

Sandgerði – bátar.

Litlu eftir miðja 19. öld, fluttist sá maður frá Hrauni í Grindavík og að Sandgerði, sem Sveinbjörn hét og var Þórðarson. Sveinbjörn var fæddur árið 1817. Snemma varð hann alkunnur maður um allan Reykjanesskaga fyrir fádæma dugnað, kapp og áræði. Svo var harðhugur Sveinbjarnar mikiil og sjósókn hans grimm, að flestum blöskraði, jafnvel þeim, sem ýmsu voru vanir og köllu ekki allt ömmu sína. Sveinbjörn var hverjum manni skjótráðari og ákafari, svo að óðagot hans varð stundum ærið hlátursefni.
Eftir að Sveinbjörn Þórðarson fluttist til Sandgerðis, rak hann þar gott bú og sinnti útræði af ofurkappi. Auðgaðist hann brátt að fé. Þá var það, að hann lét smíða lítinn þiljubát, sem Skarphéðinn var nefndur.

Sandgerði

Sandgerði – steinbryggja og fiskhús.

Gerði hann bátinn út um skeið, aðallega til lúðu- og þorskveiða í Reykjanesröst og þar í kring. Var Sveinbjörn sjálfur formaður bátsins. En er hann hafði átt Skarphéðinn í fjögur ár eða þar um bil, rak bátinn upp í klappirnar norðan við Sandgerðisvík, í ofsaveðri á suðaustan, og brotnaði hann í spón. Þá varð Sveinbirni að orði, er hann sá bát sinn í braki og bútum: „Kári skal hefna Skarphéðins!“ Lét hann ekki sitja við orðin tóm, en hóf samstundis smíð á nýjum þiljubát, er hann nefndi Kára. Þann bát notaði Sveinbjörn til fiskveiða að sumarlagi, og mun hafa átt hann um alllangt skeið. Jón, sonur Sveinbjarnar, var formaður bátsins hin síðari ár. Var hann, eins og faðir hans, sjógarpur hinn mesti og tilheldinn. Stýrði hann áttæringi þeirra feðga á vetrum, og sat einatt fram í rauða myrkur, svo framarlega sem veður leyfði. Þá formenn, er það gerðu, kölluðu Sunnlendingar setuhunda.

Sandgerði

Sandgerði – fjara, fiskhús og bryggja.

Það þóttust menn vita, að fráleitt hefðu viðtökurnar verið blíðar hjá Sveinbirni gamla, hefði sonur hans lagt það í vana sinn að koma fyrr að landi en karli þótti hóf að vera. Var sagt, að Sveinbjörn ýtti helzt til of undir syni sína að róa, stundum jafnvel út í nálega ófæru.
Var hann einatt óður og uppvægur, æddi um hús öll og tautaði, unz Jón stóðst ekki lengur mátið, kallaði á Einar bróður sinn og aðra menn sína og ýtti á flot. Hægðist karli þá í bili. En þegar þeir voru komnir út fyrir sundið, umsnerist Sveinbjörn á nýjan leik og sagði að þeir væru helvítis flón, þessir strákar sínir, að æða út í vitlaust veður. Gat hann síðan naumast á heilum sér tekið alla þú stund sem synir hans voru á sjónum, og hægðist ekki fyrr en þeir voru komnir heilu og höldnu í land.

Sandgerði

Sandgerði – trébryggja og geymsluhús.

Einhverju sinni er veður var ískyggilegt, höfðu þeir bræður, Jón og Einar, róið í skemmra lagi. Var ekki laust við að þess sæist vottur, er aflinn var athugaður, að þar hefði skotizt þaraþyrslingur innan um. Sveinbirni gamla þótti slælega að verið, en hafði þó venju fremur fá orð um að sinni. Næstu nótt var enn hið verstaveðurútlit, og ákváðu þeir bræður að sitja heima og róa hvergi. Að morgni, þegar Sveinbjörn gamli kom á fætur, sér hann að veður er allgott, en verður þess var, að synir hans hafa ekki róið. Verður hann nú ofsareiður, veður inn til þeirra, og sváfu báðir. Segir Sveinbjörn þá með þjósti miklum: „Ykkur hefði verið nær að fara út í þara og sofa þar!“ Strax og karli rann reiðin, sá hann eftir orðum sínum, og var það oft síðan, er synir hans voru á sjó í vondu veðri, að hann minntist ónotalega þessara ummæla.
Hér fer á eftir frásögn um fyrirbæri nokkuð, sem kunnugir menn fullyrða að hafi orðið í Sandgerði. Hafa sumir sett það í samband við Jón Sveinbjörnsson og drukknun hans. Aðrir telja, að þar sé ekkert samband á milli.

Höfuðskeljar
SandgerðiFyrir allmörgum árum bar svo við, að höfuðkúpur tvær rak á land í Sandgerði. Einhverjir tóku þær úr fjörunni og báru upp til húsa. Enginn vissi nein deili á höfuðkúpum þessum, en það þótti sýnt, að þær voru jarðneskar leifar sjódrukknaðra manna. Benti margt til þess, að þær væru nokkuð gamlar og hefðu velkst lengi í sjó. Lítt var um höfuðkúpur þessar hirt í fyrstu, og ekki voru þær færðar til greftrunar eða veittur neinn sá umbúnaður, sem hæfa þykir leifum dauðra manna. Lágu höfuðkúpurnar innan um allskonar skran í vörugeymsluhúsi og þoldu misjafna meðferð. Var loks svo komið, að flestir höfðu gleymt fundi þessum, og vissu fáir hvar höfuðkúpurnar voru niður komnar.

Hauskúpa

Hauskúpa.

Þá urðu þau atvik er nokkuð var frá liðið, að berdreymir menn tóku að láta illa í svefni og þóttust verða ýmissa hluta varir. Hinir aðrir, er ekkert dreymdi, höfðu slíkt allt í flimtingum, kváðu lítt mark takandi á þess konar rugli og hindurvitnum. Þrátt fyrir öll slík ummæli, tók það nú að verða æ tíðara, að draumvísir menn yrðu þess áskynja, að til þeirra kæmu halir tveir, er báðu þess, að eigi væri hraklega með höfuðbein sín farið. Báðu þeir þess einatt með mörgum fögrum orðum, að þeim væri komið í einhvern þann stað, þar sem þeir gætu verið í friði og rnættu horfa út á sjóinn. Létu þeir svo um mælt, að ekki myndi bátur farast eða slys verða á Hamarssundi, meðan þeir fengju að líta fram á hafið. Ágerðust draumfarir þessar smám saman, og var erindi hinna látnu sæfara einatt hið sama. Báðu þeir stöðugt um að fá að horfa út á sundið.
SandgerðiNokkuð bar á því um skeið, að hinir framliðnu létu sér ekki nægja að vitja manna í draumi. Urðu ýmsir varir við eitt og annað þótt vakandi væru. Mergjaðasta draugasagan, $em við hauskúpurnar er tengd, hefur verið sögð á þessa leið:
Það var einhverju sinni, að sjómenn nokkrir áttu leið um húsið, þar sem hauskúpurnar lágu. Með var í förinni ungur maður, ærslafenginn nokkuð og djarfmæltur. Gekk hann þar að, sem höfuðkúpurnar voru, þreif til þeirra ómjúklega og manaði eigendur beina þessara til að birtast sér í vöku eða svefni, ef þeir væru ekki alls vesælli. Að því búnu varpaði hann frá sér höfuðskeljunum og gekk burtu hlæjandi.

Sandgerði

Frá Sandgerði fyrrum.

Hið sama kvöld var veður ekki gott og réru engir. Gekk sjómaður þessi til náða ásamt félögum sínum. Svaf hann á efri hæð í tvílyftu húsi, og var svo til hagað, að svefnskálar sjómanna opnuðust allir að sameiginlegum gangi, sem lá eftir endilöngu húsinu.
Leið nú af kvöldið, og bar ekkert til tíðinda. Um miðnæturskeið, er flestir voru sofnaðir, varð maður einn, er í fremsta svefnskálanum hvíldi, var við það, að hurðin opnaðist og inn var gengið í skálann. Sér hann að inn koma karlmenn tveir, og er annar stórvaxinn mjög. Verður honum bilt við og leggja ónot um hann allan, en hvergi má hann sig hræra. Ganga komumenn inn skálann og lúta að hinni fremstu rekkju, svo sem leiti þeir einhvers. Hljóðlaust hverfa þeir þaðan og halda áfram ferð sinni frá einni hvílu til annarar. Er þeir höfðu farið um allan skálann, hurfu þeir út jafnhljóðlega og þeir komu.
SandgerðiFáar mínútur liðu. Heyrðist þá vein rnikið og svo ámátlegt, að það vakti af værum blundi alla þá, er á svefnloftunum sváfu. Hrukku menn upp með andfælum, kveiktu ljós í skyndi og tóku að leita orsaka þessa fyrirbæris. Reyndust hljóðin koma frá hvílu sjómanns þess, sem fyrr um daginn hafði gamnað sér við höfuðkúpurnar. Var hann kominn hálfur fram á rekkjustokkinn og hékk höfuðið fram af. Hafði hann andþrengsli svo mikil, að lá við köfnun, og allur var hann orðinn blár og afmyndaður ásýndum.
Fóru félagar hans að stumra yfir honum og kom þar brátt, að honum hægðist nokkuð. Leið þetta smám saman frá. Þegar hann hafði að mestu leyti náð sér, var hann spurður um orsakir til þessa atviks. Kvaðst hann hafa verið sofnaður sem aðrir í skálanum. Þótti honum þá sem maður kæmi inn í skálann og gengi að rekkju sinni. Var hann reiður mjög, og mælti á þá leið, að nú skyldi hefnt hæðnisorða þeirra, sem fallið hefðu um daginn, og annara mótgerða við sig. Við sýn þessa og orð komumanns, dró allan mátt úr sjómanninum. Fann hann að hinn óboðni gestur beygði sig niður að rekkjunni. Þóttist hann þá skynja óglöggt í myrkrinu, að ekki væri hér holdi klædd vera á ferð, heldur beinagrind ein.

Sandgerði

Sandgerði – nokkur húsa h.f. Miðness.

Í þeim svifum læsti beinagrindin berum kjúkunum um kverkar honum og herti að sem fastast. Tókst honum með erfiðismunum miklum að gefa frá sér óp það, er vakti hina sjómennina. Þegar er ljósinu var brugðið upp, hvarf hinn óboðni gestur.
Sjómaður þessi hafði ekki kunnað að hræðast, en mátti nú ekki einn sofa og vildi helzt láta yfir sér loga ljós á hverri nóttu. Ella þótti honum sem beinagrindin sækti að sér og sæti um að kyrkja sig.

Nokkru eftir að atburður þessi gerðist, urðu eigendaskipti að fiskveiðistöð þeirri, sem vörugeymsluhús það tilheyrði, sem höfuðkúpurnar voru í. Þegar hinn nýji eigandi hafði kynnt sér alla málavöxtu, lagði hann svo fyrir, að höfuðkúpurnar skyldu teknar úr vörugeymslunni.

Sandgerði

Sandgerði – byggingar.

Var síðan smíðaður utan um þær kassi eða stokkur, með gleri á þeirri hliðinni, sem fram vissi. Kassa þessum var síðan valinn staður í aðalglugga verzlunarinnar. Þaðan blasti við höfnin, svo að nú var öllu réttlæti fullnægt.
Svo virðist og, sem eigendur höfuðskeljanna yndu nú betur hlutskipti sínu en áður, því að mjög dró úr öllum draumum og tók fyrir flest það, sem menn höfðu viljað reimleika kalla.
Fyrir þrem eða fjórum árum var kassinn með höfuðskeljunum tekinn úr búðarglugganum og honum valinn staður þar sem minna ber á. Eru kúpurnar enn í kassa sínum í húsi einu frammi við sjó. Verða þær að horfa í gegnum héðan vegginn, en virðast una því hið bezta.

Dönsk útgerðartilraun

Lauritz Ditlev Lauritzen

Lauritz Ditlev Lauritzen (1859-1935).

Árið 1906 hófust miklar umræður í dönskum blöðum um auðæfi hafsins við strendur Íslands. Gekk þar maður undir manns hönd til að sannfæra Dani um það, að fátt væri gróðavænlegra og líklegra til skjótrar auðsöfnunar, en að nytja vel þær gullnámur, sem íslenzku fiskimiðin væru. Var rætt um það fram og aftur, að það væri Dönum meira en meðalskömm, hversu stórfeldir möguleikar lægju ónotaðir, meðan ekki væri hafizt handa um mikla útgerð á íslandi. Þyrfti nú að gera gangskör að því, sögðu blöðin, að kom upp miklum Íslandsflota, og reisa á hentugum stöðum fiskveiðistöðvar í stórum stíl.
Blaðaskrif þessi komu allmikilli hreyfingu á málið, og urðu þess valdandi, að fjármálamenn ýmsir tóku að kynna sér þennan möguleika. Í fremstu röð þeirra manna, sem horfðu hingað rannsóknaraugum, var D. Lauritzen, konsúll í Esbjerg. Hann var enginn byrjandi á sviði útgerðarmála, hafði rekið mikla fiskútgerð í Danmörku, og var öllum þeim hnútum kunnugur. Lauritzen beitti sér nú fyrir stofnun öflugs félags, er reka skyldi fiskveiðar við ísland og í Norðursjó, bæði á vélskipum og gufuskipum.

Sandgerði

Sandgerði – bryggja og viti.

Sumarið 1907 vann Lauritzen að félagsstofnuninni, en lét þó ekki þar við sitja. Þegar á því ári sendi hann út hingað nokkur skip, er stunduðu fiskveiðar fyrir Vestur- og Norðurlandi. Veiðin gekk mjög illa, svo að stórtjón varð á útgerðinni. Var það ekki glæsilég byrjun, en þó lét Lauritzen þetta hvergi á sig festa.
Lauritzen konsúll vildi kynnast sem flestu, er til sjávarútvegs heyrði og að gagni mætti koma við fiskveiðar frá Íslandi. Ferðaðist hann hingað í því skyni, — var með í konungsförinni 1907, — og gerði sér þá ljóst, að fyrsta skilyrðið til góðs árangurs var að ráða vel hæfan og þaulkunnugan Íslending í þjónustu félagsins. Fyrir valinu varð Matthías Þórðarson, skipstjóri frá Móum á Kjalarnesi. Skyldi hann gerast framkvæmdastjóri félagsins á Íslandi þegar er það væri formlega stofnað, og annast vélbátarekstur allan, er þar yrði.

Sandgerði

Sandgerði – nýr viti í smíðum.

Haustið 1907 var smiðshöggið rekið á félagsstofnunina. Langstærstu hluthafarnir voru D. Lauritzen, konsúll í Esbjerg og J. Balslev, stórkaupmaður í Kaupmannahöfn. Auk þess voru ýmsir minni hluthafar, þar á meðal nokkrir Íslendingar. Hlutaféð var ákveðið 300 þús. kr., en mátti auka það að vild upp í 1/2 millj. kr. Skyldi félagið hafa aðalbækistöð í Kaupmannahöfn. Í stjóm þess voru kjörnir eftirtaldir menn: D. Lauritzen, konsúll í Esbjerg, formaður og meðstjórnendur Joh. Balslev, stórkaupmaður, J. Krabbe, yfirréttarmálafærzlumaður og C. Trolle, sjóliðsforingi, allir í Kaupmannahöfn og Ágúst Flygenring, kaupmaður í Hafnarfirði.

Sandgerði

Sandgerði – fiskaðgerðarhús Haraldar Böðvarssonar.

Eitthvert fyrsta verkefnið, sem Lauritzen, konsúll varð að leysa af höndum, var að kynna sér það sem rækilegast, hvar skilyrði til útgerðar væru einna vænlegust við strendur landsins. Ætlunin var sú, að reka vélbátaútgerð í stórum stíl, en auk þessi átti að stunda veiðar á togurum og línugufuskipum. Þá var og til þess hugsað, að notfæra sér síldarmiðin fyrir Norðurlandi. Ýmsir staðir komu til athugunar.
Eftir nokkra könnun var ákveðið að Sandgerði í Miðneshreppi yrði fyrir valinu sem fiskveiðistöð fyrir vélbáta, er stunda áttu þorskveiðar með línu bæði vor og sumar. Það var talið af kunnugum, að skilyrði væru einhver hin beztu, sem hugsast gæti. Þá mun það og hafa ráðið nokkru um val staðarins, að þar var íshús þeirra Hjálmarsson frá Mjóafirði, og stóð nú autt. Var því engum erfiðleikum bundið að fá það keypt fyrir lítið fé. Samningar tókust einnig greiðlega við eiganda jarðarinnar, Einar Sveinbjörnsson. Var síðan hafizt handa um framkvæmdir.
Þessu næst var Hafnarfjörður valinn að bækistöð fyrir botnvörpuútgerðina, en Siglufjörður sem síldarstöð.

Sandgerði

Sandgerði – fiskaðgerð.

Aðalstjórnandi þessa nýja fiskveiðifélags var ráðinn J. Balslev, og hafði hann skrifstofur sínar í Kaupmannahöfn. Auk hans gengu í þjónustu félagsins þrír framkvæmdastjórar. Einn þeirra, Adamsen að nafni, skyldi hafa aðalstjórn á útveginum í Esbjerg, en þar átti að vera ein deild félagsins. Annar, S. Goos, hafði aðalumsjónina hér á landi, og annaðist reikningsfærzlu. Hann bjó í Hafnarfirði. Hinn þriðji, Matthías Þórðarson, átti að hafa umsjón með vélbátaútgerðinni í Sandgerði, eins og fyrr segir.
Innarlega við Sandgerðisvík að austanverðu, út frá Sandgerðistúninu, liggur hólmi nokkur, umflæddur á flóði. Nefnist hólmi þessi Hamar, enda eru þar víða berar klappir. Á hólma þessum lét hið nýja útgerðarfélag reisa hús allstór. Voru það bæði fiskhús, salthús og bækistöð til að beita í línu fiskibátanna. Framan við Hamarinn var gerð steinbryggja, 10 fet á hæð og 75 álnir á lengd. Öll var bryggja þessi steypt og hlaðin úr höggnu grjóti. Var grjótið höggvið úr klettum þeim, sem næstir voru.

Sandgerði

Sandgerði – hús og trébryggja.

Þá var gerð trébryggja frá landi og niður á Hamarinn. Var lengd hennar um 70 álnir. Fiskhúsið á Hamrinum þótti myndarleg smíð. Það var 35 álnir á lengd og 16 álnir á breidd. „Bólverk“ allstórt eða fiskaðgerðarsvæði var steypt fyrir framan húsið. Breidd þess var 10 álnir.
Þá var ennfremur reist stórt hús, — eða öllu heldur tvö hús sambygð —, fyrir ofan Hamarinn. Var annað húsið íbúðarhús fyrir verkafólk, skrifstofur og eldhús, en í hinum hlutanum var verzlun og vörugeymsla.
Allar þessar byggingar voru reistar að fyrirsögn Matthíasar Þórðarsonar og undir umsjón hans. Tók verkið skamman tíma og var að mestu leyti lokið á fimm mánuðum. Mannvirki þessi öll munu ekki hafa kostað nema um 50 þús. kr.

Bágborin sjómennska

Sandgerði

Sandgerði – Nelly við bryggju.

Um miðjan marzmánuð 1908, kom fyrsta skipið frá félagi þessu til að fiska hér við land. Var það togari er „Britta“ hét. Á togara þessum voru að mestu leyti íslenzkir hásetar, en skipstjóri og stýrimaður danskir. Ráðinn var íslenzkur fiskiskipstjóri, og fór „Britta“ síðan út á veiðar. Litlu síðar kom annað skip félagsins, línuveiðarinn „Nelly“. Á „Nelly“ voru skipverjar allir Norðmenn. Bæði voru skip þessi gömul og illa löguð til fiskveiða hér við land. Afli reyndist nauðatregur, og mun félagið hafa orðið fyrir allmiklum skaða á þessari útgerð.
Frá því um miðjan júlímánuð og þar til í septemberbyrjun, stunduðu „Britta“ og ,,Nelly“ síldveiðar frá Siglufirði. Afli var góður, en síldin seldist fyrir smánarverð. Fór því svo, að síldarleiðangurinn svaraði naumast kostnaði.

Sandgerði

Sandgerði – síldarsöltun.

Í byrjun maímánaðar komu fyrstu Danirnir, sem fiska áttu frá Sandgerði, og höfðu með sér tvo opna vélbáta. Um miðjan mánuðinn komu tólf vélbátar frá Esbjerg, 15—20 smálestir að stærð. Áttu þeir einnig að stunda línuveiðar frá Sandgerði. Bátar þessir voru allt tvístöfnungar, vel smíðaðir og góðir í sjó að leggja, en vélarnar reyndust gersamlega ófullnægjandi. Var það hvort tveggja, að þær voru of litlar og illa gerðar, svo að bilanir máttu heita daglegt brauð. Lágu sumir bátarnir stöðugt vélvana og í algerum ólestri. Var og ekki hlaupið að því að fá viðgerð í fljótu bragði, og mátti einu gilda hvort stórt var eða smátt, sem úr lagi hafði gengið. Þurfti að leita með hvað eina til Reykjavíkur, en það reyndist tafsamt og kostnaðarmikið.

Sandgerðisgata

Sandgerðisgata.

Væri það lítilræði, sem bilað hafði, var einatt til þess gripið að senda röskan mann gagngert með hinn brákaða hlut til Reykjavíkur, en það var hvorki meira né minna en fullur tólf stunda gangur. Mátti því ekki slæpast ef komast átti á einum degi hvora leið, sízt þegar bera þurfti allþunga pinkla, sem oftast var.
Skipverjar á þessum józku bátum voru allir danskir. Aðeins var ráðinn einn íslenzkur leiðsögumaður eða fiskiskipstjóri, sem átti að,,lóðsa“ allann flotann á fiskimiðin. Í landi voru 40—50 íslenzkar stúlkur, sem beittu línuna, 4—5 stúlkur við hvern bát. Útgerðinn gekk mjög skrykkj ótt, og mátti raunar segja að á flestum bátunum færi allt í handaskolum. Voru það ekki nema opnu bátarnir tveir, sem komust upp á lag með að fiska svo að nokkru næmi. Þar voru aðeins þrír menn á sjónum, tveir Danir og einn Íslendingur á hvorum. Allir fiskuðu bátarnir með línu. Bar margt til þess, hversu lélegur árangur varð af tilraun þessari. Þess er fyrr getið, hve lélegar vélar bátanna voru.

Síldarnet

Síldarnet.

Mátti heita að tveir þeirra lægju rígbundnir við bryggju allt sumarið, og komust ekki út fyrir höfnina án þess að allt endaði með ósköpum og skelfingu. Þá voru yfimennirnir algerlega ókunnugir öllum staðháttum hér við land, og höfðu ekki hugmynd um hvernig hentast væri að bera sig til við línuveiðar á Íslandsmiðum.
Enn kom það til, að veiðar þessar voru reyndar að sumarlagi, en þá er jafnan minnstur fiskur í Faxaflóa og út af Reykjanesi. Loks er þess að geta, að hinir dönsku sjómenn reyndust heldur illa. Voru þeir daufir og áhugalausir um sjósókn, en drukku bæði oft og mikið. Sá var fastur siður þeirra, að róa aldrei á laugardögum.

Sandgerði

Sandgerði – við línudráttinn.

Vildi það við brenna hjá sumum a. m. k., að þeir fleygðu línunni örgrunnt á leirinn á föstudagskvöldum, til að vera kamnir í land um hádegi á laugardögum; þá stokkuðu þeir upp línuna og fóru í betri brækurnar. Síðan var efnt til dansleiks í beitingaskúrunum á laugardagskvöldum. Þangað komu að sjálfsögðu beitingastúlkurnar og auk þeirra allmikið meyjaval úr nágrenninu. Drykkjuskapur var mikill og enginn skortur á áfenginu. Var sá siður hafður, að blikkfata, full af brennivíni, stóð á hentugum stað, nálægt því sem dansinn var troðinn, og spilkoma eða bolli hjá fötunni. Fékk sér þar hver sem vildi, og var sótt í skjóluna eftir þörfum, líkt og þegar farið er til brunns eftir vatni.
Oft var ,,ástand“ mikið um helgar, og þótti einna hentugast form þess að fara í „eggjaleit“ upp um heiði, en þar verptu fáeinar kríur. Alla sunnudaga slæptust Danir í landi og gerðu ekki handarvik. Síðan beittu þeir á mánudögum og réru þá loks um kvöldið. Þótti Íslendingum þetta helzt til mikið gauf og slóðaskapur, enda voru þeir meiri og harðvítugri sjósókn vanir.
Að lokinni sumarvertíðinni 1908, fór Lauritzen, konsúll að kynna sér það, hvernig félaginu hafði reitt af. Kom þá í ljós það, sem raunar var áður vitað, að stórtap hafði orðið á allri útgerðinni. Urðu þetta slík vonbrigði fyrir eigendur og stjórnendur félagsins, að þeir ákváðu að hætta allri útgerð við Ísland og selja fasteignir þær, sem félagið átti þar. Varð þetta til þess, að löngun Dana til að ráðast í útgerðarbrask á Íslandi rénaði stórum.

(Í annarri grein verður sagt frá útgerð Matthíasar Þórðarsonar, Lofts Loftssonar og Haraldar Böðvarssonar).

Heimild:
-Sjómannablaðið Víkingur, 8. tbl. 01.08.1945, Útgerðarstaðir og verstöðvar – Sandgerði, Gils Guðmundsson, bls. 172-179.

Sandgerði

Fiskimið á Íslandi fyrrum.

Grindavík

Í Bæjarbótinni, bæjarblaði Grindvíkinga, árið 1984 er m.a. „Rætt við þrjá gamla sjómenn“ undir fyrirsögninni „Þá höfðum við skiptivöll„:

Grindavík

Grindavík – hluti gamla bæjarins við Járngerðarstaði.

„Sjómannadagurinn er framundan, þá eru sjómenn í landi og skemmta sér við leiki og annað er tengist starfi þeirra. Þegar litið er niður að höfn og horft yfir öll þessi fullkomnu skip með yfirhlaðnar brýr og tækjum og „allt nauðsynlegt“, þá vaknar spurningin: Hvernig fóru menn að hérna áður fyrr? Blaðið leitaði til þriggja eldri sjómanna hér í bæ og bað þá að segja svolítið frá fyrri tíð.

Hjalti Þórhannesson:
Hjalti ÞórhannessonHvernig var niðursetningu bátsins háttað og hvernig var hann útbúinn ?
„Þessi bátar voru venjulega tjargaðir að utan og innan. Það voru notaðir hlunnar sem settir voru undir bátinn og alveg niður í sjávarmál, til þess að þetta gengi betur þá var lýsið borið á hlunnana.
Síðan voru þeir teknir saman og geymdir þar til komið var úr róðri. Þá var hlunnunum komið fyrir aftur og báturinn dreginn á hliðinni upp í naust.
Búnaður voru auðvitað árarnar, seglin, „framsegl, aftursegl og fokka“ og það sem þeim fylgdi og ekki má ég nú gleyma austurstroginu. Veiðarfæri voru þá helst net og undir vorið, kring um páska, voru reynd grásleppunet.“
Hvernig var því háttað þegar menn komu um borð í skipið?
„Formaðurinn var í austursrúminu þá röðuðu menn sér í miðrúm og framrúm. Það var ekki flakkað á milli rúma á skipi, ó nei menn voru í sínu rúmi til vertíðaloka.
Ég var alla tíð ráðinn upp á kaup, á þessum árum var það um 30 krónur fyrir vertíðina. Fyrsta vertíðin mín hér var þegar ég var 15 ára.“

Þorleifur Þorleifsson:
Þorleifur ÞorleifssonVilt þú lýsa fyrir lesendum hvernig menn útbjuggust þegar þeir fóru í róður?
„Fyrst var farið í föðurlandið síðan í skinnklæðin, venjulega hafði maður gúmmískó á fótum.
Skinnklæðin voru buxur, stakkur og því fylgdi sjóhattur.“
Vildu menn ekki blotna í þessum klœðum og þegar þau þornuðu vildu þau ekki verða hörð? Höfðuð þið mat með ykkur?
„Skinnklæðin voru vatnsheld allavega minnist ég þess ekki að hafa blotnað vegna þeirra. Aftur á móti gátu þau orðið dálítið óþjál. Lýsi var notað til að mýkja þau.
Mat höfðum við aldrei með okkur á þessum árum.“
Hvað var helst geymt í sjóbúðinni? „Í sjóbúðinni voru geymdar árarnar og annað það sem lauslegt fylgdi skipinu.
Einnig voru geymd þarna veiðarfæri ýmiskonar svo sem lína, handfæri og hampnetin.“

Árni Guðmundsson:

Árni Guðmundsson

Árni Guðmundsson.

Hvernig var aðstaða báta við Hópið þegar þú manst fyrst eftir því?
„Nú aðstaðan var sú að þeir lentu í vör niður undan pakkhúsunum, þetta voru tvær varir sem lent var í og voru kallaðar Norðurvör og Suðurvör. Öllu betra held ég að hafi verið að lenda í Norðurvörinni. Annars er ég ekki svo kunnugur þarna, ég held ég hafi lent einu sinni í Suðurvörinni, vegna brims urðum við að hleypa undan suður í Hafnir og komumst síðan í Suðurvör.“
Svo var náttúrlega heilmikil útgerð úr Þórkötlustaðahverfinu? Hvar var lent?
„Já það gengu héðan 9 skip það voru 10 ræðinga, 8 og sexmannaför. Það var Buðlungu vör og út í Þórkötlustaðanesi sem var frekar vond lending og mæddi mikið á skiphaldsmönnum sem kallaðir voru. Það voru alltaf tveir sem héldu skipunum meðan seilað var. Það var líka reynt að lenda með fiskinn en oft ekki hægt vegna brims, við kölluðum það lág þegar brimsog var við landið og þá var seilað útá lóni sem sker myndar þarna.

Grindavík

Grindavík – seilað í Norðurvör.

Svo voru seilarnar bundnar saman settur belgur á og 60 faðma langt færi og jafnvel lengra bundið við belginn. Síðan var það gefið út eftir því sem róið var í land. Seilarnar voru teknar að landi þar sem best var að bera þær upp á skiptivöll. Á tíræðing var skipt í 14 hluta og var það sett í 7 köst þrír hlutar fóru til bátsins þeir voru fyrir veiðarfærum, beitu og sá þriðji til skipsins. Þá voru 11 hlutar eftir til formanns og skipverja.“
Að lokum Árni, hvenær byrjaðir þú til sjós?
„Ég byrjaði til sjós 14 ára gamall á áttræðing sem Guðmundur á Skála átti. Var það fyrsta vertíðin sem hann gerði það skip út.“ – Lúðvík P. Jóelsson.

Heimild:
-Bæjarbót, 3. tbl. 01.06.1984, Þá höfðum við skiptivöll, rætt við þrjá gamla sjómenn, bls. 8.
Þórkötlustaðanes

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður kemur víða við sögu togaraútgerðar á Íslandi.

Togarinn Coot.

Togarinn Coot. Fyrsti togari Íslendinga, Coot, var gerður út frá Hafnarfirði á árunum 1905-1908. Skipið var 98 fet á lengd, búið 225 hestafla gufuvél og var búið til botnvörpuveiða.

Fyrsti íslenski togarinn, Coot, var gerður þaðan út og Pike Ward gerði út togarann sinn, Utopiu, frá Hafnarfirði. Seinna má segja að Hafnarfjörður verði snemma aðalmiðstöð fyrir erlenda togaraútgerð á Íslandi. Ber þar fyrst að nefna Booklessbræður frá Aberdeen. Þeir keyptu fiskaðgerðarstöð í Hafnarfirði árið 1910 og höfðu þaðan meiri og minni útgerð og annan atvinnurekstur til ársins 1922. Um tíma áttu þeir fjóra togara sem stunduðu veiðar frá Hafnarfirði. Þá keyptu þeir fisk af togurum, bæði breskum og hollenskum. Einnig hafði fyrirtækið A.D. Birrel & Co. keypt fiskverkunarstöð í Hafnarfirði og lögðu togarar upp hjá því á árunum 1910-14. Fleiri erlendir togarar bæði norskir og þýskir lögðu upp afla sinn í Hafnarfirði um þetta leyti.

Hafnarfjörður

Verksmiðjuhús Bookless.

Hafnfirðingar höfðu mikla atvinnu af þessari starfsemi en skjótt skipast veður í lofti. Á árunum 1922 og 1923 var mikið atvinnuleysi í Hafnarfirði. Booklessbræður höfðu orðið gjaldþrota 1922 og ný lög, sem samþykkt voru sama ár á Alþingi, komu í veg fyrir að aðrir erlendir útgerðarmenn gætu hlaupið í skarðið. Í lögunum var lagt bann við því að útlend skip lönduðu afla sínum á Íslandi og seldu hann íslenskum ríkisborgurum til verkunar.
Þessi lög voru sett til að hindra síldveiðar Norðmanna fyrir Norðurlandi en þau giltu einnig um þorskveiðar. Þetta kom sér einkum illa fyrir Hafnfirðinga.

Hafnarfjörður

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar beitti sér nú fyrir því að undanþága fengist frá þessum lögum til þess að annað erlent fyrirtæki gæti keypt þá aðstöðu sem Booklessbræður höfðu áður. Hér var á ferðinni útgerðarfyrirtækið Hellyer Bros. Ltd. í Hull. Í samráði við stjórnvöld var sú leið farin að Geir Zóega var fenginn til að taka togara Hellyersbræðra á leigu og taldist það ekki brjóta í bága við ákvæði laganna. Hellyersbræður hófu útgerð sex togara frá Hafnarfirði á vetrarvertíð 1924.
HafnarfjörðurÁri síðar fékk fyrirtækið sérstaka lagaheimild til að reka útgerð sína í Hafnarfirði sem sjálfstætt fyrirtæki um átta ára skeið. Fyrstu vertíðina voru enskir skipstjórar á togurum Hellyers en síðan voru fiskiskipstjórarnir íslenskir. Á togurunum voru enskir flaggskipstjórar sem voru leppar því íslensku fiskiskipstjórarnir höfðu ekki ensk skipstjórnarréttindi. Einnig voru enskir stýrimenn á togurunum sem leppar. Þessir menn stunduðu ekki vinnu um borð en voru þarna aðeins til að fullnægja formsatriðum. Meðal þeirra togara sem Hellyersbræður gerðu út frá Hafnarfirði var stærsti og fullkomnasti togarinn í eigu Englendinga á þessum tíma, Imperialist, og var Tryggvi Ófeigsson skipstjóri á honum.

Hafnarfjörður

Tryggvi Ófeigsson (1896-1987). Tryggvi Ófeigsson var skipstjóri og síðar útgerðarmaður í Hafnarfirði og Reykjavík, tók við Imperialist nýsmíðuðum í Hull í mars árið 1925. Tryggvi var svo með Imperíalist til ársins 1929. Það ár hættu Hellyersbræður allri útgerð og fiskvinnslu á Íslandi. Tryggvi gekk svo inn í útgerðarfélagið h/f Júpíter í Hafnarfirði sem stofnað var 26 júlí 1929, með Lofti Baldvinssyni og Þórarni Olgeirssyni, sem árið 1925 höfðu látið smíða skip fyrir sig í Beverley, það skip var Júpíter GK 161. Tryggvi varð svo skipstjóri á honum til 1929.

Tryggvi stofnaði síðan eigin útgerð eftir að Hellyersbræður fóru héðan. Tryggvi ber Hellyersbræðrum vel söguna í ævisögu sinni og segir að þeir hafi verið bjargvættir Hafnarfjarðar. Hellyerbræður hættu útgerð sinni frá Hafnarfirði í nóvember 1929. Síðustu árin hafði orðið taprekstur á fyrirtækinu. Einnig átti það í vinnudeilum hér heima og ágreiningur kom upp við Hafnarfjarðarbæ um útsvarsgreiðslur.

Í Lesbók Morgunblaðsins  1995 fjallar Snorri Jónsson um „Atvinnusögu Hafnarfjarðar 1924-1926, Hellyerstímabilið„. Byggir hann á endurminningum Gísla Sigurgeirssonar. Um er að ræða fyrsta kafla af fjórum.

„Hellyersbræður voru enskir útgerðarmenn sem gerðu út frá Hull en ráku á tímabili umfangsmikla togaraútgerð og saltfiskverkun frá Hafnarfirði. Algengt var að þetta tímabil, 1924-1929, væri kennt við þá bræður í Hafnarfirði. Frásögn Gísla Sigurgeirssonar kemur þó miklu víðar við og gefur á gamansaman hátt hugmynd um aldaranda og daglegt líf í Firðinum á þessum tíma. – Fyrsti hluti af fjórum.

„Veturinn 1922-23 var mikið atvinnuleysi í Hafnarfirði eins og reyndar átt hafði sér stað áður, en að þessu sinni keyrði ástandið um þverbak, engin hreyfing á neinu — ekkert að gera. Hið stóra og umfangsmikla útgerðarfirma, Bookless Bros Ltd. frá Aberdeen, hafði orðið gjaldþrota 1922. Svo alvarlegt þótti ástandið að haldinn var um málið almennur borgarafundur á haustmánuði 1923. Óttuðust menn að fjöldi fólks yrði að flytja búferlum úr bænum og fasteignir yrðu óseljanlegar. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar voru boðaðir á fundinn og mættu þeir báðir, Klemenz Jónsson og Sigurður Eggerz. Skorað var á þá að gefa undanþágu frá því ákvæði fiskveiðilaganna sem bannaði útlendingum að leggja afla sinn hér á land, en ráðherrarnir töldu að hægt yrði að komast hjá banninu ef Íslendingar tækju á leigu erlend fiskiskip.

Snorri Jónsson

Snorri Jónsson (1928-2016).

Í framhaldi af þessum borgarafundi samþykkti bæjarstjórnin 6. nóv. að skora áríkisstjórnina að leyfa útlendingum að leggja afla sinn til verkunar hér á land. Veitti ríkisstjórnin þetta leyfi og urðu málalyktir þær að stórfírma frá borginni Hull á Englandi, Hellyer Bros. Ltd., kom hingað með sex botnvörpunga á vertíðina i byrjun árs 1924.
Bræðurnir sem áttu firmað og voru fosvarsmenn þess hétu Owen og Orlando Hellyer. En vegna ákvæðis fiskveiðilaganna tók Geir Helgason Zoéga togarana á leigu að nafninu til og var umboðsmaður firmans og gerði samninga fyrir þess hönd. Samdist nú svo um við Geir að við Jón Einarsson og Sigurgeir Gíslason, faðir minn, yrðum verktakar hjá Hellyer og tækjum að okkur afgreiðslu togaranna, en það var að sjálfsögðu mikið verk og við erfiðar aðstæður að eiga.

Fjörkippur í atvinnu og viðskiptum

Hafnarfjörður

Togarinn Ceresio.

Þegar togararnir komu til Hafnarfjarðar voru þeir allir með fullar lestir af kolum og öðrum varningi til útgerðarinnar. Þetta varmikið magn og meiri birgðir vöru en áður höfðu verið fluttar hingað til hafnar. Verður það nú hlutskipti okkar að annast alla þessa vinnu, uppskipun og útskipun, fyrir ákveðið verð hvert tonn inn og út. Satt best að segja var þessi samningur við Geir H. Zoéga gerður í alltof miklu fljótræði af okkar hálfu, enda var hann sá versti sem við gerðum við nokkurn verksala á allri okkar starfsævi. Svo vondur var hann, að þegar vetrar- og vorvertíðinni lauk var útkoman sú að við þrír, verktakarnir, ég, Jón og pabbi, máttum heita kauplausir allan tímann.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1910.

Þrátt fyrir það, að ákveðið væri að Hellyer fengi aðstöðu hér í Firðinum, óttuðumst við að vinnan lenti í höndum reykvískra verktaka og því var hugsun okkar sú að tryggja það að svo yrði ekki. Við vildum sitja að þessari vinnu, bænum og búendum hér til heilla og hagsbóta. Sú hugsun réði mestu þegar við vorum að gera samninginn við Geir. Reynsla okkar var sú að Reykvíkingar væru ásæknir í að ná sem flestu til sín. Óttinn við þetta var aðalástæða þess að Geir gat pínt okkur niður úr öllu valdi.
Af þessari reynslu drógum við lærdóm sem kom okkur að góðu haldi við næstu samningsgerð.

Hafnarfjörður

Athafnasvæði Hellyersbræðra.

Togaraútgerð og fiskverkun Hellyersbræðra, sem rekin var hér í Hafnarfirði í nokkur ár, olli því að atvinnulífið tók mikinn fjörkipp og viðskiptalífið glæddist. Togarar þeirra þóttu myndarleg skip og fyrsta flokks að öllum búnaði á þeirrar tíðar mælikvarða. Þeir togarar sem komu hingað fyrsta árið voru: Ceresio, Lord Fischer, Earl Haig, General Birdwood, Viskont Allanby og Kings Grey. Skipstjórar og vélamenn voru enskir, en hásetar voru að mestu leyti íslenskir og margir úr Hafnarfirði.
Fljótlega voru ráðnir íslenskir fiskiskipstjórar á togarana, því hinir ensku flaggskipstjórar þekktu lítt til miðanna og voru m.a. af þeim sökum litlir fiskimenn. Hin raunverulega skipshöfn var því íslensk. Frá þessu var þó ein undantekning.
Á togaranum Ceresio var íslenskur skipstjóri frá Hull, Jón Oddsson að nafni. Hann var mikill aflamaður og viðurkenndur fyrir dugnað, enda var enginn fiskiskipstjóri með honum.

Hellyer kaupir Svendborg

Hafnarfjörður

Ágúst Flygenring (1865-1932).

Þegar kom fram í júní þetta ár, 1924, tókust samningar milli Landsbanka Íslands og Owens Hellyers um að Hellyer Bros. keypti útgerðarstöðina Svendborg. Þessi stöð hafði gengið kaupum og sölum. Sveinn Sigfússon kaupmaður frá Norðfirði reisti hana árið 1903. Var þá stöðin nefnd í höfuðið á honum uppá dönsku, eins og þá þótti fínt, og nefnd Svendborg.

Stöðina reisti Sveinn við Fiskaklett, skömmu síðar komst stöðin í eigu Ágústs Flygenrings sem hafði þar timburverslun, en seldi hana eftir stuttan tíma norskum manni, H.W. Friis, sem stundaði hér línubátaútgerð. Friis varð nokkrum árum seinna gjaldþrota og keypti þá Einar Þorgilsson stöðina, árið 1909, og seldi hana Bookless Bros. Í Aberdeen árið eftir með góðum hagnaði. Þegar Svendborg kemst í eigu þeirra Booklessbræðra, Harrys og Douglas — fyrirrennara Hellyers, — hefst áhrifamikið tímabil í atvinnusögu Hafnarfjarðar. Þeir urðu vinnuveitendur í mjög stórum stíl og verkafólk starfaði hjá þeim, á tímabilum jafnvel svo hundruðum skipti.
Sjálfir áttu þeir fjóra togara sem hér lögðu upp afla sinn fyrstu árin, en þeir versluðu mikið með fisk, keyptu ógrynni af fiski af íslendingum, einkum á Faxaflóasvæðinu milli Suðumesja og Akraness, og af erlendum togurum, aðallega breskum. Fiskverðið greiddu þeir í peningum, fyrstir manna hér um slóðir. Fyrir það, ekki síst, áttu þeir almennum vinsældum að fagna, en því miður lauk starfsemi þeirra að 12 árum liðnum þegar fyrirtækið varð gjaldþrota árið 1922.

Hafnarfjörður

Sendborg – síðar Brookles.

Með kaupum Hellyers á Svendborg hefst fiskverkun þar á ný og fjöldi fólks, sem áður varð að láta sér nægja að lepja dauðann úr krákuskel, fékk vinnu og gat nú litið til framtíðar með vongleði í huga.

Erfiðar aðstæður
Eins og áður segir voru togarar Hellyers með allar sínar lestir fullar af varningi til útgerðarinnar, einkum þó kolum. Heldur var nú brasksamt að losa kolin úr togurunum og verst og erfiðast var að ná þeim inná bryggjuna þegar lágsjávað var. Enginn krani var á bryggjunni og engar bómur voru á skipunum. Utbúnaðurinn var þannig að strengdur var vír úr frammastrinu í reykháfinn. Á þennan vír voru settar jafnmargar hjólblakkir og lúgurnar voru sem hala átti uppúr, en þær voru venjulega þrjár. Togspilið var notað til að vinda upp kolin og var einn maður við hverja lúgu.

Hafnarfjörður

1940-1950, portrett af ónafngreindri konu. Svo virðist sem konan hafi verið að bera kol en hún er með sótuga peysu og svuntu.

Kolunum var öllum mokað í poka í lestinni og tveir til þrír pokar voru halaðir í einu upp um lúguna. Þegar pokalengjan var komin í bryggjuhæð toguðu bryggjumennirnir í hana og vingsuðu henni inn á bryggjuna og upp á jámbrautarvagna. Var vögnunum svo ekið upp í kolabinginn sem stundum var allt að fjórir metrar á hæð. Stundum gat það komið fyrir að togaramir blésu út eða urðu damplausir, eins og það var kallað, og þá fór nú að vandast málið. Eina úrræðið var að hala allt upp með handafli, en það var bæði seinlegt og hinn mesti þrældómur.
Hver togari flutti þétta 200 til 250 tonn af kolum í þessari fyrstu ferð sinni hingað í Hafnarfíörð. Kolin til Hellyersbræðra voru geymd á Árnalóðinni, sem svo var kölluð. Bæjarútgerð Hafnarfjarðar hafði þar seinna kol handa sínum skipum. Ámalóð er vestan við skrifstofur Bæjarútgerðarinnar þar sem þær voru, áður en þær voru fluttar í nýja frystihúsið. Kolin vom flutt upp á lóðina í járnbrautarvögnum og var oft erfitt að komast þangað eftir misjöfnum sporunum.

Hafnarfjörður

Járnbrautir voru algengar á fiskreitum Hafnarfjarðar.

Járnbrautarteinarnir lágu í sandi meðfram Vesturgötunni og yfir hana. Var því oft sandur fyrir hjólunum og þungt að aka vögnunum á handaflinu einu með tvö tonn innanborðs af kolum.
Tíðin var einmuna góð á þessari vertíð. Togararnir komu oftast inn síðari hluta dags og hófst þá vinnan milli kl. 4—6 síðdegis og lauk ekki fyrr en undir morgun næsta dags. Þær vom margar blíðviðrisnæturnar og dagarnir, einkum er líða tók á vertíðina og sólaruppkoman heillaði menn. Þá var freistandi að líta uppúr stritinu og horfa mót dagsins rísandi sól.
Og það leyfðu menn sér stundum.

Eftirminnileg kynni
HafnarfjörðurMenn urðu örþreyttir og slæptir eftir erfiðar og langar vinnuvökur, en þó jafnframt glaðir í sinni yfír tekjunum sem þeir höfðu aflað til að sjá sér og sínum farborða í harðri lífsbaráttu. Svo héldu menn heim í morgunbirtunni, fegnir hvíld og svefni, en þó reiðubúnir að hefja störf á nýjan leik hvenær sem kallið kæmi.
Vinnan og umsvifín fóru vaxandi þegar á vertíðina leið. Við tókum einnig að okkur afgreiðslu skipa sem komu með vörur til annarra útgerðarfyrirtækja og vinnuaflið lét ekki á sér standa. Það var oft drepið á dyr hjá okkur Jóni Einarssyni og leitað eftir vinnu. Iðnaðarmenn í bænum höfðu t.d. ekkert að gera um þessar mundir og munu þeir flestir hafa komist í snertingu við bryggjuvinnuna, allt frá úrsmiðnum til stórskipasmiðanna. Kynnin við suma þessa menn urðu mér eftirminnileg.
HafnarfjörðurÞað var eitt sinn að stórt og mikið saltskip var væntanlegt. Fréttin um það hafði borist út og til okkar kom fjöldi manna að biðja um vinnu. Einn þeírra var stór og föngulegur maður og leist okkur Jóni að sá mundi liðtækur vera og segjum honum að koma niður að skipi morguninn eftir. Við þekktum flesta verkamennina og okkur var ekki sama um hvernig niðurröðun þeirra var við verkin. Skipulögðum við það allt fyrirfram. Við ætluðum þessum stóra og dugnaðarlega manni að taka á móti saltlengjunum og koma þeim fyrir á jámbrautarvögnunum. Um morguninn tilnefndi ég fólkið að stórlestinni, var fljótur að lesa upp nöfnin og fer nú hver maður á sinn stað. Svo kalla ég nokkrum sinnum í þann stóra og segi honum að vera á bryggjunni en hann skeytir því engu og er hinn rólegasti. Verð ég nú leiður á þessu sérlega heyrnarleysi mannsins, vind mér að honum og spyr hvort hann hafi ekki heyrt til mín. Segir hann þá og brosir um leið: „Ég heiti ekki Sigfús Vormsson, ég heiti Kjartan Ólafsson!“
HafnarfjörðurEinhvern veginn hafði ég bitið það í mig að maðurinn héti Sigfús Vormsson, en Sigfús sá var trésmiður og átti hér heima um tíma og giftist Kristínu Þorsteinsdóttur frá Kletti.
Þessi urðu fyrstu kynni okkar Kjartans Ólafssonar sem síðar varð bæjarfulltrúi í Hafnarfirði o.fl. og höfum við oft brosað að þessu síðan. Var Kjartan ævinlega velkominn til okkar meðan hann stundaði verkamannavinnu, enda var maðurinn afburða duglegur og svo var viðkynningin að ekki varð á betra kosið.

Sörli og Gullfoss
Vornæturnar um þessar mundir voru yndislegar. Laugardaginn fyrir páska unnum við framundir morgun í blíðviðri, og þegar við hættum fannst mönnum ekki nauðsynlegt að flýta sér heim. Við fórum með verkfærin upp í skúr sem áfastur var við gripahús, sem við Jón áttum, en er nú húsið Vörðustígur 9. Þar inni áttum við gráan hest, stóran og sterkan, sem við nefndum Sörla. Var nú leikur í körlum, þótt lúnir væm eftir langa törn og dettur nú einhverjum í hug að prófa hvursu marga menn muni þurfa til að halda sterkum hesti kyrrum. Var Sörli leiddur fram, lögð á hann aktygi og kaðlar festir í þau. Tóku nú fjórir þeir sterkustu í kaðlana og er nú slegið í Sörla. Kippist hann við og rykkir í, en þegar hann finnur mótstöðuna lítur hann við og sér hvað um er að vera. Reyndi hann þá ekki meira og varð ekki úr að aka hvernig sem að var farið. Mun Sörla hafa þótt óþarfi að láta svona á sjálfa páskanóttina! Höfðu menn á orði að sá grái væri gáfaður og hefði heldur betur skotið þeim ref fyrir rass!

Hafnarfjörður

Vörðustígur.

Og það var eins og menn yrðu góðglaðir þarna í næturkyrrðinni og fóru að segja sögur. Meðal „sagnamann þessa vornótt við Vörðustíginn var Guðmundur Gíslason — oft nefndur hinn sterki — og átti heima á Hverfisgötu 6. Þótti mönnum gaman að kraftasögum Guðmundar — enda var hann stundum óspar á þær — og nú sagði hann eftirfarandi sögu:
Á mínum fyrri árum stundaði ég oft í vinnu í Reykjavík. Varð mér ævinlega vel til með vinnu því að ég þótti ekki síður liðtækur en best gerist og gengur. Einu sinni — það var á fyrstu árum Eimskipafélagsins — var ég settur í að losa vörur úr Gullfossi. Vill þá svo til að maður nokkur, eitthvað slompaður, dettur út af hafnarbakkanum og fellur í sjóinn milli skips og bryggju.

Hafnarfjörður

Gullfoss 1919.

Urðu menn nú logandi hræddir og hrópuðu hver í kapp við annan að maður hefði dottið í sjóinn og myndi kremjast milli skips og bryggju ef skipinu yrði ekki haldið frá. Þarna á bakkanum var fjöldi manna saman kominn, á að giska 50—60 manns. Hlupu nú allir sem vettlingi gátu valdið til að ýta Gullfossi frá bakkanum svo að manninn sakaði ekki ef honum skyti upp. Var nú maður látinn síga niður milli skips og bakka og hafði sá með sér kaðal til að binda utanum hrakfallabálkinn. Þetta tókst, og var nú sá slompaði dreginn upp, við mikinn fögnuð viðstaddra, dasaður og heldur illa til reika. En í fagnaðarlátunum gleymdist að huga að hinum sem sigið hafði niður með kaðalinn, — og áður en við væri litið voru allir hlaupnir í burtu frá skipinu — allir — nema ég.

Hafnarfjörður

Gullfoss 1930.

Ég mundi eftir björgunarmanninum og hélt skipinu alveg kyrru; — og þótt ég kallaði og bæði um aðstoð ansaði enginn, — allir voru á bak og burt. — Þama hélt ég Gullfossi grafkyrrum þangað til manntötrið hafði klöngrast upp á bakkann. En það verð ég að segja að þungur fannst mér Gullfoss þegar ég var orðinn einn. Ég held ég hafi aldrei tekið meira á um mína daga.
Þegar Guðmundur hafði lokið sögu sinni sagði Ingimundur Ögmundsson sem var maður orðvar og hæggerður:
„Ég er nú bara farinn heim, ég hlusta nú ekki á meira af þessu tæi!“

Unnið nætur og daga
HafnarfjörðurAð öllum vel sögðum sögum þótti jafnan góð skemmtan og skipti þá ekki máli hvort þær studdust við raunverulega atburði eða ekki. En þess vil ég geta að Guðmundur Gíslason var afburðasterkur maður og feikna duglegur; verður dugnaður hans seint of lofaður.
Vinnan jókst. Á daginn unnum við í kolaog saltskipum, en á kvöldin og nóttinni afgreiddum við togarana. Það þótti gott að fá að sofa í tvær til fjórar stundir á sólarhring. Það tók því varla að hátta ofaní rúm. Kjartan Ólafsson sagðist eina vikuna hafa þurrkað sér með hörðum striga um andlit og lagt sig svo á hálmdýnu í heitu eldhúsinu. þetta gerði hann til að lengja svefntímann og svipað gerðu fleiri.
HafnarfjörðurSigurður Guðnason, seinna formaður Vkm. Dagsbrúnar og alþingismaður, var tengdasonur Guðmundar Gíslasonar frá Tjörn í Biskupstungum, föður Gísla bifreiðarstjóra sem hjá okkur vann oft og mikið. Fyrir kunningsskap við Guðmund tókum við Sigurð í vinnu. Hann átti heima í Reykjavík, en þá var lítið um atvinnu þar. Sigurður var skemmtilegur félagi, kappsfullur og afburður að dugnaði.
Einhvern veginn vildi svo til að þeir unnu mikið saman Kjartan Ólafsson og Sigurður. Þegar salti var skipað um borð í togarana var því ekið fram á bryggjuna í járnbrautarvögnum eða bílum. Kjartan og Sigurður höfðu þann starfa að taka pokana af vögnunum og kasta þeim upp í saltrennu ef hátt var í sjóinn eða hvolfa úr þeim í rennuna ef lágsjávað var. Rann þá saltið oní lestamar. Veittist þeim létt að fleygja pokunum og var oft gaman að sjá handatiltektir þeirra. Við neðri enda rennunnar var Hallgrímur Jónsson; hann sá um að saltið færi ekki til spillis. Ef hátt var í sjó tók hann við pokunum fullum, ásamt aðstoðarmanni, og losaði úr þeim oní lúgurnar. Þeir Kjartan og Sigurður köstuðu stundum nokkuð hastarlega svo þeir Hallgrímur höfðu ekki undan og kenndi í því nokkurrar stríðni. Varð Hallgrímur þá ergilegur og kvartaði sáran. Þetta endaði þó jafnan í friði og spekt og að lokum höfðu allir gaman að og hlógu.“

Framhald

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 7. tbl. 18.02.1995, Snorri Jónsson, Atvinnusaga Hafnarfjarðar 1924-1926, Hellyerstímabilið, bls. 1-2. Úr endurminningum Gísla Sigurgeirssonar. Snorri Jónsson tók saman.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – forsíða Lesbókar Mogunblaðsins 18.02.1995.

Kálfatjörn

Eftirfarandi er úr erindi Viktors Guðmundssonar, leiðsögumanns, á sagnakvöldi í Kálfatjarnarkirkju þann 19. janúar 2006.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – fiskbyrgi.

„Um miðja 19. öld breyttist útgerð í Vogum og á Vatnsleysuströnd. Áður höfðu þar nær eingöngu verið smáfleytur, tveggja manna för en nú koma stærri skip, sexæringar og áttæringar til sögunar. Þeir sem eignuðust þessi skip fóru að græða á tá og fingri og brátt risu þarna upp nokkrir útvegsmenn sem báru höfuð og herðar yfir fjöldann.“

Í Æskuminningum sínum segir Kristinn P. Briem (barnabarn Guðmundar á Auðnum) svo frá:
„Í prestþjónustubók Kálfatjarnarkirkju fyrir árið 1854 er greint frá fermingu barna. Prestur var séra Jakob Guðmundsson. Þá voru fermdir sjö piltar og sex stúlkur á Kálfatjörn. Eru drengirnir hafðir sér og stúlkurnar sér, og börnunum raðað í bókina eftir kunnáttu. Drengja megin eru þessir þrír piltar efstir:
1. Sæmundur Jónsson, Stapakoti, fæddur 21. ágúst 1840 (síðar bóndi á Minni-Vatnsleysu). Hefur góðar gáfur. Kann og skilur prýðilega. Siðferðisgóður. Les prýðilega.
2. Guðmundur Guðmundsson, Minni-Vatnsleysu, fæddur 30. nóvember 1839, (síðar bóndi á Auðnum). Allgóðar gáfur. Kann vel. Skilur rétt vel. Les dável. Skikkanlegur og ráðsettur unglingur.
3. Guðmundur Ívarsson, Skjaldarkoti, fæddur 21. desember 1838. Allgóðar gáfur. Kann sæmilega. Skilur vel. Les rétt vel. Skikkanlegur.
Auðnar
Þessir þrír piltar urðu síðar mestu aflamenn á Vatnsleysuströnd. Bestir formenn og mestir aflamenn urðu þeir Guðmundarnir. Hvor var öðrum meiri í þessu efni, vil ég ekki leggja dóm á, og líklega mun erfitt að skera úr því. Kristleifur Þorsteinsson, sem reri nokkrar vetrarvertíðir á útvegi Guðmundar á Auðnum, segir að ekki hafi mátt á milli sjá, hvor væri betri formaður Guðmundur Guðmundsson á Auðnum eða Guðmundur Ívarsson frá Skjaldarkoti. Hann segir þá báða mestu aflaklær, en gerir ekki upp á milli þeirra. … Líklega væri réttast að segja að þeir Guðmundarnir hafi verið nokkuð jafnir að formannshæfileikum og ómögulegt að vita með vissu hvor aflaði meira. En í einu þótti Guðmundur á Auðnum standa ýmsum framar. Var það í reglusemi með útveginn og hirðingu veiðarfæra. Sæmundur Jónsson á Minni-Vatnsleysu stóð þeim nöfnum næstur á Vatnsleysuströndinni með aflabrögð en var ekki talinn ná þeim, hvorki með fiskiafla eða formennskuhæfileika.“

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja.

Í bók sinni Þættir af Suðurnesjum segir Ágúst Guðmundsson, sonur Guðmundar Ívarssonar svo frá; „Þeir voru víst með réttu taldir stærstu útgerðarmenn í þessari sveit Guðmundur á Auðnum og Guðmundur Ívarsson og víst var að árlega voru hæstir hlutir hjá þeim og formönnum þeirra. Þó mun Guðmundur Ívarsson oft hafa haft betri hlut, en metnaður mun hafa verið með afla á milli þeirra.“

Nú skal segja nokkur orð um Guðmund Ívarsson, stuðst við bók Ágústar.
„Guðmundur Ívarsson var meðalmaður á hæð og svaraði sér vel, kvikur á fæti og gekk venjulega hart. Hann var svarthærður með kragaskegg. Ennið var í meðallagi hátt, skarpar augnabýr, lítið eitt bogadregnar. Augun dökk og lágu djúpt í höfðinu, beint nef og hækkaði upp að framan, kringluleitur í andliti,en hvítleitur með skarpa og reglulega andlitsdrætti.“
Guðmundur Ívarsson elst upp í Skjaldarkoti, og var oft kendur við þann bæ, flyst síðan að Neðri-Brunnastöðum og hefur búskap þar. Reisir timburhús á Brunnastöðum 1865 talið með fyrstu timburhúsum í hreppnum. Þá er Guðmundur 27 ára.
Hann byrjaði fomennsku 18 ára og gerði út árlega 2-7 skip á vetrarvertíð, sem hann átti sjálfur.Guðmundur Ívarsson átti Valdimar stærsta róðrarskipið, sem þá gekk við Faxaflóa.
Var það teinæringur 42 fet (uþb. 13m) milli stafna og bar 1100 af netfiski uþb 8,5 tonn
Átti hann haffært þilskip (46 tonna) Lovísu hálft á móti Agli Hallgrímssyni Austurkoti.

Viktor Guðmundsson

Viktor Guðmundsson.

Ágúst Guðmundur segir eftirfarandi sögu í bók sinni: „Tvo vetur fór Guðmundur Ívarsson suður á Miðnes með þorrakomu og lá við á Hvalsnesi. Var hann þá á 10-rónu skipi með 18 menn. Þá var fiskað á bera öngla og handfæri á Suðurnesjum. Þarna hélt hann sig fram undir netavertíðina, sem byrjaði í miðgóu, eða 14.mars.
Fyrri veturinn fékk hann mikinn fisk þarna suður frá en seinni veturinn hömluðu ógæftir og stóð í mörkum að honum gæfi heim fyrir netavertíðina.
Á sunnudaginn í miðgóu var í þetta sinn messað á Hvalsnesi. Var þá vestanstormur en brim heldur að lægja. Segir Guðmundur Ívarsson þá við menn sína: Nú skulum við allir ganga til kirkju og mun ég sitja þar kyrr þangað til að prestur hefur blessað yfir söfnuðinn. Þá mun ég ganga út og líta eftir brimi og vindi og gefa ykkur bendingu, ef fært er. Skuluð þið þá allir koma fljótt. – Gekk þetta allt eftir umtali og álítur hann sundið fært, þó að vindur væri hvass. Þeir voru fljótir að búa sig og stóð það á að prestur var að ganga úr kirkju og þeir að komast undir segl. En þegar séra Sigurður kemur á Útskálahlað voru þeir komnir inn á Leirusjó og sagðist hann þó hafa riðið hart. Heyrði ég Sigmund Andrésson segja að það hafi hann mestan gang vitað á skipi þar sem hann hafi verið innan borðs enda voru þeir ekki fullar tvær klst. frá Hvalsnesi inn í Brunnastaðasund. Man ég vel, hve kátir þeir voru yfir því að vera komnir heim, en uggvænleg þótti þeim þá aldan á Suðurnesjasjónum og gangurinn á skipinu. Ekki hafði gefið á sjó næsta hálfan mánuð af Miðnesi. En hér fyrir innan Skagann var metafli í þorskanetin.
Svona var það þá, og svo er það enn að oft er gott að vera fljótur til hugsana og framkvæmda ef það er af viti stofnað og réttri útsjón.“

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja 1953.

Næst ætla ég að segja nokkur orð um Guðmund Guðmundsson í Auðnum (Guðmundur ríki).
Kristin P. Briem lýsir Guðmundi svo: „Guðmudur á Auðnum var vel meðalmaður á hæð, nokkuð þrekinn, beinvaxinn og herðabreiður. Vel vaxinn og fríður sýnum. Svartur á hár og skegg, hafði kragaskegg eins og þá tíðkaðist. Frekar breiðleitur í andliti. Hann var prúður í framkomu og höfðinglegur í sjón, aðgætinn í orðum og vandaði orð sín svo, að vel mátti taka til greina og athyglis það sem hann sagði.“
Guðmundur er barn þegar hann kemur á Minni-Vatnsleysu með móður sinni, þar elst Guðmundur upp og byrjar sýna útgerð. Um 17 ára aldur kaupir Guðmundur sinn fyrsta bát.
Hefur Guðmundur sinn búskap í Miðengi við Vatnsleysur og eykur skipastól sinn.
Árið 1866 flytur Guðmundur að Auðnum, hafði keypt hálfa jörðina ári áður, þá 26 ára gamall.

Ágúst Guðmundsson

Ágúst Guðmundsson á Halakoti.

Þegar best lét gerði Guðmundur út 5 sex-manna för og 2 áttæringa, var sjálfur formaður á öðrum áttæringnum. Guðmundur lét smíða haffært þilskip í Noregi sem hét Auður, (18 tonn). Kostaði skip þetta 7000 kr. sem jafngilti verði 17 sex manna fara.
Árið 1894 fékk Guðmundur heiðurslaun úr styrktarsjóði Kristjáns IX fyrir framkvæmdir á jörðinni. Ekki tókst mér að finna neina sjóferða lýsingu með Guðmundi, hef því eftir stutta frásögn eftir Kristinn P. Briem.
„Einu sinni komum við Guðmundur ríðandi innan úr Reykjavík og var Guðmundur við skál, eins og oftast, þegar hann kom úr kaupstað. Komun við í Hvassahraun til Þórunnar Einarsdóttur, sem þar bjó, en hún var frænka konu Guðmundar. Þegar kaffið var komið á borðið, þá sest Þórunn niður hjá okkur og fer að tala við Guðmund. Hún segir: „Nú er verið að tala um að hætta að flytja inn áfenga drykki. Það verður mikil blessun, ef áfengisbannið kemst á. Þá sér maður þig aldrei drukkinn, Guðmundur minn.“

Guðmundur Guðmundsson

Guðmundur Guðmundsson á Auðnum.

Guðmundur svarar: „Ekki er það nú víst. Áður en bannið skellur á, þá ætla ég að kaupa 10 tunnur af brennivíni og hafa á stokkunum heima.“ Þórunni brá dálítið við þetta og svarar snöggt: „Nei, það veit ég að þú gerir ekki Guðmundur.“ Guðmundur svarar: „Jú, víst geri ég það.“ Féll svo tal um þetta efni niður, en ég þekkti Guðmund nógu vel til þess að vita, að hann mundi aldrei láta sér detta í hug að safna að sér áfengisbirgðum.“
Þá fjallaði Viktor m.a. um samanburð á þessum tveimur heimilum svo sem fjölda í heimili, hjáleigum og hvorir höfðu hag af öðrum. Stikaði hann t.a.m. kirkjugólfið þegar hann lýsti lengd Valdimars og bað Magnús í Halakoti að standa upp þegar hann lýsti Guðmundi Ívarssyni, svo eitthvað sé nefnt. Ekki var annað að sjá en þarna væri lifandi eftirmynd afa hans komin.

Heimildir m.a.:
-Ágúst Guðmundsson Halakoti. Þættir af Suðurnesjum. Bókaútgáfan Edda Akureyri 1942.
-Árni Óla. Strönd og Vogar. Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1961.
Guðmundur B. Jónsson. Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Útg. af höfundi 1987.
-Haukur Aðalsteinsson. Árbók Suðurnesja 1994 og 1998.
-Kristinn P. Briem. Æskuminningar frá Vatnsleysuströnd. Heimdragi. Iðunn Reykjavík 1967.
-Kristleifur Þorsteinsson. Litla skinnið. Nesjaútgáfan Reykjavík 1982.
-Kristleifur Þorsteinsson. Rauðskinna I og II, Sagnaþættir af Vatnsleysuströnd. Bókaútg. Þjóðsaga 1971.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

 

Grindavík

Í Tímanum 1950 fjallar G.Þ. um Grindavík undir fyrirsögninni „Grindavík orðin umsvifamikill útgerðarbær að nýju„:

Grindavík orðin umsvifamikill útgerðarbær að nýju“

Grindavík

Grindavík – bræðslan á fullu.

Í haust getur að líta marga tugi síldarskipa við bryggju í Grindavíkurhópi.
Í Grindavík hefir á fáum árum orðið merkileg atvinnuþróun. Fyrir tíu árum var þar aðeins útgerð lítilla trillubáta, vegna slæmra hafnarskilyrða fyrir stærri báta. Nú eru þar á þessu hausti helztu hafnarbækistöðvar síldarflotans við Suðurland. Síld er söltuð á þremur plönum, myndarlegt frystihús vinnur vetraraflann, en ný hverfi af snotrum íbúðarhúsum teygja sig upp um hraunið. Töfrasproti atvinnubyltingarinnar og tækninnar hefir snert Grindavík.

Gömul verstöð

Grindavík

Grindavíkurhöfn 1954 – loftmynd.

Grindavík hefur verið fiskiverstöð svo lengi, sem sögur fara af fiskiveiðum á Íslandi. Þar var stutt að róa á fengsæl mið, og fiskur brást sjaldan, ef gæfitir voru. Fyrr á árum var því blómlegt athafnalíf í Grindavík á þeirrar tíðar mælikvarða. Fjöldi manna komu í verið og fóru heim til sín með vænar klyfjar af skreið í vertíðarlok.
Svo varð Grindavík eftir ein og yfirgefin, þegar tæknin kom til sögunnar, og bæirnir risu fyrst þar sem hafnarskilyrðin voru bezt fyrir stærri báta. Blómleg verstöð var ein og yfirgefin að kalla, á móts við það, sem áður var.

Sjósókn fyrir opnu hafi

Grindavík

Grindavík – innsiglingin.

Þó hafa Grindvíkingar allt af stundað sjóinn af harðfengi og dugnaði, enda oft þurft á karlmennskunni að halda í baráttunni við úfinn sjóinn, úti fyrir ströndinni, þar sem úthafsöldur Atlantshafsins skella á hörðum skerjum í allri sinni tign og veldi. Fáum varð því þörf á stærri og betri bátum til Sjósóknar en einmitt Grindvíkingum, er stunduðu sjóinn eingöngu fyrir opnu úthafinu, og áttu oft allt undir því, að lendingin heppnaðist vel.

Höfnin og hraðfrystihúsið

Grindavík

Grindavík 1957 – loftmynd.

Á árunum fyrir styrjöldina var all mikil útgerð opinna trillubáta frá Grindavík. Hafnarskilyrðin leyfðu ekki notkun stærri báta þaðan. En þegar hafnarbæturnar byrjuðu að koma eftir 1940, stækkuðu bátarnir.
Árið 1942 gerður Grindvíkingar myndarlegt átak til að koma á fót frystihúsi og tókst það. Hraðfrystihús Grindavíkur á áreiðanlega sinn mikla þátt í því, auk hafnarbótanna, að Grindavík er það sem hún er. Jafnhliða hafnarbótum varð að sjá fyrir möguleikum til að hagnýta aflann, sem bezt. Þetta mun frystihúsinu líka hafa tekizt undir hagkvæmri stjórn Guðsteins Einarssonar, hreppstjóra í Grindavík. Það annast saltfiskþurrkun, þegar sú verkunaraðferð kallar að, og hefir með höndum um fangsmikla síldarsöltun, þegar síldin veiðist í Grindavíkursjónum.

Sameiginlegt átak Grindvíkinga

Grindavík

Grindavík – hraðfrystihúsið.

Grindvíkingar eiga frystihúsið svo til allir í félagi. Hreppsbúar tóku höndum saman og komu upp þessu atvinnutæki til að skapa sér betri aðstöðu í lísbaráttunni og lögðu hvorki mefra né minna en 100 manns fé af mörkum til að koma því upp. En hafnarmálin hafa verið erfiðust viðureignar fyrir Grindvíkinga, þó að nú horfi orðið vel um þau. Í fyrstu var unnið að bryggjugerð í Járngerðar- og Þórkötlustaðahverfi. En síðan ákveðið var að legja áherzlu á að gera bátahöfn í Hópinu og gera innsiglinguna í það færa stærstu fiskibátum, hefir hin nýja Grindavík einkum risið upp í Járngerðarstaðahverfinu. En skammt er á milli og öll hverfin þrjú eru Grindavík.

„Skipaskurðurinn“ í Grindavík

Grindavík

Grindavík – Grafið inn í Hópið.

Verulegur skriður komst ekki á hafnarframkvæmdir í Grindavík, fyrr en 1945. En síðan hefur þeim miðað ört áfram, og nú er verið að vinna þar að byggingu rúmgóðrar bátbryggju, sem byggð er innan við sjóvarnargarðinn sem er steinsteyptur og traustur. Bryggjan, sem búið var að byggja út frá varnargarðinum, er nú orðin allt of lítil fyrir þá útgerð, sem nú er þegar orðin af stærri bátum frá Grindavík.
En sérstæðasta verkefnið við hafnargerðina í Grindavík er „skipaskurðurinn“, sem gerður hefur verið inn í Hópið. Þessi skurður er að vísu ekki skurður nema um fjöru, því þegar flóð er, flæðir yfir bakkana og klappirnar í kring, en eigi að síður verða bátarnir að sigla þarna eftir skurðinum, þótt flóð sé. Hefur verið komið fyrir háum stöngum á bökkunum, svo að sjómenn geti áttað sig á leiðinni, þegar hátt er í sjó.

Dýpkun innsiglingarinnar

Grindavík

Grindavík – Dýpkunarskipið Grettir annaðist m.a. dýpkun hafnarinnar.

Þessi miklvægu mannvirki er hvergi nærri lokið ennþá.
Í sumar hefir verið unnið að því að dýpka innsiglinguna, svo að hún er nú orðin það djúp, að stærstu bátar geta farið þar út og inn, hvernig sem stendur á sjó.
Næsti áfangi í framfaramálum Grindvíkinga er að auka hafnarbæturnar, svo að millilandaskipin geti komið þar að bryggju til að sækja afurðir til útflutnings og flytja nauðsynjavörur til atvinnurekstursins. Eins og nú er fara flutningarnir fram á landi til næstu útflutningshafnar, Keflavíkur.

Byrjuðu á áraskipum — en enda kannske á togara

Grindavík

Árabátar.

Gömlu mennirnir í Grindavík muna tímana þrenna í atvinnumálum kauptúnsins. Þeir sóttu sjó á áraskipunum gömlu um aldamótin, á opnum trillubátum fram að síðasta stríði og loks nú á stórum vélbátum.

Þróun bátaútvegsins í Grindavík fylgdi framþróun og endurbótum hafnarinnar
Segja má, að bátarnir hafi stækkað eftir því sem innsiglingin í Hópið dýpkaði. Þegar trillubátunum fækkaði komu í staðinn 4—8 smálesta vélbátar, því næst bátar 10—16 lesta og loks bátar 20—80 lesta. Var þannig skipt um bátastærðir þrisvar sinnum í Grindavík á fáum árum, meðan höfnin var að skapast, því að stóru bátarnir gerðu Grindvíkingum það kleyft að stunda sjóinn úti fyrir hinni brimóttu strönd betur en hægt var áður á litlu bátunum. Vel getur svo farið, að áður en mörg ár eru liðin, verði fyrsti Grindavíkurtogarinn kominn þar að bryggju, ef hafnarframkvæmdir verða jafn örar í Grindavík á næstu árum og þær hafa verið upp á síðkastið.

Gamla og nýja Grindavík á sama blettinum

Grindavík

Grindavíkurhöfn 1968 – loftmynd.

Grindavík hefur skipt um svip, Nú þessa dagana má oft sjá þar inn á höfninni 40—60 stóra og sterkbyggða síldarbáta. Þegar maður kemur þjóðveginn ofan úr hrauninu til Grindavíkur, heilsa manni hverfi fallegra íbúðarhúsa og reisulegur nýr barnaskóli. En niður við sjóinn er gamla og nýja Grindavík á svo til sama blettinum. Himinháum tunnustöflum er ekið eftir þröngum stígum milli gamalla, rauðmálaðra húsa.
Á sjávarbakkanum eru grasigrónar rústir gamalla búða, en gamall bátur brotinn og fúinn liggur undir búðarvegg. Hann er fulltrúi sama tímabilsins, og á bezt heima þarna undir búðarveggnum, og heldur sér við vegginn af gamalli tryggð, þó nú séu þar hænsni í kofa.

Sildarstúlkur og síldarstrákar — kokkurinn hleypur til skips

Grindavík

Grindavíkurbátar 1955.

Niðri á Hópinu liggja við bryggjur 40 — 60 stórir og sterklegir síldarbátar, meðan losaður er aflinn, sem fenginn er úr Grindavíkursjó. Síldartunnubreiðunum fjölgar upp við hraunið, og hraðfrystihúsið gnæfir hátt við rústir gamalla verbúða ofan við myndarleg hafnarmannvirki, sem enn eru í smíðum.
Á bryggjum og götum kauptúnsins er líf og fjör, síldarstúlkur og síldarmenn. Strákarnir af síldarbátunum þykir illt að komast ekki að til löndunar, en þeir kunna líka að meta þann frið, sem þeir fá til þess að ganga upp um götur og hraun. Áður en varir kemur kokkurinn kannske hlaupandi fyrir blint horn með ótal pakka í fanginu. Líklega er báturinn hans að leggja frá, og guð má vita nema hann týni einhverjum pakkanum á leiðinni.“ – GÞ.

Heimild:
-Tíminn, 211. tbl. 26.09.1950, Grindavík orðin umsvifamikill útgerðarbær að nýju – G.Þ., bls. 7 og 8.

Grindavík

Grindavík 2021.

Ægissíða

Á skilti við fisk- og beitningaskúrana við Ægissíðu, þ.e. þeirra sem eftir eru eða hafa verið gerðir upp, má lesa eftirfarandi texta undir yfirskriftinni „Gull úr greipum Ægis konungs„:

Ægissíða

Ægissíða – skilti.

„Langt fram eftir 20. öldinni var stundað útræði úr vörum á Reykjavíkursvæðinu. Flestar varirnar eru nú horfnar undir uppfyllingar og því fátt sem minnir á þennan þátt í atvinnusögu borgarinnar.
Grímstaðavör er ein af sjö vörum við Skerjafjörð og sú þeirra sem lengst var róið frá. Betri lending var talin vera í Grímstaðavör en í öðrum vörum við Skerjafjörðinn, meðal annars vegna skerja fyrir utan sem drógu úr öldunni. Vörin er kennd við bæinn Grímsstaði á Grímsstaðaholti.

Grímsstaðaholt

Grímsstaðaholt – Fremst á myndinni sjást Þormóðsstaðir en hvíta húsið t.v. er Garðarnir.

Grímsstaðaholtið afmarkast af Suðurgötu, Starhaga, Ægissíðu og Hjarðarhaga. Grímur Egilsson reisti sér býli á þessu svæði árið 1842 sem hann nefndi Grímsstaði. Fljótlega var farið að kenn aholtið við býlið. Síðasti Grímsstaðabærinn stóð nálægt gatnamótum Dunhaga og Ægissíðu.
Grímsstaðavörin var þekktust fyrir útgerð grásleppubáta síðustu áratugina en áður fyrr var ekki síður gert út á þorsk og ýsu. Þegar mest var voru 16 bátar gerðir út frá vörinni. Þrír til fjórir réru alltaf en hinir um helgar eða þegar tími gafst til frá öðru. Tíðarfarið réði því hvaða daga var hægt að róa. Björn Guðjónsson gerði síðastur út frá Grímsstaðavör eða allt til ársins 1998.

Varnargarður

Ægissíða

Uppdráttur af aðstöðunni við Ægissíðu.

Á kreppuárunum var veitt fé í atvinnubótavinnu við hafnargerð í Grímsstaðavör. Byrjað var að hlaða garð einn mikinn og atti hann að verða upphaf bryggjugerðar í vörinni. Hætt var við garðinn í miðjum kliðum vegna þess að menn höfðu ekki trú á höfn í vörinni vegna þess hversu mikið útfiri var við fjörðinn. Einnig að í vestanátt mundi flóðið standa beint upp á höfnina. Menn álitu því að vænlegra væri fyrir bátana í Grímsstaðavör að fá teina og sleða en bryggju.

Brautir

Ægissíða

Myndir úr Grímsstaðavör.

Eftir að hætt var við bryggjugerð í Grímsstaðavör voru settir niður teina í vörina. Teinarnir komu að góðu gagni. Meðal annars gat einn maður sjósett bát á eigin spýtur. Áður höfðu venjulega fjórir til fimm bátar farið í róður um svipað leyti á morgnana og hjálpuðust menn þá að við sjósetninguna.

Garðar, Lambhóll og Þormóðsstaðir
Í næsta nágrenni við Grímsstaðavörina voru býlin Garðar, Lambhóll og Þormóðsstaðir. Garðar eru við núverandi gatnamót Ægissíðu og Lynghaga. Byggð reis í Görðum um 1860. Sigurður Jónsson, sem frægur var fyrir umsvifamikla útgerð og fiskvinnslu, var ávallt kallaður eftir húsinu, en hann keypti það árið 1892. Núverandi íbúðarhús í Görðunum er talið vera frá 1881-1883.
Lambhóll var býli úr landi Skildingarness. Það er jafnvel talið að á þessum slóðum hafi verið lambhús frá Skildingarnesi. Núverandi hús í Lambhól eru fyrir neðan Ægissíðu, milli Þormóðsstaða og Garða en nær sjónum.

Ægissíða

Ægissíða – skilti.

Þormóðsstaðir eru rétt við Lambhól og Garðana. Í heimildum er fyrst getið um býli þar um 1850 en ekki er ljóst við hvern það er kennt. Á árunum 1912-1927 rak fiskveiðifelagið Alliance í samvinnu við aðra lifrabræðslu á Þormóðsstöðum. Lifrabræðsluhúsið, Brenneríið, var strýtulaga og setti mikinn svip á umhverfið. Á Þormóðsstöðum voru einnig fiskreitir og fiskhús. Timburhúsin þrjú við Starhaga tilheyra fyrrum Þormóðssstaðabyggðinni.

Hrognkelsi
ÆgissíðaHrongkelsið er klunnalegur fiskur, með stuttan haus, lítinn kjaft og smáar tennur. Augun eru lítil. Roðið er mjög þykkt og kallað hvelja. Hrognkelsi hefur enga rák. Grásleppan (kvk) er dögggrá að ofan en ljósari á hliðum og hvít eða ljósgræn að neðan. Rauðmaginn (kk) er dögkkgrár að ofan og grágrænn að neðan, en verður rauður að neðan um hrygingartímann. Hrognkelsavertíðin var frá mars til júlí.
ÆgissíðaRauðmagi og grásleppa þóttu sæmileg til átu en grásleppuhrogn þóttu aftur móti ólystug fæða lengi vel og voru aðseins etin ef ekki var annað að hafa. Um miðja 20. öldina urðu þau hins vegar eftirsótt útflutningsvara og breytti það stöðu hrognkelsaveiðanna mjög. Umdanfarna áratugi hafa grásleppuhrogn verið háttverðlögð. En neysla á rauðmaga og grásleppu hefur dregist saman.“

(Prentvillur á skiltinu hafa verið leiðréttar í meðfylgjandi texta.)

Á gafli austasta beitarskúrsins skammt frá skiltinu má lesa eftirfarandi á skilti:
Menningarminjar við Grímsstaðavör
ÆgissíðaBorgarsögusafn Reykjavíkur hefur umsjón með varðveislu minja við Grímstaðavör. Árið 2018 var gerð fornleifarannsókn á svæðinu, skipt var um jarðveg og möl sett í kring um skúrana til þess að halda gróðri í skefjum og svæðinu snyrtilegu. Stefnt er að því á næstu árum að gera við hvern skúr fyrir sig, styrkja þá og laga, en halda útliti þeirra að mestu óbreyttu. Skúrarnir verða fjarlægðir á eðan á viðgerðum stendur.
Frekari upplýsingar veitir Borgarsögusafn Reykjavíkur.“

Ægissíða

Ægissíða – menningarminjarnar 2024.

Hafnarfjörður

Skútuöldin í Hafnarfirði – Fyrstu ár fríhöndlunar.
Með tilskipun frá 1786 var einokunarverslunin afnumin og öllum þegnum Danakonungs heimilað að stunda verslun á Íslandi. Jafnframt var ákveðið að stofna sex kaupstaði í landinu, til að efla verslun Hafnarfjordur-301og iðnað. Reykjavík var gerð að kaupstað, svo sem minnst hefur verið á þessu ári, og féll Hafnarfjörður þar með endanlega í skuggann af nýrri höfuðhöfn í landinu. Verslun var þó áfram stunduð í Firðinum, og enn átti hann eftir að vera í forystu í sjávarútvegi landsmanna. Ekki gekk vel að selja verslunina í Hafnarfirði eftir 1787. Kaupmaður frá Altona, Dultz að nafni, leigði vörugeymslu verslunarinnar árið 1788 og keypti einnig tvær af fiskiskútum konungsútgerðar. Altona var mikil verslunarborg syðst í Holtsetalandi nálægt Hamborg, en Holtsetar lutu á þessum tíma dönsku krúnunni. Altonakaupmenn nýttu sér einna fyrstir aukið verslunarfrelsi á Íslandi og tóku upp verslun víðar um Vesturland. Dultz virðist þó ekki hafa verslað lengi í Hafnarfirði, því engum sögum fer af honum eftir þetta. Árið 1790 tók Mullox, fyrrverandi starfsmaður konungsverslunar, yfir verslunina í Hafnarfirði. Kaupmennska hans varð hins vegar ekki langlíf, því hann varð gjaldþrota tveim árum seinna. Kenndi hann lausakaupmönnum um erfiðleika sína og sagði þá hafa sprengt upp fiskverð í Firðinum úr 7-9 ríkisdölum skippundið í 24 – 27 ríkisdali.
Bændur og hásetar hafa því hagnast vel á aukinni samkeppni í verslunarmálum. Annað Hafnarfjordur-302sem orðið hefur Mullox að falli var að hann átti ekkert skip í förum til útlanda, svo hann átti örðugt um vik að fá nægilegt verð fyrir útflutningsvörur sínar. En það voru fleiri sem stunduðu verslun og fiskveiðar í Hafnarfirði um þetta leyti. Tveir danskir kaupmenn tóku á leigu fiskgeymsluhúsið á Langeyri, en 1792 keypti það Manöe nokkur, nefndur skipstjóri. Annar skipstjóri, Dyrekjær að nafni, keypti íbúðarhúsið á Langeyri. Íbúðarhúsið á Hvaleyri keypti hins vegai Knud Petersen, en ekki er getið um atvinnu hans, sem trúlega hefur þó eitthvað tengst útgerð og verslun. Það er því ljóst að verslun var fjörug í Hafnarfirði fyrstu ár fríhöndlunar 1788-93, og þilskipaútgerðin hefur haldið áfram að einhverju leyti. Heimildir eru hins vegar mjög litlar um athafnir þessara manna svo ekki er hægt að segja hve lengi eða mikil útgerð þilskipa var í Hafnarfirði um þetta leyti. Kaupmenn þeir sem tóku við eigum einokunarverslunarinnar, eins og Mullox, kvörtuðu sáran undan lausakaupmönnum sem komu á hafnirnar öllum að óvörum og buðu hærra verð fyrir fisk en föstu kaupmennirnir og tóku þá stóran hluta afurðanna sem þeir höfðu ætlað sér. Yfirvöld ákváðu að takmarka umsvif lausakaupmanna, og tóku þannig afstöðu með kaupmönnum gegn landsmönnum. Árið 1793 voru tveir kaupmenn reknir frá Hafnarfirði með verslun sína og fiskverkun sem þeir starfræktu á Langeyri. Hétu þeir Kyhn og Lund og var sá síðarnefndi norskur. Hin fjörlega verslun í Firðinum var því mjög takmörkuð eftir þetta, og óvíst um framhald þilskipaútgerðar. En sama ár og þetta gerðist keypti Hafnarfjarðarverslun Íslendingur sem varð atkvæðamikll kaupmaður og útgerðarmaður, sá mesti sem landið hafði fóstrað um aldir. Hann er oft nefndur faðir Hafnarfjarðar.

Bjarni riddari Sívertsen.
Hafnarfjordur-303Um það leyti sem einokunar-versluninni var aflétt, bjó í Nesi í Selvogi ungur bóndi, Bjarni Sigurðsson. Hann var kvæntur Rannveigu Filippusdóttur, kostakonu og vel menntaðri. Hún var nokkru eldri en hann og ekkja er hún giftist. Sagt er að Rannveig hafi bæði kennt Bjarna lstur og reikning eftir að þau hófu sinn búskap, og víst er að sá lærdómur reyndist vel. Hinn ungi bóndi hóf að þreifa fyrir sér með verslun í sinni heimasveit ásamt tveimur nágrönnum sínum. Útveguðu þeir sér borgarabréf í vestmannaeyjum, sem var einn hinna nýju kaupstaða, og nefndist Bjarni eftirleiðis Sívertsen, svo sem fyrirmanni sæmdi. Kaupmaðurinn á Eyrarbakka leit tiltæki þeirra Selvogsmanna óhýru auga og linnti ekki látum með klögum og kærum, fyrr en borgarabréfin voru tekin af þeim. Bjarni Sívertsen sigldi þá beint í höfuðstöðvar verslunar og stjórnsýslu, til kóngsins Kaupmannahafnar, og rak mál sín þar. Kom hann ár sinni þar svo vel fyrir borð, að árið eftir, 1794, kom hann heim með kaupsamning fyrir Hafnarfjarðarverslun og 4000 ríkisdala lán að auki. Hóf hann þegar verslunarrekstur. Átti Bjarni samstarf við stórkaupmanninn Wolf í Kaupmannahöfn allt til þess að Wolf andaðist árið 1809. Blómgaðist verslunin vel og opnaði hann útibú í Reykjavík árið 1897. Og þó árangur Bjarna væri glæsilegur á verslunarsviðinu, þá er það þó útgerð hans sem haldið hefur frægð hans á lofti. Bjarni átti og rak bæði millilandaskip og fiskiduggur og skal nú það helsta rakið sem vitað er um skipaeign hans.

Hafnarfjordur-305

Þegar Bjarni var úti í Kaupmannahöfn 1894 setti hann skipið Johanne Charlotte að veði fyrir láninu sem hann fékk. Fátt er vitað um þetta skip, en það hefur áreiðanlega verið notað bæði til flutninga innanlands og fiskveiða.
Fljótlega eignaðist Bjarni svo allstórt skip, De tvende Sostre, sem notað var til vöruflutninga milli landa. Það var einmitt á þessu skipi sem Bjarni varð innlyksa í Bretlandi árin 1807-9 vegna Napóleonsstyrjaldarinnar í Evrópu. Seinna eignaðist hann fleiri hafskip og var ejtt þeirra Anna Casia, sem var sögð 37 commerisiallestir (ca. 150 brúttótonn). Anna þessi sigldi sumarið 1820 beint suður til Barcelona á Spáni með fullfermi af saltfiski og lestaði salt í Frakklandi á heimleiðinni. Næstu ár sendi Bjarni fleiri skipsfarma beint til Spánar og Ítalíu og var þannig í beinu sambandi við saltfiskmarkaðinn í Suður-Evrópu. Annars fór mestallur útflutningur íslendinga um danskar hafnir. Sýnir þetta vel hversu Bjarni Sívertsen var burðugur í verslun sinni. í þessum förum eru nafngreind tvö skip auk Önnu Casiu, og hétu þau, Tingöre og De tre Söstre.

Þilskipaútgerð og fiskverkun.
Hafnarfjordur 307Stundaði Bjarni samhliða verslun og útflutningi, svo sem venja varð á skútuöldinni hjá stærstu verslunum. Getiðer um þrjárfiskijaktir í eigu Bjarna: Havnefjords pröven, Foraaret og Flynderen. Foraaret kom til landsins árið 1800, en Havnefjords pröven lét Bjarni sjálfur smíða í Hafnarfirði, svo sem nafnið bendir á. Yfirsmiður þess var Ólafur Árnason sem bjó á Hvaleyri. Skútan rann af stokkunum árið 1803 og voru þá mannsaldrar síðan slíkt skip var smíðað hér á landi.
Eftir þetta reisti Bjarni skipasmíðastöð í landi Jófríðarstaða, sem hann keypti undir fyrirtækið árið 1804. Auk þess keypti hann jörðina kringum verslun sína, Akurgerði, sem og jarðirnar Hvaleyri og Óseyri. Átti Bjarni þar með nær allan fjörðinn. Um skipasmíðastöðina er vitað að 1817 höfðu verið smíðuð þar þrjú þilskip.
Útgerð sinni hélt Bjarni áfram allt til þess að hann andaðist í Kaupmannahöfn árið 1833. Verslun hans var seld á 3900 ríkisdali í silfri. Voru það jörðin Akurgerði, íbúðarhús, verslunarhús og tvær vörugeymslur, skipakví og hlutar í saltgeymsluhúsum á Álftanesi og í Þorlákshöfn. Auk þess átti hann þá Havnefjords proven og fleiri fiskiskip og aðrar jarðeignir. Bjarni Sívertsen var tvímælalaust sporgöngumaður íslenskrar skútuútgerðar.

Kaupmenn og verslanir.
Hafnarfjordur 310Framan af 19. öld. Þilskipaútgerð og verslun voru alla tíð nátengd. Kaupmenn áttu hægast um vik á þessu sviði. Þeir réðu yfir fjármagni og þekkingu til atvinnureksturs, auk þess sem verkun og verslun með fisk var jafnan það sem mestan arðinn gaf. Útgerð þilskipa var því eðlilegt framhald á verslunar-rekstrinum. Flestir tóku upp þann hátt að senda kaupskip sem komu til landsins á vorin til fiskveiða á sumrin. Þá voru fengnir íslenskir hásetar í dráttinn, en erlendir skipstjórnendur stýrðu. Hins vegar var lítið um að menn fylgdu dæmi Bjarna Sívertsen og gerðu út fiskiskútur til veiða. Þó Vestfirðingar stunduðu slíka útgerð varð hún engin að ráði við Faxaflóa, fyrr en eftir 1870.
Kaupmenn voru margir í Hafnarfirði á síðustu öld. Sama ár og Bjarni Sívertsen tók við verslunareignum í landi Akurgerðis,
reist önnur verslun í landi Jófriðarstaða við sunnanverðan fjarðarbotninn. Voru þar á ferð kaupmenn frá Flensborg í SlésviK bar verslunin og staðurinn nafn þeirri borg og gerir enn. Er leið öldina fjölgaði verslunum enn.
Hans Linnet stofnaði verslun árið 1836 og var hún rekin af afkomendum hans til ársins 1914. Árið 1841 var svo þriðja verslunarlóðin stofnsett í Hafnarfirði á Hamarskotsmöl miðja vegu milli Flensborgar og Akurgerðis.
Um miðja öldina voru starfræktar fjórar verslanir í Hafnarfirði. Þeirra stærst var verslun P.C. Knudtzon, sem einnig rak verslanir í Reykjavík og síðar í Keflavík. Knudtzonsverslun keypti allar verslunareignir Bjarna Sívertsen, og rak umfangsmikla fiskverkun og útflutning. Var verslunin einhver hin mesta á öllu landinu á sinni tíð. Keypti hún upp verslanir í nágrenninu, til dæmis Flensborgarlóðina, og varð nálægt því að vera einráð með verslun í Firðinum eftir miðja öldina. Svo varð þó ekki því rými var nóg til útgerðar og fiskkaupa í Hafnarfirði á þessum tíma. Verslun P.C. Knudtzon var starfrækt allt fram til síðustu aldamóta. Litlum sögum fer af útgerð Knuszonsverslunar, þó hún hafi sjálfsagt sent flutningaskip sín á handfæri yfir sumarið eins og aðrir kaupmenn. Það voru bændur og sjósóknarar úr nágrenninu sem lögðu afla sinn upp hjá þeim Knudtzonsmönnum og stóðu undir verslunarveldi þeirra. Og það voru miklir sósóknarar í  nágrenninu, sem sumir hverjir sóttu sjó á þiljuðum skútum.

Útvegsbændur á skútum.
Hafnarfjordur 311Nokkrir útvegsbændur á Suðurnesjum gerðu út lítil þilskip til fiskveiða á fyrstu áratugum 19. aldar. árið 1918 gerðu Ari Jónsson í Njarðvík, Jón Daníelsson Stóru-Vogum og Jón Sighvatsson Ytri-Njarðvík hver út sína skútu. Tveir þeirra síðarnefndu létu smíða skip sín í eigin garði, en verið getur að skip ara hafi veriðs míðað í stöð Bjarna Sívertsen í Hafnarfirði.
Áaður var það nefnt að kaupmenn héldu úti skipum til fiskveiða, og er þess getið að 1839 gengju 12 þilskip til veiða frá Hafnarfirði. Eftir það fer litlum sögum af skipum í Hafnarfirði fram til 1860, en upp úr því fer að færast fjör í þilskipaútgerðina sem nær hámarki síðustu tvo áratugi síðustu aldar og fyrstu ár þessarar.

Árabátaútvegur-inn og afkoma alþýðu.
Hafnarfjordur 312Fiskveiðar áopnum bátum voru aðalatvinnuvegur Hafnfirðinga á síðustu öld, og hefur svo líklega verið á fyrri öldum. Landgæði eru ekki mikil í Firðinum og nágrenni hans, þó bændur stæðu yfirleitt jöfnum fótum í báðum undirstöðuatvinnugreinum landsmanna, landbúnaði og sjávarútvegi. Við sjávarsíðuna bjuggu svo fjölskyldur sem að mestu eða öllu leyti áttu afkomu sína undir fiskveiðunum. Hjáleigubændur og tómthúsmenn voru þeir nefndir, eftir því hvort þeir höfðu einhverja grasnyt eða ekki. Þeir sem slíkt höfðu héldu þá örfáar kindur eða eina kú, en flestir höfðu þó einhvern matjurtagarð, er komið var fram á síðustu öld. Annars var það sjórinn. Byggðin í Hafnarfirði, sem og á Vatnsleysuströnd og Álftanesi lifði því á sjósókn og styrktist við nálægð öruggrar hafnar og öflugrar verslunar. Hefðbundin útgerð sjávarbænda og tómthúsmanna tók litlum breytingum um aldir. Bátar, veiðafæri, vertíðir og vinnubrögð voru að mestu hin sömu allt frá fyrstu öldum byggðar, þó einhverjar nýjungar fylgdu hverri öld. Raunar má telja víst að útgerðinni færi hrakandi á 17. og 18. öld, með minnkandi skipastól og óhagstæðu verslunarlagi.
Hafnarfjordur 313Afkoma manna fór mjög eftir fiskgengd á grunnmið Faxaflóa, sem voru aðalmið Hafnfirðinga. Ef fiskisæld var fjölgaði búðsetumönnum og byggðin lifnaði við. En yrði fiskileysi fóru þurrabúðirnar fljótt í eyði og fólkið hvarf. Vergangur og hungurdauði urðu þá örlög sumra. Þetta fólk var því oft á mörkum þess að komast af og lifði upp á náð landeigenda, sem áttu jarðnæðið og bátana, og kaupmanna, sem keyptu fiskhlutinn og létu í té matvæli til uppihalds. Ef fiskurinn brást var náðin ekki mikil á þessum stöðum. Sagan geymir dæmi um hvort tveggja, góðæri og harðæri. Þegar Jarðabókin þeirra Árna og Páls var í smíðum upp úr 1700 voru flestallar búðir í Hafnarfirði í eyði við sjóinn, vegna  undangenginsfiskileysis. Þetta hlýtur að hafa verið breytt árið 1734, því þá var fiskirí mjög gott hjá Hafnfirðingum og hlutir á vetrarvertíð milli 7 og 10 hundruð fiskar. Þrem árum seinna var hins vegar ástandið slikt að alger bjargræðisskortur var orðinn í Firðinum og voru verslanir brotnar upp af fógeta konungs og mjöl lánað til fátæklinga. Aftur voru búðir kaupmanna brotnar upp og matvælum útbýtt veturinn 1769-70. Harðæri var þá mikið og uppflosnað fólk flúði úr sveitum og til sjávarsíðunnar í von um mat. Næsta áratug á eftir var hinsvegar talað um mokveiði og góða afkomu.
Árið 1781 voru íbúar í Garðakirkjusókn 385 og hafði þá fjölgað um 125 frá því í upphafi aldarinnar. Garðakirkjusókn náði yfir Hafnarfjörð, ÁlftaneS og núverandi Garðabæ. Þar voru 32 býli árið 1781 og átti Garðakirkja 19 þeirra, konungur 11, en 2 voru í einkaeig. 41 bóndi bjó á þessum jörðum, að meðtöldum prestinum, sýslumanni og kaupmanni. Grashúsmenn og þurrabúðarmenn voru 48. Bátaeign sóknarmanna voru 5 fjögramannaför og 62 tveggjamannaför. Á þeim reru 102 heimamenn en 34 utansveitamenn, flestir af Suðurnesjum og Suðurlandi. Veitt var bæði á færi og í net. Net munu fyrst hafa verið lögð í Hafnarfirði árið 1753 að undirlagi Skúla Magnússonar, en lóðir höfðu þá tíðkast allt frá 17. öld. Netaveiðar jukust fljótt og ollu þær miklum deilum á Suðurnesjum og við Faxaflóða, því menn töldu þau hindra reglubundnar göngur þorksins á grunnmið. Fljótlega eftir 1780 voru því settar reglur sem takmörkuðu netaveiðar. Voru þær bundfnar við ákveðin mið, ákveðinn tíma ársins og fjöldi neta takmarkaður. Þá mátti ekki láta netin liggja að deginum og ekki leggja á laugardögum.
Hafnarfjordur 314Vertíðir Hafnfirðinga voru með þeim hætti, að vetrarvertíð hófst í byrjun mars og stóð til 11. maí. Mest var sótt á grunnmið, en þó var sótt suður á Svið á stærri bátum, sexæringum og stærri sem aftur tóku að tíðkast á 19. öld. Á færum bar beitt innyflum eða hrognkelsum, en hrognkelsaveiðar voru árvissar frá vetri og fram eftir sumri. Vertíðarafla, aðallega þorski, var skipt í fjöru og hlutur hvers og eins merktur. Þá var hann flattur og saltaður í  birgjum eða skúrum og þurrkaður. Yfirleitt var aflinn verkaður sameiginlega af hverri skipshöfn, en skipt að henni lokinni eftir uggamörkum og lagður inn í reikning hjá kaupmanni. Allt fram á 19. öld var mestallur fiskur þurrkaður til útflutnings, en eftir 1780 fór saltfiskverkun að aukast og varð einráð á nítjándu öld og fram eftir þeirri tuttugustu.
Vetrarvertíðin var aðalveiðitíminn, en á öðrum tímum voru róðrareinnigstundaðir. Á sumrin reru menn á minni bátum og sóttu ýsu og þyrskling, mest í soðið. Annars fóru margir í kaupavinnu austur í sveitir, eða réðu sig á skútur kaupmanna, einkum er leið á 19. öld. Haustróðrar hófust í október og stóðu til jóla. Fyrst var róið á grunnmið en síðan á stærri bátum suður í Garðsjó og víðar. Eftir áramót héldu þessir róðrar áfram, og lágu Hafnfirðingar þá oft við suður í Garði eða Leiru. Voru menn þá að heiman frá tveim eða þrem sólarhringum og upp í viku í einu, eftir aflabrögðum og gæftum. Veitt var á færi og með línu í þessum róðrum. Í mars gekk svo þorskur inn á Flóann og hófst þá vetrarvertíð, svo sem áður sagði.

Hafnarfjordur 320Skútubærinn.
íbúum í Hafnarfirði fjölgaði nokkuð jafnt og þétt á síðustu öld og helst það í hendur við aukna verslun og útgerð í Firðinum.
Þannig var íbúafjölgunin í tölum:
Ár: íbúar:
1821 155
1830 223
1840 317
1850 334
1860 343
1870 363
1880 420
1890 616
1901 599
Árabátaútvegurinn var aðalatvinnuvegur Hafnfirðinga fram eftir öldinni, en upp úr 1870 færist vöxtur í þilskipaútgerðina og á áratugnum 1880-1890 má segja að þilskipin taki við forystuhlutverki í sjávarútvegi bæjarins sem þá hafði myndast meðfram sjávarbakkanum í Hafnarfirði.
Hafnarfjordur 316Áður var skilið við þilskipaútgerðina um 1840 og virðist þá nokkur deyfð hafa lagst yfir hana allt fram til 1860 og þá lítið um skútur í Hafnarfirði, sem og í öllum Faxaflóa. Það sem eftir lifði aldarinnar jókst  þilskipaútgerðin hröðum skrefum, skútum fjölgaði og jafnframt varð mikið um stærri skip en áður, svonefnda kúttera, sem flestir voru keyptir frá Englandi. Reykjavík varð höfuðstaður skútutímans við Faxaflóa, en Hafnarfjörður fylgdi í kjölfarið sem fjörugur skútubær. Skal nú vikið að helstu útgerðum og útgerðarmönnum í Firðinum á blómatíma skútualdar.
Uppgangur skútuútgerðarinnar hófst um 1870 en hámarki náði hún á tímabilinu 1890-1913. Þá tók verulega að draga úr henni, en vélbátar og togarar tóku við forystuhlutverki í sjávarútvegi. Nokkrar skútu voru þó gerðar út frá Hafnarfirði allt fram yfir 1920. Hinni öflugu þilskipaútgerð fylgdi blómlegt atvinnulíf og íbúafjöldinn í Hafnarfirði óx í réttu hlutfalli. Árið 1870 íbúar við fjörðinn 363,en tuttugu árum seinna 616. Þá var þilskipaútgerðin orðin mikilvægasti atvinnuvegur í Hafnarfirði. Síðasta áratug aldarinnar var mikið aflaleysi hjá opnum bátum í hreppnum og fækkaði þá íbúunum talsvert. Um alda varð hins vegar mikil uppsveifla með nýjum og afkastameiri vinnutækjum í sjávarútveginum, auknum afla og þá fjölgaði mjög í Hafnarfirði. Á árunum 1901 til 1908 fjölgaði íbúum úr 599 í 1469.  Hafnarfjörður var þá í hópi mestu útgerðarbæja í landinu, og þótti tími til kominn að bærinn við fjörðinn fengi sjálfur að ráða sínum eigin málum.
Hafnarfjörður fékk kaupstaðaréttindi 1. júní 1908.“

Heimild:
-Ægir, 79. árg. 1986, bls. 460-468.

Hafnarfjörður

Frá smábátahöfninni í Hafnarfirði.

Vogar - skilti

Í Vogum, ofan við innri Vogavíkina, er upplýsingaskilti um Hólmabúðir og Gullkistuna. Á því má lesa eftirfarandi texta:

Hólmabúðir og Gullkistan
VogarÍ Hólmanum hefur eflaust verið veiðistöð um margar aldir en saga þeirrar útgerðar er glötuð. Frá um 1830 þekkja menn hins vegar söguna þegar verstöðin Hólmabúðir rísa. Þá risu hin svokölluðu „anleggshús“ sem menn nefndu í daglegu tali salthús og fisktökuhús stórkaupmanna, gróssera á 19. öld. Talið er að hér hafi verið gerðir út 18-20 bátar þegar best lét á 19. öld og sjómenn og landverkafólk verið um 140-150. Ummerki verstöðvanna eru óðum að hverfa þó enn megi sjá leifar af miklum mannvirkjum, húsagrunnum, kálgörðum, upphlöðnum torfveggjum, uppsátur og grjótbyrgjum fremst á Hólmanum þar sem sjómenn hafa salta fisk sinn.
Seinastur með útræði í Hólmanum árið 1910-1012 var Haraldur Böðvarsson. Eftir það flutti hann útgerðina, fyrst til Sandgerðis og síðar til Akraness.
Fiskimiðin undir Vogastapa voru kölluð Gullikistan vegna mikillar og góðrar veiði. Þjóðsagan sefir frá mikilli fiskgengd undir Reykjanesskagann, í göngum sem lágu frá Grindavík og komu upp undan Vogastapa.

Bæirnir undir Vogastapa
Vogar
Undir Vogastapa er lítið undirlendi. Vestast þar sem udirlendið er minnst voru Kerlingabúðir. Þar voru sjóbúðir sem sorfnar hafa verið burt af sjávarróti og landeyðingu. Um Kerlingabúðir eru til þjóðsögur.
Næst kom Stapabúð, síðast í ábúð árið 1896, þá Brekka sem lagðist í eyði árið 1928 og í Hólminum var þurrabúð. Stapabúð og Brekka voru grasbýli og greiddu þau landskuld til Stóru-Voga, er átti landið. Undir Stapanum sést ekki til sólar í 18 vikur.

Pramminn á Langaskeri
Vogar
Pramminn á Langaskeri var hluti af færanlegri höfn bandamanna við innrásina í Normandí í Frakklandi í seinni heimsstyrjöldinni. Tilgangurinn var að auðvelda hraða uppskipun hergagna og herliðs úr stórum herskipum sem ristu djúpt og komust ekki nálægt ströndinni.
Eftir stríðið keypti íslenskur athafnamaður, Óskar Halldórsson, nokkra pramma og lét draga þá hingað til lands. Prammarnir voru notaðir í hafnargerð, þeim var sökkt og fylltir grjóti og steypu.
Vogar